Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
4.1.2023 | 11:13
Er valdframsalið til ESA/ACER minni háttar ?
Hér verður áfram haldið með þýðingu á grein Mortens Harper, lögfræðings hjá samtökunum "Nei til EU", NtEU, um dóm Lögmannsréttarins í máli NtEU gegn norska ríkinu:
"Meginviðfangsefnið við mat á því, hvort valdframsal megi samþykkja samkvæmt stjórnarskrárákvæði nr 26.2 með einföldum meirihluta, eða hvort það útheimti 3/4 mættra þingmanna í meirihlutanum samkvæmt stjórnarskrárákvæði nr 115, er, hvort framsalið er minni háttar eða ekki. Þetta hugtak er þó ekki tilgreint í stjórnarskrá Noregs, heldur hefur það þróazt í tímans rás, og hafa lögspekingar deilt um það. Lögmannsrétturinn leggur til grundvallar s.k. kenningu um minni háttar valdframsal. Um vald ESA samkvæmt ACER-reglugerðinni, kafla 8, er eftirfarandi tilfært í dóminum:
"Þegar um er að ræða gerð valdframsals, er til umræðu framkvæmdavald á formi stjórnvaldslegs fyrirskipanavalds gagnvart rekstraraðila. Þetta er takmörkun á völdum framkvæmdavalds. Það felur í sér, að eftirlits- og stjórnunarmöguleikar ríkisstjórnarinnar eru fjarlægðir. Þetta hefur líka þýðingu fyrir eftirlit þingsins og ábyrgð gagnvart stjórnarskrá. Lögmannsrétturinn telur samt sem áður, að þetta sé ekki kjarni formlegs valdframsals, þar sem samþykki norsku stjórnsýslustofnunarinnar RME þarf til að framkvæma og fylgja eftir ákvörðunum ESA gagnvart fyrirtækjum í Noregi. (...)
Einkenni valdsins í raun leitar í sömu átt, þar sem tilgangurinn er ekki yfirþjóðleg stjórnun, heldur að reglunaryfirvöld landanna reyni að verða samstiga. Úr þessu er samt dregið með því að fyrirkomulagið virkar næstum eins og kerfi til að skera úr um þrætur á milli reglunarstjórnvalda landanna." (Síður 34-35.)
Löggmannsrétturinn skrifar enn fremur:
"Orkumarkaðspakki 3 reglar orkusviðið og viðskipti með rafmagn. Þetta snertir þjóðfélagslega og stjórnmálalega hagsmuni með mjög mikla þýðingu. (...) Í heild hefur Orkumarkaðspakki 3 mikla þýðingu fyrir norska orkustefnu.
Völd ESA samkvæmt ACER-reglugerðinni eru hins vegar á sviði tæknilegra og faglegra viðfangsefna á rekstrarsviði og takmarkast við notkun innviða á milli landa (sæstrengi til útlanda)." (Síða 35.)
Ályktunin er, að valdframsal samkvæmt ACER-reglugerðinni, kafla 8, er "minni háttar". Að sömu niðurstöðu kemst Lögmannsrétturinn um heimild ESA til að fyrirskipa norskum orkufyrirtækjum að afhenda gögn og heimildina til að sekta þau, ef þessu er ekki hlýtt (reglugerðin um viðskipti yfir landamæri, kafli 20 og kafli 22, nr 2):
"Valdramsalið hefur að mati Lögmannsréttarins mjög takmarkað umfang og hefur ekki umtalsverð áhrif á þjóðfélagslegu og stjórnmálalegu hagsmunina, sem eru fyrir hendi á orkusviðinu." (Síða 37.)
Lögmannsrétturinn telur málið ekki vafa undirorpið:
"Einnig að afloknu heildarmati getur að dómi Lögmannsréttarins ekki leikið vafi á, að það tvenns konar valdframsal, sem er efni þessa máls, er minni háttar." (Síða 37.)
Að loknum lestri þessa tyrfna texta Landsréttarins norska veldur það ekki undrun, að NtEU hafi áfrýjað dómi hans til Hæstaréttar Noregs. Dæma þarf um, hvort RME (orkulandsreglari ACER) sé norskt stjórnvald samkvæmt norskum lögum og stjórnarskrá.
Hér verður haldið áfram þýðingu á grein Mortens Harpers, lögfræðings hjá "Nei til EU", NtEU, um dómsorð og greinargerðir Lögmannsréttarins í deilumáli NtEU við norska ríkið um atkvæðagreiðsluna um Orkupakka 3.
"Málið vekur líka upp spurninguna um það, hversu langt dómstólarnir geti gengið í að yfirfara eigið mat Stórþingsins. Ríkið hefur lagt þunga áherzlu á eigið stjórnarskrármat Stórþingsins sem röksemd gegn málsókninni. NtEU hefur hins vegar haldið því fram, að rétturinn verði að framkvæma nákvæma og vandaða rýni á því, hvort skilyrðin til að nota stjórnarskrárgrein nr 26.2 í stað gr. nr 115 séu uppfyllt.
Lögmannsrétturinn fellst að nokkru leyti á þetta viðhorf NtEU:
"Að loknu heildarmati sínu hefur Lögmannsrétturinn - í vafa - komizt að þeirri niðurstöðu, að athugun dómstólanna á því, hvort valdframsal sé léttvægt (lítið inngrípandi í þjóðlífið) eigi að vera nokkuð öflugri en það, sem venjulega á við um stjórnarskrárákvæði, sem stýra vinnulagi annarra greina ríkisvaldsins eða innbyrðis valdsviði. Í ljósi kröfu stjórnarskrárinnar, gr. 115, um aukinn meirihluta, og að hér er um að ræða að gera undantekningu við þá stjórnarskrárbundnu reglu, að framkvæmd valds skal vera á hendi norskra valdstofnana, leggur Lögmannsrétturinn meiri áherzlu á að taka tillit til minnihlutaverndarinnar en á þau raunatriði, sem ríkið hefur vísað til. Með vísun til þrískiptingarinnar er Lögmannsrétturinn þannig þeirrar skoðunar, að sannprófunin (rýnin) verði sambærileg þeirri, sem gildir um málefnaflokkinn efnahagsleg réttindi." (Síður 23-24.)
RÉTTURINN FINNUR TVENNS KONAR VALDFRAMSAL Í OP3
"Samantekið fól samþykkt Stórþingsins 22. marz 2018 í sér tvenns konar valdframsal", skrifar Lögmannsrétturinn og útlistar:
"Í fyrsta lagi var vald framselt til ESA til að gefa RME (orkulandsreglara ESB í Noregi) fyrirmæli um tæknileg viðfangsefni í sambandi við notkun innviða á milli landa, sbr ACER reglugerðina, kafla 8.
Í öðru lagi var framselt fyrirmæla- og sektarvald til ESA samkvæmt reglugerð um orkuviðskipti á milli landa, kafla 20 og kafla 22, nr 2, og þar með dómsvald til EFTA-dómstólsins." (Síður 33-34.)
Lögmannsrétturinn fjallar nánar um valdframsal í ACER-reglugerðinni þannig:
"Samkvæmt ACER-reglugerðinni, kafla 8, hefur ACER/ESA vald í sambandi við innviði á milli landa til að "taka ákvörðun um stjórnunarviðfangsefni, sem voru á valdsviði innlendra stjórnvalda, þ.á.m. um skilyrði fyrir aðgangi og rekstraröryggi".
(...)
Lögmannsrétturinn undirstrikar, að kafli 8 veiti ekki heimild til að taka ákvarðanir um t.d. að leggja nýja (sæ)strengi, að reisa orkuver, breyta eignarhaldsreglum eða að gefa út framkvæmda- eða rekstrarleyfi. (...) Rafmagnsverðið verður til á markaði. Verðmyndun á markaði verður vitaskuld fyrir áhrifum af þátttöku Noregs í innri orkumarkaði ESB. NtEU hefur rétt fyrir sér um, að ACER/ESA getur óbeint haft áhrif á rafmagnsverðið með framlagi sínu til þess, að þetta sé skilvirkur markaður með virkum innviðum fyrir orkuflutninga milli landa. Lögmannsrétturinn getur samt ekki séð, að nokkuð sé hæft í, að formleg völd ACER/ESA til ákvarðanatöku sé áhrifavaldur á rafmagnsverðið." (Síður 27-28.)
Um orkulandsreglarann (RME) er farið eftirfarandi orðum í dóminum:
"Þar sem endanleg ákvörðun, sem varðar Noreg, er tekin hjá RME, sem er norsk stjórnsýslustofnun, eru völd ESA yfir RME bara af þjóðréttarlegu tagi. Í samræmi við hefðbundin fræði má þess vegna halda því fram, að ekkert valdframsal hafi orðið til ESA. Að RME - til að uppfylla kröfur EES-regluverksins - er stofnsett sem óháð stjórnsýslustofnun, sem [ríkið] getur ekki gefið fyrirmæli, samtímis sem ESA eru veitt völd til að taka réttarlega bindandi ákvarðanir um fyrirmæli til RME, veldur hins vegar því, að Lögmannsrétturinn - eins og málsaðilarnir - lítur svo á, að átt hafi sér stað formlegt valdframsal til ESA." (Síða 29.)
Lögmannsrétturinn fjallar þó ekki nánar um hlutverk RME sem orkureglara, sem áhrif hefur á hagsmunaaðila í Noregi. Lögbundna sjálfstæðið gagnvart valdhöfum ríkisins veldur því, að ekki er unnt að telja RME vera venjulega norska stjórnvaldsstofnun, og meta hefði þurft, hvort völd RME sé viðbótar vídd í valdframsalinu. Fyrirmæla- og sektarvaldið, sem ESA hefur, gildir um að afla gagna beint frá orkufyrirtækjunum, í raun frá Statnett varðandi Noreg [Statnett er norska Landsnet].
"Það er óumdeilt, að þetta jafngildir valdframsali til ESA", skrifar Lögmannsrétturinn (síða 30) og bætir við, að enn hafi slíkar ákvarðanir ekki verið teknar."
Hér verður látið staðar numið í hluta 2 af 3 þýðingum á grein Mortens Harpers um nýlegan dóm á millidómsstigi í Noregi um þá kröfu NtEU að fá úrskurði Stórþingsins um að viðhafa einfalt meirihlutaræði við atkvæðagreiðslu um OP3 hnekkt. Það má hverjum leikmanni vera ljóst, að ýmislegt í málatilbúnaði samtakanna hlaut hljómgrunn í Lögmannsréttinum, þótt niðurstaða hans yrði, að valdframsalið til ESA/ACER væri lítið inngrípandi í þjóðlífið, heldur væri aðallega þjóðréttarlegs eðlis. Í 3. og lokapistlinum um þetta verður einmitt fjallað um það, hvort valdframsalið hafi verið áhrifalítið á þjóðlífið eða ekki.
29.12.2022 | 10:59
Hvaða þýðingu hefur ACER-dómur lögmannsréttarins norska ?
Hérlendis hefur hlakkað í verjendum innleiðingar orkulöggjafar Evrópusambandsins (ESB) á Íslandi með misviðeigandi hætti yfir dómi Borgarþings Lögmannsréttarins í máli samtakanna "Nei til EU", NtEU, gegn norska ríkinu. Deilan snýst um, hvort Stórþinginu hafi verið heimilt í marz 2018 að ákveða að láta aðeins einfaldan meirihluta ráða úrslitum atkvæðagreiðslu um Orkupakka 3, OP3, eða hvort þinginu hafi borið samkvæmt Stjórnarskrá Noregs að viðhafa kröfu um aukinn meirihluta, sem jafngildir a.m.k. 75 % stuðningi a.m.k. 2/3 Stórþingsmanna, þ.e. a.m.k. 50 % stuðningi allra þingmannanna.
Morten Harper, lögfræðingur og leiðtogi greininga hjá NtEU, skrifaði um málið á vefsetur samtakanna 8. desember 2022, og þar sem sjónarmið hans og túlkun kunna að vekja áhuga sumra hérlendis, fer hér á eftir þýðing á fyrsta hluta af þremur í grein hans:
"Þann 7. desember [2022] var kveðinn upp dómur í ACER-málinu í Borgarþingi lögmannsrétti. Í réttinum sátu 3 fagdómarar og 2 leikmenn, og dómurinn var samhljóða. Tökum niðurstöðuna fyrst:
"Ályktun Lögmannsréttarins er, að Stórþingið gat veitt heimild til staðfestingar á samþykkt nr 93/2017 frá EES-nefndinni samkvæmt aðferðinni, sem fyrirskrifuð er í Stjórnarskránni, gr. 26, lið 2. Áfrýjun Nei til EU er þess vegna hafnað." (Dómsorð, s. 37.)
Þótt ríkið hafi hlotið meðbyr, þarf NtEU samt ekki greiða málskostnað ríkisins í þingréttinum og lögmannsréttinum. Lögmannsrétturinn rökstyður þetta með því, að málið hafi fjallað um "umdeild, óútkljáð og grundvallandi lagaspurningar, sem séu verulega samfélagslega áhugaverðar" (síða 38).
RÉTTURINN METUR FORMLEGT VALDAFRAMSAL
Lögmannsrétturinn tekur fram, að það, sem metið er í málinu, er valdaframsal til að taka ákvarðanir, sem eru bindandi í Noregi; ekki umfang orkuregluverks, sem bindur Norðmenn sem þjóð (þjóðréttarlegar skuldbindingar). "Lögmannsrétturinn undirstrikar, að framkvæmdin sé reist á strangri aðgreiningu á milli formlegs og raunverulegs valdaframsals ...", eins og segir í dóminum (s. 16), þar sem einnig stendur:
"Spurningin um valdframsal til alþjóðlegra stofnana hefur á síðustu áratugum orðið raunhæfara viðfangsefni, ekki sízt vegna EES-samningsins, sem gekk í gildi 1. janúar 1994. Þetta stendur einkum í sambandi við, að ESB-samvinnan hefur stöðugt færzt í átt til aukinnar samræmingar og stjórnunar með myndun ESB-stofnana með yfirþjóðlegt vald til ákvörðunartöku, sem hefur beina verkun í aðildarlöndunum. Innan EES-samstarfsins hefur lausnin venjulega verið sú að veita ESA samsvarandi vald til ákvarðanatöku með verkun í EFTA-löndunum að því gefnu, að ákvarðanirnar endurspegli í heild sinni gjörninga ESB. Um það eru samt dæmi, að vald hafi verið fært til ESB-stofnana. Vísað er til umfjöllunarinnar í HR-2021-655-P, Greinargerð, atriði 3.3-3.8." (Síða 15.)
Ennfremur skrifar rétturinn, að EES-samningurinn og norsk samþætting í orkumarkað ESB jafngildi verulegu valdframsali í raun:
"Þátttaka Noregs á Innri orkumarkaði ESB og þjóðréttarlegar skuldbindingar okkar á þessu sviði hefur mikla þýðingu fyrir stjórnun norskra orkumála. Hún hefur t.d. áhrif bæði á afhendingaröryggið og verðmyndunina á rafmagni í Noregi. Eins og með EES-samninginn sem slíkan felur þetta í raun í sér verulegt valdframsal. Þessar áhrifaríku og umfangsmiklu þjóðréttarlegu skuldbindingar eru engu að síður í sjálfum sér án vafa innan samningsvaldsviðs samkvæmt Stjórnarskrá - lið 2, og eru ekki til úrskurðar í þessu máli. Stjórnarskrárspurningin - lagaeftirlitið - í þessu máli á einungis við formlega valdið, sem var framselt við samþykki Stórþingsins 22. marz 2018, sbr lið 3.1 að ofan." (Síður 25-26.)
UPPSÖFNUN: MARGT SMÁTT GERIR EITT STÓRT
NtEU hélt því fram, með vísun til greinargerðar Hæstaréttar um 4. járnbrautarpakka ESB (marz 2021), að fullveldisframsalið í málinu verði að meta sem heild með öðru valdframsali á orkusviðinu. Það spannar nokkrar reglugerðir Framkvæmdastjórnarinnar og 4. orkupakka ESB, sem að efni til var þekktur, þegar Stórþingið tók sína ACER-ákvörðun í marz 2018 (4. orkupakkinn var lagður fram sem tillaga Framkvæmdastjórnarinnar, hann var samþykktur í ESB 2019). Ríkið hefur hins vegar hafnað því að taka tillit til uppsöfnunar, þar sem safnað er saman nokkrum Stórþingssamþykktum til að meta, hversu áhrifaríkt valdframsalið hefur verið.
NtEU fær að nokkru leyti stuðning við þetta sjónarmið. Lögmannsrétturinn skrifar:
"Regla um uppsöfnun styður að hafa beri hliðsjón af raunverulegri og skilvirkri minnihlutavernd. Ef tiltekið valdframsal er einvörðungu metið einangrað og ekki er höfð hliðsjón af fyrra valdframsali, mun í tímans rás - smámsaman - geta átt sér stað valdframsal, sem er langtum meira en lítt áhrifaríkt fyrir þjóðlífið. (...) Á grundvelli einróma greinargerðar Hæstaréttar og með tilliti til raunverulegrar og skilvirkrar minnihlutaverndar leggur Lögmannsrétturinn til grundvallar gerðum sínum, að reglan um uppsöfnun sé í gildi við mat. Að mati Lögmannsréttarins nær minnihlutaverndin lengra en bara til að hindra sniðgöngu."(Síða 19.)
Ennfremur segir í dóminum:
"Lögmannsrétturinn telur, að varðandi spurninguna um að heimila valdframsal til ESB/EES-stofnana á orkusviðinu verði að hafa í huga valdframsal, sem áður hafi farið fram á þessu sviði. Þar sem áður hefur ekki farið fram valdframsal á orkusviði, hvorki með sjálfum EES-samninginum eða seinni lagagjörðum fram að og með Orkumarkaðspakka 2, fjallar Lögmannsrétturinn ekki nánar um, hvaða sértækari kröfur verður að gera t.d. til málefnalegs og tímanlegs samhengis á milli valdframsala." (Síða 20.)
Hér verður réttinum reyndar á fingurbrjótur. Það er rangt, að áður hafi ekki átt sér stað valdframsal á orkusviðinu. Reglugerð (EB) 1228/2003 um viðskipti með rafmagn, sem var hluti af ESB-Orkumarkaðspakka 2 og var innleiddur í EES árið 2007, felur í sér bæði upplýsingaskyldu og og sektarheimild. Í áliti sínu 8. desember 2004 komst Lagadeild Stórþingsins að þeirri niðurstöðu, að valdið til að sekta "með vafa" væri áhrifalítið (sjá frv. 4 S (2017-12018), síðu 28).
Lögmannsrétturinn styður ekki sjónarmið NtEU um, að einnig síðari tíma valdframsal skuli taka með í reikninginn:
"Að mati Lögmannsréttarins getur uppsöfnunarreglan aðeins virkað "aftur á bak í tíma". Þetta gildir óháð því, hversu sterk málefnaleg eða tímanleg tenging er við framtíðar framsal." (Síða 20.)
Rétturinn telur heldur ekki, að þær 4 reglugerðir Framkvæmdastjórnarinnar, sem eru viðbætur við Orkupakka 3 og voru teknar inn í EES-samninginn 2021, "réttarlega séð varpi ljósi á innihald og umfang valdsins, sem var framselt árið 2018" (síða 33).
Samt stendur í dóminum, að "vald ESA til að taka ákvarðanir, sem varða RME [orkulandsreglara Noregs] sem óháð stjórnvald [var] aukið" (síða 32)."
Lögmannsrétturinn fellst að sumu leyti á rök NtEU, en það hefur alltaf verið ljóst, að til að snúa við ákvörðun Stórþingsins fyrir rétti í Noregi þyrfti hið pólitíska deilumál að vera hafið yfir lagalegan efa. Samt verður nú þessi leið reynd til þrautar fyrir Hæstarétti Noregs. Þetta deilumál sýnir, hversu hæpið er að kveða á um það í stjórnarskrá, að þingið geti metið það sjálft, hvers konar kröfur eigi að gera um atkvæðagreiðslu þess, þ.e. hvort einfaldur meirihluti skuli duga eða regla um aukinn meirihluta viðhöfð. Það hlýtur jafnan að vera freistandi í ágreiningsmálum, þegar einfaldur meirihluti þings vill framselja vald til erlendrar stofnunar, þar sem landið er ekki fullgildur aðili, að láta einfaldan meirihluta duga.
Annar hluti af þremur þessarar greinar Mortens Harpers verður birtur í næsta pistli hér á vefsetrinu.
26.12.2022 | 10:44
Ný skattheimta veldur kollsteypu í strandbyggðum Noregs
Nýlega bárust fregnir af fáheyrðri fyrirhugaðri viðbótar skattheimtu norsku ríkisstjórnarinnar undir forsæti forríks krata, Jonasar Gahr Störe, af atvinnustarfsemi, sem hefur verið hryggjarstykkið í byggðum meðfram endilangri strandlengju Noregs. Fyrir vikið varð strax fjármagnsflótti úr greininni, fyrirtæki lögðu fjárfestingar á ís og gerðu áætlanir um að draga úr starfsemi og fækka starfsfólki. Þetta mun valda atvinnuleysi í byggðunum, ef úr verður, og fólksflótta. Þannig er þetta skólabókardæmi um skaðleg áhrif ríkisvaldsins, þegar það verður of gírugt og gengur of hart að fyrirtækjunum.
Þetta sýnir líka vanþekkingu embættismanna og stjórnmálamanna á atvinnustarfseminni, samkeppnishæfni hennar og burði til að bera miklu meiri skattheimtu en fyrirtæki í annars konar starfsemi þurfa að búa við. Hið opinbera verður að gæta jafnræðis og meðalhófs. Ef kýrin er ofmjólkuð, eyðileggst júgrið strax, kýrin veikist og hættir að gefa nokkuð af sér, og fólkið á bænum lepur fyrir vikið dauðann úr skel. Vönduð greining verður að vera undanfari nýrrar skattheimtu.
Gunnlaugur Snær Ólafsson, blaðamaður, tók saman fróðlega fréttaskýringu í 200 mílum Morgunblaðsins 1. desember 2022 um það, hvernig ríkisstjórn Noregs virðist fara offari í skattheimtu á sjókvíaeldi við Noregsstrendur. Ofurskattheimta á aldrei við og sízt, þegar samkeppnisgreinar á alþjóðlegum mörkuðum eiga í hlut, og tímasetningin er alslæm, því að nú harðnar á dalnum á matvælamörkuðum Evrópu og víðar. Það gæti leitt til lækkunar á dýrum matvælum, ef ódýrari staðgönguvara er fyrir hendi. Fréttaskýring Gunnlaugs bar fyrirsögnina:
"Ringulreið vegna auðlindagjalds".
Hún hófst þannig:
"Óhætt er að segja, að tillaga norsku ríkisstjórnarinnar um að innleiða nýjan auðlindaskatt, s.k. grunnleigu, á sjókvíaeldi hafi fallið í grýttan jarðveg í samfélögunum meðfram strandlengju landsins. Skattahækkunin, sem lögð er til, hefur haft ýmsar hliðarverkanir, sem ekki virðist hafa verið gert ráð fyrir við mótun tillögunnar. Fyrirtæki hafa hætt við fjárfestingar, gripið til uppsagna, og norska ríkisstjórnin hefur þurft að minnka gjaldstofn nýs auðlegðarskatts sem og [að] bæta upp hundruða milljóna tap norska fiskeldissjóðsins, "Havbruksfondet"."
Hér er hrapað ótrúlega að viðbótar gjaldtöku, og jafnvel vafamál, hvort nokkur þörf var á einhverri viðbótar gjaldtöku. Fyrir vikið og vegna orkumálanna koma nú norsku stjórnarflokkarnir afar illa út í fylgisathugunum á landsvísu, og má segja, að Miðflokkurinn hafi beðið afhroð, en hann er dæmigerður dreifbýlisflokkur, og fjármálaráðherrann er formaður hans. Fylgi Verkamannaflokksins hefur rýrnað minna, en tæp 3 ár eru í næstu Stórþingskosningar, og stjórnarflokkarnir gætu náð vopnum sínum á kjörtímabilinu.
"Norska ríkið gerir ráð fyrir, að grunnleigan, ásamt tekjuskatti lögaðila, geri það að verkum, að jaðarskattar fiskeldisfyrirtækja verði 62 %, en að skatthlutfallið verði 51,3 %. Á móti benda fiskeldis- og vinnslufyrirtækin á, að grunnleigan, sem lögð er til, bætist við hækkun auðlegðarskatts á framleiðsluleyfi, sem hafa verið út gefin, hækkun tekjuskatts lögaðila, hærra framleiðslugjald og hærri auðlindaskatt. Það sé því í raun verið að leggja 80 % skatt á sjókvíaeldið."
Hér hefur norsku ríkisstjórninni orðið alvarlega á í messunni. Enginn heiðarlegur atvinnuvegur getur staðið undir þvílíkri ofurskattheimtu, og þess vegna er ríkisstjórnin í raun að kippa fótunum undan blómlegri atvinnugrein, og um leið munu sjávarbyggðir víða hrynja. Þetta eru ótrúlegar aðfarir Trygve Magnus Slagsvold Vedum, sem verið hefur fjármálaráðherra síðan í október 2021 og formaður Miðflokksins síðan 2014. Vedum er garðyrkjumaður frá Stange í Innlandet og hefur setið á Stórþinginu síðan 2005.
Fylgi Miðflokksins hefur nú hrunið niður í "bjórstyrk". Vedum verður að leiðrétta mistök sín. Fyrirtæki eru ekki mjólkurkýr fyrir hið opinbera. Þau eru til að skapa verðmæti og atvinnu. Ef þau hagnast og geta þar af leiðandi borgað tekjuskatt, er það jákvætt. Gjaldheimta af auðlindanotkun og framleiðslu er vandmeðfarin, og þar verður að gæta sanngirni og jafnræðis, svo að stjórnvöld skekki ekki samkeppnishæfni um fjármagn, starfsfólk og markaði.
"Í kjölfar tilkynningar norsku ríkisstjórnarinnar um nýja grunnleigu af sjókvíaeldi hófu hlutabréf fiskeldisfyrirtækjanna, sem skráð eru í kauphöllina í Ósló, að falla. Verðmæti þeirra dróst á einum degi saman um mrdNOK 44, um mrdISK 632, eins og gengið er nú. Samhliða hafa fyrirtækin sett fjárfestingar fyrir um mrdNOK 24 á ís."
Þetta sýnir, hvað tilkynningar ráðherra um fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar geta verið afdrifaríkar fyrir fjárhagsstöðu fyrirtækja og atvinnuöryggi launþega. Þetta á alveg sérstaklega við, þegar fyrirætlun ráðherra er íþyngjandi fyrir fyrirtæki, sem skráð eru í kauphöll. Þau verða að stíga varlega til jarðar, og það verða líka viðkomandi stjórnvöld og gagnrýnendur þessara fyrirtækja að gera. Hérlendis hafa fyrirtæki ekki þurft að þola kollsteypur af þessu tagi af hendi fjármálaráðherra frá dögum "einu hreinu vinstri stjórnarinnar" 2009-2013, en sum hafa mátt þola miklar ágjafir og jafnvel herferðir í fjölmiðlum og af hendi fjölmiðla. Er þar oft hátt reitt til höggs af mismikilli fyrirhyggju og ígrundun.
"Um miðjan nóvember [2022] sagði fiskeldisfyrirtækið Salmar upp 851 starfsmanni í vinnslustöðvum félagsins á Fröya og Senja. Ástæða uppsagnanna var í fréttatilkynningu sögð tillaga ríkisstjórnarinnar um auknar álögur á greinina, "sem hefur eyðilagt markaðinn fyrir langtíma samninga á föstu verði. [...] Slíkir samningar eru venjulega gerðir löngu fyrir afhendingu, og eru þeir algjörlega nauðsynlegir til að fylla aðstöðuna af nægri vinnslustarfsemi", sagði í fréttatilkynningunni."
Axarskapt norsku ríkisstjórnarinnar hefur haft hrapallegar afleiðingar fyrir atvinnuöryggi starfsmanna fiskeldisfyrirtækjanna á strönd Noregs. Áður en einhverjum hérlendum stjórnmálamanni dettur næst í hug að fara fram með vanhugsaðar tillögur um auðlindagjald, framleiðslugjald eða hvaða nöfnum, sem tjáir að nefna gjaldtökuhugmyndir þeirra, ættu þeir að leiða hugann að alvarlegum afleiðingum slíkra gjörða hjá frændum vorum, Austmönnunum.
23.12.2022 | 11:32
Fyrsti innlendi ráðherrann
Heimastjórnin 1904 markaði meiri þáttaskil en sú stjórnkerfisbreyting í Danaveldi ein og sér gaf tilefni til að ætla, að verða mundi. Ástæða þess var einfaldlega sá mannkostamaður af íslenzku bergi brotinn, sem til starfans valdist. Hetjuljómi hefur leikið um manninn Hannes Hafstein, fyrsta ráðherrann með skrifstofu í gamla og íburðarlausa stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg, í huga höfundar þessa vefpistils, síðan hann á æskuárum sínum réðist í að lesa viðamikið nýútkomið ævisögurit þessa manns, sem hann hafði kynnzt örlítið við að vera látinn læra nokkur kvæða hans utanbókar í barnaskóla.
Við lestur ágætrar yfirlitsgreinar nafna hans, Hólmsteins Gissurarsonar og frænda þessa höfundar um ættir Vatnsdælinga í A-Húnavatnssýslu, í Morgunblaðinu 13. desember 2022, rifjuðust upp kynnin af þessu glæsi- og gáfumenni.
Hannes Hafstein skildi vel, hvað þjóð hans þurfti mest á að halda, og með skáldlegu innsæi sínu hefur hann vafalaust skynjað, hvílíka ofurkrafta yrði hægt að beizla með þjóðinni, ef hún aðeins fengi þau tækifæri, sem dygðu til atvinnuuppbyggingar. Tvennt þurfti til að virkja þessa krafta: erlent fjármagn (innlent var ekki til í teljandi mæli) og verktæknilega þekkingu. Hann lagði grunn að hvoru tveggja með því að laða erlent fjárfestingarfjármagn til landsins, og hann lagði grunn að verklegum framförum í landinu á sviði veitna, vega- og brúargerðar með því að skipa Jón Þorláksson, Landsverkfræðing, 1905.
Jón Þorláksson fæddist á Vesturhólum í V-Húnavatnssýslu. Hann var einn nánasti og eindregnasti stuðningsmaður Hannesar Hafstein á Heimastjórnarárunum, 1904-1918. Nú verður vitnað í téða grein Hannesar Hólmsteins:
"Stjórnmálamaðurinn Hannes Hafstein":
"En það var eins og ný tíð gengi í garð árið 1904, þegar það gerðist hvort tveggja, að Íslendingar fengu heimastjórn og að nýr banki tók til starfa, Íslandsbanki, sem átti ásamt Landsbankanum eftir að fjármagna vélvæðingu fiskiskipaflotans.
Fyrir einstaka tilviljun varð nú fyrsti íslenzki ráðherrann skáldið, sem hafði ort hvað bezt um framfaraþrá þjóðarinnar, Hannes Hafstein. Í dag er þess minnzt, að 100 ár eru liðin frá láti hans. Jafnvel heitir andstæðingar Hannesar viðurkenndu á sinni tíð, að hann væri ekki aðeins snjallt og rismikið skáld, heldur líka glæsimenni, sem væri geðfelldur í viðkynningu, vinmargur og vinsæll og kynni að koma virðulega fram fyrir Íslands hönd.
Honum var hins vegar stundum brugðið um að hafa ekki aðra hugsjón en eigin frama. Því fór þó fjarri. Hannes stóð traustum fótum í íslenzkri stjórnmálaarfleifð og hafði til að bera sterka sannfæringu, þótt vissulega væri hún milduð af eðlislægri sáttfýsi og langri reynslu."
Vissulega var Hannes Hafstein hugsjónamaður og meginhugsjón hans var sú að bæta hag íslenzku þjóðarinnar með hjálp nútíma tækni og erlends fjármagns. Þetta varð síðan meginþema framfarasinna hérlendis alla 20. öldina, og auðvitað mátti hann kljást við ýmiss konar dragbíta, en hann áorkaði samt viðamiklu verki í samstarfi við Landsverkfræðing sinn og marga aðra, sem sáu, hvað þurfti að gera og fundu út, hvernig ætti að gera það. Ekki vantar heldur dragbíta á framfarir 21. aldarinnar, og þeir klæðast margir dulargervi landverndar og heimsendaspámennsku á grundvelli rangs mats á hlýnun andrúmslofts, eins og menn geta séð, ef þeir fletta upp á "Dr John Christy, director of the University of Alabama/Huntsville´s Earth System Science Centre, ESSC".
"Hannes Hafstein var umfram allt þjóðrækinn og frjálslyndur framfarasinni. Í minningargrein sagði einn nánasti samstarfsmaður hans, Jón Þorláksson, forsætisráðherra:
"Grundvallarhugsun Hannesar Hafstein í sambandsmálinu hygg ég hafa verið þá, að hann vildi afla landinu þeirra sjálfstæðismerkja og þess sjálfstæðis, sem frekast var samrýmanlegt þeirri hugsun að halda vinfengi danskra stjórnmálamanna og fjármálamanna og áhuga hjá þeim fyrir því að veita þessu landi stuðning í verklegri framfaraviðleitni sinni.""
Þarna er vel að orði komizt, og Jón Þorláksson mátti trútt um vita hugarþel síns nána samverkamanns. Þarna kemur vel fram, hversu raunsær og mikill raunhyggjumaður Hannes Hafstein var. Hann notaði þó skáldlega andagift sína til að vísa sér leið, en síðan raunsæið til að komast sem hraðast áfram og sem lengst. Hann vildi ekki ganga svo langt í sjálfstæðismálinu, að Danir gæfu Íslendinga upp á bátinn. Hann vildi einfaldlega nýta verkþekkingu þeirra og markaðsþekkingu til hagsbóta fyrir landslýð, á meðan honum yxi fiskur um hrygg í efnalegu tilliti.
Þetta minnir dálítið á þróun virkjanatækninnar í landinu á 20. öldinni. Fyrir utan virkjanir bæjarlækjanna var hönnun og verkstjórn að mestu í höndum fyrirtækja á Norðurlöndunum og annars staðar fram að og með Búrfellsvirkjun, en með henni urðu umskipti í verklegum efnum á þessu sviði, og verksmiðjan, sem hún knúði, ISAL í Straumsvík, markaði líka þáttaskil í tæknilegum efnum á iðnaðarsviðinu.
Hannes Hafstein var tvímælalaust frumkvöðull í hópi stjórnmálamanna um þróun íslenzkra atvinnuvega inn í nútímann. Það, sem gerðist í þeim efnum á 20. öldinni, var afrek á evrópskan mælikvarða og þótt víðar væri leitað.
"Hannes vildi, að Íslendingar væru vinir annarra þjóða, ekki sízt viðskiptavinir þeirra, en hann vildi ekki, að þeir væru þegnar þessara þjóða, heldur skyldu þeir ráða eigin málum, vera fullvalda þjóð. En sú fullvalda þjóð gat ekki lifað á munnvatni og fjallagrösum, heldur þurfti hún erlent fjármagn til að nýta kosti lands og sjávar. Haga varð því málum hyggilega, laða útlendinga að í stað þess að fæla þá frá."
Þetta er hverju orði sannara, og þetta varð pólitísk arfleifð þeirra baráttufélaganna, Hannesar Hafstein og Jóns Þorlákssonar. Jón Þorláksson varð árið 1929 formaður Sjálfstæðisflokksins, sem þá var stofnaður við sameiningu Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins. Sjálfstæðisflokkurinn hefur allan tímann staðið vörð um þetta grundvallarstef í framfarasókn þjóðarinnar. Framfarasóknin tafðist mikið í Kreppunni miklu á 4. áratugi 20. aldarinnar, þegar Framsóknarflokkur og Alþýðuflokkur komu á haftabúskap, sem varði hér lengur en í nokkru öðru lýðræðisríki Evrópu, og þjóðin var ekki leyst úr viðjum viðskiptahaftanna fyrr en Viðreisnarstjórnin undir forystu Sjálfstæðisflokksins komst hér til valda 1959.
Framsóknarflokkurinn og Alþýðubandalagið, forveri vinstri grænna og Samfylkingar, börðust t.d. hatrammlega gegn Búrfellsvirkjun og ISAL á sinni tíð, en Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur voru þá í raun að framfylgja stefnu fyrsta ráðherrans og fyrsta formanns Sjálfstæðisflokksins. Nú hafa afturhaldsöflin tekið á sig aðra mynd, dulargervi, reynt að aðlaga sig aðstæðum.
"Þessa hugsun um afstöðu Íslendinga til annarra þjóða má rekja allt til Snorra Sturlusonar [Reykholtshöfðingja], en hann samdi ræðu Einars Þveræings, sem átti að hafa verið flutt á Alþingi árið 1024, þá er Þórarinn Nefjólfsson bar Íslendingum boð Ólafs digra um, að þeir gerðust honum handgengnir. Snorri lætur Einar segja, að víst sé þessi konungur góður, en hitt sé ljóst, að konungar séu misjafnir, sumir góðir og aðrir ekki, og sé því Íslendingum bezt að hafa engan konung. Íslendingar skuli hins vegar vera vinir Ólafs konungs og gefa honum gjafir. Í Heimskringlu Snorra er eitt meginstefið, að öðru hverju komist til valda konungar, sem heyi stríð og leggi á þunga skatta landslýð til óþurftar."
Að játa konungi hollustu gat auk skattskyldunnar vafalítið leitt til herskyldu ungra Íslendinga, ef konungur framkvæmdi herútboð. Þá var ákjósanlegra fyrir Íslendinga að geta valið sér flokk stríðandi fylkinga í Noregi, eins og Snorri gerði í átökum Skúla jarls og Hákonar gamla, en þar veðjaði Snorri á rangan hest, sem varð honum dýrkeypt.
Þormóður Kolbrúnarskáld gekk í lið Ólafs digra, varð hjá honum hirðskáld og féll með honum á Stiklastöðum 1030. Þegar ör var dregin úr brjósti hans í sjúkratjaldi konungsmanna, fylgdu hvítleitar trefjar með, sem líktust fitu. Skáldið brást við með því að lofa konung sínn með orðunum "og vel hefur konungur vor alið oss", og féll hann síðan dauður niður. Skáldið brá sér hvorki við sár né dauða. Þessi forni andi var með öllu horfinn í Kófsfárinu, sem hér geisaði 2020-2021, þar sem viðbrögð stjórnvalda urðu ríkissjóði hrottalega dýr og ollu meira heilsufarstjóni en veiran (SARS-CoV-2) sjálf. Eins og yfirvöld í kommúnistaríkinu Kína valda samfélagslegar lokanir gríðarlegu tjóni og gera heilsufarlega minna en nokkurt gagn, tefja aðeins framrás veirunnar, því að bóluefnin eru mjög gagnslítil og gera í sumum tilvikum illt verra.
Það, sem lá í orðum Snorra í Reykholti var, að allt of áhættusamt væri fyrir Íslendinga að játast undir erlent vald, því að það gæti fyrr en síðar sölsað undir sig úrslitavald um íslenzk málefni. Þetta á í hæsta máta við um það, ef innlendir glópar við einhverjar annarlegar aðstæður ná að véla landsmenn til að ganga í Evrópusambandið. Auðlindir landsins yrðu þá þegar í uppnámi, og við yrðum færð aftur á reit, sem er handan Heimastjórnar. Öll hin mikla barátta yrði unnin fyrir gýg.
"Í innanlandsmálum fylgdi Hannes Hafstein þeirri frjálslyndu stefnu, sem hann hafði kynnzt á námsárum sínum í Kaupmannahöfn. Voru fyrri ráðherraár hans frá 1904-1909 eitt mesta framfaraskeið Íslandssögunnar, eins og alkunna er. Þjóðin brauzt úr fátækt í bjargálnir, fólk flykktist úr kotunum í þéttbýlið, innlendir kaupmenn leystu erlenda af hólmi, íslenzkir vélbátar og togarar drógu björg í bú, nýtt fjármagn skapaðist [við aukinn útflutning-innsk. BJo]. Ólíkt því, sem gerðist í mörgum öðrum Evrópulöndum á þeim árum, dró úr fólksflutningum vestur um haf. Þetta var öld hinnar frjálsu samkeppni, en henni mátti lýsa með fleygum orðum Hannesar árið 1882:
Ég elska þig stormur, sem geisar um grund
og gleðiþyt vekur í blaðsterkum lund,
en gráfeysknu kvistina bugar og brýtur
og bjarkirnar treystir um leið og þú þýtur.
Keppnislundin kallar einmitt oft og tíðum fram beztu hæfileika fólks til að ná árangri á tilteknu sviði, og samkeppni fyrirtækja leiðir iðulega til aukinnar framleiðni og vöru- eða þjónustuþróunar, hin bezt reknu eflast og hin lakari leggja upp laupana. Heilbrigð samkeppni er grundvöllur frjálsra samfélaga og frjálsra hagkerfa. Með þeim hefur manninum tekizt að hámarka lífskjör sín, og þetta kerfi, sem stundum er kennt við auðhyggju (kapítalisma) Adams Smith, hefur leyst fleira fólk úr viðjum örbirgðar en nokkurt annað kerfi. Líklegt er, að Hannesi Hafstein hafi verið ljóst, að þetta kerfi yrði fljótfarnasta leiðin fyrir Íslendinga til að ná öðrum þjóðum í lífskjörum.
Á dögum Hannesar voru annars konar viðhorf líka uppi, sem afvegaleiddu fólk, og þó í enn meiri mæli síðar, þegar villutrúarmenn kommúnismans fóru að boða fagnaðarerindi kommúnismans, sem er reist á draumórum og efnahagslegum bábiljum. Það hefur alltaf verið markaður fyrir hjátrú og hindurvitni.
20.12.2022 | 11:09
Ófullnægjandi stjórnsýsla
Það höfðu ýmsir áhyggjur af því við ráðningu núverandi forstjóra Orkustofnunar, að í fyrsta skipti í sögu stofnunarinnar og forvera hennar var farið inn á þá braut að velja ekki til starfans neinn úr röðum tæknimenntaðra umsækjenda, s.s. verkfræðing eða tæknifræðing, heldur var stjórnmálafræðingur valinn úr hópi umsækjenda. Nú þegar hefur komið í ljós, að ekki hafa stjórnarhættir Orkustofnunar batnað við þessa nýbreytni, heldur þvert á móti, því að afgreiðslutími umsókna um leyfi fyrir allstórum virkjunum hefur lengzt verulega.
Afsakanir orkumálastjóra eru aumkvunarverðar og sýna, að hana skortir alla tilfinningu fyrir því, sem liggur á að gera (sense of urgency). Í stað þess að taka stærstu og þar af leiðandi væntanlega tímafrekustu umsóknina fyrir strax og senda hana út í umsagnarferli og gera þá annað á meðan, þá saltar hún stærstu umsóknina í hálft ár. Þetta umsagnarferli er í sjálfu sér umdeilanlegt eftir alla þá kynningu og umsagnarferli, sem átt hafa sér stað á verkinu, og ætlazt verður til, að Orkustofnun hafi allar athugasemdir við verkið þegar undir höndum, er hún fær umsókn Landsvirkjunar til afgreiðslu.
Þá skýlir orkumálastjóri sér á bak við það að gæta þurfi vandvirkni. Tímanotkun er enginn mælikvarði á vandvirkni, og nú á það eftir að koma í ljós, hvort Orkustofnun hafi lagt eitthvað markvert til verkefnisins eða hvort tímanotkunin hafi snúizt um sýndarmennsku og aukaatriði, sem engu máli skipta.
Í Staksteinum Morgunblaðsins var fjallað um þetta alvarlega stjórnsýslumál undir fyrirsögninni:
"Óeðlilegar tafir Orkustofnunar".
Samkvæmt reglum um þessi mál gildir, að Orkustofnun á að afgreiða umsókn um virkjunarleyfi innan 2 mánaða frá því, að síðustu gögn berast. Það er auðvitað mjög ámælisvert, ef stofnunin kallar inn gögn um umsóknina, sem eru óþörf fyrir afgreiðslu málsins, til að hanga á 2 mánaða tímafrestinum. Samt er hún nú þegar búin að brjóta þá reglu um afgreiðslufrest.
Orkustofnun hefur misskilið hlutverk sitt, ef verið er að endurhanna virkjuninaað einhverju leyti, enda hefur Orkustofnun hvorki þekkingu né reynslu innan sinna vébanda til þess og er þá komin út fyrir sitt verksvið.
Í téðum Staksteinum stóð m.a.:
"Eitt dæmi um seinagang [opinberra stofnana] er afgreiðsla Orkustofnunar á umsókn Landsvirkjunar um virkjunarleyfi vegna Hvammsvirkjunar. Umsóknin var lögð fram í júní í fyrra [2021], og það tók Orkustofnun rúmlega hálft ár að byrja vinnu við umsóknina, en samkvæmt reglugerð ber að taka ákvörðun um virkjunarleyfi innan tveggja mánaða frá því, að öll gögn hafa borizt."
Þetta eru þvílík molbúavinnubrögð, að engu tali tekur. Stendur þessari ríkisstofnun gjörsamlega á sama um þann gríðarlega kostnað, sem sleifarlag af þessu tagi mun hafa í för með sér vegna þess, að fyrirtæki munu ekki fá afhenta þá orku, sem þau vantar, árum saman ? Hvernig komið er fyrir stofnun fyrrum orkumálastjóra, Jakobs Björnssonar, rafmagnsverkfræðings og kennara höfundar, er þyngra en tárum taki.
"Leyfisveitandanum er í lófa lagið, hversu ítarleg sem umsókn er, að kalla eftir frekari gögnum, og það var gert í þessu tilviki. Allt þetta ár hefur farið í samskipti Orkustofnunar og Landsvirkjunar."
Ef raunveruleg ástæða væri fyrir þessari hegðun Orkustofnunar, er um að ræða vanreifaða umsókn Landsvirkjunar um virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun, og því verður ekki trúað að óreyndu. Öllu líklegra er, að þeir, sem véla um þessa umsókn hjá Orkustofnun, skorti nauðsynlega færni til að rýna viðamikið tæknilegt viðfangsefni á borð við hönnun þessarar virkjunar. Það er þó öllu verra, að innan veggja Orkustofnunar virðist skorta skilning á raunverulegu hlutverki hennar í þessu sambandi. Hlutverk stofnunarinnar er ekki að stunda neins konar hönnunarrýni, því að Landsvirkjun mun bera fulla ábyrgð á þeirri hönnun, sem hún leggur fram. Hlutverk Orkustofnunar í þessu samhengi er einvörðungu að yfirfara virkjunartilhögun og sannreyna, að hún uppfylli alla skilmála, sem Landsvirkjun hefur undirgengizt á undirbúningsstigum. Þess vegna hafa Orkustofnun verið sett 2 mánaða tímamörk til verkefnisins, sem er sanngjarnt.
Það er hlutverk orkumálastjóra að fylgjast með starfsmönnum sínum og/eða verktökum og sjá til þess, að þeir blási ekki verkefni sitt út langt umfram það, sem ætlazt er til af þeim. Núverandi orkumálastjóra virðast hafa verið mislagðar hendur að þessu leyti.
"Orkumálastjóri virðist telja þann tíma, sem þetta hefur tekið, réttlætanlegan og talar um, að þurft hefði fleira fólk og aukið fjármagn. Þá segir orkumálastjóri mikilvægt að vanda vel til verka, sem gefur augaleið, en það felur ekki í sér, að opinberar stofnanir geti tafið mál, eins og þeim hentar. Hér þarf að vera hægt að halda úti skilvirku atvinnulífi, og hluti af því er, að hægt sé að ráðast í virkjanaframkvæmdir innan eðlilegs tímaramma."
Málflutningur orkumálastjóra er órökstuddur og frasakenndur, eins og þar tali PR-fulltrúi orkumálastjóra og orkulandsreglara ESB, en ekki sjálfur orkumálastjóri Íslands með faglega þyngd. Að bera við manneklu, þegar inn kemur stórt verkefni, er óboðlegt, því að mannahald Orkustofnunar á ekki að miða við toppálag. Orkustofnun átti að leigja strax inn kunnáttufólk, t.d. af verkfræðistofu, til að fást við þetta verkefni (verkfræðistofu, sem ekki hefur komið að undirbúningsvinnu Landsvirkjunar vegna Hvammsvirkjunar) í stað þess að fórna höndum yfir álaginu og leggja verkefnið í saltpækil í hálft ár og hefja þá umsagnarferli og innköllun viðbótar gagna.
Hver segir, að Orkumálastofnun hafi vandað vel til verka, þegar hún loksins dró umsóknina upp úr saltpæklinum í janúar 2022 ? Orkumálastjóri styður þá einkunn sína ekki með neinum dæmum. Gæði þessarar rýni Orkustofnunar eiga einfaldlega eftir að koma í ljós. Eftir stendur, að ráðleysið virðist mikið, þegar að verkstjórninni kemur á þessum bæ, enda er hulin ráðgáta, hvernig menntun í stjórnmálafræði á að gagnast í þessum efnum, en lengi skal manninn reyna.
17.12.2022 | 11:04
Vestfirðinga vantar virkjun
Staðarval virkjana landsins er mikilvægt til að lágmarka orkutöp, spennusveiflur og til að hámarka afhendingaröryggi raforku til notenda hennar. Þungamiðja virkjana landsins er á Þjórsár/Tungnaár-svæðinu, sem er tengt Hvalfirði, Straumsvík og þéttbýlinu suðvestanlands með öflugum hætti. Suðurland nýtur góðs af tengingu við Búrfellsvirkjun, en styrkja má enn raforkukerfi Sunnlendinga með tengingu við væntanlegar aðveitustöðvar við virkjanir í Neðri-Þjórsá.
Raforkukerfi Austurlands býr að öflugustu virkjun landsins, Fljótsdalsstöð. Á Vesturlandi er engin stórvirkjun, en öflug aðveitustöð á Brennimel og önnur á Vatnshömrum, en einkum og sér í lagi vantar Vestfirðinga trausta virkjun, sem styrkt geti raforkukerfi þeirra. Þar er nauðsyn á auknu skammhlaupsafli, svo að setja megi 60 kV flutningskerfi LN í jörðu, og spennustöðugleika. Með þessu tvennu væri Vestfirðingum komið í flokk flestra annarra landsmanna gagnvart afhendingaröryggi rafmagns og lítilli losun koltvíildis við raforkuvinnslu.
Ein gleggsta grein, sem um árabil hefur sézt á prenti hérlendis um virkjanamál, birtist í Morgunblaðinu 28. nóvember 2022. Höfundur hennar er Elías Jónatansson, forstjóri Orkubús Vestfjarða, og bar hún fyrirsögnina:
"Að virkja og vernda loftslag - hvar á að virkja".
Hann gerði hnitmiðaða grein fyrir stöðu Vestfirðinga í orkumálum:
"Vestfirðingar fá helming raforku sinnar eftir einni 160 km langri Vesturlínu frá tengivirki Landsnets (LN) fyrir botni Hrútafjarðar [aðveitustöð Hrútatungu] í tengivirkið í Mjólká við Mjólkárvirkjun. Orkan á líklega oftast upptök sín í Blönduvirkjun í 100 km fjarlægð frá Hrútafirði [orkubússtjórinn getur vafalaust vísað til kerfishermana um þetta]. Orkan er því flutt 260 km leið frá orkustöð í tengivirkið í Mjólká með tilheyrandi töpum.
Hinn helmingurinn er framleiddur innan Vestfjarða, og er Orkubú Vestfjarða (OV) þar stærsti orkuframleiðandinn og eini framleiðandinn, sem hefur einhvern varaforða [miðlunargetu], sem heitið getur í lónum við sínar virkjanir. Stærsta virkjun OV er Mjólkárvirkjun, 11 MW, en samtals eru virkjanir í eigu OV og einkaaðila á Vestfjörðum 21 MW."
Það er fljótlegt að reikna út árlegu orkutöpin á þessari 260 km löngu leið frá Blöndu til Mjólkár og kostnað þeirra og kostnaðinn fyrir vestfirzka notendur af völdum truflana, sem valda spennusveiflum og straumleysi hjá þeim. Þar að auki er fyrirsjánlega á næstu árum þörf fyrir aflið, sem nú er flutt til Vestfjarða, nær Bönduvirkjun. Af þessum sökum leikur ekki á tveimur tungum, að um 30 MW virkjun, vel staðsett á Vestfjörðum, er þjóðhagslega hagkvæm. Vert væri, að þingmenn NV-kjördæmis kæmu nú auga á þetta og styddu við bakið á ríkisfyrirtækinu Orkubúi Vestfjarða í viðleitni fyrirtækisins til að hrinda af stað góðum hugmyndum fyrirtækisins um næstu þokkalegu vatnsaflsvirkjun á Vestfjörðum.
"Til að tryggja afhendingaröryggi á Vestfjörðum, þegar flutningslínur eru straumlausar, hefur verið komið upp neti varaaflsvéla víða um Vestfirði. Stærsta varaaflsstöðin er í Bolungarvík, 11 MW dísilstöð í eigu LN, byggð árið 2015. Varaaflsstöðin er jafnstór Mjólkárvirkjun. Á Patreksfirði er 4,7 MW dísilstöð OV (mikið endurnýjuð 2018), en OV er með 11 varaaflsstöðvar um alla Vestfirði, alls 18 MW. Varaaflsstöð LN og nokkrar varaaflsstöðvar OV eru búnar sjálfvirkni og ræsa inn á net á innan við 90 s, ef raforkunetið verður straumlaust vegna bilana eða viðhalds.
Það hefur sýnt sig, að Vestfirðir þurfa í dag að vera með 100 % (dísil-) varaafl fyrir raforku til heimilisnota og til þeirra fyrirtækja, sem nota forgangsorku, til að tryggja ásættanlegt afhendingaröryggi. Þá þarf 100 % varaafl í formi olíukatla við straumleysi í stað rafkyntu hitaveitnanna. Varaafl á Vestfjörðum í formi dísilvéla og olíukatla er um 50 MW í dag."
Þetta er fróðleg lesning, sem sýnir stöðu raforkumála á Vestfjörðum, sem er frábrugðin því, sem aðrir landsmenn búa við. Svo þakkarvert sem það er að búa við tiltækt varaafl, er engu líkara, en þróun raforkumála Vestfirðinga hafi að sumu leyti stöðvazt með tilkomu Vesturlínu. Það er ekki vegna þess, að slæmt hafi verið fyrir Vestfirðinga að tengjast stofnkerfi landsins, heldur hins, að hún er langur leggur, en ekki hringtenging Vestfjarða við landskerfið í líkingu við það, sem aðrir landsmenn búa við. Að hringtengja Vestfirði við landskerfið er dýrt og tekur sinn toll af landinu. Hagkvæmara og meiri landvernd er í því fólgin að virkja vatnsfall eða vatnsföll á vel völdum stöðum á Vestfjörðum m.t.t. stöðugleika kerfisins og afhendingaröryggis raforku. Til þess að losna að mestu við að brenna olíu í varaaflsstöðvum þurfa Vestfirðir að verða sjálfum sér nógir um rafmagn frá virkjunum sjálfbærra orkulinda, og 60 kV flutningskerfi LN þarf að setja í jörðu svo fljótt sem auðið er til að draga úr bilanatíðni og neikvæðum áhrifum á ásýnd lands.
OV mundi þá einvörðungu flytja inn raforku um Vesturlínu, á meðan viðhald eða viðgerðir fara fram í virkjunum fyrirtækisins, og gæti jafnvel flutt raforku til landskerfisins á sumrin, þegar hitunarálagið hefur minnkað, og slíkur flutningur gæti bætt stöðu miðlunarlóna Landsvirkjunar. Allt virðist þetta vera þjóðhagslega hagkvæmt, enda kostar varaaflvélaorkan 70 ISK/kWh, sem er 13-falt heildsöluverð til almenningsveitna um þessar mundir.
"Það er hægt að koma upp virkjun innan svæðisins í seilingarfjarlægð frá mestu notkuninni, sem hefur nægilegt afl og nægilegt vatn í lónum til að mæta orkuþörf innan Vestfjarða, þegar flutningslínur inn á Vestfirði verða straumlausar. Með því að slík virkjun sé nægilega aflmikil til að mæta aflþörfinni innan Vestfjarða ásamt öðrum virkjunum, þá þarf í flestum tilvikum ekki að ræsa dísilknúið varaafl. Þar sem aflið í virkjuninni er auðvitað ekki dísilknúið, heldur vatnsafl, er í raun búið að tryggja afhendingu með vatnsafli og varaaflið þá orðið grænt.
Með byggingu virkjunar er ekki einungis verið að snúa við þeirri stefnu að auka sífellt við varaaflið í formi dísilvéla, heldur mun draga stórkostlega úr notkun þess varaafls, sem fyrir er, eða um 90 %.
Nærtækasta dæmið um slíka virkjun er 20-30 MW virkjun í Vatnsdal í Vatnsfirði, en með tilkomu virkjunarinnar, sem er einungis í 20 km fjarlægð frá Mjólkárvirkjun, gæti straumleysistilvikum hjá 90 % Vestfirðinga fækkað um 90 % og olíunotkun vegna varaafls einnig minnkað um 90 %."
Hér er um mjög mikið hagsmunamál Vestfirðinga og landsmanna allra að ræða, eins og Elías Jónatansson útskýrir þarna vel. Það er kominn tími til að rétta hlut Vestfirðinga í orkulegum efnum, og þess vegna ættu þingmenn og orkuráðuneyti að taka vel í þessa hugmynd OV. Vonandi verða ekki búnar til óþarfa blýantsnagaratafir á þetta verkefni, en vegna staðsetningarinnar þarf líklega sérstakan atbeina umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og mun þá reyna á hann að láta nú nú meiri hagsmuni víkja minni hagsmunum úr vegi.
14.12.2022 | 09:51
Stefnumarkandi um vindmylluþyrpingar
Ljóst er, að fjármagni hefur í of miklum mæli verið beint í afkastalítil tæki með lága nýtni og óreglulega framleiðslugetu til að breyta vindorku í raforku í heiminum, t.d. í Evrópu. Þetta ásamt andvana fæddri hugmyndafræði um að mynda friðelskandi gagnkvæmt hagsmunasamband lýðræðisríkja og einsflokksríkja, sem auðveldlega virðast breytast í einræðis- og alræðisríki, hefur valdið hrollvekjandi stöðu orkumála í Evrópu, þar sem dauðsföll af völdum kulda gætu tífaldast af völdum orkukreppu í vetur, verði hann harður. Í Úkraínu geta eldflaugaárásir hryðjuverkaríkis í austri á orkukerfi landsins valdið enn meiri hörmungum. Eru örlög Úkraínu þyngri en tárum taki. Þar láta hermenn og almennir borgarar lífið fyrir fullveldi lands síns. Úkraínumenn vita og skilja og allra þjóða bezt, að yfirráð Rússlands jafngilda ánauð. Þeir eru búnir að fá meira en nóg af að vera hnepptir í þrældóm af villimönnum.
Evrópa hefur hundsað þróun kjarnorkunnar, sem ein getur með raunhæfum hætti leyst jarðefnaeldsneyti af hólmi. Bretar eru þó að vakna úr dvala að þessu leyti, og brezka ríkið hefur nú skuldbundið sig til að kaupa kínverskt fyrirtæki út úr samsteypu, sem reisir kjarnorkuver á Englandi.
Hérlendis eru háreist áform um að reisa vindmylluþyrpingar víðs vegar um landið , t.d. 687 MW á Vesturlandi og a.m.k. 500 MW á Austurlandi. Þá eru ótalin mikil áform á Norðurlandi og Suðurlandi, t.d. hjá ríkisfyrirtækinu Landsvirkjun. Það gætir vanmats á neikvæðum áhrifum vindmylluþyrpinga á landið og landnýtingu annarra hagsmunaafla, s.s. íbúa frístundabyggða, bænda og ferðaþjónustunnar. Þá hefur lítil grein verið gerð fyrir áhrifunum á verðlagningu raforku til almennings, sem vafalaust verður til meiri hækkunar en nýjar hefðbundnar virkjanir í landinu munu valda.
Umræðan um áhrifin á raforkukerfið er einsleit og því er haldið fram, að vindmyllur vinni vel með vatnsorkuverum, muni minnka álag þeirra og spara miðlunarvatn. Þessi samkeyrsla getur hins vegar rýrt nýtni vatnsorkuveranna svo mikið, að vatnssparnaður verði lítill sem enginn.
Morgunblaðið tók stefnumarkandi afstöðu gegn mikilli vindorkuvæðingu landsins í gagnmerkum leiðara blaðsins 29. nóvember 2022, sem hét:
"Ná að hræða lítil börn".
Síðari hluti hans var þannig:
"Það er engin samstaða með þjóðinni um að eyðileggja ásýnd landsins og útbía það með niðurgreiddum vindmyllum, sem eru ótryggur orkugjafi og knúinn áfram af áróðri um loftslagshamfarir, sem hefur staðið í 3 áratugi, og á þeim tíma hefur samt ekkert gerzt til að skipta um orkugjafa í heiminum. En hamagangurinn er þó ekki til einskis. Upplýst er, að börn á aldrinum 7-12 ára (70 % þeirra) eru heltekin af ótta við loftslagsósköpin, sem tryggi, að þau nái ekki fullorðinsaldri.
Við Íslendingar höfum "náð því marki", sem öðrum þjóðum er sett, áður en það gerðist í Kyoto. Hefðu spár þaðan staðizt, væru ísbirnir við það að deyja út vegna eyðingar náttúrulegs umhverfis þeirra. En ísbjörnum hefur fjölgað verulega síðan þá ! Barnaleg íslenzk yfirvöld lofa að henda milljarðatugum út í buskann til að stuðla að því, að aðrar þjóðir nái þessum "markmiðum" ! Rétt er að taka fram, að Kína, Indland, Indónesía og Rússland með sína fáu íbúa gera ekkert með fyrirætlanirnar. Joe Biden slær burtu flestum hömlum af viðskiptabanni gegn Venesúela, svo að þaðan megi hann kaupa olíu !"
Þetta er ekki lítil ádrepa. Það er einmitt helzti ljóðurinn á málflutningi hlýnunarpostulanna, að þeir taka allt of djúpt í árinni án þess að hafa annað fyrir sér en meingallað spálíkan, sem er með gríðarlega slagsíðu til hækkunar m.v. nákvæmustu raunmælingar, sem völ er á. Hér er um gegndarlausan og fótalausan hræðsluáróður að ræða, eins og dæmið af ísbjörnunum sýnir. Loftslagskirkjan er komin í fótspor ofsatrúarsafnaða, og slíkir eru stórhættulegir viðkvæmum sálum.
Steinar Ingimar Halldórsson, verkfræðingur, ritaði merka grein í Morgunblaðið 29.11.2022, þar sem hann vakti máls á þeim vandkvæðum við samrekstur stórra vindmylluþyrpinga við vatnsorkuverin, að álagsbreytingar þeirra, þegar vindmyllur taka upp hluta álags þeirra eða missa álag, munu gera kerfisstjórn Landsnets erfiðara fyrir en nú er að reka heildarkerfið nálægt hámarksnýtni. Francis-hverflar vatnsorkuveranna geta fallið um 10 % í nýtni, ef rennslið sveiflast annaðhvort upp eða niður frá kjörstöðu. Þetta á við þann hluta hverflanna, sem tekur þátt í reglun kerfisins hverju sinni.
Greinina nefndi Steinar Ingimar:
"Ávinningur vindmylla er ofmetinn",
og hófst hún þannig:
"Í september [2022] sagði Morgunblaðið frá greiningu á efnahagslegum áhrifum uppbyggingar vindorkuvera á Vesturlandi, alls 687 MW af vindafli. Í greiningunni eru árlegar skatttekjur ríkissjóðs og sveitarfélaga af starfsemi vindorkuveranna metnar MISK 900 eða 0,3 ISK/kWh. Til samanburðar var meðalverð forgangsorku án flutnings 5,3 ISK/kWh árin 2020 og 2021. Skatttekjur af vindmyllum segja ekki alla söguna, og útkoman er ekki jafnlofandi fyrir skattgreiðendur, þegar stóra myndin er skoðuð."
Framleiðslukostnaður vindmylluþyrpinga af því tagi, sem nota á hér, er líklega um 50 USD/MWh eða 7,1 ISK/kWh, sem er 34 % hærra en ofangreint verð frá virkjun hérlendis. Í markaðskerfi að hætti ESB, sem dótturfélag Landsnets vinnur nú að undirbúningi fyrir, og meiri eftirspurn en hefðbundnu virkjanirnar geta annað, munu vindmylluþyrpingarnar fá sitt boðna verð, og hæsta verðið ákvarðar síðan markaðsverðið til allra notenda á þessum markaði. Þetta gæti þýtt um 10 % hækkun raforkukostnaðar heimila og fyrirtækja án langtímasamninga.
Nú má spyrja sig, hversu mikið nýtni vatnsorkuverflanna má minnka til að vega upp á móti ofangreindum opinberu gjöldum af vindmylluþyrpingunum. Það eru um 170 GWh/ár eða rúmlega 1 % af raforkuvinnslu vatnsorkuveranna. Það má ætla, að vaxandi óróleiki á raforkukerfinu með tilkomu mikilla vindmylluþyrpinga geti valdið meira nýtnitapi í kerfinu en þetta, svo að uppsetning vindmylla til að spara vatn og auka tekjur samfélagsins er unnin fyrir gýg. Er anað út á vindmylluforaðið af glópsku einni saman ?
11.12.2022 | 10:25
Japlað á gömlum óttaáróðri
Nýlega er lokið 40 k (k=þúsund) manna ráðstefnu í Sharm El Sheikh í Egyptalandi um meinta yfirvofandi hlýnun jarðar. 0,11 % þátttakenda voru frá Íslandi, en á huldu er til hvers stofnað var til þess fjárausturs og losunar gróðurhúsaloftegunda. Ef einhver þeirra hefur haft eitthvað bitastætt fram að færa fyrir heimsbyggðina, hefur það ekki greinzt fyrir suðinu frá ráðstefnunni, venjulegu heimsendatuði og vafasömum gjörningum í nafni skattgreiðenda á Vesturlöndum.
Þessar COP-ráðstefnur eru vonlausar trúðasamkomur, því að engin leið er að komast að nokkurri skuldbindandi niðurstöðu eða samvinnu um að draga úr losun koltvíildis. Ef þátttakendur tryðu í raun og veru heimsendaboðskapnum, sem á almenningi er látinn dynja í síbylju, þá hlyti fyrir löngu að hafa náðst einhhver áþreifanlegur árangur við að draga úr losun CO2-koltvíildis, eins og raunin varð á um freon-efnin (kolflúoríð) til að vernda ósonlag jarðar. Losun koltvíildis eykst stöðugt á heimsvísu og í flestum löndum, og nú er viðurkennt, að borin von sé til að halda hlýnun jarðar innan 1,5°C m.v. hitastigið um aldamótin 1800, enda var sú tala gripin úr lausu lofti á COP-ráðstefnunni í París í nóvember-desember 2015.
Loftslagsáróðurinn stendur á slíkum brauðfótum og ofstækið er svo yfirþyrmandi, að erfitt er að taka hann alvarlega, enda virðast draumóramenn setja hann fram til höfuðs neyzluhyggju og auðhyggju. Yfirlýsingar um yfirvofandi dómsdag út af hlýnun, jafnvel innan áratugar, hafa tröllriðið málflutningi þessara postula frá frumráðstefnunni um málefnið í Rio de Janeiro 1992.
Ekki eru mælingar um styrk koltvíildis í andrúmsloftinu og stigul hans dregnar í efa, en hins vegar hefur hitastigshækkun andrúmsloftsins um 1,2°C frá um 1800 verið véfengd á vísindalegum grunni. Dr John Christy, prófessor og framkvæmdastjóri "Earth System Science Center-ESSC", við háskólann í Alabama/Huntsville, sagði í yfirheyrslu hjá bandarískri þingnefnd árið 2012, að undanfarið 18 ára tímabil hefði enginn stígandi verið í hitastigi andrúmsloftsins samkvæmt óvéfengjanlegum gervihnattamælingum. Sú niðurstaða sýnir einfaldlega, að líkan IPCC, sem notað er til að spá fyrir um hitastigsþróun andrúmsloftsins, er kolrangt og birt gögn um hitastigshækkunina eru röng. Um er að ræða flókið kerfi, og höfundar líkana IPCC virðast vera gloppóttir að þessu leyti. Þegar svona er í pottinn búið, er ástæðulaust að gera sér rellu út af sífrinu frá minni spámönnum, sem SÞ hafa gleypt við, en þar fljúga ýmsir fuglar ófjaðraðir.
Einn þeirra mörgu, sem gleypir við gögnum frá IPCC, er fyrrverandi Alþingismaður Alþýðubandalagsins og iðnaðarráðherra, Hjörleifur Guttormsson. Í þeim anda skrifar hann heilmikið í Morgunblaðið, og 22.11.2022 birtist þar greinin:
"Mannkynið fjarri lausn við loftslagsvandanum".
Hún hófst þannig:
"Nú er mannsaldur liðinn frá því mælingar sýndu í hvað stefndi með koltvíoxíðinnihald (CO2) í andrúmslofti jarðar í kjölfar efnahagsumsvifa, sem byggðust á jarðefnaeldsneyti, kolum og olíu. Sameinuðu þjóðirnar kvöddu til sérfræðinga, sem lögðu grunninn að loftslagssamningi um 1990, sem samþykktur var á ráðstefnunni í Ríó de Janeiro og síðan staðfestur af flestum ríkjum heims. Fyrsti ársfundur aðildarríkja þessa samnings (COP-1) var haldinn í Bonn árið 1995 og síðan ár hvert, síðast í Egyptalandi, þar sem COP-27 var að ljúka um síðustu helgi. Sá, sem þetta skrifar, gerði sér ferð á Ríó-ráðstefnuna og COP-4 í Buenos Aires árið 1998 og hefur fylgzt með þróun mála samfellt síðan. Afleiðingarnar af aukningu CO2 á loftslag jarðar hafa orðið augljósari frá ári til árs, sem leiddi til Parísarsamkomulagsins sögulega á COP-20 árið 2015. Grunnur þess er, að stöðva beri meðaltalshlýnun andrúmsloftsins af mannavöldum innan við 1,5°C-2,0°C. Reynslan síðan af áhrifum hlýnunar hefur fest neðri viðmiðunarmörkin í sessi sem eðlilega kröfu, en forsendurnar, til að hún verði að veruleika eru óskhyggja að óbreyttu efnahagsumhverfi."
Það er ofeinföldun á flóknu kerfi andrúmsloftsins að tengja breytingar á hitastigi þess einvörðungu við hækkun koltvíildisstyrks og segja má, að gervihnattamæligögn dr John Christy afsanni þessi sterku tengsl, því að auðvitað jókst koltvíildisstyrkurinn mjög á tímabilinu 1994-2012, þegar hitastigið jókst ekkert. Sem dæmi má nefna, að vatnsgufa-H2O er öflug gróðurhúsalofttegund og við upphitun eykst geislun út í geiminn með hitastiginu í 4. veldi, svo að kerfið leitar jafnvægis í stað þess að stefna í stjórnlausa upphitun, eins og IPCC og aðrir dómsdagsspámenn halda fram. Allar dómsdagsspár á þessu sviði sem öðrum hafa orðið sér til skammar, en samt valdið ótta, einkum ungviðisins.
Þorsteinn Sæmundsson, stjörnufræðingur, virðist yfirleitt hafa mikið til síns máls, þegar hann stingur niður penna. Í örgrein í Morgunblaðinu gagnrýnir hann það réttilega, að nú virðast stjórnvöld ætla að skuldbinda Íslendinga til að greiða í loftslagsbótasjóð, fyrir að hafa stuðlað að hækkun koltvíildisstyrks í andrúmslofti, upphæð, sem gæti numið árlega mrdISK 3-4. Í ljósi sögunnar er þetta fáheyrt. Það sýnir, hversu leiðitamur loftslagsráðherrann er og laus við að hafa nokkurt leiðtogabein í nefinu, að honum þótti í kjölfar samþykktar um þetta í Sharm El Sheikh sjálfsagt að skuldbinda landsmenn í þessa veru.
Þorsteinn Sæmundsson er annarrar skoðunar. Téð grein hans, 28.11.2022:
"Fjármunum kastað á glæ",
hófst þannig:
"Skiptar skoðanir eru um það, hve mikinn þátt mannkynið eigi í hækkuðu hitastigi hér á jörðu. Sjálfur hallast ég að því, að þessi þáttur vegi býsna þungt, en vil þó engan veginn fullyrða það. Hitt þori ég að fullyrða, að mannlegar aðgerðir til að hamla gegn hitahækkuninni eru dæmdar til að mistakast. Í fyrsta lagi eru þær þjóðir, sem mestri loftmengun valda, ekki virkir þátttakendur í aðgerðunum. Í öðru lagi er engin von til þess, að aðrar þjóðir fylli upp í skarðið, því að það myndi ógna hagvexti þeirra.
Að við Íslendingar tökum þátt í þessum aðgerðum, er hreinasta hneyksli, eins og ég hef áður fjallað um í blaðagrein: "Barnaskapur og sjálfsblekking", Mbl. 2.4.2022. Um 90 % af orkunotkun okkar er laus við alla mengun. Við stöndum bezt allra þjóða í því efni."
Þorsteinn telur tilraunir til að draga úr heimslosun CO2 dæmdar til að mistakast, og við það má bæta skrýtinni viðskiptahugmynd um að flytja CO2 inn til Íslands, blanda það við mikið vatnsmagn og dæla blöndunni niður í jörðina í von um, að blandan umhverfist þar í grjót. Þessi aðferð er einfaldlega allt of dýr og krefst of mikillar orku og vatns. Sá, sem hefur fyrir því með erfiðismunum að draga CO2 út úr afsogi, mun fremur kjósa að selja það til framleiðslu á rafeldsneyti í grennd við sig en að senda það til Íslands. Varðandi "syndaaflausn" koltvíildislosara spyr Þorsteinn, hvar þessi vitleysa endi eiginlega ? Fégreiðslur af þessu tagi eru dæmdar til að verða spillingu að bráð. Við getum notað þetta fé betur hérlendis í sjóvarnargarða vegna hækkandi sjávarstöðu.
Einn þeirra, sem sótti messu loftslagskirkjunnar í Egyptalandi nú í vetur, COP-27, var Bergþór Ólason, Alþingismaður. Hann er þó ekki í þessum sértrúarsöfnuði. Pistill eftir hann birtist á ritstjórnarsíðu Morgunblaðsins 28. nóvember 2022 undir fyrirsögninni:
"Loftslagskirkjan messar í Egyptalandi",
og hófst þannig:
"Fyrir réttri viku bárust fréttir af því, að "örþreyttir" samningamenn hefðu náð niðurstöðu um s.k. loftslagsbótasjóð á COP27, loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna [SÞ] í Sharm El-Sheikh í Egyptalandi.
En niðurstöðu um hvað ? Uppleggið er, að í sjóðinn renni 100 mrdUSD/ár frá þróuðum þjóðum til hinna vanþróuðu, sem verða fyrir tjóni af völdum veðurtengdra atburða. Það samsvarar 11-földum fjárlögum Íslands [2022], árlega !
Ef mrd 1,5 jarðarbúa af mrd 8,0 stendur undir þessum greiðslum, má reikna með, að hlutur Íslendinga verði á 4. mrd árlega hið minnsta [hlutfall gefur 3,6 mrdISK/ár]. Höfðu embættismennirnir, sem þarna sátu dagana langa, umboð til að skuldbinda ríkissjóð með þessum hætti ?"
Það er tvöföld ástæða fyrir því, að glórulaust er að snara þessum fjármunum úr skuldugum ríkissjóði, sem þessi misserin er rekinn með miklum halla.
Íslendingar voru fátækastir Evrópuþjóða um aldamótin 1900, enda höfðu þeir mannsaldurinn á undan orðið fyrir um fjórðungsblóðtöku, er atorkufólk hrökklaðist til Vesturheims undan kulda (hafísár), skorti á jarðnæði og atvinnuleysi. Iðnvæðing hófst hér ekki að kalla fyrr en eftir Síðari heimsstyrjöldina, og var hún knúin áfram með endurnýjanlegum orkulindum. Nokkru fyrir styrjöldina var farið að draga úr notkun kola og olíu með upphitun húsnæðis með heitu vatni úr iðrum jarðar. Þannig var þróunin hérlendis með ósambærilegum hætti við önnur Vesturlönd og fáránlegt að láta Íslendinga borga einhvers konar "syndaaflausn", á meðan stórmengarar á borð við Kína, Indland, Indónesíu og Brasilíu er taldir til þróunarlanda og eru undanþegnir greiðslum í þennan sjóð.
Sjóður á borð við þennan býður heim mikilli spillingarhættu, og það er hætt við stórfelldri misnotkun fjár og litlum framkvæmdum af viti til að aðlaga íbúana og lönd þeirra að breyttum aðstæðum.
8.12.2022 | 11:17
Stríð í okkar heimshluta
Frá 24. febrúar 2022 geisar illúðlegt stríð í Evrópu. Hið árásargjarna rússneska ríki heyr grimmdarlegt nýlendustríð gegn Úkraínumönnum. Siðferðilega rotnum og ömurlega illa skipulögðum Rússaher gengur svo illa á vígvöllunum, að síðan gagnsókn úkraínska hersins hófst í byrjun september 2022, hefur honum orðið vel ágengt við að frelsa hertekin landsvæði, einkum í norðaustri og suðri. Þar hefur aðkoman verið ömurleg. Fréttir berast nú af 4 pyntingarstöðvum rússneska hersins í frelsaðri Kherson-borg í suðri. Eru brot Rússa á Genfarsáttmálanum um stríðsrekstur, meðferð stríðsfanga og hegðun gagnvart óbreyttum borgurum, til vitnis um, að Rússland er villimannaríki, hryðjuverkaríki, sem útiloka á frá öllum samskiptum siðaðra manna.
Siðleysi og grimmd rússneskra stjórnvalda og hersins mun koma hart niður á óbreyttum borgurum Rússlands á næstu árum, og getur leitt til upplausnar sambandsríkisins, því að úrþvætti komast ekki upp með yfirráð til lengdar. Stríðið hefur leitt í ljós hrikalega rangt mat Vesturveldanna á öryggi Evrópu í hernaðarlegu og viðskiptalegu tilliti og sýnt frm á nauðsyn NATO. Rússar hafa ofmetið hernaðargetu sína og vanmetið samstöðu Vesturveldanna gegn skefjalausu ofbeldi. Vesturveldin eru þó of treg til að senda Úkraínumönnum þau hergögn, sem gert gætu út af rússneska herinn í Úkraínu á fáeinum mánuðum. Þessi tregða leiðir enn meiri hörmungar yfir almenning í Úkraínu vegna þess hernaðar, sem hinn ömurlegi rússneski her stundar gegn almennum íbúum Úkraínu. Fólskan ræður þar ríkjum, og hana verður að brjóta sem fyrst á bak aftur og veita síðan hinni stríðshrjáðu og dugandi úkraínsku þjóð inngöngu í NATO. Það er óskiljanlegt, að Þjóðverjar skuli ekki samþykkja tillögu Pólverja um staðsetningu Patriot-loftvarnakerfisins í Úkraínu fremur en í Póllandi. Patriot-kerfið er líklegast öflugasta loftvarnakerfi, sem völ er á nú um stundir, og mundi líka verja aðliggjandi NATO-lönd, ef það væri staðsett í Úkraínu. Það er engu líkara en Frakkar og Þjóðverjar, hverra einræðisherrar lutu í lægra haldi fyrir gríðarlegum fjölda, sem rússneskir herforingjar öttu fram gegn herjum þeirra á 19. og 20. öld, vilji ekki sjá Rússaher sigraðan í Úkraínu á 21. öldinni. Það er hrottalega misráðið af Berlín og París. Meira raunsæi er uppi í Eystrasaltslöndunum, Finnlandi og Póllandi, sem liðið hafa undan hernámi Rússa og þekkja eðli þeirra.
Einn af íslenzkukennurum höfundar í MR skrifaði góða hugvekju í Fréttablaðið 9. nóvember 2022 um ástæður styrjalda almennt, og kveikjan að þeim góðu skrifum er líklega árásarstyrjöld Rússa gegn Úkraínumönnum, sem hneykslazt er á hér að ofan. Þarna á í hlut Árni Björnsson, þjóðháttafræðingur, en höfundur man ljóslega eftir honum kryfja Eglu með nemendum á einu misseri. Nokkrir þefnæmir nemendur, einkum nærri kennarapúltinu, töldu sig einstaka sinnum skynja kaupstaðarlykt í loftinu, þegar kennarinn komst á flug við að útskýra boðskap Snorra Sturlusonar og útskýra vísurnar, sem sá lærði maður úr Oddaskóla á Rangárvöllum hafði safnað að sér eða ort sjálfur og sett á kálfskinn. Konungar voru yfirleitt ófriðsamir og sátu yfir hlut sjálfstæðra bænda með skattheimtu til að fjármagna hirðina og herinn. Að breyttu breytanda á þetta við um einræðisherra nútímans.
Nú verður gripið niður í lipurlega ritaða hugleiðingu þjóðháttafræðingsins, sem bar fyrirsögnina:
"Margtugga um stríð":
"Það er ævinlega fámenn yfirstétt, sem hefur komið stríðsátökum af stað. Hún lætur, þegar grannt er skoðað, jafnan stjórnast af ásókn í land, auðlindir og völd, þótt menningar- eða trúarlegar ástæður séu oft hafðar á yfirborði. Til þess hefur hún sér til fulltingis snillinga á sviði innrætingar til að fá almenning til fylgis. En það er einn afdrifaríkasti veikleiki hins venjulega manns, hvað hann er hrekklaus og ginnkeyptur fyrir málafylgju."
Þessi texti getur sem bezt átt við Rússland 2022 og Þýzkaland 1939 og 1914. Í öllum tilvikum var um einræðisstjórnarfar að ræða, og slík ríki eru mun ófriðlegri og árásargjarnari en vestræn lýðræðisríki. Rússneska yfirstéttin, ólígarkar, ágirnist auð Úkraínu. Fólkið þar er duglegt og skapandi, moldin er frjósöm, dýrir málmar og olía í jörðu, og nú hafa fundizt miklar jarðgasbirgðir í Suður-Úkraínu og þó einkum í Svartahafi í kringum Krímskagann.
Rússneska rétttrúnarkirkjan virðist vera með böggum hildar, eftir að sú úkraínska sagði skilið við hana 2019 og hefur lýst "sértæka hernaðaraðgerð" Pútíns sem heilagt stríð gegn Úkraínu. Pútín og skósveinar þessa nýlenduherra lýsa því blákalt yfir, alveg út í loftið, að úkraínsk þjóð hafi enga sérstöðu og úkraínsk menning sé ekki til. Þetta stríðir gegn heilbrigðri skynsemi og t.d. sögu 18. aldar, þegar Úkraínumenn voru í uppreisn gegn zarnum. Frá því að sænskir víkingar stofnuðu með íbúunum á svæðinu Kænugarðsríkið, hefur Úkraína verið til með sínum kósökkum. Hér er um harðduglega menningarþjóð að ræða, t.d. á sviði tónlistar og dansa.
Rússar hafa alltaf verið með tilburði til að þurrka út sérstöðu þjóðarinnar og kúga hana grimmdarlega, eins og tilbúin hungursneið af þeirra hálfu 1932-1933 sýndi. Til þess var tekið, að Rússar stálu öllum gersemum þjóðminjasafnsins í Kherson og höfðu á brott með sér til Rússlands, ásamt heimilistækjum og salernisbúnaði. Þeir hafa hagað sér eins og óuppdregnir vandalar í Úkraínu. Herstjórninni væri trúandi til að standa að slíku. Hún er ærulaus.
"Slík átök byrjuðu smátt fyrir þúsundum ára. Í frjósömum árdölum tókst fólki smám saman að framleiða meiri matvæli en það þurfti til daglegs viðurværis. Meðal þess spruttu upp klókir og gráðugir menn, sem með ýmsum aðferðum gerðu sig að andlegum leiðtogum og í krafti þess með tímanum að veraldlegum foringjum, sem hirtu framleiðslu fjöldans. Enginn þeirra var þó þekktur að manngæzku."
Þetta er líklega sannferðug lýsing á upphafi stéttaskiptingar í heiminum. Fólk hefur alltaf verið misjafnlega úr garði gert að andlegu og líkamlegu atgervi, svo að ekki sé minnzt á hugðarefnin, svo að þeir, sem gátu framleitt meira en aðrir, hafa verið taldir vel til forystu fallnir. Hjátrú hefur þjakað lýðinn þá, eigi síður en nú, og það hefur verið góður jarðvegur til að koma því inn hjá honum, að velgengni stæði í sambandi við æðri máttarvöld. Það varð að eins konar réttlætingu á forréttindum og hóglífi æðsta klerks, að þau væru merki um velþóknun æðri máttarvalda. Áróður og innræting hafa óralengi leikið stórt hlutverk í samfélagi manna og verið jafnan til bölvunar.
"Þessir foringjar komu sér upp hirð og her til að tryggja völd sín, reistu sér hallir og hof og töldu lýðnum trú um, að toppfígúran hefði þegið stöðu sína frá æðri máttarvöldum, sem öllum bæri að hlýða. Þegar svo valdaklíkur í nágrannalöndum tóku að keppa um sömu náttúruauðlindir, var kvatt til herútboðs, einatt í nafni trúar, þjóðernis eða ættjarðarástar. Og lýðurinn kunni ekki annað en hlýða. Í sögukennslu er svo látið heita, að þetta sé gert í nafni þjóðar og forkólfar yfirgangsins, eins og Alexander mikli, Sesar eða Napóleon, kallaðir mikilmenni."
Höfundur þessa pistils er hallur undir þessa söguskýringu síns gamla læriföður um Eglu. Í hryðjuverkaríkinu Rússlandi er nú alræði eins manns, sem hefur hlotið blessun rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar á villimannslegu landvinningastríði sínu í Úkraínu, svo að þar kemur sú tenging við yfirnáttúruleg öfl, sem Árni tínir til í kenningu sinni hér að ofan. Forseti Rússlands boðar ennfremur endurreisn heimsveldis Rússa, eins og það var víðfeðmast á dögum zaranna, og í raun sameiningu allra Slava í eitt ríki undir forystu Rússa. Það á að endurreisa "mikilfengleika Rússlands", sem er þó anzi þokukenndur.
Þetta er geðveiki, enda er ekki nokkur raunhæfur grundvöllur fyrir slíkri endurtekningu kúgunarsögunnar. Forseti Rússlands hefur raunar bólusett Úkraínumenn og aðra Slava endanlega gegn nokkrum áhuga á því að gerast enn og aftur þrælar frumstæðs og ofstopafulls rússnesks ríkis.
"Pútín er lítið annað en handbendi nýríkra rússneskra auðjöfra, sem ágirnast m.a. auðlindir Úkraínu. Vopnaframleiðendur meðal þeirra tapa ekki, þótt rússneski herinn tapi á vígstöðvunum. Að breyttu breytanda gildir sama munstrið í stórum dráttum enn í dag. Það eru ekki þjóðir, sem keppa um auðlindir jarðar, en í stað aðalsmanna fyrri alda er komin yfirstétt fjármálajöfra, sem hagnast m.a. á offramleiðslu og endurnýjun óþarfra hergagna. Til að réttlæta hana þarf að magna upp stríðsótta og helzt tímabundin átök. Þetta eru allt annars konar öfl en þeir heiðarlegu dugnaðarmenn í hverju landi, sem eiga frumkvæði að því að byggja upp þarflega atvinnuvegi, en halda sig frá fjármálabraski. En í krafti hins frjálsa fjármagns ráða braskararnir oft ferðinni."
Hér skal ósagt látið, hver er handbendi hvers í æðstu valdastétt Rússlands. Þá er og komið í ljós núna, að friðarhreyfingar í Evrópu og víðar hafa haft kolrangt fyrir sér varðandi hættuna, sem af Rússum stafar. Þeir eru einfaldlega enn þá útþenslusinnað og árásargjarnt ríki, þótt herstyrkur og efnahagsstyrkur þessa rotnaða ríkis sé lítill. Að tala niður fjármálamenn og fjárfesta á Vesturlöndum, af því að þeir græði sumir á framleiðslu og sölu hergagna, missir nú orðið algerlega marks á Vesturlöndum. Það er full þörf á NATO og hefur alltaf verið til að verja einstaklingsfrelsið og lýðræðið. Nú eru reyndar svartir sauðir í NATO á borð við Erdogan, Tyrklandsforseta, og Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, sem þvælast fyrir inntöku Finnlands og Svíþjóðar í NATO. Þá verður hegðun Orbans æ undarlegri, því að nú er hann farinn að sýna tilburði um að vilja færa út landamæri Ungverjalands og lætur mynda sig með trefil, sem sýnir ný landamæri.
Rússar eru nú þegar búnir "að spila rassinn úr buxunum" í Úkraínu og hafa breytzt í útlagaríki. Það verður líklegra með hverri vikunni, sem líður, að draumur Úkraínumanna um að reka rússneska herinn út úr landi sínu og endurreisa landamærin frá 1991 muni rætast 2023. Til að varðveita þann frið, sem þeir þá hafa lagt grunninn að, þarf endilega að verða við bón þeirra um að ganga í NATO. Síðan mun hefjast gríðarlegt uppbyggingarskeið í Úkraínu, þar sem innviðir, skólar, sjúkrahús,íbúðarhúsnæði og fyrirtæki verða reist að vestrænum hætti, og Úkraína verður tengd vestrænum mörkuðum og stofnunum og verður varnarlegt bólvirki gegn Rússum með öflugasta her Evrópu.
Það mun ekki líða á löngu, unz verg landsframleiðsla Úkraínu mun sigla fram úr VLF Rússlands, og að nokkrum áratugum liðnum munu Úkraínumenn verða fjölmennari en íbúar leifanna af Rússaríki. (Kákasusþjóðirnar og e.t.v. einhverjar Síberíuþjóðir munu segja skilið við Sambandsríki Rússlands.) Auðlindir Úkraínu eru nægar til að veita yfir 100 M manna þjóð góð lífskjör á evrópskan mælikvarða. Úkraína getur brauðfætt og knúið orkukerfi allrar Evrópu vestan Rússlands. Þannig mun Úkraína verða öflugasta ríki Evrópusambandsins.