Færsluflokkur: Umhverfismál
23.8.2021 | 11:27
Hvað kostar að ná kolefnishlutleysi
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að íslenzk stjórnvöld hafa sett landsmönnum það markmið að verða kolefnishlutlausir, þ.e. að starfsemi þeirra á landi valdi engri nettó losun gróðurhúsalofttegunda (CO2-ígilda), árið 2040. Árið 2019 (2020 var afbrigðilegt ár) nam jarðefnaeldsneytisnotkun Íslendinga 43,3 PJ (Peta Joule samkvæmt talnaefni Orkustofnunar-OS-2021-T008-01) eða 16,2 % af heildarorkunotkun landsmanna. Mönnum til glöggvunar nam þetta rúmlega 89 % af vinnslu vatnsorkuveranna. Þetta er ekkert smáræði, þótt það að tiltölu sé mun minna en að jafnaði í öðrum löndum.
Það verður að koma sjálfbær orka í staðinn, raforka, og þessi lokarafvæðing orkukerfisins á Íslandi mun nema um 6,7 TWh/ár m.v. stöðuna 2019, og nemur þessi rafvæðing um 34 % af raforkunotkun landsmanna 2019. Gera má ráð fyrir, að uppsett afl slíkra virkjana þurfa að vera um 1000 MW=1,0 GW til að knýja bílaflotann, vinnuvélarnar, skip og báta og innanlandsflugið, og væntanlega tæplega 9 TWh/ár, ef millilandaflugi og millilandasiglingum er bætt við.
Kostnaður við þessar virkjanir (1000 MW) gæti numið um mrdISK 350 og við flutnings- og dreifikerfið mrdISK 100 að meðtöldum jafnstraumsjarðstreng á milli Norður- og Suðurlands, sem verður að koma samhliða þessari miklu rafvæðingarviðbót, til að tryggja bæði æstæðan og kvikan stöðugleika raforkukerfisins.
Kostnaður við hleðsluaðstöðu í höfnum, á flugvöllum og við vegi ásamt áfyllistöðvum vetnis og lífeldsneytis, gæti numið mrdISK 100. Þá er ótalin vetnisverksmiðja og dreifikerfi vetnis. Alls eru þetta mrdISK 550. Bretar áætluðu fyrir nokkru, að orkuskiptin hjá sér mundu kosta mrdISK 900 á íslenzkan mannfjöldamælikvarða. Á Bretlandi verða orkuskiptin tiltölulega umfangsmeiri en hér, því að þeir þurfa að afnema kolaorkuver og gasorkuver og leysa jarðefnaeldsneyti til húsahitunar af hólmi með rafmagni og/eða vetni eða lífeldsneyti. Kostnaðaráætlunin mrdISK 900 þótti mörgum vanáætluð, svo að kostnaður Breta gæti að tiltölu orðið tvöfaldur kostnaður Íslendinga við orkuskiptin. Kostnaðurinn tæplega 30 mrdISK/ár er ekki óyfirstíganlegur, enda lendir hann að mestu á orkugeiranum og einkageiranum. Orkugeirinn er vel í stakkinn búinn. (Tal um að skipta Landsvirkjun upp er út í hött, því að hún er bundin af samningum um að standa við ákveðið afhendingaröryggi, sem hún getur ekki í bútum.) Svo er mikilli raforkunotkun á íbúa fyrir að þakka (uppsett afl 7,0 kW/íb).
Tvö risavaxin verkefni bíða jarðarbúa. Annað er að draga úr orkufátækt, og hitt eru orkuskiptin. Hvort tveggja er óhugsandi án gríðarlegrar rafvæðingar heimsbyggðarinnar, og þessi gríðarlega rafvæðing er óhugsandi án þess að nýta kjarnorkuna í stórum stíl. Þess vegna var kúvending Angelu Merkel, Þýzkalandskanzlara, 2011, glapræði, en hún fékk Bundestag til að samþykkja það í tilfinningalegu uppnámi í kjölfar Fukushima-áfallsins í Japan að loka öllum kjarnorkuverum Þýzkalands fyrir árslok 2022. Jafnframt á Þýzkaland að verða kolefnishlutlaust 2050. Þetta tvennt fer einfaldlega ekki saman, enda eru Þjóðverjar nú að ræsa kolakynt orkuver til að ná endum saman á milli framboðs og eftirspurnar raforku. Bretar fara þá einu leið, sem fær er í þessum efnum, að reisa kjarnorkuver, sem leysa munu öll kolakynt orkuver Bretlands af hólmi fyrir árslok 2025.
Rannsóknir hafa sýnt, að líkaminn ræður við geislun upp að ákveðnu marki án þess að bíða tjón af. Enginn lézt af völdum "Three Mile Island" kjarnorkuversbilunarinnar í Bandaríkjunum, og heldur enginn af völdum "Fukushima" áfallsins, sem leiddi af náttúruhamförum við Japansstrendur, utan einn, sem lézt, þegar svæðið í grenndinni var tæmt af fólki.
Eftirlitsiðnaðurinn á Vesturlöndum hefur lagt þá röngu forsendu til grundvallar, að öll geislun sé hættuleg og fært sig stöðugt upp á skaptið með kröfugerð, sem leitt hefur af sér stórfelldar kostnaðarhækkanir við að hanna og reisa kjarnorkuver. Þetta hefur t.d. leitt af sér aukningu rafstrengja úr 600 km árið 1973 í 1140 km árið 1978 í jafnstórum kjarnorkuverum. Kostnaðurinn við kjarnorkuver var u.þ.b. 3,0 USD/W, þegar uppsafnað uppsett afl þeirra hafði náð 2,0 GW og lækkaði niður í 1,0 USD/W við 32 GW uppsafnað afl um 1970, en þá tóku kröfur eftirlitsiðnaðarins að vaxa.
Afleiðingin af sívaxandi öryggiskröfum, sem eru komnar fram úr öllu hófi og skynsemi, er, að kostnaðurinn við kjarnorkuver er nú um 6,0 USD/W, þegar uppsafnað uppsett afl þeirra nemur um 256 GW. Kjarnorkuver framleiða nú aðeins um 10 % raforku heimsins. Til þess að íbúar jarðarinnar, sem hafa aðgang að minna rafafli en íbúar ESB (að meðaltali 0,7 kW/íb), nái ESB-meðaltalinu, þarf að bæta við uppsettu afli, sem nemur 5,0 TW. Þannig þrefaldast núverandi uppsett afl. Hvaðan á slíkt afl að koma ?
Til þess að leysa allt jarðefnaeldsneyti af hólmi þarf raforkuvinnsla úr kolefnisfríum orkulindum að koma frá 25 TW af virkjuðu afli, sem jafngildir tíföldun á núverandi raforkuvinnslu. Geta vindmylla og sólarsella virkar eins og krækiber í helvíti hjá þessari miklu þörf.
Aðeins kjarnorkan getur annað henni, en þá stendur heimurinn frammi fyrir því, að hræðsluáróður græningja og annarra slíkra hefur sett þessa tækni sums staðar í skammarkrókinn, og opinberir eftirlitsaðilar á Vesturlöndum hafa með óraunhæfum og öfgafullum hönnunarkröfum gert kjarnorkuverin ósamkeppnisfær við jarðgasorkuver og kolakynt orkuver. Hvernig á þá að verða við kröfum IPCC um að ná kolefnisjöfnuði sem allra fyrst til að bjarga jörðunni ? Eina sjáanlega úrræðið er að draga saman seglin, fara úr hagvexti í samdrátt hagkerfanna samkvæmt ráðleggingum græningja og höfunda "Endimarka vaxtar" og áhangenda þeirra, en hversu mikinn samdrátt þarf ? Sú hugmynd er endileysa og gengur alls ekki upp, enda næst engin samstaða um hana á heimsvísu, og þar með fellur hún um sjálfa sig.
Kostnaður við raforkuvinnslu í jarðgasknúnum orkuverum er 70-80 USD/MWh og í kolaorkuverum 50 USD/MWh. Ef hægt er að reisa kjarnorkuver á 2,50 USD/W, þá verður raforkukostnaður þeirra 35-40 USD/MWh. Suður-Kóreumenn geta þetta með skynsamlegum og nægum gæða- og öryggiskröfum, og ekki er ólíklegt, að Kínverjar séu á svipuðum slóðum, en á Vesturlöndum hefur hinn opinberi eftirlitsiðnaður hert eftirlitskröfurnar með hverju tæknilegu framfaraskrefi, sem kjarnorkuiðnaðurinn hefur stigið, svo að kostnaðurinn hefur 2-3 faldazt, gjörsamlega að óþörfu.
Með raforkukostnaði nýrra kjarnorkuvera yfir 120 USD/MWh hefur eftirlitsiðnaðurinn kyrkt kjarnorkuiðnaðinn og þannig girt fyrir, að orkuskiptin geti farið fram í löndum, sem að mestu eru háð jarðefnaeldsneyti við raforkuvinnslu og háð eru þessum sjálfseyðandi reglum.
Þegar svona er í pottinn búið, er ástæða til að spyrja að hætti Rómverja: "cuo bono" eða hverjum í hag ? Svarið liggur í augum uppi. Þeir, sem hagnast á, að orkuskiptin geti ekki farið fram samhliða eðlilegri efnahagsþróun og hagvexti, eru jarðefnaeldsneytisiðnaðurinn og samdráttarsinnarnir, sem hafa lengi þann steininn klappað í fávísi sinni, að eina ráðið til að bjarga jörðunni sé "að pakka í vörn", stöðva hagvöxtinn og minnka neyzluna á öllum sviðum, sem leiða mun til fjöldaatvinnuleysis, fjöldagjaldþrota og ríkisgjaldþrota. Þetta er algerlega vanheilagt bandalag. Það er kominn tími til að leiða sannleikann fram í dagsljósið. Hver er hin raunverulega hitastigshækkun lofthjúpsins, reist á dæmigerðum gervihnattamælingum hitastigs í mörgum sniðum í mörgum hæðum frá jörðu, en ekki bara yfirborðsmælingum, sem þar að auki eru háðar ýmsum skekkjuvöldum.
Það þarf að veita leyfi til að reisa kjarnorkuver í lítilli stærð, eins konar líkan, sem gera má tilraunir á, til að komast til botns í því, hvaða öryggiskröfur eru nauðsynlegar, og hverjar er skynsamlegt að afnema. Grundvallarspurningin er þessi: hversu mikil má geislun á tímaeiningu verða áður en hún verður skaðleg (það hefur alltaf verið ákveðin geislavirkni í náttúrunni og er jafnvel í banönum, sem innihalda geislavirkt kalíum). Það þarf að afnema núverandi viðmið eftirlitsyfirvalda: "As low as Reasonably achievable"-ALARA, því að hún er ekki reist á neinum leyfilegum geislunarþröskuldi og eyðileggur alla möguleika kjarnorkuiðnaðarins til að geta keppt við eldsneytisiðnaðinn.
18.8.2021 | 18:43
Afleiðingar hækkandi koltvíildisstyrks í lofthjúpinum
Árið 1994 birtu samstarfsmennirnir dr John Christy (JC), loftslagsfræðingur og prófessor við UAH (University of Alabama-Huntsville), og Dick McNider (DMN) fræðigrein í Nature um hitastigsþróunina í lofthjúpi jarðarinnar á tímabilinu 1979-1993 (15 ár), en þeir höfðu þá nýlokið við að safna hitastigsmæligögnum frá gervitunglum á braut um jörðu. Sennilega var hér um brautryðjendaverkefni að ræða af þeirra hálfu, og enginn hefur véfengt há gæði þessara mæligagna til að leggja mat á varmaorku lofthjúpsins og breytingar á henni á þessu skeiði.
Að sjálfsögðu var IPCC (loftslagsvettvangur SÞ) í lófa lagið að nýta sér þessi verðmætu gögn til að sannreyna spálíkan sitt, sem reiknaði út hitastigshækkun lofthjúpsins sem fall af aukningu koltvíildisígilda í lofthjúpnum. Þróun hitastigsins helzt í hendur við aukinn koltvíildisstyrk andrúmsloftsins, en IPCC ýkir hins vegar áhrifin af CO2 á hitastigið stórlega.
Líkan James Hansens o.fl. gaf þá stigulinn 0,35°C/áratug, en mæligögn JC og DMN sýndu allt annan raunveruleika eða 0,09°C/áratug, sem var fjórðungur af hitastigsstigli IPCC í þá daga. Ef IPCC hefði haldið sígildum heiðarlegum vísindavenjum í heiðri, þá hefði þessu líkani verið kastað fyrir róða og ný spá verið birt síðar með endurbættu líkani, sem a.m.k. tækist að fylgja raunveruleikanum í fortíðinni. Það var ekki gert, heldur mæligögnum JC og DMN stungið undir stól og reynt að þegja niðurstöður þeirra í hel, en það er mjög ótraustvekjandi hegðun, sem bendir til, að fiskur liggi undir steini hjá þeim. Í raun glataði IPCC öllum vísindalegum trúverðugleika, svo að ekkert vit er í að reisa löggjöf og íþyngjandi regluverk á upphrópunum og allt of háum hitastigsspám þaðan.
Árið 2017 endurtóku félagarnir JC og DMN úrvinnslu sína á gríðarlegu gagnasafni hitastigsmælinga úr gervitunglum, sem nú náði yfir 37,5 ár, 1979-2017. Endurtekin athugun þeirra nú leiddi til nánast sömu niðurstöðu. Að vísu hafði stigullinn hækkað um tæplega 6 %, enda gríðarlegt magn gróðurhúsalofttegunda bætzt við í lofthjúpnum á síðari hluta tímabilsins, 1994-2017. Stigullinn fyrir allt tímabilið var nú orðinn 0,095°C/áratug, en var enn aðeins 27 % af viðteknum stigli IPCC.
Þessi mismunur á útreiknuðum (IPCC) og mældum (úr gervihnöttum) hitastigli hefur auðvitað gríðarlega þýðingu fyrir mat á þróun hitastigs á jörðunni. Ef losun koltvíildisígilda eykst um 1,0 % á ári, þá mun koltvíildisstyrkurinn hafa tvöfaldazt að 70 árum liðnum. CMIP 5 meðaltalslíkan IPCC reiknar út hækkun hitastigs á slíku 70 ára tímabili um 2,31°C +/- 0,20 °C, en Christy og Nider hins vegar 1,10°C +/- 0,26°C. Við þetta þarf að bæta núverandi hitastigi til að fá áætlað hitastig að 70 árum liðnum.
Á þessu tvennu er reginmunur, sem hefur þær afleiðingar, að stefnumörkun flestra eða allra ríkja, t.d. í orkumálum, væri að öllum líkindum með allt öðrum hætti en raunin er, ef ríkin hefðu réttar upplýsingar. Tækniþróuninni væri gefið meira ráðrúm til að leysa jarðefnaeldsneytið af hólmi með ódýrari hætti en flestum býðst nú (Íslendingar eru í sérstaklega góðri stöðu), og fyrir vikið hefði raforkuverðið til neytenda ekki hækkað jafnmikið og raunin er (sums staðar þrefaldazt síðan 2010).
Evrópusambandið (ESB) hefur sýnt talsverðan metnað til að vera leiðandi á heimsvísu við orkuskiptin. Engum vafa er undirorpið, að dómsdagsspár IPCC hafa átt mestan þátt í að flýta miklum og kostnaðarsómum lagabálkum ESB. Þannig sá losunarkvótakerfi ("cap-and-trade scheme") dagsins ljós árið 2005, en þar fylgdi sá böggull skammrifi, að skyldukaup fyrirtækja á losunarheimildum skákaði þeim í lakari samkeppnisstöðu en áður á heimsmarkaðinum. Loftslagsstefna og orkustefna ESB eru fléttaðar saman í Orkupakka 4. Vegna ólíkra aðstæðna hér og þar á þessi löggjöf Evrópusambandsins lítið sem ekkert erindi hingað norður eftir.
Fyrirtæki í ESB færðu þess vegna starfsemi sína þangað, sem losunarkostnaður var lítill að enginn, og þessi "kolefnisleki" leiddi í raun til heildaraukningar á losun koltvíildis út í andrúmsloftið. Þetta frumhlaup búrókrata ESB má væntanlega skrifa á hræðsluáróður IPCC.
ESB reyndi að stoppa upp í lekann með niðurgreiðslum á og fjölgun losunarheimilda, en verð á CO2 hefur aftur hækkað og er nú komið upp í 50-60 EUR/t (fimmföldun). Íslenzk fyrirtæki hafa orðið sérstaklega illa fyrir barðinu á ETS-kerfi ESB (kolefniskvótakerfi), því að hér hafa engar opinberar niðurgreiðslur tíðkazt á þessu sviði.
Í stað niðurgreiðslanna á að koma kolefnistollur á innflutning til að jafna samkeppnisstöðuna. Þann 14. júlí 2021 (á Bastilludaginn) var kynnt áætlun um kolefnistoll á innflutning ("carbon border-adjustment mechanism"-CBAM). Á árabilinu 2025-2035 munu framleiðendur áls, sements, áburðar og stáls smám saman missa niðurgreiðslurnar, en innflytjendum þessara vara verður gert að kaupa nýja útgáfu af losunarheimildum. Hversu margar losunarheimildir þeir verða að kaupa fer eftir því, hvað ESB áætlar, að mikil óskattlögð kolefnislosun hafi átt sér stað við framleiðsluna í útflutningslandinu.
Búizt er við, að þetta geti leitt til þess, að í framleiðslulöndunum verði lagt kolefnisgjald á þessar útflutningsvörur til að fá gjaldheimtuna heim, en við framleiðslu þessara útflutningsvara myndast minna en 10 % losunar þessara útflutningsríkja. Þetta skriffinnskukerfi ESB breytir þess vegna litlu fyrir lofthjúpinn. Óánægja er með þetta kerfi á meðal sumra viðskiptalanda, t.d. Ástralíu og Indlands og Bandaríkin hafa mótmælt þessu sem rétt einum tæknilegu viðskiptahindrununum af hálfu ESB. Miklar flækjur geta myndazt, þegar farið verður að leggja tollinn á, enda í mörgum tilvikum óvissa töluverð um raunverulega losun. Þannig ratar heimurinn í alls konar vandræði og kostnað vegna tilfinningarinnar um, að mjög skammur tími sé til stefnu, svo að ekki sé nú minnzt á angistina, sem dómsdagsspádómarnir valda mörgu fólki, ekki sízt ungu fólki. Engin teikn eru á lofti um, að IPCC muni á næstunni sjá að sér, játa villu síns vegar og lofa bót og betrun. Á meðan verður hamrað á þeim með hitastigsmælingum Johns Christy og Dicks McNider.
Athygli hefur vakið, að einum stjórnmálaflokki á Íslandi virðist ætla að takast að móta sér ígrundaða loftslagsstefnu án teljandi áhrifa þess heilaþvottar, sem rekinn er af talsmönnum IPCC-skýrslanna. Þetta er Miðflokkurinn, en formaður hans skrifaði 12. ágúst 2021 grein í Morgunblaðið, sem ætla mætti, að væri reist á upplýsingum um raunhitamælingar dr Johns Christy o.fl., þótt þeirra sé hvergi getið í greininni:
"Öfgar og heimsendaspár leysa ekki loftslagsmálin".
"Í ljósi reynslunnar [af Kófinu-innsk. BJo] blasir við, að stjórnvöld muni nú vilja nýta aukin völd sín í nýjum tilgangi. Það munu þau gera með vísan í loftslagsmál. Það er því tímabært að ræða, hvort og þá hvernig þeim verði heimilað að beita auknum hömlum. Ef íslenzk stjórnvöld gera það á grundvelli loftslagsstefnu undanfarinna ára, mun það fela í sér mestu frelsisskerðingu um áratuga skeið, minnkandi framleiðslu [og] lífskjaraskerðingu og skila nákvæmlega engum árangri í loftslagsmálum."
Hömlur í nafni loftslagsváar, sem IPCC boðar stöðugt, hafa þegar verið innleiddar eða boðaðar á öllu EES-svæðinu. Þar má nefna kolefnisgjald á jarðefnaeldsneyti, kolefnisgjald af losun atvinnurekstrar og bann við innflutningi bifreiða, sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti auk krafna um íblöndun lífeldsneytis í innflutt benzín og dísilolíu. Bann við kaupum á slíkum nýjum gripum á víða að taka gildi árið 2040, en íslenzka ríkisstjórnin valdi árið 2030 til þessa banns, og hinn öfgafulli umhverfis- og auðlindaráðherra mælti fyrir árinu 2025 í ríkisstjórninni, en varð undir, sem betur fór.
Þessi maður er líka þekktur sem fyrrverandi framkvæmdastjóri Landverndar. Í því starfi stóð hann fyrir endalausum tafaleikjum og kærum vegna innviðaframkvæmda, sem tvímælalaust voru í þágu almannahags. Viðhorf hans til náttúruverndar eru bæði einstrengingsleg og langt handan þess meðalhófs, sem gæta ber, svo að bezta þekking fái notið sín við nýtingu orkulindanna. Þeir, sem standa gegn framfaramálum í þágu aukinnar verðmæta- og atvinnusköpunar, svo að ekki sé talað um orkuskiptin, eru afturhaldsmenn.
Þannig átti alræmt hálendisfrumvarp ráðherrans að vera gambítur afturhaldsins gegn nýframkvæmdum á hálendinu á sviði vegalagninga, virkjana og orkuflutnings. Yfir þessu landflæmi, Miðhálendinu, átti að gína stjórn og embættismannaklíka í stað virkrar verndunar og uppgræðslu íbúa aðliggjandi sveitarfélaga undir eftirliti forsætisráðuneytis, sem fer með þjóðlendumál í landinu. Vissulega mundi felast frelsisskerðing í slíku, þó varla í nafni loftslagsváarinnar, heldur náttúruverndar á villigötum.
"Ólesin hefur skýrslan [6. skýrsla IPCC-innsk. BJo] verið gripin fegins hendi og notuð sem rökstuðningur fyrir þeim heimsendaspám, sem haldið var mjög á lofti, þar til þær féllu í skugga veirunnar um sinn. Í hvert skipti, sem verða hamfarir tengdar veðurfari, eru þær tengdar við loftslagsbreytingar (sem nýaldarpólitíkusar vilja nú gefa nýtt nafn að hætti Orwells og kalla "hamfarahlýnun"). Þótt popúlistar stökkvi á alla slíka atburði og telji þá tilefni til að veita stjórnvöldum aukin völd til að hefta framþróun og skerða frelsi almennings, gleymist alltaf eitt mikilvægt atriði. Það kallast samhengi."
Hér markar formaður Miðflokksins flokknum sess, sem á sér engan líka á meðal núverandi flokka á Alþingi. Kenningin um "hamfarahlýnun" stendur á brauðfótum, af því að reiknilíkanið, sem hún er reist á, er ónýtt. Það er órafjarri raunveruleikanum og þess vegna hrein gervivísindi til að halda uppi falsáróðri, sem miðar að því að stöðva framfarasókn þjóða og hagvöxt hagkerfa þeirra. Þetta er sami boðskapurinn og í "Endimörk vaxtar" ("Limits to Growth"), þar sem líka voru settir fram alls kyns spádómar um 1960, sem áttu að verða að raunveruleika á síðustu öld, en það hefur ekki gerzt, af því að hugsunin að baki var meingölluð.
Síðan vitnar Sigmundur Davíð í Björn Lomborg hjá "Copenhagen Consensus", en niðurstöður hans eru í samræmi við tölfræðilega samantekt dr Johns Christy á stórum veðurfarsatburðum yfir langan tíma, þar sem hann sýnir fram á, að engin tilhneiging er til fjölgunar eða stækkunar ýmissa atburða í tímans rás, nema síður sé:
"Með vísan í opinber gögn hefur Björn sýnt fram á, að tíðni náttúruhamfara, sem tengja má veðurfari, hafi síður en svo aukizt (þótt veðurfarsbreytingar geti haft áhrif). Einnig það, að þrátt fyrir gríðarlega fjölgun mannfólks og mjög aukna byggð á þeim svæðum, sem líklegust eru til að verða fyrir áhrifum veðurfarstengdra hamfara, sé fjöldi þeirra, sem látast af slíkum völdum, aðeins brot af því, sem áður var. Fjöldinn hefur fallið um meira en 99 % á einni öld.
Framfaraþrá og vísindaleg nálgun hafa skilað mannkyninu gríðarlegum árangri. Það er því mikið áhyggjuefni, ef því verður nú fórnað á altari öfgahyggju, sem lítur á manninn sem vandamál fremur en uppsprettu lausna og framfara."[Undirstr. BJo]
Í undirstrikaða hlutanum hittir Sigmundur Davíð naglann á höfuðið. Vanhugsuð öfgahyggja um endimörk vaxtar klæðir sig óverðskuldað í búning vísinda og hefur tekizt að ná fyrirsögnum í fréttunum með kukli og þöggun vísindamanna, sem standa undir nafni.
Tilvitnaðar athuganir Björns Lomborgs afsanna ekki hlýnun lofthjúps jarðar, enda hefur hún átt sér stað, en aðeins í miklu minni mæli en IPCC hefur reiknað út. Mæliniðurstöður afsanna hins vegar útreikninga IPCC. Málflutningur Björns Lomborgs getur komið heim og saman við mæliniðurstöðurnar, því að aukning varmaorku lofthjúpsins er lítil frá 1850 vegna sjálfreglandi eiginleika lofthjúpsins (hækkað hitastig veldur aukinni hitageislun út í geiminn).
"Stjórnvöld víða á Vesturlöndum hafa ofurselt sig ímyndarnálguninni í loftslagsmálum, sama hvað það kostar. Þegar brezk stjórnvöld samþykktu markmið um kolefnishlutleysi fyrir árið 2040, upplýsti þáverandi fjármálaráðherra, að það myndi kosta talsvert yfir mrdGBP 1000 að ná markmiðinu (yfir ISK 175.000.000.000.000). Síðar var sú tala álitin vanáætluð. Fyrir slíka peninga væri hægt að ná miklum framförum og bæta líf margs fólks."
Á íslenzkan mannfjöldamælikvarða nemur þessi upphæð tæplega mrdISK 950 eða um 30 % af vergri landsframleiðslu á ári. Þótt upphæðin kunni að verða lægri á Íslandi, af því að þegar hefur orðið græn umbylting á sviði raforkuvinnslu og húsakyndingar, verður um risavaxinn kostnað að ræða í virkjunum, orkuflutnings- og dreifimannvirkjum, hleðslustöðvum fyrir bíla, skip og flugvélar o.s.frv. vegna orkuskiptanna. Það er mikið til í því, að vinstri sinnaðir stjórnmálamenn, sem helzt vilja eigna sér loftslagsmálin, þótt þeir beri lítið skynbragð á þau, hafi gerzt sekir um ótilhlýðilega tækifærismennsku. Þar hefur forsætisráðherra verið sýnu verst, t.d. þegar hún kynnti til sögunnar nýja og enn strangari skuldbindingu Íslands á alþjóðavettvangi um að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 55 % árið 2030 m.v. 1990 án þess, að nokkur tilraun til kostnaðargreiningar væri þá fyrir hendi, hvað þá fjármögnun. Þannig gerði hún sig bera að hreinræktuðu lýðskrumi. Þannig á ekki að stjórna ríki.
Hvað hefur Sigmundur að segja um það, hvernig skuldbindingar forsætisráðherra verða uppfylltar ?:
"Það er í öllu falli ljóst [ísl.: a.m.k.], að ekki er hægt að ná markmiðinu, nema með því að draga úr framleiðslu innanlands, hækka skatta og gjöld á almenning og leggja á nýja til að stýra neyzluhegðun og hefta ferðafrelsi. Minnka landbúnað, draga úr fjölda ferðamanna og fækka ferðum Íslendinga til útlanda. Minni framleiðslu og neyzlu má svo auðveldlega endurorða sem lakari lífskjör.
Störf og framleiðsla munu í auknum mæli færast frá Vesturlöndum til Kína og annarra vaxandi efnahagssvæða. Allt þetta leiðir til aukinnar misskiptingar, þar sem færri hafa efni á að reka og eiga bíl, ferðast eða kaupa ýmsar vörur. Það verður ekki leyst með grænum styrkjum (sem að mestu hafa farið í að niðurgreiða dýra bíla) eða nýjum "grænum" hátæknistörfum."
Þetta er ein af ýmsum mögulegum sviðsmyndum, sem gætu rætzt á næsta áratug, ef glundroðaflokkarnir á vinstri vængnum verða hér með tögl og hagldir á Alþingi og í borgarstjórn eftir næstu kosningar. Af þessu sést líka, að stefna forsætisráðherra og umhverfisráðherra í loftslagsmálum er komin í blindgötu, þangað sem útilokað er, að meirihluti þjóðarinnar kjósi að fylgja þeim.
Þarna opinberast til hvers refirnir eru skornir með loftslagsáróðri IPCC. Það á með skefjalausum hræðsluáróðri að telja fólki trú um, að "der Kreislauf des Teufels" eða djöfulleg hringrás síhækkandi hitastigs á jörðunni sé handan við hornið, nema þjóðir heims hverfi af braut hagvaxtar og samþykki að taka á sig allar þær hörmungar, sem af langvarandi samdrætti og stöðnun hagkerfanna leiðir. Sem betur fer vitum við núna, að þetta er falskur tónn, reistur á gervivísindum, sem reikna út miklu meiri hitastigshækkun af völdum viðbótar koltvíildis í lofthjúpnum en hitamælingar með beztu þekktu aðferðum sýna. Það er kominn tími til að endurskoða þá vitleysu, sem er hér í gangi. Forystu um það eru stjórnmálamenn með samúð með kenningum "Endimarka vaxtar" ófærir um að veita.
Eftir þessa frásögn rakti Sigmundur Davíð í lokin viðhorf sín til þess, hvernig stjórnmálamönnum ber að fást við loftslagsmálin, og undir þessi viðhorf skal hér taka heilshugar:
"Raunin er sú, að það er bezt fyrir loftslagsmál heimsins, að við framleiðum sem mest á Íslandi. Eftirspurn eftir vörum og lífsgæðum mun bara aukast í heiminum. Milljarðar manna vilja að sjálfsögðu vinna sig upp úr fátækt, og skert lífskjör á Íslandi eða annars staðar á Vesturlöndum munu ekki koma í veg fyrir það.
Það er ekki hægt að hverfa af braut framfara. Þvert á móti; við þurfum að leysa loftslagsmálin, eins og önnur stór viðfangsefni, með vísindum og annarri mannlegri hugkvæmni. Á því sviði eigum við Íslendingar mikil tækifæri, ef við látum ekki heimsendaspámenn og önnur afturhaldsöfl stöðva okkur.
Heimurinn þarf miklu meiri endurnýjanlega orku. Þar getur Ísland gert ótrúlega hluti og þarf að nýta tækifærin betur. Það mun þýða, að losun landsins aukist í stað þess að minnka, en á heimsvísu mun það draga úr losun [og] reynast það bezta, sem við getum gert í loftslagsmálum og bæta lífskjör Íslendinga."
Hér eru rökréttar ályktanir dregnar út frá raunverulegri stöðu loftslagsmálanna og hagsmunum landsmanna og raunar allrar jarðarinnar um framfarastefnu í orkumálum. Við erum hins vegar ekki sjálfstæð þjóð í loftslagsmálum, heldur bundin á klafa loftslagsstefnu ESB, þótt Evrópusambandið búi við allt aðrar aðstæður en við. T.d. er um 20 % heildarorkunotkunar ESB úr endurnýjanlegum orkulindum, en hérlendis um 80 %.
Nú er eitt glatað kjörtímabil í orkumálum að renna sitt skeið, þar sem ekki hefur verið hafizt handa við neina virkjun > 100 MW og ekki hefur verið samið við neinn nýjan stórnotanda raforku. Afleiðingin af því er lægra atvinnustig en ella, óþarflega litlar erlendar fjárfestingar og hagvöxtur, sem að mestu er borinn uppi af erlendum ferðamönnum, sem eru ófyrirsjáanlegir. Nú stefnir í raforkuskort á komandi vetri.
Það verður að losa um hreðjatak afturhaldsins í landinu á nýjum virkjanaáformum, því að tækniþróunin mun senn gera kleift að framleiða ýmsar vörur hagkvæmt með engri eða sáralítilli losun koltvíildis, t.d. ál, og "grænt" vetni, þ.e. rafgreint vetni úr vatni með raforku úr endurnýjanlegum orkulindum er þegar tekið að hækka í verði vegna aukinnar eftirspurnar. Norðmenn eru nú þegar að fjárfesta í vetnisverksmiðjum hjá sér. Við megum ekki láta afturhaldsöfl, sem berjast í raun gegn hagvexti, verða þess valdandi, að hvert viðskiptatækifærið á fætur öðru renni okkur úr greipum.
Umhverfismál | Breytt 19.8.2021 kl. 21:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.8.2021 | 21:19
Falsfréttir IPCC
Vísindi eru aðferð til að leita sannra upplýsinga. Aðferðin er sú að smíða kenningu og síðan að sannreyna hana með óháðum gögnum. IPCC (=Intergovernmental Panel on Climatic Change, loftslagsvettvangur Sameinuðu þjóðanna, SÞ) hefur búið til tölvulíkan af lofthjúpnum á grundvelli líkana yfir 100 þjóða og kallað það samræmt líkan ("Consensus Model"). Nú vill svo til, að fyrir hendi er viðamikið gagnasafn hitamælinga úr lofthjúpnum hringinn í kringum jörðina í mörgum sniðum og í mörgum hæðum frá jörðu yfir nokkra áratugi. Hitamælingarnar fóru fram með því að mæla örbylgjur, um 55 GHz, frá súrefnisatómum í lofthjúpinum með nákvæmum og áreiðanlegum mælitækjum í gervitunglum á braut umhverfis jörðu. Þetta eru nákvæmari hitamælingar en flestar, sem gerðar voru við yfirborðið á sama tímabili. Hér er þess vegna um verðmætt og traust gagnasafn að ræða.
Niðurstöður þessara mælinga passa hins vegar alls ekki við niðurstöður hitastigslíkana 102 þjóða fyrir umrætt tímabil, nema helzt Rússa, og alls ekki við samræmt líkan IPCC, s.k. CMIP 5. Ef IPCC hefði fylgt vísindalegri aðferðarfræði, hefði nefndin kastað líkaninu sem ónothæfu og byrjað að þróa nýtt líkan, þegar í ljós kom, að útreikningar þess á hlýnun voru allt of háar. Það hefur IPCC hins vegar ekki gert heldur æpt enn hærra, að líkan þeirra sé rétt og þjóðir heims verði að haga lífi sínu samkvæmt því, búa fyrir vikið margar hverjar við stórhækkað orkuverð, sem bitnar verst á fátæku fólki. Vegna þessa er trúverðugleiki IPCC enginn.
IPCC hefur reynt að þagga niður raddir þeirra, sem bent hafa á alvarlega galla hins samræmda líkans, sem reiknar út allt of mikla hlýnun lofthjúpsins við vaxandi styrk koltvíildis og annarra gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpnum. Vísindamenn, sem benda á gríðarleg frávik útreikninga IPCC-líkansins frá raunveruleikanum, fá ekki að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í síðustu 4000 síðna skýrslunni frá IPCC. Það verður að segja hverja sögu, eins og hún er: vinnubrögð IPCC eru óvísindaleg og standast ekki rýni hæfra vísindamanna, sem hafa sýnt fram á, að líkön IPCC eru ónothæf. Það er gersamlega ótækt, að ríki heims fari að leggja út í feikilega dýrar og sársaukafullar aðgerðir á grundvelli gervivísinda, sem skapa falskar forsendur fyrir gríðarlegum kostnaði, sem verið er að leggja út í.
Sá, sem á mestan heiðurinn af að hafa flett ofan af dómsdagsspámönnum IPCC, er dr John Christy, loftslagsfræðingur og prófessor við Alabamaháskóla í Huntsville (UAH). Hann hefur ferðazt um heiminn og haldið fyrirlestra í háskólasamfélaginu, t.d. í Frakklandi og á Bretlandi, og það, sem hér er skrifað um þessi mál, er ættað úr þessum fyrirlestrum. Hann svaraði spurningum fræðimanna á þessum fyrirlestrum á mjög trúverðugan og sannfærandi hátt.
Hvernig lítur þá téður samanburður líkana IPCC við raunveruleikann út ? Séu gerðir hitastigsútreikningar fyrir hvert ár á tímabilinu 1979-2017 (tæplega 40 ára röð) með 102 IPCC lofthjúpslíkani CMIP 5 fyrir lofthjúpinn á þrýstisviði 300-200 hPa, gefur líkanið meðaltalsstigulinn +0,44 °C/áratug, en raunveruleikinn, þ.e. gervitunglamæligögnin, gefa meðaltalsstigulinn +0,15°C/áratug, þ.e. líkön IPCC margfalda raunverulegan hitastigul með 3. Líkönin reiknuðu út hitastigshækkun á grundvelli aukins styrks koltvíildis í andrúmsloftinu 1,7°C, á meðan hún nam aðeins tæplega 0,6°C. IPCC fiktar eitthvað í líkönunum til að skekkjur þeirra séu minna áberandi, 6. kynslóð þeirra, þ.e. núverandi, hefur þó jafnlítið forspárgildi og hinar fyrri.
IPCC keyrði líkön sín líka án viðbótar koltvíildis af mannavöldum, og þá nálguðust þau raunveruleikann. Þannig hefur IPCC forritað allt of mikil upphitunaráhrif af viðbótar koltvíildi í lofthjúpinum og veit, að líkönin eru meingölluð, en kýs samt að þegja um það til að geta haldið hræðsluáróðrinum áfram. Í hverra þágu er þessi hræðsluáróður SÞ ? Það er ljóst, að fjölmargir lifa á gríðarlegum fjárveitingum, sem réttlættar eru með aðsteðjandi ógn.
IPCC vanreiknar sjálfreglandi tilhneigingu lofthjúpsins til að viðhalda stöðugleika í varmaorku lofthjúpsins. Ef við hugsum okkur loftsúlu, 1 m2 að grunnfleti, sem nær frá jörðu að endimörkum lofthjúpsins, sem hitnar af einhverjum orsökum um 1°C að meðaltali, þá verður raunveruleg varmageislun út í geiminn frá þessari loftsúlu 2,6 W, en IPCC notar aðeins 1,4 W, sem er 54 % af raunveruleikanum. Það er ei kyn, þótt keraldið leki og líkan IPCC reikni út allt of mikla hlýnun, enda er botninn suður í Borgarfirði.
"Loftslagskirkjan" hefur reynt að beita náttúruhamförum fyrir vagn sinn. Þar hefur hún ekki gætt að því, að það er hægt að hrekja rækilega málflutning hennar með því að taka saman tölfræði um þessa atburði. Það hefur hinn atorkusami dr John Christy, prófessor í loftslagsfræðum við UAH, einmitt gert, og það, sem hann hefur birt um þessa samantekt sína, kippir stoðunum undan þeim áróðri "loftslagskirkjunnar", að hlýnunin á jörðunni hafi magnað og fjölgað náttúruhamförum í tímans rás.
Nokkur dæmi:
- Sterkum og ofsafengnum hvirfilbyljum (F3+) hefur fækkað á tímabilinu 1954-2018 í Bandaríkjunum (BNA). Á fyrri hluta skeiðsins (1954-1985) voru þeir að meðaltali 55,9 á ári, og á seinni hlutanum (1986-2018) voru þeir að meðaltali 33,8 á ári, þ.e. fækkun um 22,1 eða 40 %, sem er marktæk fækkun sterkra og ofsafenginna hvirfilbylja.
- Dr John Christy athugaði fjölda skráðra óveðursdaga í BNA, þ.e. stormdaga (>18 m/s), fellibyljadaga (>33 m/s), aftaka fellibyljadaga (>49 m/s). Skráning slíkra óveðursdaga í BNA tímabilið 1970-2020 sýnir enga tilhneigingu til aukningar.
- Þurrkar og flóð: athugað var hlutfall af flatarmáli BNA, sem mánaðarlega varð fyrir slíku tímabilið janúar 1895-marz 2019 (NOAA/NCDC). Engin tilhneiging fannst til aukningar.
- Hámarkshitastig: 569 mælistöðvar í BNA voru kannaðar á tímabilinu 1895-2017. Engin tilhneiging greindist vera til fjölgunar hitameta. 15 af 16 hæstu hitametunum komu fyrir 1955.
- Gróðureldum (wildfires) hefur fækkað frá 1880 í BNA.
- Snjóþekja á norðurhveli í Mkm2. Skrár 1965-2020 sýna, að hún var mest veturinn 2012-2013.
- Ísbreiður hafa aukizt á hlýskeiði síðustu 10 k ára.
- Loftslagstengdum dauðsföllum í heiminum fækkaði á 20. öldinni.
- Veðurhamfaratjón sem hlutfall af VLF minnkaði 1990-2017 úr 0,30 % í 0,16 %.
- Uppskera per ha ræktarlands hefur vaxið frá 1961.
Að líkindum getur "loftslagskirkjan" tilfært einhver dæmi máli sínu til stuðnings, en eftir stendur, að hún notar öfgar í veðurfari til að styrkja málstað sinn, en þessar öfgar eru hins vegar fjarri því að vera nýjar af nálinni.
Morgunblaðið vill jafnan hafa það fremur, er sannara reynist, og er fjólmiðla lagnast við að rata á réttar leiðir í þeim efnum, vafalaust helzt vegna víðsýnna og vel lesinna starfsmanna í sínum röðum. Dæmi um þetta mátti sjá í forystugrein blaðsins 9. ágúst 2021, en hún var á svipuðum nótum og pistillinn hér að ofan, nema Morgunblaðið vitnaði þar til sjálfstæðs og gagnrýnins umhverfisverndarsinna, sem er allt of sjaldgæf dýrategund, þ.e. til Danans Björns Lomborg. Sá hefur gefið út bækur og ritaði grein í Wall Street Journal í v.31/2021 undir yfirskriftinni: "Náttúruhamfarir eru ekki alltaf af völdum loftslagsbreytinga".
Verður nú vitnað í téða forystugrein Moggans, sem hét:
"Flókið samhengi".
"Slíkar staðhæfingar eru fátíðar í heimi, þar sem iðulega er fullyrt, að umræðunni um loftslagsbreytingar sé lokið, allir hljóti að vera sammála um þetta fyrirbæri, umfang þess og afleiðingar, auk þeirra aðgerða, sem grípa verði til.
Það er alltaf varhugavert, svo [að] ekki sé meira sagt, þegar því er haldið fram, að einungis ein skoðun eigi rétt á sér, og önnur sjónarmið eru nánast gerð útlæg. Við þannig aðstæður er hætt við, að þekking vaxi ekki, heldur takmarkist, og að víðsýni láti undan síga gagnvart fordómum. Illa væri komið fyrir vísindunum, ef öll sjónarmið fengju ekki að njóta sín."
Menn geta haft ýmsar skoðanir á vinnubrögðum og málflutningi IPCC, sem segir einhug, "consensus", um niðurstöðu sína í 6. skýrslunni, en gagnrýnendum þessarar samhljóða niðurstöðu er einfaldlega ekki léð rými fyrir sínar skoðanir. Þannig var gagnrýni dr Johns Christy og félaga hafnað. Þeir, sem kynna sér vinnubrögð IPCC og þöggunaráráttu, gera sér grein fyrir, að niðurstaða IPCC styðst ekki við raunvísindaleg vinnubrögð. Skýrsla IPCC er áróðursskýrsla, sem stenzt ekki vísindalega gagnrýni. Eins og dr John Christy sagði í fyrirlestri: ef ábyrgðarmenn skýrslunnar þyrftu að standa fyrir máli sínu í dómssal, þar sem raunvísindamenn á borð við John Christy fengju tækifæri til að taka þátt í yfirheyrslum og spyrja ábyrgðarmennina spjörunum úr, þá er öruggt, að ekki stæði steinn yfir steini varðandi dómsdagsboðskapinn og dómur félli samkvæmt því.
Síðan vitnar leiðarahöfundurinn í það, sem Björn Lomborg hefur að segja um tíðni og umfang náttúruhamfara, sem kemur heim og saman við gagnaöflun dr Johns Christy um þetta efni, sem "loftslagskirkjan" japlar endalaust á af litlu öðru en trúgirni:
"Að sögn Lomborgs sýnir ný rannsókn á flóðum í 10.000 ám víða um heim, að í flestum ám gæti minni flóða nú en áður. Þar, sem áður hafi flætt á 50 ára fresti, gerist það nú á 152 ára fresti. Og hann segir, að meiri flóð hafi orðið í ánni Ahr árin 1804 og 1910 en í nýliðnum júlí. Fleiri dauðsföll nú stafi hins vegar af því, að fólk sé farið að byggja á flóðasvæðum og að í stað sólarsella eða vindmylla til að berjast við loftslagsbreytingar þurfi þeir, sem búi við árnar, betri vatnsstýringu."
Yfirvöldin í Rheinland-Westphalen sváfu á verðinum og vöknuðu upp við vondan draum, þegar allt var á floti. Þeim barst forviðvörun 9 sólarhringum áður en ósköpin dundu yfir, en almannavarnir virðast ekki virka þarna undir forsæti núverandi formanns CDU, og gæti frammistaða hans og framkoma í kjölfarið kostað hann kanzlaraembættið í haust. Í BNA hefur líka verið leyfð byggð, þar sem engum datt í hug að byggja áður vegna hættu á skógareldum.
Að lokum sagði í téðum leiðara:
"Eins og nefnt var hér að framan, vilja margir halda því fram, að umræðunni um þessi mál sé lokið. Svo er þó ekki; rannsóknir þurfa að halda áfram og umræðan sömuleiðis, en afar mikilvægt er, að hún byggist á staðreyndum, en ekki upphrópunum. Og hún má alls ekki ráðast af hagsmunum einstakra stjórnmálamanna eða -flokka til að slá pólitískar keilur eða jafnvel að fela eigin mistök. Til þess er um allt of stóra hagsmuni að tefla."
Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því, að IPCC starfar á þeim grunni, sem lagður var um 1960 með útgáfu bókarinnar Endimörk vaxtar (Limits to Growth).
Allir spádómar, sem þar voru settir fram, reyndust rangir. Höfundarnir misreiknuðu sig herfilega, því að þeir áttuðu sig ekki á mætti tækniþróunarinnar og markaðsaflanna. Hvort tveggja í sameiningu hefur leitt til þess, að sá skortur og örbirgð, sem lýst er í bókinni, að ríða myndi yfir mannkynið á síðustu öld, ef það héldi áfram á þeirri braut hagvaxtar, sem mörkuð hafði verið eftir Heimsstyrjöldina síðari, hefur engan veginn raungerzt, nema síður sé.
Ný grýla var búin til, og nú átti að þvinga þjóðirnar af braut hagvaxtar með því, að draga yrði stórlega úr bruna jarðefnaeldsneytis til að bjarga jörðinni frá stiknun. Ýkjurnar um áhrif viðbótar koltvíildis eru gífurlegar, eins og hér hefur verið gerð grein fyrir. Enginn afneitar gróðurhúsaáhrifunum af CO2 og fleiri gösum, en útreikningar hlýnunar eru kolrangir hjá IPCC.
Jarðefnaeldsneytið hefur beint og óbeint fært hundruði milljóna fólks úr fátæktarfjötrum og hungri til betra og lengra lífs. Á meðan ekki eru ódýrari leiðir til að framleiða raforku í þróunarríkjunum eða til að knýja farartæki, verður erfitt að stöðva notkun jarðefnaeldsneytis þar.
S.k. kolefnisleki frá þróuðum ríkjum til þróunarríkja er staðreynd. Framleiðslufyrirtæki, sem losa kolefni, flytjast frá iðnríkjunum og þangað, sem minni kröfur eru gerðar af yfirvöldum, og framleiðslukostnaður þess vegna lægri. Á Íslandi verður mjög lítil losun kolefnis við raforkuvinnslu og í iðnaðinum sjálfum líka, t.d. í álverunum, í samanburði við heimsmeðaltalið. Iðnaðurinn hér þarf að greiða kolefnisgjald, sem ekki tíðkast í þróunarríkjunum, en hann hefur samt ekki fengið opinberar stuðningsgreiðslur til mótvægis, eins og tíðkast annars staðar í EES. Af þessum ástæðum er fyllilega réttmætt að halda því fram, að íslenzk málmframleiðsla, þungaiðnaður, dragi úr heimslosuninni, því að eftirspurnin mundi kalla á framboð annars staðar frá, ef þessar verksmiðjur væru ekki á Íslandi. Það er ekki hægt að drepa þessu á dreif með veruleikafirrtum hugleiðingum.
Hér er ekki verið að skrifa gegn hringrásarhagkerfi eða virðingu fyrir náttúrunni og góðri umgengni við hana í hvívetna. Hér er einvörðungu verið að leggja áherzlu á að beita verður vísindunum af heiðarleika, en nú eru notuð gervivísindi til að styðja við hræðsluáróður afturhaldsafla, sem beita óprúttnum aðferðum til að stöðva hagvöxt, sem er alls ekki eins ósjálfbær og afturhaldsöflin vilja vera láta. Fórnarlömb afturhaldsafla eru fyrst þeir, sem minnst mega sín, og síðan fylgja hinir á eftir.
4.8.2021 | 17:33
"Íslenzka kvótakerfið er umhverfisvænt"
Umræðurnar um loftslagsmálin og C-19 eiga það sammerkt, að þær einkennast af rörsýn. Það er t.d. fleira, sem ógnar lífríki jarðar en hlýnun andrúmsloftsins, og má nefna fækkun tegundanna í lífríki jarðar. Það er líka fjölmargt annað en veiran SARS-CoV-2, sem er heilsufarsógn fyrir mannkyn, bæði í þróuðum ríkjum og þróunarríkjum. Í baráttunni við þessa kórónuveiru hafa t.d. aðrar bólusetningar setið á hakanum í ýmsum þróunarríkjum, og ýmsir biðlistar hafa lengzt í heilbrigðiskerfum þróaðra ríkja.
Mannkynið reiðir sig á heilbrigð vistkerfi og neytir afurða þeirra s.s. fisks, kjöts, korns, timburs og trefja á borð við bómull og silki. Með ljóstillífun taka tré og aðrar jurtir til sín koltvíildi, CO2, og gefa frá sér ildi (súrefni), O2. Upptaka þeirra af CO2 nemur um 11 mrdt/ár eða um 27 % af losun mannlegrar starfsemi. Höfin sjúga í sig 10 mrdt/ár og súrna fyrir vikið með neikvæðum áhrifum á lífríkið.
Virkni vistkerfanna, sem maðurinn nýtir sér, er algerlega háð fjölbreytninni innan þeirra. Síðan á 10. áratugi 20. aldarinnar hafa rannsóknir sýnt hrörnun fjölbreytni lífríkisins, og vísindamenn sjá nú fram á útdauða margra dýra- og plöntutegunda. Það yrði í 6. skiptið, sem fjöldadauði tegunda yrði á jörðunni, en í þetta skiptið yrði hann ólíkur fyrri skiptum, m.a. vegna skaðlegra áhrifa hinnar ágengu tegundar "homo sapiens".
Ef fjölbreytt vistkerfi jarðarinnar breytast í fábreytt vistkerfi, jafngildir slíkt yfirvofandi tilvistarógn fyrir mannkynið og miklum mannfelli. Þessi tilvistarógn er alvarlegri og nær í tíma en hlýnun jarðar, en athyglin og umfjöllunin, sem hún fær, er aðeins brot af athygli og umfjöllun loftslagsbreytinganna. Samt hefur IPBES (Intergovernmental Science-Policy Platform on Biodiversity and Ecosystem Services) gefið út stöðuskýrslur, síðast 2019, um yfirvofandi hrun vistkerfa. Aðeins stefnubreyting í átt að sjálfbærum landbúnaði og tækniþróunin geta dregið úr áfallinu, sem framundan er. Neyðin af völdum kórónuveirunnar er smáræði hjá þeirri hungursneyð, sem yfir dynur, ef vistkerfi hrynja.
Í þessu ljósi rennur upp fyrir mörgum mikilvægi íslenzkrar matvælaframleiðslu fyrir fæðuöryggi landsmanna. Hún er sem betur fer sjálfbær, hvað vistkerfið varðar, bæði á landi og sjó. Kornyrkju og grænmetisræktun er hægt að auka mikið, en þá þurfa stjórnvöld að skilja sinn vitjunartíma, og fiskeldi í sjókvíum og landkerum er nú þegar í miklum vexti. Þetta verður auðvitað mikilsvert framlag Íslendinga til framleiðslu próteinríkrar fæðu, því að fiskafli úr heimshöfunum fer minnkandi, og um þriðjungur nytjastofna á heimsvísu er ofveiddur um þessar mundir.
Í Bændablaðinu 8. júlí 2021 var viðtal við dr Stefán B. Gunnlaugsson, dósent við Háskólann á Akureyri, um íslenzkan sjávarútveg undir sömu fyrirsögn og þessi vefpistill:
""Þegar ég var á sjó um 1990, var fiskirí lélegt. Það þótti gott að fá 10-12 t/shr, og þá var fiskurinn miklu smærri en hann er í dag. Ég sé þetta í gögnum, sem ég hef rannsakað", segir Stefán.
Nú eru 30 m togbátar að fylla sig á 2-3 dögum, þetta 40-80 t. Þetta hefði ekki verið hægt að gera 1990. Þetta er gríðarleg breyting í veiðum á þorski á þessum tíma, en ég hef mest rannsakað þorskveiðar af botnfisktegundum. Þetta hefur líka mikil og jákvæð áhrif á vinnslurnar. Þær afkasta meiru fyrir vikið og verða hagkvæmari", bætir Stefán við."
Það hafa ýmsir horn í síðu kvótakerfisins og færa fram ýmis hraðsoðin rök, sem eru illa ígrunduð, t.d. að árangur kvótakerfisins sé harla lítill, af því að veiðin sé engu meiri en 1980. Þá voru hins vegar miklu fleiri skip að skaka á miðunum og mikilvægir stofnar á borð við þorsk á barmi hruns, sbr "Svarta skýrslan" 1976. Veiðar og vinnsla voru fjarri því jafnhagkvæmar og nú og fiskurinn minni. Þjóðin öll nýtur góðs af velgengni sjávarútvegsins, þótt "latte-lepjandi" íbúar í 101 R. beri ekki skynbragð á það, eins og endurspeglast í fáránlegri stefnumörkun ESB-flokkanna, Samfylkingar og Viðreisnar, hverra stefnumörkun um að stuðla að inngöngu Íslands í Evrópusambandið - ESB mun veita útgerðum ESB-landanna kost á að bjóða í aflaheimildir á Íslandsmiðum að undangenginni þjóðnýtingu núverandi aflaheimilda, ef þessir flokkar fá sínu framgengt. Hér mun allt fara í bál og brand, ef/þegar hafizt verður handa um að innleiða þessi ósköp.
"Alkunna er, að olíunotkun íslenzks sjávarútvegs hefur dregizt saman um 45 % frá 1990-2017. Þetta hefur gerzt á sama tíma og losun í fiskveiðum heimsins hefur aukizt um 28 % frá 1990-2011. Það, sem skýrir þetta, segir Stefán [vera], að "með kvótakerfinu var sókn takmörkuð og fyrirtækin neyddust til að fækka skipum og sameina aflaheimildir; m.ö.o. að hagræða. Þannig lækkuðu þau kostnað og urðu arðbær. Stóri ávinningurinn var síðan, að veiðistofn mikilvægustu tegundarinnar, þorsksins, stækkaði mikið, og auðveldara varð að sækja þorskinn. Með þessu mikla fiskiríi og fækkun skipa minnkaði olíunotkun Íslendinga við veiðarnar. Þetta er algjör bylting, því [að] afli á sóknareiningu hefur aukizt mikið. Við förum niður, en heimurinn upp. Til þess að minnka losun í heiminum þarf að gera tvennt í fiskveiðum: að taka upp kvótakerfi og byggja upp fiskistofna. Allir umhverfisverndarsinnar ættu því að styðja íslenzka kvótakerfið !", sagði Stefán að lokum."
Ef síðasta fullyrðingin er rétt, er andstæðan líka rétt: enginn umhverfisverndarsinni ætti að styðja sóknarmarkskerfi eða sóknardagakerfi. Ástæðan er t.d. sú, að þessi kerfi fela ekki í sér hvata til að draga úr sóknarkraftinum og þar með fækka skipum og gera kleift að draga úr olíunotkun á hvert veitt tonn í sama mæli og aflamarkskerfið. Færeyingar hafa nokkuð beitt sóknarstýringu án viðunandi árangurs fyrir veiðistofnana og afkomu útgerðanna.
Hérlendis má segja, að markaðurinn stýri sókninni og samkeppnin veldur því jafnframt, að útgerðir leitast við að hámarka tekjur og lágmarka kostnað á sóknareiningu. Afleiðingin af öllu þessu er, að hin "ósýnilega hönd markaðarins" (ekki "hönd Guðs", eins og Maradonna útskýrði eitt af mörkum sínum) hámarkar verðmætasköpun úr auðlind þjóðarinnar í kringum landið, og eigandinn (þjóðin) ber þannig mest úr býtum til lengdar án þess að þurfa að leggja fram nokkurt áhættufé í atvinnurekstur sjálfur. Það hefur komið fram hjá einum af talsmönnum uppboðsleiðarinnar, Daða Má Kristóferssyni, hagfræðingi og varaformanni Viðreisnar, að hann telji ekki, að tekjur ríkisins af sjávarútvegi mundu vaxa, þótt uppboðsleiðin yrði farin. Hér skal fullyrða, að til lengdar mundu þær minnka vegna þess, að langtímahugsun hverfur, fjárfestingar skreppa saman og hægir á framleiðniaukningu knúinni áfram af tækniþróun. Samkeppnisstaðan versnar af þessum sökum, sem leiðir til minni tekna og jafnvel minnkandi markaðshlutdeildar.
Tilraunastarfsemi með 2. og 3. flokks stjórnkerfi í stað 1. flokks stjórnkerfis er heimskuleg ævintýramennska, sem þjónar annarlegum sjónarmiðum á borð við að koma íslenzka sjávarútveginum á kné í von um, að þá opnist glufa í varnarvegginn gegn því að taka aðlögun Íslands að Evrópusambandinu á nýtt stig, sem endi með fullri aðild, þannig að á ný færist viðamikil ákvarðanataka um málefni Íslands út fyrir landsteinana, í þetta sinn til yfirþjóðlegs valds. Þau, sem fyrir þessu berjast, beita raunar svo lítilfjörlegum málflutningi, að umræða um þetta virðist vera hrein tímasóun, en stjórnmálaflokkarnir, sem þetta setja á oddinn, eru þó alls ekki áhrifalausir, hvorki á Alþingi né í sveitarstjórnum.
Árangur landvinnslu sjávarafurða við að draga úr olíunotkun er mjög athyglisverður, því að þar hafur olíunotkun minnkað á 22 ára tímabili 1995-2017 úr 200 kt/ár í 20 kt/ár eða um 90 %, og væri minnkunin enn meiri, ef flutnings- og dreifikerfi raforku, einkum á NA-landi, væri í stakkinn búið að standa undir orkuskiptunum. Ófullnægjandi opinberir innviðir standa þróun samfélagsins fyrir þrifum, en aðgæzlulausir stjórnmálamenn gleyma því, þegar þeim liggur mikið á við að setja landsmönnum háleit markmið.
Olíunotkun fiskiskipanna hefur minnkað enn þá meira á sama tímabili eða frá 800 kt/ár niður í 410 kt/ár eða um 390 kt/ár, sem eru um 49 %. Þessi árangur er bein afleiðing af breyttu útgerðarfyrirkomulagi og breyttum viðhorfum innan útgerðanna, þ.e. einn af fjölmörgum ávinningum fiskveiðistjórnunarkerfisins og væri útilokaður með einhvers konar sóknarkerfi.
Enn er eftir að mestu að nýta lífræna olíu á skipin. Líklega er hægt losna að töluverðu leyti við innflutta olíu á skipunum, ef vel tekst til við olíugerð innanlands, t.d. úr repju. Ef tilraunir með að vinna CO2 úr kerreyk stóriðjunnar heppnast og verða innan kostnaðarmarka, er ólíkt gæfulegra að nýta þetta koltvíildi ásamt vetni til eldsneytisframleiðslu en að dæla því ofan í jörðina við ærnum tilkostnaði.
Þótt sjávarútvegurinn hafi náð frábærum árangri á undanförnum árum á fjölmörgum sviðum, er ekki þar með sagt, að hann hafi búið við fjárhagslega sérlega hvetjandi atlæti stjórnvalda til þess t.d. að minnka olíunotkun sína. Þannig skrifaði Sigurgeir B. Kristgeirsson, búfræðingur og framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar hf í Vestmannaeyjum í Bændablaðið 8. júlí 2021:
"En það eru ekki bara lög og reglugerðir að þvælast fyrir [á "vegferð okkar að minni kolefnisútblæstri"]. Skattar hafa nefnilega áhrif líka. Það var þannig, að þegar Vinnslustöðin hf lét byggja Breka VE, þá var aðalforsenda nýsmíðinnar olíusparnaður upp á 150 MISK/ár vegna stærri, hæggengari og hagkvæmari [með minni orkutöpum - innsk. BJo] skrúfu. Af þessum 150 MISK/ár sparnaði fer 33 % í hærra veiðigjald á greinina eða 50 MISK/ár. Skattar hafa einfaldlega áhrif á hegðun fyrirtækjanna."
31.7.2021 | 18:18
Landbúnaður er undirstöðugrein
Nýlega kom fram hjá sérfræðingi við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri, að á Íslandi væri nú grundvöllur til að efla mjög kornræktina. Þetta taldi hann vera mikilvægt fyrir fæðuöryggi þjóðarinnar. Það er áreiðanlega rétt hjá honum.
Auk öryggissjónarmiðsins eru tvenns konar rök í viðbót, sem mæla með eflingu kornræktar, t.d. í stað innflutts skepnufóðurs. Þjóðhagslega er þessi kornrækt æskileg, því að hún sparar gjaldeyri. Aðgerðin er líka umhverfisvæn, því að hún minnkar flutninga til landsins, og hún minnkar þannig kolefnisspor íslenzka landbúnaðarins, en stjórnvöld hafa gert honum að kolefnisjafna sig fyrir árslok 2040. Var það gert í samráði við Bændasamtökin ?
Það er viðamikið verkefni, sem ekki má verða fjárhagslegur baggi á landbúnaðinum, þannig að hans prýðilegu vörur hækki í verði fyrir vikið og hann missi jafnvel markaðshlutdeild.
Það hlýtur að vera nærtækt fyrir bændur að kolefnisjafna starfsemi sína með skógrækt. Þeir gætu t.d. heimilað Skógrækt ríkisins eða landshlutabundnum skógræktarfélögum að gróðursetja ungplöntur í landi sínu gegn því, að kolefnisbinding skógarins komi kreditmegin í kolefnisbókhald jarðarinnar, en skógræktarfélagið eigi skóginn, sem er á landi bóndans, í tiltekinn árafjölda og skuli halda honum við með grisjun og nýta hann samkvæmt nánara samkomulagi.
Slík ný nýting á uppþurrkuðu, óræktuðu landi, ásamt kornyrkju, er ólíkt gæfulegri en sú dæmafáa vitleysa að breyta þessu landi í fúamýrar á ný með því að moka ofan í skurði að tilhlutan hins opinbera Votlendissjóðs eða annarra.
Þann 22. júlí 2021 birtist í Bændablaðinu fróðleg grein eftir Kára Gautason með fyrirsögninni:
"Bændur standa frammi fyrir tvöfaldri vá".
Þar stóð m.a.:
"Bændur standa nú frammi fyrir tvöfaldri vá; annars vegar ógn loftslagsbreytinganna sjálfra, og svo hins vegar hugsanlegri ógn vegna vanhugsaðra ákvarðana stjórnvalda í loftslagsmálum. Þess vegna kann að vera ráð að borga strax, grípa til kostnaðarsamra ákvarðana og aðgerða þegar í stað að því gefnu, að það fáist metið í formi sanngjarnra mótvægisaðgerða."
Það eru ýmis áform hérlendis um að minnka kolefnislosun með framleiðslu vistvæns eldsneytis, lífdísils, repjuolíu (nepjuolíu) o.þ.h., sem bændur eru eðlilegir kaupendur að til að minnka kolefnisspor sitt, enda verði verð lífræna eldsneytisins samkeppnishæft við dísilolíuna. Sveitarfélagið þarf að losa bændur við úrgang, sem vonandi verður hægt að selja til væntanlegs sorporkuvers, svo að þeir þurfi ekkert að urða, enda er að ganga í gildi bann við slíku. Losun gróðurhúsalofttegunda frá dýrahaldinu er erfiðari viðfangs og þarfnast kolefnisjöfnunar að mestu.
"Fyrirheit um að kolefnisjafna íslenzkan landbúnað á næstu 19 árum er tröllaukið verkefni, sem mun kosta mikið fé. Það fé mun bætast ofan á framleiðslukostnað íslenzkra búvara, svo að samkeppnishæfni þeirra mun minnka, komi ekkert annað til. Íslenzkir bændur gætu framleitt kolefnishlutlaust kjöt, en það yrði svo dýrt, að neytendur myndu í hrönnum kaupa ódýrara innflutt kjöt, sem ekki væri framleitt með jafnströngum kröfum.
Niðurstaða þeirrar jöfnu yrði hin versta fyrir þjóðarbúið, kolefnisútblástur minnkaði ekki neitt, en afkomu íslenzks landbúnaðar hefði verið kollvarpað."
Það, sem þarna er lýst, er angi af asanum, sem verið hefur á forsætisráðherra og umhverfisráðherra við að skuldbinda landsmenn til að minnka kolefnislosun á undan ýmsum öðrum án þess að kostnaðarmeta áætlunina fyrst. Óþarft er að taka fram, að engu mundi breyta fyrir hlýnun jarðar, þótt hin örlitla losun Íslands mundi minnka aðeins hægar en sem nemur 0 nettólosun árið 2040. Flas gerir engan flýti.
"Landbúnaðarráðherra Þýzkalands lýsti því á hinn bóginn yfir síðastliðinn vetur, að nauðsynlegt yrði að setja græna tolla á innflutt matvæli, til þess að verja lífsviðurværi bænda í Evrópu. Hið sama er uppi á teninginum þar ytra og hér. Kolefnisjafna á þýzkan landbúnað eigi síðar en 2050 - á meðan Íslendingar stefna að árinu 2040. Þjóðverjar gefa sér sem sagt 10 árum lengri tíma en Íslendingar."
Forsætisráðherra og umhverfisráðherra er meira í mun að baða sig í sviðsljósinu, einnig erlendis, vegna háleitra markmiða um kolefnisfrítt Ísland og hika ekki við að leggja þær fjárhagsbyrðar á landsmenn, sem þetta gort þeirra kostar. Það er ábyrgðarlaust að skuldbinda landsmenn fram í tímann án þess að vita, hversu hár reikningurinn verður. Umgengni vinstri grænna við fé landsmanna er ámælisverð.
Í lokin skrifaði Kári Gautason:
"Að mínu viti er eina leiðin til þess að koma í veg fyrir, að kostnaður við að kolefnisjafna búvörur hefti íslenzkan landbúnað sú að drífa í boðuðum verkefnum og ná árangri sem fyrst. Jafnframt þyrfti að setja fram það eðlilega og ófrávíkjanlega skilyrði gagnvart íslenzkum stjórnvöldum, að sömu kröfur séu gerðar til innfluttra matvæla og þeirra, sem framleidd eru hérlendis.
Eitt ber þó að hafa í huga: verði íslenzkur landbúnaður ekki loftslagsvænni en sá, sem við keppum við - þá mun þessi aðferð ekki virka. Því þarf að kappkosta að ná forskoti í loftslagsmálum; það er einfaldlega lífsspursmál fyrir íslenzkan landbúnað. Sé ekki hugsað stórt og af framsýni í þessum efnum með því t.d. að auka framleiðni og afurðasemi gripa, koma á fót kolefnissamlagi, tryggja orkuskipti, innleiða græna tækni og gervigreind, munu margar sveitir verða eins og býli bóndans, sem nefndur var í byrjun, eyðibýli."
Bændasamtökin verða að vinna með stjórnvöldum að því, að kolefnisjöfnunin fari fram án þess að draga úr samkeppnishæfni landbúnaðarins og helzt án þess, að hún leiði til hækkana á landbúnaðarvörum til neytenda. Ekki má taka nein skref án vandaðrar kostnaðaráætlunar og fjármögnunar, sem ekki raskar hag bænda. Bóndi er bústólpi - bú er landstólpi, því skal hann virtur vel.
Það er mikið undir í kosningunum í haust og mikilvægt, að landsbyggðarfólk velji inn á þing fulltrúa, sem raunverulega bera hag landsbyggðarinnar fyrir brjósti, en eru ekki ofurseldir hugmyndafræði um að innlima Ísland í ríkjasamband Evrópu eða með brenglaða sýn á samlífi mannsins við íslenzka náttúru.
12.7.2021 | 18:42
Uggvænlega horfir með vatnsbúskapinn í vetur
Hagkerfi þróaðra ríkja eru knúin áfram með orkugjöfum. Það, sem skilur íslenzka orkukerfið og þar með hagkerfið frá öðrum, er mjög mikil orkunotkun á hvern íbúa. Þetta er í raun undirstaða velmegunarinnar hér, sem er engan veginn sjálfgefin í ljósi staðsetningar og engra hefðbundinna auðlinda í jörðu. Þær eru hins vegar í hafinu umhverfis landið, og í jarðhitanum er gríðarleg auðlegð fólgin. Orkukerfi landsins sker sig frá orkukerfum flestra annarra þjóða með því, að það er talið sjálfbært, en veikleiki þess er hins vegar sá, að það er háð duttlungum náttúrunnar. Nú virðist vatnsbúskapur vera með lakasta hætti, þar sem vatnshæð Þórisvatns er undir lágmarki árstímans og hækkar hægt.
Það er hægt að sjá við minniháttar minnkun á framboði orku í slæmum vatnsárum, eins og núna, með því að hafa borð fyrir báru, bæði í vatnsmiðlunargetu og aflgetu. Það kostar og undir þeirri orkulöggjöf, sem landsmenn búa við frá 2003, þegar Orkupakki 1 (OP1)frá Evrópusambandinu (ESB) var innleiddur, virðist ekkert orkuvinnslufyrirtækjanna sjá sér hag í slíkum varaforða, en Landsvirkjun bar ábyrgð á raforkuöryggi landsmanna frá stofnun sinni 1965 fram að OP1.
Alvara þessa máls er hins vegar fólgin í því, að samfélagslegt tjón af raforkuskorti, þótt hann verði með fyrirvara, eins og nú stefnir í, er margfalt meira en tjón orkufyrirtækjanna af minnkaðri raforkusölu. Orkupakkarnir hafa skilið landsmenn eftir berskjaldaða gagnvart afleiðingum þess að innleiða orkulöggjöf á Íslandi, sem sniðin er við gjörólíkar aðstæður. Þennan yfirþyrmandi veikleika löggjafarinnar hér þarf að sníða af, eins og hverja aðra annmarka á löggjöf, svo að einhver aðili í þessu þjóðfélagi verði ábyrgur fyrir raforkuörygginu og hafi nægileg völd til að knýja á um nýja virkjun í nafni þjóðarnauðsynjar. Engu er líkara en þau þjóðfélagsöfl, sem reyna stöðugt að þvælast fyrir framfaramálum þjóðarheildarinnar, hvort sem um ræðir nýjar virkjanir eða flutningslínur, stingi nú hausnum ofan í sandinn. Í kosningunum í september 2021 fer bezt á því, að þau hafi áfram hausinn í sandinum. Hvað þarf mikið tjón að hljótast af afturhaldsstefnunni áður en hún missir allan hljómgrunn og horft verður hlutlægum augum á virkjana- og línuáform.
Það er ekki nóg með, að yfirvofandi sé afnám ótryggðrar raforku vegna vatnsskorts til þeirra, sem hana kaupa nú, heldur er Landsnet tekið að búa viðskiptavinni sína undir skort á s.k. reiðuafli, sem þýðir, að Landsnet sér fram á að geta hvorki annað álagstoppum né brugðizt við brottfalli rafala af kerfinu. Þetta skapar hættu á tíðnilækkun í kerfinu, sem í sinni verstu mynd leiðir til kerfishruns, nema liðavernd stórra viðskiptavina bregðist rétt við. Allt mun þetta leiða til framleiðslutaps, en vonandi ekki tjóns á búnaði hjá notendum.
Ástand, eins og hér er lýst, ógnar efnahagslegri viðspyrnu landsmanna og mun draga úr hagvexti. Þetta er sjálfskaparvíti og algerlega fyrirséð í hvað stefndi. Sjálfskaparvítið er virkjanatregða, sem er af pólitískum toga. Einstrengingsleg náttúruvernd tefur flestar framkvæmdir á sviði orkuöflunar (og flutnings), og er skemmst að minnast áforma HS Orku og Vesturverks um Hvalárvirkjun á Vestfjörðum, um 55 MW að uppsettu afli.
Enn einkennilegra er, að Landsvirkjun skuli ekki hafa ráðizt í virkjun Neðri-Þjórsár, t.d. Hvammsvirkjun, en hún mun vera fullnaðarhönnuð fyrir meðalrennsli 352 m3/s, orkuvinnslu 720 GWh/ár með uppsettu afli 93 MW. Umhverfisáhrif verða í lágmarki, enda inntakslónið aðeins 4 km2. Landsvirkjun ætlar að reisa trausta og varanlega brú á staðnum, sem tengja mun Árnessýslu og Rangárvallasýslu á nýjum stað. Virkjunin mundi leysa úr brýnasta viðfangsefni orkugeirans, sem stafar af álagsaukningu vegna aukinnar eftirspurnar hjá útflutningsiðnaðinum og vegna orkuskiptanna auk fjölgunar íbúða.
Í baksviðsfrétt Loga Sigurðarsonar í Morgunblaðinu 25. júní 2021 er viðtal við Lárus M.K. Ólafsson, viðskiptastjóra á iðnaðar- og hugverkasviði Samtaka iðnaðarins, SI. Fyrirsögnin var:
"Fyrirtæki lýsa áhyggjum af stöðu raforkumarkaðarins".
""Við höfum verulegar áhyggjur af þróun raforkuverðs, og auðvitað er ekki á bætandi, ef það er einhver óvissa með framleiðslugetu, sem þar af leiðandi hækkar raforkuverð. Þetta er viðvarandi, og við höfum lýst yfir áhyggjum af þessu alveg óháð því, hvort einhver túrbína bilaði í Reykjanesvirkjun, eða hvort það sé skert lónsstaða", segir Lárus."
Hagsmunir atvinnulífsins eru tvímælalaust miklir gagnvart því, að á hverjum tíma sé nægt framboð raforku, og þar eru þjóðarhagsmunir undir. Næg "græn" raforka á hagstæðu verði fyrir kaupendur er eitt helzta samkeppnisforskot Íslands. Ef stjórnmálaöfl í ríkisstjórn eru að þvælast fyrir gerð nýrra virkjana, þegar orkuskortur blasir við, þá er það hreint skemmdarverk og ógn við lífsafkomu fólks. Að þvælast fyrir nýjum vatnsorkuvirkjunum, sem hafa lágmarks umhverfisrask í för með sér, ógnar bæði efnahagsframþróun vaxandi þjóðar og markmiðum ríkisvaldsins um 55 % minnkun losunar koltvíildisjafngilda árið 2030 m.v. 1990 og kolefnishlutleysi árið 2040. Til að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi á láði, legi og í lofti, verður líklega að virkja sem nemur um 2 TWh/ár, og þar að auki kemur vaxandi orkunotkun vegna aukinnar framleiðslu á þessu tímabili. Hvammsvirkjun er nauðsynleg vegna beggja þessara þátta.
Umhverfisráðherra Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs setti sig upp gegn gerð varnargarða gegn hraunrennsli frá Fagradalsgígum. Sýnir það, hversu forstokkað afturhald þar er á ferðinni. Það mun verða jafnvægi í orkumálum til trafala á Íslandi, ef sá maður verður kosinn á þing sem fulltrúi SV-kjördæmis í september 2021. Sporin hræða. Núverandi kyrrstöðu í virkjanamálum á Íslandi verður að skrifa á þá glórulausu hugmyndafræði, sem vinstri flokkarnir með vinstri græna í broddi fylkingar fylgja varðandi auðlindanýtingu á Íslandi. Þessari sjálfheldu verður að linna í nafni hagsmuna núverandi og komandi kynslóða.
"Lárus segist heyra mikið frá fyrirtækjum um hækkanir á flutningsgjaldskrá Landsnets, sem hækkaði í janúar [2021] um 5,5 % hjá stórnotendum og 9,9 % hjá dreifiveitunum.
Svandís Hlín Karlsdóttir, viðskiptastjóri Landsnets, segir hækkunina hafa verið nauðsynlega og bendir á, að flutningsgjaldskráin hafi lækkað frá 2013. Þetta hafi verið fyrsta hækkunin síðan þá.
Hún bætir við, að reynt hafi verið að koma í veg fyrir hækkunina í samstarfi við stjórnvöld, en það hafi ekki tekizt. Svandís segir eitt af markmiðum Landsnets að halda stöðugleika í flutningsgjaldskránni. "Við vorum í þeirri stöðu, að annaðhvort þurftum við að hækka gjaldskrána eða draga úr fjárfestingum, og það er eitthvað, sem við töldum ekki ákjósanlegt að gera. Við erum sérleyfisfyrirtæki, þannig að okkur eru settar ákveðnar tekjur, sem við megum hafa. Við höfum ákveðið svigrúm til þess að færa tekjur á milli ára, og við vorum að vinna með stjórnvöldum í faraldrinum til að fá aukið svigrum, bæði til þess að geta haldið áfram fjárfestingum og koma í veg fyrir hækkunina á gjaldskránni, en það náðist ekki í tæka tíð", segir Svandís."
Þarna er varla öll sagan sögð. Stjórnvöld (iðnaðarráðherra) var með frumvarp fyrir þinginu um að breyta reiknireglum fyrir tekjumörk Landsnets, svo að hækkunarþörf gjaldskrárinnar mundi minnka, en fjármagna mætti fjárfestingar í meira mæli með lántökum. Frumvarp þetta virðist illu heilli hafa dagað uppi í þinginu, úr því að þessar urðu málalyktirnar. Í sambandi við reiknireglur gjaldskráa Landsnets er jafnframt vert að hafa í huga, að Orkustjóri ESB á Íslandi (Landsreglari) á síðasta orðið um hana. Kannski hefur hann ekki verið hrifinn af, að við reiknireglunum yrði hróflað. Þótt iðnaðarráðherra beri hina pólitísku ábyrgð á þessum miklu hækkunum á gjaldskrá Landsnets, er hún líklega blóraböggull í þessu máli, en sökudólgana annars staðar að finna.
Allt of litlar beinar erlendar fjárfestingar eru á Íslandi fyrir eðlilegan vöxt athafnalífsins og atvinnusköpun, og þær eru tiltölulega mun meiri á hinum Norðurlöndunum. Það er athyglisvert, að erlendar fjárfestingar eru mjög litlar frá löndum ESB, nokkrar frá EFTA-ríkjunum, en mestar hafa þær verið frá Norður-Ameríku. Ein slík býðst landsmönnum núna, en Landsvirkjun stendur sem þvergirðingur gegn henni. Um er að ræða tæplega mrdISK 15 fjárfestingu Norðuráls á Grundartanga í nýjum búnaði í steypuskála fyrirtækisins til að geta steypt álsívalninga. Til að leggja í slíka fjárfestingu þarf Norðurál tryggingu fyrir orkuafhendingu á verði, sem er fyrirsjáanlegra en núverandi viðmiðun við Nordpool-markaðinn. Fyrirtækið hefur farið fram á verð, sem er nálægt meðalverði til stóriðju á Íslandi með álverðstengingu. Að öllu eðlilegu ætti að vera samningsgrundvöllur um þetta, en Landsvirkjun undir núverandi stjórn er ekki með öllu eðlilegt fyrirtæki.
Þann 30. júní 2021 birtist í Markaðnum viðtal Þórðar Gunnarssonar við Mike Bless, fráfarandi forstjóra Century Aluminium, móðurfélags Norðuráls:
"Álverðstenging raforkuverðs var ein helzta ástæða þesss, að forsvarsmenn Century Aluninium sáu sér þann leik á borði að kaupa álverið við Grundartanga árið 2004 af Columbia Ventures Corporation.
Þetta er mat Mike Bless, fráfarandi forstjóra Century Aluminium, sem var staddur hér á landi á dögunum. Fram kom í kauphallartilkynningu þann 17. maí 2021, að Bless myndi brátt láta af störfum sem forstjóri Century eftir 10 ár á forstjórastólnum."
Álfyrirtækin líta á álverðstengingu raforkuverðs sem verulega áhættuminnkun fyrir eigendur sína og þess vegna eftirsóknarverða á svipulum markaði. Landsvirkjun áttaði sig fljótlega á, að gagnkvæmir hagsmunir væru fólgnir í álverðstengingunni, en árið 2010 varð afturhvarf til hins verra á þeim bæ.
"Málið snýst ekki endilega um lægra eða hærra verð. Það, sem okkur þótti aðlaðandi, var tengingin við álverð. Við borgum glaðir hærra raforkuverð, ef okkar afurðaverð er hátt. Century Aluminium er ekki stór álframleiðandi á alþjóðlegan mælikvarða, og samkeppnisaðilar okkar, sem eru með ýmiss konar aðra starfsemi en álframleiðslu, þola betur sveiflur í álverði en við.
Þess vegna er álverðstengingin afar mikilvæg fyrir okkur. Við erum líka með álverðstengingu í aðfangakaupum okkar, t.a.m. við innkaup á súráli. Á sama hátt og við raforkuinnkaup þá borgum við súrálsbirgjum okkar glaðir hærra verð, ef álverð hækkar.
En það var aðallega álverðstengingin, sem var aðlaðandi í okkar augum. Hún þýðir, að við getum haft betri stjórn á okkar rekstraráhættu. Svo verður líka að nefna, að álverið á Grundartanga er eitt það glæsilegasta m.t.t. stjórnunar, öryggismála, gæðamála og annars. Eitt er að komast á þennan stað, en annað að viðhalda svo háum gæðastöðlum allan þennan tíma. Það er stjórnendunum hér heima að þakka."
Þarna lýkur fráfarandi forstjóri móðurfélags Norðuráls lofsorði á árangur Norðuráls, og starfsfólkið verðskuldar hrósið. Hið sama á við um starfsemina í Straumsvík, þar sem ISAL hefur náð frábærum árangri með verksmiðju, sem er talsvert minni og eldri en Norðurál, en Hafnfirðingar höfnuðu á sinni tíð stækkun ISAL, sem eigandinn var fús til að leggja út í.
Álverðstenging er einnig hagstæð orkubirginum til lengdar, því að álfyrirtækið er yfirleitt fúst til að fallast á hærra meðalverð, ef það fær lægra verð, þegar á móti blæs á mörkuðunum. Núverandi forstjóri Landsvirkjunar taldi sig vita betur, þegar hann tók við 2010, og gekk þá hart fram í nafni stöðugleika að afnema álverðstenginguna. Afleiðingin varð ekki stöðugleiki, heldur var Landsvirkjun nærri búin að missa þennan elzta viðskiptavin sinn fyrir vikið.
"Þrátt fyrir að núverandi markaðsverð á áli myndi auðvitað réttlæta stækkun við Grundartanga, er ekki skynsamlegt að taka slíkar fjárfestingarákvarðanir út frá stundarverði. Allt ferlið, sem snýr að leyfisveitingum, hönnun, undirbúningi og framkvæmdum, er 4 til 5 ára ferli.
Hins vegar er raunhæfara til skemmri tíma að bæta við virðisaukandi framleiðslu við Grundartanga, t.a.m. álboltaframleiðslu [álboltar hér sívalar álstengur-innsk.BJo]. Þó að álagið á álbolta yfir hrááli sé 1000 USD/t, þá myndum við samt alltaf horfa á 250 USD/t langtímameðaltalið til að ákveða, hvort fjárfestingin borgi sig.
Það er snúið að taka langtímaákvarðanir út frá skammtímaverði. Eftirspurn grænna álbolta er hins vegar að aukast í Evrópu og hefur verið um lengri tíma, og því höfum við lagt mikla áherzlu á að koma því verkefni af stað hér heima. En til þess að svo megi verða, þurfum við að hafa betri vissu um raforkuverð okkar til framtíðar."
Það má ráða af þessu, að rækju stjórnvöld á Íslandi sókndjarfa iðnaðarstefnu, sem reist væri á meiri orkunotkun, þá væru líklega núna komin áleiðis áform um talsverða aukningu framleiðslugetu Norðurálsverksmiðjunnar. Því miður blasir allt annar og afturhaldssamari raunveruleiki við, stöðnun iðnvæðingarinnar og stefnuleysi varðandi nýjar virkjanir. Það er engu líkara en afturhaldið í stjórnarandstöðunni sé þegar setzt við stjórnvölinn á þessu mikilvæga sviði atvinnuuppbyggingar og gjaldeyrissköpunar.
Hjá Bless kemur fram, hversu ábatasöm álsívalningaframleiðslan er, því að verðið fyrir hana um þessar mundir er um 3500 USD/t samkvæmt honum. Að framkvæmdir við umbyltingu steypuskála Norðuráls skuli ekki nú þegar vera komnar á flugstig, verður að skrifa alfarið á þvergirðing Landsvirkjunar, sem er framfarahamlandi og einhvern veginn alveg í takti við stjórnarandstöðuna. Hefur Samfylkingin kverkatak á stjórn Landsvirkjunar ? Þetta er mjög óeðlilegt ástand, og tal talsmanna Landsvirkjunar um nýtingu grænna tækifæri til eflingar hags Íslands er hrein hræsni í þessu ljósi.
Þá kemur réttmætt hrós Bless í garð starfsmanna Norðuráls, en svipaða sögu er að segja af ISAL og mjög líklega af fleiri stóriðjuverum á Íslandi:
"Þessa aukningu í framleiðslugetu [úr 260 kt/ár í 320 kt/ár eða 23 %-innsk. BJo] má rekja til snjallra stjórnenda Norðuráls hér á landi, og það er ástæðan fyrir því, að þau hafa mikið að segja um rekstur álvera okkar í Bandaríkjunum. Þau hafa staðið sig einstaklega vel á Grundartanga."
Sé horft til íslenzkrar stóriðju og árangurs hennar í alþjóðlegu samhengi, er freistandi að alhæfa þessi orð Mike Bless og færa þau yfir á stóriðjuna í heild. Þau eru þess vegna beztu meðmælin, sem hægt er að fá fyrir aukningu þessarar starfsemi í landinu. Til að svo megi verða þarf hins vegar pólitískan vilja, jafnvel eldhug, eins og finna mátti hérlendis á 7. áratug síðustu aldar, aðallega innan vébanda Sjálfstæðisflokksins.
27.6.2021 | 18:50
Úrgangsstjórnun í skötulíki
Í síðasta pistli á þessu vefsetri (24.06.2021-Jónsmessu) var gerð grein fyrir þeim ógöngum, sem stjórn Sorpu hefur ratað í með sína nýju jarð- og gasgerðarstöð, GAJA. Borgin er aðaleigandi Sorpu, og núverandi borgarstjórnarmeirihluta eru mjög mislagðar hendur í verklegum efnum, svo mjög, að í fljótu bragði mætti ætla, að allt, sem borgarstjórnarmeirihluti Samfylkingar, Vinstri hreyfingarinnar græns framboð, Píratahreyfingarinnar og Viðreisnar, kemur nálægt, endi með klúðri.
Því miður virðist GAJA vera enn eitt dæmið í þetta safn fúsks og óhæfni. Stjórnmálamenn, sem ánetjazt hafa forsjárhyggjunni, þykjast þess einfaldlega umkomnir að hafa vit fyrir öðrum, þótt þá skorti bæði til þess vit og þekkingu, þegar kemur að tæknilegum verkefnum.
Þeirri aðferð að virkja markaðsöflin til að koma fram með hagkvæma framtíðarlausn á viðfangsefnum í frjálsri samkeppni er hafnað, af því að markaðsöflin eru knúin áfram af hagnaðarvon, sem er ljótt og ófélagslegt hugarfar í huga draumóravingla á vinstri kantinum. Þessir stjórnmálamenn gerir þess vegna hverja skyssuna á fætur annarri til stórfellds tjóns fyrir almenning, sem fær reikninginn, og varla nokkur stjórnmálamaður axlar sín skinn út af óráðsíunni.
Í forystugrein Bændablaðsins, 24. júní 2021, fær vonlaus, pólitísk hugmyndafræði í umhverfismálum ærlega á baukinn og var kominn tími til slíkrar gagnrýninnar umræðu um viðfangsefni, sem er í raun tæknilegt, fjárhagslegt og lagalegt úrlausnarefni, hafið yfir sérvizku og hugmyndafræði sérlundaðra stjórnmálamanna, sem hafa tafið fyrir eðlilegri þróun sorpeyðingarmála hérlendis (eins og þeir núna tefja fyrir eðlilegri þróun umferðarmannvirkja í Reykjavík með hrapallegum afleiðingum).
"Eftir áratuga eyðimerkurgöngu í meðhöndlun sorps á Íslandi berast nú þau tíðindi, að fara eigi að taka til hendi við að "undirbyggja ákvarðanir" um tæknilausnir, staðarval og kostnað við byggingu á 100 kt/ár sorporkustöð, sem væntanlega verður byggð á Suðurnesjum.
Að undirbúningi ákvarðanatöku, sem á að taka 4 mánuði, standa 4 byggðasamlög, þ.e. Sorpa, Kalka á Suðurnesjum, Sorpurðun Vesturlands og Sorpstöð Suðurlands auk umhverfisráðuneytisins. Á starfssvæði byggðasamlaganna fellur til nærri 85 % alls úrgangs á landinu.
Eins og margoft hefur verið fjallað um hér í Bændablaðinu, þá hefur ríkt ótrúlegt úrræðaleysi í sorpmálum Íslendinga líkt og skolpmálum um áratuga skeið. Vandræðagangurinn í sorpmálunum er einkum tilkominn vegna kreddufullrar pólitískrar afstöðu þeirra, sem ráðið hafa ferðinni í umhverfismálum bæði á landsvísu sem og í sveitastjórnarpólitík, einkum á höfuðborgarsvæðinu. Þar á bæ vildi fólk hreinlega ekki taka mark á þeirri þróun, sem átt hefur sér stað í sorpbrennslumálum á Norðurlöndum og víðar um heim á liðnum áratugum. Gilti þá einu, þó [að] sýnt hafi verið fram á með vísindalegum gögnum og útreikningum ágæti þess að umbreyta sorpi í orku. Þess í stað hefur verið haldið dauðahaldi í þá afstöðu, að öll brennsla á sorpi sé alslæm og ekki í takti við þá hugmyndafræði, sem rekin hefur verið í loftslagsmálum." (Undirstr. BJo.)
Þessi texti sýnir, að stjórnmálamenn með einkennilegar skoðanir, sem illa fylgjast með á þessu sviði og lítt kunna til verka á sviði nútímalegrar meðhöndlunar sorps, hafa vélað um málin með arfaslæmum árangri á höfuðborgarsvæðinu, þar sem Sorpa er í djúpum skít með misheppnaða meira en mrdISK 6 fjárfestingu á bakinu undir formennsku vinstri græningja í borgarstjórnarmeirihluta undir forystu Samfylkingarinnar.
Það verður að snúa af þessari vonlausu braut með því að draga kunnáttumenn á sviði tækni og verkefnastjórnunar að undirbúningi verkefnisins "Sorpknúið orkuver fyrir landið allt", sem finni hagkvæma staðsetningu, helzt þar sem þörf er á orkunni), bjóði verkið út, uppsetningu og rekstur, og velji birgi og semji við hann. Það er að líkindum hagkvæmasta og áhættuminnsta leiðin fyrir skattgreiðendur. Stjórnmálamenn hafa ekki ráðið við verkefnið nútímaleg sorpeyðing hingað til, og með núverandi meirihluta í Reykjavík er algerlega borin von, að þeir finni hagkvæmustu og umhverfisvænstu leiðina í þessu máli.
Halldór Kristjánsson, ritstjóri Bbl., hélt áfram:
"Með þessa sérkennilegu hugmyndafræði að leiðarljósi var m.a. farið út í botnlausan fjáraustur við uppbyggingu á jarðgerðar- og gasstöð í Álfsnesi, sem kostaði skatt- og útsvarsgreiðendur á 7. mrd ISK. Sú stöð getur samt ekki annazt förgun á plasti og ýmsum efnum, sem áfram hefur orðið að urða. Þá hefur verið upplýst, að önnur meginframleiðsluafurð stöðvarinnar, molta, er algjörlega ónothæf vegna mengandi efna, sem í henni eru."
Það er ekki að ófyrirsynju, að varað er við áframhaldi þeirra vinnubragða, sem Sorpustjórnin hefur viðhaft, því að GAJA-verkefnið er alveg dæmigert um afleiðingar fúsks óráðþægra stjórnmálamanna, sem troðið hafa sér í stjórnunarstöður fyrirtækja hins opinbera, sem þeir ráða ekkert við. Umhverfisráðherra er í lykilstöðu til að beina undirbúningi sorporkuversins í réttan farveg, en þar sem hann er af sama sauðahúsi og téð Líf, er borin von, að hann geri það. Þess vegna stefnir í hreint óefni með um mrdISK 30 fjárfestingu. Í stað þess að skuldbinda útsvarsgreiðendur fyrir risaupphæðum í verkefni, sem e.t.v. verður bara til vandræða í höndum óhæfra stjórnmálamanna, á að fela einkaframtakinu verkefnið á grundvelli útboðs, sem vandað verkfræðiteymi með lögfræðinga sér til aðstoðar hefur undirbúið og síðan metið tilboð og samið við hagstæðasta birginn í nafni "sorpsamlags Íslands" um alverk og rekstur. Vonandi nunu sorpflutningar í nýju stöðina verða sjóleiðis, því að 100-200 kt/ár sorpflutningar eru ekki leggjandi á vanbúið vegakerfið.
"Nú segir borgarfulltrúi VG og formaður stjórnar Sorpu [Líf Magneudóttir], sem á og rekur jarðgerðar- og gasstöðina GAJA, í viðtali í Morgunblaðinu sl. þriðjudag [22.06.2021], að þar sé "verið að ná tökum á lífrænum úrgangi". Einnig segir: "Næsta stóra verkefnið er að afsetja brennanlegan úrgang". Fram kemur í þessu viðtali, að nú eigi loks að fara að skoða málin. Allt verði skoðað, m.a. flutningur sorpsins, sótspor þess og staðarval sorporkustöðvar sem og nýting "glatvarma".
"Nýta "fiskeldismykju", mannaseyru, moltu, brennistein og fleira sem áburð".
"Jónas Baldursson og Ragnhildur Friðriksdóttir, starfsmenn Matís, að vinna með moltu. Matís fékk 3 tegundir af moltu til að prófa, m.a. frá gas- og jarðgerðarstöðinni GAJA, sem er í eigu Sorpu. Sú molta reyndist ónothæf vegna aukaefna, sem í henni eru. Þurfti reyndar undanþágu frá reglum til að gera prófanir með notkun hennar á afmörkuðu svæði."
(Undirstr. BJo.)
Samkvæmt þessu heldur stjórnmálamaðurinn, sem ber höfuðábyrgð á GAJA gagnvart eigendum Sorpu, fram blekkingavaðli til að breiða yfir misheppnaða fjárfestingu byggðasamlagsins Sorpu, sem stjórnmálamenn, aðallega í meirihluta borgarstjórnar, stjórna. Þetta hlýtur að hafa stjórnmálalegar afleiðingar í borginni og ætti, ef allt væri með felldu, að leiða huga stjórnvalda að nauðsyn breyttrar aðferðarfræði við stjórnun úrgangsmála landsins. Á því sviði, eins og öðrum, leiðir fúsk til falls fyrr en seinna.
Forsætisráðherra virðist hafa gert loftslagsmálin að aðalmáli sínu fyrir Alþingiskosningarnar 2021, þótt ekki verði séð, að þau geti orðið VG til framdráttar. Hún sagði t.d. nýlega, að sorphirðumálin væru mikilvæg fyrir árangur okkar í baráttunni við losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið. Er það svo, eða heldur hún það bara ?
Í nýjustu skýrslu Umhverfisstofnunar um losun gróðurhúsalofttegunda stendur þetta m.a.:
"Meðhöndlun úrgangs var uppspretta 5 % af losun Íslands árið 2019 (LULUCF)."
Þessi losun nam aðeins 224 kt (4,7 %) CO2íg 2019 og hafði þá minnkað um 2,2 % síðan 1990 og um 12 % frá 2018. Miklar fjárfestingar í sorpeyðingu er ekki hægt að réttlæta með minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda. Aðrar og mikilvægari ástæður gera nútímavæðingu þessara mála nauðsynlega hérlendis. Evrópusambandið hefur bannað urðun, og sú ESB-löggjöf hefur verið innleidd í EFTA-löndum EES. Það er ekki lengur verjanleg landnotkun út frá landnýtingarsjónarmiðum og mengun, sem getur verið lífríkinu skaðleg, að urða sorp. Urðun þýðir þar að auki myndun metans í mun meiri mæli en þörf er á hérlendis, og metan er meira en tuttugufalt öflugri gróðurhúsalofttegund en koltvíildi, sem stígur upp af sorpknúnum orkuverum. Þetta koltvíldi gæti verið hagkvæmt að fanga og selja gróðurhúsabændum og lífeldsneytisframleiðendum.
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 21:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.6.2021 | 18:17
Sorpeyðing í ólestri - verkefnastjórn í soranum
Ætla mætti að óreyndu, að umhverfisráðherra landsins liti á það sem eitt sinna höfuðviðfangsefna að fást við meðhöndlun úrgangs með nútímalegum hætti. Því virðist ekki vera að heilsa, því að hann svarar ekki bréfum, sem til ráðuneytis hans berast um samstarf við innleiðingu á gjörbreyttu verklagi í þessum efnum. Þess í stað lætur hann undirsáta sína hringja út á land og spyrja, hvort þar þekki menn ekki svæði, sem hann gæti friðlýst.
Þess á milli er hann aðallega upptekinn af losun gróðurhúsalofttegunda, þótt hún sé svo lítil frá Íslandi, að áhrif hennar á hlýnun jarðar eru ómælanleg. Samt reynir hann, ásamt forsætisráðherranum, að setja "Ísland í fremstu röð" með nýjum, ótímabærum og rándýrum markmiðum um minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda. Þannig hafa "erroribus" nokkuð að iðja.
Í Bændablaðinu 10. júní 2021 birtist átakanleg frásögn Harðar Kristjánssonar af molbúahætti íslenzkrar stjórnsýslu. Fyrirsögn fréttaskýringarinnar var svohljóðandi:
"Bauðst til að hanna, fjármagna, byggja og reka hátæknisorporkustöð á Íslandi."
Hún hófst þannig:
"Opnuð var rúmlega mrdISK 6 gas- og jarðgerðarstöðin GAJA í Álfsnesi á árinu 2020. Nú hefur komið í ljós, að moltan, sem er annað meginhráefnið, sem stöðin framleiðir, er með öllu ónothæf. Hugmyndir um að leysa málið með því að reisa sorporkustöð af fullkomnustu gerð hafa enn ekki fengið hljómgrunn, jafnvel þótt norskir rekstraraðilar slíkra stöðva hafi boðizt til að fjármagna, byggja og reka slíka stöð.
Bændablaðið hefur undir höndum bréf, sem John Ragnar Tveit, viðskiptaþróunarstjóri Daimyo AS í Ósló í Noregi, sendi Jóni Viggó Gunnarssyni, framkvæmdastjóra Sorpu, þann 22. janúar 2021. Þar er óskað eftir samstarfi við Sorpu um byggingu á 80-100 kt/ár hátæknisorporkustöð (Waste-to-energy - WTE). Samkvæmt heimildum blaðsins hefur boðinu enn ekki verið svarað." [Undirstr. BJo.]
Vinstri græningjarnir, umhverfisráðherrann og stjórnarformaður Sorpu, hafa af hugmyndafræðilegum ástæðum ekki áhuga á að virkja einkaframtakið til að fást við þetta tæknilega viðfangsefni, heldur ætla þau að búa svo um hnútana, að hið opinbera vaði hér á foraðið, reynslulaust á þessu sviði, og stjórnmálamenn haldi um alla spotta verkefnisins og rekstrarins, þótt þeir hafi jafnvel enga þekkingu á verkefnastjórnun né innviðum nútímalegrar sorporkustöðvar. Hætt er við, að þessi gatslitna hugmyndafræði vinstri grænna muni reynast landsmönnum mjög illa í þessu máli.
Það er grafalvarlegt, ef hárri fjárfestingarupphæð úr vösum íbúa sveitarfélaganna, sem að byggðasamlaginu Sorpu standa, hefur verið ráðstafað þannig, að um kák eitt, fúsk og bruðl með skattpeninga hefur verið að ræða. Fyrst fór verkefnið GAJA langt fram úr fjárhagsáætlun, og síðan kemur í ljós, að meginhluti afurðanna, moltan, er ónothæf, ef satt er hjá Bb, og markað skortir fyrir hitt, þ.e. metangasið.
Þetta stafar varla af því, að tæknimenn, sem að undirbúninginum voru fengnir, hafi ekki reynzt vera starfi sínu vaxnir, heldur af því, að stjórnmálamenn ákváðu að sinna sjálfir verkefnastjórn og síðan rekstri framleiðslufyrirtækis. Hugmyndafræði vinstri manna, hér undir stjórn Samfylkingar í borginni, gengur ekki upp. Miklu vænlegra er að fela markaðinum verkefni af þessu tagi. Þá hefði þessi sorpeyðingar- og jarðgerðarstöð einfaldlega verið sett í útboð á Evrópska efnahagssvæðinu, og hagstæðasta tilboðinu um hönnun, byggingu og rekstur, út frá hagsmunum íbúanna, verið tekið. Ef það hefði verið gert, sætu íbúarnir ekki núna uppi með algerlega misheppnaða fjárfestingu. Sennilega hefði heldur ekki átt að stefna á moltu- og gasgerð, heldur "hátæknisorporkustöð" fyrir allt landið, eins og frásögn Halldórs Kristjánssonar fjallar aðallega um. Fjárfesting Sorpu í þessari nýju stöð sinni virðist byggðasamlagið nú þurfa að afskrifa, ef aðalafurðin er með öllu ónothæf.
Þá er kominn tími fyrir ríkið að hafa forgöngu án fjárhagsskuldbindinga til framtíðar að stofnun undirbúningsfélags um "state of the art" orkuver, sem safnar sorpi hvaðanæva að af landinu sjóleiðina og selur orku, sem verið vinnur úr sorpinu. Sennilega verður þetta hagkvæmasta og umhverfisvænsta leiðin í krafti stærðarinnar til að losna við sorpið. Skip þyrfti að safna sorpinu saman eftir endilangri strandlengjunni, því að þessir flutningar, 100-200 kt/ár, eru ekki leggjandi á þjóðvegakerfið, og sjóleiðin er sennilega umhverfisvænst og öruggust.
"Samhljóða bréf var sent til umhverfisráðherra. Hann hefur heldur ekki séð ástæðu til þess að svara því samkvæmt upplýsingum blaðsins.
Ljóst má vera, að þetta verkefni varðar öll sveitarfélög í landinu. Ef það á ekki einvörðungu að leysa þarfir sveitarfélaganna á suðvesturhorninu, þá kallar þetta á sjóflutninga á sorpi til stöðvarinnar af landsbyggðinni. Því þarf umhverisráðherra væntanlega að sýna eitthvert frumkvæði, ef ætlunin væri að koma þessu á koppinn . E.t.v. þarf ríkisvaldið líka að koma að rekstri eða niðurgreiðslum á flutningi sorps sjóleiðina til slíkrar stöðvar, ef af yrði. Annars er hætta á, að sveitarfélög úti á landi, fjarri suðvesturhorninu, verði áfram í miklum erfiðleikum með að losa sig við óendurvinnanlegan úrgang án urðunar."
Auðvitað þarf umhverfisráðherrann að koma að þessu verkefni, því að líklega er þjóðhagslega hagkvæmast að veita öllum sveitarfélögum landsins aðgang að flutningum að stöð fyrir allt landið með jöfnun flutningskostnaðar, vonandi sjóleiðina, á milli þeirra. Slíkt á þó ekki að vera skylda, enda virðast fleiri slík orkuver knúin úrgangi vera í deiglunni, t.d. í Vestmannaeyjum. Undirbúningsfélag landsstöðvar þarf að skilgreina orkustöðina og bjóða hana út á EES-markaðinum, bæði stofnsetningu og rekstur, og sá sem býðst til að annast verkið fyrir lægst gjald fyrir sorp inn í stöðina, ætti að fá verkið. Hann selur síðan orkuna frá verinu á markaðsverði. Hugsanlega þarf ríkissjóður að taka þátt með sveitarfélögunum í greiðslum fyrir sorp inn í orkuverið. Það mun koma í ljós, þegar tilboðin verða opnuð. Orkuverið selur orkuna á markaðsverði, og má hugsanlega tengja sorpgjaldið við orkuverðið.
Halldór Kristjánsson vitnaði í innihald bréfsins frá téðu norsku fyrirtæki. Þar stóð m.a.:
"Við höfum trú á, að Daimyo með sína góðu viðskiptasögu og samkeppnishæft viðskiptanet geti boðið fjármögnun og byggingu á fullkomnustu gerð af sorporkustöð, sem völ er á í Evrópu."
Það er sjálfsagt að ræða við þetta fyrirtæki, eins og önnur á þessum markaði, og leyfa því að taka þátt í þessu útboði, en ekki kemur til mála að veita því einhvern forgang að markaðinum hér vegna þess, hvernig í pottinn er búið með hann.
Áfram vitnaði HKr í þetta bréf, sem ekki hefur notið þeirrar lágmarkskurteisi að vera svarað innan eðlilegra tímamarka af íslenzkum yfirvöldum. Þótt þau hafi ekki vit á málinu, er sjálfsagt að hefja samtalið og viða að sér upplýsingum fyrir umhverfismatið og útboðið:
"Hér með er lýst yfir áhuga Daimyo á að stofna fyrirtæki á Íslandi, annaðhvort sem einkahlutafélag eða fyrirtæki í samvinnu við Sorporku, sem hafi það að markmiði að reisa og reka sorporkustöð á Íslandi. Við höfum trú á, að slík samvinna, sem byggi á öflugum bakgrunni og reynslu Daimyo í WTE geiranum og með aðkomu og þekkingu Sorporku, geti leitt til byggingar og rekstrar stórrar hátæknilegrar sorporkustöðvar á Íslandi í beggja þágu. Þar sem SORPA er stærsta félagið í meðhöndlun á sorpi á Íslandi, viljum við gjarna bjóða félaginu þátttöku í þessu verkefni, svo og öðrum sorphirðufyrirtækjum."
Það er eðlilegt, að umhverfisráðuneytið hafi forystu um þetta þjóðþrifamál á landsvísu, en ráðherrann virðist ekki hafa burði til þess, enda vanari því að þvælast fyrir verkefnum en að leiða þau til farsælla lykta. Málssóknir hans í nafni Landverndar og ýmsir tafaleikir, t.d. á orkusviðinu, hafa valdið þjóðinni búsifjum.
"Þá segist Daimyo tilbúið til að sjá um áætlanir, hönnun, fjármögnun, byggingu og rekstur sorporkustöðvar í náinni samvinnu við SORPU, íslenzk yfirvöld og fyrirtæki gegn því, að tryggt sé, að stöðin fái nægt hráefni til starfseminnar í 25 ár. M.v. umhverfisrannsóknir og annan undirbúning geti það tekið 5 ár frá undirritun samkomulags, sem byggi á þessu tilboði. Þar muni Daimyo sjá um að meta allan kostnað á framkvæmdatíma, framkvæmdatímann sjálfan, bjóða fjármögnun og alla nauðsynlega tæknilega aðstoð í öllu ferlinu, sem og að finna samstarfsaðila við ýmsa þætti í byggingu sorporkuversins. Ætla má, að slík stöð muni kosta mrdISK 25-30 samkvæmt upplýsingum frá Daimyo. Þá segist Daimyo hafa í hyggju að leita til íslenzkra fyrirtækja, eins og kostur er við alla framkvæmdina, einkum byggingarverktaka. Með því myndi skapast reynsla og þekking hjá íslenzkum fyrirtækjum til að sinna verkefnum á þessu sviði. Eigi að síður myndi tæknibúnaður, er lýtur að umhverfisvernd og orkuframleiðslu, að mestu vera í höndum Daimyo og samstarfsfyrirtækja þess. M.ö.o. Daimyo myndi sjá um verkið frá A til Ö, peningahliðina og allt annað."
Það eru ýmsar fallgryfjur á leiðinni að lyktum þessa máls. Verkefnisstjórn GAJA í Álfsnesi er víti til varnaðar. Undirbúningsfélag þessa verkefnis, sem er 5 sinnum stærra, þarf að vera með þátttöku ríkisins og e.t.v. Sambands íslenzkra sveitarfélaga. Undirbúningsfélagið þarf að finna út, hvert er líklegasta sorpmagnið í byrjun og áfram, og bjóðendur bjóða verð á viðteknu sorpi samkvæmt því, en gefi jafnframt upp reiknireglu fyrir einingarverðið upp og niður samkvæmt innvigtuðum massa og orkuverði yfir árið.
Í Morgunblaðinu sólstöðudaginn 22. júní 2021 var baksviðsfrétt á bls. 11 með fyrirsögninni:
"Undirbúa sameiginlega sorpbrennslu".
Hún hófst þannig:
"Sorpsamlögin á Suðvesturlandi og umhverfisráðuneytið hafa hafið undirbúning að því að koma upp sorpbrennslu fyrir allt svæðið. Á brennslan að lágmarka þörf fyrir urðun úrgangs. Forverkefni samlaganna gengur út á að undirbyggja ákvarðanir um tæknilausnir, staðarval og kostnað, og á sú vinna að taka 4 mánuði. Að vinnunni standa Sorpa, Kalka á Suðurnesjum, Sorpurðun Vesturlands og Sorpstöð Suðurlands auk umhverfisráðuneytisins. Á starfssvæði þessara 4 byggðasamlega fellur til um 83-85 % alls úrgangs á landinu."
Það virðist af þessu að dæma ekki hafa verið hugað að því að reisa eina stöð fyrir landið allt, því að öll sorpsamlög landsins eru ekki þátttakendur á undirbúningsstigi. Hér er um svo mikla fjárfestingu að ræða að kappkosta verður að ná þeirri stærðarhagkvæmni, sem unnt er. Þó er skiljanlegt, að Vestmannaeyingar vilji reisa sína sorporkustöð. Getur ekki sorporkustöð fyrir landið allt verið í Vestmannaeyjum og veitt Vestmannaeyingum bæði birtu og yl, ef þeir vilja hýsa hana ?
""Þessir aðilar eru að taka höndum saman um að innleiða hringrásarhagkerfið. Við erum núna að ná tökum á lífrænum úrgangi með gas- og jarðgerðarstöðinni GAJA, sem er stórt verkfæri í þessu verkefni og mikilvægt í loftslagsmálum. Næsta stóra verkefnið er að afsetja brennanlegan úrgang", segir Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi VG og formaður stjórnar Sorpu."
Það er alls ekki affarasælt að láta stjórnmálamann á borð við téða Líf, sem væntanlega ber höfuðábyrgð á óförum GAJA-verkefnisins, kostnaðarlega og tæknilega, véla um hið nýja stórverkefni á umhverfissviði. Hugmyndafræði hennar er þó sú, að einmitt stjórnmálamenn eigi að troða sér að í verkefnastjórnum og síðan rekstrarstjórnum opinberra framkvæmda og fyrirtækja. Eðlilegast er, að umhverfisráðuneytið stofni undirbúningsfélag um þetta verkefni á faglegum forsendum, sem auðvitað hefur samráð við sorpsamlög landsins, þar sem kjörnir fulltrúar sjálfsagt sitja, en undirbúningsfélagið hafi það meginhlutverk að staðsetja stöðina og semja útboðslýsingu fyrir byggingu og rekstur. Þar með er tryggt, eins og kostur er, að landsmenn njóti beztu fáanlegrar þjónustu á þessu sviði með lágmarks kostnaði m.v. gæði frá einkafyrirtæki, sem kann til verka. Að öðrum kosti er stórhætta á tæknilegu klúðri og allt of dýru verkefni.
3.6.2021 | 21:37
Sýn iðnaðarráðherra
Þann 16.05.2021 birtist pistill eftir ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar á sunnudagsvettvangi Morgunblaðsins. Þar reit Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir um tengsl orkumála og loftslagsmála. Þessi pistill ráðherrans er athyglisverður í ljósi Morgunblaðsgreinar forstjóra Landsvirkjunar og framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins 10 dögum áður, og gerð er grein fyrir í pistlinum á undan þessum á þessu vefsetri, en þar kvarta þeir undan því, að stjórnvöld hafi ekki skapað forsendur fyrir grænni atvinnubyltingu með því að ryðja hindrunum úr vegi á sviði skipulagsmála, umhverfismála, skattamála eða varðandi "hvert annað atriði, sem snertir rekstur fyrirtækjanna". Túlka mátti greinina þannig, að stöðnun sú, sem nú ríkir á sviði nýrrar atvinnusköpunar í krafti grænnar orku Íslands væri sinnuleysi stjórnvalda að kenna og væri grein tvímenninganna ákall um "að ryðja brautina".
Pistill ráðherrans,
"Orka - lykillinn að árangri í loftslagsmálum",
hófst þannig:
"Fyrir nokkrum dögum skoruðu náttúruverndarsamtök á stjórnvöld að standa sig betur í því að ná loftslagsmarkmiðum. Í yfirlýsingu þeirra var þó ekki vikið neitt að því, sem skiptir einna mestu máli í því sambandi."
Hvað knýr náttúruverndarsamtök til slíkrar áskorunar á íslenzk stjórnvöld ? Umhyggja fyrir umhverfinu ? Ef sú umhyggja er ástæðan, er hún reist á fölskum forsendum, því að það er ekki nokkur leið fyrir íslenzk stjórnvöld eða landsmenn alla að hafa nokkur mælanleg áhrif á hlýnun jarðar. Þess vegna yrði mjög misráðið af stjórnvöldum að fara nú að beita þjóðina enn frekari þvingunarráðstöfunum á formi t.d. hækkunar gjalds á jarðefnaeldsneyti til ríkisins eða hækkunar aðflutningsgjalda á benzín- og dísilbílum, eins og eru ær og kýr slíkra samtaka. (Taka skal fram, að pistilhöfundur ekur hreinum rafmagnsbíl síðan 2020.) Hins vegar er sjálfsagt að veita áfram jákvæða hvata til orkuskiptanna. Frumatvinnuvegirnir sjávarútvegur, landbúnaður og iðnaður, hafa allir staðið sig með prýði á alþjóðlegan mælikvarða við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á hvert tonn framleiðslu sinnar, og það er aðalatriðið. Tækni orkuskiptanna er í hraðfara þróun núna, svo að það er allsendis ótímabært að verða við beiðni téðra náttúruverndarsamtaka. Þó verður að hvetja stjórnvöld til að vera kröfuharðari en nú er um vísindalegan grundvöll aðgerða, sem styrktar eru af ríkisfé, og trónir þar endurmyndun mýra með mokstri ofan í skurði efst á blaði.
"Til að ná raunverulegum árangri í að minnka losun og breyta hlutum þarf endurnýjanlega raforku og meiri háttar tækniþróun og nýsköpun. Ekki bara landverndarverkefni - heldur loftslagsverkefni. Og fjölga þannig stoðum verðmætasköpunar.
Ég fagna því auðvitað, að minnt sé á nauðsyn þess að draga meira úr losun gróðurhúsalofttegunda. En til að ná þeim árangri, sem þetta ákall snýst um, þurfum við að verða óháð jarðefnaeldsneyti, eins og segir í nýrri Orkustefnu.
Til að verða óháð jarðefnaeldsneyti þurfum við nýja græna orkugjafa á borð við rafeldsneyti og fleira. Og til að framleiða þessa orkugjafa [orkubera-innsk. BJo], þurfum við að framleiða meira af grænni orku [virkja meira - innsk. BJo].
Þeir, sem kjósa að líta framhjá þessu, hafa ekki svörin, sem duga."
Þetta er góður málflutningur hjá iðnaðarráðherra, og það er eðlilegt, að hún taki ekki mark á málflutningi um, að tímabundin umframorka í kerfinu árið 2020 og dökkar horfur um framhald stóriðnaðar í landinu, valdi því, að ekkert þurfi að virkja á næstunni, eins og t.d. forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur hélt fram í fyrra. Nú hefur hagur strympu vænkazt og endurskoðun raforkusamnings Landsvirkjunar og ISAL/Rio Tinto er í höfn. Árið 2010 heimtaði forstjóri Landsvirkjunar, Hörður Arnarson, að álverðstenging við raforkuverðið yrði afnumin. Með semingi var það látið eftir honum, og samningurinn frá 2011 innihélt einvörðungu tengingu við neyzluverðsvísitölu í Bandaríkjunum, svo gáfulegt sem það nú er. Við endurskoðun þessa raforkusamnings 2019-2021 þvældist Landsvirkjun lengi vel fyrir tillögu ISAL/Rio Tinto um endurupptöku álverðstengingar, þótt í breyttri mynd yrði, en söðlaði svo skyndilega um síðla árs 2020.
Strax og raforkuverðið til ISAL skreið yfir verðið samkvæmt eldri samningi, 39 USD/MWh, birtust trúnaðarupplýsingar um verðútreikning eftir endurskoðun í Markaði Fréttablaðsins, 19. maí 2021, og stutt viðtal við Hörð. Hvaðan komu þessar upplýsingar ? Það er furðulegt, að forstjóri Landsvirkjunar skuli ekki hafa þvertekið með öllu að ræða um hinn endurskoðaða raforkusamning á grundvelli trúnaðarupplýsinga í höndum Markaðar Fréttablaðsins.
Þar er hann þó enn við sama heygarðshornið og kveður "fast" verð áfram vera fyrsta val Landsvirkjunar, sem er skrýtið í ljósi þess, að lágmarksverðið í þessu tilviki er hátt eða um 30 USD/MWh (þar fer hann ekki nákvæmlega með). Fari álverð yfir 1800 USD/MWh, deila ISAL og Landsvirkjun hagnaðinum með sér.
"Ótal fjárfestingarverkefni eru á teikniborðinu, sem snúast um að ná árangri í loftsalgamálum. Þar má nefna fjölnýtingu orkustrauma (með tilheyrandi orkusparnaði), föngun kolefnis, förgun kolefnis og framleiðsla á rafeldsneyti."
Þetta er rýrt í roðinu hjá iðnaðarráðherra, nema hið síðast nefnda. Nú hafa Þjóðverjar boðið Íslendingum upp í dans á sviði vetnistækni. Sjálfsagt er að stíga þann dans undir ljúfri þýzkri "Tanzmusik". Þetta varð ljóst við lestur greinar sendiherra Sambandslýðveldisins, Herrn Dietrich Becker, í Bændablaðinu 27. maí 2021. Það er eðlilegt að stofna með þeim þróunar- og framleiðslufélag hérlendis, sem framleiði hér vetni með rafgreiningu og flytji megnið út, en aðstoði hér við að nýta vetnisafurðir á vinnuvélar, skip og flugvélar. Skrýtið, að iðnaðarráðherra skuli ekki geta um þessa þróunarmöguleika í téðri orku- og loftslagsgrein sinni.
Auðvitað útheimtir verkefnið nýjar virkjanir. Getur verið, að heimóttarleg afstaða vinstri grænna til þeirra setji landsmönnum stólinn fyrir dyrnar við raunhæft verkefni til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í Evrópu. Þá yrði Vinsri-hreyfingin grænt framboð heimaskítsmát í loftslagsskákinni, eins og sumir áttu von á. Reyndar hefur nú Landsvirkjun dregið lappirnar svo lengi að hefja nýjar virkjanaframkvæmdir, t.d. í Neðri-Þjórsá, að nú stefnir í alvarlegan orkuskort næsta vetur, sem getur þýtt tap útflutningstekna upp á tugi milljarða ISK. Sleifarlag ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar er óviðunandi. Hneykslanlegt útspil fyrirtækisins, sem fram kom á forsíðu Morgunblaðsins 03.06.2021 (allt að 15 % gjaldskrárhækkun) er efni í annan pistil.
Síðan heldur iðnaðarráðherra áfram í tengslum við ótilgreind græn verkefni:
"Ef þessi viðleitni á að geta blómstrað, megum við ekki kæfa hana í fæðingu með sköttum og skrifræði. Við eigum þvert á móti að greiða götu hennar með einföldu regluverki og jafnvel styrkjum og ívilnunum. Skref í þá átt hafa þegar verið stigin með verkefninu "Græni dregillinn", nýjum áherzlum og auknum fjárheimildum Orkusjóðs og nýjum lögum um ívilnanir til grænna fjárfestinga. Auk þess hef ég nýlega hafið frumathugun á því, hvort raunhæft sé að ganga lengra með því að verja a.m.k. hluta af tekjum ríkissjóðs af losunarkvótum til að styðja við fjárfestingarverkefni, sem þjóna loftslagsmarkmiðum okkar."
Græn verkefni á borð við vetnisverksmiðju og verksmiðjur vetnisafurða á borð við ammoníak, metanól, etanól o.fl. verða arðberandi verksmiðjur, sem nýta þróaða tækni, og þurfa þess vegna ekki styrki úr ríkissjóði, heldur aðeins samkeppnishæft raforkuverð, væntanlega 25-35 USD/MWh. Þeir, sem lifa í hugmyndaheimi afdankaðs sósíalisma, munu vilja háa skattheimtu af arðgreiðslum þessara félaga sem annarra. Þeir horfa fram hjá því, að fjármagn kostar, og ef ekki er aðsvon af fjárfestingu í fyrirtækjum, þá verður ekkert af fjárfestingunum, nema ríkissjóður slái lán til áhættufjárfestinga, en ríkisvaldið stenzt einkafyrirtækjum ekki snúning, hvað rekstur varðar, og er þá nánast sama, hvað um ræðir. Iðnaðarráðherra hefur rétt fyrir sér um skattana, en vanmetur e.t.v. vilja einkafjárfesta til fjárfestinga á þessu sviði alfarið á viðskiptalegum grundvelli. Sjálfsagt er að beina opinberum tekjum af sölu koltvíildiskvóta til þróunar á mörkuðum fyrir vetnisafurðir, skógræktar o.fl.
Síðan kemur iðnaðarráðherra á óþarflega almennan hátt að nauðsyn nýrra virkja:
"Ef við ætlum að tryggja, að bæði núverandi og nýir notendur grænnar orku geti fengið hana á samkeppnishæfu verði, þurfum við að huga miklu betur að framboðshlið orkunnar og sjá til þess, að hér verði framleidd meiri orka. Það ætti að öllu jöfnu að stuðla að lægra verði, þó að auðvitað komi samkeppnin þar líka við sögu."
Þetta er rétt hjá iðnaðarráðherra og orð í tíma töluð. Halda mætti, að einhver valdalaus skrifari úti í bæ hefði párað þetta, því að stjórn stærsta orkufyrirtækis landsins, Landsvirkjunar, sem alfarið er í eigu ríkisins, virðist vera annarrar skoðunar en ritarinn, því að Landsvirkjun er alls ekkert í virkjunarhugleiðingum þessa stundina. Hvernig í ósköpunum má þetta vera ? Orkuskortir blasir við næsta vetur. Ef allir núverandi viðskiptavinir Landsvirkjunar hefðu síðastliðinn vetur nýtt samninga sína til hins ýtrasta, sem þeir voru fjarri því að gera vegna deilna við Landsvirkjun og markaðsaðstæðna, hefði komið til stöðvunar á afhendingu allrar orku, nema forgangsorku, frá orkuverum Landsvirkjunar. Þetta ásamt mjög lágri vatnsstöðu Þórisvatns núna, sýnir, að yfirvofandi er orkuskortur í landinu. Hvers vegna skipar eigandinn ekki Landsvirkjun að hefjast handa strax til að forða stórfelldu efnahagstjóni árum saman (nokkur ár tekur að reisa virkjun, þótt fullhönnuð sé nú) ? Þykist ríkisstjórnin ekki hafa til þess vald vegna lagaákvæða Orkupakka 3, sem að forminu gætu virzt draga völd úr höndum ráðherra og til Orkustjóra ACER á Íslandi, sem einnig stjórnar Orkustofnun Íslands, eða svífur andi vinstri grænna yfir vötnunum ? Hvort tveggja er afleitt. "Something is rotten in the state of Danemark", var einu sinni skrifað. Eru orkumálin í lamasessi vegna stjórnmálaástandsins ? Það er of dýrt til að vera satt.
Iðnaðarráðherra hélt áfram hugleiðingum sínum um orkumálin:
"Því miður hefur hagkvæmni orkukosta nánast horfið út úr ferli rammaáætlunar, því að þetta grundvallaratriði hefur fallið í skuggann af flóknari spurningum um þjóðhagslega hagkvæmni - spurningum, sem ekki er hægt að svara, þegar ekki er vitað, hver muni kaupa orkuna. Þetta ferli þarf augljóslega að laga, og ég hef áður sagt, að svo virðist sem skynsamlegt væri að stíga skref til baka og huga betur að kostnaðarverði nýrra orkukosta, eins og gert var á fyrstu árum rammaáætlunar."
Í ljósi alvarlegrar stöðu orkumálanna er þetta tilþrifalítið hjá iðnaðarráðherra í lok kjörtímabils hennar. Það er alveg sama, hvaða virkjanakost menn velja núna - hann verður þjóðhagslega hagkvæmur vegna þeirrar einföldu ástæðu, að hann mun koma í veg fyrir orkuskort, og hver megawattstund, sem raforkubirgjar ekki geta afhent, kostar viðskiptavini á bilinu 100-1000 USD/MWh (12-120 ISK/kWh). Þótt ekki stafaði bráðavandi að núna, þá eru horfur á orkumarkaði hér nú þannig, að núvirði hagnaðar af hverri ISK í líklega öllum virkjanakostum í framkvæmdaflokki gildandi Rammaáætlunar er að líkindum hærra en af öðrum fjárfestingarkostum, sem eigendum virkjanafyrirtækjanna standa til boða. Þess vegna eru þessi skrif iðnaðarráðherra um flóknar spurningar um þjóðhagslega hagkvæmni virkjana torskiljanlegar. Við þurfum ekki flækjufætur, við þurfum framkvæmdafólk. Það hvílir óþarflega mikil þoka yfir iðnaðarráðuneytinu.
Næst víkur hún sér að vindorkunni:
"Vindorkan er síðan annar og mjög þýðingarmikill kapítuli, en hún hefur á fáum árum orðið sífellt ódýrari og er núna farin að veita okkar hefðbundnu orkulindum, vatnsafli og jarðvarma, mjög harða samkeppni. Þar eru tækifæri, sem við eigum að nýta."
Hefur iðnaðarráðherra séð einhverja samanburðarútreikninga, sem skjóta stoðum undir þessa fullyrðingu hennar um samkeppnihæfni vindorku á Íslandi, eða er þetta bara enn eitt dæmið um, að hver étur þessa fráleitu fullyrðingu upp eftir öðrum ? Vindorkuverin þurfa tiltölulega mikið landrými á hvert uppsett MW, og kostnaður landsins hefur áhrif á vinnslukostnað vindmylluversins. Gríðarlegir steypuflutningar kosta sitt. Niðurtekt og eyðingu þarf einnig að taka með í reikninginn. Dreifing trefjaplasts frá spöðunum, sem slitna í regni og sandbyljum, þarf að taka með í umhverfiskostnaðinn.
Kolefnisspor vindmyllna á framleiddar megawattstundir endingartímans, sem er styttri en hefðbundinna íslenzkra virkjana, er tiltölulega stórt, þegar allt er tekið með í reikninginn. Í íslenzku samhengi eru vindmyllur þess vegna ekki svo fýsilegar, að ástæða sé fyrir iðnaðarráðherra að hvetja til þeirra.
Lokatilvitnun í ráðherrann:
"Loks höfum við nú þegar gert gangskör að því að greina tækifæri til að lækka flutningskostnað raforku. Þær tillögur voru unnar hratt, en þó faglega og birtust í frumvarpi mínu til nýrra raforkulaga, sem miðar ótvírætt að því að lækka flutningskostnað með breyttum forsendum um útreikning á gjaldskrám eða nánar tiltekið tekjumörkum."
Þetta brýna mál fyrir allan atvinnurekstur í landinu hefur tekið ráðherrann allt of langan tíma. Hún hefði átt að vinda sér í málið á fyrsta ári ráðherradóms síns yfir orkumálunum, og á hvaða vegi er jöfnun flutningsgjalds á milli þéttbýlis og dreifbýlis statt, það brýna réttlætismál til að jafna stöðu íbúa í þéttbýli og dreifbýli m.t.t. þjónustu sérleyfisfyrirtækja ?
20.5.2021 | 13:35
Eru stjórnvöld með á nótunum ?
Þann 6. maí 2021 mátti sjá sjaldgæfa sjón á 38. síðu Morgunblaðsins, þ.e.a.s. sameiginlega afurð Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, og Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, um iðnaðar- og orkumál. Þeir virtust þarna taka höndum saman um gagnrýni á stjórnvöld orku- og iðnaðarmála í landinu fyrir sinnuleysi um umgjörð ríkisins fyrir þennan mikilvæga málaflokk fyrir hagvöxt og atvinnutækifæri í landinu. Þeir telja, að tregða stjórnvalda við að ryðja hindrunum úr vegi fjárfesta standi nú framförum á Íslandi stórlega fyrir þrifum. Þetta er saga til næsta bæjar á kosningaári. Greinina nefndu þeir:
"Græn framtíð orkuvinnslu og iðnaðar".
Hún hófst þannig:
"Lausn loftslagsmála felst aðallega í þrennu. Í fyrsta lagi að stórauka endurnýjanlega orkuvinnslu. Í öðru lagi að minnka kolefnisspor framleiðslu og þar með neyzlu okkar með nýsköpun og nýjum eða breyttum framleiðsluferlum. Í þriðja lagi þarf að fanga og nýta eða farga þeirri kolefnislosun, sem eftir stendur. Ótal tækifæri leynast á Íslandi til grænnar atvinnuuppbyggingar í tengslum við framangreindar lausnir, þ.á.m. fullkomið orkusjálfstæði landsins."
Óstöðug raforkuvinnsla, mikil landþörf og landlýti eru megingallarnir við þær tvær aðferðir, sem flest lönd hafa aðeins úr að moða við raforkuvinnslu úr endurnýjanlegum orkulindum, þ.e. raforkuvinnslu með vindmyllum og sólarhlöðum. Skýjafar og stuttur sólargangur útilokar síðar nefndu aðferðina á Íslandi, nema í litlum, afmörkuðum mæli, og aðferð til að geyma orkuna og taka hana út, þegar þörf er á, er nauðsynleg í nútímasamfélagi til að vindorkan komi að fullum notum sem endurnýjanlegur orkugjafi. Í vatnsorkulöndum er þetta hægt með því að spara vatn, þegar vindur blæs og ekki er þörf fyrir alla orkuna.
Hins vegar er þröskuldur umhverfisverndar mun hærri hér fyrir vindmyllur en víðast hvar annars staðar, af því að hérlendis spara vindmyllurnar ekkert jarðefnaeldsneyti. Þá er landþörfin á hverja framleidda kWh á endingartímanum miklu meiri fyrir vindorkuver en okkar hefðbundnu vatnsorkuver og jarðgufuver, og það er gríðarlegur galli, sem framkallar árekstra við aðra hagsmuni. Þetta er viðkvæmt mál, því að meiri raunverulegir hagsmunaárekstrar ferðamennsku og útivistar eiga sér stað í tilviki vindorkuvera en vatnsorku- og jarðgufuvera. Ferðamenn dragast hinum síðar nefndu, en forðast vindorkuverin. Auk þess þarf að gefa gaum að áhrifum spaðanna á hljóðvist og fuglalíf í grennd og áhrif slits þeirra á efnamengun umhverfis. Að öllu virtu liggur beinna við að anna aukinni orkuþörf atvinnulífs og heimila hérlendis með nýjum virkjunum vatnsafls og jarðgufu en með vindmyllum enn um sinn, enda vindmyllurnar vart samkeppnishæfar, hvað vinnslukostnað varðar.
Nú er svo komið, að vegna batnandi alþjóðlegra markaða eru verksmiðjur hér á leiðinni til fullnýtingar orkusamninga sinna, og þá verður ekkert eftir fyrir nýja notendur. Það skýtur þess vegna skökku við málflutning forstjóra Landsvirkjunar um orkusjálfstæði landsins, að fyrirtækið skuli ekki nú vera að hleypa framkvæmdum við nýja, umtalsverða virkjun af stokkunum. Hvaða hindranir eru þar í veginum ? Það þarf að tala og skrifa skýrt.
Stöðugt er unnið að minnkun kolefnisspors í öllum atvinnugreinum á Íslandi, og mest hafur munað um iðnaðinn og sjávarútveginn, en landbúnaðurinn hefur einnig staðið sig afar vel. Réttust viðmiðana í þessum efnum er þróun losunar á framleidda einingu, og þar á sennilega áliðnaðurinn vinninginn, því að verkfræðingum og öðrum sérfróðum þar á bæ hefur tekizt að lágmarka spennuris (tíðni og tímalengd) í rafgreiningarkerunum, en við þau verða m.a. til gastegundirnar CF4 og C2F6, sem eru mjög öflugar gróðurhúsalofttegundir.
Fleiri umbótaaðgerðir starfsmanna iðnaðarins hafa leitt í sömu átt, og það er ekki grobb að halda því fram, að fyrir tilstilli íslenzkra hugbúnaðarmanna og annarra sérfræðinga, rafgreina o.fl. íslenzku álveranna séu þau í fremstu röð í heiminum, hvað þetta áhrærir.
Þriðja atriðið, sem höfundarnir nefna, föngun og förgun kolefnis, FFK, er algerlega vanþróuð enn og á sér tæplega nokkra framtíð í sinni núverandi mynd vegna mikillar auðlindaþarfar á hvert tonn CO2 á formi orku og vatns, sem endurspeglast í háum kostnaði við föngun og förgun hvers tonns CO2.
Hjá ISAL í Straumsvík hyggja menn á tilraunir með föngun CO2 úr kerreyk reykháfanna og telja 20 USD/t CO2 efri mörk viðunandi kostnaðar. Erlendis er þessi kostnaður jafnvel tvöfalt hærri. Með heildarkostnað FFK á bilinu 40-70 USD/t CO2 er FFK hvorki samkeppnishæf við bindingu kolefnis með ræktun eða hreinlega við kolefnisfríar virkjanir, og það er engan veginn á vísan að róa með svo hátt gjald fyrir losunina af þessum ástæðum. Höfundarnir gera þessari vanburða og dýru aðferð allt of hátt undir höfði.
"Tækifæri okkar byggjast á, að við eigum þegar öflugt orkukerfi með hverfandi kolefnisspor og lítið vistspor, en landnýting í þágu vinnslu og flutnings endurnýjanlegrar orku á Íslandi er í dag áætluð um 0,4 % af landinu. Sambærilegt umfang er um 1,5-2 í Noregi og Danmörku."
Þessi tiltölulega litla landnotkun undir virkjanir, miðlunarlón og flutningslínur á Íslandi, sýnir í hnotskurn, hversu vel hefur verið staðið að þessum framkvæmdum m.t.t. lágmörkunar vistsporsins, þegar höfð er í huga sú staðreynd, að raforkuvinnsla á mann hérlendis er sú mesta, sem þekkist í nokkru landi. Sú staðreynd myndar trausta undirstöðu lífskjara í landinu, enda er jákvætt samband á milli rafvæðingar lands, raforkunotkunar, hagvaxtar og lífkjara í hverju landi.
Þótt raforkunotkunin sé mikil að tiltölu, gefur lítil landnotkun til kynna, að landið þoli tvöföldun hennar, án þess að líða tiltakanlega fyrir í ásýnd lands m.v. hin Norðurlöndin, enda eru fleiri virkjanir og öflugra flutningskerfi raforkunnar frumforsenda þess, að hugmyndir stjórnvalda um orkuskipti geti orðið að raunveruleika. Þetta var áréttað í Morgunblaðspistli iðnaðarráðherra 16.05.2021. Loftlínum fer mjög fækkandi á lægri spennustigum, og með hækkun 220 kV flutningsspennu í 400 kV má fjórfalda flutningsgetuna.
Að tiltölulega lítilli landnotkun var ýjað í grein Harðar og Sigurðar, en hrifning þeirra á vindorkuverum er illskiljanleg í ljósi kostnaðar, lélegrar nýtingar mannvirkja, mikillar og mjög lýtandi landnotkunar og mengunar af alvarlegu tagi (hljóð, efni).
"Tækifæri okkar er að byggja á þessum öfluga grunni og bæta við orkukerfi okkar með áframhaldandi ábyrgri nýtingu íslenzkra orkulinda, ekki sízt vaxandi vindorku, aukinni grænni framleiðslu í núverandi og nýjum iðngreinum og nýtingu hugvits okkar og reynslu, sem getur orðið öðrum fordæmi um, hvernig bæta megi efnahagslega velsæld, samfélag og umhverfi."
Það er ofmetið, að við getum orðið öðrum þjóðum fyrirmynd. Til þess eru aðstæður okkar of ólíkur aðstæðum annarra þjóða. Hið bezta mál er þó, ef hægt er að flytja út tækniþekkingu á viðskiptalegum grunni til að virkja orkulindir náttúrunnar, en það getur aldrei skipt miklu máli, og skrýtið, að höfundarnir skuli nefna það. Það er eins og kækur í stássræðum, einhvers konar gluggaskraut, að hér fljóti út úr vizkubrunni, þótt vel sé staðið að verki.
Höfuðatriðið á þessu sviði hérlendis núna er að hefja markvissan undirbúning að aukningu framboðs raforku með nýjum vatnsorkuverum og jarðgufuverum og hætta þessum gælum við stórkarlaleg mannvirki vindorkuvera, sem yrðu stórfellt lýti á landslaginu, eru dýr og óáreiðanleg. Ef hendur verða ekki látnar standa fram úr ermum, verður hér mikil hækkun raforkuverðs samkvæmt lögmálum framboðs og eftirspurnar, sem tefja mun framgang orkuskiptanna. Framboð hitaveituvatns þarf líka að auka, svo að "kuldaboli" taki ekki völdin í mestu frosthörkunum, eins og óttazt var síðastliðinn vetur.
"Stjórnvöld verða þó að vera hér í fararbroddi, tala fyrir tækifærum, framkvæma til samræmis og ryðja hindrunum úr vegi.
Það eru sameiginlegir hagsmunir Landsvirkjunar og Samtaka iðnaðarins að benda á þau orkutengdu tækifæri, sem felast í grænni framtíð. En við ætlum að gera meira. Við ætlum saman að taka virkan þátt í að auka það, sem verður til skiptanna í samfélagi okkar. Þar liggja sameiginlegir hagsmunir allra Íslendinga."
Þarna virðist koma fram sú raunverulega ætlun með þessari grein höfundanna tveggja að vera gagnrýni á sinnuleysi og aðgerðaleysi iðnaðarráðuneytisins. M.ö.o. finnst höfundunum forystu iðnaðarráðherra í orku- og atvinnumálum vera ábótavant. Þeir eru ekki einir um þessa skoðun. Þó er ekki skýrt kveðið á um í gagnrýni tvímenninganna, hverju þeir vilja, að ráðherrann beiti sér fyrir.
Ráðherrann hefur haft forgöngu um myndun orkustefnu, sem sumum þykir þó vera rýr í roðinu, en það vantar hvata af hálfu hins opinbera, til að orkufyrirtækin gangi rösklega fram við virkjanaundirbúning. Þvert á móti hvílir sá grámi yfir vötnunum, að þau bíði eftir orkuskorti, svo að þau fái ástæðu til að hækka orkuverðið. Það mun auðveldlega gerast, eftir að Landsnet og Orkustjóri ACER á Íslandi hafa komið hér á laggirnar framboðs- og tilboðsmarkaði (uppboðsmarkaði) fyrir raforku að evrópskum hætti, en iðnaðarráðherra taldi það mundu verða búbót fyrir neytendur, þegar Orkupakki 3 var til umræðu. Það á eftir að koma í ljós og verður e.t.v. látið bíða fram yfir Alþingiskosningar í haust. Frestur er á illu beztur.
"Heimurinn er nú á hraðferð inn í nýjan veruleika rafbíla, vetnisskipa og -flugvéla og annars græns samgöngumáta, og við eigum alla möguleika á að vinna matvæli og fisk með því að nýta grænu orkuna okkar."
Það er dæmalaus tvöfeldni af hálfu forstjóra Landsvirkjunar að eiga þátt í þessum skrifum í ljósi þess, að garðyrkjumenn hafa kvartað sáran undan stífni Landsvirkjunar í samningagerð um raforkuverð til ylræktunar. Þar, eins og annars staðar, hefur Landsvirkjun hundsað upphaflegt hlutverk sitt um að sjá íslenzkum atvinnufyrirtækjum fyrir nægri og ódýrri raforku, sem þó að sjálfsögðu þarf að standa undir öllum kostnaði við framleiðslu, flutning og dreifingu. Lækkun raforkuverðs til fiskvinnslu mundi t.d. auka samkeppnishæfni hennar við aðrar evrópskar fiskvinnslur, sem mundi leiða til þeirrar æskilegu þróunar að auka hlutdeild fullunninnar vöru sjávarútvegsins í útflutningi.
Loksins er í bígerð hjá iðnaðarráðuneytinu að gera ráðstafanir til að skapa forsendur til lækkunar gjaldskráar Landsnets og til jöfnunar á gjaldskrám dreifingarfyrirtækjanna á milli þéttbýlis og dreifbýlis. Slíkt er einfaldlega í anda þess að styrkja matvælaöryggi landsmanna og samkeppnishæfni atvinnulífsins almennt. Það er því vonum seinna, að þetta kemur fram.
"Öll okkar rafrænu samskipti kalla á vinnslu og vörzlu gagna í gagnaverum, sem þegar hafa risið hér, og getur sá iðnaður haldið áfram að vaxa og dafna með tilheyrandi útflutningstekjum og þekkingu fyrir þjóðarbúið. Þessi græna framtíð kallar bæði á orkuvinnslu og uppbyggingu græns iðnaðar."
Þetta er hræðilegur moðreykur í ljósi þess, hvernig Landsvirkjun hefur komið fram við eigendur gagnavera hérlendis, og formaður samtaka þeirra hefur gert grein fyrir opinberlega. Landsvirkjun hefur ekkert hlustað á þá um endurskoðun raforkusamninga í ljósi lækkunar raforkuverðs í nágrannalöndunum, sem leitt hefur til minni viðskipta og stöðnunar á sviði fjárfestinga í þessum geira hérlendis. Fagurgali forstjóra Landsvirkjunar er fullkomlega raunveruleikafirrtur. Þetta tengslaleysi við raunveruleikann nálgast siðleysi. Hvað gengur honum til ? Hefur hann eða stjórn Landsvirkjunar söðlað um ? Mun Norðurál og umbylting steypuskála fyrirtækisins á Grundartanga fyrir allt að mrdISK 15 njóta góðs af því ? Eiga ekki kjósendur, eigendur Landsvirkjunar, að fá haldbetri upplýsingar um framkvæmd orkustefnu iðnaðarráðherra en þessi óljósu reykjarmerki ? Svarið kemur í framhaldi greinar tvímenninganna hér að neðan. Boltinn er í fangi iðnaðarráðherra samkvæmt þeim. Þar ríkir ákvarðanatregða og forystuleysi, ef marka má höfundana. Þá vita kjósendur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í NV-kjördæmi það, nema ráðherrann leiðrétti misskilning þeirra tvímenninga snarlega.
"Ekkert af þessu gerist, nema þau, sem halda um stjórnvölinn, séu sammála okkur um mikilvægi þess að stefna í þessa átt. [Undirstr. BJo.]
Vissulega hafa mörg skref verið stigin á þeirri braut, en betur má, ef duga skal. Við eigum í harðri samkeppni við önnur lönd, sem einnig bjóða græna orku. Sú samkeppni harðnar enn meira, nú þegar beizlun vinds og sólar verður enn algengari um allan heim, og saxar á forskotið, sem orka vatnsafls og jarðvarma tryggði okkur áður."
Óhjákvæmileg aðgerð hérlendis til að bregðast við þeirri harðnandi samkeppni, sem nú er um að selja raforku úr "grænum" orkulindum í heiminum, er að lækka arðsemiskröfur á hendur íslenzkra orkufyrirtækja, ekki sízt Landsvirkjunar, svo að fyrirtækin geti í senn lækkað verð sín og fullnægt kröfum eigendanna. Einnig þarf að einfalda stjórnsýsluna um nýjar virkjanir, framkvæmdaleyfi og virkjanleyfi, sem flækjufætur hafa komizt í og skapað öngþveiti, sem leiðir til hás kostnaðar og orkuskorts, ef svo heldur fram sem horfir.
Það blasir við, að Hæstiréttur veitti fordæmi um, hvernig meðhöndla á virkjanamannvirki m.t.t. álagningar fasteignagjalds "orkusveitarfélaga", þegar hann dæmdi Fljótsdalshreppi í vil gegn Landsvirkjun í deilumáli um Kárahnjúkavirkjun. Þetta mun leiða til hærri rekstrarkostnaðar virkjanafyrirtækjanna, en líta má svo á, að verið sé að deila virkjanávinninginum með viðkomandi sveitarfélögum, sem hýsa þær, og það er eðlilegt, enda lækki arðgreiðslukrafa eigendanna á móti.
Síðan koma hugleiðingar höfundanna um framtíðina, sem ekki verða skildar öðruvísi en svo, að sú græna framtíð, sem þeir þykjast vilja beita sér fyrir, geti ekki orðið að veruleika, nema stjórnvöld landsins taki til hendinni. Þetta verður ríkisstjórnin að taka alvarlega og gera hreint fyrir sínum dyrum nú á kosningaári:
"Erum við reiðubúin að taka á móti þeim, sem vilja byggja hér næstu gagnaver ? Rafhlöðuverksmiðju til að mæta þörfum rafbílaframleiðenda ? Stór gróðurhús, sem tryggja ferskt grænmeti allan ársins hring ? Getum við tryggt aðstöðuna, orkuna, samstarf við önnur fyrirtæki, sveitarstjórnir og aðra hagaðila ?
Því miður skortir enn töluvert upp á. Landsvirkjun er reiðubúin að mæta þessari áskorun, og það eru Samtök iðnaðarins og íslenzk iðnfyrirtæki líka. En stjórnvöld verða að ryðja brautina, tryggja, að löggjöf sé með þeim hætti, að við missum ekki forskot okkar, hvort sem þar er rætt um skipulagsmál, umhverfismál, skattamál eða hvert annað atriði, sem snertir rekstur fyrirtækjanna. Frumkvöðlar eru vissulega tilbúnir til að taka ýmsa áhættu og skapa grundvöll undir starfsemi sína, en það þarf að ryðja hindrunum úr vegi. Ef við getum tryggt snör viðbrögð og fyrirsjánleika í rekstrarumhverfinu, eru allar líkur á, að hér byggist upp enn öflugri grænn iðnaður til framtíðar." [Undirstr. BJo.]
Halló, er iðnaðar- og nýsköpunarráðherra ekki heima ? Er allt froðusnakkið undanfarið ekkert meira en það, froðusnakk ? Hefur hún átt samtöl við þessa herramenn um hindranirnar, sem þeir telja stjórnvöld þurfa að ryðja úr vegi, svo að hér verði blómleg nýsköpun á sviði nýtingar grænnar orku ? Er það svo, að stjórnvöld standi eins og bergþurs gegn sköpun þeirra nýju atvinnutækifæra, sem ráðherrum verður svo tíðrætt um til að skapa ný störf og verðmæti, sem skotið geti stoðum undir núverandi lífskjör, sem ella munu hrynja, því að þau eru um efni fram. Það er eitthvað mikið óútskýrt fyrir kjósendum í þessu máli. Stendur einhver ríkisstjórnarflokkanna þversum gegn nauðsynlegum umbótum, eða hvers vegna í ósköpunum hefur ríkisstjórnin ekki látið verkin tala í kjölfar skrúðmælgi ?
Það verður þó að setja spurningarmerki við eina verksmiðjutegund, sem höfundarnir nefna hér að ofan sem æskilega fyrir Íslendinga að sækjast eftir, en það er rafgeymaverksmiðja. Hugmyndin er komin frá Landsvirkjun, en viðskiptalega er hún gjörsamlega fótalaus og umhverfislega gæti hún reynzt bjóða upp á illvíg vandamál. Ísland, með sínar miklu fjarlægðir frá hráefnum og mörkuðum rafgeyma, getur tæplega verið fýsileg staðsetning í augum slíkra fjárfesta. Við sjáum staðsetningu Tesla á risaverksmiðju í grennd við Berlín. Það verksmiðjuverkefni hefur reyndar lent í miklum mótbyr af umhverfisverndarástæðum vegna sjaldgæfs dýralífs, sem þar þarf að víkja.
Slík verksmiðja notar ýmsa sjaldgæfa málma, og verði þeir hreinsaðir hér, getur það leitt til mengunar, sem við viljum ekki sjá, t.d. geislavirkni. Megnið af þessum sjaldgæfu málmum, t.d. kobalt, sem í sumum tilvikum eru unnir með vafasömum hætti úr jörðu í Kongó, er reyndar flutt til Kína til vinnslu þar. Kínverjar ráða lögum og lofum á hráefnamarkaði bílarafgeyma og framleiða reyndar mest allra af þeim sjálfir. Þetta er ekki sérlega traust atvinnugrein að innleiða hérlendis, enda líklegt, að um bráðabirgða tækni verði að ræða.
Eftir þetta spark forstjóra Landsvirkjunar og framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins í mark ríkisstjórnarinnar, verða ráðherrar, t.d. iðnaðarráðherra, að gera hreint fyrir sínum dyrum. Ella situr ríkisstjórnin uppi ómarktæk með Svarta-Pétur efnahagslegrar stöðnunar og rýrnandi lífskjara.