Færsluflokkur: Umhverfismál
22.2.2022 | 08:49
Smávirkjanir geta linað verkina núna
Nú strax virðist bráðvanta 100-200 MW aflgetu í íslenzka raforkukerfið. Til að uppfylla óraunsæ loftslagsmarkmið ríkisstjórnarinnar þarf ný 500 MW á tímabilinu 2022-2030. Þá er eftir að uppfylla vaxandi raforkuþörf hagkefisins á þessu tímabili, sem gæti numið 1,5 TWh/ár eða 300 MW árið 2030, alls 3,5 TWh/ár eða 800 MW. Eftir 5 ár gætu fyrirsjáanlega hafa bætzt við um 200 MW eða fjórðungur þarfarinnar 3 árum seinna. Fáum getur dulizt í hvers konar óefni stefnir, og hagvaxtarspár standa á brauðfótum með viðvarandi raforkuskort yfirvofandi.
Afkomu almennings er ógnað, þegar orkudrifið samfélag fær ekki þá orku, sem það þarf. Skynsamleg viðbrögð verkalýðshreyfingar eru ekki að heimta, að fyrirtækin í landinu taki af því, sem ekki er til, til að vega á móti verðbólgu gagnvart launþegum, því að slíkt framferði magnar aðeins verðbólgubálið, heldur að leggja lóð sín á skálar aukinnar verðmætasköpunar í landinu. Aukin verðmætasköpun fer nú á tímum ekki fram án aukinnar raforkunotkunar, þótt í mismiklum mæli sé í ISK/kWh reiknað.
Í þessari ólánlegu stöðu er eðlilegt að reyna að lina sársaukann með hraðari fjölgun smávirkjana inn á kerfið. Það er t.d. hægt með því að draga úr kostnaði við undirbúninginn og spara um leið tíma, þótt tæknileg gæði og öryggi mannvirkjanna verði áfram að vera í fyrirrúmi. Þessi hugmynd hefur þegar náð inn á Alþingi, eins og Fréttablaðið gerði grein fyrir 27.01.2022:
"Vilja, að slakað verði á skilyrði um umhverfismat fyrir smávirkjanir".
Fréttin hófst þannig:
"Halla Signý Kristjánsdóttir og 4 aðrir þingmenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks vilja einfalda landeigendum að koma upp smávirkjunum. Mikil umræða hefur verið um virkjanir og orkuskort í landinu undanfarið, og Halla vonast til þess, að þingsályktunartillagan, sem hún leggur nú fram í 3. skiptið, verði samþykkt í ljósi þess, að núverandi stjórn hafi lagt mikla áherzlu á orkumál."
Þessi þingsályktunartillaga og afdrif hennar getur orðið prófsteinn á vilja þingsins til að létta landsmönnum róðurinn á tímabili illvígs sjálfskaparvítis, sem þingheimur með aðgerðarleysi sínu á síðasta kjörtímabili hefur leitt yfir þjóðina. Þjóð, sem býr yfir ríkustu sjálfbæru orkulindum í Evrópu á hvern íbúa, engist nú af raforkuskorti. Þetta er auðvitað merki um ófyrirgefanlega óstjórn á okkar tímum orkuskipta og ríkismarkmiða um minnkun á losun koltvíildis, sem sömu stjórnvöld hafa skuldbundið landið til á alþjóðavettvangi. Það er ekki öll vitleysan eins.
Sérstaklega verður horft til afstöðu umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, við afgreiðslu þessarar tillögu, en hann leitar nú logandi ljósi að fáanlegri orku undir leiðsögn orkumálastjóra, sem er þó með böggum hildar í leit að lausnum.
""Smávirkjanir eru mjög mikilvægar til þess að styrkja dreifikerfið. Ég kem að vestan, þar sem ekki er vanþörf á að huga að þessu", segir Halla, sem er úr Önundarfirði. Þar eru 4 smávirkjanir, og Orkubú Vestfjarða hefur hagað málum þannig, að ef rafmagn fer af svæðinu, er hægt að loka af, þannig að smávirkjanirnar vinni fyrir fjörðinn.
Smávirkjanir eru af stærðinni 0,2 MW - 10,0 MW, en flestar [eru] undir 1,0 MW að stærð. Fyrir [þær] þarf umhverfismat, sem fylgir nokkuð mikið umstang, tími og kostnaður."
Virkjanlegt afl lítilla (óvirkjaðra) vatnsorkulinda er umtalsvert, þegar allt er talið saman, eða líklega um 1000 MW. Þær geta þannig saman hjálpað til við að mæta vaxandi afl- og orkuþörf á landsvísu, þótt þær séu rjúfanlegar frá landskerfinu og geti þá þjónað nærumhverfinu einvörðungu í bilunartilvikum. Ef ráðherra beitir sér fyrir að fjarlægja "rauða dregilinn" að þessum virkjunum, fjarlægir "rauða límbandið" af undirbúningsferlinu, þ.e. einfaldar leyfisveitingaferlið og beitir sér fyrir því, að dreifiveiturnar tengi nýjar smávirkjanir snurðulaust og jafnharðan við dreifikerfið, þá gæti hér verið komin fljótvirkasta búbótin fyrir orkubúskap landsmanna.
Í téðri frétt var getið um mat á aflgetu smárra virkjanakosta:
"Smávirkjanakostir hafa verið greindir á undanförnum árum. Á Norðurlandi voru t.a.m. 500 kostir kortlagðir í sumar með samanlagt heildarafl upp á tæplega 830 MW [1,7 MW að jafnaði]. Fyrr á árinu 2021 voru 70 valkostir á Vesturlandi greindir með samanlagt afl upp á 59 MW [0,8 MW að jafnaði]. Auk þess eru margir kostir í boði á Austurlandi og Vestfjörðum, þar sem flestar smávirkjanir eru nú þegar.
Halla lítur til Noregs sem fyrirmyndar um, hvernig [leyfisveitingaferli smávirkjana á Íslandi ætti að vera]. Þar í landi sjái sérstök stofnun, NVE [þetta er Orkustofnun Noregs-innsk. BJo], um leyfisveitingarnar og skilyrðin séu almenn."
Nú getur umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra látið hendur standa fram úr ermum til að auðvelda land- og vatnsréttindaeigendum undirbúning smávirkjana til að flýta fyrir því, að tugir eða jafnvel hundruðir smávirkjana komist í gagnið og verði tengdar við næstu dreifiveitu á ódýran hátt og án tafa. Þetta gæti orðið fljótvirkasta aðferðin til að bæta úr brýnum orkuvanda landsmanna, en þá verður að slá striki yfir það, sem flækjufætur kerfisins hafa sett upp sem hindranir fyrir áhugasöm virkjanafélög.
Það var eins og við manninn mælt, að hjartaskurðlæknirinn Tómas Guðbjartsson og félagi hans Ólafur Már Björnsson, augnlæknir, fengu birta grein eftir sig í Fréttablaðinu 27. janúar 2022, sem hét "Heilagur Vatnsfjörður", strax í kjölfar þess, að rafveitustjóri Orkubús Vestfjarða tjáði sig um það, að hann teldi núna einna vænlegast fyrir Vestfirðinga að reisa 20-30 MW vatnsaflsvirkjun í Vatnsfirði. Tómas þessi hefur beitt sér með öfgafullum hætti undanfarin misseri gegn virkjanaáformum Vestfirðinga. Nú fordæmir hann virkjanahugmynd rafveitustjórans án þess að hafa hugmynd um virkjunartilhögunina eða um áhrif hennar á umhverfið í Vatnsfirði eða á mannlífið á Vestfjörðum. Þetta gerir öfgafulla virkjanaandstöðu þeirra félaganna algerlega ótraustverða.
Það er kominn tími til að hætta að ljá eyra við illa ígrundaðri andstöðu við framfaramál Vestfirðinga. Þeir eru bezt til þess fallnir að fjalla um þessi mál sjálfir, vega þau og meta, og fyllilega treystandi til þess án afskipta og hortugheita "besserwissera" úr fjarlægum sveitum.
Dæmi um ofstækið í skrifum þeirra félaga um náttúruna getur að líta í téðri Fréttablaðsgrein. Sem betur fer er það ekki í þeirra höndum, hvað framkvæmt verður á Vestfjörðum eða hvað fellt verður undir þjóðgarð þar. Það er og verður málefni Vestfirðinga sjálfra, en ekki þröngsýnna lækna af höfuðborgarsvæðinu, sem setja velferð og lífsafkomu íbúanna á Vestfjörðum ekki í öndvegi, þegar hugmyndir koma fram um að nýta hreinar og endurnýjanlegar orkulindir Vestfjarða:
"Fossarnir í Vatnsfirði búa ekki aðeins yfir einstakri fegurð, heldur býr í þeim orka, sem gírug raforkufyrirtæki ásælast nú sem aldrei fyrr. Virðast þau engu skeyta um, að árnar og fossarnir í Vatnsfirði eru friðaðir, auk þess sem friðlandið verður hjartað í Þjóðgarði á Vestfjörðum, sem átti að opna síðastliðið sumar og verður lyftistöng fyrir Vestfirði alla."
Vestfirðingar þurfa ekki á að halda hortugum fyrirmælum "besserwissera" úr fjarlægum sveitum um það, hvernig þeir nýta auðlindir á sínu landssvæði, enda er nóg komið af töfum og stöðvunum orkuframkvæmda í landinu.
Frétt í Morgunblaðinu 28. janúar 2022 undir fyrirsögninni:
"Segir stöðuna í orkumálum vera slæma",
hófst þannig:
"Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, segir stöðuna í orkumálum líta illa út, en Morgunblaðið greindi í gær frá greiningu Landsnets á afl- og orkuþörf, sem gefur til kynna viðvarandi orkuskort á næstu árum.
"Um leið og ég frétti af þessu, þá kallaði ég á fulltrúa Orkustofnunar og Landsvirkjunar á minn fund og setti af stað vinnu til að bregðast við vandanum, þ.e.a.s. skammtímavandanum.""
Það er athyglisvert, að upplýsingar um það, hvert margra ára aðgerðarleysi í virkjanamálum samhliða upphafi orkuskipta nútímans, hafa leitt yfir þjóðina, virðast ekki hafa náð inn á borð ráðuneytisstarfsmanna, og fer þá ekki á milli mála, að þar sofa menn á verðinum, og hrökkva svo upp af værum blundi, þegar raunveruleiki raforkuskortsins skellur á þjóðfélaginu. Þetta er náttúrulega engan veginn boðleg stjórnsýsla, sem landsmenn búa við.
Orkulöggjöf landsins er reyndar sniðin við frjálst markaðskerfi og treystir á (og tekur þar með allt of mikla áhættu fyrir þjóðarhag), að orkufyrirtækin sjái sér hag í því að koma í veg fyrir orkuskort með því að vera tilbúin með nýjar virkjanir í tæka tíð. Þannig er ekki raunveruleikinn í íslenzku umhverfi, þar sem sérvitringar, sem hafa borið fyrir sig umhverfisvernd, en eru í raun umhverfissóðar, sem valda olíubruna til raforkuvinnslu fyrir vikið, hafa komizt upp með að þvælast fyrir hverju orkuöflunar- og -flutningsverkefninu á fætur öðru með þeim afleiðingum, að allt er nú komið í óefni.
Að kalla á fulltrúa téðrar ríkisstofnunar og téðs ríkisfyrirtækis til að bregðast við bráðavandanum minnir á haldleysi þess að fara í geitarhús að leita ullar. Vonandi hefur þessi ráðherra þó haft rænu á að spyrja fulltrúa Orkustofnunar, hvers vegna hún sé ekki þegar búin að afgreiða umsókn Landsvirkjunar um virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun.
Nú eru góð ráð dýr. Samhliða því að veita nú þegar leyfi fyrir verkhönnuðum virkjanakostum í nýtingarflokki Ramma 3 með lagasetningu, ef nauðsyn krefur, þarf strax að liðka fyrir og hvetja til smávatnsaflsvirkjana í landinu, en örvæntingin má ekki verða slík, að hlaupið verði til að reisa hér vindmylluskóga, jafnvel í grennd við byggð. Ásýnd landsins mundi bíða mikinn hnekki við slíkt, og landið mundi tapa sérstöðu sinni sem land endurnýjanlegra orkulinda með orkumannvirkjum, sem falla vel að umhverfi sínu.
Það er ekkert vit í því að reisa vindmylluorkuver í vatnsorkulandi, þar sem ekkert borð er fyrir báru með aflgetuna. Auk umhverfissjónarmiðanna er ástæðan sú, að ekki er unnt að reiða sig neitt á afl frá vindorkuverum, og þess vegna verður að reisa vatnsorkuver á móti vindmyllunum til að grípa inn, svo að ekki verði skammtíma aflþurrð í kerfinu. Undir slíkum tvöföldum fjárfestingum er enginn fjárhagsgrundvöllur vegna lágs nýtingartíma.
Þannig hefur raforka vindmylla minna verðgildi á markaðinum en forgangsorka vatnsafls- og jarðgufuaflsvera. Það þýðir, að varla er annar markaður fyrir orku vindorkuveranna en markaður fyrir ótrygga orku, og fyrir hana fæst í mesta lagi helmingsverð á við forgangsorkuna. Við núverandi aðstæður dugar þetta ekki fyrir arðbæran rekstur vindorkuvera.
5.2.2022 | 18:26
Tvær mikilvægar útflutningsgreinar í upphafi árs 2022
Sjávarútvegurinn nýtur velgengni á erlendum mörkuðum um þessar mundir, sem endurvarpast í hátt verð hér innanlands, t.d. er slægður þorskur nú á skrifandi stundu á tæplega 600 ISK/kg. Allt veltur á afkomu sjávarútvegsins í þorpum og kaupstöðum við strandlengju landsins, og hann gegnir lykilhlutverki fyrir hagsæld allrar þjóðarinnar. Það er áfram svo, að velgengni sjávarútvegs tryggi hagsæld þjóðarinnar, og vandræði þar og trosnandi eigið fé ógni velsæld hennar að sama skapi, þótt gjaldmiðillinn dansi ekki lengur eftir pípu sjávarútvegsins; svo er hinni stóru útflutningsgreininni, afurðum þungaiðnaðarins, fyrir að þakka.
Þróun íslenzka sjávarútvegsins á 21. öldinni hefur verið ánægjuleg og athyglisverð. Hann hefur nýtt aukna fjárfestingargetu sína í kjölfar fækkunar togara á Íslandsmiðum til tæknivæðingar á sjó úti og í landi, svo að greinin hefur reynzt vera samkeppnishæf erlendis, sem er algert lykilatriði fyrir grein, sem flytur út um 95 % framleiðslu sinnar. Greinin hefur líka í krafti vísindalegrar þróunar rutt braut bættri nýtingu hráefnisins, svo að hún er nú í stakkin búin til fullnýtingar hráefnisins. Það er afar virðingarvert og umhverfisvænt að taka þessa stefnu, og þetta mun reynast arðsöm fjárfesting, sem þegar veitir fjölbreytilegum hópi starfsfólks vinnu. Má kalla þetta einkenni íslenzks atvinnulífs, að grunnatvinnuvegirnir, sjávarútvegur, iðnaður og landbúnaður, mynda kjarnann í klösum fjölbreytilegrar starfsemi, sem oft nær að þróa sprota, sem framleiða bæði fyrir innlendan og erlendan markað. Þetta er heilbrigt og kvikt (dýnamískt) samfélag, eins og önnur fræg slík.
Það væri arfavitlaus hugdetta stjórnmálamanna að fara nú út í vanhugsaða og þarflausa tilraunastarfsemi með sjávarútveginn, sem reyndar hvergi hefur gefið góða raun. Því fjær sem stjórnmálamenn halda sig frá málefnum sjávarútvegsins, þeim mun betra. Þeir skópu núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi í góðu samstarfi við auðlindahagfræðinga o.fl. til að gera atvinnugreinina sjálfbæra, sem hún var fjarri því að vera, enda er þessi atvinnugrein víðast hvar stunduð með ósjálfbærum hætti, líffræðilega og/eða fjárhagslega.
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, reifaði sjávarútveg nútímans í Morgunblaðsgrein á gamlaársdag 2021 og nefndi hana:
"Það veltur margt á íslenzkum sjávarúvegi".
Þar gerði hún m.a. nýlega skýrslu um sjávarútveginn að umtalsefni:
"Skýrsla, sem gerð var að beiðni sjávarútvegsráðherra um stöðu og horfur í íslenzkum sjávarútvegi og fiskeldi, var kynnt í vor. Ritstjóri er Sveinn Agnarsson, prófessor við Háskóla Íslands. Í henni kemur m.a. fram, að:
"Sjávarútvegur hefur verið uppspretta helztu tækniframfara og nýsköpunar í hinu íslenzka hagkerfi, og samvinna fyrirtækja í sjávarútvegi, vísindasamfélagsins og yfirvalda, hefur verið mikil og öflug." Þarna er ekkert ofsagt og benda má á, að Nýsköpunarverðlaun Íslands hafa á tímabilinu 2011-2020 6 sinnum komið í hlut fyrirtækja, sem með einum eða öðrum hætti tengjast sjávarútvegi."
Vafalaust hafa þau Sveinn og Heiðrún Lind traust gögn við höndina, sem sýna þetta svart á hvítu, því að djúpt er tekið í árinni. Það er stórmerkilegt, að sjávarútvegur nútímans á Íslandi er nú orðin "uppspretta helztu tækniframfara og nýsköpunar í hinu íslenzka hagkerfi", og skákar þar með t.d. hefðbundnum iðnaði og stóriðnaði og landbúnaði, þar sem gríðarleg sjálfvirknivæðing og framleiðniaukning í krafti hugbúnaðar- og vélbúnaðarlausna hefur átt sér stað undanfarna 3 áratugi.
Þessi þróun mála sýnir einfaldlega, að sjávarútvegur nútímans á Íslandi hefur fundið fjölina sína í samfélaginu. Þessu jafnvægi mega óánægju- og öfundaröfl, sem lítt eru til nokkurs uppbyggilegs fallin, ekki ná að raska. Af því hlytist þjóðhagslegt tjón, reyndar efnahagsslys.
"En á hitt skal bent, að sjávarútvegur er ekki eingöngu skip á sjó og vinnsla í landi. Hann er margfalt umsvifameiri en svo, og það eru svo ótrúlega margir, sem reiða sig á sterkan sjávarútveg, sem er í efnum til að fjárfesta. Og einmitt þarna verða til mikil og arðbær tækifæri.
Vilji fólk sjá heildarsamhengið, þá ætti að blasa við, að hlúa beri að þeim sprotum, sem vaxa í kringum sjávarútveg á Íslandi. Sumir hafa náð miklum styrk og gert sig gildandi á erlendum markaði; aðrir eru að skjóta rótum. Hug- og handverki eru engin takmörk sett, og nú þegar nemur útflutningur þeirra tugmilljörðum króna á ári, og í þessum fyrirtækjum starfar vel menntað fólk í góðum og verðmætum störfum."
Ef farið verður í hægfara þjóðnýtingu á sjávarútvegi með einhvers konar innköllun veiðiheimilda, sem reyndar mundi væntanlega varða við eignarréttarákvæði Stjórnarskrár (nýtingarréttur er ein tegund eignarréttar), og veiðiheimildum endurúthlutað með kostnaðarsömum hætti fyrir útgerðirnar, þá blasir við, að sprotar sjávarútvegs verða fyrsta fórnarlambið og síðan minnka fjárfestingar í nýjum búnaði á sjó og á landi. Núverandi kerfi hefur vel gefizt, og stjórnmálamenn (þetta er þó alls ekki algilt) ættu að láta af löngun sinni til að hræra í atvinnuvegum, sem vel ganga.
Hin meginútflutningsgreinin, orkusækinn iðnaður, gengur líka vel um þessar mundir, enda skortur á vörum hans á heimsmarkaði vegna breyttra aðstæðna í Kína og "mengunartolla" inn á Innri markað ESB. LME-markaðsverð á hrááli er nú um 3000 USD/t, sem er tvöföldun verðs í upphafi Kófs, og fyrirtæki með sérhæfða gæðaframleiðslu á borð við ISAL hafa verið að fá allt að 1000 USD/t til viðbótar (premía) fyrir sína sívalninga.
Akkilesarhæll álveranna nú á tímum er koltvíildislosunin, þótt álið spari reyndar meiri losun koltvíildis á endingartíma sínum en nemur losuninni við framleiðsluna, ef það er t.d. notað til að létta farartæki. Í þróun er ný tækni rafgreiningar súráls með eðalskautum, sem eru án kolefnisinnihalds. Þangað til sú tækni verður fjárhagslega fýsileg að teknu tilliti til kolefnisgjaldanna, sem Evrópusambandið (ESB) leggur á í sínu ETS-viðskiptakerfi, væri hægt að fara leið kolefnisbindingar með skógrækt og landgræðslu, ef ESB hefði samþykkt slíkt sem staðlað mótvægi, því að Ísland nýtur sérstöðu nógs landrýmis fyrir skógrækt og uppgræðslu lands. Þrátt fyrir miklar umræður á COP-26 í Gljáskógum í vetur, fékkst ekki niðurstaða í málið.
Hins vegar hefur ISAL ákveðið að freista annarrar leiðar til að draga úr gróðurhúsaáhrifum og fjárhagsbyrði af kolefnisgjöldum ESB. Sú leið er tæknilegur og fjárhagslegur vonarpeningur enn, enda dýr m.v. skógræktina og krefst mikillar auðlindanotkunar á formi lands, vatns og rafmagns. Einhverjum gæti orðið að orði, að hér væri verið að skjóta spörfugl með kanónu, enda er ekki vitað til, að álver erlendis séu ginnkeypt fyrir þessu. Rio Tinto lítur reyndar á þetta sem "pilot plant" fyrir aðrar verksmiðjur sínar, en aðstæður eru þó misjafnar á hverjum stað.
Þann 6. janúar 2022 birti Sigtryggur Sigtryggsson baksviðsfrétt í Morgunblaðinu um þetta mál undir fyrirsögninni:
"Höfnin í Straumsvík stækkuð":
"Þessar framkvæmdir [við hafnargerð] tengjast áætlunum um stórauknar skipakomur í Straumsvík á komandi árum vegna innflutnings og niðurdælingar á kolefni í svonefndu Carbfix-verkefni.
Í fjárfestingaráætlun Hafnarfjarðarbæjar fyrir árið 2022 og langtímaáætlun er gert ráð fyrir fjármunum til hönnunar og undirbúnings uppbyggingar á hinu nýja hafnarsvæði í Straumsvík [norðan núverandi stórskipabryggju-innsk. BJo]. Stefnt er að því, að verklegar framkvæmdir á svæðinu geti hafizt ekki síðar en árið 2024 og svæðið verði tilbúið árið 2027. "Þetta er mjög spennandi verkefni, sem vinna þarf hratt og skipulega", segir Lúðvík Geirsson, hafnarstjóri."
Vonandi er hafnarstjórinn með tryggingar í höndum um framtíðar viðskipti, þ.e. skip í flutningum á koltvíildi til Íslands og kannski vetni frá Íslandi, því að kynningar á viðskiptahugmyndum Carbfix bera sterkan keim af skýjaborgum. Opinberir aðilar verða að fá meira en loftkenndan fagurgala áður en farið er út í viðamiklar framkvæmdir.
Það hljómar ótrúlega, að traustir viðskiptaaðilar fari að leggja í mikinn kostnað við að draga CO2 út úr afsogi sínu, flytja það að hafnarbakka t.d. í norðanverðri Evrópu, kosta upp á siglingu nokkur þúsund km leið og að lokum aflestun skipstanka í Straumsvík og niðurdælingu í berg þar í grennd. Þetta hljómar ekki, eins og það sé lífvænleg viðskiptahugmynd. Þessu lýsir téður Sigtryggur þannig í fréttinni:
"Þetta stefnumótandi samstarf felur í sér, að á lóð Rio Tinto við álverið í Straumsvík verður komið upp fyrstu móttöku- og förgunarstöð í heimi fyrir CO2, svokallaðri Coda Terminal. Þangað verður koldíoxíð einnig flutt í fljótandi formi sjóleiðina frá iðjuverum í Norður-Evrópu og því breytt í stein með Carbfix-aðferðinni við Straumsvík."
Það má mikið vera, ef þessi hugarleikfimi á eftir að verða barn í brók, þ.e. arðvænleg viðskiptahugmynd. Fróðlegt væri að sjá áhættugreininguna fyrir þetta verkefni og úrvinnslu á þeim hindrunum, sem þar koma fram. Hversu hreint verður niðurdælt koltvíildi ? Er verið að menga jarðveginn í Straumsvík ? Umhverfisstofnun þarf að komast til botns í því, en rúmtak hvers tonns af CO2 í jarðveginum mun verða 10 m3 af steindum í basalti.
Verkefnið sýnir þó svart á hvítu, að Rio Tinto/ISAL er full alvara með að draga úr gróðurhúsaáhrifum á hvert framleitt áltonn. Rio Tinto er nú með í tilraunastöð sinni í Frakklandi (áður í eigu ríkisálfélagsins Pechiney) í gangi tilraunaker í einum kerskála, sem í eru eðalskaut (keramík), sem ekkert koltvíildi losa út í andrúmsloftið við rafgreininguna. Það verður hin endanlega lausn á þessu viðfangsefni. Sú tækni þarf nokkru meiri raforku á hvert framleitt áltonn en gamla Hall-Heroult-tæknin, og þá styrkist samkeppnisstaða landa með "græna" hagstæða raforku.
2.2.2022 | 17:15
Næg raforka er undirstaða hagvaxtar og velmegunar
Það kom fram hjá Stefáni Einari Stefánssyni, fréttastjóra viðskipta á Morgunblaðinu á gamlaársdag 2021, að Ísland hefði á árinu 2020 (Kófsbæling í algleymingi) reynzt vera með 5. hæstu landsframleiðslu á mann í USD í heiminum að teknu tilliti til "kaupmáttarjafnvægis" (Purchasing Power Parity) eða kUSD 55,2, en fyrir ofan voru Bandaríkin, kUSD 63,4, Noregur, kUSD 63,3, Danmörk, kUSD 60,6 og Holland, kUSD 59,3. Íslendingar eiga raunhæfa möguleika á að bæta stöðu sína enn í þessum samanburði. Það gæti t.d. gerzt, ef ferðamennskan í ár (2022) verður líflegri en í fyrra og aukningin hér verði hlutfallslega meiri en t.d. í Hollandi og Danmörku. Ef spár um loðnuvertíðir í ár og næstu ár rætast, mun útflutningur loðnuafurða einnig hjálpa til, en hagkvæmnin verður minni en efni stóðu til vegna tímabundins offramboðs, og af því að brenna verður dýrri olíu í kötlum fiskimjölsverksmiðjanna í stað rafhitunar, sem búið er fjárfesta mrdISK 3-4 í.
Það mundi og vafalítið einnig gerast, án tillits til uppgripa erlendra ferðamanna og loðnu, ef hér verður nægt framboð orku, raforku og varmaorku, á hagstæðu verði fyrir notendur. Því miður eru mörg teikn á lofti um, að svo verði ekki á næstu árum vegna mikils hægagangs í öflun virkjanaleyfa, sem eitthvað munar um, hjá virkjanafyrirtækjunum. Þar er eiginlega bara HS Orka, sem er með eitthvað (35 MW) í bígerð. Lognmolla hvílir yfir opinberu fyrirtækjunum. Þessi staða er grafalvarleg fyrir þróun hagvaxtar í landinu, og landsmenn tapa vegna raforkuskorts af nýjum tækifærum til sjálfbærrar nýrrar verðmætasköpunar.
Auðvitað eru miklar áhyggjur af þessu innan atvinnulífsins, þótt miklar fjarvistir vegna einkennalausrar sóttkvíar og einangrunar þeirra, sem greinzt hafa með C-19, yfirskyggi önnur vandamál í flestum fyrirtækjum núna. Allt moðverk sóttvarnaryfirvalda, skimanir, greiningar, rakningar, sóttkví, einangrun, samkomutakmarkanir og rekstrarhömlur, mætti nú að ósekju missa sín. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, ritaði grein af hófsemd um ógöngur orkumálanna í Morgunbaðið 30.12.2021 undir fyrirsögninni:
"Sjálfbær nýting endurnýjanlegra orkulinda":
"Orkunýtingin hefur skipt gríðarlegu máli við þróun íslenzks samfélags; auk orkufyrirtækjanna sjálfra eru rekin öflug fyrirtæki, sem nýta orkuna, gróðurhúsaáhrif nýtingarinnar eru hverfandi, alls kyns fyrirtæki í tækni, ráðgjöf, sölu og þjónustu hafa sprottið upp; mikill fjöldi fólks byggir afkomu sína á störfum þessu tengdum, og opinber rekstur og þjónusta nýtur góðs af skattgreiðslunum."
Þetta er hverju orði sannara hjá Halldóri Benjamín. Þrátt fyrir bölbænir vinstri manna, þegar þessi slóð var rudd á dögum Viðreisnarstjórnarinnar 1959-1971, hefur orkukræfur iðnaður vaxið og dafnað, og í kringum hann hefur myndazt klasi flutningafyrirtækja, vélaverkstæða, rafmagnsverkstæða, verkfræðistofa o.fl. Stórnotendur rafmagns, sem mynda kjarnann í þessum klasa, eru líka grundvöllur að hagstæðu raforkuverði til almennings, sem nýtur einfaldlega góðs af hagkvæmni stærðar raforkukerfisins í þessu tilviki.
Mikil þekking hefur líka safnazt upp í orkufyrirtækjunum, sem þurfa að glíma við séríslenzk viðfangsefni vegna þess, sem einkennir íslenzka raforkukerfið, þ.e. fáeinir stórnotendur og 2 aðalvirkjanasvæði (Suðurland og Austurland), sem tengd eru saman með langri og veikri Byggðalínu í hring. Blönduvirkjun og Kröfluvirkjun ásamt Þeistareykjavirkjun þarna á milli bæta rekstrarskilyrði landskerfisins (styrkja kerfið).
Nokkru seinna vék Halldór Benjamín að því sjálfskaparvíti, sem nú veldur atvinnulífinu stórtjóni, sem mun vaxa ár frá ári, nema næstu vatnsár verði mjög hagstæð, þ.e. ótrúlega óskilvirku, þunglamalegu og dýrkeyptu leyfisveitingaferli fyrir nýjar virkjanir, sem nú hefur framkallað orkuskort, sem veldur aukinni olíubrennslu og mun hægja á orkuskiptunum:
"Lagaumhverfið hefur hins vegar reynzt snúið við að eiga. Ný náttúruverndarlög frá árinu 2013 takmarka mjög allar framkvæmdir á friðlýstum svæðum og banna þær í þjóðgörðum, nema þær, sem tengjast þjóðgarðinum sjálfum. Skipulagslög, ný lög um mat á umhverfisáhrifum áætlana og framkvæmda, og fleiri lagabálkar, gera að verkum, að allar nýjar virkjanir (og raflínur) þurfa að fara í gegnum langt og flókið ferli, þar sem sveitarstjórnir og almenningur hefur mikið um að segja, hvort framkvæmdin geti orðið að veruleika. Þessi lög eru þó að mestu svipuð og almennt gerist í Evrópu og hafa þróazt svipað og þar."
Kannski liggur hundurinn grafinn þar, að aðstæður á meginlandi Evrópu eru gjörólíkar aðstæðum hérlendis, og þess vegna gæti lausnin á þessu alvarlega vandamáli falizt í séríslenzkri lagasetningu um virkjanir og flutningslínur, en það er ljóst, að þá þurfa kunnáttumenn og lagasmiðir að láta hendur standa fram úr ermum. Orð innviðaráðherrans í kosningabaráttunni gætu gefið von um glætu í þessum efnum. Honum er áreiðanlega ljóst, hvað er í húfi fyrir þjóðarbúið og fyrir orðstír Íslands á tímum meintrar loftslagsvár. Það er saga til næsta bæjar á tímum, þegar reynt er hvarvetna að draga úr bruna jarðefnaeldsneytis, skuli þessi bruni vaxa á Íslandi vegna raforkuskorts, þótt nóg sé af endurnýjanlegum og óvirkjuðum orkulindum í landinu. Þetta er merki um óstjórn og er eins og þriðja heims heilkenni á samfélaginu.
Að lokum skrifaði Halldór Benjamín:
"Það blasir við, að lagaumhverfi nýrra virkjana er orðið allt of flókið og að nauðsynlegt er að endurskoða það. Fyrsta verkefnið hlýtur að vera að endurmeta ferlið við rammaáætlun m.a. með hliðsjón af lagabreytingum, sem átt hafa sér stað frá því, að lögin um verndar- og orkunýtingaráætlun voru samþykkt.
Nýting endurnýjanlegra orkulinda dregur úr losun og stuðlar að sjálfbærri þróun íslenzks samfélags og verður að taka mið af efnahags- og félagslegum þörfum okkar og komandi kynslóða ekki síður en náttúru- og umhverfisvernd."
Ef beitt er beztu tækni og hönnun tekur mið af lágmörkun breytinga á umhverfinu, þótt það komi niður á hagkvæmni virkjunar, þá mun kostnaðar- og ábatagreining leiða í ljós, að verjandi er að virkja allt, sem er í nýtingarflokki Rammaáætlunar 3 og flest af því, sem þar er í biðflokki. Hér er um að ræða allt að 2200 MW í uppsettu afli og 16 TWh/ár. Þetta er nóg næstu áratugina.
Ráðherra umhverfis-, orku- og loftslags hefur skipað nokkra starfshópa til að safna gögnum og gera tillögur um, hvernig koma mætti framkvæmdum á skrið í orkugeiranum. Upplýsingarnar um stöðu Rammaáætlunar, virkjanaundirbúnings og flutningskerfis eru fyrir hendi. Nú þarf að forgangsraða og hleypa fullhönnuðum verkefnum af stokkunum. Stytztur aðdragandi er að smáum vatnsaflvirkjunum, P<10 MW. Ráðherra yrði orkujafnvæginu í landinu gagnlegur, ef hann mundi einfalda og straumlínulaga undirbúningsferli smávirkjana og greiða götu tafarlausrar tengingar þeirra við dreifikerfi landsins, en vonandi fellur hann ekki í freistni og leyfir vindmyllugarða nærri byggð eða á áberandi stöðum og fórnar þannig sérstöðu Íslands sem lands endurnýjanlegra orkulinda með orkumannvirki, sem falla vel að umhverfinu. Um slíkt getur líklega sízt náðst sátt.
31.1.2022 | 10:35
Loftslagsmarkmið ríkisstjórnarinnar eru í uppnámi
Þingmenn flestir og fjöldi annarra þreytast ekki á þeirri tuggu, að loftslagsmálin séu mál málanna í heiminum og einnig á Íslandi. Hvað Íslendinga varðar er staðan sú, að það er alveg sama hvað þeir gera. Þeir munu í öllum tilvikum hafa hverfandi, nánast engin, áhrif á styrk koltvíildis í andrúmslofti, og allt tal um að aðrar þjóðir líti hingað í leit að fyrirmyndum í orkumálum er ímyndun ein.
Við eigum engu að síður að einhenda okkur í orkuskiptin, en á réttum forsendum. Þær eru efnahagslegs eðlis, eins og heimurinn hefur fengið forsmekkinn af í vetur, og heilsufarslegs eðlis, því að bruni jarðefnaeldsneytis mengar nærumhverfið með sóti, brennisteinsildum, níturildum og þungmálmum.
Það er hins vegar löngu orðið ljóst, að fjölþjóðlegar skuldbindingar Íslands um 55 % minni losun gróðurhúsalofttegunda árið 2030 en árið 2005 eru í uppnámi, og líkur á því, að hægt verði að fara í nægilega hröð orkuskipti á komandi 8 árum til að standa við þessar skuldbindingar íslenzkra stjórnmálamanna, þ.e. ríkisstjórna Katrínar Jakobsdóttur nr 1 og 2, eru orðnar mjög litlar.
Ríkisstjórnin hefur búið til stórt verkefni og sett landsmenn í næstum óyfirstíganlega tímaþröng við að leysa það, en samt gerir hún ekkert til að skapa raunverulega möguleika á að leysa það, þ.e.a.s. að skapa viðunandi skilvirkt leyfisveitingaferli í raforkugeiranum, og deyfð orkufyrirtækjanna er sláandi. Landsvirkjun sótti ekki um virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun í Neðri-Þjórsá fyrr en um mitt ár 2021 til Orkustofnunar, og hún hefur enn ekki virt umsóknina viðlits. Hvað er að ?
Sú staða er einstæð, að raforkuskortur frá endurnýjanlegum orkulindum hrjáir nú atvinnulífið og olía er brennd aftur til að knýja vaxtarbrodd þess, en ekki hillir undir framkvæmdaleyfi fyrir nýja virkjun á sama tíma. Áður hefur orðið raforkuskortur, en þá hefur ný virkjun jafnan verið á næstu grösum.
Þetta er grafalvarlegur vitnisburður um hræsni og yfirdrepsskap ríkisstjórnar og þings. Núverandi forstjóri Landsvirkjunar hefur upplýst opinberlega, að fyrirtækið hafi ítrekað vakið athygli ráðherra á, að samkvæmt lögum væri enginn ábyrgur fyrir því að koma í veg fyrir orkuskort í landinu. Ef þetta er gjaldið, sem Sjálfstæðisflokkurinn með ábyrgð á orkumálunum þarf að greiða fyrir ríkisstjórnarsamstarf við Vinstri hreyfinguna grænt framboð, þá er það einfaldlega of hátt.
Tveir stærstu losunaraðilarnir, sem ríkisstjórnin hefur skuldbundið landsmenn til að minnka losun frá, eru farartæki á landi og fiskveiðiskip. Farartæki á landi losuðu árið 2019 952 kt CO2, sem þarf að fara niður um 607 kt til ársins 2030. Þetta eru um 190 kt af jarðefnaeldsneyti, sem þarf að spara, og nota raforku í staðinn. Ef 90 % eru leyst af hólmi með rafgeymum, þarf um 1,0 TWh/ár vinnslu í virkjun til að hlaða þá, og ef 10 % eru leyst af hólmi með rafeldsneyti, þarf þarf um 0,2 TWh/ár til framleiðslu þess.
Fiskiskipin losuðu árið 2019 522 kt CO2, sem þarf að fara niður um 186 kt til ársins 2030. Þetta jafngildir um 58 kt af olíu, og um 0,6 TWh/ár vinnslu í virkjun þarf til framleiðslu rafeldsneytis í staðinn.
Þetta eru alls 1,8 TWh/ár í virkjun, og ætla má, að þörfin fyrir landtengingu farþegaskipa aukist um a.m.k. 0,2 TWh/ár, svo að til að ná markmiðunum um 55 % samdrátt losunar þessara notkunargeira í síðasta lagi 2030 m.v. árið 2005 þarf viðbótar orku og afl inn á raforkukerfi landsins, sem nemur 2,0 TWh/ár og 500 MW. Þetta er um 10 % aukning raforkuvinnslu á 8 árum eða um 250 GWh/ár og rúmlega 60 MW/ár. Aukning aflgetunnar er hlutfallslega tvöföld á við aukningu orkuvinnsluþarfar, því að notkunarmynztur orkuskiptanna er ójafnara yfir sólarhringinn en í núverandi raforkukerfi landsins.
Eins og nú horfir munu orkuskiptin á næstu 5 árum ganga svo hægt vegna orkuskorts, að næstum ómögulegt verður að ná loftslagsmarkmiðum ríkisstjórnarinnar 2030. Þessi dapurlega staða er í boði þeirra, sem mest hafa umhverfisvernd og "loftslagsvá" á vörunum í þjóðfélaginu, og pólitíska fulltrúa þeirra á þingi má m.a. finna í Vinstri hreyfingunni grænu framboði, sem sennilega hafa þannig náð lengst hérlendis í pólitískri hræsni og yfirdrepsskap.
Stjórnvöld geta ekki skýlt sér á bak við sofandi embættismenn, því að sterk aðvörunarorð komu frá fyrrverandi Orkumálastjóra, t.d. í jólahugvekjum hans, og fulltrúar atvinnulífsins hafa ekki dregið af sér við að lýsa áhyggjum sínum. Hér verður nú vitnað í einn úr þeim hópi:
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, birti 16. desember 2021 grein í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:
"Aðgerða er þörf í orkumálum þjóðarinnar".
Hún hófst þannig:
"Blikur eru á lofti í raforkumálum landsmanna. Undanfarið hefur umræða skapazt um, hvort raforka sé næg eða ekki, og sitt sýnist hverjum. Staðreyndirnar tala sínu máli. Skerða hefur þurft raforku til ákveðinna atvinnugreina, og hluti landsmanna hefur þurft að búa við það eftir óveður að vera án raforku í marga daga. Þá hefur komið fram, að ónýtt raforka rennur til sjávar engum til gagns vegna raforkukerfis, sem er úr sér gengið.
Óhætt er að fullyrða, að með núverandi orkusamningum sé búið að selja þá raforku, sem tiltæk er, og hún því uppseld. Líkt og Landsvirkjun hefur greint frá, þá hafa vinnslumet ítrekað verið slegin í vinnslukerfi Landsvirkjunar, nú síðast föstudaginn 3. desember [2021], þegar vinnsla fyrirtækisins [álag á kerfi LV-innsk. BJo] fór í fyrsta skipti yfir 1900 MW. "Við slíkar aðstæður verður mjög þröngt um tiltækt afl í vinnslukerfi Landsvirkjunar og það í raun alveg upp urið." Þá gerir orkuspá hins opinbera ráð fyrir aukinni raforkunotkun landsmanna á næstu árum og áratugum."
Væntanlega hefur raforkunotkun landsmanna farið talsvert yfir 20 TWh á árinu 2021, og forgangsorkugeta raforkukerfisins þar með verið fullnýtt. Eins og fram kemur hér að ofan, hefur legið við kerfishruni, þegar álagið var í hámarki, enda ekki nægt reiðuafl í kerfinu fyrir hendi þá til að bregðast við fyrirvaralausri alvarlegri bilun í kerfinu, t.d. rofi einnar af stærstu einingum kerfisins. Þetta sannaðist í viku 04/2022, þegar tengivirkisbilun varð í Nesjavallavirkjun með þeim afleiðingum, að talsverð orka var skert við Norðurál til viðbótar við fyrri skerðingu ótryggðrar orku.
Þetta sýnir, að höfuðvandamálið er ekki lélegt vatnsár, heldur skortur á aflgetu í kerfinu og þörf á betri nýtingu vatns. Hvort tveggja mun nást með virkjun í Neðri-Þjórsá, en hún getur falið í sér lausn á brýnum og klárum vanda, sem felst í of lítilli miðlunargetu Þórisvatns og of litlu raforkukerfi m.v. álag og þar af leiðandi stórhættu á raforkuskorti til 2027, eða þar til næsta virkjun af stærð um 100 MW kemst í gagnið. Er Orkustofnun enn að stauta sig fram úr virkjunarleyfisumsókn Landsvirkjunar, sem verður ársgömul í sumar ?
Núverandi kreppa raforkugeirans mun óhjákvæmilega hamla orkuskiptum og draga úr hagvexti, því að ekki er og verður ekki hægt næstu 5 árin að fullnægja spurn eftir raforku. Flotið hefur verið sofandi að feigðarósi með einstæðu athafnaleysi í boði sérvitringa um breyttan lífsstíl og núll-hagvöxt, sem tekizt hefur að koma ár sinni fyrir borð við ríkisstjórnarborðið og í ráðuneytunum með ofstækisáróðri um, að "náttúran verði að njóta vafans", þótt enginn vafi leiki á um, að takmörkuð og staðbundin áhrif nýrra virkjana séu langt innan viðunandi marka að teknu tilliti til ávinningsins, sem einnig getur falið í sér aukin loftgæði og bætt heilsufar.
Undantekning frá þessu eru vindmyllurnar, sem fela í sér óskilvirka aðferð og dýra með hvorki takmörkuð né staðbundin umhverfisáhrif m.v. ávinning. Vindmyllur eru lengi að vinna upp kolefnisfótsporið, sem myndast við námuvinnslu, framleiðslu og uppsetningu að meðreiknaðri gríðarlegri, steyptri undirstöðu undir tæplega 100 m háa súlu. Þá menga plastspaðarnir umhverfið við slit, valda hávaða og nokkur fugladauði er rakinn til þeirra erlendis. Íslendingum er nauðsynlegt og nægjanlegt að halda sig við fallorku vatns og við jarðgufuna, en enga nauðsyn ber til að spilla ásýnd landsins og jafnvel nærumhverfis byggðar með óskilvirkum búnaði til raforkuvinnslu úr vindorkunni.
Grein sinni lauk dr Sigurður Hannesson þannig:
"Það er áhyggjuefni, ef ekki tekst að sækja tækifærin, sem felast í aukinni eftirspurn eftir grænni orku. Við búum svo vel að hafa aðgang að nægri slíkri orku, en hana þarf að vinna og nýta til að skapa verðmæti fyrir þjóðarbúið. Við eflum samkeppnishæfni Íslands og þar með lífskjör allra landsmanna með aðgengi að nægu magni raforku til að mæta kröfum framtíðarinnar.
Ný ríkisstjórn hefur kynnt framsækna framtíðarsýn. Því eru vonir bundnar við, að raforkumál landsmanna verði sett í forgang með nauðsynlegum framkvæmdum, svo [að] Ísland geti áfram verið í fremstu röð í framleiðslu og nýtingu á endurnýjanlegri orku. Hefjast þarf handa hið fyrsta."
Ekki er neitt lífmark enn með ríkisstjórninni í þá veru, að hún sé að rumska í orkumálum. Sú staða blasir við, að með hverju árinu muni orkuskerðingarnar nema fleiri MWh en árið á undan, og þar af leiðandi nemi tjón þjóðarbúsins yfir mrdISK 100 fram að næstu virkjun. Vitað er hverju það sætir. Er ekki bezt að senda þeim hinum sömu og flækzt hafa fyrir nánast öllum leyfisveitingum á orkusviði undanfarin ár reikninginn ? Það væri ágætis ráð að refsa þessu afturhaldi í næstu kosningum, sem eru til sveitarstjórna í maí 2022 enda verðskuldar erkiafturhald ekki stuðning almennings til valda.
9.1.2022 | 09:35
Falleinkunn í orku- og loftslagsmálum
Sú einstæða staða er nú uppi, að forgangsraforkan má heita upp urin í landinu, eins og sést af höfnun Landsvirkjunar á nýjum viðskiptum, og þetta ríkisfyrirtæki, langstærsta orkufyrirtæki landsins, er tekið til við að skerða verulega (75 MW af 100 MW til fiskimjölsverksmiðjanna) þjónustu sína við viðskiptavini með skammtíma samninga um ótryggða raforku.
Það, sem er einstætt núna, er, að á sama tíma eru engar verulegar virkjunarframkvæmdir í gangi hjá Landsvirkjun, og eina orkufyrirtækið, sem eitthvert lífsmark er með, er einkafyrirtækið HS Orka, sem er með nýja orkuöflun á prjónunum (a.m.k. 35 MW).
Veitir Suðurnesjamönnum sannarlega ekki af auknu orkuöryggi, því að eina tenging þeirra við stofnkerfi landsins, 132 kV Suðurnesjalína 1, annar ekki lengur hámarksþörf þeirra. Allt er á sömu bókina lært í orkumálunum. Þar ríkir doði og drungi vegna ráðleysis og jafnvel áhugaleysis stjórnvalda við að kljást við afturhaldsöfl, sem bera fyrir sig umhverfisvernd, þegar þau þvælast fyrir nýjum orkuöflunar- og orkuflutningsframkvæmdum í landinu. Þarna er um lítinn og illvígan hóp sérvitringa með núll-hagvöxt á heilanum að ræða, sem virðist hafa tekið stjórn og þing í gíslingu í krafti Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs. Þessi pattstaða veldur nú stórtjóni, sem á eftir að margfaldast á næstu árum, því að raforkuþörfin vex jafnt og þétt (orkuskiptin) og ekki hillir undir virkjun, sem um munar (um 100 MW).
Dæmi um óánægju landsmanna með sjálfskaparvíti orkumála landsins gat að líta í Fréttablaðinu 14. desember 2021 í stuttri klausu undir fyrirsögninni:
"Eyjamenn vilja tryggt rafmagn".
""Það er með öllu ótækt, að upp sé komin sú staða, að keyra þurfi fiskimjölsverksmiðjur á olíu í stað grænnar raforku vegna ónógrar raforkuframleiðslu og/eða lakrar flutningsgetu á rafmagni", segir bæjarráð Vestmannaeyja í bókun vegna skerðingar Landsvirkjunar á afhendingu rafmagns í vetur.
Bæjarráðið segir skerðinguna þýða, að fiskimjölsverksmiðjur um allt land þurfi á komandi loðnuvertíð að framleiða rafmagn með olíu í stað grænnar raforku.
"Slíkt er í andstöðu við aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum og orkustefnu, sem stjórnvöld hafa boðað. Þá er það alvarlegt mál, ef sú staða kemur upp, að ekki verði hægt að afhenda Herjólfi rafmagn til siglinga, sem var mikið framfaraspor í loftslagsmálum", bókar bæjarráðið og skorar á stjórnvöld að tryggja afhendingu raforku um allt land."
Nú er spurningin, hvernig orku-, umhverfis- og loftslagsráðherrann bregst við þessari þörfu brýningu úr Vestmannaeyjum. Á tímum meintrar loftslagsvár og hás verðs á jarðefnaeldsneyti, sem væntanlega mun vara út orkuskiptatímabilið, er einfaldlega uppi sú krafa í þjóðfélaginu, að á hverjum tíma sé nægt tiltækt virkjað afl og orka úr endurnýjanlegum orkulindum landsins, til að ekki þurfi að keyra eldsneytisknúið varaafl í landinu mánuðum saman ár eftir ár, eins og nú gæti verið uppi á teninginum. Til þessa varaafls á aðeins að þurfa að grípa til að brúa bil í stuttan tíma vegna ófyrirséðra atvika. Nú gæti þetta ástand varað á háálagstímabilinu næstu árin, þar til t.d. virkjun í Neðri-Þjórsá verður tekin í gagnið.
Langtíma samningar um ótryggða raforku, t.d. hjá álverunum, hafa enn ekki verið nýttir til skerðinga. Sú hætta vofir yfir, að til þess muni koma í vetur (2022) og jafnvel oftar fram að næstu verulegu virkjun í gagnið. Að hámarki má skerða 700 GWh/ár til stóriðjunnar, og það gæti jafngilt útflutningstapi upp á 160 MUSD/ár eða 21 mrdISK/ár. Þetta gefur til kynna það ógnartjón, sem dráttur á að taka nýja virkjun í gagnið hefur í för með sér, og að það er til mikils að vinna að hafa borð fyrir báru á tímum tiltölulega hraðfara aukningu raforkuþarfarinnar. Það er forkastanleg frammistaða ríkisvaldsins að geta ekki útvegað rafmagn til búnaðar hjá fyrirtækjum, sem sýnt hafa mikinn metnað við fjárfestingar til að greiða fyrir orkuskiptum í landinu.
Þessi afspyrnu lélega frammistaða var gerð að umfjöllunarefni í Staksteinum Morgunblaðsins 8. desember 2021 undir fyrirsögninni:
"Raforkumál í ólestri, en næg orka".
Þessir Staksteinar hófust þannig:
"Ástandið í raforkumálum landsins er augljóslega orðið grafalvarlegt. Morgunblaðið greindi frá því fyrir nokkrum dögum, að fiskimjölsverksmiðjur, sem hafa rafvæðzt til að nýta innlenda orku, hefðu orðið fyrir skerðingu rafmagns. Síðan hefur það gerzt, að Landsvirkjun sendir frá sér tilkynningu um enn frekari skerðingar og að þær taki þegar gildi. Fyrir þessu eru nefndar þær ástæður, að ekki sé til næg orka auk þess, sem flutningskerfi raforkunnar sé flöskuháls."
Það er orðum aukið hjá Landsvirkjun, að Byggðalínu sé um að kenna, hvernig komið er. Landsvirkjun gæti sent meira en 200 MW alls frá Fljótsdalsvirkjun eftir þessari "hringlínu" til norðurs og suðurs, ef aflgeta Fljótsdalsvirkjunar mundi leyfa það til viðbótar Austurlandsálaginu, en Fljótsdalsvirkjun hefur ekki afl til þess, og þá yrði teflt á tæpasta vað með forða Hálslóns í vor. Þetta er frekar ódýr smjörklípa hjá Landsvirkjun.
Það, sem jók vanda landskerfisins og flýtti fyrir skerðingu, var, að Landsvirkjun missti einn rafala úr rekstri í Búrfelli 1 vegna bilunar og að tafir eru á, að rafali á Nesjavöllum komi aftur í rekstur. Þetta sýnir, hversu tæpt kerfið stendur. Í því er ekki bara orkuskortur, heldur aflskortur, sem er skýrt merki um, að nýja virkjun bráðvantar inn á kerfið. Þangað til hún kemur, verða uppi vandamál á vetrum, sem bitna á einhverjum raforkunotendum með stórtapi fyrir þjóðarbúið. Sú staða, að nú eru 4-5 ár í næstu verulegu virkjun, lýsir mjög slæmri stjórnun orkumála, fávísi eða algeru ábyrgðarleysi, enda fá Staksteinar heldur ekki orða bundizt:
"Að þetta skuli gerast á Íslandi, þar sem nóg er til af virkjanlegu fallvatni og jarðvarma, er með miklum ólíkindum."
Það, sem er óvenjulegt og "með miklum ólíkindum" er, að ekki hillir undir nýja virkjun í rekstur, þegar orkuskortur dynur á hérlendis. Enginn veit, hvar verður virkjað næst, eða hvenær verður hafizt handa. Þessari óreiðu um brýnt hagsmunamál landsins verður að bæta úr á þessu misseri 2022, ef orkuskiptin eiga ekki að lenda í öngþveiti og landið að verða fyrir stórfelldu efnahagstjóni. Ætla draugarnir, sem þessum gjörningum hafa valdið, að taka á sig ábyrgðina ? Nei, þeir flýja ofan í holurnar, þegar óhugnaðurinn af starfsemi þeirra kemur í ljós. Það er ekkert umhverfisvænt við það það að flækjast fyrir nýjum virkjanaframkvæmdum á Íslandi.
22.12.2021 | 11:03
Úrtölumenn og dómsdagsspár
Úrtölumenn um nýtingu sjálfbærra orkulinda landsins hafa glatað trúverðugleika í augum margra með framferði sínu, sem einkennist af fjandskap gegn meiri orkunotkun og draumórum um afturhvarf til fortíðar með minni neyzlu og að sjálfsögðu minni velferðarþjónustu, enda er aukin raforkunotkun forsenda meiri velferðar hjá vaxandi þjóð, þar sem meðalaldur fer hækkandi.
Biblía þessara úrtölumanna er um sextugt kver, "Limits to Growth-Endimörk vaxtar", sem boðaði einmitt nauðsyn þess fyrir jörðina, að fólk á Vesturlöndum drægi verulega úr neyzlu sinni hið snarasta, því að annars væri voðinn vís og margar auðlindir jarðar yrðu upp urnar fyrir lok 20. aldarinnar. Ekkert gekk þar eftir.
Það gleymdist við samningu þessa kvers, að tæknin er í stöðugri þróun vegna samkeppni markaðsbúskaparins, og tæknin hefur bætt nýtnina við nýtinguna, fundið staðgönguefni og aukið skilvirkni við leit. Heimurinn er þó ekki fullkominn, og fyrir tilverknað fáfróðra stjórnmálamanna hefur ríkisvaldið víða beint þróuninni inn á rangar brautir. Sennilega var þessi fráleita kenning sett á koppinn til að veikja auðhyggjuna (kapítalismann) í kalda stríðinu við kommúnismann, sem alls staðar hefur mjög litla framleiðslugetu m.v. auðhyggjukerfið, nema í Kína, þar sem kommúnistaflokkurinn hefur virkjað kapítalismann á framleiðslusviðinu og viðskiptasviðinu, en stundar áfram valdaeinokun og skoðanakúgun á stjórnmálasviðinu auk þess að vera öryggisógn í Suð-Austur-Asíu, sem kremur nú lýðréttindi undir hælnum í Hong Kong og ógnar fullveldi Taiwan, sem á fullan rétt á sjálfstæðri tilveru, enda eru langflestir íbúanna þess sinnis.
Dæmi um ranga stefnumörkun yfirvalda víða um heim er, hvernig raforkuvinnslan fer fram. Hér á landi þó, hvernig hún fer ekki fram þrátt fyrir ríkulegar endurnýjanlegar orkulindir. Stjórnvöld í ýmsum löndum hafa bannfært kjarnorkuver, stundum í kjölfar óhappa, og eftirlitsaðilar hafa stöðugt fært sig upp á skaptið, þannig að öryggiskröfur eru í sumum tilvikum komnar út í öfgar og hafa valdið svo óheyrilegum viðbótar kostnaði og töfum að óþörfu, að raforka kjarnorkuveranna verður mjög dýr á meðan verið er að greiða upp fjárfestingarnar. Fyrir vikið hefur kjarnorkuverum á Vesturlöndum farið fækkandi á þessari öld, þótt viðsnúningur sé í vændum með tækniþróun og viðhorfsbreytingum, og hlutdeild þeirra í raforkuvinnslu er nú aðeins um 10 % á heimsvísu, en þó t.d. um 20 % í Bandaríkjunum og 50 % í Frakklandi.
Kjarnorkan er eini raunhæfi valkosturinn til að leysa kolaorkuver af hólmi og þannig að draga úr loftmengun og koltvíildislosun frá raforkuverum.
Aftur á móti hafa stjórnvöld, oft þau sömu og lagzt hafa gegn kjarnorku, hvatt til og niðurgreitt orku frá vindorkuverum. Það er goðsögn, að vindmyllur séu umhverfisvænar. Þær leggja hald á mikið land og raforkuvinnsla þeirra er óskilvirk. Nýtingartíminn á Íslandi virðist vera um 40 %, sem árlega svarar til 4,8 mánaða á fullum afköstum og 7,2 mánaða á engum afköstum, en yfirleitt er hann undir 30 % annars staðar á landi (meiri nýting úti fyrir ströndu).
Mikið af málmum, sumum sjaldgæfum, fer í vindmyllur. T.d. þarf 6 MW vindmylla (algeng stærð úti fyrir ströndu) 65 t af Cu, og til að vinna þann kopar úr jörðu þarf að grafa upp um 50 kt úr námunni. Þetta er dæmi um óskynsamlegan ágang manna á náttúruna, sem ekki er hægt að mæla bót, því að þennan kopar mætti nota með skilvirkari og hagkvæmari hætti, en ríkisvaldið í mörgum löndum hefur þarna skekkt markaðinn og hvatt til námugraftar með niðurgreiðslu orkuverðs frá vindmyllum, sem sums staðar hefur valdið óafturkræfum landspjöllum og mengun jarðvatns, t.d. í Chile.
Þann 23. nóvember 2021 birtist í Morgunblaðinu grein eftir Hauk Ágústsson, kennara. Þar voru raktir nokkrir heimsendaspádómar, sem auðvitað hafa allir orðið sér til skammar. Greinin hét:
"Brostnir spádómar",
og hún endaði þannig:
"Enn dynur á almenningi hræðsluáróður; þessa dagana sprottinn af COP26-ráðstefnunni í Glasgow í Skotlandi. Í ljósi liðins tíma og brostinna spádóma - er ekki rétt að gjalda varhug við þeim upphrópunum, yfirlýsingum og áróðri, sem þaðan berst ?"
Svarið er jú og dugir að líta á heildarmynd málatilbúnaðarins til að fyllast grunsemdum um, að fiskur liggi þar undir steini. Þar er aldrei minnzt á neina raunhæfa lausn á vandanum, en bara hamrað á, að þjóðir heims verði að draga úr losun koltvíildis, annars líði heimurinn, eins og við þekkjum hann, undir lok. Þetta hefur þó ekki reynzt árangursríkara en svo, að losun flestra ríkja heims 2021 mun verða meiri en á ári Parísarsamkomulagsins, 2015. Hvers vegna er ekki eytt neinu púðri í að setja á kolefnisgjald um allan heim, þar sem greitt yrði fyrir hvert t losunar CO2 ? Þá kæmi fjárhagslegur hvati til breytinga til skjalanna.
Hvers vegna hljómar IPCC eins og trúarsöfnuður, þar sem aðeins ein túlkun er leyfð ? Trúverðugum vísindamönnum á borð við prófessor John Christy, loftslagsfræðing við UAH-University of Alabama-Huntsville - og skoðanasystkini hans er úthýst úr skýrslum IPCC. Hann og félagar hans búa þó yfir yfirgripsmikilli þekkingu á þróun hitafars í lofthjúpi jarðar og nákvæmustu mæligögnum, sem völ er á um hitastigið í lofthjúpinum í um 4 undanfarna áratugi. Niðurstöður hans eru á allt öðru róli en niðurstöður IPCC, sem veifar í sífellu ógn um allt að 2,5°C hlýnun 1950-2080, en gervihnattamælingar, sem unnið hefur verið úr á UAH, benda til hitastiguls 0,14°C/10 ár, sem með einfaldasta framreikningi gefur 1,4°C hlýnun 1980-2080.
Þar að auki bendir ýmislegt til, að þetta sé bara eðlileg sveifla, sem muni ganga til baka á næstu öld, enda er meiri hætta á yfirvofandi kuldaskeiði en hlýskeiði á jörðunni í sögulegu ljósi. Tölfræðingar, sem rannsakað hafa hitastigsþróunina í 2000 undanfarin ár með árhringjarannsóknum í trjám, sjá enga óeðlilega þróun undanfarna áratugi. Hitastigið hafi allt þetta 2000 ára tímabil sveiflazt hægt um fast meðaltal. Gagnrýna tölfræðingarnir óburðuga meðhöndlun IPCC á tímaröðum. Þetta kom fram í Morgunblaðsgrein Helga Tómassonar, prófessors í hagrannsóknum og tölfræði við HÍ, 14.10.2021, og lesa má um hér:https://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2270868 .
Einn af þeim, sem dyggilegast hafa alla tíð stutt boðskap IPCC-Loftslagsráðs Sameinuðu þjóðanna hérlendis - er Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur og fyrrverandi ráðherra Alþýðubandalagsins. Hann skrifar tíðum í Morgunblaðið áhugaverðar greinar, og ein af greinum hans birtist þar 23. nóvember 2021 undir spennuþrunginni fyrirsögn:
"Nú reynir á gjörvalla heimsbyggðina".
Þar gat m.a. að líta eftirfarandi:
"Í Glasgow var samþykkt sú stefna að takmarka meðaltalshlýnun lofthjúpsins við 1,5°C í stað 2°C. Mikilvægar yfirlýsingar voru gefnar um að stöðva eyðingu skóga og vinna sérstaklega gegn losun metans. Jarðefnaeldsneyti var nú brennimerkt sem helzti skaðvaldurinn með kol í fararbroddi. Indland, sem keppir við Kína í kolanotkun, varð sér til minnkunar með því að krefjast á 11. stundu breytinga á þeirri áherzlu. Fjöldi ríkja, stórra og smárra, hafði í aðdraganda þessa fundar gefið út fyrirheit um að draga stórlega úr losun CO2 fram til ársins 2030 og ná kolefnishlutleysi fyrir eða um miðja öldina. Þar hefur Ísland sett markið við árið 2040."
Í sannleika sagt er þetta eintómt froðusnakk snjórnmálamanna og búrókrata þeirra, sem virðist skorta allt jarðsamband. Dettur einhverjum í hug, að árangursríkt geti reynzt að hóa saman þúsundum stjórnmálamanna, búrókrata og öðrum, til að gefa út yfirlýsingar um, að þeir hyggist fækka tilteknum glæpum um einhverja hlutfallstölu (%) í sínu landi og að heildarfjölda slíkra glæpa í heiminum fækki þá úr áður aðstefndu marki í lægra mark, þótt þeim fjölgi enn þá ?
Hafa borizt einhverjar fréttir frá Gljáskógum um, að á COP-26 hafi tekizt að ná alþjóðlegu samkomulagi um, hvernig meta á koltvíildisbindingu trjáa og eigendur trjánna geti síðan selt þessa bindingu á alþjóðlegum koltvíildismarkaði ? Nei, ekkert vitrænt í þá veru hefur birzt. Slíkt gæti samt snúið við eyðingu regnskóga og annarra skóga og lagt grunninn að mikilli aukningu bindingar á koltvíildi, því að skógurinn yrði verðmætari standandi en felldur. Nei, þess í stað eru gefnar út einhverjar innihaldslausar yfirlýsingar um "að stöðva eyðingu skóga". Þessu fólki er ekki sjálfrátt, enda er árangurinn eftir því.
Í stað þess að setja á kolefnisgjald á heimsvísu, er jarðefnaeldsneytið brennimerkt. Hvers konar fíflagangur er þetta eiginlega ? Íbúar Norður-Indlands standa frammi fyrir grafalvarlegri lífsógn. 16 % allra dauðsfalla þar eru vegna loftmengunar, en aðeins 10 % þessarar mengunar stafar frá kolakyntum raforkuverum. Kol eru notuð innanhúss, annar eldsneytisbruni er mikill, og líkbrennslur menga gífurlega. Jarðefnaeldsneytið er mikill heilsuskaðvaldur.
Nýja íslenzka ríkisstjórnin, Hringekjan, eða hvað menn kalla þetta 2. ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur, hefur hent í Mörlandann nýju markmiði, sem er 55 % samdráttur koltvíildislosunar 2030 m.v. 1990. Fyrra markmiði fylgdi aðgerðaáætlun, þar sem botninn var suður í Borgarfirði. Auðvitað er engin komin enn frá Hringekjunni, en til að ná þessu markmiði þarf kraftaverk, nokkrar nýjar vatnsafls- og jarðgufuvirkjanir og stóreflt flutnings- og dreifikerfi raforku. Fyrra ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur skildi eftir sig þá stöðu, að skerða þarf raforku til fiskimjölsverksmiðja, kyndistöðva og annarra, sem samið hafa um annað en forgangsorku. Á meðan svona er í pottinn búið, hjökkum við áfram í sama farinu, umhverfislega og efnahagslega. Taka verður til hendinni. Finnur Borgnesingurinn á stóli orkuráðherra rétta botninn í málið ?
Áfram með boðskap Hjörleifs. Nú kemur krafan um lífstílsbreytingu:
"Flest ríki hafa aukið mengun lofthjúpsins í kjölfar Parísarsamþykktarinnar, þannig að stefnir í hlýnun upp á 2,4°C og þaðan af meira. Umskiptin, sem þurfa að verða á þessum áratug, jafngilda byltingu í framleiðsluháttum, neyzlu og samskiptum við móður jörð. "Pláneta okkar hangir á bláþræði" var meðal aðvörunarorða framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, Antonios Guterres, við opnun ráðstefnunnar í Glasgow. Lausnin felst ekki aðeins í að hverfa frá notkun jarðefnaeldsneytis í tíð einnar kynslóðar, heldur verður að draga úr rányrkju á öllum sviðum. Temprun neyzlu og lífshátta, að fólksfjölgun meðtalinni, er óhjákvæmileg, eigi mannkynið að komast yfir þær hindranir, sem við blasa."
"Now you are talking, man", var sagt. Þarna opinberar Hjörleifur, það sem að baki áróðrinum um hlýnun andrúmsloftsins og um virkjanaandstöðuna hérlendis býr.
Að sjálfsögðu hefur losun CO2 aukizt víðast hvar frá Parísarráðstefnunni í desember 2015. Hvernig í ósköpunum á annað að vera með þeim málatilbúnaði, sem þar var viðhafður með froðusnakki um háleitar hugsjónir stjórnmálamanna um framtíð jarðarinnar ? Ekkert, sem hönd var á festandi, um tæki og tól til þess á borð við sameiginlegan koltvíildisskatt eða sambærilegt.
Þessi framreikningur á hlýnun andrúmsloftsins, sem Hjörleifur vitnar þarna til, er algerlega úr lausu lofti gripinn og verður að flokka sem áróðursbrellu, því að reiknilíkönin, sem að baki búa, eru meingölluð, eins og prófessor John Christy, loftslagsfræðingur við UAH, hefur sýnt fram á.
Síðan afhjúpar Hjörleifur hugmyndafræðina, sem að baki öllum þessum látum býr. Það þarf að gjörbreyta lifnaðarháttum almennings og stórdraga úr neyzlunni. Þetta þýðir auðvitað, að framkvæma verður stórfellda lífskjaraskerðingu, því að í hvað eiga peningarnir annars að fara ? Hvað segja verkalýðsfélögin um þennan boðskap vinstri mannsins Hjörleifs Guttormssonar. Eru þau tilbúin að beita sér fyrir neyzlustýringu, sem miðar að stórfelldri minnkun neyzlu ? Nei, það hafa engin teikn á lofti sézt um það. Þessi viðhorf eiga sér enga raunveruleikatengingu, enda reist á illa ígrunduðum dómsdagsspám, sem óþarfi er að taka alvarlega. Viðhorfin eiga aðeins upp á pallborð sérvitringa á borð við Landvernd, sem berst gegn þjóðarhagsmunum með því að þvælast fyrir flestum orkuframkvæmdum í landinu, og á borð við meirihluta borgarstjórnarinnar, sem leggur fæð á samgöngumannvirki eins og greiðfærar akbrautir og afkastamikil og hættulítil mislæg gatnamót ásamt flugvelli á einu bezta flugvallarstæði landsins. Þetta afturhald er ekki á vetur setjandi og verður að brjóta á bak aftur hið fyrsta. Til þess þarf að hafa bein í nefinu. Hefur téður Borgnesingur það, þegar til kastanna kemur ?
19.12.2021 | 08:34
Almannahagsmunir verða að ráða för
Hnökralausir raforkuflutningar á milli landshluta og innan þeirra þjóna almannahagsmunum. Það er stórfellt hagsmuna- og öryggismál íbúa í hverjum landshluta, að þangað sé næg flutningsgeta fyrir hámarksnotkun raforku á hverju ári og auðvitað, að nægt framboð sé á rafmagni í landinu til að anna alltaf þessari hámarksþörf.
Það eru enn nokkur svæði á landinu, sem ekki njóta þessara sjálfsögðu réttinda og lífsgæða, og má nefna Vestfirði og Suðurnesin. Báðir landshlutarnir eru háðir geislatengingu, þ.e. stakri 132 kV loftlínu, á meðan sjálfsögð krafa svo veigamikilla landshluta er hringtenging við stofnkerfi landsins eða að hafa nægt raforkuframboð innan svæðisins í (n-1) rekstri (þ.e. m.v. að öflugasti rafalinn falli úr rekstri).
Þetta þýðir útflutning orku af svæðinu til stofnkerfisins í venjulegum rekstri. Á Vestfjörðum er mun fýsilegra að virkja vatnsföll en að tvöfalda tenginguna við meginstofnkerfið. Þar hefur verið þvælzt fyrir framkvæmdum af dæmafárri þrákelkni, þótt almennur vilji heimamanna sé fyrir þeim og viðkomandi virkjun sé í nýtingarflokki Rammaáætlunar. Hegðun af þessu tagi er tímaskekkja á tímum orkuskipta, þótt enn heyrist í þokulúðrum, jafnvel innan úr einstaka orkufyrirtæki (OR), að þörfina megi leysa með orkusparnaði. Landsnet hefur í nafni "umhverfisverndar" verið tafin von úr viti við sitt mesta orkusparnaðarverkefi, sem er ný Byggðalína á milli Vestur- og Austurlands á 220 kV í stað gömlu 132 kV línunnar. Það er ekkert gagn af þessum þokulúðrum samtímans, en hinir upprunalegu stóðu þó fyrir sínu. Það er ekki nóg að henda fram einhverjum slagorðum, heldur verða tölur og grófar verklýsingar að fylgja.
Á Suðurnesjum hefur raforkuþörfin vaxið hratt, og jarðgufuvirkjanir á svæðinu hafa ekki haft undan aukningunni. Þess vegna má eina 132 kV línan frá meginstofnkerfinu heita fulllestuð, og brýn þörf hefur lengi verið fyrir 220 kV línu og hringtengingu fyrir Suðurnesin. Allir vita, hvernig kraumað hefur í iðrum jarðar undanfarið á Suðurnesjunum, en samt er HS Orka með metnaðarfull verkefni í gangi í Reykjanesvirkjun og Svartsengi til aflaukningar og nýtnibóta.
Ásmundur Friðriksson, hinn skeleggi Alþingismaður Suðurlandskjördæmis, ritaði áhrifamikla grein í Fréttablaðið 26. nóvember 2021 undir fyrirsögninni:
"Varðar staða í raforkumálum á Suðurnesjum þjóðaröryggi ?".
Hún hófst þannig:
"Í dag er ein lína, sem flytur raforku til og frá Suðurnesjum. Fari hún úr rekstri, er engum öðrum leiðum til að dreifa. Atvinnurekstri og heimilum er veruleg hætta búin, komi upp alvarleg tilvik straumleysis. Flutningsgetan annar ekki þörf, og hafa Suðurnesin orðið af uppbyggingu og atvinnutækifærum, þar sem fyrirtækjum hefur verið neitað um raforku, þar sem innviðirnir eru sprungnir, orkan fæst ekki flutt. Í 18 ár hefur nú verið barizt fyrir afhendingaröryggi raforku með lagningu Suðurnesjalínu 2, en vegna 3 landeigenda og 7 manna sveitarstjórnar í Vogum á Vatnsleysuströnd er framkvæmdin stopp. Þessi fámenni hópur kemur í veg fyrir, að 30 þúsund manna samfélag búi við orkuöryggi. Framkvæmd, sem er hornsteinn mikillar uppbyggingar, sem framundan er, svo sem orkuskipti með hliðsjón af staðsetningu Keflavíkurflugvallar og vistvæn[s] auðlindagarð[s]."
Grundvöllur lýðræðisins er einstaklingsfrelsi og einkaeignarréttur. Þetta frelsi og þessi réttindi mega þó ekki valda öðrum tjóni, og það eru ekki mannréttindi að mega hindra framfarir í landinu, s.s. innviðauppbyggingu, sem er forsenda aukinnar verðmætasköpunar.
Stjórnvöldum ber skylda til að standa vörð um almannahagsmuni, og þegar örfáir einstaklingar taka sig saman um að valda tjóni á heildarhagsmunum nærsamfélagsins og í þessu tilviki þjóðarinnar allrar (miðstöð alþjóðaflugs og hervarna landsins), þá ber stjórnvöldum að grípa til þeirra ráða, sem duga til að losa íbúana úr "umsátrinu". Það verður að ætlast til skjótra viðbragða af hálfu nýkjörins Alþingis, og þingmaðurinn Ásmundur Friðriksson hefur einmitt gert ráðstafanir til þess:
"Staðan er grafalvarleg og fer að varða almannavarnir á Suðurnesjum, bregðist Alþingi ekki við lagafrumvarpi greinarhöfundar um framkvæmdaleyfi til handa Landsneti fyrir Suðurnesjalínu 2. Frumvarpið er í skráningu og verður lagt fram ekki síðar en í næstu viku [v.48/2021]. Ábyrgð Alþingis er algjör, og verður þingið að taka skipulagsvald af sveitarfélaginu í þessu mikilvæga máli, ef ekki á illa að fara."
Það verður fróðlegt að sjá, hvernig innviðaráðherrann bregst við þessu lagafrumvarpi Ásmundar. Ásmundur metur stöðu orkumála svæðisins rétt og bregst líka rétt við. Það hefur hann áður gert, þegar mikið lá við.
Lok þessarar þörfu hugvekju Ásmundar hljóðuðu þannig:
"Alþingi verður að hafa í sér dug og setja nýja löggjöf um uppbyggingu mikilvægra innviða. Að sveitarfélög, eða örfáir einstaklingar, geti komið í veg fyrir það árum og áratugum saman, að innviðaframkvæmdir, eins og lagning vega, flutningskerfi raforku, línur og möstur fyrir fjarskipti, rísi, er óásættanlegt. Suðurnesjalína 2 er framkvæmd, sem er mikilvæg út frá þjóðarhagsmunum og er orðin svo brýn, að sveitarstjórnarmenn hafa beint áhyggjum sínum til þjóðaröryggisráðs. Grípa þarf í taumana í þessu mikilvæga máli til að koma í veg fyrir frekari tafir á uppbyggingunni og flýta því, að framkvæmdir geti hafizt."
Ljóst er, að reynt hefur á þolrif sveitarstjórnarmanna, þegar þeir leita ásjár hjá Þjóðaröryggisráði. Þeir telja þá fokið í flest skjól og biðja ríkisvaldið einfaldlega að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að bjarga þessu máli úr herkví sérhagsmuna og afturhalds. Vonandi falla hvorki Alþingi né stjórnvöld á þessu mikilvæga prófi. Ásmundur Friðriksson er með svörin.
2.12.2021 | 11:42
Sæstrengsviðskipti í hillingum
Viðskipti með rafmagn um sæstreng frá Íslandi til Bretlands eða annað mundu lúta öðrum lögmálum en þau viðskipti, sem Daði Már Kristófersson, prófessor í hagfræði við HÍ, dregur upp mynd af um sæstrengi á milli Noregs og Danmerkur á fyrri tíð. Ástæðurnar eru miklu meiri fjárfesting í Íslandsstreng og meiri rekstrarkostnaður vegna orkutapa og mikils dýpis, sem þýðir væntanlega mun meiri flutningskostnað, enda mun strengeigandinn vilja fá nokkuð mikið fyrir snúð sinn, þar sem áhætta fjárfestingarinnar er mikil (bilanahætta o.fl.). Hluti af kostnaðinum er fólginn í tiltölulega miklum orkutöpum á langri leið.
Statnett í Noregi (norska Landsnet) á allar millilandatengingar fyrir raforkuflutninga til og frá Noregi, svo að hagnaður af þeim fjárfestingum hefur nýtzt við uppbyggingu flutningskerfis í Noregi. Landsnet hefur enga burði í þær hundraða milljarða fjárfestingar (ISK), sem flutningskerfi og aðveitustöð, afriðla- og áriðlastöð hérlendis vegna millilandatengingar, útheimta. Þá er takmarkað svigrúm í íslenzka raforkukerfinu, að miðlunarlónum meðtöldum, til að jafna út sveiflur í framboði og eftirspurn raforku á miklu stærri raforkumarkaði. Norska raforkukerfið var og er stærra en hið danska vegna rafhitunar húsnæðis og stóriðjuálags í Noregi og gat þess vegna tekið að sér þetta miðlunarhlutverk. Að reyna að heimfæra þessi viðskipti Norðmanna upp á aðstæður Íslendinga er óraunhæft og gæti í versta tilviki reynzt verða einhverjum stjórnmálamönnum villuljós. Það er of mikill spákaupmennskubragur á íslenzkri sæstrengsumræðu og of lítill raftæknilegur þungi. Hvernig á t.d. að verja íslenzka notendur fyrir truflunum af völdum yfirsveiflna (harmonics) og spennusveiflna, sem geta orðið skaðlegar. Það er hættuleg ofeinföldun að ætla að afrita gamlar viðskiðtahugmyndir til Íslands í þessum efnum. Það liggur við að vera einfeldningslegt.
Lítum á, hvað téður prófessor og varaformaður Viðreisnar hafði fram að færa um þetta efni:
"Nýtt viðskiptalíkan þróaðist því í kjölfar tengingarinnar milli Noregs og Danmerkur. Dönsk kolaorkuver framleiddu raforku jafn og þétt. Dægursveifla er hins vegar í eftirspurn eftir raforku [hún er miklu minni á Íslandi en í Danmörku og Noregi vegna mikils stóriðjuálags - innsk. BJo]. Hún er lítil á nóttunni, en toppar á daginn. Verð á raforku tekur mið af þessari sveiflu og er hærra yfir daginn en á nóttunni. Viðbrögð eigenda norskra vatnsaflsvirkjana var að draga úr framleiðslu á nóttunni, kaupa í staðinn orku frá Danmörku og geyma vatnið í miðlun til að nota það yfir daginn, þegar verðið í Danmörku var hátt. [Þetta stafar af kostnaði við að breyta álagi kolaorkuvera. Nú eru gasorkuver að taka við af þeim hvarvetna í Evrópu, og þau eru miklu sveigjanlegri í rekstri - innsk. BJo.]
Þannig gátu norskar vatnsaflsvirkjanir hagnazt á viðskiptum með raforku innan dags [sólarhrings]. Þetta líkan reyndist svo ábatasamt, að það borgaði sig að auka framleiðslugetu norskra vatnsaflsvirkjana umfram miðlunargetuna [fjárfestingar í auknu vélarafli - innsk. BJo]. Miðlunin fékk nýtt hlutverk, að geyma danska næturorku til að selja hana dýrar yfir daginn. Arðsemi í rekstri norska raforkukerfisins óx mikið í kjölfarið á sama tíma og framleiðslukostnaður raforku lækkaði, enda tóku norskar vatnsaflsvirkjanir yfir hlutverk mun dýrari valkosta í framleiðslu á orku yfir daginn í Danmörku, s.s. díselaflstöðva."
Þetta er fortíðarlýsing. Nú keyra yfirleitt gasorkuver á móti vindorkustöðvum í Danmörku, þar sem gasorkuverin taka upp álagssveiflur. Danir eru nú nettókaupendur raforku frá Noregi til að spara dýrt gas.
Síðan kom draumsýn Viðreisnar um "opnun íslenzka raforkukerfisins":
"Eins og hér hefur verið rætt, myndi opnun íslenzka raforkukerfisins skapa nýjar forsendur fyrir ábata af þeim virkjunum, sem þegar hafa verið reistar. Hægt væri að fá betra verð fyrir orkuna á stærri markaði. Hægt væri að selja umframframleiðslugetu í stað þess að hleypa vatni framhjá virkjunum í góðum vatnsárum.
Hægt væri að stórbæta afkomu með því að nýta miðlunina til að geyma orku í stuttan tíma og jafna þannig misræmi í framboði og eftirspurn, sérstaklega sveiflum, sem tengjast framleiðslu annarra endurnýjanlegra orkukosta, s.s. vindorku og sólarorku. Allt þetta myndi stórbæta arðsemi núverandi fjárfestinga í íslenzka raforkukerfinu."
Þetta er skrifborðsæfing hagfræðings, sem gerir tvenn mistök. Hann áttar sig ekki á, að gasorkuver eru að yfirtaka reglunarhlutverkið í raforkukerfum Evrópu, og þá felst í því sóun að senda "sömu orkuna" fram og til baka eftir löngum sæstreng. Kjarni málsins er sá, að hann vill kasta barninu út með baðvatninu með því að stórhækka raforkuverðið í landinu og kallar það að "stórbæta arðsemi fjárfestinga í íslenzka raforkukerfinu". Það á þvert á móti að vera sérstakt keppikefli landsmanna að viðhalda hér lágu orkuverði og leggja þannig grunninn að góðum lífskjörum landsmanna og mikilli notkun á sjálfbærum orkulindum, sem nóg er af til atvinnustarfsemi og heimila, nema það feigðarflan yrði ofan á að tengja þetta litla raforkukerfi við risakerfi Evrópu. Þeir, sem mæla með því, hafa ekki hugsað málið til enda, eða eru ábyrgðarlausir í sínum málflutningi.
"En spurningar vakna einnig um, hvort auka ætti framleiðslu til að auka enn þennan ábata. Því meira, sem flytja mætti út af orku, [þeim mun] meiri yrði ábatinn. Á sama tíma er ljóst, að verulegt rask og umhverfiskostnaður fylgir virkjanaframkvæmdum. Hagsmunir framleiðenda raforku og umhverfisverndar ganga í gagnstæðar áttir."
Enginn fjárfestir leggur í að fjármagna aflsæstreng hingað, nema tryggt verði, að nýting hans standi undir fjárfestingunni á 10-20 árum. Til að svo megi verða þurfa að fara um strenginn um 8 TWh/ár, og megnið af því þarf að koma frá nýjum virkjunum (tæplega 40 % aukning). Það getur sízt af öllu orðið sátt um slíkt í þjóðfélaginu eða á Alþingi, ef fylgifiskurinn verður stórhækkað raforkuverð í landinu, aukin verðbólga og verri samkeppnisstaða við útlönd.
Það er mjög huglægt mat, hvað er "verulegt rask", og það er rangt, að "hagsmunir framleiðenda raforku og umhverfisverndar gang[i] í gagnstæðar áttir", nema átt sé við afturhald, sem hefur alltaf verið á móti nánast öllum virkjunum. Hönnuðir hafa nú yfir að ráða meiri getu til að búa til lausn með góðri nýtingu orkulindar, sem fellur vel að umhverfinu, enda eru sjálfbærar orkuvirkjanir Íslands vinsælir áningarstaðir ferðamanna.
"Svar hagfræðinnar er, að hvort tveggja eigi að meta og bera saman með skipulögðum hætti. Allar framkvæmdir ættu að fara í kostnaðar- og ábatamat, þar sem skipulega yrði lagt mat á hagnað af raforkuframleiðslu annars vegar og umhverfiskostnað hins vegar. Þetta er því miður ekki gert í dag.
Rammaáætlun hefur ekki nýtt sér slíkt skipulegt mat, þó [að] einstakir kostir hafi verið metnir, og það er heldur ekki skylda að framkvæma það vegna einstakra verkefna. Þetta er mjög miður, því [að] mat á heildarábata fer hvort eð er fram - bara ekki skipulega. Þegar ákvörðun er tekin um að virkja, er í raun verið að ákveða, að ábati virkjunar sé meiri en umhverfiskostnaðurinn - þó svo engin tilraun sé gerð til að leggja skipulega mat á hann. Matið er óbeint og því miður oft pólitískt. Þessu þarf að breyta."
Málið er ekki eins einfalt og hagfræðingurinn vill vera láta. Annars hefði Verkefnastjórn um Rammaáætlun líklega bitið á agnið. Það eru til almennt viðurkenndar aðferðir til að reikna kostnað virkjunar í ISK/kWh og þar með arðsemi virkjunar, ef markaðsverð orkunnar er þekkt. Málið vandast, þegar kemur að umhverfiskostnaðinum. Þar vantar hlutlæg viðmið, sem sátt ríkir um. Kostur væri, að Orkustofnun legði hér eitthvað að mörkum og þá helzt með vísun til alþjóðlegra viðmiðana.
Viðreisnarvaraformaðurinn vill taka pólitíkina út úr þessu ákvörðunarferli. Það er í anda Evrópusambandsins og ACER, Orkustofnunar ESB, en er það lýðræðisleg hugsun ? Varla frekar en annað á þeim bænum. Alþingi á áfram að taka ákvarðanir um helztu virkjanir landsins yfir ákveðnum mörkum, t.d. 35 MW, en hafa þá helzt í höndunum hlutlægt hagfræðilegt mat á kostum og göllum.
29.11.2021 | 20:38
Sæstrengsrímur kveðnar við raust
Nú er verð á orkugjöfum og orkuberum, þ.á.m. rafmagni, á meginlandi Evrópu og á Bretlandseyjum hátt. Þann 8.11.2021 tilkynnti Landsvirkjun um hækkun raforkuverðs skammtímasamninga við almenningsveiturnar og ber við lágri miðlunarlónsstöðu, enda er vatnshæðin í Þórisvatni óbeysin í byrjun vetrar. Ef orkumálum landsins væri almennilega stjórnað, og ekki bara látið reka á reiðanum, þá væri ný virkjun á borð við Hvammsvirkjun (95 MW) að taka til starfa nú í haust, og engin hætta væri á vatnsleysi í Þórisvatni (sama vatnið og í virkjunum ofar), en enginn er lagalega ábyrgur fyrir því, að á hverjum tíma, nema í náttúruhamförum, sé tiltæk næg raforka. Landsvirkjun er úti á þekju (hluti hennar var í Gljáskógum) og er nú í einhvers konar framboðs/eftirspurnarleik.
Með því að hækka raforkuverðið er ætlunin að draga úr eftirspurninni, en verðteygni rafmagns til almennings er ekki með þeim hætti, að aðferð Landsvirkjunar hrífi. Hver mun draga úr aflþörf sinni um jólin, þótt Landsvirkjun sé í sandkassaleik ? Landsnet undirbýr nú uppboðskerfi raforku, og þá mun orkuskorturinn bitna á almenningi fyrir alvöru. Noregur er með svipað kerfi, og þar kostar raforkan um þessar mundir 30 ISK/kWh + flutningur, dreifing og gjöld, alls um 60 ISK/kWh. Hér er um undirstöðu innviði samfélagsins að tefla, sem á ekki við að hleypa í uppnám spákaupmennsku, eins og tíðkast á uppboðsmörkuðum rafmagns í ESB og víðar við allt aðrar aðstæður en hér eru. Munu innviðaráðherra og/eða orkuráðherra grípa í taumana, áður en tjöldin verða dregin frá í þessu leikhúsi fáránleikans, eða á að skýla sér á bak við Orkupakka 3 frá ESB, sem jú er í gildi hér.
Raforkufyrirtækin eiga ekki að verða sogrör ofan í vasa almennings fyrir fyrirtæki á fákeppnismarkaði. Það er mikið hagsmunamál almennings, eins og við höfum fengið staðfest á undanförnum vikum frá hinum Norðurlöndunum, frá Bretlandseyjum og frá meginlandi Evrópu. Því miður eru þessi mál eftir innleiðingu Orkupakka 3 í höndum Orkustjóra ESB á Íslandi og ACER (Orkustofnunar ESB, sem ESA afritar fyrirmæli frá), en ekki í höndum íslenzkra ráðuneyta. Þingmenn gætu þó reynt að leggja fram þingsályktunartillögu um frestun á málinu, t.d. út þetta kjörtímabil eða þar til örlög Orkupakka 4 ráðast í EFTA. Norska verkalýðshreyfingin verður sífellt gagnrýnni á EES-aðildina, svo að til tíðinda kann að draga með EES-samninginn á þessu kjörtímabili. Noregur er kjölfesta hans innan EFTA og mótar stefnuna í grundvallaratriðum.
Daði Már Kristófersson, hagfræðiprófessor við HÍ, fer mikinn í Vísbendingu, 39. árg., 40. tlbl., 05.11.2021, um gróða Norðmanna á raforkuviðskiptum um sæstrengi. Þar minnist hann ekki á nokkur atriði, sem eru neikvæð fyrir slíka sæstrengstengingu við Ísland:
- Norska Landsnet (Statnett) á allar millilandatengingar við Noreg, og þess vegna njóta norskir raforkunotendur góðs af hagnaði orkuflutninganna, þótt ESB hafi lagt hömlur á hagnaðartilflutninga flutningsfyrirtækja í aðra starfsemi en millilandaflutninga.
- Meiri afl- og orkutöp verða í sæstreng til Íslands frá Betlandi eða meginlandinu en í norskum sæstrengjum til útlanda vegna vegalengdar.
- Allir aflsæstrengir Noregs hafa flutningsgetu, sem nemur alls um 30 % af framleiðslugetu landsins, en einn aflsæstrengur til Íslands mundi hafa flutningsgetu, sem nemur tæplega 50 % af núverandi framleiðslugetu Íslands. Verðsveiflur á Íslandi yrðu að sama skapi í enn meiri líkingu við verðsveiflur á hinum endanum.
- Miðlunargeta norskra lóna er meira en tíföld sú íslenzka. Það er mjög takmörkuð orka, sem hægt er að geyma í íslenzkum miðlunarlónum fyrir raforkufyrirtæki í Evrópu. Það er stórhættulegt fyrir Íslendinga að draga niður í eigin miðlunarlónum með sölu til útlanda, og verða þá algerlega háðir "hundi frá Evrópu" með raforku yfir veturinn.
- Með slíkri tengingu við Evrópu og markaðskerfi ESB samkvæmt Orkupakka 3 (og 4) mun heildsöluverð raforku til almenningsveitna verða svipað og í Evrópu. Þetta mun líka hækka hitaveitukostnaðinn (dæling) og kostnað allra fyrirtækja og heimila á landinu. Samkeppnisstaðan versnar að sama skapi, en gróði raforkuframleiðenda verður fugl í skógi, því að rándýr sæstrengurinn þarf sitt.
- Gríðarleg orku- og flutningsmannvirki innanlands verða nauðsynleg til að þjóna erlendum raforkumörkuðum. Það er ekki ljóst, að nægar orkulindir verði þá tiltækar fyrir raforkuþörf landsmanna til 2040, ársins, þegar kolefnishlutleysi á að nást, og enn þyngra getur orðið undir fæti með framkvæmdaleyfi fyrir flutningsmannvirki til innanlandsþarfa en ella.
Prófessorinn reit:
"Nokkur umræða hefur verið um möguleika á raforkuútflutningi um langt skeið. Ólík sjónarmið eru uppi um ágæti hugmyndarinnar. Raddir eru uppi um, að nýta eigi orkuna fremur hér á landi en flytja hana út, að búið sé að virkja nóg og umhverfisáhrif virkjana séu nú þegar of mikil og að útflutningur orku muni leiða til hækkunar á raforkuverði.
Á móti er bent á þann hag, sem aðrar þjóðir hafa haft af slíkum viðskiptum, t.d. Norðmenn, og á nauðsyn þess að auka framleiðslu endurnýjanlegrar orku á tímum aðgerða í loftslagsmálum. Hér er því af mörgu að taka."
Þarna er ýmislegt tínt til. Hinn raunverulegi lærdómur, sem Íslendingar geta dregið af viðskiptum Norðmanna með rafmagn á erlendum mörkuðum, er, að verðhækkun rafmagns innanlands er óhjákvæmilegur fylgifiskur viðskipta, innflutnings og útflutnings, fyrir vatnsorkulönd með lágan vinnslukostnað á rafmagni. Hagfræðingar geta fegrað þessi viðskipti á ýmsa lund, en hinn þjóðhagslegi kostnaður, sem felst í að rýra stórlega samkeppnishæfni atvinnuveganna og kaupmátt heimilanna verður alltaf hærri en nemur meintum ábata raforkufyrirtækjanna. Þeir, sem raunverulega græða, eru fyrirtæki erlendis, sem fá græna og kannski ódýrari raforku til að framleiða samkeppnishæfari vöru eða þjónustu.
Það verður alltaf hagkvæmara að nýta orkulindirnar innanlands til að skapa vinnu, þekkingu og verðmæta og eftirsótta vöru. Orkulindirnar eiga að verða hjálpartæki til að efla innlenda atvinnuvegi, en ekki leiksoppur spákaupmanna. Ríkisfyrirtæki á borð við Landsvirkjun á að sjá sóma sinn í þessu og hætta gælum við spákaupmennsku á erlendum mörkuðum, sem er órafjarri hlutverki Landsvirkjunar fyrr og síðar. Núverandi forysta hennar er heillum horfin, ef hún sér ekki villur síns vegar, og hættir ekki að einblína á Statkraft í Noregi, sem mikil óánægja er með á meðal norsks almennings um þessar mundir vegna útflutnings á raforku, sem bitnað hefur á stöðu miðlunarlónanna á viðkvæmum tíma. Við þetta er að bæta, að Norðmenn hafa afhent ESB/ACER stjórnun flutninganna um strengina til ESB-ríkjanna með innleiðingu Orkupakka 3, svo að þeir geta ekki staðið í þessum viðskiptum með hagsmuni Noregs að leiðarljósi, heldur verða hagsmunir heildarinnar, þ.e. ESB-landanna, hafðir að leiðarljósi undir umsjón ACER.
"Almennt er því ástæða til að ætla, að útflutningur raforku hefði jákvæð áhrif á Ísland. Verðmætasköpun og útflutningur mundi styrkjast."
Hér er hrapað að niðurstöðu. Útflutningurinn, sem fyrir er, mundi veikjast vegna verðhækkana rafmagns, svo að dregur úr hefðbundinni verðmætasköpun, sem vegur meira en ávinningurinn af sölu rafmagns. Þá mundi nýsköpun verða kyrkt með vöntun á grænu rafmagni á hagstæðu verði. M.ö.o. við yrðum undir í samkeppninni við útlendingana um eigið rafmagn vegna hærra kostnaðarstigs hér og flutningskostnaðar á vörum frá landinu.
"Lokuð raforkukerfi, eins og það íslenzka, þar sem milliríkjaviðskipti eru ekki möguleg, þurfa að tryggja nægilegt framboð fyrir ófyrirsjáanlegum sveiflum. Þessi umframframleiðslugeta þarf að vera umtalsverð í raforkukerfum, þar sem vatnsafl er ráðandi vegna óvissu um vatnsbúskap. Miðlunargeta þarf að geta brúað bilið milli góðra og slæmra vatnsára. Það þýðir jafnframt, að á meðalári er framleiðslugetan meiri en eftirspurn. Fossinn Hverfandi við Kárahnjúkastíflu er skýrt dæmi um þessa umframgetu. Vatnsaflskerfi Norður-Evrópu, s.s. Noregs og Svíþjóðar, voru með þeim fyrstu, sem nýttu sér útflutning, einmitt til að koma þessari umframframleiðslugetu í verð. Með þeim hætti var hægt að skapa verðmæti úr því, sem að jafnaði er kostnaðarliður vatnsaflskerfa."
Það hefur verið ljóst, frá því að fyrsta stórvirkjun Íslands, Búrfellsvirkjun, var hönnuð, að ójafnt aðrennsli frá ári til árs mundi valda sveiflukenndri framleiðslugetu á ársgrundvelli. Við þessu var séð á hagkvæman hátt með því að rannsaka rennslisraðir margra ára og síðar var farið að framkalla rennslisraðir með líkindareikningi og hermilíkönum í tölvum. Miðlunargeta lóns, uppsett afl í virkjun og orkusölusamningar, voru samhæfð þannig, að virkjun gæti alltaf (nema í neyðartilvikum-"force majeur") afhent viðskiptavinum sínum forgangsorku og í um 27 af 30 árum a.m.k. 50 % af s.k. ótryggðri orku, sem mest næmi um 10 % af heildarorkuafhendingu. Miðlunargetu á Íslandi er þannig ekki ætlað að brúa bilið á milli góðra og slæmra vatnsára, heldur einvörðungu á milli árstíða, og í slökum vatnsárum er einfaldlega dregið úr afhendingu ótryggðrar raforku samkvæmt samningum þar um.
Þetta fyrirkomulag hefur yfirleitt heppnazt ágætlega, þótt stóriðjan hafi einstaka sinnum þurft að taka á sig forgangsorkuskerðingu, þegar saman fara bilanir og slakt vatnsár. Það er misskilningur höfundar þessarar Vísbendingargreinar, að "á meðalári sé framleiðslugetan meiri en eftirspurn" og að yfirfall á stíflu (Hverfandi) sé til merkis um það. Þvert á móti er um undirframleiðslugetu í góðum vatnsárum að ræða. Að þetta sé "kostnaðarliður vatnsaflskerfa" er fráleit túlkun. Ef viðbótar fjárfesting færi fram í vatnsaflsvirkjunum til að nýta umframvatnið og sú fjárfesting stæði ekki undir sér, væri hægt að tala um "kostnaðarlið" vegna umframframleiðslugetu.
Landsvirkjun hefur þegar farið inn á þá braut að nýta yfirfallsvatn, og er Búrfell 2 dæmi um það. Nú gæti verið að skapast markaður fyrir "umframorku" vatnsorkuvera með aukningu á flutningsgetu rafmagns á milli landshluta og framleiðslu rafeldsneytis. Spáð er aukinni úrkomu á landinu og minnkun jökla með hækkun hitastigs, og þá gætu stækkanir vatnsaflsvirkjana orðið enn fýsilegri.
"Opnun lokaðra raforkukerfa, sérstaklega kerfa, sem byggja fyrst og fremst á vatnsafli, hefur því tvíþætta kosti. Það eykur verðmæti raforkuframleiðslu almennt með því að stækka markaðssvæðið, og það nýtir fjárfestingu betur með því að skapa möguleika á að nýta framleiðslugetu að fullu."
Þessar ályktanir höfundarins eru úr lausu lofti gripnar m.v. íslenzkar aðstæður. Raforkukerfi landsins er í raun innviðauppbygging hins opinbera, sem þjónar því hlutverki að gera framleiðendum kleift að framleiða alls konar vörur og þjónustu með hagkvæmum hætti og fólkinu í landinu að njóta ávaxtanna af þessum stórviðskiptum með lágu orkuverði til sín.
Það gefur auga leið, að orðalagið um "aukin verðmæti raforkuframleiðslu almennt" felur í sér verðhækkun og aukna raforkuvinnslu. Það mun koma harkalega niður á núverandi og framtíðar orkunotendum í landinu. Engum dettur í hug að leggja sæstreng alla leið til Íslands til að nýta það smáræði, sem felst í yfirfallsvatninu.
Noregur er víti til varnaðar í þessum efnum. Nýlega voru teknir í brúkið 2 öflugir aflsæstrengir þar, annar til Þýzkalands og hinn til Englands. Samkvæmt "Europower Energi" hefur rannsókn leitt í ljós, að þeir hafi á þessu ári leitt til orkuverðshækkunar í Noregi, sem nemur 13 Naur/kWh eða um 2,0 ISK/kWh. Þetta mun leiða til kostnaðarauka hjá meðalfjölskyldu um 3250 NOK/ár eða um 50´000 ISK/ár. Þar á ofan bætast hækkanir vegna lágrar stöðu í miðlunarlónum sökum mikils útflutnings (staðan var nefnilega góð í vor), enda hefur raforkuverð með flutningskostnaði, söluþóknun og opinberum gjöldum farið upp í 4,0 NOK/kWh eða 60 ISK/kWh. Þetta er meira en þrefalt það, sem flestir Íslendingar búa við um þessar mundir, og þetta er meira en þreföldun þess, sem Norðmenn hafa löngum búið við.
Frá október 2020-október 2021 hækkaði raforkuverð með flutningsgjaldi í Noregi um tæplega 80 %. Svona "trakteringar" vegna spákaupmennsku með auðlindir þjóðarinnar eiga Norðmenn erfitt með að sætta sig við. Þetta er meðvirkandi þáttur í andstöðu núverandi Stórþings við innleiðingu Orkupakka 4 í norskan rétt og svo kann að fara, að æðri dómstig dæmi afgreiðslu fyrra Stórþings á Orkupakka 3 sem stjórnarskrárbrot, þótt héraðsdómur (tingretten i Oslo) hafi hafnað því. Þá verður hann felldur úr gildi af núverandi Stórþingi, sem yrði einsdæmi.
Í næsta vefpistli verður fjallað um seinni hluta þessarar villandi Vísbendingargreinar.
21.11.2021 | 14:04
Ótilhlýðilegur samanburður
Virtir raunvísindamenn hafa með rökföstum hætti og með vísunum til áreiðanlegra mælinga gagnrýnt vinnubrögð IPCC (Loftslagsráðs Sameinuðu þjóðanna, SÞ). Telja sumir, t.d. John Christy, loftslagsfræðingur og prófessor við UAH í BNA, hitastigshækkun andrúmsloftsins vera stórlega ýkta af IPCC og vísa þá til viðamikilla hitastigsmælinga með gervihnöttum, sem þeir hafa unnið úr og sem IPCC skellir skollaeyrum við, eða þeir telja um eðlilega sveiflu hitastigs að ræða í kringum fast meðaltal undanfarinna 2000 ára og leggja fram gögn sín því til sönnunar (árhringjamælingar trjáa).
Hér eru ábyrgir vísindamenn á ferð, sem ekki hafa verið gerðir afturreka með kenningar sínar og gögn með neinum rökstuddum hætti, heldur hefur IPCC beitt þöggun. Það er lítilmótlegt og samræmist engan veginn hefðbundnum vísindalegum vinnubrögðum. Gagnrýnendurnir eru aðeins knúnir áfram af sannleiksást og virðingu fyrir vísindalegum heiðri.
Þess vegna er miður að sjá Sigurð Friðleifsson, framkvæmdastjóra Orkuseturs, líkja þessum strangheiðarlegu vísindamönnum við einhvern Sergei Jargin, sem hann kveður bera brigður á þá margsönnuðu læknisfræðilegu staðreynd, að einangrunarefnið asbest sé stórhættulegt öndunarfærum manna, ef ögnum úr því er andað að sér. Enginn hefur hrakið það með rökum, sem standast vísindalegar kröfur. Þess vegna er þessi samanburður villandi og í raun algerlega út í hött.
Téð Morgunblaðsgrein 2. nóvember 2021 bar fyrirsögnina:
"Er ekki asbest allt í lagi ?",
og vitnar eiginlega um skrýtinn hugarheim. Greinin hófst þannig:
"Asbest er frábært efni, sem nota má til einangrunar og eldvarna. Olía er líka frábært efni, sem nota má til að knýja vélar og tæki. Vísindamenn hafa tengt asbest við steinlungu og krabbamein. Vísindamenn hafa líka tengt olíunotkun við loftslagsbreytingar og lungnasjúkdóma. Neikvæð áhrif asbests koma oft í ljós löngu eftir notkun. Neikvæð áhrif olíubrennslu munu sum koma í ljós löngu eftir brunann. Stór hluti vísindamanna telur notkun asbests umhverfislega neikvæða. Margir vísindamenn telja notkun olíu umhverfislega neikvæða. Til eru vísindamenn, sem draga neikvæð áhrif asbestnotkunar í efa. Til eru vísindamenn, sem draga neikvæð áhrif olíu á lofthjúpinn í efa. Til er umhverfisvænni tækni, sem leysti að mestu asbestið af hólmi. Til er umhverfisvænni tækni, sem leyst getur olíu að mestu af hólmi."
Þetta er kostulegur samsetningur, sem virðist ætlað að kasta rýrð á vandaða gagnrýni nokkurra virtra raunvísindamanna, sem ekki mega vamm sitt vita. Hæpið er, að skrif með svona samlíkingum verði nokkrum málstað að gagni. Að kalla asbest "frábært efni" er furðulegt, þegar það er sannað með klínískum rannsóknum, að það er svo hættulegt heilsu manna, að öll umgengni við það, niðurrif og förgun, er svo varasöm, að klæðast verður loftþéttum, einnota búningum við vinnu í grennd við það, hvað þá snertingu.
Höfundurinn heldur því fram, að "til [séu] vísindamenn, sem drag[i] neikvæð áhrif olíu á lofthjúpinn í efa". Hvaða vísindamenn eru það ? Það er þvert á móti viðtekin staðreynd, sem hefur ekki verið andmælt með vísun til viðurkenndra rannsókna, að bruni jarðefnaeldsneytis leysir úr læðingi skaðlegar agnir og gastegundir, sem hættulegar geta verið heilsu manna og valda árlega ótímabærum dauða milljóna manna. Þar að auki verða iðulega mengunarslys við leit, öflun og vinnslu þessara efna og hræðileg eru námuslysin. Seigdrepandi eru áhrif kolaryks á unga og hrausta kolanámumenn. Um þetta er enginn ágreiningur. Þess vegna er til mikils að vinna að losna við þessi efni úr orkunotkunarferlum manna, þótt þau muni nýtast í ýmsum efnaferlum.
Víkjum þá að "lífsandanum", en svo hefur koltvíildið verið nefnt, af því að það er næring fyrir allar plöntur jarðar og þörunga hafsins. Þannig er það ásamt súrefninu ein af undirstöðum lífsins á jörðunni. Það verður til með margvíslegum hætti, og orkunotkun mannsins hefur vissulega leitt til aukningar á styrk þess í andrúmslofti. Traustar mælingar liggja að baka þessari fullyrðingu, svo að um það verður ekki deilt, að núverandi styrkur þess er um 420 ppm.
Það er heldur ekki deilt um gróðurhúsalögmál Fouriers og Arrheniusar frá 19. öld, en það er hins vegar deilt um áhrif þessa gróðurhúsalögmáls á hitastigsþróunina í andrúmslofti jarðar. Veðurhjúpurinn verður fyrir margvíslegum áhrifum, og þar ríkir flókið samspil. Ein virkunin er hitageislun út í geiminn, og hún eykst með hækkandi hitastigi andrúmslofts samkvæmt ákveðnu lögmáli eðlisfræðinnar. Prófessor John Christy, loftslagsfræðingur við UAH í BNA, heldur því fram, að í loftslagslíkönum IPCC sé þessi þáttur vanmetinn, sem leiði til útreikninga á allt of háum hitastigli. Hann rökstyður mál sitt með hitastigsmælingum gervihnatta yfir 40 ára tímabil, sem enginn hefur véfengt.
Síðan hafa tölfræðingar gagnrýnt mjög meðferð IPCC á tímaröðum, og telja þeir ályktanir IPCC um yfirvofandi hækkun hitastigs glannalegar, og að þær fái ekki staðizt, sbr grein prófessors Helga Tómassonar í Morgunblaðinu 14.október 2021. Hann vitnar þar í rannsóknir á hitastigi jarðar 2000 ár aftur í tímann, sem bendi aðeins til tregbreytanlegra hitastigssveiflna um fast meðaltal, þ.e. núverandi hækkun gæti verið náttúruleg. Í þessu samhengi verður að gæta að því, að margir vísindamenn spá ísöld eftir um 1500 ár.
Síðan fullyrðir höfundurinn, að "til [sé] umhverfisvænni tækni, sem leyst [geti] olíu að mestu af hólmi". Ef lífið er svona einfalt, af hverju eykst þá með hverju árinu (ef Kófsárið 2020 er undanskilið) notkun jarðefnaeldsneytis ? Það er vitaskuld af því, að fullyrðingin er röng. Það vantar á markaðinn frambærilega og nægilega umhverfisvæna tækni til að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi á heimsvísu. Það er hægt staðbundið mjög bráðlega, s.s. á Íslandi, en sjálfbærar orkulindir skortir einmitt. Þar stendur hnífurinn í kúnni. Kjarnorkutæknin, sem nú er á markaðinum, gæti það, en almenningur í mörgum löndum telur hana of hættulega og virðist meta meiri vá af kjarnorkuverum en brennslu jarðefnaeldsneytis. Löggjafinn í sumum löndum hefur jafnvel gert eigendum kjarnorkuvera að loka þeim á næstu árum, þótt ekkert annað blasi þá við en aukin brennsla jarðefnaeldsneytis.