Færsluflokkur: Bloggar
14.12.2022 | 09:51
Stefnumarkandi um vindmylluþyrpingar
Ljóst er, að fjármagni hefur í of miklum mæli verið beint í afkastalítil tæki með lága nýtni og óreglulega framleiðslugetu til að breyta vindorku í raforku í heiminum, t.d. í Evrópu. Þetta ásamt andvana fæddri hugmyndafræði um að mynda friðelskandi gagnkvæmt hagsmunasamband lýðræðisríkja og einsflokksríkja, sem auðveldlega virðast breytast í einræðis- og alræðisríki, hefur valdið hrollvekjandi stöðu orkumála í Evrópu, þar sem dauðsföll af völdum kulda gætu tífaldast af völdum orkukreppu í vetur, verði hann harður. Í Úkraínu geta eldflaugaárásir hryðjuverkaríkis í austri á orkukerfi landsins valdið enn meiri hörmungum. Eru örlög Úkraínu þyngri en tárum taki. Þar láta hermenn og almennir borgarar lífið fyrir fullveldi lands síns. Úkraínumenn vita og skilja og allra þjóða bezt, að yfirráð Rússlands jafngilda ánauð. Þeir eru búnir að fá meira en nóg af að vera hnepptir í þrældóm af villimönnum.
Evrópa hefur hundsað þróun kjarnorkunnar, sem ein getur með raunhæfum hætti leyst jarðefnaeldsneyti af hólmi. Bretar eru þó að vakna úr dvala að þessu leyti, og brezka ríkið hefur nú skuldbundið sig til að kaupa kínverskt fyrirtæki út úr samsteypu, sem reisir kjarnorkuver á Englandi.
Hérlendis eru háreist áform um að reisa vindmylluþyrpingar víðs vegar um landið , t.d. 687 MW á Vesturlandi og a.m.k. 500 MW á Austurlandi. Þá eru ótalin mikil áform á Norðurlandi og Suðurlandi, t.d. hjá ríkisfyrirtækinu Landsvirkjun. Það gætir vanmats á neikvæðum áhrifum vindmylluþyrpinga á landið og landnýtingu annarra hagsmunaafla, s.s. íbúa frístundabyggða, bænda og ferðaþjónustunnar. Þá hefur lítil grein verið gerð fyrir áhrifunum á verðlagningu raforku til almennings, sem vafalaust verður til meiri hækkunar en nýjar hefðbundnar virkjanir í landinu munu valda.
Umræðan um áhrifin á raforkukerfið er einsleit og því er haldið fram, að vindmyllur vinni vel með vatnsorkuverum, muni minnka álag þeirra og spara miðlunarvatn. Þessi samkeyrsla getur hins vegar rýrt nýtni vatnsorkuveranna svo mikið, að vatnssparnaður verði lítill sem enginn.
Morgunblaðið tók stefnumarkandi afstöðu gegn mikilli vindorkuvæðingu landsins í gagnmerkum leiðara blaðsins 29. nóvember 2022, sem hét:
"Ná að hræða lítil börn".
Síðari hluti hans var þannig:
"Það er engin samstaða með þjóðinni um að eyðileggja ásýnd landsins og útbía það með niðurgreiddum vindmyllum, sem eru ótryggur orkugjafi og knúinn áfram af áróðri um loftslagshamfarir, sem hefur staðið í 3 áratugi, og á þeim tíma hefur samt ekkert gerzt til að skipta um orkugjafa í heiminum. En hamagangurinn er þó ekki til einskis. Upplýst er, að börn á aldrinum 7-12 ára (70 % þeirra) eru heltekin af ótta við loftslagsósköpin, sem tryggi, að þau nái ekki fullorðinsaldri.
Við Íslendingar höfum "náð því marki", sem öðrum þjóðum er sett, áður en það gerðist í Kyoto. Hefðu spár þaðan staðizt, væru ísbirnir við það að deyja út vegna eyðingar náttúrulegs umhverfis þeirra. En ísbjörnum hefur fjölgað verulega síðan þá ! Barnaleg íslenzk yfirvöld lofa að henda milljarðatugum út í buskann til að stuðla að því, að aðrar þjóðir nái þessum "markmiðum" ! Rétt er að taka fram, að Kína, Indland, Indónesía og Rússland með sína fáu íbúa gera ekkert með fyrirætlanirnar. Joe Biden slær burtu flestum hömlum af viðskiptabanni gegn Venesúela, svo að þaðan megi hann kaupa olíu !"
Þetta er ekki lítil ádrepa. Það er einmitt helzti ljóðurinn á málflutningi hlýnunarpostulanna, að þeir taka allt of djúpt í árinni án þess að hafa annað fyrir sér en meingallað spálíkan, sem er með gríðarlega slagsíðu til hækkunar m.v. nákvæmustu raunmælingar, sem völ er á. Hér er um gegndarlausan og fótalausan hræðsluáróður að ræða, eins og dæmið af ísbjörnunum sýnir. Loftslagskirkjan er komin í fótspor ofsatrúarsafnaða, og slíkir eru stórhættulegir viðkvæmum sálum.
Steinar Ingimar Halldórsson, verkfræðingur, ritaði merka grein í Morgunblaðið 29.11.2022, þar sem hann vakti máls á þeim vandkvæðum við samrekstur stórra vindmylluþyrpinga við vatnsorkuverin, að álagsbreytingar þeirra, þegar vindmyllur taka upp hluta álags þeirra eða missa álag, munu gera kerfisstjórn Landsnets erfiðara fyrir en nú er að reka heildarkerfið nálægt hámarksnýtni. Francis-hverflar vatnsorkuveranna geta fallið um 10 % í nýtni, ef rennslið sveiflast annaðhvort upp eða niður frá kjörstöðu. Þetta á við þann hluta hverflanna, sem tekur þátt í reglun kerfisins hverju sinni.
Greinina nefndi Steinar Ingimar:
"Ávinningur vindmylla er ofmetinn",
og hófst hún þannig:
"Í september [2022] sagði Morgunblaðið frá greiningu á efnahagslegum áhrifum uppbyggingar vindorkuvera á Vesturlandi, alls 687 MW af vindafli. Í greiningunni eru árlegar skatttekjur ríkissjóðs og sveitarfélaga af starfsemi vindorkuveranna metnar MISK 900 eða 0,3 ISK/kWh. Til samanburðar var meðalverð forgangsorku án flutnings 5,3 ISK/kWh árin 2020 og 2021. Skatttekjur af vindmyllum segja ekki alla söguna, og útkoman er ekki jafnlofandi fyrir skattgreiðendur, þegar stóra myndin er skoðuð."
Framleiðslukostnaður vindmylluþyrpinga af því tagi, sem nota á hér, er líklega um 50 USD/MWh eða 7,1 ISK/kWh, sem er 34 % hærra en ofangreint verð frá virkjun hérlendis. Í markaðskerfi að hætti ESB, sem dótturfélag Landsnets vinnur nú að undirbúningi fyrir, og meiri eftirspurn en hefðbundnu virkjanirnar geta annað, munu vindmylluþyrpingarnar fá sitt boðna verð, og hæsta verðið ákvarðar síðan markaðsverðið til allra notenda á þessum markaði. Þetta gæti þýtt um 10 % hækkun raforkukostnaðar heimila og fyrirtækja án langtímasamninga.
Nú má spyrja sig, hversu mikið nýtni vatnsorkuverflanna má minnka til að vega upp á móti ofangreindum opinberu gjöldum af vindmylluþyrpingunum. Það eru um 170 GWh/ár eða rúmlega 1 % af raforkuvinnslu vatnsorkuveranna. Það má ætla, að vaxandi óróleiki á raforkukerfinu með tilkomu mikilla vindmylluþyrpinga geti valdið meira nýtnitapi í kerfinu en þetta, svo að uppsetning vindmylla til að spara vatn og auka tekjur samfélagsins er unnin fyrir gýg. Er anað út á vindmylluforaðið af glópsku einni saman ?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.12.2022 | 10:25
Japlað á gömlum óttaáróðri
Nýlega er lokið 40 k (k=þúsund) manna ráðstefnu í Sharm El Sheikh í Egyptalandi um meinta yfirvofandi hlýnun jarðar. 0,11 % þátttakenda voru frá Íslandi, en á huldu er til hvers stofnað var til þess fjárausturs og losunar gróðurhúsaloftegunda. Ef einhver þeirra hefur haft eitthvað bitastætt fram að færa fyrir heimsbyggðina, hefur það ekki greinzt fyrir suðinu frá ráðstefnunni, venjulegu heimsendatuði og vafasömum gjörningum í nafni skattgreiðenda á Vesturlöndum.
Þessar COP-ráðstefnur eru vonlausar trúðasamkomur, því að engin leið er að komast að nokkurri skuldbindandi niðurstöðu eða samvinnu um að draga úr losun koltvíildis. Ef þátttakendur tryðu í raun og veru heimsendaboðskapnum, sem á almenningi er látinn dynja í síbylju, þá hlyti fyrir löngu að hafa náðst einhhver áþreifanlegur árangur við að draga úr losun CO2-koltvíildis, eins og raunin varð á um freon-efnin (kolflúoríð) til að vernda ósonlag jarðar. Losun koltvíildis eykst stöðugt á heimsvísu og í flestum löndum, og nú er viðurkennt, að borin von sé til að halda hlýnun jarðar innan 1,5°C m.v. hitastigið um aldamótin 1800, enda var sú tala gripin úr lausu lofti á COP-ráðstefnunni í París í nóvember-desember 2015.
Loftslagsáróðurinn stendur á slíkum brauðfótum og ofstækið er svo yfirþyrmandi, að erfitt er að taka hann alvarlega, enda virðast draumóramenn setja hann fram til höfuðs neyzluhyggju og auðhyggju. Yfirlýsingar um yfirvofandi dómsdag út af hlýnun, jafnvel innan áratugar, hafa tröllriðið málflutningi þessara postula frá frumráðstefnunni um málefnið í Rio de Janeiro 1992.
Ekki eru mælingar um styrk koltvíildis í andrúmsloftinu og stigul hans dregnar í efa, en hins vegar hefur hitastigshækkun andrúmsloftsins um 1,2°C frá um 1800 verið véfengd á vísindalegum grunni. Dr John Christy, prófessor og framkvæmdastjóri "Earth System Science Center-ESSC", við háskólann í Alabama/Huntsville, sagði í yfirheyrslu hjá bandarískri þingnefnd árið 2012, að undanfarið 18 ára tímabil hefði enginn stígandi verið í hitastigi andrúmsloftsins samkvæmt óvéfengjanlegum gervihnattamælingum. Sú niðurstaða sýnir einfaldlega, að líkan IPCC, sem notað er til að spá fyrir um hitastigsþróun andrúmsloftsins, er kolrangt og birt gögn um hitastigshækkunina eru röng. Um er að ræða flókið kerfi, og höfundar líkana IPCC virðast vera gloppóttir að þessu leyti. Þegar svona er í pottinn búið, er ástæðulaust að gera sér rellu út af sífrinu frá minni spámönnum, sem SÞ hafa gleypt við, en þar fljúga ýmsir fuglar ófjaðraðir.
Einn þeirra mörgu, sem gleypir við gögnum frá IPCC, er fyrrverandi Alþingismaður Alþýðubandalagsins og iðnaðarráðherra, Hjörleifur Guttormsson. Í þeim anda skrifar hann heilmikið í Morgunblaðið, og 22.11.2022 birtist þar greinin:
"Mannkynið fjarri lausn við loftslagsvandanum".
Hún hófst þannig:
"Nú er mannsaldur liðinn frá því mælingar sýndu í hvað stefndi með koltvíoxíðinnihald (CO2) í andrúmslofti jarðar í kjölfar efnahagsumsvifa, sem byggðust á jarðefnaeldsneyti, kolum og olíu. Sameinuðu þjóðirnar kvöddu til sérfræðinga, sem lögðu grunninn að loftslagssamningi um 1990, sem samþykktur var á ráðstefnunni í Ríó de Janeiro og síðan staðfestur af flestum ríkjum heims. Fyrsti ársfundur aðildarríkja þessa samnings (COP-1) var haldinn í Bonn árið 1995 og síðan ár hvert, síðast í Egyptalandi, þar sem COP-27 var að ljúka um síðustu helgi. Sá, sem þetta skrifar, gerði sér ferð á Ríó-ráðstefnuna og COP-4 í Buenos Aires árið 1998 og hefur fylgzt með þróun mála samfellt síðan. Afleiðingarnar af aukningu CO2 á loftslag jarðar hafa orðið augljósari frá ári til árs, sem leiddi til Parísarsamkomulagsins sögulega á COP-20 árið 2015. Grunnur þess er, að stöðva beri meðaltalshlýnun andrúmsloftsins af mannavöldum innan við 1,5°C-2,0°C. Reynslan síðan af áhrifum hlýnunar hefur fest neðri viðmiðunarmörkin í sessi sem eðlilega kröfu, en forsendurnar, til að hún verði að veruleika eru óskhyggja að óbreyttu efnahagsumhverfi."
Það er ofeinföldun á flóknu kerfi andrúmsloftsins að tengja breytingar á hitastigi þess einvörðungu við hækkun koltvíildisstyrks og segja má, að gervihnattamæligögn dr John Christy afsanni þessi sterku tengsl, því að auðvitað jókst koltvíildisstyrkurinn mjög á tímabilinu 1994-2012, þegar hitastigið jókst ekkert. Sem dæmi má nefna, að vatnsgufa-H2O er öflug gróðurhúsalofttegund og við upphitun eykst geislun út í geiminn með hitastiginu í 4. veldi, svo að kerfið leitar jafnvægis í stað þess að stefna í stjórnlausa upphitun, eins og IPCC og aðrir dómsdagsspámenn halda fram. Allar dómsdagsspár á þessu sviði sem öðrum hafa orðið sér til skammar, en samt valdið ótta, einkum ungviðisins.
Þorsteinn Sæmundsson, stjörnufræðingur, virðist yfirleitt hafa mikið til síns máls, þegar hann stingur niður penna. Í örgrein í Morgunblaðinu gagnrýnir hann það réttilega, að nú virðast stjórnvöld ætla að skuldbinda Íslendinga til að greiða í loftslagsbótasjóð, fyrir að hafa stuðlað að hækkun koltvíildisstyrks í andrúmslofti, upphæð, sem gæti numið árlega mrdISK 3-4. Í ljósi sögunnar er þetta fáheyrt. Það sýnir, hversu leiðitamur loftslagsráðherrann er og laus við að hafa nokkurt leiðtogabein í nefinu, að honum þótti í kjölfar samþykktar um þetta í Sharm El Sheikh sjálfsagt að skuldbinda landsmenn í þessa veru.
Þorsteinn Sæmundsson er annarrar skoðunar. Téð grein hans, 28.11.2022:
"Fjármunum kastað á glæ",
hófst þannig:
"Skiptar skoðanir eru um það, hve mikinn þátt mannkynið eigi í hækkuðu hitastigi hér á jörðu. Sjálfur hallast ég að því, að þessi þáttur vegi býsna þungt, en vil þó engan veginn fullyrða það. Hitt þori ég að fullyrða, að mannlegar aðgerðir til að hamla gegn hitahækkuninni eru dæmdar til að mistakast. Í fyrsta lagi eru þær þjóðir, sem mestri loftmengun valda, ekki virkir þátttakendur í aðgerðunum. Í öðru lagi er engin von til þess, að aðrar þjóðir fylli upp í skarðið, því að það myndi ógna hagvexti þeirra.
Að við Íslendingar tökum þátt í þessum aðgerðum, er hreinasta hneyksli, eins og ég hef áður fjallað um í blaðagrein: "Barnaskapur og sjálfsblekking", Mbl. 2.4.2022. Um 90 % af orkunotkun okkar er laus við alla mengun. Við stöndum bezt allra þjóða í því efni."
Þorsteinn telur tilraunir til að draga úr heimslosun CO2 dæmdar til að mistakast, og við það má bæta skrýtinni viðskiptahugmynd um að flytja CO2 inn til Íslands, blanda það við mikið vatnsmagn og dæla blöndunni niður í jörðina í von um, að blandan umhverfist þar í grjót. Þessi aðferð er einfaldlega allt of dýr og krefst of mikillar orku og vatns. Sá, sem hefur fyrir því með erfiðismunum að draga CO2 út úr afsogi, mun fremur kjósa að selja það til framleiðslu á rafeldsneyti í grennd við sig en að senda það til Íslands. Varðandi "syndaaflausn" koltvíildislosara spyr Þorsteinn, hvar þessi vitleysa endi eiginlega ? Fégreiðslur af þessu tagi eru dæmdar til að verða spillingu að bráð. Við getum notað þetta fé betur hérlendis í sjóvarnargarða vegna hækkandi sjávarstöðu.
Einn þeirra, sem sótti messu loftslagskirkjunnar í Egyptalandi nú í vetur, COP-27, var Bergþór Ólason, Alþingismaður. Hann er þó ekki í þessum sértrúarsöfnuði. Pistill eftir hann birtist á ritstjórnarsíðu Morgunblaðsins 28. nóvember 2022 undir fyrirsögninni:
"Loftslagskirkjan messar í Egyptalandi",
og hófst þannig:
"Fyrir réttri viku bárust fréttir af því, að "örþreyttir" samningamenn hefðu náð niðurstöðu um s.k. loftslagsbótasjóð á COP27, loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna [SÞ] í Sharm El-Sheikh í Egyptalandi.
En niðurstöðu um hvað ? Uppleggið er, að í sjóðinn renni 100 mrdUSD/ár frá þróuðum þjóðum til hinna vanþróuðu, sem verða fyrir tjóni af völdum veðurtengdra atburða. Það samsvarar 11-földum fjárlögum Íslands [2022], árlega !
Ef mrd 1,5 jarðarbúa af mrd 8,0 stendur undir þessum greiðslum, má reikna með, að hlutur Íslendinga verði á 4. mrd árlega hið minnsta [hlutfall gefur 3,6 mrdISK/ár]. Höfðu embættismennirnir, sem þarna sátu dagana langa, umboð til að skuldbinda ríkissjóð með þessum hætti ?"
Það er tvöföld ástæða fyrir því, að glórulaust er að snara þessum fjármunum úr skuldugum ríkissjóði, sem þessi misserin er rekinn með miklum halla.
Íslendingar voru fátækastir Evrópuþjóða um aldamótin 1900, enda höfðu þeir mannsaldurinn á undan orðið fyrir um fjórðungsblóðtöku, er atorkufólk hrökklaðist til Vesturheims undan kulda (hafísár), skorti á jarðnæði og atvinnuleysi. Iðnvæðing hófst hér ekki að kalla fyrr en eftir Síðari heimsstyrjöldina, og var hún knúin áfram með endurnýjanlegum orkulindum. Nokkru fyrir styrjöldina var farið að draga úr notkun kola og olíu með upphitun húsnæðis með heitu vatni úr iðrum jarðar. Þannig var þróunin hérlendis með ósambærilegum hætti við önnur Vesturlönd og fáránlegt að láta Íslendinga borga einhvers konar "syndaaflausn", á meðan stórmengarar á borð við Kína, Indland, Indónesíu og Brasilíu er taldir til þróunarlanda og eru undanþegnir greiðslum í þennan sjóð.
Sjóður á borð við þennan býður heim mikilli spillingarhættu, og það er hætt við stórfelldri misnotkun fjár og litlum framkvæmdum af viti til að aðlaga íbúana og lönd þeirra að breyttum aðstæðum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.12.2022 | 11:17
Stríð í okkar heimshluta
Frá 24. febrúar 2022 geisar illúðlegt stríð í Evrópu. Hið árásargjarna rússneska ríki heyr grimmdarlegt nýlendustríð gegn Úkraínumönnum. Siðferðilega rotnum og ömurlega illa skipulögðum Rússaher gengur svo illa á vígvöllunum, að síðan gagnsókn úkraínska hersins hófst í byrjun september 2022, hefur honum orðið vel ágengt við að frelsa hertekin landsvæði, einkum í norðaustri og suðri. Þar hefur aðkoman verið ömurleg. Fréttir berast nú af 4 pyntingarstöðvum rússneska hersins í frelsaðri Kherson-borg í suðri. Eru brot Rússa á Genfarsáttmálanum um stríðsrekstur, meðferð stríðsfanga og hegðun gagnvart óbreyttum borgurum, til vitnis um, að Rússland er villimannaríki, hryðjuverkaríki, sem útiloka á frá öllum samskiptum siðaðra manna.
Siðleysi og grimmd rússneskra stjórnvalda og hersins mun koma hart niður á óbreyttum borgurum Rússlands á næstu árum, og getur leitt til upplausnar sambandsríkisins, því að úrþvætti komast ekki upp með yfirráð til lengdar. Stríðið hefur leitt í ljós hrikalega rangt mat Vesturveldanna á öryggi Evrópu í hernaðarlegu og viðskiptalegu tilliti og sýnt frm á nauðsyn NATO. Rússar hafa ofmetið hernaðargetu sína og vanmetið samstöðu Vesturveldanna gegn skefjalausu ofbeldi. Vesturveldin eru þó of treg til að senda Úkraínumönnum þau hergögn, sem gert gætu út af rússneska herinn í Úkraínu á fáeinum mánuðum. Þessi tregða leiðir enn meiri hörmungar yfir almenning í Úkraínu vegna þess hernaðar, sem hinn ömurlegi rússneski her stundar gegn almennum íbúum Úkraínu. Fólskan ræður þar ríkjum, og hana verður að brjóta sem fyrst á bak aftur og veita síðan hinni stríðshrjáðu og dugandi úkraínsku þjóð inngöngu í NATO. Það er óskiljanlegt, að Þjóðverjar skuli ekki samþykkja tillögu Pólverja um staðsetningu Patriot-loftvarnakerfisins í Úkraínu fremur en í Póllandi. Patriot-kerfið er líklegast öflugasta loftvarnakerfi, sem völ er á nú um stundir, og mundi líka verja aðliggjandi NATO-lönd, ef það væri staðsett í Úkraínu. Það er engu líkara en Frakkar og Þjóðverjar, hverra einræðisherrar lutu í lægra haldi fyrir gríðarlegum fjölda, sem rússneskir herforingjar öttu fram gegn herjum þeirra á 19. og 20. öld, vilji ekki sjá Rússaher sigraðan í Úkraínu á 21. öldinni. Það er hrottalega misráðið af Berlín og París. Meira raunsæi er uppi í Eystrasaltslöndunum, Finnlandi og Póllandi, sem liðið hafa undan hernámi Rússa og þekkja eðli þeirra.
Einn af íslenzkukennurum höfundar í MR skrifaði góða hugvekju í Fréttablaðið 9. nóvember 2022 um ástæður styrjalda almennt, og kveikjan að þeim góðu skrifum er líklega árásarstyrjöld Rússa gegn Úkraínumönnum, sem hneykslazt er á hér að ofan. Þarna á í hlut Árni Björnsson, þjóðháttafræðingur, en höfundur man ljóslega eftir honum kryfja Eglu með nemendum á einu misseri. Nokkrir þefnæmir nemendur, einkum nærri kennarapúltinu, töldu sig einstaka sinnum skynja kaupstaðarlykt í loftinu, þegar kennarinn komst á flug við að útskýra boðskap Snorra Sturlusonar og útskýra vísurnar, sem sá lærði maður úr Oddaskóla á Rangárvöllum hafði safnað að sér eða ort sjálfur og sett á kálfskinn. Konungar voru yfirleitt ófriðsamir og sátu yfir hlut sjálfstæðra bænda með skattheimtu til að fjármagna hirðina og herinn. Að breyttu breytanda á þetta við um einræðisherra nútímans.
Nú verður gripið niður í lipurlega ritaða hugleiðingu þjóðháttafræðingsins, sem bar fyrirsögnina:
"Margtugga um stríð":
"Það er ævinlega fámenn yfirstétt, sem hefur komið stríðsátökum af stað. Hún lætur, þegar grannt er skoðað, jafnan stjórnast af ásókn í land, auðlindir og völd, þótt menningar- eða trúarlegar ástæður séu oft hafðar á yfirborði. Til þess hefur hún sér til fulltingis snillinga á sviði innrætingar til að fá almenning til fylgis. En það er einn afdrifaríkasti veikleiki hins venjulega manns, hvað hann er hrekklaus og ginnkeyptur fyrir málafylgju."
Þessi texti getur sem bezt átt við Rússland 2022 og Þýzkaland 1939 og 1914. Í öllum tilvikum var um einræðisstjórnarfar að ræða, og slík ríki eru mun ófriðlegri og árásargjarnari en vestræn lýðræðisríki. Rússneska yfirstéttin, ólígarkar, ágirnist auð Úkraínu. Fólkið þar er duglegt og skapandi, moldin er frjósöm, dýrir málmar og olía í jörðu, og nú hafa fundizt miklar jarðgasbirgðir í Suður-Úkraínu og þó einkum í Svartahafi í kringum Krímskagann.
Rússneska rétttrúnarkirkjan virðist vera með böggum hildar, eftir að sú úkraínska sagði skilið við hana 2019 og hefur lýst "sértæka hernaðaraðgerð" Pútíns sem heilagt stríð gegn Úkraínu. Pútín og skósveinar þessa nýlenduherra lýsa því blákalt yfir, alveg út í loftið, að úkraínsk þjóð hafi enga sérstöðu og úkraínsk menning sé ekki til. Þetta stríðir gegn heilbrigðri skynsemi og t.d. sögu 18. aldar, þegar Úkraínumenn voru í uppreisn gegn zarnum. Frá því að sænskir víkingar stofnuðu með íbúunum á svæðinu Kænugarðsríkið, hefur Úkraína verið til með sínum kósökkum. Hér er um harðduglega menningarþjóð að ræða, t.d. á sviði tónlistar og dansa.
Rússar hafa alltaf verið með tilburði til að þurrka út sérstöðu þjóðarinnar og kúga hana grimmdarlega, eins og tilbúin hungursneið af þeirra hálfu 1932-1933 sýndi. Til þess var tekið, að Rússar stálu öllum gersemum þjóðminjasafnsins í Kherson og höfðu á brott með sér til Rússlands, ásamt heimilistækjum og salernisbúnaði. Þeir hafa hagað sér eins og óuppdregnir vandalar í Úkraínu. Herstjórninni væri trúandi til að standa að slíku. Hún er ærulaus.
"Slík átök byrjuðu smátt fyrir þúsundum ára. Í frjósömum árdölum tókst fólki smám saman að framleiða meiri matvæli en það þurfti til daglegs viðurværis. Meðal þess spruttu upp klókir og gráðugir menn, sem með ýmsum aðferðum gerðu sig að andlegum leiðtogum og í krafti þess með tímanum að veraldlegum foringjum, sem hirtu framleiðslu fjöldans. Enginn þeirra var þó þekktur að manngæzku."
Þetta er líklega sannferðug lýsing á upphafi stéttaskiptingar í heiminum. Fólk hefur alltaf verið misjafnlega úr garði gert að andlegu og líkamlegu atgervi, svo að ekki sé minnzt á hugðarefnin, svo að þeir, sem gátu framleitt meira en aðrir, hafa verið taldir vel til forystu fallnir. Hjátrú hefur þjakað lýðinn þá, eigi síður en nú, og það hefur verið góður jarðvegur til að koma því inn hjá honum, að velgengni stæði í sambandi við æðri máttarvöld. Það varð að eins konar réttlætingu á forréttindum og hóglífi æðsta klerks, að þau væru merki um velþóknun æðri máttarvalda. Áróður og innræting hafa óralengi leikið stórt hlutverk í samfélagi manna og verið jafnan til bölvunar.
"Þessir foringjar komu sér upp hirð og her til að tryggja völd sín, reistu sér hallir og hof og töldu lýðnum trú um, að toppfígúran hefði þegið stöðu sína frá æðri máttarvöldum, sem öllum bæri að hlýða. Þegar svo valdaklíkur í nágrannalöndum tóku að keppa um sömu náttúruauðlindir, var kvatt til herútboðs, einatt í nafni trúar, þjóðernis eða ættjarðarástar. Og lýðurinn kunni ekki annað en hlýða. Í sögukennslu er svo látið heita, að þetta sé gert í nafni þjóðar og forkólfar yfirgangsins, eins og Alexander mikli, Sesar eða Napóleon, kallaðir mikilmenni."
Höfundur þessa pistils er hallur undir þessa söguskýringu síns gamla læriföður um Eglu. Í hryðjuverkaríkinu Rússlandi er nú alræði eins manns, sem hefur hlotið blessun rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar á villimannslegu landvinningastríði sínu í Úkraínu, svo að þar kemur sú tenging við yfirnáttúruleg öfl, sem Árni tínir til í kenningu sinni hér að ofan. Forseti Rússlands boðar ennfremur endurreisn heimsveldis Rússa, eins og það var víðfeðmast á dögum zaranna, og í raun sameiningu allra Slava í eitt ríki undir forystu Rússa. Það á að endurreisa "mikilfengleika Rússlands", sem er þó anzi þokukenndur.
Þetta er geðveiki, enda er ekki nokkur raunhæfur grundvöllur fyrir slíkri endurtekningu kúgunarsögunnar. Forseti Rússlands hefur raunar bólusett Úkraínumenn og aðra Slava endanlega gegn nokkrum áhuga á því að gerast enn og aftur þrælar frumstæðs og ofstopafulls rússnesks ríkis.
"Pútín er lítið annað en handbendi nýríkra rússneskra auðjöfra, sem ágirnast m.a. auðlindir Úkraínu. Vopnaframleiðendur meðal þeirra tapa ekki, þótt rússneski herinn tapi á vígstöðvunum. Að breyttu breytanda gildir sama munstrið í stórum dráttum enn í dag. Það eru ekki þjóðir, sem keppa um auðlindir jarðar, en í stað aðalsmanna fyrri alda er komin yfirstétt fjármálajöfra, sem hagnast m.a. á offramleiðslu og endurnýjun óþarfra hergagna. Til að réttlæta hana þarf að magna upp stríðsótta og helzt tímabundin átök. Þetta eru allt annars konar öfl en þeir heiðarlegu dugnaðarmenn í hverju landi, sem eiga frumkvæði að því að byggja upp þarflega atvinnuvegi, en halda sig frá fjármálabraski. En í krafti hins frjálsa fjármagns ráða braskararnir oft ferðinni."
Hér skal ósagt látið, hver er handbendi hvers í æðstu valdastétt Rússlands. Þá er og komið í ljós núna, að friðarhreyfingar í Evrópu og víðar hafa haft kolrangt fyrir sér varðandi hættuna, sem af Rússum stafar. Þeir eru einfaldlega enn þá útþenslusinnað og árásargjarnt ríki, þótt herstyrkur og efnahagsstyrkur þessa rotnaða ríkis sé lítill. Að tala niður fjármálamenn og fjárfesta á Vesturlöndum, af því að þeir græði sumir á framleiðslu og sölu hergagna, missir nú orðið algerlega marks á Vesturlöndum. Það er full þörf á NATO og hefur alltaf verið til að verja einstaklingsfrelsið og lýðræðið. Nú eru reyndar svartir sauðir í NATO á borð við Erdogan, Tyrklandsforseta, og Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, sem þvælast fyrir inntöku Finnlands og Svíþjóðar í NATO. Þá verður hegðun Orbans æ undarlegri, því að nú er hann farinn að sýna tilburði um að vilja færa út landamæri Ungverjalands og lætur mynda sig með trefil, sem sýnir ný landamæri.
Rússar eru nú þegar búnir "að spila rassinn úr buxunum" í Úkraínu og hafa breytzt í útlagaríki. Það verður líklegra með hverri vikunni, sem líður, að draumur Úkraínumanna um að reka rússneska herinn út úr landi sínu og endurreisa landamærin frá 1991 muni rætast 2023. Til að varðveita þann frið, sem þeir þá hafa lagt grunninn að, þarf endilega að verða við bón þeirra um að ganga í NATO. Síðan mun hefjast gríðarlegt uppbyggingarskeið í Úkraínu, þar sem innviðir, skólar, sjúkrahús,íbúðarhúsnæði og fyrirtæki verða reist að vestrænum hætti, og Úkraína verður tengd vestrænum mörkuðum og stofnunum og verður varnarlegt bólvirki gegn Rússum með öflugasta her Evrópu.
Það mun ekki líða á löngu, unz verg landsframleiðsla Úkraínu mun sigla fram úr VLF Rússlands, og að nokkrum áratugum liðnum munu Úkraínumenn verða fjölmennari en íbúar leifanna af Rússaríki. (Kákasusþjóðirnar og e.t.v. einhverjar Síberíuþjóðir munu segja skilið við Sambandsríki Rússlands.) Auðlindir Úkraínu eru nægar til að veita yfir 100 M manna þjóð góð lífskjör á evrópskan mælikvarða. Úkraína getur brauðfætt og knúið orkukerfi allrar Evrópu vestan Rússlands. Þannig mun Úkraína verða öflugasta ríki Evrópusambandsins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.12.2022 | 10:05
Skýrsla veldur vonbrigðum
Um efnivið skýrslu Ríkisendurskoðunar um sölu Bankasýslu ríkisins á 22,5 % hlut ríkisins í Íslandsbanka má segja, að fjallið hafi tekið jóðsótt og fæðzt hafi lítil mús. Þetta er skrifað í ljósi þess, að téð skýrsla var um 7 mánuði í smíðum, og miðað við það er afraksturinn afar rýr. Palladóma gætir í skýrslunni á borð við þekkingarskort Bankasýslunnar á viðfangsefninu, óþarflega lágt verð á hlutnum og ófullnægjandi upplýsingagjöf, en af andsvörum Bankasýslunnar við þessari gagnrýni virðist engin innistæða vera fyrir henni, og er henni vísað til föðurhúsanna. Alþingismaðurinn Haraldur Benediktsson undirstrikar þetta mat.
Í umræðum um þessa sölu í kjölfar útkomu skýrslu Ríkisendurskoðunar hefur eftir-á-vizka verið mest áberandi. Hún er einskis virði, enda órökstudd í öllum tilvikum hér, en reist á afdönkuðum vinstri viðhorfum um, að alltaf tapi samfélagið á sölu ríkiseigna, þótt því sé í raun þveröfugt farið, því að þessir "aðgerðarlausu peningar" ríkisins verða settir í að draga úr vaxtabyrði ríkissjóðs og settir "í vinnu" með innviðauppbyggingu. Einnig minnkar áhætta ríkissjóðs vegna vanhugsaðra aðgerða bankamanna. Allir ættu að vita, t.d. eftir fyrirsjáanlegt mrdISK 200 tap ríkissjóðs vegna ábyrgðar á gjörningum ríkisstarfsmanna í Íbúðalánasjóði, að affarasælast er, að þeir (embættismenn og stjórnmálamenn) haldi sig fjarri stjórnunarhlutverki í fjármálastofnunum, því að á þær bera þeir fæstir meira skynbragð en heimilisköttur.
Það skín í gegnum málflutning ríkisrekstrarsinna, að þeir ætluðu að koma klofbragði á þessa og framtíðar sölur hluts í bönkunum, eftir útkomu skýrslunnar. Þeir leituðu logandi ljósi að einhverju bitastæðu á borð við lögbrot, en slíkt fann Ríkisendurskoðun reyndar ekki. Hins vegar spurðu slagsíðu-fréttamenn á RÚV, sem eru í raun og veru fúskarar í blaðamannastétt, af því að þeim er um megn að fjalla hlutlægt um mál, ef þeir sjá möguleika á að koma höggi á pólitíska andstæðinga sína, ítrekað um, hvort sala hlutarins fæli í sér lögbrot.
Öll var framganga þeirra aukvunarverð, og aumust var framganga formanns Blaðamannafélagsins í Kastjósþætti með fjármála- og efnahagsráðherra, þar sem hún spann upp þvælu, sem átti að sýna hlustendum, að ráðherrann hefði viljað koma sér hjá að mæta bankabónusdrottningunni, sem nú vermir stól formanns Samfylkingar. Aumari spuna er vart hægt að hugsa sér, enda stóð ráðherrann daginn eftir í um 8 klst vörn fyrir þessa sölu á ríkiseigninni. Hið hlálega er, að hin eigingslega bankabónusdrottning Samfylkingar hélt því síðan fram, að ráðherrann hefði ekki "þorað" að mæta sér í umræddum Kastljósþætti. Það er langt síðan hlægilegra ofmat á eigin getu hefur sézt af hálfu Alþingismanns. Er líklegt, að það eigi sér sálfræðilega skýringu ?
Þá er ótalin orðsporsrýrnun Alþingis út af þessu máli. Þar er ekki átt við hefðbundið blaður þekkingarsnauðra þingmanna á viðkvæmu og viðamiklu máli, heldur um trúnaðarbrest Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis (SEN) gagnvart forseta Alþingis og Ríkisendurskoðanda með því að senda skýrsluna til nokkurra blaðamanna, þ.á.m. á RÚV, á meðan trúnaður átti að ríkja um hana. Þetta var bæði siðlaust og afspyrnu heimskulegt athæfi, því að ekki verður séð, hvernig slíkur leki átti að gagnast aumum málstað stjórnarandstöðunnar. Það verður að gera gangskör að því að finna hinn seka, því að annars liggja of margir undir grun, og orðspor Alþingis sem traustverðrar stofnunar er í húfi. Hin seka eða seki verður að fá að finna til tevatnsins með viðeigandi hætti (fá aldrei aftur trúnaðargögn í hendur, gegna engum hlutverkum á vegum Alþingis, sem sagt hún (hann) verði sett í skammarkrókinn).
Í Staksteinum Morgunblaðsins 18. nóvember 2022 er vitnað í orð Haraldar Benediktssonar, Alþingismanns, sem varpa í raun ljósi á, hversu ómerkilegur málatilbúnaður og orðaskak stjórnarandstöðunnar er, enda ætlunin að kasta skít í tannhjól frekari sölu á hlut ríkisins í bönkum og að níða skóinn niður af fjármála- og efnahagsráðherra, sbr. "verður hann ekki að sæta ábyrgð ?". Aum er sú hegðun:
"Haraldur Benediktsson, varamaður í Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, veitir athyglisverða innsýn í söluna á Íslandsbanka og skýrslu Ríkisendurskoðunar um þá sölu í samtali við mbl.is. Hann segir, að komast þurfi til botns í lekanum á skýrslunni, enda sé um að ræða "viðkvæm samskipti þings og Ríkisendurskoðunar. Og hann bætir við: "Skýrslan var í örfárra höndum, sem voru beðnir sérstaklega um trúnað með bréfi frá forseta þingsins." Þarf ekki að rannsaka, hver varð ekki við þeirri beiðni."
Auðvitað verður þingið með hjálp sérfræðinga að komast til botns í málinu, því að trúverðugleiki þingsins er í húfi. Sú eða sá, sem stóðst ekki freistinguna að taka forskot á sæluna við að þyrla upp moldviðri út af þessari sölu á 22,5 % hlut ríkisins í Íslandsbanka, ber að gjalda þess og getur ekki fengið að njóta slíks trúnaðar áfram.
"En Haraldur er líka í Fjárlaganefnd og segir, að þar hafi tilboðsleiðin, sem farin var við söluna, verið "rækilega kynnt fyrir nefndinni og þá mögulegir afslættir. Þetta voru allt saman atriði, sem voru rædd, og við fengum meira að segja sérstaka gesti á fundi nefndarinnar til að ræða tilboðsleiðina. Við kynntum okkur hana með því að leita víðar fanga en bara til fjármálaráðuneytis og bankasýslunnar."
Þetta sýnir í hnotskurn, að túður Kristrúnar Frostadóttur o.fl. stjórnarandstæðinga um, að illa hafi verið staðið að kynningu og upplýsingagjöf til þingsins, stenzt ekki rýni. Mikill áhugi markaðarins á útboðinu bendir jafnfram til góðrar upplýsingagjafar til hans. Gagnrýniefni Ríkisendurskoðunar eru ýmist getgátur og eftir-á-speki eða hreinn sparðatíningur. Svo er að sjá, hvort skýrsla Seðlabankans verði eitthvað bitastæðari. Að drepa söluferlið í dróma með skipun rannsóknarnefndar þingsins er algerlega ástæðulaust og allt of seinvirkt og dýrt ferli. Hér hefur orðið stormur í vatnsglasi nokkurra athyglissjúkra þingmanna, sem gera sig seka um órökstuddan fullyrðingaflaum, og er bónusbankadrottning Samfylkingarinnar ekki barnanna bezt í þeim efnum.
"Hann bendir einnig á álit minni- og meirihluta og segir þau til vitnis um, að þessi mál hafi verið rædd í fjárlaganefnd og í greinargerð ráðherra. "Það gat komið niður á hæsta mögulega verði. Þannig að ég skildi það ekki í vor og skil ekki enn í dag, hvers vegna menn koma svona af fjöllum með þetta allt saman", segir hann. Getur verið, að aðrir hafi sofið á nefndarfundunum ?"
Það er ábyggilega óbeysnum skilningi fyrir að fara á útboðsmálum almennt hjá þeim innantómu vindhönum og -hænum, sem hæst hafa galað eftir þessa sölu, en þau eygðu áróðurstækifæri fyrir sig og gerðu óburðuga tilraun til að koma óorði á sölu ríkiseigna almennt. Þar er hvatinn ótvíræður. Hversu lítil skynsemi sem annars er í því fyrir ríkið að sitja á eignum í allt annarri starfsemi en ríkið fæst almennt við, reyndar með mjög umdeilanlegum árangri, þá skal útþensla og eignamyndun ríkisins varin fram í rauðan dauðann og öllum ráðum beitt til að setja skít í tannhjólin, jafnvel trúnaðarsvikum við forseta Alþingis. Þetta vinstra lið er bæði fákunnandi, frekt og siðlaust.
Við þetta tækifæri er vert að minnast þess, hvernig Íslandsbanki komst í hendur ríkisins. Hann var stofnaður upp úr þrotabúi Glitnis með stöðugleikaframlögum kröfuhafanna. Hverjir stóðu að þeim snilldargjörningi ? Voru það mannvitsbrekkur eða fjármálaspekingar á vinstri kanti stjórnmálanna, sem þó höfðu tækifæri til að láta ljós sitt skína á tíma vinstri stjórnarinnar 2009-2013, mesta niðurlægingartímabili lýðveldisins. Nei, þau reyndust duglaus með öllu og reyndar ónýt til allra verka. Það voru fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarni Benediktsson og forsætisráðherrann, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem kreistu stöðugleikaframlögin undan nöglum kröfuhafanna. Nú telur sá fyrr nefndi vera fyllilega tímabært, að þetta fé fari að vinna fyrir íslenzka þjóð, en annað fé, fé af frjálsum fjármálamarkaði, leiti í staðinn inn í bankann sem hlutafé. Þessi þróun þarf að halda áfram, svo að hann verði öflugt almenningshlutafélag, skráð í Kauphöll Íslands.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
2.12.2022 | 17:54
Dulin skýring á lágu raforkuverði frá íslenzkum virkjunum
Auk opinberra gjalda má skipta orkureikningi landsmanna í þrennt: orkuverð frá virkjun, flutningsgjald frá virkjun til dreifiveitu og dreifingargjald dreifiveitu til notanda. Tveir síðari liðirnir eru tiltölulega háir á Íslandi m.v. önnur lönd, en fyrsti liðurinn af þremur er lágur, mjög lágur nú um stundir m.v. önnur lönd.
Margir halda, að skýringarinnar á hinu síðast nefnda sé að leita í verðinu á því, sem knýr virkjanir landsmanna, þ.e. í vatnsaflinu og jarðgufunni. Þeir, sem láta sér þessar skýringar lynda, komast aldrei til botns í málinu, og það er hætt við, að samtökin Landvernd, sem gert hafa tillögu um virkjanastopp og í staðinn að draga úr þeirri orku, sem seld er samkvæmt langtímasamningum til stóriðju, hafi ekki skilið til fulls, hvers vegna landsmenn njóta lágs raforkuverðs. Í stuttu máli er það vegna nýtingar á auðfengnum endurnýjanlegum orkulindum og vegna tiltölulega jafns álags á kerfið innan sólarhrings, viku og árs. Það er jafnara álag hér en annars staðar þekkist og nauðsynlegt að viðhalda því með almannahag í huga.
Það er hverjum manni skiljanlegt, að til að borga upp vél, sem aðeins framleiðir með hálfum hámarksafköstum yfir árið, þarf að selja vöruna frá vélinni á hærra verði en væri hún keyrð á 95 % af hámarksafköstum. Það er meira álag á raforkukerfið á köldum vetrardegi en á hlýjum sumardegi, en sá munur er t.d. miklu meiri í Noregi en á Íslandi, af því að norskt húsnæði er yfirleitt hitað upp með rafmagni, en íslenzkt húsnæði í flestum tilvikum með jarðhitaveitu eða varmadælum. Það, sem þó munar langmest um til jöfnunar heildarálags, er verksmiðjuálag, þar sem unnið er allan sólarhringinn allan ársins hring í verksmiðjunum og leitzt við að viðhalda framleiðsluafköstunum. Þessi stöðugleikaorka til verksmiðjanna nemur nú um 3/4 af heild.
Steinar Ingimar Halldórsson, verkfræðingur, varpaði sögulegu ljósi á þessa skýringu lágs orkuverðs, sem vafizt hefur fyrir ýmsum, einkum þeim, sem fjargviðrast yfir lágu raforkuverði til þessara verksmiðja, í Morgunblaðsgrein 12.11.2022. Það er hægt að sýna fram á, að verksmiðjurafmagnið stendur fyllilega undir sinni kostnaðarhlutdeild raforkugeirans og skapar skilyrðin, sem gera raforkugeiranum kleift að bjóða heimilum og almennum fyrirtækjum rafmagn á miklu betri kjörum en ella. Það má orða þetta þannig, í stéttastríðsanda, að verksmiðjurnar greiði niður raforkuverð til heimilanna, en afturhaldið í landinu hefur alla tíð snúið þessari staðreynd algerlega á haus. Fyrirsögn téðrar greinar var:
"Lágt raforkuverð ekki sjálfgefið".
Hún hófst þannig:
"Hér á Fróni prísum við okkur sæl að vera ótengd evrópska raforkukerfinu, enda orðin vön ódýru rafmagni. Hverju megum við þakka lágt raforkuverð, og getum við tekið því sem gefnu í framtíðinni ?"
Tækniframfarir, bætt stjórnun og þekking geta unnið upp á móti óhagstæðari virkjunarkostum frá náttúrunnar hendi, svo að stofnkostnaður MUSD/MW, fari aðeins hægt hækkandi í rauntölum (að teknu tilliti til verðbólgu í US). Af árlegum kostnaði vegna vatnsaflsvirkjunar er hlutdeild stofnkostnaðar yfirgnæfandi eða um 96 %, og rekstrarkostnaður er um 4 % af árlegum heildarkostnaði.
Þótt orkuvinnslukostnaður jarðgufuvirkjana og vatnsaflsvirkjana sé um þessar mundir svipaður, eru innbyrðis kostnaðarhlutföll ólík. Árleg hlutdeild stofnkostnaðar jarðgufuvirkjana er um 68 % og rekstrarkostnaðar 32 %, enda þarf að kljást við tæringu og niðurdrátt í gufuforðabúrinu, svo að 2 viðhaldsþættir séu nefndir.
Það er engum blöðum um það að fletta, að innleiðing vindorkuþyrpinga hérlendis mun valda raforkuverðshækkun til almennings. Búast má við, að vinnslukostnaður sé allt að 50 % hærri en í nýjum hefðbundnum íslenzkum virkjunum, og gætu árleg kostnaðarhlutföll stofnkostnaðar og rekstrar verið um 93 % og 7 %. Ef hér verður innleitt uppboðskerfi raforku að hætti ESB, þótt Ursula von der Leyen hafi lýst það óbrúklegt, munu vindmylluþyrpingar verða ráðandi um verð á raforkumarkaðinum, því að hæsta samþykkta verð gildir. Þetta síðast nefnda taldi von der Leyen óboðlegt neytendum í skortástandi á markaði, og hið sama á við á Íslandi.
Til þess að varðveita lágt raforkuverð til almennings á Íslandi þarf að hafna umsóknum um uppsetningu og tengingu vindmylluþyrpinga, og það þarf að koma í veg fyrir umtalsvert lægra nýtingarhlutfall orkumannvirkja í rekstri en nú er. Það er hægt með tvennu móti; annars vegar að bæta við jöfnu álagi og hins vegar að dreifa álagi almennings yfir sólarhringinn og vikuna. Þetta verður unnt eftir uppsetningu snjallorkumæla með verðstýringu, þ.e. að einingarverð orkunnar verði lægra til almennings á nóttunni og um helgar en á öðrum tímum. Þá er hægt að forrita hleðslu bílsins eða gang þvottavélarinnar að hefjast, þegar álagið og þar með verðið hefur lækkað nægilega að mati viðskiptavinar.
"Þetta tímabil [1937-1965] einkenndist af rafmagnsóöryggi og skammtímalausnum. Raforkukerfið þjónaði nánast eingöngu almennum notendum, og aflskortur blasti við, þegar árleg nýting vélarafls náði 60 %."
Þessi þrönga staða blasti við Íslendingum á téðu tímabili. Hún hefði dæmt landsmenn til að búa við veikt og dýrt raforkukerfi mjög lengi að óbreyttu, en þá varð það þeim til happs, að Viðreisnarstjórn Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks komst til valda síðla árs 1959. Í henni sátu hæfileikaríkir stjórnendur og hugsjónamenn að auki, sem höfðu kraft og þor til að brjóta forstokkað haftaafturhald og einangrunarsinna vinstri kants stjórnmálanna á bak aftur.
Viðreisnarstjórnin ásamt ráðgjöfum sínum, t.d. formanni Stóriðjunefndar, dr Jóhannesi Nordal, Seðlabankastjóra, braut Íslendingum leið út úr sjálfheldu veiks raforkukerfis og hás orkuvinnslukostnaðar. Hún fékk til landsins öflugan fjárfesti, svissneska verksmiðjueigandann Alusuisse, sem hóf mikla uppbyggingu í Straumsvík við Hafnarfjörð 1967 og var stærsti raforkukaupandi landsins frá 1969 í yfir 30 ár.
Þar með gafst einnig kostur á að reisa öflugt flutningskerfi á 220 kV spennu, svo að raforkuöryggi landsmanna batnaði stórum með stórum virkjunum í Þjórsá/Tungnaá, hringtengingu 220 kV kerfisins og í kjölfarið lækkaði raunorkuverðið. Ástæður hins síðar nefnda voru nokkrar, t.d. hagkvæmni stærðar, hag virkjana og lína, hagstæð lán til framkvæmdanna vegna tryggrar orkusölu langt fram í tímann og tiltölulega jafns álags í Straumsvík, sem gaf góða nýtingu á fjárfestingunum, því að sveiflur almenns álags heimila og fyrirtækja vógu lítið m.v. meðalálagið.
Ástandinu fyrir stóriðjutímabilið lýsir Steinar Ingimar þannig:
"Eftir gangsetningu [Ljósafossstöðvar 04.10.1937] féll heildarnýting vatnsafls í raforkukerfinu niður í 12 %. Til að auka eftirspurn voru íbúar á höfuðborgarsvæðinu hvattir til að fá sér fleiri heimilistæki. T.d. veitti Rafmagnsveita Reykjavíkur afslátt af rafmagnsverði fyrir heimili, sem keyptu sér rafmagnseldavél. En á augabragði breyttist eftirspurnin við komu brezka hersins."
Téður afsláttur rafmagnsverðs hefur verið öllum hagfelldur, þar til toppálagið náði aflgetu kerfisins. Þar sem heimilisálag og álag fyrirtækja í u.þ.b. 10 klst á virkum dögum er ríkjandi, er þessi nýting aðeins um 60 %, þ.e. þar til toppálag stangar aflgetu kerfisins. Til samanburðar er meðalnýting Búrfellsvirkjunar (270 MW, 2300 GWh/ár) yfir árið 97 % vegna ríkjandi álags verksmiðja, sem starfa allan sólarhringinn árið um kring. Virkjanir Landsvirkjunar mala af þessum sökum landsmönnum gull, enda hafa elztu virkjanirnar verið að mestu bókhaldslega afskrifaðar núna.
"Á meðan Írafossstöð var í undirbúningi, var 7,5 MW gufuaflsstöð reist við Elliðaár (Toppstöðin), sem brenndi olíu og kolum. Hún var dýr í rekstri. Árið 1953 komst Írafossstöð (48 MW) í gagnið, þökk sé Marshallaðstoðinni. Árið eftir hóf Áburðarverksmiðja ríkisins rekstur og með henni fékkst fljótt góð nýting virkjunar. Ekki löngu síðar hófst bygging Steingrímsstöðvar (27 MW), sem hóf rekstur 1959. Hún varð að veruleika vegna orkusölusamnings við bandaríska varnarliðið, en samningurinn stóð að miklu leyti undir afborgunum af lánum. Segja má, að útlenzkir herir og Áburðarverksmiðjan hafi verið fyrstu stórnotendur rafmagns á Íslandi. Þeir gerðu Sogsvirkjunum kleift að bjóða höfuðborgarbúum rafmagn á hagstæðara verði en ella. Orkuöryggið var þó áfram misjafnt."
Á þessum árum var efnahagslífið í viðjum innflutnings- og fjárhagshafta, sem áreiðanlega hefur haft hamlandi áhrif á hagvöxtinn og þróun atvinnulífsins. Efnahagslífið var miðstýrt í anda Ráðstjórnar og veikt, svo að innviðauppbygging gekk brösuglega, eins og dæmin um fjármögnun Sogsvirkjana með tekjum af orkusölu til setuliðsins; með Marshall-aðstoð og með raforkusölu til herstöðvarinnar í Keflavík, sýna. Þess ber að geta, að á sama tíma stóð yfir hitaveituvæðing í Reykjavík, svo að orkunotkun þar dreifðist á tvenns konar orkulindir. Í stuttu máli var það yfirleitt einn "stórnotandi" raforku, sem gerði nýja virkjun mögulega á Íslandi. Nú hefur raforkukerfi landsmanna vaxið svo fiskur um hrygg, að ekki þarf að bíða eftir nýjum notanda, þótt virkjað sé meðalstórt (u.þ.b. 100 MW), enda bíða orkunotendur í landinu eftir meiri orku. Það er raforkuskortur.
Í Noregi fór rafvæðing landsins líka fram með verksmiðjuuppbyggingu vítt og breytt um landið. Í Noregi var húsnæðið rafkynt samhliða rafvæðingunni, sem olli miklu meiri raforkuþörf en hér og betri nýtingu orkumannvirkja, en fyrir vikið var löngum skortur á toppafli. Það var leyst með tvöföldum orkumæli. Mældi annar heildarorkunotkun og hinn orkunotkun, þegar aflþörfin fór yfir umsamin mörk, og var sú orka afar dýr, þannig að slökkt var á ofnum, þegar eldað var.
"Þetta tímabil [1965-2020] er kennt við stórvirkjanir og stóriðnað. Þegar Sogið var fullvirkjað, voru aðeins 2 kostir í boði til að afla rafmagns fyrir höfuðborgarsvæðið; annars vegar virkjun Hvítár á Suðurlandi og hins vegar virkjun Þjórsár. Seinni kosturinn var utan seilingar, nema stóriðja tæki til starfa á Íslandi. Allir vita, hver niðurstaðan varð: bygging Búrfellsstöðvar og álvers í Straumsvík. Bygging Hrauneyjafossstöðvar og Sigöldustöðvar ásamt lagningu Byggðalínunnar varð svo grunnurinn að góðu aðgengi að rafmagni fyrir fyrir flesta landsmenn. Þessar stórframkvæmdir voru lykillinn að því, að landsmenn fengu rafmagnið á enn hagstæðari kjörum en áður þekktist."
Þetta er rétt ályktað, en samt barðist minnihlutinn á Alþingi, sem þá samanstóð aðallega af þingmönnum Alþýðubandalagsins og Framsóknarflokksins, á hæl og hnakka gegn þessum framfaramálum, sem áttu eftir að bylta lífskjörum í landinu til hins betra. Þá, eins og nú, voru margir þingmenn glámskyggnir á raunverulegan hag umbjóðenda sinna, en hengdu hatt sinn á tittlingaskít, sem engu máli skipti, er frá leið. Það er einfaldlega þannig með aðgerðir og framkvæmdir, að allt orkar tvímælis, þá gert er, en það eru meginlínurnar í málatilbúnaðinum, sem skipta sköpum. Þetta er ofvaxið skilningi þröngsýnispúka á þingi og annars staðar, sem hafa asklok fyrir himin og kunna alls ekki að greina hismið frá kjarnanum. Hvernig halda menn, að komið væri málum Íslendinga núna, ef tekið hefði verið mark á úrtöluröddum ofangreinds uppbyggingarskeiðs og t.d. unnið eftir hinum fjallheimskulega frasa: "náttúran verður að njóta vafans", sem reyndar hafði ekki séð dagsins ljós í þá daga.
Reykjavík og stjórnun hennar er svo kapítuli út af fyrir sig. Sogsframkvæmdir, sem raktar voru hér að ofan, voru að frumkvæði þáverandi bæjarstjórnar Reykjavíkur, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn réði lögum og lofum um áratugaskeið. Hvernig halda menn, að komið væri málum Reykvíkinga nú og raunar landsmanna allra, ef rugludallarnir, sem nú mynda meirihluta borgarstjórnar, hefðu verið við völd í Reykjavík á tímabilinu 1937-1965 ? Bókstaflega ekkert framkvæmdamál í Reykjavík, sem til heilla horfir fyrir framtíðina, þokast nú hænufet, heldur þvælast afturhaldssinnar, nú í valdastólum, fyrir þeim öllum, og borgarskipulagið sjálft er algerlega í skötulíki, svo að ekki sé nú minnzt á hörmungina miklu, fjármálaóreiðu Reykjavíkurborgar. Að kjósa gapuxa, draumóramenn og sérvitringa til valda yfir málefnum almennings, endar sem voveiflegur bjúgverpill.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
30.11.2022 | 11:25
Gjaldskrá dreifiveitna ríkisins þarfnast úrbóta
Það er ófært, að dreifiveitur, sem eru með einokunarleyfi, mismuni íbúum þéttbýlis og dreifbýlis á grundvelli mannfjölda á sama dreifiveitusvæði. Ríkisveiturnar RARIK og Orkubú Vestfjarða gera þetta og miða við 200 manns, en HS Veitur láta ekki þessa ósvinnu líðast á sínum veitusvæðum í svipuðum mæli. Úr ríkissjóði er varið fé til að jafna mikinn mun innan dreifiveitnanna, en samt munar um 1,7 ISK/kWh eða 33 % gjaldskrá orku á milli þéttbýlis og dreifbýlis. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra verður nú að gera gangskör að því að laga þetta í anda baksviðsgreinar Helga Bjarnasonar í Morgunblaðinu 5. nóvember 2022 undir fyrirsögninni:
"Erfitt að byggja upp í dreifbýli".
Hún hófst þannig:
"Ef menn vilja hafa gjaldskrá RARIK áfram, eins og hún er, er verið að taka meðvitaða ákvörðun um að byggja ekki upp í dreifbýli. Í gjaldskránni felst þéttbýlisstefna, andstæðan við dreifbýlisstefnu. Þetta er skoðun Gunnlaugs Karlssonar, framkvæmdastjóra Sölufélags garðyrkjumanna og stjórnarmanns í Samtökum fyrirtækja í landbúnaði."
Í ljósi þess, að við blasir, að þessi dapurlega ályktun Gunnlaugs er rétt, lýsir það óviðunandi slappleika núverandi og fyrrverandi orkuráðherra og andvaraleysi Alþingis í varðstöðu þess um jafnrétti landsmanna og jöfn tækifæri, að enn skuli viðgangast stórfelld mismunun af hálfu ríkisfyrirtækja gagnvart íbúum landsins eftir því, hvort þeir eða atvinnustarfsemi þeirra er staðsett, þar sem búa fleiri eða færri en 200 manns.
Það er auðvitað líka ótækt, að færsla dreifikerfa úr lofti í jörð samhliða þrífösun sveitanna bitni á kostnaði dreifbýlisins til hækkunar við rafmagnsnotkun. Afnám loftlína dreifikerfanna er sjálfsögð ráðstöfun til að jafna afhendingaröryggi raforku við þéttbýli, og þrífösun sveitanna er sjálfsagt réttlætismál, um leið og það er hagsmunamál sveitanna.
"Gunnlaugur segir, að óréttlætið í gjaldskrá RARIK einskorðist ekki við garðyrkjuna, heldur alla starfsemi í dreifbýli á starfssvæði RARIK og Orkubús Vestfjarða og starfsemi, sem áhugi sé á að byggja þar upp. Hann bendir á, að mikill uppgangur sé í ferðaþjónustu um allt land og þörf á fjárfestingum í gistiplássi. Gagnaver séu að byggjast upp og stækka sem og landeldi á laxi og tengd starfsemi. Þá sé þörf á orkuskiptum í landinu. Spyr hann, hvernig hægt sé að réttlæta það, að sá, sem hlaða vill rafmagnsbílinn sinn í Staðarskála þurfi að greiða hærra gjald en ef hann gerir það á Akureyri. Fleira mætti nefna, kornþurrkun og bakarí eru dæmi, sem Gunnlaugur nefnir til viðbótar. Með núverandi fyrirkomulagi sé meginhluti flatlendis Íslands útilokaður frá uppbyggingu af þessu tagi. Öllu sé stefnt í þéttbýlið, sem ekki taki endalaust við."
Ríkisdreifiveitur rafmagns ættu þegar í stað að hefja undirbúning að afnámi tvískiptingar gjaldskráa sinna fyrir afl og orku eftir fjölmenni á staðnum, þ.e. sameiningu almennrar gjaldskrár fyrir afl og orku og síðan aðgreiningu eftir skerðingarheimild, tíma sólarhringsins og orkumagni í viðskiptum. Ef heimtaug er yfir ákveðnum mörkum að stærð og lengd, sé jafnframt heimild til álagningar viðbótar stofngjalds.
Ef tregða reynist hjá fyrirtækjum og/eða ráðuneyti orkumála að hefja þetta starf strax, grípi Alþingi inn með viðeigandi þingsályktun. Alþingi á ekki að láta þetta sleifarlag á sjálfsagðri umbót í sanngirnisátt viðgangast lengur. Hvað er grasrótarráðherrann í orkuráðuneytinu að dóla. Grasrótardálæti hans var reyndar ekki fyrir að fara á deilunum um Orkupakka 3, sem hann tróð öfugum ofan í grasrótina í Sjálfstæðisflokkinum. Orð og efndir fara ekki saman hjá þessum fallkandidati í formannskjöri á Landsfundi í nóvember 2022.
Að lokum sagði í þessari þörfu baksviðsfrétt Morgunblaðsins:
"Vegna úreltrar skiptingar landsins í gjaldsvæði er engin starfsemi, sem þarf umtalsverða raforku, byggð upp, nema hægt sé að koma því við í þéttbýli, að sögn Gunnlaugs. Þar eru ýmis vandkvæði vegna skipulags og íbúðabygginga.
Gunnlaugur segir, að ráðamenn virðist ekki átta sig á afleiðingum þessarar gjaldskrárstefnu og kominn tími til, að þeir og fulltrúar í sveitarstjórnum setji sig inn í þessi mál og bregðist við. Hann nefnir sem möguleika að skipuleggja græna iðngarða, eins og gert er í Noregi. Það hefði þá kosti, að til væri skipulagt svæði, sem myndi gefa fyrirtækjum kost á að hefja uppbyggingu fyrr en ella. Eins þyrftu gjaldskrár rafmagns, hitaveitu og vatnsveitu að vera þær sömu, hvar sem iðngarðarnir væru staðsettir, og taka aðeins mið af raunkostnaði við að flytja orkuna [og vatnið] þangað. [Rekstrarkostnaðarmun, sem eru aðallega meiri orkutöp og dælukostnaður vatns, á einfaldlega að fella inn í sameiginlega gjaldskrá - innsk. BJo.]
Önnur lausn á málinu er að afnema sérleyfi RARIK og Orkubús Vestfjarða til að dreifa orku raforku í dreifbýli og gefa dreifinguna frjálsa, eins og raforkusalan sjálf er nú þegar."
S.k. ráðamenn hafa fæstir skilning á afleiðingum ráðstafana sinna, tilskipana og reglugerða, fyrir atvinnulífið, enda eru þeir þá úr öðrum jarðvegi komnir. Hér snýst málið hins vegar um það einfalda meginatriði, að ríkisvaldið og fyrirtæki ríkisins mismuni ekki íbúum landsins eftir búsetu. Sama dreififyrirtæki á að vera óheimilt að beita mismunandi gjaldskrám eftir staðsetningu viðskiptavinar, sem getur ekki leitað annað um viðskipti. Ef fyrirtæki þrjózkast við að verða við þessu, á að svipta það einokunarleyfinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.11.2022 | 10:05
Sitt sýnist hverjum um vindmyllur
Framkvæmdastjóri hjá Landsvirkjun reit grein í Morgunblaðið þann 3. nóvember 2022 og upplýsti þar lesendur blaðsins um, að "á dögunum" hefði Landsvirkjun sent Orkustofnun umsókn sína um virkjunarleyfi vinds með vindmylluþyrpingu, sem fyrirtækið nefnir Búrfellslund og á að verða 120 MW að uppsettu afli (á að gizka 30 vindmyllur). Það er ankannalegt, að þetta ríkisfyrirtæki skuli ríða á vaðið með þrýsting á yfirvöld orkumála um leyfi til að reisa og reka vindmylluþyrpingu á landinu áður en boðuð löggjöf um slík mannvirki lítur dagsins ljós.
Landsvirkjun beitir fyrir sig röksemdum um, að afl- og orkuskortur hrjái landsmenn nú þegar, sem er alveg rétt, og hann mun fara versnandi með hverju árinu, sem líður án nýrrar, áreiðanlegrar virkjunar, eins og Hvammsvirkjunar í Neðri-Þjórsá, inn á netið. Landsvirkjun segir þó ekki alla söguna í þessum efnum, því að mest knýjandi þáttur vandans er aflskorturinn, og það er ekki hægt að reiða sig á vindmylluþyrpingu til að standa undir toppálagi stofnkerfisins.
Að ríkisfyrirtækið skuli réttlæta hæsta fórnarkostnað á MWh á formi landspjalla í samanburði við þá kosti jarðgufu- og vatnsaflsvirkjana, sem fyrirtækið hefur úr að spila, er óverjandi. Ríkisfyrirtækið bítur síðan hausinn af skömminni með því að setja virkjanakost með hæsta vinnslukostnað raforku í ISK/kWh á oddinn. Allt þetta brölt Landsvirkjunar er ógæfulegt, því að það rýrir orðspor þess sem vistvæns orkufyrirtækis og rýrir arðsemi þess eða veldur aukinni hækkunarþörf á heildsöluverði raforku til almenningsveitna.
Einar Mathiesen, framkvæmdastjóri vinds og jarðvarma hjá Landsvirkjun, fékk birta grein eftir sig í Morgunblaðinu 3. nóvember 2022 undir fyrirsögninni:
"Við þurfum vind fyrir orkuskiptin".
Þar fór hann m.a. nokkrum orðum um rafmagnsskortinn í landinu, sem er í sjálfum sér þungur áfellisdómur yfir orkuyfirvöldum og orkustefnu landsins. Orkustofnun sefur á 17 mánaða gamalli virkjunarumsókn Landsvirkunar vegna Hvammsvirkjunar, en þess verður ekki vart, að orkuráðherrann ýti við orkumálastýrunni, svo að hún vakni til raunveruleikans. Skyldu fundir hennar með ACER (Orkustofu ESB) nokkuð fjalla um afköst Orkustofnunar við afgreiðslu virkjanaleyfa á tíma, þegar Evrópa er í orkusvelti ?:
"Skortur á raforku er orðinn hamlandi þáttur fyrir eðlilega atvinnustarfsemi í landinu, jafnvel þótt þörfin vegna orkuskipta sé ekki tekin með í reikninginn. Skerða þurfti orkusölu til fjölmargra notenda síðasta vetur [2021-2022], þar sem ekki var til nægileg orka í samfélaginu til að uppfylla þarfir þeirra."
Vatnshæð Þórisvatns er nú um 3 m hærri en á sama tíma í fyrra, en samt undir meðaltali. Vatnshæð Hálslóns er svipuð og að meðaltali. Það er líklegt, að atvinnuvegirnir og fjarvarmaveiturnar losni við álagsskerðingar næsta vetur, en það er þó ekki öruggt, af því að það vantar aflgetu í kerfið. Það er villandi af Landsvirkjun að láta í það skína, að vindmylluþyrpingar séu lausn á þessari knöppu stöðu, einfaldlega af því að það er ekki á vísan að róa með aflgetu vindmylla. Það er ekki hægt að selja afl frá vindmylluþyrpingu fram í tímann, nema sem ótryggt afl með skerðingarheimild. Þess vegna er alvarlegt afl- og orkuástand í landinu núna engin röksemd fyrir yfirvöld til að þjófstarta vindmylluverkefnum. Yfirvöldin eiga hins vegar að hrista af sér slenið og greiða leið annarra umsókna um virkjanaleyfi.
Í lokin skrifaði Einar:
"Ef við ætlum að ná markmiðum stjórnvalda um orkuskipti fyrir árið 2030, er okkur ekki til setunnar boðið. Í orkugeiranum verður að hugsa til langs tíma, enda er undirbúningur og bygging virkjana tímafrekt verkefni, sem talið er í árum. Ef allt gengur að óskum, verður í fyrsta lagi mögulegt að tengja Búrfellslund við raforkukerfið í árslok 2025."
Markmið íslenzkra yfirvalda um minnkun losunar koltvíildis hefur alla tíð skort raunsæi, og nú er nokkuð ljóst, að engri þjóð mun takast að standa við skuldbindingar sínar gagnvart Parísarsamkomulaginu 2015, og fáir taka þetta orðagjálfur stjórnmálamanna alvarlega lengur. Nú er viðfangsefni margra að lifa veturinn af með góðu eða illu, og margir grípa þá til óhollrar viðarkyndingar. Hérlendis ætti ríkisfyrirtæki ekki að ganga á undan með illu fordæmi um að spilla víðernum með miklum fórnarkostnaði í samanburði við ávinninginn með þeim rökum að ná þurfi loftslagsmarkmiðum, sem þegar eru komin í vaskinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.11.2022 | 18:41
Af framtíð heimsins
Enn á ný er barizt á banaspjótum út af yfirráðum lands í Evrópu og stjórnarfyrirkomulagi í því landi og víðar, í þessu tilviki einræði að rússneskri fyrirmynd eða lýðræði að vestrænum hætti. Úkraínumenn hafa sýnt það að fornu og nýju, að þjóðfélagsleg viðhorf þeirra eru gjörólík Rússanna. Úkraínumenn eru einstaklingshyggjumenn, sem er annt um frelsi sitt og lands síns og eru búnir að fá sig fullsadda á yfirráðum Rússa og frumstæðum stjórnarháttum þeirra.
Úkraínumenn ganga ekki að því gruflandi núna, að þeir verða hnepptir í þrældóm, ef Rússar munu ná fram vilja sínum á þeim. Rússar eru forræðishyggjumenn, sem taka festu og stöðugleika í þjóðfélaginu fram yfir persónulegt frelsi sitt. Þeir hafa jafnan í sögunni sýnt sínum zar hollustu. Hafi þeir velt honum, hafa þeir einfaldlega tekið sér nýjan zar.
Núverandi zar, sem af tali sínu og gjörðum að dæma gengur alls ekki heill til skógar, stundar nú þjóðarmorð í Úkraínu og er einn grimmasti stríðsglæpamaður seinni tíma. Hann hefur opinberað veikleika rússneska hersins á vígvellinum og með framferði sínu innan lands og utan skipað Rússlandi á ruslahauga sögunnar. Nú eru Pótemkíntjöldin fallin og eftir stendur agalítill og lítt bardagahæfur her án góðrar herstjórnar og herskipulags, sem níðist miskunnarlaust á varnarlausum óbreyttum borgurum. Með falli téðra Pótemkíntjalda opinberast um leið siðblinda Kremlarherra, sem vekur fyrirlitningu um allan heim, einnig á meðal undirsáta Rússanna innan ríkjasambandsins.
Úkraínska þjóðin er nú með eldskírn sinni endurfædd til sögunnar. Hún hefur skipað sér í raðir vestrænna ríkja og ætlar að reka ræfildóminn úr austri í eitt skipti fyrir öll af höndum sér. Vonandi hafa Vesturveldin manndóm í sér til að standa svo myndarlega við bakið á hinni hugdjörfu og einbeittu úkraínsku þjóð, að henni takist ætlunarverk sitt í nafni fullveldis, frelsis og lýðræðis, og vonandi ber NATO-ríkin gæfa til að veita Úkraínu vernd gegn látlausum yfirgangi úr austri með því að veita landinu aðild að varnarsamtökum vestrænna ríkja. Að láta einræðisherrann í Kreml ráða því, hvaða lönd eru tekin inn í NATO að þeirra beiðni, gengur ekki lengur.
Hryðjuverkamennirnir við stjórnvölinn í Rússlandi nútímans reyna nú í vanmætti sínum á vígvellinum að sprengja íbúa Úkraínu langt aftur í aldir og svipta þá lífsnauðsynjum s.s. vatni og rafmagni. Þetta er gjörsamlega ófyrirgefanleg hegðun nú, þegar vetur gengur í garð. Orkuskorts gætir líka um alla Evrópu. Evrópa sýpur nú seyðið af draumórum sínum um, að gagnkvæmir hagsmunir vegna viðskiptatengsla ráði meiru um stefnumörkun í hefðbundnu einræðisríki en aldalöng útþensluhefð ríkisins.
Það, sem á við um Þýzkaland í þessu samhengi, á einfaldlega ekki við um Rússland, og við mun taka áralöng einangrun Rússlands fyrir vikið.
Um alla Evrópu, nema á Íslandi, mun verða gripið til viðarkyndingar í vetur til að halda lífi, og kolaorkuver hafa verið endurræst. Það hillir ekki undir, að markmið Parísarsamkomulagsins náist árið 2030, enda fer losun flestra ríkja á koltvíildi vaxandi.
Við þessar ömurlegu aðstæður og misheppnaða stefnumörkun stjórnmálamanna á flestum mikilvægustu sviðum tilverunnar, er hressandi að lesa boðskap Björns Lomborg, sem andæfir bölmóði heimsendaspámanna með talfestum rökum. Eftir hann birtist grein í Morgunblaðinu 22.10.2022 undir fyrirsögninni:
"Af svartagallsrausi heimsendaspámanna".
Þar gat m.a. þetta að líta:
"Ósköpin dynja á okkur í síbylju, hvort sem þar er á ferð seinasta hitabylgja, flóð, skógareldar eða gjörningaveður. Engu að síður sýnir sagan okkur, að síðustu öldina hafa válynd veður haft æ minni áhrif á mannskepnuna. Á 3. áratug síðustu aldar lézt 1/2 M [manns] af völdum veðuröfga, en aðeins 18 k allan síðasta áratug [þ.e. þ.e. 3,6 % af fjöldanum fyrra tímabilið - innsk. BJo]. Árin 2020 og 2021 kröfðust svo enn færri mannslífa á þessum vettvangi. Hvers vegna ? Jú, vegna þess að því loðnara sem fólk er um lófana, þeim mun öruggar býr það."
Nú eru strax fluttar fréttir af vettvangi með myndaefni, þar sem veðuröfgar verða. Fjölmiðlum hættir mjög til að gera mikið úr frásögnum sínum í sögulegu samhengi og kenna síðan hlýnun andrúmsloftsins af mannavöldum um. Þetta er innistæðulaus bölmóður, hræðsluáróður, ætlaður til að koma sektarkennd inn hjá almenningi, hræða hann til að breyta neyzluvenjum sínum og lifnaðarháttum. Allt væri það unnið fyrir gýg. Samkvæmt gervihnattamælingum er hlýnun andrúmsloftsins miklu minni en IPCC (Alþjóðaráð Sþ um loftslagsbreytingar) heldur fram í skýrslum sínum og hleypir þar engum gagnrýnisröddum að. Öfgar veðurfarsins eru iðulega ýktar í sögulegu tilliti og sérstaklega afleiðingar þeirra, eins og Björn Lomborg er óþreytandi við að rekja:
"Sjónvarpsfréttir, sem fjalla um veður, gefa hins vegar til kynna, að allt sé á heljarþröm. Það er rangt. Árið 1900 var fátt talið eðlilegra en 4,5 % alls þurrlendis á jörðunni brynni ár hvert. Síðustu öldina er þetta hlutfall komið niður í 3,2 %. Sé að marka myndir frá gervihnöttum, hefur hlutfallið enn minnkað á síðustu árum. Í fyrra var það 2,5 %. Rík samfélög fyrirbyggja eldsvoða; svo einfalt er það. Spár gera ráð fyrir því, að við lok þessarar aldar [21.] verði brunar enn færri, hvað sem hnattrænni hlýnun líður."
Fréttamenn hafa tilhneigingu til að slengja fram getgátum einum sem staðreyndum án þess að grafast fyrir um hinar raunverulegu staðreyndir. Ef þeir ná óskiptri athygli "fréttaneytenda" í nokkrar mínútur, eru þeir nokkuð ánægðir með vaktina. Fyrir vikið úir og grúir af misskilningi og rangfærslum, og allt er hengt á hlýnun af mannavöldum. Úr henni er of mikið gert, og við á Norðurlöndunum getum nánast engin áhrif haft á koltvíildisstyrk andrúmsloftsins, sem er meintur sökudólgur, en hvað með önnur efni þar ? Öll er þessi saga of áróðurskennd og æsingakennd til að vera trúverðug, enda eru menn á borð við Björn Lomborg búnir að höggva stór skörð í trúverðugleikann.
"Ekki dregur þó úr veðurtjóni einu þrátt fyrir spár um annað. Ekki er nema áratugur síðan umhverfisverndarfólk boðaði endanlegan dauða stóra kóralrifsins við Ástralíu vegna loftslagsbreytinga. Brezka blaðið Guardian ritaði jafnvel minningargrein um það. Nú hafa vísindamenn hins vegar sýnt fram á, að rifið er í góðum gír - raunar betri en síðan 1985. Þau skrif las auðvitað enginn."
Það væri til að æra óstöðugan að afsanna allan fullyrðingaflauminn, sem streymir frá froðuframleiðendum, sem kenna sig við umhverfisvernd, og eru illa að sér um lögmál náttúrunnar og hafa hvorki getu né vilja til að kynna sér þau mál til hlítar, sem þau gaspra um í tíma og ótíma. Þarna tíundar Björn Lomborg eitt dæmið, en hann hefur hrakið marga bábiljuna úr smiðju þeirra. Verst er, að hræðsluáróður dómsdagsspámanna nær eyrum stjórnmálamanna á Vesturlöndum, sem við stefnumörkun sína, t.d. í orkumálum, hafa mótað stefnu, sem er ekki aðeins vita gagnslaus og kostnaðarsöm, heldur einnig stórhættuleg fyrir lífsafkomu almennings í bráð og lengd.
"Önnur algeng tækni umhverfisverndarsinna var að nota myndir af ísbjörnum í áróðursskyni. Meira að segja var þeim beitt í kvikmynd Al Gore, Óþægilegur sannleikur. Raunin er hins vegar sú, að ísbjörnum fjölgar. Á 7. áratuginum [20. aldar] voru þeir [á] milli 5 og 10 þús., en eru í dag um 26 þús. að öllu töldu. Þetta eru fréttir, sem við fáum aldrei. Þess í stað hættu sömu umhverfisverndarsinnar bara hægt og hljótt að nota ísbirni í áróðri sínum."
Þegar þekking og yfirsýn ristir grunnt, gerist einmitt þetta, sem Björn Lomborg lýsir. Ísbjörninn þarf aðgang að sjó til að leita ætis. Þess vegna hefst hann við nálægt ísröndinni. Sú ísrönd færist til eftir árstíðum, árum, áratugum og öldum. Á norðurhveli hefur áður verið hlýrra en nú, t.d. á blómaskeiði víkinganna, þegar Ísland var numið. Ísbjarnarfjölskyldur hafa væntanlega dafnað vel þá í miklu æti ekki síður en nú. Hvernig fengu unhverfiskjánarnir þá flugu í höfuðið, að afkoma ísbjarna væri bundin við breiddargráðu ? Ísbjörninn er stórkostlegt dýr, sem hefur alla tíð þurft að aðlagast breytilegu umhverfi.
Síðan bendir Björn okkur vinsamlegast á, að kuldi sé manninum meiri skaðvaldur en hiti, og það á alveg sérstaklega vel við núna í orkuskortinum í Evrópu, þegar sumir hafa ekki efni á að kynda og hafa ekki aðgang að eldiviði:
"Á sama tíma horfum við fram hjá stærri vandamálum. Lítum á alla athyglina, sem hitabylgjur hljóta í Bandaríkjunum og víðar. Dauðsföllum af völdum hita fækkar einmitt í Bandaríkjunum, aðgangur að loftkælingu hjálpar meira en hár hiti skaðar. Kuldi kostar hins vegar mun fleiri mannslíf. Í Bandaríkjunum einum deyja 20 k [manns] á ári vegna hita, en 170 k [manna] vegna kulda - við spáum ekkert í það. Dauðsföllunum vegna kulda fjölgar í Bandaríkjunum, en við einblínum á hlýnun jarðar vegna þess, að stjórnmálamenn tönnlast á grænum lausnum, sem gera ekkert annað en að hækka orkuverð með þeim afleiðingum, að færri hafa efni á kyndingu. Við skellum skollaeyrunum við því, hvar við gætum í raun hjálpað mest."
Það er athyglisvert, að í BNA deyja næstum áttfalt fleiri úr kulda en hita. Það má ætla, að ýmist sé það fólk, sem hefur ekki efni á að kynda húsnæði sitt, eða útigangsfólk. Á Íslandi er líka útigangsfólk, sem hefur króknað úr kulda, en sem betur fer eru landsmenn langflestir í þeirri stöðu að hafa aðgang að orku á viðráðanlegu verði, svo að þeir geti haldið á sér nægilegum hita í verstu vetrarhörkunum. Hættan er hins vegar sú, að ekki sé fjárfest nægilega í tæka tíð til að hindra, að framboðið ráði ekki við eftirspurnina. Þetta kann að eiga við um hitaveitur vegna mikillar mannfjölgunar og rafmagn vegna vanfjárfestinga í nýjum virkjunum. Kveður svo rammt að hinu síðar nefnda núna, að klárlega má segja, að orkuyfirvöldin fljóti sofandi að feigðarósi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
21.11.2022 | 14:09
Vinnumálalöggjöfin er barn síns tíma
Furðulegar uppákomur í verkalýðshreyfingunni hafa dregið athyglina að rotnun hennar. Úrelt löggjöf um vinnumarkaðinn, sem að uppistöðu til er frá krepputíma 4. áratugar 20. aldarinnar, á sinn þátt í þessari hrörnun. Hluti þessarar löggjafar, eins og sá, er varðar raunverulega aðildarskyldu að stéttarfélagi, er gjörsamlega út úr kú, þegar hann er borinn saman við mannréttindaákvæði samtímans og löggjöf annarra vestrænna landa um sama efni. Steingervingsháttur vinstri flokkanna hefur hindrað umbætur á þessu sviði, og vitnar hann um afturhaldseðli þessara stjórnmálaflokka og hræsni, því að þeir mega vart vatni halda í hverri viku yfir meintum mannréttindabrotum einhvers staðar í heiminum, einkum hérlendis gagnvart hælisleitendum.
Nú reyna nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins að rjúfa stöðnunina á þessu sviði, og er það löngu tímabært, en þeir hafa fengið skít og skömm fyrir frá miðstjórn Alþýðusambands Íslands (ASÍ). Hvað skyldi bankadrottningin, sem nú hefur tekið við formennsku í "Jafnaðarflokkinum", hafa um þessa nútímavæðingu hluta af íslenzkri vinnulöggjöf að segja ? Hætt er við, að þar á bæ hafi bara orðið umbúðaskipti fyrir ímyndina, og að þar sé enn á ferðinni gamalt vín á nýjum belgjum.
Í 2. grein lagafrumvarps sjálfstæðisþingmannanna segir:
"Launamenn og vinnuveitendur skulu hafa rétt til þess að stofna og ganga í þau stéttarfélög, sem þeir kjósa, og eru einungis háðir reglum hlutaðeigandi félaga um inngöngu í það.
Óheimilt er að draga félagsgjald af launamanni eða skrá hann sem félagsmann í stéttarfélag, nema með skýru og ótvíræðu samþykki hans. Óheimilt er að skylda mann til að ganga í tiltekið stéttarfélag."
Þetta, sem virðist sjálfsagt og eðlilegt á 21. öldinni, líta verkalýðsforingjar á sem aðför að frelsi sínu til að ráðskast með alla á sínu fagsviði og svæði. Þarna er sem sagt stungið á kýli verkalýðshreyfingarinnar, sem verður að fá að vessa úr, ef þessi hreyfing á að eiga sér viðreisnar von í samtímanum. Þegar formaður Starfsgreinasambandsins sér sig knúinn til að biðja umbjóðendur sína afsökunar á því í beinni útsendingu sjónvarps, hvað sé að gerast á Alþýðusambandsþingi, þegar þar fór allt í háaloft í haust, er ljóst, að ASÍ hefur rotnað innan frá vegna einokunar verkalýðsfélaganna á vinnumarkaðinum í skjóli löggjafarinnar, sem sjálfstæðismenn vilja nú hleypa hleypa nútímanum að.
Til þess enn frekar að herða á rétti launamanna til félagafrelsis á vinnumarkaði stendur þetta í 3. grein frumvarps sjálfstæðismannanna:
"Vinnuveitanda er óheimilt að synja að synja umsækjanda um laust starf eða segja launamanni upp starfi á grundvelli félagsaðildar hans.
Vinnuveitanda er óheimilt að synja umsækjanda um laust starf eða segja launamanni upp starfi á þeim grundvelli, að hann standi utan félags eða félaga."
Þarna er lögð rík áherzla á, að það séu mannréttindi launamanns að ákveða sjálfur án afskipta atvinnurekandans, hvort hann gangi í stéttarfélag eða ekki. Þetta er í takti við tíðarandann um einstaklingsfrelsi á Vesturlöndum, og allt annað er arfleifð kommúnisma eða þjóðernisjafnaðarstefnu, sem tröllriðu húsum í Evrópu og víðar á þeim tíma, þegar grunnurinn að núgildandi vinnulöggjöf var mótaður. Að hanga á þessum forréttindum stéttarfélaga um forgangsrétt stéttarfélagsfélaga að vinnu ber dauðann í sér fyrir vinnumarkaðinn, sérstaklega stéttarfélögin, þar sem félagsáhuginn er lítill sem enginn, og hvatinn til að gæta langtímahagsmuna félagsmanna er hverfandi vegna einokunaraðstöðu verkalýðsfélaganna. Þess vegna komast valdagráðugir slagorðakjánar til valda í verkalýðsfélögunum, oft á tíðum raunveruleikafirrt fólk með sáralítinn eða engan skilning á gangverki efnahagslífsins, fólk, sem afneitar efnahagslegum og fjárhagslegum staðreyndum, en setur í staðinn fram heimskulegar kenningar og gagnrýni á Seðlabankann, sem ná engri átt og þjóna engan veginn hagsmunum umbjóðenda þeirra, launþeganna.
Morgunblaðið fjallaði um þetta mál í forystugrein 28.10.2022 undir fyrirsögninni:
"Félagafrelsi".
Þar var getið um taugaveiklunarkennd viðbrögð fyrsta miðstjórnarfundar ASÍ eftir að þing þess splundraðist af ástæðum, sem nokkra vinnustaðasálfræðinga þarf til að greina, en þeir munu áreiðanlega ekki ráða bót á vandanum, því að hann liggur í því heiftarlega ófrelsi, sem ríkir á vinnumarkaðinum og snertir raunverulega skylduaðild að verkalýðsfélögum. Hún drepur niður áhugann innan félaganna og greiðir leið furðufugla til valda þar:
"Í gær gerðist það t.a.m., að miðstjórn Alþýðusambands Íslands samþykkti sérstaka ályktun um fyrrgreint frumvarp og lýsti þar yfir "mikilli furðu á framkomnu frumvarpi þingmanna Sjálfstæðisflokksins um félagafrelsi á vinnumarkaði". Í ályktuninni segir, að verkalýðshreyfingin hafi "engan hug á að láta sérvizku jaðarhóps stjórnmálamanna hafa áhrif á þá kjarnastarfsemi sína" að vinna að bættum kjörum launafólks."
Þessi ályktun miðstjórnarinnar er alveg eins og út úr kú. Hún er þóttafull einkunnargjöf til hóps þingmanna, sem enginn, nema afneitarar staðreynda í hópi furðufugla verkalýðshreyfingarinnar, hefur komið til hugar að kalla jaðarhóp. Margur heldur mig sig, enda er vægt til orða tekið, að svartagallsrausarar miðstjórnarinnar séu jaðarhópur á Íslandi samtímans.
Síðar stóð í téðri forystugrein:
"Þetta er raunar ekki meiri sérvizka en svo, að nánast öll vestræn ríki hafa bannað forgangsréttarákvæði kjarasamninga, enda ganga þau gegn hugmyndum um raunverulegt félagafrelsi. Eins og Óli Björn Kárason, fyrsti flutningsmaður frumvarpsins, benti á í framsöguræðu sinni á þingi, er markmiðið með frumvarpinu að tryggja, að íslenzkt launafólk búi við sömu réttindi og launafólk í nágrannalöndunum. Frumvarpið er "ekki róttækara en það", eins og hann benti á, og bætti við:"Við erum að tryggja íslenzku launafólki sömu réttindi og launafólk hefur í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og öðrum þeim löndum, sem við viljum gjarnan bera okkur saman við".
Heiftarleg viðbrögð Alþýðusambands Íslands eru mikið umhugsunarefni og eru enn ein vísbendingin um, að stéttarfélögin eru úr tengslum við félagsmenn sína. Þetta kemur fram í sérhverjum kosningum um forystu í þessum félögum, þar sem þátttaka er jafnan sáralítil, og þetta kemur fram í baráttu þessarar forystu, sem iðulega gengur þvert gegn hagsmunum félagsmannanna."
Verkalýðshreyfingin er helsjúk, eins og uppnám út af engu á ASÍ-þinginu í haust sýndi, en þar gerðu nokkrar prímadonnur þingið óstarfhæft. Þessi sýki eða úrkynjun stafar af einokunarstöðu verkalýðsfélaganna á vinnumarkaðinum, sem flutningsmenn téðs frumvarps á Alþingi vilja afnema og færa þar með þennan hluta vinnulöggjafarinnar til nútímahorfs. Fróðlegt verður að sjá afstöðu Viðreisnar, sem aldrei lætur af skjalli sínu á Evrópusambandinu (ESB), en frumvarp sjálfstæðismannanna er í samræmi við stefnu ESB og aðildarlandanna í þessum efnum. Þá verður athyglisvert að virða fyrir sér bankadrottninguna, sem nú hefur setzt í hásæti Samfylkingarinnar-Jafnaðarflokks og vill afla sér ímyndar ferskra, nútímalegra strauma í stjórnmálunum. Er það bara í nösunum á henni ? Verður hún ígildi Tonys Blair, formanns brezka Verkamannaflokksins, fyrir misheppnaða Samfylkingu ? Þá þarf hún á talsverðu hugrekki að halda. Hefur hún það ?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.11.2022 | 10:47
ACER herðir tökin á Noregi
Það var gæfa fyrir Ísland, að aflsæstrengurinn, sem búið var að setja á forgangslista orkuverkefna ESB-ACER, var tekinn út af þeim lista að ósk íslenzkra stjórnvalda í aðdraganda lokaumfjöllunar Alþingis á OP3 (þágildandi orkulöggjöf ESB, OP4 er núgildandi) sumarið 2019. Annars gæti farið að styttast í svipaðar orkuhremmingar á Íslandi og gengið hafa yfir Norðmenn og valdið þeim gríðarlegum kostnaðarauka og aukið hjá þeim verðbólguna. Þess vegna er fróðlegt fyrir áhugasama hérlendis að kynna sér, hver þróun samskipta Norðurlandanna við ESB-ACER er á orkusviðinu.
Hjá ACER er nú til athugunar tillaga frá kerfisstjórum aðildarlanda EES-Evrópska efnahagssvæðisins, þ.á.m. Statnett í Noregi, um að fella þann hluta Noregs, sem er á áhrifasvæði millilandatenginga fyrir raforku, þ.e. Suður-og Austurlandið, inn í stórt fjölþjóðlegt orkuflutningssvæði, sem ætlað er að einfalda útreikninga með samræmdri aðferðarfræði á orkugetu og orkuflutningsgetu stórsvæðisins. Jöfnunarorkumarkaður verður þá sameiginlegur fyrir stórvæðið. Samhliða þessu vinnur ACER með tillögu að nýjum reglum um orku og flutningsgetu til ráðstöfunar samkvæmt langtíma orkusamningum, en tilhneigingin hefur verið að draga úr umfangi þeirra. Slíkt hentar Íslandi og Noregi illa.
Áfangaskipt samræming orkumarkaða Orkusambandsins felur í sér svæðisbundnar lausnir sem bráðabirgða skref í átt að fyrirætluninni um heildarsamræmingu, eins og getið er um í viðkomandi reglugerð í OP4 (Orkupakka 4). Það hlýtur að vera kaldranalegt fyrir Norðmenn að vinna að þessu í ljósi þess, að OP4 hefur ekki lagagildi í Noregi, og flestir gera sér ljóst, til hvers refirnir eru skornir, og ófæran blasir nú þegar við í Noregi.
Noregi mun verða gert að ráðstafa enn meiri orku- og flutningsgetu til þessa sameiginlega orkumarkaðar.
Núna eru 8 orkuviðskiptasvæði í ESB. Hjá ACER stendur vilji til, að norsku uppboðs- og verðsvæðin verði á norræna og Hansa-svæðinu, þ.e.a.s. með Þýzkalandi, Hollandi, Póllandi og Lúxemborg auk Svíþjóðar og Danmerkur. Hjá ACER er því haldið fram, að þessi sameining markaðssvæða Noregs við Hansa-sambandið muni leiða til aukinnar "velferðarþróunar", sem er kaldhæðnisleg ályktun frá norsku sjónarhorni.
Í raun þýðir þessi skipulagsbreyting, að Noregur verður skyldaður til að ráðstafa enn stærri hluta flutningsgetu raforku til útlanda til Innri markaðar ESB og þeirra reglna, sem þar eiga við. Aðferðarfræðin þar er s.k. flot. Það þýðir, að þar ræður markaðurinn alfarið ferðinni, en stjórnvöld mega engin afskipti hafa af þeim viðskiptum.
Að Noregur skuli sogast sífellt sterkar inn á Innri markaðinn, er bein afleiðing af, að sumarið 2021 samþykkti Stórþingið 4 reglugerðir, sem boðaðar voru í OP3 og koma í rökréttu framhaldi af honum. Þær eru í samræmi við ákvæði í OP4. Alþingi hlýtur að hafa samþykkt þessa nálgun að OP4, úr því að reglugerðirnar hafa tekið gildi í EES. Um þetta hefur verið undarlega hljótt. Hvað gengur íslenzkum stjórnvöldum til að hlaupa umsvifalaust til, þegar norskur ráðherra hringir ? Er þetta eitthvert Gamla sáttmála heilkenni ?
Ein þessara reglugerða er um ráðstöfun flutningsgetu fyrir orku, í orkuflutnings mannvirkjunum, sem samið er um til langs tíma (FCA). Önnur er reglugerð um ákvörðun flutningsgetu og meðferð flöskuhálsa í flutningskerfinu (CACM). Það er einkum þessi síðar nefnda reglugerð, sem kerfisstjórarnir og ACER nota sem röksemd fyrir því að samþætta Noreg stærra markaðssvæði. Í einföldu máli inniheldur CACM nákvæmar reglur, sem eiga að tryggja, að markaðurinn, en ekki þörf viðkomandi lands að mati stjórnvalda þess, stjórni aðgengi að millilandatengingunum og flutningum eftir þeim.
Svíþjóð er skylduð til að ráðstafa 70 % af flutningsgetu sinni á raforku til útlanda til markaðarins.
Rafmagnsverðhækkanirnar hafa valdið örvæntingu í Svíþjóð eins og í Noregi. Mikill verðmunur hefur verið á milli norður- og suðurhlutans, og kerfisstjórinn, Svenska Kraftnät, hefur átt í vandræðum með yfirálag á flutningskerfinu. Þess vegna sótti Svenska Kraftnät um leyfi orkulandsreglarans, Energimarknadsinspektionen (EI samsvarar RME í Noregi og Orkumálastjóra á Íslandi), til að takmarka útflutninginn. EI neitaði kerfisstjóranum um almennt leyfi til útflutningstakmarkana og vísaði til þess, að Svíþjóð er skuldbundin til að ráðstafa 70 % flutningsgetunnar til markaðarins samkvæmt ákvæði í endurskoðuðu rafmagnstilskipuninni í ESB OP4.
Aftur á móti veitti EI bráðabirgða undanþágu fyrir ákveðinni útflutningstakmörkun á flutningslínum og -strengjum til Finnlands og Danmerkur (en ekki til Noregs, Þýzkalands og Póllands) með vísun til afhendingaröryggisins. Dönsku og finnsku orkulandsreglararnir mótmæltu og kærðu til ACER, sem nú hefur hafnað því, að Svíþjóð geti vikizt undan 70 % reglunni.
ACER lagði mat á afstöðu sænska kerfisstjórans og orkulandsreglarans og rökstuddi höfnunina þannig:
- Undanþágan er ekki nauðsynleg til að viðhalda rekstraröryggi sænska raforkukerfisins.
- Í umsókninni var ekki tilgreind hámarkslækkun, sem fyrirhuguð væri.
- Í umsókninni var ekki tilgreind sú aðferðarfræði, sem fyrirhugað væri að beita til að koma í veg fyrir mismunun á milli orkuviðskipta innanlands og til útlanda.
Af þessu má ráða, að ACER væni téð orkuyfirvöld í Svíþjóð óbeint um að ætla að veita notendum innanlands forgang að tiltækri orku. Ef t.d. ætti að helminga flutningana til útlanda, þá yrði að skerða orku til a.m.k. ákveðinna notenda í Svíþjóð um helming. Þetta er algerlega óviðunandi fyrir sjálfstæðar þjóðir. Ef Stórþingið og Alþingi ásamt Liechteinsteinum samþykkja OP4, lendir Noregur strax í sömu ófæru og Svíar. Hið sama varður uppi á teninginum hérlendis, ef Alþingi samþykkir tengingu íslenzka raforkukerfisins við Innri markaðinn, sem yrði fullkomið glapræði.
Í ESB er ekki sama, hvort í hlut á Jón eða séra Jón. Í vor bannaði franska ríkisstjórnin tímabundið útflutning á raforku frá Frakklandi til að draga úr verðhækkunum í kjölfar stöðvunar líklega um þriðjungs 56 kjarnakljúfa í frönskum kjarnorkuverum og virtist komast upp með það.
OP3 er dauður bókstafur á Innri markaði ESB síðan OP4 tók þar við. OP4 hefur hins vegar ekkert lagagildi í EFTA-löndunum. Þess vegna verður ekki annað séð en orkulandsreglarar Íslands og Noregs framkvæmi fyrirmæli ESA (frá ACER) í heimildarleysi, og embættismenn og ráðherrar kæra sig kollótta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)