Ólíkar kenningar um þróun loftslagsins

Örvænting út af "hamfarahlýnun" hefur ekki farið framhjá neinum, sem nasasjón hefur haft af fréttum undanfarin misseri.  Kenningin er reist á losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið af mannavöldum frá iðnvæðingu á Vesturlöndum, sem hófst um 1750, og hækkun meðalhitastigs andrúmslofts um u.þ.b. 1,0°C síðan þá. Ekki er laust við, að loddarar hafi reynt að nýta sér örvæntingu fólks í þágu vafasams málstaðar, sem í stuttu máli jafngildir afturhvarfi til fortíðar.  Saga loftslagsbreytinga er hins vegar þekkt mestalla jarðsöguna, og þar eru miklu sterkari kraftar að verki en stafa af koltvíildisstyrkaukningu í andrúmslofti og munu virka til kælingar frá nútíma.

Kynt er undir ótta fólks til að fá almenning til að breyta lífsstíl sínum og afstöðu til neyzlusamfélagsins og hagvaxtar.  Sjálfsagt er að reka áróður fyrir bættri nýtingu og nýtni á öllum sviðum og sjálfbærum lifnaðarháttum, en vert er að hafa í huga, að tækniþróuninni og hagvextinum er að þakka sú velferðarbylting, sem átt hefur sér stað í vestrænum þjóðfélögum frá iðnbyltingu, og engin orkuskipti munu eiga sér stað án mikilla fjárfestinga í innviðum, nýrri tækni og nýjum raforkuverum, sem nýta sjálfbærar orkulindir.  Nútímaþjóðfélög eru öll knúin jarðefnaeldsneyti að miklu leyti og að vinda ofan af því krefst byltingarkenndra breytinga á orkusviðinu.

Önnur greinin, sem hér verður vitnað til, birtist í Morgunblaðinu 20. september 2019 undir fyrirsögninni:

 "Baráttan gegn hamfarahlýnun er kapphlaup og langhlaup".

Greinin er eftir Tryggva Felixson, formann Landverndar, og Þórhildi Fjólu Kristjánsdóttur, varaformann Landverndar.  Hún hófst svona:

"Fyrir um 30 árum vöknuðu þjóðir heims upp við vondan draum; hættulegar loftslagsbreytingar voru um það bil að eyðileggja lífsskilyrðin á heimili okkar, jörðinni.  Í skyndi voru gerðir alþjóðlegir samningar um, hvað bæri að gera.  En svo gerðist lítið meira og alls ekki nóg.  Líka á Íslandi, þar sem losun gróðurhúsalofttegunda hefur vaxið um liðlega 30 % frá árinu 1990."

Það er helzt, að Bandaríkin geti vísað til árangurs að þessu leyti, því að "leirbrotsaðferð" (e. fracking) þeirra hefur leitt til aukinnar jarðgasvinnslu í Norður-Ameríku, og hafa gaskynt orkuver komið í stað kolakyntra orkuvera í meiri mæli en annars staðar.  Það hefur þó líka gerzt á Bretlandi, og ætla Bretar að loka síðasta kolaorkuveri sínu árið 2025, en Þjóðverjar í fyrsta lagi 10 árum síðar.  Lokun kjarnorkuvera í Þýzkalandi hefur leitt til fjölgunar kolakyntra raforkuvera þar, og síðasta þýzka kjarnorkuverinu á að loka 2022.  Þess vegna gengur hvorki né rekur á meginlandinu við að hemja losun gróðurhúsalofttegunda.

Landsframleiðsla Íslendinga hefur aukizt hlutfallslega margfalt meira en losun gróðurhúsalofttegunda síðan viðmiðunarárið 1990.  Það sýnir, að hagkerfið er að laga sig að sjónarmiðum um kolefnisfría starfsemi.  Hér verður þó að hafa í huga, að inni í téðri 30 % aukningu losunar er ekki losun íslenzkra millilandaflugvéla.  Hún færist í bókhald Evrópusambandsins, ESB, en hefur aftur á móti skapað hér gríðarlegan hagvöxt, þótt mikill samdráttur hafi orðið í ferðageiranum á þessu ári af ólíkum ástæðum, hvað sem verður.

Í næstu tilvitnun slær algerlega út  í fyrir skötuhjúum Landverndar, höfundum greinarinnar:

"Aðgerðaleysi heimsins, ófullnægjandi aðgerðir og sýndarmennska er glæpur gegn mannkyninu; komandi kynslóðum, börnum og barnabörnum.  Það er því ekki valkostur.  Afstaða forystu hins öfluga ríkis, Bandaríkjanna, til aðgerða gegn hamfarahlýnun er óviðunandi, stórhættuleg og má líkja við alvarlega stríðsglæpi.  Ráðamenn þjóðarinnar þurfa að segja það hátt og skýrt, þegar tækifæri gefst."

Hér eru höfð uppi stóryrði, sem benda til, að til séu að verða trúarbrögð, svo að rökræður séu harla marklitlar um loftslagsmál.  Ennfremur er búið að búa til þann "illa sjálfan", eins og trúarbragða er háttur, en það eru stjórnvöld í Bandaríkjunum.  Skiptir þá engu máli, þótt Bandaríkjamenn hafi náð meiri árangri en Evrópumenn við að draga úr losun mengandi efna, hvers konar.  Ofstæki af þessu tagi, sem formaður og varaformaður Landverndar gera sig sek um, verður ekki málstað Íslands sem boðbera sjálfbærrar nýtingar náttúruauðlinda til framdráttar.  Landvernd hefur hér opinberað sig sem sértrúarhóp.   

Að lokum skal tína til annað, að sumu leyti skárra:

"Kolefnishlutleysi er raunhæft markmið, þar sem þjóðin býr yfir tækni, þekkingu og auðlegð, til að ná því marki.  Raunverulegur vilji og víðtæk samstaða er það, sem skortir."

Þetta eru innantómir frasar.  Að ræða um markmið án tímasetningar er markleysa.  Það er ekki hægt að ætlast til þess, að "vilji og víðtæk samstaða" verði fyrir hendi, nema raunhæf aðgerðaráætlun verði samin. Það er t.d. ljóst, að til þess að leysa fljótandi og gaskennt jarðefnaeldsneyti af hólmi á Íslandi, þarf heilmikið af nýjum virkjunum, og auðvitað þarf bæði loftlínur og jarðstrengi til að flytja orkuna til notenda.  Á móti öllu þessu hefur Landvernd barizt hatrammlega.  Þess vegna eru fleðulæti Landverndar gagnvart loftslagsvánni ótrúverðug.  

Þann 28. september 2019 birtist í Morgunblaðinu greinin "Hamfarakólnun" eftir Richard Þorlák Úlfarsson, verkfræðing.  Þar var ekki um sefasýkislega spádóma að ræða um "stjórnlausa hlýnun" jarðar á grundvelli hækkunar koltvíildisstyrks í andrúmslofti úr 0,03% í 0,04 % nú og hugsanlega 0,05 % síðar á öldinni.  Enginn neitar þó tilvist áhrifa CO2 sem gróðurhúsalofttegundar, en áhrifin eru reyndar aðallega þau að auka styrk vatnsgufu í andrúmsloftinu, sem er sterk gróðurhúsalofttegund.  

Richard Þorlákur bendir á, að hitafar jarðar mestalla jarðsöguna er þekkt.  Þar hafa skipzt á löng kuldaskeið og stutt hlýindaskeið með hitasveiflu frá lágmarki til hámarks a.m.k. 12°C.  Í því ljósi er 1°C hækkun frá "Litlu ísöld" fyrir iðnvæðingu lítil, og á jörðunni hefur á s.l. 10 þúsund árum verið mun hlýrra.  Nú erum við stödd nálægt lokum hlýindaskeiðs, svo að dálítil gróðurhúsaáhrif geta ekki skipt sköpum fyrir jörðina, þótt hlýnun af þeirra völdum geti haft mikil áhrif á mannkynið, sem hefur fjölgað sér margfaldlega frá iðnvæðingu.  Fyrri hlýindaskeið hafa orðið enn hlýrri en núverandi meðalhitastig andrúmslofts við jörðu.  Gefum Richard Þorláki orðið:

"Mannskepnan stjórnar hvorki veðurfari né Móður Jörð. Jörðin er um 4500 milljón ára gömul, og það eru til gögn um veðurfar á jörðinni allan þennan tíma.  Þess vegna er auðvelt að sjá einkenni veðurfars á jörðinni.  Ískjarnamælingar sýna, að hitastig á jörðinni toppar á um 100 þúsund ára fresti.  ....

Það, sem er einkennandi við þessi kulda- og hlýindaskeið, er, að eftir um það bil 100 þúsund ára kuldaskeið kemur hlýindaskeið í aðeins 10-20 þúsund ár. ... 

Myndin sýnir glögglega, að vandamál framtíðarinnar er ekki of mikill hiti, heldur of mikill kuldi.  Eftir nokkur þúsund ár verður hitastig jarðar um 6 gráðum lægra að meðaltali en það er í dag og jörðin að miklu leyti þakin ís.  Verði ekkert að gert, má gera ráð fyrir því, að stór hluti alls lífs á jörðinni þurrkist út.  Það er því þörf á snilli mannskepnunnar til þess að hindra þessar hörmungar." 

Richard Þorlákur leggur þarna staðreyndir fortíðar á borðið um gríðarlegar, +/- 6°C, lotukenndar hitastigssveiflur á jörðinni, sem útilokað er, að örlítill styrkur koltvíildis hafi marktæk áhrif á, jafnvel þótt um mikla hlutfallslega aukningu á þessari gastegund sé að ræða.  Það er ekkert, sem bendir til annars en þessi lotukennda sveifla haldi áfram, og að jarðarinnar bíði fremur langvarandi fimbulkuldaskeið en langvarandi áframhaldandi hlýindaskeið, og enn er loftslagið raunverulega aðeins á leiðinni upp úr ástandi "Litlu ísaldar".  

Stóra viðfangsefnið verður að fást við fimbulkulda, sem eirir engum nútíma innviðum.  Engu að síður er til skamms og lengri tíma brýnt vegna mikillar mengunar andrúmsloftsins að losna við bruna jarðefnaeldsneytis, og orkuskiptin munu hafa góð áhrif á hagkerfi Íslands, t.d. styrkja viðskiptajöfnuðinn.  Orkuskiptin eru jákvæð, en þau krefjast auðvitað aukinnar nýtingar náttúruauðlinda landsmanna.  Staðan er nánast einstök að því leyti, að með núverandi tækni er hægt að útvega næga orku, raforku og jurtaolíu, t.d. úr repju, auk eldsneytis úr sorpi, skólpi og frá landbúnaði, til að knýja allan íslenzkan búnað á láði, á legi og í lofti.

 

 


Bloggfærslur 15. október 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband