29.8.2021 | 16:58
Umgjörð sjúkrahúsanna hefur gengið sér til húðar
Af mikilli umræðu um heilbrigðismálin nú í aðdraganda Alþingiskosninga má ráða, að þar sé pottur brotinn. Tvennt ber þar hæst. Fjármögnun sjúkrahúsanna, einkum Landsspítalans, og aðför heilbrigðisráðuneytisins að sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólki með þeirri aukaverkun, að viðskiptavinir þess standa ver að vígi gagnvart Sjúkratryggingum Íslands.
Það er árlegt fréttaefni, að fjárveitingar til Landsspítala hrökkvi ekki fyrir kostnaðinum. Björn Zoëga (BZ), forstjóri Karólínska í Stokkhólmi, hefur nýlega tjáð sig á þá lund hérlendis, að það sé úrelt þing að hafa sjúkrahús á föstum fjárlögum. Það er út af því, að á "stafrænni öld" er tiltölulega einfalt að skrá hvert verk og að reikna út kostnaðinn við það út frá áður tilgreindum einingarkostnaði. Þetta þýðir, að innleiðing afkastahvetjandi og gæðahvetjandi launakerfis fyrir starfsfólkið, sem að verkinu vinnur, liggur tiltölulega beint við nú á tímum. Þetta hefur BZ gert á Karólínska, hann gat fækkað starfsfólkinu um 950 og fjölgað legurúmum samtímis um rúmlega fjórðung. Þegar hann var forstjóri Landsspítalans, undirbjó hann þetta þar. Hvað dvelur orminn langa. Eru þvergirðingar í heilbrigðisráðuneytinu, sem stoppa þetta ? Hafi heilbrigðisráðherra ekkert minnzt á þetta, er það af því, að hún vill ekki heyra minnzt á hvata fyrir starfsfólkið. Hjá henni ríkir flatneskjan.
Til að koma böndum á hömlulausa útþenslu kostnaðar við rekstur sjúkrahúsanna, helzt háskólasjúkrahússins, þarf að reka endahnútinn á undirbúninginn, sem BZ hóf, og innleiða tekjustreymiskerfi að hætti Karólínska í Stokkhólmi, sem er með um tvöfalt fleiri legurúm en Landsspítalinn, svo að þetta eru sambærileg sjúkrahús að stærð.
Landsspítalinn (LSH) nær ekki að nýta öll sín rúm, um 630 talsins, vegna manneklu, þótt bráða nauðsyn beri til. Það er ekki hægt að bera því við, að fjárveitingar til spítalans hafi verið skornar við nögl, því að á verðlagi ársins 2020 hafa þær aukizt úr mrdISK 59,7 árið 2010 í mrdISK 75,5 árið 2020 eða um 26,5 % á 11 árum á föstu verðlagi, og hlutfallið af ríkisútgjöldum hefur hækkað úr 8 % í 9 % á miklu þensluskeiði ríkisútgjalda.
Það eru ýmsir hnökrar á rekstri Landsspítalans, sem væntanlega mundu lagast, ef/þegar réttir hvatar að hætti BZ verða settir inn í rekstur hans. Hér verða fáeinir tíundaðir, sem fram komu í fréttaskýringu Stefáns E. Stefánssonar í Morgunblaðinu 25. ágúst 2021 undir fyrirsögninni:
"Mikilvægt líffæri í þjóðarlíkamanum".
"Á sama tíma er ljóst, að nokkur hluti starfsfólks er í annarri launaðri vinnu utan sjúkrahússins. Á það m.a. við um lækna, sem reka eigin stofur samhliða störfum fyrir spítalann. Þar er ekki aðeins um að ræða hópinn, sem er í hlutastarfi á spítalanum. Í fyrrnefndri fyrirspurn kemur t.d. fram, að 23,5 % þeirra starfsmanna, sem sinna 100 % stöðugildi við spítalann, þiggi einnig laun utan hans."
Þetta er óeðlilegt og ætti að binda endi á. Það er líklegt, að kerfi BZ leyfi ekki slíkt, enda verður eftirsóknarverðara að vera í fullu starfi á spítalanum, eftir að þar verður innleitt afkastahvetjandi vinnuumhverfi. Óánægja virðist krauma á spítalanum með núverandi stjórnkerfi. Um þetta reit Stefán Einar:
"Hitt er ljóst, að margir starfsmenn spítalans, sem ViðskiptaMogginn hefur rætt við, horfa mjög til þess, hvernig mjög hefur fjölgað í hópi þeirra starfsmanna á síðustu árum, sem ekki koma með beinum hætti að umönnun sjúklinga. Telja viðmælendurnir, sem ekki vilja koma fram undir nafni, að sú þróun komi í raun niður á starfsemi spítalans og afköstum."
Ef verkefnamiðaðar greiðslur í stað "fastra fjárlaga" hefðu þegar verið innleiddar við LSH með góðum árangri, eins og á Karólínska, er útilokað að Parkinsonslögmálið gæti þrifizt þar með "paper shufflers" og silkihúfum. Hvort sem heildarkostnaður við spítalann eykst við slíka innleiðingu eður ei, þá mun starfsemi hans verða straumlínulagaðri og afkastameiri án þess, að slíkt komi niður á gæðum spítalans. Forstjóri hans sagði nýlega í viðtali, að skilvirkni á LSH væri tiltölulega góð. Það á þó ekki við um heildarstarfsemina, ef marka má alþjóðlegt ráðgjafarfyrirtæki:
"Í árslok í fyrra [2020] var gefin út skýrsla, sem unnin var af ráðgjafarfyrirtækinu McKinsey, og þar var bent á, að síðasta hálfa áratuginn hefðu afköst á spítalanum farið minnkandi, ekki sízt þegar kom að framlagi lækna til spítalans. Forstjóri hefur þó bent á, að það megi fyrst og fremst [sic] rekja til "tímamóta" kjarasamnings, sem ætlað var að draga úr gríðarlegu álagi á starfsmenn spítalans. Í alþingiskosningum, sem fram undan eru í komandi mánuði, er líklegt, að fjármögnun Landsspítalans verði í brennidepli."
Það er spurning, hvort hér er verið að bera saman epli og appelsínur. Forstjórinn virðist miða afköst við vinnuframlag mælt í klukkustundum, t.d. í mánuði, frá læknunum. Eðlilegur mælikvarði á afköst eru hins vegar afgreiddar verkeiningar á hverja unna klukkustund. Kannski er verkbókhald LSH enn ekki í stakkinn búið að meta vinnuframlagið í þessum verkeiningum. Þess háttar verkbókhald er hins vegar forsenda fyrir innleiðingu hvatakerfis að hætti BZ á LSH. Slíkt kerfi virðist geta greitt úr ýmsum meinsemdum, sem grafið hafa um sig á LSH. Það þarf að stokka stjórnkerfi spítalans upp, fá yfirlæknunum óskoruð völd yfir sínu ábyrgðarsviði og skipa stjórn yfir spítalann. Um samsetningu þeirrar stjórnar ætti að leita fyrirmynda til hinna Norðurlandanna. Heilbrigðisráðuneytið gæti með þessu móti ekki lengur ginið yfir málefnum LSH.
Jafnframt þessum umbótum á stjórnkerfi LSH þarf framkoma ríkisvaldsins við sjálfstætt starfandi starfsfólk heilbrigðisgeirans að gjörbreytast til batnaðar. Viðhorfið þarf að verða, að vinnuframlag sjálfstætt starfandi sé ríkinu verðmætt og mikilvægt, enda er ríkið raunar ekki í stakkinn búið til að veita þjónustu sjálfstætt starfandi með ódýrari hætti, og í langflestum tilvikum bara alls ekki. Þetta á sérstaklega við nú, þar til Nýi Landsspítalinn tekur til starfa. Þar vekur reyndar athygli, hversu lítil aðstaða til klínískrar starfsemi bætist við, t.d. aðeins 210 legurými (nú eru 638 á Lanzanum) og 23 gjörgæzlurými, sem virðist vera allt of lítil viðbót m.v. við kveinstafina frá Landsspítalanum í Deltu-bylgju Kófsins.
Það virðist vera óravegur á milli þjónustu heilbrigðiskerfa Íslands og Svíþjóðar við skjólstæðinga sína. Líklegast er, að sænskir sósíaldemókratar og aðrir hafi haft vit á að virkja mátt samkeppninnar, t.d. á milli hins opinbera og einkarekna geirans. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, drap á þetta í grein í Morgunblaðinu 21. ágúst 2021 undir fyrirsögninni:
"Heilbrigðiskerfi á krossgötum".
"Í Svíþjóð, hins vegar, gildir svokölluð þjónustutrygging fyrir notendur heilbrigðisþjónustu. Þar á fólk rétt á mati á vanda sínum á örfáum dögum, tíma hjá sérfræðingi innan 3 mánaða, og ef aðgerðar er þörf, þá er tryggt, að hún fari fram innan 90 daga. Þessi viðmið eru skýr, skiljanleg og hafa að stórum hluta náðst þar í landi.
Hér ætti vitaskuld að gilda svipað fyrirkomulag. Ef fyrirsjáanlegt er, að ekki verði unnt að veita þjónustuna innan tímamarka, verði viðkomandi gert um það viðvart og honum heimilað að sækja þjónustuna annars staðar - án viðvótar kostnaðar fyrir einstaklinginn."
Það er heilbrigðisráðuneytinu til mikils vanza, að heilbrigðisþjónustan hérlendis skuli ekki komast í nokkurn samjöfnuð við þetta. Það er ekki út af skorti á fjárveitingum úr ríkissjóði, og það er ekki, af því að Ísland "framleiði" of fáa lækna eða aðra heilbrigðisstarfsmenn. Íslenzkir læknar starfa margir erlendis og t.d. hjúkrunarfræðingar eru margir í annars konar störfum hérlendis. Þetta er skipulaginu að kenna. Ef greiðslufyrirkomulag BZ á Karólínska verður tekið hér upp og samið verður við sjálfstætt starfandi sérfræðinga, þá ætti leiðin fyrir íslenzka heilbrigðiskerfið að vera greið að sigla upp að hinu sænska. Þó þarf vafalaust fyrst að hreinsa ranghugmyndirnar út úr heilbrigðisráðuneytinu. Þær hafa keyrt þetta kerfi í þrot.
Það er hægt að taka algerlega undir eftirfarandi greiningu Halldórs Benjamíns Þorgeirssonar, sem greinilega hefur ígrundað þetta mál vel og er jafnvel ýmsum hnútum kunnugur:
"Því er gjarna haldið fram, að fjárskortur standi heilbrigðisþjónustunni fyrir þrifum. Ljóst er, að ef ekki fylgja auknar kröfur um, hvernig fjármunirnir eru nýttir, munu þeir hverfa án þess, að nokkur merkjanlegur munur verði á þjónustunni. Heilbrigðisþjónustan er að langmestum hluta greidd af skattfé, sem fólkið og fyrirtækin greiða. Það er því ríkið og stofnanir þess, sem semja við þá, sem veita þjónustuna, um gæði, öryggi, árangur og hagkvæmni. Því miður er töluverður hluti heilbrigðiskerfisins rekinn án samninga, heldur fær fé beint af ríkinu án þess, að samið sé um nýtingu þess fyrirfram."
Þetta samningsleysi nær engri átt. Á meðan er heilbrigðiskerfið eins og stjórnlaust rekald. Slíka samninga vantar við sjúkrahúsin og samningar við sjálfstætt starfandi eru ekki lengur í gildi. Í staðinn fyrir að semja hefur heilbrigðisráðuneytið valið að fara í stríð við einkaframtakið, þangað til núna, að ákall um hjálp kom frá Landsspítalanum, sem kominn er að fótum fram. Kerfi fastra fjárlaga hefur gengið sér til húðar. Stokka verður upp á nýtt. Sú sama er niðurstaða Halldórs Benjamíns:
"Nú [eftir kosningar-innsk. BJo] er lag að endurskoða samninga og viðmið í íslenzku heilbrigðiskerfi. Létta álagi af Landsspítala, til að hann geti sinnt betur sínum mikilvægustu skyldum. Ríkið ætti að vera kaupandi vel skilgreindrar þjónustu í kerfi, sem byggir á fjölbreyttum rekstrarformum til að ná fram hagræðingu, skilvirkni og auknum gæðum, byggt á faglegum viðmiðum. Ríkið ákveður [hámarks]verð, magn og gæði, en margir aðilar geta boðið í þjónustuna [sem óskað er eftir-innsk. BJo]. Með slík markmið fyrir augum er óhjákvæmilegt, að við nýtum krafta sjálfstætt starfandi sérfræðinga, einkafyrirtækja og félagasamtaka."
Hvaða stjórnmálaflokkar á Íslandi skyldu nú vera fáanlegir til að greiða götu þessara stefnumála ? Munu þeir geta myndað meirihluta á Alþingi um þessi mál ? Ef ekki, þá mun enn síga á ógæfuhlið heilbrigðiskerfisins og óánægja með ófullnægjandi þjónustu magnast.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.8.2021 | 11:13
Er komin forskrift fyrir Landsspítalann ?
Svo virðist leikmanni sem starfsemi Landsspítalans hrörni með hverju árinu, sem líður. Það verður tæplega rakið til þess, að fjárveitingar hafi verið skornar við nögl síðan 2014, því að fjárveitingarnar hafa aukizt um tugi milljarða ISK umfram launahækkanir heilbrigðisstarfsfólks. Samt upplýsti formaður sjúkrahússlækna í fréttum RÚV 22.08.2021, að fyrir 1-2 misserum hefðu ekki allir umsækjendur um stöður hjúkrunarfræðinga verið ráðnir vegna fjárskorts. Þetta kemur skattborgara í opna skjöldu, því að í sumar hefur verið svo alvarlegur skortur á hjúkrunarfræðingum, læknum og öðru heilbrigðisstarfsfólki, að þeirra hefur verið leitað með logandi ljósi innanlands og utan, til að spítalinn geti haldið í horfinu í Kófinu. Kófið hefur opinberað, að viðnámsþróttur Landsspítalans er hættulega lítill og ótrúlega lítill. Þegar svo er komið, verður að stokka upp spilin og breyta um stefnu, því að Landsspítalinn er nú sem stórskip á rúmsjó með laskað stýri.
Eitt af bjargráðunum núna hefur verið að leita til einkaframtaksins um starfsfólk. Það hljóta að hafa verið þung spor fyrir heilbrigðisráðuneytið, því að það hefur reynt að torvelda starfsemi sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólks m.a. með því að standa gegn endurnýjun samninga við það, eins og dæmi verður tekið um síðar í þessum pistli. Heilbrigðisráðuneytið hefur reynt að bregða fæti fyrir starfsemi sjálfstæðra félaga með því að færa frá þeim verkefni, en það hefur allt farið í handaskolum, enda eru Landsspítalinn og aðrar opinberar heilbrigðisstofnanir illa í stakkinn búnar til að taka við nýjum verkefnum á þessari stundu.
Öll er þessi framkoma heilbrigðisráðuneytisins fordæmanleg og vitnar alls ekki um, að hagsmunir sjúklinga vegi þungt þar á bæ. Meira er þar lagt upp úr pólitískum kreddum um einokunarstarfsemi ríkisins en læknisfræðilegum og rekstrarlegum sjónarmiðum.
Morgunblaðið birti nýlega viðtal við Björn Zoëga (BZ), sem tók við stöðu Karolinska háskólasjúkrahússins í Stokkhólmi 2019. Hann hefur á stuttum tíma unnið "kraftaverk" á íslenzkan mælikvarða á rekstri sjúkrahússins og snúið rekstrinum úr halla í hagnað, fækkað starfsfólki og fjölgað sjúkrarúmum. Hann segir, að fjármögnun sjúkrahúsa úr ríkiskassanum með fastri árlegri fjárlagaupphæð sé úrelt þing. Í það kerfi vanti alla hvata, en sjúkrahússrekstur er ekki frábrugðinn öðrum rekstri að því leyti, að hann verður að hafa bæði gæðatengda og fjárhagstengda hvata og markmið að keppa að, ef hann á að geta tekið framförum.
Karolinska er ekki lengur á föstum fjárlögum, heldur á árangurstengdum greiðslum fyrir hvern sjúkling. Þetta er nauðsynlegt að taka upp hér á öllum sjúkrahúsum landsins, og verkbókhaldið þarf að vera eins alls staðar, einnig í einkageiranum, svo að raunahæfur samanburður fáist fyrir verkkaupann, Sjúkratryggingar Íslands.
Þegar BZ tók við stöðu Karolinska fækkaði hann í hópi starfsfólks um 550 manns og nokkru síðar um 400 manns, þannig að nú eru þar tæplega 1000 færri á launaskrá en áður, en á sama tíma jók hann starfsemina og þar með tekjur spítalans. Hvernig fór hann að þessu ? Það er líklegt, að hann hafi skilið verkefni, sem ekki voru hluti af kjarnastarfsemi spítalans, frá reglulegri starfsemi og útvistað verkefnum sem aðkeyptri þjónustu, sem spítalinn þurfti að láta vinna fyrir sig. Þannig sparast fé, og starfsemin verður hnitmiðaðri. Þessa leið getur Landsspítalinn líka farið. Einnig er líklegt, að stjórnendalögum Karólínska hafi verið fækkað og ábyrgðin færð í auknum mæli til yfirlæknanna, þar sem hún á heima.
Nýlega komst í hámæli, að Landsspítalinn rekur einhvers konar upplýsingadeild, sem ráðleggur yfirlæknum að hunza "skrattakollana" á fréttastofunum. Þessu má hæglega útvista og spara fé. Tölvukerfi Landsspítalans mun líkjast illa samstæðum bútasaumi. Nauðsynlegt er, að allur búnaður sjúkrahússins sé tengdur saman í eina heild. Þetta er dýrt, og verður vonandi hluti af "Nýja Landsspítalanum". Leita má fyrirmynda til Karolinska og annarra um, hvernig að tölvu- og innranetsmálum er staðið þar. Það væri síðasta sort að reyna að finna upp hjólið hér.
Með innleiðingu hvatakerfis fyrir starfsfólk Karólínska, sem eftir varð, tókst BZ að fjölga sjúkrarúmum um rúmlega 26 %, úr 950 í 1200. Það er mjög æskilegt að leita í smiðju BZ með þessi hvatakerfi og kynna þau fyrir starfsfólki Landsspítalans. Þótt þar reynist hugur í fólki til innleiðingar, er björninn ekki þar með unninn, því að allsendis óvíst er, að þessi hvatakerfi falli stjórnendum heilbrigðisráðuneytisins í geð. Það er einhver ástæða fyrir því, að verkeiningarkerfið, sem BZ hóf að þróa, á meðan hann var forstjóri Landsspítalans, hefur ekki enn verið innleitt þar.
Það er brýnt að skipta um húsbændur í heilbrigðisráðuneytinu áður en nokkur von á að vera til nauðsynlegrar uppstokkunar og umbóta í heilbrigðiskerfinu í anda BZ.
Í Staksteinum Morgunblaðsins mátti m.a. lesa eftirfarandi 17.08.2021:
"Útgjöld til heilbrigðismála fara sífellt vaxandi hér á landi, en töluvert vantar upp á framleiðnina. Skýrist það að hluta til af fjandsamlegu viðhorfi til einkarekstrar, en að hluta til má ætla, að horfa þurfi til skipulags Landsspítals."
Það verður ekki hjá því komizt, að útgjöld ríkisins til heilbrigðismála munu fara vaxandi vegna öldrunar, þ.e. hækkandi meðalaldurs þjóðarinnar, en alveg sérstaklega af þeirri ástæðu er nauðsynlegt að finna leiðir til að auka starfsánægju á sjúkrahúsunum, svo að í stað núverandi atgervisflótta, sem augljóslega hrjáir Landsspítalann, laði sjúkrahúsin til sín hæfileikafólk, sem lokið hefur löngu námi, og haldist vel á fólki. Núna erum við á meðal yngstu þjóða í OECD, en að aldarfjórðungi liðnum verða Íslendingar á meðal elztu þjóða þar, ef svo heldur fram sem horfir. Þetta hlýtur að hafa gríðarlegar þjóðfélagsbreytingar í för með sér og minnkar tekjustreymið í þjóðfélaginu. Lífeyrissjóðirnir munu þá ekki lengur þenjast út, heldur minnka og þjóðinni mun fækka vegna ófullnægjandi viðkomu. Hagvöxtur og verðbólga verða nálægt 0, eins og þekkt er í Japan.
Þetta er ekki sérlega glæsileg framtíðarsýn. Nú eru 4-5 á vinnumarkaði á móti hverjum 1 utan hans, en að aldarfjórðingi liðnum mun hlutfallið hafa helmingazt. Nú hrjáir "fráflæðisvandi" sjúkrahúsin, þ.e. aldrað, útskrifað fólk teppir rúm, jafnvel á háskólasjúkrahúsinu, af því að það á í engin hús að venda, þótt kostnaður legurýma háskólasjúkrahússins sé á við dýrustu svítu. Svíar hafa séð við þessu. Þeir gefa viðkomandi sveitarfélagi (hreppi þess aldraða) fáeinna sólarhringa frest að sækja hinn aldurhnigna skjólstæðing, en að frestinum liðnum er sveitarfélaginu gert að standa straum af kostnaði legurúmsins, og hann er sá hæsti, sem þekkist, svo að fráflæðisvandi þekkist þar ekki.
Hitt atriðið, sem nefnt var í Staksteinatilvitnuninni, fjandskapurinn við einkarekstur í heilbrigðisgeiranum, er mikill ljóður á ráði heilbrigðisráðuneytisins, svo að ekki sé nú sterkar að orði kveðið. Þetta viðhorf er hvorki hægt að verja með vísun til hagsmuna skjólstæðinga heilbrigðiskerfisins né með vísun til hagsmuna ríkissjóðs. Eina skýringin á þessu fráleita viðhorfi er sú, að hér sé um löngu úreltar og steinrunnar kreddur frá kommúnismanum að ræða, sem svældi alla atvinnustarfsemi undir sig og veitti fólki ekkert val. Að þessi ósköp skuli ganga ljósum logum í stjórnarráði Íslands árið 2021 er stórfurðuleg tímaskekkja og einsdæmi á Norðurlöndunum og þótt víðar væri leitað. Kannski þarf að leita til Kúbu Karíbahafsins til að finna viðlíka viðundur.
Óli Björn Kárason, þingmaður sjálfstæðismanna í Kraganum, gerði aðför heilbrigðisráðuneytisins að einkaframtaki í heilbrigðisgeiranum að umræðuefni í Morgunblaðsgrein sinni 18. ágúst 2021:
"Atvinnufrelsi heilbrigðisstarfsmanna - réttindi sjúkratryggðra".
"Nokkrum mánuðum fyrir útskrift [sjúkraþjálfara] breyttu heilbrigðisyfirvöld reglugerð um endurgreiðslu Sjúkratrygginga Íslands vegna sjúkraþjálfunar. Endurgreiðslan er samkvæmt gjaldskrá, sem stofnunin setur einhliða, en ekki hafa tekizt samningar milli sjúkraþjálfara og Sjúkratrygginga. Breytingin lætur kannski ekki mikið yfir sér, en gjörbreytir forsendum ungra sjúkraþjálfara. Skilyrði fyrir endurgreiðslu sjúklings er, að sjúkraþjálfarinn hafi starfað í a.m.k. 2 ár sem sjúkraþjálfari í a.m.k. 80 % starfshlutfalli eftir löggildingu.
Sem sagt: enginn viðskiptavinur þeirra sjúkraþjálfara, sem nýlega hafa lokið námi, á rétt á endurgreiðslu frá Sjúkratryggingum næstu 2 árin. Eða: allir þeir, sem ákveða að nýta sér þjónustu nýútskrifaðra, sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara, eru sviptir sjúkratryggingum.
Við getum einnig stillt þessu upp með eftirfarandi hætti: með reglugerðinni er verið að skerða atvinnuréttindi sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara í 2 ár. Eftir langt og strangt 5 ára nám, þar sem gefin voru fyrirheit um full starfsréttindi - atvinnuréttindi - er jafnræðisreglan þverbrotin, og reglan um meðalhóf í stjórnarathöfnum er rykfallið og merkingarlaust hugtak í djúpum skúffum kerfisins."
Þetta dæmi sýnir, að heilbrigðisráðuneytið sést ekki fyrir í ósvífninni. Það hikar ekki við lögbrot í viðleitni sinni við að koma einkaframtakinu í heilbrigðisgeiranum á kné. Það er í heilögu stríði undir gunnfána marxisma og einokunar. Auðvitað ætti að lögsækja ráðherrann fyrir valdníðslu. Svona lagað er undirmálsstjórnsýsla, og henni verður að linna með því að hreinsa óhæfa stjórnendur út úr heilbrigðisráðuneytinu. Með aðgerðum sínum gera þeir aðeins illt verra, og sjúklingarnir fara jafnan verst út úr ofstækistilburðum ráðamanna.
"Því miður eru dæmin um sjúkraþjálfarana og talmeinafræðingana ekki þau einu um, hvernig hægt og bítandi er verið að grafa undan sjálfstætt starfandi heilbrigðisstéttum, takmarka atvinnufrelsi þeirra og hafa réttindi af sjúkratryggðum. Staða sjálfstætt starfandi sérfræðilækna er lítið skárri, og hægt, en örugglega, er verið að hrekja þá út úr sameiginlegu tryggingakerfi okkar allra. Og þar með verður til tvöfalt heilbrigðiskerfi með einkareknum sjúkratryggingum.
Flest verðum við að sætta okkur við heilbrigðisþjónustu innan ríkisrekna tryggingakerfisins með tilheyrandi biðlistum. Efnameira fólk kaupir þjónustuna beint eða í gegnum eigin tryggingar af sérfræðilæknum, sjúkraþjálfurum og talmeinafræðingum. Áratuga barátta fyrir því, að allir eigi jafnan og greiðan aðgang að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu óháð efnahag, verður að engu gerð."
Framferði heilbrigðisráðherra á þessu kjörtímabili hlýtur að hafa virkað sem blaut tuska framan í þingflokk sjálfstæðismanna. Í næstu ríkisstjórn, sem hann stendur að, verður hann að fá einhvers konar tryggingu fyrir því, að látið verði af lögbrotum og ofstopafullri yfirtroðslu á atvinnuréttindum starfsfólks utan opinbera geirans og purkunarlausri réttindasviptingu sjúkratryggðra í anda sósíalismans. Verði hér vinstri stjórn að afloknum þingkosningunum í september 2021, má telja víst, að haldið verði áfram einokunarstefnunni og að svæla einkaframtaksfólk inn á launaskrá Landsspítalans. Það verður mikið tjón fyrir heilbrigðisþjónustuna og nýliðun í hópi lækna, hjúkrunarfræðinga og annarra heilbrigðisstarfsmanna, sem eru með alþjóðlega menntun. Sú staðreynd, að Ísland á í samkeppni við útlönd um hámenntaða og hæfa sérfræðinga, er hundsuð með þessum stríðsrekstri gegn einkaframtakinu.
Samhliða uppstokkun á Landsspítalanum og hreinsun út úr heilbrigðisráðuneytinu þarf að stórefla einkageirann, sem einn getur bætt úr þeim þjónustuskorti (lengingu biðlista), sem fyrirsjáanlegur er á næstu árum, þar til Nýi Landsspítalinn verður að fullu kominn í brúk.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
23.8.2021 | 11:27
Hvað kostar að ná kolefnishlutleysi
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að íslenzk stjórnvöld hafa sett landsmönnum það markmið að verða kolefnishlutlausir, þ.e. að starfsemi þeirra á landi valdi engri nettó losun gróðurhúsalofttegunda (CO2-ígilda), árið 2040. Árið 2019 (2020 var afbrigðilegt ár) nam jarðefnaeldsneytisnotkun Íslendinga 43,3 PJ (Peta Joule samkvæmt talnaefni Orkustofnunar-OS-2021-T008-01) eða 16,2 % af heildarorkunotkun landsmanna. Mönnum til glöggvunar nam þetta rúmlega 89 % af vinnslu vatnsorkuveranna. Þetta er ekkert smáræði, þótt það að tiltölu sé mun minna en að jafnaði í öðrum löndum.
Það verður að koma sjálfbær orka í staðinn, raforka, og þessi lokarafvæðing orkukerfisins á Íslandi mun nema um 6,7 TWh/ár m.v. stöðuna 2019, og nemur þessi rafvæðing um 34 % af raforkunotkun landsmanna 2019. Gera má ráð fyrir, að uppsett afl slíkra virkjana þurfa að vera um 1000 MW=1,0 GW til að knýja bílaflotann, vinnuvélarnar, skip og báta og innanlandsflugið, og væntanlega tæplega 9 TWh/ár, ef millilandaflugi og millilandasiglingum er bætt við.
Kostnaður við þessar virkjanir (1000 MW) gæti numið um mrdISK 350 og við flutnings- og dreifikerfið mrdISK 100 að meðtöldum jafnstraumsjarðstreng á milli Norður- og Suðurlands, sem verður að koma samhliða þessari miklu rafvæðingarviðbót, til að tryggja bæði æstæðan og kvikan stöðugleika raforkukerfisins.
Kostnaður við hleðsluaðstöðu í höfnum, á flugvöllum og við vegi ásamt áfyllistöðvum vetnis og lífeldsneytis, gæti numið mrdISK 100. Þá er ótalin vetnisverksmiðja og dreifikerfi vetnis. Alls eru þetta mrdISK 550. Bretar áætluðu fyrir nokkru, að orkuskiptin hjá sér mundu kosta mrdISK 900 á íslenzkan mannfjöldamælikvarða. Á Bretlandi verða orkuskiptin tiltölulega umfangsmeiri en hér, því að þeir þurfa að afnema kolaorkuver og gasorkuver og leysa jarðefnaeldsneyti til húsahitunar af hólmi með rafmagni og/eða vetni eða lífeldsneyti. Kostnaðaráætlunin mrdISK 900 þótti mörgum vanáætluð, svo að kostnaður Breta gæti að tiltölu orðið tvöfaldur kostnaður Íslendinga við orkuskiptin. Kostnaðurinn tæplega 30 mrdISK/ár er ekki óyfirstíganlegur, enda lendir hann að mestu á orkugeiranum og einkageiranum. Orkugeirinn er vel í stakkinn búinn. (Tal um að skipta Landsvirkjun upp er út í hött, því að hún er bundin af samningum um að standa við ákveðið afhendingaröryggi, sem hún getur ekki í bútum.) Svo er mikilli raforkunotkun á íbúa fyrir að þakka (uppsett afl 7,0 kW/íb).
Tvö risavaxin verkefni bíða jarðarbúa. Annað er að draga úr orkufátækt, og hitt eru orkuskiptin. Hvort tveggja er óhugsandi án gríðarlegrar rafvæðingar heimsbyggðarinnar, og þessi gríðarlega rafvæðing er óhugsandi án þess að nýta kjarnorkuna í stórum stíl. Þess vegna var kúvending Angelu Merkel, Þýzkalandskanzlara, 2011, glapræði, en hún fékk Bundestag til að samþykkja það í tilfinningalegu uppnámi í kjölfar Fukushima-áfallsins í Japan að loka öllum kjarnorkuverum Þýzkalands fyrir árslok 2022. Jafnframt á Þýzkaland að verða kolefnishlutlaust 2050. Þetta tvennt fer einfaldlega ekki saman, enda eru Þjóðverjar nú að ræsa kolakynt orkuver til að ná endum saman á milli framboðs og eftirspurnar raforku. Bretar fara þá einu leið, sem fær er í þessum efnum, að reisa kjarnorkuver, sem leysa munu öll kolakynt orkuver Bretlands af hólmi fyrir árslok 2025.
Rannsóknir hafa sýnt, að líkaminn ræður við geislun upp að ákveðnu marki án þess að bíða tjón af. Enginn lézt af völdum "Three Mile Island" kjarnorkuversbilunarinnar í Bandaríkjunum, og heldur enginn af völdum "Fukushima" áfallsins, sem leiddi af náttúruhamförum við Japansstrendur, utan einn, sem lézt, þegar svæðið í grenndinni var tæmt af fólki.
Eftirlitsiðnaðurinn á Vesturlöndum hefur lagt þá röngu forsendu til grundvallar, að öll geislun sé hættuleg og fært sig stöðugt upp á skaptið með kröfugerð, sem leitt hefur af sér stórfelldar kostnaðarhækkanir við að hanna og reisa kjarnorkuver. Þetta hefur t.d. leitt af sér aukningu rafstrengja úr 600 km árið 1973 í 1140 km árið 1978 í jafnstórum kjarnorkuverum. Kostnaðurinn við kjarnorkuver var u.þ.b. 3,0 USD/W, þegar uppsafnað uppsett afl þeirra hafði náð 2,0 GW og lækkaði niður í 1,0 USD/W við 32 GW uppsafnað afl um 1970, en þá tóku kröfur eftirlitsiðnaðarins að vaxa.
Afleiðingin af sívaxandi öryggiskröfum, sem eru komnar fram úr öllu hófi og skynsemi, er, að kostnaðurinn við kjarnorkuver er nú um 6,0 USD/W, þegar uppsafnað uppsett afl þeirra nemur um 256 GW. Kjarnorkuver framleiða nú aðeins um 10 % raforku heimsins. Til þess að íbúar jarðarinnar, sem hafa aðgang að minna rafafli en íbúar ESB (að meðaltali 0,7 kW/íb), nái ESB-meðaltalinu, þarf að bæta við uppsettu afli, sem nemur 5,0 TW. Þannig þrefaldast núverandi uppsett afl. Hvaðan á slíkt afl að koma ?
Til þess að leysa allt jarðefnaeldsneyti af hólmi þarf raforkuvinnsla úr kolefnisfríum orkulindum að koma frá 25 TW af virkjuðu afli, sem jafngildir tíföldun á núverandi raforkuvinnslu. Geta vindmylla og sólarsella virkar eins og krækiber í helvíti hjá þessari miklu þörf.
Aðeins kjarnorkan getur annað henni, en þá stendur heimurinn frammi fyrir því, að hræðsluáróður græningja og annarra slíkra hefur sett þessa tækni sums staðar í skammarkrókinn, og opinberir eftirlitsaðilar á Vesturlöndum hafa með óraunhæfum og öfgafullum hönnunarkröfum gert kjarnorkuverin ósamkeppnisfær við jarðgasorkuver og kolakynt orkuver. Hvernig á þá að verða við kröfum IPCC um að ná kolefnisjöfnuði sem allra fyrst til að bjarga jörðunni ? Eina sjáanlega úrræðið er að draga saman seglin, fara úr hagvexti í samdrátt hagkerfanna samkvæmt ráðleggingum græningja og höfunda "Endimarka vaxtar" og áhangenda þeirra, en hversu mikinn samdrátt þarf ? Sú hugmynd er endileysa og gengur alls ekki upp, enda næst engin samstaða um hana á heimsvísu, og þar með fellur hún um sjálfa sig.
Kostnaður við raforkuvinnslu í jarðgasknúnum orkuverum er 70-80 USD/MWh og í kolaorkuverum 50 USD/MWh. Ef hægt er að reisa kjarnorkuver á 2,50 USD/W, þá verður raforkukostnaður þeirra 35-40 USD/MWh. Suður-Kóreumenn geta þetta með skynsamlegum og nægum gæða- og öryggiskröfum, og ekki er ólíklegt, að Kínverjar séu á svipuðum slóðum, en á Vesturlöndum hefur hinn opinberi eftirlitsiðnaður hert eftirlitskröfurnar með hverju tæknilegu framfaraskrefi, sem kjarnorkuiðnaðurinn hefur stigið, svo að kostnaðurinn hefur 2-3 faldazt, gjörsamlega að óþörfu.
Með raforkukostnaði nýrra kjarnorkuvera yfir 120 USD/MWh hefur eftirlitsiðnaðurinn kyrkt kjarnorkuiðnaðinn og þannig girt fyrir, að orkuskiptin geti farið fram í löndum, sem að mestu eru háð jarðefnaeldsneyti við raforkuvinnslu og háð eru þessum sjálfseyðandi reglum.
Þegar svona er í pottinn búið, er ástæða til að spyrja að hætti Rómverja: "cuo bono" eða hverjum í hag ? Svarið liggur í augum uppi. Þeir, sem hagnast á, að orkuskiptin geti ekki farið fram samhliða eðlilegri efnahagsþróun og hagvexti, eru jarðefnaeldsneytisiðnaðurinn og samdráttarsinnarnir, sem hafa lengi þann steininn klappað í fávísi sinni, að eina ráðið til að bjarga jörðunni sé "að pakka í vörn", stöðva hagvöxtinn og minnka neyzluna á öllum sviðum, sem leiða mun til fjöldaatvinnuleysis, fjöldagjaldþrota og ríkisgjaldþrota. Þetta er algerlega vanheilagt bandalag. Það er kominn tími til að leiða sannleikann fram í dagsljósið. Hver er hin raunverulega hitastigshækkun lofthjúpsins, reist á dæmigerðum gervihnattamælingum hitastigs í mörgum sniðum í mörgum hæðum frá jörðu, en ekki bara yfirborðsmælingum, sem þar að auki eru háðar ýmsum skekkjuvöldum.
Það þarf að veita leyfi til að reisa kjarnorkuver í lítilli stærð, eins konar líkan, sem gera má tilraunir á, til að komast til botns í því, hvaða öryggiskröfur eru nauðsynlegar, og hverjar er skynsamlegt að afnema. Grundvallarspurningin er þessi: hversu mikil má geislun á tímaeiningu verða áður en hún verður skaðleg (það hefur alltaf verið ákveðin geislavirkni í náttúrunni og er jafnvel í banönum, sem innihalda geislavirkt kalíum). Það þarf að afnema núverandi viðmið eftirlitsyfirvalda: "As low as Reasonably achievable"-ALARA, því að hún er ekki reist á neinum leyfilegum geislunarþröskuldi og eyðileggur alla möguleika kjarnorkuiðnaðarins til að geta keppt við eldsneytisiðnaðinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
18.8.2021 | 18:43
Afleiðingar hækkandi koltvíildisstyrks í lofthjúpinum
Árið 1994 birtu samstarfsmennirnir dr John Christy (JC), loftslagsfræðingur og prófessor við UAH (University of Alabama-Huntsville), og Dick McNider (DMN) fræðigrein í Nature um hitastigsþróunina í lofthjúpi jarðarinnar á tímabilinu 1979-1993 (15 ár), en þeir höfðu þá nýlokið við að safna hitastigsmæligögnum frá gervitunglum á braut um jörðu. Sennilega var hér um brautryðjendaverkefni að ræða af þeirra hálfu, og enginn hefur véfengt há gæði þessara mæligagna til að leggja mat á varmaorku lofthjúpsins og breytingar á henni á þessu skeiði.
Að sjálfsögðu var IPCC (loftslagsvettvangur SÞ) í lófa lagið að nýta sér þessi verðmætu gögn til að sannreyna spálíkan sitt, sem reiknaði út hitastigshækkun lofthjúpsins sem fall af aukningu koltvíildisígilda í lofthjúpnum. Þróun hitastigsins helzt í hendur við aukinn koltvíildisstyrk andrúmsloftsins, en IPCC ýkir hins vegar áhrifin af CO2 á hitastigið stórlega.
Líkan James Hansens o.fl. gaf þá stigulinn 0,35°C/áratug, en mæligögn JC og DMN sýndu allt annan raunveruleika eða 0,09°C/áratug, sem var fjórðungur af hitastigsstigli IPCC í þá daga. Ef IPCC hefði haldið sígildum heiðarlegum vísindavenjum í heiðri, þá hefði þessu líkani verið kastað fyrir róða og ný spá verið birt síðar með endurbættu líkani, sem a.m.k. tækist að fylgja raunveruleikanum í fortíðinni. Það var ekki gert, heldur mæligögnum JC og DMN stungið undir stól og reynt að þegja niðurstöður þeirra í hel, en það er mjög ótraustvekjandi hegðun, sem bendir til, að fiskur liggi undir steini hjá þeim. Í raun glataði IPCC öllum vísindalegum trúverðugleika, svo að ekkert vit er í að reisa löggjöf og íþyngjandi regluverk á upphrópunum og allt of háum hitastigsspám þaðan.
Árið 2017 endurtóku félagarnir JC og DMN úrvinnslu sína á gríðarlegu gagnasafni hitastigsmælinga úr gervitunglum, sem nú náði yfir 37,5 ár, 1979-2017. Endurtekin athugun þeirra nú leiddi til nánast sömu niðurstöðu. Að vísu hafði stigullinn hækkað um tæplega 6 %, enda gríðarlegt magn gróðurhúsalofttegunda bætzt við í lofthjúpnum á síðari hluta tímabilsins, 1994-2017. Stigullinn fyrir allt tímabilið var nú orðinn 0,095°C/áratug, en var enn aðeins 27 % af viðteknum stigli IPCC.
Þessi mismunur á útreiknuðum (IPCC) og mældum (úr gervihnöttum) hitastigli hefur auðvitað gríðarlega þýðingu fyrir mat á þróun hitastigs á jörðunni. Ef losun koltvíildisígilda eykst um 1,0 % á ári, þá mun koltvíildisstyrkurinn hafa tvöfaldazt að 70 árum liðnum. CMIP 5 meðaltalslíkan IPCC reiknar út hækkun hitastigs á slíku 70 ára tímabili um 2,31°C +/- 0,20 °C, en Christy og Nider hins vegar 1,10°C +/- 0,26°C. Við þetta þarf að bæta núverandi hitastigi til að fá áætlað hitastig að 70 árum liðnum.
Á þessu tvennu er reginmunur, sem hefur þær afleiðingar, að stefnumörkun flestra eða allra ríkja, t.d. í orkumálum, væri að öllum líkindum með allt öðrum hætti en raunin er, ef ríkin hefðu réttar upplýsingar. Tækniþróuninni væri gefið meira ráðrúm til að leysa jarðefnaeldsneytið af hólmi með ódýrari hætti en flestum býðst nú (Íslendingar eru í sérstaklega góðri stöðu), og fyrir vikið hefði raforkuverðið til neytenda ekki hækkað jafnmikið og raunin er (sums staðar þrefaldazt síðan 2010).
Evrópusambandið (ESB) hefur sýnt talsverðan metnað til að vera leiðandi á heimsvísu við orkuskiptin. Engum vafa er undirorpið, að dómsdagsspár IPCC hafa átt mestan þátt í að flýta miklum og kostnaðarsómum lagabálkum ESB. Þannig sá losunarkvótakerfi ("cap-and-trade scheme") dagsins ljós árið 2005, en þar fylgdi sá böggull skammrifi, að skyldukaup fyrirtækja á losunarheimildum skákaði þeim í lakari samkeppnisstöðu en áður á heimsmarkaðinum. Loftslagsstefna og orkustefna ESB eru fléttaðar saman í Orkupakka 4. Vegna ólíkra aðstæðna hér og þar á þessi löggjöf Evrópusambandsins lítið sem ekkert erindi hingað norður eftir.
Fyrirtæki í ESB færðu þess vegna starfsemi sína þangað, sem losunarkostnaður var lítill að enginn, og þessi "kolefnisleki" leiddi í raun til heildaraukningar á losun koltvíildis út í andrúmsloftið. Þetta frumhlaup búrókrata ESB má væntanlega skrifa á hræðsluáróður IPCC.
ESB reyndi að stoppa upp í lekann með niðurgreiðslum á og fjölgun losunarheimilda, en verð á CO2 hefur aftur hækkað og er nú komið upp í 50-60 EUR/t (fimmföldun). Íslenzk fyrirtæki hafa orðið sérstaklega illa fyrir barðinu á ETS-kerfi ESB (kolefniskvótakerfi), því að hér hafa engar opinberar niðurgreiðslur tíðkazt á þessu sviði.
Í stað niðurgreiðslanna á að koma kolefnistollur á innflutning til að jafna samkeppnisstöðuna. Þann 14. júlí 2021 (á Bastilludaginn) var kynnt áætlun um kolefnistoll á innflutning ("carbon border-adjustment mechanism"-CBAM). Á árabilinu 2025-2035 munu framleiðendur áls, sements, áburðar og stáls smám saman missa niðurgreiðslurnar, en innflytjendum þessara vara verður gert að kaupa nýja útgáfu af losunarheimildum. Hversu margar losunarheimildir þeir verða að kaupa fer eftir því, hvað ESB áætlar, að mikil óskattlögð kolefnislosun hafi átt sér stað við framleiðsluna í útflutningslandinu.
Búizt er við, að þetta geti leitt til þess, að í framleiðslulöndunum verði lagt kolefnisgjald á þessar útflutningsvörur til að fá gjaldheimtuna heim, en við framleiðslu þessara útflutningsvara myndast minna en 10 % losunar þessara útflutningsríkja. Þetta skriffinnskukerfi ESB breytir þess vegna litlu fyrir lofthjúpinn. Óánægja er með þetta kerfi á meðal sumra viðskiptalanda, t.d. Ástralíu og Indlands og Bandaríkin hafa mótmælt þessu sem rétt einum tæknilegu viðskiptahindrununum af hálfu ESB. Miklar flækjur geta myndazt, þegar farið verður að leggja tollinn á, enda í mörgum tilvikum óvissa töluverð um raunverulega losun. Þannig ratar heimurinn í alls konar vandræði og kostnað vegna tilfinningarinnar um, að mjög skammur tími sé til stefnu, svo að ekki sé nú minnzt á angistina, sem dómsdagsspádómarnir valda mörgu fólki, ekki sízt ungu fólki. Engin teikn eru á lofti um, að IPCC muni á næstunni sjá að sér, játa villu síns vegar og lofa bót og betrun. Á meðan verður hamrað á þeim með hitastigsmælingum Johns Christy og Dicks McNider.
Athygli hefur vakið, að einum stjórnmálaflokki á Íslandi virðist ætla að takast að móta sér ígrundaða loftslagsstefnu án teljandi áhrifa þess heilaþvottar, sem rekinn er af talsmönnum IPCC-skýrslanna. Þetta er Miðflokkurinn, en formaður hans skrifaði 12. ágúst 2021 grein í Morgunblaðið, sem ætla mætti, að væri reist á upplýsingum um raunhitamælingar dr Johns Christy o.fl., þótt þeirra sé hvergi getið í greininni:
"Öfgar og heimsendaspár leysa ekki loftslagsmálin".
"Í ljósi reynslunnar [af Kófinu-innsk. BJo] blasir við, að stjórnvöld muni nú vilja nýta aukin völd sín í nýjum tilgangi. Það munu þau gera með vísan í loftslagsmál. Það er því tímabært að ræða, hvort og þá hvernig þeim verði heimilað að beita auknum hömlum. Ef íslenzk stjórnvöld gera það á grundvelli loftslagsstefnu undanfarinna ára, mun það fela í sér mestu frelsisskerðingu um áratuga skeið, minnkandi framleiðslu [og] lífskjaraskerðingu og skila nákvæmlega engum árangri í loftslagsmálum."
Hömlur í nafni loftslagsváar, sem IPCC boðar stöðugt, hafa þegar verið innleiddar eða boðaðar á öllu EES-svæðinu. Þar má nefna kolefnisgjald á jarðefnaeldsneyti, kolefnisgjald af losun atvinnurekstrar og bann við innflutningi bifreiða, sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti auk krafna um íblöndun lífeldsneytis í innflutt benzín og dísilolíu. Bann við kaupum á slíkum nýjum gripum á víða að taka gildi árið 2040, en íslenzka ríkisstjórnin valdi árið 2030 til þessa banns, og hinn öfgafulli umhverfis- og auðlindaráðherra mælti fyrir árinu 2025 í ríkisstjórninni, en varð undir, sem betur fór.
Þessi maður er líka þekktur sem fyrrverandi framkvæmdastjóri Landverndar. Í því starfi stóð hann fyrir endalausum tafaleikjum og kærum vegna innviðaframkvæmda, sem tvímælalaust voru í þágu almannahags. Viðhorf hans til náttúruverndar eru bæði einstrengingsleg og langt handan þess meðalhófs, sem gæta ber, svo að bezta þekking fái notið sín við nýtingu orkulindanna. Þeir, sem standa gegn framfaramálum í þágu aukinnar verðmæta- og atvinnusköpunar, svo að ekki sé talað um orkuskiptin, eru afturhaldsmenn.
Þannig átti alræmt hálendisfrumvarp ráðherrans að vera gambítur afturhaldsins gegn nýframkvæmdum á hálendinu á sviði vegalagninga, virkjana og orkuflutnings. Yfir þessu landflæmi, Miðhálendinu, átti að gína stjórn og embættismannaklíka í stað virkrar verndunar og uppgræðslu íbúa aðliggjandi sveitarfélaga undir eftirliti forsætisráðuneytis, sem fer með þjóðlendumál í landinu. Vissulega mundi felast frelsisskerðing í slíku, þó varla í nafni loftslagsváarinnar, heldur náttúruverndar á villigötum.
"Ólesin hefur skýrslan [6. skýrsla IPCC-innsk. BJo] verið gripin fegins hendi og notuð sem rökstuðningur fyrir þeim heimsendaspám, sem haldið var mjög á lofti, þar til þær féllu í skugga veirunnar um sinn. Í hvert skipti, sem verða hamfarir tengdar veðurfari, eru þær tengdar við loftslagsbreytingar (sem nýaldarpólitíkusar vilja nú gefa nýtt nafn að hætti Orwells og kalla "hamfarahlýnun"). Þótt popúlistar stökkvi á alla slíka atburði og telji þá tilefni til að veita stjórnvöldum aukin völd til að hefta framþróun og skerða frelsi almennings, gleymist alltaf eitt mikilvægt atriði. Það kallast samhengi."
Hér markar formaður Miðflokksins flokknum sess, sem á sér engan líka á meðal núverandi flokka á Alþingi. Kenningin um "hamfarahlýnun" stendur á brauðfótum, af því að reiknilíkanið, sem hún er reist á, er ónýtt. Það er órafjarri raunveruleikanum og þess vegna hrein gervivísindi til að halda uppi falsáróðri, sem miðar að því að stöðva framfarasókn þjóða og hagvöxt hagkerfa þeirra. Þetta er sami boðskapurinn og í "Endimörk vaxtar" ("Limits to Growth"), þar sem líka voru settir fram alls kyns spádómar um 1960, sem áttu að verða að raunveruleika á síðustu öld, en það hefur ekki gerzt, af því að hugsunin að baki var meingölluð.
Síðan vitnar Sigmundur Davíð í Björn Lomborg hjá "Copenhagen Consensus", en niðurstöður hans eru í samræmi við tölfræðilega samantekt dr Johns Christy á stórum veðurfarsatburðum yfir langan tíma, þar sem hann sýnir fram á, að engin tilhneiging er til fjölgunar eða stækkunar ýmissa atburða í tímans rás, nema síður sé:
"Með vísan í opinber gögn hefur Björn sýnt fram á, að tíðni náttúruhamfara, sem tengja má veðurfari, hafi síður en svo aukizt (þótt veðurfarsbreytingar geti haft áhrif). Einnig það, að þrátt fyrir gríðarlega fjölgun mannfólks og mjög aukna byggð á þeim svæðum, sem líklegust eru til að verða fyrir áhrifum veðurfarstengdra hamfara, sé fjöldi þeirra, sem látast af slíkum völdum, aðeins brot af því, sem áður var. Fjöldinn hefur fallið um meira en 99 % á einni öld.
Framfaraþrá og vísindaleg nálgun hafa skilað mannkyninu gríðarlegum árangri. Það er því mikið áhyggjuefni, ef því verður nú fórnað á altari öfgahyggju, sem lítur á manninn sem vandamál fremur en uppsprettu lausna og framfara."[Undirstr. BJo]
Í undirstrikaða hlutanum hittir Sigmundur Davíð naglann á höfuðið. Vanhugsuð öfgahyggja um endimörk vaxtar klæðir sig óverðskuldað í búning vísinda og hefur tekizt að ná fyrirsögnum í fréttunum með kukli og þöggun vísindamanna, sem standa undir nafni.
Tilvitnaðar athuganir Björns Lomborgs afsanna ekki hlýnun lofthjúps jarðar, enda hefur hún átt sér stað, en aðeins í miklu minni mæli en IPCC hefur reiknað út. Mæliniðurstöður afsanna hins vegar útreikninga IPCC. Málflutningur Björns Lomborgs getur komið heim og saman við mæliniðurstöðurnar, því að aukning varmaorku lofthjúpsins er lítil frá 1850 vegna sjálfreglandi eiginleika lofthjúpsins (hækkað hitastig veldur aukinni hitageislun út í geiminn).
"Stjórnvöld víða á Vesturlöndum hafa ofurselt sig ímyndarnálguninni í loftslagsmálum, sama hvað það kostar. Þegar brezk stjórnvöld samþykktu markmið um kolefnishlutleysi fyrir árið 2040, upplýsti þáverandi fjármálaráðherra, að það myndi kosta talsvert yfir mrdGBP 1000 að ná markmiðinu (yfir ISK 175.000.000.000.000). Síðar var sú tala álitin vanáætluð. Fyrir slíka peninga væri hægt að ná miklum framförum og bæta líf margs fólks."
Á íslenzkan mannfjöldamælikvarða nemur þessi upphæð tæplega mrdISK 950 eða um 30 % af vergri landsframleiðslu á ári. Þótt upphæðin kunni að verða lægri á Íslandi, af því að þegar hefur orðið græn umbylting á sviði raforkuvinnslu og húsakyndingar, verður um risavaxinn kostnað að ræða í virkjunum, orkuflutnings- og dreifimannvirkjum, hleðslustöðvum fyrir bíla, skip og flugvélar o.s.frv. vegna orkuskiptanna. Það er mikið til í því, að vinstri sinnaðir stjórnmálamenn, sem helzt vilja eigna sér loftslagsmálin, þótt þeir beri lítið skynbragð á þau, hafi gerzt sekir um ótilhlýðilega tækifærismennsku. Þar hefur forsætisráðherra verið sýnu verst, t.d. þegar hún kynnti til sögunnar nýja og enn strangari skuldbindingu Íslands á alþjóðavettvangi um að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 55 % árið 2030 m.v. 1990 án þess, að nokkur tilraun til kostnaðargreiningar væri þá fyrir hendi, hvað þá fjármögnun. Þannig gerði hún sig bera að hreinræktuðu lýðskrumi. Þannig á ekki að stjórna ríki.
Hvað hefur Sigmundur að segja um það, hvernig skuldbindingar forsætisráðherra verða uppfylltar ?:
"Það er í öllu falli ljóst [ísl.: a.m.k.], að ekki er hægt að ná markmiðinu, nema með því að draga úr framleiðslu innanlands, hækka skatta og gjöld á almenning og leggja á nýja til að stýra neyzluhegðun og hefta ferðafrelsi. Minnka landbúnað, draga úr fjölda ferðamanna og fækka ferðum Íslendinga til útlanda. Minni framleiðslu og neyzlu má svo auðveldlega endurorða sem lakari lífskjör.
Störf og framleiðsla munu í auknum mæli færast frá Vesturlöndum til Kína og annarra vaxandi efnahagssvæða. Allt þetta leiðir til aukinnar misskiptingar, þar sem færri hafa efni á að reka og eiga bíl, ferðast eða kaupa ýmsar vörur. Það verður ekki leyst með grænum styrkjum (sem að mestu hafa farið í að niðurgreiða dýra bíla) eða nýjum "grænum" hátæknistörfum."
Þetta er ein af ýmsum mögulegum sviðsmyndum, sem gætu rætzt á næsta áratug, ef glundroðaflokkarnir á vinstri vængnum verða hér með tögl og hagldir á Alþingi og í borgarstjórn eftir næstu kosningar. Af þessu sést líka, að stefna forsætisráðherra og umhverfisráðherra í loftslagsmálum er komin í blindgötu, þangað sem útilokað er, að meirihluti þjóðarinnar kjósi að fylgja þeim.
Þarna opinberast til hvers refirnir eru skornir með loftslagsáróðri IPCC. Það á með skefjalausum hræðsluáróðri að telja fólki trú um, að "der Kreislauf des Teufels" eða djöfulleg hringrás síhækkandi hitastigs á jörðunni sé handan við hornið, nema þjóðir heims hverfi af braut hagvaxtar og samþykki að taka á sig allar þær hörmungar, sem af langvarandi samdrætti og stöðnun hagkerfanna leiðir. Sem betur fer vitum við núna, að þetta er falskur tónn, reistur á gervivísindum, sem reikna út miklu meiri hitastigshækkun af völdum viðbótar koltvíildis í lofthjúpnum en hitamælingar með beztu þekktu aðferðum sýna. Það er kominn tími til að endurskoða þá vitleysu, sem er hér í gangi. Forystu um það eru stjórnmálamenn með samúð með kenningum "Endimarka vaxtar" ófærir um að veita.
Eftir þessa frásögn rakti Sigmundur Davíð í lokin viðhorf sín til þess, hvernig stjórnmálamönnum ber að fást við loftslagsmálin, og undir þessi viðhorf skal hér taka heilshugar:
"Raunin er sú, að það er bezt fyrir loftslagsmál heimsins, að við framleiðum sem mest á Íslandi. Eftirspurn eftir vörum og lífsgæðum mun bara aukast í heiminum. Milljarðar manna vilja að sjálfsögðu vinna sig upp úr fátækt, og skert lífskjör á Íslandi eða annars staðar á Vesturlöndum munu ekki koma í veg fyrir það.
Það er ekki hægt að hverfa af braut framfara. Þvert á móti; við þurfum að leysa loftslagsmálin, eins og önnur stór viðfangsefni, með vísindum og annarri mannlegri hugkvæmni. Á því sviði eigum við Íslendingar mikil tækifæri, ef við látum ekki heimsendaspámenn og önnur afturhaldsöfl stöðva okkur.
Heimurinn þarf miklu meiri endurnýjanlega orku. Þar getur Ísland gert ótrúlega hluti og þarf að nýta tækifærin betur. Það mun þýða, að losun landsins aukist í stað þess að minnka, en á heimsvísu mun það draga úr losun [og] reynast það bezta, sem við getum gert í loftslagsmálum og bæta lífskjör Íslendinga."
Hér eru rökréttar ályktanir dregnar út frá raunverulegri stöðu loftslagsmálanna og hagsmunum landsmanna og raunar allrar jarðarinnar um framfarastefnu í orkumálum. Við erum hins vegar ekki sjálfstæð þjóð í loftslagsmálum, heldur bundin á klafa loftslagsstefnu ESB, þótt Evrópusambandið búi við allt aðrar aðstæður en við. T.d. er um 20 % heildarorkunotkunar ESB úr endurnýjanlegum orkulindum, en hérlendis um 80 %.
Nú er eitt glatað kjörtímabil í orkumálum að renna sitt skeið, þar sem ekki hefur verið hafizt handa við neina virkjun > 100 MW og ekki hefur verið samið við neinn nýjan stórnotanda raforku. Afleiðingin af því er lægra atvinnustig en ella, óþarflega litlar erlendar fjárfestingar og hagvöxtur, sem að mestu er borinn uppi af erlendum ferðamönnum, sem eru ófyrirsjáanlegir. Nú stefnir í raforkuskort á komandi vetri.
Það verður að losa um hreðjatak afturhaldsins í landinu á nýjum virkjanaáformum, því að tækniþróunin mun senn gera kleift að framleiða ýmsar vörur hagkvæmt með engri eða sáralítilli losun koltvíildis, t.d. ál, og "grænt" vetni, þ.e. rafgreint vetni úr vatni með raforku úr endurnýjanlegum orkulindum er þegar tekið að hækka í verði vegna aukinnar eftirspurnar. Norðmenn eru nú þegar að fjárfesta í vetnisverksmiðjum hjá sér. Við megum ekki láta afturhaldsöfl, sem berjast í raun gegn hagvexti, verða þess valdandi, að hvert viðskiptatækifærið á fætur öðru renni okkur úr greipum.
Bloggar | Breytt 19.8.2021 kl. 21:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.8.2021 | 21:19
Falsfréttir IPCC
Vísindi eru aðferð til að leita sannra upplýsinga. Aðferðin er sú að smíða kenningu og síðan að sannreyna hana með óháðum gögnum. IPCC (=Intergovernmental Panel on Climatic Change, loftslagsvettvangur Sameinuðu þjóðanna, SÞ) hefur búið til tölvulíkan af lofthjúpnum á grundvelli líkana yfir 100 þjóða og kallað það samræmt líkan ("Consensus Model"). Nú vill svo til, að fyrir hendi er viðamikið gagnasafn hitamælinga úr lofthjúpnum hringinn í kringum jörðina í mörgum sniðum og í mörgum hæðum frá jörðu yfir nokkra áratugi. Hitamælingarnar fóru fram með því að mæla örbylgjur, um 55 GHz, frá súrefnisatómum í lofthjúpinum með nákvæmum og áreiðanlegum mælitækjum í gervitunglum á braut umhverfis jörðu. Þetta eru nákvæmari hitamælingar en flestar, sem gerðar voru við yfirborðið á sama tímabili. Hér er þess vegna um verðmætt og traust gagnasafn að ræða.
Niðurstöður þessara mælinga passa hins vegar alls ekki við niðurstöður hitastigslíkana 102 þjóða fyrir umrætt tímabil, nema helzt Rússa, og alls ekki við samræmt líkan IPCC, s.k. CMIP 5. Ef IPCC hefði fylgt vísindalegri aðferðarfræði, hefði nefndin kastað líkaninu sem ónothæfu og byrjað að þróa nýtt líkan, þegar í ljós kom, að útreikningar þess á hlýnun voru allt of háar. Það hefur IPCC hins vegar ekki gert heldur æpt enn hærra, að líkan þeirra sé rétt og þjóðir heims verði að haga lífi sínu samkvæmt því, búa fyrir vikið margar hverjar við stórhækkað orkuverð, sem bitnar verst á fátæku fólki. Vegna þessa er trúverðugleiki IPCC enginn.
IPCC hefur reynt að þagga niður raddir þeirra, sem bent hafa á alvarlega galla hins samræmda líkans, sem reiknar út allt of mikla hlýnun lofthjúpsins við vaxandi styrk koltvíildis og annarra gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpnum. Vísindamenn, sem benda á gríðarleg frávik útreikninga IPCC-líkansins frá raunveruleikanum, fá ekki að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í síðustu 4000 síðna skýrslunni frá IPCC. Það verður að segja hverja sögu, eins og hún er: vinnubrögð IPCC eru óvísindaleg og standast ekki rýni hæfra vísindamanna, sem hafa sýnt fram á, að líkön IPCC eru ónothæf. Það er gersamlega ótækt, að ríki heims fari að leggja út í feikilega dýrar og sársaukafullar aðgerðir á grundvelli gervivísinda, sem skapa falskar forsendur fyrir gríðarlegum kostnaði, sem verið er að leggja út í.
Sá, sem á mestan heiðurinn af að hafa flett ofan af dómsdagsspámönnum IPCC, er dr John Christy, loftslagsfræðingur og prófessor við Alabamaháskóla í Huntsville (UAH). Hann hefur ferðazt um heiminn og haldið fyrirlestra í háskólasamfélaginu, t.d. í Frakklandi og á Bretlandi, og það, sem hér er skrifað um þessi mál, er ættað úr þessum fyrirlestrum. Hann svaraði spurningum fræðimanna á þessum fyrirlestrum á mjög trúverðugan og sannfærandi hátt.
Hvernig lítur þá téður samanburður líkana IPCC við raunveruleikann út ? Séu gerðir hitastigsútreikningar fyrir hvert ár á tímabilinu 1979-2017 (tæplega 40 ára röð) með 102 IPCC lofthjúpslíkani CMIP 5 fyrir lofthjúpinn á þrýstisviði 300-200 hPa, gefur líkanið meðaltalsstigulinn +0,44 °C/áratug, en raunveruleikinn, þ.e. gervitunglamæligögnin, gefa meðaltalsstigulinn +0,15°C/áratug, þ.e. líkön IPCC margfalda raunverulegan hitastigul með 3. Líkönin reiknuðu út hitastigshækkun á grundvelli aukins styrks koltvíildis í andrúmsloftinu 1,7°C, á meðan hún nam aðeins tæplega 0,6°C. IPCC fiktar eitthvað í líkönunum til að skekkjur þeirra séu minna áberandi, 6. kynslóð þeirra, þ.e. núverandi, hefur þó jafnlítið forspárgildi og hinar fyrri.
IPCC keyrði líkön sín líka án viðbótar koltvíildis af mannavöldum, og þá nálguðust þau raunveruleikann. Þannig hefur IPCC forritað allt of mikil upphitunaráhrif af viðbótar koltvíildi í lofthjúpinum og veit, að líkönin eru meingölluð, en kýs samt að þegja um það til að geta haldið hræðsluáróðrinum áfram. Í hverra þágu er þessi hræðsluáróður SÞ ? Það er ljóst, að fjölmargir lifa á gríðarlegum fjárveitingum, sem réttlættar eru með aðsteðjandi ógn.
IPCC vanreiknar sjálfreglandi tilhneigingu lofthjúpsins til að viðhalda stöðugleika í varmaorku lofthjúpsins. Ef við hugsum okkur loftsúlu, 1 m2 að grunnfleti, sem nær frá jörðu að endimörkum lofthjúpsins, sem hitnar af einhverjum orsökum um 1°C að meðaltali, þá verður raunveruleg varmageislun út í geiminn frá þessari loftsúlu 2,6 W, en IPCC notar aðeins 1,4 W, sem er 54 % af raunveruleikanum. Það er ei kyn, þótt keraldið leki og líkan IPCC reikni út allt of mikla hlýnun, enda er botninn suður í Borgarfirði.
"Loftslagskirkjan" hefur reynt að beita náttúruhamförum fyrir vagn sinn. Þar hefur hún ekki gætt að því, að það er hægt að hrekja rækilega málflutning hennar með því að taka saman tölfræði um þessa atburði. Það hefur hinn atorkusami dr John Christy, prófessor í loftslagsfræðum við UAH, einmitt gert, og það, sem hann hefur birt um þessa samantekt sína, kippir stoðunum undan þeim áróðri "loftslagskirkjunnar", að hlýnunin á jörðunni hafi magnað og fjölgað náttúruhamförum í tímans rás.
Nokkur dæmi:
- Sterkum og ofsafengnum hvirfilbyljum (F3+) hefur fækkað á tímabilinu 1954-2018 í Bandaríkjunum (BNA). Á fyrri hluta skeiðsins (1954-1985) voru þeir að meðaltali 55,9 á ári, og á seinni hlutanum (1986-2018) voru þeir að meðaltali 33,8 á ári, þ.e. fækkun um 22,1 eða 40 %, sem er marktæk fækkun sterkra og ofsafenginna hvirfilbylja.
- Dr John Christy athugaði fjölda skráðra óveðursdaga í BNA, þ.e. stormdaga (>18 m/s), fellibyljadaga (>33 m/s), aftaka fellibyljadaga (>49 m/s). Skráning slíkra óveðursdaga í BNA tímabilið 1970-2020 sýnir enga tilhneigingu til aukningar.
- Þurrkar og flóð: athugað var hlutfall af flatarmáli BNA, sem mánaðarlega varð fyrir slíku tímabilið janúar 1895-marz 2019 (NOAA/NCDC). Engin tilhneiging fannst til aukningar.
- Hámarkshitastig: 569 mælistöðvar í BNA voru kannaðar á tímabilinu 1895-2017. Engin tilhneiging greindist vera til fjölgunar hitameta. 15 af 16 hæstu hitametunum komu fyrir 1955.
- Gróðureldum (wildfires) hefur fækkað frá 1880 í BNA.
- Snjóþekja á norðurhveli í Mkm2. Skrár 1965-2020 sýna, að hún var mest veturinn 2012-2013.
- Ísbreiður hafa aukizt á hlýskeiði síðustu 10 k ára.
- Loftslagstengdum dauðsföllum í heiminum fækkaði á 20. öldinni.
- Veðurhamfaratjón sem hlutfall af VLF minnkaði 1990-2017 úr 0,30 % í 0,16 %.
- Uppskera per ha ræktarlands hefur vaxið frá 1961.
Að líkindum getur "loftslagskirkjan" tilfært einhver dæmi máli sínu til stuðnings, en eftir stendur, að hún notar öfgar í veðurfari til að styrkja málstað sinn, en þessar öfgar eru hins vegar fjarri því að vera nýjar af nálinni.
Morgunblaðið vill jafnan hafa það fremur, er sannara reynist, og er fjólmiðla lagnast við að rata á réttar leiðir í þeim efnum, vafalaust helzt vegna víðsýnna og vel lesinna starfsmanna í sínum röðum. Dæmi um þetta mátti sjá í forystugrein blaðsins 9. ágúst 2021, en hún var á svipuðum nótum og pistillinn hér að ofan, nema Morgunblaðið vitnaði þar til sjálfstæðs og gagnrýnins umhverfisverndarsinna, sem er allt of sjaldgæf dýrategund, þ.e. til Danans Björns Lomborg. Sá hefur gefið út bækur og ritaði grein í Wall Street Journal í v.31/2021 undir yfirskriftinni: "Náttúruhamfarir eru ekki alltaf af völdum loftslagsbreytinga".
Verður nú vitnað í téða forystugrein Moggans, sem hét:
"Flókið samhengi".
"Slíkar staðhæfingar eru fátíðar í heimi, þar sem iðulega er fullyrt, að umræðunni um loftslagsbreytingar sé lokið, allir hljóti að vera sammála um þetta fyrirbæri, umfang þess og afleiðingar, auk þeirra aðgerða, sem grípa verði til.
Það er alltaf varhugavert, svo [að] ekki sé meira sagt, þegar því er haldið fram, að einungis ein skoðun eigi rétt á sér, og önnur sjónarmið eru nánast gerð útlæg. Við þannig aðstæður er hætt við, að þekking vaxi ekki, heldur takmarkist, og að víðsýni láti undan síga gagnvart fordómum. Illa væri komið fyrir vísindunum, ef öll sjónarmið fengju ekki að njóta sín."
Menn geta haft ýmsar skoðanir á vinnubrögðum og málflutningi IPCC, sem segir einhug, "consensus", um niðurstöðu sína í 6. skýrslunni, en gagnrýnendum þessarar samhljóða niðurstöðu er einfaldlega ekki léð rými fyrir sínar skoðanir. Þannig var gagnrýni dr Johns Christy og félaga hafnað. Þeir, sem kynna sér vinnubrögð IPCC og þöggunaráráttu, gera sér grein fyrir, að niðurstaða IPCC styðst ekki við raunvísindaleg vinnubrögð. Skýrsla IPCC er áróðursskýrsla, sem stenzt ekki vísindalega gagnrýni. Eins og dr John Christy sagði í fyrirlestri: ef ábyrgðarmenn skýrslunnar þyrftu að standa fyrir máli sínu í dómssal, þar sem raunvísindamenn á borð við John Christy fengju tækifæri til að taka þátt í yfirheyrslum og spyrja ábyrgðarmennina spjörunum úr, þá er öruggt, að ekki stæði steinn yfir steini varðandi dómsdagsboðskapinn og dómur félli samkvæmt því.
Síðan vitnar leiðarahöfundurinn í það, sem Björn Lomborg hefur að segja um tíðni og umfang náttúruhamfara, sem kemur heim og saman við gagnaöflun dr Johns Christy um þetta efni, sem "loftslagskirkjan" japlar endalaust á af litlu öðru en trúgirni:
"Að sögn Lomborgs sýnir ný rannsókn á flóðum í 10.000 ám víða um heim, að í flestum ám gæti minni flóða nú en áður. Þar, sem áður hafi flætt á 50 ára fresti, gerist það nú á 152 ára fresti. Og hann segir, að meiri flóð hafi orðið í ánni Ahr árin 1804 og 1910 en í nýliðnum júlí. Fleiri dauðsföll nú stafi hins vegar af því, að fólk sé farið að byggja á flóðasvæðum og að í stað sólarsella eða vindmylla til að berjast við loftslagsbreytingar þurfi þeir, sem búi við árnar, betri vatnsstýringu."
Yfirvöldin í Rheinland-Westphalen sváfu á verðinum og vöknuðu upp við vondan draum, þegar allt var á floti. Þeim barst forviðvörun 9 sólarhringum áður en ósköpin dundu yfir, en almannavarnir virðast ekki virka þarna undir forsæti núverandi formanns CDU, og gæti frammistaða hans og framkoma í kjölfarið kostað hann kanzlaraembættið í haust. Í BNA hefur líka verið leyfð byggð, þar sem engum datt í hug að byggja áður vegna hættu á skógareldum.
Að lokum sagði í téðum leiðara:
"Eins og nefnt var hér að framan, vilja margir halda því fram, að umræðunni um þessi mál sé lokið. Svo er þó ekki; rannsóknir þurfa að halda áfram og umræðan sömuleiðis, en afar mikilvægt er, að hún byggist á staðreyndum, en ekki upphrópunum. Og hún má alls ekki ráðast af hagsmunum einstakra stjórnmálamanna eða -flokka til að slá pólitískar keilur eða jafnvel að fela eigin mistök. Til þess er um allt of stóra hagsmuni að tefla."
Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því, að IPCC starfar á þeim grunni, sem lagður var um 1960 með útgáfu bókarinnar Endimörk vaxtar (Limits to Growth).
Allir spádómar, sem þar voru settir fram, reyndust rangir. Höfundarnir misreiknuðu sig herfilega, því að þeir áttuðu sig ekki á mætti tækniþróunarinnar og markaðsaflanna. Hvort tveggja í sameiningu hefur leitt til þess, að sá skortur og örbirgð, sem lýst er í bókinni, að ríða myndi yfir mannkynið á síðustu öld, ef það héldi áfram á þeirri braut hagvaxtar, sem mörkuð hafði verið eftir Heimsstyrjöldina síðari, hefur engan veginn raungerzt, nema síður sé.
Ný grýla var búin til, og nú átti að þvinga þjóðirnar af braut hagvaxtar með því, að draga yrði stórlega úr bruna jarðefnaeldsneytis til að bjarga jörðinni frá stiknun. Ýkjurnar um áhrif viðbótar koltvíildis eru gífurlegar, eins og hér hefur verið gerð grein fyrir. Enginn afneitar gróðurhúsaáhrifunum af CO2 og fleiri gösum, en útreikningar hlýnunar eru kolrangir hjá IPCC.
Jarðefnaeldsneytið hefur beint og óbeint fært hundruði milljóna fólks úr fátæktarfjötrum og hungri til betra og lengra lífs. Á meðan ekki eru ódýrari leiðir til að framleiða raforku í þróunarríkjunum eða til að knýja farartæki, verður erfitt að stöðva notkun jarðefnaeldsneytis þar.
S.k. kolefnisleki frá þróuðum ríkjum til þróunarríkja er staðreynd. Framleiðslufyrirtæki, sem losa kolefni, flytjast frá iðnríkjunum og þangað, sem minni kröfur eru gerðar af yfirvöldum, og framleiðslukostnaður þess vegna lægri. Á Íslandi verður mjög lítil losun kolefnis við raforkuvinnslu og í iðnaðinum sjálfum líka, t.d. í álverunum, í samanburði við heimsmeðaltalið. Iðnaðurinn hér þarf að greiða kolefnisgjald, sem ekki tíðkast í þróunarríkjunum, en hann hefur samt ekki fengið opinberar stuðningsgreiðslur til mótvægis, eins og tíðkast annars staðar í EES. Af þessum ástæðum er fyllilega réttmætt að halda því fram, að íslenzk málmframleiðsla, þungaiðnaður, dragi úr heimslosuninni, því að eftirspurnin mundi kalla á framboð annars staðar frá, ef þessar verksmiðjur væru ekki á Íslandi. Það er ekki hægt að drepa þessu á dreif með veruleikafirrtum hugleiðingum.
Hér er ekki verið að skrifa gegn hringrásarhagkerfi eða virðingu fyrir náttúrunni og góðri umgengni við hana í hvívetna. Hér er einvörðungu verið að leggja áherzlu á að beita verður vísindunum af heiðarleika, en nú eru notuð gervivísindi til að styðja við hræðsluáróður afturhaldsafla, sem beita óprúttnum aðferðum til að stöðva hagvöxt, sem er alls ekki eins ósjálfbær og afturhaldsöflin vilja vera láta. Fórnarlömb afturhaldsafla eru fyrst þeir, sem minnst mega sín, og síðan fylgja hinir á eftir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
12.8.2021 | 17:56
Veiran hefur afhjúpað vítahring Landsspítalans
Landsspítalinn er staddur í vítahring, sem miðstýringarárátta stjórnvalda hefur skapað. Þessi miðstýringarárátta ríkisbúskaparins hefur í heilbrigðisgeiranum t.d. lýst sér sem söfnun allra sjúkrahúsa á höfuðborgarsvæðinu undir Landsspítalann, sem ekki hefur einu sinni eigin stjórn, heldur aðeins framkvæmdastjórn starfsmanna, aðallega lækna, og yfir öllu saman gín síðan heilbrigðisráðuneytið.
Þetta þýðir, að sjúkrahússtarfsfólk á höfuðborgarsvæðinu hefur aðeins einn vinnuveitanda. Slík einsleitni og einokun býður hættunni heim, og yfirþyrmandi veikleiki þessa fyrirkomulags hefur nú afhjúpazt. Nefna má neyðarkall 985 heilbrigðisstarfsmanna Landsspítalans í sumar og bréfaskriftir lækna á bráðadeildinni til fjármála- og efnahagsráðherra.
Af þessari einokun á vinnumarkaði sjúkrahússtarfsmanna á höfuðborgarsvæðinu hefur nú leitt sívaxandi mannekla. Fólk er óánægt í starfi og segir upp. Landsspítalanum gengur illa að ráða í stöðurnar með þeim afleiðingum, að vaktirnar eru stundum bara hálfmannaðar. Þetta leiðir til yfirálags á starfsfólkið, sem eftir er, sem sagt vítahringur.
Þess vegna er Landsspítalinn að kikna undan viðbótar álaginu vegna C-19. Kerfið hefur getið af sér spítala, sem er ekki í stakkinn búinn til að fást við alvarlegan faraldur, eins og þann, sem nú var að fréttast af frá Vestur-Afríku, eða hópslys af verri gerðinni. Flumbrugangur setur mark á stjórnunina. Yfirlæknum hefur verið fækkað, eins og spítalinn væri kominn undir eitt þak. Þannig er nú í sumum tilvikum einn yfirlæknir fyrir starfsemi, sem fram fer bæði við Hringbraut og í Fossvogi. Þetta skapar enn aukið álag og streitu á meðal starfsfólksins, sem leitar annað.
Enn er Landsspítalinn á föstum fjárlögum í stað þess að taka upp einingarkostnaðarkerfi í líkingu við kostnaðarkerfi sjálfstæðu læknastofanna, sem hefur reyndar verið undirbúið á spítalanum. Hvað dvelur orminn langa ?
Hvað hefur heilbrigðisráðherra núverandi ríkisstjórnar gert til að leysa vaxandi "mönnunarvanda" Landsspítalans ? Í stuttu máli hefur hún hellt olíu á eldinn. Í stað þess að beita sér fyrir því að létta álagi af Landsspítalanum með því að færa verkefni til læknastofanna og frjálsra félaga, hefur hún leitazt við að færa fleiri verkefni til Landsspítalans og þrengja að starfsemi læknastofanna.
Þetta er gert í flaustri og algerri vanþekkingu á aðstæðum Landsspítalans, sem er í engum færum aðstöðulega eða þekkingarlega til að taka við aðgerðunum, sem framkvæmdar eru í Klíníkinni, Orkuhúsinu og annars staðar í þessum geira. Það er ekki nóg að kalla Landsspítalann hátæknisjúkrahús í snotrum ræðum. Hann stendur varla undir því, en mun vonandi gera það, eftir að starfsemin flyzt í nýtt húsnæði. Þetta kom t.d. fram í Morgunblaðinu 9. ágúst 2021 í frétt á bls. 4:
"Starfsfólk LSH taki of mörg skref".
"Ragnheiður H. Magnúsdóttir, vélaverkfræðingur og formaður tækninefndar, en hlutverk hennar er að undirbúa stefnu ríkisstjórnarinnar, er lýtur að tækniþróun og nýsköpun, kveðst sannfærð um, að auka mætti framleiðni Landsspítalans með stafrænni umbreytingu. Það sé skrýtið, að enginn tæknimenntaður einstaklingur sé í framkvæmdastjórn spítalans. "Ég held, að það sé hægt að hagræða töluvert með því að fjárfesta í stafrænum verkefnum."
Það er tímaskekkja, að enginn verkfræðingur eða tæknifræðingur skuli sitja í framkvæmdastjórn LSH, og hér skal taka svo djúpt í árinni, að hátæknisjúkrahús geti vart verið réttnefni á slíkum vinnustað, enda virðist upplýsingakerfi sjúkrahússins vera ósamstætt og úrelt. Það er engin stjórn yfir spítalanum, og framkvæmdastjórnin er allt of einsleit. Af samtölum við starfsfólk má greina bullandi starfsóánægju og halda mætti, að hver höndin væri þar uppi á móti annarri á köflum. Það er þó náttúrulega ekki svo við skurðarborðið.
"Á Landsspítalanum séu allir í stjórninni ýmist læknar eða hjúkrunarfræðingar að undanskildum einum viðskiptafræðingi. Það sé ekki kjörið að vera með svo keimlíkan hóp fólks með svipaðan bakgrunn."
""Það eru ótal hlutir að breytast í okkar heimi, en við erum enn þá eins og árið sé 1995 á þessum spítala", segir Ragnheiður. Með því að nýta stafrænar lausnir færðu hamingjusamara starfsfólk og sjúklinga að mati Ragnheiðar. Stytta megi ferla, spara sporin og veita betri þjónustu. "Ef þetta væri hátæknisjíkrahús, þá væri starfsfólk að flykkjast hingað."
Stjórnendur, sem láta tækniþróun vinnustaðarins dankast með þessum hætti, eru ekki starfi sínu vaxnir. Það verður að stokka stjórnkerfi spítalans upp, skipa honum stjórn fjölbreytilegs fólks og gera áætlun um tæknivæðingu hans. Líklega væri rétt að skilja Fossvogsspítala frá LSH. Hann gæti verið einkarekinn eða sjálfseignarstofnun, sem fengi greitt frá Sjúkratryggingum Íslands samkvæmt einingarkostnaðarkerfi, eins og læknastofurnar. Þar með kemur samkeppni um þjónustu og vinnuafl. Starfsfólkið hefur þá raunverulegt val, sem er lykilatriði. Það er ekki nú, enda er Landsspítalinn að veslast upp, þrátt fyrir gríðarlegar auknar fjárveitingar úr ríkissjóði.
Um skeið hefur þróun á fjölda daglegra smita hérlendis bent til, að búast megi við svipaðri þróun og varð á Englandi í kjölfar "frelsisdagsins", sem þeir nefna þar, þ.e. 19.07.2021, þegar allar samkomutakmarkanir voru afnumdar á Englandi. Þess vegna varð tilkynning heilbrigðisráðherra 10.08.2021 vonbrigði, því að hún mun framlengja takmarkanirnar, sem í gildi voru, um 2 vikur. Tilgreind ástæða er að venju illa rökstudd. Nú var því borið við, að ekki væri vitað, hvernig Delta færi með bólusett fólk yfir sjötugu. Þetta er rangt. Frá Ísrael berast þær fregnir, að þeim farnist vel, og reynslan héðan bendir til hins sama. Eftir Tom Jefferson, prófessor í Oxford, er eftirfarandi haft:
"Ég er ekki sannfærður um, að hegðun faraldursins ráðist mikið af inngripum okkar."
Höfundur þessa vefpistils hefur miklar efasemdir um gagnsemi opinberra hafta í sóttvarnarskyni, og þau valda ótvírætt tjóni, einnig á heilsufari, eins og ýmsar tölur frá 2020 sýna. Með þjóðina yfir 15 ára fullbólusetta, er ástæðulaust og óverjandi að vera með nokkrar opinberar fyrirskipanir lengur. Félögum og einstaklingum er þá í sjálfsvald sett, hvað þau gera í sóttvarnarefnum, enda komi ráðleggingar frá yfirvöldum. T.d. að takmarka aðgang að sundlaugum og þreksölum við 75 % er kjánalegt.
Höfundur þessa vefpistils sér heldur enga skynsemi í þeirri ráðstöfun stjórnvalda að bólusetja unglinga 12-15 ára, því að þeir veikjast yfirleitt mjög lítið af C-19. Til hvers á þá að taka áhættuna með þá af neikvæðum áhrifum og jafnvel sjúkdómum af völdum bólusetninga ? Ónæmi þeirra er öflugra og endist betur, ef þeir mynda það á náttúrulegan hátt, þ.e. við það að smitast af veirunni. Hér er verið að leggja í kostnað og áhættu að óþörfu. Englendingar bólusetja yfirleitt ekki þennan aldurshóp, svo að einhverjir séu nefndir.
Hörður Ægisson hefur ritað gagnmerkar forystugreinar í Fréttablaðið um hræðsluáróður fyrir höftum í sóttvarnarskyni. Ein birtist 30. júlí 2021:
"Að hræða þjóð":
"Munum, hvert verkefnið hefur verið frá upphafi. Markmiðið er ekki, að enginn smitist eða þurfi að leggjast inn á sjúkrahús, heldur að verja heilbrigðiskerfið fyrir of miklu álagi, og að koma landsmönnum í var með bólusetningum.
Það vekur furðu, að einungis 2 innlagnir þurfi nú til þess, að Landsspítalinn lýsti yfir hættustigi. Einn af yfirlæknum hans skellti skuldinni þar á stjórnvöld í stað þess að líta á þá stöðu til marks um heimatilbúinn vanda, sem hefði eitthvað með slælegan rekstur og stjórnun spítalans að gera.
Vert er að nefna, að þegar svínaflensan herjaði á heimsbyggðina 2009, þurftu 170 manns á sjúkrahúsinnlögn að halda, þar af 16, sem voru lagðir inn á gjörgæzlu á innan við tveimur mánuðum, en samt var það mat þáverandi stjórnenda, að ástandið væri viðráðanlegt."
Það hefur gætt hringlandaháttar í boðskap sóttvarnaryfirvalda til þjóðarinnar. Það er óskiljanlegt, að allan tíma Kófsins skuli Sóttvarnarráð aldrei hafa verið kallað saman til að móta stefnuna, en núverandi fyrirkomulag með einn mann, sóttvarnarlækni, í lykilhlutverki er ófært, enda hefur hann reynzt anzi mistækur, t.d. í yfirlýsingum sínum um mátt bóluefnanna, hjarðónæmi og ofurtrú á samkomutakmarkanir og sóttkví, jafnvel eftir að "fullu" bólusetningarstigi landsmanna er náð. Þá orkar mjög tvímælis, að réttmætt sé að bólusetja 12-15 ára.
Samanburður Harðar á þanþoli Landsspítalans nú og 2009 staðfestir, hversu mjög hefur sigið á ógæfuhliðina á LSH á rúmum áratugi, enda er LSH ekki fær um að fullmanna mikilvægar vaktir, jafnvel utan sumarorlofstíma. Hann býr við trénað stjórnkerfi, sem heilbrigðisstarfsfólk þrífst illa í. Núverandi heilbrigðisráðherra hefur magnað vandann með því að færa fleiri verkefni til spítalans, sumpart með óhugnanlegum afleiðingum, í stað þess að létta á spítalanum með því að færa verkefni til læknamiðstöðvanna, en tækniþróunin hefur gert að verkum, að þær eru nú í stakk búnar til fleiri og fjölbreytilegri aðgerða en áður. Heilbrigðisstefnuna hefur rekið upp á sker, og fyrir því eru vinstri-græningjarnir Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir ábyrgar. Þær valda ekki sínum erfiðu hlutverkum.
"Við þurfum að fara að horfa til framtíðar. Það, sem ætti að valda fólki mestum áhyggjum nú, er ekki farsóttin, sem tæpast er rétt að kalla lengur því nafni, heldur hvað það ætlar að reynast erfitt að koma lífinu aftur í sem eðlilegast horf þrátt fyrir víðtæka bólusetningu, sem er að skila því, sem henni var ætlað.
Áfram er kynt undir hræðsluáróðrinum á öllum vígstöðvum með látlausum ekki-fréttum af fjölda smita bólusettra, hversu margir séu í sóttkví og síbylju í fjölmiðlum um, að ekki sé nóg að gert í sóttvarnaaðgerðum.
Niðurstaðan af þessu fári öllu saman er, að allt áhættumat samfélagsins er orðið verulega skekkt. Reynt er í sífellu að réttlæta víðtækar takmarkanir, jafnvel til langrar framtíðar, þegar hættan, sem stafar af veirunni, er hverfandi. Við svo búið má ekki lengur standa. Það er undir stjórnvöldum komið, ekki sóttvarnalækni, að rétta af kúrsinn."
Það er rétt hjá Herði, að það gætir allt of mikillar tregðu að afnema kófshöftin, nú þegar sýkingareinkennin eru væg fyrir langflesta, með því fororði, að þeir, sem umgangast viðkvæma á borð við dvalargesti á hjúkrunarheimilum, undirgangist hraðpróf áður en þeir nálgast viðkomandi. Þá ætti að leysa sóttkví af hólmi með hraðprófum, því að sóttkví er mjög íþyngjandi og dýr. Sóttkví ætti ekki að tíðkast lengur í skólastarfi, en einangrun á enn við um sýkta í þjóðfélaginu.
Það eru furðumargir, sem enn trúa á réttmæti opinberra sóttvarnarhafta á borð við 1 m eða jafnvel 2 m reglu að viðlagðri grímuskyldu, 200 manna samkomuhámark eða 75 % aðgangsmark að sundlaugum og þreksölum. Þessar stjórnvaldstilskipanir eru íþyngjandi fyrir landsmenn og hafa sennilega ekkert sóttvarnargildi. Þess vegna ber að afnema þær og predika persónubundnar varnir.
Það er líka rétt hjá Herði Ægissyni, að búið er að brengla áhættumat almennings, og á þríeykið s.k. nokkra sök á því. Málflutningur lögreglumannsins þar hefur iðulega sætt furðu, en hann er anzi fullyrðingasamur. Það er brenglað áhættumat, þar sem ætluð nytsemi er talin meiri en ætlað tjón af bólusetningum unglinga 12-15 ára. Enskir sérfræðingar vara margir hverjir við bólusetningum 16-17 ára, sem komið hafa til tals þar í landi.
Bólusetningum við þessari kórónuveiru virðist aldrei ætla að linna. Þann 11.08.2021 var tilkynnt um, að ríkisstjórnin brezka hefði pantað 30 M skammta frá Pfizer á 22 GBP/stk (=3855 ISK/stk) fyrir 2022, en skammtar ársins 2021 kostuðu 18 GBP/stk (=3155 ISK/stk). Hækkunin er 22 %, sem kemur spánskt fyrir sjónir, ekki sízt í ljósi þess, að verndunarvirknin er miklu minni en Pfizer-Biotech upplýstu um, að væri niðurstaða tilrauna þeirra. Í þeim tilraunafösum var sleppt tilraunum á dýrum, en síðar hafa komið í ljós skelfilegar afleiðingar af tilraunum með kófsbóluefni á dýrum. Það eru e.t.v. mrd 50 ár á milli í þróunarstiganum, svo að e.t.v. má ekki draga of miklar ályktanir af þessu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.8.2021 | 17:05
Svikinn héri
Það er varla of djúpt í árinni tekið, að bóluefnin séu svikin vara. Þann 4. ágúst 2021 tilkynnti "Imperial College London" um þá niðurstöðu rannsakenda hjá sér, að smitlíkur fullbólusettra væru 50-60 % minni en smitlíkur óbólusettra gagnvart Delta-afbrigði kórónuveirunnar, en samkvæmt rannsóknarniðurstöðum bóluefnaframleiðendanna áttu þessar líkur að vera 90-97 % minni gagnvart alfa- (upprunalega afbrigðinu). Þetta þýðir, að hjarðónæmi næst aldrei með þessum bóluefnum, sem er þvert gegn því, sem lofað var. Ekki nóg með þetta, heldur benda rannsóknir Ísraelsmanna á verndaráhrifum bóluefnanna (þeir hafa aðallega notað Pfizer-BioNTech) til, að þau fjari hratt út; svo hratt, að séu verndaráhrifin sett = 1,0 einum mánuði eftir fullnaðarbólusetningu, hafi þau lækkað niður í 0,5 sex mánuðum þaðan í frá og séu þá að ári liðnu komin niður í 0,25. Þetta er eins konar svikamylla. Hvernig voru kaupsamningarnir ? Hér verður að taka fram, að bólusetningin virðist enn sem komið er hafa marktæk áhrif til að draga úr sjúkdómseinkennum og alvarlegum veikindum. Það breytir stöðunni til batnaðar.
Samningur ríkisstjórnarinnar (heilbrigðisráðherra) við Evrópusambandið (ESB) um bóluefnaútvegun hefur ekki verið opinberaður, en þó er talið, að lyfjafyrirtækin, sem ESB samdi við, hafi við samningsgerð fríað sig allri ábyrgð á virkni bóluefnanna og öllum skaðlegum aukaverkunum. Við höfum keypt köttinn í sekknum og fáum ekki einu sinni að vita, hvernig í pottinn var búið. Þess vegna fljúga ýmsar flökkusagnir m.a., að lyfjafyrirtækin hafi gert breytingar á sóttvarnarlöggjöf hér að skilyrði samninga.
Til að undirbúa nýja sóttvarnarlöggjöf sömdu forsætisráðherra og heilbrigðisráðherra við verktaka. Hvaða verktaka völdu þær ? Af öllum mönnum völdu þær dómsforseta EFTA-dómstólsins. Við leikmanni blasir, að með því að taka verkið að sér gerði dómsforsetinn sig vanhæfan til að fjalla um öll mál, er kann að verða skotið til EFTA-dómstólsins og tengjast málefnum sóttvarna. Forsætisráðherra hefur síðan bætt gráu ofan á svart með því að fría sig ábyrgð á samþykki verktakans að taka að sér verkið og varpað ábyrgðinni yfir á verktakann. Ekki er það nú stórmannlegt.
Frétt Odds Þórðarsonar á bls. 2 í Morgunblaðinu 4. ágúst 2021 um málið hófst svona:
"Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir, að það sé undir dómurum sjálfum komið að meta hæfi sitt, þegar þeir taka að sér störf utan þeirra dómstóla, sem þeir sitja við. Þar vísar Katrín til Páls Hreinssonar, forseta EFTA-dómstólsins, sem tók að sér að gera álitsgerð að beiðni Katrínar, á meðan hann sat sem dómari."
Það er lágmark að ætlast til þess, að Katrín hafi falið utanríkisráðherra að ganga úr skugga um, að hin 2 aðildarríki EFTA, sem skipa í EFTA-dómstólinn, hafi samþykkt verktökuna, en út úr loðnu svari utanríkisráðherrans má þó lesa, að hann hafi hvorki hreyft legg né lið í þeim efnum:
"Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, tekur í sama streng og Katrín og segir, að það sé ekki við hæfi, að stjórnvöld tjái sig um hæfi dómara; það sé á þeirra eigin forræði."
Á þessu stigi málsins er þetta aukaatriði. Aðalatriðið er, að framkvæmdavaldið (ráðherrar) á að virða kröfu Stjórnarskrár um þrískiptingu ríkisvaldsins og á alls ekki að aðhafast neitt, sem getur valdið vanhæfi dómara til að fást við mál, sem hæglega getur rekið á fjörur hans síðar. Það er ámælisvert, að forsætisráðherra sé svo illa áttuð, að hún fremji fingurbrjót af þessu tagi.
Nokkrir lögfræðingar, hver öðrum betur að sér á sviði lögfræðinnar, hafa tjáð sig um þennan gjörning, sem er eins og aftan úr grárri forneskju. Fyrstur reið á vaðið Carl I. Baudenbacher, fyrrverandi forseti EFTA-dómstólsins, í grein í Morgunblaðinu, 31. júlí 2021, undir fyrirsögninni:
"Hnignun EFTA-dómstólsins".
Þar gat m.a. að líta eftirfarandi um mál Katrínar og EFTA-dómarans:
"Loks er það eftir öllu (svo !), að forseti EFTA-dómstólsins, Páll Hreinsson, starfar í hjáverkum fyrir íslenzka forsætisráðuneytið, að því er virðist, gegn þóknun. T.a.m. skrifaði hann haustið 2020 sérfræðingsálit fyrir ráðuneytið um lögmæti takmarkana á grundvallar réttindum í Covid-faraldrinum. Þar er um að ræða svið, sem heyrir undir lögin um hið Evrópska efnahagssvæði. Álitsgerðin er málamyndaskjal, en með því eru ríkisstjórninni gefnar nánast frjálsar hendur ( https://stundin.is/grein/11953 ). Hafi Páll Hreinsson nokkurn tíma verið sjálfstæður, hefur hann með þessu glatað sjálfstæði sínu. Ákvæði 1. mgr., 30. gr. samningsins um stofnun EFTA-dómstólsins er svohljóðandi: "Til embættis dómara skal velja þá, sem óvéfengjanlega eru öðrum óháðir og uppfylla skilyrði til að skipa æðstu dómaraembætti í heimalöndum sínum eða hafa getið [sér] sérstakan orðstír sem lögfræðingar. Þeir skulu skipaðir til 6 ára með samhljóða samkomulagi ríkisstjórna EFTA-ríkjanna.""
Á grundvelli þessara hæfisskilyrða var augljóslega rangt af Katrínu Jakobsdóttur að ráða téðan dómara í vinnu fyrir íslenzka ríkið samhliða dómarastörfum hans hjá EFTA. Þetta átti hún að kynna sér áður en hún tók þetta einkennilega skref, enda er vankunnátta eða fáfræði engin afsökun fyrir forsætisráðherra. Þvert á móti má flokka þetta undir vanrækslu.
Íslenzkir lögfræðingar hafa líka tjáð skoðun sína opinberlega á þessari verktöku EFTA-dómarans. Þannig skrifaði Jón Magnússon, hrl., í vefpistli á heimasíðu sinni 04.08.2021:
"... fráleitt að ráða dómsforseta EFTA-dómstólsins til að fjalla um íslenzk löggjafarmálefni og gera tillögur um breytingar, sem hann kynni síðar að þurfa að fást við sem dómari."
Þegar þetta er skrifað, hefur Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi dómari við Hæstarétt og nefndarmaður í réttarfarsnefnd, skrifað 2 greinar um málefnið í Morgunblaðið. Sú síðari birtist 5. ágúst 2021 undir fyrirsögninni:
"Eiga dómarar að sýsla við lagasetningu ?".
Greinin hófst þannig:
"Á síðum Morgunblaðsins hefur á undanförnum dögum komið til umræðu, hvort eðlilegt hafi verið á síðasta ári af forsætisráðherra að fela Páli Hreinssyni, dómara við EFTA-dómstólinn, að skrifa álitsgerð um valdheimildir heilbrigðisráðherra til "opinberra sóttvarnaráðstafana samkvæmt sóttvarnalögum". Skilaði dómarinn álitsgerð um þetta efni 20. september sl.
Það er skoðun mín og fjölda annarra lögfræðinga, að ekki sé við hæfi, að skipaðir dómarar sinni svona verkefnum fyrir stjórnarráðið. Skiptir þá að mínu mati ekki máli, hvort um ræðir dómara við innlenda dómstóla eða fjölþjóðlega."
Í þessu ljósi má það furðu gegna, að doktor í hæfi/vanhæfi fremji það axarskapt að verða við ósk forsætisráðherra um að taka umrætt verk að sér, en það er ekki nóg með, að hæfið sé í uppnámi, heldur varðar málið líka við Stjórnarskrána, eins og Jón Steinar bendir á. Blindur leiðir haltan:
"Segja má, að ástæður fyrir þessu séu aðallega tvíþættar. Í fyrsta lagi fara dómstólar með dómsvald, en það vald á samkvæmt stjórnarskrá og lögum að vera skilið frá framkvæmdarvaldi, sem ráðherrar fara með. Það skiptir því máli, að dómarar gerist ekki þátttakendur í meðferð ráðherravalds. Slíkt er til þess fallið að skapa tengsl, sem geta haft áhrif langt út fyrir einstök verkefni, sem ráðherra felur dómara að sinna. Þetta dregur úr trausti manna á dómstólum."
Síðan tíundar höfundur vanhæfnihlið málsins og saman gera þessar ástæður frumhlaup ráðherrans að fingurbrjóti í stjórnsýslu:
"Svo má spyrja: Hvers vegna leitar ráðherrann til dómarans til að fá lögfræðiálit ? Páll er hinn mætasti lögfræðingur og kann ýmislegt fyrir sér. En er ekki starfandi í landinu fjöldi lögfræðinga, sem segja má hið sama um ? Í þeim flokki má t.d. telja fræðimenn og kennara í lögfræði, starfandi lögmenn og jafnvel lögfræðimenntaða stjórnmálamenn. Er einhver þörf á að hætta stöðu hins mæta dómara Páls með þessu ?"
Þessi gjörningur forsætisráðherrans er svo skrýtinn, að ástæða er til að halda, að fiskur liggi undir steini hjá vinstri-græningjanum.
Hvað sem heimildum í sóttvarnarlögum til ríkisstjórnarinnar til frelsisskerðingar borgaranna líður, ber henni samkvæmt stjórnsýslulögum að virða meðalhófsregluna við ákvarðanir, sem varða samkomutakmarknir, atvinnuréttindi o.s.frv. Að henni virtri er mjög ankannalegt að viðhafa frelsisskerðingar á svo að segja fullbólusettri þjóð, þótt hjarðónæmi náist aldrei. Það eru svo lítil veikindi samfara þessari Delta-bylgju, sem nefnd er 5. bylgjan á Íslandi, en lægri raðtala viðhöfð annars staðar, að það væri satt að segja merki um annað vandamál en Kófið að skella nú á íþyngjandi höftum.
Það er mjög virðingarvert, hvernig ríkisstjórnin nálgast viðfangsefnið núna. Hún hlustar eftir sjónarmiðum og tillögum ólíkra hagsmunahópa í samfélaginu, og vonandi vegur hún þau og metur af gerhygli. Hún ætti reyndar líka að leggja sig eftir því, hvað fulltrúar starfsfólks Landsspítalans hafa að segja, því að á Landsspítalanum liggur meinið núna.
Uppruni meinsins er síðan löngu fyrir Kóf. Hann má rekja til sameiningar sjúkrahúsanna í Reykjavík. Síðan þá hefur hallað undan fæti hjá Landsspítalanum í mönnunarmálum, því að samkeppni um starfsfólkið og um rekstrarárangur hefur verið af skornum skammti. Frá því fyrir Kóf hefur spítalinn verið staddur í vítahring. Hann hefur misst heilbrigðisstarfsfólk vegna óánægju þess á starfi og ekki alltaf tekizt að ráða fólk í staðinn. Þetta hefur leitt til ofálags á þá, sem eftir eru, og sumir hafa hætt vegna kulnunar í starfi. Nú er komið að þolmörkum starfsfólksins, eins og neyðarkall tæplega 1000 heilbrigðisstarfsmanna um daginn ber vott um.
Núverandi heilbrigðisráðherra skilur ekki vandamálið eða neitar að skilja það, vegna þess að henni hefur verið innrætt, að sameining ólíkra stofnana undir einni stjórn, þ.e. aukin miðstýring, sé allra meina bót. Hvað hefur hún þá leitazt við gera, síðan hún tók við stjórn heilbrigðisráðuneytisins 2017 ? Hún hefur farið þveröfuga leið m.v. það, sem raunhæf greining á vandanum mundi vísa á. Hún hefur reynt að þvinga starfsfólk einkageirans á heilbrigðissviði inn á Landsspítalann. Það eru hins vegar eins vanhugsuð viðbrögð og hægt er að hugsa sér, því að engin aðstaða er á Landsspítalanum til að sinna þeirri starfsemi, sem læknastofurnar hafa haft með höndum. Afleiðingin af þessu háttalagi ráðherrans er öngþveiti.
Það verður að segja hverja sögu, eins og hún er. Heilbrigðisráðherra vinstri hreyfingarinnar græns framboðs er óhæf til starfans. Að halda áfram á braut sósíalismans við stjórnun heilbrigðismála í landinu mun leiða til aukinna útgjalda og verri þjónustu. Meta þarf gaumgæfilega, hvort raunhæft umbótaúrræði er að að stíga skref til baka frá sameiningunni, og það þarf strax að semja við sjálfstæða sérgreinalækna, láta af hernaði heilbrigðisráðuneytisins gegn þeim og fá þeim verkefni til að létta á starfsfólki Landsspítalans, sem er að þrotum komið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
4.8.2021 | 17:33
"Íslenzka kvótakerfið er umhverfisvænt"
Umræðurnar um loftslagsmálin og C-19 eiga það sammerkt, að þær einkennast af rörsýn. Það er t.d. fleira, sem ógnar lífríki jarðar en hlýnun andrúmsloftsins, og má nefna fækkun tegundanna í lífríki jarðar. Það er líka fjölmargt annað en veiran SARS-CoV-2, sem er heilsufarsógn fyrir mannkyn, bæði í þróuðum ríkjum og þróunarríkjum. Í baráttunni við þessa kórónuveiru hafa t.d. aðrar bólusetningar setið á hakanum í ýmsum þróunarríkjum, og ýmsir biðlistar hafa lengzt í heilbrigðiskerfum þróaðra ríkja.
Mannkynið reiðir sig á heilbrigð vistkerfi og neytir afurða þeirra s.s. fisks, kjöts, korns, timburs og trefja á borð við bómull og silki. Með ljóstillífun taka tré og aðrar jurtir til sín koltvíildi, CO2, og gefa frá sér ildi (súrefni), O2. Upptaka þeirra af CO2 nemur um 11 mrdt/ár eða um 27 % af losun mannlegrar starfsemi. Höfin sjúga í sig 10 mrdt/ár og súrna fyrir vikið með neikvæðum áhrifum á lífríkið.
Virkni vistkerfanna, sem maðurinn nýtir sér, er algerlega háð fjölbreytninni innan þeirra. Síðan á 10. áratugi 20. aldarinnar hafa rannsóknir sýnt hrörnun fjölbreytni lífríkisins, og vísindamenn sjá nú fram á útdauða margra dýra- og plöntutegunda. Það yrði í 6. skiptið, sem fjöldadauði tegunda yrði á jörðunni, en í þetta skiptið yrði hann ólíkur fyrri skiptum, m.a. vegna skaðlegra áhrifa hinnar ágengu tegundar "homo sapiens".
Ef fjölbreytt vistkerfi jarðarinnar breytast í fábreytt vistkerfi, jafngildir slíkt yfirvofandi tilvistarógn fyrir mannkynið og miklum mannfelli. Þessi tilvistarógn er alvarlegri og nær í tíma en hlýnun jarðar, en athyglin og umfjöllunin, sem hún fær, er aðeins brot af athygli og umfjöllun loftslagsbreytinganna. Samt hefur IPBES (Intergovernmental Science-Policy Platform on Biodiversity and Ecosystem Services) gefið út stöðuskýrslur, síðast 2019, um yfirvofandi hrun vistkerfa. Aðeins stefnubreyting í átt að sjálfbærum landbúnaði og tækniþróunin geta dregið úr áfallinu, sem framundan er. Neyðin af völdum kórónuveirunnar er smáræði hjá þeirri hungursneyð, sem yfir dynur, ef vistkerfi hrynja.
Í þessu ljósi rennur upp fyrir mörgum mikilvægi íslenzkrar matvælaframleiðslu fyrir fæðuöryggi landsmanna. Hún er sem betur fer sjálfbær, hvað vistkerfið varðar, bæði á landi og sjó. Kornyrkju og grænmetisræktun er hægt að auka mikið, en þá þurfa stjórnvöld að skilja sinn vitjunartíma, og fiskeldi í sjókvíum og landkerum er nú þegar í miklum vexti. Þetta verður auðvitað mikilsvert framlag Íslendinga til framleiðslu próteinríkrar fæðu, því að fiskafli úr heimshöfunum fer minnkandi, og um þriðjungur nytjastofna á heimsvísu er ofveiddur um þessar mundir.
Í Bændablaðinu 8. júlí 2021 var viðtal við dr Stefán B. Gunnlaugsson, dósent við Háskólann á Akureyri, um íslenzkan sjávarútveg undir sömu fyrirsögn og þessi vefpistill:
""Þegar ég var á sjó um 1990, var fiskirí lélegt. Það þótti gott að fá 10-12 t/shr, og þá var fiskurinn miklu smærri en hann er í dag. Ég sé þetta í gögnum, sem ég hef rannsakað", segir Stefán.
Nú eru 30 m togbátar að fylla sig á 2-3 dögum, þetta 40-80 t. Þetta hefði ekki verið hægt að gera 1990. Þetta er gríðarleg breyting í veiðum á þorski á þessum tíma, en ég hef mest rannsakað þorskveiðar af botnfisktegundum. Þetta hefur líka mikil og jákvæð áhrif á vinnslurnar. Þær afkasta meiru fyrir vikið og verða hagkvæmari", bætir Stefán við."
Það hafa ýmsir horn í síðu kvótakerfisins og færa fram ýmis hraðsoðin rök, sem eru illa ígrunduð, t.d. að árangur kvótakerfisins sé harla lítill, af því að veiðin sé engu meiri en 1980. Þá voru hins vegar miklu fleiri skip að skaka á miðunum og mikilvægir stofnar á borð við þorsk á barmi hruns, sbr "Svarta skýrslan" 1976. Veiðar og vinnsla voru fjarri því jafnhagkvæmar og nú og fiskurinn minni. Þjóðin öll nýtur góðs af velgengni sjávarútvegsins, þótt "latte-lepjandi" íbúar í 101 R. beri ekki skynbragð á það, eins og endurspeglast í fáránlegri stefnumörkun ESB-flokkanna, Samfylkingar og Viðreisnar, hverra stefnumörkun um að stuðla að inngöngu Íslands í Evrópusambandið - ESB mun veita útgerðum ESB-landanna kost á að bjóða í aflaheimildir á Íslandsmiðum að undangenginni þjóðnýtingu núverandi aflaheimilda, ef þessir flokkar fá sínu framgengt. Hér mun allt fara í bál og brand, ef/þegar hafizt verður handa um að innleiða þessi ósköp.
"Alkunna er, að olíunotkun íslenzks sjávarútvegs hefur dregizt saman um 45 % frá 1990-2017. Þetta hefur gerzt á sama tíma og losun í fiskveiðum heimsins hefur aukizt um 28 % frá 1990-2011. Það, sem skýrir þetta, segir Stefán [vera], að "með kvótakerfinu var sókn takmörkuð og fyrirtækin neyddust til að fækka skipum og sameina aflaheimildir; m.ö.o. að hagræða. Þannig lækkuðu þau kostnað og urðu arðbær. Stóri ávinningurinn var síðan, að veiðistofn mikilvægustu tegundarinnar, þorsksins, stækkaði mikið, og auðveldara varð að sækja þorskinn. Með þessu mikla fiskiríi og fækkun skipa minnkaði olíunotkun Íslendinga við veiðarnar. Þetta er algjör bylting, því [að] afli á sóknareiningu hefur aukizt mikið. Við förum niður, en heimurinn upp. Til þess að minnka losun í heiminum þarf að gera tvennt í fiskveiðum: að taka upp kvótakerfi og byggja upp fiskistofna. Allir umhverfisverndarsinnar ættu því að styðja íslenzka kvótakerfið !", sagði Stefán að lokum."
Ef síðasta fullyrðingin er rétt, er andstæðan líka rétt: enginn umhverfisverndarsinni ætti að styðja sóknarmarkskerfi eða sóknardagakerfi. Ástæðan er t.d. sú, að þessi kerfi fela ekki í sér hvata til að draga úr sóknarkraftinum og þar með fækka skipum og gera kleift að draga úr olíunotkun á hvert veitt tonn í sama mæli og aflamarkskerfið. Færeyingar hafa nokkuð beitt sóknarstýringu án viðunandi árangurs fyrir veiðistofnana og afkomu útgerðanna.
Hérlendis má segja, að markaðurinn stýri sókninni og samkeppnin veldur því jafnframt, að útgerðir leitast við að hámarka tekjur og lágmarka kostnað á sóknareiningu. Afleiðingin af öllu þessu er, að hin "ósýnilega hönd markaðarins" (ekki "hönd Guðs", eins og Maradonna útskýrði eitt af mörkum sínum) hámarkar verðmætasköpun úr auðlind þjóðarinnar í kringum landið, og eigandinn (þjóðin) ber þannig mest úr býtum til lengdar án þess að þurfa að leggja fram nokkurt áhættufé í atvinnurekstur sjálfur. Það hefur komið fram hjá einum af talsmönnum uppboðsleiðarinnar, Daða Má Kristóferssyni, hagfræðingi og varaformanni Viðreisnar, að hann telji ekki, að tekjur ríkisins af sjávarútvegi mundu vaxa, þótt uppboðsleiðin yrði farin. Hér skal fullyrða, að til lengdar mundu þær minnka vegna þess, að langtímahugsun hverfur, fjárfestingar skreppa saman og hægir á framleiðniaukningu knúinni áfram af tækniþróun. Samkeppnisstaðan versnar af þessum sökum, sem leiðir til minni tekna og jafnvel minnkandi markaðshlutdeildar.
Tilraunastarfsemi með 2. og 3. flokks stjórnkerfi í stað 1. flokks stjórnkerfis er heimskuleg ævintýramennska, sem þjónar annarlegum sjónarmiðum á borð við að koma íslenzka sjávarútveginum á kné í von um, að þá opnist glufa í varnarvegginn gegn því að taka aðlögun Íslands að Evrópusambandinu á nýtt stig, sem endi með fullri aðild, þannig að á ný færist viðamikil ákvarðanataka um málefni Íslands út fyrir landsteinana, í þetta sinn til yfirþjóðlegs valds. Þau, sem fyrir þessu berjast, beita raunar svo lítilfjörlegum málflutningi, að umræða um þetta virðist vera hrein tímasóun, en stjórnmálaflokkarnir, sem þetta setja á oddinn, eru þó alls ekki áhrifalausir, hvorki á Alþingi né í sveitarstjórnum.
Árangur landvinnslu sjávarafurða við að draga úr olíunotkun er mjög athyglisverður, því að þar hafur olíunotkun minnkað á 22 ára tímabili 1995-2017 úr 200 kt/ár í 20 kt/ár eða um 90 %, og væri minnkunin enn meiri, ef flutnings- og dreifikerfi raforku, einkum á NA-landi, væri í stakkinn búið að standa undir orkuskiptunum. Ófullnægjandi opinberir innviðir standa þróun samfélagsins fyrir þrifum, en aðgæzlulausir stjórnmálamenn gleyma því, þegar þeim liggur mikið á við að setja landsmönnum háleit markmið.
Olíunotkun fiskiskipanna hefur minnkað enn þá meira á sama tímabili eða frá 800 kt/ár niður í 410 kt/ár eða um 390 kt/ár, sem eru um 49 %. Þessi árangur er bein afleiðing af breyttu útgerðarfyrirkomulagi og breyttum viðhorfum innan útgerðanna, þ.e. einn af fjölmörgum ávinningum fiskveiðistjórnunarkerfisins og væri útilokaður með einhvers konar sóknarkerfi.
Enn er eftir að mestu að nýta lífræna olíu á skipin. Líklega er hægt losna að töluverðu leyti við innflutta olíu á skipunum, ef vel tekst til við olíugerð innanlands, t.d. úr repju. Ef tilraunir með að vinna CO2 úr kerreyk stóriðjunnar heppnast og verða innan kostnaðarmarka, er ólíkt gæfulegra að nýta þetta koltvíildi ásamt vetni til eldsneytisframleiðslu en að dæla því ofan í jörðina við ærnum tilkostnaði.
Þótt sjávarútvegurinn hafi náð frábærum árangri á undanförnum árum á fjölmörgum sviðum, er ekki þar með sagt, að hann hafi búið við fjárhagslega sérlega hvetjandi atlæti stjórnvalda til þess t.d. að minnka olíunotkun sína. Þannig skrifaði Sigurgeir B. Kristgeirsson, búfræðingur og framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar hf í Vestmannaeyjum í Bændablaðið 8. júlí 2021:
"En það eru ekki bara lög og reglugerðir að þvælast fyrir [á "vegferð okkar að minni kolefnisútblæstri"]. Skattar hafa nefnilega áhrif líka. Það var þannig, að þegar Vinnslustöðin hf lét byggja Breka VE, þá var aðalforsenda nýsmíðinnar olíusparnaður upp á 150 MISK/ár vegna stærri, hæggengari og hagkvæmari [með minni orkutöpum - innsk. BJo] skrúfu. Af þessum 150 MISK/ár sparnaði fer 33 % í hærra veiðigjald á greinina eða 50 MISK/ár. Skattar hafa einfaldlega áhrif á hegðun fyrirtækjanna."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)