Þrautalending pakkasinna

Stríður straumur umfangsmikillar löggjafar frá Evrópusambandinu-ESB hefur legið til Íslands, Noregs og Liechtensteins um farveg EES-samningsins um Evrópska efnahagssvæðið frá samþykkt ESB-landanna á stjórnarskrárígildi ESB 2007 um æ nánara samstarf ESB-landanna. Undantekningarlaust þýðir þetta aukna miðstýringu Framkvæmdastjórnarinnar í hverjum málaflokkinum á fætur öðrum. 

Yfirleitt er hún innleidd með því að setja á laggirnar stofnun á viðkomandi sviði, sem heyrir beint undir framkvæmdastjórnina, t.d. Bankaeftirlitið, sem er hluti af áformuðu sameiginlegu bankakerfi ESB með einum innlánatryggingasjóði (eitur í beinum Þjóðverja), Persónuverndarráð, sem Persónuvernd á Íslandi heyrir undir, og ACER, sem er samráðsvettvangur landsreglara hvers aðildarríkis á sviði orkumála.  

Stefnumótendur ESB telja orkumálin réttilega útheimta miðlæga stefnumörkun til langs tíma, því að orkuskortur ógnar meginlandinu vestan Rússlands í bráð og lengd og reyndar Bretlandi einnig vegna dvínandi olíu- og gaslinda neðansjávar í lögsögu Bretlands.  Noregur er undantekning frá þessari reglu, enda hefur forysta ESB lagt ríka áherzlu á að ná Noregi inn fyrir sín vébönd (ACER).  

Af Kerfisþróunaráætlun ESB að dæma virðist gæta vaxandi áhuga á Íslandi á orkusviðinu í Berlaymont, þótt Íslendingar ráði enn engum þekktum jarðefnaeldsneytislindum. Baráttan um ACER-aðild (Þriðja orkupakkann) er einnig vísbending um þetta, því að sendiherra ESB á Íslandi hefur blandað sér í þrætuna hérlendis. ESB er þess vegna ekki sama, hvernig fer.  Það þýðir hins vegar ekki, að ESB eigi að ráða þessum málalyktum.  

Rökleysur, orðhengilsháttur og formsatriði án innihalds hafa einkennt málflutning sóknaraðila gegn fullveldi landsins á orkusviði, og þrautalending þeirra hefur verið að grípa til goðsagnarinnar um mikilvægi EES-samningsins fyrir hagsmuni landsins, og rekinn hefur verið hræðsluáróður um, að hann verði í uppnámi, ef Alþingi hafnar Orkupakka #3, þótt slíkt sé af og frá samkvæmt köldu mati út frá hagsmunum ESB í bráð og lengd.  

Það er þess vegna rétt að líta á fáein mikilvæg atriði í sambandi við þennan EES-samning. Í ár eru 25 ár liðin frá því, að Norðmenn höfnuðu inngöngusamningi við ESB öðru sinni í þjóðaratkvæðagreiðslu. Skömmu áður, eða 1992, var EES-samningurinn gerður, og hann var hugsaður sem aðlögunartæki að ESB fyrir eftirlegukindurnar í EFTA, sem þá voru, auk Norðmanna, Íslendinga, Svisslendinga og Liechtensteina, Svíar og Austurríkismenn. Því er vísað á bug af áköfum talsmönnum EES-samningsins að endurskoða þennan samning, og þeir halda því fram, að ekkert jafngott geti komið í staðinn.  Þetta er tómur tilbúningur.

Noregur borgar til uppihalds EES-samningsins og í sjóði ESB árlega u.þ.b. mrdNOK 10,9 (sjá viðhengi með þessum pistli), jafngildi um mrðISK 160.  Íslendingar borga miklu minna beint þarna inn, en rekstrarkostnaður samningsins fyrir Ísland hefur verið áætlaður 22 mrðISK/ár.  Tilfinnanlegastur er þó óbeini kostnaðurinn, sem stafar af risavöxnu reglugerðafargani (a.m.k. 12000 gerðir og tilskipanir ESB hafa verið færðar inn í viðhengi EES-samningsins), sem er svo íþyngjandi fyrir íslenzk fyrirtæki og stofnanir, að taldar eru draga úr árlegri framleiðniaukningu um 0,5-1,0 % (Viðskiptaráð Íslands).  Þarna safnast upp gríðarlegar upphæðir, svo að þessi óbeini kostnaður er grafalvarlegur og sýnir, að viðskiptasamningur af þessu tagi er allt of dýru verði keyptur m.v. ávinninginn, eða 150-200 mrðISK/ár nú   

Árið 2012 kom út í Noregi skýrslan "Alternativer til dagens EÖS avtale" sem framlag til umræðu um framtíðarstefnumörkun varðandi samskiptin við ESB.  Skýrslan leiðir í ljós, að fyrir hendi eru nokkrir valkostir við núverandi EES-samning, sem síðan skýrslan var samin er orðinn miklu víðtækari fyrir EFTA-löndin þrjú.  EES-samningurinn er orðinn of víðtækur og allt of íþyngjandi (sjá EES-leiðarvísi á norsku í viðhengi), svo að nauðsyn ber nú til að velja valkost, sem er þjóðréttarlegs eðlis, þ.e. felur ekki í sér framsal fullveldis ríkisins til yfirþjóðlegra stofnana, þar sem Ísland er ekki aðili.

Einn valkostur eru samningaviðræður við ESB, hugsanlega á vegum EFTA, eftir stefnubreytingu í Noregi, um minni EES-samning til að endurheimta lýðræðislega, innlenda ákvarðanatöku á mikilvægum sviðum. 

Samkvæmt norskum prófessor í lögum við háskólann í Tromsö (UIT), Peter Th Örebech, er Noregur nú aðili að fjölda alþjóðlegra samninga við Alþjóða viðskiptastofnunina WHO, áður GATT, ásamt EFTA-samninginum.  Hið sama er að segja um Ísland, Sviss og líklega Liechtenstein. Ísland og Noregur hafa líka gert tvíhliða viðskiptasamninga við önnur ríki og hafa haft svigrúm til þess, af því að þau eru ekki í tollabandalagi við ESB.  Þessir samningar eru virkir, og engar ráðstafanir eru nauðsynlegar, sem að þeim lúta, þótt EES-samninginum verði sagt upp.

Ísland og Noregur gerðu tvíhliða viðskiptasamninga við þáverandi Efnahagsbandalag Evrópu  (EBE) árið 1973, sem tryggði tollfrían aðgang  að EBE-markaðinum fyrir allan iðnvarning.  Þessi samningur er enn í gildi gagnvart ESB, og eftir honum er t.d. farið í viðskiptum með sjávarfang og landbúnaðarvörur.  Eftir honum mætti fara að öllu leyti, ef EES-samninginum yrði sagt upp. Nýjan tvíhliða samning við ESB eða EFTA-ESB fríverzlunarsamning þarf að einskorða við afmörkuð svið, og hann verður að vera algerlega þjóðréttarlegs eðlis.  

Varðandi samband Noregs við ESB er áhugavert að lesa skrif prófessor Örebechs um málið, því að þau geta að nokkru leyti átt við um Ísland einnig:

"Stefna ESB hefur verið að tryggja hráefnisflutninga til ESB.  Veiði ESB-fiskiskipaflotans hefur farið minnkandi.  Þetta hefur leitt til, að útflutningurinn til ESB hefur vaxið og ESB hefur vegna fiskiðnaðar síns afnumið tollinn á fiski um ótilgreindan tíma. Við getum þannig slegið föstu, að minnkandi geta ESB-landanna til að afla hráefna á borð við fisk, olíu og gas, fyrir iðnað sinn og neytendur, muni gera ESB háðari Noregi í framtíðinni án tillits til þess, hvað verður um EES-samninginn."

Við þessa vöruflokka, sem æ meiri þörf er á í ESB, má bæta áli og kísli. Samkvæmt prófessor Örebech er vel mögulegt að útbúa heildstæðan samningsramma um samninga Noregs við ESB-án þess að slíkt feli í sér náinn samruna við ESB.  Hið sama ætti þá að eiga við um Ísland.  Þá verður að fjarlægja sérkenni EES-samningsins, þ.e.a.s. ESA, EFTA-dómstólinn og ákvæðin um, að allt regluverk frá ESB, sem talið er, að eigi við um EFTA-löndin í EES, komi á færibandi til þeirra (meira en 12000 hingað til).

Því fer víðs fjarri, að EES-samningurinn sé upphaf og endir alls í samskiptum Íslands og ESB í viðskiptalegu tilliti.  Hræðsluáróðurinn um, að EES-samstarfið verði í uppnámi, ef Alþingi synjar Þriðja orkupakka ESB staðfestingar, er skot villuráfandi sálna út í myrkrið.  

Á illa saman

  

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Tvenns konar rök

Í megindráttum hafa komið fram tvenns konar rök gegn innleiðingu Orkupakka #3.  Í fyrsta stjórnlagaleg rök, sem snúa að of víðtæku og íþyngjandi framsali ríkisvalds fyrir þegnana, sem íslenzka Stjórnarskráin heimilar ekki, og í öðru lagi fæli innleiðing Evrópuréttar á sviði orkuflutninga á milli landa í sér undirtök Evrópusambandsins, ESB, á raforkumarkaðinum hér, og að því hafa verið leidd traust rök, að markaðskerfi ESB á Íslandi mundi hafa í för með sér viðsjárverða hækkun rafmagnsverðs án sæstrengstengingar og enn meiri hækkun með sæstrengstengingu, eins og dæmin sanna frá Noregi.

Iðnaðarráðherra heldur því blákalt fram, að Orkupakki #3 feli ekki í sér marktækt frávik frá stefnu íslenzkra stjórnvalda hingað til.  Þar á hún áreiðanlega við innleiðingu Orkupakka #1 og #2.  Þetta er þó mikill misskilningur og vanmat á ætlunarverki ESB hjá henni og ráðuneytisfólki hennar, því að frá Orkupakka #2 og til Orkupakka #3 varð eðlisbreyting á stefnu ESB í orkumálum.  Lissabon-samningurinn, stjórnarskrárígildi ESB, þar sem m.a. er kveðið á um tilfærslu valda yfir orkumálunum frá aðildarlöndunum og til stofnana ESB, gekk í gildi. Forskrift ESB um tilhögun orkumálanna varð ekki lengur valkvæð fyrir aðildarlöndin, heldur skylda að viðlögðum refsingum, eins og þegar hafa komið fram sem sektir ACER/ESB í milliríkjadeilum aðildarlandanna um millilandatengingar.  Tilgangurinn helgar meðalið hjá Framkvæmdastjórninni ("Der Erfolg berechtigt das Mittel"), þegar um er að ræða forgangsmál á borð við orkumálin hjá ESB. Vegna ógnvænlegrar stöðu orkumálanna í ESB verður einskis svifizt að hálfu Framkvæmdastjórnarinnar við að fá vilja sínum framgengt um að nýta alla tiltæka endurnýjanlega orku í Evrópu vestan Rússlands fyrir vöruframleiðslu sambandsins.  Evrópuréttinum verður beitt til hins ýtrasta með ESB- og EFTA-dómstólinum sem úrskurðaraðila og spilað verður á hagsmunaöfl innan hvers ríkis.  Öllu, nema vopnaðri innrás, verður beitt.

Með Orkupakka #3 var hert á "samrunaferlinu".  Í Orkupakka #2 er hverju ríki eftirlátið að ákveða sjálft með hvaða hætti það aðlagast innri orkumarkaðinum.  Í tilviki Íslands þýddi þetta, að svigrúm til að þróa auðlindastýringu að þörfum hins sérstæða íslenzka raforkukerfis var fyrir hendi.  Með Orkupakka #3 er miðstýringarvald Framkvæmdastjórnarinnar aukið verulega með stofnun ACER og handlangara hennar í hverju landi, Landsreglaranum, sem þýðir m.a., að engin grið eru gefin við að samræma orkumarkaði aðildarlandanna.  Á frjálsum raforkumarkaði í anda ESB telst það vera brot á samkeppnisreglum að viðhafa miðstýrða auðlindastýringu, sem felur í sér að nýta tiltækt miðlunarvatn sem bezt fyrir orkukerfið allt árið um kring og að nýta virkjuð jarðgufusvæði með sjálfbærum hætti.  Þess vegna hentar frjáls raforkumarkaður í anda ACER (Orkustofnunar ESB) illa hérlendis og getur leitt til hækkaðs raforkuverðs vegna orkuskorts og fákeppni.  Samþykkt Orkupakka #3 jafngildir tilræði við hagsmuni almennings á Íslandi í bráð og lengd. 

Ein róttækasta nýjungin með Orkupakka #3 er embætti Landsreglara, sem verður framlengdur reglusetningararmur ESB á Íslandi, hvað sem líður milliliðnum EES (Eftirlitsstofnun EFTA).  Landsreglarinn verður í raun með ráðherravald, og til hans færast völd iðnaðarráðuneytisins yfir orkumálum á Íslandi.  Hann verður í orðsins fyllstu merkingu Trójuhestur í íslenzkri stjórnsýslu.  Meginhlutverk Landsreglarans er að vera farvegur fyrir bein áhrif Framkvæmdastjórnarinnar á alla þætti, er varða viðskipti með rafmagn á innri markaðinum. Slíkt framsal ríkisvalds er í blóra við Stjórnarskrána.

Þótt íslenzki markaðurinn sé ótengdur öðrum raforkumörkuðum með aflsæstreng, verður hann samt að lúta sömu lögmálum og markaðir meginlandsins eftir innleiðingu Orkubálks #3, þannig að hann sé að fullu aðlagaður Innri markaðinum, ef/þegar til kemur, og notendur venjist miklum orkuverðssveiflum.  Bæði miðlun vatns um virkjanir úr miðlunarlónum og gufuflæði úr forðageymum jarðgufuvirkjana eru algerlega háð ákvörðunum um raforkuvinnslu, sem teknar eru á ESB-markaðinum.  Er þá lengur hægt að halda því fram, að nýting orkulinda Íslands verði í höndum íslenzkra stjórnvalda ?  Landsreglarinn hefur daglegt eftirlit með virkni markaðarins og hefur þannig hönd í bagga með auðlindanýtingunni. Markaðshlutdeild Landsvirkjunar verður án efa þyrnir í augum Landsreglarans, enda í blóra við samkeppnisreglur Evrópuréttarins, að eitt fyrirtæki hafi svo ríkjandi stöðu á markaðinum, sem hæglega getur leitt til misnotkunar hans. Verði gengið til bols og höfuðs á fyrirtækinu, opnast auðvitað möguleiki fyrir orkufyrirtæki eða aðra fjárfesta í EES að eignast hér virkjanir.  Orkulind og virkjun verður ekki sundur skilin á Íslandi.  Ætla þingmenn að bjóða hættunni heim ?  

Um muninn á orkustefnu ESB fyrir Orkupakka #3 frá 2009 og eftir hann skrifaði Elías B. Elíasson á minnisverðan hátt í lokaorðum í Morgunblaðsgrein sinni,

"Að misskilja "rétt"",

þann 25. janúar 2019:

"Þegar orkulögin voru samþykkt árið 2003, blasti við allt annar veruleiki en nú á innri orkumarkaði ESB. Þriðji orkupakkinn mun veita ESB raunyfirráð yfir íslenzkum auðlindum, sem gera eignarrétt okkar að sýndarrétti, þegar fram líða stundir.  

Við sjáum sívaxandi miðstýringaráráttu ESB í orkumálum, en sjáum enga enda á þeirri þróun.  Sú stefna ESB, sem kemur fram í þriðja orkupakkanum, er sjálfræði okkar hættuleg, og því verður að fella pakkann."

Það er engum blöðum um það að fletta af þessum lýsingum, að fullveldisframsalið til Framkvæmdastjórnar/ACER og Landsreglarans verður verulegt á lykilsviði íslenzks efnahagslífs og má líkja við það að afhenda Framkvæmdastjórninni réttinn til fiskveiðistjórnunar í íslenzku landhelginni ásamt yfirstjórn Landhelgisgæzlunnar.  Landsreglarinn mun í raun ráða gjaldskrám dreifiveitnanna og Landsnets, og hann getur krafizt upplýsinga frá öllum orkufyrirtækjunum að viðlögðum sektum, ef þau bregðast ekki rétt við í tæka tíð.  Valdframsalið er þess vegna verulega íþyngjandi fyrir fyrirtæki og íbúa landsins. Slíkt framsal ríkisvalds er með öllu óheimilt samkvæmt Stjórnarskrá Íslands. Vissara er að taka mark á varúðarráðstöfunum, sem í henni eru fólgnar, en láta ekki skeika að sköpuðu. 

Þar að auki flyzt dómsvaldið úr landi með innleiðingu Evrópuréttar á sviði millilandatenginga fyrir rafmagn.  Heyrzt hefur um áhuga á Bretlandi fyrir "Icelink", sem er verkefnisheiti aflsæstrengs á milli Íslands og Bretlands, og er þetta verkefni í Kerfisþróunaráætlun ESB.  Sem kunnugt er, er Bretland á leið út úr ESB, og það er ekki vitað enn, hvernig aðild þeirra að ACER-Orkustofnun ESB mun reiða af.  Það gæti farið svo, að ESB felli þessa sæstrengstengingu út úr Kerfisþróunaráætlun sinni eða flytji syðri lendingarstað strengsins annað, t.d. til Írlands.  Ef ESB fellur alfarið frá stuðningi við þetta verkefni, minnka líkur á, að fjárfestar fáist til verksins.  Það er þó alls ekki útilokað, því að líkurnar á umtalsverðum orkuverðhækkunum í Evrópu vestan Rússlands eru enn fyrir hendi, og við u.þ.b. 50 % hækkun gætu strengur og orkusala frá Íslandi staðið undir fjárfestingunum, þótt orkusalan verði víðs fjarri því að verða þjóðhagslega hagkvæm hérlendis. Enginn aðili á Bretlandi hefur tjáð sig fúsan til að ábyrgjast fast verð, sem verkefnið þarfnast, og þess vegna er mikil óvissa um þetta verkefni ríkjandi. 

Fari hins vegar svo, að umsókn um lagningu og tengingu sæstrengs, sem lýtur reglum Evrópuréttarins, berist íslenzkum yfirvöldum, og þau hafni umsókninni á forsendum, sem Landsreglarinn/ACER telur stangast á við reglur Evrópuréttarins, þá er komin upp réttaróvissa, sem verður varla vísað til íslenzkra dómstóla, heldur til ESA, og deiluaðilar geta þá aðeins afrýjað úrskurði ESA til EFTA-dómstólsins.  

Þannig mun innleiðing Orkupakka #3 ásamt seinni gerðum og tilskipunum, sem eru eðlilegt framhald lagasetningar ESB frá 2009, t.d. gerðar 347/2013, leiða til framsals dómsvalds á málefnasviði, sem hefur grundvallar þýðingu fyrir þróun íslenzks efnahagslífs og þar með fyrir hag fólksins í landinu.  Það er óásættanlegt, að íslenzkur réttur verði tekinn úr sambandi varðandi deilumál, þar sem svo mikið er í húfi, enda stríðir það að margra mati gegn Stjórnarskránni.

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband