Færsluflokkur: Evrópumál

Lítil frétt um stórmál og klúður

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) hefur í um 3 áratugi reynt að koma í kring innan Sambandsins markaðsvæðingu á ríkiseignum í náttúrunni, t.d. ríkisjörðum, námum og orkulindum. Framkvæmdastjórn ESB telur sig hafa lögsögu um nýtingu náttúruauðlinda, sbr sameiginlega fiskveiði- og landbúnaðarstefnu Sambandsins (CAP), en styr hefur staðið við einar 8 aðildarþjóðir um nýtingu vatnsréttinda til raforkuvinnslu.  Ætlaði Framkvæmdastjórnin með ágreininginn við Frakka, sem eru mesta vatnsorkuþjóðin innan ESB, fyrir Evrópudómstólinn.  Nú er spurning, hvort þetta stefnumál verður eitt þeirra, sem lendir undir exi Úrsúlu von der Leyen í kjölfar COVID-19.  Ástæðan er sú, að aðferðarfræði ESB hefur óhjákvæmilega í för með sér orkuverðshækkanir, og það er einmitt ætlun ESB til að knýja á um frekari fjárfestingar í dýrum mannvirkjum endurnýjanlegrar orku.  Hagkerfi ESB-landa þarf hins vegar nú, eins og annars staðar, framar öðru á að halda ódýrri orku til að knýja endurreisn hagkerfa aðildarlandanna, sem eru mjög veikburða eftir lömun af völdum aðgerða til að hamla smiti á COVID-19, og loftslagsmarkmiðin verða einfaldlega að sitja á hakanum á meðan hjól atvinnulífsins eru að komast aftur á fyrri snúningshraða hið minnsta. 

 Innan EFTA-ríkjanna í EES (Evrópska efnahagssvæðinu) er staðan lítið eitt önnur að því leytinu til, að EES-samningurinn fjallar ekki um orkulindirnar og reglur um stjórnun þeirra, en Lissabon-sáttmálinn veitir Framkvæmdastjórninni víðtækar heimildir til yfirstjórnunar á orkumálum ríkjanna.  E.t.v. þess vegna hefur EFTA-dómstóllinn teygt sig ískyggilega langt inn á þetta svið, og dæmdi hann t.d. gegn norska ríkinu, að það væri að mismuna einkafyrirtækjum og ríkisfyrirtækjum með gamalli lagasetningu um það, sem Norðmenn kalla "hjemfall av vannkraftsressurser" eða þjóðnýtingu vatnsréttinda og vatnsaflsvirkjana eftir fyrst 80 ár og nú 60 ár í rekstri. Norðmenn breyttu þessari lagasetningu sinni, nýttu sér "frelsissvigrúmið", sem Carl Baudenbacher hefur gagnrýnt þá fyrir, og gerðu 2/3 eign ríkisins á þessari auðlind landsins að meginreglu, þannig að ekki gæti misréttis gagnvart einkaaðilum, og sú skipan hefur haldizt athugasemdalaust af hálfu ESA. Ríkisstjórnarlögmaðurinn (regjeringsadvokat) Sejersted, tefldi fram sínu "frelsissvigrúmi" og komst upp með það. Það sorglega er, að Íslendingar eiga engan Sejersted enn þá.  

ESA, sem EFTA-megin er spegilmynd Framkvæmdastjórnar ESB, ákvað að ráðast á garðinn, þar sem hann var lægstur hjá EFTA  með afskiptm af úthlutunarreglum nýtingarréttinda auðlinda á landi í eigu ríkisins með bréfi til íslenzku ríkisstjórnarinnar á þeim tíma, þegar hún átti fullt í fangi með að lágmarka neikvæðar afleiðingar bankahrunsins með undirbúningi Neyðarlaganna.  Fyrsta bréfið var dagsett 14.10.2008.

Síðan gengu mörg bréf á milli, en varnir ríkisstjórnanna, sem í hlut áttu á Íslandi, hafa verið vegnar og léttvægar fundnar í Brüssel, enda alls ekki reynt að nýta sér neitt "frelsissvigrúm".  Bréf ríkisstjórnanna íslenzku til ESA hafa ekki verið gerð aðgengileg almenningi, en af bréfum ESA, sem aðgengileg eru á vefsvæði Eftirlitsstofnunarinnar, má ráða í efni þeirra. Þessum ríkisstjórnum virðist ekki hafa hugkvæmzt sú djarfa og árangursríka leið Norðmanna, þegar þeir síðar fengu bréf svipaðs efnis, að efast hreinlega um lögsögu ESA yfir ráðstöfun náttúrulegra orkulinda til raforkuvinnslu. Vonandi sér íslenzka ríkisstjórnin að sér með aðstoð Alþingis og gengur í skóla prófessors Sejersteds.  Atbeini Alþingis er eðlilegur og nauðsynlegur í stórmáli, sem stjórnvöld hafa frá upphafi gert sér far um að drepa á dreif. 

Úrskurður ESA, nr 075/16/COL, í þessu máli var gefinn út 20.04.2016, og íslenzk stjórnvöld vöktu ekki sérstaka athygli þjóðarinnar á honum, þótt hann fæli í sér kröfu um fullveldisafsal á megninu af orkulindum Íslands með því að fyrirskrifa markaðssetningu á Innri markaðinum á nýtingarrétti orkulinda í ríkiseigu.  Hvernig í ósköpunum ríkisstjórninni kom til hugar að fallast alfarið á þetta fullveldisframsal er eftir að útskýra fyrir þjóðinni.  Tveir ráðherranna, sem þá áttu hlut að máli, sitja í núverandi ríkisstjórn, svo að þingmönnum er í lófa lagið að leita skýringa hjá þeim.  Þessir ráðherrar fá falleinkunn, ef þau svara þannig, að embættismenn hafi sagt þeim, að EES-samningurinn legði Íslendingum þær skyldur á herðar að framselja markaðnum nýtingu orkulindanna eða að embættismenn hafi haldið því fram, að Stjórnarskráin eða almenn löggjöf bannaði stjórnvöldum það ekki. Kenningar Sejersteds voru þá löngu kunnar.

Þessir ráðherrar eru: 

Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, 07.04.2016-11.01.2017

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra, 08.04.2016-11.01.2017.

Þann 15.12.2016 fór síðan bréf frá ríkisstjórninni með tímasettri framkvæmdaáætlun, og skyldi lúkning verða 30.05.2017.  Á þessum grundvelli lauk þessu máli af hálfu ESA með bréfi til ríkisstjórnar: 010/17/COL, en ekkert hefur verið framkvæmt í málinu og verður sennilega ekki úr þessu.  Þessi vinnubrögð íslenzkra stjórnvalda eru afspyrnuléleg og gæti kæra ESA fyrir EFTA-dómstólinum þar af leiðandi verið yfirvofandi fyrir skort á efndum.  

Um hvað fjallaði litla fréttin í Mogganum 11.04.2020 ?  Hún bar fyrirsögnina:

"Fresta frumvarpi um nýtingu auðlinda"

og hófst þannig:

"Upp hafa komið rökstuddar efasemdir um, að tilskipun Evrópuþingsins og -ráðsins um þjónustu á innri markaðinum, og til vara grein EES-samningsins um staðfesturétt, eigi við um raforkuframleiðslu.  

 Því hafa íslenzk stjórnvöld ákveðið að fresta fyrirhuguðum lagabreytingum uns betri vissa verður fengin fyrir því, hvaða þjóðréttarlegu skuldbindingar hvíla á íslenzka ríkinu að þessu leyti.  Frumvarpið verður því ekki lagt fyrir Alþingi á þessum vetri."

Frestur er á illu beztur má um þessa niðurstöðu ríkisstjórnarinnar segja. Hún vísar augljóslega beint til málatilbúnaðarins gegn Noregi og snöfurmannlegs svars Sejersteds eða a.m.k. í anda "frelsissvigrúms".  Málatilbúnaðurinn gegn gegn Íslandi var af öðrum toga, þótt afleiðingarnar yrðu hinar sömu, næði ESA sínu fram. 

Það vafðist ekki eitt andartak fyrir norskum stjórnvöldum, hvort Noregur væri að þjóðarétti bundinn við að hlýða ESA og framselja náttúrulegar orkulindir sínar, aðallega virkjaðar vatnsorkulindir, í hendur Innri markaði EES, sem í einu og öllu lýtur regluverki ESB. Þegar mikilvægir ríkishagsmunir eru í húfi, grípa Norðmenn til "frelsissvigrúmsins", sem þeir reyndar nefna "handlingsrommet". 

Bréf ESA til norsku ríkisstjórnarinnar (orku- og olíumálaráðuneytisins) barst ekki fyrr en 30.04.2019.  Málatilbúnaður þar var af öðru tagi en gegn Íslandi, en krafan þó sams konar, og afleiðingar uppgjafar yrðu eins.  ESA kvað norska ríkið verða að finna óyggjandi markaðsverð á vatnsréttindum í eigu ríkisins og leyfa jafnan aðgang allra fyrirtækja, óháð eigendum og rekstrarformi.  Ljóslega er hér átt við allan Innri markað EES.  Var vitnað í þrenns konar lögskýringargögn ESB kröfunni til fulltingis:

  • Þjónustutilskipun nr 2006/123/EB
  • Tilskipun um opinber innkaup nr 2014/23/EB
  • TFEU (stofnsáttmáli ESB) gr. 49 og 56

Norska ríkisstjórnin svaraði snöfurmannlega rúmum mánuði síðar, bar svarið undir Stórþingið og fékk fullan stuðning þess.  Bréf orku- og iðnaðarráðuneytisins var vel ígrundað og stutt sannfærandi lagalegum rökum.  Niðurstaða þess var höfnun á þeim grundvelli, að ofangreindar tilskipanir og greinar stofnsáttmála ættu ekki við raforkuvinnslu og Norðmenn hefðu tekið það fram á sínum tíma, þegar þjónustutilskipunin var í burðarliðnum, að þeir teldu orkuvinnslu úr náttúruauðlindum Noregs alls ekki falla undir gildissvið hennar.   

Svona eiga sýslumenn að vera.  Það er eitthvað annað en klúðursleg vinnubrögð íslenzka Stjórnarráðsins í þessu máli.  Hvað skyldi valda því, að hér eru flækjufætur einar settar til verka og dagskipun ráðherra virðist vera að bukka sig og beygja fyrir Brüssel (einnig aðsetur ESA).  Þessu verður að linna, og það verður að draga línu í sandinn. Það er Sejersted-línan.  EES-samningurinn snertir ekki stjórnun auðlinda landsins. 

Í viðhengi er ítarlegri grein um þetta mál eftir pistilhöfund.  

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Tengsl orkupakka ESB við hátt orkuverð á Íslandi

Elias B. Elíasson, verkfræðingur, hefur ritað fróðlegar og skarplegar greinar í Morgunblaðið um orkumál, orkupakka ESB og orkustefnu, sem af þeim leiðir. Undanfarið hafa þessar greinar snúizt um birtingarmynd hrikalegra afleiðinga innleiðingar orkulaggjafar Evrópusambandsins (ESB) á starfsemi stórnotenda raforku, einkum álverksmiðjunnar ISAL í Straumsvík. Er nú fram að koma, hversu umhendis og skaðleg innleiðing orkulöggjafar ESB er á Íslandi. 

Það, sem er einkennandi fyrir skarplega greiningu Elíasar á stöðu orkumálanna á Íslandi, er, að hann tengir hana með skýrum hætti við gildandi orkulög í landinu, sem að meginstofni koma frá ESB, þar sem gjörólíkt orkukerfi og orkumarkaðskerfi eru m.v. íslenzkar aðstæður, og þar með fæst einhver botn í þá kúvendingu á stefnu Landsvirkjunar gagnvart viðskiptavinum sínum, sem átt hefur sér stað síðan 2010. 

Í ESB er aðalorkugjafinn jarðefnaeldsneyti, og á orkumarkaði þess ríkir frjáls samkeppni.  Í orkustefnu ESB eru innbyggðir hvatar til að hækka orkuverð til að örva áhuga á að reisa nýjar virkjanir, aðallega endurnýjanlegra orkulinda, en einnig hinna til að brúa bilið, þegar lygnt er eða sólarlaust. 

Frjáls samkeppni á Innri markaðinum hindrar hins vegar, að verðið rjúki þar upp úr öllu valdi. Reyndar er botninn dottinn þar úr markaðinum (verðinu) núna vegna eftirspurnarleysis. Hérlendis er hins vegar engin samkeppni um stóra viðskiptavini.  Allir ættu að sjá, að löggjöf, sniðin utan um orku- og markaðskerfi ESB hentar ekki á Íslandi.  Nú er þar að auki komið í ljós, að skaðsemisáhrif þessarar löggjafar á Íslandi eru feikileg og sízt minni en varnaðarorð í OP#3 umræðunni kváðu á um.  Orkupakkarnir valda stórtjóni á Íslandi, og er þó ekki bætandi ofan á loðnubrest og CoVid-19, sem er að ganga af mörgum ferðaþjónustufyrirtækjum dauðum og að setja íslenzka hagkerfið á hliðina um stundarsakir.

Grein Elíasar í Morgunblaðinu 7. marz 2020 bar yfirskriftina:

"Enn um raforkuverð ÍSAL".

Ein fjögurra undirgreina bar fyrirsögnina:

"Áhrif ESB":

"Áhrif ESB á þessa samninga [við álverin-innsk. BJo] eru veruleg. Á ársfundi Landsvirkjunar 2016 birti Hörður Arnarson, forstjóri, stefnu fyrirtækisins, sem lýst var svo: "Hlutverk Landsvirkjunar er að hámarka afrakstur af þeim orkulindum, sem fyrirtækinu er trúað fyrir, með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi."  [Undirstr. BJo.]

Í umfjöllun sinni lét hann þess svo getið, að samkvæmt lögum gæti stefna fyrirtækisins ekki verið langt frá því, sem í þessum orðum felst.  Lögin, sem hann vitnaði til, eru lög ESB innleidd í EES-samninginn.  Þetta verður ekki skilið öðruvísi en svo, að allur arður af þessum auðlindum þjóðarinnar skuli skila sér inn í Landsvirkjun lögum samkvæmt.  [Undirstr. BJo.]

Þjóðin sjálf eða fulltrúar hennar hafa engan rétt til að hlutast til um, hvar í þjóðfélaginu þessi arður komi fram.  Með þessu er þrengt að þeim sveigjanleika, sem hér þarf að vera, til að skapa íslenzku atvinnulífi viðunandi samkeppnisstöðu gagnvart þeim, sem eru nær mörkuðunum á meginlandi Evrópu.  

Forstjórinn gat þess einnig í Kastljósþætti RÚV á dögunum, að fyrirtækjasamstæður hefðu visst svigrúm til að ákveða, hvar arður samstæðunnar kemur fram. Samkvæmt túlkun hans á (ESB)-lögunum hefur íslenzka þjóðin sem eigandi raforkufyrirtækjanna ekki hliðstætt svigrúm til að hlutast til um, hvar arðurinn af orkunni kemur fram.  Þessu þarf að breyta."

Þetta er kjarni málsins varðandi það efnahagslega tjón, sem orkupakkar ESB valda á Íslandi.  Það er vafalaust rétt túlkun hjá Elíasi, að forstjórinn og þá væntanlega stjórn Landsvirkjunar túlka lögin (orkupakkana) þannig, að allur arður orkulindanna í nýtingu hjá Landsvirkjun eigi að falla til Landsvirkjunar. 

Sama dag og grein Elíasar birtist í Mogganum birtist þar önnur góð grein, og var sú eftir Ásmund Friðriksson, Alþingismann.  Þar stóð m.a., að hann liti svo á, að þessi arður væri bezt ávaxtaður hjá samfélaginu sjálfu, þ.e. heimilum og fyrirtækjum.  Undir það er heilshugar hægt að taka, og um þetta snýst meginágreiningurinn um orkumálin.  

Þar sem í ofangreindri stefnuyfirlýsingu Landsvirkjunar er einnig minnzt á verðmætasköpun, er þó ljóst, að túlkun forstjórans á stefnunni er röng.  Hann hámarkar ekki verðmætasköpun úr orkunni hér innanlands með því að hámarka verð hennar, heldur með því að orkuverðið skapi framleiðslufyrirtækjunum lífvænlega samkeppnisstöðu á alþjóðlegum mörkuðum, svo að þau geti framleitt og hagnazt sem mest á að auka virði raforkunnar í vöruútflutningi.  Slíkt verður ætíð helzti virðisaukinn af raforkuvinnslunni.

Þá eru orð forstjóra Landsvirkjunar almennt um flutning arðs innan samstæðu dylgjur einar um stóriðjuna í heild og sýna, að forstjórinn er úti á túni sem faglegur forstjóri stærsta raforkufyrirtækis landsins, kominn langt út fyrir verksvið sitt og er raunar farinn að stunda bullandi pólitík gegn erlendum fjárfestingum í landinu.  Við svo búið má ekki standa hjá Landsvirkjun.  Það eru umbrotatímar og vorhreingerninga er þörf.  

 

 


Af sanngirnis- og viðskiptasjónarmiðum

Morgunblaðið hefur fjallað ítarlega um Straumsvíkurvandamálið, eða væri nær að nefna það Háaleitisvandamálið ?  Staksteinar láta sér fátt óviðkomandi vera, og fjölluðu 13.02.2020 um nauðsyn ákvarðanatöku nú til að draga úr efnahagsvandanum fremur en að magna hann með ákvarðanafælni, sem hrjáir suma ráðherra.  Téðir Staksteinar um þetta málefni voru undir heitinu: 

"Rétti tíminn er nú".

Þeim lauk þannig:

"Hagsmunirnir, sem í húfi eru [í Straumsvík], hlaupa á milljarðatugum á ári [til 2036].  Slíkar tölur kalla á, að staðan sé tekin alvarlega og rætt, hvaða þýðingu fyrirtækið [ISAL] hafi, og hvaða áhrif það hefði, ef þess nyti ekki lengur við.  

Hefur Landsvirkjun aðra kaupendur að þeirri orku, sem nú er seld til Straumsvíkur ?  Bíða önnur störf þeirra, sem þar starfa ?  Landsmenn velta fyrir sér spurningum af þessu tagi, og fyrirtækið þeirra, Landsvirkjun, og ríkisvaldið, geta aldrei orðið stikkfrí í svo stóru máli."

Mogginn er sem jafnan með fingurinn á púlsi þjóðlífsins og víðs fjarri því að vera þar utan gátta, sem því miður er rétta lýsingin á ýmsum öðrum stórum og litlum fjölmiðlum hérlendis, svo að ekki sé nú minnzt á ósköpin í Stjórnarráðinu eða í háhýsinu ofarlega á Háaleitisbrautinni, þeirri góðu götu. Það er hverju orði sannara, að ríkisstjórnin getur ekki setið prúð hjá með hendur í skauti á meðan þessu fram vindur.  Vonandi kynna ráðamenn sér rækilega grein Elíasar B. Elíassonar, verkfræðings, í Morgunblaðinu 25.02.2020, þar sem hann m.a. gefur til kynna, að ISK sé ekki nægt sveiflujöfnunartæki fyrir íslenzka  atvinnulífið, heldur þurfi raforkuverðið að koma þar jafnframt til skjalanna. Það er skarplega athugað, enda er íslenzka hagkerfið nú þegar raforkuknúið að miklu leyti og verður það alfarið í kjölfar orkuskiptanna.   

Til að setja örlítið meira kjöt á beinið má geta þess, að um er að útflutningstekjur upp á 55 mrdISK/ár eða um 5 % af útflutningstekjum landsins, og um 30 % af þeirri upphæð renna til raforkukaupa (af Landsvirkjun) og um 10 % fara í launakostnað.  Innlendur kostnaður fyrirtækisins er um 45 % af tekjunum.  Samkvæmt Hagfræðistofnun Háskóla Íslands eru um 1250 störf beint og óbeint tengd starfseminni í Straumsvík.  Við lokun ISAL mundi atvinnuvandi þeirra bætast við vanda tæplega 10 þúsund atvinnulausra íbúa landsins um þessar mundir.  Þeir spanna fjölmargar stéttir, og munu fæstir strax geta gengið í önnur störf í núverandi efnahagslægð, og nánast enginn í betur launuð störf.  Vandi Hafnarfjarðar verður mestur af sveitarfélögunum, enda líklega um helmingur starfsmanna ISAL Hafnfirðingar, og verksmiðjulóðin í landi Hafnarfjarðar. Tekjutap Hafnarfjarðarbæjar mundi vafalaust fara yfir 1 mrdISK/ár fyrstu misserin á eftir.  

Um er að ræða rúmlega 3,0 TWh/ár, sem Landsvirkjun hefur líklega engan kaupanda að á sömu kjörum í nánustu framtíð og fyrirtækið setur upp gagnvart RTA/ISAL.  Þetta er um fimmtungur af orkuvinnslugetu Landsvirkjunar, sem taka mun mörg ár að mjatla út til nýrra og e.t.v. gamalla viðskiptavina.  Ef mál þróast á versta veg og Landsvirkjun tapar þar að auki kaupskyldukröfunni á hendur RTA fyrir dómi um megnið af umsaminni orku, þá gæti tjón Landsvirkjunar og  Landsnets með vaxtakostnaði orðið um mrdISK 200. Af hálfu Landsvirkjunar er glannalega teflt og óviturleg áhætta tekin með þvergirðingslegri afstöðu í garð gamals viðskiptavinar. 

Málflutningur forstjóra Landsvirkjunar frá því, að yfirlýsing RTA var gefin út í Straumsvík 12.02.2020, hefur vakið furðu pistilhöfundar fyrir margra hluta sakir, t.d. vegna þess, að leynd hvílir yfir samninginum, en það aftrar honum ekki frá að kalla hann sanngjarnan, þótt almenningur eigi þess ekki kost að leggja mat á það. Í Kastljósþætti RÚV 24.02.2020 virtist hann túlka tilkynningu RTA/ISAL sem reykbombu í áróðursstríði.  Það er hættuleg rangtúlkun á alvarlegri stöðu, sem fyrirtækið varð að gera almenningi og verðbréfamörkuðum kunnuga.  Hann hefur, eins og áður segir, verið með fullyrðingar, sem almenningi er ómögulegt að sannreyna vegna leyndarinnar, sem RTA/ISAL að fyrra bragði lagði til, að aflétt yrði.  Dæmi um þetta er viðtal Þorsteins Friðriks Halldórssonar í Markaðnum 19.02.2020 við forstjóra Landsvirkjunar og forstjóra Elkem á Íslandi:  

"Sanngjarn samningur en ekki ódýr".

Hörður Arnarson sagði þar m.a.:

"Varðandi raforkuverðið teljum við, að samningurinn sé sanngjarn fyrir bæði fyrirtækin [ISAL og LV].  Vissulega er hann ekki ódýr, en hann er sanngjarn.  Á heildina litið tel ég álverið ágætlega samkeppnisfært í iðnaði, sem býr við krefjandi aðstæður."

 Þetta er undarlegur málflutningur, uppfullur af huglægu mati, algjörlega án rökstuðnings.  Það er skákað í því skjólinu, að umræðuefnið er sveipað leyndarhjúpi, sem forstjórinn þykist í orði kveðnu vilja afnema, en efast má um heilindi þeirra orða.  Honum verður afar tíðrætt um sanngirni, en hér skal hins vegar fullyrða og rökstyðja hið gagnstæða.  Samningur LV við RTA/ISAL 2011 var og er ósanngjarn.

Samningurinn er gerður í einokunarumhverfi, sem er ekki umhverfi Innri orkumarkaðar ESB, þótt aðferðarfræði hans um jaðarkostnaðarverðlagningu í nýjum samningum hafi verið beitt þarna af hálfu LV.  Orkukaupandanum var einfaldlega stillt upp við vegg, því að hann gat ekki leitað til samkeppnisaðila LV, því að þeir höfðu ekki "vöruna", sem hann vantaði, á boðstólum, þ.e. 430 MW afl og um 3500 GWh/ár orku. Viðskiptavinurinn (RTA/ISAL) stóð þá frammi fyrir því að taka hatt sinn og staf, stöðva allar fjárfestingar (mrdISK 65), sem hann var þá á miðju kafi í, eða að veðja á bjartsýnar spár um þróun álverðs, sem þá stóð í 2000-2300 USD/t. 

Hefði þróun álverðs aðeins fylgt þeirri verðlagsvísitölu, sem LV heimtaði, að orkuverðið fylgdi, hefði hækkunin numið 16 % þar til nú og stæði  í 2500 USD/t um þessar mundir, en er í raun undir 1700 USD/t samkvæmt LME-skráningu, sem þýðir lækkun um 21 % frá samningsgerð. Enginn sanngjarn maður kemur auga á snefil af sanngirni í svo einhliða samningi, þar sem annar aðilinn hefur allt sitt á hreinu, en enginn varnagli er settur til að verja hagsmuni hins, ef spár um þróun markaða bregðast. 

Nú nemur raforkukostnaður ISAL í USD/tAl um 34 % af skráðu álverði, LME.  Ekkert viðskiptalega rekið álver getur skilað nokkurri framlegð við þær aðstæður, og þar af leiðandi eru fyrirtækinu allar bjargir bannaðar í núverandi stöðu.  Eigandinn á ekkert val, og að tala um áróðursbrellu í þessu sambandi, eins og forstjóri Landsvirkjunar leyfir sér að gera, ber vott um dómgreindarleysi.  Við upphaf samningsins 2011 nam þetta hlutfall um 24 %, sem er við þolmörkin fyrir álver á frjálsum markaði.  Samningur, sem veldur slíkri breytingu, er ekki aðeins ósanngjarn; hann er óbærilegur.  Nú hefur stjórn RTA misst þolinmæðina gagnvart þvermóðskunni, sem mætir fyrirtækinu af hálfu LV, og mun að öllum líkindum stöðva starfsemina og þar með fjárhagstapið, um leið og málaferli munu hefjast út af kaupskylduákvæðum samningsins, sem LV gæti fyrirgert með því að neita sanngirniskröfum mótaðilans. Ríkisstjórnin, fulltrúi eiganda LV, verður að grípa í taumana til að forða þjóðarbúinu frá stórtjóni.

Í þessari "Markaðsgrein" Þorsteins Friðriks var einnig fróðlegt viðtal við forstjóra Elkem á Íslandi, sem sagði sínar farir ekki sléttar í viðskiptunum við Landsvirkjun.  Þar (á Háaleitisbraut) virðist vera eitthvað mikið að stjórnarháttum, því að fyrirtækið hefur borið langt af leið og er alls ekki að ávaxta þær orkulindir, sem því er falið að nýta, með þjóðhagslega hagkvæmasta hætti til langframa litið.  Þegar hver viðskiptavinur Landsvirkjunar um annan þveran kemur fram og ber sig afar illa undan fyrirtækinu, er ljóst, að þetta fyrirtæki er ekki að rækta langtíma viðskiptasamband við viðskiptavini sína hérlendis.  Þar með er það að rífa niður, það sem byggt hefur verið upp, og setja gríðarlega hagsmuni landsmanna í algert uppnám.  Hér skal fullyrða, að stjórn Landsvirkjunar hefur til slíks ekkert umboð nú, jafnvel þótt hún gæti sýnt fram á, að hún gæti selt virkjaða og ónotaða orku úr landi um sæstreng f.o.m. 2028, sem hún ekki getur:

"Forstjóri Elkem á Íslandi segir óljóst, hvað taki við, þegar samningurinn við Landsvirkjun rennur út árið 2029.  Raforkuverðið sé komið að þolmörkum."

Það er engu líkara en Landsvirkjun hafi það nú sérstaklega á stefnuskrá sinni að úthýsa stóriðjunni úr landinu og ryðja þannig brautina fyrir útflutning á rafmagni um aflsæstreng.  Alþingismenn verða að gera sér grein fyrir því, hvað er raunverulega að gerast.  Núverandi ástand er óviðunandi, því að það gerir fyrirtækjunum ókleift að gera fjárfestingaráætlanir, sem leggi grunn að tækniþróun, vöruþróun og jafnvel framleiðsluaukningu þeirra í framtíðinni.  Þetta er ein af ástæðum þess, að fjárfestingar fyrirtækja í landinu í heild sinni hafa hrapað, sem mun gera núverandi dýfu hagkerfisins bæði dýpri og langvinnari en ella. 

Ekki dettur stjórnendum Statkraft í Noregi, systurfyrirtækis Landsvirkjunar þar, eða Stórþingi og ríkisstjórn, að haga sér með þessum óábyrga hætti, þótt þar séu nú þegar fyrir hendi millilandatengingar, sem nýta mætti í miklu meira mæli til útflutnings raforku en nú er gert, enda er þróun orkuverðs í Evrópu algerlega undir hælinn lögð.  Nei, norska ríkið hleypur undir bagga í erfiðleikum stóriðjunnar, m.a. Elkem, og greiðir niður raforkuverð til þeirra með um 6 USD/MWh (20 mrdISK/ár) samkvæmt upplýsingum starfsmanna Landsvirkjunar í nýlegri blaðagrein.  Það er enginn að biðja um það hér, heldur aðeins, að ríkisvaldið sýni sanngirni í sinni einokunarstöðu í stórsölu rafmagns og taki tillit til þess, að raforkuverð á Íslandi þarf að nota sem sveiflujöfnunartæki fyrir lítið og viðkvæmt hagkerfi.   Sú einokunarstaða er einsdæmi í Evrópu, og þess vegna er stórhættulegt að beita hér hugmyndafræði orkupakka ESB við verðlagningu rafmagns. 

""Vandinn er sá, að samkeppnishæfni verksmiðjunnar [á Grundartanga] á Íslandi samanstendur af fleiri þáttum en raforkunni einni og sér, og raforkan var sá þáttur, sem gerði það að verkum, að það borgaði sig að reka verksmiðju á Íslandi", segir Einar Þorsteinsson, forstjóri Elkem á Íslandi í samtali við Markaðinn." 

Þarna hittir forstjóri Elkem á Íslandi naglann á höfuðið, en það er einmitt lóðið, að samkvæmt orkupökkunum eiga orkufyrirtækin við samningsgerð sína ekki að taka tillit til þátta eins og meiri flutningskostnaðar og vinnuaflskostnaðar viðskiptavina sinna en samkeppnisaðila þeirra.  Ef þessi atriði eru hins vegar ekki höfð í huga í íslenzku einokunarumhverfi á þessu sviði, þá verða stórslys, eins og við erum að horfa upp á núna.  Fíllinn í postulínsbúðinni er að leggja hana í rúst, og iðnaðarráðherra horfir þæg á og er þegar byrjuð að tala aftur um æskilegar athuganir á sæstrengslögn til Íslands, sem hún hefur samt þagað um, síðan ríkisstjórnin lét hérlenda bakhjarla Ice-Link, Landsvirkjun og Landsnet, beina því til ESB að fjarlægja hann af verkefnaskrá innviðaverkefna, PCI, sem framkvæmdastjórn ESB síðan gerði.  Þetta er engin hemja.

Forstjóri Fjarðaáls, Tor Arne Berg, hafði þetta að segja við Markaðinn:

"Tor Arne Berg, forstjóri Fjarðaáls, segist ekki geta tjáð sig um raforkusamning álfyrirtækisins við Landsvirkjun, enda sé hann trúnaðarmál.  "Það er þó alveg ljóst, að álverið var reist hér á landi vegna þess, að hér var í boði langtímasamningur á stöðugri orku", segir hann.  "Helzta ógnin, sem steðjar að áliðnaði um þessar mundir, er offramleiðsla í Kína, sem kemur til vegna óeðlilegra niðurgreiðslna frá ríkinu.  Þetta hefur orðið til þess, að álverð hefur fallið á alþjóðlegum markaði, sem þrengir mjög að samkeppnisstöðu í þessari grein", bætir forstjórinn við."

Það er rétt hjá þessum forstjóra, að fáanlegir langtíma samningar um raforku úr landskerfi, sem nýtir einvörðungu orkulindir, sem kalla má endurnýjanlegar, hvetja erlenda fjárfesta til að fjárfesta á Íslandi.  Þetta er samt ekki nóg.  Ef rafmagnsverðið, sem í boði er, er hið sama eða hærra en í Noregi eða í öðrum löndum með fáanlega kolefnisfría raforku, þá fæst fjárfestirinn ekki til að fjárfesta hér, vegna þess að hann lítur á heildarkostnað sinn.  Hann verður einfaldlega hæstur á Íslandi, nema rafmagnsverðið lækki niður fyrir samkeppnislöndin.  Hversu mikið er rannsóknarefni, en gæti numið 10 USD/MWh. Þetta vissu menn gjörla hjá Landsvirkjun hér áður fyrr, en nú er það greinilega gleymt og grafið og öldin önnur á Háaleitisbrautinni.  

 

Það kom ýmislegt fleira markvert fram í viðtali Þorsteins Friðriks við forstjóra Elkem á Íslandi.  Í máli hans kemur fram, að viðhorf Landsvirkjunar til fyrirtækisins veldur því, að stjórnendur fyrirtækisins búast við að þurfa að leggja upp laupana árið 2029, og þess vegna er ekki lengur fjárfest til framtíðar í verksmiðjunni.  Höfuðvandi orkukræfs iðnaðar á Íslandi er sá, að hjá langstærsta orkubirgi hans ríkir fjandsamlegt viðhorf í garð stóriðjunnar, sem felst í stuttu máli í að blóðmjólka hana, á meðan hún tórir. Þeir, sem efast um þetta, ættu að hlusta á Kastljósþátt RÚV 24.02.2020 og lesa Morgunblaðsgrein Elíasar B. Elíassonar 25.02.2020. Síðan virðist ætlunin vera að selja orkuna til útlanda um sæstreng.  Skipta verður þegar um stjórnarstefnu í þessu ríkisfyrirtæki og taka upp sjálfbæra viðskiptastefnu, svo að báðir aðilar hagnist á viðskiptunum. 

"Ef við skoðum þættina, sem hafa áhrif á afkomu okkar, má segja, að sá þáttur, sem vegur þyngst sé markaðsverð á afurðum.  Það sveiflar afkomunni upp og niður.  En ef við skoðum samkeppnishæfni verksmiðju okkar á Íslandi - Elkem er með 27 verksmiðjur á heimsvísu - þá samanstendur hún af þremur meginþáttum og hefur gert það frá upphafi", segir Einar.

"Þar má fyrst nefna flutningskostnað.  Við flytjum öll hráefni inn og allar afurðir út.  Þetta hefur veikt samkeppnisstöðu okkar gagnvart keppinautum í Evrópu", segir Einar. 

Annar þáttur, sem vegur þungt, er innlendur kostnaður og launakostnaður.  Öll þjónusta, sem Elkem kaupir innanlands, er beintengd við launaþróun, og þessi kostnaður er mjög óhagstæður að sögn Einars.  Verksmiðja Elkem á Íslandi er sú dýrasta innan samstæðunnar, hvað laun varðar. 

"Þriðji þátturinn er raforkan, en hún er ástæðan fyrir því, að verksmiðjan er yfirleitt á Íslandi.  Raforkuverðið var hagstætt og gerði það að verkum, að verksmiðja á Íslandi var samkeppnishæf.  Eftir niðurstöðu gerðardóms má segja, að þessi samkepnisþáttur sé að miklu leyti horfinn", segir Einar."

Þarna lýsir forstjóri Elkem á Íslandi nákvæmlega sömu aðstæðum og eiga við um álver á Íslandi.  Vegna staðsetningarinnar eru flutningar aðfanga og afurða dýrari á hvert tonn fyrir verksmiðjurnar hérlendis en hjá samkeppnisaðilum.  Launakostnaður, vörur og þjónusta, eru dýrari hér.  Aðeins rafmagnið getur skapað samkeppnisforskot, sem verður a.m.k. að vega upp ofangreindan viðbótar kostnað, svo að erlendir fjárfestar kæri sig um að vera með starfsemi hér.  Gróft reiknað má ætla, að rafmagnið (orka+flutningur) verði að vera 10 USD/MWh lægra hjá álverunum hér en hjá samkeppnisálverum.  Ofan á þetta koma niðurgreiðslur hins opinbera, sem í Noregi nema um 6 USD/MWh og á meginlandinu um 9,5 EUR/MWh, jafngildi um 10,3 USD/MWh. Fróðlegt verður að sjá niðurstöðu verktakans Fraunhofers, sem iðnaðarráðherra hefur keypt til að semja fyrir sig skýrslu um málið.  Því verður samt vart trúað, að iðnaðarráðuneytið búi ekki yfir nægilega haldgóðum gögnum um þetta mál nú þegar.

"Ef við skoðum meðalafkomu síðustu ára - á bilinu 10-13 ár - þá má segja, að raforkuhækkunin hafi að stórum hluta étið upp allan hagnaðinn.  Þetta þýðir, að við höfum verið og erum að leita leiða til að hagræða og fækka fólki."

Sama er uppi á teninginum hjá ISAL.  Fyrir 2012 var hagnaður samfleytt í a.m.k. 15 ár, en segja má, að með núverandi raforkusamningi sé loku skotið fyrir það, að fyrirtækið geti skilað hagnaði (rafmagn 30 % af tekjum).  Þetta kallar Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, "sanngjarnan" samning.  Það er frumstæð blekkingartilraun, sem eykur ekki hróður hans. 

Spyrja má, hvort nokkurt vit sé í því fyrir eigandann (ríkissjóð), að Landsvirkjun reki nú þá stefnu að blóðmjólka gamla sem nýja viðskiptavini ?  Nú er hart í ári hjá viðskiptavinunum, og þá er rétti tíminn til að endurskoða þessa misheppnuðu samninga og hreinlega ekki hægt að bíða með það til 2024. 

"Vandinn er tvíþættur að sögn Einars.  Annars vegar er fyrirtækið að glíma við skammtímaáhrif af hærra raforkuverði, og hins vegar vakna spurningar um, hvað taki við, þegar samningurinn rennur út árið 2029."

Skammtímaáhrifin af óprúttinni stefnu Landsvirkjunar gagnvart viðskiptavinunum er, að þeir leitast við að fækka starfsmönnum, eins og framast er kostur, og skera öll önnur útgjöld niður við trog.  Þetta er ekki þjóðhagslega hagkvæmt hérlendis, þar sem laun í stóriðjunni eru tiltölulega há, og þau þurfa að hafa fjárhagslegt bolmagn til tæknivæðingar og nýsköpunar.

  Við uppkvaðningu gerðardómsins um raforkuverð til Elkem á Íslandi lýsti Landsvirkjun yfir óánægju með hann.  M.v. þekkt vinnubrögð Landsvirkjunar í seinni tíð má þess vegna gera ráð fyrir því, að Landsvirkjun muni heimta hærra orkuverð af Elkem á Íslandi og sitji við sinn keip, þótt viðskiptavinurinn neyðist þá til að hætta starfsemi. Þetta horfir mjög einkennilega við, því að ekki er vitað til, að Landsvirkjun hafi neinn viðskiptavin í handraðanum, sem geti og vilji borga uppsett verð Landsvirkjunar fyrir þessa orku, sem til Elkem fer.  Þetta sýnir í hvers konar ógöngur einokunarfyrirtæki getur ratað, þegar óbilgirni er við stjórnvölinn.  Viðskiptasambönd, sem Landsvirkjun átti þátt í að byggja upp áður, rífur hún nú niður  af fullkomnu fyrirhyggjuleysi.

""Það, sem hrjáir okkur mest, er spurningin um, hvað tekur við eftir 2029.  Ef það stefnir í enn hærra raforkuverð, þá lítur þetta afskaplega illa út, og við þurfum svar við þeirri spurningu mjög fljótt vegna þess, að við höfum stöðvað fjárfestingu í uppbyggingu.

Þegar við fjárfestum í uppbyggingu, þurfum við að horfa meira en 9 ár fram í tímann.  Við höfum þurft að setja ýmis góð mál á ís, t.d. verkefni, sem snúa að endurnýtingu á orku og varma, á meðan óvissan er, eins og hún er í dag", segir Einar."

Þegar orkupakkalöggjöfinni er fylgt út í æsar, fylgir henni óvissa af þessu tagi fyrir viðskiptavini orkufyrirtækjanna, vegna þess að þeir hafa ekki í önnur hús að venda með viðskipti sín ólíkt því, sem við á á orkumarkaði ESB.  Það er hins vegar falleinkunn fyrir núverandi stjórn ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar, sem er í einokunaraðstöðu á sviði raforkusölu til orkukræfs iðnaðar, að hún skuli halda Elkem á Íslandi í svo illvígri spennitreyju, að fyrirtækið sjái sig neytt til að halda að sér höndum og í raun og veru að stefna á lokun, þegar núverandi raforkusamningur rennur sitt skeið á enda.  

Það er lydduháttur af stjórnvöldum að láta stjórn og forstjóra Landsvirkjunar komast upp með þessa fáheyrðu hegðun.  Eigandi Landsvirkjunar verður hér að taka í taumana.  Nú þarf landið á að halda öllum þeim heiðarlegu erlendu fjárfestingum, sem völ er á, eða eins og máltækið segir: "allt er hey í harðindum".  Þá er auðvitað fyrir neðan allar hellur, að Landsvirkjun rói í allt aðra átt.  Hvaða hagsmunum telur stjórn Landsvirkjunar sig vera að þjóna með því að stöðva fjárfestingar og síðan að hrekja erlenda fjárfesta úr landi ?  Það er ekki einu sinni heil brú í þessu frá þröngu viðskiptalegu sjónarhorni Landsvirkjunar séð.

""Afurðaverðið mun sveiflast upp og niður, en samkeppnishæfnin hefur versnað svo mikið, að við þurfum að reka verksmiðjuna betur en aðrir innan Elkem og líklega betur en flestir okkar keppinautar, til þess að það sé arðbært að vera hérna.  En arðsemin til lengri tíma litið er ekki mjög spennandi, og það er ólíklegt, að við myndum byggja verksmiðju á Íslandi í dag."  Þá nefnir Einar, að Landsvirkjun hafi ekki verið sátt við niðurstöðu gerðardóms og talið, að raforkuverðið ætti að vera hærra.  Því sé líklegt, að Landsvirkjun muni fara fram á hærra verð en rekstur Elkem getur staðið undir, þegar núgildandi samningur rennur út."

 Þarna hafa menn það svart á hvítu, hvernig komið er fyrir viðskiptavild Íslands hjá alþjóðlegum framleiðslufyrirtækjum, sem nota mikla orku til starfsemi sinnar.  Þau vantreysta Landsvirkjun fullkomlega og hafa engan hug á nýrri starfsemi og mjög takmarkaðan áhuga fyrir áframhaldandi starfsemi.  Fyrir Jón og Gunnu, sem horfðu á Kastljósþátt RÚV að kvöldi 24.02.2020 með Guðrúnu Hafsteinsdóttur, formanni stjórnar Samtaka iðnaðarins, og Herði Arnarsyni, þarf þetta ekki að koma á óvart, því að það skein í gegnum málflutning Harðar, að hann leggur fæð á stóriðjufyrirtækin í landinu. Fyrir eigandann er sú staða gjörsamlega óviðunandi.

Ætla má, að gerðardómurinn, sem Einar nefnir, hafi reynt að finna verð, sem væri samkeppnishæft við aðrar verksmiðjur, að teknu tilliti til viðbótar kostnaðar á Íslandi.  Sú staðreynd, að Landsvirkjun telur úrskurðað orkuverð of lágt, er góð vísbending um, að hún er á algerum villigötum með verðlagningu sína. 

 

 

 

 

 

 

 


Þokukennd umræða um heildsöluverð raforku

Fáum blandast hugur um, að ágreiningur ríkir á milli Landsvirkjunar og viðskiptavina hennar um það, hvort verðlagning Landsvirkjunar á raforku í heildsölu í langtímasamningum sé samkeppnishæf við verðlagninguna á hinum Norðurlöndunum og annars staðar í Evrópu, hvað þá alþjóðlega. Þessi ágreiningur hefur birzt m.a. í blaðagreinum starfsmanna Landsvirkjunar og framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins.  Starfsmenn Landsvirkjunar bentu reyndar á í blaðagrein, sem vitnað verður til í þessum pistli, að stórfelldar niðurgreiðslur ýmissa ríkisstjórna í EES (utan Íslands) á raforkuverði til iðnaðar ætti sér stað. Er það mjög athyglisvert samkeppnisumhverfi, sem þannig viðgengst í EES, þegar ESA og Framkvæmdastjórn ESB umbera niðurgreiðslur ríkissjóða á orkuverði stóriðju (orkukræfs iðnaðar), t.d. í Noregi. 

Þessi ágreiningur um samkeppnishæfni íslenzks raforkuverðs til stórnotenda birtist einnig í tilkynningu Rio Tinto Aluminium (RTA), sem birt var í Straumsvík á starfsmannafundi kl. 0800 miðvikudaginn 12.02.2020, og yfirlýsingum Rannveigar Rist, forstjóra ISAL, og Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, í hádegisfréttum RÚV þann sama dag.  

Það verður alltaf erfitt að henda reiður á umræðunni um verðlag, ef aldrei eru gefnar upp tölur, nema meðaltal margra fyrirtækja, t.d. allra stóriðjufyrirtækjanna á Íslandi.  Samningsaðilar ættu að geta náð samkomulagi um að opinbera t.d. meðalraforkuverð á ári til hvers kaupanda. Báðir ofangreindir forstjórar lýstu sig hlynnta þessu í ofangreindum fréttatíma.  Hver stendur þá í vegi þess, að raforkuverð og flutningsgjald til ISAL séu birt ?  Kannski stjórnir fyrirtækjanna ?

Þann 5. febrúar 2020 riðu 2 galvaskir riddarar Landsvirkjunar inn á ritvöllinn á vettvangi Fréttablaðsins í því skyni að andmæla staðhæfingum framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins um, að raforkuverð Landsvirkjunar væri í tilviki samninga frá 2010-2011 og síðar ekki samkeppnishæft. Þess má geta, að Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, lýsti í ofangreindum fréttatíma yfir miklum áhyggjum vegna þess, að raforkuverðið til ISAL væri ósjálfbært.  Höfundar Fréttablaðsgreinarinnar, Valur Ægisson, forstöðumaður viðskiptagreiningar, og Sveinbjörn Finnsson, sérfræðingur í viðskiptagreiningu, skrifuðu m.a.:

"Raforkusamningar Landsvirkjunar eru gerðir á viðskiptalegum forsendum.  Það þýðir, að verð í þeim þarf að vera yfir kostnaðarverði fyrirtækisins og samkeppnishæft fyrir viðskiptavini okkar, en stórnotendur á Íslandi starfa almennt á hörðum alþjóðlegum samkeppnismarkaði." 

Það þarf ekki að fara í neinar grafgötur með það, að núverandi raforkuverð til ISAL er ósamkeppnisfært, þvert á það, sem forstjóri Landsvirkjunar staðhæfir (út í loftið).  Af ósvífni þess, sem skákar í skjóli leyndar, fullyrðir hann reyndar jafnframt, að verðið sé sanngjarnt, og er það sem blaut tuska framan í elzta viðskiptavin Landsvirkjunar, sem veit betur. Þar sem raforkuverðinu hefur verið leyft að hækka hömlulaust samkvæmt samningi 2011 eftir vísitölu í Bandaríkjunum, CPI, þótt álverðið hafi snarlækkað á sama tímabili (2011-2020), hefur hlutfall raforkukostnaðar af skráðu álverði hækkað úr tæplega 24 % í rúmlega 34 %.  Það er bersýnilega ekki sanngjarn samningur, sem inniheldur engan varnagla við því, að svo mikið halli á annan aðilann, að óbærilegt geti talizt.

Það má nefna 2 aðrar röksemdir fyrir því, að raforkuverðið er ósamkeppnisfært, og eru þær skyldar.  Önnur er, að ISAL er óseljanlegt, og er það orkusamningurinn, sem fælir lysthafendur frá kaupunum.  Hin er, að Landsvirkjun getur ekki bent á neina aðila, sem séu fúsir til að kaupa svipað orkumagn og ISAL með þeim skuldbindingum, sem eru í núverandi raforkusamningi ISAL við Landsvirkjun. 

Landsvirkjun hefur rekið ýtinn áróður fyrir tengingu Íslands með aflsæstreng við stóran raforkumarkað, og þar beittu menn sér fyrir því, að ESB tæki "Ice-Link" inn á forgangs innviðaverkefnaskrá sína, PCI, á sínum tíma.  Til þess voru refirnir skornir að geta við atburði eins og þann, sem varð í Straumsvík 12. febrúar 2020 (tilkynning Rio Tinto Aluminium í tilefni mikils fjárhagstaps ISAL 2012-2019), lýst því yfir, að raunveruleg samkeppni væri um orkuna, sem ISAL kaupir af Landsvirkjun. Sannleikurinn er hins vegar sá, að það er engin spurn eftir um 3000 GWh/ár af raforku með þeim skilmálum, sem Landsvirkjun setur. Þess vegna er núna skák á kónginn, og Landsvirkjun og ríkisstjórnin verða að taka afstöðu til þess á næstu 3 mánuðum, hvort þær vilja missa um 16 mrdISK/ár af raforkusölutekjum og 50-60 mrdISK/ár í útflutningstekjum (gjaldeyri).

  Með því að neita að endurskoða verð, sem er mjög íþyngjandi fjárhagsleg byrði fyrir viðskiptavin og sem nú er langt frá því að vera samkeppnishæft á Íslandi, er hætta á því, að Landsvirkjun glutri niður kaupskylduákvæði raforkusamningsins við ISAL í málaferlum fyrir dómi. Það er leitt upp á að horfa af hversu mikilli óforsjálni Landsvirkjun virðist tefla þessa skák.  Hún hefur verið tekin í bólinu með ofangreindri tilkynningu RTA, og of takmarkaður skilningur virðist vera á alvarleika málsins. 

Þegar hugtakið "kostnaðarverð" er notað í þessu samhengi, verða höfundarnir frá Landsvirkjun að gefa á því útskýringar við hvað er átt. Evrópusambandið (ESB) notar þetta hugtak yfirleitt um jaðarkostnað, þ.e. hvað kostar að framleiða viðbótar kWh, og það er ekki óeðlilegt í raforkukerfum, þar sem meginkostnaðurinn er breytilegur kostnaður.  Þetta viðhorf gegnir því hlutverki þar að hvetja til byggingar nýrra orkuvera til að koma í veg fyrir aflskort í kerfinu. Margt bendir til, að í samningum sínum við nýja  raforkunotendur og við endurskoðun gamalla orkusamninga við viðskiptavini sína, hafi Landsvirkjun lagt þetta viðhorf til grundvallar verðlagningu sinni, og er það í samræmi við orkulöggjöf ESB, sem hér hefur, illu heilli, verið innleidd í þremur s.k. orkupökkum.  Þessi jaðarkostnaðaraðferð er hins vegar með öllu óviðeigandi á Íslandi, og er vísasti vegurinn til að glutra niður alþjóðlegri samkeppnisstöðu Íslands á orkusviðinu með þeim neikvæðu afleiðingum, sem slíkt hefur á hag landsins.

Kerfi ESB getur aðeins virkað, þar sem er virk samkeppni.  Hér er engin samkeppni á framboðshlið, þegar á eftirspurnarhlið er þörf fyrir 3000 GWh/ár eða meira.  Þar ríkir einokun hérlendis, og Landsvirkjun hefur neytt þeirrar stöðu sinnar með þeim afleiðingum að verðleggja raforkuna allt of dýra og taka ekkert tillit til heildarhagsmuna og hámörkunar verðmætasköpunar í landinu, eins og hér verður að gera og var jafnan gert fyrir 2010.  

Afleiðingarnar voru fyrirséðar, og það var varað við þeim í umræðunum hérlendis um Orkupakka #3. Með yfirlýsingu Rio Tinto Aluminium (RTA) frá 12.02.2020 er komið í ljós, að Landsvirkjun hefur setið við sinn keip og að þá sér stjórn RTA sér þann kost vænstan að láta sverfa til stáls.  Verði Landsvirkjun látin komast upp með það að bíta sig fasta við orkustefnu ESB, þá breytist hún úr uppbyggingarafli fyrir íslenzkt atvinnulíf í niðurrifsafl. Að 4 mánuðum liðnum verður þá tilkynnt um lokun ISAL, og að Landsvirkjun verði dregin fyrir dóm, þar sem RTA mun krefjast þess að losna undan kaupskylduákvæði um 85 % forgangsorkunnar á þeim grundvelli, að samningsforsendur séu brostnar og Landsvirkjun hafi sýnt ósveigjanleika, ósanngirni og hafi árin 2010-2011 við samningsgerð misnotað einokunaraðstöðu sína á íslenzka raforkumarkaðinum til að knýja fram skilmála, sem nú séu orðnir óbærilegir. Ætlar iðnaðarráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, að láta þá atburði gerast "á sinni vakt", sem hrinda mundu Íslandi út í kreppu, stóraukið atvinnuleysi, minnkun stóriðjutekna Landsvirkjunar um þriðjung og fall viðskiptajafnaðar undir 0 með þeim afleiðingum, sem það mun hafa á efnahagslegan stöðugleika í landinu.  

Í íslenzka raforkukerfinu er lágur breytilegur kostnaður (rekstrarkostnaður), kostnaður er að mestu fastur (fjármagnskostnaður), og þá er s.k. langtíma jaðarkostnaður kerfisins vinnslukostnaður á hverja kWh í næstu virkjun.  Ef á að nota þessa stærð sem grundvöll nýrra orkusamninga, er Ísland líklega nú þegar orðið ósamkeppnishæft á orkusviðinu. Þessi tegund verðlagningar er reist á þeim boðskap orkupakka ESB, að hvert fyrirtæki eigi að hámarka gróða sinn og ekki að sinna neinu öðru.  Með þessu sjónarmiði er lögð fyrir róða sú hefðbundna íslenzka orkustefna, að orkulindirnar skuli nýta til eflingar atvinnulífi og til bættra lífskjara í landi, auðvitað einnig með hagfelldum hætti fyrir viðkomandi orkufyrirtæki.  Með ESB-leiðinni er sá kostur raforkukerfisins ekki nýttur til öflunar viðbótartekna, að stór hluti orkukerfisins og þar með kostnaðar orkukerfisins er þegar bókhaldslega afskrifaður.  Við gerð langtímasamninga þarf aðeins að ganga úr skugga um, að orkuverðið tryggi alltaf nauðsynlega ávöxtun eignanna. 

Stöplaritið, sem höfundarnir sýna í grein sinni, bendir til, að ofangreind tilgáta um verðlagningarstefnu Landsvirkjunar sé rétt, því að verðið´með flutningsgjaldi, sem þeir sýna þar fyrir meðalstóra notendur, 10-20 MW, er svipað núgildandi verði fyrir alla orkunotkun ISAL, forgangsorku og ótryggða orku.  Það verður að segja hverja sögu, eins og hún er, en þessi verðlagning á 400 MW til ISAL nær engri átt.

Höfundarnir, Sveinbjörn og Valur, leggja fram í téðri grein sinni athyglisverðar upplýsingar, sem vert væri, að Landsreglarinn á Íslandi (forstjóri OS) spyrði sinn norska starfsbróður um (sá gegnir sjálfstæðu embætti, aðskildu frá NVE, norsku orkustofnuninni, t.d. á vettvangi ACER, Orkustofnunar ESB: 

"Undanfarið hafa sérstakir þættir haft áhrif á raforkumarkaði á Norðurlöndunum, sem rýra tímabundið samkeppnisstöðu raforkusölu til stórnotenda á Íslandi.  Dæmi um það eru beinir ríkisstyrkir stjórnvalda, t.d. í Noregi, til vissra stórnotenda til að lækka raforku kostnað þeirra.  Árið 2019 námu þessir ríkisstyrkir rúmlega 20 milljörðum ISK í Noregi."

  Ef þessari upphæð er deilt með allri orku Noregs til stóriðnaðar, fæst ríkisstyrkur upp á yfir 6 USD/MWh til stóriðju, sem er meira en fimmtungur af meðalverði til stóriðju á Íslandi.  Þarna er verið að veikja samkeppnishæfni Íslands þvílíkt gagnvart Noregi, að ekki er hægt að láta óátalið.  Það er stórfurðulegt, að þessar upplýsingar koma þarna fram hjá Landsvirkjun, eins og ekkert hafi í skorizt.  Þetta er stórmál, sem EES-ríkið Ísland og hagsmunaaðili í málinu getur ekki látið afskiptalaust.  Í sambandi við athugun iðnaðarráðherra á samkeppnishæfni raforkuverðs á Íslandi liggur beint við, að ráðuneyti hennar sendi fyrirspurn til ESA-Eftirlitsstofnunar EFTA um, hverju þetta sæti, og hvernig þetta samræmist samkeppnisreglum Innri markaðar EES. 

Í ljósi þessa er algerlega óþarfi fyrir iðnaðarráðherra Íslands að vera feimin við að tjá þann vilja ríkisins, að fyrirtæki þess, Landsvirkjun, gangi til samninga við RTA til að jafna samkeppnisstöðu ISAL á markaðinum. 

Landsvirkjunarmennirnir, Sveinbjörn og Valur, bættu um betur í grein sinni um niðurgreiðslur frá ríkjum heims á stofnkostnaði vindorkuvera:

"Annað dæmi eru niðurgreiðslur til vindorkuvera, sem selja niðurgreidda raforku í mörgum tilfellum til stórnotenda.  Stjórnvöld víða um heim hafa ráðstafað gríðarlegum fjármunum til þessara styrkja, en Alþjóða orkumálastofnunin áætlar, að árlegir styrkir til vindorkuverkefna í heiminum séu um mrdISK 6000.  Það er rúmlega tvöföld landsframleiðsla Íslands." 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Gefið hefur á bátinn, en áfram siglir hann þó

Nú eru rúmlega 7000 manns á atvinnuleysisskrá eða um 4 % af vinnuaflinu og enn hærra hlutfall af starfsmannafjölda einkageirans, en atvinnuleysingjar koma að langmestu leyti þaðan.  Svo margir hafa ekki verið án atvinnu hérlendis síðan 2012, sem vitnar um aðlögun atvinnulífsins að tekjutapi og hækkandi kostnaði, þótt verðbólga sé blessunarlega lág.

Allir höfuðatvinnuvegirnir eiga við erfiðleika að stríða, en mismikla.  Meðalhagvöxtur heimsins fer minnkandi og er rétt ofan við núllið í Evrópu.  Bloomberg metur líkur á samdrætti í stærsta hagkerfi heims á tímabilinu desember 2019-nóvember 2020 vera 26 % og lækkandi, þrátt fyrir íþyngjandi tollastríð Bandaríkjanna (BNA) og Kína. Bandaríkjaforseti skekur enn tollavopnið, en hann virðist halda, að hægt sé að beita því "to make America great again", en Bandaríkjamenn finna þegar á eigin skinni, að tollavopnið virkar sem bjúgverpill.  

Stærsta atvinnugreinin á Íslandi, ferðaþjónustan, hefur orðið harðast úti 2019, þrátt fyrir stöðugt vaxandi áhuga ferðamanna hvaðanæva að úr heiminum fyrir norðurslóðum, þökk sé loftslagsumræðunni og myndum af bráðnandi ísbreiðum. Noregur nýtur þessa vaxtar enn, enda er gjaldmiðill þessarar jarðolíu- og -gasþjóðar búinn að vera ótrúlega veikur allt styrkingartímabil ISK. Er það til merkis um ruðningsáhrif olíu- og gasvinnslu Norðmanna í atvinnulífi þeirra. 

Ferðaþjónusta er vinnuaflsfrek, var komin yfir 30 k manns áður en hallaði undan fæti 2018. Þess vegna má ætla, að ferðaþjónustan hafi orðið ósamkeppnishæf 2018 og að enn hafi hallað undan fæti við gerð "Lífskjarasamninganna" 2019, því að greinin er dæmigerð lágtekjugrein, og mestar urðu launahækkanirnar á meðal lágtekjufólks. Áætlanir Isavia um farþegafjölgun og þörf á stækkun Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar virðast nú hafa verið reistar á sandi.  Höfundar þeirra hafa flaskað á mótvægi gjaldmiðilsins ISK við öfgum.  ISK rís við "óeðlilega" hratt flæði gjaldeyris inn í landið, þar til útflutningsgreinarnar, þ.m.t. ferðamennskan, verða ósamkeppnisfærar.  Með sama hætti fellur ISK við mótlæti og gerir útflutningsgreinarnar aftur samkeppnishæfar.  Þetta ferli er þó þyrnum stráð, því að af hljótast verðhækkanir á innflutningi og yfirleitt verðbólga.  Á meðan meðan viðskiptajöfnuðurinn er jákvæður, eins og nú, verður þó ekki djúp dýfa. 

Fall VOW air varð bæði af of lágum tekjum og of miklum kostnaði.  Fækkun ferðamanna í kjölfarið dró úr vinnu innanlands, en tekjur af ferðamönnum lækkuðu samt ekki, því að tekjur af hverjum ferðamanni hækkaði í gjaldeyri og í ISK, sem er merkileg og jákvæð þróun. Nú horfir illa með spurn eftir ferðaþjónustu í vetur, einkum utan höfuðborgarsvæðisins. Einkum fækkar ferðamönnum frá Bandaríkjunum (BNA) og EES-löndunum.  Aukning frá Asíu gæti vegið þetta fall upp með tímanum, því að Kínverjar fjölmenna nú til Evrópu. Fljúga þeir beint, m.a. frá Sjanghæ til Helsinki í Finnlandi, og hafa nú tilkynnt áframhaldandi flug þaðan til Keflavíkurflugvallar í vetur. Þarna er komin nýrík miðstétt Kína, sem telur 300-400 k manns, og heimsviðskiptakerfi auðhyggjunnar hefur með samþykki kínverska kommúnistaflokksins lyft úr örbirgð til bjargálna. 

Nýtt millilandaflugfél er í undirbúningi hérlendis, en hingað til virðist ekki hafa verið rekstrargrundvöllur fyrir tveimur slíkum flugfélögum hérlendis, enda eru nú um 25 flugfélög, sem keppa á flugleiðum til Íslands.  SAS hefur t.d. tilkynnt um áform um reglubundnar ferðir til Keflavíkurflugvallar. Gleðilegt er, að hlutabréfaverð Icelandair er nú að jafna sig eftir áföll þessa árs.  Munu evrópsk flugmálayfirvöld leyfa notkun Boeing 737 MAX á fyrsta ársfjórðungi 2020 ?  Það er enn á huldu og skiptir marga gríðarlegu máli.

Flugvallarmálin eru í deiglunni hér og víðar.  Samgönguráðherra landsins kynnti nýlega sérfræðingaskýrslu "stýrihóps" undir formennsku Eyjólfs Árna Rafnssonar, verkfræðings og formanns Samtaka atvinnurekenda, um flugvallarvalkosti á SV-landi. Hópurinn kvaddi erlenda flugvallarsérfræðinga sér til ráðuneytis.  Samgönguráðherra ætlar í kjölfarið að fá fé í rannsóknir á flugvallarskilyrðum í Hvassahrauni og gerði samkomulag við borgarstjóra um áframhaldandi tvær flugbrautir í Vatnsmýri í 15 ár hið minnsta.  Fremja á skemmriskírnar rannsóknir á umhverfi (vatnsvernd) og veðurfari í Hvassahrauni. Er það gagnrýnt, að ekki sé ætlunin að fylgja alþjóðlegum stöðlum um tímabil nákvæmra rannsókna á veðurfari á hugsanlegu flugvallarstæði (minnst 4 ár).  Millilandaflugvöllur og innanlandsflugvöllur í Hvassahrauni eru sagðir munu kosta samtals mrdISK 300, en innanlandsflugvöllur einn og sér mrdISK 44.  Mun ódýrara er þó að fjárfesta í Vatnsmýrarvellinum til notkunar fyrir einkaflug, kennsluflug, sjúkraflug og áætlunarflug innanlands og til Færeyja ásamt því að nota hann sem varaflugvöll fyrir millilandaflugið. Það má þróa Vatnsmýrarvöllinn með lengingu flugbrautar út í sjó.  Veðurfarslega er þetta flugvallarstæði líklega  hið bezta á landinu, og því má ekki fórna frekar en orðið er á altari lóðaviðskipta undir íbúðir.  Slíkt væri aðeins verjanlegt, ef hörgull væri á byggingarlandi á höfuðborgarsvæðinu, sem er alls ekki.

Það er sömuleiðis mun ódýrara en Hvassahraunsvöllur að fjárfesta á Keflavíkurflugvelli til að gera hann hæfan fyrir afgreiðslu allt að 20 M farþega á ári, sem hann er talinn geta annað með nauðsynlegum fjárfestingum. Það hillir ekkert undir, að glíma þurfi þar við þann farþegafjölda, því að áætlanir Isavia hafa reynzt vera alveg út úr kortinu. Það er heldur ekki skynsamlegt að fjárfesta í öðrum flugvelli á sama eldvirka svæðinu, og öruggari kostur að fjárfesta í flugvelli utan eldvirkra svæða, ef/þegar hillir undir, að núverandi flugvellir á SV-horninu verði fulllestaðir. Sá flugvöllur, sem verður fyrir valinu þá, þarf jafnframt að þjóna sem heppilegur varafluvöllur fyrir hina. Isavia hefur nú tilkynnt um fjárveitingar til fyrirhugaðs viðhalds og fjárfestinga í endurbótum á Egilsstaðaflugvelli sem varaflugvelli Keflavíkurflugvallar, sem staðið geti undir nafni.  Í kjölfarið getur þá þróazt beint flug erlendis frá til Egilsstaða.

Miðað við þá gríðarlegu fjárþörf, sem er í framtíðar samgöngukerfi með framkvæmdum á Akureyrar- og Egilsstaðaflugvöllum, jarðgöngum, brúargerð, fjölgun akreina, mislægum gatnamótum og stígagerð fyrir gangandi og hjólandi, er engan veginn verjanlegt að hefja framkvæmdir við langdýrasta flugvallarkostinn, sem er jafnframt illa staðsettur og óþarfur.

Þá að sjávarútvegi: veiði villtra botnfiska fer minnkandi í heiminum, en fer vaxandi á Íslandi, og á næsta ári er spáð um 10 kt aukningu m.v. 2019.  Jafnframt er spáð um 17 % heildaraukningu á veiðum íslenzkra skipa á næsta ári.  Þá er spáð um 23 % aukningu í vinnslu og útflutningi eldisfisks á Íslandi, og getur sú vinnsla  þrefaldazt á einum áratugi að magni.  Þokkalegt verð er fyrir afurðirnar, enda eru matvælamarkaðir hvorki næmir fyrir hagsveiflum né sveiflum á hrávörumörkuðum, svo að framtíð sjávarútvegs og fiskeldis á Íslandi virðist björt, og skjóta þessar greinar æ traustari stoðum undir hagstæðan viðskiptajöfnuð, sem er ein af undirstöðum trausts gengis, lágrar verðbólgu og velmegunar í landinu. Vaxandi próteinskortur er í heiminum, sem íslenzkir matvælaframleiðendur geta og eru að nýta sér.  Laxeldið er sérlega efnilegt í þessu sambandi, hefur þegar bætt hlut Vestfirðinga og hefur vaxtarstyrk, sem duga mun Vestfirðingum til uppbyggingar fjölbreyttra atvinnuhátta og mikillar velmegunar.  Atvinnusaga Vestfjarða er glæst, og nú eru forsendur fyrir nýju blómaskeiði þar fyrir hendi. Athyglisvert er, að aftur knýr norsk þekking og fjármagn þessa þróun áfram.

Jákvætt er, að nú stefnir í meiri viðskiptaafgang við útlönd en í fyrra, og staða þjóðarbúsins gagnvart útlöndum hefur aldrei verið betri í eignalegu tilliti.  Þessi tíðindi styrktu gengi ISK um 3 % í byrjun desember 2019, og við það situr enn.

Fiskveiðistjórnunarkerfið er lífseigt umræðuefni hérlendis, og tilefni þótti til að endurlífga þá umræðu í kjölfar umfjöllunar Kveiks/RÚV um starfsemi Samherja í Namibíu, en Samherji virðist hafa komið til skjalanna sem samstarfsaðili namibískra stjórnvalda í sjávarútvegi í kjölfar brottvísunar suður-afrískra útgerða frá Namibíu 2011, en ferill Suður-Afríkumanna í Namibíu er ekki til fyrirmyndar, svo að vægt sé til orða tekið, heldur virðast þeir hafa verið í hlutverki nýlenduherra þar.  Vart er að efa, að þeir sækja aftur á sömu mið og þurfa þá að hrekja þá brott, sem Namibíumenn kusu heldur að starfa með.  Er þetta sýnidæmi um það, að hollast er nýfrjálsum þjóðum að taka stjórn auðlinda sinna í eigin hendur sem allra fyrst.  Frá fullveldi Íslendinga liðu 58 ár, þar til þeir öðluðust óskoraðan yfirráðarátt yfir 200 sjómílna lögsögu sinni.  Nú eru 59 ár liðin frá því, að þessi fyrrum þýzka nýlenda öðlaðist sjálfstæði.  Á þessu ári hafa þeir atburðir orðið á Íslandi, að löggjöf Evrópusambandsins um milliríkjaviðskipti með rafmagn hefur verið leidd í íslenzk lög.  Þótti ýmsum hérlandsmönnum það of áhættusamur gjörningur, en framtíðin mun skera úr um það, hvort fullveldisrétti landsmanna yfir orkulindunum verður með þeim gjörningi og síðari gjörningum í orkusviðinu stefnt í tvísýnu. 

Ekki er að efa, að hatrömm barátta stendur yfir um náttúruauðlindir í Namibíu, og gengur ýmislegt á, á meðan Namibíuþjóðin öðlast stjórn á þeim, en langt er í land með að dreifa arði auðlinda til almennings þar í landi. Svo virðist sem Samherji hafi lent í skotlínu hatrammra átaka á milli hinnar nýfrjálsu Namibíu og drottnaranna í Suður-Afríku, þar sem Namibíumenn hafa fengið Samherja til að hjálpa sér við auðlindanýtinguna í kjölfar brottrekstrar Suður-Afríkumanna.  Í þessu sambandi ber að spyrja spurningar Rómverja: "cuo bono"-hverjum í hag ?  Stöðvun starfsemi Samherja í Namibíu opnar e.t.v. Suður-Afríkumönnum aftur leiðina að sjávarauðlind Namibíumanna.  Það er ekki allt sem sýnist.  

Á Íslandi hefur betur tekizt til, enda veiðar og vinnsla í höndum landsmanna sjálfra, sem er nauðsynlegt og nægjanlegt skilyrði fyrir því, að náttúruauðlindanýtingin gagnist þjóðinni sem heild, ef réttum leikreglum er fylgt og eftirlitsaðilar vinna vinnuna sína. 

Deilt er um kvótaþakið, þ.e. hámarksaflahlutdeild á tegund hjá hverju fyrirtæki.  Hún er hér 12 %, en í Noregi er hún tvöfalt hærri.  Íslenzku fyrirtækin eru í harðri samkeppni við mun stærri norsk fyrirtæki, og verði kvótaþakið lækkað hérlendis, mun framleiðni íslenzku fyrirtækjanna minnka, sem er ávísun á það að verða undir á alþjóðlegum mörkuðum, og það mun þýða veikingu ISK og lakari lífskjör á Íslandi.  Stjórnmálamenn verða að huga vel að gjörðum sínum varðandi fyrirtæki í grimmri alþjóðlegri samkeppni og varast fljótræðislegar aðgerðir til að þóknast hávaðaseggjum.  Með því að komast inn á og halda stöðu sinni á bezt borgandi mörkuðunum, fæst hæsta mögulega verð fyrir sjávarauðlind landsmanna, sem seytlar um allt hagkerfið.  Það er einmitt það, sem gerzt hefur.

  Ásta Björk Sigurðardóttir, hagfræðingur hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, upplýsir Gunnlaug Snæ Ólafsson á 200 mílum Morgunblaðsins, eins og birtist 04.12.2019, um vísitöluþróun magns og verðmæta í sjávarútvegi tímabilið 1999-2019. M.v. við vísitölu hvors tveggja 100 í byrjun, er hún 101 í lokin fyrir magnið (t) og 163 fyrir verðmætin í erlendri mynt.  

"Ásta Björk Sigurðardóttir, hagfræðingur hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, segir það ekki einungis framboð og eftirspurn á mörkuðum, sem ýti undir hærra verð fyrir afurðirnar, heldur geti verð einnig hækkað vegna aukinna gæða.  Þessi auknu gæði má m.a. rekja til fjárfestinga í hátæknilausnum, sem gera það að verkum, að meira fæst fyrir þann fisk, sem veiddur er.  "Þrátt fyrir að útflutningur sjávarafurða sé að dragast saman að magni til, sem má einna helzt rekja til loðnubrests, er lítilsháttar aukning í útflutningsverðmætum sjávarafurða á föstu gengi á fyrstu 10 mánuðum ársins.  Kemur það til af hagstæðri verðþróun sjávarafurða undanfarin misseri.  Sem endranær er ekkert gefið í þessum efnum, en þar gegnir fjárfesting í nýsköpun og tækni lykilhlutverki sem og markaðssetning afurðanna erlendis, þar sem hörð samkeppni ríkir", útskýrir Ásta Björk."

Auðlindanýting íslenzkra fiskimiða getur varla fengið betri umsögn en þessa, og hún er beztu meðmæli, sem íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfið getur fengið.  Það er einfaldlega ekkert betra kerfi þekkt fyrir þessa auðlindanýtingu.  Ef auðlindagjaldið hefði verið haft hærra, hefðu fjárfestingarnar óhjákvæmilega orðið minni, og að sama skapi hefði verðmætasköpunin fyrir samfélagið orðið minni.  Það hefði verið afar óskynsamleg ráðstöfun.  

Hugmyndin um veiðileyfagjaldið er reist á auðlindarentu, sem hefur gengið erfiðlega að sýna fram á.  Sjávarútvegurinn er fjármagnsfrekur, og arður af fjármagni þar er ekki hærri en í mörgum öðrum greinum. Honum er nauðsyn á að hafa bolmagn til fjárfestinga.  Þær hafa skilað sér í svo miklum eldsneytissparnaði, að sjávarútveginum mun fyrirsjáanlega takast að ná losunarmarkmiðum koltvíildis 2030 um 40 % minnkun frá 1990. Þær hafa líka skilað honum framleiðniaukningu, sem hafa gert honum kleift að greiða góð laun og að standast alþjóðlega samkeppni fram að þessu.

Sjávarútvegurinn er í samkeppni um fjármagn og fólk hér innanlands og á í samkeppni við allar fiskveiðiþjóðir Evrópu, Kínverja og Kanadamenn, á hinum kröfuharða evrópska markaði og víðar.  Nefna má fiskútflytjendur á borð við Norðmenn og Rússa.  Engin þessara fiskveiðiþjóða, nema Færeyingar, leggja veiðileyfagjald á sinn sjávarútveg, en nokkrar hafa gefizt upp á því, t.d. Rússar, sem gáfust upp á sínu uppboðskerfi, því að útvegurinn var við að lognast út af undir því kerfi.  Þvert á móti nýtur sjávarútvegur yfirleitt fjárhagslegra hlunninda eða fjárstuðnings úr hendi opinberra aðila í sínu landi í nafni fæðuöryggis, auðlindanýtingar og byggðastefnu.  Við þessar aðstæður er vandasamt að leggja auðlindagjald á íslenzkan sjávarútveg, og stjórnmálamenn og embættismenn geta hæglega gert herfileg mistök, sem vængstífa atvinnugreinina og gera hana ósamkeppnishæfa. Ekki er að spyrja að því, að þá mun verðmætasköpunin koðna niður.  

Lengst allra í vitleysunni ganga þeir, sem halda því fram, að leiguverð kvóta endurspegli markaðsverð á endurgjaldi til ríkisins fyrir aðgang að auðlindinni. Leiguverð á bolfiski mun vera yfir 200 ISK/kg og er jaðarverð, sem leigutakinn telur sér hagfellt vegna lágs kostnaðar við að afla viðbótarafla, og eftir atvikum að verka hann og fullvinna.  Ef ríkið mundi innheimta þessa upphæð sem auðlindagjald, jafngilti það þjóðnýtingu, og enginn myndi hafa hug á að draga bein úr sjó.  Við sætum uppi með ríkisútgerð og bæjarútgerðir með stjórnmálamenn og embættismenn við stjórnvölinn, sem hvorki hafa vit á né áhuga á útgerð, og öll þjóðin myndi stórtapa, af því að þá væri náttúruauðlindin hennar í tröllahöndum getuleysins, sem er ekkert skárra fyrir hana en arðrán útlendinga á sjávarauðlind landsmanna fyrr á tíð.  Hvort tveggja leiðir til fátæktar.  

Fiskveiðistjórnunarlöggjöfin tryggir ríkisvaldinu óskoraðan rétt til að stjórna auðlindanýtingunni innan efnahagslögsögunnar.  Þetta er gott fyrirkomulag, á meðan við völd eru stjórnmálamenn, sem vilja leggja beztu vísindalegu þekkingu til grundvallar hámarksnýtingu nytjastofnanna til langs tíma.  Því fer fjarri, að einhugur sé um slíkt í Evrópu, hvað þá annars staðar.  Þetta kemur fram við skiptingu flökkustofna.  Hún er í ólestri, og niðurstaðan er ofveiði, af því að Evrópusambandið (ESB), Noregur og Færeyjar, hafa myndað skúrkabandalag gegn Íslendingum, Grænlendingum og Rússum.  Þegar Bretar hafa gengið úr ESB, geta þeir annaðhvort magnað vandann með því að ganga í skúrkabandalagið, eða þeir geta beitt áhrifum sínum til að kalla alla þessa aðila að samningaborðinu, þar sem tekizt verður á um skiptinguna með tiltækum rökum.

Þriðja undirstaða hagkerfisins, útflutningsiðnaðurinn, má muna sinn fífil fegri, því að verð á málmmörkuðum hefur verið lágt undanfarin ár.  Á sama tíma hefur tilkostnaður hans hækkað mjög, hráefni, starfsmannahald og orka.  Viðskiptastríð BNA við Kína og ESB hefur orðið til bölvunar, keyrt Evrópu í stöðnun (Þýzkaland í samdrátt), minnkað hagvöxt Kína í 6 % og Bandaríkjunum sjálfum er aðeins spáð 2 % hagvexti 2020. Íslenzkur hátækniiðnaður, sem að miklu leyti er afsprengi sjávarútvegs og málmiðnaðarins, hefur þó dafnað vel og næstum tvöfaldað útflutningsverðmæti sín 2019 m.v. við 2018.  

Kraftgjafi iðnaðarins og almennt góðra lífskjara er lágur raforkukostnaður á kWh að flutningi, dreifingu og sköttum meðtöldum.  Í þessum efnum hefur sigið á ógæfuhliðina hérlendis með innleiðingu ESB-regluverks, sem á ekki við hér.  Uppskipting raforkugeirans olli neytendum miklum kostnaðarauka, vegna þess að hluti gróðans af orkusölunni fór ekki lengur til uppbyggingar flutnings- og dreifikerfis, heldur í arðgreiðslur til eigendanna.  Kerfið er í ógöngum, af því að það hefur misst alþjóðlega samkeppnisstöðu sína og í því felast ekki nægilegir hvatar til að virkja. Enginn er ábyrgur fyrir afhendingaröryggi raforku til almennings, og þess vegna getur dregizt á langinn að hefja nýjar virkjanir. Frá iðnaðarráðuneytinu kemur engin leiðsögn út úr þessum ógöngum, heldur vitleysa á borð við það, að samkeppni á milli fyrirtækja (á örmarkaði) tryggi hag neytenda. Þar er étinn upp áróður að utan. Íslendingar eru orðnir bundnir í báða skó á raforkusviðinu vegna innleiðingar þvingandi löggjafar frá Evrópusambandinu, sem hentar landinu engan veginn. Reyna þarf að sníða af þessu kerfi vankantana m.v. íslenzkar aðstæður í samráði við ESB eða leita eftir annars konar samstarfi á viðskipta-, vísinda- og menningarsviðinu. Þegar stærsta orkufyrirtæki landsins, sem jafnframt er að fullu í ríkiseign, telur hagsmunum sínum og eigandans betur borgið með því að láta vatn renna framhjá virkjunum en að selja málmframleiðanda, sem vantar 10 MW, afl og orku á samkeppnishæfu verði, þá er maðkur í mysunni og sýnilega vitlaust gefið.

Ný tegund í lögsögu Íslands, makríll  

 

 

 

 

 

 


Skýrslan "Íslensk raforka" - I

Þann 16.10.2019 gáfu Samtök iðnaðarins, SI, út skýrsluna "Íslensk raforka - Ávinningur og samkeppnishæfni".  Hafi tilgangur skýrslunnar verið að koma á framfæri áhyggjum og viðvörunum vegna minnkandi samkeppnishæfni íslenzkrar raforku, þá er textinn of almennt orðaður og á köflum loðmullulegur um það atriði, til að sá boðskapur komist til skila. 

SI eiga hins vegar hrós skilið fyrir að benda á mikilvægi orkuiðnaðarins og aðalviðskiptavinar hans, orkusækins iðnaðar, fyrir þjóðarbúskapinn.  Frá orkutæknilegu sjónarmiði er skýrslan þó of veik til að hitta í mark, enda hefur ekki á vegum SI verið framkvæmd nein ný greining á stöðu orkuiðnaðarins, sem þó er nauðsynlegt á þeim tímamótum, sem hann stendur á eftir innleiðingu OP#3 og með markaðsstýringu raforkuvinnslunnar á þröskuldinum.  Fyrir vikið standa margar fullyrðingar í skýrslunni uppi órökstuddar, og skýrslan er með slagsíðu óheftrar markaðstrúar, sem höfundar rökstyðja ekki, að eigi við í orkugeiranum á Íslandi.

  Þeir, sem lesa skýrslu Orkunnar okkar frá 16.08.2019, finna hins vegar þar ágætan rökstuðning fyrir því, að íslenzka orkukerfið útheimti orkulindastýringu til að setja hagsmuni neytenda í öndvegi, þ.m.t. iðnaðarins. Á Íslandi vill svo til, að almennir neytendur og eigendur raforkukerfisins eru næstum sami hópurinn. Það er sjaldgæf staða. Þess vegna er ákall SI um markaðsvæðingu raforkugeirans hjáróma eftiröpun erlendra og gjörólíkra aðstæðna, sem getur hæglega orðið neytendum til tjóns hérlendis.  Þannig ber skýrslan merki um flumbrugang, sem skýra má með vanþekkingu höfunda á orkumálum og orkukerfi Íslands.

Í þessari rýni verður fylgt sömu efnisröð og í skýrslu SI.  Inngangurinn hefst þannig:

"Nýting raforku gegnir lykilhlutverki í verðmætasköpun á Íslandi.  Fjórðungur útflutningstekna þjóðarinnar byggir á framleiðslu og nýtingu á raforku.  Fjórða iðnbyltingin er að miklu leyti raforkuknúin og er því mikilvægt, að vel takist til við að skapa samkeppnishæfa umgjörð um framleiðslu, dreifingu og nýtingu raforku til framtíðar litið.  Aðgengi að raforku er einnig mikilvægur þáttur í samkeppnishæfni atvinnulífs, og flutningskerfi raforku er ein af lykilstoðum innviða í landinu, sem þjónar bæði heimilum og fyrirtækjum."

Það er nýnæmi að kenna "Fjórðu iðnbyltinguna" við raforku, þótt hún sé óhugsandi án rafmagns.  Hún er þó aðallega hugbúnaðarknúin og reist á fjarskipta- og skynjaratækni.  Að sjálfsögðu munu orkufyrirtækin og iðnfyrirtækin færa sér hana í nyt, enda eru á báðum þessum innbyrðis háðu vængjum hátæknifyrirtæki.

  Aðeins samkeppnishæf raforkuvinnsla getur skapað verðmæti. Sú yfirverðlagning á raforku, sem Landsvirkjun af mikilli skammsýni hefur stundað síðan 2010, gerir íslenzka raforku ósamkeppnisfæra til lengdar og ógnar útflutningsatvinnuvegunum og þeim, sem standa í beinni samkeppni við innflutning.

  Vinnsla sjávarafurða innanlands, sem er keppikefli vegna verðmætasköpunar innanlands, á undir högg að sækja og stenzt ekki samkeppni, nema með hagkvæmu heildarraforkuverði, þ.e. verði orku, flutnings og dreifingar auk opinberra gjalda.  Sama má segja um t.d. garðyrkjuna.  Þannig er meira en helmingur útflutningstekna þjóðarinnar algerlega háður tiltölulega lágum raforkukostnaði á hverja MWh (megawattstund). Yfirverðlagning í krafti yfirburðastöðu á markaði er þess vegna grafalvarlegt mál og gefur hugmyndum um uppskurð Landsvirkjunar byr undir báða vængi, en með honum væri farið úr öskunni í eldinn. 

Eigendastefna ríkisraforkufyrirtækja, sem stjórnvöld hnoða nú saman, verður að taka mið af þessu, ef ekki á illa að fara. Verðlagsstefna Landsvirkjunar eru mistök, hún er  stórhættuleg og verður að breyta henni með hliðjón af heildarhagsmunum atvinnulífs og heimila. Ef Landsvirkjun á að verða mjólkurkýr fyrir ríkissjóð eða fjárfestingasjóð, "Þjóðarsjóð", þá mun hún skilja eftir sig sviðna jörð í atvinnulífinu.  Það er ekki erfitt að marka fyrirtækinu sanngjarna verðlagsstefnu, þegar meðalvinnslukostnaður ásamt hóflegri ávöxtunarkröfu eigin fjár (3 %/ár) eru þekktar stærðir.

"Í ljósi mikilvægis raforku fyrir samfélög, bæði heimili og atvinnustarfsemi, er raforka ekki eins og hver önnur vara.  Þvert á móti er raforka aðfang og meðal grunnstoða okkar samfélags.  Án raforkukerfisins væri atvinnulíf fábreyttara og lífsgæði lakari en ella.  Aðgengi að raforku þarf að vera tryggt fyrir bæði heimili og atvinnulíf, auk þess sem raforkuverð þarf að vera sanngjarnt, innviðir traustir, regluverk skýrt og eftirlit á raforkumarkaði virkt." [Undirstr. BJo.]

Þessi hluti skýrslu SI er fagnaðarefni, og það er saga til næsta bæjar, að SI brýtur þarna í bága við orkustefnu ESB og málflutning annarra orkupakkasinna á Íslandi (SI lýsti sig því miður hliðhollt OP#3 í umsögn til Alþingis fyrr á þessu ári, þegar OP#3 var þar til umfjöllunar, þótt allt sé á huldu um það, að OP#3 geti gagnast íslenzkum iðnaði, nema síður sé).

Það gagnast ekki Íslendingum, sem framleiða alla sína raforku úr náttúruauðlindum sínum með sjálfbærum hætti, að líta á og meðhöndla rafmagnið sem hverja aðra vöru, enda er ekki hægt að skila því.  Rafmagnið hér er nátengt náttúruauðlindunum, og það er fullveldisréttur okkar að ráða því sjálf, hvernig þær eru nýttar.  Ef stefna ESA/ESB um fyrirkomulag á ráðstöfun orkunýtingarréttinda nær fram að ganga hérlendis, þá fer þessi fullveldisréttur í súginn, en í skýrslu SI er ekki minnzt á það. Er það miður, því að ekki er að efa, að raforkuverð hérlendis mun hækka, ef afnotaréttur náttúruauðlindanna verður boðinn út eða upp.  Einnig má leiða að því líkum, að markaðsstýring raforkuvinnslunnar muni leiða til verðhækkana rafmagns.  Það helgast af ólíku eðli okkar helztu orkulinda, vatnsfalla og jarðgufu.  

Þar er hins vegar sagt í skýrslunni, að raforkuverð eigi að vera sanngjarnt.  SI virðist þannig gruna, að iðnaðarfyrirtækin njóti ekki sanngirni um þessar mundir.  Satt að segja tuddast Landsvirkjun á aðildarfélögum SI og öðrum, nýtir yfirburði sína á markaði og okrar á orkunni. Það er óþarfi að fara eins og köttur í kringum heitan graut um það grafalvarlega málefni.

Þá svelta sum aðildarfélög SI vegna of lítillar flutningsgetu Landsnets og dreifiveitna, og sum búa við allsendis ófullnægjandi gæði, lélega spennu og lítið afhendingaröryggi, t.d. á Vestfjörðum.  Þetta setur þróun aðildarfélaga SI stólinn fyrir dyrnar og  hefði einnig þurft að minnast á og slá jafnframt á árlegan kostnað vegna ófullnægjandi orkugæða (aflskorts, ófullnægjandi afhendingaröryggis og lélegra spennugæða), ef skýrslan átti í upphafi að geta kallast faglega vönduð.  Það virðist vanta sérfræðilega þekkingu á orkusviði hjá ritstjórn skýrslunnar til þess að uppfylla þessar væntingar, og hún hefur ekki haft gáning á að afla slíkrar utan frá.

"Það er staðreynd, að ef ekki er framleiðslufyrirtækjum til að dreifa, þar sem raforkan er aðeins einn af mörgum framleiðsluþáttum, þá er verðmætasköpunin hverfandi af orkuauðlindinni."

Þetta er rétt athugað og stingur í stúf við boðskap sumra, t.d. Landsvirkjunar, um útflutning á rafmagni um sæstreng.  Gallinn er sá, að SI studdi innleiðingu OP#3 hérlendis, sem stórlega jók hættuna á því, að hingað yrði lagður aflsæstrengur, því að Landsreglaranum eru falin mikil völd á orkusviðinu, og hann er algerlega óháður vilja innlendra stjórnvalda og hagsmunaaðila. Hlutverk löggjafarinnar OP#3 er aðallega að ryðja hindrunum úr vegi millilandatenginga.  Það væri Guðsþakkarvert, ef SI myndi nú sjá að sér fyrir hönd umbjóðenda sinna og leggjast gegn innleiðingu OP#4 (Hreinorkupakkans) sem fyrst og helzt á fyrsta ársfjórðungi 2020 til að styrkja stjórnvöld við gerð yfirlýsingar til ESB og EFTA þess efnis, að Ísland muni hafna OP#4 í Sameiginlegu EES-nefndinni.

Forysta SI hlýtur að hafa smíðað sér, að OP#3 muni gagnast íslenzkum iðnaði.  Því miður er það á misskilningi reist, að markaðsvæðing raforkuvinnslunnar og umsetning raforkunnar í orkukauphöll geti gagnast notendum við íslenzkar aðstæður.  Til þess að spila á kerfið og gera hagstæðari viðskipti en nú tíðkast þarf sérfræðiþekkingu, sem borgar sig ekki fyrir flest fyrirtækin að afla sér.  Að fara út í afleiðuviðskipti er hrein spákaupmennska, sem margir hafa farið flatt á.  Ef á að sveifla framleiðslunni eftir verði á rafmagni, kostar það endurskipulagningu framleiðslunnar, sem getur kostað aukin útgjöld til mannahalds og aukningu birgðahalds.  Hvort tveggja vinnur gegn framleiðniaukningu, sem ætti að vera helzta keppikefli iðnaðarins.

Stærstu kaupendurnir, álverin, geta ekki með góðu móti tekið þátt í þessu af tæknilegum ástæðum, af því að stöðugleiki er alfa og omega fyrir rafgreiningarkerin.  Fyrirvaralitlar aflsveiflur eru dýrar og geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir framleiðni (straumnýtni og orkunýtni keranna) dögum og jafnvel vikum saman.  Markaðsvæðing raforkuvinnslunnar í anda Innri markaðar ESB eykur hættu á orkuskorti, og mótvægisaðgerðir í anda orkulindastýringar verða líklega dæmd óleyfileg opinber markaðsinngrip.  Málið horfir þannig við pistilhöfundi, að SI hafi með stuðningi sínum við OP#3 keypt köttinn í sekknum.

Í næstu vefgrein verður haldið áfram að rýna í umrædda skýrslu Samtaka iðnaðarins.

 

 

 

 

 

 

 


Er bjart yfir birtingu gagna ?

Valdhafar hérlendis eru pukurgjarnir með viðfangsefni sín og jafnvel ákvarðanir, eins og þeir væru á mála hjá Miðstjórn sovézka kommúnistaflokksins, en ekki að vinna fyrir 0,36 M manns á eyju norður í Atlantshafi.

Þetta er óttalega heimóttarleg hegðun í samanburði við anda stjórnsýslu- og upplýsingalaga hér og borið saman við nágranna okkar og frændur á hinum Norðurlöndunum, t.d. Norðmenn. Sleifarlagi opinberrar stjórnsýslu er við brugðið, og er sem metnaðarleysi og doði liggi yfir vötnum.  Með auknu reglufargani, heimatilbúnu og að utan (EES), hefur keyrt um þverbak, og er Byggingarreglugerðin eitt dæmi.  Þunglamaleg stjórnsýsla er rándýr, því að hún sóar tíma fjölda manns, og dregur þannig úr framleiðniaukningu, sem þó er undirstaða lífskjarabata í landinu.

Vakin hefur verið athygli á nokkrum öðrum dæmum um þetta á þessu vefsetri, og nú hefur Umboðsmaður Alþingis ávítað stjórnvöld fyrir tregðu sína við eðlilega upplýsingagjöf og bent á algerlega óeðlilega hátt hlutfall beiðna um upplýsingar frá hinu opinbera, sem lendi hjá áfrýjunarnefnd um upplýsingamál. Sem betur fer er nú komin fram tillaga frá Stjórnarráðinu um að draga nokkrar tennur úr vinstri hvofti eins argasta kerfisdýrsins, Samkeppnisstofnunar.  "Kúba norðursins" lét ekki aðeins duga að innleiða hér löggjöf ESB á samkeppnissviði, heldur bætti í kerfishítina, og er það ekki í eina skiptið, sem íslenzkir búrókratar eru á fölskum forsendum látnir komast upp með að gerast kaþólskari en páfinn.  Alþingismenn verða að muna, að reglugerðafargan kemur að lokum niður á neytendum, kjósendum þeirra, þannig að þeir verða að standa á bremsunum.

Argvítugum þagnarhjúpi var varpað yfir þá ákvörðun ríkisstjórnar Sigurðar Inga Jóhannssonar 2016, þar sem Lilja D. Alfreðsdóttir var utanríkisráðherra og Ragnheiður Elín Árnadóttir var iðnaðarráðherra, að fallast í einu og öllu á þá kröfu ESA (Eftirlitsstofnunar EFTA) að taka upp nýtt fyrirkomulag við endurnýjun á og útgáfu nýrra orkunýtingarleyfa fyrir orkulindir í eigu hins opinbera. 

Markaðurinn skal eftir breytinguna að kröfu ESA ráða því, hver fer með þessi nýtingarleyfi, og þessi markaður er væntanlega Innri markaður EES.  Fyrir þessu máli var gerð grein í skýrslu Orkunnar okkar, 16.08.2019, og þar var sterklega varað við þessu á þeim forsendum, að 0,36 M manna samfélag gæti ekki staðið gegn afli 500 M manna markaðar um nýtingu eftirsóknarverðra auðlinda. 

Þetta þýðir þá með öðrum orðum, að vegna þessarar ákvörðunar í utanríkisráðherratíð Lilju D. Alfreðsdóttur (utanríkisráðherra fer með EES-mál í samstarfi við fagráðherra) stefnir í, að Íslendingar glutri niður umráðarétti orkulinda ríkisins og sveitarfélaganna, þótt þeir eftir sem áður haldi eignarrétti sínum. Hvers virði er hann, þegar umráðarétturinn er farinn annað ? 

Einhver hefði nú haldið, að þetta mál væri einnar messu virði á opinberum vettvangi og að á móti mætti draga úr froðunni og móðursýkinni, sem of mikinn tíma taka, s.k. umbúðastjórnmál, hismi, sem alltaf sneiða hjá kjarna máls.  Nei, engin ríkisstjórn frá þessum atburði, sízt núverandi leyndarhyggjustjórn Katrínar Jakobsdóttur, hefur séð ástæðu til að skýra út fyrir þjóðinni þessa grundvallar stefnubreytingu um stjórnun á nýtingu orkulindanna.  Stefnir nú í, að hér gæti orðið um kosningamál að ræða, því að iðnaðarráðherra hefur boðað framlagningu máls á 150. löggjafarþinginu, þar sem ríkisstjórnin virðist loks ætla að efna loforðið við ESA (Eftirlitsstofnun EFTA), sem felldi kvörtunarmálið niður í janúar 2017 eftir uppgjöf ríkisstjórnarinnar í þeirri vissu, að staðið yrði við loforðið. 

Verður iðnaðarráðherra kápan úr þessu klæði sínu ?  Það mun a.m.k. verða lífleg umræða alls staðar á landinu og í öllum frjálsum fjölmiðlum, svo og á þingi.  Sú umræða er líkleg til að narta enn af fylgi stjórnarflokkanna, og sá fylgisflótti fer vonandi þangað, sem raunveruleg andstaða er við málið.  Hennar er aðeins að vænta af krafti frá Miðflokkinum, en OP#3 flokkarnir hafa væntanlega ekki miklar athugasemdir.  

Norska ríkisstjórnin lagði á hinn bóginn ekki upp laupana eftir móttöku bréfs frá ESA 30. apríl 2019 um, að aðferð norska ríkisins við úthlutun nýtingarleyfa orkulinda í eigu ríkisins stríddi gegn Þjónustutilskipun ESB, samkeppnisreglum o.fl., eins og ESA heldur fram.  Þann 5. júní 2019 sendi olíu- og orkuráðuneytið snöfurmannlegt bréf til ESA með lögfræðilegum útleggingum á því, að þetta mál kæmi ESA ekki við, væri utan valdsviðs Eftirlitsstofnunarinnar og sneri að fullveldisrétti Noregs til að ráða yfir nýtingu orkulinda Noregs.  

Því miður er hér grundvallarmunur á afstöðu Íslands og Noregs til samskipta við ESA, og það er mikið áhyggjuefni fyrir hérlandsmenn, að allur dugur virðist úr íslenzka stjórnkerfinu, þegar kemur að því að standa í lappirnar gagnvart EES/ESB.  Er engin döngun lengur í íslenzkum stjórnmálamönnum við völd og embættismönnum þeirra ?  Stórþinginu var tilkynnt um bréf norsku ríkisstjórnarinnar til ESA, og lýsti það yfir þverpólitískri samstöðu með ríkisstjórninni, sem er fremur sjaldgæft, en skýrist af því, að Norðmenn telja "erfðasilfur" sitt í húfi.

Þetta er ennfremur mjög athyglisvert í ljósi þess, að norska ríkisstjórnin hefur verið talin fremur höll undir ESB. Enginn veit hins vegar um afstöðu Alþingis til uppgjafarbréfs íslenzku ríkisstjórnarinnar, og það hefur ekki verið birt, en á vef ESA er vitnað til þess og svarbréfið birt, þar sem málinu var þar með sagt lokið.  Allt er þetta óboðlegt og til vitnis um pólitískar heybrækur, sem þola ekki dagsljósið hérlendis.

 Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins 13.09.2019 bar yfirskriftina: 

"Bjart er yfir birtingu gagna".

Þar segir svo í undirkaflanum: 

"Ólæknandi hræðslupúkar":

"En óttaköstin, sem ákveðin tegund af mönnum verður heltekin af, þegar að skiljanleg rök vilja alls ekki eiga samleið með þeim, er þó erfiðara að botna í en bænakvakið út af hnerranum.

Umræðan um orkupakkann stóð stutt, þótt hún teygðist töluvert yfir almanakið.  Þeir, sem gengu erinda þeirra, sem gáfu fyrirmælin um að innleiða tiltekna tilskipun, ræddu málið sárasjaldan og aldrei efnislega.  Þeir, sem áttu formsins vegna að vera í forsvari, virtust algerlega ófærir um það og stögluðust því á innihaldslausum klisjum, sem útlitshönnuðum sjónarmiða var borgað af almenningi fyrir að sníða ofan í þá.  

Fyrst snerust þær um það, að málið, sem þeir höfðu ekki sett sig inn í, væri algjört smámál.  Næst kom þreytta tuggan um, að þau rök, sem meirihluti þjóðarinnar ætti samleið með, "stæðust ekki skoðun".  En sú skoðun fór aldrei fram, svo að séð væri.  Hvorug þessara aðferða gekk upp.

Að lokum endaði málatilbúnaðurinn með því að segja, að EES-samningurinn myndi fara út um þúfur, yrði þetta "smámál" ekki samþykkt.

Vandinn er sá, að það er sjálfur grundvöllur samningsins, að Ísland geti hafnað slíkum tilskipunum, algjörlega að eigin mati.  Gæti þjóðin það ekki, hefði lagasetningarvald Alþingis verið flutt úr landi, sem ekki stæðist stjórnarskrá.  

Margoft var um það spurt, hvað menn hefðu fyrir sér um það, að EES-samningurinn hryndi, ef "þetta smámál" yrði ekki samþykkt.  Enn hefur ekki komið svar við því.  Einhver marktækur hlýtur þó að hafa sett fram slíkar hótanir.  Varla hafa þær verið fabúleraðar í heimilisiðnaði.  

Og það ömurlega er, að það var á grundvelli þessa hræðsluáróðurs, sem málið var afgreitt, svo lítilfjörlegt sem það er.  Málið var rekið áfram á óttanum."

 Þetta er einn harðasti dómur yfir stjórnvöldum, sem Morgunblaðið hefur kveðið upp úr með á lýðveldistímanum, og voru þó vinstri stjórninni 1956-1958 ekki vandaðar kveðjurnar.  Það er auðvitað jafnframt mikill áfellisdómur yfir framkvæmd EES-samningsins, að ríkisstjórnin skuli, að því er virðist, fara fram með löggjöf Evrópusambandsins gagnvart Alþingi á grundvelli hótana, innlendra eða erlendra, sem hún þó treystir sér ekki til að staðfæra, hvað þá að hún hafi borið það við að færa rök fyrir gagnsemi löggjafarinnar fyrir íslenzka þjóð.  Hún greip hins vegar til þess óyndisúrræðis að veifa fremur röngu tré en öngu, þ.e. að innleiðing þess hluta orkulöggjafar ESB, sem OP#3 spannar, skipti þjóðina engu máli.  Það var þó margsinnis hrakið, bæði á lögfræðilegum, orkustjórnunarlegum og efnahagslegum forsendum.  Að EES-samningurinn sé hér keyrður áfram á svona lágkúrulegum forsendum, færir okkur heim sanninn um, að þetta herra-þræls-samband okkar við ESB um Innri markaðinn er komið að leiðarlokum.

Höfundur Reykjavíkurbréfs gerði síðan að umræðuefni, að baráttan í Bretlandi gegn útgöngu Breta úr Evrópusambandinu væri líka rekin á óttanum.  Það hvarflaði þó ekki að aðþrengdum Bretum eftir ósigurinn við Dunkirque vorið 1940 að láta í minni pokann fyrir yfirgangi Berlínar þá, heldur barðist Royal Airforce með kjafti og klóm við Luftwaffe um yfirráðin í lofti. 

Wehrmacht og die Kriegsmarine höfðu komizt að þeirri niðurstöðu, að innrás í England myndi mistakast, aðallega vegna brezka flotans, svo að lofthernaðurinn var í raun ekki barátta um England, heldur barátta um yfirráð í lofti yfir Evrópu. Allir vita, hvernig þeirri baráttu lyktaði, og ekki kæmi það á óvart, að Bretar stæðu enn einu sinni uppi með pálmann í höndunum eftir útgönguviðureignina við meginlandið.  Þeir munu strax í kjölfarið fá viðamikinn fríverzlunarsamning við Bandaríkin, og vonandi hefur EFTA vit á að gera við þá víðtækan, nútímalegan  fríverzlunarsamning.  

Höfundur sama Reykjavíkurbréfs gerir Yellowhammer ("gultittling"), verstu sviðsmynd May-stjórnarinnar um afleiðingar BREXIT að umræðuefni.  Í lokaundirkafla bréfsins stendur þetta:

"Það eina, sem manni þykir vanta í þessar spár, væri 11.:"Verði farið út án útgöngusamnings, gæti Pence, varaforseti, komið í heimsókn í hálfan dag og umferðaröngþveiti verða í öllum borgum Bretlands og standa í þrjá mánuði, einkum ef það væri starfsdagur í skólum.".

Skýringin á því, að May birti ekki þessa skýrslu, sem hún pantaði, er augljóslega sú, að það reyndist ekkert vera í henni.  Þegar beðið var um það á þingi Bretlands, að þessi skýrsla óttans yrði birt, þá var það gert.

Á Íslandi er augljóst, að helztu forystumenn landsins keyptu fullyrðingar um það, að fylgdu þeir ákvæðum EES samningsins og höfnuðu fullgildingu ákvæðis, sem að almenningur er á móti, þá yrði samningurinn að engu !  Það þarf að vísu ótrúlega trúgirni til, því [að] ekki er fótur fyrir þessari kenningu.  En þingið hlýtur að krefjast þess, að öll gögn og rökstuðningur "hinna andlitslausu", sem hræddi börnin, verði birt.

Þeir, sem töldu þessi rök góð og gild og létu þau duga til þess að skipta um skoðun á umdeildu máli, geta ekki verið á móti því að birta rökstuðninginn.  Fyrst hann var svona öflugur, ætti hann að vera til þess fallinn að afla meiri skilnings á afstöðu, sem enn sætir mikilli tortryggni, sem mun einungis fara vaxandi, eftir því sem tímar líða frá, og þegar ljósar verður, hvers vegna í ósköpunum þetta var gert.  Það verður bara verra að bíða.  Það er þekkt."

Sagan mun ekki fara mjúkum höndum um þá, sem að þessum ófögnuði stóðu, því að auðvitað verður flett ofan af þeim í fyllingu tímans.

 

 

 


Samkeppnishæfni á niðurleið

Það eru váboðar í efnahagslífi landsins bæði nær og fjær.  Fyrirtækin eiga langflest erfitt uppdráttar, og eftir gerð Lífskjarasamninganna hefur atvinnuleysið aukizt geigvænlega miðað við árstíma. Kostnaður atvinnulífsins er of mikill m.v. tekjurnar, og þessi kostnaður fer enn vaxandi, þótt verðbólgan og stýrivextir Seðlabankans undir stjórn nýs Seðlabankastjóra fari lækkandi. Þessu má m.a. um kenna stöðugt vaxandi skattheimtu, aðallega sveitarfélaganna, sem sjást ekki fyrir við álagningu t.d. fasteignagjalda. Við þessar aðstæður er ekki kyn, þó að keraldið leki, og 10.10.2019 birti Morgunblaðið frétt frá "World Economic Forum" (WEF)(Heimshagkerfisvettvangur (Alþjóða efnahagsráð er röng þýðing)), sem leiddi í ljós, að slök staða Íslands í heimshagkerfinu fór enn versnandi 2018. Það er auðvitað bábylja, að EES-aðild tryggi samkeppnishæfni. Óhentugt og ofvaxið reglusetningar- og eftirlitsbákn innleitt hér frá Brüssel lendir allt á kostnaðarhlið atvinnulífsins í landinu.  Stjórnmálamenn og skrifræðisberserkir Stjórnarráðsins hafa í heimsku sinni gengizt upp í því að leggjast á sveif með harðsvíruðustu skrifræðispúkunum í Brüssel, eins og fram hefur komið í fjölmiðlum, t.d. Morgunblaðinu í dag, 28.10.2019.  Þegar aðeins á að slaka á klónni, rís "Kúba norðursins" og aðrir slíkir upp á afturlappirnar og fjargviðrast út af því, að nú eigi að ganga erinda stórfyrirtækja.  EES-farganið leggst því þyngra á fyrirtæki, þeim mun minni sem þau eru, því að löggjöf ESB er miðuð við allt aðra og stórkarlalegri samsetningu atvinnulífsins en hér tíðkast.

Kostnaðarvandinn dregur mátt úr fyrirtækjunum til fjárfestinga og nýsköpunar.  Hið opinbera er sökudólgurinn með einhverja mestu skattpíningu í heimi og stærstu hlutdeild hins opinbera m.v. vestræn hagkerfi, og enn á að auka í, nú undir yfirskyni umhverfisverndar við undirspil dómsdagsspámanna. Þessi græna skattatefna er tómt píp, eins og sannast á því, að útgerðin, sem þegar hefur náð markmiðum Íslands fyrir sitt leyti um minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda 2030, fær enga umbun fyrir það með niðurfellingu "grænna skatta" á eldsneyti útgerðarinnar. Með því að fella þá niður á útgerðirnar gætu þær hafið næsta stig tækniþróunarinnar, sem er að knýja litla farkosti með rafmagni og stór fiskiskip með lífdísilolíu unninni úr jurtum ræktuðum hérlendis, t.d. repju, sem grundvöllur hefur verið lagður að.  

Umhverfisráðherrann má vart vatni halda af hrifningu yfir urðunarskatti, sem fyrirhugaður er þrefalt hærri en að meðaltali í Evrópu og Sorpa hefur gagnrýnt harðlega og telur ekki munu koma að neinu haldi í baráttunni fyrir minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda. Pípið kemur úr æðstu lögum stjórnsýslunnar, sem halda, að þau slái með því pólitískar keilur.  Vonandi fá þau bjúgverpil í fangið í næstu kosningum.  

Útþensla hins opinbera í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur verið gegndarlaus, mikið undir formerkjum: "Hér varð hrun". Sveitarfélögin flest stunda eignaupptöku af heimilum og fyrirtækjum með hóflausum fasteignagjöldum, og höfuðborgin bítur höfuðið af skömminni með innviðagjöldum, sem virðast ekki eiga sér stoð í lögum.  Við þessar aðstæður er Borgarlínan hreint bruðl, því að hún er reist á óskhyggju borgarstjóra og meðreiðarsveina/meyja um, að hún muni fækka bílum í umferðinni vegna aukningar á hlutdeild strætó í fólksfjölda í umferðinni úr 4 % í 12 %.  Reynslan af fjölgun strætóferða og sérakreinum sýnir, að þetta mun einfaldlega ekki gerast, og þá sitjum við uppi með aðþrengda bílaumferð og misheppnaða, burtkastaða  fjárfestingu um a.m.k. mrdISK 50 í fyrsta áfanga í stað þess að beina fénu þangað, sem það gefur árangur strax í öruggari og greiðari umferð fjöldans. Hér er nóg rými fyrir þau umferðarmannvirki, sem nauðsynleg eru til að anna farartækjunum, sem fólkið hefur fest kaup á til að komast hratt og örugglega á milli staða, ef vinstri-vinglar verða ekki látnir komast upp með skemmdarverk, eins og skipulagning byggðar á svæðum, sem bezt henta umferðarmannvirkjum.  Stríð borgarstjóra og rauðvínssötrandi sérvizkulýðs í kringum hann gegn fjölskyldubílnum er stórskaðlegt, rándýrt og verður að brjóta á bak aftur hið snarasta.

Samkvæmt "WEF" eru mælikvarðar þessa hagvangs fjölmargir, bæði efnahagslegir, félagslegir og lífsgæðatengdir, en þyngstir á metunum eru þættir, sem leiða til eða styðja við framleiðniaukningu.  Að Ísland skuli lenda í 26. sæti og falla um tvö sæti árið 2018 er grafalvarlegt fyrir framtíðar lífskjör á Íslandi. Framleiðniaukningin hefur hins vegar verið þokkaleg frá Hruni, en það eru greinilega feysknar stoðir undir henni. Stjórnvöld fljóta sofandi að feigðarósi, eins og fyrri daginn, enda lítill skilningur þar á þörfum atvinnulífsins.

Í ljósi þess, sem vitað er um áhrifaþætti á framleiðniaukningu, er óráðlegt fyrir smáþjóð (small is beautiful) að gangast undir það jarðarmen að þurfa að innleiða alla þá lagasetningu, sem 500 milljóna ríkjasambandi dettur í hug að láta EFTA-ríkin innleiða til að þau fái óheftan aðgang að Innri markaði ESB.  Fyrir nokkrum árum gerði Viðskiptaráð Íslands athugun á byrðinni, sem atvinnulífinu væri gert að bera vegna reglusetninga og eftirlits hins opinbera.  Það eru tugmilljarðar í beinan kostnað til stofnana og til eigin starfsmannahalds, en hinn óbeini kostnaður hleðst ört upp og er margfaldur á við beina kostnaðinn, því að hann var þá (2015) talinn valda 0,5 % minni framleiðniaukningu á ári en ella, og eftir innleiðingu viðamikilla lagabálka um fjármálaeftirlit, persónueftirlit og orkueftirlit (OP#3), hefur enn sigið á ógæfuhliðina.  

Nú er næsta víst, að það, sem væri hægt að grisja úr reglugerðafrumskóginum eftir uppsögn EES-samningsins, mundi geta aukið framleiðniaukningu á ári um a.m.k. 0,5 %.  Er raunhæft að reka þetta reglugerðafargan á dyr ?  Við verðum að hafa eftirlitsstofnanir, en það eru fyrirtækin sjálf, sem annast vottað gæðaeftirlit samkvæmt ISO-stöðlum, sem markaðurinn í Evrópu og annars staðar tekur mark á.

 Í ágúst 2019 kom út í Noregi skýrsla, sem Menon Economics gerði fyrir "Nei til EU" um hagræn áhrif EES-samningsins í Noregi og valkosti við hann.  Niðurstaðan var sú, að nýlegir fríverzlunarsamningar ESB við Kanada og Japan fella niður toll á öllum vörum á 7-15 árum, og verða þeir þá útflytjendum unninna fiskafurða hagfelldari en EES-samningurinn.  15 % af vörusendingum lenda í einhvers konar tollskoðun, og hljóta EFTA-ríkin að geta samið um miklu lægra hlutfall gegn gæðatryggingu og vegna núverandi aðlögunar sinnar að ESB, svo að vöruflutningar geti að mestu gengið jafnsnurðulaust og núna.  

Samþykkt Íslands á Orkupakka 3 (OP#3) og þar með aðild landsins að Orkusambandi Evrópu getur haft skelfileg áhrif á samkeppnishæfni Íslands, því að yfirlýst stefna ESB er að hvetja með lagasetningu, ívilnunum og styrkjum, til eflingar millilandatenginga fyrir orkuflutninga til að jafna orkuverðið innan Orkusambandsins og skapa betra jafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar. Nú væri hægt að leggja 600 MW sæstreng um Færeyjar og til Skotlands með styrk frá ESB, sem næmi kostnaði við endabúnaðinn (afriðlar/áriðlar) og selja orku inn á strenginn fyrir um 40 USD/MWh með flutningskostnaði frá virkjun að streng.  Þetta er nálægt núverandi viðmiðunarverði Landsvirkjunar til stórnotenda. Þar með þyrfti íslenzkt athafnalíf að keppa um íslenzka orku við fyrirtæki með að mörgu leyti hagstæðari staðsetningu. Þessi orkustefna ESB er Íslandi einfaldlega mjög í óhag, því að mesta samkeppnisforskot Íslands er fólgið í sjálfstæðri nýtingu fiskveiðilögsögunnar og sjálfstæðri nýtingu endurnýjanlegra, hagkvæmra orkulinda, sem gefa kost á tiltölulega lágu orkuverði. 

Jafnvel þótt enginn sæstrengur væri í sjónmáli, er hætt við, að tiltektir Landsreglarans muni valda verðhækkunum á raforkumarkaðinum. M.v. tiltektir þessa embættis í öðrum löndum, t.d. í Svíþjóð, og samræmda stefnu í öllum aðildarlöndum EES, sem er höfuðatriði fyrir Framkvæmdastjórnina, má vænta gjaldskrárhækkana hjá Landsneti og dreifiveitunum umfram verðlagsþróun í meiri mæli en verið hefur, og hefur hún þó numið 7 % - 8 % frá innleiðingu OP#1.  

Þá ber Landsreglara að koma á markaðsstýringu raforkuvinnslunnar í stað orkulindastýringar, og fer hún fram í orkukauphöll, sem stofnuð verður, og það er engin leið að sjá, að þessi aðferð geti leitt til verðlækkunar á raforku á Íslandi, þótt ráðherra orkumála hafi verið talin trú um það og hún síðan boðað fagnaðarerindið.  Þetta er einvörðungu ráðstöfun til að laga íslenzka raforkumarkaðinn að Innri markaði ESB, sem hentar þetta fyrirkomulag,  þannig að íslenzki raforkumarkaðurinn geti hnökralaust tengzt Innri markaðinum með aflsæstrengjum í fyllingu tímans.  

Raforkuverðið mun í orkukauphöllinni sveiflast innan sólarhringsins, verða hæst á toppálagstíma á daginn á virkum dögum og lægst að næturlagi.  Notendur geta spilað á þetta, sérstaklega eftir að þeir fá til sín snjallmæla, þar sem orkuverðið og orkunotkunin í rauntíma (aflið) verða sýnd.  Á sumrin verður orkuverðið lægra en á veturna, ef vel gengur með fyllingu miðlunarlóna, en það getur hækkað mjög á útmánuðum á meðan vatnsstaðan fer enn lækkandi í miðlunarlónum og lítið er eftir.  Það er hætt við, að niðurstaðan verði hækkun meðalverðs.

  Þegar illa árar í atvinnulífinu, eins og nú stefnir í, getur slík þróun á kostnaði riðið þeim fyrirtækjum að fullu, sem eru með þungan rafmagnsreikning fyrir, og heimili gætu neyðzt til þess að spara rafmagn.  Sú er reynslan frá Noregi, sem hefur búið við markaðsstýringu raforkuvinnslunnar síðan 1990 og fær nú yfir sig Landsreglara (RME-reguleringsmyndighet for energi).  Þar leggst reykjarsvæla yfir hverfi og byggðir í kuldatíð, því að fólk kyndir þá með viði fremur en rafmagni. Fjarvarmaveitur heyra þar til undantekninga, svo að framboðshliðin er einsleit, en ekki innbyrðis ólík, eins og hér. 

Þetta kerfi er til þess fallið að vekja upp mikla óánægju almennings í landi, þar sem raunverð raforku fór lækkandi fyrir innleiðingu OP#1 og þar sem megnið af orkulindunum og orkufyrirtækjunum er enn í almannaeigu.  Eigendurnir eiga rétt á að krefjast þess, að fyrirtækin séu rekin með hagsmuni þeirra fyrir augum.  Það er auk þess fullveldisréttur hverrar þjóðar að ráða, hvernig stjórnun náttúruauðlindanna er háttað.  Almenningur hefur aldrei verið spurður um þetta.  Samt hefur ríkisstjórn og meirihluti á Alþingi tekið sér bessaleyfi til að ákveða að fela yfirþjóðlegu valdi að ráðskast með þessi mál. Þetta eru veigamikil mistök, sem Miðflokkurinn barðist þó öttullega gegn á þingi, eins og í minnum er haft, og Flokkur fólksins og Ásmundur Friðriksson, auk fjölmargra utan þings, vöruðu við. 

Í þingræðisskipulagi virkar lýðræðið einfaldlega þannig, að vanþóknun eða velþóknun kjósenda á þessum málatilbúnaði öllum mun koma í ljós í næstu Alþingiskosningum.  

 

 


Afleiðingar sæstrengsumsóknar

Arnar Þór Jónsson, héraðsdómari, ritaði eina af sínum gagnmerku hugleiðingum í Morgunblaðið 21. september 2019, og hét hún:

"Ótti leiðir í snöru".

Arnar Þór hefur áhyggjur af því, hvernig íslenzk stjórnmál hafa þróazt og raunar allar þrjár greinar ríkisvaldsins, einkum þó löggjafarvaldið.  Vitað er, að fjárfestar hafa hug á að leggja og reka aflsæstreng á milli Íslands og Bretlands og tengja þannig "orkuríkt" Ísland við Innri raforkumarkað ESB, sem sárvantar raforku úr sjálfbærum orkulindum og mun líklega greiða hærra verð fyrir hana á næsta áratugi, þegar orkufyrirtækjunum verður gert að kaupa sér koltvíildiskvóta við síhækkandi verði.  Hvernig munu Íslendingar bregðast við slíkri sæstrengsumsókn ?

Í þessu sambandi er áhugavert að fylgjast með þróun sæstrengsmála í Noregi.  Tveir stórir (1400 MW) sæstrengir verða teknir í brúk þar 2020-2021, annar til Þýzkalands og hinn til Englands.  Afleiðingin verður harðari samkeppni um raforkuna í Noregi, minni varaforði í miðlunarlónum og þar af leiðandi hærra raforkuverð á orkumörkuðum í Noregi (orkukauphöllum). 

Þá er beðið með talsverðri eftirvæntingu eftir afgreiðslu umsóknar NorthConnect-félagsins um 1400 MW sæstreng á milli Noregs og Skotlands.  Ef af honum verður, mun verðmunur raforku á Bretlandi og í Noregi sennilega þurrkast út með þeim alvarlegu afleiðingum, sem það hefur á samkeppnishæfni Noregs innanlands og utan.  

Hvaða afleiðingar telur Arnar Þór, að innleiðing OP#3 hafi á sjálfsákvörðunarrétt Íslands í sæstrengsmálum?:

"Því miður sýnist staðan vera sú, að íslenzk stjórnmál séu föst á milli tveggja elda; til annarrar hliðar ofurseld reglusetningarvaldi ESB í flestu, sem máli skiptir, en stjórnist að hinu leytinu af hræðslu við fjölmiðla og "almannatengla" í málum, sem að nafninu til eiga þó að lúta forræði Alþingis.  Hér skal ekki lítið úr því gert, að Evrópuréttur hefur á ýmsan hátt bætt íslenzkan rétt.  Það réttlætir þó ekki, að Alþingi víki sér, á ögurstundu, undan því að axla ábyrgð á löggjafarvaldinu og kjósi, þegar upp koma sérlega umdeild mál, eins og O3, að leggja á flótta með því að setja svo misvísandi reglur, að helzt má líkja þeim við óútfylltar ávísanir til dómara."

Dæmið, sem dómarinn tilfærir, sýnir, svo að ekki verður um villzt, í hvílíkar ógöngur löggjafinn ratar, þegar hann stendur frammi fyrir "skítamixi" ráðuneytanna til að sniðganga Stjórnarskrána, svo að á yfirborðinu sé hægt að innleiða gerðir Evrópusambandsins í íslenzka lögbók. 

Þetta fyrirkomulag; að taka við yfirgripsmiklum lagabálkum ESB og færa þannig lagalega bindandi ákvörðunarvald til stofnunar Evrópusambandsins, hér ACER, hefur nú gengið sér til húðar, því að þar með erum við í stöðu hjálendu Evrópusambandsins. 

Hver er munurinn á þessu fyrirkomulagi og stjórnarháttum einveldistímans á Íslandi, þegar hirðstjóri Danakonungs mætti með tilskipanir og reglugerðir frá Kaupmannahöfn og lagði þær fyrir þingheim á Þingvöllum til samþykktar og innleiðingar í löggjöf landsins ?

"Með innleiðingu O3 í íslenzkan rétt og samhliða séríslenzkum lagalegum fyrirvörum, sem beinast gegn markmiðum O3, hefur sjálft Alþingi brotið gegn því meginmarkmiði réttarríkisins, að lög séu skýr og skiljanleg.  Með því að tala tungum tveim í málinu hefur þingið leitt misvísandi reglur í lög og þar með skapað innri lagalegar mótsagnir.  

Þá hafa þingmenn með þessu vinnulagi í raun sett afturvirk lög, sem einnig er brot gegn því, sem réttarríkið stendur fyrir.  Lagalegri óvissu, sem af þessu leiðir, verður ekki eytt fyrr en dómstóll, að öllum líkindum EFTA-dómstóllinn, hefur kveðið upp úr um það, hvort íslenzka ríkinu sé nokkurt hald í margumræddum lagalegum fyrirvörum Alþingis við O3."

Ef fjárfestar sjá gullið viðskiptatækifæri fólgið í því að tengja saman íslenzka raforkukerfið og Innri markað ESB vegna mikils verðmunar á þessum mörkuðum án tillits til mikils flutningskostnaðar, þá munu þeir búa til verkefni um þá viðskiptahugmynd, og hún verður lögð fyrir landsreglara ACER í sitt hvorum enda tilvonandi sæstrengs. 

Höfundi pistilsins þykir líklegt, að verkefnið verði í tveimur áföngum, þ.e. 2x500 kV DC, 600 MW, sæstrengir (sjór og hafsbotn ekki notaðir sem straumleiðari af öryggisástæðum) í hvorum áfanga með viðkomu í Færeyjum, með möguleika á tengingu við færeyska landskerfið, ef Færeyingar kæra sig um. 

Kerfi af þessu tagi myndi útheimta fjárfestingu um mrdUSD (2x2,5) með 30 % óvissu.  Árlegur kostnaður fjárfestanna í USD/MWh fer eftir því, hversu mikill hluti af endabúnaði sæstrengjanna lendir á flutningsfyrirtækjunum í sitt hvorum enda, og hversu mikill orkuflutningur mun eiga sér stað, og hver borgar flutningstöpin, sem eru umtalsverð með töpum í afriðla- og áriðlabúnaði.  

M.v. raforkuverðið 50 EUR/MWh, sem er algengt heildsöluverð á Nord Pool kauphöllinni um þessar mundir, er þetta engan veginn arðsöm orkusala frá Íslandi.  M.v. hækkun upp í 80 EUR/MWh (60 % hækkun) vegna koltvíildiskvóta á orkuvinnslufyrirtækin í Þýzkalandi (og kannski víðar) árið 2025 að upphæð 35 EUR/t CO2, þá verður þessi flutningur aðeins arðsamur, ef fjárfestarnir þurfa ekki að borga endabúnaðinn, og með því að fullnýta flutningsgetu strengjanna.  Þetta verkefni er miklum vafa undirorpið án styrkja og/eða niðurgreiðslna, sem Evrópusambandið þó vissulega beitir sem lið í orkustefnu sinni, og stefna þess er vissulega að tengja jaðarsvæði Evrópu við Innri markað sinn.  

Hins vegar er ljóst, að það er mesta glapræði fyrir orkufyrirtæki á Íslandi, sem eru með langtímasamninga um raforkusölu við iðjufyrirtæki, að setja þá samninga í uppnám með það í huga að græða meira á viðskiptum á Innri markaðinum.  Þau eru algerlega undir hælinn lögð og alls engin trygging fyrir háu orkuverði til framtíðar, þótt næsti áratugur geti litið þannig út. Enginn í Evrópu mun tryggja íslenzkum orkubirgjum hátt framtíðarverð fyrir raforku frá Íslandi. Ástæðan er sú, að alger óvissa ríkir um framtíðarverðið.  Á næsta áratugi er þó líklegt, að dragi til tíðinda við þróun raforkugjafa, sem jafnvel græningjar geta samþykkt.

Arnar Þór Jónsson benti í grein sinni á líklega sviðsmynd, sem gæti orðið uppi á teninginum þegar á þessu kjörtímabili.  Þar er líklega komin snaran í heiti greinarinnar:

"Ef alvarleiki framangreindra atriða nægir ekki til að viðhalda umræðum um það, sem hér hefur gerzt, má vænta þess, að sú umræða lifni af fullum krafti, þegar og ef í ljós kemur, að O3 var ekkert "smámál", eins og meirihluti þingmanna lét þó í veðri vaka.  Eins og ég hef áður bent á, gæti það t.a.m. gerzt með því, að höfðað verði samningsbrotamál gegn Íslandi fyrir EFTA-dómstólnum.  Ráðherrar, þingmenn og ráðgjafar þeirra, mega þá búast við, að opinbert verði, að þeir hafi farið með staðlausa stafi um mögulega nauðvörn á grunni hafréttarsáttmálans [og] um ómöguleika þess að nýta undanþáguheimildir EES-samningsins eða um óskert fullveldi Íslands yfir raforkulindum.  Það væri ekki léttvægur áfellisdómur, sem menn hefðu kveðið upp yfir sjálfum sér, ef í ljós kæmi, að fræðimennskan reyndist innistæðulaus, sjálfsöryggið aðeins gríma, yfirlætið tilraun til að breiða yfir óvissu og fela undirliggjandi ótta."   

 


Orkupakkarnir og loftslagið

Á þjóðhátíðardegi Þýzkalands (Der Tag der Wiedervereinigung Deutschlands), 03.10.2019, gekk Orkupakki 3 (OP#3) formlega í gildi í EES, þ.e. í EFTA-löndunum þremur, sem aðild eiga að þessu erfiða sambýli við Evrópusambandið, ESB, en OP#3 hafði gengið í gildi í ESB 03.03.2011.  

Mikilvægi EES-samningsins er stórlega ofmetið í skýrslu þriggja lögfræðinga, sem út kom 01.10.2019, og reynt er að láta þar líta út fyrir, að eini valkostur Íslands við hann sé ESB-aðild.  Það er fjarstæða, eins og sýnt var fram á í "Alternativrapporten" varðandi Noreg 2012, og hið sama á við um Ísland.  Fjölmennasta verkalýðsfélag Noregs hélt Landsþing sitt 11.-16. október 2019, og þar var samþykkt að segja upp ACER-aðild Noregs (ACER er Orkustofnun ESB, sem stofnað var til með reglugerð ESB nr 713/2013, og lögfræðingarnir Stefán Már og Friðrik Árni töldu stærstu stjórnlagalegu hindrunina í vegi samþykktar Alþingis á OP#3.).  Þetta sýnir vaxandi óánægju í hinu leiðandi EFTA-ríki innan EES með þróun samstarfsins við ESB, enda er þetta samstarf eins fjarri því og unnt er að geta kallst sanngjarnt samstarf á jafningjagrundvelli.  Þetta er "samstarf" húsbóndans og þrælsins, sem ber feigðina með sér.  

Orkusamstarf EES er skýrt dæmi um þetta, en gríðarleg sundurþykkja myndaðist bæði í Noregi og á Íslandi í aðdraganda innleiðingar á næstsíðasta afrakstri ESB í þessum efnum, OP#3.  Það er ömurlegt, að þvílík læti verði vegna orkustefnu, að stjórnmálaflokkar leika á reiðiskjálfi.  Það er auðvitað út af því, að orkustefna ESB og Orkusamband Evrópu þjóna ekki hagsmunum þessara tveggja norrænu landa, sem ekki búa við neinn skort á sjálfbærri orku, eins og flest eða öll ESB-löndin. Hagsmunir norrænu EFTA-ríkjanna og ESB fara þess vegna ekki saman í orkumálum. Það verður jafnframt ætlazt til þess, að þessi Norðurlönd leggi sitt að mörkum til að berjast við hlýnun jarðar með því að draga úr koltvíildislosun ESB við raforkuvinnslu og jafnvel húshitun.  

Nú líður að dæmi um þetta frá Noregi, þar sem er NorthConnect aflsæstrengur til Skotlands. Statnett (norska Landsnet) er á móti þessum streng af orkuöryggisástæðum í Noregi.  Það er jafnframt búizt við, að hann færi verðlag raforku í Noregi enn nær verðlagi raforku á Bretlandseyjum en nú er, og það er hátt, jafnvel á evrópskan mælikvarða.  Bretar hafa aðra orkustefnu en Þjóðverjar; ætla að loka síðasta kolakynta raforkuverinu 2025, einum áratugi á undan Þjóðverjum, og Bretar leyfa byggingu og rekstur kjarnorkuvera, sem Þjóðverjar ætla að binda enda á hjá sér 2022.  Það er hald margra, að orkustefna Þjóðverja sé óraunhæf og muni reynast hagkerfi þeirra ofraun, draga úr hagvexti þar og við núverandi aðstæður (með neikvæða vexti á skuldabréfum ríkisins) valda samdrætti hagkerfisins. Af ýmsum ástæðum ríkir nú mikil svartsýni í Þýzkalandi um efnahagshorfur næstu missera. 

Þann 20. september 2019 lauk 19 klukkustunda fundi þýzkrar ráðherranefndar um loftslagsmál á skrifstofu Angelu Merkel í Berlín.  Til marks um alvarleika málsins þrumaði Markus Söder, formaður bæverska CSU, systurflokks CDU, að ráðherrarnir hefðu hamrað saman "Marshall-áætlun fyrir loftslagsvarnir". 

Þýzkaland, sem er 6. í röðinni í heiminum yfir losun gróðurhúsalofttegunda, mun ekki ná losunarmarkmiðum sínum 2020. Þjóðverjar hafa sett sér strangari losunarmarkmið 2030 en flestir eða allir aðrir, þ.e. 55 % samdrátt koltvíildislosunar m.v. 1990. Það jafngildir fyrirætlun um, að þessi losun út í andrúmsloftið fari úr 866 Mt árið 2018 og í 563 Mt árið 2030.  Þetta er aðeins 35 % samdráttur, sem sýnir, að losunin árið 1990 var enn meiri en nú.  Þessu er öfugt farið á Íslandi.

"Marshall-áætlun" Þjóðverja er blanda af niðurgreiðslum og nýju regluverki ásamt fjárfestingum í auknum innviðum fyrir rafmagnsbíla og rafknúnar járnbrautarlestir.  Hún gerir líka ráð fyrir hreinni upphitunarkerfum húsnæðis og fjölgun vindmyllna, en nú þegar hefur hægt á henni vegna andstöðu íbúanna.  Hryggjarstykkið er skyldukaup á kolefniskvóta í geirum, sem kolefniskvótar ESB-spanna ekki,  umferð og byggingar.  Lokamarkið er kolefnishlutleysi árið 2050.

Sumir sérfræðingar höfðu vonazt eftir upphafsverði á þessum koltvíildiskvóta a.m.k. 50 EUR/t, sem myndi hækka upp í 100 EUR/t, til að örva fjárfestingar í hreinu eldsneyti og í breytingum á kyndikerfum  húsnæðis og til að hvetja til flýttrar lokunar kolakyntra orkuvera, sem núna sjá Þýzkalandi fyrir 29 % raforkuþarfarinnar.  Þess í stað mun upphafsverðið verða "aðeins" 10 EUR/t f.o.m. 2021 og hækka upp í 35 EUR/t 2025, og síðan verða viðskipti með koltvíildiskvóta á fyrirfram ákveðnu verðbili.  Við þessa ákvarðanatöku hefur nýhafið efnahagslegt samdráttarskeið í Þýzkalandi (2 samliggjandi ársfjórðungar með minni verðmætasköpun en samsvarandi ársfjórðungar árið á undan) vafalaust haft áhrif.  Við slíkar aðstæður auka ígildi skattahækkana við efnahagsvandann. Það er ekki gert ráð fyrir endurgreiðslum skattheimtunnar, eins og tíðkast í British Columbia.  Lisa Badum, talsmaður Græningja í umhverfismálum, lýsti þessari "Marshall-áætlun" sem allsherjar mistökum.

Það er minnkandi bílaframleiðsla í Þýzkalandi, sem talin er vera undirrót 2/3 þessa efnahagsvanda, en þýzkur bílaiðnaður heldur nú að sér höndum vegna útblásturshneyksla hjá dráttarklárum þýzks bílaiðnaðar. Um 1/3 vandans er talinn stafa af áhyggjum út af BREXIT.  Þýzki iðnaðarrisinn er að verða tilbúinn með nýjar gerðir umhverfisvænna bifreiða á markað og mun í fyllingu tímans hefja öfluga gagnsókn, sem vafalítið mun bera góðan árangur.

Olaf Scholz, fjármálaráðherra, lýsti því yfir við kynningu á "Marshall-áætluninni", að fjárfestingar ríkissjóðs vegna orkuskiptanna myndu á næstu 4 árum nema mrdEUR 54.  Fært til Íslands næmi það mrdISK 32, og er dágóð upphæð, en Þjóðverjar vilja ekki taka lán fyrir fjárfestingum í þágu orkuskiptanna, jafnvel þótt þýzka ríkissjóðnum bjóðist lán á neikvæðum vöxtum.  Þeir halda sig ofan við "svarta núllið", þ.e. halda ríkisrekstrinum í jafnvægi, þótt á móti blási.

Staðan í þjóðarbúskapnum ræður för, og enginn skilur, hvernig Þjóðverjar ætla að standa við metnaðarfull markmið sín í orku- og loftslagsmálum.  Það er eins og beðið sé eftir "Wunderwaffen".  Slík undravopn geta verið á næsta leiti með gegnumbroti í þróun nýrra orkugjafa, t.d. þóríum-kjarnorkuvera.  Angela Merkel segist skilja gagnrýnina frá Græningjum, en stjórnmálamenn verði að tryggja, að þeir njóti stuðnings borgaranna.  Kanzlarinn veit, að stuðningur kjósenda við loftslagsvarnir dvínar, þegar þeir eru spurðir um tilgreindar fórnir, sem þeir séu tilbúnir að færa.  Erfiðu ákvarðanirnar verða geymdar handa næstu ríkisstjórn.  Ef Annegret Kramp Karrenbauer stendur sig vel sem arftaki Ursulu von der Layen í embætti landvarnaráðherra, stendur hún vel að vígi sem kanzlaraefni í næstu kosningum til Bundestag, annars ekki. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband