29.10.2021 | 10:05
Einkennilega að verki verið
Stærsta framkvæmd ríkisins um þessar mundir er NLSH (Nýr Landsspítali-Háskólasjúkrahús). Það er kraumandi óánægja innan spítalans með ýmis hönnunaratriði NLSH, og eitthvað virðist á reiki, hver hönnunarstjórinn er. Það er ekki farið að ráðum yfirlækna spítalans um hönnunina, og þeir gagnrýna forstjóra spítalans og framkvæmdastjórn hans fyrir lítilsvirðandi framkomu, þar sem yfirstjórn spítalans hefur ekki tekið mark á ráðleggingum yfirlæknanna, sem ásamt öðrum þurfa að búa við gallaða hönnun, runna undan rifjum einhverra pótintáta, sem telja sig vita betur og vera í stöðu til að sniðganga yfirlæknana. Nú hefur forstjórinn yfirgefið stól sinn, og kunna þessar væringar, sem sennilega eru bara toppurinn á ísjakanum, að eiga þátt í brotthlaupi hans.
Allt vitnar þetta um ófremdarástand á þjóðarsjúkrahúsinu, stærstu ríkisstofnuninni. Heilbrigðisráðuneytinu hefur farizt yfirstjórn hennar illa úr hendi. Það er þörf á að breyta til og innleiða nýtt stjórnkerfi á spítalanum. Þar gefur kostnaðargreining og greiðslur fyrir samningsbundin verk við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) von um hvata fyrir starfsemina, sem e.t.v. bætir vinnuandann og eykur afköst sjúkrahússins (afköst starfsmanna eru mikil nú, en mannskap vantar), en meginmálið er að rjúfa bein stjórnunartengsl ráðuneytisins og spítalans með stjórn, sem þá verður ábyrg gagnvart ráðherra, ræður forstjóra og semur nýtt skipurit, e.t.v. með færri silkihúfum en nú eru.
Þann 21. október 2021 báru 5 yfirlæknar Landsspítalans sorgir sínar og áhyggjur af hönnun NLSH á torg með grein í Morgunblaðinu undir heitinu:
"Um sýndarsamráð við fagfólk á sjúkrahúsi".
Höfundarnir eru yfirlæknar ranssóknardeilda Landsspítalans: Björn Rúnar Lúðvíksson, Ísleifur Ólafsson, Jón Jóhannes Jónsson, Páll Torfi Önundarson og Sveinn Guðmundsson.
Grein þessi hófst þannig:
"Í grein 17. september sl. í Morgunblaðinu vöruðu 4 yfirlæknar læknisfræðilegra rannsóknastofa á Landspítalanum við því, að virt væru að vettugi ráð þeirra við hönnun nýs rannsóknahúss spítalans hvað varðar óæskilega staðsetningu þyrluparls og ófullnægjandi skrifstofuaðstöðu ("opin verkefnamiðuð vinnurými").
Í svörum Gunnars Svavarssonar, framkvæmdastjóra nýs Landspítala ohf. (NLSH) í Ríkisútvarpinu, Morgunblaðinu og netpósti kemur fram, að hönnunin sé byggð á "þarfagreiningu, húsrýmisáætlun og forsendum verksins, sem komi frá notendum LSH". "Um sé að ræða stærsta notendastudda hönnunarverkefni Íslandssögunnar ", sem hátt í 200 "starfsmenn spítalans" hafi komið að og "allir, sem komi að verkefninu, séu vissir um að vera á réttri leið."."
Ef ráðið er í þessi orðaskipti, er téður Gunnar Svavarsson að segja, að skrifstofa forstjóra LSH hafi útnefnt þá, sem vera skuli hönnunarteymi NLSH til ráðuneytis um þarfagreiningu og hönnun rannsóknarbyggingarinnar, og að yfirlæknarnir eigi þar af leiðandi ekki að fetta fingur út í þá vinnu. Hér er eitt dæmið um það, að tannhjól NLSH og LSH grípa ekki saman. Það er ills viti. Hlutverk yfirlækna á LSH samkvæmt lögum og í reynd ætti að valda því, að ábendingar þeirra á hönnunarstigi ættu að vega afar þungt. Í ljósi þessa verður heilbrigðisráðuneytið að taka af skarið um þetta, ef starfandi forstjóri sjúkrahússins hefur ekki gert það nú þegar.
Þyrlupalli sjúkrahússins hefur verið valinn slæmur staður, líklega ónothæfur staður. Breytt staðsetning leiðir sennilega til kostnaðarauka í byrjun, en heppilegri staðsetning gæti lækkað rekstrarkostnað.
Að ætla að setja yfirlæknana í opið vinnurými er fáheyrt tillitsleysi og/eða skilningsleysi á eðli viðkvæmra starfa þeirra. Samtöl þeirra og vinnugögn eiga ekki að vera opin þeim, sem í grenndinni kunna að vera, eða eiga leið framhjá. Hér virðast "þarfagreining og húsrýmisáætlun" NLSH vera í skötulíki. Það er lágmark, að yfirlæknarnir fái þessi gögn í hendur, svo að þeim verði gefinn kostur á að rýna þau og gera gagntillögu til starfandi forstjóra spítalans og ráðuneytisins.
"Á fundi allra fagstjórnenda rannsóknadeilda og röntgendeilda Landspítala 22. september sl. var gerð könnun á afstöðu þeirra til fyrirhugaðra opinna skrifstofurýma. "Töldu 6 af 6 yfirlæknum og 9 af 9 lífeindafræðingum og líffræðingum, að opin skrifstofurými myndu torvelda þeim að rækja störf sín vel. Allir mæltu á móti opnum vinnurýmum stjórnenda og sérfræðinga, sem fara með viðkvæm mál og þurfa næði. Ljóst er, að einhverjir pótintátar hafa verið teknir fram yfir yfirlækna og deildarstjóra í þann hóp 200 starfsmanna, sem hannar bygginguna, og "eru allir sammála". Þrátt fyrir eftirgrennslan hefur ekki tekizt að fá lista yfir þessa 200 starfsmenn."
Einhugur býr að baki þessum mótmælum yfirlækna og sérfræðinga, og að sama skapi virðist vera einbeittur brotavilji forráðamanna LSH og/eða NLSH um að sniðganga þessa lykilstarfsmenn sjúkrahússins við hönnun þess. Þetta flettir ofan af alvarlegri brotalöm við stjórnun spítalans, sem verður afdrifarík, ef hún verður ekki fjarlægð. "Something is rotten in the state of Danemark", var sagt, en þetta rotna sár í stjórnkerfi LSH/NLSH getur lamað hann, á meðan starfsemi fer þar fram.
Það er alveg ljóst, að uppstokkunar er þörf á Landsspítalanum. Neyðaróp starfsmanna undanfarið og hörð gagnrýni á framkvæmdastjórn spítalans eru til vitnis um vandamálið. Nýr heilbrigðisráðherra verður að láta það verða eitt af sínum fyrstu verkum að hreinsa graftarkýli Landsspítalans.
"Lög heimila forstjóra ekki að bera faglega ábyrgð á lækningum. Hans hlutverk er annað. Því síður mega aðilar, sem sitja í framkvæmdastjórn á grunni framselds valds forstjóra bera faglega ábyrgð. Umboðsmaður Alþingis hefur endurtekið áréttað, að vegna heilsufarslegra hagsmuna sjúklinga megi forstjórar ekki að eigin hentisemi færa lögboðna ábyrgð frá yfirlæknum til annarra, "forstöðumanna" eða "framkvæmdastjóra" eða hvaða nafni forstjóri kann að nefna aðstoðarmenn sína. Slíkir aðilar hafa, auk skorts á menntun í viðkomandi greinum, ekki lagalega heimild til þess að stýra lækningum.
Stjórn læknaráðs Landspítala ályktaði gegn opnum skrifstofurýmum fyrir 11 árum og taldi "það vera óviðunandi og mikla afturför, ef sérfræðilæknar verða látnir hafa skrifstofuaðstöðu í stórum opnum rýmum ... , ef til stendur að bjóða læknum lakari vinnuaðstöðu á Landspítalanum en þeim býðst [...] erlendis, mun það aðeins gera mönnunarvandann enn verri"."
Forstjóri LSH og framkvæmdastjóri NLSH geta ekki skotið sér á bak við það, að skoðun læknaráðsins hafi ekki verið fyrir hendi. Rök þess eru réttmæt, og það sætir furðu, að hönnunarstjóri NLSH og/eða framkvæmdastjóri skuli vera svo aftarlega á merinni árið 2021 varðandi aðbúnað starfsfólks að ætla téðum sérfræðingum vinnuaðstöðu í opnu rými, hvort sem þeir eiga sér þar fastan samastað eða eiga bara að taka þann bás, sem laus er hverju sinni, þegar þá ber að garði. Þá geta básarnir verið færri en starfsmennirnir. Þetta er illur fyrirboði um það, sem koma skal (í ljós) á NLSH, og er þó ekki allt fagurt í fortíðinni á þeim bæ.
Lok þessarar þörfu opinberunar yfirlæknanna á stjórnarháttum skrifstofu forstjóra og framkvæmdastjóra NLSH voru þannig:
"Hvers vegna hefur framkvæmdastjórn Landspítala ekki komið sjónarmiðum læknaráðs og yfirlækna rækilega til skila við hönnun spítalans ? Að hlusta ekki á ráð yfirlækna og læknaráð á lækningastofnun er óneitanlega alvarlegt og skondið í senn. En staðreyndin er sú, að sjónarmið yfirlækna og sérfræðilækna hafa verið sniðgengin um árabil. Það getur haft afdrifaríkar afleiðingar, hvað varðar notagildi, og öryggi þessarar stærstu nýbyggingar Íslandssögunnar.
Það er miður, að staðið sé að spítalabyggingu, eins og hér er lýst. Vegna sýndarsamráðsins sáum við okkur nauðbeygða til að vekja athygli á málunum í fjölmiðlum. Þrátt fyrir að greinin vekti athygli í þjóðfélaginu, svaraði enginn, sem ber ábyrgð á hönnun rannsóknarhússins. Þær systur sýndarsamráð og þögnin duga ekki. Einhver aðili hlýtur að þurfa að taka af skarið og leiðrétta mistökin áður en byggt verður."
Yfirlæknarnir eiga þakkir skildar fyrir að fletta ofan af alvarlegri meinsemd innan stjórnkerfis LSH, sem hefur verið leyft að smita yfir í NLSH, þar sem meinsemdin getur valdið miklu tjóni á heilbrigðiskerfi þjóðarinnar næstu áratugina, á meðan miðstöð lækninga verður við Hringbrautina.
Óstjórn heilbrigðisráðuneytisins hefur leyft valdaklíku að grafa um sig á Landsspítalanum, sem sennilega er saman komin í framkvæmdastjórninni. Hana ber að leysa upp samhliða því, að sett verður stjórn yfir spítalann, þar sem hvorki verða starfsmenn ráðuneytisins né spítalans. Völdin þarf að færa þangað, sem þau eiga heima vegna þess, að saman verða að fara völd og ábyrgð. Lögin gera ráð fyrir athafnafrelsi og ábyrgð yfirlækna, og þau ber að virða. Það er ófært, hvort sem er á ríkisstofnun eða í einkafyrirtæki, að starfsmenn, sem gegna lykilhlutverki fyrir viðgang starfseminnar, séu hafðir í spennitreyju. Það leiðir af sjálfu, að við hönnun og tækjaval á NLSH verður að hafa virkt og heiðarlegt samráð við þá, sem starfsemin mun mæða á. Nýs heilbrigðisráðherra bíður mikilvægt hlutverk endurreisnar Landsspítala Háskólasjúkrahúss. Hefur hann þau bein í það, sem þarf ?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.10.2021 | 17:04
Sýndarmennska og hræsni
Loftslagstrúboðið og allt, sem það hefur leitt af sér, reiðir sig algerlega á heiðarlega og gallalausa vísindalega aðferðarfræði IPCC-Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna. Trúverðugleikabrestur hefur nú átt sér stað gagnvart IPCC vegna alvarlegrar og málefnalegrar gagnrýni úr ranni raunvísindamanna, sem aðeins eru þekktir af heiðarleika og vísindalegum vinnubrögðum í hvívetna. Þeirra trúverðugleiki er að óreyndu meiri en hóps á vegum SÞ, sem þekkt eru af spillingu á mörgum sviðum.
Þar er í fyrsta lagi um að ræða mæligögnin. Gervihnattamælingar hitastigs í andrúmsloftinu undanfarna áratugi gefa væntanlega nákvæmustu myndina af hitastigsþróuninni á sama tímabili. Þar blasir við allt önnur mynd en IPCC dregur upp eða hitastigullinn 0,1°C/10 ár, þ.e. hitastigshækkun um 1°C á 100 árum að öllu óbreyttu.
Síðan hefur talnameðferð IPCC sætt ámæli, eins og prófessor Helgi Tómasson rakti ítarlega í Morgunblaðinu 14. október 2021, sjá
https://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2270868 .
Virtir sérfræðingar í meðferð og túlkun tímaraða hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að á undanförnu 2000 ára tímabili sé engin tilhneiging sjáanleg til hitastigsþróunar, heldur sveiflist hitastigið eftir tregbreytanlegu mynztri um fast meðaltal, þ.e. engin breyting.
Það er nauðsynlegt á grundvelli þessara upplýsinga að staldra við og endurmeta forsendur orkubyltingar. Hér skal ekki mæla á móti því að nýta þær nýjungar, sem heimurinn hefur upp á að bjóða í stað jarðefnaeldsneytis og sömuleiðis að sækjast eftir erlendum fjárfestingum í nýrri framleiðslutækni, sem dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda, því að ýmis mengun fylgir jafnan koltvíildislosun. Nýlega var t.d. tilkynnt um, að Rio Tinto, eigandi álversins í Straumsvík, ISAL, hygðist helminga þessa losun fyrir árslok 2030. Þar er horft til föngunar og bindingar CO2, sem er alger vonarpeningur enn og rándýr, og rafgreiningar súráls með eðalskautum, sem losar nánast aðeins súrefni, O2, sem þá má fanga og selja.
Að skattleggja notendur jarðefnaeldsneytis með losunarskatti orkar hins vegar mjög tvímælis, því að heimurinn hefur nú farið inn í breytingaskeið með háu orkuverði. Að eyða opinberu fé í að moka ofan í skurði er engin ástæða til, því að engin neyð er á ferðinni, hvað sem stóryrðum Grétu Thunberg líður. Uppgræðsla og skógrækt standa hins vegar alltaf fyrir sínu.
Þann 18. október 2021 birtist í Morgunblaðinu athyglisverð grein eftir prófessor Jónas Elíasson um tvískinnung Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins á Íslandi í loftslagsmálum. Vinnubrögðin á þeim bæ bera þess merki, að engin alvara fylgi orðum, heldur sitji áróðurinn í fyrirrúmi. Greinin heitir:
"Loftslagsáætlunin: Verðlausar orkulindir og sýndarmennska".
"Raforkuvinnslan notar hvorki kol né olíu, svo [að] hér á Íslandi er svo gott sem ekkert hægt að gera til að draga úr losun landsins, ef menn ætla ekki að stöðva samgöngur og fiskveiðar og senda landið aftur í miðaldir.
Stóriðjan og losun hennar fer í taugarnar á mörgum, en hafa verður í huga, að stóriðja á hreinni orku losar aðeins brot af stóriðju á olíuorku. Ísland getur því gengið til samstarfs við önnur ríki um að stórauka þennan iðnað og þannig haft jákvæð áhrif á alþjóðlega þróun loftslagsmála. En Ísland er búið að semja sig frá þessum möguleika. Umhverfisráðherra gengur nú hart fram í að friða allt, sem hægt er að friða, með það augljósa markmið að koma í veg fyrir slíka þróun."
Það er hárrétt, að væri einhver alvara á bak við ógnina af hlýnun af mannavöldum, þá mundu ráðamenn komast að því, að orkukræfur iðnaður af ýmsu tagi hérlendis væri bezt til þess fallinn að hámarka framlag Íslands í viðureigninni við þessa vá. Nei, það er öðru nær. Þeir, sem mest eru með loftslagsvána á vörunum, sýna hræsnieðli sitt berlega með því að standa gegn flestum nýjum mannvirkjum á orkusviði hérlendis. Á sviði andrúmsloftsins gildir þá ekki hið alræmda slagorð s.k. umhverfissinna, að náttúran verði að njóta vafans. Þeir stjórnmálamenn, sem sett hafa loftslagsmálin á oddinn í sinni fátæklegu stjórnmálabaráttu, hafa gjaldfellt sinn eigin málstað.
"Plagg með þessu nefni [Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum] var gefið út af ríkisstjórninni, þ.e.a.s. umhverfisráðuneytinu. Þarna er boðuð minnkandi losun ... [2030:(A) samgöngur á landi -161 kt/ár, (B) skip og hafnir -320 kt/ár, (C) orkuframleiðsla og smærri iðnaður -384 kt/ár. Þetta samsvarar minnkun olíu/bensíns: (A) -50 kt/ár, (B) -100 kt/ár, (C) -120 kt/ár.] ..., en erfitt er að minnka losun í liðunum A, B og C án þess að spara olíu eða bensín.
Þegar liður A er skoðaður í aðgerðaáætluninni, kemur í ljós, að meginástæða hins áætlaða 50 kt/ár sparnaðar af olíujafngildi er vegna borgarlínunnar. Að borgarlínan spari einhverja losun er hrein skröksaga, eins og sýnt hefur verið fram á, (sjá:
https://www.samgongurfyriralla.com
og blaðaskrif þessa hóps. Þvert á móti; hún eykur óþarfa eldsneytiseyðslu og losun með því að tefja aðra umferð. Umferðartafirnar eru þegar orðnar miklar, en áhrifa þeirra er hvergi getið í aðgerðaáætluninni eða skýrslum um borgarlínu. Telja verður, að áhrifin af þessu verði, að 20 kt/ár bætist við eldsneytiseyðslu í samgöngum ... ."
Þarna kemur fram, að aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar gegn hlýnun er sýndarmennskan einber gagnvart umferð landfarartækja, og núverandi borgarstjórnarmeirihluti bítur hausinn af skömminni með látlausum blekkingum um gæluverkefni sitt, Borgarlínu.
Verkefnið er víðs fjarri því að vera lausn á umferðarvanda höfuðborgarsvæðisins. Það fækkar bílum í umferðinni lítið sem ekki neitt, en tefur fyrir þeim. Mjög alvarlegar tafir og mengun andrúmslofts eru fyrirsjáanlegar á verktímanum, og fækkun akreina fyrir bíla til að koma Borgarlínu fyrir mun færa lífsgæðin á höfuðborgarsvæðinu niður um mörg þrep. Það er engin glóra af ríkisvaldinu að styðja fjárhagslega við fjárfestingarlegt kviksyndi, sem þjóðhagslegt tap verður af vegna gríðarkostnaðar og lítilla tekna, á meðan fjöldinn allur af samgönguverkefnum bíður úti um allt land, sem þjóðhagslegur ágóði verður af.
Vandræðagangur sérvitringanna í meirihluta borgarstjórnar, sem eru undir áhrifum Samtaka um bíllausan lífsstíl, ríður ekki við einteyming. Það eru miklu skilvirkari lausnir til reiðu með því að bæta akrein við hægra megin fyrir strætisvagna, knúnum metani eða rafmagni, og þar mundi skapast hentugt svæði fyrir forgangsakstur lögreglu, sjúkrabíla og slökkviliðs, en ófremdarástand getur orðið, þegar bílstjórar gera sitt bezta til að hliðra til fyrir þessum forgangsakstri. Síðan er mjög arðsamt, öruggt og umhverfisvænt að færa hestakerrugatnamót höfuðborgarinnar til nútímahorfs með mislægum gatnamótum, en slíkar framfarir hefur afturhaldið í Ráðhúsi Reykjavíkur bannað (tekið út af aðalskipulagi).
Ef þetta yrði gert, þyrfti enginn að kvarta undan umferðartöfum á höfuðborgarsvæðinu lengur. Svar Holuhjálmara Ráðhússins er, að slíkar framfarir framkalli bara fleiri bíla í umferðinni. Þá er spurningin, hvort ekki sé eðlilegra, að borgararnir velji sér sinn samgöngumáta sjálfir fremur en að verða þvingaðir í einhvert samgönguform, sem stjórnmálamenn hafa ákveðið fyrir þá (að þeim forspurðum).
"Raunhæfar aðgerðir eru til, það er hægt að ráðast að umferðarvandanum, það er hægt að smíða skip og flutningabíla, [sem ganga fyrir] rafmagni, en það þarf eitthvað að gera, til þess að slíkt verði að veruleika; það dugar ekki að gefa út aðgerðaáætlun og bíða svo eftir orkuskiptum með kraftaverki.
Loftslagsvandinn verður ekki leystur með kraftaverkum eða blekkingum, og ábyrgð umhverfisráðherra er mikil að að standa fyrir slíku."
Þarna flettir prófessor Jónas ofan af óheilindum umhverfisráðherrans í starfi. Gagnrýnin hefur þó dýpri merkingu. Prófessor Jónas er (að mati pistilhöfundar) að lýsa vantrú á getu ríkisvaldsins til að fást við orkuumskiptin. Markaðurinn verður að virkja tæknikunnáttuna, sem fyrir hendi er, þ.e.a.s. fyrirtækin verða að taka frumkvæðið. Stjórnmálamenn eiga bara að gæta þess að þvælast ekki fyrir og forðast að setja skít í tannhjólin. Ekki eru allir stjórnmálamenn hræsnarar, fjarri því, en þegar hræsnarar taka frumkvæði, verður úr því örverpi á borð við það, sem prófessor Jónas Elíasson þarna vekur athygli á.
Botn téðrar greinar var þannig:
"Á núverandi markaðsverði er verðmæti losunarheimilda málmiðnaðar á Íslandi um 80 MEUR/ár eða 12 mrdISK/ár og fer hratt hækkandi. Nú skal málmiðnaður draga úr losun samkvæmt aðgerðaáætluninni, sem væntanlega þýðir samdrátt í framleiðslu og kaupum á raforku, vinnu og þjónustu, sem er mikil afturför í atvinnumálum. Að lokum mun hagkvæmast fyrir málmbræðslurnar að loka og selja sinn losunarkvóta. Þar með verður þeim mönnum að ósk sinni, sem vilja losna við stóriðjuna, en í staðinn situr Ísland uppi með verðlausar orkulindir. Þegar stóriðjan er farin, situr landið uppi með virkjanir, sem duga henni um aldur og ævi og allt jákvætt framlag Íslands til loftslagsmála að engu gert."
Þessi svarta sviðsmynd er eins og draumsýn fyrirbrigðisins á stóli umhverfis- og auðlindaráðherra og sértrúarsafnaðarins í kringum hann. Hún gat virzt raunsæ í Kófinu, en nú virðist heimurinn kominn á orkuumbreytingarskeið, sem þýðir hátt orkuverð og hátt verð fyrir afurðir orkukræfs iðnaðar. Iðnaðurinn mun einfaldlega standa straum af kolefnisgjaldi hvers tíma og verða þannig knúinn til að leitast við að draga úr koltvíildislosun sinni. Hann er nú þegar með rannsóknarverkefni í gangi í þessa veru, t.d. að fanga hluta af CO2 í reykháfum sínum og binda það í jarðlögum í samstarfi við önnur fyrirtæki, og að þróa eðalskaut (keramík) í stað kolaskauta, þannig að losun verði engin, nema á súrefni, sem verður nýtanlegt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
22.10.2021 | 10:47
Óttastjórnun í heimi fáránleikans
Falsspámenn hafa uppi verið á öllum öldum. Vinsælt hefur verið að dunda sér við hættuna á tortímingu mannkyns, og margir kryddað spána með því, að "skaparinn" væri reiður vegna syndsamlegs lífernis hrjáðra afkomenda Evu og Adams úr aldingarðinum Eden forðum.
Nú á dögum tíðkast að klæða loddaraskapinn í búning raunvísinda, sem er lúalegt og lymskulegt bragð. Viðbrögð ýmissa vísindamanna og sérfræðinga á sviði læknisfræði við heimsfaraldrinum COVID-19 (C-19), sem stafar af kórónuveirunni SARS-CoV-2 í ýmsum afbrigðum (kórónuveirur valda t.d. inflúensu), hefur sýnt almenningi, hversu meingölluð ráðgjöf vísindamanna, til stjórnmálamanna, á sviði lýðheilsu og faraldursfræði getur verið. Sænski læknirinn Sebastian Rushworth heldur því blákalt fram, að samanburðarrannsóknir á milli margra landa með mismunandi opinberar sóttvarnarráðstafanir sýni algert haldleysi lokana og hafta til að draga úr útbreiðslu C-19, því að sízt hafi þeim farnazt betur í baráttunni við þessa veirupest, sem beittu ströngum hömlum á athafnir almennings en hinum, sem héldu frelsisskerðingum í lágmarki.
Loftslagsmál eru mjög fyrirferðarmikil í stjórnmálum á Vesturlöndum um þessar mundir. Röng stefnumörkun í orkumálum og röng viðbrögð við C-19 eiga sök á þeirri orkukreppu, sem nú hefur riðið yfir Evrópu (vestan Rússlands) og Asíu. Hið alvarlega er, að stjórnmálamenn Vesturlanda hafa látið ginnast af falsspámönnum, sem starfa undir yfirskini vísinda á vegum Sameinuðu þjóðanna, SÞ, í s.k. Intergovernmental Panel on Climate Change, IPCC, og gefa út viðamiklar skýrslur, þar sem gagnrýnendum á vinnubrögðin er ekki hleypt að. Múgsefjun hefur náð yfirhöndinni í sóttvarnarmálum og í loftslagsmálum, og ekki vantar "manipúlatorana", strengjastjórnendur í brúðuleikhúsið.
Heiðarlegir raunvísindamenn hafa þó fundið sér annan farveg til að koma vísindalegum niðurstöðum á framfæri. Á meðal þessara alvöru vísindamanna er John Christy, loftslagsfræðingur og prófessor við Alabamaháskóla (UAH) https://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2268208 . Úrvinnsla hans á gervihnattamælingum hitastigs um mestalla jörð og í mismunandi hæðum sýna allt annan og miklu lægri hitastigul í gufuhvolfinu s.l. 40 ár en IPCC heldur fram í sínum skýrslum eða um 0,1°C/10 ár, sem við núverandi skilyrði í andrúmsloftinu mundi gefa 1°C hærra hitastig að meðaltali eftir eina öld. Er það nokkuð annað en fárið, sem nú er búið að skapa um óafturkræfa og reyndar sívaxandi hækkun yfir 3,0°C frá upphafi iðnbyltingar, eftir 70 ár. Virtir tölfræðingar hafa birt niðurstöður sínar yfir miklu lengra tímabil, 2000 ár, og niðurstaðan var hitastigull=0, þ.e. tregar sveiflur um fast meðaltal. Í hverju máli ber að hafa það, er sannara reynist, og ekki að hleypa þeim til áhrifa, sem hæst láta, en beita ámælisverðum vinnubrögðum.
Reiknilíkön IPCC eru einfaldlega röng. Meginskyssan er sú að vanmeta stórlega sjálfreglandi (leiðréttandi) eiginleika gufuhvolfsins. Þegar hitastig þess hækkar, eykst um leið útgeislunin frá jörðu og út í geiminn, og þegar það lækkar, t.d. vegna eldgosa, minnkar þessi innrauða geislun út í geim. Enginn afneitar fræðum 19. aldar (Fourier, Arrhenius) um gróðurhúsaáhrif koltvíildis og fleiri gasa, en þessum fræðum verður að beita varlega á stórt og flókið kerfi, og gróðurhúsaáhrifin eru stórlega ofmetin í andrúmslofti jarðar.
Nú hefur Helgi Tómasson, prófessor í hagrannsóknum og tölfræði við H.Í., leitt athygli lesenda Morgunblaðsins að hinni tölfræðilegu hlið óvandaðra (óvísindalegra) vinnubragða IPCC við meðhöndlun mæligagna, og má þá segja, að ekki standi þar steinn yfir steini lengur, heldur sé málflutningurinn hreinn skáldskapur, eins og bókin "Endimörk vaxtar" var á sínum tíma. Þann 14. október 2021 birtist eftir hann í Mbl. greinin:
"Tölfræðilegt sjónarhorn á skýrslur IPCC"
"Vísindamenn eiga það til að freistast til að vera með glannalegar ályktanir út frá mælingum. Þetta hefur t.d. þekkzt í læknavísindum, en aukin meðvitund og útbreiddari tölfræðiþekking hefur hægt á flæði falsályktana. Það má meðal annarra þakka mönnum eins og John P.A. Ioannidis, sem birti grein 2005 um, hvers vegna flestar birtar niðurstöður í læknisfræði eru rangar."
Prófunarniðurstöður lyfjafyrirtækjanna eru óáreiðanlegar. Það átti í sérstaklega miklu mæli við um prófunarniðurstöður bóluefna við C-19 vegna þess skamma tíma, sem var til stefnu á þróunarskeiðinu. Lyfjafyrirtækin hillast til að fegra niðurstöður prófana sinna með því að draga úr neikvæðum áhrifum og ýkja jákvæðu áhrifin. Þetta hefur sænski læknirinn Sebastian Rushworth sýnt fram á ásamt fleirum.
Loftslagsvísindin eru flókin, og ef kuklarar fara höndum um þau, er voðinn vís. Það hefur einmitt gerzt með þeim afleiðingum, að heimurinn stendur á öndinni, svo að minnir á stemninguna eftir útgáfu bókarinnar "Limits to Growth" - Endimörk vaxtar - með spádómum, sem ekki stóðust, heldur reyndust þvættingur, settur fram til að hræða fólk upp úr skónum, svo að það breytti neyzlumynztri sínu og hagkerfin stöðnuðu - það yrði núll vöxtur. Sama vakir fyrir kuklurum IPCC, sem nú starfa undir fölsku flaggi og bregða yfir sig vísindaskykkjunni.
"IPCC er skammstöfun á skýrslum Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál, og nýlega er komin skýrsla, sem kölluð er númer 6. Um eldri skýrslu segir tölfræðidoktorinn og fyrrverandi hagstofustjóri Ástralíu, Dennis Trewin, árið 2008 í OECD-skýrslu í kafla 32: Því miður vantar tölfræðinga í sérfræðingateymi IPCC. Útkoman inniheldur því alvarlega galla. Þessir gallar eru til þess fallnir að ýkja loftslagsbreytingar framtíðarinnar."
Hvernig stendur á því, að þessi alvarlega gagnrýni frá tölfræðidoktor, sem notið hefur trúnaðar yfirvalda í Ástralíu og hjá OECD, hefur ekki enn slegið mikið á áróður IPCC ? IPCC reynir þöggun og í stað málefnalegrar varnar eru hrópin hækkuð og spáin gerð enn skelfilegri með lýsandi nafnorðum á borð við "hamfarahlýnun" og "loftslagsvá". Þessi hegðun er mikill ljóður á ráði þeirra, sem framsetningunni ráða hjá IPCC og þeirra, sem ekki mega heyra orði hallað í garð IPCC.
Fólk, sem ekki hefur ráðrúm til að kynna sér fleiri hliðar viðfangsefnisins en þá, sem IPCC birtir með boðaföllum, fyllist sumt angist. Þ.á.m. er ungt fólk, sem hefur í mörgu að snúast, og ber orðið svo mikinn kvíðboga fyrir framtíðinni, að það ákveður að fjölga sér ekki. Þetta er ein af ástæðum þess, að fjöldi barna á hverja konu er kominn niður í 1,7, sem þýðir fækkun í stofninum, hinum ágæta germansk-keltneska stofni, sem hér varð til fyrir um 1100 árum, og sums staðar er þessi tala orðin enn lægri. (2,1 þarf til viðhalds.)
Hér er um mikinn ábyrgðarhluta að ræða og verðugt íhugunarefni, hvers vegna málefnaleg gagnrýni á líkön IPCC, birt mæligögn, úrvinnslu þeirra og framsetningu alla, hefur ekki náð meiri hljómgrunni en reyndin er. Sé tekið mark á gagnrýninni, sem full ástæða er til, virðast skýrslur IPCC þjóna annarlegum tilgangi, s.s. að hægja á hagvexti hagkerfa heimsins, sem áhangendur "Endimarka vaxtar" telja ósjálfbæran, og þannig draga úr allri neyzlu. Hér skal ekki amazt við því sjónarmiði, að neyzlumynztur, mikið kjötát o.fl., sé á röngu róli út frá lýðheilsuviðmiðum og sjálfbærni landbúnaðar, en gallinn er sá, að hjá IPCC helgar tilgangurinn meðalið. Afleiðingin er sú, að barninu er kastað út með baðvatninu.
"Greinin [norsks vísindamanns, Jons Dagsvik í Journal of Royal Statistical Society, 2020] sýnir stærðfræðilegar útfærslur og síðan dæmi um notkun á gögnum, hitamælingum 96 veðurstöðva í u.þ.b. 200 ár ásamt áætluðum hitatölum, byggðum á árhringjum úr trjám í u.þ.b. 2000 ár. Niðurstaðan er, að þróun hitastigs er vel lýst sem tregbreytanlegu (long-memory) ferli með fast meðaltal, þ.e. engin þróun í tíma. Sér í lagi engin þróun á seinni hluta 20. aldar. Gögnum og forritum, sem tengjast greininni, mátti hlaða niður af heimasíðu tímaritsins (greinarhöfundur er með þessi gögn)."
Hér eru mikil tíðindi á ferð. Undanfarin 2 árþúsund er hvorki um að ræða marktæka kólnun né hlýnun, heldur bara eðlilegar sveiflur í kringum fast meðaltal. Að engin hlýnun skuli vera merkjanleg af þessum gögnum á 20. öldinni, stingur algerlega í stúf við málflutning IPCC um hlýnun með ört hækkandi styrk koltvíildis í andrúmsloftinu. Hér eru mikil firn á ferð. Allur hræðsluáróðurinn um hlýnun jarðar stendur á brauðfótum, þegar undirstaða hans er skoðuð ofan í kjölinn. Er ekki ástæða til fyrir upplýst fólk, sem hefur hingað til viljað láta IPCC njóta vafans, að staldra við ? Renna ekki á menn 2 grímur ?
Og áfram með smjörið:
"J. Scott Armstrong er stofnandi tveggja fræðirita um spálíkanagerð, Journal of Forecasting og International Journal of Forecasting. Hann hefur tekið saman vinnureglur um, hvernig skuli vinna með spár og telur, að IPCC brjóti margar."
Kjarninn í boðskap IPCC eru einmitt spár, og þar er ekki skafið utan af því, því að þetta eru heimsendaspár. Það þarf ekki að orðlengja það, hversu vandmeðfarnar spár eru, og mikil fræði hafa verið þróuð til að forða mönnum frá að falla í vilpur á þeirri vegferð. Það er þess vegna ekki bara rassskelling fyrir IPCC, heldur falleinkunn, þegar slíkur fræðimaður, sem hér er tilgreindur, fullyrðir, að IPCC brjóti margar reglur, sem hafa verði í heiðri við spár og gerð spálíkana.
"Danski jarðfræðingurinn Jens Morten Hansen, sem m.a. hefur rannsakað Grænlandsjökul og gegnt mikilvægum embættum í dönsku rannsóknarumhverfi, varar við oftúlkunum á skýrslum IPCC. Hansen hefur efasemdir um aðferðafræði IPCC, og reynsla hans af rannsóknum á Grænlandsjökli ásamt tilfinningu fyrir stærðargráðum segir, að jafnvel bókstafleg túlkun á sviðsmyndum IPCC sýni, að hvorki muni Grænlandsjökull hverfa né muni Danmörk sökkva. Hann vitnar þar til síðustu ísalda og hlýindaskeiða milli þeirra. Hansen gagnrýnir einnig danska ríkisútvarpið, DR (Danmarks Radio), fyrir einhliða málflutning og ýkjur um það, hversu sammála vísindamenn séu."
Alvöru vísindamenn, sem fara ofan í saumana á IPCC, fella sig ekki við vinnubrögðin þar á bæ, svo að fullyrða má, að alvarlegur ágreiningur ríki í vísindaheiminum um ályktanir og spádóma IPCC. RÚV á Íslandi hefur að sjálfsögðu ósjálfrátt skellt sér á hestvagninn, þar sem látið er í veðri vaka, að niðurstöður IPCC séu vísindalegur sannleikur, sem ekki sé unnt að draga í efa. "Oh, sancta Simplicitas."
Síðan kemur hnífskörp ályktun Helga Tómassonar:
"Tónn sumra boðbera loftslagsvár minnir á rétttrúnaðarklerka, sem telja sig umboðsmenn guðs og messa í reiðitóni yfir söfnuðum sínum. Boðskapurinn er: Nú hafið þið syndgað, guð er reiður, og því miður er nauðsynlegt að sveifla refsivendinum, úthluta sektum og kvöðum, til að söfnuðurinn öðlist möguleika á inngöngu í himnaríki."
Þetta er hárrétt athugað hjá Helga Tómassyni. Ekki er nú orðinn mikill vísindasnykur á IPCC, þegar virtur fræðimæður líkir þeim við rétttrúnaðarklerka. Þannig láta einmitt núllvaxtarsinnar, hverra biblía er enn hin löngu úrelta bók "Endimörk vaxtar". Lýðurinn skal fá að gjalda fyrir líferni sitt og verður þröngvað með óttastjórnun til að laga neyzlu sína að vilja þessara núllvaxtarklerka, og skatta skal leggja á óæskilegan varning eins og jarðefnaeldsneyti. Það er varla heimska og vankunnátta, sem alfarið ræður ríkjum hjá IPCC, heldur ormar í möðkuðu mjöli SÞ, sem svífast einskis til að troða núllvaxtarhugmyndafræði sinni bakdyramegin inn á heimilin.
Síðan kemur ráðlegging til Íslendinga í þessari vandræðalegu stöðu:
"Tilgangurinn má ekki helga meðalið. Þótt mengunin sé slæm, má ekki nota hvaða aðferðir sem er til að draga úr henni. Það getur verið skynsamlegt fyrir Íslendinga að draga úr losun koltvísýrings, því [að] losunin er afleiðing af brennslu olíu. Olían er dýr (og í heiminum endanleg auðlind) og því mikilvægt að fara sparlega með hana. Olíusparnaðurinn má hins vegar ekki kosta hvað sem er. Hvaða málstaður er það, sem kallar á það að fara með ungling á seglskipi yfir Atlantshafið til að láta hann ávarpa þing Sameinuðu þjóðanna ?"
Það er hægt að taka undir þessi viðhorf. Þó hafa ýmsir bent á, að CO2 sé varla mengun, heldur lífsandinn sjálfur fyrir allt plöntulíf á jörðunni. Hins vegar er þessi lífsandi sjaldnast einn á ferð, þegar tæknivædd losun manna er annars vegar, heldur fylgja með skaðleg efni á borð við sót, brennisteinssambönd o.fl. Það má líka spyrja, hvaða málstaður það sé, sem kalli á sérskattlagningu jarðefnaeldsneytis ofan á heimsmarkaðsverð í hæstu hæðum, sem nú tekur verulega í buddu þeirra, sem ekki eru á "nýorkufarartækjum". Stóra spurningin er sú, hvort málstaður, sem sannanlega stendur á brauðfótum, geti réttlætt byltingu á lífsháttum og hagstjórn í átt að "núllvaxtarhagkerfi" með þeirri ömurlegu afturför, sem slíkt feigðarflan hefur á lífsafkomu almennings og velferðarkerfi ríkis og sveitarfélaga ?
"IPCC-skýrsla AR6, sem liggur fyrir, er um 4000 bls. Leit að tímaraðahugtökum, eins og sjálffylgni (autocorrelation) gefur ekki vísbendingar um þróaða tímaraðalíkanagerð hjá IPCC. Hugsanlega finnst ritstjórum IPCC niðurstaða tímaraðalíkana ekki nógu krassandi.
Fyrir umhverfisvandamál Íslands eru enn í gildi gömlu leiðinlegu vandamálin, uppblástur, ofbeit, lausaganga búfjár og frágangur á skolpi auk útblásturs á brennisteinsgufum og hliðstæðum eiturgösum. Ef hlýnun er raunveruleg, ættu Íslendingar að taka því fagnandi, auka uppgræðslu og skapa ný tækifæri í landbúnaði.
Ályktanir tímaraðamanna, eins og Dagsvik og Mills, um, að þróun yfirborðshita jarðar sé tregbreytileg með fast meðaltal, eru afgerandi. A.m.k. eru breytingar mjög hægar (m.v. okkar líftíma) og verðskulda alls ekki gildishlaðnar upphrópanir eins og hamfarahlýnun eða loftslagsvá."
Ef að líkum lætur verða engar varnir hafðar uppi af hálfu loftslagshræsnara eða upphrópanalýðs, sem halda, að þeir geti vaðið um á skítugum skónum með fúsk og ályktanir út í loftið. Loftslagsfræði eru flókin, og það er ekki hægt að draga neinar vitrænar ályktanir um það, sem í vændum er, án þess að beita heiðarlegum, vísindalegum aðferðum. Að hundsa fræði tímaraða við meðferð á mæligögnum fortíðar til að draga ályktanir um framtíðina er dauðadómur yfir öllum boðskap, sem frá slíku liði kemur.
Uppblástur og ófullburða meðferð skolps eru 2 mikilvæg viðfangsefni umhverfisverndar, sem skynsamlegra væri fyrir Íslendinga að fást við af meiri eindrægni en margt annað á umhverfissviði, og mundu umbætur á báðum sviðum einnig draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Þessari hörðu ádrepu prófessors Helga Tómassonar á IPCC og hræðsluáróðurinn, sem frá þeim stafar, lauk þannig:
"Vissulega er mengun vandamál. Hættulegum efnum er sleppt út í umhverfið. Koltvísýringur er náttúrulegt efni og lífsnauðsynleg næring fyrir plöntur. Fyrir liggur, að eðlisfræði frá t.d. Joseph Fourier á fyrri hluta 19. aldar og Svante Arrhenius í lok 19. aldar segir, að gös í lofti (andrúmslofti) geti haft áhrif á yfirborðshita. Gróf skoðun gagna sýnir, að þetta yfirfærist ekki auðveldlega á þróun hita á yfirborði jarðar síðustu 100-200 ár. Þetta er miklu flóknari kapall. Augljóst er, að 15-20 ára ályktun Trewin um, að skýrslur IPCC séu tölfræðilega vanþróaðar, stendur enn.
Nóbelsverðlaunahafinn Richard Feynman sagði, að það væri mikilvægara að viðurkenna, að við hefðum ekki svör við ákveðnum spurningum heldur en að fá skammtað svar, sem ekki má efast um (þýðing greinarhöfundar, kannski ekki hárnákvæm)."
Nú eru haldnar ráðstefnur á ráðsnefnur ofan, þaðan sem einvörðungu endurómur berst frá haldlausum skýrslum IPCC. Væri nú ekki einnar messu virði að hóa saman ábyrgðarmönnum AR6 hjá IPCC og þeim, sem metið hafa hitastigul andrúmslofts út frá gervihnattamælingum (John Christy), Dennis Trewin og tímaraðamönnunum (hæfum tölfræðingum) til að leiða saman hesta sína fyrir opnum tjöldum undir góðri fundarstjórn til að kryfja þessi mál til lykta í stað þess, að heimurinn gleypi við trúboði loftslagsklerkanna ? Viðbrögð IPCC við málefnalegri gagnrýni hafa hingað til ekki falið í sér málefnalegar varnir, heldur að herða enn á óttaáróðrinum.
Til eru þeir stjórnmálaflokkar, einnig á Íslandi, sem láta sína pólitík hverfast um slagorðin "loftslagsvá" og "hamfarahlýnun". Einn stjórnarflokkanna gengur þar sýnu lengst. Er nú ekki ráð að fara aðeins að slá af ofstækinu og hleypa beztu þekkingu og heilbrigðri skynsemi að borðinu ?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
19.10.2021 | 11:14
Tækifærin bíða, en verða þau gripin ?
Nýlega var haldin í Reykjavík (Hörpu) fjölmenn, fjölþjóðleg ráðstefna um heimskautasvæðin. Þessi ráðstefna er gott dæmi um þá tilhneigingu stjórnmálamanna að nota hlýnun jarðar og hafanna sem tilefni til að slá um sig, tala fjálglega um alvarlegar afleiðingar útblástursins, en valda um leið óþörfum útblæstri. Stjórnmálamenn slá sér á brjóst og gera mikið úr vandanum, en það skortir mikið á, að gjörðir fylgi orðum, sbr aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar. Í tilviki VG á Íslandi keyrir um þverbak, því að flokkurinn leggst þversum gegn því, að það sé gert á Íslandi, sem allir tala þó um, að jarðarbúar þurfi helzt á að halda til að draga úr gróðurhúsaáhrifum, þ.e. að virkja endurnýjanlegar og nokkurn veginn kolefnisfríar orkulindir, til að unnt sé að leysa jarðefnaeldsneytið af hólmi án þess að fórna hagvexti, hag almennings og velferðarkerfinu, eins og við þekkjum það.
Vaxandi gagnrýni gætir í garð IPCC, sem gefið hefur út sína 6. skýrslu um hlýnun andrúmsloftsins og tengsl hennar við vaxandi koltvíildisstyrk andrúmsloftsins. Útkoman úr reiknilíkönum IPCC passar alls ekki við mælingar gervihnatta á hitastigi andrúmslofts í mörgum þversniðum um alla jörð um a.m.k. 40 ára skeið. IPCC ýkir hitastigulinn verulega, eins og fjallað hefur verið um á þessu vefsetri. Slikar skekkjur reiknilíkana geta orðið afdrifaríkar fyrir þá, sem á þeim taka mark. Fyrir heiminn allan eru gríðarverðmæti undir. Vitlaus stefnumörkun getur leitt til fjárfestinga, sem sliga efnahag viðkomandi þjóða.
Nú hefur prófessor í hagrannsóknum og tölfræði við HÍ gagnrýnt ófræðilega talnameðferð IPCC, sem leitt hafi til rangra ályktana um hitastigulinn og upphrópana um mun örari hlýnun en talnagögnin gefi tilefni til, sbr Morgunblaðsgrein hans 14. október 2021, sem gera þarf betri skil.
Allt tal um "hamfarahlýnun" er illa ígrundað áróðursbragð þeirra, sem eru með óhreint mjöl í pokahorninu. Þess vegna er engin ástæða til örvæntingar, en full ástæða til að hefja nú þegar markvissa sókn hérlendis að aukinni "grænni" raforkuvinnslu um 12 TWh/ár, m.v. núverandi orkuvinnslugetu um 20 TWh/ár, árið 2040, árið, sem stjórnvöld hafa að markmiði, að Ísland verði orðið kolefnishlutlaust.
Í forystugrein Morgunblaðsins, 13. september 2021,
"Tækifærin framundan",
sagði m.a. eftirfarandi:
"En þó að horfur séu góðar, er að mörgu að hyggja og viðfangsefnin fjarri því einföld. Umsvif ríkisins eru meðal þess mikilvægasta, sem þarf að glíma við á næsta kjörtímabili, ef ekki á illa að fara [með] efnahag þjóðarinnar og þá þjónustu, sem landsmenn vilja búa við.
Verkalýðsfélög opinberra starfsmanna auglýsa nú af miklum móð mikilvægi þeirra starfa, sem opinberir starfsmenn vinna, þó að enginn hafi lýst efasemdum um þau störf, sem í þeim auglýsingum eru nefnd [kostnaður við þessa auglýsingaherferð hefur ekki verið upplýstur enn, en kostnaður við auglýsingaherferð ASÍ, þar sem "Nóg er til", mun hafa numið MISK 40. Þessi meðferð fjár ber vott um spillt hugarfar - innsk. BJo].
En það að störfin þarf að vinna, felur ekki í sér, að þeir, sem inna þau af hendi, verði að vera opinberir starfsmenn. Þvert á móti eru líkur á, að mörg þessara starfa væru betur komin hjá einkareknum fyrirtækjum og breytir þá engu, þó að ríkið mundi í flestum tilvikum áfram tryggja, að þjónustan væri í boði."
Alvarlegasta dæmið um ógöngur, sem ríkisrekstur getur ratað í, er heilbrigðiskerfið. Hvert neyðarópið öðru átakanlegra berst nú frá úrvinda starfsfólki Landsspítalans. Hvernig halda menn, að viðbrögð yfirvalda og annarra í þjóðfélaginu væru, ef Landsspítalinn væri einkarekinn og núverandi staða kæmi þar upp ? Það væri allt á hvolfi, en reyndar er afar ósennilegt, að spítalinn hefði ratað í núverandi ógöngur, ef hann væri einkarekinn.
S.k. fráflæðisvandi hefur lengi verið vandamál þar, en nú hefur verið upplýst, að einkaaðili hafi boðizt til að létta á þessum fráflæðisvanda, en hann er búinn að bíða eftir svari frá heilbrigðisráðuneytinu síðan í ágúst 2021.
Það má fullyrða, að núverandi kreppa Landsspítalans stafar af einstrengingshætti í heilbrigðisráðuneytinu, sem virðist hafa horn í síðu einkaframtaksins á heilbrigðissviði og virðist leggja allt í sölurnar til að lágmarka viðskiptin við einkafyrirtæki innanlands. Þetta er forkastanlegt viðhorf í ljósi stöðunnar. Í heilbrigðisgeiranaum liggur fjöldi ónýttra tækifæra með því að virkja einkaframtakið til starfa á grundvelli samkeppni um verð og gæði. Það dugir ekki að stjórna heilbrigðisgeiranum í anda sósíalistískrar hugmyndafræði, heldur verður að létta á Landsspítalanum með samstarfi við einkageirann, þar sem þess er nokkur kostur.
"Kórónukreppan hefur kostað ríkissjóð háar fjárhæðir og skuldsetningu, sem allgóð samstaða var um, að hann tæki á sig, og virðist það hafa heppnazt vel. En skuldasöfnun verður að snúa við á næsta kjörtímabili, og er það ein ástæða þess, hve brýnt er að endurskoða starfsemi ríkisins, straumlínulaga þann rekstur, sem ríkið þarf að halda áfram hjá sér, færa rekstur annarrar starfsemi til einkaaðila og hætta óþarfri starfsemi."
Allt er þetta satt og rétt, en það er auðveldara að ræða en í að komast. Það væri þó stór ávinningur, ef svipaður texti mundi rata inn í næsta stjórnarsáttmála, því að þá yrði það viðfangsefni hæfra stjórnmálamanna að finna á þessu lausnirnar, sem duga. Starfið er e.t.v. hafið með s.k. stafrænu Íslandi, en takist það verkefni vel, getur það bætt þjónustuna og sparað ríkissjóði kostnað.
Það eru gríðarleg tækifæri í sjávarútveginum við fullvinnslu og gjörnýtingu aflans. Þá virðast landsmenn vera að fá umbun nú fyrir að fylgja ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar og hlífa loðnustofninum, þegar hann var í lágmarki, því að nú mun hann koma sterkur inn. Morgunblaðið birti um það frétt 2. október 2021 undir fyrirsögninni:
"Risavertíð fram undan í vetur".
Hún hófst þannig:
"Ráðgjöf um loðnukvóta upp á 904 kt á vertíðinni í vetur, þann stærsta síðan í byrjun aldarinnar, voru tíðindin, sem bárust frá Hafrannsóknarstofnun í gærmorgun. Í hlut Íslands komu rúm 662 kt eða hátt í 10 sinnum meira en síðasta vetur, þegar kvóti Íslendinga var um 70 kt. Einnig kom fram á fundinum, að árgangurinn, sem bera mun uppi veiðina 2022-2023, væri sterkur."
Ef vel gengur á væntanlegri loðnuvertíð, munu gjaldeyristekjur hennar nema um mrdISK 60, sem hugsanlega eykur verga landsframleiðslu um 1 %. Hér er því búhnykkur á ferðinni, sem auðvelda mun landsmönnum lífsbaráttuna og gera rekstur ríkissjóðs og sveitarsjóða, þar sem loðnan skapar atvinnu, auðveldari. Ábyrgir forráðamenn þessara sjóða munu flýta greiðslum af lánum, sem hvíla á skuldsettum sjóðum þeirra.
Þessi tíðindi eru jákvæð fyrir lífríki lögsögunnar við Ísland, því að óttazt var, að hlýnun sjávar rýrði lífríkið af nytjastofnum, en loðnan verður jafnframt æti fyrir t.d. þorskinn, sem þá þyngist hraðar en ella og þarf síður að leita út fyrir lögsöguna í leit að æti.
Útflutningsverðmæti sjávarútvegsins munu verða yfir mrdISK 300 árið 2022, útflutningsverðmæti málm- og kísiliðnaðarins gætu orðið mrdISK 500. Vafalítið verður metár hjá meginvaxtarbroddi landsins um þessar mundir, fiskeldinu, þar sem útflutningsverðmætið gæti numið mrdISK 45.
Ef fjöldi erlendra ferðamanna nær 1 M 2022 (fjölgun um 2/3 frá 2021), gætu gjaldeyristekjurnar af þeim numið mrdISK 200. Þarna eru komnar gjaldeyristekjur yfir mrdISK 1000, og er enn ýmislegt ótalið, s.s. hugverkaiðnaðurinn (hugbúnaðarsmíði). Það eru þess vegna góðar horfur, en það þýðir ekki, að nóg sé til að auka enn meir hlutdeild launakostnaðar hjá fyrirtækjum landsins en varð með lífskjarasamningunum, því að þetta hlutfall er í hæstu hæðum á alþjóðavísu, og samkeppnishæfni landsins er í 21. sæti, á meðan hin Norðurlöndin tróna í efstu sætunum. Nú þarf að sýna ráðdeild, gætni og hófsemi, veita fyrirtækjunum ráðrúm til að skapa svigrúm til að bæta kjörin með enn meiri framleiðniaukningu. Að öðrum kosti sögum við í sundur greinina bolmegin, sem við sitjum á.
Nú eru enn uppi raddir um gríðarlegan ávinning, sem hafa mætti af útflutningi rafmagns um aflsæstreng til útlanda, sbr leiðari Vísbendingar, 37. tbl. 2021, og ummæli fyrrverandi forseta lýðveldisins. Þessi málflutningur er þó algerlega úr lausu lofti gripinn, því að það er þjóðhagslega hagkvæmara að nýta orkuna til verðmæta- og atvinnusköpunar innanlands en að flytja hana utan, eins og hvern annan námugröft. Þetta virðast núverandi stjórnarflokkar vera einhuga um, en hjáróma raddir um gullgröft og spákaupmennsku verða lengi við lýði.
Hvaðan á að taka orku fyrir aflsæstreng ? Enginn leggur sæstreng svo langa leið upp á minni flutning en um 8 TWh/ár. Verði sú orka virkjuð til útflutnings um sæstreng, fer heldur betur að sneiðast um hagkvæma orkukosti til orkuskiptanna. Þarna er á ferðinni fótalaus málflutningur spákaupmanna, sem ekki hika við að rústa athafnalífi landsins og hag heimilanna með háu orkuverði innanlands, sem er óhjákvæmilegur fylgifiskur tengingar við háverðsraforkukerfi erlendis.
Ógæfuleg orkustefna Evrópusambandsins og ýmissa aðildarlanda þess hefur nú leitt það í ógöngur í orkumálum. Áherzla þess á meingallaða orkugjafa vinds og sólar, sem eru mjög óáreiðanlegir, eins og alkunna er, hefur gert þessar þjóðir mjög háðar bruna jarðgass til hitunar og raforkuvinnslu. Þegar á eitt leggjast mikil gasþörf og stopulir aðdrættir, er afleiðingin gasforði í lágmarki og mikil hækkun orkuverðs.
Bretar verða fyrir barðinu á þessu sama. Þeir tímar eru nú liðnir, þegar Bretar voru sjálfum sér nógir með eldsneytisgas. Þá innleiddu þeir húshitun með gasi og reistu mörg gasknúin raforkuver. Þeir hafa rifið megnið af gasgeymum sínum, og forðageymslur rúma nú aðeins 3 % af ársnotkun, sem er 1/30 af því, sem talið er viðunandi fyrir þjóð, sem alfarið er háð innflutningi á gasi.
Bretar hafa líka reitt sig mikið á vindmyllur til raforkuvinnslu og fyllt í skarðið með rafmagni frá gasorkuverum, þegar afköst mylla falla. Þessi orkustefna kemur þeim nú í koll, þegar þeir endurræsa kolaorkuver í neyð sinni, en á Bretlandi eru reyndar líka í byggingu og í undirbúningi kjarnorkuver.
ViðskiptaMogginn birti 13. október 2021 gröf af framvirku verði á raforku frá 13. apríl 2021 til 11. október 2021 í 5 Evrópulöndum og á Nord Pool orkumarkaðinum. Meðaltal upphafsverðsins var 59,7 USD/MWh, og meðaltal lokaverðsins var 123,3 USD/MWh. Hækkunin nemur 2,1-földun. Raforkuverðið stefnir í að verða ósjálfbært, þ.e.a.s. það mun valda efnahagskreppu og verðbólgu, s.k. "stagflation", því að Evrópa verður ósamkeppnisfær á mörgum sviðum, þar sem Evrópumenn stunda framleiðslu nú.
Ef ráðamönnum hér væri einhver alvara með öllu óráðshjalinu um "hamfarahlýnun", þá mundu þeir stuðla að því að aðstoða Evrópu með því að fara í samningaviðræður við evrópsk fyrirtæki um fjárfestingar hér gegn langtímasamningum um kaup á "grænni" orku. Það mundi muna langmest um slíkt framlag Íslendinga til loftslagsviðfangsefnisins.
Eins og fram kemur í grein prófessors Jónasar Elíassonar í Morgunblaðinu, 18.10.2021, er aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum, sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið gaf út, hvorki fugl né fiskur. Þar á bæ eru menn algerlega úti á þekju; kalla marklaust plagg aðgerðaáætlun, gefa það út með lúðrablæstri og söng og vona síðan það bezta. Hér mætti kannski segja: "kóngur vill sigla, en byr hlýtur að ráða".
Téð orkuverðsfrétt Morgunblaðsins hófst þannig:
"Undanfarna mánuði hefur raforkuverð hækkað jafnt og þétt í Evrópu, og hafa fyrirtæki neyðzt til að draga úr starfsemi vegna þessa.
M.a. ákvað hollenzka álfyrirtækið Aldel að loka álveri sínu í hafnarborginni Delfzijl, líkt og sagt var frá í Morgunblaðinu í gær.
Annað dæmi frá Hollandi er, að zinkframleiðandinn Nyrstar hefur dregið úr framleiðslu af sömu ástæðu, en fyrirtækið framleiðir einnig kopar og aðra málma."
Orsakir framboðsbrests á vörum í heiminum eru ekki BREXIT, eins og flautaþyrlar hafa slengt fram, heldur sóttvarnarráðstafanir og orkukreppa. Í fréttinni var síðan fjallað um raforkuverð, og Ísland sett í það samhengi:
"Til að setja þessar tölur [frá Evrópu] í samhengi kom fram í síðasta ársreikningi Landsvirkjunar, að meðalverð til stórnotenda væri 21,1 USD/MWh, sem svarar 18,2 EUR/MWh. Af ýmsum ástæðum er það ekki með öllu samanburðarhæft við það verð, sem iðnaður í Evrópu greiðir, þá m.a. vegna ríkisstyrkja og hagstæðari langtímasamninga."
Að bera saman framvirkt verð nú í orkukreppu og verð, þegar C-19 lamaði markaðina, er gagnslítið. Fremur ber að líta til núverandi verða á Íslandi. Hjá ISAL í Straumsvík er það komið á 5. tuginn í USD/MWh, og það kveinkar sér enginn undan því, þegar afurðaverðið er yfir 4000 USD/t (virðisaukin vara gefur e.t.v. 1500 USD/t yfir hráálsverðinu á LME). Þetta sýnir, hversu sjálfsagt er að tengja raforkuverðið við skráð markaðsverð framleiðslunnar, þótt núverandi forstjóri Landsvirkjunar hafi af mikilli vanþekkingu talað gegn því alla tíð.
"Sem áður segir, hefur hækkandi verð á jarðgasi komið illa niður á málmbræðslum í Evrópu, en samkvæmt samantekt Bloomberg starfa um 3,2 M manna í orkufrekum iðnaði í Evrópu. Getur það því haft keðjuverkandi áhrif, ef svo fjölmennum vinnustöðum er lokað.
Varðandi hækkun á gasverði er aukin eftirspurn frá Kína, Japan og Suður-Kóreu tengd við hlýtt og þurrt fyrrasumar, og þurrkar hafa sett strik í reikning vatnsafls í Brasilíu, og það aftur aukið spurn eftir jarðgasi. Þá var síðasti vetur kaldur í Evrópu og svo gengið á gasbirgðirnar, að lítið má út af bregða.
Við þetta bætist minni gasvinnsla í t.d. Hollandi og Bretlandi, sem aftur hefur í för með sér, að álfan er háðari innflutningi á gasi."
Kína og Suður-Kórea hafa reist talsvert af kjarnorkuverum á undanförnum árum, og ríkisstjórn Japans hefur lagt það til við þingið, að lokuð kjarnorkuver landsins, sem teljast uppfylla öryggisskilmála, verði endurræst eftir áratug frá Fukushima slysinu. Hlutfall raforkuvinnslu eftir orkugjöfum í Brasilíu og í heiminum (í sviga) eftir orkugjöfum er eftirfarandi:
- Vatnsorka 71,1 % (16,8 %)
- Jarðefnaeldsneyti 21,6 % (65,8 %)
- Vindur 4,5 % ( 4.7 %)
- Kjarnorka 2,8 % (10,4 %)
- Sól 0,0 % ( 1,9 %)
Á Íslandi er hlutdeild vatnsafls u.þ.b. 73 % og jarðgufu 27 %. Víða er tjaldað til einnar nætur í orkumálunum, eins og nú er að koma á daginn. Vindorkan og sólarorkan skipta ótrúlega litlu máli m.v. alla umræðuna og fjárfestingarnar, sem þessir orkugjafar fá. Vegna hins slitrótta rekstrar síns eru þessir orkugjafar hluti af vandamálinu, en ekki þáttur í lausninni. Hún hlýtur að vera fólgin í kjarnorku, vatnsafli og jarðgufu. Á Íslandi eru nánast aldrei þurrkaár samtímis á öllu landinu, og þess vegna er óhætt að virkja meira af vatnsafli samhliða öflugum flutningslínum á milli landshluta. Jarðgufan er ekki föst í hendi til raforkuvinnslu, og fara þarf varlega við að finna sjálfbært jafnvægi á milli innstreymis gufu í virkjað forðabúr og brottnáms gufu til virkjunar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.10.2021 | 11:34
Vatnaskil viðskiptakjara og samkeppnishæfni
Orkukreppa hefur skyndilega riðið yfir Evrópu og Asíu, þ.e. lönd, sem háð eru innflutningi á jarðgasi. Bandaríkin eru t.d. ekki í þeim hópi, því að með nýrri vinnsluaðferð, "fracking", leirsteinsbroti, hafa Bandaríkjamenn orðið nettó útflytjendur á gasi. Evrópu, vestan Rússlands, hrjáir aftur á móti orkuhungur. Í sumar voru stillur og hitar, svo að vindmyllur framleiddu lítið og mikil orka fór í loftkælingu húsnæðis. Við þetta dró niður í birgðum Evrópusambandsríkjanna, og þar ríkir nú örvænting vegna lágrar birgðastöðu m.v. árstíma og gríðarlegra orkuverðshækkana, ekki sízt á rafmagni.
Þetta ástand kyndir undir verðbólgu í ESB og hækkar allan framleiðslukostnað, m.a. hjá verksmiðjum, sem Íslendingar keppa við með sínum útflutningsvörum. Íslendingar búa við þá gæfu, enn a.m.k., að rafmagnið er ekki á uppboðsmarkaði, heldur er verðið stöðugt. Allt annað er uppi á teninginum t.d. í Noregi, en Norðmenn keppa við okkur víða, en þar var raforkuverð frá virkjun 1,2 NOK/kWh á heildsölumarkaði, sem á gengi 11.10.2021 nemur 18 ISK/kWh, sem er meira en þrefalt verð til íslenzkra almenningsveitna. Þetta er svipað verð og í smásölu á Íslandi með flutnings- og dreifingarkostnaði. Ætla má, að verð til almennings í Noregi sé a.m.k. samsvarandi 30 ISK/kWh. Í Noregi er flutningsgjaldið og dreifingargjaldið lægra en hér, en Norðmenn borga aftur á móti raforkuskatt pr. kWh.
Kína hefur ekki farið varhluta af orkukreppunni, og þar er orðinn alvarlegur orkuskortur með rafmagnsskömmtun. Gömlum kolaorkuverum hefur þar verið lokað vegna mengunar í nærumhverfinu, þótt enn komi um 80 % kínverskrar raforku frá kolaorkuverum. Þetta hefur leitt til samdráttar í útflutningi Kínverja, m.a. á málmum, og er þetta meginástæða ört hækkandi álverðs. Verð hrááls er komið upp í 3200 USD/t og hefur hækkað í 2,1-falt verð frá C-19 lágmarkinu og 2,7-földun er spáð árið 2022 frá þessu lágmarki, því að eftirspurnin er einnig hratt vaxandi.
Fyrir íslenzkan efnahag hefur þetta mjög jákvæð áhrif. Fyrirtæki á borð við ISAL í Straumsvík, sem selur einvörðungu mjög virðisaukna vöru (sívalninga til þrystimótunar alls konar þversniða (prófíla)), fær fyrir vikið miklu hærra verð og mun sennilega borga upp allt tap áranna 2018-2020 (mrdISK 28,4) með hagnaði ársins 2021, ef Landsvirkjun grípur ekki til skerðingar ótryggðrar orku vegna metlágrar stöðu í Þórisvatni. Þar á bæ virðast menn sitja með hendur í skauti, þótt brýna nauðsyn beri til athafna, þ.e. nýrrar orkuöflunar fyrir Suð-Vesturland.
Alls töpuðu álverin á Íslandi mrdISK 50 undanfarin 3 ár. Nú er öldin önnur, og þau hafa hafið töluverðar fjárfestingar. ISAL mun fjárfesta fyrir mrdISK 1,3 í ár, og Norðurál hefur hafið umbreytingu steypuskála síns fyrir sívalninga fyrir um mrdISK 15. Þá munu fyrirtækin nú hefja aftur greiðslu tekjuskatts til ríkisins af sínum hagnaði. Þá má ekki gleyma kolefnisgjaldi álveranna inn í ETS-viðskiptakerfi ESB, sem gæti farið yfir mrdISK 2 í ár vegna hækkandi verðs á koltvíildiskvóta og vaxandi framleiðslu. Gjaldið rennur á endanum til íslenzka ríkisins. Þannig fjármagnar stóriðjan að nokkru aðgerðaáætlun ríkisins til að ná losunarmarkmiðum Íslands. Allt er þetta ígildi gjaldeyristekna, svo að þróun álmarkaðanna núna eflir hagvöxtinn á Íslandi.
Allur þessi viðgangur og samkeppnishæfni Íslands almennt veltur á aðgangi fyrirtækjanna að "grænni" orku á samkeppnishæfu verði að teknu tilliti til fjarlægðar Íslands frá helztu mörkuðum hráefna og afurða. Nú stendur þar hnífurinn í kúnni. Öll forystugrein Morgunblaðsins 11. október 2021 var helguð þessu viðfangsefni undir heitinu:
"Hér er næg orka".
Hún hófst þannig:
"Ekki þarf að fylgjast mjög með erlendum fréttum til að átta sig á, að orkumál verða vaxandi viðfangsefni á komandi misserum og árum. Jafnvel lengur, þó að viðurkenna verði, að spádómar verða þeim mun vafasamari sem rýnt er dýpra inn í þoku framtíðarinnar. Sumum þykir nóg um að þurfa að spá um fortíðina, eins og þekkt er."
Orkumál heimsins eru á breytingaskeiði, þar sem jarðefnaeldsneyti er á leið út, og kolefnisfríir orkugjafar leysa þá af hólmi. Til marks um þetta eru dvínandi fjárfestingar til leitar að nýjum orkulindum, og á stefnuskrá fleiri stjórnmálaflokka kemur krafan um, að ríkisstjórnir hætti að úthluta leitarleyfum. Það hillir þess vegna undir dvínandi framboð jarðefnaeldsneytis, eins og mjög hátt verð um þessar mundir gefur til kynna. Heimurinn getur þess vegna búizt við, að á meðan engin trúverðug orkulind er í sjónmáli til að standa undir stöðugri raforkuvinnslu á heimsvísu, t.d. kjarnorkuver með ásættanlegt rekstraröryggi og stuttan (geislavirkni undir mörkum innan hálfrar aldar) helmingunartíma geislavirks úrgangs, þá verði bæði olíuverð og gasverð og raforkuverð hátt.
Ef allt væri með felldu, væri þessi staða mála hagfelld Íslendingum, þar sem við búum við endurnýjanlegar orkulindir frá náttúrunnar hendi til að leysa jarðefnaeldsneytið af hólmi, og þess vegna getur raforkuverð okkar verið tiltölulega stöðugt. Hér er hins vegar draugagangur á ferðinni, þar sem molbúar ganga aftur og beita öllum hugsanlegum ráðum til að koma í veg fyrir nýjar virkjanir. Þennan draugagang verður einfaldlega að kveða niður, beita hér beztu tækni við hönnun og framkvæmd á virkjunarstað og hefja framkvæmdir af kappi. Ekki veitir af. Ella verðum við að viðundrum alls heimsins.
Nú verður vitnað í síðari hluta forystugreinarinnar:
"Hér á landi eru aðstæður aðrar [en í Kína og Evrópu], nánast einstakar. Ísland er ekki ofurselt evrópska orkumarkaðnum [eins og Noregur - innsk. BJo], þó að stigið hafi verið óþarft skref í átt að honum með orkupakkanum alræmda. En Ísland er ekki með beina tengingu við evrópska markaðinn og lýtur því eigin lögmálum að verulegu leyti, sem er mjög til góðs."
Heildsöluverð raforku í Noregi hefur þrefaldazt á skömmum tíma, og er nú heildsöluverð þar svipað og smásöluverð hér til heimila. Þetta stafar af útflutningi raforku um sæstrengi til Danmerkur, Þýzkalands, Hollands og nú síðast til Englands. Norsk heimili og fyrirtæki keppa nú við neytendur í orkukreppu, sem sér ekki fyrir endann á í vetur, m.a. af því að Nord Stream 2 gaslögnin frá Rússlandi á botni Eystrasalts og til Þýzkalands hefur enn ekki verið tekin í notkun af pólitískum ástæðum, þótt hún sé tilbúin.
Það er ekkert vit í því fyrir hagsmuni almennings á Íslandi að leyfa tengingu aflsæstrengs frá útlöndum til Íslands. Íslenzka raforkukerfið á að styrkja samkeppnishæfni fyrirtækja á Íslandi og Íslands í samkeppni um fólkið, en ekki að verða gróðrarstía skammtíma gróðahugmynda, enda verður sá gróði augljóslega á kostnað rafmagnsnotenda hér á landi.
"Ísland er líka í þeirri stöðu, að hér á landi er næg orka, og það meira að segja sú orka, sem eftirsóttust er nú um stundir, s.k. græn orka. Hér er framleitt úr fallvatni og jarðvarma, svo [að] Ísland er einstakt á heimsvísu.
Íslendingar búa svo vel vegna hitaveitunnar, sem hefur yljað þeim áratugum saman, að þeir eiga erfitt með að skilja ástandið í Evrópu og áhrif hækkandi verðs á orku á hitastig á heimilum. Hér er sama, hversu napurt verður á vetrum, heimilin eru jafnan hlý og notaleg án þess, að kostnaður verði óhóflegur. Þetta eru lífsgæði, sem gjarna gleymast."
Jafnvel í hinum vatnsorkuríka Noregi, þar sem séð er nánast fyrir allri raforkuþörf landsmanna með raforkuvinnslu í vatnsorkuverum og vindorkuverum, einnig til upphitunar húsnæðis, hækkar raforkuverð stundum svo mikið á vetrum, að gripið er til eldiviðarbrennslu með tilheyrandi reykjarsvækju og sóti yfir þéttbýli. Sorglegar sögur eru frá Norður-Noregi um gamalt fólk, sem ekki gat greitt rafmagnsreikninga og króknaði úr kulda. Þegar raforkuskortur verður hérlendis vegna meiri eftirspurnar en framboðs, tekur stóriðjan fyrst á sig skellinn og aðrir, sem kaupa ótryggða orku, en forgangsorka til almenningsveitna verður ekki skert, nema í bilunum eða náttúruhamförum.
"En þetta eru líka lífsgæði, sem þarf að verja og byggja upp áfram. Ísland á að halda áfram að vera til fyrirmyndar að þessu leyti, og þess vegna verður að nýta þær auðlindir, sem landið hefur upp á að bjóða. Hér er töluverð raforkuframleiðsla á íbúa, en hún gæti verið enn meiri, öllum til hagsbóta. Fjöldi virkjanakosta er enn ónýttur, jafnvel kosta, sem taldir hafa verið í nýtingarflokki rammaáætlunar.
Eins og fyrrverandi orkumálastjóri benti á, hefur sú aðferð, sem rammaáætlunin er, ekki dugað, eins og til stóð. Nýr orkumálastjóri er óljósari í tali um þetta efni, þó að hún viðurkenni, að hægt hafi gengið."
[Undirstr. BJo.]
Það eru öfl í landinu, m.a. í Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, sem eru haldin þeirri meinloku, að nóg sé komið af virkjunum í landinu. Er þá gjarna vísað til orkuöflunar á mann hérlendis, en sá mælikvarði sýnir einmitt mikilsverðasta framlag Íslands til baráttunnar við hlýnun jarðar. Á forsendum orkuskiptanna og á grundvelli beztu þekkingar á sviði slíkrar mannvirkjagerðar, sem vatnsafls- og jarðgufuvirkjanir eru, eigum við að halda ótrauð áfram á þeirri glæstu braut, sem lýst er í tilvitnaðri forystugrein Morgunblaðsins og endaði þannig:
"Óvíst er, að tekizt hefði að koma upp hitaveitu hér á landi eða hefja virkjun fallvatna í stórum stíl, ef þau vinnubrögð, sem tíðkazt hafa á undanförnum árum, hefðu tíðkazt áður fyrr. Endalaus kæruferli hafa tekið við af framkvæmdagleði, og með sama áframhaldi er hætt við, að Ísland nái ekki að nýta með eðlilegum hætti alla þá hreinu og góðu orku, sem landið hefur upp á að bjóða. Það þýðir ekki aðeins, að landsmenn geta lent í ógöngum með fyrirhuguð orkuskipti, heldur líka, að þeir geta lent verr í þeim verðhækkunum, sem aðrar þjóðir standa frammi fyrir, enda kemur hækkandi olíuverð þeim mun verr við landsmenn sem minna er framleitt og nýtt af innlendri orku."
Þetta er kjarni málsins um núverandi stöðu orkumálanna á Íslandi. Það er spurning, hvort núverandi þunglamalega ferli við val á virkjanakostum hafi skilað nokkrum sköpuðum hlut til góðs fyrir náttúru landsins og komandi kynslóðir landsmanna. Það hefur hins vegar verið gríðarlega kostnaðarsamt skrifræðisbákn og náð að leggja dauða hönd á framkvæmdaviljann. Núverandi umhverfis- og auðlindaráðherra er sá, sem í fyrra starfi sem framkvæmdastjóri Landverndar hefur lengst gengið í innihaldslausu þrasi og málaferlum vegna orkuframkvæmda. Það er brýnt að einfalda fyrirtækjum virkjanaundirbúning með skilvirkri stjórnsýslu, sem einfaldlega leggur mat á það, hvort við valda framkvæmdatilhögun hafi verið gætt hófs m.t.t. náttúrunnar og hvort bezta fáanlega tækni hafi verið lögð til grundvallar. Hér er um verkfræðilegt viðfangsefni að ræða, sem flækjufætur af öllu mögulegu tagi eiga ekki að komast upp með að rugla með.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.10.2021 | 21:13
Nýr stjórnarsáttmáli og orkumál
Núverandi ríkisstjórn, sem hlaut endurnýjað umboð í Alþingiskosningunum 25. september 2021 til að fara með völd í landinu næstu 4 árin, ýtti á undan sér óútkljáðum málum, sem nú er óhjákvæmilegt að leysa úr flokkanna á millum, og það er vafalaust ástæða þess, að hægt virðist miða við stefnumörkun fyrir nýtt kjörtímabil.
Þótt ríkisstjórnin hafi haldið velli og vel það, er pólitískt óverjandi að leggja upp í nýtt kjörtímabil án þess að stokka upp spilin, enda hafa valdahlutföll flokkanna breytzt. Nú síðast, 9. október 2021, hljóp á snærið hjá Sjálfstæðisflokkinum, þegar öflugasti þingmaður Miðflokksins söðlaði um og gekk til liðs við þingflokk sjálfstæðismanna. Að honum er mikill fengur, og þessi atburður veikir stjórnarandstöðuna enn (hún hlaut skell í kosningunum) og eykur um leið vægi Sjálfstæðisflokksins við ríkisstjórnarborðið og við stefnumörkun formanna ríkisstjórnarflokkanna. Minna má á ötula baráttu Birgis Þórarinssonar gegn Orkupakka #3. Þar gekk hann vasklega fram.
Aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um að minnka stórlega þörf á jarðefnaeldsneyti á Íslandi hangir gjörsamlega í lausu lofti, ef ekki verður leyst ný innlend orka úr læðingi og aukin stórlega raforkuvinnsla hér. Til að mæta þörfum orkuskiptanna og auknum þörfum atvinnulífs og heimila fram til 2040 þarf að auka raforkuvinnslugetu landsins um tæplega 60 % (12 TWh/ár) eða um 600 GWh/ár að jafnaði. Spá Statnett fyrir Noreg er aukning raforkuþarfar um 70 TWh/ár eða 50 % til 2050, en Norðmenn eru nú þegar komnir lengra í rafbílavæðingunni en við. Þetta gæti verið fjárfesting í virkjunum hérlendis, flutningslínum og aðveitustöðvum upp á mrdUSD 10.
Í heild verður sparnaður eldsneytisinnflutnings væntanlega yfir 1,1 mrdUSD/ár vegna hækkandi eldsneytisverðs, þegar dregur úr framboði jarðefnaeldsneytis, og arðsemi orkusölu til almennrar aukningar verður vafalítið svo góð, að endurgreiðslutími þessara miklu fjárfestinga verður innan við 1 áratugur. Yfirvöld þurfa því ekki að draga lappirnar af ótta við, að landsmenn reisi sér hurðarás um öxl með fjárfestingum í "grænorku" og flutningi hennar innanlands. Það er þvert á móti bráðnauðsynlegt að hefja það ferli af alvöru sem fyrst að draga úr innflutningsþörf jarðefnaeldsneytis, því að verðlagning þess erlendis mun ella sliga þjóðarbúskapinn og þar með hagvöxtinn. Tæknin er nú þegar fyrir hendi til eldsneytisframleiðslu. Þeir, sem nota vilja loftslagsvandann einvörðungu til að berja sér á brjóst og fara í hlutverk faríseans, leggjast hins vegar þversum gegn öllum raunhæfum lausnum á viðfangsefninu.
Morgunblaðið er með puttann á púlsinum, ekki sízt á sviði orkumála, og helgaði allt leiðarapláss sitt 11. október 2021 þessu mikilvæga máli. Síðari forystugrein blaðsins 7. október 2021 hét:
"Rafvæðing kallar á rafmagn".
Hún hófst þannig:
"Í áhugaverðu viðtali Morgunblaðsins við Tómas Má Sigurðsson, forstjóra HS Orku, var m.a. komið inn á það, hvort virkja þyrfti meira hér á landi til að sjá bílaflota landsmanna fyrir rafmagni. Tómas lýsti þeirri skoðun sinni, að svo væri, og vísaði í því sambandi til orkuspárinnar [Orkustofnunar]. Hann sagði hana liggja fyrir og sýna, að "til að rafvæða bílaflotann og til að framleiða eldsneytið, sem sparar okkur gjaldeyri, þarf einfaldlega að virkja".
Hann bætti því við, að til "þess að geta lagt okkar af mörkum varðandi loftslagsmarkmið, ekki aðeins Íslands, heldur heimsins alls, þurfum við að virkja okkar endurnýjanlegu orkugjafa skynsamlega".
Það er einvörðungu fólk, sem eru málsvarar útúrborulegra sjónarmiða um stöðvun hagvaxtar, minnkun framleiðslu og minni neyzlu almennings, sem heldur því fram, að ekki þurfi að virkja. Framsækið þjóðfélag getur ekki látið stjórnast af viðlíka firrum, en núverandi umhverfis- og auðlindaráðherra er ekki afhuga þeim. Á meðan hann gegnir þessu embætti, er ekki von á góðu.
Téður Tómas Már er aðeins málsvari heilbrigðrar skynsemi í þessum málum. Hann er hvorki að fara með fleipur né ný sannindi í þessu viðtali. Hann segir hið augljósa, en í þjóðfélagi, sem hefur verið afvegaleitt hrottalega í umhverfisverndarlegu tilliti, eins og hatrömm mótmæli gegn nánast öllum orkuframkvæmdum vitna um, verður góð vísa aldrei of oft kveðin. Morgunblaðið á líka heiður skilinn fyrir að draga hvað eftir annað sannleikann fram í þessum málum, þar sem gildismatið hefur verið kolbrenglað með svartagallsrausi um skaðleg áhrif framkvæmda á náttúruna. Það er ekki minnzt á jákvæð áhrif, eins og hreinsun jökulvatna af leir, t.d. Þjórsá og Jökulsá á Brú, eða hækkun á grunnvatnsstöðu á hálendinu í grennd við miðlunarlón með bættu gróðurfari sem afleiðingu.
Téðri forystugrein lauk þannig:
"Augljóst er, að ekki fer saman að koma í veg fyrir nýjar virkjanir og segjast vilja rafvæða bíla, skip og önnur framleiðslutæki, sem enn nýta jarðefnaeldsneyti. Og eins og Tómas bendir á, þá eru stórnotendur raforku ekki að fara að loka, eins og aðstæður eru um þessar mundir. Raforka fyrir bílaflotann fæst því ekki með lokun álvers eða sambærilegum breytingum sem betur fer.
Framundan hljóta því að vera frekari virkjanir. Stjórnvöld og Alþingi verða að koma sér saman um beztu kostinga í þeim efnum og tryggja, að framkvæmdir geti hafizt hið fyrsta."
Svo mörg voru þau sjálfsögðu orð, og á hugann leitar sú spurning, hvernig í ósköpunum komumst við á þann stað, að umræða skynsemdarfólks þyrfti að taka á sig þessa mynd ? Svarið er, að kreddufólk og ofstækis hefur náð að afvegaleiða umræðuna svo, að fjöldinn allur er orðinn ruglaður í ríminu og trúir því, að Íslendingar eigi að halda að sér höndum í virkjanamálum, því að við eigum ekki "að fórna íslenzkri náttúru" til að bæta CO2-losunarstöðuna á heimsvísu. Þetta er bábilja í ljósi tæknilegrar getu okkar til að virkja krafta náttúrunnar með lágmarksröskun á náttúrunni. Sú röskun er svo lítil, að hún er langt innan þeirra marka, sem þjóð í landi síbreytilegrar náttúru á að geta sætt sig við í ljósi ávinningsins.
Margir þeirra, sem hæst láta gegn þjóðhagslega hagkvæmum framkvæmdum, eru afturhaldsseggir og -sprundir, sem lítil tengsl hafa við náttúruna, en hafa bitið í sig meinloku um skaðsemi hagvaxtar og neyzlu, svo að ekki sé nú minnzt á erkióvininn sjálfan, einkabifreiðina, svo öfugsnúið sem það sjónarmið er í landi á borð við okkar.
Varðandi neyzlumynztur nútímans telur höfundur þessa pistils, að neyzla margra mætti vera valvísari, t.d. m.t.t. heilsufars, og að vinna beri að eflingu hringrásarhagkerfis með beztu tækni þess geira. Það verður þó aðeins gert með þekkingu að leiðarljósi, en ekki undir stjórn misheppnaðra stjórnmálamanna með umhverfisvernd á vörunum, eins og gas- og jarðgerðarstöð Sorpu er sorglegt dæmi um, en þar sóuðu óhæfir stjórnmálamenn vinstri meirihlutans í borgarstjórn rúmlega mrdISK 6 í GAJA, sem framleiðir ónothæfan (eitraðan) jarðvegsbæti. Landið þarf eitt orkuver, sem brennir öllum lífrænum úrgangi við hátt hitastig og vinnur úr honum orku, sem nýta má til raforkuvinnslu og hitaveitu. Það er sjálfsagt að staðsetja það innan seilingar þéttbýlis, sem ekki hefur aðgang að fullnægjandi jarðhita.
Í Morgunblaðinu 8. október 2021 birtist frétt um orkuskiptin undir fyrirsögninni:
"Aukin raforka lykill að orkuskiptum".
Sannleiksgildi fyrirsagnarinnar blasir við öllum réttsýnum mönnum, en í þjóðfélaginu eru þverhausar, einnig á Alþingi, sem berja hausnum við steininn, vilja jafnvel lýsa yfir neyðarástandi á Íslandi vegna hlýnunar jarðar (raunhlýnun lofthjúpsins er 0,14°C/áratug samkvæmt beztu mæligögnum gervitungla), en þverskallast gegn nýjum orkuframkvæmdum.
"Varðandi útflutning á rafeldsneyti segir hún [Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir], að nú hafi skapazt möguleikar á að framleiða slíkt eldsneyti á vökvaformi á umhverfisvænan hátt. Okkar hlutverk sé að tryggja, að ákjósanlegt umhverfi sé til staðar. Nú þegar fer hér fram metanólframleiðsla, og áform eru um aukningu á því sviði. Þórdís segir, að í gangi sé ákveðin stefnumótun í vetnismálum með hagaðilum. Tækifæri séu til að ná markmiðum innanlands og eins til að fara í útflutning."
Núverandi stöðu á orkumörkuðum má jafna við orkukreppu, því að það gætir framboðshörguls, einkum á jarðgasi, en jarðgas er notað til upphitunar og eldunar í Evrópu og víðar og til raforkuvinnslu á móti slitróttum rekstri vindmyllna og sólarhlaða. Forðabúr Evrópu af jarðgasi innihalda nú aðeins 40 % af hámarksforða, en á þessum árstíma venjulega 90 %. Það verður fyrirsjáanlega gasskortur á hörðum vetri, en sleppur kannski annars, ef Nord Stream 2 verður keyrð á fullu (gasi). Þessi staða hefur leitt til hækkunar orkuverðs upp úr öllu valdi í Evrópu og straumleysi í Kína, sem aftur veldur því, að verkefni á borð við framleiðslu rafeldsneytis hérlendis, sem voru ekki hagkvæm fyrir einu ári, eru líklega orðin það nú. Þá ætti að einbeita sér að innanlandsmarkaðinum. Þar með er dregið úr kolefnisgjöldum landsins vegna skuldbindinga ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur og dregið úr innflutningsþörf á jarðefnaeldsneyti. Einhver málfátækur mundi kalla þá stöðu "win-win".
Blaðamaðurinn tók líka viðtal við forstjóra Landsvirkjunar í þessari frétt:
""Núverandi orkukerfi er að miklu leyti fullnýtt og orkan bundin í langtímasamningum við alþjóðleg fyrirtæki, sem eru með starfsemi hér. Þau hafa engin áform um að draga úr starfsemi sinni", segir Hörður. Hann bendir á, að þó nokkrir ónotaðir virkjunarkostir séu í nýtingarflokki Rammaáætlunar og hægt sé að ráðast í þau verkefni. Fleira megi skoða, eins og t.d. vindorku, sem geti orðið 3. stoð orkuöflunar með vatnsafli og jarðhita.
Hörður segir loftslagsvandann stærsta umhverfisvanda heimsins. Alls staðar þurfi að byggja upp umhverfisvæna orkuvinnslu, sem komi í stað jarðefnaeldsneytis. Við uppbyggingu endurnýjanlegrar orkunýtingar togist á náttúruverndarsjónarmið og umhverfissjónarmið. Sú umræða er alls ekki einskorðuð við Ísland."
Nú segir Hörður Arnarson, að virkjanirnar og miðlunarlónin séu að mestu fullnýtt. Öðru vísi mér áður brá. Fyrir 2-4 árum, á dögum umræðunnar um OP#3 og raforkusölu til útlanda hélt hann því fram, að hún væri skilyrði þess að hindra, að vatn rynni framhjá virkjunum ónotað til sjávar. Nú er komið annað hljóð í strokkinn, enda vatnsstaða Þórisvatns slæm. Í septemberbyrjun 2021 komst vatnshæðin yfir lágmark m.v. árstíma, en tók að lækka mánuði síðar og stefnir undir lágmark í vetur og skerðingu ótryggðrar raforku til iðnaðarins. Sérvitringar og þvergirðingar eiga eftir að verða okkur dýrir á fóðrum.
Af þessum ástæðum er brýnt að hefja virkjanaframkvæmdir, og Hörður segir það hægt, en hvers vegna í ósköpunum er þá setið með hendur í skauti ? Ef kyrrstaðan á sér pólitískar skýringar, er það í fyrsta sinn, sem afturhaldið í landinu nær kverkataki á athafnalífi landsins. Er þá stjórnarsamstarfið of dýru verði keypt ?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.10.2021 | 21:18
Með skipun nýs orkumálastjóra var brotið blað
Halla Hrund Logadóttir, stjórnmálafræðingur BA, var skipuð Orkumálastjóri f.o.m. 19.06.2021. Það eru engin tíðindi, að kona skuli hafa verið valin úr hópi 15 umsækjenda af báðum kynjum. Það eru út af fyrir sig ánægjuleg tíðindi, að kona skyldi nú verða fyrir valinu í fyrsta sinn í 54 ára sögu þessa embættis.
Segja má, að kvenfólki hafi vegnað betur á framhaldsskólastigi undanfarin ár, og það hefur verið í meirihluta háskólanemenda um skeið. Þess vegna er eðlilegt, að konum fjölgi nú talsvert í stöðum, þar sem krafizt er háskólamenntunar. Annað mál er, að það þarf að komast fyrir rætur hás brottfalls drengja úr skóla.
Nú vantar iðnaðarmenn af margvíslegu tagi, en þá bregður við svo við, að skólakerfið er vanbúið að taka við efnilegum nemendum, sem hafa áhuga á að leggja fyrir sig þær spennandi greinar, sem iðnnámið býður upp á.
Embætti Orkumálastjóra í sinni núverandi mynd var stofnað árið 1967 með raforkulögum. Síðan hafa 3 gegnt því og allir haft raunvísindamenntun, og voru 2 verkfræðingar. Það, sem pistilhöfundi þykir aðallega brjóta blað við þessa ráðningu, er, að 4. Orkumálastjórinn (raunverulega 5., ef talið er frá 1947) hefur ekki raunvísindalegan bakgrunn úr háskóla, eins og allir hinir. Engum vafa er undirorpið, að sá bakgrunnur og í flestum tilvikum verkfræðileg reynsla reyndist forverunum vel. Hvort hún var þeim nauðsynleg í starfi Orkumálastjóra, skal ósagt láta, en hvorki hæfnisnefndin né ráðherrann, sem veitti stöðuna, hafa látið svo lítið að útskýra þetta fráhvarf frá hefðinni.
Höfundur þessa pistils ætlar sér ekki þá dul að leggja að öðru leyti nokkurt mat á störf hæfnisnefndarinnar eða að bera saman hæfni umsækjenda, enda væri slíkt harla marklítið úr þessu. Aðeins verður að vona, að hæfnisnefnd og ráðherra hafi komizt að réttri niðurstöðu um val á einstaklingi til að veita mikilvægri eftirlitsstofnun og rannsóknarstofnun á sviði orkumála frjóa og skapandi forstöðu á tímum orkuskipta, sem í hönd fara. Er Höllu Hrund Logadóttur óskað velfarnaðar í krefjandi og mikilvægu embætti fyrir land og þjóð:
Laugardaginn 2. október 2021 birti Morgunblaðið, sem lætur sig orkumál landsins miklu varða, viðtal við hinn nýja Orkumálastjóra. Það hófst þannig:
""Orkumál hafa gjörbreytzt á fáum árum, og loftslagsmálin eru þar helzti drifkrafturinn", segir Halla Hrund Logadóttir, nýr orkumálastjóri. "Ríki heims eru einbeitt í því að leita lausna á vanda. Þetta er eins og kapphlaupið um að komast til tunglsins var. Þegar slíkur metnaður er settur í mál af allri heimsbyggðinni, hraðar það allri nýsköpun og tækni fleygir fram. Á Íslandi þurfum við að leggja okkur eftir að skilja, hvaða áhrif þetta hefur á samkeppnishæfni og tækifæri í víðu samhengi. Hlutverk Orkustofnunar er að stuðla að því, að þessir möguleikar nýtist til hagsældar fyrir þjóðina.""
Orkumálin á Íslandi hafa í sjálfu sér enn ekki tekið neinum stakkaskiptum vegna baráttunnar við hlýnun jarðar, þrátt fyrir Kyotosamkomulagið og Parísarsáttmálann. Ástæðan er sú, að mikilsverður hluti þeirra orkuskipta, sem felst í að hætta nánast alfarið að framleiða rafmagn og að hita upp húsnæði með jarðefnaeldsneyti, hafði þegar farið fram fyrir árið 1990.
Það orkar ennfremur tvímælis að bera þessa loftslagsbaráttu saman við kapphlaupið um að verða fyrstur til tunglsins, því að enn draga margar þjóðir lappirnar. Ríkið, sem mest losar af CO2 árlega út í andrúmsloftið, Kína, eykur enn losun sína og reisir kolaorkuver, heima og erlendis. Ríkið, sem næstmest losar, Bandaríkin, hefur náð árangri með því að fækka stórlega kolaorkuverum í rekstri og taka í staðinn í notkun jarðgasknúin raforkuver. Þriðja í röðinni er Evrópusambandið, ESB. Þar horfir óbjörgulega, því að vegna gasskorts undanfarið hafa kolaorkuver verið endurræst, og fyrir árslok 2022 ætla stjórnvöld í ríki mestu losunar ESB, Þýzkalandi, að loka öllum starfandi kjarnorkuverum landsins. Það mun kalla á aukinn innflutning raforku, aðallega frá eldsneytisorkuverum, og aukinn rekstur kolaorkuvera í Þýzkalandi.
Það, sem vantar þarna, er vel ígrundaður boðskapur forystumanns í orkumálum Íslands til landsmanna um það, hvernig þeir ættu nú að snúa sér gagnvart þeirri stöðu, sem við blasir, þ.e. að áætlun ríkisins um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda stendst ekki, og hvernig vænlegast er að losa virkjunarmálin úr þeirri kyrrstöðu, sem þau eru föst í. Gjarna hefðu mátt fylgja niðurstöður útreikninga um virkjunarþörf á þessum áratugi og næsta. Því miður eru landsmenn engu nær eftir þetta fyrsta viðtal.
"Regluverk orkumála í Evrópu er í örri þróun, sem hefur auðvitað bein áhrif á löggjöf hér heima. Það er stór áskorun, að við náum að innleiða nýjar reglur hratt og vel. Stuðla verður að því, að útfærslurnar skili ávinningi fyrir Ísland og efli tækifærin. Við þurfum að vera framsýn í allri nálgun."
Hér talar orkustjóri ESB á Íslandi (National Energy Regulator - landsreglari orku), þ.e. embættismaður, sem hefur það hlutverk að framfylgja fyrirmælum og reglum gildandi orkulöggjafar ESB á Íslandi, nú Orkupakka #3. Hvers vegna er það "auðvitað", að þróun orkulöggjafar ESB "hafi bein áhrif á löggjöf hér heima" ? Við höfum engin áhrif á mótun þessarar löggjafar, og hún er sniðin við ósambærilegar aðstæður þeim, sem eru fyrir hendi á Íslandi. Þessi löggjöf er framandi í okkar umhverfi og er fremur til vandræða en hitt.
Þegar orkustjóri ESB á Íslandi talar um, að við eigum að innleiða nýjar reglur ESB hratt og vel, á hún væntanlega við Orkupakka #4 (OP#4). Því eru margir ósammála, bæði hérlendis og í Noregi. Það er mjög ólíklegt, að ný ríkisstjórn Noregs (stjórnarmyndunarviðræður standa yfir í Noregi) muni hafa forgöngu um það gagnvart Stórþinginu að innleiða OP#4, eins og hann kemur af skepnunni.
Fyrir tilstilli andstöðunnar við OP#3 á Íslandi innleiddi Alþingi OP#3 með t.d. þeim veigamikla varnagla, að enginn aflsæstrengur verður lagður frá útlöndum til Íslands án fyrirfram samþykkis Alþingis. ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) gæti hins vegar hæglega gert alvarlega athugasemd við að innleiða ekki samþykktir Sameiginlegu EES-nefndarinnar undanbragðalaust.
Nú þarf norskur almenningur og norskt atvinnulíf að blæða fyrir afleiðingar öflugra sæstrengstenginga raforkukerfis Noregs við útlönd með margföldu raforkuverði m.v. vinnslukostnað þess í Noregi. Þetta er ógæfulegur boðskapur nýs Orkumálastjóra.
""Ef við ætlum að ná markmiðunum okkar um að verða óháð jarðefnaeldsneyti fyrir 2050, eykst [raf]orkuþörfin. En til að mæta þessari þörf þarf að nýta betur þá orku, sem þegar er í framleiðslu, skoða möguleika, þegar samningar við stóra kaupendur losna, og meta nýja orkukosti. Einnig skiptir máli fyrir orkuskiptin, hvernig tæknin þróast, s.s. rafhlöður. Því nýtnari sem tæknin er fyrir farartækin okkar, [þeim mun] minna þurfum við af orku. Almennt skiptir máli, að orkan rati í innlend orkuskipti", segir Halla ... ."
Þetta er nú fremur rislágur og loðinn boðskapur frá nýjum Orkumálastjóra. Hvað á hún við með að nýta betur þá orku, "sem þegar er í framleiðslu". Á hún við að bæta nýtni núverandi orkuvera eða að bæta nýtni flutningskerfisins eða nýtni notendanna. Hvert um sig er gott og blessað, en gefur aðeins brot af raforkuþörf orkuskiptanna.
Áttar nýr orkumálastjóri sig ekki á umskiptunum, sem eru að verða í orkumálum heimsins ? Vegna tilkomu kolefnisfrírrar orku hafa fjárfestingar í leit að nýju jarðefnaeldsneyti dvínað, og það mun brátt leiða til orkuskorts og hás orkuverðs. Nú þegar er jarðgasskortur víða, t.d. í Evrópu, þrátt fyrir hina þýzk-rússnesku NORD-STREAM 2-lögn. Við þessar aðstæður og hátt verð á málmum og kísli munu stóriðjuverin ekki verða á förum frá Íslandi. Sú ráðlegging að vera á varðbergi, "þegar samningar við stóra kaupendur losna", er eins og útúr kú haustið 2021.
Þá er og nokkuð véfréttarlegt að segja, að það skipti almennt máli, að orkan rati í innlend orkuskipti. Er hún að tala gegn almennri atvinnuuppbyggingu, sem krefst nýrrar orku, eða er hún á móti útflutningi vetnis eða annars rafeldsneytis ? Á hvaða vegferð er þessi nýi Orkumálastjóri eiginlega ?
"Auðlindir eru þó aðeins það, sem skilar arði til þjóðarinnar, og nú vantar að útfæra leikreglur varðandi vindorku, bæði á landi og hafi. Hingað til hafa fyrirtækin, sem hafa verið í orkuauðlindanýtingu, verið að stærstum hluta í eigu hins opinbera. Í breyttu lagaumhverfi orkugeirans í dag verða fleiri á markaðinum, sem kallar á leikreglur, sem tryggja, að auður skili sér til almennings."
Þarna fjallar Orkumálastjóri á óhlutlægan hátt um pólitískt viðfangsefni, sem er alls ekki orkutæknilegs eðlis og varla í hennar verkahring að taka afstöðu til sem Orkumálastjóra, þ.e. álagningu auðlindagjalds. Hæstiréttur hefur fellt dóm í deilumáli Fljótsdalshrepps og Landsvirkjunar um álagningu fasteignagjalda á orkumannvirki, og sá dómur getur hæglega verið fordæmisgefandi fyrir vindmyllur og aðrar gerðir orkumannvirkja.
"Halla segir arðgreiðslur fyrir auðlindir orkunnar útfærðar á ólíka vegu erlendis. T.d. sé greitt gjald fyrir hlutfall af tekjum vindgarða á hafi til ríkisins í Bandaríkjunum. Sama eigi við t.d. í Evrópu, þar sem sveitarfélög fá einnig skerf.
Spurð um rammaáætlun um orkunýtingu tekur Halla undir, að hún hafi gengið hægt undanfarin ár. Fyrir því séu margar ástæður, bæði pólitískar og varðandi vinnulag. Því séu nú tækifæri til að sníða af vankanta, eins og oft þurfi, þegar reynsla kemst á flókin kerfi.
"Hér verðum við að vanda okkur. Það er kostnaðarsamt fyrir þjóðina að vera í deilum. Því þurfum við að vera ábyrg gagnvart tillögum um umturnun á þessu sviði, en á sama tíma gera kröfu um úrbætur, þannig að kerfið sé skilvirkt og gegnsætt. Án þess er erfitt að sækja fram."
Það verður ekki séð, hvernig vindorkugarðar undan strönd (off-shore) geta greitt auðlindagjald, þegar orkan frá þeim er stórlega niðurgreidd af hinu opinbera, enda vinnslukostnaðurinn víða yfir 150 USD/MWh.
Guðni A. Jóhannesson, verkfræðingur, forveri Höllu, kvað í jólahugvekju sinni 2020 fast að orði um það öngstræti, sem Rammaáætlun um vernd og nýtingu orkulinda hefði ratað í. Hann lagði þar til ákveðna leið til að komast með virkjanamálin úr þeirri sjálfheldu, sem þau nú eru í. Það, sem nýi Orkumálastjórinn hefur um stöðu Rammaáætlunar að segja, er hvorki fugl né fiskur og gæti eins vel komið frá blaðafulltrúa ríkisstjórnar, sem er ráðalaus í þessu máli. Betur má, ef duga skal.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
4.10.2021 | 18:32
Skattaáþjánin
Nú stendur fyrir dyrum að rita nýjan stjórnarsáttmála, og mun hann veita forsögn um þróun ríkisfjármálanna. Staða þeirra er óviðunandi eftir Kófið. Kjósendur í nýafstöðnum Alþingiskosningum hafa líklega haft þetta í huga, þegar þeir ákváðu, hvernig verja ætti atkvæðinu, því að flokkum hóflausrar þenslu ríkisútgjalda og lántöku á kostnað framtíðarinnar var hafnað. Hafa verður líka í huga, að Seðlabankinn mun neyðast til að bregðast við áframhaldandi þenslustefnu ríkissjóðs með enn harðari aðhaldsaðgerðum en ella, því að hann mun leitast við að koma hér á jákvæðum raunvöxtum sem fyrst, sem dregur úr einkaneyzlu til mótvægis við opinbera þenslustefnu.
Stjórnarflokkarnir virtust samstiga um það í kosningabaráttunni, að hvorki yrði hér þörf á skattahækkunum til að koma böndum á ríkissjóð né róttækum aðhaldsaðgerðum í rekstri ríkissjóðs, ef nauðsynlegur hagvöxtur yrði aðeins tryggður. Þetta er vandrötuð hagstjórnarleið, en ríkisvaldið hefur í sínum höndum ýmis tól og tæki til að örva hagvöxt. Síðan hefur landsmönnum reyndar hlotnazt ávísun á tæplega 100 mrdISK/ár happdrættisvinning, þar sem er spá Hafró um öflugar loðnugöngur 2022-2023.
Eitt af verkfærum ríkisstjórnarinnar til að efla nauðsynlegan hagvöxt er að ýta undir nýjar virkjanir í landinu til að standa undir orkuskiptunum, sem verða aldrei barn í brók án nýrra virkjana, sem hefja þarf strax til að forðast orkuskort. Afturhaldið í landinu þvælist fyrir öllum nýjum virkjunum, en virðist vilja umbylta hér neyzlumynztri og draga úr framleiðslu útflutningsatvinnuveganna til að fá umhverfisvæna orkugjafa til að leysa jarðefnaeldsneytið af hólmi.
Þetta er afspyrnu útúrboruleg hugmyndafræði, sem engum mun gagnast, en mun keyra hér hagkerfið í samdrátt og verða öllum landsmönnum til tjóns og mest þeim, sem minnst mega sín. Þessi sérvizka er ósjálfbær fyrir Ísland, því að þar með væri, allsendis að óþörfu, verið að leggja þungar byrðar á unga fólkið í landinu og gamlingjar og sjúklingar mundu fá að lepja dauðann úr skel. Dæmigerður sósíalismi andskotans þarna á ferðinni hjá Landvernd o.fl.
Samkeppnishæfni landsins er í uppnámi vegna hárra launa og áframhaldandi hækkana, sem eru meiri en í helztu samkeppnislöndum okkar. Viðskiptafrétt Baldurs Arnarsonar í Morgunblaðinu 24. september 2021 hófst þannig:
"Launakostnaður á hverja unna stund á Íslandi var um 8 % hærri á 2. ársfjórðungi [2021] en árið áður. Það var 3. mesta hækkunin í Evrópu á tímabilinu, en miðað er við vísitölu launakostnaðar."
Fyrir ofan voru Kýpur og Serbía, en t.d. hin Norðurlöndin voru með hækkun, sem nam 6,4 % (Svíþjóð), 3,3 % (Danmörk), 2,9 % (Noregur) og 2,5 % (Noregur). Í Þýzkalandi stóð launakostnaður í stað, og í ESB varð meðalhækkun 0,6 %. Það er hætt við, að framleiðniaukning á Íslandi hafi orðið langt undir 8 % á ári undanfarin misseri, og þess vegna er þessi þróun launakostnaðar á Íslandi ósjálfbær og stefnir í allt of hátt raungengi, sem yrði mikil byrði á útflutningsatvinnuvegunum.
Þrátt fyrir engar launahækkanir í Þýzkalandi er þar "mikil" verðbólga á mælikvarða Þjóðverja. Verðbólga heildsöluverðs reyndist 12,3 %/ár í ágúst 2021, sem er met síðan í olíukreppunni 1973-1974, en verðbólga neyzluverðs er þar enn um 4 %.
"Aðilar vinnumarkaðarins" og ríkisvaldið verða í komandi kjaraviðræðum að sameinast um leiðir til að verja núverandi kjör og viðhalda efnahagsstöðugleikanum. Líklega hafa margir kjósendur verið sér meðvitaðir um þessa þörf, þegar þeir sniðgengu glundroðann í stjórnmálunum.
Baldur vitnaði í Jón Bjarka Bentsson, aðalhagfræðing Íslandsbanka:
"Líkt og víðar sé að hægja á aukningu framleiðni, eftir því sem hagkerfið þroskast, þjóðin eldist o.s.frv., nema til komi nýir atvinnuvegir eða atvinnuhættir, sem herði aftur á þeirri þróun. M.ö.o. þurfi að styrkja grunnstoðir hagkerfisins eða skapa nýjar til að standa undir enn meiri launahækkunum. Sú þróun eigi sér stað samtímis því sem Íslendingar glími við verðbólguþrýsting, sem sé að hluta vegna innfluttrar verðbólgu, þ.e.a.s. hækkandi verðlags erlendis."
Ef fyrirtækin halda áfram að fjárfesta, þá mun tæknin gera þeim kleift að auka framleiðni sína áfram. Þetta á við í landbúnaði, sjávarútvegi og iðnaði. Orkuskiptin kalla á miklar fjárfestingar, t.d. í virkjunum, sem eru forsenda þess, að draga megi úr eldsneytisinnflutningi. Þessi gjaldeyrissparnaður mun ýta undir hagvöxt.
Fyrir ráðstöfunarfé almennings er skattheimtan þungvæg. Ungt fólk, sem er að stofna heimili, leggur oft mikið á sig við að afla tekna til að standa straum af mesta kostnaðinum á ævinni og skuldar jafnvel námslán. Það er mikið óréttlæti fólgið í að skattleggja þetta fólk með háum jaðarskatti, eins og eru ær og kýr vinstri hjarðarinnar. Í Fréttablaðinu 25. september 2021 blöskraði framkvæmdastjóra SA skattaumræðan undir fyrirsögninni:
"Umræðu um skatta snúið á haus fyrir kosningarnar":
"Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir, að í umræðu um skattkerfið í aðdraganda kosninga sé öllu snúið á haus. "Vandséð er, hvað vakir fyrir þeim flokkum, sem tala með þeim hætti, að skattkerfið sé sérstaklega ósanngjarnt hér á landi, annað en einbeittur vilji til að rugla fólk í ríminu", segir Halldór.
Hér á landi séu greidd ein hæstu lágmarks- og meðallaun í heimi. Báðar stærðir séu leiðréttar fyrir kaupmætti og taki þannig tillit til hás framfærslukostnaðar hér á landi."
Mesta fjárfestingarátak flestra fjölskyldna felst í að "koma sér þaki yfir höfuðið", og það gerist yfirleitt á fyrstu búskaparárunum. Verð húsnæðis hefur verið spennt upp með lóðaskorti. Sveitarfélögin maka krókinn af hækkun húsnæðisverðs, af því að fasteignagjöldin taka mið af markaðsverði. Það er ekkert vit í þessari skattheimtu og ber að rjúfa tafarlaust tengslin á milli fasteignamats og fasteignagjalda. Ef tekst að lækka fasteignaverð og varðveita núverandi kaupmátt launa, mun Ísland standa vel að vígi í samkeppninni um fólkið.
""Lágtekjufólk býr ekki við háa skattbyrði, enda á það ekki að gera það. Þeir, sem hærra standa í tekjustiganum, skila sannarlega sínu til samfélagsins og búa við mun hærri skattbyrði, hvort sem talið er í % eða ISK. Það blasir við, að tekjuskattskerfið á Íslandi er öflugt við að jafna kjör í landinu", segir Halldór."
Það er eðli jafnaðarmanna og sósíalista að efna til sundrungar á meðal fólks, og þá er iðulega gripið til öfundarinnar. Þetta var kjarni kommúnismans, en þar sem kommúnistar náðu völdum, töldu þeir sig verða að berja alla andstöðu niður, enda vekur þjóðnýting atvinnutækjanna auðvitað upp mikla andstöðu og jafnvel átök. Hagfræðilega og siðferðilega eru kommúnisminn og öll afsprengi hans á vinstri kantinum vitlausasta hugmyndafræði, sem hægt er að hugsa sér, út frá hagsmunum launþega og alls almennings vegna einokunar ríkisins á störfum og skoðunum. Endastöðin er sú, að "nómenklatúra" flokksins ráði öllu, og er þá engu líkara en afturhvarf til lénsveldisins hafi átt sér stað að breyttu breytanda. Hjá okkur er opinbera báknið nú þegar orðið of stórt og þar af leiðandi of þungur baggi á atvinnuvegunum, sem undir öllu standa, en 30 % launþega þiggur laun frá ríki og sveitarfélögum, og eru þá hvorki ellilífeyrisþegar né örorkulífeyrisþegar taldir sérstaklega.
"Hann [Halldór] segir mikilvægt að skoða tekjuskatta í samhengi við heildartekjur og vaxta- og barnabætur auk annarra tekjutilfærslna ríkisins [til jöfnunar-innsk. BJo]. "Tekjuskattsgreiðslur, að frádregnum vaxta- og barnabótum, leiða í ljós mikil jöfnunaráhrif. Tekjuhæstu 10 % framteljenda greiða um 50 % af öllum tekjuskatti til samneyzlu og fjárfestinga ríkisins. Næstu 10 % greiða 22 % alls tekjuskatts. Lægstu 5 tekjutíundirnar, sem eru framteljendur með heildartekjur, að undanskildum fjármagnstekjum, undir 490 kISK/mán, greiða 1 % af öllum tekjuskatti. Tekjujöfnunaráhrif skattkerfisins eru þannig miklu meiri en ég held, að fólk geri sér almennt grein fyrir", segir hann."
Þetta má umorða þannig: Hátekju- og millitekjufólkið stendur undir velferðarkerfinu og greiðir fyrir lungann af samneyzlu á vegum ríkisins, því að 2 hæstu tekjutíundirnar greiða 72 % (næstum 3/4) af öllum tekjuskattinum, og þær eru líklegar til að greiða yfir helminginn af virðisaukaskattinum vegna meiri neyzlu og fjárfestinga.
Millitekjufólkið, í 6., 7. og 8. tekjutíund, greiðir 27 % af tekjuskattinum, og lágtekjufólkið, undir 5,9 MISK/ár, greiðir nánast engan tekjuskatt. Það er augsýnilega lágtekjufólki mjög í hag, að hátekjufólkið efnist sem mest, því að þá verður enn meira til skiptanna fyrir lágtekjufólk af samneyzlunni. Þetta er þveröfugt við boðskap arftaka kommúnismans, vinstri hjarðarinnar með alls konar heiti á flokksbrotunum, sem jarmar hástöfum um, "að auka þurfi jöfnuð". Jöfnuður er samt sá mesti í heimi á meðal vel stæðra þjóða samkvæmt hinum alþjóðlega GINI-stuðli. Er kyn, þótt enginn jarðvegur sé á Íslandi fyrir afætuboðskap vinstri flokkanna um enn meiri skattheimtu. Samkvæmt Laffler munu þá skatttekjurnar einfaldlega lækka, því að hvatinn til að afla viðbótartekna hverfur (skattstofnar skreppa saman). Þetta hafa sófakommarnir aldrei skilið.
"Bæði Sósíalistaflokkurinn og Flokkur fólksins vilja gera lágmarkslaun skattfrjáls. "Lágmarkslaun duga ekki fyrir framfærslu. Eftirlaun og örorkulaun enn síður", segir Gunnar Smári Egilsson [GSE], oddviti Sósíalistaflokks Íslands í Reykjavíkurkjördæmi norður. "Fyrir 30 árum var enginn skattur greiddur af lágmarkslaunum, eftirlaunum eða örorkulífeyri. Það er siðlaust, að fjármálaráðherra komi og taki fé af fólki, sem á ekki fyrir mat. Það vissi fólk fyrir 30 árum."
Halldór segir það alveg rétt, að lægstu laun hafi verið skattfrjáls þá. "En munurinn er sá, að þá voru lágmarkslaun töluvert lægri en nú. Á árinu 1992 voru lágmarkslaun 133 kISK/mán á verðlagi dagsins í dag, en eru nú 351 kISK/mán eða næstum þrefalt hærri. Bætt lífskjör hafa leitt til þess, að á síðustu 3 áratugum hefur framteljendum, sem greiða tekjuskatt, fjölgað hlutfallslega. Það er heilbrigðismerki, að fleiri launamenn geti tekið þátt í fjármögnun samneyzlunnar", segir Halldór."
Téður GSE er ómarktækur vegna órökstuddra fullyrðinga, sem hann slengir fram í tíma og ótíma, og eru oftast hálfsannleikur eða helber ósannindi. Þannig lætur hann þess ógetið hér að ofan, að lægstu laun og skattheimta af þeim nú og 1992 eru ósambærileg. Að lokum kom þetta fram í téðri umfjöllun Fréttablaðsins:
"Gunnar Smári segir, að á umliðnum árum hafi stjórnvöld, með 25 ára setu Sjálfstæðisflokksins í fjármálaráðuneytinu, lækkað skatta á þá ríku, en lagt þá á fólk, sem hefur ekki efni á mat út mánuðinn. "Þetta er alvarlegt siðrof í samfélaginu, sem almenningur verður að rísa upp gegn.""
Siðblindir menn setja sig gjarna í dómarasæti, fullir vandlætingar, enda sér téður GSE ekkert að því að "ryðja Hæstarétt", ef sá dæmir ekki í anda alræðis öreiganna. Hinir ríku standa undir megninu af samneyzlunni, eins og rakið var hér að ofan, þannig að hatursáróður hins siðblinda lýðskrumara er tómur þvættingur.
"Halldór segir mikilvægt, að allar tillögur um skattkerfisbreytingar, bæði stórar sem smáar, séu settar í samhengi. "Tekjur ríkissjóðs myndu skerðast um 162 mrdISK/ár, ef lágmarkslaun yrðu gerð skattfrjáls. Það svarar til um 80 % af öllum tekjuskattsgreiðslum einstaklinga til ríkisins. [Hér verður að hafa í huga, að einstaklingar með undir 490 MISK/mán greiða aðeins 1 % af öllum tekjuskatti til ríkisins-innsk. BJo.] Slík skattalækkun er óraunhæf, nema stefnt sé að samsvarandi niðurskurði samneyzlunnar, eða að byrðinni verði velt yfir á millitekjuhópa, sem raunar enginn hefur lagt til", segir Halldór."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.10.2021 | 17:14
Misheppnuð kosningabarátta
Af samanburði skoðanakannana og kosningaúrslita 25. september 2021 má álykta, hvaða árangur kosningabarátta stjórnmálaflokkanna hefur borið. Stjórnarflokkarnir toppuðu allir á kjördag, og sama gerði Flokkur fólksins, en aðrir stjórnarandstöðuflokkar, að Miðflokkinum undanskildum, sem aldrei naut meðbyrs, misstu fylgi alla kosningabaráttuna og voru í lágmarki á kjördag. Þetta er mjög áberandi í tilviki Sósíalistaflokksins, en formaður framkvæmdastjórnar hans, Gunnar Smári Egilsson, virðist vera hin fullkomna kjósendafæla, og voru það ein af nokkrum gleðitíðindum kosninganna. Athyglisvert var, að Viðreisn var í sókn í kosningabaráttunni samkvæmt skoðanakönnunum, en hrapaði síðan á kjördag. Má líklega kenna arfaslakri frammistöðu formanns flokksins í formannaumræðum í sjónvarpssal RÚV kvöldið fyrir kosningar um, en spjótum var þar beint að henni með vísun í frétt Morgunblaðsins á bls. 2 daginn fyrir kjördag. Á RÚV afflutti hún ummæli Seðlabankastjóra um aðalkosningamál Viðreisnar. Verður nú fróðlegt að sjá, hvort hún heldur áfram að japla á tengingu ISK við EUR, sem er stefna, sem hefur verið kokkuð upp við eitthvert eldhúsborðið í því augnamiði "að slá í gegn", en stendur á brauðfótum hagfræðilega, eins og hver önnur hagsýn húsmóðir finnur á sér af hyggjuviti sínu. Ósvífni Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur er yfirgengileg, að hún skuli láta eins og um stórmerkilega hagfræðilega hugmynd sé að ræða, þótt hún sé í raun óframkvæmanleg. Þetta mál sýnir, hversu hættulegt yfirborðsfólk án hyggjuvits eða getu til fræðilegrar greiningar á viðfangsefninu verður, þegar það fer út í stjórnmál og vantar málefni til að vekja athygli.
Það var hárrétt hjá Ásgeiri Jónssyni, Seðlabankastjóra frá Hólum í Hjaltadal, að leiðrétta vitleysuna, sem vall upp úr stjórnmálamanninum, og verður nú vitnað í Morgunblaðsfréttina 24. september 2021, sem var undir hógværri fyrirsögn:
"Erfitt að tengja við evru".
"Seðlabankastjórinn telur ómögulegt fyrir bankann að halda fastgengi við evru, en til að það gangi upp, þyrfti m.a. að beita öllum gjaldeyrisforðanum til að viðhalda því. Auk þess yrði ríkisstjórnin ávallt að taka mið af jafnvægi gengisins í fjárlögum, og samkomulag þyrfti að ríkja við verkalýðsfélög um launahækkanir. Að þessum skilyrðum uppfylltum væri þó enn ekki hægt að treysta á, að fastgengið myndi ganga eftir, þar sem aðrir óvissuþættir væru enn til staðar."(Undirstr. BJo.)
Undirstrikaða hlutann skautaði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (ÞKG) framhjá á formannakvöldinu og lét þar með í veðri vaka, að Seðlabankastjóri teldi leiðina færa með góðri hagstjórn. ÞKG er fullkomlega óábyrgur stjórnmálamaður, sem lítið kann til verka. Ábyrgur stjórnmálamaður hefði viðrað hugmyndina við stjórnendur Seðlabankans áður en hann færi á flot með hana. Hver treystir ÞKG fyrir horn úr þessu ?
"Telur Ásgeir, að tenging ISK við EUR gæti m.a. leitt til hærri stýrivaxta, þar sem nauðsynlegt gæti orðið að hækka vexti til að verja gengið. Segir hann ekki ráðlegt að bera saman stöðu Íslendinga nú, og þegar ISK var tengd við reiknieininguna ECU árið 1989. Hafi það fyrirkomulag gengið upp í ljósi fjármagnshafta, sem eru ekki til staðar í dag."
Það er í einu orði sagt stórfurðulegt, að stjórnmálaflokkur skuli leyfa sér að fara á flot með svo illa ígrundaða stefnu í kosningabaráttu sem tenging ISK við EUR er. Það gæti ekki gerzt, nema þar væru aðeins innantómir flautaþyrlar á ferð.
Það voru þó fleiri furðumál á ferðinni hjá Viðreisn og bar þar hæst aðförina að sjávarútveginum með uppdiktuðu markaðskerfi fyrir öflun veiðiheimilda. Sjávarútvegsstefna Viðreisnar á þó ekkert skylt við markaðskerfi, því að eignarrétturinn er virtur að vettugi og útgerðirnar holaðar að innan, sem leiða mundi til gjaldþrots þeirra margra hverra innan tíðar. Það, sem þjóðnýtt er, á svo að leyfa þeim að bjóða í. Spurning, hvort ESA mun ekki telja heimildirnar útboðsskyldar á Innri markaði EES ?
Allt verður að öfugmælum hjá Viðreisn, því að þetta kalla þau að auka rekstrarlegan fyrirsjáanleika útgerðanna. Það þarf ekki að vera doktor í hagfræði til að sjá í hendi sér, að þetta mun auka óvissu í útgerð og fiskvinnslu svo mikið, að fjármagnsflótti verður úr greininni og fjárfestingar verða í lágmarki.
Þetta er skólabókardæmi um það, sem er ekki hlutverk stjórnmálamanna, þ.e. að reyna að troða umdeilanlegri hugmyndafræði sinni upp á atvinnugreinar, sem ganga vel, og klæða gjörninginn í umbúðir "réttlætis". Það er ekki hægt að stunda ábátasaman atvinnurekstur til að fullnægja réttlæti, sem margir aðrir kalla argasta óréttlæti.
Gunnar Þórðarson, viðskiptafræðingur, ritaði um þessi ósköp í Morgunblaðið 21. september 2021 undir fyrirsögninni:
"Viðreisn ráðstjórnar":
"Maður, sem hefur hampað frábæru fiskveiðistjórnunarkerfi og verið framarlega í að útskýra yfirburði íslenzks sjávarútvegs, sem sé markaðsdrifinn og skili meiri verðmætum en þekkist nokkurs staðar annars staðar í heiminum. Nú í einni svipan á að þjóðnýta auðlindina með því, að ríkið taki veiðiheimildir og setji á uppboð.
Þetta hefur reyndar verið reynt áður í fiskveiðum með hörmulegum afleiðingum. Eignarréttur á veiðiheimildum er einmitt forsenda þess, að fyrirtæki fjárfesti, auki framleiðni og þannig verðmætasköpun, sem er okkur Íslendingum svo mikilvægt. Uppboð á þessum heimildum, þótt það sé gert í mörgum skrefum, er ómöguleiki, sem verður útskýrð[ur] hér seinna."
Þarna gerir Gunnar Þórðarson umskiptinginn Daða Má Kristófersson, varaformann Viðreisnar, að umræðuefni. Sá pólitíski framagosi hefur litið fram hjá þeirri alkunnu staðreynd, að bezta ráðið til verndar takmörkuðum gæðum (auðlindum) yfirleitt er að koma þeim í einkaeign, enda hefur umgengni útgerðarmanna við fiskistofnana verið til fyrirmyndar, eftir að þeir fengu nýtingarrétt á þessari mikilvægu þjóðareign til ráðstöfunar, þótt með fáeinum, ljótum undantekningum sé.
Verði nýtingarrétturinn á hverfanda hveli fyrir tilverknað misviturra stjórnmálamanna, þá mun fara með umgengnina eins og vant er, þar sem "hið opinbera" er eitt ábyrgt fyrir eignarhaldinu. Umgengnin verður eins og enginn eigi auðlindina. Síðan er auðvitað hin lagalega hlið málsins, sem útilokar þessa leið. Það eru engin lagaleg skilyrði uppfyllt fyrir þjóðnýtingu á nýtingarréttinum, þótt auðlindin sé í eigu þjóðarinnar. Þjóðareign í þessu tilviki heimilar aðeins ríkisvaldinu að fara með nýtingarstjórn auðlindarinnar, og ríkisvaldinu hefur farizt það vel úr hendi með tilstyrk vísindalegrar ráðgjafar Hafrannsóknarstofnunar. Lagaheimildir ríkisvaldsins standa á hinn bóginn ekki til þess að svipta útgerðir aflaheimildum, nema þær gerist lögbrjótar. Stjórnarskráin ver atvinnuréttindi og eignarrétt (þjóðin er ekki lögaðili, þótt allt opinbert vald komi frá þjóðinni).
"En hvers vegna virka ekki uppboðin ? Ef við tökum 5-10 % af aflaheimildum árlega og setjum á uppboð, munu útgerðir bjóða í þær. Myndi það tryggja rétt verð á kvótanum ? Fyrir útgerð, sem hefur fjárfest í skipi og búnaði og búið [er] að taka 10 % af heimildum af þeim, þá stendur [hún] frammi fyrir ákveðnu vandamáli. Þeir, sem einhvern tímann hafa komið nálægt rekstri, þekkja hugtök eins og fastur kostnaður og breytilegur. Fyrir flugfélag, sem er að selja miða, lítur dæmið út þannig, að þegar búið er að selja dýra miða og komið er [í kassann] fyrir breytilegum kostnaði, getur borgað sig að bjóða miða á verði, sem aldrei myndi duga til rekstrarins, en skilar þó einhverju upp í fastan kostnað. Sama gildir um útgerð, sem þarf að leigja kvóta af ríkinu. Til að fá hann getur borgað sig að bjóða verð, sem [gerir útgerðinni kleift að veiða] fyrir breytilegum kostnaði og [eitthvað] upp í fastan kostnað [útgerðarinnar]. Útgerðin sem slík myndi hins vegar aldrei bera sig með slíku veiðigjaldi, þannig að það verð endurspeglar á engan hátt, hvaða veiðigjald er raunhæft. Er samt hægt að halda því fram, að leiguverðið endurspegli getu útgerðarinnar til að taka á sig hækkun á veiðigjöldum ?"
Hér hefur Gunnar Þórðarson sýnt fram á, að boðað fiskveiðistjórnunarkerfi pólitískra flautaþyrla í Viðreisn, Samfylkingu, Píratahreyfingunni o.fl. er ófær leið til að láta markaðinn ákveða "rétt veiðigjald". Þess vegna hefur sú aðferð alls staðar mistekizt hrapallega og endað að lokum með fjöldagjaldþrotum útgerðarfélaga, ef aðferðin hefur ekki verið slegin af í tæka tíð. Þetta er aðferð þöngulhausa og/eða skemmdarverkamanna. Við þurfum ekki á slíkum stjórnmálamönnum að halda, og þeir ættu eindregið að halda sig frá afskiptum af atvinnugreinum, enda eru þeir ekki til þess bærir. Aðferðin, sem þessir stjórnmálaflokkar hafa blásið sig út yfir, er ekki einnar krónu virði fyrir ríkissjóð og hag þjóðarinnar, heldur mundi grafa undan undirstöðu atvinnuvegi þjóðarinnar, enda hafnaði þjóðin þeim blöðruselum, sem boðuðu þetta fyrir kosningar 25.09.2021.
"Uppboð ríkisins á veiðiheimildum er ekkert annað en sósíalismi, þar sem horfið er frá markaðsbúskapi til ráðstjórnar. Hvernig halda menn, að brugðizt verði við því, þegar eitt sjávarpláss tapar veiðiheimildum ár eftir ár, þar sem útgerðir þar hafa ekki sama bolmagn og öflugustu útgerðirnar til að bjóða hátt verð ? Verður þá brugðizt við því með sértækum aðgerðum ? Sendir sérfræðingar til að ráða bót á vandanum og leysa hann ? Það er ráðstjórn ! Ástæða þess, að veiðigjald er reiknað sem hlutfall af hagnaði, er einmitt að verja veikari útgerðir gagnvart þeim öflugu. [Aðalhvatakona ESB-aðildar Íslands, mannvitsbrekkan á stóli formanns Viðreisnar, segir aftur á móti ástæðuna vera að verja skussana í útgerð. Hún þekkir hvorki haus né sporð á vandamálum útgerðarfélaga og ætti að skammast sín fyrir jafnrakalausar fullyrðingar-innsk. BJo.]
Íslenzkur sjávarútvegur er vel rekinn og á eðlilegum grunni. Þegar búið er að taka rúmlega 30 % af hagnaði í veiðigjöld, er hann á pari við önnur vel rekin fyrirtæki með rekstrarhagnað, en greiðir sér heldur minni arð af hlutafé."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)