Færsluflokkur: Umhverfismál

ETS-kerfi ESB er óþörf byrði

Það er ekki aðeins á sviði bóluefnaútvegunar, sem hérlendum búrókrötum, höllum undir Evrópusambandið, ESB, ásamt óstyrkum stjórnmálamönnum, tókst að hengja íslenzku þjóðarskútuna aftan í draugaskip Evrópu, heldur var það einnig gert í loftslagsmálunum á sinni tíð, þótt hér séu losunarmál koltvíildis með allt öðrum hætti en í ESB. Þessi undarlega staða gæti hafa myndazt vegna þrýstings frá hinum EFTA-ríkjunum í EES (Evrópska efnahagssvæðinu) um að fylgja leiðsögn búrókratanna í Brüssel, svo gáfulegt sem það nú er, en í Noregi og Liechtenstein er stjórnkerfið undirlagt af fólki, sem hrifið er af þeirri tilhugsun að verða hluti af stórríki Evrópu, þótt t.d. norska þjóðin deili ekki þeim hagsmunatengdu viðhorfum "elítunnar" með henni. Það er vert að hafa í huga núna á þjóðhátíðardegi Norðmanna, frænda okkar, "Grunnlovsdagen".  Í íslenzka utanríkisráðuneytinu er ekki fúlsað við slíkum "trakteringum" téðra búrókrata, hvað sem líður drýldni og sjálfshóli fyrir sjálfstæðisviðleitni þar á bæ.  

Þann 8. maí 2021 birtist baksviðsfrétt Þórodds Bjarnasonar í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:

"Fanga kolefni en greiða samt".

 Hún hófst þannig:

"Ef íslenzk álver taka þátt í þróun og nýtingu tækni, sem fangar koldíoxíð varanlega, þá þurfa þau engu að síður að greiða milljarða í losunargjöld innan ETS-kerfisins, viðskiptakerfis ESB um losunarheimildir.  Að sögn Péturs Blöndals, framkvæmdastjóra Samáls, samtaka álframleiðenda, vantar hvata í ETS-kerfið til að þróa og tefla fram nýjum lausnum, þrátt fyrir að slíkur hvati hafi verið frumforsendan fyrir því, að kerfinu hafi verið komið á fót."

Þetta sýnir, að ETS-kerfið hentar illa við íslenzkar aðstæður, enda er það sniðið við að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa í raforkuvinnslunni, þar sem skórinn kreppir einmitt í ESB.  Sá hlutur er sem kunnugt er næstum 100 % á Íslandi. 

Fyrir álver eru ýmsir kostir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, en róttækasta leiðin er að leysa kolaskaut rafgreiningarkeranna af hólmi með eðalskautum (t.d. úr keramik).  Ef tilraunir risanna, Rio Tinto og Alcoa, sem þeir hafa sameinazt um, takast með þetta, má búast við, að þeir muni reisa nýjar verksmiðjur með þessari nýju tækni, þótt raforkunotkunin per áltonn muni að öllum líkindum verða meiri en nú er til að vega upp á móti hitamyndun  frá bruna kolaskautanna.

Að óbreyttu gerir ETS gjaldkerfið íslenzku álverin væntanlega ósamkeppnishæf við ný kolefnisfrí álver.  Risafjárfesting af þessu tagi er ekki fýsileg fyrir álverseiganda, sem er aðeins með raforkusamning til 2036. Hefur Landsvirkjun reynt að hvetja til þessarar þróunar á Íslandi með því að bjóða hagstæða langtímasamninga til kolefnisfrírra álverksmiðja ?  Í mekki fagurgalans heyrist þó ekkert um raunhæf verkefni.  Þess vegna ríkir stöðnun í íslenzkri iðnvæðingu.  Orðin ein duga skammt.

"Losun gróðurhúsalofttegunda frá álframleiðslu er hvergi minni en á Íslandi [vegna innlendrar þróunar kerstýritækni og árvekni starfsmanna - innsk. BJo]. Þrátt fyrir það bera álverin kostnað af sinni losun, en ekki álver í Kína, sem knúin eru með kolaorku og losa því tífalt meira.  Ástæðan er sú, að ETS-kerfið nær einungis til evrópskra álvera.  Hættan, sem skapast við það, er, að álframleiðslan flytjist út fyrir álfuna, þar sem kolefnisfótsporið er stærra, en ekki þarf að greiða fyrir losunina."

ETS-kerfið hentar illa iðnaði, sem er færanlegur og stendur í alþjóðlegri samkeppni.  Kerfið hefur unnið gegn upphaflegum stefnumiðum með þessum "kolefnisleka"; það er vanhugsað, af því að gríðarlegar fjárfestingar og tækniþróun þarf til orkuskipta í iðnaði.  Á sama tíma er ETS mikil byrði á fyrirtækjunum, og þau hafa þess vegna ekki bolmagn til orkuskiptanna.  (Meginstarfsemi Rio Tinto og Alcoa er utan EES.) 

Það væri mun eðlilegra að umbuna fyrirtækjum, sem hafa lágmarkað sína losun niður í tæknilega mögulegt gildi, með því að sleppa þeim undan ETS um hríð (einn áratug) til að auðvelda þeim að þróa og innleiða nýja, kolefnisfría tækni.  

Síðan í apríl 2020 hefur álverð á markaði LME hækkað um 75 % og nálgast þá 2600 USD/t Al.  Spár hafa sézt um 3000 USD/t Al árið 2021.  Skýringin er sú, að framleiðsla hvers kyns varnings, þ.á.m. bifreiða, er með vaxandi hlutdeild áls af orkusparnaðar ástæðum, og Kínverjar hafa dregið úr álframleiðslu sinni af mengunarástæðum og eru nú orðnir nettó innflytjendur áls.  Öðru vísi mér áður brá.

Álver hvarvetna eru þess vegna að fara upp í fulla framleiðslugetu og jarðvegur að skapast til að auka framleiðslugetuna.  Hvernig bregðast Íslendingar við þeirri nýju stöðu ?  Á að grípa gæsina á meðan hún gefst, eða á að sitja á gerðinu, horfa í gaupnir sér og tauta, að orkulindir landsins séu að verða uppurnar ?  Hvar er sóknarhugurinn í verki ? Það væri mesta fásinna að gefast þannig upp fyrir afturhaldssjónarmiðum hérlendis, sem einkennast af svartagallsrausi í hvert sinn, sem taka á til hendinni við framkvæmdir, sem leiða til nýrrar verðmætasköpunar, sem veigur er í. Verði slík sjónarmið ofan á, geta atvinnuvegir landsins ekki veitt vaxandi þjóð atvinnu og þá velmegun, sem mikil spurn er eftir.

  


Gösslast í endurheimt votlendis

Innlendir loftslagstrúboðar staglast á frelsun landsmanna frá samvizkubiti koltvíildislosunar (kolvizkubit ?) með því að moka ofan í skurði, gamla og nýja, sem grafnir voru til að auka hér landnytjar á sinni tíð. Í elztu móunum, svo að ekki sé minnzt á túnin, sem ræktuð hafa verið á uppþurrkuðu mýrlendi, er sérstöku niðurbroti  lífmassa af völdum súrefnis lokið, og þar með komið á jafnvægi koltvíildislosunar eftir þurrkunina.  Þar með verður ávinningur endurbleytingar enginn og jafnvel neikvæður af völdum hinnar sterku gróðurhúsalofttegundar metans, CH4, ef ekki er gætt ýtrustu vandvirkni við endurbleytinguna. 

Annars staðar orkar þessi endurbleyting tvímælis, og  ætti þegar í stað að stöðva fjárútlát úr ríkissjóði til þessa vafagemlings, eins og lesa má út úr greininni:

"Endurheimt votlendis verður að byggja á traustum grunni",

sem birtist í Bændablaðinu 29.04.2021 og er eftir Guðna Þorgrím Þorvaldsson, prófessor við LbhÍ.  Hún hófst þannig:

"Árið 2018 skrifuðum við Þorsteinn Guðmundsson tvær greinar í Bændablaðið (2. og 4. tbl.) um losun og bindingu kolefnis í votlendi.  Við bentum á ýmsa þætti, sem valda óvissu í útreikningum á losun kolefnis úr jarðvegi hér á landi.  Þeir helztu eru óvissa um stærð þurrkaðs votlendis, breytileiki í magni lífræns efnis í jarðvegi, sem taka þarf tillit til, og takmarkaðar mælingar á losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi.  Við töldum, að á meðan verið væri að afla meiri gagna um votlendið, ætti fremur að leggja áherzlu á uppgræðslu lands til kolefnisbindingar." (Undirstr. BJo)

Það er ámælisvert, að fé sé veitt úr ríkissjóði í "loftslagsaðgerðir", þar sem ávinningurinn er ímyndaður, en raunveruleikinn er í þoku.  Það er lágmarkskrafa að fjármagna aðeins aðgerðir, sem eru vísindalega staðfestar "gagnlegar".  

 

"Af þessum þáttum er það hitinn, sem gefur tilefni til að ætla, að hér á landi sé niðurbrot hægara en í nágrannalöndunum.  Hér er sumarhiti mun lægri en víða í Norður-Evrópu, líka á svæðum, sem eru á sömu breiddargráðum og við.  [Þrændalög í Noregi eru gott dæmi um þetta - innsk. BJo.] Hér er hins vegar mikið framboð næringarefna, einkum á svæðum, sem reglulega verða fyrir öskufalli.  Það getur ýtt undir niðurbrot m.v. svæði, þar sem meiri skortur er á næringarefnum."

 Af þessu sést, að það er ótækt með öllu að réttlæta mokstur ofan í skurði á kostnað hins opinbera með losunartölum uppþurrkaðra mýra og endursköpuðum mýrum frá útlöndum, eins og Votlendissjóður gerir sig sekan um.  Það er ekki einu sinni haldbært að nota meðaltöl fyrir Ísland, heldur verður að mæla losun fyrir og eftir bleytingu á hverjum stað.  Vegna þess að metanmyndun kemur við sögu í endurbleyttum mýrum, verður að hafa nákvæmt eftirlit með myndun mýra á nýjan leik, en metan, CH4, er meira en 20-sinnum öflugri gróðurhúsagastegund en CO2, á meðan það varir í andrúmsloftinu. 

"Í tengslum við endurheimt votlendis hefur Landgræðslan notað tæki, sem mælir heildaröndun og mælir því allt, sem fer út; ekki bara það, sem er vegna niðurbrots á jarðvegi.  Það mælir heldur ekki bindinguna, sem kemur á móti.  Þetta þarf að hafa í huga, þegar niðurstöður þessa tækis eru skoðaðar.  Ef allt kolefni, sem fer inn og út úr kerfinu, er mælt, er ekki nauðsynlegt að sundurgreina þessa 3 þætti, heldur má líta á jarðveg, plöntuleifar og gróður sem einn pott.  Binding telst þá, þegar meira fer inn í pottinn en kemur út, og losun, þegar meira fer út en kemur inn."

Af þessu má ráða, að þeir, sem fást við árangur bindingar með ræktun eða myndun mýrlendis, verða að þekkja vel til mælitækja í notkun og beita rétta verklaginu við að komast að réttri niðurstöðu.  Ef það er gert, er líklegt, að áróðurinn fyrir endurbleytingu mýra á forsendum gróðurhúsalofttegunda muni missa fótanna.  

Síðan kemur lýsing á annarri, álitlegri aðferð:

"Í öðrum rannsóknum var borið saman magn kolefnis ofan ákveðins öskulags í jarðvegi, sem hafði verið framræstur, og jarðvegi á sama svæði, sem ekki hafði verið ræstur. Mælt var, hversu mikið lífrænt efni hefði minnkað frá því framræsla var gerð í samanburði við óframræst land og þannig fengin meðallosun yfir tímabilið.  Kosturinn við þessa aðferð er sá, að hún mælir beint breytingar á kolefnisstöðu í jarðveginum og endurspeglar margra ára atburðarás. 

Samkvæmt þessum rannsóknum var árleg losun á C á bilinu 0,7-3,1 tonn/ha.  Þar sem mælingin fór fram ofan við tiltekið öskulag (30 cm dýpt), er ekki útilokað, að einhver losun hafi orðið á meiri dýpt, en mest gerist þó ofan þessarar dýptar." 

Að meðaltali jafngildir þetta losun 7,0 t CO2/ha, sem er aðeins þriðjungur þess, sem Votlendissjóður lepur upp eftir IPCC, sem birt hefur töluna 20 t CO2/ha sem meðaltal fyrir heiminn.  Þetta sýnir hættuna, sem stjórnvöldum og almenningi er búin af fúskurum, sem grípa eitthvað á lofti erlendis frá án þess að kunna hina réttu túlkun gagnanna.  

"Í vetur bættist við ný ritrýnd grein, þar sem fylgzt var með losun og bindingu á Sandlæk í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.  Þar er um 20 ára gamall asparskógur á framræstu landi.  Í þetta sinn var mælt með útbúnaði, sem mælir inn- og útstreymi kolefnis allan sólarhringinn allt árið um kring.  

 

 

Niðurstöðurnar voru þær, að skógurinn batt mikið kolefni og jarðvegurinn batt 0,5 t C/ha á ári [=1,9 t CO2/ha á ári], þannig að þarna var engin losun á C úr jarðvegi í þessi 2 ár, sem mælingar stóðu yfir.  [Að auki kemur svo bindingin í viðnum, sem er há hjá ösp eða um 20 t CO2/ha - innsk. BJo]. 

Skurðir eru ekki þéttir í landinu, en skógurinn þurrkar mikið að sumrinu.  Vatnsstaða yfir veturinn er yfirleitt há í mýrartúnum á Íslandi og því lítil losun.  Kostur þessarar aðferðar er m.a., að hún mælir allt, sem fer út og inn allt árið, á meðan punktmæling tekur bara yfir lítið brot af árinu." 

 

 Af þessu má ráða, að sú aðferð að planta öspum í uppþurrkaðar mýrar hefur mun meiri burði til að draga úr myndun gróðurhúsalofttegunda en mokstur ofan í skurðina.  Netto-binding með asparaðferðinni er um 22 t CO2/ha á ári, en með bleytingunni er nettó minnkun losunar 7 t CO2/ha á ári.  Mismunurinn er 15 t CO2/ha á ári, sem er tiltölulega mikið, og að auki kemur síðan viðarnýting við grisjun og fellingu trjáa sem hráefni til trjáiðnaðar.  Að moka ofan í skurði virkar sem frumstætt atferli í samanburðinum.

"Ef tekið er vegið meðaltal þessara 15 staða, koma út 2,7 t C/ha á ári [=10 t CO2/ha á ári - innsk. BJo], sem er um helmingi minna en losunarstuðlar IPCC (Milliríkjanefndar Sþ um loftslagsmál). Þessar tölur [af Suðurlandi og Vesturlandi] gefa til kynna töluverðan breytileika í losun og bindingu, sem stafar bæði af árferðismun, mun á milli staða og e.t.v. milli aðferða. 

Ef menn vilja fara í endurheimt, þarf því að skoða vel aðstæður á hverjum stað.  Þetta undirstrikar líka, að við þurfum að gera mun fleiri mælingar um allt land og birta niðurstöðurnar með þeim hætti, að þær fái alþjóðlega viðurkenningu. [Þetta er mergurinn málsins og staðfestir, að allsendis ótímabært er fyrir hið opinbera að styrkja endurheimt votlendis, heldur á að beina kröftum hins opinbera að rannsóknum og mælingum á þessu sviði - innsk. BJo.]

Það er forsenda þess, að við getum notað stuðla, sem byggjast á athugunum, sem gerðar eru hér á landi, og þurfum ekki að nota stuðla frá IPCC, eins og gert er nú."

Af hérlendum rannsóknum á þessu sviði, sem vísað hefur verið í hér, má draga þá ályktun, að hreint fúsk felist í að moka ofan í skurði til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda frá landi hérlendis.  Ávinningurinn er 1/3 - 1/2 þess, sem IPCC gefur út sem meðaltal fyrir heiminn, en langöflugasta mótvægisaðgerðin er að planta trjáplöntum í móana, sem vinna mikið CO2 úr lofti og binda í rótum og viði, t.d. ösp.

"Það hefur verið rekinn mikill áróður fyrir endurheimt votlendis undanfarið.  Þá vakna spurningar um það, hver ávinningurinn sé af því að moka í skurðina.  Í umræðunni er því gjarnan haldið fram, að losun kolefnis nánast stöðvist við þessa aðgerð.  Hér á landi hefur verið gerð ein tilraun, þar sem borin er saman losun og binding á kolefni og metani, annars vegar í endurheimtu landi og hins vegar landi, sem ekki var endurheimt, en á sama stað.  Landið var mælt í nokkra mánuði fyrir endurheimt og svo báðir meðferðarliðir eftir endurheimt í 4 mánuði. 

Niðurstaðan var sú, að losun kolefnis minnkaði aðeins um 20 % við endurheimtina, en metanlosun jókst töluvert, en var samt lítil.  Mælingar voru svo gerðar árið eftir, en niðurstöðurnar hafa ekki birzt.  Ekki voru gerðar mælingar á tilraunasvæðinu árin þar á eftir."

Þessi niðurstaða felur í sér falleinkunn á endurheimt votlendis í þágu loftslags.  CO2-losunin minnkar um 20 %, en á móti eykst metanlosunin, og verður að meta hana á móti, því að hún er yfir 20-falt sterkari gróðarhúsalofttegund en CO2.  Ekki kæmi höfundi þessa pistils á óvart, að þessi mokstur ofan á skurði sé í mörgum tilvikum algerlega unninn fyrir gýg (kostnaður út um gluggann og rýrir beitiland og hugsanlegt ræktarland framtíðar fyrir korn, repju, iðnaðarhamp o.fl.).

 

  

 

 

 

 


Trúarhiti og hlýnun jarðar

Innan loftslagstrúboðsins eru nokkrar greinar, eiginlega sértrúarsöfnuðir, sem virðast þeirrar skoðunar, að betra sé að veifa röngu tré en öngu.  Einn slíkur trúir því, að endurbleyting uppþurrkaðra mýra sé áhrifarík leið til að draga úr losun koltvíildis frá jarðvegi á Íslandi.  Þessi söfnuður, kenndur við Votlendissjóð á spena hjá ríkissjóði, veifar erlendum losunartölum, sem er algerlega út í hött að gera, því að losun úr jarðvegi er háð hitastigi jarðvegsins og efnasamsetningu.

  Ávinningurinn við mokstur ofan í skurði er þannig stórlega ofmetinn, og ætti hið opinbera að hætta að hlýða á gösslarana og bíða með allan peningaaustur í þessa skurði, þar til íslenzkir vísindamenn hafa lokið mælingum sínum og geta gefið ráð um, hvernig fénu verður bezt varið til að draga úr nettólosun úr íslenzkum jarðvegi. Til þess þarf rannsóknir og umfangsmiklar mælingar.  

Annar söfnuður er að myndast á Hellisheiðinni hjá jarðgufuvirkjun ON um að fanga koltvíildi úr andrúmslofti og úr gasstreymi frá jarðgufunni. Hann er nú að færa kvíarnar út til iðnaðarins. Honum virðist hafa tekizt að koma því inn hjá stjórnmálamönnum og e.t.v. fleirum, að hjá sér eigi sér stað uppgötvanir á heimsmælikvarða fyrir loftslagið með því að skilja koltvíildi frá öðrum gösum, leysa það upp og dæla því niður í jörðina, þar sem það verður að steindum.  Þetta er mjög orðum aukið, því að víða á jörðunni eru gerðar tilraunir með hið sama og hafa verið gerðar í meira en áratug. Þetta er afkastalítil, orkukræf, vatnsfrek og dýr aðferð, sem getur ekki keppt fjárhagslega við bindingu með ræktun. 

Á þessu ári verður gerð tilraun í Straumsvík með að skilja CO2 frá kerreyk í ISAL-verksmiðjunni.  Í reykháfunum er koltvíildið í háum styrk, og við slíkar aðstæður borgar þessi aðferð sig einna helzt. Bráðabirgða kostnaðarathugun höfundar, sem birtist í þessum pistli, bendir þó ekki til, að nokkurt vit sé í þessari aðferð vegna mikils umhverfisrasks og kostnaðar.

Á Íslandi er basaltið þó sérstaklega móttækilegt fyrir þessa niðurdælingu, og á það í ríkum mæli við Straumsvík vegna gleypni bergsins þar.  Hversu lengi tekur niðurdælingarhola við m.v. ákveðin niðurdælingarafköst ?  Það eru óþekktar stærðir í Straumsvík, en mikilvægar fyrir umfang athafnasvæðis og kostnað.  

Forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, reit grein í Fréttablaðið 30. apríl 2021 af talsverðum trúarhita um baráttu hinna góðu afla við drekann ógurlega og nefndi greinina "eðlilega":

"Stærsta verkefnið".

Greinin hófst þannig:

"Í upphafi vikunnar [v. 17/2021] bárust þær ánægjulegu fréttir frá Umhverfisstofnun, að losun gróðurhúsalofttegunda á beinni ábyrgð Íslands hefði dregizt saman um 2 % milli 2018 og 2019, sem er mesti samdráttur milli ára frá 2012.  Þróun í bindingu í skóglendi er líka mjög jákvæð, en hún jókst um 10,7 % frá 2018 til 2019 og hefur nú náð sögulegu hámarki frá 1990."

 Þetta eru ánægjuleg tíðindi af skógræktinni, og er vonandi, að binding nýræktunar fari nú að vigta til mótvægis við losunina í kolefnisbókhaldinu gagnvart ESB. Það er ólíkt gæfulegra að planta í uppþurrkaðar mýrar en að bleyta í móunum með því að fylla skurðina. 

Forsætisráðherra hefur þanið bogann til hins ýtrasta og sett landsmönnum markmið um 55 % minnkun losunar CO2 árið 2030 m.v. árið 2005.  Það þýðir 4 %-5 % árlega minnkun losunar á þessum áratugi.  Hvernig ætlar hún að meira en tvöfalda árlega minnkun losunar á þessum áratugi, þegar ríkið væntir a.m.k. 3 % hagvaxtar að jafnaði á ári ?

"Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar eru loftslagsmálin í algjörum forgangi."

Þetta er alveg ótrúlegt í ljósi almennt hárra loftgæða á Íslandi og þeirrar staðreyndar, að öll losun Íslendinga hefur engin mælanleg áhrif á hlýnun andrúmslofts jarðar.  Hér er um pólitískt slagorð vinstri grænna og annarra óraunsærra sveimhuga að ræða ásamt flumbrugangi þeirra á tíma örrar þróunar í tækni orkuskiptanna á flestum eða öllum sviðum hennar.  Að binda þá þjóðina í báða skó með vanhugsuðum markmiðum að viðlögðum sektum í erlendri mynt til ESB er ábyrgðarlaust og óskynsamlegt. 

"Þá hefur aldrei verið veitt meira fjármagni til málaflokksins en á þessu kjörtímabili.  Og til að mæta nýjum og metnaðarfyllri skuldbindingum okkar í loftslagsmálum, sem kynntar voru í desember síðastliðnum, bættum við enn frekar í aðgerðir og fjármagn til málaflokksins í nýrri fjármálaáætlun, sem nú er til meðferðar á Alþingi." 

Þetta er algerlega glórulaust ráðslag forsætisráðherra.  Á sama tíma og fjármögnun hjúkrunar- og dvalarheimila fyrir hrumustu og elztu borgara lýðveldisins er þannig, að þau stefna nú flest lóðbeint á hausinn, og afleiðingar stjórnvaldsráðstafana í sóttvarnarskyni eru að lenda á heilbrigðiskerfinu af vaxandi þunga, þá er báráttan við hlýnun jarðar sett í algeran forgang í fjárveitingum úr ríkissjóði.  Er forsætisráðherra siðblind að velja þessa forgangsröðun ríkisútgjalda ?

"Í vikunni heimsóttu ráðherrar í ríkisstjórninni Carbfix, sem er dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur.  Carbfix byggist á íslenzku hugviti, sem gengur út á að fanga koldíoxíð og aðrar vatnsleysanlegar gastegundir, eins og brennisteinsvetni úr útblæstri og binda í steindir í bergi á umhverfisvænan hátt.  Aðferðarfræðin er einstök á heimsvísu og getur orðið mikilvægt framlag í baráttunni gegn loftslagsvánni."

Hér er líklega ýmislegt ofmælt hjá forsætisráðherra.  Það er hæpið, að hugmyndafræðin um að fanga koltvíildi og binda það í iðrum jarðar sé afsprengi íslenzks hugvits, því að tilraunir með þess háttar föngun og bindingu voru hafnar erlendis, t.d. í Bandaríkjunum, áður en þær hófust á Hellisheiðinni, eins og lesa má um á bókum.  Hið eina sérstaka við þetta hérlendis er tengt jarðfræðinni, en íslenzka basaltið er gleypið á vökvann, vatn og uppleyst CO2, sem dælt er niður.  Aðferðarfræðin sem slík er þó alls ekki einstök á heimsvísu. 

Þarna er forsætisráðherra fórnarlamb áróðurs hagsmunaaðila, sem að þessu standa, hyggjast hasla sér völl í Straumsvík og eru með draumóra um innflutning koltvíildis til landsins.  Það er mjög hæpið, að þessi aðferð verði nokkurn tímann "mikilvægt framlag í baráttunni gegn loftslagsvánni", eins og búið er að telja forsætisráðherra trú um.  Til þess er hún of dýr, landfrek, orkukræf og vatnsfrek, en hreint vatn er sem kunnugt er ein af takmörkuðum auðlindum jarðar.

Carbfix er með áform um niðurdælingu 3 Mt/ár (Mt=milljón tonn) af CO2.  Þetta er um 50 % meira en losun iðnaðarins á Íslandi, enda er ætlunin að sverma fyrir fangað CO2 frá útlöndum og ekki mun nást 100 % föngun CO2 úr afgasi iðjuveranna.  Vatnsþörfin verður gríðarleg fyrir blöndun við 3 Mt/ár af CO2 eða 75 Mt/ár eða að jafnaði 2400 l/s, sem er um 7 föld vatnsþörf ISAL og tæplega þreföld vatnsdreifing Vatnsveitu Reykjavíkur. Þessu vatni er ætlunin að dæla upp úr Kaldánni, sem rennur neðanjarðar út í Straumsvík.  Þar hefst við einstök murtutegund í hálfsöltu vatni.  Það verður svo miklu vatni kippt út úr sínum náttúrulega farvegi, að vegna hækkaðs seltustigs í Straumsvík gætu lífsskilyrði þessarar murtutegundar verið í uppnámi. Þetta þarf að rannsaka áður en lengra er haldið með umfangsmikil áform Carbfix og Coda Terminal (ON o.fl.) í Straumsvík.

Mikið jarðrask fylgir gríðarlegum fjölda borholna fyrir upp- og niðurdælingu og athafnasvæðið verður stórt; líklega verða um 150 borholur í gangi á hverjum tíma, og óljóst er, hversu lengi hver niðurdælingarhola endist.  Það er mikil þörf á, að þetta verkefni fari í lögformlegt umhverfismat, því að við fyrstu sín er hætta á umhverfisslysi.  Þótt forsætisráðherra sé hrifinn af þessu rándýra, gagnslitla og stórkarlalega verkefni, er það auðvitað engin trygging fyrir því, að það sé vistvænt eða vitrænt.  Verkefnið er ljóslega óendurkræft, svo að rannsaka verður allar hliðar þess út í hörgul áður en framkvæmdaleyfi verður veitt.

Er einhver fjárhagsleg glóra í þessu verkefni ?  Um það ríkir alger óvissa.  Samkvæmt upplýsingum um stofnkostnað framkvæmdaaðilans "Coda Terminal", sem virðist vera dótturfyrirtæki ON og Carbfix, og ætluðum orkukostnaði og gjaldi fyrir vatnið, má ætla kostnað við móttöku, meðhöndlun og förgun í Straumsvík um 15 USD/t CO2.  Ef reiknað er með 0,5 Mt/ár CO2 af innanlandsmarkaðinum og 2,5 Mt/ár erlendis frá, gæti meðalflutningskostnaður verið um 16 USD/t CO2.  Þá er föngunarkostnaðurinn eftir.  Um hann ríkir óvissa, t.d. úr kerreyk álveranna, en hann gæti þar numið 15 USD/t CO2.  Heildarkostnaðurinn við þetta ævintýri er þá yfir 45 USD/t CO2 (förgun:15+flutningur:16+föngun:15). 

Meðalverð á koltvíildiskvóta undanfarin 2 ár er undir 40 USD/t.  Verðið núna er hærra en 50 USD/t, en allsendis óvíst er, að meðalverðið verði yfir 45 USD/t CO2 á þessum áratugi, svo að þetta umhverfislega glæfraverkefni virðist vera alger vonarpeningur fjárhagslega og t.d. alls ekki fjárhagslega samkeppnishæft við bindingu með íslenzkri skógrækt.  Hér virðist farið fram meira af kappi en forsjá. 

Í lok greinar sinnar skrifaði forsætisráðherra:

"Loftslagsmálin voru eitt af stóru málunum í stefnuskrá Vinstri grænna fyrir síðustu kosningar.  Þau munu áfram verða það, og ég er sannfærð um, að sú stefna, sem nú hefur verið mörkuð, og þær aðgerðir, sem þegar hefur verið gripið til, byggi mikilvægan grunn að árangri Íslands í loftslagsmálum.  Verkefnið er hins vegar gríðarstórt, og meira mun þurfa til - en ef við höldum áfram á sömu braut, mun það skila frekari árangri og Ísland leggja sitt af mörkum í baráttunni gegn loftslagsvánni - stærsta verkefni samtímans."

 Hver er þessi margtuggni árangur Íslands í loftslagsmálum ?  Honum hefur að mestu verið náð fyrir löngu, þegar Íslendingar virkjuðu náttúruöflin til raforkuvinnslu og húsnæðishitunar. Ef heimurinn væri í sömu sporum og Íslendingar núna, hvað þetta varðar, þá væri einfaldlega ekki neitt gróðurhúsavandamál og yfirvofandi hlýnun andrúmslofts yfir 3,0°C, sem hefur í för með sér enn óstöðugra og hættulegra ástand á jörðunni en þar er núna. 

Ísland hefur þegar lagt sitt af mörkum í þessum skilningi, en það er sjálfsagt að taka fullan þátt í áframhaldandi orkuskiptum.  Það er þó óþarfi af forsætisráðherra Íslands að vera með öndina í hálsinum yfir því hótandi almenningi með svipu lífskjaraskerðinga, svo að keyra megi þennan þátt orkuskiptanna fram með ógnarhraða.  Það á að mestu að beita til þess jákvæðum hvötum, og þá munu orkuskipti heimila og fyrirtækja fara fram með þjóðhagslega hagkvæmum hætti.   

 


Loftslagstrúboðið yfirskyggir stéttabaráttuna

Ofstækisfull stjórnmál eiga margt sammerkt með trúarbrögðum.  Nú hefur loftslagstrúboðið tekið á sig mynd og er eins konar krossför gegn hlýnun jarðar. Vinstri menn á Íslandi hafa gripið þetta mál fegins hendi, enda staddir í hugsjónalegu tómarúmi eftir skipbrot sameignarstefnunnar hvarvetna.  Sá er galli á gjöf Njarðar fyrir þessa trúboða hérlendis, að Ísland er fámennt hreinorkuland á sviði raforkuvinnslu og þess vegna eftir svo litlu að slægjast, að öll núverandi losun Íslands í 100 ár mundi engin teljanleg áhrif hafa á hlýnun jarðar. 

Það er sjálfsagt að fara í orkuskiptin með skipulegum hætti, en allt flas þar er ekki til fagnaðar, t.d. nýjasta markmið forsætisráðherrans um 55 % samdrátt 2030 m.v. 2005, sem á eftir að verða efnahagslega íþyngjandi fyrir þjóðina algerlega að þarflausu.

Æðsti prestur loftslagstrúboðsins, umhverfisráðherrann Guðmundur Ingi Guðbrandsson, varaformaður vinstri græningjanna, hefur nú hlotið efsta sætið á lista VG í SV-kjördæmi (Kraganum).  Það verður sjón í sólskini að sjá íbúa þessa kjördæmis veita þessum trúboða fánýtra kenninga og bíllauss lífsstíls brautargengi til setu á Alþingi. Maðurinn á ekkert erindi á þing. Framganga hans við ríkisvæðingu miðhálendisins með þjóðgarði til að drepa í dróma alla nýtingu náttúruauðlinda þar er víti til varnaðar.  Það er engin þörf á að stofna rétt eitt silkihúfuapparatið til að torvelda landsmönnum með krumlu ríkisvaldsins að nýta og njóta, en það tvennt fer saman, þegar vel er haldið á spilunum.  Þetta er montverkefni sófagræningja til að geta státað sig af "stærsta þjóðgarði" Evrópu. 

Helzt vill afturhaldið drepa alla nýtingu náttúruauðlinda í dróma og breyta landinu öllu í einn allsherjar þjóðgarð, þar sem fágæt eintök tegundarinnar "homo sapiens" verða til sýnis umheiminum á eldfjallaeyju, sem er í stöðugri mótun, lengst norður í Atlantshafi.  Gæluverkefni afturhaldsins í landinu eiga sér engin takmörk, enda hefur þeim verið hossað langt umfram það, sem samræmist fjölbreytilegum atvinnuháttum og gjaldeyrisöflun í landinu. Það verður engin sátt í landinu um fórnir íbúanna, sem engum gagnast. 

Þann 27. apríl 2021 reit téður Guðmundur Ingi grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni:

"Kyrrstaðan hefur verið rofin á kjörtímabilinu".

 Af fyrirsögninni mætti ætla, að maðurinn væri framfarasinni, en framfarir í hans huga eru varla það, sem flestir kjósendur í Kraganum mundu kalla framfaramál.  Hann átti við minnkun losunar gróðurhúsagasa, sem hann telur hafa markað tímamót árið 2019:

 gær greindi Umhverfisstofnun frá nýjum losunartölum, sem sýna, að á milli áranna 2018 og 2019 dró úr losun gróðurhúsalofttegunda á beinni ábyrgð Íslands um 2 %.  Þetta eru frábærar fréttir.  Samdráttur frá árinu 2005 er 8 %."

Litlu verður vöggur feginn.  Vaxandi fjöldi rafmagnsbíla fer að vigta inn til minni benzín/dísilolíunotkunar, en mest munar hér um færri ferðamenn í kjölfar falls WOW-air, og þar af leiðandi minni akstur á vegum úti. Það er varla tilefni til fagnaðarláta, þegar minni losun stafar af minni efnahagsumsvifum, minni atvinnu og minni hagvexti, en þar sannast enn andstaða vinstri grænna við hagvöxt.  Ef um það er val, er of langt gengið í loftslagstrúboðinu að fórna hagvexti fyrir minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda, sem hvort eð er hefur engin áhrif á hlýnun andrúmslofts. 

"Aðgerðir í loftslagsmálum eru stærsta velferðar- og efnahagsmálið á þessari öld.  Þær eru grundvöllur fyrir því að geta rétt af misskiptingu og félagslegt óréttlæti í heiminum og stöðvað ósjálfbæra nýtingu auðlinda okkar." 

Í íslenzku umhverfi virkar þessi texti mjög framandi og ankannalegur, og í alþjóðlegu samhengi orkar hann tvímælis.  Ráðherrann er þess vegna hér að fiska í gruggugu vatni. Þetta er tilraun hans til að skapa VG tilverugrundvöll, eftir að stéttabaráttan varð sjálfdauð með yfirtöku heimspekinga, félagsfræðinga og þvílíkra á vinstri hreyfingunni. Losun Íslands hefur engin mælanleg áhrif á hlýnun jarðar, og megnið af iðnaðarlosuninni á Íslandi veldur beinlínis minni losun á heimsvísu. Losun landsins tengist hagkerfinu beint, svo að valdbeiting ríkisins í anda ráðherrans til að minnka hér iðnaðarlosun mundi koma Íslendingum á vonarvöl og auka heimslosunina.  Fyrir landsmenn er þess vegna engin vitglóra í þessum boðskapi ráðherrans. Þarna er um að ræða nýju fötin keisarans.

Asíulönd hafa mörg hver rifið sig upp úr sárri fátækt og til bjargálna með erlendum (mest vestrænum) fjárfestingum, sem leitt hafa til rafvæðingar fjölmennra landa og þar af leiðandi mikillar raforkunotkunar, og þetta viðbótar rafmagn kemur að mestu frá kolaverum og jarðgaskyntum orkuverum, en einnig frá stórum vatnsorkuverum og kjarnorkuverum.  Ætlast Guðmundur Ingi til þess, að þessar þjóðir gefi lifibrauð sitt upp á bátinn ? 

Kínverjar, svo að dæmi sé tekið, glíma við hroðalega loft- og jarðvegsmengun af völdum stefnu sinnar, og þess vegna leita þeir ráða til að snúa á braut orkuskiptanna.  Þeir hafa nú bæði fjárhagslegt og tæknilegt bolmagn til þess, sem þeir höfðu ekki fyrir 30-40 árum.  Líklega eru þeir að þróa kjarnorkuver til að leysa kolaverin af hólmi.  Það verður ekki séð, að nokkra skynsemi sé að finna í tilvitnuðum orðum íslenzka umhverfisráðherrans. Þau eru falsboðskapur. Þetta er marklaust pólitískt kvak loftslagstrúboða með engar haldgóðar lausnir fyrir hagsmuni alþýðu manna. 

"Markmið Íslands um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda voru um áramót uppfærð úr 40 % samdrátt til ársins 2030  í 55 % samdrátt. En við þurfum að stefna enn hærra. 

Við þurfum að beita skattkerfinu í þágu loftslagsins og hringrásarhagkerfisins og sjá til þess, að það verði auðveldara og ódýrara að gera við og nýta það, sem til er, heldur en að kaupa nýtt.  

Við þurfum sérstaka áætlun um vernd víðerna, sem óvíða eru meiri en einmitt hér á Íslandi.  Við eigum að vera fremst í því að vernda náttúruna - verða þjóðgarðalandið Ísland.  Og, við þurfum stefnu um verndarsvæði í hafi. 

Í rauninni mætti draga þetta saman í þessa setningu: Við þurfum að setja náttúruna og loftslagið í fyrsta sæti.  Á því byggist velferð samfélags okkar til framtíðar.  Svo einfalt er það." 

Hér kennir ýmissa grasa og ekki allra kræsilegra.  Ráðherrann sýnir þarna, að VG-ráðherrarnir, hann og forsætis, hafa algerlega tapað áttum, þegar þau bleyttu á sér þumal, stungu honum upp í loftið og fundu þannig, að Íslendingar gætu dregið úr losun CO2 um 55 % frá losuninni 2005 fyrir árslok 2030.  Það blasir við, að þetta verður þolraun fyrir fjölskyldur og hagkerfið í heild og næst ekki án þungbærra þvingunarráðstafana ríkisins.  Ávinningurinn verður enginn fyrir hitastig andrúmsloftsins.  Samt ógnar ráðherrann með enn meiri samdrætti.  Er ráðherrum vinstri hreyfingarinnar græns framboðs skítsama um lífskjörin í landinu og skeyta ekki um annað en að baða sig í sviðsljósinu með ráðherrum annarra landa ?

Ráðherrann kemur þarna út úr skápnum með það hugarfóstur sitt og VG "að beita skattkerfinu í þágu loftslagsins og hringrásarhagkerfisins".  Þetta þýðir m.a. enn meiri hækkanir opinberra gjalda á benzín og dísilolíu og einhvers konar vörugjald á heimilistæki og aðrar fjárfestingarvörur heimilanna, til að heimilin eigi enn erfiðara með að endurnýja tækjabúnað sinn.  Stækkandi heimili þurfa að stækka þvottavélar, ísskápa o.s.frv.  Hvaða heilvita maður er tilbúinn að taka þátt í þessari gandreið ráðherrans fyrir hégómleika vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og ekkert annað.  

Umhverfisráðherrann vill "Þjóðgarðalandið Ísland".  Hvers vegna í ósköpunum ? Hugdetta ráðherrans um miðhálendisþjóðgarð er allt of stórkarlaleg til að vera fýsileg.  Fyrir hvern er ávinningurinn ?  Náttúruna ?  Búrókratana ?  Hér er um að ræða útþenslu ríkisbáknsins undir umsjón umhverfis- og auðlindaráðherra til að takmarka mjög arðsama nýtingu þessa landsvæðis. Það er engin boðleg stefna um miðhálendið önnur en sú, sem tryggir áframhaldandi stjórnsýslu aðliggjandi sveitarfélaga og hófsama og sjálfbæra nýtingu allra náttúruauðlinda þjóðlendnanna í þágu þjóðarinnar allrar. 

Ráðherrann opinberar mannfjandsamleg viðhorf sín með því að skrifa, að "við þurfum að setja náttúruna og loftslagið í fyrsta sæti".  Andstæð stefna við þetta er að setja fólkið í fyrsta sæti. Stefna ráðherrans er að hindra alla nýja nýtingu náttúruauðæfa, sem þó er þjóðinni til hagsbóta, og skattleggja almenning í drep í nafni loftslagsguðsins, sem hann tilbiður.  Ráðherrann boðar helsi og afturhald.  Valkosturinn við stefnu þessa ráðherra er frelsi og framfarir.  "Svo einfalt er það."  D2409TQ37

 

 


Loftslagsmálin fá vaxandi vægi

Það varð vendipunktur í viðleitni vestrænna ríkja til að draga úr bruna jarðefnaeldsneytis, þegar Joe Biden, forseti Bandaríkjanna (BNA), tilkynnti, að Bandaríkin vildu á ný takast á hendur skuldbindingar Parísarsáttmálans frá desember 2015.  Forsetinn snýr nú ofan af hverjum gerningi fyrirrennara síns á fætur öðrum, en sá rak argvítuga einangrunarstefnu undir kjörorðinu "America first".  Lýðræðisríki heims mega einfaldlega ekki við því, að forysturíki þeirra dragi sig inn í skel sína í heimsmálunum, enda sá kínverski drekinn sér þá hvarvetna leik á borði að fylla tómarúmið.  Hann vex stöðugt meir en allir hinir risarnir á heimssviðinu bæði að vergri landsframleiðslu og hernaðarmætti. 

Er alveg ljóst, að heimsmálin munu næstu áratugi einkennast af baráttu Vesturveldanna við að hemja drekann í austri.  Þar takast á ólíkir menningarheimar og ólík pólitísk hugmyndafræði. Drekanum hefur tekizt að virkja auðvaldskerfið til að endurreisa Kína sem stórveldi á mettíma undir stjórn kommúnistaflokksins.  Þessi samþætting er vandasöm, og tjáningarfrelsið, sem yfirleitt helzt í hendur við athafnafrelsið, stendur sem fleinn í holdi einræðisstjórnarinnar í Beijing.

  Áróðursstríð verður háð ásamt baráttu um auðlindir og pólitísk yfirráð.  Búast má við hernaðarátökum í Asíu. Nóg er að virða fyrir sér hernaðaruppbygginguna á Suður-Kínahafi og flotauppbyggingu Kínverja.  Taiwanstjórnin óttast kínverska innrás innan áratugar, enda viðurkennir Beijing-stjórnin ekki fullveldi Taiwan.

Joe Biden og loftslagserindreki hans , John Kerry, fyrrverandi utanríkisráðherra BNA, hafa tilkynnt um stórhuga áform BNA um orkuskipti.  Það á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 50 % fyrir árið 2030 m.v. árið 2020. Um þetta mun muna á heimsvísu. Gangi þetta eftir munu Bandaríkin verða í forystu, hvað orkuskiptin áhrærir, árið 2030. Þetta er aðeins mögulegt með tæknibyltingu, en BNA hafa áður sýnt, að þau geta unnið upp tæknilegt forskot annarra á innan við áratugi.  Þessi stefnubreyting er mikið fagnaðarefni, því að tæknibylting er forsenda raunverulegs árangurs í baráttu við hlýnun lofts og lagar. Heimurinn allur mun njóta góðs af, og BNA verða í fararbroddi vestrænna ríkja við að hægja á og síðan stöðva hlýnun jarðar.

Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur og fyrrverandi iðnaðarráðherra, er manna fróðastur um loftslagsmálin.  Hann reit fróðlega grein í Morgunblaðið 4. desember 2019, sem hann nefndi:

"Hvers vegna er loftslagsváin nú hvarvetna mál mála ?"

"Hann [Parísarsáttmálinn] tekur í raun f.o.m. árinu 2021 við af Kyoto-bókuninni.  Samkvæmt samningnum taka þróuð ríki sjálfviljug á sig skuldbindandi markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofts næsta áratuginn, þ.e. fram til ársins 2030.  Miðað er við, að þær skuldbindingar liggi fyrir í síðasta lagi á næsta ársfundi (COP-26), sem halda á í Glasgow haustið 2020.  Talið er, að fundurinn í Madrid gefi tóninn um, hvert stefni.  Ísland hefur sett stefnuna á a.m.k. 29 % samdrátt í losun 2030 m.v. stöðuna árið 2005 og stefnir á 40 % samkvæmt aðgerðaáætlun." 

Umhverfisstofnun (UST) telur, að losun Íslands á GHL, sem fellur undir beina ábyrgð stjórnvalda, árið 2030 muni nema 2513 kt CO2íg, en hún var 2965 kt árið 2020.  Þetta er minnkun um 452 kt eða 15,2 % og  nemur 19 % m.v. viðmiðunarárið 2005.  Þetta er miklu minni samdráttur koltvíildislosunar en ofangreint markmið Íslands (29 %), svo að ekki sé nú minnzt á 40 % í aðgerðaráætlun, sem ekki er enn tilbúin.  Eru það stórundarleg vinnubrögð Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, og Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, að birta lokatölu aðgerðaráætlunar áður en einstakir þættir hennar hafa verið mótaðir og kóróna svo ábyrgðarleysið með því að hækka markmiðið upp í 55 % árið 2030, en Katrín Jakobsdóttir tilkynnti þessi ósköp nú 2021 drýgindalega í hópi fleiri evrópskra þjóðarleiðtoga, þótt markmiðið sé sett algerlega út í loftið. 

Hvernig er hægt að ná 55 %, þegar Umhverfisstofnun telur aðeins raunhæft að ná 19 % samdrætti m.v. 2005, þ.e. að komast í 2513 kt árið 2030 ?  Það er ekki hægt án rándýrra þvingunarráðstafana af hálfu ríkisvaldsins, sem óhjákvæmilega munu rýra lífskjörin á Íslandi algerlega að þarflausu, því að öll núverandi losun á Íslandi frá starfsemi manna hefur engin mælanleg áhrif á hlýnun jarðar.  Þetta óðagot forsætisráðherra er unnið fyrir gýg og nær þess vegna engri átt, enda getur það kostað Íslendinga yfir mrdISK 10 á þessum áratugi í greiðslur losunargjalds.  Er það ekki Stjórnarskrárbrot að skuldbinda landsmenn þannig á alþjóðavettvangi fyrir greiðslu upphæðar, sem óvissa ríkir um ?

UST telur, að vegaumferð muni losa 603 kt CO2 árið 2030 og að hún hafi losað 992 kt árið 2020.  Þetta er 389 kt samdráttur eða 39,2 % og 86 % af áætluðum heildarsamdrætti á ábyrgð stjórnvalda. 

Þetta jafngildir um 100 k færri jarðefnaeldsneytisbílum árið 2030, og þá má reikna með um 130 k fleiri hreinorkubílum.  Þetta er ekki útilokað, en þá þurfa nánast allir nýir bílar að verða hreinorkubílar héðan í frá, og til þess þarf að halda vel á spöðunum, því að þeir nema nú undir 70 % allra nýrra fólksbíla og jeppa.  Verð rafmagnsbíla færist nær verði sambærilegra benzín og dísilbíla með tímanum, og úrvalið vex nú með hverju árinu. Það má heita útilokað, að nýjasta, rándýra hugdetta forsætisráðherra um 55 % samdrátt náist 2030.  Ótrúlegt ábyrgðarleysi að binda þjóðinni slíka bagga að henni forspurðri.   

Þessi orkuskipti verða hins vegar ekki án fjárfestinga í innviðum og endabúnaði til að hlaða rafgeymana.  Reikna má með orkuþörfinni 640 GWh/ár (án vetnisverksmiðju) og samsvarandi aflþörf 200 MW fyrir orkuskiptin árið 2030.  Þetta ásamt öðrum innviðum til orkuskipta gæti kostað um mrdISK 300.  Árið 2030 gæti eldsneytissparnaður orkuskiptanna verið 120 kt/ár og gjaldeyrissparnaðurinn numið MUSD 120 eða mrdISK 15.  Þetta er alveg viðunandi "endurgreiðslutími" m.v., að um áratuga endingu fjárfestinganna er að langmestu leyti að ræða.  Þjóðhagslega lítur þessi hluti orkuskiptanna ekki illa út. 

Höldum áfram með tilvitnaða grein Hjörleifs:

"Það er því með ólíkindum, þegar einstaklingar og stjórnmálasamtök telja sig þess umkomin að gera niðurstöðurnar um þátt mannsins í aukinni CO2-losun tortryggilegar og segja þær ómarktækar."  

Þetta skrifar Hjörleifur eftir ýmsar tilvitnanir, t.d. í IPCC, Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna.  Það hefur með haldgóðum rökum verið sýnt fram á þátt mannkynsins í auknum styrk koltvíildis í lofthjúpinum, en hann hefur aukizt um 48 % frá 1850 til 18.03.2021, þ.e. úr 280 ppm í 416 ppm.  Það hefur hins vegar verið bent á, að fleiri þættir geta haft áhrif á hitastig lofthjúpsins, t.d. breytileg geislun orkugjafans sjálfs, sólarinnar.

Það er þó hægt að beita sambandi breytts koltvíildisstyrks og hitastigsbreytingar til að nálgast vænt gildi hlýnunar.  Lögmálið er kennt við Ångström og af því leiðir, að tvöföldun koltvíildisstyrks hækkar hitastig um 1,0 %.  Ef gert er ráð fyrir línulegri breytingu, fæst: DT=0,48*2,88°K=1,4°C.

Þetta er í hærri kantinum m.v. nýlegar mælingar, sem birtar hafa verið, og munar þar e.t.v. 0,2°C, sem unnt er að skýra með varmaupptöku hafsins og kælingaráhrifum eldgosa, sem spúa m.a. brennisteini.  Þannig er engum blöðum að fletta um sjálf gróðurhúsaáhrifin með vísun til eðlisfræðinnar. 

"Þeir [7 loftslagssérfræðingar, sem eru höfundar "Climate tipping points-too risky to bet against] benda á, að jafnvel þótt staðið verði við fyrirliggjandi loforð um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum muni meðalhitinn samt hækka í um 3°C, þ.e. langt yfir markmið Parísarsamningsins, þar sem miðað er við að hámarki 2°C hlýnun.  [Samkvæmt Ångströmslögmálinu gerist þetta um árið 2077.]  Þeir telja því úreltar kenningar sumra hagfræðinga um, að fyrst við 3°C hækkunarmörkin sé þörf á gagnaðgerðum.  Í stað þess verði að draga mörkin við 1,5°C hlýnun.  Þessi staða kalli því á neyðarviðbrögð nú þegar.  M.a. leggja þeir ríka áherzlu á að bregðast þurfi við hættunni af yfirvofandi hækkun sjávarborðs.  Hún geti numið 3 m vegna bráðnunar tiltekinna jökla á Suðurskautslandinu, að ekki sé talað um hraðari bráðnun Grænlandsjökuls.  Til samans geti þessir þættir leitt af sér 10 m hækkun sjávarborðs, sem varað geti í margar aldir." 

Í stað þess að flýta orkuskiptunum hérlendis óhóflega með miklum kostnaði fyrir þjóðarbúið, sem hefur þó engin áhrif á hlýnunina, væri ríkisstjórninni nær að gera áætlun um fyrstu ráðstafanir til að bregðast við hærra sjávarborði. Margir staðir hérlendis eru viðkvæmir fyrir hækkun sjávarborðs, en við erum svo heppin, að nokkurt landris verður við minnkun fargs, t.d. bráðnun jökla. 

Vegna þess, að enn hefur ekki náðst að draga varanlega úr heimslosun koltvíildis, þótt umhverfisráðherra telji, að hámarkslosun hafi náðst á Íslandi 2018, er farið að huga að því að vinna CO2 úr andrúmslofti.  Þetta er þó mjög dýrt og afköstin sáralítil.  Hérlendis er aðferðin fjarri því að vera samkeppnishæf við bindingu CO2 með ræktun hvers konar. 

Álverið í Straumsvík og líklega einnig Norðurál eru að búa sig undir tilraun með að vinna koltvíildi úr kerreyk.  Það er ódýrara en úr andrúmslofti, því að styrkur CO2 er miklu meiri í kerreyk en í andrúmslofti.  Það kostar um 5 USD/t CO2 að dæla vatninu með uppleystu koltvíildi niður í  gljúpt blágrýtið Straumsvík, og það má ekki kosta meira en 10-15 USD/t CO2 að fanga koltvíildið úr kerreyk, til að þessi aðferð verði samkeppnishæf.  Hin endanlega lausn fyrir álverin er auðvitað að breyta kerunum og leysa kolaskautin af hólmi með s.k. eðalskautum til að losna við myndun CO2.  Á vegum móðurfyrirtækis ISAL, Rio Tinto, standa nú yfir tilraunir í Frakklandi og Kanada með þá tækni í kerum af fullri stærð. 

"Þannig áætlar Umhverfisstofnun SÞ, að til að stöðva sig af við 1,5°C hlýnun þurfi árlega að draga sem svarar 7,6 % úr losun gróðurhúsalofts.  Hlutur Íslands er hingað til öfugsnúinn.  Árið 2017 jókst losun hér um 2,5 % m.v. árin á undan og um 32 % frá árinu 1990; staðan hefur ekki skánað síðan.  Þetta þýðir, að til að ná fyrirhuguðum bindandi niðurskurði CO2 næsta áratuginn þarf annað og meira að koma til.  

Athygli vekur, að Evrópusambandið stendur að baki Bandaríkjunum og Kína, þegar kemur að fjárfestingum í loftslagsaðgerðum.  Þær námu í ESB aðeins 1,2 % [af hverju, líklega af VLF ?], í USA 1,3 % og 3,3 % í Kína."

Með "öðru og meira" á Hjörleifur Guttormsson sennilega við þvingunarúrræði ríkisins, sem geta orðið mjög íþyngjandi fyrir almenning.  Það er algerlega óverjandi að leggja þungbærar álögur á atvinnulíf og almenning til að ná árangri, sem munar ekkert um í heildarsamhenginu og verða þess vegna fórnir til einskis.  Svona hafa engir tekið til máls síðan trúarhöfðingjar voru og hétu og hvöttu til krossfara af gríðarlegum trúarhita.  

Nú eru að verða vatnaskil í orkuskiptunum í Bandaríkjunum með síðustu valdaskiptum í Hvíta húsinu og á Capitol Hill.  Bandaríkin munu vafalaust taka forystu í tæknilegum efnum, en hraðfara tækniþróun er eina vonin til að nálgast megi ofangreinda lækkunarþörf losunar koltvíildis um 7,6 % á ári á heimsvísu.  Þá er aðallega horft til nýs orkugjafa, sem komið geti í stað kolaorkuvera. Jafnvel Bandaríkin treysta sér ekki í 7,6 % samrátt á ári, sbr 50 % á 10 árum.  Þess vegna er hlýnun umfram 1,5°C næsta vís.  

 

 

 

 

 

 


Loftslagsmálin og Kófið

Eldgosið við Fagradalsfjall á Reykjanesi, sem jarðfræðingar telja kunni að vera upphafið að langvinnri goshrinu á fleiri sprungusvæðum Reykjaness allt að Hengilssvæðinu,  hefur leitt hugann að smæð mannsins og tækni hans í samanburði við náttúruöflin. Jarðfræðingarnir hafa reyndar lýst yfir töluverðri undrun sinni atburðarásinni þarna.  Spádómsgáfa þeirra virðist fremur rýr í roðinu til skamms tíma, þótt hún sé viðunandi á löngu tímaskeiði. Slíkt gagnast lítið í núinu, en er fræðilega (akademískt) áhugavert.

Á meðal gosefnanna eru varasamar gastegundir fyrir lífríkið og gastegundir, sem virka á lofthjúp jarðar bæði til kælingar og hlýnunar. Um 150 virk eldfjöll munu nú vera á jörðinni, en áhrif þeirra á lofthjúpinn til hlýnunar eru sögð vera undir 1 % af núverandi áhrifum mannlegra athafna á lofthjúpinn til hlýnunar.  Áhrif Íslendinga, þótt allt sé tíundað (einnig frá jarðvegi) eru aðeins um 0,03 % af árlegri losun mannkyns af s.k. gróðurhúsalofttegundum, svo að áhrif Íslendinga á hlýnun lofthjúps má telja engin, því að þau eru innan óvissumarka þess, sem mannkynið er talið láta frá sér af gróðurhúsalofttegundum árlega. Allt flas til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda hérlendis er tilgangslaust, nema til að slá pólitískar keilur í málefnaþröng.  

Samt er því haldið fram, að Íslendingar losi mikið af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið m.v. aðrar þjóðir, en þá er deilt í losunina með höfðatölu, og fást þá um 16 t CO2eq/mann, sem þykir hátt.  Þetta eru hins vegar reikniæfingar, sem breyta engu um þá staðreynd, að þjóðin hefur líklega engin áhrif á hlýnun jarðar vegna fámennis.  Sú staðreynd blasir enn skýrar við, þegar þess er gætt, að næstmesti losunarvaldurinn hérlendis á eftir brennurum jarðefnaeldsneytis, orkukræfur iðnaður, framleiðir efni, sem valda minni brennslu eldsneytis við notkun þess, ekki sízt álið, sem notað er aftur og aftur í hvers konar fartæki til að létta þau.  Endurvinnslan þarfnast tiltölulega lítillar orku á við frumvinnsluna (<5 %).  Eins og margoft hefur verið tönnlazt á, væri þetta ál framleitt annars staðar, ef ekki nyti við álveranna á Íslandi, með margfaldri, líklega áttfaldri, losun gróðurhúsalofttegunda á hvert tonn.  Þeir, sem eru með mikla losun Íslendinga á heilanum, eru samt á móti þessari starfsemi hérlendis og mega ekki heyra minnzt á virkjanir í þágu málmframleiðsluiðnaðarins.  Það er ekki öll vitleysan eins.   

Það, sem skilur Íslendinga algerlega frá flestum öðrum þjóðum í þessu samhengi, er uppruni losunarinnar.  Hjá flestum öðrum þjóðum á hún rætur að rekja til raforkuvinnslu, en raforkuvinnsla Íslendinga veldur sáralítilli losun gróðurhúsalofttegunda.  Dálítið myndast af metani í nýjum miðlunarlónum og frá jarðgufuverum.  Frumorkunotkun Íslendinga er hins vegar yfir 80 % (83,3 %) úr "endurnýjanlegum" orkulindum, vatnsafli og jarðvarma, en tæplega 17 % (16,7 %) úr jarðefnaeldsneyti að fluginu meðtöldu m.v. árið 2018. Flestar aðrar þjóðir glíma nú við að koma hlutfalli endurnýjanlegrar orkunotkunar upp í 20 %.  Þannig má ljóst vera, að staða Íslendinga í loftslagsmálum er allt önnur og betri en flestra annarra þjóða. 

Kosturinn við orkuskiptin á Íslandi eru bætt loftgæði og gjaldeyrissparnaður, en ekki minni hlýnun jarðar.  Þá er leið Íslendinga að orkuskiptum mun greiðfærari en flestra annarra, af því að í landinu er nóg af endurnýjanlegum orkulindum til að standa undir orkuskiptum á hagkvæman hátt. Er þá alls ekki átt við vindorkuna, sem tröllslegar vindmyllur nýta, eru til stórfelldra lýta, gefa frá sér óþægileg lágtíðnihljóð og dreifa hormónaruglandi örplasti og stærri plastögnum úr feiknarlöngum spöðum (130 m, 300 km/klst á enda).

Í þessu ljósi blasir við, hversu öfugsnúinn og andfélagslegur málflutningur fólks er, sem leggst gegn nánast öllum nýjum, hefðbundnum virkjunum á Íslandi, oft með vanstilltum fullyrðingaflaumi og gefur jafnvel vindorkunni undir fótinn. Að breyta miðhálendi Íslands í þjóðgarð ("National Park") er tilræði við hvers kyns nýtingu náttúruauðlinda í auðgunarskyni fyrir almenning, eins og sést af þessari alþjóðlegu skilgreiningu þjóðgarða:

"National Parks provide a safe home for native plants and animals." Beit, veiðar og jafnvel uppgræðsla samrýmast þessu ekki.  "... commercial exploitation of natural resources in a national park is illegal."

  Hvað sem líður tali umhverfisráðherra um, að flest geti verið eins og áður eftir ríkisvæðingu miðhálendisins, er ljóst, að hann getur stöðvað áform um virkjanir á miðhálendinu, þótt þær séu nú í nýtingarflokki samkvæmt Rammaáætlun, og jafnvel veiðiskap, eftir stofnun miðhálendisþjóðgarðs.

Sigríður Á. Andersen, Alþingismaður, ritaði stutta grein í Morgunblaðið 17. apríl 2021 um loftslagsmál frá óhefðbundnu sjónarhorni, sem ekki er vanþörf á, því að þessi málaflokkur, sem hérlendis er rekinn undir formerkjum Evrópusambandsins, sem er óviðeigandi og allt of dýrkeypt fyrir neytendur og skattborgara þessa lands (að mestu sami hópurinn), enda nefndi hún greinarstúfinn:

"Eytt út í loftið".

 Vinstri flokkarnir, sem misst hafa fótanna vegna sambandsleysis úr fílabeinsturnum sínum við alþýðu landsins, hafa í staðinn gert umhverfismál að sínum, og þau hafa sízt af öllu batnað við það, og er fótalaus loftslagsumræðan til marks um það.  Loftslagið er orðið andlag skattheimtu á Íslandi fyrir þrýsting þessa jarðtengingarlausa liðs, og áróður um skaðvænleg áhrif hlýnunar jarðar gellur í eyrum daglega, þótt Íslendingar geti ekkert hægt á henni, sama hvað Katrín Jakobsdóttir og umhverfisráðherra vinstri grænna gelta um nauðsynlegar skattahækkanir og útlát úr ríkissjóði til lækkunar hitastigs andrúmsloftsins, útlát, sem nú eru reyndar  fjármögnuð með lántökum, og einnig sama, hvað téð Katrín setur Íslendingum háleit markmið um losun gróðurhúsalofttegunda með tilheyrandi fjárhagslegum skuldbindingum. Leyfir Stjórnarskráin slíkt framferði ? Sigríður reit:

"Þvert á það, sem vinstriflokkarnir boða, eigum við [að] stefna að árangri á þessu sviði sem öðrum með sem lægstum sköttum og minnstum kostnaði. Vinstrimenn eru hins vegar staðráðnir í því að efna til loftslagsmála við almenning með sköttum, eyðslu, boðum og bönnum."

Vinstri flokkarnir hafa tekið ástfóstri við loftslagsmálin.  Í þeim eygja þeir stökkbretti til skattahækkana og útþenslu ríkisbáknsins, og varla nokkur maður mun spyrja þá um árangur af þeirri byrðaaukningu á almenning eða af þeim fjáraustri, sem til loftslagsmálanna fer, enda verða áhrifin á hlýnun lofthjúpsins engin.

Það er siðlaust að leggja sífellt þyngri byrðar á almenning á fölskum forsendum, eins og baráttu við hlýnun jarðar.  Það er lítið betra framferði að reyna að þvinga fólk úr eldsneytisknúnum bíl og yfir í bíl, sem knúinn er innlendum orkugjöfum með ofurgjöldum á eldsneytið.  Það er þó virðingarvert að nota jákvæða hvata til að fá fólk til orkuskipta á borð við það að sleppa virðisaukaskatti o.fl. við kaup á bifreiðum knúnum endurnýjanlegri orku, sérstaklega á meðan rafmagnsbílar eru dýrari, þótt einfaldari séu, á meðan framleiðslufjöldinn á ári er lítill. 

Vitlausast af öllu, sem stjórnvöldum hefur dottið í hug að styrkja í nafni samdráttar á losun gróðurhúsagasa, er þó mokstur ofan í skurði löngu uppþurrkaðra mýra, þar sem jafnvægi er komið á á milli losunar og bindingar koltvíildis.  Að endurskapa mýri úr móa án þess að auka losun gróðurhúsagasa er vandasamt, því að hætt er við rotnun gróðurs í vatni og myndun metans, sem er meira en 20 sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en koltvíildi.  Stjórnvöld ættu að hætta að verja skattfé í þessa endileysu, enda er engin umhverfisvá, sem knýr á um þetta, því að áhrifin á hlýnun jarðar eru sama og engin.  

Ávinningur Íslendinga af baráttunni við hlýnun jarðar verður aðallega mældur í auknum loftgæðum og gjaldeyrissparnaði.  Það er vissulega líka ávinningur í skógrækt fyrir landgæði, skjól, sölu koltvíildisbindingar og viðarnýtingu.  Að hefta uppblástur lands og hefja landvinninga á sviði landgræðslu er gríðarlegt hagsmunamál fyrir núlifandi og komandi kynslóðir í landinu.  Um leið er bundið koltvíildi í jarðvegi.  

"Við notum um 80 % endurnýjanlega orku, á meðan restin af veröldinni notar yfir 80 % jarðefnaeldsneyti.  Evrópusambandið er að basla við að koma sínu hlutfalli endurnýjanlegrar orku upp í 20 % og notar til þess alls kyns vafasamar aðferðir, eins og brennslu lífeldsneytis og lífmassa.  ESB stefnir að því að koma hlutfallinu upp í 32 % árið 2030.

Ef ekki koma fram hagkvæmar tækninýjungar í orkuframleiðslu, mun heimurinn áfram ganga að mestu leyti fyrir olíu, kolum og gasi.  Loftslagssamningar munu litlu breyta þar um."

Orkuskiptin eru knúin fram af loftslagsumræðunni vegna þess, að megnið af losun gróðurhúsagasa kemur frá orkuverum heimsins, sem knúin eru af jarðefnaeldsneyti.  Vinstri menn á Íslandi afneita þeirri staðreynd, að mikil raforkuvinnsla á Íslandi fyrir málmiðnaðinn veldur því, að heimslosun gróðurhúsagasa er a.m.k. 10 Mt/ár minni en ella, sem jafngildir um tvöfaldri losun af mannavöldum á Íslandi um þessar mundir.  Ef heil brú væri í krossferðinni gegn losun gróðurhúsalofttegunda, væri keppikeflið að auka þessa framleiðslu enn frekar, og það verður geðslegt fyrir þröngsýna og bölsýna vinstri menn að verja einstrengingslega afstöðu sína gegn nýjum virkjunum á Íslandi fyrir afkomendum sínum, ef/þegar hlýnun andrúmslofts hefur náð 3°C.  

Hér er iðnaðarstefna í skötulíki m.v. í Noregi.  Þar niðurgreiðir ríkið raforkuverðið um 20 % til orkukræfs iðnaðar og notar til þess koltvíildisgjaldið frá þessum sömu fyrirtækjum.  ESA viðurkennir þessa aðferð sem löglega að Evrópurétti, enda er þetta tíðkað innan ESB.  Engin slík hringrásun fjár til að styrkja samkeppnisstöðuna á sér stað hérlendis, enda ríkir illvíg stöðnun á þessu sviði hér, sem verður baráttunni við hlýnun jarðar ekki til framdráttar.  

"Sérstöðu Íslands ætti hins vegar að viðurkenna í alþjóðlegu samstarfi um þessi mál, eins og gert var fyrstu tvo áratugina [eftir Kyoto-samkomulagið-innsk. BJo]. Vegna sérstöðu okkar er ekki sjálfgefið, að við sætum sömu skilyrðum og þjóðir, sem búa við allt aðrar aðstæður.  Íslenzku ákvæðin svonefndu í loftslagssamningunum voru felld á brott í tíð vinstri stjórnarinnar 2009-2013."

Með íslenzku ákvæðunum var einmitt tillit tekið til sérstöðu íslenzka orkukerfisins og viðurkennt, að aukning stóriðju á Íslandi væri til þess fallin að draga úr aukningu á losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu.  Ekkert slíkt er uppi á teninginum hjá núverandi ríkisstjórn undir forystu vinstri græningjans Katrínar Jakobsdóttur.  Nýlega fór hún þveröfuga leið og gaf í með því að auka enn skuldbindingar Íslands árið 2030, sem mun þýða enn meiri greiðslur íslenzkra fyrirtækja fyrir CO2-losunarheimildir.  Stefna íslenzkra vinstri manna er skammsýnt lýðskrum, sem þrýsta mun lífskjörum landsmanna niður vegna kostnaðar út í loftið. 

"Samkvæmt fjármálaáætlun, sem samþykkt var á Alþingi á dögunum, verður samtals mrdISK 60 varið til loftslagsmála á árunum 2020-2024.  Þessar miklu fjárhæðir verðskulda sérstaka athugun.  Ekki sízt nú, þegar ríkissjóður er rekinn með miklum halla.  Í hvað eru þessir fjármunir að fara, og skila þeir ásættanlegum árangri ?"

Að verja mrdISK 12 að meðaltali á ári til loftslagsmála, sem fjármagnaðir er með skuldsetningu ríkissjóðs, þarfnast athugunar við og gæti verið mjög ámælisvert. Við eigum ekki að rembast, eins og rjúpan við staurinn, heldur að gefa tækniþróuninni tíma til að koma á markaðinn með lausnir, sem okkur henta til orkuskipta.  Það mun gerast, og þetta flas verður engum til fagnaðar, heldur okkur til óþarfa kostnaðarauka.

Eitthvað af þessum kolefnisgjöldum  fer væntanlega í hít kolefnisgjalda Evrópusambandsins, sem stjórnmálamenn og embættismenn hafa flækt okkur í án þess að vita kostnaðinn, og það er Stjórnarskrárbrot.  Vonandi fer eitthvað af þessu fé í fjárfestingar í  arðbærum og gjaldeyrissparandi verkefnum, sem skapa vinnu í landinu, t.d. til repjuolíuframleiðslu.  Stilkar repjunnar og aðrir afgangar geta nýtzt til fóðurframleiðslu fyrir vaxandi fiskeldi við og á landinu.  

Aðeins 16,7 % frumorkunotkunar Íslendinga komu úr jarðefnaeldsneyti árið 2018.  Megnið af því voru olíuvörur eða 1,028 Mt.  5 stærstu notendaflokkarnir voru eftirfarandi:

  1. Flugsamgöngur innanlands og utan: 40,6 %.  Þessi notkun minnkaði gríðarlega árið 2020, en mun sennilega vaxa aftur í ár og á næstu árum, þangað til innanlandsflugið verður rafvætt seint á þessum áratugi, og á næsta áratugi mun endurnýjun millilandaflugflotans hefjast með hreyflum án koltvíildislosunar, e.t.v. vetnisknúnum.  Þangað til munu flugfélögin þurfa að kaupa losunarheimildir af ESB, sem farþegarnir borga í hærra miðaverði. Flugfélög, sem fjárfesta í sparneytnum vélum þangað til, munu standa sterkari að vígi í samkeppninni.
  2. Bifreiðar hvers konar og vinnuvélar: 29,8 %.  Þessi notkun mun nú fara minnkandi ár frá ári, af því að endurnýjun fólksbíla og jeppa er nú að u.þ.b. helmingshluta með rafbílum, alrafvæddum eða hlutarafvæddum.  Lengst munu vinnuvélarnar þurfa jarðefnaeldsneyti, en notkun þess má minnka með repjuolíu og öðru lífeldsneyti.
  3. Fiskiskip, stór og smá: 16,7 %.  Þessi notendahópur hefur staðið sig bezt í að minnka olíunotkun, og stefnir hún hraðbyri að því að verða innan markanna 2030. Þegar þannig er í pottinn búið, má heita ósanngjarnt, að útgerðirnar skuli þurfa að greiða olíuskatt, sem lagður var á til að draga úr notkun. Það er eðlilegt að umbuna þeim, sem leggja sig fram og ná árangri. Meginskýringin á þessum góða árangri er fækkun togara og endurnýjun með mjög skilvirkum vélbúnaði. Segja má, að fiskveiðistjórnunarkerfið hafi ekki einvörðungu lagzt á sveif með hagkerfinu, heldur einnig með loftslagsstefnunni.
  4. Sjósamgöngur: 8,7 %. Mikil þróunarvinna fer nú fram fyrir orkuskipti í skipum.  Sem millileik má vel nota repjuolíu til íblöndunar.
  5. Byggingariðnaður er skráður með ársnotkun 31,4 kt/ár af jarðefnaeldsneyti eða 3,1 %.  Væntanlega er auðveldara að losna við koltvíildislosun hans en t.d. sementsframleiðslunnar, sem er gríðarleg á heimsvísu.  

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Orkumálin hornreka

Til að feta okkur út úr Kófinu þurfum við á að halda öllu því, sem landið og miðin hafa á boðstólum innan marka sjálfbærrar nýtingar.  Þar með þurfum við að auka orkunýtinguna til að auka gjaldeyrissköpun og gjaldeyrissparnað.  Til þess er óhjákvæmilegt að reisa fleiri virkjanir.  Væntanlega mun orkuvinnslukostnaður hverrar virkjunar ráða röðinni, svo að engin meginaðferðanna þriggja við vinnslu rafmagns verður fyrirfram útilokuð, þ.e. raforkuvinnsla með vatnsafli, jarðgufuafli eða  vindafli. 

Umhverfisráðuneytinu hefur verið falið stærra hlutverk en það ræður við undir forystu þjóðgarðaráðherrans Guðmundar Inga Guðbrandssonar. Hann er fulltrúi afturhalds, sem er haldið meinloku um, að eitthvað óviðjafnanlegt fari endanlega forgörðum við hverja virkjun, sem hljóti að vega þyngra en þjóðarhagur af nýtanlegri, endurnýjanlegri orku.  Þetta músarholusjónarmið, sem ráðherrann hefur forystu fyrir, passar engan veginn í nútímanum, sem leggur höfuðáherzlu á að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi með kolefnisfrírri raforkuvinnslu. Í ljósi þeirrar sameiginlegur umhverfisváar, sem boðuð er við 3°C hækkun meðalhitastigs lofthjúps niðri við jörðu, er óverjandi að standa gegn öllum vatnsaflsvirkjunum hérlendis, eftir að þær hafa komizt í gegnum nálarauga yfirvalda og framkvæmdaleyfi verið gefið.

Ráðherrann hefur framið skemmdarverk á undirbúningsferli orkuvera, eins og fram kom í jólaávarpi fráfarandi orkumálastjóra 2020, sem sá síðarnefndi leggur til, að verði endurskoðað með róttækum hætti.  Á meðan vinstra græna afturhaldið liggur á fleti fyrir í ríkisstjórn, mun líklega ekkert vitrænt gerast að þessu leyti.  Það getur aðeins endað með ósköpum á formi orkuskorts í landinu.  Hvílíkt sjálfskaparvíti í landi með gnótt "grænnar" orku.   

 

Nú er borin von, að fjöldi erlendra ferðamanna nái viðmunartölu fjárlaga þessa árs, þ.e. 700 k.  Þá þarf að reiða sig í meiri mæli á auðlindir hafs og lands.  Óli Björn Kárason, Alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Kraganum, átti að vanda góða grein í Morgunblaðinu miðvikudaginn 24. marz 2021:

"Úr vörn í sókn".

Sjálfstæðismenn hafa margoft predikað það, að leið landsmanna út úr Kófinu skuli liggja um hagvaxtarleiðina.  Það er mikil fylgni á milli aukningar orkunotkunar í landinu og hagvaxtar.  Þess vegna ættu sjálfstæðismenn alls ekki að sætta sig við það, að dauð hönd músarholuafturhalds sé lögð á undirbúningsferli nýrra virkjana í landinu. Óli Björn skrifaði m.a:

"Jafnvægi í ríkisfjármálum er alltaf áskorun, en um leið ein frumskylda stjórnmálamanna, þegar til lengri tíma er litið.  Í aðdraganda kosninga er ekki ólíklegt, að ungt fólk krefji frambjóðendur og stjórnmálaflokka um skýr svör í þeim efnum."

Kófstímabilið er fordæmalaust hallatímabil ríkissjóðs, þar sem samanlagður halli mun sennilega verða yfir mrdISK 1000.  Þetta er svo alvarlegt, sérstaklega fyrir unga fólkið, að þegar verður að grípa til gagnráðstafana.  Skattahækkanir eru alltaf fyrsta og oft eina úrræði vinstri flokkanna, en þar sem þær munu dýpka og lengja kreppuna, eru þær síðasta úrræði Sjálfstæðisflokksins.  Hann vill auka tekjur hins opinbera með auknum umsvifum í þjóðfélaginu, og þau koma aðeins með aukinni framleiðslu.  Hún krefst meiri orkuvinnslu, og fyrir hana eru nýjar virkjanir nauðsyn, en þar stendur hnífurinn í kúnni eða vonandi spjótið í drekanum ógurlega, sem riddarinn mun vinna bug á.

Búið er að steingelda "Rammann".  Sennilega er bezt að fela Orkustofnun forvalið. Þegar tilhögun virkjana yfir 500 GWh/ár er fyrir hendi og umsögn Skipulagsstofnunar tilbúin, geta slíkar farið til afgreiðslu Alþingis. 

Áfram með tilvitnun í grein Óla Björns:

"Önnur áskorun, sem við verðum að takast á við, er atvinnuleysið.  Ég hef haldið því fram, að íslenzkt samfélag geti aldrei sætt sig við umfangsmikið atvinnuleysi, ekki aðeins vegna beins kostnaðar, heldur ekki síður vegna þess, að atvinnuleysi er sem eitur, sem seytlar um þjóðarlíkamann.  Atvinnuleysi er vitnisburður um vannýtta framleiðslugetu, minni verðmætasköpun og meiri sóun.  Allir tapa, en mest þeir, sem eru án atvinnu í lengri eða skemmri tíma."

Þetta er rétt, og til að ráða bót á atvinnuleysinu þarf að virkja orkulindir ásamt öðrum aðgerðum.  Við þurfum ný atvinnutækifæri.  Ef þingið ætlar að láta afturhaldsöflin ná fram vilja sínum, þá verður hér einfaldlega stöðnun og viðvarandi atvinnuleysi og/eða landflótti.  Hér er um þjóðarhag að tefla, eins og fyrri daginn. 

Gunnlaugur Snær Ólafsson birti í Morgunblaðinu 3. apríl 2021 fróðlega frétt undir yfirskriftinni:

"Rammaáætlunarferli í uppnámi":

""Starfsumhverfi verkefnisstjórnar og faghópa varð allt annað en að var stefnt í upphafi.  Engan grunaði, að þingsályktunartillaga byggð á vinnu við 3. áfanga rammaáætlunar yrði enn ekki samþykkt af Alþingi, þegar skipunartími verkefnisstjórnar og faghópa 4. áfanga rynni út - fjórum árum eftir skipun", skrifar Guðrún Pétursdóttir, formaður verkefnisstjórnar 4. áfanga, í formála skýrslu hópsins, sem birt var 31. marz [2021]."  

Hér er um að ræða moldvörpustarfsemi sitjandi umhverfisráðherra gagnvart undirbúningi nýrra virkjana á landinu.  Til þessa framferðis hefur hann enga heimild og bregst lögformlegum skyldum sínum með þessum ósvífna drætti á afgreiðslu 3. áfanga. Slík skemmdarverkastarfsemi í stjórnsýslunni er ólíðandi og er út af fyrir sig næg ástæða til að stöðva öll hans mál í þinginu.  Þar ber auðvitað ríkisvæðingu hálendisins hæst. 

"Guðrún segir í formálanum, að vegna þeirrar óvissu, sem skapaðist um framvindu rammaáætlunar, hafi Orkustofnun ekki auglýst eftir nýjum virkjunarkostum fyrstu rúm tvö ár[in] frá skipun verkefnisstjórnarinnar, en hún var skipuð til fjögurra ára 5. apríl 2017."

Vinna faghópa verkefnastjórna Rammaáætlunar hefur ekki haft verulegt raunhæft gildi og yfirleitt verið með slagsíðu í átt til verndunar.  Samkvæmt fráfarandi Orkumálastjóra hefur þessi vinna einkennzt af sparðatíningi gegn því að setja virkjunarkost í framkvæmdaflokk.  Það er engin eftirsjá að þessu þunglamalega ferli, enda ekki raunhæft að taka faglega afstöðu til virkjunar fyrr en drög að virkjunartilhögun hafa verið kynnt á stigi lögformlegs umhverfismats.  Úr því að vinstri græninginn í ráðherrastóli umhverfismála er búinn purkunarlaust að gelda ferlið, er um ekkert annað að ræða en að slá það af. 

"Niðurstaða verkefnisstjórnar vegna 3. áfanga var afhent ráðherra 2016, en þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða var lögð fyrir Alþingi 30. nóvember 2020 og var afgreidd til umhverfis- og samgöngunefndar 26. janúar [2021]. 

"Menn eru komnir langt fram úr þeim tímaramma, sem lögin tilgreina.  Það er búinn að vera mikill vandræðagangur síðan 2016, og ég hef tengt þetta við afgreiðslu frumvarpsins um hálendisþjóðgarð.  Mér þykir fráleitt að nálgast málið með þeim hætti, að það sé hægt að leiða hálendisþjóðgarðsmálið til lykta áður en rammaáætlunin er kláruð.  Í henni eru verkefni, sem eru innan fyrirhugaðra þjóðgarðsmarka", segir Bergþór Ólason, formaður umhverfis- og samgöngunefndar og þingmaður Miðflokksins.

"Ég hef gagnrýnt það, hversu seint rammaáætlun kemur fram.  Við erum á vorþingi síðasta þings kjörtímabilsins og erum núna að fá málið til meðferðar í nefndinni. Það er ekki gott", bætir hann við."

Þarna liggur fiskur undir steini.  Ráðherrann býr til frumvarp um hálendisþjóðgarð sem andsvar við niðurstöðu verkefnisstjórnar um 3. áfanga Rammaáætlunar og ætlar að troða hugðarefni sínu fram fyrir 3. áfanga til að hafa aðstöðu til að kæfa nokkra af þeim virkjanakostum, sem þar eru lagðir til. Nefna má Skatastaðavirkjun. Þetta eru með eindæmum ólýðræðisleg vinnubrögð hjá vinstri græningjanum, sem Alþingi á alls ekki að láta bjóða sér, heldur að setja þennan hálendisþjóðgarð í frost, þar til Alþingi hefur veitzt ráðrúm til að fjalla um alla auðlindanýtingu á þessu svæði, sem nú er í kortunum.

Morgunblaðinu er auðvitað umhugað um, að umhverfisráðherra fylgi gildandi lögum um orkumál, en komist ekki upp með lögbrot, sem felast í að setja sand í tannhjól matsins á því, hvaða orkulindir á að nýta á næstu árum og hverjar ekki.  Forystugrein blaðsins 6. apríl 2021 var valið heiti, sem endurspeglar stöðuna í orkugeiranum:

  "Uppnám í orkunýtingu".

Henni lauk þannig:

"Þegar allt það grjót, sem finna má, er lagt í veg rammaáætlunar, er ekki við því að búast, að hún geti gengið fram, eins og lög gera ráð fyrir.  Augljóst er, að ferlið gengur ekki upp, og að finna þarf nýja, einfaldari og skilvirkari leið til að taka ákvarðanir um vernd og nýtingu orkuauðlinda Íslands."

Þetta er niðurstaða Morgunblaðsins, sem taka má heilshugar undir.  Orkumálin heyra ekki undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið, nema Rammaáætlunin.  Orkumálin eru á ábyrgðarsviði iðnaðarráðherra, og það er ófagur bautasteinn yfir starfi Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur í iðnaðarráðuneytinu á kjörtímabilinu, sem lýkur 2021, að lykilatriði málaflokks á hennar ábyrgð skuli vera í uppnámi.  Slíkt er óviðunandi fyrir varaformann Sjálfstæðisflokksins. 

Ríkulega hlutdeild orkulinda landsins í auðlegð þjóðarinnar má þakka forystu Sjálfstæðisflokksins allt aftur til fyrsta formanns flokksins, Jóns Þorlákssonar, Landsverkfræðings.  Stórvirki unnu síðan dr Bjarni Benediktsson og Jóhann Hafstein á Viðreisnaráratuginum og dr Gunnar Thoroddsen á 8. áratuginum, en hann var iðnaðarráðherra Sjálfstæðisflokksins, þegar stórfelldri hitaveituvæðingu var hleypt af stokkunum í kjölfar tveggja olíukreppa með margföldun olíuverðs sem afleiðingu.  Núverandi iðnaðarráðherra verður að láta verkin tala fljótt og örugglega.

Jón Gunnarsson, ritari Sjálfstæðisflokksins og Alþingismaður, var ötull maður á stuttum ferli sínum sem samgönguráðherra m.m.  Hann hikar ekki við að leggja til atlögu við afturhaldið í landinu til að ryðja framfaramálum landsins braut.  Á þingi hefur hann reynzt skeleggur framfarasinni, og ræður hans og blaðagreinar eru fullar af eldmóði.  Ef sjálfstæðismenn fá aðstöðu til, þarf að setja slíka menn til verka að afloknum næstu þingkosningum.  Jón ritaði stuttan og hnitmiðaðan pistil á ritstjórnarsíðu Morgunblaðsins 7. apríl 2021, mætti gera meira af því og leggja þar fram sitt "manifesto" framfaranna:

"Tækifærin maður".

"Okkur hefur gengið betur en flestum þjóðum að eiga við óværuna, sem dunið hefur á heiminum.  Efnahagsleg áhrif eru mikil, og atvinnuleysi er ömurleg afleiðing.  Við verðum að beita öllum vopnum okkar til að endurheimta efnahagslegan styrk, treysta stöðugleika og skapa ný tækifæri til verðmæta- og atvinnusköpunar."

Þetta er mergurinn málsins hjá Jóni Gunnarssyni.  Þarna krystallast staða stjórnmálanna fyrir kosningarnar í haust.  Undir þessum gunnfána og fálkanum eiga sjálfstæðismenn að berjast.  Við verðum að rífa okkur laus úr fjötrum stöðnunar og setja allar vinnandi hendur og hugi til arðsamra verka. 

"En beztu tækifærin liggja í þeim greinum, þar sem menntun, þekking og reynsla okkar fólks er til staðar.  Má þar nefna fiskeldi, sem í senn hefur gríðarleg byggðarleg áhrif og efnahagsleg fyrir samfélagið allt.  Við stefnum að því að verða fremst meðal þjóða í að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og höfum þar alla möguleika. Við eigum líka mikil tækifæri í framleiðslu á eldsneyti svo sem vetni, sem mun leika lykilhlutverk í orkuskiptum.  Orkufyrirtækin eru þegar farin að skoða þessi tækifæri."  

Það er hverju orði sannara, að gjöfulast og eðlilegast er einfaldlega að leggja meiri rækt við þá starfsemi, sem fyrir hendi er.  Sífellt skvaldur stjórnmálamanna um nýsköpun er oft innantómt.  Fyrirtækin sjálf stunda öflugustu nýsköpunina á gömlum meiði, og þarf ekki að orðlengja þá feikilegu aukningu verðmætasköpunar, sem þannig hefur átt sér stað í sjávarútvegi, landbúnaði og iðnaði.  Í lokin skrifaði Jón Gunnarsson:

 ""Við viljum græna atvinnubyltingu byggða á nýsköpun, rannsóknum og þróun."  Þetta eru að mínu mati ofnotuðustu frasar í pólitískri umræðu um þessi mál.  Þetta segir ekki nema hálfa söguna.  Þau tækifæri, sem ég hef farið hér yfir, eiga það sammerkt að þurfa mikla orku, græna orku, til að geta orðið að veruleika.  Það þarf að svara því, hvaðan sú orka á að koma.  Frumvarp umhverfisráðherra um hálendisþjóðgarð gerir það ekki.  Sú stefna, sem þar birtist, er reyndar til þess fallin, að tækifærum til að spila í efstu deild er fórnað."

Þetta er hárrétt mat hjá Jóni.  Það þarf orku til að knýja þá framleiðsluferla, sem koma þarf á laggirnar í kjölfar Kófsins í viðleitni til að endurreisa efnahaginn.  Ef á að slá slagbrandi fyrir öll ný virkjanaáform og orkunýtingarfyrirætlanir, þá mun slíkt strax koma niður á lífskjörum landsmanna. Jón Gunnarsson er líklegur til að höggva á hnút þeirra banda, sem afturhaldið í landinu er búið að reyra utan um orkumál landsmanna.  

 

 


Vindmylluriddarar í Noregi og á Íslandi

Bæði Ísland og Noregur eiga nóg afl fólgið í vatnsföllum sínum til að anna orkuþörf sinni um fyrirsjáanlega framtíð, þótt þjóðirnar útrými notkun jarðefnaeldsneytis sem orkugjafa.  Íslendingar búa þar að auki að jarðvarma til húshitunar og raforkuvinnslu.  Það dregur að vísu tímabundið og staðbundið úr honum við notkun, svo að sífellt þarf að sækja á ný mið, en aukið vatnsrennsli vegna hlýnandi loftslags veitir hins vegar færi á meiri orkuvinnslu í þegar virkjuðum ám en upphaflega var reiknað með.

Þessar gerðir virkjana eru sjálfbærar og afturkræfar, ef rétt og nútímalega er staðið að hönnun og rekstri þeirra.  Það er þess vegna skrýtið, þegar upp kemur ásókn í þessum löndum í að virkja vindinn, sem hingað til hefur verið neyðarbrauð þeirra, sem ekki hafa úr ofangreindum orkulindum að spila.  Þjóðverjar hófu að virkja vindinn af miklum móði, eftir að Sambandsþingið í Berlín hafði samþykkt stefnu græningja, sem kanzlarinn Merkel gerði að sinni árið 2011 eftir Fukushima-slysið, að leggja niður öll kjarnorkuver sín fyrir árslok 2022. Vindorkan var niðurgreidd, sem veitti henni forskot inn á markaðinn og skekkti samkeppnisstöðuna.  Gasorkuver verða að standa ónotuð tilbúin að taka við álaginu, ef vinda lægir.  Þetta veldur óhagkvæmni innan orkugeirans. 

Óánægja og mótmæli gegn vindmyllurekstri og vindmylluuppsetningu hafa vaxið í Þýzkalandi og í allri norðanverðri Evrópu á síðustu árum, þegar ljóst hefur orðið, hversu lítill umhverfislegur ávinningur er af vindmyllunum m.v. fórnirnar. Kolefnisfótspor þeirra er stórt. Það eru ekki bara ofangreindir ókostir við vindmyllurnar, heldur geta þær verið hættulegar flugvélum í grennd við flugvelli og stórhættulegar svifflugmönnum í grennd við athafnasvæði þeirra.  Um það fjallaði frétt í Fréttablaðinu 30. desember 2020:

"Svifflugmenn telja vindmyllur á Mosfellsheiði stórhættulegar".

Fréttin hófst þannig:

"Hæð vindmylla í fyrirhuguðum vindorkugarði Zephyr Iceland ehf á Mosfellsheiði skapar stórfellda árekstrarhættu fyrir svifflug að sögn stjórnar Svifflugfélags Íslands.  

Zephyr Iceland ehf, sem er dótturfyrirtæki norska vindorkufyrirtækisins Zephyr AS, hyggst byggja allt að 200 MW vindorkugarð á Mosfellsheiði.  Rætt er um 30 vindmyllur, sem yrðu 150-200 m háar með spaða í hæstu stöðu.

Meðal þeirra, sem sendu inn athugasemdir til Skipulagsstofnunar er stjórn Svifflugfélags Íslands (SFÍ).  Segir stjórnin fyrirhugaða staðsetningu vindorkugarðsins vera í miðju skilgreinds æfingasvæðis lítilla loftfara og steinsnar frá skilgreindu svæði svifflugs á Sandskeiði og Bláfjöllum ásamt Sandskeiðsflugvelli og mikilvægu svifflugssvæði við Hengil.

"Ljóst er, að öll truflun á flugskilyrðum og takmörkun á flugfrelsi, sem kann að stafa af fyrirhuguðu vindorkuveri, mun skerða stórkostlega eða eyðileggja möguleika á svæðinu [til flugæfinga], ef af byggingu vindorkugarðsins verður.  Hæð vindmylla í fyrirhuguðum vindorkugarði skapar einnig stórfellda árekstrarhættu fyrir svifflug", segir í athugasemdum stjórnar Svifflugfélagsins.  

Matsáætlun fyrir vindorkugarðinn nái á engan hátt til mats á neikvæðum áhrifum á veðurfarslegar forsendur til svifflugs og möguleika félagsins á að halda áfram starfsemi á Sandskeiði.

"Enn fremur eru gerðar alvarlegar athugasemdir vegna þeirrar hættu, sem vindorkugarður á þessum stað myndi valda flugumferð, og vegna þess rasks, sem garðurinn myndi valda á starfsemi flugíþrótta á Íslandi í víðu samhengi", segir í (umsögn] stjórn[ar] SFÍ.  Mörg atriði, sem tengist flugi, séu órannsökuð, t.d. áhrif loftiða og ókyrrðar, sem vindmyllurnar geti skapað, eins og erlendar rannsóknir gefi til kynna."

Það er ljóst af þessu, að Zephyr Iceland ehf hefur kastað höndunum til undirbúnings og staðarvals fyrir stórt athafnasvæði, sem fyrirtækið girnist.  Við staðarvalið er flugöryggi hundsað og ekki vílað fyrir sér að eyðileggja athafnasvæði flugíþróttafólks í grennd við höfuðborgarsvæðið. Þessi vinnubrögð vitna um ósvífni og tillitsleysi, og slíkum á ekki að líðast að smeygja löppinni á ísmeygilegan hátt á milli stafns og hurðar, þegar almannahagsmunir eru annars vegar.  

Um miðjan febrúar 2021 varð allsherjar straumleysi í Texasríki í Bandaríkjunum, sem varði í nokkra daga.  Ástæðan var óvenjulegt vetrarveður á þessum slóðum með -10°C til -20°C og snjókomu, sem leiddi til rafmagnsleysis og vatnsleysis hjá um 120 M manns í Suðurríkjum Bandaríkjanna.  Í Texas sjá vindmyllur íbúunum fyrir um 20 % orkuþarfar á ári, og þær stöðvuðust.  Aflþörfin óx í kuldakastinu, því að húsnæði er í mörgum tilvikum hitað upp með rafmagni.  Gasorkuver, sem áttu að vera bakhjarl vindmyllanna, fóru ekki í gang vegna frosins vökva í gaslögnum.  Við þetta allt saman hrundi raforkukerfi Texas, og það fór ekki í gang fyrr en fór að hlýna aftur.   Þetta var skelfilegur atburður, sem sýnir hræðilega veikleika vindmylla í raforkukerfi. 

Annar enn alvarlegri atburður m.t.t. mannfjölda var næstum orðinn í Evrópu 8. janúar 2021.  Þá var þar kalt, og lygndi var um álfuna vestanverða.  Smám saman lækkaði tíðnin ískyggilega um álfuna vestanverða, en á Balkanskaga og á Grikklandi hækkaði hún, enda var þar blástur og varð þar offramboð rafmagns.  Flutningslínur á milli þessara svæða rofnuðu af þessum sökum, og í vestanverðri álfunni blasti svartnætti allsherjar straumleysis ("black-out") við.  Undirtíðnivarnir rufu þá stórt álag í Frakklandi og á Ítalíu frá kerfinu, svo að jafnvægi komst á.  Þetta sýnir, að í tilraun Evrópumanna til að draga úr brennslu jarðefnaeldsneytis er teflt á tæpasta vað með þeim afleiðingum, að fréttum af hér um bil straumleysi, afmörkuðu straumleysi (brown-out) og straumleysi (black-out) mun fjölga.  Vindmyllur svíkja, þegar mest ríður á. Þær eru ekki einvörðungu háðar vindafari, heldur líka viðkvæmar fyrir ísingu.  

Um miðjan febrúar 2021 barst viðvörun frá Noregi til Íslands, reist á norskri harmsögu um viðskipti landeigenda við vindmyllufyrirtæki:

"Ágætu vinir og frændur á Íslandi !

Þetta er kveðja og viðvörun frá eyju, sem er mun minni en Ísland, Háramarseyju við Noreg. Háramarsey er hluti af fallegum eyjaklasa úti fyrir vesturströnd Noregs í sveitarfélaginu Ålesund í fylkinu Möre og Romsdal.  Á eyjunni búa tæplega 600 manns.

Norskt fyrirtæki, Zephyr, lítur nú girndaraugum til Íslands.  Fyrirtækið vill reisa vindmyllur á Íslandi og lætur sem sú ósk sé liður í orkuskiptunum í iðnaði og raforkuvinnslu.  Við, sem búum á Háramarsey og höfum vofandi vindmyllur yfir okkur, lítum hvorki á starfsemi þessa fyrirtækis sem græna né umhverfisvæna, heldur sem mengandi og eyðileggjandi og keyrða áfram af gróðahvötum.  

Fyrst af öllu viljum við vara landeigendur við heimsóknum fulltrúa fyrirtækisins, sem lofa gulli og grænni framtíð !  Fyrirtækið hefur duglega sölumenn, það mega þeir eiga.  Þeir vilja sölsa undir sig jarðeignir ykkar fyrir iðnaðarstarfsemi sína.  Krafa er um, að allir samningar séu leynilegir, - svo leynilegir, að hvorki má ræða þá við ættingja, nágranna né aðra.  Undirritaður samningur er bindandi án möguleika á endurskoðun eða uppsögn.  Grunnt er svo á hótuninni um, að sért þú ekki fús til að afsala þér landareign þinni, hafi fyrirtækið ýmis ráð með að ná henni af þér eftir öðrum leiðum. 

Fyrirtækið Zephyr segist styðja opna og lýðræðislega viðskiptahætti.  Í reynd vill fyrirtækið sem minnst afskipti almennings og umhverfissinna.  Fyrirtækið dregur upp glansmynd af áætlunum sínum, og þeir eru flinkir við að aðlaga og túlka sér í vil gagnrýnar skýrslur, - þar sem bent er á áhættuna fyrir náttúru og heilsu almennings, svo að henta megi eigin uppbyggingaráformum. Þeir hafa reiknað út, að hávaðinn frá vindmylluspöðunum sé rétt undir leyfilegum mörkum [hér er mikilvægt að sýna allt tíðnirófið í dB - innsk. BJo] - en fari þeir yfir mörkin við raunmælingar, kaupa þeir sig bókstaflega frá vandanum - án þess að skammast sín. Þeir senda atvinnumenn í faginu til að sannfæra sveitarstjórnarmenn um að veita undanþágur og staðbundnar aðlaganir.  Fyrirtækið lofar atvinnutækifærum, tekjum og hlunnindum, - en loforðin eru svo loðin, að þau er auðvelt að svíkja, og það er gert glottandi.  

Mótmæli fólk, skaltu ekki ganga að því gruflandi, að Zephyr kann tökin á fjölmiðlunum.  Vel launaðir kynningarfulltrúar (almannatenglar) og fjölmiðlaráðgjafar standa fyrirtækinu til boða.  Þeir lýsa fyrirtækinu sem framsæknu og framsýnu, sem boðbera heilbrigðrar skynsemi og umhverfisverndar, en mótmælendur, hins vegar, séu á valdi tilfinninganna og séu haldnir móðursýki.  Því er haldið fram, að vindmylluandstæðingar séu samfélagslega hættulegir og að ekki beri að taka þá alvarlega.

Kæru nágrannar og frændur.  Við biðjum ykkur þess lengstra orða að vera vel á varðbergi.  Vaktið verndun fugla- og annars dýralífs, náttúruna og lýðheilsu. 

Áttið ykkur á kaldrifjuðum fyrirætlunum vindmylluiðnaðarins.  Gerið kröfu um, að stjórnvöld hlýði á almenning.  Krefjizt þess að mega ráða yfir eigin landi - refjalaust !

Með kveðjum frá íbúum Háramarseyju.

Þessi kveðja frá íbúum lítillar eyjar við Noregsstrendur, sem orðið hafa fyrir ásælni frekra og ósvífinna vindmyllumanna, á sennilega erindi til fleiri hérlandsmanna en þeirra, sem átt hafa viðskipti við Zephyr Iceland, enda mun þessi kveðja hafa verið send til flestra stjórnmálamanna á Íslandi. Hvað gera þeir við þessa einlægu og alvarlegu viðvörun ? 

 

 

    


Nýr orkumarkaður

Á kjörtímabilinu, sem rennur sitt skeið á enda á þessu ári, 2021, hefur ekki verið fitjað upp á umtalsverðri nýbreytni á orkusviðinum, sem fallin er til að stækka orkumarkað íslenzkra virkjunareigenda, nema sú merkilega verkfræðilega þróun í átt til mjög aukinnar nýtni frumorkunnar, sem átt hefur sér stað hjá HS Orku í Reykjanesvirkjun, þar sem afl- og orkuaukning um 30 % frá virkjun mun eiga sér stað að óbreyttri gufuöflun, ef kynnt áform ganga eftir. Áður hafði Landsvirkjun hafið endurbætur á virkjunum sínum í Soginu og í Þjórsá/Tungnaá til bættrar nýtingar og stýringar.  

Þetta er ljómandi dæmi um þá verkfræðivinnu, sem á sér stað á meðal allra virkjanafyrirtækja og stórorkunotenda á Íslandi til að auka orkunýtni, straumnýtni og nýtingu búnaðar til aukinnar framleiðslu.  Höfundur þessa pistils vann með góðum samstarfsmönnum ekki aðeins að framleiðsluaukningu með nýjum viðbótar búnaði, heldur einnig að bættri nýtingu gamals búnaðar til framleiðsluaukningar með uppsetningu þéttavirkja til hækkunar aflstuðulsins, cosphi, auknum símælingum og sjálfvirknivæðingu. Með því móti var hægt að flytja meira raunafl til spenna og afriðla.  

Það hefur hins vegar ekki verið fitjað upp á nýjum markaði hérlendis á kjörtímabilinu og alennt ríkt deyfð yfir orkugeiranum. Landsnet og orkuvinnslufyrirtækin hafa fjárfest fremur lítið, enda mannvirkin ekki verið fullnýtt vegna slæmrar samkeppnisstöðu orkukaupendanna.  Grunnur að kísilverinu á Bakka var lagður áður, og fjarað hefur undan orkukaupum gagnaveranna.  Orkukerfi landsins er alls ekki keyrt á fullum afköstum.  Þar munar sennilega um 10 % eða 2 TWh/ár.  Þar gæti verið um að ræða 8 mrdISK/ár tekjutap m.v. meðalorkuverð frá virkjun (án flutningsgjalds).  Fyrir utan Kófið er meginskýringin á ófullnægjandi nýtingu fjárfestinganna í orkukerfinu í heild yfirverðlagning á raforku.  Þetta hefur komið fram hjá talsmönnum iðnfyrirtækja í áliðnaðinum, járnblendinu og kísiliðnaðinum auk talsmanna gagnaveranna.  

Þetta er algerlega ótæk staða.  Þegar efnahagskreppa er í landinu með metatvinnuleysi, þá sjá stórir raforkukaupendur sig tilneydda að draga saman seglin m.a. út af ósamkeppnishæfu raforkuverði, sem sumir þeirra búa við.  Þetta hefur magnað efnahagssamdráttinn og aukið við atvinnuleysið.  Í ljósi þess, að ríkið er aðalgerandinn á birgjahlið orkumarkaðarins á Íslandi, verður að skella skuldinni að miklu leyti á ríkisstjórnina. Hún sem fulltrúi eigendanna verður að taka að sér að leiðrétta þann vitlausa kúrs, sem tekinn hefur verið og leiddur er af hinu markaðsráðandi fyrirtæki, Landsvirkjun. Nú hefur komið í ljós, að núverandi verðlagningarstefna Landsvirkjunar leiðir til verðs til stóriðju, sem er 75 % hærra en núverandi verð til ON til NA (án flutningsgjalds). Er undarlegt, þótt LV hafi verið kærð til Samkeppniseftirlits fyrir markaðsmisnotkun ?Til að koma hjólunum aftur á fullan snúning hjá stórum raforkukaupendum þarf að lækka hæsta raforkuverðið til samræmis við það, sem gerzt hefur hjá samkeppnisaðilum, t.d. annars staðar í Evrópu. 

Dæmi um þvermóðskuna, sem þarf að yfirstíga, er, að Norðurál hefur óskað eftir raforkusamningi við Landsvirkjun til a.m.k. 15 ára m.v. grunnverð nálægt núverandi meðalverði til stóriðju á Íslandi og álverðstengingu raforkuverðsins.  Slíkur samningur leysi af hólmi samning um Nord Pool verð, sem á s.l. ári var mun lægra en þetta meðalverð.  Gangi þetta eftir mun Norðurál treysta sér til að hefja þegar í stað fjárfestingar á Grundartanga í steypuskála sínum upp á allt að mrdISK 15 til að auka verðmæti afurðanna (álsívalningar).  Þetta mun skapa heilmikla vinnu á Grundartanga, bæði á framkvæmda- og rekstrartíma. Það er reginhneyksli í núverandi stöðu atvinnumála, að þetta mál skuli ekki hafa notið atbeina ríkisvaldsins til að verða að veruleika nú þegar. Efnahagslífið sárvantar beinar erlendar fjárfestingar.

Ferðamála-, nýsköpunar- og iðnaðarráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, þingmaður Skagamanna, Borgfirðinga, Snæfellinga, Dalamanna, Vestfirðinga, Húnvetninga og Skagfirðinga, ritaði áferðarfallegan helgarpistil í sunnudagsútgáfu Morgunblaðsins 24.01.2021, m.a. til að sýna, að lífsmark væri með iðnaðarráðuneytinu.  Það er þægilegt að hafa áferðarfalleg áform, en það er enn mikilvægara fyrir ráðherra, ekki sízt í Kófinu, að framkvæma í núinu. 

Heiti pistilsins vísaði til framtíðar og var (auðvitað):

"Einstök tækifæri í orkumálum".

Hann hófst þannig:

"Grænar orkulindir eru ein dýrmætasta náttúruauðlind okkar Íslendinga. [Þá gefur auga leið, að nýta verður þessa auðlind sem allra bezt, annars er ekki um auðlind að ræða - það er ekki gert nú á vakt höfundar - innsk. BJo.]  Þær hafa fært okkur ómældan ávinning, sparað okkur stjarnfræðileg eldsneytiskaup til húshitunar, skapað dýrmæt störf og útflutningstekjur, hlíft andrúmslofti jarðar við gróðurhúsalofttegundum, skapað forsendur fyrir þróun hugvits og þekkingar á heimsmælikvarða og sett Ísland í fremstu röð þjóða heims, hvað varðar sjálfbæra orkunotkun."

Þetta er rétt hjá ráðherranum, þegar frá eru skilin hástemmd lýsingarorð eins og ómældur og stjarnfræðilegur.  Ávinningurinn af orkulindum landsins er frá fyrstu virkjun þekktur með sæmilegri nákvæmni og sparnaðurinn, sem felst í að leysa jarðefnaeldsneyti til húsahitunar af hólmi með rafmagni vatsfalla og jarðhita úr iðrum jarðar er ekki stjarnfræðilegur, þótt hann sé mikill, enda var um að ræða viðameiri orkuskipti en framundan eru.

Árið 2018 stóð jarðhiti undir 64 % frumorkunotkunar á Íslandi, en notkun hans skiptist á milli hitaveitu til húsnæðishitunar og raforkuvinnslu með jarðgufu.  Vatnsorka til raforkuvinnslu stóð undir 18 % frumorkunotkunar, olíuvörur stóðu undir 16 % og kol 2 %.  Verkefni orkuskiptanna framundan nemur þannig aðeins 18 % heildarorkunotkunar landsmanna.  Hjá mörgum þjóðum er þessu öfugt farið.  Þær þurfa að leysa um 80 % frumorkunotkunar sinnar af hólmi með endurnýjanlegum orkugjöfum.  

"Áhugi á möguleikum græns vetnis og rafeldsneytis fer líka hratt vaxandi, og víða er mikill þungi í þeirri þróun.  Þetta er fagnaðarefni frá sjónarhóli loftslagsmála, en minnir okkur líka á, að sterk staða okkar í alþjóðlegum samanburði er ekki sjálfgefið náttúrulögmál." 

Þarna drepur ráðherrann á vetnisvinnslu, en því miður er ekki nokkurt kjöt á beinunum.  Ýmislegt bendir þó til, að næsta umfangsmikla þróun markaðar fyrir íslenzka frumorku geti verið vetnisvinnsla með rafgreiningu vatns.  Það er bágborið, að ráðherrann skuli ekki geta minnzt á hugmyndir sínar um þessa þróun, sem gæti verið á næstu grösum, þegar litið er til nágrannalandanna.  Norðmenn eru með áform á prjónunum, ekki um hefðbundna vetnisvinnslu úr sínu jarðgasi, heldur um "græna" vetnisvinnslu. 

Á Englandi er að opnast stór markaður fyrir íslenzkt vetni, því að Englendingar ætla að leysa jarðgas af hólmi með vetni til húsnæðishitunar.  Iðnaðarráðuneytið hlýtur að hafa einhvern metnað í þessum efnum.  Næg er óvirkjuð frumorka á Íslandi til að hasla sér völl á þessum markaði, hvort sem eru vatnsföll, jarðgufa eða vindur, eða á að láta ofstækismenn komast upp með að friða allt saman.  Þá fer að styttast í að friða þurfi íslenzka "homo sapiens"-stofninn og hafa til sýnis sem víti til varnaðar. 

"Rammaáætlun er auðvitað fíllinn í herberginu.  Ég hef ekki farið leynt með þá skoðun mína, að það ferli þurfi að endurskoða og einfalda, til að það geti þjónað tilgangi sínum."

 Orkumálastjóri varpaði ljósi á það í jólahugvekju sinni 2020, hvers konar örverpi ríkisvaldinu hefur tekizt að unga út til að aðgreina virkjanakosti í 3 flokka.  Þetta stjórnkerfi er óskilvirkt, torskiljanlegt og með slagsíðu í átt að vernd.  Iðnaðarráðherra samþykkti megingagnrýni Orkumálastjóra.  Kerfið er ónothæft, t.d. vegna óskilvirkni.  Það er ekki nóg, að ráðherrann bíði með hendur í skauti, sáróánægð með þennan flöskuháls, henni ber þá að koma með tillögu að öðru og betra fyrirkomulagi.  Það hefur hún ekki boðað. Það er einboðið að auka við hlutverk Orkustofnunar við útstikun virkjanakosta.  Ef hlutlægt mat hennar sýnir, að lítil sem engin óvissa sé um, að rök fyrir virkjun vegi þyngra en verndun, megi halda áfram með virkjanaundirbúning og lögformlegt umhverfismat, en ef vafi leikur um, hvort vegi þyngra virkjunar-eða verndarrök, skal þverfaglegur hópur á vegum iðnaðarráðuneytis og umhverfisráðuneytis vinna að rannsóknum, sem eytt geti óvissunni.  Alþingi staðfesti allar niðurstöður um virkjanakosti að afli 50 MW eða meira.

"Orkustefnan felur m.a. í sér tímamóta-framtíðarsýn um, að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti árið 2050, sem er risastórt hagsmunamál, bæði umhverfislega, en ekki síður efnahagslega.  Mér vitanlega er Svíþjóð eina landið, sem hefur sett fram sambærileg markmið.  Þetta er því markmið á heimsmælikvarða, og nú veltur það á okkur að fylgja því eftir. Við eigum raunhæfa möguleika á að verða algjörlega orkusjálfstæð, sem væri stórkostlegt, bæði í efnahagslegu og umhverfislegu tilliti. 

Hitaveituvæðingin var eins konar "tunglskot" okkar Íslendinga á sínum tíma; gríðarlega metnaðarfullt verkefni, sem tók nokkra áratugi að framkvæma.  Framtíðarsýnin um að verða óháð jarðefnaeldsneyti er okkar næsta tunglskot í orkumálum." 

Það er skot hátt yfir markið að jafna því við "tunglskot" og hitaveituvæðingu að gera 18 % frumorkunotkunar landsmanna sjálfbæra á 30 árum.  Það er líka villandi að gefa í skyn, að þessi mál velti nú algerlega á "okkur".  Framvindan veltur á tækniþróuninni, og hún er ekki í höndum Íslendinga.  Rafvæðing bílaflotans er hafin (pistilhöfundur keypti sér alrafknúna eðalreið 2020), en tæknin er enn ekki tilbúin til að leysa dísilvélar vinnuvélanna af hólmi, og enn lengra er í, að millilandaskip og millilandaflugvélar sigli og fljúgi um án þess að losa koltvíildi út í andrúmsloftið.  Tilraunir með hvort tveggja munu líklega hefjast af krafti á þessum áratugi. 

 

Til þess að fá hjól efnahagslífsins til að snúast aftur af krafti á Íslandi þarf fernt: orku, fjármagn, þekkingu og markað. Af frumorku er nóg og einnig af margs konar þekkingu, en það vantar fjármagn tengt sérhæfðri framleiðsluþekkingu og markaðssamböndum.  Hins síðast nefnda afla þjóðir sér með beinum erlendum fjárfestingum, og þær bráðvantar á Íslandi, og hefur svo verið um hríð.  Það eru ýmsar skýringar á því, s.s. dýrir flutningar, dýrt vinnuafl og hátt orkuverð.  Hinu síðast nefnda getur eigandi helztu orkufyrirtækjanna, t.d. Landsvirkjunar og Landsnets, kippt í liðinn án   vandkvæða, því að raforkan er hér að nokkru leyti verðlögð hátt yfir því marki, sem nauðsynlegt er vegna kostnaðar við öflun hennar, og arðsemiskrafan á Landsnet er allt of há.  Aðgerðarleysi í þessum efnum er dýrkeypt, því að það seinkar raunverulegum viðsnúningi í hagkerfinu.

Nú er að verða ljóst, að vetni mun leika talsvert hlutverk í orkuskiptum 21. aldar, þegar mannkyn segir skilið við jarðefnaeldsneytið, sem olli byltingu í lífskjörum þess frá iðnbyltingu 18. aldar og fram á vora daga.  Menn hafa ekki verið vissir um, hvernig þetta mætti eiga sér stað í fluginu, en nú eru línur þar að skýrast. 

Það er ekki nýtt af nálinni að nota vetni til að knýja flugvélar.  1950-1960 gerði bandaríski flugherinn leynilegar tilraunir með þetta á Flórída í verkefninu "Suntan".  Þær tókust að miklu leyti, því að þotuhreyflarnir voru knúnir með bruna vetnis, en vetnisvinnslan, flutningur og geymsla þess, reyndust vera of dýr á þeim tíma. 

Vetni er í eðli sínu álitlegt fyrir flugið, því að orkuþéttleiki þess í kWh/kg er þrefaldur á við flugvélaeldsneytið kerosen (steinolíu).  Tilraunir héldu þess vegna áfram.  Tupolev flugvélaverksmiðjurnar gerðu tilraunir í Rússlandi á síðasta áratugi Ráðstjórnarríkjanna (1981-1990), og Boeing gerði tilraunir upp úr síðustu aldamótum.  Ekkert heppnaðist, enda er vetni rúmtaksfrekt.  Það þarf að geyma það undir þrýstingi eða að breyta því í vökva (kæla og þrýsta), og engir innviðir eru til að framleiða grænt vetni og flytja það. 

Nú hafa aðstæður breytzt.  Þrýstingur er á flugfélögin að draga úr losun koltvíildis með því að brenna minnu af kerosen.  Mikill árangur hefur náðst við að auka nýtni hreyflanna.  Hafinn er undirbúningur að því að koma á legg innviðum fyrir aðra notkun, t.d. húshitun og fyrir samgöngutæki á landi og e.t.v. á sjó líka.  Einkum hafa asískir bílaframleiðendur sýnt vetni áhuga og á engan er hallað, þótt Toyota sé nefnt í því sambandi.  Þetta hefur vakið áhuga frumkvöðla innan flugvélasmíði. 

Verkefnið Suntan nýtti vetnið, eins og kerosenið er notað, en margar flugvélar eru knúnar skrúfuhreyflum, og rafhreyflar geta knúið þá.  Rafhreyflana má straumfæða frá rafgeymum eða efnarafölum (fuel cells), þar sem orka vetnis er leyst úr læðingi við bruna.  Það er 19. aldar tækni, vel þekkt og stöðugt í framþróun varðandi nýtnina.  

Brezkt fyrirtæki, ZeroAvia, breytti Piper M flugvél, setti í hana rafhreyfil, knúðan vetnisrafala, og mun hafa prufuflogið henni 400 km í desember 2020, og í vor á að fljúga henni á milli Orkneyja og fastalands Skotlands.  Fyrirtækið áformar að hafa 20 sæta flugvél tilbúna til reynslu í ár, 2021.  Stefnt er að flughæfnisskírteini til farþegaflutninga á viðskiptagrundvelli árið 2025. 

Á hæla Bretanna koma Þjóðverjar í H2Fly-félaginu, sem er sprotafyrirtæki DLR, Rannsóknarmiðstöðvar þýzkra flugrannsókna.  Í Bandaríkjunum hefur rafhreyflafyrirtækið magniX gert samstarfssamning við Universal Hydrogen í Los Angeles um að breyta 40 sæta Havilland Canada Dash 8-300 vél fyrir vetnisrafala og rafhreyfla.  Áætlunin er að vera tilbúin á markað árið 2025.  Það er mjög líklegt, að á þessum áratugi muni koma vetnis- og rafknúnar flugvélar til Íslands og hefja flug með almenna farþega, jafnvel áætlunarflug.  Það mun styrkja innanlandsflugið í sessi, ekki sízt Reykjavíkurflugvöll.  

Stærri flugvélar þarfnast fjölbreytilegra lausna, því að hvorki rafgeymar né vetnisrafalar geta gefið nægilegt afl fyrir flugtak og lendingu þeirra.  Fyrir lendingu og flugtak þarf að hverfa aftur til Suntan verkefnisins og nýta vetnisbruna í hverflum, en fljúga þess á milli með orku frá vetnisrafölum.  Þetta fyrirkomulag er nú komið í þróunarferli hjá Airbus með verkefninu ZEROe, þar sem hannaðar eru 3 flugvélar með einum gangi í farþegarými fyrir stuttar vegalengdir.  Fyrsta flugvélin á að geta flutt 100 farþega allt að 2000 km, önnur á að geta tvöfaldað þessar tölur.  Sú þriðja er enn á hugmyndastigi, en hún á að vera þríhyrningslaga til að geta flutt nægt vetni langar leiðir.  

Airbus ætlar að setja fyrstu vetnisknúnu farþegavélarnar á markað 2035.  Fyrirtækið á að njóta ríkisstuðnings frá Bretlandi, Þýzkalandi, Frakklandi og Spáni við þessa þróun.  Boeing hefur enn ekki sett sig í sömu stellingar, enda enginn hljómgrunnur í Hvíta húsinu til skamms tíma til að vinna að minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið.  Þar varð kúvending 20. janúar 2021, og Bandaríkin hafa aftur lýst vilja sínum til skuldbindinga við Parísarsáttmálann 2015.  Það er nú líklegt, að bandaríski ríkissjóðurinn muni styrkja rannsóknir og þróun Boeing á vetnisknúnum flugvélum, og þá mun nú færast fjör í leikinn, þegar Bandaríkin fara að nýta sitt gríðarlega vísindalega og tæknilega afl á sviði orkuskipta fyrir flugið.  

 

 


Kolin kvödd

Eldsneytiskol innihalda lítið annað en frumefnið kolefni, C, og þess vegna myndast meira CO2, koltvíildi, við bruna hvers tonns (t) kola en t.d. olíu og jarðgass, sem auk C innihalda H, vetni, o.fl. Þrátt fyrir þetta hafa þjóðir ekki skirrzt við að knýja iðnvæðingu sína með kolum, jafnvel eftir að gróðurhúsaloftskenningin varð vel þekkt. 

Til eru ljósmyndir af Reykjavík frá um 1930, þar sem kolamökkur grúfir sig yfir bæinn. Á seinni hluta 20. aldar nýttu Íslendingar sér gæði orkuríkrar náttúru sinnar til að afnema að langmestu leyti húshitun með jarðefnaeldsneyti, og nú er komið að afnámi afurða jarðolíunnar, sem knýja vélar fartækja á láði, legi og í lofti.

Við eigum ekki að hika við að leggja Evrópuþjóðunum lið við orkuskipti sín með því að virkja orkulindir áfram hér með sjálfbærum hætti (það eru reyndar grafalvarlegar undantekningar á þessu hjá Reykjavíkurborg, eins og lesa má um í grein Árna Gunnarssonar, fyrrverandi yfirverkfræðings Hitaveitu Reykjavíkur í Fréttablaðinu 29. desember 2020), og framleiða t.d. vetni, aðallega til útflutnings.

Það má greina viss veðrabrigði í orkumálum heimsins um þessar mundir, enda ekki seinna vænna fyrir mannkynið sem heild að hefja minnkun losunar CO2 út í andrúmsloftið. Xi Jinping hefur samþykkt markmið um núll nettólosun Kína á koltvíildi árið 2060, þótt ótrúleg aukning hagvaxtar Kínverja sé sennilega enn knúin með jarðefnaeldsneyti.  Það eru þó óljós merki um, að Kínverjar taki þetta fjarlæga markmið alvarlega, enda er mengun í Kína grafalvarlegt vandamál og sennilega pólitísk byrði fyrir kommúnistaflokkinn.   

Undir Joe Biden munu Bandaríkjamenn aftur skuldbinda sig til að virða Parísarsáttmálann frá 2015.  Á fjármálamörkuðum njóta hreinorkufyrirtæki nú orðið velvildar umfram hin. Hreinorkufyrirtækin munu þó ekki geta vaðið yfir héruð á skítugum skónum, eins og t.d. með uppsetningu 200 MW vindorkuvers í næsta nágrenni höfuðborgarsvæðisins, á Mosfellsheiði, þar sem margir munu þurfa að líða fyrir ljóta ásýnd, flugöryggi verður ógnað og aðstaða til svifflugs yrði eyðilögð.  Þótt vindafar kunni að vera hagstætt á Mosfellsheiði, eru þessar fórnir meiri en ávinningurinn í landi hreinorkunnar, þar sem enginn hörgull ætti að öllu eðlilegu að vera á tiltæku vatnsafli til að virkja fyrir komandi eftirspurnaraukningu. Til hvers í ósköpunum ætti þá að samþykkja slíka yfirtroðslu, sem klárlega rýrir lífsgæði íbúanna ? 

Í Bandaríkjunum (BNA) og í Evrópu hefur notkun kola, mesta losunarvaldsins, minnkað um 34 % síðan 2009.  Samt standa kol enn undir 27 % heildarfrumorkunnar, sem maðurinn nýtir.  Frá kolabrennslu koma hins vegar 39 % af árlegri losun frá bruna alls jarðefnaeldsneytis. Þess vegna er árangursríkast fyrir baráttuna gegn of mikilli hlýnun jarðar að draga úr kolabrennslu um allan heim.  Íslendingar geta lagt sitt lóð á þessar vogarskálar með virkjunum og orkukræfum verksmiðjurekstri og hafa vissulega gert það, en s.k. umhverfisverndunarsinnar, sem í mörgum tilvikum horfa framhjá þessu heildarsamhengi, vanþakka þetta framlag hérlandsmanna algerlega. Þeir hafa asklok fyrir himin.

Kolanotkunin jókst gríðarlega í iðnbyltingunni, sem knúin var af gufuvél James Watt, og náði hámarki á 4. áratugi 20. aldar eftir tæplega 200 ár.  Notkun kola á Vesturlöndum hefur nýlega hrunið.  Bretar, upphafsmenn iðnbyltingarinnar, ríða á vaðið við að losna undan oki kolabrennslunnar og munu sennilega loka sínu síðasta kolaorkuveri árið 2022, löngu á undan flestum Evrópusambandsríkjunum.  Bretar skjóta nú Evrópusambandinu ref fyrir rass á hverju sviðinu eftir annað. 

Peabody Energy, stórt bandarískt kolanámufélag, hefur sent út viðvörun um, að það geti bráðlega farið á hausinn í annað skiptið á 5 árum.  Þótt ríkisstjórn Donalds Trump hafi hyglað kolaiðnaðinum leynt og ljóst, fær enginn stöðvað tímans þunga nið.

Í Evrópu hefur koltvíildisskattur ýtt undir aflagningu kolaorkuvera, og þrátt fyrir ýmsa hvata og pólitíska hvatningu Trump-stjórnar BNA til kolaiðnaðarins hefur notkun kola minnkað þar líka. Auðvitað vita Bandaríkjamenn, hvað klukkan slær, hvað sem tautar og raular í Hvíta húsinu. Ein ástæðan er framboð á ódýru jarðgasi, sem framleitt er með leirsteinsbroti í BNA og hefur gert Bandaríkjamenn aftur að nettóútflytjendum jarðefnaeldsneytis .

Skattaafslættir og niðurgreiðslur hafa hvatt orkufyrirtæki til að auka hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa, og með hagkvæmni fjöldans hefur verð þeirra lækkað.  Sólarhlöður og vindmyllur á landi geta nú framleitt ódýrasta nýja rafmagnið fyrir a.m.k. 2/3 mannkyns samkvæmt BloombergNEF, gagnasafnara.  Þar sem kolin mæta nú samkeppni hreinna orkulinda og þar sem útlit er fyrir stífari reglusetningu fyrir kolanotkun, snúa bankar og fjárfestar nú baki við kolafyrirtækjum. Þau sjá nú skriftina á veggnum, enda eykur slík staða óhjákvæmilega fjármagnskostnað þeirra. 

Þetta er áfangasigur, en samtímis hefur snarazt á merinni víða annars staðar.  Undanfarinn áratug, þegar Evrópa hefur að nokkru snúið af braut kolabrennslu, hefur notkun þeirra í Asíu aukizt um fjórðung.  Í Asíu eru nú notuð 77 % af heimsnotkun kola, þar af brenna Kínverjar nú 2/3, og Indverjar lenda í 2. sæti.  Kol eru ríkjandi orkugjafi í nokkrum miðlungs stórum, hratt vaxandi hagkerfum, eins og Indónesíu og Víetnam. Kínverjar, sem eru á leiðinni að verða stærsta hagkerfi jarðar (í kringum 2028), gætu gegnt forystuhlutverki við að snúa ofan af þessari öfugþróun í Asíu með orkuskiptum þar.  Annars mun ekki mikið gerast þar í þessum efnum.  Með öðrum orðum hafa Kínverjar það í höndum sér að stöðva hlýnun jarðar. Þeir geta ekki orðið forysturíki í heiminum, ef of mikil hlýnun andrúmslofts verður á endanum skrifuð á þeirra reikning.  

Sé ætlunin að halda hlýnun andrúmslofts undir 2,0°C frá því fyrir iðnbyltingu, er ófullnægjandi að bíða aðgerðalaus eftir, að kolanotkun minnki í Asíu. Þar eru enn reist kolaorkuver. Mörg nýleg ver eru enn ekki fullnýtt og munu verða nokkra áratugi í brúki að óbreyttu.  Það er heldur ekki nóg að búast við lausn frá "hreinkolatækni", sem fangar CO2 úr útblæstrinum og geymir það á öðru formi en gasformi, t.d. neðanjarðar.  Sú tækni kann að gagnast iðnaðinum, t.d. stálverksmiðjum, en hún er of dýr fyrir orkuiðnaðinn. Líklega er þessi aðferð líka of dýr fyrir áliðnaðinn.  Þar er hins vegar "lokalausn" senn í vændum.  Í tilraunaverksmiðju Rio Tinto í Frakklandi mun í ár  hefjast rekstur tilraunakera, sem losa ekkert koltvíildi út í andrúmsloftið við rafgreiningu súrálsins. Tilraunakerin eru afrakstur einbeittrar rannsóknarvinnu álfyrirtækjanna Rio Tinto og Alcoa, og verður spennandi að fylgjast með framhaldinu. 

 

 

 

    

   


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband