Færsluflokkur: Evrópumál

Ný innviðareglugerð Evrópusambandsins

Nú er Orkupakki 4 (OP#4) frá Evrópusambandinu (ESB) til rýni og mats innan EFTA í því augnamiði að móta sameiginlega stefnu Íslands, Noregs og Liechtensteins til þeirrar málaleitunar framkvæmdastjórnar ESB, að þessi EES ríki innleiði í lagasafn sitt þá viðamiklu orkulöggjöf, sem stundum er kölluð Vetrarpakkinn, en er í raun OP#4, af því að hún leysir af hólmi OP#3.  Gagnvart Innri orkumarkaði ESB eru þessi 3 ríki mjög ólík og eiga þess vegna ólíkra hagsmuna að gæta.  Þar að auki eru skoðanir mjög skiptar og tilfinningar blendnar á Íslandi og í Noregi til þeirrar tilhneigingar ESB að sveigja orkumál aðildarríkjanna í sífellt auknum mæli undir vaxandi miðstjórnarvald Sambandsins.  Fyrir utan vafasamar tæknilegar afleiðingar af slíku tiltæki og einskis sýnilegs ávinnings af slíku leikur mjög mikill vafi á því, bæði á Íslandi og í Noregi, hvort stjórnarskrár landanna leyfi slíkt framsal ríkisvalds til erlendrar stofnunar, þar sem ríkin eiga ekki aðild, eins og felst í innleiðingu OP#4.  

Málið er hins vegar fjarri því svo einfalt, að nóg sé að einblína á eina reglugerð, eina tilskipun eða jafnvel lagabálk, eins og OP#4, þegar afleiðingarnar fyrir sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar eru metnar.  Það eru fleiri tilskipanir og reglugerðir, sem getur þurft að taka tillit til, því að þær vinna saman að því að styrkja enn miðstjórnarvaldið, sem felst í öðrum gerðum, t.d. OP#4.  

Ein slíkra gerða er innviðareglugerð nr 2020/0360(COD), sem er endurskoðun á 347/2013, sem ESB af einhverjum ástæðum, sem ekki hefur verið upplýst um, hætti við að gera að EES-máli, en sú nýja verður það þó mjög líklega. Þess vegna verður íslenzka utanríkisráðuneytið að vinna vandaða heimavinnu nú til að verða ekki tekið sofandi í bólinu, þegar kemur að innleiðingu innviðareglugerðarinnar hérlendis. Undirbúningsvinnan felst í að vega og meta frá hvaða atriðum reglugerðarinnar nauðsynlegt er, hagsmuna og stjórnarskrár landsins vegna, að leita eftir undanþágu og beita neitunarvaldi, ef það ekki fæst.

Endurskoðunina skýrir ESB með því, að laga eigi innviðareglugerðina að "Green Deal" Sambandsins, sem nú er allt um lykjandi.  Aukið er við hana, svo að hún auk flutningskerfis fyrir rafmagn og jarðgas, spanni græn gös, s.s. vetni, og flutningskerfi fyrir koltvíildi, sem á að geyma (og halda frá andrúmsloftinu), annaðhvort til niðurdælingar og bindingar eða til framleiðslu lífeldsneytis.  

Á rafmagnshlið miðar reglugerðin við 4 stjórnsvæði Orkusambands Evrópu; þar af er Norð-Vestursvæðið eitt, og tekur Framkvæmdastjórnin sem dæmi: "e.g. from wind farms in the North and Baltic Seas to storage facilities in Scandinavia and the Alps".  Þarna er hugmyndin sú, að vindorkuver úti fyrir ströndu vinni með vatnsorkuverum Skandinavíu og Alpanna, svo að vatn sparist.  Síðan er hægt að taka mikið afl út úr vatnsorkuverunum, hugsnlega með viðbótar búnaði þar o.fl, þegar aflskortur verður í ESB-löndunum. Þannig verður hægt að leysa gasorkuver í Orkusambandinu af hólmi sem varaorkuver fyrir jöfnunarafl og -orku inn á kerfið.  Að sjálfsögðu mundi Ísland falla inn í þessa hugmyndafræði, ef Icelink-sæstrengurinn verður lagður og allir nauðsynlegir innviðir reistir innanlands til að þjóna þessum sæstreng.  Ísland yrði þá eins konar orkunýlenda ESB. Innviðareglugerðin snýst um að útbúa stjórnkerfi í hverju aðildarlandi, sem sé sniðið til að raungera þessa hugmyndafræði, og að það verði gert sem erfiðast að þvælast fyrir markmiðum Orkusambands Evrópu.

ÓLJÓST ER, HVORT MILLILANDATENGINGAR OG FLUTNINGSKERFI INNANLANDS GETA ORÐIÐ PCI-VERKEFNI, ÁN ÞESS AÐ RÍKISVALDIÐ Í VIÐKOMANDI LANDI MÆLI MEÐ ÞVÍ (PCI=Project of Common Interest, forgangsverkefni Orkusambandsins):

Það eru svæðisstjórnstöðvar Orkusambands Evrópu sem leggja til, að verkefni fari á PCI-skrána samkvæmt gr. 3 í þessari innviðareglugerð.  Ísland er á norð-vestur svæðinu með Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Hollandi, Þýzkalandi og Eystrasaltsríkjunum. Meirihluti þeirra tekur ákvörðun um verkefni inn á PCI-skrána við atkvæðagreiðslu.  Ísland og Noregur hafa ekki atkvæðisrétt í svæðisstjórninni. Þetta er alveg óaðgengilegt fyrir Ísland án neitunarvalds.  Tillaga svæðisstjórnarinnar fer til ACER til umsagnar og síðan til Framkvæmdastjórnarinnar annað hvert ár. 

Fyrsta PCI-verkefnaskráin eftir þessari nýju forskrift á að hljóta samþykki 30.11.2023.  Hægt er að túlka gr. 3.3.a í þessari innviðareglugerð þannig, að Ísland og Noregur hafi neitunarvald um þau verkefni, sem beint snerta þessi ríki.  Ef Ísland hafnar verkefni, skal orkustjóri Íslands leggja fram í svæðisstjórninni rökstuðning fyrir höfnun. Það er óljóst, hvað verður um PCI-verkefnið, ef önnur ríki eða meirihluti þeirra í svæðisstjórninni fallast ekki á röksemdirnar.  Þetta verða íslenzk stjórnvöld að fá á hreint núna, á meðan svigrúm er til að koma athugasemdum að hjá EFTA/ESB, og utanríkisráðherra þarf að gera það ljóst, að skilyrði fyrir innleiðingu Íslands á þessari reglugerð sé, að landið fái skýlaust neitunarvald um verkefni, er varða landið beint og tillaga er uppi um, að fari inn á PCI-skrána. Það er mjög líklega hægt að fá Noreg til að standa með Íslandi að slíkri stefnumörkun EFTA.

GÆTI ICELINK AFTUR ORÐIÐ PCI-VERKEFNI ?:

  Samkvæmt gr. 3c skal PCI-verkefni uppfylla eftirtaldar 2 kröfur hið minnsta:

1. Það fer yfir landamæri tveggja aðildarríkja hið minnsta.

2. Það er á umráðasvæði eins aðildarríkis og hefur marktæk jákvæð áhrif á orkuflutning á milli landa.

Nú eru hvorki Ísland né Bretland aðildarríki ESB, þótt Ísland sé í Orkusambandi Evrópu eftir innleiðingu OP#3, og þess vegna ætti ekki að vera hætta á endurlífgun Icelink á vegum ESB.  Hins vegar gerir tækniþróunin kleift að leggja og reka æ lengri háspennta jafnstraumsstrengi neðansjávar. Mögulega mun þó ESB kjósa að líta á Ísland sem aðildarland vegna EES-samningsins og þeirrar þýðingar, sem vatnsafl Íslands hefur fyrir Orkusamband Evrópu. Þetta verður utanríkisráðherra að fá á hreint.  

ESB GRÍPUR INN Í LEYFISVEITINGAFERLI, SEM Í GILDI ER Í HVERJU LANDI:

Samkvæmt gr. 10 á allt ferlið áður en umsókn um leyfisveitingu fyrir verkefni, sem innviðareglugerðin spannar, t.d. orkumannvirki, er send, að taka að hámarki 2 ár. Innan þessara tímamarka á að gera áhættugreiningu fyrir náttúru og þjóðhagslega arðsemi verkefnisins og Skipulagsstofnun að afgreiða umhverfismatið.  Frá því að umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir t.d. virkjun eða flutningsmannvirki er send til sveitarstjórnar skulu að hámarki líða 18 mánuðir að ákvarðanatöku.  Allt ferlið má mest taka 42 mánuði.  Frestunarslakinn er mest 9 mánuðir, svo að heildartíminn getur allra mest orðið 51 mánuðir eða 4 ár og 3 mánuðir frá rannsókn á fýsileika og forhönnun að framkvæmdaleyfi.  Þetta er mun þrengri tímarammi en við eigum að venjast hérlendis, en mjög langur undirbúningstími og afar seinvirkar opinberar stofnanir hafa verið gagnrýndar hérlendis, m.a. af fráfarandi orkumálastjóra, enda tekur þar út yfir allan þjófabálk.  Þarf blýantsnagara í Brüssel til að vekja iðnaðarráðherra o.fl. upp af Þyrnirósarsvefni um þetta ófremdarástand ? 

Hvað sem því líður er ótækt, að ESB grípi með þessum hætti inn í leyfisveitingaferli hjá ríki, sem er ekki í Sambandinu.  Utanríkisráðherra verður að vera á varðbergi gagnvart þessu og verja fullveldi landsins.  

INNVIÐAREGLUGERÐIN GERIR YFIRVÖLDUM ÞAÐ ERFITT AÐ HAFNA LEYFISUMSÓKN UM PCI-VERKEFNI:

Samkvæmt gr. 3 á PCI-verkefni að hafa hæsta forgang í kerfisáætlunum orkuflutningsfyrirtækja landanna.  

Samkvæmt gr. 5 eiga þeir, sem eiga verkefnið, að skila ársskýrslu fyrir 31.12. árið, sem verkefnið fór inn á PCI-skrána og síðan áfram.  Orkustjóri landsins sendir hana til ACER og gerir grein fyrir orðnum og fyrirsjáanlegum seinkunum á leyfisveitingaferlinu.  

Samkvæmt gr. 6 getur framkvæmdastjórn ESB, eftir samkomulag þar um við viðkomandi aðildarland, útnefnt ESB-samræmanda í allt að eitt ár, og þetta tímabil má framlengja tvisvar, ef PCI-verkefni steytir á skeri.  

Samkvæmt gr. 8 skal hvert ríki útnefna opinbera stofnun, sem skal hafa það hlutverk og heimildir til að auðvelda og samræma leyfisveitingaferlið fyrir PCI-verkefni. Það skal gera í síðasta lagi 01.01.2022. 

 Formlega er það áfram Ísland, sem samþykkir leyfi eða synjar um leyfisveitingu, en hér hefur ESB sett upp alls konar hliðarkerfi, sem eiga að gera synjun PCI-verkefnis fjarlægan möguleika.  Það er ótækt fyrir fullvalda ríki, að ESB geti skipað samræmanda, sem geti auðveldað leyfisveitingaferlið og jafnvel skipað Orkustofnun eða sveitarstjórn að auðvelda samþykktarferlið fyrir verkefnið.  Utanríkisráðherra verður að fá undanþágu frá þessu fyrir Ísland. 

HINDRAR GR. 7 EINHLIÐA STÖÐVUN PCI-VERKEFNIS ?:

 Samkvæmt gr. 7 skal framkvæma PCI-verkefni fumlaust, þótt því hafi seinkað af ástæðum, sem eru taldar upp í rafmagnstilskipuninni 2019/944, gr. 51.a, b eða c.  Mismunandi aðferðir við að koma verkefninu á réttan kjöl eru tíundaðar, en það er ómögulegt að stöðva verkefni, sem er komið á þennan rekspöl.  Þáverandi olíu- og orkumálaráðherra Noregs, Freiberg, svaraði spurningu í Stórþinginu í ágúst 2019, að gr. 51 í ofangreindri rafmagnstilskipun ætti ekki við um Noreg vegna þess, að átt væri við lönd, sem ekki byggju við Statnett-fyrirkomulagið, sem er hið sama og Landsnetsfyrirkomulagið hérlendis.  Þessi túlkun er langsótt.  Norskur lagaprófessor, sem hér hélt fyrirlestur í HÍ um OP#3 2018, Peter Th Örebech, telur túlkunina ranga í skýrslu sinni:

"EUs Energibyrås Energipakke 3 & 4 og Kongeriket Norges Grunnlov", september 2020. 

ESB OG VINDMYLLUR ÚTI FYRIR STRÖNDU:

Samkvæmt gr. 14 eiga ríki með land að hafi að gera áætlun um nýtingu hafsvæðis til raforkuvinnslu.  Það skal gera í samstarfi við Framkvæmdastjórnina og á grundvelli orkumarkmiða ESB.  Skuldbindandi áætlun á að vera tilbúin í síðasta lagi 31.07.2022 og tilgreina skal þar markmið fyrir árin 2030, 2040 og 2050. 

Virkjun hafvinds hefur lítið verið í umræðunni á Íslandi, enda mjög dýr aðferð fyrir raforkuvinnslu og getur rekizt á ýmsa aðra hagsmuni.  Fyrir Ísland á þetta ekki að vera málefnasvið, sem stjórnað er af ESB, og þess vegna er nauðsynlegt að fá undanþágu frá þessu. Nú mun reyna á utanríkisráðuneyti Íslands að verja hagsmuni Íslands á orkusviðinu fyrir ásælni og miðstýringaráráttu Evrópusambandsins.  Það er ekki til of mikils mælzt.   

 

 

 

 


Gagnslaus hreinorkupakki - eykur framsal fullveldis

Með Hreinorkupakka Evrópusambandsins (ESB), sem ESB nefnir líka stundum Vetrarpakkann, en er í raun Orkupakki 4, enda arftaki OP#3, verða völd fulltrúa ESB á Íslandi á sviði raforkumála aukin mikið, ef ekki verður spyrnt við fótum. Orkustjórinn, æðsti fulltrúi ESB á Íslandi á sviði orkumála, er nú þegar með Orkupakka 3 (OP#3) utan valdsviðs ráðherra og óháður ráðherravaldi og í raun æðsti maður raforkumála á Íslandi. Hann hefur með öðrum orðum ígildi ráðherravalds. Það er hið versta mál og skref aftur á bak, að þessi orkustjóri landsins (National Energy Authority) skuli ekki lúta lýðræðislegri stjórn löggjafar- og framkvæmdavalds í landinu. Þessi grundvallarbreyting var gerð að þjóðinni forspurðri vegna þróunar á Evrópusamstarfinu, sem ekki var fyrirséð árið 1993, þegar Alþingi staðfesti gjörning þáverandi ríkisstjórnar um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu, EES.

OP#4 er mikill lagabálkur 8 gerða, þar af 4 reglugerða og 4 tilskipana.  Megininnihaldið er fólgið í tilskipun þings og ráðherraráðs ESB nr 2019/944 frá 05.06.2019 um fleiri sameiginlegar reglur fyrir Innri raforkumarkað ESB en áður og aukin völd orkustjóra ESB ásamt aukinni miðstýringu, og reglugerð þings og ráðherraráðs ESB nr 2019/942 frá 05.06.2019 um valdeflingu ACER-Orkustofnunar ESB og samráðsvettvangs allra orkustjóra EES og um að koma á fót stjórnstöðvum nokkurra landfræðilega afmarkaðra svæða innan Orkusambands Evrópu ásamt fleiru.  Þriðja skjalið, sem verið hefur í umræðunni á vettvangi EFTA undanfarið er reglugerð þings og ráðs ESB nr 2019/943 frá 05.06.2019 og er í raun samsuða úr ofangreindum tveimur gerðum, sem þýðir t.d., að ef ACER-reglugerðin hér að ofan verður dæmd óleyfileg til innleiðingar á Íslandi vegna árekstra við Stjórnarskrána, þá gildir hið sama um reglugerð 2019/943.  

Kjarninn í þeim 4 reglugerðum, sem í OP#4 eru, er sá, að stofnaðar eru svæðisstjórnir, sem orkustjórar í hverju landi á svæðinu heyra undir, og ACER er síðan yfir öllum þessum stjórnstöðvum og úrskurðar í ágreiningsmálum á milli landanna.  Norðurlöndin, nema Færeyjar og Finnland, Eystrasaltslöndin, Þýzkaland og Holland verða undir stjórnstöðinni, sem Ísland mundi heyra undir, en það verður alls ekki séð, að Ísland eigi neitt erindi inn í þetta stjórnkerfi, á meðan Alþingi ekki hefur heimilað tengingu Íslands við rafkerfi þessa svæðis, en eins og kunnugt er sló Alþingi þann varnagla við innleiðingu OP#3.  Þótt samskipti orkustjórans á Íslandi við svæðisstjórnstöðina verði látin fara um hendur starfsmanna ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, af því að Ísland er aðili að EFTA, sem er viðskiptabandalag og ekkert í líkingu við ríkjasambandið ESB, er mikið vafamál, að þetta stjórnunarfyrirkomulag raforkumálanna standist Stjórnarskrá. 

Svæðisstjórnstöðin ákveður líka, hversu mikið afl og orka í landinu skal standa til reiðu fyrir millilandatengingar.  Ábyrgðin á afhendingaröryggi rafmagns mun færast smátt og smátt úr landi, þótt enginn sé aflsæstrengurinn.

Núna rýnir orkuhópur Fastanefndar EFTA OP#4 og hefur byrjað á eftirfarandi 3 gerðum:

ACER-reglugerð 2019/942:  Á meðan sá varnagli er í gildi frá innleiðingu OP#3, að enginn sæstrengur verði lagður til Íslands til tengingar raforkukerfis landsins við Innri orkumarkað ESB án samþykkis Alþingis, þá á þessi reglugerð ekkert erindi inn í lagasafn Íslands, enda liggur í leikmannsaugum uppi, að þessi reglugerð felur í sér meira fullveldisframsal en Stjórnarskrá og önnur lög landsins leyfa. Þess vegna þarf að krefjast undanþágu fyrir Ísland frá þessari reglugerð. Þeir, sem vilja innleiða þessa reglugerð hérlendis, hafa óhreint mjöl í pokahorninu, t.d. það að ætla sér að fjarlægja alla varnagla, sem settir hafa verið gegn slíkri sæstrengstengingu.

Það er óþarfi að spyrja um afstöðu þeirra, sem vilja, að Ísland verði aðildarland Evrópusambandsins, því að með innleiðingu þessarar gerðar og hinna tveggja gengur Ísland í raun í ESB á sviði orkumála, þ.e. gengur í Orkusamband Evrópu, og öðlast þar með stöðu nýlendunnar á þessu sviði, missir sjálfstjórn í hendur búrókrata í Brüssel, sem ekkert umboð hafa þegið frá íbúum þessa lands. Í viðhengi með þessum pistli er að finna nánari greinargerð fyrir þessum sjónarmiðum.

Raforkutilskipun 2019/944: Hún felur í sér óaðgengilegar kvaðir um, að íslenzk löggjöf megi ekki hindra framgang stefnu ESB um millilandatengingar og um raforkumarkaðinn innanlands.  Þá felur þess tilskipun í sér gríðarlegt eftirlit með Landsneti og möguleika á því, orkustjórinn setji stjórn Landsnets til hliðar.  Hér er þess vegna líka um algerlega óaðgengilega skilmála að ræða.  Þess vegna er ekki stætt á öðru gagnvart lýðræðislegum stjórnunarrétti almennings í landinu og Stjórnarskránni en að krefjast undanþágu frá þessari tilskipun í Fastanefnd EFTA og í Sameiginlegu EES nefndinni, ef málið fer þangað.  Í viðhengi með þessum pistli er að finna nánari greinargerð fyrir þessum sjónarmiðum.

Reglugerð nr 2019/943: Þessi reglugerð er blanda af tveimur ofangreindum gerðum.  Þar sem þær eru báðar óalandi og óferjandi að íslenzkum rétti að mati þessa höfundar, er þessi það líka.

Í Fastanefnd EFTA, þar sem þessar 3 gerðir eru til umfjöllunar um þessar mundir, er nauðsynlegt, að fulltrúar Íslands geri fulltrúum hinna EFTA-landanna skilmerkilega grein fyrir því, hvers vegna Íslandi er ekki fært að innleiða þessar 3 gerðir í íslenzkan rétt.  Ef ekki fæst skilningur á því, verður Ísland að beita neitunarvaldi á þessar 3 gerðir í Fastanefndinni, og munu þær þá ekki koma til efnislegrar umfjöllunar í Sameiginlegu EES-nefndinni.  Þar verður ESB-fulltrúunum hins vegar formlega tilkynnt um afstöðu EFTA. 

Í Noregi er uppi stjórnarskrárdeila í dómskerfinu um fyrirkomulag atkvæðagreiðslu í Stórþinginu í marz 2018 um Orkupakka 3.  Á meðan svo er, er fullkomlega óviðeigandi, að EFTA, ráðuneyti og þingnefndir í EFTA-löndunum, vinni að undirbúningi innleiðingar arftakans, Vetrarpakkans eða OP#4.  Málið verður sennilega ekki útkljáð fyrr en 2022 í dómskerfinu, og þá gæti orðið ný atkvæðagreiðsla um OP#3 í Stórþinginu, en þá yrði innleiðing hans í norsk lög aðeins samþykkt, ef 3/4 viðstaddra þingmanna samþykkja hana.  Ef mið er tekið af norskum stjórnmálum núna og horfum eftir Stórþingskosningar í september 2021, mun það ekki gerast, heldur verður Orkupakki #3 þá felldur.  Hann fellur þá og úr gildi á Íslandi og í Liechtenstein.

Strax í apríl 2021 er að vænta vísbendingar frá Hæstarétti Noregs um það, sem koma skal í "ACER-málinu", því að þá er búizt við svari frá honum við fyrirspurn Stórþingsins um það, hvort við atkvæðagreiðslu um innleiðingu Járnbrautarpakka 4 frá ESB eiga að láta einfaldan meirihluta duga eða krefjast aukins meirihluta.  Í þessu máli er líka deilt um umfang fullveldisframsals, sem felst í að færa æðsta vald yfir járnbrautum Noregs til ERA, Járnbrautarstofnunar ESB. 

Með leikmannsaugum séð er líklegt, að Hæstiréttur Noregs áskilji aukinn meirihluta, því að varðandi samninga við útlönd má aðeins beita einföldum meirihluta við atkvæðagreiðslu um þjóðréttarlega samninga, og innleiðing á gerðum ESB er það ekki, heldur er þar um að ræða valdframsal frá ríkinu um innanlandsmálefni til ESB, nánar tiltekið stofnunar, þar sem Noregur er ekki fullgildur aðili.  Þetta hefur í EES-samninginum verið fóðrað með því að stilla ESA upp sem millilið, en hún (Eftirlitsstofnun EFTA) er í þessu viðfangi aðeins ljósritunarstofa fyrir ACER, eins og prófessor í réttarfari við Háskólann í Ósló, Eivind Smith, hefur sýnt fram á.  Slík ljósritunarstofa jafngildir beinu streymi fyrirmæla og upplýsinga í báðar áttir og getur ekki fullnægt formlegum kröfum um meðferð fullveldis.      

 

 

  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Þorskastríð á milli ESB og Noregs í uppsiglingu

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) undir forsæti Úrsúlu von der Leyen hefur átt mjög mótdrægt á ferli sínum og margoft mátt lúta í gras.  Nægir að nefna bóluefnaklúðrið.  Þar var um að ræða útvegun og dreifingu bóluefnis innan ESB, sem Framkvæmdastjórninni hafði aldrei verið formlega falið, en lækninum í forsetastóli Framkvæmdastjórnarinnar þótti svo tilvalið að spreyta sig á, að hún fékk ráðherraráðið til að fela Framkvæmdastjórninni þetta hlutverk.

Einhverjum datt þá í hug að láta þessa miðstýringu spanna allt EES, sem var fótalaus hugdetta og reyndist leiða til slíks ófarnaðar, að framvinda bólusetninga hér minnir á ferð lúsar á tjöruspæni í samanburði við Ísraelsmenn, Breta og Bandaríkjamenn. Nýjasta asnastrikið í þessum efnum í nafni Framkvæmdastjórnarinnar er bann Ítala við útflutningi á bóluefni til Ástralíu frá verksmiðju AstraZeneca á Ítalíu.  Tollabandalagið fórnar hiklaust frjálsum viðskiptum á milli heimsálfa, ef vindar blása óhagstætt fyrir Brüssel. Það á eftir að útskýra skilmerkilega fyrir Íslendingum, hvernig og hvers vegna sú ákvörðun var tekin í Stjórnarráðinu að láta viðvaninga í lyfjaviðskiptum í hópi búrókrata í Brüssel í hópi, sem venjulega fæst við merkingar á kjötvörum, sjá um jafnmikilvægan málaflokk fyrir Íslendinga og kaup á bóluefni gegn faraldri, sem valdið hefur miklum búsifjum, óneitanlega er.  

Nú ætlar Úrsúla von der Leyen að hressa aðeins upp á ásýndina með því að knésetja Norðmenn í deilu við þá um þorskveiðiheimildir við Svalbarða.  Hér er kominn rétt einn slóðinn eftir BREXIT, því að við útgönguna úr ESB tóku Bretar til sín fiskveiðiheimildir við Svalbarða, sem þeir höfðu fyrir löngu samið um við Norðmenn.  Eftir situr ESB með skeggið í póstkassanum, eins og Norðmenn taka til orða við svipaðar kringumstæður.  

Við hörmum, að Noregur skuli hafa tekið einhliða ákvörðun, sem gengur gegn hefðbundinni nálgun viðfangsefnisins, og takmarkað þorskmagnið, sem ESB-flotinn má veiða í kringum Svalbarða, segir Framkvæmdastjórnin við norska blaðið Nationen 1. marz 2021. Samt hafa Norðmenn leyft ESB að hefja þorskveiðar við Svalbarða í ár. Engu að síður telur ESB, að Noregur hafi brotið Svalbarðasáttmálann, og ætlar næstu vikurnar að ræða innbyrðis og ákvarða gagnráðstafanir, les refsiaðgerðir, á hendur Norðmönnum. Sjávarútvegsráðherra Noregs hefur sagt við Nationen, að ekki verði hopað fyrir hótunum og hugsanlegum þvingunum ESB.  Ekki mun þessi framkoma fjölga stuðningsmönnum EES í Noregi, enda fjarar nú undan þessum sérkennilegu ESB-tengslum í Noregi.  

Sjávarútvegsráðherra Noregs segir við Nationen, að ekki komi til greina, að hvert ríkjanna 46, sem undirrituðu Svalbarðasáttmálann, ákvarði kvóta sér til handa. Hann segir það misskilning hjá ESB, að Norðmenn fylgi ekki Hafréttarsáttmálanum í hvívetna.

Nýlega sendi Noregur mótmælaorðsendingu til ESB, og Ingebrigtsen, sjávarútvegsráðherra, fundaði með framkvæmdastjóra sjávarútvegsmála, Litháanum Virginijus Sinkevicius, um deiluna. Stríðið heldur áfram sem orrahríð í orðum, á meðan heildarkvótinn, sem Noregur hefur úthlutað ESB, hefur ekki verið fiskaður allur. Þá mun sverfa til stáls. 

Bretar fengu á grundvelli gamals samnings um 5 kt úthlutað við Svalbarða, en þá hljóp hland fyrir hjartað á Framkvæmdastjórninni, sem engan slíkan gamlan hefðarrétt átti, en tók sér rétt til að úthluta sjálfri sér  28,431 kt af þorski á verndarsvæði þorsks, sem var 10 kt meira en Noregur hafði úthlutað ESB án Breta við Svalbarða 2020.  25.02.2021 voru 6 togarar á svæðinu, og flestir á þorskveiðum.  4 voru frá ESB og 2 frá Bretlandi. 

Málið er, að kreppa steðjar að fiskveiðum ESB eftir BREXIT.  ESB má nú aðeins veiða tímabundið 1/4 af venjulegu magni innan brezku lögsögunnar fyrir utan umsamda flökkustofna. Skipafloti ESB-landanna er að mestu bundinn við höfn.  

Viðhorf ESB virðist vera, að hver taki sér kvóta við Svalbarða. Það er ósjálfbært viðhorf og sýnir, hversu aftarlega á merinni Framkvæmdastjórnin er, þegar kemur að umgengni við náttúruna. Með þorskastríði verður vonandi hægt að koma vitinu fyrir Evrópusambandið í þessum efnum.  Noregur mun í slíkri snerru hafa sterk spil á hendi, segir Andreas Östhagen, fræðimaður við Stofnun Friðþjófs Nansens.  Hann telur alveg ljóst, að alþjóðlegur hafréttur njóti forgangs í stjórnsýslu Svalbarða og telur það rangt, að Svalbarðasáttmálinn myndi heimild til annarra til úthlutunar kvóta.  Málatilbúnaður ESB geta verið mistök, þar sem fáeinir búrókratar hafa búið til tillögu, sem er illa undirbúin, segir Andreas. Þetta er afar diplómatískt orðalag hjá Norðmanninum, þegar vitað er, að Framkvæmdastjórnin sleikir nú sár sín og reynir, hvað hún getur að ganga nú í augun á aðildarlöndunum. Framkvæmdastjórnin vanmetur vilja og úthald Norðmanna. 

Auk þorskkvótanna tók ESB sér kvóta í snjókrabba.  Það er ný auðlind, sem engin söguleg veiðigögn eru til um, svo að hægt sé að reikna út kvóta.  Landhelgisgæzla Noregs segir við Nationen, að hún muni yfirtaka öll skip og færa til hafnar, sem hefja snjókrabbaveiðar upp í kvóta, sem ESB úthlutar. Enn virðast ESB-snjókrabbaskip ekki hugsa sér til hreyfings.

Af hálfu Noregs hefur verið gefinn kostur á að leysa deiluna með kvótaskiptum, en ESB hefur hafnað því. ESB telur slíkt veikja réttarlega stöðu sína, sem virðist vera veik fyrir. Ef ESB skiptir sér af krabbaveiðunum, getur það leitt til þess, að norska krafan um umráðaréttinn yfir landgrunni Svalvarða fari fyrir alþjóðarétt. Niðurstaðan þar mun hafa áhrif á, hvernig hugsanlegri olíu-, gas- eða málmvinnslu á hafsbotninum verður háttað.  Tapi Noregur málinu fyrir Alþjóða dómstólnum í Haag, þannig að dæmt verði, að Svalbarðasáttmálinn spanni einnig landgrunnið umhverfis Svalbarða, mun Noregur verða í fullum rétti að segja, að þá ætli Noregur ekki að opna fyrir boranir þar eftir gasi og olíu. Það stendur hvergi í Svalbarðasáttmálanum, að Norðmenn verði að leyfa auðlindavinnslu, segir Östhagen við Nationen.

Norðmenn græða ekkert á að leyfa öðrum að bora, þar sem í sáttmálanum stendur, að einungis megi skattleggja starfsemina til að standa undir stjórnsýslunni á Svalbarða. 

Þetta mál sýnir, að Framkvæmdastjórnin er tilbúin að ganga langt til að þóknast hagsmunaaðilum í sjávarútvegi ESB-landanna.  Samkvæmt CAP - "Common Agricultural Policy" - eiga auðlindir hafsins í lögsögu aðildarlandanna að vera undir stjórn ESB.  Hið sama mun verða uppi á teninginum með auðlindir hafsins í lögsögu Íslands, ef Samfylkingu, Viðreisn og pírötum verður að ósk sinni um, að Ísland verði aðili að ESB.  Auðvitað munu Íslendingar þá eiga hefðarrétt innan eigin lögsögu, en m.t.t. mjög slæmrar verkefnastöðu fiskiskipaflota ESB er líklegast, að ESB-flokkarnir, ef þeir komast til valda á Íslandi, muni þjóðnýta aflahlutdeildir íslenzkra veiðiskipa og síðan bjóða þær upp á sameiginlegum markaði allra ESB-landanna, en uppboðsstefnan, jafnglórulaus og hún er, myndar kjarnann í sjávarútvegsstefnu Samfylkingar og Viðreisnar.  Þá munu íslenzkar sjávarbyggðir fá að lepja dauðann úr skel. Það er með öðrum orðum mikið hagsmunamál fyrir almenning í landinu að halda téðum þremur flokksviðundrum frá Stjórnarráðinu.   

 

 

 

 

 


Nýir möndlar

BrandenborgarhliðiðÁ þessu vefsetri hefur verið fjallað um nýju gaslögnina Nord Stream 2, sem liggur frá Síberíu til Þýzkalands á botni Eystrasalts án viðkomu í öðrum löndum.  Nú virðist þetta verkefni munu verða að stórpólitísku bitbeini, sem valda muni klofningi á meðal Vesturveldanna og myndun nýrra pólitískra öxla.  Lögnin markar þáttaskil í Evrópu fyrir 21. öldina.  

Undir hinum írsk- og þýzkættaða Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, versnaði sambúð Þýzkalands og Bandaríkjanna til muna, en stirðleikinn hófst fyrr og má rekja aftur til forsetatíðar Ronalds Reagans.  Í tíð Trumps sannfærðust þýzk stjórnvöld um, að Evrópa gæti ekki lengur treyst á skilyrðislausan vilja Bandaríkjanna til varna, og fóru að taka undir málflutning Frakka, sem allt frá Charles de Gaulle, stofnanda 5. lýðveldis Frakka, hafa þann steininn klappað, að Evrópa yrði að vera sjálfri sér nóg á flestum sviðum og ekki sízt í varnarmálum.  Í þeim anda vinna nú Þjóðverjar, Frakkar og Spánverjar sameiginlega að þróun næstu kynslóðar orrustuflugvélar, sem ætlað er að veita þeim yfirburði í lofti.

Fyrir NATO er þessi klofningur grafalvarlegt mál, þar sem grundvallarregla þessa varnarbandalags er, að árás á eitt aðildarlandann verður í höfuðstöðvum þessa hernaðarbandalags skoðuð sem árás á öll aðildarlöndin og á bandalagið sjálft.  Bandaríkjamenn telja Þjóðverja stefna Evrópu í hættu með því að gera hana háða eldsneytisgasviðskiptum við Rússa.  Þjóðverjar hafa áreiðanlega unnið heimavinnuna sína og gert sínar áhættugreiningar.  Hafa ber í huga, að þessi gaskaup munu ekki standa til eilífðarnóns, heldur aðeins á meðan á orkuskiptunum (die Energiewende) stendur.

Frakkar eru hins vegar algerlega á móti Nord Stream 2, og þar krystallast munurinn á Þjóðverjum og Frökkum varðandi sjálfstæði gagnvart Bandaríkjunum.  Þjóðverjar láta verkin tala, en Frakkar tala mikið og oft fylgja ekki gerðir orðum.  Austur-Evrópa og Eystrasaltslöndin eru líka algerlega á móti Nord Stream 2, og þing Evrópusambandsins (ESB) ályktaði eftir handtöku og dómsuppkvaðningu yfir Alexei Navalny, rússneska stjórnarandstöðuleiðtogans, að stöðva skuli vinnu við þessa lögn, sem er 95 % tilbúin. Skellt var skollaeyrum við þeirri samþykkt.

Þjóðverjar sitja við sinn keip og neita að bregðast Rússum, enda sitja ýmsir þekktir Þjóðverjar í stjórn verkefnisins, og skal fyrstan frægan telja Gerhard Schröder, fyrrum kanzlara og formann SPD (Jafnaðarmannaflokksins). Forseti Sambandslýðveldisins, Walter Steinmeier, sósíaldemókrati, hefur opinberlega sagt, að Þjóðverjar hafi valdið Rússum miklu tjóni með því að rjúfa griðasáttmálann frá ágúst 1939 með "Operation Barbarossa" 1941 og beri nú að treysta þeim og efla við þá viðskiptin.  Í Bundestag er mikill meirihlutastuðningur við Nord Stream 2.   

Í Bandaríkjunum er nú til endurskoðunar, hverja beri að líta á sem trausta bandamenn í Evrópu.  Nú er talið, að Bretar muni verða valdir mikilvægustu og traustustu bandamenn Bandaríkjamanna í Evrópu og að myndaður verði möndullinn Washington-London, þótt forkólfar í Biden-stjórninni hafi ekki verið hrifnir af BREXIT. BREXIT er hins vegar afgreidd nú. Þrátt fyrir gildandi viðskiptabann ESB-BNA á Rússland og gagnkvæmt virðist vera jarðvegur fyrir myndun mönduls á milli Berlínar og Moskvu.  Það er stórpólitísk nýjung, sem sýnir í raun og veru miklu nánari og vinsamlegri samskipti Þýzkalands og Rússlands en flestir gerðu sér grein fyrir.  

Ástæðuna fyrir gashungri Þjóðverja má rekja til 2011, þegar Angela Merkel beitti sér fyrir því á þýzka þinginu í Berlín, að starfsemi þýzkra kjarnorkuvera yrði bönnuð frá árslokum 2022.  Jarðvegur fyrir þetta myndaðist eftir Fukushima-kjarnorkuslysið í Japan, en var mesta óráð og hefur valdið gríðarlegu umróti í orkumálum Þýzkalands og nú einnig hjá Svíum, sem urðu í vetur að loka einu kjarnorkuvera sinna vegna hertra öryggisreglna ESB.  Þetta gerðist á kuldaskeiði og olli gríðarlegri hækkun raforkuverðs í Svíþjóð vegna ójafnvægis á milli framboðs og eftirspurnar. Þess má geta, að árið 2011 var sænska orkufyrirtækið Vattenfall neytt til að loka 2 kjarnorkuverum sínum í Þýzkalandi.    

Sú leið, sem Þjóðverjar sjá vænsta til að forða sér frá orkuskorti, er að halda ótrauðir áfram með orkusamstarfið við Gazprom, hvað sem tautar og raular í Brüssel, París, Washington eða Varsjá. Þessi stefnufesta Þjóðverja er afrakstur "kalds mats" þeirra.  Bandaríkjamenn hafa boðizt til að sjá þeim fyrir jarðgasi, t.d. af leirbrotssvæðum sínum (fracking zones), sem þeir mundu flytja til þeirra yfir Atlantshafið á LNG-skipum (Liquid Natural Gas). Þetta gas er talsvert dýrara komið í þýzka höfn en rússneska gasið, og Þjóðverjar treysta því einfaldlega betur, að rússneska viðskiptasambandið haldi en það bandaríska.  Þjóðverjar vita sem er, að Rússa bráðvantar gjaldeyri, en Bandaríkjamenn hafa ekki mikla hagsmuni af slíkum gasútflutningi, þótt hann sé vissulega búbót.  E.t.v. mun Evrópa fá jarðgas bæði úr austri og vestri sem einhvers konar málamiðlun.  

Bandaríkin hafa bannfært fyrirtæki, sem eiga viðskipti við Nord Stream 2, og lokað fyrir viðskipti á þau.  Þetta hefur hrifið.  Svissneska sælagnafyrirtækið Allseas dró sig út úr samningum við Nord Stream 2, en þá hönnuðu og smíðuðu Rússar lagnaskipið Akademik Cherskiy. Það lagði fyrir rúmum 2 mánuðum úr höfn á þýzku eyjunni Rügen til að klára gaslögnina. 

Þingmaður Republikanaflokksins, Ted Cruz, hefur reyndar sagt, að 95 % kláruð lögn sé 0 % tilbúin, og Bandaríkjamenn eru teknir að beita talsverðum þrýstingi til að koma í veg fyrir það, sem að þeirra mati gerir Evrópu allt of háða Rússum.  Zürich Insurance endurtryggingafélagið og dönsk og norsk tryggingafélög hafa dregið sig út úr viðskiptum við Nord Stream 2 vegna þessa. 

Þjóðverjar beittu krók á móti bragði Bandaríkjamanna.  Fylkisstjórn Mecklenburg-Vorpommern, þar sem gaslögnin verður tekin í land, stofnaði félag með kEUR 2 stofnfé í því augnamiði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.  Nord Stream 2 hefur lagt MEUR 20 til þessa fyrirtækis og skuldbundið sig til að hækka framlagið í MEUR 60.  Þetta félag er leppur fyrir Nord Stream 2, og um það fara öll viðskipti vestrænna fyrirtækja við Nord Stream 2.  Þannig reyna þau að sneiða hjá refsiaðgerðum Bandaríkjamanna, sem annars mundu bíta illilega.  Er bæði hægt að éta kökuna og eiga hana áfram ?

Angela Merkel hefur samúð með Alexei Navalny, en hún er ekki tilbúin til að fórna pólitískri innistæðu Þjóðverja hjá Rússum fyrir Navalny eða Krím.  Valdhafar í stjórnmálum og á vinnumarkaði Þjóðverja styðja þessa stefnu, því að orkuhagsmunirnir eru ríkir, og rússneski markaðurinn getur tekið við miklu meiru af afurðum þýzks iðnaðar, ekki sízt bílaiðnaðarins, vélaiðnaðarins og efnaiðnaðarins.  Armin Laschet, arftaki Annegret Kramp Karrenbauer í formannsstóli CDU, flokks Angelu Merkel, er Rússavinur, þótt ekki sé hann persónulegur vinur Pútíns, eins og Gerhard Schröder, sem kveður Pútin vera "óaðfinnanlegan lýðræðissinna". Þetta er dæmigert oflof, sem Snorri Sturluson jafnaði við háð. 

Sagan hangir yfir okkur.  Einn pólskur ráðherra hefur líkt samstarfi Rússa og Þjóðverja um Nord Stream við hinn alræmda Mólotoff-Ribbentrop griðasamning á milli ríkisstjórnanna í Berlín og Moskvu í sumarið 1939.  Það er ósanngjarn samanburður, en sá neisti er í honum, að Þjóðverjar fórna nú hagsmunum Austur-Evrópu og treysta á stuðning Rússa í viðureigninni við Vesturveldin. Hér er um algeran vendipunkt að ræða í Evrópusögunni. 

Það er athyglisvert í þessu ljósi að virða fyrir sér bóluefnafarsann vegna C-19.  Þjóðverjar hallmæltu nýlega hinu brezk-sænska bóluefni frá AstraZeneca, og bönnuðu það fyrir 65 ára og eldri í Þýzkalandi.  Jafnframt hældu þeir Sputnik V og hafa falazt eftir samvinnu um það við Rússa.  Efnafræðilega eru þetta svipuð bóluefni, og virknin þar af leiðandi væntanlega keimlík. 

Nýleg skoðanakönnun í Þýzkalandi um afstöðu manna til Evrópusambandsins sýnir, að traust Þjóðverja til ESB undir forystu Þjóðverjans Úrsúlu von der Leyen hefur beðið hnekki.  "Der Zeitgeist" - tíðarandinn - er mjög mótdrægur Evrópusambandinu. Fyrir okkur Íslendinga er þessi þróun mála í Evrópu mjög lærdómsrík.  Til að tryggja hagsmuni okkar eigum við að rækta sambandið við allar þjóðirnar, sem hér koma við sögu, við Breta o.fl. og nýta fullveldisrétt okkar í hvívetna. Þannig mun oss bezt vegna.   

 

 


Evrópusambandið er á misskilningi reist

Forverar Evrópusambandsins (ESB), Kola- og stálbandalagið, og Evrópubandalagið, höfðu það hlutverk að brjóta niður viðskipta- og samskiptamúra vegna djúpra sára í kjölfar Heimsstyrjaldarinnar síðari.  Sú var bein afleiðing hefndarráðstafana Vesturveldanna í garð hins sigraða þýzka keisaradæmis, sem Þjóðverjar reyndar losuðu sig við strax í kjölfar uppgjafarinnar í nóvember 1918. 

Við lok Heimsstyrjaldarinnar síðari horfðu málin öðru vísi við, og Þjóðverjar voru þá teknir öðrum tökum, þótt einnig væru þau miskunnarlaus, því að landi þeirra var skipt upp, og þeir misstu mikil lönd til nágrannanna.  Bundeswehr var stofnaður á rústum Wehrmacht, því að um 1500 yfirmanna heraflans voru úr Wehrmacht, þar af um 1200 af austurvígstöðvunum.  Öllu skipti, að nýtt stjórnkerfi Vestur-Þýzkalands var reist á lýðræði og valddreifingu, og Þýzkaland er einn af máttarstólpum NATO og vestrænnar samvinnu. 

Allt tal um, að pólitískur samruni Evrópu sé nauðsynlegur til að treysta friðinn, er helber fásinna og til trafala eðlilegum og skilvirkum samskiptum þjóða. Þjóðverjar eru öflugasta akkeri friðsamlegrar samvinnu í Evrópu, en stjórnvöld ýmissa annarra þjóða hafa reynzt miklu gjarnari á að beita herjum sínum, og virðist hið miðstýrða Frakkland með marga litla Napóleóna eiga verulega bágt með sig í þessum efnum.  

Það er fráleit hugmynd, sem reynzt hefur vonlaus, að byggja miðstýrt, samevrópskt embættismannakerfi ofan á stjórnkerfi Evrópulandanna til að fara með sívaxandi völd um málefni aðildarlanda þessa ríkjasambands.  Öll meginverkefni þessa miðstýrða risa hafa misheppnazt, svo að nú er nóg komið af þessari tilraunastarfsemi Evrópuríkjanna, sem ekki er lengur hægt að taka alvarlega.  Æðsti strumpur utanríkismála ESB var á dögunum niðurlægður á blaðamannafundi með Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, í Moskvu með þeim ummælum utanríkisráðherrans, að Evrópusambandið væri óáreiðanlegur samstarfsaðili. 

ESB mistókst að stilla til friðar í bakgarði sínum á Balkanskaga, þegar Serbar ætluðu að knýja fram endursameiningu Júgóslavíu með vopnavaldi, og mörg grimmdarverk voru framin í nafni þjóðernishreinsana og trúarbragða.  Hreinn viðbjóður. Það voru að lokum  Bandaríkjamenn sem beittu flugher sínum og stilltu til friðar.  

Evran er misheppnuð að dómi margra hagfræðinga, og hefur mátt upplifa svo alvarlega kreppu, að við lá, að hún sundraðist. Evruna vantar sameiginlegan ríkissjóð sem bakjarl, en býr að evrubankanum, sem ranglega er kallaður Seðlabanki Evrópu.  Á yfirborðinu er hann sterkur, en í bankastjórn hans vegast á gjörólík viðhorf til peningamálastjórnunar, hið germanska og hið rómanska.  Stýrivextir bankans eru neikvæðir, og hann prentar peninga í gríð og ergi, en samt er hagvöxtur á svæðinu niðri við 0.  Þetta er langvarandi sjúkdómsástand, sem endar annaðhvort með miklu gengisfalli eða sundrun gjaldmiðilsins. 

Seinasta mistakahrinan er bóluefnaklúður Framkvæmdastjórnarinnar, sem hefur rúið hana trausti.  Öðrum þræði eru þetta átök við nýfrjálsa Breta.  Bræði Framkvæmdarstjórnarinnar stafar af því, að brezka stjórnin hefur staðið sig margfalt betur en Framkvæmdastjórnin við útvegun og dreifingu bóluefna.  Nú hefur myndazt samkeppnisaðili í Evrópu við Framkvæmdastjórnina.  London gjörsigraði Brüssel í þessari fyrstu lotu. Heyrzt hefur, að Framkvæmdastjórnin hugsi Bretum þegjandi þörfina og muni reyna að valda "City of London" tjóni, ekki með Messerschmitt sprengjuvélum, heldur með því að gera fjármálamiðstöðinni í London lífið leitt, en um hana var ekki samið í fríverzlunarsamninginum (BREXIT).

Morgunblaðið hefur gert þessu máli mjög góð skil.  Föstudaginn 5. febrúar 2021 birtist þar forystugrein, sem hét:

"Evrópusambandið, vandi Evrópu".

Hún hófst þannig:

"Yfirgengileg viðbrögð Evrópusambandsins (ESB) við bóluefnavandræðum þess í liðinni viku hafa orðið mörgum tilefni til umhugsunar um eðli sambandsins og þá sérstaklega yfirstjórnar þess.  Ofan á furðulegt andvaraleysi og seinagang í miðjum heimsfaraldri bættist ótrúlegt dómgreindarleysi og bráðlæti, sem hefur fellt bæði framkvæmdastjórn ESB, Ursulu von der Leyen, forseta hennar og Evrópusambandið sjálft í áliti um allan heim og innan sambandsins líka." 

Fyrri mistök stjórnenda ESB hafa verið á sviði fjármála og utanríkismála, en nú er komið að heilbrigðismálum, sem flestum standa nær og miklar tilfinningar eru við tengdar.  Kommissarar reyndust láta sér heilsu og líf fjölda manns í léttu rúmi liggja og sólunduðu dýrmætum tíma í kaupahéðnaþjark.  Þegar kom í ljós, að ESB varð aftarlega á merinni um framvindu bólusetninga og viðureign við farsóttina, þá kom í ljós algert virðingarleysi Evrópusambandsins fyrir lögum og rétti. Kom reyndar ekki öllum í opna skjöldu.  

Kaldlyndi framkvæmdastjórnarinnar gagnvart alþýðu manna hefur áður komið fram.  Skemmst er að minnast evrukreppunnar um 2012, þegar henni lá við falli.  Þá var frönskum og þýzkum bönkum bjargað, en alþýða Suður-Evrópu hneppt í skuldaviðjar.  ESB gerði sitt til að hneppa Íslendinga í skuldaviðjar með því að gerast meðflytjandi máls Breta og Hollendinga gegn Íslendingum í s.k. Icesave-málum 2011. 

Evrópusambandið hafði engin svör við flóttamannastrauminum frá Sýrlandi 2015, þegar Þjóðverjar tóku af skarið af miklu veglyndi sínu, sem endurspeglaðist í orðum Austur-þýzka efnafræðingsins á kanzlarastóli í Berlín: "Wir schaffen das".  Þjóðverjar eru hins vegar alls ekki búnir að bíta úr nálinni með þessa rúmu milljón flóttamanna, sem enn er eftir í landinu frá þessum tíma. 

Evrópuhambandið er nú komið á þann stað í tilverunni, að margir Evrópumenn spyrja sig, hvers vegna þeir sitji uppi með yfir 30 k blýantsnagara og baunateljara í Brüssel á skattfríum ofurlaunum.  Þessar afætur flækja aðeins málin fyrir íbúana og eru til trafala.  Næsta spurning verður, hvernig hægt verður að losna við þá.    

Uppi á Íslandi hafa nokkrar hryggðarmyndir í pólitík tekið trú á þetta vonlausa apparat "3. flokks möppudýra" í "Brüssel.  Það er allt í lagi, á meðan kjósendur geta skemmt sér við að virða þessi aflóga pólitísku dýr fyrir sér í dýragarðinum þeirra.  Kjósendur þurfa að gera sér grein fyrir, að Samfylking, Viðreisn og Píratahreyfingin hafa engin heilbrigð viðhorf fram að færa í stjórnmálum, en eru öll bundin á klafa "Evrópuhugsjónarinnar", sem nú er orðið útbrunnið skar, án þess að hryggðarmyndir íslenzkra stjórnmála hafi manndóm í sér til að viðurkenna, að trúin þeirra var villukenning falsspámanna án jarðsambands. 

Í forystugrein Morgunblaðsins var síðan hnykkt á því, hvað ESB raunverulega er:

"Bóluefnahneyksli ESB koma efasemdarmönnum um Evrópusamrunann ekki á óvart.  Þeir hafa um árabil varað við því, að Evrópusambandið sé martraðarkennt möppudýraveldi, vígi verndarstefnu og pilsfaldakapítalisma, þar sem sóun og stöðnun haldist í hendur, kjötkatlaklúbbur afdankaðra 3. flokks stjórnmálamanna, án lýðræðislegrar tilsjónar almennings álfunnar, sem fær að gjalda fyrir dýru verði. Það er ekki nýtt, en á síðustu vikum hafa afhjúpazt sönnunargögn fyrir öllu þessu."

Það er ótrúleg blindni og lágkúra fólgin í því að róa að því öllum árum að binda trúss Íslands á þessa aflóga truntu "kjötkatlaklúbb[s] afdankaðra 3. flokks stjórnmálamanna".  Íslenzkir kjósendur, sem stutt hafa þessi ósköp, hljóta nú margir hverjir að hafa fengið sig fullsadda á smjaðrinu fyrir þessu óþarfa og gagnslausa ríkjasambandi. 

"En hvað hafa Evrópusinnar til málanna að leggja um þetta ?  Hverjar eru varnir þeirra fyrir Evrópusambandið og þessi afleitu vinnubrögð og viðbrögð ?  Hvernig skýra þeir þessa vanhæfni, fautaskap og vanvirðu við alþjóðarétt ?" 

Þeir, sem enn vilja styðja stjórnmálaflokka, sem hafa það efst á blaði hjá sér, að dusta rykið af umsókn Íslands um aðild að ESB og reka sem fyrst endahnútinn á þann langþráða draum, standa nú í sömu sporum og félagar í sértrúarsöfnuði, þar sem upp hefur komizt um alvarlega siðferðisbresti trúarleiðtoganna, jafnvel glæpi.  Þeir harðsvíruðustu munu tína það til, að veikir einstaklingar hafi valizt til trúnaðarstarfa, en ekkert sé bogið við uppbyggingu safnaðarins og átrúnaðinn sjálfan.  ESB-sinnarnir hafa fullt leyfi til sinna skoðana og eru nú komnir í hóp faríseanna forðum, þegar þeir hrópa mærðarlega: Úrsúla, ég þakka þér, að ég er ekki eins og aðrir menn. 

Í blálok þessarar ágætu forystugreinar stóð þetta:

"Evrópuhugsjónin kann sumum að hafa virzt fögur í upphafi, en hún hefur snúizt upp í andhverfu sína, þar sem hin máttugu ríki ráða því, sem þau vilja, og núningurinn eykst, en vanhæfni og vanmáttur hinnar ólýðræðislegu valdastéttar í Brussel eru orðin að sérstökum vanda." 

Evrópuhugsjónin er dauð.  Hún varð eitt af mörgum fórnarlömbum farsóttarinnar C-19.  Það þýðir ekki að reyna að endurlífga hana, því að andi tímans (der Zeitgast) er henni ekki hliðhollur.  Eitt þessara "máttugu" ríkja taldi hag sínum betur borgið utan þessa ríkjasambands en innan, og gekk úr tollabandalaginu 01.01.2021, og nú fara viðskipti þess fram á grundvelli fríverzlunarsamnings, sem tók við af tollabandalaginu.  Lögsaga Íslands snertir nú hvergi lögsögu Evrópusambandsins, heldur Grænlands, Bretlands, Færeyja og Noregs.  Það er engin ástæða fyrir eyjarskeggja langt norður í Atlantshafi að leita inngöngu í meginlandsklúbb um viðskipti, landamæraleysi og alls konar viðskiptalega, fjármálalega og tæknilega skilmála, þar sem Frakkar og Þjóðverjar eru vanir að fara sínu fram.  Téðir eyjarskeggjar óska eftir að eiga viðskipti í allar áttir og kæra sig ekkert um takmarkanir eða jafnvel þvinganir af hálfu skrifræðisbákns ESB. 

Engu að síður eigum við að rækta alls konar menningarsambönd og viðskiptasambönd við aðildarlönd ESB, sérstaklega við Þjóðverja, sem sömuleiðis er annt um frá fornu fari að rækta sambandið á öllum sviðum við Íslendinga.  Upplag þjóðanna er svipað, tungur þeirra af sömu rót og þeim verður yfirleitt vel til vina.  Þjóðverjar hafa lengi átt viðskipti við Íslendinga, og Íslendingar studdu þá (Hamborgara í Hansasambandinu) í samkeppni og í bardögum við Englendinga og Dani á 16. öld.  Jón, biskup, Arason á Hólum vildi losa um völd Danakóngs yfir verzluninni og færa hana til Hamborgara.  Hann var í sambandi við Þýzkalandskeisara, Karl 5., sem var kaþólskur, og hefur sennilega átt erfitt með að veita hinum lútersku Hamborgurum þann stuðning, sem þurfti, og þess vegna náði Danakóngsi undirtökunum hérlendis, sem þróuðust yfir í einokunarverzlun Dana, mesta niðurlægingarskeið Íslandssögunnar.  Berlaymont sekkur

 


Er hagsmuna Íslands bezt gætt í Brüssel ?

Forsætisráðherra, heilbrigðisráðherra og Landlæknir eiga eftir að gera Alþingi og þjóðinni sómasamlega grein fyrir því, hvernig og á hvaða forsendum var komizt að því, að Evrópusambandið (ESB) væri betur í stakk búið en Íslendingar sjálfir að verða sér úti um bóluefni. Málsmeðferð og frammistaða framkvæmdastjórnar ESB við útvegun bóluefna við faraldrinum C-19 er orðin að hneyksli aldarinnar í Evrópu.  Öllum, nema íslenzka heilbrigðisráðherranum, er ljóst, að Íslendingar veðjuðu á rangan hest.

  Ísraelsmenn eru tiltölulega fámenn þjóð, um 8,8 M manns, en þeir gengu í það af forsjálni og krafti í tæka tíð að útvega sér bóluefni og hafa getað bólusett um fimmtánfalt fleiri landsmenn núna að tiltölu en Íslendingar. Fyrir mitt ár (2021) munu þeir fyrirsjáanlega ljúka verkinu, en hvað sem innantómum yfirlýsingum íslenzka heilbrigðisráðherrans líður nú á þorranum um "þorra íslenzku þjóðarinnar" bólusettan fyrir sumarið (2021) stefnir í, að það verði nær 15 %, ef ráðherrann á við sumardaginn fyrsta 2021.

Ef minnimáttarkenndin var að drepa íslenzku búrókratana, sem veittu ráðherranum ráðleggingar af sinni alkunnu víðsýni og djúpu baksviðsþekkingu, hvers vegna var þá ekki fremur leitað aðstoðar Breta, sem vitað var að búa við miklu skilvirkara stjórnkerfi en þunglamalegt samráðsferli og reiptog 27 ríkja í ESB með búrókrata í Brüssel, sem eru algerir viðvaningar í samningum um kaup á bóluefni ?  Sú reynsla og þekking er hjá hverju ríki um sig og hefur lengi verið. Dómgreindarleysið við stjórnvöl íslenzkra heilbrigðismála ríður ekki við einteyming. Mun heilbrigðisráðherra axla sín skín við sumarkomuna, þegar í ljós kemur, að yfirlýsingar hennar um framvindu bólusetninga reynast orðin tóm, eða mun Pfizer skera hana úr snörunni ? Þótt stjórnsýslan í Reykjavík sé ekki upp á marga fiska, er þó víst, að færsla stjórnsýslunnar alfarið til Brüssel jafngildir að fara úr öskunni í eldinn. 

 Klúður aldarinnar í Brüssel hvílir þyngst á herðum Úrsúlu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, en hún neitar að sæta ábyrgð og axla sín skinn.  Hún hefur jafnframt neitað að biðjast afsökunar á mistökum sínum, en hreytir út úr sér, að við lok embættistíðar sinnar eftir 3 ár verði hægt að dæma hana af verkum sínum. Þessi þýzka kona, fædd og uppalin í Belgíu, læknir að mennt,  er vel þekkt í Berlín, og ekki af glæstum ráðherraferli.  Þar á bæ hefur verið gefizt upp á henni, og er Berlín nú tekin að bera víurnar í Sputnik V í Moskvu.  Ungverjar o.fl. hafa þegar útvegað sér þetta rússneska bóluefni. Það mun vera svipaðrar gerðar og AstraZeneca bóluefnið.

Von der Leyen var landvarnaráðherra Sambandslýðveldisins áður en hún tók við forsetastarfinu af Juncker, sem þótti tiltakanlega rakur, jafnvel á lúxembúrgískan mælikvarða.  Þau fádæmi hafa nú gerzt, að hann ásamt aðalsamningamanni ESB í BREXIT-ferlinu, Barnier hinum franska, hafa gagnrýnt málatilbúnað framkvæmdastjórnarinnar í bóluefnamálum harðlega, en það keyrði um þverbak, þegar hún hótaði útflutningsbanni á bóluefni frá ESB, lét lögreglu storma inn í verksmiðju AstraZeneca í Belgíu og hótaði lokun landamæra Írlands og Norður-Írlands. Framkvæmdastjórn ESB er hrokkin af hjörunum.

Bundeswehr hefur aldrei frá stofnun verið í jafnlélegu ásigkomulagi og við brotthvarf Úrsúlu úr landvarnaráðuneytinu í Berlín.  Hún braut niður liðsanda hersins með því að banna honum að marsera (enginn gæsagangur) og syngja gamla þýzka hersöngva, hún reif niður myndir af þekktum stjórnmálamönnum Vestur-Þýzkalands í sínum Wehrmacht-búningi, t.d. mynd af Helmut Schmidt, fyrrverandi kanzlara, og gerði sér far um að rífa niður fornar hefðir hersins.  Hún bauð út varahlutahald Luftwaffe, og það endaði með, að framleiðendum var falið að sjá um varahlutahaldið.  Þegar til átti að taka, var lítið til og aðeins 4 orrustuþotur Luftwaffe bardagaklárar á einu skeiði, og enn færri kafbátar flotans (die Kriegsmarine). Hún neitaði Luftwaffe um að endurnýja flugflotann með því að kaupa nýjustu útgáfu F35 frá Bandaríkjunum, en samdi þess í stað við Frakka um þróun á nýjum orrustuvélum, sem taka mun allt að 20 árum að fá tilbúnar til þjónustu.  Yfirmaður Luftwaffe sagði af sér fyrir vikið. Læknirinn og 7 barna móðirin skildi eftir sig sviðna jörð í Berlín. Nú berast fregnir af því, að Luftwaffe fljúgi með hjálpargögn og heilbrigðisstarfsfólk til Portúgals til að létta umsátursástand heilbrigðiskerfisins þar af völdum kórónuveiru.  Þar er að verki Jens Spahn, heilbrigðisráðherra Þýzkalands, sem verður sennilega hægri hönd hins nýja kanzlaraefnis CDU/CSU, Laschet, ef sá síðar nefndi snýr á Bæjarann Söder, sem þykir hafa staðið sig vel í Kófinu.

Í Morgunblaðinu 2. febrúar 2021 birtist mögnuð forystugrein undir fyrirsögninni:

"Bóluefnastríð ESB".

Þar var drepið á ógæfu Framkvæmdastjórnarinnar og ekki skafið utan af því:

"Forysta og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins er skipuð 3. flokks möppudýrum, sem ekki voru kosin af neinum, og því er ekki heldur hægt að kjósa þau burt, sama hversu illa þau kunna að standa sig.  Flest eru þau raunar til Brussel komin einmitt vegna þess, að kjósendur í heimalöndum þeirra höfnuðu þeim, mörg með spillingarmál á bakinu eða höfðu sýnt af sér þvílíka vanhæfni og vanrækslu, að ekki þótti á það hættandi að hafa þau nærri valdataumunum heima fyrir. Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnarinnar, er fyrirtaksdæmi um þetta, en hún hrökklaðist til Brussel úr embætti varnarmálaráðherra Þýzkalands, eftir að hneykslismálin höfðu hrannazt upp og varnir landsins svo stórlaskaðar eftir, að gantazt var með, að mannkynssagan væri mun betri, hefði hún aðeins verið varnarmálaráðherra um 80 árum fyrr." 

Ef von der Leyen hefði verið varnarmálaráðherra rúmlega 80 árum fyrr, hefði Wehrmacht meira að segja mistekizt að reka Frakka út úr Rínarlöndum eftir Ólympíuleikana 1936, hvað þá að gjörsigra þá sumarið 1940, þrátt fyrir mun meiri sameiginlegan herafla og hergögn Breta og Frakka en Þjóðverja.  Bardagar urðu harðir, t.d. voru skotnar niður yfir 2000 flugvélar Bandamanna og yfir 1000 Luftwaffe-vélar.  

Nú er spurningin, hvort íslenzka stjórnkerfið, sem virðist bera lotningarfulla virðingu fyrir því, sem kallað er 3. flokks möppudýr í Brüssel, muni hér eftir hugsa sig um tvisvar áður en allt traust er sett á þennan risa á brauðfótum.  Íslenzka stjórnkerfið verður að hrista af sér slenið og fara að gera sér grein fyrir, hve hættulegt það er að reiða sig á Evrópusambandið, þegar miklir hagsmunir Íslands eru í húfi.  Það er jafnvel aðildarþjóðunum, hverri á fætur annarri, að verða ljóst. 

"Kröfur um, að von der leyen segi af sér, hafa orðið æ háværari um helgina [mánaðamótin jan-feb - innsk. BJo] og munu tæplega dofna nú í vikunni.  Þær eru réttmætar, en vandinn er djúpstæðari; hann felst í Evrópusambandinu sjálfu, lýðræðishalla þess, ábyrgðarleysi helztu stjórnenda og takmarkalausum valdaþorsta og vanhæfni Brusselbáknsins, sem birtist með augljósum og átakanlegum hætti í bóluefnismálunum.  Þar þurfa Íslendingar að leita annarra leiða."

Þetta er hverju orði sannara.  Úrsúla von der Leyen hefur neitað að biðjast afsökunar á dómgreindarleysi sínu, vanrækslu og síðar flumbruhætti framkvæmdastjórnarinnar. Hún er nú komin í felur, illar tungur segja ofan í neðanjarðarbyrgi (Bunker), en frá framkvæmdastjórninni kom, að aðeins Páfinn í Róm væri óskeikull.  Fyrr má nú vera.  Þau kunna ekki að skammast sín.  Þess vegna eru þau 3. flokks.  Frá von der Leyen heyrðist áður en hún hvarf ofan í bunkerinn, að hægt yrði að dæma feril hennar, þegar honum lyki, að þremur árum liðnum.  Það er því miður borin von, að von der Leyen batni.  Háfleygt tal og asnastrik eru hennar ferileinkenni. 

Til að rifja málið upp er rétt að hverfa til upphafs þessarar ágætu forystugreinar Morgunblaðsins:

"Það hefur verið með ólíkindum að fylgjast með bóluefnastríðinu undanfarna daga, sem náði hámarki á föstudaginn [29.01.2021 - innsk. BJo], þegar framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) setti útflutningsbann á bóluefni frá ríkjum sambandsins, að því er virðist í bræðiskasti yfir eigin vanhæfni og vanmætti við öflun bóluefnis við kórónaveirunni, sem leikið hefur álfuna svo grátt undanfarið ár." 

 Það var ekki nóg með, að framkvæmdastjórnin sóaði 3 mánuðum í fyrrasumar í þrefi við bóluefnafyrirtækin um verð og skaðabótaábyrgð, ef bóluefnin reyndust haldlaus eða skaðleg, heldur reyndi hún í vetur með óprúttnum aðferðum að troða sér fram fyrir þá forsjálu í röðinni, t.d. Breta, sem gengu frá samningum í júní 2020, þremur mánuðum á undan ESB.  Síðan reyndi hún að koma sök á viðsemjendur sína fyrir tafir; heimtaði bóluefni frá AstraZeneca á Bretlandi, sem framleiðir nú fyrir brezka markaðinn samkvæmt 8 mánaða gamalli pöntun, og réðist í húsrannsókn hjá bóluefnaframleiðanda í Belgíu til að kanna, hvort hann flytti út bóluefni (til Bretlands).  Síðan klykkti hún út með hótun um lokun landamæranna á Írlandi án samráðs við írsku ríkisstjórnirnar. 

Þetta sýnir, að virðing Framkvæmdastjórnarinnar fyrir lögum og rétti ristir grunnt, og hún er tilbúin til að ganga langt í þvingunarúrræðum, ef henni finnst stigið ofan á skottið á sér.  Þetta framferði hlýtur að vekja óhug hérlendis, eins og það hefur gert um allan hinn vestræna heim.  Brüsselvaldið hefur sett hrottalega niður, og það ríður ekki feitum hesti frá fyrstu viðureigninni við Breta eftir útgöngu þeirra úr þessu misheppnaða ríkjasambandi.  Eftir sem áður er innganga Íslands þangað enn efst á lista Samfylkingar, Viðreisnar og væntanlega pírata einnig. Það verður þó að gera þá kröfu, að núverandi stjórnvöld á Íslandi sjái að sér og hætti að líta á ESB sem traustan bakhjarl og láti ekki lengur aðildarumsókn rykfalla í skúffu í Berlaymont, heldur afturkalli og ógildi hana.  Eftir sem áður kappkostum við að efla samskiptin við þjóðríkin í Evrópu sem og annars staðar.  

"Framkvæmdastjórnin, í samráði við helzta aðildarríki ESB, tók af skarið og ákvað síðastliðið sumar að annast öflun og dreifingu bóluefnis í öllum aðildarríkjunum, að Evrópusambandið væri sérstaklega vel til þess fallið að taka að sér miðstýringu þessa stærsta og mikilvægasta verkefnis í Evrópu frá lokum seinni heimsstyrjaldar. Að það hefði fullkomna yfirsýn yfir vandann, nyti stærðar sinnar til þess að gera góð innkaup og kæmi í veg fyrir innbyrðis samkeppni Evrópuríkjanna." 

Það mátti vera ljóst hér uppi á Íslandi, eins og í Lundúnum, að skrifræðisbákninu í Brüssel undir stjórn misheppnaðs forseta framkvæmdastjórnarinnar yrði það um megn að gera skjóta og hagstæða samninga við bóluefnaframleiðendur.  Við þær aðstæður áttu heilbrigðisyfirvöld að virkja umboðsaðila lyfjafyrirtækjanna og kunnáttumenn á þessu sviði með sambönd í þessum geira til að semja um bóluefnaafhendingu fyrir landsmenn.  Einkaframtakið má ekki virkja að mati heilbrigðisráðherra, og nú situr hún og forsætisráðherrann uppi með klúðrið. 

 


Steinrunninn gúmmídvergur

Almannatengillinn Friðjón R. Friðjónsson er innanbúðarmaður í Sjálfstæðisflokkinum, þótt undarlegt sé m.v. fádæma ruglingslega Morgunblaðsgrein hans í lok janúar 2021, þar sem fram virtist koma djúpstæð óánægja hans með flokkinn.  Helzt er á téðum almannatengli að skilja, að hann vilji toga flokkinn í átt að Viðreisn.  Það er fádæma heimskuleg ráðlegging.  Þar með væri flokkurinn losaður af grundvelli sínum frá 1929, sem er að vinna stöðugt að sjálfstæði og fullveldi Íslands á öllum sviðum í krafti einstaklingsframtaks og frjálsra viðskipta.  Ef Sjálfstæðisflokkurinn færi nú að gera hosur sínar grænar fyrir Evrópusambandinu og evrunni, mundi hann daga uppi sem hvert annað viðundur, þegar einn okkar næstu nágranna, brezka þjóðin, hrósar nú happi yfir að hafa losnað úr klóm ESB í tæka tíð til að losna við klúður ESB í bóluefnamálum, sem kostar mörg mannslíf.

 5. þingmaður Reykvíkinga, Brynjar Níelsson, átti mjög gott svar við þessari gúmmígrein almannatengilsins með greininni:

 "Steintröllin"

í Morgunblaðinu 30. janúar 2021.  Greinin hófst þannig:

"Hinn ágæti sjálfstæðismaður, Friðjón R. Friðjónsson, skrifar grein í Morgunblaðið á fimmtudaginn var, þar sem hann lýsir nokkrum áhyggjum yfir stöðu Sjálfstæðisflokksins í nútímanum."

Almannatenglinum varð einmitt tíðrætt um, að flokkurinn væri ekki nógu nútímalegur, en hefur ekkert fram að færa annað en umbúðastjórnmál og froðukennt fimbulfamb. Það örlar ekki á heilli brú.  Það er þunnur þrettándi á leiksviði lífsins, en gengur kannski á leiksviði firringarinnar, þar sem allt er falt. 

Almannatenglinum mislíkar sennilega, að nokkrir sjálfstæðismenn hafa (fyrir rúmu ári) stofnað með sér félag til að vinna að framgangi mála innan Sjálfstæðisflokksins, sem miða að því að efla fullveldi landsins.  Það kann froðusnökkurum að þykja gamaldags pólitík.  Margir þessara félagsmanna komu við sögu baráttunnar gegn innleiðingu Orkupakka 3 (OP#3) frá Evrópusambandinu í íslenzka löggjöf. Þeir vildu ekki flokka afurð íslenzkra orkulinda, rafmagnið, sem hverja aðra vöru, sem vinnslufyrirtækin ættu að leitast við að selja á verði, sem gæfi þeim hámarkshagnað án tillits til þjóðarhags.  Þannig er OP#3, enda á hann rætur að rekja til allt annars orkuumhverfis en hér ríkir.   

Þvert á móti vildi fólkið í "Orkunni okkar"-OO, sem stóð í hugmyndafræðilegri baráttu við stjórnvöld um þetta, að raforkan yrði verðlögð m.v. lágmarksarðsemi á markaði að teknu tilliti til áhættu við fjárfestingu.  Hagfræðilegu rökin fyrir því eru að styrkja samkeppnisstöðu allra atvinnugreina, sem rafmagn nota, og hafa jákvæð áhrif á afkomu heimilanna.  Slíkt styrkir arðsemi allrar virðiskeðjunnar og heildararðsemin af auðlind íslenzkrar náttúru verður þar með miklu meiri en af dýru rafmagni.  Téður almannatengill var á fundi í Valhöll, þar sem þessu sjónarmiði OO var haldið á lofti og hlaut góðar undirtektir, en almannatenglinum var ekki skemmt. 

Sjálfstæðismenn sneru bökum saman við fólk af öðru pólitísku litarafti í afstöðunni til raforkusölu til útlanda um sæstreng.  Þetta sjónarmið hlaut í raun brautargengi á Alþingi með ýmsum varnöglum í löggjöf gegn samþykki yfirvalda á umsókn hingað um leyfi til lagningar aflsæstengs og tengingar hans við íslenzka raforkukerfið.

Það var rekinn talsverður áróður á Íslandi fyrir beinni raforkusölu til útlanda fyrir innleiðingu OP#3, og ýmsir hagsmunaaðilar, stórir og litlir, koma þar við sögu. OP#3 var talinn geta auðveldað slík viðskipti, enda aðalhlutverk hans að efla raforkuflutninga á milli landa. 

M.a. kom í ljós, að sæstrengsfyrirtæki á Englandi hafði mikinn hug á lagningu sæstrengs til Íslands og hafði í þjónustu sinni almannatengslafyrirtæki á Íslandi, væntanlega til að koma ár sinni fyrir borð.  Þegar einhver torskiljanlegur málflutningur er á ferðinni, liggur oft fiskur undir steini ("hidden agenda").

Verður nú gripið niður í ágæta grein Brynjars:

"Erfitt er að átta sig á, hvað Friðjóni gengur til, þegar hann gefur í skyn í greininni, að Sjálfstæðisflokkurinn sé á móti breytingum á efnahagslífinu, sjávarútveginum, landbúnaðarkerfinu, orkumálum, stjórnarskránni og samfélaginu sjálfu og flokkinn muni daga uppi og verða að steintrölli með sama áframhaldi.   Hefði ekki komið mér á óvart, að þessi grein hefði verið skrifuð í þingflokksherbergi Viðreisnar.  Friðjón notar alla sömu frasana, sem þaðan koma, án þess að segja nokkuð um, hverju eigi að breyta, og hvernig, eða af hverju.  En eitt er víst, að skrif hans endurspegla djúpstæða óánægju með forystu Sjálfstæðisflokksins."

Almannatenglar eru mjög uppteknir af ímyndinni, og hvernig hægt sé að breyta henni, til að hún höfði til sem flestra.  Þeir virðast halda, að stjórnmál snúist um umbúðir, upphrópanir og fyrirsagnir.  Ef stjórnmálaflokkur er ekki nógu nútímalegur, er nauðsynlegt, að þeirra mati, að "poppa upp" stefnumálin.  Þetta er hins vegar hreinræktað lýðskrum, sem er ekki traustvekjandi.  Stjórnmálaflokkur, sem hleypur á eftir slíkum dægurflugum, er ekki á vetur setjandi.

Brynjar telur málflutning almannatengilsins vera skyldan túðrinu í Viðreisn.  Hún er einmitt með aðra stefnu en Sjálfstæðisflokkurinn á þeim sviðum, sem Brynjar nefnir, þ.e. í sjávarútvegsmálum, landbúnaðarmálum og orkumálum.  Í sjávarútvegsmálum rekur hún dauðvona stefnu, sem allir, sem reynt hafa, hafa gefizt mjög fljótlega upp á, og eru Færeyingar nýlegt dæmi.  Hagur minni útgerðarfyrirtækja varð óbærilegur, og aflaheimildir söfnuðust á stórfyrirtækin, eins og fyrirsjáanlegt var.  Uppboðshald af þessu tagi virkar á fyrirtækin sem stóraukin skattheimta, sem grefur undan samkeppnishæfni og fjárfestingargetu.  Slíkur fíflagangur endar bara með bæjarútgerðum og ríkisafskiptum. 

Með veikan íslenzkan sjávarútveg verður auðveldara fyrir Viðreisn að semja um inngöngu Íslands í Evrópusambandið, sem krefst þess, að togaraflota ESB verði hleypt inn í íslenzka lögsögu.  Þá fer nú að þrengjast fyrir dyrum íslenzkra útgerða og íslenzks almennings.  Auðlindastjórnun af þessu tagi er nýnýlenduvæðing.  Nútímaleg ?  Kannski, en samt gamalt vín á nýjum belgjum.

Í landbúnaðarmálunum rekur Viðreisn bara stefnu Evrópusambandsins.  Ef hún yrði við lýði hér, yrði ekki lífvænlegt fyrir íslenzka bændur á jörðum sínum.  Gríðarleg nýsköpun fer nú fram í sveitum landsins, og framleiðniaukning bænda með tæknivæðingu búanna er aðdáunarverð. Gæði og hreinleiki afurðanna eru hvergi meiri. Landbúnaðurinn íslenzki er á réttri braut, og það verður að veita honum starfsfrið fyrir ágengni niðurgreiddrar framleiðslu risabúa Evrópu með þeim sýklavörnum, sem þarf að viðhafa í slíkum rekstri. 

Sennilega situr stefnumörkun síðasta Landsfundar Sjálfstæðisflokksins í orkumálum í almannatenglinum.  Alþingi afgreiddi Orkupakka 3 með varnöglum, sem sennilega sitja sem fleinn í holdi hans.  Það fá engir gróðapungar að tengja Ísland við erlend raforkukerfi og flytja út raforku héðan og flytja inn erlent raforkuverð að viðbættum gríðarlegum flutningskostnaði um aflsæstreng.  Brynjar skrifaði eftirfarandi ádrepu um orkumálin:

"Ómögulegt er að átta sig á, hvert Friðjón er að fara, þegar hann segir, að Sjálfstæðisflokkurinn sé á móti breytingum í orkumálum.  Við værum yfirhöfuð ekkert að tala um raforkumál, ef Sjálfstæðisflokkurinn væri ekki til.  Hann hefur nánast staðið einn fyrir því, að auðlindir séu nýttar til raforkuframleiðslu með skynsamlegum hætti og samhliða því að byggja upp öflugt og öruggt flutningskerfi raforku. 

Við værum ekki að tala um orkuskipti og græna framleiðslu, ef ekki væri fyrir framsýni sjálfstæðismanna.  Í því felst framtíðin, alveg óháð "nútímahyggju" Friðjóns."

Hér er Sjálfstæðisflokkinum hælt upp í hástert, en þeir, sem fylgdust með pólitíkinni, þegar tekizt var á um s.k. stóriðjustefnu á 7. áratugi 20. aldarinnar, vita, að Brynjar fer með rétt mál.  Að vísu skal ekki draga úr því, að Alþýðuflokkurinn var ódeigur í baráttunni við hlið Sjálfstæðisflokksins í Viðreisnarstjórninni gegn Framsóknarflokki og Alþýðubandalagi.  Stóriðjustefnan, sem kenna má við dr Bjarna Benediktsson, forsætisráðherra, dr Gylfa Þ. Gíslason, formann Alþýðuflokksins, og dr Jóhannes Nordal, Seðlabankastjóra, snerist um að virkja stórfljót og framleiða rafmagn með eins hagkvæmum hætti og unnt væri til orkukræfra verksmiðja, sem sköpuðu þjóðinni gjaldeyri og stóðu í raun undir uppbyggingu raforkukerfisins. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar, en eftir stendur, að stefna þessi reyndist farsæl og efldi hag þjóðarinnar gríðarlega.    

 Á illa saman

 

 h_my_pictures_falkinn

 

 


ESA sækir á

ESA (eftirlitsstofnun EFTA) gegnir hlutverki framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB) í EFTA-stoð EES-samningsins.  ESA sendir iðulega athugasemdir til íslenzku ríkisstjórnarinnar út af framkvæmd EES-samningsins, sem hér tók gildi 1. janúar 1994. Tvö afdrifaríkustu málin, sem nú eru á döfinni, eru í fyrsta lagi athugasemdir við dómsuppkvaðningar hér, þar sem ekki er sagt gætt að kafla 3 í EES-samninginum ásamt bókun 35 við samninginn. Samkvæmt þessum ákvæðum víkur landsréttur fyrir Evrópurétti. Dómstólar geta ekki tekið mark á því, þar eð Stjórnarskráin bannar þeim það, góðu heilli. Nú stendur upp á ríkisstjórnina að andmæla.  Hún hefur þar íslenzku stjórnarskrána að halda sig við, en slíkt framsal löggjafarvalds er með öllu óheimilt þar, enda allsendis ólýðræðislegt.  

Hitt málið fjallar um reglur um úthlutun nýtingarréttar á ríkislandi og auðlindum þar, t.d. vatnsréttindum.  Árið 2017 framdi ríkisstjórn Íslands það axarskapt að fallast á allar kröfur ESA í þessum efnum.  Þær snerust um, að ríkið yrði að gæta jafnræðis við úthlutun slíkra réttinda og viðhafa aðferð, sem tryggir markaðsverð fyrir nýtingarréttinn.  Að öllum líkindum er ekki  hægt að verða við þessum kröfum ESA öðru vísi en að bjóða nýtingarrétt orkulindanna út á Innri markaði EES, enda væri það í samræmi við kröfur framkvæmdastjórnar ESB á hendur 8 vatnsorkulöndum í ESB.  Sjá þá allir, að  erlendir hagsmunaaðilar í orkugeiranum, loðnir um lófana, geta hér neytt aflsmunar og tryggt sér þessi réttindi.  Þar með er arður erfðasilfurs Íslendinga kominn í annarra hendur.  Að þáverandi utanríkisráðherra, Lilja D. Alfreðsdóttir, og forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhansson, skyldu ljá máls á þessu, er óskiljanlegt, enda liggur viðkomandi lagafrumvarp nú á ísi, en af framandlegri ástæðu og ekki á grundvelli innlendrar greiningarvinnu. 

Fari málið um forgang Evrópuréttar fyrir EFTA-dómstólinn, sem er líklegt, verður Ísland í erfiðri stöðu, því að hin EFTA-ríkin í EES-samstarfinu, Noregur og Liechtenstein, hafa viðurkennt þennan forgang í lögum sínum. EES-samningurinn var innleiddur í norskan rétt með s.k. EES-löggjöf, og voru Norðmenn á undan Íslendingum með þennan verknað.  Þar var í gr. 2 svofellt ákvæði um forgang ESB-löggjafarinnar samþykkt af Stórþinginu:

"Bestemmelser i lov, som tjener til å oppfylle Norges forpligtelser etter avtalen, skal i tilfelle konflikt gå foran andre bestemmelser, som regulerer samme forhold.  Tilsvarende gjelder, dersom en forskrift, som tjener til å oppfylle Norges forpligtelser etter avtalen, er i konflikt med en annen forskrift, eller kommer i konflikt med en senere lov."

Lagaákvæði af þessu tagi hefur Alþingi ekki samþykkt, enda bryti slíkt gegn ákvæðum stjórnarskráar Íslands, t.d. gr. 2 og 21.  Ákvæði keimlíkt hinu norska felur í sér framsal löggjafarvalds til ríkjasambands, sem Ísland á ekki aðild að, fótumtreður lýðræðislega stjórnskipun og kemur af þessum sökum ekki til mála hérlendis. 

Á Íslandi bjuggum við við þá stjórnskipun frá 930-1264, að goðarnir sammæltust um lagasetninguna, oft að höfðu samráði við hina gildari bændur, sbr viðkvæðið: "hvað segja bændur", en þaðan í frá og fram að Heimastjórn máttum við búa við lagasetningu, sem meira eða minna kom frá erlendum embættismönnum, og ekki losnuðum við við staðfestingu konungs á lögum fyrr en með nýrri stjórnarskrá og lýðveldisstofnun á Þingvöllum 1944.  Það er þess vegna alger öfugþróun nú, ef Alþingismenn ætla að innleiða aftur það óeðlilega og ólýðræðislega fyrirkomulag, algerlega að þarflausu, að erlendir embættismenn, í þetta skipti niðri á meginlandi Evrópu, semji fyrir oss lög, sem Alþingi er svo ætlað að stimpla inn í íslenzka lagasafnið.

Morgunblaðið birti 5. október 2020 frétt undir fyrirsögninni:

"ESA sendir Íslandi lokaviðvörun":

 

"Sigríður Á. Andersen, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, sagði í samtali við blaðið, að mál þetta hefði áður komið til umræðu, þó ekki hefði fengið sérstaka athygli.  

"Það er enginn vafi í mínum huga, að erlend löggjöf gengur ekki framar íslenzkri löggjöf.  Eitthvert álit frá ESA breytir engu þar um."

Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, tók í sama streng.  "Mér finnst það blasa við, að kröfugerð ESA samrýmist mjög illa íslenzkri stjórnskipan.  Því þurfa íslenzk stjórnvöld að koma skýrt á framfæri."

Hér er úr vöndu að ráða, því [að] í bókun 35 með EES-samningnum er sagt, að á Evrópska efnahagssvæðinu eigi að gilda sameiginlegar reglur án þess þó að samningsaðila sé gert að framselja löggjafarvald til stofnana þess og að þeim markmiðum skuli náð með málsmeðferð hvers lands um sig.  Á hinn bóginn er þar einnig sagt, að komi til árekstra á milli EES-reglna og annarra settra laga, skuldbindi EFTA-ríkin sig til að setja, ef þörf krefur, lagaákvæði um, að EES-reglur gildi."

Það er einmitt þetta, sem hefur gerzt og ESA kvartaði yfir, að Hæstiréttur Íslands hefur vikið ESB-rétti til hliðar og tekið íslenzkan rétt framyfir í dómsmálum, og þar með fylgdi hann ákvæðum Stjórnarskráarinnar.  Það sjá allir, að setji Alþingi lög um hið mótsetta, þá er verið að flytja löggjafarvaldið aftur út úr landinu, og við það verður ekki unað, hvað sem tautar og raular í Brüssel eða í hópi innlendra undanhaldsmanna.  

Þann 6. október 2020 birtist viðtal við Ólaf Ísleifsson í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:

Forsenda EES var óskert fullveldi.

"Það er fráleitt að gera sér í hugarlund, að [EFTA] dómstóllinn myndi krefjast þess af aðildarríki samningsins [EES], fullvalda ríki, að það grípi til aðgerða, sem ganga gegn stjórnarskránni, nú eða breyti stjórnarskrá sinni."

Að öðru jöfnu væri þetta rétt, en EES-samningurinn er enginn venjulegur samningur.  Með honum eru Íslendingar komnir með aðra löppina inn í ríkjasambandið ESB, þar sem grundvallaratriði þykir, að á þeim sviðum, þar sem stjórnarskrárígildi þess, Lissabon-sáttmálinn, veitir því lögsögu og forræði mála, þar skuli lög þess og reglur gilda ótvírætt.  Í þessu sambandi leggur ESB allan landsrétt að jöfnu, og grundvallarlög aðildarríkja verða að víkja fyrir lögum ESB og lagatúlkunum ESB-dómstólsins. 

Þetta var áréttað í vor, þegar "Rauðhempurnar", stjórnlagadómarar í Karlsruhe, kváðu upp þann dóm, að ESB væri ekki sambandsríki, heldur ríkjasamband, og þess vegna væru stjórnlög Þýzkalands æðri lagasetningu ESB-þingsins.  Þessari túlkun hafnaði ESB-dómstóllinn daginn eftir eða svo, og forseti framkvæmdastjórnar ESB, Ursula von der Leyen, fyrrverandi varnarmálaráðherra Þýzkalands, áréttaði skömmu síðar, að þannig yrði það að vera, því að annars mundi ESB fljótlega liðast í sundur.  Þarna hafa dómarar EFTA-dómstólsins línuna.  Hið alvarlega fyrir Íslendinga er, að innlendum dómstólum ber að fylgja fordæmi EFTA-dómstólsins samkvæmt EES-samninginum.  Hvað gera bændur þá ?

""Það hlyti að vera mikið umhugsunarefni fyrir slíkan dómstól, ef hann ætlaði að fara að efna til stjórnskipulegs ágreinings við aðildarríki.  Slíkt væri ekki aðeins ögrun við það ríki, heldur öll önnur ríki í því samstarfi", segir Ólafur og bætir við: "Ef Evrópustofnanir vilja grafa undan trausti á því alþjóðlega samstarfi, sem Evrópska efnahagssvæðið er, þá þyrftu þær nú að hugsa sig um tvisvar.""

Allt er þetta satt og rétt hjá Ólafi, svo langt sem það nær.  Trúnaður og skyldur dómara við EFTA-dómstólinn eru hins vegar hvorki við almenn lög né stjórnlög EFTA-ríkjanna, heldur við Evrópurétt, og þeir fylgja jafnan fordæmi ESB-dómstólsins.  Það er þess vegna borin von, að dómsuppkvaðning EFTA-dómstólsins, fari þetta mál fyrir hann, verði Íslendingum í vil. 

 "Ólafur bendir á, að þessar áhyggjur séu ekki nýjar af nálinni.  "Þessi mál voru rædd í kringum þriðja orkupakkann í fyrra.  Þá var margítrekað af hálfu þeirra, sem báru ábyrgð á aðildinni að EES [sennilega er átt við Davíð Oddsson og Jón B. Hannibalsson-innsk. BJo], að það væri alger forsenda aðildar okkar að þeim samningi, að Ísland hefði neitunarvald varðandi þætti, sem snertu fullveldi þjóðarinnar.""

Það er væntanlega svo, að í Sameiginlegu EES-nefndinni hefur Ísland vettvang til að leita eftir undanþágum við lög ESB með traustum rökstuðningi. Þessi vettvangur var hins vegar aldrei nýttur að neinu ráði við umfjöllun neins af fyrstu orkupökkunum þremur. Ísland var í góðri stöðu til að leita eftir allsherjar undanþágu frá orkulöggjöf ESB, en íslenzk stjórnvöld höfðu aldrei hug á því.  Nú er að sjá, hvað gerist með OP#4. 

Forgangsmál löggjafar er hins vegar allt annars eðlis, og meitlað í 3. kafla EES-samningsins, sem Ísland hefur aldrei gert neina athugasemd við.  Það er þess vegna mjög vandræðalegt að setja sig upp á afturfæturnar núna, en betra er seint en aldrei, segir máltækið.  

Hvernig ætli tónninn sé í undanhaldsmönnum á Alþingi núna ?  Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, er þar framarlega í flokki, og eftir honum var þetta haft í sömu frétt:

"En það má spyrja, hvort við verðum ekki, fyrr eða síðar, að fá skýrt framsalsákvæði í stjórnarskrá, sem breið samstaða er um.  Þannig að það liggi fyrir, hvað má og hvað ekki í alþjóðasamstarfi, sem mér sýnist nú, að verði sífellt nauðsynlegra til þess að ná skikki á hlutina í mannheimum."

Logi er eins og álfur út úr hól, þegar hann óskar þess, að breið samstaða geti orðið á Íslandi um að flytja löggjafarvald og dómsvald aftur til útlanda, en um það mundu þær stjórnarskrárbreytingar fjalla, sem hann óskar sér.  Það verður vonandi bið á því, að óskir hans rætist í þeim efnum.

Friðrik Daníelsson og Sigurbjörn Svavarsson í "Frjálsu landi" rituðu grein í Morgunblaðið 13. október 2020  með fyrirsögn, sem ekki er víst, að öll ríkisstjórnin rísi undir:

"Ríkisstjórnin snýst til varnar sjálfstæðinu".

Þar er ofangreint ESA-mál til umfjöllunar, en einnig annað ESA-mál, sem fjallað hefur verið um í a.m.k. tveimur pistlum hér á vefsetrinu.  Það fjallar um þá kröfu ESA, að úthluta skuli afnotarétti af landi í eigu ríkisins ásamt þeim auðlindum, t.d. vatnsréttindum, sem þar er að finna, á markaðsverði til tímalengdar, sem dugi einkafyrirtækjum til ávöxtunar fjármunanna, sem til greiðslu fyrir nýtingarréttinn fara.  Þetta markaðsverð á Innri markaðinum fæst varla, nema með útboði á honum þar, og þá þarf ekki að spyrja að leikslokum.  Íslenzkir aðilar munu verða undir í þeirri samkeppni, og eitthvert orkufyrirtæki á Evrópska efnahagssvæðinu mun hreppa hnossið.  Hvernig halda menn, að fari þá með raforkuverðið ?

Við erum þá komin í stöðu vanþróaðra ríkja, sem misst hafa ráðstöfunarrétt náttúruauðlinda sinna úr höndum sér.  Sama mun gerast, ef Ísland gengur alla leið í ESB og fylgt verður stefnu Viðreisnar um uppboð veiðiréttinda í íslenzkri lögsögu á Innri markaði EES. 

 Þetta mál er lengra komið en hið fyrra, því að ESA er fyrir sitt leyti búin að ljúka því.  Hvers vegna ?  Vegna þess að ríkisstjórn Íslands samþykkti 2017 í forsætisráðherratíð Sigurðar Inga og utanríkisráðherratíð Lilju Daggar að verða við öllum kröfum ESA. Það hefur hins vegar ekki gengið eftir. Núverandi ríkisstjórn lét semja frumvarp til laga til að þóknast ESA, en hún hefur nú lagt það á ís.  Hvers vegna ?  Jú, hún frétti af því, að norska ríkisstjórnin hefði fyrir sitt leyti hafnað sams konar kröfu ESA í garð Norðmanna á þeim forsendum, að ESA kæmi það ekki við, það væri utan valdsviðs ESA að skipta sér af því, hvernig EFTA-ríkin ráðstöfuðu orkulindum sínum. 

Allt er þetta íslenzkri stjórnsýslu og þeim stjórnmálamönnum, sem við hana eru riðnir, til fullkominnar háðungar.  Að íslenzk stjórnvöld skyldu ekki hafa manndóm í sér til að snúast til varnar, eins og Norðmenn, þegar um grundvallarhagsmunamál, eins og úthlutun nýtingarréttar á orkulindum, er að ræða, þýðir, að við höfum enga burði til að standa í krefjandi fjölþjóðlegu samstarfi, eins og EES-samningurinn snýst um.  Grundvallarviðhorfsbreyting til þessa samstarfs þarf að eiga sér stað.  Það hefði ekki verið vitlaust í byrjun að leita í smiðju til Norðmanna, sem eiga sams konar orkuhagsmuna að gæta, til að kanna grundvöll sameiginlegrar afstöðu.  Slíkt dettur tréhestum og undanhaldssinnum ekki til hugar.

Nú verður vitnað í grein Friðriks og Sigurbjörns:

"Frjálst land spurði ríkisstjórnina (26.2.2020), hvort meiningin væri að veita fjárfestum ESB aðgang að íslenzkum orkulindum í framhaldi af "rökstuddu áliti" ESA um, að Ísland virti ekki ákvæði EES um jafnræði íslenzkra og ESB-fjárfesta við útboð virkjunarréttinda.  

Ríkisstjórnin svaraði (2.4.2020), að frumvarp, sem lagt hafði verið fram um málið, hefði verið dregið til baka.       

"Komið hafi upp rökstuddar efasemdir um, að þjónustutilskipunin (nr 123/2006, sem ESA vísaði m.a. til, eigi við um raforkuframleiðslu.  Íslenzk stjórnvöld hafa því ákveðið að fresta fyrirhuguðum lagabreytingum uns betri vissa er fengin fyrir því, hvaða þjóðréttarlegu skuldbindingar hvíla á íslenzka ríkinu að þessu leyti", segir í tilkynningu ríkisstjórnarinnar."

Þetta er aumkvunarvert yfirklór hjá ríkisstjórninni.  Norska ríkisstjórnin lét í ljósi þá skoðun sína við kynningu, sem EFTA-ríkin í EES fengu á þessari þjónustutilskipun, áður en hún gekk í gildi, að tilskipunin gæti ekki spannað nein málefni orkulinda Noregs.  Íslenzku ríkisstjórninni mátti vera þetta ljóst, þannig að afstaða norsku ríkisstjórnarinnar í júní 2019 var ekkert nýnæmi, enda var þar vitnað í upphaflegu bókun Noregs um málið.  Eru íslenzk stjórnvöld algerlega úti á þekju í þessu EES-samstarfi ? 

Aldrei var minnzt á þessi rök í bréfum íslenzku ríkisstjórnarinnar til ESA út af málinu, enda lagði ESA höfuðáherzluna á, að samkeppnisreglur Evrópuréttarins væru brotnar.  Nú vaknar spurningin: var þáverandi ríkisstjórn fús til þess að fórna erfðasilfri Íslendinga í hendur erlendu "auðvaldi", af því að þjóðréttarlegar skyldur hvíldu á Íslandi til þess ?  Hvers konar "eymingjaháttur" viðgengst eiginlega í utanríkisráðuneyti Íslands ?  Hverju mundi það breyta fyrir almenning á Íslandi að leggja þetta utanríkisráðuneyti niður og fela utanríkisráðuneyti Noregs verkefni þess í verktöku ?

 

 

 


Tveggja stoða kerfi EES er á undanhaldi

Nú stendur yfir stjórnmálabarátta í Noregi um innleiðingu 4. járnbrautapakka ESB í norska löggjöf.  Þar er um að ræða bæði efnislegan grundvallarágreining og ágreining við norsku ríkisstjórnina og ESB um mál, sem var forsenda þess, að Íslendingar og Norðmenn féllust á að samþykkja EES-samninginn á sinni tíð.  Verður nú gerð grein fyrir þessum sjónarmiðum, því að þau eru áhugaverð fyrir Íslendinga, sem velta fyrir sér þróun sambandsins á milli EFTA og ESB.

Járnbrautarpakki 4 er lokahnykkur ESB í einkavæðingarferli járnbrautanna á Innri markaði EES. Með honum verður einkaréttur fyrirtækja, oftast í eigu ríkisins, á rekstri járnbrauta í hverju EES-landi afnuminn.  Íslendingar fengu undanþágu af skiljanlegum ástæðum.  Einkaréttur verður þó áfram á járnbrautarteinunum, og er þetta hliðstætt fyrirkomulag og í orkugeiranum, þar sem flutningskerfin njóta einkaréttar, sbr Landsnet hér, en þetta á líka við um eldsneytisgaslagnir. 

Síðan verður öllum með leyfi til járnbrautarrekstrar á Innri markaðinum hleypt á teinana, hvar sem er í EES, og skal frjáls samkeppni ríkja um viðskiptavinina.  Þetta fyrirkomulag leggst illa í marga Norðmenn, sem vilja halda í einkarétt NSB (Norges statsbaner), og kæra sig ekki um samkeppni frá SJ (Sveriges Järnvägar) eða DB (Deutsche Bundesbahn), svo að aðeins 2 dæmi séu tekin.  Er óvíst, hver úrslit þessa máls verða í Stórþinginu, og velta þau á Framfaraflokkinum, sem yfirgaf ríkisstjórnina í fyrra.

Þessi hlið málsins varðar okkur Íslendinga litlu.  Það er aðferðarfræðin við innleiðinguna, sem er áhyggjuefnið, þótt hún sé ekki einsdæmi.  ESB heimtar einnar stoðar fyrirkomulag við innleiðinguna í EFTA-löndunum, Noregi og Liechtenstein, og stjórnvöld í Noregi virðast hafa fallizt á þá kröfu ESB.  Það þýðir, að Tveggja stoða fyrirkomulagið með ESA sem stjórnvald á EFTA-hlið og EFTA-dómstólinn sem dómsvald, verður ekki haft í heiðri, heldur á að leggja járnbrautarmálefni Noregs beint undir járnbrautarstofnun ESB, ERA, og ESB-dómstólinn. 

Nú hafa norsk stjórnvöld leitað samþykkis íslenzkra stjórnvalda og stjórnvalda í Liechtenstein á þessu fyrirkomulagi, m.a. með yfirlýsingu, sem norsk stjórnvöld hafa sent þeim íslenzku til undirritunar.  Þetta skjal er enn ekki opinbert í Noregi, en spurning er, hvort þetta pukur með mikilvægt EES-mál nær einnig til Íslands.  Hvað stendur í þessu skjali ?  Þýðir undirritun þess, að hinu margdásamaða Tveggja stoða kerfi EES verði kastað fyrir róða, eins og ESB kýs ?

Það er grafalvarlegt, ef íslenzk stjórnvöld undirrita þessa yfirlýsingu, því að þar með varða þau veginn fyrir þá kúvendingu í anda ESB í samskiptum EFTA-landanna (utan Svisslands), að Tveggja stoða fyrirkomulaginu verði kastað fyrir róða.  Þar með hrynur ein meginstoðin undan aðild Íslands að EES.  Ríkisstjórnin ætti að hafna þeirri málaleitan Norðmanna að skrifa undir þessa yfirlýsingu án undanfarandi aðkomu Alþingis, og lýðræðislegast væri þá að opinbera þetta skjal, og að umræðan um það fari fram fyrir opnum tjöldum, en ekki einvörðungu á lokuðum nefndafundum Alþingis. 

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur viðhaft mjög eindregin ummæli á Alþingi á þessu kjörtímabili um, að Tveggja stoða kerfið sé grundvallaratriði fyrir aðild Íslands að EES, og utanríkisráðherra hefur tekið í sama streng.  Hann sagði t.d. efnislega á fundi í EES-ráðinu 2018: 

Ég vil gjarna endurtaka áhyggjur okkar um þróun Tveggja stoða fyrirkomulags EES-samningsins.  Það verður stöðugt erfiðara, þegar löggjöf ESB, sem felur í sér valdaframsal, er felld inn í EES-samninginn, að finna lausnir, sem taka tillit til Tveggja stoða fyrirkomulags samningsins. 

Þessi orð kunna að hafa fallið í tilefni af kröfum ESB um fyrirkomulag innleiðingar lagabálks um fjármálastarfsemi og eftirlit með henni og í tilefni persónuverndarlöggjafar ESB, en persónuverndarstofnunin á Íslandi fellur beint undir Persónuverndarstofnun ESB.  

Þetta fyrirkomulag, Einnar stoðar kerfið, hefur alltaf vakið upp tortryggni á Íslandi í garð ESB, sem sýnir þess augljós merki að telja EES-samninginn of þunglamalegan og jafnvel úreltan og vilji auka einsleitnina á Innri markaðinum jafnvel með afnámi ESA og EFTA-dómstólsins.  Þar með yrði staða EFTA-landanna gjörómöguleg og EES-samningurinn fallinn um sjálfan sig.  

 

 

 


Hvernig á að mæla árangur ?

Forsætisráðherra heldur því fram, að árangur hafi náðst af aðgerðum þeim, sem hún fór í fylkingarbrjósti fyrir, að teknar yrðu upp á landamærunum og kynnti með brauki og bramli 14. ágúst 2020 og tóku gildi 19. ágúst 2020.

Þá (14.08.2020) var fjöldi COVID-19 sjúklinga 112, þar af 1 á sjúkrahúsi og enginn í gjörgæzlu.  Nýgengi innanlands var NGi=21,0 og á landamærum NGl=5,5 eða alls NG=26,5.  Þann 1. september 2020 eða 13 dögum síðar var fjöldi sjúklinga 99 og enginn á sjúkrahúsi.  NGi=16,9 og NGl=8,2 eða alls NG=25,1.  Þetta er í rétta átt, en það er hæpið að halda því fram, að batinn stafi af tvöföldun skimana og sóttkví komufarþega.  Þær aðgerðir eru aftur á móti dýrar í framkvæmd og hafa valdið íslenzka þjóðarbúinu gríðarlegu tekjutapi, sett mörg fyrirtæki í mikinn rekstrarvanda og svipt fjölda manns atvinnu sinni.  Ef reynt er að leggja mat á kostnað og sparnað aðgerðanna, kemur í ljós, að hlutfall gjaldeyristaps vegna fækkunar ferðamanna og sparnaðar af völdum færri COVID-19 sýkinga er 30-40.  Af þessu má draga þá ályktun, að hrapað var að þessari ákvörðun með hrapallegum afleiðingum fyrir hag þjóðarbúsins.  Forsætisráðherra og heilbrigðisráðherra bera hina stjórnmálalegu ábyrgð, þótt ríkisstjórnin öll hafi dregizt með. 

Nú hefur fjármála- og efnahagsráðherra skipað starfshóp, sem á að reyna að koma vitinu fyrir stjórnendur landsins við framtíðar ákvarðanatökur í sóttvarnarmálum. Sóttvarnarmál eru efnahagsmál, því að allar sóttvarnaraðgerðir eru samfélaginu dýrar og sumar þungbærar.  Hlutverk stjórnvalda er ekki að velja á hverjum tíma, það sem Sóttvarnarlæknir telur vænlegast til árangurs, heldur að lágmarka samfélagslegt tjón af faraldrinum, sem við er að etja.  Það er nóg af tölulegum gögnum fyrir hendi til að unnt sé að gera þetta af skynsamlegu viti.  Það er búið að valda þjóðfélaginu allt of miklu tjóni með rangri aðferðarfræði og þröngsýnu sjónarhorni í andrúmslofti óttans.  Nú er mál að linni.

Hörður Ægisson sá, hvað verða vildi, og ritaði strax 21. ágúst 2020 gagnmerka forystugrein í Fréttablaðið undir heiti, sem lýsir skoðun hans á þeim, sem fóru fyrir þessari ákvörðun:

"Farið á taugum".

Hún hófst þannig:

"Það hefur orðið óskiljanleg kúvending í stefnu stjórnvalda.  Fyrr í sumar, eftir að ákveðið var að taka það sjálfsagða skref að liðka fyrir frjálsri för fólks til og frá landinu og reyndist afar vel, var ráðizt í fjárfestingar, svo [að] mögulegt væri að auka skimunargetuna á landamærunum í 5 þúsund manns. Flestir stóðu í þeirri trú, að það væri gert til að halda áfram á sömu braut. Hægt yrði að halda landamærunum opnum með varúðarráðstöfunum, þannig að ferðafrelsið - sem telja má til mikilvægra mannréttinda í opnu, frjálsu lýðræðisríki - væri ekki skert, og ferðaþjónustan gæti aflað þjóðarbúinu gjaldeyristekna.  Þetta reyndist allt vera misskilningur."

 Ísland er nú með mest íþyngjandi sóttvarnir á landamærum sínum, sem þekkjast innan Schengen, e.t.v. þó að Noregi undanskildum.  Þetta var þó ekki lagt til af Sóttvarnarlækni að þessu sinni, heldur tók hann það fram, að þetta væri öflugasta sóttvarnaraðgerðin á meðal þeirra 9 valkosta, sem hann tíndi til og afhenti heilbrigðisráðherra.  Engu að síður virðist engum detta í hug að leyfa öðrum en Schengen-þjóðunum og örfáum öðrum, sem Schengen-stjórnin í Brüssel taldi "örugg", komur hingað.  Þetta er stórfurðulegt, því að hvorki íbúum á Íslandi né annars staðar á Schengen-svæðinu getur stafað smithætta af fólki, sem farið hefur í tvöfalda skimun við SARS-CoV-2 og 5 daga sóttkví á milli.  Það er ekki heil brú í því, að við séum með miklu strangari sóttvarnir á okkar landamærum en Schengen miðar við, en séum samt bundin við að taka einvörðungu við fólki frá löndum, sem Schengen telur örugg.  Hér er utanríkispólitískt vandamál á ferðinni, en ekki lýðheilsulegt vandamál, sem veldur landinu stórtjóni.

"Ísland, sem á hvað mest undir ferðaþjónustunni af öllum ríkjum Evrópu, framfylgir nú einna hörðustu aðgerðum við landamærin í allri álfunni.  Þeir, sem vonuðust til, að þessar nýju reglur myndu vara í skamman tíma, urðu fljótt fyrir vonbrigðum, þegar sóttvarnalæknir lýsti yfir, að þær ættu að gilda í marga mánuði.  Enginn ráðherra hefur séð ástæðu til að mótmæla þeim ummælum. 

Gríðarlegur fjöldi fyrirtækja á nú ekki annarra kosta völ en að fara í tímabundið greiðsluskjól eða óska eftir gjaldþrotaskiptum.  Þúsundir munu bætast við á atvinnuleysisskrá.  Það er frostavetur í vændum." 

Sóttvarnarlæknir hefur enga heimild til slíkrar yfirlýsingar.  Hafi hann lýst þessu yfir, sem Hörður Ægisson heldur fram, varpar það ljósi á, að sóttvarnarmálin eru komin út í öfgar.  Þegar um tiltölulega vægan  veirufaraldur er að ræða, eins og á við um COVID-19 sjúkdóminn, þótt veiran sé bráðsmitandi, þá eru sóttvarnir ekki lýðheilsumál, heldur efnahagsmál.  Aðgerðir þarf þá að vega og meta kostnaðarlega.  Sé það reynt, kemur strax í ljós, að tvöföld skimun og sóttkví á milli er algerlega óverjandi úrræði m.v. stöðuna, sem var hér á faraldrinum, þegar til þess var gripið.  Tekjutap og kostnaður, sem þetta úrræði leiddi til, er líklega á bilinu 30-40 sinnum meira en nemur sparnaði af völdum færri smita og sóttkvía, sem úrræðið hefur í för með sér. Úrræðið er þess vegna fráleitt, nema við mun alvarlegri aðstæður, miklu hærra nýgengi og álag á heilbrigðiskerfið. 

"Efnahagslegar afleiðingar þessarar misráðnu ákvörðunar hafa strax komið fram.  Fyrir utan þúsundir afbókana ferðamanna til landsins hafa erlendir fjárfestingarsjóðir, stærstu eigendur íslenzkra , ríkisskuldabréfa, í vikunni selt þær eignir fyrir marga milljarða [ISK] með tilheyrandi gengisveikingu krónunnar - sem Seðlabankinn reynir að sporna við með sölu gjaldeyris - og verðbólguvæntingar hafa snarhækkað.  Ekki er að sjá, að sú atburðarás hafi verið tekin með í þeim dæmalausu útreikningum, sem voru að baki þeirri ákvörðun, byggðri á minnisblaði fjármálaráðuneytisins, að það væri efnahagslega skynsamlegt að skella landinu í lás."

Ekki er að sjá, að nokkurt vitrænt fjárhagslegt mat á aðgerðum hafi legið að baki ákvörðun ríkisstjórninnar, heldur örvænting út af því, að nýgengið væri komið yfir 10 og að Norðmenn settu Ísland þess vegna á rauðan lista hjá sér, eins og önnur lönd, þar sem svipað var ástatt.  Enn er nýgengið um 25 (í septemberbyrjun 2020), og það er mun lægra við landamærin en innanlands.  Það er vandséð, að hinar einstæðu og dýru sóttvarnaraðgerðir á landamærunum hafi skipt nokkrum sköpum um þróun faraldursins hérlendis, en hins vegar blasir við hverjum manni, að þær hafa valdið efnahag landsins stórtjóni, og það er auðvelt að sýna fram á, að tjónið er meira en einni stærðargráðu meira en líklegur sparnaður vegna færri smita.  Í dag, 3. september 2020, er afar fróðleg grein í prentútgáfu Morgunblaðsins um dánarlíkur af völdum SARS-CoV-2 og inflúensu í ljósi sóttvarnaraðgerða yfirvalda, og er öllum áhugasömum bent á að lesa þá grein í viðleitni til að mynda sér skoðun um þessi mál.  Kunna þá að renna 2 grímur á marga varðandi réttmæti núverandi meðhöndlunar yfirvalda á þessum málaflokki. 

Það er bráðnauðsynlegt, að Alþingi taki þetta mál til alvarlegrar umfjöllunar í viðleitni til að víkka sjóndeildarhring stjórnvalda.  Þannig þyrfti þingumræðum að ljúka með þingsályktunartillögu, sem yrði yfirvöldum leiðarljós í aðgerðum þeirra.  

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband