Færsluflokkur: Evrópumál
24.7.2021 | 18:21
Er betra að veifa röngu tré en öngu ?
Í lok 9. áratugar 20. aldarinnar voru aðrir við stjórnvölinn hérlendis en sjálfstæðismenn. Þáverandi ríkisstjórn stóð frammi fyrir bullandi tapi á sjávarútvegi, af því að fiskiskipin voru allt of mörg m.v. leyfilegan heildarafla að ráði Hafrannsóknarstofnunar. Ríkisstjórnin gat beitt stjórnvaldsákvörðunum til að aðlaga stærð flotans að ástandi fiskimiðanna í íslenzku lögsögunni, en hún ákvað að láta markaðinn um að leysa vandamálið. Það gerði hún með því að leggja fyrir Alþingi frumvarp um frjálst framsal fiskveiðiheimilda, kvóta á skip, sem ríkið hafði úthlutað 1983-1984 á grundvelli veiðireynslu árin 3 þar á undan. Sjálfstæðismenn, sem þá voru í stjórnarandstöðu, voru sumir hverjir andsnúnir þessu, og flokkurinn átti engan veginn frumkvæði að kerfi, sem aðrir hafa eignað honum og hann tekið upp á sína arma, af því að það reyndist vera þjóðhagslega hagkvæmt (hvergi hefur annað fyrirkomulag reynzt hagkvæmara).
Það kom sem sagt í ljós, að markaðurinn svínvirkaði. Aflahlutdeildir gengu kaupum og sölum á milli útgerða, útgerðum og skipum fækkaði og kaupendur efldust, m.a. af því að þeir náðu smám saman aukinni hagræðingu í krafti stærðar og fjárfestinga í nýrri tækni. Nú er samhljómur á meðal hagfræðinga um, að þessi breyting hafi orðið til góðs, og staðreyndirnar tala sínu máli. Íslenzkur sjávarútvegur er sjálfbær í öllum skilningi (hann notar að vísu enn olíu, en minna af henni á hvert veitt tonn en annars staðar þekkist), og hann stendur sig vel á erlendum mörkuðum, þangað sem yfir 95 % af vöruframboði hans fara.
Sjálfstæðismenn áttuðu sig fljótt á því, að þarna hafði heillaspor verið stigið, enda varð atvinnugreinin nú sjálfstæð, hefur lagt mikið að mörkum til samfélagsins og hefur ekki þurft að leggjast inn á vöggustofu ríkisins, sem áður fyrr hlynnti að veikburða fyrirtækjum. Hins vegar bregður svo við, að sumir aðrir stjórnmálaflokkar, t.d. Samfylking, Viðreisn og líklega hentistefnuliðið, sem kallar sig pírata, hafa nú horn í síðu þessa árangursríka fyrirkomulags sjávarútvegsstefnunnar. Að sjálfsögðu ráðast þeir á Sjálfstæðisflokkinn fyrir að hafa tekið þessa vel heppnuðu stefnu upp á sína arma, en hvað hafa þeir á móti kerfinu ? Sjálfstæðisflokkurinn sýndi þarna, að hann er víðsýnn flokkur og næmur fyrir breytingum, sem vel reynast. Hann kastar þó ekki fyrir róða, því sem vel hefur gefizt, nema annað enn betra sé örugglega í boði.
Sagt er, að þeir, sem fjárfest hafa í kvóta og dýrum búnaði til að nýta sjávarauðlindirnar í íslenzku lögsögunni, og þeir af meinfýsni uppnefndir "sægreifar", ausi af auðlind í eign þjóðarinnar. Loddarar hafa alið á tortryggni og jafnvel andúð í garð útgerðarmanna á þeim fölsku forsendum, að þeir græði á því, sem aðrir eiga. Þetta er auðvitað fráleitur málflutningur, sérstaklega þar sem kvótinn hefur að mestu leyti gengið kaupum og sölum samkvæmt landslögum. Vitleysan á rætur að rekja til misskilnings á fiskveiðistjórnunarlögunum.
Þar er því slegið föstu, að fiskimiðin innan íslenzku lögsögunnar séu eign íslenzku þjóðarinnar. Það er góð hugsun að baki þessu ákvæði, því að það tryggir fullveldi íslenzka ríkisins yfir miðunum, en ekki, að ég geti gert kröfu á þá sem eiga afnotaréttinn um u.þ.b. 1/365000 af aflaverðmætunum, þegar kostnaðurinn við að afla verðmætanna hefur verið dreginn frá. Þar sem ríkisvaldið fer með þennan fullveldisrétt þjóðarinnar, merkir þjóðareignarákvæðið, að ríkisvaldið hefur óskoraðan rétt til að fara með stjórnun aðlindarinnar. Það er gert með fiskveiðistjórnarlöggjöf og reglugerðum, reistum á henni.
Þá er mikið gert úr því, að aðgengi nýrra, sem vilja spreyta sig á að afla verðmæta úr sameiginlegri auðlind þjóðarinnar, sé heft. Það er markaðurinn, sem myndar þann inngönguþröskuld, að kaupa þarf eða leigja aflahlutdeild. Verðið markast að nokkru af því, að hér er um mjög takmarkaða auðlind að ræða, jafnvel m.v. núverandi afkastagetu fiskiskipastólsins eftir mikla fækkun skipa. Að minnka veiðiheimildir núverandi útgerða og úthluta þeim til annarra á einhverju verði er löglaust athæfi (brot á eignarréttarákvæði stjórnarskrár (afnotaréttur er ein tegund eignarréttar)) og hagfræðilega óverjandi ráðstöfun, því að þar með væri ríkisvaldið að stuðla að óhagkvæmari rekstri allra útgerða, með því að fjölga þeim,og tapi hjá þeim, sem nú eru lítið eitt ofan við bókhaldslegt 0. Að auka heildaraflamarkið til að hleypa öðrum að er ósjálfbær ráðstöfun og óréttlætanleg gagnvart eigandanum, þjóðinni, sem á rétt á því, að bezta þekkta þekking sé nýtt til að hámarka afrakstur miðanna til frambúðar, eins og manninum er fært á hverjum tíma.
Umræðan um sérgjaldtöku af sjávarútvegi umfram aðrar atvinnugreinar, s.k. auðlindagjald, hefur verið á villigötum frá upphafi einfaldlega vegna þess, að engum hefur tekizt að sýna fram á með skýrum hætti, að s.k. auðlindarenta væri fyrir hendi í sjávarútvegi, þ.e. umframhagnaður greinarinnar m.v. aðrar greinar vegna aðgangs hennar að náttúruauðlind. Ef hún væri fyrir hendi hér, hlyti hún að finnast í norskum sjávarútvegi líka, því að í norsku lögsögunni eru gríðarlega auðug fiskimið. Það er öðru nær og stafar m.a. af því, að kostnaðarsamt er fyrir fyrirtækin að sækja sjóinn. Norsk sjávarútvegsfyrirtæki fá fjárhagsstuðning frá hinu opinbera, og þannig háttar til alls staðar annars staðar í Evrópu, nema í Færeyjum.
Kjarni málsins er sá, að íslenzki sjávarútvegurinn á í höggi við þennan niðurgreidda sjávarútveg á evrópskum mörkuðum og víðar. Gjaldtaka af sjávarútveginum umfram venjulega skattheimtu rýrir óneitanlega samkeppnishæfni fjármagnsfrekrar starfsemi eins og sjávarútvegsins. Þess vegna þarf ríkisvaldið að gæta hófs. Núverandi gjaldtaka tekur þriðjung hagnaðar. Það er ekki hófleg gjaldtaka í ljósi almenns tekjuskatts af lögaðilum á Íslandi, sem er fimmtungur hagnaðar.
Evrópusambandið (ESB) stjórnar fiskimiðum aðildarlandanna utan 12 sjómílna. Ef Ísland gengur í ESB, eins og Samfylking og Viðreisn berjast fyrir og píratar virðast vera hlynntir, þá fellur íslenzka lagaákvæðið um þjóðareign fiskveiðiauðlindarinnar fyrir lítið, því að Evrópuréttur er rétthærri landsrétti innan ESB og reyndar EES, en fiskveiðistjórnun er undanskilin í EES-samninginum. Það mun þá verða mikill þrýstingur frá frönskum, spænskum og fleiri útgerðum ESB-landanna á Framkvæmdastjórnina um að hleypa þeim inn í íslenzku landhelgina, enda að missa spón úr aski sínum við Bretlandsstrendur.
Íslenzkir aðildarsinnar, t.d. Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, halda því statt og stöðugt fram, að hægt verði að semja um "hlutfallslegan stöðugleika", sem er reistur á veiðireynslu. Spurning er, hvort veiðireynsla Frakka, Spánverja o.fl. á fyrri tíð við Ísland er fyrnd. Alla vega er núverandi fyrirkomulag bráðabirgða fyrirkomulag innan Evrópusambandsins, og samkvæmt hvítbók ESB um þetta efni er stefnt að því, að markaðurinn stjórni aðgangi að öllum miðum aðildarlandanna, er fram í sækir. Það er gert með því að bjóða út eða upp aflaheimildir. Íslenzk fiskveiðistjórnun í lögsögu Íslands mun þá fara veg allrar veraldar, og þjóðarframleiðslan mun minnka að sama skapi með slæmum afleiðingum fyrir hag landsmanna og byggð í landinu. Innganga í ESB mun gera Ísland að óaðlaðandi verstöð með of lágar þjóðartekjur til að keppa um hæfasta vinnuaflið.
Stefna Viðreisnar í fiskveiðistjórnarmálum er þannig aðeins liður í aðlögun Íslands að stjórnkerfi Evrópusambandsins. Stefán Einar Stefánsson birti útdrátt úr Dagmálaviðtali við varaformann Viðreisnar, Daða Má Kristófersson, í Morgunblaðinu, 15. júlí 2021, undir fyrirsögninni:
"Nýtt kerfi skili ekki meiri tekjum".
Frásögnin hófst þannig:
"Ekki standa líkur til þess, að tekjur ríkissjóðs af fiskveiðiauðlindinni muni aukast, nái tillögur Viðreisnar um svo kallaða samningaleið fram að ganga. Þetta segir Daði Már Kristófersson, varaformaður flokksins og prófessor í auðlindahagfræði við Háskóla Íslands. Bendir hann á, að veiðigjöld, sem nú eru lögð á útgerðina, nemi um þriðjungi af hagnaði þeirra, og að kerfisbreytingar þær, sem hann telji nauðsynlegt að ráðast í, muni skila svipuðum tekjum til lengri tíma litið."
Yfirleitt hefur jarmurinn út af fiskveiðistjórnunarkerfinu snúizt um að skattleggja sjávarútveginn enn þá meira en gert er. Oftast er um að ræða fólk útblásið af hugsjónum og réttlætiskennd fyrir hönd þjóðarinnar með afar takmarkað vit á útgerð. Þau slá um sig með slagorðum á borð við: "látum sjávarútveginn greiða markaðsverð fyrir aðganginn að þjóðareigninni". Nú játar varaformaður Viðreisnar, að sjávarútvegurinn muni ekki geta greitt meira í ríkissjóð en hann gerir nú þegar. Með þetta hljóta margir vizkubrunnar að hafa orðið fyrir vonbrigðum. Þeir hafa gjarna bent á leiguverð kvóta sem líklegt markaðsverð hans. Þetta er algerlega fráleit hugmynd, sem sýnir, að þau hafa ekki minnsta vit á því, sem þau bera fyrir brjósti að umbylta. Leiguverð er jaðarverð. Leigður kvóti þarf aðeins að standa undir rekstrarkostnaði við að veiða viðbótarfisk við grunnkvóta skipsins. Þess vegna getur verið hagkvæmt að leigja kvóta á yfir 200 ISK/kg, sem gæti verið 10-20 falt núverandi veiðigjald fyrir þorsk. Þannig er rekinn skefjalaus falsáróður til að vekja öfund og ólund gagnvart útgerðarmönnum.
Síðan var vitnað beint í Daða Má:
"Auðvitað gæti einhver sagt, að verulegur partur [arðsins] væri skilinn eftir hjá útgerðinni. En tilfellið er, að það er mjög mikilvægt, að útgerð sé ábatasöm atvinnugrein [...]; allir skattar valda einhvers konar skaða, og umfangið af þeim skaða, og umfangið af þeim skaða er háð umfangi skattlagningarinnar, og það er mjög mikilvægt, að við séum örugglega réttum megin þar. Ég vil benda á, að sambærileg skattlagning auðlindagreina í nágrannalöndunum er iðulega ekki meiri en þetta með beinni skattlagningu."
Þarna ratast varaformanni rétt orð í mun um skattheimtuna. Sjávarútvegur verður ekki mjólkaður meira með nýju fiskveiðistjórnunarkerfi. Hvers vegna er þá talin þörf á nýju fiskveiðistjórnunarkerfi ? Það er til að aðlaga kerfið stefnu ESB í sjávarútvegsmálum, en það er að sjálfsögðu ekki viðurkennt, heldur skálduð skýring:
"Spurður út í, hvað knýi á um breytt fyrirkomulag í kringum úthlutun fiskveiðiheimilda, fyrst slíku kerfi sé ekki ætlað að skila meiri tekjum í ríkissjóð, segir Daði Már, að innköllun núverandi veiðiheimilda yfir langt tímabil, þar sem hægt væri að bjóða þær upp í kjöldarið, sé líklegri til þess að tryggja sátt um sjávarútveginn."
Þessi útskýring er eins og hver önnur þvæla. Hvaða heilvita manni dettur í hug, að mesta þjóðnýting Íslandssögunnar sé líkleg til að skapa aukna sátt um eina atvinnugrein ? Viðreisn hefði varla getað framreitt heimskulegra og ótrúverðugra yfirklór yfir þá sorglegu staðreynd, að hún starfar hér á Íslandi sem eins konar útibú frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og allar gerðir hennar miða að því einu að flækja Íslandi undir yfirráð hennar.
Ragnar Árnason, prófessor emeritus í hagfræði við HÍ, var líka á téðum Dagmálafundi:
"Nýverið birtu Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi skýrslu, sem Ragnar Árnason vann fyrir þau og var eins konar "uppfærsla" á ríflega 10 ára gamalli skýrslu Daða Más, sem unnin var fyrir tilhlutan starfshóps um mögulega endurskoðun á fiskveiðistjórnunarkerfinu íslenzka. Þar kemst Ragnar að þeirri niðurstöðu, líkt og Daði Már, að innköllun aflaheimilda fæli í sér eignaupptöku."
Ragnar hefur áreiðanlega ekki hrapað að þessari niðurstöðu, svo vandaður fræðimaður sem hann er. Þetta er "fait accompli" eða þegar framkvæmt, og það er ekki til neins að láta eins og afturkalla megi þennan gjörning og þar með aflaheimildirnar, nema með því að ógilda eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, og það verður aldrei gert með samþykki meirihluta kjósenda, svo mikið er víst. Friður um stjórnkerfi fiskveiða er almenningi fyrir beztu, enda nýtur þetta fyrirkomulag alþjóðlegrar viðurkenningar og er grundvöllur þróunar sjávarútvegsins á öllum sviðum, s.s. öryggis skipverja (gott skipulag veiðanna), orkusparnaðar og orkuskipta (afl til fjárfestinga í nýrri tækni) og gjörnýtingar aflans (hvati til aukinnar verðmætasköpunar úr hverju kg).
14.6.2021 | 20:58
Forgangur ESB-löggjafar í EFTA-löndunum er viðkvæmt mál
Alþýðusamband Noregs, LO (=Landsorganisasjonen), krefst þess, að norsk löggjöf um vinnumarkaðsmál sé æðri ESB-löggjöf um atvinnulífið, sem leidd er í norsk lög samkvæmt EES-samninginum. LO telur hallað á norskt verkafólk með innleiðingu ESB-löggjafarinnar og sættir sig ekki við lögþvingaða rýrnun réttinda sinna félagsmanna. Vaxandi óánægja innan LO með EES-samstarfið getur leitt til, að LO álykti um nauðsyn endurskoðunar á EES-samninginum. Þá kann að verða stutt í sams konar sinnaskipti stærsta stjórnmálaflokks Noregs, Verkamannaflokksins, sem líklega mun leiða nýja ríkisstjórn að afloknum Stórþingskosningum í september 2021.
Spyrja má, hvers vegna Alþýðusamband Íslands (ASÍ) hafi ekki viðrað áhyggjur sínar með svipuðum og áberandi hætti af ráðandi stöðu ESB-réttar í íslenzkri löggjöf samkvæmt EES-samninginum. Svarið kann að nokkru leyti að vera að finna í þeim mun, sem er á viðkomandi lagasetningu þessara tveggja bræðralanda, sem bæði þurfa þó að hlíta bókun 35 við EES-samninginn, sem fjallar um skyldu EFTA-landanna að lögleiða forgang ESB-löggjafar umfram landslög.
Íslenzka innleiðingin á forgangi ESB-löggjafar var skilyrt og veitti dómstólum þannig ráðrúm til að meta hvert mál fyrir sig. Líklega teygir íslenzka löggjöfin um forganginn sig eins langt í átt að EES-samninginum og íslenzka stjórnarskráin leyfir. Það er hins vegar ekki nóg fyrir ESA (Eftirlitsstofnun EFTA), sem hefur kvartað undan dómsuppkvaðningum hérlendis, þar sem innlend löggjöf var látin ráða, sjá viðhengi með þessum pistli. ESA sakaði Ísland árið 2017 um samningsbrot vegna rangrar lögfestingar um forgang ESB-réttar samkvæmt bókun 35. Íslenzka ríkisstjórnin svaraði ESA 10. september 2020 með vísun til Weiss-málsins, þar sem þýzki stjórnlagadómstóllinn í Karlsruhe taldi rökstuðning Evrubankans í Frankfurt am Main fyrir kaupum bankans á ríkisskuldabréfum evrulandanna ófullnægjandi. Evrópusambandið væri ekki sambandsríki, heldur ríkjasamband, og þess vegna væri stjórnarskrá Sambandslýðveldisins Þýzkalands æðri Evrópurétti.
ESA hefur nú sent Íslandi lokaviðvörun vegna téðs samningsbrotamáls, og gangi ESA alla leið og kæri íslenzka ríkið fyrir samningsbrot, má búast við, að áhugaverðar umræður spinnist um EES-samninginn hérlendis, sérstaklega ef kæra ESA birtist fyrir haustkosningarnar 2021.
Framkvæmdastjórnin er ekki af baki dottin, heldur hyggst brjóta rauðhempurnar í Karlsruhe á bak aftur. Hún hóf þann 9. júní 2021 samningsbrotsmál gegn Þýzkalandi fyrir að fótumtroða grundvallarreglur ESB-réttarins, með því að rauðhempurnar efuðust um heimildir Evrubankans til að kaupa ríkisskuldabréf, þrátt fyrir að ESB-dómstóllinn hefði þá þegar úrskurðað, að slík kaup væru í samræmi við ESB-réttinn. Þýzka þingið í Reichstag-byggingunni hefur fyrir sitt leyti samþykkt þessar stuðningsaðgerðir Evrubankans, en Framkvæmdastjórnin velur samt þá herskáu leið að höfða mál gegn Þýzkalandi til að geirnegla, að ESB-dómstóllinn sé æðstur allra dómstóla innan ESB og þá raunar einnig EES, því að EFTA-dómstólinum ber að hlíta dómafordæmum hans. Þetta er þess vegna stórmál fyrir EFTA-löndin líka, utan Svisslands, sem skákar í skjóli tvíhliða viðskipta- og menningarsamninga við ESB.
Það var í maí 2020, sem Stjórnlagadómstóllinn í Karlsruhe kvað upp úr með, að sá úrskurður ESB-dómstólsins, að Evrubankinn hefði téðar heimildir samkvæmt ESB-rétti, væri "ultra vires", þ.e.a.s. utan heimildasviðs hans. Framkvæmdastjórnin skrifar í fréttatilkynningu af þessu tilefni, að þýzki stjórnlagadómstóllinn hafi ómerkt réttaráhrif ESB-dómstólsins í Þýzkalandi og véki til hliðar grunnreglunni um forgang ESB-réttar. Framkvæmdastjórnin telur þetta munu hafa alvarleg fordæmisáhrif, bæði fyrir úrskurði og dóma þýzka stjórnlagadómstólsins og fyrir æðstu dómstóla og stjórnlagadómstóla annarra aðildarlanda.
Prófessor Halvard Haukeland Fredriksen við Háskólann í Bergen sagði í sambandi við dóm þýzka stjórnlagadómstólsins:
"Vandamálið við dóminn er eiginlega ekki, að stjórnlagadómstóllinn telur á valdsviði sínu að sannreyna, hvort ESB-dómstóllinn hafi haldið sig innan marka fullveldisframsals Þýzkalands til ESB, heldur að þröskuldurinn fyrir þessi inngrip hans virðist allt of lágur. Í fyrri málum hefur stjórnlagadómstóllinn alltaf látið ESB-dómstólinn njóta vafans og í því samhengi einnig lýst því yfir, að m.t.t. einingar um ESB-réttinn skuli veita ESB-dómstólinum visst "villuumburðarlyndi" ("Fehlertoleranz")."
ESA sendi Íslandi lokaaðvörun vegna samningsbrota út af löggjöf landsins um forgang ESB-réttar á Íslandi 30. september 2020. Svar íslenzku ríkisstjórnarinnar, sem barst ESA fyrir skömmu, er trúnaðarmál. Hvers vegna í ósköpunum þolir þetta svar ekki dagsljósið ? Hagsmunir hverra mundu skaðast við það að upplýsa um efnislegt inntak afstöðu íslenzka ríkisins til máls, sem á sér víðtæka skírskotun innan EES ? Það verður að leysa úr þessu deilumáli EFTA-ríkjanna við ESB með samningaviðræðum á milli EFTA og ESB. Að því kemur vonandi eftir þingkosningarnar í Noregi og á Íslandi í september 2021.
8.6.2021 | 21:25
Alþjóðamál í deiglunni
Uppgangur Kína og tilhneiging til yfirgangs við nágranna sína á Suður-Kínahafi og Austur-Kínahafi, og vaxandi ógn, sem Taiwan stafar af Rauða-Kína, hefur ekki farið framhjá neinum, sem fylgjast dálítið með. Þá hafa tök Kínverja á hrávöruöflun og vinnslu sjaldgæfra málma valdið áhyggjum iðnaðarþjóða frá Japan um Evrópu til Bandaríkjanna.
Framboð kínverskra málma í Evrópu og Bandaríkjunum hefur minnkað frá miðju ári 2020, líklega vegna minni raforkuvinnslu í gömlum og mengandi kolaorkuverum og mikillar málmeftirspurnar í Kína sjálfu. Olíuverð og hrávöruverð almennt hefur hækkað mikið frá lágmarkinu í Kófinu, og má orsakanna að miklu leyti leita í Kína, þessu gríðarlega vöruframleiðslulandi. Eins og Huawei-málið sýndi, þarf nú að fara að meta viðskiptin við Kína í ljósi þjóðaröryggis.
Á austurlandamærum Evrópusambandsins (ESB) eru væringar við Rússa og vopnuð átök á milli Úkraínu og Rússlands. Í gildi er viðskiptabann á vissum vörum á milli Rússlands, EES og BNA. Við áttum ekkert erindi í það viðskiptabann, því að Vesturveldin einskorðuðu það við tæknivörur, sem hægt væri að nýta við smíði hergagna. Fyrir vikið misstum við mikilvægan matvælamarkað í Rússlandi. Á fundi í Reykjavík nýlega óskaði utanríkisráðherra Rússlands eftir því, að Ísland væri dregið út úr þessu viðskiptabanni. Við eigum að leita samninga um það við bandamenn okkar, enda taka t.d. Færeyingar ekki þátt í því.
Í Vestur-Evrópu hafa miklir atburðir gerzt, þar sem Bretar hafa rifið sig lausa frá ólýðræðislegu skrifræðisbákni meginlands Evrópu. Engar af dómsdagsspánum hafa rætzt í því sambandi. Bretar eru langt á undan Evrópusambandinu (ESB) í bólusetningum og hagvöxturinn er á hraðari uppleið á Bretlandi en í ESB. Bretar gera nú hvern fríverzlunarsamninginn á fætur öðrum við lönd um allan heim. EFTA-ríkið Svissland með sína öflugu utanríkisþjónustu reið á vaðið á meðal EFTA-ríkjanna fjögurra og gerði víðtækan fríverzlunarsamning við Bretland fyrr á þessu ári. Í kjölfarið sigldu hinar EFTA-þjóðirnar 3, Ísland, Noregur og Liechtenstein, og höfðu samflot, en EES-kom ekkert við sögu. Íslenzkir hagsmunir voru greinilega ekki hafðir í neinu fyrirrúmi í þessari samningalotu, þannig að viðskiptakjör fiskverkenda hérlendis hafa ekkert batnað, þótt vonir stæðu til þess. Því miður hefur íslenzka utanríkisráðuneytið enn valdið vonbrigðum.
Kvótinn fyrir innflutning brezks svínakjöts, kjúklinga, eggja, ávaxta og grænmetis er anzi ríflegur og gæta verður þess að draga úr kvóta ESB að sama skapi til að hagsmuna íslenzks landbúnaðar og gæða á markaði verði gætt. Þarna er vonandi fyrirmynd komin að fleiri fríverzlunarsamningum EFTA. Fríverzlunarsamningur þessi sýnir, að það er hægt að ná fríverzlunarsamningi við Evrópuríki, sem er a.m.k. jafnhagstæður EES-samninginum, hvað viðskiptakjör varðar.
Samskipti hinnar hlutlausu EFTA-þjóðar Svisslendinga við framkvæmdastjórn hins Frakkahalla Þjóðverja Úrsúlu von der Layen hafa kólnað verulega undanfarnar vikur. Framkvæmdastjórnin er óánægð með, að löggjöf Sviss skuli ekki taka "sjálfkrafa" breytingum í takti við þróun Evrópuréttar, þótt Svisslendingar hafi aðgang að Innri markaði EES í krafti um 120 tvíhliða samninga á milli ríkisstjórnarinnar í Bern og framkvæmdastjórnarinnar í Brüssel. Svisslendingar fallast einfaldlega ekki á það ólýðræðislega fyrirkomulag, sem felst í að afhenda Brüssel þannig löggjafarvaldið að nokkru leyti.
Á Íslandi er skeleggasti gagnrýnandi slíkrar ólýðræðislegrar þróunar á Íslandi nú í framboði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í SV-kjördæmi, þar sem hann býður sig fram í 2.-3. sæti. Arnar Þór Jónsson er ekki andstæðingur EES-samningsins, en hann er talsmaður þess að nota allt svigrúm samningsins og innbyggða varnagla þar af þekkingu og rökfestu til að verja hagsmuni Íslands og stjórnarskrá landsins, þegar á þarf að halda.
Ef rétt er skilið, hefur Miðflokkurinn nú tekið gagnrýna afstöðu gegn þessum samningi og Schengen. Í Noregi er líka mikil gerjun á þessu sviði í aðdraganda Stórþingskosninga í september 2021. Alþýðusamband Noregs hefur lagzt gegn innleiðingu "gerða" ESB um lágmarkslaun og réttindi verkafólks, sem Alþýðusambandið telur rýra kjör verkafólks í Noregi. Eftir kosningar til þjóðþinga Íslands og Noregs kunna að verða ný sjónarmið uppi á teninginum á meðal stjórnarmeirihlutans á þingi í hvoru landi. Hann mun þó stíga varfærnislega til jarðar, en að hjakka í sömu sporunum er varla fær leið lengur.
Hér er við hæfi að vitna í Arnar Þór (Mbl. 03.04.2021):
"Klassískt frjálslyndi byggist á því, að menn njóti frelsis, en séu um leið kallaðir til ábyrgðar. Það byggir á því, að menn hugsi sjálfstætt, en láti ekki aðra hugsa fyrir sig - ofurselji sig ekki tilbúinni hugmyndafræði."
"Við eigum að virða - ekki misvirða - ákvæði stjórnarskrár um lýðræði og klassískt frjálslyndi."
"Við eigum að virða - ekki misvirða - ákvæði alþjóðlegra sáttmála um neitunarvald Íslands og sjálfstæði gagnvart öðrum þjóðum."
"Við eigum að virða - ekki misvirða - lýðræðislegan grunn íslenzkra laga um skilyrði aðildar Íslands að EES og Mannréttindasáttmála Evrópu."
"Við eigum að virða - ekki misvirða - ákvæði laga um frelsi einstaklingsins og ábyrgð í siðmenntuðu samfélagi."
"Embættismenn hafa ekkert umboð til þess að ganga gegn eða breyta þeim lýðræðislegu forsendum, sem að framan eru nefndar. Sú freisting er ávallt til staðar og því rétt og skylt að viðhalda vökulli varðstöðu gegn því, að menn seilist ótilhlýðilega til valds og áhrifa."
Í forystugrein Morgunblaðsins 31.05.2021, "Swexit ?" , sagði m.a.:
"Samningarnir [við ESB-innsk. BJo] breyta löggjöf Sviss ekki með sömu sjálfvirkni og gerzt hefur t.d. hér á landi, en þar skiptir einnig máli, að hér á landi hafa stjórnmálamenn ekki verið á varðbergi gagnvart þróun ESB í seinni tíð, þó að full ástæða hafi verið til, þar sem sambandið tekur stöðugum breytingum í átt að auknum samruna og ásælni yfirþjóðlega valdsins."
Þessi varnaðarorð Morgunblaðsins og gagnrýni í garð stjórnmálamanna, þ.e. þingmanna á núverandi kjörtímabili og á nokkrum fyrri kjörtímabilum, beinist mjög í sama farveg og málflutningur Arnars Þórs Jónssonar. Hann er ekki einn á báti með sín viðhorf, hvorki hérlendis né í hinum EFTA-löndunum. Það er nauðsynlegt fyrir Íslendinga að vera með á nótunum gagnvart þróun samskipta hinna EFTA-landanna við ESB.
Í Noregi er að myndast samstaða á meðal stjórnarandstöðuflokkanna gegn Orkupökkum 3 og 4 (OP3, OP4). Sú andstaða kann að verða stjórnarstefna nýrrar norskrar ríkisstjórnar að afloknum Stórþingskosningum í haust. Þá verður ómetanlegt að hafa á Alþingi víðsýnan, vel lesinn, grandvaran, nákvæman og vel máli farinn mann á íslenzku sem erlendum tungum til að leggja orð í belg við mótun utanríkisstefnu Íslands í breyttum heimi eftir Kóf.
Morgunblaðið tefldi í téðri forystugrein jafnvel fram Carl I. Baudenbacher, sem utanríkisráðherra fékk til að skrifa rándýra greinargerð með innleiðingu OP3 og mæta fyrir utanríkismálanefnd þingsins og kannski fleiri nefndir til að vitna um, að ESB gæti farið í baklás gagnvart EES-samninginum, ef Alþingi hafnaði OP3. Nú er þessi fyrrverandi forseti EFTA-dómstólsins orðinn gagnrýninn í garð ESB:
"Baudenbacher segir, að það sé í anda spunavéla Brussel að kenna Sviss um, hvernig fór, en málið sé ekki svo einfalt. Hann segir, að bæði stjórnvöld í Sviss og Brussel hafi reynt að þoka landinu bakdyramegin inn í ESB, en vanmetið hafi verið, hve mikil andstaða sé við slíkt í Sviss. Þar vilji fólk efnahagslega samvinnu, en ekki stjórnmálalegan samruna. Þegar fólk hafi fundið, að reynt hafi verið að ýta því svo langt inn í ESB, að ekki yrði aftur snúið, hafi það spyrnt við fæti."
Í ljósi ótrúlega slæmrar stöðu í samskiptum Sviss og ESB og vaxandi gagnrýni á stjórnskipulega íþyngjandi hliðar EES-samningsins m.t.t. stjórnarskrár, fullveldis og alvöru lýðræðis, í Noregi og á Íslandi, er tímabært fyrir allar EFTA-þjóðirnar í sameiningu að freista þess að ná frambúðar lausn á samskiptunum við ESB á viðskipta- og menningarsviðunum. Þetta gæti orðið einhvers konar nýtt fyrirkomulag á EES-samninginum, þar sem gætt yrði aðlögunar að Innri markaðinum án þess að ógna fullveldi og lýðræði í EFTA-ríkjunum. Augljóslega ekki auðvelt, en ætti þó að vera viðráðanlegt verkefni fyrir hæft fólk með góðan vilja.
Í téðri forystugrein Morgunblaðsins var enskt viðhorf til ESB reifað:
"Fleiri hafa bent á, t.a.m. Ambrose Evans-Pritchard, yfirmaður alþjóðlegra viðskiptafrétta Telegraph, hve hart Evrópusambandið gengur fram gegn nágrönnum sínum, ólíkt t.d. Bandaríkjunum, sem eiga farsæl samskipti við fullvalda nágranna sinn Kanada. Hann bendir á, að ESB sé stöðugt að reyna að útvíkka regluverk sitt og dómsvald og þvinga hugmyndum sínum upp á aðra. Nú hafi Sviss hafnað þessari leið og ESB, sem hafi nýlega misst Bretland úr sambandinu, geti einnig verið að ýta Sviss frá sér."
Þetta er lýsing á sífellt víðtækari völdum, sem safnað er til Framkvæmdastjórnarinnar í Brüssel og veldur einnig EFTA-ríkjunum vandræðum. ESB er í eðli sínu tollabandalag, sem ver sinn Innri markað gegn utan að komandi samkeppni með viðamiklu regluverki, sem er íþyngjandi að uppfylla. ESB er hemill á frjáls viðskipti í Evrópu, en við verðum hins vegar hagsmuna okkar vegna að aðlaga okkur honum. Við, eins og Svisslendingar, hljótum að stefna á að gera það í sátt við Stjórnarskrána, fullveldi þjóðarinnar og raunverulegt lýðræði í landinu.
Evrópumál | Breytt 10.6.2021 kl. 21:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.5.2021 | 13:55
Stjórnmálaþróunin framkallar þingframboð
Í viðtali Stefáns Gunnars Sveinssonar við Arnar Þór Jónsson, héraðsdómara, (AÞJ), í Morgunblaðinu 8. maí 2021, kom fram, að hann hefur alla tíð fylgzt gaumgæfilega með opinberri umræðu og stjórnmálaþróuninni í landinu. Hann íhugar mál sitt rækilega og flanar ekki að neinu. Þess vegna hefur verið áhugavert að fylgjast með skrifum hans og ræðum, og fyrir höfund þessa vefseturs á það ekki sízt við greiningar hans á Orkupakka 3 (OP3) út frá lagalegu viðhorfi og stjórnskipulegum álitamálum.
Það er þröng á þingi og margt hæfileikaríkt fólk, sem býður sig fram í prófkjöri sjálfstæðismanna í SV-kjördæmi (Kraganum) á þessu vori, en ástæða er til að vekja sérstaka athygli á nýjum frambjóðanda AÞJ í 2.-3. sæti D-listans, af því að málflutningur hans er að mörgu leyti nýstárlegur, en mjög í anda hugsjóna upphafsmanna Sjálfstæðisflokksins, og höfundur þessa vefseturs telur þennan frambjóðanda til þess fallinn að draga nýtt fylgi að Sjálfstæðisflokkinum, en fyrir því er höfuðnauðsyn til að tryggja landinu stjórnmálalegan stöðugleika og stjórnvöldum traust inn á við og út á við til að fást við erfið verkefni.
Viðtal Stefáns Gunnars við Arnar Þór, sem hér verður vitnað til, bar fyrirsögnina:
"Ég kýs að fylgja hjartanu".
"Áhyggjur mínar snúa að því, að það sé verið að þrengja þann ramma [frjálslynds lýðræðis í klassískum skilningi] með stjórnlyndum sjónarmiðum, sem á sama tíma þrengja að borgaralegum réttindum, tjáningarfrelsi og samvizkufrelsi."
Neikvæð þróun af þessu tagi læðist að, jafnvel án þess að margir verði hennar varir. Það er hættulegt, og þess vegna ómetanlegt, að menn á borð við AÞJ bjóði sig fram til að stíga á bremsurnar á Alþingi, þegar vafasöm mál fyrir mannréttindi, atvinnufrelsi einstaklinga og lögaðila, svo og fullveldi þjóðarinnar, fljóta á fjörur Alþingis. Efld varðstaða á þingi um grundvallarréttindin og Stjórnarskrána er landsmönnum nauðsyn.
"Arnar Þór segir, að hann hafi ekki talið sig geta skorazt undan því að tjá sig um þriðja orkupakka ESB. "Ég tel reyndar, að það mál sé, hvernig sem á það er litið, hvort sem það er lagalega, stjórnskipulega eða lýðræðislega, mjög sérstaks eðlis. Ég taldi og tel ennþá, að það hefði verið ábyrgðarlaust af mér að sitja hjá og taka ekki þátt í umræðunni."
Hann rifjar upp, að kveikjan að því hafi verið ýmiss konar afflutningur um orkupakkann, innleiðingu hans og réttaráhrif, sem og fullyrðingar um, að hann stæðist þau skilyrði um fullveldisframsal, sem lögð höfðu verið til grundvallar aðildinni að EES á sínum tíma.
Arnar Þór segir, að sér virðist sem hagsmunagæzla Íslands hafi verið í molum, þegar kom að orkupakkamálinu. "Það var enginn í markinu, þegar málið fór fyrir sameiginlegu EES-nefndina, og boltinn lak inn. [Sama má segja um umfjöllun þingnefnda Alþingis á undirbúningsstigum málsins og undirbúningsviðræður EFTA-landanna í orkunefnd EFTA og Fastanefnd EFTA, þar sem afstaða EFTA-landanna er mótuð áður en málin fara til téðrar nefndar, þar sem ESB líka á fulltrúa - innsk. BJo.]" Íslendingar verði að standa vaktina betur. "Þá virðist mér, að stjórnmálamennirnir hafi talið sig hafa þyngri skyldum að gegna gagnvart erlendum kollegum sínum og mögulega erlendum stofnunum en kjósendum sínum. [Þrýstingur frá norsku stjórnsýslunni skein í gegn í umræðunum, og því var beinlínis haldið fram, að Ísland mundi skaða hagsmuni Noregs með því að hafna OP3. Það var fjarstæða. Á fyrri stigum hefðu fulltrúar Íslands átt að fá undanþágur frá gerðum og tilskipunum, sem vörðuðu ACER og millilandaviðskipti með orku. Slíkt hefði ekki snert Noreg - innsk. BJo.]"
Arnar Þór segir þetta mál hafa vakið sig til umhugsunar um stöðuna. "Hagsmunagæzla Íslands gagnvart ESB var augljóslega ekki í lagi, og því meira sem ég hef skoðað þetta, sýnist mér blasa við, að framsal á íslenzku ríkisvaldi hafi gengið allt of langt", segir Arnar Þór. Hann segir ákveðna þöggun ríkja um það ástand.
"Ég tel, að Ísland standi frammi fyrir mestu stjórnskipunarkrísu og lýðræðiskreppu, sem nokkurt vestrænt lýðræðisríki hefur glímt við frá stríðslokum. Við erum komin í samstarf, þar sem okkur er veittur aðgangur að ákveðnum markaði gegn þeim skiptum, að erlendir aðilar setji okkur lög og taki ákvarðanir fyrir almenning og fyrirtæki hér í sívaxandi mæli. Og þegar það er svo komið, að erlendir aðilar eru jafnvel farnir að seilast í ítök yfir náttúruauðlindum okkar, verða Íslendingar að fara að vakna af þyrnirósarsvefni og taka til ýtrustu varna", segir Arnar Þór. "Við núverandi ástand verður ekki unað." " (Undirstr. BJo.)
Þessi viðvörunarorð verður að taka alvarlega, og þau verðskulda að hljóma innan veggja Alþingis, þar sem efla þarf þann hóp manna, sem lítur málin svipuðum augum og Arnar Þór og er líklegur til að bregðast við "mestu stjórnskipunarkrísu og lýðræðiskreppu" með þeim ráðum í hópi félaga, sem til úrbóta duga.
Mjög svipuð viðhorf og AÞJ lýsir eru uppi í Noregi, og þar hafa einnig mikilsvirtir fræðimenn á sviði lögfræðinnar lagt orð í belg. Það blasir við, að íslenzk og norsk stjórnvöld móti með sér sameiginleg stefnumið eftir kosningar í báðum löndum í haust í viðræðum við framvæmdastjórn ESB um endurskoðun á EES-samninginum til að draga úr langvinnum deilum í báðum löndunum um fyrirkomulag, sem átti í upphafi að vera til bráðabirgða, einhvers konar forleikur að fullri aðild að Evrópusambandinu.
Í lok þessa viðtals við Arnar Þór kom fram, að hann hefur komið auga á slæma veikleika íslenzka menntakerfisins. Menntamálaráðherrann núverandi blaðrar út og suður, en gerðir hennar eru yfirleitt ekki til að hrópa húrra yfir. Síðasta hálfkákið hjá henni var að heykjast á að draga úr umsvifum RÚV á auglýsingamarkaði til að auka tekjuöflunarmöguleika einkarekinna fjölmiðla. Í stað þess beit hún í sig ríkisofþenslulausn, þ.e. að veita þeim ölmusu úr ríkissjóði. Það bar ekki vott um hugrakkan stjórnmálamann, eins og hún hefur hælt sér fyrir að vera. Lok viðtalsins:
""Við Íslendingar berum ein ábyrgð á framtíð okkar. Við eigum gríðarlegra hagsmuna að gæta í að kalla ungt fólk til starfa, þar sem hæfileikar þess nýtast sem bezt, og til þess þarf að gera talsverðar umbætur í menntamálum." Hann segir, að drengir eigi undir högg að sækja í grunnskólakerfinu og að mikið áhyggjuefni sé, þegar stór hluti grunnskólanemenda útskrifist illa læs.
Íslenzk lög eiga að vera sett með íslenzka hagsmuni að leiðarljósi. Þá vil ég verja tjáningarfrelsið og leiða umræðu um mikilvægi þess, að við nýtum styrkleika okkar, treystum hvert öðru og byggjum þannig upp gott samfélag.""
Sú óeðlilega staða er uppi, að talsverður hluti lagasetningar hérlendis á sér alls engar rætur hérlendis, heldur er hún reist á hugmyndafræði embættismanna ESB um vöxt og viðgang Evrópusambandsins og jafnvel þróun þess til sambandsríkis. Þetta höfum við undirgengizt með aðild landsins að EES, þar sem fjórfrelsið gengur framar öðru í lagalegu tilliti. Þegar framkvæmdastjórn ESB merkir lagasetningu Sambandsins sem "EEA relevant", þ.e. viðeigandi fyrir EES, hefur í umfjöllun EFTA um slík mál ekki verið í nægilega ríkum mæli tekið tillit til sérstöðu Íslands sem eyjar langt norður í Atlantshafi, t.d. án samtengingar við raforkukerfi ESB, en bæði Noregur og Liechtenstein hafa slíkar tengingar. Það er nauðsynlegt að fá á Alþingi trausta talsmenn, sem eru miklu gagnrýnni á innleiðingu ESB-löggjafar en þar hafa verið síðan vinstri stjórnin framdi það glapræði með hjálp "handjárna" að fá Alþingi til að samþykkja, að sú ríkisstjórn mundi senda umsókn um aðildarviðræður til framkvæmdastjórnar ESB.
Hér er við hæfi að vitna til 12. atriðis af 20 í Morgunblaðsgrein Arnars Þórs Jónssonar 3. apríl 2021:
"Útgangspunktar og forsendur til íhugunar":
- "Klassískt frjálslyndi ber að verja gagnvart ógn gervifrjálslyndis, sem misvirðir grundvöll vestræns lýðræðis. Gervifrjálslyndi virðir ekki einstaklinginn, heldur einblínir á hópa og ýtir þannig undir hjarðhegðun. Gervifrjálslyndi treystir ekki dómgreind einstaklingsins, en vill, að sérvalinn hópur stjórni, ritskoði og hafi eftirlit." Klassískt frjálslyndi er reist á virðingu fyrir frelsi einstaklingsins til orðs og athafna og jöfnun tækifæra einstaklinganna í landinu án tillits til uppruna eða búsetu. Hver er sinnar gæfu smiður. Þetta felur í sér lýðræðislegan rétt einstaklinganna til að velja sér fulltrúa á löggjafarsamkundu, sem setur honum lög. Þessi réttur hefur verið útþynntur með því að innleiða hér stóra lagabálka, sem hafa áhrif á daglegt líf borgaranna og starfsemi fyrirtækjanna. Það er ekki í anda lýðræðishugmyndarinnar um, að ákvarðanir skuli taka sem næst íbúunum af fulltrúum, sem standa ábyrgir gerða sinna gagnvart þeim. Sjálfstæðisflokkurinn hefur með skýrasta hætti allra stjórnmálaflokkanna í landinu komið til móts við óskir margra um persónubundnar kosningar með því að efna til prófkjörs í öllum kjördæmum landsins um röðun í efstu sæti D-listans í hverju kjördæmi. Þetta er í anda klassísks frjálslyndis um jöfnun tækifæra. Nú gefst nýju fólki kostur á að spreyta sig og auðga flokkinn nýju lífi með sínum áherzlum. Ætla má, að ekki aðeins flokksfólkið, heldur og aðrir kjósendur margir hverjir kunni að meta þessa lýðræðislegu aðferð, sem þannig er líkleg til að verða flokkinum til framdráttar í komandi Alþingiskosningum.
23.5.2021 | 10:33
Ferskur vorblær í stjórnmálunum
Arnar Þór Jónsson, héraðsdómari, býður sig fram í 2.-3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í SV-kjördæmi (Kraganum) á þessu vori. Þetta er mikið fagnaðarefni þeim, sem sakna umræðna og afstöðu til grundvallar stjórnmálanna, einstaklingsfrelsis, hlutverks ríkisins og síðast, en ekki sízt, stöðu Íslands á meðal þjóðanna.
Áhugi á meðal almennings í þessa veru er ekki einsdæmi á Íslandi. Hann er t.d. ríkur í Noregi, þar sem mikil umræða á sér stað um afstöðu Noregs til Evrópusambandsins (ESB), en eins og gildir um Ísland og Liechtenstein, fara samskipti Noregs við ESB í höfuðdráttum fram á vettvangi Evrópska efnahagssvæðisins (EES). Í Noregi og á Íslandi eru efasemdir á meðal leikra og lærðra, þ.e. löglærðra og hinna, um það, hvort innleiðing sumra gerða (tilskipana og reglugerða), þar sem framsal ríkisvalds til stofnana ESB á sér stað, brjóti í bága við stjórnarskrár ríkjanna eða ekki. Er deila um réttmæti afgreiðslu 3. orkupakka ESB (OP3) í Stórþinginu nú til úrlausnar í dómskerfi Noregs.
Frost, lávarður, sem leiddi samninganefnd Bretlands í útgönguviðræðunum við ESB, sagði nýlega, að nú væri Bretum brýnast að einfalda opinbert regluverk fyrir atvinnulífið, sem að megninu til er komið frá Brüssel (ESB), og jafnhliða ættu embættismenn brezku stjórnsýslunnar að venja sig af að hugsa eins og embættismenn ESB. Þetta er mjög umhugsunarvert fyrir EFTA-þjóðirnar í EES, sem taka gagnrýnilítið við löggjöf Evrópusambandsins á vettvangi EFTA og síðan í Sameiginlegu EES nefndinni, þar sem ESB á líka fulltrúa, en þar er ákveðið, hvað innleiða skal.
Þetta átti t.d. við um OP3, þótt hlutverk hans sé aðallega að fá stjórnun orkuflutninga (rafmagns, olíu og gass) á milli EES-landanna í hendur Orkustofnun Evrópusambandsins - ACER og framkvæmdastjórn ESB. Spyrja má, hvort einhver rökrétt ástæða hafi verið til að innleiða nánast allan OP3 á Íslandi í ljósi þess, að engar slíkar lagnir liggja til Íslands, og stjórnvöld hafa opinberlega engin áform um að samþykkja slíkar tengingar við Ísland.
Þegar svona er í pottinn búið, er eðlilegt, að margir fyllist tortryggni um, að fiskur liggi undir steini. Hins vegar setti Alþingi m.a. það skilyrði við lögleiðingu OP3 að áskilja samþykkt Alþingis fyrir tengingu aflsæstrengs við íslenzka raforkukerfið. Þótt áhöld séu um, hvort þetta afbrigði við innleiðingu ESB löggjafar sé í samræmi við EES-samninginn og haldi fyrir EFTA-dómstólinum, er ákvæðið þó góðra gjalda vert og óbeinn afrakstur andófs "Orkunnar okkar" o.fl. við OP3.
Arnar Þór Jónsson (AÞJ) hefur einmitt fjallað um útþynningu lýðræðisins við innleiðingu löggjafar ESB, sem Alþingismenn hafa nánast engin áhrif á, þegar hún er mótuð, enda er hún á engan hátt sniðin við íslenzkar aðstæður. Það er andstætt lýðræðislegri hugsun, að löggjöf sé tekin hrá upp erlendis frá og lögleidd hér á færibandi. Með þessu má segja, að Alþingi sé breytt í stimpilstofnun og löggjafarvaldið fært í hendur erlendra embættismanna. Þetta fyrirkomulag grefur undan þingræðinu.
Bretar vildu ekki taka upp þetta kerfi eftir útgönguna, þ.e. ganga í EES, heldur stefna þeir á að gera víðtækan fríverzlunarsamning við ESB. Spurningin er fyrir EFTA þjóðirnar, hvort ekki fari að verða tímabært að óska viðræðna við framkvæmdastjórn ESB um endurskoðun EES-samningsins. Auðvitað verður að fara að öllu með gát og skipulega, því að miklir viðskiptahagsmunir eru í húfi.
Eftir Stórþingskosningar í haust er líklegt, að í Noregi verði þingmeirihluti fyrir ríkisstjórn, sem setur a.m.k. alvöru valkostagreiningu í þessum efnum á dagskrá sína, enda er óánægja með núverandi framkvæmd EES-samningsins að magnast í Noregi, ekki sízt innan verkalýðshreyfingarinnar, sem þykir áunnin réttindi sinna félagsmanna fyrir borð borin við innleiðingu ýmissa gerða ESB. Ef norska alþýðusambandið verður afhuga EES-aðild Noregs, mun norski Verkamannaflokkurinn í kjölfarið söðla um til samræmis.
AÞJ hefur ritað bækur um hugðarefni sín, t.d. "Lög og samfélag", sem gefin var út árið 2016 af Háskólanum í Reykjavík og Háskólaútgáfunni. Þá hefur hann ritað greinar í tímarit, t.d. Þjóðmál, og í Morgunblaðið. Ein slík birtist þar 3. apríl 2021 undir fyrirsögninni:
"Útgangspunktar og forsendur til íhugunar".
Hún gefur í stuttu máli allgóða mynd af hugmyndafræði og boðskap þessa frambjóðanda í prófkjöri sjálfstæðismanna í Kraganum að þessu sinni. Það er mat höfundar þessa vefseturs, að gagnrýnin og rökföst hugsun AÞJ geti orðið Sjálfstæðisflokkinum til heilla og bætt vinnubrögð þingflokks sjálfstæðismanna án þess, að kastað sé rýrð á núverandi þingflokk. Hér verða tíundaðir 6 fyrstu punktar AÞJ:
- "Lýðræðisbarátta - og sjálfstæðisbarátta - okkar tíma snýst um að verja innviði og auðlindir þjóða gagnvart ásælni erlends valds. Þetta verkefni snýst um að verja grunnstoðir velsældar og almannahags." Íslendingar munu varla nokkurn tímann samþykkja að gangast undir CAP-sameiginlega landbúnaðar- og fiskveiðistefnu ESB af þessum ástæðum, því að samkvæmt Hvítbók Framkvæmdastjórnarinnar um þessi mál er ætlunin að bjóða fiskimiðin innan lögsögu ESB-landanna upp, og geta þá útgerðir ESB-landanna boðið í fiskveiðikvótana. Útgerðir ESB-landanna eru margar hverjar stærri en þær stærstu íslenzku, svo að íslenzku útgerðirnar mundu áreiðanlega missa vænan spón úr aski sínum. Þessi uppboðsstefna er einmitt sú, sem ESB-flokkarnir, Viðreisn og Samfylking, boða hérlendis. Það var lán, að sjávarútvegsmál voru undanskilin valdsviði EES-samningsins. Það voru orkumálin hins vegar ekki, og þess vegna krafðist ESA-Eftirlitsstofnun EFTA þess í byrjun síðasta áratugar, að vatnsréttindi ríkisins, aðallega Landsvirkjunar, yrðu leigð út á markaðskjörum á Evrópska efnahagssvæðinu. Stjórnarráðið framdi þau hrapallegu mistök árið 2016 að fallast á allar röksemdir ESA og kröfugerð. Þegar norska ríkisstjórnin fékk sams konar kröfugerð ESA 2019, var henni hafnað samstundis. Ekki er ljóst, hvort samþykktarbréf íslenzku ríkisstjórnarinnar frá 2016 hefur verið dregið til baka. Af þessu sést, að þörf er fullrar aðgæzlu í viðskiptunum við ESB og ESA.
- "Á slíkum tímum höfum við þörf fyrir sjálfstæða einstaklinga og sjálfstæða hugsun. Annars getum við ekki verið sjálfstæð þjóð." Það kom í ljós árið 2016, að botninn var þá suður í Borgarfirði hjá ráðherrum og utanríkisráðuneyti, þegar að sjálfstæðum einstaklingum og sjálfstæðri hugsun kom. Það er þess vegna ekki að ófyrirsynju, að AHJ leggur áherzlu á þetta til að varðveita sjálfstæði þjóðarinnar.
- "Sem sjálfstætt ríki á Ísland að vera fullgildur þátttakandi í alþjóðlegu samstarfi eftir því, sem við á, og hafa rödd, en ekki vera þögull og óvirkur farþegi eða strengjabrúða." Íslandi tókst vel upp á sviði hafréttarmála og leiddi þróun alþjóðaréttar að mörgu leyti á því sviði. Landvörnum landsins er vel fyrir komið með herverndarsamningi við Bandaríkin og aðild landsins að NATO. Landið er með fjölmarga fríverzlunarsamninga við lönd um allan heim og stendur frammi fyrir gerð víðtæks fríverzlunarsamnings við Bretlands. Fjölþætt samband landsins við meginland Evrópu fer fram samkvæmt samninginum um Evrópska efnahagssvæðið, EES, frá 1993, sem gildi tók 01.01.1994. Sá samningur er einstakur að því leyti, að stöðugur straumur nýrrar löggjafar streymir frá ESB til lögleiðingar í EFTA-löndunum í EES, án þess að íslenzkir þingmenn komi þar að nokkru leyti að stefnumörkun. Til Alþingis berst löggjöf til innleiðingar í íslenzka lagasafnið, sem ekki er hægt að réttlæta sem aðlögun að Innri markaði ESB, eins og t.d. lagabálkar um orkumál. Þegar ofan á bætist valdframsal til stofnana ESB, hlýtur slíkur málatilbúnaður að valda deilum í landinu, enda jafnvel Stjórnarskrárbrot. Það er þess vegna æskilegt að leita af varfærni endurskoðunar á EES-samninginum, a.m.k. ef samstaða næst um það með Norðmönnum eftir haustkosningarnar í ár.
- "ESB byggist ekki á grunni hefðbundins þjóðréttarlegs samstarfs, heldur gefur sig út fyrir að vera "sérstaks eðlis" (sui generis). Reynslan hefur sýnt, að smáþjóðir hafa þar lítil sem engin áhrif." ESB er yfirþjóðlegt ríkjasamband, sem Frakkar og Þjóðverjar ráða nú lögum og lofum í. Forkólfar þessara þjóða stefna leynt og ljóst að því að endurvekja ríki Karlamagnúsar með stofnun sambandsríkis, en alþýða manna í þessum ríkjum eða annars staðar er ekki hrifin. Áður fyrr höfðu aðildarþjóðirnar neitunarvald í flestum málum, en þeim málaflokkum fækkar óðum, og atkvæðagreiðslur með vegnum atkvæðastyrk eftir íbúafjölda ryðja sér til rúms. Það væri algert óráð fyrir Íslendinga að færa ráðstöfunarrétt náttúruauðlinda sinna til framkvæmdastjórnar ESB.
- "Sem fullvalda ríki á Ísland ekki að leyfa erlendum ríkjum, ríkjasamböndum eða stórfyrirtækjum að ráðskast með innri málefni íslenzka lýðveldisins." Það er mikilvægt að gefa þessum orðum gaum. Íslenzka utanríkisráðuneytið virðist stundum verða fyrir þrýstingi frá því norska vegna málefna, sem norsku ríkisstjórninni er í mun að fái framgang á vettvangi EFTA í EES. Nýjast af þessum toga er sameiginleg yfirlýsing EFTA-ríkjanna í EES, sem er í skjalasafni norska stjórnarráðsins, en hefur ekki fengizt birt, um, að EFTA-ríkin fallist á einnar stoðar meðferð Járnbrautarpakka 4, sem þýðir, að járnbrautarmálum Noregs og Liechtenstein verður stjórnað frá ERA, ESB-stofnun fyrir járnbrautir, en ekki með milligöngu ESA. Þá eru nokkur dæmi um inngrip ESA í íslenzk málefni, sem varða þjóðarhagsmuni, eins og krafa ESA um markaðssetningu vatnsréttinda í eigu ríkisins eða ríkisfyrirtækja. Þetta mundi þýða uppboð vatnsréttinda innan EES. Hið alvarlega í þessu máli er, að íslenzka ríkisstjórnin féllst á þetta 2016, en þegar norsku ríkisstjórninni barst sams konar krafa frá ESA nokkrum árum síðar, var henni einfaldlega hafnað, og batt núverandi ríkisstjórn þá sitt trúss á þann sama hest. Nú er eftir að sjá, hvort ESA muni kæra Ísland og Noreg til EFTA-dómstólsins fyrir samningsbrot. Kann það að ráðast af dómi ESB-dómstólsins í svipuðu máli Framkvæmdastjórnarinnar gegn einum 8 vatnsorkulöndum í ESB. Þetta sýnir, hversu bráðnauðsynlegt er að vinna að hugarfarsbreytingu hérlendis á meðal stjórnmála- og embættismanna, þegar kemur að spurningum um fullveldi landsins.
- "Lýðræðislega kjörnir fulltrúar eiga sjálfir að mæta þeirri ábyrgð og valdi, sem þeim hefur verið falið; ekki afhenda hlutverk sitt embættismönnum, sem svara ekki til lýðræðislegrar ábyrgðar." Það er einkenni á vinnubrögðum ESB að draga völd úr höndum stjórnmálamanna aðildarlandanna og færa þau í hendur embættismanna Sambandsins. Þetta smitar óhjákvæmilega yfir á EFTA-ríkin í EES. Nægir að nefna sem dæmi Orkustjórann ("The National Energy Regulator"), en hérlendis var Orkumálastjóra falið að fara með þessi völd, sem eru umtalsverð samkvæmt Orkupakka 3 og aukast enn með Orkupakka 4, ef hann verður innleiddur hér, en nauðsynlegt er að rýna þörfina á því gaumgæfilega. Nýjasta dæmið er líklega fyrirkomulag stjórnar sóttvarna hérlendis. Þegar tillögur Sóttvarnalæknis fela í sér meiriháttar inngrip í daglegt líf fólks og takmarkanir á starfsemi fyrirtækja, þá er augljóst, að líta verður til fleiri átta en sóttvarnanna einna við ákvarðanatöku. Sóttvarnaráð hefur verið sniðgengið, en með nýrri sóttvarnalöggjöf ætti að endurskipuleggja það með þátttakendum, sem veita því breiða skírskotun í þjóðfélaginu, og það geri tillögur til ráðherra í sóttvarnaskyni.
25.4.2021 | 10:45
Tveggja stoða reglunni kastað fyrir róða
Líklega var s.k. Tveggjastoða regla ein af ástæðum þess, að samningurinn um aðild EFTA-landanna Íslands, Noregs og Liechtensteins, að Evrópska efnahagssvæðinu (EES), var samþykktur á Alþingi og í Stórþinginu 1992-1993. Ef sú regla væri ekki við lýði, þá mundi aðildin stríða klárlega gegn ákvæðum stjórnarskráa Íslands og Noregs um leyfilegt fullveldisframsal til erlendra ríkja eða stofnana, þar sem löndin eiga ekki aðild. Tveggjastoða kerfið var augljóslega sniðið í því augnamiði að friða þá stjórnmálamenn og aðra íbúa landanna, sem voru andvígir aðild að Evrópusambandinu (ESB), og til að skapa samningnum visst lögmæti, a.m.k. á Íslandi og í Noregi.
Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) á þannig að spegla framkvæmdastjórn ESB og EFTA-dómstóllinn á að spegla ESB-dómstólinn. Sjálfstæði þessara EFTA-stofnana frá ESB er þó meira í orði en á borði, þannig að um formsatriði er að miklu leyti að ræða, sem viðheldur efasemdum um lögmæti aðildar Íslands og Noregs. Þessar efasemdir koma upp á yfirborðið, þegar veigamiklir lagabálkar koma til umræðu í fagnefndum og Fastanefnd EFTA, í Sameiginlegu EES-nefndinni (EFTA-löndin og ESB) og við staðfestingu löggjafarsamkundanna á innleiðingu gerða. Er skemmst að minnast Orkupakka 3 í því sambandi, og nú er Orkupakki 4 á umræðustigi innan EFTA og í þjóðþingum landanna, en er ekki genginn til Sameiginlegu EES-nefndarinnar. Er vonandi, að viðamikilla undanþága verði krafizt fyrir Íslands hönd, en til að koma því í kring, verða þingnefndir að grípa til sinna ráða og setja embættismönnum, sem eins og kunnugt er eru gengnir hugarfarslega í ESB, stólinn fyrir dyrnar.
Í Noregi hafa mestar deilur um innleiðingu lagabálka ESB eftir Orkupakka 3 orðið um Járnbrautarpakka 4, sem afnemur einkarétt, oftast ríkisins, á að nýta innviði járnbrautakerfa innan EES. Ísland er undanþegið innleiðingu af eðlilegum ástæðum. Fyrir þessari innleiðingu er tæpur meirihluti á Stórþinginu eða 4 atkvæði, af því að Verkamannaflokkurinn, sem er hefðbundinn ESB-flokkur, er á móti afnámi einkaréttar Norske Statsbaner, NSB, á innviðum og rekstri járnbrauta í Noregi og þar með einkavæðingu járnbrautanna. Málið er þess vegna verulega umdeilt í Noregi, og það hefur magnað deilurnar, að Noregur og Liechtenstein hafa í viðræðum við ESB fallizt á að fórna Tveggja stoða reglunni við þessa innleiðingu, og samkvæmt norskum fréttum hefur íslenzka utanríkisráðuneytið gert samkomulag við Noreg og Liechtenstein um yfirlýsingu, sem leggja á fram í Sameiginlegu EES-nefndinni, þar sem fallizt er á þessa málsmeðgerð. Þetta er stórhættulegt fordæmi, þar sem rökin eru einvörðungu, að í ESA sé ekki fyrir hendi þekking á járnbrautamálum, en nákvæmlega hið sama á við um orkumálin, en Tveggjastoða reglan var samt í heiðri höfð við innleiðingu Orkupakka 3.
Hæstiréttur Noregs hefur að beiðni Stórþingsins úrskurðað, að einfaldur meirihluti Stórþingsins dugi við staðfestingarferli Járnbrautarpakka 4, og Stórþingið mun væntanlega afgreiða málið samkvæmt því í maí 2021. Hæstirétturinn var hins vegar ekki spurður um afleiðingar þess að hundsa Tveggjastoða kerfið.
Þessi sniðganga EES-samningsins felur í sér, að völd yfir norskum járnbrautarmálum munu færast beint til stofnana ESB. Eru þetta ekki vonbrigði fyrir þá, sem líta á EES-aðild sem varanlegan valkost við ESB-aðild ? Leynisamningur utanríkisráðherra, ef hann er til, stríðir gegn yfirlýsingum hans sjálfs og formanns Sjálfstæðisflokksins.
Ef Stórþingið samþykkir tillögu Sólberg-ríkisstjórnarinnar um Járnbrautarpakka 4, færist ákvörðunarvald um aðgang og öryggi á norskum járnbrautarteinum til Járnbrautarstofnunar ESB, ERA, framkvæmdastjórnar ESB og til ESB-dómstólsins. Þarna hefur Noregur ekki atkvæðisrétt eða er alls ekki gjaldgengur.
Forsenda EES-samningsins hefur alla tíð verið, að hann sé þjóðréttarlegs eðlis, þ.e. samningur jafnrétthárra aðila, og þar með er hann ekki yfirþjóðlegur, eins og ESB-aðild er. Löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald skyldi áfram vera í höndum EFTA-þjóðanna með nokkrum fáum, umsömdum undantekningum. Fullveldi EFTA-landanna skyldi vera innsiglað með Tveggjastoða kerfinu. Samþykktir ESB skyldu ekki sjálfvirkt hafa áhrif í EFTA-löndunum.
Christoffer Conrad Eriksen, lagaprófessor við Óslóarháskóla,skrifar í greinargerð til Sambands norskra járnbrautarstarfsmanna og Sambands norskra eimreiðarstjóra, að valdframsalið til ESB-stofnananna "muni verða brot gegn hinu sérstaka ákvörðunartökuferli í Tveggjastoða kerfi EES" ("EUs fjerde jernbanepakke - konstitusjonelle spörsmål", april 2020).
Eriksen bendir ennfremur á, að þetta muni gera EFTA-þjóðunum erfiðara fyrir en áður að hafna kröfum ESB um að framselja vald beint til ESB-stofnana í síðari málum.
Þótt Ísland sé undanþegið Járnbrautarpakka 4, er þetta hliðarspor Norðmanna grundvallaratriði fyrir alla aðila EES-samningsins, þ.e. ef valdframsal á sér stað frá EFTA-ríkjunum beint til stofnana ESB. Ef menn eru búnir að gefast upp á Tveggjastoða fyrirkomulaginu, hefur EES-samningurinn gengið sér til húðar; svo einfalt er það.
Norska ríkisstjórnin hefur átt frumkvæði að sameiginlegri yfirlýsingu í EES-nefndinni með Íslandi og Liechtenstein, en ríkisstjórnin og íslenzka utanríkisráðuneytið hafa hingað til neitað að upplýsa um efni yfirlýsingarinnar. Hér virðist þó íslenzka utanríkisráðuneytið hafa látið kollegana í Ósló fá frítt spil, "carte blanche", til að endurskilgreina leikreglurnar í EES. Það er hneyksli, ef satt reynist. Hvað er utanríkisráðherrann að hugsa ?
Stöðugt fleiri yfirþjóðlegar stofnanir ESB ógna formlegri fullveldisvörn, sem sett var í EES-samninginn í upphafi. Ýmsir íslenzkir stjórnmálamenn, þ.á.m. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hafa lýst áhyggjum sínum yfir, að þetta kollkeyri EES-samninginn. Guðlaugur Þór Þórðarson sagði á fundi í EES-ráðinu 23. maí 2018: "Það hefur orðið stöðugt erfiðara, þegar ESB-löggjöf, sem felur í sér valdframsal, er felld inn í EES-samninginn, að finna lausnir, sem taka tillit til Tveggjastoða fyrirkomulags samningsins."
Ef Ísland sýnir Noregi undanlátssemi vegna þrýstings í máli, sem ekki varðar Ísland, mun það skapa hættulegt fordæmi, sem ógnar uppbyggingu EES-samningsins.
Einnig Bente Angell-Hansen, hinn norski forseti ESA, varar við að láta ESB-stofnanirnar veikja Tveggjastoða kerfið. Eftir að hafa undirstrikað óskina um "að varðveita og þróa EES-samninginn", lýsti hún því yfir á ráðherrafundi EFTA 27. október 2020, að "tímabært er að sjá, að EES-EFTA-stoðinni er vel sinnt með því að fara eftir Tveggjastoða fyrirkomulaginu, sem gerir EES-samninginn svo einstæðan". Sem vanur diplómati nefnir ekki Angell-Hansen járnbrautarpakkann eða önnur bein dæmi, en eins og hún segir: "Þegar einnarsúlu lausn er valin, hverfur möguleikinn á að kæra mál til EFTA-dómstólsins". Með öðrum orðum: þegar ákvörðunarvaldið er flutt til ESB, verða EES-stofnanirnar haldlausar.
Röksemd norska samgönguráðuneytisins fyrir því að víkja af braut EES-kerfisins er, að ESA hafi ekki þekkingu á járnbrautarmálum og að það verði erfitt að koma EFTA-járnbrautarstofnun á legg. Hins vegar er engu meiri þekking hjá ESA á fjármálaeftirliti eða orkumálum, og samt var Tveggjastoða fyrirkomulagið notað í þeim málaflokkum. Þess vegna eru innantómar röksendir fyrir því að meðhöndla járnbrautarmálin öðruvísi.
Það, sem Stórþingið getur gert til að viðhalda trúverðugleika EES-samningsins og sýna Íslandi og Liechtenstein virðingu, er að biðja ríkisstjórnina að endurskoða frumvarpið þannig, að valdframsalið verði til ESA og EFTA-dómstólsins. Þá verður líka unnt að sneiða hjá framsali löggjafarvalds til framkvæmdastjórnar ESB, sem stefnir í í þessu máli, með því að reglugerðir hennar og tilskipanir þessu lútandi verði meðhöndlaðar á vanalegan hátt í EES og taki ekki gildi fyrr en eftir samþykki í Sameiginlegu EES-nefndinni.
Stjórnarandstöðuflokkarnir, Verkamannaflokkurinn, Miðflokkurinn, SV, Rautt og MDG, eru allir á móti járnbrautarpakkanum. Það er þó 4 atkvæðum of lítið til að koma í veg fyrir meirihlutasamþykkt í Stórþinginu. Gagnrýnisraddir frá Íslandi gætu e.t.v. fengið einhverja stjórnarliða til að endurskoða hug sinn til þessa máls.
Þeir einu, sem hagnast á járnbrautarpakka, sem veikir EFTA-stoðina í EES, eru ESB-sinnar, sem dreymir um einnarleiðar farmiða inn í ESB, og þeirri leið óskar aðeins minnihluti Norðmanna og Íslendinga eftir.
Þessi pistill er reistur á grein eftir formann "Nei til EU" í Noregi, Roy Pedersen, sem fylgir í viðhengi pistilsins.
12.4.2021 | 11:15
Viðreisn og réttlætið
Formanni og varaformanni Viðreisnar, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og dr Daða Má Kristóferssyni, virðist hafa verið mikið niðri fyrir, þegar þau rituðu grein í Morgunblaðið um fiskveiðistjórnun og Stjórnarskrárbreytingar, enda var heitið hátimbrað:
"Réttlæti og hagkvæmni".
Þau virtust telja sig hafa gert stóra uppgötvun um það, hvernig haga ætti fiskveiðistjórnun, þannig að slá mætti þessar tvær flugur í einu höggi, réttlætið og hagkvæmnina. Sannleikurinn er þó sá, að það, sem þau boða, er sama fyrirkomulagið og Evrópusambandið (ESB) reynir að koma á á Innri markaði sínum, þó ekki enn í sjávarútvegi, þótt einstaka aðildarlönd, t.d. Eistland, hafi reynt það með hörmulegum afleiðingum fyrir sjávarútveginn þar, samþjöppun útgerða og gjaldþrotum.
Núverandi regla ESB um hlutfallslegan stöðugleika á fiskimiðum sem viðmiðun við úthlutun fiskveiðiheimilda er aðeins gildandi vinnuregla ráðherraráðsins, en hún á sér enga stoð í sáttmálum Evrópusambandsins. Lagastoð þessarar vinnureglu, sem væntanlega mundi veita íslenzkum útgerðum forgangsrétt til veiða í lögsögu Íslands, á meðan hún er í gildi, er reglugerð nr 2371/2002. Hana getur Ráðið afnumið í atkvæðagreiðslu með auknum meirihluta, þ.e. Ísland hefði ekki neitunarvald eftir inngöngu. Ráð Íslands væri algerlega í annarra höndum. Hvað er svona eftirsónarvert við það ? Allt túður ESB-sinna hérlendis um, að Íslendingar geti verið öruggir um að halda núverandi fiskveiðiréttindum sínum innan íslenzku lögsögunnar, er algerlega úr lausu lofti gripið og ábyrgðarlaust fals og mjög ámælisvert m.v. það, sem í húfi er. Með slíku dæmir Viðreisn sig út fyrir hliðarlínuna sem ómerking.
Samkvæmt grænbókum Evrópusambandsins er þessi úthlutunarregla fiskveiðiheimilda ekki varanleg, heldur er stefnt á markaðsvæðingu aflaheimilda, eins og Viðreisn boðar í sinni stefnuskrá. Þetta er fastsett í Lissabonsáttmálanum, 2. gr./ 1. og 2. tl., 3. gr. / d-lið og 4. gr. / d-lið.
Þessi stefna ESB þarf engum hérlendis að koma á óvart, enda er þetta samræmd stefna ESB um aðgang að náttúruauðlindum. ESA-Eftirlitsstofnun EFTA, sem hefur eftirlit með framkvæmd EES-samningsins í EFTA-löndunum, gerði á tímum vinstri stjórnarinnar eftir Hrunið athugasemd við ríkisstjórn Íslands um fyrirkomulag úthlutunar vatnsréttinda eða almennt við fyrirkomulag úthlutunar nýtingarréttar auðlinda á landi ríkisins. ESA taldi íslenzka ríkið einoka þessar orkulindir og halda þeim í óleyfi, m.v. ESB-löggjöfina, frá einkaframtakinu. Þetta skaðaði frjálsa samkeppni að mati ESA.
Árið 2016 varð ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar (utanríkisráðherra þar var Lilja Dögg Alfreðsdóttir) við öllum kröfum ESA í þessum efnum. Þetta voru hrapalleg mistök og óskiljanlegur afleikur, enda hefur framkvæmdin látið á sér standa fram að þessu. Það er auðvitað með öllu ólýðræðislegt, að utanríkisráðherra geti skuldbundið íslenzka ríkið gagnvart ESA/ESB til að bjóða upp vatnsréttindi sín á Innri markaði EES. Hvernig halda menn, að það fari, þegar Landsvirkjun fer að keppa við evrópska risa á meðal einkafyrirtækja á orkumarkaði um réttinn til nýtingar vatnsréttinda í eigu ríkisins ? Hvernig í ósköpunum datt téðri ríkisstjórn í hug að fallast á þetta ? Þetta er hneyksli.
Þegar norska ríkisstjórnin fékk sams konar athugasemd frá ESA allnokkru síðar, var hún fljót að hafna þeim afskiptum ESA af ráðstöfunarrétti erfðasilfurs Norðmanna á þeirri forsendu, að úthlutun nýtingarheimilda orkulinda norska ríkisins væri alls ekki á forræði ESB/ESA, heldur óvéfengjanlegur réttur norsku ríkisstjórnarinnar og Stórþingsins. Við það stendur. Svo ólíkt hafast frændþjóðirnar að, að með ólíkindum er. Hvernig stendur á þessum undirlægjuhætti hér ?
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og dr Daði Már Kristófersson rituðu sem sagt grein í Morgunblaðið 25. marz 2021, undir heitinu:
"Réttlæti og hagkvæmni".
Hún hófst þannig:
"Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi standa einarðlega vörð um reglur, sem tryggt hafa meiri hagkvæmni í rekstri íslenzks sjávarútvegs en þekkist annars staðar. Sú verðmætasköpun, sem þetta kerfi hefur skapað, skiptir miklu máli fyrir efnahagslíf landsins. Hagsmunir heildarinnar og landsbyggðarinnar mæla eindregið með því, að henni verði ekki raskað.
Ágreiningur okkar við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi snýst um annað. Þau telja, að fiskimiðin séu eina auðlindin í þjóðareign, þar sem hagkvæmni og réttlæti geti ekki farið saman. Hér erum við á öndverðum meiði."
Greinin fór vel af stað, og það er allt rétt, sem ofan greinarskilanna stendur, en þegar plægja á akurinn fyrir auðlindastefnu ESB í dulargervi, þá slær strax út í fyrir höfundunum. Þegar Landsvirkjun var stofnuð árið 1965, lagði ríkið inn ótímabundið sem eignarhlut sinn í félaginu vatnsréttindin í Þjórsá/Tungnaá, sem Títanfélagið hafði safnað og keypt af landeigendum (bændum) í kringum 1920. Þegar virkjanaréttindi ríkisins renna út, dettur engum hérlendis í hug að fara að bjóða öðrum þau til kaups, nema þeim, sem vilja búa í haginn fyrir inngöngu Íslands í ESB. Hvers vegna ?
Það er vegna þess, að sé úthlutunin tímabundin, þá verður vinnslukostnaður raforku óhjákvæmilega hærri vegna styttri afskriftatíma mikilla fjárfestinga; viðhald og fjárfestingar í endurbótaverkefnum virkjunar verða hornreka, af því að nýtingarrétturinn er ekki tryggður til frambúðar, og þess vegna eru fjárveitingar til slíkrar virkjunar alger vonarpeningur og betra að verja í annað öruggara.
Þetta mun síðan koma niður á afhendingaröryggi og skilvirkni virkjunarinnar, sem háð er stuttum nýtingarrétti og markaðsvæðingu hans. Allt hlýtur þetta að leiða til verri nýtingar frumorkunnar og lakari umgengni við auðlindina, sem er andstætt hag eigandans, þjóðarinnar. Þar sem íslenzkur raforkumarkaður er fákeppnismarkaður án samkeppniskrafta, sem þrýsta verðinu niður, mun þetta allt til lengdar leiða til hærra raforkuverðs. Þess vegna er engin glóra í þessari ævintýraför Viðreisnar, enda er hún ekki sniðin við íslenzkar aðstæður. Það er einhver meinloka að setja þetta í stefnuskrá íslenzks stjórnmálaflokks.
Hið sama gildir í raun og veru um sjávarauðlindina og orkuauðlindina. Sjávarútvegurinn er kjölfesta landsbyggðarinnar. Stjórnfyrirkomulag hans hefur reynzt vel, eins og forysta Viðreisnar viðurkennir í byrjun greinar sinnar. Hvers vegna að umturna því, sem reynzt hefur vel ? Markaðsvæðing aflahlutdeilda mun hvorki auka réttlæti hérlendis né hagkvæmni sjávarútvegs. Hún er til þess fallin að auka samþjöppun, því að fjársterkustu fyrirtækin munu lifa þennan darraðardans af, en hin munu lognast út af. Hver verða fórnarlömbin ? Það verða sjávarbyggðir meðfram allri strönd Íslands og reyndar hagkerfi landsins alls, því að fé verður dregið út úr greininni til kaupa á aflahlutdeildum, sem þýðir, að of lítið verður eftir til fjárfestinga í nýjustu tækni. Það leiðir strax til hrörnunar og stórhættu á, að íslenzkur sjávarútvegur verði undir í samkeppninni á alþjóðlegum mörkuðum. Ekki þarf að spyrja að leikslokum, þegar niðurgreiddar, erlendar útgerðir fara að bjóða í aflahlutdeildir á íslenzkum fiskimiðum. Það virðist vera lokatakmark Viðreisnar. Þessi stefna er ekkert minna en þjóðarskömm.
Því er haldið fram, að frjálst framsal aflahlutdeilda hafi aukið ójöfnuð á Íslandi og fært mikil verðmæti á fáar hendur. Þetta er þröngsýnt og afturhaldssinnað sjónarmið, einhvers konar fortíðarþrá. Ríkisstjórn Framsóknarflokks, Alþýðuflokks og Alþýðubandalags gegn Sjálfstæðisflokki í stjórnarandstöðu (flokki sjálfstæðra útvegsbænda) með þingstyrk sínum á Alþingi setti lög um frjálst framsal aflaheimilda 1989, af því að hún fann ekki aðra leið til að rétta hag sjávarútvegsins, sem glímdi þá við mikla aflaskerðingu í kjölfar lögleiðingar aflahlutdeildarkerfisins (kvótaúthlutunar) 1983-1984 til verndar fiskimiðunum. Þá skiptu aflahlutdeildir um hendur á frjálsum markaði og útgerðum og fiskiskipum snarfækkaði, svo að hagur þeirra, sem fjárfestu í aflahlutdeildum, vænkaðist smám saman. Hvar er óréttlætið í þessu ?
Er óréttlátt að bera úr býtum með áræði og dugnaði ? Það er stórfurðulegt, að þeir, sem annars styðja frjálst framtak, sjái slíkum ofsjónum yfir velgengni annarra. Það er mál til komið að skapa frið um starfsemi sjávarútvegsins, enda greiðir hann meira til samfélagsins en aðrir atvinnuvegir á Íslandi vegna sérsköttunar, og samkeppnisaðilar hans erlendis eru ekki aðeins lausir við þessa sérsköttun (auðlindagjald) í sínu heimalandi, heldur fá þeir veruleg framlög frá hinu opinbera til að stunda sína starfsemi, draga björg í bú til að fæða sína þjóð og viðhalda byggð.
"Lykillinn að þeirri lausn er enginn galdrastafur. Hann er einfaldlega sá sami og notaður er til að tryggja hagkvæmi og réttlæti við nýtingu allra annarra náttúruauðlinda, bæði hér heima og annars staðar.
Þessu tvöfalda markmiði má sem sagt ná með því að veita þröngum hópi einkarétt á auðlindum til nýtingar í tiltekinn tíma gegn gjaldi. Einkaleyfið felur í sér takmörkuð eignarréttindi. Sanngjarnt gjald fyrir slík réttindi endurspeglast síðan í verði þeirra."
Það, sem þarna er ofan greinarskilanna, er fals, eins og rakið er hér að ofan, og það er ósvífin blekking að halda því fram, að annars staðar í heiminum sé markaðsvætt aðgengi náttúruauðlinda viðtekin venja til að fullnægja hagkvæmni og réttlæti. Nægir að nefna vatnsorkulandið Noreg sem dæmi. Þar viðgengst svipað fyrirkomulag og hérlendis með vatnsorkulindirnar, og Norðmenn hafa aftekið með öllu að hlíta valdboði ESA/ESB um breytingu á þessu. Þá tíðkast alls engin markaðsvæðing á aðgengi norskra fiskimiða í anda ESB. Á meginlandinu stendur framkvæmdastjórn ESB í stappi við ein 8 lönd, þar sem vatnsorkuver eru í opinberum rekstri, þ.á.m. Frakkland.
Það, sem kemur þarna neðan greinarskilanna er í raun og veru áferðarfalleg lýsing á markaðsvæðingu náttúruauðlinda, sem lýst er í grænbókum Evrópusambandsins. Það eru tvíefld öfugmæli, að við íslenzkar aðstæður geti þetta stefnumið ESB leitt til aukins réttlætis og hagkvæmni fyrir almenning. Hér er einfaldlega um að ræða aðferð Framkvæmdastjórnarinnar til að veita nýju fjármagni fjársterkra einkafyrirtækja inn í orkugeirann til að létta undir með hinu opinbera við orkuskiptin og almennt til að gera orkugeirann kvikari (dýnamískari) gagnvart breyttu umhverfi. Viðreisn er á algerlega röngu róli, þegar hún heldur því fram, að hugmyndafræði þessarar markaðsvæðingar sé reist á réttlæti og hagkvæmni. Hún flaggar hér með innflutta lausn á viðfangsefni, sem er ekki fyrir hendi á Íslandi. Það hlýtur að fara hörmulega (illa ofan í landann).
9.4.2021 | 13:52
Að taka upp þráðinn við ESB-smjörklípa ?
Það er margt skrýtið í kýrhausnum. Nú vill Viðreisn endurræsa viðræður um myntsamstarf og aðlögunarviðræður við Evrópusambandið (ESB). Þetta er svo ótrúleg pólitísk glópska á kosningaári til Alþingis, að tiltækinu hlýtur að vera ætlað að slá ryki í augu kjósenda - sem sagt smjörklípa til að draga athyglina frá ægilegum vandræðum ESB í kjölfar BREXIT, en Sambandið mátti lúta í gras í viðureigninni við Breta út af bóluefnaútvegun, og ríki Sambandsins og reyndar EFTA-hækjunnar innan EES standa Bretum langt að baki, hvað framvindu bólusetninga við C-19 varðar og þar af leiðandi þróun heimsfaraldursins og hags almennings í kjölfarið.
Að tengja gengi ISK við EUR með þröngu leyfilegu sveiflubili er undarlegt keppikefli, því að mikill hluti viðskipta Íslendinga innanlands og utan á sér stað með USD. Nefna má, að raforkuviðskiptin við álverin og bókhald Landsvirkjunar og álfyrirtækjanna er í USD, og svo er um fleiri fyrirtæki. Eldsneytisinnflutningurinn er í USD og sama gildir um ýmis önnur viðskipti. Evrópusambandið er tollabandalag, og innan þess er ekki eftirsóknarvert að festast, því að Íslendingar vilja eiga viðskipti vítt og breitt um heiminn, auðvitað einnig við evrusvæðið og önnur ríki Evrópusambandsins, en meiri vöxtur er þó á flestum öðrum svæðum heimsins.
Þetta var ein af mörgum ástæðum þess, að Bretar kusu að yfirgefa ESB. Þeir standa frjálsir að viðskiptasamningum við önnur ríki, og það vilja flestir Íslendingar líka fyrir sína parta. Það er nauðhyggja að sækjast eftir að binda trúss sitt við stórríki Evrópu, þar sem stjórnarhættir eru ekki til fyrirmyndar í ESB, og lýðræðið er þar í skötulíki. Áhrifaleysi okkar um eigin málefni yrði meira en flestir Íslendingar mundu sætta sig við, en næstum ómögulegt virðist vera að komast skaðlaust út úr þessum nána félagsskap. Það er ótrúlega barnalegt af Viðreisnarforystunni að reyna nú að sannfæra landsmenn um, að nú sé rétti tíminn til að gera gangskör að því að bæta hag sinn með því að innlima Ísland í Evrópusambandið og fela þar með embættismönnum og stjórnmálamönnum á meginlandinu öll örlög landsins. Lýðræðislegt vald almennings á Íslandi færi þá fyrir lítið. Það er með ólíkindum, að Viðreisn, Samfylking o.fl. skuli ætla að kyrja þennan kveðskap á árinu 2021. Þeim er ekki sjálfrátt.
Morgunblaðið er gáttað. 1. apríl 2021 var fyrri forystugreinin með fyrirsögnina:
"Furðutillaga".
"Önnur tillagan [Viðreisnar til þingsályktunar] kveður á um það, að ríkisstjórnin skuli óska eftir viðræðum við Evrópusambandið um samstarf í gjaldeyrismálum. Þessi tillaga virðist, ef marka má texta tillagnanna, eiga að vera viðbragð við ímynduðum bráðavanda í þessum efnum, og samkvæmt henni á ríkisstjórnin að kynna viðræðurnar fyrir þinginu fyrir 1. júní n.k.."
Eins og áður segir fjallar þetta um að festa gengi ISK við EUR. Það er ígildi fastgengisstefnu, sem hefur aldrei gefizt vel á Íslandi, og stjórnmálamenn hafa gefizt upp á henni, þegar þeir hafa staðið frammi fyrir afleiðingunum, sem eru ósamkeppnishæfir útflutningsatvinnuvegir, samdráttur gjaldeyristekna og fjöldaatvinnuleysi. Þess vegna höfnuðu Svíar þessu gjaldmiðilssamstarfi SEK og EUR á sínum tíma. Halda menn, að Íslendingar stæðu eitthvað betur að vígi nú með ISK rígneglda við EUR eftir þriðjungssamdrátt útflutningstekna ? EUR fór þá úr tæplega 140 ISK í rúmlega 160, sem er breyting um tæplega 20 %, en nú er EUR komin undir 150 ISK. Flestir gjaldmiðlar hafa verið á rússíbanareið undanfarið ár. Er ekki ósköp eðlilegt, að verðmæti gjaldmiðils taki mið af viðskiptajöfnuði lands og eigna- skuldastöðu í útlöndum ?
"Hin tillagan, sem þingmennirnir vilja gefa heldur rýmri tíma, kveður á um "endurupptöku viðræðna um aðild að Evrópusambandinu", hvorki meira né minna. Það er gert ráð fyrir að skipa nefnd og hefja mikinn undirbúning að aðild, og svo verði aðildarviðræður bornar undir þjóðaratkvæði eigi síðar en í janúar á næsta ári [2022]."
Óbeint hafnaði þjóðin áframhaldandi aðildarviðræðum við ESB með því að henda Samfylkingunni og Vinstri hreyfingunni grænu framboði út úr Stjórnarráðinu með tilþrifum vorið 2013. Það er fáránlegt núna í djúpri Kófskreppu að vilja þá eyða tíma, kröftum og fjármagni, í dauðadæmda og útjaskaða hugmynd. Forgangsröðun Viðreisnar er fyrir meðan allar hellur og sýnir fullkomið ábyrgðarleysi og dómgreindarleysi.
"Falsrökin, sem fram koma í greinargerð með tillögunum, eru margvísleg og kunnugleg. Þar segir t.d., að tilgangurinn sé "að styrkja fullveldi landsins", sem er þekkt öfugmæli þeirra, sem berjast fyrir aðild að Evrópusambandinu, en hafa áttað sig á, að almenningur hér á landi kærir sig ekki um að láta stjórna Íslandi frá Brussel. Í stað þess að viðurkenna, að fullveldi landsins myndi skerðast verulega við inngöngu í ESB, þá kjósa þessir talsmenn aðildar að rugla umræðuna með því að halda fram hreinni firru í þeirri von, að einhhverjir bíti á það auma agn."
Aðildarsamningur við ESB er ekki þjóðréttarlegs eðlis, heldur felur hann í sér að selja landið undir erlenda löggjöf, sem hefur bindandi og endanlegt lagagildi hér. Nýtt réttarfar yrði tekið upp, þar sem Alþingi yrði í algeru aukahlutverki. Dómstóll ESB mundi dæma í fjölmörgum málum Íslendinga, og dómar hans eru ekki áfrýjanlegir. Það er mjög léleg kímnigáfa fólgin í því og raunar alger uppgjöf að halda því fram, að þetta jafngildi "styrkingu" fullveldis lýðveldisins Íslands. Þau verða að finna annan betri.
Íslendingar eiga nákvæmlega ekkert erindi inn í Evrópusambandið, þeir munu ekkert gagn hafa af aðild þar, og hagur þeirra mun versna þar, enda er hagvöxtur evrusvæðisins minni en annars staðar í Evrópu að jafnaði, svo að ekki sé nú minnzt á önnur viðskiptasvæði Íslendinga. Ef þeir einhvern tímann slysast þar inn, mun verða að áhrínsorðum orðtakið, að þangað leitar klárinn, þar sem hann er kvaldastur.
Mistakaslóði misheppnaðra blýantsnagara í Brüssel, sem ferðinni ráða í þessu gæfusnauða ferlíki, er svo fráhrindandi, að það er sálfræðilegt rannsóknarefni, hvernig heill þingflokkur læmingja getur í alvöru lagt það til á þingi landsins lengst norður í ballarhafi, að mál málanna sé nú aðild þessa lands að ólánsfjölskyldu Frakka og Þjóðverja á meginlandinu og að þjóðin verði að kjósa um, hvort banka beri upp á þessu ólánsheimili eigi síðar en 2022. Hvað er að ?
Morgunblaðið telur ekki eftir sér að benda á vankantana, t.d. í forystugrein 26.03.2021:
"Einn bílfarmur - 71 síða !":
"Kommisserar þessa nútíma sovétkerfis, sem klúðruðu bóluefnamálum sínum með sögulegum hætti, náðu hins vegar að bólusetja almenning svo hressilega gegn sér, að það þarf ekki fleiri skammta í bráð gegn þeirri veiru.
En það eru fleiri tilefni til sömu niðurstöðu. Á það benti Ásgeir Ingvarsson í prýðilegri grein sinni nýlega. Þar sagði m.a.:
"BBC fjallaði nýlega um það skýrslufargan, sem núna fylgir útflutningi á brezkum fiski til Evrópu. Mig grunar, að það hafi vakað fyrir blaðamönnunum að sýna, hvers konar reginmistök það voru að ganga úr ESB, en þvert á móti sýnir umfjöllunin, hvað Evrópusambandið er orðið mikið óhræsi.
Í dag þarf, samkvæmt úttekt BBC, að framvísa samtals 71 blaðsíðu af flóknum eyðublöðum og vottorðum til að koma einum bílfarmi af fiski í gegnum tollinn, Evrópumegin. Að fylla út pappírana kostar ótal vinnustundir, og vitaskuld má ekkert klikka, því [að] minni háttar mistök á einu eyðublaði þýða, að viðkvæm varan situr föst á landamærunum. Geta brezkir útflytjendur sjávarafurða núna vænzt þess, að vörur þeirra séu u.þ.b. sólarhring lengur að berast í hendur kaupenda í Evrópu.
En það sem Bretar eru að upplifa er einfaldlega það sama og öll heimsbyggðin hefur hingað til þurft að þola af hálfu ESB. Einu sinni var hún algerlega ómótstæðileg: létt og lipurt bandalag sjálfstæðra þjóða með það göfuga markmið að tryggja frið í álfunni og bæta hag almennings með því að hámarka frelsi í viðskiptum. Í dag er hún orðin þunglamaleg, eigingjörn og dyntótt, og utan um innri markaðinn er búið að reisa háa múra reglugerða og formkrafa til að verja evrópska framleiðendur fyrir erlendri samkeppni."
Sú gamaldags kaupauðgistefna (merkantílismi), sem þarna er lýst, er runnin undan rifjum Frakkanna, sem eru verstu miðstýringarsinnar Evrópu, og skilja illa mátt valddreifingar og samkeppni. Fyrir þjóðfélög innan þessa múrs, sem reyndar hefur hlotið þýzka stríðsheitið "Festung Europa" eftir gríðarlegum mannvirkjum "des Dritten Reiches" á vesturströnd Evrópu, ber slík stefna í sér stöðnun. Hagkerfin verða ósamkeppnishæf við umheiminn, og þjóðfélögin hrörna. Íslenzka hagkerfið er allt öðru vísi saman sett en hagkerfi evru-landanna. Hagsveiflan hérlendis er og verður þess vegna ekki alltaf í fasa við hagsveiflu evrusvæðisins, og peningamálastefna evru-bankans í Frankfurt am Main mun þess vegna hafa tilhneigingu til að auka sveiflur hagkerfisins hér í báðar áttir, sem er ekki eftirsóknarvert.
Meginstefnumál Viðreisnar eru öll því marki brennd að fela í sér aðlögun Íslands að stjórnkerfi Evrópusambandsins að svo miklu leyti, sem sú aðlögun hefur ekki átt sér stað með aðild landsins að EES. Verður sýnt fram á þetta í pistli síðar með hliðsjón af Morgunblaðsgrein formanns og varaformanns Viðreisnar um auðlindastjórnun og Stjórnarskrárbreytingar 25. marz 2021. Þannig fara þar úlfar í sauðargæru, því að auðlindastjórnun ESB felur í sér markaðsvæðingu auðlindanna á Innri markaði Evrópusambandsins. Eftir þann hráskinnaleik mun lítið standa eftir af íslenzkum nýtingarrétti orku- og sjávarauðlinda.
3.4.2021 | 15:29
Fullveldið birtist í mörgum myndum
Þann 24. marz 2021 var haldinn aðalfundur Félags sjálfstæðismanna um fullveldismál - FSUF í Valhöll. Þar var kjörinn formaður Jón Magnússon, hrl. Margt fleira fór þar fram, og voru m.a. haldnar 3 ræður, sem fylgja fundargerðinni og getur að líta í viðhengi þessa pistils. Vert er að benda sérstaklega á ræðu Ásmundar Friðrikssonar, Alþingismanns, sem lýsti margbreytilegum birtingarmyndum fullveldis, aðallega tengdum atvinnulífinu. Allt var þar satt og rétt.
Því verður heldur ekki neitað, að ein af skyldum fullvalda ríkis er að útvega þegnum sínum bóluefni með sjálfstæðum samningum við viðurkennda birgja eftir þörfum. Að ná hjarðónæmi í heimsfaraldri er heilsufarslega og efnahagslega mikilvægt. Að útvista þetta verkefni hjá ríkjasambandi, þar sem landið á ekki aðild, er ótrúleg áhættusækni og bæði lágkúruleg og bíræfin hugmynd.
Reynslan af því að geta nákvæmlega engin áhrif haft á samningana um bóluefnin er líka ömurleg. Svona hugmynd verður aðeins til hjá vanmetakindum, og það er alvarlegt veikleikamerki, að ríkisstjórnin skyldi vera svo lítilla sanda og sæva að gefa þessi mikilvægu mál frá sér með því að samþykkja þessi ósköp. Engum þarf þó að koma á óvart metnaðarleysi vinstri grænna í þjóðfrelsisefnum, þegar reynslan frá 2009-2013 er höfð í huga. Það verður þó að svipta hulunni af því, hvaðan þessi tillaga kom, og hvernig og hvers vegna hún var samþykkt. Var gerð bókun við þessa samþykkt í ríkisstjórn ?
Ef þessi ósköp hafa runnið ljúflega niður um kokið á öllum ráðherrum Sjálfstæðisflokksins, þá er greinilega ekki vanþörf á að skerpa á fullveldisbaráttunni innan þess flokks, sem stofnaður var til að berjast fyrir fullu sjálfstæði landsins frá gamla sambandsríkinu (nýlenduherrunum) á grundvelli viðskiptafrelsis, atvinnufrelsis og einkaframtaks, allt í anda Jóns Sigurðssonar, forseta. Hvar er metnaðurinn nú ? Að dinglast þæg aftan í stórríki Evrópu, eins og Viðreisn hefur nú undirstrikað, að hún vill.
Morgunblaðið hefur verið iðið við að benda á undirmálsvinnubrögð Evrópusambandsins við bóluefnaútvegun og afar gagnrýnið á framgöngu íslenzku ríkisstjórnarinnar í bóluefnamálum gegn C-19 og er það vel, enda í raun um stórpólitískt mál að ræða, sem varðar gríðarlega hagsmuni. Forystugreinin 23. marz 2021 var helguð þessu máli og hét:
"ESB þolir ekki dagsljósið eða nær að flýja það".
"En ESB var enginn Trump [í bóluefnasamningum] og hörmung uppmáluð var að fylgjast með vinnubrögðunum þar. Án þess að segja frá því opinberlega gekk íslenzka ríkisstjórnin í ESB í bóluefnamálum, rétt eins og hún svipti íslenzka þjóð fullveldi í raforkumálum. [Þarna eru 2 fullveldismál dregin fram í dagsljósið og varða bæði sjálfstæðismenn og landsmenn alla miklu - innsk. BJo.] Það hefur ekki verið upplýst, af hverju ríkisstjórnin álpaðist í barnaskap aftan í pilsfald ESB í bóluefnamálum. Vanmáttugar þjóðir, þegar innlimaðar og komast hvergi, hafa hins vegar afsakanir, þótt dapurlegar séu.
Embættismenn hér fara létt með veika þriggja flokka stjórn, sem er sjálfri sér sundurþykk og telur sig geta falið það með því að breiða yfir öll átakaefni. Embættismennirnir eru fyrir löngu gengnir í ESB, eins og sást í Icesave og orkupakkanum. Forsætisráðherrann hefur í tvígang sagt opinberlega, að "auðvitað gætu Íslendingar tekið frumkvæðið í bóluefnamálum, þrátt fyrir að hafa falið Brussel verkefnið". En hún hefur ekki sýnt neitt frumkvæði, og þetta muldur hefur haft minna en nokkur áhrif."
Þetta "muldur" heyrðist ekki frá þeim stöllum, Svandísi og Katrínu (viðhlæjendum), fyrr en Evrópusambandið var komið með allt niður um sig og gaf aðildarríkjunum frelsi til að reyna sjálf. Hlekkir hugarfarsins eru svo níðangurslegir, að ráðherrarnir hreyfa hvorki legg né lið til sjálfstæðra tilburða til hliðar við ESB, þótt heimild sé til. Þeir máttu allan tímann reyna við aðra birgja en ESB samdi við. Það heyrist t.d. ekki múkk í Stjórnarráðinu sem svar við tilboði Maríu Zakarova um viðræður um framleiðsluleyfi til Íslendinga á Sputnik V. Ráðherrunum dettur ekki í hug að nota tímann og hefja viðræður, af því að Lyfjastofnun Evrópu er enn með bóluefnið til rannsóknar.
Hvað skyldu margir stjórnarþingmanna kokgleypa þá tímaskekkju Viðreisnar á formi væntanlegrar þingsályktunartillögu að hefja á ný aðlögunarviðræður við ESB fyrir Ísland ? Þingflokkur Viðreisnar er haldinn þráhyggju af verstu gerð og þarfnast einskis fremur en ævilangs orlofs frá þingstörfum úr hendi kjósenda.
Í téðri forystugrein Morgunblaðsins var haldið áfram að velta fyrir sér dæmalausum undirlægjuhætti við ESB og Lyfjastofnun þess, þrátt fyrir tugmilljónir bólusetninga á Bretlandi með "fyrri skammti", án alvarlegra athugasemda Lyfjastofnunar Bretlands vegna aukaverkana eða ófullnægjandi virkni. Þessi rörsýn er orðin sjúkleg:
"Tilvikin [um aukaverkanir OAZ-innsk. BJo] voru örfá, sem nefnd voru til sögu um blóðfall, sem hefði komið upp á um líkt leyti og bólusetning á viðkomandi. Ísland, sem aldrei hafði orðið vart við neitt slíkt, hoppaði þegar um borð í þetta sökkvandi fley. Var það með vísun í vísindi eða einungis ómæld heimska ? Er virkilega svona lítill munur á "vísindum" og heimsku ? Kort, sem birt voru um alla Evrópu, sýndu Ísland með yfirskrift um það, að Ísland treysti ekki bóluefninu ! (Yfirskriftin hefði verið betri svona: "Apar eftir, eins og vant er.") Ef raunveruleg ríkisstjórn hefði verið í landinu, hefði slíkt ekki gerzt !
Hér er fast kveðið að orði í forystygrein, en ekki að ósekju. Það er eins og íslenzkum embættismönnum og ráðherrum sé fyrirmunað að taka sjálfstæðar ákvarðanir á grundvelli beztu fáanlegu þekkingar, en snúist þess í stað eins og skopparakringlur í kringum hvaða bolaskít sem frá Brüssel berst.
Núverandi sóttvarnarfyrirkomulag er afspyrnu heimskulegt, enda rekst þar hvað á annars horn. Er einhver glóra í því að leyfa fjölda manns að safnast saman við gosstöðvar í Geldingadölum á Reykjanesi, en loka öllum skíðasvæðum á landinu með harðri hendi ? Hvað hafa mörg C-19-smit verið rakin til skíðasvæða á Íslandi ? Hver er smitstuðull þar, ef hann þá er stærri en 0 ? Hver er smitstuðullinn í sundlaugum landsins, í líkamsræktarstöðvum, í verzlunum og hótelum o.s.frv. ? Eftir rúmlega árs langa söfnun gagna, smitrakningar og sóttkvíar, ættu þessar tölur að vera fyrir hendi, en þær hafa ekki verið opinberaðar. Það ættu yfirvöld þó að gera hið fyrsta. Á meðan þau gera það ekki, liggja þau undir ámæli um að beita miklu klunnalegri og "kommúnistískari" sóttvarnaraðgerðum en nauðsyn ber til með grafalvarlegum efnahagslegum og félagslegum afleiðingum.
"Frá tilkynningu um ný bóluefni í nóvember [2020] erum við komin upp í 4 % bólusetningu ! [20.734 eða 5,7 % þjóðarinnar fullbólusettir 31.03.2021-innsk. BJo.] Heilbrigðisráðherra hefur ekki sagt af sér eða ríkisstjórnin öll, sem ætti að vera niðurlút gagnvart þjóðinni. Samþykkti hún að stöðva notkun bóluefna, sem milljónir og jafnvel milljónatugir höfðu notað, án þess að þeirra afbrigða hefði orðið vart, sem blásin voru upp og hlaupið eftir hér ? Það var a.m.k. ekkert vísindalegt við slíka ávörðun. Hver tók hana þá í raun ? Hvert hefur afsökunarbeiðni borizt út af tiltækinu ? Fjölmiðlar gærdagsins vítt og breitt gengu út frá því, að EMA (European Medicines Agency) mundi þann dag lýsa því yfir, að bóluefnið rægða sé öruggt. En nú óttast margir, þ.á.m. sumir rógberanna, að margir hugsi sig um áður en þeir láta bólusetja sig."
30.3.2021 | 18:25
Bóluefnastríðið 2021
Framvinda bólusetninga í Evrópusambandinu (ESB) er hæg í samanburði við Bretland, en ástæðan er sjálfskaparvíti Framkvæmdastjórnarinnar. Hún svaf á verðinum, á meðan Bretar styrktu Oxford AstraZeneca (OAZ) til að þróa bóluefni gegn SARS-CoV-2-veirunni, sem veldur C-19 sjúkdóminum, og tóku síðan þá áhættu að forpanta tugmilljónir skammta fyrir brezku þjóðina frá OAZ. Ekkert slíkt hvarflaði að Úrsúlu von der Layen, en nú ryðst hún yfir grindur til að komast fram fyrir Boris Johnson og hans fólk í afhendingarröð bóluefna. Þetta er löglaust atferli, og var þó ekki úr háum söðli að detta. Evrópusambandinu er ekki treystandi fyrir horn. Það er rétt hjá Lavrov.
Ráðherraráð ESB nagar sig nú í handarbökin fyrir að hafa falið Framkvæmdastjórninni að útvega bóluefni og dreifa þeim til aðildarlandanna, en þetta var gert til að styrkja ESB, því að allar krísur hafa verið notaðar til að auka völd ESB. Heilbrigðismálin hafa aldrei verið á verksviði Framkvæmdastjórnarinnar, og búrókratar hennar höfðu enga reynslu í að semja við lyfjafyrirtæki. Undir forystu flokkshests frá Kýpur lögðu þeir áherzlu á að lágmarka kolröng áhættuatriði, sem tafði samningagerðina, og urðu þeir a.m.k. 3 mánuðum á eftir Bretum að ganga frá samningum.
Það lítur út fyrir, að íslenzki heilbrigðisráðherrann hafi sýnt vanrækslu í starfi með því að leita ekki til umboðsaðila þeirra lyfjafyrirtækja, sem voru með efnilegar niðurstöður úr fasa 1 og fasa 2 bóluefnisprófunum, en treysta þess í stað á að fá mola af borðum ESB, sem henni mátti verða ljóst í sumar, að yrðu fátækleg framan af. Hvernig tekur hún fréttinni frá Moskvu 30.03.2021 ? Maria Zakarova, talsmaður utanríkisráðherra Rússlands, Sergei Lavrov, tilkynnti þar og þá á blaðamannafundi, að Rússar væru til viðræðu um framleiðsluleyfi til Íslendinga á Sputnik V.
ESB hefur síðan á þessu ári, 2021, spilað algerlega rassinn úr buxunum með ofbeldisfullum tilburðum og falsáróðri gegn hinu sænsk-brezka AZ. Lögregla hefur ráðizt inn í verksmiðju AstraZeneca í Leiden í Hollandi og á Ítalíu vegna grunsemda Framkvæmdastjórnarinnar um, að verksmiðjurnar væru að framleiða bóluefni upp í pantanir Breta, sem þá átti að haldleggja. Grunsemdirnar voru úr lausu lofti gripnar, en aðgerðirnar sýndu, að Framkvæmdastjórnin er farin á límingunum og virðir hvorki lög né rétt, þegar þannig stendur á í bólið hennar. Þetta er lærdómsríkt, líka fyrir halelúja-hóp ESB á Íslandi.
Þá hafa Framkvæmdastjórnin og nokkrir leiðtogar ESB-ríkjanna með "Litla Napóleón" í Elysée-höllinni í París í broddi fylkingar tekið sér fyrir hendur hlutverk Gróu á Leiti, "ólyginn sagði mér", að OAZ-bóluefnið væri gagnslítið og gæti verið sumum hættulegra en hin bóluefnin. Nú hefur "Litli Napóleón" snúið við blaðinu og heimtar miklu meira af OAZ-bóluefninu strax en Gallarnir eiga rétt á samkvæmt samningum, sem Úrsúla von der Leyen og skjaldmeyjar hennar véluðu um og gengu frá með miklu lakari skuldbindingum á hendur birgjanum en Boris og félagar.
Hörður Ægisson reifaði málið að sínum skelegga hætti í forystugrein Fréttablaðsins 19. marz 2021 undir hinu lýsandi heiti:
"Klúður".
Hún hófst þannig:
"Eitthvað mikið hefur farið úrskeiðis. Ísland er eitt þróaðasta ríki í heimi, efnað land með fáa íbúa og öfluga innviði, þar sem vilji til bólusetningar er ríkur. Þjóðin ætti við venjulegar kringumstæður að hafa alla burði til þess að bera sig saman við vestræn ríki, sem standa utan Evrópusambandsins, á borð við Bretland og Bandaríkin. Í Bretlandi stendur öllum, sem komnir eru yfir fimmtugt, nú til boða bólusetning, og í Bandaríkjunum stendur til, að nægt bóluefni verði til fyrir alla í lok maí, auk þess sem bæði ríkin hafa fest eins konar frelsisdaga í dagatalið í vor og sumar, þegar öllum hömlum verður aflétt."
Stjórnvöld hér virðast hafa sofið á verðinum, þegar þau hefðu þurft að vera með allar klær úti við að útvega bóluefni sem fyrst. Þegar niðurstöður þreps 1 og þreps 2 úr tilraunum nokkurra lyfjafyrirtækja urðu opinberar í sumar, var einboðið að fá umboðsmenn þessara lyfjafyrirtækja til að leita samninga við sína birgja. Heilbrigðisráðherra stjórnast hins vegar af pólitískum hindurvitnum Stalínstímans í Sovétríkjunum og forðast allt samstarf og samvinnu ríkisins við einkaaðila. Þegar heilbrigðisráðherra hafði sólundað tímanum, var með bettlistaf í hendi leitað ásjár Evrópusambandsins, sem samþykkti náðarsamlegast að láta af hendi nokkra skammta til Íslands gegn því, að Ísland reyndi ekki að semja við sömu birgja og ESB. Allt er þetta einstaklega lágkúrulegt, og framvindan er eftir því.
"Á meðan höfum við horft upp á tafir og meiriháttar klúður í bólusetningaráætlun stjórnvalda, sem var af óskiljanlegum ástæðum útvistað til ESB. Enn er ekki einu sinni búið að bólusetja alla eldri borgara hér á landi, og fyrirætlanir um bólusetningar hafa enn tafizt um heilan mánuð, og ráðamenn yppa bara öxlum við þeim tíðindum. "Þetta er grautfúlt, en svona er þetta, og svona er þessi veira", voru viðbrögð forsætisráðherra við því, þegar fréttir bárust um, að AstraZeneca-bóluefnið, stór liður í bóluefnisöflun landsins, hefði tímabundið verið sett til hliðar. Fáir leggja traust sitt á, að áætlun stjórnvalda um, að búið verði að bólusetja alla Íslendinga yfir 16 ára aldri í lok júlí [2021] muni ganga eftir."
Alþingi á að veita ráðherrum aðhald á hverjum tíma. Þegar þeir sýna af sér ólíðandi óhæfni og/eða vanrækslu í starfi, á Alþingi að grípa til þeirra úrræða, sem það hefur yfir að ráða. Forsætisráðherra mun ekki losa okkur við viðhlæjanda sinn, téðan heilbrigðisráðherra, og þá verður Alþingi að gera það.
Í lok forystugreinarinnar skrifaði Hörður Ægisson:
"Með öflugri forystu hefði mátt bólusetja þjóðina mun fyrr, opna landið og afnema um leið þær skerðingar á daglegu lífi, sem við höfum búið við. Baráttan um bóluefnin er enginn leikur, heldur alvöru slagur. Við sjáum það af því kalda stríði, sem nú ríkir á milli Bretlands og ESB, þar sem útflutningsbanni er svarað með efasemdum um gagnsemi brezka bóluefnisins. [Bretar hafa ekki lagt á útflutningsbann á bóluefnum, heldur afgreiðir AZ í Bretlandi pantanir í réttri röð - innsk. BJo.] Stjórnvöld hefðu átt að berjast fyrir því með kjafti og klóm að tryggja nægt bóluefni fyrir löngu, en af einhverjum ástæðum virðist þá ráðherra, sem fóru með málið, hafa skort þar vilja eða getu eða hvort tveggja. Ótrúlegt er, að ríkisstjórn, þar sem flokkarnir áttu fátt sameiginlegt annað en andstöðu við ESB, skyldi ákveða að hengja sig alfarið á misheppnaða bólusetningaráætlun sambandsins. Hvernig í ósköpunum var komizt að því, að það væri þjóðinni fyrir beztu, og á sama tíma var ekkert Plan B fyrir hendi ? Bólusetningarklúður stjórnvalda, sem er einkum á ábyrgð heilbrigðisráðherra, eru afglöp af áður óþekktri stærðargráðu."
Landsmenn eiga rétt á að fá svör við ofangreindum spurningum Harðar Ægissonar. Stjórnvöld virðast hins vegar óttast, að vinnubrögð þeirra þoli ekki dagsljósið, sem kann að vera rétt mat, en á meðan við svo búið stendur, er vanræksla einkunnin, sem gildir um þessa frammistöðu. Hún er í þessu tilviki brottrekstrarsök, sbr "afglöp af áður óþekktri stærðargráðu".
Morgunblaðið hefur heldur ekki látið deigan síga í gagnrýni sinni á stjórnvöld fyrir þessi "afglöp". Sviðsljósgrein Andrésar Magnússonar þann 18. marz 2021 rekur hina evrópsku hlið þessa stórmáls, en hún sannar, að Evrópusambandinu var aldrei treystandi fyrir því verkefni að útvega bóluefni, enda aldrei gert það áður og heilbrigðismál ekki á könnu Sambandsins. Fyrirsögn sviðsljóssgreinarinnar var:
"Klúður, hneyksli og loks ringulreið".
Hún hófst þannig:
"Evrópusamstarf um öflun bóluefnis hefur gengið á afturfótunum, allt frá því til þess var boðað síðastliðið haust. Það var seint til þess stofnað, en verra var, að prútt og óhófleg tillitssemi við þjóðlegan metnað ýmissa aðildarríkja Evrópusambandsins (ESB) [einkum Frakklands - innsk. BJo] tafði verulega fyrir, því [að] það var seint pantað og lítið. Þegar afleiðingarnar komu í ljós, að Bretar höfðu öllum að óvörum verulegt forskot á því sviði, tók við einkennileg milliríkjadeila, þar sem öllu var teflt fram, þ.á.m. viðskiptabanni og broti á alþjóðlegum samningum. Sem ekki bætti úr skák, en breytti klúðri í hneyksli."
Hvað sem landsmönnum finnst um það, hvernig skipa eigi framtíðar tengslum við Evrópusambandið, ríkir líklega einhugur um það mat, að ESB hafi sett niður vegna þess, hvernig það hefur fengizt við bóluefnaútvegun til aðildarlanda sinna og EFTA-landanna í EES, og að síðan hafi forysta þess bætt gráu ofan á svart með þvingunaraðgerðum sínum í garð Breta.
Saga samskipta Íslands og Evrópusambandsins er ekki með þeim hætti, að ástæða væri nokkurn tímann til að fela því forsjá bóluefnaútvegunar til Íslands. Það er skiljanlegt, að ráðherrar, sem stóðu á sínum tíma að beiðni um aðildarviðræður við ESB, telji það lítið skref fyrir Ísland að fela Evrópusambandinu þetta mikilvæga hlutverk, hvað sem kaupskilmálunum líður, en það er mjög einkennilegt, ef borgaralegu flokkarnir í ríkisstjórninni, sem eru yfirlýstir andstæðingar slíkra aðildarviðræðna, sem eru ekkert annað en aðlögunarferli, eins og menn muna, hafa enga athugasemd gert við þessa lítilsvirðingu við fullveldi landsins.
Svissland er líka í EFTA, en er ekki í neinu bóluefnasamkrulli með ESB. Svisslendingar eru komnir heldur lengra í C-19 bólusetningum en ESB mælt í fjölda bólusetninga per 100 íbúa. Íbúafjöldi landa er ekki áhrifavaldur um það, hvernig þjóðum gengur að útvega sér bóluefni. Ísraelsmenn gerðu samninga um flýtiafhendingu til sín gegn afhendingu talnaefnis um þróun C-19 faraldursins og heilsufarslegar afleiðingar bólusetninga. Ekkert slíkt frumkvæði kom frá ráðuneytunum hér. Þegar sóttvarnarlæknir og forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar reyndu að feta í fótspor Ísraelsmanna (þessir læknar voru reyndar ekki á einu máli um, hvor þeirra hefði átt hugmyndina), var einfaldlega of seint í rassinn gripið.