Færsluflokkur: Bloggar
19.11.2019 | 11:18
Farþegaskipin "grænka" hægt
Þann 24. október 2019 birtist aðsend grein í Fréttablaðinu frá aðjunkti nokkrum, þar sem varpað var fram tillögu um að breyta Straumsvík í Hafnarfirði úr athafnasvæði álvers og í viðlegustað fyrir farþegaskip. Var á höfundinum að skilja, að þessi nýting Straumsvíkur væri í senn umhverfisvænni og þjóðhagslega hagkvæmari.
Hið síðara var rækilega hrakið í vefpistlinum ""Arðbærar loftslagsaðgerðir" ?" á þessu vefsetri, og nú verður fyrri fullyrðingin vegin og léttvæg fundin. Þá er fyrst til að taka, að hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands (dr Guðjón Atli Auðunsson) hefur með rannsóknum á kræklingum úti fyrir strönd athafnasvæðis ISAL verið komizt að þeirri niðurstöðu, að engin marktæk ummerki starfseminnar í Straumsvík finnist í lífríkinu þar úti fyrir. Verður erfitt fyrir flota farþegaskipa af misjöfnu sauðahúsi að slá út slíkt heilbrigðisvottorð; sérstaklega má ætla, að það verði erfitt, þegar ummerki farþegaskipa hingað til eru höfð í huga.
Í Bloomberg Businessweek birtist 16. september 2019 greinin:
"The Oh-So-Slow Greening Of Cruises".
Verður hér stuðzt við það, sem þar kom fram, til að vekja athygli á misjöfnu orðspori farþegaskipa á sviði umhverfisverndar.
Vegna mikils ferðamannafjölda og mengunar frá þeim hafa nokkrar borgir Evrópu nú uppi áform um að takmarka fjölda farþegaskipa í hverjum mánuði. Þar á meðal eru Barcelona, vinsælasti viðkomustaður farþegaskipa, og Dubrovnik í Króatíu, einn af tökustöðum "Game of Thrones". Aðalfarþegaskipahöfn Bretlands, Southampton, óskar eftir því, að farþegaskipin verði knúin rafmagni úr landi, þegar þau eru þar í höfn. (Hvenær verða íslenzkar hafnarstjórnir í stakk búnar að fara fram á slíkt ?) Formaður borgarráðs Southamptons, Christopher Hammond, segir, að sveitarstjórnir eigi erfitt með að koma auga á kostina við þessi stóru farþegaskip. "Þetta er mjög sýnilegt: stór reykháfur puðrandi út svörtu sóti og reyk. Fólk hugsar með sér: ég anda öllu þessu að mér."
Flest skipanna brenna þykkri brennisteinshlaðinni blöndu, sem eru afgangar eftir framleiðslu benzíns og annars verðmæts eldsneytis. Þótt sum minni skip gætu gengið fyrir rafmagni, geta rafgeymar enn ekki alfarið knúið áfram hreyfla (mótora) farþegaskipa, sem eru nokkra sólarhringa á hafi úti í einu. Hingað til hefur jarðgas á vökvaformi, LNG, (lágt hitastig, mikill þrýstingur) verið vinsælasti valkosturinn fyrir farþegaskipin, og hann getur minnkað SO2 og NOx mengunina frá skipunum um 90 % og CO2 um 20 %. Stærsta útgerð farþegaskipa, Carnival, hleypti sínum fyrsta LNG-farkosti af stokkunum á þessu ári, 2019, og um 3 tylftir eru í smíðum af slíkum skipum samkvæmt skipaskoðunarfyrirtækinu DNV GL.
Svar útgerðanna við vaxandi kröfum um mengunarvarnir um borð í farþegaskipum hefur hingað til aðallega verið að setja upp hreinsibúnað á útblásturinn, sem fjarlægir megnið af brennisteininum úr reyknum. 268 skip eru gerð út af félögum í "Cruise Lines International Association" og í um helming þeirra er búið að setja hreinsibúnað til að fullnægja alþjóðlegum kröfum um að ná 85 % brennisteinsins úr reyknum. Þetta er þó skammgóður vermir, því að affallið er brennisteinssýra og er varpað í sjóinn.
Hvers konar eftirlit verður með því hérlendis, að farþegaskip hreinsi kerreykinn og varpi ekki sýrunni fyrir borð nærri íslenzkum ströndum ? Tugir borga, þ.á.m. Singapúr og allar kínverskar hafnir, hafa bannað komu slíkra skipa. Hvað gera íslenzk yfirvöld í þessum efnum ? Eru loftslagsmálin mest í nösunum á þeim, eða fylgir einhver alvara öllu orðagjálfrinu um mengunarvarnir og loftslagsvá ?
Frekar virðist gefið í varðandi flugferðir stjórnmálamanna og embættismanna til útlanda. Hvað ætli ein 100 farþegaskip á ári sendi frá sér af koltvíildi og brennisteini út í andrúmsloftið með viðkomu sinni í íslenzkum höfnum og siglingum við strendur landsins ? Hafa umhverfisyfirvöld hérlendis gert mælingar á sýrustigi hafsins í grennd við farþegaskip, sem hreinsa SO2 úr útblæstri sínum ? Er á súrnun sjávar bætandi ? Halda menn, að það sé að tilefnislausu, að sumar hafnir banna komur slíkra skipa og t.d. Norðmenn taka þessi mál föstum tökum, eins og lýst verður síðar í þessum pistli.
Gera má ráð fyrir, að orkunotkun 100 farþegaskipa við strendur Íslands, sem hér leggjast að, sé um 70 GWh/ár. Olíunotkun þeirra er þá um 14,4 kt/ár og losun koltvíildis um 45 kt/ár. Losun brennisteinstvíildis gæti þá numið 0,9 kt/ár (900 t/ár) og losun brennisteinssýru í hafið 1,7 kt/ár. Losun koltvíildis farþegaskipa er þannig aðeins um 5 % af losun vegumferðar á ári, en hafa verður í huga, að hún er aðeins yfir sumartímann og staðbundin loftgæði versna mjög mikið á góðviðrisdögum inni í fjörðum, einkum af völdum SO2 og níturoxíða (NOx), sem eru skaðlegar lofttegundir. Losunin er svo mikil, að íslenzkum yfirvöldum ber að stemma stigu við henni og fylgja í fótspor Norðmanna í þeim efnum.
Til samanburðar losar ISAL í Straumsvík líklega innan við 1,0 kt/ár af SO2 út í andrúmsloftið, sem er svipað og farþegaskipin, en styrkurinn í andrúmslofti er minni, af því að losunin dreifist á þrefalt lengri tíma. Það er ekki geðslegt að fá þrefaldan styrk brennisteinstvíildis og níturoxíð að auki á við það, sem frá álverinu kemur, yfir byggðina í Hafnarfirði, eins og umræddur aðjunkt leggur til. Þetta mundi bætast við sömu gastegundir frá umferðinni á Reykjanesbraut og mundi suma daga hæglega geta farið yfir hættumörk í íbúðabyggð Hafnarfjarðar.
Farþegaskip í höfnum Spánar losa um 14,5 kt/ár SO2, á Ítalíu 13,9 kt/ár, á Grikklandi 7,7 kt/ár, í Frakklandi 5,9 kt/ár, í Noregi 5,3 kt/ár og í Portúgal 5,1 kt/ár, svo að samkvæmt þessu nemur losunin á Íslandi 18 % af sams konar mengun í höfnum Portúgals.
Á síðustu áratugum hafa stóru útgerðarfyrirtækin verið sektuð um tuga milljóna bandaríkjadala fyrir að menga óleyfilega. Í júni 2019 féllst útgerðin Carnival á að borga MUSD 20 (mrdISK 2,5) fyrir að fleygja plastefnum í sjóinn við Bahamaeyjar. Árið 2016 var þetta fyrirtæki sektað um MUSD 40 eftir að hafa játað að hafa í leyfisleysi losað olíublandaðan úrgang í hafið. Það er þess vegna ljóst, að sumar útgerðir farþegaskipa hafa verið umhverfissóðar í slíkum mæli, að það sætir furðu, að aðjunktinn Ingólfur Hjörleifsson skyldi láta sér detta það í hug í Fréttablaðsgrein 24.10.2019 að breyta Straumsvík í Hafnarfirði í viðlegustað farþegaskipa á umhverfisforsendum og af þjóðhagsástæðum. Glóruleysið ríður ekki við einteyming, þegar rétttrúnaðurinn er annars vegar.
Norðmenn hafa nú þegar sett reglur um brennisteinslosun, sem eru mun strangari en nýjar alþjóðlegar reglur. Þeir hafa lýst norska firði brennisteinsfría frá 2026, sem þýðir, að bruni jarðefnaeldsneytis verður þar óleyfilegur. Bátar og skip, sem þar sigla um, verða þar þá knúin árum, seglum, vetni, öðru tilbúnu eldsneyti eða rafmagni frá rafgeymum.
Í marz 2019 sektuðu Norðmenn gríska útgerð farþegaskipa um næstum kUSD 80 (MISK 10) fyrir brot á reglum um brennistein. Íslendingar eru augsýnilega eftirbátar Norðmanna í þessum efnum, því að ekki er vitað um athugasemdir íslenzkra yfirvalda við mengun farþegaskipanna, og þess vegna er almenningur lítt meðvitaður um mengunarhættuna, sem af þeim stafar. Er ekki nauðsynlegt að setja markið á 2030 í þessum efnum, þannig að f.o.m. 2030 ríki nánast brennisteinsbann í íslenzkum fjörðum og flóum gagnvart fartækjum á legi ? Skilyrði er að sjálfsögðu, að þá verði búið að rafvæða hafnirnar fyrir allar stærðir skipa, sem þangað mega koma. Þar verður ríkisvaldið að stíga fram og leggja fram fé úr "kolefnissjóðinum" til styrktar verkefninu.
Norska útgerðarfélagið Hurtigruten vísaði leiðina til framtíðar í þessum efnum með sínu nýja farþegaskipi, MS Roald Amundsen, sem fór í sína jómfrúarferð frá Tromsö, um 320 km norðan við heimskautsbaug, í júlí 2019. Talsmenn Hurtigruten segja, að þessi 530 farþega farkostur sé fyrsta tengiltvinnskipið, sem fær orku frá rafgeymum og er með LNG-knúna vél til vara, þannig að í eldsneytisrekstri losar skipið 20 % minna CO2 en svartolíuskip og 90 % minna SO2 og NOx. Á næstu 2 árum áformar félagið að breyta 11 af 16 skipum sínum í tengiltvinnskip af þessu tagi.
Þetta er hægt, af því að skip Hurtigruten eru tiltölulega lítil, með rúmlega 500 rúm. Það er erfiðara að breyta skipum Carnivals, sem mörg hver taka meira en 5000 farþega. Stærri skipin nota meira afl per tonn eiginvigt en minni skipin, og talsmenn Carnival segja, að rafgeymarnir, sem slík skip útheimta, myndu taka upp megnið af rýminu um borð. Fyrir slík skip er tengiltvinnlausnin ákjósanleg, því að þau mundu þá ganga fyrir rafmagni í höfn og í fjörðunum, en á úthafinu fyrir gasi. Skilyrði er þá, að hafnaryfirvöld hafi nægt rafmagn í boði, allt að 10 MW per skip.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.11.2019 | 22:23
"Arðbærar loftslagsaðgerðir"
Þann 24. október 2019 birtist dæmalaus grein í Fréttablaðinu undir ofangreindri fyrirsögn eftir Ingólf Hjörleifsson, aðjunkt við eitthvert Verkfræði- og náttúruvísindasvið (við hvaða skóla kom ekki fram). Af greininni framgengur draumur stæks vinstri græningja, hvort sem hann fylgir VG að málum eður ei, um afturhvarf til fortíðar, nú í krafti skefjalauss hræðsluáróðurs um náttúruhamfarir af mannavöldum. Dómsdagsspámenn finna sér alltaf ný tilefni til að láta að sér kveða, og andstæðingar iðnvæðingar Íslands hafa alltaf bundið upp í "Zeitgeist" hvers tíma og flengriðið honum gegn framförum landsins í atvinnulegu tilliti.
Fyrsta skotmarkið er fjölskyldubíllinn, sem þó er langflestum fjölskyldum á Íslandi gríðarlega mikilvægur vegna búsetu þeirra, atvinnusóknar, skólasóknar afkomendanna og tómstundaiðkunar fjölskyldunnar. Hann sparar gríðarlegan tíma, eykur þægindi og skapar fjölskyldunni áður óþekkt frelsi. Fjölskyldubíllinn fól í sér byltingu lífsgæðanna til hins betra, og almenningssamgöngur eða reiðhjól koma aldrei í hans stað. Það þarf verulega veruleikafirringu til að láta sér detta það í hug, hvað þá að berjast fyrir því hérlendis. Hann er hins vegar dýr, en vegna orkuskiptanna, sem líka eru nauðsynleg til að varðveita loftgæði, aðallega í þéttbýli, stendur rekstrarkostnaðarhliðin til bóta hérlendis vegna nægra ónýttra endurnýjanlegra orkulinda. Þá mega orkufyrirtækin hér reyndar ekki leika lausum hala. Nú verður litið á skrif téðs aðjunkts:
"Róttækar breytingar í lagaumhverfi bílaflotans. Rafmagnsbílum fjölgar ört eða um 15 - 20 % [af hverju ?] á næstu árum, en það nægir engan veginn til að uppfylla skilyrði Parísarsamkomulagsins frá 2016 [40 % minni losun CO2 árið 2030 en árið 1990 - innsk. BJo]. Tilkoma Borgarlínu er vissulega mótvægisbyggjandi, en takmarkaður þáttur. Ökutækjum á vegum þarf einfaldlega að fækka, svo [að] um munar."
Þessi forræðishyggja er einfaldlega óþolandi og ólíðandi. Það er ekki í verkahring yfirvalda að ákveða, hvers konar samgöngutæki borgararnir velja sér til handa. Dagdraumar um Borgarlínu snúast einmitt um að veita Strætó forgang í umferðinni, og þá er hætt við, að þrengt verði enn að fjölskyldubílnum, sem augljóslega þarf þó fleiri akreinar á stofnbrautum. Reynslan hingað til af auknum fjárveitingum til Strætó til að auka hlutdeild hans í umferð gefur hins vegar sterka vísbendingu um, að fjárfestingar í Borgarlínu verði algerlega misheppnaðar og árangurslausar í þá veru að fækka bílum í umferðinni. Nær væri að verja fénu af skynsemi og fjárfesta í að greiða götu vaxandi fjölda fjölskyldubíla. Það er tæknilega vel framkvæmanlegt og ódýrara en Borgarlínuævintýrið. Viðbárur um, að nýjar akreinar fyllist strax af bílum eru gott dæmi um afturhaldshugsun, sem er eiginlega þéttbýlisfjandsamleg.
Næst kemur stalínistísk sýn Ingólfs á skipulagslausnir:
"Þörf er á nýjum og haldbærum breytingum, sem samtengja bílaeign við búsetu. Nota mætti hlutfall af fermetrastærð fasteigna sem mælistiku fyrir fjölda ökutækja, sem hægt væri að skrá á viðeigandi eign."
Ekki er vaninn að skrá ökutæki á fasteign, heldur á einstakling eða lögaðila. Þetta fyrirkomulag setur einstaklingsfrelsi í landi, þar sem gnótt er landrýmis, allt of miklar og algerlega óþarfar skorður. Þetta er ofstjórn. Á t.d. að meina þremur, sem búa í 60 m2 íbúð, að eiga 3 bíla ?
Í næsta þætti tekur steininn úr, því að þar beinast fordómarnir gegn einu fyrirtæki, sem stundar hér heiðvirða og merka starfsemi, og hefur skapað landinu gríðarlegar gjaldeyristekjur í hálfa öld:
"Straumsvík getur orðið hafnarsvæði fyrir skemmtiferðaskip á höfuðborgarsvæðinu. Þessum fljótandi borgum ætti að vera óheimilt að liggja við landfestar og framleiða rafmagn með brennslu jarðeldsneytis. Ef markmiðið er að þjóna þessum skipum, er þörf fyrir nýtt hafnarstæði, og er Straumsvík ákjósanlegur kostur. Þar eru innviðir með háspennu- og tengivirki til að mæta breyttum þörfum, sem aðlaga þarf að umgjörð hafnarinnar og orkuþörfum skipanna, en væri ekki óyfirstíganlegt verkefni. Ekkert hafnarstæði á höfuðborgarsvæðinu er betur til fallið með minnsta mögulega tilkostnaði."
Þarna leggur Ingólfur Hjörleifsson í raun til að hætta álframleiðslu í Straumsvík og nota innviðina þar til að taka á móti skemmtiferðaskipum og tengja þau við rafkerfi álversins, á meðan á dvöl þeirra stendur. Hann bítur höfuðið af skömminni með því að fullyrða, að slík ráðstöfun yrði hvergi ódýrari. Hið rétta er, að hún yrði óvíða dýrari, því að það eru engar smáræðistekjur, sem tapast. Hér verður litið á nokkra kostnaðar- og tekjuþætti í þessu dæmi:
- Reiknað er með möguleika á landtengingu tveggja stórra farþegaskipa samtímis, og að mesta samtímaaflþörf sé 20 MW.
- Bjartsýnisáætlun um orkusölu til farþegaskipa 4 mánuði á ári gæti gefið 40 GWh/ár. Hana má e.t.v. selja til skipanna á 20 ISK/kWh + vsk. Þá verða brúttótekjur 800 MISK/ár, en til Landsvirkjunar og Landsnets myndu renna 200 MISK/ár, svo að nettótekjur af raforkusölu til farþegaskipanna í Straumsvík yrðu 600 MISK/ár samkvæmt þessu. Með þessum nettótekjum þarf að standa straum af fjárfestingu, viðhaldi og rekstri búnaðarins.
- Þótt innviðir rafmagns séu góðir í Straumsvík, einnig við höfnina, þarf að aðlaga dreifistöðvarnar þar að tengingu við farþegaskip og setja upp tengibúnað við skip. Þetta gæti kostað um MISK 500. Endurgreiðslutíminn er þannig um eitt ár, sem þykir yfirleitt réttlæta fjárfestingu.
- Sá galli er auðvitað á gjöf Njarðar, að forsenda þessa alls er að afleggja núverandi starfsemi í Straumsvík. Það er ofboðslega dýrt og veldur því, að þessi viðskiptahugmynd er dauðadæmd. Höfundur þessa vefpistils gerir t.d. ráð fyrir því, að gjaldeyristekjur af starfsemi álversins í Straumsvík árið 2018 hafi numið a.m.k. mrdISK 65 m.v. núverandi gengi bandaríkjadals 125 ISK/USD, en þessi viðskipti fara fram í þeirri mynt. Af þessari upphæð má, m.v. upplýsingar á vefsetri Samáls, reikna með, að innlendur kostnaður hafi numið um mrdISK 30 og að verðmætasköpunin innanlands hafi verið um mrdISK 27 eða tæplega 1 % af VLF það ár.
Það er þannig arfaslök viðskiptahugmynd að hætta núverandi starfsemi í Straumsvík og taka í staðinn að selja þaðan rafmagn til farþegaskipa. Yfir 500 manns myndu missa vinnuna og sárafá störf skapast í staðinn. Þeir, sem vinnuna missa, geta ekki búizt við að fá jafn vel launuð störf í staðinn, því að áliðnaðurinn á Íslandi borgar meira en meðallaun, sem tíðkast í hverri starfsstétt. A.m.k. 1000 manns til viðbótar á öðrum launaskrám mundu verða fyrir tekjumissi, og hið opinbera yrði fyrir verulegu höggi. Atburður af þessu tagi hefur verulega neikvæð áhrif á viðskiptajöfnuðinn, sem getur valdið gengissigi, sem skerðir hag allra landsmanna. Það er algerlega ábyrgðarlaust að fitja upp á vitleysu af þessu tagi, en það var ekki allt komið frá aðjunktinum með þessu fimbulfambi hans:
"Svanasöngur álversins í Straumsvík er óumdeilanlegur, og hefur reksturinn seinustu árin ekki gengið vel. Tækjabúnaður er gamall, og með stuttu millibili hafa myndazt svokallaðir ljósbogar í kerskálum verksmiðjunnar. Öll skynsamleg rök eru til staðar fyrir lokun álversins. Spara mætti útsölu þjóðarbúsins á orku til stóriðju og minnka gróðurhúsalofttegundir í sama vetfangi."
Þetta er argasta svartagallsraus, sem á sér enga stoð í veruleikanum, en virðist hafa búið um sig í heila þessa aðjunkts, hvar sem hann starfar, við afar óheilnæmar aðstæður. Í Straumsvík fer ekki fram svanasöngur starfseminnar, enda er langt komið við að endurræsa rafgreiningarkerin, sem ákveðið var að stöðva framleiðslu í í sumar vegna óhentugs hráefnis (og s.k. kaldræsingu lauk 01.11.2019).
Tækjabúnaður er alls ekki allur gamall, því að í kjölfar hruns fjármálakerfisins 2008 fjárfesti Rio Tinto Alcan, eigandi ISAL, fyrir um mrdISK 100 í nýjum búnaði í raforkukerfinu, í steypuskálanum og víðar. Á þessu ári,2019, var nýr súrálslöndunarkrani tekinn í gagnið, og er sá nýi mun afkastameiri en sá gamli. Þannig er enginn uppgjafarhugur í starfsmönnum ISAL, þótt tilvitnaður aðjunkt virðist halda það. Verksmiðjunni hefur verið vel við haldið, og hún hefur verið í fremstu röð sjálfvirknivæðingar. Tæknilegur rekstur verksmiðjunnar hefur að mörgu leyti verið framúrskarandi, og er t.d. koltvíildislosun á hvert framleitt tonn Al með því allægsta í heiminum.
Að reyna að gera sér mat úr ljósbogamyndun til að reyna að koma höggi á ISAL er aulaframkoma. Þessum pistilhöfundi er kunnugt um það, að engin önnur verksmiðja hérlendis eða í eigu Rio Tinto, og þótt víðar væri leitað, býr að jafnfullkominni ljósbogaskynjun og -vörn og ISAL, enda varð mjög takmarkað tjón af völdum téðs ljósboga (gat á þekju), en slíkir ljósbogar hafa valdið margföldu tjóni á við þetta, m.a. í þeim kerskála, sem hér um ræðir, árið eftir gangsetningu hans, enda var ISAL þá ekki búið að innleiða ljósbogavörn sína í nýja kerskálanum, heldur treysti á þá vörn, sem með nýja búnaðinum kom. Frumástæða vandræðanna í sumar var mikill hiti í kerum af völdum gallaðs hráefnis, sem olli miklum skautföllum, en slíkir atburðir framkalla ljósboga.
Það standa engin rök til þess að loka ISAL-verksmiðjunni núna, hvorki til að hægt sé að taka á móti farþegaskipum í Straumsvík eða af öðrum ástæðum. Það eru alger öfugmæli, að í Straumsvík fari fram "útsala" á raforku. ISAL borgar langhæst raforkuverð allra stóriðjuvera landsins, sem eru með langtímasamning, og þetta verð er langt ofan við tilkostnað Landsvirkjunar og Landsnets við öflun og flutning þessarar orku til Straumsvíkur. Verðið er jafnframt hærra en í mörgum álverksmiðjum á Vesturlöndum og miklu hærra en í Miðausturlöndum. Raforkuverðið ógnar samkeppnisstöðu verksmiðjunnar, því að hún verður auk þess að glíma við hærri flutningskostnað en samkeppnisaðilarnir.
Orkuverið, sem í upphafi lá til grundvallar starfseminni, Búrfellsvirkjun, er fyrir löngu uppgreitt með fé frá ISAL og malar nú eiganda sínum gull, vinnslukostnaður virkjunarinnar, sem tengist nýjum orkusamningi við ISAL, Búðarhálsvirkjunar, er einnig mun lægri en nemur orkuverðinu til ISAL.
Það er í raun minni munur á orkuverðinu til ISAL og almennu heildsöluverði raforku í landinu en nemur ávinningi orkufyrirtækis af að virkja vatnsfall einvörðungu fyrir álver miðað við einvörðungu fyrir almennan markað. Langtímasamningur er ein skýring á því (veitir betri lánskjör), önnur er miklu jafnara álag álvers en almenns markaðar og betri nýting fjárfestingarinnar, þriðja er hærri aflstuðull álvera, sem gerir enn meira af heildarorkunni nýtanlega og seljanlega. Þannig hefur stóriðjan lengi staðið undir fjárfestingum í raforkukerfinu og í raun greitt niður orkuverð til almennings, sem er skýringin á því, að almenningur á Íslandi býr við eitt lægsta raforkuverð í heiminum án þess, að það sé greitt niður af hinu opinbera.
Auðvitað fellur aðjunktinn líka í þá forarvilpu að halda því fram, að álver á Íslandi auki við gróðurhúsaáhrifin í andrúmslofti jarðar. Hið rétta er, að álverin 3 á Íslandi draga úr losun heimsins um a.m.k. 12 Mt CO2 á ári, sem jafgildir 2-3 faldri losun íbúa Íslands, miðað við, að sama magn áls yrði framleitt annars staðar, þar sem ekki er völ á kolefnisfríum orkulindum. Þar við bætist, að íslenzku álverin hafa náð tiltölulega mjög góðum tökum á losun CF4 og C2F6, kolflúoríða, sem eru öflugar gróðurhúsalofttegundir, og mengunarvarnir eru allar til fyrirmyndar í Straumsvík. T.d. fjárfesti Rio Tinto Alcan í nýju hreinsivirki fyrir kerreykinn á árunum 2011-2014.
"Bræðsla á málmgrjóti og útblástur olíudrifinna véla eru stærsti orsakavaldur gróðurhúsalofttegunda hérlendis. Málmbræðsla og önnur stóriðja notar á bilinu 85-90 % af endurnýjanlegum orkugjöfum landsins og beinlínis hindrar nýsköpunaratvinnuvegi í að ná rekstrarlegri fótfestu. Þörf er á lagabreytingum, svo [að] við sem þjóðfélag getum haft aðra vitsmunalegri og arðbærari atvinnuvegi en málmbræðslu, sjávarútveg og ferðaþjónustu."
Aðjunktinn er að reyna að koma því inn hjá landsmönnum, að þeir séu syndarar gagnvart heiminum öllum í umhverfismálum, þegar staðreyndum málsins er þveröfugt farið; starfsemi áliðnar á Íslandi sparar lofthjúpnum a.m.k. 12 Mt/ár af CO2 auk þess sparnaðar, sem hlýzt af notkun áls vegna léttleika þess, en hann er auðvitað óháður framleiðslustað. Íslendingar eru einfaldlega að fylgja viðteknum hagfræðikenningum um nýtingu hlutfallslegra yfirburða sinna og landsins, þegar þeir framleiða málma með eins umhverfisvænum hætti og framast er kostur núna, veiða nytjastofna í efnahagslögsögunni og bjóða erlendu ferðafólki að skoða einstæða eyju sína norður undir heimskautsbaug. Boðskapur aðjunktsins er forneskjulegt afturhaldsvæl, sem bíður ekki upp á annað en afturhvarf til fortíðar og fátæktar.
"Brýn þörf er á lagabreytingum, er varða sölu Landsvirkjunar á raforku þjóðarbúsins, og tilkoma sæstrengs mun auka ábata og minnka áhættu orkuframleiðenda hérlendis. Sala á raforku í gegnum sæstreng mun koma fram sem áhættudreifing fyrir Landsvirkjun, þar sem selt er til nýrra aðila og undir öðrum skilmálum. Frá árinu 2016 hafa verið birtar skýrslur (Landsvirkjun, Orkustofnun, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Gamma), sem sýna árlega á fimmta tug milljarða króna í aukinni hagsæld þjóðarbúsins sem tekjur til ríkisins vegna sölu á raforku gegnum sæstreng til Evrópu. Það munar um minna en 50 milljarða."
Hér er farið algerlega með staðlausa stafi. Það hefur einmitt ekki tekizt með trúverðugum hætti í nokkurri skýrslu að sýna fram á þjóðhagslega hagkvæmni þess að selja raforku um sæstreng til útlanda. Það er út af því, að mismunur raforkuverðs í Evrópu og flutningskostnaðar raforku þangað frá Íslandi er ekki nægur til að veita raforkusölu um sæstreng þjóðhagslega hagkvæmni, nema bætt verði meira en 35 EUR/t CO2 við verðlagningu losaðs koltvíildis frá raforkuverum og það endurspeglist í meðalverðinu. Það mun hins vegar aldrei verða svo, því að verðhækkanir munu aðallega koma fram í verði afltoppanna, en aðeins að litlu leyti endurspeglast í meðalverðinu, eins og lesa má um í Skýrslu Orkunnar okkar, útg. 16.08.2019, kafla 6.
Það stappar nærri geggjun að halda því fram, að raforkuútflutningur um sæstreng muni "minnka áhættu orkuframleiðenda hérlendis". Ekkert ríkisvald í Evrópu né ESB er fúst til að ábyrgjast raforkuverð frá Íslandi. Íslenzkir raforkuseljendur munu þurfa að setja alla sína raforku á markað orkukauphallar Nord Pool fyrir Norðvestur-Evrópu, nema þá, sem bundin er með langtímasamningum á Íslandi, og þessi markaður er sveiflukenndur, og verðið mun hrynja, ef/þegar ný tækni brýzt inn á þennan markað, t.d. þóríum-kjarnorkuver, sem verið er að rannsaka í Evrópu, Norður-Ameríku, Austur-Asíu og e.t.v. víðar. Núverandi langtímasamningar um raforkusölu til álveranna á Íslandi eru hins vegar óháðir slíkum sveiflum, en sumir þeirra taka hins vegar mið af markaðsverði áls. Móðurfyrirtæki álveranna standa sem tryggingaraðili að kaupskyldu 80 %- 90 % forgangsorkunnar samkvæmt samningum. Aðjunktinn virðist lifa í raunveruleikafirrtum heimi fordóma og fordæðuskapar.
Tökum dæmi af ISAL: Á árinu 2018 keypti fyrirtækið 3361 GWh af Landsvirkjun og ætla má út frá gögnum Samáls o.fl., að þá hafi verðmætasköpun ISAL innanlands numið mrdISK 27. Hlutfall þessara tveggja stærða gefur verðmætasköpun raforku til ISAL innanlands 8,0 ISK/kWh eða 64 USD/MWh m.v. núverandi gengi. Sala um sæstreng að frádregnum öllum viðbótar kostnaði vegna hennar innanlands, t.d. af uppbyggingu flutningskerfis frá stofnrafkerfinu að landtökustað sæstrengs, verður þá að gefa Landsvirkjun hærri tölu en þetta, svo að sala um sæstreng verði þjóðhagslega hagkvæm. Því fer hins vegar víðs fjarri.
Samkvæmt gögnum frá sæstrengja- og rafbúnaðarframleiðanda myndi kostnaður sæstrengs og endabúnaðar 600 MW kerfis nema mrdUSD 2,5. M.v. 5,0 % ávöxtunarkröfu á ári, meðalafskriftatíma 16,8 ár, 10 % töp í streng og endabúnaði og árlegan viðhaldskostnað 1-2 % af stofnkostnaði, þá fæst árlegur kostnaður fjárfestingarinnar MUSD 48. Sé reiknað með, að seld orka verði 4000 GWh/ár inn á flutningsbúnað við strönd, þá nemur flutningskostnaðurinn 50 USD/MWh auk flutningskostnaðar innanlands. Ef reiknað er með hækkun meðalverðs um 60 % frá núverandi, þ.e. upp í 80 EUR/MWh=90 USD/MWh, þá fær orkuseljandi hér á Íslandi verðið 40 USD/MWh, en á þá eftir að greiða Landsneti fyrir flutninginn innanlands. Sá kostnaður nemur að lágmarki 5 USD/MWh. Landsvirkjun fær þannig í mesta lagi 35 USD/MWh í sæstrengsviðskiptum með ISAL-orkuna og tilfallandi umframorku, en ISAL-orkan er aftur á móti núna að skapa 64 USD/MWh í verðmætum innanlands. Þarna vantar næstum 30 USD/MWh upp á eða 47 %, að sæstrengsviðskiptin ná samjöfnuði við ISAL-orkuviðskiptin.
Þetta bil verður ekki brúað í fyrirsjáanlegri framtíð án verulegra meðlaga, t.d. úr sjóðum Evrópusambandsins, en áhætta slíkra viðskipta er margföld á við áhættu núverandi viðskipta. Það er þess vegna tóm firra, að lofthjúpnum eða þjóðarbúskap landsmanna geti gagnast að loka ISAL og selja raforkuna í staðinn inn á Innri markað ESB um sæstreng.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.11.2019 | 14:25
Orkuskýrsla SI - rýni IV (lok)
Þetta er lokaáfangi rýni pistilhöfundar á skýrslu Samtaka iðnaðarins frá 16.10.2019:
"Íslensk raforka - Ávinningur og samkeppnishæfni".
Almennt má segja, að skýrsla þessi hafi valdið vonbrigðum fyrir þær sakir, að engin ný greining virðist búa að baki skýrslunni, sem þó ætti heiti sínu samkvæmt að fjalla um ein mikilvægustu mál íslenzks athafnalífs, mál, sem nú eru í deiglunni. Hins vegar er hvað eftir annað kastað fram fullyrðingum um nauðsyn skefjalausrar markaðsvæðingar raforkuvinnslunnar og uppskiptingu Landsvirkjunar til að auka samkeppni á raforkumarkaðinum.
Hér skal nú fullyrða, með vísun til röksemdafærslu í fyrri rýniritgerðum höfundar um þessa skýrslu, að hvorug aðgerðin mun verða aðildarfélögum Samtaka iðnaðarins (SI) né almenningi í landinu til hagsbóta. Lítið til afleiðinga innleiðingar Orkupakka #1 og #2 frá ESB á Íslandi, sem áttu að auka frelsi og frjálsa samkeppni á raforkumarkaðinum. Afleiðingin er sú, að Ísland er orðið ósamkeppnishæft við nágrannalöndin um raforku, eins og átakanlega er lýst efst á forsíðu Fréttablaðsins 11.11.2019 undir fyrirsögninni:
"Telja orkuverð hér allt of hátt".
Er ástæða fyrir fyrirtæki í þessum samtökum, SI, að krefjast útskýringa frá stjórn samtakanna á þeim vafasama málflutningi, sem þar er að finna. Hann virðist vera úr tengslum við raunveruleikann, en reistur á markaðskreddum, sem eiga ekki við á raforkumarkaðinum, og jafnvel hagsmunagæzlu fyrir orkufyrirtækin, sem er andstæð hagsmunum neytenda og flestra félaga í SI.
Þessi gagnrýni á við veigamestu málin, en um ýmislegt smælki má taka undir með skýrsluhöfundum, t.d. um Orkuspárnefnd:
"Markmið Orkuspárnefndar er mikilvægt og góðra gjalda vert. Hins vegar er mikilvægt að taka til skoðunar, hvort samráð og samtal nefndarinnar við stórnotendur sé í réttum farvegi, eða hvort bæta þurfi þar úr. Mikilvægt er í því samhengi að huga að samtali við stórnotendur um þeirra framtíðaráform, hvað varðar uppbyggingu eða breytingar í sinni starfsemi í þeim tilgangi að tryggja áreiðanlegri tölur um raforkuþörf til lengri tíma litið. Skýr sýn þarf því að liggja fyrir bæði um þróun eftirspurnar eftir raforku í gegnum raforkuspá, sem og mögulega þróun framboðs á raforku og möguleika framleiðenda á að mæta aukinni eftirspurn. Þarfir raforkunotenda þurfa að endurspeglast í spánum."
Orkuspárnefnd þarf að vera kunnugt um bæði þá orku og afl, sem samið hefur verið um við stórnotendur, hvernig hún skiptist í forgangsorku og ótryggða orku og áfangaskiptingu að fullnýtingu. Pistilhöfundur getur staðfest, að gagnrýni á Orkuspárnefnd fyrir samráðsleysi við stórnotendur á við rök að styðjast. Samráðsleysið hefur valdið stærstu skekkjunum í spánum, því að langmest munar um breytingar hjá stórnotendum.
Þá skiptir þróunin til langs tíma ekki aðeins máli, heldur ekki síður til skamms tíma (næstu 2 ár) og meðallangs tíma (næstu 5 ár). Hvort tveggja er þekkt með þokkalegri vissu hjá stórnotendum, en mikil óvissa er um langtímaþróunina (næstu 10 ár). Sem dæmi má taka tilraunir móðurfyrirtækja álveranna hérlendis með eðalskaut. Hugsanlega verður gerð tilraun hérlendis með slíka tækni innan 10 ára, og m.v. sama framleiðslumagn mun þá raforkunotkunin vaxa að óbreyttri framleiðslu, því að engin teljandi hitaorka kemur frá bruna eðalskauta eins og frá kolaskautunum nú, sem brenna upp á tæplega einum mánuði. Mismuninn þarf að vinna upp, ef viðhalda á rafgreiningu í núverandi efnaupplausn, væntanlega með hærri spennu yfir rafgreiningarkerin (auknu spennufalli), sem krefst aukins afls við óbreyttan straum (framleiðslu).
Þá er í skýrslunni næst með réttmætum hætti bent á bresti varðandi fjármögnun Landsnets:
"Allar fjárfestingar í flutningskerfinu eru greiddar af raforkunotendum, og er því lykilatriði, að forsendur fjárfestingarákvarðana séu traustar. Ljóst er, að undirliggjandi þörf á uppbyggingu á raforkuflutningskerfinu er umtalsverð. Við slíkar aðstæður er óeðlilegt, að núverandi raforkunotendur standi undir allri fjárfestingunni."
Í Kerfisáætlun Landsnets eru áform fyrirtækisins tíunduð. Þar er um að ræða fjárfestingar til að mæta aflþörfinni, og leggur Landsnet sína eigin aflspá og skráða bilanatíðni til grundvallar niðurröðun framkvæmda í tímaröð. Er einkennilegt, að í skýrslu SI skuli ekki vera minnzt einu orði á Skammtíma- og Langtímakerfisáætlun Landsnets í samhengi við Orkuspárnefnd. Sýnir það ójafnvægi í skýrslunni, þar sem faglega þyngd á rafmagnssviði virðist vanta í hóp skýrsluhöfundanna. Þar með fær skýrslan hagfræðilega slagsíðu, þar sem rangri hagfræði er beitt á viðfangsefnin.
Af nauðsynlegum umbótaverkefnum í Kerfisáætlun Landsnets má nefna 220 kV línu frá aðveitustöð á Brennimel og norður að Rangárvöllum við Akureyri, þar sem aflskortur hefur allt og lengi háð atvinnuþróun með tilheyrandi tapi fyrir íbúana, sveitarfélagið og hagkerfi landsins.
Þá þarf að spennuhækka 33 kV kerfi Vestfjarða upp í 66 kV (fjórfaldar aflflutningsgetuna) og færa í jörð til að ná viðunandi rekstraröryggi. Hröð og ánægjuleg atvinnuuppbygging á Vestfjörðum með tugmilljarða viðbót gjaldeyristekna kallar á þessar brýnu aðgerðir. Það er til vanza, hversu mikillar olíubrennslu er þörf á Vestfjörðum til raforkuvinnslu í neyðarrafstöðvum. Vesturlína er ótrygg, og þess vegna vilja flestir Vestfirðingar fjölga vatnsorkuverum þar. Þar eiga þeir nokkurra kosta völ. Vilji heimamanna í atvinnumálum og orkumálum á að vega þyngst. Núverandi rafkerfi Vestfjarða stendur atvinnuþróun þar fyrir þrifum. Skýrsla SI minnist ekkert á þetta. Búa höfundarnir í fílabeinsturni ? Til hvers var þessi skýrsla ætluð ? Til að koma á framfæri sérvitringsviðhorfum á sviði, sem höfundarnir hafa ekki vit á ?
Orkustofnun hefur of strangt taumhald á viðhaldi og nýframkvæmdum Landsnets. Fyrirtækið verður að fá að dreifa kostnaðinum á lengra tímabil með lántökum til arðbærra fjárfestinga. Neytendur eru viðkvæmir og óvarðir fyrir hækkunum á gjaldskrám fyrirtækisins vegna einokunarstöðu þess.
Í neðangreindu er komið við kaun stjórnvalda, en þó ekki rætt nægilega opinskátt um flækjurnar, sem stjórnvöld verða að greiða úr, svo að uppbygging innviða geti gengið greiðlegar án þess að flækjufætur þvælist fyrir sjálfsögðum framfaramálum:
"Ljóst er, að þörfin er mikil og nauðsynlegt að ráðast í styrkingu og/eða uppbyggingu kerfisins, og samhliða þarf að rýna, hvað stjórnvöld geta gert til að liðka fyrir slíkum framkvæmdum. Í því skyni þurfa stjórnvöld að koma að vali varðandi uppbyggingu meginflutningskerfisins. Finna þarf leiðir til að leyfisveitingar gangi betur fyrir sig og taki skemmri tíma, og tryggja þarf samræmi í vinnubrögðum milli aðila, sem koma að ferlinu. Bæta þarf vinnu við undirbúning framkvæmda, sem ætti að gera alla málsmeðferð hraðari og skilvirkari. Hér þarf hugsanlega að finna skýrara ferli og einfaldara lagaumhverfi."
Nú vinnur Landsnet að því að straumlínulaga ferli og búa til hraðvirkara ferli fyrir verkefni, sem ekki útheimta nýja virkjun. Öflug tenging Eyjafjarðar var dæmi um það, en þörfin þar og annars staðar hefur vaxið mikið og mun vaxa til 2021-2022, svo að umframafl í kerfinu mun ekki hrökkva til. Afl- og orkuskortir blasir við.
Næst á eftir tengingu Eyjafjarðar frá vestri (2024) og austri (2021), sem dregizt hefur úr hömlu og þarf í raun að flýta, þarf að taka afstöðu til þess, hvernig loka á Byggðalínuhringnum í annað sinn í sögunni. Þar er val um 220 kV línu frá Sigöldu austur um yfir erfitt og viðkvæmt land austur að Hryggstekk í Skriðdal, eða jafnstraumsjarðstreng frá aðveitustöð, t.d. innarlega í Bárðardal, og suður að Þjórsár/Tungnaársvæðinu. Sá kostur er dýr (um mrdISK 40), en ekki mikið dýrari en hinn og hefur marga kosti, rekstrarlega og umhverfislega umfram loftlínukostinn um S-Austurland. Í báðum tilvikum þarf 220 kV línu frá Fljótsdalsvirkjun að Hryggstekk til að anna vaxandi almennri raforkunotkun á Austurlandi (laxeldi o.fl). Ákvörðun um þetta þarf að taka um miðjan næsta áratug.
Sumir hérlendis halda, að orkukræfum iðnaði hafi verið úthýst frá Evrópu m.a. af umhverfisástæðum. Það er öðru nær, enda eru slíkar verksmiðjur mikilvægur stólpi í þekkingarklösum og framleiðslukeðjum, sem veita fjölbreytilegu starfsfólki vinnu og skapa mikil verðmæti. Þess vegna var vel til fundið hjá SI að vekja athygli á, að í Evrópu er reynt að halda verndarhendi yfir orkukræfum verksmiðjum með því í raun og veru að niðurgreiða raforkuverð til þeirra. Nú höfum við jafnframt séð, að einhvers konar ívilnanir fara fram til garðyrkjubænda, t.d. í Hollandi Danmörku og Noregi, sem fá fá rafmagnið mun ódýrar en íslenzkir garðyrkjubændur (40 % munur, Bbl. 07.11.2019). Sýnir það vel villigöturnar, sem Landsvirkjun er á við verðlagningu afurða sinna, sem gerir fyrirtæki hér ósamkeppnishæf við núverandi markaðsaðstæður (20 % lægra í miðborg Stokkhólms til gagnavers en hérlendis (F.bl. 11.11.2019).
"Því er mikilvægt að hafa í huga, að í það minnsta [í] 11 [af] nágrannaríkjum Íslands standa stjórnvöld að endurgreiðslum vegna raforkukostnaðar, og hefur oftar en ekki verið litið framhjá þeirri endurgreiðslu í samanburði á raforkuverði. Þar er um að ræða aðgerðir til að sporna við s.k. kolefnisleka (e. carbon leakage), þar sem tilteknar atvinnugreinar njóta endurgreiðslna vegna orkunotkunar, þ.e. veigamikil[s] kostnaðar, sem orkuver í Evrópu hafa af kaupum á losunarheimildum innan ETS-kerfisins. Með kolefnislekalistanum er markmið ESB að sporna gegn því, að orkusækinn iðnaður færist úr álfunni vegna of hás framleiðslukostnaðar og þá oft til ríkja, sem grundvalla orkuframleiðslu meira og minna á jarðefnaeldsneyti eða óendurnýjanlegum orkugjöfum. Enda væri þá ETS-kerfið farið að vinna gegn markmiðum sínum um að draga úr hnattrænni losun gróðurhúsalofttegunda."
Með því að brjóta eigin reglur um bann við ríkisstuðningi við fyrirtæki á frjálsum markaði skekkir Evrópusambandið samanburð á raforkuverði á milli landa. Fyrir orkukræf fyrirtæki er sem sagt ómarktækt að skoða raforkuverð í orkukauphöll, t.d. Nord Pool, sem getur hæglega samsvarað 56 USD/MWh, heldur getur það verið talsvert lægra, e.t.v. 25 % lægra, og er það þá orðið nálægt verðinu, sem Landsvirkjun hefur þröngvað upp á íslenzku stóriðjufyrirtækin við endurskoðun orkusamninga þeirra. Þetta sýnir svart á hvítu, að þau og verkalýðsfélög, sem hafa af rekstrar- og atvinnuöryggi í verksmiðjunum miklar áhyggjur, hafa rétt fyrir sér, af því að þær verða að búa við talsvert lægra orkuverð hér til að vega upp á móti kostnaðarliðum, sem eru hærri hér. Þetta eru engin ný sannindi, en núverandi forstjóri Landsvirkjunar hlustar ekki, með voveiflegum afleiðingum fyrir atvinnulífið.
Á bls. 18 í skýrslu SI er enn tekið til við að japla á nauðsyn orkuviðskipta hérlendis í orkukauphöll án þess, að nokkur greining á því, hvernig markaðsstýrt kerfi raforkuvinnslu fellur að íslenzkum aðstæðum, sýni jákvæða niðurstöðu. Það er aftur á móti til um þetta greining, sem sýnir, að markaðsstýring hentar Íslendingum alls ekki. Um það er hægt að lesa í skýrslu Orkunnar okkar frá 16.08.2019 á vef samtakanna.
"Ólíkt því, sem hér þekkist, eiga viðskipti með raforku sér stað í gegnum markaði í mörgum nágrannaríkjum Íslands, þar sem verðmyndun er frjáls og gagnsæ. Á Íslandi væri ákjósanlegt að koma á skammtímamarkaði með raforku, sem myndi auka gagnsæi í verðmyndun á raforku. Með slíkum markaði gætu bæði raforkuframleiðendur og -kaupendur varið sig gegn áhættu, auk þess sem skammtímamarkaður með raforku er til þess fallinn að auka skilvirkni og samkeppni."
- Hér er enginn markaður, sem sér fyrir öruggum aðföngum frumorkunnar, sem víðast hvar er jarðefnaeldsneyti, heldur eru Íslendingar háðir duttlungum náttúrunnar varðandi innrennsli í miðlunarlón og innstreymi jarðgufu í gufuforðabúr jarðgufuvirkjana.
- Þessar tvær tegundir virkjana, vatnsfallsvirkjanir og jarðgufuvirkjanir, hafa gjörólíka eðliseiginleika, sem ekki er tryggt, að markaðskerfi ESB sé hæft til að nýta með sjálfbærum hætti. Hætt er við, að markaðshlutdeild jarðgufuveranna minnki, en vatnsorkuverin munu koma hluta afgangsorku sinnar í verð. Vatnsorkuverin munu þó varla keyra hin í þrot, heldur hækka meðalverðið, svo að þau tóri. Iðnaðurinn mun tapa á dægursveiflum raforkuverðsins, en götulýsingin gæti orðið ódýrari. Iðnaðurinn þarf að móta viðbrögð sín, og þau munu kosta hann nokkuð. Almennt talað er erfitt að láta virkjanir svo ólíkrar gerðar keppa, svo að gagnast megi neytendum til lengdar. Fyrir þessu er t.d. gerð grein í skýrslu Orkunnar okkar, 16.08.2019.
- Á Íslandi er fákeppnisumhverfi á raforkumarkaði, sem ekki verður breytt með vanhugsuðum ráðum á borð við uppskiptingu Landsvirkjunar. Lögmál frjálsrar samkeppni munu þess vegna ekki virka hér neytendum í hag, eins og predikarar markaðstrúarinnar vilja vera láta. Ef Landsvirkjun verður sundrað, þá verður jafnframt að gefa öllum framleiðendum jafna stöðu á markaði, en nú má Landsvirkjun ekki eiga smásölufyrirtæki. Ef þetta kemst á, verður jarðgufan ósamkeppnishæf við vatnsorkuna vegna skorts á sveigjanleika. Afleiðingarnar eru lítt fyrirsjáanlegar, en munu leiða til enn meira markaðsráðandi stöðu vatnsaflsins. Í stað eins ráðandi vatnsorkufyrirtækis nú, sem hefur tregan aðgang að almenna markaðinum, koma fáein í fákeppni með ráðandi stöðu á markaði, og það getur hæglega leitt til verðhækkana til almennings. Hvorki Samkeppnisstofnun né Landsreglarinn munu ráða við þessar aðstæður, þegar Pandóruboxið hefur verið opnað í óvitaskap.
- Markaðsstýring raforkukerfisins hefur í ESB í sér fólginn nægjanlegan hvata til að orkufyrirtækin leggi út í nauðsynlegar fjárfestingar í tæka tíð. Svo verður ekki hér, því að aðdragandi virkjana er lengri hér og orka og afl næstu virkjunar verður dýrari en frá síðustu virkjun, öfugt við aðstæður meginlandsins. Orkuverðið má ekki lækka í þessu markaðsstýrikerfi, því að þá mun gæta enn meiri tregðu markaðsaðila til að reisa nýjar virkjanir, sem eru dýrari en þær, sem fyrir eru, á hverja kWh.
Í kaflanum "Upprunaábyrgðir raforku" er skrifað af nokkurri skynsemi um þetta fyrirbrigði, sem Evrópusambandið kom á koppinn til að örva orkuskiptin hjá sér, þótt fyrirbærið feli í sér brenglun á frjálsri samkeppni, því að sá sem sendir frá sér koltvíildi við orkuvinnsluna kaupir sér syndaaflausn af þeim, sem hafa fjárfest í vistvænum orkulindum, og viðskiptavinir þeirra sitja uppi með "Svarta-Péturinn". Það er tóm vitleysa, að Íslendingar taki þátt í þessari sýndarmennsku, því að hér standa menn ekki frammi fyrir vali á milli "svartrar" orku og hreinnar, en skýrsluhöfundar taka þó ekki af skarið um, að afnema beri þessi aflátsbréf með öllu hérlendis, enda gerast þessi viðskipti innan vébanda EES:
"Aðstæður eru með öðrum hætti hér í landi endurnýjanlegra orkugjafa, enda hafa orkuskipti í raforkuframleiðslu og raunar húshitun fyrir löngu átt sér stað. Engu að síður hafa íslenzk raforkufyrirtæki verið virk á þessum markaði. Slík sala upprunavottorða út fyrir landsteinana grefur undan ímynd Ísland sem lands endurnýjanlegrar orku.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.11.2019 | 14:56
Orkuskýrsla SI - rýni III
Hér verður haldið áfram að rýna skýrslu Samtaka iðnaðarins um raforkumál frá 16.10.2019 og tekið til við kaflann "Uppbygging raforkumarkaðar". Þar segir í undirgreininni:
"Orkupakkar ESB og markaðsvæðing raforkukerfisins":
"Orka er skilgreind sem vara í skilningi samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Með aðild Íslands að þeim samningi hefur íslenzka ríkið tekið á sig þær skuldbindingar að innleiða svokallaða orkupakka ESB, sem fela í sér regluverk, er viðkemur opnun raforkumarkaða og markaðsvæðingu þeirra."
Nær er að skrifa, að Evrópusambandið (ESB) skilgreinir orku sem vöru, og þar með fellur raforka undir allt regluverk fjórfrelsis Innri markaðar EES. Það er of langt seilzt í þjónkun við ESB að halda því blákalt fram, að aðild Íslands að EES skuldbindi landið til að taka upp og innleiða í sína löggjöf orkulöggjöf ESB, svo nefnda orkupakka. Ef þetta væri rétt, gæti framkvæmdastjórn ESB ákveðið upp á sitt eindæmi, hvaða löggjöf EFTA-löndin 3 í EES tækju upp úr safni ESB-löggjafar. Þar með væri jafnframt Sameiginlega EES-nefndin hreint formsatriði, stimpilstofnum fyrir mál, sem Framkvæmdastjórnin hefur merkt sem EES-mál. Hvað skyldu málsvarar EES hérlendis segja um þetta ? Þetta er alveg af og frá og skrýtið, að þessu skuli vera varpað fram sem túlkun SI á EES-aðild Íslands.
Um raforkumarkaðinn segir í skýrslunni:
"Markmið breytinga á raforkumarkaði endurspeglast í markmiðsákvæði raforkulaga, þar sem segir m.a., að stuðla skuli að þjóðhagslega hagkvæmu raforkukerfi og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu. Í því skyni skal skapa forsendur fyrir samkeppni í vinnslu og viðskiptum með raforku með þeim takmörkunum, sem nauðsynlegar reynast vegna öryggis raforkuafhendingar og annarra almannahagsmuna, stuðla að skilvirkni og hagkvæmni í flutningi og dreifingu raforku, tryggja öryggi raforkukerfisins og hagsmuni neytenda, stuðla að nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og loks taka tillit til umhverfissjónarmiða."
Hér kveður við nýjan tón í skýrslunni, því að ekki er þarna um að ræða skefjalausa markaðstrú, heldur skuli leitazt við að afhenda neytendum raforku á lágmarksverði (þjóðhagslega hagkvæmu) og beita takmörkunum á frjálsa samkeppni, sem túlka má sem markaðsstýringu með ívafi orkulindastýringar, þegar það á við. Þarna hefði að ósekju mátt skrifa skýrar. Þetta er of mikið, eins og komið hafi frá véfréttinni í Delphi, og er það, ásamt innbyrðis ósamræmi, ljóður á ráði skýrsluhöfunda. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum er þessu lagaákvæði illa eða ekki fylgt af fyrirtækinu Orkuveitu Reykjavíkur gagnvart grænmetisbúinu Lambhaga í Reykjavík, eins og gerð verður grein fyrir í síðari pistli.
Í kaflanum "Opinbert eignarhald í orkufyrirtækjum"
er sett fram sjónarmið, sem hægt er að taka undir, og gæti verið lausn á furðulegri stöðu, sem upp er komin, af því að stjórn Landsvirkjunar leikur lausum hala, rekur verðlagsstefnu, sem vafasamt er, að njóti stuðnings á Alþingi, og hefur haldið uppi áróðri fyrir því að selja raforku úr landi um sæstreng, þótt sú afstaða njóti ekki almenns fylgis nú um stundir, enda vantar mikið á, að hún hafi verið rökstudd skilmerkilega (með hagkvæmniútreikningum):
"Mikilvægt er, að í þeim tilvikum, þar sem opinbert eignarhald er á fyrirtækjum, að sett sé samhliða stefnumörkun eigenda hverju sinni, þar sem fram koma með skýrum hætti markmið þeirrar starfsemi, áætlanir og samskipti við viðskiptavini þess, svo [að] dæmi séu tekin. Þess vegna hafa Samtök iðnaðarins kallað eftir eigendastefnu stjórnvalda fyrir orkufyrirtæki í beinni eða óbeinni eigu hins opinbera."
Það er brýnt, að stjórnvöld fari að sýna á spilin í þessari vinnu, og væntanlega mun Landsvirkjun þurfa að snúa við blaðinu, þegar eigandastefna hennar kemur fram, ef hún verður á annað borð bitastæð.
Það er einkennilega mikil áherzla í þessari skýrslu á samkeppni, og nokkur hrifning virðist hjá sumum höfundunum á orkupökkum Evrópusambandsins. Í kaflanum:
"Raforkumarkaður stuðli að samkeppni"
er minnzt á þetta "leiðarljós" orkupakkanna, sem undirstrikað sé í OP#2 frá 2003, en það ár var OP#1 innleiddur á Íslandi. Höfundarnir hafa tekið upp þetta trúaratriði úr orkupökkunum, þótt á Íslandi skorti forsendur fyrir því, að frjáls samkeppni virki í því fákeppnisumhverfi með tiltölulega litlum fyrirtækjum, sem hér er, enda tilfæra höfundarnir engar rannsóknir, er sýni fram á árangur af innleiðingu orkupakkanna á Íslandi.
Þvert á móti sýndi hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands fram á það í grein í skýrslu Orkunnar okkar, 16.08.2019, að raunorkuverð með flutningi og dreifingu hefði hækkað um 7 %- 8 % á tímabilinu 2003-2018. Þetta er alger öfugþróun, því að á þessu tímabili stórlækkuðu skuldir raforkugeirans sem heildar, en fjármagnskostnaður er stærsti kostnaðarliðurinn. Þetta er til marks um hækkun rekstrarkostnaðar með uppskiptingu fyrirtækjanna og sýnir svart á hvítu, að það gengur ekki upp að reyna að flytja hingað inn hugmyndafræði fyrir orkugeirann, sem sniðin er við allt aðrar aðstæður. Af sömu ástæðum myndi það gera illt verra, sem lagt er til í skýrslunni, að skipta núverandi Landsvirkjun upp. Þeir, sem halda slíku fram, berja hausnum við steininn.
Ekki verður séð, að SI þjóni hagsmunum umbjóðenda sinna með órökstuddum málflutningi, eins og þessum hér í ofangreindum kafla:
"Þegar eitt fyrirtæki á samkeppnismarkaði hefur yfir að ráða verulegri hlutdeild vatnsafls, er vandséð, að ávinningur frjálsrar samkeppni náist fram að fullu. Því þarf að skapa skilyrði til að auka samkeppni á raforkumarkaði, og er aðhald Orkustofnunar og samkeppnisyfirvalda því mikilvægara en ella. Mikilvægt er að skapa skilyrði til að auka samkeppni á raforkumarkaði, en um leið að stuðla að samkeppnishæfni í alþjóðlegu samhengi."
Þessi síbylja um "ávinning frjálsrar samkeppni" á íslenzka raforkumarkaðinum er bábilja. Rafmagnfyrirtækin eru hátæknifyrirtæki, sem ríður á að laða til sín hæfileikafólk og þróa sína tæknilegu innviði. Þetta verður ekki gert með því að sneiða þau niður í enn smærri einingar. Máttur stærðarinnar fyrir samkeppnishæfni þeirra (og viðræðuhæfni) í alþjóðlegu tilliti vegur miklu þyngra en að fjölga þeim. Vandamál Landsvirkjunar er allt annars eðlis og verður betur leyst með öðru móti, eins og drepið hefur verið á.
Fjórði og lokahluti þessarar rýni á nýrri skýrslu SI mun birtast í næsta pistli höfundar þessa vefseturs.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.11.2019 | 15:08
Stefna SI um raforku - rýni II
Í skýrslu Samtaka iðnaðarins - SI um raforkumál frá 16.10.2019 er næst á eftir Innganginum gerð grein fyrir "Stefnu Samtaka iðnaðarins á sviði raforkumála". Hún er í 11 liðum, og verður hér fjallað um hvern fyrir sig:
- "Raforka framleidd á Íslandi sé nýtt til verðmætasköpunar innanlands, því [að] öflugur iðnaður er undirstaða búsetu og verðmætasköpunar." - Þetta er alveg rétt, en í skýrslunni hefðu þurft að koma fram útreikningar, sem sýna, að andstæðan, útflutningur rafmagns um sæstreng, verður fyrirsjáanlega ekki þjóðhagslega hagkvæmur. Nú er komið í ljós, að verðlagning OR á heitu vatni og rafmagni er framleiðslufjandsamleg í samanburði við verðlagninguna í Noregi og Hollandi, en rafmagnsverðið til garðyrkjustöðvar í Reykjavík er 65 % hærra en til garðyrkjustöðvar í Noregi samkvæmt viðtali við garðyrkjubóndann í Lambhaga í Reykjavík í Bændablaðinu 07.11.2019. Þetta sýnir tvískinnunginn hérlendis í umræðunni um losun gróðurhúsalofttegunda, því að afleiðing óskynsamlegrar orkuverðlagningar er tilfinnanlegur missir markaðshlutdeildar íslenzkra framleiðenda hérlendis.
- "Horft verði til arðsemi af framleiðslu og flutningi raforku á Íslandi í víðu samhengi, ekki eingöngu út frá hagsmunum einstakra orkufyrirtækja, heldur þjóðarbúsins í heild." Þetta er gríðarlega mikilvægt, að hljóti brautargengi sem þáttur í orkustefnu hins opinbera núna, þegar Landsvirkjun predikar hámörkun á arðsemi orkulindanna til að réttlæta gríðarlegar og óverjandi hækkanir til iðnaðarins. Það er forkastanlegt, að ríkisfyrirtæki skuli komast upp með svo þröngsýna stefnu, sem aðeins miðar við að hámarka arðgreiðslur í "þjóðarsjóð", sem vilji er innan ríkisstjórnarinnar til að stofna. Langþráð eigendastefna Landsvirkjunar verður að vinda ofan af þessari sérvizku forstjórans, sem hlýtur þó að njóta stuðnings stjórnar Landsvirkjunar, en hver er stefna iðnaðarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra ? Af hverju láta þau það viðgangast árum saman, að stefna Sjálfstæðisflokksins frá stofnun Landsvirkjunar 1965 um að gera raforkusölusamninga til langs tíma, sem báðir mættu vel við una, sé fótum troðin af manni, sem ráðinn var að Landsvirkjun 2010 í valdatíð Steingríms J. Sigfússonar sem "yfirráðherra" vinstri stjórnarinnar 2009-2013 ? Þessi maður hafði aldrei að orkumálum komið, en tjáð sig opinberlega með neikvæðum hætti um orkusækinn iðnað í tíma og ótíma.
- "Samkeppnishæft raforkuverð í alþjóðlegu samhengi sé tryggt vegna þess mikilvæga ávinnings, sem hlýzt af raforkunýtingu í fyrirtækjum á Íslandi." Hér þarf að taka fram, hvaða "alþjóðleg[a] samhengi þetta er. Fyrir flest iðnfyrirtæki er það væntanlega Innri markaður EES, en einnig Bandaríkin, Rússland, Asía o.fl. Fyrir álverin er samkeppnisumhverfið t.d. Persaflóaríkin og Kína, því að íslenzk álver keppa á mörkuðum við álver þaðan. Orkuverð til þeirra er lægra en það, sem orðið hefur ofan á við framlengingu orkusamninga Landsvirkjunar. Ætti það að klyngja aðvörunarbjöllum, því að allir aðrir kostnaðarliðir eru jafnframt lægri, nema fyrir kælivatnið. Landsvirkjun er í einokunarstöðu, þegar kemur að framlengingu orkusamninga og hefur ekki sýnt næga ábyrgðartilfinningu í þeirri stöðu m.t.t. langtímahagsmuna landsins. ON/Veitur eru að selja Gróðrarstöð í Reykjavík rafmagn á 10,4 ISK/kWh, en norsk gróðrarstöð fær rafmagnið á jafngildi 6,3 ISK/kWh. Hollenzk gróðrarstöð fær rafmagnið á ívið lægra verði en sú norska og dönsk stöð á ívið hærra verði. Verðlagning orku til íslenzkra framleiðslufyrirtækja er komin í algerar ógöngur og er að eyðileggja samkeppnishæfni Íslendinga. SI og öll samtök framleiðenda hérlendis verða að skera upp herör gegn þröngsýnni verðlagsstefnu orkufyrirtækjanna, því að ella mun hún leggja framleiðslustarfsemina í rúst.
- "Efnahagslegur ávinningur raforkuvinnslu og raforkunýtingar á Íslandi verði veginn með umhverfissjónarmiðum og loftslagsávinningi með skynsömum og hagkvæmum hætti". - Það þarf að reikna út þennan efnahagslega ávinning út frá þeirri verðmætasköpun, sem mikil raforkuvinnsla gerir mögulega, og bera hana saman við raforkuvinnslu inn á aflsæstreng til útlanda og/eða "eitthvað annað", sem í seinni tíð hefur verið flutningur og móttaka erlendra ferðamanna. Hefði að ósekju mátt sjást tilraun til þess í þessari skýrslu SI. "Umhverfiskostnaðurinn" við orkuvirkjanir er óvíða meiri en hér vegna inngripa í viðkvæma náttúru, sem eru óhjákvæmilegur fylgifiskur virkjana hérlendis. Þó er fjöldi vindmyllna og sólarhlaða í Evrópu nú kominn að þolmörkum í huga almennings. Í Rammaáætlun er gerð tilraun til að leggja mat á umhverfiskostnaðinn, og eðlileg viðmiðun er, að hann megi aldrei vera meiri en núvirt verðmætasköpun virkjunar. Ef umhverfiskostnaðurinn er hærri, ber að setja virkjunarkostinn í verndarflokk. Ekki er víst, að Landsreglarinn muni virða þessa reglu eftir innleiðingu OP#4 (Hreinorkupakkans), því að eftir það þarf mjög sterk rök til að standa gegn virkjun endurnýjanlegra orkulinda og tengingu þeirra við stofnkerfið gegn föstu gjaldi, óháð vegalengd að virkjun. Loftslagsávinninginn er vissulega hægt að verðleggja líka. Framleiðsla áls á Íslandi sparar t.d. á hverju ári losun gróðurhúsalofttegunda, sem nemur 2,5 faldri losun Íslendinga á landi m.v. framleiðslu áls með rafmagni frá kolakyntu orkuveri. Íslenzki grænmetismarkaðurinn nemur um 25 kt/ár, og reikna má með, að flutningur á slíku magni til landsins mundi valda losun á 100 kt/ár CO2. Þetta er um 10 % af árlegri losun vegumferðar á Íslandi um þessar mundir, og íslenzkir grænmetisbændur eru þá með sinni 52 % markaðshlutdeild að spara losun rúmlega 50 kt/ár CO2 eingöngu vegna minni millilandaflutninga, en þetta má sennilega tvöfalda, af því að flestir erlendir kollegar þeirra fá orkuna til sinnar framleiðslu að mestu leyti frá jarðefnaeldsneyti. Að fá ekki vatni haldið yfir gróðurhúsaáhrifum á hlýnun jarðar og að leggja ylræktina hérlendis í rúst fer ekki saman.
- "Gengið verði lengra í aðskilnaði framleiðslu og flutnings raforku á Íslandi og tengsl milli Landsvirkjunar og Landsnets verði rofin til að tryggja gagnsæi og heilbrigðan raforkumarkað." - Ísland bað um og fékk undanþágu hjá Sameiginlegu EES-nefndinni á eignarhaldslegum aðskilnaði Landsnets, LN, og orkuvinnslufyrirtækjanna LV, ON, RARIK, HS og OV. Til að breyta þessu eignarhaldi þarf að kaupa gömlu eigendurna út, en nýi eigandinn má ekki eiga hagsmuna að gæta sem núverandi eða tilvonandi viðskiptavinur LN. Það má út af fyrir sig hugsa sér að bjóða LN út á EES-markaðinum, en það er ólíklegt, að fjárfestar hafi áhuga, því að LN er einokunarfyrirtæki og starfar undir ströngu eftirliti Orkustofnunar, nú Landsreglarans, um tekjumörk. Gróðavonin þar er varla fyrir hendi. Þá er eiginlega ríkissjóður einn eftir. Hann á að vísu mikilla hagsmuna að gæta í orkuvinnslufyrirtækjunum flestum, en enginn veit, hversu lengi það varir, því að með bréfi ríkisstjórnarinnar 19.05.2016 til ESA samþykkti hún kröfur ESA um að veita einkafyrirtækjum, væntanlega innan EES, jafnstöðu á við ríkisfyrirtæki við úthlutun nýtingarréttinda náttúruauðlinda hvers konar.
- "Ferlið við tekjumörk [afmörkun tekna-innsk. BJo] Landsnets sé gagnsætt og fyrirsjáanlegt, og að sú arðsemi, sem Landsneti er leyfð [afmörkuð], ráðist af raunverulegum fjármagnskostnaði fyrirtækisins, en sé ekki fræðileg stærð, sem byggir á matskenndum þáttum." - Það, sem skiptir máli í þessu sambandi, er, að Orkustofnun fer yfir fjárfestingaráætlanir Landsnets og hefur neitað fyrirtækinu um leyfi til að endurnýja gamlan búnað, þótt nauðsynlegt sé að endurnýja hann til að viðhalda rekstraröryggi fyrirtækisins. Þetta nær engri átt, því að sérfræðiþekkingin er hjá Landsneti, en ekki Orkustofnun, í þessu tilviki. Þess vegna er nú orðin uppsöfnuð fjárfestingarþörf hjá Landsneti, sem væntanlega mun endurspeglast í gjaldskránni, er frá líður. Í nafni afhendingaröryggis raforku verður Landsnet að fá rýmri fjárheimildir. Hvernig tekjumörkin verða reiknuð, er nú viðfangsefni Landsreglarans að gefa út.
- "Skilyrði verði sköpuð til að auka samkeppni meðal raforkuframleiðenda á Íslandi, sem þýðir, að minnka þarf hlutdeild þess fyrirtækis, sem er með yfir 70 % markaðshlutdeild." - Hér slær út í fyrir SI. Það er engin greining fyrir hendi, sem sýnir, að einkavæðing á hluta Landsvirkjunar mundi verða neytendum hagfelld. Þessu afdrifaríka stefnumiði er slegið ábyrgðarlaust fram í trúarhita, en ekki gætt að sérstöðu íslenzka raforkumarkaðarins. Að fjölga birgjum um einn á þessum markaði breytir honum ekki úr fákeppnismarkaði. Það, sem tapast, er hagkvæmni stærðarinnar, sem er veruleg í þessum geira, og þekking tvístrast, t.d. á orkulindastýringu, sem lengi hefur verið aðalsmerki Landsvirkjunar. Landsvirkjun er skuldbundin til orkuafhendingar samkvæmt nokkrum langtímasamningum, og sumir þeirra eru tengdir nokkrum mannvirkjum. Hvernig eiga nýju fyrirtækin að geta staðið við skuldbindingar þess gamla ? Það er óhugsandi, og slík uppskipting er riftunarástæða gagnaðilans án nokkurra skuldbindinga. Hér hafa markaðskálfar hlaupið út um víðan völl og dottið ofan í skurð. Nú fara "loksins" í hönd tímar mikillar arðsemi fjárfestingar í þeirri náttúruauðlind landsins, sem vatnsorkan er. Þá koma fram arfaslakar hugmyndir um stofnun sjóðs fyrir arðgreiðslur ríkisorkufyrirtækja annars vegar og sölu á hluta stærsta fyrirtækisins hins vegar. Miklu nær er að láta þjóðina njóta góðs af beint með lækkun raunorkuverðs. Sjóðsstofnun mun kalla á hækkun raunorkuverðs, og sjóði fylgir ávöxtunaráhætta auk þess, sem fé er tekið út úr hagkerfinu á tímum mikillar uppbyggingarþarfar innviða. Það er út í hött að rökstyðja íslenzkan "orkusjóð" með olíusjóðnum norska. Þar er "námugröftur" á ferð, og Norðmenn miðla auðæfunum með þessum hætti til komandi kynslóða. Sama aðferð á ekki við um endurnýjanlegar náttúruauðlindir. Ef Landsvirkjun verður sundrað, verður að gefa öllum orkuvinnslufyrirtækjunum jafna stöðu á markaði, en nú má Landsvirkjun ekki eiga smásölufyrirtæki, eins og hin fyrirtækin mega. Ef þessi arfaslaka hugmynd verður að raunveruleika, þá verður jarðgufan ósamkeppnishæf við vatnsföllin vegna skorts á sveigjanleika. Orka jarðgufustöðvanna er einfaldlega ekki eins verðmæt og orka vatnsorkuveranna. Þetta mun líklega leiða til verðhækkana á markaði. Þannig leiðir blindur haltan, ef sundrun Landsvirkjunar verður framkvæmd í nafni neytendaverndar.
- "Leitað verði til raforkunotenda á Íslandi við vinnslu orkuspáa, svo [að] ekki komi til þess, að skortur verði á raforku, sem hamlar verðmætasköpun." - Þetta er gott og blessað, en allsendis ófullnægjandi. Hættan á orkuskorti er yfirvofandi, svo lengi sem hvorki gengur né rekur með nýjar virkjanir yfir 10 MW. Þegar Landsreglarinn hefur aðlagað íslenzka raforkumarkaðinn að Innri markaði ESB með því að koma á laggirnar markaðsstýringu raforkuvinnslunnar, þá mun hættan á vatnsskorti miðlunarlóna stóraukast, því að orkulindastýring Landsvirkjunar verður þar með lögð fyrir róða, illu heilli. Þá þarf aðili á vegum ríkisins að hafa vald til að grípa í taumana og stýra vatnstöku úr lónum. Það er hægt að gera með því að beita markaðslögmálum. Ríkið á öll helztu miðlunarlónin, getur yfirtekið þau og verðlagt vatnið eftir aðstæðum. Sem dæmi kostar það ekkert snemmsumars, þegar horfur eru á fyllingu, en tekur að kosta á haustin og verður dýrast á útmánuðum. Hættan á orkuskorti verður þó ekki veruleg með landið ótengt erlendum rafkerfum, því að raforkuframleiðendur eru skuldbundnir til stöðugrar orkuafhendingar samkvæmt veigamiklum (>80 % hlutdeild) langtímasamningum. Freistingin til að tæma lónin getur orðið óviðráðanleg eftir aflsæstrengstengingu við útlönd.
- "Regluverk sé skýrt, og eftirlit með íslenzkum raforkumarkaði sé virkt og skilvirkt, en ekki íþyngjandi." - Ekki er áberandi, að þessu hafi verið ábótavant á undanförnum árum, en með tilkomu Landsreglarans undir stjórn ESA/ACER verður breyting, og þá gæti eftirlitið orðið þyngra í vöfum, nákvæmara og dýrara, t.d. með einokunar- og sérleyfisfyrirtækjunum.
- "Settur verði á fót skammtímamarkaður með raforku líkt og í nágrannaríkjum Íslands, þar sem raforka er keypt og seld á markaði, sem einkennist af frjálsri verðmyndun og gagnsæi." - Það er ekki með ábyrgum hætti hægt að rökstyðja orkukauphöll á Íslandi með vísun einvörðungu til "nágrannaríkja Íslands". Hvers vegna er það ábyrgðarlaust ? Það er vegna þess, að orkukerfi Íslands er einstætt og ólíkt orkukerfum allra annarra Evrópuríkja. Þess vegna þarf að fara fram greining á því, hvers konar fyrirkomulag hentar íslenzkum neytendum bezt. Vísi að henni er að finna í skýrslu Orkunnar okkar frá 16.08.2019. Þar er komizt að þeirri niðurstöðu, að slíkur "skammtímamarkaður" verði að vera með ívafi orkulindastýringar, en sá er galli á gjöf Njarðar, að slík tíðkast ekki á Innri markaðinum og verður sennilega dæmd brjóta í bága við reglur hans um frjálsa samkeppni.
- "Ákvarðanir um uppbyggingu og viðhald raforkuflutningsmannvirkja byggi á skýrum hagkvæmnis- og umhverfissjónarmiðum." - Vandamálið við þetta er, að ákvarðanir eru kæranlegar, sem tafið getur mjög fyrir framkvæmdum og gert þær dýrari en ella, auk þess sem tafirnar geta og hafa valdið búsifjum hjá orkunotendum, sem hafa lent í orkusvelti eða óþolandi truflunum á orkuafhendingu. Hvernig þvælzt er fyrir bráðnauðsynlegum framfaramálum almennings í nafni einkaeignarréttar og jafnvel einstaklingsfrelsis hefur gengið allt og langt og verður að setja þröngar skorður eftir samþykki Skipulagsstofnunar ríkisins og framkvæmdaleyfi viðkomandi sveitarfélaga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.11.2019 | 11:42
Skýrslan "Íslensk raforka" - I
Þann 16.10.2019 gáfu Samtök iðnaðarins, SI, út skýrsluna "Íslensk raforka - Ávinningur og samkeppnishæfni". Hafi tilgangur skýrslunnar verið að koma á framfæri áhyggjum og viðvörunum vegna minnkandi samkeppnishæfni íslenzkrar raforku, þá er textinn of almennt orðaður og á köflum loðmullulegur um það atriði, til að sá boðskapur komist til skila.
SI eiga hins vegar hrós skilið fyrir að benda á mikilvægi orkuiðnaðarins og aðalviðskiptavinar hans, orkusækins iðnaðar, fyrir þjóðarbúskapinn. Frá orkutæknilegu sjónarmiði er skýrslan þó of veik til að hitta í mark, enda hefur ekki á vegum SI verið framkvæmd nein ný greining á stöðu orkuiðnaðarins, sem þó er nauðsynlegt á þeim tímamótum, sem hann stendur á eftir innleiðingu OP#3 og með markaðsstýringu raforkuvinnslunnar á þröskuldinum. Fyrir vikið standa margar fullyrðingar í skýrslunni uppi órökstuddar, og skýrslan er með slagsíðu óheftrar markaðstrúar, sem höfundar rökstyðja ekki, að eigi við í orkugeiranum á Íslandi.
Þeir, sem lesa skýrslu Orkunnar okkar frá 16.08.2019, finna hins vegar þar ágætan rökstuðning fyrir því, að íslenzka orkukerfið útheimti orkulindastýringu til að setja hagsmuni neytenda í öndvegi, þ.m.t. iðnaðarins. Á Íslandi vill svo til, að almennir neytendur og eigendur raforkukerfisins eru næstum sami hópurinn. Það er sjaldgæf staða. Þess vegna er ákall SI um markaðsvæðingu raforkugeirans hjáróma eftiröpun erlendra og gjörólíkra aðstæðna, sem getur hæglega orðið neytendum til tjóns hérlendis. Þannig ber skýrslan merki um flumbrugang, sem skýra má með vanþekkingu höfunda á orkumálum og orkukerfi Íslands.
Í þessari rýni verður fylgt sömu efnisröð og í skýrslu SI. Inngangurinn hefst þannig:
"Nýting raforku gegnir lykilhlutverki í verðmætasköpun á Íslandi. Fjórðungur útflutningstekna þjóðarinnar byggir á framleiðslu og nýtingu á raforku. Fjórða iðnbyltingin er að miklu leyti raforkuknúin og er því mikilvægt, að vel takist til við að skapa samkeppnishæfa umgjörð um framleiðslu, dreifingu og nýtingu raforku til framtíðar litið. Aðgengi að raforku er einnig mikilvægur þáttur í samkeppnishæfni atvinnulífs, og flutningskerfi raforku er ein af lykilstoðum innviða í landinu, sem þjónar bæði heimilum og fyrirtækjum."
Það er nýnæmi að kenna "Fjórðu iðnbyltinguna" við raforku, þótt hún sé óhugsandi án rafmagns. Hún er þó aðallega hugbúnaðarknúin og reist á fjarskipta- og skynjaratækni. Að sjálfsögðu munu orkufyrirtækin og iðnfyrirtækin færa sér hana í nyt, enda eru á báðum þessum innbyrðis háðu vængjum hátæknifyrirtæki.
Aðeins samkeppnishæf raforkuvinnsla getur skapað verðmæti. Sú yfirverðlagning á raforku, sem Landsvirkjun af mikilli skammsýni hefur stundað síðan 2010, gerir íslenzka raforku ósamkeppnisfæra til lengdar og ógnar útflutningsatvinnuvegunum og þeim, sem standa í beinni samkeppni við innflutning.
Vinnsla sjávarafurða innanlands, sem er keppikefli vegna verðmætasköpunar innanlands, á undir högg að sækja og stenzt ekki samkeppni, nema með hagkvæmu heildarraforkuverði, þ.e. verði orku, flutnings og dreifingar auk opinberra gjalda. Sama má segja um t.d. garðyrkjuna. Þannig er meira en helmingur útflutningstekna þjóðarinnar algerlega háður tiltölulega lágum raforkukostnaði á hverja MWh (megawattstund). Yfirverðlagning í krafti yfirburðastöðu á markaði er þess vegna grafalvarlegt mál og gefur hugmyndum um uppskurð Landsvirkjunar byr undir báða vængi, en með honum væri farið úr öskunni í eldinn.
Eigendastefna ríkisraforkufyrirtækja, sem stjórnvöld hnoða nú saman, verður að taka mið af þessu, ef ekki á illa að fara. Verðlagsstefna Landsvirkjunar eru mistök, hún er stórhættuleg og verður að breyta henni með hliðjón af heildarhagsmunum atvinnulífs og heimila. Ef Landsvirkjun á að verða mjólkurkýr fyrir ríkissjóð eða fjárfestingasjóð, "Þjóðarsjóð", þá mun hún skilja eftir sig sviðna jörð í atvinnulífinu. Það er ekki erfitt að marka fyrirtækinu sanngjarna verðlagsstefnu, þegar meðalvinnslukostnaður ásamt hóflegri ávöxtunarkröfu eigin fjár (3 %/ár) eru þekktar stærðir.
"Í ljósi mikilvægis raforku fyrir samfélög, bæði heimili og atvinnustarfsemi, er raforka ekki eins og hver önnur vara. Þvert á móti er raforka aðfang og meðal grunnstoða okkar samfélags. Án raforkukerfisins væri atvinnulíf fábreyttara og lífsgæði lakari en ella. Aðgengi að raforku þarf að vera tryggt fyrir bæði heimili og atvinnulíf, auk þess sem raforkuverð þarf að vera sanngjarnt, innviðir traustir, regluverk skýrt og eftirlit á raforkumarkaði virkt." [Undirstr. BJo.]
Þessi hluti skýrslu SI er fagnaðarefni, og það er saga til næsta bæjar, að SI brýtur þarna í bága við orkustefnu ESB og málflutning annarra orkupakkasinna á Íslandi (SI lýsti sig því miður hliðhollt OP#3 í umsögn til Alþingis fyrr á þessu ári, þegar OP#3 var þar til umfjöllunar, þótt allt sé á huldu um það, að OP#3 geti gagnast íslenzkum iðnaði, nema síður sé).
Það gagnast ekki Íslendingum, sem framleiða alla sína raforku úr náttúruauðlindum sínum með sjálfbærum hætti, að líta á og meðhöndla rafmagnið sem hverja aðra vöru, enda er ekki hægt að skila því. Rafmagnið hér er nátengt náttúruauðlindunum, og það er fullveldisréttur okkar að ráða því sjálf, hvernig þær eru nýttar. Ef stefna ESA/ESB um fyrirkomulag á ráðstöfun orkunýtingarréttinda nær fram að ganga hérlendis, þá fer þessi fullveldisréttur í súginn, en í skýrslu SI er ekki minnzt á það. Er það miður, því að ekki er að efa, að raforkuverð hérlendis mun hækka, ef afnotaréttur náttúruauðlindanna verður boðinn út eða upp. Einnig má leiða að því líkum, að markaðsstýring raforkuvinnslunnar muni leiða til verðhækkana rafmagns. Það helgast af ólíku eðli okkar helztu orkulinda, vatnsfalla og jarðgufu.
Þar er hins vegar sagt í skýrslunni, að raforkuverð eigi að vera sanngjarnt. SI virðist þannig gruna, að iðnaðarfyrirtækin njóti ekki sanngirni um þessar mundir. Satt að segja tuddast Landsvirkjun á aðildarfélögum SI og öðrum, nýtir yfirburði sína á markaði og okrar á orkunni. Það er óþarfi að fara eins og köttur í kringum heitan graut um það grafalvarlega málefni.
Þá svelta sum aðildarfélög SI vegna of lítillar flutningsgetu Landsnets og dreifiveitna, og sum búa við allsendis ófullnægjandi gæði, lélega spennu og lítið afhendingaröryggi, t.d. á Vestfjörðum. Þetta setur þróun aðildarfélaga SI stólinn fyrir dyrnar og hefði einnig þurft að minnast á og slá jafnframt á árlegan kostnað vegna ófullnægjandi orkugæða (aflskorts, ófullnægjandi afhendingaröryggis og lélegra spennugæða), ef skýrslan átti í upphafi að geta kallast faglega vönduð. Það virðist vanta sérfræðilega þekkingu á orkusviði hjá ritstjórn skýrslunnar til þess að uppfylla þessar væntingar, og hún hefur ekki haft gáning á að afla slíkrar utan frá.
"Það er staðreynd, að ef ekki er framleiðslufyrirtækjum til að dreifa, þar sem raforkan er aðeins einn af mörgum framleiðsluþáttum, þá er verðmætasköpunin hverfandi af orkuauðlindinni."
Þetta er rétt athugað og stingur í stúf við boðskap sumra, t.d. Landsvirkjunar, um útflutning á rafmagni um sæstreng. Gallinn er sá, að SI studdi innleiðingu OP#3 hérlendis, sem stórlega jók hættuna á því, að hingað yrði lagður aflsæstrengur, því að Landsreglaranum eru falin mikil völd á orkusviðinu, og hann er algerlega óháður vilja innlendra stjórnvalda og hagsmunaaðila. Hlutverk löggjafarinnar OP#3 er aðallega að ryðja hindrunum úr vegi millilandatenginga. Það væri Guðsþakkarvert, ef SI myndi nú sjá að sér fyrir hönd umbjóðenda sinna og leggjast gegn innleiðingu OP#4 (Hreinorkupakkans) sem fyrst og helzt á fyrsta ársfjórðungi 2020 til að styrkja stjórnvöld við gerð yfirlýsingar til ESB og EFTA þess efnis, að Ísland muni hafna OP#4 í Sameiginlegu EES-nefndinni.
Forysta SI hlýtur að hafa smíðað sér, að OP#3 muni gagnast íslenzkum iðnaði. Því miður er það á misskilningi reist, að markaðsvæðing raforkuvinnslunnar og umsetning raforkunnar í orkukauphöll geti gagnast notendum við íslenzkar aðstæður. Til þess að spila á kerfið og gera hagstæðari viðskipti en nú tíðkast þarf sérfræðiþekkingu, sem borgar sig ekki fyrir flest fyrirtækin að afla sér. Að fara út í afleiðuviðskipti er hrein spákaupmennska, sem margir hafa farið flatt á. Ef á að sveifla framleiðslunni eftir verði á rafmagni, kostar það endurskipulagningu framleiðslunnar, sem getur kostað aukin útgjöld til mannahalds og aukningu birgðahalds. Hvort tveggja vinnur gegn framleiðniaukningu, sem ætti að vera helzta keppikefli iðnaðarins.
Stærstu kaupendurnir, álverin, geta ekki með góðu móti tekið þátt í þessu af tæknilegum ástæðum, af því að stöðugleiki er alfa og omega fyrir rafgreiningarkerin. Fyrirvaralitlar aflsveiflur eru dýrar og geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir framleiðni (straumnýtni og orkunýtni keranna) dögum og jafnvel vikum saman. Markaðsvæðing raforkuvinnslunnar í anda Innri markaðar ESB eykur hættu á orkuskorti, og mótvægisaðgerðir í anda orkulindastýringar verða líklega dæmd óleyfileg opinber markaðsinngrip. Málið horfir þannig við pistilhöfundi, að SI hafi með stuðningi sínum við OP#3 keypt köttinn í sekknum.
Í næstu vefgrein verður haldið áfram að rýna í umrædda skýrslu Samtaka iðnaðarins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.11.2019 | 11:45
Er bjart yfir birtingu gagna ?
Valdhafar hérlendis eru pukurgjarnir með viðfangsefni sín og jafnvel ákvarðanir, eins og þeir væru á mála hjá Miðstjórn sovézka kommúnistaflokksins, en ekki að vinna fyrir 0,36 M manns á eyju norður í Atlantshafi.
Þetta er óttalega heimóttarleg hegðun í samanburði við anda stjórnsýslu- og upplýsingalaga hér og borið saman við nágranna okkar og frændur á hinum Norðurlöndunum, t.d. Norðmenn. Sleifarlagi opinberrar stjórnsýslu er við brugðið, og er sem metnaðarleysi og doði liggi yfir vötnum. Með auknu reglufargani, heimatilbúnu og að utan (EES), hefur keyrt um þverbak, og er Byggingarreglugerðin eitt dæmi. Þunglamaleg stjórnsýsla er rándýr, því að hún sóar tíma fjölda manns, og dregur þannig úr framleiðniaukningu, sem þó er undirstaða lífskjarabata í landinu.
Vakin hefur verið athygli á nokkrum öðrum dæmum um þetta á þessu vefsetri, og nú hefur Umboðsmaður Alþingis ávítað stjórnvöld fyrir tregðu sína við eðlilega upplýsingagjöf og bent á algerlega óeðlilega hátt hlutfall beiðna um upplýsingar frá hinu opinbera, sem lendi hjá áfrýjunarnefnd um upplýsingamál. Sem betur fer er nú komin fram tillaga frá Stjórnarráðinu um að draga nokkrar tennur úr vinstri hvofti eins argasta kerfisdýrsins, Samkeppnisstofnunar. "Kúba norðursins" lét ekki aðeins duga að innleiða hér löggjöf ESB á samkeppnissviði, heldur bætti í kerfishítina, og er það ekki í eina skiptið, sem íslenzkir búrókratar eru á fölskum forsendum látnir komast upp með að gerast kaþólskari en páfinn. Alþingismenn verða að muna, að reglugerðafargan kemur að lokum niður á neytendum, kjósendum þeirra, þannig að þeir verða að standa á bremsunum.
Argvítugum þagnarhjúpi var varpað yfir þá ákvörðun ríkisstjórnar Sigurðar Inga Jóhannssonar 2016, þar sem Lilja D. Alfreðsdóttir var utanríkisráðherra og Ragnheiður Elín Árnadóttir var iðnaðarráðherra, að fallast í einu og öllu á þá kröfu ESA (Eftirlitsstofnunar EFTA) að taka upp nýtt fyrirkomulag við endurnýjun á og útgáfu nýrra orkunýtingarleyfa fyrir orkulindir í eigu hins opinbera.
Markaðurinn skal eftir breytinguna að kröfu ESA ráða því, hver fer með þessi nýtingarleyfi, og þessi markaður er væntanlega Innri markaður EES. Fyrir þessu máli var gerð grein í skýrslu Orkunnar okkar, 16.08.2019, og þar var sterklega varað við þessu á þeim forsendum, að 0,36 M manna samfélag gæti ekki staðið gegn afli 500 M manna markaðar um nýtingu eftirsóknarverðra auðlinda.
Þetta þýðir þá með öðrum orðum, að vegna þessarar ákvörðunar í utanríkisráðherratíð Lilju D. Alfreðsdóttur (utanríkisráðherra fer með EES-mál í samstarfi við fagráðherra) stefnir í, að Íslendingar glutri niður umráðarétti orkulinda ríkisins og sveitarfélaganna, þótt þeir eftir sem áður haldi eignarrétti sínum. Hvers virði er hann, þegar umráðarétturinn er farinn annað ?
Einhver hefði nú haldið, að þetta mál væri einnar messu virði á opinberum vettvangi og að á móti mætti draga úr froðunni og móðursýkinni, sem of mikinn tíma taka, s.k. umbúðastjórnmál, hismi, sem alltaf sneiða hjá kjarna máls. Nei, engin ríkisstjórn frá þessum atburði, sízt núverandi leyndarhyggjustjórn Katrínar Jakobsdóttur, hefur séð ástæðu til að skýra út fyrir þjóðinni þessa grundvallar stefnubreytingu um stjórnun á nýtingu orkulindanna. Stefnir nú í, að hér gæti orðið um kosningamál að ræða, því að iðnaðarráðherra hefur boðað framlagningu máls á 150. löggjafarþinginu, þar sem ríkisstjórnin virðist loks ætla að efna loforðið við ESA (Eftirlitsstofnun EFTA), sem felldi kvörtunarmálið niður í janúar 2017 eftir uppgjöf ríkisstjórnarinnar í þeirri vissu, að staðið yrði við loforðið.
Verður iðnaðarráðherra kápan úr þessu klæði sínu ? Það mun a.m.k. verða lífleg umræða alls staðar á landinu og í öllum frjálsum fjölmiðlum, svo og á þingi. Sú umræða er líkleg til að narta enn af fylgi stjórnarflokkanna, og sá fylgisflótti fer vonandi þangað, sem raunveruleg andstaða er við málið. Hennar er aðeins að vænta af krafti frá Miðflokkinum, en OP#3 flokkarnir hafa væntanlega ekki miklar athugasemdir.
Norska ríkisstjórnin lagði á hinn bóginn ekki upp laupana eftir móttöku bréfs frá ESA 30. apríl 2019 um, að aðferð norska ríkisins við úthlutun nýtingarleyfa orkulinda í eigu ríkisins stríddi gegn Þjónustutilskipun ESB, samkeppnisreglum o.fl., eins og ESA heldur fram. Þann 5. júní 2019 sendi olíu- og orkuráðuneytið snöfurmannlegt bréf til ESA með lögfræðilegum útleggingum á því, að þetta mál kæmi ESA ekki við, væri utan valdsviðs Eftirlitsstofnunarinnar og sneri að fullveldisrétti Noregs til að ráða yfir nýtingu orkulinda Noregs.
Því miður er hér grundvallarmunur á afstöðu Íslands og Noregs til samskipta við ESA, og það er mikið áhyggjuefni fyrir hérlandsmenn, að allur dugur virðist úr íslenzka stjórnkerfinu, þegar kemur að því að standa í lappirnar gagnvart EES/ESB. Er engin döngun lengur í íslenzkum stjórnmálamönnum við völd og embættismönnum þeirra ? Stórþinginu var tilkynnt um bréf norsku ríkisstjórnarinnar til ESA, og lýsti það yfir þverpólitískri samstöðu með ríkisstjórninni, sem er fremur sjaldgæft, en skýrist af því, að Norðmenn telja "erfðasilfur" sitt í húfi.
Þetta er ennfremur mjög athyglisvert í ljósi þess, að norska ríkisstjórnin hefur verið talin fremur höll undir ESB. Enginn veit hins vegar um afstöðu Alþingis til uppgjafarbréfs íslenzku ríkisstjórnarinnar, og það hefur ekki verið birt, en á vef ESA er vitnað til þess og svarbréfið birt, þar sem málinu var þar með sagt lokið. Allt er þetta óboðlegt og til vitnis um pólitískar heybrækur, sem þola ekki dagsljósið hérlendis.
Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins 13.09.2019 bar yfirskriftina:
"Bjart er yfir birtingu gagna".
Þar segir svo í undirkaflanum:
"Ólæknandi hræðslupúkar":
"En óttaköstin, sem ákveðin tegund af mönnum verður heltekin af, þegar að skiljanleg rök vilja alls ekki eiga samleið með þeim, er þó erfiðara að botna í en bænakvakið út af hnerranum.
Umræðan um orkupakkann stóð stutt, þótt hún teygðist töluvert yfir almanakið. Þeir, sem gengu erinda þeirra, sem gáfu fyrirmælin um að innleiða tiltekna tilskipun, ræddu málið sárasjaldan og aldrei efnislega. Þeir, sem áttu formsins vegna að vera í forsvari, virtust algerlega ófærir um það og stögluðust því á innihaldslausum klisjum, sem útlitshönnuðum sjónarmiða var borgað af almenningi fyrir að sníða ofan í þá.
Fyrst snerust þær um það, að málið, sem þeir höfðu ekki sett sig inn í, væri algjört smámál. Næst kom þreytta tuggan um, að þau rök, sem meirihluti þjóðarinnar ætti samleið með, "stæðust ekki skoðun". En sú skoðun fór aldrei fram, svo að séð væri. Hvorug þessara aðferða gekk upp.
Að lokum endaði málatilbúnaðurinn með því að segja, að EES-samningurinn myndi fara út um þúfur, yrði þetta "smámál" ekki samþykkt.
Vandinn er sá, að það er sjálfur grundvöllur samningsins, að Ísland geti hafnað slíkum tilskipunum, algjörlega að eigin mati. Gæti þjóðin það ekki, hefði lagasetningarvald Alþingis verið flutt úr landi, sem ekki stæðist stjórnarskrá.
Margoft var um það spurt, hvað menn hefðu fyrir sér um það, að EES-samningurinn hryndi, ef "þetta smámál" yrði ekki samþykkt. Enn hefur ekki komið svar við því. Einhver marktækur hlýtur þó að hafa sett fram slíkar hótanir. Varla hafa þær verið fabúleraðar í heimilisiðnaði.
Og það ömurlega er, að það var á grundvelli þessa hræðsluáróðurs, sem málið var afgreitt, svo lítilfjörlegt sem það er. Málið var rekið áfram á óttanum."
Þetta er einn harðasti dómur yfir stjórnvöldum, sem Morgunblaðið hefur kveðið upp úr með á lýðveldistímanum, og voru þó vinstri stjórninni 1956-1958 ekki vandaðar kveðjurnar. Það er auðvitað jafnframt mikill áfellisdómur yfir framkvæmd EES-samningsins, að ríkisstjórnin skuli, að því er virðist, fara fram með löggjöf Evrópusambandsins gagnvart Alþingi á grundvelli hótana, innlendra eða erlendra, sem hún þó treystir sér ekki til að staðfæra, hvað þá að hún hafi borið það við að færa rök fyrir gagnsemi löggjafarinnar fyrir íslenzka þjóð. Hún greip hins vegar til þess óyndisúrræðis að veifa fremur röngu tré en öngu, þ.e. að innleiðing þess hluta orkulöggjafar ESB, sem OP#3 spannar, skipti þjóðina engu máli. Það var þó margsinnis hrakið, bæði á lögfræðilegum, orkustjórnunarlegum og efnahagslegum forsendum. Að EES-samningurinn sé hér keyrður áfram á svona lágkúrulegum forsendum, færir okkur heim sanninn um, að þetta herra-þræls-samband okkar við ESB um Innri markaðinn er komið að leiðarlokum.
Höfundur Reykjavíkurbréfs gerði síðan að umræðuefni, að baráttan í Bretlandi gegn útgöngu Breta úr Evrópusambandinu væri líka rekin á óttanum. Það hvarflaði þó ekki að aðþrengdum Bretum eftir ósigurinn við Dunkirque vorið 1940 að láta í minni pokann fyrir yfirgangi Berlínar þá, heldur barðist Royal Airforce með kjafti og klóm við Luftwaffe um yfirráðin í lofti.
Wehrmacht og die Kriegsmarine höfðu komizt að þeirri niðurstöðu, að innrás í England myndi mistakast, aðallega vegna brezka flotans, svo að lofthernaðurinn var í raun ekki barátta um England, heldur barátta um yfirráð í lofti yfir Evrópu. Allir vita, hvernig þeirri baráttu lyktaði, og ekki kæmi það á óvart, að Bretar stæðu enn einu sinni uppi með pálmann í höndunum eftir útgönguviðureignina við meginlandið. Þeir munu strax í kjölfarið fá viðamikinn fríverzlunarsamning við Bandaríkin, og vonandi hefur EFTA vit á að gera við þá víðtækan, nútímalegan fríverzlunarsamning.
Höfundur sama Reykjavíkurbréfs gerir Yellowhammer ("gultittling"), verstu sviðsmynd May-stjórnarinnar um afleiðingar BREXIT að umræðuefni. Í lokaundirkafla bréfsins stendur þetta:
"Það eina, sem manni þykir vanta í þessar spár, væri 11.:"Verði farið út án útgöngusamnings, gæti Pence, varaforseti, komið í heimsókn í hálfan dag og umferðaröngþveiti verða í öllum borgum Bretlands og standa í þrjá mánuði, einkum ef það væri starfsdagur í skólum.".
Skýringin á því, að May birti ekki þessa skýrslu, sem hún pantaði, er augljóslega sú, að það reyndist ekkert vera í henni. Þegar beðið var um það á þingi Bretlands, að þessi skýrsla óttans yrði birt, þá var það gert.
Á Íslandi er augljóst, að helztu forystumenn landsins keyptu fullyrðingar um það, að fylgdu þeir ákvæðum EES samningsins og höfnuðu fullgildingu ákvæðis, sem að almenningur er á móti, þá yrði samningurinn að engu ! Það þarf að vísu ótrúlega trúgirni til, því [að] ekki er fótur fyrir þessari kenningu. En þingið hlýtur að krefjast þess, að öll gögn og rökstuðningur "hinna andlitslausu", sem hræddi börnin, verði birt.
Þeir, sem töldu þessi rök góð og gild og létu þau duga til þess að skipta um skoðun á umdeildu máli, geta ekki verið á móti því að birta rökstuðninginn. Fyrst hann var svona öflugur, ætti hann að vera til þess fallinn að afla meiri skilnings á afstöðu, sem enn sætir mikilli tortryggni, sem mun einungis fara vaxandi, eftir því sem tímar líða frá, og þegar ljósar verður, hvers vegna í ósköpunum þetta var gert. Það verður bara verra að bíða. Það er þekkt."
Sagan mun ekki fara mjúkum höndum um þá, sem að þessum ófögnuði stóðu, því að auðvitað verður flett ofan af þeim í fyllingu tímans.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
28.10.2019 | 11:42
Samkeppnishæfni á niðurleið
Það eru váboðar í efnahagslífi landsins bæði nær og fjær. Fyrirtækin eiga langflest erfitt uppdráttar, og eftir gerð Lífskjarasamninganna hefur atvinnuleysið aukizt geigvænlega miðað við árstíma. Kostnaður atvinnulífsins er of mikill m.v. tekjurnar, og þessi kostnaður fer enn vaxandi, þótt verðbólgan og stýrivextir Seðlabankans undir stjórn nýs Seðlabankastjóra fari lækkandi. Þessu má m.a. um kenna stöðugt vaxandi skattheimtu, aðallega sveitarfélaganna, sem sjást ekki fyrir við álagningu t.d. fasteignagjalda. Við þessar aðstæður er ekki kyn, þó að keraldið leki, og 10.10.2019 birti Morgunblaðið frétt frá "World Economic Forum" (WEF)(Heimshagkerfisvettvangur (Alþjóða efnahagsráð er röng þýðing)), sem leiddi í ljós, að slök staða Íslands í heimshagkerfinu fór enn versnandi 2018. Það er auðvitað bábylja, að EES-aðild tryggi samkeppnishæfni. Óhentugt og ofvaxið reglusetningar- og eftirlitsbákn innleitt hér frá Brüssel lendir allt á kostnaðarhlið atvinnulífsins í landinu. Stjórnmálamenn og skrifræðisberserkir Stjórnarráðsins hafa í heimsku sinni gengizt upp í því að leggjast á sveif með harðsvíruðustu skrifræðispúkunum í Brüssel, eins og fram hefur komið í fjölmiðlum, t.d. Morgunblaðinu í dag, 28.10.2019. Þegar aðeins á að slaka á klónni, rís "Kúba norðursins" og aðrir slíkir upp á afturlappirnar og fjargviðrast út af því, að nú eigi að ganga erinda stórfyrirtækja. EES-farganið leggst því þyngra á fyrirtæki, þeim mun minni sem þau eru, því að löggjöf ESB er miðuð við allt aðra og stórkarlalegri samsetningu atvinnulífsins en hér tíðkast.
Kostnaðarvandinn dregur mátt úr fyrirtækjunum til fjárfestinga og nýsköpunar. Hið opinbera er sökudólgurinn með einhverja mestu skattpíningu í heimi og stærstu hlutdeild hins opinbera m.v. vestræn hagkerfi, og enn á að auka í, nú undir yfirskyni umhverfisverndar við undirspil dómsdagsspámanna. Þessi græna skattatefna er tómt píp, eins og sannast á því, að útgerðin, sem þegar hefur náð markmiðum Íslands fyrir sitt leyti um minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda 2030, fær enga umbun fyrir það með niðurfellingu "grænna skatta" á eldsneyti útgerðarinnar. Með því að fella þá niður á útgerðirnar gætu þær hafið næsta stig tækniþróunarinnar, sem er að knýja litla farkosti með rafmagni og stór fiskiskip með lífdísilolíu unninni úr jurtum ræktuðum hérlendis, t.d. repju, sem grundvöllur hefur verið lagður að.
Umhverfisráðherrann má vart vatni halda af hrifningu yfir urðunarskatti, sem fyrirhugaður er þrefalt hærri en að meðaltali í Evrópu og Sorpa hefur gagnrýnt harðlega og telur ekki munu koma að neinu haldi í baráttunni fyrir minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda. Pípið kemur úr æðstu lögum stjórnsýslunnar, sem halda, að þau slái með því pólitískar keilur. Vonandi fá þau bjúgverpil í fangið í næstu kosningum.
Útþensla hins opinbera í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur verið gegndarlaus, mikið undir formerkjum: "Hér varð hrun". Sveitarfélögin flest stunda eignaupptöku af heimilum og fyrirtækjum með hóflausum fasteignagjöldum, og höfuðborgin bítur höfuðið af skömminni með innviðagjöldum, sem virðast ekki eiga sér stoð í lögum. Við þessar aðstæður er Borgarlínan hreint bruðl, því að hún er reist á óskhyggju borgarstjóra og meðreiðarsveina/meyja um, að hún muni fækka bílum í umferðinni vegna aukningar á hlutdeild strætó í fólksfjölda í umferðinni úr 4 % í 12 %. Reynslan af fjölgun strætóferða og sérakreinum sýnir, að þetta mun einfaldlega ekki gerast, og þá sitjum við uppi með aðþrengda bílaumferð og misheppnaða, burtkastaða fjárfestingu um a.m.k. mrdISK 50 í fyrsta áfanga í stað þess að beina fénu þangað, sem það gefur árangur strax í öruggari og greiðari umferð fjöldans. Hér er nóg rými fyrir þau umferðarmannvirki, sem nauðsynleg eru til að anna farartækjunum, sem fólkið hefur fest kaup á til að komast hratt og örugglega á milli staða, ef vinstri-vinglar verða ekki látnir komast upp með skemmdarverk, eins og skipulagning byggðar á svæðum, sem bezt henta umferðarmannvirkjum. Stríð borgarstjóra og rauðvínssötrandi sérvizkulýðs í kringum hann gegn fjölskyldubílnum er stórskaðlegt, rándýrt og verður að brjóta á bak aftur hið snarasta.
Samkvæmt "WEF" eru mælikvarðar þessa hagvangs fjölmargir, bæði efnahagslegir, félagslegir og lífsgæðatengdir, en þyngstir á metunum eru þættir, sem leiða til eða styðja við framleiðniaukningu. Að Ísland skuli lenda í 26. sæti og falla um tvö sæti árið 2018 er grafalvarlegt fyrir framtíðar lífskjör á Íslandi. Framleiðniaukningin hefur hins vegar verið þokkaleg frá Hruni, en það eru greinilega feysknar stoðir undir henni. Stjórnvöld fljóta sofandi að feigðarósi, eins og fyrri daginn, enda lítill skilningur þar á þörfum atvinnulífsins.
Í ljósi þess, sem vitað er um áhrifaþætti á framleiðniaukningu, er óráðlegt fyrir smáþjóð (small is beautiful) að gangast undir það jarðarmen að þurfa að innleiða alla þá lagasetningu, sem 500 milljóna ríkjasambandi dettur í hug að láta EFTA-ríkin innleiða til að þau fái óheftan aðgang að Innri markaði ESB. Fyrir nokkrum árum gerði Viðskiptaráð Íslands athugun á byrðinni, sem atvinnulífinu væri gert að bera vegna reglusetninga og eftirlits hins opinbera. Það eru tugmilljarðar í beinan kostnað til stofnana og til eigin starfsmannahalds, en hinn óbeini kostnaður hleðst ört upp og er margfaldur á við beina kostnaðinn, því að hann var þá (2015) talinn valda 0,5 % minni framleiðniaukningu á ári en ella, og eftir innleiðingu viðamikilla lagabálka um fjármálaeftirlit, persónueftirlit og orkueftirlit (OP#3), hefur enn sigið á ógæfuhliðina.
Nú er næsta víst, að það, sem væri hægt að grisja úr reglugerðafrumskóginum eftir uppsögn EES-samningsins, mundi geta aukið framleiðniaukningu á ári um a.m.k. 0,5 %. Er raunhæft að reka þetta reglugerðafargan á dyr ? Við verðum að hafa eftirlitsstofnanir, en það eru fyrirtækin sjálf, sem annast vottað gæðaeftirlit samkvæmt ISO-stöðlum, sem markaðurinn í Evrópu og annars staðar tekur mark á.
Í ágúst 2019 kom út í Noregi skýrsla, sem Menon Economics gerði fyrir "Nei til EU" um hagræn áhrif EES-samningsins í Noregi og valkosti við hann. Niðurstaðan var sú, að nýlegir fríverzlunarsamningar ESB við Kanada og Japan fella niður toll á öllum vörum á 7-15 árum, og verða þeir þá útflytjendum unninna fiskafurða hagfelldari en EES-samningurinn. 15 % af vörusendingum lenda í einhvers konar tollskoðun, og hljóta EFTA-ríkin að geta samið um miklu lægra hlutfall gegn gæðatryggingu og vegna núverandi aðlögunar sinnar að ESB, svo að vöruflutningar geti að mestu gengið jafnsnurðulaust og núna.
Samþykkt Íslands á Orkupakka 3 (OP#3) og þar með aðild landsins að Orkusambandi Evrópu getur haft skelfileg áhrif á samkeppnishæfni Íslands, því að yfirlýst stefna ESB er að hvetja með lagasetningu, ívilnunum og styrkjum, til eflingar millilandatenginga fyrir orkuflutninga til að jafna orkuverðið innan Orkusambandsins og skapa betra jafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar. Nú væri hægt að leggja 600 MW sæstreng um Færeyjar og til Skotlands með styrk frá ESB, sem næmi kostnaði við endabúnaðinn (afriðlar/áriðlar) og selja orku inn á strenginn fyrir um 40 USD/MWh með flutningskostnaði frá virkjun að streng. Þetta er nálægt núverandi viðmiðunarverði Landsvirkjunar til stórnotenda. Þar með þyrfti íslenzkt athafnalíf að keppa um íslenzka orku við fyrirtæki með að mörgu leyti hagstæðari staðsetningu. Þessi orkustefna ESB er Íslandi einfaldlega mjög í óhag, því að mesta samkeppnisforskot Íslands er fólgið í sjálfstæðri nýtingu fiskveiðilögsögunnar og sjálfstæðri nýtingu endurnýjanlegra, hagkvæmra orkulinda, sem gefa kost á tiltölulega lágu orkuverði.
Jafnvel þótt enginn sæstrengur væri í sjónmáli, er hætt við, að tiltektir Landsreglarans muni valda verðhækkunum á raforkumarkaðinum. M.v. tiltektir þessa embættis í öðrum löndum, t.d. í Svíþjóð, og samræmda stefnu í öllum aðildarlöndum EES, sem er höfuðatriði fyrir Framkvæmdastjórnina, má vænta gjaldskrárhækkana hjá Landsneti og dreifiveitunum umfram verðlagsþróun í meiri mæli en verið hefur, og hefur hún þó numið 7 % - 8 % frá innleiðingu OP#1.
Þá ber Landsreglara að koma á markaðsstýringu raforkuvinnslunnar í stað orkulindastýringar, og fer hún fram í orkukauphöll, sem stofnuð verður, og það er engin leið að sjá, að þessi aðferð geti leitt til verðlækkunar á raforku á Íslandi, þótt ráðherra orkumála hafi verið talin trú um það og hún síðan boðað fagnaðarerindið. Þetta er einvörðungu ráðstöfun til að laga íslenzka raforkumarkaðinn að Innri markaði ESB, sem hentar þetta fyrirkomulag, þannig að íslenzki raforkumarkaðurinn geti hnökralaust tengzt Innri markaðinum með aflsæstrengjum í fyllingu tímans.
Raforkuverðið mun í orkukauphöllinni sveiflast innan sólarhringsins, verða hæst á toppálagstíma á daginn á virkum dögum og lægst að næturlagi. Notendur geta spilað á þetta, sérstaklega eftir að þeir fá til sín snjallmæla, þar sem orkuverðið og orkunotkunin í rauntíma (aflið) verða sýnd. Á sumrin verður orkuverðið lægra en á veturna, ef vel gengur með fyllingu miðlunarlóna, en það getur hækkað mjög á útmánuðum á meðan vatnsstaðan fer enn lækkandi í miðlunarlónum og lítið er eftir. Það er hætt við, að niðurstaðan verði hækkun meðalverðs.
Þegar illa árar í atvinnulífinu, eins og nú stefnir í, getur slík þróun á kostnaði riðið þeim fyrirtækjum að fullu, sem eru með þungan rafmagnsreikning fyrir, og heimili gætu neyðzt til þess að spara rafmagn. Sú er reynslan frá Noregi, sem hefur búið við markaðsstýringu raforkuvinnslunnar síðan 1990 og fær nú yfir sig Landsreglara (RME-reguleringsmyndighet for energi). Þar leggst reykjarsvæla yfir hverfi og byggðir í kuldatíð, því að fólk kyndir þá með viði fremur en rafmagni. Fjarvarmaveitur heyra þar til undantekninga, svo að framboðshliðin er einsleit, en ekki innbyrðis ólík, eins og hér.
Þetta kerfi er til þess fallið að vekja upp mikla óánægju almennings í landi, þar sem raunverð raforku fór lækkandi fyrir innleiðingu OP#1 og þar sem megnið af orkulindunum og orkufyrirtækjunum er enn í almannaeigu. Eigendurnir eiga rétt á að krefjast þess, að fyrirtækin séu rekin með hagsmuni þeirra fyrir augum. Það er auk þess fullveldisréttur hverrar þjóðar að ráða, hvernig stjórnun náttúruauðlindanna er háttað. Almenningur hefur aldrei verið spurður um þetta. Samt hefur ríkisstjórn og meirihluti á Alþingi tekið sér bessaleyfi til að ákveða að fela yfirþjóðlegu valdi að ráðskast með þessi mál. Þetta eru veigamikil mistök, sem Miðflokkurinn barðist þó öttullega gegn á þingi, eins og í minnum er haft, og Flokkur fólksins og Ásmundur Friðriksson, auk fjölmargra utan þings, vöruðu við.
Í þingræðisskipulagi virkar lýðræðið einfaldlega þannig, að vanþóknun eða velþóknun kjósenda á þessum málatilbúnaði öllum mun koma í ljós í næstu Alþingiskosningum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.10.2019 | 11:13
Afleiðingar sæstrengsumsóknar
Arnar Þór Jónsson, héraðsdómari, ritaði eina af sínum gagnmerku hugleiðingum í Morgunblaðið 21. september 2019, og hét hún:
"Ótti leiðir í snöru".
Arnar Þór hefur áhyggjur af því, hvernig íslenzk stjórnmál hafa þróazt og raunar allar þrjár greinar ríkisvaldsins, einkum þó löggjafarvaldið. Vitað er, að fjárfestar hafa hug á að leggja og reka aflsæstreng á milli Íslands og Bretlands og tengja þannig "orkuríkt" Ísland við Innri raforkumarkað ESB, sem sárvantar raforku úr sjálfbærum orkulindum og mun líklega greiða hærra verð fyrir hana á næsta áratugi, þegar orkufyrirtækjunum verður gert að kaupa sér koltvíildiskvóta við síhækkandi verði. Hvernig munu Íslendingar bregðast við slíkri sæstrengsumsókn ?
Í þessu sambandi er áhugavert að fylgjast með þróun sæstrengsmála í Noregi. Tveir stórir (1400 MW) sæstrengir verða teknir í brúk þar 2020-2021, annar til Þýzkalands og hinn til Englands. Afleiðingin verður harðari samkeppni um raforkuna í Noregi, minni varaforði í miðlunarlónum og þar af leiðandi hærra raforkuverð á orkumörkuðum í Noregi (orkukauphöllum).
Þá er beðið með talsverðri eftirvæntingu eftir afgreiðslu umsóknar NorthConnect-félagsins um 1400 MW sæstreng á milli Noregs og Skotlands. Ef af honum verður, mun verðmunur raforku á Bretlandi og í Noregi sennilega þurrkast út með þeim alvarlegu afleiðingum, sem það hefur á samkeppnishæfni Noregs innanlands og utan.
Hvaða afleiðingar telur Arnar Þór, að innleiðing OP#3 hafi á sjálfsákvörðunarrétt Íslands í sæstrengsmálum?:
"Því miður sýnist staðan vera sú, að íslenzk stjórnmál séu föst á milli tveggja elda; til annarrar hliðar ofurseld reglusetningarvaldi ESB í flestu, sem máli skiptir, en stjórnist að hinu leytinu af hræðslu við fjölmiðla og "almannatengla" í málum, sem að nafninu til eiga þó að lúta forræði Alþingis. Hér skal ekki lítið úr því gert, að Evrópuréttur hefur á ýmsan hátt bætt íslenzkan rétt. Það réttlætir þó ekki, að Alþingi víki sér, á ögurstundu, undan því að axla ábyrgð á löggjafarvaldinu og kjósi, þegar upp koma sérlega umdeild mál, eins og O3, að leggja á flótta með því að setja svo misvísandi reglur, að helzt má líkja þeim við óútfylltar ávísanir til dómara."
Dæmið, sem dómarinn tilfærir, sýnir, svo að ekki verður um villzt, í hvílíkar ógöngur löggjafinn ratar, þegar hann stendur frammi fyrir "skítamixi" ráðuneytanna til að sniðganga Stjórnarskrána, svo að á yfirborðinu sé hægt að innleiða gerðir Evrópusambandsins í íslenzka lögbók.
Þetta fyrirkomulag; að taka við yfirgripsmiklum lagabálkum ESB og færa þannig lagalega bindandi ákvörðunarvald til stofnunar Evrópusambandsins, hér ACER, hefur nú gengið sér til húðar, því að þar með erum við í stöðu hjálendu Evrópusambandsins.
Hver er munurinn á þessu fyrirkomulagi og stjórnarháttum einveldistímans á Íslandi, þegar hirðstjóri Danakonungs mætti með tilskipanir og reglugerðir frá Kaupmannahöfn og lagði þær fyrir þingheim á Þingvöllum til samþykktar og innleiðingar í löggjöf landsins ?
"Með innleiðingu O3 í íslenzkan rétt og samhliða séríslenzkum lagalegum fyrirvörum, sem beinast gegn markmiðum O3, hefur sjálft Alþingi brotið gegn því meginmarkmiði réttarríkisins, að lög séu skýr og skiljanleg. Með því að tala tungum tveim í málinu hefur þingið leitt misvísandi reglur í lög og þar með skapað innri lagalegar mótsagnir.
Þá hafa þingmenn með þessu vinnulagi í raun sett afturvirk lög, sem einnig er brot gegn því, sem réttarríkið stendur fyrir. Lagalegri óvissu, sem af þessu leiðir, verður ekki eytt fyrr en dómstóll, að öllum líkindum EFTA-dómstóllinn, hefur kveðið upp úr um það, hvort íslenzka ríkinu sé nokkurt hald í margumræddum lagalegum fyrirvörum Alþingis við O3."
Ef fjárfestar sjá gullið viðskiptatækifæri fólgið í því að tengja saman íslenzka raforkukerfið og Innri markað ESB vegna mikils verðmunar á þessum mörkuðum án tillits til mikils flutningskostnaðar, þá munu þeir búa til verkefni um þá viðskiptahugmynd, og hún verður lögð fyrir landsreglara ACER í sitt hvorum enda tilvonandi sæstrengs.
Höfundi pistilsins þykir líklegt, að verkefnið verði í tveimur áföngum, þ.e. 2x500 kV DC, 600 MW, sæstrengir (sjór og hafsbotn ekki notaðir sem straumleiðari af öryggisástæðum) í hvorum áfanga með viðkomu í Færeyjum, með möguleika á tengingu við færeyska landskerfið, ef Færeyingar kæra sig um.
Kerfi af þessu tagi myndi útheimta fjárfestingu um mrdUSD (2x2,5) með 30 % óvissu. Árlegur kostnaður fjárfestanna í USD/MWh fer eftir því, hversu mikill hluti af endabúnaði sæstrengjanna lendir á flutningsfyrirtækjunum í sitt hvorum enda, og hversu mikill orkuflutningur mun eiga sér stað, og hver borgar flutningstöpin, sem eru umtalsverð með töpum í afriðla- og áriðlabúnaði.
M.v. raforkuverðið 50 EUR/MWh, sem er algengt heildsöluverð á Nord Pool kauphöllinni um þessar mundir, er þetta engan veginn arðsöm orkusala frá Íslandi. M.v. hækkun upp í 80 EUR/MWh (60 % hækkun) vegna koltvíildiskvóta á orkuvinnslufyrirtækin í Þýzkalandi (og kannski víðar) árið 2025 að upphæð 35 EUR/t CO2, þá verður þessi flutningur aðeins arðsamur, ef fjárfestarnir þurfa ekki að borga endabúnaðinn, og með því að fullnýta flutningsgetu strengjanna. Þetta verkefni er miklum vafa undirorpið án styrkja og/eða niðurgreiðslna, sem Evrópusambandið þó vissulega beitir sem lið í orkustefnu sinni, og stefna þess er vissulega að tengja jaðarsvæði Evrópu við Innri markað sinn.
Hins vegar er ljóst, að það er mesta glapræði fyrir orkufyrirtæki á Íslandi, sem eru með langtímasamninga um raforkusölu við iðjufyrirtæki, að setja þá samninga í uppnám með það í huga að græða meira á viðskiptum á Innri markaðinum. Þau eru algerlega undir hælinn lögð og alls engin trygging fyrir háu orkuverði til framtíðar, þótt næsti áratugur geti litið þannig út. Enginn í Evrópu mun tryggja íslenzkum orkubirgjum hátt framtíðarverð fyrir raforku frá Íslandi. Ástæðan er sú, að alger óvissa ríkir um framtíðarverðið. Á næsta áratugi er þó líklegt, að dragi til tíðinda við þróun raforkugjafa, sem jafnvel græningjar geta samþykkt.
Arnar Þór Jónsson benti í grein sinni á líklega sviðsmynd, sem gæti orðið uppi á teninginum þegar á þessu kjörtímabili. Þar er líklega komin snaran í heiti greinarinnar:
"Ef alvarleiki framangreindra atriða nægir ekki til að viðhalda umræðum um það, sem hér hefur gerzt, má vænta þess, að sú umræða lifni af fullum krafti, þegar og ef í ljós kemur, að O3 var ekkert "smámál", eins og meirihluti þingmanna lét þó í veðri vaka. Eins og ég hef áður bent á, gæti það t.a.m. gerzt með því, að höfðað verði samningsbrotamál gegn Íslandi fyrir EFTA-dómstólnum. Ráðherrar, þingmenn og ráðgjafar þeirra, mega þá búast við, að opinbert verði, að þeir hafi farið með staðlausa stafi um mögulega nauðvörn á grunni hafréttarsáttmálans [og] um ómöguleika þess að nýta undanþáguheimildir EES-samningsins eða um óskert fullveldi Íslands yfir raforkulindum. Það væri ekki léttvægur áfellisdómur, sem menn hefðu kveðið upp yfir sjálfum sér, ef í ljós kæmi, að fræðimennskan reyndist innistæðulaus, sjálfsöryggið aðeins gríma, yfirlætið tilraun til að breiða yfir óvissu og fela undirliggjandi ótta."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.10.2019 | 14:39
Orkupakkarnir og loftslagið
Á þjóðhátíðardegi Þýzkalands (Der Tag der Wiedervereinigung Deutschlands), 03.10.2019, gekk Orkupakki 3 (OP#3) formlega í gildi í EES, þ.e. í EFTA-löndunum þremur, sem aðild eiga að þessu erfiða sambýli við Evrópusambandið, ESB, en OP#3 hafði gengið í gildi í ESB 03.03.2011.
Mikilvægi EES-samningsins er stórlega ofmetið í skýrslu þriggja lögfræðinga, sem út kom 01.10.2019, og reynt er að láta þar líta út fyrir, að eini valkostur Íslands við hann sé ESB-aðild. Það er fjarstæða, eins og sýnt var fram á í "Alternativrapporten" varðandi Noreg 2012, og hið sama á við um Ísland. Fjölmennasta verkalýðsfélag Noregs hélt Landsþing sitt 11.-16. október 2019, og þar var samþykkt að segja upp ACER-aðild Noregs (ACER er Orkustofnun ESB, sem stofnað var til með reglugerð ESB nr 713/2013, og lögfræðingarnir Stefán Már og Friðrik Árni töldu stærstu stjórnlagalegu hindrunina í vegi samþykktar Alþingis á OP#3.). Þetta sýnir vaxandi óánægju í hinu leiðandi EFTA-ríki innan EES með þróun samstarfsins við ESB, enda er þetta samstarf eins fjarri því og unnt er að geta kallst sanngjarnt samstarf á jafningjagrundvelli. Þetta er "samstarf" húsbóndans og þrælsins, sem ber feigðina með sér.
Orkusamstarf EES er skýrt dæmi um þetta, en gríðarleg sundurþykkja myndaðist bæði í Noregi og á Íslandi í aðdraganda innleiðingar á næstsíðasta afrakstri ESB í þessum efnum, OP#3. Það er ömurlegt, að þvílík læti verði vegna orkustefnu, að stjórnmálaflokkar leika á reiðiskjálfi. Það er auðvitað út af því, að orkustefna ESB og Orkusamband Evrópu þjóna ekki hagsmunum þessara tveggja norrænu landa, sem ekki búa við neinn skort á sjálfbærri orku, eins og flest eða öll ESB-löndin. Hagsmunir norrænu EFTA-ríkjanna og ESB fara þess vegna ekki saman í orkumálum. Það verður jafnframt ætlazt til þess, að þessi Norðurlönd leggi sitt að mörkum til að berjast við hlýnun jarðar með því að draga úr koltvíildislosun ESB við raforkuvinnslu og jafnvel húshitun.
Nú líður að dæmi um þetta frá Noregi, þar sem er NorthConnect aflsæstrengur til Skotlands. Statnett (norska Landsnet) er á móti þessum streng af orkuöryggisástæðum í Noregi. Það er jafnframt búizt við, að hann færi verðlag raforku í Noregi enn nær verðlagi raforku á Bretlandseyjum en nú er, og það er hátt, jafnvel á evrópskan mælikvarða. Bretar hafa aðra orkustefnu en Þjóðverjar; ætla að loka síðasta kolakynta raforkuverinu 2025, einum áratugi á undan Þjóðverjum, og Bretar leyfa byggingu og rekstur kjarnorkuvera, sem Þjóðverjar ætla að binda enda á hjá sér 2022. Það er hald margra, að orkustefna Þjóðverja sé óraunhæf og muni reynast hagkerfi þeirra ofraun, draga úr hagvexti þar og við núverandi aðstæður (með neikvæða vexti á skuldabréfum ríkisins) valda samdrætti hagkerfisins. Af ýmsum ástæðum ríkir nú mikil svartsýni í Þýzkalandi um efnahagshorfur næstu missera.
Þann 20. september 2019 lauk 19 klukkustunda fundi þýzkrar ráðherranefndar um loftslagsmál á skrifstofu Angelu Merkel í Berlín. Til marks um alvarleika málsins þrumaði Markus Söder, formaður bæverska CSU, systurflokks CDU, að ráðherrarnir hefðu hamrað saman "Marshall-áætlun fyrir loftslagsvarnir".
Þýzkaland, sem er 6. í röðinni í heiminum yfir losun gróðurhúsalofttegunda, mun ekki ná losunarmarkmiðum sínum 2020. Þjóðverjar hafa sett sér strangari losunarmarkmið 2030 en flestir eða allir aðrir, þ.e. 55 % samdrátt koltvíildislosunar m.v. 1990. Það jafngildir fyrirætlun um, að þessi losun út í andrúmsloftið fari úr 866 Mt árið 2018 og í 563 Mt árið 2030. Þetta er aðeins 35 % samdráttur, sem sýnir, að losunin árið 1990 var enn meiri en nú. Þessu er öfugt farið á Íslandi.
"Marshall-áætlun" Þjóðverja er blanda af niðurgreiðslum og nýju regluverki ásamt fjárfestingum í auknum innviðum fyrir rafmagnsbíla og rafknúnar járnbrautarlestir. Hún gerir líka ráð fyrir hreinni upphitunarkerfum húsnæðis og fjölgun vindmyllna, en nú þegar hefur hægt á henni vegna andstöðu íbúanna. Hryggjarstykkið er skyldukaup á kolefniskvóta í geirum, sem kolefniskvótar ESB-spanna ekki, umferð og byggingar. Lokamarkið er kolefnishlutleysi árið 2050.
Sumir sérfræðingar höfðu vonazt eftir upphafsverði á þessum koltvíildiskvóta a.m.k. 50 EUR/t, sem myndi hækka upp í 100 EUR/t, til að örva fjárfestingar í hreinu eldsneyti og í breytingum á kyndikerfum húsnæðis og til að hvetja til flýttrar lokunar kolakyntra orkuvera, sem núna sjá Þýzkalandi fyrir 29 % raforkuþarfarinnar. Þess í stað mun upphafsverðið verða "aðeins" 10 EUR/t f.o.m. 2021 og hækka upp í 35 EUR/t 2025, og síðan verða viðskipti með koltvíildiskvóta á fyrirfram ákveðnu verðbili. Við þessa ákvarðanatöku hefur nýhafið efnahagslegt samdráttarskeið í Þýzkalandi (2 samliggjandi ársfjórðungar með minni verðmætasköpun en samsvarandi ársfjórðungar árið á undan) vafalaust haft áhrif. Við slíkar aðstæður auka ígildi skattahækkana við efnahagsvandann. Það er ekki gert ráð fyrir endurgreiðslum skattheimtunnar, eins og tíðkast í British Columbia. Lisa Badum, talsmaður Græningja í umhverfismálum, lýsti þessari "Marshall-áætlun" sem allsherjar mistökum.
Það er minnkandi bílaframleiðsla í Þýzkalandi, sem talin er vera undirrót 2/3 þessa efnahagsvanda, en þýzkur bílaiðnaður heldur nú að sér höndum vegna útblásturshneyksla hjá dráttarklárum þýzks bílaiðnaðar. Um 1/3 vandans er talinn stafa af áhyggjum út af BREXIT. Þýzki iðnaðarrisinn er að verða tilbúinn með nýjar gerðir umhverfisvænna bifreiða á markað og mun í fyllingu tímans hefja öfluga gagnsókn, sem vafalítið mun bera góðan árangur.
Olaf Scholz, fjármálaráðherra, lýsti því yfir við kynningu á "Marshall-áætluninni", að fjárfestingar ríkissjóðs vegna orkuskiptanna myndu á næstu 4 árum nema mrdEUR 54. Fært til Íslands næmi það mrdISK 32, og er dágóð upphæð, en Þjóðverjar vilja ekki taka lán fyrir fjárfestingum í þágu orkuskiptanna, jafnvel þótt þýzka ríkissjóðnum bjóðist lán á neikvæðum vöxtum. Þeir halda sig ofan við "svarta núllið", þ.e. halda ríkisrekstrinum í jafnvægi, þótt á móti blási.
Staðan í þjóðarbúskapnum ræður för, og enginn skilur, hvernig Þjóðverjar ætla að standa við metnaðarfull markmið sín í orku- og loftslagsmálum. Það er eins og beðið sé eftir "Wunderwaffen". Slík undravopn geta verið á næsta leiti með gegnumbroti í þróun nýrra orkugjafa, t.d. þóríum-kjarnorkuvera. Angela Merkel segist skilja gagnrýnina frá Græningjum, en stjórnmálamenn verði að tryggja, að þeir njóti stuðnings borgaranna. Kanzlarinn veit, að stuðningur kjósenda við loftslagsvarnir dvínar, þegar þeir eru spurðir um tilgreindar fórnir, sem þeir séu tilbúnir að færa. Erfiðu ákvarðanirnar verða geymdar handa næstu ríkisstjórn. Ef Annegret Kramp Karrenbauer stendur sig vel sem arftaki Ursulu von der Layen í embætti landvarnaráðherra, stendur hún vel að vígi sem kanzlaraefni í næstu kosningum til Bundestag, annars ekki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)