Færsluflokkur: Bloggar
1.1.2021 | 13:42
Um kuldabola og annað illþýði
Í desember 2020 komu í ljós óviðunandi veikleikar á innviðum lands og höfuðborgar. Hitaveita ON, dótturfyrirtækis OR (Orkuveita Reykjavíkur) varaði við ófullnægjandi upphitunarafköstum, sem hefði leitt til kólnunar í húsum, nema gripið yrði til arinelds eða kamínufíringar, þar sem það er hægt, og/eða rafhitunar. ON/Hitaveita brá á það ráð að hækka hitastig vatnsins, og virtist inntakshitastigið hækka um 8°C hjá pistilhöfundi í Garðabæ, sem leiddi sjálfvirkt til minna rennslis. Lítil starfsemi var í sundlaugum svæðisins á þessu tímabili vegna umdeilanlegra sóttvarnarráðstafana. Enginn fimbulkuldi varð, og allt forðaði þetta vandræðum. Það er hins vegar með öllu óviðunandi, að rekstri Hitaveitu ON (Orku náttúrunnar) skuli vera þannig háttað, að hann þoli mjög litla ágjöf. Þar verður að vera borð fyrir báru til að mæta óvæntri ágjöf, eins og allar vel reknar veitur reyna að haga málum.
Hinn veikleikinn er heldur ekki nýr af nálinni, en var mjög svæsinn núna. Þetta voru tjörublæðingar í Þjóðvegi 1, aðallega frá Borgarnesi til Akureyrar. Þó að vikuþíða og rigning komi eftir frostakafla á þetta ekki að gerast. Það þarf að rýna gerð undirlags og olíumalar. Kannski hentar engin olíumöl fyrir þær aðstæður og umferðarþunga, sem ríkjandi eru á milli Borgarness og Akureyrar. Þá þarf að fara yfir í gott malbik, þótt það sé dýrara en olíumölin, því að samfélagslega er það sennilega hagkvæmast á þessari leið að teknu tilliti til rekstrarkostnaðar Vegagerðar og vegfarenda, svo að ekki sé nú minnzt á öryggi vegfarenda. Klæðningin er aðeins einn af mörgum kostnaðarþáttum nútíma vegagerðar.
Ýmsir hafa klórað sér í hausnum út af þeirri vegferð, sem Orkuveita Reykjavíkur undir stjórn jarðfræðingsins Bjarna Bjarnasonar virðist vera á. Hann hefur t.d. básúnað opinberlega, að engin þörf sé á að fjárfesta nokkuð í orkuöflun né styrkingu dreifikerfa til að bregðast við fyrirsjáanlegri álagsaukningu (bæði aukning afls- og orkuþarfar) af völdum orkuskiptanna, nema e.t.v. í snjallorkumælum. Þetta er viðsjárverður áróður forstjórans og stingur í stúf við heilbrigða skynsemi, ráðleggingar Samorku og viðhorf Landsvirkjunar. Ef viðhorf forstjórans um að fresta fjárfestingum í orkuöflun og dreifikerfum vatns og rafmagns, þar til allt er komið á yztu nöf, eins og virðist vera að einhverju leyti hjá ON, síast niður í dótturfyrirtækin, þá er ekki kyn, þótt keraldið leki, því að, eins og Bakkabræður sögðu: botninn er þá suður í Borgarfirði.
Morgunblaðið gerir þessi mál að umræðuefni í forystugrein á jólaföstu, 17. desember 2020, undir fyrirsögninni:
"Gallar á grunnþjónustu":
"Ekkert bar út af hjá Veitum vegna kuldakastsins. Það gæti verið vegna þess, að almenningur fór sparlega með vatnið, en ekki hefur síður skipt máli, að ekki varð jafnkalt og spáð hafði verið.
Þessi tilkynning varð hins vegar til þess, að margir fóru að velta fyrir sér, hvort eitthvað væri að hjá veitum. Það er í verkahring fyrirtækisins að sjá borgarbúum fyrir heitu vatni [ON aflar þess, Veitur dreifa því - innsk. BJo]. Það ætti ekki að koma á óvart, að kólni í veðri og gæti orðið kalt í nokkra daga. Það ætti því ekki að teljast mikil tilætlunarsemi að gera ráð fyrir, að Veitur séu undir slíkt búnar.
Í frétt um helgina kom fram, að spurn eftir heitu vatni hefði farið vaxandi og við það hefði vatnsborð á jarðhitasvæðum farið lækkandi. Slík þróun á ekki að koma aftan að hitaveitu. Innan fyrirtækisins er enginn skortur á þekkingu, og því vaknar sú spurning, hvað valdi því, að þegar spáð er köldu veðri, þurfi það að senda út slíkt ákall til viðskiptavina sinna. Sú spurning vaknar, hvort lykilástæða fyrir því sé sú, að slíkt kapp sé á að ná peningum út úr fyrirtækinu vegna bágrar fjárhagstöðu Reykjavíkur, að Veitur hafi ekki nægilegt fé til nauðsynlegra rannsókna og þróunar.
Talsmenn ON hafa opinberlega kennt Kófinu um aukið álag húshitunar. Það er rétt, að sjaldan hafa fleiri Íslendingar dvalið samtímis á landinu og í Kófinu, því að allmargir með búsetu erlendis sneru heim, og mjög fáir hafa ferðazt utanlands. Á móti koma hins vegar sárafáir erlendir ferðamenn, svo að margir gististaðir hafi staðið auðir. Þar er áreiðanlega dregið úr húshitun eftir föngum. Þótt óvenjumargir hafi dvalið á heimili sínu lungann úr sólarhringnum, hefur óskitastig í íbúðunum varla verið hækkað út af því. Fremur, að vinnuveitendur hafi sparað vatn á vinnustaðnum, eins og hlýtur að hafa átt sér stað í sundlaugunum líka.
Það er þess vegna ekki trúlegt, að vatnsnotkun hjá einni dýrustu hitaveitu landsins hafi aukizt umfram fjölgun skráðra notenda. Líklegra er þá, að leki sé farinn að hrjá Veitur. Með rennslismælingum og samanburði við selt vatn geta Veitur komizt að þessu.
Árni Gunnarsson, fyrrverandi yfirverkfræðingur Hitaveitu Reykjavíkur, furðar sig á þeirri stöðu, sem hitaveitumál höfuðborgarsvæðisins virðast hafa ratað í. Hann ritaði grein í Fréttablaðið 15. desember 2020, sem hann nefndi:
"Kuldaboli enduruppvakinn".
Hún hófst þannig:
"Opið bréf til stjórnenda Orkuveitu Reykjavíkur [hér greinir Árni ekki á milli ON og Veitna, heldur snýr sér beint að móðurfyrirtækinu, sem segir sína sögu-innsk. BJo].
Þriðja árið í röð mega höfuðborgarbúar búa við að vera af stjórnendum OR varaðir við yfirvofandi vatnsskorti hjá Hitaveitunni vegna þess, að spáð er frostdögum næstu daga. Í fjölmiðlum er slegið upp fyrirsögnum um, að viðbragðsáætlun veitunnar hafi verið virkjuð; geta kerfisins komin að þolmörkum þess, sem er sögð vera um 18.000 [m3/klst] í hámarks rennsli, samsvarandi um 1.015 [MW] í varmaafli (m.v. nýtingu vatnsins 80/30°C)."
Af svari Guðmundar Óla Gunnarssonar, starfandi forstöðumanns hitaveitu Veitna, við grein Árna Gunnarssonar, má ráða, að það eru ekki nógu róttækar mótvægisaðgerðir á döfinni þar á bæ til að vega upp á móti notkunaraukningu, sem lýsir sér með yfirlýsingu 3 ár í röð frá Veitum um yfirvofandi hitavatnsskort. Hann horfir til Krýsuvíkur sem framtíðarnýtingarsvæðis, en skrifar svo:
"Við getum enn aukið heitavatnsvinnsluna á Hengilssvæðinu. Það eru þó dýr mannvirki, varmastöðvarnar í virkjununum, og að byggja þær áður en þörf er á þeim er enn dýrara. Við þurfum að fara næstum hálfa öld aftur í tímann, aftur í olíukreppuna upp úr 1970, þegar uppbygging hitaveitu í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur var á fullu, til að sjá viðlíka aukningu á heitavatnsnotkun og við höfum séð nú í ár. Sennilegasta ástæðan er breytt notkun okkar á húsnæði í faraldrinum. Þetta hefur hugsanlega líka þýtt það, að aukningin í kuldakastinu á dögunum var ekki eins mikil og við óttuðumst."
Þetta eru ósannfærandi útskýringar, og það skín í gegn, að stjórnendur ON tefla á tæpasta vaðið með, hvort Hitaveitan annar hámarksþörf eða ekki. Það eru dregnar lappirnar með að reisa nýjar varmastöðvar, þar til full nýting fæst á þær, og þar með má ekkert út af bregða í rekstrinum. Svona reka menn einfaldlega ekki veitur. Þar þarf jafnan að vera svo stórt borð fyrir báru, að stærsta eining kerfisins megi falla úr rekstri við verstu aðstæður, eins og gerist, þar sem Murphy ræður ríkjum (það slæma, sem gerist, gerist jafnan á versta tíma), án þess að viðskiptavinir verði fyrir skakkaföllum af þeim sökum. Þessir atburðir hafa opinberað einhvers konar rússneska rúllettu með OR, sem forstjórinn hlýtur að bera höfuðábyrgðina á.
Gagnrýni Árna Gunnarssonar á þannig rétt á sér. Hann hélt áfram:
"Spurt er, hvernig getur það staðizt, að aflgeta Hitaveitunnar nægir nú ekki til að standa undir álagi, þegar frost er úti samfellt í nokkra daga ?
Á sama tíma hefur veitan aðgang að margfalt meiri varmaorku á Nesjavöllum og Hellisheiði, óbeizlaðri, svo [að] ekki sé minnzt á þá, sem þar er sóað vegna ágengrar raforkuvinnslu, langt umfram þarfir Hitaveitunnar."
Sóunin, sem Árni minnist á, á sér einkum stað á Hellisheiði og kann að vera óafturkræf, a.m.k. ef miðað er við núlifandi notendur hitaveitu OR. Orkusóun af þessu tagi er óviðunandi framganga gagnvart komandi kynslóðum. Í stað þess að predika um, að óþarft sé að virkja nokkuð á næsta áratugi fyrir orkuskiptin, væri forstjóra OR nær að skapa jafnvægi í nýttum gufuforðabúrum Hellisheiðarvirkjunar og Nesjavallavirkjunar, þ.e. að taka þaðan ekki meira en streymt getur inn. Hann þarf kannski að sníða sér stakk eftir vexti.
Kostnaðarskiptingin á milli hitaveitu og rafveitu ON vekur grunsemdir um, að einokunarstarfsemi hitaveitunnar greiði niður samkeppnisstarfsemi ON, rafveituna. Hvernig má það annars vera, að snarazt hefur algerlega á merinni, hvað gjaldskrá hitaveitunnar varðar frá 2003, er ný orkulög og Orkupakki 1 frá ESB tóku gildi á Íslandi ?
Árni Gunnarsson skrifaði undir lok greinar sinnar:
"[Hvernig er] [þ]essi staða upp komin, þrátt fyrir að gjaldskrá Hitaveitunnar er nú hærri borin saman við helztu hitaveitur landsins ?"
Þetta er mjög mikilvæg spurning. Til að leita svara þarf sennilega að kryfja stofn- og rekstrarkostnað Hellisheiðarvirkjunar og fara rækilega í saumana á bókhaldi ON, sérstaklega Nesjavallavirkjunar og Hellisheiðarvirkjunar, þar sem bæði er einokunar- og samkeppnisstarfsemi. Þá þarf einnig að kanna, hvort eigendur OR blóðmjólka samstæðuna, t.d. með óeðlilegum arðgreiðslukröfum. Slíkt eru mjög óeðlilegir stjórnarhættir hjá fyrirtæki í eigu sveitarfélaga, sem einnig þjónustar íbúa annarra sveitarfélaga, t.d. með heitt og kalt vatn. Sennilega fær sannleikurinn ekki að koma í ljós fyrr en nýir valdhafar taka við stjórnartaumunum í Reykjavík og endurskipuleggja stjórn Reykjavíkur og fyrirtækja hennar, en fjárhagur höfuðborgarinnar stefnir nú í algert óefni með glórulausri skuldasöfnun, skattheimtu uppi í rjáfri og lélegri þjónustu að mati borgarbúa sjálfra.
Gleðilegt nýár.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.12.2020 | 11:12
Orkumál valda hagsmunaárekstrum
Lengi hafa pólitísk átök orðið hérlendis tengd virkjunum og orkunýtingu, og hófust þau líklega að ráði með ágreiningi í þjóðfélaginu og inni á Alþingi um Títanfélagið á upphafsárum fullveldisins og áform þess um virkjun í Þjórsá, þar sem nú er Búrfellsvirkjun 2, og nýtingu orkunnar þaðan til stóriðju, líklega aðallega áburðarframleiðslu. Átökin um Þjórsá blossuðu upp að nýju eftir stofnun Landsvirkjunar af ríkissjóði, Reykjavíkurborg og Akureyrarbæ árið 1965 og þeirra áforma Viðreisnarstjórnarinnar að framselja þessu nýja fyrirtæki vatnsréttindin í Þjórsá (aðallega komin frá Títanfélaginu) með það fyrir augum að virkja þetta mikla vatnsfall, fyrst með þá langstærstu og hagkvæmustu virkjun landsins við Búrfell. Ákvörðunin um þetta og um ráðstöfun stórs hluta orkunnar til dótturfyrirtækis svissneska félagsins Alusuisse í Straumsvík var mjög umdeild í þjóðfélaginu, og það varð mjótt á mununum á Alþingi, þegar til atkvæðagreiðslunnar kom. Sú framfarahugmynd að byggja upp öflugt raforkukerfi á Íslandi með gjaldeyri frá stórsölu rafmagns til útflutningsiðnaðar í eigu Svisslendinga varð ofan á og hefur reynzt giftudrjúg. Úrtöluraddir heyrast enn í dag, en hvað bjóða þær upp á annað en atvinnuleysi og hor í nös ?
Nú er enn komið að því að virkja Þjórsá, í þetta sinn með virkjanastækkunum upp frá og síðan í Neðri-Þjórsá með s.k. Hvammsvirkjun, sem á að verða tæplega 100 MW. Raforkan frá henni færi til að knýja fyrsta hluta orkuskiptanna á næstu árum fram undir 2030, vetnisverksmiðjur og rafmagnsfartæki.
Í heiminum olli olían, sem nú þarf að leysa af hólmi á Íslandi og annars staðar, oft spennu í samskiptum þjóða, einnig í okkar heimshluta. Þrennt lá t.d. aðallega að baki
"Aðgerð Rauðskegg - Operation Barbarossa" 1941:
að berja bolsévismann niður, að tryggja fæðuöflun Þriðja ríkisins og að fá öruggt aðgengi að og umráð yfir olíulindum fyrir Stór-Þýzkaland. Þessi hernaðaráætlun mistókst hrapallega, eins og kunnugt er, af ástæðum, sem ekki verða tíundaðar hér.
Nú á dögum hefur vakið athygli, að þýzka ríkisstjórnin hefur gert samninga við eldsneytisgasfélög í Rússlandi, sem ráða miklum lindum í Síberíu og leggja og reka miklar gaslagnir. Þjóðverjar hafa gert þessa samninga við Rússa í trássi við bandamenn sína í Austur-Evrópu, t.d. Pólverja, og einnig gegn vilja Frakka og Bandaríkjamanna. Sýnir þetta, hvað þeir leggja mikla áherzlu á að fjölga orkuaðdráttum, jafnvel þótt Rússar, sem enn sæta viðskiptabanni af hálfu Vesturveldanna eftir hernám Krímskagans, nái þar með tangarhaldi á gasknúinni starfsemi þeirra, húsnæðisupphitun og eldamennsku.
Kína sækir nú í sig veðrið sem stórveldi og sækir ekki sízt fram á orkusviðinu. Hernaðarumsvif Kínverja hafa aukizt mjög á Suður-Kínahafinu, og það er aðallega vegna olíulindanna, sem þar liggja undir hafsbotni. Olían er grunnefni í öllu plasti og þar af leiðandi undirstaða mikils iðnaðar, en hún er líka undirstaða mikilla valda og auðs einstaklinga, félaga og þjóða. Sagt er, að völd Vladimirs Putin flæði úr rússneskum olíulindum. Hálfri annarri öld eftir, að John D. Rockefeller myndaði fyrstu olíuauðlegðina í heiminum, njóta afkomendur hans enn afrakstursins. Miðað við mikilvægi olíunnar fyrir nútíma siðmenningarþjóðfélög er ekki skrýtið, að erfitt reynist að vinda ofan af umsvifum umboðsmanna hennar og slæmum áhrifum á loftslagið.
Enn sem komið er, er enginn augljós arftaki olíunnar í sjónmáli, þótt ýmsir séu nefndir. Það er þó orðið ljóst, að þróunin er í átt til enn víðtækari rafvæðingar, t.d. í samgöngum, með betri rafgeymum en áður. Gríðarlegur auður mun myndast á næstu árum og áratugum við framleiðslu á ofurrafgeymum, rafmagnsfartækjum og við vinnslu málma og steinefna, sem til þeirrar framleiðslu þarf.
Stríð um rafmagnsfartæki og rafgeyma mun væntanlega ekki minna á viðskiptastríð 16.-19. aldar með herskipum og herjum, sem gengu hér og þar á land, en það verða líklega spennuþrungin tæknileg átök með stolnum teikningum, uppgötvunum og stjörnustarfsmönnum (verkfræðingum) samfara útsmognum aðferðum við að komast yfir sjaldgæfa málma s.s. kobalt og nikkel.
Bandaríkjamenn eru nú að búa sig undir að styrkja stöðu sína verulega á þessu sviði. Undirstaðan er öruggt aðgengi að miklu magni liþíummálmsins, sem er lykilefni fyrir nútíma rafgeyma í rafmagnsfartæki. Nýlega komust þeir að því, að með jarðvökvanum í borholum fyrir 11 jarðgufuvirkjanir, sem nýta 260°C heitan jarðvökva við suð-austur jaðar Salton Sea í Suðaustur-Kaliforníu, kemur upp liþíum. Rannsóknarskýrsla SRI International í marz 2020 gaf til kynna, að þar mætti vinna 600 kt/ár af Li, en það er tæplega áttföld notkun ársins 2019. Þarna eru þá einhverjar mestu birgðir af Li, sem þekktar eru í heiminum, en aðalnámurnar eru núna í Ástralíu, Kína og Suður-Ameríku.
Blómaskeið rafmagnsbílsins er framundan, og Kína leiðir inn á þetta blómaskeið. Á heimsvísu eru nú aðeins 3 % allra nýrra bíla rafknúnir, en hlutfallið er mun hærra á Íslandi, en alrafbílar eru um 3 % af heildarfjölda bíla á Íslandi (um 6200 talsins). Árið 2021 er búizt við, að hlutfall rafknúinna nýbíla í heiminum verði 5 % og 10 % árið 2025. Þjóðverjar taka fullan þátt í þessu kapphlaupi, og hlutdeild alrafbíla í fólksbílaframleiðslu stærstu þýzku bílaframleiðendanna árið 2025 á að verða um fjórðungur.
Þróunin í þessa átt er hröð, og studdir af ríkissjóði leiða kínverskir bílkaupendur þessa þróun í heiminum, en þeir kaupa um helming allra nýrra rafmagnsbíla í heiminum um þessar mundir, og iðnjöfrar landsins hafa byggt upp mestu framleiðslu bílarafgeyma í heiminum. Rafgeymagerðirnar ganga undir skammstöfununum NMC og LFP. Þær voru þróaðar í Bandaríkjunum, en Kínverjar hafa skotið Bandaríkjamönnum og öllum öðrum aftur fyrir sig í framleiðslumagni fyrir rafbíla. Ýmislegt bendir til, að Bandaríkjamenn vilji verða með í þessari keppni.
Bandaríski rafbílaframleiðandinn Tesla, aðalrafbílaframleiðandinn núna, er að koma sér fyrir í Kína. Gigafactory 3 í eigu Tesla, þar sem settir eru saman rafbílar fyrirtækisins og rafgeymar, er staðsett í Shanghai. Model 3 frá Tesla er mest seldi rafbíllinn í Kína, og nýlega ákváðu yfirvöld í Beijing að niðurgreiða Model Y jeppann frá Tesla. Tesla gæti selt 40 % af framleiðslu sinni í Kína.
Tesla reisir nú nýja rafbílaverksmiðju og rafgeymaverksmiðju í Þýzkalandi sunnan Berlínar. Þar með er lagður grunnur að baráttu um evrópska og einkum þýzka rafbílamarkaðinn. Þar liggur VW-samsteypan á fleti fyrir með mjög mikil áform á þessu sviði undir merkjum VW, Audi og Porsche. "Festung Europa" verður ekki auðsótt frekar en fyrri daginn. Þannig verður harðvítug samkeppni á rafbílamörkuðum heimsins á milli Kínverja, Bandaríkjamanna og Þjóðverja.
Á Íslandi munu neytendur, eins og annars staðar, njóta góðs af þessari samkeppni. Hérlendis er umhverfislega og þjóðhagslega meiri ávinningur af rafmagnsbílum en víðast hvar annars staðar vegna raforku alfarið úr "hreinum" og innlendum orkulindum. Samkeppni er líka um raforkusöluna. Þann 15. desember 2020 birtist baksviðsfrétt um það í Morgunblaðinu, að Orka náttúrunnar, ON, dótturfyrirtæki veitufyrirtækisins Orkuveitu Reykjavíkur (OR), hygðist starfrækja 44 hraðhleðslustöðvar fyrir árslok 2020 og 57 fyrir árslok 2021.
ON sætir kæru til Samkeppniseftirlitsins vegna þess, sem kalla má misnotkun fyrirtækisins á markaðsstöðu sinni. Í Morgunblaðinu, 17. desember 2020, var frétt undir fyrirsögninni:
"Óvíst hvenær rannsókninni á samkeppnismáli ON lýkur".
Þar stóð þetta m.a.:
"Haft var eftir framkvæmdastjórum N1 og Ísorku [í Morgunblaðinu 16.12.2020-innsk. BJo], að ON hefði með niðurgreiðslum hamlað uppbyggingu einkaaðila á hraðhleðslustöðvum."
ON er nú umsvifamest á markaði fyrir hleðslu rafmagnsbíla hérlendis. Það sætir undrun, að fyrirtækið skuli leggja svo mikla áherzlu á þennan markað, því að augljóslega vofir inngrip Samkeppniseftirlitsins inn í þessa markaðssókn yfir. Ef litið er til Evrópusambandsins (ESB), sést á Orkupakka 4, að orkufyrirtækjum og veitufyrirtækjum ESB er bannað að keppa á þessum markaði, því að þau njóta yfirburða og geta hæglega misnotað aðstöðu sína á markaði, eins og ON er uppvís að núna með því að veita viðskiptavinum sínum á almennum raforkumarkaði afslátt af verði hleðslurafmagns.
Landsvirkjun undirbýr sig fyrir álagsaukningu vegna orkuskiptanna. Fyrirtækið ætlar að auka aflgetu sína og geta þannig sinnt álagstoppum, sem fyrirsjáanlega munu myndast vegna hleðslu rafmagnsfartækja á kvöldin. Landsvirkjun býst jafnframt við að geta sparað vatn í miðlunarlónum sínum, m.a. Þórisvatni, þegar vindorkuver koma til skjalanna, en undirstaðan að hagkvæmni þeirra er rekstur á hámarksafköstum, sem vindur leyfir hverju sinni, og þá verður dregið úr afköstum vatnshverflanna á móti.
Í Morgunblaðinu 4. marz 2020 birtist frétt Helga Bjarnasonar um þetta:
"Þarf að auka sveigjanleika orkukerfisins".
Hún hófst þannig:
"Áform Landsvirkjunar um að stækka 3 aflstöðvar sínar á Þjórsár/Tungnaár svæðinu snúast um að auka uppsett afl og þar með sveigjanleika í orkuöflun til þess að geta mætt orkuskiptum í samgöngum, breytingum vegna væntanlegrar uppbyggingar vindorkuvera og aukins rennslis til virkjana vegna hlýnunar andrúmsloftsins.
Landsvirkjun hefur tilkynnt áform um stækkun Hrauneyjafossstöðvar, Sigöldustöðvar og Vatnsfellsstöðvar til yfirvalda vegna vinnu verkefnisstjórnar 4. áfanga rammaáætlunar við mat á orkukostum. Snúast verkefnin um að auka uppsett afl stöðvanna, en orkuvinnsla eykst tiltölulega lítið."
Þessar aðgerðir eru af sama toga og Búrfellsvirkjun 2, þar sem aflgetan var aukin um 100 MW fyrir fáeinum árum. Ofangreint eykur aflgetu Landsvirkjunar e.t.v. um 200 MW og mun vinna gegn orkusóun á formi framhjárennslis, því að með öflugra flutningskerfi má draga niður í öðrum virkjunum og keyra hinar á fullu afli, á meðan miðlunarlón þeirra eru full. Þetta er hagstætt, því að vatn framhjá virkjun er verðlaust.
Kvöldtoppurinn stækkar með fleiri rafmagnsbílum, og þá þarf að reiða sig á aukna aflgetu. 300 MW duga lengi í þeim efnum, en auðvitað þarf orku líka. Hún kemur fyrst um sinn frá smávirkjunum vatnsafls og frá vindrafstöðvum, en almennileg viðbótar orkugeta þarf að koma inn á kerfið til að anna orkuskiptum og nýjum iðnaði um miðjan komandi áratug, ef orkuskortur á ekki að hamla þeim hagvexti, sem nauðsynlegur verður til að reisa hagkerfið við og snúa af braut skuldasöfnunar til uppgreiðslu á lánum.
"Tilgangur framkvæmdanna er að auka sveigjanleika í orkuöflun virkjana Landsvirkjunar til þess að mæta orkuskiptum í samgöngum, væntanlegri uppbyggingu vindorkuvera og auknu rennsli að virkjunum vegna hlýnunar loftslags. Til útskýringar bendir Ólafur Grétar [Blöndal Sveinsson, framkvæmdastjóri Þróunarsviðs Landsvirkjunar] á það, að þegar stór hluti ökutækja verði rafknúinn, muni þau gjarna vera í hleðslu á sama tíma, þ.e.a.s. á kvöldin og nóttunni. Þá sé framleiðsla vindorkuvera mjög sveiflukennd, eins og eðlilegt er. Þetta hafi þær breytingar í för með sér, að framleiðsla virkjana Landsvirkjunar verði ekki eins jöfn [og áður]. Það kalli á aukið afl með fjölgun véla í virkjunum.
Ekkert vatn rennur framhjá virkjunum Landsvirkjunar á Þjórsár-Tungnaár svæðinu nú. Því verður sama vatnsmagnið notað við framleiðsluna og til taks er nú. Hins vegar eykst framleiðslan nokkuð vegna betri nýtni nýju vélanna en þeirra eldri."
Það eru tíðindi, ef engin umframorka rennur óbeizluð til sjávar framhjá virkjunum í Þjórsá-Tungnaá, því að það var ein helzta röksemd Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, fyrir aflsæstreng til Bretlands, að koma þyrfti umframorku Landsvirkjunar í lóg. Höfundur þessa pistils benti reyndar á, að hún væri svo lítil og óstöðug, að hún gæti ekki réttlætt þessa viðskiptahugmynd, en þrákelknin sat við sinn keip, og vitleysan var margendurtekin. Það er samt ótrúlegt, að Búrfell 2 hafi dugað til að nýta vaxandi afrennsli síðsumars.
Í lokin stóð í þessari frétt:
"Spurður, hvort stækkun aflstöðvanna dragi úr þörf fyrir áformaður virkjanir í Neðri-Þjórsá, segir Óli Grétar svo ekki vera. Ef þörf verði á aukinni orku inn á raforkukerfið, gætu virkjanir í Neðri-Þjórsá komið til greina. Þær henti hins vegar ekki til að auka afl til að auka sveigjanleika, eins og þörf verði á næstu árin."
Þetta er rétt, svo langt sem það nær. Aflgetu virkjana í Neðri-Þjórsá þarf hins vegar að miða við mesta rennsli, sem verður, þegar allar vélar virkjananna í Efri-Þjórsá og Tugnaá eru keyrðar á fullu, því að annars þarf að veita vatni framhjá virkjunum í Neðri-Þjórsá. Þess vegna er líklegt, að aflgeta Hvammsvirkjunar muni verða valin yfir 100 MW. Til að nýta umframorku í kerfinu, sem þannig verður til, kemur vetnisverksmiðja vel til greina, sem hönnuð væri fyrir ákveðið grunnálag, en væri í stakk búin til að taka við ódýrri umframorku.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.12.2020 | 18:16
Metnaðurinn einn og sér hrekkur skammt
Forsætisráðherra hefur tilkynnt þjóð sinni og þjóðum heims um enn torsóttari markmið en áður varðandi samdrátt í losun Íslendinga á gróðurhúsalofttegundum. Hérlendir stjórnmálamenn ættu þó að vera brenndir af því að spenna bogann allt of hátt án þess að hafa nokkra getu til að stjórna aðgerðum til að uppfylla loforðin. Afleiðingu þess barnalega hégómaskapar að vera hinn góði riddari loftslags jarðar, sem drepur drekann ógurlega, sem ógnar lífi á jörðunni, eins og við þekkjum það, sjáum við í hörmunginni, sem kallast "annað skuldbindingartímabil Kýótó-bókunarinnar". Skortur á efndum þar mun kosta íslenzka skattborgara stórfé. Hvað mun þetta síðasta gönuhlaup Katrínar Jakobsdóttur kosta mig og þig ?
Nú verður vitnað í nýjustu "Landsskýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda (e. "National Inventory Report-NIR") til Evrópusambandsins (ESB) og loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (e. United Nations Framework Convention on Climate Change - UNFCCC") frá Umhverfisstofnun sumarið 2020:
"Ísland og ESB hafa gert með sér tvíhliða samning um sameiginlegar efndir á skuldbindingum Íslands og ESB við UNFCCC á öðru skuldbindingartímabili Kýótóbókunarinnar (undirritað af ESB og Íslandi 1. apríl 2015), þar sem Ísland fékk úthlutaðar 15.327.217 losunarheimildir [t], sem samsvara losun af 15,33 Mt CO2-íg. af gróðurhúsalofttegundum á tímabilinu 2013-2020 [8 ár-innsk. BJo]. Árið 2023 mun Ísland gera upp annað tímabil Kýótóbókunarinnar við ESB, og ef Ísland hefur losað meira en það fékk úthlutað, mun landið þurfa að kaupa losunarheimildir fyrir mismuninum."
Ísland fór mjög mikið fram úr þessum losunarheimildum sínum á Öðru Kýótó-skuldbindingartímabilinu eða um 8,35 Mt CO2-íg., sem er um 55 % af úthlutuðum heimildum, og var enn að auka losun sína á árinu 2018, sem er lokaár skýrslunnar með þekktum gildum. Hvaðan í ósköpunum kemur forsætisráðherranum þá sú vitrun (líklega í draumi), að raunhæft sé að ætla Íslendingum að auka enn snúninginn ? Engar aðgerðaáætlanir til 2030 hafa verið birtar, hvað þá, að þær séu fjármagnaðar. Allt er í lausu lofti hjá forsætisráðherra, en hégómagirninni er fullnægt. Það væri svo sem ekki orð á því gerandi, ef það gæti ekki kostað skattborgarana stórfé, og auðvitað er það þarflaust með öllu að binda skattgreiðendum þessar byrðar. Þurfum við ekki á öðru að halda núna en leikaraskap af þessu tagi ?
Hvað mun framúrkeyrslan á Öðru skuldbindingartímabili Kýótó-bókunarinnar kosta ? Ef reiknað er með lágmarksverði koltvíildiskvótans, sem gilti á þessu tímabili, 5 EUR/t CO2, mun kostnaðurinn nema:
- K2K=8,35 Mt * 5 EUR/t = MEUR 42 = mrdISK 6,5
Meginástæða þess, að það reynist Íslendingum svo torsótt sem raun ber vitni um að standa við Kýótóbókunina og Parísarsáttmálann er sú, að viðmiðunar árið, 1990, er okkur óhagfellt og óhagfelldara en mörgum öðrum. Þá var mesta átak í hitaveituvæðingu landsins nýlega um garð gengið í kjölfar olíukreppa og margföldunar olíuverðs frá 1970. Til að sýna umfang skuldbindinganna í tonnum (enginn veit, hverjar þær verða í evrum) er rétt að vitna aftur í Landsskýrslu UST 2020:
"Árið 2018 var heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi (án losunar frá alþjóðaflugi, alþjóðasiglingum, landnotkun, breyttri landnotkun og skógrækt) 4.857 kt af CO2-ígildum, sem er aukning um rúmlega 30 % frá árinu 1990 (3.733 kt CO2-íg.) og aukning um 0,4 % frá árinu 2017 (4.836 kt CO2-íg.)."
Okkur miðar þannig ekki nokkurn skapaðan hlut í heild í átt að markmiðum ársins 2030, hvort heldur átt er við 40 % samdrátt eða 55 %. Einn er sá samanburður, sem forsætisráðherra gæti skákað í skjólinu af, en það er "losun, sem fellur undir beina ábyrgð íslenzkra stjórnvalda" með viðmiðunarárinu 2005, en það er einmitt upphafsár kvótaúthlutunar Evrópusambandsins á losunarheimildum koltvíildis. Það, sem forsætisráðherra er mjög líklega að gera, er að skuldbinda Íslendinga til að greiða fyrir það, sem þeir munu ekki standa við tímabilið 2021-2030 samkvæmt þessari skuldbindingu forsætisráðherra og væntanlega ríkisstjórnarinnar.
Þetta er þó hvorki meira né minna en Stjórnarskrárbrot. Stjórnarskráin bannar fjárhagslegar skuldbindingar ríkisins, nema með lögum, og það er mjög hæpið, að stjórnvöldum sé yfirleitt heimilt að skuldbinda skattborgara til greiðslu á óvissum erlendum skuldum. Forsætisráðherra og ríkisstjórn hennar eru hér stjórnlagalega á hálum ísi.
Í tilvitnaðri Landsskýrslu UST stendur þetta um losun á beinni ábyrgð íslenzkra stjórnvalda:
"Losun, sem fellur undir beina ábyrgð stjórnvalda hérlendis, samkvæmt tvíhliða samninginum við ESB, er öll losun Íslands að undanskilinni losun, sem fellur undir viðskiptakerfi ESB (ETS), LULUCF, flug (alþjóðaflug og innanlandsflug) og millilandasiglingar, og er þar viðmiðunarárið 2005. Losun, sem fellur undir beina ábyrgð stjórnvalda, nam 2978 kt CO2-íg. árið 2018."
Viðmiðunargildið er 3178 kt CO2 árið 2005, sem þýðir, að markgildið er 1787 kt CO2 með 40 % markmiðinu, en 1430 kt CO2 með 55 % markmiðinu. Mismunurinn er 347 kt CO2, sem er 11,7 % af losunargildinu 2018 (nýjasta þekkta gildi). Það þarf með nýja markmiðinu að draga úr losun orkuferla, iðnaðarferla, landbúnaðar og úrgangsferla um 1548 kt á tímabilinu 2021-2030.
Ef við hugsum okkur, að hver liður þurfi að draga hlutfallslega jafnmikið úr losun, falla 975 kt á orkuferlana, aðallega vegaumferð og fiskiskip, 93 kt á iðnaðarferla, 325 kt á landbúnaðinn og 155 kt á úrgangsferlana. Undir "vegasamgöngur" falla 51 % af losun orkuferlanna, sem jafngilda tæplega 500 kt/ár CO2 minni losun árið 2030 en nú. Hvað jafngildir það mörgum farartækjum ?
Á vegsamgöngur er nú skrifuð um 960 kt/ár CO2 losun, svo að krafa um minnkun nemur um 52 % af öllum flotanum, stórum og smáum tækjum, eða um 150 k. Það er ólíklegt, að þetta náist, enda tæknin hreinlega ekki tilbúin fyrir vinnuvélarnar, en það er þó ekki útilokað. Stjórnvöld mega halda betur á spilum orkuskiptanna á komandi áratug en þau hafa gert til þessa, svo að þetta takist.
Hvað gæti gönuskeið forsætisráðherra kostað íslenzka skattborgara, þegar kostnaðaruppgjörið fer fram fyrir komandi áratug ? Gönuskeið er það að hlaupa út í óvissuna algerlega að þarflausu, en auðvitað fyrir ímyndaða stundarhagsmuni hégómagirninnar. Viðbótarskuldbindingin vegna gönuskeiðsins nemur 347 kt/ár CO2. Koltvíildiskvótaverðið innan ETS-viðskiptakerfisins mun verða miklu hærra á tímabilinu 2021-2030 en 2011-2020. Það gæti að meðaltali tífaldazt. Gerum ráð fyrir, að það verði að jafnaði 40 EUR/t CO2. Þá mun verðmiði "gönuskeiðsins" verða: VGSK=347 kt/ár * 0,5 * 10 * 40 EUR/t = MEUR 69,4 eða á núverandi gengi: VGSK=mrdISK 11.
Reikningur vegna gönuskeiðs forsætisráðherra Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs gæti þannig orðið 70 % hærri en reikningur vegna óleyfilegra búrókratískra afglapa annars uppgjörstímabils Kýótó-samkomulagsins. Er ekki mál að linni, eða hvað verður um allt þetta fé ?
Téður forsætisráðherra birti þjóðinni predikun um áform sín í Morgunblaðinu 10. desember 2020 undir fyrirsögninni:
"Metnaður fyrir framtíðina".
Að leita þar að leiðsögn um, hvers vegna í ósköpunum hún ákvað að herða skuldbindingarólina um háls þjóðarinnar, eða hvernig á að framkvæma hin "göfugu" áform, er jafngilt því að fara í geitarhús að leita ullar. Þetta er fullkomið ábyrgðarleysi. Þessi forsætisráðherra er allt of dýr á fóðrum. Hún bakar framtíðinni bara vandræði. Lítum á skrifin:
"a) Aukinn samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda. Úr núverandi markmiði um 40 % samdrátt m.v. árið 1990 í 55 % eða meira til ársins 2030, en það markmið tengist samfloti Íslands með ESB og Noregi."
Það er óskiljanlegt að stíga þetta skref, og til að það takist, þarf kraftaverk. Slíkt kraftaverk gæti t.d. verið, að a.m.k. tveimur af orkukræfu iðjuverunum yrði umbylt yfir í kolefnisfría framleiðslu með s.k. eðalskautum, þannig að í stað CO2-losunar komi O2 losun út í andrúmsloftið, og að engin nettólosun verði vegna bruna á jarðefnaeldsneyti í vélum. Markmið Katrínar jafngildir, að heildarlosun Íslands verði undir 1680 kt árið 2030, sem þýðir minnkun losunar um a.m.k. 3177 kt/ár. Þetta er ótrúlega fífldjarft uppátæki, og það eru innan við 5 % líkur á, að það takist að mati pistilhöfundar (ágizkun).
"b) Efldar aðgerðir, einkum í landnotkun, sem munu auðvelda Íslandi að ná settu markmiði um kolefnishlutleysi fyrir 2040 og að auki áfangamarkmiði um kolefnishlutleysi losunar á beinni ábyrgð íslenzkra stjórnvalda í kringum árið 2030."
Svo virðist hér sem forsætisráðherra ætli að bjarga sér fyrir horn með landnotkun, binda koltvíildi og draga úr losun lands á jafnvel sterkum gróðurhúsagösum, en hvað segir Landsskýrsla UST 2020 um þetta ?:
"Losun, sem kemur frá flokkinum landnotkun, breytt landnotkun og skógrækt (LULUCF) fellur ekki undir skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum og er þess vegna ekki talin með í umfjölluninni um heildarlosun fyrir ofan. Það er ennþá takmörkuð þekking á þessum losunarflokki og vantar meiri rannsóknir á alþjóðavísu. Þar af leiðandi er mjög mikil óvissa í losunartölunum, sem verið er að gera úrbætur á. Ísland getur talið fram ákveðna bindingu frá LULUCF að einhverju leyti á móti losun frá öðrum geirum, en það er að mjög takmörkuðu leyti."
Á grundvelli þessa texta er mjög óvarlegt að búast við, að ræktun og mokstur ofan í skurði geti skilað nokkru, sem heitið geti, á tímabilinu 2021-2030, enda er t.d. endurheimt votlendis mjög vandmeðfarin og getur snúizt í höndunum á mönnum þannig, að losun aukist. Það borgar sig alls ekki að setja fé í þann vonarpening á komandi reikningstímabili, en landgræðsla og skógrækt munu vonandi skila sínu síðar meir inn í þetta bókhald.
"c) Aukin áherzla á loftslagstengd þróunarsamvinnuverkefni, einkum á sviði sjálfbærrar orku."
Það er mjög í þoku, hvernig forsætisráðherra hugsar sér aðkomu ríkisins að þessu, enda hefur einkageirinn aðallega séð um þennan þátt, og þessi starfsemi er bezt komin hjá honum.
"Í upphafi þessa kjörtímabils ákvað ríkisstjórnin að forgangsraða loftslagsmálunum og kynnti fyrstu aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum strax haustið 2018. Flaggskip aðgerðaáætlunar eru samdráttur í losun frá samgöngum með orkuskiptum og landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis. Þar settum við okkur það markmið að verða kolefnishlutlaus ekki seinna en árið 2040."
Þarna vantar alveg hjá forsætisráðherra, hvernig á að láta orkuskiptin fara fram með svo hröðum hætti sem markmið hennar útheimtir. Með núverandi hraða orkuskiptanna nást markmið hennar alls ekki, og hún er jafnvel á undan tækniþróuninni með sín markmið, sem gerir þau ekki aðeins ótrúverðug, heldur óraunhæf. Þá blandar hún þarna landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis inn, sem er að mestu ótímabært samkvæmt Landsskýrslu UST 2020.
"Til að ná markmiði um kolefnishlutlaust Ísland fyrir árið 2040 er kolefnisbinding með skógrækt og landgræðsla lykilatriði til að ná árangri auk annarra aðgerða í landnotkun, s.s. endurheimt votlendis. Efla þarf slíkar aðgerðir, sem geta samhliða frumkvöðlastarfi við bindingu kolefnis í berglögum markað Íslandi sérstöðu meðal fremstu ríkja varðandi upptöku kolefnis úr andrúmslofti, sem er ein megináherzla í Parísarsamningnum. Þær eru einnig til þess fallnar að auka samkeppnishæfni Íslands, skapa störf og styrkja byggðir auk þess að vera "náttúrulegar loftslagslausnir", sem stuðla að vernd og endurheimt vistkerfa og landgæða. Með auknum aðgerðum á þessu sviði getur Ísland náð þeim áfanga að verða kolefnishlutlaust varðandi losun á beinni ábyrgð Íslands í kringum árið 2030."
Hér hefur óskhyggjan náð tökum á forsætisráðherra og leitt hana í gönur. Endurheimt votlendis er tóm vitleysa. Hún breytir nytjalandi, sem komið er í CO2-jafnvægi eða nálgast það, í fúamýrar með CH4-losun, sem er sterk gróðurhúsalofttegund.
Víða í heiminum eru gerðar tilraunir með niðurdælingu koltvíildis, en ferlið er dýrt og verður sennilega ekki arðsamt fyrr en við kvótaverð á CO2 um 100 USD/t. Þá er miklu hagkvæmara að binda CO2 með skógrækt, en ríkið hefur dregið lappirnar í stuðningi sínum við skógrækt alveg frá hruni bankakerfisins. Styðja þarf við skógarbændur. Sú grein verður fljótt lífvænleg. Í stað þess að greiða nokkra milljarða ISK til Evrópusambandsins vegna óraunhæfra skuldbindinga væri nær að láta féð renna til skógræktar á Íslandi í samkomulagi við ESB.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.12.2020 | 14:22
Þjóðgarðsstofnun til óþurftar
Fram er komið frumvarp til laga um nýtt ríkisbákn, sem fara á með forræði þriðjungs landsins. Það hafa engin sannfærandi rök enn verið færð fram fyrir gagnsemi væntanlegrar ríkisstofnunar, Þjóðgarðsstofnunar, né að meðalhófs á grundvelli faglegrar þekkingar við stjórnun umgengni við og afnota af þessu stóra landsvæði verði gætt í meira mæli en nú, þegar aðliggjandi sveitarfélög bera ábyrgðina og bændur hafa haft svæðið undir handarjaðri sínum, s.s. landgræðsla ber vott um. Reynslan af Vatnajökulsþjóðgarði er óbeysin í þessu samhengi. Það er líklega affarasælla að leggja þessa vanreifuðu og stórkarlalegu miðstýringarhugmynd á ís, enda mætir hún miklum mótbyr í þjóðfélaginu, en endurskoða fremur löggjöfina um Umhverfisstofnun, Skipulagsstofnun og sveitarfélögin m.t.t. verndunar og nýtingar þessa landsvæðis.
Halldór Kvaran, "áhugamaður um náttúruvernd", brá ljósi á þetta stofnunarmál í Morgunblaðinu 26. nóvember 2020. Af þeirri grein að dæma verður um hreina stjórnsýslulega afturför og jafnvel hnignun umrædds landsvæðis að ræða, ef hugmyndir miðstýringarsinna forsjárhyggjunnar verða ofan á. Greinin hét:
"Um óþurftarbáknið Þjóðgarðsstofnun".
Hún hófst þannig:
"Eigendur og starfsfólk ferðaþjónustunnar í Kerlingarfjöllum hafa í 20 ár varið þúsundum vinnustunda við umhverfis- og náttúruvernd á svæðinu. Við höfum tínt rusl, lagt og merkt göngustíga og göngubrýr, lagfært sár eftir utanvegaakstur og sinnt fleiri verkefnum í sama dúr. Þetta gerðum við að eigin frumkvæði og þóttumst geta verið bærilega stolt af verkum okkar.
Nú stendur til að stofnanavæða slík verkefni með því að lögfesta Þjóðgarðsstofnun, ríkisbákn, sem á að fara með forræði alls miðhálendisins. Frumkvæði og forræði þess, sem við höfum brunnið fyrir, skal flytjast suður. Áður var hrópað "báknið burt" á torgum, en [nú] stefnir í, að hrópað verði "byggjum fleiri og stærri bákn !" fyrir komandi alþingiskosningar. Eða hvað ? Hve langt og lengi ætla sjálfstæðismenn í ríkisstjórnarmeirihlutanum að láta umhverfisráðherra og lið hans teyma sig í vitleysunni ?"
Þegar ríkissjóður er rekinn með dúndrandi halla, eins og núna, þarf hann sízt á að halda fleiri hvolpum á spenann, og sízt af öllu ætti nú að slá á frumkvæði sjálfboðaliða við landvörzlu og landvernd. Þess vegna á að leggja þessa "þjóðnýtingu" hálendisins á ís.
"Hugmyndafræði yfirvofandi lagasetningar um Þjóðgarðsstofnun er að færa sjálfan almannaréttinn á stórum hluta Íslands á ríkisklafa, og fyrirmyndin er vandræðafyrirbærið Vatnajökulsþjóðgarður. Mörgum brá eðlilega í brún, þegar aðgengi að Vonarskarði var skert verulega; leið, sem merkt hefur verið á kortum áratugum saman. Sú ráðstöfun er fráleit, og við lestur nýlega birtra blaðagreina má helzt skilja, að vitleysuna í Vonarskarði megi skrifa á forsjárhyggjufyrirmæli og tiktúrur sérlundaðra landvarða Vatnajökulsþjóðgarðs. Hvað kemur næst frá þessu fólki ? Bann við vetrarferðum á snjó og frosinni jörð ?
Rekstur Vatnajökulsþjóðgarðs er kapítuli út af fyrir sig. Þar hefur ítrekað verið farið fram úr fjárheimildum og Ríkisendurskoðun kölluð til, svo [ að] koma megi skikki á reksturinn."
Það hefur verið deilt mikið á stjórnun þeirra svæða í óbyggðunum, sem ríkið fer með forræði á. Ágreiningur og deiluefni eru þess efnis, að engu er líkara en þetta stjórnunarform, ríkisreknir þjóðgarðar o.s.frv., henti ekki viðfangsefnunum, sem þar eru til úrlausnar, þ.e.a.s reynslan hingað til mælir ekki með því að halda lengra inn á þessa braut, hvað þá að taka risaskref þangað.
Þann 14. ágúst 2020 skrifaði Sighvatur Bjarnason frétt í Morgunblaðið, sem sýnir fram á þetta. Þar kom m.a. þetta fram:
"Matthías Sveinbjörnsson, forseti Flugmálafélags Íslands, segir, að oft brenni við, að þekkingu skorti hjá stofnunum, sem setja reglur um loftför á vernduðum svæðum. Hann bendir á, að í gildi séu lög um loftferðir, sem heyri undir málaflokk Samgöngustofu. Tilraunir annarra til að setja reglur um loftrými hafi verið handahófskenndar, skort innsýn og tilgang og sé einfaldlega ekki á þeirra forræði. Brýnt sé, að einn aðili, þ.e. Samgöngustofa, haldi um stjórnina, annars blasi við mótsagnakennd flækja. Hann gagnrýnir einnig, að sömu reglur séu látnar gilda um allar tegundir flygilda. Samkvæmt skilgreiningu geti það spannað á milli breiðþotu og dróna, sem passar í buxnavasa. Ekki sé raunhæft að ætla allri þessari breidd loftfara hið sama. Hann segir það augljósa kröfu, að lenda megi á auglýstum flugbrautum innan þjóðgarðsins."
Það áttar sig hvert barn strax á því, að það býður hættunni heim og er í alla staði óeðlilegt, að Umhverfisstofnun og/eða undirstofnanir hennar séu að bauka við að setja reglur um loftför á yfirráðasvæði sínu. Það er dómgreindarleysi af viðkomandi starfsmönnum að reyna sig við slíkt. Ekki tekur betra við um landför:
"Frá stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs gafa deilur staðið um akstur gegnum Vonarskarð. Sveinbjörn Halldórsson, formaður Ferðaklúbbsins 4x4 segir, að þessi gamla akstursleið liggi yfir svartan sand, sem ekki spillist við akstur. Lokunin hafi komið til vegna verndunar hverasvæða í Snapadal, en hann sé langt utan leiðar og stafi engin hætta af akandi umferð. Hann bendir á, að svæðið sé afar óaðgengilegt, nema á sérútbúnum bílum, og þangað leggi enginn leið sína, nema fámennir harðkjarna hópar göngumanna. Hann spyr, hvers vegna einn fámennur hópur sé útilokaður fyrir annan ?
Utanvega akstur hefur komið óorði á jeppamenn, sem Sveinbjörn segir ósanngjarnt, þar sem allir líða fyrir fáeina skussa. Hann segir, að í samtökunum fari fram mikill áróður fyrir umhverfisvernd og þar á bæ hafi menn strax lýst því yfir, að reglum um Vonarskarð yrði fylgt, þó að baráttan haldi áfram."
Þetta er einmitt hættan við ríkisrekinn þjóðgarð, að þar verði tekin upp einhvers konar ofverndunarstefna og sumir gestir meðhöndlaðir sem hættulegir náttúrunni, en aðrir njóti náðar smákónga, sem á staðnum ríkja. Það er verið að búa til kerfi, sem gerir landsmönnum erfiðara um vik við að njóta landsins, hver með sínum hætti. Þröskuldarnir einkennast meir af dyntum en umhverfisvernd.
Yfir hálendið þarf að leggja klædda, upphækkaða vegi, með einni akrein í hvora átt, útskotum og bílastæðum. Slíkt mun draga úr skaðlegum utanvega akstri. Í niðurlagi fréttarinnar dró Sighvatur vel saman, það sem fram hafði komið:
"Allir viðmælendur eru á því máli, að svigrúm sé fyrir allar tegundir útivistar á hinum miklu víðernum landsins. Til að allir geti vel við unað, verði þó að koma til aukið samráð og samtöl fyrr í ferlunum, þ.e. áður en ákvarðanir eru teknar. Þeir segjast hafna því viðhorfi, að umferð vélknúinna tækja teljist sjálfkrafa ógn við umhverfið og telja það byggt á miklum misskilningi. Í samtökum þeirra er að finna fjölda harðra umhverfissinna, sem smitist og speglist það í áherzlum hjá þeim félögum, sem þeir fara fyrir."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.12.2020 | 13:39
Fullveldi í sviðsljósi
Merkileg bók, Uppreisn Jóns Arasonar, eftir Ásgeir Jónsson, Seðlabankastjóra, er nýkomin út. Höfundur þessa pistils er með hana á náttborðinu og hefur enn ekki lokið við hana. Það er þó ljóst af upphafinu, að Jón Arason, Hólabiskup, hefur verið einstakur maður, og saga hans á sér enga hliðstæðu hérlendis.
Jón Arason fór fyrir vopnaðri uppreisn gegn yfirráðum Danakonungs hérlendis. Hann var í bandalagi við Hansakaupmenn frá Hamborg, sem höfðu stundað frjáls viðskipti við landsmenn í heila öld, öllum til hagsbóta, er Jón lét til sín taka. Danska konungsvaldið var tiltölulega veikt á þessum tíma, og það var alveg raunhæf fyrirætlun Hólafeðga að viðhalda hér katólskri trú, a.m.k. um sinn, og Hólaherinn var í raun svo öflugur, að hann gat náð yfirhöndinni í viðureigninni við konungsmenn, enda höfðu Hamborgarar séð honum fyrir vopnum.
Því miður mættu Hólafeðgar ekki til bardaga, heldur til samningaviðræðna við Daða í Snóksdal um jörðina Sauðafell haustið 1550. Daði, hins vegar, bjóst til bardaga og náði að safna meira liði á Vesturlandi og yfirbugaði þá feðga á Sauðafelli í Dölum, og þar með var úti um stórpólitísk áform Hólafeðga.
Það er að vísu spurning, hvað gerzt hefði á Íslandi árið eftir, ef Hólaherinn hefði haft betur á Sauðafelli haustið 1550, því að Danakonungur, lúterstrúarmaðurinn Kristján III., samdi við Hansakaupmenn um að láta af stuðningi sínum við Jón, biskup, og sendi þýzka "sveitastráka - Landknechten", harðdræga og vel vopnum búna málaliða til Íslands, væntanlega með fyrirmæli um að ganga á milli bols og höfuðs á biskupinum og herforingjum hans.
Jón Arason var æðsti fulltrúi páfa á Íslandi, eftir að lúterskur biskup var settur yfir Skálholtsbiskupsdæmi að Ögmundi Pálssyni gengnum. Jón barðist þess vegna ekki fyrir sjálfstæði landsins, en hann mun hafa talið miklu vænlegra, að það nyti verndar Þýzkalandskeisara, sem þá var hinn kaþólski Karl V., en Danakonungs. Í ljósi þróunarinnar hér í síðaskiptunum og áratugina á eftir, klausturrána og flutnings gríðarlegra verðmæta úr landi, viðskiptahamla, einveldis og einokunarverzlunar, þar sem kóngsi ákvað verzlunarstaði og verð, er líklegt, að landinu mundi hafa vegnað betur undir vernd Þjóðverja og með frjáls viðskipti við umheiminn, aðallega við Hansakaupmenn. Hversu lengi sú skipan mála hefði haldizt, eða hvað hefði tekið við, er óvíst, en staða Jóns Arasonar í sögunni á sér enga hliðstæðu hérlendis. Hann var einstakur og vinsæll af alþýðu manna, enda af alþýðufólki kominn, og almannatengsl hans voru mjög virk með kveðskap hans, sem barst frá manni til manns um landið allt. Enginn maður hérlendur hefur fengið veglegri líkfylgd en hann. Norðlendingar sóttu líkamsleifar þeirra feðga um veturinn fljótlega eftir aftökurnar og fluttu heim til Hóla. Þeir hefndu morðanna grimmilega að áeggjan Þórunnar, dóttur biskups.
Í hausthefti Þjóðmála er ítarleg og ritrýnd grein eftir Arnar Þór Jónsson, dómara, sem hann nefnir:
"Sjálfstæðisbaráttan nýja".
Þar leggur hann út af þróun EES-samstarfsins, sem hann hefur áhyggjur af, að sé á þeirri ólýðræðislegu braut, að íslenzk yfirvöld telji sig skuldbundin til að taka við þeirri ESB-löggjöf, sem Framkvæmdastjórnin telur rétt, að fái lagagildi í EFTA-löndum EES, þótt allt annað sé uppi á teninginum í EES-samninginum sjálfum samkvæmt orðanna hljóðan og Norðmenn líti öðruvísi á málið, þegar þeim býður svo við að horfa.
Þetta eru orð í tíma töluð, og þessi grein þarf að hljóta verðuga umfjöllun. Aðild Íslands að samninginum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) er ekki eina hugsanlega samstarfsform Íslands við ESB á sviði viðskipta. Sviss hefur annan hátt á; hefur gert yfir 100 samninga við ESB á sviði viðskipta, mennta og menningar. Bretar vilja gera víðtækan viðskiptasamning við ESB í stað ESB-aðildar, en samningar hafa strandað aðallega á þrennu:
1) ESB vill halda áfram fiskveiðum sínum innan fiskveiðilögsögu Bretlands, eins og ekkert hafi í skorizt, a.m.k. í einn áratug. Það er fremur ólíklegt, að ESB mundi taka upp þessa kröfu á hendur Íslendingum í samningum um fríverzlun, því að þeir hafa engin fiskveiðiréttindi haft hér í tæplega hálfa öld.
2) Framkvæmdastjórnin vill, að ESB-dómstóllinn verði endanlegur dómstóll í ágreiningsmálum um framkvæmd viðskiptasamningsins. Á slíkt er ekki hægt að fallast hérlendis fremur en í Bretlandi, en gerðardómur á vegum EFTA og ESB gæti komið í staðinn eða WTO-Alþjóða viðskiptastofnunin í ágreiningsmálum Íslands og ESB eftir gerð fríverzlunarsamnings á milli EFTA og ESB.
3) ESB vill samræmdar samkeppnisreglur á milli Bretlands og ESB. Bretar ætla sér að veita ESB-ríkjunum harða samkeppni, en ekki er líklegt, að þetta verði ásteytingarsteinn í samningaviðræðum Íslands/EFTA við ESB.
Það gætu skipazt svo veður í lofti eftir Stórþingskosningar í Noregi haustið 2021, að jarðvegur myndist fyrir því að leysa EES-samninginn af hólmi með víðtækum fríverzlunarsamningi á milli EFTA og ESB. Í Noregi eru miklar áhyggjur og deilur út af fullveldisógnandi áhrifum ýmissar lagasetningar, sem ESB vill, að Stórþingið í Ósló innleiði. Senterpartiet mælist nú með mest fylgi, og ef fram fer sem horfir, verður mynduð ný ríkisstjórn í Noregi næsta haust um gjörbreytta stjórnarstefnu, þar sem afstaðan til ESB verður endurskoðuð. Ef þetta gerist, verður ekki meirihluti í Stórþinginu fyrir Orkupakka 4, og hann er þá dauður gagnvart EFTA-ríkjunum, þ.e. honum verður hafnað í Sameiginlegu EES-nefndinni, ef hann á annað borð verður lagður fram þar.
Við höfum líka séð harkaleg afskipti fjölþjóðlegs dómstóls, þar sem Ísland á aðild, af íslenzkum innanlandsmálum án eðlilegrar og fullgildrar ástæðu. Slíkt verður þá að líta á sem ögrun við íslenzkt fullveldi, eins og Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi Hæstaréttardómari, vakti athygli á í hugvekju í Morgunblaðinu 5. desember 2020:
"Með hjartað í buxunum".
Hún hófst þannig:
"Nú hefur Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) lokið dómi á málið, sem þar hefur verið til meðferðar í tilefni af skipun dómara í Landsrétt. Sú furðulega niðurstaða hefur orðið ofan á hjá dómstólnum, að dómurinn, sem dæmdi hér á landi í máli kærandans, hafi ekki verið réttilega skipaður, til að kröfu 6. gr. mannréttindasáttmálans teldist fullnægt. Þessi niðurstaða er að mínum dómi alveg fráleit og felur ekkert annað í sér en afskipti eða inngrip í fullveldisrétt Íslands."
Það er mjög mikill fengur að þessum úrskurði hins lögfróða og reynda manns, því að nákvæmlega hið sama blasir við þeim, sem hér heldur á fjaðurstaf, og mörgum öðrum leikmönnum á sviði lögfræði. Fjaðrafokið, sem dómur neðri deildar MDE í sama máli olli, og sú ákvörðun að áfrýja honum til efri deildar, var ástæðulaus og pólitískt röng. Það sýnir dómgreindarleysi viðkomandi ráðherra (ÞKRG) og ráðgjafa hennar að ímynda sér, að efri deildin, með sama íslenzka dómarann innanborðs og var í neðri deildinni við uppkvaðninguna þar, myndi snúa niðurstöðu neðri deildar við.
Þessi dómstóll hefur ekki lögsögu hér. Svo er Stjórnarskránni fyrir að þakka. Við einfaldlega ákveðum í ró og næði, hvað við teljum bitastætt frá þessum dómstóli. Í þessu tiltekna máli var um þvílíkan sparðatíning að ræða, að furðu sætir, að dómstóllinn skuli ekki hafa vísað kærumálinu frá. Hæstiréttur Íslands hefur kveðið upp þann dóm í málinu, sem þarf að hlíta hérlendis. Það er maðkur í mysunni, og Sigríður Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, hefur kallað gjörninginn pólitískt at. Þetta at heppnaðist, því að þessi ágæti ráðherra var hrakinn úr embætti. Hafði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, lítinn sóma af því.
"Það er eins og MDE hafi verið að leita að tilbúnum ástæðum til að finna eitthvað athugavert við skipun þessa dómara í embætti. Manni gæti helzt dottið í hug, að einhver dómaranna við réttinn hafi þekkt kæranda eða lögmann hans, ef maður vissi ekki, að sjónarmið af þessu tagi koma auðvitað ekki til greina hjá svona virðulegri stofnun, eins og dómstóllinn er."
Er nema von, að hugur hæstaréttarlögmannsins leiti á fjarlæg mið í leit að skýringu, en það væri reyndar alveg óskiljanlegt, ef þessi vegferð væri einhvers konar greiði íslenzka dómarans við æskuvin sinn. Hvílíkri spillingu og hrossakaupum hjá MDE í Strassborg lýsir það ? Það er ótrúlegra en söguþráður lélegrar skáldsögu í jólabókaflóði á Íslandi. Þeir vinirnir skála líklega og hlæja ótæpilega næst, þegar leyft verður að hittast innan 2 m.
Í lok greinar Jóns Steinars kom rúsínan í pylsuendanum:
"Þegar dómstóllinn ytra kemst að svona niðurstöðu, er hann að brjóta freklega gegn fullveldi Íslands. Þessi erlenda stofnun hefur engan afskiptarétt af efni íslenzkra lagareglna um skipun dómara, svo lengi sem í þeim reglum felst ekki í sjálfum sér beint brot á réttindum sakbornings, t.d. með því að láta verjanda hans eða eiginkonu dæma.
Svo er eins og hjartað sigi ofan í buxur hjá flestum Íslendingum, þegar þessi erlendu fyrirmenni hafa sent frá sér valdskotna ákvörðun sína, sem enga stoð hefur í lögskiptum okkar við þá [þ.e. þau-innsk. BJo]. Í stað þess að velta vöngum yfir því, hvernig bregðast skuli við ofbeldinu með undirgefnum ráðstöfunum, ættu landsmenn að hvetja forráðamenn þjóðarinnar til að mótmæla þessari aðför hástöfum og gera grein fyrir því, sem augljóst ætti að vera, að við lútum ekki ríkisvaldi úr höndum þessarar stofnunar á borð við það, sem nú var að okkur rétt. Sjálfstætt og fullvalda ríki lætur ekki bjóða sér slíkt."
Þetta er hverju orði sannara, og Sjálfstæðisflokkurinn þarf nú að standa undir nafni og hafa forgöngu um það, sem hæstaréttardómarinn fyrrverandi skrifar hér að ofan. Dómsmálaráðherrann er ritari flokksins og henni stendur það næst að hafa forgöngu um verðugt svar til Strassborgar. Pistill hennar í Morgunblaðinu 9. desember 2020 drepur þó í dróma alla von um það. Er það þá svo, að álykta verði, að sú lyddulýsing, sem hæstaréttarlögmaðurinn viðhefur hér að ofan (um líffæri og klæði), eigi m.a. við um hana ?
Það er hins vegar alveg víst, að fyrrverandi dómsmálaráðherra, Sigríður Á. Andersen, hefur ekki misst hjartað ofan í buxurnar við þessi tíðindi frá Strassborg og mun taka málstað fullveldisins í þessu máli hér eftir sem hingað til. Hún er með hreinan skjöld í þessu máli, enda varaði hún bæði þingforsetann og forseta lýðveldisins við þeirri aðferð þingsins að greiða atkvæði um alla umsækjendur um dómaraembætti í Landsrétti, sem hún mælti með, í einu lagi, en MDE fetti fingur út í það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.12.2020 | 21:18
Beinar erlendar fjárfestingar eru nauðsyn
Það hefur lengi verið alið á ótta hérlendis í garð þeirra útlendinga, sem vilja fjárfesta í íslenzku atvinnulífi. Samt er þar iðulega um að ræða brautryðjendastarfsemi hérlendis, sem færir nýja þekkingu inn í landið og ný störf, sem ekki hefur veitt af á tímum atvinnuleysis. Ný áhættulítil verðmætasköpun fyrir landsmenn í erlendum gjaldeyri á sér stað. Viðkvæðið er, að "gróðinn verði fluttur úr landi". Þá gleymist, að fjármagn kostar, og fyrir hérlandsmenn er mun áhættusamara að standa í öllu sjálfir, taka þess vegna tiltölulega dýr lán erlendis, kaupa nýja þekkingu, sem sumpart er illfáanleg, og síðast en ekki sízt að berjast inn á nýja markaði með viðeigandi undirboðum og aukakostnaði.
Beinar erlendar fjárfestingar eru í mörgum tilvikum eftirsóknarverðar, en þurfa ekki að vera það í öllum tilvikum. Af sögulegum ástæðum komst Alþingi að þeirri niðurstöðu, að beinar erlendar fjárfestingar í íslenzkum sjávarútvegi væru óæskilegar og setti þeim þröngar skorður. Þróunin hefur sýnt, að þetta var rétt stefnumörkun. Þessi auðlindanýting hefur staðið undir hraðri og metnaðarfullri tækniþróun, þannig að íslenzkur sjávarútvegur stendur öðrum á sporði, og sömu söguna er að segja af veiðiskipulagningu, vinnslu og markaðssetningu. Órofin keðja frá veiðum til markaðar, aðallega erlends markaðar, ásamt nærliggjandi gjöfulum miðum, gefur íslenzkum sjávarútvegi það markaðslega forskot, sem þarf til, ásamt öðru, að standa undir samkeppnishæfum lífskjörum hérlendis.
Dæmi um vel heppnaða stefnumörkun á sviði beinna erlendra fjárfestinga er sú stefnumörkun Viðreisnarstjórnarinnar undir forystu dr Bjarna Benediktssonar að skapa innviði hérlendis til stórsölu ríkisins á raforku til erlendra fjárfesta á sviði málmframleiðslu, aðallega álvinnslu. Sú hugmynd rættist, að með þessu móti yrði hluti af orkulindum landsins virkjaður og flutningskerfi og dreifikerfi reist til að afla almenningi ódýrrar raforku með þokkalegu afhendingaröryggi. Kröfur um hið síðar nefnda aukast eðlilega stöðugt eftir því sem tjón af straumleysi eykst.
Með stóriðjunni fluttist margvísleg þekking til landsins á sviði tækni og stjórnunar, t.d. gæða- og öryggisstjórnunar, og alls konar þjónusta spratt upp við þessa nýju framleiðendur í landinu. Landsmenn hefðu ekki haft bolmagn í þessa uppbyggingu sjálfir, enda er þetta sama leiðin og Norðmenn fóru rúmri hálfri öld fyrr við iðnvæðinguna þar í landi.
Vaxtarbroddur erlendrar fjárfestingar á Íslandi um þessar mundir er í laxeldinu, þar sem Norðmenn miðla af beztu fáanlegu þekkingu á sviði sjókvíaeldis með frábærum árangri að því, er bezt verður séð. Engu að síður kom fram í Morgunblaðsfrétt Stefáns E. Stefánssonar 2. desember 2020, að "[á] tímabilinu 2018 - 2020 minnkaði bein erlend fjárfesting á Íslandi um mrdISK 180." Þessi staðreynd er ávísun á daufara atvinnulíf í nánustu framtíð, minni hagvöxt og þar af leiðandi jafnvel lífskjaraskerðingu þjóðar, sem fjölgar tiltölulega mikið.
Við athugun OECD (Efnahags- og framfarastofnunarinnar) hefur komið í ljós, að hérlendis eru tæplega þrefalt meiri (þungvægari) hömlur á beinar erlendar fjárfestingar en að meðaltali innan OECD, tæplega tvöfalt meiri en í EFTA/EES-landinu Noregi og rúmlega tvöfalt meiri en í EFTA-landinu Sviss. Ísland sker sig algerlega úr öðrum EES-löndum, hvað þetta varðar. Á mælikvarðann 0-100 hjá OECD hafa hömlur Hollendinga ekkert vægi, 0, en hömlur Íslendinga 17. Hvers vegna er þetta svona ?
Frétt Stefáns,
"Örva þarf erlenda fjárfestingu",
hófst þannig:
""Til þess að auka erlenda fjárfestingu á Íslandi þarf að auka tiltrú og traust á fjárfestingarkostinum Íslandi". Þetta segir Konráð S. Guðjónsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, en ráðið hefur nú tekið saman tillögur í 7 liðum, sem ætlað er að ýta undir erlenda fjárfestingu hér á landi. Bendir það á, að það sé ekki aðeins nauðsynlegt til þess að halda uppi lífsgæðum hér á landi, heldur einnig til þess að tryggja getu lífeyrissjóða til þess að auka fjárfestingar utan landsteinanna. Án erlendrar fjárfestingar til mótvægis við útflæði fjármagns sjóðanna skapist þrýstingur til lækkunar gengis krónunnar, sem aftur leiði til verðbólgu og óstöðugleika."
Allt er þetta satt og rétt, og skortur á "tiltrú og trausti" var t.d. talsverður þröskuldur í upphaflegum samningaviðræðum á vegum Viðreisnarstjórnarinnar við erlenda fjárfesta um stóriðju og við Alþjóðabankann um fjármögnun Búrfellsvirkjunar og tengdra mannvirkja. Þessi skortur var vegna reynsluleysis Íslendinga á þessum sviðum þá, en Íslendingar áunnu sér fljótlega traust og tiltrú með verkum sínum, sem aftur leiddi til meiri orkusölu og hærra verðs fyrir raforkuna.
Það er ekki vel til þess fallið að auka tiltrú og traust erlendra fjárfesta til Íslands sem fjárfestingarkosts, þegar í kjölfar frétta af kaupum í félagi við Íslendinga á Hjörleifshöfða og sandnámum þar til atvinnurekstrar taka að heyrast úrtöluraddir um jarðasölu til útlendinga, sem ríkisvaldið ætti að girða fyrir með því að ganga inn í kaupin. Þar með mundi hvati til framkvæmda og verðmætasköpunar þar verða úr sögunni, svo að þetta er dæmi um of dýrkeypta varfærni.
Orkunýting í stórum stíl á Íslandi hefur ætíð verið nátengd beinum erlendum fjárfestingum. Landsmenn standa nú frammi fyrir dýpstu efnahagskreppu í heila öld, og sem liður í að koma af stað góðum hagvexti á ný er fullkomlega eðlilegt að reyna að örva erlendar fjárfestingar. Það verður enn og aftur unnt að gera í tengslum við orkunýtinguna; í þetta skipti með því að færa verðið fyrir orkuna niður í samkeppnishæft verð m.v. önnur ríki í EES, ekki sízt Noreg með framleiðslugetu um 1,5 Mt Al/ár. Norðmenn vinna úr 0,3-0,4 Mt Al/ár, t.d. hjólfelgur, og flytja þess vegna meira en 1,0 Mt Al/ár sem hálfunna vöru, eins og Íslendingar, hverra framleiðslugeta er um 0,9 Mt Al/ár.
Þórður Gunnarsson hefur birt fróðlegar greinar í Markaði Fréttablaðsins um orkumál og stóriðju. Þann 2. desember 2020 hélt hann uppteknum hætti með greininni:
"Stóriðjan njóti sömu kjara og í Noregi".
Hún hófst þannig:
"Landsvirkjun hefur komið því á framfæri við atvinnuvegaráðuneytið, að tryggja verði getu íslenzka ríkisins til að styðja við orkufrekan iðnað með sama hætti hér á landi og gert er í Noregi, svo að tryggja megi samkeppnishæfni stóriðju á Íslandi. Norskir álframleiðendur munu á þessu og næsta ári fá sem nemur á bilinu 10-12 USD/MWh til niðurgreiðslu á kostnaði vegna kolefnislosunar frá norska ríkinu á næsta ári, en norska Stórþingið hefur málið nú til meðferðar. Engar líkur eru á öðru en málið fái samþykki þingsins, enda um að ræða framlengingu á fyrirkomulagi, sem þegar er í gildi. Samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) liggur þó ekki enn fyrir. Endurgreiðslur vegna kostnaðar, sem tengist kolefnislosun (ETS-einingum) hafa tíðkazt í Noregi allt frá árinu 2013, en hækkandi verð á ETS-einingum frá árinu 2018 hefur aukið getu norskra stjórnvalda til að styðja við orkufrekan iðnað í Noregi."
Tómlæti iðnaðarráðuneytisins íslenzka undir stjórn núverandi ferða-, nýsköpunar- og iðnaðarráðherra er við brugðið, en kólfunum kastar, þegar svefnhöfginn er svo djúpur, að Landsvirkjun sér sig knúna til að benda ráðuneytinu á, hvernig Norðmenn styrkja samkeppnisstöðu síns orkukræfa iðnaðar. Niðurgreiðslan er ekkert smáræði eða svipuð og Rio Tinto fer fram á við Landsvirkjun, að orkuverðið til ISAL verði lækkað vegna taprekstrar í slæmu árferði. 11 USD/MWh niðurgreiðsla norska ríkissjóðsins til álveranna í Noregi er ekkert smáræði og er í raun ferföld á við það, sem tæknilega vel rekið álver á borð við íslenzku álverin borgar fyrir ETS-kolefniskvóta, ef hann kostar 25 USD/t CO2. Norska ríkið er í raun að viðurkenna, að orkuverðið í Noregi sé 9 USD/MWh of hátt vegna tengingar Noregs við eldsneytisknúin raforkukerfi Evrópu. Það er löngu kominn tími til, að íslenzki iðnaðarráðherrann rumski og að hún og fjármála- og efnahagsráðherra hlutist til um lækkun óeðlilega hárrar ávöxtunarkröfu ríkisins á hendur Landsvirkjun.
Svo virðist sem 25 % tollur ESB á ál frá löndum með mikla losun koltvíildis samfara álframleiðslu (frá raforkuvinnslu og rafgreiningu) hafi slegið á framboð áls frá Kína inn á Innri markaðinn, því að álverðið hefur hækkað um 40 % frá lágmarkinu í Kófinu (komið yfir 2000 USD/t). Þetta hefur valdið því, að álfyrirtækin eru að auka framleiðslu sína. Dæmi um það er endurræsing annars kerskálans í verksmiðju Norsk Hydro á Husnes í Vestur-Noregi, sem er systurverksmiðja ISAL í Straumsvík frá dögum Alusuisse, sem reisti báðar verksmiðjurnar 1965-1972. ISAL aftur á móti eykur ekki framleiðslu sína fyrr en raforkusamningurinn hefur verið endurnýjaður. Það er óþolandi, að ríkisfyrirtækið Landsvirkjun skuli enn draga lappirnar, þegar hagkerfi landsins ríður á, að öll framleiðslugetan sé fullnýtt, ef markaðirnir leyfa.
Þann 25. nóvember 2020 birtist frétt efst og með fyrirsögn þvert yfir forsíðu Morgunblaðsins:
"Þokast í átt að samkomulagi".
Var þar átt við samningaviðræður á milli Rio Tinto/ISAL og Landsvirkjunar um endurskoðun raforkusamnings þeirra. Lyktir þessara samningaviðræðna hafa dregizt á langinn, og er það ljóður á ráði ríkisfyrirtækisins og ríkisstjórnarinnar að hafa ekki tryggt farsæla lausn á þessu deilumáli í Kófinu, svo að ISAL geti með öflugum hætti lagt hönd á plóg við endurreisn hagkerfisins úr Kófinu í líkingu við hið öfluga fjárfestingarátak eiganda ISAL í kjölfar kerfishrunsins 2008. Ef allt fer á versta veg, mun lokun ISAL hins vegar magna atvinnuleysi og efnahagskreppu. Það er eðlilegt, að Morgunblaðið láti sér annt um þetta mál, sem varðar þjóðarhag. Fréttin á forsíðunni hófst þannig:
"Nokkur gangur hefur verið í viðræðum milli Landsvirkjunar og Rio Tinto varðandi endurskoðun þess raforkuverðs, sem síðar nefnda fyrirtækið greiðir í tengslum við framleiðslu sína í Straumsvík. Eru vonir bundnar við, að samkomulag um verulega lækkun orkuverðsins náist fyrir áramót, og herma heimildir Morgunblaðsins, að raforkuverðið til verksmiðjunnar kunni að lækka um 30 % í kjölfar endurskoðunarinnar. Hafa forsvarsmenn Rio Tinto verið skýrir um það, að verksmiðjunni verði lokað, ef raforkusamningurinn verður ekki endurskoðaður hið fyrsta."
Það er einkennilegt og gæti borið vitni um forystuleysi, sem oft leiðir til eitraðs andrúmslofts, að ekki skuli hafa verið gefin út opinber yfirlýsing um það, sem hér er á seyði. Það er búið að draga stjórn og forstjóra Landsvirkjunar "að samningaborðinu" (fjarfundir, bréf og skeyti), því að framtíð Straumsvíkurverksmiðjunnar, örlög Hafnarfjarðar og afkoma fjölda fólks innan og utan verksmiðjulóðarinnar, er í húfi. Efnahagsleg endurreisn eftir Kófið verður miklu torsóttari án öflugrar viðspyrnu alls iðnaðarins.
Á sama tíma og þessu vindur fram, undirbýr flutningsfyrirtækið Landsnet hækkun á gjaldskrá, sem er þegar of há m.v. raunverulegar þarfir fyrirtækisins. Þórður Gunnarsson gerði ágæta grein fyrir þessu í Markaði Fréttablaðsins 25. nóvember 2020. Grein hans hófst þannig:
"Landsnet hefur tilkynnt stórnotendum flutningskerfis raforku á Íslandi, að f.o.m. janúar n.k. muni gjaldskrá fyrirtækisins hækka um 5,5 %. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðarráðherra, segir, að ráðgert sé að leggja fram breytingar á raforkulögum á komandi vorþingi, þar sem byggt verður á yfirstandandi greiningarvinnu [Deloitte], sem snýr að tekjumörkum Landsnets."
Eins og fyrri daginn er þessi ráðherra á seinni skipunum með sín mál. Hún er það, sem Englendingar kalla "reactive", en manneskja í hennar stöðu þarf að vera "proactive". Hún hlýtur að hafa vitað fyrir löngu, ef hún hefur ekki verið steinsofandi á vaktinni, að hjá Landsneti er borð fyrir báru, og það hefði getað liðkað fyrir samningum í Straumsvík og á Grundartanga að lækka flutningsgjaldið.
Það var vel til fundið hjá Þórði að leita í smíðju hjá SI:
"Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins [SI], segir algerlega óskiljanlegt, að Landsnet ætli að hækka gjaldskrá sína í janúar. "Hækkunin leggst á öll heimili og fyrirtæki landsins, langt umfram almenna hækkun verðlags á Íslandi, og tímasetningin er með ólíkindum. Í fyrsta lagi vegna þess, sem sýnt hefur verið fram á, að arðsemi fyrirtækisins er langt umfram það, sem ætla má hjá fyrirtæki með lögbundnum tekjumörkum. Í öðru lagi vegna þess, að nýútkomin skýrsla Fraunhofer um íslenzka raforkumarkaðinn sýndi með óyggjandi hætti, að flutningskostnaður raforku á Íslandi er allt of hár. Í þriðja lagi vegna þess, að iðnaðarráðherra hefur nýlega óskað eftir úttekt á fyrirkomulagi flutnings raforku á Íslandi m.t.t. kostnaðar notenda, sem er nú þegar mjög íþyngjandi. Ástæða þess er, að allir eru sammála um, að vandinn sé raunverulegur, en ekki er vitað, hvar hann liggur nákvæmlega. Það þarf að greina til hlítar og gera viðeigandi ráðstafanir.""
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.12.2020 | 18:18
Aukið rekstraröryggi laxeldis í sjókvíum
Það er leitun að jafnefnilegri útflutningsgrein á Íslandi um þessar mundir og laxeldi. Að megninu til er það um allan heim stundað í sjókvíum, en í haust bárust óvænt og ánægjuleg tíðindi af því, að Samherji væri að rannsaka fýsileika þess að kaupa kerskálana í Helguvík á Suðurnesjum af Norðuráli og breyta þeim í fiskeldisskála, líklega aðallega fyrir laxeldi. Tæknilega virkar það spennandi hugmynd, ef viðskiptahliðin reynist vera arðbær, en kostnaður hefur staðið landeldi fyrir þrifum.
Laxeldi úti fyrir Íslandsströndum býr við ótrúlega tilfinningaþrunginn og á köflum ofstækisfullan andróður á opinberum vettvangi, sem stundum má jafnvel flokka undir atvinnuróg. Einkennandi fyrir málflutninginn eru dylgjur og órökstuddar fullyrðingar eða jafnvel frásagnir um atburði erlendis, sem almennur lesandi á Íslandi hefur varla tíma til að sannreyna. Gagnrýnin er aðallega af fernum toga:
1) Að hætta sé á erfðablöndun íslenzkra laxastofna við eldisstofninn, sem er annað afbrigði Norður-Atlantshafslaxins, en norskrar ættar. Þessi hætta er útbásúnuð, en það er búinn til úlfaldi úr mýflugu, og enn hefur ekki frétzt neitt um, að blendingar íslenzkra stofna og eldislaxins hafi fundizt. Með erfðarannsóknum er þó hægt að ganga úr skugga um þetta. Þótt eldislax sleppi, þá er ólíklegt, að honum takist að eignast lifandi afkvæmi í íslenzkum ám, og mjög ólíklegt, að slíku fyrirbrigði yrði langra lífdaga auðið.
2) Að úrgangur frá eldiskerum skaði lífríki eldisfjarða. Þessar áhyggjur eru óþarfar, eftir að Hafrannsóknarstofnun þróaði þá mótvægisaðgerð gegn þessu að meta burðarþol fjarðanna, þar sem fiskeldi er leyfilegt. Þar sem náttúrulegri hreinsun er ábótavant, er kveðið á um árshvíld eldissvæða. Hafró fylgist síðan með þessu og getur endurmetið burðarþolið upp eða niður eftir þörfum.
3) Að laxalús berist úr eldiskvíum í göngulax. Laxalús er miklu minna vandamál í íslenzkum eldiskvíum en í færeyskum, skozkum eða norskum (nema norðurnorskum) eldiskvíum vegna þess, að hún þrífst illa í svölum sjó. Gagnráðstafanir við lús án kemískra efna eru í þróun, enda er lúsin skaðræði, þar sem hún nær sér á strik.
4) Að sjónmengun sé af sjókvíum og starfseminni við þær. Þetta er smekksatriði, sem er ekki hægt að fallast á sem neikvæðan umhverfisþátt við þessa starfsemi, því að kvíarnar og þjónustubúnaður þeirra eru lágreist. Til að sýna um hversu persónubundin sjónarmið er að ræða, þegar "sjónmengun" ber á góma, má geta þess, að sumir gagnrýnendur sjókvíanna láta sér í léttu rúmi liggja farþegaskipin, sem liggja við í sumum íslenzkum fjörðum, gnæfandi mjög áberandi upp yfir hafflötinn og eru reyndar sum hver án góðra mengunarvarna. Mengun er mikil frá 3000 manna skipum, eins og nærri má geta, nema um borð séu mengunarvarnir á útblæstri og losun úrgangs frá þeim.
Helgi Bjarnason birti fróðlega baksviðsfrétt í Morgunblaðinu 28.11.2020 með fyrirsögninni:
"Laxar raktir til heimakvíar".
Henni lauk þannig:
"Hafrannsóknastofnun vaktar nokkrar ár sérstaklega m.a. með myndavélum, sem hægt er að skoða á netinu. Margir fylgjast með þessum myndböndum, þannig að starfsmenn Hafró og Fiskistofu fá mikla hjálp við að greina, hvort laxar, sem ganga upp í árnar, eru líklegir eldislaxar. Enginn slíkur sást á myndböndunum í ár að sögn Ragnars [Jóhannssonar, sviðsstjóra fiskeldis hjá Hafró]. Einnig fær Hafró margar ábendingar um hugsanlega eldislaxa frá veiðimönnum m.a. með ljósmyndum í umræðum í hópum þeirra á samfélagsmiðlum. Ekki eru því líkur á, að eldislaxar sleppi framhjá þessu eftirliti.
Frá árinu 2018 hefur Hafró látið greina 76 laxa vegna gruns um, að þeir væru úr eldi. Reyndust 20 þeirra [26 %] vera eldislaxar, en afgangurinn "Íslendingar". 12 þúsund seiði hafa verið tekin úr laxveiðiám til rannsóknar frá árinu 2017. Verið er að rannsaka þau m.t.t. þess, hvort þau eru undan eldislöxum eða blendingar eldislaxa og laxa af stofni viðkomandi ár. Unnið er að þessum rannsóknum í samvinnu við norsku náttúrufræðistofnunina og er ekki lokið. Enn sem komið er hafa ekki fundizt nein dæmi um lax af annarri kynslóð undan eldislaxi í íslenzkum ám."
Undirstr. BJo. Á meðan hin undirstrikaða fullyrðing er í gildi, verður að vísa orðræðu um hættu á skaðlegri erfðablöndun íslenzkra laxastofna við eldisstofninn á bug sem hverjum öðrum hugarburði. Eldislaxar sleppa í mun minni mæli upp í árnar nú en áður. Árið 2018 var staðfest, að 12 eldislaxar hefðu verið veiddir í íslenzkum laxveiðiám, árið 2019 voru þeir 6 og árið 2020 2. Bættur tæknilegur rekstur og traustari búnaður eldisfyrirtækjanna á hér hlut að máli. Það er mikilvægt að muna, að þótt eldislax sleppi upp í á, er engan veginn hægt að álykta, að þar með hljóti erfðablöndun hans við villtan lax að eiga sér stað.
Fiskeldi hefur hleypt alveg nýju blóði í þær byggðir, þar sem það er stundað. Húsnæðisverð hefur náð húsnæðiskostnaði, skólar og félagslíf hafa gengið í endurnýjun lífdaganna. Íbúarnir geta með gildum rökum krafizt sómasamlegra innviða á sviði samgangna og raforku, enda er fiskeldið búið að ná þjóðhagslegri stærð, sem munar verulega um í þjóðarbúskapinum. Til marks um þetta hafði Baldur Arnarson eftirfarandi eftir Jóni Bjarka Bentssyni, aðalhagfræðingi Íslandsbanka, í Morgunblaðinu 2. desember 2020:
""Það er í raun með nokkrum ólíkindum í ljósi þess, hvað höggið á útflutningstekjurnar er mikið, að ekki skuli vera meiri halli á utanríkisviðskiptunum", segir Jón Bjarki.
Uppgangur í fiskeldi eigi þar hlut að máli. "Fiskeldið hefur bjargað heildartekjum sjávarútvegsins. Þróunin hefur verið mótdræg í sumum sjávarafurðum og verðið gefið eftir, en aðrar hafa haldið sér í verði. Selt magn dróst saman, en nú eru markaðir með sjávarafurðir að jafna sig aftur. Það ásamt veikari krónu vegur upp verðlækkun í sumum afurðum", segir Jón Bjarki.
Niðurstaðan sé, að útflutningsverðmæti sjávarafurða sé nánast jafnmikið fyrstu 9 mánuði ársins og [á] sama tímabil[i] í fyrra."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.12.2020 | 11:39
Sóttvarnir á brauðfótum
Það er búið að kosta óhemjumiklu til sóttvarna hérlendis á því herrans ári 2020, og áframhald virðist ætla að verða á því 2021. Á Englandi eru þingmenn Íhaldsflokksins farnir að spyrja um heilsufarslegar og fjárhagslegar afleiðingar sóttvarnaraðgerða þar í landi. Lítið fréttist af slíkum umræðum á Alþingi. Spurningin, sem spyrja ætti núna, er sú, hvort ríkisvaldinu hafi ekki verið veitt of mikil völd yfir lífi fólks, eða það hafi jafnvel tekið sér þau í heimildarleysi. Afleiðingin er langavitleysa herðinga og slakana á sóttvarnaaðgerðum samkvæmt geðþótta sóttvarnarlæknis. Nú virðist hann ekki þora að slaka á frelsistakmörkunum, þótt þær séu í engu samræmi við álagið á heilbrigðiskerfið, hvað þá sýkingatíðnina.
Enginn veit, hvenær hjarðónæmi næst gegn SARS-CoV-2-veirunni með bólusetningum, og enginn veit, hversu lengi mótefnin munu vara í mannslíkamanum. Þau vara tiltölulega stutt af "flensusprautunum", en flensuveirurnar eru afbrigði kórónuveiru. Nýþróuð bóluefni, reist á erfðafræðilegu boðefni (mRNA), eru hins vegar eðlisólík fyrri bóluefnum.
Þá er ekki hægt að útiloka, að veiran komi aftur, eitthvað stökkbreytt, og valdi usla, eins og aðrar kórónuveirur hafa gert, sem fylgt hafa mannkyni frá upphafi vega. Sóttvarnaryfirvöldum miðar ekkert áfram í þróun sinna grófgerðu aðgerða (10 manna hópatakmörkun), þau eru eins og færilús á tjöruspæni.
Mjög miklar og dýrkeyptar takmarkanir hvíla á þegnunum núna, eins og mara, en virðast hafa lítil áhrif á smittíðni, því að hún tekur sig upp jafnvel áður en boðaðar tilslakanir koma til framkvæmda. Það eru persónubundnar sóttvarnir og ábyrg hegðun einstaklinganna, sem öllu máli skipta fyrir smitstuðulinn. Því miður hefur sumum í s.k. þríeyki látið betur að predika og hneykslast á lýðnum en að sýna gott fordæmi með alræmdum afleiðingum.
Nýlegar rannsóknir sýna, að flestir sýktra smita engan, en 10 %-15 % smitbera valda yfir 80 % smitanna. Þetta gefur til kynna, að almennar takmarkanir og lokanir séu áhrifalítil úrræði, og þau hafa mjög alvarlegar afleiðingar á fjárhag margra, á geðheilsu, á líkamlega heilsu og munu, er frá líður, leggjast sem mara á heilbrigðiskerfið og valda fleiri dauðsföllum en þær hindra.
Að trufla skólasókn ungmenna út af meintum C-19 sóttvörnum er glapræði. Vernd gegn smitum á að beina að þeim, sem líklegir eru til að fara halloka gegn SARS-CoV-2-veirunni. Það er vitað, hverjir það eru. Dánarhlutfall sýktra í Landakotsáfallinu í október-nóvember 2020 var 15 %. Dánarhlutfall í aldurshópnum 0-35 ára er 0,001 % - 0,01 %. Í öllum aldurshópum eru veikir einstaklingar, sem þarf að verja, en flestum hinna verður lítið meint af þessum sjúkdómi. Þó eru mismikil eftirköst af öllum veirusjúkdómum hjá um 10 % sýktra.
Það er verið að beita kolrangri, klunnalegri og dýrkeyptri aðferðarfræði af þröngsýni og skammsýni í baráttunni við þennan vágest, eins og "Great Barrington"-sérfræðingahópurinn hefur bent á. Þar á ofan bætist, að reglugerðir heilbrigðisráðherra orka lagalega mjög tvímælis, eins og hérlendir hæstaréttarlögmenn hafa bent á. Nú hefur hún látið semja lagafrumvarp um sóttvarnir, sem sætir miklum ádeilum, einkum ákvæði um heimild stjórnvalda til útgöngubanns. Yfirvöldin kunna ekki með heimildir sínar að fara, og það er alveg þarflaust að veita þeim auknar sóttvarnarheimildir. Öllu nær væri að láta reyna á gjörðir þeirra fyrir dómi, eins og gert hefur verið sums staðar erlendis, t.d. í Þýzkalandi, þar sem stjórnvöld máttu lúta í gras fyrir að fara offari.
Fréttablaðið hefur verið gagnrýnið á duttlungafullar og harkalegar samfélagslegar sóttvarnir hérlendis, sem eru eins konar "sagan endalausa" með sífelldum endurtekningum, herða-slaka. Slíkt eyðileggur hvaða þjóðfélag sem er. Þann 30. október 2020 birtist þar forystugrein eftir Hörð Ægisson, sem vert er að gefa gaum. Hún hófst á þessa lund:
"Hvað tefur ?"
"Farsóttin er að dragast á langinn og óvissa um efnahagshorfur að aukast. Þetta var mat fjármálastöðugleikanefndar Seðlabankans í lok september - fyrra mat í vor var, að faraldurinn myndi ganga hratt yfir - en síðan hefur staðan aðeins versnað enn frekar. Það kemur tæpast á óvart."
Hvert sótti Seðlabankinn sér þessa röngu ráðgjöf ? Líklega til "þríeykisins", sem hefur þarna tekið algerlega rangan pól í hæðina einu sinni sem oftar um útbreiðslu þessarar farsóttar.
"Við höfum ákveðið að eftirláta heilbrigðisyfirvöldum að stjórna landinu. Stefnan er að há stríð við veiru með öllum ráðum, sama hvaða skelfilegu afleiðingar það kann að hafa, uns bóluefni verður tiltækt - sem enginn veit þó, hvenær verður né hvaða virkni það mun hafa. Um þetta áhættusama veðmál virðist að mestu samstaða innan ríkisstjórnarinnar - ekkert hefur heyrzt frá formanni Sjálfstæðisflokksins, sem gefur ástæðu til að halda annað - þar sem öll önnur sjónarmið en sóttvarnir eru víkjandi."
Að láta heilbrigðisyfirvöldum eftir stjórn landsins kann ekki góðri lukku að stýra. Það er horft framhjá stórfelldum tekjumissi þjóðarbúsins og fjölda fyrirtækja ásamt atvinnumissi meira en 5000 manns. Samkvæmt tölfræðilegum rannsóknum geta 150 þeirra misst heilsuna vegna atvinnumissisins og jafnvel týnt lífi fyrir aldur fram. Sóttvarnaryfirvöld bjarga varla svo mörgum lífum með öllum sínum samfélagslegu takmörkunum og þvingunum, ef frá eru skildar smitrakningar og sóttkví vegna gruns um smit, og alls ekki með sóttkví og PSR-sýnatöku nr 2 fyrir erlenda ferðamenn. Um innkomandi íbúa landsins gegnir öðru máli. Smitstuðull þeirra er hár, en lágur fyrir hina, sennilega minni en 1,0. Í seinni skimun hafa 90 greinzt jákvæðir þrátt fyrir neikvæðni í fyrri skimun, þegar þetta er ritað. Ef gert er ráð fyrir því, að 60 af þessum 90 séu smitandi erlendir ferðamenn, hafa þeir e.t.v. náð að valda 100 sýkingum innanlands innanlands áður en tekst að komast fyrir upptökin með smitrakningum og sóttkvíum.
Þegar þetta er skrifað, virðast 309/5371=5,75 % af greindum lenda á sjúkrahúsi og 50/5371=0,93 % af greindum lenda í gjörgæzlu. Samkvæmt þessu kynnu 3 af þessum 60 sýktu erlendu ferðamönnum að hafa lent á sjúkrahúsi hér, en enginn í gjörgæzlu vegna hagstæðrar áhættudreifingar í hópnum. Af þessu sést, að verið er að fórna miklu meiri lýðheilsutengdum hagsmunum fyrir minniháttar álagsaukningu á sjúkrahúsin vegna C-19 með illa ígrunduðum aðgerðum á landamærunum.
Fjárhagslega er aðgerðin glapræði, því að hún kann að fækka erlendum ferðamönnum hingað um 300 k árið 2020, sem þýðir tekjutap fyrir þjóðarbúið upp á tæplega mrdISK 80. Hér hefur verið tekin ákvörðun fyrir hönd landsmanna með bundið fyrir augu og eyru.
"Þeir, sem leyfa sér að setja opinberlega fram efasemdir um, að skynsamlega sé að málum staðið, eru umsvifalaust útmálaðir sem brjálæðingar, sem skeyti lítt um líf og heilsu þeirra, sem viðkvæmastir eru fyrir í samfélaginu. Ekki er þetta á mjög háu plani", skrifaði Hörður Ægisson ennfremur. Það er hins vegar augljóst af öllum málflutningi, hvorum megin brjálæðið liggur.
Það er kominn tími til, að aðilar vinnumarkaðarins tjái sig opinberlega af þunga um þau glæfralegu tilræði, sem hér eru framin á degi hverjum við atvinnulífið og daglegt líf landsmanna í nafni misskilinna sóttvarna, sem kasta barninu út með baðvatninu, eins og rakið er að ofan. Frétt í Markaði Fréttablaðsins 26. nóvember 2020 hófst þannig:
""Það er kominn tími til að draga markvisst úr þessari langvarandi óvissu og setja fram skýra áætlun um aðgerðir til loka faraldursins", sagði Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í samtali við Fréttablaðið. Þannig verði næstu sóttvarnaraðgerðir fyrirsjáanlegri og um leið líklegar til að njóta breiðs stuðnings í samfélaginu öllu.
Samtök atvinnulífsins kalla eftir því, að stjórnvöld nýti reynsluna af baráttunni við útbreiðslu kórónaveirunnar og útbúi skýran ramma um aðgerðir næstu mánaða. Þau telja, að sóttvarnaraðgerðir næstu mánaða þurfi að uppfylla 3 skilyrði.
Í fyrsta lagi, að skýr og tímasett áætlun sé um afléttingu afmarkana. Í öðru lagi þarf að setja fram töluleg viðmið, þar sem frekari liðkun eða hömlur eru tengdar við nýgengi smita.
Og í þriðja lagi, að sóttvarnarráðstafanir séu innbyrðis samkvæmar, skiljanlegar almenningi og höfðað sé til ábyrgðar hvers og eins um að verja sig og aðra.
"Óvissa um síbreytilegar aðgerðir hefur sett skólahald, starfsemi fyrirtækja og öll áform í samfélaginu í uppnám", segir Halldór. Draga þurfi markvisst úr þessari langvarandi óvissu og setja fram skýra áætlun.""
Þetta er hófstillt gagnrýni fulltrúa atvinnurekendasamtakanna á stefnu sóttvarnaryfirvalda, sem er eins og ósýnilegur fíll í postulínsbúð, því að enginn veit, hver þessi stefna er, en hún veldur þjóðfélaginu alveg gríðarlegu tjóni. Halli ríkisstjóð á þessu ári vegna aukinna útgjalda og samdráttar hagkerfisins af völdum sóttvarnaraðgerða hérlendis og erlendis er áætlaður mrdISK 260 og svipaður 2021. Hér er verið að binda ungu kynslóðinni ósæmilegar klyfjar. Almennt má segja, að hún hafi orðið fórnarlamb stjórnvaldsaðgerða hérlendis í þessum kórónuveirufaraldri, því að nám hennar hefur orðið fyrir skakkaföllum algerlega að óþörfu, þar sem ráðherrar heilbrigðis og mennta hafa farið offari í forræðishyggju sinni gagnvart samfélagshópum, sem átti að láta að mestu í friði. Þá eru tveir hópar, sem verst hafa orðið fyrir barðinu á atvinnumissi. Það eru ungt fólk og fólk af erlendum uppruna. Það eru margir í sniðmenginu, þ.e. ungir og erlendir, sem eiga um sárt að binda.
Sóttvarnayfirvöld munu bregðast Halldóri Benjamíni og öðrum landsmönnum í þessum efnum. Þau vilja bara leika af fingrum fram, og líftölfræðingur "numero uno" virðist ekki geta vísað fram á veginn heldur. Það, sem þarf endilega að gera, til að draga úr tjóninu, sem vitlaus viðbrögð hafa valdið, er að:
1) Aflétta fjöldatakmörkunum í skólarýmum, en viðhalda grímuskyldu í framhldsskólum. Kennarar gæti sérstakrar varúðar, einkum hinir eldri.
2) Aflétta hömlum af íþróttastarfsemi og leyfa opnun sundstaða og líkamsræktarstöðva gegn því að viðhafa persónubundnar sóttvarnir.
3) Aflétta fjöldatakmörkunum af verzlunum, en þar verði áfram grímuskylda og sprittun.
4) Leikhús, kvikmyndahús og tónleikahald megi starfrækja eðlilega með allt að 1000 gestum, sem verði með grímur.
5) Matsölustaðir og barir megi hleypa inn jafnmörgum gestum og geta fengið sæti á tímabilinu kl 1800-2400. Grímuskylda á meðan ekki er setið. Sjálfsafgreiðsla ekki leyfð.
6) Á landamærunum þarf strax að liðka til fyrir komum erlendra ferðamanna með því að hleypa ferðamönnum með viðurkennd ónæmisvottorð inn án sýnatöku og láta einfalda sýnatöku duga fyrir fólk með ríkisfang á og komandi frá "grænum eða gulum" svæðum, en aðrir fari í tvöfalda skimun og 2-3 daga sóttkví.
Eldri borgarar ættu að fara varlega og forðast fjölmenni. Skjólstæðinga dvalar- og hjúkrunarstofnana þarf að verja sérstaklega vel. Það á við gagnvart gestum á þessum stofnunum og starfsfólk. Starfsfólk sæti skimun a.m.k. vikulega.
Að lokum skal hér vitna í niðurlag umhugsunarverðrar forystugreinar Harðar Ægissonar í Fréttablaðinu 27. nóvember 2020, sem hét:
"Farið offari".
"Því miður er það að gerast, sem sumir óttuðust. Embættismenn, sem hafa öðlazt gríðarmikil völd á þessum veirutímum, hafa vanizt þeim óþægilega mikið og eru um margt að fara offari í aðgerðum sínum. Við því þarf að bregðast. Nú þegar bóluefni er í augsýn, er ljós við enda ganganna. Við eigum að nýta þá stöðu, eins og m.a. Samtök atvinnulífsins hafa lagt til [með því] að útbúa skýran ramma um sóttvarnarráðstafanir til næstu mánaða, sem verði tengdar við töluleg viðmið um þróun faraldursins hverju sinni. Slíkt væri til þess fallið að auka á fyrirsjáanleika aðgerðanna og um leið létta verulega á þeirri óvissu, sem nú er allt um lykjandi.
Það er ekkert, sem kallar á viðvarandi krísuástand, sem er á góðri leið með að drepa allt samfélagið í dróma fram að þeim tíma, þegar búið verður að að bólusetja stóran hluta þjóðarinnar. Það stendur á forystumönnum ríkisstjórnarinnar, ekki þríeykinu, að rétta við kúrsinn, þegar teknar verða afdrifaríkar ákvarðanir um næstu skref."
Hörður stingur á meininu í lokin. Ástæðan fyrir því í hvílíkt óefni er komið er einmitt sú, að ríkisstjórnin hefur enga forystu veitt í sóttvarnarlegum efnum, þótt með tillögum sínum fari sóttvarnarlæknir augljóslega offari. Hið eina, sem ríkisstjórnin gerir, er að gera tillögur til Alþingis um að ausa úr ríkissjóði, sem hún hefur raunar þegar tæmt og er nú önnum kafin við að binda unga fólkinu þunga bagga. Þetta heitir að stinga hausnum í sandinn.
Hörður Ægisson nefnir, að ríkisstjórnin ætti að setja aðgerðum sínum töluleg viðmið og vitnar til Halldórs Benjamíns í því sambandi. Sá nefndi reyndar nýgengi smita. Hvers vegna ? Það er fremur lélegur mælikvarði, nema við viljum koma í veg fyrir hjarðónæmi, en það er reyndar hið endanlega markmið, að vísu með bólusetningu. Gallinn er sá, að enginn veit, hversu lengi slíkt ónæmi helzt í blóðinu eða hvort það verður virkt gegn stökkbreyttri veiru.
Betri mælikvarðar en nýgengi smita fyrir ástæðu til samfélagslegra sóttvarnaaðgerða er fjöldi sjúklinga með þungu vægi á fjölda C-19 sjúklinga á sjúkrahúsi og í gjörgæzlu. Í þessum skrifuðum orðum er fjöldi sjúklinga 187 og þar af 41 á sjúkrahúsi og 2 í gjörgæzlu. Samt heldur ríkisstjórnin þjóðinni að tillögu sóttvarnarlæknis í spennitreyju almennra fjöldatakmarkana við 10, lokana á heilsubótarstöðvum og annarra dýrkeyptra takmarkana. Þetta nær engri átt, enda er sóttvarnarleg skilvirkni þessara takmarkana óljós og í engu samræmi við augljósa ókosti. Persónubundnar sóttvarnaraðgerðir er það, sem á að halda í heiðri, óháð stétt og stöðu, hvort sem um er að ræða yfirlögregluþjóna eða aðra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
2.12.2020 | 14:22
Að breyta stjórnarskrá
Stjórnarskrá eru grundvallarlög ríkisins, frelsistrygging einstaklinganna í landinu og fyrirmæli um, hvernig æðstu stjórn ríkisins skuli háttað (þrígreining ríkisvaldsins). Þar eru líka ákvæði um val þjóðhöfðingjans og valdmörk hans. Rauði þráðurinn í íslenzku stjórnarskránni er stöðugt fullvalda ríki sjálfstæðra einstaklinga, sem með lýðræðislegum hætti velja alla fulltrúana á löggjafarþinginu og sjálfan þjóðhöfðingjann líka. Samkvæmt núverandi stjórnarskrá geta aðrar ríkisstjórnir eða ríkjasamtök ekki hlutazt til um líf og hagsmuni landsmanna, og löggjafarsamkoman, Alþingi, hefur ekki umboð til að breyta þessu. Þetta felur í sér, að Ísland getur ekki gengið í Evrópusambandið að óbreyttri stjórnarskrá.
Þótt tæplega 97 % atkvæðisbærra manna á Íslandi hafi samþykkt Lýðveldisstjórnarskrána 1944, var hún þó vitaskuld barn síns tíma, enda hefur hún tekið fjölmörgum breytingum. Með réttu má halda því fram, að enn séu ákvæðin um völd þjóðhöfðingjans ruglingsleg og þörf sé á að skilgreina völd hans og hlutverk á nýjan leik.
Ýmsir telja stjórnarskrána standa í vegi fyrir alþjóða samstarfi, sem þeir telja felast í að "deila fullveldinu með öðrum". Þeir vilja, að Alþingi geti samþykkt þröngt afmarkað framsal fullveldis með einföldum meirihluta atkvæða og afmarkað, víðtækt framsal fullveldis með auknum meirihluta atkvæða með svipuðum hætti og í Noregi. Þar útheimtir innganga í ríkjasamband að auki þjóðaratkvæðagreiðslu. Það hefur vakið deilur á stjórnmálasviðinu í Noregi, hvað er þröngt, afmarkað fullveldisframsal ("lite inngripende"), og hvað er víðtækt. Nú er einmitt rekið mál fyrir Hæstarétti Noregs til að skera úr um það, hvort Þriðji orkupakkinn frá Evrópusambandinu (ESB) hafi verið "lite inngripende" í norska þjóðfélagið, eins og Stórþingið úrskurðaði 2018, eða hvort hann geti haft víðtæk áhrif á samfélagið og hagsmuni lögaðila og einstaklinga samkvæmt laganna bókstaf og raunverulegum aðstæðum, sem upp kunna að koma.
Það er einmitt eitt aðalviðfangsefni stjórnarskrárgjafa að semja lagalega skýran texta, sem ekki verður túlkaður á mismunandi vegu með gildum rökum. Þetta mistókst stjórnlagaráði vinstri stjórnarinnar 2009-2013 hrapallega. Drög ráðsins eru ótækur lagalegur texti, sem minnir of mikið á tætingslegan óskalista eða stefnumið úr sitt hverri áttinni.
Þessi tilraunastarfsemi vinstri stjórnarinnar reyndist illa. Það er kolrangt, að þjóðin hafi samþykkt drög ráðsins í þjóðaratkvæðagreiðslu í október 2012. Aðeins 48,3 % atkvæðisbærra manna greiddi gilt atkvæði. Nokkrar spurningar voru lagðar fram til þjóðaratkvæðagreiðslu og flestar loðnar. Ein þeirra var, hvort kjósandinn mundi vilja leggja drög stjórnlagaráðsins til grundvallar að nýrri stjórnarskrá. Þetta er marklaus spurning í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hverju má henda út, og hvað verður að fá að standa ? Allt þetta pauf ólöglega valins stjórnlagaráðs og vinstri stjórnarinnar var vindhögg gegn núverandi stjórnarskrá. Samkvæmt henni er það í verkahring Alþingis að breyta stjórnarskránni. Til að gera breytingarnar sem bezt úr garði er nauðsynlegt fyrir þingið að njóta liðsinnis stjórnlagafræðinga.
Karfan undir pappírstætaranum geymir tilraunir vinstri stjórnarinnar og stjórnlagaráðs bezt. Óli Björn Kárason gerði þetta að umræðuefni í miðvikudagspistli sínum í Morgunblaðinu 23. september 2020:
""Tæpitungulaust snerist atkvæðagreiðslan því ekki um neitt", skrifaði Sigurður Líndal, prófessor í lögum, í Fréttablaðið 2 dögum eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Hann hélt því fram, að atkvæðagreiðslan hefði verið atkvæðagreiðsla um "ófullburða plagg", sem unnið hefði verið í anda sýndarlýðræðis, "sem er vísastur vegur til að rækta jarðveg fyrir pólitíska spillingu"".
Af mati Sigurðar Líndal má ráða, að sem grunnur að stjórnarskrá fyrir Íslendinga séu drög Stjórnlagaráðs ónothæft fúsk, sem mundu valda jafnvel lagalegu öngþveiti og pólitískum óróleika, ef reynt yrði að búa til úr þeim stjórnarskrá. Þessa tilraun vinstri stjórnarinnar dagaði uppi, og líklega er hún bezt geymd í körfu undir pappírstætara.
Björg Thorarensen, þá prófessor í stjórnlagarétti við Lagadeild Háskóla Íslands, nú nýskipaður Hæstaréttardómari, sagði á fundi 09.11.2012 í HÍ:
"Það er ekki búið að fara efnislega yfir tillögurnar hjá löggjafanum, og þingmenn hafa þá skyldu samkvæmt stjórnarskrá að ræða þær efnislega. Síðan er rétti stjórnskipulegi farvegurinn að bera þetta undir þjóðina, þegar búið er að vinna málið á þinginu."
Eins og kunnugt er, er þing rofið eftir samþykkt þess á stjórnarskrárbreytingum, og nýtt þing verður síðan að samþykkja þær óbreyttar, til að þær öðlist gildi. Þannig fær þjóðin aðkomu að málinu og getur krufið frambjóðendur til nýs þings um afstöðu þeirra til stjórnarskrárbreytinganna.
Mörgum er mikið í mun að koma auðlindaákvæði inn í stjórnarskrána. Jón Jónsson, lögmaður, ritaði 2 greinar í Morgunblaðið um núverandi tillögu um auðlindaákvæði í nóvember 2020. Hann kvað textann í frumvarpsdrögum forsætisráðherra vera of grautarlegan, og bæri brýna nauðsyn til að færa ákvæðið í skýrari lögfræðilegan búning. Þá taldi hann ákvæði um gjaldtöku fyrir afnot ekki eiga heima í stjórnlögum, heldur í lögum fyrir hvert tilvik. Undir þessi gagnrýnisefni má taka. Seinni Morgunblaðsgreininni lauk lögmaðurinn þannig:
"Illframkvæmanlegt er að afmarka, hvenær krafan um skilyrðislausa gjaldtöku [fyrir afnot auðlindar] á við. Sá vandi birtist m.a. í umfjöllun frumvarpsins um skilgreiningu auðlindahugtaksins og óljós tengsl við það, hvenær löggjafinn grípur til stýringar. Einnig kemur hann fram í umfjöllun um stöðu almannaréttar gagnvart auðlindanýtingu, t.d. vegna ferðaþjónustu. Þá verður alltaf verulegt álitamál, hvenær starfsemi telst í ábataskyni. Það virðist óumflýjanlegt, að krafan um skilyrðislausa gjaldtöku verði ómarkviss. Hún breytir einnig rótgrónu hlutverki ríkisins að stýra almannarétti og aðgangi að almannagæðum á grunni heildarhagsmuna.
Fjalla þarf frekar um þýðingu auðlindaákvæðis gagnvart eignarréttarákvæði stjórnarskrár við undirbúning málsins. Eyða þarf vafa um, hvort ákvæðið stjórnarskrárbindi sósíalísk markmið um, að ný verðmæti falli sjálfkrafa til ríkisins. Ákvæðið ætti heima í kafla stjórnarskrár um löggjafarvaldið við hlið 40. gr. um ráðstöfun fasteigna ríkisins og gæti orðazt á þessa leið: Náttúruauðlindir og landsréttindi, sem ekki eru háð einkaeignarrétti, verða engum fengin til eignar eða varanlegra afnota."
Tillaga Jóns um texta, undirstr. BJo, er til fyrirmyndar um skýra framsetningu á knappan hátt, sem þó segir það, sem segja þarf. Ef hið sósíalistíska viðhorf ætti að ríkja, væri einkaeignarrétturinn ekki virtur viðlits, og t.d. sandurinn í landi Hjörleifshöfða, sem nú virðist skyndilega vera orðinn auðlind, hefði fallið til ríkisins, og þar með hefði tæplega verið nokkur grundvöllur fyrir frumkvæði og nýsköpun eigenda félagsins, sem nýlega festi kaup á landareigninni Hjörleifshöfða. Fóstbræðurnir, sem freistuðu gæfunnar með Íslandsför úr Noregi um 874, hefðu orðið hrifnir af verðmætasköpun úr sandi, sem er hér ekki dæmigerður námugröftur, því að skörðin fyllast jafnóðum með sandburði sjávarins. Hér er um að ræða einkaviðskipti þýzk-íslenzks félags við landeigendur, sem ætla sér að hefja atvinnustarfsemi þar á landareigninni. Bein erlend fjárfesting til atvinnu- og verðmætasköpunar er einmitt það, sem sárlega vantar hér í þessu landi, enda hefur OECD fundið út, að Ísland sé með einnar mestu hindranir á meðal OECD-landanna gegn beinum erlendum fjárfestingum. Þetta er til þess fallið, að Ísland dragist aftur úr öðrum þjóðum í lífskjörum. Fjárfesting í landi til atvinnurekstrar er ósambærileg við jarðasöfnun auðkýfinga til að sinna áhugamálum sínum, laxveiðum eða öðru. Íslenzkir bændur munu varla vilja nytja slíkar jarðir og eiga sennilega ekki kost á því gegn sanngjörnu afgjaldi.
Sóttvarnaraðgerðir stjórnvalda í Kófinu 2020 hafa vakið upp efasemdir lögmanna og annarra um, að yfirvöld hafi heimildir samkvæmt sóttvarnarlögum og stjórnarskrá til þeirra gríðarlegu skerðinga á einstaklingsfrelsi fjölda fólks, sem þau hafa gripið til, og má þar nefna sóttkví, einangrun, smitrakningu, takmarkanir og jafnvel sviptingu atvinnufrelsis. Íslenzkt framkvæmdavald er svifaseint við að afla sér óyggjandi lagaheimilda og samþykkta þjóðþingsins m.v. t.d. dönsk yfirvöld, sem lögðu fram frumvörp þessa efnis í marz og apríl 2020, en íslenzk heilbrigðisyfirvöld í nóvember 2020.
Í nýjum sóttvarnarlögum verður að setja nákvæm skilyrði fyrir vel afmörkuðum sóttvarnaraðgerðum í tíma og rúmi, og ef heimildir skortir fyrir nauðsynlegum aðgerðum að dómi yfirvalda í framtíðinni, verður löggjafinn að fjalla um það. Þegar kemur að jafnfrelsissviptandi aðgerðum framkvæmdavalds og útgöngubann er, verður löggjafinn að gæta mikillar varfærni við heimildargjöf í lögum. Engin óyggjandi þörf er á afdráttarlausri heimild til útgöngubanns, og hún stríðir líklega gegn stjórnarskrá Íslands. Einnig þarf að aðgæta, hvort í stjórnarskrá þarf að afmarka leyfilegar sóttvarnaraðgerðir og tilgreina, að þær verði að vera reistar á gildandi lögum.
Hæstaréttarlögmaðurinn Reimar Pétursson ræddi aðgerðir og aðgerðaleysi sóttvarnaryfirvalda í Kófinu á málþingi Órators, félags lögfræðinema við HÍ, 25.11.2020, og sagði m.a:
"Þessum spurningum verður að svara, og sé þeim svarað neitandi, þá þýðir það aðeins óðagot, fum, hroðvirkni og óvönduð vinnubrögð."
Alþingi á aldrei að líða annað eins í líkingu við þetta hjá ráðherrum. Landbúnaðarráðherrann í Danmörku varð að axla ráðherraábyrgð og segja af sér vegna hins alræmda minkamáls, þegar í ljós kom, að fyrirskipun hans um að aflífa alla minka á Norður-Jótlandi vegna sýkingar af SARS-CoV-2 veirunni, átti sér ekki lagastoð. Sóttvarnarreglugerðir heilbrigðisráðherra hérlendis virðist skorta fullnægjandi lagastoð, margar hverjar, sbr gagnrýni Reimars Péturssonar o.fl..
Þann 21. október 2020 skrifaði Ari Guðjónsson, héraðsdómslögmaður og yfirlögfræðingur Icelandair Group, Sjónarhólsgrein í Morgunblaðið, sem hann nefndi:
"Árekstur við EES".
Þar stóð m.a.:
"Í ESB-ríkjum öðlast reglugerðir sambandsins bein réttaráhrif innan aðildarríkja án sérstakrar innleiðingar í landsrétt, og þær hafa forgangsáhrif gagnvart öðrum landslögum ríkjanna. Þetta hefur almennt ekki verið talið gilda um EFTA-ríkin, þrátt fyrir að EFTA-dómstóllinn hafi komizt að þeirri niðurstöðu, að ríkin geti verið skaðabótaskyld vegna rangrar innleiðingar tilskipana í landsrétt. Slíkt tryggir þó ekki bein réttaráhrif eða forgangsáhrif EES-reglna, enda tryggja skaðabætur sem slíkar ekki einsleitni, enda aðstaðan önnur fyrir þann aðila, sem þarf að krefjast skaðabóta."
Það er ljóst, að nærri var höggvið óskoruðu íslenzku löggjafarvaldi við staðfestingu Alþingis á EES-samninginum í janúar 1994. Það var þó sá varnagli settur þar, að Ísland gæti hafnað óaðgengilegum gerðum Evrópusambandsins í Sameiginlegu EES-nefndinni, og til þrautavara var síðan sett skilyrði um stjórnskipulegan fyrirvara Alþingis við innleiðingu reglna ESB, þ.e. að Alþingi gæti hafnað þeim, ef þær samræmdust ekki stjórnarskrá Íslands. Um þessi og fleiri mikilvæg atriði fjallaði Arnar Þór Jónsson, héraðsdómari, á fjarfundi Fullveldisfélags sjálfstæðismanna í Valhöll 1. desember 2020. Var sá fundur hinn þarfasti.
Það er engin ástæða til að veita Alþingi heimild til að framselja íslenzkt ríkisvald að einhverju leyti til útlanda. Hins vegar er réttlætanlegt, að meirihluti á Alþingi, geti vísað slíku framsalsmáli til þjóðarinnar í bindandi atkvæðagreiðslu, þar sem a.m.k. 60 % atkvæðisbærra manna gætu heimilað auknum meirihluta á Alþingi slíkt, en annars félli málið dautt á Alþingi. Þetta kallar auðvitað á stjórnarskrárbreytingu, enda heimilar núverandi stjórnarskrá ekkert framsal fullveldis.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.11.2020 | 13:44
Skaðleg verðlagning ríkisfyrirtækis
Seðlabankinn spáir nú meiri samdrætti íslenzka hagkerfisins árið 2020 en hann gerði í sumar, þ.e. -8,5 %. Þetta er meira en áður á lýðveldistímanum, og verður að leita heila öld aftur í tímann til að finna dýpri kreppu. Jafnframt spáir hann minni viðsnúningi, þ.e. hagvexti, árið 2021 en áður, aðallega vegna færri erlendra ferðamanna en hann gerði áður ráð fyrir. Fjöldi þeirra er reyndar algerlega undir hælinn lagður , á meðan stjórnvöld ekki boða afnám skilyrðislausrar sóttkvíar fyrir innkomandi erlenda ferðamenn.
Af þessum sökum lækkaði bankinn stýrivexti sína úr 1,00 % í 0,75 %. Á sama tíma eru stýrivextir sums staðar í Evrópu undir 0, sem þýðir að bankar þurfa að greiða fyrir að geyma fé hjá viðkomandi seðlabanka, a.m.k. á pappírnum.
Á Íslandi ganga meira en 20 þúsund manns atvinnulaus síðla árs 2020 og fer fjölgandi. Sóttvarnaraðgerðir á landamærum gætu verið valdar að fjórðungi þessa atvinnuleysis og 80 % fækkun ferðamanna, sem voru fáir fyrir. Er hægt að rökstyðja þessa afdrifaríku aðgerð á landamærunum með sóttvarnarlegum rökum, sem yfirgnæfi neikvæðar heilsufarslegar afleiðingar af tvöfaldri PCR-skimun með 5 daga sóttkví á milli. Nei, það er ekki hægt með réttu, og fram á það verður sýnt í öðrum pistli.
Við þessar aðstæður ber ríkisvaldinu að beita öllum ráðum til að örva atvinnulífið, sem er lamað í Kófinu af stjórnvaldsaðgerðum hérlendis og erlendis. Eitt af því, sem örvar framleiðslu landsmanna, sem öll er rafknúin að meira eða minna leyti, er að lækka raforkuverð. Ríkið á markaðsríkjandi fyrirtæki á sviði raforkuvinnslu og -sölu, Landsvirkjun, og þar er borð fyrir báru til lækkunar álagningar á orku og afl. Markaðsaðstæður eru þar nú þannig, að offramboð er á orku og afli og hæfileg lækkun raforkuverðs mundi tafarlaust setja af stað framleiðsluaukningu og nýjar fjárfestingar. Fjármála- og efnahagsráðherra getur skapað grundvöll fyrir þessum aðgerðum með því að lækka ávöxtunarkröfu Landsvirkjunar úr 7,5 %. Er hann búinn að því ?
Skýrsla Fraunhofer Institut fyrir iðnaðarráðherra um samkeppnishæfni raforkuverðs til íslenzkrar stóriðju er vönduð, en nær ekki nógu langt, þ.e. ekki til einstakra félaga vegna leyndar og aðeins til 2019, en árið 2020 hefur snarazt á merinni hérlendis. Þá er of þröngt sjónarmið bera einvörðungu raforkuverðin saman, eins og aðrir samkeppnisþættir skipti ekki máli. Þannig kveður Fraunhofer meðalraforkuverð til stóriðju á Íslandi hafa verið samkeppnishæft árið 2019, en sá er gallinn á gjöf Nkarðar, að þetta meðaltal stendur engum til boða. Fyrirtæki, sem búa við raforkuverð ofan meðaltalsins, t.d. Elkem Ísland og ISAL, eru að krebera. Álverðið hefur þó hækkað um 30 % frá lágstöðu Kófsins og er að verða viðunandi, þannig að Kínverjar virðast ekki vera enn farnir að hella áli inn á vestræna markaði í sama mæli og fyrir Kóf. Því má bæta við sem skýringu, að í október 2020 lagði Evrópusambandið (ESB) 40 % toll á vissar gerðir áls frá Kína á grundvelli veikrar samkeppnisstöðu evrópskrar álframleiðslu vegna miklu kostnaðarsamari mengunarkrafna stjórnvalda á Innri markaði ESB til álvera þar en kínversk álver þurfa að búa við.
Þórður Gunnarsson gerði orkuverðsmálum góð skil í Markaði Fréttablaðsins 18. nóvember 2020 undir fyrirsögninni:
"Mun lægra verð býðst í Noregi":
"Sökum þessara markaðsaðstæðna er nú þegar hægt að gera 5 ára orkusölusamninga í Noregi á verði undir 30 USD/MWh að flutningskostnaði meðtöldum. Þetta er mat Helge Haugland, sem er orkumiðlari hjá norska fyrirtækinu Energi Salg Norge AS, sem hefur milligöngu um kaup og sölu [á] um 30 TWh/ár, sem er u.þ.b. tvöfalt meira en öll framleiðsla Landsvirkjunar [og rúmlega fimmtungur af raforkuvinnslu Noregs - innsk. BJo].
Samkvæmt Helge Haugland standa kaupendum nú til boða viðskipti með raforku samkvæmt samningi til 2-5 ára fyrir minna en 30 USD/MWh með flutningsgjaldi. Til að vera samkeppnishæf við þetta verð þarf Landsvirkjun að bjóða rafmagnið, komið til notanda, á um 27 USD/MWh eða á rúmlega 20 USD/MWh frá virkjun (ef flutningsgjaldið er 6 USD/MWh, sem er allt of hátt). Landsvirkjun hefur kynnt eitthvað, sem hún kallar "kostnaðarverð" og er á bilinu 28-35 USD/MWh, væntanlega háð tæknilegum skilmálum á borð við nýtingartíma toppafls og aflstuðul (cosphi) hjá kaupanda. Álver býður hagstæðustu tækniskilmála fyrir orkuver á markaðinum, svo að það fengi væntanlega tilboð um 28 USD/MWh frá virkjun Landsvirkjunar. Þetta er hins vegar 5-7 USD/MWh of hátt m.v. norska verðið.
Hvað gera bændur þá til að búa til verðmæti úr endurnýjanlegum íslenzkum orkulindum, sem forráðamenn Landsvirkjunar hafa lýst yfir, að þeir eigi að hámarka ? Þeir bregðast eigendunum og stunda sóun með því að nýta ekki virkjaða orku. Þeir verða þá væntanlega að lækka verðið niður fyrir 23 USD/MWh til að koma orkunni í lóg. Það telja þeir sig ekki geta gert, af því að ríkissjóður (eigandinn) áskilji sér 7,5 %/ár arðsemi og hún útheimti verðið 28-35 USD/MWh.
Það, sem ríkið þarf að gera, er að lækka arðsemiskröfuna niður í 4,0 %, sem er fullkomlega eðlilegt við núverandi vaxtastig Seðlabanka Íslands (0,75 %). 4,0 % arðsemi næst við verðið 22 USD/MWh til álvera, svo að dæmi sé takið. Með þessu móti fengist svigrúm til að tryggja rekstur álversins í Straumsvík út samningstímann (til 2036) og til að tryggja mrdISK 15 fjárfestingar Norðuráls á Grundartanga og fjölda nýrra starfa þar á framkvæmdatíma og samfara aukinni verðmætasköpun. Að sitja með hendur í skauti í Kófinu og láta þessi tækifæri hjá líða er brottrekstrarsök. Svo einfalt er það.
Síðan var rætt um orkumál á hinum Norðurlöndunum, en þau varða samkeppnisstöðu Íslands miklu:
"Að sama skapi sé mikil framboðsaukning vindorku í pípunum, en framleiðsla vindorku mun aukast um meira en 50 % á Norðurlöndunum fram til ársins 2024 og heildarframleiðsla [vindorkuvera] ná hátt í 100 TWh/ár samkvæmt spá orkugreiningarfyrirtækisins Wattsight."
Þessi þróun orkumála einkennir Evrópu alla og mun móta orkuverðsþróunina í samkeppnislöndum okkar. Ef ný og öruggari gerð kjarnorkuvera kemur fram á sjónarsviðið á næstunni, verður þessi þróun innsigluð, þ.e. tímabil hás orkuverðs er ekki fyrirsjánlegt, heldur ofgnótt orku og síminnkandi hluti hennar með uppruna í jarðefnaeldsneyti.
Að vísu mun eftirspurnin aukast frá því, sem nú er, en hagkerfin verða þó lengi að ná sér eftir Kófið. Álverðið hefur braggazt mjög og hillir nú undir 2000 USD/t Al. Þá er stutt í, að spurn eftir meiri orku til álframleiðslu aukist hvarvetna. Laugardaginn 21.11.2020 birtist frétt um, að kísilverksmiðja PCC mundi endurræsa ofna sína með vorinu 2021. Það er alveg áreiðanlegt, að bæði ál og kísill eiga sér framtíð í "græna hagkerfinu" og framleiðsla þessara efna (málmur og málmleysingi) mun verða ábátasöm, a.m.k. þar sem raforkan er "græn". Að hrekja þessa starfsemi úr landi með okri á orkunni er ábyrgðarhluti og heimskulegt í ljósi þess, að önnur eins atvinnusköpun og verðmætasköpun er ekki í sjónmáli.
"Samtök álframleiðenda á Íslandi sögðu í tilkynningu eftir útkomu [Fraunhofer] skýrslunnar, að "Landsvirkjun hefði gefið út, að fyrirtækið sé bundið "kostnaðarverði", en í því er m.a. tekið tillit til 7,5 % arðsemiskröfu ríkisins. Það kostnaðarverð sé á bilinu 28-35 USD/MWh og því mun hærra en það meðalorkuverð, sem stuðzt er við í skýrslu Fraunhofer".
Forsvarsmenn Landsvirkjunar hafa einnig talað um, að stefnan sé að selja raforku, sem fyrirtækið framleiðir á 30-45 USD/MWh, en sú tala inniheldur ekki flutningskostnað, sem er jafnan 6 USD/MWh."
Samkvæmt þessu uppáleggur fulltrúi eigendanna, í þessu tilviki fjármála- og efnahagsráðherra, Landsvirkjun að verðleggja sig m.v. 7,5 %/ár arðsemi. Hér fara ekki saman hljóð og mynd. Sami ráðherra leggur höfuðáherzlu á viðspyrnu út úr Kófinu, og að við fjárfestum og framleiðum sem mest við megum til að skapa störf og gjaldeyri. Undir það skal taka, en þessi arðsemiskrafa á hendur Landsvirkjun stendur gjörsamlega í vegi fyrir því, að sækja megi fram á þessum vígstöðvum. Þessi ráðherra hefur algerlega í hendi sér að koma hjólunum í gang aftur með hjálp rafmagnsins. Það hefur verið gert áður, annars staðar ("New Deal"). Því verður ekki trúað, að hann láti hjá líða að lagfæra það, sem hér hefur verið bent á, í ljósi þess, að allt þjóðarbúið á nú í vök að verjast vegna sóttvarnaraðgerða.
"Aðspurður, hvort breyttar horfur á norrænum raforkumarkaði kalli á endurskoðun verðstefnu Landsvirkjunar, segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, svo vera til skemmri tíma, en ekki endilega til lengri tíma. "Til skemmri tíma erum við að koma til móts við viðskiptavini okkar með verðlækkunum og auknum sveigjanleika í samningum."
Hin mikla umframorka, sem sé í boði á [hinum] Norðurlöndunum, muni dragast saman, enda borgi það sig ekki fyrir nokkurn framleiðanda að selja rafmagn á núverandi stundarverðum (e. spot). "Fyrir mánuði voru t.d. framvirk raforkuverð um 25 EUR/MWh, en búast má við, að verðin sveiflist áfram. Ef verðið helzt mjög lágt, er líka líklegt, að lokun kjarnorkuvera í Svíþjóð verði flýtt og þar af leiðandi mun draga úr þessu offramboði. Tveir stórir sæstrengir frá Noregi til Þýzkalands og Bretlands munu líka fljótlega verða teknir í notkun. En því er hins vegar ekki að neita, að árin 2020 og 2021 eru mun erfiðari viðfangs en árið 2019; það á við alla markaði, og þar eru Landsvirkjun og viðskiptavinir hennar ekki undanskilin.""
Þetta er skrýtinn málflutningur og vitnar ekki um djúpstæða þekkingu á eðli orkumarkaða. Það eru öfugmæli, að Landsvirkjun hafi almennt lækkað verð eða sýnt sveigjanleika í samningum. Landsvirkjun dró t.d. lappirnar með Kófslækkun á verði rafmagns til ISAL, og forstjórinn hefur sýnt fádæma óbilgirni í nýlegum og fyrri samningaviðræðum við þetta fyrirtæki, Elkem Ísland og Norðurál, eins og nýlegar fréttir sumpart bera með sér.
Hvers vegna heldur þessi forstjóri, að raforkuframleiðendur á Norðurlöndunum selji raforkuna á lágu verði, ef það borgar sig ekki fyrir þá ? Enginn þvingar þá, og þeim er í lófa lagið að neita viðskiptum. Það er auðvitað vegna þess, að breytilegi kostnaðurinn er mjög lágur hjá þeim. Hvorki vindur né vatn kosta mikið fé. Kjarnorkuverin eru með langtíma samninga, og jaðarkostnaður þeirra er ekki hár, þ.e. hver viðbótar MWh er ódýr í vinnslu. Á tímum loftslagsbaráttu og koltvíildisskatts mun þess vegna lokun kjarnorkuvera ekki verða flýtt meira en orðið er.
Forstjórinn heldur, að viðbótar sæstrengir muni hækka raforkuverðið í Noregi. Hvers vegna eru þá núverandi sæstrengir ekki reknir á fullum afköstum ? Það er vegna skorts á eftirspurn. Evrópumarkaðurinn er ekki lengur seljendamarkaður, heldur kaupendamarkaður, m.a. vegna mikils framboðs á koltvíildislausri raforku. Umframframboð raforku á hinum Norðurlöndunum 2020-2024 er áætlað tæplega 26 TWh/ár vegna áformaðrar aukningar á orkuvinnslugetu kjarnorkuvera og vindorkuvera. Þetta er rúmlega 6 % af áætlaðri notkun og mun duga til að halda verðinu niðri. Blautir draumar forstjóra Landsvirkjunar um tímabil hás orkuverðs hafa fyrir löngu orðið sér til skammar.
Þrátt fyrir að raforkuvinnsla kjarnorkuvera innan ESB hafi minnkað um fimmtung á 10 árum til 2018, er raforkuverð þar lágt um þessar mundir. Þótt Þjóðverjar ætli að loka öllum sínum eftirstandandi kjarnorkuverum árið 2022, er ekki víst, að framboð kjarnorku í ESB, sem nú annar 28 % raforkuþarfarinnar, muni minnka, því að ný kjarnorkuver eru í byggingu í þremur landanna, Finnlandi, Frakklandi og Slóvakíu. Þrátt fyrir vaxandi andúð almennings á vindorku í Evrópu vegna umhverfisspjalla á stórum flæmum vex þó hlutdeild vindorkuvera enn á raforkumarkaðinum, enda er vindorkan, sem verið hefur niðurgreidd, að verða samkeppnishæf við t.d. gasorkuver.
Það var nauðsynlegt á síðari helmingi 20. aldarinnar að nýta orkulindir Íslands til atvinnusköpunar og gjaldeyrisöflunar. Kófið hefur nú árið 2020 flett ofan af því, að gjaldeyrisöflun og verðmætasköpun landsmanna stendur ekki á nægilega traustum fótum, og þá verða stjórnvöld að bregðast við því með því að stuðla að nýtingu náttúruauðlindanna út í yztu æsar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)