Færsluflokkur: Evrópumál

Frelsisstríð og auðlindastríð

Það er þyngra en tárum taki, að þjóð í Evrópu skuli þurfa að heyja stríð til varnar frelsi sínu og fullveldi og þar með til að koma í veg fyrir að verða enn á ný hneppt í ánauð grimmra, villimannlegra og frumstæðra árásarseggja í austri. Úkraínumenn eru á hærra menntunar- og menningarstigi en Rússar almennt.  Frelsisandinn hefur jafnan verið ríkur í brjóstum þeirra og dugar að nefna forfeður þeirra, kósakkana. Þeir vilja þess vegna mun fremur halla sér að Vesturlöndum en að Rússlandi um menningartengsl, viðskipti og stjórnarfar, og þetta þolir ofríkisgaurinn í Kreml ekki. Úkraínumenn þekkja til rússneskrar kúgunar af biturri reynslu. Hvorki forseti Rússlands né aðrir Rússar eiga að ráða neinu um stjórnskipun og stjórnarfar í nágrannaríkjum Rússlands, ekki frekar en Spánverjar eiga að ráða um málefni Portúgala.

  Sagt er, að án Úkraínu hefðu Ráðstjórnarríkin vart verið annað en svipur hjá sjón. Það veitir þó að sjálfsögðu hinum fjölmennari og landmeiri Rússum engan rétt til að heyja landvinningastríð gegn Úkraínumönnum sem hvert annað illvígt nýlendustríð. Vesturlöndum hefur orðið á í messunni, að Rússar skyldu nú dirfast að rjúfa friðinn í Evrópu með stórfelldu árásarstríði. Evrópskir stjórnmálamenn gerðu grafalvarleg mistök með þeirri óverjanlegu áhættutöku að veita Úkraínumönnum enga öryggistryggingu og með því að setja eigin þjóðir í orkusnöru Kremlverja. Nú líður Evrópa öll fyrir þessi pólitísku mistök í öryggismálum.

Sárabót er, að Svíþjóð og Finnland leita nú inngöngu í NATO, og NATO verður að tryggja upphafleg (1991) landamæri sjálfstæðrar Úkraínu, svo að Úkraínumenn geti um frjálst höfuð strokið í framtíðinni. 

Úkraína að austurhéruðunum og Krímskaga og lögsögu hans út í Svartahafið meðtöldum er gríðarlega auðugt landsvæði og sjávarbotn frá náttúrunnar hendi. Í Úkraínu, ekki sízt í austur- og suðurhlutanum, er t.d. hægt að vinna gríðarlega mikið af eldsneytisgasi með því að beita vökvaþrýstingi neðanjarðar (e. fracking). Hins vegar hefur komið í ljós, að enn betri horfur eru á vænum gasforðabúrum undir botni Svartahafs.  Þar eru svo miklar birgðir af eldsneyti, að séð gætu allri Evrópu vestan Rússlands fyrir allri sinni gasþörf um áratugaskeið eða svo lengi, sem þörf krefur, þar til orkuskipti hafa farið fram. Rússland hefur nú lokað fyrir Nord Stream 1 og þar með jarðsett allan snefil af trausti Evrópuríkjanna til Rússlands sem eldsneytisbirgis.  Ef Úkraínu tekst að endurheimta sín réttmætu landsvæði m.v. landamærin 1991-2014, þá bíður hennar vonandi björt framtíð sem lýðræðislegt velferðarríki, eins og hugur almennings þar stendur til, á traustum efnahagslegum grunni.  Um þetta er barizt. 

Það er með endemum, að einræðisseggur í Moskvu með innistæðulausa stórveldisdrauma skuli dirfast að ráðast inn í nágrannaland til að troða upp á það frumstæðum og spilltum stjórnarháttum sínum og framhald á langvinnri kúgun.  Honum og meðreiðarsveinum hans verður að kenna sína lexíu. Niðurlæging Rússlands er mikil orðin, þegar stjórnvöld þar leita til útlagaríkisins Norður-Kóreu um kaup á vopnabúnaði, eins og nú berast tíðindi af. Settu Kínverjar afarkosti ?  

Forystugrein Morgunblaðsins 25. ágúst 2022 fjallaði um það helvíti á jörðu, sem villimennirnir austan við Úkraínumenn bjóða þeim upp á núna:

 "Hálft ár af hörmungum".

Þar stóð m.a.:

"Með það í huga [viðhorf Rússa til Úkraínumanna - innsk. BJo] verður sú spurning áleitin, hvernig friður geti á endanum náðst, ef endanlegt markmið Rússa er að ná yfirráðum í Úkraínu.  Slík niðurstaða yrði einfaldlega óviðunandi fyrir hinn vestræna heim, enda yrði þá staðfest, að alþjóðalög væru til einskis og að nú gilti hnefarétturinn einn.  Hver yrðu þá örlög annarra svæða, sem búa við hlið ágengra nágranna, sem ásælast þau ?

Volodimir Zelenski, forseti Úkraínu, orðaði það nýlega svo, að Úkraínumenn yrðu að berjast á hverjum einasta degi, til þess að hvert einasta mannsbarn gæti skilið, að Úkraína væri ekki hjálenda, skattland eða eign nokkurs heimsveldis, heldur "frjálst, fullvalda, ósundranlegt og sjálfstætt ríki".  Í þessum orðum felst, að Úkraínumenn telja sér heldur ekki fært neitt annað en að berjast til annaðhvort sigurs eða hinztu stundar."

Þarna er vel komizt að orði um langstærsta viðfangsefni samtímans. Vesturlönd standa frammi fyrir því vali að láta engan bilbug á sér finna í vetur, þótt orkuskortur og dýrtíð kunni að sverfa að fólki, á meðan beztu synir og dætur Úkraínu falla á vígvellinum í vörn fyrir sjálfsagðan rétt þjóðar þeirra, og senda til Úkraínu allan þann bezta búnað og mesta, sem í  valdi Vesturveldanna stendur, til að halda uppi merkjum frelsis og lýðræðis, eða lyppast niður með skömm gagnart glæpsamlegum ofbeldisöflum í Moskvu, sem einskis svífast í vitfirrtu stríði sínu gegn vestrænni Úkraínu. 

Það er á flestra vitorði, að komist frumstætt ríki, sem stjórnað er af mafíósum, upp með gjörning sinn í einu ríki, þá verður enginn óhultur í kjölfarið.  Þetta er ögurstund fyrir Vesturlönd.  Þau verða að standa saman sem klettur með Úkraínu og beita öllum sínum mikla efnahagsmætti, sem er margfaldur á við Rússland í VLF mælt, til að hjálpa hinni einörðu og hugrökku þjóð, Úkraínumönnum, úr klóm bjarnarins. Ef það verður ekki gert núna, eru öll góð gildi Vestursins í húfi, gildi, sem áður hefur verið úthellt blóði fyrir.  Þessi gildi eiga á hættu að rotna, ef gerðir fylgja ekki orðum núna.

Þessari forystugrein Morgunblaðsins lauk þannig:

"Það er enda sá hængur á [hernaðarárangri Úkraínumanna], að Úkraínumenn hafa þurft að treysta á stuðning bandamanna sinna í vestri til þessa, og sá stuðningur hefur, með nokkrum mikilvægum undantekningum, verið veittur með miklum semingi. Þó að fátt bendi til, að Bandaríkjamenn, Bretar, Pólverjar o.fl. muni hætta stuðningi sínum í bráð, má enn greina raddir í Þýzkalandi og annars staðar í Evrópu, þar sem menn virðast furða sig á því, að Úkraínumenn haldi áfram að berjast fyrir lífi sínu. 

 Það veltur því mikið á, að samstaða Vesturveldanna með Úkraínu haldi, þrátt fyrir að fram undan séu mögulega enn dimmari tímar fyrir Úkraínumenn.  Sagan sýnir, að alræðisríki, en Rússland ber nú ógnvekjandi mörg merki slíkra ríkja, láta sjaldan gott heita í landvinningum sínum.  Falli Úkraína, verður spurningin einfaldlega sú, hverjir verða næstir."

Þessi semingur við vopnaafhendinguna virðist að sumu leyti hafa átt við Bandaríkin líka fram að þessu, en þá ber að hafa í huga, að nauðsynlegur þjálfunartími á stórbrotinn og afkastamikinn vopnabúnað tekur sinn tíma. Það á t.d. við um HIMARS, sem ásamt öðrum vopnabúnaði, sem nýlega hefur verið tekinn í brúkið af Úkraínumönnum, er að breyta gangi stríðsins þeim í vil.  Búnaður á borð við skriðdrekann Leopard 2 frá Þýzkalandi og orrustuþotuna F15 frá Bandaríkjunum, sem Úkraínumenn hafa óskað eftir, hefur þó ekki borizt enn, svo að vitað sé. Með því að flýta afhendingu mikilvirkra vopna til Úkraínumanna þyrma Vesturveldin mörgum úkraínskum mannslífum og jafnvel verður þá hægt að tryggja öryggi stærsta kjarnorkuvers Evrópu gegn hernaðarvá, en tíðindi þaðan eru váleg um þessar mundir.

Kostnaðurinn við afhent hergögn til Úkraínumanna er lítill í samanburði við kostnað Vesturveldanna af orkuverðshækkunum og jafnvel líka í samanburði við boðaðan kostnað ríkissjóðanna við "frystingu" orkuverðs og alls konar bætur til þeirra, sem minna mega sín, til að hjálpa þeim að ná endum saman í heimilisbókhaldinu.  Ríkin standa þar misjafnlega að vígi, af því að þau eru misskuldsett.  Nú nýtir þýzka ríkið styrk sinn, losar um skuldsetningarhöft ríkissjóðs, og hann nýtur mun hagstæðari lánskjara en t.d. ítalski ríkissjóðurinn. 

Olaf Scholz, kanzlari, hefur  boðað mrdEUR 65 úr ríkissjóði til stuðnings almenningi í dýrtíðinni. Til samanburður nemur kostnaður BNA við hernaðarstuðning við Úkraínumenn fram að þessu aðeins mrdUSD 16 (gengi þessara gjaldmiðla er á sama róli núna). Aftur á móti boðaði fyrrverandi forsætisráðherra Breta, Boris Johnson, í síðustu heimsókn sinni til Kænugarðs sem leiðtogi Bretlands, 24. ágúst 2022, á þjóðhátíðardegi Úkraínu, að Bretar ætluðu að senda hergögn að andvirði mrdGBP 54, og er það rausnarlegt og Bretum til sæmdar. Liz Truss, arftaki Borisar, var fyrsti ráðherra Vesturlanda, sem höfundur þessa pistils heyrði nefna, að aðeins brottrekstur rússneska hersins frá Úkraínu m.v. landamæri 1991-2014 væri niðurstaða þessa stríðs, sem ásættanleg væri. 

Þann 25. ágúst 2022 birti Stefán Gunnar Sveinsson skilmerkilega frétt í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:

    "Við munum berjast til þrautar".

Þar stóð m.a.:

"Zelenski sagði í þjóðhátíðarávarpi sínu, að það kæmi ekki til greina, að Úkraínumenn semdu við "hryðjuverkamenn", en úkraínsk stjórnvöld hafa þrýst á um, að Rússland verði nefnt hryðjuverkaríki.  Þá sagði hann einnig, að Úkraína samanstæði af öllu landsvæðinu, sem tilheyrði landinu, þ.m.t. þeim héruðum, sem Rússar hafa nú lagt undir sig eða innlimað. 

Vísaði Zelenski þar ekki sízt til Krímskaga, sem Rússland innlimaði árið 2014, en Úkraínumenn hafa á síðustu vikum náð að gera árásir á skaganum, sem hingað til hafði verið talinn langt utan þess svæðis, sem þeir gætu náð til.  Hafa Úkraínumenn sagt á síðustu vikum, að endanlegt markmið þeirra sé að frelsa Krímskaga undan yfirráðum Rússa. 

 Þá hafa Úkraínumenn einnig gert ítrekaðar árásir á birgðageymslur rússneska hersins í rússnesku borginni Belgorod, sem er um 40 km frá landamærum Rússlands að Úkraínu." 

Úkraínski herinn virðist beita fjölbreytilegri og óvæntri hernaðartækni, hafa gott vald á nýjum tæknivæddum herbúnaði og sýna stundum af sér sjaldgæfa herkænsku, enda hefur herinn náð undraverðum árangri í viðureigninni við fjölmennari, rotinn, siðlausan og niðurlægðan  rússneskan her, sem hafði ógrynni hertóla úr að moða í upphafi innrásar, en virðist nú hafa farið erindisleysu inn í Úkraínu.

 

 

 

 


Lengi eimir eftir af Molotoff-Ribbentropp-samninginum

Molotoff og Ribbentropp voru utanríkisráðherrar einræðisherranna Stalíns og Hitlers.  Hitler sendi utanríkisráðherra sinn til Moskvu síðla ágústmánaðar 1939 til að ganga frá samningi við Kremlverja, sem innsiglaði skiptingu Evrópu á milli þessara stórvelda.  Þessi samningur var ósigur fyrir lýðræðið og sjálfsákvörðunarrétt þjóða um að haga málum sínum að vild, enda voru þjóðir Evrópu með honum dæmdar til kúgunar og þrælahalds. Það er einmitt gegn slíku þrælahaldi, sem Úkraínumenn berjast núna blóðugri baráttu, og er það ótrúlega hart nú á 21. öldinni að þurfa að berjast fyrir sjálfsögðum rétti sínum í Evrópu upp á líf og dauða.

Í Evrópu sluppu t.d. Bretar, Íslendingar, Svisslendingar, Svíar, Spánverjar og Portúgalir undan stríðsátökum.  Einörð varnarbarátta Breta bjargaði Vestur-Evrópu undan járnhæl nazismans.  Vegna einstakrar frammistöðu flughers Breta í viðureigninni við flugher Þjóðverja haustið 1940 og öflugs flota Breta tókst að koma í veg fyrir innrás Þjóðverja yfir Ermarsundið.  Með aðgerðinni Rauðskeggur 21. júní 1941 splundraði Hitler þessum illræmda samningi, en það er engu líkara en hann lifi þó í hugskoti ýmissa enn. 

Afstaða Þýzkalandskanzlaranna Kohls, Merkel og Scholz ber þess merki, að þau hafi í hugskoti sínu stjórnazt af þeirri úreltu hugmyndafræði, að Þýzkaland og Rússland ættu að skipta Evrópu á milli sín í áhrifasvæði. Þýzka ríkisstjórnin var Eystrasaltsríkjunum fjandsamleg við lok Kalda stríðsins, Merkel stöðvaði áform Bandaríkjamanna 2015 um að veita Úkraínu aðild að NATO, og Scholz hefur dregið lappirnar í hernaðarstuðningi Þjóðverja við Úkraínu.  Afleiðingin er ófögur. 

Jón Baldvin Hannibalsson, krati og fyrrverandi utanríkisráðherra Íslands, á heiður skilinn fyrir framgöngu sína, þegar hann, ásamt forsætisráðherranum, Davíð Oddssyni, beitti sér fyrir því, að Ísland braut ísinn á örlagaþrungnum tíma og viðurkenndi fullveldi Eystrasaltsríkjanna.  Þetta er bezti gjörningur Íslands gagnvart öðrum ríkjum á lýðveldistímanum.  Hvar værum við stödd, ef réttur þjóðríkja til óskoraðs fullveldis væri ekki virtur að alþjóðalögum ?  Barátta Úkraínumanna núna við rotið Rússland, sem stjórnað er með vitfirrtum hætti til að snúa sögunni við, snýst um rétt stórra og smárra ríkja til fullveldis og til að búa í friði í landi sínu. Þess vegna eiga Vesturlönd að styðja Úkraínu hernaðarlega án þess að draga af sér og fylgja þar fordæmi Póllands og Eystrasaltsríkjanna. 

Nú verður vitnað í grein JBH í Morgunblaðinu 30.ágúst 2022, sem hann nefndi:

"Um þá sem þora ..." 

"Í næstum hálfa öld voru Eystrasaltsþjóðirnar hinar gleymdu þjóðir Evrópu.  Lönd þeirra voru þurrkuð út af landakortum heimsins.  Tungumál þeirra voru til heimabrúks, og þjóðmenningin lifði neðanjarðar.  Þessar þjóðir voru horfnar af pólitískum radarskjá umheimsins.  Þegar ég ræddi um sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsþjóða við starfsbróður minn, utanríkisráðherra NATO-ríkis, reyndi hann að eyða umræðuefninu með eftirfarandi ummælum: "Hafa þessar þjóðir ekki alltaf tilheyrt Rússlandi ?".  

Þarna minnist JBH ekki á eitt alsvínslegasta tiltæki rússnesku kúgaranna, sem þeir hafa beitt alls staðar, þar sem þeir hafa talið þörf á að berja niður sjálfstæðistilhneigingu þjóða og að eyðileggja þjóðareinkenni þeirra. Þeir hafa stundað hina mannfjandsamlegu kynþáttahreinsun, "ethnic cleansing", í Eystrasaltsríkjunum, og hana stunda viðbjóðirnir á herteknum svæðum Úkraínu.  Fólkið er flutt burt langt frá heimkynnum sínum og Rússar látnir setjast að í staðinn.  Þetta er glæpur gegn mannkyni, og það er ískyggilegt, að rússneska valdastéttin skuli vera á svo lágu siðferðisstigi á 21. öldinni að gera sig seka um þetta.  Þeir verðskulda ekkert minna en fulla útskúfun Vesturlanda sem hryðjuverkaríki.  

"Hinn atburðurinn [á eftir "syngjandi byltingunni" í júní 1988-innsk. BJo], sem náði inn á forsíður blaða og sjónvarpsskjái heimsins, var "mannlega keðjan" í ágúst 1989.  Næstum 2 milljónir manna héldust í hendur frá Tallinn í norðri til Vilniusar í suðri til að mótmæla Molotov-Ribbentrop-samninginum og leyniskjölum hans frá því fyrir hálfri öld (1939). Þessi alræmdi samningur [á] milli tveggja einræðisherra, Hitlers og Stalíns, reyndist vera upphaf seinni heimsstyrjaldarinnar.  Samkvæmt samninginum var Stalín gefið frítt spil til að innlima Eystrasaltsþjóðirnar í Sovétríkin, þ.m.t. Finnland - eitt Norðurlandanna."

Þannig var lenzkan á miðöldum í Evrópu, að stórveldin ráðskuðust með fullveldi minni ríkjanna og röðuðu þeim inn á áhrifasvæði sín. Enginn, nema kannski páfinn eða æðsti prestur rétttrúnaðarkirkjunnar í Moskvu,  hafði gefið þeim þennan rétt.  Þau tóku sér hann annars með vopnavaldi. Í kjölfar fyrri heimsstyrjaldarinnar, 1914-1918, tók þetta fyrirkomulag að rakna upp fyrir tilstuðlan Bandaríkjastjórnar.  Þá var kveðið á um rétt þjóða til að ákvarða sjálfar örlög sín, hvort þau kysu að vera í ríkjabandalagi eða afla sér sjálfstæðis um eigin mál og fullveldis.  Þá urðu t.d. Ísland og Finnland sjálfstæð ríki, og Úkraína varð sjálfstæð í öreigabyltingunni rússnesku 1917. Þetta er nú hinn ríkjandi réttur að alþjóðalögum. Vladimir Putin snýr öllu á haus, vill snúa klukkunni til baka, en það mun ekki ganga til lengdar.

"Leiðtogar Vesturveldanna stóðu frammi fyrir hörðum kostum.  Ættu þeir að fórna öllum ávinningi af samningum um lok kalda stríðsins með því að lýsa yfir stuðningi við endurheimt sjálfstæðis Eystrasaltsþjóða ?  Eða ættu þeir að fórna þessum smáþjóðum - í því skyni að varðveita frið og stöðugleika ? 

Bilið [á] milli orðræðu þeirra um sjálfsákvörðunarrétt þjóða og að færa út landamæri lýðræðis, mannréttinda og réttarríkis annars vegar og þeirrar stórveldapólitíkur, sem þeir fylgdu í reynd hins vegar, var orðið óbrúanlegt."

Að stærri ríki hafi öll ráð hinna smærri í hendi sér, er óalandi og óferjandi viðhorf.  Valdið til að ákvarða fullveldi ríkis liggur hjá íbúum þess ríkis sjálfum og ekki hjá stjórnmálamönnum stærri ríkja, sízt af öllu gamalla nýlendukúgara eins og Rússlands. Þetta viðurkenndu Bretar og Frakkar í raun með því að segja Stór-Þýzkalandi stríð á hendur í kjölfar innrásar Wehrmacht í Pólland 1. september 1939.  Frakkland féll að vísu flestum að óvörum á undraskömmum tíma vorið 1940 fyrir leifturárás, "Blitzkrieg Guderians", en Stóra-Bretland hélt velli og stóð uppi sem sigurvegari 1945 með dyggri hernaðarhjálp Bandaríkjamanna. 

"Það var þess vegna, sem Bush, Bandaríkjaforseti, flutti ræðu í þinginu í Kænugarði í ágúst 1991, sem síðan hefur þótt með endemum.  Í ræðunni skoraði hann á Úkraínumenn "að láta ekki stjórnast af öfgakenndri þjóðernishyggju", heldur halda Sovétríkjunum saman "í nafni friðar og stöðugleika". 

Það var þess vegna, sem Kohl, kanzlari, og Mitterand, forseti, skrifuðu sameiginlega bréf til Landsbergis, leiðtoga sjálfstæðishreyfingarinnar í Litáen, þar sem þeir skoruðu á hann að fresta framkvæmd sjálfstæðisyfirlýsingar Litáa frá 11. marz 1990."

Ráðstjórnarríkin voru of rotin undir þrúgandi kommúnisma, til að þau gætu haldizt saman.  Það hefur þessum forsetum og kanzlara verið ljóst, en þeir hafa talið sig skuldbundna Gorbasjeff fyrir þátt hans í friðsamlegu hruni Járntjaldsins. Þeir höfðu hins vegar engan rétt til að slá á frelsisþrá undirokaðra þjóða, sem þráðu endurheimt frelsis síns og fullveldis. Þar kemur að hinu sögulega gæfuspori Íslands, smáríkis norður í Atlantshafi, sem öðlazt hafði fullveldi í eigin málum í kjölfar Fyrri heimsstyrjaldar og fullt sjálfstæði við lýðveldisstofnun, sem Bandaríkjamenn studdu dyggilega í júní 1944, skömmu eftir innrás Bandamanna í Normandí. 

"En hvers vegna sætti Ísland sig ekki við þessa niðurstöðu ?  Það voru engir þjóðarhagsmunir í húfi.  Þvert á móti: Ísland var háð Sovétríkjunum um innflutning á eldsneyti - sem er lífsblóð nútímahagkerfa - allt frá því, að Bretar skelltu viðskiptabanni á Ísland í þorskastríðunum (1954-1975).  Vissum við kannski ekki, að smáþjóðum er ætlað að leita skjóls hjá stórþjóðum og lúta forystu þeirra ?  M.ö.o. kunnum við ekki viðtekna mannasiði ? 

Allt er þetta vel þekkt.  Engu að síður vorum við [Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur - innsk. BJo]  tregir til fylgispektar.  Leiðtogar Vesturveldanna létu augljóslega stjórnast af eigin hagsmunum.  Við vorum hins vegar sannfærðir um, að fylgispekt vestrænna leiðtoga við Gorbachev væri misráðin.  Hún byggðist á rangri og yfirborðskenndri greiningu á pólitískum veruleika Sovétríkjanna.  Ég var sannfærður um, að Sóvétríkin væru sjálf í tilvistarkreppu, sem leiðtogar þeirra fundu enga lausn á.  Heimsveldið væri að liðast í sundur, rétt eins og evrópsku nýlenduveldin í kjölfarið á seinni heimsstyrjöldinni." 

Það er eins og Vesturveldin hafi verið fús til á þessari stundu að stinga þeirri dúsu upp í Gorbasjeff að skipta Evrópu á milli tveggja stórvelda í anda Mólotoff-Ribbentropp-samningsins og Þjóðverjar stutt það leynt og ljóst sem verðandi forysturíki Evrópusambandsins.  Þetta er ólíðandi hugarfar og ekki reist á öðru en rétti, sem sá "sterki" tekur sér til að kúga og skítnýta þann "veika". Saga nýlendustjórnarfars í Evrópu leið undir lok með hruni Járntjaldsins, en nú reyna Rússar að snúa við hinni sögulegu þróun.  Það mun allt fara í handaskolum hjá þeim, enda með endemum óhönduglega og villimannslega að verki verið.  Enginn kærir sig um að þjóna slíkum herrum á 21. öldinni.

"Mér var stórlega misboðið að heyra leiðtoga vestrænna lýðræðisþjóða áminna undirokaðar þjóðir um, að þær ættu að sætta sig við örlög sín, til þess að við á Vesturlöndum gætum notið "friðar og stöðugleika". Í mínum eyrum hljómaði þetta ekki bara sem smánarleg svik, heldur sem örlagarík mistök." 

 

 

 

 

 

 Brandenborgarhliðið

   

 

 


Orkustríð Rússlands við önnur Evrópulönd

Hegðun rússneska sambandsríkisins um þessar mundir gagnvart öðrum Evrópulöndum, sér í lagi með hernaði gegn óbreyttum borgurum Úkraínu og sprengjuárásum í grennd við stærsta kjarnorkuver Evrópu, og gegn gasnotendum í Evrópuríkjunum, er fyrir neðan allar hellur, og fyrir þessa fáheyrðu framgöngu verðskulda þeir útskúfun hins frjálsa heims.

Rússar sýna nú sitt rétta andlit og fyrirgera öllu trausti í sinn garð.  Þeir eru stimplaðir ofbeldisgjarnir ómerkingar, sem eru ekki í húsum hæfir. Þegar þetta er ritað, eru þeir búnir að stöðva alla gasflutninga um Nord Stream 1, lögn á botni Eystrasalts, sem tengir Þýzkaland við gaslindir Síberíu án viðkomu í öðrum löndum og bera við bilun, sem þeir geti ekki gert við vegna viðskiptabanns á sig. Ef það væri rétt afsökun, væri rússneskur iðnaður óttalega aftarlega á merinni.   

Undrun hefur vakið, hversu vel Þjóðverjum hefur tekizt að fylla á gasforðabúr sín fyrir veturinn, en í lok ágúst 2022 mun staðan að meðaltali hafa numið tæplega 70 % af hámarki, sem er meira en búizt var við.  Norðmenn hafa aukið gasvinnslu í Norðursjónum og meðfram strandlengjunni eftir mætti, en það er allt önnur og skuggalegri skýring á þessu. Það liggur fremur afkastalítil gaslögn frá Síberíu til Kína, en að auki flytja nú Rússar gas á vökvaformi (LNG) til Kína.

Nú er þungt undir fæti í efnahagslífi Kínverja vegna sprunginnar húsnæðisbólu og strangra, misráðinna opinberra sóttvarnarráðstafana, sem engu hafa skilað öðru en gríðarlegu efnahagstjóni og töfum á útbreiðslu C-19 faraldursins. Heildarfjöldi dauðsfalla yfir s.s. 3 ára tímabil eykst yfirleitt af völdum opinberra sóttvarnarráðstafana vegna slæmra áhrifa á geðkvilla og aðra sjúkdóma, svo að ekki sé nú minnzt á ósköpin úr Kófinu, þegar óreyndum efnum var sprautað í flesta með mjög litlum varnaráhrifum, en alvarlegum aukaáhrifum í sumum tilvikum. Þessari vitleysu er haldið áfram fyrir 60+.

Opinberar sóttvarnarráðstafanir með verulegum frelsisskerðingum, sem upprunnar eru í einræðisríkinu Kína, gera aðeins illt verra, þegar um skæða flensu er að ræða. Bezta ráðið er að styrkja ónæmiskerfi líkamans, en sú ráðlegging hefur ekki verið áberandi hjá landlæknisembættinu hér. Þetta á við alla aldurshópa.

Kínverjar hafa vegna kreppu hjá sér verið aflögufærir um jarðgas.  Þeir eru kaupahéðnar að eðlisfari og hafa selt Evrópumönnum afgangsgas og makað krókinn.  Hvaðan hafa þeir fengið þetta gas ?  M.a. frá Rússlandi.  LNG eldsneytið, sem flýtt hefur forðasöfnun í Evrópu, er ættað frá Rússlandi, en á uppsprengdu verði m.v. gas um Nord Stream 1.  Þetta er ófagurt afspurnar. 

Gasverð fer enn hækkandi og hækkaði t.d. í síðustu heilu viku ágúst 2022 um 30 % m.v. vikuna áður.  Sumarið 2021 gerðu Frakkar og Þjóðverjar framvirka samninga um eldsneytisgas á verði, sem jafngilti 100 EUR/MWh rafmagns, en um mánaðamótin ágúst-september 2022 náði það 1000 EUR/MWh og hjaðnaði svo nokkuð.  Jaðarkostnaður rafmagns samkvæmt orkumarkaðskerfi Evrópusambandsins ræðst af kostnaði gasorkuveranna.  Algert ófremdarástand ríkir nú í orkumálum Evrópu vegna kolrangs mats á eðli rússneska ríkisins, eins og margir gerðu sig seka um á sínum tíma varðandi Þriðja ríkið. Undantekning var Winston Churchill.

Sum ríki Suður-Evrópu hafa nú þegar varið sem nemur 5 % af vergri landsframleiðslu sinni í að verja neytendur gegn ofurverði á jarðgasi. Það eru um mrdISK 150 á íslenzkan mælikvarða, og munu þessi ríki nú lenda á framfæri digurs Kófsjóðs Evrópusambandsins, sem ekki var búið að ráðstafa öllu fé úr.   

Frændur vorir, Norðmenn, sem búa sunnan Dofrafjalla, sitja algerlega í súpunni, þótt nánast öll raforka þeirra komi úr vatnsaflsvirkjunum vítt og breitt um landið. Vandræði þeirra á orkusviðinu er himinhátt raforkuverð sunnan Dofrafjalla.  Heildsöluverðið, þ.e. verð frá virkjun án flutnings- og dreifingarkostnaðar og skatta, var 30.ágúst 2022 jafnhátt á Vestur-, Austur- og Suðurlandinu, þ.e. á áhrifasvæði millilandatenginganna, og á Jótlandi, Sjálandi og Fjóni, Þýzkalandi, Lúxemborg og Litháen samkvæmt Nord-Pool og Gunnlaugi Snæ Ólafssyni í fréttaskýringu í Morgunblaðinu 31. ágúst 2022. Í tveimur löndum Evrópu, Frakklandi og Austurríki var verðið enn hærra.  Þetta verð sunnan Dofrafjalla jafngilti 94 ISK/kWh.  Það er tæplega 19 sinnum hærra en íslenzkt heildsöluverð og rúmlega 24 sinnum hærra en í Mið-Noregi (Þrændalögum) og rúmlega 59 sinnum hærra en í Norður-Noregi.

Ef engar millilandatengingar væru virkar í Noregi, mundi heildsöluverð raforku að mestu vera ákvarðað út frá vatnsforða miðlunarlóna, árstíma, og lestun landshlutatenginga.  Á þessum árstíma mætti þá núna búast við raforkuverði sunnan Dofrafjalla um 5,6 ISK/kWh, en það er tæplega 17 sinnum hærra, og verður að skrifa það alfarið á millilandatengingarnar. Norðmenn fóru út í þær til að græða og til að draga úr fjárfestingum í varaafli og varaorku, en þess ber að gæta, að norsk heimili kaupa 5-falt meiri raforku en íslenzk heimili, enda eru langflestar byggingar rafhitaðar í Noregi.  Gróðinn átti að felast í því að selja afl og orku utan á daginn á hærra verði en var á norskum innanlandsmarkaði og kaupa orku inn á nóttunni og um helgar á mun lægra verði.  Þetta gekk eftir, á meðan millilandatengingarnar voru ekki eins öflugar og nú og á meðan Norðmenn stjórnuðu þessum flutningum sjálfir, en ríkisfyrirtækið Statnett, þeirra Landsnet, á allar millilandatengingarnar. Eftir lögleiðingu Orkupakka 3 stjórnar ACER-Orkustofa ESB þessum flutningum, og ríkisstjórnin má ekki grípa inn í þessi viðskipti.  Markaðurinn ræður.  Fyrirsögnin í téðri fréttaskýringu Gunnlaugs Snæs Ólafssonar vísar einmitt til þessa:

"Harma raforkuverð, en geta ekkert gert".

"Norska ríkið hefur ekki tök á því að sporna gegn verðhækkunum, þar sem salan fer fram á rafmagnsmarkaði, sem innleiddur er í gegnum hina svo kölluðu "orkupakka"  ESB.  Þeir ná til alls EES og stýra því, hvernig sölu á raforku til Evrópu frá Noregi [og til baka - innsk. BJo] um sæstrengi er háttað."

Ákvæði um millilandatengingar og millilandaviðskipti með rafmagn og jarðgas komu fyrst inn í orkulöggjöf ESB með Orkupakka 3.  Þess vegna urðu deilurnar um OP3 í Noregi og á Íslandi svo hatrammar sem raun bar vitni um. Nú kemur OP3 almenningi og atvinnulífinu í Noregi í koll, nema orkufyrirtækjunum, sem græða á tá og fingri.  Skrýtið, að jafnaðarmenn í ríkisstjórn og á Stórþinginu skuli teka þetta í mál.  Ríkisstjórnin er undir forsæti Verkamannaflokksins, sem er hallur undir ESB-aðild Noregs.  Hinn stjórnarflokkurinn, Miðflokkurinn, barðist gegn innleiðingu OP3 og spáði einmitt hækkandi raforkuverði í kjölfar öflugra sæstrengja til Bretlands og Þýzkalands, sem þá var verið að leggja og nú hafa verið teknir í rekstur. Flokkurinn fær hins vegar ekkert að gert núna, enda stendur ekki reiðfærið á ESB til að veita Noregi undanþágur frá orkuafhendingu. Kostnaðurinn af millilandatengingum Noregs lendir nú á ríkissjóði, eins og Gunnlaugur Snær rakti í téðri fréttaskýringu:

"Í millitíðinni hefur myndazt eining um, að norska ríkið greiði 90 % af orkukostnaði heimila umfram 70 Naur/kWh [9,9 ISK/kWh] frá 1. september [2022] upp að 5,0 MWh.  Verð nú er um 644 Naur/kWh." 

Það vekur athygli, að niðurgreitt orkumagn nemur aðeins fjórðungi ársnotkunar meðalíbúðar í Noregi með rafhitun.  Það eru þó fáir að spá verulegri orkuverðslækkun í Evrópu innan 3 mánaða.  Verðið mun sennilega ekki lækka fyrr en með vorinu 2023. 

Í lokin stóð þetta í fréttaskýringunni:

"Ákallið um, að eitthvað verði gert til að tempra raforkuverðið hefur þó ekki fjarað út í Noregi, og hafa flokkar m.a. lagt til, að útflutningur verði takmarkaður og að hámarksverð verði sett á rafmagn.  Breytingar verða þó ekki gerðar á löggjöf ESB, nema áhugi sé fyrir því innan sambandsins.  Það er því óljóst, nákvæmlega hvað norska Stórþingið hyggst ræða á fundi sínum í september [2022]."

Rökin fyrir markaðsvæðingu raforkunnar á sínum tíma í Noregi voru neytendavernd, þ.e. samkeppnin átti að tryggja raforkunotendum hagstæðustu kjör.  Nú hefur þessi neytendavernd snúizt upp í neytendaáþján.  Þá er spurningin, hvort stuðningur er við afnám lagasetningar um OP3 í Noregi.  Á sínum tíma var því haldið fram, að lögleiðing OP3 hefði mikla þjóðhagslega þýðingu í Noregi.  Þá var ekki sízt horft til aðgangs Noregs að evrópskum gasmarkaði. Nú er aðalleikarinn, Rússland, að mestu dottinn út af evrópskum gasmarkaði um ófyrirsjáanlega framtíð, og þar með eru norskar gaslagnir til Bretlands og meginlandsins orðnar enn mikilvægari.  Með þessa sterku markaðsstöðu þurfa Norðmenn í raun ekkert á OP3 að halda, en það er hins vegar spurning, hvort þeir vilja berjast fyrir uppsögn hans innan EFTA og í Sameiginlegu EES-nefndinni. Það er annað mál og af pólitískum toga. Tæpast getur ríkisstjórnin sameinazt um slíka stefnu, nema Alþýðusamband Noregs álykti í þá veru.  Það mundi breyta afstöðu Verkamannaflokksins.    

 

     

 


Sannleikurinn um Rússland og Evrópusambandið afhjúpaður

Tímamótagrein um glæpsamlega nýlendustefnu Rússlands og yfirgang Frakka og Þjóðverja innan Evrópusambandsins, ESB, eftir forsætisráðherra Póllands, Mateusz Morawiecki, birtist í Morgunblaðinu 22. ágúst 2022 undir fyrirsögninni:

"Sögulegar áskoranir og fölsk stefnumál - Evrópa á krossgötum".

Pólverjar hafa í sögulegu tilliti haft bitra reynslu af bæði Rússum og Þjóðverjum og hafa í raun verið klemmdir á milli þessara evrópsku stórvelda.  Málflutningur forsætisráðherra Póllands á ekki sízt í þessu ljósi brýnt erindi við nútímann, af því að hann skrifar af djúpstæðri þekkingu og skarpri rökhyggju um hegðun þessara nágranna sinna í nútímanum.  Það er ófögur lýsing, sem á fullt erindi við Íslendinga, enda eru hér á Íslandi heilu stjórnmálaflokkarnir, sem leynt og ljóst vinna að því að gera Íslendinga þrælbundna stofnanaveldi ESB, þar sem smáþjóðir verða bara að sitja og standa, eins og ríkjandi þjóðir ESB telja henta "heildinni" bezt.

Grein forsætisráðherrans hófst þannig:

"Stríðið í Úkraínu hefur afhjúpað sannleikann um Rússland.  Þeir, sem neituðu að taka eftir því, að ríki Pútíns hefði tilhneigingu til heimsvaldastefnu, verða núorðið að horfast í augu við þá staðreynd, að djöflar 19. og 20. aldar hafa nú lifnað við: þjóðernishyggja, nýlendustefna og æ sýnilegri alræðishyggja.  Stríðið í Úkraínu hefur þó einnig flett ofan af sannleikanum um Evrópu.  Margir Evrópuleiðtogar hafa látið Vladimir Pútín draga sig á tálar og verða nú fyrir áfalli." 

Það, sem nú blasir við í Rússlandi, er grímulaus fasismi undir stjórn hryðjuverkamafíu í Kreml. Útþenslufasismi er aldagamall í Rússlandi og talið er, að á dögum Ráðstjórnarríkjanna hafi neisti fasismans verið varðveittur í leyniþjónustunni KGB, og Stalín hallaði sér þangað á stríðsárunum með því að virkja þjóðerniskennd Rússa í "The Great Patriotic War".  Hugmyndagræði Pútíns um yfirráð Rússa yfir slavnesku löndunum ásamt Georgíu og Eystrasaltslöndunum á sér þannig sögulegar rætur, en hún stríðir gegn heilbrigðri skynsemi og sjálfsögðum sjálfsákvörðunarrétti þjóða og er fullkomin tímaskekkja.  Í höndum ólígarka og hrotta í Kreml er hér um að ræða nýlendustefnu, þar sem kúga á nágrannaþjóðirnar til undirgefni og skítnýta náttúruauðævi þessara landa til auðsöfnunar ólígarkanna.  Úkraína, ekki sízt austurhlutinn, er t.d. gríðarlega auðug af náttúrunnar hendi.  Menntunarstig Úkraínumanna og færni er á mun hærra stigi en almennt gerist í Rússlandi, og menning Úkraínumanna ber sköpunargáfu þeirra fagurt vitni.  Úkraínumenn höfðu markað sér stefnu um lýðræðislegt stjórnarfar og aðild að stofnunum Vesturlanda. Þetta þoldi Kremlarstjórnin hins vegar ekki, því að hún óttaðist, að frelsisaldan bærist austur yfir landamærin, enda hafa verið mikil samskipti þar á milli, en nú hefur Pútín gert þessar þjóðir að fjandmönnum, og mun seint gróa um heilt á milli þeirra. 

Nú, eins og 1939-1945, er tíðarandinn (der Zeitgeist) frelsinu hliðhollur.  Hann blæs Úkraínumönnum eldmóð í brjóst, svo að enn mun Davíð sigra Golíat.  Við, sem ekki þurfum að vera á vígvöllunum, verðum vitni að stríði um framtíð Evrópu.  Rússar munu ekki láta staðar numið, nái þeir Úkraínu á sitt vald, fyrr en þeir hafa skapað óstöðugleika í álfunni, lagt undir sig fleiri ríki og Finnlandíserað hin.  Einangrunarhyggju gætir í Bandaríkjunum og fyrrverandi forseti BNA hótaði að draga Bandaríkin út úr NATO.  Þar með verður lítil vörn í NATO í framtíðinni. Vonandi verður Úkraínulexían þó til þess að styrkja samstöðu Vesturlanda í bráð og lengd. 

"Evrópa kom sér ekki í þessa stöðu vegna þess, að hún var ekki nægilega samþætt, heldur vegna þess, að hún kaus að hlusta ekki á rödd sannleikans. Sú rödd hefur verið að koma frá Póllandi í mörg ár.  Pólland áskilur sér ekki rétt á sannleikanum, en af samskiptum við Rússland hefur Pólland þó talsvert meiri reynslu en aðrir. Lech Kaczynski, fyrrverandi forseti Póllands, hafði rétt fyrir sér, líkt og Kassandra, sem sá fyrir fall Trójuborgar.  Kaczynski sagði fyrir mörgum árum, að Rússland myndi ekki láta staðar numið í Georgíu, heldur myndi teygja sig áfram til að sölsa meira land undir sig.  Ekki var heldur hlustað á hann."

Evrópa hefur lifað í þeirri sjálfsblekkingu, að hægt sé að tryggja friðsamlega sambúð við Rússland með viðskiptum, menningarsamskiptum og diplómatíu. Það var hægt, á meðan það hentaði Rússlandi, en þegar Rússar töldu tímann vera kominn til að láta til skarar skríða, þá létu þeir vopnin tala.  Vesturlönd geta því miður aðeins tryggt fullveldi sitt og sjálfsákvörðunarrétt með því að verða grá fyrir járnum.  Það er ekki notaleg framtíðarsýn, en þetta er raunveruleikinn, sem þessi nágranni Evrópu í austri býður upp á.  Samskiptin verða í frosti um langa framtíð.  

"Sú staðreynd, að rödd Póllands hafi verið hundsuð er einungis birtingarmynd stærra vandamáls, sem ESB stendur frammi fyrir í dag.  Jafnrétti einstakra ríkja í ESB telst vera einungis formlegs eðlis, en stjórnmálavenja sýnir fram á, að rödd Þýzkalands og Frakklands hefur mest áhrif. Þá er um að ræða formlegt lýðræði, sem er í raun fámennisstjórn, þar sem vald er í höndum þeirra sterkustu.  Þeir sterkustu geta gert mistök, en geta ekki tekið gagnrýni frá öðrum."

 Þarna beinir forsætisráðherra Póllands kastljósinu að lýðræðishallanum innan ESB.  Hann er alvarlegra og djúpstæðara vandamál en komið hefur fram í umræðum hérlendis hjá efasemdarmönnum um gagnsemi þess fyrir Ísland að vera þarna aðili. Pólland er stórt land í km2 talið, og þjóðin telur um 40 M manns.  Samt hlusta ráðandi ríki, Þýzkaland og Frakkland, ekki á aðvörunarorð Pólverja um mál, sem ætla má af reynslunni, að þeir hafi meira vit á en hinar ráðandi þjóðir.  Þessar ráðandi þjóðir voru á stórhættulegri braut í samskiptunum við rússneska ráðamenn, sérstaklega sú, sem mestu ræður í krafti fólksfjölda og efnahagsstyrks. 

Hérlendis eru gasprarar, sem reyna að halda því fram, að úr því að Íslendingar séu komnir með aðra löppina inn fyrir þröskuldinn hjá ESB (með EES-samninginum), þá sé miklu eðlilegra fyrir þá að fá sæti við borðið, þar sem ákvarðanirnar eru teknar. Samkvæmt Morawiecki, sem er innanbúðarmaður hjá ESB, eru bara fulltrúar tveggja þjóða við það borð, svo að barnalegt blekkingarhjal um vald smáþjóða innan ESB fellur niður dautt og ómerkt. 

Adolf Hitler talaði á sínum tíma um pólska þjóðríkið eins og Vladimir Putin talar núna (2022) um úkraínska þjóðríkið. Allt var það bull og vitleysa af hálfu einræðisherra stórveldis, sem var kominn á fremsta hlunn með að leggja viðkomandi ríki eða drjúgan hluta þess undir sig.  Hvorugur þessara nazistísku einræðisherra (málflutningur og aðgerðir Putins eru liður í þjóðarmorði, þar sem reynt er að ganga af menningu og heilbrigðri þjóðernistilfinningu dauðri) hefur nokkuð til síns máls, hvað verðar tal þeirra um þessar 2 þjóðir. 

 "Ef mælt er með því, að aðgerðir ESB verði enn háðari Þýzkalandi, en slíku yrði komið á, ef meginregla um einróma samþykki yrði afnumin, þá nægir hér að gera stutta greiningu á ákvörðunum Þýzkalands aftur í tímann.  Ef Evrópa hefði undanfarin ár hegðað sér eftir vilja Þýzkalands, værum við í dag í betri eða verri stöðu ?

Ef öll Evrópulönd hefðu fylgt rödd Þýzkalands, þá hefði fyrir mörgum mánuðum verið komin af stað ekki einungis Nord Stream 1, heldur einnig Nord Stream 2.  Þá hefði Evrópa orðið svo háð rússnesku gasi, að nánast vonlaust hefði verið að losna undan því fjárkúgunartæki Pútíns, sem ógnar allri álfunni.

Ef öll Evrópa hefði samþykkt tillögu í júní 2021 um að halda leiðtogafund ESB og Rússlands, hefði það haft í för með sér, að Evrópa hefði þá viðurkennt Pútín sem fullgildan samstarfsaðila, og einnig afléttingu refsiaðgerða, sem Rússland hefur verið beitt eftir 2014.  Hefði sú tillaga verið samþykkt, hefði Pútín fengið tryggingu fyrir því, að ESB gripi ekki til raunverulegra aðgerða til að verja landhelgi Úkraínu.  Þau lönd, sem höfnuðu þessari tillögu þá, voru Pólland, Litháen, Lettland og Eistland."

  Í ljósi sögunnar er ljóst, að forsætisráðherra Póllands hefur hér rétt fyrir sér.  Þýzka ríkisstjórnin hefur tekið kolrangan pól í hæðina, séð frá hagsmunum fullvalda lýðræðisríkja Evrópu. Allt frá lokum Kalda stríðsins 1989-1991 hafa Þjóðverjar verið á röngu róli, því að mottóið var að styggja ekki Kremlverja, heldur friðþægja þá, hvað sem það kostar.  Þannig var hún á móti því að viðurkenna fullveldi og sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna, og hún var á móti því að samþykkja inngöngubeiðni aðildarríkja sundraðs Varsjárbandalags í NATO.  Henni tókst síðar að hindra inngöngu Úkraínu í NATO, sem Bandaríkin mæltu sterklega með, og hefði hindrað villimannlega styrjöld Rússa gegn úkraínsku þjóðinni frá 2014.

Utanríkisstefna Þjóðverja hefur verið reist á þröngsýni (viðskiptahagsmunum Þýzkalands), skammsýni (röngu mati á fyrirætlunum Kremlverja) og óþörfu þakklæti í garð Rússa fyrir að koma ekki í veg fyrir sjálfsagða endursameiningu Þýzkalands 1990. Rússland hefur valdið Evrópuþjóðunum miklu tjóni og á alls ekki að komast upp með að ráðskast með landamæri fullvalda ríkja, sem ákveðin voru 1945. Að hnika við landamærum Evrópu er stórhættulegt.

Utanríkisstefna Þýzkalands hefur verið lævi blandin, þótt á yfirborðinu hafi hún verið friðsamleg, því að hún hefur borið keim af stórveldapólitík, þar sem hagsmunum minni ríkja hefur mátt fórna fyrir hagsmuni öxulsins Berlín-Moskva.  Nú er mál að linni, enda er þetta blindgata, sem nú hefur verið gengin til enda.  Væntanlegum kanzlara Þýzkalands, Friedrich Merz, er þetta ljóst.  Gangan til baka verður þrautaganga, en mun takast, ef stuðningur Bandaríkjanna bilar ekki.

"Ef Evrópusambandið hefði einnig samþykkt tillögu um reglur um dreifingu innflytjenda árið 2015 í staðinn fyrir að beita harðri pólitík, sem felst í að styrkja eigin landamæri (en það telst vera grunneiginleiki fullvalda ríkis), þá hefðum við orðið að peði í dag frekar en þátttakanda í alþjóða stjórnmálum.  Það, sem Pútín kom auga á árið 2015, var einmitt möguleikinn á að nýta innflytjendur í blendingsstríði gegn ESB. Þá réðst hann ásamt Alexander Lúkasjenkó á Pólland, Litháen og Lettland.  Hefðum við hlýtt talsmönnum opinna landamæra, væri viðnámsþrek okkar í dag í síðari stórkreppum enn minna."

  Rússar ætluðu sér allan tímann að sigla undir fölsku flaggi, reka stöðugan blendingshernað gegn Evrópuþjóðunum til að veikja þær og sundra þeim, svo að þeir kæmust upp með beint árásarstríð án þess að lenda í miklum átökum og gætu síðan Finnlandiserað afganginn af Evrópu í krafti orkusölu þangað.  Þetta er ótrúlega fjandsamleg og fífldjörf fyrirætlun gagnvart nágrönnum, enda hefur hún ekki aðeins farið í vaskinn, heldur opinberað, hversu lítils megnugir Rússar eru á flestum sviðum.  Rússneski herinn hefur farið halloka fyrir úkraínska hernum.  Fyrir vikið er óhætt að segja, eins og forseti Úkraínu, Volodimir Zelenski, sagði á þjóðhátíðardegi Úkraínu, 24. ágúst 2022, að úkraínska þjóðin er nú endurfædd.  

"Að síðustu væri stríðinu löngu lokið, ef öll Evrópa hefði sent til Úkraínu vopn í þeim mæli og á þeim hraða, sem Þýzkaland gerir.  Stríðinu myndi ljúka með algjörum sigri Rússlands.  Og Evrópa væri á barmi annars stríðs, en Rússland héldi áfram vegna hvatningar, sem fælist í veikleikum mótherjans.

Í dag telst hver rödd, sem kemur frá Vesturlöndum, um að takmarka vopnaflutning til Úkraínu, draga úr refsiaðgerðum eða fá "báða aðila" (s.s. árásaraðilann og fórnarlambið) til að ræða saman, merki um veikleika.  Þó er Evrópa miklu öflugri en Rússland."

  Kratinn, Olaf Scholz, á kanzlarastóli í Berlín, hefur bitið höfuðið af skömm Þjóðverja gagnvart Úkraínu með vífilengjum varðandi afhendingu þýzkra þungavopna til úkraínska hersins.  "Die Wende"-vendipunktsræða hans reyndust orðin tóm.  Það er enn alvarleg meinloka í hausnum á Þjóðverjum gagnvart afstöðunni til Rússa.  Rússar eru langalvarlegasta ógnin við friðinn í Evrópu, og Þjóðverjum, sem forystuþjóð þar, ber skylda til að snúast gegn þeim enn og aftur með kjafti og klóm.  Átökunum við þá lauk ekki í maí 1945, því er ver. 

"ESB á æ erfiðara með að virða frelsi og jafnrétti allra aðildarríkja.  Við heyrum æ oftar, að meirihlutinn, fremur en einróma samþykki, eigi að ákvarða framtíð allra ríkja Evrópusambandsins.  Að víkja frá meginreglu um einróma samþykki á fleiri sviðum starfsemi ESB færir okkur nær því fyrirkomulagi, þar sem þeir sterkari og stærri ráða yfir þeim veikari og minni. 

Frelsis- og jafnréttisskortur eru einnig áberandi á evrusvæðinu.  Það að taka upp sameiginlegan gjaldmiðil tryggir ekki varanlega og samræmda þróun.  Evran kemur jafnvel af stað innbyrðis samkeppni, sem sést t.a.m. í umframútflutningi sumra ríkja.  Hún kemur í veg fyrir endurmatshækkun á eigin gjaldmiðli og viðheldur stöðnun í atvinnulífi hjá öðrum ríkjum.  Í slíku kerfi teljast jöfn tækifæri einungis orðin tóm." 

Þetta er harðasta gagnrýnin á þróunina innan Evrópusambandsins, sem heyrzt hefur, og hún kemur frá forsætisráðherra fremur stórs ríkis innan sambandsins.  Mikið hefur gengið á og örvænting gripið um sig hjá minni ríkjum sambandsins áður en gagnrýni af þessu tagi er sleppt út í eterinn. Ráðandi ríkjum innan ESB, Þýzkalandi og Frakklandi, hefur farizt forystuhlutverk sitt svo illa úr hendi, að þverbrestir eru komnir í ESB, og aðeins óttinn við Rússland og stórhættulegir tímar í Evrópu og víðar af völdum glæpahyskis í Kreml heldur nú Evrópusambandinu saman. Evran veldur vandræðum við stjórnun peningamálanna á evru-svæðinu.  Hún er of veik fyrir Þýzkaland og of sterk fyrir rómönsku ríkin.  Svigrúm til vaxtahækkana til að hemja verðbólguna er lítið sem ekkert hjá ECB, af því að stórskuldugur ríkissjóður Ítalíu myndi þá lenda í greiðsluþroti og óvíst er, að evran mundi lifa það af, enda er bandaríkjadalur nú orðinn verðmætari en evran og svissneski frankinn rýkur upp, sem eru vísbendingar um, hvert fjármagnið leitar nú. 

Við þessar aðstæður gera sumir Íslendingar mjög lítið úr sér með því að predika fyrir löndum sínum mikilvægi þess fyrir Ísland að sækja um aðild að ESB og að ganga í myntbandalag Evrópu.  Þeim er ekki sjálfrátt, taka kolrangan pól í hæðina og þá hefur nú dagað uppi sem steingervingar. Málflutningur prinsessu Samfylkingarinnar í hinu gamla leikhúsi við Tjörnina  um daginn bar þess merki, að þessi bankaprinsessa hefur áttað sig á því, að ekki er vænlegt fyrir flokk hennar að hamra á aðildinni lengur.  Hún orðar þetta þó í véfréttastíl um, að flokkurinn undir hennar forystu muni einblína á hagsmuni hins venjulega manns.

"Það verður æ torveldara að verja réttindi, hagsmuni og þarfir meðalstórra og smárra ríkja í árekstri við stór ríki.  Um er að ræða brot gegn frelsi og þvingun, sem á sér stað í nafni meintra hagsmuna heildarinnar.

Það gildi, sem var kjarninn í stofnun Evrópusambandsins, var almannaheill.  Það var drifkraftur í samþættingu Evrópu frá upphafi.  Í dag er það gildi í hættu vegna sérstakra hagsmuna, sem þjóna aðallega þjóðernissjálfhverfu. Kerfið býður okkur upp á ójafnan leik á milli þeirra veikari og sterkari.  Í þeim leik er pláss fyrir stærstu ríkin, sem eru efnahagsveldi, og meðalstór og lítil ríki með minna efnahagskerfi.  Þeir sterkustu sækjast eftir pólitískum og efnahagslegum yfirráðum, en hinir eftir pólitískri og efnahagslegri fyrirgreiðslu.  Fyrir þeim öllum verður hugtakið almannaheill meira og meira abstrakt [afstætt].  Samstaða Evrópu er að verða að merkingarlausu hugtaki, sem jafngildir því að þvinga fram samþykki á einræðisvaldi þess sterkara.  

Segjum það bara beint út: skipan Evrópusambandsins ver okkur ekki nægilega vel að svo stöddu  gegn heimsvaldastefnu annarra ríkja.  Þvert á móti eru stofnanir og stjórnarvenjur ESB opnar fyrir því, að hin rússneska heimsvaldastefna finni sér leið inn, enda eru þær sjálfar ekki lausar við freistingu til að ráða yfir þeim veikari."

Það er grimmúðlegt árásarstríð Rússa gegn Úkraínumönnum, sem hefur leyst grundvallarágreining úr læðingi innan ESB.  Það sést með því að skoða söguna, að þýzka ríkisstjórnin, hver sem hún er, er höll undir þau sjónarmið, að Þýzkaland og Rússland eigi að skipta Evrópu á milli sín.  Auðvitað verður þá fullveldi minni ríkja fórnarlambið. Bretar og Bandaríkjamenn hafa allt aðra stefnu.  Rússar herða nú hálstakið, sem þeir hafa á Þjóðverjum með Nord Stream 1 og hjálparleysi Þjóðverja í orkulegum efnum, sem er fullkomið sjálfskaparvíti og sýnir bezt skipbrot utanríkisstefnu þeirra.  Þeir verða nú að taka sér heiðarlega stöðu með Engilsöxunum í stuðningi við Úkraínu, ef trúverðugleiki þeirra í hópi Vesturveldanna á ekki að bíða hnekki. Þolgæði þýzku þjóðarinnar er mikið.  Það sýndi hún bezt 1939-1945 og nú á þessum vendipunkti í sögu Evrópu verður afstaða þýzku stjórnarinnar í Berlín til fullveldis óskiptrar Úkraínu prófsteinn á stöðu Þýzkalands í Evrópu 21. aldarinnar.

Lokatilvitnunin í stórmerka blaðagrein forsætisráðherra Póllands, Mateusz Morawiecki:

"Nú þarf að sýna Úkraínu stuðning, til að hún geti endurheimt þau landsvæði, sem hún hefur tapað, og til að hún geti þvingað rússneska herinn til að hörfa.  Aðeins þá verður hægt að taka þátt í viðræðum af einhverri alvöru og fá fram raunveruleg stríðslok, en ekki einvörðungu skammvinnt vopnahlé.  Aðeins slík stríðslok munu þýða, að við höfum sigrað.

Við verðum einnig að sigrast á ógn af heimsvaldastefnu ESB.  Við þurfum á umfangsmiklum endurbótum að halda, þar sem meginreglur ESB endurspegli það, að almannaheill og jafnræði séu sett á oddinn á ný.  Það verður ekki að veruleika að hugmyndafræði ESB óbreyttri, þ.e. ef ákvarðanir um stefnumál og forgangs hlutverk ESB verða ekki teknar af öllum aðildarríkjum fremur en af stofnunum ESB.  Stofnanir eiga að þjóna hagsmunum ríkja, en ekki ríki hagsmunum stofnana.  Grundvallaratriði í samstarfi verður hverju sinni að vera samkomulag fremur en yfirráð þeirra stærstu yfir hinum minni." 

 Stofnanavæðing ESB er sem sagt dulbúin yfirtaka Þjóðverja og Frakka á ákvarðanatöku innan ESB og eykur þannig enn við lýðræðishalla sambandsins. Íslendingar hafa kynnzt þessari stofnanvæðingu með nánu samstarfi við ESB um Innri markaðinn á grundvelli EES-samningsins, sem gildi tók 1. janúar 1994.  Er skemmst að minnast kröfu ESB og þrýstings ríkisstjórnar Noregs um samþykki EFTA-landanna (utan Sviss) á orkulöggjöf um ACER-Orkustofnun ESB.  Við sjáum nú, hversu fjarri þessi löggjöf er frá því að stuðla að almannaheill í Noregi vegna útflutnings á raforku frá Noregi til ESB og Englands.  Hérlendis er í bígerð uppboðsmarkaður á raforku á grundvelli þessarar löggjafar, og við ríkjandi aðstæður í orkumálum á Íslandi (meiri eftirspurn en framboð) mun slíkur uppboðsmarkaður bitna á heimilum og atvinnurekstri í landinu, svo að ekki sé nú minnzt á orkuskiptin.   

 ukrainian-cloth-flags-flag-15727

 Berlaymont sekkur  

     

  

 

   

 

 


Hnignun orkuveldis

Frá hruni Ráðstjórnarríkjanna 1990 hefur Rússland sótt í sig veðrið sem orkuútflytjandi, og sú sókn magnaðist, eftir að Boris Jeltsín, þáverandi forseti rússneska ríkjasambandsins, skipaði KGB-foringjann Vladimir Putin, eftirmann sinn, illu heilli. Ætlun Rússa með því að efla vinnslu jarðefnaeldsneytis var að afla dýrmæts gjaldeyris og halda þar með rúblunni uppi; svo og að ná hreðjataki á kaupendum orkunnar, aðallega Evrópuríkjunum.  Hvort tveggja tókst, en það tókst þó ekki að Finnlandisera viðskiptalöndin í Evrópu, sem vonir einvaldsins í Kreml vafalítið stóðu til, þegar hann hrinti innrásinni í Úkraínu af stað 24. febrúar 2022.

Þann dag urðu vatnaskil í stjórnmálum Evrópu, því að þjóðunum varð ljóst, að binda yrði endi á öll viðskipti við hið löglausa og árásargjarna ríki, sem nú hafði notað her sinn, fjármagnaðan með hinum verðmæta afrakstri jarðefnaeldsneytisins, í miskunnarlausri og blóðþyrstri tilraun til að leggja undir sig allt nágrannaríkið Úkraínu, sem sneiðum hafði verið stolið af strax 2014. 

Þessi endurvakning á skefjalausum ríkishernaði í Evrópu, sem ekki hafði sézt þar frá falli Þriðja ríkisins 8. maí 1945, varð Evrópumönnum og öllum hinum vestræna heimi andlegt áfall og ástæða sjálfsrýni og endurskoðunar á lífsviðhorfi og stefnu.  Barátta einræðis og lýðræðisstjórnarfars hefur ekki kristallazt með jafnskýrum hætti í Evrópu síðan vorið 1940, þegar Bretar stóðu einir gegn landvinningum Stór-Þýzkalands.

Gert hefur verið lítið úr viðbrögðum Vesturveldanna til að draga máttinn úr stríðsvél nýlenduveldisins í austri.  Björn Bjarnason, fyrrverandi Alþingismaður og ráðherra, telur þær efasemdir orðum auknar og færir fyrir því viðhorfi sínu sterk rök í umræðugrein í Morgunblaðinu, laugardaginn 6. ágúst 2022, undir fyrirsögninni:

"Greining á rússnesku hruni".

Umfjöllunarefnið er þjóðarbúskapur Rússa:

"Í nýlegri skýrslu 5 rannsakenda við Yale-háskóla í Bandaríkjunum um hrikalegar afleiðingar vestrænna refsiaðgerða á efnahag Rússlands segir, að Vladimir Putin, Rússlandsforseti, fylgist náið með verðþróun á olíumörkuðum, enda sé það olía og gas, sem geri Rússa gildandi í heimsbúskapnum; þeir séu 3. stærsti olíuframleiðandi heims, en vegi aðeins 3 %, þegar litið sé til hlutdeildar þeirra í vergri heimsframleiðslu."

Þetta sýnir, hversu furðulega lítið Rússar hafa upp á að bjóða af eftirsóknarverðri framleiðslu annarri en  jarðefnaeldsneyti, sem dælt er upp úr jörðunni.  Þetta er hvorki í samræmi við landstærðina né mannfjöldann og sýnir djúpstæða meinsemd í rússnesku samfélagi, sem e.t.v. má kalla spillingu valdhafanna, sem gegnsýrir allt þjóðfélagið, einnig herinn.

"Yale-menn segja, að nú glími Rússar við mun meiri vanda við útflutning á hrávöru en almennt er rætt um í fréttum.  Heildartekjur þeirra af olíu og gasi hafi lækkað um meira en helming í maí m.v. apríl 2022, sé tekið mið af opinberum rússneskum tölum. Rússar hafi í raun sveigt verulega hjá því framtíðarmarkmiði sínu um að ná lykilstöðu á hrávörumarkaðinum." 

 

Þessar upplýsingar sýna, að hnignun rússneskrar markaðshlutdeildar jarðefnaeldsneytis í heiminum er hafin.  Sennilega liggja til þess 2 meginástæður og eru báðar varanlegar.  Önnur er lokun aðgengis fyrir Rússa að vestrænni tækniþekkingu á sviði viðhalds, rekstrar og nýborana á vettvangi orkuvinnslu, og þar með lokun á varahluti fyrir kerfi í rekstri og búnað fyrir ný verkefni.

Hin ástæðan er, að viðskiptavinir Rússa hafi fórnað höndum yfir villimannlegu grimmdaræði þeirra í árásarstríði þeirra í Úkraínu, þar sem óbreyttir borgarar og vistarverur þeirra eru helztu skotmörk hins lítilsiglda hers þeirra, og að Rússar hafi af þeim sökum hreinlega séð undir iljar gamalla viðskiptavina sinna. Það hefur óhjákvæmilega afleiðingar að ganga fram með þvílíkum kúgunartilburðum og ofstopa gegn friðsömum nágrönnum, sem ekkert hafa til saka unnið, og reyna í einu vetfangi að breyta heimssögunni.  Það er alger tímaskekkja. 

"Það skipti e.t.v. enn meira máli, að til þess að snúa viðskiptum sínum í austur verði Putin að ráða yfir tækni til að gera olíu og gas hæf til flutnings í leiðslum frá norðurslóðum til kaupenda.  Eftir að erlendir samstarfsaðilar sögðu skilið við rússnesku fyrirtækin Rosneft og Gazprom hafi þessir orkurisar sjálfir enga burði til að geta nýtt sér til gagns gífurlegar olíu- og gaslindir, einkum í Síberíu og á norðurslóðum, og því síður að koma eldsneytinu á markað. Til skamms tíma þýði þetta, að rússneska ríkið fari á mis við lífsnauðsynlegar skatttekjur fyrir utan að tapa stöðu sinni og trúverðugleika á heimsmarkaði og sem félagi í OPEC+ félagsskapnum.  Nú verði þeir hins vegar að skríða á hnjánum til Kínverja og Indverja í von um, að þeir kaupi eitthvað af þeim á miklu afsláttarverði."  

Á tímabilinu 1999-2014 óx rússnesku millistéttinni fiskur um hrygg, enda jukust tekjur hennar ríflega árlega á þessu tímabili, en síðan hefur ríkt stöðnun og jafnvel afturför, hvað lífskjör millistéttarinnar varðar, og þjóðnýting hefur haldið innreið sína, svo að þjóðfélaginu er tekið að svipa til Ráðstjórnarára 9. áratugar 20. aldarinnar.  Þá kemur nú u.þ.b. fimmtungur af tekjum almennings úr ríkissjóði, svo að sú skerðing ríkistekna, sem þarna er gerð að umfjöllunarefni, getur reynzt rússneska ríkissjóðinum þungbær og að lokum skert lífskjör almennings. 

Þjóðirnar, sem þarna eru nefndar til sögunnar að taka við jarðefnaeldsneyti af Rússum, Indverjar og Kínverjarar, eru alræmdir prúttarar.  Þær munu hikstalaust nýta sér vandræði Rússa á heimsmarkaðinum og heimta af þeim langtímasamninga á tiltölulega lágu verði.  Þetta mun draga allan kraft úr hagkerfi Rússa.  Rússar eiga fjölda góðra verkfræðinga og vísindamanna, þótt spekileki sé úr þeirra röðum líka, en Rússland er enn með sömu böggum hildar og Ráðstjórnarríkin að geta ekki framleitt hátæknivörur.  Þessi veikleiki dæmir Rússland meira eða minna úr leik á heimssviðinu við núverandi aðstæður. 

""Þrátt fyrir hugaróra Pútins um sjálfsþurftarbúskap og heimavarning í stað innflutts hefur heimaframleiðslan algjörlega stöðvazt og ræður ekki við að koma í stað þeirra viðskipta, sem horfin eru, hvorki með vörur né mannafla; eftir útþurrkun á nýsköpun og framleiðslu á heimavelli hefur verðlag rokið upp úr öllu valdi ásamt kvíða neytenda", segir Yale-hópurinn.

Skýrsluhöfundarnir 5 benda á, að niðurstöður þeirra stangist á við ítrekaðar fullyrðingar um, að refsiaðgerðirnar skaði þjóðirnar í vestri meira en Rússa.  Þeir segja:

 "Þegar 5. mánuður innrásarstríðs Rússa hefst, hefur sú almenna skoðun birzt, að einhugur þjóða heims um andstöðu gegn Rússum hafi einhvern veginn þróazt í "efnahagslegt þreytustríð, sem sé Vestrinu dýrkeypt" vegna svo nefndrar "seiglu" og jafnvel "hagsældar" í rússneskum þjóðarbúskapi." 

"Þetta eru einfaldlega ósannindi", segir í skýrslunni.  Hagsmunir Pútins felast í blekkingum út á við um efnahag Rússa.  Inn á við bannar forsetinn, að hernaður hans sé kallaður stríð.  Þeir, sem gera það, eru fangelsaðir.  Notum frelsið til að greina og lýsa hlutunum, eins og þeir eru."

Lygamaskína rússneska stjórnkerfisins segir enga sögu, eins og hún er, ef lygin setur Rússland og Kremlverja í skárra ljós en sannleikurinn.  Rússar virðast stela öllu steini léttara í Úkraínu, jafnvel af heimilum fólks, og sögur gengu um, að rússneskir hermenn hefðu selt þýfið á uppboðsmörkuðum í Hvíta-Rússlandi og í Rússlandi, sem auðvitað gefur til kynna meiri velmegun almennings í Úkraínu en í hinum löndunum tveimur.

Alls konar bolaskítur hefur verið borinn á borð af Putin um ástæður innrásarinnar 24.02.2022. Einfaldasta skýringin er sennilega sönn, af því að hún hefur legið í þagnargildi hjá Kremlverjum. Hún er sú, að um hreinræktað nýlendustríð af gamla skólanum sé að ræða.  Frétt í brezka tímaritinu Spectator 12.08.2022 styður þetta.  Hún var sú, að Rússar hefðu nú með "blóði og járni" svælt undir sig í Úkraínu síðan 24.02.2022 auðlindir á borð við orkugjafa (kol, olíu, gas), málma og steinefni í jörðu að verðmæti trnGBP 10, sem nemur tæplega 7-faldri vergri landsframleiðslu Rússlands árið 2021. 

Putin og ólígarkar hans ætla að skítnýta auðlindir nýlendunnar Úkraínu í eigin auðgunarskyni og til að láta Úkraínu borga fyrir kostnað Rússlands af stríðsrekstrinum í Úkraínu.  Þá munu þeir beita sömu kúgunartökunum við enduruppbyggingu Úkraínu og Kremlverjar beittu Austur-Evrópuríkin, sem lentu austan Járntjaldsins eftir Heimsstyrjöldina 1939-1945, að láta þjóðina þræla sjálfa fyrir endurreisninni úr rústunum. 

Þetta er ástæðan fyrir því, að forseti Úkraínu, Volodimir Zelenski, leggur höfuðáherzlu á að reka Rússaher út úr Úkraínu og að nýta frystar eigur rússneskra ólígarka og rússneska ríkisins á Vesturlöndum til enduruppbyggingarinnar.  Vonandi, Evrópu allrar vegna og hins frjálsa heims alls, verður sú niðurstaðan.      

    

 


Ferli ákvarðanatöku í lýðræðisríki

Arnar Þór Jónsson, lögmaður og varaþingmaður sjálfstæðismanna í SV-kjördæmi (Kraganum), hefur reynzt eljusamur talsmaður einstaklingsfrelsis og lýðræðis í hefðbundnum vestrænum skilningi. Hann hefur iðulega í ræðu og riti, á "öldum ljósvakans" og á síðum Morgunblaðsins vakið athygli á veikleikum í stjórnarfari landsins, sem þó eru ekki bundnir við Ísland, sem kalla mætti útþynningu lýðræðisins og felast í úthýsingu raunverulegrar stefnumörkunar ríkisins frá Alþingi eða ráðherrum, sem standa þurfa Alþingi reikningsskap gerða sinna samkvæmt Stjórnarskrá lýðveldisins, til embættismanna innanlands og utan. Með erlendum embættismönnum er hér átt við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) og stofnanir og embættismenn á hennar vegum, sem með ákvörðunum sínum, reglugerðum og tilskipunum, eru orðnir áhrifaríkir um lagasetningu á Íslandi vegna innleiðingar Alþingis á reglum Innri markaðar EES (Evrópska efnahagssvæðisins), sem Ísland er aðili að síðan 1994. Hér verða aðeins tekin 3 dæmi um innlenda embættisfærslu, sem  vitna um gagnrýniverða embættisfærslu í ljósi krafna um lýðræðislegar heimildir.  

Samkvæmt innleiðingu Alþingis á Orkupakka 3 (OP3) haustið 2019 (Orkulöggjöf ESB á þeim tíma.  Núgildandi orkulöggjöf ESB er OP4, sem hefur enn ekki verið innleidd í EFTA-ríkjum EES vegna skorts á pólitískum stuðningi við það á Stórþinginu og innan norsku ríkisstjórnarinnar.) skal Orkumálastjóri vera fulltrúi ACER-Orkustofnunar ESB á Íslandi og sjá til þess, að ákvæðum gildandi orkupakka sé framfylgt á landinu.  Þar er eindregið mælt með orkukauphöll fyrir raforku, þ.e. að markaðurinn ákvarði orkuverðið á hverri klukkustund sólarhringsins.  Við afbrigðilegar aðstæður, eins og nú ríkja í Evrópu, hefur þetta fyrirkomulag reynzt neytendum herfilega illa og rafmagnið, eins og jarðefnaeldsneytið, orðið þungur fjárhagsbaggi á mörgum heimilum.

Nú eftir þinglok í vor bregður svo við, að Landsnet (undir eftirliti Orkumálastjóra) kynnir til sögunnar nýja undirstofnun sína, sem ætlað er að innleiða þetta markaðsfyrirkomulag á Íslandi. Í ljósi þess, að við núverandi aðstæður orkumála á Íslandi (orkuskort) eru mestar líkur á, að verðmyndun rafmagns eftir skammtíma framboði og eftirspurn muni leiða til umtalsverðra hækkana á meðalverði rafmagns á Íslandi, er vert að spyrja, hvort eðlilegt sé, að embættismenn vaði áfram með þetta mál án þess, að Alþingi hafi fjallað um það sérstaklega ?  Málið er a.m.k. einnar vandaðrar áhættugreiningar virði. 

Þann 23. júní 2022 ritaði Arnar Þór Jónsson grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni:

"Engin stemning ?".

Hún hófst þannig:

"Í viðtali við RÚV 16. júní sl. lét Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, þau ummæli falla, að ekki yrði gripið til takmarkana "strax" vegna fjölgunar Covid-smita. Slíkt réðist af "því, hvernig faraldurinn þróast".  Í beinu framhaldi sagði Þórólfur "alveg ljóst, að það er engin stemning fyrir neinum takmörkunum í þjóðfélaginu, eða hvar sem er".  Ástæða er til að vekja athygli almennings á þessum síðastnefnda "mælikvarða" sóttvarnalæknis, sem hann hefur raunar ítrekað vísað til í öðrum viðtölum."

Það er líka ástæða til að fetta fingur út í þá áráttu fráfarandi sóttvarnarlæknis að tala um nauðsyn þjóðfélagslegra takmarkana yfirvalda vegna pestar, sem mjög líkist inflúensu, en getur, eins og flensan, leitt af sér ýmis stig lungnabólgu, ef ónæmiskerfi líkamans er veikt fyrir og líkamann vantar D-vítamín.

  Samanburðarrannsóknir á viðbrögðum yfirvalda víða um heim gefa til kynna, að heildardauðsföllum fækki ekki við þjóðfélagstakmarkanir til að stemma stigu við C-19.  Þar sem yfirvöld reka harðýðgislega einangrunarstefnu vegna C-19, eins og í Kína, grasserar pestin enn.  Þarna hefur ofurtrú á stjórnsemi yfirvalda leitt embættismenn víða á villigötur, en aðeins hjarðónæmi getur kveðið þessa pest niður (hjarðónæmi af völdum almennra smita, því að bóluefnin, sem kynnt hafa verið til sögunnar, hindra ekki smit og veikindi).  

Bóluefnafarsinn gegn C-19 er kapítuli út af fyrir sig og ber keim af einhvers konar peningamaskínu lyfjaiðnaðarins, sem yfirvöld hafa látið ginnast til að ánetjast (vanheilagt bandalag stórfyrirtækja, stjórnmálamanna og embættismanna til að græða á ótta almennings).  Bóluefnin veittu ekkert hjarðónæmi, sem þó var lofað, m.a. af íslenzka sóttvarnarlækninum, og ending þeirra í líkamanum reyndist skammarlega skammvinn, enda var hún horfin, eins og dögg fyrir sólu innan 3 mánaða samkvæmt rannsóknum, sem sænski læknirinn Sebastian Rushworth hefur kynnt á vefsetri sínu. 

Slæmar aukaverkanir bóluefnanna, í sumum tilvikum lífshættulegar, eru miklu algengari en af hefðbundnum bóluefnum.  Leyfisveiting fyrir almennri notkun þessara mRNA-bóluefna voru mistök, reist á allt of stuttum athugunartíma á virkninni.  Var þar samsæri á ferðinni ?  Nauðsynlegt er rannsaka það niður í kjölinn.  Enn ráðleggur íslenzki sóttvarnarlæknirinn örvunarkammt, nú þann 4. í röðinni með þeim orðum, að slíkt dragi úr einkennum C-19.  Eru vísindalegar rannsóknir, sem hægt er að treysta, að baki þeirri fullyrðingu, eða eru þessar upplýsingar komnar frá hagsmunaaðilum ?  Nú er allt annað afbrigði á ferðinni en Wuhan-útgáfan, sem þróun bóluefnanna var sniðin við.  Þekkt er, að flensusprautur eru gagnslausar, nema við afbrigðinu, sem flensubóluefnin eru þróuð við.

"Ummælin um "stemningu" sem forsendu valdbeitingar opinbera þann stjórnarfarslega háska, sem íslenzk stjórnmál hafa ratað í.  Þau eru til merkis um öfugþróun, sem beina verður kastljósinu að: Lýðræðið deyr og réttarríkið sundrast, þegar vald og ótti sameinast; þegar stjórnvöld og stórfyrirtæki ganga í eina sæng [það virtist gerast í Kófinu-innsk. BJo]; þegar fjölmiðlar ganga gagnrýnislaust í þjónustu valdhafa [gerðist með RÚV í Kófinu og vinstri slagsíðan þar keyrir úr hófi fram, enda lögbrot-innsk. BJo]; þegar fræðimenn kjósa starfsöryggi fremur en sannleiksleit; þegar embættismenn setja eigin frama ofar stjórnarskrá; þegar óttasleginn almenningur afsalar sér frelsi og réttindum í hendur manna, sem boða "lausnir".  Allt eru þetta þekkt stef í alræðisríkjum, þar sem stjórnvöld ala á ógn í þeim tilgangi að treysta völd sín."

 

Hafrannsóknarstofnun gegnir geisilega mikilvægu hlutverki, enda starfa þar margir hæfir sérfræðingar.  Vísindalegar niðurstöður þeirra og ráðgjöf er þó ekki óumdeild, og það er miður, þegar starfsmenn í sjávarútvegi sjá knúna til að bera brigður á réttmæti ráðlagðra aflamarka mismunandi tegunda. Hafró verður að leggja sig fram um að útskýra ráðgjöf sína fyrir hagsmunaaðilum í sjávarútvegi og fyrir eiganda auðlindarinnar, þjóðinni.  Ráðherrann hefur síðasta orðið, eins og á sviði sóttvarna, en verður að hafa þungvæg og hlutlæg mótrök til að ganga í berhögg við stofnanir ríkisins.  

Þann 23. júní 2022 birtist harðorð grein í garð Hafró eftir Björn Jónasson, skipstjóra á Málmey SK1, og Ágúst Ómarsson, skipstjóra á Drangey SK2, undir fyrirsögninni:

"Rugluð ráðgjöf".

Hún hófst þannig:

"Allan hringinn í kringum landið erum við sjómenn að upplifa mokfiskerí bæði grunnt og djúpt og nánast á hvaða veiðarfæri sem er.  Sjórinn er sem sagt kjaftfullur af fiski.  Á sama tíma ákveður Hafrannsóknastofnun að skera veiðiheimildir í þorski niður um 6 % til viðbótar við 13,5 % niðurskurð í fyrra.  Í karfa er niðurskurðurinn á milli ára hvorki meiri né minni 20 %, enda þótt hann mokveiðist, hvar sem menn bleyta í veiðarfærum."

Það er ótvíræð jákvæð afleiðing lækkunar veiðihlutdeildarstuðuls niður í 20 % af viðmiðunarstofni (viðmiðunarstofn þarf að skilgreina á heimasíðu Hafró), að fiskurinn skuli nú vera mun veiðanlegri en áður var.  Sérfræðingar Hafró hafa sagt, að endurskoðun á gömlum stórfiski upp á við í áætlaðri stofnstærð hafi leitt til endurskoðunar niður á við í viðmiðunarstofnstærð (ekki sama og heildarstofnstærð).  Þetta er nokkuð torskiljanleg útskýring og kemur á sama tíma og "hafið (landhelgin) er fullt af fiski".  Það er þess vegna engin furða, að brigður séu bornar á réttmæti þess að draga úr fiskveiðiheimildum á þessu og næsta fiskveiðiári.  Hér stendur upp á Hafrannsóknarstofnun að útskýra niðurstöður sínar betur.  Það hefur verið viðurkennt af hálfu stofnunarinnar, og um það birtist frétt í Morgunblaðinu 24. júní 2022 undir fyrirsögninni:

"Vill ræða við sjómenn".

Fréttin hófst þannig:

"Forstjóri Hafrannsóknastofnunar vill efna til samtals við sjómenn um ráðgjöf stofnunarinnar um hámarksafla einstakra nytjategunda fiska.  Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri, segir, að slíkt samráð hafi verið viðhaft áður og það þurfi að endurvekja.  Hann segir þó spurningu, hvort það eigi að vera í því formi, sem var, eða með öðru fyrirkomulagi."

Á heimasíðunni https://www.hafogvatn.is mætti vera kjarnyrt og skýr útlistun á, hvers vegna Hafrannsóknarstofnun telur nú nauðsynlegt að draga úr veiðum á nokkrum tegundum til að tryggja sjálfbæra nýtingu þessara stofna, og hvers vegna ekki hefur enn dregið neitt úr veiðanleika þeirra í lögsögunni. 

Sjávarútvegurinn er svo þjóðhagslega mikilvægur og svo margir hafa lífsviðurværi sitt af nytjastofnum við Ísland, að nauðsynlegt er, að almenningur skilji, hvað sérfræðingar Hafró eru að fara með ráðgjöf sinni.

Höfundur þessa pistils er ekki í nokkrum færum að draga réttmæti hennar í efa, enda hefur hún verið rýnd og samþykkt af sérfræðingum ICES-Alþjóða hafrannsóknarráðsins.  Það mætti gjarna árétta stefnumörkunina um þróun nytjastofnanna við Ísland, sem ráðgjöfin tekur mið af. Er sú stefnumörkun ættuð frá Alþingi, ráðuneyti eða Hafrannsóknarstofnun ?

20100925_usp001  

    


Barátta Úkraínumanna mun móta framtíð heimsins

Rússland hefur brotið allar viðteknar alþjóðareglur um samskipti við fullvalda þjóð með skefjalausri innrás Rússahers í Úkraínu 24.02.2022, og hefur hagað hernaði sínum gegn Úkraínumönnum, jafnt rússnesku mælandi sem mælta á úkraínska tungu, með svo grimmdarlega villimannslegum hætti, að flokka má undir stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni.

Fyrir vikið er Rússland orðið "persona non grata" í lýðræðislöndum, og hvers konar viðskiptum við Rússland ber að halda í algeru lágmarki, sérstaklega á sviðum, þar sem rússneska ríkið á mikilla hagsmuna að gæta, eins og í útflutningi og jarðefnaeldsneyti og innflutningi á tæknibúnaði.  Rússland er orðið útlagaríki og gæti fljótlega endað á ruslahaugum sögunnar, enda er því augljóslega stjórnað af siðblindingjum, lygalaupum og ígildi mafíósa. 

Við þessar aðstæður er forkastanlegt, að forkólfar öflugustu Evrópusambandsríkjanna, ESB, Olaf Scholz, kanzlari Sambandslýðveldisins Þýzkalands, og Emmanuel Macron, forseti Frakklands, skuli enn gera sig seka um einhvers konar baktjaldamakk við Vladimir Putin, Rússlandsforseta og einvald Rússlands, þótt öðrum sé ljóst, að samtöl við þann mann eru tímasóun ein; hann tekur ekkert mark á viðmælendum sínum, og hann sjálfan er ekkert að marka.  Froðusnakkið í nytsömum einfeldningum Vesturlanda gefur einvaldinum "blod på tanden", því að hann túlkar slíkt sem veikleikamerki af hálfu Vesturlanda á tímum, þegar þeim er brýnt að sýna Úkraínu fullan stuðning í orði og verki.

Stríðið í Úkraínu er einstakt og örlagavaldandi, því að eins og Bretland sumarið 1940 berst nú Úkraína alein fyrir málstað lýðræðis og einstaklingsfrelsis í heiminum gegn herskáu stóru ríki í landvinningahami undir stjórn grimms og siðblinds alvalds.  Til að tryggja frið og stöðugleika í Evrópu og jafnvel víðar  og til að tryggja öryggi lýðræðisríkja má Úkraína ekki tapa þessu stríði, heldur verða Vesturlönd nú að bíta í skjaldarrendur og senda Úkraínu öll þau hergögn, þjálfun á þau og fjárhagsaðstoð, sem þau megna og stjórnvöld Úkraínu óska eftir.  Fyrir tilverknað færni og bardagahæfni Úkraínumanna mun þá takast að reka siðlausan Rússaher, morkinn af spillingu, út úr Úkraínu. Spangól frá Moskvu um beitingu kjarnorkuvopna er að engu hafandi, enda færi Rússland verst út úr slíkum átökum við algeran ofjarl sinn, NATO.

Í heimssamhengi er líklegasta afleiðing þessa stríðs  tvípólun heimsstjórnmálanna. Annars vegar verður fylking lýðræðisríkja undir forystu Bandaríkjamanna með um 60 % heimsframleiðslunnar innan sinna vébanda og mikil viðskipti sín á milli, en hins vegar verða einræðisríkin undir forystu Kínverja.  Rússar verða í þeirri fylkingu, en munu einskis mega sín og verða að sitja og standa, eins og Kínverjum þóknast. 

Áðurnefnd ESB-ríki auk Ítalíu og Ungverjalands verða að fara að gera sér grein fyrir alvarleika málsins og leggjast á sveif með engilsaxnesku ríkjunum, norrænu ríkjunum, Eystrasaltsríkjunum og hinum Austur-Evrópuríkjunum í einlægum og öflugum stuðningi við baráttu Úkraínumanna fyrir óskoruðu fullveldi sínu og frelsi íbúanna til að búa við frið í landi sínu og til að haga lífi sínu að vild. 

Íslendingum og Þjóðverjum hefur alltaf komið vel saman og auðgazt af gagnkvæmum viðskiptum a.m.k. frá 15. öld, og Hansakaupmenn mynduðu mikilvægt mótvægi við danska kaupmenn hér fram að einokunartímanum.  Íslendingar neituðu að segja Þýzkalandi stríð á hendur í seinni heimsstyrjöldinni, þótt það ætti að verða skilyrði til stofnaðildar að Sameinuðu þjóðunum, Sþ. Nú rennur mörgum hérlendis og víðar til rifja hálfvelgja þýzku ríkisstjórninnar í Berlín undir forystu krata í stuðningi sínum við Úkraínu.  Þessu kann að valda ótti við, að Pútin láti loka fyrir gasflutninga til Þýzkalands, en honum er andvirðið nauðsyn til að halda hagkerfi Rússlands á floti.  Þýzka stjórnin ætti að hlíta ráðleggingum manna eins og Klaus Wittmann, fyrrverandi undirhershöfðingja í Bundeswehr, sem e.t.v. er skyldur þeim mikla kappa, skriðdrekaási Þjóðverja, SS-Hauptsturmführer Michael Wittmann. 

Fyrst verður vitnað í upphaf forystugreinar Morgunblaðsins, 13.06.2022:

"Laskað orðspor".

"Angela Merkel, fyrrverandi Þýzkalandskanzlari, steig fram í fyrsta sinn í síðustu viku, eftir að 16 ára valdatíð hennar lauk.  Þar var Merkel vitanlega spurð, hvort hún sæi eftir einhverju í kanzlaratíð sinni, en hún einkenndist af tilraunum Merkel til þess að beizla Vladimir Pútín, Rússlandsforseta, með því að auka viðskipti Þýzkalands og Rússlands. 

Merkel sagðist nú ekki sjá eftir neinu og sagði, að þó að "diplómatían" hefði klúðrazt, væri það ekki merki um, að það hefði verið röng stefna á þeim tíma að leita sátta.  Merkel fordæmdi innrásina í Úkraínu, en sagðist á sama tíma ekki hafa verið "naíf" [barnaleg] í samskiptum sínum við Pútín." 

Það er sorglegt, að þessi þaulsetni kanzlari Þýzkalands, prestsdóttirin Merkel, skuli ekki iðrast gerða sinna nú, þegar öllum er ljóst, að viðskipti Þýzkalands og annarra Vesturlanda við Rússland ólu óargadýrið, sem lengi hafði alið með sér landvinningadrauma til að mynda "Stór-Rússland" í Evrópu í anda landvinningazara, sem lögðu undir sig Finnland, Eystrasaltslöndin, Pólland o.fl. lönd.  Putin hefur látið í ljós mikla aðdáun á Pétri, mikla, með svipuðum hætti og Adolf Hitler á Friðriki, mikla, Prússakóngi.  Flestir eru sammála um, að stöðug eftirgjöf við Hitler á 4. áratuginum og friðmælgi við hann hafi sannfært hann um veikleika Vestursins og að enginn gæti staðið gegn landvinningastefnu hans í allar áttir.  Nákvæmlega hið sama á við einvald Rússlands.  Friðþæging gagnvart sturluðum einvöldum er dauðadómur.  

Í frétt Morgunblaðsins, 10.06.2022:

"Ein erfiðasta orrusta stríðsins",

er eftirfarandi haft eftir Serhí Haísaí, hérraðsstjóra Lúhansk-héraðs:

""Um leið og við fáum langdrægt stórskotalið [hábyssur og fjöleldflaugaskotpalla - innsk. BJo], sem getur háð einvígi við rússneska stórskotaliðið, geta sérsveitir okkar hreinsað borgina á 2-3 dögum", sagði Haídaí í viðtali, sem dreift var í samskiptaforritinu Telegram.

Sagði Haídaí, að varnarlið borgarinnar hefði mikla hvatningu til að halda uppi vörnum áfram, þrátt fyrir að stórskotalið Rússa léti nú rigna eldi og brennisteini yfir borgina.

Þannig skutu Rússar tvisvar á Asot-efnaverksmiðjuna, en talið er, að um 800 manns séu nú þar í felum.  Skemmdi eitt flugskeytið smiðju fyrir ammóníakframleiðslu, en búið var að fjarlægja efni þaðan, sem hefðu getað valdið frekari sprengingum." 

  Vesturlönd hafa því miður tekið hlutverk sitt í vörnum Úkraínu fyrir fullveldisrétt sinn, frelsishugsjón og lýðræðisfyrirkomulag, sem í raun er vörn fyrir öll lönd í heiminum, hverra þjóðir aðhyllast lýðræðislega stjórnarhætti með virkt þingræði í stað einræðis, misalvarlega.  Öll ættu þau að vera sneggri í snúningum við afhendingu þess vopnbúnaðar, sem Úkraínumenn hafa óskað eftir og sem þeir telja forsendu þess, að þeim takist að hrekja glæpsamlegt og villimannslegt innrásarlið útþenslusinnaðs einræðisríkis í austri með mikla landvinningadrauma af höndum sér. Árangur Úkraínuhers til þessa má mest þakka hugrekki og baráttugleði hermannanna og góðri herstjórn þeirra og pólitískri stjórn landsins, en allt kæmi það fyrir ekki, ef ekki hefði notið við dyggs hergagnastuðnings og þjálfunar Bandaríkjamanna og Breta. Stærstu Þjóðir Vestur-Evrópu, aðrir en Bretar, þ.e. Þjóðverjar, Frakkar og Ítalir, hafa hingað til valdið miklum vonbrigðum og sýnt, að þegar hæst á að hóa bregðast þær algerlega.  Forystumenn þeirra hafa sumir hverjir lofað öllu fögru, en efndirnar hingað til eru litlar sem engar.  Macron og Draghi hafa staðið í óskiljanlegu símasambandi við Vladimir Putin og skilja ekki enn, að við þann mann er ekki hægt að semja, honum er í engu treystandi. 

Í grein The Economist 4. júní 2022: "Baráttan um Severodonetsk" er haft eftir Oleksiy Arestovych, ráðgjafa forseta Úkraínu, að stórskotalið Úkraínu hafi orðið sérlega illa úti í baráttunni.  Suma dagana hafa um 200 hermenn fallið af þessum og öðrum orsökum, og þess vegna eru hendur þeirra vestrænu leiðtoga, sem geta sent öflug, langdræg vopn, en hafa tafið vopnasendingarnar, blóði drifnar.  

"Við höfum einfaldlega ekki haft yfir nægum vopnabúnaði að ráða til að geta svarað þessari skothríð", segir hann.  Yfirburðir í öflugum skotfærum virðast einnig hafa gert Rússum kleift að snúa við gagnsókn Úkraínuhers við Kharkiv, næststærstu borg Úkraínu. Könnunarsveit úkraínska hersins þar komst að því, að landgönguliðar Eystrasaltsflota Rússa og fleiri úrvalssveitir búi nú tryggilega um sig í steyptum varnarbyrgjum. 

"Þeir ætla að vera þarna lengi, og erfitt verður að stugga þeim á flótta", sagði ráðgjafinn. 

"Á Vesturlöndum hafa komið upp nokkur áköll um, að efnt verði til vopnahlés hið fyrsta og jafnvel þá gefið í skyn, að Úkraínumenn verði einfaldlega að sætta sig við orðinn hlut og gefa eftir landsvæði í skiptum fyrir frið.  

Slík áköll hafa ekki tekið mikið tillit til óska Úkraínumanna sjálfra, en Volodimir Zelenski, forseti Úkraínu, sagði fyrr í þessari viku [5.-11.06.2022], að of margir Úkraínumenn hefðu fallið til þess að hægt væri að réttlæta það að gefa eftir land til Rússa.

"Við verðum að ná fram frelsun alls landsvæðis okkar", sagði Zelenski, en hann ávarpaði þá viðburð á vegum Financial Times.  Zelenski var þar einnig spurður um nýleg ummæli Emmanuels Macrons, Frakklandsforseta, sem sagði í síðustu viku [um mánaðamótin maí-júní 2022], að það væri mikilvægt að "niðurlægja" ekki Rússa til að ná fram endalokum stríðsins.  "Við ætlum ekki að niðurlægja neinn, við ætlum að svara fyrir okkur", sagði Zelenski um ummæli Macrons."

Viðhorf Macrons eru dæmigerð fyrir uppgjafarsinna, sem glúpna óðara fyrir ofbeldisfullu framferði árásargjarnra einræðisseggja, eins og franska dæmið frá júní 1940 ber glöggt vitni um.  Þar var árásarliðið reyndar með færri hermenn og minni vopnabúnað en lið Frakka og Breta, sem til varnar var, en bæði tækni og herstjórnarlist var á hærra stigi hjá þýzka innrásarhernum.  Það er dómgreindarleysi að gera því skóna, að vitstola einræðisseggur í Moskvu 2022 muni láta af upphaflegum fyrirætlunum sínum um landvinninga, ef samþykkt verður, að hann megi halda þeim mikilvægu landsvæðum fyrir efnahag Úkraínu, sem Rússar hafa lagt undir sig með grimmdarlegum hernaði gegn innviðum og íbúum, sem lygararnir þykjast vera að frelsa.  Þorpararnir munu sleikja sárin og skipuleggja nýjar árásir til framkvæmda við fyrsta tækifæri. 

"Klaus Wittmann, fyrrverandi undirhershöfðingi í þýzka hernum [Bundeswehr] og lektor í samtímasögu við Potsdam háskóla [e.t.v. skyldur fremsta skriðdrekaási Wehrmacht, SS-Hauptsturmführer Michael Wittmann], ritaði grein í Die Welt í vikunni, þar sem hann sagði, að þeir, sem krefðust vopnahlés fyrir hönd Úkraínumanna, áttuðu sig líklega ekki á, hvernig umhorfs yrði á þeim svæðum, sem Vladimir Putin, Rússlandsforseti, hefði lagt undir sig.

Sagði Wittmann, að engar líkur væru á, að Rússar myndu skila þeim í friðarviðræðum og að það væri vel vitað, að hernámslið Rússa tæki nú þátt í óskiljanlegum voðaverkum á hernámssvæðunum.  Nefndi Wittmann þar m.a. morð, nauðganir og pyntingar, auk þess sem hundruðum þúsunda Úkraínumanna hefur verið rænt og þeir fluttir með valdi til Rússlands.  Þá væru Rússar að ræna menningarverðmætum frá söfnum, eyðileggja skóla og sjúkrahús, brenna hveiti og hefna sín á stríðsföngum.  

Það að gefa eftir landsvæði til Rússlands væri því að mati Wittmanns að ofurselja milljónir Úkraínumanna sömu örlögum, sem væru jafnvel verri en dauðinn.  Benti Wittmann jafnframt á, að engin trygging væri fyrir því, að Pútín myndi láta staðar numið, þegar hann hefði lagt undir sig Úkraínu að hluta eða í heild.  

Gagnrýndi Wittmann sérstaklega hægagang þýzkra stjórnvalda og tregðu við að veita Úkraínumönnum þungavopn, sem hefðu getað nýtzt þeim í orrustunni í [bardögum um] Donbass.  Sagði hann, að Þjóðverjar þyrftu að íhuga, hvaða hlutverk þeir vildu hafa spilað [leikið].  

"Ef Úkraína vinnur, viljum við vera meðal þeirra, sem lögðu mikið af mörkum ?  Eða, ef Úkraína tapar og er þurrkuð út og bútuð í sundur sem sjálfstætt evrópskt ríki, viljum við segja við okkur, að stuðningur okkar var ekki nægur, því [að] hann var ekki af heilum hug - að við gerðum ekki allt, sem við gátum ?".  Sagði Wittmann í niðurlagi greinar sinnar, að það þyrfti því ekki bara að hafa áhyggjur af örlögum Úkraínu og úkraínsku þjóðarinnar, heldur einnig [af] orðspori Þýzkalands." 

Allt er þetta satt og rétt, þótt með eindæmum sé í Evrópu á 21. öld.  Villimannleg og óréttlætanleg innrás rússneska hersins í Úkraínu 24.02.2022 var ekki einvörðungu gerð í landvinningaskyni, heldur til að eyðileggja menningu, nútímalega innviði og sjálfstæðisvitund úkraínsku þjóðarinnar, svo að Úkraínumenn og lýðræðisríki þeirra mundi aldrei blómstra og verða Rússum sjálfum fyrirmynd bættra stjórnarhátta.  Að baki þessum fyrirætlunum liggur fullkomlega glæpsamlegt eðli forstokkaðra einræðisafla í Rússland, sem eiga sér alls engar málsbætur og hinum vestræna heimi ber að útiloka algerlega frá öllum viðskiptum og meðhöndla sem útlagaríki, þar til skipt hefur verið um stjórnarfar í Rússlandi, því að  glæpahyski Kremlar og Dúmunnar er ekki í húsum hæft í Evrópu. 

"Andrzej Duda, forseti Póllands, gekk skrefinu lengra í gagnrýni sinni í gær [09.06.2022] og fordæmdi bæði Macron og Olaf Scholz, kanzlara Þýzkalands, fyrir að vera enn í samskiptum við Pútín.  Í viðtali við þýzka blaðið Bild spurði Duda, hvað þeir teldu sig geta fengið fram með símtölum sínum við Pútín.

"Talaði einhver svona við Adolf Hitler í síðari heimsstyrjöldinni", spurði Duda.  "Sagði einhver, að Adolf Hitler þyrfti að bjarga andlitinu.  Að við ættum að hegða okkur á þann veg, að það væri ekki niðurlægjandi fyrir Adolf Hitler ?  Ég hef ekki heyrt af því", sagði Duda. 

Hann bætti við, að samtöl vestrænna leiðtoga við Pútín færðu honum einungis réttmæti þrátt fyrir þá stríðsglæpi, sem rússneski herinn hefði framið í Úkraínu og þrátt fyrir, að ekkert benti til þess, að símtölin myndu bera nokkurn árangur. 

Duda gagnrýndi einnig þýzkt viðskiptalíf, sem virtist skeyta lítið um örlög Úkraínu eða Póllands og vildi helzt halda áfram viðskiptum sínum við Rússland, eins og ekkert hefði í skorizt.  "Kannski trúir þýzkt viðskiptalíf ekki, að rússneski herinn geti aftur fagnað stórum sigri í Berlín og hertekið hluta Þýzkalands.  Við í Póllandi vitum, að það er mögulegt.""

Sjónarmið og málflutningur forseta Póllands, Andrzej Duda, eru fullkomlega réttmæt, af því að þau eru reist á réttu stöðumati og hættumati. Viðhorf, hegðun og gerðir forystumanna stærstu ESB-ríkjanna, Þýzkalands og Frakklands, eru að sama skapi fullkomlega óréttmæt.  Þau eru reist á röngu hagsmunamati, vanmati á hættunni, sem af Rússum stafar, vanvirðu við Úkraínumenn og skilningsleysi á eðli þeirra átaka, sem nú fara fram í Úkraínu.  

Þar fer fram barátta um sjálfsákvörðunarrétt þjóða, í þessu tilviki fullvalda þjóðar, og á milli kúgunarstjórnkerfis og frelsisstjórnkerfis, þar sem í fyrra tilvikinu ríkir miðstýring upplýsingaflæðis og í síðara tilvikinu ríkir frjálst flæði upplýsinga.  Hið síðast talda er undirstaða framfara á öllum sviðum, þ.á.m. í atvinnulífinu og í hagkerfinu, enda var árlegur hagvöxtur í Úkraínu 14 % á nokkrum árum fyrir innrásina, þegar hann var aðeins 2 % á ári í Rússlandi.  Hefði þessi munur á hagvexti fengið að halda áfram óáreittur, mundi hagkerfi Úkraínu hafa náð því rússneska að stærð innan 21 árs.  Það er þessi þróun mála, sem hefur valdið ótta í Kreml; miklu fremur en ótti við aðild Úkraínu að varnarbandalaginu NATO, enda er áróður rússnesku stjórnarinnar um það, að Rússland eigi rétt á áhrifasvæði (Finnlandiseringu) við landamæri sín hruninn með væntanlegri aðild Finnlands að NATO.  

Nú er stórvirkari vopnabúnaður en áður á leiðinni til Úkraínu frá Vesturlöndum.  Yfirmaður leyniþjónustu Úkraínu sagði fyrir um innrás Rússa með lengri fyrirvara en leyniþjónusta Bandaríkjamanna.  Hann hefur spáð því, að viðsnúningur muni eiga sér stað á vígvöllunum síðla ágústmánaðar 2022 og að Úkraínumenn verði búnir að reka rússneska herinn af höndum sér um áramótinn 2022-2023 og að mannaskipti hafi þá farið fram í æðstu stjórn Rússlands, enda eru afglöp forseta Rússlands þau mestu í Evrópu síðan 01.09.1939, þegar þýzki herinn réðist inn í Pólland.  Strax haustið 1940 laut Luftwaffe í lægra haldi fyrir Royal Airforce í baráttunni um Bretland, sem átti eftir að hafa forspárgildi um úrslit styrjaldarinnar þrátt fyrir hetjulega baráttu Þjóðverja við ofurefli liðs.  Nú er ekkert hetjulegt við lúalega baráttu Rússahers við mun minni her og herafla Úkraínu.   


Samþjöppun ?

Þegar talað er um samþjöppun í atvinnugrein, er vanalega átt við fækkun sjálfstæðra fyrirtækja/eigenda, sem leitt geti af sér skort á frjálsri samkeppni, staða, sem stundum er nefnd fákeppni. Nýlega dæmdi EFTA-dómstóllinn þá niðurstöðu ESA-Eftirlitsstofnunar EFTA, að hlutafjáraukning ríkisins í Farice, sem einokar þráðbundið fjarskiptasamband Íslands við umheiminn, stríddi ekki gegn reglum Innri markaðar EES (Evrópska efnahagssvæðisins) um ríkisafskipti og fákeppni, úr gildi.  Það hefur engin ábending komið frá ESA, hvað þá dómsúrskurður frá EFTA-dómstólinum, um viðsjárverða þróun innan íslenzka sjávarútvegsins í átt til fákeppni. Engu að síður staglast fyrrverandi misheppnaður sjávarútvegsráðherra og núverandi vonlaus formaður s.k. Viðreisnar, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, á því í tíma og ótíma, að binda verði endi á "samþjöppun" í sjávarútvegi. 

Hugtakið samþjöppun í atvinnugrein kallar á viðmiðun, og viðmiðunin er yfirleitt fortíðin, en fortíð sjávarútvegsins er ekki fögur, svo að afturhvarf til fortíðar er ókræsileg tilhugsun og kemur einfaldlega ekki til greina, ef sjávarútvegurinn á áfram að verða hryggjarstykkið í hagkerfinu, eins og hann hefur verið, frá því að fyrirtækjum og skipum tók að fækka umtalsvert, svo að þau, sem störfuðu eftir "samþjöppun" tóku að skila hagnaði og þeim, sem hættu fé sínu í þessa starfsemi, arði, eins og er talið eðlilegt á meðal fyrirtækja hvarvetna á Evrópska efnahagssvæðinu, EES.  Rekstur með hagnaði er þó ekki raunin innan sjávarútvegs EES, nema á Íslandi, og má útskýra þá sérstöku stöðu alfarið með aflahlutdeildarkerfinu og frjálsu framsali aflahlutdeilda hérlendis.   

Það er líka hægt að útskýra, hvers vegna ESA hefur ekki sent íslenzkum yfirvöldum kvörtun yfir "samþjöppun" í íslenzkum sjávarútvegi.  Skýringin er sú, að hún er minnst á Íslandi innan EES, og t.d. er kvótaþakið u.þ.b. tvöfalt hærra í Noregi, sem einnig býr við gjöful fiskimið á landgrunni sínu.  Hér hafa heimóttarlegir íslenzkir stjórnmálamenn sem sagt búið til vandamál úr engu. Það er vel af sér vikið og þeim líkt. Það slagar upp í þónokkurt afrek óhæfninnar.  Líklega hefur varaformaður Viðreisnar enn ekki meðtekið "uppgötvun" formannsins, því að hún vantreysti honum, prófessor í auðlindanýtingu, til að taka sæti á vegum flokksins í umfangsmiklu nefndafargani, sem matvælaráðherra í vingulshætti sínum hefur slysazt til að setja á laggirnar til að skilgreina fyrir sig vandamálið ósýnilega, "samþjöppun í sjávarútvegi".  Fíflagangurinn og sóun ríkisins ríða ekki við einteyming.  

Morgunblaðið gerði þessu máli góð skil í forystugrein 1. júní 2022 undir fyrirsögninni:

"Meinsemd sjávarútvegsins".

Hún hófst þannig:

"Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, hefur sjávarútvegsmál á sinni könnu, og í fyrradag [30.05.2022] lét hún þá skoðun í ljós í svari við fyrirspurn á Alþingi, að samþjöppun í sjávarútvegi væri "meinsemd" eða öllu heldur sú staðreynd, að hún vissi ekki, hve mikil samþjöppunin væri.  Þetta er sérkennileg yfirlýsing; ekki þó sízt, að ráðherrann gerði hana að ástæðu þess, að hún hygðist skipa fjölmenna samráðsnefnd og 4 sérfræðihópa til þess að grafast fyrir um þetta og önnur málefni sjávarútvegsins.  Binda verður vonir við, að þeim fjölda takist að uppræta meinsemdina í huga ráðherrans, en nefndirnar voru kynntar í gær."

Það er "futile" verkefni og verður unnið fyrir gýg að reyna að fækka meinlokunum í huga þessa ráðherra, sem er sameignarsinni og vill þess vegna færa öflugustu atvinnutæki landsins í hendur ríkisins í anda kenningasmiða misheppnuðustu hugmyndafræði seinni tíma í mannkynssögunni, sameignarstefnunnar, sem sósíalismi og jafnaðarstefna (kratismi) eru sprottin af.

  Reynslan sýnir, að ríkisvaldið ræður ekki við að reka nokkra atvinnustarfsemi skammlaust.  Ráðherrann fylgir hugmyndafræði, hverrar æðsta mark er gríðarleg samþjöppun atvinnulífs undir einum eiganda, ríkinu.  Þess vegna grætur ráðherrann krókódílstárum yfir samþjöppun yfirleitt í atvinnulífinu.  Það sætir furðu, að þessi endemis yfirmaður matvælamála landsins skuli ekki hafa neitt þarfara að gera, þegar ofboðslegar erlendar verðhækkanir á aðföngum íslenzks landbúnaðar eru u.þ.b. að ríða honum á skjön.  Hefur sjávarútvegurinn þurft að leita á náðir ríkisvaldsins við þessar aðstæður ?  Nei, en þá grípur afskiptasamur og illviljaður ráðherra gagnvart einkaframtaki til þess óyndisúrræðis að búa til vandamál.  Svona eiga ráðherrar ekki að beita sér. 

"Nú er það raunar svo, að samþjöppun í sjávarútvegi á Íslandi er alls ekki mikil.  Jú, það er auðvelt að benda á örfá stórfyrirtæki í þeim geira, en þau segja fremur sögu um það, hvernig kvótakerfið hefur komið á hagkvæmni í greininni, gert sjávarútveginn arðsaman og líkan öðrum greinum, þar sem rúm er fyrir stór og vel rekin fyrirtæki.  Stórfyrirtækin eru hins vegar undantekning, því [að] það er einmitt einkenni á sjávarútvegi, hvað þar þrífast mörg fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum umhverfis landið.  Það er erfitt að benda á aðrar atvinnugreinar, þar sem samþjöppun er minni, hvort sem litið er til smásölu, fjármálageira, iðnaðar eða einhvers annars."

Samþjöppunartal hælbíta sjávarútvegsins er fremur reist á draumórakenndri fortíðarþrá en umhyggju fyrir viðskiptavinum sjávarútvegsins.  Að 95 % í tonnum talið er markaðssetningin á erlendri grundu, og flestir þar kjósa að eiga viðskipti við trausta fiskbirgja með sveigjanlegt afhendingarmagn á viku eftir þörfum markaðarins. Það er alveg öruggt, að fyrir íslenzka þjóðarbúið er æskilegt, að íslenzkir birgjar á erlendum fiskmörkuðum séu stórir og öflugir á íslenzkan mælikvarða, því að þannig verða þeir aldrei á erlenda mælikvarða.

Hagkvæmni stærðarinnar gerir sjávarútvegsfyrirtækjum kleift að fjárfesta í afkastamiklum veiðitækjum og fiskvinnslum með mikilli sjálfvirkni og þar með samkeppnishæfri framleiðni.  Ef enn þrengri stærðarmörk yrðu sett af stjórnvöldum á íslenzk sjávarútvegsfyrirtæki, mun verðmætasköpun þeirra einfaldlega dvína. Þannig væri hælbítum sjávarútvegsins á Alþingi hollt að fara í áhættugreiningu á því, hverjar afleiðingar eru af stöðugu nöldri þeirra og nagi í garð sjávarútvegsins, og hverjar þær yrðu af því að þrengja að hag fyrirtækjanna með strangari stærðarmörkum og/eða hærri skattheimtu. 

"En það er þessi kvörtun um, að sjávarútvegurinn fjárfesti í öðrum greinum, sem kemur upp um Þorgerði Katrínu og Viðreisn.  Það er einmitt lóðið í kapítalismanum [við auðhyggjuna - innsk. BJo], að þar er skapaður arður og auður, sem nota má í fleira en uppsprettu hans.  Að þar verði til afgangur, sem megi nota í eitthvað nýtt og betra, að menn geti stuðlað að nýsköpun í atvinnulífi án þess að skipta um starfsvettvang.  Að auðsköpun í einni grein nýtist í öðrum, landi og þjóð til heilla.  Flokkur, sem skilur það ekki, skilur ekki neitt og er ekki hægri flokkur í neinum skilningi.

Þess vegna er Viðreisn sjálfsagt hollast að fara að uppástungu í forystugrein flokksmálgagnsins í liðinni viku og sameinast systurflokknum Samfylkingu."

  Þetta er vel að orði komizt.  Hvers konar ráðsmennska er það eiginlega vítt og breitt í samfélaginu, að útgerðarmenn eða fiskvinnslumenn megi ekki græða eða þurfi að ganga fyrir Pontíus og Pílatus til að fá leyfi til að fjárfesta annars staðar en í sjávarútvegi ?  Þeir, sem hagnast, hafa fullt frelsi til að ráðstafa þeim hagnaði, sem í þeirra hlut fellur.  Ef hömlur yrðu settar á þetta, er eins víst, að þessi hagnaður mundi gufa upp.  Það er hið bezta mál, að arður sjávarútvegsins dreifist sem víðast í samfélaginu. 

Nú berast fregnir af því, að sjávarútvegsfyrirtæki fjárfesti í fiskeldi, mest í landeldi.  Það er ofur eðlilegt.  Fiskveiðum við Ísland eru skorður settar á grundvelli fiskveiðiráðgjafar Hafrannsóknarstofnunar, en í fiskeldinu eru engar slíkar skorður, ef úthafseldi er tekið með í reikninginn, en Norðmenn reka nú tröllvaxnar tilraunakvíar úti fyrir fjörðum Noregs.  Markaðurinn er mjög próteinþurfi, svo að eftirspurninni eru engin merkjanleg takmörk sett.  

Með framgöngu Viðreisnar í Reykjavík eftir sveitarstjórnarkosningarnar í maí 2022 má öllum vera ljóst, hvar hjarta hennar slær.  Það slær í brjóstholi kratakvikindisins í pólitíkinni.  Eftir þetta ráðslag í Reykjavíkeru dagar Viðreisnar taldir.  Atkvæði hennar komu frá hægri, en munurinn á stefnu flokksforystunnar og kratakraðaksins er bitamunur, en ekki fjár.  Ef kjósendur greina vart á milli flokka, er hætt við, að annar lognist út af, verði afvelta.  

   


Raforkuyfirvald án innlends eftirlits

Eftir fólskulega innrás rússneska hersins í friðsamt lýðræðisríki, Úkraínu, eru veður válynd. Þing og ríkisstjórn landsins voru vel meðvituð um, hversu berskjaldað landið væri, og biðluðu þess vegna ítrekað um þá vernd, sem þjóðir fá við inngöngu í NATO, en úkraínska þjóðin var skilin ein eftir á köldum klaka, svo að hinn kaldrifjaði forseti Rússlands stóðst ekki mátið, heldur gerði allsherjar árás á Úkraínu 24.02.2022 og reyndi þannig með svívirðilegum aðferðum og voveiflegum blóðsúthellingum að svæla landið undir kúgunarvald rússnesku stjórnarinnar. Þorparastjórn auðklíku í Kreml má ekki verða kápan úr þessu klæðinu nú á 21. öldinni. Árásarríki má ekki takast að virða viðurkennt fullveldi Evrópulands að vettugi og fara yfir nágrannaland með blóði og brandi, eldi og brennisteini.  Þessi hegðun er fullkomlega óásættanleg, og þess vegna Rússar nú óalandi og óferjandi.   

Hagkerfi heimsins mun gjörbreytast til hins verra við þennan geðveikislega gjörning.  Vígbúnaður mun magnast í Evrópu og víðar.  Verðbólga mun magnast og hagur þjóða mun versna, m.a. vegna orkuverðshækkana og matvöruverðshækkana.  Frændur vorir, Norðmenn, munu vegna afltenginga sinna (í eigu Statnett) verða fyrir barðinu á hækkunum raforkuverðs, en olíusjóður þeirra mun fitna ótæpilega af sölu gass og olíu á þessu ári og lengur. Þrýst er á Norðmenn að framleiða nú þessa vöru undir skóslit og beinbrot.

Innrásin í Úkraínu hófst skömmu fyrir birtingu 24.02.2022.  Daginn eftir kostaði hver kWh 24 % meira í Ósló en 5 dögum áður og 7 % meira í Þrándheimi, og hækkunin var þá rétt að hefjast.

Eðlilega er að sama skapi vaxandi óánægja með raforkuverð í Noregi (Norðmenn hita húsnæði sitt yfirleitt með rafmagni), sem er margfalt hærra en Norðmenn hafa átt að venjast og þeir telja, að þeim beri réttur til sem eiganda vatnsorkunnar.  Þeir kenna Orkupakka 3 (OP3) um þessa stöðu.  Morten Harper hjá samtökunum "Nei til EU" ritaði 24.02.2022 fróðlega grein í Klassekampen um þá staðreynd, að "Statnett" lýtur nú stjórn Orkulandsreglarans og ACER-Orkustofu ESB:

"Raforkuyfirvald án eftirlits".

"Forstjóri Statnetts, Gunnar G. Lövås, skrifar í grein um rafmagnsverð og rafmagnskauphöll, að "norsk yfirvöld með RME-deild NVE (orkulandsreglari innan Orkustofnunar Noregs) fari með eftirlitshlutverk með raforkukauphöllinni" (Klassekampen 7. febrúar 2022).  Hvernig getur Lövås haldið því fram, að "norsk yfirvöld" stundi slíkt eftirlit, þegar regluverk EES segir, að RME, orkulandsreglarinn, sé óháður stjórnkerfi ríkisins ?

Fyrrum Raforkumarkaðseftirliti var breytt í RME (Reguleringsmyndighet for energi) áður en Orkupakki 3 var leiddur í lög í Noregi. Þótt RME sé hluti af skrifstofuhaldi NVE, er RME óháð valdeining, sem stjórnar og ákvarðar skilmála fyrir flutnings- og dreififyrirtækin, virkjanafyrirtækin og raforkumarkaðinn.  RME ber að hafa eftirlit með, að reglum orkupakka ESB sé framfylgt, og RME á að framkvæma í Noregi samþykktir frá ESB-orkustofunni ACER, sem koma til Noregs [og Íslands] með milligöngu ESA-Eftirlitsstofnunar EFTA.

Í Raforkumarkaðstilskipun OP3 er slegið föstu í kafla 35, að RME skuli vera algerlega óháð norskum yfirvöldum og taki ekki við fyrirmælum frá þeim.  Þetta er njörvað niður í orkulögunum, gr. 2-3, 2. lið: Orkulandsreglarinn og úrskurðarnefnd deilumála um orkumál eru óháð, og viðkomandi yfirvald getur ekki gefið þeim fyrirmæli um tilhögun mála.

Það er EES-regluverkið, sem stjórnar RME.  Norsk yfirvöld [og íslenzk] hafa með lögleiðingu OP3 afsalað sér möguleikanum til áhrifa eða yfirstjórnunar.  Það er bæði villandi og rangt að lýsa RME sem "norsku" stjórnvaldi.  Til að endurheimta stjórnunar- og eftirlitshlutverk ríkisins þarf að endursemja um orkuregluverkið í EES-samninginum."  

 

 

 


Orkulöggjöf ESB hentar ekki í vatnsorkulöndum

Þegar orkumarkaðir eru hannaðir, er ævinlega tekið mið af aðstæðum á þeim svæðum, þar sem á að beita þeim, enda geta þeir annars orðið neytendum þungir í skauti.  Evrópusambandið (ESB) hefur hannað markað með frjálsri samkeppni. Henni er ætlað að halda verðinu í skefjum til neytenda. Eldsneytismörkuðum er ætlað að sjá til þess, að næg orka sé ævinlega fyrir hendi í kerfinu, og samkeppni, t.d. raforkubirgjanna um viðskiptavinina, á síðan að sjá til þess, að raforkubirgjarnir reisi ný raforkuver til að fullnægja aflþörf markaðarins. 

Þetta fyrirkomulag virkar ekki vel í Evrópu á tímabili orkuskipta, því að ríkisstjórnir hafa truflað markaðinn með niðurgreiðslu á endurnýjanlegri orku, t.d. vind- og sólarorku.  Þegar vindur blæs eða sólin skín, hafa seljendur þessarar orku undirboðið eldsneytisorkuna, og markaðsverðið hefur jafnvel orðið neikvætt, þ.e. notendur hafa fengið borgað fyrir að nota raforku, þegar offramboð er af raforku á markaðinum.  Afkoma eldsneytisveranna hefur fyrir vikið versnað, svo að hvati til nýbygginga orkuvera hefur minnkað, sem skapar hættu á aflskorti.  Í þokkabót hefur orðið að reisa gasorkuver með opinberum fjárhagsstuðningu til að hlaupa í skarðið fyrir slitróttan rekstur vind- og sólarorkuvera. Þegar gasskorts og mikillar hækkunar á jarðgasverði tók að gæta þar árið 2021, var orkumarkaðurinn þegar í ójafnvægi.  

Árið 2022 hefur verð jarðefnaeldsneytis hækkað enn og þróun Evrópumála valdið skorti á jarðgasi.  Þetta  hleypti raforkumörkuðum í uppnám áður en rússneski herinn réðist inn í Úkraínu og opinberaði berlega veikleika markaðanna, enda kikna atvinnulíf og heimili undan margföldun raforkuverðs, svo að hið opinbera hefur orðið að hlaupa undir bagga.  Þar með er grundvöllur þessa kerfis brostinn og markaðurinn orðinn að sorglegum sirkus.  Staðan er virkilega alvarleg, þegar gasbirgjarnir lúta boðvaldi siðblinds  útþensluseggs, sem telur hlutverk sitt vera að "leiðrétta" gang sögunnar og þar með að breyta landæmærum Evrópu.  Fáa renndi grun í, að jafnvirfirrt viðhorf gæti orðið ofan á í nokkru Evrópulandi á 21. öldinni, en þetta er samt endurtekning á atburðarás á 20. öldinni.  Öllu er snúið á haus í Kreml.  Þjóðernissinnaður einvaldur þykist með "sérstakri hernaðaraðgerð" vera að ganga á milli bols og höfuðs á nazistum í nágrannalandi, en framferði hans minnir þó mest á framferði nazistaforingja í ríki, sem mátti lúta í gras rúmum 20 árum áður en hann hleypti öllu í bál og brand í Evrópu. 

Í vatnsorkulandinu Noregi, sem að hluta (sunnan Dovre) er tengt evrópska raforkumarkaðskerfinu með fjölda aflsæstrengja, hefur einnig orðið markaðsbrestur, því að ríkisstjórnin í Ósló ákvað í vetur, að f.o.m. desember 2021 fengju notendur endurgreiðslur úr ríkissjóði á 80 % af heildsöluverði raforku umfram 0,7 NOK/kWh (9,8 ISK/kWh).  Þetta er nokkurn veginn tvöfalt heildsöluverðið hér.  Norðan Dovre er hins vegar nóg í miðlunarlónum, og þar er heildsöluverðið til almenningsveitna aðeins 0,14 NOK/kWh eða 2,0 ISK/kWh. 

Þetta verð sýnir, hversu hagkvæmt vatnsorkukerfi Noregs er fyrir raforkunotendur þar í landi, stóra sem smáa, enda er kerfið hannað m.v. raforkuhitun nánast alls húsnæðis þar í landi.  Þetta gefur til kynna, að 30 mrdISK/ár hagnaður Landsvirkjunar sé reistur á okri á neytendum m.v. meðalkostnaðinn við vinnslu þessarar raforku.  Iðnaðurinn stendur reyndar undir þessum hagnaði Landsvirkjunar að mestu.  

ESB hefur lagt mikla áherzlu á jöfnun raforkuverðs á Innri markaði sínum, og forsenda þess eru öflugar tengingar á milli landa.  Reglugerð 714/2009 í Orkupakka 3 (OP3) myndar lagaumgjörð milliríkjaviðskipta með rafmagn, og hún kemur í veg fyrir, að einstök lönd, t.d. Noregur, láti eiginn hag njóta forgangs, t.d. út frá vatnsstöðu í miðlunarlónum sínum, en raforkumarkaðurinn í Noregi tekur mest mið af stöðu miðlunarlóna.  Áhættugreining gefur til kynna líkur á orkuskorti að vori, hann er verðlagður og endurspeglar raforkuverð í boði daginn eftir í orkukauphöll. Þetta er gjörólíkt verðmyndun raforku í orkukauphöllum ESB og Bretlands.

Téð reglugerð hvetur til þróunar raforkukauphallar, skilgreinir, hvað koma á fram í kerfisáætlunum (raforkuflutningskerfis) hvers ríkis, gefur fyrirmæli um, að hámarksflutningsgetu millilandatenginga eigi að ráðstafa til markaðsaðila innanlands og utan, ákvarðar, hvernig ráðstafa má "flöskuhálstekjum" af millilandatengingum og veitir framkvæmdastjórn ESB víðtækar heimildir til að útfæra regluverkið í smáatriðum.  "Flöskuhálstekjur" í þessu sambandi eru viðbótar tekjur, sem flutningsfyrirtækið nýtur vegna takmarkaðrar flutningsgetu m.v. eftirspurn. 

Viðhengi reglugerðarinnar gefur nákvæmari fyrirmæli um framkvæmdina á téðum sviðum. 

Nokkrar reglugerðir framkvæmdastjórnarinnar voru með heimild í EB 714/2009 teknar inn í EES-samninginn sumarið 2021.  Ein þeirra er reglugerð um úthlutun rýmis í flutningskerfi og meðferð "flöskuhálstekna" (CACM), EB 2015/1222.  Hún opnar fyrir þann möguleika, að ekki aðeins ein, heldur fleiri kauphallir geti starfað á hverju svæði, t.d. í Noregi og á Íslandi.  Þannig verður fyrirkomulagið enn ruglingslegra fyrir notendur en nú. 

Það skal taka fram, að ekki hvílir sú skylda á yfirvöldum að taka upp kauphallarviðskipti með raforku, en í reglugerð EB 714/2009 er eindregið mælt með því.  Nú hafa dökku hliðar þessa fyrirkomulags opinberazt. Með CACM eru aðferðir fyrir úthlutun flutningsrýmis t.d. í aflsæstrengjum, aðferð fyrir skiptingu "flöskuhálstekna" á milli kerfisstjóra í báðum endum samtengingar á milli landa, hér Landsnets, og útfærsla ýmissa markaðsreglna, fest í lög.

Nútíma ríki í Noregi og á Íslandi eru reist á ódýrri raforku (hún var yfirleitt ódýrari um allan Noreg en á Íslandi fyrir Kóf). Nú hafa markaðsöflin torveldað almenningi kaup á þessari innviðaþjónustu, þótt norsk lög slái föstu, að "vatnsorlulindir landsins séu þjóðareign og þær beri að nýta almenningi til hámarksávinnings". 

Raunveruleikinn núna er hins vegar, að meirihluti á Stórþinginu hefur fært orkukauphöll og Innri markaði ESB á orkusviði (Orkusambandi ESB) umsetningu auðlinda þjóðarinnar, og löglega kjörin yfirvöld landsins mega ekki grípa inn í þann markað.  Lagalega gildir sama á Íslandi, en hér hefur þó orkukauphöll ekki verið sett á laggirnar, enda ekki lagaskylda, og enginn aflsæstrengur tengir Ísland við útlönd, enda rak Alþingi varnagla gegn slíku við innleiðingu OP3, sem heldur, þar til EFTA-dómstóllinn dæmir öðruvísi.

Reglugerð 714/2009 með viðhengi og undirliggjandi reglugerðum er nú norsk og íslenzk löggjöf á formi fyrirmæla frá framkvæmdastjórn ESB.  Afleiðingarnar eru nú að taka á sig hrikalega mynd í Noregi fyrir land, fólk og fyrirtæki. Hérlendis þarf að finna leið framjá þeirri ætlun löggjafarinnar, að enginn sé ábyrgur gagnvart því, að aflskortur myndist, heldur skuli markaðurinn njóta nægilegra hvata með hækkuðu orkuverði til að byggja nóg af nýjum raforkuverum.  Þetta hefur ekki virkað á Íslandi með rándýrum og skammarlegum afleiðingum fyrir þjóðina. Þetta er hættulegt vegna hins langa aðdraganda fyrir virkjun að komast í rekstur hérlendis. Þeir, sem enn halda því fram, að ótímabært sé að hefja verulegar virkjunarframkvæmdir hérlendis, horfa framhjá þeirri staðreynd, að tjón viðskiptavina orkufyrirtækjanna er 10-1000 sinnum meira en sölutap óafhentrar og umsaminnar raforku.    

Nú er uppi krafa um það í Noregi, að reglugerð 714/2009 fari út úr EES-samninginum, að norska ríkið taki aftur í sínar hendur stjórn á miðlun úr miðlunarlónum, til að Noregur verði á ný með stöðugt lágt og gegnsætt raforkuverð fyrir forgangsorku til heimila og atvinnurekstrar, ef vatnsbúskapurinn leyfir það.  Þeir, sem berjast fyrir þessu, telja einnig nauðsynlegt að endursemja um aðra samninga, sem skuldbinda Noreg á þann hátt, að samfélagslegir hagsmunir eru í hættu.  Íslendingar ættu ekki að standa gegn Norðmönnum innan EFTA með þessar breytingar, ef ríkisstjórn Noregs fær heimild Stórþingsins til að fara fram með slíkt á vettvangi EFTA. 

Orkulandsreglari ESB, á Íslandi Orkumálastjóri og í Noregi Reguleringsmyndigheten for energi, RME, hefur það hlutverk að framkvæma samkvæmt forskrift laganna (OP3).  Orkulandsreglarinn getur ekki og á ekki að snúa sér að yfirvöldum landsins, heldur að orkustofu ESB, ACER, og að framkvæmdastjórn ESB með milligöngu ESA.  Skyldur og sjálfstæði orkulandsreglara eru niður njörvuð í raforkumarkaðstilskipun EB 72/2009. Íslenzk og norsk yfirvöld geta ekki beitt sér neitt við stjórnun raforkumarkaðarins, nema RME verði aftur venjuleg deild í NVE, háð beinu pólitísku og rekstrarlegu eftirliti ríkisins af hálfu OED. Að taka upp slíkt eftirlit aftur þykir fólki brýnt til að endurheimta stjórn ríkisins á orkumálunum.  Á Íslandi er óþolandi tvískinnungur fólginn í, að Orkumálastjóri er stundum undir ráðherra og stundum undir ACER.   

Norðmenn, sem losna vilja undan forræði ESB/ACER á milliríkjaviðskiptum með rafmagn telja, að í nauðvörn verði að gera reglugerðina um milliríkjaviðskipti og aðra hluta OP3, sem um málið fjalla, óvirka, með vísun til verndarákvæðis EES-samningsins, kafla 112.  Þetta sé þó bara bráðabirgða lausn. 

Rafmagn á ekki að ganga kaupum og sölum á frjálsum markaði.  Noregur og Ísland búa að fáum náttúruauðlindum, nema orkulindunum og auðlindum hafsins.  Þær á að nýta og bjóða afurðir þeirra, rafmagn og heitt vatn, íbúum landsins á hagstæðu verði, sem jafngildir kostnaði við fjárfestingu og rekstur að viðbættri ávöxtun fjárfestinganna í sammræmi við aðrar fjárfestingar í landinu með sambærilegri áhættu. Að löggjafinn skuli hafa samþykkt á okkur bann við slíkri þjóðhagslegri nýtingu orkulindanna er fáránlegt og hefur örlagsríkar afleiðingar, eins og nú er komið á daginn í Noregi. 

Ef talið er nauðsynlegt að starfrækja uppboðsmarkað fyrir rafmagn, ætti hann ekki að spanna forgangsorku, heldur afgangsorku.   

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband