Færsluflokkur: Matur og drykkur
19.9.2014 | 22:12
Skattkerfisbreytingar til bóta - loksins
Miklu moldviðri hefur verið þyrlað upp í kringum tillögu Fjármála- og efnahagsráðherra um löngu tímabærar endurbætur á kerfi óbeinna skatta, er miða að aukinni skilvirkni kerfisins, þ.e. bættum skattskilum og einföldun fyrir alla, ekki sízt þá, sem þurfa að vinna með þetta kerfi. Hér er um áfanga í átt til einnar virðisaukaskattheimtu og lækkunar verðlags í landinu, sem er í hag allra fjölskyldna í landinu, hvað sem önugum nöldurseggjum dettur í hug að bera á borð opinberlega eða annars staðar.
Það verður að meta þessar tillögur heildstætt, því að breytingarnar eru margþættar, en nefna má afnám vörugjalda á matvæli og aðrar vörur, afnám sykurskatts, sem lagður var á undir formerkjum neyzlustýringar, en hafði engin önnur áhrif en að hækka verð á mörgum matvörum. Þá er neðra þrep virðisaukaskatts hækkað úr 7,0 % í 12,0 % samkvæmt tillögunum, og efra þrepið lækkað úr 25,5 % í 24,0 %.
Skattbyrðin er með þessum aðgerðum lækkuð um 3,0 milljarða kr, og barnabætur eru auknar um 1,0 milljarð kr. Að jafnaði er þetta augljóslega hagstæð aðgerð fyrir hinn almenna neytanda, en sáð hefur verið efasemdarfræjum um, hvernig ávinningurinn gagnast mismunandi tekjuhópum. Þetta er allt hægt að kryfja, og hefði óneitanlega verið skynsamlegra, t.d. af efasemdarmönnum í hópi stjórnarsinna, að skoða fílinn allan í heild í stað þess að einblína á eina löpp á þessum stóra fíl, sem hér er til skoðunar, og draga víðtækar ályktanir um útlit og eðli fílsins á þessum hæpna grundvelli. Slíkt getur verið merki um yfirborðsleg vinnubrögð, sem jafnvel bera keim af lýðskrumi.
Sannleikurinn er sá, að þeir, sem berjast gegn breytingum á skattkerfinu, eins og þær birtast í fjárlagafrumvarpi Bjarna Benediktssonar, standa vörð um áframhaldandi ávinning hins ríkari hluta þjóðarinnar, sem yfirleitt gerir betur við sig í mat og drykk en þeir, sem minna hafa á milli handanna. Sparnaður þeirra vegna 7 % VSK á matvæli í stað 12 % getur hæglega numið 50 þúsund kr á mann á ári. Þegar þessir gagnrýnendur þykjast taka upp hanzkann fyrir fátæklinga, er það á fölskum forsendum, og þeir verja þar með í raun áframhaldandi forréttindi hinna ríkari að borða dýrt án þess að greiða af því skatt til ríkisins sambærilega háan og gert er á hinum Norðurlöndunum, þar sem virðisaukaskattur á matvæli er hvergi undir 12 %.
Þá má minna á, að OECD - Efnahags- og framfarastofnunin og AGS - Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hafa báðar ráðlagt Íslendingum að stytta bilið á milli lægra og efra skattþrepsins af eftirfarandi ástæðum:
- stórt bil freistar til rangrar flokkunar og dregur úr skatttekjum
- efra VSK-þrepið á Íslandi er eitt hið hæsta í heimi; það spennir upp verðlag í landinu, færir verzlun utan og freistar til undanskota. Allt er þetta þjóðhagslega óhagkvæmt.
- lágur skattur á matvæli mismunar fólki eftir efnahag, ríkum í hag. Allir þurfa að borða, en hinir efnameiri nota mun meira fé á mann, jafnvel tvöfalt meira, í matvælakaup og drykkjarföng en hinir efnaminni. Með lágum virðisaukaskatti á matvæli er verið að hlífa hinum betur settu við eðlilegum skattgreiðslum. Samkvæmt Hagstofunni eyðir fólk í efsta fjórðungi tekjustigans 60 % meira fé í matvæli en fólk í neðsta fjórðunginum. Ef bornar eru saman neðsta og efsta tekjutíundin, verður munurinn enn meiri, og verða notuð 80 % í útreikningum hér að neðan. Með þessu skrýtna háttarlagi, sem hvergi tíðkast annars staðar á Norðurlöndunum, er verið að færa hinum bezt settu í þjóðfélaginu um 3,0 milljarða kr á silfurfati. Er ekki kominn tími til, að létta þeim af öllum hinum með því að láta fólk greiða skatt af matvælum, dýrum og ódýrum, eins og tíðkað er í öðrum löndum ?
Pawel Bartoszek hefur svarað þessari spurningu að sínu leyti í Fréttablaðinu 13. september 2014 í greininni: "Gegn fátækt sem var". Verður hér vitnað í grein hans:
"Sú var tíðin, að fólk, sérstaklega fátækt fólk, þurfti að nota mjög stóran hluta af fé sínu til að kaupa sér mat. Þetta hefur breyst. Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar Bandaríkjanna (BLS) lækkaði þáttur matvöru í heildarútgjöldum heimilanna þar í landi úr 43 % árið 1901 í 13 % árið 2002."
Óumdeilt er, að þróunin hefur orðið með svipuðum hætti á Íslandi, því að "Rannsókn á útgjöldum heimilanna 2010-2012", sem Hagstofa Íslands stóð að, gaf 14,9 % af ráðstöfunartekjum heimilanna til matarkaupa að jafnaði. Styr stendur um, hvernig þetta hlutfall breytist með tekjustigi. Hagstofan upplýsir, að tekjulægsti fjórðungurinn noti 17 % af ráðstöfunartekjum sínum til matar og tekjuhæsti fjórðungurinn noti 14 %. Því er haldið fram, að enn meiri munur sé á þessum hópum, og er þá e.t.v. átt við efstu og neðstu tíund tekjustigans. ASÍ gefur upp 10 % og 21 % og er allt í lagi að nota þær tölur við útreikningana, en þá hækkar munurinn á kostnaði innkaupakörfunnar, og í stað 60 % verður áætlaður 80 % munur á mann á matarkostnaði fátæks og ríks.
Deilan um það, hvort tillögur BB um skattkerfisbreytingar muni auka útgjöld fátækra heimila er í raun deila um það, hvernig mótvægisaðgerðirnar koma út. Hlutfall matarútgjalda af ráðstöfunartekjum heimila þarf að verða allt að 60 % til að mótvægisaðgerðirnar vegi ekki hækkun VSK á matvæli úr 7 % í 12 % upp og meira til. Til að setja undir þennan leka eru barnabætur auknar um 1 milljarð kr. Strax sumarið 2013 beitti núverandi ríkisstjórn sér fyrir hækkun framlaga til elli- og örorkulífeyrisþega. Það er gert ráð fyrir hækkun framlaga til málaflokksins í fjárlögum fyrir 2015. Samanlagt fela fjárlög ársins 2014 og frumvarpið fyrir 2015 í sér yfir 13 milljarða kr til málaflokksins.
Augljóslega munu þessi framlög ásamt öðrum mótvægisaðgerðum tryggja hinum lakast settu betri fjárhagsstöðu eftir þessar aðgerðir en á undan þeim, ekki sízt þar sem raunhækkun matvæla nemur aðeins 2,5 % í stað 5 % vegna afnáms sykurskatts og vörugjalds á ýmsar matvörur. Þá má nefna, að heildarendurskoðun á fyrirkomulagi vaxtabóta og húsaleigubóta er að ljúka.
Miðað við ætluð undanskot í núverandi virðisaukaskattskerfi má ætla, að ríkissjóður muni hagnast meira á þessari breytingu en kostnaðinum í tengslum við þær, 4 milljörðum kr, nemur, vegna fækkunar undanþága, einföldunar og minni freistingar til að flokka vöru og þjónustu í lægri flokkinn eftir breytinguna.
Hvers vegna ætti ríkið að veita þeim, sem efni hafa á að verja háum upphæðum til kaupa á mat og drykk, "afslátt" á virðisaukaskatti ? Er ekki eðlilegra, að innkaup á dýrum mat skapi ríkissjóði tekjur og grundvöll til lækkunar á verðlagi í landinu, eins og samþykkt fjárlagafrumvarpsins mun vafalaust hafa í för með sér ? Um þetta tjáði Pawel Bartoszek sig með eftirfarandi hætti í téðri grein:
"Með einföldum hætti mætti hugsa þetta svona: fyrir hvern hundraðkall, sem við ætlum að gefa fátækum manni á formi lægri matarskatta, þurfum við að gefa ríkum manni 200 kall. Virðisaukaskattur, eins sniðugur og hann er, er ekki gott tæki til tekjujöfnunar. Tekjuskattar henta betur."
Nokkru seinna heldur Pawel áfram:
"Mín skoðun er, að það væri betra að hafa eina vaskprósentu , sem fæstar undantekningar og sem fæst vörugjöld."
Það er hægt að taka undir þetta allt með Pawel Bartoszek, stærðfræðingi. Vegna þess að fólk, vel efnum búið, kaupir matvæli fyrir jafnvel tvöfalt hærri upphæð á mann en fólk, sem má láta sér lynda kröpp kjör, þá umbunar ríkið hinum betur settu með tvöfaldri peningaupphæð, sem þeir sleppa við að greiða sem skatt af mat, þó að þeir noti hlutfallslega jafnvel helmingi minna af launum sínum til matarkaupa. Þetta er réttlæti "jafnaðarmannsins", en aðrir mundu segja "andskotans".
Afstaða ASÍ til þessa máls vekur undrun þeirra, sem héldu, að ASÍ væri málsvari lítilmagnans, en það er auðvitað mikill misskilningur. ASÍ er málsvari "nómenklatúrunnar", búrókrata, sem hreiðrað hafa um sig á skrifstofum verkalýðsfélaganna og í hlýjum stjórnarherbergjum lífeyrissjóðanna. Þeir vilja ekki greiða eðlilegan skatt af matarkaupum sínum. Samt hagnast þeir örugglega, ef umræddar tillögur verða að veruleika, vegna lækkunar efra þreps virðisaukaskattsins og lækkunar verðlagsvísitölu.
Hagfræðingar Alþýðusambandsins eru í þessu máli á öndverðum meiði við AGS og OECD, á öndverðum meiði við útreikninga Fjármála- og efnahagsráðuneytisins, og á öndverðum meiði við ríkjandi viðhorf í "norrænu velferðarríkjunum" og líklega jafnvel líka á öndverðum meiði við hagfræðinga ESB í Berlaymont. Hvað í ósköpunum hefur eiginlega komið yfir þá. Ekki þó hentistefnufjandinn ? Er þörf fyrir að taka þátt í pólitískum loddaraleik ? Hér skal fullyrða, að nái fjárlagafrumvarpið fram að ganga með umræddum breytingum á skattakerfinu og öllum mótvægisaðgerðunum, þá mun slíkt hafa hagfelld áhrif á afkomu allra félagsmanna ASÍ.
Nú verður tekin létt reikniæfing til glöggvunar á dæminu, sem hér er til umfjöllunar, og notaðar eftirfarandi forsendur:
- matarkostnaður að meðaltali 74 kkr á mann á mánuði með 7 % VSK samkvæmt Hagstofunni uppfært frá 2002 til 2004
- matarkostnaður lágtekjufólks 40 % undir meðaltali, þ.e. kkr 591 á ári án VSK
- matarkostnaður hátekjufólks er 80 % yfir matarkostnaði lágtekjufólks (þetta eru meiri öfgar en Hagstofan fær fyrir efsta og neðsta tekjufjórðung) neytenda
- hækkun virðisaukaskatts af matvælum verður 5,0 % samkvæmt frumvarpinu. Vegna mótvægisaðgerða á borð við afnám sykurskatts og vörugjalda á matvæli þá verða verðlagsáhrif á mat helmingi minni,þ.e.a.s. 2,5 %.
- vegna annarra mótvægisaðgerða, þ.e. lækkunar virðisaukaskatts á aðrar vörur en matvæli úr 25,5 % í 24,0 % og afnáms vörugjalda, sem ýmist eru 15 %, 20 % eða 25 %, á marga vöruflokka, má reikna með lækkun verðs á þessum vörum um 2,5 %. Það er rangt, sem haldið er fram, að slíkar lækkanir skili sér ekki í vöruverði. Bæði Hagstofan og Rannsóknarsetur verzlunarinnar á Bifröst hafa rannsakað þetta og staðfest, að lækkanir skila sér. Þegar fólk hefur þær upplýsingar, geta aðeins "kverúlantar" haldið öðru fram.
Til viðbótar koma eftirtalin atriði, sem létta undir með fólki og virka til lækkunar á vísitölu verðlags, sem vægt reiknað lækkar um 0,2 % samkvæmt Fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
- í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir raunlækkun verðs á eldsneyti, tóbaki og áfengi, því að hefðbundnum krónutöluhækkunum á þessar vörur er sleppt, sem þá dregur úr hækkun vísitölu verðlags
Til tekjuauka koma nokkrar mótvægisaðgerðir:
- barnabætur hækka um einn milljarð kr, og þær hækka mest hjá þeim, sem lægri hafa tekjurnar
- fyrsta verk núverandi ríkisstjórnar árið 2013 var að hækka örorku- og ellilífeyrisbætur. Samanlagt fela fjárlög ársins 2014 og 2015 í sér yfir 13 milljarða kr hækkun á þessum bótum. Það munar verulega um þessar fjárhæðir fyrir hvern einstakan bótaþega, a.m.k. fyrir þá, sem höfðu takmörkuð fjárráð fyrir. "Kverúlantar" geta haldið því fram, að þessir hópar verði illa úti í fyrirhuguðum skattkerfisbreytingum, en málflutningur þeirra er öfugmælaskáldsins og falsspámannsins.
4.9.2014 | 18:46
Af kálhöfði og öðrum jarðargróða
Höfund rak í rogastans við lestur greinarstúfs í Fréttablaðinu 19.08.2014 eftir Þórólf Matthíasson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands.
Þessi starfsmaður, sem augljóslega þiggur laun frá skattborgurum þessa lands, þ.á.m. bændum, fyrirtækjum þeirra og fjölda starfsmanna þar, hefur að vísu ekki úr háum söðli að detta eftir alræmda tilburði sína við að sannfæra landsmenn og stjórnvöld landsins á dögum ESB-ríkisstjórnarinnar (ríkisstjórn Jóhönnu og þingmeirihluta hennar þurfti að vísu ekki að sannfæra) um, að þeim væri fyrir beztu að taka á sig Icesave-ánauðina, sem hæglega gátu orðið 2 milljarðar sterlingspunda, aðallega vextir, séð nú í baksýnisspegli.
Að öðrum kosti, samkvæmt boðskapi þessa kinduga hagfræðiprófessors, biði Íslendinga enn hrikalegra hrun gjaldmiðilsins, útskúfun af lánamörkuðum og fjöldaatvinnuleysi, eiginlega Brimarhólmsvist allra landsins barna að hætti Jóns Hreggviðssonar, þess er jafnan orti Pontusrímur, er á móti blés. Allar eru þessar hrakspár prófessorsins skjalfestar, og allar urðu þær téðum hagfræðiprófessor til ævarandi skammar. Að honum detti í hug nú, rúnum trausti, að tjá sig á opinberum vettvangi með lítilsvirðandi hætti um heila atvinnugrein, er staðfesting á áður sýndu dómgreindarleysi. Hver vill ekki hafa slíkan mann á ríkisjötunni ?
Þegar opinberri frásögn Hannesar Gissurarsonar, prófessors, af því, er téður Þórólfur skipaði Hannesi með hávaða og ljótu orðfæri í matsal Háskóla Íslands eftir Hrunið 2008 að segja af sér sem bankaráðsmaður í Seðlabankanum, er bætt við ferilskrá Þórólfs, er vægasti dómur, sem hægt er að kveða upp yfir honum, að hann sé dómgreindarlaus. Hvernig má það vera eftir það, sem á undan er gengið, að hann njóti stuðnings rektors og háskólaráðs til að móta faglegt uppeldi tilvonandi íslenzkra hagfræðinga ?
Það er engan veginn gott til þess að vita, að maður með svo brenglaða sýn á hagkerfið og áhrifavalda þess og takmarkaða sjálfstjórn, eins og Icesave-umræðan og hneykslið í matsal Háskólans sýnir, skuli starfa við það í ríkisháskóla að undirbúa tilvonandi hagfræðinga fyrir lífsstarf þeirra. Enn heggur nú þessi starfsmaður okkar skattborgara í knérunn heilbrigðrar skynsemi og staðfestir í raun, hvílíkur gallagripur hann er, en í þetta sinn, og ekki í fyrsta sinn hjá prófessornum, eru bændur landsins skotspónninn.
Með greinarstúfinum, "Bændamálastjórar, ekki meir, ekki meir", í Fréttablaðinu 19. ágúst 2014, veittist téður hagfræðiprófessor að bændastéttinni og forystu hennar með óbilgjörnu móti að hætti götustráka, sem fæstir skattborgarar þessa lands kunna að meta, svo almenns stuðnings, skilnings og virðingar, sem bændastéttin nýtur í landinu. Hinn vanstillti prófessor hóf árásirnar á bændur með eftirfarandi hætti í téðum greinarstúfi:
"Bændasamtökin, með dyggum stuðningi ríkisvaldsins, stjórna framleiðslu landbúnaðarafurða á Íslandi. Inntak þessarar stefnu er í grófum dráttum, að kúa- og kindabændur eru hvattir til að framleiða mjólk og kindakjöt með því að bera á þá fúlgur fjár."
Að lýsa búvörusamningi bænda og ríkisins í slíkum götustráksstíl lýsir þessum prófessor betur en búvörusamninginum, sem rennur út 31. desember 2016. Á öllum Vesturlöndum og víðar hefur hið opinbera afskipti af framleiðslu landbúnaðarafurða með einum eða öðrum hætti. Fyrir því eru nokkrar ástæður:
- Það er öryggismál, að grundvallar fæðuframleiðsla fari fram í hverju landi, ekki sízt eylandi, til að koma megi í veg fyrir hungursneyð, ef alvarlegir atburðir verða af náttúru- eða mannavöldum. Líkurnar eru fremur litlar, en afleiðingarnar geigvænlegar af matarskorti.
- Það er víðast hvar ríkjandi stefna, og svo hefur alltaf verið á Íslandi, að nýta afrakstrargetu landsins, eins og kostur er. Auðvitað hafa afskekktar og erfiðar sveitir farið í eyði, en nú hafa þær reyndar öðlazt nýtt notagildi fyrir útivistarfólk.
- Gæði og hollusta hafa alls staðar vaxandi vægi af heilsufarsástæðum, og svo er einnig á Íslandi. Það gefur auga leið, að þar sem vatn er af skornum skammti, og mjög víða er skortur á fersku vatni, en landbúnaður þarf mikið vatn, þar sem loftgæði eru slæm og þar sem þéttbýli er mikið, þar geta gæði landbúnaðarafurða ekki orðið sambærileg við vörur, sem framleiddar eru í ómenguðum eða lítt menguðum jarðvegi með ótakmörkuðu hágæða ferskvatni og í tiltölulega hreinu lofti, svo að ekki sé nú minnzt á lífrænan áburð. Ísland hefur sterka stöðu í þessu tilliti vegna fámennis, ríflegs landrýmis og vegna þess, að landið iðnvæddist ekki fyrr en mótvægisaðgerðir til náttúruverndar voru komnar til sögunnar.
Með þessu er því ekki haldið fram, að erlendur matur sé óætur eða óhollur. Erlendis er auðvitað eftirlit með matvælaframleiðslu. Það er þó skoðun höfundar, að samanburður á t.d. íslenzku og erlendu grænmeti í íslenzkum verzlunum sé því fyrrnefnda mjög í vil. Það getur þó sumpart verið vöruinnflytjendum að kenna, því að svo slök gæði á grænmeti og hér má sjá í verzlunum sjást varla, þegar utan er komið.
Það er sjálfsögð krafa á hendur smásölum matvæla, að þeir merki vörur sínar upprunahéraði vörunnar eða a.m.k. upprunalandi. Þessu hefur víða verið ábótavant og alveg ótækt að vera í innkaupaerindum framan við kjötborð og fá engar upplýsingar um, hvaðan t.d. nautakjötið er. Það á ekki að leggja steina í götu innflutnings á vöru, sem innlendir framleiðendur anna ekki spurn eftir, en jafnsjálfsagt, að kaupendur geti valið og hafnað á grundvelli eigin upplýsts mats.
Það er í sjálfu sér óeðlilegt að leggja hærri innflutningsgjöld á erlend matvæli en sem nemur kostnaði af öryggiseftirliti með þeim, ef útflutningslandið beitir ekki tollvernd gegn sams konar íslenzkri vöru. Þetta á líka við um mjólkurvörur, s.s. osta, og annað álegg, en það er sjálfsagt krydd í tilveruna að prófa slíkar vörur erlendis frá án þess að þurfa að stofna til illbærilegra útgjalda.
Upprunamerking matvæla ætti að vera nauðsynleg og nægjanleg meðmæli og vörn fyrir íslenzk matvæli, enda njóti íslenzkar landbúnaðarafurðir sams konar aðstöðu á mörkuðum viðkomandi landa. Innflutningsgjöld á landbúnaðarafurðir ættu helzt að vera gagnkvæm. Það er jafnframt líklegt, vegna framleiðniaukningar í íslenzkum landbúnaði og nýrra markaða og samkeppni, eins og að ofan getur, að matvælaverð til neytenda á Íslandi geti lækkað, en á móti kemur þá hugsanleg hækkun á virðisaukaskatti á matvæli, sem nú er í umræðunni.
Íslenzkir dýrastofnar eru viðkvæmir gagnvart erlendum sjúkdómum, eins og hrikaleg dæmin sanna, þar sem farið var fram af vanþekkingu og óvarkárni með grafalvarlegum afleiðingum. Það verður ætíð að hafa varúðarsjónarmið í öndvegi, þegar kemur að innflutningi á lifandi dýrum eða dýraafurðum. Ferskt kjöt er þess vegna ekki hægt að leyfa erlendis frá, heldur verður það að vera frosið, þegar það er sent að utan.
Íslenzkir dýrastofnar eru sumir einstakir. Þetta á t.d. við um sauðfé, mjólkurkúastofninn og hrossin. Verndar- og varðveizlusjónarmiðið ber eindregið að halda í heiðri á þessum stofnum, því að stofnbreytingar eru óafturkræfar. Það er vafalaust hægt að bæta enn æskilega eiginleika núverandi stofna án blöndunar við erlenda stofna með rannsóknum og ræktun. Þess ber að gæta, þegar afurðir erlendra stofna eru bornar saman við afurðir innlendra, hversu mikið fóður og fóðurbætir stendur undir afurðunum, og hversu mikið rými þarf fyrir gripinn, t.d. í fjósi. Það er með öðrum orðum nýtni fóðurs og fjármagns, sem skiptir höfuðmáli.
Sama verndunarsjónarmið getur ekki átt við um holdanautastofninn, þannig að hann ætti að mega rækta að vild til að ná tilætluðum vaxtarhraða og kjötgæðum.
Íslenzkir bændur hafa sýnt mikinn sveigjanleika að þörfum markaðarins. Nýjasta dæmið er af yfirvofandi skorti á mjólkurvörum, einkum vegna aukinnar spurnar eftir fituríkum vörum og aukningar á fjölda erlendra ferðamanna, en fjöldi þeirra og viðvera upp á 5,5 daga að meðaltali árið 2013 svaraði til um 12 þús. manns étandi í landinu allt árið um kring eða til um 4,0 % aukningar á mannfjölda m.v. þá, sem hafa hér fasta búsetu.
Bændur gerðu þegar ráðstafanir til að auka mjólkurframleiðsluna. Þeir settu fleiri kvígur á, en þeir höfðu áður ráðgert, og þeir juku fóðurbætisgjöf, sem að öðru jöfnu er afar arðsamur gjörningur. Á tímabilinu janúar-júlí 2014 jókst framleiðsla mjólkur um 8 % m.v. sama tímabil í fyrra, enda fá kúabændur nú fullt verð fyrir alla mjólk frá afurðastöðvum án tillits til framleiðslukvótans, sem þeir eiga.
Téður kvóti hefur fyrir vikið hríðfallið í verði á markaði, sem hefur skaðað þá eigendur, sem eru að fara að bregða búi. Í apríl 2014 lækkaði verðið um 19 % eða úr 320 kr/l í 260 kr/l og á sennilega eftir að lækka enn meira. Það yrði heilbrigð þróun, ef unnt verður að afnema kvótakerfið í landbúnaði vegna þess, að markaður sé innanlands og utan fyrir alla framleiðslu bændanna á því verði, sem um semst. Er þessi jákvæða þróun þegar tekin að hafa áhrif á nýliðun í landbúnaðinum, enda minna fjárhagslegt átak að stofna til búskapar, ef ekki þarf að kaupa kvóta til að fá fullt afurðaverð.
Íslenzkur landbúnaður er tæknivæddur, og tæknivæðing hans eykst stöðugt, ekki sízt hjá kúabændum. Þetta hefur að sjálfsögðu leitt til mikillar framleiðniaukningar, og hlýnandi veðurfar hefur leitt til meiri uppskeru og mjög athygliverðra vörunýjunga, t.d. á sviði kornræktar.
Grænmetisframleiðsla í landinu hefur tekið stakkaskiptum, hvað gæði, framleiðni og fjölbreytni varðar. Jarðhitinn veitir vitaskuld samkeppniforskot, og stöðugleiki rafmagnsálags vegna lýsingar hálft árið eða meir ætti að vera grundvöllur hagkvæmra raforkuviðskipta. Það ætti a.m.k. að vera unnt að hálfu orkuvinnslufyrirtækjanna að gera samning um kaup gróðurhúsabænda á ótryggðri raforku á kjörum, sem báðum aðilum eru hagfelld. Um þetta hefur þó staðið styrr, og segja fulltrúar bænda farir sínar ekki sléttar í viðskiptum við orkufyrirtækin, og er ekki grunlaust um, að dreifiveitur eigi þar jafnframt hlut að máli. Virðist Alþingi þurfa að skerpa á því hlutverki orkugeirans að vera stuðningsaðili við atvinnuvegi í landinu, sem annaðhvort eru gjaldeyrisskapandi eða draga úr innflutningsþörf og eru þannig gjaldeyrissparandi, eins og landbúnaðurinn tvímælalaust er.
Risagróðurhús við Grindavík fyrir tómataframleiðslu til útflutnings er ánægjuleg nýjung, sem gefur til kynna komandi útflutningsmöguleika íslenzks landbúnaðar í heimi, þar sem fæða þarf yfir 7 milljarða munna og vaxandi fjöldi fólks á svæðum fæðuskorts hefur efni á að kaupa mat frá útlöndum. Þar eru Kínverjar líklega skýrasta dæmið.
Niðurstaða þessarar greinar er sú, að matvælaframleiðsu á Íslandi vaxi nú mjög fiskur um hrygg; þökk sé aukinni framleiðni í krafti tæknivæðingar búanna og vaxandi framleiðslu vegna stækkandi markaða innan lands og utan og batnandi árferðis með hækkandi meðalhitastigi. Þetta mun vafalaust leiða til minnkandi þarfar á beingreiðslum úr ríkissjóði í framtíðinni sem hlutfall af fjárlögum ríkisins, og virðisaukaskattsgreiðslur af sömu matvælum munu þá sennilega nema hærri upphæð en beingreiðslurnar.
8.9.2013 | 14:16
Skaðlegt eftirlit
Nú hefur formaður "Beint frá býli" gert opinberar fáheyrðar kröfur um Innra eftirlitskerfi með gæðastjórnunarkerfi smáfyrirtækja, t.d. fjölskyldufyrirtækja.
Hlutverk opinberra eftirlitsaðila er í flestum tilvikum að vernda neytendur, og á það við um Matvælastofnun, að henni ber að gera þær ráðstafanir, sem duga, til að vernda heilsufar landsmanna með því að tryggja heilnæmi matvæla. Henni og öðrum á sama sviði hefur þó tekizt misjafnlega upp við að sinna þessu hlutverki stóráfallalaust, svo að ekki sé meira sagt.
Nú ætla eftirlitsaðilar á sviði matvælaframleiðslu að skjóta spörfugl með kanónu með því að krefjast innra eftirlitskerfis með gæðastjórnunarkerfi smáfyrirtækja. Þessi krafa er algerlega út í hött, því að smáfyrirtæki hafa ekki bolmagn til slíks. Slíkt kerfi verður hvorki fugl né fiskur hjá þeim. Þau eiga að einbeita sér að öðru en skriffinnsku, enda liggur styrkur þeirra oftast annars staðar. Hann liggur t.d. í hugmyndaauðgi, vandvirkni og alúð eigendanna og annarra, sem þar starfa við framleiðslu á vörum og þjónustu.
Viðkomandi ráðuneyti verður hér að grípa strax í taumana, því að þessi glórulausa kröfugerð eftirlitsaðilans drepur frjálst framtak einstaklinga, sem vilja bjóða fram nýjungar.
Slíkt er skaðlegt fyrir neytendur og fyrir samfélagið, því að þessi smáfyrirtæki eru vaxtarbroddur hagkerfisins. Þessi opinbera krafa er í anda lýsingar Mörtu Andreasen hinnar brezku og brottrekna aðalbókara ESB á vinnubrögðum framkvæmdastjórnar ESB, en þar er meginstefið: "one size fits all", eða ein regla fyrir alla, sem var aðalregla Sovétsins, sáluga, á sinni tíð.
Það þarf að finna aðferð, sem stendur ekki starfsemi smáfyrirtækja fyrir þrifum og tryggir hagsmuni neytenda.
Aðferðin getur verið fólgin í tilviljanakenndu eftirliti með hreinlæti og þrifnaði, sem ekki er boðað fyrirfram, og að krefjast þess af téðum framleiðendum, að vara þeirra sé greinilega rekjanleg. Fyrirtæki, sem hægt er að rekja alvarlegan galla til, sem t.d. stafar af sóðaskap, verður ekki langlíft í þeim rekstri. Þetta eru nauðsynlegar og nægjanlegar kröfur til fyrirtækja með veltu innan við MISK 100.
12.12.2008 | 23:04
Óvissuferð
Föstudaginn 5. desember 2008 héldum við vinnufélagarnir í óvissuferð, sem nokkrar konur í hópinum höfðu átt frumkvæði að og tekið að sér að skipuleggja. Eftir vinnu þennan dag var stigið upp í rútu og haldið inn í Heiðmörk. Þar var byrjað á Müllers æfingum og síðan tekið til við þrautir ýmsar og keppnir, en á milli þátta ríkti sannkölluð réttarstemning, þar sem fleygar af margvíslegum gerðum og með fjölbreytilegu innihaldi gengu á milli manna. Var endað á því að skríða ofan í Maríuhella og leita þar hulinna muna.
Að loknum öllum Heiðmerkur atriðunum var haldið í bústað fyrirtækisins í útjaðri bæjarins við litla tjörn, þar sem Litla-Gunna og Litli-Jón bjuggu forðum. Þar hafði þá verið tilreiddur dýrindis matur, svissneskur "rakklett" ostur, smápylsur, svínakjöt og nautakjöt o.fl., sem við gátum steikt á rafmagnspönnum á matborðinu, hver að sínum hætti. Með þessu var eðalhrásalat, allt úr íslenzkum matjurtum. Til að skola þessu niður var hins vegar haft dágott hvítvín, franskt, enda hefur fyrirtæki okkar mikil samskipti við frönskumælandi fólk.
Þeir, sem gott úthald höfðu enn eftir allt þetta, héldu um kl. 2215 niður í miðbæ Reykjavíkur og söfnuðust saman á krá einni. Var þar mikið skrafað og skeggrætt um lífsins gagn og nauðsynjar við kunningja jafnt sem ókunnuga. Höfundur þessarar vefsíðu skemmti sér konunglega þarna fram á rauðanótt.
Nú vilja ýmis ráðandi öfl í þessu þjóðfélagi teyma okkur í aðra óvissuferð, sem yrði ólíkt afdrifaríkari og óyndislegri en sú, sem lýst er hér að ofan, og er sú seinni reyndar þess eðlis, að hún getur orðið örlagarík fyrir hvert einasta mannsbarn í landinu á okkar dögum og um ókomna tíð. Hér er átt við inngönguna í Evrópusambandið, ESB.
Ástæðan fyrir því, að mikinn varhug ber að gjalda við Evrópusambandinu, er, að enginn veit, hvaða fyrirbrigði þetta verður að einum áratug liðnum, hvað þá að lengri tíma liðnum. Af þessum ástæðum er afar óábyrgt að láta aðeins einn málaflokk ráða för. Hámark óskynseminnar felst í að japla á gjaldmiðlinum í þessum efnum. Þó að við færum inn í ESB á morgun, yrði okkur meinað að skipta um gjaldmiðil fyrr en að áratug liðnum. Vegna þess að ekkert eitt ríkisvald stendur sem bakhjarl evru, er það grundvallaratriði fyrir ECB (Evrópubankann í Frankfurt), að hvergi verði hvikað frá Maastricht skilyrðunum fjórum um verðbólgu, vexti, ríkishalla og ríkisskuldir. ECB hangir á þessu fram í rauðan dauðann af ótta við fordæmi, sem leitt geti af sér minnkandi tiltrú á evru og Evrópubankann sjálfan.
Nú hafa ýmsir þróað afbrigði af þessari evruumræðu sem valkost við ESB-aðild. Það er að taka einhliða upp evru. Þetta er óráðlegt af hagfræðilegum og stjórnmálalegum ástæðum. Hagfræðilegu mótrökin eru, að við gætum hæglega orðið peningalaus, ef stuðning seðlabanka nýja íslenzka gjaldmiðilsins skortir. Stjórnmálalegu mótrökin eru, að með þessu háttalagi værum við komin í hlutverk skæruliða í baráttu við ECB og ESB. Til hvers halda menn, að það gæti nú leitt á stjórnmála-og viðskiptasviðinu ?
Það eru fáeinar vikur síðan ESB hikaði ekki við að herja gegn okkur í viðskiptastríði. Við töpuðum því á nokkrum dögum. Það er á öllum tímum við slíkar aðstæður freistandi að álykta sem svo, að með betri herforingja (stjórnmálaforingja) hefði þetta stríð farið öðruvísi. Höfundur þessara hugleiðinga er ekki í neinum færum til slíkra fullyrðinga, enda leiða þær sjaldan til nokkurs góðs. Þýzka þjóðin léði eyrun ásökunum af þessu tagi á dögum Weimar lýðveldisins, þegar hún var að "krebera" skuldunum vafin eins og skrattinn skömmunum undan ánauð Versalasamninganna. Skamma stund verður hönd höggi fegin.
Við getum ekki tekið annað skref nú og hætt á annað viðskiptastríð við ESB, nema hafa vilja til að berjast við Brüssel. Við mundum þá verða að beina viðskiptum okkar annað. Evran er einfaldlega ekki þess virði að berjast fyrir hana. Evrulöndin eiga nú sum hver í svo stórfelldum vandræðum, sumpart vegna evrunnar, að endað getur með kollsteypu hennar. Mest munar um vandræði Spánverja, en þar varð húsnæðisbólan illvígari en á Íslandi vegna lágra vaxta og mikils framboðs lánsfjár. Svipuðu máli gegnir um Íra. Þeim er nú stillt upp við vegg að samþykkja Lissabonsamninginn, sem þeim er þó þvert um geð, eða að verða settir í skammarkrókinn ella. Í þessum löndum og á Ítalíu hefur verðbólgan verið mun hærri en að jafnaði í evrulandi, og þess vegna eiga útflutningsatvinnuvegir þessara landa mjög undir högg að sækja um þessar mundir. Af þessum sökum er Spánverjum nú spáð atvinnuleysi á bilinu 15 % - 20 %.
Líklegt er, að Grikkland rambi nú á barmi borgarastyrjaldar af efnahagslegum ástæðum í bland við landlæga spillingu þar á bæ. Efnahagskerfi Grikklands er lamað af opinberum boðum og bönnum í anda sameignarsinna, og þar er mikið opinbert eignarhald, og opinber rekstur liggur sem lamandi hönd á atvinnulífinu. Samþjöppuðu valdi af þessu tagi fylgir undantekningarlaust svartur markaður og rótgróin spilling. ESB og evruvæðingin hafa engu breytt um þetta, enda standa engin efni til þess, þó að falsspámenn hérlendis boði, að allt muni verða með nýjum brag á Íslandi eftir inngöngu í ESB. "O, sancta simplicitas."
Evran reyndist Grikkjum ekki sá bjargvættur, sem evrupostularnir boðuðu, enda héldu stjórnmálamenn þeirra áfram að fara leið hinnar minnstu mótstöðu eða hreinlega að sitja með hendur í skauti. Á meðan hrönnuðust vandamálin upp. Lexían er sú, að stjórnmálamenn eiga að ganga hreint til verks, ekki tvínóna við hlutina, en falla ella. Þessi var og málflutningur Svíans Görans Perssons, sem hér var á dögunum, gamalreyndur jaskur úr sænskum stjórnmálum.
Þeir, sem boða hinar ódýru lausnir og leið hinnar minnstu mótstöðu, eru falsspámenn og lýðskrumarar. Varaformaður Samfylkingar á Íslandi er af þessu sauðahúsi. Evrutrúboð þessa óáheyrilega, en um leið sviðsljósssækna stjórnmálamanns er svo yfirborðskennt og flatneskjulegt, að engu tali tekur. Ótrúlegt er, að nokkur Sjálfstæðismaður geti kinnroðalaust lagt eyru við jafnömurlegri lífssýn og felst í landsöluáróðri ESB-trúboðsins.
Teljum við Íslendingar gjaldmiðilsskipti þjóna hagsmunum okkar, þá bjóðast ýmsir kostir. Bandaríkja dalur er nærtækastur, en að gera hann að ríkisgjaldmiðli Íslands verður að fara fram í góðu samkomulagi við "Federal Reserve", Seðlabanka Bandaríkjanna, og Bandaríkjastjórn, svo að aðgerðin sé að siðaðra manna hætti. Bókhald ýmissa stórfyrirtækja á Íslandi er nú þegar í USD og nægir að nefna Landsvirkjun og áliðnaðinn. Lánin frá IMF (Alþjóða gjaldeyrissjóðinum) eru í USD og sama máli gegnir um margar aðrar fjárhagsskuldbindingar Íslendinga. Eldsneytisviðskipti á heimsvísu eru í bandaríkja dölum. Framtíð bandaríkja dals er ekki í óvissu eins og evrunnar. Með bandaríkjadal sem mynt stöndum við sterkar að vígi í viðskiptum um allan heim en með evru. Inni í ESB verður okkur meinað að gera sjálfstæða viðskiptasamninga utan ESB. Þar sem megin viðskiptatækifæri okkar eru utan ESB, yrði aðild að ESB okkur sannkallaður Þrándur í Götu. Við nytum ekki lengur ávaxta viðskiptafrelsis.
Evrópa er á niðurleið, ekki aðeins í fjárhagslegu tilliti nú um stundir, heldur miklu fremur í öldrunar-og mannfræðilegu tilliti. Meðalaldur Evrópumanna hækkar ískyggilega ört og víða hefur fólksfjölgun stöðvazt, eða fækkun er tekin að herja á. Lítil viðkoma þjóða er mikið ógæfumerki, og þær stefna í raun hraðbyri til lakari lífskjara. Við viljum fúslega eiga viðskipti við þetta fólk á jafnræðisgrundvelli og á viðskiptalegum forsendum, en í risavöxnu ríkjasambandi eða í sambandsríki með þeim sem sandkorn í eyðimörk eða krækiber í helvíti eigum við ekkert erindi og munum aðeins bíða tjón af slíku uppátæki.