Færsluflokkur: Evrópumál

Er valdframsalið til ESA/ACER minni háttar ?

Hér verður áfram haldið með þýðingu á grein Mortens Harper, lögfræðings hjá samtökunum "Nei til EU", NtEU, um dóm Lögmannsréttarins í máli NtEU gegn norska ríkinu:

"Meginviðfangsefnið við mat á því, hvort valdframsal megi samþykkja samkvæmt stjórnarskrárákvæði nr 26.2 með einföldum meirihluta, eða hvort það útheimti 3/4 mættra þingmanna í meirihlutanum samkvæmt stjórnarskrárákvæði nr 115, er, hvort framsalið er minni háttar eða ekki.  Þetta hugtak er þó ekki tilgreint í stjórnarskrá Noregs, heldur hefur það þróazt í tímans rás, og hafa lögspekingar deilt um það.  Lögmannsrétturinn leggur til grundvallar s.k. kenningu um minni háttar valdframsal.  Um vald ESA samkvæmt ACER-reglugerðinni, kafla 8, er eftirfarandi tilfært í dóminum:

"Þegar um er að ræða gerð valdframsals, er til umræðu framkvæmdavald á formi stjórnvaldslegs fyrirskipanavalds gagnvart rekstraraðila. Þetta er takmörkun á völdum framkvæmdavalds.  Það felur í sér, að eftirlits- og stjórnunarmöguleikar ríkisstjórnarinnar eru fjarlægðir.  Þetta hefur líka þýðingu fyrir eftirlit þingsins og ábyrgð gagnvart stjórnarskrá.  Lögmannsrétturinn telur samt sem áður, að þetta sé ekki kjarni formlegs valdframsals, þar sem samþykki norsku stjórnsýslustofnunarinnar RME þarf til að framkvæma og fylgja eftir ákvörðunum ESA gagnvart fyrirtækjum í Noregi.  (...)

Einkenni valdsins í raun leitar í sömu átt, þar sem tilgangurinn er ekki yfirþjóðleg stjórnun, heldur að reglunaryfirvöld landanna reyni að verða samstiga.  Úr þessu er samt dregið með því að fyrirkomulagið virkar næstum eins og kerfi til að skera úr um þrætur á milli reglunarstjórnvalda landanna." (Síður 34-35.) 

Löggmannsrétturinn skrifar enn fremur:

"Orkumarkaðspakki 3 reglar orkusviðið og viðskipti með rafmagn.  Þetta snertir þjóðfélagslega og stjórnmálalega hagsmuni með mjög mikla þýðingu. (...) Í heild hefur Orkumarkaðspakki 3 mikla þýðingu fyrir norska orkustefnu. 

Völd ESA samkvæmt ACER-reglugerðinni eru hins vegar á sviði tæknilegra og faglegra viðfangsefna á rekstrarsviði og takmarkast við notkun innviða á milli landa (sæstrengi til útlanda)." (Síða 35.) 

Ályktunin er, að valdframsal samkvæmt ACER-reglugerðinni, kafla 8, er "minni háttar".  Að sömu niðurstöðu kemst Lögmannsrétturinn um heimild ESA til að fyrirskipa norskum orkufyrirtækjum að afhenda gögn og heimildina til að sekta þau, ef þessu er ekki hlýtt (reglugerðin um viðskipti yfir landamæri, kafli 20 og kafli 22, nr 2):

"Valdramsalið hefur að mati Lögmannsréttarins mjög takmarkað umfang og hefur ekki umtalsverð áhrif á þjóðfélagslegu og stjórnmálalegu hagsmunina, sem eru fyrir hendi á orkusviðinu."  (Síða 37.)

Lögmannsrétturinn telur málið ekki vafa undirorpið:

"Einnig að afloknu heildarmati getur að dómi Lögmannsréttarins ekki leikið vafi á, að það tvenns konar valdframsal, sem er efni þessa máls, er minni háttar." (Síða 37.)

Að loknum lestri þessa tyrfna texta Landsréttarins norska veldur það ekki undrun, að NtEU hafi áfrýjað dómi hans til Hæstaréttar Noregs.  Dæma þarf um, hvort RME (orkulandsreglari ACER) sé norskt stjórnvald samkvæmt norskum lögum og stjórnarskrá.  

 


Norskir dómstólar geta endurskoðað mat Stórþingsins á stjórnarskrárákvæði

Hér verður haldið áfram þýðingu á grein Mortens Harpers, lögfræðings hjá "Nei til EU", NtEU, um dómsorð og greinargerðir Lögmannsréttarins í deilumáli NtEU við norska ríkið um atkvæðagreiðsluna um Orkupakka 3. 

"Málið vekur líka upp spurninguna um það, hversu langt dómstólarnir geti gengið í að yfirfara eigið mat Stórþingsins.  Ríkið hefur lagt þunga áherzlu á eigið stjórnarskrármat Stórþingsins sem röksemd gegn málsókninni.  NtEU hefur hins vegar haldið því fram, að rétturinn verði að framkvæma nákvæma og vandaða rýni á því, hvort skilyrðin til að nota stjórnarskrárgrein nr 26.2 í stað gr. nr 115 séu uppfyllt. 

Lögmannsrétturinn fellst að nokkru leyti á þetta viðhorf NtEU:  

 "Að loknu heildarmati sínu hefur Lögmannsrétturinn - í vafa - komizt að þeirri niðurstöðu, að athugun dómstólanna á því, hvort valdframsal sé léttvægt (lítið inngrípandi í þjóðlífið) eigi að vera nokkuð öflugri en það, sem venjulega á við um stjórnarskrárákvæði, sem stýra vinnulagi annarra greina ríkisvaldsins eða innbyrðis valdsviði. Í ljósi kröfu stjórnarskrárinnar, gr. 115, um aukinn meirihluta, og að hér er um að ræða að gera undantekningu við þá stjórnarskrárbundnu reglu, að framkvæmd valds skal vera á hendi norskra valdstofnana, leggur Lögmannsrétturinn meiri áherzlu á að taka tillit til minnihlutaverndarinnar en á þau raunatriði, sem ríkið hefur vísað til. Með vísun til þrískiptingarinnar er Lögmannsrétturinn þannig þeirrar skoðunar, að sannprófunin (rýnin) verði sambærileg þeirri, sem gildir um málefnaflokkinn efnahagsleg réttindi."  (Síður 23-24.)

RÉTTURINN FINNUR TVENNS KONAR VALDFRAMSAL Í OP3

"Samantekið fól samþykkt Stórþingsins 22. marz 2018 í sér tvenns konar valdframsal", skrifar Lögmannsrétturinn og útlistar:

"Í fyrsta lagi var vald framselt til ESA til að gefa RME (orkulandsreglara ESB í Noregi) fyrirmæli um tæknileg viðfangsefni í sambandi við notkun innviða á milli landa, sbr ACER reglugerðina, kafla 8.

Í öðru lagi var framselt fyrirmæla- og sektarvald til ESA samkvæmt reglugerð um orkuviðskipti á milli landa, kafla 20 og kafla 22, nr 2, og þar með dómsvald til EFTA-dómstólsins." (Síður 33-34.)

Lögmannsrétturinn fjallar nánar um valdframsal í ACER-reglugerðinni þannig:

"Samkvæmt ACER-reglugerðinni, kafla 8, hefur ACER/ESA vald í sambandi við innviði á milli landa til að "taka ákvörðun um stjórnunarviðfangsefni, sem voru á valdsviði innlendra stjórnvalda, þ.á.m. um skilyrði fyrir aðgangi og rekstraröryggi". 

(...)

Lögmannsrétturinn undirstrikar, að kafli 8 veiti ekki heimild til að taka ákvarðanir um t.d. að leggja nýja (sæ)strengi, að reisa orkuver, breyta eignarhaldsreglum eða að gefa út framkvæmda- eða rekstrarleyfi.  (...) Rafmagnsverðið verður til á markaði.  Verðmyndun á markaði verður vitaskuld fyrir áhrifum af þátttöku Noregs í innri orkumarkaði ESB.  NtEU hefur rétt fyrir sér um, að ACER/ESA getur óbeint haft áhrif á rafmagnsverðið með framlagi sínu til þess, að þetta sé skilvirkur markaður með virkum innviðum fyrir orkuflutninga milli landa.  Lögmannsrétturinn getur samt ekki séð, að nokkuð sé hæft í, að formleg völd ACER/ESA til ákvarðanatöku sé áhrifavaldur á rafmagnsverðið."  (Síður 27-28.)

Um orkulandsreglarann (RME) er farið eftirfarandi orðum í dóminum:

"Þar sem endanleg ákvörðun, sem varðar Noreg, er tekin hjá RME, sem er norsk stjórnsýslustofnun, eru völd ESA yfir RME bara af þjóðréttarlegu tagi.  Í samræmi við hefðbundin fræði má þess vegna halda því fram, að ekkert valdframsal hafi orðið til ESA.  Að RME - til að uppfylla kröfur EES-regluverksins - er stofnsett sem óháð stjórnsýslustofnun, sem [ríkið] getur ekki gefið fyrirmæli, samtímis sem ESA eru veitt völd til að taka réttarlega bindandi ákvarðanir um fyrirmæli til RME, veldur hins vegar því, að Lögmannsrétturinn - eins og málsaðilarnir - lítur svo á, að átt hafi sér stað formlegt valdframsal til ESA." (Síða 29.)

Lögmannsrétturinn fjallar þó ekki nánar um hlutverk RME sem orkureglara, sem áhrif hefur á hagsmunaaðila í Noregi.  Lögbundna sjálfstæðið gagnvart valdhöfum ríkisins veldur því, að ekki er unnt að telja RME vera venjulega norska stjórnvaldsstofnun, og meta hefði þurft, hvort völd RME sé viðbótar vídd í valdframsalinu. Fyrirmæla- og sektarvaldið, sem ESA hefur, gildir um að afla gagna beint frá orkufyrirtækjunum, í raun frá Statnett varðandi Noreg [Statnett er norska Landsnet]. 

"Það er óumdeilt, að þetta jafngildir valdframsali til ESA", skrifar Lögmannsrétturinn (síða 30) og bætir við, að enn hafi slíkar ákvarðanir ekki verið teknar."

 Hér verður látið staðar numið í hluta 2 af 3 þýðingum á grein Mortens Harpers um nýlegan dóm á millidómsstigi í Noregi um þá kröfu NtEU að fá úrskurði Stórþingsins um að viðhafa einfalt meirihlutaræði við atkvæðagreiðslu um OP3 hnekkt.  Það má hverjum leikmanni vera ljóst, að ýmislegt í málatilbúnaði samtakanna hlaut hljómgrunn í Lögmannsréttinum, þótt niðurstaða hans yrði, að valdframsalið til ESA/ACER væri lítið inngrípandi í þjóðlífið, heldur væri aðallega þjóðréttarlegs eðlis. Í 3. og lokapistlinum um þetta verður einmitt fjallað um það, hvort valdframsalið hafi verið áhrifalítið á þjóðlífið eða ekki.     


Hvaða þýðingu hefur ACER-dómur lögmannsréttarins norska ?

Hérlendis hefur hlakkað í verjendum innleiðingar orkulöggjafar Evrópusambandsins (ESB) á Íslandi með misviðeigandi hætti yfir dómi Borgarþings Lögmannsréttarins í máli samtakanna "Nei til EU", NtEU, gegn norska ríkinu.  Deilan snýst um, hvort Stórþinginu hafi verið heimilt í marz 2018 að ákveða að láta aðeins einfaldan meirihluta ráða úrslitum atkvæðagreiðslu um Orkupakka 3, OP3, eða hvort þinginu hafi borið samkvæmt Stjórnarskrá Noregs að viðhafa kröfu um aukinn meirihluta, sem jafngildir a.m.k. 75 % stuðningi a.m.k. 2/3 Stórþingsmanna, þ.e. a.m.k. 50 % stuðningi allra þingmannanna.

Morten Harper, lögfræðingur og leiðtogi greininga hjá NtEU, skrifaði um málið á vefsetur samtakanna 8. desember 2022, og þar sem sjónarmið hans og túlkun kunna að vekja áhuga sumra hérlendis, fer hér á eftir þýðing á fyrsta hluta af þremur í grein hans:

"Þann 7. desember [2022] var kveðinn upp dómur í ACER-málinu í Borgarþingi lögmannsrétti.  Í réttinum sátu 3 fagdómarar og 2 leikmenn, og dómurinn var samhljóða.  Tökum niðurstöðuna fyrst:

  "Ályktun Lögmannsréttarins er, að Stórþingið gat veitt heimild til staðfestingar á samþykkt nr 93/2017 frá EES-nefndinni samkvæmt aðferðinni, sem fyrirskrifuð er í Stjórnarskránni, gr. 26, lið 2.  Áfrýjun Nei til EU er þess vegna hafnað." (Dómsorð, s. 37.)

Þótt ríkið hafi hlotið meðbyr, þarf NtEU samt ekki greiða málskostnað ríkisins í þingréttinum og lögmannsréttinum. Lögmannsrétturinn rökstyður þetta með því, að málið hafi fjallað um "umdeild, óútkljáð og grundvallandi lagaspurningar, sem séu verulega samfélagslega áhugaverðar" (síða 38).

RÉTTURINN METUR FORMLEGT VALDAFRAMSAL

Lögmannsrétturinn tekur fram, að það, sem metið er í málinu, er valdaframsal til að taka ákvarðanir, sem eru bindandi í Noregi; ekki umfang orkuregluverks, sem bindur Norðmenn sem þjóð (þjóðréttarlegar skuldbindingar). "Lögmannsrétturinn undirstrikar, að  framkvæmdin sé reist á strangri aðgreiningu á milli formlegs og raunverulegs valdaframsals ...", eins og segir í dóminum (s. 16), þar sem einnig stendur:

   "Spurningin um valdframsal til alþjóðlegra stofnana hefur á síðustu áratugum orðið raunhæfara viðfangsefni, ekki sízt vegna EES-samningsins, sem gekk í gildi 1. janúar 1994. Þetta stendur einkum í sambandi við, að ESB-samvinnan hefur stöðugt færzt í átt til aukinnar samræmingar og stjórnunar með myndun ESB-stofnana með yfirþjóðlegt vald til ákvörðunartöku, sem hefur beina verkun í aðildarlöndunum.  Innan EES-samstarfsins hefur lausnin venjulega verið sú að veita ESA samsvarandi vald til ákvarðanatöku með verkun í EFTA-löndunum að því gefnu, að ákvarðanirnar endurspegli í heild sinni gjörninga ESB.  Um það eru samt dæmi, að vald hafi verið fært til ESB-stofnana.  Vísað er til umfjöllunarinnar í HR-2021-655-P, Greinargerð, atriði 3.3-3.8." (Síða 15.)

 Ennfremur skrifar rétturinn, að EES-samningurinn og norsk samþætting í orkumarkað ESB jafngildi verulegu valdframsali í raun:

"Þátttaka Noregs á Innri orkumarkaði ESB og þjóðréttarlegar skuldbindingar okkar á þessu sviði hefur mikla þýðingu fyrir stjórnun norskra orkumála.  Hún hefur t.d. áhrif bæði á afhendingaröryggið og verðmyndunina á rafmagni í Noregi.  Eins og með EES-samninginn sem slíkan felur þetta í raun í sér verulegt valdframsal.  Þessar áhrifaríku og umfangsmiklu þjóðréttarlegu skuldbindingar eru engu að síður í sjálfum sér án vafa innan samningsvaldsviðs samkvæmt Stjórnarskrá - lið 2, og eru ekki til úrskurðar í þessu máli.  Stjórnarskrárspurningin - lagaeftirlitið - í þessu máli á einungis við formlega valdið, sem var framselt við samþykki Stórþingsins 22. marz 2018, sbr lið 3.1 að ofan." (Síður 25-26.) 

 

UPPSÖFNUN: MARGT SMÁTT GERIR EITT STÓRT

 NtEU hélt því fram, með vísun til greinargerðar Hæstaréttar um 4. járnbrautarpakka ESB (marz 2021), að fullveldisframsalið í málinu verði að meta sem heild með öðru valdframsali á orkusviðinu.  Það spannar nokkrar reglugerðir Framkvæmdastjórnarinnar og 4. orkupakka ESB, sem að efni til var þekktur, þegar Stórþingið tók sína ACER-ákvörðun í marz 2018 (4. orkupakkinn var lagður fram sem tillaga Framkvæmdastjórnarinnar, hann var samþykktur í ESB 2019). Ríkið hefur hins vegar hafnað því að taka tillit til uppsöfnunar, þar sem safnað er saman nokkrum Stórþingssamþykktum til að meta, hversu áhrifaríkt valdframsalið hefur verið.  

NtEU fær að nokkru leyti stuðning við þetta sjónarmið.  Lögmannsrétturinn skrifar:

"Regla um uppsöfnun styður að hafa beri hliðsjón af  raunverulegri og skilvirkri minnihlutavernd. Ef tiltekið valdframsal er einvörðungu metið einangrað og ekki er höfð hliðsjón af fyrra valdframsali, mun í tímans rás - smámsaman - geta átt sér stað valdframsal, sem er langtum meira en lítt áhrifaríkt fyrir þjóðlífið.   (...)   Á grundvelli einróma greinargerðar Hæstaréttar og með tilliti til raunverulegrar og skilvirkrar minnihlutaverndar leggur Lögmannsrétturinn til grundvallar gerðum sínum, að reglan um uppsöfnun sé í gildi við mat. Að mati Lögmannsréttarins nær minnihlutaverndin lengra en bara til að hindra sniðgöngu."(Síða 19.) 

Ennfremur segir í dóminum:

 "Lögmannsrétturinn telur, að varðandi spurninguna um að heimila valdframsal til ESB/EES-stofnana á orkusviðinu verði að hafa í huga valdframsal, sem áður hafi farið fram á þessu sviði. Þar sem áður hefur ekki farið fram valdframsal á orkusviði, hvorki með sjálfum EES-samninginum eða seinni lagagjörðum fram að og með Orkumarkaðspakka 2, fjallar Lögmannsrétturinn ekki nánar um, hvaða sértækari kröfur verður að gera t.d. til málefnalegs og tímanlegs samhengis á milli valdframsala." (Síða 20.)

Hér verður réttinum reyndar á fingurbrjótur.  Það er rangt, að áður hafi ekki átt sér stað valdframsal á orkusviðinu.  Reglugerð (EB) 1228/2003 um viðskipti með rafmagn, sem var hluti af ESB-Orkumarkaðspakka 2 og var innleiddur í EES árið 2007, felur í sér bæði upplýsingaskyldu og og sektarheimild.  Í áliti sínu 8. desember 2004 komst Lagadeild Stórþingsins að þeirri niðurstöðu, að valdið til að sekta "með vafa" væri áhrifalítið (sjá frv. 4 S (2017-12018), síðu 28).

Lögmannsrétturinn styður ekki sjónarmið NtEU um, að einnig síðari tíma valdframsal skuli taka með í reikninginn:

"Að mati Lögmannsréttarins getur uppsöfnunarreglan aðeins virkað "aftur á bak í tíma". Þetta gildir óháð því, hversu sterk málefnaleg eða tímanleg tenging er við framtíðar framsal." (Síða 20.)

Rétturinn telur heldur ekki, að þær 4 reglugerðir Framkvæmdastjórnarinnar, sem eru viðbætur við Orkupakka 3 og voru teknar inn í EES-samninginn 2021, "réttarlega séð varpi ljósi á innihald og umfang valdsins, sem var framselt árið 2018" (síða 33). 

Samt stendur í dóminum, að "vald ESA til að taka ákvarðanir, sem varða RME [orkulandsreglara Noregs] sem óháð stjórnvald [var] aukið" (síða 32)."

Lögmannsrétturinn fellst að sumu leyti á rök NtEU, en það hefur alltaf verið ljóst, að til að snúa við ákvörðun Stórþingsins fyrir rétti í Noregi þyrfti hið pólitíska deilumál að vera hafið yfir lagalegan efa.  Samt verður nú þessi leið reynd til þrautar fyrir Hæstarétti Noregs. Þetta deilumál sýnir, hversu hæpið er að kveða á um það í stjórnarskrá, að þingið geti metið það sjálft, hvers konar kröfur eigi að gera um atkvæðagreiðslu þess, þ.e. hvort einfaldur meirihluti skuli duga eða regla um aukinn meirihluta viðhöfð.  Það hlýtur jafnan að vera freistandi í ágreiningsmálum, þegar einfaldur meirihluti þings vill framselja vald til erlendrar stofnunar, þar sem landið er ekki fullgildur aðili, að láta einfaldan meirihluta duga.  

Annar hluti af þremur þessarar greinar Mortens Harpers verður birtur í næsta pistli hér á vefsetrinu.  

 

 

 

 


ACER herðir tökin á Noregi

Það var gæfa fyrir Ísland, að aflsæstrengurinn, sem búið var að setja á forgangslista orkuverkefna ESB-ACER, var tekinn út af þeim lista að ósk íslenzkra stjórnvalda í aðdraganda lokaumfjöllunar Alþingis á OP3 (þágildandi orkulöggjöf ESB, OP4 er núgildandi) sumarið 2019.  Annars gæti farið að styttast í svipaðar orkuhremmingar á Íslandi og gengið hafa yfir Norðmenn og valdið þeim gríðarlegum kostnaðarauka og aukið hjá þeim verðbólguna.  Þess vegna er fróðlegt fyrir áhugasama hérlendis að kynna sér, hver þróun samskipta Norðurlandanna við ESB-ACER er á orkusviðinu.

Hjá ACER er nú til athugunar tillaga frá kerfisstjórum aðildarlanda EES-Evrópska efnahagssvæðisins, þ.á.m. Statnett í Noregi, um að fella þann hluta Noregs, sem er á áhrifasvæði millilandatenginga fyrir raforku, þ.e. Suður-og Austurlandið, inn í stórt fjölþjóðlegt orkuflutningssvæði, sem ætlað er að einfalda útreikninga með samræmdri aðferðarfræði á orkugetu og orkuflutningsgetu stórsvæðisins. Jöfnunarorkumarkaður verður þá sameiginlegur fyrir stórvæðið. Samhliða þessu vinnur ACER með tillögu að nýjum reglum um orku og flutningsgetu til ráðstöfunar samkvæmt langtíma orkusamningum, en tilhneigingin hefur verið að draga úr umfangi þeirra.  Slíkt hentar Íslandi og Noregi illa. 

Áfangaskipt samræming orkumarkaða Orkusambandsins felur í sér svæðisbundnar lausnir sem bráðabirgða skref í átt að fyrirætluninni um heildarsamræmingu, eins og getið er um í viðkomandi reglugerð í OP4 (Orkupakka 4). Það hlýtur að vera kaldranalegt fyrir Norðmenn að vinna að þessu í ljósi þess, að OP4 hefur ekki lagagildi í Noregi, og flestir gera sér ljóst, til hvers refirnir eru skornir, og ófæran blasir nú þegar við í Noregi. 

Noregi mun verða gert að ráðstafa enn meiri orku- og flutningsgetu til þessa sameiginlega orkumarkaðar.

Núna eru 8 orkuviðskiptasvæði í ESB.  Hjá ACER stendur vilji til, að norsku uppboðs- og verðsvæðin verði á norræna og Hansa-svæðinu, þ.e.a.s. með Þýzkalandi, Hollandi, Póllandi og Lúxemborg auk Svíþjóðar og Danmerkur.  Hjá ACER er því haldið fram, að þessi sameining markaðssvæða Noregs við Hansa-sambandið muni leiða til aukinnar "velferðarþróunar", sem er kaldhæðnisleg ályktun frá norsku sjónarhorni.

Í raun þýðir þessi skipulagsbreyting, að Noregur verður skyldaður til að ráðstafa enn stærri hluta flutningsgetu raforku til útlanda til Innri markaðar ESB og þeirra reglna, sem þar eiga við.  Aðferðarfræðin þar er s.k. flot.  Það þýðir, að þar ræður markaðurinn alfarið ferðinni, en stjórnvöld mega engin afskipti hafa af þeim viðskiptum. 

Að Noregur skuli sogast sífellt sterkar inn á Innri markaðinn, er bein afleiðing af, að sumarið 2021 samþykkti Stórþingið 4 reglugerðir, sem boðaðar voru í OP3 og koma í rökréttu framhaldi af honum.  Þær eru í samræmi við ákvæði í OP4. Alþingi hlýtur að hafa samþykkt þessa nálgun að OP4, úr því að reglugerðirnar hafa tekið gildi í EES.  Um þetta hefur verið undarlega hljótt.  Hvað gengur íslenzkum stjórnvöldum til að hlaupa umsvifalaust til, þegar norskur ráðherra hringir ?  Er þetta eitthvert Gamla sáttmála heilkenni ?

Ein þessara reglugerða er um ráðstöfun flutningsgetu fyrir orku, í orkuflutnings mannvirkjunum, sem samið er um til langs tíma (FCA).  Önnur er reglugerð um ákvörðun flutningsgetu og meðferð flöskuhálsa í flutningskerfinu (CACM).  Það er einkum þessi síðar nefnda reglugerð, sem kerfisstjórarnir og ACER nota sem röksemd fyrir því að samþætta Noreg stærra markaðssvæði. Í einföldu máli inniheldur CACM nákvæmar reglur, sem eiga að tryggja, að markaðurinn, en ekki þörf viðkomandi lands að mati stjórnvalda þess, stjórni aðgengi að millilandatengingunum og flutningum eftir þeim. 

Svíþjóð er skylduð til að ráðstafa 70 % af flutningsgetu sinni á raforku til útlanda til markaðarins.

Rafmagnsverðhækkanirnar hafa valdið örvæntingu í Svíþjóð eins og í Noregi.  Mikill verðmunur hefur verið á milli norður- og suðurhlutans, og kerfisstjórinn, Svenska Kraftnät, hefur átt í vandræðum með yfirálag á flutningskerfinu.  Þess vegna sótti Svenska Kraftnät um leyfi orkulandsreglarans, Energimarknadsinspektionen (EI samsvarar RME í Noregi og Orkumálastjóra á Íslandi), til að takmarka útflutninginn.  EI neitaði kerfisstjóranum um almennt leyfi til útflutningstakmarkana og vísaði til þess, að Svíþjóð er skuldbundin til að ráðstafa 70 % flutningsgetunnar til markaðarins samkvæmt ákvæði í endurskoðuðu rafmagnstilskipuninni í ESB OP4.

Aftur á móti veitti EI bráðabirgða undanþágu fyrir ákveðinni útflutningstakmörkun á flutningslínum og -strengjum til Finnlands og Danmerkur (en ekki til Noregs, Þýzkalands og Póllands) með vísun til afhendingaröryggisins.  Dönsku og finnsku orkulandsreglararnir mótmæltu og kærðu til ACER, sem nú hefur hafnað því, að Svíþjóð geti vikizt undan 70 % reglunni.      

ACER lagði mat á afstöðu sænska kerfisstjórans og orkulandsreglarans og rökstuddi höfnunina þannig:

  1. Undanþágan er ekki nauðsynleg til að viðhalda rekstraröryggi sænska raforkukerfisins.
  2. Í umsókninni var ekki tilgreind hámarkslækkun, sem fyrirhuguð væri.
  3. Í umsókninni var ekki tilgreind sú aðferðarfræði, sem fyrirhugað væri að beita til að koma í veg fyrir mismunun á milli orkuviðskipta innanlands og til útlanda.  

Af þessu má ráða, að ACER væni téð orkuyfirvöld í Svíþjóð óbeint um að ætla að veita notendum innanlands forgang að tiltækri orku. Ef t.d. ætti að helminga flutningana til útlanda, þá yrði að skerða orku til a.m.k. ákveðinna notenda í Svíþjóð um helming.  Þetta er algerlega óviðunandi fyrir sjálfstæðar þjóðir.  Ef Stórþingið og Alþingi ásamt Liechteinsteinum samþykkja OP4, lendir Noregur strax í sömu ófæru og Svíar.  Hið sama varður uppi á teninginum hérlendis, ef Alþingi samþykkir tengingu íslenzka raforkukerfisins við Innri markaðinn, sem yrði fullkomið glapræði. 

Í ESB er ekki sama, hvort í hlut á Jón eða séra Jón.  Í vor bannaði franska ríkisstjórnin tímabundið útflutning á raforku frá Frakklandi til að draga úr verðhækkunum í kjölfar stöðvunar líklega um þriðjungs 56 kjarnakljúfa í frönskum kjarnorkuverum og virtist komast upp með það.   

OP3 er dauður bókstafur á Innri markaði ESB síðan OP4 tók þar við.  OP4 hefur hins vegar ekkert lagagildi í EFTA-löndunum.  Þess vegna verður ekki annað séð en orkulandsreglarar Íslands og Noregs framkvæmi fyrirmæli ESA (frá ACER) í heimildarleysi, og embættismenn og ráðherrar kæra sig kollótta.     

 

 


Meira um þróun orkupakkanna OP3 og OP4

Í Noregi er nú tekizt á um það í dómsölum, hvort OP3 frá ESB sé "lítið inngrípandi" eða ekki, þ.e. hvort sú orkulöggjöf ESB hafi lítil áhrif á líf almennings í Noregi eða ekki.  Þróun orkumálanna í Evrópu frá innleiðingu OP3 í EFTA-löndum EES-samstarfsins er öll í átt til mikilla áhrifa á líf fólks og rekstur fyrirtækjanna í Noregi.  Þar nægir að benda á ofurhátt innflutt raforkuverð til Noregs um millilandatengingarnar. Á Íslandi áskildi Alþingi sér rétt til að samþykkja eða hafna tengingu aflsæstrengs frá útlöndum við íslenzkt raforkukerfi, en þetta skilyrði kann að brjóta í bága við EES-samninginn og er þess vegna veik vörn.

Vegna OP3 er það ekki á færi lýðræðislegra yfirvalda í Noregi að hamla gegn margföldun raforkuverðs á áhrifasvæði sæstrengjanna þar með því að draga úr eða stöðva útflutning raforku og safna þar með vatni í miðlunarlón vatnsaflsvirkjana sunnan Dofrafjalla (í Suður- og Austur-Noregi), eins og norska ríkisstjórnin hafði áform um í sumar áður en Eftirlitsstofnun EFTA-ESA barði á fingurgóma hennar með reglustriku.  

Nú verður haldið áfram með frásögn Mortens Harper, lögfræðings Nei til EU, NtEU, í Klassekampen 5. nóvember 2022, með ívafi höfundar þessa vefseturs:

OP3 er nú aðeins í gildi í EFTA-löndum EES (Noregi, Íslandi og Liechtenstein).  Í ESB hefur OP4 leyst OP3 af hólmi.  Þetta er lagagrunnurinn, sem ACER (Orkustofa ESB) reisir ákvarðanir sínar á, ákvarðanir, sem hafa mikil áhrif á innri markaðinn fyrir orku, sem Noregur er nú samþættur, en Ísland ekki í raun, því að raforkukerfi Íslands er ótengt raforkukerfum annarra landa.

Hvernig ACER beitir ákvörðunarvaldi sínu sást nýlega, þegar ACER fjallaði um tilraun Svía til að hafa stjórn á raforkuútflutninginum (ákvörðun 26.10.2022).  Hin endurskoðaða rafmagnstilskipun frá ESB í OP4 skyldar aðildarþjóðirnar (að innri markaði orku) til að ráðstafa 70 % af flutningsgetunni til útlanda til frjálsra afnota markaðarins.  Sænska Orkumarkaðseftirlitið, þ.e. Orkulandsreglarinn (Orkumálastjóri hérlendis) hafði samþykkt bráðabirgða undanþágu með vísun til afhendingaröryggis raforku í Svíþjóð og heimilað nokkra takmörkun útflutnings.  Þessu mótmæltu orkulandsreglarar Danmerkur og Finnlands, svo að málið barst ACER til úrskurðar.  Niðurstaðan varð sú, að sænsku röksemdirnar lutu í lægra haldi fyrir óheftu orkuflæði á markaðinum innan 70 % markanna. 

Statnett (norska Landsnet) er í norrænum hópi kerfisstjóra, þar sem 3 af 4 (í Svíþjóð, Finnlandi og Danmörku) eru formlega undir gildandi ESB-regluverki (OP4).  Í raunveruleikanum sést, að Statnett fylgir líka reglum ESB OP4.  Fyrir fáeinum árum náðu norrænu kerfisstjórarnir 4 ekki samkomulagi um aðferðarfræði til að stjórna langtíma flutningsgetu kerfisins, og ACER var falið að kveða upp bindandi úrskurð.  Samþykkt ACER 30.10.2019 er formlega beint til kerfisstjóranna í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi, en úrskurðurinn verður að gilda líka í Noregi fyrir milligöngu ESA og RME (norska orkulandsreglarans). Annað svipað dæmi er ACER-ákvörðun frá 05.08.2020 um jöfnunarorku.  Í báðum málunum er m.a. vísað til nýju ACER-reglugerðarinnar í OP4, sem ekki hefur hlotið samþykki Noregs í EES (og þess vegna ekki Íslands heldur). 

Þetta vekur spurningar um raunverulega vídd orkuskuldbindinga Noregs og Íslands samkvæmt EES-samninginum. Geta þær spannað reglur, sem ekki hafa lagagildi á Íslandi ? Regluverkið, sem farið er eftir á Innri markaði ESB, einnig í löndunum, sem tengjast Noregi með raforkuflutningsmannvirkjum og náinni kerfisstjórnunarsamvinnu, er enn meira inngrípandi en regluverkið, sem Stórþingið og Alþingi hafa innleitt í EES-samninginn. 

ACER vinnur samkvæmt OP4.  Hvernig á Eftirlitsstofnun EFTA ESA og orkulandsreglarinn að gera eitthvað annað gagnvart Noregi, Íslandi og Liechtenstein ?  Er nokkuð raunverulegt í þessu sambandi í formlegri aðgreiningu Noregs og norrænu ESB-landanna ?  Hér mætti bæta Íslandi við í öðrum málum en þeim, sem varða orkuflutninga á milli landa. Sönnunarbyrðin í þessu máli hlýtur að vera hjá þeim, sem enn telja fullveldisframsalið til ESB-ACER vera "lítið inngrípandi". Þetta verður að fást á hreint á Íslandi líka.  Er það í lagi, að veigamiklum þáttum raforkumálanna sé stjórnað á grundvelli reglna ESB, sem ekki hafa lagagildi á Íslandi ?  Frá leikmannssjónarhorni í lögum er slíkt klárt  stjórnarskrárbrot. Öll verk orkulandsreglarans frá gildistöku OP4 sumarið 2019 eru líklega ólögleg í Noregi og á Íslandi.  Það þýðir, að embætti hans og gjörðir frá gildistöku OP3 haustið 2019 á Íslandi eru sennilega ólögleg.  Hvernig stendur á því, að enginn úr fjölmennum hérlendum lögfræðingahópi hefur vakið athygli á þessari alvarlegu lagaóvissu ?  Sú lagaóvissa er alls ekki á förum, á meðan norski Miðflokkurinn situr við "kongens bord" í Ósló. 

Raforkuverðskreppan veldur því, að ekki getur lengur ríkt mikill vafi á því, að ESB OP3 hefur áhrif á atriði með mikla þýðingu fyrir norska þjóðfélagið - afhendingu raforku og raforkuverðið.  Meirihluti Stórþingsins veturinn 2018 vanmat þjóðfélagslegar afleiðingar þessa regluverks, sem hefur slíkan umbúnað, að norsk yfirvöld hafa ekki möguleika á  nauðsynlegum áhrifum á framkvæmd og þróun regluverksins. Hvorki Noregur né Ísland hafa t.d. atkvæðisrétt í ACER. 

Í Stórþingsfrumvarpi nr 100 (1991-92), sem lá til grundvallar samþykktar EES-samningsins, stóð, að með því að ráða síðasta skrefinu, sem taka yrði til að skapa borgurum landsins nýjar skuldbindingar, fælist grundvallarmunur m.v. það að sleppa þessum stjórnunarmöguleika. 

Á orkusviðinu verða til ákvarðanir hjá ACER, sem ESA á síðan að samþykkja óbreyttar að efni til, og orkulandsreglarinn (RME í Noregi og Orkumálastjóri á Íslandi) á síðan að koma á framfæri gagnvart aðilum á orkumarkaði í Noregi og á Íslandi og fylgja því eftir, að þær séu framkvæmdar.  Þessi ákvarðanatökukeðja veldur því, að Noregur og Ísland hafa enga stjórnun á þessum þáttum.  Í álitsgerð sinni um ACER-málið (OP3) skrifaði lagaprófessor Hans Graver, að það "... hafi verið búin til valdastaða í innanlandsrétti fyrir alþjóðlega stofnun til að taka ákvarðanir..." (september 2018).  Síðasta skrefið er í raun ACER.

  Mun lögmannsrétturinn stíga nauðsynleg skref til baka ?  Hvenær skyldi reyna á lagalegan grundvöll OP3 á Íslandi og á lagalegan grundvöll orkulandsreglarans (Orkumálastjóra), sem starfar ekki eftir OP3, heldur eftir OP4, sem hefur ekkert lagalegt gildi á Íslandi. 

 

 

 


Orkupakki 3 í lausu lofti ?

Eins og Ólafur Ísleifsson, hagfræðingur og fv. Alþingismaður, vakti athygli á í Morgunblaðsgrein 05.11.2022, féll Orkupakki 3 (OP3) úr gildi innan Evrópusambandsins (ESB) fyrir nokkrum árum, þegar OP4 tók þar gildi.  Ef OP3 hefur ekkert lagalegt gildi lengur í ESB, hvernig er þá háttað lagalegu gildi hans í EFTA-löndum EES-samstarfsins ? Þessu velta menn líka vöngum yfir í Noregi, og Morten Harper, lögfræðingur Nei til EU í Noregi, birti 5. nóvember 2022 grein í Klassekampen um stöðu OP3 og OP4 í Noregi um þessar mundir.  Þessi vefpistill er með hans leyfi reistur á téðri grein:

Lögmannsréttur Borgarþings var 31. október 2022 settur með 5 dómurum til að fjalla um kæru Nei til EU (NtEU) á hendur ríkinu fyrir það, að Stórþingið beitti ekki grein 115 í Stjórnarskrá um aukinn meirihluta við atkvæðagreiðsluna um OP3 í marz 2018. NtEU staðhæfir, að innleiðing OP3 ein og sér eða í samhengi við aðra lagasetningu frá ESB um orkumál feli í sér fullveldisafsal, sem Stórþinginu sé óheimilt með einföldum meirihluta.  Af því að fullveldisafsalið er meira en "lítið inngrípandi", hefði Stórþingið átt að fylgja Stjórnarskrárgrein 115, sem krefst 3/4 meirihluta og að 2/3 hlutar þingheims mæti til fundar. 

Framkvæmdastjórn ESB hefur gefið út allmargar reglugerðir til skýringa og áherzluauka við OP3.  Árið 2021 samþykkti Stórþingið 4 þeirra.  Samþykktir ACER á grundvelli þessara reglugerða eiga einnig að fara um Eftirlitsstofnun EFTA-ESA til framkvæmdar hjá Orkumálastjóra, sem gegnir stöðu fulltrúa ACER-Orkustofu ESB á Íslandi (Landsorkureglari).  Framkvæmdir þar á bæ hafa ekki verið áberandi. 

Landsorkureglarinn er óháður innlendum yfirvöldum í gjörðum sínum og ber að fylgja eftir framkvæmd reglna EES-samningsins á orkusviðinu á Íslandi. 

Ennfremur hefur ESB samþykkt OP4  (einnig kallaður "hreinorku" pakkinn), og aðildarlöndin hafa innleitt OP4 í lagasöfn sín.  Hann veitir ACER meiri völd en OP3.  Efni OP4 var þekkt, þegar Stórþingið samþykkti OP3.  Reglugerðirnar 4 í OP4 hafði ESB þegar samþykkt, og Framkvæmdastjórnin hafði  gert tillögu um OP4 til þings og ráðs.  

Hæstiréttur Noregs sagði í greinargerð sinni um 4. járnbrautarlagapakkann frá ESB í marz 2021, að Stórþinginu beri að meta uppsafnað fullveldisframsal, þannig að ekki verði unnt að sniðganga grein 115 með því að búta innleiðingu laga niður.  Þetta sjónarmið hlýtur einnig að ráða hjá ríkisstjórn Íslands og Alþingi.  Munurinn er sá, að aukinn meirihluti er ekki heimilaður í Stjórnarskrá Íslands til að samþykkja meira en "lítið inngrípandi" fullveldisframsal.  Alþingi er einfaldlega slíkt framsal með öllu óheimilt.  Hér er komið að því, sem lagafræðimennirnir Friðrik Árni Friðriksson Hirst og Stefán Már Stefánsson vöruðu þáverandi utanríkisráðherra og Alþingi við í skýrslu sinni í aðdraganda innleiðingar Alþingis á OP3, 02.09.2019.  Grasrót Sjálfstæðisflokksins varaði sumarið 2019 eindregið við þessari innleiðingu, og áhyggjur Landsfundar Sjálfstæðisflokksins komu ljóslega fram í ályktun hans veturinn áður.  Þáverandi utanríkisráðherra hundsaði þá gjörsamlega þessa grasrót, sem hann svo smjaðraði ótæpilega fyrir í aðdraganda og á Landsfundi í nóvemberbyrjun 2022 í ótímabærri tilraun sinni til að velta sitjandi formanni Sjálfstæðisflokksins úr sessi, sem þó ber höfuð og herðar yfir hann, hvernig sem á þá er litið. 

Í Noregi verður sem sagt að líta til alls orkuregluverks ESB á orkusviði, þegar lagt er mat á, hversu inngrípandi fullveldisframsalið er.  Virkni orkuregluverksins og réttarfarið á Innri markaðinum veldur því, að ekki aðeins þarf að taka tillit til lagasetningar fram að samþykktardegi, heldur einnig þekktra og væntra reglugerða og 4. orkupakka. Þetta hefur mikla þýðingu í Noregi vegna umrædds dómsmáls, en einnig þýðingu á Íslandi, ef/þegar ný orkulagasetning frá ESB verður þar til umræðu.   

Hér með lýkur fyrri hluta þessarar umfjöllunar, en síðari hlutinn verður birtur í næsta vefpistli á þessu vefsetri.  


Endurskoðun orkumarkaðar

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB), hefur lýst því yfir, að raforkumarkaður ESB sé ónothæfur við núverandi aðstæður.  Bragð er að, þá barnið finnur.  Forsenda markaðarins var alla tíð sú, að nóg bærist til hans af frumorku, þ.e. aðallega jarðefnaeldsneyti í tilviki ESB. 

Aðildarlöndin og bandalagið sjálft hafa hins vegar sýnt skilningsleysi á virkni markaðarins og/eða ábyrgðarleysi með því að veikja framboðshliðina smám saman, þangað til hún hrundi við eina aðgerð einræðisherra austur í Moskvu, sem lokaði smám saman fyrir gasstreymi eftir Nord Stream 1 frá Síberíu til Þýzkalands. Nú eru reyndar eldsneytisgasgeymar í Evrópu um 80 % fullir, og ESB hefur sett Gazprom stólinn fyrir dyrnar með ákvörðun hámarksverðs á gasi, sem mun jafngilda 50 EUR/MWh á raforkuvinnslu úr þessu gasi. Sýnir þessi "gagnsókn" ESB, að "orkuvopnið" hefur snúizt í höndum einræðisherrans og ólígarka hans. 

Með samningum Þjóðverja við Rússa um gaskaup eftir Nord Stream 1 & 2 á tiltölulaga hagstæðu verði myndaðist enginn hvati til að setja upp aðstöðu í höfnum Þýzkalands fyrir jarðgas á vökvaformi, LNG, sem er auðvitað mun dýrara.  Þar að auki var bannað í Þýzkalandi á dögum Merkel sem kanzlara, líklega 2015, að vinna gas úr jörðu með vökvaþrýsingi (fracking), þótt góð reynsla væri af því í Þýzkalandi áður.  Árið 2011 lét þessi sami óheilla kanzlari frá Austur-Þýzkalandi (DDR) draga úr framboði raforku í Þýzkalandi með því að loka kjarnorkuverum og banna alla slíka starfsemi frá árslokum 2022.  Á sama tíma var girt fyrir byggingu nýrra kolaorkuvera með loftslagssköttum (gjaldi á CO2) og niðurgreiðslu úr ríkissjóði á orku frá vindorkuverum og sólarhlöðum.  Af þessum sökum öllum var orkumarkaður Evrópu orðinn óstöðugur 2022, þegar Rússar hófu ólögmæta og grimmilega útrýmingarherferð sína gegn Úkraínumönnum 24.02.2022, og það gerði út um orkumarkað ESB.  Hvað tekur við af honum, veit enginn. 

Í þessu ljósi er afar lærdómsríkt að velta fyrir sér, hvernig þróunin gæti orðið í vatnsorkulöndum Evrópu.  Það eru víða vatnsorkuver í Evrópu, t.d. í Sviss, Frakklandi og í Austur-Evrópu, en stærsta hlutdeild vatnsorku er þó í Noregi, 89,1 %, og Íslandi, 68,8 %. Þrátt fyrir það, að Norðmenn séu sjálfum sér nægir með raforku með sína 155 TWh/ár framleiðslugetu, hafa þeir orðið fyrir barðinu á orkukreppu Evrópu, þar sem orkuverð hefur víða tífaldazt og samkvæmt framvirkum samningum stefnir heildsöluverð í 1200 EUR/MWh í október 2022 í Þýzkalandi og 2500 EUR/MWh í Frakklandi, en þar fer saman lélegt vatnsár fyrir vatnsorkuverin og mikil og brýn viðhaldsþörf í kjarnorkuverunum.  Lág vatnsstaða í miðlunarlónum í Suður- og Austur-Noregi vegna mikillar sölu raforku til Hollands, Þýzkalands og Bretlands, ásamt smitáhrifum um öflugar millilandatengingar við þessi lönd veldur tíföldun raforkuverðs sunnan Þrændalaga m.v. Norður-Noreg.  Þetta hefur valdið ólgu í Noregi og niðurgreiðslu ríkisins á heildsöluverði umfram 0,7 NOK/kWh (=9,6 ISK/kWh).  Hvaða lausnir sjá frændur okkar í Noregi á þessu viðfangsefni ?

Þann 19. september 2022 hélt Samstarfshópur um breytta orkustefnu mótmælafund framan við Stórþingshúsið í Ósló og samþykkti ályktun til þingsins, sem sjá má í viðhengi með þessum pistli. Þessi samtök leggja m.a. fram eftirfarandi rök fyrir því, að Norðmönnum henti ekki gildandi markaðskerfi raforkunnar:

 "Norska vatnsorkukerfið er einstakt með sín miðlunarlón, sem jafna út mismunandi úrkomu eftir árstíðum og jafnvel árum.  Það er svo ólíkt öðrum orkulindum á evrópska orkumarkaðinum, að það eitt og sér er næg ástæða til að krefjast aftengingar [við uppboðsmarkað raforku].  Norsk miðlunarlón er ekki hægt að fylla með tankbílum [eins og eldsneytisgeyma Evrópu - innsk. BJo]." 

Þetta er rétt og á líka við um Ísland.  Þar er enn ekki kominn uppboðsmarkaður raforku, en illu heilli vinnur Landsnet undir stjórn æðsta umboðsmanns ACER (Orkustofu ESB) á Íslandi, sem einnig gegnir starfi forstjóra Orkustofnunar !, að hönnun þessa markaðsfyrirkomulags hefur nú stofnað dótturfélag um tiltækið.  Allt er það tímaskekkja. Ótrúlegt er, að ACER þrýsti á þetta núna eftir yfirlýsingu Úrsúlu von der Leyen um ónothæfni fyrirkomulagsins.  Hér er íslenzkt ríkisfyrirtæki að færa út kvíarnar almenningi til bölvunar.  

Hvað vill téður Samstarfshópur í Noregi fá í staðinn ?:

"Þessar aðgerðir munu gera kleift að koma aftur á verðlagningu raforku, sem notuð er í Noregi, sem reist verði á raunkostnaði við að framleiða og flytja rafmagn með nauðsynlegri viðbót vegna fjárfestinga, endurfjárfestinga [stækkanir - innsk. BJo] og endurbóta ásamt hugsanlegum viðbótum til að hvetja til orkusparnaðar." 

Undir þetta skal taka, og þetta á líka við um Ísland undir samræmdri stjórn.  Raforka er ekki vara, sem hægt er að geyma í umtalsverðum mæli, heldur verður framleiðslan að haldast algerlega í hendur við notkunina. Þess vegna fer illa, ef reynt er að láta lögmál um vörur gilda um rafmagnið. Um vatnsorkuvirkjanir gildir, að vatn í miðlunarlóni kostar og er verðmæti þess fall af vatnsmagni í lóni og árstíma.  Verðmæti þess er ekkert í þessu samhengi, þegar flæðir út úr lóni á yfirfalli, en hátt, þegar það nær ekki að fyllast að hausti.  Þannig er verðmætið háð líkindum á tæmingu lónsins, og ætlunin með þessari verðlagningu að koma í veg fyrir tæmingu án þess að grípa þurfi til skömmtunar.

Í stað þessa fyrirkomulags hefur verið gripið til þess ráðs í langtíma orkusölusamningum við stóriðjuna að skipta orkusölunni í tvennt - forgangsorku og ótryggða orku.  Forgangsorku má ekki skerða, nema í óviðráðanlegu neyðarástandi, en ótryggðu orkuna má skerða um allt að 50 % á ári samkvæmt ýmsum samningum.   Útreikningana á verðgildi vatns í miðlunarlónum er þá hægt að láta stjórna þessum skerðingum, og er slíkt mun gegnsærra fyrir viðskiptavini Landsvirkjunar en nú tíðkast.  Vatnsverðmætin mynda "eldsneytisverð" fyrir vatnsaflsvirkjunina, sem verður hluti vinnslukostnaðar raforkunnar.  

Svipað fyrirkomulag má viðhafa um jarðgufuna.  Þegar tekur að draga niður í gufuforðabúri jarðgufuvirkjana, öðlast gufan verðmæti, og þar með hækkar rekstrarkostnaður viðkomandi virkjunar, sem getur leitt til minni spurnar eftir orku frá henni.  

Til að annast útreikninga á orkukostnaði virkjana þarf embætti með aðgang að fjárhag fyrirtækjanna, vatnsbúskap og gufubúskap þeirra.  Þessu embætti þarf að fela ábyrgð á því að hindra orku- og aflskort til skamms og langs tíma, en nú eru þau mál í lausu lofti og mikil hætta á, að alvarleg skortstaða komi upp áður en næsta miðlungsstóra virkjun kemst í gagnið.  28.07.2019 lýsti höfundur þessa pistils valkosti við markaðskerfi ESB í skjalinu "Orkupakki #4 og afleiðingar hans" á vegum samtakanna "Orkunnar okkar":

"Samkvæmt orkustefnu ESB [meingölluð fyrir vatnsorkulönd og nú í uppnámi alls staðar-innsk. BJo] á raforkumarkaðurinn að sjá um nægt aflframboð á hverjum stað og tíma, og eldsneytismarkaðir eiga á sama tíma að tryggja nægt orkuframboð. Íslenzkur raforkumarkaður getur hins vegar ekki sinnt hvoru tveggja [duttlungar náttúrunnar ráða orkuframboðinu - innsk. BJo]. Hér þarf (nýtt) fyrirkomulag, sem hentar orkulindum Íslands.  Þar er kjarni máls, að ríkið beiti fullveldisrétti sínum til að stofna embætti orkulindastjóra, sem hafi með höndum samstýringu allra virkjana landsins, sem máli verða taldar skipta fyrir orkubúskap landsins, með svipuðum hætti og Landsvirkjun stundar nú innan sinna vébanda. Með vandaðri lagasetningu um embætti orkulindastjóra fái hann í hendur "tól og tæki", sem tryggi, að virkjanafyrirtækin hefji virkjanarannsóknir og virkjanaundirbúning í tæka tíð, svo að nægt framboð raforku verði jafnan mögulegt, vald til að takmarka stærð (uppsett afl) jarðgufuvirkjana á hverju svæði, svo að rýrnun gufuafls verði ekki óhóflega hröð, heldur innan "eðlilegra marka", og jafnframt fái orkulindastjórinn vald til að stýra hæð miðlunarlóna í nafni orkuöryggis. 

Lagasetningin um embættið þarf jafnframt að tryggja því aðgang að nægum upplýsingum um allar virkjanir í þessari samræmdu auðlindastýringu á hverjum sólarhring, til að embættið geti gegnt öryggishlutverki sínu.  Orkulindastjórinn skal tryggja beztu sjálfbæru nýtingu allra virkjana landsins, sem áhrif hafa á orkubúskap þess, með því að hámarka orkuvinnslu hverrar virkjunar til langs tíma.  Lögbundnar ákvarðanir orkulindastjóra skapa orkumarkaðinum ramma, sem hann verður að starfa í frjálsri samkeppni innan.  Eðlilegast er að neita að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara af OP#3, unz færi gefst á að semja um þessa íslenzku útfærslu á réttum vettvangi EES."

Sem kunnugt er var hinum stjórnskipulega fyrirvara létt af samþykki Sameiginlegu EES-nefndarinnar á OP3 haustið 2019 á Alþingi. 21.09.2022 var tilkynnt um ráðningu framkvæmdastjóra nýs dótturfélags Landsnets, sem á að setja á fót og reka heildsölumarkað raforku á Íslandi í anda ESB.  Sagt er í leiðinni, að þetta fyrirkomulag eigi að tryggja þjóðinni hagstæðasta verð á hverjum tíma og orkuöryggi. Það þarf kaldrifjaða ósvífni til að halda þessu fram, á sama tíma og Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, tilkynnir, að smíða verði nýtt og raunhæfara kerfi, því að núverandi kerfi, það sem Katrín Olga Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri raforkukauphallarinnar, ætlar að sjá um hönnun á hérlendis, stenzt ekki kröfurnar, sem gera verður til þess við núverandi aðstæður.  Kerfinu hefur mistekizt að girða fyrir orkuskort og hefur sent raforkuverð til skýjanna í samræmi við jaðarkostnaðinn, sem er kostnaður eldsneytisgasorkuveranna.  

Þá kann einhver að benda á, að íslenzka raforkukerfið sé ósambærilegt við hið evrópska.  Það er einmitt mergurinn málsins.  Framboði raforku á Íslandi stjórna náttúruöflin, og þar er engum stöðugleika fyrir að fara.  Með framboðshliðina í stöðugri óvissu og fákeppnismarkað raforkubirgjanna verður veruleg verðhækkun á raforku hið eina, sem hefst upp úr stofnun heildsölumarkaðar á Íslandi að forskrift ESB í Orkupakka 3. Það er feigðarflan að setja hér upp kerfi, sem valdið hefur stórvandræðum annars staðar.   

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Orkupakki 4 í dvala

Það er að vonum á örlagatímum, þegar orkan í öllum sínum myndum er í brennidepli, að umræðan um Orkupakka 4 (OP4), nýjustu endurskoðun Evrópusambandsins (ESB) á orkulöggjöf sinni, hafi um sinn hafizt aftur í Noregi. Annar stjórnarflokkurinn, Senterpartiet (Sp-Miðflokkurinn) hefur nú samþykkt í flokksstofnunum sínum að leggjast gegn innleiðingu þessarar ESB-orkulöggjafar í norskan rétt.  Þar með er loku fyrir það skotið, að núverandi ríkisstjórn Noregs muni samþykkja, að OP4 verði vakinn úr dvala á vettvangi EFTA, og þar með verður hann ekki tekinn á dagskrá Sameiginlegu EES-nefndarinnar, sem fjallar um alla löggjöf ESB, sem Sambandið vill, að EFTA-lönd EES-samningsins innleiði hjá sér. 

Nú hefur hinn stjórnarflokkurinn, Verkamannaflokkurinn (Ap-Arbeiderpartiet), og aðrir flokkar á Stórþinginu, sem á sínum tíma greiddu götu OP3 inn í norskan rétt,  áttað sig á því, að ekki eru öll 8 skilyrði þeirra fyrir að fallast á norska innleiðingu OP3 uppfyllt, eins og andstæðingar OP3 sögðu raunar fyrir um.  Ap hélt því fram, að opinbert eignarhald á mörgum vænum virkjunum og Statnett, sem á allar millilandatengingarnar við Noreg, mundi duga til að varðveita stjórnunarrétt ríkisins á nýtingu orkulinda Noregs.  Annað er nú komið á daginn. 

Vatnsstaða miðlunarlóna austanverðs og sunnanverðs Noregs er svo lág núna m.v. árstíma, að samhljómur er á meðal stjórnmálamanna um, að nú sé brýnt fyrir Noreg að hætta að flytja raforku til útlanda, á meðan safnað sé vetrarforða í miðlunarlónin. Hvað gerist þá ?  ACER-Orkustofa ESB neitar að láta stjórnun millilandaflutninganna af hendi, og ESA-Eftirlitsstofnun EFTA, sem á að fylgjast með framfylgd EES-samningsins í EFTA-löndunum, rýkur út með opinbera tilkynningu um, að yfirtaka norskra stjórnvalda á stjórnun orkuflutninga millilandatenginga muni verða túlkuð af ESA sem brot á EES-samninginum og muni framkalla alvarleg mótmæli frá ESA og, ef nauðsyn krefur, að norska ríkið verði dregið fyrir EFTA-dómstólinn til að svara fyrir gjörninginn. 

Þessi hjálparvana staða norska ríkisins í orkumálum kemur á versta tíma fyrir stjórnmálaflokkana, sem studdu OP3 árið 2018, því að raforkuverðið hefur hækkað upp úr öllu valdi í framangreindum landshlutum, þar sem vatnsstaða miðlunarlónanna er bágborin og  áhrifa millilandastrengjanna gætir á raforkumarkaðinn.  Athuguð var staða miðlunarlóna í % af hámarksfyllingu 09.09.2022 og raforkuverð í ISK/kWh 10.09.2022:

  • Austurlandið------67,1 %------57,6 ISK/kWh
  • Suðurlandið-------50,3 %------57,6 ISK/kWh
  • Vesturlandið------69,8 %------57,6 ISK/kWh
  • Mið-Noregur-------83,1 %------15,5 ISK/kWh
  • Norður-Nor--------92,0 %-------5,7 ISK/kWh

Lónfylling í Noregi í heild er aðeins 68,5 % og lækkandi, sem er ófullnægjandi forðastaða fyrir veturinn.  Hún er lökust, þar sem áhrif hinna öflugu sæstrengja til útlanda eru mest, en verðáhrifa millilandatenginganna gætir alls staðar, nema í Norður-Noregi.  Þar er lónsstaðan og heildsöluverð raforku á svipuðu róli og á Íslandi um þessar mundir. 

Með hliðsjón af þessari reynslu Norðmanna er með eindæmum að hlýða á einn af framkvæmdastjórum  Landsvirkjunar í kvöldfréttum RÚV 08.09.2022 halda því fram, að óljóst sé, hver verðáhrif millilandatengingar með aflsæstreng frá Bretlandi eða meginlandinu til Íslands yrðu hérlendis. Þau yrðu háð flutningsgetu millilandatengingarinnar og vatnsstöðunni hér, en t.d. 1000 MW sæstrengur mundi hafa róttæk áhrif á vatnsstöðu íslenzkra miðlunarlóna til hins verra í núverandi markaðsstöðu, því að nánast alltaf væri arðsamara út frá þröngum sjónarmiðum virkjanaeigenda að selja raforkuna utan en innanlands.  Sá gjörningur yrði hins vegar ekki þjóðhagslega hagkvæmur, því að raforkuverðið hér mundi togast upp í áttina að verðinu erlendis, eins og reyndin er í Noregi, þar sem allt að tíföldun raforkuverðs er afleiðing millilandatenginganna um þessar mundir. Tíföldun raforkuútgjalda heimila og almennra fyrirtækja hefði skelfileg efnahagsáhrif hér og mundi stórskaða samkeppnisstöðu, sem þegar á í vök að verjast. Hlutverki Landsvirkjunar samkvæmt lögum um hana yrði þá bókstaflega snúið á haus.  Það verður tafarlaust að gera þá lágmarkskröfu til stjórnenda Landsvirkjunar, að þeir mæti ekki ólesnir í tíma, heldur geri sér grein fyrir þessum sannindum, sem nú eru fyrir framan nefið á þeim í Noregi.  

Á Íslandi er nú miklu meiri spurn eftir raforku en framboð, og þannig mun staðan fyrirsjáanlega verða allan þennan áratug.  Þegar af þeirri ástæðu er tómt mál að tala um að tengja raforkukerfi landsins við útlönd.  Hér þarf nú að bretta upp ermar og hefja virkjunarframkvæmdir, sem eitthvað munar um.  Það er nóg af kaupendum, sem vilja greiða nógu hátt verð fyrir rafmagn til nýtingar á Íslandi, til að nánast allir virkjunarkostir hérlendis gætu verið afar afar arðsamir.     

   


Frelsisstríð og auðlindastríð

Það er þyngra en tárum taki, að þjóð í Evrópu skuli þurfa að heyja stríð til varnar frelsi sínu og fullveldi og þar með til að koma í veg fyrir að verða enn á ný hneppt í ánauð grimmra, villimannlegra og frumstæðra árásarseggja í austri. Úkraínumenn eru á hærra menntunar- og menningarstigi en Rússar almennt.  Frelsisandinn hefur jafnan verið ríkur í brjóstum þeirra og dugar að nefna forfeður þeirra, kósakkana. Þeir vilja þess vegna mun fremur halla sér að Vesturlöndum en að Rússlandi um menningartengsl, viðskipti og stjórnarfar, og þetta þolir ofríkisgaurinn í Kreml ekki. Úkraínumenn þekkja til rússneskrar kúgunar af biturri reynslu. Hvorki forseti Rússlands né aðrir Rússar eiga að ráða neinu um stjórnskipun og stjórnarfar í nágrannaríkjum Rússlands, ekki frekar en Spánverjar eiga að ráða um málefni Portúgala.

  Sagt er, að án Úkraínu hefðu Ráðstjórnarríkin vart verið annað en svipur hjá sjón. Það veitir þó að sjálfsögðu hinum fjölmennari og landmeiri Rússum engan rétt til að heyja landvinningastríð gegn Úkraínumönnum sem hvert annað illvígt nýlendustríð. Vesturlöndum hefur orðið á í messunni, að Rússar skyldu nú dirfast að rjúfa friðinn í Evrópu með stórfelldu árásarstríði. Evrópskir stjórnmálamenn gerðu grafalvarleg mistök með þeirri óverjanlegu áhættutöku að veita Úkraínumönnum enga öryggistryggingu og með því að setja eigin þjóðir í orkusnöru Kremlverja. Nú líður Evrópa öll fyrir þessi pólitísku mistök í öryggismálum.

Sárabót er, að Svíþjóð og Finnland leita nú inngöngu í NATO, og NATO verður að tryggja upphafleg (1991) landamæri sjálfstæðrar Úkraínu, svo að Úkraínumenn geti um frjálst höfuð strokið í framtíðinni. 

Úkraína að austurhéruðunum og Krímskaga og lögsögu hans út í Svartahafið meðtöldum er gríðarlega auðugt landsvæði og sjávarbotn frá náttúrunnar hendi. Í Úkraínu, ekki sízt í austur- og suðurhlutanum, er t.d. hægt að vinna gríðarlega mikið af eldsneytisgasi með því að beita vökvaþrýstingi neðanjarðar (e. fracking). Hins vegar hefur komið í ljós, að enn betri horfur eru á vænum gasforðabúrum undir botni Svartahafs.  Þar eru svo miklar birgðir af eldsneyti, að séð gætu allri Evrópu vestan Rússlands fyrir allri sinni gasþörf um áratugaskeið eða svo lengi, sem þörf krefur, þar til orkuskipti hafa farið fram. Rússland hefur nú lokað fyrir Nord Stream 1 og þar með jarðsett allan snefil af trausti Evrópuríkjanna til Rússlands sem eldsneytisbirgis.  Ef Úkraínu tekst að endurheimta sín réttmætu landsvæði m.v. landamærin 1991-2014, þá bíður hennar vonandi björt framtíð sem lýðræðislegt velferðarríki, eins og hugur almennings þar stendur til, á traustum efnahagslegum grunni.  Um þetta er barizt. 

Það er með endemum, að einræðisseggur í Moskvu með innistæðulausa stórveldisdrauma skuli dirfast að ráðast inn í nágrannaland til að troða upp á það frumstæðum og spilltum stjórnarháttum sínum og framhald á langvinnri kúgun.  Honum og meðreiðarsveinum hans verður að kenna sína lexíu. Niðurlæging Rússlands er mikil orðin, þegar stjórnvöld þar leita til útlagaríkisins Norður-Kóreu um kaup á vopnabúnaði, eins og nú berast tíðindi af. Settu Kínverjar afarkosti ?  

Forystugrein Morgunblaðsins 25. ágúst 2022 fjallaði um það helvíti á jörðu, sem villimennirnir austan við Úkraínumenn bjóða þeim upp á núna:

 "Hálft ár af hörmungum".

Þar stóð m.a.:

"Með það í huga [viðhorf Rússa til Úkraínumanna - innsk. BJo] verður sú spurning áleitin, hvernig friður geti á endanum náðst, ef endanlegt markmið Rússa er að ná yfirráðum í Úkraínu.  Slík niðurstaða yrði einfaldlega óviðunandi fyrir hinn vestræna heim, enda yrði þá staðfest, að alþjóðalög væru til einskis og að nú gilti hnefarétturinn einn.  Hver yrðu þá örlög annarra svæða, sem búa við hlið ágengra nágranna, sem ásælast þau ?

Volodimir Zelenski, forseti Úkraínu, orðaði það nýlega svo, að Úkraínumenn yrðu að berjast á hverjum einasta degi, til þess að hvert einasta mannsbarn gæti skilið, að Úkraína væri ekki hjálenda, skattland eða eign nokkurs heimsveldis, heldur "frjálst, fullvalda, ósundranlegt og sjálfstætt ríki".  Í þessum orðum felst, að Úkraínumenn telja sér heldur ekki fært neitt annað en að berjast til annaðhvort sigurs eða hinztu stundar."

Þarna er vel komizt að orði um langstærsta viðfangsefni samtímans. Vesturlönd standa frammi fyrir því vali að láta engan bilbug á sér finna í vetur, þótt orkuskortur og dýrtíð kunni að sverfa að fólki, á meðan beztu synir og dætur Úkraínu falla á vígvellinum í vörn fyrir sjálfsagðan rétt þjóðar þeirra, og senda til Úkraínu allan þann bezta búnað og mesta, sem í  valdi Vesturveldanna stendur, til að halda uppi merkjum frelsis og lýðræðis, eða lyppast niður með skömm gagnart glæpsamlegum ofbeldisöflum í Moskvu, sem einskis svífast í vitfirrtu stríði sínu gegn vestrænni Úkraínu. 

Það er á flestra vitorði, að komist frumstætt ríki, sem stjórnað er af mafíósum, upp með gjörning sinn í einu ríki, þá verður enginn óhultur í kjölfarið.  Þetta er ögurstund fyrir Vesturlönd.  Þau verða að standa saman sem klettur með Úkraínu og beita öllum sínum mikla efnahagsmætti, sem er margfaldur á við Rússland í VLF mælt, til að hjálpa hinni einörðu og hugrökku þjóð, Úkraínumönnum, úr klóm bjarnarins. Ef það verður ekki gert núna, eru öll góð gildi Vestursins í húfi, gildi, sem áður hefur verið úthellt blóði fyrir.  Þessi gildi eiga á hættu að rotna, ef gerðir fylgja ekki orðum núna.

Þessari forystugrein Morgunblaðsins lauk þannig:

"Það er enda sá hængur á [hernaðarárangri Úkraínumanna], að Úkraínumenn hafa þurft að treysta á stuðning bandamanna sinna í vestri til þessa, og sá stuðningur hefur, með nokkrum mikilvægum undantekningum, verið veittur með miklum semingi. Þó að fátt bendi til, að Bandaríkjamenn, Bretar, Pólverjar o.fl. muni hætta stuðningi sínum í bráð, má enn greina raddir í Þýzkalandi og annars staðar í Evrópu, þar sem menn virðast furða sig á því, að Úkraínumenn haldi áfram að berjast fyrir lífi sínu. 

 Það veltur því mikið á, að samstaða Vesturveldanna með Úkraínu haldi, þrátt fyrir að fram undan séu mögulega enn dimmari tímar fyrir Úkraínumenn.  Sagan sýnir, að alræðisríki, en Rússland ber nú ógnvekjandi mörg merki slíkra ríkja, láta sjaldan gott heita í landvinningum sínum.  Falli Úkraína, verður spurningin einfaldlega sú, hverjir verða næstir."

Þessi semingur við vopnaafhendinguna virðist að sumu leyti hafa átt við Bandaríkin líka fram að þessu, en þá ber að hafa í huga, að nauðsynlegur þjálfunartími á stórbrotinn og afkastamikinn vopnabúnað tekur sinn tíma. Það á t.d. við um HIMARS, sem ásamt öðrum vopnabúnaði, sem nýlega hefur verið tekinn í brúkið af Úkraínumönnum, er að breyta gangi stríðsins þeim í vil.  Búnaður á borð við skriðdrekann Leopard 2 frá Þýzkalandi og orrustuþotuna F15 frá Bandaríkjunum, sem Úkraínumenn hafa óskað eftir, hefur þó ekki borizt enn, svo að vitað sé. Með því að flýta afhendingu mikilvirkra vopna til Úkraínumanna þyrma Vesturveldin mörgum úkraínskum mannslífum og jafnvel verður þá hægt að tryggja öryggi stærsta kjarnorkuvers Evrópu gegn hernaðarvá, en tíðindi þaðan eru váleg um þessar mundir.

Kostnaðurinn við afhent hergögn til Úkraínumanna er lítill í samanburði við kostnað Vesturveldanna af orkuverðshækkunum og jafnvel líka í samanburði við boðaðan kostnað ríkissjóðanna við "frystingu" orkuverðs og alls konar bætur til þeirra, sem minna mega sín, til að hjálpa þeim að ná endum saman í heimilisbókhaldinu.  Ríkin standa þar misjafnlega að vígi, af því að þau eru misskuldsett.  Nú nýtir þýzka ríkið styrk sinn, losar um skuldsetningarhöft ríkissjóðs, og hann nýtur mun hagstæðari lánskjara en t.d. ítalski ríkissjóðurinn. 

Olaf Scholz, kanzlari, hefur  boðað mrdEUR 65 úr ríkissjóði til stuðnings almenningi í dýrtíðinni. Til samanburður nemur kostnaður BNA við hernaðarstuðning við Úkraínumenn fram að þessu aðeins mrdUSD 16 (gengi þessara gjaldmiðla er á sama róli núna). Aftur á móti boðaði fyrrverandi forsætisráðherra Breta, Boris Johnson, í síðustu heimsókn sinni til Kænugarðs sem leiðtogi Bretlands, 24. ágúst 2022, á þjóðhátíðardegi Úkraínu, að Bretar ætluðu að senda hergögn að andvirði mrdGBP 54, og er það rausnarlegt og Bretum til sæmdar. Liz Truss, arftaki Borisar, var fyrsti ráðherra Vesturlanda, sem höfundur þessa pistils heyrði nefna, að aðeins brottrekstur rússneska hersins frá Úkraínu m.v. landamæri 1991-2014 væri niðurstaða þessa stríðs, sem ásættanleg væri. 

Þann 25. ágúst 2022 birti Stefán Gunnar Sveinsson skilmerkilega frétt í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:

    "Við munum berjast til þrautar".

Þar stóð m.a.:

"Zelenski sagði í þjóðhátíðarávarpi sínu, að það kæmi ekki til greina, að Úkraínumenn semdu við "hryðjuverkamenn", en úkraínsk stjórnvöld hafa þrýst á um, að Rússland verði nefnt hryðjuverkaríki.  Þá sagði hann einnig, að Úkraína samanstæði af öllu landsvæðinu, sem tilheyrði landinu, þ.m.t. þeim héruðum, sem Rússar hafa nú lagt undir sig eða innlimað. 

Vísaði Zelenski þar ekki sízt til Krímskaga, sem Rússland innlimaði árið 2014, en Úkraínumenn hafa á síðustu vikum náð að gera árásir á skaganum, sem hingað til hafði verið talinn langt utan þess svæðis, sem þeir gætu náð til.  Hafa Úkraínumenn sagt á síðustu vikum, að endanlegt markmið þeirra sé að frelsa Krímskaga undan yfirráðum Rússa. 

 Þá hafa Úkraínumenn einnig gert ítrekaðar árásir á birgðageymslur rússneska hersins í rússnesku borginni Belgorod, sem er um 40 km frá landamærum Rússlands að Úkraínu." 

Úkraínski herinn virðist beita fjölbreytilegri og óvæntri hernaðartækni, hafa gott vald á nýjum tæknivæddum herbúnaði og sýna stundum af sér sjaldgæfa herkænsku, enda hefur herinn náð undraverðum árangri í viðureigninni við fjölmennari, rotinn, siðlausan og niðurlægðan  rússneskan her, sem hafði ógrynni hertóla úr að moða í upphafi innrásar, en virðist nú hafa farið erindisleysu inn í Úkraínu.

 

 

 

 


Lengi eimir eftir af Molotoff-Ribbentropp-samninginum

Molotoff og Ribbentropp voru utanríkisráðherrar einræðisherranna Stalíns og Hitlers.  Hitler sendi utanríkisráðherra sinn til Moskvu síðla ágústmánaðar 1939 til að ganga frá samningi við Kremlverja, sem innsiglaði skiptingu Evrópu á milli þessara stórvelda.  Þessi samningur var ósigur fyrir lýðræðið og sjálfsákvörðunarrétt þjóða um að haga málum sínum að vild, enda voru þjóðir Evrópu með honum dæmdar til kúgunar og þrælahalds. Það er einmitt gegn slíku þrælahaldi, sem Úkraínumenn berjast núna blóðugri baráttu, og er það ótrúlega hart nú á 21. öldinni að þurfa að berjast fyrir sjálfsögðum rétti sínum í Evrópu upp á líf og dauða.

Í Evrópu sluppu t.d. Bretar, Íslendingar, Svisslendingar, Svíar, Spánverjar og Portúgalir undan stríðsátökum.  Einörð varnarbarátta Breta bjargaði Vestur-Evrópu undan járnhæl nazismans.  Vegna einstakrar frammistöðu flughers Breta í viðureigninni við flugher Þjóðverja haustið 1940 og öflugs flota Breta tókst að koma í veg fyrir innrás Þjóðverja yfir Ermarsundið.  Með aðgerðinni Rauðskeggur 21. júní 1941 splundraði Hitler þessum illræmda samningi, en það er engu líkara en hann lifi þó í hugskoti ýmissa enn. 

Afstaða Þýzkalandskanzlaranna Kohls, Merkel og Scholz ber þess merki, að þau hafi í hugskoti sínu stjórnazt af þeirri úreltu hugmyndafræði, að Þýzkaland og Rússland ættu að skipta Evrópu á milli sín í áhrifasvæði. Þýzka ríkisstjórnin var Eystrasaltsríkjunum fjandsamleg við lok Kalda stríðsins, Merkel stöðvaði áform Bandaríkjamanna 2015 um að veita Úkraínu aðild að NATO, og Scholz hefur dregið lappirnar í hernaðarstuðningi Þjóðverja við Úkraínu.  Afleiðingin er ófögur. 

Jón Baldvin Hannibalsson, krati og fyrrverandi utanríkisráðherra Íslands, á heiður skilinn fyrir framgöngu sína, þegar hann, ásamt forsætisráðherranum, Davíð Oddssyni, beitti sér fyrir því, að Ísland braut ísinn á örlagaþrungnum tíma og viðurkenndi fullveldi Eystrasaltsríkjanna.  Þetta er bezti gjörningur Íslands gagnvart öðrum ríkjum á lýðveldistímanum.  Hvar værum við stödd, ef réttur þjóðríkja til óskoraðs fullveldis væri ekki virtur að alþjóðalögum ?  Barátta Úkraínumanna núna við rotið Rússland, sem stjórnað er með vitfirrtum hætti til að snúa sögunni við, snýst um rétt stórra og smárra ríkja til fullveldis og til að búa í friði í landi sínu. Þess vegna eiga Vesturlönd að styðja Úkraínu hernaðarlega án þess að draga af sér og fylgja þar fordæmi Póllands og Eystrasaltsríkjanna. 

Nú verður vitnað í grein JBH í Morgunblaðinu 30.ágúst 2022, sem hann nefndi:

"Um þá sem þora ..." 

"Í næstum hálfa öld voru Eystrasaltsþjóðirnar hinar gleymdu þjóðir Evrópu.  Lönd þeirra voru þurrkuð út af landakortum heimsins.  Tungumál þeirra voru til heimabrúks, og þjóðmenningin lifði neðanjarðar.  Þessar þjóðir voru horfnar af pólitískum radarskjá umheimsins.  Þegar ég ræddi um sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsþjóða við starfsbróður minn, utanríkisráðherra NATO-ríkis, reyndi hann að eyða umræðuefninu með eftirfarandi ummælum: "Hafa þessar þjóðir ekki alltaf tilheyrt Rússlandi ?".  

Þarna minnist JBH ekki á eitt alsvínslegasta tiltæki rússnesku kúgaranna, sem þeir hafa beitt alls staðar, þar sem þeir hafa talið þörf á að berja niður sjálfstæðistilhneigingu þjóða og að eyðileggja þjóðareinkenni þeirra. Þeir hafa stundað hina mannfjandsamlegu kynþáttahreinsun, "ethnic cleansing", í Eystrasaltsríkjunum, og hana stunda viðbjóðirnir á herteknum svæðum Úkraínu.  Fólkið er flutt burt langt frá heimkynnum sínum og Rússar látnir setjast að í staðinn.  Þetta er glæpur gegn mannkyni, og það er ískyggilegt, að rússneska valdastéttin skuli vera á svo lágu siðferðisstigi á 21. öldinni að gera sig seka um þetta.  Þeir verðskulda ekkert minna en fulla útskúfun Vesturlanda sem hryðjuverkaríki.  

"Hinn atburðurinn [á eftir "syngjandi byltingunni" í júní 1988-innsk. BJo], sem náði inn á forsíður blaða og sjónvarpsskjái heimsins, var "mannlega keðjan" í ágúst 1989.  Næstum 2 milljónir manna héldust í hendur frá Tallinn í norðri til Vilniusar í suðri til að mótmæla Molotov-Ribbentrop-samninginum og leyniskjölum hans frá því fyrir hálfri öld (1939). Þessi alræmdi samningur [á] milli tveggja einræðisherra, Hitlers og Stalíns, reyndist vera upphaf seinni heimsstyrjaldarinnar.  Samkvæmt samninginum var Stalín gefið frítt spil til að innlima Eystrasaltsþjóðirnar í Sovétríkin, þ.m.t. Finnland - eitt Norðurlandanna."

Þannig var lenzkan á miðöldum í Evrópu, að stórveldin ráðskuðust með fullveldi minni ríkjanna og röðuðu þeim inn á áhrifasvæði sín. Enginn, nema kannski páfinn eða æðsti prestur rétttrúnaðarkirkjunnar í Moskvu,  hafði gefið þeim þennan rétt.  Þau tóku sér hann annars með vopnavaldi. Í kjölfar fyrri heimsstyrjaldarinnar, 1914-1918, tók þetta fyrirkomulag að rakna upp fyrir tilstuðlan Bandaríkjastjórnar.  Þá var kveðið á um rétt þjóða til að ákvarða sjálfar örlög sín, hvort þau kysu að vera í ríkjabandalagi eða afla sér sjálfstæðis um eigin mál og fullveldis.  Þá urðu t.d. Ísland og Finnland sjálfstæð ríki, og Úkraína varð sjálfstæð í öreigabyltingunni rússnesku 1917. Þetta er nú hinn ríkjandi réttur að alþjóðalögum. Vladimir Putin snýr öllu á haus, vill snúa klukkunni til baka, en það mun ekki ganga til lengdar.

"Leiðtogar Vesturveldanna stóðu frammi fyrir hörðum kostum.  Ættu þeir að fórna öllum ávinningi af samningum um lok kalda stríðsins með því að lýsa yfir stuðningi við endurheimt sjálfstæðis Eystrasaltsþjóða ?  Eða ættu þeir að fórna þessum smáþjóðum - í því skyni að varðveita frið og stöðugleika ? 

Bilið [á] milli orðræðu þeirra um sjálfsákvörðunarrétt þjóða og að færa út landamæri lýðræðis, mannréttinda og réttarríkis annars vegar og þeirrar stórveldapólitíkur, sem þeir fylgdu í reynd hins vegar, var orðið óbrúanlegt."

Að stærri ríki hafi öll ráð hinna smærri í hendi sér, er óalandi og óferjandi viðhorf.  Valdið til að ákvarða fullveldi ríkis liggur hjá íbúum þess ríkis sjálfum og ekki hjá stjórnmálamönnum stærri ríkja, sízt af öllu gamalla nýlendukúgara eins og Rússlands. Þetta viðurkenndu Bretar og Frakkar í raun með því að segja Stór-Þýzkalandi stríð á hendur í kjölfar innrásar Wehrmacht í Pólland 1. september 1939.  Frakkland féll að vísu flestum að óvörum á undraskömmum tíma vorið 1940 fyrir leifturárás, "Blitzkrieg Guderians", en Stóra-Bretland hélt velli og stóð uppi sem sigurvegari 1945 með dyggri hernaðarhjálp Bandaríkjamanna. 

"Það var þess vegna, sem Bush, Bandaríkjaforseti, flutti ræðu í þinginu í Kænugarði í ágúst 1991, sem síðan hefur þótt með endemum.  Í ræðunni skoraði hann á Úkraínumenn "að láta ekki stjórnast af öfgakenndri þjóðernishyggju", heldur halda Sovétríkjunum saman "í nafni friðar og stöðugleika". 

Það var þess vegna, sem Kohl, kanzlari, og Mitterand, forseti, skrifuðu sameiginlega bréf til Landsbergis, leiðtoga sjálfstæðishreyfingarinnar í Litáen, þar sem þeir skoruðu á hann að fresta framkvæmd sjálfstæðisyfirlýsingar Litáa frá 11. marz 1990."

Ráðstjórnarríkin voru of rotin undir þrúgandi kommúnisma, til að þau gætu haldizt saman.  Það hefur þessum forsetum og kanzlara verið ljóst, en þeir hafa talið sig skuldbundna Gorbasjeff fyrir þátt hans í friðsamlegu hruni Járntjaldsins. Þeir höfðu hins vegar engan rétt til að slá á frelsisþrá undirokaðra þjóða, sem þráðu endurheimt frelsis síns og fullveldis. Þar kemur að hinu sögulega gæfuspori Íslands, smáríkis norður í Atlantshafi, sem öðlazt hafði fullveldi í eigin málum í kjölfar Fyrri heimsstyrjaldar og fullt sjálfstæði við lýðveldisstofnun, sem Bandaríkjamenn studdu dyggilega í júní 1944, skömmu eftir innrás Bandamanna í Normandí. 

"En hvers vegna sætti Ísland sig ekki við þessa niðurstöðu ?  Það voru engir þjóðarhagsmunir í húfi.  Þvert á móti: Ísland var háð Sovétríkjunum um innflutning á eldsneyti - sem er lífsblóð nútímahagkerfa - allt frá því, að Bretar skelltu viðskiptabanni á Ísland í þorskastríðunum (1954-1975).  Vissum við kannski ekki, að smáþjóðum er ætlað að leita skjóls hjá stórþjóðum og lúta forystu þeirra ?  M.ö.o. kunnum við ekki viðtekna mannasiði ? 

Allt er þetta vel þekkt.  Engu að síður vorum við [Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur - innsk. BJo]  tregir til fylgispektar.  Leiðtogar Vesturveldanna létu augljóslega stjórnast af eigin hagsmunum.  Við vorum hins vegar sannfærðir um, að fylgispekt vestrænna leiðtoga við Gorbachev væri misráðin.  Hún byggðist á rangri og yfirborðskenndri greiningu á pólitískum veruleika Sovétríkjanna.  Ég var sannfærður um, að Sóvétríkin væru sjálf í tilvistarkreppu, sem leiðtogar þeirra fundu enga lausn á.  Heimsveldið væri að liðast í sundur, rétt eins og evrópsku nýlenduveldin í kjölfarið á seinni heimsstyrjöldinni." 

Það er eins og Vesturveldin hafi verið fús til á þessari stundu að stinga þeirri dúsu upp í Gorbasjeff að skipta Evrópu á milli tveggja stórvelda í anda Mólotoff-Ribbentropp-samningsins og Þjóðverjar stutt það leynt og ljóst sem verðandi forysturíki Evrópusambandsins.  Þetta er ólíðandi hugarfar og ekki reist á öðru en rétti, sem sá "sterki" tekur sér til að kúga og skítnýta þann "veika". Saga nýlendustjórnarfars í Evrópu leið undir lok með hruni Járntjaldsins, en nú reyna Rússar að snúa við hinni sögulegu þróun.  Það mun allt fara í handaskolum hjá þeim, enda með endemum óhönduglega og villimannslega að verki verið.  Enginn kærir sig um að þjóna slíkum herrum á 21. öldinni.

"Mér var stórlega misboðið að heyra leiðtoga vestrænna lýðræðisþjóða áminna undirokaðar þjóðir um, að þær ættu að sætta sig við örlög sín, til þess að við á Vesturlöndum gætum notið "friðar og stöðugleika". Í mínum eyrum hljómaði þetta ekki bara sem smánarleg svik, heldur sem örlagarík mistök." 

 

 

 

 

 

 Brandenborgarhliðið

   

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband