Er einhver kostur við OP#3 og OP#4 í sjónmáli fyrir Ísland ?

Það er alveg ljóst, að eftir samþykkt Alþingis á Orkupakka #3 mun fljótlega hefjast umræða um OP#4.  Það er þannig útilokað, að orkupakkaumræða verði ekki við lýði, þegar líður að næstu þingkosningum.  Sá hlær bezt, sem síðast hlær. 

Nú hefur verið staðfest, það sem við blasti, að stjórnarliðar hafa farið með rangt mál, þegar þeir hafa haldið því fram, að þingsályktunartillögur utanríkisráðherra og iðnaðarráðherra væru reistar á álitsgerð Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst og Stefáns Más Stefánssonar.  Ráðherrarnir sigla báðir undir fölsku flaggi og skáka í skjóli vandaðrar álitsgerðar.  Stefán Már upplýsti í Kastljósviðtali að kvöldi 6. maí 2019, að leið utanríkisráðherra væri líklega upprunnin í utanríkisráðuneytinu og þvoði þar með hendur sínar af endemis lögfræðilegu klúðri, sem þingsályktunartillagan býður upp á.  

Hvernig er þetta klúður vaxið ?  Ef/þegar umsókn berst til orkustofnana Bretlands og Íslands frá sæstrengsfjárfestum, t.d. "Atlantic Superconnector", AS, um leyfi til að tengja raforkukerfi landanna með aflsæstreng, sem AS er búið að kynna á NA-Englandi með brauki og bramli og hefur væntanlega öðlazt pólitíska velvild þar, að það hyggist framleiða þar og skapa þar með mikla vinnu á atvinnuleysissvæði, þá virkjast reglugerðir #713/2009 og #714/2009 um ACER (Orkustofnun ESB) óhjákvæmilega, því að málsmeðferðin þarf að vera samræmd í löndunum, sem tengja á saman, þar sem þau hafa bæði innleitt OP#3.

Þá verður árekstur við fyrirvara Alþingis um, að Alþingi verði að samþykkja undirbúning fyrir sæstreng og tengingu hans við íslenzka raforkukerfið.  Það er alls ekki gert ráð fyrir afskiptum þjóðþinganna í orkusambandi ESB af ákvörðunarferli um millilandatengingar. Yfirlýsingar frá ESB og EFTA-löndunum hafa einvörðungu pólitískt inntak, en eru á engan hátt lagalega bindandi, sem auðvitað er nauðsynlegt, þegar til ágreinings kemur. 

ESA mun annaðhvort að eigin frumkvæði eða samkvæmt ábendingu hagsmunaaðila fetta fingur út í þessa lagasetningu Alþingis, sem við þessar aðstæður verður brotleg við EES-samninginn, 7. gr., og Alþingi mun vafalítið neyðast til að ógilda fyrirvarann.  Þar með verður Stjórnarskráin í uppnámi samkvæmt álitsgerð FÁFH og SMS.  Hægt verður að sækja skaðabætur á hendur íslenzka ríkinu fyrir allar tafir, sem allt þetta vafstur hefur í för með sér fyrir sæstrengsverkefnið, og að lokum verður sæstrengur lagður til Íslands til að tengja aðra af tveimur "grænum rafhlöðum norðursins" við innra raforkukerfi ESB, en hin, sem reyndar er mun stærri, er Noregur.  Belti og axlabönd ráðherranna í þessu máli eru úr hýjalíni, sem óhjákvæmilega þýðir, að þau verða með allt á hælunum, eftir að sæstrengsumsókn berst.  Þau verða ekki öfundsverð af því að hafa blekkt þingheim.

Það er til lítils að leggja aflsæstreng til Íslands, ef ekki er jafnframt virkjað.  Samkvæmt innri raforkumarkaði ESB er orkuöflun fyrir markaðinn alfarið á höndum markaðarins.  Við sjáum markaðinn hérlendis nú þegar vera í startholunum við að afla sér virkjanaheimilda fyrir vatnsvirkjunum og vindmyllum.  Allt verður hagkvæmt, bæði stórt og smátt, þegar strengurinn hefur verið tengdur.  Ísland hefur ekki lengur viðurkennda stöðu sem land "lítils og einangraðs raforkukerfis" gagnvart ESB, og þess vegna kæmi á óvart, ef sæstrengsfjárfestar létu bíða lengi eftir sér, eftir að Alþingi hefur opnað dyrnar og í raun gefið undir fótinn með tengingu við sameiginlegan raforkumarkað ESB.

ACER stjórnar orkuflutningunum á milli landa, þ.e. úthlutar fyrirtækjum aðgang að sæstrengjunum, ef hann er takmarkaður, t.d. vegna fullestunar búnaðar.  ACER hefur líka eftirlit með því, að engar hömlur verði lagðar á flutninginn, t.d. að hálfu stjórnvalda til að stemma stigu við orkuverðshækkunum innanlands.  Slíkt eru óleyfileg inngrip til verndunar innlendum samkeppnisrekstri.  Hérlendis mun kerfi af þessu tagi fljótlega leiða til orkuskorts.

   

Þróunin er lengra komin í Noregi, enda hefur orkuverðið þegar hækkað í markaðskerfinu, sem þar er við lýði með rafmagnið.  Núna nemur flutningsgeta millilandatenginga þar 54 TWh/a, sem er um fimmfaldur meðalútflutningur raforku frá Noregi á ári undanfarin ár. Yfirvöldin hafa getað temprað útflutninginn, af því að Statnett, norska Landsnet, á allar millilandatengingar. 

Flutningsgetan nemur nú 39 % af vinnslugetu virkjana Noregs.  Ef hingað verður lagður 1200 MW sæstrengur, verður hámarksflutningsgeta hans 10 TWh/ár eða um 50 % af núverandi raforkuvinnslugetu landsins.  Þetta þýðir, að öll viðbótar orka hér mun fara til útflutnings og hér verður engin umframorka, ekkert borð fyrir báru, sem þýðir meira eða minna sama orkuverð hér og í hinum enda sæstrengsins.  Þetta er grafalvarleg staða fyrir íslenzk heimili og íslenzkan atvinnurekstur.  Við þessar aðstæður minnkar aðdráttarafl Íslands fyrir fólk og fjármagn.  Lífskjör eru dæmd til að versna.  

Í Noregi eru tveir sæstrengir nú á framkvæmdastigi, hvor um sig með aflflutningsgetu 1400 MW og orkuflutningsgetu 12 TWh/ár.  Liggur annar til Þýzkalands og hinn til Englands.  Með þeim mun flutningsgetan nema 78 TWh/ár eða 56 % af núverandi raforkuvinnslugetu Noregs.  Margir Norðmenn hafa áhyggjur af mikilli raforkuverðshækkun, sem þessi staða muni leiða til, og Statnett hefur varað við að fjölga sæstrengjum meir fyrr en afleiðingar viðbótar strengjanna tveggja verða komnar í ljós.  

Nú hafa orðið straumhvörf í aflsæstrengjamálum Noregs, því að í fyrsta skipti í sögunni hefur einkafyrirtæki sótt um leyfi til að leggja slíkan streng, sem þýðir auðvitað, að búizt er við góðri arðsemi þessarar fjárfestingar.  Er það félagið NorthConnect, sem vill leggja samnefndan streng á milli Noregs og Skotlands og hefur þegar fengið leyfi orkustofnunar Bretlands, en norska orkustofnunin, NVE, dregur lappirnar, enda hefur Statnett veitt neikvæða umsögn, vill fresta ákvörðunartöku og sjá afleiðingar rekstrar hinna sæstrengjanna tveggja á norska raforkumarkaðinn, eins og áður sagði. 

Það var eitt af 8 skilyrðum norsku stjórnarandstöðuflokkanna, sem studdu innleiðingu OP#3 á Stórþinginu 22. marz 2018, að leyfisveitingarferlið yrði stöðvað og Statnett yfirtæki eignarhaldið á "NorthConnect".  Það hefur verið svikið af ríkisstjórn Noregs.  Ef OP#3 tekur gildi í Noregi við afléttingu stjórnskipulegs fyrirvara af honum á Íslandi, eins og nú eru horfur á, þá mun ESA vafalaust gera athugasemd við einokunartilburði norska ríkisins á millilandatengingum.  "NorthConnect" verður prófsteinn á valdmörk norska ríkisins gagnvart ACER/ESB varðandi millilandatengingar.  Norðmenn hafa hingað til stjórnað orkuflæðinu sjálfir, en munu missa stjórn á þessum mikilvæga þætti orkumálanna til markaðarins og ACER (ACER útdeilir orkuflutningsleyfum, þegar flutningsgetan er takmörkuð).  Eftir sitja norskir neytendur með sárt ennið út af raforkuverðshækkun. Þetta er nú hin margrómaða neytendavernd OP#3.  Þegar verð jafnast út í Evrópu, græða sumir neytendur, en aðrir hljóta að tapa. Það verður fróðlegt að fylgjast með þróun orkumálanna í Noregi ekki síður en á Íslandi eftir lögleiðingu OP#3.  Búast má við, að kjósendur verði miskunnarlaust með refsivöndinn á lofti í næstu kosningum, ef neikvæðar afleiðingar innleiðingar OP#3 verða þá þegar teknar að birtast.

Samþættingin við Orkusamband ESB og fjölgun aflsæstrengja gerir það að verkum, að í Noregi eru að þurrkast út tengslin á milli árstíðarbundinnar umframorku í kerfinu og verðs á norska raforkumarkaðinum.  Það er vegna þess, að evrópskur markaður getur tekið við öllu rafmagni, sem ekki er þörf á innanlands. NVE áætlar, að umframorka í Noregi (án útflutnings) árið 2040 verði a.m.k. 30 TWh, sem er 23 % af núverandi innanlandsnotkun.  Þetta mun allt fara í útflutninginn um millilandatengingarnar, og inn verður flutt evrópskt raforkuverð. Þegar megnið af orkufyrirtækjunum er í opinberri eigu, er ekki sjálfgefið, eins og margir halda, að aukið "gegnsæi" á markaðnum verði almenningi til hagsbóta. 

Þessi þróun mun leiða til þess, að orkukræfur iðnaður í Noregi mun missa samningsstöðu sína á orkumarkaðinum og mun í sívaxandi mæli verða boðið upp á evrópskt raforkuverð.  Það skekkir samningsstöðu þessa iðnaðar meira en hann þolir, og hið sama gildir um slíkan iðnað á Íslandi vegna meiri kostnaðar á öðrum sviðum fyrir þennan iðnað í Noregi og á Íslandi en á meginlandinu. Það er tóm vitleysa, sem jafnvel þingmaður í Kraganum hefur heyrzt halda fram, að stóriðjan á Íslandi vilji halda orkuverðinu leyndu.  Það er gert að kröfu orkubirgjanna, t.d. Landsvirkjunar, sem telur sig fá sterkari samningsstöðu með leyndinni.  Verði Landsvirkjun tætt í sundur að kröfu ESA á grundvelli samkeppnislöggjafar ESB, sem verður líklegra eftir innleiðingu OP#3 en áður vegna skylduinnleiðingar frjáls uppboðsmarkaðar með raforku, þá hríðversnar samningsstaða hennar. 

Það skýtur skökku við að sjá forystumenn í íslenzku atvinnulífi, 8 talsins, þeirra á meðal forstjóra Alcoa Fjarðaáls, mæla með innleiðingu OP#3 hérlendis.  Rök þeirra koma hins vegar OP#3 ekkert við.  Það er mælt með innleiðingu OP#3 á röngum forsendum.  

Í lok hvatningargreinar sinnar í Morgunblaðinu 8. maí 2019,

"Samstarf um orku og loftslagsmál er nauðsyn",

sem aðallega fjallar um EES-samstarfið og loftslagsmál, skrifa áttmenningarnir:

"Það er mikilvægt fyrir hagsmuni Íslands, atvinnulífsins og fólksins í landinu, að halda áfram samstarfinu við ESB um orku- og loftslagsmál með innleiðingu 3. orkupakkans.  Alþjóðleg samvinna á þessu sviði mun auðvelda viðureignina við loftslagsbreytingar og gagnast ekki einungis okkar kynslóð, heldur börnum okkar og barnabörnum."

Af þessum texta virðist helzt mega ráða, að höfundarnir vilji samþykkja OP#3 til að greiða fyrir raforkuútflutningi frá Íslandi til ESB, sem þá að sjálfsögðu yrði á grundvelli gríðarlegra orkuframkvæmda hérlendis, bæði í virkjunum og línulögnum.  Öðru vísi nýtist OP#3 ekki til að létta  undir ESB í viðureigninni við loftslagsvána.  Innleiðing OP#3 getur aðeins gagnazt orkugeiranum.  Innleiðingin verður á kostnað hinna mörgu og til ávinnings hinna fáu.   

Miklu eðlilegra og þjóðhagslega hagkvæmara er, að Alþingi ráði ferðinni í þessum efnum við orkunýtingu til atvinnu- og verðmætasköpunar í landinu.  Við þurfum sízt af öllu á því að halda, að markaðsöflin á innri raforkumarkaði ESB ráði í framkvæmd orkustefnunni á Íslandi.  Til þess að svo megi verða þarf Alþingi að neita að lyfta hinum stjórnskipulega fyrirvara af OP#3. 

OP#3 fjallar aðeins óbeint um loftslagsmál, en OP#4 gerir það í ríkum mæli.  Það er að sjálfsögðu vegna mjög mikillar losunar gróðurhúsalofttegunda við raforkuvinnslu í ESB.  Hér er losun gróðurhúsalofttegunda við raforkuvinnslu mjög lítil, og þess vegna á OP#4 ekkert erindi hingað heldur. Hann felur í sér stórhættuleg ákvæði um svæðisstjórnstöðvar fyrir raforku.  Ef Ísland undirgengst OP#4 líka, gæti kerfisstjórnun raforkukerfis Íslands, sem nú fer fram við Gylfaflöt í Reykjavík hjá Landsneti, flutzt niður til meginlands Evrópu.  Statnett hefur þess vegna lagzt gegn samþykki OP#4 í Noregi, og hérlendis mun verða lífleg umræða um hann líka.

Að lokum skal vitna í Carl Baudenbacher um rétt Íslands til að hafna OP#3:

"In order to avoid any misunderstanding, I wish to emphasise, that the right of Iceland to initiate proceedings under Article 102(5) EEA is undisputed.  In the present case, however, there is no sufficient reason to use this emergency valve."

Meirihluta íslenzku þjóðarinnar greinir einfaldlega á við Carl Baudenbacher um ályktun hans í seinni málsgreininni.  Orkumálin eru landsmönnum svo mikilvæg í bráð og lengd, að það má ekkert skref stíga í samskiptum við erlenda aðila, sem leitt getur til þess, að við gloprum niður lýðræðislegri stjórnun okkar á orkumálunum, ráðstöfun orkulindanna og jafnvel eignarhaldinu á þeim, er frá líður.   

 


Næstu skref eftir OP#3

Það er mikið fagnaðarefni, að ASÍ hefur markað sér skýra stöðu í átökunum um íslenzku orkulindirnar.  Það er engum blöðum að fletta um, að ásóknin í þær mun vaxa, ef mestur hluti orkugeirans, allt of margir og jafnvel nokkrir fórkólfar atvinnulífsins, illu heilli, þingmenn o.fl., fá þeim vilja sínum framgengt, að Orkupakki #3 verði leiddur inn í íslenzkar lögbækur. Það eru öflugir hagsmunahópar, sem hafa hagsmuni af og sjá auðgunartækifæri í hækkun raforkuverðs á Íslands, einkum með millilandatengingum, sem jafna myndu út á endanum raforkuverðsmun hérlendis og erlendis.  Allur orkugeirinn sleikir út um, og það er hald sumra, að ríkissjóðurinn muni fitna við þetta, en það getur ekki orðið, því að landsframleiðslan mun jafnvel dragast saman, þegar atvinnulífið kiknar undan byrðunum, og mörg fyrirtæki í samkeppni við útlönd munu neyðast til að draga saman seglin og jafnvel hætta starfsemi. Atvinnuframboð mun snarminnka. 

Niðurstaða ASÍ er þess vegna rökrétt.  Það eru hagsmunir verkalýðshreyfingarinnar, eins og almennings á Íslandi, að hérlendis verði raforkuverð nálægt kostnaðinum við vinnsluna.  Þá má ekki hleypa að spákaupmennsku með raforkuna og kreddum um uppboð á virkjanaleyfum til "skamms" tíma, sem auðvitað munu leiða til hærra raforkuverðs til heimila og atvinnulífs, því að reynt verður að endurheimta kostnað við að afla virkjanaleyfa með hækkun raforkuverðs. 

Hvaða samband er á milli OP#3 og afkomu almennings ?  Með OP#3 verða Íslendingar skyldaðir til að taka upp markaðskerfi Evrópusambandsins, ESB, þótt það henti engan veginn íslenzkum aðstæðum og sé þar af leiðandi líklegt til að valda hér óstöðugleika orkuverðlags, vaxandi hættu á orkuskorti og hærra meðalverði raforku yfir árið.  Mismunurinn á núverandi markaðskerfi hér og markaðskerfi ESB er, að hið síðarnefnda er uppboðskerfi fyrir raforku í orkukauphöll með afleiðuviðskiptum og spákaupmennsku með raforkuna, en núverandi kerfi er aðallega auglýstar gjaldskrár, en um stærri orkuviðskipti er hægt að fá tilboð frá orkubirgjum. 

Opinber aðstoð við orkukaupendur, sem á einhvern hátt er hægt að flokka sem markaðsskekkjandi ríkisaðstoð, verður bönnuð.  Styrkur til húsnæðishitunar er t.d. óþekktur, þar sem frjálst markaðskerfi með orku er við lýði, einnig í Noregi, þar sem raforkunotkun heimila er fimmföld á við íslenzk heimili án rafhitunar.  Rafmagnskostnaður hefur orðið tilfinnanlegur fyrir margar fjölskyldur í Noregi, þegar saman hefur farið þurrkur og útflutningur rafmagns, t.d. um sæstrengi.  Samt hefur ekkert orðið úr því, að hið opinbera hlaupi undir bagga. 

Gaspri iðnaðarráðherra um, að ríkisstjórn og Alþingi muni ráða þessu hér eftir sem hingað til, er varlegt að treysta.  Ríkisstuðningur við bændur til að létta þeim byrðar hás raforkukostnaður er óleyfilegur að Evrópurétti og ögrun við fjórfrelsið.  Það er blindingsháttur að halda að það að ganga orkupakkanum á hönd muni engar afleiðingar hafa.  Annaðhvort stafar slíkur málflutningur af fullkomnu þekkingarleysi á málefninu eða blekkingartilhneigingu, sem er í raun fullkomið ábyrgðarleysi.  

Stóra reykbomban felst svo í því, að Alþingi geti í senn lýst yfir stuðningi sínum við tengingu Íslands við sameiginlegan raforkumarkað ESB og sett lög, sem banna Landsneti að setja aflsæstreng á framkvæmdaáætlun Kerfisáætlunar, þótt Landsreglara beri að gefa Landsneti fyrirmæli um að framfylgja Kerfisþróunaráætlun ESB.  Þetta er þverstæða og algert píp.  

ESB ætlar að draga til sín öll völd yfir orkumálum aðildarlandanna, og hið sama mun gilda um EFTA-löndin, sem samþykkja orkupakkana.  Þessi valdasamþjöppun réttlætir ESB sem nauðsynlegt tæki í baráttunni við loftslagsvána.  Þessi rök eiga ekki við á Íslandi með innan við 1 % raforkuvinnslunnar úr jarðefnaeldsneyti.  Auðvitað á að hafna OP#3 og taka málið upp til vinsamlegrar viðræðu á réttum vettvangi, Sameiginlegu EES-nefndinni, í ljósi nýrra aðstæðna á Íslandi, þar sem komið hafi í ljós víðtæk andstaða um allt land og hjá öflugum verkalýðssamtökum á borð við ASÍ.

Við þessa vörðu á vegferðinni, OP#3, er rétt að velta fyrir sér, hvert leiðin liggur:

  • OP#4 eflir enn hina yfirþjóðlegu þætti orkusambandsins og stangast þar af leiðandi enn meir á við Stjórnarskrána en OP#3.  ACER fær aukin völd, eins og við var að búast, og Framkvæmdastjórnin á að ástunda mun strangara eftirlit með Kerfisáætlunum aðildarlandanna, ráðstöfunum til bættrar orkunýtni og orkuskipta.  Stefnumið orkusambandsins er hnökralaust net millilandatenginga, sem skal tryggja, að orka streymi vandræðalaust frá svæðum lágs orkuverðs til svæða hás orkuverðs.  Þannig er staðan alls ekki núna og þarf líklega að þrefalda núverandi aflflutningsgetu á milli landa ESB, til að svo verði.  Niðurstaða þessarar þróunar verður samræmt evrópskt orkuverð, sem vafalaust verður hærra en raforkuverðið, sem Íslendingar hafa vanizt á þessari öld.  Hvers vegna að gefa nú undir fótinn með, að við viljum taka upp evrópskt raforkuverð gegn því að tengjast sameiginlegum raforkumarkaði ESB ?
  • Í OP#4 er fyrirskrifað, að stofna skuli til Svæðisstjórnstöðva, SSS (Regional Operation Centres, ROC), til álagsstýringar og öryggisútreikninga á flutningskerfinu.  Ábyrgð á þessum málum er núna hjá hverju landi fyrir sig, hjá Statnett í Noregi og Landsneti á Íslandi til að nefna dæmi.  Norska ríkisstjórnin hefur fengið frágengnar gerðir og tilskipanir úr OP#4 og sent þær út til umsagnar.  Hvers vegna heldur íslenzka ríkisstjórnin spilunum svo þétt að sér, að halda mætti, að þau væru algerlega óboðleg ?  Er það vegna þess, að hún telji sig ekki þurfa neinar umsagnir utan úr þjóðfélaginu ?  Satt að segja hræða sporin frá Þriðja orkupakkanum, því að embættismannakerfi ráðuneytanna ræður hreinlega ekki við að leggja faglegt mat á stórmál af þessu tagi, sem raunverulega er tæknilegs eðlis, þótt lögfræðingar verði að rýna orkupakkana líka.  Það er hins vegar gagnslítið að láta þá rýna mál af þessu tagi, sem virðast eins og fiskar á þurru landi, þegar kemur að Evrópurétti og stjórnlögum landsins.  Hvað um það.  Í umsögn sinni sagði Statnett: "Ábyrgðin á afhendingaröryggi raforku á ekki að fara úr höndum ríkisins".  Þetta er hverju orði sannara.  Vonandi verður Landsnet sammála, og vonandi sammælast ríkisstjórnir Íslands og Noregs um það eigi síðar en í Sameiginlegu EES nefndinni, ef illu heilli Alþingi samþykkir OP#3, að ábyrgðin á afhendingaröryggi raforku á Íslandi og í Noregi verði hjá Landsneti og Statnett.  Þetta er lykilmál, sem þýðir í raun, að hvorki Ísland né Noregur geta samþykkt OP#3 heldur.  Að eftirláta stjórnstöð einhvers staðar á meginlandi Evrópu að stjórna íslenzka orkukerfinu, álagsdreifinu á línur, vatnshæð í miðlunarlónum og mörgu fleiru, er ófært af öryggisástæðum.  Þess vegna ætti Alþingi að girða strax fyrir vandræði og neita að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara af OP#3.
  • Á minnisblaði með beiðni um umsögn við frágengnar gerðir OP#4 útskýrir norska ríkisstjórnin Raforkumarkaðsreglugerðina í OP#4 þannig: "Gerðin njörvar niður nánari reglur um atriði með þýðingu fyrir viðskipti yfir landamæri [með orku].  Tilgangurinn er að ákvarða mikilvægustu grunnreglurnar fyrir velvirkandi, samþættum rafmagnsmarkaði.  Það felur í sér, að allir viðkomandi aðilar skuli fá óvilhallan rétt til markaðsaðgangs. Ennfremur eru ákvarðaðar almennar reglur um úthlutun flutningsrýmis [í millilandatengingum] og þrengslameðhöndlun.  Þar er m.a. kveðið á um, að þjóðarhagsmunir megi ekki takmarka innflutning og útflutning á rafmagni."  Þetta þýðir, að norsk og íslenzk yfirvöld mega ekki skipta sér af, hvernig straumurinn á að verða í strengjum og línum til útlanda. Þetta verður hart aðgöngu fyrir Norðmenn, eins og athugasemd Statnetts sýnir, og algerlega óaðgengilegt fyrir Íslendinga.  Innlend fyrirtæki lenda í beinni samkeppni um raforkuna hér innanlands við fyrirtæki í ESB, það lækkar hratt í miðlunarlónum og orkuverðið rýkur upp úr öllu valdi.  Innlend stjórnvöld hafa ekki leyfi til að skakka leikinn.  Í versta tilviki bilar síðan sæstrengurinn, og hér verður hrikalegur raforkuskortur að vetrarlagi. 
Það er vogunarspil og gríðarleg áhætta í því fólgin að treysta því, að bann Alþingis við því að taka sæstreng inn á framkvæmdahluta Kerfisáætlunar Landsnets haldi gagnvart Evrópurétti.  Hugmyndin sjálf er arfaslök og stngur í stúf við stefnumörkun Evrópusambandsins.  Það á í mikilli baráttu við ýmis aðildarlanda sinna út af stefnumörkuninni um hnökralausar millilandatengingar og sama orkuverð alls staðar.  Takist þetta, græðir þungamiðja framleiðslunnar, en jaðrarnir tapa.  Þetta er hins vegar barið áfram með þeim rökum, að miðstýring orkumála sé nauðsynleg til að ná tökum á loftslagsvánni.  Þessi stefnumörkun gengur öndvert á hagsmuni Íslands, sem eru fólgnir í lágu raforkuverði og nýtingu orkulindanna innanlands.  
Í þessu ljósi er deginum ljósara, að ESB getur ekki liðið það, að eitt ríki setji lagaleg skilyrði við innleiðingu OP#3, sem breyta inntaki og eðli orkupakkans.  Þess vegna velur norska ríkisstjórnin fremur þá leið að ganga á bak orða sinna gagnvart stjórnarandstöðuflokkunum Verkamannaflokknum og Græningjunum, svo alvarlegt sem það er, en að verða gerð afturreka með lagasetningu um skilyrðin 8.
Evrópusambandið hefur nefnilega vopnið, sem bítur í þessu sambandi, EES-samninginn, gr. 7. Á þetta vopn mun reyna eigi síðar en við afgreiðslu fyrstu umsóknar um aflsæstreng frá ESB-landi til Íslands.

 

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Neytendavernd OP#3 eru öfugmæli

Það er óskiljanlegt mörgum, að ríkisstjórn Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, skuli hafa sammælzt um tvær  þingsályktunartillögur og tvö lagafrumvörp um Orkupakka #3, OP#3, sem m.a. skylda ríkisstjórnina til að reka endahnútinn á markaðsvæðingu raforkugeirans með frjálsri samkeppni um raforku á uppboðsmarkaði að hætti Evrópusambandsins, ESB. 

Þar með verður enn ríkari ástæða fyrir ESA að hafa afskipti hér af ríkjandi markaðshlutdeild ríkisfyrirtækis og krefjast markaðsvæðingar virkjanaleyfa og einkavæðingar á eignarhaldi og rekstri hluta af virkjunum Landsvirkjunar með sama hætti og framkvæmdastjórn ESB hefur krafizt einkavæðingar af frönsku ríkisstjórninni og haft sitt fram.  Það er flestum hulin ráðgata, hvernig ríkisstjórnarflokkarnir geta sammælzt um gjörning, sem færir ESB enn ríkari ástæðu til afskipta af tilhögun eignarhalds og ráðstöfunar orku en þó er við lýði samkvæmt OP#2.

Í grein sinni í Kjarnanum 1. maí 2019, 

"Orkan er okkar",

heldur Ari Trausti Guðmundsson, ATG, þingmaður VG, því m.a. fram, að OP#3 feli í sér aukna "neytendavernd og gegnsæi á raforkumarkaði".

Þetta er ekki rökstutt nánar, og þetta étur hver stuðningsmaður OP#3 upp eftir öðrum.  Sannleikurinn er sá, að þetta er kostur, sem hægt er að tilfæra við OP#3 á meginlandi Evrópu og á Bretlandi, þar sem raunveruleg samkeppni um hylli neytenda tryggir þeim lágmarksverð á hverjum tíma, þótt það sé hátt á okkar mælikvarða.  Þar ræður eldsneytisverð mestu og koltvíildisskatturinn.  "Frjáls samkeppni" um raforku á Íslandi getur hins vegar aldrei orðið frjáls vegna fákeppni, og þess vegna mun uppboðsmarkaður með raforku verða mikil afturför fyrir raforkunotendur hérlendis. 

Afleiðingin verður sveiflukennt verð og hærra meðalverð, af því að samræmd stjórnun á nýtingu orkulindanna verður bönnuð í "frjálsri samkeppni".  Ef aukið gegnsæi hér merkir, að öll viðskipti verði uppi á borðum, þá þarf slíkt ekki endilega að vera kostur fyrir kaupendur, þar sem seljendur hafa undirtökin á markaðinum.

Þá heldur ATG því fram, að "ríki" ákveði sjálf á hverjum tíma, hvaða viðbótar orkuflutningar fari fram "yfir landamæri" eftir innleiðingu OP#3.  Ef þetta væri rétt, þá væri ekkert gagn að hinum umfangsmikla lagabálki OP#3, sem innleiðir Evrópurétt á sviði orkuflutninga og orkuviðskipta á milli landa ESB/EES og hefur það hlutverk að ryðja burt hindrunum, sem einstök ríki hafa sett upp og munu setja upp gegn slíkum orkuflutningum. 

Það er t.d. alveg skýrt, að markaðurinn á að taka völdin af stjórnvöldum um stjórnun orkuflæðisins.  Þannig hafa norsk stjórnvöld hingað til getað stjórnað orkuflæðinu til og frá Noregi og hafa t.d. getað takmarkað útflutninginn, þegar lækkað hefur í miðlunarlónum.  Eftir innleiðingu OP#3 mun ACER stjórna þessu orkuflæði og ákvarða hlutdeild hvers orkuseljanda í hámarksorkuflutningsgetu sæstrengsins í þeim tilvikum, að flutningsgetan sé takmörkuð.  Reyni yfirvöld þjóðríkis að grípa þarna inn, varðar það við bann við því, að ríkisvaldið hygli innlendum raforkunotendum á kostnað erlendra, og það varðar líka við bann gegn útflutningshindrunum í EES-samninginum, gr. 12.

Í kaflanum, "Ísland og 3. orkupakkinn" 

minnist ATG á 5 lögfræðiálit:

"Flest eru álitin í örstuttu máli jákvæð og langt í frá talið, að Ísland missi völd yfir orkulindum sínum."

Engin tvímæli eru tekin af um þetta í álitsgerð Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst (FÁFH) og Stefáns Más Stefánssonar (SMS) í þeirra álitsgerð frá 19. marz 2019, heldur bent á vissar hættur fyrir Íslendinga í þessu sambandi.  Öruggast er hér að vitna til aðgerða framkvæmdastjórnar ESB gegn frönsku ríkisstjórninni, sem nú hafa leitt til þess, að hún hyggst selja vatnsorkuver EdF, frönsku Landsvirkjunar, til einkafyrirtækja.  Þegar sama lagaumgjörð verður um þessi mál á Íslandi og í Frakklandi með innleiðingu OP#3 hér, mun nákvæmlega hið sama verða uppi á teninginum hér gagnvart Landsvirkjun.  Þar með er komin upp stórhætta á því, að orkulindir (og virkjanir) Íslands muni ganga kaupum og sölum á EES-svæðinu.  Þessari hættu býður Alþingi heim með innleiðingu OP#3.

"Ríkisstjórnin vinnur m.a. eftir álitinu [FÁFH & SMS] með því að lögfesta samþykki Alþingis fyrir tengingu með rafstreng við umheiminn.  Hvorki ESA né ESB getur þvingað fram gerð og lagningu sæstrengs eða lagningu raflína frá nýjum virkjunum eða eldri virkjunum, sem allt í einu myndu framleiða orku á lausu, af því [að] t.d. álver lokar.  Hvergi í reglugerð um ACER stendur neitt í þessa veru og þarf vel pælda útúrsnúninga til þess að láta líta svo út, að ESB hafi vald til að skikka Ísland til að selja 1000 MW til meginlandsins. Samningar um sæstreng yrðu ávallt unnir á almennum forsendum EES-samningsins, ekki 3. orkupakkans."

Það kom fram í Kastljósviðtali við SMS að kvöldi 6. maí 2019, að aðferðin við innleiðingu OP#3 í íslenzkan landsrétt með húð og ári og síðar þingsályktun og lagasetning, sem bannar hérlendan undirbúning að lagningu sæstrengs til Íslands án samþykkis Alþingis, er upprunnin í utanríkisráðuneytinu, enda kemur hún eins og skrattinn úr sauðarleggnum í álitsgerð FÁFH & SMS og stingur þar í stúf við allt annað.

Fyrirvarinn um samþykki Alþingis er hins vegar handónýtur um leið og umsókn berst Orkustofnun frá sæstrengsfjárfestum um leyfi til lagningar og tengingar við Ísland.  Þá virkjast nefnilega reglugerð 713/2009, og fyrirvarinn um samþykki Alþingis við undirbúning á móttöku sæstrengs að hálfu Landsnets rekst á við hana.  Þar með verður fyrirvarinn brotlegur við EES-samninginn, gr. 7, og ESA mun krefjast ógildingar laganna um bann við sæstreng.  Þar með lendir Stjórnarskráin í uppnámi.  Málatilbúnaður ríkisstjórnarinnar er þannig algert klúður.

Það er röng fullyrðing, að hvorki ESA né ESB geti þvingað fram gerð og lagningu sæstrengs.  ESB hefur til þess næg tæki og tól, eftir að búið verður að fella bann Alþingis úr gildi.  Þar vegur fjórfrelsið þungt, og EES-samningurinn, gr. 11 og 12, sem banna hindranir á inn- og útflutningi vöru.  Um þetta skrifa FÁFH og SMS í neðanmálsgrein nr 62 í álitsgerð sinni:

"Ekki má þó gleyma, að hafni Orkustofnun umsókn fyrirtækis þar að lútandi [um sæstreng], gæti fyrirtækið snúið sér til ESA með kæru, sem gæti endað með samningsbrotamáli gegn Íslandi.  Slík staða gæti reynzt Íslandi erfið."

Eftir að fjárfestir væri búinn að vinna slíkt mál, er engin leið til að standa gegn lagningu flutningslína frá stofnrafkerfinu og niður að lendingarstað sæstrengs.  Landsreglarinn mun krefjast þess, að Landsnet aðlagi Kerfisáætlun sína að Kerfisþróunaráætlun ESB, þar sem sæstrengurinn er.  Allar hindranir á þessari leið verða kærðar á grundvelli óleyfilegra útflutningshindrana og jafnvel ríkisstuðnings við innlenda atvinnustarfsemi.  

Það eru útúrsnúningar hjá ATG, að hvergi í reglugerð um ACER standi,

"að ESB hafi vald til að skikka Ísland til að selja 1000 MW til meginlandsins".  

Þess þarf einfaldlega ekki.  Markaðnum er ætlað að sjá um framkvæmdina, þegar regluverkið verður búið að opna gáttirnar.  Í þessu liggur hið mikla vanmat stjórnmálamanna á áhrifum OP#3.  Þeir gleyma markaðskröftunum.  Hagnaðarvonin knýr þá áfram.  Hverjir munu sitja eftir með sárt ennið ?  Íslendingar mundu þurfa að glíma við þríhöfða þurs: OP#3, EES-samninginn og markaðsöflin.  Til varnar þessu stendur Stjórnarskráin ein.  Á grundvelli hennar væri hægt að dæma þetta allt ólögmætt.  EES-samningurinn mun þó varla lifa slíkt af.

"Sæstrengur er á forræði þjóðarinnar sjálfrar og orka til hans sömuleiðis.  Hún er ekki til núna og verður ekki framleidd, nema fyrir liggi áætlanir og samþykki stjórnvaldsstofnana.  Dreifikerfi orku í viðkomandi sæstreng er líka á forræði þjóðarinnar eða með öðrum orðum á valdi Alþingis, í öllum tilvikum.  Úrskurði ESA á næstu árum, sem er afar ólíklegt, að fyrirvarinn gangi ekki upp, verðum við að mæta því með rökum og vörnum."

Eins og sjá má, hengir ATG hatt sinn alfarið á handónýtan fyrirvara Alþingis, sem sízt hefur meira gildi að Evrópurétti en fyrirvari Alþingis um innflutning á ferskum landbúnaðarvörum frá EES. Það er sorglegt að horfa upp á pólitískar skessur leika sér með fjöregg íslenzku þjóðarinnar.

"Orkuverðið hreyfist auðvitað ekki, því að tenginguna við meginlandið vantar."

Þessi málsgrein ATG ber með sér, að hann hefur ekki gert sér grein fyrir, hvernig uppboðskerfi með raforku mundi virka við íslenzkar aðstæður.  Alls staðar, þar sem þetta kerfi er notað, verður verðið kvikt með stórri dægursveiflu og árstíðarsveiflu.  Hér munu þrjú miðlunarlón keppa við 5 jarðgufusvæði, eins og staðan er núna.  Miðlunarvirkjanir eru tæknilega sveigjanlegri og með mun lægri breytilegan kostnað en jarðgufuvirkjanir og munu hafa undirtök á markaðinum á meðan nóg er í miðlunarlónunum, en síðan hækkar kostnaður miðlunarvirkjana upp fyrir jarðgufuvirkjanir.  Nýtingin verður ójöfn og þjóðhagslega óhagstæð, af því að auðlindastýringu vantar, og hún verður óleyfileg.  Þetta mun leiða til hækkunar á meðalraforkuverði til almennings. Fullyrðing ATG er út í loftið.

"Nú hefur fýsileikakönnun sæstrengs (ICE-Link) verið hætt og könnunarverkefnið afturkallað að skipun íslenzku ríkisstjórnarinnar."

Þetta skrifar ATG að óathuguðu máli.  Hvert fór "skipun íslenzku ríkisstjórnarinnar" ?  Til aðstandendanna, Landsnets, Landsvirkjunar og National Grid Holding Co. ?  Kaupin gerast ekki svona á eyrinni hjá ESB.  Á bak við veru "Ice-Link" í Kerfisþróunaráætlun ESB og alla leið upp á forgangsverkefnaskrána PCI er ítarleg undirbúningsvinna og undirskrift margháttaðra skjala innan ESB ásamt samþykki Framkvæmdastjórnar, Ráðs og þings.  Aðeins einfeldningar trúa því, að bréf frá Íslandi geti orðið sú litla þúfa, sem velti strax þessu þunga hlassi. 

PCI er til endurskoðunar á tveggja ára fresti, næst 2020.  Ef Alþingi afléttir í millitíðinni stjórnskipulegum fyrirvara af OP#3, er komin upp alveg ný staða, sem jafngildir viljayfirlýsingu Íslands um að tengjast sameiginlegum raforkumarkaði ESB.  Það er alveg undir hælinn lagt, að ESB verði við ósk ríkisstjórnarinnar, ef aðrir hagsmunaaðilar verða á móti því.  

"Munum líka, að svo kann að fara, að Bretar standi utan ESB.  Samningar um sæstreng væru þá tvíhliða gjörningur fullvalda ríkja án virks, margþjóðlegs eftirlitsaðila, en undir gerðardómi, ef deilur yrðu uppi."

Hér er ATG enn of fullyrðingasamur m.v. staðreyndir málsins.  Það veit enginn, hvort Bretar munu standa utan Orkusambands ESB og ACER, þótt þeir fari úr ESB, því að þeir eiga nú í miklum orkuviðskiptum innan EES.  Þá er allsendis óvíst, að ESB (ACER) mundi láta það afskiptalaust, ef Íslendingar, eftir samþykkt OP#3, myndu gera sig líklega til að eiga í raforkuviðskiptum við land utan ESB.  Það er þvert á móti líklegt, að ESB myndi túlka samþykkt OP#3 sem skuldbindingu að Íslands hálfu til að tengjast innri markaði ESB, og það væri tæknilega hægt með sæstrengslögn til Írlands.  Heimurinn er ekki jafneinfaldur og ATG vill vera láta.

Við höfum fyrir sjónum nýlegt dæmi frá samstarfsverkefni Þjóðverja og Rússa um nýja gasflutningslögn á botni Eystrasalts frá Rússlandi til Þýzkalands, sem er hitamál innan ESB.  Þjóðverjar og Rússar ætluðu að halda þessu máli sem tvíhliða samstarfsverkefni sínu, og Þjóðverjar lögðu sig í líma við að fá Frakka til að samþykkja slíkt fyrirkomulag.  Nú hefur Ráðherraráð ESB hins vegar tekið þá ákvörðun, að það gangi ekki upp á grundvelli OP#3, heldur skuli ACER, Orkustofnun ESB, taka að sér að stjórna þessum gasflutningum, þótt Rússar auðvitað eigi þar enga aðkomu.  Þjóðverjar eru í sárum, telja Frakka hafa svikið sig og ekki í fyrsta skipti. 

 

Að lokum kemur hin pólitíska niðurstaða ATG á formi yfirlýsingar:

"Ég tel mikilvægt, að sem flestir sjái í gegnum málatilbúnað og rangfærslur helztu talsmanna gegn 3. orkupakkanum.  Orkuauðlindir okkar eru ekki í hættu."

Gallinn við þessa niðurstöðu þingmanns VG er, að honum hefur í þessari grein ekki tekizt að hrekja með haldbærri röksemdafærslu neitt það, sem máli skiptir í málflutningi "Orkunnar okkar" eða þeirra, sem þar mega kallast talsmenn.  Það er hægt að sanna hvað sem er út frá röngum eða ófullnægjandi forsendum. Það hefur ATG tekizt að sanna í Kjarnagrein sinni og skipar sér þar á bekk með gríska heimspekinginum, sem sannaði, að héri kæmist aldrei framúr skjaldböku, ef bara skjaldbakan fengi forskot.    

 

 

 

 

 


Verður orkan okkar ?

Þingmaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, Ari Trausti Guðmundsson, ATG, jarðeðlisfræðingur, tjáði sig um orkumál Íslands í ljósi umræðunnar um Orkupakka 3, OP#3, eins og hún snýr við honum um þessar mundir, í Kjarnanum á baráttudegi verkalýðsins 1. maí 2019. Grein sína nefndi ATG "Orkan er okkar". Það má til sanns vegar færa núna, en heldur hann, að bezta leiðin til að varðveita þá stöðu mála sé að halda áfram á þeirri vegferð lagainnleiðinga frá ESB, sem hófst hérlendis árið 2003 með OP#1 ?  Í þessari grein þingmannsins eru engin bitastæð rök færð fyrir slíku viðhorfi, og þar er margt, sem orkar tvímælis.

Í ljósi lokaorða hins "gamla byltingarseggs" er sárt að horfa upp á hann láta algerlega hjá líða í téðri grein að tengja saman mátt og verkun auðmagnsins og lagasmíð Evrópusambandsins, ESB.  Með því færir hann vanheilögu bandalagi búrókrata og auðmagns Evrópu vopn í hendurnar til að vinna óhæfuverk á íslenzkri löggjöf, sem rutt getur þessu vanheilaga bandalagi brautina að nýtingarrétti yfir íslenzkum orkulindum.

Neista af byltingaranda Fylkingarinnar má greina í eftirfarandi orðum ATG.  Hann verður hins vegar að átta sig á, að baráttan er núna.  Ekki dugar að varpa vandanum margföldum yfir á komandi kynslóðir:

"Við getum lagfært innviði, bætt lífskjör fjöldans, aukið félagslegt réttlæti og jafnrétti innan ríkjandi hagkerfis, með víðtækri samstöðu ólíkra afla.  Kerfið tryggir allt slíkt ekki til langframa né leysum við loftslagsvandann og umhverfismál, nema með nýju sjálfbæru hagkerfi, sem byggir [á] samstöðu, jafnrétti og mannúð.  En baráttan fyrir því öllu saman er annað og flóknara mál."

Mótsögnin í þessu er sú, að með stuðningi sínum við OP#3 á Alþingi fjarlægist ATG hið fagra stefnumið sitt frá fornu fari.  Með markaðsvæðingu raforku á Íslandi, sem OP#3 áskilur, og aðlögun íslenzka raforkumarkaðarins að sameiginlegum raforkumarkaði ESB, fjarlægist ATG það, að nýta megi orkulindirnar hérlendis með samfélagsleg sjónarmið að leiðarljósi. 

ATG minnist í upphafi greinar sinnar á raforkuna sem vöru og telur, að þar sem 80 % raforkunnar hérlendis fari til orkukræfs iðnaðar, þá sé "varla óeðlilegt, að hún teljist vara í viðskiptum".  Þetta eru engin rök.  Það var á sínum tíma stjórnmálaleg ákvörðun, tekin á Alþingi árið 1965, að stofna Landsvirkjun til að virkja stórt, nýta þannig hagkvæmni stærðarinnar og traustar umsamdar framtíðartekjur  frá stórnotendum til að fá hagstæð lán til að byggja upp öflugt raforkukerfi, vinnslu- og flutningskerfi, sem almenningur nyti góðs af með öruggri orkuafhendingu og lágu orkuverði, er fram liðu stundir.  Allt hefur þetta gengið eftir, og nú er ögurstund að renna upp varðandi það, hvort samfélagsleg stjórn verður áfram við lýði í raforkugeiranum, eða hvort hættunni verði boðið heim með því að innleiða ESB-löggjöf fyrir millilandatengingar og gefa þannig til kynna öðrum þræði, að Alþingi óski eftir, að Ísland verði hluti af sameiginlegum raforkumarkaði ESB.

"Háspennudreifing er í höndum Landsnets."  Þetta er röng fullyrðing hjá ATG.  Rétt er, að flutningskerfi raforku á 66 kV og hærri spennu er í höndum Landsnets, skipulagning þess (Kerfisáætlun), hönnun, nývirki og rekstur.  Um er að ræða lögbundna einokunarstarfsemi.  Til að tryggja óvilhalla afstöðu flutningsfyrirtækisins gagnvart frameiðendum og kaupendum raforkunnar, stefnir ríkisstjórnin á að kaupa núverandi eigendur, LV, OR, RARIK og OV, út úr fyrirtækinu, og er það í samræmi við forskrift allra orkupakkanna.  Dreifiveiturnar sjá um raforkudreifingu samkvæmt sérleyfi hver á sínu svæði á 33 kV og lægri spennu.  Þær eru flestar í opinberri eigu á Íslandi.  Iðnaðarráðuneyti og Orkustofnun (OS) hafa nú eftirlit með starfsemi orkugeirans, einkum einokunar- og sérleyfisfyrirtækjanna, en eftirlitshlutverkið mun færast í hendur Landsreglarans. 

"Markaðsvæðing í hagkerfi er ekki sjálfkrafa vinsamleg alþýðu manna, en hún merkir heldur ekki, að vald ESB, EFTA eða annarra fjölþjóðabandalaga sé þar með orðið, eða verði, óhjákvæmilega yfirþjóðlegt, og ráði innri orkumálum ríkja.  Stjórnmálaákvarðanir innan og á milli ríkja þarf til þess, og eflaust fleira."

Þetta er ótrúlega léttvæg umfjöllun á lykilatriði í sambandi við OP#3.  Með OP#3 verður ekki lengur undan því vikizt að taka hér upp frjálsa samkeppni um raforku á heildsölumarkaði að fyrirmynd ESB.  Þar er um að ræða uppboðsmarkað í orkukauphöll.  Viðskiptakerfið er sniðið við orkukerfi og orkumarkað í þungamiðju iðnaðarframleiðslu ESB.  Þessar aðstæður eru gjörólíkar íslenzkum aðstæðum, og þessi mismunur getur leitt til þess, að þetta markaðskerfi muni aðallega virka orkuseljendum til hagsbóta á kostnað orkunotenda.  Í þessum efnum þurfa Íslendingar að fá frið til að þróa sitt eigið orkumarkaðsfyrirkomulag, sem útheimtir auðlindastýringu.  Hún er óleyfilegt ríkisinngrip í frjálst markaðskerfi ESB.

ATG er augljóslega meðvitaður um hætturnar, sem hag "alþýðu manna" stafar af markaðsvæðingu raforkugeirans á Íslandi.  Hins vegar skjöplast honum illilega um á hvaða stig hið yfirþjóðlega vald um "innri orkumál  ríkja" kemst með OP#3.  Reglugerð nr 713/2009 um ACER og millilandatengingar er skýrt dæmi um, að fjölþjóðleg stofnun, Orkustofnun ESB, fær vald til að taka lagalega bindandi ákvarðanir fyrir Ísland varðandi millilandatengingar, ef/þegar Alþingi afléttir hinum stjórnskipulega fyrirvara af OP#3.

ACER hefur þegar úrskurðað í deilumálum aðildarríkja ESB um millilandatengingar.  Skömmu eftir að OP#3 öðlaðist lagagildi í ESB í kjölfar staðfestingar Ráðherraráðsins og ESB-þingsins árið 2014, kvað ACER upp úrskurð í deilumáli Póllands annars vegar og Eystrasaltslandanna hins vegar út af kostnaðarskiptingu við gaslögn yfir landamæri.  Úrskurðurinn hljóðaði upp á greiðslur til Gaz System S.A., Póllandi, frá þremur félögum í Eystrasaltslöndunum, að upphæð MEUR 85,8 (mrdISK 12), á grundvelli 713/2009 og 347/2013.

Það er ekki lengur hægt að draga neina dul á völd ESB yfir innri orkumálum ríkja, þ.á.m. varðandi afnotarétt náttúrulegra orkulinda.  Þann 8. marz 2019 sendi Framkvæmdastjórn ESB bréf til frönsku ríkisstjórnarinnar og 7 annarra ríkisstjórna ESB-landa og bað þær að sýna fram á, að raforkusamningar opinberra fyrirtækja, sem selja raforku frá vatnsorkuverum, séu í samræmi við ESB-löggjöf.  Þetta þýðir að lágmarki, að þessi opinberu fyrirtæki verða að sýna fram á, að raforkusamningar þeirra endurspegli markaðsverð.  Það getur líka þýtt, að segja verði núverandi samningum upp, ef þeir renna ekki bráðlega út, og að bjóða verði orkuna upp á markað til skamms tíma, e.t.v. eins árs í senn.  

Í Frakklandi er ríkisraforkufyrirtækið EdF með yfirburðastöðu á markaði í svipuðum mæli og Landsvirkjun hérlendis.  Framkvæmdastjórnin hefur í nokkur ár haft uppi kröfur á hendur franska ríkinu, að það einkavæði virkjanaleyfi sín fyrir vatnsaflsvirkjanir, sem að mestu eru reknar af EdF.  Að einkavæða virkjaneyfi þýðir jafnframt einkavæðingu viðkomandi virkjana.  Í fyrra gafst franska ríkisstjórnin upp gagnvart þessari einkavæðingarkröfu framkvæmdastjórnar ESB, og í ár á þessi einkavæðing að fara fram.

Þessi einkavæðingarkrafa Framkvæmdastjórnarinnar er reist á því, að nú hefur frjálst markaðskerfi fyrir raforku verið innleitt í Frakklandi, enda skylda samkvæmt OP#3, og innan þessa kerfis er stór markaðshlutdeild ríkisfyrirtækis "tabú".  Vatnsorkuver framleiddu 12,5 % raforkuvinnslu Frakklands 2018, og í þeim er um 19 % af uppsettu afli í orkuverum Frakklands.  

Af þessari reynslu Frakkanna og annarra ESB-landa getum við Íslendingar dregið alveg óyggjandi lærdóm.  ESA mun gera þá kröfu, eftir að markaðsvæðingin hefur farið fram hér í anda ESB, að virkjanaleyfi ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar verði að mestum hluta einkavædd.  Þetta er stórfellt inngrip yfirþjóðlegs valds í "innri orkumál" Íslands, sem veldur gjörbyltingu á þeirri orkustefnu, sem íslenzk stjórnvöld hafa mótað og þokkaleg sátt hefur verið um í landinu.  Franskir starfsmenn EdF hótuðu verkfalli, ef einkavæðing vatnsorkuvera EdF færi fram.  Hérlendis mun verða gríðarleg óánægja með það, hvað innleiðing orkupakka ESB í EES-samninginn hefur leitt yfir þjóðina.  Til að forða landinu frá þessari alvarlegu stöðu er tvennt til: fresta afgreiðslu OP#3 á Alþingi og leita hófanna um samningaviðræður innan EES eða að fella OP#3, og þá fer hann í sáttaferli í Sameiginlegu EES-nefndinni.

"Hvernig sem fer, er ljóst, að raforka til útflutnings um sæstreng (500 - 1000 MW) er fjarri lagi."

Þessi fullyrðing er hæpin í ljósi þess, að stærsta raforkufyrirtæki landsins, Landsvirkjun, hefur rekið harðan áróður fyrir því síðan 2010, að einmitt slíkur útflutningur verði að raunveruleika.  Á vefsetri LV er fjálgleg kynning á þessum útflutningshugmyndum.  Landsvirkjun vill stækka sinn markað og fá sterkari samningsstöðu við raforkukaupendur á innanlandsmarkaði.  Gallinn á gjöf Njarðar er sá, fæst orkukræf fyrirtæki á Íslandi, þ.m.t. í landbúnaði, geta keppt við hið erlenda raforkuverð, sem verður flutt inn með aflsæstreng frá öðru Evrópulandi til Íslands. Hætt er við, að atvinnurekendasamtökin eigi eftir að iðrast þess að hafa ekki lagzt á árarnar með verkalýðssamtökunum gegn OP#3.  

"Land tengist inn á netið að eigin ákvörðun, metur orku aflögu til sölu og ákveður, ef svo ber til, að auka framleiðsluna, landinu í hag.  ...... Hún [ACER] er ekki yfirþjóðleg valdastofnun, sem getur skipað fyrir um orkusölu (magn, nýjar línur eða fleiri orkuver)."

Hér er gert ótrúlega lítið úr áhrifum lögleiðingar OP#3 og áhrifum og völdum ACER. Það er horft framhjá samverkandi áhrifum OP#3, samkeppnislöggjafar Evrópuréttarins og markaðskraftanna. Innleiðing OP#3 felur í raun í sér þá stefnumörkun að hálfu Alþingis að aðlaga íslenzka raforkumarkaðinn að sameiginlegum raforkumarkaði ESB í því skyni að tengja þessa tvo raforkumarkaði snurðulaust saman.  Strax og reynir á bann Alþingis við að setja sæstreng inn á framkvæmdahluta Kerfisáætlunar Landsnets, munu þau lög verða felld úr gildi að kröfu ESA sem brot á EES-samninginum, gr. 7, um skilyrðislausa innleiðingu reglugerða og tilskipana, eins og þær koma frá Sameiginlegu EES-nefndinni. 

Núna er sæstrengurinn "Ice-Link" inni á Kerfisþróunaráætlun ESB, og það er alveg óvíst, að ESB samþykki að taka hann út af PCI-forgangsverkefnalista sínum um millilandatengingar, þótt Landsnet eða Landsvirkjun óski þess, ef Alþingi samþykkir að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara af OP#3.  

Það má hugsa sér, að fjárfestir sæki um leyfi til að leggja sæstreng á milli ESB-lands og Íslands. Hann fær umsóknina samþykkta hjá orkustofnun í hinum enda strengsins, en henni er hafnað hér vegna banns Alþingis.  Þá er komið upp vandamál, sem landsreglarar í sitt hvorum enda sæstrengsins ekki geta leyst, og þeir vísa þá málinu umsvifalaust til ACER.  ACER gefur skýrslu um málið til framkvæmdastjórnar ESB, sem kvartar við ESA yfir broti við innleiðingu OP#3, þar sem pakkinn var ekki skilmálalaust innleiddur.  Þetta leiðir til þess, að EFTA-dómstóllinn dæmir lög um bann Alþingis við sæstreng ólögmætt.  Þá verður Landsnet að taka sæstrenginn inn á Kerfisáætlun sína, enda er Landsreglarinn eftirlitsaðili með Landsneti og ber að fylgja því eftir, að Landsnet aðlagi Kerfisáætlun sína að Kerfisþróunaráætlun ESB, þar sem "Ice-Link" er.  Orkustofnun hefur þá ekki lengur nein rök fyrir því að hafna leyfisveitingu, enda vofir þá yfir stjórnvöldum brot á reglum EES-samningsins, sem banna útflutnings- og innflutningshindranir.  

Regluverk OP#3 skyldar ekki aðildarlöndin beinum orðum til að standa undir kostnaði við eflingu flutningskerfis raforku að og frá aflsæstreng, en hver annar á að standa undir þeim kostnaði hérlendis en Landsnet ?  Málið er, að þetta verður óhjákvæmileg afleiðing af tæknilegri nauðsyn hérlendis, ef ákveðið verður að leggja einn eða fleiri sæstrengi til landsins. Til að anna flutningsþörfinni og tryggja stöðugleika raforkukerfisins eftir megni verður Landsnet að setja upp ný tengivirki, leggja jarðstrengi og loftlínur, sem tengja saman stofnrafkerfi Norðurlands og Suðurlands og stofnrafkerfið við sæstrengina.  Kostnaðurinn af þessu mun leggjast alfarið á innanlandsnotendur og gæti tvöfaldað flutningsgjald raforku um tíma.  Ef ekki verður ráðizt í þessar framkvæmdir, mun verða litið á slíkt sem hindrun á vegi notkunar sæstrengsins, sem er útflutningshindrun samkvæmt EES-samninginum, gr. 12.

Það er ljóst, að með leyfi fyrir aflsæstreng á milli Íslands og sameiginlegs raforkumarkaðar ESB mun ásókn í rannsóknarleyfi og virkjanleyfi aukast hérlendis.  Þar sem íslenzk stjórnvöld munu engu ráða um orkuflæðið um sæstrenginn, þá mun hann hafa mjög mikil áhrif til hækkunar raforkuverðs, sem skapar enn meiri hvata til aukinnar orkusölu inn á strenginn.  Kerfisþróunaráætlun ESB jafngildir ákvörðun Evrópusambandsins um snurðulausa orkuflutninga innan EES.  Markaðurinn lætur orkuna fljóta frá stöðum með lágan vinnslukostnað til staða með hátt raforkuverð.

  ACER þarf ekki að skipa fyrir hér um nýjar virkjanir.  Markaðurinn mun sjá um verkið.  Ef yfirvöld ætla að draga lappirnar með leyfisveitingar fyrir framkvæmdir í tengslum við virkjanir og flutningskerfi, þá má ætla, að látið verða reyna á það, hvort þyngra vegi fyrir ESA skipulagsreglur og umhverfisvernd eða bann EES-samningsins við útflutningshindrunum á vöru.  

Ef þetta er allt saman misskilningur, þá eru búrókratar og stjórnendur ESB bjánar, sem ekkert vita, hvað þeir eru að gera með því að unga út með harmkvælum reglugerðum og tilskipunum um tilhögun orkumála.  Hvergi á byggðu bóli annars staðar en hér er gerð tilraun til að halda því fram, að orkupakkar ESB hafi engin áhrif umfram það, sem aðildarríkin kæra sig um.  Hið sanna er, að orkupakkarnir eru brimbrjótur Framkvæmdastjórnarinnar til að ná fram stefnumiði ESB um einn samfelldan, hnökralausan orkumarkað með sjálfbæra raforkuvinnslu.

Af ofangreindum ástæðum fer ATG í geitarhús að leita ullar í eftirfarandi leit sinni:

"Hvergi hefur mér tekizt að finna dæmi um, að ríki sé birtur úrskurður um, að það skuli bæta við raforku til útflutnings, leggja nýjar háspennulínur að landamærum eða leggja rafstreng í sjó."

Varðandi síðast nefnda atriðið, horfir málið alveg þveröfugt við.  Einkaaðilar um sæstrengslögn njóta forgangs umfram ríkisfyrirtæki.  Eitt af 8 skilyrðum Norðmanna fyrir því að lyfta hinum stjórnskipulega fyrirvara af OP#3 þar í landi 22. marz 2018 var, að allar millilandatengingar yrðu áfram í eigu Statnetts, norska Landsnets.  Þá þegar var umsókn einkafyrirtækis um eyfi fyrir NorthConnect á milli Noregs og Skotlands til afgreiðslu hjá NVE, norsku orkustofnuninni.  Hún stöðvaði ekki matsferlið, þótt Statnett og stjórnarandstöðuflokkarnir á Stórþinginu óskuðu eftir því, svo að Statnett gæfist kostur á að kaupa eigendur NorthConnect út.  ESA mun tæplega samþykkja slíka ríkiseinokun á öllum millilandatengingum, ef OP#3 verður staðfestur í öllum EFTA-ríkjum EES.

"Auðvelt er að halda fram fölskum orðum um yfirþjóðlegt vald ACER, en sýna aldrei fram á dæmi þess, að það hafi leitt til valdboða, sem ríki neyðist til að hlíta."

Þetta er ótrúlegur texti hjá ATG.  Það er engu líkara en hann beri brigður á yfirþjóðlegt vald ACER, sem þó var sýnt fram á í lögfræðilegri álitsgerð Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst og Stefáns Más Stefánssonar til utanríkisráðuneytisins.  Úrskurður ACER í milliríkjadeilu um kostnaðarskiptingu á milli 4 ríkja ESB frá 11. ágúst 2014, þar sem einu ríkjanna voru úrskurðaðar MEUR 85,8 í bætur, sannar, að ACER getur beitt "valdboði, sem ríki neyðast til að hlíta", þótt íþyngjandi sé.

ATG viðurkennir, að "[í] sumum tilvikum er unnt að fara fram á viðamiklar tilslakanir eða undanþágur frá tilskipunum, en þá þarf samþykki allra 28 ESB-ríkjanna", og síðan bætir hann við:

"Beiðni um slíkt "eftir á" verður ólíklega samþykkt".

Það er hagur ESB, að Noregur og Liechtenstein verði í Orkusambandi ESB.  Það verða þau ekki, ef Ísland hafnar OP#3 og ekkert samkomulag næst í sameiginlegu EES-nefndinni (um undanþágur fyrir Ísland).  

Noregur getur hins vegar hæglega að mati Henrik Björnebye, lagaprófessors í Ósló, gert tvíhliða samkomulag við ESB um orkuviðskipti.  Það verður þá utan EES-samningsins, sem ESB mun þykja verra.  

Af þessum sökum stenzt ekki fullyrðing ATG. 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Orkupakki #3 er ekki í tómarúmi

Þegar það er metið, hvað Alþingi á að gera við Orkupakka #3 (OP#3), er ekki nóg að rýna í tilskipun og reglugerðir OP#3, þótt nauðsynlegt sé, heldur verður að virða fyrir sér umhverfi hans, stefnumörkun ESB á sviði orkumála, þar sem hann er aðeins einn hluti af mörgum þáttum, og markaðsaðstæðurnar, fjórfrelsið í EES-samninginum, sem virkar sterkt á OP#3. 

OP#3 felur í sér yfirþjóðlega þætti um lagalega bindandi ákvörðunarvald ACER, Orkustofnunar ESB, sem fyrri orkupakkar innihéldu ekki. Þess vegna hafa ráðherrar utanríkis- og iðnaðarmála, sem með þetta mál hafa farið fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, lagt lykkju á leið sína og lagt til þingsályktanir og lagasetningu, sem eiga að krækja fyrir þessa keldu.  Er þetta sýndarmennskan ein eða lagalega bindandi á einhvern hátt fyrir ESB ? Til að leita svara við þessari mikilvægu spurningu, er nóg að fara í smiðju til Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst og Stefáns Más Stefánssonar.  Þingmenn, sem átta sig ekki á gloppunum í málatilbúnaði iðnaðarráðherra og utanríkisráðherra, hafa ekki lesið heima, eins og þar stendur.  Það er grafalvarlegt, því að áformað er, að þeir taki senn vorpróf í OP#3. Þannig stendur á, að þau, sem kosta þá í skólann, eru hins vegar langflest með öll svörin rétt við spurningum úr þessum efniviði, er Ísland varðar.  Það verður ekkert endurtekningarpróf í OP#3, og þeir sem kosta þessa óburðugu nemendur, munu ekki allir hafa hug á að senda tossana aftur í skólann.

Það er skemmst frá því að segja, að frá bæjardyrum ESB hlýtur lagasetning um að áskilja samþykki Alþingis fyrir "Ice-Link"  eða öðrum aflsæstreng inn á Kerfisáætlun Landsnets í kjölfar innleiðingar í landsrétt á allri samþykkt Sameiginlegu EES-nefndarinnar á OP#3 að virka sem skrípaleikur, ef ekki beinlínis móðgun við samstarfsaðila í EES. 

Þetta er að líkindum skýringin á því, að 14 mánuðum eftir loforð sitt um lögfestingu skilyrðanna 8 til hluta norsku stjórnarandstöðunnar gegn stuðningi við OP#3 á Stórþinginu, bólar enn ekkert á þessu lagafrumvarpi norsku ríkisstjórnarinnar.  

Sannleikurinn er sá, að lagasetning af þessu tagi á atriðum, sem ekki eru umsamin við ESB fyrirfram, t.d. í Sameiginlegu EES-nefndinni, hafa ekkert lagagildi að Evrópurétti og eru þess vegna ekki pappírsins virði í samskiptum við ESB, þegar á reynir. Hér eru prúðuleikararnir af fullkominni ósvífni og ábyrgðarleysi að setja upp leikrit fyrir landsmenn, sem þó flestir sjá gegnum svikavefinn.

Ef ESA ekki gerir athugasemd við þetta "sæstrengsbann" fljótlega eftir innleiðinguna á Alþingi til að girða fyrir frekari misskilning og gerir síðan ríkisstjórnina afturreka með þessa lagasetningu með lögsókn fyrir EFTA-dómstólinum, þá má hugsa sér eftirfarandi ferli:

  • Fjárfestir fær stuðning ACER til að hvetja Landsreglarann til að fá  Kerfisstjórann í einu nágrannalanda Íslands á EES-svæðinu til að taka aflsæstreng til Íslands inn á Kerfisáætlun sína með vísun í Kerfisþróunaráætlun ESB. Í Kerfisþróunaráætlun ESB er enn sæstrengurinn "Ice-Link", og hann er enn inni á forgangsverkefnalista ESB, PCI, um millilandatengingar og verður þar áfram svo lengi sem ESB er þess fýsandi, og öll þróun orkumála og stefnumörkun ESB bendir til stöðugt vaxandi áhuga á "grænum rafgeymi norðursins" fyrir meginland í orkuhallæri. Bréf frá Íslandi um að taka "Ice-Link" út af PCI verður sennilega hlegið út af borðinu, ef/þegar Ísland tilkynnir um innleiðingu OP#3 í landsrétt.  Innleiðingin jafngildir viljayfirlýsingu um að tengjast hinum sameiginlega raforkumarkaði ESB.  Tvískinnungur af þessu tagi er forkastanlegur og ávísun á vandræði.
  • Landsreglarinn á Íslandi mun strax tilkynna ACER, að Kerfisstjórinn á Íslandi, Landsnet, megi ekki að landslögum setja sæstrenginn á framkvæmdahluta Kerfisáætlunar sinnar, en hann má aftur á móti setja hann á langtímaáætlun sína.  Við þetta er kominn upp ágreiningur, sem landsreglarar landanna tveggja, sem sæstrengurinn á að tengja, geta ekki leyst sín á milli, og þá fer skýrsla frá ACER til framkvæmdastjórnar ESB.  ESB tilkynnir ESA um brot Íslands á EES-samninginum, gr.7, og þá verður ríkisstjórnin í klóm ESA/EFTA-dómstólsins með þessa lagasetningu, sem virðist hafa blekkt þingflokk Sjálfstæðisflokksins til fylgilags við trúðslegar tiltektir utanríkisráðuneytisins.  

Í þessari stöðu verður Ísland eins og fluga í köngulóarneti Evrópusambandsins, sem spinnur vef sinn til þess að tryggja sér sem mesta "græna" orku.  Sæstrengur verður lagður, og þá mun raforkan einfaldlega fara til hæstbjóðanda, því að ACER stjórnar reglusetningu um nýtingu strengsins, og útflutningshömlur til að draga úr verðhækkunum innanlands eða jafnvel draga úr hættunni á orkuskorti hérlendis verða kærðar sem ríkisstuðningur og/eða brot á EES-samninginum, gr. 12, um bann við útflutningshömlum á vörum.

Hvernig horfir framtíðin svo við í orkupakkamálum ESB ?:

  • Lögfræðilegi ramminn um orkusamband ESB er nú tilbúinn.  Með OP#4, sem inniheldur 4 nýjar tilskipanir og 4 reglugerðir, lauk gerð þessa lagaramma í desember 2018. Eins og með OP#3, stendur samþykktarferlið í aðildarlöndunum.  Í apríl 2019 er formlegt samþykktarferli ESB-þingsins og ESB-ráðsins eftir fyrir eina tilskipun og tvær reglugerðir OP#4.  Eftir samþykkt hverrar tilskipunar og gerðar hefur sú verið send til kynningar hjá EFTA-ríkisstjórnunum, en það hefur ekkert heyrzt af þessu hérlendis. Það er ills viti, því að 5. maí 2017 féllu embættismenn þáverandi á prófi í OP#3.  Eins og dæmin sýna, er afar varasamt að láta embættismenn utanríkisráðuneytisins eina um að véla um jafntæknileg mál og orkupakkarnir eru.  Norska ríkisstjórnin, þótt höll sé undir ESB, sendi jafnharðan þessar orkupakkagerðir til umsagnar sérfræðinga.  Hógvær neikvæð umsögn barst frá Statnett, norska Landsnetinu.  Hún var um lífshagsmuni Norðmanna, afhendingaröryggi raforku.  Hún var á þá leið, að ekki mætti útvista ábyrgðinni á afhendingaröryggi rafmagns út fyrir valdsvið ríkisins.  Öll stjórnun raforkumála í aðildarlöndum ESB er á leiðinni til Framkvæmdastjórnarinnar. 
  • Sams konar þróun verður að sjálfsögðu í EFTA-löndum EES-samstarfsins, nema þau spyrni við fótum.  Fyrir íbúa á eyju langt norður í Atlantshafi er þessi þróun mála leiðin til glötunar. Þess vegna yrði samþykkt OP#3 glapræði. Meira um þetta í seinni pistlum.
  • Í viðhengi er umsögn höfundar vegna þingsályktunartillögu iðnaðarráðherra í tengslum við OP#3.  

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Musteri óttans við Rauðará

Ekkert lát er á hræðsluáróðri utanríkisráðuneytisins um voveiflegar afleiðingar þess, að Alþingi notfæri sér samningsbundinn rétt sinn í EES-samninginum til að neita því að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara af EES-samninginum.  Utanríkisráðherra hefur haldið fjarstæðum fram, sem hér verða gerðar að umræðuefni, og einn aðstoðarmanna hans bætt um betur, t.d. á Snjáldru (FB).  Þá hefur iðnaðarráðherra gert sig seka um fjarstæðukenndan málflutning nýlega í viðtali við vel upplýstan spyril á Harmageddon.  Þar óð iðnaðarráðherra á súðum.  Traust til hennar sem ráðherra orkumála óx ekki við að hlýða á þá grunnfærni.

  1. Synjun sé fordæmalaus og upphaf óvissuferðarÞetta er ósatt, eins og Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, hefur rakið.  Fordæmi um að hafna tillögu ESB um upptöku tilskipunar í EES-samninginn er frá því snemma á þessum áratugi.  Þá var við völd í Noregi ríkisstjórn AP-SP-SV.  Frétzt hafði af mikilli andstöðu SP og SV við Pósttilskipun IV, sem ESB ætlaði að leggja fyrir Sameiginlegu EES-nefndina til samþykktar. Framlagningunni var því frestað. Síðan var andstaða samþykkt á Landsfundi AP, Verkamannaflokksins, og þá gaf norska ríkisstjórnin út yfirlýsingu um andstöðu við Pósttilskipun IV.  Norski utanríkisráðherrann fór síðan til fundar við ESB og EFTA og tilkynnti, að Norðmenn myndu ekki fallast á tilskipunina. Hún var þess vegna ekki lögð fyrir Sameiginlegu EES-nefndina, og engar frekari ráðstafanir gerðar að hálfu EFTA eða ESB.  Þótt OP#3 hafi verið samþykktur í Sameiginlegu EES-nefndinni, breytir það engu um skýlausan rétt Alþingis til að neita að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara, sem er á þessari samþykkt.  Að bera brigður á þetta er bjarnargreiði við EES-samninginn.  Þau, sem reka hamslausan hræðsluáróður um afleiðingar höfnunar Alþingis, grafa í raun undan trausti almennings á þessum samningi og samstarfsaðilum Íslendinga innan EES.  Það er hráskinnaleikur.
  2. Er líklegt, að viðbrögð ESB verði öðruvísi gagnvart Íslendingum í orkupakkamálinu ?: Þá er vænlegt að spyrja, eins og Rómverjar forðum: "Cuo bono"-hverjum væri það í hag ?  Það er engum í hag að setja EES-samstarfið í uppnám, með því að ESB fari út fyrir samningsbundnar heimildir sínar til gagnráðstafana, og líklegast er, að þær verði engar, eins og í tilviki Norðmanna um árið.  Aðalatriðið er, að samkvæmt EES-samninginum eru það aðeins atriði í núverandi samningi, sem eru náskyld OP#3 eða OP#3 mundi leysa af hólmi, sem mætti ógilda, þ.e.a.s. þættir í OP#2, s.s. gasmarkaðstilskipun 2, raftilskipun 2, gerð 1775/2005 (gasflutningar) og gerð 1228/2003 (stofnrafkerfi að og frá flutningsmannvirkjum á milli landa). Ef ESB fer út fyrir heimildir gagnráðstafana, sem fyrirskrifaðar eru í EES-samninginum, brýtur Evrópusambandið EES-samninginn og hægt verður þar með að stefna því fyrir EFTA-dómstólinn.  Það má nánast útiloka, að ESB leggi í þá óvissuferð, enda getur ESB ekkert haft upp úr krafsinu.  Allar getgátur um slíkt hérlendis eru eintómir hugarórar, viðkomandi embættismönnum og þingmönnum o.ö. til minnkunar.
  3. Terje Söviknes, orkuráðherra Noregs, staðfesti í skriflegu svari til Stórþingsins 5. marz 2018, að það er aðeins sá hluti EES-samningsins, sem hefði tekið breytingum eða horfið við innleiðinguna, sem hugsanlega verður ógiltur af ESB.  Ráðherrann skrifaði síðan: "Spurningin um, hvaða hluta viðaukans málið snertir beint, er stjórnmálalegt viðfangsefni, sem ekki er hægt að fá úrskurð um fyrir EFTA- eða ESB-dómstólinum."  Með öðrum orðum skulu málsaðilar finna sameiginlega lausn á þessu í samningaviðræðum.  Túlkun íslenzka utanríkisráðuneytisins á þessu er hins vegar fyrir neðan allar hellur, hrein ímyndun og hræðsluáróður, sem þingmenn margir hverjir hafa kokgleypt.  
  4. Stendur íslenzkum fyrirtækjum einhver ógn af því, að Alþingi neiti að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara ?  Nei, alls engin, og um þetta hafa verið skrifaðar lærðar ritgerðir í Noregi um áhrifin á norskan útflutningsiðnað.  Verður gerð nánari grein fyrir málinu á eftir þessum tölulið pistilsins.  Skörin hefur færzt upp í bekkinn, þegar utanríkisráðuneytið gerir því skóna, að íslenzk útflutningsfyrirtæki sjálfvirkra vinnslukerfa á borð við Marel, Skagann, 3X, Völku o.fl. muni verða fyrir einhvers konar tæknilegum viðskiptahindrunum að hálfu ESB vegna þess, að ESB muni fella úr gildi ákvæði í Viðauka IV, sem hafa engan skyldleika við OP#2 eða OP#3, s.s. kvaðir um orkumerkingar.  Það hefur farið framhjá ráðuneytinu, að þessar kvaðir eiga einvörðungu við um heimilisraftæki.  Er það mjög ámælisvert hjá ráðherranum og aðstoðarkonu hans að fara á flot með slíka endemis vitleysu, en dæmið sýnir, að á þeim bænum helgar tilgangurinn meðalið, þegar verjendur slæms málstaðar eru orðnir rökþrota.  

Stjórnmálamenn, sem dásama gjarna EES-samninginn, nefna þá gjarna, að samkvæmt honum þurfi ekki að taka upp allar gerðir og tilskipanir ESB.  Utanríkisráðherra tönnlast gjarna á hlutfallinu 13,5 %.  Talning gefur þó skakka mynd af hlutfallslegum áhrifum.  Nær væri að taka  umfangið og reyna að meta inngripið í þjóðlífið, t.d. kostnað vegna stjórnsýslu og kvaða á atvinnulífið, og umfang valdframsals til ESB. 

Í þessu sambandi er lykilatriði, að EES-samningurinn áskilur EFTA-ríkjunum skýlausan rétt á að hafna lagabálkum ESB, annaðhvort í Sameiginlegu EES-nefndinni eða í þjóðþingunum.  Að láta eins og með þessu sé lagt upp í einhverja óvissuferð er fáránleg tilraun til að slá ryki í augu almennings, því að neitunarvaldið var grundvöllur þess, að Alþingi samþykkti EES-samninginn 1993. Neitunarvaldið er skráð í EES-samninginn, gr. 93, og í Samninginn um fastanefnd EFTA, gr. 6.  Án neitunarvalds hefði löggjafarvald Alþingis verið framselt ESB 1993 við samþykkt EES-samningsins.  Hræðsluáróður  iðnaðarráðherra o.fl. í þessa veru er mjög ótraustverður og í raun kjánalegur. Trúir hún eigin vitleysu ? 

Líklegast er, að Evrópusambandið sætti sig við það, að Alþingi neiti að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara við samþykkt Sameiginlegu EES-nefndarinnar án nokkurra sérstakra mótaðgerða.  Hvers vegna ?  Þar vegur nokkuð sjónarmið um fyrirsjáanleika, sbr norska fordæmið, og hlýðni við samninginn.  Gr. 3 í EES-samninginum leggur samningsaðilum á herðar þá skyldu að sýna samninginum hollustu, og enginn samningsaðila, heldur ekki sá stóri (ESB), má skapa vandræði í samstarfinu.  Þetta styður það, að haft verði að leiðarljósi, að hugsanlegar gagnráðstafanir ESB hreyfi sem minnst við innihaldi og virkni EES-samningsins.  Með öðrum orðum: núverandi frjálsu viðskipti skulu haldast.  

ESB má ekki og getur ekki samkvæmt EES-samninginum hafið einhvers konar refsiaðgerðir gegn Íslandi, en getur gert tillögu í Sameiginlegu EES-nefndinni um ógildingu þess hluta EES-samningsins, sem hefði breytzt við innleiðingu OP#3 (ógilding, gr. 102). Þetta er til að jafna út ávinning Íslands af að hafna innleiðingu viðkomandi tilskipunar eða reglugerðar.  Aðalsamningurinn og bókanirnar gilda áfram.  Reglurnar um m.a. frjáls vöruviðskipti og bannið við aðgerðum gegn undirboðum verða áfram í gildi.

 Öllum tilskipunum og reglugerðum í EES-samninginum er raðað á kerfisbundinn hátt í 22 viðauka eftir efni.  Orka er í viðauka #4.  Þar verður Þriðja orkupakkanum með ACER-gerðinni, sem Alþingi hefur nú til umfjöllunar, skipað niður, ef þau mistök verða framin að aflétta stjórnskipulega fyrirvaranum.  Það er EES-nefndin, sem ákveður, hvort og hvaða þætti samningsins á að ógilda.  Þar eru EFTA, þ.e.a.s. Ísland, Noregur og Liechtenstein ásamt ESB, jafngildir aðilar, og samþykkt krefst samþykkis allra.  

Orkustofnun ESB er tiltölulega ný af nálinni, og engin samningsákvæði til um hana í núverandi EES-samningi.  ACER-gerðin breytir þess vegna ekki núverandi EES-regluverki.  Þannig snertir ekkert í núverandi samningi höfnun á OP#3.  Þótt ESB myndi krefjast ógildingar á þáttum í núverandi orkuregluverki og EFTA-löndin samþykkja, mundu íslenzk fyrirtæki án nokkurs vafa geta starfað með öllu hindrunarlaust áfram í þeim EES-löndum, þar sem þau hafa starfsemi nú eða viðskipti.  Hið sama á við um fyrirtæki frá hinum EES-löndunum, sem nú reka einhvers konar starfsemi á orkusviðinu á Íslandi.  EES-samningurinn á að verja áunnin réttindi fólks og fyrirtækja, sbr gr. 102:

"Réttindi og skyldur, sem fólk og markaðsaðilar þegar hafa áunnið sér samkvæmt þessum samningi, skulu áfram verða við lýði."

    

 


Handhafi sannleikans um þróun raforkuverðs

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðarráðherra m.m., ritar pistil um þróun raforkuverðs á "Vettvangi" Morgunblaðsins 21.04.2019, sem útheimtir athugasemdir.  Hún nefnir pistil sinn:

"Staðreyndir um raforkuverð",

eins og hún sé handhafi sannleikans í þeim efnum, en eftir lestur pistilsins er ekki hægt að fallast á það. Því fer reyndar fjarri, enda rökin sama og engin. 

Ráðherrann hóf pistilinn með nokkuð háreistum hætti, eins og þreyttur kennari, sem talar til tornæmra  nemenda sinna, en góður kennari myndi síðan ekki slengja fram getgátum í fullyrðingastíl án rökstuðnings, eins og iðnaðarráðherra gerir sig seka um. Það, sem helzt hann varast vann, varð þó að koma yfir hann. 

Lítum á upphafið:

(1) "Í opinberri umræðu er æskilegt að greina á milli staðreynda og skoðana.  Það er bæði heilbrigt og eðlilegt, að menn séu ósammála og deili um mál með sannfæringu - og staðreyndir að vopni."

(2) "Fullyrðingar um, að raforkuverð hafi hækkað á Íslandi vegna upptöku fyrsta og annars orkupakka ESB og muni hækka enn frekar við upptöku þriðja orkupakkans, eiga ekki við rök að styðjast."

(3) "Þaðan af síður er stoð fyrir fullyrðingum í þá veru, að óheimilt verði að niðurgreiða húshitunarkostnað eða jafna dreifikostnað raforku á milli dreifbýlis og þéttbýlis.  Slíkar ákvarðanir hafa frá 2002 verið í höndum Alþingis og munu verða þa[r] áfram."

Um (1): Ráðherrann er ekki sterk á svellinu við að fylgja þessum ágætu ráðum kennarans.  Hún hefur t.d. ekki fært neitt til umræðunnar um Þriðja orkupakkann (OP#3) annað en hann sé beint framhald OP#2, og þess vegna sé ekkert áhorfsmál að samþykkja hann.  Þetta er efnislega kolrangt, nema 3 koma á eftir 2 í talnaröðinni, en það lærðum við mörg 5-6 ára.  Það eru 3 meginbreytingar í OP#3 frá OP#2. 

Í fyrsta lagi verður með OP#3 gert að skyldu að innleiða markaðskerfi að hætti ESB með frjálsri samkeppni á heildsölu- og smásölumarkaði með rafmagn, en það er valfrjálst núna. Ef ráðherrann heyrir minnzt á frjálsa samkeppni, veðrast hún öll upp, einnig nú, þegar rafmagn á í hlut.  Hún hefur fallið fyrir skilgreiningu ESB á rafmagni sem vöru, en höfundur þessa pistils er þar á öndverðum meiði við hana. Rafmagn á ekki að fjalla um sem vöru, heldur hérlendis sem orkuafurð náttúruauðlinda Íslands, sem nýta ber landsmönnum um allt land til hagsbóta.  Eru vinstri grænir ekki sammála þessari norrænu skilgreiningu, eða eru þeir gengnir í björg ESB, þar sem búrókratar og auðjöfrar hafa fallizt í faðma ?  Öðru vísi mér áður brá. 

Þetta þýðir, að heimili, atvinnurekstur opinberir aðilar og aðrir hérlendis fái orkuna á lágmarksverði, þ.e. m.v. tiltölulega lága ávöxtunarkröfu af fjárfestingunum í samanburði við fjárfestingar almennt.  Þetta má réttlæta með langri endingu mannvirkja og lítilli áhættu fjárfesta. 

Ráðherrann virðist engan gaum hafa gefið að aðvörunarorðum á þessu vefsetri og víðar við því, að hún sé að leiða tíðari orkuskort og hærra raforkuverð yfir landsmenn, af því að íslenzka orkukerfið er í grundvallaratriðum öðruvísi en orkukerfi ESB. Það er gösslazt áfram án nokkurrar frambærilegrar áhættugreiningar og haldið dauðahaldi í lögfræðilegar greinargerðir, sem ekki bera með sér djúpstæða þekkingu á þeirri lögfræði, sem máli skiptir í þessu sambandi, Evrópuréttinum.  

Í öðru lagi fjallar OP#3 um millilandaviðskipti með raforku, en OP#2 fjallar um innanlandsviðskipti með raforku.  Á þessu tvennu er grundvallarmunur.  Það er tóm vitleysa ráðherrans og sumra annarra lögfræðinga, að ákvæðin um millilandatengingar gildi hreinlega ekki hérlendis, af því að þær eru ekki enn fyrir hendi.  Í Álitsgerð Friðriks Árna og Stefáns Más kemur þvert á móti fram, að líta verður á gildissvið gerða og tilskipana OP#3, eins og sæstrengur muni verða lagður til Íslands. 

Þetta viðurkennir iðnaðarráðherra í verki með því að setja fyrirvara í þingsályktun sína um, að sæstrengur verði ekki lagður án leyfis Alþingis.  Þessi fyrirvari er þó hreint píp, þegar búið er að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara af öllum OP#3, eins og rökstutt er í umsögn til atvinnuveganefndar í viðhengi með þessari vefgrein.

Þriðji reginmunurinn á OP#2 og OP#3 er, að í hinum síðar nefnda er stofnað til embættis Landsreglara á Íslandi, sem starfar á snærum ACER, Orkustofnunar ESB, með ESA sem afritandi millilið fyrir formsins sakir, svo að formsins fólk geti skýlt sér á bak við "tveggja stoða kerfið".  Íslenzk stjórnvöld mega þó engin önnur afskipti hafa af þessum Landsreglara en að leggja honum til fé af fjárlögum, og af fjárlögum á einnig að renna fé til ACER. 

Iðnaðarráðherra ætlar að breyta embætti Orkumálastjóra í bastarð með því að láta hann gegna embætti Landsreglara ásamt öðrum skyldum, sem verða áfram undir yfirstjórn ráðherra.  Þetta er skelfilegt fyrirkomulag, sem er til þess fallið að hámarka hér völd Landsreglara í stað þess að lágmarka þau, eins og Norðmenn samþykktu að gera með því að að stofna embætti Landsreglara utan við NVE, norsku orkustofnunina.  

Iðnaðarráðherra hefur þannig efnislega ekkert til síns máls, þegar hún staðhæfir, að ekkert áhorfsmál sé að samþykkja OP#3, af því að hann sé beint framhald af OP#2.  Hvers vegna rignir upp í nefið á henni, þegar OP#3 er annars vegar ?

Um (2): Ráðherranum er mikið í mun að sýna fram á, að innleiðing OP#1 með nýjum raforkulögum árið 2003 hafi leitt til lækkunar á kostnaði neytenda.  Aðferð hennar við þetta er þó algerlega ótæk, því að hún notar einvörðungu um 45 % heildarkostnaðar án VSK, sem er orkuhlutinn.  Það, sem skiptir neytendur máli, er summan af orkuverðinu, flutningsgjaldinu, dreifingargjaldinu og jöfnunarkostnaðinum auk virðisaukaskattsins, sem nú er 24,0 %.  Jafnvel þessi þröngi samanburður, sem ráðherrann hefur valið, sýnir engan árangur á mælikvarða ráðherrans sjálfs, sem hún gerir grein fyrir seinna pistlinum: 

"Í skýrslu EFLU kemur fram, að tekizt hafi að innleiða samkeppni í vinnslu og sölu raforku og að fyrirtækjum, sem keppi á þeim markaði, fari fjölgandi.  Verð á raforku í smásölu hafi farið lækkandi eftir setningu raforkulaga, hafi síðan hækkað að nýju og sé nú svipað að raunvirði og það var fyrst eftir skipulagsbreytingarnar." 

Þótt litið sé framhjá þessum annmarka við aðferðarfræði ráðherrans, þá getur hún aldrei sannað eitt eða neitt með þessu móti um það, hvort gamla eða nýja kerfið (m.v. 2003) sé skilvirkara fyrir neytendur.  Það er vegna þess, að meginkostnaðarliður raforkugeirans er fjármagnskostnaður, en rekstrarkostnaðurinn er tiltölulega lágur. Þó er hann umtalsverður í jarðgufuvirkjunum. Mestu fjárfestingar sögunnar í raforkugeiranum hérlendis voru skömmu fyrir aldamótin 2000.  Nú ætti kostnaðurinn þess vegna að vera að sjatna.  Hvers vegna kemur það ekki fram í raforkuverðinu ?  Það getur verið vegna aukinnar arðsemiskröfu fyrirtækjanna og/eða meiri rekstrarkostnaðar fyrirtækjanna á hverja MWh vegna uppskiptingar í vinnslu, flutning, dreifingu og sölu samkvæmt OP#1 og OP#2.

Úr því að ekkert bendir til, að samkeppnisfyrirkomulag OP#2 með rafmagn hafi orðið neytendum til hagsbóta, heldur þvert á móti, þegar litið er á þróun heildarkostnaðar án VSK við raforkukaup, við hverju má þá búast af markaðsvæðingunni í OP#3 ?  Ef kerfi, sem sniðið er við eldsneytisknúið raforkukerfi, er innleitt í raforkuvinnslukerfi, reist á  illfyrirsjáanlegum náttúrukröftum, þá er hættunni boðið heim. Sú hætta felst í tíðum orkuskorti í kerfi, þar sem eðlisólíkar virkjanir með ólíkt kostnaðarmynztur keppa á frjálsum markaði og enginn er né má vera ábyrgur fyrir afhendingaröryggi raforkunnar.  Markaðurinn á að sjá um það og gerir það í ESB, en getur ekki gert það hér.  Þetta ræðir iðnaðarráðherrann aldrei, en þetta er þó grundvallaratriði fyrir hagsmuni neytenda. Við þurfum sérlausn, raforkumarkaðskerfi, sem sniðið er að eðli okkar náttúrulegu orkulinda og að fákeppniumhverfi, með auðlindastýringu á hendi ríkisins, svipað og með sjávarauðlindina, og einhver verður að bera ábyrgð á afhendingaröryggi raforku.  

Við þurfum ekki á að halda iðnaðarráðherra, sem sér bara tvö orð í orkupakkanum, "frjáls samkeppni", virðist hafa tekið trú á þetta hugtak og boðar, að það muni frelsa raforkugeirann, og síðan fari bezt á að láta hann eiga sig.  Það er hrikaleg skekkja fólgin í þessu skilningsleysi ráðherrans.  Skekkjan er öll á einn veg.  Það hallar á neytendur, en birgjarnir fleyta rjómann ofan af, áhættulítið.  Til að bæta gráu ofan á svart kallar hún þetta neytendavernd. 

Þegar dregur að orkuskorti, hækkar raforkuverðið á frjálsum uppboðsmarkaði, en það er allt of seint til að bregðast við með róttækum hætti til að forða mjög miklu tjóni, sem hleypur á tugum milljarða ISK.  Það er mjög erfitt að áætla verðþróun af einhverju viti eftir gildistöku OP#3, en það er líklegt, að meðalverðið hækki talsvert af þessum sökum, eins og við sáum í Noregi í fyrra vegna þurrka, en þá leit um tíma illa út með fyllingu miðlunarlóna.  

Í s.k. Kvikuskýrslu frá 2016 um aflsæstreng til Bretlands er reiknað með allt að 100 % hækkun raforkuverðs m.v. núverandi heildsöluverð á Íslandi, þ.e. upp í 66 EUR/MWh úr 33 EUR/MWh. 

Flutningskerfið verður órekanlegt án DC-strengs með um 500 MW flutningsgetu yfir Sprengisand eftir sæstrengstengingu.  Kostnaður hans er áætlaður mrdISK 45.  400 kV loftlínur niður að landtökustað sæstrengs og tengivirki munu ekki kosta undir mrdISK 55, þ.e. heildarfjárfesting að lágmarki mrdISK 100 (reiknað með, að afriðlastöð og áriðlastöð við enda sæstrengsins verði hluti sæstrengsverkefnisins). Þessa fjárfestingu Landsnets þarf að greiða með gjaldskrám Landsnets af almennum flutningi og stóriðjuflutningi hérlendis samkvæmt OP#3.  M.v. núverandi árleg útgjöld Landsnets gæti þetta kostað tvöföldun á gjaldskrá hennar.  

Hvaða tökum Landsreglarinn mun taka dreifiveiturnar veit enginn, en þær standa margar hverjar frammi fyrir mikilli fjárfestingarþörf í jarðstrengjum og aflspennum, m.a. vegna orkuskiptanna.  Ef aukin ávöxtunarkrafa þeirra  (vegna fjárfestingarþarfar, ekki arðsemikröfu, eins og t.d. í Reykjavík) leiðir til 10 % hækkunar gjaldskrár dreifiveitna rafmagns, verður meðalhækkun rafmagns um 64 % í landinu við tengingu þess við innri orkumarkað ESB.

Um (3): Ráðherrann fullyrðir, að heimilt verði að greiða niður húshitunarkostnað eftir markaðsvæðingu OP#3.  Hefur hún fengið bréflega tryggingu fyrir því frá ESA, eða er þetta bara innantóm fullyrðing út í loftið ? Slíkar niðurgreiðslur, eins og útjöfnun á hitunarkostnaði, eru óþekktar á orkumarkaði ESB,og þekkjast heldur ekki í Noregi.  Þar hafa uppsveiflur raforkuverðs þó bitnað einstaklega illa á almenningi, vegna þess að húsnæði er yfirleitt rafhitað í Noregi.  Jafnvel í verðtoppunum hefur ríkisstjórnin ekki léð máls á niðurgreiðslu rafmagns, þrátt fyrir sárar kvartanir, t.d. frá eldri borgurum, sem ráða ekki við rafmagnsreikninginn, þegar frjáls samkeppni virkar á þennan hátt.  Eru ýmsar sorgarsögur til af því.

  Að hygla einu upphitunarformi umfram annað kann að verða kært til íslenzkra dómstóla, Samkeppniseftirlits eða ESA, eins og reyndin var á í Noregi, þar sem ríkisstuðningur við viðarbrennsluofna með hárri nýtni og minni mengun fyrir vikið var dreginn til baka vegna kæru um ríkisaðstoð, sem skekkti frjálsa samkeppni á sviði upphitunar.  Það er ekkert sjálfgefið á frjálsum markaði eftir OP#3, þar sem Ísland verður að lúta ströngum samkeppnireglum innri markaðarins.  

Þegar atvinnurekstur er annars vegar, eru niðurgreiðslur á rafmagni úr ríkissjóði hins vegar skýlaust taldar ríkisstuðningur, sem skekki samkeppnistöðu á markaði.  Eftir OP#3 og viðeigandi markaðsvæðingu í kjölfarið mun ESA ekki taka slíkar niðurgreiðslur í mál. Þetta skapar tilvistarhættu fyrir marga framleiðendur hérlendis, sem þegar búa við hátt kostnaðarstig og eiga í harðri samkeppni við innflutning.  Iðnaðarráðherra hikar ekki við að fórna meiri hagsmunum fyrir minni á altari goðs síns, sem heitir "frjáls samkeppni með rafmagn" og hún skilur ekki.  

Ráðherrann nefnir jöfnun dreifingarkostnaðar á milli þéttbýlis og dreifbýlis.  Aðgerða- og úrræðaleysi iðnaðarráðherra í þeim efnum er sláandi.  Ef einhver áhugi væri hjá henni fyrir þessu réttlætismáli, þá væru aðgerðir lengra komnar en raun ber vitni um.  Sérleyfi dreifiveitna á að vera bundið gjaldssvæði.  Innan sama gjaldssvæðis á ekki að vera leyfilegt að mismuna tveimur notendum með sams konar notkun eftir búsetu einni saman. Þetta hefur þó viðgengizt frá 2003.  Núna munar 11 %-38 % innan sömu dreifiveitu á milli þéttbýlis og dreifbýlis.  Almennt á ennfremur að hygla notendum með tiltölulega jafna (yfir sólarhringinn) og mikla orkunotkun.  

  • Rafhitunarkostnaður í dreifbýli (án hitaveitu) í ár verður væntanlega um kISK 300 á fjölskyldu.
  • Eftir OP#3 og með sæstreng má búast við hækkun um 190 kISK/ár á núvirði.
  • Hitaveitukostnaður í dreifbýli nemur í ár um kISK 240.
  • Reikna má með um 16 % hækkun á hitaveitu, ef rafmagn hækkar um 64 %.  Það er vegna mikillar raforkunotkunar hitaveitna vegna vatnsdælingar.  Þá hækkar meðalhitaveitukostnaður í dreifbýli um 38 kISK/ár.    
Þessar tölur gefa til kynna, hversu mikið hagsmunamál það er fyrir almenning í landinu, að rafmagnsverð taki ekki stökk.  Það er sömuleiðis hagsmunamál hans, að það sé stöðugt og fyrirsjáanlegt yfir árið.  OP#3 getur orðið verðbólguvaldur hér og skapað erfiðleika í öllum rekstri.  
Í lok pistils síns skrifaði iðnaðarráðherra:
(4) "Bæði garðyrkjubændur og bakarameistarar hafa lýst áhyggjum af hækkun raforkuverðs, ef þriðja raforkutilskipunin (svo !) verður innleidd.  Þær áhyggjur byggjast á fullyrðingum um, að innleiðingin muni án nokkurs vafa leiða til raforkusæstrengs til Evrópu.  Slík fullyrðing á ekki við rök að styðjast, þar sem ákvörðun um sæstreng verður alfarið í höndum Alþingis og íslenzkra stjórnvalda, eins og nánar er útlistað í frumvarpi og þingsályktunartillögu, sem ég hef lagt fram á Alþingi."
(5)"  Innleiðingin mun, ein og sér, ekki leiða til hærra raforkuverðs á Íslandi, hvorki til garðyrkjubænda, bakara né nokkurra annarra.  Markmiðið er einmitt, að með aukinni samkeppni á sölu raforku muni verð lækka." 
 (Um 4)Fyrirvari iðnaðarráðherra um, að samþykki Alþingis þurfi fyrir sæstreng, er  eintómt píp.  Ef ESA kærir sig um að hrinda þeim fyrirvara, og það ber ESA skylda til að gera, þá verður hann fljótlega eftir innleiðingu dæmdur brotlegur við EES-samninginn af EFTA-dómstólinum.  Íslenzk löggjöf víkur fyrir ESB-rétti.  Hvort eða hvenær slíkur strengur kemur, er annað mál, en sæstrengsfjárfesting, þótt áhættusöm sé, freistar sumra, og orkuseljendur brenna í skinninu eftir mjög auknum hagnaði af raforkusölu hér innanlands. Þar verður þeirra aukni hagnaður, ekki af útflutninginum. Af honum hirða sæstrengseigendur hagnaðinn.  Hvatarnir eru fyrir hendi. 
UM (5): Þótt enginn komi sæstrengurinn strax, hafa verið leidd gild rök að því, að innleiðing frjáls uppboðsmarkaðar fyrir raforku á Íslandi, eins og ESB tíðkar slíkt kerfi, muni alls ekki ganga upp á Íslandi vegna eðlismunar á raforkukerfum og markaðsáðstæðum á Íslandi og í ESB-löndunum.  Slík staða leiðir óhjákvæmilega til hækkunar meðalverðs á rafmagni.  Ráðherra trúir blint á frjálsa samkeppni, einnig með rafmagn, sem hún heldur, að sé sama varan og í ESB.   Það er villutrú á Íslandi, þar sem rafmagn er hér framleitt með gjörólíkum hætti m.v. ESB-löndin.  

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Gaukseggið og óvissan

Hugmyndin í lögfræðilegri álitsgerð Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst (FÁFH) og Stefáns Más Stefánssonar (SMS) (tæplega 8 línur í 43 blaðsíðna ritgerð), sem utanríkisráðherra reisir síðan þingsályktunartillögu um Þriðja orkupakkann (OP#3) á, er af öllum sólarmerkjum að dæma aðskotadýr í annars ágætri skýrslu, afrakstur fjölda funda með lögfræðingaher utanríkisráðherra og hinum prýðilegu skýrsluhöfundum.  Gauksegg þetta kemur eins og skrattinn úr sauðarleggnum inn í téða skýrslu, er sannkallaður gallagripur og skapar stórskaðlega réttaróvissu hérlendis, sem getur reynzt ríkissjóði og landsmönnum öllum dýr áður en yfir lýkur.  Þingmenn, sem leiða munu þessi ósköp yfir þjóðina, eru engir bógar til að rísa undir ábyrgðinni og ættu að hugsa sig um tvisvar áður en þeir láta til leiðast.  Þeir gera sig með því seka um óafsakanlega vanrækslu í hinni eilífu hagsmunagæzlu fyrir þjóðina út á við.

Réttaróvissan skapast af tvennu, eins og fram kemur í skýrslunni:  

Í fyrsta lagi er það Stjórnarskrárbrot að samþykkja lagasmíð, sem stenzt ekki Stjórnarskrá, þótt svo standi á við lögfestinguna, að hin brotlegu lög eigi ekki við, þ.e. að enginn sæstrengur sé fyrir hendi.  Höfundar skýrslunnar segja, að miða verði við þá stöðu, að sæstrengur muni koma, og þess vegna verði að útkljá Stjórnarskrárviðfangsefnið fyrst.  Á þessum grundvelli munu hagsmunaaðilar geta látið reyna á réttmæti afléttingar hins stjórnskipulega fyrirvara og lögfestingu á OP#3 með fyrirvaranum. Þá lendum við jafnvel í umfangsmeiri málaferlum út af OP#3 en Norðmenn núna.

Í öðru lagi má ekki innleiða samþykkt Sameiginlegu EES-nefndarinnar í landslög með breytingu, eins og fyrirvari utanríkisráðherra felur í sér.  Það er brot á EES-samninginum, kafla 7.  Umræður á norska Stórþinginu um haldleysi heimalagaðrar íslenzkrar undanþágu ýta undir ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) að fetta fingur út í þessa undanþágu, og hagsmunaaðilar geta líka kært hana fyrir íslenzkum dómstóli.  Þetta leiðir af kröfunni um einsleita framkvæmd ESB-gerða í EES.

Undanþágan hangir á lögfræðilegum bláþræði.  Fari allt á versta veg, hefur Alþingi orðið sér til minnkunar fyrir að trúa vitleysunni úr utanríkisráðherra, og landsmenn sitja uppi með ESB-lög í lagasafni sínu, sem vel kunna að verða fundin brotleg við Stjórnarskrá fyrir íslenzkum dómstólum.  Þá er komin upp stjórnlagakreppa í landinu, því að ESB-lög eru æðri bæði íslenzkum lögum og Stjórnarskrá , þar sem þau greinir á, og innleiðing ESB-gerða er óafturkræf.  Við þessar aðstæður eru aðeins 2 leiðir færar: að breyta Stjórnarskrá eða að segja upp EES-samninginum.  Það, sem helzt hann varast vann, varð þó að koma yfir hann.

Lagasérfræðingarnir orða fyrra atriðið þannig í skýrslu sinni:

"Með vísan til framanritaðs er það álit höfunda, að ekki séu að óbreyttu forsendur til þess, að Ísland aflétti stjórnskipulegum fyrirvara við umrædda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um að taka þriðja orkupakkann upp í EES-samninginn, sbr 1. mgr. 103. gr. EES-samningsins, nema tryggt sé, að reglugerð nr 713/2009 verði innleidd í íslenzkan rétt á þann hátt, að samræmist stjórnarskránni, sjá nánar kafla 4.1 og 4.3.3."

Sú aðferð, sem utanríkisráðherra hefur valið í þingsályktunartillögu sinni um innleiðingu OP#3, samræmist ekki Stjórnarskránni, ef marka má álitsgerð FÁFH og SMS, því að þeir skrifa í 4.1, að ákvörðun Alþingis um afléttingu hins stjórnskipulega fyrirvara verði að miða við, "að grunnvirkjum yfir landamæri verði komið á fót hér á landi".  Þar með er innleiðing að þeirra mati Stjórnarskrárbrot, þrátt fyrir fyrirvara um samþykkt Alþingis á, að leggja megi sæstreng til Íslands.  Lögfræðingarnir hnykkja á þessari niðurstöðu sinni í lok gr. 4.1:

"Verður því að hafna því sjónarmiði [lögfræðingahers utanríkisráðuneytisins-innsk. BJo], að álitaefni tengd valdframsali til ESA skipti ekki máli á þessu stigi, þar sem grunnvirki yfir landamæri eigi enn eftir að líta dagsins ljós hér á landi, og því sé Alþingi fært að að samþykkja þriðja orkupakkann, hvað svo sem líði stjórnskipulegum álitaefnum varðandi valdframsal til ESA."

Þetta orðalag bendir til, að höfundar skýrslunnar hafi lent í rökræðum og jafnvel orðaskaki við lögfræðingaher utanríkisráðuneytisins, og er það mjög ámælisverð verkstjórn að hálfu utanríkisráðherra, ef satt er.  Hafi þá orðið úr að skilyrða gildistöku hinnar umdeildu gerðar nr 713/2009 við framtíðar lagaheimild Alþingis um lagningu sæstrengs og úrlausn Stjórnarskrárvandans.  Þar er þá komin skýringin á gauksegginu í hreiðri höfunda skýrslunnar.  Þeir hnýta þó þar við, að gaukseggið sé eigi gallalaust, og er það eins vægt að orði komizt og hugsazt getur.  Er "understatement" ársins.  Hver er þá gallinn ?

Hann er sá, að umgetinn varnagli hangir á bláþræði geðþótta Evrópusambandsins.  Þegar ESB hentar, getur Framkvæmdastjórnin kvartað við ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) eða bent t.d. sæstrengsfjárfesti á að kvarta við ESA út af innleiðingu OP#3 í landsrétt, sem brýtur í bága við EES-samninginn, kafla 7, sem kveður á um undanbragðalausa innleiðingu gerða ESB, eins og Sameiginlega EES-nefndin hefur samþykkt þær.  Þar með fellur varnagli ríkisstjórnar og Alþingis eins og spilaborg.  Það var aldrei um annað að ræða en trúðslega tilburði utanríkisráðherrans með Pótemkíntjöld hér innanlands.  Margir hafa látið blekkjast af Pótemkíntjöldum bæði fyrr og síðar, en falli þingflokkur Sjálfstæðisflokksins í þessa gildru, mun Sjálfstæðisflokkurinn ganga með böggum hildar til næstu kosninga og væntanlega ekki bera sitt barr fyrr en hann hefur bætt ráð sitt með einhverjum hætti.  

Hvað skrifa hinir mætu skýrsluhöfundar um þennan "galla".  Það gefur að líta í grein 6.4:

"Að mati höfunda er þó til þess að líta, að samþykki Alþingi umrædda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar óbreytta (og aflétti þar með stjórnskipulegum fyrirvara við hana) [eins og þingsályktunartillagan fjallar um-innsk. BJo], þá bakar Ísland sér þjóðréttarlega skuldbindingu til að innleiða reglugerð nr 713/2009 í landsrétt með þeim breytingum/aðlögunum, sem leiða af umræddri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, sbr 7. gr. EES-samningsins. Myndi Íslandi því bera skylda til að innleiða reglugerðina í landsrétt með aðlögunum, sem leiða af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar.  Þetta þýðir jafnframt, að taka verður afstöðu til þess nú þegar, hvort 8. gr. reglugerðar nr 713/2009 (og aðrir hlutar þriðja orkupakkans, ef því er að skipta) standist stjórnarskrána, og það áður en Alþingi ákveður, hvort samþykkja skuli umrædda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar."   [Undirstr. BJo.]

Þessi mikilvæga niðurstaða skýrsluhöfundanna hefur ekki verið véfengd.  Lagalegur varnagli Alþingis heldur ekki, því að þar sem lög landsins og ESB-rétturinn stangast á, þar skal ESB réttur ráða.  EES-samningurinn kveður á um þetta, og það eiga Alþingismenn að vita.  Alþingi mun baka landsmönnum þjóðréttarlega skyldu til að innleiða OP#3 undanbragðalaust, ef það afléttir hinum stjórnskipulega fyrirvara af honum.

  Þingsályktunartillaga utanríkisráðherra er þess vegna í raun og veru um það að innleiða OP#3, eins og hann kom til Íslands frá Sameiginlegu EES-nefndinni, og það er Stjórnarskrárbrot samkvæmt skýlausri niðurstöðu FÁFH og SMS.  Skýrsluhöfundarnir sjá fyrir sér, að Alþingi verði knúið til að fella fyrirvarann úr gildi, og þess vegna taka þeir fram, að leysa verði Stjórnarskrárvandann áður en innleiðingin á sér stað. Að öðrum kosti mun skapast hér réttaróvissa, þar til dómstóll hefur dæmt um það, hvort OP#3 standist Stjórnarskrá eður ei.

Framferði utanríkisráðherra er eins slæm stjórnsýsla og hugsazt getur.  Framferðið bitnar á samstarfi okkar við bæði EFTA-þjóðirnar og ESB.  Verst er þó, að með þessu ráðslagi verður gert skylt að aðlaga stefnumörkun um ráðstöfun íslenzkra orkulinda að innri orkumarkaði Evrópusambandsins.  ESB mun geta beitt Íslandi til að hjálpa Sambandinu til við að ná markmiðum sínum í orkumálum.  Þar sem hagsmunir Íslands og Evrópusambandsins fara alls ekki saman á þessu sviði fremur en á sviði fiskveiðistjórnunar og nýtingar sjávarauðlindanna, er hér verið að stofna til stórfelldra hagsmunaárekstra og ófriðar. 

Þar sem fullveldi landsins á sviði raforkumála verður fórnað með samþykki OP#3, rænir Alþingi landsmenn sínu beittasta vopni í viðureigninni við ESB um orkuauðlindirnar.  Aflétting hins stjórnskipulega fyrirvara verður óafturkræf, svo að eina ráðið til að öðlast yfirráð orkumálanna að nýju verður uppsögn EES-samningsins.  Að neyðast til þess í ágreiningi við Evrópusambandið er hið versta mál.  Slík uppsögn, ef til hennar kemur, þarf að gerast í vinsamlegu andrúmslofti í kjölfar gerðar víðtæks fríverzlunarsamnings, helzt á milli EFTA og ESB.  Umrædd þingsályktunartillaga utanríkisráðherra er argasta glapræði, og samþykkt hennar mun draga langan ógæfuslóða á eftir sér.  

 

 

 

 

 

 

 

 


Um valdmörk ACER

Í álitsgerð lögfræðinganna Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst (FÁFH) og Stefáns Más Stefánssonar (SMS) er áhugaverð umfjöllun um valdmörk ACER (Orkustofnunar ESB) á Íslandi eftir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins, OP#3.  Þessi valdmörk hafa mikla þýðingu, því að þau kunna að ógna tveggja stoða grundvelli EES-samstarfsins og þar með að vera brotleg við Stjórnarskrá Íslands.   

Lögfræðingar ýmsir hérlendir og fleiri, sem vildu innleiða Orkupakka #3 (OP#3) skilmálalaust áður en fráleit þingsályktunartillaga utanríkisráðherra sá dagsins ljós, hafa fullyrt með þjósti, að rangt sé, að ACER muni fara með valdheimildir á orkusviði hérlendis.  Þar með hafa þeir sýnt, hversu lítið vit þeir hafa á þessu máli, ef marka má eftirfarandi tilvitnun í gr. 4.3.1 í álitsgerð ofangreindra lögspekinga:

"Þrátt fyrir að valdið sé þannig formlega hjá ESA, er ljóst, að ACER mun hafa mikið að segja um efni ákvarðana, sem ESA tekur á grundvelli reglugerðarinnar [713/2009], enda semur ACER drög að ákvörðunum og leggur þau fyrir ESA.  Það má því velta fyrir sér, hvort ákvörðunarvaldið sé í raun hjá ACER, og að hlutverk ESA sé aðallega formlegs eðlis í því skyni, að fyrirkomulag reglugerðarinnar samræmist betur tveggja stoða kerfinu.  Færa má rök fyrir því, að í raun sé ákvörðunarvaldið að hluta til framselt stofnun, sem heyrir undir Evrópusambandið og stendur utan EFTA-stoðarinnar, þ.e. ACER.  Í þessu ljósi má leggja til grundvallar, að gera verði enn ríkari kröfur en ella til þess, að valdframsalið, sem felst í 8. gr. reglugerðar nr 713/2009, standist þær stjórnskipulegu viðmiðanir, sem áður hafa verið raktar, m.a. varðandi tveggja stoða kerfi EES-samningsins, sbr einkum kafla 4.2.2 og 4.2.3 hér að framan."

Þau stjórnskipulegu vafaatriði, sem þarna eru nefnd, eru fóður inn í þá réttaróvissu, sem skapast á Íslandi, ef þingsályktunartillaga utanríkisráðherra verður samþykkt.  Til viðbótar vafanum með tveggja stoða kerfið og húsbóndavald ACER yfir ESA í orkumálum kemur, að samkvæmt gerð nr 713/2009 tekur ACER lagalega skuldbindandi ákvarðanir fyrir aðildarríkin á sviði millilandatenginga. Þetta vald er óháð því, hvort aflsæstrengur er fyrir hendi eða ekki, þegar innleiðing OP#3 á sér stað.  Um þetta skrifa FÁFH og SMS í gr. 4.3.1:

"Framangreint breytir þó ekki því meginatriði, sem áður var gerð grein fyrir, að drög að ákvörðunum eru í grunninn samin af ACER og að áhrif ACER á efni ákvarðana ESA hljóta því að vera veruleg.  Virðist þannig gert ráð fyrir því, að stefnumótun varðandi efni og framkvæmd umræddra ákvæða reglugerðar nr 713/2009 muni einkum fara fram á vettvangi ACER, þrátt fyrir að ESA eigi vissulega aðkomu að því ferli og geti haft áhrif á það með þeim hætti, sem að framan greinir."

Það, sem gerir málið alvarlegt og eykur líkur á málarekstri, þar sem íslenzka ríkið stendur á veikum grunni með líklegt Stjórnarskrárbrot fólgið í innleiðingu Þriðja orkulagabálksins áður en stjórnlagalega vafamálið með 713/2009 er leitt til lykta, er, að almannahagsmunir, einstaklingar og lögaðilar, eiga í hlut.  Ríkisstjórnin veður vitandi vits út í lögfræðilegt kviksyndi með því að biðja Alþingi að innleiða Þriðja orkupakkann:

"Þótt ákvarðanir ESA samkvæmt 8. gr. reglugerðarinnar beinist að forminu til að eftirlitsyfirvöldum hér á landi (s.s. Orkustofnun), þá breytir það því ekki, að þær geta jafnframt haft áhrif á hagsmuni einstaklinga og lögaðila, bæði þá sem stunda raforkustarfsemi og notendur raforkukerfisins (auk þess að hafa einnig áhrif á almannahagsmuni, tengda nýtingu raforkukerfisins) [t.d. ákvörðun gjaldskráa Landsnets og dreifiveitnanna-aths. BJo].  Það er einkum tvennt, sem tekur af skarið um, að umræddar ákvarðanir muni hafa þessi áhrif.  Í fyrsta lagi eru þær teknar á grundvelli reglugerðar, en þær eru bindandi í sérhverju tilliti og fá lagagildi í öllum aðildarríkjum ESB samtímis. Í öðru lagi er sérstaklega kveðið á um það í fyrrgreindri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, að EFTA-ríkin eða hvaða einstaklingur eða lögpersóna sem er geti hafið málarekstur gegn ESA fyrir EFTA-dómstólnum í samræmi við 36. og 37. gr. samningsins um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls.  Þar með er því slegið föstu, að einstaklingar og lögpersónur geti átt aðild að umræddum ákvörðunum ESA á grundvelli 8. gr. reglugerðar nr 713/2009."

Vegna þess að innleiðing Þriðja orkulagabálksins hvílir á veikum lögfræðilegum grunni, þar sem FÁFH & SMS hafa dregið stórlega í efa, að tveggja stoða fyrirkomulagið sé raunverulegt í tilviki ACER, er líklegt, að málaferli muni rísa út af störfum Landsreglarans, sem óhjákvæmilega mun varða hag margra, reyndar alls landslýðs, þar sem Landsreglarinn mun t.d. fá það hlutverk að staðfesta gjaldskrár Landsnets og dreifiveitnanna.  Við dómsuppkvaðningu mun fást úr því skorið, hvort valdframsalið til ACER stenzt Stjórnarskrá.

Ef umsókn berst til Orkustofnunar frá sæstrengsfjárfesti um leyfi til að leggja Ice-Link sæstrenginn á grundvelli Kerfisþróunaráætlunar ESB og hún hafnar umsókn á grundvelli banns Alþingis við lagningu aflsæstrengja á milli Íslands og útlanda, þá rís vafalaust upp deilumál á milli ESB/ESA og Íslands, þar sem lagaleg staða Íslands verður veik, vegna þess að innleiðing Þriðja orkupakkans brýtur í bága við EES-samninginn, kafla 7.  

Hinn möguleikinn er líka fyrir hendi, að sæstrengsfjárfestir sæki sitt mál vegna höfnunarinnar til íslenzks dómstóls, sem mun þá líklega æskja álitsgerðar frá EFTA-dómstólinum um EES-réttarfarsleg efni. Brot íslenzka ríkisins á skuldbindingum sínum að EES-rétti getur leitt til skaðabótaábyrgðar ríkisins gagnvart lögaðilum og einkaaðilum, sem telja sig hafa orðið fyrir fjárhagstapi af völdum banns Alþingis á lagningu sæstrengs.  Þetta tap getur numið tekjum af flutningi rafmagns á tilteknu tímabili og skaðabótaábyrgðin eitthvert hlutfall af þessum tekjum.  Þessi upphæð getur fljótt orðið mjög tilfinnanleg fyrir íslenzka ríkið.  Það er algerlega óverjandi, að Alþingismenn stofni fjárhag íslenzka ríkissjóðsins í stórhættu með því óþarfa glæfraspili að innleiða Þriðja orkupakkann með þeim hætti, sem utanríkisráðherrann leggur til.

Óbeizluð orka 

 

 


Eignarhald og ráðstöfunarréttur orkulindanna í húfi

Bornar hafa verið brigður á, að eignarréttur og ráðstöfunarréttur orkulindanna sé í húfi með samþykki Alþingis á þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um afléttingu hins stjórnskipulega fyrirvara á ákvörðun Sameiginlegu EES-nefndarinnar um innleiðingu Orkupakka #3 í EES-samninginn.  Hins vegar tekur álitsgerð lögfræðinganna Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst (FÁFH)og Stefáns Más Stefánssonar (SMS) frá 19. marz 2019 til utanríkisráðuneytisins af öll tvímæli um, að orkulöggjöf Evrópusambandsins leyfir lagasetningu um eignarrétt og ráðstöfunarrétt orkulinda og að Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn er þessarar gerðar.  

Af þessum ástæðum getum við aldrei orðið aðilar að Evrópusambandinu, ESB, án stórfellds hnekkis, alveg eins og á við um fiskveiðilögsögu landsins og aðildina að ESB.  Með samþykkt Þriðja orkupakkans er verið að þrýsta Íslendingum í banvænan náðarfaðm ESB.  Að íslenzkir stjórnmálaflokkar, sem hafa á stefnuskrá sinni andstöðu við ESB-aðild, skuli standa að þessu feigðarflani, segir sína sögu um þá Trójuhesta, sem eru á meðal vor og sitja að svikráðum fyrir pokaskjatta, fulla af gulli.  Það er gamla sagan.  

Sumir íslenzkir lögfræðingar hafa gerzt furðu heimóttarlegir að leggja sig í framkróka við að sýna fram á, að Þriðji orkupakkinn breyti í raun engu fyrir Íslendinga, sízt af öllu um eignarhald auðlindanna og hafa þá vitnað til kafla 125 í EES-samninginum.  FÁFH og SMS sýna hins vegar fram á í álitsgerð sinni, að dómaframkvæmd getur stungið í stúf við texta EES-samningsins vegna fjórfrelsisins, sem skal ganga fyrir öðrum ákvæðum:

"Í dóminum [Heimfallsdómi EFTA-dómstólsins gegn norska ríkinu] segir, að sá greinarmunur, sem gerður er í  norskri löggjöf á opinberum aðilum annars vegar og einkaaðilum og erlendum aðilum hins vegar, hafi neikvæð áhrif á fjárfestingu síðari hópsins og feli í sér óbeina mismunun, sem hindri bæði frjálst flæði fjármagns og stofnsetningarréttinn.  Ástæðan sé sú, að þessir aðilar hafi styttri tíma til að fá arð af fjárfestingu sinni en opinberir aðilar."

Þetta mál sýnir, að sitt er hvað lagatexti og dómaframkvæmd EFTA-ESB-dómstólsins.  Í þessu tilviki víkur norsk löggjöf, sem átti að tryggja, að vatnsréttindi og virkjanir féllu til ríkisins að tilgreindum tíma liðnum, 50-80 ár, fyrir fjórfrelsi Innri markaðarins um frjálst flæði fjármagns og áskilda jafnstöðu fjárfesta innan EES. Allar hérlendar tilraunir til að hamla kaupum útlendinga á vatnsréttindum, virkjunum og fyrirtækjum til sölu í raforkugeiranum, yrðu væntanlega kærðar fyrir ESA og EFTA-dómstólnum, og öll innlend löggjöf í þeim efnum viki fyrir Evrópurétti um frjálst flæði fjármagns innan EES, sbr Heimfallsdóminn.

Í álitsgerð FÁFH & SMS er komizt að þeirri niðurstöðu, að það samræmist ekki Stjórnarskrá Íslands, að innleiða 8. gr. reglugerðar 713/2009, "þar sem ACER er veitt heimild til að taka lagalega bindandi ákvarðanir varðandi grunnvirki yfir landamæri, en sem fyrr segir er ráðgert, að ESA muni fara með þær valdheimildir gagnvart EES/EFTA-ríkjunum." [gr. 3.1]  

Nú hefur utanríkisráðherra lagt til leið til að sigla framhjá þessari niðurstöðu lögfræðinganna með því að taka allan Orkupakka #3 upp í íslenzkan landsrétt og setja síðan í lög undanþáguákvæði, sem reist er á núverandi stöðu samtengingar raforkukerfisins við útlönd, sem er sú, að samtenging er ekki fyrir hendi.  Lögin eiga að afnema reglugerð 713/2009 úr íslenzkum rétti, þangað til Alþingi heimili lagningu aflsæstrengs til landsins og búið verði að leysa úr Stjórnarskrárvandanum.  Utanríkisráðherra heldur því fram, að þetta sé tillaga téðra lögfræðinga.  Það er alrangt og reyndar gróf aðför að faglegum heiðri mætra manna, sem skilað hafa af sér góðu verki ("Álitsgerð").  Til að sýna fram á þessa fullyrðingu, er í raun nóg að vitna í gr. 4.1 í álitsgerðinni:

"Það breytir því þó ekki, að þriðji orkupakkinn verður ekki tekinn upp í íslenzkan landsrétt nú, nema hann standist stjórnarskrána.  Verður ákvörðun Alþingis um, hvort aflétta eigi stjórnskipulegum fyrirvara Íslands við þriðja orkupakkann og innleiða hann í íslenzkan landsrétt að miðast við þá forsendu, að grunnvirkjum yfir landamæri verði komið á fót hér á landi, en við þær aðstæður myndi reyna á umrætt valdframsal til ESA, einkum samkvæmt reglugerð 713/2009."

Utanríkisráðherra fer öfugt að; hann leggur til, að stjórnarskrárvandanum verði sópað undir teppið.  Síðan stingur hann hausnum í sandinn og hundsar algerlega hinn gríðarlega "galla" við þessa lögfræðilegu moðsuðu utanríkisráðherrans, sem fram kemur í álitsgerðinni, gr. 6.4, að aflétti Alþingi stjórnskipulegum fyrirvara af Þriðja orkupakkanum, "þá bakar Ísland sér þjóðréttarlega skuldbindingu til að innleiða reglugerð nr 713/2009 í landsrétt".

Hvað þýðir þetta ?  Það þýðir einfaldlega, að komi vink frá ESA um þennan fordæmalausa málatilbúnað í EES-samstarfinu, þá falla hin lögfræðilegu Pótemkíntjöld og við blasir landsréttur með Þriðja orkupakkann í heild sinni innanborðs og Stjórnarskráin, sem liggur óbætt hjá garði.  Þeir Alþingismenn, sem ekki sjá hættuna, sem í þessu felst, eiga uppgjör skilið í aðdraganda næstu þingkosninga og uppsögn, verði þeir áfram í framboði.

 

 

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband