Færsluflokkur: Evrópumál

Samþjöppun ?

Þegar talað er um samþjöppun í atvinnugrein, er vanalega átt við fækkun sjálfstæðra fyrirtækja/eigenda, sem leitt geti af sér skort á frjálsri samkeppni, staða, sem stundum er nefnd fákeppni. Nýlega dæmdi EFTA-dómstóllinn þá niðurstöðu ESA-Eftirlitsstofnunar EFTA, að hlutafjáraukning ríkisins í Farice, sem einokar þráðbundið fjarskiptasamband Íslands við umheiminn, stríddi ekki gegn reglum Innri markaðar EES (Evrópska efnahagssvæðisins) um ríkisafskipti og fákeppni, úr gildi.  Það hefur engin ábending komið frá ESA, hvað þá dómsúrskurður frá EFTA-dómstólinum, um viðsjárverða þróun innan íslenzka sjávarútvegsins í átt til fákeppni. Engu að síður staglast fyrrverandi misheppnaður sjávarútvegsráðherra og núverandi vonlaus formaður s.k. Viðreisnar, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, á því í tíma og ótíma, að binda verði endi á "samþjöppun" í sjávarútvegi. 

Hugtakið samþjöppun í atvinnugrein kallar á viðmiðun, og viðmiðunin er yfirleitt fortíðin, en fortíð sjávarútvegsins er ekki fögur, svo að afturhvarf til fortíðar er ókræsileg tilhugsun og kemur einfaldlega ekki til greina, ef sjávarútvegurinn á áfram að verða hryggjarstykkið í hagkerfinu, eins og hann hefur verið, frá því að fyrirtækjum og skipum tók að fækka umtalsvert, svo að þau, sem störfuðu eftir "samþjöppun" tóku að skila hagnaði og þeim, sem hættu fé sínu í þessa starfsemi, arði, eins og er talið eðlilegt á meðal fyrirtækja hvarvetna á Evrópska efnahagssvæðinu, EES.  Rekstur með hagnaði er þó ekki raunin innan sjávarútvegs EES, nema á Íslandi, og má útskýra þá sérstöku stöðu alfarið með aflahlutdeildarkerfinu og frjálsu framsali aflahlutdeilda hérlendis.   

Það er líka hægt að útskýra, hvers vegna ESA hefur ekki sent íslenzkum yfirvöldum kvörtun yfir "samþjöppun" í íslenzkum sjávarútvegi.  Skýringin er sú, að hún er minnst á Íslandi innan EES, og t.d. er kvótaþakið u.þ.b. tvöfalt hærra í Noregi, sem einnig býr við gjöful fiskimið á landgrunni sínu.  Hér hafa heimóttarlegir íslenzkir stjórnmálamenn sem sagt búið til vandamál úr engu. Það er vel af sér vikið og þeim líkt. Það slagar upp í þónokkurt afrek óhæfninnar.  Líklega hefur varaformaður Viðreisnar enn ekki meðtekið "uppgötvun" formannsins, því að hún vantreysti honum, prófessor í auðlindanýtingu, til að taka sæti á vegum flokksins í umfangsmiklu nefndafargani, sem matvælaráðherra í vingulshætti sínum hefur slysazt til að setja á laggirnar til að skilgreina fyrir sig vandamálið ósýnilega, "samþjöppun í sjávarútvegi".  Fíflagangurinn og sóun ríkisins ríða ekki við einteyming.  

Morgunblaðið gerði þessu máli góð skil í forystugrein 1. júní 2022 undir fyrirsögninni:

"Meinsemd sjávarútvegsins".

Hún hófst þannig:

"Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, hefur sjávarútvegsmál á sinni könnu, og í fyrradag [30.05.2022] lét hún þá skoðun í ljós í svari við fyrirspurn á Alþingi, að samþjöppun í sjávarútvegi væri "meinsemd" eða öllu heldur sú staðreynd, að hún vissi ekki, hve mikil samþjöppunin væri.  Þetta er sérkennileg yfirlýsing; ekki þó sízt, að ráðherrann gerði hana að ástæðu þess, að hún hygðist skipa fjölmenna samráðsnefnd og 4 sérfræðihópa til þess að grafast fyrir um þetta og önnur málefni sjávarútvegsins.  Binda verður vonir við, að þeim fjölda takist að uppræta meinsemdina í huga ráðherrans, en nefndirnar voru kynntar í gær."

Það er "futile" verkefni og verður unnið fyrir gýg að reyna að fækka meinlokunum í huga þessa ráðherra, sem er sameignarsinni og vill þess vegna færa öflugustu atvinnutæki landsins í hendur ríkisins í anda kenningasmiða misheppnuðustu hugmyndafræði seinni tíma í mannkynssögunni, sameignarstefnunnar, sem sósíalismi og jafnaðarstefna (kratismi) eru sprottin af.

  Reynslan sýnir, að ríkisvaldið ræður ekki við að reka nokkra atvinnustarfsemi skammlaust.  Ráðherrann fylgir hugmyndafræði, hverrar æðsta mark er gríðarleg samþjöppun atvinnulífs undir einum eiganda, ríkinu.  Þess vegna grætur ráðherrann krókódílstárum yfir samþjöppun yfirleitt í atvinnulífinu.  Það sætir furðu, að þessi endemis yfirmaður matvælamála landsins skuli ekki hafa neitt þarfara að gera, þegar ofboðslegar erlendar verðhækkanir á aðföngum íslenzks landbúnaðar eru u.þ.b. að ríða honum á skjön.  Hefur sjávarútvegurinn þurft að leita á náðir ríkisvaldsins við þessar aðstæður ?  Nei, en þá grípur afskiptasamur og illviljaður ráðherra gagnvart einkaframtaki til þess óyndisúrræðis að búa til vandamál.  Svona eiga ráðherrar ekki að beita sér. 

"Nú er það raunar svo, að samþjöppun í sjávarútvegi á Íslandi er alls ekki mikil.  Jú, það er auðvelt að benda á örfá stórfyrirtæki í þeim geira, en þau segja fremur sögu um það, hvernig kvótakerfið hefur komið á hagkvæmni í greininni, gert sjávarútveginn arðsaman og líkan öðrum greinum, þar sem rúm er fyrir stór og vel rekin fyrirtæki.  Stórfyrirtækin eru hins vegar undantekning, því [að] það er einmitt einkenni á sjávarútvegi, hvað þar þrífast mörg fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum umhverfis landið.  Það er erfitt að benda á aðrar atvinnugreinar, þar sem samþjöppun er minni, hvort sem litið er til smásölu, fjármálageira, iðnaðar eða einhvers annars."

Samþjöppunartal hælbíta sjávarútvegsins er fremur reist á draumórakenndri fortíðarþrá en umhyggju fyrir viðskiptavinum sjávarútvegsins.  Að 95 % í tonnum talið er markaðssetningin á erlendri grundu, og flestir þar kjósa að eiga viðskipti við trausta fiskbirgja með sveigjanlegt afhendingarmagn á viku eftir þörfum markaðarins. Það er alveg öruggt, að fyrir íslenzka þjóðarbúið er æskilegt, að íslenzkir birgjar á erlendum fiskmörkuðum séu stórir og öflugir á íslenzkan mælikvarða, því að þannig verða þeir aldrei á erlenda mælikvarða.

Hagkvæmni stærðarinnar gerir sjávarútvegsfyrirtækjum kleift að fjárfesta í afkastamiklum veiðitækjum og fiskvinnslum með mikilli sjálfvirkni og þar með samkeppnishæfri framleiðni.  Ef enn þrengri stærðarmörk yrðu sett af stjórnvöldum á íslenzk sjávarútvegsfyrirtæki, mun verðmætasköpun þeirra einfaldlega dvína. Þannig væri hælbítum sjávarútvegsins á Alþingi hollt að fara í áhættugreiningu á því, hverjar afleiðingar eru af stöðugu nöldri þeirra og nagi í garð sjávarútvegsins, og hverjar þær yrðu af því að þrengja að hag fyrirtækjanna með strangari stærðarmörkum og/eða hærri skattheimtu. 

"En það er þessi kvörtun um, að sjávarútvegurinn fjárfesti í öðrum greinum, sem kemur upp um Þorgerði Katrínu og Viðreisn.  Það er einmitt lóðið í kapítalismanum [við auðhyggjuna - innsk. BJo], að þar er skapaður arður og auður, sem nota má í fleira en uppsprettu hans.  Að þar verði til afgangur, sem megi nota í eitthvað nýtt og betra, að menn geti stuðlað að nýsköpun í atvinnulífi án þess að skipta um starfsvettvang.  Að auðsköpun í einni grein nýtist í öðrum, landi og þjóð til heilla.  Flokkur, sem skilur það ekki, skilur ekki neitt og er ekki hægri flokkur í neinum skilningi.

Þess vegna er Viðreisn sjálfsagt hollast að fara að uppástungu í forystugrein flokksmálgagnsins í liðinni viku og sameinast systurflokknum Samfylkingu."

  Þetta er vel að orði komizt.  Hvers konar ráðsmennska er það eiginlega vítt og breitt í samfélaginu, að útgerðarmenn eða fiskvinnslumenn megi ekki græða eða þurfi að ganga fyrir Pontíus og Pílatus til að fá leyfi til að fjárfesta annars staðar en í sjávarútvegi ?  Þeir, sem hagnast, hafa fullt frelsi til að ráðstafa þeim hagnaði, sem í þeirra hlut fellur.  Ef hömlur yrðu settar á þetta, er eins víst, að þessi hagnaður mundi gufa upp.  Það er hið bezta mál, að arður sjávarútvegsins dreifist sem víðast í samfélaginu. 

Nú berast fregnir af því, að sjávarútvegsfyrirtæki fjárfesti í fiskeldi, mest í landeldi.  Það er ofur eðlilegt.  Fiskveiðum við Ísland eru skorður settar á grundvelli fiskveiðiráðgjafar Hafrannsóknarstofnunar, en í fiskeldinu eru engar slíkar skorður, ef úthafseldi er tekið með í reikninginn, en Norðmenn reka nú tröllvaxnar tilraunakvíar úti fyrir fjörðum Noregs.  Markaðurinn er mjög próteinþurfi, svo að eftirspurninni eru engin merkjanleg takmörk sett.  

Með framgöngu Viðreisnar í Reykjavík eftir sveitarstjórnarkosningarnar í maí 2022 má öllum vera ljóst, hvar hjarta hennar slær.  Það slær í brjóstholi kratakvikindisins í pólitíkinni.  Eftir þetta ráðslag í Reykjavíkeru dagar Viðreisnar taldir.  Atkvæði hennar komu frá hægri, en munurinn á stefnu flokksforystunnar og kratakraðaksins er bitamunur, en ekki fjár.  Ef kjósendur greina vart á milli flokka, er hætt við, að annar lognist út af, verði afvelta.  

   


Raforkuyfirvald án innlends eftirlits

Eftir fólskulega innrás rússneska hersins í friðsamt lýðræðisríki, Úkraínu, eru veður válynd. Þing og ríkisstjórn landsins voru vel meðvituð um, hversu berskjaldað landið væri, og biðluðu þess vegna ítrekað um þá vernd, sem þjóðir fá við inngöngu í NATO, en úkraínska þjóðin var skilin ein eftir á köldum klaka, svo að hinn kaldrifjaði forseti Rússlands stóðst ekki mátið, heldur gerði allsherjar árás á Úkraínu 24.02.2022 og reyndi þannig með svívirðilegum aðferðum og voveiflegum blóðsúthellingum að svæla landið undir kúgunarvald rússnesku stjórnarinnar. Þorparastjórn auðklíku í Kreml má ekki verða kápan úr þessu klæðinu nú á 21. öldinni. Árásarríki má ekki takast að virða viðurkennt fullveldi Evrópulands að vettugi og fara yfir nágrannaland með blóði og brandi, eldi og brennisteini.  Þessi hegðun er fullkomlega óásættanleg, og þess vegna Rússar nú óalandi og óferjandi.   

Hagkerfi heimsins mun gjörbreytast til hins verra við þennan geðveikislega gjörning.  Vígbúnaður mun magnast í Evrópu og víðar.  Verðbólga mun magnast og hagur þjóða mun versna, m.a. vegna orkuverðshækkana og matvöruverðshækkana.  Frændur vorir, Norðmenn, munu vegna afltenginga sinna (í eigu Statnett) verða fyrir barðinu á hækkunum raforkuverðs, en olíusjóður þeirra mun fitna ótæpilega af sölu gass og olíu á þessu ári og lengur. Þrýst er á Norðmenn að framleiða nú þessa vöru undir skóslit og beinbrot.

Innrásin í Úkraínu hófst skömmu fyrir birtingu 24.02.2022.  Daginn eftir kostaði hver kWh 24 % meira í Ósló en 5 dögum áður og 7 % meira í Þrándheimi, og hækkunin var þá rétt að hefjast.

Eðlilega er að sama skapi vaxandi óánægja með raforkuverð í Noregi (Norðmenn hita húsnæði sitt yfirleitt með rafmagni), sem er margfalt hærra en Norðmenn hafa átt að venjast og þeir telja, að þeim beri réttur til sem eiganda vatnsorkunnar.  Þeir kenna Orkupakka 3 (OP3) um þessa stöðu.  Morten Harper hjá samtökunum "Nei til EU" ritaði 24.02.2022 fróðlega grein í Klassekampen um þá staðreynd, að "Statnett" lýtur nú stjórn Orkulandsreglarans og ACER-Orkustofu ESB:

"Raforkuyfirvald án eftirlits".

