Færsluflokkur: Evrópumál
13.2.2022 | 10:40
Vandræði í Noregi vegna raforkumarkaðarins
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að sá áfangi í orkulöggjöf Evrópusambandsins (ESB), sem gengur undir heitinu Orkupakki 3, var samþykktur af Stórþinginu í Ósló í marz 2018 við víðtæk mótmæli í landinu, og enn er í gangi rekistefna fyrir dómstólum um lögmæti þeirrar samþykktar, því að ekki var krafizt aukins meirihluta (3/4 greiddra atkvæða, þar sem a.m.k. 2/3 þingmanna greiði atkvæði), eins og stjórnarskrá Noregs áskilur, þegar um er að ræða valdframsal til útlanda, sem varðar hag almennings beint.
Alþingi samþykkti sömu löggjöf ESB haustið 2019 við fögnuð í norska stjórnarráðinu, en sorg um endilangan Noreg, en með þeim mikilsverða fyrirvara þó, sem líklega brýtur í bága við EES-samninginn, að Alþingi áskilur sér rétt til að eiga síðasta orðið um tengingu aflsæstrengs frá útlöndum við raforkukerfi Íslands. Það eru einmitt öflugar sæstrengstengingar á milli Noregs, Englands, Þýzkalands og Hollands, sem eru rót gríðarlegrar óánægju almennings í Noregi með raforkuverðið þar, sem hefur margfaldazt síðan 2020.
Samkvæmt nýlegum skoðanakönnunum vill meirihluti Norðmanna nú segja skilið við ACER-Orkuskrifstofu ESB og ganga úr Orkusambandinu við ESB, sem lögfest voru í EFTA-löndunum þremur, sem eru í EES, með Orkupakka 3. Svo mikil er óánægjan í Noregi, að u.þ.b. helmingur landsmanna vill nú gera fríverzlunarsamning við ESB í stað EES-samningsins. Fríverzlunarsamningur EFTA, með Svisslendinga innanborðs, gæti þjónað hagsmunum Íslendinga vel.
Það er þannig í norska markaðskerfinu, að raforkuverð á heildsölumarkaði Nord Pool er breytilegt frá einni klukkustund til annarrar og það er ólíkt eftir landshlutum. Sunnan við Þrándheim er það tífalt á við verðið í Mið- og Norður-Noregi. Þann 9. febrúar 2022 var raforkukostnaður um 2,0 NOK/kWh=28,2 ISK/kWh (raforkuverð+flutnings- og dreifingargjöld og rafskattur og vsk). Í Þrándheimi nam heildsöluverðið þann dag að meðaltali aðeins 12,6 Naur/kWh=1,8 ISK/kWh, og lætur þá nærri, að einingarkostnaður þar hafi numið 3,0-4,0 ISK/kWh, sem er aðeins um fimmtungur þess, sem íslenzkar fjölskyldur borga fyrir kWh. Norska fjölskyldan kaupir hins vegar fimmfaldan fjölda kWh á við þá íslenzku, því að hún rafhitar íbúðina sína. Í Suður- og Vestur-Noregi er þess vegna um verulega lífskjaraskerðingu að ræða eða um 500 kISK/ár, sem alfarið er hægt að rekja til raforkuviðskiptanna við útlönd.
Þetta hefur valdið almennri óánægju með markaðskerfi raforku í Noregi. Statkraft (norska Landsnet, ríkisfyrirtæki), sem á allar millilandatengingarnar við Noreg, ræður ekki lengur yfir flutningunum (eftir OP3), heldur ACER, sem leyfir markaðinum að ganga svo á miðlunarlónin í Suður- og Vestur-Noregi, þaðan sem millilandatengingarnar eru, að verðið helzt tífalt á við það, sem það annars væri.
Íbúar Mið-Noregs óttast að verða fórnarlömb þessa orkuokurs í kjölfar bættrar tengingar við Vestur-Noreg, sem nú stendur yfir. Fyrirtæki í Suður- og Vestur-Noregi, sem ekki hafa langtímasamninga, hafa orðið fyrir gríðarlegum kostnaðarauka, og þessi fáránlega staða í vatnsorkulandinu Noregi virkar hagvaxtarhamlandi, en á sama tíma græðir norski olíusjóðurinn á mikilli gassölu, og olíuverði er nú spáð yfir 100 USD/tunnu áður en langt um líður. Ríkisstjórnin getur stundað dýrar millifærslur úr ríkissjóði án skuldsetningar með því að ganga á ávöxtun olíusjóðsins.
Ríkisstjórnin hefur t.d. aukið s.k. búsetustuðning við hina verst settu vegna hækkaðs orkukostnaðar og lækkað rafskattinn.
Norskt rafmagn hefur verið flokkað sem vara, sem er keypt og seld á Nord Pool markaðinum. Þetta er í samræmi við orkulöggjöf ESB. Raforkuvinnslufyrirtækin stórgræða á viðskiptunum við fjölskyldurnar, orkufyrirtæki án langtímasamninga og sveitarfélög, sem ekki eiga hlutdeild í virkjunum. Lengi vel var sá áróður hafður uppi í Noregi, að millilandaraforkutengingar væru Norðmönnum nauðsynlegar í slökum vatnsbúskaparárum, en fjárhagsleg sjónarmið annarra en alþýðunnar sátu í raun í fyrrúmi, enda eru nú téðar millilandatengingar orðnar fleiri og öflugri en þörf er á afhendingaröryggisins vegna. Afleiðingin er innflutningur á ógnvekjandi háu raforkuverði og útflutningur á orkuforða miðlunarlóna vatnsorkuvirkjananna, einkum í Suður- og Vestur-Noregi. Ofan á dræman vatnsbúskap sumarið 2021 lagðist mikil spurn eftir raforku frá útlöndum, svo að vatnsstaða miðlunarlóna í þessum landshlutum er langt undir meðallagi, sem endurspeglast í tíföldun raforkuverðsins núna.
Statnett stendur nú að eflingu raforkuflutningskerfisins á milli norðurs og suðurs á svipaðan hátt og Landsnet á Íslandi. Þetta er mikilvægt til að styrkja núverandi vinnustaði í báðum löndunum og til að gera kleift að stofna til nýrra, en eins og kunnugt hefur á Norðurlandi, t.d. í Eyjafirði, orðið að fresta framkvæmdum, og atvinnutækifæri hafa jafnvel tapazt fyrir vikið. Þetta er gjörsamlega ólíðandi fyrir almannahag á Íslandi, en í Noregi eru uppi miklar áhyggjur af því, að efling af þessu tagi verði aðeins til að auka útflutning raforku og hækka raforkuverð í Mið- og Norður-Noregi, sem þá gerir atvinnuuppbyggingu þar að engu. Brostnar vonir kynda undir þjóðfélagsóánægju, og hún mun brjótast fram í mótmælum í Noregi 15. febrúar 2022.
Rafmagn er hluti innviða þjóðfélagsins, sem nota ber til að búa til atvinnu og að tryggja trausta og grózkumikla byggð um allt land. Með þessu áframhaldi í Noregi eiga Norðmenn á hættu, að orkusækinn iðnaður í dreifðum byggðum landsins flytjist til landa, þar sem orkukerfið er alfarið reist á jarðefnaeldsneyti. Sams konar eyðilegging á samkeppnishæfni bíður fyrirtækja á Íslandi, ef yfirvöld glepjast á að innleiða hér spákaupmennsku á raforkumarkaði, eins og viðgengst í Noregi, og almenningur þar á fjölmennum landssvæðum sýpur nú soðið af. Nú er verið að rafvæða olíu- og gasborpalla á norska landgrunninu, sem þá keppa um rafmagn á markaði við heimilin, sem kynda húsnæði sitt með rafmagni. Hátt raforkuverð gerir vindorkuver hagkvæm í Noregi, en þau eru eðlilega náttúruunnendum í Noregi mikill þyrnir í augum, og vaxandi andstaða er gegn þeim, þegar fólk sér afleiðingarnar, enda eiga Norðmenn enn mikið óvirkjað vatnsafl.
Orkupakkar ESB leggja grunn að samkeppnismarkaði með rafmagn í kauphöll og ófyrirsjáanlegu raforkuverði. Orkuskrifstofa ESB, ACER, gegnir því meginhlutverki að koma á flutningskerfi og regluverki, sem valda nokkurn veginn sama raforkuverði í Noregi (og Íslandi og Liechtenstein) og í ESB. Ísland er sem betur fer enn ótengt erlendum raforkukerfum, en hér stefnir hins vegar í óefni, af því að þeirrar forsjár hefur ekki verið gætt að bæta við nægum virkjunum, svo að hér sé alltaf borð fyrir báru, hvernig sem tíðarfarið er.
Aðalkrafa mótmælendanna í Noregi 15. febrúar 2022 verður, að Noregur endurheimti fullveldi sitt yfir orkumálunum úr höndum ESB. Það er svo mikill hiti undir þeirri kröfu, að hrikt getur í stoðum EES-samstarfsins. Það er verkalýðshreyfing Noregs sem fer fyrir þessari kröfugerð, og stærri stjórnarflokkurinn í ríkisstjórn Noregs er nú Verkamannaflukkurinn, sem jafnan hefur sveigt stefnu sína að stefnumörkun Alþýðusambands Noregs og/eða stærstu verkalýðsfélaganna. Hinn stjórnarflokkurinn, Miðflokkurinn, barðist á Stórþinginu og í grasrótinni gegn innleiðingu Orkupakka 3 í Noregi.
Baráttufólk iðnaðarins í Noregi mun í samstarfi við verkalýðsforystuna í Björgvin og grennd taka frumkvæði að því að virkja almenning til að krefjast mikillar lækkunar raforkuverðs. Það jafngildir því, að stjórnvöld afnemi núverandi verðlagskerfi raforku og að stjórnmálamenn ákvarði raforkuverðið út frá heildarkostnaði og arðsemi í líkingu við meðalarðsemi atvinnulífsins. Norðmenn líta upp til hópa á vatnsaflið sem sitt erfðasilfur, sem þjóna eigi almenningi og eigi að skapa iðnaðinum og atvinnulífinu almennt samkeppnisforskot. Til bráðabirgða er farið fram á niðurfellingu rafskatts og virðisaukaskatts á rafmagni.
Til þess að lækka raforkuverðið með viðráðanlegum og sjálfbærum hætti eru kröfur baráttufólksins róttækar og skiljanlegar:
- Við rekstur raforkukerfisins skal leggja áherzlu á að halda miðlunargetunni ofan hættumarka á tæmingu. Stöðva ver útflutning rafmagns, þegar miðlunargetan fer niður að meðaltali árstímans.
- Ganga úr ACER og Orkusambandi ESB, en halda áfram að eiga raforkuviðskipti við nágrannalöndin Svíþjóð og Danmörk.
- Gera skal langvarandi raforkusamninga við norskan iðnað og landbúnað um fyrirsjáanleg verð og veita heimilum kost á tvíverðssamningum, t.d. dagtaxta og næturtaxta.
Þegar höfð er í huga þykkjan, sem er í Norðmönnum vegna þess, hvernig spákaupmenn komast upp með að leika sér með erfðasilfur þeirra, orkuafurð vatnsaflsins, undir verndarvæng löggjafar, sem flutt er inn frá ESB, nú síðast undir heitinu Orkupakki 3, er engin furða, að stjórnarflokkarnir hafi einfaldlega komið sér saman um að taka Orkupakka 4 af dagskrá í Noregi. Norðmenn vissu, að íslenzka ríkisstjórnin yrði fegin að þurfa ekki að leggja út í orrahríð út af Orkupakka 4, og þess vegna var ákveðið innan vébanda EFTA að salta OP4 í nefnd út þetta kjörtímabil og ESB tilkynnt þar um. Nú er hins vegar spurningin, hvort meirihluti myndast senn á Stórþinginu fyrir því að kasta OP3 í ruslakörfuna. Ef nógu margir Stórþingsmenn komast á þá skoðun, að hann vinni gegn hagsmunum Noregs, þá verður það gert. Alþingi mun varla sýta það, en spurning er, hvernig Framkvæmdastjórnin í Brüssel bregst við. Sem stendur eru Norðmenn í lykilstöðu sem einn af aðalbirgjum Evrópu fyrir jarðgas. Skrúfi Noregur fyrir, frýs í húsum Evrópu, og fyrr mun sennilega frjósa í Helvíti.
6.1.2022 | 11:39
Væringar í ESB út af sjálfskaparvíti á orkusviði
Hefur ACER (Orkustofa ESB - samstarfsvettvangur orkulandsreglara EES-landanna) rétt fyrir sér ? Er sameiginlegur orkumarkaður ESB nauðsynlegur til að skapa samfélög, reist á endurnýjanlegri orku ? Er hátt raforkuverð kostnaðurinn við þessa orkubyltingu ?
Eins og sést á þessum spurningum, sem fólk á hinum sameiginlega orkumarkaði ESB (Evrópusambandsins) veltir núna vöngum út af, eiga viðfangsefni ACER afar takmarkaða eða enga skírskotun til Íslands. Að álpast til að ganga löggjöf ESB á orkusviðinu á hönd, getur ekki bætt stöðu Íslands á nokkurn hátt, og röksemdafærslan fyrir því á sínum tíma var ýmist út í hött eða hreinn sparðatíningur, en þessi aðild getur valdið vandræðum innan EFTA og í samskiptum við ESB, ef Eftirlitsstofnun EFTA-ESA fer að fetta fingur út í innleiðingu Orkupakka 3, sem var ekki samkvæmt bókstaf EES-samningsins, eins og rakið hefur verið á þessu vefsetri. Flokkarnir, sem að nýju norsku ríkisstjórninni standa, komu sér saman um að leggja 4. orkupakka ESB í saltpækil allt þetta kjörtímabil (2021-2025), og Norðmenn ráða afstöðu EFTA-landanna innan EES.
Frakkland, Grikkland, Ítalía og Rúmenía (allt vatnsorkulönd í nokkrum mæli) vilja, að verðlagning raforku innan Orkusambands ESB fari fram á grundvelli meðaltalsvinnslukostnaðar rafmagns. Á fundi orkuráðherra ESB 02.12.2021 réðust orkuráðherrar þessara 4 landa á grundvöll ACER fyrir verðlagningu raforkunnar, sem er jaðarkostnaðarreglan, þ.e. að síðasta kWh, sem framleidd er í kerfinu, ákvarði verðið. Núna kemur þessi síðasta kWh frá jarðgasi, og gasverðið hefur fjórfaldazt á skömmum tíma.
Þessi 4 lönd hafa mikið til síns máls. Hvers vegna eiga t.d. Norðmenn, heimili og fyrirtæki, sem orðnir eru þræltengdir við raforkukerfi ESB og reyndar Bretlands einnig, að greiða yfir 100 Naur/kWh (14,6 ISK/kWh), þegar meðaltalskostnaðurinn við raforkuvinnsluna í Noregi er undir 10 Naur/kWh (1,46 ISK/kWh) ? Á öllum öðrum sviðum vöru og þjónustu, sem almenningur verður að hafa aðgang að á hverjum degi, ákvarðar meðaltalskostnaður við framleiðsluna verðið. Hvers vegna á annað að gilda um rafmagn, er nú spurt í ráðherraráði ESB ?
Völdin liggja þar hjá Þýzkalandi, sem fékk til liðveizlu við sig 8 önnur lönd í þessu máli. Þarna togast rétt einu sinni á germanskur og rómanskur hugarheimur. Röksemdirnar fengu germönsku þjóðirnar úr hraðsoðinni, en þó viðamikilli skýrslu ACER um verðlagningu á orku, sem er að finna í viðhengi með þessum pistli.
ACER fullyrðir í skýrslunni, að raforkuvinnsla framtíðarinnar verði æ breytilegri eftir því sem vinnslu úr endurnýjanlegum orkugjöfum vindur fram. Það þýðir, að orkuvinnslan verður sífellt háðari jöfnunarorku, þegar náttúran bregst með vind- og sólarleysi. Ef á að verða arðsemi í fjárfestingum á borð við rafgeyma, orkugeymslu í miklu magni, vetni og öðrum tæknilausnum, þá verður að ákvarða orkuverðið á grundvelli kostnaðar síðustu kWh, sem þörf er á. ACER er með skýrt mótaða stefnu: verðþak eða meðaltalsverð ógna sameiginlegum orkumarkaði ESB. Þessi stefna hentar Íslendingum illa.
Hefur ACER rétt fyrir sér ? Er sameiginlegur orkumarkaður nauðsynlegur fyrir þróun samfélaga til endurnýjanlegrar orkunotkunar ? Er hátt rafmagnsverð gjaldið, sem greiða verður fyrir sjálfbærnina ?
Taka má dæmi af Noregi, sem hefur nú verið rækilega tengdur, þótt enn bíði umsókn um aflsæstreng til Skotlands afgreiðslu af pólitískum ástæðum. Þegar hafizt var handa um að virkja vatnsföll Noregs, var það gert á grundvelli verðlagningar á raforkunni samkvæmt tilkostnaði. Þegar sama fyrirtæki virkjaði meira, gilti meðaltalskostnaður fyrirtækisins við verðlagningu nýrrar orku. Þegar framboðshliðin ein á að ráða markaðsverðinu, þá verður það dýrasta virkjunin per kWh, sem ræður verðinu. Þessi ófélagslega hlið á þeirri samfélagslegu innviðaþjónustu, sem útvegun rafmagns er, virðist varða leiðina að endurnýjanlegri raforkunotkun á hinum sameiginlega orkumarkaði ESB, og hún er illa til þess fallin að njóta lýðhylli, sem aftur torveldar orkuskiptin. Á Íslandi vofir yfir innleiðing á þessu framandi uppboðskerfi raforku, sem í raun á hingað ekkert erindi og getur aðeins skaðað samkeppnishæfni rafknúins samfélags.
ACER hefur lengi litið hýru auga til Norðurlandanna til orkuöflunar fyrir meginlandið og þá aðallega útvegun jöfnunarorku, sem æ meiri þörf verður fyrir á meginlandi Evrópu og ný gasknúin raforkuver sjá um nú í auknum mæli. Talsmenn ACER halda því fram, og endurómurinn hefur birzt hérlendis, t.d. í skrifum varaformanns Viðreisnar, að verðhækkanir megi að nokkru skýra með því, að sveiflugeta miðlunarlónanna á vatnsforðanum verði verðmætari (með lágum framleiðslukostnaði teygist raforkuverð vatnsorkuveranna auðvitað upp í átt að verðinu á sameiginlega markaðinum, og þetta hefur valdið gríðarlegri óánægju í Noregi). Meðaltal raforkuverðs í Noregi á 3. ársfjórðungi 2021 var 76,3 Naur/kWh eða 11,1 ISK/kWh, sem er tvöföldun m.v. meðaltal síðast liðinna 5 ára, og þetta er tæplega tvöfalt verð frá orkuveri til íslenzkra heimila.
Það geta varla verið aðrir en raforkuframleiðendur, sem sjá sér hag í því að taka þátt í þessum sameiginlega orkumarkaði, hvort sem Ísland eða Noregur á í hlut. Bæði löndin flæktust í Orkusamband Evrópu með lögfestingu Þriðja orkupakka ESB, en aðeins annað landanna sýpur seyðið af því, enn sem komið er, en vonandi ná Norðmenn að losa um klær ACER, svo að þeir geti sjálfir stjórnað raforkuflutningum inn og út úr landinu, sjálfum sér til hagsbóta.
Hins vegar eru óánægjuraddir með þetta Orkusamband víðar innan EES. Þótt ACER búist við lækkun gasverðs í apríl 2022 (allt er það undir hælinn lagt eftir ákvörðun Þjóðverja, með tilstyrk Bandaríkjamanna, að opna ekki fyrir gas frá Rússlandi um Nord Stream 2, nema Rússar haldi sig á mottunni gagnvart Úkraínu), þá mun jaðarkostnaðarregla ACER við verðlagningu raforku leiða til hás raforkuverðs á áratugum orkuskiptanna. Þetta kemur sér sérlega illa fyrir fátæk lönd á borð við Grikkland og er ekki til hagsbóta fyrir lönd, sem eru sjálfum sér nóg um raforkuöflun, eins og Frakkland, Búlgaría og Tékkland eru.
Alls staðar í Evrópu aukast mótmælin gegn þessari stefnu ACER/ESB. ESB, sem hlustar meira á ACER en borgarana í aðildarlöndunum, mun ekki lægja öldurnar.
Því má svo bæta við þetta rifrildisefni innan ESB, að Frakkar, sem nú fara með æðstu stjórn ESB, embætti forseta ráðherraráðsins, hafa nú lagt til, græningjum Evrópu til armæðu, að kjarnorkuknúin og gasorkuknúin raforkuver verði af ESB viðurkennd sem græn og umhverfisvæn mannvirki. Þetta hefur sett ríkisstjórnina í Berlín, með græningja innanborðs, í vanda. Þjóðverjar lokuðu 3 kjarnorkuverum sínum í fyrra [2021], og eru nú enn háðari kolum og jarðgasi en áður. Þetta er gott dæmi um mótsagnakennda loftslagsstefnu. Kjarnorkunni mun verða veitt brautargengi á ný í heiminum, því að hún er hið eina, sem leyst getur kolaorkuver almennilega af hólmi.
16.12.2021 | 17:18
Mismunun ríkisvaldsins á sviði gjaldtöku af orkufyrirtækjum
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að árið 2016 féllst þáverandi ríkisstjórn (með bréfi utanríkisráðherra, Lilju Alfreðsdóttur) á allar kröfur ESA - Eftirlitsstofnunar EFTA - um verðlagningu á afnotarétti lands og vatnsfalla til orkufyrirtækja. Í megindráttum snerust þessar kröfur ESA um jöfnun samkeppnisstöðu ríkisfyrirtækja og einkafyrirtækju til afnota af vatnsréttindum og landi í eigu ríkisins til orkuvinnslu. Ætla má, að sömu jafnaðarsjónarmið gildi um jarðgufu, en hún er óalgeng á Innri markaði Evrópusambandsins (ESB).
Allir skyldu sitja við sama borð og greiða "markaðsvirði", en hvernig slíkt markaðsverð skyldi ákvarða, fylgdi ekki sögunni. Það er annmörkum háð að finna, hvaða verð markaðurinn vill greiða fyrir slík verðmæti án opins útboðs og þá á Innri markaði ESB, ef marka má hliðstæðar kröfur Framkvæmdastjórnarinnar gagnvart 8 aðildarlöndum ESB, sem líka veita ríkisorkufyrirtækjum forgang að vatnsréttindum ríkisins, t.d. Frakklandi.
Framkvæmd þessarar skuldbindingar íslenzka ríkisins gagnvart ESA bögglaðist fyrir íslenzka ríkinu, og ekkert hefur orðið úr útboði, enda svaraði norska ríkisstjórnin svipaðri kröfu ESA á hendur norska ríkinu nokkrum árum seinna snöfurmannlega þannig, að ráðstöfun orkulinda í eigu norska ríkisins væri utan við gildissvið EES-samningsins og þess vegna ekki í verkahring ESA, og þar við situr þar, en það er ekki líklegt, að ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) sé af baki dottin, því að bullandi innbyrðis ósamræmis gætir í ráðstöfun íslenzka ríkisins. Munurinn á viðbrögðum íslenzku og norsku ríkisstjórnarinnar gagnvart kröfu um að hleypa erlendum orkufyrirtækjum að rekstri íslenzkra og norskra virkjana er sorglegur.
Ráðstöfun vatnsréttinda íslenzka ríkisins hlýtur að falla undir íslenzk samkeppnislög, en það er auðvitað með öllu ótækt að fallast á almennt útboð þessara verðmætu réttinda á EES-svæðinu, eins og Lilja Alfreðsdóttir, þáverandi utanríkisráðherra, gerði árið 2016, en þá var dýralæknirinn Sigurður Ingi Jóhannsson, núverandi innviðaráðherra, forsætisráðherra.
Baksviðsfrétt Helga Bjarnasonar, blaðamanns á Morgunblaðinu, um "vatnsréttindi virkjana" fjallaði um nýlega samninga íslenzka ríkisins við Landsvirkjun um þessi vatnsréttindi. Fréttin bar fyrirsögnina:
"Samið um mikil verðmæti",
og hófst þannig:
"Landsvirkjun greiðir ríkinu 90 MISK/ár [milljónir] fyrir afnot af þjóðlendum til rafmagnsframleiðslu í 6 vatnsaflsvirkjunum á Þjórsár-Tugnaársvæðinu og hluta afls í þeirri 7. Uppsett afl, sem samningurinn nær til, er liðlega 800 MW eða sem svarar til liðlega 40 % af uppsettu afli allra vatnsaflsvirkjana fyrirtækisins. Hluta þessara virkjanaréttinda hafði Alþingi veitt Landsvirkjun án nokkurra skilyrða um endurgjald, en eigi að síður samdist svo um, að greitt yrði af öllum virkjununum, nema upphaflegu Búrfellsvirkjun [210 MW], og miðast gjaldið mikið við niðurstöðu dómsdóla um vatnsréttindi Kárahnjúkavirkjunar." [Upphaflegu vatnsréttindin vegna Búrfells má skoða sem stofnframlag í Landsvirkjun, sem nú ber ávöxt - innsk. BJo.]
Af þessari upphæð að dæma fyrir nýtingu á orku, sem er a.m.k. 5500 GWh/ár, er um hreinan málamyndagjörning af hálfu ríkisins og fyrirtækis þess, Landsvirkjunar, að ræða, því að árlegt gjald er aðeins um 0,4 % af árlegum tekjum, sem búast má við að fá fyrir þessa orku að jafnaði m.v. núverandi samninga. Þetta er hlálega lágt og stingur algerlega í stúf við gjaldið, sem ríkið innheimtir af 3. aðila fyrir vatnsréttindi smávirkjana (<10 MW) á ríkisjörðum.
Þarna mismunar ríkið aðilum á markaði með þeim hætti, að klárlega varðar við samkeppnislög. Jafnframt býður ríkisvaldið hættunni heim, að ESA fetti fingur út í þessa stjórnsýslu og færi málið á endanum fyrir EFTA-dómstólinn, ef íslenzka ríkið ekki sér að sér og gætir jafnréttissjónarmiða. Það yrði ekki ferð til fjár fyrir íslenzka ríkið.
Um ESA-þáttinn skrifar Helgi Bjarnason m.a.:
"Það var síðan ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) frá 2016 um, að það teldist ólögleg ríkisaðstoð til orkufyrirtækja að heimila þeim að nota orkuréttindi í opinberri eigu án endurgjalds, sem ýtti á frekari undirbúning og samninga við Landsvirkjun."
Samningar af þessu tagi á milli skyldra aðila hljóta að gefa bæði Samkeppniseftirlitinu og ESA "blod på tanden" og eru þess vegna óskynsamlegir. Forsendurnar eiga alls ekki við, þar sem miðað er við dóm Hæstaréttar í deilu Fljótsdalshrepps við Landsvirkjun. Þar var Landsvirkjun dæmt til að greiða eins konar aðstöðugjald til landeigendanna, 1,4 % af stofnkostnaði virkjunarinnar á ákveðnu árabili, en Landsvirkjun dregur frá afskriftir, sem er út í hött, því að verið er að bæta landeigendum meint tjón (þeir hafa nú reyndar fengið laxveiðiá í kaupbæti), en ekki verið að veita þeim hlutdeild í verðmætasköpun virkjunarinnar. Öllu er þess vegna snúið á haus í þessu máli.
Helgi Bjarnason ritaði samdægurs framhaldsfréttaskýringu um sama mál í Morgunblaðið, en nú með aðaláherzlu á meðferð og stórlega mismunun ríkisvaldsins á einkafyrirtækjum, sem berjast við að nýta lítil vatnsföll. Fyrirsögnin var sláandi:
"Sama gjald fyrir smávirkjun og greitt er fyrir Sigölduvirkjun".
Hvernig í ósköpunum má það vera, að stjórnsýslan á Íslandi mismuni fyrirtækjum svo herfilega, að refsivöndur eftirlitsstofnana sé einboðinn ? Fréttaskýringin hófst þannig:
"Sláandi munur er á kjörum, sem ríkið býður stóru orkufyrirtækjunum og þeim, sem byggja svo kallaðar smávirkjanir. ... [Eigandi 9,9 MW, í mesta lagi 70 GWh/ár, greiðir 15,7 MISK/ár fyrir afnotaréttinn og tvöfalt meira að 10 árum liðnum frá gangsetningu. Af Sigölduvirkjun, 150 MW, 920 GWh/ár, greiðir Landsvirkjun aðeins 15,7 MISK/ár fyrir sinn afnotarétt. Svona mismunun er í einu orði sagt vond stjórnsýsla, sem Samkeppnisstofnun og/eða ný ríkisstjórn þarf að hafa forgöngu um að laga - innsk. BJo.]
Útreikningar á hlutfalli leigu af rekstrartekjum sýna sömuleiðis, að Landsvirkjun greiðir að jafnaði 0,39 % af tekjum virkjana sinna, á meðan eigandi smávirkjana greiðir að jafnaði 3-10 % af sínum tekjum.
Fyrirtæki ríkis og sveitarfélaga eru ráðandi í orkuöflun í landinu. Aðeins HS orka nær inn í þann klúbb [úr hópi einkafyrirtækja]. Raunar eru einkafyrirtæki að kveða sér hljóðs með byggingu lítilla virkjana. Þar hefur HS orka einnig séð tækifæri til vaxtar."
Það er eðlilegt að leggja framlegð virkjunar (ekki tekjur) til grundvallar gjaldtöku fyrir afnot af vatnsréttindum og landi ríkisins, og það er jafnframt eðlilegt, að þessi gjaldtaka sé óháð eignarhaldi á virkjun. 0,39 % af söluandvirði raforkunnar er allt of lágt afgjald, og 10 % er rányrkja í nafni ríkisins. Á bilinu 3 %-5 % af framlegð virðist eðlilegt afgjald fyrir þessi réttindi.
Hér yrði um umtalsverðar tekjur ríkisins að ræða, sem freistandi væri að leggja í sjóð, sem stæði straum af verkefnum í þágu umhverfisverndar. Þar er af nógu að taka, og mætti nefna stærsta umhverfisvandamálið á Íslandi, uppblástur lands, en brýn þörf er á að snúa vörn í sókn í þeim efnum og klæða landið gróðurþekju að nýju.
Til að undirstrika óréttlætið, sem ríkir í þessum málum, er rétt að vitna áfram í téða fréttaskýringu Helga Bjarnasonar:
"Stofnendur smávirkjana, sem nýta jarðeignir ríkisins, fá allt aðrar kröfur um gjald fyrir afnot réttinda hjá fjármálaráðuneytinu en stóru virkjanafyrirtækin fá hjá forsætisráðuneytinu, þegar samið er um að virkja á þjóðlendu.
Kjörin, sem Landsvirkjun og væntanlega önnur fyrirtæki, sem virkja stórt, fá hjá forsætisráðuneytinu ... [nema 0,39 % af söluandvirði rafmagns - innsk. BJo]. Til samanburðar má geta þess, að fram hefur komið opinberlega, að Arctic Hydro, lítið virkjanafyrirtæki, sem er að byggja sig upp, þarf að greiða 3 % af brúttótekjum í upphafi til að fá leyfi til að byggja 9,9 MW Geitdalsárvirkjun á Fljótsdalshéraði, og leigan fer svo stighækkandi, þar til gjaldið verður 10 % eftir 10 ár frá gangsetningu. Skírnir Sigurbjörnsson, framkvæmdastjóri Arctic Hydro, staðfestir þessar tölur. Aðspurður segir hann, að sveitarfélagið hafi verið tilbúið til að leigja réttindin fyrir 2,5 % af tekjum í upphafi, en ríkið gert kröfu um 3 %, og þannig muni samningurinn verða."
Það ríkir stjórnsýsluleg óreiða á þessu sviði, þar sem 2 ráðuneyti beita mjög ólíkum aðferðum við að ákvarða gjaldheimtuna. Það er ótækt, þar sem ríkja þarf festa, samræmi og jafnræði. Sennilega er ekki vanþörf á endurskoðun lagasetningar áður en ESA dregur fram pískinn.
13.12.2021 | 10:30
Sjávarútvegur er kjölfesta efnahagslífsins
Sjórinn umhverfis landið var frá upphafi landnáms kjölfesta lífsafkomu þjóðarinnar ásamt afurðum landsins sjálfs. Erlendar þjóðir voru í aðstöðu til að þróa svo öflug skip á miðöldum, að þau gátu sótt hingað til veiða, á meðan hér voru kænur einar til útróðra. Bróðurpartur veiðanna var þess vegna útlendinganna, en við sátum eftir í rás tímans undir nýlendustjórn Dana og lápum dauðann úr skel.
Jón Arason, Hólabiskup, gerði heiðarlega tilraun til að stöðva Siðaskiptin og kollvarpa veldi Danakóngs hérlendis 1540-1550 með bandalagi við kaþólskan keisara Þýzkalands (Þjóðverjar voru umsvifamiklir kaupmenn og fiskimenn á og við Ísland á þessum tíma), en það mistókst hrapallega, eins og alkunna er. Um þessa miklu atburði hefur Seðlabankastjóri, Ásgeir Jónsson, skrifað læsilegt og æsilegt kver og nú sent frá sér upplýsandi rit um aðdraganda landnáms Íslands, Eyjan hans Ingólfs.
Á Heimastjórnartímanum í byrjun 20. aldar hafa Íslendingar sennilega fyrir alvöru gert sér ljóst, hvílík verðmæti væru fólgin í sjávarauðlindinni í kringum landið, því að fljótlega var hafizt handa við að draga landhelgislínu um landið, fyrst 3 sjómílur frá ströndum, þá 4 sjómílur frá annesjum, síðan 50 sjómílur og að lokum 200 sjómílur 1976. Jafnframt hafa Íslendingar verið á varðbergi gagnvart því, að útlendingar klófestu fiskinn til vinnslu og markaðssetningar erlendis með eignarhaldi sínu á útgerðum og fiskvinnslum hérlendis.
Lykilatriði fyrir verðmætasköpunina er fullvinnsla hérlendis fyrir vel borgandi erlenda markaði. Eftir vel heppnuð umskipti íslenzks sjávarútvegs með lögfestingu þess fiskveiðistjórnunarkerfis, sem nú er við lýði, en þokulegar vangaveltur eru um breytingar á, hefur hann haft bolmagn til mikilla fjárfestinga í veiðiskipum beztu gerðar og hátækni fiskvinnslum, sem standa erlendum samkeppnisaðilum snúning þrátt fyrir hjalla hér á borð við hátt launastig, há opinber gjöld og mikla fjarlægð frá mörkuðum.
Um erlendar fjárfestingar í í sjávarútvegi ritaði Guðjón Einarsson í Bændablaðið, 4. nóvember 2021:
"Allt frá dögum landhelgisstríðanna hafa Íslendingar verið á varðbergi gagnvart því, að útlendingar kæmust með klærnar í fiskveiðiauðlind þeirra á ný með verulegu eignarhaldi á sjávarútvegsfyrirtækjunum. Því eru í gildi lög, sem banna, að erlendir aðilar eigi meira en 25 % í íslenzkum fyrirtækjum, sem stunda veiðar eða vinnslu sjávarafurða hér á landi. Með vinnslu sjávarafurða er átt við frystingu, söltun, herzlu og hverja aðra þá verkun, sem ver fisk og aðrar sjávarafurðir skemmdum, þ.m.t. bræðsla og mjölvinnsla, en undanskilin er reyking, súrsun, niðursuða, niðurlagning, umpökkun afurða í neytendaumbúðir o.fl."
Sú spurning vaknar, hvort erlend fyrirtæki eða "leppar" þeirra gætu keypt mikið magn á mörkuðum hér, ef mikil aukning yrði á því, sem fer um markaðina, og flutt fiskinn utan til vinnslu í verksmiðjum sínum og/eða annarra þar. Höfundurinn segir, að nefnd um erlenda fjárfestingu hafi túlkað lögin með þeim hætti, "að beint og óbeint eignarhald í íslenzkum sjávarútvegi [megi] vera allt að 49 %".
Þessi takmörkun á erlendu eignarhaldi í íslenzkum sjávarútvegi brýtur í bága við sáttmála ESB um Innri markaðinn og fjórfrelsið, en þar er frjálst flæði fjármagns innifalin. Hins vegar kvað EES-samningurinn á um það í upphafi og gerir enn, að sjávarútvegur væri undanskilinn samninginum, og hefði betur farið á, að orkumálin væru það líka, eins og síðar kom á daginn.
"En hversu umfangsmikil er erlend eignaraðild að íslenzkum sjávarútvegsfyrirtækjum ? Ekki er til samantekt um það á einum stað, en í svari þáverandi ráðherra við fyrirspurn Ólafs Ísleifssonar á Alþingi veturinn 2019-2020 kom fram, að í tilefni fyrirspurnarinnar hefðu verið skoðaðir ársreikningar þeirra lögaðila, sem fengið hefðu úthlutað aflamarki [aflahlutdeild] í upphafi fiskveiðiársins 2019/2020. Miðað var við þá aðila, sem fengu úthlutað 50 þorskígildistonnum eða meira. Samkvæmt þeim upplýsingum var enginn erlendur aðili skráður eigandi að yfir 1 % hlut í slíku félagi (m.v. ársreikninga 2018).
Síðan kallar Bændablaðið á kunnáttumann til að útskýra áhugaleysi útlendinga, Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóra Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum. Sannleikurinn er sá, að nú er íslenzkur sjávarútvegur kominn á slíkt stig tækniþróunar, markaðssetningar og framlegðar, að vandséð er, að fjárfestingar útlendinga yrðu honum til nokkurrar framþróunar.
"Ég get þó ekki neitað því, að þess eru dæmi, að erlendir viðskiptavinir okkar hafi sýnt því áhuga að kaupa nokkurra % eignarhlut í Vinnslustöðinni til þess að styrkja tengslin, en ég hef alltaf sagt nei. Það myndi almennt ekki vera vel séð. Hins vegar eru frjáls viðskipti með hlutabréf í fyrirtækjum eins og Vinnslustöðinni, og því gæti einn hluthafi tekið sig til og selt sín bréf til útlendinga, ef honum sýndist svo", sagði Sigurgeir Brynjar. Hann bætti því við, að líklegasta skýringin á litlum áhuga erlendra fjárfesta á íslenzkum sjávarútvegsfyrirtækjum væri sú áhætta, sem alltaf vofði yfir vegna hugsanlegra breytinga á fiskveiðistjórnunarkerfinu."
Ófriður um fiskveiðistjórnunarkerfið er óviðunandi fyrir almenning á Íslandi, sem á feikilega hagsmuni undir því, að friður ríki um lagaumgjörð vel heppnaðs fiskveiðistjórnunarkerfis, sem ekki hefur verið mótmælt með rökum, að sé skilvirkasta fiskveiðistjórnunarkerfi, sem þekkist. Sök á þessum ófriði eiga óábyrgir stjórnmálamenn, sem leitast við að slá pólitískar keilur með því að ala á sundrungu og öfund um kerfið, sem nú er við lýði án þess að benda á trúverðuga valkosti. Þessu þarf að linna, og mundi þá sennilega fjármagnskostnaður greinarinnar lækka og opinberar tekjur aukast af greininni.
Þann 15. nóvember 2021 birtist í Morgunblaðinu ein af hinum fróðlegu og hnitmiðuðu greinum Jóns Steinars Gunnlaugssonar, lögmanns, um þjóðmálin, sem hann nefndi:
"Bezta kerfið".
Hún hófst með sögulegu yfirliti:
"Á 8. og 9. áratug síðustu aldar var fyrst að ráði farið með lögum að takmarka sókn íslenzkra veiðiskipa í fiskveiðistofnana við landið. Byggðist þessi stjórnun á þeim grunni, sem lagður var við lagasetninguna, að nytjastofnar við Ísland væru sameign íslenzku þjóðarinnar, sem og því, að stofnunum stafaði hætta af ofveiði landsmanna.
Komið var á því, sem við höfum nefnt aflamarkskerfi, sem fólst í að úthluta til fiskiskipa hlutdeild í hámarksafla hinna mismunandi tegunda sjávarfangs, sem heimilt væri að sækja í sjó og ákveðinn væri af stjórnvöldum."
Hér má bæta við, að aflamark, sett af stjórnvöldum, skyldi reist á veiðiráðgjöf vísindamanna Hafrannsóknarstofnunar. Var henni þó ekki fylgt út í æsar fyrstu ár kerfisins, en hin seinni árin má heita, að svo hafi verið gert.
Margvíslegir jákvæðir hvatar eru fólgnir í hinu íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfi, sem ýta undir útgerðarmenn og sjómenn að draga úr kostnaði við að sækja hvert tonn úr sjó og að hámarka verðmæti þess. Þá hvetur varanleg úthlutun aflaheimilda til ábyrgrar umgengni við auðlindir hafsins og til að lágmarka mengun. Enn viðgengst þó umhverfisskussaháttur, sem mál er að linni og nefnist brottkast.
Aðaláhrif kerfisins voru þau að treysta rekstrargrundvöll sjávarútvegsins, sem var ekki fyrir hendi áður, þ.e. að íslenzkur sjávarútvegur var ósamkeppnishæfur á mörkuðum erlendis. Þetta leystu stjórnmálamenn fortíðar með því að míga í skóinn sinn, þ.e.a.s. þeir rýrðu verðmæti þjóðargjaldmiðilsins, sem er svindlaðgerð gagnvart hagsmunum almennings. Öflugur gjaldmiðill er undirstaða velmegunar þjóðar, sem er svo háð innflutningi vara og þjónustu sem Íslendingar, en útflutningur verður að koma á móti, svo að þetta er jafnvægislist. Hún næst aðeins með skilvirkni á öllum sviðum, framleiðni verðmætasköpunar, sem skapar grundvöll að samkeppnishæfni landsins. Þetta hefur náðst með tæknivæðingu á öllum sviðum atvinnulífs og auðlindanýtingu á fleiri sviðum en sjávarútvegi. Enn er hægt að auka framleiðsluverðmæti takmarkaðs sjávarafla og auka sjálfbæra orkunotkun landsmanna, svo að því fer fjarri, að endimörkum vaxtar sé náð á Íslandi.
Jón Steinar gerði síðan eignarhaldið að umræðuefni, en það er eins og það hafi farið mest fyrir brjóstið á gagnrýnendum kerfisins, enda vissulega byltingarkennd breyting innan sjávarútvegs, þó að það sé hefðbundið í öðrum greinum. Gallinn við gagnrýnina er hins vegar sá, að breytingartillögur eru örverpi með alls konar alvarlegum annmörkum. Þetta eru vanhugsaðar afurðir stjórnmálamanna, sem annars staðar hafa gefizt afspyrnu illa.
"Það samrýmist vel meginhugmyndum í lýðræðisríkjum að koma verðmætum atvinnutækjum í hendur þeirra, sem atvinnuna stunda, enda sé gætt að málefnalegu jafnræði við ráðstöfun þeirra. Landsins gæði eru í slíkum ríkjum í einkaeigu borgaranna, svo sem fasteignir og aðrar eignir, námur og land, m.a. það, sem nýtt er í landbúnaði. Bændur eiga ekki bara heimalönd jarða sinna, heldur einnig tilkall til hálendissvæða til samræmis við nýtingu þeirra á slíku landi frá fornu fari. Stjórnskipun, sem byggir á einstaklingseignarrétti, er líka miklu líklegri til að skapa landsins lýð meiri verðmæti og tekjur heldur en fyrirkomulag í ríkjum sameignarsinna, svo sem saga mannkynsins sannar svo vel. Við hikum ekki við að segja, að Ísland sé í sameign þjóðarinnar, sem byggir landið, þó að yfirleitt allt land sé háð eignarrétti einstakra manna."
Einkaeignarrétturinn er rótin að velgengni fiskveiðistjórnunarkerfis, enda beinast misheppnaðar atlögur stjórnmálamanna að honum. Þeir hafa látið sér detta í hug þá fráleitu ofbeldisráðstöfun að þjóðnýta aflahlutdeildir útgerðarmanna án þess að gera sér nokkra grein fyrir grafalvarlegum réttarfarslegum, efnahagslegum og siðferðislegum áhrifum slíks gernings. Stjórnmálamenn fortíðar migu í skóinn sinn, þegar þeir höfðu afskipti af sjávarútveginum, en þessar hugmyndir misheppnaðra stjórnmálamanna nútímans eru af enn verra tagi.
"Þegar fiskveiðistjórnunarkerfi okkar var komið á, var ekki verið að taka eignarréttindi af öðrum borgurum en útgerðarmönnum. T.d. sat ég sem lögmaður í miðbæ Reykjavíkur og varð ekki var við, að neitt væri af mér tekið við lagasetninguna um stjórn fiskveiða við landið og úthlutun aflaheimilda. Ég naut þess hins vegar, eins og aðrir landsmenn, að þessi atvinnugrein við sjávarsíðuna blómstraði og skilaði góðri afkomu landslýð öllum til hagsbóta.
Kannanir sýna, að íslenzka kerfið skilar meiri efnahagslegum ábata en þau stjórnkerfi, sem þekkjast hjá öðrum ríkjum.
Kröfur um sérstaka skattheimtu á þessa atvinnugrein umfram aðrar standast að mínum dómi ekki. Við hljótum að skattleggja íslenzka borgara eftir lagareglum, þar sem jafnræðis er gætt og hið sama látið gilda um alla án tillits til þess á hvaða sviði atvinnulífs þeir afla sér tekna.
Þeir, sem nú gera háværar kröfur um aukna hlutdeild almennings í verðmætum fiskimiðanna, ættu að hugsa sig aftur um. Meginviðhorfin, sem orðið hafa ofan á í lagasetningu okkar á þessu sviði eru þau beztu, sem völ er á, þó að alltaf megi sjálfsagt bæta ýmis smáatriði í lögunum."
Jón Steinar Gunnlaugsson hefur lög að mæla og kemst þarna að kjarna málsins. Jafnræðis verður að gæta, svo í skattheimtu sem öðru. Þess vegna orka s.k. veiðigjöld tvímælis, enda eru þau ekki iðkuð í nágrannalöndum okkar, nema í litlum mæli í Færeyjum. Þessi gjöld eru þar að auki eins konar dreifbýlisskattur, sem skýtur skökku við byggðastefnuna, sem rekin er í landinu, og eru þess vegna fjármagnsflutningur frá hinum dreifðu byggðum landsins til Reykjavíkur. Það er óskynsamlegt, að ríkið þvingi fram fjármagnsflutninga þaðan, sem verðmætin verða til, því að slíkt dregur úr fjárfestingum, sem eru undirstaða velmegunar, byggðastöðugleika og samkeppnishæfni.
5.12.2021 | 11:28
Fullveldisbarátta í Noregi
Evrópusambandið (ESB) er að sumu leyti eins og fíll í postulínsbúð Evrópuríkjanna, ekki sízt EFTA-landanna, e.t.v. að Liechtenstein undanskildu. Þekkt er, að Svisslendingar sáu sér ekki fært að ganga í EES, hvað þá ESB, á sínum tíma, og eru enn fjær því að vera á biðilsbuxunum núna, þegar þróun ESB í átt að sambandsríki er enn þá auðsærri en á fyrri hluta 10. áratugar 20. aldarinnar. Nýja þýzka ríkisstjórnin undir forystu SPD-Jafnaðarmannaflokksins hefur þetta beinlínis á stefnuskrá sinni.
Svipaða sögu er að segja af Norðmönnum og Svisslendingum, þótt hinir fyrr nefndu hafi samþykkt EES-aðild. Báðar þjóðirnar höfnuðu ESB-aðild í þjóðaratkvæðagreiðslum, en meirihluta stuðningur við aðild var á meðal fulltrúa á löggjafarsamkundum landanna.
Á Íslandi hefur hvorki verið meirihluti á Alþingi né á meðal þjóðarinnar fyrir ESB-aðild og verður ekki í fyrirsjáanlegri framtíð, enda vega ókostirnir miklu þyngra en kostirnir. Bæði í Noregi og á Íslandi má rekja andstöðuna til ótta við að missa tökin á stjórnun auðlindanna. Þess vegna voru sjávarútvegs- og landbúnaðarmál undanskilin í EES-samninginum, og EFTA-ríkjunum bar heldur engin skylda til að lögleiða orkulöggjöf sambandsins. Þetta er skilningur forsætisráðherra og utanríkisráðherra Viðeyjarstjórnarinnar, sem sat, þegar gengið var frá EES-samninginum.
Sú innleiðing hefur valdið miklum deilum í Noregi og á Íslandi. Ný ríkisstjórn Noregs ætlar að salta Orkupakka 4 út þetta kjörtímabil í nefnd hjá EFTA og hefur látið þær upplýsingar berast til framkvæmdastjórnar ESB og vafalaust til Reykjavíkur. Á Íslandi er hægt að anda léttar um sinn fyrir vikið, en ESB mun sæta færis. Þess vegna þarf að efla varnir. Norðmenn halda um alla þræði í EES-samstarfi EFTA-landanna.
Í annarri viku nóvember (v.45/2021) var s.k. ACER-mál dómtekið í þingrétti Óslóar, þar sem félagasamtökin "Nei til EU" saksóttu ríkið fyrir stjórnarskrárbrot, þegar Orkupakki 3 frá ESB var samþykktur í Stórþinginu. Dómur er fallinn ríkinu í vil, en málið mun fara fyrir fleiri dómstig. "Nei til EU" heldur því fram, að fullveldisframsalið, sem í því fólst, sé meira en "lítið inngrípandi", þ.e. hafi áhrif á hagsmuni lögaðila og einstaklinga í Noregi, og að Stórþinginu hafi þess vegna borið að fara með málið samkvæmt grein 115 í stjórnarskránni, sem krefst 3/4 meirihluta fyrir samþykkt, þar sem a.m.k. 2/3 þingheims sé mættur.
Orkumálastjórinn norski, Kjetil Lund, lagði í vitnaleiðslum áherzlu á, að hann er yfirmaður bæði NVE (Orkustofnunar) og hinnar nýstofnuðu skrifstofu landsorkureglara (RME-Reguleringsmyndighet for energi), sem á að framfylgja ákvörðunum ACER (sameiginleg skrifstofa landsorkureglara ESB-landanna) í Noregi. RME er sett í skipurit sem deild í NVE. Svipað er uppi á teninginum hjá Orkustofnun á Íslandi. Á sama tíma á RME að vera óháður reglari (stjórnandi-reglusetjari og regluvörður) fyrir orkumarkaðinn.
Lund sá að því er virtist ekkert athugavert við þetta, og ekki hefur heyrzt múkk frá íslenzka orkumálastjóranum. Aftur á móti hefur ESB-dómstóllinn nýlega slegið í gadda, að túlka skuli kröfuna um sjálfstæði embættisins bókstaflega, og EES-eftirlitsstofnunin ESA hefur spurt, hvort norska fyrirkomulagið sé samkvæmt ákvæðum Orkupakka 3. Ekkert hefur heyrzt frá íslenzkum yfirvöldum um þetta frekar en fyrri daginn. Á grundvelli úrskurðar ESB-dómstólsins gæti ESA séð ástæðu til að færa ágreiningsmálið fyrir EFTA-dómstólinn.
Hlutverk RME hefur bein tengsl við hin hörðu átök um ACER í Noregi. EES-aðlögunin er sniðin þannig, að EES tekur formlega ákvörðun á vegum ACER, en ákvarðanirnar skulu vera samhljóða drögum, sem ACER hefur skrifað. Ákvörðun ESA fer þessu næst til framkvæmdar hjá RME. RME er síðasti liður í ferlinu frá ACER-skrifstofunni í Ljublana til starfsemi í Noregi.
RME á að vera reglari ekki aðeins fyrir millilandatengingar, heldur einnig flutningskerfi raforku innanlands. T.d. er það RME, sem ákveður, hvernig Statnett (norska Landsnet) má nota umframtekjur (tekjur af óvenju háu verði) af orkusölu um millilandasæstrengina til svæða með öðru verði en er í Noregi. RME á að fylgjast með, að þessar tekjur séu í höfuðatriðum notaðar til kerfisþróunar millilandatenginga í samræmi við ESB-reglur og fari aðeins í litlum mæli til lækkunar á gjaldskrá innanlands.
Í raforkumarkaðartilskipun Þriðja orkupakkans er þess krafizt, að RME sé óháð stjórnmálalegum yfirvöldum. Margt bendir til, að Stórþingsmeirihlutinn og Alþingismeirihlutinn, sem samþykktu "pakkann", hafi vanmetið, hversu inngrípandi í samfélagið þessi ákvæði eru. Sólberg- og Katrínarríkisstjórnirnar gerðu sitt til að breiða yfir þetta með lagasetningum um NVE og Orkustofnun, sem í Noregi kom fram sem frumvarp til breytinga á orkulöggjöf (nr 5L (2017-2018)). Þar eru frasar á borð við, að "orkureglarahlutverkið verði áfram innan NVE", og "þegar NVE tekur ávörðun sem óháð orkureglarasyfirvald". Þetta gefur undir fótinn með, að NVE sé áfram reglarayfirvaldið, og hið sama er uppi á teninginum á Íslandi með Orkustofnun, þótt undir fletinu sjáist í hala árans.
Það kann að vera skynsamlegt á stundum að gera eigin aðlaganir á löggjöf ESB, en það er áhættuíþrótt að gefa til kynna, að EES-regluverkið sé minna ráðandi við stjórnun mála en það í raun og veru er. Í október 2020 bað ESA norska Olíu- og orkuráðuneytið bréflega um að gera grein fyrir því, hvernig Noregur tryggi, að RME sé óháð. Hefur íslenzka ríkisstjórnin fengið slíkt bréf ? Hún er þögul sem gröfin um ESA. ESA hélt því fram, að mörg norsku lagaákvæðin séu óskýr, og spurðist líka fyrir um það, hvernig óháð staða RME væri tryggð í raun. Ráðuneytið sendi svarbréf í desember 2020 (Norðmenn eru duglegir við að svara bréfum.), og málið liggur enn á borði ESA í Brüssel. Skyldi ESA enn bíða svars frá slóðunum í Reykjavík ?
Í september 2021 féll úrskurður ESB-dómstólsins í máli, sem framkvæmdastjórn ESB hafði höfðað gegn Þýzkalandi fyrir brot á raforkumarkaðstilskipuninni (mál C 718/18). Framkvæmdastjórnin taldi reglarayfirvaldið (Bundesnetzagentur) ekki hafa nægilegt svigrúm til til eigin mats á aðstæðum, sem óháðum reglara bæri. Til þess væri þýzka löggjöfin of nákvæm og leiðandi.
Málið er í grundvallaratriðum mikilvægt fyrir pólitíska stýringu raforkumarkaðarins og fyrir sambandið á milli ESB-réttar og stjórnkerfis hvers lands. Svíar áttuðu sig á mikilvægi málsins og studdu Þýzkaland í málaferlunum. Það var samt framkvæmdastjórn ESB, sem vann málið. ESB-dómstóllinn kvað upp úr um, að regluverkið krefjist þess, að landsorkureglari sé "algerlega óháður" bæði aðilum á markaði og hinu opinbera - hvort sem það eru stofnanir eða stjórnvöld. Ennfremur nefnir dómstóllinn, að nauðsyn sé á "eindregnum aðskilnaði" frá stjórnmálalegum yfirvöldum hvers lands.
Í nýju meistaraverkefni við Háskólann í Bergen (Björgvin) eru einmitt rannsakaðar kröfurnar, sem ESB-reglurnar gera um óháðan orkureglara. Höfundurinn, Alexander Sæthern, leggur sérstaklega mat á, hvort norska fyrirkomulagið uppfylli kröfur tilskipunarinnar. Niðurstaðan er, að RME sé ekki nægilega óháð.
Sæthern bendir á, að NVE sé stofnun undir Olíu- og orkuráðuneytinu (með svipuðum hætti og Orkustofnun), þar sem möguleiki sé á fyrirmælum og öðrum pólitískum afskiptum. RME er afmörkuð eining, en samt hluti af NVE-skipulaginu og undir orkumálastjóranum, og þetta sé ekki nægilegt til að uppfylla kröfuna um að vera óháður landsorkureglari. Tilskipunin áskilur ennfremur, að settur sé á laggirnar "einn" orkulandsreglari, en í norska (og íslenzka) líkaninu séu NVE (Orkustofnun) og RME í eins konar tvíeyki.
Kjarninn í ACER-málinu fyrir Ósló-þingrétti (héraðsdómur) var, hversu inngrípandi í samfélagið fullveldisafsalið á orkusviðinu er. Uppkvaðning dóms ESB-dómstólsins um, að krafizt sé, að RME sé eindregið óháður, gerir ACER samþykkt Stórþingsins (og Alþingis) meira inngrípandi en ríkisstjórnin hélt fram á sínum tíma. Gagnrýnar spurningar ESA og matið í meistararitgerðinni leiða í sömu átt. RME (landsorkureglari), algerlega óháður yfirvöldum landsins, felur í sér, að reglarayfirvaldið eitt og sér er handbendi (framlenging á) ACER. Raforkumarkaðstilskipunin kveður skýrt á um, að RME skuli fara eftir og framkvæma allar bindandi ákvarðanir stofnunarinnar (ACER).
Að RME er óháð stofnunum landsins afnemur jafnframt fyrirmælaréttinn, sem norska ríkisstjórnin hefur samkvæmt stjórnarskrá, gr. 3. Lagadeild Stórþingsins hefur áður fallizt á, að þetta felur í sér viðbótar valdaafsal, en hefði hins vegar takmarkaða þýðingu fyrir mat þeirra (um nauðsyn aukins meirihluta). Eindregin krafa um, að RME sé óháður, eins og nú er staðfest, veldur því, að áhrif Orkupakka 3 eru meira inngrípandi.
Óháður RME (landsorkureglari) veldur því, að út frá pólitísku sjónarhorni hverfur stjórnun innlendra yfirvalda og eftirlit með flutnings- og dreifingarfyrirtækjunum. Það er að skammhleypa eftirliti kjörinna fulltrúa.
Í umræðunni um Orkupakka 3 hérlendis var varað við því, m.a. á þessu vefsetri, að hafa landsorkureglara ACER á Orkustofnun, því að slíkt samrýmdist ekki löggjöf ESB. Í Noregi var ákveðið að fara í lögfræðilegar hundakúnstir til að réttlæta að viðhafa aðeins kröfu um einfaldan meirihluta í Stórþinginu, og hérlendis var vaðið út í sama fenið til að draga fjöður yfir stórfellt fullveldisframsal, sem var stjórnarskrárbrot. Nú koma þessar hundakúnstir mönnum í koll, og fyrir vikið hangir Orkupakki 3 á bláþræði. Upp komast svik um síðir.
4.11.2021 | 09:51
Orkupakki 4 í uppnámi innan EFTA
Nú geisar orkukreppa á Bretlandseyjum og á meginlandi Evrópu, og bera margir kvíðboga fyrir vetrinum, því að ekki munu allir geta staðið straum af orkureikningunum, þar sem einingarverðið hefur jafnvel þrefaldazt og var þó hátt fyrir. Angar þessa teygja sig til vatnsorkulandsins Noregs, sem hefur rækilega tengt raforkukerfi sitt við þessi skortsvæði raforku. Þar sem norska þjóðin lendir þá í beinni samkeppni um sína eigin orku á uppboðsmörkuðum Evrópu (Nord Pool fyrir norðanverða Evrópu), hefur raforkuverðið jafnvel hækkað meira hlutfallslega í Noregi, þar sem það var mun lægra en á Bretlandi og á meginlandinu og góðar tengingar á milli orkusvæða jafna orkuverðið, en stærri markaðurinn verður alltaf ráðandi.
Öflugir norskir sæstrengir voru nýlega teknir í notkun, annar til Þýzkalands og hinn til Bretlands, sem hafa aukið fylgni norsks raforkuverðs við hið brezka og þýzka. Þetta veldur nú eðlilega óánægju í Noregi, og vilja nú sumir, að Norðmenn taki stjórn strengjanna í eigin hendur, en með Orkupakka 3 framseldu þeir völdin til regluverks ESB og markaðarins. Stórþingsmenn vilja margir hverjir niðurgreiðslur á raforkuverði í Noregi, en það rímar illa við Orkupakka 3, og ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) gæti fljótlega veifað refsivendi sínum um samningsbrot í kjölfar slíks inngrips á markaði.
Meirihluti norsku þjóðarinnar var andvígur innleiðingu Orkupakka 3 í norskan rétt 2018, en Stórþingið samþykkti hana samt undanbragðalaust vegna fyrirskipunar frá stjórn Verkamannaflokksins (þá í stjórnarandstöðu) til þingflokksins um að kjósa sem einn maður með innleiðingunni, þótt grasrót flokksins (flokksdeildir í flestum fylkjum) væri því andsnúin.
Samtökin "Nei til EU" höfðuðu síðan mál gegn ríkinu fyrir þá ákvörðun Stórþingsins að beita ekki ákvæði stjórnarskrárinnar um aukinn meirihluta við atkvæðagreiðslu um slíkt valdaframsal, og er málið enn fyrir dómstólunum. Ef Orkupakki 3 kæmi aftur til atkvæðagreiðslu í þinginu og þá með kröfu um 3/4 atkvæða til að teljast samþykktur, yrði hann felldur.
Eftir þrýsting frá Noregi samþykkti Alþingi Orkupakka 3 með undanbrögðum, sem var "skítamix", af því að það stenzt ekki Evrópurétt að innleiða samþykktir Sameiginlegu EES-nefndarinnar með skilyrðum. Evrópuréttur er rétthærri landsrétti samkvæmt EES-samninginum, eins og Arnar Þór Jónsson, lögfræðingur, fjallaði um í fyrirlestri í Valhöll 28.10.2021. Það brýtur í bága við Stjórnarskrá Íslands, og deilur ríkja innan ESB við Framkvæmdastjórnina um þennan forgangsrétt ESB-réttar ber nú hátt í fréttum. Hefur Framkvæmdastjórnin lagt sektir á pólska ríkið fyrir dóm Hæstaréttar Póllands, sem kveður á um, að stjórnarskrá Póllands sé æðsta löggjöf, sem stjórnvöldum og borgurum í Póllandi ber að fara eftir. Nema sektirnar 1,0 MEUR/dag. Ursula von der Leyen hefur ekki tekið svona hart á Merkelstjórninni í Berlín, þótt Rauðhempurnar í Karlsruhe hafi úrskurðað stjórnarskrá Sambandslýðveldisins æðri réttarheimild en úrskurði ESB-dómstólsins og sáttmála ESB.
Nú er ný ríkisstjórn tekin við í Noregi. Að henni standa Verkamannaflokkur og Miðflokkur. Hún er þess vegna minnihlutastjórn, því að SV, systurflokkur VG hérlendis, hrökk fljótlega úr skapti stjórnarmyndunarviðræðna.
Hvaða stefnu hefur nýja norska ríkisstjórnin um Orkupakka 4 ? Stjórnarsáttmálinn þegir um það. Það bitastæðasta í nýja stjórnarsáttmálanum um EES er þetta:
"Regjeringen skal jobbe mer aktivt for å fremme norske interesser innenfor rammene av avtalen, og handlingsrommet i EÖS-avtalen skal tas i bruk med særlig vekt på å sikre nasjonal kontroll på områder som norsk arbeidsliv, energi og jernbane."
Snörun gæti litið þannig út:
"Ríkisstjórnin ætlar að vinna einbeittar að því að halda á lofti norskum hagsmunum innan ramma samningsins, og virkja skal athafnarými EES-samningsins með sérstakri áherzlu á að tryggja stjórn þjóðarinnar á sviðum s.s. norku atvinnulífi, orku og járnbrautum."
Hin pólitíska staða er þannig, að hygði ríkisstjórnin á innleiðingu Orkupakka 4, þá yrði uppreisn í Miðflokkinum, sem mundi leiða til stjórnarslita eða höfnunar Stórþingsins á þessari ESB-orkulöggjöf áður en málið færi til Sameiginlegu EES-nefndarinnar.
Verkamannaflokkurinn vill ekki fá Orkupakkann til formlegrar afgreiðslu í EFTA, því að þá yrði að beita neitunarvaldi þar af Noregs hálfu áður en hann kemst til Sameiginlegu EES-nefndarinnar. Þá stöðu vill Verkamannaflokkurinn ekki fá upp á sinni vakt vegna sambúðarinnar við ESB. Verkamannaflokkurinn er enn hallur undir aðild Noregs að ESB, en vaxandi væringar eru innan flokksins vegna þessa.
Hvað gera bændur þá ? Jú, ESB mun fá þau skilaboð, að EFTA vilji fresta innleiðingu Orkupakka 4 út þetta kjörtímabil, og ef hvorki Íslendingar né Liechtensteinar hreyfa þessu máli, mun það liggja í láginni a.m.k. til 2025. Það er harla ólíklegt, að núverandi stjórnarflokkar á Íslandi vilji gerast málsvarar innleiðingar Orkupakka 4 í andstöðu við norsk stjórnvöld, enda yrði slíkt frumhlaup andvana fætt. Norðmenn ráða lögum og lofum í EFTA-hópinum í EES. Þannig gerast nú kaupin á eyrinni á þeim bænum. Íslendingar eru þar í farþegasætinu og valdhafar Noregs í bílstjórasætinu. Frá fullveldissjónarmiði er staða Íslands gagnvart ESB að sumu leyti enn verri en Noregs, enda eru engin dæmi þess, að íslenzk stjórnvöld hafi stöðvað nokkurt mál frá ESB, sem komið hefur til umfjöllunar EFTA. Orkupakki 4 er ekki fyrsta málið, sem Norðmenn stöðva þar.
Það er vaxandi óánægja með EES-samninginn í Noregi. Í stjórnarsáttmálanum er veitt fyrirheit um að leggja mat á valkosti, sem Noregi kunna að standa til boða, aðra en EES. Þar eru menn sennilega að hugsa um fríverzlunarsamninga. Blasa þar aðallega 2 kostir við, þ.e. að Noregur semji á eigin spýtur við ESB um tvíhliða fríverzlun eða að EFTA semji við ESB um fríverzlun við ESB fyrir öll 4 lönd EFTA. Það gæti orðið Íslendingum farsælast, og mundu þá EFTA/EES-þjóðirnar 3 njóta góðs af öflugri og reyndri utanríkisþjónustu Svisslands.
Það er æskilegt, að hérlendis fari fram svipuð úttekt á framtíðar fyrirkomulagi samskipta við ESB á lögfræðilegum, viðskiptalegum og menningarlegum grundvelli. Arnar Þór Jónsson, lögfræðingur, hélt merkt erindi í Valhöll 28. október 2021, um stöðu íslenzks réttarkerfis gagnvart ESB-réttinum, sem fékk forgangsgildi gagnvart landsrétti með gildistöku EES-samningsins á Íslandi 1. janúar 1994. Á fundinum í Valhöll var áberandi sú skoðun, að sú staða væri óviðunandi til frambúðar, að íslenzka stjórnarskráin yrði að víkja fyrir ESB-rétti, þar sem þessi 2 réttarkerfi greindi á við mat á úrlausnarefnum, og að ekki kæmi til greina að aðlaga stjórnarskrána ESB-rétti.
Sams konar viðhorf eru uppi í Noregi, og alkunn er réttarfarsdeila Pólverja við framkvæmdastjórn ESB, sem lagt hefur dagsektir á Pólverja, eins og áður segirt, á meðan þeir verða ekki við kröfum ESB um að taka af öll tvímæli um, að ESB-réttur hafi hærri réttarstöðu en stjórnarskrá Póllands. Framkvæmdastjórnin telur framtíð ESB hvíla á þessu atriði og líður engin frávik.
Þýzki stjórnlagadómstóllinn í Karlsruhe (rauðhempurnar) hefur sett ofan í við ESB-dómstólinn í Lúxemborg fyrir að fara út fyrir réttarheimildir sínar og kveða upp úrskurði, t.d. um heimildir seðlabanka evrunnar til skuldabréfakaupa, sem skortir lagaheimildir. Þar sem ESB sé ekki sambandsríki, eins og þýzku löndin eru, heldur aðeins ríkjasamband, þá hafi stjórnarskrá Þýzkalands hærri réttarstöðu en t.d. Lissabonsáttmálinn.
Þessi lagalegi ásteytingarsteinn getur orðið ESB og EES erfiður ljár í þúfu. Lénsveldishugarfar meginlandsins um, að lögin komi að ofan og yfirstéttin setji lýðnum þessi lög, gengur þvert á engilsaxneska og norræna hefð um, að lögin komi frá fólkinu og séu m.a. sett til varnar réttindum þess gagnvart ríkisvaldi og yfirstétt. Þessi mikli hugarfarsmunur átti þátt í, að meirihluti kjósenda á Bretlandi var búinn að fá sig fullsaddan af lagaflóðinu frá Brüssel til stimplunar í Westminster og batt enda á það í þjóðaratkvæðagreiðslu 2016. Hrakspár í kosningabaráttunni og jafnvel í kjölfarið og fram á þennan dag hafa orðið sér til skammar. Í þingkosningunum 2019 rauf svo Íhaldsflokkur Borisar Johnson "rauða múrinn" á milli Norður- og Mið-Englands, en norðan hans hefur Verkamannaflokkurinn ráðið lögum og lofum nánast frá styrjaldarlokum (1945). Kjörorð Borisar, "Levelling up", þ.e. að bæta lífskjör á Norður-Englandi til jafns við Suður-England sló í gegn, og stjórn hans vinnur hörðum höndum að þessu.
22.9.2021 | 11:24
Gjaldeyrisvarasjóðurinn yrði hafður að skotspæni spákaupmanna
Morgunblaðið birti afhjúpandi útdrátt úr Dagmálaviðtali við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur (ÞKG), formann Viðreisnar, 16. september 2021. Þar kom í ljós, að keisaraynja ESB-hirðarinnar á Íslandi er ekki í neinu. Málflutningur hennar stendst ekki rýni. Hann er reistur á fáfræði um eðli ESB, misskilningi um þetta yfirþjóðlega ríkjasamband eða rangtúlkun á staðreyndum. Engin alvarleg greining hefur farið fram á þeim bænum um kosti og galla aðildar. Það skín í gegnum viðtalið.
Hér er á ferðinni af hálfu Viðreisnar fullkomlega léttúðug og óábyrg umfjöllun um fjöregg þjóðarinnar, fullveldið, svo að það er ekki hægt að láta það átölulaust, að fjallað sé um aðild að Evrópusambandinu (ESB) eða myntsamstarfi þess án þess, að staðreyndir fái að njóta sín á nokkurn hátt. Hér er ekki hægt að samþykkja, að þýzka máltækið: "der Erfolg berechtigt das Mittel" (tilgangurinn helgar meðalið), eigi við.
"Ef við tölum ekki um það [ESB], þá gerir það enginn. Við erum ekki að því bara til þess að fara inn í Evrópusambandið samningsins vegna. Við teljum, að lífskjörin muni batna og styrkjast, efnahagslegur stöðugleiki aukast o.s.frv. En ef og þegar við náum samningum, og þeir eru ekki góðir, þá verður Viðreisn fyrsti flokkurinn til þess að leggjast gegn þeim."
Hér beitir ÞKG samningshugtakinu á kolrangan hátt. Stöðunni er ekki hægt að líkja við 2 aðila, sem hvor um sig gengur með sín samningsmarkmið til samninga. Nær er að líkja þessu við háskólastúdent, sem sækir um inngöngu í eitthvert nám í háskóla, og háskólinn skoðar nákvæmlega, hvað stúdentinn hefur lært og árangur hans í hverri grein til að kanna, hvort stúdentinn fullnægi inntökuskilyrðum skólans.
Þetta kom greinilega í ljós í aðlögunarferli Íslands að ESB 2009-2013. Þar var hverri "bókinni" á fætur annarri lokað, eftir að aðlögun hafði verið sannreynd, þangað til kom að sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum. Þá fór allt í hund og kött, af því að Alþingi hafði sett skilyrði, sem ekki samrýmdust CFP og CAP-sameiginlegu sjávarútvegs- og landbúnaðarstefnu ESB. Það er ómerkilegt af ÞKG að vera með þetta "samningskjaftæði".
Hvernig í ósköpunum getur ÞKG borið það á borð fyrir kjósendur, að lífskjör þeirra muni batna við inngöngu í ESB, þegar þau eru miklu betri á Íslandi en í ESB-löndunum að Lúxemborg undanskilinni (skattaparadís) ?
Það er rangt, að efnahagsstöðugleiki muni aukast við fastgengi með evru. Þá munu aðrar sveiflur en gengissveiflur þvert á móti aukast, þegar hagkerfið verður fyrir innri eða ytri truflun, t.d. á formi kjarasamninga, sem útflutningsatvinnuvegirnir geta ekki staðið undir, verðhækkunum eða verðlækkunum á erlendum mörkuðum, eða hruni greinar, t.d. ferðageirans. Gengið er nú dempari á efnahagssveiflur.
" Ég geri mér grein fyrir, að við þurfum meiri umræðu, meiri upplýsingu. Við erum að heyra alls konar rangfærslur um, að útlendingar fái fiskimiðin okkar og orkan verði tekin - tómt píp, auðvitað - en við þurfum meiri upplýsingu. Þess vegna höfum við lagt til, að þverpólitísk nefnd taki við málinu og undirbúi þá atkvæðagreiðslu, þar sem við spyrjum fólkið, hvað eigi að gera."
Þetta er léttúðug og óábyrg afgreiðsla á örlögum fiskimiðanna eftir inngöngu. Stjórnun fiskimiðanna er ekki umsemjanleg af hálfu ESB við aðlögunarríki, af því að kveðið er á um það í sáttmála ESB, að ríki ESB skuli lúta sameiginlegri landbúnaðar- og fiskveiðistefnu ESB, CFP (Common Fisheries Policy). Það var lengi mikið óánægjuefni í strandbæjum Bretlands, að flotar hinna ESB-landanna ryksuguðu fiskimið Breta upp að 12 sjómílum. Eftir útgönguna losna Bretar af klafa þessarar ofveiði í áföngum á 5 árum.
Í byrjun þessarar aldar (21.) gaf framkvæmdastjórn ESB út "grænbók" um framtíðarfyrirkomulag úthlutunar fiskveiðiheimilda í lögsögu ESB-ríkjanna. Þar var stefnt að markaðsvæðingu, þannig að kvótarnir gætu gengið kaupum og sölum á Innri markaði ESB. Stefna Viðreisnar um þjóðnýtingu aflaheimilda í áföngum og síðan uppboð á þeim er ekkert annað en aðlögun að framtíðarstefnu ESB. Viðreisn hagar sér sem leppur Evrópusambandsins á Íslandi. Ef þessi uppboðsstefna á fiskveiðiheimildum verður ofan á, munu þessi uppboð verða talin málefni Innri markaðarins, og þverska gegn því verður kærð til ESA. Þetta er verra tilræði við efnahagslegt sjálfstæði Íslands en Icesave-svikasamningar vinstri stjórnarinnar 2009-2013. Hvaða heilvita manni dettur í hug, að það verði samþykkt hér í þjóðaratkvæðagreiðslu að aðlagast ESB að fullu ?
"Hefði það verið ákjósanlegt í kórónukreppunni undanfarna 18 mánuði, þar sem ferðaþjónustan þurrkaðist út, að gjaldmiðillinn hefði ekki haggazt ?"
"Það er oft sagt um krónuna, að það megi láta hana falla til þess að koma í veg fyrir atvinnuleysi. Samt jókst atvinnuleysi meira hér en víða í sambærilegum löndum. Ég hefði viljað gjaldmiðil, sem hefði veitt okkur meiri fyrirsjáanleika."
Hvaða "sambærilegu" lönd er ÞKG að tuða um þarna úti í sínu horni evru-trúarbragðanna ? Það var ekkert land í Evrópu, og þótt víðar væri leitað, með fjölda erlendra ferðamanna á ári í námunda við 5-faldan eiginn íbúafjölda, þegar Kófið dundi á. Þess vegna varð efnahagsáfallið jafngríðarlegt hér og raun bar vitni um (6,5 % minnkun VLF 2020), og mikið atvinnleysi hlaut að fylgja. Eitt er mjög líklegt: hefði þessi evru-tilbeiðandi verið búin að festa ISK við EUR, þegar Kófið skall á, hefði gjaldeyrisvarasjóðurinn þurrkast upp. Spákaupmenn hefðu tekið sér stöðu og fellt ISK léttilega og hirt gjaldeyrisvarasjóðinn á spottprís í leiðinni. Það er þessi "rússneska rúlletta", sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir býður Íslendingum upp á af fláræði sínu eða skilningsleysi. Hvort tveggja er afleitt fyrir stjórnmálamann. Blaðamenn Morgunblaðsins höfðu þetta líka í huga:
"Í dag eru 29 ár síðan George Soros gerði atlögu að Englandsbanka og Bretar hrökkluðust úr evrópska myntsamstarfinu. Þegar sú stóra þjóð átti ekki séns (sic !), eigum við meiri séns (sic !) ?"
"Það hafa menn á undan mér í pólitík bent á, að fara ætti einhverja svipaða leið. Á þeim tíma hefði það ekki endilega verið skynsamlegt, en þar sem staða gjaldeyrisvaraforðans er jafnsterk og raun ber vitni, þá er það raunhæft."
Þetta svar ÞKG er algerlega út í hött. Dómgreindarleysið er yfirþyrmandi. Heldur hún virkilega, að jafnvirði um mrdEUR 5 standi eitthvað í spákaupmönnum að snara út til að græða á gjaldeyrisbraski ?
Það vill svo til, að Morgunblaðið gerði þessi mál að umræðuefni í forystugrein 16. september 2021 undir fyrirsögninni:
"Að bjóða hættunni heim".
Bretar höfðu þá um 2 ára skeið haldið uppi einhliða fastgengi við þýzka markið innan evrópska myntsamstarfsins (ERM), en áhlaup spákaupmanna hafði staðið um hríð. Englandsbanki hækkaði stýrivexti sína upp í 10 % og seldi ógrynni af gjaldeyri til þess að verja pundið, en allt kom fyrir ekki. [ÞKG heldur, að gengistenging ISK við EUR muni lækka vexti hér niður að vöxtum evrubankans. Hún hundsar staðreyndir, ef þær gagnast ekki ESB-trúboði hennar-innsk. BJo.] Hinn 16. september var gjaldeyrisforðinn uppurinn, Bretar gáfust upp og þurftu að draga sig út úr ERM við mikla niðurlægingu. Englandsbanki tapaði a.m.k. mrdISK 600 í einu vetfangi, ríkisstjórn Íhaldsflokksins náði sér aldrei á strik aftur og galt afhroð í næstu kosningum."
Það er mjög þungur áfellisdómur yfir Viðreisn, að forysta flokksins skuli vera svo óvarkár í fjármálum að leggja til leið í gjaldeyrismálum, sem sagan sýnir einfaldlega, að er stórhættuleg. Ef ÞKG heldur, að mrdISK 800 gjaldeyrisvaraforði muni veita fastgengisstefnu hennar einhverja vörn, þá hefur hún ekkert lært á sínum pólitíska ferli, sem máli skiptir, og er einfaldari í kollinum en formanni stjórnmálaflokks ætti að leyfast.
Í viðtalinu var haldið áfram að afhjúpa formann Viðreisnar:
"Á hvaða gengi verður ISK fest við EUR ?"
"Á markaðsgengi."
"Á markaðsgengi dagsins, þegar bindingin á sér stað ? Þá verðum við nú fljótt vogunarsjóðunum að bráð. Dauð á fyrsta degi."
"Ef þú getur sagt mér það, [hvert] gengið er eftir ár, þá skal ég svara þér."
"Það eruð þið, sem eruð að leggja til gengisbindingu."
"Ég er að segja þér þetta: ef þú getur svarað mér því."
"Er það þá stefna ykkar að taka gengisbindingu upp á genginu, sem verður, þegar skrifað verður undir ?"
"Við skulum bara sjá til með það."
"Það skiptir öllu. Sigmar Guðmundsson, frambjóðandi Viðreisnar, lofaði okkur því hér í þættinum, að þetta yrði gert heyrinkunnugt fyrir kosningar, af því að það skiptir fólk máli. Þið hljótið að hafa einhverja hugmynd um á hvaða gengi það skuli gert."
"Það er ekkert ólíklegt, að það verði einhvers staðar nálægt markaðsgenginu. En það fer auðvitað allt eftir samningunum."
Þessi yfirborðslegu og raunar forheimskulegu svör Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur sýna, svo að ekki verður um villzt, að keisaraynjan er ekki í neinu í gengisfrumskóginum. Viðreisn hefur augljóslega enga áhættugreiningu gert á þeirri stefnumörkun sinni að tengja ISK við EUR. Þorgerður Katrín minnir á skessu, sem leikur sér hlæjandi að fjöreggi þjóðarinnar, eins og um getur í þjóðsögunum. Stefna Viðreisnar er vítaverð, af því að hún endar óhjákvæmilega með ósköpum.
Áfram með hina fróðlegu forystugrein Morgunblaðsins:
"Bretar voru ekki einir um að falla í þá freistni [að tengja gengið annarri mynt - innsk. BJo]. Það gerðu Svíar og Finnar einnig, en urðu líka fyrir árás spákaupmanna og neyddust til að slíta gengistengingunni og fella gengið haustið 1992. Hafði þó ekki lítið gengið á, og Svíar í örvæntingu hækkað millibankavexti í 500 % ! Sömu sorgarsögu er að segja af ámóta tilraunum annars staðar, frá Tequila-kreppunni í Suður-Ameríku 1994 til Asíukreppunnar 1998."
Viðreisn lifir í sérkennilegum, rósrauðum draumaheimi lepps Evrópusambandsins. Kerling kostar öllu til, til að smygla sál karlsins inn um Gullna hliðið. Vankunnátta og óraunsæi einkenna vinnubrögðin, enda helgar tilgangurinn meðalið. Væri ekki ráð, að flokksforystan kynnti sér gjaldmiðlaþátt hagsögunnar ? Það er reyndar borin von, að heilaþvegnir láti af trúnni.
Kjarninn í tilvitnaðri forystugrein Morgunblaðsins var þessi:
"Einhliða fastgengi á tímum frjálsra fjármagnsflutninga er einfaldlega skotheld uppskrift að spákaupmennsku, gjaldeyriskreppu, bankakreppu og loks efnahagskreppu. Þau víti þekkja Íslendingar og verða að varast þau."
Nokkru síðar var Viðreisn rassskellt þannig:
"Einhliða fastgengi er peningastefna fortíðar, sem felur í sér, að allur gjaldeyrisforði þjóðarinnar er lagður að veði og getur hæglega tapazt til spákaupmanna á einni nóttu. Sem er alls ekki ólíklegt, vegna þess að slíkur fjársjóður dregur að sér athygli þeirra og ágirnd.
Fastgengisstefna myndi - þvert á það, sem boðberar hennar segja - að öllum líkindum hækka vexti, þar sem allt myndi miðast við að verja gengið, en ekki hagsmuni heimila og fyrirtækja í landinu. Þá myndu Íslendingar ekki lengur hafa sveigjanleika til þess að bregðast við áföllum í útflutningi, líkt og átti sér stað í nýliðinni kórónukreppu, en rétt er að hafa í huga, að allar helztu útflutningsgreinar Íslands - sjávarútvegur, orkunýting og ferðaþjónusta - eru háðar ytri þáttum, sem við fáum engu um ráðið. Við blasir, að atvinnuleysi hefði orðið miklu meira og útgjöld ríkisins mun hærri, hefði ekki verið unnt að beita peningastefnunni til sveiflujöfnunar, líkt og gert var með afgerandi og farsælum hætti."
Þessi greining Morgunblaðsins er að öllum líkindum hárrétt. Gengisbindingarstefnan er vanhugsuð og þjóðhættuleg. Með henni væri kastað fyrir róða mikilvægu sveiflujöfnunartæki, sem er hagkerfi á borð við okkar bráðnauðsynlegt, sem nánast aldrei sveiflast í fasa við meginhagkerfin, sem marka peningastefnu evrubankans í Frankfurt. Núna er reyndar mikill og vaxandi klofningur á milli germanskra og rómanskra ríkja evrunnar um peningastefnu evrubankans, sem hefur valdið mestu verðbólgu á evrusvæðinu frá stofnun hennar og mestu verðbólgu í Þýzkalandi frá endursameiningu landsins 1990.
4.9.2021 | 14:25
Á skallanum
Formenn stjórnmálaflokkanna mættust í sjónvarpssal RÚV að kvöldi 31.08.2021. Segja má, að víglína hafi birzt á milli borgaralegu flokkanna Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Miðflokks annars vegar og kraðaks á vinstri vængnum hins vegar. Það er síðan list stjórnmálanna að brúa þetta bil, ef nauðsyn krefur, að kosningum afstöðnum í því skyni að mynda starfhæfa ríkisstjórn fyrir landið.
Það var sótt að þeirri utanríkisstefnu Viðreisnar, sem nú starfar með afleitum vinstri meirihluta í Reykjavík og rekur jafnframt sósíalistíska sjávarútvegsstefnu undir öfugmælinu "markaðsverð fyrir auðlindina", og Samfylkingar að ætla að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um það, hvort taka á upp þráðinn í aðlögunarviðræðunum við Evrópusambandið. Þessa þjóðaratkvæðagreiðslu vilja þau halda óháð því, hvert þingviljinn stefnir eftir kosningar. Þetta er fáheyrt lýðskrum, enda hafa píratarnir lapið þetta upp, eins og allar mestu vitleysurnar, sem hægt er að rekast á á netinu. Þvílíkar lufsur og lúðulakar í pólitík.
Það er alveg eðlilegt að halda um þetta þjóðaratkvæði, ef þingviljinn stendur til að taka upp þennan þráð, en sé þingviljinn enn á móti, eins og á nýafstöðnu þingi, þá er verið að hafa þjóðina að fífli með því að halda slíka þjóðaratkvæðagreiðslu með svipuðum hætti og vinstri stjórnin álpaðist til á sínum tíma, þegar spurt var, hvort þjóðin vildi hafa ákvæði draga Stjórnlagaráðs, þótt enginn vissi, hvaða útgáfudrög væru í gildi þann daginn, til hliðsjónar við samningu nýrrar Stjórnarskrár. Hvílíkt klúður !
Ef meirihluti gildra atkvæða fellur með því að taka upp þráðinn við ESB, en þingmeirihluti er ekki fyrir málinu, verður ráðherra í þeirri stöðu að þurfa að fara til Brüssel og segjast vilja endurvekja umsóknarferlið frá 2009-2013, en aðildarsamningur verði að öllum líkindum felldur á Alþingi. Hvernig verða viðbrögðin í Berlaymont ? Það mun kveða við skellihlátur, og íslenzki ráðherrann verður látinn vita, að Framkvæmdastjórnin sé búin að fá nóg af bjölluati og tímasóun yfir íslenzku umsókninni.
Þetta liggur í augum uppi, en íslenzku lýðskrumararnir í ESB-flokkunum eru svo grunnhyggnir að ímynda sér, að kjósendur sjái ekki í gegnum staðleysurnar þeirra.
Þann 28. ágúst 2021 birtist einstaklega ósmekkleg forystugrein í Fréttablaðinu eftir nýráðinn ritstjóra þar á bæ. Hún hét:
"Á Kúbunni",
og þar burðaðist Sigmundur Ernir Rúnarsson, fyrrverandi þingmaður Samfylkingar, við að bera saman hjónaband og aðild að Evrópusambandinu. Að velja þennan samanburð sýnir, hversu firrtur og fjarri rökhyggju boðskapurinn um Evrópusambandsaðild er. Forystugreinin hófst svona:
"Dásamlegasta fullveldisafsal, sem nokkur maður getur hugsað sér, er að finna rétta makann og deila með honum kjörum um ókomin ár, jafnt í blíðu og stríðu, en það hefur almennt verið kallað að festa ráð sitt. Mikilvægasta fullveldisafsal hverrar þjóðar er að taka höndum saman við aðrar þjóðir í verzlun og viðskiptum til að efla atvinnustig og afkomu almennings, svo [að] samfélagsþjónustan geti verið eins þróttmikil og kostur er.
Fullveldi eitt og sér án þátttöku í milliríkjasamningum og alþjóðlegu samstarfi ber í bezta falli (sic !) stöðnunina í sjálfu sér, en þó líklega miklu fremur afturför jafnt fyrir almenning og atvinnugreinar í hvaða landi sem er.
Því er nefnilega svo farið, að fullveldi er nafnið tómt, nema því fylgi efnahagslegt sjálfstæði. Og efnahagslegu sjálfstæði nær ekki nokkur þjóð, nema að hámarka auðlindir sínar með frjálsum viðskiptum við aðrar þjóðir."
Það er erfitt að trúa því, að ritstjórinn nýi sé svo illilega úti á túni í viðskiptalegum efnum, að hann telji fullveldisafsal grundvöllinn að frjálsum viðskiptum í heiminum. Aðild að Evrópusambandinu mundi í viðskiptalegum efnum þýða innlimun Íslands í tollabandalag ESB og aðild að þeim fríverzlunarsamningum, sem ESB hefur gert við lönd þar fyrir utan. Ísland mætti ekki gera sína eigin fríverzlunarsamninga og yrði skyldugt að hlíta öllum sáttmálum Sambandsins, tilskipunum, reglugerðum og lögum.
Ísland gengi þannig inn í CAP, landbúnaðar- og sjávarútvegsstefnuna, en ESB mótar nýtingarstefnuna á þessum sviðum. Það stefnir á að afleggja núverandi úthlutunarkerfi aflaheimilda og taka upp sameiginlegt útboð innan allrar lögsögu aðildarlandanna utan 12 sjómílna. Með þessu kerfi yrði íslenzkum sjávarútvegi einfaldlega rústað, og sé litið á feril ESB til verndar fiskistofnum, er stórhætta á ofveiði og eyðileggingu nytjastofnanna með tímanum undir slíkri óstjórn.
Ekki er staðan mikið gæfulegri, sé litið til hinnar meginauðlindar Íslendinga, orkulindanna. Íslendingar yrðu sem aðilar að ESB skilyrðislaust að innleiða allar tilskipanir, reglugerðir og lög Sambandsins um orkumál. Að áskilja samþykki Alþingis um sæstrengstengingu við landið með viðkomu í Færeyjun eða á Bretlandi á leið til ESB-lands verður þá ekki valkostur, ef einhver fyrirtæki vilja leggja Icelink. Reglur um úthlutun rannsóknar- og framkvæmdaleyfa virkjana ásamt línulögnum yrðu og að lúta ákvæðum orkupakkanna frá ESB. Nýting orkulindanna yrði ekki lengur í okkar höndum frekar en nýting fiskimiðanna. Hvers konar útúrboruháttur er það eiginlega að gera bara gys að alvöru málsins og líkja þessu við samning karls og konu um að arka saman sinn æviveg ?
Morgunblaðið er af öðru sauðahúsi. Þar er ekki gasprað út og suður í leiðaraplássi að lítt ígrunduðu máli. Forystugreinin 31. ágúst 2021 fjallaði um systurflokkana 2, Viðreisn og Samfylkingu og slengja mætti við útibúi S, pírötunum. Þeir "tveir bjóða þjóðinni í bíltúr með farkosti, þar sem hvert einasta hjól er sprungið". Þessu var fundinn staður í forystugreininni:
"Flokkar fáránleikans":
"En málstaðurinn eini felst í því að góna í átt að ESB, báðir tveir með síendurteknum hótunum um að kasta sjálfstæðri mynt, en engin almenn umræða snýst um slíkt nú.
Í þessu sambandi er fróðlegt að horfa til nýlegra skrifa Mervyns Kings, lávarðar og fyrrverandi aðalbankastjóra Englandsbanka. Hann hefur bent á, að ákafamenn á meginlandinu, sem tala fyrir nýjum skrefum í átt að þéttara sambandi, kalla hratt á hörð viðbrögð almennings. Slík skref myndu ekki einungis ýta undir efnahagslegt öngþveiti, heldur jafnframt til stjórnmálalegs uppnáms:
"Myntbandalag hefur stuðlað að stríði á milli miðstýringarelítu annars vegar og lýðræðisafla á meðal einstakra þjóða hins vegar. Að ýta undir slíkt er gríðarlegt hættuspil."
King, lávarður, bendir á, að "stærsta efnahagsveldi ESB hafi staðið frammi fyrir þeim skelfilegu kostum að skrifa undir innistæðulausa skuldbindingu til stuðnings sambandinu með stórbrotnum og óendanlegum kostnaði fyrir skattgreiðendur, eða að stíga ella fast á bremsuna og stöðva þegar tilraunastarfsemina með myntbandalag í álfunni !" Og hann bætti við:
"Eina færa leiðin, til að þjóðir ESB neyðist ekki lengur til að horfa beint ofan í hyldjúpan samdrátt, samfellt vaxandi fjöldaatvinnuleysi, þar sem hvergi sér fyrir enda á sligandi böggum skuldugu þjóðanna, er að leysa evruna upp !" Þessi skilaboð geta ekki ljósari verið."
Einörðustu andstæðingar aðildar Íslands að ESB hefðu ekki getað kveðið sterkar að orði, því að þarna kveður fyrrvarandi seðlabankastjóri Englands upp dauðadóm yfir flaggskipi Evrópusambandsins, evrunni. Sumir hérlendir stjórnmálamenn eru með böggum hildar og virðast alltaf vera á röngu róli eða telja betra að veifa röngu tré en öngu. Það verður að efast um leiðtogahæfileika þeirra stjórnmálamanna, sem róa að því öllum árum og opna vart ginið eða stinga niður penna án þess að boða frelsun Íslendinga undan krónunni þeirra (ISK) með því að tengja hana fyrst við evruna og að uppfylltum öllum skilyrðum myntbandalagsins að kasta ISK fyrir róða og taka upp EUR.
Þau Logi Einarsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir gátu varla verið seinheppnari með merkimiða á ennið á sér en EUR, ef nokkuð er að marka Mervyn King, og það hefur hingað til verið mikið að marka þann mann.
Annaðhvort hafa þau Logi og Þorgerður misst bæði sjón og heyrn í Kófinu, fyrir utan pólitískt þefskyn, eða þau ganga bæði með steinbarn í maganum, sem heitir evra. Það blasir við, að Ísland hefði efnahagslega ekki siglt jafnhnökralítið út úr Kófinu og raun ber vitni án ISK. Seðlabankastjóri, Ásgeir Jónsson (frá Hólum í Hjaltadal) hefur staðfest, að gildi þess að hafa sjálfstæðan gjaldmiðil í Kófinu hafi sannað sig. M.ö.o. virkni ISK við að deyfa hagsveiflur sannar sig í utan að komandi efnahagsáföllum. Þótt seðlabankastjóri segi það ekki beint, skín út úr orðum hans, að hann ráðleggur Íslendingum eindregið að varðveita mynt sína. Þar með er hann andvígur aðild Íslands að ESB, því að hún felur nú orðið í sér skyldu til að taka upp EUR.
Kveikjan að tilvitnuðum orðum Mervyns King er væntanlega sú samþykkt ráðherraráðs ESB að heimila ESB að taka lán í nafni allra aðildarlandanna til að stofna endurreisnarsjóð eftir Kófið. Til að bjarga evrusvæðinu frá upplausn hafa Þjóðverjar lagt þýzka ríkissjóðinn að veði, því að Miðjarðarhafslöndin, að Frökkum meðtöldum, verða aldrei borgunarmenn fyrir skuldum sínum, á meðan þau verða í spennitreyju evrunnar. Evran átti að bjarga franska frankanum undan stöðugu, niðurlægjandi gengisfalli gagnvart þýzka markinu, DEM. Frakkar fóru úr öskunni í eldinn og hafa enn ekki roð við fólkinu á milli Rínar og Oder-Neisse. Það verður ókyrrð í þýzkum stjórnmálum, á meðan þýzkur almenningur er látinn axla byrðarnar af skuldsetningu rómönsku þjóðanna. Fróðlegt verður að sjá, hvort tap CDU mun leiða til uppgangs AfD, Alternative für Deutschland, sem nú rekur mjög líflega kosningabaráttu.
24.7.2021 | 18:21
Er betra að veifa röngu tré en öngu ?
Í lok 9. áratugar 20. aldarinnar voru aðrir við stjórnvölinn hérlendis en sjálfstæðismenn. Þáverandi ríkisstjórn stóð frammi fyrir bullandi tapi á sjávarútvegi, af því að fiskiskipin voru allt of mörg m.v. leyfilegan heildarafla að ráði Hafrannsóknarstofnunar. Ríkisstjórnin gat beitt stjórnvaldsákvörðunum til að aðlaga stærð flotans að ástandi fiskimiðanna í íslenzku lögsögunni, en hún ákvað að láta markaðinn um að leysa vandamálið. Það gerði hún með því að leggja fyrir Alþingi frumvarp um frjálst framsal fiskveiðiheimilda, kvóta á skip, sem ríkið hafði úthlutað 1983-1984 á grundvelli veiðireynslu árin 3 þar á undan. Sjálfstæðismenn, sem þá voru í stjórnarandstöðu, voru sumir hverjir andsnúnir þessu, og flokkurinn átti engan veginn frumkvæði að kerfi, sem aðrir hafa eignað honum og hann tekið upp á sína arma, af því að það reyndist vera þjóðhagslega hagkvæmt (hvergi hefur annað fyrirkomulag reynzt hagkvæmara).
Það kom sem sagt í ljós, að markaðurinn svínvirkaði. Aflahlutdeildir gengu kaupum og sölum á milli útgerða, útgerðum og skipum fækkaði og kaupendur efldust, m.a. af því að þeir náðu smám saman aukinni hagræðingu í krafti stærðar og fjárfestinga í nýrri tækni. Nú er samhljómur á meðal hagfræðinga um, að þessi breyting hafi orðið til góðs, og staðreyndirnar tala sínu máli. Íslenzkur sjávarútvegur er sjálfbær í öllum skilningi (hann notar að vísu enn olíu, en minna af henni á hvert veitt tonn en annars staðar þekkist), og hann stendur sig vel á erlendum mörkuðum, þangað sem yfir 95 % af vöruframboði hans fara.
Sjálfstæðismenn áttuðu sig fljótt á því, að þarna hafði heillaspor verið stigið, enda varð atvinnugreinin nú sjálfstæð, hefur lagt mikið að mörkum til samfélagsins og hefur ekki þurft að leggjast inn á vöggustofu ríkisins, sem áður fyrr hlynnti að veikburða fyrirtækjum. Hins vegar bregður svo við, að sumir aðrir stjórnmálaflokkar, t.d. Samfylking, Viðreisn og líklega hentistefnuliðið, sem kallar sig pírata, hafa nú horn í síðu þessa árangursríka fyrirkomulags sjávarútvegsstefnunnar. Að sjálfsögðu ráðast þeir á Sjálfstæðisflokkinn fyrir að hafa tekið þessa vel heppnuðu stefnu upp á sína arma, en hvað hafa þeir á móti kerfinu ? Sjálfstæðisflokkurinn sýndi þarna, að hann er víðsýnn flokkur og næmur fyrir breytingum, sem vel reynast. Hann kastar þó ekki fyrir róða, því sem vel hefur gefizt, nema annað enn betra sé örugglega í boði.
Sagt er, að þeir, sem fjárfest hafa í kvóta og dýrum búnaði til að nýta sjávarauðlindirnar í íslenzku lögsögunni, og þeir af meinfýsni uppnefndir "sægreifar", ausi af auðlind í eign þjóðarinnar. Loddarar hafa alið á tortryggni og jafnvel andúð í garð útgerðarmanna á þeim fölsku forsendum, að þeir græði á því, sem aðrir eiga. Þetta er auðvitað fráleitur málflutningur, sérstaklega þar sem kvótinn hefur að mestu leyti gengið kaupum og sölum samkvæmt landslögum. Vitleysan á rætur að rekja til misskilnings á fiskveiðistjórnunarlögunum.
Þar er því slegið föstu, að fiskimiðin innan íslenzku lögsögunnar séu eign íslenzku þjóðarinnar. Það er góð hugsun að baki þessu ákvæði, því að það tryggir fullveldi íslenzka ríkisins yfir miðunum, en ekki, að ég geti gert kröfu á þá sem eiga afnotaréttinn um u.þ.b. 1/365000 af aflaverðmætunum, þegar kostnaðurinn við að afla verðmætanna hefur verið dreginn frá. Þar sem ríkisvaldið fer með þennan fullveldisrétt þjóðarinnar, merkir þjóðareignarákvæðið, að ríkisvaldið hefur óskoraðan rétt til að fara með stjórnun aðlindarinnar. Það er gert með fiskveiðistjórnarlöggjöf og reglugerðum, reistum á henni.
Þá er mikið gert úr því, að aðgengi nýrra, sem vilja spreyta sig á að afla verðmæta úr sameiginlegri auðlind þjóðarinnar, sé heft. Það er markaðurinn, sem myndar þann inngönguþröskuld, að kaupa þarf eða leigja aflahlutdeild. Verðið markast að nokkru af því, að hér er um mjög takmarkaða auðlind að ræða, jafnvel m.v. núverandi afkastagetu fiskiskipastólsins eftir mikla fækkun skipa. Að minnka veiðiheimildir núverandi útgerða og úthluta þeim til annarra á einhverju verði er löglaust athæfi (brot á eignarréttarákvæði stjórnarskrár (afnotaréttur er ein tegund eignarréttar)) og hagfræðilega óverjandi ráðstöfun, því að þar með væri ríkisvaldið að stuðla að óhagkvæmari rekstri allra útgerða, með því að fjölga þeim,og tapi hjá þeim, sem nú eru lítið eitt ofan við bókhaldslegt 0. Að auka heildaraflamarkið til að hleypa öðrum að er ósjálfbær ráðstöfun og óréttlætanleg gagnvart eigandanum, þjóðinni, sem á rétt á því, að bezta þekkta þekking sé nýtt til að hámarka afrakstur miðanna til frambúðar, eins og manninum er fært á hverjum tíma.
Umræðan um sérgjaldtöku af sjávarútvegi umfram aðrar atvinnugreinar, s.k. auðlindagjald, hefur verið á villigötum frá upphafi einfaldlega vegna þess, að engum hefur tekizt að sýna fram á með skýrum hætti, að s.k. auðlindarenta væri fyrir hendi í sjávarútvegi, þ.e. umframhagnaður greinarinnar m.v. aðrar greinar vegna aðgangs hennar að náttúruauðlind. Ef hún væri fyrir hendi hér, hlyti hún að finnast í norskum sjávarútvegi líka, því að í norsku lögsögunni eru gríðarlega auðug fiskimið. Það er öðru nær og stafar m.a. af því, að kostnaðarsamt er fyrir fyrirtækin að sækja sjóinn. Norsk sjávarútvegsfyrirtæki fá fjárhagsstuðning frá hinu opinbera, og þannig háttar til alls staðar annars staðar í Evrópu, nema í Færeyjum.
Kjarni málsins er sá, að íslenzki sjávarútvegurinn á í höggi við þennan niðurgreidda sjávarútveg á evrópskum mörkuðum og víðar. Gjaldtaka af sjávarútveginum umfram venjulega skattheimtu rýrir óneitanlega samkeppnishæfni fjármagnsfrekrar starfsemi eins og sjávarútvegsins. Þess vegna þarf ríkisvaldið að gæta hófs. Núverandi gjaldtaka tekur þriðjung hagnaðar. Það er ekki hófleg gjaldtaka í ljósi almenns tekjuskatts af lögaðilum á Íslandi, sem er fimmtungur hagnaðar.
Evrópusambandið (ESB) stjórnar fiskimiðum aðildarlandanna utan 12 sjómílna. Ef Ísland gengur í ESB, eins og Samfylking og Viðreisn berjast fyrir og píratar virðast vera hlynntir, þá fellur íslenzka lagaákvæðið um þjóðareign fiskveiðiauðlindarinnar fyrir lítið, því að Evrópuréttur er rétthærri landsrétti innan ESB og reyndar EES, en fiskveiðistjórnun er undanskilin í EES-samninginum. Það mun þá verða mikill þrýstingur frá frönskum, spænskum og fleiri útgerðum ESB-landanna á Framkvæmdastjórnina um að hleypa þeim inn í íslenzku landhelgina, enda að missa spón úr aski sínum við Bretlandsstrendur.
Íslenzkir aðildarsinnar, t.d. Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, halda því statt og stöðugt fram, að hægt verði að semja um "hlutfallslegan stöðugleika", sem er reistur á veiðireynslu. Spurning er, hvort veiðireynsla Frakka, Spánverja o.fl. á fyrri tíð við Ísland er fyrnd. Alla vega er núverandi fyrirkomulag bráðabirgða fyrirkomulag innan Evrópusambandsins, og samkvæmt hvítbók ESB um þetta efni er stefnt að því, að markaðurinn stjórni aðgangi að öllum miðum aðildarlandanna, er fram í sækir. Það er gert með því að bjóða út eða upp aflaheimildir. Íslenzk fiskveiðistjórnun í lögsögu Íslands mun þá fara veg allrar veraldar, og þjóðarframleiðslan mun minnka að sama skapi með slæmum afleiðingum fyrir hag landsmanna og byggð í landinu. Innganga í ESB mun gera Ísland að óaðlaðandi verstöð með of lágar þjóðartekjur til að keppa um hæfasta vinnuaflið.
Stefna Viðreisnar í fiskveiðistjórnarmálum er þannig aðeins liður í aðlögun Íslands að stjórnkerfi Evrópusambandsins. Stefán Einar Stefánsson birti útdrátt úr Dagmálaviðtali við varaformann Viðreisnar, Daða Má Kristófersson, í Morgunblaðinu, 15. júlí 2021, undir fyrirsögninni:
"Nýtt kerfi skili ekki meiri tekjum".
Frásögnin hófst þannig:
"Ekki standa líkur til þess, að tekjur ríkissjóðs af fiskveiðiauðlindinni muni aukast, nái tillögur Viðreisnar um svo kallaða samningaleið fram að ganga. Þetta segir Daði Már Kristófersson, varaformaður flokksins og prófessor í auðlindahagfræði við Háskóla Íslands. Bendir hann á, að veiðigjöld, sem nú eru lögð á útgerðina, nemi um þriðjungi af hagnaði þeirra, og að kerfisbreytingar þær, sem hann telji nauðsynlegt að ráðast í, muni skila svipuðum tekjum til lengri tíma litið."
Yfirleitt hefur jarmurinn út af fiskveiðistjórnunarkerfinu snúizt um að skattleggja sjávarútveginn enn þá meira en gert er. Oftast er um að ræða fólk útblásið af hugsjónum og réttlætiskennd fyrir hönd þjóðarinnar með afar takmarkað vit á útgerð. Þau slá um sig með slagorðum á borð við: "látum sjávarútveginn greiða markaðsverð fyrir aðganginn að þjóðareigninni". Nú játar varaformaður Viðreisnar, að sjávarútvegurinn muni ekki geta greitt meira í ríkissjóð en hann gerir nú þegar. Með þetta hljóta margir vizkubrunnar að hafa orðið fyrir vonbrigðum. Þeir hafa gjarna bent á leiguverð kvóta sem líklegt markaðsverð hans. Þetta er algerlega fráleit hugmynd, sem sýnir, að þau hafa ekki minnsta vit á því, sem þau bera fyrir brjósti að umbylta. Leiguverð er jaðarverð. Leigður kvóti þarf aðeins að standa undir rekstrarkostnaði við að veiða viðbótarfisk við grunnkvóta skipsins. Þess vegna getur verið hagkvæmt að leigja kvóta á yfir 200 ISK/kg, sem gæti verið 10-20 falt núverandi veiðigjald fyrir þorsk. Þannig er rekinn skefjalaus falsáróður til að vekja öfund og ólund gagnvart útgerðarmönnum.
Síðan var vitnað beint í Daða Má:
"Auðvitað gæti einhver sagt, að verulegur partur [arðsins] væri skilinn eftir hjá útgerðinni. En tilfellið er, að það er mjög mikilvægt, að útgerð sé ábatasöm atvinnugrein [...]; allir skattar valda einhvers konar skaða, og umfangið af þeim skaða, og umfangið af þeim skaða er háð umfangi skattlagningarinnar, og það er mjög mikilvægt, að við séum örugglega réttum megin þar. Ég vil benda á, að sambærileg skattlagning auðlindagreina í nágrannalöndunum er iðulega ekki meiri en þetta með beinni skattlagningu."
Þarna ratast varaformanni rétt orð í mun um skattheimtuna. Sjávarútvegur verður ekki mjólkaður meira með nýju fiskveiðistjórnunarkerfi. Hvers vegna er þá talin þörf á nýju fiskveiðistjórnunarkerfi ? Það er til að aðlaga kerfið stefnu ESB í sjávarútvegsmálum, en það er að sjálfsögðu ekki viðurkennt, heldur skálduð skýring:
"Spurður út í, hvað knýi á um breytt fyrirkomulag í kringum úthlutun fiskveiðiheimilda, fyrst slíku kerfi sé ekki ætlað að skila meiri tekjum í ríkissjóð, segir Daði Már, að innköllun núverandi veiðiheimilda yfir langt tímabil, þar sem hægt væri að bjóða þær upp í kjöldarið, sé líklegri til þess að tryggja sátt um sjávarútveginn."
Þessi útskýring er eins og hver önnur þvæla. Hvaða heilvita manni dettur í hug, að mesta þjóðnýting Íslandssögunnar sé líkleg til að skapa aukna sátt um eina atvinnugrein ? Viðreisn hefði varla getað framreitt heimskulegra og ótrúverðugra yfirklór yfir þá sorglegu staðreynd, að hún starfar hér á Íslandi sem eins konar útibú frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og allar gerðir hennar miða að því einu að flækja Íslandi undir yfirráð hennar.
Ragnar Árnason, prófessor emeritus í hagfræði við HÍ, var líka á téðum Dagmálafundi:
"Nýverið birtu Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi skýrslu, sem Ragnar Árnason vann fyrir þau og var eins konar "uppfærsla" á ríflega 10 ára gamalli skýrslu Daða Más, sem unnin var fyrir tilhlutan starfshóps um mögulega endurskoðun á fiskveiðistjórnunarkerfinu íslenzka. Þar kemst Ragnar að þeirri niðurstöðu, líkt og Daði Már, að innköllun aflaheimilda fæli í sér eignaupptöku."
Ragnar hefur áreiðanlega ekki hrapað að þessari niðurstöðu, svo vandaður fræðimaður sem hann er. Þetta er "fait accompli" eða þegar framkvæmt, og það er ekki til neins að láta eins og afturkalla megi þennan gjörning og þar með aflaheimildirnar, nema með því að ógilda eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, og það verður aldrei gert með samþykki meirihluta kjósenda, svo mikið er víst. Friður um stjórnkerfi fiskveiða er almenningi fyrir beztu, enda nýtur þetta fyrirkomulag alþjóðlegrar viðurkenningar og er grundvöllur þróunar sjávarútvegsins á öllum sviðum, s.s. öryggis skipverja (gott skipulag veiðanna), orkusparnaðar og orkuskipta (afl til fjárfestinga í nýrri tækni) og gjörnýtingar aflans (hvati til aukinnar verðmætasköpunar úr hverju kg).
14.6.2021 | 20:58
Forgangur ESB-löggjafar í EFTA-löndunum er viðkvæmt mál
Alþýðusamband Noregs, LO (=Landsorganisasjonen), krefst þess, að norsk löggjöf um vinnumarkaðsmál sé æðri ESB-löggjöf um atvinnulífið, sem leidd er í norsk lög samkvæmt EES-samninginum. LO telur hallað á norskt verkafólk með innleiðingu ESB-löggjafarinnar og sættir sig ekki við lögþvingaða rýrnun réttinda sinna félagsmanna. Vaxandi óánægja innan LO með EES-samstarfið getur leitt til, að LO álykti um nauðsyn endurskoðunar á EES-samninginum. Þá kann að verða stutt í sams konar sinnaskipti stærsta stjórnmálaflokks Noregs, Verkamannaflokksins, sem líklega mun leiða nýja ríkisstjórn að afloknum Stórþingskosningum í september 2021.
Spyrja má, hvers vegna Alþýðusamband Íslands (ASÍ) hafi ekki viðrað áhyggjur sínar með svipuðum og áberandi hætti af ráðandi stöðu ESB-réttar í íslenzkri löggjöf samkvæmt EES-samninginum. Svarið kann að nokkru leyti að vera að finna í þeim mun, sem er á viðkomandi lagasetningu þessara tveggja bræðralanda, sem bæði þurfa þó að hlíta bókun 35 við EES-samninginn, sem fjallar um skyldu EFTA-landanna að lögleiða forgang ESB-löggjafar umfram landslög.
Íslenzka innleiðingin á forgangi ESB-löggjafar var skilyrt og veitti dómstólum þannig ráðrúm til að meta hvert mál fyrir sig. Líklega teygir íslenzka löggjöfin um forganginn sig eins langt í átt að EES-samninginum og íslenzka stjórnarskráin leyfir. Það er hins vegar ekki nóg fyrir ESA (Eftirlitsstofnun EFTA), sem hefur kvartað undan dómsuppkvaðningum hérlendis, þar sem innlend löggjöf var látin ráða, sjá viðhengi með þessum pistli. ESA sakaði Ísland árið 2017 um samningsbrot vegna rangrar lögfestingar um forgang ESB-réttar samkvæmt bókun 35. Íslenzka ríkisstjórnin svaraði ESA 10. september 2020 með vísun til Weiss-málsins, þar sem þýzki stjórnlagadómstóllinn í Karlsruhe taldi rökstuðning Evrubankans í Frankfurt am Main fyrir kaupum bankans á ríkisskuldabréfum evrulandanna ófullnægjandi. Evrópusambandið væri ekki sambandsríki, heldur ríkjasamband, og þess vegna væri stjórnarskrá Sambandslýðveldisins Þýzkalands æðri Evrópurétti.
ESA hefur nú sent Íslandi lokaviðvörun vegna téðs samningsbrotamáls, og gangi ESA alla leið og kæri íslenzka ríkið fyrir samningsbrot, má búast við, að áhugaverðar umræður spinnist um EES-samninginn hérlendis, sérstaklega ef kæra ESA birtist fyrir haustkosningarnar 2021.
Framkvæmdastjórnin er ekki af baki dottin, heldur hyggst brjóta rauðhempurnar í Karlsruhe á bak aftur. Hún hóf þann 9. júní 2021 samningsbrotsmál gegn Þýzkalandi fyrir að fótumtroða grundvallarreglur ESB-réttarins, með því að rauðhempurnar efuðust um heimildir Evrubankans til að kaupa ríkisskuldabréf, þrátt fyrir að ESB-dómstóllinn hefði þá þegar úrskurðað, að slík kaup væru í samræmi við ESB-réttinn. Þýzka þingið í Reichstag-byggingunni hefur fyrir sitt leyti samþykkt þessar stuðningsaðgerðir Evrubankans, en Framkvæmdastjórnin velur samt þá herskáu leið að höfða mál gegn Þýzkalandi til að geirnegla, að ESB-dómstóllinn sé æðstur allra dómstóla innan ESB og þá raunar einnig EES, því að EFTA-dómstólinum ber að hlíta dómafordæmum hans. Þetta er þess vegna stórmál fyrir EFTA-löndin líka, utan Svisslands, sem skákar í skjóli tvíhliða viðskipta- og menningarsamninga við ESB.
Það var í maí 2020, sem Stjórnlagadómstóllinn í Karlsruhe kvað upp úr með, að sá úrskurður ESB-dómstólsins, að Evrubankinn hefði téðar heimildir samkvæmt ESB-rétti, væri "ultra vires", þ.e.a.s. utan heimildasviðs hans. Framkvæmdastjórnin skrifar í fréttatilkynningu af þessu tilefni, að þýzki stjórnlagadómstóllinn hafi ómerkt réttaráhrif ESB-dómstólsins í Þýzkalandi og véki til hliðar grunnreglunni um forgang ESB-réttar. Framkvæmdastjórnin telur þetta munu hafa alvarleg fordæmisáhrif, bæði fyrir úrskurði og dóma þýzka stjórnlagadómstólsins og fyrir æðstu dómstóla og stjórnlagadómstóla annarra aðildarlanda.
Prófessor Halvard Haukeland Fredriksen við Háskólann í Bergen sagði í sambandi við dóm þýzka stjórnlagadómstólsins:
"Vandamálið við dóminn er eiginlega ekki, að stjórnlagadómstóllinn telur á valdsviði sínu að sannreyna, hvort ESB-dómstóllinn hafi haldið sig innan marka fullveldisframsals Þýzkalands til ESB, heldur að þröskuldurinn fyrir þessi inngrip hans virðist allt of lágur. Í fyrri málum hefur stjórnlagadómstóllinn alltaf látið ESB-dómstólinn njóta vafans og í því samhengi einnig lýst því yfir, að m.t.t. einingar um ESB-réttinn skuli veita ESB-dómstólinum visst "villuumburðarlyndi" ("Fehlertoleranz")."
ESA sendi Íslandi lokaaðvörun vegna samningsbrota út af löggjöf landsins um forgang ESB-réttar á Íslandi 30. september 2020. Svar íslenzku ríkisstjórnarinnar, sem barst ESA fyrir skömmu, er trúnaðarmál. Hvers vegna í ósköpunum þolir þetta svar ekki dagsljósið ? Hagsmunir hverra mundu skaðast við það að upplýsa um efnislegt inntak afstöðu íslenzka ríkisins til máls, sem á sér víðtæka skírskotun innan EES ? Það verður að leysa úr þessu deilumáli EFTA-ríkjanna við ESB með samningaviðræðum á milli EFTA og ESB. Að því kemur vonandi eftir þingkosningarnar í Noregi og á Íslandi í september 2021.