Færsluflokkur: Bloggar

Að taka upp þráðinn við ESB-smjörklípa ?

Það er margt skrýtið í kýrhausnum. Nú vill Viðreisn endurræsa viðræður um myntsamstarf og aðlögunarviðræður við Evrópusambandið (ESB).  Þetta er svo ótrúleg pólitísk glópska á kosningaári til Alþingis, að tiltækinu hlýtur að vera ætlað að slá ryki í augu kjósenda - sem sagt smjörklípa til að draga athyglina frá ægilegum vandræðum ESB í kjölfar BREXIT, en Sambandið mátti lúta í gras í viðureigninni við Breta út af bóluefnaútvegun, og ríki Sambandsins og reyndar EFTA-hækjunnar innan EES standa Bretum langt að baki, hvað framvindu bólusetninga við C-19 varðar og þar af leiðandi þróun heimsfaraldursins og hags almennings í kjölfarið. 

Að tengja gengi ISK við EUR með þröngu leyfilegu sveiflubili er undarlegt keppikefli, því að mikill hluti viðskipta Íslendinga innanlands og utan á sér stað með USD.  Nefna má, að raforkuviðskiptin við álverin og bókhald Landsvirkjunar og álfyrirtækjanna er í USD, og svo er um fleiri fyrirtæki.  Eldsneytisinnflutningurinn er í USD og sama gildir um ýmis önnur viðskipti.  Evrópusambandið er tollabandalag, og innan þess er ekki eftirsóknarvert að festast, því að Íslendingar vilja eiga viðskipti vítt og breitt um heiminn, auðvitað einnig við evrusvæðið og önnur ríki Evrópusambandsins, en meiri vöxtur er þó á flestum öðrum svæðum heimsins.

Þetta var ein af mörgum ástæðum þess, að Bretar kusu að yfirgefa ESB.  Þeir standa frjálsir að viðskiptasamningum við önnur ríki, og það vilja flestir Íslendingar líka fyrir sína parta.  Það er nauðhyggja að sækjast eftir að binda trúss sitt við stórríki Evrópu, þar sem stjórnarhættir eru ekki til fyrirmyndar í ESB, og lýðræðið er þar í skötulíki.  Áhrifaleysi okkar um eigin málefni yrði meira en flestir Íslendingar mundu sætta sig við, en næstum ómögulegt virðist vera að komast skaðlaust út úr þessum nána félagsskap. Það er ótrúlega barnalegt af Viðreisnarforystunni að reyna nú að sannfæra landsmenn um, að nú sé rétti tíminn til að gera gangskör að því að bæta hag sinn með því að innlima Ísland í Evrópusambandið og fela þar með embættismönnum og stjórnmálamönnum á meginlandinu öll örlög landsins.  Lýðræðislegt vald almennings á Íslandi færi þá fyrir lítið.  Það er með ólíkindum, að Viðreisn, Samfylking o.fl. skuli ætla að kyrja þennan kveðskap á árinu 2021.  Þeim er ekki sjálfrátt. 

Morgunblaðið er gáttað.  1. apríl 2021 var fyrri forystugreinin með fyrirsögnina:

"Furðutillaga".

"Önnur tillagan [Viðreisnar til þingsályktunar] kveður á um það, að ríkisstjórnin skuli óska eftir viðræðum við Evrópusambandið um samstarf í gjaldeyrismálum.  Þessi tillaga virðist, ef marka má texta tillagnanna, eiga að vera viðbragð við ímynduðum bráðavanda í þessum efnum, og samkvæmt henni á ríkisstjórnin að kynna viðræðurnar fyrir þinginu fyrir 1. júní n.k.."

Eins og áður segir fjallar þetta um að festa gengi ISK við EUR.  Það er ígildi fastgengisstefnu, sem hefur aldrei gefizt vel á Íslandi, og stjórnmálamenn hafa gefizt upp á henni, þegar þeir hafa staðið frammi fyrir afleiðingunum, sem eru ósamkeppnishæfir útflutningsatvinnuvegir, samdráttur gjaldeyristekna og fjöldaatvinnuleysi.  Þess vegna höfnuðu Svíar þessu gjaldmiðilssamstarfi SEK og EUR á sínum tíma.  Halda menn, að Íslendingar stæðu eitthvað betur að vígi nú með ISK rígneglda við EUR eftir þriðjungssamdrátt útflutningstekna ?  EUR fór þá úr tæplega 140 ISK í rúmlega 160, sem er breyting um tæplega 20 %, en nú er EUR komin undir 150 ISK.  Flestir gjaldmiðlar hafa verið á rússíbanareið undanfarið ár.  Er ekki ósköp eðlilegt, að verðmæti gjaldmiðils taki mið af viðskiptajöfnuði lands og eigna- skuldastöðu í útlöndum ?

"Hin tillagan, sem þingmennirnir vilja gefa heldur rýmri tíma, kveður á um "endurupptöku viðræðna um aðild að Evrópusambandinu", hvorki meira né minna.  Það er gert ráð fyrir að skipa nefnd og hefja mikinn undirbúning að aðild, og svo verði aðildarviðræður bornar undir þjóðaratkvæði eigi síðar en í janúar á næsta ári [2022]."

Óbeint hafnaði þjóðin áframhaldandi aðildarviðræðum við ESB með því að henda Samfylkingunni og Vinstri hreyfingunni grænu framboði út úr Stjórnarráðinu með tilþrifum vorið 2013.  Það er fáránlegt núna í djúpri Kófskreppu að vilja þá eyða tíma, kröftum og fjármagni, í dauðadæmda og útjaskaða hugmynd.  Forgangsröðun Viðreisnar er fyrir meðan allar hellur og sýnir fullkomið ábyrgðarleysi og dómgreindarleysi.  

"Falsrökin, sem fram koma í greinargerð með tillögunum, eru margvísleg og kunnugleg.  Þar segir t.d., að tilgangurinn sé "að styrkja fullveldi landsins", sem er þekkt öfugmæli þeirra, sem berjast fyrir aðild að Evrópusambandinu, en hafa áttað sig á, að almenningur hér á landi kærir sig ekki um að láta stjórna Íslandi frá Brussel.  Í stað þess að viðurkenna, að fullveldi landsins myndi skerðast verulega við inngöngu í ESB, þá kjósa þessir talsmenn aðildar að rugla umræðuna með því að halda fram hreinni firru í þeirri von, að einhhverjir bíti á það auma agn."

Aðildarsamningur við ESB er ekki þjóðréttarlegs eðlis, heldur felur hann í sér að selja landið undir erlenda löggjöf, sem hefur bindandi og endanlegt lagagildi hér.  Nýtt réttarfar yrði tekið upp, þar sem Alþingi yrði í algeru aukahlutverki.  Dómstóll ESB mundi dæma í fjölmörgum málum Íslendinga, og dómar hans eru ekki áfrýjanlegir.  Það er mjög léleg kímnigáfa fólgin í því og raunar alger uppgjöf að halda því fram, að þetta jafngildi "styrkingu" fullveldis lýðveldisins Íslands.  Þau verða að finna annan betri. 

Íslendingar eiga nákvæmlega ekkert erindi inn í Evrópusambandið, þeir munu ekkert gagn hafa af aðild þar, og hagur þeirra mun versna þar, enda er hagvöxtur evrusvæðisins minni en annars staðar í Evrópu að jafnaði, svo að ekki sé nú minnzt á önnur viðskiptasvæði Íslendinga.  Ef þeir einhvern tímann slysast þar inn, mun verða að áhrínsorðum orðtakið, að þangað leitar klárinn, þar sem hann er kvaldastur.

Mistakaslóði misheppnaðra blýantsnagara í Brüssel, sem ferðinni ráða í þessu gæfusnauða ferlíki, er svo fráhrindandi, að það er sálfræðilegt rannsóknarefni, hvernig heill þingflokkur læmingja getur í alvöru lagt það til á þingi landsins lengst norður í ballarhafi, að mál málanna sé nú aðild þessa lands að ólánsfjölskyldu Frakka og Þjóðverja á meginlandinu og að þjóðin verði að kjósa um, hvort banka beri upp á  þessu ólánsheimili eigi síðar en 2022.  Hvað er að ?

Morgunblaðið telur ekki eftir sér að benda á vankantana, t.d. í forystugrein 26.03.2021:

"Einn bílfarmur - 71 síða !":

"Kommisserar þessa nútíma sovétkerfis, sem klúðruðu bóluefnamálum sínum með sögulegum hætti, náðu hins vegar að bólusetja almenning svo hressilega gegn sér, að það þarf ekki fleiri skammta í bráð gegn þeirri veiru.

En það eru fleiri tilefni til sömu niðurstöðu.  Á það benti Ásgeir Ingvarsson í prýðilegri grein sinni nýlega.  Þar sagði m.a.:

"BBC fjallaði nýlega um það skýrslufargan, sem núna fylgir útflutningi á brezkum fiski til Evrópu.  Mig grunar, að það hafi vakað fyrir blaðamönnunum að sýna, hvers konar reginmistök það voru að ganga úr ESB, en þvert á móti sýnir umfjöllunin, hvað Evrópusambandið er orðið mikið óhræsi.

Í dag þarf, samkvæmt úttekt BBC, að framvísa samtals 71 blaðsíðu af flóknum eyðublöðum og vottorðum til að koma einum bílfarmi af fiski í gegnum tollinn, Evrópumegin.  Að fylla út pappírana kostar ótal vinnustundir, og vitaskuld má ekkert klikka, því [að] minni háttar mistök á einu eyðublaði þýða, að viðkvæm varan situr föst á landamærunum.  Geta brezkir útflytjendur sjávarafurða núna vænzt þess, að vörur þeirra séu u.þ.b. sólarhring lengur að berast í hendur kaupenda í Evrópu.

En það sem Bretar eru að upplifa er einfaldlega það sama og öll heimsbyggðin hefur hingað til þurft að þola af hálfu ESB.  Einu sinni var hún algerlega ómótstæðileg: létt og lipurt bandalag sjálfstæðra þjóða með það göfuga markmið að tryggja frið í álfunni og bæta hag almennings með því að hámarka frelsi í viðskiptum.  Í dag er hún orðin þunglamaleg, eigingjörn og dyntótt, og utan um innri markaðinn er búið að reisa háa múra reglugerða og formkrafa til að verja evrópska framleiðendur fyrir erlendri samkeppni."

Sú gamaldags kaupauðgistefna (merkantílismi), sem þarna er lýst, er runnin undan rifjum Frakkanna, sem eru verstu miðstýringarsinnar Evrópu, og skilja illa mátt valddreifingar og samkeppni.  Fyrir þjóðfélög innan þessa múrs, sem reyndar hefur hlotið þýzka stríðsheitið "Festung Europa" eftir gríðarlegum mannvirkjum  "des Dritten Reiches" á vesturströnd Evrópu, ber slík stefna í sér stöðnun.  Hagkerfin verða ósamkeppnishæf við umheiminn, og þjóðfélögin hrörna.  Íslenzka hagkerfið er allt öðru vísi saman sett en hagkerfi evru-landanna.  Hagsveiflan hérlendis er og verður þess vegna ekki alltaf í fasa við hagsveiflu evrusvæðisins, og peningamálastefna evru-bankans í Frankfurt am Main mun þess vegna hafa tilhneigingu til að auka sveiflur hagkerfisins hér í báðar áttir, sem er ekki eftirsóknarvert. 

Meginstefnumál Viðreisnar eru öll því marki brennd að fela í sér aðlögun Íslands að stjórnkerfi Evrópusambandsins að svo miklu leyti, sem sú aðlögun hefur ekki átt sér stað með aðild landsins að EES.  Verður sýnt fram á þetta í pistli síðar með hliðsjón af Morgunblaðsgrein formanns og varaformanns Viðreisnar um auðlindastjórnun og Stjórnarskrárbreytingar 25. marz 2021.  Þannig fara þar úlfar í sauðargæru, því að auðlindastjórnun ESB felur í sér markaðsvæðingu auðlindanna á Innri markaði Evrópusambandsins. Eftir þann hráskinnaleik mun lítið standa eftir af íslenzkum nýtingarrétti orku- og sjávarauðlinda.    

 

 


Landamærin

Styrr hefur staðið um, hvernig haga beri móttöku farþega með flugi í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og á varaflugvöllunum eða í höfn á Seyðisfirði, þar sem færeyska ferjan Norræna leggur að. Þar sem dæmi eru um það, að farþegar virði reglur um sóttkví að vettugi, hefur sóttvarnarlæknir lagt til og ríkisstjórnin samþykkt, að f.o.m. 1. apríl 2021 fari allir í sóttkví ríkisins undir eftirliti, sem koma frá s.k. rauðum svæðum í ESB og hvorki hafa verið fullbólusettir né veikzt og náð sér af C-19.  Rauð svæði eru með nýgengi sjúkdómsins, NG>50.  Á íslenzkan mælikvarða er þetta nýgengi hátt, og í ljósi þess, að PCR-prófið er ónákvæmt, reyndar í báðar áttir (26 % sýnagjafa reynast neikvæðir í fyrri skimun, en jákvæðir í seinni), þá er ekki óeðlilegt, að sóttvarnaryfirvöld vilji draga úr líkum á "sóttkvíarleka" veirunnar.  Þá má reyndar spyrja sig, hvort ekki sé eðlilegra við íslenzkar aðstæður að miða við nýgengið 25, en undir því flokkast lönd sem "græn". Hins vegar ber yfirvöldum að leita vægustu úrræða til að ná fram ætlun sinni, sem í þessu tilviki virðist vera veirulaust Ísland.  Þetta stefnumið er óraunhæft.  Við verðum þvert á móti að læra að lifa með veirunni, SARS-CoV-2, eins og öðrum veirum af kórónuættinni, sem valda inflúensu og lungnabólgu. Móðursýkinni verður að linna. 

Vægara úrræði er t.d. ökklaband.  Sóttkví ríkisins felur í sér frelsissviptingu, sem er þungbær, einkum fyrir íbúa hérlendis.  Með henni eru allir undir sömu sök seldir vegna líklega örfárra, sem brugðizt hafa trausti yfirvalda og hundsað sóttkvíarskilyrðin. Er það réttmætt og réttlætanlegt í ljósi núverandi aðstæðna í þjóðfélaginu og stöðu faraldursins á Íslandi, þar sem aðeins 1 liggur á sjúkrahúsi vegna C-19 og alls enginn veldisvöxtur er á útbreiðslunni í samfélaginu ?  Frá sjónarhóli leikmanns í lögum fór heilbrigðisráðherra offari, þegar hún setti reglugerð um sóttkví ríkisins fyrir alla frá svæðum með hátt nýgengi C-19, hún virðist ekki hafa sinnt rannsóknarskyldu sinni um vægari úrræði, og nýju sóttvarnarlögin heimila hreinlega ekki þessa frelsisskerðingu. Á annan páskadag, 05.04.2021, kvað Héraðsdómur Reykjavíkur upp dóm í máli nokkurra komufarþega í sóttkví ríkisins, sem vissulega áttu í önnur hús að venda til að fullnusta sóttkvíarskyldum sínum.  Dómurinn var eðlilegur og skiljanlegur á grundvelli gildandi sóttvarnarlaga.  Nú hefur sóttvarnarlæknir hvatt ráðherra til að leggja fyrir Alþingi frumvarp, sem heimili nauðungarvistun vissra komufarþega í sóttkví ríkisins, óháð aðstæðum þeirra varðandi sóttkvíarúrræði hérlendis.  Jafnframt hefur sóttvarnarlæknir áfrýjað dóminum til Landsréttar.  Í báðum tilvikum fer sóttvarnarlæknir offari og fer með óafsakanlegan hræðslu- og falsáróður, þar sem hann lætur að því liggja, að dómurinn muni setja sóttvarnir hérlendis í uppnám og tefja fyrir afléttingu sóttvarnarráðstafana innanlands. Hann verður þá að láta af störfum, ef hann getur ekki starfað eftir lögum landsins. Þessi málflutningur er fullkomlega óboðlegur, og fyrir neðan virðingu læknisins. Frelsisskerðingarúrræðið, sem dæmt var ólöglegt, er óalandi og óferjandi mannréttindabrot hérlendis og stríðir gegn varðstöðu um einstaklingsfrelsi gegn valdníðslu, sem er undirstaða lýðræðislegra stjórnarhátta, hvorki meira né minna.    

Þeir, sem ekki sæta sóttkví undir eftirliti, fara á sóttkvíarstað í 5 sólarhringa að eigin vali, nema þeir geti framvísað gildu bólusetningar- eða ónæmisvottorði.  Þá fara þeir í eina skimun og smitgát. Allt er þetta gríðarlega viðamikið, kostnaðarsamt og sennilega einsdæmi í heiminum. Sennilega er sósíalistinn Svandís Svavarsdóttir hér að skjóta spörfugl með kanónu og ekki í fyrsta sinn.  Kerfið virkar hamlandi á fjölda ferðamanna hingað og veldur þannig miklu tekjutapi og kostnaði.  Spurning er, hvort yfirvöld hafa nægileg gögn í höndunum til að sýna fram á réttmæti sóttkvíarhótela undir eftirliti. Svo reyndist alls ekki vera við málaferlin í Héraðsdómi. 

Um lögmæti þessara aðgerða hafa birzt opinberlega efasemdir, einkum gagnvart fólki, sem heimilisfast er á Íslandi.  Formaður lögmannafélagsins taldi víst, að fljótlega yrði látið reyna á þetta fyrir dómstólum, og það raungerðist 2. apríl 2021 með framlagningu a.m.k. tveggja kæra á hendur sóttvarnaryfirvöldum.  Veronika Steinunn Magnúsdóttir skrifaði frétt um þetta laugardaginn 3. apríl 2021 í Morgunblaðið:

  "Skorið úr um lögmæti dvalar".

"Ómar [R. Valdimarsson, lögmaður] sagði í samtali við mbl.is í gær heldur hæpið, að reglugerð ráðherrans ætti sér lagastoð:

"Ég á erfitt með að sjá, að það sé lagaheimild fyrir setningu [reglugerðarinnar].  Að setja svona mikið inngrip í líf fólks í reglugerð finnst mér heldur hæpið", sagði hann.  "Ef dómari kemst að því í þessu máli, að þetta sé ólögmæt frelsissvipting, þá er þessi reglugerð bara úr sögunni."

Sigríður Á. Andersen, lögfræðingur og Alþingismaður, sat í þeirri þingnefnd, sem fjallaði um frumvarp til nýrra sóttvarnarlaga, sem Alþingi setti í vetur, veit gjörla, hver fyrirætlunin var með þeirri lagasetningu.  M.v. túlkun hennar eru sóttvarnarlæknir og heilbrigðisráðherra algerlega úti á túni eða öllu heldur í kargaþýfi með þessa umdeildu reglugerð sína.  Hún er þess vegna í einu orði sagt valdníðsla:

""Umræða í nefndinni um sóttvarnahús hafi verið á einn veg - tryggja ætti borgurunum samastað, ef á þá yrði lögð skylda til einangrunar, en ekki að skylda þá í sóttvarnahús", segir Sigríður Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem sat í velferðarnefnd, þegar núgildandi sóttvarnalög voru tekin til umfjöllunar."

""Sóttvarnahús voru ekki tekin fyrir sérstaklega í frumvarpi heilbrigðisráðherra til breytinga á sóttvarnalögum að öðru leyti en því, að til þeirra var vísað í þeim tilvikum, er smitaðir menn eru ekki samvinnuþýðir um eigin sóttkví", segir hún.  Þá hafi frumvarpið kveðið á um, að heimilt væri að vista þá í sóttvarnarhúsi."

Af þessu má ráða, að sóttvarnarlækni með minnisblaði sínu og heilbrigðisráðherra með reglugerð sinni hafi orðið á fingurbrjótur, eða með talshætti Norðmanna hafi þau traðkað í salatinu.  Útgáfa reglugerðar um frelsissviptingu fjölda manns án lagastoðar er grafalvarlegt mál og afsagnarsök fyrir ráðherra.  Kemst Svandís Svavarsdóttir upp með hvað sem er í sinni embættisfærslu, án þess að Alþingi grípi til sinna ráða ?  Enginn býst við neinu af fundarstjóranum Katrínu Jakobsdóttur, viðhlæjanda.  

Það er einnig rætt um litakóðanotkun f.o.m. 01.05.2021, en hún er annars eðlis.  Þá er rætt um að aflétta sóttkvínni fyrir óbólusett fólk frá grænum svæðum með því að láta eina skimun duga við komuna hingað og smitgát fram að niðurstöðu sýnatöku.  Það virðist eðlilegt fyrsta skref til afléttingar hafta við komuna frá útlöndum.   

Þann 20. marz 2021 skrifaði ritstjóri Fréttablaðsins, Jón Þórisson, um sóttvarnareftirlit á landamærunum undir fyrirsögninni:

"Þrætuepli".

Forystugreinin hófst þannig:

"Eitt markverðasta skrefið í heimferðinni til þess lífs, sem við þekktum, eru áform stjórnvalda um að opna ytri landamæri og láta för ferðamanna hingað stjórnast af litakóðunarkerfi Evrópusambandsins og jafnframt, að gilt bólusetningarvottorð eða staðfesting á mótefni tryggi aðgang að landinu, án þess að fara þurfi í sýnatöku og sóttkví. 

Þetta hefur verið ýmsum tilefni til gagnrýni og upphrópana.  Fölsuð vottorð gangi kaupum og sölum á netinu, greið leið fyrir ýmis afbrigði veirunnar hingað verði til o.s.frv..  Þetta er eftir öðru, sem tengt er þessum faraldri.  Allt er dregið í efa og véfengt og farvegir fundnir fyrir þrætur. 

Þrætur eru eins konar þjóðaríþrótt okkar.  Við finnum flöt á alls kyns þrætum um allt og ekki neitt.  Og þannig hefur það verið lengi. 

Um þetta atriði segir Laxness í Innansveitarkroniku: "Því hefur verið haldið fram, að Íslendingar beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur, og þó enn síður fyrir rökum trúarinnar, en leysi vandræði sín með því að stunda orðhengilshátt og deila um tittlingaskít, sem ekki kemur málinu við; en verði skelfingu lostnir og setji hljóða, hvenær sem komið er að kjarna máls."

 Takmarkanir á landamærum eru hins vegar ekki tittlingaskítur.  Hvernig við högum málum á landamærunum, ræður úrslitum um hraða efnahagslegrar endurreisnar landsins." 

Með hverri vikunni sem líður verður minni ástæða til að láta efnahagslega endurreisn landsins lönd og leið, þegar hertar sóttvarnarráðstafanir eru ákveðnar.  Vægi sóttvarnarsjónarmiða hlýtur að dvína, eftir því sem bólusettum fjölgar. Frelsissjónarmiðin vega þyngra, eftir því sem höftin vara lengur.  Líklegt er, að túlkun laganna muni taka mið af þessari þróun.  Erlendis er því haldið fram, að núverandi afbrigði veirunnar hérlendis, hið brezka, sé meira smitandi og valdi meiri veikindum, en á sú lýsing við hérlendis ?  Engin rannsókn á smitstuðlum hefur verið birt hérlendis, svo að erfitt er að fóta sig á þróuninni, en hitt er víst, að undanfarnar 2 vikur hefur enginn veldisvöxtur nýsmita verið merkjanlegur hérlendis. Smitstuðullinn er minni en 0 og hin ströngu höft innanlands út í hött.

Það var mjög jákvætt, þegar ráðherra ákvað að mismuna ekki farþegum eftir því, hvort þeir koma frá landi innan eða utan Schengen-svæðisins. Breytingin tók gildi í dag, 06.04.2021. Nú er Bretum að vísu meinað að fara í skemmtiferðir til útlanda, en  það mun ekki vara lengi, því að bólusetningin gengur a.m.k. þrefalt hraðar þar en í EES. Okkur ber að halda jafnræðisreglu í heiðri, og þetta getur orðið þungvægt hagsmunamál fyrir ferðaþjónustuna og atvinnustigið í landinu í sumar.  Svipaða sögu er að segja af Bandaríkjamönnum. 

    


Fullveldið birtist í mörgum myndum

Þann 24. marz 2021 var haldinn aðalfundur Félags sjálfstæðismanna um fullveldismál - FSUF í Valhöll.  Þar var kjörinn formaður Jón Magnússon, hrl.  Margt fleira fór þar fram, og voru m.a. haldnar 3 ræður, sem fylgja fundargerðinni og getur að líta í viðhengi þessa pistils.  Vert er að benda sérstaklega á ræðu Ásmundar Friðrikssonar, Alþingismanns, sem lýsti margbreytilegum birtingarmyndum fullveldis, aðallega tengdum atvinnulífinu.  Allt var þar satt og rétt.  

Því verður heldur ekki neitað, að ein af skyldum fullvalda ríkis er að útvega þegnum sínum bóluefni með sjálfstæðum samningum við viðurkennda birgja eftir þörfum.  Að ná hjarðónæmi í heimsfaraldri er heilsufarslega og efnahagslega mikilvægt.   Að útvista þetta verkefni hjá ríkjasambandi, þar sem landið á ekki aðild, er ótrúleg áhættusækni og bæði lágkúruleg og bíræfin hugmynd. 

Reynslan af því að geta nákvæmlega engin áhrif haft á samningana um bóluefnin er líka ömurleg.  Svona hugmynd verður aðeins til hjá vanmetakindum, og það er alvarlegt veikleikamerki, að ríkisstjórnin skyldi vera svo lítilla sanda og sæva að gefa þessi mikilvægu mál frá sér með því að samþykkja þessi ósköp.  Engum þarf þó að koma á óvart metnaðarleysi vinstri grænna í þjóðfrelsisefnum, þegar reynslan frá 2009-2013 er höfð í huga. Það verður þó að svipta hulunni af því, hvaðan þessi tillaga kom, og hvernig og hvers vegna hún var samþykkt.  Var gerð bókun við þessa samþykkt í ríkisstjórn ? 

Ef þessi ósköp hafa runnið ljúflega niður um kokið á öllum ráðherrum Sjálfstæðisflokksins, þá er greinilega ekki vanþörf á að skerpa á fullveldisbaráttunni innan þess flokks, sem stofnaður var til að berjast fyrir fullu sjálfstæði landsins frá gamla sambandsríkinu (nýlenduherrunum) á grundvelli viðskiptafrelsis, atvinnufrelsis og einkaframtaks, allt í anda Jóns Sigurðssonar, forseta.  Hvar er metnaðurinn nú ?  Að dinglast þæg aftan í stórríki Evrópu, eins og Viðreisn hefur nú undirstrikað, að hún vill.

Morgunblaðið hefur verið iðið við að benda á undirmálsvinnubrögð Evrópusambandsins við bóluefnaútvegun og afar gagnrýnið á framgöngu íslenzku ríkisstjórnarinnar í bóluefnamálum gegn C-19 og er það vel, enda í raun um stórpólitískt mál að ræða, sem varðar gríðarlega hagsmuni.  Forystugreinin 23. marz 2021 var helguð þessu máli og hét:

"ESB þolir ekki dagsljósið eða nær að flýja það".

"En ESB var enginn Trump [í bóluefnasamningum] og hörmung uppmáluð var að fylgjast með vinnubrögðunum þar.  Án þess að segja frá því opinberlega gekk íslenzka ríkisstjórnin í ESB í bóluefnamálum, rétt eins og hún svipti íslenzka þjóð fullveldi í raforkumálum.  [Þarna eru 2 fullveldismál dregin fram í dagsljósið og varða bæði sjálfstæðismenn og landsmenn alla miklu - innsk. BJo.] Það hefur ekki verið upplýst, af hverju ríkisstjórnin álpaðist í barnaskap aftan í pilsfald ESB í bóluefnamálum.  Vanmáttugar þjóðir, þegar innlimaðar og komast hvergi, hafa hins vegar afsakanir, þótt dapurlegar séu. 

Embættismenn hér fara létt með veika þriggja flokka stjórn, sem er sjálfri sér sundurþykk og telur sig geta falið það með því að breiða yfir öll átakaefni.  Embættismennirnir eru fyrir löngu gengnir í ESB, eins og sást í Icesave og orkupakkanum.  Forsætisráðherrann hefur í tvígang sagt opinberlega, að "auðvitað gætu Íslendingar tekið frumkvæðið í bóluefnamálum, þrátt fyrir að hafa falið Brussel verkefnið". En hún hefur ekki sýnt neitt frumkvæði, og þetta muldur hefur haft minna en nokkur áhrif."

Þetta "muldur" heyrðist ekki frá þeim stöllum, Svandísi og Katrínu (viðhlæjendum), fyrr en Evrópusambandið var komið með allt niður um sig og gaf aðildarríkjunum frelsi til að reyna sjálf. Hlekkir hugarfarsins eru svo níðangurslegir, að ráðherrarnir hreyfa hvorki legg né lið til sjálfstæðra tilburða til hliðar við ESB, þótt heimild sé til. Þeir máttu allan tímann reyna við aðra birgja en ESB samdi við.  Það heyrist t.d. ekki múkk í Stjórnarráðinu sem svar við tilboði Maríu Zakarova um viðræður um framleiðsluleyfi til Íslendinga á Sputnik V.  Ráðherrunum dettur ekki í hug að nota tímann og hefja viðræður, af því að Lyfjastofnun Evrópu er enn með bóluefnið til rannsóknar.

Hvað skyldu margir stjórnarþingmanna kokgleypa þá tímaskekkju Viðreisnar á formi væntanlegrar þingsályktunartillögu að hefja á ný aðlögunarviðræður við ESB fyrir Ísland ?  Þingflokkur Viðreisnar er haldinn þráhyggju af verstu gerð og þarfnast einskis fremur en ævilangs orlofs frá þingstörfum úr hendi kjósenda. 

Í téðri forystugrein Morgunblaðsins var haldið áfram að velta fyrir sér dæmalausum undirlægjuhætti við ESB og Lyfjastofnun þess, þrátt fyrir tugmilljónir bólusetninga á Bretlandi með "fyrri skammti", án alvarlegra athugasemda Lyfjastofnunar Bretlands vegna aukaverkana eða ófullnægjandi virkni.  Þessi rörsýn er orðin sjúkleg:

"Tilvikin [um aukaverkanir OAZ-innsk. BJo] voru örfá, sem nefnd voru til sögu um blóðfall, sem hefði komið upp á um líkt leyti og bólusetning á viðkomandi. Ísland, sem aldrei hafði orðið vart við neitt slíkt, hoppaði þegar um borð í þetta sökkvandi fley.  Var það með vísun í vísindi eða einungis ómæld heimska ?  Er virkilega svona lítill munur á "vísindum" og heimsku ?  Kort, sem birt voru um alla Evrópu, sýndu Ísland með yfirskrift um það, að Ísland treysti ekki bóluefninu !  (Yfirskriftin hefði verið betri svona: "Apar eftir, eins og vant er.") Ef raunveruleg ríkisstjórn hefði verið í landinu, hefði slíkt ekki gerzt !

 Hér er fast kveðið að orði í forystygrein, en ekki að ósekju.  Það er eins og íslenzkum embættismönnum og ráðherrum sé fyrirmunað að taka sjálfstæðar ákvarðanir á grundvelli beztu fáanlegu þekkingar, en snúist þess í stað eins og skopparakringlur í kringum hvaða bolaskít sem frá Brüssel berst.

Núverandi sóttvarnarfyrirkomulag er afspyrnu heimskulegt, enda rekst þar hvað á annars horn. Er einhver glóra í því að leyfa fjölda manns að safnast saman við gosstöðvar í Geldingadölum á Reykjanesi, en loka öllum skíðasvæðum á landinu með harðri hendi ?  Hvað hafa mörg C-19-smit verið rakin til skíðasvæða á Íslandi ?  Hver er smitstuðull þar, ef hann þá er stærri en 0 ?  Hver er smitstuðullinn í sundlaugum landsins, í líkamsræktarstöðvum, í verzlunum og hótelum o.s.frv. ?  Eftir rúmlega árs langa söfnun gagna, smitrakningar og sóttkvíar, ættu þessar tölur að vera fyrir hendi, en þær hafa ekki verið opinberaðar.  Það ættu yfirvöld þó að gera hið fyrsta. Á meðan þau gera það ekki, liggja þau undir ámæli um að beita miklu klunnalegri og "kommúnistískari" sóttvarnaraðgerðum en nauðsyn ber til með grafalvarlegum efnahagslegum og félagslegum afleiðingum.  

"Frá tilkynningu um ný bóluefni í nóvember [2020] erum við komin upp í 4 % bólusetningu ! [20.734 eða 5,7 % þjóðarinnar fullbólusettir 31.03.2021-innsk. BJo.] Heilbrigðisráðherra hefur ekki sagt af sér eða ríkisstjórnin öll, sem ætti að vera niðurlút gagnvart þjóðinni.  Samþykkti hún að stöðva notkun bóluefna, sem milljónir og jafnvel milljónatugir höfðu notað, án þess að þeirra afbrigða hefði orðið vart, sem blásin voru upp og hlaupið eftir hér ? Það var a.m.k. ekkert vísindalegt við slíka ávörðun. Hver tók hana þá í raun ?  Hvert hefur afsökunarbeiðni borizt út af tiltækinu ?  Fjölmiðlar gærdagsins vítt og breitt gengu út frá því, að EMA (European Medicines Agency) mundi þann dag lýsa því yfir, að bóluefnið rægða sé öruggt. En nú óttast margir, þ.á.m. sumir rógberanna, að margir hugsi sig um áður en þeir láta bólusetja sig." 

 

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bóluefnastríðið 2021

Framvinda bólusetninga í Evrópusambandinu (ESB) er hæg í samanburði við Bretland, en ástæðan er sjálfskaparvíti Framkvæmdastjórnarinnar.  Hún svaf á verðinum, á meðan Bretar styrktu Oxford AstraZeneca (OAZ) til að þróa bóluefni gegn SARS-CoV-2-veirunni, sem veldur C-19 sjúkdóminum, og tóku síðan þá áhættu að forpanta tugmilljónir skammta fyrir brezku þjóðina frá OAZ. Ekkert slíkt hvarflaði að Úrsúlu von der Layen, en nú ryðst hún yfir grindur til að komast fram fyrir Boris Johnson og hans fólk í afhendingarröð bóluefna.  Þetta er löglaust atferli, og var þó ekki úr háum söðli að detta. Evrópusambandinu er ekki treystandi fyrir horn.  Það er rétt hjá Lavrov.  

Ráðherraráð ESB nagar sig nú í handarbökin fyrir að hafa falið Framkvæmdastjórninni að útvega bóluefni og dreifa þeim til aðildarlandanna, en þetta var gert til að styrkja ESB, því að allar krísur hafa verið notaðar til að auka völd ESB.  Heilbrigðismálin hafa aldrei verið á verksviði Framkvæmdastjórnarinnar, og búrókratar hennar höfðu enga reynslu í að semja við lyfjafyrirtæki.  Undir forystu flokkshests frá Kýpur lögðu þeir áherzlu á að lágmarka kolröng áhættuatriði, sem tafði samningagerðina, og urðu þeir a.m.k. 3 mánuðum á eftir Bretum að ganga frá samningum. 

Það lítur út fyrir, að íslenzki heilbrigðisráðherrann hafi sýnt vanrækslu í starfi með því að leita ekki til umboðsaðila þeirra lyfjafyrirtækja, sem voru með efnilegar niðurstöður úr fasa 1 og fasa 2 bóluefnisprófunum, en treysta þess í stað á að fá mola af borðum ESB, sem henni mátti verða ljóst í sumar, að yrðu fátækleg framan af. Hvernig tekur hún fréttinni frá Moskvu 30.03.2021 ?  Maria Zakarova, talsmaður utanríkisráðherra Rússlands, Sergei Lavrov, tilkynnti þar og þá á blaðamannafundi, að Rússar væru til viðræðu um framleiðsluleyfi til Íslendinga á Sputnik V.  

ESB hefur síðan á þessu ári, 2021, spilað algerlega rassinn úr buxunum með ofbeldisfullum tilburðum og falsáróðri gegn hinu sænsk-brezka AZ. Lögregla hefur ráðizt inn í verksmiðju AstraZeneca í Leiden í Hollandi og á Ítalíu vegna grunsemda Framkvæmdastjórnarinnar um, að verksmiðjurnar væru að framleiða bóluefni upp í pantanir Breta, sem þá átti að haldleggja.  Grunsemdirnar voru úr lausu lofti gripnar, en aðgerðirnar sýndu, að Framkvæmdastjórnin er farin á límingunum og virðir hvorki lög né rétt, þegar þannig stendur á í bólið hennar. Þetta er lærdómsríkt, líka fyrir halelúja-hóp ESB á Íslandi. 

Þá hafa Framkvæmdastjórnin og nokkrir leiðtogar ESB-ríkjanna með "Litla Napóleón" í Elysée-höllinni í París í broddi fylkingar tekið sér fyrir hendur hlutverk Gróu á Leiti, "ólyginn sagði mér", að OAZ-bóluefnið væri gagnslítið og gæti verið sumum hættulegra en hin bóluefnin.  Nú hefur "Litli Napóleón" snúið við blaðinu og heimtar miklu meira af OAZ-bóluefninu strax en Gallarnir eiga rétt á samkvæmt samningum, sem Úrsúla von der Leyen og skjaldmeyjar hennar véluðu um og gengu frá með miklu lakari skuldbindingum á hendur birgjanum en Boris og félagar.

Hörður Ægisson reifaði málið að sínum skelegga hætti í forystugrein Fréttablaðsins 19. marz 2021 undir hinu lýsandi heiti:

"Klúður".

Hún hófst þannig:

"Eitthvað mikið hefur farið úrskeiðis. Ísland er eitt þróaðasta ríki í heimi, efnað land með fáa íbúa og öfluga innviði, þar sem vilji til bólusetningar er ríkur.  Þjóðin ætti við venjulegar kringumstæður að hafa alla burði til þess að bera sig saman við vestræn ríki, sem standa utan Evrópusambandsins, á borð við Bretland og Bandaríkin.  Í Bretlandi stendur öllum, sem komnir eru yfir fimmtugt, nú til boða bólusetning, og í Bandaríkjunum stendur til, að nægt bóluefni verði til fyrir alla í lok maí, auk þess sem bæði ríkin hafa fest eins konar frelsisdaga í dagatalið í vor og sumar, þegar öllum hömlum verður aflétt."

Stjórnvöld hér virðast hafa sofið á verðinum, þegar þau hefðu þurft að vera með allar klær úti við að útvega bóluefni sem fyrst.  Þegar niðurstöður þreps 1 og þreps 2 úr tilraunum nokkurra lyfjafyrirtækja urðu opinberar í sumar, var einboðið að fá umboðsmenn þessara lyfjafyrirtækja til að leita samninga við sína birgja.  Heilbrigðisráðherra stjórnast hins vegar af pólitískum hindurvitnum Stalínstímans í Sovétríkjunum og forðast allt samstarf og samvinnu ríkisins við einkaaðila.  Þegar heilbrigðisráðherra hafði sólundað tímanum, var með bettlistaf í hendi leitað ásjár Evrópusambandsins, sem samþykkti náðarsamlegast að láta af hendi nokkra skammta til Íslands gegn því, að Ísland reyndi ekki að semja við sömu birgja og ESB.  Allt er þetta einstaklega lágkúrulegt, og framvindan er eftir því.

"Á meðan höfum við horft upp á tafir og meiriháttar klúður í bólusetningaráætlun stjórnvalda, sem var af óskiljanlegum ástæðum útvistað til ESB.  Enn er ekki einu sinni búið að bólusetja alla eldri borgara hér á landi, og fyrirætlanir um bólusetningar hafa enn tafizt um heilan mánuð, og ráðamenn yppa bara öxlum við þeim tíðindum.  "Þetta er grautfúlt, en svona er þetta, og svona er þessi veira", voru viðbrögð forsætisráðherra við því, þegar fréttir bárust um, að AstraZeneca-bóluefnið, stór liður í bóluefnisöflun landsins, hefði tímabundið verið sett til hliðar.  Fáir leggja traust sitt á, að áætlun stjórnvalda um, að búið verði að bólusetja alla Íslendinga yfir 16 ára aldri í lok júlí [2021] muni ganga eftir."

Alþingi á að veita ráðherrum aðhald á hverjum tíma.  Þegar þeir sýna af sér ólíðandi óhæfni og/eða vanrækslu í starfi, á Alþingi að grípa til þeirra úrræða, sem það hefur yfir að ráða.  Forsætisráðherra mun ekki losa okkur við viðhlæjanda sinn, téðan  heilbrigðisráðherra, og þá verður Alþingi að gera það. 

Í lok forystugreinarinnar skrifaði Hörður Ægisson:

"Með öflugri forystu hefði mátt bólusetja þjóðina mun fyrr, opna landið og afnema um leið þær skerðingar á daglegu lífi, sem við höfum búið við.  Baráttan um bóluefnin er enginn leikur, heldur alvöru slagur. Við sjáum það af því kalda stríði, sem nú ríkir á milli Bretlands og ESB, þar sem útflutningsbanni er svarað með efasemdum um  gagnsemi brezka bóluefnisins. [Bretar hafa ekki lagt á útflutningsbann á bóluefnum, heldur afgreiðir AZ í Bretlandi pantanir í réttri röð - innsk. BJo.]  Stjórnvöld hefðu átt að berjast fyrir því með kjafti og klóm að tryggja nægt bóluefni fyrir löngu, en af einhverjum ástæðum virðist þá ráðherra, sem fóru með málið, hafa skort þar vilja eða getu eða hvort tveggja.  Ótrúlegt er, að ríkisstjórn, þar sem flokkarnir áttu fátt sameiginlegt annað en andstöðu við ESB, skyldi ákveða að hengja sig alfarið á misheppnaða bólusetningaráætlun sambandsins. Hvernig í ósköpunum var komizt að því, að það væri þjóðinni fyrir beztu, og á sama tíma var ekkert Plan B fyrir hendi ?  Bólusetningarklúður stjórnvalda, sem er einkum á ábyrgð heilbrigðisráðherra, eru afglöp af áður óþekktri stærðargráðu."

Landsmenn eiga rétt á að fá svör við ofangreindum spurningum Harðar Ægissonar.  Stjórnvöld virðast hins vegar óttast, að vinnubrögð þeirra þoli ekki dagsljósið, sem kann að vera rétt mat, en á meðan við svo búið stendur, er vanræksla einkunnin, sem gildir um þessa frammistöðu. Hún er í þessu tilviki brottrekstrarsök, sbr "afglöp af áður óþekktri stærðargráðu".

Morgunblaðið hefur heldur ekki látið deigan síga í gagnrýni sinni á stjórnvöld fyrir þessi "afglöp".  Sviðsljósgrein Andrésar Magnússonar þann 18. marz 2021 rekur hina evrópsku hlið þessa stórmáls, en hún sannar, að Evrópusambandinu var aldrei treystandi fyrir því verkefni að útvega bóluefni, enda aldrei gert það áður og heilbrigðismál ekki á könnu Sambandsins.  Fyrirsögn sviðsljóssgreinarinnar var:

"Klúður, hneyksli og loks ringulreið".

Hún hófst þannig:

"Evrópusamstarf um öflun bóluefnis hefur gengið á afturfótunum, allt frá því til þess var boðað síðastliðið haust.  Það var seint til þess stofnað, en verra var, að prútt og óhófleg tillitssemi við þjóðlegan metnað ýmissa aðildarríkja Evrópusambandsins (ESB) [einkum Frakklands - innsk. BJo] tafði verulega fyrir, því [að] það var seint pantað og lítið.  Þegar afleiðingarnar komu í ljós, að Bretar höfðu öllum að óvörum verulegt forskot á því sviði, tók við einkennileg milliríkjadeila, þar sem öllu var teflt fram, þ.á.m. viðskiptabanni og broti á alþjóðlegum samningum.  Sem ekki bætti úr skák, en breytti klúðri í hneyksli."

Hvað sem landsmönnum finnst um það, hvernig skipa eigi framtíðar tengslum við Evrópusambandið, ríkir líklega einhugur um það mat, að ESB hafi sett niður vegna þess, hvernig það hefur fengizt við bóluefnaútvegun til aðildarlanda sinna og EFTA-landanna í EES, og að síðan hafi forysta þess bætt gráu ofan á svart með þvingunaraðgerðum sínum í garð Breta. 

Saga samskipta Íslands og Evrópusambandsins er ekki með þeim hætti, að ástæða væri nokkurn tímann til að fela því forsjá bóluefnaútvegunar til Íslands.  Það er skiljanlegt, að ráðherrar, sem stóðu á sínum tíma að beiðni um aðildarviðræður við ESB, telji það lítið skref fyrir Ísland að fela Evrópusambandinu þetta mikilvæga hlutverk, hvað sem kaupskilmálunum líður, en það er mjög einkennilegt, ef borgaralegu flokkarnir í ríkisstjórninni, sem eru yfirlýstir andstæðingar slíkra aðildarviðræðna, sem eru ekkert annað en aðlögunarferli, eins og menn muna, hafa enga athugasemd gert við þessa lítilsvirðingu við fullveldi landsins.  

Svissland er líka í EFTA, en er ekki í neinu bóluefnasamkrulli með ESB.  Svisslendingar eru komnir heldur lengra í C-19 bólusetningum en ESB mælt í fjölda bólusetninga per 100 íbúa.  Íbúafjöldi landa er ekki áhrifavaldur um það, hvernig þjóðum gengur að útvega sér bóluefni.  Ísraelsmenn gerðu samninga um flýtiafhendingu til sín gegn afhendingu talnaefnis um þróun C-19 faraldursins og heilsufarslegar afleiðingar bólusetninga.  Ekkert slíkt frumkvæði kom frá ráðuneytunum hér. Þegar sóttvarnarlæknir og forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar reyndu að feta í fótspor Ísraelsmanna (þessir læknar voru reyndar ekki á einu máli um, hvor þeirra hefði átt hugmyndina), var einfaldlega of seint í rassinn gripið.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Ótraustvekjandi opinberar sóttvarnaraðgerðir

Enn á ný hafa ströng höft verið sett á líf landsmanna um allt land vegna fáeinna smita utan sóttkvíar, og í þetta sinn er skólum landsins lokað í þokkabót.  Þessar hörðu aðgerðir eru aðeins réttlættar með því, að brezka afbragðið, sem greinzt hefur undanfarið hérlendis, sé meira smitandi og valdi tiltölulega oftar en áður veikindum barna.  Þetta er með afbrigðum þunnur þrettándi m.v. þá truflun á þjóðlífinu og fjárhagstjón, sem reglugerð heilbrigðisráðherra, reist á minnisblaði sóttvarnarlæknis, veldur. 

Þegar þessar sóttvarnaraðgerðir voru kunngjörðar, 24. marz 2021, voru eftirfarandi tölulegar staðreyndir fyrir hendi frá sólarhringnum áður: 

  • Á sjúkrahúsi lá einn C-19 sjúklingur
  • Sjúkir af C-19 og í einangrun voru 75
  • Nýgengi innanlands var 7,6 og á landamærum 12,5
  • Fullbólusettir voru 19´887 eða um 5,5 % landsmanna

Það er lítið álag á sjúkrahúsunum vegna C-19 og nýgengið innanlands er mjög lágt.  Búið er að bólusetja þann hóp, sem verst hefur farið út úr sýkingu af völdum SARS-CoV-2, og margt framlínufólk í heilbrigðisgeiranum hefur verið bólusett.  Það hefur ekkert verið gefið upp um smitstuðul þess afbrigðis, sem þessum hóflausu viðbrögðum veldur, né um einkennin, t.d. hjá börnum. Frétzt hefur þó, að þau séu væg. Það verður þess vegna að álykta sem svo, að enn einu sinni hafi meðalhófið verið hundsað og rannsóknarskyldunni lítt verið sinnt, þ.e. ekkert kannað, hvort minna heildartjóni mætti valda þjóðfélaginu með vægari aðgerðum. Daginn, sem þessi flausturslega ákvörðun var tekin, greindist ekkert smit á Íslandi utan sóttkvíar, hvorki af brezka afbrigðinu né öðru.  Sóttvarnarlæknir er vanur að þakka ströngum félagslegum takmörkunum sínum góðan árangur í sóttvarnarmálum.  Hann getur það varla í þetta sinnið, því að aðgerðir hans frá 24. marz 2021 eru ekkert annað en flumbrugangur. Það var hrapað að niðurstöðu. Katrínu Jakobsdóttur væri nær að fara að dæmi kanzlara Þýzkalands frá sama degi og afturkalla þessar óþörfu, illa ígrunduðu og stórskaðlegu opinberu sóttvarnaraðgerðir.

Í þessu samhengi er vart orðum eyðandi að þeim sefasýkislegu viðbrögðum, sem sézt hafa á samfélagsmiðlum, einnig nú í kjölfar minnisblaðs sóttvarnarlæknis 24.03.2021, út af þeirri sjálfsögðu ákvörðun dómsmálaráðherra landsins að leggja að jöfnu löglega útgefin bólusetningar- og ónæmisvottorð utan og innan Schengen.  Ákvörðunin er enn ekki komin til framkvæmda. Framkvæmd var frestað fram í byrjun apríl 2021 til að gera eftirlitið öruggara.  Látið er eins og landamæraverðirnir séu auðblekktir með fölsuðum vottorðum.  Þótt hægt sé að kaupa fölsuð vottorð, er ótrúleg einfeldni að gera því skóna, að handhafar slíkra geti komizt í gegnum nálarauga íslenzkra landamæravarða með fölsuð skilríki.  Við slíku skjalafalsi liggur fangelsisvist.  Litlu verður Vöggur feginn, þegar kemur að tylliástæðum til að gera haftaafnám tortryggilegt af hvaða tagi sem er.  Þrælslundin er söm við sig.

Því er haldið fram, að bólusettir geti borið smit.  Samkvæmt athugunum Ísraelsmanna, sem lengst eru komnir í bólusetningum og hafa nú þegar myndað hjarðónæmi gegn þekktum afbrigðum kórónuveirunnar, er það rétt, en í mun minni mæli en ella, þ.e.a.s. smitstuðullinn er nánast örugglega undir 1,0 fyrir slíka ferðamenn án tengsla inn í íslenzka þjóðfélagið.  Svipað má ætla, að eigi við þá, sem náð hafa sér eftir sýkingu af C-19.  

Þá hefur fyrirhuguð beiting fjölþjóðlegs litakóða á landamærum frá 1. maí 2021 orðið mörgum tilefni til upphrópana og hræðslukasta.  Sóttvarnarlækni hefur þó verið falin útfærsla á þeirri framkvæmd.  Ef grænt á að gilda fyrir upprunaland og brottfararland með nýgengi á bilinu 0-20, þá er það býsna breitt bil og ráðlegra að beita einfaldri skimun fyrir slíka óbólusetta og ósýkta farþega.  Ef nýgengið er hærra, gult og rautt, þá gildi sömu reglur og nú (að mati höfundar), þ.e. vottorð um neikvætt PCR-próf og tvöföld skimun með 5 daga sóttkví á milli.  Reynslan sýnir, því miður, að sóttkví undir eftirliti er nauðsynleg, svo að henni megi treysta. Kæmi ökklaband til greina ?

Áhrif opinberra aflokana og frelsisskerðinga hafa verið rannsökuð erlendis, og niðurstaðan í mörgum tilvikum er ekki í samræmi við skoðun sóttvarnarlæknis Íslands um nauðsyn allra þessara ráðstafana "til að ná tökum á faraldrinum".  Það er líka nauðsynlegt að meta heildaráhrif slíkra aðgerða.  Þau eru víðtæk og alvarleg, valda andlegu og líkamlegu heilsutjóni, fátækt og gjaldþrotum, og eru sameiginlegum sjóðum þungur baggi í mörg ár.  Áhugafólki um heildarmyndina var þess vegna mikill fengur að grein Þorsteins Arnalds, tölvufræðings, í Morgunblaðinu 18. marz 2021:

"Gagnslaus greiningarvinna".

"Það var fagnaðarefni, að ríkisstjórn Íslands skyldi stuðla að því, að áhrif sóttvarnaaðgerða á þróun Covid-19-faraldursins væru rannsökuð.  Mikilvægt er að meta áhrif mismunandi aðgerða, helzt með vísindalegum hætti, til þess að þær verði markvissar.  Óhjákvæmilega hafa aðgerðirnar neikvæðar aukaverkanir, og með því að meta áhrif þeirra er hægt að vega og meta, hversu langt eigi að ganga hverju sinni."

Hér hreyfir Þorsteinn Arnalds gríðarlega mikilvægu máli.  Vitað er frá erlendum rannsóknum, að 1 %- 3 % þeirra, sem verið hafa atvinnulausir í meira en 1 ár, bíða alvarlegt tjón á heilsu sinni, verða öryrkjar eða hljóta ótímabæran dauðdaga.  Í lok febrúar 2021 höfðu 4719 manns verið atvinnulausir á Íslandi í meira en 12 mánuði.  Ef gert er ráð fyrir, að þriðjungur þeirra hafi misst vinnuna af völdum innlendra sóttvarnaraðgerða, þá má búast við, að á bilinu 16-47 manns verði öryrkjar eða láti lífið af þeirra völdum.  Meðaltal þessa heiltölubils er 32, sem er vert að bera saman við fjölda látinna hérlendis af völdum C-19 faraldursins, sem er 29, þegar þetta er ritað. 

Hinn fjárhagslegi kostnaður samfélagsins af völdum innlendra sóttvarnaraðgerða er ofboðslegur. Þegar honum er bætt við tekjutap fyrirtækja af þeirra völdum, nemur heildarkostnaðurinn áreiðanlega yfir 100 mrdISK/ár. 

Af þessu sést, að það er gríðarlega mikilvægt að komast að því með áreiðanlegum aðferðum, hver árangur mismunandi sóttvarnaraðgerða er, t.d. mælt í fækkun sjúklinga á sjúkrahúsi.  Frá Bandaríkjunum bendir samanburður á milli ríkja, sem beittu og beita mismunandi sóttvarnaraðgerðum til þess, að gagnsemi ýmissa opinberra sóttvarnarráðstafana sé víða  stórlega ofmetin, þ.m.t. á Íslandi. Um innlenda rannsókn á þessu sviði reit Þorsteinn Arnalds:

"Skýrsla rannsóknarhópsins, sem hlaut MISK 5,0 styrk, kom út í síðustu viku [v.10/2021]. Á Íslandi hefur uppruni smita verið rannsakaður og greint af hvaða stofni veirur séu frá upphafi faraldursins.  Væntanlega hafa safnazt verðmætar upplýsingar um, hvernig smit dreifast, og það ætti að gera mat á smitstuðli mögulegt fyrir mismunandi aðstæður.  Því miður hefur hins vegar skort á, að gögnin, sem safnað hefur verið, væru notuð með þessum hætti, og var lestur skýrslu rannsóknarhópsins því tilhlökkunarefni. 

Í læknisfræðilegum rannsóknum er venjan að bera saman hópa fólks, sem eru í mismunandi aðstæðum og skoða t.d., hve margir veikjast í hverjum hópi, og þess gætt, að hóparnir séu nógu stórir, til að niðurstöður verði tölfræðilega marktækar. Loksins mátti búast við, að slík rannsókn hefði verið gerð á íslenzkum Covid-smitum."     

Til þess að eitthvert vit verði í sóttvarnaraðgerðum, er nauðsynlegt að þekkja til smitstuðulsins, og hvað helzt hefur áhrif á hann, en smitstuðullinn er sá fjöldi einstaklinga, sem hver smitaður smitar.  Sem dæmi má taka, að þar sem hann er undir 1,0 (SS<1,0), þar eru ekki aðstæður, sem sóttvarnaryfirvöld þurfa að skipta sér af með hömlum af neinu tagi.  Það var þess vegna eðlilegt, að yfirvöld settu fé í að vinna nytsamlegar upplýsingar um SS úr þeim gögnum, sem safnað hefur verið.  Hvernig skyldi nú hafa tekizt til ?:

"Því miður olli skýrslan vonbrigðum.  Það er eins og skýrsluhöfundar hafi stungið fingrinum upp í vindinn til að ákvarða smitstuðulinn.  Það vekur furðu, að sjónum sé eingöngu beint að aðgerðum á landamærum, en aðgerðir innanlands ekki greindar.  Auk þess er greiningin á landamæraaðgerðunum í skötulíki.  Gert var hermilíkan, sem metur útbreiðslu smita m.v. gefnar forsendur.  Og ekki verður séð, að reynt hafi verið að greina, hver raunveruleg áhrif mismunandi aðgerða séu."

 Mann setur hljóðan við þennan lestur, því að þarna er lýst hreinræktuðu fúski gagnvart mjög mikilvægu verkefni í almannaþágu.  Ef rannsakendur gefa sér þá niðurstöðu, sem vinnan átti að beinast að að leiða út frá gögnunum, þá er skýrslan um þessa vinnu ekki pappírsins virði.  Málið er alvarlegt, því að annaðhvort kunna þau ekki til verka, sem fengin voru til verksins, eða þau eru að reyna að draga dul á staðreyndir, sem þeim var þó falið að leiða í ljós.  Það verður að komast að því, hvaða gagn er af sársaukafullum og rándýrum höftum sóttvarnarlæknis.  Er niðurstaðan af landamærunum sú, að sóttkvíin sé hriplek ?  Þar með er hún bæði gagnslítil og rándýr, því að hún hefur haft hamlandi áhrif á komur erlendra ferðamanna.  Er fær leið að setja ökklaband á fólk í sóttkví ?

"Í skýrslunni segir: "Í þessu líkani er gert ráð fyrir, að smitstuðull ferðamanna utan sóttkvíar sé 1 og 0,5 í ferðamannasmitgát.  Ferðamanni í sóttkví eða einangrun var gefinn smitstuðull 0."

Ef ætlunin var t.d. annars vegar að mæla raunverulega áhættu af smitgát og hins vegar sóttkví, er niðurstaðan þegar gefin og áframhaldandi reikniæfingar óþarfar.  Það er næsta gagnslaust að ráðleggja, ef eitthvað er svona eða hinsegin, ef menn hafa litla vitneskju um, hvernig það raunverulega er.  

Af hverju er ekki reynt að leggja raunhæft mat á þessa smitstuðla út frá gögnum ?  Hvernig passar það við nýlegan fréttaflutning af smitum, sem stöfuðu af fólki, sem hélt [ekki] sóttkví, að smitstuðull í sóttkví sé 0 ?  Gæti hugsazt, að þeir, sem eru í sóttkví, séu ólíklegri til að halda hana en þeir, sem eru í smitgát, sem er vægara úrræði.  Aðferð skýrsluhöfunda minnir á viðskiptaáætlanir, sem voru í tízku fyrir rúmum áratug; litlu skipti, hvernig raunveruleikinn var, Excel var einfaldlega matað á hagstæðum forsendum."

Metnaðar- eða getuleysi höfundanna við að vinna úr gögnum veldur vonbrigðum.  Ef nemanda væri fengið þetta verkefni, og í stað þess að nálgast viðfangsefnið með kerfisbundnum vinnubrögðum myndi hann gefa sér niðurstöðuna, fengi hann mjög lága einkunn fyrir frammistöðuna.  Þetta blasir við, en hvers vegna þetta sleifarlag ?  Gagnrýni Þorsteins Arnalds er fullkomlega réttmæt.  Eru öll kurl komin til grafar ?

"Síðustu mánuði hefur sú hugsun mín ágerzt, að ákvarðanir um sóttvarnaraðgerðir séu byggðar á hæpnum forsendum og ófullnægjandi túlkun gagna.  Dæmi um þetta er, hvort og með hvaða hætti líkamsræktarstöðvar eigi að vera opnar - en það er efni í aðra grein.  Í ljósi þess, að hvorki sóttvarnaryfirvöld né vísindamenn þeim þóknanlegir hafa reynt að nýta fyrirliggjandi gögn til að meta skilvirkni aðgerða, skora ég hér með á yfirvöld að birta opinberlega öll gögn um uppruna smita, rakningu þeirra, raðgreiningu afbrigða og annað, sem máli skiptir.  Hugsanlega og vonandi munu aðrir (eða sömu) vísindamenn nýta þau í alvöru til að meta áhrif sóttvarnaraðgerða - þótt án ríkisstyrkja verði."

Það ætti að vera alveg sjálfsagt mál af hálfu yfirvalda að birta öll gögn, sem Þorsteinn Arnalds fer þarna fram á.  Sóttvarnaraðgerðirnar, sem gildi tóku 25. marz 2021, staðfesta, að sóttvarnaryfirvöld búa ekki yfir þekkingu á breytilegum smitstuðlum í þjóðfélaginu eða reyna ekki að beita henni.  Það er afleit frammistaða eftir rúmlega heilt ár í baráttunni.  Daginn eftir, að "landinu var skellt í lás", að skólunum meðtöldum í þetta sinnið, birti Morgunblaðið forsíðufrétt um, að dagana 7 þar á undan hefðu greinzt 6 ný smit utan sóttkvíar.  Enginn C-19 sjúklingur var þá á sjúkrahúsi.  Þeirri hugsun verður ekki varizt, að þessar sóttvarnaraðgerðir séu framkvæmdar í bráðræði og einkennist af flausturslegum vinnubrögðum og flumbruhætti án nokkurs tillits til neikvæðra áhrifa.  

Páskafrumhlaup sóttvarnarlæknis og heilbrigðisráðherra varpar ljósi á gallana við að láta einn mann móta stefnuna í sóttvarnarmálum.  Þar þurfa fleiri að koma að undirbúningi ákvarðanatöku, svo að mismunandi sjónarmið verði vegin og metin með rökum.  Þannig eru meiri líkur á, að forðazt megi að hrapa að niðurstöðum á hæpnum forsendum.  Ef vel tekst til um val í t.d. 5 manna sóttvarnarráði, hvers hlutverk og samsetning verði skilgreint af Alþingi, má búast við hópefli, þar sem gæði tillagna til ráðherra verða meiri en gæðin frá hverjum og einum í hópnum samanlögð ("synergy").  Aðalatriðið er, að jafnvægi komizt í tillögugerðina, svo að upphlaupsaðilar geti síður spanað fram ótímabærar aðgerðir og að aðgerðirnar þræði betur meðalhóf en verið hefur, þar sem afleiðingarnar hljóti raunhæfa umfjöllun áður en að tillögugerð (minnisblaði) kemur. Það er eðlilegt, að Landlæknir og Sóttvarnalæknir eigi sæti í hópnum og einnig fulltrúar "aðila vinnumarkaðarins", sem alltaf verða fyrir barðinu á sóttvarnaraðgerðum.  Til að lagalega hlið málsins, persónufrelsi og heimildir yfirvalda, verði ekki hornreka, er eðlilegt, að lögmaður verði og í þessu teymi.  


Orkuvinnslukostnaður Landsvirkjunar

Talsmenn Landsvirkjunar halda því fram, að fyrirtækið þurfi að fá um 30 USD/MWh fyrir raforkuna við stöðvarvegg frá orkukræfri starfsemi í landinu, sem fyrir er.  Ársskýrsla Landsvirkjunar ber með sér, að það er of í lagt, en kann að vera nærri lagi, þegar um nýja starfsemi frá viðbótar virkjunum í kerfinu er að ræða. 

Það er þjóðhagslega óhagkvæmt, að ríkisfyrirtækið bíti þetta óþarflega háa verð í sig, því að með því verðleggur það Ísland út af markaðinum að óþörfu, þegar um endurnýjun raforkusamninga er að ræða.  Langdregið þref við eigendur ISAL í Straumsvík sýndi þetta, og þrjózka við að semja við Norðurál um verð fyrir forgangsorku nálægt 25 USD/MWh með álverðstengingu undirstrikar vandann.  Langtímasamningur við Norðurál mundi leysa úr læðingi fjárfestingu á Grundartanga án verulegrar orkuaukningar upp á allt að MUSD 15, eins og fram hefur komið hjá forstjóra fyrirtækisins.  Átakanlegust og hættulegust innlendum iðnaði um þessar mundir er þó líklega staða Elkem á Íslandi í viðskiptunum við Landsvirkjun. 

Meðalverð Landsvirkjunar til orkusækins iðnaðar 2020 var 21,1 USD/MWh samkvæmt ársskýrslu fyrirtækisins. Þetta er lægra en undanfarin ár, m.a. vegna Kófsafsláttarins, en samt nam EBITDA fyrirtækisins MUSD 326 (=mrdISK 42) og hagnaðurinn MUSD 139 (mrdISK 18).  Hrein eign fyrirtækisins nemur MUSD 2235 og hagnaðurinn nemur 6,2 % af henni, svo að arðsemi fyrirtækisins er góð m.v. litla áhættu fjárfestinganna.  Á grundvelli þessa er ljóst, að Landsvirkjun spennir bogann alltof hátt með því að krefjast 30 USD/MWh.  Það er verulegt borð fyrir báru hjá fyrirtækinu, sem fyrirtækið á að nýta til aukinnar sölu á verði, sem gerir atvinnustarfsemi á Íslandi samkeppnishæfa á evrópskum mörkuðum og á öðrum hátt borgandi mörkuðum.  Líklega er slíkt verð forgangsorku um 25 USD/MWh, sem gæti sveiflazt upp á við og niður á við (lágm. 20 USD/MWh) með afurðaverði á heimsmörkuðum. 

Í viðtali við Markað Fréttablaðsins 10.03.2021 við Álfheiði Ágústsdóttur, forstjóra Elkem á Íslandi, kom margt fram, sem sýnir allt annað en vingjarnlegt viðmót íslenzka ríkisorkufyrirtækisins Landsvirkjunar gagnvart iðnaðinum í landinu.  Þetta stingur í stúf við fagurgala fyrirtækisins og stjórnvalda.  Er ástæða til fyrir Samtök iðnaðarins að láta ekki deigan síga, þegar um réttlætismál og stórfellt hagsmunamál iðnaðarins er að ræða:

"Elkem er meðal stærstu viðskiptavina Landsvirkjunar og kaupir ríflega 1 TWh/ár, sem svarar til um 7 % af raforkuframleiðslu fyrirtækisins.  Upphaflegur raforkusamningur Elkem og Landsvirkjunar tók gildi árið 1979 og var til 40 ára.  Þegar endalok þess samnings nálguðust, nýtti Elkem sér ákvæði í samningnum um, að hann yrði framlengdur til 10 ára. Raforkuverð á þessu 10 ára tímabili var svo ákveðið af gerðardómi. 

"Þar var ákvarðað verð, sem hvorki við né Landsvirkjun vorum ánægð með.  Við erum hins vegar með kaupskyldu í þessum samningi og erum bundin af honum til ársins 2029.  Við erum augljóslega opin fyrir að tengja raforkuverðið okkar afurðaverði og erum boðin og búin til að finna einhverjar lausnir á því máli.""

  Hér kemur fram, það sem virðist einkenna núverandi forystu Landsvirkjunar, þ.e. að henni virðist vera fyrirmunað að semja við viðskiptavini sína á eðlilegan hátt.  Fyrir vikið er salan minni og viðskiptin í uppnámi, svo að ekki sé minnzt á fjárfestingar viðskiptavinarins, sem eru fyrir vikið í algeru lágmarki.  Téður upphaflegur samningur Landsvirkjunar og Íslenska járnblendifélagsins mun hafa verið á þá lund, að aðeins helmingur umsaminnar heildarraforkuafhendingar á ári var forgangsorka; hinn helmingurinn var s.k. afgangsorka, sem Landsvirkjun átti rétt á að skerða alfarið tímabundið og allt að 50 % m.v. heilt ár.  Afgangsorkan kostar Landsvirkjun líklega innan við fjórðung af vinnslukostnaði forgangsorkunnar, því að kostnaður við uppsett afl (MW) er yfirgnæfandi í virkjunarkostnaði, og rekstrarkostnaður vatnsorkuvera er lítill.  Þannig gæti blanda af forgangsorku og ótryggðri orku verið lykillinn að lausn þessarar þrætu á Grundartanga. Það er ótækt að grafa undan þessari iðnaðarstarfsemi á Grundartanga með því, að Elkem á Íslandi þurfi að fella orkukaup sín að kaupskyldunni, næst þegar að sverfur, vegna hás raforkuverðs. 

"Stefna Landsvirkjunar síðastliðinn áratug hefur verið að miða samningaviðræður við kostnaðarverð raforkunnar, sem Landsvirkjun áætlar um 30 USD/MWh.

"Landsvirkjun vill fá sambærilegt verð og aðrir raforkuframleiðendur í Evrópu.  Það er fullkomlega skiljanlegt sjónarmið.  Hins vegar viljum við líka fá sambærilegt verð og kaupendur í þeim löndum, sem við berum okkur saman við, t.a.m. í Noregi.""

Kostnaður við orkuvinnslu í núverandi raforkukerfi er ekki áætlunaratriði, heldur reikningsdæmi.  Veigamikil breyta í dæminu er ávöxtunarkrafan, og hún er einfaldlega allt of há, m.v. að ávöxtun eigin fjár var 6,2 % árið 2020, þegar miklir Kófsafslættir voru þó veittir.  Nýtingartími hámarksafls skiptir líka miklu máli fyrir kostnað Landsvirkjunar í USD/MWh sem og aflstuðull kaupandans.  M.v. þessa þætti hjá Elkem á Íslandi og 50 % forgangsorku og 50 % ótryggða orku og núverandi afurðaverð ætti Landsvirkjun að geta sætt sig við um 20 USD/MWh meðalverð og sveiflur upp og niður á forgangsorku með afurðaverði.

""Aðstöðumunurinn liggur í stuðningi við stóriðju. Þar er ég bæði að tala um endurgreiðslur vegna kostnaðar á kaupum á ETS-einingum í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda, en líka sjóði, eins og hinn norska Enova.  Þar er um að ræða framtakssjóð á vegum norska ríkisins, sem fjármagnar grænar lausnir fyrir mengandi iðnað.  Enova fjármagnar t.a.m. þriðjung af fjárfestingu í tengslum við endurnýtingu orku frá kísilmálmverum Elkem í Noregi.  Elkem er núna að vinna fýsileikakönnun á því að fanga koltvísýring og endurvinna orku fyrir allar sínar verksmiðjur, og starfsemin hér á Íslandi er mjög hentug í þetta verkefni.  

Hins vegar erum við neðst á forgangslistanum hjá Elkem, þar sem opinber stuðningur við grænar lausnir fyrir stóriðjuna er mikill í Noregi, en nánast enginn hér.  Stjórnendur Elkem velja auðvitað þá kosti fyrst, sem eru hagkvæmastir.  Sem sakir standa er það í Noregi.  Elkem er mjög framsækið fyrirtæki í umhverfismálum, en við hér á Íslandi sitjum svolítið eftir, þar sem hið opinbera hefur ekki sýnt þessum málum sama áhuga og yfirvöld í Noregi og Kanada.""

Þetta er mikill áfellisdómur yfir íslenzkum yfirvöldum, sem sofa á verðinum við að líta eftir samkeppnishæfni íslenzkra fyrirtækja og láta "græn" þróunarverkefni í samstarfi við iðnaðinn sitja á hakanum, þótt ráðherrar, t.d. iðnaðarráðherra, sé sífellt með á vörunum, hvað hún leggi mikla áherzlu á "græna" nýsköpun.  Það er hins vegar líklegt, að ef Elkem á Íslandi væri búið að tryggja sér raforku til langs tíma á samkeppnishæfu verði, þá mundi Elkem ekki bíða boðanna, heldur fjárfesta til framtíðar í verksmiðju sinni á Grundartanga í ýmiss konar verkefnum, þ.á.m. "grænum". 

Af frásögn forstjórans er jafnframt ljóst, að Elkem ætlar sér að vera áfram með mikla starfsemi í Noregi hér eftir sem hingað til og að norsk yfirvöld eru með raunhæfa stefnu í iðnaðarmálum til að gera orkusæknum iðnaði kleift að starfrækja arðbærar verksmiðjur áfram í Noregi í samkeppni á alþjóðlegum markaði.  Það væri margt vitlausara, sem íslenzki iðnaðarráðherrann gæti tekið sér fyrir hendur, en að kynna sér rækilega iðnaðarstefnu Noregs og framkvæmd hennar.  Henni virðist ganga illa að ná jarðsambandi, en í Noregi hafa stjórnvöld rekið raunhæfa iðnaðarstefnu í meira en heila öld og tengt hana við byggðastefnu. 

 

Síðan kom kjarni viðtalsins, sem ríkisstjórnin vonandi leggur hlustir við og mótar viðeigandi úrbætur, ef landið á ekki að glutra niður góðum iðnaðartækifærum vegna dauðyflisháttar og iðnaðarillvilja:

 ""Framtíðaruppbygging í þessari grein er fjárfrek, og því verður ekki farið í fjárfestingar með aðeins 8 ára raforkusamning [raforkusamning til aðeins 8 ára].  Við þurfum samkeppnishæfara raforkuverð, sem er sambærilegt við það, sem er í Noregi, og lengri samningstíma.  Við erum dýrasta verksmiðjan í Elkem í launakostnaði, þannig að það er ýmislegt, sem vinnur á móti okkur í þessum efnum.  Staðsetning okkar vinnur líka gegn okkur, þar sem við þurfum að flytja inn allt hráefni", segir Álfhildur."

Rauð ljós blikka, en hvað er aðhafzt í iðnaðarráðuneytinu ? Það eru öll teikn á lofti um, að að óbreyttu muni Elkem loka þessari Grundartangaverksmiðju við fyrsta tækifæri.  Með einu pennastriki er hægt að snúa þeirri óheillaþróun við.  Fyrirtækið þarf hagstæðan, langtíma raforkusamning.  Þá mun Elkem fjárfesta í Elkem á Íslandi í grænum lausnum og framleiðniaukandi verkefnum til að draga úr téðum launakostnaði á hvert tonn. 

Síðan koma upplýsingar frá forstjóranum um fjárhagsstuðning norska ríkisins við iðnrekstur undir ETS-loftslagsskilmálum Evrópusambandsins.  Hann er leyfilegur í EES til að koma í veg fyrir "kolefnisleka" til þriðja heims ríkja.  Hérlendis hættir orkupakkapólitíkusum til að vera kaþólskari en páfinn. 

 ""Það var alltaf raforkuverðið, sem gaf samkeppnisforskot hér á Íslandi.  Þetta er hreinlega ekki lengur fyrir hendi, og þessi verksmiðja yrði aldrei byggð í dag á þeim raforkuverðum, sem eru í boði.  Ég ítreka, að ég skil afstöðu Landsvirkjunar vel, en ef þetta á að ganga upp til lengri tíma, þá þarf að skoða hluti eins og endurgreiðslur vegna kaupa á ETS-einingum.  CO2-kostnaðurinn getur numið allt að 1/3 af orkuverðinu, og er stuðningur Norðmanna við sín fyrirtæki vegna þessa allt að 2/3 af CO2-kostnaðinum á MWh.  Þeir nýta mengunarkvóta, sem greiddir eru í ríkissjóð, til að styrkja svona verkefni, sem mér þykir skynsamlegt til að koma í veg fyrir kolefnisleka.""

Með öðrum orðum nemur ríkisstyrkur við járnblendiverksmiðjur í Noregi allt að 22 % af raforkuverðinu.  Hvers vegna hreyfir íslenzki iðnaðarráðherrann hvorki legg né lið ?

Síðan minntist Álfheiður á þróunarverkefni, sem gætu orðið hluti af auðlindagörðum Grundartanga. Hefur iðnaðarráðherra eitthvað kynnt sér þetta í kjördæmi sínu ?:

"Möguleikar á virkjun affallsgufu verksmiðju Elkem gæti verið lykill að aukinni samkeppnishæfni verksmiðjunnar hér á landi að sögn Álfheiðar. Við framleiðslu á kísilmálmi myndast hitaorka, sem fer út í andrúmsloftið.  "Hér væri hægt að setja upp orkuendurvinnslu, sem væri um 25 MW af uppsettu afli, sem samsvarar ríflega fimmtungi orkunotkunar okkar á hverju ári. Auk þess er hægt að nýta hann [varmann] til hitaveitu.  Mjög spennandi valkostir, en það kostar mikla peninga að fjárfesta í orkuendurvinnslu af þessu tagi.""

 

""Þetta snýst ekki um það [niðurgreiðslu ríkissjóðs á starfseminni], heldur að okkur sé ekki refsað tvisvar með koltvísýringstollum.  Við erum nú þegar að kaupa ETS-einingar fyrir þeirri koltvísýringslosun, sem verksmiðjan hér er ábyrg fyrir, og erum að nota hreina raforku til framleiðslunnar.  Hins vegar er raforkuverðið hér að nálgast það, sem tíðkast í Evrópu, en þar eru það kolaorkuverðin, sem eru á jaðri kostnaðarkúrfunnar og hækka raforkuverðið með öllum sínum koltvísýringsrefsitollum.  Við erum því að borga tvisvar fyrir okkar losun, beint með kaupum á mengunarkvótum og svo óbeint, því [að] kolaorkuverðið smitar yfir á evrópska raforkumarkaðinn. 

Ef þessari verksmiðju verður lokað hér, þá verður hún opnuð aftur í Kína, þar sem kol eru brennd til að framleiða sömu vöru, því [að] eftirspurnin eftir kísilmálmi mun ekki minnka, þó að Elkem á Grundartanga verði lokað. 

Að óbreyttum raforkusamningi er líklegt, að eigendur skoði að loka henni.  Við erum hins vegar að gera allt, til að láta þetta ganga, og það er mitt verkefni hér.  En það segir sig sjálft, að ef það er tap ár eftir ár, þá mun verksmiðjunni verða lokað", segir Álfheiður Ágústsdóttir."   (Undirstr. BJo.)

Glóruleysi verðlagsstefnu Landsvirkjunar blasir við, þegar ofangreint er lesið.  Raforkuverð í Evrópu hækkar með verðinu á koltvíildiskvótanum, sem ESB úthlutar orkufyrirtækjunum, og Landsvirkjun miðar sitt verðlag við þetta.  Það er engin viðleitni uppi hér  til að ýta undir, að iðnfyrirtæki noti "hreina" raforku Íslands landsmönnum og umheiminum öllum til hagsbóta. 

 

 


Iðnaðarstefna í skötulíki

Íslenzkt vatnsafl var virkjað að mestu af fyrirtækjum í almannaeigu í tvennu augnamiði: annað var að tryggja íslenzkum heimilum nægt rafmagn til lýsingar, eldunar og húshitunar við vægu verði til lengdar, þótt hitaveitur tækju víða við síðast nefnda hlutverkinu, og hitt var að útvega stöðugt og hagkvæmt afl til að knýja alþjóðlega samkeppnishæfan atvinnurekstur til að þróa íslenzkt atvinnulíf og skapa fjölskyldunum afkomuöryggi.  Þessi íslenzka iðnaðarstefna, sem átti sér hliðstæðu í vatnsorkulandinu Noregi og einnig í Svíþjóð, hafði í för með sér byltingu í lífskjörum landsmanna.

Landsvirkjun var stofnuð til að gegna síðar nefnda hlutverkinu, og engin lýðræðisleg ákvörðun hefur verið tekin um að breyta því hlutverki.  Fyrirtækið hefur engu að síður síðastliðinn áratug lent á algerum villigötum með óljósu tali um hámarksarðsemi.  Slíkt stingur algerlega í stúf við upphaflega, lýðræðislega og sígilda stefnumörkun fyrir þetta ríkisfyrirtæki, enda hlýtur stefna um hámarksarðsemi á fáokunarmarkaði að leiða til algers ófarnaðar atvinnulífsins. Er ámælisvert, að stjórnvöld skuli ekki hafa gert gangskör að því að leiðrétta þessa afdrifaríku skekkju í stefnu fyrirtækisins.     

Á vakt núverandi ríkisstjórnar, eins og það er stundum orðað, virðist þessa farsælu upphaflegu stefnu hafa steytt á skeri, án þess að lýðræðisleg stefnumótun hafi þó  farið fram um valkosti, eins og t.d. átti sér stað á Alþingi við mótun téðrar iðnaðarstefnu að frumkvæði Viðreisnarstjórnar Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks á 7. áratugi 20. aldarinnar og kostaði reyndar hörð stjórnmálaátök við afturhaldið í landinu.  

Langstærsta orkufyrirtæki landsins, Landsvirkjun, hefur verið í almannaeign frá stofnun þess með lögum frá Alþingi 1965, þó ekki alla tíð alfarið í eigu ríkisins, eins og nú, heldur komu Reykjavík og Akureyri að eignarhaldinu í byrjun.  Stærðar sinnar vegna nú virðist hún geta, a.m.k. tímabundið, hagað sér eins og ríki í ríkinu. Lýðræðisleg mótun eigendastefnu fyrirtækisins virðist ekki liggja að baki kúvendingu á verðlagningarstefnu Landsvirkjunar, sem kemur með núverandi forstjóra fyrirtækisins, Herði Arnarsyni, árið 2010 og stjórnarformanni, Jónasi Þór Guðmundssyni, frá 2014, ásamt háum arðsemiskröfum frá eigandanum.

Þar er um þröngsýna stefnubreytingu að ræða frá því að reka verðlagsstefnu, sem lagði grunn að samkeppnishæfni íslenzkra fyrirtækja, að hámörkun arðsemi Landsvirkjunar, sem er öndverð hagsmunum atvinnulífsins og þar með eigendanna, almennings í landinu. 

Þessi stefna hefur gert íslenzkum fyrirtækjum róðurinn erfiðan undanfarin ár, og því erfiðari þeim mun meiri, sem orkunotkun á hverja framleiðslueiningu hefur verið hjá viðskiptavinum Landsvirkjunar.  Stefnan hefur fælt nýja viðskiptavini frá fyrirtækinu og valdið samdrætti í orkukaupum viðskiptavinanna, sem hafa farið halloka í samkeppninni á alþjóðlegum mörkuðum.  Þeir hefðu flúið til annarra orkubirgja, ef kostur væri, en á íslenzkum fákeppnismarkaði eru valkostir í mörgum tilvikim engir. 

Sem kunnugt er lá við lokun verksmiðjunnar í Straumsvík vegna þessarar verðlagsstefnu Landsvirkjunar, en á síðustu stundu í vetur tókst að forðast stórslys, sem okurstefna Landsvirkjunar gat hæglega valdið í Straumsvík.  Á Grundartanga liggja miklar fjárfestingar í steypuskála Norðuráls á ísi vegna þrákelkni Landsvirkjunar við að semja á skynsamlegum nótum við fyrirtækið um alþjóðlega samkeppnishæft verð.  Íslenzka raforkukerfið getur látið það í té með nægum hagnaði, og eigandinn, ríkissjóður, tekið ávinninginn út með skattlagningu á hinum endanum, eins og Roosevelt sagði um "New Deal" stefnu sína.  Þannig er þetta gert í rótgrónum iðnríkjum, en hér ríkir einhvers konar andi spákaupmennsku og barnalegrar iðnaðarfælni.  

Þann 10. marz 2021 birtist athyglisvert viðtal í Markaði Fréttablaðsins við forstjóra Elkem á Íslandi, Álfheiði Ágústsdóttur.  Fyrirtæki hennar, áður þekkt sem járnblendiverksmiðjan á Grundartanga, er e.t.v. aðalfórnarlamb aðfarar Landsvirkjunar að iðnaðinum í landinu um þessar mundir.  Það er makalaust, að ríkisorkufyrirtæki þetta skuli komast upp með það ár eftir ár að grafa undan atvinnurekstri og gjaldeyrisöflun í landinu.  Það er ekki vanzalaust, að þetta skuli gerast á vakt varaformanns Sjálfstæðisflokksins í iðnaðarráðuneytinu, því að t.d. orkukræfur iðnaður væri líklega enginn í landinu, ef forysta hans hefði aldrei haft þrek til að berjast fyrir tilvist orkusækins iðnaðar, og flokkurinn hefur aldrei á landsfundum sínum breytt um þá grundvallarstefnu í iðnaðarmálum, sem mótuð var á Viðreisnaráratuginum af dr Bjarna Benediktssyni og Jóhanni Hafstein.  Ríkur þáttur í henni var einmitt að virkja orkulindir landsins til að selja útflutningsiðnaði og gjaldeyrissparandi iðnaði raforku á samkeppnishæfu verði.  Fyrir kosningar til Alþingis í ár þarf Sjálfstæðisflokkurinn að sýna í verki, að hann hafi afl og einurð til að láta þá stefnu sína rætast, að raforkan skapi samkeppnishæft rekstrarumhverfi fyrir íslenzkan iðnað.  

Fyrirsögn áhrifaríks viðtals Fréttablaðsins við Álfheiði Ágústsdóttur var:

"Erfitt ár að baki á Grundartanga".

Þetta er vægt til orða tekið, því að um verstu afkomu í sögu fyrirtækisins var að ræða, og lögðust þar á eitt þrengingar Kófsins og íþyngjandi raforkukostnaður:

"Um 170 manns starfa hjá Elkem Ísland, en svo eru aðrir 50-60 verktakar, sem starfa á verksmiðjusvæðinu á hverjum degi, að sögn Álfheiðar.

"2020 var hins vegar afkoma verksmiðjunnar verst frá upphafi.  Verð voru lág á markaði, og kostnaður okkar vegna raforkukaupa hefur verið síðan afar hár, eftir að gerðardómur um raforkuverð okkar lá fyrir."

Álfheiður segir, að fyrirtækið sé ýmsu vant.  "Við lítum á þetta sem áskoranir, og við leitum sífellt lausna og reynum að nýta tækifæri, sem nýjar aðstæður skapa okkur", segir hún ennfremur."

Deilur Elkem á Íslandi og Landsvirkjunar um raforkuverðið voru komnar í öngstræti, og þess vegna var þrautalending að setja þrætuna í gerðardóm.  Þetta er mikill áfellisdómur yfir ríkisfyrirtækinu Landsvirkjun og stjórnarformanni hennar, sjálfstæðismanninum Jónasi Þór Guðmundssyni, sem þarna hefur gefið forstjóranum, Herði Arnarsyni og ósanngirni hans í garð stóriðju, lausan tauminn.  Það væri hins vegar í samræmi við hefðbundna iðnaðarstefnu Sjálfstæðisflokksins að beita sanngjarnri verðlagsstefnu m.v. samkeppnisaðilana.  Þetta má gera með því að láta raforkuverðið draga dám af afurðaverðinu hverju sinni.  Það er nánast iðnaðarfjandsemi að beita sér af hörku gegn slíku.  Iðnaðarfjandsemi af hálfu langstærsta orkufyrirtækis landsins, sem stofnað var til að iðnvæða landið og byggja upp traust, tæknivætt atvinnulíf, mun hins vegar rústa iðnaðinum. 

Nýr raforkusamningur á milli Landsvirkjunar og Rio Tinto/ISAL í Straumsvík gefur þó veika von um, að eyðimerkurgöngu iðnaðarins muni senn linna og að hér verði tekin upp iðnvæn stefna, sem er hefðbundin stefna Sjálfstæðisflokksins.  Forstjóri Elkem áÍslandi á lof skilið fyrir þrautseigju sína og bjartsýni í þessum ólgusjó af mannavöldum, sem Landsvirkjun átti að forðast.     

"Verðin [á afurðum Elkem á Íslandi-innsk. BJo] eru á fínum stað núna og hafa verið að stíga hratt á síðustu mánuðum.  Verðið stendur núna í 1360 EUR/t [1625 USD/t], sem er ágætt verð fyrir okkur.  Væntingar standa til þess, að verðið haldist út 2. ársfjórðung [2021].  Lagerstaðan á heimsvísu er anzi lág um þessar mundir, en það mun eflaust breytast á síðari hluta ársins, eftir því sem framleiðsla eykst víða um heim í kjölfar rekstrarstöðvana á síðasta ári.  

Við erum hins vegar vön miklum verðsveiflum.  Eins og ég horfi á þennan rekstur, þá koma góð ár og slæm ár, og þess vegna þarf að horfa á meðalarðsemina yfir lengra tímabil. Ef núverandi verð á kísilmálmi [kísiljárni] helzt, verður arðsemi [arður] á verksmiðjunni í ár.  Hins vegar er spurning, hvort arðsemin í ár verði nægilega mikil  til að bæta upp fyrir tap síðustu tveggja ára (rekstrartap ársins 2018 var MNOK 135 [=mrdISK 2,1].

Ársreikningur síðasta árs [2020] er tilbúinn, og rekstrartap ársins var um MNOK 150 [=mrdISK 2,3]. Það hefur verið saga þessarar verksmiðju, að það koma slæm ár og góð ár, en meðalarðsemin yfir lengri tíma hefur verið viðunandi.  En m.v. okkar kostnaðarumhverfi núna, sérstaklega m.t.t. raforkuverðsins, þá lítur út fyrir, að góðu árin verði töluvert magrari en við eigum að venjast." 

Hér er á kurteislegan hátt sagt, að búið sé að kippa rekstrargrundvellinum undan þessari kísiljárnverksmiðju með raforkuverði, sem verksmiðjan ræður ekki við.  Þetta er grafalvarlegt; ekki sízt í ljósi þess, að af hálfu Landsvirkjunar var því lýst yfir eftir uppkvaðningu gerðardómsins, að raforkuverðið væri óviðunandi fyrir Landsvirkjun og að fyrirtækið myndi beita sér fyrir hækkun þess að gildistíma gerðardómsins liðnum.  Með þessari skilningsvana afstöðu kveður Landsvirkjun í raun dauðadóm upp yfir þessu iðnfyrirtæki. 

Þessi framkoma af hálfu ríkisfyrirtækisins í garð iðnaðarins í landinu er gjörsamlega óviðeigandi og óviðunandi.  Vonandi beita ráðherrar sér fyrir því að koma vitinu fyrir Landsvirkjun með því að minnka arðsemiskröfuna til fyrirtækisins.  Það þarf að helminga hana. Það er síðan hlutverk Landsvirkjunar frá fornu fari að leitast við að treysta framtíð þessa viðskiptavinar síns, svo að hann hefji fjárfestingar af krafti, auki framleiðsluna og verðmæti hennar og þurfi fleira fólk í vinnu.  Til þess þarf langtíma raforkusamning með tengingu við afurðaverðið, sem tekur tillit til óhagræðis staðsetningar á Íslandi.  Enginn vafi er á, að Landsvirkjun mundi hagnast á samningi, sem Elkem á Íslandi getur staðið undir með samkeppnishæfum hætti.  

"Nýlega náðust samningar á milli Landsvirkjunar og Rio Tinto um breytingar og viðauka við raforkukaupasamning álversins í Straumsvík.  Álverðstenging var aftur tekin upp í samninginn, en stefna Landsvirkjunar síðustu ár [frá 2010-innsk. BJo] hefur verið að tengja raforkuverð því, sem gengur og gerist á evrópskum orkumörkuðum fremur en að tengja raforkuverðið við álverð.  Nú er hins vegar komið annað hljóð í strokkinn, og Landsvirkjun hefur lýst sig reiðubúna til að taka aukna verðáhættu með viðskiptavinum sínum."

Að kröfu Landsvirkjunar hvílir leynd yfir nýja raforkusamninginum við ISAL, þótt Rio Tinto vilji gjarna opinbera hann, enda er leyndarhyggjan farin að rakna upp á þessu sviði. Búast má við, að verð fyrir orku og flutning til ISAL losi nú 30 USD/MWh.  Þá er orkuverð frá virkjun vel undir 30 USD/MWh, sem veitir Landsvirkjun samt þokkalega arðsemi af hreinni eign sinni.  Nýja orkuverðið til ISAL er vel yfir meðalverði Landsvirkjunar til orkusækins iðnaðar, sem var 21,1 USD/MWh árið 2020. Þetta lága meðalverð gaf Landsvirkjun samt vel viðunandi arðsemi. 

Það lýsti hins vegar fullkomnu skilningsleysi á samkeppnisstöðu íslenzkra iðjuvera að heimta tengingu orkuverðs til þeirra við markaðsverð á Nord Pool uppboðsmarkaði, sem ræðst töluvert af veðurfari í norðanverðri Evrópu og olíuverði, en stórsamningar um raforkuviðskipti til langs tíma hafa allt aðrar viðmiðanir.  Haldið verður áfram að fjalla um þetta merka viðtal við forstjóra Elkem á Íslandi í næsta pistli hér á vefsetrinu.  

 

 


Ný innviðareglugerð Evrópusambandsins

Nú er Orkupakki 4 (OP#4) frá Evrópusambandinu (ESB) til rýni og mats innan EFTA í því augnamiði að móta sameiginlega stefnu Íslands, Noregs og Liechtensteins til þeirrar málaleitunar framkvæmdastjórnar ESB, að þessi EES ríki innleiði í lagasafn sitt þá viðamiklu orkulöggjöf, sem stundum er kölluð Vetrarpakkinn, en er í raun OP#4, af því að hún leysir af hólmi OP#3.  Gagnvart Innri orkumarkaði ESB eru þessi 3 ríki mjög ólík og eiga þess vegna ólíkra hagsmuna að gæta.  Þar að auki eru skoðanir mjög skiptar og tilfinningar blendnar á Íslandi og í Noregi til þeirrar tilhneigingar ESB að sveigja orkumál aðildarríkjanna í sífellt auknum mæli undir vaxandi miðstjórnarvald Sambandsins.  Fyrir utan vafasamar tæknilegar afleiðingar af slíku tiltæki og einskis sýnilegs ávinnings af slíku leikur mjög mikill vafi á því, bæði á Íslandi og í Noregi, hvort stjórnarskrár landanna leyfi slíkt framsal ríkisvalds til erlendrar stofnunar, þar sem ríkin eiga ekki aðild, eins og felst í innleiðingu OP#4.  

Málið er hins vegar fjarri því svo einfalt, að nóg sé að einblína á eina reglugerð, eina tilskipun eða jafnvel lagabálk, eins og OP#4, þegar afleiðingarnar fyrir sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar eru metnar.  Það eru fleiri tilskipanir og reglugerðir, sem getur þurft að taka tillit til, því að þær vinna saman að því að styrkja enn miðstjórnarvaldið, sem felst í öðrum gerðum, t.d. OP#4.  

Ein slíkra gerða er innviðareglugerð nr 2020/0360(COD), sem er endurskoðun á 347/2013, sem ESB af einhverjum ástæðum, sem ekki hefur verið upplýst um, hætti við að gera að EES-máli, en sú nýja verður það þó mjög líklega. Þess vegna verður íslenzka utanríkisráðuneytið að vinna vandaða heimavinnu nú til að verða ekki tekið sofandi í bólinu, þegar kemur að innleiðingu innviðareglugerðarinnar hérlendis. Undirbúningsvinnan felst í að vega og meta frá hvaða atriðum reglugerðarinnar nauðsynlegt er, hagsmuna og stjórnarskrár landsins vegna, að leita eftir undanþágu og beita neitunarvaldi, ef það ekki fæst.

Endurskoðunina skýrir ESB með því, að laga eigi innviðareglugerðina að "Green Deal" Sambandsins, sem nú er allt um lykjandi.  Aukið er við hana, svo að hún auk flutningskerfis fyrir rafmagn og jarðgas, spanni græn gös, s.s. vetni, og flutningskerfi fyrir koltvíildi, sem á að geyma (og halda frá andrúmsloftinu), annaðhvort til niðurdælingar og bindingar eða til framleiðslu lífeldsneytis.  

Á rafmagnshlið miðar reglugerðin við 4 stjórnsvæði Orkusambands Evrópu; þar af er Norð-Vestursvæðið eitt, og tekur Framkvæmdastjórnin sem dæmi: "e.g. from wind farms in the North and Baltic Seas to storage facilities in Scandinavia and the Alps".  Þarna er hugmyndin sú, að vindorkuver úti fyrir ströndu vinni með vatnsorkuverum Skandinavíu og Alpanna, svo að vatn sparist.  Síðan er hægt að taka mikið afl út úr vatnsorkuverunum, hugsnlega með viðbótar búnaði þar o.fl, þegar aflskortur verður í ESB-löndunum. Þannig verður hægt að leysa gasorkuver í Orkusambandinu af hólmi sem varaorkuver fyrir jöfnunarafl og -orku inn á kerfið.  Að sjálfsögðu mundi Ísland falla inn í þessa hugmyndafræði, ef Icelink-sæstrengurinn verður lagður og allir nauðsynlegir innviðir reistir innanlands til að þjóna þessum sæstreng.  Ísland yrði þá eins konar orkunýlenda ESB. Innviðareglugerðin snýst um að útbúa stjórnkerfi í hverju aðildarlandi, sem sé sniðið til að raungera þessa hugmyndafræði, og að það verði gert sem erfiðast að þvælast fyrir markmiðum Orkusambands Evrópu.

ÓLJÓST ER, HVORT MILLILANDATENGINGAR OG FLUTNINGSKERFI INNANLANDS GETA ORÐIÐ PCI-VERKEFNI, ÁN ÞESS AÐ RÍKISVALDIÐ Í VIÐKOMANDI LANDI MÆLI MEÐ ÞVÍ (PCI=Project of Common Interest, forgangsverkefni Orkusambandsins):

Það eru svæðisstjórnstöðvar Orkusambands Evrópu sem leggja til, að verkefni fari á PCI-skrána samkvæmt gr. 3 í þessari innviðareglugerð.  Ísland er á norð-vestur svæðinu með Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Hollandi, Þýzkalandi og Eystrasaltsríkjunum. Meirihluti þeirra tekur ákvörðun um verkefni inn á PCI-skrána við atkvæðagreiðslu.  Ísland og Noregur hafa ekki atkvæðisrétt í svæðisstjórninni. Þetta er alveg óaðgengilegt fyrir Ísland án neitunarvalds.  Tillaga svæðisstjórnarinnar fer til ACER til umsagnar og síðan til Framkvæmdastjórnarinnar annað hvert ár. 

Fyrsta PCI-verkefnaskráin eftir þessari nýju forskrift á að hljóta samþykki 30.11.2023.  Hægt er að túlka gr. 3.3.a í þessari innviðareglugerð þannig, að Ísland og Noregur hafi neitunarvald um þau verkefni, sem beint snerta þessi ríki.  Ef Ísland hafnar verkefni, skal orkustjóri Íslands leggja fram í svæðisstjórninni rökstuðning fyrir höfnun. Það er óljóst, hvað verður um PCI-verkefnið, ef önnur ríki eða meirihluti þeirra í svæðisstjórninni fallast ekki á röksemdirnar.  Þetta verða íslenzk stjórnvöld að fá á hreint núna, á meðan svigrúm er til að koma athugasemdum að hjá EFTA/ESB, og utanríkisráðherra þarf að gera það ljóst, að skilyrði fyrir innleiðingu Íslands á þessari reglugerð sé, að landið fái skýlaust neitunarvald um verkefni, er varða landið beint og tillaga er uppi um, að fari inn á PCI-skrána. Það er mjög líklega hægt að fá Noreg til að standa með Íslandi að slíkri stefnumörkun EFTA.

GÆTI ICELINK AFTUR ORÐIÐ PCI-VERKEFNI ?:

  Samkvæmt gr. 3c skal PCI-verkefni uppfylla eftirtaldar 2 kröfur hið minnsta:

1. Það fer yfir landamæri tveggja aðildarríkja hið minnsta.

2. Það er á umráðasvæði eins aðildarríkis og hefur marktæk jákvæð áhrif á orkuflutning á milli landa.

Nú eru hvorki Ísland né Bretland aðildarríki ESB, þótt Ísland sé í Orkusambandi Evrópu eftir innleiðingu OP#3, og þess vegna ætti ekki að vera hætta á endurlífgun Icelink á vegum ESB.  Hins vegar gerir tækniþróunin kleift að leggja og reka æ lengri háspennta jafnstraumsstrengi neðansjávar. Mögulega mun þó ESB kjósa að líta á Ísland sem aðildarland vegna EES-samningsins og þeirrar þýðingar, sem vatnsafl Íslands hefur fyrir Orkusamband Evrópu. Þetta verður utanríkisráðherra að fá á hreint.  

ESB GRÍPUR INN Í LEYFISVEITINGAFERLI, SEM Í GILDI ER Í HVERJU LANDI:

Samkvæmt gr. 10 á allt ferlið áður en umsókn um leyfisveitingu fyrir verkefni, sem innviðareglugerðin spannar, t.d. orkumannvirki, er send, að taka að hámarki 2 ár. Innan þessara tímamarka á að gera áhættugreiningu fyrir náttúru og þjóðhagslega arðsemi verkefnisins og Skipulagsstofnun að afgreiða umhverfismatið.  Frá því að umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir t.d. virkjun eða flutningsmannvirki er send til sveitarstjórnar skulu að hámarki líða 18 mánuðir að ákvarðanatöku.  Allt ferlið má mest taka 42 mánuði.  Frestunarslakinn er mest 9 mánuðir, svo að heildartíminn getur allra mest orðið 51 mánuðir eða 4 ár og 3 mánuðir frá rannsókn á fýsileika og forhönnun að framkvæmdaleyfi.  Þetta er mun þrengri tímarammi en við eigum að venjast hérlendis, en mjög langur undirbúningstími og afar seinvirkar opinberar stofnanir hafa verið gagnrýndar hérlendis, m.a. af fráfarandi orkumálastjóra, enda tekur þar út yfir allan þjófabálk.  Þarf blýantsnagara í Brüssel til að vekja iðnaðarráðherra o.fl. upp af Þyrnirósarsvefni um þetta ófremdarástand ? 

Hvað sem því líður er ótækt, að ESB grípi með þessum hætti inn í leyfisveitingaferli hjá ríki, sem er ekki í Sambandinu.  Utanríkisráðherra verður að vera á varðbergi gagnvart þessu og verja fullveldi landsins.  

INNVIÐAREGLUGERÐIN GERIR YFIRVÖLDUM ÞAÐ ERFITT AÐ HAFNA LEYFISUMSÓKN UM PCI-VERKEFNI:

Samkvæmt gr. 3 á PCI-verkefni að hafa hæsta forgang í kerfisáætlunum orkuflutningsfyrirtækja landanna.  

Samkvæmt gr. 5 eiga þeir, sem eiga verkefnið, að skila ársskýrslu fyrir 31.12. árið, sem verkefnið fór inn á PCI-skrána og síðan áfram.  Orkustjóri landsins sendir hana til ACER og gerir grein fyrir orðnum og fyrirsjáanlegum seinkunum á leyfisveitingaferlinu.  

Samkvæmt gr. 6 getur framkvæmdastjórn ESB, eftir samkomulag þar um við viðkomandi aðildarland, útnefnt ESB-samræmanda í allt að eitt ár, og þetta tímabil má framlengja tvisvar, ef PCI-verkefni steytir á skeri.  

Samkvæmt gr. 8 skal hvert ríki útnefna opinbera stofnun, sem skal hafa það hlutverk og heimildir til að auðvelda og samræma leyfisveitingaferlið fyrir PCI-verkefni. Það skal gera í síðasta lagi 01.01.2022. 

 Formlega er það áfram Ísland, sem samþykkir leyfi eða synjar um leyfisveitingu, en hér hefur ESB sett upp alls konar hliðarkerfi, sem eiga að gera synjun PCI-verkefnis fjarlægan möguleika.  Það er ótækt fyrir fullvalda ríki, að ESB geti skipað samræmanda, sem geti auðveldað leyfisveitingaferlið og jafnvel skipað Orkustofnun eða sveitarstjórn að auðvelda samþykktarferlið fyrir verkefnið.  Utanríkisráðherra verður að fá undanþágu frá þessu fyrir Ísland. 

HINDRAR GR. 7 EINHLIÐA STÖÐVUN PCI-VERKEFNIS ?:

 Samkvæmt gr. 7 skal framkvæma PCI-verkefni fumlaust, þótt því hafi seinkað af ástæðum, sem eru taldar upp í rafmagnstilskipuninni 2019/944, gr. 51.a, b eða c.  Mismunandi aðferðir við að koma verkefninu á réttan kjöl eru tíundaðar, en það er ómögulegt að stöðva verkefni, sem er komið á þennan rekspöl.  Þáverandi olíu- og orkumálaráðherra Noregs, Freiberg, svaraði spurningu í Stórþinginu í ágúst 2019, að gr. 51 í ofangreindri rafmagnstilskipun ætti ekki við um Noreg vegna þess, að átt væri við lönd, sem ekki byggju við Statnett-fyrirkomulagið, sem er hið sama og Landsnetsfyrirkomulagið hérlendis.  Þessi túlkun er langsótt.  Norskur lagaprófessor, sem hér hélt fyrirlestur í HÍ um OP#3 2018, Peter Th Örebech, telur túlkunina ranga í skýrslu sinni:

"EUs Energibyrås Energipakke 3 & 4 og Kongeriket Norges Grunnlov", september 2020. 

ESB OG VINDMYLLUR ÚTI FYRIR STRÖNDU:

Samkvæmt gr. 14 eiga ríki með land að hafi að gera áætlun um nýtingu hafsvæðis til raforkuvinnslu.  Það skal gera í samstarfi við Framkvæmdastjórnina og á grundvelli orkumarkmiða ESB.  Skuldbindandi áætlun á að vera tilbúin í síðasta lagi 31.07.2022 og tilgreina skal þar markmið fyrir árin 2030, 2040 og 2050. 

Virkjun hafvinds hefur lítið verið í umræðunni á Íslandi, enda mjög dýr aðferð fyrir raforkuvinnslu og getur rekizt á ýmsa aðra hagsmuni.  Fyrir Ísland á þetta ekki að vera málefnasvið, sem stjórnað er af ESB, og þess vegna er nauðsynlegt að fá undanþágu frá þessu. Nú mun reyna á utanríkisráðuneyti Íslands að verja hagsmuni Íslands á orkusviðinu fyrir ásælni og miðstýringaráráttu Evrópusambandsins.  Það er ekki til of mikils mælzt.   

 

 

 

 


Gagnslaus hreinorkupakki - eykur framsal fullveldis

Með Hreinorkupakka Evrópusambandsins (ESB), sem ESB nefnir líka stundum Vetrarpakkann, en er í raun Orkupakki 4, enda arftaki OP#3, verða völd fulltrúa ESB á Íslandi á sviði raforkumála aukin mikið, ef ekki verður spyrnt við fótum. Orkustjórinn, æðsti fulltrúi ESB á Íslandi á sviði orkumála, er nú þegar með Orkupakka 3 (OP#3) utan valdsviðs ráðherra og óháður ráðherravaldi og í raun æðsti maður raforkumála á Íslandi. Hann hefur með öðrum orðum ígildi ráðherravalds. Það er hið versta mál og skref aftur á bak, að þessi orkustjóri landsins (National Energy Authority) skuli ekki lúta lýðræðislegri stjórn löggjafar- og framkvæmdavalds í landinu. Þessi grundvallarbreyting var gerð að þjóðinni forspurðri vegna þróunar á Evrópusamstarfinu, sem ekki var fyrirséð árið 1993, þegar Alþingi staðfesti gjörning þáverandi ríkisstjórnar um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu, EES.

OP#4 er mikill lagabálkur 8 gerða, þar af 4 reglugerða og 4 tilskipana.  Megininnihaldið er fólgið í tilskipun þings og ráðherraráðs ESB nr 2019/944 frá 05.06.2019 um fleiri sameiginlegar reglur fyrir Innri raforkumarkað ESB en áður og aukin völd orkustjóra ESB ásamt aukinni miðstýringu, og reglugerð þings og ráðherraráðs ESB nr 2019/942 frá 05.06.2019 um valdeflingu ACER-Orkustofnunar ESB og samráðsvettvangs allra orkustjóra EES og um að koma á fót stjórnstöðvum nokkurra landfræðilega afmarkaðra svæða innan Orkusambands Evrópu ásamt fleiru.  Þriðja skjalið, sem verið hefur í umræðunni á vettvangi EFTA undanfarið er reglugerð þings og ráðs ESB nr 2019/943 frá 05.06.2019 og er í raun samsuða úr ofangreindum tveimur gerðum, sem þýðir t.d., að ef ACER-reglugerðin hér að ofan verður dæmd óleyfileg til innleiðingar á Íslandi vegna árekstra við Stjórnarskrána, þá gildir hið sama um reglugerð 2019/943.  

Kjarninn í þeim 4 reglugerðum, sem í OP#4 eru, er sá, að stofnaðar eru svæðisstjórnir, sem orkustjórar í hverju landi á svæðinu heyra undir, og ACER er síðan yfir öllum þessum stjórnstöðvum og úrskurðar í ágreiningsmálum á milli landanna.  Norðurlöndin, nema Færeyjar og Finnland, Eystrasaltslöndin, Þýzkaland og Holland verða undir stjórnstöðinni, sem Ísland mundi heyra undir, en það verður alls ekki séð, að Ísland eigi neitt erindi inn í þetta stjórnkerfi, á meðan Alþingi ekki hefur heimilað tengingu Íslands við rafkerfi þessa svæðis, en eins og kunnugt er sló Alþingi þann varnagla við innleiðingu OP#3.  Þótt samskipti orkustjórans á Íslandi við svæðisstjórnstöðina verði látin fara um hendur starfsmanna ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, af því að Ísland er aðili að EFTA, sem er viðskiptabandalag og ekkert í líkingu við ríkjasambandið ESB, er mikið vafamál, að þetta stjórnunarfyrirkomulag raforkumálanna standist Stjórnarskrá. 

Svæðisstjórnstöðin ákveður líka, hversu mikið afl og orka í landinu skal standa til reiðu fyrir millilandatengingar.  Ábyrgðin á afhendingaröryggi rafmagns mun færast smátt og smátt úr landi, þótt enginn sé aflsæstrengurinn.

Núna rýnir orkuhópur Fastanefndar EFTA OP#4 og hefur byrjað á eftirfarandi 3 gerðum:

ACER-reglugerð 2019/942:  Á meðan sá varnagli er í gildi frá innleiðingu OP#3, að enginn sæstrengur verði lagður til Íslands til tengingar raforkukerfis landsins við Innri orkumarkað ESB án samþykkis Alþingis, þá á þessi reglugerð ekkert erindi inn í lagasafn Íslands, enda liggur í leikmannsaugum uppi, að þessi reglugerð felur í sér meira fullveldisframsal en Stjórnarskrá og önnur lög landsins leyfa. Þess vegna þarf að krefjast undanþágu fyrir Ísland frá þessari reglugerð. Þeir, sem vilja innleiða þessa reglugerð hérlendis, hafa óhreint mjöl í pokahorninu, t.d. það að ætla sér að fjarlægja alla varnagla, sem settir hafa verið gegn slíkri sæstrengstengingu.

Það er óþarfi að spyrja um afstöðu þeirra, sem vilja, að Ísland verði aðildarland Evrópusambandsins, því að með innleiðingu þessarar gerðar og hinna tveggja gengur Ísland í raun í ESB á sviði orkumála, þ.e. gengur í Orkusamband Evrópu, og öðlast þar með stöðu nýlendunnar á þessu sviði, missir sjálfstjórn í hendur búrókrata í Brüssel, sem ekkert umboð hafa þegið frá íbúum þessa lands. Í viðhengi með þessum pistli er að finna nánari greinargerð fyrir þessum sjónarmiðum.

Raforkutilskipun 2019/944: Hún felur í sér óaðgengilegar kvaðir um, að íslenzk löggjöf megi ekki hindra framgang stefnu ESB um millilandatengingar og um raforkumarkaðinn innanlands.  Þá felur þess tilskipun í sér gríðarlegt eftirlit með Landsneti og möguleika á því, orkustjórinn setji stjórn Landsnets til hliðar.  Hér er þess vegna líka um algerlega óaðgengilega skilmála að ræða.  Þess vegna er ekki stætt á öðru gagnvart lýðræðislegum stjórnunarrétti almennings í landinu og Stjórnarskránni en að krefjast undanþágu frá þessari tilskipun í Fastanefnd EFTA og í Sameiginlegu EES nefndinni, ef málið fer þangað.  Í viðhengi með þessum pistli er að finna nánari greinargerð fyrir þessum sjónarmiðum.

Reglugerð nr 2019/943: Þessi reglugerð er blanda af tveimur ofangreindum gerðum.  Þar sem þær eru báðar óalandi og óferjandi að íslenzkum rétti að mati þessa höfundar, er þessi það líka.

Í Fastanefnd EFTA, þar sem þessar 3 gerðir eru til umfjöllunar um þessar mundir, er nauðsynlegt, að fulltrúar Íslands geri fulltrúum hinna EFTA-landanna skilmerkilega grein fyrir því, hvers vegna Íslandi er ekki fært að innleiða þessar 3 gerðir í íslenzkan rétt.  Ef ekki fæst skilningur á því, verður Ísland að beita neitunarvaldi á þessar 3 gerðir í Fastanefndinni, og munu þær þá ekki koma til efnislegrar umfjöllunar í Sameiginlegu EES-nefndinni.  Þar verður ESB-fulltrúunum hins vegar formlega tilkynnt um afstöðu EFTA. 

Í Noregi er uppi stjórnarskrárdeila í dómskerfinu um fyrirkomulag atkvæðagreiðslu í Stórþinginu í marz 2018 um Orkupakka 3.  Á meðan svo er, er fullkomlega óviðeigandi, að EFTA, ráðuneyti og þingnefndir í EFTA-löndunum, vinni að undirbúningi innleiðingar arftakans, Vetrarpakkans eða OP#4.  Málið verður sennilega ekki útkljáð fyrr en 2022 í dómskerfinu, og þá gæti orðið ný atkvæðagreiðsla um OP#3 í Stórþinginu, en þá yrði innleiðing hans í norsk lög aðeins samþykkt, ef 3/4 viðstaddra þingmanna samþykkja hana.  Ef mið er tekið af norskum stjórnmálum núna og horfum eftir Stórþingskosningar í september 2021, mun það ekki gerast, heldur verður Orkupakki #3 þá felldur.  Hann fellur þá og úr gildi á Íslandi og í Liechtenstein.

Strax í apríl 2021 er að vænta vísbendingar frá Hæstarétti Noregs um það, sem koma skal í "ACER-málinu", því að þá er búizt við svari frá honum við fyrirspurn Stórþingsins um það, hvort við atkvæðagreiðslu um innleiðingu Járnbrautarpakka 4 frá ESB eiga að láta einfaldan meirihluta duga eða krefjast aukins meirihluta.  Í þessu máli er líka deilt um umfang fullveldisframsals, sem felst í að færa æðsta vald yfir járnbrautum Noregs til ERA, Járnbrautarstofnunar ESB. 

Með leikmannsaugum séð er líklegt, að Hæstiréttur Noregs áskilji aukinn meirihluta, því að varðandi samninga við útlönd má aðeins beita einföldum meirihluta við atkvæðagreiðslu um þjóðréttarlega samninga, og innleiðing á gerðum ESB er það ekki, heldur er þar um að ræða valdframsal frá ríkinu um innanlandsmálefni til ESB, nánar tiltekið stofnunar, þar sem Noregur er ekki fullgildur aðili.  Þetta hefur í EES-samninginum verið fóðrað með því að stilla ESA upp sem millilið, en hún (Eftirlitsstofnun EFTA) er í þessu viðfangi aðeins ljósritunarstofa fyrir ACER, eins og prófessor í réttarfari við Háskólann í Ósló, Eivind Smith, hefur sýnt fram á.  Slík ljósritunarstofa jafngildir beinu streymi fyrirmæla og upplýsinga í báðar áttir og getur ekki fullnægt formlegum kröfum um meðferð fullveldis.      

 

 

  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Þorskastríð á milli ESB og Noregs í uppsiglingu

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) undir forsæti Úrsúlu von der Leyen hefur átt mjög mótdrægt á ferli sínum og margoft mátt lúta í gras.  Nægir að nefna bóluefnaklúðrið.  Þar var um að ræða útvegun og dreifingu bóluefnis innan ESB, sem Framkvæmdastjórninni hafði aldrei verið formlega falið, en lækninum í forsetastóli Framkvæmdastjórnarinnar þótti svo tilvalið að spreyta sig á, að hún fékk ráðherraráðið til að fela Framkvæmdastjórninni þetta hlutverk.

Einhverjum datt þá í hug að láta þessa miðstýringu spanna allt EES, sem var fótalaus hugdetta og reyndist leiða til slíks ófarnaðar, að framvinda bólusetninga hér minnir á ferð lúsar á tjöruspæni í samanburði við Ísraelsmenn, Breta og Bandaríkjamenn. Nýjasta asnastrikið í þessum efnum í nafni Framkvæmdastjórnarinnar er bann Ítala við útflutningi á bóluefni til Ástralíu frá verksmiðju AstraZeneca á Ítalíu.  Tollabandalagið fórnar hiklaust frjálsum viðskiptum á milli heimsálfa, ef vindar blása óhagstætt fyrir Brüssel. Það á eftir að útskýra skilmerkilega fyrir Íslendingum, hvernig og hvers vegna sú ákvörðun var tekin í Stjórnarráðinu að láta viðvaninga í lyfjaviðskiptum í hópi búrókrata í Brüssel í hópi, sem venjulega fæst við merkingar á kjötvörum, sjá um jafnmikilvægan málaflokk fyrir Íslendinga og kaup á bóluefni gegn faraldri, sem valdið hefur miklum búsifjum, óneitanlega er.  

Nú ætlar Úrsúla von der Leyen að hressa aðeins upp á ásýndina með því að knésetja Norðmenn í deilu við þá um þorskveiðiheimildir við Svalbarða.  Hér er kominn rétt einn slóðinn eftir BREXIT, því að við útgönguna úr ESB tóku Bretar til sín fiskveiðiheimildir við Svalbarða, sem þeir höfðu fyrir löngu samið um við Norðmenn.  Eftir situr ESB með skeggið í póstkassanum, eins og Norðmenn taka til orða við svipaðar kringumstæður.  

Við hörmum, að Noregur skuli hafa tekið einhliða ákvörðun, sem gengur gegn hefðbundinni nálgun viðfangsefnisins, og takmarkað þorskmagnið, sem ESB-flotinn má veiða í kringum Svalbarða, segir Framkvæmdastjórnin við norska blaðið Nationen 1. marz 2021. Samt hafa Norðmenn leyft ESB að hefja þorskveiðar við Svalbarða í ár. Engu að síður telur ESB, að Noregur hafi brotið Svalbarðasáttmálann, og ætlar næstu vikurnar að ræða innbyrðis og ákvarða gagnráðstafanir, les refsiaðgerðir, á hendur Norðmönnum. Sjávarútvegsráðherra Noregs hefur sagt við Nationen, að ekki verði hopað fyrir hótunum og hugsanlegum þvingunum ESB.  Ekki mun þessi framkoma fjölga stuðningsmönnum EES í Noregi, enda fjarar nú undan þessum sérkennilegu ESB-tengslum í Noregi.  

Sjávarútvegsráðherra Noregs segir við Nationen, að ekki komi til greina, að hvert ríkjanna 46, sem undirrituðu Svalbarðasáttmálann, ákvarði kvóta sér til handa. Hann segir það misskilning hjá ESB, að Norðmenn fylgi ekki Hafréttarsáttmálanum í hvívetna.

Nýlega sendi Noregur mótmælaorðsendingu til ESB, og Ingebrigtsen, sjávarútvegsráðherra, fundaði með framkvæmdastjóra sjávarútvegsmála, Litháanum Virginijus Sinkevicius, um deiluna. Stríðið heldur áfram sem orrahríð í orðum, á meðan heildarkvótinn, sem Noregur hefur úthlutað ESB, hefur ekki verið fiskaður allur. Þá mun sverfa til stáls. 

Bretar fengu á grundvelli gamals samnings um 5 kt úthlutað við Svalbarða, en þá hljóp hland fyrir hjartað á Framkvæmdastjórninni, sem engan slíkan gamlan hefðarrétt átti, en tók sér rétt til að úthluta sjálfri sér  28,431 kt af þorski á verndarsvæði þorsks, sem var 10 kt meira en Noregur hafði úthlutað ESB án Breta við Svalbarða 2020.  25.02.2021 voru 6 togarar á svæðinu, og flestir á þorskveiðum.  4 voru frá ESB og 2 frá Bretlandi. 

Málið er, að kreppa steðjar að fiskveiðum ESB eftir BREXIT.  ESB má nú aðeins veiða tímabundið 1/4 af venjulegu magni innan brezku lögsögunnar fyrir utan umsamda flökkustofna. Skipafloti ESB-landanna er að mestu bundinn við höfn.  

Viðhorf ESB virðist vera, að hver taki sér kvóta við Svalbarða. Það er ósjálfbært viðhorf og sýnir, hversu aftarlega á merinni Framkvæmdastjórnin er, þegar kemur að umgengni við náttúruna. Með þorskastríði verður vonandi hægt að koma vitinu fyrir Evrópusambandið í þessum efnum.  Noregur mun í slíkri snerru hafa sterk spil á hendi, segir Andreas Östhagen, fræðimaður við Stofnun Friðþjófs Nansens.  Hann telur alveg ljóst, að alþjóðlegur hafréttur njóti forgangs í stjórnsýslu Svalbarða og telur það rangt, að Svalbarðasáttmálinn myndi heimild til annarra til úthlutunar kvóta.  Málatilbúnaður ESB geta verið mistök, þar sem fáeinir búrókratar hafa búið til tillögu, sem er illa undirbúin, segir Andreas. Þetta er afar diplómatískt orðalag hjá Norðmanninum, þegar vitað er, að Framkvæmdastjórnin sleikir nú sár sín og reynir, hvað hún getur að ganga nú í augun á aðildarlöndunum. Framkvæmdastjórnin vanmetur vilja og úthald Norðmanna. 

Auk þorskkvótanna tók ESB sér kvóta í snjókrabba.  Það er ný auðlind, sem engin söguleg veiðigögn eru til um, svo að hægt sé að reikna út kvóta.  Landhelgisgæzla Noregs segir við Nationen, að hún muni yfirtaka öll skip og færa til hafnar, sem hefja snjókrabbaveiðar upp í kvóta, sem ESB úthlutar. Enn virðast ESB-snjókrabbaskip ekki hugsa sér til hreyfings.

Af hálfu Noregs hefur verið gefinn kostur á að leysa deiluna með kvótaskiptum, en ESB hefur hafnað því. ESB telur slíkt veikja réttarlega stöðu sína, sem virðist vera veik fyrir. Ef ESB skiptir sér af krabbaveiðunum, getur það leitt til þess, að norska krafan um umráðaréttinn yfir landgrunni Svalvarða fari fyrir alþjóðarétt. Niðurstaðan þar mun hafa áhrif á, hvernig hugsanlegri olíu-, gas- eða málmvinnslu á hafsbotninum verður háttað.  Tapi Noregur málinu fyrir Alþjóða dómstólnum í Haag, þannig að dæmt verði, að Svalbarðasáttmálinn spanni einnig landgrunnið umhverfis Svalbarða, mun Noregur verða í fullum rétti að segja, að þá ætli Noregur ekki að opna fyrir boranir þar eftir gasi og olíu. Það stendur hvergi í Svalbarðasáttmálanum, að Norðmenn verði að leyfa auðlindavinnslu, segir Östhagen við Nationen.

Norðmenn græða ekkert á að leyfa öðrum að bora, þar sem í sáttmálanum stendur, að einungis megi skattleggja starfsemina til að standa undir stjórnsýslunni á Svalbarða. 

Þetta mál sýnir, að Framkvæmdastjórnin er tilbúin að ganga langt til að þóknast hagsmunaaðilum í sjávarútvegi ESB-landanna.  Samkvæmt CAP - "Common Agricultural Policy" - eiga auðlindir hafsins í lögsögu aðildarlandanna að vera undir stjórn ESB.  Hið sama mun verða uppi á teninginum með auðlindir hafsins í lögsögu Íslands, ef Samfylkingu, Viðreisn og pírötum verður að ósk sinni um, að Ísland verði aðili að ESB.  Auðvitað munu Íslendingar þá eiga hefðarrétt innan eigin lögsögu, en m.t.t. mjög slæmrar verkefnastöðu fiskiskipaflota ESB er líklegast, að ESB-flokkarnir, ef þeir komast til valda á Íslandi, muni þjóðnýta aflahlutdeildir íslenzkra veiðiskipa og síðan bjóða þær upp á sameiginlegum markaði allra ESB-landanna, en uppboðsstefnan, jafnglórulaus og hún er, myndar kjarnann í sjávarútvegsstefnu Samfylkingar og Viðreisnar.  Þá munu íslenzkar sjávarbyggðir fá að lepja dauðann úr skel. Það er með öðrum orðum mikið hagsmunamál fyrir almenning í landinu að halda téðum þremur flokksviðundrum frá Stjórnarráðinu.   

 

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband