Út úr EES-samstarfinu

Norðmenn hafa lagt niður fyrir sér, hvað gæti tekið við af EES og samið um það skýrslur.  Ein þeirra, "Alternativer til dagens EÖS-avtale", kölluð "Alternativrapporten", er sérlega áhugaverð og fróðleg.  Hér verður stuðzt við gr. 1.8 í skýrslunni.

EES-samningurinn er í eðli sínu "svæðasamningur" á milli EFTA og ESB, en hvert EFTA-ríkjanna þriggja, sem samninginn samþykktu á sínum tíma (Sviss hafnaði honum), getur þó sagt honum upp með ársfyrirvara. Ákvæði samningsins um, hvað skal gera, ef eitt EFTA-ríkjanna óskar eftir að hætta, eru skýr og greinileg.  Rétturinn til uppsagnar er skilyrðislaus, og það þarf ekki að gefa neina skýringu á brotthvarfinu.  Engar mótaðgerðir eða refsiaðgerðir hinna eru leyfilegar samkvæmt samninginum.

Úrsögnin fer fram samkvæmt skýrum reglum í EES-samninginum.  Að leggja niður ESA og EFTA-dómstólinn, sem þó gerist aðeins, ef öll EFTA-ríkin kjósa fremur viðskiptasamning án slíkra stofnana, ætti einnig að verða auðvelt viðfangs.  

Lögformleg staða EES á Íslandi gerir úrsagnarferlið hérlendis einfaldara en verið gæti.  Það verður t.d. engin þörf á að breyta Stjórnarskránni.  Megnið af EES-samninginum er tekinn inn í íslenzka lagasafnið með eigin löggjöf, EES-löggjöfinni.  Hana má einfaldlega afnema í heilu lagi ásamt ákvæðum um forgang þessarar löggjafar umfram aðra íslenzka löggjöf. Sá forgangur var að kröfu ESB til að tryggja samleitt réttarfar EFTA- og ESB-ríkjanna. 

Það yrði hins vegar mikið verk að fjarlægja öll ummerki ESB-löggjafar í íslenzkri löggjöf, og það er þarflaust.  Þótt landið hefði staðið utan EES allan tímann, hefðu  margar svipaðar lagabreytingar sennilega farið fram hér af fúsum og frjálsum vilja í samræmingarskyni eða vegna þjóðréttarlegra skuldbindinga landsins. Þær eru hvorki ógn við fullveldið né í bága við Stjórnarskrá, eins og framkvæmd EES-samningsins þó óneitanlega er. 

Óháð tengslum við ESB mun áfram verða þörf á samræmingu, samhæfingu og samvinnu.  Slíkt viðgengst einnig gagnvart öðrum mörkuðum án þess þó, að við afhendum yfirstjórn okkar mála (framkvæmdavald, dómsvald og löggjafarvald að töluverðu leyti) til Kína, Japans, Indlands, Rússlands eða Bandaríkjanna samkvæmt EES-fyrirkomulagi, svo að nokkrir stórir markaðir séu nefndir. 

Tilgangurinn með úrsögn úr EES er þannig að endurheimta svigrúm landsmanna til þess í auknum mæli að reka sjálfstæða stefnu með hagsmuni íslenzku þjóðarinnar að leiðarljósi.  Svigrúmið markast af þeim tengslum, sem við taka eftir úrsögnina, en boðskapurinn er a.m.k. viðeigandi á aldarafmælisári fullveldisins.  

Fyrir öll möguleg samskiptaform, sem fyrirsjáanlega geta tekið við gagnvart ESB, má þó ganga út frá því sem vísu, að grundvöllurinn verði sá, sem þegar hefur verið lagður af Alþjóða viðskiptastofnuninni (WTO), og að til viðbótar komi mismunandi skuldbindingar og réttindi, sem samið verður um tvíhliða eða á milli EFTA og ESB, því að aðild að EFTA verður áfram tryggð með sama hætti og aðild Svisslands.  

Þróun ESB í áttina að sterkari yfirþjóðlegri stjórnun og minnkandi fullveldi aðildarþjóðanna er ögrandi gagnvart samstarfi við ESB á vettvangi EES, af því að Íslendingar eru nú fráhverfari hugmyndinni um ESB-aðild landsins en nokkru sinni fyrr.  Efasemdir um réttmæti og nytsemi EES-aðildar hafa undanfarin misseri komið skýrar fram opinberlega en áður,  sbr umræðuna um jarðakaup útlendinga, enda hefur ágreiningsmálum Íslands og ESB farið fjölgandi, frá ágreiningi um réttmæti Neyðarlaganna til skiptingar deilistofna í hafinu og innleiðingar viðamikilla lagabálka, sem fela í sér framsal valds til stofnana ESB. 

Í þessari stöðu, þar sem ESB krefst íslenzkrar aðlögunar á nýjum sviðum, sem upphaflega var ekki gert ráð fyrir, að undir EES-samninginn væru seld, er sjálfsagt og klókt af Íslendingum að vega og meta bæði viðskiptasamband og samvinnu almennt við hið evrópska ríkjasamband í ljósi hinna mikilvægustu þjóðarhagsmuna.  Það fer vel á því á aldarafmælisári endurheimtu fullveldis landsins frá danska ríkinu.  

 

 


Bloggfærslur 23. júlí 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband