Færsluflokkur: Bloggar

Munur á raforkuverði borgar og ríkis

Fimmtudaginn 28. janúar 2021 bar það til tíðinda í íslenzka orkugeiranum, að OR (Orkuveita Reykjavíkur) opinberaði samning um 18 % (47,5 MW) af rafmagnssölu sinni til Norðuráls (NA), sem nemur að meðalafli 264 MW af meðalrafaflgetu virkjana fyrirtækisins, sem er um 432 MW.  Það vekur alveg sérstaka athygli á hvaða verði borgaryfirvöld í Reykjavík töldu sér fært að selja raforku, aðallega frá jarðgufuverinu á Hellisheiði, til NA. 

Orkuverð með flutningsgjaldi í þessum samningi ræðst af líkingunni:

  • CP=LME*p/14,2
  • p=0,172 ef LME<1900 USD/t
  • p=0,177 ef 1900=<LME<2300
  • p=0,182 ef 2300=<2300 USD/t
  • LME er meðalstaðgreiðsluverð 99,7 % Al í USD/t mánuðinn á undan.  

Síðastliðin 3 ár hefur álverðið verið fremur lágt eða um 1800 USD/t Al að meðaltali.  Það þýðir orkuverð frá virkjun 15,5 USD/MWh og 21,8 USD/MWh með flutningsgjaldi til Landsnets. Það er mjög athyglisvert, að þetta verð og jafnvel lægra, því að hvorki er gólf né þak í samninginum, skuli hafa verið talið skila OR arðbærum viðskiptum.  Ef ON hefur hagnazt á þessu verði, er fyrirtækið mjög samkeppnishæft.  Stjórnmálamennirnir í meirihluta borgarstjórnar, þegar samningurinn var gerður, hljóta að hafa vitað, hvað þeir voru að gera, en þeir virðast þó tvímælalaust hafa tekið mikla áhættu fyrir hönd borgarinnar og annarra eigenda OR með því að sleppa gólfinu. Með gólfi gátu þeir tryggt, að orkuverðið færi ekki undir það, sem kostar að framleiða rafmagnið með lágmarksarðsemi. 

Eftirfarandi er haft eftir Bjarna Bjarnasyni, forstjóra OR, á vefsetri samsteypunnar:

"Þetta verð [núverandi 18,9 USD/MWh frá virkjun - innsk. BJo] er alltof lágt og stendur ekki undir þeirri eðlilegu arðsemiskröfu, sem eigendur OR gera."

Hvað skyldi hann þá segja um 15,5 USD/MWh ? M.v. háan rekstrarkostnað Hellisheiðarvirkjunar vegna nýrrar gufuöflunar sökum niðurdráttar í neðanjarðarforða virkjunarinnar, má kraftaverk kalla, ef ekki er tap á virkjuninni á neðsta hluta verðbilsins 14,2 USD/MWh-29,5 USD/MWh, sem svarar til álverðsbilsins 1700 USD/t-2800 USD/t.  Það er sérstaklega athyglisvert, að forstjórinn skuli ekki hafa kvartað undan tapi undanfarin misseri með meðalverð 15-16 USD/MWh. Það hljóta að vakna grunsemdir um bókhaldið í virkjun, sem jafnframt selur íbúum höfuðborgarsvæðisins heitt vatn.  Þar er um að ræða eina hæstu gjaldskrá á landinu fyrir heitt vatn. Það er óþægileg tilfinning fyrir viðskiptavini einokunarhluta ON, að þeir séu látnir greiða niður verð í samkeppnisrekstri ON, þ.e. á rafmagninu. 

Það þarf að taka með í reikninginn, að samningurinn, sem hér er til lítillegrar umfjöllunar, er að afli til aðeins 18 % af viðskiptum OR við NA, og 82 % viðskiptanna kunna að gera gæfumuninn fyrir OR.  Forstjóri OR segir þennan orkusamning ekki uppfylla núverandi arðsemiskröfur OR.  Það er hægt að fallast á það, þegar álverðið er undir 1900 USD/MWh, en þá fer orkuverðið undir 23,0 USD/MWh.  Þarna hefði borgarstjórnarmeirihlutinn 2008 (samningurinn er frá 30.12.2008 og gildir til 30.12.2033) átt að fá sett gólf í samninginn. 

Á vefsíðu OR er sagt, að spá um álverð 2021 hljóði upp á 2800 USD/t.  Það þykir álframleiðendum vera gott verð, og mikil bjartsýnisbirta yfir slíkum væntingum m.v. núverandi stöðu framboðs og eftirspurnar.  Með þessu verði fæst samkvæmt téðum  samningi OR og NÁ orkuverðið 29,5 USD/MWh án flutningsgjaldsins 6,35 USD/MWh, sem ofan á leggst.  Slíkt verð er ásættanlegt fyrir báða aðila.  Hins vegar gefur auga leið, að flutningsgjaldið nær engri átt, og þarf að lækka það um a.m.k. 22 % niður fyrir 4,5 USD/MWh, svo að það verði í námunda við samkeppnisland Íslands, Noreg, þar sem einnig er yfir miklar vegalengdir að fara og yfir fjöll og heiðar í strjálbýlu landi.  Orkustofnun verður að endurskoða arðsemiskröfu sína til mannvirkja Landsnets og leyfa mun lengri endurgreiðslutíma en hún gerir nú. Landsreglir orkumála, sem jafnframt er Orkumálastjóri, kann að leita ráða hjá ACER um þessa endurskoðun, en þessi Orkustofnun ESB samræmir störf allra landsreglanna, þótt ekki verði séð, hvað ESB varði um þessi mál hérlendis, þar sem engin samtenging er fyrir hendi eða fyrirhuguð.   

Sá raforkusamningur, sem hér er til lauslegrar umfjöllunar, var opinberaður að beiðni orkukaupandans, Norðuráls.  Hann sýnir ótrúlega hagstæð kjör, sem Reykjavíkurborg hefur veitt þessum viðskiptavini sínum til 25 ára.  Nú hlýtur að tvíeflast krafa annars stórs orkunotanda, ISAL, á hendur sínum viðsemjanda, ríkisfyrirtækinu Landsvirkjun, um opinberun núgildandi orkusamnings þessara fyrirtækja, en Landsvirkjun hefur þumbazt við með ýmsum undanbrögðum og er nú að daga uppi sem steintröll í nútímanum.  Opinberun mun leiða í ljós, að þegar álverðið var 1700 USD/t, þá var munurinn á orkuverði frá stöðvarvegg þessara tveggja fyrirtækja, ON og LV, 130 % af verði OR, og þegar álverðið var 2025 USD/t, var mismunurinn 68 % af verði OR. Samningarnir voru gerðir á svipuðum tíma, OR-NÁ árið 2008 og LV-ISAL 2011. Það er vitað, að vatnsorkuver Landsvirkjunar eru mun hagkvæmari en jarðgufuver ON.  

Þessi samanburður sýnir tvennt: verðlagning LV keyrir fram úr öllu hófi, er hreint okur í krafti yfirburðastöðu á markaði (ISAL gat ekki leitað neitt annað), og OR hefur flaskað á að fá gólf í samning sinn við NÁ, sem veldur því, að rafmagnsverðið stendur varla undir vinnslukostnaði þess, þegar álverð er lágt. 

Í grundvallaratriðum er vandi ríkisins sá að hafa ekki skilgreint eigendastefnu sína gagnvart Landsvirkjun. Núna stendur ríkisvaldið alls ekki frjálst að þessari stefnumörkun vegna þess, að stefnan er mörkuð af Orkupakka 3 (OP#3) frá Evrópusambandinu, sem hefur forgang á íslenzk lög um sama efni.  Frjáls markaður skal ráða verðlagningunni samkvæmt OP#3, en á Íslandi getur enginn frjáls markaður ríkt með rafmagn, á meðan Landsvirkun gín yfir markaðnum.  Annaðhvort verður að höggva Landsvirkjun í a.m.k. þrennt og selja a.m.k. 2 búta eða það verður að gefa hugmyndafræði ESB um rafmagn sem vöru upp á bátinn, og hugnast höfundi þessa pistils sú leið miklu betur og vafalaust landsmönnum flestum. 

Íslenzk raforka er náttúruafurð, og vinnslan algerlega háð duttlungum náttúrunnar.  Víðast hvar erlendis sjá markaðsöflin að mestu um að sjá orkuverum fyrir frumorku á formi kola, jarðgass, uraníums o.fl.  Öflun frumorkunnar hérlendis er því miður í mörgum tilvikum mjög umdeild.  Þær deilur munu aðeins magnast, ef almenningur fær á tilfinninguna, að hið opinbera og atvinnulífið sé farið að flokka rafmagn sem vöru.  Eina frambærilega leiðin til sátta um orkunýtingu úr íslenzkri náttúru er, að þessi orka verði nýtt til að efla hag fjölskyldnanna og fyrirtækjanna í landinu, sérstaklega framleiðslufyrirtækjanna, og skapa hér erlendan gjaldeyri, sem er undirstaða velmegunar í landinu.  Þetta þýðir, að arðsemiskrafan á orkufyrirtækin má aðeins vera mjög hófleg.  Þjóðhagslega verður það mjög hagkvæmt, því að heildararðsemi fjárfestinga í landinu verður miklu meiri með því að dreifa arðseminni þannig um allt þjóðfélagið í stað þess, að orkufyrirtækin okri á viðskiptavinum sínum, eins og reyndin hefur verið með sum ríkisfyrirtækjanna, s.s. Landsvirkjun og Landsnet.

 

 


Nýr orkumarkaður

Á kjörtímabilinu, sem rennur sitt skeið á enda á þessu ári, 2021, hefur ekki verið fitjað upp á umtalsverðri nýbreytni á orkusviðinum, sem fallin er til að stækka orkumarkað íslenzkra virkjunareigenda, nema sú merkilega verkfræðilega þróun í átt til mjög aukinnar nýtni frumorkunnar, sem átt hefur sér stað hjá HS Orku í Reykjanesvirkjun, þar sem afl- og orkuaukning um 30 % frá virkjun mun eiga sér stað að óbreyttri gufuöflun, ef kynnt áform ganga eftir. Áður hafði Landsvirkjun hafið endurbætur á virkjunum sínum í Soginu og í Þjórsá/Tungnaá til bættrar nýtingar og stýringar.  

Þetta er ljómandi dæmi um þá verkfræðivinnu, sem á sér stað á meðal allra virkjanafyrirtækja og stórorkunotenda á Íslandi til að auka orkunýtni, straumnýtni og nýtingu búnaðar til aukinnar framleiðslu.  Höfundur þessa pistils vann með góðum samstarfsmönnum ekki aðeins að framleiðsluaukningu með nýjum viðbótar búnaði, heldur einnig að bættri nýtingu gamals búnaðar til framleiðsluaukningar með uppsetningu þéttavirkja til hækkunar aflstuðulsins, cosphi, auknum símælingum og sjálfvirknivæðingu. Með því móti var hægt að flytja meira raunafl til spenna og afriðla.  

Það hefur hins vegar ekki verið fitjað upp á nýjum markaði hérlendis á kjörtímabilinu og alennt ríkt deyfð yfir orkugeiranum. Landsnet og orkuvinnslufyrirtækin hafa fjárfest fremur lítið, enda mannvirkin ekki verið fullnýtt vegna slæmrar samkeppnisstöðu orkukaupendanna.  Grunnur að kísilverinu á Bakka var lagður áður, og fjarað hefur undan orkukaupum gagnaveranna.  Orkukerfi landsins er alls ekki keyrt á fullum afköstum.  Þar munar sennilega um 10 % eða 2 TWh/ár.  Þar gæti verið um að ræða 8 mrdISK/ár tekjutap m.v. meðalorkuverð frá virkjun (án flutningsgjalds).  Fyrir utan Kófið er meginskýringin á ófullnægjandi nýtingu fjárfestinganna í orkukerfinu í heild yfirverðlagning á raforku.  Þetta hefur komið fram hjá talsmönnum iðnfyrirtækja í áliðnaðinum, járnblendinu og kísiliðnaðinum auk talsmanna gagnaveranna.  

Þetta er algerlega ótæk staða.  Þegar efnahagskreppa er í landinu með metatvinnuleysi, þá sjá stórir raforkukaupendur sig tilneydda að draga saman seglin m.a. út af ósamkeppnishæfu raforkuverði, sem sumir þeirra búa við.  Þetta hefur magnað efnahagssamdráttinn og aukið við atvinnuleysið.  Í ljósi þess, að ríkið er aðalgerandinn á birgjahlið orkumarkaðarins á Íslandi, verður að skella skuldinni að miklu leyti á ríkisstjórnina. Hún sem fulltrúi eigendanna verður að taka að sér að leiðrétta þann vitlausa kúrs, sem tekinn hefur verið og leiddur er af hinu markaðsráðandi fyrirtæki, Landsvirkjun. Nú hefur komið í ljós, að núverandi verðlagningarstefna Landsvirkjunar leiðir til verðs til stóriðju, sem er 75 % hærra en núverandi verð til ON til NA (án flutningsgjalds). Er undarlegt, þótt LV hafi verið kærð til Samkeppniseftirlits fyrir markaðsmisnotkun ?Til að koma hjólunum aftur á fullan snúning hjá stórum raforkukaupendum þarf að lækka hæsta raforkuverðið til samræmis við það, sem gerzt hefur hjá samkeppnisaðilum, t.d. annars staðar í Evrópu. 

Dæmi um þvermóðskuna, sem þarf að yfirstíga, er, að Norðurál hefur óskað eftir raforkusamningi við Landsvirkjun til a.m.k. 15 ára m.v. grunnverð nálægt núverandi meðalverði til stóriðju á Íslandi og álverðstengingu raforkuverðsins.  Slíkur samningur leysi af hólmi samning um Nord Pool verð, sem á s.l. ári var mun lægra en þetta meðalverð.  Gangi þetta eftir mun Norðurál treysta sér til að hefja þegar í stað fjárfestingar á Grundartanga í steypuskála sínum upp á allt að mrdISK 15 til að auka verðmæti afurðanna (álsívalningar).  Þetta mun skapa heilmikla vinnu á Grundartanga, bæði á framkvæmda- og rekstrartíma. Það er reginhneyksli í núverandi stöðu atvinnumála, að þetta mál skuli ekki hafa notið atbeina ríkisvaldsins til að verða að veruleika nú þegar. Efnahagslífið sárvantar beinar erlendar fjárfestingar.

Ferðamála-, nýsköpunar- og iðnaðarráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, þingmaður Skagamanna, Borgfirðinga, Snæfellinga, Dalamanna, Vestfirðinga, Húnvetninga og Skagfirðinga, ritaði áferðarfallegan helgarpistil í sunnudagsútgáfu Morgunblaðsins 24.01.2021, m.a. til að sýna, að lífsmark væri með iðnaðarráðuneytinu.  Það er þægilegt að hafa áferðarfalleg áform, en það er enn mikilvægara fyrir ráðherra, ekki sízt í Kófinu, að framkvæma í núinu. 

Heiti pistilsins vísaði til framtíðar og var (auðvitað):

"Einstök tækifæri í orkumálum".

Hann hófst þannig:

"Grænar orkulindir eru ein dýrmætasta náttúruauðlind okkar Íslendinga. [Þá gefur auga leið, að nýta verður þessa auðlind sem allra bezt, annars er ekki um auðlind að ræða - það er ekki gert nú á vakt höfundar - innsk. BJo.]  Þær hafa fært okkur ómældan ávinning, sparað okkur stjarnfræðileg eldsneytiskaup til húshitunar, skapað dýrmæt störf og útflutningstekjur, hlíft andrúmslofti jarðar við gróðurhúsalofttegundum, skapað forsendur fyrir þróun hugvits og þekkingar á heimsmælikvarða og sett Ísland í fremstu röð þjóða heims, hvað varðar sjálfbæra orkunotkun."

Þetta er rétt hjá ráðherranum, þegar frá eru skilin hástemmd lýsingarorð eins og ómældur og stjarnfræðilegur.  Ávinningurinn af orkulindum landsins er frá fyrstu virkjun þekktur með sæmilegri nákvæmni og sparnaðurinn, sem felst í að leysa jarðefnaeldsneyti til húsahitunar af hólmi með rafmagni vatsfalla og jarðhita úr iðrum jarðar er ekki stjarnfræðilegur, þótt hann sé mikill, enda var um að ræða viðameiri orkuskipti en framundan eru.

Árið 2018 stóð jarðhiti undir 64 % frumorkunotkunar á Íslandi, en notkun hans skiptist á milli hitaveitu til húsnæðishitunar og raforkuvinnslu með jarðgufu.  Vatnsorka til raforkuvinnslu stóð undir 18 % frumorkunotkunar, olíuvörur stóðu undir 16 % og kol 2 %.  Verkefni orkuskiptanna framundan nemur þannig aðeins 18 % heildarorkunotkunar landsmanna.  Hjá mörgum þjóðum er þessu öfugt farið.  Þær þurfa að leysa um 80 % frumorkunotkunar sinnar af hólmi með endurnýjanlegum orkugjöfum.  

"Áhugi á möguleikum græns vetnis og rafeldsneytis fer líka hratt vaxandi, og víða er mikill þungi í þeirri þróun.  Þetta er fagnaðarefni frá sjónarhóli loftslagsmála, en minnir okkur líka á, að sterk staða okkar í alþjóðlegum samanburði er ekki sjálfgefið náttúrulögmál." 

Þarna drepur ráðherrann á vetnisvinnslu, en því miður er ekki nokkurt kjöt á beinunum.  Ýmislegt bendir þó til, að næsta umfangsmikla þróun markaðar fyrir íslenzka frumorku geti verið vetnisvinnsla með rafgreiningu vatns.  Það er bágborið, að ráðherrann skuli ekki geta minnzt á hugmyndir sínar um þessa þróun, sem gæti verið á næstu grösum, þegar litið er til nágrannalandanna.  Norðmenn eru með áform á prjónunum, ekki um hefðbundna vetnisvinnslu úr sínu jarðgasi, heldur um "græna" vetnisvinnslu. 

Á Englandi er að opnast stór markaður fyrir íslenzkt vetni, því að Englendingar ætla að leysa jarðgas af hólmi með vetni til húsnæðishitunar.  Iðnaðarráðuneytið hlýtur að hafa einhvern metnað í þessum efnum.  Næg er óvirkjuð frumorka á Íslandi til að hasla sér völl á þessum markaði, hvort sem eru vatnsföll, jarðgufa eða vindur, eða á að láta ofstækismenn komast upp með að friða allt saman.  Þá fer að styttast í að friða þurfi íslenzka "homo sapiens"-stofninn og hafa til sýnis sem víti til varnaðar. 

"Rammaáætlun er auðvitað fíllinn í herberginu.  Ég hef ekki farið leynt með þá skoðun mína, að það ferli þurfi að endurskoða og einfalda, til að það geti þjónað tilgangi sínum."

 Orkumálastjóri varpaði ljósi á það í jólahugvekju sinni 2020, hvers konar örverpi ríkisvaldinu hefur tekizt að unga út til að aðgreina virkjanakosti í 3 flokka.  Þetta stjórnkerfi er óskilvirkt, torskiljanlegt og með slagsíðu í átt að vernd.  Iðnaðarráðherra samþykkti megingagnrýni Orkumálastjóra.  Kerfið er ónothæft, t.d. vegna óskilvirkni.  Það er ekki nóg, að ráðherrann bíði með hendur í skauti, sáróánægð með þennan flöskuháls, henni ber þá að koma með tillögu að öðru og betra fyrirkomulagi.  Það hefur hún ekki boðað. Það er einboðið að auka við hlutverk Orkustofnunar við útstikun virkjanakosta.  Ef hlutlægt mat hennar sýnir, að lítil sem engin óvissa sé um, að rök fyrir virkjun vegi þyngra en verndun, megi halda áfram með virkjanaundirbúning og lögformlegt umhverfismat, en ef vafi leikur um, hvort vegi þyngra virkjunar-eða verndarrök, skal þverfaglegur hópur á vegum iðnaðarráðuneytis og umhverfisráðuneytis vinna að rannsóknum, sem eytt geti óvissunni.  Alþingi staðfesti allar niðurstöður um virkjanakosti að afli 50 MW eða meira.

"Orkustefnan felur m.a. í sér tímamóta-framtíðarsýn um, að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti árið 2050, sem er risastórt hagsmunamál, bæði umhverfislega, en ekki síður efnahagslega.  Mér vitanlega er Svíþjóð eina landið, sem hefur sett fram sambærileg markmið.  Þetta er því markmið á heimsmælikvarða, og nú veltur það á okkur að fylgja því eftir. Við eigum raunhæfa möguleika á að verða algjörlega orkusjálfstæð, sem væri stórkostlegt, bæði í efnahagslegu og umhverfislegu tilliti. 

Hitaveituvæðingin var eins konar "tunglskot" okkar Íslendinga á sínum tíma; gríðarlega metnaðarfullt verkefni, sem tók nokkra áratugi að framkvæma.  Framtíðarsýnin um að verða óháð jarðefnaeldsneyti er okkar næsta tunglskot í orkumálum." 

Það er skot hátt yfir markið að jafna því við "tunglskot" og hitaveituvæðingu að gera 18 % frumorkunotkunar landsmanna sjálfbæra á 30 árum.  Það er líka villandi að gefa í skyn, að þessi mál velti nú algerlega á "okkur".  Framvindan veltur á tækniþróuninni, og hún er ekki í höndum Íslendinga.  Rafvæðing bílaflotans er hafin (pistilhöfundur keypti sér alrafknúna eðalreið 2020), en tæknin er enn ekki tilbúin til að leysa dísilvélar vinnuvélanna af hólmi, og enn lengra er í, að millilandaskip og millilandaflugvélar sigli og fljúgi um án þess að losa koltvíildi út í andrúmsloftið.  Tilraunir með hvort tveggja munu líklega hefjast af krafti á þessum áratugi. 

 

Til þess að fá hjól efnahagslífsins til að snúast aftur af krafti á Íslandi þarf fernt: orku, fjármagn, þekkingu og markað. Af frumorku er nóg og einnig af margs konar þekkingu, en það vantar fjármagn tengt sérhæfðri framleiðsluþekkingu og markaðssamböndum.  Hins síðast nefnda afla þjóðir sér með beinum erlendum fjárfestingum, og þær bráðvantar á Íslandi, og hefur svo verið um hríð.  Það eru ýmsar skýringar á því, s.s. dýrir flutningar, dýrt vinnuafl og hátt orkuverð.  Hinu síðast nefnda getur eigandi helztu orkufyrirtækjanna, t.d. Landsvirkjunar og Landsnets, kippt í liðinn án   vandkvæða, því að raforkan er hér að nokkru leyti verðlögð hátt yfir því marki, sem nauðsynlegt er vegna kostnaðar við öflun hennar, og arðsemiskrafan á Landsnet er allt of há.  Aðgerðarleysi í þessum efnum er dýrkeypt, því að það seinkar raunverulegum viðsnúningi í hagkerfinu.

Nú er að verða ljóst, að vetni mun leika talsvert hlutverk í orkuskiptum 21. aldar, þegar mannkyn segir skilið við jarðefnaeldsneytið, sem olli byltingu í lífskjörum þess frá iðnbyltingu 18. aldar og fram á vora daga.  Menn hafa ekki verið vissir um, hvernig þetta mætti eiga sér stað í fluginu, en nú eru línur þar að skýrast. 

Það er ekki nýtt af nálinni að nota vetni til að knýja flugvélar.  1950-1960 gerði bandaríski flugherinn leynilegar tilraunir með þetta á Flórída í verkefninu "Suntan".  Þær tókust að miklu leyti, því að þotuhreyflarnir voru knúnir með bruna vetnis, en vetnisvinnslan, flutningur og geymsla þess, reyndust vera of dýr á þeim tíma. 

Vetni er í eðli sínu álitlegt fyrir flugið, því að orkuþéttleiki þess í kWh/kg er þrefaldur á við flugvélaeldsneytið kerosen (steinolíu).  Tilraunir héldu þess vegna áfram.  Tupolev flugvélaverksmiðjurnar gerðu tilraunir í Rússlandi á síðasta áratugi Ráðstjórnarríkjanna (1981-1990), og Boeing gerði tilraunir upp úr síðustu aldamótum.  Ekkert heppnaðist, enda er vetni rúmtaksfrekt.  Það þarf að geyma það undir þrýstingi eða að breyta því í vökva (kæla og þrýsta), og engir innviðir eru til að framleiða grænt vetni og flytja það. 

Nú hafa aðstæður breytzt.  Þrýstingur er á flugfélögin að draga úr losun koltvíildis með því að brenna minnu af kerosen.  Mikill árangur hefur náðst við að auka nýtni hreyflanna.  Hafinn er undirbúningur að því að koma á legg innviðum fyrir aðra notkun, t.d. húshitun og fyrir samgöngutæki á landi og e.t.v. á sjó líka.  Einkum hafa asískir bílaframleiðendur sýnt vetni áhuga og á engan er hallað, þótt Toyota sé nefnt í því sambandi.  Þetta hefur vakið áhuga frumkvöðla innan flugvélasmíði. 

Verkefnið Suntan nýtti vetnið, eins og kerosenið er notað, en margar flugvélar eru knúnar skrúfuhreyflum, og rafhreyflar geta knúið þá.  Rafhreyflana má straumfæða frá rafgeymum eða efnarafölum (fuel cells), þar sem orka vetnis er leyst úr læðingi við bruna.  Það er 19. aldar tækni, vel þekkt og stöðugt í framþróun varðandi nýtnina.  

Brezkt fyrirtæki, ZeroAvia, breytti Piper M flugvél, setti í hana rafhreyfil, knúðan vetnisrafala, og mun hafa prufuflogið henni 400 km í desember 2020, og í vor á að fljúga henni á milli Orkneyja og fastalands Skotlands.  Fyrirtækið áformar að hafa 20 sæta flugvél tilbúna til reynslu í ár, 2021.  Stefnt er að flughæfnisskírteini til farþegaflutninga á viðskiptagrundvelli árið 2025. 

Á hæla Bretanna koma Þjóðverjar í H2Fly-félaginu, sem er sprotafyrirtæki DLR, Rannsóknarmiðstöðvar þýzkra flugrannsókna.  Í Bandaríkjunum hefur rafhreyflafyrirtækið magniX gert samstarfssamning við Universal Hydrogen í Los Angeles um að breyta 40 sæta Havilland Canada Dash 8-300 vél fyrir vetnisrafala og rafhreyfla.  Áætlunin er að vera tilbúin á markað árið 2025.  Það er mjög líklegt, að á þessum áratugi muni koma vetnis- og rafknúnar flugvélar til Íslands og hefja flug með almenna farþega, jafnvel áætlunarflug.  Það mun styrkja innanlandsflugið í sessi, ekki sízt Reykjavíkurflugvöll.  

Stærri flugvélar þarfnast fjölbreytilegra lausna, því að hvorki rafgeymar né vetnisrafalar geta gefið nægilegt afl fyrir flugtak og lendingu þeirra.  Fyrir lendingu og flugtak þarf að hverfa aftur til Suntan verkefnisins og nýta vetnisbruna í hverflum, en fljúga þess á milli með orku frá vetnisrafölum.  Þetta fyrirkomulag er nú komið í þróunarferli hjá Airbus með verkefninu ZEROe, þar sem hannaðar eru 3 flugvélar með einum gangi í farþegarými fyrir stuttar vegalengdir.  Fyrsta flugvélin á að geta flutt 100 farþega allt að 2000 km, önnur á að geta tvöfaldað þessar tölur.  Sú þriðja er enn á hugmyndastigi, en hún á að vera þríhyrningslaga til að geta flutt nægt vetni langar leiðir.  

Airbus ætlar að setja fyrstu vetnisknúnu farþegavélarnar á markað 2035.  Fyrirtækið á að njóta ríkisstuðnings frá Bretlandi, Þýzkalandi, Frakklandi og Spáni við þessa þróun.  Boeing hefur enn ekki sett sig í sömu stellingar, enda enginn hljómgrunnur í Hvíta húsinu til skamms tíma til að vinna að minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið.  Þar varð kúvending 20. janúar 2021, og Bandaríkin hafa aftur lýst vilja sínum til skuldbindinga við Parísarsáttmálann 2015.  Það er nú líklegt, að bandaríski ríkissjóðurinn muni styrkja rannsóknir og þróun Boeing á vetnisknúnum flugvélum, og þá mun nú færast fjör í leikinn, þegar Bandaríkin fara að nýta sitt gríðarlega vísindalega og tæknilega afl á sviði orkuskipta fyrir flugið.  

 

 


Kolin kvödd

Eldsneytiskol innihalda lítið annað en frumefnið kolefni, C, og þess vegna myndast meira CO2, koltvíildi, við bruna hvers tonns (t) kola en t.d. olíu og jarðgass, sem auk C innihalda H, vetni, o.fl. Þrátt fyrir þetta hafa þjóðir ekki skirrzt við að knýja iðnvæðingu sína með kolum, jafnvel eftir að gróðurhúsaloftskenningin varð vel þekkt. 

Til eru ljósmyndir af Reykjavík frá um 1930, þar sem kolamökkur grúfir sig yfir bæinn. Á seinni hluta 20. aldar nýttu Íslendingar sér gæði orkuríkrar náttúru sinnar til að afnema að langmestu leyti húshitun með jarðefnaeldsneyti, og nú er komið að afnámi afurða jarðolíunnar, sem knýja vélar fartækja á láði, legi og í lofti.

Við eigum ekki að hika við að leggja Evrópuþjóðunum lið við orkuskipti sín með því að virkja orkulindir áfram hér með sjálfbærum hætti (það eru reyndar grafalvarlegar undantekningar á þessu hjá Reykjavíkurborg, eins og lesa má um í grein Árna Gunnarssonar, fyrrverandi yfirverkfræðings Hitaveitu Reykjavíkur í Fréttablaðinu 29. desember 2020), og framleiða t.d. vetni, aðallega til útflutnings.

Það má greina viss veðrabrigði í orkumálum heimsins um þessar mundir, enda ekki seinna vænna fyrir mannkynið sem heild að hefja minnkun losunar CO2 út í andrúmsloftið. Xi Jinping hefur samþykkt markmið um núll nettólosun Kína á koltvíildi árið 2060, þótt ótrúleg aukning hagvaxtar Kínverja sé sennilega enn knúin með jarðefnaeldsneyti.  Það eru þó óljós merki um, að Kínverjar taki þetta fjarlæga markmið alvarlega, enda er mengun í Kína grafalvarlegt vandamál og sennilega pólitísk byrði fyrir kommúnistaflokkinn.   

Undir Joe Biden munu Bandaríkjamenn aftur skuldbinda sig til að virða Parísarsáttmálann frá 2015.  Á fjármálamörkuðum njóta hreinorkufyrirtæki nú orðið velvildar umfram hin. Hreinorkufyrirtækin munu þó ekki geta vaðið yfir héruð á skítugum skónum, eins og t.d. með uppsetningu 200 MW vindorkuvers í næsta nágrenni höfuðborgarsvæðisins, á Mosfellsheiði, þar sem margir munu þurfa að líða fyrir ljóta ásýnd, flugöryggi verður ógnað og aðstaða til svifflugs yrði eyðilögð.  Þótt vindafar kunni að vera hagstætt á Mosfellsheiði, eru þessar fórnir meiri en ávinningurinn í landi hreinorkunnar, þar sem enginn hörgull ætti að öllu eðlilegu að vera á tiltæku vatnsafli til að virkja fyrir komandi eftirspurnaraukningu. Til hvers í ósköpunum ætti þá að samþykkja slíka yfirtroðslu, sem klárlega rýrir lífsgæði íbúanna ? 

Í Bandaríkjunum (BNA) og í Evrópu hefur notkun kola, mesta losunarvaldsins, minnkað um 34 % síðan 2009.  Samt standa kol enn undir 27 % heildarfrumorkunnar, sem maðurinn nýtir.  Frá kolabrennslu koma hins vegar 39 % af árlegri losun frá bruna alls jarðefnaeldsneytis. Þess vegna er árangursríkast fyrir baráttuna gegn of mikilli hlýnun jarðar að draga úr kolabrennslu um allan heim.  Íslendingar geta lagt sitt lóð á þessar vogarskálar með virkjunum og orkukræfum verksmiðjurekstri og hafa vissulega gert það, en s.k. umhverfisverndunarsinnar, sem í mörgum tilvikum horfa framhjá þessu heildarsamhengi, vanþakka þetta framlag hérlandsmanna algerlega. Þeir hafa asklok fyrir himin.

Kolanotkunin jókst gríðarlega í iðnbyltingunni, sem knúin var af gufuvél James Watt, og náði hámarki á 4. áratugi 20. aldar eftir tæplega 200 ár.  Notkun kola á Vesturlöndum hefur nýlega hrunið.  Bretar, upphafsmenn iðnbyltingarinnar, ríða á vaðið við að losna undan oki kolabrennslunnar og munu sennilega loka sínu síðasta kolaorkuveri árið 2022, löngu á undan flestum Evrópusambandsríkjunum.  Bretar skjóta nú Evrópusambandinu ref fyrir rass á hverju sviðinu eftir annað. 

Peabody Energy, stórt bandarískt kolanámufélag, hefur sent út viðvörun um, að það geti bráðlega farið á hausinn í annað skiptið á 5 árum.  Þótt ríkisstjórn Donalds Trump hafi hyglað kolaiðnaðinum leynt og ljóst, fær enginn stöðvað tímans þunga nið.

Í Evrópu hefur koltvíildisskattur ýtt undir aflagningu kolaorkuvera, og þrátt fyrir ýmsa hvata og pólitíska hvatningu Trump-stjórnar BNA til kolaiðnaðarins hefur notkun kola minnkað þar líka. Auðvitað vita Bandaríkjamenn, hvað klukkan slær, hvað sem tautar og raular í Hvíta húsinu. Ein ástæðan er framboð á ódýru jarðgasi, sem framleitt er með leirsteinsbroti í BNA og hefur gert Bandaríkjamenn aftur að nettóútflytjendum jarðefnaeldsneytis .

Skattaafslættir og niðurgreiðslur hafa hvatt orkufyrirtæki til að auka hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa, og með hagkvæmni fjöldans hefur verð þeirra lækkað.  Sólarhlöður og vindmyllur á landi geta nú framleitt ódýrasta nýja rafmagnið fyrir a.m.k. 2/3 mannkyns samkvæmt BloombergNEF, gagnasafnara.  Þar sem kolin mæta nú samkeppni hreinna orkulinda og þar sem útlit er fyrir stífari reglusetningu fyrir kolanotkun, snúa bankar og fjárfestar nú baki við kolafyrirtækjum. Þau sjá nú skriftina á veggnum, enda eykur slík staða óhjákvæmilega fjármagnskostnað þeirra. 

Þetta er áfangasigur, en samtímis hefur snarazt á merinni víða annars staðar.  Undanfarinn áratug, þegar Evrópa hefur að nokkru snúið af braut kolabrennslu, hefur notkun þeirra í Asíu aukizt um fjórðung.  Í Asíu eru nú notuð 77 % af heimsnotkun kola, þar af brenna Kínverjar nú 2/3, og Indverjar lenda í 2. sæti.  Kol eru ríkjandi orkugjafi í nokkrum miðlungs stórum, hratt vaxandi hagkerfum, eins og Indónesíu og Víetnam. Kínverjar, sem eru á leiðinni að verða stærsta hagkerfi jarðar (í kringum 2028), gætu gegnt forystuhlutverki við að snúa ofan af þessari öfugþróun í Asíu með orkuskiptum þar.  Annars mun ekki mikið gerast þar í þessum efnum.  Með öðrum orðum hafa Kínverjar það í höndum sér að stöðva hlýnun jarðar. Þeir geta ekki orðið forysturíki í heiminum, ef of mikil hlýnun andrúmslofts verður á endanum skrifuð á þeirra reikning.  

Sé ætlunin að halda hlýnun andrúmslofts undir 2,0°C frá því fyrir iðnbyltingu, er ófullnægjandi að bíða aðgerðalaus eftir, að kolanotkun minnki í Asíu. Þar eru enn reist kolaorkuver. Mörg nýleg ver eru enn ekki fullnýtt og munu verða nokkra áratugi í brúki að óbreyttu.  Það er heldur ekki nóg að búast við lausn frá "hreinkolatækni", sem fangar CO2 úr útblæstrinum og geymir það á öðru formi en gasformi, t.d. neðanjarðar.  Sú tækni kann að gagnast iðnaðinum, t.d. stálverksmiðjum, en hún er of dýr fyrir orkuiðnaðinn. Líklega er þessi aðferð líka of dýr fyrir áliðnaðinn.  Þar er hins vegar "lokalausn" senn í vændum.  Í tilraunaverksmiðju Rio Tinto í Frakklandi mun í ár  hefjast rekstur tilraunakera, sem losa ekkert koltvíildi út í andrúmsloftið við rafgreiningu súrálsins. Tilraunakerin eru afrakstur einbeittrar rannsóknarvinnu álfyrirtækjanna Rio Tinto og Alcoa, og verður spennandi að fylgjast með framhaldinu. 

 

 

 

    

   


"Vísindin efla alla dáð"

Bóluefnin, sem í fyrra voru þróuð gegn kórónuveirunni, SARS-CoV-2, sem síðan í nóvember 2019 hefur herjað á mannkynið með viðbrögðum þess, sem eiga sér engan líka, eru ný af nálinni gegn umgangspestum.  Tækninni hefur þó verið beitt í viðureigninni við krabbamein í um áratug. Þessi pistill er reistur á greininni, "An injection of urgency", sem birtist í The Economist, 5. desember 2020, aðallega til að svara hinni brennandi spurningu, hvort nýju bóluefnin væru örugg. 

Um miðjan janúar 2020 fékk Moderna-lyfjafyrirtækið bandaríska senda genasamsetningu kórónuveirunnar SARS-CoV-2 frá Kína, og í byrjun marz 2020 eða um 7 vikum seinna höfðu vísindamenn fyrirtækisins einangrað broddprótein veirunnar í bóluefni, sem þá strax hófust klínískar rannsóknir með. Þetta jafngilti byltingu í gerð bóluefna, bæði hvað þróunarhraða og gerð bóluefnis gegn faraldri áhrærir og markar þáttaskil í viðureign mannkyns við skæðar veirur.  

2. desember 2020 varð brezka lyfjastofnunin "Medicines and Healthcare-products Regulatory Agency (MHRA)  fyrst sinna líka til að leyfa almenna bólusetningu á sínu markaðssvæði á fullprófuðu bóluefni af þessari nýju gerð. 

Bóluefnið, sem leyft var, ber merkið BNT162b2 og var þróað af Pfizer, bandarískum lyfjarisa, og BioNTech, minna þýzku fyrirtæki. Tæknin, þótt ný sé af nálinni, er þannig vel þekkt innan lyfjaiðnaðarins.  Lyfjaiðnaður heimsins hefur ekki verið par vinsæll, en er nú skyndilega "hetja dagsins".

Þetta Pfizer-BioNTech-bóluefni hefur verndarvirkni í 95 % tilvika eftir tvær sprautur gegn téðri veiru, en þess ber að geta, að börn voru ekki prófuð og fólk eldra en 70 ára í mjög litlum mæli.  Það er mjög lítið vitað um virkni bóluefnisins á eldri borgara og á fólk með langvarandi sjúkdóma úr prófunum fyrirtækjanna.  M.a. þess vegna er mjög óvarlegt af Landlækni og öðrum að fullyrða, að a.m.k. 5 dauðsföll fáeinum dögum eftir fyrri bólusetningu sé ekki (eða varla) hægt að rekja til bólusetningarinnar.  Tilvikin eru of mörg og þekking á virkninni úr prófununum of lítil, til að slík niðurstaða sé trúverðug.  Prófunarskýrslur lyfjafyrirtækjanna gefa ekki tilefni fyrir heilbrigðisyfirvöld til að leyfa bólusetningu hrumra einstaklinga.  Ef ónæmiskerfið er veiklað, þarf að ganga mjög varlega fram. Það er öruggara fyrir þessa einstaklinga að skáka í skjóli hjarðónæmis, þegar því hefur verið náð með bólusetningum og sýkingum. 

Aðrar þjóðir litu til Breta í byrjun desember 2020 sem fyrirmyndar við flýtta samþykkt Pfizer-BioNTech-bóluefnisins, og Alþjóða heilbrigðismálastofnunin, sem tekur að sér að samþykkja lyf og bóluefni fyrir þjóðir án lyfjastofnana eða með lyfjastofnanir án bolmagns til vísindalegrar rýni, áttu í samstarfi við MHRA um viðurkenningu bóluefnisins.  Þarna tóku Bretar mikilsvert frumkvæði og skrýtið, að íslenzka lyfjastofnunin skyldi ekki fremur leita í smiðju þangað en til lyfjastofnunar ESB, þar sem Ísland á enga aðild, nema að Innri markaðinum. Svifaseinir íslenzkir búrókratar voru ekki með á nótunum.  Það er eðlilegt, að Lyfjastofnun Íslands geri samstarfssamning við MHRA í stað þess að leita á náðir ríkjasambands, sem Ísland stendur utan við af góðum og gildum ástæðum. 

Hraði bóluefnissamþykktanna var reistur á stöðugu upplýsingaflæði frá viðkomandi lyfjafyrirtækjum til eftirlitsstofnananna í öllum áföngum þróunarferlisins, og tæknin var þekkt þar, þótt hún hafi aldrei verið nýtt gegn veirufaraldri.  

Bandaríska lyfjafyrirtækið Moderna brást hraðast við í upphafi, og prófunarskýrslur fyrirtækisins úr 3. prófunaráfanganum sýna vísindalegustu og trúverðugustu vinnubrögðin, en fyrirtækið varð viku á eftir Pfizer-BioNTech með að tilkynna lok prófunarferlisins.  Bóluefni fyrirtækisins gegn SARS-CoV-2 nefnist mRNA-1273.

Bæði BNT162b2 og mRNA-1273 eru í hópi s.k. mRNA-bóluefna. Þótt þetta sé í fyrsta skipti, sem leyfi er veitt til að sprauta þessari tegund í almenning, eru sérfræðingar samt bjartsýnir um almennt skaðleysi hennar fyrir líkama og sál, því að hún hefur verið reynd gegn ýmsum krabbameinum í yfir áratug.  Varðandi BNT162b2 og mRNA-1273 sérstaklega, voru þau prófuð á 73.000 sjálfboðaliðum alls, þar sem helmingurinn fékk bóluefnið og hinn helmingurinn lyfleysu (Moderna) eða annað bóluefni (Pfizer-BioNTech). Þetta safn gat gefið tölfræðilega marktækar niðurstöður, en gallinn var sá, að þeir, sem nú er lögð mest áherzla á að verja, voru ekki hafðir með í úrtakinu.  Þess vegna stendur stórfelld tilraunastarfsemi enn yfir án þess, að skjólstæðingarnir séu endilega upplýstir um, hvernig í pottinn er búið. 

Hugsunin á auðvitað að vera sú að forðast að gera viðkvæma að tilraunadýrum, nema þeir séu fullkomlega meðvitaðir um það, en leyfa þeim hins vegar að njóta hjarðónæmisins, sem mun myndast í þjóðfélaginu, ef hinir stæltu eru bólusettir.  Ungviði undir tvítugu ætti alls ekki að bólusetja við C-19, enda allsendis ófullnægjandi vitneskja fyrir hendi um virkni þessara bóluefna á það, og því verður yfirleitt lítið um þennan sjúkdóm.  Í heilbrigðisráðuneytinu mun hafa komið fram vilji til skyldubólusetninga við samningu frumvarps til nýrra sóttvarnarlaga.  Hvers vegna ætti ríkisvaldið að ganga freklega á einstaklingsfrelsið og setja fjölda manns í stórhættu ?  Valdbeitingarárátta sumra stjórnmálamanna og búrókrata er stórhættuleg, og henni verður að setja skorður með lögum, sem reist eru á Stjórnarskrá landsins.

Á Vesturlöndum er haldið uppi eftirfylgni með bólusettum, þannig að heilsufarstengd atriði eru skráð og hugsanlegar sýkingar af C-19 bornar saman við sýkingar óbólusettra.  Einn áhættuþáttur við öll bóluefni er, að þau geta aukið smitnæmi sumra hópa.  Önnur áhætta er, að í sjaldgæfum tilvikum koma bóluefni af stað sjálfsofnæmi - nokkuð, sem vírussýkingar geta líka gert.  Miklar rannsóknir á þessu þarf að gera áður en milljarðar manna verða bólusettir. 

Vegna virkni sinnar er reyndar ástæða til að halda, nema eitthvað óvænt gerist, að mRNA-bóluefnin gætu verið öruggari en hefðbundin bóluefni.  Lifandi bóluefni, t.d. gegn lömunarveiki, innihalda veiklaðar veirur.  Hættan við þau er, að veiran breytist í skaðvænlegra afbrigði.  Með mRNA-bóluefni, sem eru nokkrir bútar af genahráefninu mRNA umluktu fituhjúp, getur slíkt ekki gerzt.  Þetta mRNA efni fyrirskrifar ekki, hvernig á að búa til veiru, heldur aðeins, hvernig á að búa til eitt af próteinum hennar, sem kallað er broddur.  Með þessa forskrift úr bóluefninu, framleiða frumur líkamans nú broddinn í miklu magni. Hann veldur viðbragði ónæmiskerfisins til að þróa eyðingu þessu aðskotapróteins.  Ónæmiskerfið mun þá geta brugðizt hratt við næst, þegar vart verður við þessa próteingerð - í þetta sinn sem hluta af broddveiru (kórónuveiru) í innrás. 

Einnig má geta þess, að mRNA er náttúrulegur hluti af lifandi frumum, sem framleiða það og eyða því stöðugt.  Endingartíminn er mældur í dögum.  Þegar mRNA bóluefnisins hefur gegnt sínu hlutverki, er það brotið hratt niður.  Samt ríkir nokkur upplýsingaóreiða um þetta efni.  Sérstaklega skaðleg ósannindi eru, að mRNA í bóluefninu muni breyta DNA samsetningu í frumum bóluefnisþegans.  Þetta er álíka líklegt og eppli Newtons losni úr trénu og fari upp í loftið.  Bullustampar netsins munu ótrauðir halda því fram, að þetta geti gerzt, þótt Isaac Newton hafi sannað hið gagnstæða á 17. öld, en hjátrúarfullir netverjar munu þá óðfluga stimpla hann sem samsærismann.  Það eru engin takmörk fyrir þvættinginum, sem sullast inn á alnetið, en þar er auðvitað einnig ómetanlegur fróðleikur. 

RNA og DNA eru ólíkir hyrningarsteinar gena, og frumur spendýra hafa ekkert efnafræðilegt gangverk til að afrita annan yfir í hinn.

Að mynda og viðhalda trausti almennings til sérhvers vísindalega viðurkennds bóluefnis er mikilvægt.  Slíkt traust er sennilega almennara á Bretlandi en víða annars staðar.  Skoðanakannanir sýna, að 79 % af íbúum landsins hyggjast fá sprautu við C-19, sem er hærra en almennt gerist.  Í Bandaríkjunum t.d. er þetta hlutfall aðeins 64 %.

Þegar allt kemur til alls, eru allar ákvarðanir um, hvort leyfa eigi almenna notkun lyfja teknar á grundvelli mats á áhættu og ávinningi. Við leyfisveitingar á bóluefnum verður hins vegar líklegur ávinningur að vega miklu þyngra en áhættan. Þetta er út af því, að ólíkt lyfjum, sem vanalega eru gefin sjúklingum, eru bóluefnin gefin heilbrigðu fólki. 

T.d. MHRA fær ráðleggingar frá óháðri vísindanefnd fyrir ákvörðun sína.  Þótt nefndarmenn muni hafa vegið og metið marga þætti, þegar ákveðið var að mæla með neyðarsamþykki á BNT162b2, hefur ákveðinn svæsinn útreikningur verið þeim ofarlega í huga, þ.e. hver biðdagur kostar marga lífið.  Á Bretlandi létust 603 úr C-19, daginn sem ríkisstjórnin veitti leyfi til almennrar notkunar á BNT162b2.

Er þessi dánartala há eða lág ?  Á Íslandi deyja að jafnaði 6 manns á dag, sem jafngildir 16,4 ppm þjóðarinnar.  Það hlutfall gefur 1068 látna á dag á Bretlandi í venjulegu árferði.  Viðbótin af völdum C-19 er 56 %, sem er hátt hlutfall, enda hefur verið upplýst, að látnir á Bretlandi vegna C-19 séu nú um 96 k eða 0,15 % þjóðarinnar, sem er hæsta hlutfall, sem sézt hefur í þessum faraldri.  Á Íslandi hafa til samanburðar 79 ppm þjóðarinnar látizt úr C-19.

Þetta gerist á Bretlandi þrátt fyrir mjög strangar sóttvarnarráðstafanir yfirvalda og þar með útgöngubanni og starfrækslubanni af ýmsu tagi og fjöldatakmörkunum af strangasta tagi.  Nú hafa birzt rannsóknir á Bretlandi, sem benda til, að þessar ráðstafanir hafi verið gagnslausar, þ.e. 3 vikum eftir, að þær voru settar á, fækkaði dauðsföllum ekki neitt.  Hafa einhvers staðar birzt marktækar rannsóknir, sem sýna hið gagnstæða ?  Þessar ráðstafanir hafa sjálfar valdið heilsutjóni, eins og rannsóknir sýna líka, og gríðarlegu fjárhagstjóni launþega, fyrirtækja og hins opinbera.  

Hættan við þessa veiru, SARS-CoV-2, er sú, að hún stökkbreytist og verði enn skæðari en þau afbrigði, sem borizt hafa inn í íslenzka samfélagið, bæði meira smitandi og með alvarlegri veikindum og fleiri dauðsföllum á hvern sýktan.  Þekkt er brezka afbrigðið, sem grunur er um, að sé meira smitandi, og nú er komið fram Suður-Afríkanskt afbrigði, sem grunur er um, að valdi meiri veikindum hjá fleiri sýktum.

  Áhyggjur manna hafa t.d. snúizt um það, hvort hin nýsamþykktu bóluefni muni virka í nægilega miklum mæli gegn hinum stökkbreyttu afbrigðum.  Athuganir lyfjafyrirtækjanna (framleiðenda nýju bóluefnanna)  benda til, að bóluefnin virki svipað vel gegn hinum stökkbreyttu afbrigðum.  Það þýðir, að broddpróteinið er enn nægilega lítið breytt eða jafnvel ekkert breytt, til að ónæmiskerfið þekki stökkbreyttan skaðvaldinn, þegar hann gerir innrás í líkamann. 

 

 

                                  

 

 


Afturhald í efnahagsmálum

Svo virðist sem tími stórra jafnaðarmannaflokka í Evrópu sé liðinn.  Þá hefur dagað uppi.  Þeir eiga ekkert stjórnmálalegt baráttuhlutverk í þjóðfélagi samtímans, hvað þá í framtíðinni, þar sem gamla baklandið þeirra er ekki nema svipur hjá sjón.  Sósíalistaflokkur Frakklands er nánast horfinn.  SPD-jafnaðarmannaflokkur Þýzkalands er hugmyndalega steingeldur og undir 20 % í skoðanakönnunum á landsvísu.  Svipaða sögu er að segja frá Svíþjóð, og nú hefur hinn sögufrægi Verkamannaflokkur Noregs (Arbeiderpartiet) misst forystusæti sitt í skoðanakönnunum til Miðflokksins (Senterpartiet) og mælist líka undir 20 %.  Flokksforystan gengur ekki í takti við verkalýðshreyfinguna, sem í Noregi fylgist vel með gangverki tímans og þróun atvinnulífsins með hag umbjóðenda sinna í fyrirrúmi, en hengir sig ekki í afdankaðar stjórnmálalegar kreddur stéttabaráttunnar.  Í þessu sambandi heyrast nú frá Noregi háværar raddir um, að Bretar hafi náð betri kjörum með nýjum fríverzlunarsamningi við Evrópusambandið (ESB) en felist í viðskiptakjörum Norðmanna við ESB með samninginum um Evrópska efnahagssvæðið (EES). Norska verkalýðshreyfingin er afhuga aðild Noregs að ESB, og Verkamannaflokkurinn mun þá, ef að líkum lætur, eiga auðvelt með að söðla um í þeim efnum og ganga í eina sæng með Sp og SV að afloknum næstu kosningum.  Þá verður einfaldlega enginn Orkupakki #4 samþykktur inn í EFTA-löndin og EES-samningurinn verður tekinn til endurskoðunar í heild sinni, og er það löngu tímabært.

Jafnaðarmannaflokkur Íslands (Samfylkingin) er steinrunninn stjórnmálaflokkur, og enn er aðalbaráttumál hans að gera Ísland að hluta þessa ríkjasambands, ESB, þótt það sé með þvílíkum böggum hildar eftir BREXIT, að kvarnast gæti enn meir úr því og myntbandalagi þess á nýbyrjuðum áratugi. Grunnstoðir þar á bæ eru ófullgerðar og standast ekki tímans tönn.  Það er reyndar mjög Samfylkingarlegt. 

Annað aðaláhugamál Samfylkingarinnar er að þenja ríkisbáknið sem mest út, stækka efnahagsreikning ríkisins enn meir og auka tekjur þess með aðgangsharðari skattheimtu; jafnaðarmenn bera í þessu viðfangi fyrir sig réttlæti og snúa þar með staðreyndum á haus, því að ekkert réttlæti getur verið fólgið í því að rífa fé af fólki, sem það hefur unnið sér inn með heiðarlegum hætti í sveita síns andlitis, sem er með margvíslegum hætti, í meiri mæli en þegar á sér stað á Íslandi, sem er með því mesta í OECD.  

Vegna C-19 hefur fjárþörf ríkisins aukizt gríðarlega. Það er alveg öruggt mál, að fái "Reykjavíkurlíkanið" umráð yfir ríkissjóði Íslands í kjölfar komandi Alþingiskosninga, munu skella gríðarlegar skattahækkanir á almenningi, svo að sóknarbolmagn atvinnulífsins út úr C-19 kreppunni verður ekki nægt til að rífa hér upp hagvöxt á ný, sem er forsenda aukinnar atvinnusköpunar.  Atvinnuleysið er nú þjóðarböl, meira en víðast hvar annars staðar í Evrópu, og meginviðfangsefni stjórnmálanna verður að skapa sjálfbærar forsendur atvinnusköpunar.  Nú þegar er yfirbygging ríkisins of stór fyrir þetta litla þjóðfélag, svo að lausnir jafnaðarmanna eru engar lausnir í nútímanum, heldur snara í hengds manns húsi.  Þess vegna fjarar undan þeim hvarvetna á Vesturlöndum um þessar mundir. 

Hörður Ægisson ritaði forystugrein í Fréttablaðið 15. janúar 2021, þar sem á snöfurmannlegan hátt var hrakinn hræðsluáróður jafnaðarmanna gegn því að skrá   Íslandsbanka nú í Kauphöll Íslands og bjóða fjórðung eignarhlutar ríkisins í honum til kaups. Þessi ágæta atlaga gegn afturhaldinu bar þá lýsandi yfirskrift:

"Dragbítar",

og hófst þannig:

"Sumir bregðast aldrei vitlausum málstað.  Talsmenn Samfylkingarinnar, ásamt ýmsum fylgihnöttum þeirra í róttækari armi verkalýðshreyfingarinnar, leggja sig fram um að gera það tortyggilegt, að til standi að hefja sölu á hlut í Íslandsbanka með hlutafjárútboði og skráningu í Kauphöll. 

Röksemdirnar, sem eru fátæklegar, hverfast um, að tímasetningin sé óheppileg og að ríkið fari árlega á mis við tugmilljarða arðgreiðslur með því að draga úr eignarhaldi.  Ekkert er gert með þá staðreynd, að önnur evrópsk ríki hafa fyrir margt löngu talið réttast - jafnvel þótt eignarhlutur þeirra sé hverfandi í samanburði við íslenzka ríkið - að hefja þá vegferð að losa um eignarhluti sína í áhættusömum bankarekstri.  Samfylkingin er á öðru máli og telur, að ríkið eigi áfram að vera með mrdISK 400 bundna í tveimur bönkum."

Nú hefur Alþýðusamband Íslands (ASÍ) stigið það einkennilega skref í stéttabaráttu sinni að mótmæla áformum um að losa um bundið fé félagsmanna og annarra landsmanna í starfsemi, sem ríkisvald er illa fallið til að stunda.  Sannast þar enn, að þar liggja nú dragbítar heilbrigðrar skynsemi á fleti fyrir, sem alls ekki kunna að verja hagsmuni umbjóðenda sinna.

Bankasýsla ríkisins, sem stofnsett var fyrir um 12 árum, hefur það hlutverk m.a. að ráðleggja ríkisstjórninni um ráðlegan eignarhlut ríkisins í bönkum landsins.  Hún mun nú hafa ráðlagt henni að selja fjórðungseignarhlut í Íslandsbanka, og er það í samræmi við Stjórnarsáttmálann.  Fjórðungur af eiginfé bankans nemur nú tæplega mrdISK 50.  Um fjórðungur eiginfjárins er umfram lögbundið lágmark, og þarf auðvitað að fá það á fullu verði við söluna, svo að söluandvirðið gæti orðið tæplega mrdISK 50, þegar tekið er mið af því, að hlutafé Arion-banka er nú í hæstu hæðum þrátt fyrir áföll, sem hann varð nýlega fyrir í útlánastarfsemi sinni.  Arðsemi undanfarinna ára hjá bönkunum er auðvitað engin viðmiðun, þar sem um einskiptiseignamyndun var að ræða í kjölfar fjármálakreppu.

Ef núverandi tími er ekki góður tími til að hefja söluferli bankans, er með öllu óljóst, hvenær ætti að draga úr gríðarlegri og óeðlilegri eignarhlutdeild ríkisins í bönkum landsins.  Hlutafjárútboð Icelandair tókst vel í haust og hlutabréf stíga almennt í verði núna, eins og þau gera venjulega á lágvaxtaskeiðum fjármagns.  Það vantar nýja kosti á markaðinn og styrkur er að nýju skrásettu fyrirtæki í Kauphöll Íslands fyrir hlutabréfamarkaðinn.  Síðast en ekki sízt er rétt, að öðru jöfnu, að innleysa þetta "sparifé" ríkisins núna, þegar fjárþörfin er brýn, því að auðvitað munu vextir hækka aftur. 

Þeir, sem ekki vilja innleysa "sparifé ríkisins" nú, ætla sér sennilega að hækka skatta á almenning og atvinnulíf til að fjármagna Kófið.  Það er mjög skammsýn ráðstöfun, því að hún hægir á efnahagsbatanum, lengir óviðunandi atvinnuleysi enn þá meir, og ástandið verður vítahringur.  Þetta er segin saga með hugmyndafræði jafnaðarmanna.  Hún virkar, eins og að míga í skóinn sinn í frosti, en veldur gríðartjóni til lengdar, enda sjónarsviðið þröngt.  Allir verða fátækari, ef jafnaðarmenn komast í aðstöðu til að gera þjóðfélagstilraunirnar, sem þá dreymir um.

Áfram með Hörð Ægisson:

"Bankakerfið í dag á ekkert sameiginlegt með því, sem féll 2008.  Stundum mætti samt halda annað, ef marka má þá, sem láta eins og ekkert hafi breytzt á tveimur áratugum.  Þannig sá efnahagsráðgjafi VR ástæðu til þess í vikunni að láta að því liggja, að hættan nú væri á, að bankinn kæmist í hendur aðþrengdra stórra fjárfesta, sem þyrftu á aukinni lánafyrirgreiðslu að halda, eins og gerzt hefði í aðdraganda bankahrunsins.  Þessi málflutningur, komandi frá fyrrverandi stjórnarmanni í Arion til margra ára, stenzt enga skoðun, enda hefur allt regluverk um virka eigendur - þeir, sem fara með 10 % eða meira - og hvað þeir mega eiga í miklum viðskiptum við banka, verið hert til muna.  Það er því ekki eftirsótt fyrir fyrirtækjasamstæður og efnameiri fjárfesta að vera stór eigandi, af því að það hamlar viðskiptaumsvifum þeirra."

 Guðrún Johnsen er og var efnahagsráðgjafi VR og í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, þegar verkalýðsfélagið beitti sér gegn kaupum Lífeyrissjóðs verzlunarmanna á hlutabréfum í Icelandair í fyrrahaust. Hún hefur væntanlega með ráðgjöf sinni og afstöðu valdið þessum lífeyrissjóði tjóni.  Ráðgjöf hennar á fjármálasviðinu hefur gefizt afleitlega, eins og Stefán E. Stefánsson rakti í skoðunargrein í Viðskipta Mogganum 20.01.2021:

"Vargur í véum".

Téður efnahagsráðgjafi titlar sig lektor við Kaupmannahafnarháskóla og vitnar gjarna í rannsóknir sínar þar, en aðrir virðast ekki hafa hug á að vitna í þessar rannsóknir, enda virðist lektorinn vera blindaður í baksýnisspeglinum.  SES rifjaði upp skuggalegan feril lektorsins:

"Sá er reyndar víðkunnur fyrir fyrri störf.  Nýtti m.a. aðstöðu sína vel sem starfsmaður rannsóknarnefndar Alþingis um fall bankanna, ritaði bók um efnið og fór sem eldibrandur um heiminn og rægði íslenzkt stjórnkerfi og samfélag.  Sú vegferð var launuð með stjórnarsæti í Arion banka, þar sem lektorinn sat keikur í lánanefnd.  Þar var talið forsvaranlegt að lána WOW milljarða króna, og peningarnir runnu í stríðum straumum í svikamylluna svakalegu í Helguvík.  Eitt af síðustu embættisverkum núverandi starfsmanns stærsta stéttarfélags landsins var að samþykkja MISK 150 starfslokasamning við fráfarandi bankastjóra.  Þetta er sannarlega langur afrekalisti og leitt, að samtök viðskiptablaðamanna skuli ekki velja mann ársins, eins og kollegarnir á íþróttadeildinni.  Þyrfti þá ekki að taka til greina afrekalista lektorsins á vettvangi HR og HÍ."

Formaður VR opnar varla ginið án þess að saka einhverja aðila í þjóðfélaginu um samsæri gegn hagsmunum almennings og spillingu.  Þess vegna vekur  ráðning þessa lektors til ráðgjafar hjá VR furðu. Hvað skyldi það hafa verið á ferli lektorsins, sem talið var geta orðið félagsmönnum VR að gagni ? Hvað sem því líður, virðist ráðgjöf þessa lektors á sviði fjármála og fjárfestinga einfaldlega ekki vera 5 aura virði. 

Lektorinn hefur blásið sig út með hræðsluáróðri um vafasama pappíra, sem muni sitja á svikráðum við Íslandsbanka og aðra eigendur hans eftir að hafa klófest hlutafé í honum.  Þetta heitir að kasta steinum úr glerhúsi eftir að hafa átt þátt í að lána til fjárglæfrafélagsins United Silicon og WOW-air á brauðfótum og valda þannig íslenzku viðskiptalífi tjóni.  Lektorinn mun vafalaust beita sér fyrir áframhaldandi hjásetu Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, þegar aðrir lífeyrissjóðir munu grípa tækifærið og fjárfesta í banka, sem mun láta að sér kveða í samkeppninni á íslenzka fjármálamarkaðinum, almenningi til hagsbóta. 

Skoðunargrein SES lauk með eftirfarandi hætti, og þarf ei um að binda eftir það:

"Allt er þetta þó sagnfræði, sem litlu skiptir.  Meira máli skiptir, að stjórnarmaður í stærsta lífeyrissjóði landsins skuli blanda sér í málið með þeim hætti, sem gat að líta í liðinni viku.  Væntanlega getur fjármálaráðherrann og Bankasýslan gengið út frá því, að sjóðurinn sitji hjá, þegar útboð í Íslandsbanka fer fram síðar á árinu.  Hætt er við, að sú hjáseta muni kosta sjóðfélaga milljarða, rétt eins og dómadagsdellan í tengslum við flugfélagið."

 

 

 

 

 


Bóluefnaklúður

Landsmenn hafa á milli annarra stórfrétta gjóað augunum á bóluefnafarsa, sem þeir læknarnir Kári Stefánsson og Þórólfur Guðnason hafa verið aðalleikendur í.  Báðir ("great minds think alike") fengu þeir þá hugmynd, þegar klúður íslenzkra ráðuneyta heilbrigðis og forsætis við útvegun bóluefna við C-19 handa þjóðinni var að komast í hámæli, að fá bandaríska lyfjarisann Pfizer til að búa til vísindalega tilraun um hjarðónæmi og afleiðingar bóluefnisins á heila þjóð með skyndibólusetningu Íslendinga.  Á skrifandi stundu er ekki ljóst, hvort Pfizer bítur á agnið.  Kári jók við dramað með því að upplýsa, að danskur umboðsaðili Pfizer á Norðurlöndunum, sem hann kallaði "Mette" (forsætisráðherra Danmerkur heitir Mette Fredriksen), hefði lekið þessu í dönsk lýðheilsuyfirvöld og væri á góðri leið með að eyðileggja hugmynd þeirra kolleganna um tilraunina á íslenzku þjóðinni með myndun ónæmis með genatækni.  Hljóðar og prúðar sátu þær hjá stöllurnar úr VG, sem aldrei hafa við viðskiptavit kenndar verið, og biðu "björgunar" úr þröngri stöðu, sem þær hafa lent í vegna eigin vanrækslu.

Morgunblaðið fjallaði um stöðu bóluefnaútvegunar ráðherranna í forystugrein 9. janúar 2021 undir fyrirsögninni:

"Bóluefnaklúður ESB".

Hún hófst þannig:

"Klúður Evrópusambandsins í bólusetningarmálum blasir við.  Á miðvikudag [06.01.2021] höfðu 1,3 milljónir manna fengið fyrri bólusetninguna við kórónuveirunni af tveimur á Bretlandi, en aðeins 1,1 milljón í öllum aðildarríkjum sambandsins.  Það eru næstum 2 % Breta, en aðeins 0,2 % af íbúum ESB.

 Þetta er kaldhæðnislegt vegna þess, að þegar Bretar drifu í að samþykkja bóluefnið frá Pfizer og Biontech, fitjuðu þeir, sem fóru með þessi mál í Evrópusambandinu, upp á nefið [trýnið - innsk. BJo] og sögðu fullir vandlætingar, að Bretar væru með hroðvirkni, en ESB vandvirkni.  Leyfi fyrir lyfinu var síðan veitt með hraði, þegar gremja fór að safnast upp innan ESB yfir því að sitja eftir í startholunum."

Það stóð ekki á því, að stórmál kæmi upp, sem sýndi Bretum og öðrum ótvírætt fram á kostina við það að standa sem fullvalda ríki utan ESB.  Þar eru hvorki meira né minna en lífshagsmunir í húfi.  Bretar voru snöggir með efnisútvegun og samþykktir, enda ESB bara að teygja lopann fyrir franska Sanofi, sem verður að dómi Ursúlu von der Leyen að fá að selja ESB-löndunum jafnmikið af bóluefninu og þýzka BioNTech, en prófanir Sanofi gengu brösuglega á tímabili.   

Það er meiriháttar glapræði af hálfu heilbrigðisráðherra og forsætisráðherra að reiða sig á jafnótryggt apparat og hagsmunatogið í Brüssel.  Svona gerir enginn, nema með skerta dómgreind.  Þetta er óhæfa.  Þær stöllur, ráðherrar VG, segjast hlæja mikið saman, þegar streitan eykst.  Skyldu þær hafa tekið eins og eitt hláturskast áður en þær ákváðu að leggja lífshagsmunamál Íslands í hendurnar á Ursúlu von der Leyen, lækni, og búrókrötum hennar ? Metnaðarleysið fyrir hönd Íslands er svipað hjá þeim nú og 2009, þegar þær sem ráðherrar stóðu að staðfestingu á heimild frá Alþingi til utanríkisráðherra um að senda umsókn til ESB um aðildarviðræður.  Sú skriflega beiðni hefur enn ekki verið afturkölluð, og þær munu samþykkja endurlífgun þessarar umsóknar til að innleiða Reykjavíkurlíkanið í Stjórnarráðið eftir næstu Alþingiskosningar.  

"Ekki báru þó öll ríki ESB traust til framkvæmdastjórnarinnar.  Strax í vor ákváðu Frakkar, Hollendingar, Ítalir og Þjóðverjar að grípa til sinna ráða, því að þeim fannst ganga stirðlega.  Þeir sömdu um rúmlega 400 milljón skammta bóluefnis við AstraZeneca m.a. til að þrýsta á framkvæmdastjórnina.  Þetta var harðlega gagnrýnt í Brussel, og á endanum skrifuðu leiðtogar ríkjanna fjögurra auðmjúkt afsökunarbréf fyrir að hafa rofið hina mikilvægu samstöðu gagnvart lyfjafyrirtækjunum.  

Líklegt er, að sú afsökun sitji í þeim núna.  Ljóst er, að samningamenn ESB sömdu um of lítið af bóluefni og voru það svifaseinir, sennilega af því að þeir héldu, að með því að bíða fengju þeir betri kjör, að sambandið er með þeim öftustu í afhendingarröðinni.  

Þetta sparnaðarsjónarmið mun reynast dýrkeypt, því að sóttvarnaraðgerðir kosta efnahagslífið svo miklu meira en leggja hefði þurft út fyrir dýrustu bóluefnunum, að það hefði ekki einu sinni átt að vera umhugsunarefni."

Verðmunur á dýrasta og ódýrasta bóluefninu er rúmlega 2000 ISK/skammtur.  Þótt íslenzka ríkisstjórnin hefði pantað 600 k skammta í sumar af dýrustu gerð, sem er nú reyndar tekin að berast hingað, hefði útgjaldaaukinn aðeins orðið um mrdISK 1,2 m.v. ódýrasta bóluefnið, en sú upphæð er líklega nálægt daglegum kostnaði þjóðfélagsins af Kófinu.  Hvernig mátti það vera, að heilbrigðis- og forsætisráðherra gripu ekki til ráðstafana í sumar, eins og þær höfðu fullt frelsi til að gera, þótt Ursula von der Leyen slægi á putta aðildarlanda ESB, sem sáu í hvað stefndi ?

Vinstri flokkarnir hérlendis eru veikir fyrir því að ganga búrókrötum stórríkisins á hönd, þótt öll rök hnígi í gagnstæða átt, þegar hagsmunir Íslands eru annars vegar.

"Í grein í nýjasta tölublaði tímaritsins The Spectator segir, að staðreyndirnar tali sínu máli.

"Satt að segja er bólusetningarherferðin að verða mesta stórslys ESB frá evrukreppunni 2010-2011", segir í blaðinu.  "Á meðan hún gerði aðeins 3 lönd gjaldþrota og dæmdi heila kynslóð Grikkja til fátæktar, mun þetta leiða til dauða tugþúsunda manna.""

Vegna sérstakra og íþyngjandi varnaraðgerða fyrir þá, sem líklegastir eru til að fara halloka fyrir SARS-CoV-2 veirunni á Íslandi og vinnuferla í heilbrigðisgeiranum, sem yfirleitt hafa gefizt vel, þarf ekki að vænta margra dauðsfalla vegna dauðyflisháttar þeirra, sem ábyrgir eru fyrir bóluefnaútvegun hingað við C-19, þó einhverra, en íþyngjandi sóttvarnarráðstafanir munu dragast á langinn með grafalvarlegum afleiðingum fyrir opinbera sjóði, fyrirtækin og heimilin.  Það er ófyrirgefanlegt sleifarlag, sem því veldur, og rangur hugsunarháttur.

"Í greininni segir, að bóluefnahneykslið sé að breytast í endurtekningu á evrukreppunni.  ESB setji sér markmið, en það sé vonlaust, að því takist að koma sér upp bolmagni til að ná þeim.  Það hafi komið sér upp sameiginlegum gjaldmiðli án þess að vera með neitt af því gangverki, sem þurfti, til að það gengi upp.  Nú hafi það búið til stefnu í heilbrigðismálum án þess að hafa sjóði eða sérþekkingu til að standa við sitt."

Síðan þetta var skrifað í The Spectator hefur sigið á ógæfuhliðina hjá ESB í bóluefnamálum.  Það hefur komið á daginn, að grundvallaratriðið, jöfn dreifing bóluefna innan ESB, stenzt ekki dóm reynslunnar.  Dreifingin er mjög ójöfn eftir löndum, og ekki nóg með það, heldur er heildarútvegunin á eftir áætlun. Þetta mun færa Sambandið á suðupunkt. Ísland er áhorfandi og þolandi, en getur engin áhrif haft.  Sprikl Kára og Þórólfs er líklegt til að hleypa illu blóði í Brüssel búrókrata.  Eftir sitja Íslendingar "með skeggið í póstkassanum", eins og Norðmenn taka til orða um einfeldningsleg mistök.

Að lokum stóð þetta í þessari forystugrein Morgunblaðsins:

"Bóluefnamálið hefur afhjúpað getuleysi, fúsk og vanmátt ESB.  Fögur fyrirheit kunna að hafa hljómað vel í upphafi, en íslenzkir ráðamenn hefðu átt að kveikja á því, að í óefni stefndi, miklu fyrr og grípa til sinna ráða.  Hér ætti að vera fyrir hendi næg þekking og sambönd til að gæta hagsmuna Íslands. Til að bjarga málum hafa Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, og Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, reynt að semja við Pfizer um að bólusetja stóran hluta þjóðarinnar í rannsóknarskyni.  Í gær [08.01.2021] sagði Kári, að útlit væri fyrir, að það myndi ekki ganga.  Haft var eftir honum á mbl.is í gær, að þar hefði ekki verið leitað eftir sambærilegum samningi og Ísrael hefði gert, en sá mikli fjöldi bóluefnaskammta, sem Ísraelar hefðu tryggt sér frá Pfizer, sýndi, hvað það gæti verið "mikilvægt að geta hagað sér, eins og sjálfstæð þjóð".  Þann lærdóm má óhikað draga af því að fylgja ESB í bóluefnamálum."

 Allt er þar satt og rétt hjá Morgunblaðinu.  Því má bæta við, að þann 17.01.2021 hafði líklega um fimmtungur Ísraela hlotið fyrri sprautuna af Pfizer bóluefninu, og þá hafði fjöldi nýrra smita þegar helmingazt m.v. vikurnar á undan.  Gagnsemi bólusetninga virðist þess vegna koma fram löngu áður en 60 % þjóðar hefur verið fullnaðarbólusettur. 

Hins vegar berast líka fréttir frá Evrópu og Bandaríkjunum um mannslát af völdum þessara bólusetninga, en þar eiga í hlut aldraðir og hrumir einstaklingar, eins og við þekkjum héðan frá Íslandi einnig.  Það orkar tvímælis að bólusetja þá, en þol aldraðra og hrumra gagnvart tiltækum bóluefnum er óþekkt, því að þessir hópar voru nánast ekki í rannsóknarhópum bóluefnafyrirtækjanna, sem markaðsleyfi hafa fengið á Vesturlöndum.  

Það má taka undir það, að íslenzk yfirvöld hefðu átt að kveikja á því miklu fyrr, að "getuleysi, fúsk og vanmátt[ur]" einkenndu vinnubrögð ESB við útvegun bóluefnis frá fyrstu stund.  Þessi lýsing á vinnubrögðum ESB á þess vegna líka við vinnubrögð íslenzkra stjórnvalda.  Tilraunir Kára og Þórólfs til að búa til tilraun með alla íslenzku þjóðina með bóluefni, sem er alveg nýtt af nálinni og hefur í raun ófullnægjandi prófunarskýrslur að baki umsóknar sinnar um markaðsaðgang, eru illa ígrundaðar og skortir jafnvel siðlegan grundvöll, enda virðast þær hafa strandað. 

Staksteinar Morgunblaðsins 11. janúar 2021 bera fyrirsögnina: 

"Árangur og aðgerðaleysi".

Þeir hófust þannig:

"Brezka blaðið The Spectator sagði í liðinni viku, að svo mikil mistök hefðu verið gerð þar í landi vegna kórónuveirufaraldursins, að auðvelt væri að gleyma því, sem vel hefði verið gert.  "Sú staðreynd, að Bretland var fyrsta landið, sem byrjaði almenna bólusetningu - og var í þessari viku það fyrsta, sem notaði 2 bóluefni - gerðist ekki fyrir tilviljun.  Þetta tókst vegna þess, að ríkisstjórnin hafði þá framsýni að panta fyrirfram stóra skammta af líklegu bóluefni og vegna þess, að brezk lyfjayfirvöld unnu hratt og af skilvirkni við að meta gögn um prófanir á þessum bóluefnum", sagði The Spectator."

Viðkomandi íslenzk stjórnvöld, þ.e. heilbrigðisráðuneytið og sóttvarnayfirvöld, höfðu ekki til að bera sömu framsýni og frumkvæði fyrir hönd þjóðar sinnar og hin brezku.  Það er skálkaskjól þeirra að kenna um getuleysi Lyfjastofnunar til að leggja sjálfstætt mat á prófunargögn lyfjaframleiðendanna.  Þar er ekki um nein geimvísindi að ræða, heldur þekkta aðferðafræði með óþekkt efni.  Auk þess mátti alveg eins styðjast við lyfjaeftirlit Bandaríkjanna og Bretlands eins og Lyfjastofnun ESB.  Aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu batt ekki hendur Íslendinga að þessu sinni.  Bólusetning á Bretlandi gengur nú u.þ.b. tvöfalt hraðar en á Íslandi og í Ísrael tæplega tífalt hraðar. 

Téðum Staksteinum lauk þannig:

"Aðgerðir, eða aðgerðaleysi, heilbrigðisyfirvalda til að útvega bóluefni, auk óskýrra svara um, hvernig að því var staðið, og á hverju landsmenn mega eiga von, skyggir þó mjög á árangurinn af sóttvörnum.  Ekki sízt, þar sem hætt er við meira smitandi veiruafbrigði, að sóttin breiði úr sér á ný, þar til umfangsmikil bólusetning hefur náðst."

Það er alveg sama, hvar borið er niður um stjórnarhætti Svandísar Svavarsdóttur.  Þeir eru ekki til eftirbreytni, en markast af illa ígrunduðum ráðstöfunum.  Hún hefur nú lagt fyrir Alþingi frumvarp til sóttvarnalaga, af því að málsmetandi lögmenn hafa efazt um lögmæti sóttvarnaaðgerða hennar, t.d. gagnvart atvinnufrelsi og frelsisskerðingu á landamærunum.  Frumvarpið er vanhugsað.  Í stað þess að tilgreina, hvers konar aðstæður mega vera fyrir hendi, til að heilbrigðisráðherra hafi heimild til að gefa út frelsisskerðandi reglugerðir, er frítt mat lagt í hendur sóttvarnalækni, einmitt eins og reyndin hefur verið í þessum faraldri, og hefur þótt ófullnægjandi.  Ef sóttvarnalæknir telur ástæðu til að grípa til tiltekinna aðgerða, má heilbrigðisráðherra skella þeim á með reglugerð samkvæmt frumvarpinu.  Reynslan af vinnubrögðum sóttvarnalæknis í C-19 faraldrinum sýnir, að með lögum verður að binda hendur hans. 

Alls konar fíflagangur hefur komið upp við framkvæmd sóttvarna.  Þótt vonandi sé ekki hægt að rekja það alla leið til sóttvarnalæknis eða almannavarna, verður hér einn fáránleikinn, sem höfundur þessa pistils rakst á í gær, sunnudaginn 17. janúar 2021, tíundaður.  Vegna COVID-19 er nú þeim tilmælum beint til útivistarfólks við Vífilsstaðavatn í Garðabæ, að það gangi réttsælis í kringum vatnið.  Búið er að setja upp nokkur skilti við göngustíginn þessu til áréttingar.  Hér skal fullyrða, að þessi tilmæli hafi nákvæmlega ekkert sóttvarnarlegt gildi.  Í samfélaginu sprettur hins vegar upp sjúkleg forræðishyggja, sérstaklega þegar stjórnað er af geðþótta og alið á ástæðulausum ótta.  

 

 

 

 

 

 


Röng viðbrögð magna vandann

Sóttvarnarráðstafanir hérlendis hafa verið mjög íþyngjandi fyrir atvinnulífið, efnahagslífið og líf fólksins í landinu. Þær hafa verið of viðamiklar m.v. nýgengi smita og með hliðsjón af notagildi þeirra fyrir smitvarnir. Nýlegar rannsóknir frá t.d. Danmörku benda til, að sóttvarnarleg áhrif þeirra hafi verið stórlega ofmetin. Að skikka einkennalaust fólk í sóttkví orkar tvímælis, og lagagrundvöllur fyrir slíku er ótraustur, eins og yfirvöld hafa nú játað vegna tillagna sóttvarnalæknis um hertar aðgerðir á landamærunum. Ólafur Ó. Guðmundsson, geðlæknir, ritaði afar fróðlega grein um áhrif sóttvarna á heilsufarið í Morgunblaðið 9. janúar 2021 undir fyrirsögninni:

"Geðheilsan í kófinu".

"Óttast var í fyrstu, að um drepsótt sambærilega spænsku veikinni væri að ræða, sem þurrkaði út 2,3 % mannkyns, aðallega yngra, heilsuhraust fólk.  Flestir veikjast vægt, en hjá sumum þeirra, sem sýkjast, getur tekið langan tíma að jafna sig líkamlega og andlega."

Það var ekki að ástæðulausu, að þetta ofmat á hættunni af C-19 átti sér stað, því að lýsingarnar og tölurnar frá Kína í janúar-febrúar 2020 gafu til kynna, að um nýja drepsótt væri að ræða.  Það var áróðursvél Kínverja, sem matreiddi þessar upplýsingar ofan í fjölmiðla Vesturlanda, sem skaut öðrum þjóðum skelk í bringu og leiddi til rangra viðbragða á Vesturlöndum og víðar.  Þessi röngu viðbrögð hafa reynzt þjóðunum dýrkeypt bæði í almennt versnandi heilsufari, sem vart var á bætandi víða, og í fjármunum, því að tilfinnanlegur samdráttur hagkerfa og skuldasöfnun hins opinbera, fyrirtækja og einstaklinga, hefur átt sér stað, sem mun taka langan tíma að bíta úr nálinni með, en á meðan siglir auðvaldskerfi Kína undir stjórn Kommúnistaflokksins hraðbyri að því að verða stærsta hagkerfi heims. Kína er líka farið að sýna tennurnar að ráði, t.d. Áströlum fyrir að hafa Huawei 5-G-tækni.  Beita þeir nú Ástrali, sem hafa verið gagnrýnir á framkomu þeirra gagnvart Hong Kong, viðskiptabanni.  

Til að fást við fjárhagsvandamál í kjölfar Kófsins á Íslandi dugar hið pólitíska Reykjavíkurlíkan alveg áreiðanlega ekki, því að þar ríkir alger óstjórn óhæfra stjórnenda undir blindri leiðsögn Samfylkingar.  Blindur leiðir haltan. Þau söfnuðu skuldum í góðæri, og í hallæri stefnir þar í þrot. 

Nú eru a.m.k. 3 bóluefnaframleiðendur, sem fengið hafa samþykki lyfjastofnana BNA, ESB, Bretlands og víðar, í blóðspreng við að framleiða bóluefni.  Fjölmiðlar hafa lítinn gaum gefið að rannsóknarskýrslum þeirra, þótt þar sé ýmislegt nýstárlegt á ferðinni.  Er ástæða til að bæta úr því og verður gert á þessu vefsetri. Meiri gaumur er þó í fjölmiðlum gefinn að því, hvernig gengur að útvega bóluefni, enda ríður á að koma á hjarðónæmi, svo að hagkerfin hafi einhverja möguleika á að hjarna við.  Ísraelar, 9 milljón manna þjóð, hefur orðið vel ágengt.  Hefur þar tekizt að sprauta um 20 % þjóðarinnar einu sinni gegn C-19. Afköst Ísraela í bólusetningum gegn C-19 eru a.m.k. tíföld á við Íslendinga.  Það er rós í hnappagat stjórnenda Gyðingaríkisins og oppinberar vesældóm íslenzkra valdhafa á sviði heilbrigðismála.  

Íslenzk heilbrigðisyfirvöld eru alveg arfaslök í þessum samanburði, því að aðeins rúmlega 1 % Íslendinga hefur fengið fyrri sprautu, þegar þetta er skrifað. Er sú innkaupastefna vinstri grænna ráðherra heilbrigðis- og forsætisráðuneytis að hengja sig aftan í búrókratí ríkjasambands með böggum hildar vegna þunglamalegrar ákvarðanatöku og eilífs hrepparígs yfir Rínarfljótið algerlega metnaðarlaus, mun valda óþarfa sýkingum og seinka endurræsingu hagkerfisins og venjulegra lifnaðarhátta. 

Ólafur Ó. Guðmundsson hélt áfram:

"Að meðaltali fæðast á Íslandi u.þ.b. 12 börn á dag og 6 manns deyja.  Á þeim 10 mánuðum, sem liðnir eru frá því nýja veiran greindist hér, hafa hafa því um 1800 manns látizt og þar af um 30 [29] úr Covid-19, sem þýðir, að yfir 98 % deyja úr öðrum sjúkdómum, slysum og og sjálfsvígum á tímabilinu."

Nú er litlum vafa undirorpið, að talsvert fleiri andlát hefðu átt sér stað vegna C-19 hérlendis, ef ekki hefðu verið uppi hafðar strangar sóttvarnarráðstafanir á dvalar- og hjúkrunarheimilum og ef íslenzka heilbrigðiskerfisins, með frábæru starfsfólki á hverjum pósti, með sjúkrahúsin í broddi fylkingar, hefði ekki notið við.  Þessar tölur bera hins vegar með sér, að algerlega ofmælt er, að um drepsótt sé að ræða um C-19, nema taka eigi upp á þeim fjára að kalla inflúensu drepsótt.  

Afleiðingar ofvaxinna og jafnvel ólöglegra sóttvarnaraðgerða eru hins vegar þannig, að þær munu sennilega kosta fleiri mannslíf áður en öll kurl koma til grafar.  Hvað hafði geðlæknirinn að segja um áhrifin á geðheilsuna ?:

"Að veikjast af Covid-19 getur haft áhrif á geðheilsu vegna bólguviðbragða ónæmiskerfisins og meðferða, sem beitt er.  Aðrir áhættuþættir geðsjúkdóma geta legið í sóttvörnunum sjálfum; þær hafa í för með sér félagslega einangrun og geta magnað upp viðvarandi ótta, atvinnumissi, fjárhagslega erfiðleika og aukið vímuefnanotkun. 

Nýr formaður brezka geðlæknafélagsins, Adrian James, telur faraldurinn mestu ógn okkar kynslóðar við geðheilsuna á næstu árum.  Ef áætluð þjónustuaukning Breta er yfirfærð beint á okkur, mætti gera ráð fyrir, að um 50 þúsund Íslendingar og þar af um 8 þúsund börn þurfi geðheilbrigðisþjónustu vegna faraldursins, fyrst og fremst vegna kvíða og þunglyndis.  Þótt faraldurinn í Bretlandi hafi orðið verri en hér á landi og sóttvarnaraðgerðir meira íþyngjandi, þarf að gera ráð fyrir sams konar afleiðingum á geðheilsu landsmanna á næstu misserum og árum." 

Þarna lyftir geðlæknirinn a.m.k. gula spjaldinu framan í landlækni og sóttvarnalækni.  Þau hafa með blessun heilbrigðisráðherra valdið hér vanlíðan og angist, sem á ekki sinn líka síðan Kalda stríðið var upp á sitt versta eða jafnvel þurfi að leita allt aftur til Heimsstyrjaldarinnar síðari til að finna viðlíka geðheilbrigðisvandamál og nú, þegar geðlæknir telur allt að 14 % þjóðarinnar eða einn af hverjum 7 þurfa að leita sér aðstoðar vegna geðrænna vandamála af völdum sóttvarnaaðgerða.  Þetta er hrikaleg staða í ljósi þess, að sóttvarnaraðgerðir verða eðli málsins samkvæmt alltaf persónubundnar í höfuðdráttum.  Ofurtrú á ríkisvæddar sóttvarnir gegn bráðsmitandi inflúensu er út í hött og hefur valdið ofboðslegu tjóni. Nýlegar rannsóknir hníga í þessa átt.

Nú í vikunni gengu unglingar berserksgang í skóla einum á höfuðborgarsvæðinu, svo að vissara þótti að kalla sérsveit Ríkislögreglustjóra á vettvang.  Atburður með þeim hætti, sem þarna átti sér stað, hefur ekki gerzt í manna minnum áður á Íslandi.  Er þessi sorglega ofbeldishneigð afleiðing sóttvarnarráðstafana heilbrigðisráðherra, sem Ólafur Ó. Guðmundsson, geðlæknir, gerði að umtalsefni.  Sóttvarnalæknir, landlæknir og heilbrigðisráðherra leika sér að eldinum.  Að færa völd í hendur slíkra er eins og að færa óvitum eldspýtur.   

Næst fjallaði geðlæknirinn um þátt fjölmiðla í að mynda þá samfélagslegu spennu í kringum þennan faraldur, sem komið hefur hart niður á samfélaginu af tilbúnum ástæðum.  C-19 hefur nú verið fyrsta frétt fjölmiðla í næstum ár.  Það er ekkert rökrétt samhengi á milli hinnar gríðarlegu og einsleitu umfjöllunar fjölmiðla, sem stjórnvöld og s.k. þríeyki Almannavarna vissulega hafa ýtt undir, og hættunnar, sem almenningi stafar af þessum sjúkdómi, eins og ljóslega má ráða af því, að dauðsföll 2020 alls urðu færri en árin 3 þar á undan.  Nú gætu hins vegar ýmsar heilsufarslegar afleiðingar sóttvarnaraðgerða farið að láta á sér kræla:

"Síðan faraldurinn fór af stað, hafa fjölmiðlar lagt áherzlu á endurteknar tölulegar upptalningar án þess samhengis, sem nauðsynlegt er til skilnings á þeim.  Þessi yfirborðskennda og villandi framsetning hefur orðið til þess að vekja yfirdrifinn ótta hjá almenningi, sem ekki hefur forsendur til að skilja þær öðru vísi en eitthvað mun skelfilegra sé í gangi en í raun er.

Það er ekki nýtt, að staðreyndir mála séu ekki leiðarljós fjölmiðla, heldur sá ótti, sem fær móttakandann til að veita miðlinum sjálfum þá athygli, sem hann byggir tilveru sína á. Sænski læknirinn Hans Rosling sá af þeirri ástæðu tilefni til að stofna Gapminder Foundation, sem er ætlað að gefa staðreyndamiðaða heimsmynd til að sporna við skelfilegri fáfræði, sem heimsmynd fjölmiðla elur af sér.  Ótti, sem í eina tíð tryggði það, að forfeður okkar héldu lífi, tryggir núna, að fjölmiðlafólk haldi vinnunni, segir Rosling í síðustu bók sinni, Raunvitund, þar sem rakin eru fjölmörg dæmi þessu til stuðnings."

Þarna stingur geðlæknirinn á einu af þeim kýlum samtímans, sem sök eiga á því, að frá því að áróðursmyndir úr Kófinu í Kína birtust í vestrænum fjölmiðlum og umrædd kórónuveira stakk sér niður á meðal okkar, hefur ríkt stórvarasamt andrúmsloft í vestrænum samfélögum, sem gert hefur yfirvöldum kleift að beita almenning harkalegri frelsisskerðingum en nokkur fordæmi eru fyrir á friðartímum í háa herrans tíð.  Heilsufarstjónið af þessum langvinnu aðgerðum er ótvírætt og fjárhagstjónið af þeim sökum miklu meira en hægt er að réttlæta með vísun til heilsu og mannslífa. 

Sinni góðu grein lauk geðlæknirinn þannig:

"Sá merki og á sínum tíma umdeildi frumkvöðull, Guðmundur Björnsson, landlæknir, benti m.a. á þýðingu geðheilsunnar í smáriti, sem gefið var út af Stjórnarráðinu í nóvemberlok 1918, þegar drepsóttin stóð sem hæst:

"Gegndarlaus sótthræðsla er miklu háskalegri en flesta menn grunar; þeir, sem æðrast og hleypa hræðslu og hugleysi í fólk, eru allra manna óþarfastir og vinna miklu meira tjón en almennt er talið", og á eftir fylgdu ýmis sígild ráð um það, hvernig fólk geti forðazt inflúensuna og brugðizt við, ef það veikist.  Þessi orð landlæknis eiga ekki síður við í dag, einni öld síðar."

  Þetta er hverju orði sannara hjá geðlækninum og landlækninum, sem hann vitnar í.  Sem dæmi um óþurftarmenn má nefna þá, sem kalla C-19 drepsótt.  Spænska veikin var drepsótt.  Úr henni dóu tæplega 500 Íslendingar.  M.v. mannfjölgun á Íslandi síðan þá svarar þessi fjöldi látinna líklega til 1800 manns nú, en það er aðeins um 18 % færra en árlega deyr á Íslandi um þessar mundir.  Talið er, að um 2,3 % mannkyns hafi látizt úr Spænsku veikinni á heimsvísu, svo að sennilega hefur Íslendingum tekizt bærilega upp við sóttvarnir og aðhlynningu sjúkra í þeim skæða heimsfaraldri.  Nú hafa dáið 29 manns hérlendis úr C-19, sem er aðeins um 1,5 % af framreiknuðum dauðsföllum úr Spænsku veikinni.  C-19 er ekki drepsótt, þótt fólk geti látizt úr sjúkdóminum, eins og líklega flestum sjúkdómum. Drepsóttir hafa nýlega herjað, t.d. ebóla í Afríku, og drepsóttir munu væntanlega herja á Evrópu aftur.  Þeim verður að bregðast við með mjög ströngum sóttvarnaraðgerðum, en það þjónar ekki almannahagsmunum að fást við bráðsmitandi flensusjúkdóm, eins og hann sé drepsótt.

Sóttvarnarráðstafanir hafa hægt mjög mikið á hagkerfinu hérlendis og í flestum öðrum löndum, svo að landsframleiðslan hefur minnkað, nema í Kína, þar sem hagvöxtur varð 2020.  Er nú svo komið, að því er spáð, að verg landsframleiðsla Kínverja muni ná þeirri bandarísku árið 2028. Það eru tíðindi til næsta bæjar.

Hérlendis hefur snarazt á merinni í opinberum rekstri vegna yfirdrifinna Kófsviðbragða, m.a. á landamærunum.  Geigvænlegur hallarekstur er á ríkissjóði, og flest stærstu sveitarfélögin eru rekin með halla.  Það er algerlega ábyrgðarlaust gagnvart unga fólkinu, sem tekur við landinu, að halda svona áfram. 

Því miður höfðu íslenzk stjórnvöld, heilbrigðisráðuneyti með landlækni og sóttvarnarlækni undir yfirumsjón forsætisráðuneytis, hvorki framsýni né metnað til að gera ráðstafanir til útvegunar bóluefnis á svipuðum hraða og Ísraelsmenn, sem stefna á að hafa fullnaðarbólusett tæplega 60 % þjóðarinnar í síðari hluta marz 2021. Forsætisráðherra Íslands lifir í fílabeinsturni án tengsla við raunveruleikann og "segist enn gera ráð fyrir, að meirihluti Íslendinga verði bólusettur um mitt ár", samkvæmt Morgunblaðinu 11. janúar 2021.  Engin gögn styðja annað en þessi stjórnmálamaður eigi við árið 2022.  Kjósendur vita, hvað er hið eina, sem svona forsætisráðherrar eiga skilið í næstu kosningum, enda er það óhæfa að bíða svo lengi með endurræsingu ferðaþjónustunnar, sem hefst með því að liðka til á landamærunum og fjölga störfum þannig á nýjan leik.

Helgi Magnússon, stjórnarformaður Torgs ehf, birti hugvekju sína um slæma fjárhagsstöðu ríkisins í Kófinu og mjög hæpna meðferð skattfjár í Fréttablaðinu 30. desember 2020.  Greinin bar fyrirsögnina:

"Gegndarlaus útþensla ríkisbáknsins er ógnvekjandi".

Hún hófst þannig:

"Fyrir utan veiruvandann, sem hrjáð hefur landsmenn, er taumlaus útþensla ríkisbáknsins ein helzta ógnin við íslenzka hagkerfið, nú sem stendur.  Vonandi sjáum við fyrir endann á veiruvandanum, þegar bólusetningar fara að hafa áhrif til góðs, sem væntanlega verður fljótlega á nýja árinu [2021].  Aftur á móti bendir ekkert til þess, að við munum sjá nokkurt lát verða á útþenslu ríkisbáknsins.  Það er stórháskalegt og getur haft alvarlegar afleiðingar, ef ekki verður hugarfarsbreyting meðal æðstu ráðamanna ríkisins."

Það eru engir samningar fyrir hendi né annað handfast, sem styðja, að "bólusetningar far[i] að hafa áhrif til góðs" fljótlega í ár, þ.e. á fyrsta ársfjórðungi.  Um það er ekkert til, nema gasprið í ráðherrum vinstri grænna, Svandísi og Katrínu.  Þær sváfu á verðinum og ætluðust til, að aðrir leystu viðfangsefnið fyrir þær. Hverjir voru þessir aðrir ?  Það voru auðvitað búrókratar í Brüssel, sem þær sóttu um náið pólitískt samneyti með árið 2009.  Með þessu háttarlagi núna  sýndu þær af sér vanrækslu í starfi, því að þeim láðist að ganga úr skugga um, hvernig í pottinn var búið hjá Úrsulu von der Leyen. Um slíkt gerðu ekki allir stjórnendur smáþjóða utan ESB sig seka.

Ísrael á talsverða samleið með Evrópuþjóðunum og Bandaríkjunum, eins og kunnugt er, en ekki datt stjórnendum landsins í hug að hengja þessa lífshagsmuni þess aftan í vagn risanna.  Heilbrigðisyfirvöld í Ísrael hafa nú tilkynnt, að þau hafi upp á eigin spýtur tryggt Ísraelum nægt bóluefni til að fullnaðarbólusetja 58 % þjóðarinnar síðari hluta marzmánaðar 2021.  Á fyrsta ársfjórðungi geta Ísraelar aflétt öllum opinberum sóttvarnarhömlum, en Íslendingar sitja líklega uppi með alls konar ferða- og samkomuhömlur auk banns við sumri þjónustu megnið af árinu 2021.  Það mun hafa hrikalegar afleiðingar á heilsufar og efnahag. Þetta lýsir mismuninum á leiðtogum og pólitískum bulluskjóðum.  

Einu geta kjósendur gengið að sem vísu varðandi fjármálin, þegar þeir ganga að kjörborðinu, og það er, að kjósi þeir yfir sig Reykjavíkurlíkanið í landsstjórnina, þar sem Samfylkingin hefur lengi ráðið ríkjum með hverri hækjunni á fætur annarri, þá verða hér skattahækkanir, gegndarlaust sukk gæludýra með ríkissjóðinn, sem kalla munu á vaxtahækkanir Seðlabanka til að slá á verðbólgu.  Afleiðingin verður lítill sem enginn hagvöxtur og stórhætta á "stagflation", sem er stöðnun í dýrtíð.

Ef þetta óheillavænlega bandalag læsir klóm sínum í Stjórnarráðið, er næsta víst, að viðræður um aðild Íslands að fyrirheitna ríkinu á meginlandi Evrópu, verða teknar upp að nýju með lítilli fyrirhöfn, því að í skrifborðsskúffu í Berlaymont bíður nú gamla aðildarumsóknin frá árinu 2009, sem aldrei var afturkölluð. Samfylking og Viðreisn snúast um fátt annað en drauminn, blauta, að gera Ísland að jaðarhreppi stórríkis Evrópu, sem vitaskuld er fullkomin tímaskekkja og ekkert annað en sjúkleg þráhyggja.   

 

 

 

  


Kófsviðbrögðin

Viðbrögð heimsins við bráðsmitandi sjúkdómsfaraldri af völdum veiru úr kórónufjölskyldunni, sem er ábyrg fyrir öllum inflúensupestum, sem herjað hafa á mannkynið frá upphafi vega, er rannsóknarefni, því að þau eiga sér enga hliðstæðu.  Ef hættan af völdum þessa sjúkdóms er vegin og metin, virðist hún litlu meiri en af völdum skæðrar hefðbundinnar inflúensu, en smitnæmið er aftir á móti meira.

Þegar afleiðingar sóttvarnaraðgerðanna á líf og heilsu fjölda manns, sem misst hafa atvinnu sína og lent í fátækt af völdum sóttvarnaraðgerðanna, eru virtar, ásamt gríðarlegri skuldasöfnun hins opinbera, fyrirtækja og heimila, þá sækir óhjákvæmilega að sú hugsun, að viðbrögðin séu vanhugsuð, yfirdrifin og að mörgu leyti misheppnuð.

 Er COVID-19 (C-19) eins viðsjárverður sjúkdómur og yfirvöld og meginmiðlar vilja vera láta ?  Sebastian Rushworth, M.D., (SR) hefur á vefsetri sínu sýnt fram á, að dánarhlutfall sýktra í heild er lægra en 0,2 %, sem þýðir, að færri en 1 af hverjum 500 sýktra deyja.  Hér á Íslandi hafa tæplega 6000 manns greinzt með C-19 og 29 látizt úr sjúkdóminum, þegar þetta er ritað, svo að hlutfall látinna af greindum er tæplega 0,5 %, en samkvæmt rannsóknum hérlendis gætu tvöfalt fleiri hafa smitazt en opinberlega hafa greinzt, svo að þokkalegt samræmi er á milli þessara talna hérlendis og talna SR.

Samkvæmt SR er dánarhlutfallið um 0,03 % eða minna en 1 af hverjum 3000 undir sjötugsaldri. Hérlendis eru 4 dauðsföll undir sötugu af völdum C-19 eða 0,07 % af greindum, allt í góðu samræmi við SR að því gefnu, að hlutfall smitaðra og greindra sé a.m.k. 2. 

 

Reynslan af C-19 er sú, öfugt við Spænsku veikina 1918, sem einnig var af völdum veiru af kórónustofni, að faraldurinn leggst þyngzt á aldurhnigna, og athugun SR bendir til, að þeir hefðu hvort eð er átt stutt eftir.  Þannig er yfirleitt ekki um mjög ótímabæran dauðdaga að ræða af völdum C-19, ólíkt því, sem á við um flesta aðra faraldra og átti t.d. við um Spænsku veikina 1918. Þannig leiddi rannsókn SR á tíðni dauðsfalla í ýmsum þjóðfélögum árið 2020 ekki í ljós frávik frá meðaltali.  Á Íslandi voru dauðsföll 2020 marktækt færri en að meðaltali árin 3 þar á undan.  Þetta má vissulega skýra með sóttvarnarráðstöfunum og breyttu hegðunarmynztri fólks.

Fullyrðingar um, að félagslegar ráðstafanir hins opinbera á formi alls kyns hafta á starfsemi og samkomutakmarkana, séu bezta vörnin og jafnvel nauðsynlegar ráðstafanir til að fækka dauðsföllum af völdum faraldurs á borð við C-19, styðjast ekki við vísindalegar rannsóknarniðurstöður.  Kínverska áróðursmaskínan kom þó þeirri flugu inn í höfuð heimsbyggðarinnar í febrúar-marz 2020 með þekktum afleiðingum hvarvetna.

Íslenzka heilbrigðiskerfinu hefur hins vegar í heildina tekizt mjög vel upp við að fást við þennan faraldur, þrátt fyrir augljóst fyrirhyggjuleysi í upphafi og þrátt fyrir ófullnægjandi aðstæður í húsnæði Landsspítalans, sem sumt er um nírætt.  Þær hafa m.a. komið niður á þjónustu við aðra sjúklinga, og eiga landsmenn eftir að bíta úr nálinni með það.

  Bólustning framlínufólks og framlágra ætti strax að létta undir starfsemi sjúkrahúsanna, og þar með þarf mikill fjöldi smita ekki að varpast yfir í ófremdarástand á sjúkrahúsum landsins. Í þessu sambandi eru rannsóknir bóluefnaframleiðenda í 3. fasa þó áhyggjuefni, því að í sumum tilvikum undanskildu þeir viðkvæma hópa frá rannsóknum sínum.  Þetta eru einmitt hóparnir, sem mikilvægast er að veita vernd eða ónæmi gegn því að smitast af SARS-CoV-2-veirunni. Þess vegna er í sumum tilvikum rennt blint í sjóinn með áhrif bólusetningarinnar, og verður gerð grein fyrir rannsóknum SR á þessu síðar.

Það verður að gera þá kröfu til nýja Landsspítalans, að húsnæði hans verði hannað m.a. með hliðsjón af að fást við skæða heimsfaraldra. C-19 sjúkdómurinn er í raun og veru bara létt æfing borinn saman við hrylling á borð við ebólu, sem upp kom í Vestur-Afríku fyrr á þessari öld.

Orðrómur er uppi um "langvinnt kóf".  SR hefur sýnt fram á, að 98 % C-19 sjúklinga hafa náð sér að fullu innan þriggja mánaða, og að engin marktæk gögn styðji, að C-19 leiði til langtíma veikinda (það eru slæm gögn, reist á lággæða rannsóknum, sem hafa verið notuð um allan heim til að skjóta fólki skelk í bringu). 

SR hefur líka bent á, að baráttuaðferðirnar gegn C-19, s.s. meiri háttar hræðsluáróður, frestaðar áformaðar barnabólusetningar og skólalokanir munu leiða til mun fleiri tapaðra lífára en þeirra, sem tapast beint af völdum veirunnar.  Gögnin, sem SR hefur notað til að sýna fram á þetta, eru almenningi aðgengileg og birt í nokkrum rómuðustu og virtustu vísindaritum heimsins. 

Að þessu öllu virtu, hvað í ósköpunum gengur þá á í heiminum ?  Lokanir hafa í mörgum tilvikum verið umfangsmeiri í annarri bylgjunni erlendis en í þeirri fyrstu.  Að sumu leyti á það við um Ísland líka í s.k. þriðju bylgju, þótt við vitum núna mun meira um veiruna.  Það var hyggilegt að fara afar varlega í marz 2020, þegar lítið var vitað um C-19. Það á alls ekki við lengur. 

SR hefur sett fram tilgátu, sem er hans tilraun til að útskýra ótrúlega stöðu Kófsins. Hann hefur unnið með Ulf Martin að smíði þessarar tilgátu, en sá hefur ritað mikið um þessi mál á vefsetri sínu.  Eins og allir vita, hófst C-19 í Kína, og Kína er alræðisríki kínverska kommúnistaflokksins, sem á sér langa sögu strangs eftirlits með fjölmiðlum í Kína og vel smurðrar áróðursvélar. 

 

SR telur, að kínverska forystan hafi fljótt gert sér grein fyrir, að C-19 var ekki alvarleg ógnun, engu verri en slæm inflúensa.  Það var e.t.v. skýringin á upphaflegum viðbrögðum þeirra að þagga umræðu um sjúkdóminn niður og láta hann líða hjá.  Brátt kom þó í ljós, að það var ekki hægt vegna frásagna á félagsmiðlunum, sem dreifðust hratt um þrátt fyrir tilraunir til ritskoðunar.

Þá breyttu yfirvöldin um  baráttuaðferð.  Þau ákváðu að setja á svið sýningu, sem gæti verið beint úr Hollywood-kvikmynd.  Þannig var veröldin mötuð vandlega í janúar og febrúar 2020 á tilbúnum sviðsmyndum frá lokunum og útgöngubanni í Wuhan.  Við sáum hlið að blokkarhverfi rafsoðin föst í lokaðri stöðu, menn í þéttum varnargalla sótthreinsa húsnæði, lík liggjandi á götum úti og flota af tækjum úða yfir allt í kring.

Kannski var þessari sviðsetningu aðallega ætlað að sýna styrkleika.  Kannski var ætlunin að leiða önnur ríki út í þær einstöku sjálfsskaðandi aðgerðir, sem fylgdu í kjölfarið, eða kannski var það bara heppileg aukaafurð af sviðsetningu Kínverjanna. Hvað, sem því líður, þá fullyrtu kínversk stjórnvöld, að þau hefðu ráðið niðurlögum kórónuveirunnar SARS-CoV-2 á rúmlega mánuði.  Þann 11. febrúar 2020 tilkynnti Kína um 6900 ný smit á sólarhring.  Einum mánuði seinna voru ný smit komin niður í 15 á sólarhring í öllu Kína, í landi, þar sem býr 1,4 milljarður manna. 

 

Um þessar mundir, þegar annars staðar er glímt við aðra bylgju faraldursins, tilkynnir Kína um 20 smit á sólarhring.  Yfirvöldin fullyrða, að færri en 5000 manns hafi, enn sem komið er, látizt úr C-19 í Kína.  Það eru færri látnir en í Svíþjóð, landi með íbúafjölda um 0,7 % af Kína. 

 

Af einhverjum ástæðum er lagður trúnaður á tölurnar frá Kína og aðrar upplýsingar þaðan um Kófið þrátt fyrir vitneskju um Kína sem alræðisríki með vel smurða áróðursvél.  Því er treyst, að tímabundin lokun og útgöngubann í Wuhan hafi verið svo árangursrík, að ráðið hafi verið niðurlögum sjúkdómsins í landinu og að faraldurinn hafi ekki tekið sig upp að nýju.

Af reynslunni annars staðar að dæma fær þetta ekki staðizt.  SR hefur sýnt fram á í skrifum sínum með vísun í gögn, að aflokanir stjórnvalda eru almennt óskilvirkar. Á þeim tíma, þegar Wuhan var lokað í febrúar 2020, hafði veiran þegar grasserað í Kína í nokkra mánuði og hlýtur að hafa náð að dreifast vítt og breitt um Kína.  Að loka einni borg, þegar veiran hafði þegar dreift sér um landið, var augljóslega gagnslaus aðgerð og einvörðungu framkvæmd í áróðursskyni. 

Hver varð niðurstaðan af þessu ?  Fjölmiðlar um allan heim fóru í yfirgír og dreifðu myndunum frá Kína um allt.  Þegar smit bárust til annarra landa, voru allir orðnir innstilltir á, að þar væri drepsótt á ferð.  Kröfur komu fram í ritstýrðum fjölmiðlum og á félagsmiðlunum um sams konar aðgerðir yfirvalda og í Kína, úr því að aðgerðir Kínverja hefðu "augsýnilega" borið svo góðan árangur.  Lýðræðislega kjörin stjórnvöld, hrædd um að missa atkvæði, fóru að þessum kröfum. Kjósendur, horfandi upp á stigmögnun stóraðgerða stjórnvalda, ályktuðu þá, að ótti þeirra væri á rökum reistur, og urðu jafnvel enn óttaslegnari og kröfuharðari um sóttvarnaraðgerðir.  Þetta var stýrislaufa með innbyrðis mögnun á aðgerðir.  Afleiðingar þessara óskapa eru þekktar. 

Að öld liðinni munu sagnfræðingar ekki fjalla um C-19 sem drepsótt, sem gengið hafi um heim allan, eins og Spænska veikin, heldur munu þeir taka C-19 sem dæmi um, hversu auðvelt hafi verið á þessum tíma að skapa hugarástand fjöldamóðursýki. Ef við gefum okkur, að þannig sé ástandið, hversu lengi mun þá núverandi móðursýki vara ?

SR telur, að flestar ríkisstjórnir hafi grafið sig ofan í holu varðandi C-19.  Þær hafi dregið upp mynd af hættulegri, jafnvel lífshættulegri sjúkdómi en þau afbrigði af C-19 eru, sem þegar hafa komið fram.  Þær vita þetta, en að játa villu síns vegar núna er ómögulegt.  Sumpart er það vegna þess, að stjórnvaldsaflokanir hafa valdið svo miklum þjáningum, að það mundi stappa nærri sjálfsmorði að segja, að þær hafi verið óþarfar. Sumpart er það vegna þess, að fjölmiðlar og almenningur eru svo sannfærðir um alvarleika sjúkdómsins, að sérhver ríkisstjórn, sem héldi einhverju öðru fram,  fengi á sig merkimiða ábyrgðarleysis og afvegaleiðingar. 

Þess vegna er eina ráðið upp úr holunni að beita töfrabragði.  Töfrabragðið er bólusetning.  Það skiptir engu máli, hvort bóluefnin hafa nokkur einustu áhrif á heildarfjölda dauðsfalla, eða hvort þau vernda gamla og lasburða, sem eru alltaf í mestri hættu vegna alvarlegra sjúkdóma, eða hvort þau hindra útbreiðslu farsóttarinnar.  Hið eina, sem máli skiptir núna er að komast upp úr holunni eins hratt og hægt er án þess að játa að hafa nokkurn tíma leikið afleik í þessari skák við SARS-CoV-2.  Þegar nógu margir hafa verið bólusettir, geta ríkisstjórnir lýst yfir, að hættuástand sé afstaðið.  Þjóðhöfðingja verður hægt að hylla sem hetjur.  Við getum öll tekið upp fyrri siði.    

Þessi pistill er reistur á pistli Sebastian Rushworth, M.D. frá 03.01.2021, "Why did the world react so hysterically to covid ?"

   


Bóluefni, heilbrigðisráðuneytið og ESB

Það runnu á marga lesendur Fréttablaðsins tvær grímur á Gamlaársdag, þegar þeir lásu óvænta frétt með viðtalsslitrum við Kára Stefánsson, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, ÍE, þar sem komu fram upplýsingar, sem stangast algerlega á við það, sem heilbrigðisráðherra hefur haldið fram um komu bóluefna.  Hvort þeirra ætli sé nú merkilegri pappír ?  Næstu mánuðir munu leiða það í ljós. Það er líklega leitun að fólki hérlendis með jafngóða sýn yfir lyfjaiðnað heimsins og jafngóðan aðgang að stjórnendum lyfjaiðnfyrirtækja og forstjóri dótturfyrirtækis Amgen í Vatnsmýri Reykjavíkur. Heilbrigðisráðherra, aftur á móti, er eins og hún er úr garði gerð í sínum ranni.

Fyrirsögn téðrar stórfréttar Fréttablaðsins var:

"Lítið brot þjóðarinnar verði bólusett fyrir lok næsta árs".

Fréttin hófst þannig:

"Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, telur líklegt að óbreyttu, að einungis lítið brot af þjóðinni verði bólusett fyrir COVID-19 fyrir lok næsta árs [2021].  Hann segir það mikið áhyggjuefni, að enginn af þeim samningum, sem Ísland hefur undirritað við lyfjafyrirtækin Pfizer, Moderna og AstraZeneca, innihaldi afhendingardagsetningar. [Hið sama á við samninginn við Janssen.  Hins vegar er búið að bóka mikið magn eða 843 k skammta, sem er tæplega 30 % umfram líklega þörf.] 

"Það hefur bara verið samið um magn, en ekki um afgreiðslutíma", segir Kári.  "Það eru engar dagsetningar í þessu.  Þetta byggir náttúrulega á samningum Evrópusambandsins, og enn einu sinni virðist Evrópusambandið vera að klúðra málum.  Ef svo heldur fram sem horfir, þá er hætta á því, að við verðum ekki búin að bólusetja, nema pínulítinn hundraðshluta af þjóðinni í lok næsta árs", segir Kári."

Þessar upplýsingar kunnáttumanns eru grafalvarlegar af tveimur meginástæðum: 

Þær gætu þýtt framlengingu dýrkeyptra og umdeilanlegra sóttvarnarráðstafana í samfélaginu í megindráttum út 2021, þótt léttir verði hjá framlínufólki í heilbrigðisgeira og á hjúkrunar- og dvalarheimilum vegna forgangsbólusetninga þar. Framlenging sóttvarnarráðstafana, t.d. á landamærum, jafngildir væntanlega nokkur hundruð milljarða tekjutapi samfélagsins, áframhaldandi skuldasöfnun og atvinnuleysi í hæstu hæðum. Afleiðingar sóttvarnaraðgerða á heilsufar margra eru svo alvarlegar, að þær vega líklega upp ávinninginn af sóttvarnaraðgerðunum og rúmlega það mælt t.d. í dauðsföllum.  Rannsóknir styðja þetta viðhorf.

Þessi langi afhendingartími mun valda áframhaldandi álagi á heilbrigðiskerfið og enn meiri töfum á s.k. valkvæðum aðgerðum sjúkrahúsanna með lengingu biðlista sjúklinga sem afleiðingu.  Þetta þýðir áframhaldandi kvalræði og lyfjaát margra ásamt vinnutapi.  

Það eru þess vegna gróf mistök heilbrigðisyfirvalda að binda allt sitt trúss í þessum efnum upp á ESB-truntuna, algerlega að þarflausu, því að þessi mál eru utan EES-samningsins og reyndar gera sáttmálar ESB enn ekki ráð fyrir miðstýringu Framkvæmdastjórnarinnar á heilbrigðismálum aðildarþjóðanna. Það var vanræksla að sýna ekkert eigið frumkvæði við útvegun bóluefna, heldur leggja þau mál Íslendinga öll upp í hendurnar á ESB.  Það var dómgreindarbrestur að treysta alfarið á ESB, þótt hafa mætti það bágborna apparat í bakhöndinni. 

Íslenzk heilbrigðisyfirvöld máttu vita, hvernig í pottinn er búið hjá ESB.  Þar er reynt að gæta jafnræðis á milli Þýzkalands og Frakklands, sem í þessu tilviki þýðir, að ESB-ríkin verða að kaupa jafnmikið af frönskum og þýzkum lyfjafyrirtækjum. Það hefur lengi verið vitað, að franska Sanofi er ekki á meðal hinna fyrstu, eins og þýzka BioNTech, með vörn gegn SARS-CoV-2 á markaðinn.  Sanofi er  enn í prófunarfasa 2, og þess vegna var ESB jafnseint fyrir og raun bar vitni um.  Aðrar ríkisstjórnir, t.d. sú brezka og ísraelska, báru sig upp við framleiðendurna í sumar og tryggðu sér bóluefni. 

Ísraelsmenn bólusetja nú u.þ.b. 1 % þjóðarinnar á dag með fyrri skammti, og höfðu bólusett um 11 % þjóðarinnar í byrjun janúar 2021 með fyrri skammti, þegar hér var búið að bólusetja rúmlega 1 % þjóðarinnar með fyrri skammti.  Hér virðast afköstin ætla að verða að jafnaði aðeins tæplega 3 % þjóðarinnar á mánuði fullbólusett vegna skorts á bóluefni.  Þetta dugar varla til hjarðónæmis fyrir árslok 2021, þótt bót verði í máli, en Ísraelsmenn verða með sama áframhaldi komnir með hjarðónæmi í maí 2021.

Þessi VG-seinagangur (bólusetningaafköst eru meira en  5 föld í Ísrael vorin saman við Ísland m.v. horfurnar) verður samfélaginu ofboðslega dýr að því tilskildu, að engar alvarlegar aukaverkanir komi í ljós við notkun þessarar nýju tækni við ónæmismyndun, sem nú er verið að gera tilraun með á mannkyninu í örvæntingu. Heilbrigðisráðherra og forsætisráðherra gætu verið  sekar um vanrækslu í lífshagsmunamáli þjóðarinnar. 

  Kári Stefánsson / ÍE vakti enn frekar athygli á þessu stjórnsýslulega og pólitíska klúðri ráðherra Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs:  

"Það er furðulegt að hlusta á fulltrúa heilbrigðismálaráðuneytisins gefa út yfirlýsingar um, að við séum búin að tryggja nægjanlega mikið bóluefni, þegar það lítur út fyrir, að þetta nægjanlega mikla bóluefni komi ekki fyrr en 2022." [Fyrir 3/4 þjóðarinnar 2022 - innsk. BJo.]

"Þessi staða er því að kenna, að við, eins og hin Norðurlöndin, ákváðum að vera samferða Evrópusambandinu, og Evrópusambandið klúðraði þessu.  Það var eðlilegt, að við færum í hóp með hinum Norðurlandaþjóðunum.  Það hefur oft reynzt okkur gæfuríkt spor, en við erum bara því miður á þeim stað, að Evrópusambandið klúðraði þessu.  Við verðum að horfast í augu við það og ekki reyna að sannfæra okkur og aðra um, að þetta sé allt í lagi, því [að] þetta er ekki í lagi."

""Við verðum að leita úti um allt, og við megum ekki núna halda því fram, að það sé lífsbjargarspursmál að halda þennan samning við Evrópusambandið, því [að] það er búið að gera í buxurnar", segir Kári."

"Ef heilbrigðismálaráðuneytið getur upplýst um eitthvað annað og sýnt fram á, að ég hafi rangt fyrir mér, þá yrði ég mjög glaður.  Þetta er eitt af þeim augnablikum, sem ég vildi, að ég hefði rangt fyrir mér."

Heilbrigðisráðuneytið hefur ekki hrakið staðhæfingar Kára.  Við búum við vond stjórnvöld á sviði heilbrigðismála.  Þessi stjórnvöld leggja allt undir með því að veðja á ESB án þess að sinna  rannsóknarskyldu sinni.  Evrópusambandið var ekki og hefur aldrei verið traustsins vert. Hvers vegna var ekkert spurt um dagsetningar, þegar íslenzka trússið var bundið upp á ESB-merina ? Heilbrigðisstjórnvöld sýndu þar með dómgreindarbrest og fá í kjölfarið falleinkunn.  Um þriðjungur þjóðarinnar bólusettur um næstu áramót er staðan, sem við blasir.

Morgunblaðið reyndi að bregða birtu á staðreyndir málsins gegnum áróðursmökk heilbrigðisyfirvalda, t.d. móttöku tveggja kassa frá Pfizer/BioNTech á milli jóla og nýárs.  Þann 2.1.2021 birtist þar frétt með fyrirsögninni:

"Seinvirkt ferli við kaup á bóluefni skapar vandamál".

Fréttin hófst þannig:

"Ugur Sahin, forstjóri þýzka lyfjafyrirtækisins BioNTech, segir, að Evrópusambandið hafi verið hikandi við að útvega bóluefni við kórónaveirunni.  "Ferlið í Evrópu var ekki eins hraðvirkt og í öðrum löndum", sagði Sahin við þýzka blaðið Spiegel.  "Að hluta til vegna þess, að Evrópusambandið getur ekki veitt leyfið eitt og sér, og aðildarríki geta haft eitthvað til málanna að leggja", sagði Sahin.  Hann bætti við, að ESB hefði einnig veðjað á framleiðendur, sem gátu ekki útvegað bóluefnið eins fljótt og BioNTech og Pfizer gerðu." 

Íslenzkum heilbrigðisyfirvöldum er ljóst, hversu miklu máli skiptir að skapa hjarðónæmi í samfélaginu á sem stytztum tíma.  Þeim mátti vera ljóst, að ESB yrði á seinni skipunum við útvegun bóluefnis vegna þess, sem Herr Sahin segir hér að ofan.  Á meðal þessara uppáhaldsfyrirtækja ESB, sem verða sein fyrir, er franska lyfjafyrirtækið Sanofi.  Frakkar heimta, að sinn lyfjaiðnaður sé með í spilunum gagnvart Evrópu, og Ursula von der Leyen, forseti Framkvæmdastjórnarinnar, féllst á það. 

Hún dró líka taum Frakka sem landvarnaráðherra Þýzkalands.  Þá lét hún Luftwaffe gera þróunarsamning við Frakka um nýja fransk-þýzka orrustuþotu í stað þess að festa kaup á nýjustu útgáfu af hinni bandarísku F35.  Luftwaffe bráðvantar nýjar flugvélar, og það tekur yfir 10 ár að þróa nýja orrustuþotu og 20 ár að fá nægan bardagahæfan fjölda. Óánægja Bundeswehr með von der Leyen varð að lokum svo mikil, að Kanzlerin Merkel varð að losa sig við hana úr ríkisstjórninni í Berlín.  Brüssel tekur lengi við. 

""Þorri þjóðarinnar verði bólusettur fyrir sumarið", sagði Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, í samtali við mbl.is um framvindu bólusetninga gegn kórónuveirunni. 

Spurð, hvers vegna ekki liggi frekari áætlanir fyrir um afhendingu bóluefnis, segir Svandís, að framleiðsla á bóluefnum standi enn yfir.  Í framhaldi af þeim komi áætlanir um dagsetningar afhendinga.  Meginmálið sé, að samningar um kaup á bóluefni séu í höfn."

 Þetta furðusvar Svandísar sýnir, að keisarinn er ekki í neinu.  Vankunnátta hennar og óhæfni á þessu sviði er alger.  Hún gefur í skyn, að ekki tíðkist að semja um afhendingartíma fyrr en búið sé að framleiða vöruna.  Vantraust hennar á einkaframtakinu er svo mikið, að hún hefur ímyndað sér, að það geti ekki samið framleiðsluáætlun.  Hið rétta er, að það er engin alvörupöntun fyrir hendi, nema samið hafi jafnframt verið um afhendingartíma.  Iðulega eru settir í samninga skilmálar um dagsektir vegna tafa á afhendingu vöru. Heilbrigðisráðherra fer með helbert fleipur, þegar hún fullyrðir, að "þorri þjóðarinnar verði bólusettur fyrir sumarið" m.v. þær upplýsingar, sem nú eru fyrir hendi, eins og Kári Stefánsson hefur bent á. 

Stefán Einar Stefánsson, fréttastjóri viðskipta á Morgunblaðinu, ritaði vandaða hugleiðingu um efnahagsmál í Tímamót Morgunblaðsins undir fyrirsögninni:

 "Hinn vandrataði vegur".

Þessum hugleiðingum Stefáns lauk undir millifyrirsögninni: 

"Forsætisráðherrann féll á prófinu":

"Ummæli bankastjórans voru látin falla í samhengi við nýlegar fréttir um, að bóluefni væri handan við hornið, sem tryggt gæti hjarðónæmi gegn kórónuveirunni.  Þau tíðindi hafa raungerzt og víða um heim er byrjað að bólusetja fólk af miklum móð, sem færir heimsbyggðina nær því marki að færa lífið í eðlilegt horf á ný.  Stærsta ógnin á þessum tímapunkti fyrir okkur Íslendinga virðist vera sá sofandaháttur, sem íslenzk stjórnvöld sýndu, er kom að öflun bóluefnis.  Virðast þau hafa lagt allt sitt traust á Evrópusambandið [ESB], og að í krafti þess yrði hlutur Íslands í heimsframleiðslunni a.m.k. ekki hlutfallslega minni en annarra þjóða.  Nú er því miður komið á daginn, að ESB féll á prófinu - og þar með Ísland.  Var hreint út sagt vandræðalegt, þegar fréttist, að forsætisráðherra hefði nokkrum dögum fyrir jól varið heilum degi í að hringja í forstjóra Pfizer og búrókrata í Brussel í veikri von um, að rétta mætti hlut íslenzku þjóðarinnar í þessu efni.

Þau viðbrögð komu alltof seint, mörgum mánuðum eftir, að forystumenn á borð við Justin Trudeau og Boris Johnson höfðu af alefli og með fulltingi embættismanna sinna tryggt löndum sínum veglega hlutdeild í því magni, sem þó hefur tekizt að framleiða og framleitt verður á komandi mánuðum.  

Langstærsta verkefni stjórnvalda næstu vikurnar verður að tryggja nægt bóluefni til landsins, koma því í rétta dreifingu og hefja samhliða þeirri vinnu markaðssetningu á Íslandi sem öruggri höfn fyrir ferðamenn.  Hvort sem fólki líkar það betur eða verr, mun ekki takast að sigla hagkerfinu úr hinum mikla öldudal, nema með endurreisn ferðaþjónustunnar.  Innviðirnir eru til staðar og flugfélagið - jafnvel þótt stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna hafi tekið afstöðu gegn félaginu og hagsmunum sjóðfélaga og íslenzku þjóðarinnar um leið."

Þetta er hörð ádrepa á 2 ráðherra Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, en fullkomlega réttmæt í ljósi þeirra gríðarlegu hagsmuna, sem í húfi eru.  Vanræksla þessara tveggja ráðherra VG ætti að færa fólki heim sanninn um, hversu hættulegt er að styðja eintrjáningslega og löngu úr sér gengna hugmyndafræði til valda á Íslandi.  Í þessum þrönga og þröngsýna stjórnmálaflokki er eðlilega lítið mannval, og fólk kann þar lítt til verka, þegar að krefjandi verkefnum kemur, og er ekki treystandi til stórræða.

Þrátt fyrir hægagang mun á fyrsta ársfjórðungi 2021 takast að bólusetja þá, sem í mestri lífshættu eru við C-19 sýkingu, og framlínustarfsfólk heilbrigðisgeirans.  Eftir það er varla nokkur hætta á yfirálagi heilbrigðisstofnana vegna margra C-19 sjúklinga.  Þar með falla brott helztu röksemdir fyrir alls konar höftum í samfélaginu í nafni sóttvarna.  Þess vegna ættu sóttvarnaryfirvöld í janúar 2021 að gefa út áætlun um afléttingu hamlana innanlands og á landamærum.  Það verður grundvöllur endurræsingar þeirra geira athafnalífsins, sem lamaðir hafa verið í Kófinu á meira eða minna hæpnum forsendum.

 


Rammskökk Rammaáætlun um vernd og nýtingu

Orkumálastjóri gegnir jafnframt stöðu Landsorkureglis Evrópusambandsins (ESB) samkvæmt íslenzkum lögum um Orkupakka #3 (OP#3)(e. National Energy Regulator). Orð Orkumálastjóra hafa frá stofnun embættisins vegið þungt, og vægið hefur ekki minnkað við innleiðingu OP#3. Það er þess vegna eðlilegt að sperra eyrun, þegar Orkumálastjóri flytur jólahugvekju sína, og nú hefur embættið verið auglýst laust til umsóknar. 

Margt vakti athygli í þessari síðustu jólahugvekju Orkumálastjórans og Landsorkureglis dr Guðna A. Jóhannessonar.  Eitt var, að hann virtist hafa fengið sig fullsaddan af samskiptunum við undirstofnun utanríkisráðuneytisins, GRÓ, út af Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna. Harkalegur árekstur á milli Orkustofnunar og stofnunar á vegum utanríkisráðuneytis kemur spánskt fyrir sjónir, því að diplómatar eiga að vera þjálfaðir í að leita lausna á vandamálum, sem upp koma, áður en upp úr síður.  Grípum niður í jólaávarpið:

"Sú umræða, sem við [á Orkustofnun] áttum við stjórnarformann og framkvæmdastjóra GRÓ er sú einkennilegasta og minnst uppbyggjandi af öllu því, sem ég hef kynnzt á mínum starfsferli."

Það þarf vafalaust mikið að ganga á, til að Orkumálastjóri taki svona til orða í jólaávarpi sínu. 

"Það skapar að vísu augljós tækifæri til þess að ná aftur því tapi, sem stofnunin [ÍSÓR] verður fyrir vegna óhagstæðs rekstrarsamnings, en skapar um leið tortryggni og hættu á mismunun gagnvart öðrum hlutum jarðhitasamfélagsins. Það, sem meira er um vert, er, að þar með verður yfirstjórn skólans komin undir umhverfisráðuneyti, sem um árabil hefur verið vakið og sofið í því að girða fyrir nýtingu vistvænnar orku til atvinnuuppbyggingar á Íslandi.

  Það verður hugsanlega ekki beinlínis trúverðugt, þegar nemendum frá þróunarlöndum verður kennt, að um þeirra umhverfi og náttúruvætti gildi allt önnur viðhorf en á Íslandi, eða ef beinlínis verður farið að kenna, hvernig tefja megi fyrir nauðsynlegri uppbyggingu innviða og atvinnulífs með öllum þekktum ráðum."

(Undirstr. BJo.)  Það hefur vart sézt jafnflengjandi gagnrýni á starfshætti eins ráðuneytis eins og þarna.  Framsetning Orkumálastjóra varpar ljósi á það, sem marga grunaði, að afturhaldsöfl hafa grafið um sig í þessu ráðuneyti.  Þau svífast einskis til að hindra framfarir og aukna verðmætasköpun hér og jafnvel nú í þróunarlöndunum.  Afleiðingarnar eru, að framfarasókn tefst og hægar mun ganga að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu.  Allt mun þetta leiða til lakari lífskjara og lífsgæða en ella.  

"Við megum hins vegar ekki gleyma því, að Jarðhitaskólinn er sterkasta vörumerki Íslands á sviði orkumála, sem hefur náðst með næstum hálfrar aldar farsælu samstarfi utanríkisráðuneytis og Orkustofnunar.  Þótt einstökum ráðamönnum á hverjum tíma séu mislagðar hendur, munum við áfram styðja skólann og starfsfólk hans í sínu góða starfi og standa með þeim í að viðhalda þeim gæðum og háa þjónustustigi við nemendur, sem hafa verið undirstaðan að velgengni hans." 

Það virðist vera, að Orkumálastjóri beini þarna spjótunum að utanríkisráðherra sjálfum, og er það umhugsunarvert í ljósi harðrar gagnrýni, sem beinzt hefur að ráðherranum úr ráðuneytinu sjálfu. 

Næst sneri Orkumálastjóri sér að Rammaáætlun um verndun og nýtingu orkulinda.  Í stuttu máli fær núverandi fyrirkomulag og stjórnkerfi Rammaáætlunar falleinkunn hjá Orkumálastjóra.  Það eru margir sama sinnis og hann í þeim efnum.  Fyrirkomulagið er ein allsherjar blindgata, sem stríðir gegn skilvirkum og vönduðum ákvarðanatökum um, hvað gera ber við hverja orkulind um sig:

"Þegar ég hóf störf á Orkustofnun í byrjun árs 2008 var að hefjast vinna við annan áfanga Rammaáætlunar.  Í verkefnisstjórn voru þá fulltrúar stofnana, samtaka og ráðuneyta, þannig að um aðferðir og niðurstöður skapaðist breið umræða, þar sem mismunandi sjónarmið tókust á.  Þótt ýmis upphlaup yrðu vegna óskyldra hluta, sem trufluðu starfsemina, var formaðurinn, Svanfríður Jónasdóttir, óþreytandi að taka umræðuna, og umfjöllunin komst á það stig, að það var hægt að ná niðurstöðu með meirihlutasamþykkt á Alþingi.  Jafnframt hafði verið unnið að því að treysta grundvöll rammaáætlunar með því að setja um hana lög, en því miður fólu þau lög í sér, að framkvæmd laganna var falin umhverfisráðuneyti í stað iðnaðarráðuneytis, eins og áður var."

  Enn og aftur gagnrýnir Orkumálastjóri umhverfisráðuneytið.  Það hefur ekki reynzt í stakkinn búið að framfylgja lögunum af hlutlægni og fagmennsku, og ber að taka flest nýtingarmál auðlinda úr höndum þess. Orkumálastjóri hélt afram:

"Í þriðju umferð var verkefnisstjórnin fámennari og einsleitari.  Sama gilti um faghópana og það starf, sem þar var unnið.  Starfið beindist að því að safna í excelskjöl smáum og stórum ávirðingum á mögulega virkjunarkosti með einkunna- og stigagjöf, sem var illskiljanleg fyrir þá, sem stóðu utan við starfið.  Röðun og flokkun virkjanakosta gekk að mínu mati þvert á almenna skynsemi, og mikilvægar forsendur voru oftar en ekki gripnar úr lausu lofti, eins og t.d. fyrir Skatastaðavirkjun, enda varð snemma ljóst, að engin samstaða var á Alþingi um afgreiðslu þessa áfanga, og nú er vinna við fjórða áfanga rammaáætlunar hafin án þess, að afgreiðslu þriðja áfanga sé lokið.

Ég held við verðum að gera okkur ljóst, að allt þetta ferli er orðið langur, erfiður draumur eða martröð.  Það er kominn tími til þess að vakna upp frá þessu og finna nýjar leiðir.  Einföld leið er að leggja niður rammaáætlun og efla þær stofnanir, sem fara með umhverfis- og skipulagsmál [þarna mætti bæta við orkumálum og hagrænu mati-innsk. BJo] til þess að meta hugsanlega virkjunarkosti á skipulagsstigi. 

Ef þessar stofnanir telja, að veruleg verðmæti séu í hættu og að sameiginlegir samfélagslegir hagsmunir geti verið meiri en svo, að hugsanlegar framkvæmdir geti verið á ábyrgð viðkomandi sveitarfélaga eingöngu, þá geti þær frestað málinu og gert tillögu til Alþingis um misjafnlega langt "móratóríum" [dvala-innsk. BJo] eða stöðvun undirbúnings og framkvæmda. Slík stöðvun gæti staðið í 5, 10 eða 20 ár eftir því, hve álitaefnin vega þungt, eða hvort þau krefjast dýpri athugana og þekkingar. Alþingi verði síðan að afgreiða þessar tillögur innan ákveðins frests, til þess að ákvörðunin öðlist gildi.  Friðlýsing án tímamarka er í raun alvarleg skerðing á rétti komandi kynslóða til þess að taka lýðræðislegar ákvarðanir um sín mál á hverjum tíma."     

(Undirstr. BJo.) Hér er um mjög áhugaverðar hugleiðingar Orkumálastjóra að ræða. Hann kastar fram hugmynd um, hvað gæti tekið við af handónýtu stjórnfyrirkomulagi Rammaáætlunar.  Hann bendir á hið augljósa, að friðlýsingar eru gerræðisleg valdníðsla á komandi kynslóðum.  Alþingi ætti sem fyrst að breyta þessu og gera núgildandi friðlýsingar tímabundnar. 

Morgunblaðið vakti athygli á hvassri gagnrýni Orkumálastjóra á misheppnað ferli við frummat á virkjunarkostum hérlendis. Fyrirmyndin var upphaflega norsk, en framkvæmdinni hér hefur verið klúðrað, enda er hún er með öðrum hætti í Noregi.  Norðmenn fela Orkustofnun sinni lykilhlutverk í þessu máli, og hún er undir Olíu- og orkuráðuneytinu.  ESB er ekki með fingurinn á norsku Orkustofnuninni, því að Landsorkureglirinn er sjálfstætt embætti í Noregi, fjármagnað af ríkisfjárlögum.  Það stappar nærri hótfyndni að fela umhverfisráðuneytinu hér yfirstjórn þessara mála.

Forystugrein Morgunblaðsins á Þorláksmessu 2020 bar heitið:

"Hörð gagnrýni á rammaáætlun":

"Orkumálastjóri hefur mikla reynslu af þessum málum eftir að hafa gegnt starfinu í 12 ár.  Full ástæða er þess vegna til, að menn leggi við hlustir, þegar hann tjáir sig, og taki afstöðu til þeirra sjónarmiða, sem hann hefur fram að færa.  Þegar Morgunblaðið leitaði til umhverfisráðherra, en rammaáætlunin heyrir undir það ráðuneyti, þó að orkumálastjóri telji, að hún eigi betur heima undir ráðuneyti iðnaðarmála, sagðist hann ekki ætla að tjá sig um sjónarmið orkumálastjóra.  Það er sérkennileg afstaða þess, sem ábyrgð ber á málaflokknum, en e.t.v. í anda þeirrar þróunar, sem orkumálastjóri lýsti, að umræðan verði einsleitari með minni skoðanaskiptum."

Hvers vegna tjáir umhverfisráðherra sig ekki ?  Hann ætlar að þagga þessa gagnrýni niður, láta sem ekkert sé, halda áfram ótímabærum og ótímatakmörkuðum friðlýsingum sínum, og láta þau þröngsýnu og ófaglegu vinnubrögð 3. verkefnisstjórnar Rammaáætlunar viðgangast að safna saman í eitt Excel-skjal öllum hugsanlegum ávirðingum og göllum þeirra virkjanakosta, sem 4. verkefnisstjórnin fjallar um.  Hvort á að gráta eða hlæja að þessu fúski með lífshagsmuni framtíðarinnar á Íslandi ?

"Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðarráðherra [og varaformaður Sjálfstæðisflokksins-innsk. BJo], brást við orðum orkumálastjóra og sagði, að færa mætti rök fyrir því, að matið, sem ætlazt væri til í dag, væri "of umfangsmikið og mögulega óraunhæft".  Hún sagði, að það væri því "skynsamlegt og tímabært að endurskoða verklagið. A.m.k. hvernig mat á efnahagslegum og samfélagslegum áhrifum er útfært."  Þá sagði hún:  "Rammaáætlun átti að vera svar við því, að þessi mál væru pólitískt bitbein og sjálfstætt vandamál.  Ferlið í framkvæmd hefur ekki verið góð auglýsing fyrir sjálft sig.  Mat á efnahagslegum og samfélagslegum áhrifum hefur reynzt okkur um megn, eins og það er útfært núna.  Nærtækur möguleiki væri að færa sig nær upphaflegu ferli, þar sem horft var á hagkvæmni virkjanakosta án þess að reyna að meta öll efnahagsleg og samfélagsleg áhrif, sem hann kemur til með að hafa."  Hún bætti því við, að regluverk þyrfti "að öðru leyti að vera skilvirkt, sem það er ekki.  Það er of flókið og marglaga."

Þótt ráðherrann mætti vera skýrari í málflutningi sínum, virðist mega draga þá ályktun af orðum hennar, að hún telji núverandi fyrirkomulag Rammaáætlunar óalandi og óferjandi.  Orkustofnun heyrir undir ráðuneyti hennar, og henni ber að vinna að umbótum á þessu sviði. Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki umborið ósómann.  Fyrirtæki, sem vilja virkja, þurfa að leggja fram áætlun um umhverfismat.  Orkustofnun getur unnið eða látið vinna frummat á þjóðhagslegri hagkvæmni, þar sem "umhverfiskostnaður" er tekinn með í reikninginn.  Skipulagsstofnun fái þessi gögn til umsagnar og geti samþykkt, að fram fari áframhaldandi hönnun og gerð umhverfismats eða frestun um tilgreindan tíma að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar.  Alþingi hefur seinasta orðið um helztu virkjanakosti (t.d. stærri en 200 GWh/ár).  Verkefnisstjórn Rammaáætlunar er óþörf.

Morgunblaðið, sem er með puttann á púlsinum, eins og fyrri daginn, klykkti út með eftirfarandi:

"Í orðum bæði orkumálastjóra og iðnaðarráðherra felst hörð gagnrýni á rammaáætlun og það ferli, sem í henni felst.  Líklegt má telja, að þetta ferli sé gengið sér til húðar og að verulegra breytinga sé þörf, annaðhvort með gagngerri uppstokkun á þessu kerfi eða með því að fara alveg nýja leið, eins og orkumálastjóri leggur til.  Þetta varðar mikla hagsmuni og kallar á umræður, sem þeir, sem láta sig málaflokkinn varða, geta ekki vikið sér undan."

 Það er hárrétt ályktun hjá Morgunblaðinu, að fyrirkomulag vals á milli virkjunar og verndunar varðar mikla þjóðarhagsmuni, og það er óviturlegt af þingmönnum að skilja þetta mál eftir í tröllahöndum.

 

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband