Færsluflokkur: Umhverfismál

Rammskökk Rammaáætlun um vernd og nýtingu

Orkumálastjóri gegnir jafnframt stöðu Landsorkureglis Evrópusambandsins (ESB) samkvæmt íslenzkum lögum um Orkupakka #3 (OP#3)(e. National Energy Regulator). Orð Orkumálastjóra hafa frá stofnun embættisins vegið þungt, og vægið hefur ekki minnkað við innleiðingu OP#3. Það er þess vegna eðlilegt að sperra eyrun, þegar Orkumálastjóri flytur jólahugvekju sína, og nú hefur embættið verið auglýst laust til umsóknar. 

Margt vakti athygli í þessari síðustu jólahugvekju Orkumálastjórans og Landsorkureglis dr Guðna A. Jóhannessonar.  Eitt var, að hann virtist hafa fengið sig fullsaddan af samskiptunum við undirstofnun utanríkisráðuneytisins, GRÓ, út af Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna. Harkalegur árekstur á milli Orkustofnunar og stofnunar á vegum utanríkisráðuneytis kemur spánskt fyrir sjónir, því að diplómatar eiga að vera þjálfaðir í að leita lausna á vandamálum, sem upp koma, áður en upp úr síður.  Grípum niður í jólaávarpið:

"Sú umræða, sem við [á Orkustofnun] áttum við stjórnarformann og framkvæmdastjóra GRÓ er sú einkennilegasta og minnst uppbyggjandi af öllu því, sem ég hef kynnzt á mínum starfsferli."

Það þarf vafalaust mikið að ganga á, til að Orkumálastjóri taki svona til orða í jólaávarpi sínu. 

"Það skapar að vísu augljós tækifæri til þess að ná aftur því tapi, sem stofnunin [ÍSÓR] verður fyrir vegna óhagstæðs rekstrarsamnings, en skapar um leið tortryggni og hættu á mismunun gagnvart öðrum hlutum jarðhitasamfélagsins. Það, sem meira er um vert, er, að þar með verður yfirstjórn skólans komin undir umhverfisráðuneyti, sem um árabil hefur verið vakið og sofið í því að girða fyrir nýtingu vistvænnar orku til atvinnuuppbyggingar á Íslandi.

  Það verður hugsanlega ekki beinlínis trúverðugt, þegar nemendum frá þróunarlöndum verður kennt, að um þeirra umhverfi og náttúruvætti gildi allt önnur viðhorf en á Íslandi, eða ef beinlínis verður farið að kenna, hvernig tefja megi fyrir nauðsynlegri uppbyggingu innviða og atvinnulífs með öllum þekktum ráðum."

(Undirstr. BJo.)  Það hefur vart sézt jafnflengjandi gagnrýni á starfshætti eins ráðuneytis eins og þarna.  Framsetning Orkumálastjóra varpar ljósi á það, sem marga grunaði, að afturhaldsöfl hafa grafið um sig í þessu ráðuneyti.  Þau svífast einskis til að hindra framfarir og aukna verðmætasköpun hér og jafnvel nú í þróunarlöndunum.  Afleiðingarnar eru, að framfarasókn tefst og hægar mun ganga að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu.  Allt mun þetta leiða til lakari lífskjara og lífsgæða en ella.  

"Við megum hins vegar ekki gleyma því, að Jarðhitaskólinn er sterkasta vörumerki Íslands á sviði orkumála, sem hefur náðst með næstum hálfrar aldar farsælu samstarfi utanríkisráðuneytis og Orkustofnunar.  Þótt einstökum ráðamönnum á hverjum tíma séu mislagðar hendur, munum við áfram styðja skólann og starfsfólk hans í sínu góða starfi og standa með þeim í að viðhalda þeim gæðum og háa þjónustustigi við nemendur, sem hafa verið undirstaðan að velgengni hans." 

Það virðist vera, að Orkumálastjóri beini þarna spjótunum að utanríkisráðherra sjálfum, og er það umhugsunarvert í ljósi harðrar gagnrýni, sem beinzt hefur að ráðherranum úr ráðuneytinu sjálfu. 

Næst sneri Orkumálastjóri sér að Rammaáætlun um verndun og nýtingu orkulinda.  Í stuttu máli fær núverandi fyrirkomulag og stjórnkerfi Rammaáætlunar falleinkunn hjá Orkumálastjóra.  Það eru margir sama sinnis og hann í þeim efnum.  Fyrirkomulagið er ein allsherjar blindgata, sem stríðir gegn skilvirkum og vönduðum ákvarðanatökum um, hvað gera ber við hverja orkulind um sig:

"Þegar ég hóf störf á Orkustofnun í byrjun árs 2008 var að hefjast vinna við annan áfanga Rammaáætlunar.  Í verkefnisstjórn voru þá fulltrúar stofnana, samtaka og ráðuneyta, þannig að um aðferðir og niðurstöður skapaðist breið umræða, þar sem mismunandi sjónarmið tókust á.  Þótt ýmis upphlaup yrðu vegna óskyldra hluta, sem trufluðu starfsemina, var formaðurinn, Svanfríður Jónasdóttir, óþreytandi að taka umræðuna, og umfjöllunin komst á það stig, að það var hægt að ná niðurstöðu með meirihlutasamþykkt á Alþingi.  Jafnframt hafði verið unnið að því að treysta grundvöll rammaáætlunar með því að setja um hana lög, en því miður fólu þau lög í sér, að framkvæmd laganna var falin umhverfisráðuneyti í stað iðnaðarráðuneytis, eins og áður var."

  Enn og aftur gagnrýnir Orkumálastjóri umhverfisráðuneytið.  Það hefur ekki reynzt í stakkinn búið að framfylgja lögunum af hlutlægni og fagmennsku, og ber að taka flest nýtingarmál auðlinda úr höndum þess. Orkumálastjóri hélt afram:

"Í þriðju umferð var verkefnisstjórnin fámennari og einsleitari.  Sama gilti um faghópana og það starf, sem þar var unnið.  Starfið beindist að því að safna í excelskjöl smáum og stórum ávirðingum á mögulega virkjunarkosti með einkunna- og stigagjöf, sem var illskiljanleg fyrir þá, sem stóðu utan við starfið.  Röðun og flokkun virkjanakosta gekk að mínu mati þvert á almenna skynsemi, og mikilvægar forsendur voru oftar en ekki gripnar úr lausu lofti, eins og t.d. fyrir Skatastaðavirkjun, enda varð snemma ljóst, að engin samstaða var á Alþingi um afgreiðslu þessa áfanga, og nú er vinna við fjórða áfanga rammaáætlunar hafin án þess, að afgreiðslu þriðja áfanga sé lokið.

Ég held við verðum að gera okkur ljóst, að allt þetta ferli er orðið langur, erfiður draumur eða martröð.  Það er kominn tími til þess að vakna upp frá þessu og finna nýjar leiðir.  Einföld leið er að leggja niður rammaáætlun og efla þær stofnanir, sem fara með umhverfis- og skipulagsmál [þarna mætti bæta við orkumálum og hagrænu mati-innsk. BJo] til þess að meta hugsanlega virkjunarkosti á skipulagsstigi. 

Ef þessar stofnanir telja, að veruleg verðmæti séu í hættu og að sameiginlegir samfélagslegir hagsmunir geti verið meiri en svo, að hugsanlegar framkvæmdir geti verið á ábyrgð viðkomandi sveitarfélaga eingöngu, þá geti þær frestað málinu og gert tillögu til Alþingis um misjafnlega langt "móratóríum" [dvala-innsk. BJo] eða stöðvun undirbúnings og framkvæmda. Slík stöðvun gæti staðið í 5, 10 eða 20 ár eftir því, hve álitaefnin vega þungt, eða hvort þau krefjast dýpri athugana og þekkingar. Alþingi verði síðan að afgreiða þessar tillögur innan ákveðins frests, til þess að ákvörðunin öðlist gildi.  Friðlýsing án tímamarka er í raun alvarleg skerðing á rétti komandi kynslóða til þess að taka lýðræðislegar ákvarðanir um sín mál á hverjum tíma."     

(Undirstr. BJo.) Hér er um mjög áhugaverðar hugleiðingar Orkumálastjóra að ræða. Hann kastar fram hugmynd um, hvað gæti tekið við af handónýtu stjórnfyrirkomulagi Rammaáætlunar.  Hann bendir á hið augljósa, að friðlýsingar eru gerræðisleg valdníðsla á komandi kynslóðum.  Alþingi ætti sem fyrst að breyta þessu og gera núgildandi friðlýsingar tímabundnar. 

Morgunblaðið vakti athygli á hvassri gagnrýni Orkumálastjóra á misheppnað ferli við frummat á virkjunarkostum hérlendis. Fyrirmyndin var upphaflega norsk, en framkvæmdinni hér hefur verið klúðrað, enda er hún er með öðrum hætti í Noregi.  Norðmenn fela Orkustofnun sinni lykilhlutverk í þessu máli, og hún er undir Olíu- og orkuráðuneytinu.  ESB er ekki með fingurinn á norsku Orkustofnuninni, því að Landsorkureglirinn er sjálfstætt embætti í Noregi, fjármagnað af ríkisfjárlögum.  Það stappar nærri hótfyndni að fela umhverfisráðuneytinu hér yfirstjórn þessara mála.

Forystugrein Morgunblaðsins á Þorláksmessu 2020 bar heitið:

"Hörð gagnrýni á rammaáætlun":

"Orkumálastjóri hefur mikla reynslu af þessum málum eftir að hafa gegnt starfinu í 12 ár.  Full ástæða er þess vegna til, að menn leggi við hlustir, þegar hann tjáir sig, og taki afstöðu til þeirra sjónarmiða, sem hann hefur fram að færa.  Þegar Morgunblaðið leitaði til umhverfisráðherra, en rammaáætlunin heyrir undir það ráðuneyti, þó að orkumálastjóri telji, að hún eigi betur heima undir ráðuneyti iðnaðarmála, sagðist hann ekki ætla að tjá sig um sjónarmið orkumálastjóra.  Það er sérkennileg afstaða þess, sem ábyrgð ber á málaflokknum, en e.t.v. í anda þeirrar þróunar, sem orkumálastjóri lýsti, að umræðan verði einsleitari með minni skoðanaskiptum."

Hvers vegna tjáir umhverfisráðherra sig ekki ?  Hann ætlar að þagga þessa gagnrýni niður, láta sem ekkert sé, halda áfram ótímabærum og ótímatakmörkuðum friðlýsingum sínum, og láta þau þröngsýnu og ófaglegu vinnubrögð 3. verkefnisstjórnar Rammaáætlunar viðgangast að safna saman í eitt Excel-skjal öllum hugsanlegum ávirðingum og göllum þeirra virkjanakosta, sem 4. verkefnisstjórnin fjallar um.  Hvort á að gráta eða hlæja að þessu fúski með lífshagsmuni framtíðarinnar á Íslandi ?

"Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðarráðherra [og varaformaður Sjálfstæðisflokksins-innsk. BJo], brást við orðum orkumálastjóra og sagði, að færa mætti rök fyrir því, að matið, sem ætlazt væri til í dag, væri "of umfangsmikið og mögulega óraunhæft".  Hún sagði, að það væri því "skynsamlegt og tímabært að endurskoða verklagið. A.m.k. hvernig mat á efnahagslegum og samfélagslegum áhrifum er útfært."  Þá sagði hún:  "Rammaáætlun átti að vera svar við því, að þessi mál væru pólitískt bitbein og sjálfstætt vandamál.  Ferlið í framkvæmd hefur ekki verið góð auglýsing fyrir sjálft sig.  Mat á efnahagslegum og samfélagslegum áhrifum hefur reynzt okkur um megn, eins og það er útfært núna.  Nærtækur möguleiki væri að færa sig nær upphaflegu ferli, þar sem horft var á hagkvæmni virkjanakosta án þess að reyna að meta öll efnahagsleg og samfélagsleg áhrif, sem hann kemur til með að hafa."  Hún bætti því við, að regluverk þyrfti "að öðru leyti að vera skilvirkt, sem það er ekki.  Það er of flókið og marglaga."

Þótt ráðherrann mætti vera skýrari í málflutningi sínum, virðist mega draga þá ályktun af orðum hennar, að hún telji núverandi fyrirkomulag Rammaáætlunar óalandi og óferjandi.  Orkustofnun heyrir undir ráðuneyti hennar, og henni ber að vinna að umbótum á þessu sviði. Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki umborið ósómann.  Fyrirtæki, sem vilja virkja, þurfa að leggja fram áætlun um umhverfismat.  Orkustofnun getur unnið eða látið vinna frummat á þjóðhagslegri hagkvæmni, þar sem "umhverfiskostnaður" er tekinn með í reikninginn.  Skipulagsstofnun fái þessi gögn til umsagnar og geti samþykkt, að fram fari áframhaldandi hönnun og gerð umhverfismats eða frestun um tilgreindan tíma að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar.  Alþingi hefur seinasta orðið um helztu virkjanakosti (t.d. stærri en 200 GWh/ár).  Verkefnisstjórn Rammaáætlunar er óþörf.

Morgunblaðið, sem er með puttann á púlsinum, eins og fyrri daginn, klykkti út með eftirfarandi:

"Í orðum bæði orkumálastjóra og iðnaðarráðherra felst hörð gagnrýni á rammaáætlun og það ferli, sem í henni felst.  Líklegt má telja, að þetta ferli sé gengið sér til húðar og að verulegra breytinga sé þörf, annaðhvort með gagngerri uppstokkun á þessu kerfi eða með því að fara alveg nýja leið, eins og orkumálastjóri leggur til.  Þetta varðar mikla hagsmuni og kallar á umræður, sem þeir, sem láta sig málaflokkinn varða, geta ekki vikið sér undan."

 Það er hárrétt ályktun hjá Morgunblaðinu, að fyrirkomulag vals á milli virkjunar og verndunar varðar mikla þjóðarhagsmuni, og það er óviturlegt af þingmönnum að skilja þetta mál eftir í tröllahöndum.

 

 

 

 

 


Orkumál valda hagsmunaárekstrum

Lengi hafa pólitísk átök orðið hérlendis tengd virkjunum og orkunýtingu, og hófust þau líklega að ráði með ágreiningi í þjóðfélaginu og inni á Alþingi um Títanfélagið á upphafsárum fullveldisins og áform þess um virkjun í Þjórsá, þar sem nú er Búrfellsvirkjun 2, og nýtingu orkunnar þaðan til stóriðju, líklega aðallega áburðarframleiðslu.  Átökin um Þjórsá blossuðu upp að nýju eftir stofnun Landsvirkjunar af ríkissjóði, Reykjavíkurborg og Akureyrarbæ árið 1965 og þeirra áforma Viðreisnarstjórnarinnar að framselja þessu nýja fyrirtæki vatnsréttindin í Þjórsá (aðallega komin frá Títanfélaginu) með það fyrir augum að virkja þetta mikla vatnsfall, fyrst með þá langstærstu og hagkvæmustu virkjun landsins við Búrfell.  Ákvörðunin um þetta og um ráðstöfun stórs hluta orkunnar til dótturfyrirtækis svissneska félagsins Alusuisse í Straumsvík var mjög umdeild í þjóðfélaginu, og það varð mjótt á mununum á Alþingi, þegar til atkvæðagreiðslunnar kom.  Sú framfarahugmynd að byggja upp öflugt raforkukerfi á Íslandi með gjaldeyri frá stórsölu rafmagns til útflutningsiðnaðar í eigu Svisslendinga varð ofan á og hefur reynzt giftudrjúg. Úrtöluraddir heyrast enn í dag, en hvað bjóða þær upp á annað en atvinnuleysi og hor í nös ?

Nú er enn komið að því að virkja Þjórsá, í þetta sinn með virkjanastækkunum upp frá og síðan í Neðri-Þjórsá með s.k. Hvammsvirkjun, sem á að verða tæplega 100 MW.  Raforkan frá henni færi til að knýja fyrsta hluta orkuskiptanna á næstu árum fram undir 2030, vetnisverksmiðjur og rafmagnsfartæki.  

Í heiminum olli olían, sem nú þarf að leysa af hólmi á Íslandi og annars staðar, oft spennu í samskiptum þjóða, einnig í okkar heimshluta.  Þrennt lá t.d. aðallega að baki

"Aðgerð Rauðskegg - Operation Barbarossa" 1941:

að berja bolsévismann niður, að tryggja fæðuöflun Þriðja ríkisins og að fá öruggt aðgengi að og umráð yfir olíulindum fyrir Stór-Þýzkaland.  Þessi hernaðaráætlun mistókst hrapallega, eins og kunnugt er, af ástæðum, sem ekki verða tíundaðar hér.  

Nú á dögum hefur vakið athygli, að þýzka ríkisstjórnin hefur gert samninga við eldsneytisgasfélög í Rússlandi, sem ráða miklum lindum í Síberíu og leggja og reka miklar gaslagnir.  Þjóðverjar hafa gert þessa samninga við Rússa í trássi við bandamenn sína í Austur-Evrópu, t.d. Pólverja, og einnig gegn vilja Frakka og Bandaríkjamanna.  Sýnir þetta, hvað þeir leggja mikla áherzlu á að fjölga orkuaðdráttum, jafnvel þótt Rússar, sem enn sæta viðskiptabanni af hálfu Vesturveldanna eftir hernám Krímskagans, nái þar með tangarhaldi á gasknúinni starfsemi þeirra, húsnæðisupphitun og eldamennsku.  

Kína sækir nú í sig veðrið sem stórveldi og sækir ekki sízt fram á orkusviðinu.  Hernaðarumsvif Kínverja hafa aukizt mjög á Suður-Kínahafinu, og það er aðallega vegna olíulindanna, sem þar liggja undir hafsbotni.  Olían er grunnefni í öllu plasti og þar af leiðandi undirstaða mikils iðnaðar, en hún er líka undirstaða mikilla valda og auðs einstaklinga, félaga og þjóða.  Sagt er, að völd Vladimirs Putin flæði úr rússneskum olíulindum.  Hálfri annarri öld eftir, að John D. Rockefeller myndaði fyrstu olíuauðlegðina í heiminum, njóta afkomendur hans enn afrakstursins.  Miðað við mikilvægi olíunnar fyrir nútíma siðmenningarþjóðfélög er ekki skrýtið, að erfitt reynist að vinda ofan af umsvifum umboðsmanna hennar og slæmum áhrifum á loftslagið.

Enn sem komið er, er enginn augljós arftaki olíunnar í sjónmáli, þótt ýmsir séu nefndir.  Það er þó orðið ljóst, að þróunin er í átt til enn víðtækari rafvæðingar, t.d. í samgöngum, með betri rafgeymum en áður.  Gríðarlegur auður mun myndast á næstu árum og áratugum við framleiðslu á ofurrafgeymum, rafmagnsfartækjum og við vinnslu málma og steinefna, sem til þeirrar framleiðslu þarf.

Stríð um rafmagnsfartæki og rafgeyma mun væntanlega ekki minna á viðskiptastríð 16.-19. aldar með herskipum og herjum, sem gengu hér og þar á land, en það verða líklega spennuþrungin tæknileg átök með stolnum teikningum, uppgötvunum og stjörnustarfsmönnum (verkfræðingum) samfara útsmognum aðferðum við að komast yfir sjaldgæfa málma s.s. kobalt og nikkel. 

Bandaríkjamenn eru nú að búa sig undir að styrkja stöðu sína verulega á þessu sviði.  Undirstaðan er öruggt aðgengi að miklu magni liþíummálmsins, sem er lykilefni fyrir nútíma rafgeyma í rafmagnsfartæki.  Nýlega komust þeir að því, að með jarðvökvanum í borholum fyrir 11 jarðgufuvirkjanir, sem nýta 260°C heitan jarðvökva við suð-austur jaðar Salton Sea í Suðaustur-Kaliforníu, kemur upp liþíum.  Rannsóknarskýrsla SRI International í marz 2020 gaf til kynna, að þar mætti vinna 600 kt/ár af Li, en það er tæplega áttföld notkun ársins 2019.  Þarna eru þá einhverjar mestu birgðir af Li, sem þekktar eru í heiminum, en aðalnámurnar eru núna í Ástralíu, Kína og Suður-Ameríku.  

Blómaskeið rafmagnsbílsins er framundan, og Kína leiðir inn á þetta blómaskeið.  Á heimsvísu eru nú aðeins 3 % allra nýrra bíla rafknúnir, en hlutfallið er mun hærra á Íslandi, en alrafbílar eru um 3 % af heildarfjölda bíla á Íslandi (um 6200 talsins).  Árið 2021 er búizt við, að hlutfall rafknúinna nýbíla í heiminum verði 5 % og 10 % árið 2025. Þjóðverjar taka fullan þátt í þessu kapphlaupi, og hlutdeild alrafbíla í fólksbílaframleiðslu stærstu þýzku bílaframleiðendanna árið 2025 á að verða um fjórðungur. 

Þróunin í þessa átt er hröð, og studdir af ríkissjóði leiða kínverskir bílkaupendur þessa þróun í heiminum, en þeir kaupa um helming allra nýrra rafmagnsbíla í heiminum um þessar mundir, og iðnjöfrar landsins hafa byggt upp mestu framleiðslu bílarafgeyma í heiminum.  Rafgeymagerðirnar ganga undir skammstöfununum NMC og LFP.  Þær voru þróaðar í Bandaríkjunum, en Kínverjar hafa skotið Bandaríkjamönnum og öllum öðrum aftur fyrir sig í framleiðslumagni fyrir rafbíla. Ýmislegt bendir til, að Bandaríkjamenn vilji verða með í þessari keppni. 

Bandaríski rafbílaframleiðandinn Tesla, aðalrafbílaframleiðandinn núna, er að koma sér fyrir í Kína.  Gigafactory 3 í eigu Tesla, þar sem settir eru saman rafbílar fyrirtækisins og rafgeymar,  er staðsett í Shanghai.  Model 3 frá Tesla er mest seldi rafbíllinn í Kína, og nýlega ákváðu yfirvöld í Beijing að niðurgreiða Model Y jeppann frá Tesla. Tesla gæti selt 40 % af framleiðslu sinni í Kína.

Tesla reisir nú nýja rafbílaverksmiðju og rafgeymaverksmiðju í Þýzkalandi sunnan Berlínar.  Þar með er lagður grunnur að baráttu um evrópska og einkum þýzka rafbílamarkaðinn.  Þar liggur VW-samsteypan á fleti fyrir með mjög mikil áform á þessu sviði undir merkjum VW, Audi og Porsche. "Festung Europa" verður ekki auðsótt frekar en fyrri daginn. Þannig verður harðvítug samkeppni á rafbílamörkuðum heimsins á milli Kínverja, Bandaríkjamanna og Þjóðverja. 

Á Íslandi munu neytendur, eins og annars staðar, njóta góðs af þessari samkeppni.  Hérlendis er umhverfislega og þjóðhagslega meiri ávinningur af rafmagnsbílum en víðast hvar annars staðar vegna raforku alfarið úr "hreinum" og innlendum orkulindum.  Samkeppni er líka um raforkusöluna.  Þann 15. desember 2020 birtist baksviðsfrétt um það í Morgunblaðinu, að Orka náttúrunnar, ON, dótturfyrirtæki veitufyrirtækisins Orkuveitu Reykjavíkur (OR), hygðist starfrækja 44 hraðhleðslustöðvar fyrir árslok 2020 og 57 fyrir árslok 2021. 

ON sætir kæru til Samkeppniseftirlitsins vegna þess, sem kalla má misnotkun fyrirtækisins á markaðsstöðu sinni.  Í Morgunblaðinu, 17. desember 2020, var frétt undir fyrirsögninni:

"Óvíst hvenær rannsókninni á samkeppnismáli ON lýkur".

Þar stóð þetta m.a.:

"Haft var eftir framkvæmdastjórum N1 og Ísorku [í Morgunblaðinu 16.12.2020-innsk. BJo], að ON hefði með niðurgreiðslum hamlað uppbyggingu einkaaðila á hraðhleðslustöðvum."

ON er nú umsvifamest á markaði fyrir hleðslu rafmagnsbíla hérlendis.  Það sætir undrun, að fyrirtækið skuli leggja svo mikla áherzlu á þennan markað, því að augljóslega vofir inngrip Samkeppniseftirlitsins inn í þessa markaðssókn yfir.  Ef litið er til Evrópusambandsins (ESB), sést á Orkupakka 4, að orkufyrirtækjum og veitufyrirtækjum ESB er bannað að keppa á þessum markaði, því að þau njóta yfirburða og geta hæglega misnotað aðstöðu sína á markaði, eins og ON er uppvís að núna með því að veita viðskiptavinum sínum á almennum raforkumarkaði afslátt af verði hleðslurafmagns. 

Landsvirkjun undirbýr sig fyrir álagsaukningu vegna orkuskiptanna.  Fyrirtækið ætlar að auka aflgetu sína og geta þannig sinnt álagstoppum, sem fyrirsjáanlega munu myndast vegna hleðslu rafmagnsfartækja á kvöldin.  Landsvirkjun býst jafnframt við að geta sparað vatn í miðlunarlónum sínum, m.a. Þórisvatni, þegar vindorkuver koma til skjalanna, en undirstaðan að hagkvæmni þeirra er rekstur á hámarksafköstum, sem vindur leyfir hverju sinni, og þá verður dregið úr afköstum vatnshverflanna á móti. 

Í Morgunblaðinu 4. marz 2020 birtist frétt Helga Bjarnasonar um þetta:

"Þarf að auka sveigjanleika orkukerfisins".

Hún hófst þannig:

"Áform Landsvirkjunar um að stækka 3 aflstöðvar sínar á Þjórsár/Tungnaár svæðinu snúast um að auka uppsett afl og þar með sveigjanleika í orkuöflun til þess að geta mætt orkuskiptum í samgöngum, breytingum vegna væntanlegrar uppbyggingar vindorkuvera og aukins rennslis til virkjana vegna hlýnunar andrúmsloftsins.

Landsvirkjun hefur tilkynnt áform um stækkun Hrauneyjafossstöðvar, Sigöldustöðvar og Vatnsfellsstöðvar til yfirvalda vegna vinnu verkefnisstjórnar 4. áfanga rammaáætlunar við mat á orkukostum.  Snúast verkefnin um að auka uppsett afl stöðvanna, en orkuvinnsla eykst tiltölulega lítið."

 

 Þessar aðgerðir eru af sama toga og Búrfellsvirkjun 2, þar sem aflgetan var aukin um 100 MW fyrir fáeinum árum.  Ofangreint eykur aflgetu Landsvirkjunar e.t.v. um 200 MW og mun vinna gegn orkusóun á formi framhjárennslis, því að með öflugra flutningskerfi má draga niður í öðrum virkjunum og keyra hinar á fullu afli, á meðan miðlunarlón þeirra eru full.  Þetta er hagstætt, því að vatn framhjá virkjun er verðlaust. 

Kvöldtoppurinn stækkar með fleiri rafmagnsbílum, og þá þarf að reiða sig á aukna aflgetu.  300 MW duga lengi í þeim efnum, en auðvitað þarf orku líka.  Hún kemur fyrst um sinn frá smávirkjunum vatnsafls og frá vindrafstöðvum, en almennileg viðbótar orkugeta þarf að koma inn á kerfið til að anna orkuskiptum og nýjum iðnaði um miðjan komandi áratug, ef orkuskortur á ekki að hamla þeim hagvexti, sem nauðsynlegur verður til að reisa hagkerfið við og snúa af braut skuldasöfnunar til uppgreiðslu á lánum.

"Tilgangur framkvæmdanna er að auka sveigjanleika í orkuöflun virkjana Landsvirkjunar til þess að mæta orkuskiptum í samgöngum, væntanlegri uppbyggingu vindorkuvera og auknu rennsli að virkjunum vegna hlýnunar loftslags.  Til útskýringar bendir Ólafur Grétar [Blöndal Sveinsson, framkvæmdastjóri Þróunarsviðs Landsvirkjunar] á það, að þegar stór hluti ökutækja verði rafknúinn, muni þau gjarna vera í hleðslu á sama tíma, þ.e.a.s. á kvöldin og nóttunni.  Þá sé framleiðsla vindorkuvera mjög sveiflukennd, eins og eðlilegt er.  Þetta hafi þær breytingar í för með sér, að framleiðsla virkjana Landsvirkjunar verði ekki eins jöfn [og áður]. Það kalli á aukið afl með fjölgun véla í virkjunum. 

Ekkert vatn rennur framhjá virkjunum Landsvirkjunar á Þjórsár-Tungnaár svæðinu nú.  Því verður sama vatnsmagnið notað við framleiðsluna og til taks er nú.  Hins vegar eykst framleiðslan nokkuð vegna betri nýtni nýju vélanna en þeirra eldri."

Það eru tíðindi, ef engin umframorka rennur óbeizluð til sjávar framhjá virkjunum í Þjórsá-Tungnaá, því að það var ein helzta röksemd Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, fyrir aflsæstreng til Bretlands, að koma þyrfti umframorku Landsvirkjunar í lóg. Höfundur þessa pistils benti reyndar á, að hún væri svo lítil og óstöðug, að hún gæti ekki réttlætt þessa viðskiptahugmynd, en þrákelknin sat við sinn keip, og vitleysan var margendurtekin.  Það er samt ótrúlegt, að Búrfell 2 hafi dugað til að nýta vaxandi afrennsli síðsumars.

Í lokin stóð í þessari frétt:

"Spurður, hvort stækkun aflstöðvanna dragi úr þörf fyrir áformaður virkjanir í Neðri-Þjórsá, segir Óli Grétar svo ekki vera.  Ef þörf verði á aukinni orku inn á raforkukerfið, gætu virkjanir í Neðri-Þjórsá komið til greina.  Þær henti hins vegar ekki til að auka afl til að auka sveigjanleika, eins og þörf verði á næstu árin."

Þetta er rétt, svo langt sem það nær.  Aflgetu virkjana í Neðri-Þjórsá þarf hins vegar að miða við mesta rennsli, sem verður, þegar allar vélar virkjananna í Efri-Þjórsá og Tugnaá eru keyrðar á fullu, því að annars þarf að veita vatni framhjá virkjunum í Neðri-Þjórsá.  Þess vegna er líklegt, að aflgeta Hvammsvirkjunar muni verða valin yfir 100 MW. Til að nýta umframorku í kerfinu, sem þannig verður til, kemur vetnisverksmiðja vel til greina, sem hönnuð væri fyrir ákveðið grunnálag, en væri í stakk búin til að taka við ódýrri umframorku. 

Brandenburger Tor 

 Olíuborun á ísi

 


Metnaðurinn einn og sér hrekkur skammt

Forsætisráðherra hefur tilkynnt þjóð sinni og þjóðum heims um enn torsóttari markmið en áður varðandi samdrátt í losun Íslendinga á gróðurhúsalofttegundum.  Hérlendir stjórnmálamenn ættu þó að vera brenndir af því að spenna bogann allt of hátt án þess að hafa nokkra getu til að stjórna aðgerðum til að uppfylla loforðin.  Afleiðingu þess barnalega hégómaskapar að vera hinn góði riddari loftslags jarðar, sem drepur drekann ógurlega, sem ógnar lífi á jörðunni, eins og við þekkjum það, sjáum við í hörmunginni, sem kallast "annað skuldbindingartímabil Kýótó-bókunarinnar".  Skortur á efndum þar mun kosta íslenzka skattborgara stórfé.  Hvað mun þetta síðasta gönuhlaup Katrínar Jakobsdóttur kosta mig og þig ? 

Nú verður vitnað í nýjustu "Landsskýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda (e. "National Inventory Report-NIR") til Evrópusambandsins (ESB) og loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (e. United Nations Framework Convention on Climate Change - UNFCCC") frá Umhverfisstofnun sumarið 2020:  

"Ísland og ESB hafa gert með sér tvíhliða samning um sameiginlegar efndir á skuldbindingum Íslands og ESB við UNFCCC á öðru skuldbindingartímabili Kýótóbókunarinnar (undirritað af ESB og Íslandi 1. apríl 2015), þar sem Ísland fékk úthlutaðar 15.327.217 losunarheimildir [t], sem samsvara losun af 15,33 Mt CO2-íg. af gróðurhúsalofttegundum á tímabilinu 2013-2020 [8 ár-innsk. BJo].  Árið 2023 mun Ísland gera upp annað tímabil Kýótóbókunarinnar við ESB, og ef Ísland hefur losað meira en það fékk úthlutað, mun landið þurfa að kaupa losunarheimildir fyrir mismuninum."

Ísland fór mjög mikið fram úr þessum losunarheimildum sínum á Öðru Kýótó-skuldbindingartímabilinu eða um 8,35 Mt CO2-íg., sem er um 55 % af úthlutuðum heimildum, og var enn að auka losun sína á árinu 2018, sem er lokaár skýrslunnar með þekktum gildum.  Hvaðan í ósköpunum kemur forsætisráðherranum þá sú vitrun (líklega í draumi), að raunhæft sé að ætla Íslendingum að auka enn snúninginn ?  Engar aðgerðaáætlanir til 2030 hafa verið birtar, hvað þá, að þær séu fjármagnaðar.  Allt er í lausu lofti hjá forsætisráðherra, en hégómagirninni er fullnægt.  Það væri svo sem ekki orð á því gerandi, ef það gæti ekki kostað skattborgarana stórfé, og auðvitað er það þarflaust með öllu að binda skattgreiðendum þessar byrðar.  Þurfum við ekki á öðru að halda núna en leikaraskap af þessu tagi ?

Hvað mun framúrkeyrslan á Öðru skuldbindingartímabili Kýótó-bókunarinnar kosta ?  Ef reiknað er með lágmarksverði koltvíildiskvótans, sem gilti á þessu tímabili, 5 EUR/t CO2, mun kostnaðurinn nema:

  • K2K=8,35 Mt * 5 EUR/t = MEUR 42 = mrdISK 6,5

Meginástæða þess, að það reynist Íslendingum svo torsótt sem raun ber vitni um að standa við Kýótóbókunina og Parísarsáttmálann er sú, að viðmiðunar árið, 1990, er okkur óhagfellt og óhagfelldara en mörgum öðrum.  Þá var mesta átak í hitaveituvæðingu landsins nýlega um garð gengið í kjölfar olíukreppa og margföldunar olíuverðs frá 1970. Til að sýna umfang skuldbindinganna í tonnum (enginn veit, hverjar þær verða í evrum) er rétt að vitna aftur í Landsskýrslu UST 2020:

"Árið 2018 var heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi (án losunar frá alþjóðaflugi, alþjóðasiglingum, landnotkun, breyttri landnotkun og skógrækt) 4.857 kt af CO2-ígildum, sem er aukning um rúmlega 30 % frá árinu 1990 (3.733 kt CO2-íg.) og aukning um 0,4 % frá árinu 2017 (4.836 kt CO2-íg.)."

Okkur miðar þannig ekki nokkurn skapaðan hlut í heild í átt að markmiðum ársins 2030, hvort heldur átt er við 40 % samdrátt eða 55 %. Einn er sá samanburður, sem forsætisráðherra gæti skákað í skjólinu af, en það er "losun, sem fellur undir beina ábyrgð íslenzkra stjórnvalda" með viðmiðunarárinu 2005, en það er einmitt upphafsár kvótaúthlutunar Evrópusambandsins á losunarheimildum koltvíildis.  Það, sem forsætisráðherra er mjög líklega að gera, er að skuldbinda Íslendinga til að greiða fyrir það, sem þeir munu ekki standa við tímabilið 2021-2030 samkvæmt þessari skuldbindingu forsætisráðherra og væntanlega ríkisstjórnarinnar. 

Þetta er þó hvorki meira né minna en Stjórnarskrárbrot.  Stjórnarskráin bannar fjárhagslegar skuldbindingar ríkisins, nema með lögum, og það er mjög hæpið, að stjórnvöldum sé yfirleitt heimilt að skuldbinda skattborgara til greiðslu á óvissum erlendum skuldum.  Forsætisráðherra og ríkisstjórn hennar eru hér stjórnlagalega á hálum ísi.

Í tilvitnaðri Landsskýrslu UST stendur þetta um losun á beinni ábyrgð íslenzkra stjórnvalda:

"Losun, sem fellur undir beina ábyrgð stjórnvalda hérlendis, samkvæmt tvíhliða samninginum við ESB, er öll losun Íslands að undanskilinni losun, sem fellur undir viðskiptakerfi ESB (ETS), LULUCF, flug (alþjóðaflug og innanlandsflug) og millilandasiglingar, og er þar viðmiðunarárið 2005.  Losun, sem fellur undir beina ábyrgð stjórnvalda, nam 2978 kt CO2-íg. árið 2018."

Viðmiðunargildið er 3178 kt CO2 árið 2005, sem þýðir, að markgildið er 1787 kt CO2 með 40 % markmiðinu, en 1430 kt CO2 með 55 % markmiðinu.  Mismunurinn er 347 kt CO2, sem er 11,7 % af losunargildinu 2018 (nýjasta þekkta gildi).  Það þarf með nýja markmiðinu að draga úr losun orkuferla, iðnaðarferla, landbúnaðar og úrgangsferla um 1548 kt á tímabilinu 2021-2030. 

Ef við hugsum okkur, að hver liður þurfi að draga hlutfallslega jafnmikið úr losun, falla 975 kt á orkuferlana, aðallega vegaumferð og fiskiskip, 93 kt á iðnaðarferla, 325 kt á landbúnaðinn og 155 kt á úrgangsferlana.  Undir "vegasamgöngur" falla 51 % af losun orkuferlanna, sem jafngilda tæplega 500 kt/ár CO2 minni losun árið 2030 en nú.  Hvað jafngildir það mörgum farartækjum ?

Á vegsamgöngur er nú skrifuð um 960 kt/ár CO2 losun, svo að krafa um minnkun nemur um 52 % af öllum flotanum, stórum og smáum tækjum, eða um 150 k.  Það er ólíklegt, að þetta náist, enda tæknin hreinlega ekki tilbúin fyrir vinnuvélarnar, en það er þó ekki útilokað.  Stjórnvöld mega halda betur á spilum orkuskiptanna á komandi áratug en þau hafa gert til þessa, svo að þetta takist. 

Hvað gæti gönuskeið forsætisráðherra kostað íslenzka skattborgara, þegar kostnaðaruppgjörið fer fram fyrir komandi áratug ?  Gönuskeið er það að hlaupa út í óvissuna algerlega að þarflausu, en auðvitað fyrir ímyndaða stundarhagsmuni hégómagirninnar.  Viðbótarskuldbindingin vegna gönuskeiðsins nemur 347 kt/ár CO2.  Koltvíildiskvótaverðið innan ETS-viðskiptakerfisins mun verða miklu hærra á tímabilinu 2021-2030 en 2011-2020.  Það gæti að meðaltali tífaldazt.  Gerum ráð fyrir, að það verði að jafnaði 40 EUR/t CO2.  Þá mun verðmiði "gönuskeiðsins" verða: VGSK=347 kt/ár * 0,5 * 10 * 40 EUR/t = MEUR 69,4 eða á núverandi gengi: VGSK=mrdISK 11. 

Reikningur vegna gönuskeiðs forsætisráðherra Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs gæti þannig orðið 70 % hærri en reikningur vegna óleyfilegra búrókratískra afglapa annars uppgjörstímabils Kýótó-samkomulagsins.  Er ekki mál að linni, eða hvað verður um allt þetta fé ?

Téður forsætisráðherra birti þjóðinni predikun um áform sín í Morgunblaðinu 10. desember 2020 undir fyrirsögninni:

"Metnaður fyrir framtíðina".

Að leita þar að leiðsögn um, hvers vegna í ósköpunum hún ákvað að herða skuldbindingarólina um háls þjóðarinnar, eða hvernig á að framkvæma hin "göfugu" áform, er jafngilt því að fara í geitarhús að leita ullar.  Þetta er fullkomið ábyrgðarleysi.  Þessi forsætisráðherra er allt of dýr á fóðrum.  Hún bakar framtíðinni bara vandræði.  Lítum á skrifin:

"a) Aukinn samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda. Úr núverandi markmiði um 40 % samdrátt m.v. árið 1990 í 55 % eða meira til ársins 2030, en það markmið tengist samfloti Íslands með ESB og Noregi."

Það er óskiljanlegt að stíga þetta skref, og til að það takist, þarf kraftaverk.  Slíkt kraftaverk gæti t.d. verið, að a.m.k. tveimur af orkukræfu iðjuverunum yrði umbylt yfir í kolefnisfría framleiðslu með s.k. eðalskautum, þannig að í stað CO2-losunar komi O2 losun út í andrúmsloftið, og að engin nettólosun verði vegna bruna á jarðefnaeldsneyti í vélum.  Markmið Katrínar jafngildir, að heildarlosun Íslands verði undir 1680 kt árið 2030, sem þýðir minnkun losunar um a.m.k. 3177 kt/ár.  Þetta er ótrúlega fífldjarft uppátæki, og það eru innan við 5 % líkur á, að það takist að mati pistilhöfundar (ágizkun).

"b) Efldar aðgerðir, einkum í landnotkun, sem munu auðvelda Íslandi að ná settu markmiði um kolefnishlutleysi fyrir 2040 og að auki áfangamarkmiði um kolefnishlutleysi losunar á beinni ábyrgð íslenzkra stjórnvalda í kringum árið 2030."

Svo virðist hér sem forsætisráðherra ætli að bjarga sér fyrir horn með landnotkun, binda koltvíildi og draga úr losun lands á jafnvel sterkum gróðurhúsagösum, en hvað segir Landsskýrsla UST 2020 um þetta ?:

"Losun, sem kemur frá flokkinum landnotkun, breytt landnotkun og skógrækt (LULUCF) fellur ekki undir skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum og er þess vegna ekki talin með í umfjölluninni um heildarlosun fyrir ofan.  Það er ennþá takmörkuð þekking á þessum losunarflokki og vantar meiri rannsóknir á alþjóðavísu.  Þar af leiðandi er mjög mikil óvissa í losunartölunum, sem verið er að gera úrbætur á.  Ísland getur talið fram ákveðna bindingu frá LULUCF að einhverju leyti á móti losun frá öðrum geirum, en það er að mjög takmörkuðu leyti."

Á grundvelli þessa texta er mjög óvarlegt að búast við, að ræktun og mokstur ofan í skurði geti skilað nokkru, sem heitið geti, á tímabilinu 2021-2030, enda er t.d. endurheimt votlendis mjög vandmeðfarin og getur snúizt í höndunum á mönnum þannig, að losun aukist.  Það borgar sig alls ekki að setja fé í þann vonarpening á komandi reikningstímabili, en landgræðsla og skógrækt munu vonandi skila sínu síðar meir inn í þetta bókhald. 

"c) Aukin áherzla á loftslagstengd þróunarsamvinnuverkefni, einkum á sviði sjálfbærrar orku."

Það er mjög í þoku, hvernig forsætisráðherra hugsar sér aðkomu ríkisins að þessu, enda hefur einkageirinn aðallega séð um þennan þátt, og þessi starfsemi er bezt komin hjá honum.

"Í upphafi þessa kjörtímabils ákvað ríkisstjórnin að forgangsraða loftslagsmálunum og kynnti fyrstu aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum strax haustið 2018. Flaggskip aðgerðaáætlunar eru samdráttur í losun frá samgöngum með orkuskiptum og landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis.  Þar settum við okkur það markmið að verða kolefnishlutlaus ekki seinna en árið 2040."

  Þarna vantar alveg hjá forsætisráðherra, hvernig á að láta orkuskiptin fara fram með svo hröðum hætti sem markmið hennar útheimtir.  Með núverandi hraða orkuskiptanna nást markmið hennar alls ekki, og hún er jafnvel á undan tækniþróuninni með sín markmið, sem gerir þau ekki aðeins ótrúverðug, heldur óraunhæf.  Þá blandar hún þarna landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis inn, sem er að mestu ótímabært samkvæmt Landsskýrslu UST 2020. 

"Til að ná markmiði um kolefnishlutlaust Ísland fyrir árið 2040 er kolefnisbinding með skógrækt og landgræðsla lykilatriði til að ná árangri auk annarra aðgerða í landnotkun, s.s. endurheimt votlendis.  Efla þarf slíkar aðgerðir, sem geta samhliða frumkvöðlastarfi við bindingu kolefnis í berglögum markað Íslandi sérstöðu meðal fremstu ríkja varðandi upptöku kolefnis úr andrúmslofti, sem er ein megináherzla í Parísarsamningnum.  Þær eru einnig til þess fallnar að auka samkeppnishæfni Íslands, skapa störf og styrkja byggðir auk þess að vera "náttúrulegar loftslagslausnir", sem stuðla að vernd og endurheimt vistkerfa og landgæða.  Með auknum aðgerðum á þessu sviði getur Ísland náð þeim áfanga að verða kolefnishlutlaust varðandi losun á beinni ábyrgð Íslands í kringum árið 2030."

Hér hefur óskhyggjan náð tökum á forsætisráðherra og leitt hana í gönur.  Endurheimt votlendis er tóm vitleysa.  Hún breytir nytjalandi, sem komið er í CO2-jafnvægi eða nálgast það, í fúamýrar með CH4-losun, sem er sterk gróðurhúsalofttegund.

Víða í heiminum eru gerðar tilraunir með niðurdælingu koltvíildis, en ferlið er dýrt og verður sennilega ekki arðsamt fyrr en við kvótaverð á CO2 um 100 USD/t.  Þá er miklu hagkvæmara að binda CO2 með skógrækt, en ríkið hefur dregið lappirnar í stuðningi sínum við skógrækt alveg frá hruni bankakerfisins.  Styðja þarf við skógarbændur. Sú grein verður fljótt lífvænleg.  Í stað þess að greiða nokkra milljarða ISK til Evrópusambandsins vegna óraunhæfra skuldbindinga væri nær að láta féð renna til skógræktar á Íslandi í samkomulagi við ESB.   

 

 

 

 

 

 


Þjóðgarðsstofnun til óþurftar

Fram er komið frumvarp til laga um nýtt ríkisbákn, sem fara á með forræði þriðjungs landsins. Það hafa engin sannfærandi rök enn verið færð fram fyrir gagnsemi væntanlegrar ríkisstofnunar, Þjóðgarðsstofnunar, né að meðalhófs á grundvelli faglegrar þekkingar við stjórnun umgengni við og afnota af þessu stóra landsvæði verði gætt í meira mæli en nú, þegar aðliggjandi sveitarfélög bera ábyrgðina og bændur hafa haft svæðið undir handarjaðri sínum, s.s. landgræðsla ber vott um. Reynslan af Vatnajökulsþjóðgarði er óbeysin í þessu samhengi. Það er líklega affarasælla að leggja þessa vanreifuðu og stórkarlalegu miðstýringarhugmynd á ís, enda mætir hún miklum mótbyr í þjóðfélaginu, en endurskoða fremur löggjöfina um Umhverfisstofnun, Skipulagsstofnun og sveitarfélögin m.t.t. verndunar og nýtingar þessa landsvæðis.  

Halldór Kvaran, "áhugamaður um náttúruvernd", brá ljósi á þetta stofnunarmál í Morgunblaðinu 26. nóvember 2020.  Af þeirri grein að dæma verður um hreina stjórnsýslulega afturför og jafnvel hnignun umrædds landsvæðis að ræða, ef hugmyndir miðstýringarsinna forsjárhyggjunnar verða ofan á.  Greinin hét:

"Um óþurftarbáknið Þjóðgarðsstofnun".

Hún hófst þannig:

"Eigendur og starfsfólk ferðaþjónustunnar í Kerlingarfjöllum hafa í 20 ár varið þúsundum vinnustunda við umhverfis- og náttúruvernd á svæðinu.  Við höfum tínt rusl, lagt og merkt göngustíga og göngubrýr, lagfært sár eftir utanvegaakstur og sinnt fleiri verkefnum í sama dúr. Þetta gerðum við að eigin frumkvæði og þóttumst geta verið bærilega stolt af verkum okkar.  

Nú stendur til að stofnanavæða slík verkefni með því að lögfesta Þjóðgarðsstofnun, ríkisbákn, sem á að fara með forræði alls miðhálendisins.  Frumkvæði og forræði þess, sem við höfum brunnið fyrir, skal flytjast suður.  Áður var hrópað "báknið burt" á torgum, en [nú] stefnir í, að hrópað verði "byggjum fleiri og stærri bákn !" fyrir komandi alþingiskosningar. Eða hvað ?  Hve langt og lengi ætla sjálfstæðismenn í ríkisstjórnarmeirihlutanum að láta umhverfisráðherra og lið hans teyma sig í vitleysunni ?"

Þegar ríkissjóður er rekinn með dúndrandi halla, eins og núna, þarf hann sízt á að halda fleiri hvolpum á spenann, og sízt af öllu ætti nú að slá á frumkvæði sjálfboðaliða við landvörzlu og landvernd. Þess vegna á að leggja þessa "þjóðnýtingu" hálendisins á ís.   

"Hugmyndafræði yfirvofandi lagasetningar um Þjóðgarðsstofnun er að færa sjálfan almannaréttinn á stórum hluta Íslands á ríkisklafa, og fyrirmyndin er vandræðafyrirbærið Vatnajökulsþjóðgarður. Mörgum brá eðlilega í brún, þegar aðgengi að Vonarskarði var skert verulega; leið, sem merkt hefur verið á kortum áratugum saman. Sú ráðstöfun er fráleit, og við lestur nýlega birtra blaðagreina má helzt skilja, að vitleysuna í Vonarskarði megi skrifa á forsjárhyggjufyrirmæli og tiktúrur sérlundaðra landvarða Vatnajökulsþjóðgarðs.  Hvað kemur næst frá þessu fólki ?  Bann við vetrarferðum á snjó og frosinni jörð ?

 Rekstur Vatnajökulsþjóðgarðs er kapítuli út af fyrir sig.  Þar hefur ítrekað verið farið fram úr fjárheimildum og Ríkisendurskoðun kölluð til, svo [ að] koma megi skikki á reksturinn."

 Það hefur verið deilt mikið á stjórnun þeirra svæða í óbyggðunum, sem ríkið fer með forræði á. Ágreiningur og deiluefni eru þess efnis, að engu er líkara en þetta stjórnunarform, ríkisreknir þjóðgarðar o.s.frv., henti ekki viðfangsefnunum, sem þar eru til úrlausnar, þ.e.a.s reynslan hingað til mælir ekki með því að halda lengra inn á þessa braut, hvað þá að taka risaskref þangað.

Þann 14. ágúst 2020 skrifaði Sighvatur Bjarnason frétt í Morgunblaðið, sem sýnir fram á þetta.  Þar kom m.a. þetta fram:

"Matthías Sveinbjörnsson, forseti Flugmálafélags Íslands, segir, að oft brenni við, að þekkingu skorti hjá stofnunum, sem setja reglur um loftför á vernduðum svæðum.  Hann bendir á, að í gildi séu lög um loftferðir, sem heyri undir málaflokk Samgöngustofu.  Tilraunir annarra til að setja reglur um loftrými hafi verið handahófskenndar, skort innsýn og tilgang og sé einfaldlega ekki á þeirra forræði. Brýnt sé, að einn aðili, þ.e. Samgöngustofa, haldi um stjórnina, annars blasi við mótsagnakennd flækja.  Hann gagnrýnir einnig, að sömu reglur séu látnar gilda um allar tegundir flygilda.  Samkvæmt skilgreiningu geti það spannað á milli breiðþotu og dróna, sem passar í buxnavasa.  Ekki sé raunhæft að ætla allri þessari breidd loftfara hið sama.  Hann segir það augljósa kröfu, að lenda megi á auglýstum flugbrautum innan þjóðgarðsins."

 Það áttar sig hvert barn strax á því, að það býður hættunni heim og er í alla staði óeðlilegt, að Umhverfisstofnun og/eða undirstofnanir hennar séu að bauka við að setja reglur um loftför á yfirráðasvæði sínu.  Það er dómgreindarleysi af viðkomandi starfsmönnum að reyna sig við slíkt.   Ekki tekur betra við um landför:

"Frá stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs gafa deilur staðið um akstur gegnum Vonarskarð.  Sveinbjörn Halldórsson, formaður Ferðaklúbbsins 4x4 segir, að þessi gamla akstursleið liggi yfir svartan sand, sem ekki spillist við akstur.  Lokunin hafi komið til vegna verndunar hverasvæða í Snapadal, en hann sé langt utan leiðar og stafi engin hætta af akandi umferð.  Hann bendir á, að svæðið sé afar óaðgengilegt, nema á sérútbúnum bílum, og þangað leggi enginn leið sína, nema fámennir harðkjarna hópar göngumanna. Hann spyr, hvers vegna einn fámennur hópur sé útilokaður fyrir annan ?  

Utanvega akstur hefur komið óorði á jeppamenn, sem Sveinbjörn segir ósanngjarnt, þar sem allir líða fyrir fáeina skussa.  Hann segir, að í samtökunum fari fram mikill áróður fyrir umhverfisvernd og þar á bæ hafi menn strax lýst því yfir, að reglum um Vonarskarð yrði fylgt, þó að baráttan haldi áfram."

Þetta er einmitt hættan við ríkisrekinn þjóðgarð, að þar verði tekin upp einhvers konar ofverndunarstefna og sumir gestir meðhöndlaðir sem hættulegir náttúrunni, en aðrir njóti náðar smákónga, sem á staðnum ríkja.  Það er verið að búa til kerfi, sem gerir landsmönnum erfiðara um vik við að njóta landsins, hver með sínum hætti.  Þröskuldarnir einkennast meir af dyntum en umhverfisvernd.  

Yfir hálendið þarf að leggja klædda, upphækkaða vegi, með einni akrein í hvora átt, útskotum og bílastæðum. Slíkt mun draga úr skaðlegum utanvega akstri.  Í niðurlagi fréttarinnar dró Sighvatur vel saman, það sem fram hafði komið:

"Allir viðmælendur eru á því máli, að svigrúm sé fyrir allar tegundir útivistar á hinum miklu víðernum landsins.  Til að allir geti vel við unað, verði þó að koma til aukið samráð og samtöl fyrr í ferlunum, þ.e. áður en ákvarðanir eru teknar.  Þeir segjast hafna því viðhorfi, að umferð vélknúinna tækja teljist sjálfkrafa ógn við umhverfið og telja það byggt á miklum misskilningi.  Í samtökum þeirra er að finna fjölda harðra umhverfissinna, sem smitist og speglist það í áherzlum hjá þeim félögum, sem þeir fara fyrir."

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

   


Aukið rekstraröryggi laxeldis í sjókvíum

Það er leitun að jafnefnilegri útflutningsgrein á Íslandi um þessar mundir og laxeldi.  Að megninu til er það um allan heim stundað í sjókvíum, en í haust bárust óvænt og ánægjuleg tíðindi af því, að Samherji væri að rannsaka fýsileika þess að kaupa kerskálana í Helguvík á Suðurnesjum af Norðuráli og breyta þeim í fiskeldisskála, líklega aðallega fyrir laxeldi.  Tæknilega virkar það spennandi hugmynd, ef viðskiptahliðin reynist vera arðbær, en kostnaður hefur staðið landeldi fyrir þrifum.  

Laxeldi úti fyrir Íslandsströndum býr við ótrúlega tilfinningaþrunginn og á köflum ofstækisfullan andróður á opinberum vettvangi, sem stundum má jafnvel flokka undir atvinnuróg. Einkennandi fyrir málflutninginn eru dylgjur og órökstuddar fullyrðingar eða jafnvel frásagnir um atburði erlendis, sem almennur lesandi á Íslandi hefur varla tíma til að sannreyna.  Gagnrýnin er aðallega af fernum toga:

1) Að hætta sé á erfðablöndun íslenzkra laxastofna við eldisstofninn, sem er annað afbrigði Norður-Atlantshafslaxins, en norskrar ættar.  Þessi hætta er útbásúnuð, en það er búinn til úlfaldi úr mýflugu, og enn hefur ekki frétzt neitt um, að blendingar íslenzkra stofna og eldislaxins hafi fundizt. Með erfðarannsóknum er þó hægt að ganga úr skugga um þetta.  Þótt eldislax sleppi, þá er ólíklegt, að honum takist að eignast lifandi afkvæmi í íslenzkum ám, og mjög ólíklegt, að slíku fyrirbrigði yrði langra lífdaga auðið. 

2) Að úrgangur frá eldiskerum skaði lífríki eldisfjarða.  Þessar áhyggjur eru óþarfar, eftir að Hafrannsóknarstofnun þróaði þá mótvægisaðgerð gegn þessu að meta burðarþol fjarðanna, þar sem fiskeldi er leyfilegt.  Þar sem náttúrulegri hreinsun er ábótavant, er kveðið á um árshvíld eldissvæða. Hafró fylgist síðan með þessu og getur endurmetið burðarþolið upp eða niður eftir þörfum. 

3) Að laxalús berist úr eldiskvíum í göngulax.  Laxalús er miklu minna vandamál í íslenzkum eldiskvíum en í færeyskum, skozkum eða norskum (nema norðurnorskum) eldiskvíum vegna þess, að hún þrífst illa í svölum sjó.  Gagnráðstafanir við lús án kemískra efna eru í þróun, enda er lúsin skaðræði, þar sem hún nær sér á strik.

4) Að sjónmengun sé af sjókvíum og starfseminni við þær.  Þetta er smekksatriði, sem er ekki hægt að fallast á sem neikvæðan umhverfisþátt við þessa starfsemi, því að kvíarnar og þjónustubúnaður þeirra eru lágreist.  Til að sýna um hversu persónubundin sjónarmið er að ræða, þegar "sjónmengun" ber á góma, má geta þess, að sumir gagnrýnendur sjókvíanna láta sér í léttu rúmi liggja farþegaskipin, sem liggja við í sumum íslenzkum fjörðum, gnæfandi mjög áberandi upp yfir hafflötinn og eru reyndar sum hver án góðra mengunarvarna. Mengun er mikil frá 3000 manna skipum, eins og nærri má geta, nema um borð séu mengunarvarnir á útblæstri og losun úrgangs frá þeim.

Helgi Bjarnason birti fróðlega baksviðsfrétt í Morgunblaðinu 28.11.2020 með fyrirsögninni:

"Laxar raktir til heimakvíar".

Henni lauk þannig:

"Hafrannsóknastofnun vaktar nokkrar ár sérstaklega m.a. með myndavélum, sem hægt er að skoða á netinu.  Margir fylgjast með þessum myndböndum, þannig að starfsmenn Hafró og Fiskistofu fá mikla hjálp við að greina, hvort laxar, sem ganga upp í árnar, eru líklegir eldislaxar.  Enginn slíkur sást á myndböndunum í ár að sögn Ragnars [Jóhannssonar, sviðsstjóra fiskeldis hjá Hafró]. Einnig fær Hafró margar ábendingar um hugsanlega eldislaxa frá veiðimönnum m.a. með ljósmyndum í umræðum í hópum þeirra á samfélagsmiðlum.  Ekki eru því líkur á, að eldislaxar sleppi framhjá þessu eftirliti. 

Frá árinu 2018 hefur Hafró látið greina 76 laxa vegna gruns um, að þeir væru úr eldi.  Reyndust 20 þeirra [26 %] vera eldislaxar, en afgangurinn "Íslendingar".   12 þúsund seiði hafa verið tekin úr laxveiðiám til rannsóknar frá árinu 2017.  Verið er að rannsaka þau m.t.t. þess, hvort þau eru undan eldislöxum eða blendingar eldislaxa og laxa af stofni viðkomandi ár. Unnið er að þessum rannsóknum í samvinnu við norsku náttúrufræðistofnunina og er ekki lokið.  Enn sem komið er hafa ekki fundizt nein dæmi um lax af annarri kynslóð undan eldislaxi í íslenzkum ám." 

Undirstr. BJo.  Á meðan hin undirstrikaða fullyrðing er í gildi, verður að vísa orðræðu um hættu á skaðlegri erfðablöndun íslenzkra laxastofna við eldisstofninn á bug sem hverjum öðrum hugarburði. Eldislaxar sleppa í mun minni mæli upp í árnar nú en áður.  Árið 2018 var staðfest, að 12 eldislaxar hefðu verið veiddir í íslenzkum laxveiðiám, árið 2019 voru þeir 6 og árið 2020 2.  Bættur tæknilegur rekstur og traustari búnaður eldisfyrirtækjanna á hér hlut að máli.  Það er mikilvægt að muna, að þótt eldislax sleppi upp í á, er engan veginn hægt að álykta, að þar með hljóti erfðablöndun hans við villtan lax að eiga sér stað. 

Fiskeldi hefur hleypt alveg nýju blóði í þær byggðir, þar sem það er stundað.  Húsnæðisverð hefur náð húsnæðiskostnaði, skólar og félagslíf hafa gengið í endurnýjun lífdaganna.  Íbúarnir geta með gildum rökum krafizt sómasamlegra innviða á sviði samgangna og raforku, enda er fiskeldið búið að ná þjóðhagslegri stærð, sem munar verulega um í þjóðarbúskapinum.  Til marks um þetta hafði Baldur Arnarson eftirfarandi eftir Jóni Bjarka Bentssyni, aðalhagfræðingi Íslandsbanka, í Morgunblaðinu 2. desember 2020:

""Það er í raun með nokkrum ólíkindum í ljósi þess, hvað höggið á útflutningstekjurnar er mikið, að ekki skuli vera meiri halli á utanríkisviðskiptunum", segir Jón Bjarki.

Uppgangur í fiskeldi eigi þar hlut að máli.  "Fiskeldið hefur bjargað heildartekjum sjávarútvegsins.  Þróunin hefur verið mótdræg í sumum sjávarafurðum og verðið gefið eftir, en aðrar hafa haldið sér í verði.  Selt magn dróst saman, en nú eru markaðir með sjávarafurðir að jafna sig aftur.  Það ásamt veikari krónu vegur upp verðlækkun í sumum afurðum", segir Jón Bjarki.

Niðurstaðan sé, að útflutningsverðmæti sjávarafurða sé nánast jafnmikið fyrstu 9 mánuði ársins og [á] sama tímabil[i] í fyrra."

 

 

 


Rafbílavæðing og virkjanaþörf

Nokkuð mikið ber á milli mats manna á orkuþörf, aflþörf og virkjanaþörf í landinu vegna rafbílavæðingar.  Hefur því verið slegið fram, að því er virðist í nafni Orkuveitu Reykjavíkur-OR, að ekkert þurfi að virkja fyrir raforkuþörf samgöngugeirans 2030. Slíkar hugmyndir virðast vera reistar á, að skarð verði höggvið í hóp núverandi orkukræfra fyrirtækja á Íslandi, og engir aðrir orkukræfir notendur, t.d. vetnisframleiðendur, fylli í skarðið.  Slíkt svartnættishjal er að engu hafandi.

Þann 9. september 2020 birtist í Markaði Fréttablaðsins fréttatengd grein eftir Þórð Gunnarsson um mat Samorku á orku- og aflþörf frá nýjum virkjunum til að uppfylla skuldbindingu Íslands gagnvart Parísarsamkomulaginu frá desember 2015 um minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda um 21 % m.v. losunina árið 2005.  Samorka áætlar að því er virðist m.v. engan samdrátt í losun annarra farartækja á landi en einkabíla, að rafmagnsbílar þurfi að verða hér 145 k (=þús.) talsins árið 2030.  Í ljósi þess, að þeir eru aðeins 5 k núna, er óraunhæft að ætla, að þeir geti verið 140 k fleiri eftir 10 ár, en á hinn bóginn má ætla, að vetnið hafi þá hafið innreið sína í almenningsvögnum, sendibílum og vinnuvélum.  Miðum þess vegna við 145 k rafmagnsbíla 2030 og athugum, hversu mikilli orku- og aflgetu þarf að bæta við núverandi raforkukerfi til að standast kröfur Parísarsamkomulagsins á þessu eina sviði. 

Meðalakstur fólksbifreiða er 13-14 kkm/ár.  Hún gæti aukizt eitthvað með lægri rekstrarkostnaði.  Notum 14 kkm/ár.

Séð frá virkjun má búast við orkuþörf 0,3 kWh/km.  Þá fæst orkuvinnsluþörf til að mæta skuldbindingum Parísarsamkomulagsins gagnvart samgöngum á landi:

E=14 kkm/ár * 0,3 kWh/km * 145 k = 600 GWh/ár

Ef gert er ráð fyrir, að meðalhleðsluafl (vegið meðaltal hraðhleðslustöðva og heimahleðslustöðva) sé 12 kW og mesti samtímafjöldi bíla í hleðslu sé 10 k eða 7 %, þá er aflþörfin 120 MW.  

Lítum á upphaf greinar Þórðar:

"Umdeilda virkjanakosti þarf að nýta til að draga úr útblæstri".

Flestir virkjanakostir eru nú umdeildir, en það, sem á að ráða, er, hvort Alþingi hafi samþykkt þá í nýtingarflokk eður ei.  Þau, sem vilja standa við Parísarsamkomulagið, geta ekki með heiðarlegu móti sett sig upp á móti löglegum virkjunarkosti, sem orkufyrirtæki vill fara í framkvæmd á til að uppfylla orkuþörf orkuskiptanna. 

"Til að Ísland nái markmiðum Parísarsamkomulagsins um samdrátt útblásturs gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum fram til ársins 2030, þarf að bæta við uppsettu afli sem nemur 300 MW á næstu 10 árum.  Það þýðir, að auka þarf uppsett afl á Íslandi um 10 % næsta áratuginn."

Eins og sést með samanburði við útreikningana hér að ofan, er of í lagt með áætlaða þörf á uppsettu afli af hálfu Samorku, svo að skakkað gæti 180 MW, og munar um minna.  Stýra má þörf á uppsettu afli með breytilegri gjaldskrá og snjallmælum hjá notendum, sem beina notkun þeirra á lágálagstíma.  Nótt og frídagar eru dæmi um lágálagstíma.  Með því móti verður toppálagið vegna endurhleðslu rafmagnsbíla jafnvel aðeins 90-100 MW.

Síðan tók blaðamaðurinn til við að ræða virkjanakosti til fullnægja þörfum rafbílaeigenda fram til 2030:

"Í fyrsta lagi er um að ræða Hvammsvirkjun.  Samkvæmt áætlunum Landsvirkjunar yrði sú virkjun ámóta Búðarhálsvirkjun m.t.t. uppsetts afls eða 93 MW.  Orkuvinnsla Hvammsvirkjunar yrði þó um fjórðungi meiri eða um 720 MWh/ár. Hvammsvirkjun var færð í nýtingarflokk árið 2015.  Hins vegar skilaði Skipulagsstofnun af sér áliti árið 2018, þar sem fram kom, að umhverfisáhrif virkjunarinnar yrðu verulega neikvæð.  Virkjunin myndi nýta frárennsli Búrfellsvirkjunar [Búrfellsvirkjana 1 & 2 ásamt framhjárennsli-innsk. BJo], sem er staðsett ofar í Þjórsá, og því er hægt að stýra rennsli og þar með lónsstöðu Hvammsvirkjunar með nokkurri nákvæmni."

Téð umsögn Skipulagsstofnunar um veruleg umhverfisáhrif af völdum Hvammsvirkjunar á ekki við tök að styðjast.  Rennsli hinnar margvirkjuðu Þjórsár þarna í byggð er tiltölulega stöðugt, og Hvammsvirkjun verður þess vegna rennslisvirkjun með litlu inntakslóni. Ekki er hægt að halda því fram, að náttúruverðmæti fari þar í súginn.  Stöðvarhúsið verður að miklu leyti neðanjarðar og fellur að öðru leyti vel að umhverfinu.  Ef rétt er munað, verður stíflan akfær, og hún bætir þar af leiðandi samgöngur á milli Gnúpverjahrepps og Landssveitar. Engum blöðum er um það að fletta, að fyrir vikið verður Hvammsvirkjun aðdráttarafl fyrir ferðamenn, enda mun Landsvirkjun gera hana vel úr garði og fegra umhverfið, eins og hennar er háttur. 

Eins og lesendur hafa þegar áttað sig á, hentar þessi virkjun rafbílavæðingunni vel.  Hún dugar henni fram yfir 2030 orkulega séð, en við sérstakar aðstæður gæti við lok tímabílsins þurft að bæta við afli.  Viðbótar aflið gæti komið frá fjölmörgum smávatnsaflsvirkjunum, sem nú eru á döfinni, svo og frá uppfærslu á eldri virkjunum, bæði vatnsafls- og jarðgufuvirkjunum.  Slík uppfærsla fæst ýmist með viðbótar vélbúnaði eða nýjum vél- og rafbúnaði með hærri nýtni í stað hins gamla. 

Blaðamaðurinn nefnir hins vegar stórkarlalegri viðbót, sem engin þörf er á fyrir þennan markað fyrir 2030, hvað sem síðar verður, en það er Búrfellslundur, sem nú virðist eiga að verða 30*4 MW = 120 MW vindorkugarður.  Orkuvinnslugeta hans yrði allt að 420 GWh/ár.  Þessi vindorkugarður kæmi vafalaust í góðar þarfir til að spara vatn í Þórisvatni, en slíkur sparnaður kemur tímabundið niður á afli og orkuvinnslugetu Hvammsvirkjunar.   

Franskt fyrirtæki, Qair Iceland ehf., virðist telja vera mjög vaxandi raforkumarkað á Íslandi, sem er vonandi rétt.  Nægir að nefna vetnisframleiðslu.  Qair er með 3 verkefni á takteinum: 

  1. Á Grímsstöðum í Meðallandi á milli Kúðafljóts og Eldvatns, 24*5,6 MW = 134 MW og um 470 GWh/ár.
  2. Á Sólheimum á Laxárdalsheiði.
  3. Á Hnotasteini á Melrakkasléttu.  

Þarna gæti í heildina verið um að ræða a.m.k. 1,0 TWh/ár, sem gæti hentað einni vetnisverksmiðju.  Gjaldeyristekjur af raforkusölu og raforkuflutningum frá þessum vindorkuverum til vetnisverksmiðju gætu í upphafi numið yfir 30 MUSD/ár eða yfir 5 mrdISK/ár, og þar við bætast launagreiðslur, flutningsgjöld, skattar o.fl. frá vetnisverksmiðjunum. 

Íslendingar taka auðvitað þátt í heimsátaki um að stemma stigu við hlýnun jarðar.  Með núverandi fjárfestingarstigi í heiminum í endurnýjanlegum orkulindum, 250 mrdUSD/ár, til 2050 áætlar "The International Renewable Energy Agency", að við aldarlok muni hafa hlýnað um 3°C að meðaltali í heiminum, svo að nauðsynlegt er að gera ráð fyrir aðlögunarráðstöfunum að meiri hlýindum.  Til að hlýindin haldist innan 2°C marka Parísarsamkomulagsins þurfa árlegar fjárfestingar í endurnýjanlegum orkulindum að meira en þrefaldast og fara upp í 800 mrdUSD/ár til 2050.  Íslendingar geta ekki leyft sér að sitja hjá í þessu átaki, þótt alla raforkuvinnslu hérlendis megi telja endurnýjanlega og nánast kolefnisfría. Landsmenn leggja mest að mörkum í þessum efnum með því að nýta endurnýjanlegar orkulindir sínar sem fyrst í þeim mæli, sem reglur og samþykktir Alþingis kveða á um. 

Nýkjörinn forseti Bandaríkjanna mun hleypa nýju lífi í Parísarsamkomulagið, sem BNA munu á ný gerast aðilar að með þeim alþjóðlegu skuldbindingum, sem þar er að finna.  Vísinda- og þróunarmætti BNA verður í kjölfarið í auknum mæli beint að orkuskiptaverkefnum, og fjárfestingar í þessum geira munu aukast.  Hins vegar munar mest um losun annars ríkis út í andrúmsloftið, Alþýðulýðveldisins Kína.  Ætlar miðstjórn kínverska kommúnistaflokksins að láta Bandaríkjunum frumkvæðið eftir í þessum efnum eða hefst samkeppni þessara stórvelda einnig á sviði orkuskipta.  Kína framleiðir nú þegar flesta rafmagnsbíla í heiminum, og þar aka langflestir rafmagnsbílar um götur.  Kínverjar hafa enn fremur tryggt sér mikilvægar aðfangakeðjur fyrir rafgeyma.  Þess vegna leita öflugir austur-asískir framleiðendur nú á önnur mið, t.d. á sviði vetnistækni. Á flugsviðinu er einnig mikils að vænta á næstu 10 árum. Þar er um að ræða rafknúnar flugvélar, sem henta mundu innanlandsflugi hérlendis.  

Miklabraut   Sólknúin flugvél

 

 

 

 


Brautryðjandi blaðagrein um fiskeldi

Saga íslenzks fiskeldis var hrakfallasaga, þar til erlendir fjárfestar með sérþekkingu á greininni og víðtæk markaðstengsl rufu vítahring fjármagnsskorts og einangrunar, sem hrjáði greinina hér. Nú er þetta glæsileg grein í góðum vexti, sem er orðin kjölfesta atvinnulífs og viðgangs byggðar í landinu á þeim stöðum á landinu, þar sem henni er leyft að starfa, en sjókvíaeldi á laxi er miklum takmörkunum háð af hálfu íslenzkra yfirvalda.

Um leið og greininni hefur vaxið fiskur um hrygg, hafa stofnanir og yfirvöld þróað vísindalegar og hlutlægar aðferðir við mat á því, hversu mikið fiskeldi getur talizt vistfræðilega sjálfbært á hverjum stað.  Það var þess vegna tímabært að kynna til sögunnar nýja hugsun um það, hvar við landið er ráðlegt að hafa tilgreint fiskeldi í stað auglýsingar landbúnaðarráðuneytisins um þau efni frá 2004. 

Þetta gerði Teitur Björn Einarsson, 1. varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norð-Vestur-kjördæmi, í Morgunblaðsgrein 2. nóvember 2020 undir fyrirsögninni:

"Vísindaleg sáttargjörð um fiskeldi".

Hún hófst þannig:

"Ávinningur af fiskeldi er mikill fyrir íslenzkt samfélag, og sérstaklega eru áhrifin jákvæð á þau byggðarlög, þar sem eldið er starfrækt.  Alvarlegar efnahagsþrengingar vegna kórónuveirunnar draga enn betur fram mikilvægi slíkrar nýsköpunar og auðlindanýtingar fyrir landsmenn.  Yfirlýst stefna stjórnvalda er að byggja áfram upp fiskeldi í samræmi við ráðgjöf vísindamanna og tryggja rannsóknir og vöktun áhrifa á lífríkið." 

Þarna er brugðið upp mynd af hinu nýja fiskeldi við Ísland.  Einkenni þess eru bezta fáanlega tækni á þessu sviði, strangir staðlar og hlíting þeirra við rekstur og búnaðarkaup ásamt vísindamiðaðri umgjörð ráðgjafar- og eftirlitsstofnana ríkisins. Gjaldeyrissköpunin í ár gæti numið jafnvirði mrdISK 25, þrátt fyrir verðlækkun á mörkuðum af völdum sóttvarnarráðstafana erlendis, og framleiðslan orðið 30-35 kt.  Þróunarstarf bíður fiskeldisins á sviði vinnslu afurðanna. Stækkunarmöguleikar eru töluverðir, en e.t.v. er beðið með mestri óþreyju eftir endurskoðun á áhættumati Hafrannsóknarstofnunar um laxeldi í Ísafjarðardjúpi til aukningar.

Við þessar aðstæður skýtur skökku við, að landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra skuli nú kanna, hvort rétt sé að banna sjókvíaeldi í Eyjafirði, Jökulfjörðum og hluta Norðfjarðarflóa. Teitur Björn bendir á, að ráðherra verði að reisa slíkt mat á niðurstöðu vísindalegra rannsókna og útreikninga á þeim grunni, en ekki einhvers konar huglægu, hugmyndafræðilegu eða pólitísku mati ráðuneytisins:

"Ráðherra hefur ekki heimild samkvæmt fiskeldislögum til að loka hafsvæðum, ef ekki liggja fyrir lögbundnar vistfræðilegar rannsóknir, þ.e. burðarþolsmat og áhættumat erfðablöndunar, til að ákvarða, hvort fiskeldi hafi neikvæð áhrif á umhverfið. 

Fyrir liggur, að ráðherra hefur ekki óskað eftir burðarþolsmati fyrir firðina 3, sem um ræðir, og ekkert áhættumat erfðablöndunar er til um þau svæði."

Spyrja má, hvað ráðherra málaflokksins sé að bauka ?  Sú leið, sem Teitur Björn nefnir, er málefnaleg og vænleg til að höggva á hnút tilfinninga og hugmyndafræðilegrar andstöðu við laxeldi í sjókvíum, enda fullyrðir Teitur Björn:

"Eina raunhæfa sáttin um uppbyggingu fiskeldis verður að vera byggð á vísindalegri ráðgjöf."

Næst víkur Teitur Björn að þeim skilyrðum, sem þarf að uppfylla til að mega hefja fiskeldi í nýjum firði, sem hingað til hefur verið undanskilinn fiskeldi með auglýsingu frá 2004, sem nú víkur fyrir fiskeldislögum, sem þá voru ekki til.  Hér er um alveg nýja stefnumörkun í mikilvægum málaflokki að ræða:

"Til að starfrækja fiskeldi, t.d. í Steingrímsfirði á Ströndum, þarf að uppfylla veigamikil skilyrði fiskeldislaga. Í fyrsta lagi þarf að liggja fyrir burðarþolsmat.  Í öðru lagi þarf að liggja fyrir svæðaskipting byggð á burðarþoli, að teknu tilliti til laga um skipulag haf- og strandsvæða. Í þriðja lagi þarf áhættumat erfðablöndunar að ná yfir Steingrímsfjörð. Í fjórða lagi þarf að liggja fyrir úthlutun eldissvæða af hálfu ráðherra og í fimmta lagi þarf að liggja fyrir staðfest mat á umhverfisáhrifum um starfsemi fiskeldis í Steingrímsfirði. 

 

Auglýsing um bann við fiskeldi í Steingrímsfirði einfaldlega víkur fyrir rétthærri fiskeldislögum og hefur enga þýðingu samkvæmt þeim."

Þarna kemur berlega í ljós í hverju breytingin á stjórnskipulagi fiskeldis er fólgin.  Fyrirkomulagið um leyfilega staðsetningu hefur þróazt úr auglýsingu, sem reist var á ráðleggingu Veiðimálastofnunar 2001, yfir í að verða niðurstaða vísindalegs mats samkvæmt núverandi fiskeldislöggjöf. Ráðherra hefur þetta ferli með því að óska eftir burðarþolsmati, en Umhverfisstofnun og Matvælastofnun ljúka því með útgáfu starfs- og rekstrarleyfa. 

Þessa fróðlegu grein sína endaði Teitur Björn Einarsson þannig:

"Vísindaleg ráðgjöf verður að ráða för til að tryggja, að auðlindir landsins séu nýttar með skynsamlegum og ábyrgum hætti í þágu allra landsmanna.  Íbúar við sjávarsíðuna, þar sem tækifæri eru í fiskeldi, eiga það enn fremur skilið. Gera má ráð fyrir, að meiri sátt verði þannig náð um uppbyggingu fiskeldis, ef stjórnvöld fylgja þeirri stefnu fastar eftir." 

Hér hefur verið fjallað um sjókvíaeldi.  Það er mikil þróun á því sviði innan greinarinnar.  Sjókvíarnar og eftirlitið með þeim verða sífellt öflugri.  Sjálfvirknin eykst og notkun innlendra hráefna í fóðrið sömuleiðis.  Í Noregi eru gerðar tilraunir með lokaðar sjókvíar og úthafskvíar.  Þær munu vafalítið koma hingað líka.  Það er þó önnur þróun enn nær í tíma og ekki síður merkileg, en hún er á sviði landeldis. Sjávarútvegsfyrirtækið Samherji er þegar með reynslu á þessu sviði, t.d. á Suðurnesjum, og hefur kynnt til sögunnar stórbrotna hugmynd um útvíkkun starfseminnar á Suðurnesjum.  Markaður Fréttablaðsins kynnti hugmyndina til sögunnar 14. október 2020 undir fyrirsögninni:

"Samherji vill kaupa eignir Norðuráls við Helguvík og hefja laxeldi".

Frásögnin hófst þannig:

"Norðurál og Samherji hafa undirritað viljayfirlýsingu um kaup Samherja á lóð og byggingum Norðuráls við Helguvík samkvæmt heimildum Markaðarins. Áætlanir Samherja snúa að því að hefja laxeldi á landi og nýta til þess byggingar í Helguvík, sem upprunalega var ætlað að hýsa álver Norðuráls." 

Þessu ber að fagna og vona, að Samherji finni hagkvæma leið til að koma eldiskerum fyrir í þessum tveimur kerskálum Norðuráls.  Samherji styrkir hér verulega eldisþátt starfsemi sinnar, og fiskeldið verður einn af grundvallarþáttum gjaldeyrisöflunar Íslendinga. Á grunnatvinnuvegunum lifir síðan alls konar þróunar, þjónustu- og framleiðslustarfsemi, sem krefjast sérhæfingar.  Þannig þróast nýjar greinar.  Hugverkastarfsemi verður ekki til í lausu lofti.  Góð dæmi er alls konar sprotastarfsemi, sem sprottið hefur upp í samstarfi við sjávarútveginn við gernýtingu sjávaraflans.  Svipaða sögu er að segja frá stóriðjunni og ekki má gleyma fluginu.  Hátæknistarfsemi fer fram við flughermi Icelandair í Hafnarfirði og við umfangsmikið flugvélaviðhald þessa undirstöðufélags íslenzkrar ferðaþjónustu.  Merkileg rannsóknar- og þróunarstarfsemi fer fram í íslenzkum landbúnaði, skólum og rannsóknarstofnunum tengdum honum.  Þannig eru grunnatvinnuvegirnir 4 undirstaða sprotafyrirtækja og nýsköpunar, sem orðið geta að öflugum tæknifyrirtækjum, sem starfa á innlendum og erlendum mörkuðum.

Umsvif Samherja á sviði landeldis eru ekki öllum kunn, en fyrirtækið framleiðir þannig um 1,5 kt/ár af eldislaxi.  Sú framleiðsla verður margfölduð, ef áformin í Helguvík verða að veruleika, og gæti fyrirtækið orðið stærst á sviði landeldis á laxi í heiminum.

"Samherji starfrækir þegar fiskeldi á Suðurnesjum.  Fyrirtækið rekur 2 áframeldisstöðvar bleikju skammt frá Grindavík og á Vatnsleysuströnd.  Þar að auki rekur Samherji vinnslu í Sandgerði, þar sem bleikju er slátrað og pakkað í neytendaumbúðir.

Ætla má, að uppbygging laxeldis við Helguvík falli því harla vel að núverandi starfsemi fyrirtækisins á Suðurnesjum.  Samherji stundar þegar laxeldi á landi við Núpsmýri í Öxarfirði."

Laugardaginn 31. október 2020 skrifuðu Árni Sigurjónsson, formaður Samtaka iðnaðarins, og Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, grein í Morgunblaðið um gildi hugvits og nýsköpunar í atvinnulífinu.  Bezt hefur verið og mun verða hlúð að sprotafyrirtækjum, þegar grunnatvinnuvegirnir eru öflugir.  Með því að skapa grunnatvinnuvegunum góð starfsskilyrði, munu nýsköpunarfyrirtækin spretta fram.  Forysta SI virðist í téðri grein vera þeirrar skoðunar, að stjórnvöld landsins geti galdrað slíka kanínu upp úr sínum hatti.  Hætt er við miklu meiri afföllum af slíkum sprotum en þeim, sem vaxa og dafna í skjóli öflugra fyrirtækja með skilning á mikilvægi tækniþróunar.

Grein sína nefndu tvímenningarnir:

"Fjórða stoðin - til mikils að vinna".

Þar gat m.a. þetta að líta:

"Í megindráttum eru 3 stoðir útflutnings, sjávarútvegur, orkusækinn iðnaður og ferðaþjónusta.  Nú hriktir í 2 stoðunum.  Ferðaþjónusta á undir högg að sækja um heim allan vegna veirufaraldursins [og dýrkeyptra viðbragða yfirvalda við honum - innsk. BJo]. Hömlur eru á ferðalögum, og ferðavilji fólks er minni meðan á faraldrinum stendur.  Þá eru blikur á lofti í orkusæknum iðnaði á Íslandi [af því að íslenzk yfirvöld hafa dregið lappirnar við að leiðrétta raforkuverðið, eins og ýmis önnur yfirvöld hafa þó beitt sér fyrir-innsk. BJo], afkoma iðnfyrirtækja, sem nýta raforku, versnar, og umsvif hafa dregizt saman.  Það yrði mikið áfall, ef 2 stoðir létu undan á sama tíma."   

 

 

 

    

   


Verða málmar og melmi áfram framleidd í Evrópu ?

Því hefur verið slegið fram í bríaríi, að málm-og melmisframleiðsla eigi enga framtíð í Evrópu (melmi er málmblanda eða blanda málms og kísils).  Sú fullyrðing er alveg út í loftið.  Evrópa þarf og mun þurfa á að halda hreinum málmum og melmum af öllu tagi fyrir sína framleiðslu.  Þessi evrópska framleiðsla verður hins vegar með æ minna kolefnisspori, enda vex hlutdeild endurnýjanlegra orkulinda stöðugt í Evrópu, og kostnaður þeirrar raforku fer jafnframt lækkandi.  Lönd með sjálfbæra raforkuvinnslu nú þegar, eins og Ísland og Noregur, standa og munu standa sterkt að vígi á öllum framleiðslusviðum.  Þess vegna eru þau samkeppnishæf frá náttúrunnar hendi, en svo er annað mál, hversu færir íbúarnir eru við að nýta sér í hag það samkeppnisforskot, sem náttúran færir þeim. Við þessar aðstæður getum við hrósað happi yfir því, að raforkukerfi Íslands er ótengt við stofnkerfi, þar sem flutningarnir ráðast af reglum Evrópusambandsins, sem það setur til að þjóna orkuþörf sinna meginiðnaðarsvæða. Jaðarsvæðin virka þá sem hráefnisútflytjendur.  Slíkt er óheillavænlegt fyrir gjaldeyrisöflun og atvinnusköpun. 

Á Íslandi eru uppi háværar raddir um, að nóg sé komið af virkjunum, og í hvert skipti, sem undirbúa á nýja virkjun, eða flutningslínu fyrir raforkuna á markaðinn, upphefst draugakór um náttúruspjöll eða útsýnisspjöll, jafnvel óafturkræf.  Þetta fólk er að kalla yfir samborgara sína minni hagvöxt, lægra atvinnustig, minni gjaldeyrisöflun og lakari lífskjör, jafnvel landflótta úr stöðnuðu þjóðfélagi, þegar Kófinu linnir. 

Með Rammaáætlun átti að þróa aðferðarfræði til að vega fórnarkostnað nýtingar á móti ávinningi og flokka landsvæði orkulinda samkvæmt því í vernd, bið (óvissa) og nýtingu.  Verndarpostular, sem telja smekk sinn eiga að verða ríkjandi í þjóðfélaginu, sætta sig ekki við þær leikreglur.  Þá eru þeir að troða lögunum um tær sér og hafa þar með fyrirgert trúverðugleika sínum.

Þann 23. september 2020 ritaði Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, Sjónarhólsgrein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni:

"Af samkeppnishæfni álframleiðslu í Evrópu".

Greininni lauk þannig:

"Evrópusambandið er að skoða fleiri leiðir til að viðhalda samkeppnishæfni álframleiðslu og annars orkusækins iðnaðar í Evrópu.  Á meðal þess, sem er til skoðunar hjá ESB, er kolefnisskattur á innflutning til Evrópu, enda er kolefnisfótspor evrópskrar álframleiðslu lægra en í öðrum heimsálfum og gjöld vegna losunar hvergi hærri. Stingur það einkum í stúf hér á landi, þar sem álframleiðsla losar hvergi minna.

Ál er á lista ESB yfir hráefni, sem eru mikilvæg "græna samkomulaginu", sem felur í sér, að Evrópa verði kolefnishlutlaus árið 2050, eins og fram kom hjá Hilde Merete Asheim, forstjóra Norsk Hydro, í gær, þegar hún fagnaði ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB.  Það skiptir því máli fyrir loftslagið í heiminum, að álframleiðsla haldist í Evrópu, auk þess sem hún skapar störf og verðmæti fyrir þjóðarbúið.  En til þess, að álframleiðsla í Evrópu eigi sér sjálfbæra framtíð til langs tíma, þarf að tryggja samkeppnishæfnina.  Framkvæmdastjórn ESB sýndi með ákvörðun sinni í vikunni, að hún er meðvituð um það."

Það fer ekki á milli mála, að þróun alþjóðamála undanfarið ýtir fremur undir það, að Evrópa verði sem mest sjálfri sér nóg um ál og kísil.  Þegar þessi "strategískt" mikilvægu efni eru framleidd með lágmarks kolefnisspori, munu þau eiga greiða leið inn á Innri markað EES, hvernig sem allt veltur.

Það er hins vegar rétt að búa rækilega í haginn fyrir það að geta gripið önnur tækifæri orkuskiptanna, t.d. sölu á "grænu" vetni til meginlands Evrópu og til Bretlands.  "Grænt" vetni er framleitt með rafgreiningu vatns í vetni og súrefni með rafmagni frá kolefnisfríum orkulindum.  Ef bætt verður um 10 % við núverandi orkuvinnslugetu Íslands eða 2 TWh/ár fyrir vetnisvinnslu, sem er ágætisbyrjun, þegar hagkvæmir markaðir finnast fyrir "grænt" vetni, verður hægt að framleiða um 30 kt/ár af vetni undir þrýstingi, sem hæfir til flutninga.  Um 10 % af þessu mun innlendi  markaðurinn þurfa til að knýja þung landfartæki og enn meira, þegar kemur að vetnisvæðingu skipa og flugvéla. Þess má geta, að innanlandsflug hérlendis hentar vel fyrir rafknúnar flugvélar vegna fremur stuttra vegalengda.

Nú fer um 8 GW afl í að rafgreina vetni í heiminum.  Allt uppsett afl núverandi virkjana á Íslandi er um 30 % af þessu afli, en rafgreiningin annar um þessar mundir aðeins 4 % af heimsmarkaði vetnis.  

Englendingar eru með áform um að vetnisvæða húsnæðiskyndingu og eldun á Norður-Englandi og leysa þannig jarðgas af hólmi með "grænu" vetni, og svo er vafalítið um fleiri. "Grænt" vetni mun gegna lykilhlutverki í Evrópu við að ná markmiðum um nettó kolefnislaus samfélög 2040 (Bretland) eða 2050 (ESB) (mismunandi eftir ríkjum). 

Það er þegar orðinn skortur á "grænu" vetni í Evrópu, og þessa sér stað í verðþróuninni.  Vetni á markaði hefur hingað til að mestu leyti verið unnið úr jarðgasi og verðið löngum verið undir 1,0 USD/kg, en nú er verð fyrir "grænt" vetni farið að greina sig frá og fer stígandi á milli 1,0-2,0 USD/MWh.  Í ljósi þess, að hluti orkukaupa vetnisverksmiðju getur verið "ótryggð" orka, sem er ódýrari en "forgangsorka", er vafalaust hægt að byrja með orkuverð að viðbættum flutningskostnaði undir 32 USD/MWh, sem mundi útheimta verð frá vetnisverksmiðu allt að 2,0 USD/kg.  Þar við bætist flutningskostnaður á markað í þrýstingsgeymum á skipum.  Innan 5 ára mun þetta markaðsverð "græns" vetnis nást, og þess vegna er ekki seinna vænna að hefja nú þegar undirbúning virkjana og samninga við væntanlega vetnisframleiðendur. 

Við sjáum nú þegar í fjölmiðlum móta fyrir áhuga innan orkufyrirtækjanna hérlendis á þessum markaði, en enn sést ekkert til áhugasamra fjárfesta í vetnisverksmiðju.  Í Morgunblaðinu 1. október 2020 var eftirfarandi fyrirsögn á baksviðsfrétt:

"Tækifæri eru í útflutningi á vetni".

Hún hófst þannig:

"Í Auðlindagarði HS Orku á Reykjanesi eru fjölmörg verkefni í undirbúningi, en fyrirtækið stefnir nú á að auka framleiðslugetu Reykjanesvirkjunar um 30 MW á næstu 2 árum.  "Nokkur erlend og innlend fyrirtæki eru að skoða uppbyggingu í auðlindagarðinum.  Eitt er að breyta raforku með rafgreiningu í annað form, s.k. Power to X, þ.e. vetni eða metan, t.d.", segir Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku.  "Við teljum líka, að mikil tækifæri séu í tengslum við fiskeldi, þörungarækt og hátæknivædd gróðurhús.  Á svæðinu er nægt framboð á heitu og köldu vatni auk hreins koltvísýrings, sem skiptir miklu við hvers konar ræktun".  

HS Orka gegnir nú lykilhlutverki í atvinnumálum og verðmætasköpun á Suðurnesjum (á meðan Bláa lónið er lokað) eins og sést á því, að nú gegna um 1500 manns störfum í auðlindagarði HS Orku. Því ber að fagna, að það er framfarahugur í fyrirtækinu, og forstjóri þess er vafalaust vel tengdur við ýmsa fjárfesta, sem hann getur bent á fjárfestingartækifæri hérlendis, sem skapa munu enn fleira fólki störf.  Gefum Tómasi Má orðið:

"Ég var um árabil í stjórn samtakanna Business Europe, þar sem saman koma forstjórar stærstu fyrirtækja álfunnar.  Á þeim vettvangi er reglulegt samtal við æðstu ráðamenn ESB, sem fóru fyrir allnokkru að tala opinskátt um mikilvægi þess, að álfan væri sjálfri sér næg um græna orku.  Ekki gengi að eiga allt undir duttlungum OPEC eða annarra ráðandi afla", segir Tómas Már og heldur áfram: "Mótleikurinn er m.a. bygging vindorkugarða og framleiðsla vetnis með vindorku.  Í þessari byltingu eru bæði ógnir og tækifæri fyrir okkur Íslendinga.  Það dregur úr samkeppnisforskoti okkar, að orkuverð í Evrópu hefur lækkað, sem ég tel þó vera tímabundið.  Við getum hæglega nýtt okkur þessa þróun og farið að framleiða vetni eða aðra orkugjafa [orkumiðla-innsk. BJo].  Ekki bara til að vera sjálfum okkur nóg um alla orkugjafa [orkumiðla] í samgöngum, heldur líka til útflutnings."

Vetnisframleiðsla og slitrótt orkuvinnsla vindmyllna geta tæknilega farið vel saman.  Sama er að segja um nýtingu umframorku í vatnsorkukerfinu til vetnisvinnslu á sumrin.  Líklega verður arðsemi vindorkuvera við orkusölu til vetnisverksmiðja lítil sem engin fyrstu árin, en gæti braggast, ef orkuverðið verður tengt verði "græns" vetnis á markaði, eins og eðlilegt er. 

Hvað segir Tómas Már um vindorkuverin ?:

"Sú var tíðin, að kostnaður við hvert uppsett MW var meira en tvöfaldur á við það, sem kostar að virkja fallorku eða jarðhita.  Þetta er gjörbreytt.  Nú er kostnaður við hvert MW í vindorku um fjórðungur af því, sem kostar að byggja vatnsafls-eða jarðvarmavirkjanir.  Þessi kostur verður því mun áhugaverðari en áður, sérstaklega hér á landi, þar sem lognið fer hratt yfir."

Hafa verður í huga, að meginsöluvara virkjana er orka, en ekki afl.  Þess vegna segir fjárfestingarupphæð á MW aðeins hálfa söguna og taka verður tillit til orkuvinnslugetu uppsetts vél- og rafbúnaðar.  Hún er meiri en tvöföld í vatns- og jarðgufuverum á hvert MW á við vindorkuverin. Þar að auki verður að taka rekstrarkostnað með í reikninginn, sem fyrir vatnsorkuver er tiltölulega mjög lágur.  Ef upplýsingarnar að ofan eiga við heildarfjárfestingar per MW, þá gætu ný vindorkuver á Íslandi verið  fjárhagslega samkeppnishæf við a.m.k. jarðgufuver.

Landsvirkjun er líka með í þessari vegferð, og virðist horfa til byggingar tilraunaverksmiðju við Ljósafoss í Bláskógabyggð.  Sú staðsetning kemur spánskt fyrir sjónir, en gæti helgast af eigin fersku vatni Sogsins og eigin virkjun, þannig að flutningsgjald til Landsnets verði í lágmarki, en á móti kemur flutningskostnaður vetnis frá Ljósafossi að höfn til útflutnings og á innlendan markað.  

Landsvirkjun hefur aflað sér fremur undarlegs samstarfsaðila á meginlandi Evrópu, sem er fyrirtækið, sem á og rekur Rotterdam-höfn.  Væntanlega ætlar hafnarfyrirtækið að nota og dreifa vetni, en varla að framleiða það.  Hefði þá ekki verið nærtækara að semja við gasdreifingarfyrirtæki á Norður-Englandi ?

Haraldur Hallgrímsson, núverandi forstöðumaður sölu- og viðskiptaþróunar Landsvirkjunar sagði þetta við Moggann 23. október 2020:

""Við horfum á þetta sem stórt tækifæri úti við sjóndeildarhringinn", segir Haraldur um vetnismarkaðinn í Evrópu.  Hann segir erfitt að tímasetja nákvæmlega, hvernig málin þróist; mikilvægast í þessu sé að starfa með aðila, sem er leiðandi og hefur mikla þekkingu á flutningum, sem muni vega þungt við hugsanlega framleiðslu vetnis hér á landi.  Rotterdam-höfn sé mjög framsækin á þessu sviði, og þaðan liggi leiðir ekki bara til Hollands, heldur lengst inn í Evrópu, þar sem krafan um orkuskipti er hvað sterkust.  Holland sé vel staðsett og ætli sér að vera leiðandi á þessu sviði og því um mikilvægan samstarfsaðila að ræða fyrir Landsvirkjun sem orkufyrirtæki í endurnýjanlegri orku."

Það er dálítið kindugt, að orkufyrirtækið skuli ekki fremur leita til framsækins rafgreiningarfyrirtækis á sviði vetnisframleiðslu en til flutningafyrirtækis.  Hröð þróun hefur á síðustu árum orðið í rafgreiningartækni vatns og töpin í ferlinu minnkað umtalsvert frá 25 % og stefna á 14 % fyrir 2030.  Töpin vega þungt í framleiðslukostnaðinum, og þess vegna er mikilvægt, vetnisframleiðendur hérlendis noti beztu fáanlegu tækni ("state of the art").  HS Orka virðist hafa tekið forystu hérlendis um atvinnusköpun og gjaldeyrissköpun hérlendis við framleiðslu á vetni. 

 Þríhyrningur

 

 

 

  

 

 

 

 

 

 

 

 


Tíðindi af Akureyri

Vinstra moðið í meirihluta bæjarstjórnar Akureyrar hefur lagt upp laupana og leitað á náðir minnihlutans, Sjálfstæðisflokksins, um að hjálpa til við að stjórna bæjarfélaginu fram að næstu sveitarstjórnarkosningum. Er það alkunna, að vinstri menn þrýtur iðulega örendið áður en í mark er komið.  Uppgefin ástæða í þetta sinnið er bágborinn fjárhagur þessa stórkostlega bæjarfélags, sem hefur verið skreyttur nafnbótinni "höfuðstaður Norðurlands".

Nú virðist ætlunin að snúa af braut skuldasöfnunar á Akureyri, draga úr rekstrarkostnaði og selja eignir.  Rekstur bæjarins er ósjálfbær við núverandi aðstæður, og Akureyringar verða þess vegna að endurskoða stefnu sína, ef þeir eiga ekki að festast í skuldafeni.  Hvers vegna ekki að reyna að auka við tekjurnar við þessar erfiðu aðstæður ?  Betra væri, að ríkisstjórnin sneri af braut glórulausrar skuldasöfnunar og draumóra um hagvöxt, sem leysi vandann.  Hann er fjarri því að vera í hendi á næsta ári, ef svo heldur fram sem horfir. 

Akureyri samþykkti fyrr á árinu furðutillögu um, að Eyjafjörður yrði friðaður fyrir sjókvíaeldi.  Engin haldbær rök voru færð fyrir þessari samþykkt, heldur aðeins tíndur til tilfinningavellingur um útlit og ágizkanir um, að lífríki fjarðarins stafi hætta af sjókvíaeldi, og flaggað með vitlausasta frasa nútímans um, að "náttúran verði að njóta vafans".  Ef honum er beitt við stefnumörkun án þess að veita skilmerkilegum rannsóknum kost á að eyða þessum vafa eða að draga úr honum niður í líkindi, sem skynsamlegt er að fella sig við m.v. hættuna, sem lífríki stafar af öðrum orsökum, þá verður fátt um framkvæmdir, sem ætlað er að skapa atvinnu og gjaldeyri, en mikil atvinnuþátttaka og gjaldeyrisöflun eru undirstaða velferðar fólksins í landinu, sem auðvitað er hluti af lífríki þess. 

Jón Örn Pálsson skrifaði stórgóða grein í Bændablaðið fimmtudaginn 2. júlí 2020, þar sem hann gagnrýndi hugmyndir um bann við sjókvíaeldi í Eyjafirði með föstum rökum.  Hann lýsti staðháttum í Eyjafirði.  Sú lýsing eru rök fyrir því að leyfa sjókvíaeldi í Eyjafirði, því að aðstæður eru hvergi betri hérlendis á þeim svæðum, þar sem slík starfsemi er leyfð núna:

"Eyjafjörður er með stærstu fjörðum landsins, og sumir segja stærsti eiginlegi fjörðurinn, ef frá er skilinn Breiðafjörður. (Djúp og Flóar eru jú ekki firðir !)  Eyjafjörðurinn er um 58 km langur og 15 km breiður í fjarðarminni.  Heildarflatarmálið er áætlað 422 km2 (sunnan 66°10 N).  Fjarðarminnið er opið móti úthafinu, þar sem mesta dýpi er 215 m.  Enginn dýpisþröskuldur er í minni fjarðarins, og eru sjóskipti því svo til óheft við úthafið.

Djúpáll gengur inn fjörðinn, og mesta dýpið er austan við Hrísey inn undir Grenivík, þar sem dýpið er enn þá um 100 m.  Áfram grynnkar rólega og þrengist, eftir því sem innar gengur.  Út af Arnarnesi, innan við Rauðuvík, þrengist djúpállinn mikið, og er mesta sjávardýpið 70 m.  Innan við hrygginn dýpkar fjörðurinn á ný og breikkar.  Innan við Hjalteyri er dýpið víða um 75-90 m fram undir Hörgárgrunn.  Mest er þó dýpið í djúpál vestan megin, 110 m.  Innan við Hörgárósa dregur rólega úr dýpinu, og er dýpið út af Skjaldarvík þó enn þá 65 m og við Krossanes 55 m, en úr því dregur hratt úr dýpinu.  Hafrannsóknarstofnun hefur metið heildar rúmmál Eyjafjarðar 29 km3 (sunnan 66°10 N)."

Mikið rúmtak og hröð sjóskipti mynda að öðru jöfnu kjöraðstæður fyrir sjókvíaeldi bæði m.t.t. laxalúsar og áhrifa á lífríkið, sem fyrir er.  Til samanburðar er rúmtak Arnarfjarðar á Vestfjörðum aðeins 66 % af rúmtaki Eyjafjarðar.  Hafrannsóknarstofnun hefur metið burðarþol Arnarfjarðar til fiskeldis 30 kt, og það er óheimilt í hluta fjarðarins.  Metið burðarþol Eyjafjarðar verður á að gizka a.m.k. 50 kt.  Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ætti að fela Hafrannsóknarstofnun tafarlaust að annast burðarþolsmat á Eyjafirði.  Það er fyrsta skrefið í átt að upplýstri ákvarðanatöku. 

Vegna ólíkra hagsmuna kemur fiskeldi ekki til greina alls staðar í firðinum.  Sveitarfélögin, sem að firðinum liggja, þurfa að ákveða, hvar þau vilja leyfa fiskeldi, og áhættugreina þarf hvert leyfissvæði.  Á þeim grundvelli geta fiskeldisfyrirtæki sótt um starfsleyfi til Umhverfisstofnunar og rekstrarleyfi til Matvælastofnunar. Ekki er að efa, að slíkt takmarkað fiskeldi getur orðið íbúum við Eyjafjörð góð búbót, og veitir ekki af í Kófskreppunni.

Í Morgunblaðinu 4. september 2020 fjallaði Helgi Bjarnason í baksviðsgrein um ágreininginn varðandi framvindu fiskeldis í Eyjafirði og dró fram það skrýtna atriði, að opinberar stofnanir virðast strangt tekið hafa gert sig vanhæfar til að leita raka með og á móti með því að taka afstöðu fyrirfram.  Það hlýtur að setja ráðherra í erfiðari stöðu í þessu máli, en hann verður að spila úr því, sem hann hefur á hendi, til að leiða fram staðreyndir, sem hægt sé að reisa vandaða ákvarðanatöku á.  Baksviðsfréttin bar eftirfarandi fyrirsögn, sem er fallin til að vekja furðu:

Stofnanir vilja banna laxeldi.

Fréttin hófst þannig:

"Hafrannsóknastofnun og Fiskistofa styðja hugmyndir um að friða Eyjafjörð fyrir sjókvíaeldi eða takmarka eldi þar.  Matvælastofnun tekur ekki afstöðu.  Nokkrar sveitarstjórnir styðja eindregið slíkt bann, en aðrar telja ekki tímabært að taka afstöðu vegna skorts á upplýsingum."

Fyrirsögnin er villandi.  Með takmörkuðu eldi í Eyjafirði hljóta stofnanirnar að eiga við, að áhættugreining muni leiða til ráðlegs hámarkseldis, sem sé minna en nemur burðarþoli fjarðarins.  Það kemur ekki á óvart og er eðlilegt vegna ólíkra hagsmuna í firðinum.  

"Matvælastofnun telur hverfandi líkur á dreifingu smitsjúkdóma úr eldisfiski í villtan fisk, og sömuleiðis séu áhrif af smiti með laxalús að öllu jöfnu ekki mikil.  Þótt mat Mast sé annað en Hafró og Fiskistofu, telur stofnunin ekki rétt, að hún taki beina afstöðu til þess, hvort rétt sé að takmarka eða banna fiskeldi eða ákveðnar eldisaðferðir í Eyjafirði, enda geti þar komið til önnur sjónarmið, sem ekki eru á verksviði stofnunarinnar."

Þetta er eðlileg afstaða Mast, enda eru ekki fyrir hendi rannsóknir til að rökstyðja takmarkanir á fiskeldi (laxeldi) í Eyjafirði.  Það, sem áhættugreining virðist aðallega þurfa að snúast um, er, hversu mikið laxeldi er ráðlegt að leyfa í opnum sjókvíum með mótvægisaðgerðum, til að hlutfall eldisfisks verði með 95 % öryggi ekki meira en 4 % af villta laxinum í hverri á. 

"Einna eindregnasta afstaðan gegn banni kemur fram í ítarlegri umsögn Fjallabyggðar.  Þar kemur fram sú afstaða, að ekki geti komið til álita að beita lokunarheimild ráðherra, nema sérstakar og vel unnar rannsóknir hafi farið fram, sem styðji við það, að vistfræðileg hætta sé til staðar, sem byggi undir bann eða takmörkun. 

"Ákvörðun ráðherra um lokun eða takmörkun á fiskeldi á tilteknum svæðum verður því ekki byggð á almennri pólitískri afstöðu ráðherrans.  Sú ákvörðun verður að styðjast við niðurstöður rannsókna, til þess að hún teljist lögmæt", segir í umsókninni.

Kallar Fjallabyggð eftir því, að gert verði burðarþolsmat og áhættumat áður en afstaða verði tekin til málsins.  Þau mál standa þannig, að Hafró hóf rannsóknir til að undirbúa mat á burðarþoli.  Í nýjum fiskeldislögum var hins vegar kveðið  á um, að ráðherra skuli kalla eftir slíku mati.  Það hefur hann ekki gert.  Hafró gerir síðan áhættumat vegna erfðablöndunar, eftir að burðarþol hefur verið metið. Þegar ferlið er komið þetta langt, geta fiskeldisfyrirtækin sótt um leyfi til sjókvíaeldis, og viðkomandi stofnanir verða væntanlega að veita þau.  Er því nokkuð ljóst, að ráðherrann mun ekki kalla eftir burðarþolsmati, á meðan hugmyndir eru uppi um að friða fjörðinn.  Þá vaknar spurningin, hvort hægt er að fara í aðrar rannsóknir til að undirbyggja ákvörðun ráðherrans."

 Þarna kemur fram órökrétt skoðun blaðamannsins, enda er hún andstæð ályktun Fjallabyggðar, sem er rökrétt nálgun á viðfangsefninu.  Eins og staðan er núna, er alls engin eining á meðal sveitarfélaga við Eyjafjörð um að friða hann fyrir fiskeldi.  Um svo afdrifaríka stefnumörkun er ekkert vit í að taka ákvörðun fyrr en ljóst er, hvaða verðmætum (verðmætasköpun, atvinnusköpun, gjaldeyrisöflun) er þar með verið að fórna.  Mun þá að líkindum koma í ljós, að á tilfinningaþrunginn hátt er verið að fórna miklu meiri hagsmunum fyrir mun minni hagsmuni með því að útiloka þar fiskeldi.  Kristján Þór Júlíusson, stýrimaður og ráðherra og hagvanur í Eyjafirði, á nú þann leik beztan í stöðunni að fela Hafrannsóknarstofnun þær rannsóknir, sem Fjallabyggð lagði til.  

   

 

 


Í verkfærakistu orkuskiptanna

Beðið er tíðinda af sviði þróunar kjarnorku.  Brýn þörf er á nýrri kynslóð kjarnorkuvera, sem tekið geti við af hefðbundinni tækni núverandi kjarnorkuvera, sem kljúfa ákveðna samsætu (ísótóp) frumefnisins úran.  Slík kjarnorkuver hafa í sér innri óstöðugleika við alvarlega bilun í verinu, eins og mörgum er í fersku minni frá "Three Mile Island" í Bandaríkjunum, Chernobyl í Úkraínu og Foukushima í Japan.  Slík þróun nýrrar gerðar kjarnorkuvera er að líkindum langt komin, jafnvel á verum, sem nýtt geta plútónium, sem er mjög geislavirkt úrgangsefni frá hefðbundnum kjarnorkuverum, og fáein önnur frumefni, t.d. þóríum. Þróun vind- og sólarorkuvera hefur gengið mjög vel, þannig að kostnaður við raforkuvinnslu þeirra hefur náð niður að kostnaði raforkuvinnslu í jarðgasorkuverum eða í um 40 USD/MWh, þegar bezt lætur. 

Þessir tveir "hreinu" orkugjafar eru samt með miklum böggum hildar, því að þeir eru óáreiðanlegir.  Þegar sólin skín og vindur blæs, getur orðið offramboð raforku, og þá dettur raforkuverð jafnvel niður fyrir 0, þ.e. raforkunotendum er borgað fyrir að kaupa rafmagn.  Þegar þannig stendur á, er kjörið að ræsa vetnisverksmiðjur á fullum afköstum og rafgreina vatn. Við það myndast vetni, H2, og súrefni, O2.  Vetnið mun sennilega leika stórt hlutverk í orkuskiptunum og eftir þau, því að markaður verður fyrir vetni til að knýja þung ökutæki, vinnuvélar, skip og flugvélar. 

Vetnið getur líka leyst jarðgas af hólmi, þar sem það er notað til upphitunar húsnæðis.  Fyrir slíka vetnisnotkun er að myndast stór markaður núna á Norður-Englandi.  Bretar hafa sett sér markmið um að verða kolefnisfríir árið 2050.  Fyrir Íslendinga geta innan tíðar skapazt viðskiptatækifæri sem framleiðendur vetnis með umhverfisvænum og endurnýjanlegum orkulindum, sem Bretar sækjast eftir.  Í stað þess að leita hófanna hjá brezkum yfirvöldum um viðskipti á milli landanna með rafmagn með talsverðum orkutöpum á langri leið, ættu utanríkisráðherra og iðnaðarráðherra að taka upp þráðinn við brezk stjórnvöld um vetnisviðskipti.  Íslenzk orkufyrirtæki ættu að geta fengið allt að 30 USD/MWh, að viðbættu flutningsgjaldi til vetnisverksmiðju, fyrir raforkuna m.v. núverandi orkunýtni rafgreiningarbúnaðar og markaðsverð á vetni.  Það er vel viðunandi verð, því að meðalkostnaður íslenzkrar raforkuvinnslu er undir 20 USD/MWh.  

Ýmis bílafyrirtæki, t.d. Hyundai í Suður-Kóreu, eru að undirbúa markaðssetningu á fólksbílum með vetnisrafala um borð í stað rafgeyma.  Orkuþéttleikinn á massaeiningu er um 33 kWh/kg, en í rafgeymunum um 50 Wh/kg, þ.e. 0,2 %, og orkuþéttleiki jarðefnaeldsneytis (benzín, dísel) er um 13 kWh/kg, þ.e. 39 % af orkuþéttleika vetnis.   

Unnið er að því að leysa kol og kox af hólmi með vetni við stálframleiðslu. Ef allar hugmyndir um vetnisnotkun heppnast, má tala um vetnishagkerfi í stað hagkerfa, sem nú eru knúin áfram með jarðefnaeldsneyti.  Nú er aflþörf rafgreiningar vatns í heiminum um 8 GW og annar aðeins 4 % markaðarins.  Megnið af vetni heimsins er framleitt úr kolum, olíu og jarðgasi, sem er ósjálfbær aðferð.  Allur núverandi heimsmarkaður mundi þurfa 200 GW og þennan markað má sennilega tvöfalda á 20 árum.  Hann þarf þá 400 GW, sem er 80-föld afkastageta íslenzkra orkulinda, sem líklegt er, að virkjaðar verði. 

Það hefur þótt ljóður á ráði vetnisnotkunar, hversu lág orkunýtnin er við framleiðslu og notkun þess, en hún er um þessar mundir 70 %-80% við framleiðsluna og lægri í vetnisrafölum.  Nú á sér stað mikil þróunarvinna til að auka nýtnina, og er búizt við, að hún verði 82 %-86 % við framleiðsluna árið 2030.  Þar að auki fer kostnaður rafgreiningarbúnaðarins í USD/MW lækkandi. Þegar við þetta bætist viðurkennd þörf á að draga úr bruna jarðefnaeldsneytis í heiminum, þá er kominn verulegur hvati til vetnisnotkunar.  

Það er ljóst, að víðast hvar krefjast orkuskiptin styrkingar raforkukerfanna; ekki aðeins nýrra virkjana endurnýjanlegra orkulinda eða kjarnorkuvera, heldur einnig nýrra og öflugri flutningsmannvirkja (loftlína, jarðstrengja, aðveitustöðva).  Ef hitun húsnæðis á að fara fram með rafmagni, krefst hún enn meiri eflingar flutningskerfisins, sums staðar tvöföldunar flutningsgetunnar.  Það gæti þess vegna víða verið þjóðhagslega hagkvæmast að nota vetni til þess, þar sem nú er notað jarðefnaeldsneyti.  

Fram að árinu 2019 unnu stjórnvöld Bretlands að því markmiði að hafa dregið úr losun jarðefnaeldsneytis um 80 % árið 2050 m.v. árið 1990.  Árið 2019 setti ríkisstjórnin markið enn hærra og vildi, að brezka hagkerfið yrði fyrsta stóra hagkerfi heimsins til að verða 100 % kolefnisfrítt árið 2050.  Nú er þetta aðeins talið mögulegt með verulegri vetnisnotkun. 

Á Íslandi er markaður fyrir vetni m.a. í flutningageiranum í vinnuvélum, vörubílum, langferðabílum (rútum), skipum og flugvélum. Rafvæðing fólksbílaflotans sækir hratt í sig veðrið og fylgir þar fordæmi frá Noregi, sem einnig býr við lágt raforkuverð úr vatnsfallsvirkjunum þar í landi.  Nú, (ágúst 2020) eru rúmlega 5000 fólksbílar alrafknúnir hérlendis.  Það er lágt hlutfall eða um 2 %, en fjölgunin er hröð, því að á 5 árum hefur fjöldinn 21 -faldazt, en með bjartsýni um þróun efnahagsmála og viðvarandi hvata til kaupa á rafmagnsbílum má gizka á, að fjöldi alrafknúinna bíla muni tífaldast á næstu 5 árum. Þeir munu þurfa um 222 GWh/ár frá virkjunum, sem er rúmlega 1 % aukning frá núverandi vinnslu. 

Vetnismarkaðurinn í landinu árið 2025 gæti numið 2,8 kt, ef 10 % langferðabíla og vörubíla og 15 % sendibíla verða þá vetnisknúnir að óbreyttri nýtni vetnisrafala.  Til þess að framleiða það með rafgreiningu og núverandi nýtni rafgreiningarbúnaðar þarf 183 GWh.  Heildarraforkuþörf fartækjageirans mæld við virkjanir verður þá um 405 GWh/ár, sem er aðeins um 2 % aukning núverandi raforkuvinnslu.  Samt útheimtir þessi aukning nýjar virkjanir, ef umtalsverðir notendur falla ekki úr skaptinu.  Til samanburðar er þetta aðeins um 13 % raforkunotkunar ISAL í Straumsvík í góðu árferði.  

Núverandi meginframleiðsluaðferðum vetnis verður að breyta, ef vetnisnotkun á að gagnast loftslaginu.  Samkvæmt skýrslu "International Energy Agency", "The Future of Hydrogen", sem út kom 2019, nam CO2 losun vetnisvinnslu út í andrúmsloftið svipuðu magni og öll samanlögð losun Bretlands og Indónesíu á koltvíildi.  

Vetnisverksmiðjur henta vel til að taka við umframafli frá orkuverum endurnýjanlegrar orku.  Kjörstærð þeirra fyrrnefndu er talin vera 25 %-30 % af uppsettu afli hinna síðarnefndu. 

Það, sem að auki ræður staðsetningu vetnisverksmiðja, er nánd við markað og opinbert regluverk í viðkomandi landi.  Talað er um Chile, Bandaríkin og Spán sem líkleg hýsingarlönd.  Ef þetta hlutfall er heimfært á Ísland, fæst uppsett aflþörf vetnisverksmiðja hér um 350 MW (jarðgufuvirkjunum sleppt).  Með því að nýta umframorku í vatnsorku- og væntanlegu vindorkukerfi mætti flytja út 85 % framleiðslunnar í slíkum vetnisverksmiðjum og nýta 15 % innanlands. 

Ísland býr við orkulöggjöf Evrópusambandsins (ESB), og það er æskilegt og fróðlegt að fylgjast með fyrirætlunum Framkvæmdastjórnar Úrsúlu von der Leyen á orkusviðinu.  Í ljós kemur, að hún ætlar vetninu stórt hlutverk í framtíðinni.  Þannig hefur hún nýlega gefið út skýrsluna "Powering a climate-neutral economy: an EU Strategy for Energy System Integration" og einnig skýrsluna "A hydrogen strategy for climate-neutral Europe". 

Höfundarnir sjá fyrir sér hæga uppbyggingu á framleiðslugetu vetnisverksmiðja í Evrópu, sem nýta umhverfisvæna orku.  Á árabilinu 2020-2024 verði reistar slíkar verksmiðjur í Evrópu að aflþörf a.m.k. 6 GW og framleiðslu a.m.k. 1 Mt/ár.  Í öðrum áfanga (2025-2030) er ætlunin að setja upp rafgreiningarverksmiðjur með aflþörf 40 GW og framleiðslu allt að 10 Mt/ár.  Á lokatímabilinu (2030-2050) verði svo tekin enn stærri skref með framleiðslu gríðarlegs magns vetnis með rafmagni frá kolefnisfríum orkuverum.  

Hlutdeild Íslendinga í þessum markaði verður lítil, en traustur vetnismarkaður mun verða til.  Það virðist þannig verða tiltölulega áhættulítið að fjárfesta í ísenzkum orkulindum og breyta orkunni frá þeim í vetni og beinharðan gjaldeyri með útflutningi á því frá Íslandi til Bretlands og/eða meginlands Evrópu.  

Vetnisvæðinguna á að styrka með stofnun "European Clean Hydrogen Energy Alliance".  Þessi samtök munu hafa innan sinna vébanda iðnaðinn, opinberar stofnanir og frjáls félagasamtök til að styðja við bakið á Stefnumörkuninni ("The Strategy") og til að mynda farvegi fyrir fjárfestingar.  Það er einboðið fyrir íslenzka aðila á orkusviði og jafnvel áhugasama fjárfesta að ganga í þessi samtök til að vinna að framgangi vetnisvæðingar á Íslandi.  

 

 

 

  

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband