Fótalaust risaverkefni stjórnmálamanna

Þegar stjórnmálamenn taka upp á arma sér risavaxin gæluverkefni, þá er hætta á ferðum fyrir samfélagsþróunina og pyngju skattborgaranna.  Þetta var til umfjöllunar í Staksteinum Morgunblaðsins 11.07.2023 í tilefni af því, að hinn vel heppnaði einkaframtaksmaður og frumkvöðull um nýsköpunarstarfsemi á Ísafirði, sem hefur skyndilega breytzt í eitt verðmætasta fyrirtæki landsins, mörgum fjárfestum til furðu, tjáði sig um mesta fíflagang seinni tíma á höfuðborgarsvæðinu, Borgarlínuna.

Fyrirsögn Staksteina var:

"Borgarlínan missir af vagninum".

"Hugvit, dugnaður og útsjónarsemi Kerecis hafa búið til gríðarleg verðmæti úr næstum engu [fiskroði]. Til hægri og vinstri, góða fólkið og hitt, ybbar sem þybbar, allir lofuðu það og frumkvöðulinn, Guðmund Fertram Sigurjónsson."

Ólíkt ýmsum öðrum frumkvöðlum kann þessi til verka bakgrunns síns vegna, og hann er einkaframtaksmaður, sem hefur hugsað vel um starfsfólk og veitt því hvata til að bæta árangur sinn.  Það uppsker nú ríkulega, eins og aðrir hluthafar fyrirtækisins.  Ekki kunnu allir fjárfestar að meta þessa stefnu, t.d. lífeyissjóðirnir.  Sá allra óheppnasti í þeim hópi varðandi vænlega fjárfestingakosti í atvinnulífinu virðist vera Lífsverk, sem seldi hluti sína í Kerecis í apríl 2023 af því, er skilja má, að stefna fyrirtækisins væri of rausnarleg gagnvart starfsmönnum og ekki nógu gegnsæ.  Slík varkárni getur átt við í fjármálageiranum, þar sem óljós tengsl eru á milli hagnaðar fjármálastofnana og frammistöðu starfsmanna.  Í þróunar- og framleiðslufyrirtæki er auðvelt að rekja gengi fyrirtækja til frammistöðu starfsmanna.  Hjá lífeyrissjóðunum eru þannig teknar "skrifborðsákvarðanir" án tengsla við raunveruleikann í sumum tilvikum.

"Í viðtali við Kristján Kristjánsson á Bylgjunni lýsti hann [Guðmundur] ánægju með nýsköpunarumhverfið og aðstæður á Ísafirði, nema lélegar samgöngur.  Tengja þyrfti Vestfirði suður með láglendisvegi, sem væri ódýrt m.v. útflutningstekjur fyrir vestan, hvað þá annað: "Svo er verið að setja mrdISK 250 í Borgarlínu, sem er bara gömul tækni.  Tími almenningssamgangna er búinn." Við þetta fór kurr um góða fólkið á félagsmiðlum, hann væri kannski ekki svo góður eftir allt saman !" 

"Góða fólkið á félagsmiðlunum" og stjórnmálamennirnir þeirra hjá ríki og borg hafa tekið kolrangan pól í hæðina varðandi samgöngumálin á höfuðborgarsvæðinu, af því að þau eru alls ekkert með á nótunum í þeim efnum.  Þau horfa til baka, en ekki fram á við og eru að auki með böggum hildar vegna úreltra fordóma (mengun, sjálfbærni o.s.frv.) í garð einkabílsins.  Þau hafa ekki hugmynd um, hvað gæluverkefnið þeirra, Borgarlínan, mun kosta skattborgarana og sérstaklega bíleigendur, sem verða fyrir auknum töfum í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu vegna botnlausrar sérvizkunnar, sem knýr fíflaganginn áfram. Rakkarnir fóru strax að gelta, þegar Guðmundur Fertram nefndi mrdISK 250, en þeir vita ekkert um góða verkefnastjórnun.  Þar er nefnilega fjármagnskostnaður á verktíma reiknaður inn í vekefniskostnaðinn, og verktíminn er í þessu tilviki óvenju langur eða a.m.k. 20 ár. Hið versta er þó, að þjóðhagslegur sparnaður af Borgarlínu verður aldrei neinn af þeim ástæðum, sem Guðmundur nefnir (úrelt þing), og þar af leiðandi verður bruðl fákunnandi góðs fólks með skattfé enn þungbærara en ella.  Ofan á verkefniskostnaðinn er óhjákvæmilegt að bæta fórnarkostnaði bíleigenda vegna rangra fjárfestinga í umferðarmannvirkjum á höfuðborgarsvæðinu, en hann mun senn nema um 100 mrdISK/ár.  Er ekki rétt að fleygja sökudólgunum á dyr með lýðræðislegum hætti ?

"Davíð Þorláksson hjá Betri samgöngum æmti og kvaðst ekki kannast við mrdISK 250, en það er nú meinið !  Síðasta áætlun frá 2021 miðaði í mikilli bjartsýni við mrdISK 53.  Allt hefur tafizt síðan og kostnaður verðbólgnað, en allir þekkja útgjaldaáætlanir hins opinbera.  Kostnaður við vagnana er þarna ekki með; það er ekki einu sinni vitað, hvaða orkugjafa á að nota.  Og þá er allur rekstrarkostnaður eftir, en Betri samgöngur hafa ekki viljað sýna neina rekstraráætlun.  

Guðmundur Fertram kann bæði uppbyggingu og rekstur.  Mrd250 eru trúlega ekki fjarri lagi, en Betri samgöngur eiga a.m.k. engar betri tölur."

Sá er grundvallarmunur á viðfangsefnum Kerecis og Betri samgangna, að Guðmundur Fertram vissi þegar frá upphafi sinnar vegferðar með sáraumbúðirnar, að gríðarleg þörf og eftirspurn yrði eftir þeim, ef vel tækist til.  Þessu er alveg öfugt farið með Borgarlínana.  Það er engin þörf fyrir hana og eftir henni verður miklu minni spurn en nauðsynleg er, til að hún geti staðið undir sér, þ.e. fjárfestingunni ásamt rekstrarkostnaði.  Það er út af því, sem Guðmundur segir, að hún er reist á úreltri tækni nú þegar, hvað þá árið 2050.  Þetta gæluverkefni stjórnmálamannanna er ættað úr draumóraveröld þeirra, og í ljósi bráðra hagsmuna skattborgaranna og afar takmarkaðs framkvæmdafjár til góðra samgönguverkefna, er nauðsynlegt að hætta strax við þetta Borgarlínuverkefni og snúa sér að verkfræðilegum og hagkvæmum lausnum til að leysa bráðan umferðarvanda á höfuðborgarsvæðinu.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband