Í tilefni landvinningastríðs í Evrópu í meira en eitt ár nú

Þann 24. febrúar 2022 réðist rússneski herinn inn í Ukraínu úr 3 höfuðáttum, úr norðri, austri og suðri, svo að augljóslega var ætlun Kremlar að ná Kænugarði á sitt vald og að leggja alla Úkraínu undir sig.  Úr norðri og norð-austri var stefnt á Kænugarð, enda er hér um nýlendustríð að ræða.  Því voru Úkraínumenn óviðbúnir, en samt tókst úkraínska hernum að stöðva Rússana í útjaðri Kænugarðs, og minnast menn um 80 km langrar raðar vígtóla, aðallega bryndreka, sem stöðvaðist á leið til Kænugarðs fyrir tilverknað skriðdrekabana Úkraínumanna og skorts Rússahers á vistum, þ.m.t. á eldsneyti. Grátbrosleg sýningarþörf á ógnarmætti, sem fór fyrir lítið.  Hið gegnmorkna Rússaveldi kemst ekki upp úr spillingarfeninu, og setur þess vegna upp Pótemkíntjöld, rétt einu sinni.

Innrás Rússa var tilefnislaus og óréttlætanleg með öllu.  Kremlverjar hafa með þessum gjörningi orðið sér ævarandi til háðungar.  Rússar hafa upp skorið hatur og fyrirlitningu allrar úkraínsku þjóðarinnar, einnig í austurhéruðunum, og á meðal allra slavnesku þjóðanna í Evrópu.  Þeir hafa sýnt af sér grafalvarlega siðferðisbresti með því að taka upp á því að ganga í skrokk á varnarlausum borgurum Úkraínu, þegar sókn þeirra inn í landið mætti harðri mótspyrnu og her þeirra var stöðvaður og hrakinn til baka úr hverju héraðinu á fætur öðru.  Framganga hersins og léleg frammistaða á vígvöllunum, þótt ekki vanti vígtólin og fjöldann í eikennisbúningum, sætir furðu og sýnir, að Kremlverjar hafa gortað af herstyrk, sem er ekki fyrir hendi.  Sennilega var svipað uppi á teninginum á dögum Ráðstjórnarinnar.  Það, sem varð henni til bjargar 1941-1943 var harður vetur og gríðarlegur hergagnaflutningur frá Bandaríkjunum.  

Trúðurinn Medvedev, varaformaður öryggisráðs Rússlands og fyrrverandi forseti og forsætisráðherra, er enn með furðulegar ógnanir gagnvart fyrrum leppríkjum Ráðstjórnarríkjanna.  Nýleg furðuyfirlýsing var á þá leið, að til að skapa frið í Úkraínu þyrfti að ýta pólsku landamærunum til vesturs.  Hann horfði fram hjá þeirri staðreynd, að pólski herinn er nú sá öflugasti í Evrópu, og rússneski herinn mundi ekki hafa roð við honum, ef þeim lysti saman.  Pólland þyrfti enga aðstoð NATO til að ganga frá fúnum og gjörspilltum rússneskum her, sem Úkraínumenn eru nú þegar búnir að draga vígtennurnar úr um tíma.

 

 Þann 24. febrúar 2023 birtist frábær grein í Morgunblaðinu eftir Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands.  Var hún eins og hvítt og svart í samanburði við viðbjóðslegan lygaþvætting, sem birtist í Morgunblaðinu 2 dögum fyrr og sendiherra Rússlands á Íslandi var skrifaður fyrir, en það gæti verið lygi líka, því að um var að ræða ömurlega sjúklega og veruleikafirrta þvælu, sem streymir frá Kreml.  Það er öllu snúið á haus.  Þessi samsuða varð Birni Bjarnasyni, fyrrverandi Alþingismanni og ráðherra, tilefni til þess í vefpistli sínum að krefjast brottrekstrar þessa handbendis hryðjuverkamanna Kremlar af landinu, sem verða sóttir til saka fyrir stríðsglæpi í anda Nürnbergréttarhaldanna, ef/þegar réttlætið nær fram að ganga austur þar.   

Merk grein forsætisráðherra Póllands hófst þannig:

"Fyrir sléttu ári, 24. febrúar 2022, hófu rússnesk stjórnvöld stríðsrekstur sinn gegn Úkraínu og splundruðu þar með þeirri skipan, sem komst á eftir kalda stríðið.  Örygginu og hagsældinni, sem heilu kynslóðirnar í löndum Evrópu höfðu fengið áorkað, var stefnt í mikla hættu.  Rússar hafa hafið landvinningastríð sitt með aðeins eitt markmið í huga: að endurheimta áhrifasvæði Sovétríkjanna fyrrverandi, hvað sem það kostar án nokkurs tillits til fórnarlambanna.  Við verðum að gera allt, sem í okkar valdi stendur til að binda enda á þessa verstu heimspólitísku martröð 21. aldarinnar."  

Stríð eru upplýsandi um styrkleika og veikleika stríðsaðila.  Fyrsta ár þessa stríðs Rússa og Úkraínumanna hefur sýnt, að Rússland er hernaðarlegur og siðferðilegur dvergur og að Úkraína er hernaðarlegur og siðferðislegur risi.  Rússland hefur enga burði til að brjóta undir sig aðra Slava eða nágranna af öðrum uppruna og alls enga siðferðislega burði til að leiða þá og stjórna þeim.  Úkraínumenn hafa sameinazt um að berjast fyrir varðveizlu fullveldis síns og endurheimt alls lands, sem Rússar hafa með dæmalausri frekju, siðleysi, grimmd og yfirgangi lagt undir sig síðan 2014. Þessi "versta heimspólitíska martröð 21. aldarinnar" endar ekki fyrr en Úkraínumenn hafa endurheimt allt landsvæði sitt, svo að landamærin frá 1991 verði aftur virk, og gengið í NATO og Evrópusambandið.  Þar með hafa þeir fengið verðskuldaða stöðu sem sjálfstæð þjóð í samfélagi vestrænna ríkja og eiga sér vonandi glæsta framtíð sem traust lýðræðis- og menningarþjóð í auðugu landi af náttúrunnar hendi, en öll vopn snerust í höndum hins glæpsamlega árásargjarna einræðisherra í Kreml, sem hóf tortímingarstríð gegn sjálfstæðum nágranna og mun hljóta fyrir það makleg málagjöld með öllu sínu hyski. Það er engin framtíð til fyrir rússneska sambandslýðveldið í sinni núverandi mynd.  Það hefur fyrirgert tilverurétti sínum og rotnað innan frá.  Það stendur nú á brauðfótum.  

"Hvernig er staðan núna ?  Við höfum orðið vitni að fáheyrðri grimmd Rússlands í 12 mánuði. Mánuðirnir mörkuðust af reglulegum sprengjuárásum á skóla, sjúkrahús og byggingar óbreyttra borgara.  Þeir mörkuðust ekki af fjölda daga, heldur af fjölda fórnarlamba.  Rússar hafa ekki hlíft neinum og drepið karlmenn, konur, gamalt fólk og börn.  Hópmorðin í Bucha, Irpin og fleiri bæjum færa okkur heim sanninn um, að Rússar hafa framið hryllilega glæpi.  Fjöldagrafir, pyntingaklefar, nauðganir og mannrán - þetta er hin sanna ásjóna árásarstríðs Rússa."  

Rússneski herinn og stjórnendur Rússlands sýna þarna sitt rétta andlit.  Þeir eru siðblindir glæpamenn - fjöldamorðingjar.  Við þá er ekki hægt að gera neina samninga, því að þeir eru algerir ómerkingar - virða ekki nokkurn skapaðan hlut.  Eina færa leiðin er að búa Úkraínumenn sem beztum og mestum vopnum fyrir landhernað og lofthernað gegn innrásarher Rússlands í Úkraínu, svo að hann verði rekinn af löglega viðurkenndu úkraínsku landi sem fyrst.  Þannig má lágmarka blóðtöku úkraínsku þjóðarinnar og skapa grundvöll langvarandi friðar í Evrópu, ef NATO ábyrgist varðveizlu landamæranna.

Þegar nánar er að gáð, þarf ömurleg frammistaða rússneska hersins á vígvöllunum ekki að koma á óvart.  Hún hefur lengi verið þekkt.  Það voru úkraínskir kósakkar, sem brutu rússneska hernum leið í austurátt og lögðu megnið af Síberíu undir zarinn.  Það voru þeir, sem veittu hinum 600 k manna her Frakkakeisarans Napóleóns Bonaparte verstu skráveifurnar í innrásinni í Rússland 1812, einkum á undanhaldinu, enda sluppu aðeins 100 k úr þessari svaðilför Frakkahers. Rússakeisari varð fyrstur Evrópumanna til að tapa bardaga við Asíumenn 1905, þegar Japanir gjörsigruðu rússneska herinn.  Frammistaða rússneska keisarahersins í Fyrri heimsstyrjöld var mjög slök, og samið var um frið við Þjóðverja 1917.

Enn áttust þessar þjóðir við 1941-1945.  Stalín hafði látið flytja hergagnaverksmiðjur austur fyrir flugsvið Luftwaffe, og þar framleiddu Sovétríkin 100 skriðdreka á mánuði, á meðan RAF, brezki flugherinn, sprengdi upp hergagnaverksmiðjur Þriðja ríkisins.  Rússneskir herforingjar voru þá, eins og jafnan fyrr og síðar, meiri slátrarar en útsjónarsamir herstjórnendur.  Þeir sendu hverja bylgju lítt þjálfaðra ungra manna fram á vígvöllinn, eins og nú endurtekur sig í Úkraínustríðinu 2022- ?  Af heildarmannfalli Wehrmacht 1939-1945 varð 80 % á Austurvígstöðvunum, en fallnir hermenn Rauða hersins voru 4-5 sinnum fleiri.  Ætli hlutfallið í Úkraínu núna sé ekki svipað ?  

Bandaríkjamenn sendu svo mikið af vígtólum, skriðdrekum, brynvögnum, jeppum, flugvélum, sprengjuvörpum o.fl. til Sóvétríkjanna á árum Síðari heimsstyrjaldarinnar, að vafalaust hefur létt Sovétmönnum mjög róðurinn, þótt "Úlfarnir" í "die Kriegsmarine" næðu að granda nokkrum flutningaskipum með hergögn.  Andvirði hergagnanna, sem sent var frá BNA til Sovétríkjanna, er talið hafa numið mrdUSD 130 að núvirði.  Þá, eins og nú, réðu sovézkir herforingjar ekki við að beita samhæfðum hernaðaraðgerðum skriðdreka, brynvarinna vagna, fótgönguliðs og flughers, eins og Wehrmacht beitti þó eftir mætti, en skortur á hergögnum og vistum takmarkaði löngum aðgerðir Wehrmacht, og Foringinn greip oft óhönduglega fram fyrir hendur herforingjanna, svo að vægt sé til orða tekið.   

"Strax árið 2008, þegar Rússar réðust inn í Georgíu, gaf Lech Kaczynski, þáverandi forseti Póllands, út þessa viðvörun: "Við vitum mjög vel, að núna er það Georgía, sem er að veði, næst gæti það verið Úkraína, þá Eystrasaltsríkin og síðan e.t.v. landið mitt, Pólland."  Þessi orð rættust fyrr en Evrópuríkin höfðu búizt við.  Sex árum síðar, árið 2014, var Krímskagi innlimaður í Rússland. Núna verðum við vitni að allsherjar árás rússneska hersins á Úkraínu. Hvernig verður framtíðin, ef við stöðvum ekki rússnesku stríðsvélina ?"

Eftir langvinna og sára reynslu af kúgun hins frumstæða austræna valds bera Pólverjar Rússum svo illa söguna, að þeir telja þeim raunverulega ekki treystandi fyrir horn.  Við, sem vestar erum, áttum erfitt með að skilja málflutning Pólverja, en nú sjáum við og skiljum, hvað þeir meintu.  Pólverjar hafa haft rétt fyrir sér um Rússa.  Kremlverjar reka og hafa alltaf rekið harðsvíraða heimsveldisstefnu (e. imperialism), og hana verður einfaldlega að stöðva.  Það átti að gera árið 2008 eða árið 2014, en nú eru einfaldlega síðustu forvöð. Hinn uppivöðslusami einræðisherra Rússlands hefur lagt allt undir, og hann þarf nú að brjóta á bak aftur.  Afleiðingarnar verða ekki geðslegar fyrir Rússa, en það er þeirra vandamál, ekki Vesturlanda. 

Það hefur myndazt augljós öxull Washington-Varsjá.  Pólverjar hafa nú á stuttum tíma pantað hergögn frá BNA fyrir um mrd USD 10.  Bandaríkjaforseti hefur síðan 24.02.2022 heimsótt Varsjá tvisvar, en Berlín og París aldrei.  Valdamiðja ESB og NATO í Evrópu mun færast til austurs í átt að Varsjá, enda stafar meginógnin að NATO frá hinum stríðsóða nágranna austan Úkraínu.  Ef ekki tekst að varðveita landamæri Úkraínu frá 1991, verður þessi ógn enn meiri.  Að láta land af hendi fyrir "frið", er óraunhæft gagnvart landi, sem stjórnað er af yfirvöldum, sem virða enga samninga og brjóta allar reglur í alþjóðlegum samskiptum. 

"Þegar við erum í hundraða km fjarlægð heyrum við ekki sprengjugnýinn, hávaðann í loftvarnaflautunum eða harmagrát foreldra, sem hafa misst barn sitt í sprengjuárás. Við getum þó ekki notað fjarlægðina frá Kænugarði til að friða samvizkuna.  Ég óttast stundum, að á Vesturlöndum sé margt fólk, sem telji það að snæða hádegisverð á eftirlætis veitingastaðnum eða að horfa á þætti á Netflix skipta meira máli en líf og dauða þúsunda Úkraínumanna.  Við getum öll séð stríðið geisa.  Enginn getur haldið því fram, að hann eða hún hafi ekki vitað um hópmorðin í Bucha.  Við verðum öll vitni að grimmdarverkunum, sem rússneski herinn fremur.  Það er þess vegna, sem við megum ekki láta okkur standa á sama.  Heimsvaldaáform rússneskra ráðamanna ná lengra en til Úkraínu.  Þetta stríð skiptir okkur öll máli."

Sú staða er uppi, að vinveittir nágrannar Úkraínu eru flestir í NATO.  Annars hefðu þeir sennilega sumir hverjir farið með heri sína inn í Úkraínu og barizt þar við hlið Úkraínumanna gegn ofureflinu, því að hér er um að ræða stríð einræðis gegn lýðræði, kúgunar gegn frelsi, ógnarstjórn gegn persónulegu öryggi. Baráttan stendur um framtíð Evrópu. Þar af leiðandi er gjörsamlega siðlaust af þeim Evrópumönnum, sem láta sér í léttu rúmi liggja blóðtöku Úkraínumanna, að láta sem ekkert sé eða leggjast gegn hámarksaðstoð við þá. Þá eru ótalin handbendi Rússanna á Vesturlöndum, sem reyna að rugla almenning í ríminu með því að dreifa falsfréttum, sem falla að áróðri Kremlar.  Lítil eru geð guma. 

"Orkukreppan í heiminum og verðbólgan, sem við þurfum öll að glíma við, eiga rætur að rekja til landvinningastríðs rússneskra stjórnvalda.  Herská stefna Pútíns, hvað varðar gasviðskipti í júlí og ágúst 2021, var undanfari innrásarinnar í Úkraínu.  Á þeim tíma leiddi fjárkúgun Pútíns til hækkandi gasverðs á mörkuðum Evrópu.  Þetta var aðeins byrjunin.

Rússnesk stjórnvöld vonuðu, að hnignun orkugeirans myndi veikja Evrópuríkin og telja þau á að skipta sér ekki af stríðinu Úkraínu.  Þegar í upphafi var það liður í baráttuáætlun rússneskra stjórnvalda gegn Vesturlöndum að magna orkukreppuna.  Hernaður Rússa er ein af meginástæðum hækkandi orkuverðs í heiminum.  Við höfum öll mikinn kostnað af þeim ákvörðunum, sem teknar eru í Kreml. Tímabært er, að við skiljum, að Rússar kynda undir efnahagskreppu í heiminum." 

Pólverjar hafa lengi haldið því fram, að Rússar mundu beita orkuvopninu, og þess vegna beittu þeir sér hart á vettvangi ESB og í tvíhliða samskiptum við þýzku ríkisstjórnina gegn samkrulli Þjóðverja og Gazprom um lagningu Nord Stream 2.  Þar voru Pólverjar samstiga bandarísku ríkisstjórninni, en sú þýzka var blinduð af eigin barnaskap um glæpsamlegar fyrirætlanir Kremlar.  Pólverjar sömdu við Norðmenn um afhendingu jarðgass úr gaslindum Norðmanna beint til Póllands, og var sú lögn tekin í notkun um svipað leyti og Nord Stream 2 var sprengd í sundur árið 2022. 

Segja má, að hernaður glæpaklíkunnar gegn Vesturlöndum sé fjórþættur í meginatriðum: Í fyrsta lagi dreifir áróðursvél Kremlar ranghugmyndum og samsæriskenningum til Vesturlanda, sem ætlað er að grafa undan málstað lýðræðisaflanna og sundra þeim.  Enduróm þessa sjúklega þvættings má sjá og heyra á Íslandi, eins og annars staðar, t.d. á ýmsum vefmiðlum, þar sem þeir ráða ferðinni, sem af einhverjum ástæðum eru haldnir sjúklegu hatri á samfélagsgerð Vesturlanda og ímynda sér eitthvert "djúpríki", sem ráði ferðinni.  Hér eru þó ekki taldir með þeir, sem jafnan hafa verið móttækilegir fyrir hatursfullum áróðri gegn "auðvaldinu", en neita að horfast í augu við sára reynslu af því, sem gerist, þegar "auðvaldið" er afhöfðað með einum eða öðrum hætti.  Nýjasta dæmið er Venezúela, sem var ríkasta land Suður-Ameríku áður en sósíalistar innleiddu stefnu sína þar með þeim afleiðingum, að landið er eitt samfellt fátæktarbæli, sem allir flýja frá, sem vettlingi geta valdið.

Í öðru lagi hafa Kremlverjar reynt að valda tjóni og lömun innviða með netárásum.  Þeim hefur ekki sízt verið beitt gegn fyrrverandi leppríkjum Ráðstjórnarríkjanna, og á þeim bar mikið í aðdraganda innrásarinnar í Úkraínu í febrúar 2022.  Þá má ekki gleyma gruni um tilraunir til að hafa áhrif á kosningar með stafrænum hætti, jafnvel í BNA.

Í þriðja lagi er það orkuvopnið, sem Kremlverjar beittu miskunnarlaust, aðallga gegn Evrópumönnum, og ætlað var að lama andstöðu þeirra við löglausa og tilefnislausa innrás Rússahers í nágrannaríkið Úkraínu, sérstaklega þegar kuldinn færi að bíta í lítt upphituðu húsnæði.  Það gerðist ekki af tveimur ástæðum.  Veturinn var óvenju mildur í Evrópu, og það á líka við um Úkraínu, þar sem glæpsamlegar eldflauga- og drónaárásir Rússa á virkjanir, aðveitu- og dreifistöðvar Úkraínumanna ollu oft langvinnu straumleysi og skorti á heitu vatni til upphitunar.  Auknar loftvarnir í Úkraínu, minnkandi eldflauga- og drónaforði Rússa og aðstoð Vesturlanda með neyðarrafstöðvar og viðgerðar efni til handa Úkraínumönnum hafa dregið mjög úr straumleysistíðni og -lengd.  Hin ástæðan er, að Evrópumönnum hefur orðið vel ágengt við að útvega sér eldsneytisgas annars staðar frá, og Þjóðverjar hafa á mettíma komið sér upp einni móttökustöð fyrir fljótandi gas og fleiri eru í uppsetningu. 

Í fjórða lagi hefur stríðsrekstur Rússa í Úkraínu frá 24.02.2022 gengið á afturfótunum.  Þeir hafa misst ógrynni liðs, álíka marga fallna og særða og hófu innrásina (200 k) og gríðarlegt magn hergagna.  Bardagageta landhers og flughers er miklu minni en almennt var búizt við á Vesturlöndum og annars staðar.  Fjölþættar ástæður liggja til þess, að rússneski herinn hefur þarna orðið sér til háborinnar skammar og er að ýmsu leyti í ruslflokki.  Þetta mun hafa langtíma áhrif á stöðu Rússlands í heiminum, sem er að verða eins og mús undir hinum kínverska fjalaketti.  Aðeins gorgeir, þjóðernismont, áróður og hótanir standa eftir. 

"Veikleikar Evrópu hafa verið styrkur Rússlands í nokkur ár.  Það, að Evrópuríki eru háð kolefnaeldsneyti frá Rússlandi, hafa átt vafasöm viðskipti við rússneska ólígarka og gert óskiljanlegar tilslakanir, m.a. varðandi lagningu gasleiðslunnar Nord Stream 2 - allt er þetta til marks um sjúkleg tengsl [á] milli Vesturlanda og Rússlands. Stjórnvöld margra Evrópuríkja töldu, að þau gætu gert alvanalega samninga við stjórnina í Moskvu.  Þeir reyndust þó vera samningur við djöfulinn, þar sem sál Evrópu var lögð að veði."

Það má vel kalla það sjúkleg tengsl, eins og forsætisráðherra Póllands gerir, þegar annar aðilinn telur sig eiga í ærlegum samskiptum um að skapa gagnkvæma hagsmuni með viðskiptum og bæta þannig friðarlíkur í Evrópu, en hinn situr á svikráðum, er ekkert, nema fláræðið, og spinnur upp lygaþvælu um friðarvilja sinn, en ræðst svo á nágranna sína, Georgíu 2008 og Úkraínu (Donbass og Krím 2014) og flytur þá þann óhugnanlega boðskap, sem alltaf lá undir niðri, að hin sjálfstæða og fullvalda þjóð, Úkraínumenn, séu ekki þjóð, heldur af rússneskum meiði og eigi þess vegna að verða hluti af Sambandsríkinu Rússlandi.  Þessi boðskapur er algjör lögleysa og stendst ekki sögulega skoðun, þótt Kremlverjar hafi um aldaraðir kúgað Úkraínumenn og reynt að svelta í hel úkraínska menningu og mál. Á tímum ráðstjórnar bolsévíka reyndu þeir jafnvel að svelta úkraínsku þjóðina í hel.  Sennilega eru frumstæðir Rússar haldnir minnimáttarkennd gagnvart Úkraínumönnum, og það er vel skiljanlegt, því að Úkraínumenn standa þeim framar á fjölmörgum sviðum, eru einfaldlega á hærra menningarstigi, enda einstaklingshyggjumenn frá alda öðli.

"Af þessum sökum er ekki hægt að snúa við og láta, eins og ekkert hafi í skorizt.  Menn geta ekki komið á eðlilegum tengslum við glæpastjórn.  Það er orðið löngu tímabært, að Evrópa verði óháð Rússlandi, einkum í orkumálum. Pólverjar hafa lengi lagt áherzlu á þörfina á að auka fjölbreytni í öflun olíu og jarðgass.  Nýjar leiðir til að afla slíkra afurða skapa ný tækifæri.  Uppræting pútínismans, það að rjúfa öll tengsl við einræðis- og ofbeldisvél Pútíns, er algert skilyrði fyrir fullveldi Evrópu."

Pólski forsætisráðherrann hefur lög að mæla.  Vesturlönd verða að klippa á öll viðskiptasambönd við Rússa og útiloka þá frá þátttöku í fjölþjóðlegum keppnum og viðburðum, á meðan glæpastjórn er blóðug upp að öxlum í Kreml í útrýmingarstríði gegn nágrönnum sínum. Það er alvarlegt íhugunarefni, hvort ástæða er til að samþykkja veru sendiherra slíkrar glæpastjórnar í Reykjavík, sem virðist af málflutningi sínum að dæma (í Morgunblaðsgrein í febrúar 2023) vera álíka forhertur öfugmælasmiður og umbjóðendur hans í Kreml. 

Það er ljóst, að nú fer fram barátta upp á líf og dauða á milli lýðræðis og frelsisafla annars vegar og hins vegar einræðis og kúgunarafla.  Úkraínumenn hafa fyrir löngu tekið af öll tvímæli um, hvorum megin þeir vilja standa.  Þeir hafa verið bólusettir um aldur og ævi gegn öllum vinsamlegum samskiptum við rússneska alræðisríkið.  Það eru nokkur ruddaríki, sem styðja glæpastjórnina í Kreml, og má þar nefna Íran, Norður-Kóreu og Kína.  Kínverjar stunda nú skefjalausa útþenslustefnu á Suður-Kínahafi og vilja útiloka 7 önnur aðliggjandi lönd frá lögsögu þar, sem þau eiga þó fullan rétt á samkvæmt Hafréttarsáttmálanum, og Alþjóðadómstóllinn í Haag hefur staðfest í einu tilviki.  Þessi ríki hafa nú myndað bandalag gegn yfirgangi Kínverja, enda er um mikla hagsmuni að tefla undir botni þessa hafsvæðis.

Japanir hafa í ljósi uppivöðslu einræðisríkjanna Kína og Rússlands tvöfaldað útgjöld sín til hermála 2023 m.v. árið á undan. Þeir munu berjast við hlið Bandaríkjamanna og Tævana, ef einræðisstjórnin í Peking ræðst á land hinna síðast töldu.  Það er ljóst, að viðsjár á milli austurs og vesturs munu fara vaxandi á árinu 2023 áður en friðvænlegra verður aftur eða allt fer í bál og brand.  Það verður að mæta einræðisöflum af fullri hörku.  Annars ganga þau á lagið, eins og dæmin sanna. 

 

 

 


Bloggfærslur 7. mars 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband