Vindmylluriddarar og aðrir einstefnumenn

Það er undarleg tilhneiging hérlendis til útskúfunar heilla atvinnugreina og að fella um þær palladóma, sem reistir eru einvörðungu á fordómum og þekkingarleysi. Iðulega styðjast þessi viðhorf við innflutt sjónarmið úr gjörólíku umhverfi, sem engan veginn eiga við hér.  Þar með bíta þessir talsmenn höfuðið af skömminni, svo að á þeim er lítt mark takandi. 

Hér verður tvennt gert að umræðuefni: áhugi á uppsetningu vindorkuvirkjana hérlendis og hernaðurinn gegn nýjum hefðbundnum íslenzkum virkjunum á sviði jarðgufu og vatnsafls.

Vindmyllur eru neyðarbrauð, sem gripið var til í örvæntingu erlendis til að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa í löndum, þar sem hlutdeild þeirra í raforkuvinnslu var yfirleitt undir 10 %.  Hérlendis er þessi hlutdeild næstum 100 %, þökk sé vatnsorkuvirkjunum og jarðgufuvirkjunum.  Frumskilyrði fyrir vindorkuver vantar þess vegna hérlendis.

  Vindmyllurnar eru litlar að uppsettu afli, oft 3-5 MW, og nýting þeirra er slæm á landi (betri úti fyrir ströndu).  Raforkuvinnsla þeirra er slitrótt, og jafngildir orkuvinnsla þeirra yfir árið því, að þær séu á fullu afli minna en 30 % af árinu á heimsvísu, en hérlendis líklega um 40 % að teknu tilliti til viðhalds.  Að sama skapi hefur orkan frá þeim verið dýr, um 70 USD/MWh, en með bættri framleiðslutækni og lækkun verðs þeirra frá verksmiðju á hvert MW hefur e.t.v. náðst að lækka þennan vinnslukostnað niður í 50-60 USD/MWh.  Þetta er þó einfaldlega ekki samkeppnishæft verð á Íslandi án niðurgreiðslna, á meðan nægt framboð er af raforku frá hefðbundnum íslenzkum virkjunum. 

Hvað sem líður áformum um nýjar slíkar virkjanir, sem eru fremur fátækleg, nema helzt smávirkjanir vatnsafls og endurnýjun gamalla virkjana með aukin afköst og meiri orkuvinnslu í huga, þá er nóg af ónýttum virkjanakostum í gildandi Rammaáætlun, svo að ekki sé minnzt á biðflokkinn.  Skynsamlegasta notkun vindmyllna hérlendis er að láta þær jafnan vera á mestu mögulegu afköstum og spara á móti vatn í miðlunarlónum, en engin þörf er á þessu á sumrin í góðum vatnsárum.  Við venjulegar aðstæður er takmarkaður og óviss markaður fyrir vindmyllur á Íslandi. Er einhver spurn eftir þessari orku, eða fyrir hvað eru vindmylluriddarar nútímans að sverma hérlendis ?

 

Framleiðsluferli vindmyllna skilur eftir sig umtalsvert kolefnisfótspor, og í þeim eru verðmætir og sjaldgæfir málmar.  Spaðarnir eru yfirleitt úr glertrefjum, og þeir slitna vegna loftmótstöðu og sandfoks og þarfnast skiptingar.  Þeir gömlu eru yfirleitt urðaðir. Enn vex kolefnissporið, þegar jarðvinna og gríðarleg steypuvinna hefst á virkjanasvæði vindsins.  Það er gríðarleg graftrarvinna fyrir stórar steyptar undirstöður, vegalagning og strengjaskurðir fyrir vindmyllurnar.  Umhverfisraskið er gríðarlegt á stóru svæði vindorkuversins og miklir þungaflutningar þangað.  Allt er það fyrir heldur rýra eftirtekju.  

Spaðaendarnir geta hæglega verið á hraðanum 70 km/klst.  Fuglar sjá margir illa upp fyrir sig, og hafa t.d. hafernir í Noregi slasazt tugum saman árlega til ólífis af höggi ofanfrá.

Mikil útlitsbreyting til hins verra verður á víðernum, þar sem vindorkuverum hefur verið skellt niður, og vegna hæðar sinnar, allt að 200 m frá efra borði undirstöðu að spaðatoppi, sjást þau marga tugi km að.  Þegar kostir og gallar vindmylluorkuvera á Íslandi eru vegnir og metnir, virðast gallarnir vera yfirgnæfandi og yfirþyrmandi. 

Forystugrein Morgunblaðsins 26. maí 2020 fjallaði um þetta og hét:

 "Stundum verður að berjast við vindmyllur".

Þarna er skírskotað til þekkts miðaldaverks á Spáni, enda verður að telja það fremur forneskjulegt að mæla fyrir vindmyllum til raforkuvinnslu á Íslandi.  Þar er svo sannarlega farið yfir lækinn til að sækja vatnið:

"Baráttan gegn því, að efnt yrði til vatnsfallsvirkjana, sem hagstæð skilyrði stóðu til, varð stundum mjög hatrömm [deilurnar um Búrfellsvirkjun eru pistilhöfundi í fersku minni-innsk. BJo].  Iðulega tók hún sama blæ og brag og baráttan gegn hersetu, þótt að henni kæmu stórir hópar fólks, sem innvígðist aldrei í þau mál.  En nú var rætt um "hernaðinn gegn landinu" og fast kveðið að og fullyrt, að þeir, sem slíkt styddu, væru eins og landsölumennirnir, óvinir þjóðarinnar og svikarar við málstað hennar.

En meginþáttur í huga margra, sem börðust gegn því, að landinu væri spillt, svo [að] fegurð þess og yndi fengi áfram að njóta sín, snerist að sjónmenguninni, sem væri skemmdarverk af risavöxnu tagi." 

 Þetta er hárrétt athugað hjá leiðarahöfundinum, en hávær og innistæðulítill andróður gegn virkjun íslenzkra jökulvatna á borð við Þjórsá og Tungnaá reyndist stormur í vatnsglasi.  Það var gert allt of mikið úr skemmdarverkum á náttúrunni og ekkert hugað að þjóðhagslegu mikilvægi raforkuvinnslunnar, sem varð afrakstur framkvæmdanna. 

Ekkert af þessu á við um vindmyllurnar.  Þær setja mjög neikvæðan svip á landslag á stórum landsvæðum, þar sem þær hafa verið settar upp (erlendis), enda er engin spurn á íslenzkum raforkumarkaði eftir þessari frumstæðu og óhentuga aðferð við raforkuvinnslu hérlendis. 

"Á laugardaginn var [23.05.2020] birtist stutt grein frá lesanda blaðsins og vakti athygli.  Kannski var hún merkilegust fyrir það, að þar var opnað á umræðu, sem illskiljanlegt er, að hafi ekki fyrr verið tekin af alvöru hér á landi. Greinarhöfundur, Halldór S. Magnússon, fjallar um vindmyllur og bendir í upphafi sinnar greinar á það alkunna, að "virkjun náttúruauðlinda  hefur lengi verið eitt vinsælasta deiluefni Íslendinga.  Annars vegar eru þeir, sem telja nauðsynlegt að virkja sem allra mest  til þess að efla þjóðarhag, og hins vegar þeir, sem telja brýnt að virkja alls ekki meir til þess að vernda náttúru landsins."

Ef einhverjum hefur dottið í hug, að vindmyllur gætu brúað bilið á milli þessara hópa, þá lýsir það viðhorf fullkomnu skilningsleysi á skaðsemi vindmyllna í íslenzkri nátturu.  Umhverfislega er verið að fara úr öskunni í eldinn.  Flestir hérlandsmenn eru hófsamir m.t.t. nýrra virkjana, vilja leyfa nýjar virkjanir, ef þörf er á orkunni og nýta á beztu tækni til að draga úr umhverfisáhrifunum eftir föngum, t.d. með lunganum af mannvirkjunum neðan jarðar (sprengd inn í fjöll). Þessu er ekki fyrir að fara með vindmyllur. Þar er ekki val, nema á milli stærðar hverrar vindmyllu og fjölda þeirra.  Hver sækist eftir slitróttri orku frá þeim, og eðli máls samkvæmt setja þær hræðilegan svip á ósnortin víðerni.  Þetta hefur nú runnið upp fyrir mörgum þjóðum í Evrópu, t.d. Norðmönnum.

"Greinarhöfundi þótti lítið hafa heyrzt frá talsmönnum náttúruverndar um vindmylluáform.  Enda er það umhugsunarefni, að almenningur hafi ekki látið þetta mál til sín taka áður en það er um seinan.  Kannski er það vegna þess ofsa, sem einkennir umræðu um loftslagsmál, þar sem sérhver spurning er kaffærð, falli hún ekki að "réttum sjónarmiðum".  Kannski óttast fólk, að taki það á móti þeim, sem vilja slá upp risavöxnum vindmyllum í náttúru landsins með óþolandi hvini og ónotum, verði það sakað um að stuðla að þeim aldauða, sem verði, fái loftslagsmenn ekki sitt fram."

Það er rétt hjá Morgunblaðinu, að erlendis eru náin tengsl á milli hvatamanna vindmylluorkuvera og loftslagsspámanna.  Í löndum annarra endurnýjanlegra orkulinda, þar sem að auki enn er nóg af þeim, falla loftslagsrök fyrir vindmyllum algerlega um sjálf sig. Vindmyllur hafa stórt kolefnisfótspor, og eiga engan rétt á sér, þar sem nóg er af öðrum endurnýjanlegum orkulindum.  Þetta er hin mikla meinloka vindmylluriddara nútímans á Íslandi.

"Halldór S. Magnússon bendir réttilega á, að þögn talsmanna náttúruverndar veki einkum furðu, "þar sem þeir hafi talið það fyrst og fremst vatnsaflsvirkjunum og jarðhitavirkjunum til foráttu, að þær séu óþolandi aðskotahlutir í íslenzkri náttúru, sem skemmi fyrir upplifun manna af landinu og stórkostlegri fegurð þess." 

Þessi einkunnargjöf afturhaldsmanna um útlit og ljótleika vatnsaflsvirkjana og jafnvel jarðgufuvirkjana eru tilbúin falsrök þeirra fyrir vondum málstað.  Vatnsaflsvirkjanir falla í langflestum tilvikum, ef ekki öllum, mjög vel að landslaginu, og miðlunarlónin eru yfirleitt til fegurðarauka í landslaginu, ekki sízt á gróðurlitlu og þyrrkingslegu hálendinu.  Svipaða sögu má segja af jarðgufuvirkjunum, þótt gufumekkir og röralagnir falli vafalaust ekki öllum í geð.  Þegar gríðarlegt notagildi og umhverfisvæn orkuvinnsla er höfð í huga, eru flestir tilbúnir til að horfa í gegnum fingur sér með þessi mannvirki.  Fórnarkostnaðurinn er aðeins lítið brot af hinum þjóðhagslega ávinningi.  Engu slíku er hins vegar til að dreifa um slitrótta orkuvinnslu hundruða vindmyllna, sem stinga í stúf við heilbrigða skynsemi á Íslandi.  

"Og í tímamótagrein sinni spyr Halldór í framhaldinu: "En hvað með vindmyllur, geta þær fallið inn í landslagið ?"  Og hann bætir við: "Í flestum tilvikum munu myllur vindorkuvera verða áberandi á fjöllum og hásléttum landsins og sjást víða að.  Getur það samrýmzt skoðunum umhverfis- og náttúruverndarsinna, að reistar verði vindmyllur uppi á heiðum og fjöllum landsins í ósnortinni náttúru ?"

Þetta eru gildar spurningar og tímabærar og sætir reyndar nokkrum ugg, að dauðaþögn hafi ríkt um þessi mál þar til nú."

Spurningum téðs Halldórs er fljótsvarað.  Það samrýmist alls ekki sönnum náttúruverndarsjónarmiðum að styðja reisningu fjölda vindmyllna, ekki einu sinni með þögninni.  Þetta er ástæðan fyrir því, að andstaðan gegn vindmyllum fer nú sívaxandi í Noregi.  Norðmenn hafa nú áttað sig á því, að útdjöflun ósnortinna víðerna þeirra er allt of dýru verði keypt. Norðmenn framleiða um tífalt meira af raforku með vatnsafli en Íslendingar, svo að þeir eru mjög vanir vatnsaflsvirkjunum (mörg stöðvarhús eru reyndar sprengd í fjöll af öryggisástæðum), miðlunarlónum og háspennulínum í ósnortnum víðernum. Miðlunarlónin eru meira en tíföld hámarksflatarmál íslenzkra miðlunarlóna, því að þau voru sniðin við þarfir norskrar stóriðju og húshitunar fyrir daga sæstrengstenginganna við Noreg. Nú hefur hins vegar verið gengið algerlega fram af norskum náttúruunnendum, enda er engin þörf fyrir vindmyllur inn á norska raforkukerfið.  Raforka vindmyllanna fer nánast öll til útlanda um aflsæstrengi, og fjárfestarnir, margir frá meginlandi Evrópu, mökuðu krókinn, á meðan verðið var þar nægilega hátt, en við núverandi markaðsaðstæður lepja þeir dauðann úr skel.

Svo virðist sem núverandi umhverfisráðherra á Íslandi sé hallari undir vindmyllur en vatnsorkuver, og er það til vitnis um furðulegan öfugsnúning þessa ráðherra án þingsætis. Hér kemur inngangur að baksviðsgrein Helga Bjarnasonar í Morgunblaðinu, 29. maí 2020, sem hann nefndi:

"Setja viðmið við uppbyggingu vindorku":

Umhverfisráðherra er að undirbúa frumvarp til laga um umgjörð nýtingar vindorku í landinu.  Ráðuneyti hans og ráðuneyti iðnaðarmála hafa verið að vinna að því að móta viðmið um það, hvar leyfa megi vindorkugarða og hvar ekki.  Skipulagsstofnun vinnur í þessu sambandi að gerð viðauka við landskipulagsstefnu, þar sem sett verða viðmið fyrir skipulagsgerð sveitarfélaga um vindorku.  

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, segir, að litið hafi verið til viðmiða erlendis og nefnir, að sums staðar hafi friðlýst svæði og svæði, sem farleiðir fugla liggja um, verið tekin út fyrir sviga."

Þetta er mjög ógæfulegt, því að við höfum fátt eitt til annarra þjóða að sækja í þessum efnum annað en sorgleg mistök, eins og dæmið af Noregi hér að ofan sýnir.  Reglan um þetta getur verið mjög einföld.  Alls ekki á að leyfa vindmyllur í ósnortnum víðernum.  Ef áhugi er á að reisa vindmylluorkuver annars staðar, skal leita umsagnar Landsnets um þörf á aukinni innmötun þar.  Það er eins og fyrri daginn.  Flækjufótum Stjórnarráðsins leyfist að gera einföld mál flókin.  Er ekki meirihluti á þingi fyrir einföldu reglunni ?

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur horn í síðu nýrra vatnsorkuvera.  Alþingismaðurinn, Jón Gunnarsson, reit gagnmerka grein um þetta í Morgunblaðið 26. maí 2020, sem hófst þannig, en henni verða gerð betri skil síðar:

"Að friðlýsa landið og miðin":

"Umhverfisráðherra kom fram í fjölmiðlum sunnudaginn 17. maí [2020] og reyndi að réttlæta ákvörðun sína um friðlýsingu vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum.  Sú skýring hans, að þetta sé gert til að framfylgja vilja Alþingis, stenzt enga skoðun.  Ég tel, að ráðherra skorti lagaheimild fyrir þessari ákvörðun.  Ráðherranum hefur nú verið stefnt fyrir dóm af landeiganda vegna þessa."

Ráðherra þessi hagar sér að ýmsu leyti eins og kvíga, sem sleppt er út að vori.  Hann gerir, það sem honum sýnist, og fullyrðir síðan, að hann hafi fullan rétt til þess.  Það kom vel á vondan, fyrrverandi framkvæmdastjóra Landverndar, að verða sjálfur kærður fyrir embættisafglöp, sá kæruglaði maður.  Fróðlegt verður að sjá, hvernig deilumálinu reiðir af í dómssölum.  Ráðherra þessi varð alræmdur fyrir kærugleði sína í sínu fyrra starfi og hefur á samvizku sinni gríðarlega kostnaðarsamar tafir framkvæmda um allt land.  Auðvitað sá hinn stórskrýtni þingflokkur vinstri grænna ástæðu til að verðlauna þennan mann fyrir afrekin, sem kostað hafa skattborgarana stórfé.  

 Sigalda

 

 

 

 


Bloggfærslur 20. júní 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband