Sálarháski þingmanna

Ef þingmenn stjórnarflokkanna hafa látið tælast af fagurgala ráðherra um, að innleiðing Orkupakka #3 sé í góðu lagi m.v. öll lögfræðiálit um málið, sem fyrir hendi eru, þá ættu þeir að lesa sem fyrst Álitsgerð Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst og Stefáns Más Stefánssonar frá 19. marz 2019.  Þar kveður við allt annan tón.  Þann tón skynjar líklega almenningur sem þann tærasta og bezta, sem fram hefur komið hjá innlendum lögfræðingum opinberlega í þessu orkupakkamáli.  Ef Alþingismenn ætla að breyta allt öðruvísi en ráðlagt er í þessari Álitsgerð, þá munu þeir lenda í alvarlegum hremmingum heima í kjördæmi sínu, ef marka má tæplega ársgamla skoðanakönnun, sem fram fór um Þriðja orkupakkamálið.

Dæmi úr grein 6.2 í Álitsgerðinni:

"Jafnvel þó að lagt væri til grundvallar, að ákvarðanir ESA beindust einungis að innlendum eftirlitsstjórnvöldum (t.d. Orkustofnun), þá verður engu að síður að hafa í huga, að ákvörðunarvald hinnar erlendu stofnunar samkvæmt reglugerð nr 713/2009 tekur a.m.k. óbeint til skipulags og ráðstöfunar á mikilvægri orkuauðlind þjóðarinnar. Slíkt valdframsal getur ekki talizt minni háttar í skilningi viðmiðana, sem líta ber til við mat á stjórnskipulegu lögmæti valdframsals til alþjóðlegra stofnana á sviði EES-samningsins. Þessu má, með einhverri einföldun, líkja við, að ESA væri falið vald til að ákveða leyfilegan hámarksafla ríkja á sviði sjávarútvegs.  Af framangreindum ástæðum, og þar sem umrætt valdframsal til ESA lýtur að nýtingu og ráðstöfun orkuauðlinda, verður valdheimildum ESA samkvæmt reglugerð nr 713/2009 ekki jafnað til áþekkra valdheimilda, sem ESA hefur fengið eftir gildistöku EES-samningsins, s.s. á grundvelli reglna um fjármálamarkaði, flugöryggi og losunarheimildir."

Hér eru komin nauðsynleg og nægjanleg rök fyrir Alþingismenn til að hafna þingsályktunartillögu utanríkisráðherra, því að með henni verður gerð 713/2009 leidd í landsrétt, og síðari löggjöf um, að 713/2009 taki ekki gildi, nema að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, er lögleysa, brot á EES-samninginum, kafla 7, og hefur ekkert réttarlegt gildi gagnvart ESA og EFTA-dómstólinum, þegar þessir aðilar fá deilumál út af þessum gjörningum Alþingis til úrlausnar og dómsuppkvaðningar.  Í þessu verður sálarháski þingmanna fólginn.

Þingmenn hafa verið blekktir hrapallega af ráðherrum og embættismönnum. 

Dæmi 1:

"Einu áhrifin hér á næstu árum, sem við verðum vör við, er tilvist nýrrar, sjálfstæðrar eftirlitsstofnunar, sem skorin er út úr Orkustofnun (en verður í sama húsnæði)". 

Landsreglarinn verður æðsti embættismaður landsins á sviði orkumála. Hann fer í raun með ráðherravald á þessu sviði, en verður óháður ríkisvaldinu og öllum hagsmunaaðilum í landinu.  Landsreglarinn mun lúta boðvaldi ESA, en drög að öllum helztu ákvörðunum og fyrirmælum til hans verða samin hjá ACER-Orkustofnun ESB.  Ísland mun ekki hafa atkvæðisrétt í ACER, heldur áheyrnarrétt og málfrelsi.  Fyrir þjóð, sem vill ekki vera í ESB, er valdframsal af þessu tagi til ESB yfir raforkumálum landsins, gjörsamlega óviðunandi.

Dæmi 2:

"Gildistöku ákvæða, sem varða tengingu við sameiginlegan orkumarkað ESB, er í reynd frestað.  Þau taka ekki gildi fyrr en og ef a) Alþingi ákveður að leggja raforkusæstreng og b) stjórnskipulegri óvissu hefur verið eytt."

Hér er fölsku öryggi hampað.  Það er engin frestun á ferðinni, af því að með þingsályktunartillögunni er allur Orkupakki #3 innleiddur, óafturkræft samkvæmt EES-samninginum, sem þýðir, að innlend takmarkandi löggjöf á þessa innleiðingu hefur ekkert gildi að Evrópurétti og er reyndar brot á EES-samninginum, 7. kafla.  Þetta er lögfræðilega algerlega haldlaus leið, og það kemur fram í téðri álitsgerð lögfræðinganna tveggja, gr. 6.4.  Í þessari álitsgerð kemur jafnframt fram, að engin heimild er í lögum til að innleiða stjórnlagaleg vafaatriði, þótt svo standi á, að ekki reyni strax á þau.

Dæmi 3: 

"Það er algerlega á valdi íslenzka ríkisins að taka ákvörðun um, hvort raforkusæstrengur verður lagður.  Einungis Alþingi getur tekið slíka ákvörðun."

Þarna stendur nú einmitt hnífurinn í kúnni.  Með samþykkt Orkupakka #3 fer fram valdframsal ríkisins til ESA/ACER/ESB til að ákveða, hvort aflsæstrengur verður lagður, og þess vegna er bægslagangurinn með frávikslöggjöf í kjölfar innleiðingarinnar.  Sú löggjöf verður hins vegar brot á EES-samninginum og fellur þar með dauð og ómerk frammi fyrir ESA og EFTA-dómstólinum.  Þingmenn verða að fara að átta sig á, að samkvæmt Evrópurétti víkja landslög og Stjórnarskráin fyrir ESB-samninginum í tilviki ágreinings.  

Dæmi 4: 

"EES-samningurinn hefur engin áhrif á reglur samningsaðila um skipan eignarréttar.  Þetta kemur skýrt fram í 125. grein samningsins.  Af því leiðir, að EES-samningurinn haggar ekki forræði íslenzka ríkisins á náttúruauðlindum í þeim skilningi, að Ísland hefur heimild til þess að ákveða, hvort náttúruauðlindir skuli vera í eigu ríkisins eður ei."

Hér er margs að gæta.  Fyrst er þar til að taka, að EFTA-dómstóllinn hefur dæmt gegn norska ríkinu í s.k. "heimfallsmáli", þar sem sett voru lög um, að vatnsaflsvirkjun einkaaðila félli án kvaða í hendur ríkisins að tilteknum tíma liðnum.  Þetta var úrskurðuð óleyfileg eignaupptaka að hálfu norska ríkisins.  Íslenzka ríkið mætti sennilega setja lög, EES-samningsins vegna,um, að allar orkulindir Íslands skyldu verða í þjóðareign, eins og fiskimiðin, en það er hins vegar ekki ætlun meirihluta þingsins.  Samkvæmt EES-samninginum má ekki mismuna fyrirtækjum innan EES um aðgang til nýtingar íslenzkra orkulinda, og ríkið á ekki að hafa neinn forgang í þeim efnum.  Því fer þess vegna fjarri, að íslenzka ríkið hafi óskipta stjórn á orkulindunum, og "reglugerð 713/2009 tekur a.m.k. óbeint til skipulags og ráðstöfunar á mikilvægri orkuauðlind þjóðarinnar" að mati lögfræðinganna FÁFH og SMS. Orkulindirnar sjálfar eru í húfi.

Dæmi 5: 

"Við drögum umsókn Landsvirkjunar um "Ice-Link" til baka, og hann hverfur af kortum."

Þetta mál er ekki svona einfalt.  Það eru samtök orkuflutningsfyrirtækja í Evrópu, sem gera tillögu um millilandatengingar, ACER raðar þeim í forgangsröð og framkvæmdastjórn ESB staðfestir.  "Ice-Link" er nú á PCI-forgangslista #3, og það er ekki hægt að taka hann þaðan út.  PCI#4 verður afgreiddur 2020, og það er fyrirskrifað í Innviðagerð 347/2013, sem bíður tilbúin til umræðu í Sameiginlegu EES-nefndinni, hvernig meðhöndla á breytingartillögur. Bréf frá ríkisstjórn Íslands er aðeins eitt innlegg í málið, en alls ekki ákvarðandi. (Barnaskapur utanríkisráðherra og iðnaðarráðherra ríður ekki við einteyming.)

Ríkisstjórnir EFTA-landanna vega ekki sérlega þungt í þessu ferli.  Halda menn, að framkvæmdastjórn ESB, sem þessu ræður, muni líta vinsamlega á slíka beiðni frá Íslandi, sem á sama tíma lýsir yfir vilja til að sameinast innri raforkumarkaði ESB (með samþykki pakkans), en vill samt eyða áætlunum um slíkt (í Kerfisþróunaráætlun ESB).  Það rekur sig hvað á annars horn hjá stjórnarþingmönnum og ríkisstjórn í þessu máli.  Slíkur málatilbúnaður er afar ótraustvekjandi bæði inn á við og út á við.  

Hafna ber Orkupakka #3.  Þá verður hægt að ræða undanþágur við hann, sem duga, á réttum vettvangi.  

 

 

 

 

 

 

 


Bloggfærslur 8. apríl 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband