Færsluflokkur: Umhverfismál
13.11.2021 | 14:26
Kardínáli ávarpar lýðinn
Mörgum þykir COP-26 (Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna) í Gljáskógum einkennast af hræsni og yfirdrepsskap. Þangað mættu þjóðarleiðtogar, milljarðamæringar og samkvæmisljón af ýmsu tagi, en hefðu betur setið heima m.t.t. sóttvarna og koltvíildisstyrks í andrúmslofti, að teknu tilliti til nytsemi umræðnanna fyrir framtíðina, sem líklega nálgast 0. Öll töldu þau mannkynið standa á brún hengiflugs stjórnlausrar hlýnunar. Engar efasemdir við niðurstöður IPCC (Loftslagsnefndar SÞ) virðast vera leyfðar, og þó hafa þessar efasemdir verið kynntar almenningi. Hér er um að ræða trúarbrögð samtímans, þangað sem "góða fólkið" leitar heitrar baráttu til að bjarga mannkyninu frá syndum sínum í sefjun. Staðreyndum er sópað undir teppið, og rangfærslur hafðar uppi um aukna tíðni stórviðra.
Þær hefur m.a. hrakið John Christy, og einnig má nefna rannsóknir prófessors Johns Christy við UAH (University of Alabama-Huntsville) á hitastigsmælingum gervihnatta í lofthjúpi jarðar, sem sýna mun lægri hitastigul í andrúmsloftinu en IPCC hefur kynnt til sögunnar og framreiknað með loftslagslíkönum sínum, sem prófessor Christy hefur sýnt fram á, að eru gölluð. Gervihnattamælingar prófessors Christy yfir 40 ára tímabil sýna stigul rúmlega 0,1°C/10 ár eða framreiknað 1°C á öld.
Þá hefur Helgi Tómasson, prófessor í tölfræði við HÍ, kynnt í Morgunblaðinu tölfræðilegar niðurstöður á mati á hitastigi á jörðunni síðast liðin 2000 ár út frá árhringjamælingum trjáa. Niðurstaðan var sláandi: hitastig jarðar er tregbreytanlegt og sveiflast um fast meðaltal. Sem sagt engar marktækar breytingar í 2000 ár, og núverandi hitastigshækkun er bara uppsveifla um fast meðaltal, þannig að kuldaskeið mun taka við af núverandi hlýskeiði. Loftslagskirkjan reynir að yfirgnæfa gagnrýnisraddir með með fyrirferðarmiklum hræðsluáróðri, sem náð hefur eyrum fjölmiðlanna.
Einn af kardínálum loftslagskirkjunnar á Íslandi, Halldór Björnsson, loftslagssérfræðingur á Veðurstofu Íslands, fór fremur lítilsvirðandi orðum um efasemdarmenn, sem ekki leggja trúnað á, að gróðurhúsalögmál Fouriers og Arrheniusar frá 19. öld eigi að fullu við um jörðina og loftslag hennar. Hið furðulega er, að hið sama virðist vera uppi á teninginum varðandi Halldór sjálfan, þótt hann dragi hvergi af sér í dómsdagsboðskapnum, eins og sýnt verður með tilvitnunum í hann.
Ávarp kardínálans birtist í Fréttablaðinu 2. nóvember 2021 undir heitinu:
"Aðgerðaleysissinnar vilja tefja, en nú er tíminn að renna út".
Ávarpið hófst þannig:
"Frá því, að farið var að reyna að ná samkomulagi um aðgerðir í loftslagsmálum, hefur sambærilegt leikrit verið sett á svið í aðdraganda funda. Stuðningsmenn aðgerðaleysis - aðgerðaleysissinnar - fara mikinn í fjölmiðlum og finna málinu allt til foráttu. Pólitísk hugmyndafræði þeirra er ólík; annars vegar eru þeir, sem telja málið illa ígrundað, byggi á ónægum vísindum, leiði til ríkisafskipta og efnahagshruns, og svo eru þeir, sem vilja umbyltingu á efnahagslegu skipulagi heimsins og telja allar lausnir, sem ekki miði að endalokum núverandi kerfis, gangi of skammt. Báðir aðilar eru þó sammála um, að það sé tilgangslaust að halda fundi, eins og þann, sem nú stendur fyrir dyrum (svo !) í Glasgow og harma þá losun gróðurhúsalofttegunda, sem honum fylgir."
Þessi pistilhöfundur hér er ekki málsvari aðgerðaleysis á Íslandi til að ná kolefnisjafnvægi í þjóðarbúskapinum 2040, eins og ríkisstjórnin stefnir að, en hann vill, að allar aðgerðir séu reistar á beztu fáanlegu raunvísindalegu þekkingu. IPCC virðist misbeita vísindunum í nafni meintra öfgasjónarmiða um "endimörk vaxtar", sem ekki hafa staðizt tímans tönn, og beitir þöggun á þá raunvísindamenn, sem hafa með rannsóknum sínum komizt að allt annarri niðurstöðu en IPCC.
Höfundur þessa pistils telur einsýnt, að heimurinn sé kominn á braut orkuskipta, sem er einstefna í eðli sínu. Á Íslandi ber hiklaust að beita beztu tækni til að virkja vatnsföll og jarðgufu þannig, að sem bezt falli að náttúrugæðum og ásýnd landsins til að leysa jarðefnaeldsneytið af hólmi. Erlendis verður málið víðast hvar leyst með mismunandi útgáfum af kjarnorku. Þessi nálgun verður þjóðhagslega hagkvæm fyrir Íslendinga, mun bæta loftgæðin og skjóta stoðum undir margvíslega framleiðslu í landinu frá skógi til vetnis.
Aðferðarfræði COP-fundanna er vonlaus, eins og Gljáskógadramað opinberar. Þar eru hafðar uppi heitstrengingar um mismunandi markmið þjóða, en lítið gert með þær, þegar heim er komið, nema kannski að skvaldra. Mun árangursríkara hefði verið að semja um sams konar aðgerðaáætlun stjórnvalda allra landa, sem fælu í sér písk og gulrætur fyrir alla orkunotendur. Afleiðingin af núverandi aðferðarfræði er mikið misgengi hagkerfa og kolefnisleki, en losunin eykst stöðugt. Samkvæmt Alþjóða veðurfræðistofnuninni jókst koltvíildisstyrkur andrúmslofts árið 2020 meira en að meðaltali 2011-2019. Þetta kom á óvart vegna minni iðnaðarframleiðslu og ferðalaga á Kófsárinu. Núverandi bókfærð losun nemur um 35 Gt/ár , og þar af frá Íslandi um 5 Mt/ár eða 0,14 þúsundustu partar, sem er langt innan mælióvissu.
Kardínálinn reit ennfremur:
"Um nokkurt skeið hefur legið fyrir, að losun gróðurhúsalofttegunda, mest vegna bruna jarðefnaeldsneytis (á kolum, olíu og gasi), veldur hlýnun jarðar og áhrif hennar eru auðmerkjanleg og víðfeðm. Hlýnunin frá iðnbyltingu er nú þegar um 1,1°C, og birtar vísindagreinar sýna, að áhrifa hefur alls staðar orðið vart, og einnig að áframhaldandi hlýnun getur haft í för með sér mjög harkalegar afleiðingar fyrir lífríki og þjóðfélög."
Þarna er farið á hundavaði yfir kenningar loftslagskirkjunnar, en ekkert vikið að gagnrýninni, t.d. frá tímaraðasérfræðingum á meðal tölfræðinga, sem prófessor Helgi Tómasson, gerði skilmerkilega grein fyrir í Morgunblaðsgrein 14. október 2021, en þeir sjá ekkert benda til afbrigðilegrar hlýnunar frá upphafi iðnbyltingar eftir að hafa rannsakað hitastigsþróunina á jörðinni undanfarin 2000 ár. Þá benda gervihnattamælingar hitastigs, sem prófessor John Christy o.fl. við UAH hafa rannsakað, til mun minni hitastiguls (0,1°C/10 ár) en IPCC ályktar á grundvelli sinna reiknilíkana, sem prófessor Christy telur gölluð. Hann telur IPCC ekki taka nægilegt tillit til aukinnar útgeislunar frá gufuhvolfinu með vaxandi hitastigi, sem hefur sjálfreglandi áhrif á hitastigsþróunina. Þekkt er lögmálið um, að geislun frá flötum fylgi hitastigi þeirra í °K í 4. veldi.
Síðan tekur við ótrúlegur málflutningur hjá Halldóri Björnssyni. Hann kveður losun mannkyns á CO2 frá upphafi iðnbyltingar nema 2400 Gt, og að við 2700 Gt muni "hlýnunin far[a] yfir Parísarviðmiðin" samkvæmt áætlun. Þá "versna líkur á, að hlýnun verði minni en 1,5°C; verði viðbótarlosunin 500 Gt CO2, eru aðeins helmingslíkur á, að hlýnun haldist innan við 1,5°C. Fyrir 2°C markið versna líkur við 900 Gt CO2 viðbótar losun, og helmingslíkur fást við 1350 Gt CO2 losun."
Þetta er álíka viturlega fram sett og hjá lækni, sem mundi segja við sjúkling sinn í dag, að lífslíkur hans muni versna á næsta ári m.v. núverandi ár. Þá er furðulegt að setja fram eitthvert gildi, sem valdi aðeins 50 % líkum á atburði. Hvað er eiginlega á bak við þetta ? Kenning Fouriers og Arrheniusar um gróðurhúsaáhrif getur ekkert um, að líkindareikningi þurfi að beita til að reikna hlýnunina út m.v. gefna aukningu á styrk CO2. Manni dettur helzt í hug, að eðlisfræðin, sem að baki reiknilíkönum IPCC er, sé á reiki, og að þau gefi þess vegna mismunandi niðurstöður. Samkvæmt prófessor John Christy, sem starfaði áður í rýnihópi IPCC, en var settur í skammarkrókinn vegna gagnrýni sinnar á starfsaðferðir IPCC, eru þau öll með böggum hildar, þó mismiklum.
Síðasta tilvitnunin í þessa grein er til að sýna dæmi um hræðsluáróðurinn, sem beitt er og hefur skotið mörgum skelk í bringu, sem engin furða er:
"Þetta þýðir, að mjög lítill tími er til stefnu áður en ekki má losa meira [m.v. 50 % líkur ? - innsk. BJo]. Vinnslu jarðefnaeldsneytis úr nýjum olíu- og gaslindum verður líklega að stöðva löngu áður en þær verða uppurnar. Þessi staðreynd er ástæða þess, að aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Antonio Gueterres, hvetur þjóðir til að hætta leit að jarðefnaeldsneyti, stöðva niðurgreiðslu þess og styðja í staðinn uppbyggingu endurnýjanlegra orkugjafa."
Fjárfestar vita, hvað klukkan slær, og hafa þegar dregið úr fjárveitingum til rannsókna á nýjum vinnslusvæðum fyrir olíu, gas og kol. Þetta er þegar farið að hafa áhrif til hækkunar orkuverðs hvarvetna í heiminum, sem gerir auðvitað fátækum þjóðum enn erfiðara fyrir en áður að skrimta. Á meðan þetta orkubreytingaskeið varir, a.m.k. þar til hlutdeild kolefnisfrírra orkugjafa hefur vaxið til mikilla muna og þar með dregið úr spurn eftir jarðefnaeldsneytinu, má búast við háu verði á því. Það eykur ekki líkur á því, að opinberum niðurgreiðslum á því verði hætt, þar sem þær eru enn við lýði, en í Gljáskógum náðist aðeins fram loðið orðalag um að draga úr niðurgreiðslum á jarðefnaeldsneyti, ef þær eru óskilvirkar. Það er ekki öll vitleysan eins. Hvað skyldi Gljáskógadramað hafa kostað alls ?
10.11.2021 | 11:15
"Græn" vetnisvinnsla verður hluti af lausninni
Með "grænni" vetnisvinnslu er átt við rafgreiningu vatns, H2O, með raforku frá orkuverum án koltvíildislosunar. Einnig er talað um "blátt" vetni, sem unnið er úr jarðgasi með föngun og förgun kolefnis, og "grátt" vetni úr kolum með föngun og förgun kolefnis.
Notkun vetnis hefur verið umdeild frá Hindenburg-slysinu 1937, þegar loftfar fyllt vetni varð eldi að bráð með hrapallegum afleiðingum. Síðan hefur vinnslu-, geymslu og nýtingartæknin þróazt, s.s. í Heimsstyrjöldinni síðari, í olíukreppum 1970-1979, og nú á 21. öldinni vegna hugmyndarinnar um nauðsyn þess að leysa jarðefnaeldsneyti sem fyrst af hólmi. Um 2050 er búizt við, að vetnisnotkun muni hafa dregið úr losun CO2 sem nemur 10 % af núverandi losun af mannavöldum eða um 4 mrdt CO2/ár eða 1/3 af núverandi losun Kínverja.
Notkunargildi vetnis verður mest, þar sem bein notkun rafmagns er ekki tæknilega fýsileg. Það er í ýmsum framleiðsluferlum, þar sem nú eru notuð kol, kox eða jarðgas, t.d. við stálframleiðslu (8 % núverandi losunar), sementsframleiðslu og glergerð. Þá mun "grænt" vetni koma í stað vetnis úr jarðgasi við áburðarframleiðslu. Þar sem tiltölulega lítill orkuþéttleiki rafgeyma í kWh/kg gerir þá ófýsilega, t.d. í stórum flutningafarartækjum, geta vetnisrafalar komið til greina, en hængurinn þar er lág nýtni. Rúmlega 80 % raforku til hleðslutækis bílrafgeyma nýtist sem hreyfiorka fyrir bílinn, en aðeins um helmingur þeirrar nýtni næst með vetni, þegar reiknað er frá spennainntökum afriðlastöðva rafgreiningarinnar á vatni.
Þá er unnt að geyma vetni og grípa þar til orkuforða, þegar framboð raforku annar ekki eftirspurn. Ástralía, Síle og Marokkó áforma að flytja vetni út með skipum. Vetnisklasar eru í myndun á Humberside á Bretlandi og Rotterdam í Hollandi.
Meira en 350 stórverkefni á vetnissviði eru nú í gangi í heiminum og gæti uppsöfnuð fjárfesting 2021-2030 numið mrdUSD 500. Morgan Stanley-bankinn áætlar, að árið 2050 muni sala vetnis nema 600 mrdUSD/ár. Það er 4 földun núverandi söluveltu, 150 mrdUSD/ár á 90 Mt af vetni, sem jafngildir núverandi einingarverði 1,7 USD/kg. Skammt er í, að Íslendingar gætu framleitt vetni á þessu verði, en þá er flutningurinn eftir. Grænt vetni verður verðlagt hærra en vetni úr jarðgasi án föngunar og förgunar CO2.
Yfir tylft landa hafa gert landsáætlun um öflun og nýtingu vetnis, þ.á.m. Bretland, Frakkland, Þýzkaland, Japan og Suður-Kórea, en Ísland er ekki þar á meðal, sem skýtur skökku við gríðarlegar áhyggjur ráðamanna hérlendis af koltvíildi í andrúmsloftinu og örvæntingarfullan áróður Landverndar fyrir yfirlýsingu stjórnvalda um neyðarástand í loftslagsmálum, sem væri algerlega út í hött hérlendis með einna stærstan hluta (85 %) orkunotkunar landsmanna úr sjálfbærum orkulindum af öllum löndum heims. Neyðarástand mundi einungis hvetja til ofstækisfullra og vanhugsaðra aðgerða stjórnvalda á kostnað almennings.
Talsvert hefur verið skrafað og skrifað um mögulega framleiðslu rafeldsneytis á Íslandi. Sameiginlegt öllu rafeldsneyti er "grænt" vetni, sem bindst ýmsum öðrum efnum. Rafeldsneyti verður í samkeppni við lífeldsneyti á borð við repju- og nepjuolíu. Repju og nepju er hægt að rækta á Íslandi með góðum árangri og gjörnýta fyrir dísilvélar og sem fiskafóður.
Þann 26. október 2021 birtist í Morgunblaðinu greinin:
"Rafeldsneyti - orkuskipti í samgöngum",
eftir Guðmund Pétursson, rafmagnsverkfræðing. Þar stóð m.a. þetta:
"Sumir telja einnig, að orkuskipti í samgöngum muni krefjast svo mikillar raforku og svo stórtækra virkjanaframkvæmda með neikvæðum umhverfisáhrifum, að það sé ekki verjandi. Nefnd hefur verið talan 18 TWh/ár af raforku, sem svarar til um 2000 MW í vatsafli [eða jafnvel 2500 MW, hvort sem um vatnsafl eða jarðgufuafl er að ræða - innsk. BJo] eða jafnvel 5000 MW í vindafli [vegna lægri nýtingartíma uppsetts afls - innsk. BJo]. Það slagar hátt í allt, sem virkjað hefur verið á Íslandi hingað til [21 TWh/ár - innsk. BJo].
Ekki er ljóst, hvaða forsendur er hér verið að miða við. Er átt við allar vegasamgöngur, skipin og flugvélarnar ? Hvaða ártal ? Svo stórar tölur hrella og geta valdið andófi gegn virkjanaframkvæmdum, einkum vegna sjónarmiða náttúruverndar. Einnig er nefnt, að það muni sáralítið um slíkt framlag okkar á heimsvísu; hlutur Íslands sé svo örsmár. Mikilvægt er þó, að við verðum hrein og sýnum heiminum gott fordæmi."
Hverjir eru þessir "sumir", sem kastað hafa fram virkjanaþörfinni 18 TWh/ár til orkuskiptanna án útskýringa ? Höfundur þessa vefpistils hefur ekki hugmynd um það, en finnst líklegt, að þeir miði við 2050, árið, sem ætlunin er, að til Íslands þurfi ekki lengur að berast jarðefnaeldsneyti, og að "sumir" áætli talsvert mikla orkuþörf til vetnisframleiðslu til útflutnings á einu eða öðru formi.
Sé hins vegar öll olíunotkun landsmanna (að millilandaskipum og millilandaflugvélum meðtöldum) og kolanotkun 2019 umreiknuð til raforkuþarfar, lætur nærri, að virkjanaþörfin nemi 9 TWh/ár og að 20 árum liðnum (2040 - ár kolefnisjafnaðar) er óvarlegt að gera ráð fyrir minna en 3 TWh/ár til viðbótar fyrir fólksfjölgun og framleiðsluaukningu, þ.e. alls 12 TWh/ár árið 2040. Sú orka fæst auðveldlega úr núverandi nýtingarflokki og hluta biðflokks Rammaáætlunar (óafgreidds 3. áfanga). Á hitt ber að líta, að lífeldsneyti mun draga úr þörf á rafeldsneyti og þar með raforkuþörf, þótt raforku þurfi til framleiðslu lífeldsneytis einnig.
"Vafalaust þarf að virkja talsvert meira [en hvað ?] hér til að gera heildarorkuskipti möguleg - og jafnvel útflutning rafeldsneytis - a.m.k. ef stóriðjan heldur velli hér áfram. Við eigum enn góða möguleika á því og ráðum vel við að virkja á viðunandi hátt af fulltri tillitssemi við náttúruna og framtíðina. Land undir virkjanir og orkumannvirki er og verður aldrei nema örsmátt brot af landflæmi Íslands og hinum ósnortnu víðernum. Engum dettur lengur í hug að virkja náttúruperlur !"
Það er einkennilega til orða tekið að skrifa "ef stóriðjan heldur velli áfram", þegar ljóst er, að hún er hluti af lausninni og starfsemi hennar á Íslandi er raunverulega stærsta framlag Íslendinga til þess, að koltvíildisstyrkur andrúmslofts skuli ekki vera enn hærri en ella. Breytingaskeiðið úr jarðefnaeldsneyti yfir í sjálfbærar orkulindir mun einkennast af fremur háu orkuverði, og á meðan svo er, er það gagnkvæmur hagur Íslendinga og eigenda orkukræfra iðjuvera að treysta og efla starfsemi þeirra hérlendis.
Eitt af því, sem mælir gegn vindorkuverum hvarvetna, er mikil landrýmisþörf fyrir raforkuvinnslu í ha á MWh/ár. Hún er miklu meiri en fyrir hinar hefðbundnu íslenzku vatnsafls- og jarðgufuvirkjanir. Þegar Skipulagsstofnun, Náttúrufræðistofnun eða Umhverfisstofnun mæla gegn hefðbundnum íslenzkum virkjunum vegna hagsmunaárekstra við ferðamennsku, þá stangast slíkt á við reynsluna, því að þessar virkjanir eru vinsælir áfangastaðir ferðamanna. Á stofnununum liggur á fleti fyrir fólk gildishlaðins (óhlutlægs) mats, sem beitir fyrirslætti án þess að virða fyrir sér heildarmyndina. Flestir ferðamenn forðast hins vegar vindorkuver vegna lýta og óþægilegrar hávaðamengunar.
Þá víkur Guðmundur Pétursson að metani, sem er vannýtt hérlendis, en gæti átt sér talsverðan markað hér í vinnuvélum og stórum farartækjum, þar sem það hefur háan orkuþéttleika, 13,9 kWh/kg (benzín 11,3 kWh/kg) og hægt að vinna úr ruslahaugum og í jarðgerðarstöðvum og nýta sem eldsneyti eða í rafeldsneyti:
"Þetta vandamál [viðbótar orkuþörf til hitunar í rafmagnsfartækjum knúnum frá rafgeymum - innsk. BJo] er hins vegar ekki fyrir hendi í metanfarartækjum. Þar verður til nægur varmi til hitunar, eins og í venjulegum bensín- eða díselbíl. Vandséð er líka, hvers vegna Strætó ætti ekki að nýta metan frá eigin framleiðslu sveitarfélaganna í Sorpu/GAJA til að knýja vagna sína og fleiri farartæki. Það gera þeir hjá SVA á Akureyri frá sinni litlu "sorpu" þar. Norðurorka knýr einnig alla sína bíla með metani.
Notkun fljótandi metans á þungaflutningabíla fer nú vaxandi víða í Evrópu, þar sem þeir komast mjög langt (1500 km) á einni fyllingu. Á því sviði þurfum við að taka okkur á og gera það einnig mögulegt hér. Byggja þarf upp viðeigandi dreifikerfi.
Íslenzk skip má einnig hæglega knýja með innlendu rafeldsneyti í framtíðinni, og er nú þegar byrjað á því annars staðar (Stena Line t.d.). Ísland gæti orðið fyrirmynd annarra á þessum vettvangi. Fullþróuð tækni til notkunar á metani í bílum og skipum er nú þegar fyrir hendi, bæði fyrir fljótandi metan og gas."
Það er hægt að taka undir það, að metan ætti að nýta nú þegar á sviðum, þar sem það er samkeppnishæft, og með núverandi verði á dísilolíu er það sennilega samkeppnishæft, t.d. á vinnuvélum og vörubílum, en fyrst þarf að tryggja nægt framboð og verðstöðugleika.
Aftur að vetninu, framleiðslu og nýtingu þess. Megnið af núverandi 90 t/ár er framleitt við bruna jarðefnaeldsneytis, lofts og gufu saman, ferli, sem nú notar 6 % af árlegri jarðgasþörf og 2 % af kolaþörfinni. Við vinnsluna verða til meira en 800 Mt/ár af CO2, sem er svipað og losun Þýzkalands núna. Þetta vetni er notað í olíuhreinsistöðvum, til framleiðslu metanóls fyrir plastframleiðslu og til ammóníakframleiðslu. Iðnaðarammóníakið er notað í framleiðslu á tilbúnum áburði o.fl.
Til að leysa þessa framleiðsluaðferð af hólmi og þróa nýja notkun á vetni eru um 350 verkefni í gangi um þessar mundir, sem útheimta munu fjárfestingar frá hinu opinbera og einkageiranum að upphæð um mrdUSD 500 tímabilið 2021-2030, eins og áður er getið. Mikil þróun og veltuaukning á sér nú stað á framleiðslubúnaði græns vetnis, svo að BloombergNEF áætlar, að framleiðslukostnaður árið 2030 verði um 2 USD/kg (um 1/5 af núverandi kostnaði víða með rafgreiningu). Morgan Stanley er bjartsýnni og telur, að á stöðum með hagkvæmar endurnýjanlegar orkulindir, t.d. í Norður- og Suður-Ameríku (og á Íslandi), verði kostnaðurinn kominn niður í 1 USD/kg 2023-2024.
Hlutverk vetnis í flugi og siglingum er í deiglunni. Fyrir stuttar ferðir gætu rafgeymar verið brúklegir, en vetnisrafalar geta veitt rafgeymunum samkeppni. ZeroAvia, sprotafyrirtæki á vegum British Airways og Jeff Bezos, stofnanda Amazon, útfærði fyrsta vetnisrafalaknúna flugið með farþegaflugvél haustið 2020 á Bretlandi. Ferjufyrirtæki í Noregi og á vesturströnd Bandaríkjanna gera nú tilraunir með vetnisrafala í ferjum á stuttum leiðum.
Airbus leitar nú lausna til að knýja flugvélar sínar með vetni. Boeing lítur meir til ammóníaks úr "grænu" vetni (orkuþéttleiki 5,2 kWh/kg), sem gæti líka hentað stórum skipum, þótt rafeldsneyti með kolefnisinnihaldi þyki nú líklegra.
Bretar ætla að breyta kötlum í húsum sínum, sem nú brenna jarðgasi, í vetniskatla. Þar og víðar gæti orðið markaður fyrir grænt vetni frá Íslandi.
7.11.2021 | 10:57
Flokkur laus við hreðjatak Landverndar
Í ríkisstjórn situr stjórnmálaflokkur með afar sérvizkuleg viðhorf í öndvegi til framfaramála þjóðarinnar. Flokkurinn tapaði í nýgengnum Alþingiskosningum þremur þingmönnum og er með aðeins 12,6 % fylgi. Samt gerir hann kröfu um að leiða stjórnarsamstarfið á nýhöfnu kjörtímabili, heimtar óbreyttan ráðherrafjölda og þvælist að auki fyrir með sérvizku sína um ríkisbúskap, friðanir, orkunýtingu og viðurkenningu á óhæfum ráðherraefnum sínum. Hvers vegna nenna formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að þrátta við Katrínu Jakobsdóttur á annan mánuð um þetta, þegar annar stjórnmálaflokkur hefur opnað á raunhæfan samningsgrundvöll við þá um ríkisstjórn ?
Grein Jakobs Frímanns Magnússonar í Morgunblaðinu 28. október 2021 er til vitnis um þetta. Greinin hét:
"Áskoranir nýrrar ríkisstjórnar í loftslagsmálum".
Þar skrifaði hann m.a.:
"Endurheimt votlendis [orkar tvímælis-innsk. BJo], rafvæðing bílaflotans, vistvæn orka til skipa og aukin skógrækt eru þær mótaðgerðir, sem liggur beinast við, að við Íslendingar ráðumst í. En hnattrænn umhverfisvandi leysist ekki með því, að hver þjóð hugsi bara um sjálfa sig. Við hjá Flokki fólksins viljum nýta hreinar orkulindir landsins af skynsemi og ábyrgð, svo [að] draga megi úr mengun, samhliða náttúruvernd. Þar er mögulegt framlag okkar til loftslagsmála á heimsvísu ekki undanskilið."
Óháð því, hvað líður meintri loftslagsvá, sem er orðin loftslagstrúboðinu sem krossfesting frelsarans er kristnum mönnum, þá sigla þjóðir heims nú inn í tímabil orkuskipta, sem mun einkennast af háu orkuverði vegna framboðsskorts (af völdum minni fjárfestinga (það er nóg til)) og skattlagningar á jarðefnaeldsneyti eða losun.
Það er þess vegna ekki eftir neinu að bíða að hefja virkjanaframkvæmdir hér til orkuútvegunar í stað jarðefnaeldsneytisins. Einkaframtakið, erlent og innlent, mun síðan sjá um nýtinguna, eins og það hefur gert hingað til hérlendis, en með áherzlu á að knýja rafmagnsfartæki og að framleiða s.k. rafeldsneyti með "grænt" vetni sem grunnþátt, en einnig lífeldsneyti úr t.d. repju og nepju. Á meðan enginn aflsæstrengur er til Íslands, verður "hin græna" orka nýtt innanlands. Þrátt fyrir orkukreppuna í Evrópu þurfa landsmenn vart að óttast sæstrengslögn á þessu kjörtímabili, enda er Orkupakki 4 kominn í frysti hjá EFTA, eins og gerð hefur verið grein fyrir hér á vefsetrinu.
"Loftslagsmál og orkumál eru óaðskiljanlegir málaflokkar. Ég verð seint talinn til ákafra virkjanasinna, en mér virðist sýn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á þessi mál skynsamleg. Fyrir nýafstaðnar kosningar lögðu báðir flokkarnir til, að Íslendingar hæfu útflutning á grænni orku í formi rafeldsneytis. Þannig gæti sprottið hér upp nýr og spennandi iðnaður ásamt tilheyrandi atvinnusköpun og ávinningi í loftslagsmálum."
Það verður hlutverk einkaframtaksins að finna markaði fyrir rafeldsneyti og lífeldsneyti, en ekki ríkisins. Viljayfirlýsingar stjórnmálamanna um nýsköpun atvinnutækifæra og verðmætasköpunar þjóðarbúsins eru þó eðlilegar, en þeir, sem segja A, verða þá að vera tilbúnir til að segja B. Það stendur virkilega upp á stjórnmálaflokkana og þingheim að setja leyfisferli vegna nýrra virkjana í viðunandi horf, en þau eru nú í algerri kyrrstöðu fyrir tilstilli afturhaldsflokksins með 12,6 % fylgið.
Jakob Frímann býður nú Sjálfstæðisflokkinum upp í dans. Hann talar væntanlega fyrir hönd 6 þingmanna Flokks fólksins um, að hann er tilbúinn að leiða þjóðina á vit nýrra tíma, sem felst í að skapa tæknilegar og viðskiptalegar lausnir, sem eru raunhæfar til að draga úr losun Íslendinga og fleiri á koltvíildi í stað innantóms blaðurs vinstri grænna um hættuna, sem lífinu á jörðinni stafar af hlýnun jarðar. Að hafa forsætisráðherra, sem endurómar Grétu Thunberg, en leggst gegn nauðsynlegum umbótum, er ógæfulegt fyrir eina þjóð.
"Ljóst er, að losa verður rammaáætlun úr höftum kyrrstöðu, öfgalaust, og horfa til kosta þess að nýta vindorku. Eðlilegt virðist jafnframt, að sveitarfélög og íbúar komi í auknum mæli að því að ákvarða, hvar mörkin á milli nýtingar grænna orkukosta og náttúruverndar liggja."
Þarna koma fram heilbrigð og lýðræðisleg viðhorf. Taka málin úr höndum sérlundaðra skrifborðsmanna, sem falið hefur verið að meta virkjanakosti og drekkt málinu í hreinum aukaatriðum, og færa matið í hendur viðkomandi sveitarfélags og íbúa þess, sem leggi dóm á virkjanakosti til nýtingar eða verndar með lýðræðislegum hætti. Hljómar þessi tónlist ekki nógu vel fyrir Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk til að slíta erfiðri sambúð við forstokkaða sérvitringa í VG, og fara nú að stíga dansinn með fólki, sem greinilega er ekki í viðjum Landverndarofstækisins ?
Að lokum skrifaði Jakob Frímann Magnússon:
"Það er ekki nóg að viðurkenna loftslagsvandann - við verðum líka að horfast í augu við tækifærin, og hvernig við Íslendingar getum axlað okkar ábyrgð. Skynsamleg nýting orkukosta og öflug náttúruvernd geta vel farið saman. Þær áskoranir bíða nýrrar ríkisstjórnar."
Þetta er mergurinn málsins, og ný ríkisstjórn verður að fara inn í næsta kjörtímabil með þetta að leiðarljósi. Það dugar ekki lengur að ýta þessum viðfangsefnum óleystum á undan sér. Vinstri hreyfingin grænt framboð er stöðnunarafl með eina hugsjón: að ríkisvæða sem mest af starfseminni í landinu. Menn hafa afleiðingu þessa úrelta hugsunarháttar nú fyrir augunum í eymdarásjónu Landsspítalans, sem kominn er að fótum fram undir hroðalegri óstjórn sósíalistans Svandísar Svavarsdóttur, sem keyrt hefur spítalann í þrot með því að hrúga á hann allt of mörgum verkefnum, sem betur eru komin hjá einkageiranum, enda standi Sjúkratryggingar Íslands straum af kostnaðinum, óháð verkaðila.
1.11.2021 | 10:35
Á með handafli stjórnmálanna að hefta hagvöxt ?
COP-26 hófst 31. október 2021 með lúðraþyt og söng og á að ljúka 12. nóvember 2021, vafalaust með söknuði þátttakenda eftir góðar veizlur. Það er vafasamt, að þessar ráðstefnur skili nokkrum mælanlegum árangri á formi minni aukningar koltvíildisstyrks í andrúmsloftinu. Jafnvel í fyrra, á Kófsárinu 2020, varð meiri aukning koltvíildisstyrks en nam meðalaukningu áranna 2011-2019 samkvæmt Alþjóða veðurmálastofnuninni. Þessi metaukning varð þvert á væntingar, því að losun af mannavöldum er talin hafa minnkað umtalsvert vegna minni umsvifa, minni raforkunotkunar og hruns ferðalaga, einnig í aðallosunarlandinu, Kína. (Kína tekur ekki þátt í COP-26, og það eitt sýnir tilgangsleysi ráðstefnunnar.) Hver er skýringin á þessu ? Verður það rætt á COP-26, hvaðan þessi aukna losun kom, sem meira en vóg minnkun losunar mannanna ? Það er mikilvægt að fá skýringu á þessu. Er hafið eitthvert óstöðvandi ferli ? Einhver Íslendinganna 50, sem sækja þetta kjaftaþing í Gljáskógum (Glasgow) á Skotlandi, getur e.t.v. útskýrt heim kominn fyrir löndum sínum, hvers vegna það er lífsnauðsynlegt, að maðurinn dragi úr losun sinni, í ljósi aukningar koltvíildisstyrks andrúmslofts í fyrra. Það er þó ólíklegt, því að augun standa í hausnum á þeim af dómsdagsangist. Allt er það ímynduð ógn, ef marka má gervihnattamælingar (John Christy, prófessor við UAH) og Helga Tómasson, prófessor við HÍ.
Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur og fyrrverandi iðnaðarráðherra, ber í brjósti sér væntingar til þessarar ráðstefnu, þótt fortíðin lofi ekki góðu. Þetta kemur fram í Morgunblaðsgrein hans, 25. október 2021:
"COP-26, norðurslóðir og framtíð mannkyns".
Þar stóð m.a.:
"Eflaust er þetta þýðingarmesti alþjóðafundur, sem haldinn hefur verið, og því eðlilegt, að með honum sé fylgzt í öllum heimshornum. Verkefni hans byggist á Parísarsamþykktinni um loftslagsmál frá COP-21-fundinum í desember 2015. Flest ríki heims hafa gerzt aðilar að þessari samþykkt með það að markmiði að stöðva loftslagshlýnun, aðallega vegna losunar CO2, við 1,5-2,0°C að hámarki m.v. meðaltal á jörðinni. Ráðstefnan á m.a. að innsigla bindandi samþykktir aðildarríkjanna hvers og eins um niðurskurð í losun árið 2030 og að útiloka slíka losun umfram bindingu (net zero) um miðja þessa öld. Einnig þarf þar að staðfesta stuðning við þróunarríki til að auðvelda þeim að ná þessu markmiði."
Þessi aðferðarfræði hefur reynzt óttalega árangurslítil, þar sem á þessu 6 ára tímabili frá Parísarfundinum hefur losun flestra ríkja aukizt, og það á við um heildarlosun ríkja heims líka. Ný yfirlýsing G20 leiðtoganna staðfestir, að stærstu ríkin hafa ekkert nýtt fram að færa í þessum efnum.
Það eru sáralitlar líkur á, að markmiðið um 55 % samdrátt losunar CO2 árið 2030 m.v. 1990 náist, og það á ekki síður við um Ísland en önnur lönd. Samt er keifað í sama farið í Gljáskógum. Þetta er einhvers konar skemmtiefni stjórnmálamanna að veifa innihaldslausum áætlunum sínum á ráðstefnum. Forsætisráðherra Íslands er ekki barnanna beztur og er nú farin að leika Jóhönnu af Örk í baráttunni við hlýnun jarðar, sem fjarri er, að nokkur vísindaleg eining ríki um. Minnir hún reyndar meira á riddarann sjónumhrygga.
Aðeins á EES-svæðinu og í Bandaríkjunum hefur markaðurinn verið virkjaður í þágu loftslagsins með koltvíildismarkaði, en það er stórhætta á koltvíildisleka til svæða á jörðunni án koltvíildiskvóta og -markaðar. Að koma upp annaðhvort samræmdum koltvíildisskatti um alla jörð eða koltvíildismarkaði og síminnkandi heimildum er ólíkt vænlegra til árangurs á heimsvísu en innantóm markmiðasetning stjórnvalda, en það er borin von, að um slíkt náist næg samstaða á milli ríkja heims. "Consensus" er kerfi COP. (Dragbítar ráða.) Það er auðveldara að hittast og vera með yfirdrepsskap og sýndarmennsku en aðgerðir, sem bíta.
Kjarni málsins er samt sá, að afar takmarkaður árangur mun nást fyrr en tæknin gerir orkuskipti kleif í löndum án nægra endurnýjanlegra orkulinda, og þau eru mörg. Vindur og sól henta ekki og eru alltof landfrek. Það þarf stöðugleika, og kjarnorkan getur veitt hana. Það er ótrúlegur tvískinnungur í orkumálum Þýzkalands og Íslands. Í fyrr nefnda landinu hefur kjarnorkuverum verið lokað á undanförnum árum, og öllum á að hafa verið lokað fyrir árslok 2022 samkvæmt ákvörðun Sambandsþingsins í Reichstag-byggingunni í Berlín, af ótta við kjarnorkuslys. Í síðar nefnda landinu fæst þingið í virðulegri steinbyggingu við Austurvöll, Alþingi, ekki til að taka af skarið um að samþykkja virkjanakosti a.m.k. sem nemur 1,0 TWh/ár sem byrjun, svo að fyrirtækin geti fari að gerað áætlanir um virkjanir. Það verða engin orkuumskipti, nema ný og áreiðanleg orkuver leysi jarðefnaeldsneytið af hólmi. Þessu virðist Flokkur fólksins gera sér grein fyrir, en Vinstri hreyfingin græn framtíð hins vegar ekki. Frekja og forstokkun þeirrar stjórnmálahreyfingar er í engu samræmi við stjórnmálalega stöðu hennar.
"Svo fór, að margt athyglisvert [á Hringborði norðursins] féll í skuggann að þessu sinni vegna ummæla Ólafs Ragnars í Silfri Sjónvarpsins um hugsanlegan sæstreng til raforkuflutnings frá Grænlandi um Ísland og til meginlands Evrópu. Hugmyndin um slíkan sæstreng frá Íslandi var til umræðu fyrir skemmstu, m.a. á Alþingi, vegna tengsla við svonefndan 3. orkupakka ESB. Alþingi samþykkti þá,að fyrir slíkri framkvæmd þyrfti sérstaka samþykkt þingsins, en aðrir töldu, að slík ákvörðun stæðist ekki stjórnarskrá. Óháð formi er ágreiningur um, hvort yfirleitt eigi að hugsa til slíkrar framkvæmdar, og sæstrengur til raforkuflutnings hefur ekki verið á dagskrá ríkisstjórna hér undanfarið.
Ég var undrandi á málflutningi Ólafs um þetta efni og tel, að engar skynsamlegar forsendur séu til að stefna að slíkri framkvæmd. Því þóttu mér athyglisverð viðbrögð nýs orkumálastjóra, Höllu Hrundar Logadóttur, við spurningum Sjónvarpsins 19. okt. sl. um viðhorf hennar til útflutnings raforku með streng, þar sem hún benti á önnur og langtum nærtækari verkefni hér innanlands."
Það er hægt að taka alfarið undir með Hjörleifi og Orkumálastjóra um þetta. Á meðan ekkert er vitað um afstöðu Grænlendinga til útflutnings á rafmagni um sæstreng frá landi sínu, verður að flokka útspil dr Ólafs Ragnars Grímssonar um þetta mál sem frumhlaup. Það er ekki ólíklegt, að á Grænlandi séu sterkar raddir uppi um að nýta fremur orkuna innanlands til atvinnu- og verðmætasköpunar, eins og eru bæði hér á Íslandi og í Noregi. (Grænlendingar höfnuðu ESB-aðild.) Að blanda sér í hugsanlegar innanlandsdeilur um málið á Grænlandi með þeim hætti, sem ÓRG gerði sig sekan um, er óviðeigandi með öllu.
Í lok þessarar greinar sinnar, með undirfyrirsögninni:
"Hagvaxtarmódelið verður að endurskoða",
fjallaði náttúrufræðingurinn um hugmyndafræðina, sem höfundur þessa vefseturs telur vera grundvöll hins skefjalausa hræðsluáróðurs um hættulega mikla hlýnun andrúmslofts jarðar af völdum aukins styrks koltvíildis frá starfsemi mannanna. Hina hugmyndafræðilegu undirstöðu þeirrar kenningar, að mannkynið væri með sívaxandi efnahagsstarfsemi sinni að ganga á auðlindir jarðar með ósjálfbærum hætti, er að finna í bókinni "Limits to Growth".
Bókin "Limits to Growth" eða "Endimörk vaxtar" kom út um 1960, og þar var því haldið fram, að ýmsir málmar og eldsneyti yrðu uppurin fyrir 1990. Það gekk ekki eftir, en hugmyndin um nauðsyn "núllvaxtar" fyrir lífið á jörðinni lifði áfram, alveg eins og hugmyndafræði sósíalismans lifir óháð því, hversu margar þjóðir, sem við hann hafa búið, hafa lent í örbirgð og kúgun. (Kína og Víetnam bjarga sér með kapítalisma.) Það var afar fróðlegt að sjá Hjörleif Guttormsson tengja saman "núllvaxtarkenninguna" og baráttuna við hlýnun jarðar:
"Það hefur lengi blasað við, að ríkjandi efnahagskerfi er sá mótor, sem mestu veldur um ósjálfbæran vöxt og árekstra mannkyns við umhverfi sitt. Því er brýnt að breyta í senn viðmiðunum og takti í efnahagsstarfseminni, sem dragi úr sóun og hvetji til umskipta með minni losun gróðurhúsalofts. [1]
Ísland er nú með einna mesta orkusóun í hópi vel stæðra þjóða, og því bíður hér afar stórt viðfangsefni. Við höfum ásamt grannþjóðum heitið því að draga saman losun um 55 % á nýbyrjuðum áratug. [2]
Til þess að það megi takast þarf í senn að skipta út olíutengdum orkugjöfum á öllum sviðum og jafnframt að draga úr óþarfa neyzlu og sóun, sem einkenna lífshætti meðal þorra fólks. [3]
Leiðtogar þjóða heims eru þessa dagana að undirbúa á COP-26 vegferð, sem skipta mun sköpum um framtíð afkomenda okkar og alls mannkyns." [4]
[1] Ekki fer á milli mála, hvert hugmyndafræði textans er sótt; beint í "Endimörk vaxtar" frá 7. áratug 20. aldarinnar. Efnahagskerfi, þar sem leitazt er við að bæta stöðugt lífskjör almennings, þ.e. kaupgetu hans, með því að viðhalda góðum hagvexti, þ.e. auðhyggjukerfið (auðinn til almennings, sem eykur þá neyzlu sína) er sökudólgurinn. Stjórnmálamenn og embættismenn verði hér að taka í taumana, stöðva neyzluaukninguna og færa hana mörg ár aftur í tímann. Þetta er hreinræktaður sósíalismi, forræðishyggja í nútíma búningi, reistur á falsvísindum, eins og fyrri daginn. Það er engin vá fyrir dyrum af völdum vaxandi koltvíildis að beztu manna yfirsýn (óhrekjanlegar niðurstöður raunvísindamanna), eins og lesa má um á þessu vefsetri. Jörðin verður hins vegar grænni, af því að jurtir hennar fá meira fóður og geta aukið ljóstillífun sína.
[2] Höfundi þessa pistils er ekki ljóst, hvað téður Hjörleifur á við með því, að Íslendingar sói einna mestri orku í hópi vel stæðra þjóða. Vatnsorkuverin eru rekin með hárri nýtni. Í góðum vatnsárum rennur nokkuð úr miðlunarlónum og framhjá virkjunum, en úr því má draga með því að fjárfesta í meira vélarafli, eins og Búrfellsvirkjun 2 er dæmi um, og orkusölusamningum um meiri ótryggða orku. Jarðgufuverin hafa lága nýtni við raforkuvinnslu, en úr því er bætt með hitaveitu til viðbótar, þar sem hægt er að koma henni við. Átak stendur nú yfir við að efla flutningskerfi raforku, og mun það draga úr flutningstöpum. Ef téður Hjörleifur kallar orkunotkun útflutningsatvinnuvega þjóðarinnar orkusóun, er hann algerlega úti á þekju og lítur framhjá þeirri staðreynd, sem fyrrverandi Orkumálastjóri landsins, Jakob Björnsson, rafmagnsverkfræðingur, þreyttist aldrei á að benda á opinberlega, að orkuvinnsla hérlendis fyrir orkukræfa stóriðju losar nánast ekkert koltvíildi, öfugt við megnið af orkuvinnslu heimsins vegna slíkrar framleiðslu.
[3] Það er góðra gjalda vert að flokka rusl og að draga úr sóun, þ.e. að efla "hringrásarhagkerfið", en þegar kemur að því "að draga úr óþarfa neyzlu", er komið að forræðishyggju, sem valtar yfir sjálfsákvörðunarrétt fólks og færir neyzlustýringu í hendur stjórnmálamanna og embættismanna. Þeir gætu vel ákveðið, að áhrifaríkast væri að draga úr kaupmætti launa með ofurkattheimtu. Það er engin slík vá fyrir dyrum, að nauðsynlegt sé að afhenda yfirvöldum mikilvægt frelsi fólks til frambúðar. Næsta víst er, að í kjölfarið mundu fylgja grundvallar mannréttindi. Téður Hjörleifur mælir hér með að halda inn á stórhættulega braut. Vítin eru til að varast þau.
[4] Það hefur alltaf verið sami söngurinn fyrir þessa COP-fundi. Þeir eiga að skipta sköpum um framtíð mannkyns. Þeir hafa alltaf mistekizt, og þessi "Gljáskógafundur" mun ekki verða nein undantekning, enda lagt upp með vitlausa dagskrá á hæpnum forsendum. Dómsdagsspámenn hafa alltaf orðið sér til skammar.
25.10.2021 | 17:04
Sýndarmennska og hræsni
Loftslagstrúboðið og allt, sem það hefur leitt af sér, reiðir sig algerlega á heiðarlega og gallalausa vísindalega aðferðarfræði IPCC-Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna. Trúverðugleikabrestur hefur nú átt sér stað gagnvart IPCC vegna alvarlegrar og málefnalegrar gagnrýni úr ranni raunvísindamanna, sem aðeins eru þekktir af heiðarleika og vísindalegum vinnubrögðum í hvívetna. Þeirra trúverðugleiki er að óreyndu meiri en hóps á vegum SÞ, sem þekkt eru af spillingu á mörgum sviðum.
Þar er í fyrsta lagi um að ræða mæligögnin. Gervihnattamælingar hitastigs í andrúmsloftinu undanfarna áratugi gefa væntanlega nákvæmustu myndina af hitastigsþróuninni á sama tímabili. Þar blasir við allt önnur mynd en IPCC dregur upp eða hitastigullinn 0,1°C/10 ár, þ.e. hitastigshækkun um 1°C á 100 árum að öllu óbreyttu.
Síðan hefur talnameðferð IPCC sætt ámæli, eins og prófessor Helgi Tómasson rakti ítarlega í Morgunblaðinu 14. október 2021, sjá
https://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2270868 .
Virtir sérfræðingar í meðferð og túlkun tímaraða hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að á undanförnu 2000 ára tímabili sé engin tilhneiging sjáanleg til hitastigsþróunar, heldur sveiflist hitastigið eftir tregbreytanlegu mynztri um fast meðaltal, þ.e. engin breyting.
Það er nauðsynlegt á grundvelli þessara upplýsinga að staldra við og endurmeta forsendur orkubyltingar. Hér skal ekki mæla á móti því að nýta þær nýjungar, sem heimurinn hefur upp á að bjóða í stað jarðefnaeldsneytis og sömuleiðis að sækjast eftir erlendum fjárfestingum í nýrri framleiðslutækni, sem dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda, því að ýmis mengun fylgir jafnan koltvíildislosun. Nýlega var t.d. tilkynnt um, að Rio Tinto, eigandi álversins í Straumsvík, ISAL, hygðist helminga þessa losun fyrir árslok 2030. Þar er horft til föngunar og bindingar CO2, sem er alger vonarpeningur enn og rándýr, og rafgreiningar súráls með eðalskautum, sem losar nánast aðeins súrefni, O2, sem þá má fanga og selja.
Að skattleggja notendur jarðefnaeldsneytis með losunarskatti orkar hins vegar mjög tvímælis, því að heimurinn hefur nú farið inn í breytingaskeið með háu orkuverði. Að eyða opinberu fé í að moka ofan í skurði er engin ástæða til, því að engin neyð er á ferðinni, hvað sem stóryrðum Grétu Thunberg líður. Uppgræðsla og skógrækt standa hins vegar alltaf fyrir sínu.
Þann 18. október 2021 birtist í Morgunblaðinu athyglisverð grein eftir prófessor Jónas Elíasson um tvískinnung Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins á Íslandi í loftslagsmálum. Vinnubrögðin á þeim bæ bera þess merki, að engin alvara fylgi orðum, heldur sitji áróðurinn í fyrirrúmi. Greinin heitir:
"Loftslagsáætlunin: Verðlausar orkulindir og sýndarmennska".
"Raforkuvinnslan notar hvorki kol né olíu, svo [að] hér á Íslandi er svo gott sem ekkert hægt að gera til að draga úr losun landsins, ef menn ætla ekki að stöðva samgöngur og fiskveiðar og senda landið aftur í miðaldir.
Stóriðjan og losun hennar fer í taugarnar á mörgum, en hafa verður í huga, að stóriðja á hreinni orku losar aðeins brot af stóriðju á olíuorku. Ísland getur því gengið til samstarfs við önnur ríki um að stórauka þennan iðnað og þannig haft jákvæð áhrif á alþjóðlega þróun loftslagsmála. En Ísland er búið að semja sig frá þessum möguleika. Umhverfisráðherra gengur nú hart fram í að friða allt, sem hægt er að friða, með það augljósa markmið að koma í veg fyrir slíka þróun."
Það er hárrétt, að væri einhver alvara á bak við ógnina af hlýnun af mannavöldum, þá mundu ráðamenn komast að því, að orkukræfur iðnaður af ýmsu tagi hérlendis væri bezt til þess fallinn að hámarka framlag Íslands í viðureigninni við þessa vá. Nei, það er öðru nær. Þeir, sem mest eru með loftslagsvána á vörunum, sýna hræsnieðli sitt berlega með því að standa gegn flestum nýjum mannvirkjum á orkusviði hérlendis. Á sviði andrúmsloftsins gildir þá ekki hið alræmda slagorð s.k. umhverfissinna, að náttúran verði að njóta vafans. Þeir stjórnmálamenn, sem sett hafa loftslagsmálin á oddinn í sinni fátæklegu stjórnmálabaráttu, hafa gjaldfellt sinn eigin málstað.
"Plagg með þessu nefni [Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum] var gefið út af ríkisstjórninni, þ.e.a.s. umhverfisráðuneytinu. Þarna er boðuð minnkandi losun ... [2030:(A) samgöngur á landi -161 kt/ár, (B) skip og hafnir -320 kt/ár, (C) orkuframleiðsla og smærri iðnaður -384 kt/ár. Þetta samsvarar minnkun olíu/bensíns: (A) -50 kt/ár, (B) -100 kt/ár, (C) -120 kt/ár.] ..., en erfitt er að minnka losun í liðunum A, B og C án þess að spara olíu eða bensín.
Þegar liður A er skoðaður í aðgerðaáætluninni, kemur í ljós, að meginástæða hins áætlaða 50 kt/ár sparnaðar af olíujafngildi er vegna borgarlínunnar. Að borgarlínan spari einhverja losun er hrein skröksaga, eins og sýnt hefur verið fram á, (sjá:
https://www.samgongurfyriralla.com
og blaðaskrif þessa hóps. Þvert á móti; hún eykur óþarfa eldsneytiseyðslu og losun með því að tefja aðra umferð. Umferðartafirnar eru þegar orðnar miklar, en áhrifa þeirra er hvergi getið í aðgerðaáætluninni eða skýrslum um borgarlínu. Telja verður, að áhrifin af þessu verði, að 20 kt/ár bætist við eldsneytiseyðslu í samgöngum ... ."
Þarna kemur fram, að aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar gegn hlýnun er sýndarmennskan einber gagnvart umferð landfarartækja, og núverandi borgarstjórnarmeirihluti bítur hausinn af skömminni með látlausum blekkingum um gæluverkefni sitt, Borgarlínu.
Verkefnið er víðs fjarri því að vera lausn á umferðarvanda höfuðborgarsvæðisins. Það fækkar bílum í umferðinni lítið sem ekki neitt, en tefur fyrir þeim. Mjög alvarlegar tafir og mengun andrúmslofts eru fyrirsjáanlegar á verktímanum, og fækkun akreina fyrir bíla til að koma Borgarlínu fyrir mun færa lífsgæðin á höfuðborgarsvæðinu niður um mörg þrep. Það er engin glóra af ríkisvaldinu að styðja fjárhagslega við fjárfestingarlegt kviksyndi, sem þjóðhagslegt tap verður af vegna gríðarkostnaðar og lítilla tekna, á meðan fjöldinn allur af samgönguverkefnum bíður úti um allt land, sem þjóðhagslegur ágóði verður af.
Vandræðagangur sérvitringanna í meirihluta borgarstjórnar, sem eru undir áhrifum Samtaka um bíllausan lífsstíl, ríður ekki við einteyming. Það eru miklu skilvirkari lausnir til reiðu með því að bæta akrein við hægra megin fyrir strætisvagna, knúnum metani eða rafmagni, og þar mundi skapast hentugt svæði fyrir forgangsakstur lögreglu, sjúkrabíla og slökkviliðs, en ófremdarástand getur orðið, þegar bílstjórar gera sitt bezta til að hliðra til fyrir þessum forgangsakstri. Síðan er mjög arðsamt, öruggt og umhverfisvænt að færa hestakerrugatnamót höfuðborgarinnar til nútímahorfs með mislægum gatnamótum, en slíkar framfarir hefur afturhaldið í Ráðhúsi Reykjavíkur bannað (tekið út af aðalskipulagi).
Ef þetta yrði gert, þyrfti enginn að kvarta undan umferðartöfum á höfuðborgarsvæðinu lengur. Svar Holuhjálmara Ráðhússins er, að slíkar framfarir framkalli bara fleiri bíla í umferðinni. Þá er spurningin, hvort ekki sé eðlilegra, að borgararnir velji sér sinn samgöngumáta sjálfir fremur en að verða þvingaðir í einhvert samgönguform, sem stjórnmálamenn hafa ákveðið fyrir þá (að þeim forspurðum).
"Raunhæfar aðgerðir eru til, það er hægt að ráðast að umferðarvandanum, það er hægt að smíða skip og flutningabíla, [sem ganga fyrir] rafmagni, en það þarf eitthvað að gera, til þess að slíkt verði að veruleika; það dugar ekki að gefa út aðgerðaáætlun og bíða svo eftir orkuskiptum með kraftaverki.
Loftslagsvandinn verður ekki leystur með kraftaverkum eða blekkingum, og ábyrgð umhverfisráðherra er mikil að að standa fyrir slíku."
Þarna flettir prófessor Jónas ofan af óheilindum umhverfisráðherrans í starfi. Gagnrýnin hefur þó dýpri merkingu. Prófessor Jónas er (að mati pistilhöfundar) að lýsa vantrú á getu ríkisvaldsins til að fást við orkuumskiptin. Markaðurinn verður að virkja tæknikunnáttuna, sem fyrir hendi er, þ.e.a.s. fyrirtækin verða að taka frumkvæðið. Stjórnmálamenn eiga bara að gæta þess að þvælast ekki fyrir og forðast að setja skít í tannhjólin. Ekki eru allir stjórnmálamenn hræsnarar, fjarri því, en þegar hræsnarar taka frumkvæði, verður úr því örverpi á borð við það, sem prófessor Jónas Elíasson þarna vekur athygli á.
Botn téðrar greinar var þannig:
"Á núverandi markaðsverði er verðmæti losunarheimilda málmiðnaðar á Íslandi um 80 MEUR/ár eða 12 mrdISK/ár og fer hratt hækkandi. Nú skal málmiðnaður draga úr losun samkvæmt aðgerðaáætluninni, sem væntanlega þýðir samdrátt í framleiðslu og kaupum á raforku, vinnu og þjónustu, sem er mikil afturför í atvinnumálum. Að lokum mun hagkvæmast fyrir málmbræðslurnar að loka og selja sinn losunarkvóta. Þar með verður þeim mönnum að ósk sinni, sem vilja losna við stóriðjuna, en í staðinn situr Ísland uppi með verðlausar orkulindir. Þegar stóriðjan er farin, situr landið uppi með virkjanir, sem duga henni um aldur og ævi og allt jákvætt framlag Íslands til loftslagsmála að engu gert."
Þessi svarta sviðsmynd er eins og draumsýn fyrirbrigðisins á stóli umhverfis- og auðlindaráðherra og sértrúarsafnaðarins í kringum hann. Hún gat virzt raunsæ í Kófinu, en nú virðist heimurinn kominn á orkuumbreytingarskeið, sem þýðir hátt orkuverð og hátt verð fyrir afurðir orkukræfs iðnaðar. Iðnaðurinn mun einfaldlega standa straum af kolefnisgjaldi hvers tíma og verða þannig knúinn til að leitast við að draga úr koltvíildislosun sinni. Hann er nú þegar með rannsóknarverkefni í gangi í þessa veru, t.d. að fanga hluta af CO2 í reykháfum sínum og binda það í jarðlögum í samstarfi við önnur fyrirtæki, og að þróa eðalskaut (keramík) í stað kolaskauta, þannig að losun verði engin, nema á súrefni, sem verður nýtanlegt.
22.10.2021 | 10:47
Óttastjórnun í heimi fáránleikans
Falsspámenn hafa uppi verið á öllum öldum. Vinsælt hefur verið að dunda sér við hættuna á tortímingu mannkyns, og margir kryddað spána með því, að "skaparinn" væri reiður vegna syndsamlegs lífernis hrjáðra afkomenda Evu og Adams úr aldingarðinum Eden forðum.
Nú á dögum tíðkast að klæða loddaraskapinn í búning raunvísinda, sem er lúalegt og lymskulegt bragð. Viðbrögð ýmissa vísindamanna og sérfræðinga á sviði læknisfræði við heimsfaraldrinum COVID-19 (C-19), sem stafar af kórónuveirunni SARS-CoV-2 í ýmsum afbrigðum (kórónuveirur valda t.d. inflúensu), hefur sýnt almenningi, hversu meingölluð ráðgjöf vísindamanna, til stjórnmálamanna, á sviði lýðheilsu og faraldursfræði getur verið. Sænski læknirinn Sebastian Rushworth heldur því blákalt fram, að samanburðarrannsóknir á milli margra landa með mismunandi opinberar sóttvarnarráðstafanir sýni algert haldleysi lokana og hafta til að draga úr útbreiðslu C-19, því að sízt hafi þeim farnazt betur í baráttunni við þessa veirupest, sem beittu ströngum hömlum á athafnir almennings en hinum, sem héldu frelsisskerðingum í lágmarki.
Loftslagsmál eru mjög fyrirferðarmikil í stjórnmálum á Vesturlöndum um þessar mundir. Röng stefnumörkun í orkumálum og röng viðbrögð við C-19 eiga sök á þeirri orkukreppu, sem nú hefur riðið yfir Evrópu (vestan Rússlands) og Asíu. Hið alvarlega er, að stjórnmálamenn Vesturlanda hafa látið ginnast af falsspámönnum, sem starfa undir yfirskini vísinda á vegum Sameinuðu þjóðanna, SÞ, í s.k. Intergovernmental Panel on Climate Change, IPCC, og gefa út viðamiklar skýrslur, þar sem gagnrýnendum á vinnubrögðin er ekki hleypt að. Múgsefjun hefur náð yfirhöndinni í sóttvarnarmálum og í loftslagsmálum, og ekki vantar "manipúlatorana", strengjastjórnendur í brúðuleikhúsið.
Heiðarlegir raunvísindamenn hafa þó fundið sér annan farveg til að koma vísindalegum niðurstöðum á framfæri. Á meðal þessara alvöru vísindamanna er John Christy, loftslagsfræðingur og prófessor við Alabamaháskóla (UAH) https://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2268208 . Úrvinnsla hans á gervihnattamælingum hitastigs um mestalla jörð og í mismunandi hæðum sýna allt annan og miklu lægri hitastigul í gufuhvolfinu s.l. 40 ár en IPCC heldur fram í sínum skýrslum eða um 0,1°C/10 ár, sem við núverandi skilyrði í andrúmsloftinu mundi gefa 1°C hærra hitastig að meðaltali eftir eina öld. Er það nokkuð annað en fárið, sem nú er búið að skapa um óafturkræfa og reyndar sívaxandi hækkun yfir 3,0°C frá upphafi iðnbyltingar, eftir 70 ár. Virtir tölfræðingar hafa birt niðurstöður sínar yfir miklu lengra tímabil, 2000 ár, og niðurstaðan var hitastigull=0, þ.e. tregar sveiflur um fast meðaltal. Í hverju máli ber að hafa það, er sannara reynist, og ekki að hleypa þeim til áhrifa, sem hæst láta, en beita ámælisverðum vinnubrögðum.
Reiknilíkön IPCC eru einfaldlega röng. Meginskyssan er sú að vanmeta stórlega sjálfreglandi (leiðréttandi) eiginleika gufuhvolfsins. Þegar hitastig þess hækkar, eykst um leið útgeislunin frá jörðu og út í geiminn, og þegar það lækkar, t.d. vegna eldgosa, minnkar þessi innrauða geislun út í geim. Enginn afneitar fræðum 19. aldar (Fourier, Arrhenius) um gróðurhúsaáhrif koltvíildis og fleiri gasa, en þessum fræðum verður að beita varlega á stórt og flókið kerfi, og gróðurhúsaáhrifin eru stórlega ofmetin í andrúmslofti jarðar.
Nú hefur Helgi Tómasson, prófessor í hagrannsóknum og tölfræði við H.Í., leitt athygli lesenda Morgunblaðsins að hinni tölfræðilegu hlið óvandaðra (óvísindalegra) vinnubragða IPCC við meðhöndlun mæligagna, og má þá segja, að ekki standi þar steinn yfir steini lengur, heldur sé málflutningurinn hreinn skáldskapur, eins og bókin "Endimörk vaxtar" var á sínum tíma. Þann 14. október 2021 birtist eftir hann í Mbl. greinin:
"Tölfræðilegt sjónarhorn á skýrslur IPCC"
"Vísindamenn eiga það til að freistast til að vera með glannalegar ályktanir út frá mælingum. Þetta hefur t.d. þekkzt í læknavísindum, en aukin meðvitund og útbreiddari tölfræðiþekking hefur hægt á flæði falsályktana. Það má meðal annarra þakka mönnum eins og John P.A. Ioannidis, sem birti grein 2005 um, hvers vegna flestar birtar niðurstöður í læknisfræði eru rangar."
Prófunarniðurstöður lyfjafyrirtækjanna eru óáreiðanlegar. Það átti í sérstaklega miklu mæli við um prófunarniðurstöður bóluefna við C-19 vegna þess skamma tíma, sem var til stefnu á þróunarskeiðinu. Lyfjafyrirtækin hillast til að fegra niðurstöður prófana sinna með því að draga úr neikvæðum áhrifum og ýkja jákvæðu áhrifin. Þetta hefur sænski læknirinn Sebastian Rushworth sýnt fram á ásamt fleirum.
Loftslagsvísindin eru flókin, og ef kuklarar fara höndum um þau, er voðinn vís. Það hefur einmitt gerzt með þeim afleiðingum, að heimurinn stendur á öndinni, svo að minnir á stemninguna eftir útgáfu bókarinnar "Limits to Growth" - Endimörk vaxtar - með spádómum, sem ekki stóðust, heldur reyndust þvættingur, settur fram til að hræða fólk upp úr skónum, svo að það breytti neyzlumynztri sínu og hagkerfin stöðnuðu - það yrði núll vöxtur. Sama vakir fyrir kuklurum IPCC, sem nú starfa undir fölsku flaggi og bregða yfir sig vísindaskykkjunni.
"IPCC er skammstöfun á skýrslum Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál, og nýlega er komin skýrsla, sem kölluð er númer 6. Um eldri skýrslu segir tölfræðidoktorinn og fyrrverandi hagstofustjóri Ástralíu, Dennis Trewin, árið 2008 í OECD-skýrslu í kafla 32: Því miður vantar tölfræðinga í sérfræðingateymi IPCC. Útkoman inniheldur því alvarlega galla. Þessir gallar eru til þess fallnir að ýkja loftslagsbreytingar framtíðarinnar."
Hvernig stendur á því, að þessi alvarlega gagnrýni frá tölfræðidoktor, sem notið hefur trúnaðar yfirvalda í Ástralíu og hjá OECD, hefur ekki enn slegið mikið á áróður IPCC ? IPCC reynir þöggun og í stað málefnalegrar varnar eru hrópin hækkuð og spáin gerð enn skelfilegri með lýsandi nafnorðum á borð við "hamfarahlýnun" og "loftslagsvá". Þessi hegðun er mikill ljóður á ráði þeirra, sem framsetningunni ráða hjá IPCC og þeirra, sem ekki mega heyra orði hallað í garð IPCC.
Fólk, sem ekki hefur ráðrúm til að kynna sér fleiri hliðar viðfangsefnisins en þá, sem IPCC birtir með boðaföllum, fyllist sumt angist. Þ.á.m. er ungt fólk, sem hefur í mörgu að snúast, og ber orðið svo mikinn kvíðboga fyrir framtíðinni, að það ákveður að fjölga sér ekki. Þetta er ein af ástæðum þess, að fjöldi barna á hverja konu er kominn niður í 1,7, sem þýðir fækkun í stofninum, hinum ágæta germansk-keltneska stofni, sem hér varð til fyrir um 1100 árum, og sums staðar er þessi tala orðin enn lægri. (2,1 þarf til viðhalds.)
Hér er um mikinn ábyrgðarhluta að ræða og verðugt íhugunarefni, hvers vegna málefnaleg gagnrýni á líkön IPCC, birt mæligögn, úrvinnslu þeirra og framsetningu alla, hefur ekki náð meiri hljómgrunni en reyndin er. Sé tekið mark á gagnrýninni, sem full ástæða er til, virðast skýrslur IPCC þjóna annarlegum tilgangi, s.s. að hægja á hagvexti hagkerfa heimsins, sem áhangendur "Endimarka vaxtar" telja ósjálfbæran, og þannig draga úr allri neyzlu. Hér skal ekki amazt við því sjónarmiði, að neyzlumynztur, mikið kjötát o.fl., sé á röngu róli út frá lýðheilsuviðmiðum og sjálfbærni landbúnaðar, en gallinn er sá, að hjá IPCC helgar tilgangurinn meðalið. Afleiðingin er sú, að barninu er kastað út með baðvatninu.
"Greinin [norsks vísindamanns, Jons Dagsvik í Journal of Royal Statistical Society, 2020] sýnir stærðfræðilegar útfærslur og síðan dæmi um notkun á gögnum, hitamælingum 96 veðurstöðva í u.þ.b. 200 ár ásamt áætluðum hitatölum, byggðum á árhringjum úr trjám í u.þ.b. 2000 ár. Niðurstaðan er, að þróun hitastigs er vel lýst sem tregbreytanlegu (long-memory) ferli með fast meðaltal, þ.e. engin þróun í tíma. Sér í lagi engin þróun á seinni hluta 20. aldar. Gögnum og forritum, sem tengjast greininni, mátti hlaða niður af heimasíðu tímaritsins (greinarhöfundur er með þessi gögn)."
Hér eru mikil tíðindi á ferð. Undanfarin 2 árþúsund er hvorki um að ræða marktæka kólnun né hlýnun, heldur bara eðlilegar sveiflur í kringum fast meðaltal. Að engin hlýnun skuli vera merkjanleg af þessum gögnum á 20. öldinni, stingur algerlega í stúf við málflutning IPCC um hlýnun með ört hækkandi styrk koltvíildis í andrúmsloftinu. Hér eru mikil firn á ferð. Allur hræðsluáróðurinn um hlýnun jarðar stendur á brauðfótum, þegar undirstaða hans er skoðuð ofan í kjölinn. Er ekki ástæða til fyrir upplýst fólk, sem hefur hingað til viljað láta IPCC njóta vafans, að staldra við ? Renna ekki á menn 2 grímur ?
Og áfram með smjörið:
"J. Scott Armstrong er stofnandi tveggja fræðirita um spálíkanagerð, Journal of Forecasting og International Journal of Forecasting. Hann hefur tekið saman vinnureglur um, hvernig skuli vinna með spár og telur, að IPCC brjóti margar."
Kjarninn í boðskap IPCC eru einmitt spár, og þar er ekki skafið utan af því, því að þetta eru heimsendaspár. Það þarf ekki að orðlengja það, hversu vandmeðfarnar spár eru, og mikil fræði hafa verið þróuð til að forða mönnum frá að falla í vilpur á þeirri vegferð. Það er þess vegna ekki bara rassskelling fyrir IPCC, heldur falleinkunn, þegar slíkur fræðimaður, sem hér er tilgreindur, fullyrðir, að IPCC brjóti margar reglur, sem hafa verði í heiðri við spár og gerð spálíkana.
"Danski jarðfræðingurinn Jens Morten Hansen, sem m.a. hefur rannsakað Grænlandsjökul og gegnt mikilvægum embættum í dönsku rannsóknarumhverfi, varar við oftúlkunum á skýrslum IPCC. Hansen hefur efasemdir um aðferðafræði IPCC, og reynsla hans af rannsóknum á Grænlandsjökli ásamt tilfinningu fyrir stærðargráðum segir, að jafnvel bókstafleg túlkun á sviðsmyndum IPCC sýni, að hvorki muni Grænlandsjökull hverfa né muni Danmörk sökkva. Hann vitnar þar til síðustu ísalda og hlýindaskeiða milli þeirra. Hansen gagnrýnir einnig danska ríkisútvarpið, DR (Danmarks Radio), fyrir einhliða málflutning og ýkjur um það, hversu sammála vísindamenn séu."
Alvöru vísindamenn, sem fara ofan í saumana á IPCC, fella sig ekki við vinnubrögðin þar á bæ, svo að fullyrða má, að alvarlegur ágreiningur ríki í vísindaheiminum um ályktanir og spádóma IPCC. RÚV á Íslandi hefur að sjálfsögðu ósjálfrátt skellt sér á hestvagninn, þar sem látið er í veðri vaka, að niðurstöður IPCC séu vísindalegur sannleikur, sem ekki sé unnt að draga í efa. "Oh, sancta Simplicitas."
Síðan kemur hnífskörp ályktun Helga Tómassonar:
"Tónn sumra boðbera loftslagsvár minnir á rétttrúnaðarklerka, sem telja sig umboðsmenn guðs og messa í reiðitóni yfir söfnuðum sínum. Boðskapurinn er: Nú hafið þið syndgað, guð er reiður, og því miður er nauðsynlegt að sveifla refsivendinum, úthluta sektum og kvöðum, til að söfnuðurinn öðlist möguleika á inngöngu í himnaríki."
Þetta er hárrétt athugað hjá Helga Tómassyni. Ekki er nú orðinn mikill vísindasnykur á IPCC, þegar virtur fræðimæður líkir þeim við rétttrúnaðarklerka. Þannig láta einmitt núllvaxtarsinnar, hverra biblía er enn hin löngu úrelta bók "Endimörk vaxtar". Lýðurinn skal fá að gjalda fyrir líferni sitt og verður þröngvað með óttastjórnun til að laga neyzlu sína að vilja þessara núllvaxtarklerka, og skatta skal leggja á óæskilegan varning eins og jarðefnaeldsneyti. Það er varla heimska og vankunnátta, sem alfarið ræður ríkjum hjá IPCC, heldur ormar í möðkuðu mjöli SÞ, sem svífast einskis til að troða núllvaxtarhugmyndafræði sinni bakdyramegin inn á heimilin.
Síðan kemur ráðlegging til Íslendinga í þessari vandræðalegu stöðu:
"Tilgangurinn má ekki helga meðalið. Þótt mengunin sé slæm, má ekki nota hvaða aðferðir sem er til að draga úr henni. Það getur verið skynsamlegt fyrir Íslendinga að draga úr losun koltvísýrings, því [að] losunin er afleiðing af brennslu olíu. Olían er dýr (og í heiminum endanleg auðlind) og því mikilvægt að fara sparlega með hana. Olíusparnaðurinn má hins vegar ekki kosta hvað sem er. Hvaða málstaður er það, sem kallar á það að fara með ungling á seglskipi yfir Atlantshafið til að láta hann ávarpa þing Sameinuðu þjóðanna ?"
Það er hægt að taka undir þessi viðhorf. Þó hafa ýmsir bent á, að CO2 sé varla mengun, heldur lífsandinn sjálfur fyrir allt plöntulíf á jörðunni. Hins vegar er þessi lífsandi sjaldnast einn á ferð, þegar tæknivædd losun manna er annars vegar, heldur fylgja með skaðleg efni á borð við sót, brennisteinssambönd o.fl. Það má líka spyrja, hvaða málstaður það sé, sem kalli á sérskattlagningu jarðefnaeldsneytis ofan á heimsmarkaðsverð í hæstu hæðum, sem nú tekur verulega í buddu þeirra, sem ekki eru á "nýorkufarartækjum". Stóra spurningin er sú, hvort málstaður, sem sannanlega stendur á brauðfótum, geti réttlætt byltingu á lífsháttum og hagstjórn í átt að "núllvaxtarhagkerfi" með þeirri ömurlegu afturför, sem slíkt feigðarflan hefur á lífsafkomu almennings og velferðarkerfi ríkis og sveitarfélaga ?
"IPCC-skýrsla AR6, sem liggur fyrir, er um 4000 bls. Leit að tímaraðahugtökum, eins og sjálffylgni (autocorrelation) gefur ekki vísbendingar um þróaða tímaraðalíkanagerð hjá IPCC. Hugsanlega finnst ritstjórum IPCC niðurstaða tímaraðalíkana ekki nógu krassandi.
Fyrir umhverfisvandamál Íslands eru enn í gildi gömlu leiðinlegu vandamálin, uppblástur, ofbeit, lausaganga búfjár og frágangur á skolpi auk útblásturs á brennisteinsgufum og hliðstæðum eiturgösum. Ef hlýnun er raunveruleg, ættu Íslendingar að taka því fagnandi, auka uppgræðslu og skapa ný tækifæri í landbúnaði.
Ályktanir tímaraðamanna, eins og Dagsvik og Mills, um, að þróun yfirborðshita jarðar sé tregbreytileg með fast meðaltal, eru afgerandi. A.m.k. eru breytingar mjög hægar (m.v. okkar líftíma) og verðskulda alls ekki gildishlaðnar upphrópanir eins og hamfarahlýnun eða loftslagsvá."
Ef að líkum lætur verða engar varnir hafðar uppi af hálfu loftslagshræsnara eða upphrópanalýðs, sem halda, að þeir geti vaðið um á skítugum skónum með fúsk og ályktanir út í loftið. Loftslagsfræði eru flókin, og það er ekki hægt að draga neinar vitrænar ályktanir um það, sem í vændum er, án þess að beita heiðarlegum, vísindalegum aðferðum. Að hundsa fræði tímaraða við meðferð á mæligögnum fortíðar til að draga ályktanir um framtíðina er dauðadómur yfir öllum boðskap, sem frá slíku liði kemur.
Uppblástur og ófullburða meðferð skolps eru 2 mikilvæg viðfangsefni umhverfisverndar, sem skynsamlegra væri fyrir Íslendinga að fást við af meiri eindrægni en margt annað á umhverfissviði, og mundu umbætur á báðum sviðum einnig draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Þessari hörðu ádrepu prófessors Helga Tómassonar á IPCC og hræðsluáróðurinn, sem frá þeim stafar, lauk þannig:
"Vissulega er mengun vandamál. Hættulegum efnum er sleppt út í umhverfið. Koltvísýringur er náttúrulegt efni og lífsnauðsynleg næring fyrir plöntur. Fyrir liggur, að eðlisfræði frá t.d. Joseph Fourier á fyrri hluta 19. aldar og Svante Arrhenius í lok 19. aldar segir, að gös í lofti (andrúmslofti) geti haft áhrif á yfirborðshita. Gróf skoðun gagna sýnir, að þetta yfirfærist ekki auðveldlega á þróun hita á yfirborði jarðar síðustu 100-200 ár. Þetta er miklu flóknari kapall. Augljóst er, að 15-20 ára ályktun Trewin um, að skýrslur IPCC séu tölfræðilega vanþróaðar, stendur enn.
Nóbelsverðlaunahafinn Richard Feynman sagði, að það væri mikilvægara að viðurkenna, að við hefðum ekki svör við ákveðnum spurningum heldur en að fá skammtað svar, sem ekki má efast um (þýðing greinarhöfundar, kannski ekki hárnákvæm)."
Nú eru haldnar ráðstefnur á ráðsnefnur ofan, þaðan sem einvörðungu endurómur berst frá haldlausum skýrslum IPCC. Væri nú ekki einnar messu virði að hóa saman ábyrgðarmönnum AR6 hjá IPCC og þeim, sem metið hafa hitastigul andrúmslofts út frá gervihnattamælingum (John Christy), Dennis Trewin og tímaraðamönnunum (hæfum tölfræðingum) til að leiða saman hesta sína fyrir opnum tjöldum undir góðri fundarstjórn til að kryfja þessi mál til lykta í stað þess, að heimurinn gleypi við trúboði loftslagsklerkanna ? Viðbrögð IPCC við málefnalegri gagnrýni hafa hingað til ekki falið í sér málefnalegar varnir, heldur að herða enn á óttaáróðrinum.
Til eru þeir stjórnmálaflokkar, einnig á Íslandi, sem láta sína pólitík hverfast um slagorðin "loftslagsvá" og "hamfarahlýnun". Einn stjórnarflokkanna gengur þar sýnu lengst. Er nú ekki ráð að fara aðeins að slá af ofstækinu og hleypa beztu þekkingu og heilbrigðri skynsemi að borðinu ?
11.10.2021 | 21:13
Nýr stjórnarsáttmáli og orkumál
Núverandi ríkisstjórn, sem hlaut endurnýjað umboð í Alþingiskosningunum 25. september 2021 til að fara með völd í landinu næstu 4 árin, ýtti á undan sér óútkljáðum málum, sem nú er óhjákvæmilegt að leysa úr flokkanna á millum, og það er vafalaust ástæða þess, að hægt virðist miða við stefnumörkun fyrir nýtt kjörtímabil.
Þótt ríkisstjórnin hafi haldið velli og vel það, er pólitískt óverjandi að leggja upp í nýtt kjörtímabil án þess að stokka upp spilin, enda hafa valdahlutföll flokkanna breytzt. Nú síðast, 9. október 2021, hljóp á snærið hjá Sjálfstæðisflokkinum, þegar öflugasti þingmaður Miðflokksins söðlaði um og gekk til liðs við þingflokk sjálfstæðismanna. Að honum er mikill fengur, og þessi atburður veikir stjórnarandstöðuna enn (hún hlaut skell í kosningunum) og eykur um leið vægi Sjálfstæðisflokksins við ríkisstjórnarborðið og við stefnumörkun formanna ríkisstjórnarflokkanna. Minna má á ötula baráttu Birgis Þórarinssonar gegn Orkupakka #3. Þar gekk hann vasklega fram.
Aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um að minnka stórlega þörf á jarðefnaeldsneyti á Íslandi hangir gjörsamlega í lausu lofti, ef ekki verður leyst ný innlend orka úr læðingi og aukin stórlega raforkuvinnsla hér. Til að mæta þörfum orkuskiptanna og auknum þörfum atvinnulífs og heimila fram til 2040 þarf að auka raforkuvinnslugetu landsins um tæplega 60 % (12 TWh/ár) eða um 600 GWh/ár að jafnaði. Spá Statnett fyrir Noreg er aukning raforkuþarfar um 70 TWh/ár eða 50 % til 2050, en Norðmenn eru nú þegar komnir lengra í rafbílavæðingunni en við. Þetta gæti verið fjárfesting í virkjunum hérlendis, flutningslínum og aðveitustöðvum upp á mrdUSD 10.
Í heild verður sparnaður eldsneytisinnflutnings væntanlega yfir 1,1 mrdUSD/ár vegna hækkandi eldsneytisverðs, þegar dregur úr framboði jarðefnaeldsneytis, og arðsemi orkusölu til almennrar aukningar verður vafalítið svo góð, að endurgreiðslutími þessara miklu fjárfestinga verður innan við 1 áratugur. Yfirvöld þurfa því ekki að draga lappirnar af ótta við, að landsmenn reisi sér hurðarás um öxl með fjárfestingum í "grænorku" og flutningi hennar innanlands. Það er þvert á móti bráðnauðsynlegt að hefja það ferli af alvöru sem fyrst að draga úr innflutningsþörf jarðefnaeldsneytis, því að verðlagning þess erlendis mun ella sliga þjóðarbúskapinn og þar með hagvöxtinn. Tæknin er nú þegar fyrir hendi til eldsneytisframleiðslu. Þeir, sem nota vilja loftslagsvandann einvörðungu til að berja sér á brjóst og fara í hlutverk faríseans, leggjast hins vegar þversum gegn öllum raunhæfum lausnum á viðfangsefninu.
Morgunblaðið er með puttann á púlsinum, ekki sízt á sviði orkumála, og helgaði allt leiðarapláss sitt 11. október 2021 þessu mikilvæga máli. Síðari forystugrein blaðsins 7. október 2021 hét:
"Rafvæðing kallar á rafmagn".
Hún hófst þannig:
"Í áhugaverðu viðtali Morgunblaðsins við Tómas Má Sigurðsson, forstjóra HS Orku, var m.a. komið inn á það, hvort virkja þyrfti meira hér á landi til að sjá bílaflota landsmanna fyrir rafmagni. Tómas lýsti þeirri skoðun sinni, að svo væri, og vísaði í því sambandi til orkuspárinnar [Orkustofnunar]. Hann sagði hana liggja fyrir og sýna, að "til að rafvæða bílaflotann og til að framleiða eldsneytið, sem sparar okkur gjaldeyri, þarf einfaldlega að virkja".
Hann bætti því við, að til "þess að geta lagt okkar af mörkum varðandi loftslagsmarkmið, ekki aðeins Íslands, heldur heimsins alls, þurfum við að virkja okkar endurnýjanlegu orkugjafa skynsamlega".
Það er einvörðungu fólk, sem eru málsvarar útúrborulegra sjónarmiða um stöðvun hagvaxtar, minnkun framleiðslu og minni neyzlu almennings, sem heldur því fram, að ekki þurfi að virkja. Framsækið þjóðfélag getur ekki látið stjórnast af viðlíka firrum, en núverandi umhverfis- og auðlindaráðherra er ekki afhuga þeim. Á meðan hann gegnir þessu embætti, er ekki von á góðu.
Téður Tómas Már er aðeins málsvari heilbrigðrar skynsemi í þessum málum. Hann er hvorki að fara með fleipur né ný sannindi í þessu viðtali. Hann segir hið augljósa, en í þjóðfélagi, sem hefur verið afvegaleitt hrottalega í umhverfisverndarlegu tilliti, eins og hatrömm mótmæli gegn nánast öllum orkuframkvæmdum vitna um, verður góð vísa aldrei of oft kveðin. Morgunblaðið á líka heiður skilinn fyrir að draga hvað eftir annað sannleikann fram í þessum málum, þar sem gildismatið hefur verið kolbrenglað með svartagallsrausi um skaðleg áhrif framkvæmda á náttúruna. Það er ekki minnzt á jákvæð áhrif, eins og hreinsun jökulvatna af leir, t.d. Þjórsá og Jökulsá á Brú, eða hækkun á grunnvatnsstöðu á hálendinu í grennd við miðlunarlón með bættu gróðurfari sem afleiðingu.
Téðri forystugrein lauk þannig:
"Augljóst er, að ekki fer saman að koma í veg fyrir nýjar virkjanir og segjast vilja rafvæða bíla, skip og önnur framleiðslutæki, sem enn nýta jarðefnaeldsneyti. Og eins og Tómas bendir á, þá eru stórnotendur raforku ekki að fara að loka, eins og aðstæður eru um þessar mundir. Raforka fyrir bílaflotann fæst því ekki með lokun álvers eða sambærilegum breytingum sem betur fer.
Framundan hljóta því að vera frekari virkjanir. Stjórnvöld og Alþingi verða að koma sér saman um beztu kostinga í þeim efnum og tryggja, að framkvæmdir geti hafizt hið fyrsta."
Svo mörg voru þau sjálfsögðu orð, og á hugann leitar sú spurning, hvernig í ósköpunum komumst við á þann stað, að umræða skynsemdarfólks þyrfti að taka á sig þessa mynd ? Svarið er, að kreddufólk og ofstækis hefur náð að afvegaleiða umræðuna svo, að fjöldinn allur er orðinn ruglaður í ríminu og trúir því, að Íslendingar eigi að halda að sér höndum í virkjanamálum, því að við eigum ekki "að fórna íslenzkri náttúru" til að bæta CO2-losunarstöðuna á heimsvísu. Þetta er bábilja í ljósi tæknilegrar getu okkar til að virkja krafta náttúrunnar með lágmarksröskun á náttúrunni. Sú röskun er svo lítil, að hún er langt innan þeirra marka, sem þjóð í landi síbreytilegrar náttúru á að geta sætt sig við í ljósi ávinningsins.
Margir þeirra, sem hæst láta gegn þjóðhagslega hagkvæmum framkvæmdum, eru afturhaldsseggir og -sprundir, sem lítil tengsl hafa við náttúruna, en hafa bitið í sig meinloku um skaðsemi hagvaxtar og neyzlu, svo að ekki sé nú minnzt á erkióvininn sjálfan, einkabifreiðina, svo öfugsnúið sem það sjónarmið er í landi á borð við okkar.
Varðandi neyzlumynztur nútímans telur höfundur þessa pistils, að neyzla margra mætti vera valvísari, t.d. m.t.t. heilsufars, og að vinna beri að eflingu hringrásarhagkerfis með beztu tækni þess geira. Það verður þó aðeins gert með þekkingu að leiðarljósi, en ekki undir stjórn misheppnaðra stjórnmálamanna með umhverfisvernd á vörunum, eins og gas- og jarðgerðarstöð Sorpu er sorglegt dæmi um, en þar sóuðu óhæfir stjórnmálamenn vinstri meirihlutans í borgarstjórn rúmlega mrdISK 6 í GAJA, sem framleiðir ónothæfan (eitraðan) jarðvegsbæti. Landið þarf eitt orkuver, sem brennir öllum lífrænum úrgangi við hátt hitastig og vinnur úr honum orku, sem nýta má til raforkuvinnslu og hitaveitu. Það er sjálfsagt að staðsetja það innan seilingar þéttbýlis, sem ekki hefur aðgang að fullnægjandi jarðhita.
Í Morgunblaðinu 8. október 2021 birtist frétt um orkuskiptin undir fyrirsögninni:
"Aukin raforka lykill að orkuskiptum".
Sannleiksgildi fyrirsagnarinnar blasir við öllum réttsýnum mönnum, en í þjóðfélaginu eru þverhausar, einnig á Alþingi, sem berja hausnum við steininn, vilja jafnvel lýsa yfir neyðarástandi á Íslandi vegna hlýnunar jarðar (raunhlýnun lofthjúpsins er 0,14°C/áratug samkvæmt beztu mæligögnum gervitungla), en þverskallast gegn nýjum orkuframkvæmdum.
"Varðandi útflutning á rafeldsneyti segir hún [Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir], að nú hafi skapazt möguleikar á að framleiða slíkt eldsneyti á vökvaformi á umhverfisvænan hátt. Okkar hlutverk sé að tryggja, að ákjósanlegt umhverfi sé til staðar. Nú þegar fer hér fram metanólframleiðsla, og áform eru um aukningu á því sviði. Þórdís segir, að í gangi sé ákveðin stefnumótun í vetnismálum með hagaðilum. Tækifæri séu til að ná markmiðum innanlands og eins til að fara í útflutning."
Núverandi stöðu á orkumörkuðum má jafna við orkukreppu, því að það gætir framboðshörguls, einkum á jarðgasi, en jarðgas er notað til upphitunar og eldunar í Evrópu og víðar og til raforkuvinnslu á móti slitróttum rekstri vindmyllna og sólarhlaða. Forðabúr Evrópu af jarðgasi innihalda nú aðeins 40 % af hámarksforða, en á þessum árstíma venjulega 90 %. Það verður fyrirsjáanlega gasskortur á hörðum vetri, en sleppur kannski annars, ef Nord Stream 2 verður keyrð á fullu (gasi). Þessi staða hefur leitt til hækkunar orkuverðs upp úr öllu valdi í Evrópu og straumleysi í Kína, sem aftur veldur því, að verkefni á borð við framleiðslu rafeldsneytis hérlendis, sem voru ekki hagkvæm fyrir einu ári, eru líklega orðin það nú. Þá ætti að einbeita sér að innanlandsmarkaðinum. Þar með er dregið úr kolefnisgjöldum landsins vegna skuldbindinga ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur og dregið úr innflutningsþörf á jarðefnaeldsneyti. Einhver málfátækur mundi kalla þá stöðu "win-win".
Blaðamaðurinn tók líka viðtal við forstjóra Landsvirkjunar í þessari frétt:
""Núverandi orkukerfi er að miklu leyti fullnýtt og orkan bundin í langtímasamningum við alþjóðleg fyrirtæki, sem eru með starfsemi hér. Þau hafa engin áform um að draga úr starfsemi sinni", segir Hörður. Hann bendir á, að þó nokkrir ónotaðir virkjunarkostir séu í nýtingarflokki Rammaáætlunar og hægt sé að ráðast í þau verkefni. Fleira megi skoða, eins og t.d. vindorku, sem geti orðið 3. stoð orkuöflunar með vatnsafli og jarðhita.
Hörður segir loftslagsvandann stærsta umhverfisvanda heimsins. Alls staðar þurfi að byggja upp umhverfisvæna orkuvinnslu, sem komi í stað jarðefnaeldsneytis. Við uppbyggingu endurnýjanlegrar orkunýtingar togist á náttúruverndarsjónarmið og umhverfissjónarmið. Sú umræða er alls ekki einskorðuð við Ísland."
Nú segir Hörður Arnarson, að virkjanirnar og miðlunarlónin séu að mestu fullnýtt. Öðru vísi mér áður brá. Fyrir 2-4 árum, á dögum umræðunnar um OP#3 og raforkusölu til útlanda hélt hann því fram, að hún væri skilyrði þess að hindra, að vatn rynni framhjá virkjunum ónotað til sjávar. Nú er komið annað hljóð í strokkinn, enda vatnsstaða Þórisvatns slæm. Í septemberbyrjun 2021 komst vatnshæðin yfir lágmark m.v. árstíma, en tók að lækka mánuði síðar og stefnir undir lágmark í vetur og skerðingu ótryggðrar raforku til iðnaðarins. Sérvitringar og þvergirðingar eiga eftir að verða okkur dýrir á fóðrum.
Af þessum ástæðum er brýnt að hefja virkjanaframkvæmdir, og Hörður segir það hægt, en hvers vegna í ósköpunum er þá setið með hendur í skauti ? Ef kyrrstaðan á sér pólitískar skýringar, er það í fyrsta sinn, sem afturhaldið í landinu nær kverkataki á athafnalífi landsins. Er þá stjórnarsamstarfið of dýru verði keypt ?
4.10.2021 | 18:32
Skattaáþjánin
Nú stendur fyrir dyrum að rita nýjan stjórnarsáttmála, og mun hann veita forsögn um þróun ríkisfjármálanna. Staða þeirra er óviðunandi eftir Kófið. Kjósendur í nýafstöðnum Alþingiskosningum hafa líklega haft þetta í huga, þegar þeir ákváðu, hvernig verja ætti atkvæðinu, því að flokkum hóflausrar þenslu ríkisútgjalda og lántöku á kostnað framtíðarinnar var hafnað. Hafa verður líka í huga, að Seðlabankinn mun neyðast til að bregðast við áframhaldandi þenslustefnu ríkissjóðs með enn harðari aðhaldsaðgerðum en ella, því að hann mun leitast við að koma hér á jákvæðum raunvöxtum sem fyrst, sem dregur úr einkaneyzlu til mótvægis við opinbera þenslustefnu.
Stjórnarflokkarnir virtust samstiga um það í kosningabaráttunni, að hvorki yrði hér þörf á skattahækkunum til að koma böndum á ríkissjóð né róttækum aðhaldsaðgerðum í rekstri ríkissjóðs, ef nauðsynlegur hagvöxtur yrði aðeins tryggður. Þetta er vandrötuð hagstjórnarleið, en ríkisvaldið hefur í sínum höndum ýmis tól og tæki til að örva hagvöxt. Síðan hefur landsmönnum reyndar hlotnazt ávísun á tæplega 100 mrdISK/ár happdrættisvinning, þar sem er spá Hafró um öflugar loðnugöngur 2022-2023.
Eitt af verkfærum ríkisstjórnarinnar til að efla nauðsynlegan hagvöxt er að ýta undir nýjar virkjanir í landinu til að standa undir orkuskiptunum, sem verða aldrei barn í brók án nýrra virkjana, sem hefja þarf strax til að forðast orkuskort. Afturhaldið í landinu þvælist fyrir öllum nýjum virkjunum, en virðist vilja umbylta hér neyzlumynztri og draga úr framleiðslu útflutningsatvinnuveganna til að fá umhverfisvæna orkugjafa til að leysa jarðefnaeldsneytið af hólmi.
Þetta er afspyrnu útúrboruleg hugmyndafræði, sem engum mun gagnast, en mun keyra hér hagkerfið í samdrátt og verða öllum landsmönnum til tjóns og mest þeim, sem minnst mega sín. Þessi sérvizka er ósjálfbær fyrir Ísland, því að þar með væri, allsendis að óþörfu, verið að leggja þungar byrðar á unga fólkið í landinu og gamlingjar og sjúklingar mundu fá að lepja dauðann úr skel. Dæmigerður sósíalismi andskotans þarna á ferðinni hjá Landvernd o.fl.
Samkeppnishæfni landsins er í uppnámi vegna hárra launa og áframhaldandi hækkana, sem eru meiri en í helztu samkeppnislöndum okkar. Viðskiptafrétt Baldurs Arnarsonar í Morgunblaðinu 24. september 2021 hófst þannig:
"Launakostnaður á hverja unna stund á Íslandi var um 8 % hærri á 2. ársfjórðungi [2021] en árið áður. Það var 3. mesta hækkunin í Evrópu á tímabilinu, en miðað er við vísitölu launakostnaðar."
Fyrir ofan voru Kýpur og Serbía, en t.d. hin Norðurlöndin voru með hækkun, sem nam 6,4 % (Svíþjóð), 3,3 % (Danmörk), 2,9 % (Noregur) og 2,5 % (Noregur). Í Þýzkalandi stóð launakostnaður í stað, og í ESB varð meðalhækkun 0,6 %. Það er hætt við, að framleiðniaukning á Íslandi hafi orðið langt undir 8 % á ári undanfarin misseri, og þess vegna er þessi þróun launakostnaðar á Íslandi ósjálfbær og stefnir í allt of hátt raungengi, sem yrði mikil byrði á útflutningsatvinnuvegunum.
Þrátt fyrir engar launahækkanir í Þýzkalandi er þar "mikil" verðbólga á mælikvarða Þjóðverja. Verðbólga heildsöluverðs reyndist 12,3 %/ár í ágúst 2021, sem er met síðan í olíukreppunni 1973-1974, en verðbólga neyzluverðs er þar enn um 4 %.
"Aðilar vinnumarkaðarins" og ríkisvaldið verða í komandi kjaraviðræðum að sameinast um leiðir til að verja núverandi kjör og viðhalda efnahagsstöðugleikanum. Líklega hafa margir kjósendur verið sér meðvitaðir um þessa þörf, þegar þeir sniðgengu glundroðann í stjórnmálunum.
Baldur vitnaði í Jón Bjarka Bentsson, aðalhagfræðing Íslandsbanka:
"Líkt og víðar sé að hægja á aukningu framleiðni, eftir því sem hagkerfið þroskast, þjóðin eldist o.s.frv., nema til komi nýir atvinnuvegir eða atvinnuhættir, sem herði aftur á þeirri þróun. M.ö.o. þurfi að styrkja grunnstoðir hagkerfisins eða skapa nýjar til að standa undir enn meiri launahækkunum. Sú þróun eigi sér stað samtímis því sem Íslendingar glími við verðbólguþrýsting, sem sé að hluta vegna innfluttrar verðbólgu, þ.e.a.s. hækkandi verðlags erlendis."
Ef fyrirtækin halda áfram að fjárfesta, þá mun tæknin gera þeim kleift að auka framleiðni sína áfram. Þetta á við í landbúnaði, sjávarútvegi og iðnaði. Orkuskiptin kalla á miklar fjárfestingar, t.d. í virkjunum, sem eru forsenda þess, að draga megi úr eldsneytisinnflutningi. Þessi gjaldeyrissparnaður mun ýta undir hagvöxt.
Fyrir ráðstöfunarfé almennings er skattheimtan þungvæg. Ungt fólk, sem er að stofna heimili, leggur oft mikið á sig við að afla tekna til að standa straum af mesta kostnaðinum á ævinni og skuldar jafnvel námslán. Það er mikið óréttlæti fólgið í að skattleggja þetta fólk með háum jaðarskatti, eins og eru ær og kýr vinstri hjarðarinnar. Í Fréttablaðinu 25. september 2021 blöskraði framkvæmdastjóra SA skattaumræðan undir fyrirsögninni:
"Umræðu um skatta snúið á haus fyrir kosningarnar":
"Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir, að í umræðu um skattkerfið í aðdraganda kosninga sé öllu snúið á haus. "Vandséð er, hvað vakir fyrir þeim flokkum, sem tala með þeim hætti, að skattkerfið sé sérstaklega ósanngjarnt hér á landi, annað en einbeittur vilji til að rugla fólk í ríminu", segir Halldór.
Hér á landi séu greidd ein hæstu lágmarks- og meðallaun í heimi. Báðar stærðir séu leiðréttar fyrir kaupmætti og taki þannig tillit til hás framfærslukostnaðar hér á landi."
Mesta fjárfestingarátak flestra fjölskyldna felst í að "koma sér þaki yfir höfuðið", og það gerist yfirleitt á fyrstu búskaparárunum. Verð húsnæðis hefur verið spennt upp með lóðaskorti. Sveitarfélögin maka krókinn af hækkun húsnæðisverðs, af því að fasteignagjöldin taka mið af markaðsverði. Það er ekkert vit í þessari skattheimtu og ber að rjúfa tafarlaust tengslin á milli fasteignamats og fasteignagjalda. Ef tekst að lækka fasteignaverð og varðveita núverandi kaupmátt launa, mun Ísland standa vel að vígi í samkeppninni um fólkið.
""Lágtekjufólk býr ekki við háa skattbyrði, enda á það ekki að gera það. Þeir, sem hærra standa í tekjustiganum, skila sannarlega sínu til samfélagsins og búa við mun hærri skattbyrði, hvort sem talið er í % eða ISK. Það blasir við, að tekjuskattskerfið á Íslandi er öflugt við að jafna kjör í landinu", segir Halldór."
Það er eðli jafnaðarmanna og sósíalista að efna til sundrungar á meðal fólks, og þá er iðulega gripið til öfundarinnar. Þetta var kjarni kommúnismans, en þar sem kommúnistar náðu völdum, töldu þeir sig verða að berja alla andstöðu niður, enda vekur þjóðnýting atvinnutækjanna auðvitað upp mikla andstöðu og jafnvel átök. Hagfræðilega og siðferðilega eru kommúnisminn og öll afsprengi hans á vinstri kantinum vitlausasta hugmyndafræði, sem hægt er að hugsa sér, út frá hagsmunum launþega og alls almennings vegna einokunar ríkisins á störfum og skoðunum. Endastöðin er sú, að "nómenklatúra" flokksins ráði öllu, og er þá engu líkara en afturhvarf til lénsveldisins hafi átt sér stað að breyttu breytanda. Hjá okkur er opinbera báknið nú þegar orðið of stórt og þar af leiðandi of þungur baggi á atvinnuvegunum, sem undir öllu standa, en 30 % launþega þiggur laun frá ríki og sveitarfélögum, og eru þá hvorki ellilífeyrisþegar né örorkulífeyrisþegar taldir sérstaklega.
"Hann [Halldór] segir mikilvægt að skoða tekjuskatta í samhengi við heildartekjur og vaxta- og barnabætur auk annarra tekjutilfærslna ríkisins [til jöfnunar-innsk. BJo]. "Tekjuskattsgreiðslur, að frádregnum vaxta- og barnabótum, leiða í ljós mikil jöfnunaráhrif. Tekjuhæstu 10 % framteljenda greiða um 50 % af öllum tekjuskatti til samneyzlu og fjárfestinga ríkisins. Næstu 10 % greiða 22 % alls tekjuskatts. Lægstu 5 tekjutíundirnar, sem eru framteljendur með heildartekjur, að undanskildum fjármagnstekjum, undir 490 kISK/mán, greiða 1 % af öllum tekjuskatti. Tekjujöfnunaráhrif skattkerfisins eru þannig miklu meiri en ég held, að fólk geri sér almennt grein fyrir", segir hann."
Þetta má umorða þannig: Hátekju- og millitekjufólkið stendur undir velferðarkerfinu og greiðir fyrir lungann af samneyzlu á vegum ríkisins, því að 2 hæstu tekjutíundirnar greiða 72 % (næstum 3/4) af öllum tekjuskattinum, og þær eru líklegar til að greiða yfir helminginn af virðisaukaskattinum vegna meiri neyzlu og fjárfestinga.
Millitekjufólkið, í 6., 7. og 8. tekjutíund, greiðir 27 % af tekjuskattinum, og lágtekjufólkið, undir 5,9 MISK/ár, greiðir nánast engan tekjuskatt. Það er augsýnilega lágtekjufólki mjög í hag, að hátekjufólkið efnist sem mest, því að þá verður enn meira til skiptanna fyrir lágtekjufólk af samneyzlunni. Þetta er þveröfugt við boðskap arftaka kommúnismans, vinstri hjarðarinnar með alls konar heiti á flokksbrotunum, sem jarmar hástöfum um, "að auka þurfi jöfnuð". Jöfnuður er samt sá mesti í heimi á meðal vel stæðra þjóða samkvæmt hinum alþjóðlega GINI-stuðli. Er kyn, þótt enginn jarðvegur sé á Íslandi fyrir afætuboðskap vinstri flokkanna um enn meiri skattheimtu. Samkvæmt Laffler munu þá skatttekjurnar einfaldlega lækka, því að hvatinn til að afla viðbótartekna hverfur (skattstofnar skreppa saman). Þetta hafa sófakommarnir aldrei skilið.
"Bæði Sósíalistaflokkurinn og Flokkur fólksins vilja gera lágmarkslaun skattfrjáls. "Lágmarkslaun duga ekki fyrir framfærslu. Eftirlaun og örorkulaun enn síður", segir Gunnar Smári Egilsson [GSE], oddviti Sósíalistaflokks Íslands í Reykjavíkurkjördæmi norður. "Fyrir 30 árum var enginn skattur greiddur af lágmarkslaunum, eftirlaunum eða örorkulífeyri. Það er siðlaust, að fjármálaráðherra komi og taki fé af fólki, sem á ekki fyrir mat. Það vissi fólk fyrir 30 árum."
Halldór segir það alveg rétt, að lægstu laun hafi verið skattfrjáls þá. "En munurinn er sá, að þá voru lágmarkslaun töluvert lægri en nú. Á árinu 1992 voru lágmarkslaun 133 kISK/mán á verðlagi dagsins í dag, en eru nú 351 kISK/mán eða næstum þrefalt hærri. Bætt lífskjör hafa leitt til þess, að á síðustu 3 áratugum hefur framteljendum, sem greiða tekjuskatt, fjölgað hlutfallslega. Það er heilbrigðismerki, að fleiri launamenn geti tekið þátt í fjármögnun samneyzlunnar", segir Halldór."
Téður GSE er ómarktækur vegna órökstuddra fullyrðinga, sem hann slengir fram í tíma og ótíma, og eru oftast hálfsannleikur eða helber ósannindi. Þannig lætur hann þess ógetið hér að ofan, að lægstu laun og skattheimta af þeim nú og 1992 eru ósambærileg. Að lokum kom þetta fram í téðri umfjöllun Fréttablaðsins:
"Gunnar Smári segir, að á umliðnum árum hafi stjórnvöld, með 25 ára setu Sjálfstæðisflokksins í fjármálaráðuneytinu, lækkað skatta á þá ríku, en lagt þá á fólk, sem hefur ekki efni á mat út mánuðinn. "Þetta er alvarlegt siðrof í samfélaginu, sem almenningur verður að rísa upp gegn.""
Siðblindir menn setja sig gjarna í dómarasæti, fullir vandlætingar, enda sér téður GSE ekkert að því að "ryðja Hæstarétt", ef sá dæmir ekki í anda alræðis öreiganna. Hinir ríku standa undir megninu af samneyzlunni, eins og rakið var hér að ofan, þannig að hatursáróður hins siðblinda lýðskrumara er tómur þvættingur.
"Halldór segir mikilvægt, að allar tillögur um skattkerfisbreytingar, bæði stórar sem smáar, séu settar í samhengi. "Tekjur ríkissjóðs myndu skerðast um 162 mrdISK/ár, ef lágmarkslaun yrðu gerð skattfrjáls. Það svarar til um 80 % af öllum tekjuskattsgreiðslum einstaklinga til ríkisins. [Hér verður að hafa í huga, að einstaklingar með undir 490 MISK/mán greiða aðeins 1 % af öllum tekjuskatti til ríkisins-innsk. BJo.] Slík skattalækkun er óraunhæf, nema stefnt sé að samsvarandi niðurskurði samneyzlunnar, eða að byrðinni verði velt yfir á millitekjuhópa, sem raunar enginn hefur lagt til", segir Halldór."
13.9.2021 | 11:29
Blómlegt í álgeiranum
"Eins dauði er annars brauð" ("Eines Tod einem anderen Brot".) sannast einu sinni sem oftar í álgeiranum. Kínverjar hafa valdið álframleiðendum á Vesturlöndum gríðarlegum búsifjum með offramleiðslu, sem leitt hefur til birgðasöfnunar á álmörkuðum heimsins og verðfalls. Nú hafa þeir neyðzt til að taka nýjan pól í hæðina og draga líklega úr framleiðslu sinni um 5 Mt/ár eða 10 % niður í 46 Mt/ár. Ástæðuna má líklega rekja til yfirþyrmandi mengunar í Kína af völdum kolaorkuvera, en einnig er raforkuskortur í Kína af völdum þurrka, en í Kína eru sem kunnugt er mörg og stór vatnsorkuver.
Á Vesturlöndum og víðar er nú verið að endurræsa stöðvaða kerskála, setja öll tiltæk rafgreiningarker í rekstur og hækka kerstrauminn til að hámarka afköst álverksmiðjanna, enda hefur álverð LME hækkað um rúmlega 60 % á einu ári í september 2021 og er nú í um 2900 USD/t og hækkandi. Verðið er nú nægilega hátt til að skila öllum verksmiðjum á Vesturlöndum hagnaði, líka í Evrópu, þar sem koltvíildisgjaldið er hæst í heiminum, um 65 USD/t CO2. Það þýðir, að íslenzki áliðnaðurinn þarf að greiða um 100 MUSD/ár eða tæplega 13 mrdISK/ár í koltvíildisgjöld. Þetta fer inn í ETS-viðskiptakerfi ESB. Hvað verður um þetta fé ? Við þurfum á því að halda hér innanlands í mótvægisaðgerðir á borð við landgræðslu og skógrækt. Íslenzk álver eða kísilver hafa ekki notið fjárhagslegra mótvægisaðgerða af hálfu ríkisins, eins og önnur evrópsk álver, til að styrkja samkeppnisstöðu þeirra gagnvart álverum í ríkjum, þar sem ekkert slíkt kolefnisgjald er lagt á starfsemina. Þess má geta, að kol eru enn niðurgreidd í sumum ríkjum.
Þann 8. september 2021 birti ViðskiptaMogginn athyglisvert viðtal við nýjan forstjóra Century Aluminium, móðurfélags Norðuráls á Grundartanga, Jesse Gary. Þessi náungi er hress og lætur vel af Íslendingum í þjónustu sinni og kynnum sínum af landi og þjóð. Hann er greinilega opinn fyrir meiri raforkukaupum af Íslendingum til að framleiða enn meira ál en 330 kt/ár, sem brátt verður framleiðslugeta Norðuráls, en hérlendis hefur enginn neitt fram að færa, sem um munar, á framboðshlið raforku. Á ekki að grípa gæsina, á meðan hún gefst, eða á afturhaldinu að lánast að sitja á öllum tækifærunum til frekari nýtingar náttúruauðlindanna, þótt markaðir vilji greiða hærra verð fyrir græna orku til að framleiða "grænt" ál ?:
"Blómaskeið hafið í áliðnaði og eftirspurnin á uppleið".
""Við upphaf faraldursins var dregið verulega úr iðnframleiðslu í heiminum. Allir fóru mjög varlega. Nú höfum við hins vegar horft fram á V-laga niðursveiflu og loks efnahagsbata. Eftirspurnin er á hraðri uppleið, og verðið hefur hækkað á ný", segir Jesse."
Ál fellur vel að þörfum heimsins á tímum orkuskipta, og þess vegna er líklegt, að nýhafið góðæri á álmörkuðum vari lengi, ekki sízt vegna orkuskorts, sem hrjáir heiminn, þar til stórfelld nýting kjarnorku hefst. Frumálvinnslan er orkukræf, en notkun álvara er orkusparandi, og endurvinnsla útheimtir aðeins 5 % af rafgreiningarorkunni. Stöðugt meira er nú endurunnið af notuðu áli, og nemur magnið núna um 20 Mt/ár eða tæplega 24 % af heildarálnotkun (85 Mt/ár).
Jesse er forstjóri tiltölulega lítils álfyrirtækis með starfsemi í Bandaríkjunum (BNA) og á Íslandi. Það hentar Íslendingum að mörgu leyti vel til samstarfs. Hann sagði um Century Aluminium:
"Starfsmennirnir eru rúmlega 2100, og þar af eru rúmlega 600 á Íslandi [29 %]. Því starfa hlutfallslega flestir hjá álverinu á Íslandi [3 álver í BNA], en um 500 starfa hjá hvoru álverinu um sig í Kentucky og um 350 í Suður-Karólína. Við það bætast starfsmenn í höfuðstöðvunum og í rafskautaverksmiðjunni í Hollandi. Starfsmönnum hefur fjölgað að undanförnu, þar með talið á Íslandi, samhliða aukinni framleiðslu."
Það eru mun fleiri launþegar á Íslandi en þessir 600, sem lifa á starfsemi Norðuráls. Nefna má viðskipti við verkfræðistofur, verktaka, sem veita þjónustu verkamanna og iðnaðarmanna og flutningafélög á sjó og landi. Óbein (afleidd) störf eru hjá Landsvirkjun, Landsneti, ON og hinu opinbera. Nokkur sveitarfélög koma þar við sögu, því að vinna er sótt til Norðuráls víða af Vesturlandi og af höfuðborgarsvæðinu.
Hvað segir Jesse um markaðshorfurnar ?:
"En nú hafa Kínverjar greint frá því, að þeir hyggist láta staðar numið við uppbyggingu álvera í því skyni að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og miða framleiðslugetuna við 46 Mt/á [70 % heimsmarkaðar fyrir hráál]. Til samanburðar hljóðar eftirspurn í heiminum nú upp á 65 Mt/ár. Og ef áform Kínverja ganga eftir, mun í fyrsta sinn í 2 áratugi skapast þörf fyrir að byggja upp framleiðslugetu á Vesturlöndum til að mæta vaxandi eftirspurn."
Einhver mundi segja, að komið væri verulegt eggjahljóð í þennan Íslandsvin, því að Ísland er vissulega eitt af þeim löndum, sem tæknilega og fjárhagslega koma til greina fyrir ný álver í ljósi nýrra markaðsaðstæðna. Það eru þó önnur vatnsorkulönd, sem koma ekki síður til greina, t.d. Kanada, Suður-Ameríka og Noregur. Hérlendis mundi það vafalaust létta slíku verkefni róðurinn, ef eigandinn væri tilbúinn að reisa kolafrítt álver, en slík eru í tilraunarekstri í Kanada og í Frakklandi á vegum vestrænna álfyrirtækja. Eins og jafnan þarf þó pólitískan vilja hérlendis, til að slíkar beinar erlendar fjárfestingar geti orðið að raunveruleika. Engin heildarstefnumörkun er til hérlendis, sem veitir von um, að Ísland muni blanda sér í keppni um slíka fjárfestingu.
"Hvar á Vesturlöndum verður álframleiðslan aukin af þessum sökum ?"
"Það á eftir að koma í ljós. Vonandi, þar sem græn orka er notuð við framleiðsluna. Og framboðið á grænni orku er stöðugt að breytast, enda er hún í vaxandi mæli framleidd á nýjum stöðum með vindorku og sólarorku, sem kemur til viðbótar vatnsafls- og jarðvarmavirkjunum. Þetta þýðir, að orkuverð er á niðurleið, og það væri því auðveldast að mæta eftirspurninni í Evrópu og Bandaríkjunum með uppbyggingu álvera á þeim mörkuðum."
Í Noregi vex hlutdeild vindorku talsvert.Kannski verður sú uppbygging stöðvuð af nýrri ríkisstjórn Noregs. Þá verður spennandi að fylgjast með viðbrögðum orkustjóra ACER í Noregi og eftirlitsstofnunar EFTA-ESA.
Norðmenn hafa í sínu landi mörg og stór miðlunarlón og mörg vatnsorkuver. Sum þeirra eru með vélasal sprengdan inn í fjöll með svipuðum hætti og Kárahnjúkavirkjun af öryggisástæðum. Þeir eru þess vegna óvanir jafngríðarlegum inngripum í villta náttúru og vindmyllurnar fela í sér. Andstaðan við vindmyllur magnast af þessum sökum í Noregi. Raforkan frá þeim er aðallega flutt út um sæstrengi. Nú er verið að þróa stórar vindmyllur,> 10 MW, sem eru tjóðraðar fastar við hafsbotninn með stögum og án annarrar botntengingar og geta þannig verið á miklu dýpi.
Álverðstenging raforkuverðs hefur undanfarið lyft raforkuverðinu vel yfir 40 USD/MWh hérlendis, sem mundi líklega duga til að gera alla orkuverskostina í 3. áfanga verndar- og nýtingaráætlunar, bið og nýtingu, arðsama.
"Við hjá Century Aluminium teljum okkur vel búin undir að auka framleiðsluna. Við erum að auka framleiðsluna í álverinu við Mt. Holly í Suður-Karólína og í álverinu í Hawesville í Kentucky.
Afkastagetan í Kína var umfram eftirspurn, en er mögulega að ganga til baka nú, þegar eftirspurnin er mikil og vaxandi. Við sjáum því tækifæri til að auka framleiðsluna og erum því að auka hana í þessum tveimur áður nefndu álverum. Fyrir utan það má auka framleiðsluna í Bandaríkjunum enn frekar, og hér á Íslandi höfum við skoðað leiðir til að auka verðmætasköpunina á Grundartanga."
Norðurál ætlar að umbylta steypuskála sínum í líkingu við það, sem ISAL gerði fyrir áratug, þ.e. að taka upp framleiðslu þrýstimótunarsívalninga, sem eru núna og oft með miklu verðálagi ofan á LME-verðið á mörkuðum, svo að afurðaverðið er nú komið yfir 4000 USD/t. Þetta er sennilega mesta gósentíð í sögu ISAL. Steypuskálaumbyltingin á Grundartanga er mrdISK 15 fjárfesting og útheimtir um 10 % fjölgun starfsmanna, en sáralitla viðbótar orku. Hins vegar áformar Norðurál framleiðsluaukningu upp á 10 kt/ár upp í 330 kt/ár.
Hjá ISAL er öllum kerum haldið gangandi og styttist í hámarksstraum í öllum kerskálum, sem gefur ársframleiðslugetu um 215 kt/ár. Tekjuskattur af fyrirtækinu verður drjúgur í ár, því að hagnaður júlí-ágúst 2021 nam um MUSD 40 eða rúmlega mrdISK 5,0.
"Ég get reyndar vart hugsað mér betri stað til að framleiða ál en Ísland. Hér er framleitt hágæðaál og magn kolefnis, sem fellur til við framleiðsluna, er með því minnsta, sem þekkist. Það er jafnframt gott að starfa á Íslandi.
Þróunin á orkumörkuðum mun hafa áhrif í þessu efni. Það er síðan spurning, hvernig Íslendingar sjá fyrir sér orkumarkað sinn í framtíðinni. Ég segi sem framleiðandi, að Ísland er afar ákjósanlegur staður fyrir álframleiðslu."
Skýrar getur Jesse Gary ekki tjáð sig á þá lund, að hann hefur hug á frekari fjárfestingu og framleiðslu áls á Íslandi. Til að samningar náist þarf hins vegar 2 til. Íslandsmegin er vart að sjá nokkurt lífsmark í þá veru að vilja selja álfélagi enn meiri orku og fá hingað tugmilljarða fjárfestingu. Deyfð og drungi afturhaldsins hefur eitrað út frá sér. Nú vantar baráttumenn til að brjóta hlekki hugarfarsins, eins og á 7. áratug 20. aldar, þegar innflutningshöft voru afnumin og stórfelld iðnvæðing hafin með Búrfellsvirkjun og iðjuverinu í Straumsvík.
7.9.2021 | 10:46
Ofstæki mun ekki gagnast náttúrunni
Afbrigðileg og herská viðhorf til náttúruverndar hafa tröllriðið Landvernd bæði undir fyrrverandi og núverandi framkvæmdastjóra þessara samtaka, sem ættu ekki að vera vettvangur ofstækisfullrar náttúruverndar, sem setur sig upp á móti nánast öllum framfaramálum í þágu almannaheilla á sviði samgöngumála (vegagerð) og orkumála (nýjum virkjunum og flutningslínum í lofti, einnig DC-jarðstreng yfir hálendið á milli Norður- og Suðurlands ?).
Núverandi framkvæmdastjóri Landverndar er á móti álframleiðslu á Íslandi á þeim grundvelli, að verði álverin á Íslandi lögð niður, þá minnki heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í heiminum að sama skapi. Þetta ankannalega viðhorf verður til í hópi sértrúarsafnaðar á Íslandi, sem berst gegn hagvexti og núverandi neyzlumynztri almennings. Viðhorfið er hvergi annars staðar í Evrópu að finna, og Evrópusambandið (ESB) er með niðurgreiðslur og tollvernd fyrir evrópskan áliðnað í gangi til að draga úr s.k. kolefnisleka frá Evrópu til ódýrari staða, þar sem m.a. ekki er kolefnisgjald. Losunin er svo miklu meiri á hvert framleitt tonn t.d. í Asíu frá nýjum álverum en frá íslenzkum álverum, að aukningin mundi nema tvöfaldri heildarlosun Íslands án jarðvegslosunar, ef framleiðsla álveranna hér flyttist þangað. Það getur aðeins þjónað þröngum sérhagsmunum að afneita viðteknum "kolefnisleka" með spuna.
Fyrrverandi framkvæmdastjóri Landverndar varð alræmdur fyrir kærugleði sína á hendur leyfisveitendum og framkvæmdaaðilum orkumannvirkja. Hann er nú varaformaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og umhverfis- og auðlindaráðherra og heldur sem ráðherra uppi hernaði gegn hagsmunum almennings á sviði orkumála. Þetta kemur fram í því, að verndar- og nýtingaráætlun er strönduð á Alþingi, og þar var lagt fram frumvarp af þessum ráðherra um einræði ráðuneytisins yfir öllu miðhálendi Íslands, þar með orkulindum, sem þar er að finna. Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins, ritaði um þetta grein í Morgunblaðið 28. ágúst 2021, sem bar heitið:
"Ræðst framtíð hálendis Íslands í miðborg Reykjavíkur ?".
Hún hófst þannig:
"Að vernda náttúruna er göfugt og gott markmið, sem stuðla þarf að með skynsömum hætti. Þessu markmiði þarf að ná í sátt og samlyndi við ferðafélög, bændur og sveitarfélög, sem og aðra náttúruunnendur, en það er einmitt það, sem sárlega vantaði inn í lög [lagafrumvarp] umhverfisráðherra um stofnun hálendisþjóðgarðs; samráð við þá, sem málið varðar. Það er því mikilvægt að fara aðeins yfir staðreyndirnar."
Vinnubrögð umhverfis- og auðlindaráðherra, þegar hann hannaði stjórnkerfi miðhálendisþjóðgarðsins, minna á slagorð Leníns um "alræði öreiganna og allt vald til sovétanna (ráðanna)". Í raun fóru öll völd til "nómenklatúru" kommúnistaflokksins í Moskvu. Ráðherrann hefur búið til samráðsvettvang sveitarfélaganna í stjórnkerfi miðhálendisþjóðgarðsins, en endanlega orðið um öll málefni þjóðgarðsins verður í umhverfisráðuneytinu í Reykjavík. Þetta er afsprengi hrædds manns í minnihlutahópi, sem óttast nærlýðræði eða grasrótarlýðræði, en treystir því, að með fjarstjórn frá Reykjavík muni takast að koma í veg fyrir öll nýtingaráform á hálendinu. Þessi ógæfulega stefnumörkun ráðherrans strandaði í þinginu.
Hin eina vitræna nálgun þessa viðfangsefnis er að varðveita ráðstöfunar- og skipulagsrétt sveitarfélaganna óskertan yfir hálendinu; tryggja nærlýðræðið. Ef nærlýðræðið fær að njóta sín, er líklegast, að sáttaleið finnist um jafnvægi á milli nýtingar og verndar. Það er útilokað með einræðistilburðum úr Reykjavík.
Fulltrúar sveitarfélaganna á hverju rekstrarsvæði miðhálendisþjóðgarðsins munu skipa meirihluta í s.k. umhverfisráði, sem er hið bezta mál. Hlutverk umhverfisráðanna á að vera að setja rekstrarsvæðunum, hverju fyrir sig, nýtingar- og verndaráætlun. Stjórn miðhálendisþjóðgarðsins er hins vegar óbundin af samþykktum umhverfisráðanna. Stjórn þessi er í raun og veru óþörf. Til að bæta gráu ofan á svart hefur ráðherrann heimild til að breyta samþykktum umhverfisráðanna án þess að tala við kóng né prest. Þetta er ósvífin afbökun á nærlýðræðinu og stjórnkerfislegt örverpi í íslenzkri stjórnsýslu, sem á sér hvorki siðferðisgrundvöll né lagahefð. Hugarheimur ráðherrans er hugarheimur minnipokamanns, sem hefur komizt til æðstu metorða, og ætlar að misnota aðstöðu sína þar purkunarlaust í þágu ofstækisviðhorfa sinna.
Flokkur ráðherrans o.fl. berja sér á brjóst fyrir loftslagsstefnu sína, en hún er algerlega innantóm glamuryrði vegna þess, að flokkurinn, S&P engu skárri, virðist leggjast gegn flestum nýjum virkjunum. Til að mæta raforkuþörf orkuskiptanna virðast þau vonast til, að starfsemi álveranna á Íslandi verði stöðvuð. Það yrði þó það versta, sem frá Íslandi gæti komið í loftslagsmálum, eins og rakið hefur verið, og yrði meiriháttar efnahagslegt og atvinnulegt áfall. Engar áætlanir standa til þess núna fyrir þann tíma, sem stjórnmálamenn ætla að ná kolefnishlutleysi á Íslandi, 2040. Þess vegna er holur hljómur í þeim stjórnmálamönnum, sem hæst láta í loftslagsmálum.
Það, sem helzt er hægt að halda sig við varðandi viðbótar orku frá sjálfbærum orkulindum Íslands, fyrir utan smávirkjanir, er 3. áfangi verndar-og nýtingaráætlunar, nýtingar- og biðflokkur (ekki verndarflokkur). Þar eru 7 vatnsaflsvirkjanir að uppsettu afli 456 MW og orkuvinnslugetu 3241 GWh/ár, 8 jarðgufuver, 730 MW, 6016 GWh/ár og 1 vindorkuver (Blöndulundur), 100 MW, 350 GWh, alls 1421 MW og 10,7 TWh/ár.
Til að leysa af hólmi alla jarðefnaeldsneytisnotkun á Íslandi (án millilandasiglinga og -flugs) þarf uppsett afl 1000-1200 MW (háð nýtingartíma hámarksnotkunar, snjallmælar lækka aflþörfina) og 6,7 TWh/ár, og að meðtöldum millilandasamgöngunum gæti þurft 1300 MW og 9,0 TWh/ár. 3. áfanginn dugir þannig fyrir orkuskiptunum og aukningu almenns álags á 20 ára tímabili, en ekkert svigrúm verður fyrir eldsneytisframleiðslu til útflutnings, nema virkja eitthvað af þeim orkulindum, sem ekki eru nefndar í nýtingar- og biðflokki "áfanga 3". Það gæti t.d. orðið vindorka, eins og fyrirtækið Qair hefur kynnt til sögunnar, en vegna mikillar fyrirferðar slíkra orkugarða verður að huga vandlega að staðsetningu þeirra út frá náttúruverndarsjónarmiði, og umfram allt verða slíkar framkvæmdir að vera í sæmilegri sátt við íbúa viðkomandi sveitarfélaga, sem sitja munu uppi með svo fyrirferðarmikinn nágranna.
Iðnaðarráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ritaði hugvekju í sunnudagsblað Morgunblaðsins, 05.09.2021, undir fyrirsögninni:
"Eitt stærsta hagsmunamál Íslands".
Hún hófst þannig:
"Loftslagsváin hefur sent heiminn á hraðferð inn í græna orkubyltingu, og Ísland hefur einstakt tækifæri til að taka þar afgerandi forystu. Það er sjálfbært og loftslagsvænt efnahagstækifæri - risastórt tækifæri - sem við eigum að sækja stíft."
Þetta má sumpart til sanns vegar færa, en sumpart er þetta ofmælt. Framleiðsla alrafbíla nemur í ár 4 % af heild nýrra bíla, sem er tvöföldun frá árinu 2020. Þetta er ávísun á umskipti til hins betra. Öðru máli gegnir um raforkuvinnslu heimsins. Hún mun fyrirsjáanlega aukast um 5 % í ár og 4 % árið 2022. Jarðefnaeldsneyti stendur undir 45 % aukningarinnar í ár og líklega 40 % á næsta ári. Til samanburðar stóð jarðefnaeldsneyti undir fjórðungi aukningar raforkuvinnslu árið 2019. Þetta jafngildir afturför. Vonir bjartsýnismanna um, að samdráttur eldsneytisnotkunar Kófsárið 2020 mundi halda áfram, hafa orðið að engu, enda mun enginn teljandi árangur nást með trúarbragðakenndu orðagjálfri, heldur verða að koma fram raunhæfar tæknilausnir og vaxandi hlutdeild kjarnorku á heimsvísu.
Norðmenn framleiða nánast alla sína raforku, um 150 TWh/ár, með vatnsafli og vindi. Þeir eru með miklu meiri orkukræfan iðnað en Íslendingar og eru komnir lengst alla við rafvæðingu samgöngutækja á láði og legi og eru með áætlanir þar að lútandi fyrir innanlandsflugið. Þeir leggja þannig miklu meira að mörkum til loftslagsmála en Íslendingar, enda á það ekki að vera neitt keppikefli hér að vera fremstur í röðinni, þar sem sama og ekkert munar um allt það koltvíildi, sem mannleg starfsemi losar hér. Meira er um vert að grípa tækifærin, eftir því sem tækniþróuninni vindur fram, og nýta þau landsmönnum til efnalegs framdráttar.
Þannig er t.d. núna verið að þróa hálfleiðara í afriðla til að hækka spennu rafgeymanna úr 400 VDC í 800 VDC. Þar með léttast bílarnir vegna minni koparþarfar, og hraðhleðslustöðvarnar verða um 350 kW, sem þýðir mikla styttingu hleðslutíma. Þessi þróun ætti að sýna skipuleggjendum innviða, að efla verður dreifikerfið til mikilla muna um allt land til að anna eftirspurninni.
"Til að sækja þetta tækifæri [orkuskiptanna] þurfum við að styðja myndarlega við þróun á þeim nýju lausnum, sem þarf til að skipta út núverandi mengandi orkugjöfum, hafa aðlaðandi og samkeppnishæft umhverfi fyrir fjárfesta, sem vilja byggja upp græna starfsemi og tryggja, að sú orka, sem til þarf, verði til staðar. Núverandi regluverk stendur í vegi fyrir því, og úr því þarf að bæta án þess að gefa afslátt af kröfum um umhverfisvernd og sjálfbæra nýtingu auðlinda."
Það, sem virðist liggja beinast við að styðja við, er repjuræktin til að framleiða olíu á dísilvélar og dýrafóður úr afganginum. Athuganir benda til, að þetta sé vænleg viðskiptahugmynd, og einkaframtakið ætti að geta komið þessu á koppinn að mestu ívilnanalaust.
Það er mjög óeðlilegt, að nú standi ekki yfir framkvæmdir við neina virkjun yfir 50 MW, því að orkuskortur vofir yfir í vetur, nema óvenjumikil hækkun vatnsborðs Þórisvatns verði nú í september, en vatnshæðin þar hefur verið undir sögulegu lágmarki undanfarna 2 mánuði. Á sama tíma hefur Byggðalína verið þanin til hins ýtrasta í rafmagnsflutningum frá Kárahnjúkavirkjun til Norður- og Suðurlands, en vatnsbúskapur Hálslóns hefur gengið vel í sumar (hlýindi og sólskin), þótt þurrkatíð hafi verið á Héraði.
Ráðherrann virðist kenna regluverkinu um þetta, og víst er, að umhverfis- og auðlindaráðherra hefur í engu reynzt hjálplegur. Í umhverfisverndinni, sem ráðherrann nefnir, ætti að felast sú verkfræðilega krafa, að umhverfisrask verði eins lítið og tæknin leyfir m.v. virkjanlega orku á staðnum. Þar með er tryggt, að nýjar virkjanir, eins og reyndar allar á undan þeim, munu falla vel að umhverfinu. Það hlýtur að verða verkefni umbótaafla eftir komandi kosningar að gera raunhæfa áætlun um nýjar virkjanir, sem gerir mögulegt að losna við jarðefnaeldsneytið fyrir 2050, eins og gildandi orkustefna tilgreinir. Þá verður að kistuleggja draumóra áhugafólks um bíllausa framtíð og annarra öfgahópa, sem lifir í draumaheimi um hagvaxtarlausa framtíð og Landvernd er gott dæmi um.
Iðnaðarráðherra orðaði svipaða hugsun þannig í lok téðrar hugvekju sinnar. Hver, sem kosningaúrslitin verða, verður að bægja afturhaldsöflum frá valdastólunum, ef orkuskiptin eiga nokkurn tíma að verða barn í brók og þar með eitthvað annað en innantómt orðagjálfur afturhaldsins.
"Spurningin snýst um trúverðuga leið að markmiðinu, og hvort hugur fylgi raunverulega máli um að sækja fram og sækja tækifærin. Sú spurning er eitt mikilvægasta hagsmunamál Íslands til framtíðar, en henni þarf að svara strax í dag. Það dugar ekki að segjast vilja orkuskipti og græna nýsköpun, en horfa á sama tíma fram hjá orkunni, sem þarf til. Hér þarf að fara saman hljóð og mynd."