Færsluflokkur: Bloggar
8.3.2021 | 14:04
Lýst eftir stefnumálum stjórnmálanna
Undanfarnar vikur hefur kjósendum birzt metnaður allmargra stjórnmálamanna í flestum stjórnmálaflokkanna til að leiða lista flokka sinna eða verma eitt af efstu sætunum. Sagt er, að áhugi á stjórnmálum fari nú vaxandi og sömuleiðis traust almennings til Alþingis. Hvorugt ber að lasta, en það er holur hljómur í þessu öllu, því að stefnumál frambjóðendanna eru óljós. Það er slæmt. Auðvitað skipta persónulegir eiginleikar frambjóðandans máli, en hann verður að marka áherzluatriði sín, svo að kjósendur hafi raunverulegt val.
Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur, hefur um langt árabil fylgzt náið með stjórnmálum, innanlands og utan. Hann skrifaði grein í Morgunblaðið 23. febrúar 2021, þar sem kenndi ýmissa grasa, m.a. þeirra, sem blekbóndi þessa vefseturs gerir að umræðuefni hér að ofan:
"Hver er stefna stjórnmálaflokkanna í meginmálum ?".
Þetta er brýn spurning, og frambjóðendur í prófkjörum og aðrir frambjóðendur verða að gera hreint fyrir sínum dyrum, þegar þeir fara að gera hosur sínar grænar fyrir kjósendum. Kjósendur eiga rétt á að vita fyrir hverju þeir ætla að beita sér, og hverju þeir ætla að vinna gegn á næsta kjörtímabili. Hjörleifur orðaði þetta þannig:
"Flokkarnir hérlendis eru í óðaönn að undirbúa framboð, hver með sínum hætti, og tíðindi af vettvangi þeirra fylla fréttatíma. Minna fer enn sem komið er fyrir málefnaáherzlum af hálfu flokkanna, og formleg starfsemi þeirra hefur eflaust veikzt og riðlazt í skugga veirunnar. Sem áhorfandi að formlegu stjórnmálastarfi síðastliðin 8 ár finnst mér skorta mjög á, að umræðan snúist um málefni og meginlínur fremur en einstaka leikendur á pólitíska sviðinu. Er þar með ekki lítið gert úr hlutverki og frammistöðu einstakra stjórnmálamanna, jafnt á þingi og í ríkisstjórnum."
Við erum enn með samfélagstakmarkanir Kófsins í gildi, þótt engin smit utan sóttkvíar hafi greinzt í um 5 vikur vikur þangað til frétt barst af tveimur smitum um síðustu helgi. Það hefur komið í ljós erlendis, að fyrir C-19 pestina leikur mikill vafi á gagnsemi strangra samkomutakmarkana og samfélagslegra lokana (lockdowns). Samanburður á milli ríkja með ólíkar baráttuaðferðir gegn C-19 gefur lítið sem ekkert gagn af þeim til kynna, en samfélagslegur kostnaður er óyggjandi. Er rétt að beina núverandi fyrirkomulagi ákvarðanatöku um samkomutakmarkanir og samfélagslegar lokanir í lýðræðislegri farveg en nú er, svo að fleiri sjónarmið um lýðheilsu og efnahag fái að njóta sín en sóttvarnarsjónarmið eins manns ? Skref í þá átt er t.d., að nýtt sóttvarnaráð geri tillögu til heilbrigðisráðherra, og sé það t.d. skipað landlækni (formanni), sóttvarnalækni, lögmanni, og fulltrúa frá SA og ASÍ, alls 5 manns. Atkvæðagreiðsla skeri úr um ágreining. Auk sóttvarnarlaga verði þingsályktanir Alþingis leiðisnúrur sóttvarnaráðs og ráðherra. Meiri líkur eru þá á, að sóttvarnaraðgerðir verði innan marka sóttvarnarlaga og stjórnsýslulaga. Það mun hafa áhrif til minnkunar heildartjóns þjóðfélagsins af sóttinni m.v. núverandi "einstefnu" fyrirkomulag.
Hvernig á að vinna bug á gríðarlegum fjárlagahalla, og hver á ríkisfjármálastefna næsta kjörtímabils að verða ?
Atvinnuleysið vex enn. Hvernig á að minnka það úr um 12 % og niður fyrir 3 % á næsta kjörtímabili ?
Hvernig á að greiða götu atvinnusköpunar á næsta kjörtímabili, t.d. á sviði fiskeldis, landbúnaðar og iðnaðar ? Er heppilegt í þessu sambandi að ýta undir orkuverðshækkanir með tiltölulega háum arðsemiskröfum á hendur opinberum orkufyrirtækjum, eða er e.t.v. heppilegra að styrkja og efla atvinnureksturinn í landinu með því, að hið opinbera stilli arðsemiskröfum mjög í hóf (haldi þeim í lágmarki) og geri aðrar ráðstafanir, t.d. varðandi flutnings- og dreifingarkostnað, til að lágmarka orkukostnað ?
Hvernig stendur t.d. á því, að Landsvirkjun hefur ekki tekið tilboði Norðuráls um að hverfa frá Nord Pool-raforkuverði og taka upp meðalorkuverð til stóriðju, eins og það var á 4. ársfjórðungi 2020 á Íslandi, með álverðstengingu ? Slíkt mundi skapa fjölda starfa á Grundartanga í bráð og lengd og fjárfestingu um allt að mrdISK 15, sem hafizt gæti strax.
Er æskilegt fyrir Íslendinga að innleiða orkukauphöll, þar sem raforkuverðið ræðst af framboði og eftirspurn. Texasbúar urðu illilega fyrir neikvæðum afleiðingum þess um miðjan febrúar 2021, þegar mikill orkuskortur varð í ríkinu. Orkuverðið til neytenda með slíka samninga hækkaði þá úr 0,12 USD/kWh (15 ISK/kWh) í 9,0 USD/kWh (1170 ISK/kWh), þ.e. verðið 75 faldaðist. Hérlendis getur slíkur uppboðsmarkaður með raforku ekki virkað með einn ríkjandi risa á orkumarkaðinum.
Eru stjórnmálamenn þá fúsir til að kljúfa Landsvirkjun í a.m.k. tvennt til að freista þess að fá fram vísi að frjálsum orkumarkaði ? Hérlendis getur hæglega orðið raforkuskortur, og virkjunarfyrirtækin hafa framboðið í hendi sér og þar með verð á markaði. Mikil tregða er til að hefja virkjun, sem eitthvað munar um á markaðinum, og enginn er ábyrgur gagnvart almenningi um afhendingaröryggi raforku. Það stefnir í óefni.
Hver er afstaða frambjóðenda til Alþingis til 4. orkupakka Evrópusambandsins, s.k. Hreinorkupakka ESB ? Með innleiðingu hans í heild sinni mundi Ísland verða niðurnjörvað í Orkusamband ESB með svo róttækum hætti, að fullveldi landsins í orkumálum yrði algerlega liðin tíð, og ekki verður betur séð en stjórnarskrá Íslands yrði algerlega fótum troðin með slíkri innlimun í Orkusamband ESB.
Hjörleifur hélt áfram:
"Í fróðlegri grein Arnars Þórs Jónssonar, héraðsdómara, í Morgunblaðinu 13. febrúar síðastliðinn undir fyrirsögninni Kreppa lýðræðisins ? vekur hann athygli á, að þjóðin hefur með EES-samningnum gefið frá sér mikilvægt stjórntæki í eigin málum. Arnar Þór spyr m.a.:
"Getum við gengið að því vísu, að Íslendingum sé betur borgið í umsjá erlendra embættismanna og yfirþjóðlegra stofnana en lýðræðislega kjörinna handhafa íslenzks löggjafarvalds og ráðherra, sem bera ábyrgð gagnvart þingi og þjóð ? Getur örríki, eins og Ísland, ekki tryggt hagsmuni sína í alþjóðlegu samstarfi án þess að fórna fullveldi sínu ?" -
Nú er viðurkennt, að samþykkt laga um EES-samninginn á Alþingi 1993 hafi gengið gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar á þeim tíma og átt síðan þátt í þeirri fjárhagslegu spilaborg, sem leiddi til hrunsins 2008. Við inngöngu Íslands í EES var því haldið fram, að Ísland gæti hafnað reglum, sem samrýmast ekki þjóðarhagsmunum. Þrátt fyrir þetta samþykkti Alþingi á yfirstandandi kjörtímabili, eins og einnig norska Stórþingið, þriðja orkupakka ESB og þær tilskipanir, sem hann byggist á. Norsku samtökin Nei til EU töldu, eins og fleiri, að þurft hefði 3/4 þingheims [3/4 viðstaddra þingmanna. Viðstaddir verða að nema a.m.k. 2/3 allra þingmanna - innsk. BJo], til að slík samþykkt stæðist ákvæði norsku stjórnarskrárinnar. Nei til EU reka nú mál fyrir hæstarétti Noregs þar að lútandi. Úrskurðar réttarins í málinu er að vænta innan tíðar."
Ef vel á að vera, geta frambjóðendur ekki leitt hjá sér þau mikilvægu málefni, sem Arnar Þór Jónsson og Hjörleifur Guttormsson þarna vekja máls á. Síðasta dæmið um aftaníossahátt íslenzkra stjórnmála- og embættismanna gagnvart Evrópusambandinu (ESB) er útvegun bóluefnis við C-19. Það er ekki gott til þess að vita, að þeir, sem eiga að gæta hagsmuna Íslands, hafa engan metnað í þá veru, ef þeir geta komið verkinu yfir á einhvern annan. Þar með bregðast þeir væntingum þeirra, sem vilja, að stjórnmálamenn og embættismenn hafi bæði vilja og getu til að halda fullveldi landsins á lofti og vinni í anda þess, að fullveldið sé notadrjúgt og meira en orðin tóm.
Það hefðu átt að hringja aðvörunarbjöllur í Stjórnarráðinu um sólstöðubil í fyrra, þegar forsjálar þjóðir á borð við Ísraela, Breta og Bandaríkjamenn, voru að ganga frá samningum við bóluefnaframleiðendur, en hvorki gekk né rak í samningaviðræðum ESB við þá.
Nú er líklegt, að allir fullorðnir Ísraelar, sem það kjósa, verði fullbólusettir fyrir apríllok 2021 og að hjarðónæmi náist á Bretlandi og í Bandaríkjunum jafnvel í maí 2021, en það hillir ekki undir það á Evrópska efnahagssvæðinu, EES, vegna bóluefnaklúðurs framkvæmdastjórnar ESB. Eins og staðan er núna, mega Íslendingar ekki taka gild C-19 ónæmisvottorð, gefin út utan EES. Það þýðir, að við getum ekki tekið á móti bólusettum Bretum og Bandaríkjamönnum, hvað þá þeim, sem náð hafa sér af C-19 veikindum, nema með skimunum og sóttkví. Þetta nær engri átt. Sjálfstæði okkar til að ráða málum okkar á skynsamlegan og heiðarlegan hátt sjálf er stórlega skert með mjög svo íþyngjandi aðild að EES, þar sem ESB mótar stefnu, og Ísland er ekki aðili að þeim ákvörðunum.
Valkosturinn við þessa EES-aðild er víðtækur fríverzlunarsamningur við ESB. Það kann að verða pólitískur grundvöllur fyrir samningaviðræðum EFTA um slíkan fríverzlunarsamning eftir þingkosningar í Noregi og á Íslandi í haust. Hvaða afstöðu hafa frambjóðendur til slíkra uppstokkana ?
Arnar Þór Jónsson áréttaði reyndar afstöðu sína í Morgunblaðsgrein 25. febrúar 2021 undir fyrirsögninni:
"Kjarnaofnar og hjólaskýli".
"Ég tel ekki, að þjóðin hafi með EES-samningnum gefið frá sér mikilvæg stjórntæki í eigin málum, heldur að meirihluti Alþingis hafi við innleiðingu þriðja orkupakka ESB sleppt höndunum af umræddum stjórntækjum með því að misvirða í framkvæmd þá fyrirvara, sem settir voru í EES-samninginn af hálfu þjóðarinnar - og voru raunar forsenda þess, að Íslendingar gerðust aðilar að EES-samstarfinu.
Hjörleifur á þakkir skildar fyrir grein sína að öðru leyti, og þá ekki sízt fyrir að draga athygli að því, hvernig staðið var að innleiðingu þriðja orkupakkans í Noregi, en mál um það efni bíður nú úrlausnar í Hæstarétti Noregs. [Kveðinn var upp dómur 1. marz 2021 - innsk. BJo.] Ástæða er einnig til að þakka ritstjóra Morgunblaðsins fyrir þétt aðhald gagnvart Alþingi í þessu tilliti, sbr nú síðast leiðara Morgunblaðsins 17. febrúar sl., þar sem varað var við því, að "glannaleg framganga veiklyndra stjórnmálamanna höggvi ekki á mikilvægasta þráðinn", þ.e. hinn lýðræðislega þráð, sem tengir borgarana við valdið og á að tryggja, að valdhafar svari til ábyrgðar gagnvart borgurunum."
Margir þeirra Alþingismanna, sem greiddu götu Þriðja orkupakkans (OP#3) inn í lagasafn Íslendinga, leita nú eftir áframhaldandi stuðningi flokksmanna sinna. Þeir þurfa að svara kjósendum sínum því, hvers vegna þeir létu hjá líða að grípa til stjórntækjanna, sem í EES-samninginum eru, og hafna þannig að staðfesta gjörðir Sameiginlegu EES-nefndarinnar varðandi OP#3. Ein af skuldbindingunum með innleiðingu OP#3 er að taka upp markaðskerfi ESB fyrir raforku, sem er uppboðskerfi, sem í vetur hefur leitt til mikilla verðhækkana á raforku í kuldakasti í vetur á hinum Norðurlöndunum, t.d. í Noregi og Svíþjóð. Eru þingmannsefnin hlynnt því, að stofnað verði til uppboðskerfis á raforku á Íslandi með þeim verðsveiflum, sem slíkt mun hafa í för með sér ?
Fyrrnefndur dómur í Hæstarétti Noregs í máli Nei til EU gegn ríkinu þess efnis, að Stórþingið hefði ekki viðhaft stjórnarskrárbundna aðferð við atkvæðagreiðslu um mál, sem varða fullveldisafsal til stofnana, þar sem Noregur á ekki fulla aðild, í tilviki atkvæðagreiðslunnar um innleiðingu Orkupakka 3 í norska lagasafnið í marz 2018, féll á þá lund, að héraðsdómi (Tingretten i Oslo) bæri að taka kærumál samtakanna til efnislegrar meðferðar. Þetta var sigur fyrir NtEu, því að ríkislögmaðurinn hafði krafizt frávísunar málsins frá dómi og héraðsdómur orðið við því.
Nú mun taka við málarekstur í dómskerfi Noregs, sem endar aftur í Hæstarétti árið 2022. Þangað til er mjög óviðeigandi að fjalla um arftaka OP#3, Hreinorkupakkann, á vegum EFTA, eins og ekkert hafi í skorizt. Ef NtEU vinnur sitt mál í dómskerfi Noregs, þá er OP#3 algerlega í lausu lofti í Noregi, því að þá verður að bera hann upp til atkvæða í Stórþinginu á ný, og þá verður krafizt stuðnings 3/4 viðstaddra þingmanna, svo að OP#3 haldi lagagildi sínu. Þessi atkvæðagreiðsla mun fara fram að öllum líkindum á næsta kjörtímabili. Talið er, að andstæðingum innleiðingar orkulöggjafar ESB í lagasafn Noregs muni vaxa fiskur um hrygg í kosningum til Stórþingsins í september 2021, svo að OP#3 verður sennilega felldur þar við þessar aðstæður. Þá fellur hann líka úr gildi á Íslandi og í Liechtenstein. Að svo komnu ættu íslenzkir þingmenn og ráðherrar að beita sér fyrir því, að fastanefnd EFTA, sem haft hefur Hreinorkupakkann til umfjöllunar að undanförnu, geri hlé á undirbúningi sínum að viðræðum við ESB um málið, þar til málið er til lykta leitt í Noregi, og tilkynni ESB um þá málsmeðferð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.3.2021 | 13:04
Smávirkjanir
Sú var tíðin, að landsmenn fögnuðu hverri nýrri virkjun, sem framleiddi rafmagn, enda var löngum meiri eftirspurn en framboð af því í landinu. Þótt meiri fjölbreytni sé í notkun rafmagns nú á dögum, var nýting þess býsna fjölbreytileg þegar í upphafi. Það var nýtt til að lýsa upp híbýli og götur, til að knýja mismunandi hreyfla og í litlum mæli til upphitunar.
Hafnfirðingurinn Jóhannes Reykdal hóf ævintýrið sama ár og fyrsti íslenzki ráðherrann, Hannes Hafstein, lögfræðingur og ljóðskáld, hóf störf í Stjórnarráðshúsinu við Lækjargötu, 1904. Fyrsta vatnsaflsvirkjunin, sem sögur fara af á Íslandi, var í Hamarskotslæk í Hafnarfirði, og er hægt að virða búnað hennar fyrir sér á upprunalega staðnum. Hún sá 15 húsum og 4 götuljósum fyrir rafmagni. Í þá daga tók fólk peruna með sér, þegar það fór úr einu herbergi í annað. Virkjunin mun síðar hafa knúið tæki á verkstæði Jóhannesar. Virkjun þessi framleiddi jafnstraum, og dreifingin var á jafnstraumi, svo að ekki var hægt að senda raforkuna langt vegna spennufalls og orkutapa.
Fjarðarselsvirkjun í Seyðisfirði er fyrsta riðstraumsvirkjunin hérlendis, og þaðan var fyrsti háspennustrengurinn á landinu lagður til að sjá hinum grózkumikla, brautryðjandi og fagra austfirzka kaupstað fyrir orku. Þar var jafnframt fyrsta raunverulega dreifikerfið lagt. Virkjunin er enn í rekstri, en er líka stórmerkilegt tækniminjasafn. Það varð snemma ljóst, að riðstraumstæknin hefði yfirburði umfram jafnstraumstæknina, t.d. varðandi möguleika til spennubreytinga, enda varð Fjarðarselsveitan fyrsta bæjarveita landsins. Jafnstraumurinn leikur þó mjög stórt hlutverk í iðnaði nú á dögum, t.d. við rafgreiningu súráls og vatns, og rafmagn er sums staðar flutt langar leiðir sem háspenntur jafnstraumur, ýmist eftir loftlínum eða jarðstrengjum. Vel þekktir úr umræðunni hérlendis eru jafnstraumssæstrengir.
Virkjanauppbygging í landinu gekk því miður hægt og uppbygging dreifikerfis einnig, og flutningskerfi í eiginlegum skilningi varð ekki til fyrr en með Sogsvirkjunum fyrir Reykjavík og nærsveitir, en fyrsta virkjunin þar Ljósafossstöð, 2x4,4 MW, var tekin í notkun 1937. Þá fjórfaldaðist aflframboðið í Reykjavík, sem gerði íbúunum kleift að leggja kolaeldavélum sínum og setja upp rafmagnseldavélar og rafmagnsofna. Virkjunin var stækkuð 1944 með 1x6,5 MW aflsamstæðu, svo að heildaraflgetan varð 15,3 MW og orkuvinnslugeta 105 GWh/ár. Írafossvirkjun var svo tekin í notkun árið 1953, svo að ótrúlega hægt gekk að virkja, og línulagnir sóttust jafnvel enn hægar.
Svar landsmanna við þessum hægagangi yfirvaldanna við raforkuvæðingu landsins var að reisa smávirkjanir upp á eigin spýtur. Árið 1950 var búið að reisa 530 smávirkjanir á landinu. Hætt var rekstri þeirra flestra, þegar eigendum þeirra stóð til boða aðgangur að landskerfinu. Nú er hægt að reisa smávirkjanir og selja orku frá þeim inn á dreifikerfin. Í flestum tilvikum er þar um að ræða vatnsaflsvirkjanir á bilinu 1-10 MW. Endurgreiðslutími hagkvæmra vatnsaflsvirkjunarkosta er í sumum tilvikum innan við 10 ár, og tæknilegur afskriftatími með hóflegum viðhaldskostnaði er yfir 40 ár. Fjárfesting í slíkum virkjunum er þess vegna arðsamari en margt annað.
Vestfirðingar búa við þá annmarka að vera ekki hringtengdir rafmagnslega, sem langflestir aðrir landsmenn þó eru. Landskerfistenging þeirra er um Vesturlínu frá aðveitustöð í Glerárskógum í Dölum, sem er tengd Byggðalínu í aðveitustöð Hrútatungu í Hrútafirði. Vesturlína frá Glerárskógum að Mjólká er líklega bilanagjarnasta 132 kV flutningslína landsins, og þar sem virkjanir á Vestfjörðum geta aðeins staðið undir um 60 % orkuþarfarinnar, skellur straumleysi á Vestfirðingum á hverju ári svo að segja. Tekizt hefur að stytta straumleysistímann hjá flestum notendum þar verulega með olíukyntri vararafstöð á Bolungarvík að uppsettu afli 10,8 MW. Þetta er þó ófullnægjandi afhendingaröryggi raforku, sem veldur miklu tjóni nútíma atvinnulífs og heimila, og kostnaðarlega og umhverfislega aðeins bráðabirgðalausn, þegar þess er gætt, að Vesturlína getur verið straumlaus sólarhringunum saman.
Fyrir utan tvöföldun Vesturlínu, sem er kostnaðarlega og tæknilega ófýsilegur kostur, eru 2 meginúrbætur nauðsynlegar á Vestfjörðum. Annar er sá að færa 60 kV flutningskerfið ásamt öllu dreifikerfinu af loftlínustaurum og í jarðstrengi. Hinn er sá að gera íbúa Vestfjarða sjálfum sér nóga um raforku, þ.e. að raforkuvinnsla á Vestfjörðum dugi til að anna meðalraforkuþörf Vestfirðinga hið minnsta. Raforkuþörf Vestfirðinga fer ört vaxandi með aukinni mannaflaþörf af öllu tagi vegna vaxtarsprotans laxeldis, sem kemur nú sem himnasending á krepputíma og eykur mjög umsvif sín. Það er þó fleira á döfinni þar og auk ferðaþjónustunnar má nefna Kalkþörungaverksmiðjuna á Súðavík, sem mun þurfa um 10 MW afl.
Á Vestfjörðum hefur verið kortlagður mikill fjöldi smávirkjanakosta undir 10 MW, sem gæti þjónað þörfum landshlutans vel. Árið 2020 vann Verkfræðistofan Verkís skýrslu fyrir Vestfjarðastofu um smávirkjanakosti og kortlagði alls 68 virkjanakosti að uppsettu afli 79 MW. Þar af eru 18 hagkvæmir m.v. núverandi orkuverð, og er uppsett afl þeirra alls áætlað 43 MW og orkugeta 202 GWh/ár, sem með núverandi virkjunum á Vestfjörðum mundu duga Vestfirðingum vel a.m.k. næsta áratuginn í orkuskiptunum.
Með þeim umbótum, sem hér hafa verið nefndar, væri vel séð fyrir raforkuöryggi og raforkuþörf Vestfirðinga, án þess að þeir þurfi nema örsjaldan að grípa til neyðarrafstöðvarinnar á Bolungarvík. Þessar framkvæmdir er vafalítið hægt að skipuleggja og hanna með lágmarksáhrifum á náttúruna og þeim öllum afturkræfum. Þannig er ólíku saman að jafna við vindmyllur, sem eru mjög áberandi í umhverfinu, hávaðasamar og skaðræði fyrir fugla. Athafnasvæði vindmylla er stórt m.v. við framleiðslugetu þeirra, og mikið umrót verður á öllu athafnasvæðinu vegna djúpra grunna fyrir stórar steyptar undirstöður og rafstrengi frá hverri vindmyllu. Það er afar einkennilegt, að nokkrum skuli detta í hug, að það sé fýsilegur kostur að reisa vindmyllur í landi, þar sem nóg er af öðrum hagkvæmari og umhverfisvænni virkjunarkostum. Það er til vitnis um þær villigötur, sem umræða um orkumál á Íslandi hefur ratað í og fráfarandi orkumálastjóri gerði að umræðuefni í jólaávarpi sínu 2020.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.3.2021 | 18:50
Sóttvarnir lúta geðþóttastjórn
Það vantar öll viðmið við framkvæmd sóttvarnanna á Íslandi. Leiðarljósið er fyrir hendi. Það er veirulaust Ísland. Sú leið er grýtt og þyrnum stráð, því að samkomutakmarkanir og höft á alls konar starfsemi hefur mikinn og margvíslegan kostnað í för með. Mannlegur harmleikur af völdum slíkra stjórnvaldsaðgerða getur hæglega orðið meiri en af völdum sýkinga af veirunni, SARS-CoV-2.
Ef veiran væri hættulegri, t.d. eins og ebóluveiran, mundi málið horfa allt öðruvísi við. Þess vegna eru töluleg viðmið svo mikilvæg, og lagaleg hlið málsins, þ.e. heimildir yfirvalda, eru ekki síður mikilvægar. Nýlega hafa 2 lögfræðingar tjáð sig opinberlega um þessi mál með afar athyglisverðum og lofsverðum hætti.
Annar er Jón Magnússon. Hann skrifaði í Morgunblaðið 25. febrúar 2021 undir fyrirsögninni:
"Lögmæti eða valdníðsla".
Greinin hófst þannig:
"Frjálst lýðræðisþjóðfélag byggist m.a. á þeirri von, að fólk muni haga sér vel, þegar það hefur valkosti, og betra þjóðfélag verði að veruleika, þegar hugmyndafræði frelsisins ræður.
Byggt er á því, að fara verði að lögum og stjórnvöld geti ekki gripið til íþyngjandi ráðstafana gagnvart borgurunum, nema fylgt sé svonefndri lögmætisreglu, sem felur það í sér, að ákvörðun ríkisvaldsins og annarra stjórnvalda þurfi að vera í samræmi við lög og málefnaleg sjónarmið."
Ennfremur gilda hér stjórnsýslulög, t.d. um meðalhófsregluna. Í lögum nr 37/1993, 12. gr., segir svo:
"Stjórnvald skal því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun, þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt, að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til."
Höfundur þessa vefpistils telur sóttvarnaryfirvöld með heilbrigðisráðherra í broddi fylkingar hafa farið offari í Kófinu og valdið þar með einstaklingunum og þjóðfélaginu meira tjóni en efni stóðu til. Þetta á t.d. við um skólakerfið. Það var ástæðulaust að valda jafnmiklum truflunum á skólastarfinu og reyndin var. Það átti að reyna vægari úrræði fyrst, t.d. grímuskyldu í framhaldsskólum, en eftirláta hverjum skóla fyrir sig að öðru leyti persónulegar og sameiginlegar sóttvarnir.
Mjög orkaði tvímælis að banna íþróttaiðkun og kappleiki, loka þrekstöðvum og sundlaugum. Þessi iðkun gegnir mikilvægu hlutverki fyrir lýðheilsuna og vitað er, að strangar frelsistakmarkanir og atvinnuhömlur hafa slæm áhrif á heilsufar þeirra, sem fyrir barðinu verða. Það virðist hafa vantað við ákvarðanatökuna að vega og meta gagnsemi og galla við sóttvarnaraðgerðir. Tillögur um sóttvarnaraðgerðir þurfa að koma frá fjölbreytilegu teymi.
Þá eru landamærin kapítuli út af fyrir sig. Það verður ekki annað séð en yfirvöldin hafi farið offari þar t.d. í febrúar 2021, þegar smitstuðullinn var orðinn mjög lágur á Íslandi (fá ný smit og öll innan sóttkvíar), að bæta þá enn einu skilyrðinu við fyrir landgönguleyfi hér, þ.e. ónæmisvottorði eða neikvæðu PCR-skimunarvottorði. Þarna áttu yfirvöldin að grípa tækifærið til að létta undir með ferðageira og gjaldeyrisöflun á Íslandi; innleiða vottorðin (að sjálfsögðu með kurteislegum fyrirvara í stað þess ruddaháttar, sem sýndur var) og afnema um leið seinni skimun og sóttkvína, ef vottorð og komuskimun voru í lagi.
"Í 12. gr. sóttvarnalaga nr 19/1997, með áorðnum breytingum, segir nú: "opinberum sóttvarnaráðstöfunum skal aflétta svo fljótt sem verða má". Í því sambandi er eðlilegt að velta því fyrir sér, hvort farið hafi verið að lögum m.v. lögmætisreglu og meðalhóf, að beita sérstökum ráðstöfunum innanlands eftir mánaðamótin janúar-febrúar sl., þar sem þá hafði ekki greinzt smit utan sóttkvíar í 11 daga.
Hvað sem öðru líður, þá virðist farið umfram meðalhóf, þegar sérstakar samkomutakmarkanir, lokunarreglur og grímuskylda gilda, svo [að] nokkur atriði séu tekin, eftir að fyrir liggur, að tíðni sjúkdómsins er ekki umfram það, sem skýra má með því, að um tilviljun sé að ræða, svo [að] gripið sé niður í skilgreiningu sóttvarnalaganna á hugtakinu "farsótt", eins fátækleg og hún nú er.
Þá ber einnig að skoða nýtt ákvæði 3. mgr., 12. gr. sóttvarnalaga, þar sem segir með tilvísun í 2. mgr., að opinberum sóttvörnum skuli ekki beita, nema brýn nauðsyn krefji til verndar heilsu og lífi manna, og við beitingu ráðstafana sem og við afléttingu skuli gæta meðalhófs og jafnræðis ... , og ekki skuli stöðva atvinnurekstur, nema að því marki, sem starfsemin felur í sér hættu á útbreiðslu farsóttar ... .
Ekki verður séð, að ráðstafanir heilbrigðisyfirvalda hafi verið í samræmi við þessi ákvæði sóttvarnalaga undanfarnar vikur, þannig að hvorki hefur verið gætt meðalhófs né lögmætisreglu.
Hvorki ríkisstjórn né heilbrigðisyfirvöld hafa markað ákveðna stefnu til lengri tíma varðandi viðbrögð við Covid-19 farsóttinni. Þannig eru engin viðmið um ráðstafanir, sem eðlilegt er að grípa til m.v. tíðni smita eða annars. Heilbrigðisyfirvöld freistast því til að mæla fyrir um sem harðastar reglur, og ráðherra samþykkir þær allar án athugasemda og virðist ekki skeyta um lögmætisregluna, reglu um meðalhóf og jafnvel ekki ótvíræðan lagatexta sóttvarnalaga og hefur því, ef rétt er, gerzt sek um valdníðslu gagnvart borgurunum." [Undirstr. BJo.]
Höfundur þessa pistils getur með leikmannsaugum ekki séð annað en þessi röksemdafærsla og aðfinnslur hæstaréttarlögmannsins séu hárréttar og eigi fullan rétt á sér. Það er ekki að ófyrirsynju, að löggjafinn hefur takmarkað heimildir sóttvarnaryfirvalda til frelsisskerðandi aðgerða undir merkjum sóttvarna. Það er m.a. vegna þess, að honum, eins og ýmsum öðrum, er ljóst, að slíkar aðgerðir og afleiðingar þeirra, t.d. atvinnuleysi, hafa mjög slæm áhrif á andlegt og líkamlegt heilsufar fólks. Nýlega áætlaði "The National Bureau of Economic Research" í Bandaríkjunum, að 1,0 M dauðsföll yrðu þar vegna atvinnuleysis af völdum opinberra sóttvarnaráðstafana. Um 0,5 M manns eru nú skráðir látnir af völdum C-19 í BNA. Hérlendis er meira hlutfallslegt atvinnuleysi en í BNA, og er það að mestu leyti af völdum sóttvarnaráðstafana hérlendis og erlendis. Ef þetta atvinnuleysi hérlendis varir út árið 2021 að mestu óbreytt, verða heilsufarslegar og efnahagslegar afleiðingar hrikalegar og má ætla fjöldi þeirra, sem í valinn falla vegna sóttvarnaráðstafana, verði a.m.k. tífaldur fjöldi látinna vegna sjúkdómsins.
Nú er nýgengið innanlands aðeins um 0,3, og við þær aðstæður ber að aflétta þegar í stað öllum stjórnvaldshömlum sóttvarnayfirvalda samkvæmt laganna bókstaf. Jafnframt stingur "þrefalt öryggi" á landamærunum í stúf við varúðarráðstafanir annars staðar í Evrópu, þar sem víðast hvar er látið duga að krefjast sóttvarnarskírteinis. Hér á landi er þess krafizt auk tvöfaldrar skimunar með sóttkví á milli. Þetta er brot á lögmætisreglunni og meðalhófsreglunni. Seinni skimuninni og sóttkvínni ætti að sleppa, og er þá tvöfalt öryggi áfram.
Í lokin skrifaði Jón Magnússon:
"Nú er spurningin, fyrst reglurnar, sem hafa verið í gildi, ná markmiði sínu, hvort það sé ekki umfram meðalhóf að gera þessa kröfu um, að ferðamaður framvísi sérstöku PCR-prófi. Ekki verður annað séð en það sé umfram það, sem málefnaleg sjónarmið geta réttlætt, að gert sé.
Við beitingu valdheimilda verður að fara að lögum og í samræmi við staðreyndir. Sé það ekki gert, eru yfirvöld að níðast á borgurunum og geta bakað sér bótaskyldu gagnvart þeim. Mikilvægast er þó, að yfirvöld beri virðingu fyrir þeim lögum og lýðréttindum, sem gilda í landinu, og taki ákvarðanir í samræmi við þau."
Heilbrigðisráðherranum brást í upphafi bogalistin við að skilgreina viðfangsefnið, sem kórónuveiran SARS-CoV-2 færði Íslendingum. Í stað þess að ákveða, að hámarkssóttvarnir skyldi leggja til grundvallar ákvarðanatöku hefði átt að leggja lágmörkun heildartjóns samfélagsins til grundvallar. Sú aðferðarfræði er stærðfræðingum vel kunn og kallast beztun (optimisation). Í stað þess, að einn læknir geri tillögu til ráðherra, ætti sóttvarnarráð, sem skipað væri sóttvarnalækni, lögmanni, fulltrúa frá SA og frá ASÍ og Landlækni að gera tillögu til ráðherra. Landlæknir væri formaður sóttvarnaráðs og atkvæði væru greidd um hvern lið tillögunnar. Ráðherra ætti a.m.k. á 60 daga fresti að gefa Alþingi skýrslu um framkvæmdina, stöðu og horfur, og Alþingi að fjalla um stefnumarkandi þingsályktunartillögur, eins og þurfa þykir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.2.2021 | 19:54
Nýir möndlar
Á þessu vefsetri hefur verið fjallað um nýju gaslögnina Nord Stream 2, sem liggur frá Síberíu til Þýzkalands á botni Eystrasalts án viðkomu í öðrum löndum. Nú virðist þetta verkefni munu verða að stórpólitísku bitbeini, sem valda muni klofningi á meðal Vesturveldanna og myndun nýrra pólitískra öxla. Lögnin markar þáttaskil í Evrópu fyrir 21. öldina.
Undir hinum írsk- og þýzkættaða Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, versnaði sambúð Þýzkalands og Bandaríkjanna til muna, en stirðleikinn hófst fyrr og má rekja aftur til forsetatíðar Ronalds Reagans. Í tíð Trumps sannfærðust þýzk stjórnvöld um, að Evrópa gæti ekki lengur treyst á skilyrðislausan vilja Bandaríkjanna til varna, og fóru að taka undir málflutning Frakka, sem allt frá Charles de Gaulle, stofnanda 5. lýðveldis Frakka, hafa þann steininn klappað, að Evrópa yrði að vera sjálfri sér nóg á flestum sviðum og ekki sízt í varnarmálum. Í þeim anda vinna nú Þjóðverjar, Frakkar og Spánverjar sameiginlega að þróun næstu kynslóðar orrustuflugvélar, sem ætlað er að veita þeim yfirburði í lofti.
Fyrir NATO er þessi klofningur grafalvarlegt mál, þar sem grundvallarregla þessa varnarbandalags er, að árás á eitt aðildarlandann verður í höfuðstöðvum þessa hernaðarbandalags skoðuð sem árás á öll aðildarlöndin og á bandalagið sjálft. Bandaríkjamenn telja Þjóðverja stefna Evrópu í hættu með því að gera hana háða eldsneytisgasviðskiptum við Rússa. Þjóðverjar hafa áreiðanlega unnið heimavinnuna sína og gert sínar áhættugreiningar. Hafa ber í huga, að þessi gaskaup munu ekki standa til eilífðarnóns, heldur aðeins á meðan á orkuskiptunum (die Energiewende) stendur.
Frakkar eru hins vegar algerlega á móti Nord Stream 2, og þar krystallast munurinn á Þjóðverjum og Frökkum varðandi sjálfstæði gagnvart Bandaríkjunum. Þjóðverjar láta verkin tala, en Frakkar tala mikið og oft fylgja ekki gerðir orðum. Austur-Evrópa og Eystrasaltslöndin eru líka algerlega á móti Nord Stream 2, og þing Evrópusambandsins (ESB) ályktaði eftir handtöku og dómsuppkvaðningu yfir Alexei Navalny, rússneska stjórnarandstöðuleiðtogans, að stöðva skuli vinnu við þessa lögn, sem er 95 % tilbúin. Skellt var skollaeyrum við þeirri samþykkt.
Þjóðverjar sitja við sinn keip og neita að bregðast Rússum, enda sitja ýmsir þekktir Þjóðverjar í stjórn verkefnisins, og skal fyrstan frægan telja Gerhard Schröder, fyrrum kanzlara og formann SPD (Jafnaðarmannaflokksins). Forseti Sambandslýðveldisins, Walter Steinmeier, sósíaldemókrati, hefur opinberlega sagt, að Þjóðverjar hafi valdið Rússum miklu tjóni með því að rjúfa griðasáttmálann frá ágúst 1939 með "Operation Barbarossa" 1941 og beri nú að treysta þeim og efla við þá viðskiptin. Í Bundestag er mikill meirihlutastuðningur við Nord Stream 2.
Í Bandaríkjunum er nú til endurskoðunar, hverja beri að líta á sem trausta bandamenn í Evrópu. Nú er talið, að Bretar muni verða valdir mikilvægustu og traustustu bandamenn Bandaríkjamanna í Evrópu og að myndaður verði möndullinn Washington-London, þótt forkólfar í Biden-stjórninni hafi ekki verið hrifnir af BREXIT. BREXIT er hins vegar afgreidd nú. Þrátt fyrir gildandi viðskiptabann ESB-BNA á Rússland og gagnkvæmt virðist vera jarðvegur fyrir myndun mönduls á milli Berlínar og Moskvu. Það er stórpólitísk nýjung, sem sýnir í raun og veru miklu nánari og vinsamlegri samskipti Þýzkalands og Rússlands en flestir gerðu sér grein fyrir.
Ástæðuna fyrir gashungri Þjóðverja má rekja til 2011, þegar Angela Merkel beitti sér fyrir því á þýzka þinginu í Berlín, að starfsemi þýzkra kjarnorkuvera yrði bönnuð frá árslokum 2022. Jarðvegur fyrir þetta myndaðist eftir Fukushima-kjarnorkuslysið í Japan, en var mesta óráð og hefur valdið gríðarlegu umróti í orkumálum Þýzkalands og nú einnig hjá Svíum, sem urðu í vetur að loka einu kjarnorkuvera sinna vegna hertra öryggisreglna ESB. Þetta gerðist á kuldaskeiði og olli gríðarlegri hækkun raforkuverðs í Svíþjóð vegna ójafnvægis á milli framboðs og eftirspurnar. Þess má geta, að árið 2011 var sænska orkufyrirtækið Vattenfall neytt til að loka 2 kjarnorkuverum sínum í Þýzkalandi.
Sú leið, sem Þjóðverjar sjá vænsta til að forða sér frá orkuskorti, er að halda ótrauðir áfram með orkusamstarfið við Gazprom, hvað sem tautar og raular í Brüssel, París, Washington eða Varsjá. Þessi stefnufesta Þjóðverja er afrakstur "kalds mats" þeirra. Bandaríkjamenn hafa boðizt til að sjá þeim fyrir jarðgasi, t.d. af leirbrotssvæðum sínum (fracking zones), sem þeir mundu flytja til þeirra yfir Atlantshafið á LNG-skipum (Liquid Natural Gas). Þetta gas er talsvert dýrara komið í þýzka höfn en rússneska gasið, og Þjóðverjar treysta því einfaldlega betur, að rússneska viðskiptasambandið haldi en það bandaríska. Þjóðverjar vita sem er, að Rússa bráðvantar gjaldeyri, en Bandaríkjamenn hafa ekki mikla hagsmuni af slíkum gasútflutningi, þótt hann sé vissulega búbót. E.t.v. mun Evrópa fá jarðgas bæði úr austri og vestri sem einhvers konar málamiðlun.
Bandaríkin hafa bannfært fyrirtæki, sem eiga viðskipti við Nord Stream 2, og lokað fyrir viðskipti á þau. Þetta hefur hrifið. Svissneska sælagnafyrirtækið Allseas dró sig út úr samningum við Nord Stream 2, en þá hönnuðu og smíðuðu Rússar lagnaskipið Akademik Cherskiy. Það lagði fyrir rúmum 2 mánuðum úr höfn á þýzku eyjunni Rügen til að klára gaslögnina.
Þingmaður Republikanaflokksins, Ted Cruz, hefur reyndar sagt, að 95 % kláruð lögn sé 0 % tilbúin, og Bandaríkjamenn eru teknir að beita talsverðum þrýstingi til að koma í veg fyrir það, sem að þeirra mati gerir Evrópu allt of háða Rússum. Zürich Insurance endurtryggingafélagið og dönsk og norsk tryggingafélög hafa dregið sig út úr viðskiptum við Nord Stream 2 vegna þessa.
Þjóðverjar beittu krók á móti bragði Bandaríkjamanna. Fylkisstjórn Mecklenburg-Vorpommern, þar sem gaslögnin verður tekin í land, stofnaði félag með kEUR 2 stofnfé í því augnamiði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Nord Stream 2 hefur lagt MEUR 20 til þessa fyrirtækis og skuldbundið sig til að hækka framlagið í MEUR 60. Þetta félag er leppur fyrir Nord Stream 2, og um það fara öll viðskipti vestrænna fyrirtækja við Nord Stream 2. Þannig reyna þau að sneiða hjá refsiaðgerðum Bandaríkjamanna, sem annars mundu bíta illilega. Er bæði hægt að éta kökuna og eiga hana áfram ?
Angela Merkel hefur samúð með Alexei Navalny, en hún er ekki tilbúin til að fórna pólitískri innistæðu Þjóðverja hjá Rússum fyrir Navalny eða Krím. Valdhafar í stjórnmálum og á vinnumarkaði Þjóðverja styðja þessa stefnu, því að orkuhagsmunirnir eru ríkir, og rússneski markaðurinn getur tekið við miklu meiru af afurðum þýzks iðnaðar, ekki sízt bílaiðnaðarins, vélaiðnaðarins og efnaiðnaðarins. Armin Laschet, arftaki Annegret Kramp Karrenbauer í formannsstóli CDU, flokks Angelu Merkel, er Rússavinur, þótt ekki sé hann persónulegur vinur Pútíns, eins og Gerhard Schröder, sem kveður Pútin vera "óaðfinnanlegan lýðræðissinna". Þetta er dæmigert oflof, sem Snorri Sturluson jafnaði við háð.
Sagan hangir yfir okkur. Einn pólskur ráðherra hefur líkt samstarfi Rússa og Þjóðverja um Nord Stream við hinn alræmda Mólotoff-Ribbentrop griðasamning á milli ríkisstjórnanna í Berlín og Moskvu í sumarið 1939. Það er ósanngjarn samanburður, en sá neisti er í honum, að Þjóðverjar fórna nú hagsmunum Austur-Evrópu og treysta á stuðning Rússa í viðureigninni við Vesturveldin. Hér er um algeran vendipunkt að ræða í Evrópusögunni.
Það er athyglisvert í þessu ljósi að virða fyrir sér bóluefnafarsann vegna C-19. Þjóðverjar hallmæltu nýlega hinu brezk-sænska bóluefni frá AstraZeneca, og bönnuðu það fyrir 65 ára og eldri í Þýzkalandi. Jafnframt hældu þeir Sputnik V og hafa falazt eftir samvinnu um það við Rússa. Efnafræðilega eru þetta svipuð bóluefni, og virknin þar af leiðandi væntanlega keimlík.
Nýleg skoðanakönnun í Þýzkalandi um afstöðu manna til Evrópusambandsins sýnir, að traust Þjóðverja til ESB undir forystu Þjóðverjans Úrsúlu von der Leyen hefur beðið hnekki. "Der Zeitgeist" - tíðarandinn - er mjög mótdrægur Evrópusambandinu. Fyrir okkur Íslendinga er þessi þróun mála í Evrópu mjög lærdómsrík. Til að tryggja hagsmuni okkar eigum við að rækta sambandið við allar þjóðirnar, sem hér koma við sögu, við Breta o.fl. og nýta fullveldisrétt okkar í hvívetna. Þannig mun oss bezt vegna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
23.2.2021 | 11:41
Vindmylluriddarar í Noregi og á Íslandi
Bæði Ísland og Noregur eiga nóg afl fólgið í vatnsföllum sínum til að anna orkuþörf sinni um fyrirsjáanlega framtíð, þótt þjóðirnar útrými notkun jarðefnaeldsneytis sem orkugjafa. Íslendingar búa þar að auki að jarðvarma til húshitunar og raforkuvinnslu. Það dregur að vísu tímabundið og staðbundið úr honum við notkun, svo að sífellt þarf að sækja á ný mið, en aukið vatnsrennsli vegna hlýnandi loftslags veitir hins vegar færi á meiri orkuvinnslu í þegar virkjuðum ám en upphaflega var reiknað með.
Þessar gerðir virkjana eru sjálfbærar og afturkræfar, ef rétt og nútímalega er staðið að hönnun og rekstri þeirra. Það er þess vegna skrýtið, þegar upp kemur ásókn í þessum löndum í að virkja vindinn, sem hingað til hefur verið neyðarbrauð þeirra, sem ekki hafa úr ofangreindum orkulindum að spila. Þjóðverjar hófu að virkja vindinn af miklum móði, eftir að Sambandsþingið í Berlín hafði samþykkt stefnu græningja, sem kanzlarinn Merkel gerði að sinni árið 2011 eftir Fukushima-slysið, að leggja niður öll kjarnorkuver sín fyrir árslok 2022. Vindorkan var niðurgreidd, sem veitti henni forskot inn á markaðinn og skekkti samkeppnisstöðuna. Gasorkuver verða að standa ónotuð tilbúin að taka við álaginu, ef vinda lægir. Þetta veldur óhagkvæmni innan orkugeirans.
Óánægja og mótmæli gegn vindmyllurekstri og vindmylluuppsetningu hafa vaxið í Þýzkalandi og í allri norðanverðri Evrópu á síðustu árum, þegar ljóst hefur orðið, hversu lítill umhverfislegur ávinningur er af vindmyllunum m.v. fórnirnar. Kolefnisfótspor þeirra er stórt. Það eru ekki bara ofangreindir ókostir við vindmyllurnar, heldur geta þær verið hættulegar flugvélum í grennd við flugvelli og stórhættulegar svifflugmönnum í grennd við athafnasvæði þeirra. Um það fjallaði frétt í Fréttablaðinu 30. desember 2020:
"Svifflugmenn telja vindmyllur á Mosfellsheiði stórhættulegar".
Fréttin hófst þannig:
"Hæð vindmylla í fyrirhuguðum vindorkugarði Zephyr Iceland ehf á Mosfellsheiði skapar stórfellda árekstrarhættu fyrir svifflug að sögn stjórnar Svifflugfélags Íslands.
Zephyr Iceland ehf, sem er dótturfyrirtæki norska vindorkufyrirtækisins Zephyr AS, hyggst byggja allt að 200 MW vindorkugarð á Mosfellsheiði. Rætt er um 30 vindmyllur, sem yrðu 150-200 m háar með spaða í hæstu stöðu.
Meðal þeirra, sem sendu inn athugasemdir til Skipulagsstofnunar er stjórn Svifflugfélags Íslands (SFÍ). Segir stjórnin fyrirhugaða staðsetningu vindorkugarðsins vera í miðju skilgreinds æfingasvæðis lítilla loftfara og steinsnar frá skilgreindu svæði svifflugs á Sandskeiði og Bláfjöllum ásamt Sandskeiðsflugvelli og mikilvægu svifflugssvæði við Hengil.
"Ljóst er, að öll truflun á flugskilyrðum og takmörkun á flugfrelsi, sem kann að stafa af fyrirhuguðu vindorkuveri, mun skerða stórkostlega eða eyðileggja möguleika á svæðinu [til flugæfinga], ef af byggingu vindorkugarðsins verður. Hæð vindmylla í fyrirhuguðum vindorkugarði skapar einnig stórfellda árekstrarhættu fyrir svifflug", segir í athugasemdum stjórnar Svifflugfélagsins.
Matsáætlun fyrir vindorkugarðinn nái á engan hátt til mats á neikvæðum áhrifum á veðurfarslegar forsendur til svifflugs og möguleika félagsins á að halda áfram starfsemi á Sandskeiði.
"Enn fremur eru gerðar alvarlegar athugasemdir vegna þeirrar hættu, sem vindorkugarður á þessum stað myndi valda flugumferð, og vegna þess rasks, sem garðurinn myndi valda á starfsemi flugíþrótta á Íslandi í víðu samhengi", segir í (umsögn] stjórn[ar] SFÍ. Mörg atriði, sem tengist flugi, séu órannsökuð, t.d. áhrif loftiða og ókyrrðar, sem vindmyllurnar geti skapað, eins og erlendar rannsóknir gefi til kynna."
Það er ljóst af þessu, að Zephyr Iceland ehf hefur kastað höndunum til undirbúnings og staðarvals fyrir stórt athafnasvæði, sem fyrirtækið girnist. Við staðarvalið er flugöryggi hundsað og ekki vílað fyrir sér að eyðileggja athafnasvæði flugíþróttafólks í grennd við höfuðborgarsvæðið. Þessi vinnubrögð vitna um ósvífni og tillitsleysi, og slíkum á ekki að líðast að smeygja löppinni á ísmeygilegan hátt á milli stafns og hurðar, þegar almannahagsmunir eru annars vegar.
Um miðjan febrúar 2021 varð allsherjar straumleysi í Texasríki í Bandaríkjunum, sem varði í nokkra daga. Ástæðan var óvenjulegt vetrarveður á þessum slóðum með -10°C til -20°C og snjókomu, sem leiddi til rafmagnsleysis og vatnsleysis hjá um 120 M manns í Suðurríkjum Bandaríkjanna. Í Texas sjá vindmyllur íbúunum fyrir um 20 % orkuþarfar á ári, og þær stöðvuðust. Aflþörfin óx í kuldakastinu, því að húsnæði er í mörgum tilvikum hitað upp með rafmagni. Gasorkuver, sem áttu að vera bakhjarl vindmyllanna, fóru ekki í gang vegna frosins vökva í gaslögnum. Við þetta allt saman hrundi raforkukerfi Texas, og það fór ekki í gang fyrr en fór að hlýna aftur. Þetta var skelfilegur atburður, sem sýnir hræðilega veikleika vindmylla í raforkukerfi.
Annar enn alvarlegri atburður m.t.t. mannfjölda var næstum orðinn í Evrópu 8. janúar 2021. Þá var þar kalt, og lygndi var um álfuna vestanverða. Smám saman lækkaði tíðnin ískyggilega um álfuna vestanverða, en á Balkanskaga og á Grikklandi hækkaði hún, enda var þar blástur og varð þar offramboð rafmagns. Flutningslínur á milli þessara svæða rofnuðu af þessum sökum, og í vestanverðri álfunni blasti svartnætti allsherjar straumleysis ("black-out") við. Undirtíðnivarnir rufu þá stórt álag í Frakklandi og á Ítalíu frá kerfinu, svo að jafnvægi komst á. Þetta sýnir, að í tilraun Evrópumanna til að draga úr brennslu jarðefnaeldsneytis er teflt á tæpasta vað með þeim afleiðingum, að fréttum af hér um bil straumleysi, afmörkuðu straumleysi (brown-out) og straumleysi (black-out) mun fjölga. Vindmyllur svíkja, þegar mest ríður á. Þær eru ekki einvörðungu háðar vindafari, heldur líka viðkvæmar fyrir ísingu.
Um miðjan febrúar 2021 barst viðvörun frá Noregi til Íslands, reist á norskri harmsögu um viðskipti landeigenda við vindmyllufyrirtæki:
"Ágætu vinir og frændur á Íslandi !
Þetta er kveðja og viðvörun frá eyju, sem er mun minni en Ísland, Háramarseyju við Noreg. Háramarsey er hluti af fallegum eyjaklasa úti fyrir vesturströnd Noregs í sveitarfélaginu Ålesund í fylkinu Möre og Romsdal. Á eyjunni búa tæplega 600 manns.
Norskt fyrirtæki, Zephyr, lítur nú girndaraugum til Íslands. Fyrirtækið vill reisa vindmyllur á Íslandi og lætur sem sú ósk sé liður í orkuskiptunum í iðnaði og raforkuvinnslu. Við, sem búum á Háramarsey og höfum vofandi vindmyllur yfir okkur, lítum hvorki á starfsemi þessa fyrirtækis sem græna né umhverfisvæna, heldur sem mengandi og eyðileggjandi og keyrða áfram af gróðahvötum.
Fyrst af öllu viljum við vara landeigendur við heimsóknum fulltrúa fyrirtækisins, sem lofa gulli og grænni framtíð ! Fyrirtækið hefur duglega sölumenn, það mega þeir eiga. Þeir vilja sölsa undir sig jarðeignir ykkar fyrir iðnaðarstarfsemi sína. Krafa er um, að allir samningar séu leynilegir, - svo leynilegir, að hvorki má ræða þá við ættingja, nágranna né aðra. Undirritaður samningur er bindandi án möguleika á endurskoðun eða uppsögn. Grunnt er svo á hótuninni um, að sért þú ekki fús til að afsala þér landareign þinni, hafi fyrirtækið ýmis ráð með að ná henni af þér eftir öðrum leiðum.
Fyrirtækið Zephyr segist styðja opna og lýðræðislega viðskiptahætti. Í reynd vill fyrirtækið sem minnst afskipti almennings og umhverfissinna. Fyrirtækið dregur upp glansmynd af áætlunum sínum, og þeir eru flinkir við að aðlaga og túlka sér í vil gagnrýnar skýrslur, - þar sem bent er á áhættuna fyrir náttúru og heilsu almennings, svo að henta megi eigin uppbyggingaráformum. Þeir hafa reiknað út, að hávaðinn frá vindmylluspöðunum sé rétt undir leyfilegum mörkum [hér er mikilvægt að sýna allt tíðnirófið í dB - innsk. BJo] - en fari þeir yfir mörkin við raunmælingar, kaupa þeir sig bókstaflega frá vandanum - án þess að skammast sín. Þeir senda atvinnumenn í faginu til að sannfæra sveitarstjórnarmenn um að veita undanþágur og staðbundnar aðlaganir. Fyrirtækið lofar atvinnutækifærum, tekjum og hlunnindum, - en loforðin eru svo loðin, að þau er auðvelt að svíkja, og það er gert glottandi.
Mótmæli fólk, skaltu ekki ganga að því gruflandi, að Zephyr kann tökin á fjölmiðlunum. Vel launaðir kynningarfulltrúar (almannatenglar) og fjölmiðlaráðgjafar standa fyrirtækinu til boða. Þeir lýsa fyrirtækinu sem framsæknu og framsýnu, sem boðbera heilbrigðrar skynsemi og umhverfisverndar, en mótmælendur, hins vegar, séu á valdi tilfinninganna og séu haldnir móðursýki. Því er haldið fram, að vindmylluandstæðingar séu samfélagslega hættulegir og að ekki beri að taka þá alvarlega.
Kæru nágrannar og frændur. Við biðjum ykkur þess lengstra orða að vera vel á varðbergi. Vaktið verndun fugla- og annars dýralífs, náttúruna og lýðheilsu.
Áttið ykkur á kaldrifjuðum fyrirætlunum vindmylluiðnaðarins. Gerið kröfu um, að stjórnvöld hlýði á almenning. Krefjizt þess að mega ráða yfir eigin landi - refjalaust !
Með kveðjum frá íbúum Háramarseyju.
Þessi kveðja frá íbúum lítillar eyjar við Noregsstrendur, sem orðið hafa fyrir ásælni frekra og ósvífinna vindmyllumanna, á sennilega erindi til fleiri hérlandsmanna en þeirra, sem átt hafa viðskipti við Zephyr Iceland, enda mun þessi kveðja hafa verið send til flestra stjórnmálamanna á Íslandi. Hvað gera þeir við þessa einlægu og alvarlegu viðvörun ?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.2.2021 | 18:13
Öryggismenning
Stundum hefur verið leiddur hugur að því á þessu vefsetri, að kostir beinna erlendra fjárfestinga hérlendis hafi ekki einvörðungu falizt í atvinnusköpun án beinna fjárskuldbindinga í áhætturekstri fyrir Íslendinga, heldur einnig verið fólgnir í innleiðingu nýrrar tækniþekkingar og nýrra stjórnarhátta, sem hafa markað framfaraspor, dreifzt um þjóðfélagið, aukið framleiðni, bætt nýtingu, dregið úr sóun og þannig stuðlað að sjálfbærni og velferð. Þetta er alþjóðasamvinna, sem verður í askana látin hérlendis, en ekkert froðusnakk.
Eitt af þessu er innleiðing s.k. öryggismenningar með smáum og stórum áhættugreiningum, þar sem starfsmönnum er innrætt að íhuga, hvað úrskeiðis getur farið við framkvæmd verks og breyta verklagi til að auka öryggið. Hér um bil slys og óhöpp eru skráð og krufin. Slys eru krufin til mergjar með rótargreiningum til að komast til botns i orsökum og orsakirnar í kjölfarið fjarlægðar eða dregið úr þeim, eins og kostur er. Oft eru þær blanda ógætilegrar hegðunar, bilunar í verkfærum eða búnaði, og gölluðum verkferlum m.v. aðstæður. Lykilatriði er að draga réttar ályktanir, kunngera þær og gera úrbætur strax í kjölfarið, sem auka öryggið á vinnustað.
Líklega varð álverið í Straumsvík, ISAL, fyrst hérlendra iðjuvera og stórra framleiðslufyrirtækja til að innleiða stjórnarhætti, sem kenna má við öryggismenningu, og leiddi það til mikilla breytinga í verksmiðjunni og fækkunar óhappa og slysa af öllu tagi. Fjarverustundum fækkaði fyrir vikið og ýmis kostnaður lækkaði, þótt innleiðingarkostnaður sé nokkur.
Kerfisbundnar aðferðir af þessu tagi til að auka öryggið alveg frá hönnunarstigi til rekstrar eiga upptök sín í kjarnorkuverum og í fluggeiranum. Ingvar Tryggvason, formaður Öryggisnefndar FÍA, skrifaði gagnmerka grein um öryggismenningu í flugrekstri í Morgunblaðið 1. febrúar 2021 undir heitinu:
"Flugöryggi samtímans - sanngirnismenning".
Þar gerði hann grein fyrir hugtakinu "sanngirnismenning" og öðrum undirstöðuatriðum öryggisstjórnunar í flugrekstri:
"Á blaði er sanngirnismenning aðeins hugmyndafræði og uppskrift að atferli. Til þess að menningin verði til, þurfa stjórnendur að tileinka sér atferlið og starfsmenn að upplifa menninguna á eigin skinni.
Þetta er hugmyndafræði, sem stjórnendur þurfa að tileinka sér og getur í einhverjum tilvikum kallað á róttæka hugarfarsbreytingu. Ef vel á að vera, þurfa stjórnendur að hafa haldbæra þekkingu á kenningum James Reasons um eðli mannlegra mistaka.
Þegar við fjöllum um leiðtogahlutverkið í flugiðnaðinum, leitum við gjarnan í smiðju Jóhanns Inga Gunnarssonar. Jóhann hefur komizt þannig að orði um stjórnendur: "Góður stjórnandi þekkir sínar sterku og veiku hliðar. Lélegur stjórnandi fæst ekki til að horfast í augu við veikleika sína og mistök.""
Það er gríðarlega mikilvægt, að þau, sem fara með skipulagsmál og hönnun mannvirkja, haldi öryggismenningu í heiðri með því að haga skipulagi og hönnun þannig, að slysum og óhöppum fækki. Þetta á í ríkum mæli við sveitarstjórnarfólk. Það er ekki svo, að borgarstjórn höfuðborgarinnar hafi sýnt gott fordæmi á þessari öld, heldur þveröfugt. Núverandi meirihluti borgarstjórnar og nokkur kjörtímabil á undan þessu hafa gjörsamlega hundsað hugtakið öryggismenning, þegar kemur að samgöngum í borginni og samgöngum við hana á láði og í lofti. Núverandi meirihlutaflokkar í borginni hafa sýnt með verkum sínum og verkleysi, að þeir taka ekkert tillit til öryggismála við stefnumótun um skipulag gatna. Nýjasta dæmið eru frumdrög að fyrsta legg Borgarlínu. Á Suðurlandsbraut verður fækkað akreinum fyrir almenna umferð til að koma tómum risavögnum fyrir á sérrein. Í þessari hugmyndafræði er engin vitglóra. Þeir, sem þarna ráða ferðinni, eru að hægja á umferðinni, lengja ferðatímann, auka mengun og draga úr öryggi yfir 95 % vegfarenda. Rauðu Khmerarnir eru gengnir aftur.
Alvarlegustu og tíðustu slysin verða á fjölförnum gatnamótum, þar sem umferðarleiðir skerast. Það er öllum borgarskipuleggjendum ljóst, hvað bezt er að gera til að auka öryggið á slíkum gatnamótum. Það er að reisa mislæg gatnamót. Sú lausn hefur þann viðbótar kost í för með sér, að afkastageta gatnamótanna stóreykst, og umferðarflæðið getur þess vegna vaxið. Lausnin sparar vegfarendum tíma og dregur úr orkunotkun, mengun og koltvíildislosun.
Fjárhagshlið málsins er í sumum tilvikum þannig, að með mislægum gatnamótum sparast andvirði fjárfestingarinnar á innan við einu ári, þegar allt er með talið. Borgarstjórnarmeirihluti, sem leggst gegn mislægum gatnamótum almennt sem lausn á vandamálunum, á ekkert skilið annað en falleinkunn. Hann er svo aftarlega á merinni, illa upplýstur og/eða fordómafullur, að hann er óhæfur til að stjórna borginni.
Þegar þessi sami meirihluti heldur því fram, að Borgarlína sé lausn á vandamálunum, sem hér voru tíunduð, fer hann með fleipur. Þórarinn Hjaltason, umferðarverkfræðingur, hefur sýnt fram á, að að öðru jöfnu verður minnkun bílaumferðar ekki merkjanleg með Borgarlínu. Heildarferðatími strætófarþeganna styttist nánast ekkert með Borgarlínu, ef umferðarteppurnar verða leystar með mislægum gatnamótum og fjölgun akreina, þar sem þörf er á og aðstæður leyfa. Að forgangsraða opinberum fjármunum í þágu Borgarlínu er þvert á anda öryggismenningar og er í raun gjörsamlega siðlaust.
Vægt til orða tekið hefur þessi og fyrri borgarstjórnarmeirihluti þvælzt fyrir ákvörðun um Sundabraut. Sú framkvæmd er af sama toga og mislægu gatnamótin hvað kosti varðar, mun fækka slysum og bæta umferðarflæðið. Borgarstjórnarmeirihlutinn eyðilagði þann kost vísvitandi, sem Vegagerðin mælti með, með úthlutun byggingarlóða á veghelgunarreit. Núverandi meirihluti þykist vilja jarðgöng, en þau eru langdýrasti kosturinn og háð mestri framkvæmdaóvissu. Hvers vegna ekki að sættast þá úr því, sem komið er, á botngöng ? Þau þurfa ekki að trufla hafnarstarfsemi, og kostnaður er talinn samkeppnishæfur við brú.
Meðhöndlun borgarstjórnarmeirihlutans, þessa og fyrri, á Reykjavíkurflugvelli er í fullkominni andstöðu við öryggismenningu. Það er eins og borgarstjórnarmeirihluti Samfylkingar o.fl. sé í skæruhernaði við fólkið í landinu. Samfylkingin rekur svo stæka afturhaldsstefnu í samgöngumálum, að kenna má stefnuna við hestakerruna.
Ingvar Tryggvason, formaður Öryggisnefndar FÍA, skrifaði grein í Morgunblaðið 9. febrúar 2021 undir fyrirsögninni:
"Flugöryggi samtímans - Reykjavíkurflugvöllur".
Grein þessi er hófsöm, málefnaleg og fræðandi fyrir almenning, þótt greina megi, að höfundi blöskri aðför meirihluta borgarstjórnar að Reykjavíkurflugvelli og þar með að flugöryggi innanlands og einnig að öryggi millilandavéla, sem missa mikilvægan varaflugvöll, ef forneskja og fáfræði borgarstjórnarmeirihlutans ná fram að ganga í Vatnsmýrinni.
Greinin hófst þannig:
"Þrátt fyrir að vera eitt af mikilvægustu samgöngumannvirkjum þjóðarinnar hefur Reykjavíkurflugvöllur verið þrætuepli um langa hríð. Á Alþingi er til meðferðar þingsályktunartillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna sendi umsögn, þar sem gerð var grein fyrir þeirri afstöðu nefndarinnar, að flugvöllinn þurfi að láta í friði, á meðan hann er í rekstri. Áréttað var, að ærið tilefni væri til þess að halda þessa þjóðaratkvæðagreiðslu, því [að] borgarstjórn Reykjavíkur hefur unnið að því árum saman að leggja flugvöllinn niður, flugbraut fyrir flugbraut. Ýmsar kannanir hafa verið gerðar síðustu ár, sem hafa leitt hug landsmanna í ljós, en þjóðaratkvæðagreiðsla hefur töluvert þyngra vægi og er líklegri til að koma borgaryfirvöldum í skilning um þá gríðarmiklu almannahagsmuni, sem fólgnir eru í Reykjavíkurflugvelli."
Sú aðferðarfræði borgarstjórnarmeirihluta undanfarinn áratug að leggja flugvöllinn niður flugbraut fyrir flugbraut er ábyrgðarlausari, hugsunarlausari og ósvífnari en tárum taki. Hún stingur algerlega í stúf við allt, sem skyldleika á við öryggismenningu. Aðeins forpokuðu og staurblindu afturhaldi getur dottið önnur eins vitleysa í hug. Kjósendur verða að kippa hleranum undan undirmálsfólki í valdastöðum, sem rekur skæruhernað gegn öryggi umferðar í lofti og á láði. Það verður fróðlegt að fylgjast með umfjöllun þessarar þingsályktunartillögu, úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslu, ef af verður, og afleiðingum hennar. Þá verður hægt að greina sauðina frá höfrunum.
Hvað hefur formaður ÖFÍA að skrifa um þessa molbúalegu aðferðarfræði ?:
"Það eru vissulega til dæmi um það, að samfélög hafa lagt niður gamla flugvelli, en þá hefur fyrst nýr flugvöllur verið byggður og starfsemi komið á legg þar áður en þeim gamla er lokað. Það er með öllu óábyrgt að slíta flugvöll í sundur, flugbraut eftir flugbraut, eða þrengja svo að honum, að starfsemin torveldist, eins og borgaryfirvöld vinna að. Á Reykjavíkurflugvelli er mjög fjölbreytt starfsemi, sem þyrfti að finna stað á öðrum og/eða nýjum flugvelli, áður en Reykjavíkurflugvelli yrði mögulega lokað."
Hegðun borgaryfirvalda Reykjavíkur gagnvart öryggismálum á 21. öldinni er sennilega einsdæmi. Þau eru heimsviðundur, sem færa öryggismál fljúgandi og akandi umferðar í sæti mjög neðarlega á forgangslistanum. Það er til háborinnar skammar. Þegar formaður Öryggisnefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna tjáir sig um ábyrgðarlaust framferði þessara borgaryfirvalda með þeim hætti, sem hann gerir, er ljóst, að hann fjallar um gáleysislegt atferli, sem setur öryggi fjölda fólks í uppnám. Þar með bregðast borgaryfirvöld frumskyldum sínum gagnvart íbúunum.
Nýlegt dæmi um, hvernig borgaryfirvöld sitja við sinn keip og þrengja að starfsemi flugvallarins með hættulegum hætti, birtist í frétt Morgunblaðsins 11. febrúar 2021 undir fyrirsögninni:
"Ný byggð hefur áhrif á flugöryggi".
Hún hófst þannig:
"Konunglega hollenzka loftferðamiðstöðin (NLR) telur, að nýtt íbúðahverfi, sem áformað er, að rísi í Skerjafirði, í jaðri Reykjavíkurvallar, hafi svo mikil áhrif á vindafar á vellinum, að flugöryggi minnki og sé jafnvel stefnt í hættu.
Reykjavíkurborg vinnur að skipulagi nýrrar þéttrar og allt að 4-5 hæða hárrar byggðar í Skerjafirði. Hafa hagsmunaaðilar m.a. kvartað undan því, að skipulagsvaldið sé notað til þess að sneiða af flugvallarsvæðinu, hamla viðhaldi og uppbyggingu og þrengja þannig að vellinum og starfsemi þar. Það samrýmist illa samningum borgarinnar við ríkisvaldið um rekstraröryggi flugvallarins, og telja þeir áformin um Nýja-Skerjafjörð lið í þeirri viðleitni borgarinnar."
Hvar annars staðar í Evrópu, og þótt víðar væri leitað, tíðkast það, að borgaryfirvöld leggi sig í líma við að draga svo úr öryggi flugstarfsemi landsins, að voðinn sé vís ? Borgarstjóri Samfylkingarinnar ásamt sínum pólitísku meðreiðarsveinum stundar skæruhernað gegn öryggishagsmunum almennings á Íslandi.
Næst vék formaður Öryggisnefndar FÍA að sjúkrafluginu, sem gegnir ómetanlega mikilvægu hlutverki fyrir landsmenn alla vegna staðsetningar Háskólasjúkrahússins og miðlægs skipulags heilbrigðismála á landinu. Borgarstjórinn hefur af fullkomnu þekkingarleysi slengt því fram, að þá þjónustu megi í miklu meiri mæli inna af hendi með þyrlum. Það er túður út í loftið, eins og ráða má af eftirfarandi skrifum Ingvars Tryggvasonar:
"Burðarásinn í sjúkraflugi á Íslandi er Beechcraft King Air-skrúfuþotan, hraðfleyg [og] vel búin jafnþrýsti- og afísingarbúnaði, sem auðveldlega má fljúga yfir hálendi Íslands í nánast öllum veðrum. Þyrlur munu aldrei geta leyst öll þau verkefni, sem skrúfuþota ræður við.
Þó svo að íbúar landsbyggðarinnar þurfi sannarlega að reiða sig meira á sjúkraflugið, þá verður að hafa það hugfast, að sjúkraflugið snýst ekki um landsbyggðina versus höfuðborgarsvæðið. Íbúi höfuðborgarsvæðisins getur lent í lífsháska úti á landi og þurft að reiða sig á sjúkraflug, eins og dæmin sanna. Viðfangsefnið er því meiriháttar öryggismál, sem varðar alla íbúa landsins og vandséð, hvaða hagsmunir trompa þessa almannahagsmuni."
Fólk með þokkalega almenna siðgæðisvitund m.v. okkar tíma og óbrenglaða dómgreind hlýtur að geta tekið heilshugar undir, að engin af falsrökum Samfylkingar og meðreiðarflokka hennar í borgarstjórn "trompa þessa almannahagsmuni".
Þá víkur Ingvar að hlutverki Reykjavíkurflugvallar sem varaflugvallar fyrir millilandaflug til Keflavíkurflugvallar. Hér verður að lokum stuttlega vitnað til þess kafla greinar hans í Morgunblaðinu:
"Í skýrslu samráðsnefndar samgönguráðuneytisins og Reykjavíkurborgar frá árinu 2007 segir á bls. 23, að innanlandsflug verði ekki flutt til Keflavíkurflugvallar öðruvísi en varaflugvöllur verði byggður á Suðvesturlandi. Um þetta orsakasamhengi hefur ríkt ríkur skilningur á meðal þeirra, sem fjallað hafa um þetta viðfangsefni."
Reynslan af Degi B. Eggertssyni, borgarstjóra Samfylkingarinnar og öðrum í meirihluta borgarstjórnar er sú, að þau halda ekki gerða samninga. Blekið er ekki fyrr þornað á undirskriftum þeirra en fréttir berast af ráðstöfunum, sem stinga í stúf við og eru brot á samkomulagi, sem við þau hefur verið gert. Þessi staða mála vitnar um siðblindu. Að kjósa slíkt fólk í áhrifastöður er slys. Slíkt má ekki endurtaka hvað eftir annað, því að slíkt fólk misfer með völd sín, eins og tilvitnuð grein formanns ÖFÍA vitnar um.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.2.2021 | 14:14
Dýrkeyptur slaki í orkunotkun
Loðnan kom á miðin á öðru Kófsári. Íslenzkar útgerðir fá aðeins í sinn hlut rúmlega helming aflamarksins samkvæmt ráðleggingu Hafró og reglugerð sjávarútvegsráðherra vegna skiptisamninga við aðrar þjóðir á þeirra miðum, en áætluð aflaverðmæti til Íslands eru samt áætluð tæplega mrdISK 20. Þetta er mjög vel þegin búbót í efnahagskreppu Kófsins. Markaðir sjávarútvegs og laxeldis hafa látið undan síga í Kófinu, svo að ekki veitir þjóðarbúinu af þessum tekjuauka m.v. fyrri 2 ár.
Málmmarkaðir hafa aftur á móti hjarnað við síðan síðsumars 2020, og útlitið er gott. Merki um viðsnúning á heimsvísu er jarðolíuverðið, sem hefur hækkað úr 40 USD/tunna í 60 USD/tunna á um hálfu ári. Málmar í bílarafgeyma hafa hækkað gríðarlega í verði síðasta hálfa árið og álverðið hefur hækkað um 20 % á um hálfu ári, og á álmörkuðum eru væntingar nú þannig, að álframleiðendur með samkeppnishæfa og trausta raforkusamninga eru farnir að auka framleiðslu sína, en hinir sitja á sér. Álverð stefnir nú á 2100 USD/t. Hið síðar nefnda á enn við um ISAL í Straumsvík, en í dag, 15.02.2021 var kunngert, að samið hefði verið um viðauka við raforkusamning ISAL/Rio Tinto og Landsvirkjunar, sem gilda á til 2036. Þar með getur starfsemin í Straumsvík aftur komizt í eðlilegt horf, og verður verksmiðjan vonandi sett á full afköst í þeim mæli, sem markaðir leyfa.
Ágúst Bjarni Garðarsson, bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar, hefur í Fréttablaðinu vakið athygli á þjóðhagslegu mikilvægi ISAL og undirstöðuhlutverki fyrirtækisins fyrir vinnumarkað og verkefnastöðu ýmissa fyrirtækja í bæjarfélaginu, sem þýðir, að í Straumsvík er aðaltekjulind bæjarsjóðs, beint og óbeint. Þetta er eðlilegt, þar sem um 600 manns eru stöðugt að vinna fyrir ISAL, og þar af búa líklega um 60 % í Hafnarfirði. Hafnfirðingar, fyrirtæki þar og bæjarsjóðurinn, svo og aðrir starfsmenn og ríkissjóður, munu nú njóta góðs af því, þegar öll ker verða sett í rekstur og kerstraumur hækkaður í Straumsvík. Viðbótar útflutningstekjur geta numið hálfri loðnuvertíð, sbr hér að ofan, og hver veit, nema fjárfestingar, sem setið hafa á hakanum í Straumsvík, verði nú settar í gang.
Upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, Ragnhildur Sverrisdóttir, var send fram á ritvöllinn til að svara fyrstu grein Ágústar Bjarna, og gerði það með sinni útgáfu af orðhengilshætti, sem engu gat bætt við upplýsingagildi umfjöllunarinnar. Ágúst Bjarni svaraði þessum skætingi þó kurteislega í Fréttablaðinu, 5. febrúar 2021, með neðangreindu. Blaðurfulltrúinn hélt áfram á braut hártogana og orðhengilsháttar í Fréttablaðinu 10.02.2021. Það er slæmt, að sveitarfélög landsins skuli þurfa að búa við framkomu ríkisfyrirtækis af þessu tagi. Nú verður vitnað í grein formanns bæjarráðs Hafnarfjarðar:
""Hér eru aðeins 3 rangfærslur leiðréttar af mörgum ...""
"Þá segir hún mjög algengt, að raforkuverð í orkusölusamningum sé tengt við neyzluverðsvísitölu í Bandaríkjunum og vitnar í gagnaveitu, sem er ekki opinber. Staðreyndin er hins vegar sú, að í þeim sömu samanburðarlöndum og nefnd eru hér að ofan, er ekki notazt við tengingar við neyzluverðsvísitölu."
Þessi krafa forstjóra Landsvirkjunar um að tengja raforkuverð til álvers í Evrópu við vísitölu neyzluverðs í Bandaríkjunum (BNA), á sér enga þekkta hliðstæðu, enda er hún fáheyrð. Öll meginviðskipti með aðdrætti til álvera eiga sér stað í bandaríkjadölum, USD, og afurðirnar eru seldar í sömu mynt. Með því að tengja raforkuverð við álverð, eins og var í fyrri samningi Landsvirkjunar og ISAL og er í flestum öðrum samningum álveranna hérlendis við sína raforkubirgja, fæst þessi sama verðtrygging til lengdar, en þó er tryggt, að ekki verði raforkuverðshækkun á tímum lækkandi afurðaverðs álveranna vegna verðbólgu í BNA. Ef vel tekst til um slíka afurðaverðstengingu, verður hún báðum samningsaðilum til hagsbóta, enda hefur hún nú verið tekin inn í téðan samningsviðauka, þótt leifar verðbólgutengingar muni áfram verða fyrir hendi samkvæmt tilkynningu.
Áhyggjur hafnfirzka bæjarfulltrúans lutu hins vegar að afleiðingum þess fyrir Hafnarfjörð og þjóðarbúið, ef þessar samningaviðræður hefðu farið út um þúfur. Kaldranalegar kveðjur til Hafnfirðinga úr háhýsinu við Háaleitisbraut eru ekki til að bæta ástandið. Ef samningaviðræðurnar hefðu ekki endað með samkomulagi um nýjan raforkusamning, hefði það orðið meiri háttar áfall fyrir afkomu fjölda manns og áfall fyrir ríkisstjórnina og stjórnarflokkana, ekki sízt í SV-kjördæmi. ISAL hefði þá ekki átt sér lífvænlega framtíð, og rekstur fyrirtækisins hefði bráðlega farið í þrot, eins og hjá öðrum orkukræfum verksmiðjum, sem búa við ósveigjanlega orkubirgja. Samkomulagið er þess vegna fagnaðarefni, en öll kurl um tildrög þess eru enn ekki komin til grafar. Það er þó eðlilegt, að kjósendur í SV-kjördæmi og aðrir landsmenn fái fregnir af því.
Það þarf ekki að orðlengja það, að þröngsýn og ofstopafull verðlagsstefna, eins og Landsvirkjun hefur ástundað síðan 2010 í skjóli raunverulegrar einokunar á Íslandi, er þjóðhagslega skaðleg. Hún hefur átt verulegan þátt í samdrætti í orkusölu fyrirtækisins, sem gæti numið 8 %/ár, og hún leiðir til minni eða jafnvel engra fjárfestinga hjá orkukaupendunum, og nýir fjárfestar halda að sér höndum. Fyrir vikið ríkir stöðnun á sviði orkueftirspurnar og nýrrar orkuöflunar á tíma, þegar landinu ríður á að ná fram hagvexti eftir djúpa kreppu. Landsvirkjun hefur verið dragbítur á efnahagslega viðreisn landsins, og sú staða er til þess fallin að hafa neikvæðar pólitískar afleiðingar á kjörfylgi ríkisstjórnarflokkanna. Hvers vegna eru áhyggjur þingmanna af þessu máli ekki látnar í ljós með áberandi hætti ?
8 % samdráttur í sölu rafmagns hjá Landsvirkjun m.v. orkuvinnslugetu fyrirtækisins nemur um 1,2 TWh/ár. Á heildsöluverði jafngildir það tekjutapi fyrirtækisins upp á rúmlega 4 mrdISK/ár, sem sennilega jafngildir um 12 mrdISK/ár minni verðmætasköpun á ári í landinu en ella. Sú þrákelkni ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar að laga sig ekki að alþjóðlegri orkuverðsþróun, þegar hún passar ekki við hugmyndir forystu fyrirtækisins í fílabeinsturni sínum, hefur orðið að alvarlegu efnahagsvandamáli á Íslandi.
Bæjarfulltrúinn reit:
"Til að fá svar [frá Landsvirkjun - innsk. BJo] við spurningu minni, þá spyr ég aftur: Hefur Ísland efni á því að tapa yfir 60 milljörðum [ISK] í gjaldeyristekjum, sem leiða til u.þ.b. 25 mrdISK/ár beins ávinnings fyrir þjóðarbúið ?"
Ef tekið er mið af Orkupakka 3 frá Evrópusambandinu varðar orkufyrirtæki ekkert um þjóðarhag. Þau eiga bara að verðleggja sína vöru (flokkun ESB) m.v. að hámarka sinn arð. Á einokunarmarkaði blasir við til hvers slíkt leiðir. Þess vegna leiðir þessi stefna í ógöngur á Íslandi. Fyrirtækið missir viðskipti, og viðskiptavinirnir draga saman seglin eða leggja upp laupana, af því að þeir komast ekki í viðskipti annars staðar. Þetta mun leiða til tortímingar framleiðslustarfsemi á Íslandi, ef ríkisvaldið, eigandi bróðurpartsins af raforkufyrirtækjum landsins, grípur ekki almennt í taumana. Það líður að því, að þingmenn verði krafðir svara við því, hvers vegna þeir hafi látið þessa ósvinnu viðgangast. Það er heldur ekki mikill bragur að því, ef Landsvirkjun verður nú að leggja nýtt samkomulag við ISAL/Rio Tinto fyrir ESA-Eftirlitsstofnun EFTA til samþykktar.
Í lokin skrifaði formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar þetta:
"Ég vona og trúi, að aðilar séu með augun á boltanum og finni farsæla lausn, sem tryggi starfsemi og starfsumhverfi álversins í Straumsvík. Staðreyndin er sú, að mér er það mikið hjartans mál að vernda innviði, störf og framfærslu Hafnfirðinga - samfélaginu hér og landinu öllu til heilla."
Fyrir þessi hlýju orð er hellt úr hlandkönnu yfir bæjarfulltrúann úr háhýsinu við Háaleitisbraut. Það er bæði kaldrifjað og vanhugsað framferði af hálfu einokunarfélags í eigu ríkisins. Landsvirkjun er ekki ríki í ríkinu. Fyrsti þingmaður Kragans ætti að láta stjórnarformann Landsvirkjunar vita, að svona gera menn ekki. Hann er í góðri aðstöðu til þess.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.2.2021 | 14:26
Evrópusambandið er á misskilningi reist
Forverar Evrópusambandsins (ESB), Kola- og stálbandalagið, og Evrópubandalagið, höfðu það hlutverk að brjóta niður viðskipta- og samskiptamúra vegna djúpra sára í kjölfar Heimsstyrjaldarinnar síðari. Sú var bein afleiðing hefndarráðstafana Vesturveldanna í garð hins sigraða þýzka keisaradæmis, sem Þjóðverjar reyndar losuðu sig við strax í kjölfar uppgjafarinnar í nóvember 1918.
Við lok Heimsstyrjaldarinnar síðari horfðu málin öðru vísi við, og Þjóðverjar voru þá teknir öðrum tökum, þótt einnig væru þau miskunnarlaus, því að landi þeirra var skipt upp, og þeir misstu mikil lönd til nágrannanna. Bundeswehr var stofnaður á rústum Wehrmacht, því að um 1500 yfirmanna heraflans voru úr Wehrmacht, þar af um 1200 af austurvígstöðvunum. Öllu skipti, að nýtt stjórnkerfi Vestur-Þýzkalands var reist á lýðræði og valddreifingu, og Þýzkaland er einn af máttarstólpum NATO og vestrænnar samvinnu.
Allt tal um, að pólitískur samruni Evrópu sé nauðsynlegur til að treysta friðinn, er helber fásinna og til trafala eðlilegum og skilvirkum samskiptum þjóða. Þjóðverjar eru öflugasta akkeri friðsamlegrar samvinnu í Evrópu, en stjórnvöld ýmissa annarra þjóða hafa reynzt miklu gjarnari á að beita herjum sínum, og virðist hið miðstýrða Frakkland með marga litla Napóleóna eiga verulega bágt með sig í þessum efnum.
Það er fráleit hugmynd, sem reynzt hefur vonlaus, að byggja miðstýrt, samevrópskt embættismannakerfi ofan á stjórnkerfi Evrópulandanna til að fara með sívaxandi völd um málefni aðildarlanda þessa ríkjasambands. Öll meginverkefni þessa miðstýrða risa hafa misheppnazt, svo að nú er nóg komið af þessari tilraunastarfsemi Evrópuríkjanna, sem ekki er lengur hægt að taka alvarlega. Æðsti strumpur utanríkismála ESB var á dögunum niðurlægður á blaðamannafundi með Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, í Moskvu með þeim ummælum utanríkisráðherrans, að Evrópusambandið væri óáreiðanlegur samstarfsaðili.
ESB mistókst að stilla til friðar í bakgarði sínum á Balkanskaga, þegar Serbar ætluðu að knýja fram endursameiningu Júgóslavíu með vopnavaldi, og mörg grimmdarverk voru framin í nafni þjóðernishreinsana og trúarbragða. Hreinn viðbjóður. Það voru að lokum Bandaríkjamenn sem beittu flugher sínum og stilltu til friðar.
Evran er misheppnuð að dómi margra hagfræðinga, og hefur mátt upplifa svo alvarlega kreppu, að við lá, að hún sundraðist. Evruna vantar sameiginlegan ríkissjóð sem bakjarl, en býr að evrubankanum, sem ranglega er kallaður Seðlabanki Evrópu. Á yfirborðinu er hann sterkur, en í bankastjórn hans vegast á gjörólík viðhorf til peningamálastjórnunar, hið germanska og hið rómanska. Stýrivextir bankans eru neikvæðir, og hann prentar peninga í gríð og ergi, en samt er hagvöxtur á svæðinu niðri við 0. Þetta er langvarandi sjúkdómsástand, sem endar annaðhvort með miklu gengisfalli eða sundrun gjaldmiðilsins.
Seinasta mistakahrinan er bóluefnaklúður Framkvæmdastjórnarinnar, sem hefur rúið hana trausti. Öðrum þræði eru þetta átök við nýfrjálsa Breta. Bræði Framkvæmdarstjórnarinnar stafar af því, að brezka stjórnin hefur staðið sig margfalt betur en Framkvæmdastjórnin við útvegun og dreifingu bóluefna. Nú hefur myndazt samkeppnisaðili í Evrópu við Framkvæmdastjórnina. London gjörsigraði Brüssel í þessari fyrstu lotu. Heyrzt hefur, að Framkvæmdastjórnin hugsi Bretum þegjandi þörfina og muni reyna að valda "City of London" tjóni, ekki með Messerschmitt sprengjuvélum, heldur með því að gera fjármálamiðstöðinni í London lífið leitt, en um hana var ekki samið í fríverzlunarsamninginum (BREXIT).
Morgunblaðið hefur gert þessu máli mjög góð skil. Föstudaginn 5. febrúar 2021 birtist þar forystugrein, sem hét:
"Evrópusambandið, vandi Evrópu".
Hún hófst þannig:
"Yfirgengileg viðbrögð Evrópusambandsins (ESB) við bóluefnavandræðum þess í liðinni viku hafa orðið mörgum tilefni til umhugsunar um eðli sambandsins og þá sérstaklega yfirstjórnar þess. Ofan á furðulegt andvaraleysi og seinagang í miðjum heimsfaraldri bættist ótrúlegt dómgreindarleysi og bráðlæti, sem hefur fellt bæði framkvæmdastjórn ESB, Ursulu von der Leyen, forseta hennar og Evrópusambandið sjálft í áliti um allan heim og innan sambandsins líka."
Fyrri mistök stjórnenda ESB hafa verið á sviði fjármála og utanríkismála, en nú er komið að heilbrigðismálum, sem flestum standa nær og miklar tilfinningar eru við tengdar. Kommissarar reyndust láta sér heilsu og líf fjölda manns í léttu rúmi liggja og sólunduðu dýrmætum tíma í kaupahéðnaþjark. Þegar kom í ljós, að ESB varð aftarlega á merinni um framvindu bólusetninga og viðureign við farsóttina, þá kom í ljós algert virðingarleysi Evrópusambandsins fyrir lögum og rétti. Kom reyndar ekki öllum í opna skjöldu.
Kaldlyndi framkvæmdastjórnarinnar gagnvart alþýðu manna hefur áður komið fram. Skemmst er að minnast evrukreppunnar um 2012, þegar henni lá við falli. Þá var frönskum og þýzkum bönkum bjargað, en alþýða Suður-Evrópu hneppt í skuldaviðjar. ESB gerði sitt til að hneppa Íslendinga í skuldaviðjar með því að gerast meðflytjandi máls Breta og Hollendinga gegn Íslendingum í s.k. Icesave-málum 2011.
Evrópusambandið hafði engin svör við flóttamannastrauminum frá Sýrlandi 2015, þegar Þjóðverjar tóku af skarið af miklu veglyndi sínu, sem endurspeglaðist í orðum Austur-þýzka efnafræðingsins á kanzlarastóli í Berlín: "Wir schaffen das". Þjóðverjar eru hins vegar alls ekki búnir að bíta úr nálinni með þessa rúmu milljón flóttamanna, sem enn er eftir í landinu frá þessum tíma.
Evrópuhambandið er nú komið á þann stað í tilverunni, að margir Evrópumenn spyrja sig, hvers vegna þeir sitji uppi með yfir 30 k blýantsnagara og baunateljara í Brüssel á skattfríum ofurlaunum. Þessar afætur flækja aðeins málin fyrir íbúana og eru til trafala. Næsta spurning verður, hvernig hægt verður að losna við þá.
Uppi á Íslandi hafa nokkrar hryggðarmyndir í pólitík tekið trú á þetta vonlausa apparat "3. flokks möppudýra" í "Brüssel. Það er allt í lagi, á meðan kjósendur geta skemmt sér við að virða þessi aflóga pólitísku dýr fyrir sér í dýragarðinum þeirra. Kjósendur þurfa að gera sér grein fyrir, að Samfylking, Viðreisn og Píratahreyfingin hafa engin heilbrigð viðhorf fram að færa í stjórnmálum, en eru öll bundin á klafa "Evrópuhugsjónarinnar", sem nú er orðið útbrunnið skar, án þess að hryggðarmyndir íslenzkra stjórnmála hafi manndóm í sér til að viðurkenna, að trúin þeirra var villukenning falsspámanna án jarðsambands.
Í forystugrein Morgunblaðsins var síðan hnykkt á því, hvað ESB raunverulega er:
"Bóluefnahneyksli ESB koma efasemdarmönnum um Evrópusamrunann ekki á óvart. Þeir hafa um árabil varað við því, að Evrópusambandið sé martraðarkennt möppudýraveldi, vígi verndarstefnu og pilsfaldakapítalisma, þar sem sóun og stöðnun haldist í hendur, kjötkatlaklúbbur afdankaðra 3. flokks stjórnmálamanna, án lýðræðislegrar tilsjónar almennings álfunnar, sem fær að gjalda fyrir dýru verði. Það er ekki nýtt, en á síðustu vikum hafa afhjúpazt sönnunargögn fyrir öllu þessu."
Það er ótrúleg blindni og lágkúra fólgin í því að róa að því öllum árum að binda trúss Íslands á þessa aflóga truntu "kjötkatlaklúbb[s] afdankaðra 3. flokks stjórnmálamanna". Íslenzkir kjósendur, sem stutt hafa þessi ósköp, hljóta nú margir hverjir að hafa fengið sig fullsadda á smjaðrinu fyrir þessu óþarfa og gagnslausa ríkjasambandi.
"En hvað hafa Evrópusinnar til málanna að leggja um þetta ? Hverjar eru varnir þeirra fyrir Evrópusambandið og þessi afleitu vinnubrögð og viðbrögð ? Hvernig skýra þeir þessa vanhæfni, fautaskap og vanvirðu við alþjóðarétt ?"
Þeir, sem enn vilja styðja stjórnmálaflokka, sem hafa það efst á blaði hjá sér, að dusta rykið af umsókn Íslands um aðild að ESB og reka sem fyrst endahnútinn á þann langþráða draum, standa nú í sömu sporum og félagar í sértrúarsöfnuði, þar sem upp hefur komizt um alvarlega siðferðisbresti trúarleiðtoganna, jafnvel glæpi. Þeir harðsvíruðustu munu tína það til, að veikir einstaklingar hafi valizt til trúnaðarstarfa, en ekkert sé bogið við uppbyggingu safnaðarins og átrúnaðinn sjálfan. ESB-sinnarnir hafa fullt leyfi til sinna skoðana og eru nú komnir í hóp faríseanna forðum, þegar þeir hrópa mærðarlega: Úrsúla, ég þakka þér, að ég er ekki eins og aðrir menn.
Í blálok þessarar ágætu forystugreinar stóð þetta:
"Evrópuhugsjónin kann sumum að hafa virzt fögur í upphafi, en hún hefur snúizt upp í andhverfu sína, þar sem hin máttugu ríki ráða því, sem þau vilja, og núningurinn eykst, en vanhæfni og vanmáttur hinnar ólýðræðislegu valdastéttar í Brussel eru orðin að sérstökum vanda."
Evrópuhugsjónin er dauð. Hún varð eitt af mörgum fórnarlömbum farsóttarinnar C-19. Það þýðir ekki að reyna að endurlífga hana, því að andi tímans (der Zeitgast) er henni ekki hliðhollur. Eitt þessara "máttugu" ríkja taldi hag sínum betur borgið utan þessa ríkjasambands en innan, og gekk úr tollabandalaginu 01.01.2021, og nú fara viðskipti þess fram á grundvelli fríverzlunarsamnings, sem tók við af tollabandalaginu. Lögsaga Íslands snertir nú hvergi lögsögu Evrópusambandsins, heldur Grænlands, Bretlands, Færeyja og Noregs. Það er engin ástæða fyrir eyjarskeggja langt norður í Atlantshafi að leita inngöngu í meginlandsklúbb um viðskipti, landamæraleysi og alls konar viðskiptalega, fjármálalega og tæknilega skilmála, þar sem Frakkar og Þjóðverjar eru vanir að fara sínu fram. Téðir eyjarskeggjar óska eftir að eiga viðskipti í allar áttir og kæra sig ekkert um takmarkanir eða jafnvel þvinganir af hálfu skrifræðisbákns ESB.
Engu að síður eigum við að rækta alls konar menningarsambönd og viðskiptasambönd við aðildarlönd ESB, sérstaklega við Þjóðverja, sem sömuleiðis er annt um frá fornu fari að rækta sambandið á öllum sviðum við Íslendinga. Upplag þjóðanna er svipað, tungur þeirra af sömu rót og þeim verður yfirleitt vel til vina. Þjóðverjar hafa lengi átt viðskipti við Íslendinga, og Íslendingar studdu þá (Hamborgara í Hansasambandinu) í samkeppni og í bardögum við Englendinga og Dani á 16. öld. Jón, biskup, Arason á Hólum vildi losa um völd Danakóngs yfir verzluninni og færa hana til Hamborgara. Hann var í sambandi við Þýzkalandskeisara, Karl 5., sem var kaþólskur, og hefur sennilega átt erfitt með að veita hinum lútersku Hamborgurum þann stuðning, sem þurfti, og þess vegna náði Danakóngsi undirtökunum hérlendis, sem þróuðust yfir í einokunarverzlun Dana, mesta niðurlægingarskeið Íslandssögunnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
9.2.2021 | 11:43
Er hagsmuna Íslands bezt gætt í Brüssel ?
Forsætisráðherra, heilbrigðisráðherra og Landlæknir eiga eftir að gera Alþingi og þjóðinni sómasamlega grein fyrir því, hvernig og á hvaða forsendum var komizt að því, að Evrópusambandið (ESB) væri betur í stakk búið en Íslendingar sjálfir að verða sér úti um bóluefni. Málsmeðferð og frammistaða framkvæmdastjórnar ESB við útvegun bóluefna við faraldrinum C-19 er orðin að hneyksli aldarinnar í Evrópu. Öllum, nema íslenzka heilbrigðisráðherranum, er ljóst, að Íslendingar veðjuðu á rangan hest.
Ísraelsmenn eru tiltölulega fámenn þjóð, um 8,8 M manns, en þeir gengu í það af forsjálni og krafti í tæka tíð að útvega sér bóluefni og hafa getað bólusett um fimmtánfalt fleiri landsmenn núna að tiltölu en Íslendingar. Fyrir mitt ár (2021) munu þeir fyrirsjáanlega ljúka verkinu, en hvað sem innantómum yfirlýsingum íslenzka heilbrigðisráðherrans líður nú á þorranum um "þorra íslenzku þjóðarinnar" bólusettan fyrir sumarið (2021) stefnir í, að það verði nær 15 %, ef ráðherrann á við sumardaginn fyrsta 2021.
Ef minnimáttarkenndin var að drepa íslenzku búrókratana, sem veittu ráðherranum ráðleggingar af sinni alkunnu víðsýni og djúpu baksviðsþekkingu, hvers vegna var þá ekki fremur leitað aðstoðar Breta, sem vitað var að búa við miklu skilvirkara stjórnkerfi en þunglamalegt samráðsferli og reiptog 27 ríkja í ESB með búrókrata í Brüssel, sem eru algerir viðvaningar í samningum um kaup á bóluefni ? Sú reynsla og þekking er hjá hverju ríki um sig og hefur lengi verið. Dómgreindarleysið við stjórnvöl íslenzkra heilbrigðismála ríður ekki við einteyming. Mun heilbrigðisráðherra axla sín skín við sumarkomuna, þegar í ljós kemur, að yfirlýsingar hennar um framvindu bólusetninga reynast orðin tóm, eða mun Pfizer skera hana úr snörunni ? Þótt stjórnsýslan í Reykjavík sé ekki upp á marga fiska, er þó víst, að færsla stjórnsýslunnar alfarið til Brüssel jafngildir að fara úr öskunni í eldinn.
Klúður aldarinnar í Brüssel hvílir þyngst á herðum Úrsúlu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, en hún neitar að sæta ábyrgð og axla sín skinn. Hún hefur jafnframt neitað að biðjast afsökunar á mistökum sínum, en hreytir út úr sér, að við lok embættistíðar sinnar eftir 3 ár verði hægt að dæma hana af verkum sínum. Þessi þýzka kona, fædd og uppalin í Belgíu, læknir að mennt, er vel þekkt í Berlín, og ekki af glæstum ráðherraferli. Þar á bæ hefur verið gefizt upp á henni, og er Berlín nú tekin að bera víurnar í Sputnik V í Moskvu. Ungverjar o.fl. hafa þegar útvegað sér þetta rússneska bóluefni. Það mun vera svipaðrar gerðar og AstraZeneca bóluefnið.
Von der Leyen var landvarnaráðherra Sambandslýðveldisins áður en hún tók við forsetastarfinu af Juncker, sem þótti tiltakanlega rakur, jafnvel á lúxembúrgískan mælikvarða. Þau fádæmi hafa nú gerzt, að hann ásamt aðalsamningamanni ESB í BREXIT-ferlinu, Barnier hinum franska, hafa gagnrýnt málatilbúnað framkvæmdastjórnarinnar í bóluefnamálum harðlega, en það keyrði um þverbak, þegar hún hótaði útflutningsbanni á bóluefni frá ESB, lét lögreglu storma inn í verksmiðju AstraZeneca í Belgíu og hótaði lokun landamæra Írlands og Norður-Írlands. Framkvæmdastjórn ESB er hrokkin af hjörunum.
Bundeswehr hefur aldrei frá stofnun verið í jafnlélegu ásigkomulagi og við brotthvarf Úrsúlu úr landvarnaráðuneytinu í Berlín. Hún braut niður liðsanda hersins með því að banna honum að marsera (enginn gæsagangur) og syngja gamla þýzka hersöngva, hún reif niður myndir af þekktum stjórnmálamönnum Vestur-Þýzkalands í sínum Wehrmacht-búningi, t.d. mynd af Helmut Schmidt, fyrrverandi kanzlara, og gerði sér far um að rífa niður fornar hefðir hersins. Hún bauð út varahlutahald Luftwaffe, og það endaði með, að framleiðendum var falið að sjá um varahlutahaldið. Þegar til átti að taka, var lítið til og aðeins 4 orrustuþotur Luftwaffe bardagaklárar á einu skeiði, og enn færri kafbátar flotans (die Kriegsmarine). Hún neitaði Luftwaffe um að endurnýja flugflotann með því að kaupa nýjustu útgáfu F35 frá Bandaríkjunum, en samdi þess í stað við Frakka um þróun á nýjum orrustuvélum, sem taka mun allt að 20 árum að fá tilbúnar til þjónustu. Yfirmaður Luftwaffe sagði af sér fyrir vikið. Læknirinn og 7 barna móðirin skildi eftir sig sviðna jörð í Berlín. Nú berast fregnir af því, að Luftwaffe fljúgi með hjálpargögn og heilbrigðisstarfsfólk til Portúgals til að létta umsátursástand heilbrigðiskerfisins þar af völdum kórónuveiru. Þar er að verki Jens Spahn, heilbrigðisráðherra Þýzkalands, sem verður sennilega hægri hönd hins nýja kanzlaraefnis CDU/CSU, Laschet, ef sá síðar nefndi snýr á Bæjarann Söder, sem þykir hafa staðið sig vel í Kófinu.
Í Morgunblaðinu 2. febrúar 2021 birtist mögnuð forystugrein undir fyrirsögninni:
"Bóluefnastríð ESB".
Þar var drepið á ógæfu Framkvæmdastjórnarinnar og ekki skafið utan af því:
"Forysta og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins er skipuð 3. flokks möppudýrum, sem ekki voru kosin af neinum, og því er ekki heldur hægt að kjósa þau burt, sama hversu illa þau kunna að standa sig. Flest eru þau raunar til Brussel komin einmitt vegna þess, að kjósendur í heimalöndum þeirra höfnuðu þeim, mörg með spillingarmál á bakinu eða höfðu sýnt af sér þvílíka vanhæfni og vanrækslu, að ekki þótti á það hættandi að hafa þau nærri valdataumunum heima fyrir. Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnarinnar, er fyrirtaksdæmi um þetta, en hún hrökklaðist til Brussel úr embætti varnarmálaráðherra Þýzkalands, eftir að hneykslismálin höfðu hrannazt upp og varnir landsins svo stórlaskaðar eftir, að gantazt var með, að mannkynssagan væri mun betri, hefði hún aðeins verið varnarmálaráðherra um 80 árum fyrr."
Ef von der Leyen hefði verið varnarmálaráðherra rúmlega 80 árum fyrr, hefði Wehrmacht meira að segja mistekizt að reka Frakka út úr Rínarlöndum eftir Ólympíuleikana 1936, hvað þá að gjörsigra þá sumarið 1940, þrátt fyrir mun meiri sameiginlegan herafla og hergögn Breta og Frakka en Þjóðverja. Bardagar urðu harðir, t.d. voru skotnar niður yfir 2000 flugvélar Bandamanna og yfir 1000 Luftwaffe-vélar.
Nú er spurningin, hvort íslenzka stjórnkerfið, sem virðist bera lotningarfulla virðingu fyrir því, sem kallað er 3. flokks möppudýr í Brüssel, muni hér eftir hugsa sig um tvisvar áður en allt traust er sett á þennan risa á brauðfótum. Íslenzka stjórnkerfið verður að hrista af sér slenið og fara að gera sér grein fyrir, hve hættulegt það er að reiða sig á Evrópusambandið, þegar miklir hagsmunir Íslands eru í húfi. Það er jafnvel aðildarþjóðunum, hverri á fætur annarri, að verða ljóst.
"Kröfur um, að von der leyen segi af sér, hafa orðið æ háværari um helgina [mánaðamótin jan-feb - innsk. BJo] og munu tæplega dofna nú í vikunni. Þær eru réttmætar, en vandinn er djúpstæðari; hann felst í Evrópusambandinu sjálfu, lýðræðishalla þess, ábyrgðarleysi helztu stjórnenda og takmarkalausum valdaþorsta og vanhæfni Brusselbáknsins, sem birtist með augljósum og átakanlegum hætti í bóluefnismálunum. Þar þurfa Íslendingar að leita annarra leiða."
Þetta er hverju orði sannara. Úrsúla von der Leyen hefur neitað að biðjast afsökunar á dómgreindarleysi sínu, vanrækslu og síðar flumbruhætti framkvæmdastjórnarinnar. Hún er nú komin í felur, illar tungur segja ofan í neðanjarðarbyrgi (Bunker), en frá framkvæmdastjórninni kom, að aðeins Páfinn í Róm væri óskeikull. Fyrr má nú vera. Þau kunna ekki að skammast sín. Þess vegna eru þau 3. flokks. Frá von der Leyen heyrðist áður en hún hvarf ofan í bunkerinn, að hægt yrði að dæma feril hennar, þegar honum lyki, að þremur árum liðnum. Það er því miður borin von, að von der Leyen batni. Háfleygt tal og asnastrik eru hennar ferileinkenni.
Til að rifja málið upp er rétt að hverfa til upphafs þessarar ágætu forystugreinar Morgunblaðsins:
"Það hefur verið með ólíkindum að fylgjast með bóluefnastríðinu undanfarna daga, sem náði hámarki á föstudaginn [29.01.2021 - innsk. BJo], þegar framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) setti útflutningsbann á bóluefni frá ríkjum sambandsins, að því er virðist í bræðiskasti yfir eigin vanhæfni og vanmætti við öflun bóluefnis við kórónaveirunni, sem leikið hefur álfuna svo grátt undanfarið ár."
Það var ekki nóg með, að framkvæmdastjórnin sóaði 3 mánuðum í fyrrasumar í þrefi við bóluefnafyrirtækin um verð og skaðabótaábyrgð, ef bóluefnin reyndust haldlaus eða skaðleg, heldur reyndi hún í vetur með óprúttnum aðferðum að troða sér fram fyrir þá forsjálu í röðinni, t.d. Breta, sem gengu frá samningum í júní 2020, þremur mánuðum á undan ESB. Síðan reyndi hún að koma sök á viðsemjendur sína fyrir tafir; heimtaði bóluefni frá AstraZeneca á Bretlandi, sem framleiðir nú fyrir brezka markaðinn samkvæmt 8 mánaða gamalli pöntun, og réðist í húsrannsókn hjá bóluefnaframleiðanda í Belgíu til að kanna, hvort hann flytti út bóluefni (til Bretlands). Síðan klykkti hún út með hótun um lokun landamæranna á Írlandi án samráðs við írsku ríkisstjórnirnar.
Þetta sýnir, að virðing Framkvæmdastjórnarinnar fyrir lögum og rétti ristir grunnt, og hún er tilbúin til að ganga langt í þvingunarúrræðum, ef henni finnst stigið ofan á skottið á sér. Þetta framferði hlýtur að vekja óhug hérlendis, eins og það hefur gert um allan hinn vestræna heim. Brüsselvaldið hefur sett hrottalega niður, og það ríður ekki feitum hesti frá fyrstu viðureigninni við Breta eftir útgöngu þeirra úr þessu misheppnaða ríkjasambandi. Eftir sem áður er innganga Íslands þangað enn efst á lista Samfylkingar, Viðreisnar og væntanlega pírata einnig. Það verður þó að gera þá kröfu, að núverandi stjórnvöld á Íslandi sjái að sér og hætti að líta á ESB sem traustan bakhjarl og láti ekki lengur aðildarumsókn rykfalla í skúffu í Berlaymont, heldur afturkalli og ógildi hana. Eftir sem áður kappkostum við að efla samskiptin við þjóðríkin í Evrópu sem og annars staðar.
"Framkvæmdastjórnin, í samráði við helzta aðildarríki ESB, tók af skarið og ákvað síðastliðið sumar að annast öflun og dreifingu bóluefnis í öllum aðildarríkjunum, að Evrópusambandið væri sérstaklega vel til þess fallið að taka að sér miðstýringu þessa stærsta og mikilvægasta verkefnis í Evrópu frá lokum seinni heimsstyrjaldar. Að það hefði fullkomna yfirsýn yfir vandann, nyti stærðar sinnar til þess að gera góð innkaup og kæmi í veg fyrir innbyrðis samkeppni Evrópuríkjanna."
Það mátti vera ljóst hér uppi á Íslandi, eins og í Lundúnum, að skrifræðisbákninu í Brüssel undir stjórn misheppnaðs forseta framkvæmdastjórnarinnar yrði það um megn að gera skjóta og hagstæða samninga við bóluefnaframleiðendur. Við þær aðstæður áttu heilbrigðisyfirvöld að virkja umboðsaðila lyfjafyrirtækjanna og kunnáttumenn á þessu sviði með sambönd í þessum geira til að semja um bóluefnaafhendingu fyrir landsmenn. Einkaframtakið má ekki virkja að mati heilbrigðisráðherra, og nú situr hún og forsætisráðherrann uppi með klúðrið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.2.2021 | 15:12
Steinrunninn gúmmídvergur
Almannatengillinn Friðjón R. Friðjónsson er innanbúðarmaður í Sjálfstæðisflokkinum, þótt undarlegt sé m.v. fádæma ruglingslega Morgunblaðsgrein hans í lok janúar 2021, þar sem fram virtist koma djúpstæð óánægja hans með flokkinn. Helzt er á téðum almannatengli að skilja, að hann vilji toga flokkinn í átt að Viðreisn. Það er fádæma heimskuleg ráðlegging. Þar með væri flokkurinn losaður af grundvelli sínum frá 1929, sem er að vinna stöðugt að sjálfstæði og fullveldi Íslands á öllum sviðum í krafti einstaklingsframtaks og frjálsra viðskipta. Ef Sjálfstæðisflokkurinn færi nú að gera hosur sínar grænar fyrir Evrópusambandinu og evrunni, mundi hann daga uppi sem hvert annað viðundur, þegar einn okkar næstu nágranna, brezka þjóðin, hrósar nú happi yfir að hafa losnað úr klóm ESB í tæka tíð til að losna við klúður ESB í bóluefnamálum, sem kostar mörg mannslíf.
5. þingmaður Reykvíkinga, Brynjar Níelsson, átti mjög gott svar við þessari gúmmígrein almannatengilsins með greininni:
"Steintröllin"
í Morgunblaðinu 30. janúar 2021. Greinin hófst þannig:
"Hinn ágæti sjálfstæðismaður, Friðjón R. Friðjónsson, skrifar grein í Morgunblaðið á fimmtudaginn var, þar sem hann lýsir nokkrum áhyggjum yfir stöðu Sjálfstæðisflokksins í nútímanum."
Almannatenglinum varð einmitt tíðrætt um, að flokkurinn væri ekki nógu nútímalegur, en hefur ekkert fram að færa annað en umbúðastjórnmál og froðukennt fimbulfamb. Það örlar ekki á heilli brú. Það er þunnur þrettándi á leiksviði lífsins, en gengur kannski á leiksviði firringarinnar, þar sem allt er falt.
Almannatenglinum mislíkar sennilega, að nokkrir sjálfstæðismenn hafa (fyrir rúmu ári) stofnað með sér félag til að vinna að framgangi mála innan Sjálfstæðisflokksins, sem miða að því að efla fullveldi landsins. Það kann froðusnökkurum að þykja gamaldags pólitík. Margir þessara félagsmanna komu við sögu baráttunnar gegn innleiðingu Orkupakka 3 (OP#3) frá Evrópusambandinu í íslenzka löggjöf. Þeir vildu ekki flokka afurð íslenzkra orkulinda, rafmagnið, sem hverja aðra vöru, sem vinnslufyrirtækin ættu að leitast við að selja á verði, sem gæfi þeim hámarkshagnað án tillits til þjóðarhags. Þannig er OP#3, enda á hann rætur að rekja til allt annars orkuumhverfis en hér ríkir.
Þvert á móti vildi fólkið í "Orkunni okkar"-OO, sem stóð í hugmyndafræðilegri baráttu við stjórnvöld um þetta, að raforkan yrði verðlögð m.v. lágmarksarðsemi á markaði að teknu tilliti til áhættu við fjárfestingu. Hagfræðilegu rökin fyrir því eru að styrkja samkeppnisstöðu allra atvinnugreina, sem rafmagn nota, og hafa jákvæð áhrif á afkomu heimilanna. Slíkt styrkir arðsemi allrar virðiskeðjunnar og heildararðsemin af auðlind íslenzkrar náttúru verður þar með miklu meiri en af dýru rafmagni. Téður almannatengill var á fundi í Valhöll, þar sem þessu sjónarmiði OO var haldið á lofti og hlaut góðar undirtektir, en almannatenglinum var ekki skemmt.
Sjálfstæðismenn sneru bökum saman við fólk af öðru pólitísku litarafti í afstöðunni til raforkusölu til útlanda um sæstreng. Þetta sjónarmið hlaut í raun brautargengi á Alþingi með ýmsum varnöglum í löggjöf gegn samþykki yfirvalda á umsókn hingað um leyfi til lagningar aflsæstengs og tengingar hans við íslenzka raforkukerfið.
Það var rekinn talsverður áróður á Íslandi fyrir beinni raforkusölu til útlanda fyrir innleiðingu OP#3, og ýmsir hagsmunaaðilar, stórir og litlir, koma þar við sögu. OP#3 var talinn geta auðveldað slík viðskipti, enda aðalhlutverk hans að efla raforkuflutninga á milli landa.
M.a. kom í ljós, að sæstrengsfyrirtæki á Englandi hafði mikinn hug á lagningu sæstrengs til Íslands og hafði í þjónustu sinni almannatengslafyrirtæki á Íslandi, væntanlega til að koma ár sinni fyrir borð. Þegar einhver torskiljanlegur málflutningur er á ferðinni, liggur oft fiskur undir steini ("hidden agenda").
Verður nú gripið niður í ágæta grein Brynjars:
"Erfitt er að átta sig á, hvað Friðjóni gengur til, þegar hann gefur í skyn í greininni, að Sjálfstæðisflokkurinn sé á móti breytingum á efnahagslífinu, sjávarútveginum, landbúnaðarkerfinu, orkumálum, stjórnarskránni og samfélaginu sjálfu og flokkinn muni daga uppi og verða að steintrölli með sama áframhaldi. Hefði ekki komið mér á óvart, að þessi grein hefði verið skrifuð í þingflokksherbergi Viðreisnar. Friðjón notar alla sömu frasana, sem þaðan koma, án þess að segja nokkuð um, hverju eigi að breyta, og hvernig, eða af hverju. En eitt er víst, að skrif hans endurspegla djúpstæða óánægju með forystu Sjálfstæðisflokksins."
Almannatenglar eru mjög uppteknir af ímyndinni, og hvernig hægt sé að breyta henni, til að hún höfði til sem flestra. Þeir virðast halda, að stjórnmál snúist um umbúðir, upphrópanir og fyrirsagnir. Ef stjórnmálaflokkur er ekki nógu nútímalegur, er nauðsynlegt, að þeirra mati, að "poppa upp" stefnumálin. Þetta er hins vegar hreinræktað lýðskrum, sem er ekki traustvekjandi. Stjórnmálaflokkur, sem hleypur á eftir slíkum dægurflugum, er ekki á vetur setjandi.
Brynjar telur málflutning almannatengilsins vera skyldan túðrinu í Viðreisn. Hún er einmitt með aðra stefnu en Sjálfstæðisflokkurinn á þeim sviðum, sem Brynjar nefnir, þ.e. í sjávarútvegsmálum, landbúnaðarmálum og orkumálum. Í sjávarútvegsmálum rekur hún dauðvona stefnu, sem allir, sem reynt hafa, hafa gefizt mjög fljótlega upp á, og eru Færeyingar nýlegt dæmi. Hagur minni útgerðarfyrirtækja varð óbærilegur, og aflaheimildir söfnuðust á stórfyrirtækin, eins og fyrirsjáanlegt var. Uppboðshald af þessu tagi virkar á fyrirtækin sem stóraukin skattheimta, sem grefur undan samkeppnishæfni og fjárfestingargetu. Slíkur fíflagangur endar bara með bæjarútgerðum og ríkisafskiptum.
Með veikan íslenzkan sjávarútveg verður auðveldara fyrir Viðreisn að semja um inngöngu Íslands í Evrópusambandið, sem krefst þess, að togaraflota ESB verði hleypt inn í íslenzka lögsögu. Þá fer nú að þrengjast fyrir dyrum íslenzkra útgerða og íslenzks almennings. Auðlindastjórnun af þessu tagi er nýnýlenduvæðing. Nútímaleg ? Kannski, en samt gamalt vín á nýjum belgjum.
Í landbúnaðarmálunum rekur Viðreisn bara stefnu Evrópusambandsins. Ef hún yrði við lýði hér, yrði ekki lífvænlegt fyrir íslenzka bændur á jörðum sínum. Gríðarleg nýsköpun fer nú fram í sveitum landsins, og framleiðniaukning bænda með tæknivæðingu búanna er aðdáunarverð. Gæði og hreinleiki afurðanna eru hvergi meiri. Landbúnaðurinn íslenzki er á réttri braut, og það verður að veita honum starfsfrið fyrir ágengni niðurgreiddrar framleiðslu risabúa Evrópu með þeim sýklavörnum, sem þarf að viðhafa í slíkum rekstri.
Sennilega situr stefnumörkun síðasta Landsfundar Sjálfstæðisflokksins í orkumálum í almannatenglinum. Alþingi afgreiddi Orkupakka 3 með varnöglum, sem sennilega sitja sem fleinn í holdi hans. Það fá engir gróðapungar að tengja Ísland við erlend raforkukerfi og flytja út raforku héðan og flytja inn erlent raforkuverð að viðbættum gríðarlegum flutningskostnaði um aflsæstreng. Brynjar skrifaði eftirfarandi ádrepu um orkumálin:
"Ómögulegt er að átta sig á, hvert Friðjón er að fara, þegar hann segir, að Sjálfstæðisflokkurinn sé á móti breytingum í orkumálum. Við værum yfirhöfuð ekkert að tala um raforkumál, ef Sjálfstæðisflokkurinn væri ekki til. Hann hefur nánast staðið einn fyrir því, að auðlindir séu nýttar til raforkuframleiðslu með skynsamlegum hætti og samhliða því að byggja upp öflugt og öruggt flutningskerfi raforku.
Við værum ekki að tala um orkuskipti og græna framleiðslu, ef ekki væri fyrir framsýni sjálfstæðismanna. Í því felst framtíðin, alveg óháð "nútímahyggju" Friðjóns."
Hér er Sjálfstæðisflokkinum hælt upp í hástert, en þeir, sem fylgdust með pólitíkinni, þegar tekizt var á um s.k. stóriðjustefnu á 7. áratugi 20. aldarinnar, vita, að Brynjar fer með rétt mál. Að vísu skal ekki draga úr því, að Alþýðuflokkurinn var ódeigur í baráttunni við hlið Sjálfstæðisflokksins í Viðreisnarstjórninni gegn Framsóknarflokki og Alþýðubandalagi. Stóriðjustefnan, sem kenna má við dr Bjarna Benediktsson, forsætisráðherra, dr Gylfa Þ. Gíslason, formann Alþýðuflokksins, og dr Jóhannes Nordal, Seðlabankastjóra, snerist um að virkja stórfljót og framleiða rafmagn með eins hagkvæmum hætti og unnt væri til orkukræfra verksmiðja, sem sköpuðu þjóðinni gjaldeyri og stóðu í raun undir uppbyggingu raforkukerfisins. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar, en eftir stendur, að stefna þessi reyndist farsæl og efldi hag þjóðarinnar gríðarlega.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)