Færsluflokkur: Bloggar
13.1.2023 | 10:53
Sjúk fjölmiðlun
Íslenzkur fjölmiðlamarkaður er afar óeðlilegur, og þar er steinrunnu ríkisvaldi um að kenna. Það er alltaf ólíðandi, þegar ríkisvaldið er í bullandi samkeppni við einkaframtakið á markaði, sem í eðli sínu er samkeppnismarkaður, og engin brýn þörf lengur fyrir beina eða óbeina (opinbert hlutafélag) veru ríkisvaldsins þar. Það er réttlætismál og í anda EES-samningsins að jafna samkeppnisstöðuna með því að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði og að gera allar auglýsingar jafnar fyrir skattalögunum óháð gerð miðils og eiganda hans.
Jafnframt yrðu umsvif ríkisfjölmiðilsins minnkuð til muna. Það ættu að vera hámarksumsvif ríkisins að reka eina sjónvarpsrás, eina útvarpsrás og einn vefmiðil. Fréttastofa "RÚV" er kapítuli út af fyrir sig. Þar ríkir svo hrottaleg vinstri slagsíða, að segja má, að lítilsvirðandi framkoma og mismunun gagnvart þeim, sem fréttamenn virðast telja til pólitískra andstæðinga sinna, skeri í augun (og eyrun). Síðan skal vart bregðast, að farið er silkihönzkum um sósíalistana, afglöp þeirra og spillingu, t.d. í borgarstjórn.
Fréttastofa "RÚV" rekur fyrirbæri, sem hún kallar rannsóknarblaðamennsku undir heitinu Kveikur, en á mjög lítið skylt við vönduð vinnubrögð, sem einkennast af umfangsmikilli og gagnrýninni heimildarvinnu. Undir þessu falska flaggi hafa fúskarar "RÚV" hvað eftir annað reynt að koma höggi á atvinnurekstur í landinu og reynt að sá ómældri tortryggni í hans garð. Málflutningurinn einkennist síðan af drýldni og innantómri sjálfsupphafningu. Alræmdasta atlagan hingað til er að Samherja, og hún hefur algerlega runnið út í sandinn. Það ætti að jafngilda dauðadómi yfir þessu þáttarskrípi, Kveik, en áfram skröltir hann þó á kostnað skattborgara.
Í Staksteinum Morgunblaðsins var fjallað um Namibíumálið 19. desember 2022 með tilvísunum í Pál Vilhjálmsson:
"Páll Vilhjálmsson skrifar um Namibíumálið, sem oft hefur verið kallað Samherjamálið og olli um tíma töluverðu uppnámi."Enginn Samherjamaður er ákærður í Namibíu, og ekkert fyrirtæki útgerðarinnar er ákært fyrir mútur. Helgi Seljan, verðlaunablaðamaður, hóf skáldskap um Samherja á RÚV og flutti iðjuna yfir á Stundina, þegar honum varð óvært á ríkisfjölmiðlinum", skrifar hann."
Þetta vitnar um djúpstæða glópsku og samvizkuleysi Helga Seljan. Allur málatilbúnaður hans var reistur á sandi og á þess vegna ekkert skylt við rannsóknarblaðamennsku. Hann virðist hafa misskilið málið frá upphafi, gefið sér forsendur um glæpsamlegt eðli viðskiptanna, sem til umfjöllunar voru, og vaðið sífellt lengra út í ófæruna til að sanna það, sem ekki var flugufótur fyrir. Þessi vinnubrögð voru viðhöfð, á meðan téður Seljan var starfsmaður RÚV. Ljótur er ferill fréttastofu þar á bæ.
"Páll segir engan ákærðan fyrir mútur í Namibíumálinu, heldur umboðssvik, svindl, peningaþvætti og þjófnað. Hann segir, að í þessu máli sé "Samherju brotaþoli. Starfsmaður Samherja var blekktur til að borga peninga, sem áttu að fara í atvinnuuppbyggingu, fiskeldi. Peningunum var síðan stolið. Þetta stendur skýrum stöfum í ákæruskjalinu á bls. 58-59."
Hann bætir því við, að starfsmaður Samherja hafi verið "í góðri trú, þegar hann greiddi forstjóra opinberrar namibískrar stofnunar fyrir kvóta". Hann hafi ekki getað vitað, að peningunum yrði síðan stolið."
Samkvæmt þessari rannsókn namibískra lögregluyfirvalda er Samherji ekki sökudólgurinn, eins og "rannsóknarblaðamennska" Helga Seljans, starfsmanns RÚV, leiddi getum að til að þjóna lund sinni og ólund í garð þessa fyrirtækis. Krossfarinn, sem þótzt hefur fletta ofan af spillingu íslenzkra fyrirtækja, stendur nú uppi í hlutverki riddarans sjónumhrygga, sem bjó til forynjur úr vindmyllum og barðist við þær við lítinn orðstír.
"Og Páll spyr, hvað Helga Seljan gangi til "með að ljúga upp ákæru í Namibíu um mútugjafir Samherja ? Jú, orðstír og æra blaðamannsins er í veði. Þegar rennur upp fyrir fólki, að allur málatilbúnaður Helga og félaga á RSK-miðlum er uppspuni og gróusögur, er fokið í flest skjól fyrir fréttagörpunum, sem umliðin ár hafa stundað skipulega fréttafölsun og veitt sjálfum sér verðlaun fyrir.""
Þetta er hrottaleg lýsing á ólöglegu og siðlausu atferli fréttamanna, sem sáu fjandann í hverju horni, þegar þeir litu til a.m.k. sumra íslenzkra fyrirtækja, sem vegnað hefur vel í harðri samkeppni um markaði, fjármagn og starfsfólk. Að slíkt skuli gerast undir handarjaðri ríkisútvarpsins segir sína sögu um stjórnunina þar á bæ og brýna þörf á að snarminnka umsvif þessa opinbera hlutafélags, sem er þungt á fóðrum á ríkisjötunni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.1.2023 | 11:14
Forgangsröðun Björns Lomborg
Björn Lomborg, forseti Kaupmannahafnarhugveitunnar og gistifræðimaður við Hoover stofnun Stanford-háskóla, hefur verið iðinn við að skrifa um meinlokurnar í stefnu stjórnvalda í löndum heimsins gagnvart því, sem þau nefna hlýnun heimsins. Á þessu hafa flestir skoðanir, en fáir djúpstætt vit á viðfangsefninu. Þess vegna er margt skrafað og skeggrætt án þess, að nokkur lausn sé í sjónmáli, enda tröllríður hræsnin húsum.
Er sú umræða að miklu leyti reist á sandi vegna þekkingarleysis og er þess vegna út og suður, blaður og fögur fyrirheit á fjölmennum ráðstefnum. Þegar heim af þessum rándýru og koltvíildismyndandi ráðstefnum er komið, er lítið sem ekkert gert í málunum. Skyldu íbúar Norður-Ameríku, sem upplifðu fimbulkulda á eigin skinni í desember 2022, taka mikið mark á blaðri um heimsendaspádóma vegna hlýnunar andrúmsloftsins ?
Enginn dregur í efa, að vaxandi styrk koltvíildis í andrúmslofti fylgir hlýnun, en það er ofureinföldun á flóknu fyrirbæri að halda því fram, að þetta eitt muni stjórna loftslagsbreytingum næstu áratuga. Nefna má áhrif brennisteins frá eldfjöllum og mönnum, sem hefur kælandi áhrif, og að hækkað hitastig andrúmslofts leiðir til aukinnar varmageislunar út í geiminn samkvæmt lögmáli Max Plank um samband hitastigs efnis og geislunarafls frá því. Líkön IPCC gefa miklu hærri útkomu á hitastigi en síðan hefur reynzt vera raunin samkvæmt nákvæmustu fáanlegu mælingum, sem t.d. dr John Christy, "director of the University of Alabama/Huntsville´s Earth System Science Center, ESSC", hefur birt og lagt út af.
Þann 20. desember 2022 birtist í Morgunblaðinu grein eftir téðan Björn og Jordan B. Peterson, prófessor emeritus við Toronto-háskóla, þar sem þeir leitast við að útskýra algert árangursleysi í loftslagsmálum m.t.t. til háleitra markmiða á heimsráðstefnum. Greinin bar bjartsýnislega fyrirsögn:
"Vegurinn áfram: Ný framtíðarsýn".
Þar gat að líta m.a.:
"Árið 2015 gerðu leiðtogar heimsins tilraun til að takast á við höfuðvandamál mannkynsins [svo ?] með því að setja sér markmiðin um sjálfbæra þróun - 169 skotmörk, sem hæfð skyldu verða, þegar árið 2030 rynni upp. Sá listi innihélt öll hugsanleg aðdáunarverð markmið: útrýmingu fátæktar og sjúkdóma, stöðvun styrjalda og loftslagsbreytinga, verndun líffræðilegrar fjölbreytni og bætta menntun."
Á ráðstefnum IPCC mæta tugþúsundir, og margir þeirra eru nestaðir að heiman með áhugamál, sem þeim finnst sér skylt að berjast fyrir, að fari inn á málefnaskrá ráðstefnunnar í lokin. Örfáir eða engir ráðstefnugesta hafa hugmynd um, hvernig er skynsamlegast að koma málefnum sínum og markmiðum í höfn, þegar ráðstefnunni hefur verið slitið, og margir ráðstefnugesta hafa hætt sér út á hálan ís og vita lítið, hvað þeir eru að tala um. Í öllu þessu felst skýringin á hinum vonlausa fjölda markmiða, sem samþykkt eru í lok ráðstefnunnar í kjölfar hrossakaupa og rifrildis um aukaatriði.
Það verður hins vegar að hafa kvarnir í stað heila til að átta sig ekki á, að niðurstaðan af miklum fjölda markmiða er sú sama og af engu markmiði. Af þessum sökum verður að álykta, að hugur fylgi ekki máli, ráðstefnan sé skrípaleikur, svífandi í tómarúmi, enda er eftirfylgnin ómarkviss.
Ráðstefnur IPCC breyta sáralitlu, en fjöldi manns er kominn á loftslagsspenann, og dómsdagsspámenn hræða stjórnmálamenn og almenning til að inna af hendi fjárframlög til að halda hringekjunni áfram.
"Árið 2023 er vegferðin hálfnuð, ef miðað er við tímabilið 2016-2030. Hins vegar erum við langan veg frá því að vera hálfnuð með markmiðin. M.v. stöðu mála munu þau nást hálfri öld síðar en ætlað var."
Hvað hið kjánalega loftslagsmarkmið frá 2015 varðar um helzt að halda hlýnun jarðar frá iðnvæðingu undir 1,5°C, en annars endilega undir 2°C, benda birtar hitamælingar IPCC til, að neðra markið náist ekki og jafnvel efra markið ekki heldur, en mælingar Johns Christy benda ekki til, að neðra markinu verði náð á næstu áratugum.
Það er mjög erfitt fyrir jarðarbúa að tengja aðgerðir sínar við hitastigshækkun, sérstaklega fyrir þá, sem upplifa harðnandi vetrarkulda (Norður-Ameríka -48°C í desember 2022 og mannskaðaveður í kuldum í Japan líka).
Þer líka erfitt fyrir íbúa hérlendis, að fá heila brú í talnaleik forsætisráðherra, nú síðast, að Íslendingar þurfi að draga úr losun koltvíildis um 55 % m.v. 2005. Losun Íslendinga er svo hlutfallslega lítil á heimsvísu, að engu máli skiptir fyrir hlýnun jarðar. Þá er losun vegna orkunotkunar á mann ein sú minnsta, sem þekkist. Losun iðnaðarins á hvert framleitt tonn er sömuleiðis ein sú minnsta, sem þekkist. Að rembast eins og rjúpan við staurinn með ærnum tilkostnaði við að bæta einn bezta árangurinn er einber hégómi og stafar af hégómagirnd stjórnmálamanna.
"Því er það löngu tímabært, að við skilgreinum og forgangsröðum þeim markmiðum, sem mestu skipta. Það er einmitt það, sem Kaupmannahafnarhugveitan (e. Copenhagen Consensus) hefur gert í samstarfi við nokkra Nóbelsverðlaunahafa og rúmlega 100 hagfræðinga í fremstu röð. Hún hefur skilgreint á hvaða vettvangi hver króna getur gagnazt hve mest.
Við gætum, svo [að] dæmi sé tekið, flýtt því mjög að binda enda á hungur. Þrátt fyrir að þar hafi aðdáunarverður árangur náðst síðustu áratugi, [fá] 800 milljónir manna enn þá ekki nóg að borða. Á þeim vettvangi getur rannsóknarvinna hagfræðinga [og líffræðinga - innsk. BJo] lyft grettistaki."
Gríðarlegum upphæðum hefur verið varið og er verið að verja í fáfengilega hluti eins og vindmyllur, þróun þeirra, smíði, uppsetningu og rekstur - allt saman í nafni loftslagsvandans, þótt þetta sé rándýrt, mengandi og landskemmandi fyrirbrigði. Tólfunum er kastað, þegar myndir berast af úðun ísaðra vindmylluspaða með miður hollum ísvara. Gjörninginn ætti alls ekki að leyfa hérlendis í mengunarvarnarskyni.
Til að kóróna vitleysuna eru víðast reist gaskynt raforkuver með vegna óáreiðanleika raforkuvinnslu með vindorku. Þetta er mjög óskilvirk ráðstöfun fjármuna og sorgleg í ljósi þess, að nýþróuð kjarnorkuver eru handan við hornið til að leysa orkuþörf heimsbyggðarinnar.
"Okkur er í lófa lagið að færa verðandi mæðrum lífsnauðsynlega næringu. Sá dagskammtur vítamíns og annarrar nauðsynlegrar fæðu kostar rúma USD 2 (ISK 283) á hverja manneskju. Með slíkri aðstoð þroskast heili fóstursins örar, sem síðar á ævinni skilar sér í meiri velmegun. Hver USD, sem varið er í það, svarar þannig til andvirðis USD 38 (ISK 5371) af félagslegum gæðum. Hvers vegna gerum við þetta ekki ? Vegna þess að í viðleitni okkar til að gera öllum til hæfis verjum við litlu fé í hvern þátt og yfirsjást um leið nytsamlegustu lausnirnar."
Barátta ríkja heimsins gegn meintri loftslagshlýnun er í fæstum tilvikum rekin á skynsemisgrundvelli. Ef svo væri hérlendis, mundu stjórnvöld hér lýsa því yfir, að þau telji of mikla umhverfisbyrði felast í uppsetningu vindmylluþyrpinga m.v. við samfélagslega ávinninginn, sem er neikvæður núna, af því að vindmylluþyrpingar munu leiða til hækkunar rafmagnsverðs hér.
Þá verði hætt við að moka ofan í skurði á kostnað hins opinbera, enda hafa verið færðar ófullnægjandi vísindalegar sönnur á einhlítan árangur slíkrar aðgerðar fyrir losun gróðurhúsalofttegunda. Hins vegar virðast landgræðsla og skógrækt ótvírætt vera til bóta og vera hagkvæmar.
Það er ennfremur skynsamlegt út frá loftslags- hagkvæmnisjónarmiðum að setja kraft í virkjanir hefðbundinna íslenzkra orkulinda jarðgufu og vatnsfalla. Það er óskiljanlegt, að umhyggjan fyrir andrúmsloftinu og óttinn við hlýnun af völdum CO2 lendir miklu aftar í forgangsröðuninni hjá ýmsum en hégómleg fordild um, að þessar hreinu og endurnýjanlegu orkulindir náttúrunnar skuli ekki snerta, því að slíkt útheimti röskun á náttúrunni, þó að náttúrukraftarnir séu sjálfir sífellt að breyta landinu.
Í lok greinarinnar skrifuðu þeir félagarnir Björn og Jordan þetta:
"Eitt er þó algerlega augljóst: við verðum að gera það bezta fyrst.
Þar er hið eina sanna áramótaheit komið, og það er hvort tveggja persónulegt og alþýðlegt. Með því er leiðin í átt til betra lífs vörðuð. Látum göngu okkar feta þann veg, þegar við veltum því fyrir okkur, hvernig við ætlum að heilsa nýju ári."
Þann 20. desember 2022 birtist afar fróðleg grein í Morgunblaðinu eftir Hauk Ágústsson, kennara. Hún bar fyrirsögnina:
"Hvað er vindmylla ?"
Til að gefa mynd af mengunarhættunni og auðlindanotkun vindmylluframleiðenda stóð þetta:
"Öxull, sem gengur út úr enda skýlisins, tengist gírkassa, sem stýrir snúningshraða rafalans. Bremsubúnaður jafnar hraðann, auk þess sem spöðunum er stýrt í sama skyni. Í þessum búnaði eru nokkur hundruð lítrar af sértækri smurolíu, sem fylgzt er með og skipt um u.þ.b. þriðja hvert ár. Mörg dæmi eru um það, að olían leki.
Rafalinn er búinn síseglum (permanent magnets). Í þeim eru fágæt jarðefni, skaðleg umhverfinu í framleiðslu og endurvinnslu eða eyðingu. Þau eru að mestu unnin í Kína (um 90 %), sem er líka ráðandi í námi þeirra úr jörðu [t.d. í Afríku - innsk. BJo]. Í rafalanum og öðrum rafbúnaði er kopar (um 1500 kg) og ál (um 840 kg) - auk stáls. [Magntölur eiga við 2 MW rafal - innsk. BJo.] Í búnaðinum í tækjaskýlinu eru líka, samkvæmt Freeing Energy, um 20,5 t af steypujárni, rúmt 1 t af stáli og um 51 t af krómi.
Rafbúnaður fellir rafmagnið, sem framleitt er, að raforkukerfinu, sem myllan tengist. Búnaðurinn er í lokuðu rými og honum þjappað saman sem framast er unnt, sem veldur mikilli hættu á skammhlaupum. Í rýminu er gjarnan [einangrunar] gas, sem kallast SF6 (Sulphur hexafluoride). Það hefur afar litla rafleiðni, en er samkvæmt Norwegian SciTech News (2020) 22.000-23.500 sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en CO2 og hefur 3.200 ára líftíma [í andrúmsloftinu - innsk. BJo]. Þetta gas hefur sloppið út í verulegum mæli, t.d. í Þýzkalandi, og er orðið vel mælanlegt þar."
Þessi upptalning ætti að sannfæra flesta um, að vindmyllur eru slæm fjárfesting til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda eða til að draga úr mengun á jörðunni. Þá gefur nú auga leið, að þessi fjárfesting á alls ekkert erindi í íslenzka náttúru, því að hrun einnar vindmyllu, t.d. í óveðri, getur valdið alvarlegu mengunarslysi og óafturkræfri mikilli losun gróðurhúsalofttegunda. Hún er af allt annarri og miklu hærri stærðargráðu en t.d. losun sama magns af CH4 - metani, því að það er "aðeins" um 22 sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en CO2 og brotnar niður í andrúmsloftinu á um 50 árum.
Hryllingssaga Hauks Ágústssonar um mengunarhættuna af vindmyllum heldur áfram:
"Til þess að ná [hámarks] styrk m.v. þyngd eru spaðarnir gerðir úr trefjaplasti; gler- eða kolþráðum, sem þaktir eru með epoxíresíni. Á 2 MW Vestas-myllu vega þeir um 7 t hver. Epoxíresín eru mikið unnið úr olíutengdum efnum með efnafræðilegum aðferðum. Á 2 MW myllu er snúningsþvermál spaðanna um eða yfir 100 m, og hraðinn á spaðaenda getur náð vel yfir 200 km/klst. Til að minnka mótstöðu eru spaðarnir húðaðir að utan. Húðin slitnar af og berst út í umhverfið sem öragnir. Spaðana er almennt ekki unnt að endurvinna. Þeir eru því oftast urðaðir, þegar þeir eru orðnir ónothæfir."
Hér er um að ræða efni, sem ekkert erindi eiga inn í íslenzka náttúru og lífkeðju, því að þau eru sennilega torniðurbrjótanleg (frávirk) og safnast þess vegna upp í lífkeðjunni. Hefur Umhverfisstofnun vit á að gera viðeigandi kröfur til þeirra efna, sem hver vindmylla getur dreift út í umhverfið í venjulegum rekstri og við slys ?
Það er engin þörf á að dreifa þessum mannvirkjum um óspillt víðerni landsins hagkerfisins vegna, og þess vegna er engin áhætta ásættanleg. Öðru máli gegnir um hefðbundnar íslenzkar virkjanir. Fyrir þær er þörf, enda eru þær miklu hagkvæmari, og mengunarhættan af þeim er hverfandi í samanburði við þau ósköp, sem hér hafa verið upp talin, og landþörf á MW sömuleiðis mun minni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.1.2023 | 13:48
Niðurlæging höfuðborgarinnar
Það er alveg sama, hvar borið er niður. Niðurlæging höfuðborgarinnar á þeim tíma, sem "good for nothing persons" undir forystu Samfylkingarinnar hafa verið þar við völd, er alger, og þessi sjálfhælna einskis nýta stjórnmálahreyfing, sem í krafti forsjárhyggju sósíalismans þykist vera í stakk búin að hafa vit fyrir öðrum, kann ekki fótum sínum forráð, þegar til kastanna kemur.
Ef mótdrægir atburðir verða, sem krefjast skjótra og fumlausra viðbragða stjórnendanna, er það segin saga, að allt fer í handaskolum. Samfylkingin er búin að ganga af stjórnkerfi borgarinnar dauðu. Nú eru hæfileikasnauðir stjórmálamenn sem stjórnendur yfirgripsmikilla málaflokka látnir stjórna málaflokkum, sem öflugir embættismenn með fullt vald á tæknihliðum sinna málaflokka, stjórnuðu áður af röggsemi undir beinni stjórn borgarstjóra. Það er borin von um breytingar til batnaðar í borginni, á meðan ráðstjórnarfyrirkomulag Samfylkingarinnar er þar við lýði.
Dæmi um þetta er embætti borgarverkfræðings, sem aflagt var, og við tók m.a. umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur. Þetta er í anda gömlu sovétanna eða ráðanna, sem kommúnistaflokkur Ráðstjórnarríkjanna raðaði sínu fólki í. Hvernig fór fyrir Ráðstjórnarríkjunum ? Þau hrundu 1991 vegna rotnunar innan frá.
Eftir mikla snjókomu, hvassviðri og kulda helgina 18.-19. desember 2022 kom í ljós alvarleg brotalöm í snjómokstri borgarinnar. Hún stóð sig miklu lakar en nágrannasveitarfélögin. Var þá m.a. kallaður til útskýringa formaður ofangreinds ráðs borgarinnar, sem virtist vera nýdottinn ofan úr tunglinu og ekki vita í þennan heim né annan. Varð þessari formannsdulu það helzt fyrir að leita blóraböggla utan borgarkerfisins, og urðu verktakar fyrir valinu og þvaðraði um handbók, sem væri í smíðum. Meiri verður firringin (fjarlægðin frá raunveruleikanum) ekki. Allt er þetta eins lágkúrulegt og hugsazt getur.
Lítið skánaði málið, þegar leitað var ráða hjá nýjustu mannvitsbrekkunni, sem inn í þetta sovétkerfi borgarinnar gekk eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar með slagorð á borð við breytum borginni, varð óðara formaður borgarráðs og á að taka við borgarstjóraembættinu af fallkandidatinum Degi B. Eggertssyni. Verkvit væntanlegs borgarstjóra lýsti sér mjög vel með þeirri uppástungu, að borgin skyldi kaupa nokkra pallbíla með tönn framan á. Hjá borginni leiðir blindur haltan, og firringin er allsráðandi.
Ekki verður hjá því komizt í kuldakastinu í desember 2022 að minnast á hlut Orkuveitu Reykjavíkur-OR og dótturfélaga í velferð íbúa höfuðborgarsvæðisins. Nýlega kom framkvæmdastjóri ON, dótturfélags OR, sem sér um orkuöflun og hefur algerlega látið hana sitja á hakanum undandarinn áratug, með spekingssvip í fréttatíma sjónvarps allra landsmanna og boðaði þar þá kenningu í tilefni vetrarkulda, að óskynsamlegt væri að afla heits vatns til að anna toppálagi hjá hitaveitunni. Þetta er nýstárleg kenning um hitaveituþjónustu fyrir almenning. Tímabil með -5°C til -10°C, eins og var á jólaföstunni á höfuðborgarsvæðinu, getur varað vikum saman. Ef ekkert borð er haft fyrir báru, eins og nú virðist vera uppi á teninginum hjá OR og dætrum, gerist einmitt það, sem gerðist í aðdraganda jóla, að ein bilun veldur svo stórfelldum vatnsskorti (20 %), að loka verður öllum útilaugum á höfuðborgarsvæðinu í 2 sólarhringa og hefði getað varað lengur. Þetta er óboðleg stefna. Miða á við s.k. (n-1) reglu, sem þýðir, að í kerfinu er borð fyrir báru til að halda uppi fullri þjónustu, þótt ein eining bili á háálagstíma. Þá er líka nauðsynlegt svigrúm til fyrirbyggjandi viðhalds fyrir hendi á hverjum tíma.
Hér gætir fingrafara Samfylkingarinnar, eins og alls staðar í borgarkerfinu. Hún lætur borgarsjóð blóðmjólka OR til að standa straum af gæluverkefnum sínum og silkihúfum, en fórnar fyrir vikið hagsmunum íbúanna, sem ekki hafa í önnur hús að venda, nema að flytjast um set a.m.k. 50 km.
Þarna er Samfylkingunni rétt lýst. Hún smjaðrar fyrir almenningi og þykist allt vilja gera fyrir alla á kostnað sameiginlegra sjóða, en hikar ekki við að fórna hagsmunum almennings til að geta haldið uppi sukkinu, sem völd hennar í Reykjavík hvíla á. Stefna Samfylkingarinnar er reist á botnlausri skattpíningu og skuldasöfnun, sem er eitruð blanda, sem getur ekki gengið upp til lengdar, enda er nú komið nálægt leiðarenda og allt í hönk.
Morgunblaðið gerði sorglegum stjórnarháttum Samfylkingarinnar verðug skil í forystugrein 20. desember 2022:
"Grátlegt að horfa upp á niðurlæginguna".
Hún hófst þannig:
"Það er sárt til þess að vita, hvernig komið er fyrir borginni okkar, höfuðborginni. Það er sama, hvert litið er. Hvernig gat þetta farið svona illa ? Stóru málin sýna þetta og sanna. Fjármál borgarinnar og þá ekki síður vandræðin í skipulagsmálum hennar. Þetta tvennt er auðvitað nægjanlega yfirþyrmandi, enda mun hvert það sveitarfélag bágt, þar sem bæði fjárhagsstaða og skipulagsmál hafa verið keyrð í þrot af fullkomlega óhæfum stjórnendum, sem hafa ekki auga fyrir slíkum þáttum og sitja þó keikir í stólunum í Ráðhúsinu, sem þeir voru á móti því, að yrði byggt og þar með fyrir þeim, sem gætu gert betur, en aldrei verr."
Samfylkingin hefur eyðilagt stjórnkerfi borgarinnar með sovétvæðingu sinni, ráðsmennsku, og þar með varðað leið höfuðborgarinnar til glötunar. Stjórnmálamennirnir, sem öllu ráða í ráðum borgarinnar, eru óhæfir stjórnendur; það er ekki ofmælt hjá ritstjóra Morgunblaðsins, enda sýna verkin merkin. Það er sama, hversu hæfir embættismenn eru ráðnir inn í svona kerfi. Þeir fá ekki tækifæri til að njóta sín undir ráðunum, eins og samanburður á frammistöðu Véladeildar borgarverkfræðings forðum tíð og umhverfis- og skipulagssviðs nú í snjómokstri sýnir glögglega.
Ritstjórinn vék að mannvitsbrekkunni, sem nú er afleysingaborgarstjóri og hefur valdið villuráfandi kjósendum Framsóknarflokksins ómældum vonbrigðum á undraskömmum tíma:
"En ásamt borgarfulltrúum minnihlutans hefur formaður borgarráðs, sem vann óvæntan sigur og hefur á örfáum mánuðum siglt með málefni borgarinnar úr öskunni í eldinn, látið óhæfan borgarstjóra, sem keyrt hefur fjármál og skipulagsmál í rjúkandi rúst, teyma sig út á berangur spillingur. Allt er þetta með ólíkindum."
Þeim mun verr gefast heimskra manna ráð, sem þeir koma fleiri saman, var einu sinni sagt, og það hefur berlega sannazt í Ráðhúsi Reykjavíkur. Það gafst afleitlega að fjölga borgarfulltrúum og hefur reynzt rándýrt. Miðað við meginkosningaloforð Framsóknar í borginni hefur efsti maður listans reynzt ómerkur orða sinna. Engin breyting til batnaðar hefur orðið á högum borgarinnar við komu hans í pólitíkina. Hann lætur ferðaglaða lækninn teyma sig á asnaeyrunum, hvert sem er.
"En tilfallandi mál opinbera einnig stjórnleysi og aumingjadóm. Og það gerði svo sannarlega snjóhríð og erfið átt, sem hvorugt var af verstu gerð, þótt slæmt væri. Þegar í stað varð algerlega ófært um alla borg ! Ríkisútvarpið "RÚV" spurði mann hjá borginni, sem var sagður eiga að bregðast við atvikum eins og þessum, út í öngþveitið, sem varð. Hann viðurkenndi aftur og aftur, að þetta hefði ekki verið nægjanlega gott, og var sú játning þó óþörf. En hann bætti því við til afsökunar, að borgin hefði aðeins "tvær gröfur" - "TVÆR GRÖFUR", sem nota mætti í verkefni af þessu tagi, og hefðu þær ekki haft undan. Engu var líkara en "RÚV" hefði farið þorpavillt og náð sambandi við 150 manna sveitarfélag úti á landi, þar sem alls ekki væri útilokað, að tvær gröfur hefðu getað hjálpað til að halda 200 m aðalgötu sveitarfélagsins opinni."
Það er deginum ljósara nú í skammdeginu, að viðbúnaðaráætlun borgarinnar gagnvart hríðarviðri er hvorki fugl né fiskur eða innleiðing hennar hefur farið fyrir ofan garð og neðan, nema hvort tveggja sé. Við blasir ónýtt stjórnkerfi borgarinnar, enda er þetta ráðstjórn með silkihúfum stjórnmálanna, sem hefur safnað öllum völdum í sínar hendur og lagt sína dauðu hönd þekkingarleysis og ráðleysis á verkstjórn borgarinnar. Tiltækur tækjafloti borgarinnar núna er miklu minni en á dögum borgarverkfræðings og gatnamálastjóra, sem áður fyrr voru ábyrgir fyrir snjómokstri í borginni undir yfirstjórn borgarstjóra. Að venju, þegar eitthvað bjátar á, hvarf borgarstjóri, og mun Dagur hafa skroppið til Suður-Afríku. Ráðstjórnarkerfi hans er ónýtt, og það verður að fleygja því á öskuhaugana áður en nokkur von getur vaknað um tök á þessum málum. Síðan verður að ráða menn með bein í nefinu og verkþekkingu til að skipuleggja viðbúnað og framkvæma hann eftir þörfum. Stjórnunarleikir silkihúfanna eru dramatískir sorgarleikir óhæfra leikara.
Að lokum sagði í téðri forystugrein:
"Á meðan borgin var og hét og var ekki stjórnað af óvitum, þá hafði hún öfluga sveit Véladeildar borgarinnar, sem búin var beztu tækjum, sem völ var á í landinu. Einatt, þegar von var atburða, eins og urðu í gær, þá færði borgarstjórinn í alvöru borg sig inn í höfuðstöðvar Véladeildar borgarinnar, sem var hið næsta höfuðstöðvum borgarverkfræðings, og fylgdist með viðbrögðum öflugra sveita fram eftir nóttu. En nú þarf ekki annað en smáa snjósnerru og goluþyt, til að öllu sé siglt í strand í borg manna, sem treysta á 2 litlar gröfur í veðurneyð.
Niðurlæging borgarinnar í fjármálaólestri og strandi skipulagsmála, sem eru þó helztu afreksverk Dags. B. Eggertssonar, er bersýnileg, en þegar fjármálabrall leggst við umferðaröngþveiti, sem sífellt versnar, er orðið fátt um fína drætti."
Þetta er athygliverð frásögn fyrrverandi borgarstjóra um stjórnarhætti í skilvirku stjórnkerfi borgarinnar, eins og það var áður en vinstri menn rústuðu því og stofnuðu ráðin, þar sem stjórnmálamenn Samfylkingar og fylgifiska fara með öll völd án þess að hafa nokkra stjórnunargetu eða verksvit. Borgarstjórinn móðgar ekki afæturnar í ráðunum með því að taka fram fyrir hendur þeirra og setja þar með hagsmunabandalag vinstri klíkanna í uppnám. Þó er til neyðarstjórn í borginni, þar sem borgarstjóri er í formennsku, en hún var ekki kölluð saman, þótt ástæða hefði verið til, enda borgarstjóri að spóka sig á suðurhveli jarðar.
Menn taki eftir því, að hinir hæfu embættismenn, borgarverkfræðingur og gatnamálastjóri, sáu ástæðu til þess, að borgin réði sjálf yfir öflugum tækjaflota af beztu gerð. Amlóðar Samfylkingarinnar og fylgitunglanna reiða sig hins vegar alfarið á verktaka án þess að hafa gengið frá almennilega öruggum samningum við þá. Hvers vegna er dæminu ekki snúið við til öryggis og verktökum leigðar vélarnar með áhöfn á sumrin, þegar borgin þarf ekki á þeim að halda, en yfirleitt er törn hjá verktökum ? Að auki þarf sérútbúnað, eins og snjóblásara, sem blása snjónum upp á vörubílspalla, því að mikil vandræði myndast annars við heimreiðar aðliggjandi lóða og á gangstéttum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.1.2023 | 11:13
Er valdframsalið til ESA/ACER minni háttar ?
Hér verður áfram haldið með þýðingu á grein Mortens Harper, lögfræðings hjá samtökunum "Nei til EU", NtEU, um dóm Lögmannsréttarins í máli NtEU gegn norska ríkinu:
"Meginviðfangsefnið við mat á því, hvort valdframsal megi samþykkja samkvæmt stjórnarskrárákvæði nr 26.2 með einföldum meirihluta, eða hvort það útheimti 3/4 mættra þingmanna í meirihlutanum samkvæmt stjórnarskrárákvæði nr 115, er, hvort framsalið er minni háttar eða ekki. Þetta hugtak er þó ekki tilgreint í stjórnarskrá Noregs, heldur hefur það þróazt í tímans rás, og hafa lögspekingar deilt um það. Lögmannsrétturinn leggur til grundvallar s.k. kenningu um minni háttar valdframsal. Um vald ESA samkvæmt ACER-reglugerðinni, kafla 8, er eftirfarandi tilfært í dóminum:
"Þegar um er að ræða gerð valdframsals, er til umræðu framkvæmdavald á formi stjórnvaldslegs fyrirskipanavalds gagnvart rekstraraðila. Þetta er takmörkun á völdum framkvæmdavalds. Það felur í sér, að eftirlits- og stjórnunarmöguleikar ríkisstjórnarinnar eru fjarlægðir. Þetta hefur líka þýðingu fyrir eftirlit þingsins og ábyrgð gagnvart stjórnarskrá. Lögmannsrétturinn telur samt sem áður, að þetta sé ekki kjarni formlegs valdframsals, þar sem samþykki norsku stjórnsýslustofnunarinnar RME þarf til að framkvæma og fylgja eftir ákvörðunum ESA gagnvart fyrirtækjum í Noregi. (...)
Einkenni valdsins í raun leitar í sömu átt, þar sem tilgangurinn er ekki yfirþjóðleg stjórnun, heldur að reglunaryfirvöld landanna reyni að verða samstiga. Úr þessu er samt dregið með því að fyrirkomulagið virkar næstum eins og kerfi til að skera úr um þrætur á milli reglunarstjórnvalda landanna." (Síður 34-35.)
Löggmannsrétturinn skrifar enn fremur:
"Orkumarkaðspakki 3 reglar orkusviðið og viðskipti með rafmagn. Þetta snertir þjóðfélagslega og stjórnmálalega hagsmuni með mjög mikla þýðingu. (...) Í heild hefur Orkumarkaðspakki 3 mikla þýðingu fyrir norska orkustefnu.
Völd ESA samkvæmt ACER-reglugerðinni eru hins vegar á sviði tæknilegra og faglegra viðfangsefna á rekstrarsviði og takmarkast við notkun innviða á milli landa (sæstrengi til útlanda)." (Síða 35.)
Ályktunin er, að valdframsal samkvæmt ACER-reglugerðinni, kafla 8, er "minni háttar". Að sömu niðurstöðu kemst Lögmannsrétturinn um heimild ESA til að fyrirskipa norskum orkufyrirtækjum að afhenda gögn og heimildina til að sekta þau, ef þessu er ekki hlýtt (reglugerðin um viðskipti yfir landamæri, kafli 20 og kafli 22, nr 2):
"Valdramsalið hefur að mati Lögmannsréttarins mjög takmarkað umfang og hefur ekki umtalsverð áhrif á þjóðfélagslegu og stjórnmálalegu hagsmunina, sem eru fyrir hendi á orkusviðinu." (Síða 37.)
Lögmannsrétturinn telur málið ekki vafa undirorpið:
"Einnig að afloknu heildarmati getur að dómi Lögmannsréttarins ekki leikið vafi á, að það tvenns konar valdframsal, sem er efni þessa máls, er minni háttar." (Síða 37.)
Að loknum lestri þessa tyrfna texta Landsréttarins norska veldur það ekki undrun, að NtEU hafi áfrýjað dómi hans til Hæstaréttar Noregs. Dæma þarf um, hvort RME (orkulandsreglari ACER) sé norskt stjórnvald samkvæmt norskum lögum og stjórnarskrá.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Hér verður haldið áfram þýðingu á grein Mortens Harpers, lögfræðings hjá "Nei til EU", NtEU, um dómsorð og greinargerðir Lögmannsréttarins í deilumáli NtEU við norska ríkið um atkvæðagreiðsluna um Orkupakka 3.
"Málið vekur líka upp spurninguna um það, hversu langt dómstólarnir geti gengið í að yfirfara eigið mat Stórþingsins. Ríkið hefur lagt þunga áherzlu á eigið stjórnarskrármat Stórþingsins sem röksemd gegn málsókninni. NtEU hefur hins vegar haldið því fram, að rétturinn verði að framkvæma nákvæma og vandaða rýni á því, hvort skilyrðin til að nota stjórnarskrárgrein nr 26.2 í stað gr. nr 115 séu uppfyllt.
Lögmannsrétturinn fellst að nokkru leyti á þetta viðhorf NtEU:
"Að loknu heildarmati sínu hefur Lögmannsrétturinn - í vafa - komizt að þeirri niðurstöðu, að athugun dómstólanna á því, hvort valdframsal sé léttvægt (lítið inngrípandi í þjóðlífið) eigi að vera nokkuð öflugri en það, sem venjulega á við um stjórnarskrárákvæði, sem stýra vinnulagi annarra greina ríkisvaldsins eða innbyrðis valdsviði. Í ljósi kröfu stjórnarskrárinnar, gr. 115, um aukinn meirihluta, og að hér er um að ræða að gera undantekningu við þá stjórnarskrárbundnu reglu, að framkvæmd valds skal vera á hendi norskra valdstofnana, leggur Lögmannsrétturinn meiri áherzlu á að taka tillit til minnihlutaverndarinnar en á þau raunatriði, sem ríkið hefur vísað til. Með vísun til þrískiptingarinnar er Lögmannsrétturinn þannig þeirrar skoðunar, að sannprófunin (rýnin) verði sambærileg þeirri, sem gildir um málefnaflokkinn efnahagsleg réttindi." (Síður 23-24.)
RÉTTURINN FINNUR TVENNS KONAR VALDFRAMSAL Í OP3
"Samantekið fól samþykkt Stórþingsins 22. marz 2018 í sér tvenns konar valdframsal", skrifar Lögmannsrétturinn og útlistar:
"Í fyrsta lagi var vald framselt til ESA til að gefa RME (orkulandsreglara ESB í Noregi) fyrirmæli um tæknileg viðfangsefni í sambandi við notkun innviða á milli landa, sbr ACER reglugerðina, kafla 8.
Í öðru lagi var framselt fyrirmæla- og sektarvald til ESA samkvæmt reglugerð um orkuviðskipti á milli landa, kafla 20 og kafla 22, nr 2, og þar með dómsvald til EFTA-dómstólsins." (Síður 33-34.)
Lögmannsrétturinn fjallar nánar um valdframsal í ACER-reglugerðinni þannig:
"Samkvæmt ACER-reglugerðinni, kafla 8, hefur ACER/ESA vald í sambandi við innviði á milli landa til að "taka ákvörðun um stjórnunarviðfangsefni, sem voru á valdsviði innlendra stjórnvalda, þ.á.m. um skilyrði fyrir aðgangi og rekstraröryggi".
(...)
Lögmannsrétturinn undirstrikar, að kafli 8 veiti ekki heimild til að taka ákvarðanir um t.d. að leggja nýja (sæ)strengi, að reisa orkuver, breyta eignarhaldsreglum eða að gefa út framkvæmda- eða rekstrarleyfi. (...) Rafmagnsverðið verður til á markaði. Verðmyndun á markaði verður vitaskuld fyrir áhrifum af þátttöku Noregs í innri orkumarkaði ESB. NtEU hefur rétt fyrir sér um, að ACER/ESA getur óbeint haft áhrif á rafmagnsverðið með framlagi sínu til þess, að þetta sé skilvirkur markaður með virkum innviðum fyrir orkuflutninga milli landa. Lögmannsrétturinn getur samt ekki séð, að nokkuð sé hæft í, að formleg völd ACER/ESA til ákvarðanatöku sé áhrifavaldur á rafmagnsverðið." (Síður 27-28.)
Um orkulandsreglarann (RME) er farið eftirfarandi orðum í dóminum:
"Þar sem endanleg ákvörðun, sem varðar Noreg, er tekin hjá RME, sem er norsk stjórnsýslustofnun, eru völd ESA yfir RME bara af þjóðréttarlegu tagi. Í samræmi við hefðbundin fræði má þess vegna halda því fram, að ekkert valdframsal hafi orðið til ESA. Að RME - til að uppfylla kröfur EES-regluverksins - er stofnsett sem óháð stjórnsýslustofnun, sem [ríkið] getur ekki gefið fyrirmæli, samtímis sem ESA eru veitt völd til að taka réttarlega bindandi ákvarðanir um fyrirmæli til RME, veldur hins vegar því, að Lögmannsrétturinn - eins og málsaðilarnir - lítur svo á, að átt hafi sér stað formlegt valdframsal til ESA." (Síða 29.)
Lögmannsrétturinn fjallar þó ekki nánar um hlutverk RME sem orkureglara, sem áhrif hefur á hagsmunaaðila í Noregi. Lögbundna sjálfstæðið gagnvart valdhöfum ríkisins veldur því, að ekki er unnt að telja RME vera venjulega norska stjórnvaldsstofnun, og meta hefði þurft, hvort völd RME sé viðbótar vídd í valdframsalinu. Fyrirmæla- og sektarvaldið, sem ESA hefur, gildir um að afla gagna beint frá orkufyrirtækjunum, í raun frá Statnett varðandi Noreg [Statnett er norska Landsnet].
"Það er óumdeilt, að þetta jafngildir valdframsali til ESA", skrifar Lögmannsrétturinn (síða 30) og bætir við, að enn hafi slíkar ákvarðanir ekki verið teknar."
Hér verður látið staðar numið í hluta 2 af 3 þýðingum á grein Mortens Harpers um nýlegan dóm á millidómsstigi í Noregi um þá kröfu NtEU að fá úrskurði Stórþingsins um að viðhafa einfalt meirihlutaræði við atkvæðagreiðslu um OP3 hnekkt. Það má hverjum leikmanni vera ljóst, að ýmislegt í málatilbúnaði samtakanna hlaut hljómgrunn í Lögmannsréttinum, þótt niðurstaða hans yrði, að valdframsalið til ESA/ACER væri lítið inngrípandi í þjóðlífið, heldur væri aðallega þjóðréttarlegs eðlis. Í 3. og lokapistlinum um þetta verður einmitt fjallað um það, hvort valdframsalið hafi verið áhrifalítið á þjóðlífið eða ekki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.12.2022 | 10:59
Hvaða þýðingu hefur ACER-dómur lögmannsréttarins norska ?
Hérlendis hefur hlakkað í verjendum innleiðingar orkulöggjafar Evrópusambandsins (ESB) á Íslandi með misviðeigandi hætti yfir dómi Borgarþings Lögmannsréttarins í máli samtakanna "Nei til EU", NtEU, gegn norska ríkinu. Deilan snýst um, hvort Stórþinginu hafi verið heimilt í marz 2018 að ákveða að láta aðeins einfaldan meirihluta ráða úrslitum atkvæðagreiðslu um Orkupakka 3, OP3, eða hvort þinginu hafi borið samkvæmt Stjórnarskrá Noregs að viðhafa kröfu um aukinn meirihluta, sem jafngildir a.m.k. 75 % stuðningi a.m.k. 2/3 Stórþingsmanna, þ.e. a.m.k. 50 % stuðningi allra þingmannanna.
Morten Harper, lögfræðingur og leiðtogi greininga hjá NtEU, skrifaði um málið á vefsetur samtakanna 8. desember 2022, og þar sem sjónarmið hans og túlkun kunna að vekja áhuga sumra hérlendis, fer hér á eftir þýðing á fyrsta hluta af þremur í grein hans:
"Þann 7. desember [2022] var kveðinn upp dómur í ACER-málinu í Borgarþingi lögmannsrétti. Í réttinum sátu 3 fagdómarar og 2 leikmenn, og dómurinn var samhljóða. Tökum niðurstöðuna fyrst:
"Ályktun Lögmannsréttarins er, að Stórþingið gat veitt heimild til staðfestingar á samþykkt nr 93/2017 frá EES-nefndinni samkvæmt aðferðinni, sem fyrirskrifuð er í Stjórnarskránni, gr. 26, lið 2. Áfrýjun Nei til EU er þess vegna hafnað." (Dómsorð, s. 37.)
Þótt ríkið hafi hlotið meðbyr, þarf NtEU samt ekki greiða málskostnað ríkisins í þingréttinum og lögmannsréttinum. Lögmannsrétturinn rökstyður þetta með því, að málið hafi fjallað um "umdeild, óútkljáð og grundvallandi lagaspurningar, sem séu verulega samfélagslega áhugaverðar" (síða 38).
RÉTTURINN METUR FORMLEGT VALDAFRAMSAL
Lögmannsrétturinn tekur fram, að það, sem metið er í málinu, er valdaframsal til að taka ákvarðanir, sem eru bindandi í Noregi; ekki umfang orkuregluverks, sem bindur Norðmenn sem þjóð (þjóðréttarlegar skuldbindingar). "Lögmannsrétturinn undirstrikar, að framkvæmdin sé reist á strangri aðgreiningu á milli formlegs og raunverulegs valdaframsals ...", eins og segir í dóminum (s. 16), þar sem einnig stendur:
"Spurningin um valdframsal til alþjóðlegra stofnana hefur á síðustu áratugum orðið raunhæfara viðfangsefni, ekki sízt vegna EES-samningsins, sem gekk í gildi 1. janúar 1994. Þetta stendur einkum í sambandi við, að ESB-samvinnan hefur stöðugt færzt í átt til aukinnar samræmingar og stjórnunar með myndun ESB-stofnana með yfirþjóðlegt vald til ákvörðunartöku, sem hefur beina verkun í aðildarlöndunum. Innan EES-samstarfsins hefur lausnin venjulega verið sú að veita ESA samsvarandi vald til ákvarðanatöku með verkun í EFTA-löndunum að því gefnu, að ákvarðanirnar endurspegli í heild sinni gjörninga ESB. Um það eru samt dæmi, að vald hafi verið fært til ESB-stofnana. Vísað er til umfjöllunarinnar í HR-2021-655-P, Greinargerð, atriði 3.3-3.8." (Síða 15.)
Ennfremur skrifar rétturinn, að EES-samningurinn og norsk samþætting í orkumarkað ESB jafngildi verulegu valdframsali í raun:
"Þátttaka Noregs á Innri orkumarkaði ESB og þjóðréttarlegar skuldbindingar okkar á þessu sviði hefur mikla þýðingu fyrir stjórnun norskra orkumála. Hún hefur t.d. áhrif bæði á afhendingaröryggið og verðmyndunina á rafmagni í Noregi. Eins og með EES-samninginn sem slíkan felur þetta í raun í sér verulegt valdframsal. Þessar áhrifaríku og umfangsmiklu þjóðréttarlegu skuldbindingar eru engu að síður í sjálfum sér án vafa innan samningsvaldsviðs samkvæmt Stjórnarskrá - lið 2, og eru ekki til úrskurðar í þessu máli. Stjórnarskrárspurningin - lagaeftirlitið - í þessu máli á einungis við formlega valdið, sem var framselt við samþykki Stórþingsins 22. marz 2018, sbr lið 3.1 að ofan." (Síður 25-26.)
UPPSÖFNUN: MARGT SMÁTT GERIR EITT STÓRT
NtEU hélt því fram, með vísun til greinargerðar Hæstaréttar um 4. járnbrautarpakka ESB (marz 2021), að fullveldisframsalið í málinu verði að meta sem heild með öðru valdframsali á orkusviðinu. Það spannar nokkrar reglugerðir Framkvæmdastjórnarinnar og 4. orkupakka ESB, sem að efni til var þekktur, þegar Stórþingið tók sína ACER-ákvörðun í marz 2018 (4. orkupakkinn var lagður fram sem tillaga Framkvæmdastjórnarinnar, hann var samþykktur í ESB 2019). Ríkið hefur hins vegar hafnað því að taka tillit til uppsöfnunar, þar sem safnað er saman nokkrum Stórþingssamþykktum til að meta, hversu áhrifaríkt valdframsalið hefur verið.
NtEU fær að nokkru leyti stuðning við þetta sjónarmið. Lögmannsrétturinn skrifar:
"Regla um uppsöfnun styður að hafa beri hliðsjón af raunverulegri og skilvirkri minnihlutavernd. Ef tiltekið valdframsal er einvörðungu metið einangrað og ekki er höfð hliðsjón af fyrra valdframsali, mun í tímans rás - smámsaman - geta átt sér stað valdframsal, sem er langtum meira en lítt áhrifaríkt fyrir þjóðlífið. (...) Á grundvelli einróma greinargerðar Hæstaréttar og með tilliti til raunverulegrar og skilvirkrar minnihlutaverndar leggur Lögmannsrétturinn til grundvallar gerðum sínum, að reglan um uppsöfnun sé í gildi við mat. Að mati Lögmannsréttarins nær minnihlutaverndin lengra en bara til að hindra sniðgöngu."(Síða 19.)
Ennfremur segir í dóminum:
"Lögmannsrétturinn telur, að varðandi spurninguna um að heimila valdframsal til ESB/EES-stofnana á orkusviðinu verði að hafa í huga valdframsal, sem áður hafi farið fram á þessu sviði. Þar sem áður hefur ekki farið fram valdframsal á orkusviði, hvorki með sjálfum EES-samninginum eða seinni lagagjörðum fram að og með Orkumarkaðspakka 2, fjallar Lögmannsrétturinn ekki nánar um, hvaða sértækari kröfur verður að gera t.d. til málefnalegs og tímanlegs samhengis á milli valdframsala." (Síða 20.)
Hér verður réttinum reyndar á fingurbrjótur. Það er rangt, að áður hafi ekki átt sér stað valdframsal á orkusviðinu. Reglugerð (EB) 1228/2003 um viðskipti með rafmagn, sem var hluti af ESB-Orkumarkaðspakka 2 og var innleiddur í EES árið 2007, felur í sér bæði upplýsingaskyldu og og sektarheimild. Í áliti sínu 8. desember 2004 komst Lagadeild Stórþingsins að þeirri niðurstöðu, að valdið til að sekta "með vafa" væri áhrifalítið (sjá frv. 4 S (2017-12018), síðu 28).
Lögmannsrétturinn styður ekki sjónarmið NtEU um, að einnig síðari tíma valdframsal skuli taka með í reikninginn:
"Að mati Lögmannsréttarins getur uppsöfnunarreglan aðeins virkað "aftur á bak í tíma". Þetta gildir óháð því, hversu sterk málefnaleg eða tímanleg tenging er við framtíðar framsal." (Síða 20.)
Rétturinn telur heldur ekki, að þær 4 reglugerðir Framkvæmdastjórnarinnar, sem eru viðbætur við Orkupakka 3 og voru teknar inn í EES-samninginn 2021, "réttarlega séð varpi ljósi á innihald og umfang valdsins, sem var framselt árið 2018" (síða 33).
Samt stendur í dóminum, að "vald ESA til að taka ákvarðanir, sem varða RME [orkulandsreglara Noregs] sem óháð stjórnvald [var] aukið" (síða 32)."
Lögmannsrétturinn fellst að sumu leyti á rök NtEU, en það hefur alltaf verið ljóst, að til að snúa við ákvörðun Stórþingsins fyrir rétti í Noregi þyrfti hið pólitíska deilumál að vera hafið yfir lagalegan efa. Samt verður nú þessi leið reynd til þrautar fyrir Hæstarétti Noregs. Þetta deilumál sýnir, hversu hæpið er að kveða á um það í stjórnarskrá, að þingið geti metið það sjálft, hvers konar kröfur eigi að gera um atkvæðagreiðslu þess, þ.e. hvort einfaldur meirihluti skuli duga eða regla um aukinn meirihluta viðhöfð. Það hlýtur jafnan að vera freistandi í ágreiningsmálum, þegar einfaldur meirihluti þings vill framselja vald til erlendrar stofnunar, þar sem landið er ekki fullgildur aðili, að láta einfaldan meirihluta duga.
Annar hluti af þremur þessarar greinar Mortens Harpers verður birtur í næsta pistli hér á vefsetrinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.12.2022 | 10:44
Ný skattheimta veldur kollsteypu í strandbyggðum Noregs
Nýlega bárust fregnir af fáheyrðri fyrirhugaðri viðbótar skattheimtu norsku ríkisstjórnarinnar undir forsæti forríks krata, Jonasar Gahr Störe, af atvinnustarfsemi, sem hefur verið hryggjarstykkið í byggðum meðfram endilangri strandlengju Noregs. Fyrir vikið varð strax fjármagnsflótti úr greininni, fyrirtæki lögðu fjárfestingar á ís og gerðu áætlanir um að draga úr starfsemi og fækka starfsfólki. Þetta mun valda atvinnuleysi í byggðunum, ef úr verður, og fólksflótta. Þannig er þetta skólabókardæmi um skaðleg áhrif ríkisvaldsins, þegar það verður of gírugt og gengur of hart að fyrirtækjunum.
Þetta sýnir líka vanþekkingu embættismanna og stjórnmálamanna á atvinnustarfseminni, samkeppnishæfni hennar og burði til að bera miklu meiri skattheimtu en fyrirtæki í annars konar starfsemi þurfa að búa við. Hið opinbera verður að gæta jafnræðis og meðalhófs. Ef kýrin er ofmjólkuð, eyðileggst júgrið strax, kýrin veikist og hættir að gefa nokkuð af sér, og fólkið á bænum lepur fyrir vikið dauðann úr skel. Vönduð greining verður að vera undanfari nýrrar skattheimtu.
Gunnlaugur Snær Ólafsson, blaðamaður, tók saman fróðlega fréttaskýringu í 200 mílum Morgunblaðsins 1. desember 2022 um það, hvernig ríkisstjórn Noregs virðist fara offari í skattheimtu á sjókvíaeldi við Noregsstrendur. Ofurskattheimta á aldrei við og sízt, þegar samkeppnisgreinar á alþjóðlegum mörkuðum eiga í hlut, og tímasetningin er alslæm, því að nú harðnar á dalnum á matvælamörkuðum Evrópu og víðar. Það gæti leitt til lækkunar á dýrum matvælum, ef ódýrari staðgönguvara er fyrir hendi. Fréttaskýring Gunnlaugs bar fyrirsögnina:
"Ringulreið vegna auðlindagjalds".
Hún hófst þannig:
"Óhætt er að segja, að tillaga norsku ríkisstjórnarinnar um að innleiða nýjan auðlindaskatt, s.k. grunnleigu, á sjókvíaeldi hafi fallið í grýttan jarðveg í samfélögunum meðfram strandlengju landsins. Skattahækkunin, sem lögð er til, hefur haft ýmsar hliðarverkanir, sem ekki virðist hafa verið gert ráð fyrir við mótun tillögunnar. Fyrirtæki hafa hætt við fjárfestingar, gripið til uppsagna, og norska ríkisstjórnin hefur þurft að minnka gjaldstofn nýs auðlegðarskatts sem og [að] bæta upp hundruða milljóna tap norska fiskeldissjóðsins, "Havbruksfondet"."
Hér er hrapað ótrúlega að viðbótar gjaldtöku, og jafnvel vafamál, hvort nokkur þörf var á einhverri viðbótar gjaldtöku. Fyrir vikið og vegna orkumálanna koma nú norsku stjórnarflokkarnir afar illa út í fylgisathugunum á landsvísu, og má segja, að Miðflokkurinn hafi beðið afhroð, en hann er dæmigerður dreifbýlisflokkur, og fjármálaráðherrann er formaður hans. Fylgi Verkamannaflokksins hefur rýrnað minna, en tæp 3 ár eru í næstu Stórþingskosningar, og stjórnarflokkarnir gætu náð vopnum sínum á kjörtímabilinu.
"Norska ríkið gerir ráð fyrir, að grunnleigan, ásamt tekjuskatti lögaðila, geri það að verkum, að jaðarskattar fiskeldisfyrirtækja verði 62 %, en að skatthlutfallið verði 51,3 %. Á móti benda fiskeldis- og vinnslufyrirtækin á, að grunnleigan, sem lögð er til, bætist við hækkun auðlegðarskatts á framleiðsluleyfi, sem hafa verið út gefin, hækkun tekjuskatts lögaðila, hærra framleiðslugjald og hærri auðlindaskatt. Það sé því í raun verið að leggja 80 % skatt á sjókvíaeldið."
Hér hefur norsku ríkisstjórninni orðið alvarlega á í messunni. Enginn heiðarlegur atvinnuvegur getur staðið undir þvílíkri ofurskattheimtu, og þess vegna er ríkisstjórnin í raun að kippa fótunum undan blómlegri atvinnugrein, og um leið munu sjávarbyggðir víða hrynja. Þetta eru ótrúlegar aðfarir Trygve Magnus Slagsvold Vedum, sem verið hefur fjármálaráðherra síðan í október 2021 og formaður Miðflokksins síðan 2014. Vedum er garðyrkjumaður frá Stange í Innlandet og hefur setið á Stórþinginu síðan 2005.
Fylgi Miðflokksins hefur nú hrunið niður í "bjórstyrk". Vedum verður að leiðrétta mistök sín. Fyrirtæki eru ekki mjólkurkýr fyrir hið opinbera. Þau eru til að skapa verðmæti og atvinnu. Ef þau hagnast og geta þar af leiðandi borgað tekjuskatt, er það jákvætt. Gjaldheimta af auðlindanotkun og framleiðslu er vandmeðfarin, og þar verður að gæta sanngirni og jafnræðis, svo að stjórnvöld skekki ekki samkeppnishæfni um fjármagn, starfsfólk og markaði.
"Í kjölfar tilkynningar norsku ríkisstjórnarinnar um nýja grunnleigu af sjókvíaeldi hófu hlutabréf fiskeldisfyrirtækjanna, sem skráð eru í kauphöllina í Ósló, að falla. Verðmæti þeirra dróst á einum degi saman um mrdNOK 44, um mrdISK 632, eins og gengið er nú. Samhliða hafa fyrirtækin sett fjárfestingar fyrir um mrdNOK 24 á ís."
Þetta sýnir, hvað tilkynningar ráðherra um fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar geta verið afdrifaríkar fyrir fjárhagsstöðu fyrirtækja og atvinnuöryggi launþega. Þetta á alveg sérstaklega við, þegar fyrirætlun ráðherra er íþyngjandi fyrir fyrirtæki, sem skráð eru í kauphöll. Þau verða að stíga varlega til jarðar, og það verða líka viðkomandi stjórnvöld og gagnrýnendur þessara fyrirtækja að gera. Hérlendis hafa fyrirtæki ekki þurft að þola kollsteypur af þessu tagi af hendi fjármálaráðherra frá dögum "einu hreinu vinstri stjórnarinnar" 2009-2013, en sum hafa mátt þola miklar ágjafir og jafnvel herferðir í fjölmiðlum og af hendi fjölmiðla. Er þar oft hátt reitt til höggs af mismikilli fyrirhyggju og ígrundun.
"Um miðjan nóvember [2022] sagði fiskeldisfyrirtækið Salmar upp 851 starfsmanni í vinnslustöðvum félagsins á Fröya og Senja. Ástæða uppsagnanna var í fréttatilkynningu sögð tillaga ríkisstjórnarinnar um auknar álögur á greinina, "sem hefur eyðilagt markaðinn fyrir langtíma samninga á föstu verði. [...] Slíkir samningar eru venjulega gerðir löngu fyrir afhendingu, og eru þeir algjörlega nauðsynlegir til að fylla aðstöðuna af nægri vinnslustarfsemi", sagði í fréttatilkynningunni."
Axarskapt norsku ríkisstjórnarinnar hefur haft hrapallegar afleiðingar fyrir atvinnuöryggi starfsmanna fiskeldisfyrirtækjanna á strönd Noregs. Áður en einhverjum hérlendum stjórnmálamanni dettur næst í hug að fara fram með vanhugsaðar tillögur um auðlindagjald, framleiðslugjald eða hvaða nöfnum, sem tjáir að nefna gjaldtökuhugmyndir þeirra, ættu þeir að leiða hugann að alvarlegum afleiðingum slíkra gjörða hjá frændum vorum, Austmönnunum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.12.2022 | 11:32
Fyrsti innlendi ráðherrann
Heimastjórnin 1904 markaði meiri þáttaskil en sú stjórnkerfisbreyting í Danaveldi ein og sér gaf tilefni til að ætla, að verða mundi. Ástæða þess var einfaldlega sá mannkostamaður af íslenzku bergi brotinn, sem til starfans valdist. Hetjuljómi hefur leikið um manninn Hannes Hafstein, fyrsta ráðherrann með skrifstofu í gamla og íburðarlausa stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg, í huga höfundar þessa vefpistils, síðan hann á æskuárum sínum réðist í að lesa viðamikið nýútkomið ævisögurit þessa manns, sem hann hafði kynnzt örlítið við að vera látinn læra nokkur kvæða hans utanbókar í barnaskóla.
Við lestur ágætrar yfirlitsgreinar nafna hans, Hólmsteins Gissurarsonar og frænda þessa höfundar um ættir Vatnsdælinga í A-Húnavatnssýslu, í Morgunblaðinu 13. desember 2022, rifjuðust upp kynnin af þessu glæsi- og gáfumenni.
Hannes Hafstein skildi vel, hvað þjóð hans þurfti mest á að halda, og með skáldlegu innsæi sínu hefur hann vafalaust skynjað, hvílíka ofurkrafta yrði hægt að beizla með þjóðinni, ef hún aðeins fengi þau tækifæri, sem dygðu til atvinnuuppbyggingar. Tvennt þurfti til að virkja þessa krafta: erlent fjármagn (innlent var ekki til í teljandi mæli) og verktæknilega þekkingu. Hann lagði grunn að hvoru tveggja með því að laða erlent fjárfestingarfjármagn til landsins, og hann lagði grunn að verklegum framförum í landinu á sviði veitna, vega- og brúargerðar með því að skipa Jón Þorláksson, Landsverkfræðing, 1905.
Jón Þorláksson fæddist á Vesturhólum í V-Húnavatnssýslu. Hann var einn nánasti og eindregnasti stuðningsmaður Hannesar Hafstein á Heimastjórnarárunum, 1904-1918. Nú verður vitnað í téða grein Hannesar Hólmsteins:
"Stjórnmálamaðurinn Hannes Hafstein":
"En það var eins og ný tíð gengi í garð árið 1904, þegar það gerðist hvort tveggja, að Íslendingar fengu heimastjórn og að nýr banki tók til starfa, Íslandsbanki, sem átti ásamt Landsbankanum eftir að fjármagna vélvæðingu fiskiskipaflotans.
Fyrir einstaka tilviljun varð nú fyrsti íslenzki ráðherrann skáldið, sem hafði ort hvað bezt um framfaraþrá þjóðarinnar, Hannes Hafstein. Í dag er þess minnzt, að 100 ár eru liðin frá láti hans. Jafnvel heitir andstæðingar Hannesar viðurkenndu á sinni tíð, að hann væri ekki aðeins snjallt og rismikið skáld, heldur líka glæsimenni, sem væri geðfelldur í viðkynningu, vinmargur og vinsæll og kynni að koma virðulega fram fyrir Íslands hönd.
Honum var hins vegar stundum brugðið um að hafa ekki aðra hugsjón en eigin frama. Því fór þó fjarri. Hannes stóð traustum fótum í íslenzkri stjórnmálaarfleifð og hafði til að bera sterka sannfæringu, þótt vissulega væri hún milduð af eðlislægri sáttfýsi og langri reynslu."
Vissulega var Hannes Hafstein hugsjónamaður og meginhugsjón hans var sú að bæta hag íslenzku þjóðarinnar með hjálp nútíma tækni og erlends fjármagns. Þetta varð síðan meginþema framfarasinna hérlendis alla 20. öldina, og auðvitað mátti hann kljást við ýmiss konar dragbíta, en hann áorkaði samt viðamiklu verki í samstarfi við Landsverkfræðing sinn og marga aðra, sem sáu, hvað þurfti að gera og fundu út, hvernig ætti að gera það. Ekki vantar heldur dragbíta á framfarir 21. aldarinnar, og þeir klæðast margir dulargervi landverndar og heimsendaspámennsku á grundvelli rangs mats á hlýnun andrúmslofts, eins og menn geta séð, ef þeir fletta upp á "Dr John Christy, director of the University of Alabama/Huntsville´s Earth System Science Centre, ESSC".
"Hannes Hafstein var umfram allt þjóðrækinn og frjálslyndur framfarasinni. Í minningargrein sagði einn nánasti samstarfsmaður hans, Jón Þorláksson, forsætisráðherra:
"Grundvallarhugsun Hannesar Hafstein í sambandsmálinu hygg ég hafa verið þá, að hann vildi afla landinu þeirra sjálfstæðismerkja og þess sjálfstæðis, sem frekast var samrýmanlegt þeirri hugsun að halda vinfengi danskra stjórnmálamanna og fjármálamanna og áhuga hjá þeim fyrir því að veita þessu landi stuðning í verklegri framfaraviðleitni sinni.""
Þarna er vel að orði komizt, og Jón Þorláksson mátti trútt um vita hugarþel síns nána samverkamanns. Þarna kemur vel fram, hversu raunsær og mikill raunhyggjumaður Hannes Hafstein var. Hann notaði þó skáldlega andagift sína til að vísa sér leið, en síðan raunsæið til að komast sem hraðast áfram og sem lengst. Hann vildi ekki ganga svo langt í sjálfstæðismálinu, að Danir gæfu Íslendinga upp á bátinn. Hann vildi einfaldlega nýta verkþekkingu þeirra og markaðsþekkingu til hagsbóta fyrir landslýð, á meðan honum yxi fiskur um hrygg í efnalegu tilliti.
Þetta minnir dálítið á þróun virkjanatækninnar í landinu á 20. öldinni. Fyrir utan virkjanir bæjarlækjanna var hönnun og verkstjórn að mestu í höndum fyrirtækja á Norðurlöndunum og annars staðar fram að og með Búrfellsvirkjun, en með henni urðu umskipti í verklegum efnum á þessu sviði, og verksmiðjan, sem hún knúði, ISAL í Straumsvík, markaði líka þáttaskil í tæknilegum efnum á iðnaðarsviðinu.
Hannes Hafstein var tvímælalaust frumkvöðull í hópi stjórnmálamanna um þróun íslenzkra atvinnuvega inn í nútímann. Það, sem gerðist í þeim efnum á 20. öldinni, var afrek á evrópskan mælikvarða og þótt víðar væri leitað.
"Hannes vildi, að Íslendingar væru vinir annarra þjóða, ekki sízt viðskiptavinir þeirra, en hann vildi ekki, að þeir væru þegnar þessara þjóða, heldur skyldu þeir ráða eigin málum, vera fullvalda þjóð. En sú fullvalda þjóð gat ekki lifað á munnvatni og fjallagrösum, heldur þurfti hún erlent fjármagn til að nýta kosti lands og sjávar. Haga varð því málum hyggilega, laða útlendinga að í stað þess að fæla þá frá."
Þetta er hverju orði sannara, og þetta varð pólitísk arfleifð þeirra baráttufélaganna, Hannesar Hafstein og Jóns Þorlákssonar. Jón Þorláksson varð árið 1929 formaður Sjálfstæðisflokksins, sem þá var stofnaður við sameiningu Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins. Sjálfstæðisflokkurinn hefur allan tímann staðið vörð um þetta grundvallarstef í framfarasókn þjóðarinnar. Framfarasóknin tafðist mikið í Kreppunni miklu á 4. áratugi 20. aldarinnar, þegar Framsóknarflokkur og Alþýðuflokkur komu á haftabúskap, sem varði hér lengur en í nokkru öðru lýðræðisríki Evrópu, og þjóðin var ekki leyst úr viðjum viðskiptahaftanna fyrr en Viðreisnarstjórnin undir forystu Sjálfstæðisflokksins komst hér til valda 1959.
Framsóknarflokkurinn og Alþýðubandalagið, forveri vinstri grænna og Samfylkingar, börðust t.d. hatrammlega gegn Búrfellsvirkjun og ISAL á sinni tíð, en Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur voru þá í raun að framfylgja stefnu fyrsta ráðherrans og fyrsta formanns Sjálfstæðisflokksins. Nú hafa afturhaldsöflin tekið á sig aðra mynd, dulargervi, reynt að aðlaga sig aðstæðum.
"Þessa hugsun um afstöðu Íslendinga til annarra þjóða má rekja allt til Snorra Sturlusonar [Reykholtshöfðingja], en hann samdi ræðu Einars Þveræings, sem átti að hafa verið flutt á Alþingi árið 1024, þá er Þórarinn Nefjólfsson bar Íslendingum boð Ólafs digra um, að þeir gerðust honum handgengnir. Snorri lætur Einar segja, að víst sé þessi konungur góður, en hitt sé ljóst, að konungar séu misjafnir, sumir góðir og aðrir ekki, og sé því Íslendingum bezt að hafa engan konung. Íslendingar skuli hins vegar vera vinir Ólafs konungs og gefa honum gjafir. Í Heimskringlu Snorra er eitt meginstefið, að öðru hverju komist til valda konungar, sem heyi stríð og leggi á þunga skatta landslýð til óþurftar."
Að játa konungi hollustu gat auk skattskyldunnar vafalítið leitt til herskyldu ungra Íslendinga, ef konungur framkvæmdi herútboð. Þá var ákjósanlegra fyrir Íslendinga að geta valið sér flokk stríðandi fylkinga í Noregi, eins og Snorri gerði í átökum Skúla jarls og Hákonar gamla, en þar veðjaði Snorri á rangan hest, sem varð honum dýrkeypt.
Þormóður Kolbrúnarskáld gekk í lið Ólafs digra, varð hjá honum hirðskáld og féll með honum á Stiklastöðum 1030. Þegar ör var dregin úr brjósti hans í sjúkratjaldi konungsmanna, fylgdu hvítleitar trefjar með, sem líktust fitu. Skáldið brást við með því að lofa konung sínn með orðunum "og vel hefur konungur vor alið oss", og féll hann síðan dauður niður. Skáldið brá sér hvorki við sár né dauða. Þessi forni andi var með öllu horfinn í Kófsfárinu, sem hér geisaði 2020-2021, þar sem viðbrögð stjórnvalda urðu ríkissjóði hrottalega dýr og ollu meira heilsufarstjóni en veiran (SARS-CoV-2) sjálf. Eins og yfirvöld í kommúnistaríkinu Kína valda samfélagslegar lokanir gríðarlegu tjóni og gera heilsufarlega minna en nokkurt gagn, tefja aðeins framrás veirunnar, því að bóluefnin eru mjög gagnslítil og gera í sumum tilvikum illt verra.
Það, sem lá í orðum Snorra í Reykholti var, að allt of áhættusamt væri fyrir Íslendinga að játast undir erlent vald, því að það gæti fyrr en síðar sölsað undir sig úrslitavald um íslenzk málefni. Þetta á í hæsta máta við um það, ef innlendir glópar við einhverjar annarlegar aðstæður ná að véla landsmenn til að ganga í Evrópusambandið. Auðlindir landsins yrðu þá þegar í uppnámi, og við yrðum færð aftur á reit, sem er handan Heimastjórnar. Öll hin mikla barátta yrði unnin fyrir gýg.
"Í innanlandsmálum fylgdi Hannes Hafstein þeirri frjálslyndu stefnu, sem hann hafði kynnzt á námsárum sínum í Kaupmannahöfn. Voru fyrri ráðherraár hans frá 1904-1909 eitt mesta framfaraskeið Íslandssögunnar, eins og alkunna er. Þjóðin brauzt úr fátækt í bjargálnir, fólk flykktist úr kotunum í þéttbýlið, innlendir kaupmenn leystu erlenda af hólmi, íslenzkir vélbátar og togarar drógu björg í bú, nýtt fjármagn skapaðist [við aukinn útflutning-innsk. BJo]. Ólíkt því, sem gerðist í mörgum öðrum Evrópulöndum á þeim árum, dró úr fólksflutningum vestur um haf. Þetta var öld hinnar frjálsu samkeppni, en henni mátti lýsa með fleygum orðum Hannesar árið 1882:
Ég elska þig stormur, sem geisar um grund
og gleðiþyt vekur í blaðsterkum lund,
en gráfeysknu kvistina bugar og brýtur
og bjarkirnar treystir um leið og þú þýtur.
Keppnislundin kallar einmitt oft og tíðum fram beztu hæfileika fólks til að ná árangri á tilteknu sviði, og samkeppni fyrirtækja leiðir iðulega til aukinnar framleiðni og vöru- eða þjónustuþróunar, hin bezt reknu eflast og hin lakari leggja upp laupana. Heilbrigð samkeppni er grundvöllur frjálsra samfélaga og frjálsra hagkerfa. Með þeim hefur manninum tekizt að hámarka lífskjör sín, og þetta kerfi, sem stundum er kennt við auðhyggju (kapítalisma) Adams Smith, hefur leyst fleira fólk úr viðjum örbirgðar en nokkurt annað kerfi. Líklegt er, að Hannesi Hafstein hafi verið ljóst, að þetta kerfi yrði fljótfarnasta leiðin fyrir Íslendinga til að ná öðrum þjóðum í lífskjörum.
Á dögum Hannesar voru annars konar viðhorf líka uppi, sem afvegaleiddu fólk, og þó í enn meiri mæli síðar, þegar villutrúarmenn kommúnismans fóru að boða fagnaðarerindi kommúnismans, sem er reist á draumórum og efnahagslegum bábiljum. Það hefur alltaf verið markaður fyrir hjátrú og hindurvitni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.12.2022 | 11:09
Ófullnægjandi stjórnsýsla
Það höfðu ýmsir áhyggjur af því við ráðningu núverandi forstjóra Orkustofnunar, að í fyrsta skipti í sögu stofnunarinnar og forvera hennar var farið inn á þá braut að velja ekki til starfans neinn úr röðum tæknimenntaðra umsækjenda, s.s. verkfræðing eða tæknifræðing, heldur var stjórnmálafræðingur valinn úr hópi umsækjenda. Nú þegar hefur komið í ljós, að ekki hafa stjórnarhættir Orkustofnunar batnað við þessa nýbreytni, heldur þvert á móti, því að afgreiðslutími umsókna um leyfi fyrir allstórum virkjunum hefur lengzt verulega.
Afsakanir orkumálastjóra eru aumkvunarverðar og sýna, að hana skortir alla tilfinningu fyrir því, sem liggur á að gera (sense of urgency). Í stað þess að taka stærstu og þar af leiðandi væntanlega tímafrekustu umsóknina fyrir strax og senda hana út í umsagnarferli og gera þá annað á meðan, þá saltar hún stærstu umsóknina í hálft ár. Þetta umsagnarferli er í sjálfu sér umdeilanlegt eftir alla þá kynningu og umsagnarferli, sem átt hafa sér stað á verkinu, og ætlazt verður til, að Orkustofnun hafi allar athugasemdir við verkið þegar undir höndum, er hún fær umsókn Landsvirkjunar til afgreiðslu.
Þá skýlir orkumálastjóri sér á bak við það að gæta þurfi vandvirkni. Tímanotkun er enginn mælikvarði á vandvirkni, og nú á það eftir að koma í ljós, hvort Orkustofnun hafi lagt eitthvað markvert til verkefnisins eða hvort tímanotkunin hafi snúizt um sýndarmennsku og aukaatriði, sem engu máli skipta.
Í Staksteinum Morgunblaðsins var fjallað um þetta alvarlega stjórnsýslumál undir fyrirsögninni:
"Óeðlilegar tafir Orkustofnunar".
Samkvæmt reglum um þessi mál gildir, að Orkustofnun á að afgreiða umsókn um virkjunarleyfi innan 2 mánaða frá því, að síðustu gögn berast. Það er auðvitað mjög ámælisvert, ef stofnunin kallar inn gögn um umsóknina, sem eru óþörf fyrir afgreiðslu málsins, til að hanga á 2 mánaða tímafrestinum. Samt er hún nú þegar búin að brjóta þá reglu um afgreiðslufrest.
Orkustofnun hefur misskilið hlutverk sitt, ef verið er að endurhanna virkjuninaað einhverju leyti, enda hefur Orkustofnun hvorki þekkingu né reynslu innan sinna vébanda til þess og er þá komin út fyrir sitt verksvið.
Í téðum Staksteinum stóð m.a.:
"Eitt dæmi um seinagang [opinberra stofnana] er afgreiðsla Orkustofnunar á umsókn Landsvirkjunar um virkjunarleyfi vegna Hvammsvirkjunar. Umsóknin var lögð fram í júní í fyrra [2021], og það tók Orkustofnun rúmlega hálft ár að byrja vinnu við umsóknina, en samkvæmt reglugerð ber að taka ákvörðun um virkjunarleyfi innan tveggja mánaða frá því, að öll gögn hafa borizt."
Þetta eru þvílík molbúavinnubrögð, að engu tali tekur. Stendur þessari ríkisstofnun gjörsamlega á sama um þann gríðarlega kostnað, sem sleifarlag af þessu tagi mun hafa í för með sér vegna þess, að fyrirtæki munu ekki fá afhenta þá orku, sem þau vantar, árum saman ? Hvernig komið er fyrir stofnun fyrrum orkumálastjóra, Jakobs Björnssonar, rafmagnsverkfræðings og kennara höfundar, er þyngra en tárum taki.
"Leyfisveitandanum er í lófa lagið, hversu ítarleg sem umsókn er, að kalla eftir frekari gögnum, og það var gert í þessu tilviki. Allt þetta ár hefur farið í samskipti Orkustofnunar og Landsvirkjunar."
Ef raunveruleg ástæða væri fyrir þessari hegðun Orkustofnunar, er um að ræða vanreifaða umsókn Landsvirkjunar um virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun, og því verður ekki trúað að óreyndu. Öllu líklegra er, að þeir, sem véla um þessa umsókn hjá Orkustofnun, skorti nauðsynlega færni til að rýna viðamikið tæknilegt viðfangsefni á borð við hönnun þessarar virkjunar. Það er þó öllu verra, að innan veggja Orkustofnunar virðist skorta skilning á raunverulegu hlutverki hennar í þessu sambandi. Hlutverk stofnunarinnar er ekki að stunda neins konar hönnunarrýni, því að Landsvirkjun mun bera fulla ábyrgð á þeirri hönnun, sem hún leggur fram. Hlutverk Orkustofnunar í þessu samhengi er einvörðungu að yfirfara virkjunartilhögun og sannreyna, að hún uppfylli alla skilmála, sem Landsvirkjun hefur undirgengizt á undirbúningsstigum. Þess vegna hafa Orkustofnun verið sett 2 mánaða tímamörk til verkefnisins, sem er sanngjarnt.
Það er hlutverk orkumálastjóra að fylgjast með starfsmönnum sínum og/eða verktökum og sjá til þess, að þeir blási ekki verkefni sitt út langt umfram það, sem ætlazt er til af þeim. Núverandi orkumálastjóra virðast hafa verið mislagðar hendur að þessu leyti.
"Orkumálastjóri virðist telja þann tíma, sem þetta hefur tekið, réttlætanlegan og talar um, að þurft hefði fleira fólk og aukið fjármagn. Þá segir orkumálastjóri mikilvægt að vanda vel til verka, sem gefur augaleið, en það felur ekki í sér, að opinberar stofnanir geti tafið mál, eins og þeim hentar. Hér þarf að vera hægt að halda úti skilvirku atvinnulífi, og hluti af því er, að hægt sé að ráðast í virkjanaframkvæmdir innan eðlilegs tímaramma."
Málflutningur orkumálastjóra er órökstuddur og frasakenndur, eins og þar tali PR-fulltrúi orkumálastjóra og orkulandsreglara ESB, en ekki sjálfur orkumálastjóri Íslands með faglega þyngd. Að bera við manneklu, þegar inn kemur stórt verkefni, er óboðlegt, því að mannahald Orkustofnunar á ekki að miða við toppálag. Orkustofnun átti að leigja strax inn kunnáttufólk, t.d. af verkfræðistofu, til að fást við þetta verkefni (verkfræðistofu, sem ekki hefur komið að undirbúningsvinnu Landsvirkjunar vegna Hvammsvirkjunar) í stað þess að fórna höndum yfir álaginu og leggja verkefnið í saltpækil í hálft ár og hefja þá umsagnarferli og innköllun viðbótar gagna.
Hver segir, að Orkumálastofnun hafi vandað vel til verka, þegar hún loksins dró umsóknina upp úr saltpæklinum í janúar 2022 ? Orkumálastjóri styður þá einkunn sína ekki með neinum dæmum. Gæði þessarar rýni Orkustofnunar eiga einfaldlega eftir að koma í ljós. Eftir stendur, að ráðleysið virðist mikið, þegar að verkstjórninni kemur á þessum bæ, enda er hulin ráðgáta, hvernig menntun í stjórnmálafræði á að gagnast í þessum efnum, en lengi skal manninn reyna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.12.2022 | 11:04
Vestfirðinga vantar virkjun
Staðarval virkjana landsins er mikilvægt til að lágmarka orkutöp, spennusveiflur og til að hámarka afhendingaröryggi raforku til notenda hennar. Þungamiðja virkjana landsins er á Þjórsár/Tungnaár-svæðinu, sem er tengt Hvalfirði, Straumsvík og þéttbýlinu suðvestanlands með öflugum hætti. Suðurland nýtur góðs af tengingu við Búrfellsvirkjun, en styrkja má enn raforkukerfi Sunnlendinga með tengingu við væntanlegar aðveitustöðvar við virkjanir í Neðri-Þjórsá.
Raforkukerfi Austurlands býr að öflugustu virkjun landsins, Fljótsdalsstöð. Á Vesturlandi er engin stórvirkjun, en öflug aðveitustöð á Brennimel og önnur á Vatnshömrum, en einkum og sér í lagi vantar Vestfirðinga trausta virkjun, sem styrkt geti raforkukerfi þeirra. Þar er nauðsyn á auknu skammhlaupsafli, svo að setja megi 60 kV flutningskerfi LN í jörðu, og spennustöðugleika. Með þessu tvennu væri Vestfirðingum komið í flokk flestra annarra landsmanna gagnvart afhendingaröryggi rafmagns og lítilli losun koltvíildis við raforkuvinnslu.
Ein gleggsta grein, sem um árabil hefur sézt á prenti hérlendis um virkjanamál, birtist í Morgunblaðinu 28. nóvember 2022. Höfundur hennar er Elías Jónatansson, forstjóri Orkubús Vestfjarða, og bar hún fyrirsögnina:
"Að virkja og vernda loftslag - hvar á að virkja".
Hann gerði hnitmiðaða grein fyrir stöðu Vestfirðinga í orkumálum:
"Vestfirðingar fá helming raforku sinnar eftir einni 160 km langri Vesturlínu frá tengivirki Landsnets (LN) fyrir botni Hrútafjarðar [aðveitustöð Hrútatungu] í tengivirkið í Mjólká við Mjólkárvirkjun. Orkan á líklega oftast upptök sín í Blönduvirkjun í 100 km fjarlægð frá Hrútafirði [orkubússtjórinn getur vafalaust vísað til kerfishermana um þetta]. Orkan er því flutt 260 km leið frá orkustöð í tengivirkið í Mjólká með tilheyrandi töpum.
Hinn helmingurinn er framleiddur innan Vestfjarða, og er Orkubú Vestfjarða (OV) þar stærsti orkuframleiðandinn og eini framleiðandinn, sem hefur einhvern varaforða [miðlunargetu], sem heitið getur í lónum við sínar virkjanir. Stærsta virkjun OV er Mjólkárvirkjun, 11 MW, en samtals eru virkjanir í eigu OV og einkaaðila á Vestfjörðum 21 MW."
Það er fljótlegt að reikna út árlegu orkutöpin á þessari 260 km löngu leið frá Blöndu til Mjólkár og kostnað þeirra og kostnaðinn fyrir vestfirzka notendur af völdum truflana, sem valda spennusveiflum og straumleysi hjá þeim. Þar að auki er fyrirsjánlega á næstu árum þörf fyrir aflið, sem nú er flutt til Vestfjarða, nær Bönduvirkjun. Af þessum sökum leikur ekki á tveimur tungum, að um 30 MW virkjun, vel staðsett á Vestfjörðum, er þjóðhagslega hagkvæm. Vert væri, að þingmenn NV-kjördæmis kæmu nú auga á þetta og styddu við bakið á ríkisfyrirtækinu Orkubúi Vestfjarða í viðleitni fyrirtækisins til að hrinda af stað góðum hugmyndum fyrirtækisins um næstu þokkalegu vatnsaflsvirkjun á Vestfjörðum.
"Til að tryggja afhendingaröryggi á Vestfjörðum, þegar flutningslínur eru straumlausar, hefur verið komið upp neti varaaflsvéla víða um Vestfirði. Stærsta varaaflsstöðin er í Bolungarvík, 11 MW dísilstöð í eigu LN, byggð árið 2015. Varaaflsstöðin er jafnstór Mjólkárvirkjun. Á Patreksfirði er 4,7 MW dísilstöð OV (mikið endurnýjuð 2018), en OV er með 11 varaaflsstöðvar um alla Vestfirði, alls 18 MW. Varaaflsstöð LN og nokkrar varaaflsstöðvar OV eru búnar sjálfvirkni og ræsa inn á net á innan við 90 s, ef raforkunetið verður straumlaust vegna bilana eða viðhalds.
Það hefur sýnt sig, að Vestfirðir þurfa í dag að vera með 100 % (dísil-) varaafl fyrir raforku til heimilisnota og til þeirra fyrirtækja, sem nota forgangsorku, til að tryggja ásættanlegt afhendingaröryggi. Þá þarf 100 % varaafl í formi olíukatla við straumleysi í stað rafkyntu hitaveitnanna. Varaafl á Vestfjörðum í formi dísilvéla og olíukatla er um 50 MW í dag."
Þetta er fróðleg lesning, sem sýnir stöðu raforkumála á Vestfjörðum, sem er frábrugðin því, sem aðrir landsmenn búa við. Svo þakkarvert sem það er að búa við tiltækt varaafl, er engu líkara, en þróun raforkumála Vestfirðinga hafi að sumu leyti stöðvazt með tilkomu Vesturlínu. Það er ekki vegna þess, að slæmt hafi verið fyrir Vestfirðinga að tengjast stofnkerfi landsins, heldur hins, að hún er langur leggur, en ekki hringtenging Vestfjarða við landskerfið í líkingu við það, sem aðrir landsmenn búa við. Að hringtengja Vestfirði við landskerfið er dýrt og tekur sinn toll af landinu. Hagkvæmara og meiri landvernd er í því fólgin að virkja vatnsfall eða vatnsföll á vel völdum stöðum á Vestfjörðum m.t.t. stöðugleika kerfisins og afhendingaröryggis raforku. Til þess að losna að mestu við að brenna olíu í varaaflsstöðvum þurfa Vestfirðir að verða sjálfum sér nógir um rafmagn frá virkjunum sjálfbærra orkulinda, og 60 kV flutningskerfi LN þarf að setja í jörðu svo fljótt sem auðið er til að draga úr bilanatíðni og neikvæðum áhrifum á ásýnd lands.
OV mundi þá einvörðungu flytja inn raforku um Vesturlínu, á meðan viðhald eða viðgerðir fara fram í virkjunum fyrirtækisins, og gæti jafnvel flutt raforku til landskerfisins á sumrin, þegar hitunarálagið hefur minnkað, og slíkur flutningur gæti bætt stöðu miðlunarlóna Landsvirkjunar. Allt virðist þetta vera þjóðhagslega hagkvæmt, enda kostar varaaflvélaorkan 70 ISK/kWh, sem er 13-falt heildsöluverð til almenningsveitna um þessar mundir.
"Það er hægt að koma upp virkjun innan svæðisins í seilingarfjarlægð frá mestu notkuninni, sem hefur nægilegt afl og nægilegt vatn í lónum til að mæta orkuþörf innan Vestfjarða, þegar flutningslínur inn á Vestfirði verða straumlausar. Með því að slík virkjun sé nægilega aflmikil til að mæta aflþörfinni innan Vestfjarða ásamt öðrum virkjunum, þá þarf í flestum tilvikum ekki að ræsa dísilknúið varaafl. Þar sem aflið í virkjuninni er auðvitað ekki dísilknúið, heldur vatnsafl, er í raun búið að tryggja afhendingu með vatnsafli og varaaflið þá orðið grænt.
Með byggingu virkjunar er ekki einungis verið að snúa við þeirri stefnu að auka sífellt við varaaflið í formi dísilvéla, heldur mun draga stórkostlega úr notkun þess varaafls, sem fyrir er, eða um 90 %.
Nærtækasta dæmið um slíka virkjun er 20-30 MW virkjun í Vatnsdal í Vatnsfirði, en með tilkomu virkjunarinnar, sem er einungis í 20 km fjarlægð frá Mjólkárvirkjun, gæti straumleysistilvikum hjá 90 % Vestfirðinga fækkað um 90 % og olíunotkun vegna varaafls einnig minnkað um 90 %."
Hér er um mjög mikið hagsmunamál Vestfirðinga og landsmanna allra að ræða, eins og Elías Jónatansson útskýrir þarna vel. Það er kominn tími til að rétta hlut Vestfirðinga í orkulegum efnum, og þess vegna ættu þingmenn og orkuráðuneyti að taka vel í þessa hugmynd OV. Vonandi verða ekki búnar til óþarfa blýantsnagaratafir á þetta verkefni, en vegna staðsetningarinnar þarf líklega sérstakan atbeina umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og mun þá reyna á hann að láta nú nú meiri hagsmuni víkja minni hagsmunum úr vegi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)