"Forstjóri Statnetts, Gunnar G. Lövås, skrifar í grein um rafmagnsverð og rafmagnskauphöll, að "norsk yfirvöld með RME-deild NVE (orkulandsreglari innan Orkustofnunar Noregs) fari með eftirlitshlutverk með raforkukauphöllinni" (Klassekampen 7. febrúar 2022).  Hvernig getur Lövås haldið því fram, að "norsk yfirvöld" stundi slíkt eftirlit, þegar regluverk EES segir, að RME, orkulandsreglarinn, sé óháður stjórnkerfi ríkisins ?

Fyrrum Raforkumarkaðseftirliti var breytt í RME (Reguleringsmyndighet for energi) áður en Orkupakki 3 var leiddur í lög í Noregi. Þótt RME sé hluti af skrifstofuhaldi NVE, er RME óháð valdeining, sem stjórnar og ákvarðar skilmála fyrir flutnings- og dreififyrirtækin, virkjanafyrirtækin og raforkumarkaðinn.  RME ber að hafa eftirlit með, að reglum orkupakka ESB sé framfylgt, og RME á að framkvæma í Noregi samþykktir frá ESB-orkustofunni ACER, sem koma til Noregs [og Íslands] með milligöngu ESA-Eftirlitsstofnunar EFTA.

Í Raforkumarkaðstilskipun OP3 er slegið föstu í kafla 35, að RME skuli vera algerlega óháð norskum yfirvöldum og taki ekki við fyrirmælum frá þeim.  Þetta er njörvað niður í orkulögunum, gr. 2-3, 2. lið: Orkulandsreglarinn og úrskurðarnefnd deilumála um orkumál eru óháð, og viðkomandi yfirvald getur ekki gefið þeim fyrirmæli um tilhögun mála.

Það er EES-regluverkið, sem stjórnar RME.  Norsk yfirvöld [og íslenzk] hafa með lögleiðingu OP3 afsalað sér möguleikanum til áhrifa eða yfirstjórnunar.  Það er bæði villandi og rangt að lýsa RME sem "norsku" stjórnvaldi.  Til að endurheimta stjórnunar- og eftirlitshlutverk ríkisins þarf að endursemja um orkuregluverkið í EES-samninginum."  

 

 

 


Orkulöggjöf ESB hentar ekki í vatnsorkulöndum

Þegar orkumarkaðir eru hannaðir, er ævinlega tekið mið af aðstæðum á þeim svæðum, þar sem á að beita þeim, enda geta þeir annars orðið neytendum þungir í skauti.  Evrópusambandið (ESB) hefur hannað markað með frjálsri samkeppni. Henni er ætlað að halda verðinu í skefjum til neytenda. Eldsneytismörkuðum er ætlað að sjá til þess, að næg orka sé ævinlega fyrir hendi í kerfinu, og samkeppni, t.d. raforkubirgjanna um viðskiptavinina, á síðan að sjá til þess, að raforkubirgjarnir reisi ný raforkuver til að fullnægja aflþörf markaðarins. 

Þetta fyrirkomulag virkar ekki vel í Evrópu á tímabili orkuskipta, því að ríkisstjórnir hafa truflað markaðinn með niðurgreiðslu á endurnýjanlegri orku, t.d. vind- og sólarorku.  Þegar vindur blæs eða sólin skín, hafa seljendur þessarar orku undirboðið eldsneytisorkuna, og markaðsverðið hefur jafnvel orðið neikvætt, þ.e. notendur hafa fengið borgað fyrir að nota raforku, þegar offramboð er af raforku á markaðinum.  Afkoma eldsneytisveranna hefur fyrir vikið versnað, svo að hvati til nýbygginga orkuvera hefur minnkað, sem skapar hættu á aflskorti.  Í þokkabót hefur orðið að reisa gasorkuver með opinberum fjárhagsstuðningu til að hlaupa í skarðið fyrir slitróttan rekstur vind- og sólarorkuvera. Þegar gasskorts og mikillar hækkunar á jarðgasverði tók að gæta þar árið 2021, var orkumarkaðurinn þegar í ójafnvægi.  

Árið 2022 hefur verð jarðefnaeldsneytis hækkað enn og þróun Evrópumála valdið skorti á jarðgasi.  Þetta  hleypti raforkumörkuðum í uppnám áður en rússneski herinn réðist inn í Úkraínu og opinberaði berlega veikleika markaðanna, enda kikna atvinnulíf og heimili undan margföldun raforkuverðs, svo að hið opinbera hefur orðið að hlaupa undir bagga.  Þar með er grundvöllur þessa kerfis brostinn og markaðurinn orðinn að sorglegum sirkus.  Staðan er virkilega alvarleg, þegar gasbirgjarnir lúta boðvaldi siðblinds  útþensluseggs, sem telur hlutverk sitt vera að "leiðrétta" gang sögunnar og þar með að breyta landæmærum Evrópu.  Fáa renndi grun í, að jafnvirfirrt viðhorf gæti orðið ofan á í nokkru Evrópulandi á 21. öldinni, en þetta er samt endurtekning á atburðarás á 20. öldinni.  Öllu er snúið á haus í Kreml.  Þjóðernissinnaður einvaldur þykist með "sérstakri hernaðaraðgerð" vera að ganga á milli bols og höfuðs á nazistum í nágrannalandi, en framferði hans minnir þó mest á framferði nazistaforingja í ríki, sem mátti lúta í gras rúmum 20 árum áður en hann hleypti öllu í bál og brand í Evrópu. 

Í vatnsorkulandinu Noregi, sem að hluta (sunnan Dovre) er tengt evrópska raforkumarkaðskerfinu með fjölda aflsæstrengja, hefur einnig orðið markaðsbrestur, því að ríkisstjórnin í Ósló ákvað í vetur, að f.o.m. desember 2021 fengju notendur endurgreiðslur úr ríkissjóði á 80 % af heildsöluverði raforku umfram 0,7 NOK/kWh (9,8 ISK/kWh).  Þetta er nokkurn veginn tvöfalt heildsöluverðið hér.  Norðan Dovre er hins vegar nóg í miðlunarlónum, og þar er heildsöluverðið til almenningsveitna aðeins 0,14 NOK/kWh eða 2,0 ISK/kWh. 

Þetta verð sýnir, hversu hagkvæmt vatnsorkukerfi Noregs er fyrir raforkunotendur þar í landi, stóra sem smáa, enda er kerfið hannað m.v. raforkuhitun nánast alls húsnæðis þar í landi.  Þetta gefur til kynna, að 30 mrdISK/ár hagnaður Landsvirkjunar sé reistur á okri á neytendum m.v. meðalkostnaðinn við vinnslu þessarar raforku.  Iðnaðurinn stendur reyndar undir þessum hagnaði Landsvirkjunar að mestu.  

ESB hefur lagt mikla áherzlu á jöfnun raforkuverðs á Innri markaði sínum, og forsenda þess eru öflugar tengingar á milli landa.  Reglugerð 714/2009 í Orkupakka 3 (OP3) myndar lagaumgjörð milliríkjaviðskipta með rafmagn, og hún kemur í veg fyrir, að einstök lönd, t.d. Noregur, láti eiginn hag njóta forgangs, t.d. út frá vatnsstöðu í miðlunarlónum sínum, en raforkumarkaðurinn í Noregi tekur mest mið af stöðu miðlunarlóna.  Áhættugreining gefur til kynna líkur á orkuskorti að vori, hann er verðlagður og endurspeglar raforkuverð í boði daginn eftir í orkukauphöll. Þetta er gjörólíkt verðmyndun raforku í orkukauphöllum ESB og Bretlands.

Téð reglugerð hvetur til þróunar raforkukauphallar, skilgreinir, hvað koma á fram í kerfisáætlunum (raforkuflutningskerfis) hvers ríkis, gefur fyrirmæli um, að hámarksflutningsgetu millilandatenginga eigi að ráðstafa til markaðsaðila innanlands og utan, ákvarðar, hvernig ráðstafa má "flöskuhálstekjum" af millilandatengingum og veitir framkvæmdastjórn ESB víðtækar heimildir til að útfæra regluverkið í smáatriðum.  "Flöskuhálstekjur" í þessu sambandi eru viðbótar tekjur, sem flutningsfyrirtækið nýtur vegna takmarkaðrar flutningsgetu m.v. eftirspurn. 

Viðhengi reglugerðarinnar gefur nákvæmari fyrirmæli um framkvæmdina á téðum sviðum. 

Nokkrar reglugerðir framkvæmdastjórnarinnar voru með heimild í EB 714/2009 teknar inn í EES-samninginn sumarið 2021.  Ein þeirra er reglugerð um úthlutun rýmis í flutningskerfi og meðferð "flöskuhálstekna" (CACM), EB 2015/1222.  Hún opnar fyrir þann möguleika, að ekki aðeins ein, heldur fleiri kauphallir geti starfað á hverju svæði, t.d. í Noregi og á Íslandi.  Þannig verður fyrirkomulagið enn ruglingslegra fyrir notendur en nú. 

Það skal taka fram, að ekki hvílir sú skylda á yfirvöldum að taka upp kauphallarviðskipti með raforku, en í reglugerð EB 714/2009 er eindregið mælt með því.  Nú hafa dökku hliðar þessa fyrirkomulags opinberazt. Með CACM eru aðferðir fyrir úthlutun flutningsrýmis t.d. í aflsæstrengjum, aðferð fyrir skiptingu "flöskuhálstekna" á milli kerfisstjóra í báðum endum samtengingar á milli landa, hér Landsnets, og útfærsla ýmissa markaðsreglna, fest í lög.

Nútíma ríki í Noregi og á Íslandi eru reist á ódýrri raforku (hún var yfirleitt ódýrari um allan Noreg en á Íslandi fyrir Kóf). Nú hafa markaðsöflin torveldað almenningi kaup á þessari innviðaþjónustu, þótt norsk lög slái föstu, að "vatnsorlulindir landsins séu þjóðareign og þær beri að nýta almenningi til hámarksávinnings". 

Raunveruleikinn núna er hins vegar, að meirihluti á Stórþinginu hefur fært orkukauphöll og Innri markaði ESB á orkusviði (Orkusambandi ESB) umsetningu auðlinda þjóðarinnar, og löglega kjörin yfirvöld landsins mega ekki grípa inn í þann markað.  Lagalega gildir sama á Íslandi, en hér hefur þó orkukauphöll ekki verið sett á laggirnar, enda ekki lagaskylda, og enginn aflsæstrengur tengir Ísland við útlönd, enda rak Alþingi varnagla gegn slíku við innleiðingu OP3, sem heldur, þar til EFTA-dómstóllinn dæmir öðruvísi.

Reglugerð 714/2009 með viðhengi og undirliggjandi reglugerðum er nú norsk og íslenzk löggjöf á formi fyrirmæla frá framkvæmdastjórn ESB.  Afleiðingarnar eru nú að taka á sig hrikalega mynd í Noregi fyrir land, fólk og fyrirtæki. Hérlendis þarf að finna leið framjá þeirri ætlun löggjafarinnar, að enginn sé ábyrgur gagnvart því, að aflskortur myndist, heldur skuli markaðurinn njóta nægilegra hvata með hækkuðu orkuverði til að byggja nóg af nýjum raforkuverum.  Þetta hefur ekki virkað á Íslandi með rándýrum og skammarlegum afleiðingum fyrir þjóðina. Þetta er hættulegt vegna hins langa aðdraganda fyrir virkjun að komast í rekstur hérlendis. Þeir, sem enn halda því fram, að ótímabært sé að hefja verulegar virkjunarframkvæmdir hérlendis, horfa framhjá þeirri staðreynd, að tjón viðskiptavina orkufyrirtækjanna er 10-1000 sinnum meira en sölutap óafhentrar og umsaminnar raforku.    

Nú er uppi krafa um það í Noregi, að reglugerð 714/2009 fari út úr EES-samninginum, að norska ríkið taki aftur í sínar hendur stjórn á miðlun úr miðlunarlónum, til að Noregur verði á ný með stöðugt lágt og gegnsætt raforkuverð fyrir forgangsorku til heimila og atvinnurekstrar, ef vatnsbúskapurinn leyfir það.  Þeir, sem berjast fyrir þessu, telja einnig nauðsynlegt að endursemja um aðra samninga, sem skuldbinda Noreg á þann hátt, að samfélagslegir hagsmunir eru í hættu.  Íslendingar ættu ekki að standa gegn Norðmönnum innan EFTA með þessar breytingar, ef ríkisstjórn Noregs fær heimild Stórþingsins til að fara fram með slíkt á vettvangi EFTA. 

Orkulandsreglari ESB, á Íslandi Orkumálastjóri og í Noregi Reguleringsmyndigheten for energi, RME, hefur það hlutverk að framkvæma samkvæmt forskrift laganna (OP3).  Orkulandsreglarinn getur ekki og á ekki að snúa sér að yfirvöldum landsins, heldur að orkustofu ESB, ACER, og að framkvæmdastjórn ESB með milligöngu ESA.  Skyldur og sjálfstæði orkulandsreglara eru niður njörvuð í raforkumarkaðstilskipun EB 72/2009. Íslenzk og norsk yfirvöld geta ekki beitt sér neitt við stjórnun raforkumarkaðarins, nema RME verði aftur venjuleg deild í NVE, háð beinu pólitísku og rekstrarlegu eftirliti ríkisins af hálfu OED. Að taka upp slíkt eftirlit aftur þykir fólki brýnt til að endurheimta stjórn ríkisins á orkumálunum.  Á Íslandi er óþolandi tvískinnungur fólginn í, að Orkumálastjóri er stundum undir ráðherra og stundum undir ACER.   

Norðmenn, sem losna vilja undan forræði ESB/ACER á milliríkjaviðskiptum með rafmagn telja, að í nauðvörn verði að gera reglugerðina um milliríkjaviðskipti og aðra hluta OP3, sem um málið fjalla, óvirka, með vísun til verndarákvæðis EES-samningsins, kafla 112.  Þetta sé þó bara bráðabirgða lausn. 

Rafmagn á ekki að ganga kaupum og sölum á frjálsum markaði.  Noregur og Ísland búa að fáum náttúruauðlindum, nema orkulindunum og auðlindum hafsins.  Þær á að nýta og bjóða afurðir þeirra, rafmagn og heitt vatn, íbúum landsins á hagstæðu verði, sem jafngildir kostnaði við fjárfestingu og rekstur að viðbættri ávöxtun fjárfestinganna í sammræmi við aðrar fjárfestingar í landinu með sambærilegri áhættu. Að löggjafinn skuli hafa samþykkt á okkur bann við slíkri þjóðhagslegri nýtingu orkulindanna er fáránlegt og hefur örlagsríkar afleiðingar, eins og nú er komið á daginn í Noregi. 

Ef talið er nauðsynlegt að starfrækja uppboðsmarkað fyrir rafmagn, ætti hann ekki að spanna forgangsorku, heldur afgangsorku.   

 


Innflutt orkulöggjöf hefur steytt á skeri í Noregi

Þriðjudagurinn 15. febrúar 2022 var mótmæladagur um þveran og endilangan Noreg.  Þann dag voru haldnar blysfarir á a.m.k. 20 stöðum í Noregi til að mótmæla háu raforkuverði.  Mótmælendur tengja þetta háa orkuverð beint við útflutning raforku um aflsæstrengi, sem lækkað hafa yfirborð miðlunarlóna á Vesturlandinu og Suðurlandinu, þ.e. sunnan Dofrafjalla, með þeim afleiðingum, að heildsöluverð á Nord Pool-raforkumarkaðinum er 8-10 sinnum hærra sunnan við Dofrafjöll en norðan þeirra. 

Þetta er óyggjandi merki um áhrif millilandatenginganna á raforkuverðið, því að allir aflsæstrengirnir koma á land á Suðurlandinu eða Vesturlandinu og flutningsgetan yfir Dofrafjöll er svo takmörkuð, að hún dugar ekki til að hafa marktæk áhrif á raforkuverðið norðan við þau.

Allir aflsæstrengirnir eru í eigu og reknir af Statnett, sem er sambærilegt fyrirtæki Landsneti á Íslandi, en frá því að Þriðji orkupakkinn, OP3, tók gildi í EFTA-hluta EES eftir innleiðingu Alþingis á þessari löggjöf með fyrirvörum þó haustið 2019, hefur Statnett stjórnað orkuflæðinu um þá samkvæmt reglum OP3 og forskrift frá ACER - Orkustofu ESB, þar sem orkulandsreglarar Noregs, Íslands og Liechtenstein sitja sem áheyrnarfulltrúar með málfrelsi, en án atkvæðisréttar.

Þetta veldur því, að norskum stjórnvöldum er óheimilt að skipta sér af þessum orkuviðskiptum, þótt þau kunni að telja, að afhendingaröryggi raforku til Norðmanna sjálfra, eigenda orkulindanna, sé stefnt í voða.  Þau mega heldur ekki hlutast til um að draga úr nettóútflutningi raforku, þótt verðhækkanir raforku til almennings, sem kyndir húsnæði sitt með rafmagni, ógni afkomu almennings. Það hefur þó enn þá verið látið óátalið af ESA-Eftirlitsstofnun EFTA, að ríkisstjórnin niðurgreiði raforkuverð til almennings.  Hún hefur nú samþykkt að borga 80 % af þeim hluta heildsöluverðsins, sem er yfir 0,7 NOK/kWh (9,8 ISK/kWh). 

Þann 15.02.2022, á degi mótmæla Norðmanna gegn háu raforkuverði, var heildsöluverðið í Ósló 1,14 NOK/kWh eða 16,0 ISK/kWh, sem er meira en þrefalt heildsöluverðið hér til almenningsveitna.  Þá nam heildarraforkuverðið án niðurgreiðslu til almennra notenda í Ósló 2,0 NOK/kWh eða 28 ISK/kWh, sem er tæplega 50 % hærra en hér á höfuðborgarsvæðinu.  Með niðurgreiðslunum verður heildarverð til notenda hins vegar mjög svipað og á höfuðborgarsvæðinu, en þess ber að geta, að vegna húshitunar eru rafmagnskaup Ola Nordmanns 5-falt meiri en Óla Íslendings.

Allt annað er uppi á teninginum, þegar litið er til Þrándheims.  Þar er heildsöluverð raforku aðeins 0,14 NOK/kWh eða 2,0 ISK/kWh og heildarverðið er þar 0,8 ISK/kWh eða 11,2 ISK/kWh, eða tæplega 60 % af heildarverðinu í Ósló og Reykjavík.  Hlutfall heildsöluverðsins í Ósló og Þrándheimi var 8,1 þennan tiltekna dag og skýrist að mestu leyti af raforkuviðskiptunum við útlönd.  Íbúar norðan Dovre óttast yfirvofandi raforkuverðshækkun hjá sér, af því að styrking raforkutengingar á milli norðurs og suðurs stendur yfir. 

Í norskri löggjöf er kveðið á um, að "vatnsorkulindir landsins [séu] þjóðareign og þær [beri] að nýta í almanna þágu". Raunveruleikinn hins vegar er sá, að Stórþingsmeirihluti hefur fært umsetningu þessara auðlinda til kauphalla og samtengds ESB-markaðar, sem eru fullkomlega laus undan stjórnmálalegu innlendu valdi samkvæmt innfluttri löggjöf, sem Stórþingið samþykkti í marz 2018 og Alþingi með afbrigði haustið 2019 að fengnum hvatningum að utan, þar sem norskir almannahagsmunir voru sagðir í húfi. 

F.o.m. desember 2021 hafa veður hins vegar skipazt svo í lofti, að til að verja almenning er talin þörf á að verja fúlgum fjár úr ríkissjóði, sem styrktur er af olíusjóði Norðmanna, til niðurgreiðslna (meðalniðurgreiðsla í desember 2021 nam 21,8 Naur/kWh = 3,1 ISK/kWh). 

Reglugerðin um raforkuviðskipti á milli landa (EB 714/2009) með viðhengjum og undirstöðu reglugerðum er nú norsk og íslenzk löggjöf og þ.a.l. fyrirmæli um framkvæmd þessara viðskipta.  Afleiðingarnar valda nú stórtjóni í Noregi, þar sem heimilum og fyrirtækjum blæðir. 

Á Íslandi er í gangi fáránleika leikhús um raforkuna, þar sem látið hefur verið reka á reiðanum í 5 ár varðandi öflun nægilegrar raforku til að svara eftirspurn með þeim afleiðingum, að landsmenn munu þurfa að búa við annars óþarfa stórfellda olíubrennslu, nýir viðskiptavinir hafa farið bónleiðir til búðar, orkuskiptin eru í uppnámi, og raforkuverðið hefur hækkað, algerlega að óþörfu, á sama tíma og ríkisfyrirtækið Landsvirkjun ætlar að greiða mrdISK 15 í arð fyrir árið 2021. 

Orkulandsreglari ESB (Orkumálastjóri á Íslandi, í Noregi RME=Reguleringsmyndighet for energi) hefur það hlutverk að framfylgja þessari löggjöf.  Hann má ekki bera hagsmuni síns lands fyrir brjósti umfram hinna EES-landanna m.t.t. afhendingaröryggis raforku eða annarra þátta.  Þess vegna lækkar ískyggilega í lónum sunnan Dovre-fjalla, og 8-10 földun raforkuverðs þar m.v. Þrændalög og þar fyrir norðan endurspeglar þessa ábyrgðarlausu stöðu, og orkulandsreglari hérlendis  hefur enga heimild til að skipa orkufyrirtækjum að virkja.  Orkulandsreglari (RME) getur ekki og á ekki að hafa neitt boðvald yfir eða lúta boðvaldi innlendra yfirvalda. Innlend yfirvöld geta ekki haft nokkra raunverulega stjórn á raforkumarkaðinum, nema orkulandsreglari (RME) verði deild í Orkustofnun (NVE), og Orkumálastjóri verði alfarið settur undir pólitíska stjórn ríkisstjórnar (Orkumálaráðherra, í Noregi Olje- og Energidepartementet).

Þessa reglugerð, EB 714/2009, þarf að taka út úr lagasafninu og EES-samninginum.  ESA-getur hvenær sem hentar gert athugasemd við innleiðingu OP3 á Íslandi, þar sem samþykki Alþingis var áskilið fyrir heimild til tengingar aflsæstrengs við íslenzka raforkukerfið, sem var ekki minnzt á í afgreiðslu Sameiginlegu EES-nefndarinnar á OP3 árið 2017.  Norðmönnum er þetta nauðsyn, til að ríkið öðlist á ný stjórnunarrétt á raforkuviðskiptunum við útlönd.  Þannig má tryggja stöðugt lágt og fyrirsjáanlegt raforkuverð fyrir almenna notendur og atvinnurekstur.  Noregur og Ísland þurfa jafnframt að endursemja við ESB um aðrar reglugerðir og tilskipanir, sem skuldbinda löndin til að gefa eftir samfélagslega stjórnun sína á nýtingu orkulindanna. 

Rafmagn á ekki að vera frjáls markaðsvara eða markaðsþjónusta.  Raforkukerfið var ekki hannað og fjármagnað með það fyrir augum í upphafi í Noregi og á Íslandi, og markaðskerfi í anda Evrópusambandsins er sniðið við örugga aðdrætti eldsneytis, en hvorki dynti náttúrunnar né skort á eldsneyti, eins og núna hrjáir Evrópu vestan Rússlands. Ein af fáum náttúruauðlindum Íslands og Noregs er orkan í fallvötnum og iðrum jarðar (fyrir utan jarðefnaeldsneytið á norsku landgrunni og e.t.v. innan íslenzkrar lögsögu einnig). Þessar orkulindir á að nýta íbúunum til hámarks hagsbóta með því að selja þeim hana samkvæmt kostnaði við öflun, flutning og dreifingu með arðsemi í samræmi við arðsemi fjárfestinga með svipaða áhættu.  Ástæðan fyrir þessu er, að verðmætasköpun með rafmagninu er margfalt meiri en fæst með umsetningu þess á erlendum mörkuðum, iðulega 5-10 sinnum meiri. Lagabann við slíkri ráðstöfun innlendra auðlinda með EES-skuldbindingum er fráleitt og hefur nú þegar örlagaríkar afleiðingar á meðal frænda vorra, Norðmanna. 

Markaðssetning raforku í kauphöll, ef menn endilega vilja innleiða slíkt fyrirbrigði á Íslandi, ætti einvörðungu að vera á ótryggðri orku, og jafnvel hún orkar mjög tvímælis, því að slík kauphallarviðskipti geta knúið fyrirtæki til brennslu jarðefnaeldsneytis af kostnaðarástæðum.   

  


Herstjórn í handaskolum

Það er kolröng ályktun Viðreisnarforkólfa, sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður flokksins, kynnir um þessar mundir af áfergju, t.d. í Silfri RÚV 13. marz 2022, og Logi Einarsson, formaður Samfylkingar, predikar líka, að nú hafi þeir atburðir orðið í Evrópu, sem geri einboðið fyrir Íslendinga að sækja um aðild að Evrópusambandinu (ESB), þ.e. að biðja viðkomandi "kommissar" í ESB um að dusta rykið af þeirri gömlu.  Halda þau virkilega, að ESB telji ekki mikilvægara að fást við brýnni mál en þetta núna ?  Engum alvöru norskum stjórnmálaleiðtoga dettur í hug að fara á flot með jafnfjarstæðukennda hugmynd og þessa þar í landi. Þannig hefur formaður Hægri, stærsta stjórnarandstöðuflokksins, og fylgjandi ESB-aðild, ekki fitjað upp á þessu, enda ekki vinsælt í Noregi, að norskir hermenn gangi í Evrópuherinn.  Norski herinn er NATO mikilvægur í vörnum Norður-Evrópu. Þessir íslenzku formenn tveir eru úti að aka.

Það er alveg rétt, að allt gjörbreyttist í Evrópu 24. febrúar 2022 með villimannlegri innrás Rússahers í Úkraínu, sem lygnu siðblindingjarnir í Kreml kalla ekki sínu rétta nafni og hafa bannað rússnesku þjóðinni að kalla sínu rétta nafni, heldur skuli viðhafa hugtakarugling að hætti Kremlar og kalla ófögnuðinn "sértæka hernaðaraðgerð".  Þá er skírskotað til þeirrar vitfirrtu átyllu, að nauðsynlegt hafi verið að hreinsa nazista út úr valdastöðum í nágrannaríkinu, af því að rússneskumælandi fólk ætti þar í vök að verjast.  Sjúklegri lygaþvættingur hefur sjaldan sézt eða heyrzt. Rússar eru nú flæktir í eigin lygaþvælu, þar sem yfirmenn hafa logið að undirmönnum um "strategíu" hernaðarins, og undirmenn hafa logið að yfirmönnum um getu hersins.  Leyniþjónustan, arftaki KGB, laug að Pútín um hug Úkraínumanna til innrásarhersins og sagði honum aðeins, það sem hann vildi heyra.  Þetta er dæmigerður veikleiki einræðisríkis.  

Viðbrögð ESB-ríkjanna urðu snögg og samstæð, mikil aukning hernaðarútgjalda, miklar hergagnasendingar til Úkraínu og viðamiklar fjármálalegar og viðskiptalegar refsiðgerðir gegn Rússum undir forystu Bandaríkjamanna. Við Rússlandi blasir gjaldþrot með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.  

Mikil aukning fjárveitinga til hermála er ekki til að styrkja hernaðararm ESB, heldur til að gera Evrópuríkin í stakk búin til að uppfylla hernaðarlegar skuldbindingar sínar gagnvart NATO, enda gera þau sér mætavel grein fyrir, að þau geta ekki varið sig sjálf gegn Rússlandi, heldur verða að reiða sig á NATO.  Þetta varð enn ljósara við brotthvarf öflugasta herveldis Vestur-Evrópu úr ESB, og Bretar hömruðu jafnan á því, á meðan þeir voru innanborðs, að stofnun ESB-hers yrði NATO ekki til framdráttar, nema síður væri, því að sömu fjármunina er ekki hægt að nota tvisvar.  Þegar af þessari ástæðu er Úkraínustríðið engin hvatning fyrir Ísland til að ganga í ESB. Málflutningurinn sýnir fremur málefnalegt gjaldþrot ESB-sinna hérlendis, þar sem þeim hefur mistekizt að sýna fram á gagnsemi aðildar fyrir hinn almenna mann. Það er ekki hægt að sýna fram á neina gagnsemi af aðild fyrir land, sem er með þjóðartekjur á mann hátt yfir meðaltali ESB-ríkjanna.  

Staðan sýnir hins vegar öllu hugsandi fólki í sjónhendingu, hversu mikilvægt varnarbandalagið NATO er fyrir varnir lýðræðisríkja hins vestræna heims, enda mælist nú meira en helmingsfylgi almennra flokksmanna VG við NATO-aðild Íslands, þótt forstokkaðir flokksbroddarnir japli enn á andstöðu sinni við veru Íslands í hvers konar hernaðarbandalögum. Þau eru óskiljanleg og verulega vandræðaleg.  Þegar fólk hefur verið einu sinni slegið blindu, á það sér ekki viðreisnar von.  Á hinum Norðurlöndunum eru systurflokkar VG ekki svona forstokkaðir, heldur endurmeta nú stöðuna, t.d. SV í Noregi.

Spurt hefur verið, hvort Ísland eigi við núverandi aðstæður að fara fram á stöðuga viðveru herliðs á vegum NATO.  Varnarbandalagið hefur nú nóg á sinni könnu í austanverðri Evrópu, þar sem það gæti lent í beinum bardaga við rússneska herinn fyrirvaralaust.  Á meðan átökin hafa ekki færzt út á Atlantshafið, verður að líta svo á, að stöðug viðvera varnarliðs hér á vegum NATO hafi litla þýðingu. 

Það gæti þó breytzt, og fari NATO fram á slíkt, t.d. eftir að hafa komizt á snoðir um einhver áform óvinarins, þá er það helzta mótframlag, sem Íslendingar geta lagt að mörkum gegn hervernd NATO, að ljá land, aðstöðu og alla mögulega þjónustu við herlið, sem NATO telur æskilegt eða nauðsynlegt að staðsetja hér. 

Stríðið í Úkraínu hefur komið flatt upp á flesta.  Aðdáun hefur vakið frækileg vörn Úkraínumanna, sem láta ekki bilbug á sér finna þrátt fyrir hrottalega stríðsglæpi rússneska hersins gegn almennum borgurum, íbúðarhúsum, sjúkrahúsum, fæðingardeildum, elliheimilum o.s.frv. 

Rússneski herinn sýnir öll merki þess gerspillta ríkis, sem hann þjónar.  Búnaður stendur sig illa og er óáreiðanlegur, varahluti, eldsneyti og mat handa hermönnunum skortir, þ.e. aðföng hersins eru í lamasessi.  Þar sem spilling ríkir, þykir þetta dæmigert einkenni.  Af fjárveitingum til hermála er m.ö.o. ótæpilegu stolið á öllum stigum.  Ólígarkar fá  framleiðslusamninga á hertólum, en illa er gengið frá samningum, svo að ólígarkar sleppa með að afhenda gallaða vöru. 

Herstjórnarlist Rússa virðist ekki vera upp á marga fiska.  Hún virðist í sumum tilvikum miðast við að hrúga saman sem flestum skriðdrekum á lítil svæði í von um, að ógnin af þeim leiði til uppgjafar, en Úkraínuher virðist hafa átt ágæt svör við þessari ógn, sem leitt hefur á 2 vikum til þriðjungs af mannfalli Rússa í öllu Afghanistan-stríðinu og svo mikils taps stríðstóla, að rússneski herinn virðist ekki fá það bætt með varaliði.  Afleiðing af þessu öllu er slæmur andi og minni bardagageta rússneska hersins en búizt var við.  Orðstýr rússneska hersins er farinn norður og niður, hann virðist vera siðferðislegt flak.   

Þessi innrás Rússa í Úkraínu hefur valdið ólýsanlegum mannlegum harmleik þar í landi, en út úr viðbjóði óréttlætanlegrar innrásar með tugþúsundum látinna og hundraða þúsunda særðra auka efnalegs tjóns, sem hleypur á hudruðum milljarða evra, gæti komið samstæðari Úkraínuþjóð en nokkru sinni áður í sögunni, sem mun ákveðin kjósa sér vestræna lifnaðarhætti, eigi hún þess kost.  Vesturveldin fá vonandi tækifæri til að aðstoða við uppbyggingu vestræns þjóðfélags úr þeim rústum, sem Rússar hafa valdið.  

Rússa bíður ekkert annað en skömm og fyrirlitning heimsins í einangrun.  Stjórnarfarið þar er nú farið að minna mjög á Stálínstímann.  Hversu lengi heimurinn mun þurfa að lifa í nýju "Köldu stríði", verður undir Rússum komið. 

Skjaldarmerki lýðveldisinsukrainian-cloth-flags-flag-15727


Vandræði í Noregi vegna raforkumarkaðarins

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að sá áfangi í orkulöggjöf Evrópusambandsins (ESB), sem gengur undir heitinu Orkupakki 3, var samþykktur af Stórþinginu í Ósló í marz 2018 við víðtæk mótmæli í landinu, og enn er í gangi rekistefna fyrir dómstólum um lögmæti þeirrar samþykktar, því að ekki var krafizt aukins meirihluta (3/4 greiddra atkvæða, þar sem a.m.k. 2/3 þingmanna greiði atkvæði), eins og stjórnarskrá Noregs áskilur, þegar um er að ræða valdframsal til útlanda, sem varðar hag almennings beint. 

Alþingi samþykkti sömu löggjöf ESB haustið 2019 við fögnuð í norska stjórnarráðinu, en sorg um endilangan Noreg, en með þeim mikilsverða fyrirvara þó, sem líklega brýtur í bága við EES-samninginn, að Alþingi áskilur sér rétt til að eiga síðasta orðið um tengingu aflsæstrengs frá útlöndum við raforkukerfi Íslands. Það eru einmitt öflugar sæstrengstengingar á milli Noregs, Englands, Þýzkalands og Hollands, sem eru rót gríðarlegrar óánægju almennings í Noregi með raforkuverðið þar, sem hefur margfaldazt síðan 2020. 

Samkvæmt nýlegum skoðanakönnunum vill meirihluti Norðmanna nú segja skilið við ACER-Orkuskrifstofu ESB og ganga úr Orkusambandinu við ESB, sem lögfest voru í EFTA-löndunum þremur, sem eru í EES, með Orkupakka 3. Svo mikil er óánægjan í Noregi, að u.þ.b. helmingur landsmanna vill nú gera fríverzlunarsamning við ESB í stað EES-samningsins.  Fríverzlunarsamningur EFTA, með Svisslendinga innanborðs, gæti þjónað hagsmunum Íslendinga vel. 

Það er þannig í norska markaðskerfinu, að raforkuverð á heildsölumarkaði Nord Pool er breytilegt frá einni klukkustund til annarrar og það er ólíkt eftir landshlutum.  Sunnan við Þrándheim er það tífalt á við verðið í Mið- og Norður-Noregi.  Þann 9. febrúar 2022 var raforkukostnaður um 2,0 NOK/kWh=28,2 ISK/kWh (raforkuverð+flutnings- og dreifingargjöld og rafskattur og vsk).   Í Þrándheimi nam heildsöluverðið þann dag að meðaltali aðeins 12,6 Naur/kWh=1,8 ISK/kWh, og lætur þá nærri, að einingarkostnaður þar hafi numið 3,0-4,0 ISK/kWh, sem er aðeins um fimmtungur þess, sem íslenzkar fjölskyldur borga fyrir kWh.  Norska fjölskyldan kaupir hins vegar fimmfaldan fjölda kWh á við þá íslenzku, því að hún rafhitar íbúðina sína.  Í Suður- og Vestur-Noregi er þess vegna um verulega lífskjaraskerðingu að ræða eða um 500 kISK/ár, sem alfarið er hægt að rekja til raforkuviðskiptanna við útlönd. 

Þetta hefur valdið almennri óánægju með markaðskerfi raforku í Noregi.  Statkraft (norska Landsnet, ríkisfyrirtæki), sem á allar millilandatengingarnar við Noreg, ræður ekki lengur yfir flutningunum (eftir OP3), heldur ACER, sem leyfir markaðinum að ganga svo á miðlunarlónin í Suður- og Vestur-Noregi, þaðan sem millilandatengingarnar eru, að verðið helzt tífalt á við það, sem það annars væri.

Íbúar Mið-Noregs óttast að verða fórnarlömb þessa orkuokurs í kjölfar bættrar tengingar við Vestur-Noreg, sem nú stendur yfir.  Fyrirtæki í Suður- og Vestur-Noregi, sem ekki hafa langtímasamninga, hafa orðið fyrir gríðarlegum kostnaðarauka, og þessi fáránlega staða í vatnsorkulandinu Noregi virkar hagvaxtarhamlandi, en á sama tíma græðir norski olíusjóðurinn á mikilli gassölu, og olíuverði er nú spáð yfir 100 USD/tunnu áður en langt um líður. Ríkisstjórnin getur stundað dýrar millifærslur úr ríkissjóði án skuldsetningar með því að ganga á ávöxtun olíusjóðsins.  

Ríkisstjórnin hefur t.d. aukið s.k. búsetustuðning við hina verst settu vegna hækkaðs orkukostnaðar og lækkað rafskattinn. 

Norskt rafmagn hefur verið flokkað sem vara, sem er keypt og seld á Nord Pool markaðinum. Þetta er í samræmi við orkulöggjöf ESB. Raforkuvinnslufyrirtækin stórgræða á viðskiptunum við fjölskyldurnar, orkufyrirtæki án langtímasamninga og sveitarfélög, sem ekki eiga hlutdeild í virkjunum. Lengi vel var sá áróður hafður uppi í Noregi, að millilandaraforkutengingar væru Norðmönnum nauðsynlegar í slökum vatnsbúskaparárum, en fjárhagsleg sjónarmið annarra en alþýðunnar sátu í raun í fyrrúmi, enda eru nú téðar millilandatengingar orðnar fleiri og öflugri en þörf er á afhendingaröryggisins vegna. Afleiðingin er innflutningur á ógnvekjandi háu raforkuverði og útflutningur á orkuforða miðlunarlóna vatnsorkuvirkjananna, einkum í Suður- og Vestur-Noregi.  Ofan á dræman vatnsbúskap sumarið 2021 lagðist mikil spurn eftir raforku frá útlöndum, svo að vatnsstaða miðlunarlóna í þessum landshlutum er langt undir meðallagi, sem endurspeglast í tíföldun raforkuverðsins núna. 

Statnett stendur nú að eflingu raforkuflutningskerfisins á milli norðurs og suðurs á svipaðan hátt og Landsnet á Íslandi.  Þetta er mikilvægt til að styrkja núverandi vinnustaði í báðum  löndunum og til að gera kleift að stofna til nýrra, en eins og kunnugt hefur á Norðurlandi, t.d. í Eyjafirði, orðið að fresta framkvæmdum, og atvinnutækifæri hafa jafnvel tapazt fyrir vikið.  Þetta er gjörsamlega ólíðandi fyrir almannahag á Íslandi, en í Noregi eru uppi miklar áhyggjur af því, að efling af þessu tagi verði aðeins til að auka útflutning raforku og hækka raforkuverð í Mið- og Norður-Noregi, sem þá gerir atvinnuuppbyggingu þar að engu.  Brostnar vonir kynda undir þjóðfélagsóánægju, og hún mun brjótast fram í mótmælum í Noregi 15. febrúar 2022.

Rafmagn er hluti innviða þjóðfélagsins, sem nota ber til að búa til atvinnu og að tryggja trausta og grózkumikla byggð um allt land.  Með þessu áframhaldi í Noregi eiga Norðmenn á hættu, að orkusækinn iðnaður í dreifðum byggðum landsins flytjist til landa, þar sem orkukerfið er alfarið reist á jarðefnaeldsneyti.   Sams konar eyðilegging á samkeppnishæfni bíður fyrirtækja á Íslandi, ef yfirvöld glepjast á að innleiða hér spákaupmennsku á raforkumarkaði, eins og viðgengst í Noregi, og almenningur þar á fjölmennum  landssvæðum sýpur nú soðið af. Nú er verið að rafvæða olíu- og gasborpalla á norska landgrunninu, sem þá keppa um rafmagn á markaði við heimilin, sem kynda húsnæði sitt með rafmagni.  Hátt raforkuverð gerir vindorkuver hagkvæm í Noregi, en þau eru eðlilega náttúruunnendum í Noregi mikill þyrnir í augum, og vaxandi andstaða er gegn þeim, þegar fólk sér afleiðingarnar, enda eiga Norðmenn enn mikið óvirkjað vatnsafl. 

Orkupakkar ESB leggja grunn að samkeppnismarkaði með rafmagn í kauphöll og ófyrirsjáanlegu raforkuverði.  Orkuskrifstofa ESB, ACER, gegnir því meginhlutverki að koma á flutningskerfi og regluverki, sem valda nokkurn veginn sama raforkuverði í Noregi (og Íslandi og Liechtenstein) og í ESB. Ísland er sem betur fer enn ótengt erlendum raforkukerfum, en hér stefnir hins vegar í óefni, af því að þeirrar forsjár hefur ekki verið gætt að bæta við nægum virkjunum, svo að hér sé alltaf borð fyrir báru, hvernig sem tíðarfarið er.

Aðalkrafa mótmælendanna í Noregi 15. febrúar 2022 verður, að Noregur endurheimti fullveldi sitt yfir orkumálunum úr höndum ESB.  Það er svo mikill hiti undir þeirri kröfu, að hrikt getur í stoðum EES-samstarfsins.  Það er verkalýðshreyfing Noregs sem fer fyrir þessari kröfugerð, og stærri stjórnarflokkurinn í ríkisstjórn Noregs er nú Verkamannaflukkurinn, sem jafnan hefur sveigt stefnu sína að stefnumörkun Alþýðusambands Noregs og/eða stærstu verkalýðsfélaganna.  Hinn stjórnarflokkurinn, Miðflokkurinn, barðist á Stórþinginu og í grasrótinni gegn innleiðingu Orkupakka 3 í Noregi.  

Baráttufólk iðnaðarins í Noregi mun í samstarfi við verkalýðsforystuna í Björgvin og grennd taka frumkvæði að því að virkja almenning til að krefjast mikillar lækkunar raforkuverðs.  Það jafngildir því, að stjórnvöld afnemi núverandi verðlagskerfi raforku og að stjórnmálamenn ákvarði raforkuverðið út frá heildarkostnaði og arðsemi í líkingu við meðalarðsemi atvinnulífsins.  Norðmenn líta upp til hópa á vatnsaflið sem sitt erfðasilfur, sem þjóna eigi almenningi og eigi að skapa iðnaðinum og atvinnulífinu almennt samkeppnisforskot.  Til bráðabirgða er farið fram á niðurfellingu rafskatts og virðisaukaskatts á rafmagni. 

Til þess að lækka raforkuverðið með viðráðanlegum og sjálfbærum hætti eru kröfur baráttufólksins róttækar og skiljanlegar:

  • Við rekstur raforkukerfisins skal leggja áherzlu á að halda miðlunargetunni ofan hættumarka á tæmingu.  Stöðva ver útflutning rafmagns, þegar miðlunargetan fer niður að meðaltali árstímans.
  • Ganga úr ACER og Orkusambandi ESB, en halda áfram að eiga raforkuviðskipti við nágrannalöndin Svíþjóð og Danmörk. 
  • Gera skal langvarandi raforkusamninga við norskan iðnað og landbúnað um fyrirsjáanleg verð og veita heimilum kost á tvíverðssamningum, t.d. dagtaxta og næturtaxta. 

Þegar höfð er í huga þykkjan, sem er í Norðmönnum vegna þess, hvernig spákaupmenn komast upp með að leika sér með erfðasilfur þeirra, orkuafurð vatnsaflsins, undir verndarvæng löggjafar, sem flutt er inn frá ESB, nú síðast undir heitinu Orkupakki 3, er engin furða, að stjórnarflokkarnir hafi einfaldlega komið sér saman um að taka Orkupakka 4 af dagskrá í Noregi.  Norðmenn vissu, að íslenzka ríkisstjórnin yrði fegin að þurfa ekki að leggja út í orrahríð út af Orkupakka 4, og þess vegna var ákveðið innan vébanda EFTA að salta OP4 í nefnd út þetta kjörtímabil og ESB tilkynnt þar um.  Nú er hins vegar spurningin, hvort meirihluti myndast senn á Stórþinginu fyrir því að kasta OP3 í ruslakörfuna.  Ef nógu margir Stórþingsmenn komast á þá skoðun, að hann vinni gegn hagsmunum Noregs, þá verður það gert.  Alþingi mun varla sýta það, en spurning er, hvernig Framkvæmdastjórnin í Brüssel bregst við.  Sem stendur eru Norðmenn í lykilstöðu sem einn af aðalbirgjum Evrópu fyrir jarðgas.  Skrúfi Noregur fyrir, frýs í húsum Evrópu, og fyrr mun sennilega frjósa í Helvíti. 

 lv-kapall-kynning-april-2011

 


Væringar í ESB út af sjálfskaparvíti á orkusviði

Hefur ACER (Orkustofa ESB - samstarfsvettvangur orkulandsreglara EES-landanna) rétt fyrir sér ?  Er sameiginlegur orkumarkaður ESB nauðsynlegur til að skapa samfélög, reist á endurnýjanlegri orku ?  Er hátt raforkuverð kostnaðurinn við þessa orkubyltingu ?

Eins og sést á þessum spurningum, sem fólk á hinum sameiginlega orkumarkaði ESB (Evrópusambandsins) veltir núna vöngum út af, eiga viðfangsefni ACER afar takmarkaða eða enga skírskotun til Íslands.  Að álpast til að ganga löggjöf ESB á orkusviðinu á hönd, getur ekki bætt stöðu Íslands á nokkurn hátt, og röksemdafærslan fyrir því á sínum tíma var ýmist út í hött eða hreinn sparðatíningur, en þessi aðild getur valdið vandræðum innan EFTA og í samskiptum við ESB, ef Eftirlitsstofnun EFTA-ESA fer að fetta fingur út í innleiðingu Orkupakka 3, sem var ekki samkvæmt bókstaf EES-samningsins, eins og rakið hefur verið á þessu vefsetri. Flokkarnir, sem að nýju norsku ríkisstjórninni standa, komu sér saman um að leggja 4. orkupakka ESB í saltpækil allt þetta kjörtímabil (2021-2025), og Norðmenn ráða afstöðu EFTA-landanna innan EES.

Frakkland, Grikkland, Ítalía og Rúmenía (allt vatnsorkulönd í nokkrum mæli) vilja, að verðlagning raforku innan Orkusambands ESB fari fram á grundvelli meðaltalsvinnslukostnaðar rafmagns. Á fundi orkuráðherra ESB 02.12.2021 réðust orkuráðherrar þessara 4 landa á grundvöll ACER fyrir verðlagningu raforkunnar, sem er jaðarkostnaðarreglan, þ.e. að síðasta kWh, sem framleidd er í kerfinu, ákvarði verðið.  Núna kemur þessi síðasta kWh frá jarðgasi, og gasverðið hefur fjórfaldazt á skömmum tíma. 

Þessi 4 lönd hafa mikið til síns máls.  Hvers vegna eiga t.d. Norðmenn, heimili og fyrirtæki, sem orðnir eru þræltengdir við raforkukerfi ESB og reyndar Bretlands einnig, að greiða yfir 100 Naur/kWh (14,6 ISK/kWh), þegar meðaltalskostnaðurinn við raforkuvinnsluna í Noregi er undir 10 Naur/kWh (1,46 ISK/kWh) ?  Á öllum öðrum sviðum vöru og þjónustu, sem almenningur verður að hafa aðgang að á hverjum degi, ákvarðar meðaltalskostnaður við framleiðsluna verðið.  Hvers vegna á annað að gilda um rafmagn, er nú spurt í ráðherraráði ESB ? 

Völdin liggja þar hjá Þýzkalandi, sem fékk til liðveizlu við sig 8 önnur lönd í þessu máli. Þarna togast rétt einu sinni á germanskur og rómanskur hugarheimur. Röksemdirnar fengu germönsku þjóðirnar úr hraðsoðinni, en þó viðamikilli skýrslu ACER um verðlagningu á orku, sem er að finna í viðhengi með þessum pistli. 

ACER fullyrðir í skýrslunni, að raforkuvinnsla framtíðarinnar verði æ breytilegri eftir því sem vinnslu úr endurnýjanlegum orkugjöfum vindur fram.  Það þýðir, að orkuvinnslan verður sífellt háðari jöfnunarorku, þegar náttúran bregst með vind- og sólarleysi.  Ef á að verða arðsemi í fjárfestingum á borð við rafgeyma, orkugeymslu í miklu magni, vetni og öðrum tæknilausnum, þá verður að ákvarða orkuverðið á grundvelli kostnaðar síðustu kWh, sem þörf er á. ACER er með skýrt mótaða stefnu: verðþak eða meðaltalsverð ógna sameiginlegum orkumarkaði ESB. Þessi stefna hentar Íslendingum illa.

Hefur ACER rétt fyrir sér ?  Er sameiginlegur orkumarkaður nauðsynlegur fyrir þróun samfélaga til endurnýjanlegrar orkunotkunar ? Er hátt rafmagnsverð gjaldið, sem greiða verður fyrir sjálfbærnina ?

Taka má dæmi af Noregi, sem hefur nú verið rækilega tengdur, þótt enn bíði umsókn um aflsæstreng til Skotlands afgreiðslu af pólitískum ástæðum.  Þegar hafizt var handa um að virkja vatnsföll Noregs, var það gert á grundvelli verðlagningar á raforkunni samkvæmt tilkostnaði.  Þegar sama fyrirtæki virkjaði meira, gilti meðaltalskostnaður fyrirtækisins við verðlagningu nýrrar orku.  Þegar framboðshliðin ein á að ráða markaðsverðinu, þá verður það dýrasta virkjunin per kWh, sem ræður verðinu.  Þessi ófélagslega hlið á þeirri samfélagslegu innviðaþjónustu, sem útvegun rafmagns er, virðist varða leiðina að endurnýjanlegri raforkunotkun á  hinum sameiginlega orkumarkaði ESB, og hún er illa til þess fallin að njóta lýðhylli, sem aftur torveldar orkuskiptin. Á Íslandi vofir yfir innleiðing á þessu framandi uppboðskerfi raforku, sem í raun á hingað ekkert erindi og getur aðeins skaðað samkeppnishæfni rafknúins samfélags.  

ACER hefur lengi litið hýru auga til Norðurlandanna til orkuöflunar fyrir meginlandið og þá aðallega útvegun jöfnunarorku, sem æ meiri þörf verður fyrir á meginlandi Evrópu og ný gasknúin raforkuver sjá um nú í auknum mæli.  Talsmenn ACER halda því fram, og endurómurinn hefur birzt hérlendis, t.d. í skrifum varaformanns Viðreisnar, að verðhækkanir megi að nokkru skýra með því, að sveiflugeta miðlunarlónanna á vatnsforðanum verði verðmætari (með lágum framleiðslukostnaði teygist raforkuverð vatnsorkuveranna auðvitað upp í átt að verðinu á sameiginlega markaðinum, og þetta hefur valdið gríðarlegri óánægju í Noregi). Meðaltal raforkuverðs í Noregi á 3. ársfjórðungi 2021 var 76,3 Naur/kWh eða 11,1 ISK/kWh, sem er tvöföldun m.v. meðaltal síðast liðinna 5 ára, og þetta er tæplega tvöfalt verð frá orkuveri til íslenzkra heimila. 

Það geta varla verið aðrir en raforkuframleiðendur, sem sjá sér hag í því að taka þátt í þessum sameiginlega orkumarkaði, hvort sem Ísland eða Noregur á í hlut.  Bæði löndin flæktust í Orkusamband Evrópu með lögfestingu Þriðja orkupakka ESB, en aðeins annað landanna sýpur seyðið af því, enn sem komið er, en vonandi ná Norðmenn að losa um klær ACER, svo að þeir geti sjálfir stjórnað raforkuflutningum inn og út úr landinu, sjálfum sér til hagsbóta.   

Hins vegar eru óánægjuraddir með þetta Orkusamband víðar innan EES.  Þótt ACER búist við lækkun gasverðs í apríl 2022 (allt er það undir hælinn lagt eftir ákvörðun Þjóðverja, með tilstyrk Bandaríkjamanna, að opna ekki fyrir gas frá Rússlandi um Nord Stream 2, nema Rússar haldi sig á mottunni gagnvart Úkraínu), þá mun jaðarkostnaðarregla ACER við verðlagningu raforku leiða til hás raforkuverðs á áratugum orkuskiptanna.  Þetta kemur sér sérlega illa fyrir fátæk lönd á borð við Grikkland og er ekki til hagsbóta fyrir lönd, sem eru sjálfum sér nóg um raforkuöflun, eins og Frakkland, Búlgaría og Tékkland eru. 

Alls staðar í Evrópu aukast mótmælin gegn þessari stefnu ACER/ESB.  ESB, sem hlustar meira á ACER en borgarana í aðildarlöndunum, mun ekki lægja öldurnar.

Því má svo bæta við þetta rifrildisefni innan ESB, að Frakkar, sem nú fara með æðstu stjórn ESB, embætti forseta ráðherraráðsins, hafa nú lagt til, græningjum Evrópu til armæðu, að kjarnorkuknúin og gasorkuknúin raforkuver verði af ESB viðurkennd sem græn og umhverfisvæn mannvirki.  Þetta hefur sett ríkisstjórnina í Berlín, með græningja innanborðs, í vanda.  Þjóðverjar lokuðu 3 kjarnorkuverum sínum í fyrra [2021], og eru nú enn háðari kolum og jarðgasi en áður.  Þetta er gott dæmi um mótsagnakennda loftslagsstefnu.  Kjarnorkunni mun verða veitt brautargengi á ný í heiminum, því að hún er hið eina, sem leyst getur kolaorkuver almennilega af hólmi. 

Orkuvinnsla í Evrópu

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Mismunun ríkisvaldsins á sviði gjaldtöku af orkufyrirtækjum

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að árið 2016 féllst þáverandi ríkisstjórn (með bréfi utanríkisráðherra, Lilju Alfreðsdóttur) á allar kröfur ESA - Eftirlitsstofnunar EFTA - um verðlagningu á afnotarétti lands og vatnsfalla til orkufyrirtækja. Í megindráttum snerust þessar kröfur ESA um jöfnun samkeppnisstöðu ríkisfyrirtækja og einkafyrirtækju til afnota af vatnsréttindum og landi í eigu ríkisins til orkuvinnslu.  Ætla má, að sömu jafnaðarsjónarmið gildi um jarðgufu, en hún er óalgeng á Innri markaði Evrópusambandsins (ESB). 

Allir skyldu sitja við sama borð og greiða "markaðsvirði", en hvernig slíkt markaðsverð skyldi ákvarða, fylgdi ekki sögunni.  Það er annmörkum háð að finna, hvaða verð markaðurinn vill greiða fyrir slík verðmæti án opins útboðs og þá á Innri markaði ESB, ef marka má hliðstæðar kröfur Framkvæmdastjórnarinnar gagnvart 8 aðildarlöndum ESB, sem líka veita ríkisorkufyrirtækjum forgang að vatnsréttindum ríkisins, t.d. Frakklandi.  

Framkvæmd þessarar skuldbindingar íslenzka ríkisins gagnvart ESA bögglaðist fyrir íslenzka ríkinu, og ekkert hefur orðið úr útboði, enda svaraði norska ríkisstjórnin svipaðri kröfu ESA á hendur norska ríkinu nokkrum árum seinna snöfurmannlega þannig, að ráðstöfun orkulinda í eigu norska ríkisins væri utan við gildissvið EES-samningsins og þess vegna ekki í verkahring ESA, og þar við situr þar, en það er ekki líklegt, að ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) sé af baki dottin, því að bullandi innbyrðis ósamræmis gætir í ráðstöfun íslenzka ríkisins. Munurinn á viðbrögðum íslenzku og norsku ríkisstjórnarinnar gagnvart kröfu um að hleypa erlendum orkufyrirtækjum að rekstri íslenzkra og norskra virkjana er sorglegur.

Ráðstöfun vatnsréttinda íslenzka ríkisins hlýtur að falla undir íslenzk samkeppnislög, en það er auðvitað með öllu ótækt að fallast á almennt útboð þessara verðmætu réttinda á EES-svæðinu, eins og Lilja Alfreðsdóttir, þáverandi utanríkisráðherra, gerði  árið 2016, en þá var dýralæknirinn Sigurður Ingi Jóhannsson, núverandi innviðaráðherra, forsætisráðherra. 

Baksviðsfrétt Helga Bjarnasonar, blaðamanns á Morgunblaðinu, um "vatnsréttindi virkjana" fjallaði um nýlega samninga íslenzka ríkisins við Landsvirkjun um þessi vatnsréttindi.  Fréttin bar fyrirsögnina:

"Samið um mikil verðmæti",

og hófst þannig:

"Landsvirkjun greiðir ríkinu 90 MISK/ár [milljónir] fyrir afnot af þjóðlendum til rafmagnsframleiðslu í 6 vatnsaflsvirkjunum á Þjórsár-Tugnaársvæðinu og hluta afls í þeirri 7. Uppsett afl, sem samningurinn nær til, er liðlega 800 MW eða sem svarar til liðlega 40 % af uppsettu afli allra vatnsaflsvirkjana fyrirtækisins.  Hluta þessara virkjanaréttinda hafði Alþingi veitt Landsvirkjun án nokkurra skilyrða um endurgjald, en eigi að síður samdist svo um, að greitt yrði af öllum virkjununum, nema upphaflegu Búrfellsvirkjun [210 MW], og miðast gjaldið mikið við niðurstöðu dómsdóla um vatnsréttindi Kárahnjúkavirkjunar." [Upphaflegu vatnsréttindin vegna Búrfells má skoða sem stofnframlag í Landsvirkjun, sem nú ber ávöxt - innsk. BJo.]

Af þessari upphæð að dæma fyrir nýtingu á orku, sem er a.m.k. 5500 GWh/ár, er um hreinan málamyndagjörning af hálfu ríkisins og fyrirtækis þess, Landsvirkjunar, að ræða, því að árlegt gjald er aðeins um 0,4 % af árlegum tekjum, sem búast má við að fá fyrir þessa orku að jafnaði m.v. núverandi samninga. Þetta er hlálega lágt og stingur algerlega í stúf við gjaldið, sem ríkið innheimtir af 3. aðila fyrir vatnsréttindi smávirkjana (<10 MW) á ríkisjörðum. 

Þarna mismunar ríkið aðilum á markaði með þeim hætti, að klárlega varðar við samkeppnislög.  Jafnframt býður ríkisvaldið hættunni heim, að ESA fetti fingur út í þessa stjórnsýslu og færi málið á endanum fyrir EFTA-dómstólinn, ef íslenzka ríkið ekki sér að sér og gætir jafnréttissjónarmiða. Það yrði ekki ferð til fjár fyrir íslenzka ríkið.

Um ESA-þáttinn skrifar Helgi Bjarnason m.a.:

"Það var síðan ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) frá 2016 um, að það teldist ólögleg ríkisaðstoð til orkufyrirtækja að heimila þeim að nota orkuréttindi í opinberri eigu án endurgjalds, sem ýtti á frekari undirbúning og samninga við Landsvirkjun."

Samningar af þessu tagi á milli skyldra aðila hljóta að gefa bæði Samkeppniseftirlitinu og ESA "blod på tanden" og eru þess vegna óskynsamlegir.  Forsendurnar eiga alls ekki við, þar sem miðað er við dóm Hæstaréttar í deilu Fljótsdalshrepps við Landsvirkjun.  Þar var Landsvirkjun dæmt til að greiða eins konar aðstöðugjald til landeigendanna, 1,4 % af stofnkostnaði virkjunarinnar á ákveðnu árabili, en Landsvirkjun dregur frá afskriftir, sem er út í hött, því að verið er að bæta landeigendum meint tjón (þeir hafa nú reyndar fengið laxveiðiá í kaupbæti), en ekki verið að veita þeim hlutdeild í verðmætasköpun virkjunarinnar.  Öllu er þess vegna snúið á haus í þessu máli.

Helgi Bjarnason ritaði samdægurs framhaldsfréttaskýringu um sama mál í Morgunblaðið, en nú með aðaláherzlu á meðferð og stórlega mismunun ríkisvaldsins á einkafyrirtækjum, sem berjast við að nýta lítil vatnsföll.  Fyrirsögnin var sláandi:

 "Sama gjald fyrir smávirkjun og greitt er fyrir Sigölduvirkjun".

Hvernig í ósköpunum má það vera, að stjórnsýslan á Íslandi mismuni fyrirtækjum svo herfilega, að refsivöndur eftirlitsstofnana sé einboðinn ?  Fréttaskýringin hófst þannig:

"Sláandi munur er á kjörum, sem ríkið býður stóru orkufyrirtækjunum og þeim, sem byggja svo kallaðar smávirkjanir. ... [Eigandi 9,9 MW, í mesta lagi 70 GWh/ár, greiðir 15,7 MISK/ár fyrir afnotaréttinn og tvöfalt meira að 10 árum liðnum frá gangsetningu.  Af Sigölduvirkjun, 150 MW, 920 GWh/ár, greiðir Landsvirkjun aðeins 15,7 MISK/ár fyrir sinn afnotarétt.  Svona mismunun er í einu orði sagt vond stjórnsýsla, sem Samkeppnisstofnun og/eða ný ríkisstjórn þarf að hafa forgöngu um að laga - innsk. BJo.]

Útreikningar á hlutfalli leigu af rekstrartekjum  sýna sömuleiðis, að Landsvirkjun greiðir að jafnaði 0,39 % af tekjum virkjana sinna, á meðan eigandi smávirkjana greiðir að jafnaði 3-10 % af sínum tekjum.  

Fyrirtæki ríkis og sveitarfélaga eru ráðandi í orkuöflun í landinu.  Aðeins HS orka nær inn í þann klúbb [úr hópi einkafyrirtækja].  Raunar eru einkafyrirtæki að kveða sér hljóðs með byggingu lítilla virkjana.  Þar hefur HS orka einnig séð tækifæri til vaxtar."

Það er eðlilegt að leggja framlegð virkjunar (ekki tekjur) til grundvallar gjaldtöku fyrir afnot af vatnsréttindum og landi ríkisins, og það er jafnframt eðlilegt, að þessi gjaldtaka sé óháð eignarhaldi á virkjun.  0,39 % af söluandvirði raforkunnar er allt of lágt afgjald, og  10 % er rányrkja í nafni ríkisins.  Á bilinu 3 %-5 % af framlegð virðist eðlilegt afgjald fyrir þessi réttindi. 

Hér yrði um umtalsverðar tekjur ríkisins að ræða, sem freistandi væri að leggja í sjóð, sem stæði straum af verkefnum í þágu umhverfisverndar.  Þar er af nógu að taka, og mætti nefna stærsta umhverfisvandamálið á Íslandi, uppblástur lands, en brýn þörf er á að snúa vörn í sókn í þeim efnum og klæða landið gróðurþekju að nýju.

Til að undirstrika óréttlætið, sem ríkir í þessum málum, er rétt að vitna áfram í téða fréttaskýringu Helga Bjarnasonar:

"Stofnendur smávirkjana, sem nýta jarðeignir ríkisins, fá allt aðrar kröfur um gjald fyrir afnot réttinda hjá fjármálaráðuneytinu en stóru virkjanafyrirtækin fá hjá forsætisráðuneytinu, þegar samið er um að virkja á þjóðlendu.

Kjörin, sem Landsvirkjun og væntanlega önnur fyrirtæki, sem virkja stórt, fá hjá forsætisráðuneytinu ... [nema 0,39 % af söluandvirði rafmagns - innsk. BJo].  Til samanburðar má geta þess, að fram hefur komið opinberlega, að Arctic Hydro, lítið virkjanafyrirtæki, sem er að byggja sig upp, þarf að greiða 3 % af brúttótekjum í upphafi til að fá leyfi til að byggja 9,9 MW Geitdalsárvirkjun á Fljótsdalshéraði, og leigan fer svo stighækkandi, þar til gjaldið verður 10 % eftir 10 ár frá gangsetningu.   Skírnir Sigurbjörnsson, framkvæmdastjóri Arctic Hydro, staðfestir þessar tölur.  Aðspurður segir hann, að sveitarfélagið hafi verið tilbúið til að leigja réttindin fyrir 2,5 % af tekjum í upphafi, en ríkið gert kröfu um 3 %, og þannig muni samningurinn verða." 

Það ríkir stjórnsýsluleg óreiða á þessu sviði, þar sem 2 ráðuneyti beita mjög ólíkum aðferðum við að ákvarða gjaldheimtuna.  Það er ótækt, þar sem ríkja þarf festa, samræmi og jafnræði.  Sennilega er ekki vanþörf á endurskoðun lagasetningar áður en ESA dregur fram pískinn.

 

 

 

 

 


Sjávarútvegur er kjölfesta efnahagslífsins

Sjórinn umhverfis landið var frá upphafi landnáms kjölfesta lífsafkomu þjóðarinnar ásamt afurðum landsins sjálfs.  Erlendar þjóðir voru í aðstöðu til að þróa svo öflug skip á miðöldum, að þau gátu sótt hingað til veiða, á meðan hér voru kænur einar til útróðra.  Bróðurpartur veiðanna var þess vegna útlendinganna, en við sátum eftir í rás tímans undir nýlendustjórn Dana og lápum dauðann úr skel. 

Jón Arason, Hólabiskup, gerði heiðarlega tilraun til að stöðva Siðaskiptin og kollvarpa veldi Danakóngs hérlendis 1540-1550 með bandalagi við kaþólskan keisara Þýzkalands (Þjóðverjar voru umsvifamiklir kaupmenn og fiskimenn á og við Ísland á þessum tíma), en það mistókst hrapallega, eins og alkunna er.  Um þessa miklu atburði hefur Seðlabankastjóri, Ásgeir Jónsson, skrifað læsilegt og æsilegt kver og nú sent frá sér upplýsandi rit um aðdraganda landnáms Íslands, Eyjan hans Ingólfs. 

Á Heimastjórnartímanum í byrjun 20. aldar hafa Íslendingar sennilega fyrir alvöru gert sér ljóst, hvílík verðmæti væru fólgin í sjávarauðlindinni í kringum landið, því að fljótlega var hafizt handa við að draga landhelgislínu um landið, fyrst 3 sjómílur frá ströndum, þá 4 sjómílur frá annesjum, síðan 50 sjómílur og að lokum 200 sjómílur 1976.  Jafnframt hafa Íslendingar verið á varðbergi gagnvart því, að útlendingar klófestu fiskinn til vinnslu og markaðssetningar erlendis með eignarhaldi sínu á útgerðum og fiskvinnslum hérlendis. 

Lykilatriði fyrir verðmætasköpunina er fullvinnsla hérlendis fyrir vel borgandi erlenda markaði.  Eftir vel heppnuð umskipti íslenzks sjávarútvegs með lögfestingu þess fiskveiðistjórnunarkerfis, sem nú er við lýði, en þokulegar vangaveltur eru um breytingar á, hefur hann haft bolmagn til mikilla fjárfestinga í veiðiskipum beztu gerðar og hátækni fiskvinnslum, sem standa erlendum samkeppnisaðilum snúning þrátt fyrir hjalla hér á borð við hátt launastig, há opinber gjöld og mikla fjarlægð frá mörkuðum.

Um erlendar fjárfestingar í í sjávarútvegi ritaði Guðjón Einarsson í Bændablaðið, 4. nóvember 2021:

"Allt frá dögum landhelgisstríðanna hafa Íslendingar verið á varðbergi gagnvart því, að útlendingar kæmust með klærnar í fiskveiðiauðlind þeirra á ný með verulegu eignarhaldi á sjávarútvegsfyrirtækjunum.  Því eru í gildi lög, sem banna, að erlendir aðilar eigi meira en 25 % í íslenzkum fyrirtækjum, sem stunda veiðar eða vinnslu sjávarafurða hér á landi. Með vinnslu sjávarafurða er átt við frystingu, söltun, herzlu og hverja aðra þá verkun, sem ver fisk og aðrar sjávarafurðir skemmdum, þ.m.t. bræðsla og mjölvinnsla, en undanskilin er reyking, súrsun, niðursuða, niðurlagning, umpökkun afurða í neytendaumbúðir o.fl."

Sú spurning vaknar, hvort erlend fyrirtæki eða "leppar" þeirra gætu keypt mikið magn á mörkuðum hér, ef mikil aukning yrði á því, sem fer um markaðina, og flutt fiskinn utan til vinnslu í verksmiðjum sínum og/eða annarra þar.   Höfundurinn segir, að nefnd um erlenda fjárfestingu hafi túlkað lögin með þeim hætti, "að beint og óbeint eignarhald í íslenzkum sjávarútvegi [megi] vera allt að 49 %". 

Þessi takmörkun á erlendu eignarhaldi í íslenzkum sjávarútvegi brýtur í bága við sáttmála ESB um Innri markaðinn og fjórfrelsið, en þar er frjálst flæði fjármagns innifalin.  Hins vegar kvað EES-samningurinn á um það í upphafi og gerir enn, að sjávarútvegur væri undanskilinn samninginum, og hefði betur farið á, að orkumálin væru það líka, eins og síðar kom á daginn.

"En hversu umfangsmikil er erlend eignaraðild að íslenzkum sjávarútvegsfyrirtækjum ?  Ekki er til samantekt um það á einum stað, en í svari þáverandi ráðherra við fyrirspurn Ólafs Ísleifssonar á Alþingi veturinn 2019-2020 kom fram, að í tilefni fyrirspurnarinnar hefðu verið skoðaðir ársreikningar þeirra lögaðila, sem fengið hefðu úthlutað aflamarki [aflahlutdeild] í upphafi fiskveiðiársins 2019/2020.  Miðað var við þá aðila, sem fengu úthlutað 50 þorskígildistonnum eða meira.  Samkvæmt þeim upplýsingum var enginn erlendur aðili skráður eigandi að yfir 1 % hlut í slíku félagi (m.v. ársreikninga 2018). 

Síðan kallar Bændablaðið á kunnáttumann til að útskýra áhugaleysi útlendinga, Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóra Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum.  Sannleikurinn er sá, að nú er íslenzkur sjávarútvegur kominn á slíkt stig tækniþróunar, markaðssetningar og framlegðar, að vandséð er, að fjárfestingar útlendinga yrðu honum til nokkurrar framþróunar. 

  "Ég get þó ekki neitað því, að þess eru dæmi, að erlendir viðskiptavinir okkar hafi sýnt því áhuga að kaupa nokkurra % eignarhlut í Vinnslustöðinni til þess að styrkja tengslin, en ég hef alltaf sagt nei.  Það myndi almennt ekki vera vel séð. Hins vegar eru frjáls viðskipti með hlutabréf í fyrirtækjum eins og Vinnslustöðinni, og því gæti einn hluthafi tekið sig til og selt sín bréf til útlendinga, ef honum sýndist svo", sagði Sigurgeir Brynjar.  Hann bætti því við, að líklegasta skýringin á litlum áhuga erlendra fjárfesta á íslenzkum sjávarútvegsfyrirtækjum væri sú áhætta, sem alltaf vofði yfir vegna hugsanlegra breytinga á fiskveiðistjórnunarkerfinu." 

Ófriður um fiskveiðistjórnunarkerfið er óviðunandi fyrir almenning á Íslandi, sem á feikilega hagsmuni undir því, að friður ríki um lagaumgjörð vel heppnaðs fiskveiðistjórnunarkerfis, sem ekki hefur verið mótmælt með rökum, að sé skilvirkasta fiskveiðistjórnunarkerfi, sem þekkist. Sök á þessum ófriði eiga óábyrgir stjórnmálamenn, sem leitast við að slá pólitískar keilur með því að ala á sundrungu og öfund um kerfið, sem nú er við lýði án þess að benda á trúverðuga valkosti.  Þessu þarf að linna, og mundi þá sennilega fjármagnskostnaður greinarinnar lækka og opinberar tekjur aukast af greininni.  

Þann 15. nóvember 2021 birtist í Morgunblaðinu ein af hinum fróðlegu og hnitmiðuðu greinum Jóns Steinars Gunnlaugssonar, lögmanns, um þjóðmálin, sem hann nefndi:

"Bezta kerfið".

Hún hófst með sögulegu yfirliti:

"Á 8. og 9. áratug síðustu aldar var fyrst að ráði farið með lögum að takmarka sókn íslenzkra veiðiskipa í fiskveiðistofnana við landið.  Byggðist þessi stjórnun á þeim grunni, sem lagður var við lagasetninguna, að nytjastofnar við Ísland væru sameign íslenzku þjóðarinnar, sem og því, að stofnunum stafaði hætta af ofveiði landsmanna.  

Komið var á því, sem við höfum nefnt aflamarkskerfi, sem fólst í að úthluta til fiskiskipa hlutdeild í hámarksafla hinna mismunandi tegunda sjávarfangs, sem heimilt væri að sækja í sjó og ákveðinn væri af stjórnvöldum."

 Hér má bæta við, að aflamark, sett af stjórnvöldum, skyldi reist á veiðiráðgjöf vísindamanna Hafrannsóknarstofnunar.  Var henni þó ekki fylgt út í æsar fyrstu ár kerfisins, en hin seinni árin má heita, að svo hafi verið gert.

Margvíslegir jákvæðir hvatar eru fólgnir í hinu íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfi, sem ýta undir útgerðarmenn og sjómenn að draga úr kostnaði við að sækja hvert tonn úr sjó og að hámarka verðmæti þess.  Þá hvetur varanleg úthlutun aflaheimilda til ábyrgrar umgengni við auðlindir hafsins og til að lágmarka mengun. Enn viðgengst þó umhverfisskussaháttur, sem mál er að linni og nefnist brottkast. 

Aðaláhrif kerfisins voru þau að treysta rekstrargrundvöll sjávarútvegsins, sem var ekki fyrir hendi áður, þ.e. að íslenzkur sjávarútvegur var ósamkeppnishæfur á mörkuðum erlendis.  Þetta leystu stjórnmálamenn fortíðar með því að míga í skóinn sinn, þ.e.a.s. þeir rýrðu verðmæti þjóðargjaldmiðilsins, sem er svindlaðgerð gagnvart hagsmunum almennings.  Öflugur gjaldmiðill er undirstaða velmegunar þjóðar, sem er svo háð innflutningi vara og þjónustu sem Íslendingar, en útflutningur verður að koma á móti, svo að þetta er jafnvægislist.  Hún næst aðeins með skilvirkni á öllum sviðum, framleiðni verðmætasköpunar, sem skapar grundvöll að samkeppnishæfni landsins. Þetta hefur náðst með tæknivæðingu á öllum sviðum atvinnulífs og auðlindanýtingu á fleiri sviðum en sjávarútvegi.  Enn er hægt að auka framleiðsluverðmæti takmarkaðs sjávarafla og auka sjálfbæra orkunotkun landsmanna, svo að því fer fjarri, að endimörkum vaxtar sé náð á Íslandi. 

Jón Steinar gerði síðan eignarhaldið að umræðuefni, en það er eins og það hafi farið mest fyrir brjóstið á gagnrýnendum kerfisins, enda vissulega byltingarkennd breyting innan sjávarútvegs, þó að það sé hefðbundið í öðrum greinum.  Gallinn við gagnrýnina er hins vegar sá, að breytingartillögur eru örverpi með alls konar alvarlegum annmörkum.  Þetta eru vanhugsaðar afurðir stjórnmálamanna, sem annars staðar hafa gefizt afspyrnu illa.

 "Það samrýmist vel meginhugmyndum í lýðræðisríkjum að koma verðmætum atvinnutækjum í hendur þeirra, sem atvinnuna stunda, enda sé gætt að málefnalegu jafnræði við ráðstöfun þeirra.  Landsins gæði eru í slíkum ríkjum í einkaeigu borgaranna, svo sem fasteignir og aðrar eignir, námur og land, m.a. það, sem nýtt er í landbúnaði.  Bændur eiga ekki bara heimalönd jarða sinna, heldur einnig tilkall til hálendissvæða til samræmis við nýtingu þeirra á slíku landi frá fornu fari. Stjórnskipun, sem byggir á einstaklingseignarrétti, er líka miklu líklegri til að skapa landsins lýð meiri verðmæti og tekjur heldur en fyrirkomulag í ríkjum sameignarsinna, svo sem saga mannkynsins sannar svo vel.  Við hikum ekki við að segja, að Ísland sé í sameign þjóðarinnar, sem byggir landið, þó að yfirleitt allt land sé háð eignarrétti einstakra manna."

Einkaeignarrétturinn er rótin að velgengni fiskveiðistjórnunarkerfis, enda beinast misheppnaðar atlögur stjórnmálamanna að honum.  Þeir hafa látið sér detta í hug þá fráleitu ofbeldisráðstöfun að þjóðnýta aflahlutdeildir útgerðarmanna án þess að gera sér nokkra grein fyrir grafalvarlegum réttarfarslegum, efnahagslegum og siðferðislegum áhrifum slíks gernings.  Stjórnmálamenn fortíðar migu í skóinn sinn, þegar þeir höfðu afskipti af sjávarútveginum, en þessar hugmyndir misheppnaðra stjórnmálamanna nútímans eru af enn verra tagi.  

"Þegar fiskveiðistjórnunarkerfi okkar var komið á, var ekki verið að taka eignarréttindi af öðrum borgurum en útgerðarmönnum.  T.d. sat ég sem lögmaður í miðbæ Reykjavíkur og varð ekki var við, að neitt væri af mér tekið við lagasetninguna um stjórn fiskveiða við landið og úthlutun aflaheimilda.  Ég naut þess hins vegar, eins og aðrir landsmenn, að þessi atvinnugrein við sjávarsíðuna blómstraði og skilaði góðri afkomu landslýð öllum til hagsbóta. 

 Kannanir sýna, að íslenzka kerfið skilar meiri efnahagslegum ábata en þau stjórnkerfi, sem þekkjast hjá öðrum ríkjum.  

Kröfur um sérstaka skattheimtu á þessa atvinnugrein umfram aðrar standast að mínum dómi ekki.  Við hljótum að skattleggja íslenzka borgara eftir lagareglum, þar sem jafnræðis er gætt og hið sama látið gilda um alla án tillits til þess á hvaða sviði atvinnulífs þeir afla sér tekna.  

Þeir, sem nú gera háværar kröfur um aukna hlutdeild almennings í verðmætum fiskimiðanna, ættu að hugsa sig aftur um.  Meginviðhorfin, sem orðið hafa ofan á í lagasetningu okkar á þessu sviði eru þau beztu, sem völ er á, þó að alltaf megi sjálfsagt bæta ýmis smáatriði í lögunum."

Jón Steinar Gunnlaugsson hefur lög að mæla og kemst þarna að kjarna málsins.  Jafnræðis verður að gæta, svo í skattheimtu sem öðru.  Þess vegna orka s.k. veiðigjöld tvímælis, enda eru þau ekki iðkuð í nágrannalöndum okkar, nema í litlum mæli í Færeyjum. Þessi gjöld eru þar að auki eins konar dreifbýlisskattur, sem skýtur skökku við byggðastefnuna, sem rekin er í landinu, og eru þess vegna fjármagnsflutningur frá hinum dreifðu byggðum landsins til Reykjavíkur.  Það er óskynsamlegt, að ríkið þvingi fram fjármagnsflutninga þaðan, sem verðmætin verða til, því að slíkt dregur úr fjárfestingum, sem eru undirstaða velmegunar, byggðastöðugleika og samkeppnishæfni.  

 

 

 

 


Fullveldisbarátta í Noregi

Evrópusambandið (ESB) er að sumu leyti eins og fíll í postulínsbúð Evrópuríkjanna, ekki sízt EFTA-landanna, e.t.v. að Liechtenstein undanskildu. Þekkt er, að Svisslendingar sáu sér ekki fært að ganga í EES, hvað þá ESB, á sínum tíma, og eru enn fjær því að vera á biðilsbuxunum núna, þegar þróun ESB í átt að sambandsríki er enn þá auðsærri en á fyrri hluta 10. áratugar 20. aldarinnar. Nýja þýzka ríkisstjórnin undir forystu SPD-Jafnaðarmannaflokksins hefur þetta beinlínis á stefnuskrá sinni.

Svipaða sögu er að segja af Norðmönnum og Svisslendingum, þótt hinir fyrr nefndu hafi samþykkt EES-aðild.  Báðar þjóðirnar höfnuðu ESB-aðild í þjóðaratkvæðagreiðslum, en meirihluta stuðningur við aðild var á meðal fulltrúa á löggjafarsamkundum landanna.

Á Íslandi hefur hvorki verið meirihluti á Alþingi né á meðal þjóðarinnar fyrir ESB-aðild og verður ekki í fyrirsjáanlegri framtíð, enda vega ókostirnir miklu þyngra en kostirnir.  Bæði í Noregi og á Íslandi má rekja andstöðuna til ótta við að missa tökin á stjórnun auðlindanna. Þess vegna voru sjávarútvegs- og landbúnaðarmál undanskilin í EES-samninginum, og EFTA-ríkjunum bar heldur engin skylda til að lögleiða orkulöggjöf sambandsins. Þetta er skilningur forsætisráðherra og utanríkisráðherra Viðeyjarstjórnarinnar, sem sat, þegar gengið var frá EES-samninginum.

Sú innleiðing hefur valdið miklum deilum í Noregi og á Íslandi.  Ný ríkisstjórn Noregs ætlar að salta Orkupakka 4 út þetta kjörtímabil í nefnd hjá EFTA og hefur látið þær upplýsingar berast til framkvæmdastjórnar ESB og vafalaust til Reykjavíkur.  Á Íslandi er hægt að anda léttar um sinn fyrir vikið, en ESB mun sæta færis. Þess vegna þarf að efla varnir. Norðmenn halda um alla þræði í EES-samstarfi EFTA-landanna. 

Í annarri viku nóvember (v.45/2021) var s.k. ACER-mál dómtekið í þingrétti Óslóar, þar sem félagasamtökin "Nei til EU" saksóttu ríkið fyrir stjórnarskrárbrot, þegar Orkupakki 3 frá ESB var samþykktur í Stórþinginu. Dómur er fallinn ríkinu í vil, en málið mun fara fyrir fleiri dómstig. "Nei til EU" heldur því fram, að fullveldisframsalið, sem í því fólst, sé meira en "lítið inngrípandi", þ.e. hafi áhrif á hagsmuni lögaðila og einstaklinga í Noregi, og að Stórþinginu hafi þess vegna borið að fara með málið samkvæmt grein 115 í stjórnarskránni, sem krefst 3/4 meirihluta fyrir samþykkt, þar sem a.m.k. 2/3 þingheims sé mættur.

Orkumálastjórinn norski, Kjetil Lund, lagði í vitnaleiðslum áherzlu á, að hann er yfirmaður bæði NVE (Orkustofnunar) og hinnar nýstofnuðu skrifstofu  landsorkureglara (RME-Reguleringsmyndighet for energi), sem á að framfylgja ákvörðunum ACER (sameiginleg skrifstofa landsorkureglara ESB-landanna) í Noregi.  RME er sett í skipurit sem deild í NVE.  Svipað er uppi á teninginum hjá Orkustofnun á Íslandi.  Á sama tíma á RME að vera óháður reglari (stjórnandi-reglusetjari og regluvörður) fyrir orkumarkaðinn. 

Lund sá að því er virtist ekkert athugavert við þetta, og ekki hefur heyrzt múkk  frá íslenzka orkumálastjóranum.  Aftur á móti hefur ESB-dómstóllinn nýlega slegið í gadda, að túlka skuli kröfuna um sjálfstæði embættisins bókstaflega, og EES-eftirlitsstofnunin ESA hefur spurt, hvort norska fyrirkomulagið sé samkvæmt ákvæðum Orkupakka 3.  Ekkert hefur heyrzt frá íslenzkum yfirvöldum um þetta frekar en fyrri daginn. Á grundvelli úrskurðar ESB-dómstólsins gæti ESA séð ástæðu til að færa ágreiningsmálið fyrir EFTA-dómstólinn.  

Hlutverk RME hefur bein tengsl við hin hörðu átök um ACER í Noregi.  EES-aðlögunin er sniðin þannig, að EES tekur formlega ákvörðun á vegum ACER, en ákvarðanirnar skulu vera samhljóða drögum, sem ACER hefur skrifað.  Ákvörðun ESA fer þessu næst til framkvæmdar hjá RME.  RME er síðasti liður í ferlinu frá ACER-skrifstofunni í Ljublana til starfsemi í Noregi. 

RME á að vera reglari ekki aðeins fyrir millilandatengingar, heldur einnig flutningskerfi raforku innanlands.  T.d. er það RME, sem ákveður, hvernig Statnett (norska Landsnet) má nota umframtekjur (tekjur af óvenju háu verði) af orkusölu um millilandasæstrengina til svæða með öðru verði en er í Noregi.  RME á að fylgjast með, að þessar tekjur séu í höfuðatriðum notaðar til kerfisþróunar millilandatenginga í samræmi við ESB-reglur og fari aðeins í litlum mæli til lækkunar á gjaldskrá innanlands.

Í raforkumarkaðartilskipun Þriðja orkupakkans er þess krafizt, að RME sé óháð stjórnmálalegum yfirvöldum.  Margt bendir til, að Stórþingsmeirihlutinn og Alþingismeirihlutinn, sem samþykktu "pakkann", hafi vanmetið, hversu inngrípandi í samfélagið þessi ákvæði eru.  Sólberg- og Katrínarríkisstjórnirnar gerðu sitt til að breiða yfir þetta með lagasetningum um NVE og Orkustofnun, sem í Noregi kom fram sem frumvarp til breytinga á orkulöggjöf (nr 5L (2017-2018)).  Þar eru frasar á borð við, að "orkureglarahlutverkið verði áfram innan NVE", og "þegar NVE tekur ávörðun sem óháð orkureglarasyfirvald".  Þetta gefur undir fótinn með, að NVE sé áfram reglarayfirvaldið, og hið sama er uppi á teninginum á Íslandi með Orkustofnun, þótt undir fletinu sjáist í hala árans. 

Það kann að vera skynsamlegt á stundum að gera eigin aðlaganir á löggjöf ESB, en það er áhættuíþrótt að gefa til kynna, að EES-regluverkið sé minna ráðandi við stjórnun mála en það í raun og veru er.  Í október 2020 bað ESA norska Olíu- og orkuráðuneytið bréflega um að gera grein fyrir því, hvernig Noregur tryggi, að RME sé óháð.  Hefur íslenzka ríkisstjórnin fengið slíkt bréf ?  Hún er þögul sem gröfin um ESA.  ESA hélt því fram, að mörg norsku lagaákvæðin séu óskýr, og spurðist líka fyrir um það, hvernig óháð staða RME væri tryggð í raun.  Ráðuneytið sendi svarbréf í desember 2020 (Norðmenn eru duglegir við að svara bréfum.), og málið liggur enn á borði ESA í Brüssel.  Skyldi ESA enn bíða svars frá slóðunum í Reykjavík ? 

Í september 2021 féll úrskurður ESB-dómstólsins í máli, sem framkvæmdastjórn ESB hafði höfðað gegn Þýzkalandi fyrir brot á raforkumarkaðstilskipuninni (mál C 718/18).  Framkvæmdastjórnin taldi reglarayfirvaldið  (Bundesnetzagentur) ekki hafa nægilegt svigrúm til til eigin mats á aðstæðum, sem óháðum reglara bæri.  Til þess væri þýzka löggjöfin of nákvæm og leiðandi.

Málið er í grundvallaratriðum mikilvægt fyrir pólitíska stýringu raforkumarkaðarins og fyrir sambandið á milli ESB-réttar og stjórnkerfis hvers lands.  Svíar áttuðu sig á mikilvægi málsins og studdu Þýzkaland í málaferlunum.  Það var samt framkvæmdastjórn ESB, sem vann málið.  ESB-dómstóllinn kvað upp úr um, að regluverkið krefjist þess, að landsorkureglari sé "algerlega óháður" bæði aðilum á markaði og hinu opinbera - hvort sem það eru stofnanir eða stjórnvöld.  Ennfremur nefnir dómstóllinn, að nauðsyn sé á "eindregnum aðskilnaði" frá stjórnmálalegum yfirvöldum hvers lands. 

 Í nýju meistaraverkefni við Háskólann í Bergen (Björgvin) eru einmitt rannsakaðar kröfurnar, sem ESB-reglurnar gera um óháðan orkureglara.  Höfundurinn, Alexander Sæthern, leggur sérstaklega mat á, hvort norska fyrirkomulagið uppfylli kröfur tilskipunarinnar.  Niðurstaðan er, að RME sé ekki nægilega óháð. 

Sæthern bendir á, að NVE sé stofnun undir Olíu- og orkuráðuneytinu (með svipuðum hætti og Orkustofnun), þar sem möguleiki sé á fyrirmælum og öðrum pólitískum afskiptum.  RME er afmörkuð eining, en samt hluti af NVE-skipulaginu og undir orkumálastjóranum, og þetta sé ekki nægilegt til að uppfylla kröfuna um að vera óháður landsorkureglari.  Tilskipunin áskilur ennfremur, að settur sé á laggirnar "einn" orkulandsreglari, en í norska (og íslenzka) líkaninu séu NVE (Orkustofnun) og RME í eins konar tvíeyki.

Kjarninn í ACER-málinu fyrir Ósló-þingrétti (héraðsdómur) var, hversu inngrípandi í samfélagið fullveldisafsalið á orkusviðinu er.  Uppkvaðning dóms ESB-dómstólsins um, að krafizt sé, að RME sé eindregið óháður, gerir ACER samþykkt Stórþingsins (og Alþingis) meira inngrípandi en ríkisstjórnin hélt fram á sínum tíma. Gagnrýnar spurningar ESA og matið í meistararitgerðinni leiða í sömu átt.  RME (landsorkureglari), algerlega óháður yfirvöldum landsins, felur í sér, að reglarayfirvaldið eitt og sér er handbendi (framlenging á) ACER.  Raforkumarkaðstilskipunin kveður skýrt á um, að RME skuli fara eftir og framkvæma allar bindandi ákvarðanir stofnunarinnar (ACER).

Að RME er óháð stofnunum landsins afnemur jafnframt fyrirmælaréttinn, sem norska ríkisstjórnin hefur samkvæmt stjórnarskrá, gr. 3.  Lagadeild Stórþingsins hefur áður fallizt á, að þetta felur í sér viðbótar valdaafsal, en hefði hins vegar takmarkaða þýðingu fyrir mat þeirra (um nauðsyn aukins meirihluta).  Eindregin krafa um, að RME sé óháður, eins og nú er staðfest, veldur því, að áhrif Orkupakka 3 eru meira inngrípandi. 

Óháður RME (landsorkureglari) veldur því, að út frá pólitísku sjónarhorni hverfur stjórnun innlendra yfirvalda og eftirlit með flutnings- og dreifingarfyrirtækjunum.  Það er að skammhleypa eftirliti kjörinna fulltrúa. 

 Í umræðunni um Orkupakka 3 hérlendis var varað við því, m.a. á þessu vefsetri, að hafa landsorkureglara ACER á Orkustofnun, því að slíkt samrýmdist ekki löggjöf ESB.  Í Noregi var ákveðið að fara í lögfræðilegar hundakúnstir til að réttlæta að viðhafa aðeins kröfu um einfaldan meirihluta í Stórþinginu, og hérlendis var vaðið út í sama fenið til að draga fjöður yfir stórfellt fullveldisframsal, sem var stjórnarskrárbrot.  Nú koma þessar hundakúnstir mönnum í koll, og fyrir vikið hangir Orkupakki 3 á bláþræði. Upp komast svik um síðir.    

 

     


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband