Færsluflokkur: Bloggar

Vita þau, hvað þau gera ?

Megineinkenni EES-samningsins er, að hann framkallar stríðan straum s.k. Evrópugerða, laga og tilskipana, frá stofnunum Evrópusambandsins og til þjóðþinga EFTA-ríkjanna, sem í þessari EES-spennitreyju eru.  Ætlazt er til, að þjóðþingin stimpli gjörningana sem góð og gild fyrir sitt fólk, þótt það hafi í fæstum tilvikum nokkurs staðar komið nærri tilurð gjörninganna.  Þetta er eins ólýðræðislegt og hugsazt getur, enda afrakstur embættismanna sem biðleikur fáeinna landa inn í Evrópusambandið.  Það er löngu orðið ljóst, að hvorki Ísland né Noregur eru á leið inn í Evrópusambandið, og þess vegna er þessi EES-vist orðin tímaskekkja á þessum BREXIT-tímum.  

Um hina lagalegu hlið þessara óskapa var ritað í forystugrein Morgunblaðsins 4. september 2018:

"Gamalt og gallað þá og gallað nú":

"Einhverjir virðast hafa gælt við, að hægt yrði að lauma þingsályktunum og síðar lagafrumvörpum í gegnum Alþingi, þótt um næsta ótvíræð stjórnarskrárbrot sé að ræða, þar sem málið [Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn-innsk. BJo] væri í senn flókið og fráhrindandi fyrir almenning.

Það var upplýst á fundi í Valhöll sl. fimmtudag [30.08.2018 - innsk. BJo], að yfirgnæfandi líkindi eru til þess, að þannig hafi fjöldi afgreiðslna verið færður inn í íslenzka lagasafnið, sem stendur vart mikið lengur undir því nafni.  Það hafi verið gert gegn betri vitund, og afsökunin hafi gjarnan verið sú, að löggerningarnir tækju hver og einn til tiltölulega smávægilegra þátta, og því væru stjórnarskrárbrotin afsakanlegri eða að minnsta kosti ólíklegra, að einhverjir rækju hornin í þau.  

En eins og sérfræðingurinn í þessum fræðum minnti á, þá hljóta menn ekki aðeins að horfa á hvert mál fyrir sig, heldur einnig á heildaráhrifin á stöðu EES-samningsins gagnvart stjórnarskránni."

Þetta er nokkuð augljóst og jafnframt það, að rökleysa er að verja upptöku nýrra gjörninga með því, að þeir séu á vel afmörkuðu sviði. Það eru engin rök hér, þótt þeim sé hægt að beita í Noregi, því að aðferðin við upphaflega lögleiðingu EES-samningsins þar var öðru vísi en hér vegna þess, að stjórnarskrár þjóðanna tveggja eru ekki eins.  Þar er gert ráð fyrir, að aukinn meirihluti Stórþingsmanna, þ.e. 75 % mættra þingmanna (og að lágmarki 2/3 séu mættir við atkvæðagreiðslu) þurfi til að samþykkja lög, sem fela í sér afmarkað framsal fullveldis til yfirþjóðlegra stofnana, þar sem Noregur ekki er aðili.

Síðan þá segja menn sem svo í Noregi, að upptaka Evrópugerða af öllu tagi sé samt mun minni gjörningur en samþykkt EES-samningsins, og þess vegna dugi einfaldur meirihluti Stórþingsins.  Þetta hefur þó ekki verið undantekningalarlaust í Noregi, og nú hefur kæra verið lögð fyrir Hæstarétt landsins vegna málsmeðferðar á Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB í marz 2018, þar sem forsætisnefnd þingsins ákvað að láta einfaldan meirihluta duga, þótt um fullveldisframsal í viðamiklum og þjóðhagslega mikilvægum geira væri að ræða.   

Á Íslandi horfir hins vegar málið þannig við, að þegar í upphafi, þ.e. í janúar 1993, var teflt á tæpasta vaðið og þolmörk Stjórnarskrárinnar reynd til hins ýtrasta við samþykkt EES-samningsins.  Síðan er búið að bæta um 12´000 lögum og tilskipunum ESB við EES-samninginn, svo að lögfræðileg skoðun á samninginum í heild hlýtur óhjákvæmilega að leiða í ljós, að núverandi EES-samningur brjóti gegn Stjórnarskrá.  

Síðan vitnar höfundur forystugreinarinnar í Morgunblaðsgrein fyrrverandi Alþingismanns og iðnaðarráðherra, Sighvats Björgvinssonar, sem einnig hafa verið gerð skil hér á vefsetrinu, og skrifar:

"Það er auðvitað hárrétt hjá Sighvati Björgvinssyni, að efnislegu rökin, sem liggja þegar á borðinu, horfa öll til þeirrar niðurstöðu, að þessum fráleitu hugmyndum hljóti menn að hafna þegar í stað og leiða ekki huga að þeim framar. Og engar forsendur, sem halda, liggja til þess að þvinga Ísland til slíkra aðgerða.

En hitt er svo til viðbótar og er úrslitaatriði.  

Jafnvel þótt þannig stæði á, að efnislegu rökin væru ekki til þess fallin að blása þetta mál út af borðinu með svo afgerandi hætti, þá væri ekki hægt að samþykkja væntanleg frumvörp, þar sem sjálf íslenzka stjórnarskráin stendur gegn því."

Á fundi Heimssýnar o.fl. í Háskóla Íslands 10. september 2018 voru 5 Alþingismenn með framsögu.  Það vakti athygli pistilhöfundar, hversu litla beina athygli þingmennirnir veittu Stjórnarskránni í framsöguerindum, þótt hún hafi kannski mótað afstöðu sumra óbeint, enda er búið að venja þá við að samþykkja stórar Evrópugerðir, sem greinilega fela í sér framsal ríkissvalds um málefni lögaðila og einstaklinga, hvað þá um málefni ríkisvaldsins.  Síðust slíkra innleiðinga var hin alræmda persónuverndarlöggjöf, sem reynist mörgu fyrirtækinu óþægur ljár í þúfu og mun reynast þeim öllum dýr á fóðrum.

Segja má, að Miðflokksþingmaðurinn, Sigurður Páll Jónsson, hafi mætt ákveðnastur til leiks á Háskólatorg, en hann lýsti því yfir, að "allir þingmenn Miðflokksins væru á einu máli um afstöðuna", þ.e. að greiða atkvæði gegn Þriðja orkumarkaðslagabálkinum.  Það voru mjög mikilvægar og ánægjulegar upplýsingar fyrir áheyrendur á þessum fundi Heimssýnar o.fl.

Fullyrða má, að það hafi ráðið miklu um afstöðu margra þingmanna í janúar 1993, þegar atkvæði voru greidd á Alþingi um EES-samninginn í upphafi, að í honum var neitunarvald gegn viðbótum við samninginn afhent þjóðþingum EFTA-landanna.  Hegðun sumra þingmanna nú skýtur þess vegna mjög skökku við, þegar þeir láta, eins og himinn og jörð muni farast, og EES-samningurinn verði í uppnámi, ef Alþingi notfærir sér synjunarrétt sinn í fyrsta skipta til að hafna Þriðja orkumarkaðslagabálkinum.  Þetta er þeim mun undarlegra sem það er nákvæmlega tilgreint í EES-samninginum sjálfum, til hvaða aðgerða ESB er heimilt að grípa, ef svo ber undir. ESB má í mesta lagi fella burt gerðir og tilskipanir af sama málefnasviði og hafnað var.  Í þessu tilviki er það Orkumarkaðslagabálkur 1 og 2.  Það væri nánast marklaus aðgerð að hálfu ESB, svo að langlíklegast er eftir sáttaferli, sem fara á af stað, að málið verði úr sögunni og Norðmenn og Liechtensteinar geri sérsamninga um snurðulaus raforkuviðskipti við ESB.

Það er nánast sorglegt að horfa upp á þingmenn gera því skóna, að aðgangur Íslands að Innri markaði ESB verði í húfi og jafnvel allur EES-samningurinn í uppnámi.  Þetta er einskær hræðsluáróður, sem varð alræmdur á Icesave-tímanum.  Ef samstarfsaðilar okkar í EES á ESB-hlið ætla að grípa til slíkra óþverrabragða, þá eru það ólögleg viðbrögð og sýna, að slíkum mönnum er bezt að halda í hæfilegri fjarlægð.   

 

 


ESA og raforkuverðið

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sér hið fyrirheitna land Íslendinga innan "Festung Europa", þ.e. í náðarfaðmi embættis- og stjórnmálamanna Evrópusambandsins, ESB, sem er risi á brauðfótum, þar sem hagsmunir 0,35 M manna þjóðar á eyju langt norður í Atlantshafi yrðu ekki hátt skrifaðir.  Það er rislág framtíðarsýn að deila fullveldi smáþjóðar með hátt í 30 öðrum þjóðum og um hálfum milljarði manna.  Hins vegar er sjálfsagt að rækta heilbrigð tengsl við hinar Evrópuþjóðirnar.  

Þorgerður kynnti áherzlur flokks síns fyrir þingveturinn 2018-2019, sem er mjög eðlilegt af henni.  Hún virðist hins vegar hafa verið undarlega valvís í þeirri kynningu, því að ekki verður séð af meðfylgjandi veffrétt Morgunblaðsins, að hún minnist þar á eitt örlagaríkasta málið, sem kynnt hefur verið til sögunnar í vetur, þ.e. Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB. 

Það er líklega út af því, að henni finnst sjálfsagt, að Alþingi kokgleypi gagnrýnislaust alla Evrópugerninga, sem þangað berast.  Það sé nánast guðlast að athuga með gagnrýnum hætti, hvernig gerningurinn fellur að Stjórnarskrá lýðveldisins, eða hvernig hann fellur að auðlindastjórnun, sem samstaða hefur verið um að viðhafa í landinu og sem nauðsynleg er til að nýta orkulindirnar með hagkvæmasta hætti fyrir alla raforkunotendur í landinu.  Það blasir samt við og stendur upp úr tali sérfræðinga á sviði Evrópuréttar og stjórnlaga, að í heildina séð er EES-samningurinn með öllum sínum viðaukum og viðbótum kominn út yfir þau mörk, sem Stjórnarskráin leyfir.  

Viðreisn svipar að þessu leyti til trúflokks.  Spurningar um sannleiksgildi kenninganna eru óviðeigandi og allt, sem kemur frá fulltrúum almættisins í Brüssel, er óskeikult.  Hugarfar af þessu tagi er lágkúrulegt, gamaldags og með öllu óviðeigandi í stjórnmálum nútímans, enda fjarar nú mjög undan stjórnmálaflokkum í Evrópu, sem fórna vilja fullveldi þjóða sinna á altari ríkjasambands, hvað þá sambandsríkis Evrópu. Eru örlög krataflokkanna til vitnis um það. 

Eftir Þorgerði Katrínu var þessi speki höfð um orkumálin á blaðamannafundi Viðreisnar 08.09.2018:

"Við höfum m.a. fengið hærra orkuverð í gegnum EES-samstarfið, og því eru álfyrirtækin og aðrir að greiða hærra verð en áður ... ."

Hvað hefur formaður Viðreisnar fyrir sér um þetta ?  Ekkert handfast.  Þetta er tóm ímyndun.  ESA hefur samþykkt alla raforkusamninga, sem þessi Eftirlitsstofnun EFTA hefur rýnt, án athugasemda um orkuverðið sjálft, enda ekki hlutverk hennar að taka afstöðu með öðrum samningsaðilanum og á móti hinum.  ESA hefur í þessu viðfangi aðeins eitt hlutverk.  Að gæta þess, að orkusamningarnir feli ekki í sér ríkisstuðning, sem styrki samkeppnisstöðu viðsemjandans á kostnað annarra í sömu grein, t.d. innan áliðnaðarins, sem ekki verða aðnjótandi ríkisstuðnings.  ESA hefur aldrei komizt að slíkri niðurstöðu um orkusamninga á Íslandi. 

Það er viðurkennd staðreynd, að raforkuverð á Íslandi er einn af þáttunum, sem draga erlendar fjárfestingar hingað, og þótt flestu sé hægt að trúa upp á ESA, hefur hún aldrei dirfzt að setja sand í tannhjól samninga á milli íslenzkra orkuseljenda og orkukræfs iðnaðar.  

Það er dauðans vitleysa, að ESA (eða tilvera ESA) hafi hækkað verð í langtímasamningum um raforku á Íslandi, enda mætti líta á slíkt sem tilraun til að fæla fjárfesta frá Íslandi, en íslenzk stjórnvöld hafa í áraraðir reynt að laða erlenda fjárfesta til landsins, enda eru erlendar fjárfestingar hvarvetna í þróuðum ríkjum taldar eftirsóknarverðar, hagvaxtarskapandi og færandi með sér nýjustu þekkingu, t.d. á sviði framleiðsluiðnaðar.  Alveg ný og öflug umhverfis- og öryggisstjórnun hefur t.d. borizt um samfélagið frá álverunum.  

Þetta er hálmstrá Þorgerðar Katrínar til að bera í bætifláka fyrir samning, sem setur Íslendinga í þá aumkvunarverðu stöðu að vera undir þrýstingi að innleiða Evrópugerninga í lagasafn sitt, sem þeir ekkert hafa komið nálægt að semja og eru sniðnir við allt aðrar aðstæður en hér ríkja, og síðast en ekki sízt eru í trássi við Stjórnarskrá landsins að mati glöggra lagasérfræðinga.  Þetta hálmstrá hjálpar ekki slæmum málstað, sem er innlimun Íslands í Evrópusambandið sneið eftir sneið.  Þetta heitir að höggva úr launsátri eða að læðast aftan að saklausu fólki. Af hverju ekki að segja sannleikann umbúðalaust: EES-aðildin jafngildir aðlögunarferli að sjálfu Evrópusambandinu ?  Enginn ber brigður á mikilvægi tollabandalags við ESB, en má kannski halda því og sníða af alvarlega galla EES-samningsins með tvíhliða fríverzlunarsamningi ? 

 


mbl.is Væri „gríðarlegt tjón“ að ganga úr EES
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góður sprettur Sighvats

Þeir virðast vera sárafáir, sem opinberlega taka upp hanzkann fyrir Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB hér á landi. Skyldi starfsvettvangur þeirra flestra vera í myndarlega hlaðna steinhúsinu við Austurvöll í Reykjavík ?  Það væri hneyksli aldarinnar.  

Nú hefur einn fyrrverandi Alþingismaður og ráðherra kveðið sér hljóðs um Þriðja orkumarkaðslagabálkinn.  Sá heitir Sighvatur Björgvinsson og má líklega flokka til eðalkrata að fornum flokkunarhætti, ef þeir þá hafa einhverntíma verið til, og hann er líka fyrrverandi iðnaðarráðherra.  Sighvatur skrifaði góða grein í Morgunblaðið 3. september 2018:

"Ísland og orkupakkinn".

Þar fær hann ekki séð, að sú forsending eigi nokkurt erindi við Íslendinga, á meðan þeir eru enn ótengdir við raforkukerfi ESB-landanna, og slík tenging yrði hið mesta óráð að hans mati og sérfræðinga hans á sinni tíð.

"Skoðun málsins [raforkusala til Evrópu um sæstreng-innsk. BJo] lauk á minni tíð.  Frá lagningu sæstrengsins var alfarið horfið.  Ástæðurnar voru einkum og sér í lagi þessar:

1) Mjög mikill kostnaður var talinn verða við lagningu strengsins. Langt umfram getu íslenzku þjóðarinnar. [Það dettur varla nokkrum heilvita manni í hug, að Landsnet muni standa fjárhagslegan straum af aflsæstreng til útlanda, þótt ríkisfyrirtækið Statnett í Noregi eigi alla utanlandsaflstrengi frá Noregi - innsk. BJo.]  

2) Svo langur jarðstrengur hafði aldrei verið lagður og meira en vafasamt, að þáverandi tækni fengi við það ráðið.  [Það er enn svo, að yfir 1000 km aflsæstrengslengd er um tvöföld núverandi lengsta lengd án viðkomu á landi.  Mesta dýpi mun vera 1200 m, en aflsæstrengir hafa nú verið lagðir á meira dýpi. Líklega er veðurhamur og ölduhæð ekki meiri annars staðar yfir legu aflsæstrengja en á milli Íslands og Bretlands.  Þetta gerir viðgerðarskipum afar óhægt um vik, svo að bilun slíks sæstrengs getur hæglega varað 6-12 mánuði.  Þetta kallar á 2 sæstrengi, ef kröfur verða settar um afhendingaröryggi-innsk. BJo.]

3) Virðisauki af orkusölunni yrði ekki til staðar á Íslandi, eins og verið hefur, heldur í landi kaupanda. [Þetta er hárrétt og vegur mjög þungt gegn lagningu aflsæstrengs til útlanda, ef leggja á þjóðarhag til grundvallar.  Verðið, sem fæst fyrir orkuna hérlendis inn á þennan sæstreng, verður fyrirsjáanlega ekki hærra en verð til stóriðju vegna gríðarlegs flutningskostnaðar-innsk. BJo.]

4) Orkutap yrði feikilega mikið á hinni löngu leið, og kæmi það fram sem tekjutap við hlið kostnaðar við lagningu strengsins.  [Búast má við 10 % töpum alls í endabúnaði strengs (spennar, afriðlar og áriðlar) og í strengnum sjálfum.  Einhver þarf að bera kostnaðinn af orkunni, sem send er inn á endabúnað öðrum megin, en skilar sér ekki út hinum megin.  Í þessum pistli verður reiknað með, að strengeigandinn beri þennan kostnað-innsk. BJo]

5) Raforkuverð á Íslandi myndi gerbreytast í samræmi við reglur hins evrópska markaðar.  Raforkuverð til almennings myndi þannig hækka til mikilla muna.  Fordæmið: reynsla Norðmanna. [Það gefur auga leið, að með tengingu við raforkukerfi Evrópu með flutningsgetu, sem nemur allt að 40 % af uppsettu afli í virkjunum landsins, þá mun raforkuverð hér innanlands draga mjög dám af raforkuverðinu á "Nord Pool" orkukauphöllinni, þar sem Landsreglarinn og ACER-Orkustofnun ESB að öllum líkindum munu staðsetja viðskipti með raforku til og frá Íslandi. Þetta getur  valdið 60 % hækkun á rafmagnsreikningi heimilanna m.v. núverandi raforkuverð á Englandi og á Íslandi-innsk. BJo.]

Áfram hélt Sighvatur í þessari þörfu grein:

"Einnig virðist líklegra nú en þá, að útlendir fjárfestar fengjust til þess að kosta línulögnina, sem nú mun talin kosta 800 þúsund milljónir króna.  Varla gera þeir það nú ókeypis.  Hver skyldi orkusendingarkostnaðurinn verða um þá feikidýru sjólínu  - og hver á að borga sendingarkostnaðinn annar en sendandinn ?"

Það er rétt hjá Sighvati, að markaðurinn greiðir fyrir summuna af vinnslukostnaði á Íslandi og flutningskostnaði á markaðinn, sem þýðir, að orkuseljandi á Íslandi fær sem nemur markaðsverð á Englandi að frádregnum flutningskostnaði.  Í þessu tilviki nemur flutningskostnaðurinn 11,3 ISK/kWh, en markaðsverðið er um þessar mundir um 60 GBP/MWh eða um 8,9 ISK/kWh (1 GBP = 149 ISK).  E.t.v. fengist álag greitt ofan á markaðsverðið, af því að raforkan er græn, en það fengist eftir sem áður ekkert eða sáralítið núna fyrir raforku, sem framleidd er á Íslandi og send inn á sæstreng til Bretlands. 

Það verður annaðhvort að koma til stórfelldra opinberra styrkja við þessa fjárfestingu, eða raforkuverð á Englandi verður að hækka um a.m.k. 80 % til að einhver glóra verði í þessum viðskiptum.  Hvorugt er sennilegt, en þó er ekki útilokað, að ESB mundi vilja styrkja þetta verkefni myndarlega til að fá meiri raforku inn á Nord Pool markaðinn úr endurnýjanlegum orkulindum.  Ennfremur getur orðið lækkun á stofnkostnaði sæstrengs vegna tækniframfara. 

Miðað við þann kostnað, sem Sighvatur nefnir til sögunnar, getur varla orðið mikill áhugi hjá fjárfestum, nema ESB styrki verkefnið myndarlega til að fá meira ef raforku úr endurnýjanlegum orkulindum inn á sinn markað, eða þá að einhver stórfelld tæknileg framför verði við hönnun og/eða framleiðslu sæstrengja.  Nú er verið að hagkvæmnimeta "Icelink", aflsæstreng á milli Íslands og Skotlands, sem færður hefur verið inn á forgangsverkefnaskrá ACER um samtengiverkefni orkukerfa á milli landa, sem stuðla að því að ná markmiði ACER um 30 % flutningsgetu á milli landa miðað við heildarorkuvinnslu árið 2030.  Þessi verkefni eru jafnframt liður í því að auka hlut endurnýjanlegrar orku í ESB og að jafna orkuverðið á milli ESB-landanna.  Gangsetningartími "Icelink" er áætlaður árið 2027, svo að hjá ACER er líklega búizt við bæði hækkun raforkuverðs á Bretlandi og lækkun tilkostnaðar við sæstreng og endabúnað hans á næsta áratugi.  Litlu skiptir í þessu sambandi, þótt Bretar standi þá utan ESB.  Viðskipti þeirra með rafmagn við ESB-löndin munu halda áfram, og þeir munu jafnvel verða áfram í Orkusambandi ESB og Orkustofnuninni, ACER, þá með áheyrnarfulltrúa, eins og EFTA-ríkjunum er ætlað. 

Í lokahluta greinar Sighvats Björgvinssonar skriplar hann þó á skötunni eftir góðan sprett framanaf:

"Ásakanir um, að þessi orkupakki neyði okkur til lagningar sæstrengs eða sé fyrsta skrefið í átt til þess, að ESB leggi undir sig íslenzkar orkulindir eiga sér enga stoð í veruleikanum.  Þær eru hreinn tilbúningur.  En andmælendur þurfa ekki að búa sér til svona falsrök.  Rökin gegn innleiðingu orkupakkans, sem höggvin eru í stein og rakin hafa verið hér, eru nægileg til þess, að við stöndum á rétti okkar, sem skapast af því, að við stöndum utan evrópsks orkumarkaðar.  En þeir, sem vilja gangast undir þann markað og þá í hagnaðarskyni, verða líka að horfast í augu við, um hvað þeir eru að biðja.  En þeir um það !"

Eins og rakið er að ofan, verður það í raun ekki lengur í höndum íslenzka ríkisvaldsins að ákveða, hvort hingað verður lagður aflsæstrengur, ef Alþingi samþykkir Þriðja orkumarkaðslagabálkinn.  Hins vegar getur ACER ekki þvingað Landsnet eða ríkissjóð til að taka þátt á fjármögnun strengsins.  Landsnet verður hins vegar að fylgja Kerfisþróunaráætlun ESB/ACER og hefja vinnu við undirbúning að flutningi raforkunnar frá íslenzka stofnkerfinu og niður að lendingarstað sæstrengsins, þegar hann hefur verið ákveðinn. 

Það er mjög líklegt, að þáttur í styrkingu flutningskerfisins innanlands vegna aflsæstrengs verði jafnstraumsjarðstrengur á Sprengisandi með flutningsgetu um 500 MW.  Hann mun kosta um miaISK 40.  Til að flytja 1200 MW að sæstrengnum þarf líklega tvær 400 kV línur, sem gætu kostað miaISK 60.  Þannig munu fjárhagsbyrðar Landsnets nema um miaISK 100 af sæstrengnum, sem jafngilda a.m.k. 1,1 ISK/kWh eða tæplega 60 % hækkun á flutningsgjaldi raforku til notenda á Íslandi.  Ef þetta gengur eftir, verða Íslendingar þannig skyldaðir af ESB til að greiða niður flutningskostnað raforku til útlanda.  Það er ekki snefill af viðskiptaviti í þessari viðskiptahugmynd fyrir hérlandsmenn.  

Orkuauðlindarstýring Íslendinga snýst um að samnýta jarðgufu og vatnsafl með hagkvæmasta hætti.  Sú samstýrða nýting verður óleyfileg undir uppboðskerfi ESB, og raforkan mun einfaldlega flæða til hæstbjóðanda.  Verði sæstrengur lagður, er væntanlega rekstrargrundvöllur fyrir honum, og þá mun ásókn í rannsóknar- og virkjanaleyfi aukast.  Á EES-markaðinum má ekki mismuna t.d. Landsvirkjun og Vattenfall í leyfisveitingum.  Á Íslandi er ekki hægt að aðgreina auðlind og virkjun.  Er þá fjarri lagi að segja í þessari stöðu, "að ESB leggi undir sig íslenzkar orkulindir", þótt Sighvatur Björgvinsson telji það fráleitt ?

 

 

 

 

  


Lágt raforkuverð er undirstaða samkeppnishæfni atvinnulífsins

Valhallarfundurinn 30. ágúst 2018 kastaði ljósi á það, hversu varasamt er fyrir fullveldi landsins, Stjórnarskrána og raforkumarkaðinn á Íslandi, að Alþingi samþykki innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn og þar með inn í lagasafn Íslands.  Jafnframt er ljóst, að afleiðingar höfnunar eru mjög léttvægar í samanburði við áhættuna fyrir stjórnskipun landsins og samkeppnishæfni þess um fólk og fyrirtæki. Tal um, að EES-samningurinn og markaðsaðgengi Íslendinga að Innri markaðinum verði í uppnámi eftir höfnun, eru hugarórar einir og/eða hræðsluáróður.

Það má hiklaust líkja téðum orkulagabálki við Trójuhest ESB inn fyrir múra íslenzka stjórnkerfisins, því að embættið, sem komið verður á fót í kjölfarið, Landsreglarinn, verður einstætt í sögunni, hæstráðandi yfir mikilvægum þáttum þjóðlífsins, raforkuflutningi og raforkumarkaði, en algerlega óháð rétt kjörnum og rétt skipuðum yfirvöldum landsins samkvæmt Stjórnarskrá.  Með leikmannsaugum verður alls ekki séð, að embætti Landsreglara samræmist Stjórnarskrá Íslands.

Landsreglarinn fær ekki heimildir til að koma hér á uppboðsmarkaði raforku fyrr en samningar hafa verið gerðir við aflsæstrengsfjárfesta um lagningu slíks strengs frá Íslandi til Bretlands eða annars lands í Orkusambandi ESB. Hann mun þó áreiðanlega hvetja til þess frá fyrsta degi.  Landsreglarinn hefur sæstrengsumsókn í hendi sér, því að hann semur skilmálana fyrir strengnum, þótt Orkustofnun veiti leyfið.  ESA og EFTA-dómstóllinn eru svo úrskurðaraðilar um deilumál á milli leyfisumsækjanda og leyfisveitanda.  Einhverjir gæla við hugmyndina um, að Alþingi banni lagningu aflsæstrengs.  Þeir hinir sömu þurfa að sýna fram á, að eitthvert hald verði í slíkri lagasetningu.  Það er skoðun þessa pistilhöfundar eftir lauslega athugun, að svo verði  ekki, ef bannið stangast á við samþykkta Kerfisþróunaráætlun ESB/ACER og hlutverk Landsreglarans að vinna að framkvæmd hennar.

Deilur um þetta munu hafna hjá ESA/EFTA-dómstólinum til úrskurðar, sem leggja mun Evrópurétt til grundvallar úrskurðum sínum.  Enn fjarstæðukenndari eru hugmyndir um fyrirvara við samþykkt téðs orkulagabálks í þá veru, að endanlegt dómsvald um ágreining vegna þessa orkulagabálks verði í höndum íslenzkra dómstóla.   

 Að kröfu norska Verkamannaflokksins var það á meðal 8 krafna norska Stórþingsins til framkvæmdastjórnar ESB við samþykkt Stórþingsins á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum, að allir aflsæstrengir frá Noregi yrðu í eigu Statnett, norska Landsnets, sem er í eigu norska ríkisins,en  aflsæstrengir til Íslands verða vafalítið alfarið í einkaeigu, hugsanlega styrktir af ESB. Þessi 8 norsku skilyrði voru ekki lögfest, og þau hafa ekkert gildi að Evrópurétti.  Framkvæmdastjórn ESB hefur það í hendi sér að sniðganga þessar kröfur Stórþingsins og mun að öllum líkindum gera það.  Annaðhvort beygja Norðmenn sig þá í duftið, eða þeir grípa til róttækra aðgerða varðandi EES-samninginn í heild, því að orkumarkaðslagabálkinum geta EFTA-ríkin ekki sagt upp einum og sér.  

Uppboðskerfi á raforku á mjög illa við íslenzkar orkulindir vegna þess, að við nýtingu þeirra þarf að beita auðlindastýringu, ef kostnaðurinn við nýtinguna á ekki að rjúka upp og þær að þverra, svo að þær gefi aðeins af sér skertar afurðir um tíma (tímabundin lág vatnsstaða í miðlunarlónum).  Á skammtímamarkaði geta jarðgufuvirkjanir ekki keppt við vatnsaflsvirkjanir.  Það er ekki hægt að sveifla raforkuvinnslu jarðgufuvirkjana mikið frá einni klst til annarrar, en það er hægt með vatnsaflsvirkjanir, og jarðgufuvirkjanir geta ekki keppt um orkuverð, þegar nóg vatn er í miðlunarlónum.  Til að koma í veg fyrir sóun orkulindanna og orkuskort er auðlindastýring nauðsynleg, þ.e.a.s. samstýra þarf hæð í miðlunarlónum, draga úr jarðgufuvinnslunni, þegar hratt hækkar í miðlunarlónum og auka jarðgufuvinnsluna, þegar hratt lækkar í miðlunarlónum.  Þetta er stýrð auðlindanýting í íslenzka raforkukerfinu í hnotskurn. Hún rúmast ekki innan markaðskerfis ESB og verður óleyfileg undir Landsreglara, þegar hann verður búinn að koma hér á frjálsri samkeppni um raforku að fyrirmynd Evrópusambandsins.

Uppboðsmarkaðurinn mun af þessum sökum leiða til hraðrar tæmingar lóna, og þau eru þá við lágmark e.t.v. í 3 mánuði ársins.  Orkustofnun ESB-ACER og fulltrúi hennar ("kongens befalingsmand") á Íslandi, Landsreglarinn, munu sjá aflsæstreng sem lausn á þessu vandamáli.  Þá geta Íslendingar flutt inn á veturna raforku, sem skortir upp á getu vatnsaflsvirkjananna.  Þetta mundi hækka raforkukostnað heimilanna um a.m.k. 50 % á ári, og "græna vottorðið" færi fyrir lítið.  

Hvað gerist í þessari stöðu, ef sæstrengurinn bilar ?  Viðgerðartími hans getur hæglega orðið 9 mánuðir.  Þann vetur verður neyðarástand á Íslandi vegna raforkuleysis sem leiða mun til skömmtunar og taps útflutningsverðmæta, sem gæti numið fjórðungi útflutningstekna í venjulegu árferði.  Að stefna landinu inn í þessa ófæru er fullkomið glapræði, þótt annað og sterkara orð ætti betur við þessa stöðu mála.   

 

 

  

 


Sumir pakkar eru forsendingar

Það er ljóst, að fundur nokkurra hverfafélaga í Reykjavík markar tímamót í baráttu sjálfstæðismanna gegn innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks Evrópusambandsins, ESB, í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, EES.  Engum vafa er undirorpið, að fleiri félög á landinu munu fylgja í kjölfarið og leita eftir afstöðu þingmanna flokksins í sínum kjördæmum.  

Höfundur Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins, dags. 31.08.2018, gerði þennan vatnaskilafund að umræðuefni með mjög jákvæðum og áhugaverðum hætti, enda gat hann trútt um talað, mættur sjálfur á svæðið.  Höfundur Reykjavíkurbréfsins er alfarið mótfallinn innleiðingu þessa "orkupakka" í íslenzka löggjöf vegna Stjórnarskrárbrota, sem í henni felast, og vegna þess, að "efnislega væri þessi innleiðing þess utan frámunalega óhagstæð hinni íslenzku þjóð, og dæmin, sem nefnd voru, tóku af öll tvímæli í þeim efnum".

Þá verður ekki betur séð en höfundurinn lýsi yfir vantrausti á nýlegri nefndarskipan utanríkisráðherra um reynsluna af EES, er hann skrifar:

"Varla dettur nokkrum manni í hug, að þeir, sem hafa staðið með svo óboðlegum hætti að málum, séu færir um að leggja mat á framvinduna fram að þessu."

Undir þetta skal taka og bæta við með hliðsjón af þessu Reykjavíkurbréfi, að meiri þörf er á skipan hæfileikafólks um valkostina, sem Íslendingar eiga við EES, því að öllum öðrum en nauðhyggjumönnum má ljóst vera, að rannsaka þarf þessa kosti og leggja mat á þá raunhæfustu og hagkvæmustu.  Þetta hafa Norðmenn þegar gert og gefið út 188 bls. skýrslu í A4-broti.  Þessa skýrslu geta Íslendingar reyndar tekið sér til fyrirmyndar og hagnýtt sér að breyttu breytanda.  

Verður nú aftur vikið að hinu ágæta Reykjavíkurbréfi. Um hegðun stjórnmálamanna og embættismanna þeirra í trássi við vilja yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar samkvæmt skoðanakönnun Maskínu í vor skrifaði höfundurinn:

"Embættiskerfið ber enga ábyrgð, en stjórnmálamenn gera það, og sjálf stjórnarskráin mælir fyrir um, að þannig skuli það vera.

En fundarsóknin í kjölfar einnar blaðaauglýsingar samdægurs svarar því til, að þessu máli verður ekki svo auðveldlega svindlað í gegn, þótt brotaviljinn virðist óþægilega einbeittur."

Höfundur lýsti síðan, hvernig þessi ókræsilegi pakki var opnaður af framsögumönnum fundarins:

"Fjórir prýðilegir framsögumenn voru á fundinum um orkumálapakkann.  Þeir voru hver með sinn þátt undir, og var það gagnlegt.  Um sumt virtist málið flókið, en á daginn kom, að það, sem skiptir máli, var einfalt.  Erindin voru ítarleg og vönduð og fundarmenn virkir, og því teygðist verulega á fundinum án þess að þynntist á bekkjunum."

Höfundur Reykjavíkurbréfsins tengdi "orkupakkamálið" mjög sterklega við Stjórnarskrána og minnti á stefnumörkun Landsfundar Sjálfstæðisflokksins í marz 2018 um, að ekki skyldi verða um að ræða frekara valdframsal til erlendra stofnana yfir orkumarkaðsmálum Íslands:

"Fréttir af "formannafundi í Þingvallabæ" báru allar með sér, að tilgangurinn var ekki annar en sá að læðast aftan að íslenzku fullveldi.  Og nú virðist þessi orkupakki orðinn að bögglingi Sjálfstæðisflokksins !  

Landsfundur hefur þegar afgreitt málið með þunga.  Það var m.a. gert á sama fundi og núverandi iðnaðarráðherra var kjörinn varaformaður.  

Þess vegna er erfitt að horfa upp á þann ráðherra láta rugla sig í ríminu.  Rökin, sem helzt eru nefnd, eru ekki beysin.   "Það myndi eitthvað mjög alvarlegt koma fyrir, ef við hlýðum ekki skrifstofumönnum í Brüssel, eins og við gerum alltaf."

Þetta var reyndar inntakið í gerningaveðri áróðursins vegna Icesave.  

Og því er gjarnan bætt við, að Brüsselvaldið gæti tekið upp á að refsa okkur, ef við hlýddum ekki fyrirmælum þess."

Á téðum Valhallarfundi mátti ráða það af erindi Stefáns Más Stefánssonar, sérfræðings í Evrópurétti, að fulltrúar Íslands í sameiginlegu EES-nefndinni og/eða yfirmenn þeirra í utanríkisráðuneytinu hafi hlaupið á sig með því að gera ekki fyrirvara við atriði Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB, sem greinilega brjóta í bága við íslenzku Stjórnarskrána.  Stefán Már ráðlagði að hafna þessum lagabálki ESB að svo komnu máli.  Vönduð greiningarvinna yrði að fara fram, enda væri þanþol Stjórnarskrárinnar raunverulega brostið, þegar á upphaflega EES-samninginn og allar viðbæturnar við hann væri litið.

"Á þetta [synjun Evrópugerða] hefur aldrei reynt, því að Ísland kyngir jafnan öllu.  En Brusselliðið, sem litla fólkið í ráðuneytunum umgengst, eins og börn umgangast leikskólakennara, hefði enga stöðu til að yggla sig í þessum efnum.  Það á ekki við, eins og hefur legið fyrir frá fyrsta degi og mátti lesa úr þessum fína fundi í Valhöll.

ESB er sem stofnun fullkomlega ljóst, eða ætti að vera það, að Ísland mætti aldrei og myndi aldrei lögtaka reglugerðir eða tilskipanir, sem því væri óheimilt í stjórnarskrá.  

Frá fyrsta degi samningaviðræðna um EES var viðsemjandanum gerð grein fyrir þessari staðreynd.  Ríkisstjórnin fékk vandaðan hóp fræðimanna til að fara yfir það, hvort EES-samningurinn stæðist Stjórnarskrá, enda hafði í átökum um hann verið fullyrt, að svo væri ekki.  Andstæðingarnir nutu lögfræðiaðstoðar að sínu leyti og fengu þá niðurstöðu, að EES-samningurinn færi út fyrir mörkin, sem stjórnarskráin leyfði.  Ríkisstjórnin og aukinn meirihluti Alþingis féllst hins vegar á það mat, sem hin opinbera laganefnd hafði í sinni niðurstöðu.  En það fór aldrei á milli mála og var viðurkennt og ítrekað á fundinum á fimmtudag, að þar var farið að yztu mörkum."

Alvarlegast og hættulegast við innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB á Íslandi er, að samkvæmt honum verður stofnað til embættis í landinu, sem verður algerlega utan lýðræðislegs, innlends aðhalds, þannig að hvorki löggjafarvald, framkvæmdavald né dómsvald geta haft áhrif á gjörðir þessa embættis.  Embættinu er ætlað eftirlits- og stjórnunarhlutverk með flutningskerfi raforku í landinu og tekur þannig við núverandi hlutverkum Orkustofnunar og iðnaðarráðuneytis á þessu sviði, rýnir og samþykkir netmála (tæknilega tengiskilmála) Landsnets og dreifiveitna og gjaldskrár þessara fyrirtækja.  Embættinu er jafnframt ætlað æðsta eftirlitshlutverk með raforkumarkaðsmálum landsins.  Þótt það hafi ekki vald til að skipa fyrir um fyrirkomulag markaðarins fyrr en tenging við rafkerfi í Orkusambandi ESB er komin á framkvæmdastig, þá má fastlega gera ráð fyrir, að embætti þetta, Landsreglarinn, muni hvetja til upptöku uppboðskerfis raforku að hætti ESB frá fyrsta degi.  

Í tveggja stoða kerfi EES á ESA-Eftirlitsstofnun EFTA að gegna hlutverki framkvæmdastjórnar ESB gagnvart EFTA-löndunum.  Í samningum innan EES, væntanlega í Sameiginlegu EES-nefndinni, var hins vegar ESA-svipt sjálfstæði sínu gagnvart ACER og verður að taka við úrskurðum, tilmælum og fyrirmælum frá framkvæmdastjórn ESB og Orkustofnun ESB-ACER og framsenda slíkt til Landsreglarans.  Þarna eru hagsmunir Íslands algerlega bornir fyrir borð, landið er nánast innlimað í ESB á raforkusviðinu. Þetta er á meðal grófustu Stjórnarskrárbrota, sem sézt hafa. 

Lýsingu á samningum EFTA og ESB um þetta er að finna í frumvarpi norsku ríkisstjórnarinnar nr 4 S (2017-2018): 

"Samþykki á ákvörðun EES-nefndarinnar nr 93/2017 frá 5. maí 2017 um innleiðingu réttarfarsáhrifanna í Þriðja orkumarkaðslagabálkinum í EES-samninginn",

og er á þessa leið í þýðingu pistilhöfundar:

"Eftirlitsstofnun EFTA skal, þegar hún gerir slíkar samþykktir [er fara til Landsreglarans - innsk. BJo], reisa samþykktina á drögum frá ACER.  Slík drög eru ekki lagalega bindandi fyrir Eftirlitsstofnun EFTA.  Það er grundvallar forsenda fyrir fyrirkomulaginu, sem samið hefur verið um, að Eftirlitsstofnun EFTA muni, skömmu eftir móttöku slíkra draga frá ACER, gera samhljóða eða næstum samhljóða samþykkt."

Þar með er íslenzki raforkumarkaðurinn og flutnings- og dreifikerfin komin undir stjórn framkvæmdastjórnar ESB um nokkra milliliði.  Það er m.a. þetta, sem átt er við,þegar rætt er um hættuna, sem fullveldi landsins og sjálfstæði stafar af þessum lagabálki. Eftir samkeppnismarkaðsvæðingu íslenzka raforkumarkaðarins getur orðið stutt í kvörtun ESA til íslenzku ríkisstjórnarinnar út af því, að ríkisfyrirtækið Landsvirkjun skekki mjög samkeppnisstöðuna á markaðinum, sjá Valhallarræðu, 30.08.2018 í viðhengi.  Þar með er ESB komið með klærnar í alla 4 geira raforkukerfisins.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hvaða vandamál á ACER að leysa hérlendis ?

Morgunblaðið birti 9. ágúst 2018 frétt á bls. 20 um raforkuverð til almennings í 33 Evrópulöndum, eins og það er reiknað af Hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat.  Einingin er cEUR/kWh (evrusent á kílówattstund), og trónir Belgía efst með 28,5 og Kósóvó er lægst með 6,6.  Ísland er í 21.-23. sæti með 12,4 cEUR/kWh eða 15,5 ISK/kWh m.v. 125 ISK/EUR.  Það eru 20 ESB ríki fyrir ofan Ísland og 3 fyrir neðan.  Ísland stendur vel að vígi í þessum samanburði, og það er mjög ólíklegt, að innleiðing Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB á Íslandi mmundi leiða til lækkunar á raforkuverði hérlendis, því að samkeppnisþátturinn, raforkuvinnslan sjálf, spannar aðeins um 40 % af ofangreindu verði á Íslandi.  

Þvert á móti getur þessi innleiðing haft skaðleg áhrif hérlendis, því að markaðskerfi ESB/ACER letur fremur en hvetur íslenzk orkufyrirtæki til að fjárfesta í nýjum virkjunum, og þar af leiðandi eykst hættan á afl- og orkuskorti hér með þeim mikla samfélagslega kostnaði, sem hann hefur í för með sér.  Ástæðan er sú, að vinnslukostnaður nýrra virkjana á Íslandi er hærri en fyrri virkjana, öfugt við stöðuna í ESB-löndunum, og þar af leiðandi versnar samkeppnisstaða þeirra, sem hérlendis reisa nýjar virkjanir í orkumarkaðskerfi ESB.

Ef innleiðing Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB á Íslandi leiðir til lagningar aflsæstrengs til útlanda, en slíkur er í framvinduskýrslu ACER frá 07.07.2017, "Consolidated Report on the progress of Electricity and Gas Projects of Common Interests for the year 2016", skráður á rannsóknarstigi, þá er alveg áreiðanlegt, að raforkuverð á Íslandi mun hækka verulega, bæði vegna aukinnar eftirspurnar, fjölda nýrra virkjana og vegna nauðsynlegrar eflingar flutningskerfisins til að flytja raforkuna að sæstrengnum. Sá kostnaður lendir á notendum innanlands samkvæmt reglum ESB/ACER.  

Raforkukerfið á Íslandi er allsendis ófullnægjandi, en markaðshagkerfi ESB/ACER leysir engan veginn úr þeim vanda, því að mestu vandkvæðin eru bundin við einokunarstarfsemina.  Flutningskerfi Landsnets annar ekki núverandi raforkuþörf á nokkrum stöðum og annar ekki þörfum orkuskiptanna, nema á einstaka stað.  Áreiðanleika flutningskerfisins er víða ábótavant, og áreiðanleika dreifikerfanna er mjög víða ábótavant.

Þann 8. ágúst 2018 varð straumlaust í 9 klst samfleytt í Hveragerði, sem er 2300 manna bæjarfélag með fjölbreytta atvinnustarfsemi. Skammhlaup varð í jarðstreng.  Ljóst er, að varnir aðalspennisins í aðveitustöð Hveragerðis hafa verið ranglega stilltar eða bilaðar, því að þetta strengskammhlaup leiddi til bilunar aðalspennisins.  Það er glæfralegt og óviðunandi fyrir bæjarfélag á borð við Hveragerði, að bilun í aðalspenni geti leitt til langvarandi straumleysis.  Í aðveitustöð Hveragerðis verður að búa svo um hnútana, að ein bilun geti ekki valdið meira en einnar klst straumleysi að hámarki.  Til þess þarf annar eins spennir að vera tilbúinn til innsetningar, ef hinn rofnar frá kerfinu.  

Frétt Morgunblaðsins af þessum atburði 9. ágúst 2018,

"Engin starfsemi í níu klukkustundir",

hófst þannig:

""Samfélagið lamaðist algjörlega, og maður sá, hversu virkilega háð við erum rafmagninu", segir Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði, um rafmagnsleysi, sem kom upp í bænum í gær og stóð yfir í um 9 klukkustundir. Rafmagn er nú komið á í bænum og allt komið í samt lag.  Spurð um, hvort rafmagnsleysið hafi valdið miklu tjóni, kveður Aldís já við.  Nefnir hún í því samhengi fyrirtæki, sem urðu af viðskiptum í kjölfar rafmagnsleysins."

Þá var viðtal við kynningarstjóra RARIK, sem er dreifingarfyrirtæki Hvergerðinga, Rósant Guðmundsson:

"Að sögn Rósants geta bilanir í aflspennum komið upp, hvenær sem er.  Með réttu viðhaldi sé bilanatíðni þeirra hins vegar afar lág. [Hér er sá hængurinn á, að "rétt viðhald" verður ekki framkvæmt, ef ekki er hægt að taka spenninn úr rekstri án straumleysis hjá notendum.  M.a. þess vegna eru 2 spennar nauðsynlegir, og hægt á að vera að flytja álagið á milli þeirra án straumleysis hjá notendum - innsk. BJo.]

"Aflspennar geta bilað, hvenær sem er.  Ef sagan er samt skoðuð, kemur í ljós, að með réttu viðhaldi er tíðni bilana lág.  [Rétt viðhald felur líka í sér réttar stillingar liðaverndar og prófanir á liðavernd - innsk. BJo.]  Í ljósi þess, hve dýrir aflspennar eru, þá er iðulega ekki gert ráð fyrir tvöföldu öryggi með aukaspenni á hverjum stað, heldur reynt að hafa tiltækan varaspenni, sem má flytja á svæðið, þegar þörf krefur", segir Rósant."

Fyrir yfir 2000 manna notendahóp er þetta einfaldlega rangt mat.  Kostnaður þeirra af slíku straumleysi réttlætir fullkomlega tvöfalt kerfi.  RARIK verður að gera meiri kröfur til sín um gæði þjónustunnar en þessi ummæli gefa til kynna, og sveitarfélagið ætti að krefjast nákvæmrar greiningar á þessu atviki og á  kostnaðinum, sem tvöföldun í þessu tilviki mundi hafa í för með sér fyrir notendur.

Elías Elíasson, sérfræðingur í orkumálum, skrifaði afar skilmerkilega grein í Morgunblaðið þann 9. ágúst 2018 um reginmun á raforkukerfi Íslands og ESB-landanna, sem gerir það að verkum, að það er ekki hægt að beita markaðsaðferðum ESB/ACER á íslenzka raforkumarkaðinn án þess að valda atvinnulífinu hér og öllum almenningi skakkaföllum. Rökrétt ályktun af þeirri niðurstöðu er, að Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB á ekkert erindi inn í íslenzka löggjöf.  Íslendingar eru síður en svo bundnir af samþykktum á löggjafarsamkomum annarra EFTA-ríkja á þessari framandi ESB-löggjöf, og Alþingi ætti því hiklaust að synja þessu máli samþykkis, þegar það kemur þar til afgreiðslu.

Lokakafli téðrar greinar, 

"Markaðstrú og raunveruleiki", 

hljóðaði svo:

"Við þær aðstæður, sem hér eru, getur óheftur markaður samkvæmt forskrift ESB ekki tryggt notendum nægilegt öryggi og lágt orkuverð án aðkomu stjórnvalda.  Allt þetta merkir líka, að hægt verður að setja spurningar við það, hvað raforkumarkaður hér getur orðið frjáls í raun, en samt verður að reyna.  Það má ekki gefast upp á því að nýta markaðslögmálin til að auka hagkvæmni í raforkuvinnslu og flutningi til hagsbóta fyrir almenna notendur raforku í landinu.

Eins og kemur fram í forsendukafla tilskipunar ESB nr 75/2009, þá er ein meginástæða fyrir tilurð hennar tregða einhverra innan ESB til að setja þær reglugerðir og leggja í þær fjárfestingar, sem þarf til að mynda frjálsan, nægilega virkan markað yfir landamæri innan bandalagsins.  Á þessu er tekið í tilskipuninni, með því að hvert ríki ESB skal stofna embætti landsreglara, og hafi þeir með sér samstarf, sem ný stofnun, ACER, heldur utan um.  Þannig fær þessi stjórnarstofnun ESB sterkt áhrifavald inn í raforkukerfi hvers lands, framhjá öllum öðrum stjórnvöldum og beitir því til að samræma reglugerðir þeirra.  Þetta leysir engin okkar vandamála, nema síður sé."

Landsreglari ESB yfir raforkumálum á Íslandi yrði algerlega einstæður í sögu stjórnskipunar á Íslandi frá 1. desember 1918.  Stofnun þessa embættis felur í sér opinbert valdframsal til yfirþjóðlegrar stofnunar, sem er Stjórnarskrárbrot á Íslandi.  Þegar af þeirri ástæðu ber Alþingi að hafna væntanlegri þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um innleiðingu umrædds lagabálks.  

Kerfi ESB er tæknilega ófært um að lækka orkuverð á Íslandi og samtímis að tryggja nægt framboð raforku.  Hér þarf að leggja auðlindagjald á orku frá virkjunum 20 ára og eldri til að mynda hvata til nýrra virkjana.  

 

 

 

 

 

 


Lokar á lækna og sóar opinberu fé

Heilbrigðisráðherra hefur gjörsamlega gengið fram af læknastéttinni.  Þetta framgengur af blaðagreinum, sem læknar hafa fengið birtar í sumar.  Hér verður ein slík gerð að umfjöllunarefni. Þar er talað tæpitungulaust. Greinin birtist í Fréttablaðinu 26. júní 2018 undir heitinu:

"Ráðherra læsir úti læknana og kastar krónunni",

og eru höfundarnir Þórarinn Guðnason, hjartalæknir og formaður Læknafélags Reykjavíkur og Ragnar Freyr Ingvarsson, gigtarlæknir.  

Þeir sýna þar með skýrum hætti fram á, að útreikningar Ríkisendurskoðunar um 60 % kostnaðaraukningu ríkisins við þjónustu einkalæknastofa á 5 ára bili 2012-2017 sé villandi og nær sé 10 % kostnaðaraukning eða 2 % raunaukning á ári, sem þeir skýra á eftirfarandi hátt:  

"Fólksfjölgun var um 1,5 % á ári, og þegar öldrun þjóðarinnar er bætt við, má reikna með 2 % aukinni þjónustuþörf á ári.  Þá stendur eftir rúmlega 2 % hækkun á ári eða samtals 10 % á fyrrnefndu fimm ára tímabili.  Sú hækkun varð einfaldlega til vegna flutnings verka frá spítölunum í þetta ódýrara úrræði, og auðvelt er að ímynda sér, að með því sparist talsverðir fjármunir samhliða því, að þjónusta við sjúklinga batnar.  Verk hafa færzt út frá Landsspítala, en mikið af því, sem gert var á St. Jósefsspítala fluttist líka inn á samninginn á þessu tímabili.  Vonandi er, að nákvæmni Ríkisendurskoðanda í álitsgjöf sinni og útreikningum sé að öllu jöfnu meiri en í þessu tilviki."

Röksemdir ráðherrans fyrir aðför hans að einkareknum læknastofum standast ekki rýni, hvað sem kostnaðaraukningu líður.  Um það vitnar samanburður á einingarkostnaði skýru máli, eins og fram kemur í neðangreindri tilvitnun:

"Sumt liggur þó ljóst fyrir og talar skýru máli um mismunandi kostnað eftir því, hver veitir þjónustuna.

Dæmi: læknisheimsókn ósjúkratryggðra einstaklinga (t.d. ferðamanna), sem borga fullt verð fyrir þjónustuna, er mun hagkvæmari á stofu sérfræðings en bæði á heilsugæzlu og á göngudeild Landsspítalans.  Heimsókn til sérfræðings á stofu kostar í heildina 8.700 kr, á heilsugæzlu 9.600 kr, og dýrust er hún, eða 13.200 kr, á göngudeild spítala.  Heimsóknin á stofu kostar þannig 4.500 kr minna en á göngudeild Landsspítalans, sem þýðir, [að göngudeildin er tæplega 52 % dýrari en stofan - innsk. BJo]."

Glópska ráðherrans í sinni ýtrustu mynd að færa 500.000 heimsóknir frá læknastofum á göngudeildir spítala mundi auka samfélagslegan kostnað um 2,3 milljarða króna á ári.  Það verður að brjóta þennan hættulega ráðherra á bak aftur.

Lokakaflinn í ágætri grein læknanna styður þetta ákall:

"Sitjandi heilbrigðisráðherra og tveir síðustu forverar hans hafa samt ítrekað brotið þennan góða samning, m.a. með einhliða lokun á nýliðun lækna, sem þar með eru læstir úti úr landinu.  Samningurinn rennur út um næstu áramót, og ráðherra hefur margoft lýst því yfir, að nýr samningur verði aldrei gerður, nema á gjörbreyttum grunni.  Ódýrasta og bezta heilbrigðiskerfi í heimi verður að víkja til að flytja þjónustuna inn í ríkisrekstur, hvað sem það kostar.  Og það verður dýrt, því að hvort sem aukning umsvifa sérfræðilækna á stofu mælist 12 % á ári eða 2 %, leiðir sú aukning til mikils heildarsparnaðar í kerfinu.  Sé farið í hina áttina, og kerfið ríkisvætt, eykst kostnaður verulega á sama hátt.

Augljóst er, að heilbrigðisyfirvöld eru á villigötum.  Á meðan alþjóðleg þróun er í þá átt, að þjónusta hefðbundinna spítala minnkar samhliða aukinni þekkingu og tækni, sem einfaldar læknisverkin, rær íslenzki heilbrigðisráðherrann á móti straumnum.  Hann setur úrelt sjónarmið í öndvegi og setur stefnuna á að spara aurinn og kasta krónunni.  Fjárhagslega er ekkert vit í því, en alvarlegast er, að með áformum sínum læsir hann líka unga lækna og nýja þekkingu úti úr landinu.  Þennan glórulausa kúrs þarf að leiðrétta strax, opna samninginn, endurnýja hann og tryggja, að þjónusta sérfræðilækna verði áfram innan opinbera kerfisins.  Líðan og heilsa íslenzkra sjúklinga og grunnstoðir heilbrigðiskerfisins eru í húfi."

Þingmenn hljóta að láta til sín taka á komandi þingi vegna hneykslanlegrar framgöngu heilbrigðisráðherra í nafni fáránlegrar hugmyndafræði, sem veldur stórfelldri sóun almannafjár og skerðingu á atvinnufrelsi nýrra sérfræðilækna, sem hefja vilja bráðnauðsynlega starfsemi hér á landi.  Þessi ráðherra er í einu orði sagt tímaskekkja. 

 

 

 

 

 


Hvers konar stríð er þetta ?

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að sérfræðilæknar hafa ekki fengið samning við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) um að veita eigin stofuþjónustu með kostnaðarþátttöku SÍ.  Það er jafnframt ljóst, að læknarnir uppfylla öll skilyrði, sem hingað til hafa verið sett að hálfu SÍ fyrir samningi, og SÍ hafa verið fúsar til að semja, en heilbrigðisráðherra hefur með gerræðislegum hætti komið í veg fyrir samninga í hátt í tvö ár. 

Hér skal draga stórlega í efa, að núverandi ríkisstjórn styðji þetta fáheyrða stríð Svandísar Svavarsdóttur við læknastéttina í landinu, heldur er ástandið birtingarmynd á öngþveiti, sem hugmyndafræðileg slagsíða við stjórnun  heilbrigðiskerfisins hefur í för með sér.  Afleiðing hennar verður dýrari og verri þjónusta við skjólstæðinga heilbrigðiskerfisins, allt of hæg endurnýjun í læknastétt og stöðnun þekkingarþróunar í greininni, sem þá þýðir hlutfallslega afturför m.v. nágrannalöndin. 

Það er ömurlegt, að þessi staða skuli vera uppi á Íslandi 2018, en hún er afleiðing ríkjandi stöðu ríkisvaldsins við veitingu heilbrigðisþjónustu í landinu.  Við því verður væntanlega lítið gert á næstunni, en það verður að sníða verstu agnúana af kommúnístísku kerfi, til að það virki almennilega (eins og kínversku kommúnistarnir vita og framkvæma daglega), og til þess þarf líklega atbeina Alþingis.  

Til merkis um alvarleika málsins er heilsíðugrein í Morgunblaðinu 4. ágúst 2018 eftir kunnan og mikils metinn lækni, Sigurð Björnsson,

Heilbrigðisþjónusta á Íslandi-hver er staðan og hvert stefnir ?".

Þetta var yfirlitsgrein um þróun og skipulag heilbrigðisþjónustu á Íslandi.  Hún var afar fróðleg og málefnaleg, en ekki fór á milli mála, að höfundurinn hafði miklar áhyggjur af núverandi stöðu, sem virðist stafa af steinbarni rökþrota ráðherra.  Verður nú gripið niður í greinina:

"Nýjasta ráðstöfun heilbrigðisyfirvalda er sú að bregða fæti fyrir unga lækna, sem lokið hafa sérnámi og hyggjast koma til starfa á Íslandi með nýjustu þekkingu, og hefja störf innan heilbrigðisþjónustunnar með sama hætti og forverar þeirra hafa gert til þessa. 

Þeir fá ekki að starfa eftir samningi við Sjúkratryggingar Íslands, eins og þeir, sem fyrir eru, þannig að sjúklingar, sem til þeirra leita, þurfa að bera allan kostnaðinn af læknisheimsókninni sjálfir og eru þannig sviptir sjúkratryggingum, sem þeir hafa greitt iðgjöld fyrir frá unglingsaldri.  

Með þessu eru yfirvöld að innleiða mismunun, þar eð Tryggingarnar taka þátt í greiðslu fyrir þjónustu hjá sumum læknum, en ekki fyrir sömu þjónustu hjá öðrum læknum.  Þetta eru nýmæli, sem ganga þvert á vinnureglur Trygginganna og yfirlýsta stefnu yfirvalda til þessa.  

Ég fæ mig ekki til að rökræða þessa aðför yfirvalda að heilbrigðisþjónustunni; ég trúi því einfaldlega ekki, að við þessa ákvörðun verði staðið."

Hér er um siðlaust og kolólöglegt athæfi ráðherrans að ræða, sem ríkissjóður tapar stórfé á, eins og síðar verður sýnt fram á.  Ef hvorki ríkisstjórn né Alþingi taka fram fyrir hendur hins ofstækisfulla ráðherra, verður að reka málið fyrir dómstólum, því að  framferðið er kolólöglegt.  Það er ráðizt gegn atvinnufrelsi lækna, sem varið er í Stjórnarskrá, eins og atvinnufrelsi annarra stétta.  Það er brot gegn lögum um heilbrigðiskerfið, þar sem öllum sjúklingum er tryggður jafn réttur, en hér er um fjárhagslega mismunun að hálfu ríkisins að ræða eftir vali sjúklings á lækni.  Hvernig er hugarheimur stjórnanda, sem hagar sér svona ? 

"Því er ekki hægt að hugsa þá hugsun til enda, ef áfram á að hindra íslenzka lækna með sérfræðimenntun frá erlendum þekkingarsetrum í því að snúa heim og halda áfram að tryggja hér á landi heilbrigðisþjónustu í hæsta gæðaflokki.  Þjóðin á það ekki skilið af stjórnmálamönnum eða embættismönnum, sem allir eru í starfi og á launaskrá hjá íslenzku þjóðinni.  

Samtök lækna og aðrir starfsmenn heilbrigðisþjónustunnar eru sem fyrr reiðubúnir að starfa með yfirvöldum að því að bæta þjónustuna og laga hana að breyttum ytri aðstæðum.  Þá þyrfti fyrst að skilgreina vandamálin og leggja síðan fram samstilltar tillögur til lausnar."

Vandamálið er of lítil samkeppni þeirra, sem þjónustuna veita, af því að ríkið er yfir og allt um kring í þessum geira.  Þess vegna hefur hann logað í illdeilum um kaup og kjör, af því að of lítil samkeppni er um vinnuaflið.  Það þarf að breyta fjármögnun ríkisstofnana á borð við Landsspítalann frá því að vera tilgreind fjárhæð á fjárlögum í að verða greiðslur fyrir verk, sem verkkaupinn, Tryggingastofnun/Sjúkratryggingar getur þá í sumum tilvikum valið verktaka að.  

Kostnaður við heilbrigðisgeirann vex stjórnlítið ár frá ári, og þessi þróun ógnar stöðugleika ríkisfjármálanna til lengdar litið.  Þetta er sjúkleikamerki á kerfinu, því að Íslendingar ættu ekki að búa við lakari heilsu en aðrar vestrænar þjóðir, þar sem mengun er hér miklu minni, nóg af hreinu vatni og þjóðin yngri en aðrar, t.d. í Evrópu.  Sigurður Björnsson reifaði þetta vandamál:

"Margir þættir hafa leitt til þess, að kostnaður við heilbrigðisþjónustu hefur vaxið gífurlega á síðustu áratugum; aukin þekking á orsökum og eðli sjúkdóma, þróun tækjabúnaðar, þróun og framleiðsla lyfja, flóknar byggingar fyrir heilbrigðisþjónustu, menntun heilbrigðisstétta, teymisvinna (aðkoma margra stétta að lækningu hvers sjúklings).  Sumar þjóðir hafa ekki náð að tileinka sér framfarir í heilbrigðisþjónustu og þannig dregizt aftur úr þeim þjóðum, sem betur standa."

Það eru nútíma lifnaðarhættir, óhollt matarræði, hreyfingarleysi, mikið lyfjaát og notkun vímugjafa, sem eyðilagt hafa heilsu fjölmargra.  Tækniþróunin hefur gert heilbrigðisstarfsfólki kleift að fást við sjúkdómana, sem af þessum lifnaðarháttum leiða, og sömu sögu er að segja af hrörnunareinkennum, sem verða stöðugt algengari vegna meira langlífis en áður.  Almenningur er ekki nógu meðvitaður um gildi forvarna og mótvægisaðgerða upp á eigin spýtur án aðkomu heilbrigðiskerfisins, heldur reiðir sig á það, þegar allt er komið í óefni. 

Samfélagið greiðir bróðurpart kostnaðar heilbrigðiskerfisins, og almenningur er jafnvel ómeðvitaður um kostnaðinn.  Það er ekki kyn, þó að keraldið leki.  

Sigurður Björnsson reifaði fjármögnunina:

"Síðar varð Tryggingastofnun ríkisins til, og iðgjöldin voru innheimt með annarri skattheimtu hins opinbera.  Jafnframt voru sett lög og reglur um skipulag heilbrigðisþjónustunnar, þar sem gæta skyldi hagsmuna fólksins í landinu, og tíundaðar voru skyldur lækna og annarra starfsmanna.  Þannig varð til hugtakið heilbrigðiskerfi, sem að miklu leyti hefur verið fært undir stjórn embættis- og stjórnmálamanna í skjóli þess, að kerfið sé að mestu leyti fjármagnað af ríkissjóði (iðgjöldum fólksins til sjúkratrygginga), en lítið horft til þess, að heilbrigðisstarfsmenn hafa sjálfir þróað heilbrigðisþjónustu á Íslandi, sem er meðal þess bezta, sem þekkist."

Þetta ægivald embættis- og stjórnmálamanna yfir heilbrigðisþjónustunni er jafnframt hennar helzti Akkilesarhæll.  Það er engin ástæða til að viðhalda þessu stórgallaða fyrirkomulagi, þótt greiðslur séu að mestu úr sameiginlegum sjóðum, heldur ber brýna nauðsyn til að auka fjárhagslegt og faglegt sjálfstæði stofnananna.

Um fjórðungur af útgjöldum ríkisins eða miaISK 209 fer til heilbrigðismála.  Þetta hlutfall verður að hemja, því að annars munu aðrir nauðsynlegir þjónustuþættir ríkisins endalaust sitja á hakanum, t.d. vegakerfið, sem þarf stóraukin framlög, sem fartækjakaupendur og -rekendur standa reyndar ríkulega undir.  

Skipting kostnaðar er þannig:

  • Sjúkrahús: miaISK 92 eða 44 %
  • Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa: mia ISK 48 eða 23 %
  • Hjúkrun og endurhæfing: miaISK 47 eða 22 %
  • Lyf og lækningavörur: miaISK 22 eða 11 %
  • Alls miaISK 209

Í liðnum "heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa" eru greiðslur til sjálfstætt starfandi sérfræðilækna um miaISK 12,5 eða 6 % af heild.  Þessi upphæð stendur undir útseldum kostnaði yfir 300 lækna, þ.e. launakostnaði þeirra og 300 annarra starfsmanna auk húsnæðiskostnaðar og tækjabúnaðar.Þessi kostnaður er við þjónustu í 500´000 heimsóknum sjúklinga, sem er svipaður fjöldi og hjá göngudeildum Landsspítalans og heilsugæzlum höfuðborgarsvæðisins til samans.  

Er einhver glóra í þeim málflutningi heilbrigðisráðherra, að færa eigi þjónustuna, sem þessi einkarekna starfsemi veitir, á göngudeildirnar og heilsugæzlurnar ?  Nei, það er brennt fyrir það.  Í fyrsta lagi geta þessir aðilar ekki tekið við þessari hálfu milljón heimsókna vegna aðstöðuleysis og sumpart þekkingarskorts, og í öðru lagi yrði slíkt mjög óhagkvæmt.  Þvert á móti mætti spara ríkissjóði fé með því að auka hlutdeild hinnar einkareknu starfsemi á kostnað hinnar opinberu, því að einingarkostnaðurinn er með eftirfarandi hætti hjá sérfræðingum í lyflækningum sem dæmi:

  • Á stofu:                 8900 ISK/koma 
  • Á heilsugæzlustöð:      9600 ISK/koma
  • Á göngudeild Landssp.: 13400 ISK/koma

 Af þessu sést, að heilbrigðisráðherra berst ekki hinni réttlátu baráttu fyrir málstað skattborgarans, og ráðherrann berst heldur ekki fyrir málstað skjólstæðinga heilbrigðiskerfisins, því að Sigurður Björnsson rekur það í grein sinni, að á tvo alþjóðlega gæðamælikvarða trónir íslenzka kerfið á toppinum.  Það er engum vafa undirorpið, að starfsfólk á sjálfstætt starfandi lækningastofum á sinn þátt í þessum háu einkunnum íslenzka heilbrigðiskerfisins. 

Þrátt fyrir að fá hæstu gæðaeinkunn er íslenzka heilbrigðiskerfis engan veginn dýrast, heldur var það í 8. sæti árið 2014 með kostnaðinn 3882 USD/íb og 8,9 % af VLF.  

Það er hægt að auka skilvirkni íslenzka kerfisins enn meira með því að efla þá starfsemi, sem skilvirkust er, á kostnað óskilvirkari starfsemi.  Einkareksturinn þarf því að efla, en ekki að rífa hann niður, eins og ráðherrann reynir á hugmyndafræðilegum forsendum.  Þetta er grafalvarleg brotalöm í embættisfærslu ráðherrans.  Ráðherrann hefur ekki látið sér segjast, heldur forherðist hún við gagnrýni.  Allt  ber þetta að sama brunni og ber vott um, að Svandís Svavarsdóttir rekur annarlegt erindi með embættisfærslu sinni og á ekki erindi í heilbrigðisráðuneytið.    

 

 

 

 


Grasrótin er á tánum

Þeim, sem sóttu fund nokkurra hverfafélaga Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í Valhöll síðdegis 30. ágúst 2018, blandast ekki hugur um, að grasrót Sjálfstæðisflokksins hefur þungar áhyggjur út af því, að þingmenn flokksins tala í véfréttastíl um afstöðu sína til Þriðja orkumarkaðslagabálks Evrópusambandsins, ESB.  Kjósendur flokksins eiga heimtingu á því, að þingmenn hans geri hreint fyrir sínum dyrum og segi hug sinn í þessum efnum.  Þá kemur næst að kjósendunum að gera upp hug sinn til viðkomandi þingmanna.  Margir munu ekki láta bjóða sér upp á þá afskræmingu lýðræðis, að þingmenn haldi í gagnstæða átt við vilja kjósenda í þessu stórmáli.  Þá er komin upp gjá á milli þings og þjóðar, eins og gerðist í Noregi út af Þriðja orkumarkaðslagabálkinum.  

Sumir þingmenn segjast ekki eiga val við innleiðingu stórra Evrópugerða.  Það er algerlega óboðlegur málflutningur í þessu "orkupakkamáli".  Þingmenn eiga frjálst val.  Það mun ekkert markvert gerast að hálfu ESB eða EFTA, þótt Alþingismenn hafni Þriðja orkumarkaðslagabálkinum.  Norðmenn og Liechtensteinar munu einfaldlega gera sérsamning við ESB/ACER-Orkustofnun ESB um sín orkumarkaðsmál, enda báðar þjóðirnar vel tengdar við orkukerfi Evrópusambandsins. 

ESB fær við synjun Alþingis heimild til að fella úr gildi fyrsta og annan orkumarkaðslagabálk sinn gagnvart EFTA.  Það breytir engu fyrir Íslendinga og aðra, og þess vegna verður það líklega látið ógert.  ESB hefur nóg á sinni könnu núna með viðskiptastríð við BNA og BREXIT í uppnámi. 

Þingmenn mega fyrir alla muni ekki láta einfeldningslegan hræðsluáróður embættismanna heima og heiman, svo og erlendra ráðherra, hræða sig til að fremja óhæfuverk á Stjórnarskrá og innlendum raforkumarkaði.  Kjósendur munu trauðla fyrirgefa það.  Utanríkisráðherra ætti að spara sér köpuryrði á borð við, "að umræðan sé á villigötum" án þess að láta nokkrar útskýringar fylgja.  Slík lágkúra er ekki ráðherra sæmandi.  

Það er líka óboðlegt af ráðherra Sjálfstæðisflokksins að gera hugmyndafræði ESB um viðskipti með raforku að sinni.  ESB skilgreinir rafmagn sem vöru, og slíkt getur alveg gengið upp hjá þeim, en þegar "heilaþvegnir" Íslendingar, jafnvel ráðherrar, tönnlast umhugsunarlaust á þessu, og japla á, að þeir vilji gera greinarmun á auðlind og afurð, þá er of langt seilzt með rafmagnið.  

Þeir segja jafnframt, að Sjálfstæðisflokkurinn sé flokkur frjálsra viðskipta með vörur.  Það er hverju orði sannara, en þar sem rafmagn er ekki vara hérlendis, heldur þessi röksemd ekki vatni.  

Hvað er þá rafmagn ? Hefðbundin viðhorf til rafmagns á Íslandi og í Noregi er, að rafmagn sé afurð náttúruauðlinda, sem nýta ber allri þjóðinni til hagsbóta og öllum atvinnugreinum til verðmætasköpunar í öllum byggðum landsins.  Með öðrum orðum ber að nýta hina endurnýjanlegu orku þessara landa til að efla samkeppnishæfni atvinnurekstrar í þessum löndum og til eflingar samkeppnishæfni þessara landa um fólk og fyrirtæki.  Í stuttu máli á samkvæmt þessu hefðbundna viðhorfi á Íslandi og í Noregi að nota orkulindirnar til að bæta lífsgæðin í öllum byggðum þessara landa.

Þetta sjónarmið er algerlega ósamrýmanlegt viðhorfi ESB-forystunnar til rafmagns.  Samkvæmt því viðhorfi á rafmagnið einfaldlega að fara til hæstbjóðanda.  Ef þetta fyrirkomulag verður innleitt hér og hingað verður lagður aflsæstrengur, svo að við þurfum að keppa við útlendinga um "okkar eigin" orku, þá hrynur undirstaðan undan samkeppnisstöðu íslenzks atvinnurekstrar með tilheyrandi hruni lífskjara um allt land.  

Þeir, sem af undarlegum undirlægjuhætti vilja þóknast vilja erlendra ráðamanna um, að Ísland gangi Orkusambandi ESB á hönd, halda því fram, að íslenzk stjórnvöld muni hafa síðasta orðið um það, hvort aflsæstrengur frá útlöndum verði tengdur íslenzku raforkukerfi.  Þeir hinir sömu hafa illa kynnt sér málavexti eða tala sér þvert um geð.  Það verður fulltrúi ACER á Íslandi, Landsreglarinn, sem setur alla skilmála fyrir slíkri tengingu.  Ef umsækjandi um leyfi til slíkrar tengingar uppfyllir skilmálana, skortir Orkustofnun allar forsendur til höfnunar.  

Hafni Orkustofnun samt, ber Landsreglara að tilkynna yfirboðurum sínum hjá ACER-Orkustofnun ESB þá höfnun sem brot gegn Kerfisþróunaráætlun ESB/ACER, sem Ísland verður skuldbundið til að fylgja með samþykki Alþingis á Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB og innleiðingu hans í EES-samninginn, sbr Evrópugjörð nr 714/2009. Ennfremur er næstum öruggt, að umsækjandinn mun kæra þennan úrskurð beint til ESA, sem mun úrskurða honum í vil á grundvelli téðs orkulagabálks.  Þverskallist íslenzk yfirvöld, kærir ESA íslenzka ríkið fyrir EFTA-dómstólinum, sem mun dæma á sama veg og ESA.  Annaðhvort verður Orkustofnun þá að gefa sig eða ríkisstjórnin að segja EES-samninginum upp. Þá mun stefna í "harða útgöngu", sbr "hard BREXIT",  sem varla er ákjósanleg staða. Þess vegna má halda því fram, að þeir, sem samþykkja Þriðja orkumarkaðslagabálkinn séu þar með að leggja drögin fyrir markaðssetningu íslenzkrar raforku í erlendri raforkukauphöll, t.d. Nord Pool. 


Undanskot í loftslagsbókhaldi

Þegar fjallað er um losun gróðurhúsalofttegunda af völdum fólks og fyrirtækja hérlendis, er þætti millilandaflugs og millilandasiglinga iðulega sleppt.  Þar með er dregin upp kolröng heildarmynd og gert allt of mikið úr hlut landstarfseminnar í vandamálinu, sem orkuskiptin eiga að leysa.  Samið hefur verið um, að þessir losunarvaldar verði í bókhaldi EES með öðrum slíkum, en hið sama má segja um málmframleiðsluna, en hún er samt í íslenzka bókhaldinu.  Samkrullið við ESB á þessu sviði er til bölvunar fyrir Íslendinga, því að þeir hafa mikla möguleika á sviði kolefnisjöfnunar, en hún þarfnast hins vegar framkvæmdafjár frá losunarfyrirtækjunum.

Heildareldsneytisnotkun landsmanna án kola árið 2016 nam 1,46 Mt (Mt=milljón tonn), og fóru 0,98 Mt eða 68 % af heild til millilandaflugvéla og millilandaskipa.  Af þessu fóru um 80 % til flugsins eða 0,79 Mt.  Vegna þess, að losun gróðurhúsalofttegunda í háloftunum veldur tæplega þreföldum gróðurhúsaáhrifum á hvert losað tonn á við losun á jörðu niðri, jafngilti brennsla 0,79 Mt þotueldsneytis árið 2016 losun 7,11 Mt af CO2eq, sem er 52 % meira en "heildarlosun Íslands samkvæmt mælingum Umhverfisstofnunar", eins og Nína Guðrún Geirsdóttir skilgreindi "heildarlosun Íslands" 2016 í Baksviðsgrein í Morgunblaðinu 30. júlí 2018, en samkvæmt Umhverfisstofnun nam hún 4,67 Mt.  

Hvers vegna er þetta mikla misræmi ?  Losun flugs og siglinga heyrir ekki undir íslenzk yfirvöld, heldur undir Viðskiptakerfi Evrópusambandsins (ESB), sem veitir Íslandi losunarheimildir samkvæmt samkomulagi á milli EFTA-þjóðanna í EES og ESB.  Þetta er ógæfulegt fyrir Íslendinga, því að þar með fer mikið fé úr landi til greiðslu fyrir losun, sem er umfram losunarheimildir. Þegar þetta ESB-kerfi var platað inn á íslenzka embættismenn, hafa þeir ekki gert sér grein fyrir, að hér er tiltölulega meira landrými til afnota fyrir kolefnisjöfnun með landgræðslu en annars staðar. 

Fyrir landgræðslu- og landbótaframkvæmdir á Íslandi til kolefnisjöfnunar er nauðsynlegt til góðs árangurs að fá gjald fyrir umframlosun inn í landið og ekki til ESB.  Innlend kolefnisjöfnun þarf að fá skriðþunga til að verða samkeppnishæf við erlenda, og t.d. skógrækt til kolefnisjöfnunar hefur alla burði til að verða hér samkeppnihæf. Möguleikar Íslands til kolefnisjöfnunar eru meiri en hinna EFTA-landanna, og þess vegna var mjög misráðið af íslenzkum yfirvöldum að flækja landinu inn í þetta samkrull, sem er blindgata og jafngildir glötuðu fé.    

Það er hins vegar ekki "system i galskapet" hjá Umhverfisstofnun, því að hún hefur með í sínu landsbókhaldi útblástur stóriðjunnar, sem þó er undir Viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, eins og millilandaflutningarnir.  Hvers vegna er þetta misræmi?

Skal nú vitna í téða Baksviðsgrein,

"Vistvænni þróun samgangna á Íslandi":

"Skýrsla, sem unnin var af Verkfræðistofunni Eflu fyrir Vegagerðina og kom út á dögunum, skýrir frá mengun, er verður af völdum samgangna.

Kemur þar fram, að heildarlosun Íslands, samkvæmt mælingum Umhverfisstofnunar, var 4.670 þúsund tonn CO2 ígilda 2016.  Alls var losun gróðurhúsalofttegunda frá farartækjum á vegum Íslands 920 þúsund tonn CO2 ígilda sama ár, og valda bifreiðar því alls 20 % af heildarlosun landsins.  [Þetta hlutfall er allt of hátt, af því að millilandasamgöngum er sleppt.  Að þeim meðtöldum er hlutfallið 8 % - innsk. BJo.]  

Iðnaðurinn er stærsti þátturinn í þessari jöfnu með 47 % samanborið við 20 % í Evrópu.  [Rétt er, að losun iðnaðarins á koltvíildisígildum 2016 nam um 2,3 Mt, sem eru 19 % af réttri heild og 49 % af heild án millilandasamgangna.  Ef ekki á að telja losun millilandasamgangna með í íslenzka bókhaldinu, af því að þær eru í Viðskiptakerfi ESB, þá ætti af sömu ástæðu ekki heldur að telja losun stóriðjunnar með - innsk. BJo.]  Undir iðnað heyra framleiðsla hráefna og byggingarefna, en einnig framkvæmdir og byggingariðnaður."  

"Losun frá stóriðju eða iðnaði er í sérstöku viðskiptakerfi ESB fyrir losunarheimildir (e. EU ETS).  Kerfið hefur verið starfrækt innan ESB frá árinu 2005, og hafa EFTA-ríkin verið þátttakendur frá 2008.  [Íslenzka stjórnsýslan hélt illa á málum fyrir Íslands hönd og íslenzkra fyrirtækja með því að fella Ísland undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, því að með því var algerlega horft framhjá gríðarlegum möguleikum til kolefnisjöfnunar á Íslandi.  Hana er upplagt að fjármagna með sölu á kolefniskvóta til flugfélaganna og til stóriðjufyrirtækjanna.  Í staðinn þurfa fyrirtækin að greiða eins konar kolefnisskatt til ESB fyrir losun umfram úthlutaðar heimildir frá ESB.  Það er óskiljanlegt, hvernig stjórnvöld hérlendis láta ESB-búrókrata draga sig á asnaeyrunum inn í hvert ESB-kerfið á fætur öðru án þess að koma nokkuð nálægt mótun þess sjálf - innsk. BJo.] 

Fyrirtækjum innan Viðskiptakerfisins er úthlutað ákveðnum fjölda losunarheimilda án endurgjalds á viðskiptatímabilinu 2013-2020.  Stefnt er að því, að árið 2020 verði losun fyrirtækja innan Viðskiptakerfisins 21 % minni en árið 2005.  [Hérlendis má nota sömu viðmiðun og láta heimildir minnka línulega frá því að vera sömu á upphafsárinu 2008 og í raun 2005 í það að verða 21 % minni en í raun 2005 árið 2020.  Draga ætti Ísland út úr þessu EES-samstarfi án þess að slá af kröfunum, en veita þó íslenzkri náttúru tíma til að dafna og skila umtalsverðum bindingarafköstum til kolefnisjöfnunar - innsk. BJo.]

Það virðist vera, að íslenzk yfirvöld vilji helzt líta á það sem sitt meginviðfangsefni á þessu sviði að draga úr losun landumferðar.  Þegar hætta á olíbrennslu að mestu og verða sjálfbær, verður að virkja endurnýjanlegar orkulindir í staðinn, því að orkuþörfin eykst stöðugt, einnig í samgöngugeiranum.  Það er áhugavert að athuga, hvað það útheimtir mikla raforku, MWh/ár, og uppsett afl að rafvæða allan núverandi ökutækjaflota.  Við þessa athugun verður miðað við árið 2016:

  • Einkabílar: 240,5 k x 12,8 kkm/ár x 0,25 kWh/km
  • Rútubílar:    4,3 k x 50,0 kkm/ár x 1,10 kWh/km
  • Sendibílar:  24,5 k x 15,0 kkm/ár x 0,28 kWh/km
  • Vörubílar:   11,1 k x 25,0 kkm/ár x 1,32 kWh/km

Þegar þessi raforkuþörf mismunandi farartækja er lögð saman og bætt við flutnings- og dreifitöpum, fæst, að ný raforkuvinnsla í virkjun þarf að verða 1700 MWh/ár til að anna þessari raforkuþörf rafmagsfartækjanna.  M.v. venjulegan nýtingartíma virkjana á Íslandi þarf 230 MW virkjun til að framleiða þessa raforku, en vegna tiltölulega mikillar afltöku rafgeyma og hleðslutækja rafmagnsbifreiða, má búast við toppálagi frá þessum 280´000 (280 k) ökutækjum um 1000 MW.

Samkvæmt Orkuspárnefnd þarf að virkja 150 MW fram til 2030 til þess einvörðungu að afla raforku til aukinnar almennrar orkunotkunar. Ekki er ólíklegt, að iðnaðurinn þurfi 350 MW aukningu á 12 ára tímabili fram til 2030.  Þar með er virkjanaþörf orðin 1500 MW á næstu 15 árum eða svo, aðallega vegna orkuskipta í samgöngum á landi.  Það eru e.t.v.  10 % af þessu á döfinni, svo að ljóst er, að hér stefnir í algert óefni. 

Hvernig er forystu ríkisvaldsins fyrir orkuskiptunum eiginlega háttað, ef engin fyrirhyggja er sýnd, ekki einu sinni á formi hvatningar til orkufyrirtækjanna um að undirbúa nýja virkjanakosti og til Landsnets um að taka þetta nýja álag inn í Kerfisáætlun sína.  Þess í stað er gefið undir fótinn með að færa Orkustofnun ESB, ACER, lokaorðið um öll málefni raforkuflutninga á Íslandi og til og frá Íslandi, en Kerfisþróunaráætlun ACER felur m.a. í sér sæstrenginn Icelink á milli Íslands og Bretlands.  Þetta er gjörsamlega ótæk og pólitískt óþolandi forgangsröðun stjórnvalda.  Aðgerðaleysi og stefnumörkun í blóra við vilja almennings er eitruð blanda fyrir stjórnmálamenn, sem ætla sér framhaldslíf í pólitíkinni. 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband