Færsluflokkur: Evrópumál

Hagsmunaárekstrar innan Evrópusambandsins

Það fer ekki framhjá þeim, sem utan við standa, að Evrópusambandið (ESB) fjarlægist sífellt meir að geta kallast kærleiksheimili. Þegar fátt virðist lengur réttlæta tilvist þessa skrifræðisbákns flestra Evrópuríkja, er samt iðulega gripið til þess ráðs að þakka Sambandinu það, að herir gömlu stórveldanna í Evrópu skuli enn ekki hafa farið í hár saman eftir 1945.  Þessi söguskýring er þó ekki upp á marga fiska. 

Það hefur vakið athygli, að COVID-19 virðist hafa veitt efnahag t.d. rómönsku ríkjanna slíkt högg, að nálgist rothögg, svo að greiðsluþrot blasi við.  Það eru gríðarlegar áhyggjur út af þessu víða, og í Þýzkalandi eru miklar efasemdir um lagalegan grundvöll Seðlabanka evrunnar, ECB, fyrir stórfelldum kaupum hans á ríkisskuldabréfum. Allt annað mál er, þegar ríkisstjórnir með samþykki þjóðþinga ákveða að efna til samskota úr digrum (mrdEUR 750) sjóði á vegum ESB.

Ágreiningurinn um gjörðir stofnana Evrópusambandsins er ekki einvörðungu á pólitíska og peningalega sviðinu, heldur einnig á lagalega sviðinu.  Sá einstæði atburður gerðist 5. maí 2020, að Stjórnlagadómstóll Þýzkalands bað stjórnendur Seðlabanka evrunnar með Frakkann Christine Lagarde í broddi fylkingar, að útskýra innan 3 mánaða, hvernig "kórónuskuldabréfakaup" bankans samræmist Evrópurétti um meðalhóf.  Stjórnlagadómstóllinn setti jafnframt ofan í við dómstól ESB fyrir ósjálfstæði gagnvart öðrum stofnunum ESB og að virka sem "stimpilstofnun" fyrir þær, eins og Seðlabanka evrunnar.  

Strax 6. maí 2020 gerði Markaður Fréttablaðsins grein fyrir þessum sögulega atburði undir fyrirsögninni:

"Krefja Seðlabanka Evrópu um svör":

"Dómstóllinn skipaði þýzkum stjórnvöldum og þinginu að tryggja, að seðlabankinn framkvæmdi "hlutfallsmat" á víðtækum skuldabréfakaupum sínum til að tryggja, að áhrif aðgerðarinnar á hagkerfið og ríkisfjármál væru í samræmi við markmið peningastefnu bankans."

Verkefni ríkisstjórnar og Sambandsþingsins í Berlín úr hendi dómaranna er að ganga úr skugga um það með lögformlegum hætti, að ECB hafi haldið sig innan þeirra heimilda, sem honum eru formlega veittar í sáttmálum og lagabálkum ESB. 

"Seðlabankinn hefur keypt ríkisskuldabréf fyrir mrdEUR 2200 frá árinu 2014 til þess að viðhalda verðbólgu, en stefna bankans hefur verið umdeild í Þýzkalandi.  Gagnrýnendur segja, að bankinn fari þannig út fyrir heimildir sínar með því að fjármagna ríkisstjórnir með ólöglegum hætti."  

Hér er fast að orði kveðið, en ekki um of.  Segja má, að nú hafi Þjóðverjar dregið fram Stóru-Bertu (risafallbyssa af Vesturvígstöðvunum í Fyrri heimsstyrjöldinni), þegar Stjórnlagadómstóll þeirra lætur í senn skothríðina dynja á Evruseðlabankanum og Dómstóli ESB út af glæfralegri meðferð fjár, sem þeir telja vera bæði ólöglega og skaðlega fyrir peningakerfið.  Líklega má líkja aðgerðum Lagarde við  heftiplástursaðgerð á blæðandi sár án sóttvarnaraðgerða, svo að illvíg bólga mun hlaupa í sárið, sem valdið getur blóðeitrun líkamans.

"Stefnendurnir [fyrir Stjórnlagadómstólnum] - hópur 1750 manns - höfðuðu málið árið 2015, en það fór fyrir Dómstól ESB, sem dæmdi seðlabankanum [evrunnar] í hag árið 2018.  Málið fór aftur til stjórnlagadómstóls Þýzkalands, sem hafnaði rökum fyrrnefnds dómstóls og sagði þau ekki halda vatni. 

Með því að hafna rökum Dómstóls ESB hefur dómstóllinn í Karlsruhe velt upp veigamiklum spurningum um beitingu Evrópulöggjafar. 

"Þetta er fyrsta tilvikið, þar sem þýzkur dómstóll segir, að dómur Dómstóls ESB hafi ekki lögsögu", segir Panos Koutrakos, prófessor í Evrópurétti við háskólann í City í London, í samtali við Financial Times. 

Hæstirétturinn gaf margar ástæður fyrir því, af hverju Seðlabanki Evrópu hefði farið út fyrir heimildir sínar, en sagði jafnframt, að ekki væri unnt að ákvarða, hvort Seðlabankinn hefði brotið gegn Evrópulöggjöfinni án frekari upplýsinga um, hvernig bankinn samrýmdi áhrif skuldabréfakaupanna og markmið peningastefnunnar. 

Clemens Füst, forstöðumaður hagfræðistofnunarinnar Ifo í München, segir, að höfnun hæstaréttar Þýzkalands á rökum Dómstóls Evrópusambandsins "lesist eins og stríðsyfirlýsing"." 

Það hefur komið í ljós í kjölfar dóms Stjórnlagadómstólsins, að ályktun Clemens Füst er rétt.  Dómstóll og framkvæmdastjórn ESB hafa gefið út hortugar yfirlýsingar og dómari í Stjórnlagadómstólnum (sá sem samdi dóminn) hefur gert athugasemd við þær.  Það er ljóslega grundvallarágreiningur á ferðinni um hlutverk og lagaheimildir Evrubankans.  Það sést á texta Stjórnlagadómstólsins hér að ofan, að Þjóðverjar telja meginhlutverk Evrubankans vera stjórnun peningamála evrusvæðisins og að stórfelld verðbréfakaup, eins og bankinn hefur stundað síðan 2014, rúmist ekki innan Evrópuréttarins og reglna bankans.  Þarna skilur algerlega á milli viðhorfa norðan og sunnan Alpafjalla.  Þessi gjá er nú orðin af því tagi, að hún verður ekki brúuð úr þessu.  Þýzkaland getur greinilega ekki sætt sig lengur við þessa lögleysu, sem Miðjarðarhafsríkin leggja höfuðáherzlu á að viðhalda.  COVID-19 fárið mun leiða til þess, að sverfa mun til stáls um stjórnun Evrubankans.  

Að lokum sagði í þessari umsögn Markaðarins:

""Við vissum, að það væru pólitískar hindranir í skiptingu kostnaðar milli sambandsríkjanna, og nú eru einnig lagalegar hindranir", bætir McGuire [hjá Rabobanka] við.

Flestir höfðu búizt við, að dómstóllinn í Karlsruhe myndi samþykkja, þó með miklum semingi, að skuldabréfakaup Seðlabanka Evrópu væru lögleg. Dómstóllinn sagðist þó ekki hafa fundið brot gegn banni við fjármögnun aðildarríkja."

Stjórnlagadómstóll Þýzkalands hefur sett fram veigamiklar spurningar.  Svara verður krafizt.  Öll kurl eru ekki enn komin til grafar.


"Óttast um framtíð evrunnar"

Ofangreind fyrirsögn var á frétt Stefáns Gunnars Sveinssonar í Morgunblaðinu 7. maí 2020 í tilefni dóms Stjórnlagadómstóls Sambandslýðveldisins í Karlsruhe.  Hvort ástæða er til að óttast um framtíð evrunnar vegna þess dóms skal ósagt láta, enda hefur hún ýmsa fjöruna sopið.  Í kjölfar hruns fjármálakerfisins 2007-2008, þegar evran stóð tæpast 2012, var henni haldið uppi af framleiðslumætti Þýzkalands. Nú hefur framleiðslumáttur Þýzkalands lamazt, og æðsti dómstóll Þýzkalands hefur skotið aðvörunarskoti bæði í átt að Evrópudómstólinum, ECJ, og Evrubankanum, ECB, fyrir það að túlka heimildir ECB til ríkisskuldabréfakaupa allt of vítt og frjálslega.  Þetta er gamalkunnugt viðhorf þýzkra hagfræðinga í Bundesbank og fulltrúa hans í stjórn ECB og stangast alveg á við stefnu rómanskra þjóða um lausatök á ríkisfjármálum, dúndrandi ríkissjóðshalla og skuldasöfnun hins opinbera.  Fyrir vikið er efnahagslegur viðspyrnukraftur þessara þjóða núna afar takmarkaður, og þau reiða sig á, að germönsku þjóðirnar á evru-svæðinu hlaupi undir bagga með sér aftur. 

Til þess m.a. að kaupa ríkisskuldabréf hefur Evrópusambandið (ESB) safnað saman í "Faraldurseignakaupasjóð" - "Pandemic Equity Purchase Program" - PEPP, mrdEUR 750.  Hinn franski bankastjóri ECB hafði hins vegar ekki þolinmæði til að bíða eftir þessum sjóði og taldi, að miklu meira þyrfti til, enda hefur ECB nú þegar spreðað út mrd EUR 2´200 frá 2014.  Þetta var kært í hópmálssókn Þjóðverja til Karlsruhe.

"Óvæntur úrskurður þýzka stjórnlagadómstólsins í fyrradag hefur hleypt mikilli óvissu í tilraunir Evrópusambandsins til þess að finna sameiginlega lausn fyrir ríki evrusvæðisins á kórónaveirukreppunni.  

Stjórnlagadómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu, að Seðlabanki Evrópu hefði líklega farið gróflega fram úr heimildum sínum við kaup á skuldabréfum vegna kórónaveirunnar, en upphæð þeirra nemur nú um 2´200 milljörðum evra [nær yfir lengra tímabil-innsk. BJo]. Um leið hefði bankinn óbeint seilzt inn í fjárveitingarvald þýzka sambandsþingsins.  

Gaf dómstóllinn bankanum þrjá mánuði til þess að sanna, að meðalhófi hefði verið fylgt við skuldabréfakaupin, ellegar yrði Seðlabanka Þýzkalands meinað að taka frekari þátt í magnbundinni íhlutun evrópska bankans. 

Niðurstaða dómstólsins kemur á einkar óheppilegum tíma fyrir Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, sem leggur nú allt kapp á að finna sameiginlega lausn á kórónaveirukreppunni."

Hér er gamalkunnugt deilumál Þjóðverja og Frakka í brennidepli.  Réttara væri að segja, að germönsku þjóðirnar eru hallar undir þýzka hagfræðiskólann, sem leggur áherzlu á aðskilnað ríkisstjórnar og seðlabanka, þar sem annar á að sjá um hallalausan rekstur ríkisins, en hinn á að varðveita heilbrigði peningakerfisins með lágri verðbólgu og jákvæðri ávöxtun sparnaðar. Það er órói á meðal Þjóðverja með það, að raunvextir eru nánast engir orðnir, en Þjóðverjar eru sparsöm þjóð og spara m.a. til elliáranna á bankareikningum.

Rómönsku þjóðirnar vilja, að ríkisstjórnirnar grauti í öllu saman, aðhaldslítið (og drekki rauðvín með).  Afleiðingin af því er bullandi halli á ríkissjóði, skuldasöfnun og verðbólga. 

Stjórnlagadómstóli Þýzkalands hefur ofboðið hegðun ECB í kórónafárinu og telur evrubankann skorta heimildir til stórfelldra skuldabréfakaupa af ríkissjóðum, sem Gallinn Lagarde hefur beitt sér fyrir.  Stjórnlagadómstóllinn leitaði álits ESB-dómstólsins, ECJ, sem taldi ECB mega stunda þessa peningaprentun.  Hugsunargangur Framkvæmdastjórnarinnar kemur vel fram í eftirfarandi:

"Sagði Paolo Gentiloni, framkvæmdastjóri Sambandsins í efnahagsmálum, að ef sum ríki svæðisins drægjust um of aftur úr öðrum, gæti það hæglega ógnað framtíð evrunnar og Innri markaði ESB, en að um leið væri hægt að koma í veg fyrir hana [ógnina-innsk. BJo] með sameiginlegum aðgerðum." 

Það sem ECB er að gera er að kaupa skuldabréf ríkissjóða rómönsku landanna og Grikkja í miklum mæli og í minni mæli af öðrum, til að koma í veg fyrir, að ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa illa settra ríkja rísi upp í himinhæðir yfir ávöxtunarkröfu skuldabréfa þýzka ríkissjóðsins og lendi þar með í ruslflokki.  Þar með yrði hætt við greiðsluþroti þessara ríkissjóða, einnig hins franska, svo að mjög mikið hangir á spýtunni.  Þjóðverjar telja, að Christine Lagarde, hinn franski aðalbankastjóri ECB, sé að draga allt evrusvæðið ofan í svaðið, og Karlsruhe beitir fyrir sig lagabókstaf, að sjálfsögðu:

 "Það vakti sérstaka athygli, að fyrir utan "viðvörunarskot" stjórnlagadómstólsins þýzka í átt að Seðlabanka Evrópu, setti hann einnig ofan í við dómstól Evrópusambandsins og sagði, að afstaða hans til meðalhófs í þessu efni væri "óskiljanleg" og í engu samræmi við afstöðu dómstólsins á nánast öllum öðrum sviðum Evrópuréttar.  Ályktaði stjórnlagadómstóllinn því sem svo, að dómarar Evrópudómstólsins hefðu farið út fyrir lagalegar heimildir sínar.  

Þetta er í fyrsta sinn frá upphafi Evrópusamrunans árið 1957, sem Stjórnlagadómstóllinn kemst að þeirri niðurstöðu, að ákvarðanir og gerðir evrópskra stofnana hafi brotið í bága við þýzku stjórnarskrána, en Stjórnlagadómstóllinn hefur aldrei viðurkennt, að lög og reglur Evrópusambandsins séu rétthærri en þýzka stjórnarskráin.

Um leið benti Stjórnlagadómstóllinn á það sérstaklega í úrskurði sínum, að Lissabon-sáttmálinn hefði ekki sett lög ESB ofar lögum aðildarríkjanna og að Evrópusambandið væri ekki sambandsríki."

Hér er fram komin tímabær og gagnmerk yfirlýsing, eins konar fullveldisyfirlýsing æðsta dómstóls Sambandslýðveldisins Þýzkalands, sem hafa mun lögfræðileg og fullveldisleg bylgjuáhrif um allt Evrópska efnahagssvæðið.  

Þetta kom flatt upp á ECJ, dómstól ESB, sem tók þessari þýzku breiðsíðu ekki þegjandi, eins og frétt Stefáns Gunnars Sveinssonar í Mogganum 9. maí 2020 bar með sér.  Hún hafði fyrirsögnina:

"Hafnar niðurstöðu stjórnlagadómstólsins":

"Evrópudómstóllinn lýsti því yfir í gær, að hann einn hefði lögsögu yfir evrópska seðlabankanum.  Hafnaði dómstóllinn þar með alfarið niðurstöðu þýzka stjórnlagadómstólsins, þar sem bæði bankinn og Evrópudómstóllinn voru gagnrýndir fyrir afstöðu sína gagnvart skuldabréfakaupum bankans.  

Í tilkynningu dómstólsins sagði m.a., að til þess, að hægt væri að tryggja, að lög ESB væru alls staðar túlkuð á sama hátt, hefði dómstóllinn einn "lögsögu til að skera úr um, að [hvort] aðgerð stofnunar ESB sé í trássi við lög Sambandsins.

Þá sagði, að skoðanamunur milli dómstóla hvers og eins aðildarríkis um lögmæti slíkra gjörða myndi vera líklegur til að setja hina lagalegu skipan sambandsins úr skorðum og draga úr réttaröryggi."

Þetta er þunnur þrettándi hjá ESB-dómstólinum og jafngildir pólitískum orðahnippingum við þýzku Stjórnlagadómarana, því að ECJ hefur enga tilburði uppi til að vísa í þá lagagrein, sem veitir evrubankanum svo takmarkalitlar heimildir, sem hann hefur tekið sér, eða hvaðan ECJ hefur einn lögsögu yfir evrubankanum.  

"Úrskurður stjórnlagadómstólsins á þriðjudaginn var sérstaklega harðorður í garð Evrópudómstólsins, sem að sögn þýzku dómaranna hafði farið fram úr lagalegum heimildum sínum, þegar hann fjallaði um mál Seðlabankans, og hefði í raun gerzt "afgreiðslustofnun" fyir bankann.  

Þá áréttaði Stjórnlagadómstóllinn þá afstöðu sína, að aðildarríki Sambandsins væru "ábyrg fyrir [gagnvart - innsk. BJo] sáttmálum þess" og að ESB væri ekki sambandsríki."

Hér eru stórtíðindi á ferð.  Dómstóll ESB, ECJ, er vanur að fara sínu fram og skeytir lítt um lagaheimildir, ef "eining ESB" er annars vegar.  Nú mætir hann aðhaldi, er bent á af stjórnlagadómurum aðildarlands, að hann skorti heimildir fyrir gjörðum sínum og sé í reynd þægt verkfæri annarra; starfi eftir pöntun.  Þá firrtist ECJ og fer í ham einvaldskonunga í Evrópu á fyrri tíð:

"Vér einir vitum". 

Hvorki ECB né ECJ hafa heimildir fyrir gjörðum sínum samkvæmt stjórnarskrárígildi ESB, Lissabonsáttmálanum.  ESB er ekki sambandsríki og er þess vegna ekki ábyrgt gagnvart þessum sáttmála eða öðrum, heldur aðildarríkin, og æðsti dómstóll hvers aðildarríkis sker úr um, hvað má og hvað má ekki.  Nú flæðir undan réttargrundvelli óhófsaðgerða ECB.

Frétt Morgunblaðsins, þar sem óttast var um framtíð evrunnar, lauk þannig:

"Sú ályktun [Karlsruhe] kallaði á svar frá Brüssel, og sagði talsmaður Framkvæmdastjórnar ESB það vera skoðun Sambandsins [svo ?], að lög þess væru rétthærri lögum aðildarríkjanna og að ríki þess hefðu fallizt á að vera bundin af úrskurðum dómstóls ESB.  Framundan gæti því verið hörð lagaleg rimma um stöðu Evrópuréttar innan Þýzkalands, eins helzta forysturíkis ESB.  

 Um leið virðist nokkuð ljóst, að tilraunir til þess að leysa kórónaveirukreppuna með útgáfu sameiginlegra "kórónuskuldabréfa" muni rekast á þýzku stjórnarskrána og komi því ekki til greina.

Ríkisstjórnir Spánar og Ítalíu gætu því orðið nauðbeygðar til þess að sækja um neyðarlán til Seðlabanka Evrópu, en þær hafa verið tregar til þess að stíga slík skref, ekki sízt í ljósi þess fordæmis, sem Grikklandskreppan 2012 gaf, þar sem harðir skilmálar fylgdu neyðarláni bankans. 

Úrskurður Stjórnlagadómstólsins hefur því leitt til stórra spurninga um framvinduna innan ESB, og hvernig það muni leysa úr þeirri stöðu, sem kórónaveirufaraldurinn færði því."

 Neyðarlán frá ECB einum til ríkisstjórna kemur ekki til greina nú fremur en 2012, því að bankinn er ekki þrautavaralánveitandi.  Árið 2012 endurskipulagði þríeykið AGS, ESB og ECB, ríkisfjármál Grikklands, og sami háttur verður líklega hafður á aftur, ef ríkissjóðir aðildarlanda ESB lenda í greiðsluþroti.  Það er svo lítillækkandi ferli, að reyna mun mjög á veru viðkomandi ríkis í myntsamstarfinu.  Ekki var í fréttinni minnzt á bleika fílinn í stofunni, Frakkland.  Þjóðverjar munu væntanlega ekki taka þá neinum vettlingatökum nú fremur en á krossgötum fyrri tíðar.

Berlaymont sekkur

 

 

 

 

 

 


"Aðgerða er þörf"

Hér hefur í síðustu tveimur vefpistlum verið gerð grein fyrir afhjúpunum Carls I. Baudenbachers (CIB) í Morgunblaðinu 23. apríl 2020 undir fyrirsögninni "EES í kreppu".  Þar afhjúpaði hann rotna starfshætti EES síðan 2008, þegar norska embættiskerfið, og sérstaklega handhafar dómsvaldsins, mótuðu sér "aðgerðasvigrúm" innan EES í krafti fjármagns, sem tryggja skyldi hagsmuni norska ríkisins, hvað sem tautaði og raulaði innan ESA og EFTA-dómstólsins.  Innan Sameiginlegu EES nefndarinnar og á undirbúningsstigum innan ESB hafa Norðmenn verið duglegir við að koma ár sinni fyrir borð og sínum sjónarmiðum að.  Sé ekki tekið tillit til sjónarmiða þeirra við mótun tilskipana og reglugerða ESB, vísa þeir síðar í athugasendir sínar og telja sig þar með óbundna af gerðum ESB. Svona eiga sýslumenn að vera, en gallinn er sá, að það gengur ekki eitt yfir öll EFTA-löndin í EES-samstarfinu í þessu sambandi.  Það felur í sér gríðarlegt misræmi og beinlínis misrétti, sem ekki verður við unað.  Að aflokinni gerð fríverzlunarsamnings við Breta, þurfa Íslendingar að losa sig af klafa EES.  Ef EFTA vill ekki gera fríverzlunarsamning við ESB, verður íslenzka utanríkisþjónustan að hefja þá vinnu.  Ákjósanlegast væri, að öll 4 EFTA-ríkin stæðu að slíkum samningi undir fána EFTA, því að aðild Svisslendinga myndi styrkja samningsstöðu EFTA.

Hvað skrifaði CIB í lok Morgunblaðsgreinar sinnar.  Millifyrirsögnin var:

"Aðgerða er þörf":

"RFM-stefna Noregs [um "aðgerðasvigrúm norska ríkisins"], sem er mesta ógnin við, að EES virki sem skyldi, stangast á við hagsmuni Íslands (og Liechtenstein). Eins og segir í þekktu orðatiltæki, opnar maðurinn frá Hamborg regnhlíf sína, þegar það byrjar að rigna í London.  Íslendingar verða því að gæta sín, ef Noregur lendir í krísu gagnvart EES.  Það er hafið yfir vafa, að norska RFM-stefnan er ósamrýmanleg grundvallarreglum EES-réttar - sem eru einsleitni, gagnkvæmni, tryggð og meðalhóf.  Þess vegna verður að hverfa frá þessari stefnu. 

Sú spurning vaknar hins vegar einnig, hvort Eftirlitsstofnun EFTA og EFTA-dómstóllinn séu nægilega öflug til að gegna því hlutverki, sem þeim er ætlað samkvæmt EES-samningnum.  Fyrrverandi forseti Eftirlitsstofnunarinnar, Sven Svedman, hefur réttilega sagt, að þar sem hvert aðildarríki hafi 3 fulltrúa, séu Eftirlitsstofnunin og EFTA-dómstóllinn ekki veikburða, þótt stofnanirnar séu viðkvæmar. Að mati greinarhöfundar ætti hver stofnun að hafa 5 fastafulltrúa, og þar af komi nýir 2 óháðir fulltrúar frá löndum utan EES/EFTA-ríkjanna."

     CIB vill þurrka út sem mest af sérkennum og sérhugmyndum frá EFTA-ríkjunum, þannig að þau verði sem mest að haga sér sem ESB-ríki.  Þetta sýnir ofangreind tillaga hans.  Þá er ekki nóg fyrir CIB að tilfæra manninn í Hamborg til sönnunar því, að "aðgerðasvigrúmsstefna" norskra stjórnvalda sé andstæð hagsmunum hinna EFTA-landanna.  Þegar þau hins vegar hvorugt reka slíka stefnu, er komið upp mikið misræmi innan EES, og löndin verða þá ójafnsett gagnvart Evrópuréttinum.  Þegar þetta er látið viðgangast, má jafnvel líkja því við rotna stjórnarhætti.  

CIB gerir of mikið úr því, að ríkisstjórnarlögmaðurinn (regjeringsadvokat) Sejersted grafi undan EES og Evrópurétti innan EFTA-landanna.  Sejersted vill, að Norðmenn uppfylli skýlausar lagaskyldur sínar samkvæmt EES-samninginum, en hann er mjög andsnúinn því, að Norðmenn gangi of langt í þeim efnum, og hann vill að rannsakað sé ítarlega í hverju tilviki, hvert hið raunverulega svigrúm er til túlkana.  Að öðrum kosti segir hann, að lýðræðislegt ákvarðanaferli þjóðríkisins geti hæglega orðið í uppnámi.  

Það er mikið til í þessu hjá Sejersted, og bráðvantar okkur ríkislögmann eða lögmann í utanríkisráðuneytið af þessu tagi.  Hér hefur aldrei orðið vart nokkurra lögfræðilegra rannsóknartilburða í þá átt, sem Sejersted stundar í Noregi.  Þegar álit og úrskurður kom frá ESA á sinni tíð um lífshagsmuni þjóðarinnar, sem varða úthlutun á nýtingarrétti náttúruauðlinda (vatnsréttinda) í eigu ríkisins, þá var án lögfræðilegra varna fallizt á allar kröfur ESA.  Þegar svipað bréf barst olíu- og orkuráðuneyti Noregs í lok maí 2019, svaraði Sejersted (eða menn af hans sauðahúsi) því á rúmum mánuði með hvössum lögfræðilegum rökum, og norska ríkisstjórnin hafnaði gjörsamlega málatilbúnaði ESA, sem augljóslega er spegilmynd málarekstrar Framkvæmdastjórnar ESB gegn einum 8 vatnsorkulöndum í ESB, þ.á.m. Frakklandi.  

Annað dæmi er auðvitað dómur EFTA-dómstólsins gegn Íslandi um innflutning á hráu kjöti og ógerilsneyddum eggjum og mjólk.  Þessi dómur var í andstöðu við hagsmuni Íslands, eins og Alþingi skilgreindi viðnám gegn lýðheilsuógnum og varnir gegn búfjársjúkdómum 2009.  Í anda "frelsissvigrúms" hefði Alþingi átt að leysi þessi lög af hólmi með nýjum lögum, rækilega rökstudd með vísindalegum rökum fyrir nauðsyn slíkra varna. 

Þess má geta til gamans, að hin lögfræðilega þróun virðist vera þjóðríkinu í hag, eftir að Hæstiréttur Þýzkalands úrskurðaði, að Evrópudómstóllinn hefði ekki lögsögu um deilumál, er varðaði það, hvort Evru-bankinn mætti kaupa þýzk ríkisskuldabréf. 

"Í stjórn Eftirlitsstofnunar EFTA [ESA] og í EFTA-dómstólnum verða að vera einstaklingar, sem eru hafnir yfir vafa, ekki aðeins hvað varðar hæfni, heldur einnig hvað varðar sjálfstæði og óhlutdrægni.  Í ESB er skipun framkvæmdastjóra ferli, sem vekur mikla athygli fjölmiðla.  Í EFTA-ríkjunum gerist þetta án þess, að almenningur verði þess var, í eins konar reykfylltu bakherbergi.  Við skipun dómara í EFTA-dómstólinn er engin yfirþjóðleg nefnd til að kanna hæfni, sjálfstæði og óhlutdrægni þeirra, sem ríkin leggja til, að hljóti starfið. 

EFTA-dómstóllinn óskaði þegar árið 2011, þegar Skúli Magnússon var skrifstofustjóri dómstólsins, eftir því, að slík nefnd yrði sett á fót, og hafa stjórnvöld á Íslandi og í Liechtenstein tekið vel í þá tillögu.  Noregur hefur hins vegar staðið í vegi fyrir þessu, til að kleift sé að koma að fólki, sem búast má við, að standi vörð um hagsmuni þess [hans Noregs-innsk. BJo] í dómsstörfum.  Þetta verður að breytast.  Í ljósi stærðar (eða smæðar) EFTA er það ekki heldur viðunandi lengur, að einstök ríki samþykki gagnrýnislaust þá, sem eru tilnefndir eða endurtilnefndir af öðrum ríkjum til setu í stjórn Eftirlitsstofnunar EFTA og í EFTA-dómstólnum.  Þess í stað verða öll aðildarríkin að skoða allar tilnefningar vandlega - í þágu eigin hagsmuna."

Það er ljóst, að CIB er mjög óánægður með, hvernig trippin hafa rekin verið af hálfu ríkisstjórna EFTA-landanna í EES.  Hann er mjög óánægður með "frelsisvigrúmið", sem norska ríkisstjórnin ein hefur tekið sér.  Það er skammsýni og dómgreindarleysi af hálfu íslenzkra stjórnvalda að hafa ekki líka tekið  upp norsku Sejersted-línuna og áskilið Íslandi "frelsissvigrúm" í lífshagsmunamálum, sem stundum koma til kasta ESA og EFTA-dómstólsins. 

CIB vill, að Evrópurétturinn njóti forgangs fram yfir landsrétt í ágreiningsmálum.  Nú er farið að draga þetta sjónarmið alvarlega í efa innan Evrópusambandsins.  Þann 05.05.2020 kvað Stjórnlagadómstóll Þýzkalands í Karlsruhe upp stefnumarkandi úrskurð um dóm Evrópudómstólsins varðandi hópákæru Þjóðverja á hendur Evru-bankanum (ECB) um það, hvort bankanum væri heimilt að kaupa ríkisskuldabréf Þýzkalands nú í kjölfar COVID-19 faraldursins.  Stjórnlagadómstóllinn gaf ECB þriggja mánaða frest til að sýna skriflega fram á, að Seðlabanki evrunnar hefði og ætlaði að gæta meðalhófs við þessa útgáfu. Er hér kominn upp gamall ágreiningur germanskra og rómanskra þjóða um leyfilega seðlaprentun til stuðnings ríkissjóðum. Þýzki Stjórnlagadómstóllinn hélt því fram, að Evrópuréttur væri óæðri stjórnarskrám aðildarlandanna og að það hefði ekki breytzt með Lissabonsáttmálanum, sem er stjórnarskrárígildi ESB.  Framkvæmdastjórn ESB hefur lengi haldið hinu gagnstæða fram, og þess vegna er hér augljóslega komin fram ný og skörp átakalína innan ESB á versta tíma fyrir Sambandið. 

Hagsmunir Íslendinga og Norðmanna eru hinir sömu og Þjóðverja í þessum efnum.  Annars væru fyrrnefndu  þjóðirnar fyrir löngu gengnar í ESB.  Ef ESA og EFTA-dómstóllinn úrskurða og dæma þvert á ákvæði Stjórnarskráar Íslands, þá er sá úrskurður eða dómur að engu hafandi á Íslandi, og þannig ber íslenzkum dómstólum að dæma.  Það er einmitt Sejersted-línan frá Noregi.  Ísland og Noregur eiga samleið í þessum efnum, en Carl I. Baudenbacher hefur alla tíð verið á andstæðri línu.  Höfundur hefur ekki kynnt sér, hvort það samræmist hagsmunum flestra íbúa furstadæmisins Liechtensteins, sem CIB er fulltrúi fyrir og sem hefur stundum verið nefnt skattaparadís, og það er kannski meginástæða þess, að hagsmunir ríkisins og ESB hafa ekki verið taldir fara nægilega vel saman fyrir fulla aðild.   


Rotið samstarf

Hvað á að kalla "samstarf", þar sem aðili A tekur við löggjöf frá aðila B gegn réttindum og skyldum til "fjórfrelsisins" hjá B (ESB), en land innan A (EFTA-stoðar EES) ákveður einhliða og án nokkurs samráðs að virða að vettugi úrskurði þess aðila, EFTA-dómstólsins, sem á að úrskurða í deilumálum um framkvæmd EES-samningsins ?  Hvað er eiginlega til rotið í fjölþjóðlegu "samstarfi", ef þetta fyrirkomulag verðskuldar ekki þá einkunn ?

Ofan af þessu fletti Carl I. Baudenbacher (CIB), fyrrverandi dómari við EFTA-dómstólinn og mjög áhrifamikill þar um langa hríð, í Morgunblaðsgrein 23. apríl 2020, "EES í kreppu",

sem byrjað var á að fjalla um í síðasta vefpistli, og nú verður tilvitnunum og umfjöllun haldið áfram.  Málið snýst um RFM (Room For Manoeuvre) eða "handlingsrom" á norsku, sem þó sér hvergi stað í EES-samninginum sjálfum, en Norðmenn tala um sem eins konar fullveldisrétt ríkisins í þessu undarlega EES-samstarfi, sem hinar þjóðirnar hafa ekki tileinkað sér, enda skrifar CIB, að þetta komizt Norðmenn upp með í krafti mikilla fjárframlaga sinna í sjóði ESB.

CIB gerir hér grein fyrir RFM:

  "Við Háskólann í Ósló, þar sem kennsla og rannsóknir eru að mestu í höndum fólks, sem tengist RFM-stefnunni, hefur meira að segja verið mælzt til virkrar andstöðu við EES-rétt, sem er talinn utanaðkomandi, og við stofnanir EFTA-stoðarinnar, Eftirlitsstofnun EFTA [ESA] og EFTA-dómstólinn. Í kennslubók, sem var skyldulesning í mörg ár, var kallað eftir því, að EFTA-dómstóllinn yrði lagður niður og í stað hans kæmi eins konar gerðardómur, þar sem dómarar frá ríkjunum skiptust á um að taka sæti í dómi. Hinn öflugi rannsóknarstyrkur þýzka orkurisans Ruhrgas féll einnig í hendur andstæðinga EES í Ósló.  Í útgefnum ritum á vegum rannsóknarstyrksins var eftir mætti reynt að halda EES-rétti eins langt frá norskum rétti og mögulegt var.  Árið 2018 var birt á vegum Ruhrgas-samstarfsins gríðarmikið skýringarrit um EES-rétt.  Pólitísk úrslitaatriði á borð við grundvallarréttindi, einsleitni, gagnkvæmni og tengsl á milli EFTA-dómstólsins og Dómstóls Evrópusambandsins, voru sett í hendur þekktra aðildarmanna RFM-stefnunnar.  Skýringarriti[nu] og ritstjór[um] þess, sem allir eru RFM-fólk, er grímulaust beint að norskum lesendahópi, en gegn ritum, þar sem öðru er haldið fram.  Á Íslandi og í Liechtenstein hefur miklu meira verið lagt af mörkum til þróunar EES-réttar með mun minni tilkostnaði."

  Í ljósi þessarar sérgæzku Norðmanna, sem hér er flett ofan af, er alveg sérstaklega ógeðfelld framkoma norskra stjórnvalda, t.d. utanríkisráðherrans Eriksens, sem lögðu sig í líma við að sannfæra Íslendinga og íslenzk stjórnvöld um mikilvægi þess fyrir eininguna og eindrægnina innan EES, að Alþingi felldi sem fyrst á brott stjórnskipulega fyrirvara við samþykki Sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 5. maí 2017 um innleiðingu Orkupakka #3 í íslenzka löggjöf. Tvískinningurinn og stórveldistilburðirnir ríða röftum.

Síðan rekur CIB s.k. NAV-hneyksli:

"Í lok október 2019 kom í ljós, að Atvinnumála- og velferðarstofnun Noregs (NAV) hafði frá upphafi mistúlkað EES-reglur um ferðafrelsi. Gert var að skilyrði fyrir greiðslum frá stofnuninni, að þiggjendur þeirra væru staddir á norskri grund.  Þeir, sem höfðu ferðazt til útlanda án leyfis voru saksóttir og margir saklausir dæmdir í fangelsi.  Jafnvel Hæstiréttur Noregs varð sér til skammar með því að staðfesta ranga dóma á lægri dómstigum.  Þegar þetta hneyksli varð og almenningur brást ókvæða við, grétu andstæðingar EES innan stjórnkerfisins og háskólanna krókódílatárum og kvörtuðu sáran undan skorti á grundvallarþekkingu á EES-rétti innan stjórnkerfisins og dómstólanna. Sumir þeirra voru hinir sömu og höfðu áður hrósað Hæstarétti Noregs fyrir "fullveldistilburði", þegar hann braut gegn EES-rétti með því að neita að fylgja niðurstöðum EFTA-dómstólsins.  Sömu einstaklingar höfðu einnig tryggt, að embættismenn og dómarar fengju ekki fullnægjandi þjálfun í EES-rétti.  Að mati greinarhöfundar verður að skoða NAV-hneykslið í samhengi við almenna stórveldistilburði norskra ríkisstarfsmanna og einkum RFM-stefnunnar."

    Innan norska stjórnkerfisins eru sem sagt við lýði stórveldistilburðir, og er RFM-stefnan innan EES angi af þeim.  Við Íslendingar höfum orðið fórnarlömb þessara stórveldistilburða innan Sameiginlegu EES-nefndarinnar, þar sem Norðmenn marka stefnu EFTA-landanna og íslenzku fulltrúarnir eru eins og mýs undir fjalarketti.  Í Orkupakka #3 (OP#3) málinu fór fram heilaþvottur af hálfu Norðmanna, þar sem íslenzka stjórnkerfinu var talin trú um, að OP#3 skipti Íslendinga engu máli, en innleiðing hans væri Norðmönnum gríðarlegt hagsmunamál.  Hvort tveggja var rangt, eins og rækilega var bent á bæði hérlendis og í Noregi, þar sem andstæðingar OP#3 voru fjölmargir og sennilega í meirihluta á meðal þjóðarinnar, þótt "elítan" styddi innleiðingu OP#3, og sú afstaða endurspeglaðist á Stórþinginu, eins og vant er. 

Nú fjarar hins vegar undan þessum undarlega EES-samningi í Noregi.  Grein Carls I. Baudenbachers (CIB) er nagli í líkkistu EES.  Norðmenn vinna nú að gerð víðtæks fríverzlunarsamnings við Breta, og sú spurning verður æ ágengari í Noregi, hvers vegna ekki má gera slíkan samning líka við ESB, og losna  þannig  við allt EES-moðverkið og þann "monkey business", sem viðgengst innan EES og er norskri alþýðu mjög á móti skapi, því að hún ber í brjósti sér ríka réttlætiskennd, eins og sú íslenzka.

Síðan kemur trúverðug skýring á því, hvernig Norðmenn hafa komizt upp með þetta framferði gagnvart ESB og hinum EFTA-löndunum.  Enginn veggur er svo hár, að asni, klyfjaður gulli, komist ekki yfir hann."

 "Að mati greinarhöfundar hafa Norðmenn hingað til komizt upp með RFM-stefnu sína, sem er framkvæmd grímulaust og af ákafa, vegna þess að Noregur er ekki aðeins öflugt ríki, heldur borgar það líka brúsann.  Á tímabilinu 2014-2021 hefur norska ríkið skuldbundið sig til að leggja mrdEUR 2,8 af mörkum til verkefna Evrópusambandsins, eða 97,7 % af öllu fjármagni frá EES.  Þetta er líklega ástæða þess, að ESB hefur hingað til haldið sig til hlés.  Sú staðreynd, að framkvæmdastjórn ESB hefur aldrei rætt neitun Noregs í Sameiginlegu EES-nefndinni um að koma á fót hæfnisnefnd til að meta umsækjendur um dómaraembætti við EFTA-dómstólinn, verður aðeins skýrð í þessu ljósi.  

Þegar  mesti æsingurinn yfir NAV-hneykslinu var um garð genginn, fóru stjórnmál og stjórnsýsla í Noregi skjótt aftur í fyrri farveg.  Loforð Ernu Solberg, forsætisráðherra, um að afhjúpa öll mistök varðandi EES-rétt, og þá ekki aðeins í tengslum við NAV-hneykslið, reyndust orðin tóm.  Ríkisstjórnin setti á laggirnar 7 manna nefnd til að rannsaka NAV-hneykslið, undir forystu Finn Arnesen, sem er líklega næstmikilvægasti fulltrúi RFM-stefnunnar.  Í nefndinni er annar áberandi talsmaður RFM-stefnunnar, lögmaðurinn dr Karin Flöistad.  Þannig er ljóst, að margir norskir lögfræðingar, jafnvel þeir, sem eru vel þekktir, skilja ekki hugtökin hagsmunaárekstur og hlutdrægni [vanhæfi-innsk. BJo].  Svo lengi sem (ætlaðir) hagsmunir ríkisins eru í húfi, eru nánast öll meðul réttlætanleg.  Umboð nefndarinnar er takmarkað við NAV-málið, og enn er óvíst, hvort hún hefur styrk til að varpa ljósi á ástæður þess hörmungarmáls og þátt ríkislögmannsins í því."

Hér er flengjandi gagnrýni hámenntaðs lögfræðings í Evrópurétti á norska lögmannastétt.  Sumt, eins og að skella skollaeyrum við meintu vanhæfi, er þekkt úr íslenzku lögmannaumhverfi, en íslenzkir lögmenn virðast aldrei í þessu dæmalausa EES-lagaumhverfi hafa haft uppi nokkra "fullveldistilburði", hvað þá að hafa áskilið sér "aðgerðasvigrúm" til varnar hagsmunum íslenzka ríkisins. (Undantekning er skýrsla tveggja lögfræðinga um OP#3, sem bentu á, að hann stangaðist líklega á við Stjórnarskrána.) Þessi mikli munur er sláandi.  Íslenzkir lögmenn og dómarar virðast hafa talið skyldu sína að fylgja EES-samninginum, sem veitir Evrópurétti forgang á íslenzkan rétt, þar sem þessi réttarkerfi stangast á.  Í krafti mikilmennsku og fjárhagsstyrks hefur norsk lögmannastétt og dómarar tekið allt annan pól í hæðina og hundsað erkibiskups boðskap.  Þetta skapar Íslendingum óþolandi misrétti.  Þeir eiga aldrei að sætta sig við einhvers konar hjálenduhlutverk.  

 


Stríð Carls Baudenbachers við norska stjórnkerfið

Það hefur lengi verið vitað um óvild á milli Carls I. Baudenbachers (CIB),  fyrrverandi dómara við EFTA-dómstólinn, og norskra dómara, en fáir áttað sig á rótum deilna þeirra í millum.  Nú hefur CIB með eftirminnilegum hætti varpað ljósi á inntak deilumálsins í Morgunblaðsgrein 23. apríl 2020, sem hann nefndi:

"EES í kreppu".

Heiti greinarinnar er réttnefni á ástandinu.  Í EES-samstarfi EFTA-ríkjanna þriggja, Noregs, Íslands og Liechtensteins, fara Norðmenn sínu fram án þess að skeyta um grundvallaratriði Evrópuréttar, ef þau stangast á við túlkun norskra embættismanna, dómara og stjórnmálamanna, á "eðlilegum" norskum hagsmunum. Ríkislögmaður Noregs (Regjeringsadvokaten) gefur tóninn í þessum efnum. Með öðrum orðum reka Norðmenn skefjalausa stórveldisstefnu innan EES-samstarfsins í krafti fjármuna sinna, og er þetta oft á kostnað hinna EFTA-ríkjanna að mati CIB.  Framkvæmdastjórn ESB hefur látið þessi brot viðgangast vegna gríðarlegra fjárframlaga Noregs til sjóða ESB. 

Þessi staða er með öllu óboðleg fyrir Ísland og sýnir með öðru, hversu óeðlilegt þetta EES-samstarf er fyrir sjálfstæða þjóð.

Norðmenn virðast í krafti auðs hafa tekið sér svigrúm til aðgerða.  Þeir kalla þetta sjálfir "handlingsrom", en CIB nefnir þetta fyrirbrigði á ensku "room for manoeuvre", og þýðandi greinarinnar nefnir þetta "svigrúm til mats", sem er ekki bein þýðing, en nær þó norsku hugsuninni þokkalega, þ.e. Norðmenn áskilja sér svigrúm til að meta í hverju tilviki fyrir sig, hvort og hvernig EES-málefni samræmist hagsmunum norska ríkisins.  Þetta svigrúm hafa hinar EFTA-þjóðirnar ekki tekið sér, og þess vegna hafa Norðmenn sett sig skör hærra en okkur Íslendinga innan EES samkvæmt CIB.

Hvað skrifaði CIB um "aðgerðasvigrúm" Norðmanna.  Hann er ekki þekktur fyrir að fara með fleipur á opinberum vettvangi:  

"Undir lok fyrsta áratugar þessarar aldar [á tímum alþjóðlegrar fjármálakreppu - innsk. BJo] var sett fram í Ósló stefna, sem kölluð hefur verið "Svigrúm til mats" (e. room for manoeuvre, RFM) og fól í sér að styðja með virkum hætti við hagsmuni Noregs á öllum sviðum, eins og framast væri unnt.  RFM er heildstæð stefna, sem hefur ekki einungis áhrif á túlkun EES-reglna af hálfu norskra stjórnvalda og dómstóla.  Lögmætir hagsmunir borgara og fyrirtækja mæta afgangi; meintir þjóðarhagsmunir norska ríkisins eru framar öllu.  RFM hefur einnig haft áhrif á samsetningu Eftirlitsstofnunar EFTA og EFTA-dómstólsins auk samskipta Norðmanna við þessar tvær stofnanir. Miklu máli skiptir að geta náð samkomulagi um deiluefni án afskipta Eftirlitsstofnunar EFTA og EFTA-dómstólsins.  Eftirlitsstofnunin fylgir þessu, þar sem hún hefur í mesta lagi einu sinni á ári höfðað mál gegn einhverju af EES/EFTA-ríkjunum þremur. 

EFTA-dómstóllinn hefur jafnframt verið sniðgenginn með því að óska eftir, að norskir dómstólar haldi þeim málum innanlands, sem tengjast EES, þ.e. að þeir leiti ekki ráðgefandi álits frá EFTA-dómstólnum.  Þessi stefna ásamt öðru leiddi til sniðgöngu af hálfu Hæstaréttar Noregs við að afla ráðgefandi álits frá dómstólnum, sem stóð yfir í 2,5 ár (frá 2012-2014).   Ef máli er engu að síður vísað til EFTA-dómstólsins og ríkislögmaður Noregs er ekki sáttur við niðurstöðuna, mun hann, af hvaða átyllu sem er, mælast til þess, að norski dómstóllinn fari ekki eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins.  Með því færir ríkislögmaður sér í nyt þá staðreynd, að norskir dómarar, ólíkt kollegum sínum á Íslandi og í Liechtenstein, eiga erfitt með að samþykkja meðalhófsreglu  Evrópuréttar.  Hið hefðbundna norska viðhorf er, að  nægjanlegt sé fyrir inngripi ríkisins í grundvallarréttindi- og frelsi, að það sé "eðlilegt", en í því felst ekki krafa um, að það sé "nauðsynlegt".  

Grundvallarregla í samskiptum manna og þjóða er, að allir skuli vera jafnir fyrir lögunum.  Það er frágangssök fyrir þetta dæmalausa EES-samstarf, að nú hefur fyrrverandi dómari við EFTA-dómstólinn afhjúpað, að því fer fjarri innan EES, heldur njóta Norðmenn þeirra sérkjara að ákveða sjálfir, hvenær norskir dómstólar hlíta fordæmi þessa dómstóls.  Norðmenn hafa komizt upp með þessa hegðun, af því að þeir borga 97 % af gjaldkröfu ESB á hendur EFTA-ríkjunum fyrir EES-samstarfið. Þetta er um 10 % meira en þeim ber skylda til samkvæmt höfðatölu. 

Íslendingar hafa margir hverjir verið sáróánægðir með suma úrskurði EFTA-dómstólsins, og hann hefur m.a. hnekkt lagasetningu Alþingis, sem hefði verið ástæða til að reisa burst við. Embættismannakerfinu íslenzka hlýtur að hafa verið ljóst, hvernig málum var háttað í Noregi, en það fýldi ekki grön við dóminum, heldur bukkaði sig og beygði.  Nú er komið að því að vinda ofan af þessari vitleysu með vísun til fordæma frá Noregi. 

Nefna má EFTA-dóminn um, að íslenzku lögin frá 2009 um bann við innflutningi á ófrosnu keti, ógerilsneyddri mjólk og eggjum, brjóti í bága við EES-samninginn og fjórfrelsið.  Þegar í stað á að innleiða inntak þessara laga að nýju með vísun til þjóðaröryggis í tengslum við varnir gegn smitsjúkdómum. Því er spáð, að fjölónæmir sýklar verði á næstu árum skaðræðislegri vágestir en veirur á borð við SARS-CoV-2 í manntjóni mælt.

 Það er hafin deila á milli ESA og Noregs um úthlutun nýtingarréttar á náttúruauðlindum í eigu ríkisins.  ESA mun líklega vísa deilumálinu til EFTA-dómstólsins og hann dæma Noregi í óhag, en norski ríkislögmaðurinn mun vafalítið beina því til norskra dómstóla, að í nafni RFM skuli þeir virða dóminn að vettugi.  Þar með verður hægt að skera Íslendinga úr snörunni, sem íslenzkir embættismenn og ráðherrar flæktu landsmenn í með klaufaskap og undirlægjuhætti 2016. 

Nokkru síðar ritar CIB:

"Þar sem dómstólar á Íslandi og í Liechtenstein hneigjast til þess að hlíta niðurstöðum EFTA-dómstólsins, er ójafnvægi innan EFTA-ríkjanna þriggja, sem kemur niður á þeim tveimur smærri."

Hér er mjög vægt að orði kveðið um grafalvarlegt mál.  CIB hefur flett ofan af gegnumrotnu samstarfi tveggja kotkarla við höfðingja, sem heldur kónginum góðum með fjárfúlgum til hans.  EES-samstarfið er ólífvænlegt með öllu fyrir sjálfstæðar þjóðir.  Þetta "samstarf" þarf að leysa af hólmi með víðtækum fríverzlunarsamningum við Breta og ESB í fyllingu tímans. Við það er reyndar vaxandi stuðningur í Noregi. Ef EFTA vill ekki beita sér fyrir slíkum samningum, eins og Stórþingið kann þó að verða áfram um eftir þingkosningarnar haustið 2021 í Noregi, þá verður íslenzka utanríkisþjónustan að girða sig í brók og fara með slíka samningagerð fyrir Íslands hönd gagnvart Bretlandi og ESB. 

 


Stefnubreyting hjá Landsvirkjun er þjóðhagsleg nauðsyn

COVID-19 umræðan yfirgnæfir annað nú um stundir.  Með samstilltu átaki þjóðarinnar og ofboðslega kostnaðarsömu hefur sóttvarnaryfirvöldum og heilbrigðisstarfsfólki með Landsspítalann í broddi fylkingar tekizt ágætlega upp í baráttunni við vágestinn.  Til marks um það er aðallega þetta:

   Sýkingum fjölgaði mjög ört í upphafi faraldursins hérlendis, og fjöldi sýkinga sem hlutfall af mannfjölda hérlendis var um hríð sá hæsti í heimi, en fjöldi sýkinga á sólarhring sveigði mjög af uppleið vegna ráðstafana til að draga úr smithættu, svo að hámarksfjöldi sjúklinga (virkra smita af SARS-CoV-2) varð aldrei meiri en 1096.  Það var 06.04.2020.  Þá nam fjölgun smitaðra 76 og fjölgun sjúklinga 42. Þá nam fjöldi á sjúkrahúsum (af völdum C-19) 37, en sá fjöldi varð mestur 45, dagana 3. og 4. apríl, en nam aðeins 4,4 % af af fjölda sjúkra, og á gjörgæzlu varð fjlöldinn mestur 13, þann 7. apríl. 

Af þessum tölum er ljóst, að ráðstafanir til fækkunar smitum hafa leitt til viðráðanlegs álags á heilbrigðiskerfið, og hlutfallslegur fjöldi sjúkra, sem þurfti innlögn, þegar mest mæddi á, var aðeins 4,4 %, sem er óvenjulág tala á heimsvísu.  Hún er til vitnis um árangursríka stjórnun, þ.e. fylgzt var með sjúklingum í einangrun.  Það var stjórnunarlegt snilldarbragð.  Fjöldi látinna er líklega lægstur hér sem hlutfall af sýktum, eða innan við 0,6 %, og hann er aðeins 27 á milljón íbúa, sem er á meðal þess lægsta, sem þekkist. Nú er fyrsta bylgja þessa faraldurs afstaðin, þótt sjúklingar séu enn 18 talsins.  Áhrif sóttvarnaaðgerðanna voru meiri en yfirvöldin reiknuðu með, en faraldurinn hér hefur fylgt vel kenningunni um 40 daga að toppi og 70 daga varanleika alls.  Á meðan landið er enn "einangrað", er óþarft að hafa uppi íþyngjandi takmarkanir á starfsemi í samfélaginu.  Staðfest smit í samfélaginu eru um 0,5 % af mannfjölda, sem er lægra hlutfall en búast mátti við.  Raunveruleg smit gætu verið um 1 %, þannig að landsmenn verða viðkvæmir fyrir næstu bylgju sýkinga, komi hún á undan almennri bólusetningu.  Ekkert hjarðónæmi hefur myndazt.  Það er afleiðing mótvægisaðgerðanna.  Á tímabili faraldursins á Íslandi hefur dauðsföllum fækkað m.v. meðaltal 2017-2019.  Þannig er það sjaldnast, og sum lönd, einnig í Evrópu, hafa orðið hrottalega illa úti í faraldrinum.  Þar hafa heilbrigðiskerfin farið á hliðina.  Það vildi enginn sjá þá stöðu uppi hér.  

 Sársaukafyllstu afleiðingar þessa veirufaraldurs á Íslandi verða á efnahagssviðinu, og þær verða langvinnar.  Aðallega stafar þetta af ósamræmdum ákvörðunum einstakra þjóða um lokun flugvalla fyrir farþegaflug.  Íslendingar verða fyrir sérlega hörðum skelli af þessum sökum, þar sem landið heimsóttu  meira en 5 erlendir ferðamenn á hvern íbúa landsins á ári, en leitun er að svo háu eða hærra hlutfalli í heiminum, þótt þau dæmi finnist. 

Það er vandasamt að setja réttar hömlur á þjóðfélög á réttum tíma, en það er ekki síður vandasamt að aflétta þeim til að lágmarka byrðar samfélagsins. Þá má hafa hliðsjón af niðurstöðu stærðfræðingsins í Ísrael, Isaac Ben-Israel, sem samkvæmt "Times of Israel" 14. apríl 2020 komst að því, að COVID-19 fjaraði út eftir 70 daga frá fyrsta staðfesta smiti.  Það þýðir, að leyfa ætti atvinnustarfsemi hérlendis að hefja venjulegan rekstur að viðhafðri almennri smitgát (um hreinlæti og snertingu), þegar eftir v.19 2020, sem endar 9. maí 2020.  Hópsamkomur þarf þó áfram að banna, þar til engin smit hafa greinzt á landinu í a.m.k. 2 vikur. 

Efnahag landsmanna ríður á að önnur starfsemi en ferðaþjónusta, sérstaklega gjaldeyrisskapandi eða gjaldeyrissparandi starfsemi, geti gengið á þeim afköstum, sem markaðurinn leyfir. Það er líklegt, að fiskmarkaðirnir taki fljótlega við sér, þegar lífið færist í samt horf, og vonandi taka álmarkaðir við sér, þegar bílaverksmiðjurnar og byggingariðnaðurinn fara í gang aftur.  Það er veik von um, að Kínverjarnir hrúgi ekki sinni niðurgreiddu framleiðslu inn á markaðinn, og e.t.v. verður nú tekið fyrir það.

Jónas Elíasson, prófessor, reit merka grein í Morgunblaðið 14. apríl 2020 um heimatilbúinn vanda álvinnslunnar á Íslandi, sem gert hefur illt verra:

"Raforkuvinnsla á Íslandi: Aftur á byrjunarreit ?"

Þar gat m.a. á að líta eftirfarandi:

"Íslendingar báru til þess gæfu að setja í forystu þessa verks afburðamann, Jóhannes Nordal, seðlabankastjóra, sem stjórnaði aðgerðum úr stóli formanns stjórnar Landsvirkjunar.  Hann markaði stefnu uppbyggingarinnar að öðrum ólöstuðum, sem líka lögðu hönd á plóginn.  Sú stefna markar reit nr 1 í nútímavæðingu raforkukerfis Íslands."

Sú stefna að beita stórsölu raforku til langs tíma (45 ára með endurskoðunarákvæðum) til að fjármagna stórvirkjanir á íslenzkan mælikvarða, sem sæju viðsemjandanum, öðrum iðnaði, öllum atvinnugreinum um allt land ásamt heimilunum, fyrir ódýru rafmagni, var mörkuð af Viðreisnarstjórninni og líklega öðrum framar dr Bjarna Benediktssyni, iðnaðarráðherra og síðar forsætisráðherra, og Jóhanni Hafstein, iðnaðarráðherra og síðar forsætisráðherra.  Þessir menn fengu dr Jóhannes til að gegna stöðu formanns samninganefndar um stóriðju, sem náði að brjóta ísinn í samskiptum við erlenda fjárfesta og gera samning við svissneska álfélagið, Alusuisse, um raforkukaup til ISAL í Straumsvík, sem stofnað var 1966, ári á eftir Landsvirkjun.  Dr Jóhannes náði vissulega góðu sambandi við Svisslendingana, sem treystu honum, og það hafði úrslitaþýðingu um, að samningar tókust.

"Það, sem öðru fremur skipti sköpum, var sú ákvörðun að selja rafmagnið á rúmu kostnaðarverði gegn tryggum greiðslum í formi kaupskyldu.  Þetta losaði Ísland nánast algerlega undan allri áhættu, en takmarkaði gróðann um leið.  Í þessu skjóli hafa nánast engin vandamál komið upp, gagnrýnisraddir þagnað, nema hjá einstaka furðufuglum, og eignauppbygging í raforkukerfinu verið ótrúlega hröð. 

Þessi stefna á sér rætur í New Deal stefnu F.D. Roosevelt, forseta BNA. Svo hefur raforkuverðið hækkað með tímanum og endurnýjun samninga.  Stóriðjan hefur reynzt [vera] ágætur viðskiptavinur, og allir fordómar um stórfellda eitrun umhverfis og yfirvofandi fjárhagstap, jafnvel gjaldþrot, löngu dottnir fyrir borð." 

  Það var ekki uppfinning dr Jóhannesar í "stóriðjunefndinni" að selja Svisslendingunum rafmagnið "á rúmu kostnaðarverði".  Þetta var þá alsiða, einnig í Evrópu, og t.d. vel þekkt frá Frakklandi og Noregi.  "Stóriðjunefnd" dr Jóhannesar náði einfaldlega hagstæðustu samningum, sem þá stóðu Íslendingum til boða.  Íslendingar voru óskrifað blað á meðal iðnjöfra þess tíma, og slíkt er stór óvissuþáttur, sem virkaði til lækkunar rafmagnsverðs miðað við markaðsverð til álvera á sinni tíð, t.d. í Noregi.  Íslenzka raforkukerfið var á þessum tíma vanþróað, og það voru efasemdir um, að Íslendingar gætu veitt rafmagninu nægt afhendingaröryggi m.v. þarfir álvers. Það var þá einsdæmi í Evrópu, að treysta þyrfti á eina flutningslínu 100-200 km leið fyrir heilt álver í storma- og ísingasömu landi, enda kom fljótlega að því, að Búrfellslína 1 slitnaði (á hafinu yfir Hvíta í ísingarveðri) með þeim afleiðingum, að nokkurra sólarhringa framleiðslustöðvun varð í Straumsvík og mörg ker voru "svæfð" (ekki þó svefninum langa), en nokkur töpuðust (frusu). 

Ofan á línuvandræðin bættist svo innrennslistregða Búrfellsvirkjunar vegna ísingar við inntaksmannvirkin.  Mikið svartagallsraus hafði farið fram um þetta vandamál, sem reyndist samt ekki jafnalvarlegt fyrir rekstur virkjunarinnar og svartsýnir höfðu spáð, enda náðu starfsmenn Landsvirkjunar smám saman undirtökunum í viðureigninni við þetta viðfangsefni.  Þegar Íslendingar höfðu náð tökum á þeim byrjunarörðugleikum, sem hér hafa verið tíundaðir, skapaðist grundvöllur til að leita hófanna um að hækka raforkuverðið, enda hafði heimsmarkaðsverð hækkað mikið í fyrstu olíukreppunni 1973. 

"Stjórn Landsvirkjunar hefur lýst því yfir, að markmið þeirra [hennar] sé að auka verðmæti auðlindarinnar.  Þetta er illframkvæmanleg[t], nema hækka rafmagnið, en sú stefna er þvert á tilganginn með stofnun Landsvirkjunar, sem var að tryggja raforku á sem lægstu verði til almennings og iðnaðar.  Þetta hefur tekizt, þó [að] ekki hafi verið eins langt gengið og hjá FDR á sínum tíma, sem nánast gaf rafmagnið, en fékk í staðinn skattana af gríðarlegri iðnaðaruppbyggingu, sem reif Ameríku upp úr kreppu þriðja áratugarins á undraverðum hraða."

Hér er komið að aðalásteytingarsteininum núna varðandi Landsvirkjun.  Árið 2010 setti "fyrsta tæra vinstri stjórnin" til valda í Landsvirkjun nýtt fólk, sem kúventi upphaflegri og þágildandi stefnu Landsvirkjunar og aðlagaði hana að gildandi orkulöggjöf landsins, sem mótaðist af orkulöggjöf Evrópusambandsins (ESB), s.k. orkupökkum 1 og 2, sem miða að einkavæðingu orkuvinnsluhluta raforkukerfisins, og að hvert fyrirtæki innan hans eigi að miða alla sína starfsemi við að hámarka hagnað sinn án tillits til annarra hagsmuna, s.s. atvinnuþróunar og hámörkunar verðmætasköpunar í landinu.  

Þessi stefna er sniðin við frjálsan orkumarkað, þar sem frjáls samkeppni margra fyrirtækja ríkir um viðskiptavinina, og samkeppnin heldur þá verðlagi orkunnar í skefjum til hagsbóta fyrir neytendur, en bezt reknu orkufyrirtækin ná að auka markaðshlutdeild sína og fjárfesta í nýjum orkuverum.  Ef þetta markaðskerfi er hins vegar innleitt í einokunarumhverfi, eins og íslenzki raforkumarkaðurinn er í raun og veru á sviði stórsölu raforku og að miklu leyti á öllum heildsölumarkaði raforku, þá losnar fjandinn úr grindum.  Það er einmitt það, sem hefur gerzt á Íslandi, með voveiflegum afleiðingum fyrir atvinnulífið og þar með heimilin í landinu. 

Reynslan hérlendis hefur sýnt, að ávöxtun arðs af orkulindunum er ekki bezt komin hjá Landsvirkjun, heldur hjá almenningi, rafmagnsnotendum, atvinnulífi og heimilum, með því að halda rafmagnsverði í landinu samkeppnishæfu, þ.e. lægra en yfirleitt er annars staðar í boði, óniðurgreitt þó, og standandi vel undir meðalkostnaði Landsvirkjunar, jafnvel að næstu virkjun meðtalinni. 

"Nú stefnir í, að Rio Tinto vilji loka Ísal [ISAL].  En það er bara byrjunin, hin álverin sitja í sömu súpunni, þó [að] minna heyrist frá þeim.  Þau geta líka tekið ákvörðun um að loka, þó [að] þau hjari e.t.v. út kaupskyldutímann.  Taki þau slíka ákvörðun, verður öll viðhaldsvinna lágmörkuð, og menn fara frá útkeyrðum, verðlausum iðjuverum.  Eftir sitja Íslendingar með gríðarlega verðmætar orkulindir, en enga kaupendur og engar tekjur.

Við verðum aftur komin á reit nr 1, árið 1969.  Er þetta stefnan að klára núverandi samninga og hætta svo ?  Hvernig er öðruvísi hægt að skilja skæting frá Landsvirkjun um arðgreiðslur og kjarasamninga hjá Ísal; mál, sem henni kemur ekkert við ?  Er það stefnan að hækka rafmagnið fram í rauðan dauðann ?  Sitja út samningstímann, [á] meðan kaupskyldan varir, og fara svo ánægðir á eftirlaun ?"

Þetta er hárrétt athugað hjá Jónasi. Mesti viðhaldskostnaður álvers er fólginn í endurfóðrun kera.  Sú starfsemi hefur verið aflögð í Straumsvík.  Með fækkandi rafgreiningarkerum í rekstri minnkar rafmagnsnotkunin vikulega og framleiðslan og þar með raforkunotkunin.

ISAL verður ekki einsdæmi, heldur kanarífuglinn í námunni, fyrsta fórnarlambið, af því að Straumsvíkurverksmiðjan er elzt, og þar var orkusamningurinn útrunninn og þarfnaðist endurnýjunar fyrst.  Iðnaðarráðherrann og ríkisstjórnin ásamt Alþingi verða að gera sér grein fyrir þeirri háskalegu þróun, sem nú á sér stað yfir hausamótunum á þeim.  Núverandi stefna Landsvirkjunar mun leiða til þess, að hún stendur yfir höfuðsvörðum allra orkusæknu fyrirtækjanna í landinu.  Er það virkilega þróun, sem Íslendingar þurfa á að halda, að hefjist nú, þegar umsvifamesta atvinnugrein landsins er í rúst og mun fyrirsjáanlega ekki ná vopnum sínum á næstunni ?

 

 


Lítil frétt um stórmál og klúður

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) hefur í um 3 áratugi reynt að koma í kring innan Sambandsins markaðsvæðingu á ríkiseignum í náttúrunni, t.d. ríkisjörðum, námum og orkulindum. Framkvæmdastjórn ESB telur sig hafa lögsögu um nýtingu náttúruauðlinda, sbr sameiginlega fiskveiði- og landbúnaðarstefnu Sambandsins (CAP), en styr hefur staðið við einar 8 aðildarþjóðir um nýtingu vatnsréttinda til raforkuvinnslu.  Ætlaði Framkvæmdastjórnin með ágreininginn við Frakka, sem eru mesta vatnsorkuþjóðin innan ESB, fyrir Evrópudómstólinn.  Nú er spurning, hvort þetta stefnumál verður eitt þeirra, sem lendir undir exi Úrsúlu von der Leyen í kjölfar COVID-19.  Ástæðan er sú, að aðferðarfræði ESB hefur óhjákvæmilega í för með sér orkuverðshækkanir, og það er einmitt ætlun ESB til að knýja á um frekari fjárfestingar í dýrum mannvirkjum endurnýjanlegrar orku.  Hagkerfi ESB-landa þarf hins vegar nú, eins og annars staðar, framar öðru á að halda ódýrri orku til að knýja endurreisn hagkerfa aðildarlandanna, sem eru mjög veikburða eftir lömun af völdum aðgerða til að hamla smiti á COVID-19, og loftslagsmarkmiðin verða einfaldlega að sitja á hakanum á meðan hjól atvinnulífsins eru að komast aftur á fyrri snúningshraða hið minnsta. 

 Innan EFTA-ríkjanna í EES (Evrópska efnahagssvæðinu) er staðan lítið eitt önnur að því leytinu til, að EES-samningurinn fjallar ekki um orkulindirnar og reglur um stjórnun þeirra, en Lissabon-sáttmálinn veitir Framkvæmdastjórninni víðtækar heimildir til yfirstjórnunar á orkumálum ríkjanna.  E.t.v. þess vegna hefur EFTA-dómstóllinn teygt sig ískyggilega langt inn á þetta svið, og dæmdi hann t.d. gegn norska ríkinu, að það væri að mismuna einkafyrirtækjum og ríkisfyrirtækjum með gamalli lagasetningu um það, sem Norðmenn kalla "hjemfall av vannkraftsressurser" eða þjóðnýtingu vatnsréttinda og vatnsaflsvirkjana eftir fyrst 80 ár og nú 60 ár í rekstri. Norðmenn breyttu þessari lagasetningu sinni, nýttu sér "frelsissvigrúmið", sem Carl Baudenbacher hefur gagnrýnt þá fyrir, og gerðu 2/3 eign ríkisins á þessari auðlind landsins að meginreglu, þannig að ekki gæti misréttis gagnvart einkaaðilum, og sú skipan hefur haldizt athugasemdalaust af hálfu ESA. Ríkisstjórnarlögmaðurinn (regjeringsadvokat) Sejersted, tefldi fram sínu "frelsissvigrúmi" og komst upp með það. Það sorglega er, að Íslendingar eiga engan Sejersted enn þá.  

ESA, sem EFTA-megin er spegilmynd Framkvæmdastjórnar ESB, ákvað að ráðast á garðinn, þar sem hann var lægstur hjá EFTA  með afskiptm af úthlutunarreglum nýtingarréttinda auðlinda á landi í eigu ríkisins með bréfi til íslenzku ríkisstjórnarinnar á þeim tíma, þegar hún átti fullt í fangi með að lágmarka neikvæðar afleiðingar bankahrunsins með undirbúningi Neyðarlaganna.  Fyrsta bréfið var dagsett 14.10.2008.

Síðan gengu mörg bréf á milli, en varnir ríkisstjórnanna, sem í hlut áttu á Íslandi, hafa verið vegnar og léttvægar fundnar í Brüssel, enda alls ekki reynt að nýta sér neitt "frelsissvigrúm".  Bréf ríkisstjórnanna íslenzku til ESA hafa ekki verið gerð aðgengileg almenningi, en af bréfum ESA, sem aðgengileg eru á vefsvæði Eftirlitsstofnunarinnar, má ráða í efni þeirra. Þessum ríkisstjórnum virðist ekki hafa hugkvæmzt sú djarfa og árangursríka leið Norðmanna, þegar þeir síðar fengu bréf svipaðs efnis, að efast hreinlega um lögsögu ESA yfir ráðstöfun náttúrulegra orkulinda til raforkuvinnslu. Vonandi sér íslenzka ríkisstjórnin að sér með aðstoð Alþingis og gengur í skóla prófessors Sejersteds.  Atbeini Alþingis er eðlilegur og nauðsynlegur í stórmáli, sem stjórnvöld hafa frá upphafi gert sér far um að drepa á dreif. 

Úrskurður ESA, nr 075/16/COL, í þessu máli var gefinn út 20.04.2016, og íslenzk stjórnvöld vöktu ekki sérstaka athygli þjóðarinnar á honum, þótt hann fæli í sér kröfu um fullveldisafsal á megninu af orkulindum Íslands með því að fyrirskrifa markaðssetningu á Innri markaðinum á nýtingarrétti orkulinda í ríkiseigu.  Hvernig í ósköpunum ríkisstjórninni kom til hugar að fallast alfarið á þetta fullveldisframsal er eftir að útskýra fyrir þjóðinni.  Tveir ráðherranna, sem þá áttu hlut að máli, sitja í núverandi ríkisstjórn, svo að þingmönnum er í lófa lagið að leita skýringa hjá þeim.  Þessir ráðherrar fá falleinkunn, ef þau svara þannig, að embættismenn hafi sagt þeim, að EES-samningurinn legði Íslendingum þær skyldur á herðar að framselja markaðnum nýtingu orkulindanna eða að embættismenn hafi haldið því fram, að Stjórnarskráin eða almenn löggjöf bannaði stjórnvöldum það ekki. Kenningar Sejersteds voru þá löngu kunnar.

Þessir ráðherrar eru: 

Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, 07.04.2016-11.01.2017

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra, 08.04.2016-11.01.2017.

Þann 15.12.2016 fór síðan bréf frá ríkisstjórninni með tímasettri framkvæmdaáætlun, og skyldi lúkning verða 30.05.2017.  Á þessum grundvelli lauk þessu máli af hálfu ESA með bréfi til ríkisstjórnar: 010/17/COL, en ekkert hefur verið framkvæmt í málinu og verður sennilega ekki úr þessu.  Þessi vinnubrögð íslenzkra stjórnvalda eru afspyrnuléleg og gæti kæra ESA fyrir EFTA-dómstólinum þar af leiðandi verið yfirvofandi fyrir skort á efndum.  

Um hvað fjallaði litla fréttin í Mogganum 11.04.2020 ?  Hún bar fyrirsögnina:

"Fresta frumvarpi um nýtingu auðlinda"

og hófst þannig:

"Upp hafa komið rökstuddar efasemdir um, að tilskipun Evrópuþingsins og -ráðsins um þjónustu á innri markaðinum, og til vara grein EES-samningsins um staðfesturétt, eigi við um raforkuframleiðslu.  

 Því hafa íslenzk stjórnvöld ákveðið að fresta fyrirhuguðum lagabreytingum uns betri vissa verður fengin fyrir því, hvaða þjóðréttarlegu skuldbindingar hvíla á íslenzka ríkinu að þessu leyti.  Frumvarpið verður því ekki lagt fyrir Alþingi á þessum vetri."

Frestur er á illu beztur má um þessa niðurstöðu ríkisstjórnarinnar segja. Hún vísar augljóslega beint til málatilbúnaðarins gegn Noregi og snöfurmannlegs svars Sejersteds eða a.m.k. í anda "frelsissvigrúms".  Málatilbúnaðurinn gegn gegn Íslandi var af öðrum toga, þótt afleiðingarnar yrðu hinar sömu, næði ESA sínu fram. 

Það vafðist ekki eitt andartak fyrir norskum stjórnvöldum, hvort Noregur væri að þjóðarétti bundinn við að hlýða ESA og framselja náttúrulegar orkulindir sínar, aðallega virkjaðar vatnsorkulindir, í hendur Innri markaði EES, sem í einu og öllu lýtur regluverki ESB. Þegar mikilvægir ríkishagsmunir eru í húfi, grípa Norðmenn til "frelsissvigrúmsins", sem þeir reyndar nefna "handlingsrommet". 

Bréf ESA til norsku ríkisstjórnarinnar (orku- og olíumálaráðuneytisins) barst ekki fyrr en 30.04.2019.  Málatilbúnaður þar var af öðru tagi en gegn Íslandi, en krafan þó sams konar, og afleiðingar uppgjafar yrðu eins.  ESA kvað norska ríkið verða að finna óyggjandi markaðsverð á vatnsréttindum í eigu ríkisins og leyfa jafnan aðgang allra fyrirtækja, óháð eigendum og rekstrarformi.  Ljóslega er hér átt við allan Innri markað EES.  Var vitnað í þrenns konar lögskýringargögn ESB kröfunni til fulltingis:

  • Þjónustutilskipun nr 2006/123/EB
  • Tilskipun um opinber innkaup nr 2014/23/EB
  • TFEU (stofnsáttmáli ESB) gr. 49 og 56

Norska ríkisstjórnin svaraði snöfurmannlega rúmum mánuði síðar, bar svarið undir Stórþingið og fékk fullan stuðning þess.  Bréf orku- og iðnaðarráðuneytisins var vel ígrundað og stutt sannfærandi lagalegum rökum.  Niðurstaða þess var höfnun á þeim grundvelli, að ofangreindar tilskipanir og greinar stofnsáttmála ættu ekki við raforkuvinnslu og Norðmenn hefðu tekið það fram á sínum tíma, þegar þjónustutilskipunin var í burðarliðnum, að þeir teldu orkuvinnslu úr náttúruauðlindum Noregs alls ekki falla undir gildissvið hennar.   

Svona eiga sýslumenn að vera.  Það er eitthvað annað en klúðursleg vinnubrögð íslenzka Stjórnarráðsins í þessu máli.  Hvað skyldi valda því, að hér eru flækjufætur einar settar til verka og dagskipun ráðherra virðist vera að bukka sig og beygja fyrir Brüssel (einnig aðsetur ESA).  Þessu verður að linna, og það verður að draga línu í sandinn. Það er Sejersted-línan.  EES-samningurinn snertir ekki stjórnun auðlinda landsins. 

Í viðhengi er ítarlegri grein um þetta mál eftir pistilhöfund.  

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Tengsl orkupakka ESB við hátt orkuverð á Íslandi

Elias B. Elíasson, verkfræðingur, hefur ritað fróðlegar og skarplegar greinar í Morgunblaðið um orkumál, orkupakka ESB og orkustefnu, sem af þeim leiðir. Undanfarið hafa þessar greinar snúizt um birtingarmynd hrikalegra afleiðinga innleiðingar orkulaggjafar Evrópusambandsins (ESB) á starfsemi stórnotenda raforku, einkum álverksmiðjunnar ISAL í Straumsvík. Er nú fram að koma, hversu umhendis og skaðleg innleiðing orkulöggjafar ESB er á Íslandi. 

Það, sem er einkennandi fyrir skarplega greiningu Elíasar á stöðu orkumálanna á Íslandi, er, að hann tengir hana með skýrum hætti við gildandi orkulög í landinu, sem að meginstofni koma frá ESB, þar sem gjörólíkt orkukerfi og orkumarkaðskerfi eru m.v. íslenzkar aðstæður, og þar með fæst einhver botn í þá kúvendingu á stefnu Landsvirkjunar gagnvart viðskiptavinum sínum, sem átt hefur sér stað síðan 2010. 

Í ESB er aðalorkugjafinn jarðefnaeldsneyti, og á orkumarkaði þess ríkir frjáls samkeppni.  Í orkustefnu ESB eru innbyggðir hvatar til að hækka orkuverð til að örva áhuga á að reisa nýjar virkjanir, aðallega endurnýjanlegra orkulinda, en einnig hinna til að brúa bilið, þegar lygnt er eða sólarlaust. 

Frjáls samkeppni á Innri markaðinum hindrar hins vegar, að verðið rjúki þar upp úr öllu valdi. Reyndar er botninn dottinn þar úr markaðinum (verðinu) núna vegna eftirspurnarleysis. Hérlendis er hins vegar engin samkeppni um stóra viðskiptavini.  Allir ættu að sjá, að löggjöf, sniðin utan um orku- og markaðskerfi ESB hentar ekki á Íslandi.  Nú er þar að auki komið í ljós, að skaðsemisáhrif þessarar löggjafar á Íslandi eru feikileg og sízt minni en varnaðarorð í OP#3 umræðunni kváðu á um.  Orkupakkarnir valda stórtjóni á Íslandi, og er þó ekki bætandi ofan á loðnubrest og CoVid-19, sem er að ganga af mörgum ferðaþjónustufyrirtækjum dauðum og að setja íslenzka hagkerfið á hliðina um stundarsakir.

Grein Elíasar í Morgunblaðinu 7. marz 2020 bar yfirskriftina:

"Enn um raforkuverð ÍSAL".

Ein fjögurra undirgreina bar fyrirsögnina:

"Áhrif ESB":

"Áhrif ESB á þessa samninga [við álverin-innsk. BJo] eru veruleg. Á ársfundi Landsvirkjunar 2016 birti Hörður Arnarson, forstjóri, stefnu fyrirtækisins, sem lýst var svo: "Hlutverk Landsvirkjunar er að hámarka afrakstur af þeim orkulindum, sem fyrirtækinu er trúað fyrir, með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi."  [Undirstr. BJo.]

Í umfjöllun sinni lét hann þess svo getið, að samkvæmt lögum gæti stefna fyrirtækisins ekki verið langt frá því, sem í þessum orðum felst.  Lögin, sem hann vitnaði til, eru lög ESB innleidd í EES-samninginn.  Þetta verður ekki skilið öðruvísi en svo, að allur arður af þessum auðlindum þjóðarinnar skuli skila sér inn í Landsvirkjun lögum samkvæmt.  [Undirstr. BJo.]

Þjóðin sjálf eða fulltrúar hennar hafa engan rétt til að hlutast til um, hvar í þjóðfélaginu þessi arður komi fram.  Með þessu er þrengt að þeim sveigjanleika, sem hér þarf að vera, til að skapa íslenzku atvinnulífi viðunandi samkeppnisstöðu gagnvart þeim, sem eru nær mörkuðunum á meginlandi Evrópu.  

Forstjórinn gat þess einnig í Kastljósþætti RÚV á dögunum, að fyrirtækjasamstæður hefðu visst svigrúm til að ákveða, hvar arður samstæðunnar kemur fram. Samkvæmt túlkun hans á (ESB)-lögunum hefur íslenzka þjóðin sem eigandi raforkufyrirtækjanna ekki hliðstætt svigrúm til að hlutast til um, hvar arðurinn af orkunni kemur fram.  Þessu þarf að breyta."

Þetta er kjarni málsins varðandi það efnahagslega tjón, sem orkupakkar ESB valda á Íslandi.  Það er vafalaust rétt túlkun hjá Elíasi, að forstjórinn og þá væntanlega stjórn Landsvirkjunar túlka lögin (orkupakkana) þannig, að allur arður orkulindanna í nýtingu hjá Landsvirkjun eigi að falla til Landsvirkjunar. 

Sama dag og grein Elíasar birtist í Mogganum birtist þar önnur góð grein, og var sú eftir Ásmund Friðriksson, Alþingismann.  Þar stóð m.a., að hann liti svo á, að þessi arður væri bezt ávaxtaður hjá samfélaginu sjálfu, þ.e. heimilum og fyrirtækjum.  Undir það er heilshugar hægt að taka, og um þetta snýst meginágreiningurinn um orkumálin.  

Þar sem í ofangreindri stefnuyfirlýsingu Landsvirkjunar er einnig minnzt á verðmætasköpun, er þó ljóst, að túlkun forstjórans á stefnunni er röng.  Hann hámarkar ekki verðmætasköpun úr orkunni hér innanlands með því að hámarka verð hennar, heldur með því að orkuverðið skapi framleiðslufyrirtækjunum lífvænlega samkeppnisstöðu á alþjóðlegum mörkuðum, svo að þau geti framleitt og hagnazt sem mest á að auka virði raforkunnar í vöruútflutningi.  Slíkt verður ætíð helzti virðisaukinn af raforkuvinnslunni.

Þá eru orð forstjóra Landsvirkjunar almennt um flutning arðs innan samstæðu dylgjur einar um stóriðjuna í heild og sýna, að forstjórinn er úti á túni sem faglegur forstjóri stærsta raforkufyrirtækis landsins, kominn langt út fyrir verksvið sitt og er raunar farinn að stunda bullandi pólitík gegn erlendum fjárfestingum í landinu.  Við svo búið má ekki standa hjá Landsvirkjun.  Það eru umbrotatímar og vorhreingerninga er þörf.  

 

 


Af sanngirnis- og viðskiptasjónarmiðum

Morgunblaðið hefur fjallað ítarlega um Straumsvíkurvandamálið, eða væri nær að nefna það Háaleitisvandamálið ?  Staksteinar láta sér fátt óviðkomandi vera, og fjölluðu 13.02.2020 um nauðsyn ákvarðanatöku nú til að draga úr efnahagsvandanum fremur en að magna hann með ákvarðanafælni, sem hrjáir suma ráðherra.  Téðir Staksteinar um þetta málefni voru undir heitinu: 

"Rétti tíminn er nú".

Þeim lauk þannig:

"Hagsmunirnir, sem í húfi eru [í Straumsvík], hlaupa á milljarðatugum á ári [til 2036].  Slíkar tölur kalla á, að staðan sé tekin alvarlega og rætt, hvaða þýðingu fyrirtækið [ISAL] hafi, og hvaða áhrif það hefði, ef þess nyti ekki lengur við.  

Hefur Landsvirkjun aðra kaupendur að þeirri orku, sem nú er seld til Straumsvíkur ?  Bíða önnur störf þeirra, sem þar starfa ?  Landsmenn velta fyrir sér spurningum af þessu tagi, og fyrirtækið þeirra, Landsvirkjun, og ríkisvaldið, geta aldrei orðið stikkfrí í svo stóru máli."

Mogginn er sem jafnan með fingurinn á púlsi þjóðlífsins og víðs fjarri því að vera þar utan gátta, sem því miður er rétta lýsingin á ýmsum öðrum stórum og litlum fjölmiðlum hérlendis, svo að ekki sé nú minnzt á ósköpin í Stjórnarráðinu eða í háhýsinu ofarlega á Háaleitisbrautinni, þeirri góðu götu. Það er hverju orði sannara, að ríkisstjórnin getur ekki setið prúð hjá með hendur í skauti á meðan þessu fram vindur.  Vonandi kynna ráðamenn sér rækilega grein Elíasar B. Elíassonar, verkfræðings, í Morgunblaðinu 25.02.2020, þar sem hann m.a. gefur til kynna, að ISK sé ekki nægt sveiflujöfnunartæki fyrir íslenzka  atvinnulífið, heldur þurfi raforkuverðið að koma þar jafnframt til skjalanna. Það er skarplega athugað, enda er íslenzka hagkerfið nú þegar raforkuknúið að miklu leyti og verður það alfarið í kjölfar orkuskiptanna.   

Til að setja örlítið meira kjöt á beinið má geta þess, að um er að útflutningstekjur upp á 55 mrdISK/ár eða um 5 % af útflutningstekjum landsins, og um 30 % af þeirri upphæð renna til raforkukaupa (af Landsvirkjun) og um 10 % fara í launakostnað.  Innlendur kostnaður fyrirtækisins er um 45 % af tekjunum.  Samkvæmt Hagfræðistofnun Háskóla Íslands eru um 1250 störf beint og óbeint tengd starfseminni í Straumsvík.  Við lokun ISAL mundi atvinnuvandi þeirra bætast við vanda tæplega 10 þúsund atvinnulausra íbúa landsins um þessar mundir.  Þeir spanna fjölmargar stéttir, og munu fæstir strax geta gengið í önnur störf í núverandi efnahagslægð, og nánast enginn í betur launuð störf.  Vandi Hafnarfjarðar verður mestur af sveitarfélögunum, enda líklega um helmingur starfsmanna ISAL Hafnfirðingar, og verksmiðjulóðin í landi Hafnarfjarðar. Tekjutap Hafnarfjarðarbæjar mundi vafalaust fara yfir 1 mrdISK/ár fyrstu misserin á eftir.  

Um er að ræða rúmlega 3,0 TWh/ár, sem Landsvirkjun hefur líklega engan kaupanda að á sömu kjörum í nánustu framtíð og fyrirtækið setur upp gagnvart RTA/ISAL.  Þetta er um fimmtungur af orkuvinnslugetu Landsvirkjunar, sem taka mun mörg ár að mjatla út til nýrra og e.t.v. gamalla viðskiptavina.  Ef mál þróast á versta veg og Landsvirkjun tapar þar að auki kaupskyldukröfunni á hendur RTA fyrir dómi um megnið af umsaminni orku, þá gæti tjón Landsvirkjunar og  Landsnets með vaxtakostnaði orðið um mrdISK 200. Af hálfu Landsvirkjunar er glannalega teflt og óviturleg áhætta tekin með þvergirðingslegri afstöðu í garð gamals viðskiptavinar. 

Málflutningur forstjóra Landsvirkjunar frá því, að yfirlýsing RTA var gefin út í Straumsvík 12.02.2020, hefur vakið furðu pistilhöfundar fyrir margra hluta sakir, t.d. vegna þess, að leynd hvílir yfir samninginum, en það aftrar honum ekki frá að kalla hann sanngjarnan, þótt almenningur eigi þess ekki kost að leggja mat á það. Í Kastljósþætti RÚV 24.02.2020 virtist hann túlka tilkynningu RTA/ISAL sem reykbombu í áróðursstríði.  Það er hættuleg rangtúlkun á alvarlegri stöðu, sem fyrirtækið varð að gera almenningi og verðbréfamörkuðum kunnuga.  Hann hefur, eins og áður segir, verið með fullyrðingar, sem almenningi er ómögulegt að sannreyna vegna leyndarinnar, sem RTA/ISAL að fyrra bragði lagði til, að aflétt yrði.  Dæmi um þetta er viðtal Þorsteins Friðriks Halldórssonar í Markaðnum 19.02.2020 við forstjóra Landsvirkjunar og forstjóra Elkem á Íslandi:  

"Sanngjarn samningur en ekki ódýr".

Hörður Arnarson sagði þar m.a.:

"Varðandi raforkuverðið teljum við, að samningurinn sé sanngjarn fyrir bæði fyrirtækin [ISAL og LV].  Vissulega er hann ekki ódýr, en hann er sanngjarn.  Á heildina litið tel ég álverið ágætlega samkeppnisfært í iðnaði, sem býr við krefjandi aðstæður."

 Þetta er undarlegur málflutningur, uppfullur af huglægu mati, algjörlega án rökstuðnings.  Það er skákað í því skjólinu, að umræðuefnið er sveipað leyndarhjúpi, sem forstjórinn þykist í orði kveðnu vilja afnema, en efast má um heilindi þeirra orða.  Honum verður afar tíðrætt um sanngirni, en hér skal hins vegar fullyrða og rökstyðja hið gagnstæða.  Samningur LV við RTA/ISAL 2011 var og er ósanngjarn.

Samningurinn er gerður í einokunarumhverfi, sem er ekki umhverfi Innri orkumarkaðar ESB, þótt aðferðarfræði hans um jaðarkostnaðarverðlagningu í nýjum samningum hafi verið beitt þarna af hálfu LV.  Orkukaupandanum var einfaldlega stillt upp við vegg, því að hann gat ekki leitað til samkeppnisaðila LV, því að þeir höfðu ekki "vöruna", sem hann vantaði, á boðstólum, þ.e. 430 MW afl og um 3500 GWh/ár orku. Viðskiptavinurinn (RTA/ISAL) stóð þá frammi fyrir því að taka hatt sinn og staf, stöðva allar fjárfestingar (mrdISK 65), sem hann var þá á miðju kafi í, eða að veðja á bjartsýnar spár um þróun álverðs, sem þá stóð í 2000-2300 USD/t. 

Hefði þróun álverðs aðeins fylgt þeirri verðlagsvísitölu, sem LV heimtaði, að orkuverðið fylgdi, hefði hækkunin numið 16 % þar til nú og stæði  í 2500 USD/t um þessar mundir, en er í raun undir 1700 USD/t samkvæmt LME-skráningu, sem þýðir lækkun um 21 % frá samningsgerð. Enginn sanngjarn maður kemur auga á snefil af sanngirni í svo einhliða samningi, þar sem annar aðilinn hefur allt sitt á hreinu, en enginn varnagli er settur til að verja hagsmuni hins, ef spár um þróun markaða bregðast. 

Nú nemur raforkukostnaður ISAL í USD/tAl um 34 % af skráðu álverði, LME.  Ekkert viðskiptalega rekið álver getur skilað nokkurri framlegð við þær aðstæður, og þar af leiðandi eru fyrirtækinu allar bjargir bannaðar í núverandi stöðu.  Eigandinn á ekkert val, og að tala um áróðursbrellu í þessu sambandi, eins og forstjóri Landsvirkjunar leyfir sér að gera, ber vott um dómgreindarleysi.  Við upphaf samningsins 2011 nam þetta hlutfall um 24 %, sem er við þolmörkin fyrir álver á frjálsum markaði.  Samningur, sem veldur slíkri breytingu, er ekki aðeins ósanngjarn; hann er óbærilegur.  Nú hefur stjórn RTA misst þolinmæðina gagnvart þvermóðskunni, sem mætir fyrirtækinu af hálfu LV, og mun að öllum líkindum stöðva starfsemina og þar með fjárhagstapið, um leið og málaferli munu hefjast út af kaupskylduákvæðum samningsins, sem LV gæti fyrirgert með því að neita sanngirniskröfum mótaðilans. Ríkisstjórnin, fulltrúi eiganda LV, verður að grípa í taumana til að forða þjóðarbúinu frá stórtjóni.

Í þessari "Markaðsgrein" Þorsteins Friðriks var einnig fróðlegt viðtal við forstjóra Elkem á Íslandi, sem sagði sínar farir ekki sléttar í viðskiptunum við Landsvirkjun.  Þar (á Háaleitisbraut) virðist vera eitthvað mikið að stjórnarháttum, því að fyrirtækið hefur borið langt af leið og er alls ekki að ávaxta þær orkulindir, sem því er falið að nýta, með þjóðhagslega hagkvæmasta hætti til langframa litið.  Þegar hver viðskiptavinur Landsvirkjunar um annan þveran kemur fram og ber sig afar illa undan fyrirtækinu, er ljóst, að þetta fyrirtæki er ekki að rækta langtíma viðskiptasamband við viðskiptavini sína hérlendis.  Þar með er það að rífa niður, það sem byggt hefur verið upp, og setja gríðarlega hagsmuni landsmanna í algert uppnám.  Hér skal fullyrða, að stjórn Landsvirkjunar hefur til slíks ekkert umboð nú, jafnvel þótt hún gæti sýnt fram á, að hún gæti selt virkjaða og ónotaða orku úr landi um sæstreng f.o.m. 2028, sem hún ekki getur:

"Forstjóri Elkem á Íslandi segir óljóst, hvað taki við, þegar samningurinn við Landsvirkjun rennur út árið 2029.  Raforkuverðið sé komið að þolmörkum."

Það er engu líkara en Landsvirkjun hafi það nú sérstaklega á stefnuskrá sinni að úthýsa stóriðjunni úr landinu og ryðja þannig brautina fyrir útflutning á rafmagni um aflsæstreng.  Alþingismenn verða að gera sér grein fyrir því, hvað er raunverulega að gerast.  Núverandi ástand er óviðunandi, því að það gerir fyrirtækjunum ókleift að gera fjárfestingaráætlanir, sem leggi grunn að tækniþróun, vöruþróun og jafnvel framleiðsluaukningu þeirra í framtíðinni.  Þetta er ein af ástæðum þess, að fjárfestingar fyrirtækja í landinu í heild sinni hafa hrapað, sem mun gera núverandi dýfu hagkerfisins bæði dýpri og langvinnari en ella. 

Ekki dettur stjórnendum Statkraft í Noregi, systurfyrirtækis Landsvirkjunar þar, eða Stórþingi og ríkisstjórn, að haga sér með þessum óábyrga hætti, þótt þar séu nú þegar fyrir hendi millilandatengingar, sem nýta mætti í miklu meira mæli til útflutnings raforku en nú er gert, enda er þróun orkuverðs í Evrópu algerlega undir hælinn lögð.  Nei, norska ríkið hleypur undir bagga í erfiðleikum stóriðjunnar, m.a. Elkem, og greiðir niður raforkuverð til þeirra með um 6 USD/MWh (20 mrdISK/ár) samkvæmt upplýsingum starfsmanna Landsvirkjunar í nýlegri blaðagrein.  Það er enginn að biðja um það hér, heldur aðeins, að ríkisvaldið sýni sanngirni í sinni einokunarstöðu í stórsölu rafmagns og taki tillit til þess, að raforkuverð á Íslandi þarf að nota sem sveiflujöfnunartæki fyrir lítið og viðkvæmt hagkerfi.   Sú einokunarstaða er einsdæmi í Evrópu, og þess vegna er stórhættulegt að beita hér hugmyndafræði orkupakka ESB við verðlagningu rafmagns. 

""Vandinn er sá, að samkeppnishæfni verksmiðjunnar [á Grundartanga] á Íslandi samanstendur af fleiri þáttum en raforkunni einni og sér, og raforkan var sá þáttur, sem gerði það að verkum, að það borgaði sig að reka verksmiðju á Íslandi", segir Einar Þorsteinsson, forstjóri Elkem á Íslandi í samtali við Markaðinn." 

Þarna hittir forstjóri Elkem á Íslandi naglann á höfuðið, en það er einmitt lóðið, að samkvæmt orkupökkunum eiga orkufyrirtækin við samningsgerð sína ekki að taka tillit til þátta eins og meiri flutningskostnaðar og vinnuaflskostnaðar viðskiptavina sinna en samkeppnisaðila þeirra.  Ef þessi atriði eru hins vegar ekki höfð í huga í íslenzku einokunarumhverfi á þessu sviði, þá verða stórslys, eins og við erum að horfa upp á núna.  Fíllinn í postulínsbúðinni er að leggja hana í rúst, og iðnaðarráðherra horfir þæg á og er þegar byrjuð að tala aftur um æskilegar athuganir á sæstrengslögn til Íslands, sem hún hefur samt þagað um, síðan ríkisstjórnin lét hérlenda bakhjarla Ice-Link, Landsvirkjun og Landsnet, beina því til ESB að fjarlægja hann af verkefnaskrá innviðaverkefna, PCI, sem framkvæmdastjórn ESB síðan gerði.  Þetta er engin hemja.

Forstjóri Fjarðaáls, Tor Arne Berg, hafði þetta að segja við Markaðinn:

"Tor Arne Berg, forstjóri Fjarðaáls, segist ekki geta tjáð sig um raforkusamning álfyrirtækisins við Landsvirkjun, enda sé hann trúnaðarmál.  "Það er þó alveg ljóst, að álverið var reist hér á landi vegna þess, að hér var í boði langtímasamningur á stöðugri orku", segir hann.  "Helzta ógnin, sem steðjar að áliðnaði um þessar mundir, er offramleiðsla í Kína, sem kemur til vegna óeðlilegra niðurgreiðslna frá ríkinu.  Þetta hefur orðið til þess, að álverð hefur fallið á alþjóðlegum markaði, sem þrengir mjög að samkeppnisstöðu í þessari grein", bætir forstjórinn við."

Það er rétt hjá þessum forstjóra, að fáanlegir langtíma samningar um raforku úr landskerfi, sem nýtir einvörðungu orkulindir, sem kalla má endurnýjanlegar, hvetja erlenda fjárfesta til að fjárfesta á Íslandi.  Þetta er samt ekki nóg.  Ef rafmagnsverðið, sem í boði er, er hið sama eða hærra en í Noregi eða í öðrum löndum með fáanlega kolefnisfría raforku, þá fæst fjárfestirinn ekki til að fjárfesta hér, vegna þess að hann lítur á heildarkostnað sinn.  Hann verður einfaldlega hæstur á Íslandi, nema rafmagnsverðið lækki niður fyrir samkeppnislöndin.  Hversu mikið er rannsóknarefni, en gæti numið 10 USD/MWh. Þetta vissu menn gjörla hjá Landsvirkjun hér áður fyrr, en nú er það greinilega gleymt og grafið og öldin önnur á Háaleitisbrautinni.  

 

Það kom ýmislegt fleira markvert fram í viðtali Þorsteins Friðriks við forstjóra Elkem á Íslandi.  Í máli hans kemur fram, að viðhorf Landsvirkjunar til fyrirtækisins veldur því, að stjórnendur fyrirtækisins búast við að þurfa að leggja upp laupana árið 2029, og þess vegna er ekki lengur fjárfest til framtíðar í verksmiðjunni.  Höfuðvandi orkukræfs iðnaðar á Íslandi er sá, að hjá langstærsta orkubirgi hans ríkir fjandsamlegt viðhorf í garð stóriðjunnar, sem felst í stuttu máli í að blóðmjólka hana, á meðan hún tórir. Þeir, sem efast um þetta, ættu að hlusta á Kastljósþátt RÚV 24.02.2020 og lesa Morgunblaðsgrein Elíasar B. Elíassonar 25.02.2020. Síðan virðist ætlunin vera að selja orkuna til útlanda um sæstreng.  Skipta verður þegar um stjórnarstefnu í þessu ríkisfyrirtæki og taka upp sjálfbæra viðskiptastefnu, svo að báðir aðilar hagnist á viðskiptunum. 

"Ef við skoðum þættina, sem hafa áhrif á afkomu okkar, má segja, að sá þáttur, sem vegur þyngst sé markaðsverð á afurðum.  Það sveiflar afkomunni upp og niður.  En ef við skoðum samkeppnishæfni verksmiðju okkar á Íslandi - Elkem er með 27 verksmiðjur á heimsvísu - þá samanstendur hún af þremur meginþáttum og hefur gert það frá upphafi", segir Einar.

"Þar má fyrst nefna flutningskostnað.  Við flytjum öll hráefni inn og allar afurðir út.  Þetta hefur veikt samkeppnisstöðu okkar gagnvart keppinautum í Evrópu", segir Einar. 

Annar þáttur, sem vegur þungt, er innlendur kostnaður og launakostnaður.  Öll þjónusta, sem Elkem kaupir innanlands, er beintengd við launaþróun, og þessi kostnaður er mjög óhagstæður að sögn Einars.  Verksmiðja Elkem á Íslandi er sú dýrasta innan samstæðunnar, hvað laun varðar. 

"Þriðji þátturinn er raforkan, en hún er ástæðan fyrir því, að verksmiðjan er yfirleitt á Íslandi.  Raforkuverðið var hagstætt og gerði það að verkum, að verksmiðja á Íslandi var samkeppnishæf.  Eftir niðurstöðu gerðardóms má segja, að þessi samkepnisþáttur sé að miklu leyti horfinn", segir Einar."

Þarna lýsir forstjóri Elkem á Íslandi nákvæmlega sömu aðstæðum og eiga við um álver á Íslandi.  Vegna staðsetningarinnar eru flutningar aðfanga og afurða dýrari á hvert tonn fyrir verksmiðjurnar hérlendis en hjá samkeppnisaðilum.  Launakostnaður, vörur og þjónusta, eru dýrari hér.  Aðeins rafmagnið getur skapað samkeppnisforskot, sem verður a.m.k. að vega upp ofangreindan viðbótar kostnað, svo að erlendir fjárfestar kæri sig um að vera með starfsemi hér.  Gróft reiknað má ætla, að rafmagnið (orka+flutningur) verði að vera 10 USD/MWh lægra hjá álverunum hér en hjá samkeppnisálverum.  Ofan á þetta koma niðurgreiðslur hins opinbera, sem í Noregi nema um 6 USD/MWh og á meginlandinu um 9,5 EUR/MWh, jafngildi um 10,3 USD/MWh. Fróðlegt verður að sjá niðurstöðu verktakans Fraunhofers, sem iðnaðarráðherra hefur keypt til að semja fyrir sig skýrslu um málið.  Því verður samt vart trúað, að iðnaðarráðuneytið búi ekki yfir nægilega haldgóðum gögnum um þetta mál nú þegar.

"Ef við skoðum meðalafkomu síðustu ára - á bilinu 10-13 ár - þá má segja, að raforkuhækkunin hafi að stórum hluta étið upp allan hagnaðinn.  Þetta þýðir, að við höfum verið og erum að leita leiða til að hagræða og fækka fólki."

Sama er uppi á teninginum hjá ISAL.  Fyrir 2012 var hagnaður samfleytt í a.m.k. 15 ár, en segja má, að með núverandi raforkusamningi sé loku skotið fyrir það, að fyrirtækið geti skilað hagnaði (rafmagn 30 % af tekjum).  Þetta kallar Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, "sanngjarnan" samning.  Það er frumstæð blekkingartilraun, sem eykur ekki hróður hans. 

Spyrja má, hvort nokkurt vit sé í því fyrir eigandann (ríkissjóð), að Landsvirkjun reki nú þá stefnu að blóðmjólka gamla sem nýja viðskiptavini ?  Nú er hart í ári hjá viðskiptavinunum, og þá er rétti tíminn til að endurskoða þessa misheppnuðu samninga og hreinlega ekki hægt að bíða með það til 2024. 

"Vandinn er tvíþættur að sögn Einars.  Annars vegar er fyrirtækið að glíma við skammtímaáhrif af hærra raforkuverði, og hins vegar vakna spurningar um, hvað taki við, þegar samningurinn rennur út árið 2029."

Skammtímaáhrifin af óprúttinni stefnu Landsvirkjunar gagnvart viðskiptavinunum er, að þeir leitast við að fækka starfsmönnum, eins og framast er kostur, og skera öll önnur útgjöld niður við trog.  Þetta er ekki þjóðhagslega hagkvæmt hérlendis, þar sem laun í stóriðjunni eru tiltölulega há, og þau þurfa að hafa fjárhagslegt bolmagn til tæknivæðingar og nýsköpunar.

  Við uppkvaðningu gerðardómsins um raforkuverð til Elkem á Íslandi lýsti Landsvirkjun yfir óánægju með hann.  M.v. þekkt vinnubrögð Landsvirkjunar í seinni tíð má þess vegna gera ráð fyrir því, að Landsvirkjun muni heimta hærra orkuverð af Elkem á Íslandi og sitji við sinn keip, þótt viðskiptavinurinn neyðist þá til að hætta starfsemi. Þetta horfir mjög einkennilega við, því að ekki er vitað til, að Landsvirkjun hafi neinn viðskiptavin í handraðanum, sem geti og vilji borga uppsett verð Landsvirkjunar fyrir þessa orku, sem til Elkem fer.  Þetta sýnir í hvers konar ógöngur einokunarfyrirtæki getur ratað, þegar óbilgirni er við stjórnvölinn.  Viðskiptasambönd, sem Landsvirkjun átti þátt í að byggja upp áður, rífur hún nú niður  af fullkomnu fyrirhyggjuleysi.

""Það, sem hrjáir okkur mest, er spurningin um, hvað tekur við eftir 2029.  Ef það stefnir í enn hærra raforkuverð, þá lítur þetta afskaplega illa út, og við þurfum svar við þeirri spurningu mjög fljótt vegna þess, að við höfum stöðvað fjárfestingu í uppbyggingu.

Þegar við fjárfestum í uppbyggingu, þurfum við að horfa meira en 9 ár fram í tímann.  Við höfum þurft að setja ýmis góð mál á ís, t.d. verkefni, sem snúa að endurnýtingu á orku og varma, á meðan óvissan er, eins og hún er í dag", segir Einar."

Þegar orkupakkalöggjöfinni er fylgt út í æsar, fylgir henni óvissa af þessu tagi fyrir viðskiptavini orkufyrirtækjanna, vegna þess að þeir hafa ekki í önnur hús að venda með viðskipti sín ólíkt því, sem við á á orkumarkaði ESB.  Það er hins vegar falleinkunn fyrir núverandi stjórn ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar, sem er í einokunaraðstöðu á sviði raforkusölu til orkukræfs iðnaðar, að hún skuli halda Elkem á Íslandi í svo illvígri spennitreyju, að fyrirtækið sjái sig neytt til að halda að sér höndum og í raun og veru að stefna á lokun, þegar núverandi raforkusamningur rennur sitt skeið á enda.  

Það er lydduháttur af stjórnvöldum að láta stjórn og forstjóra Landsvirkjunar komast upp með þessa fáheyrðu hegðun.  Eigandi Landsvirkjunar verður hér að taka í taumana.  Nú þarf landið á að halda öllum þeim heiðarlegu erlendu fjárfestingum, sem völ er á, eða eins og máltækið segir: "allt er hey í harðindum".  Þá er auðvitað fyrir neðan allar hellur, að Landsvirkjun rói í allt aðra átt.  Hvaða hagsmunum telur stjórn Landsvirkjunar sig vera að þjóna með því að stöðva fjárfestingar og síðan að hrekja erlenda fjárfesta úr landi ?  Það er ekki einu sinni heil brú í þessu frá þröngu viðskiptalegu sjónarhorni Landsvirkjunar séð.

""Afurðaverðið mun sveiflast upp og niður, en samkeppnishæfnin hefur versnað svo mikið, að við þurfum að reka verksmiðjuna betur en aðrir innan Elkem og líklega betur en flestir okkar keppinautar, til þess að það sé arðbært að vera hérna.  En arðsemin til lengri tíma litið er ekki mjög spennandi, og það er ólíklegt, að við myndum byggja verksmiðju á Íslandi í dag."  Þá nefnir Einar, að Landsvirkjun hafi ekki verið sátt við niðurstöðu gerðardóms og talið, að raforkuverðið ætti að vera hærra.  Því sé líklegt, að Landsvirkjun muni fara fram á hærra verð en rekstur Elkem getur staðið undir, þegar núgildandi samningur rennur út."

 Þarna hafa menn það svart á hvítu, hvernig komið er fyrir viðskiptavild Íslands hjá alþjóðlegum framleiðslufyrirtækjum, sem nota mikla orku til starfsemi sinnar.  Þau vantreysta Landsvirkjun fullkomlega og hafa engan hug á nýrri starfsemi og mjög takmarkaðan áhuga fyrir áframhaldandi starfsemi.  Fyrir Jón og Gunnu, sem horfðu á Kastljósþátt RÚV að kvöldi 24.02.2020 með Guðrúnu Hafsteinsdóttur, formanni stjórnar Samtaka iðnaðarins, og Herði Arnarsyni, þarf þetta ekki að koma á óvart, því að það skein í gegnum málflutning Harðar, að hann leggur fæð á stóriðjufyrirtækin í landinu. Fyrir eigandann er sú staða gjörsamlega óviðunandi.

Ætla má, að gerðardómurinn, sem Einar nefnir, hafi reynt að finna verð, sem væri samkeppnishæft við aðrar verksmiðjur, að teknu tilliti til viðbótar kostnaðar á Íslandi.  Sú staðreynd, að Landsvirkjun telur úrskurðað orkuverð of lágt, er góð vísbending um, að hún er á algerum villigötum með verðlagningu sína. 

 

 

 

 

 

 

 


Þokukennd umræða um heildsöluverð raforku

Fáum blandast hugur um, að ágreiningur ríkir á milli Landsvirkjunar og viðskiptavina hennar um það, hvort verðlagning Landsvirkjunar á raforku í heildsölu í langtímasamningum sé samkeppnishæf við verðlagninguna á hinum Norðurlöndunum og annars staðar í Evrópu, hvað þá alþjóðlega. Þessi ágreiningur hefur birzt m.a. í blaðagreinum starfsmanna Landsvirkjunar og framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins.  Starfsmenn Landsvirkjunar bentu reyndar á í blaðagrein, sem vitnað verður til í þessum pistli, að stórfelldar niðurgreiðslur ýmissa ríkisstjórna í EES (utan Íslands) á raforkuverði til iðnaðar ætti sér stað. Er það mjög athyglisvert samkeppnisumhverfi, sem þannig viðgengst í EES, þegar ESA og Framkvæmdastjórn ESB umbera niðurgreiðslur ríkissjóða á orkuverði stóriðju (orkukræfs iðnaðar), t.d. í Noregi. 

Þessi ágreiningur um samkeppnishæfni íslenzks raforkuverðs til stórnotenda birtist einnig í tilkynningu Rio Tinto Aluminium (RTA), sem birt var í Straumsvík á starfsmannafundi kl. 0800 miðvikudaginn 12.02.2020, og yfirlýsingum Rannveigar Rist, forstjóra ISAL, og Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, í hádegisfréttum RÚV þann sama dag.  

Það verður alltaf erfitt að henda reiður á umræðunni um verðlag, ef aldrei eru gefnar upp tölur, nema meðaltal margra fyrirtækja, t.d. allra stóriðjufyrirtækjanna á Íslandi.  Samningsaðilar ættu að geta náð samkomulagi um að opinbera t.d. meðalraforkuverð á ári til hvers kaupanda. Báðir ofangreindir forstjórar lýstu sig hlynnta þessu í ofangreindum fréttatíma.  Hver stendur þá í vegi þess, að raforkuverð og flutningsgjald til ISAL séu birt ?  Kannski stjórnir fyrirtækjanna ?

Þann 5. febrúar 2020 riðu 2 galvaskir riddarar Landsvirkjunar inn á ritvöllinn á vettvangi Fréttablaðsins í því skyni að andmæla staðhæfingum framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins um, að raforkuverð Landsvirkjunar væri í tilviki samninga frá 2010-2011 og síðar ekki samkeppnishæft. Þess má geta, að Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, lýsti í ofangreindum fréttatíma yfir miklum áhyggjum vegna þess, að raforkuverðið til ISAL væri ósjálfbært.  Höfundar Fréttablaðsgreinarinnar, Valur Ægisson, forstöðumaður viðskiptagreiningar, og Sveinbjörn Finnsson, sérfræðingur í viðskiptagreiningu, skrifuðu m.a.:

"Raforkusamningar Landsvirkjunar eru gerðir á viðskiptalegum forsendum.  Það þýðir, að verð í þeim þarf að vera yfir kostnaðarverði fyrirtækisins og samkeppnishæft fyrir viðskiptavini okkar, en stórnotendur á Íslandi starfa almennt á hörðum alþjóðlegum samkeppnismarkaði." 

Það þarf ekki að fara í neinar grafgötur með það, að núverandi raforkuverð til ISAL er ósamkeppnisfært, þvert á það, sem forstjóri Landsvirkjunar staðhæfir (út í loftið).  Af ósvífni þess, sem skákar í skjóli leyndar, fullyrðir hann reyndar jafnframt, að verðið sé sanngjarnt, og er það sem blaut tuska framan í elzta viðskiptavin Landsvirkjunar, sem veit betur. Þar sem raforkuverðinu hefur verið leyft að hækka hömlulaust samkvæmt samningi 2011 eftir vísitölu í Bandaríkjunum, CPI, þótt álverðið hafi snarlækkað á sama tímabili (2011-2020), hefur hlutfall raforkukostnaðar af skráðu álverði hækkað úr tæplega 24 % í rúmlega 34 %.  Það er bersýnilega ekki sanngjarn samningur, sem inniheldur engan varnagla við því, að svo mikið halli á annan aðilann, að óbærilegt geti talizt.

Það má nefna 2 aðrar röksemdir fyrir því, að raforkuverðið er ósamkeppnisfært, og eru þær skyldar.  Önnur er, að ISAL er óseljanlegt, og er það orkusamningurinn, sem fælir lysthafendur frá kaupunum.  Hin er, að Landsvirkjun getur ekki bent á neina aðila, sem séu fúsir til að kaupa svipað orkumagn og ISAL með þeim skuldbindingum, sem eru í núverandi raforkusamningi ISAL við Landsvirkjun. 

Landsvirkjun hefur rekið ýtinn áróður fyrir tengingu Íslands með aflsæstreng við stóran raforkumarkað, og þar beittu menn sér fyrir því, að ESB tæki "Ice-Link" inn á forgangs innviðaverkefnaskrá sína, PCI, á sínum tíma.  Til þess voru refirnir skornir að geta við atburði eins og þann, sem varð í Straumsvík 12. febrúar 2020 (tilkynning Rio Tinto Aluminium í tilefni mikils fjárhagstaps ISAL 2012-2019), lýst því yfir, að raunveruleg samkeppni væri um orkuna, sem ISAL kaupir af Landsvirkjun. Sannleikurinn er hins vegar sá, að það er engin spurn eftir um 3000 GWh/ár af raforku með þeim skilmálum, sem Landsvirkjun setur. Þess vegna er núna skák á kónginn, og Landsvirkjun og ríkisstjórnin verða að taka afstöðu til þess á næstu 3 mánuðum, hvort þær vilja missa um 16 mrdISK/ár af raforkusölutekjum og 50-60 mrdISK/ár í útflutningstekjum (gjaldeyri).

  Með því að neita að endurskoða verð, sem er mjög íþyngjandi fjárhagsleg byrði fyrir viðskiptavin og sem nú er langt frá því að vera samkeppnishæft á Íslandi, er hætta á því, að Landsvirkjun glutri niður kaupskylduákvæði raforkusamningsins við ISAL í málaferlum fyrir dómi. Það er leitt upp á að horfa af hversu mikilli óforsjálni Landsvirkjun virðist tefla þessa skák.  Hún hefur verið tekin í bólinu með ofangreindri tilkynningu RTA, og of takmarkaður skilningur virðist vera á alvarleika málsins. 

Þegar hugtakið "kostnaðarverð" er notað í þessu samhengi, verða höfundarnir frá Landsvirkjun að gefa á því útskýringar við hvað er átt. Evrópusambandið (ESB) notar þetta hugtak yfirleitt um jaðarkostnað, þ.e. hvað kostar að framleiða viðbótar kWh, og það er ekki óeðlilegt í raforkukerfum, þar sem meginkostnaðurinn er breytilegur kostnaður.  Þetta viðhorf gegnir því hlutverki þar að hvetja til byggingar nýrra orkuvera til að koma í veg fyrir aflskort í kerfinu. Margt bendir til, að í samningum sínum við nýja  raforkunotendur og við endurskoðun gamalla orkusamninga við viðskiptavini sína, hafi Landsvirkjun lagt þetta viðhorf til grundvallar verðlagningu sinni, og er það í samræmi við orkulöggjöf ESB, sem hér hefur, illu heilli, verið innleidd í þremur s.k. orkupökkum.  Þessi jaðarkostnaðaraðferð er hins vegar með öllu óviðeigandi á Íslandi, og er vísasti vegurinn til að glutra niður alþjóðlegri samkeppnisstöðu Íslands á orkusviðinu með þeim neikvæðu afleiðingum, sem slíkt hefur á hag landsins.

Kerfi ESB getur aðeins virkað, þar sem er virk samkeppni.  Hér er engin samkeppni á framboðshlið, þegar á eftirspurnarhlið er þörf fyrir 3000 GWh/ár eða meira.  Þar ríkir einokun hérlendis, og Landsvirkjun hefur neytt þeirrar stöðu sinnar með þeim afleiðingum að verðleggja raforkuna allt of dýra og taka ekkert tillit til heildarhagsmuna og hámörkunar verðmætasköpunar í landinu, eins og hér verður að gera og var jafnan gert fyrir 2010.  

Afleiðingarnar voru fyrirséðar, og það var varað við þeim í umræðunum hérlendis um Orkupakka #3. Með yfirlýsingu Rio Tinto Aluminium (RTA) frá 12.02.2020 er komið í ljós, að Landsvirkjun hefur setið við sinn keip og að þá sér stjórn RTA sér þann kost vænstan að láta sverfa til stáls.  Verði Landsvirkjun látin komast upp með það að bíta sig fasta við orkustefnu ESB, þá breytist hún úr uppbyggingarafli fyrir íslenzkt atvinnulíf í niðurrifsafl. Að 4 mánuðum liðnum verður þá tilkynnt um lokun ISAL, og að Landsvirkjun verði dregin fyrir dóm, þar sem RTA mun krefjast þess að losna undan kaupskylduákvæði um 85 % forgangsorkunnar á þeim grundvelli, að samningsforsendur séu brostnar og Landsvirkjun hafi sýnt ósveigjanleika, ósanngirni og hafi árin 2010-2011 við samningsgerð misnotað einokunaraðstöðu sína á íslenzka raforkumarkaðinum til að knýja fram skilmála, sem nú séu orðnir óbærilegir. Ætlar iðnaðarráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, að láta þá atburði gerast "á sinni vakt", sem hrinda mundu Íslandi út í kreppu, stóraukið atvinnuleysi, minnkun stóriðjutekna Landsvirkjunar um þriðjung og fall viðskiptajafnaðar undir 0 með þeim afleiðingum, sem það mun hafa á efnahagslegan stöðugleika í landinu.  

Í íslenzka raforkukerfinu er lágur breytilegur kostnaður (rekstrarkostnaður), kostnaður er að mestu fastur (fjármagnskostnaður), og þá er s.k. langtíma jaðarkostnaður kerfisins vinnslukostnaður á hverja kWh í næstu virkjun.  Ef á að nota þessa stærð sem grundvöll nýrra orkusamninga, er Ísland líklega nú þegar orðið ósamkeppnishæft á orkusviðinu. Þessi tegund verðlagningar er reist á þeim boðskap orkupakka ESB, að hvert fyrirtæki eigi að hámarka gróða sinn og ekki að sinna neinu öðru.  Með þessu sjónarmiði er lögð fyrir róða sú hefðbundna íslenzka orkustefna, að orkulindirnar skuli nýta til eflingar atvinnulífi og til bættra lífskjara í landi, auðvitað einnig með hagfelldum hætti fyrir viðkomandi orkufyrirtæki.  Með ESB-leiðinni er sá kostur raforkukerfisins ekki nýttur til öflunar viðbótartekna, að stór hluti orkukerfisins og þar með kostnaðar orkukerfisins er þegar bókhaldslega afskrifaður.  Við gerð langtímasamninga þarf aðeins að ganga úr skugga um, að orkuverðið tryggi alltaf nauðsynlega ávöxtun eignanna. 

Stöplaritið, sem höfundarnir sýna í grein sinni, bendir til, að ofangreind tilgáta um verðlagningarstefnu Landsvirkjunar sé rétt, því að verðið´með flutningsgjaldi, sem þeir sýna þar fyrir meðalstóra notendur, 10-20 MW, er svipað núgildandi verði fyrir alla orkunotkun ISAL, forgangsorku og ótryggða orku.  Það verður að segja hverja sögu, eins og hún er, en þessi verðlagning á 400 MW til ISAL nær engri átt.

Höfundarnir, Sveinbjörn og Valur, leggja fram í téðri grein sinni athyglisverðar upplýsingar, sem vert væri, að Landsreglarinn á Íslandi (forstjóri OS) spyrði sinn norska starfsbróður um (sá gegnir sjálfstæðu embætti, aðskildu frá NVE, norsku orkustofnuninni, t.d. á vettvangi ACER, Orkustofnunar ESB: 

"Undanfarið hafa sérstakir þættir haft áhrif á raforkumarkaði á Norðurlöndunum, sem rýra tímabundið samkeppnisstöðu raforkusölu til stórnotenda á Íslandi.  Dæmi um það eru beinir ríkisstyrkir stjórnvalda, t.d. í Noregi, til vissra stórnotenda til að lækka raforku kostnað þeirra.  Árið 2019 námu þessir ríkisstyrkir rúmlega 20 milljörðum ISK í Noregi."

  Ef þessari upphæð er deilt með allri orku Noregs til stóriðnaðar, fæst ríkisstyrkur upp á yfir 6 USD/MWh til stóriðju, sem er meira en fimmtungur af meðalverði til stóriðju á Íslandi.  Þarna er verið að veikja samkeppnishæfni Íslands þvílíkt gagnvart Noregi, að ekki er hægt að láta óátalið.  Það er stórfurðulegt, að þessar upplýsingar koma þarna fram hjá Landsvirkjun, eins og ekkert hafi í skorizt.  Þetta er stórmál, sem EES-ríkið Ísland og hagsmunaaðili í málinu getur ekki látið afskiptalaust.  Í sambandi við athugun iðnaðarráðherra á samkeppnishæfni raforkuverðs á Íslandi liggur beint við, að ráðuneyti hennar sendi fyrirspurn til ESA-Eftirlitsstofnunar EFTA um, hverju þetta sæti, og hvernig þetta samræmist samkeppnisreglum Innri markaðar EES. 

Í ljósi þessa er algerlega óþarfi fyrir iðnaðarráðherra Íslands að vera feimin við að tjá þann vilja ríkisins, að fyrirtæki þess, Landsvirkjun, gangi til samninga við RTA til að jafna samkeppnisstöðu ISAL á markaðinum. 

Landsvirkjunarmennirnir, Sveinbjörn og Valur, bættu um betur í grein sinni um niðurgreiðslur frá ríkjum heims á stofnkostnaði vindorkuvera:

"Annað dæmi eru niðurgreiðslur til vindorkuvera, sem selja niðurgreidda raforku í mörgum tilfellum til stórnotenda.  Stjórnvöld víða um heim hafa ráðstafað gríðarlegum fjármunum til þessara styrkja, en Alþjóða orkumálastofnunin áætlar, að árlegir styrkir til vindorkuverkefna í heiminum séu um mrdISK 6000.  Það er rúmlega tvöföld landsframleiðsla Íslands." 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband