Færsluflokkur: Evrópumál
19.10.2019 | 14:23
Náttúruauðlindirnar knýja hér hagkerfið áfram
Með náttúruauðlindum hérlendum er hér átt við lífríki hafsins í landhelgi Íslands, orkulindirnar jarðgufu og vatnsföll og sérstæða náttúru eldfjallaeyju norður við heimsskautsbaug. Spurn er eftir þessu öllu, og nýting á öllum þessum auðlindum stendur undir hagkerfi landsins með sóma. Nú sjáum við hagkerfið hins vegar gefa eftir vegna versnandi samkeppnisstöðu við útlönd með ískyggilega vaxandi atvinnuleysi sem afleiðingu. Fréttir um öra fækkun bandarískra ferðamanna til landsins um þessar mundir vekja ugg vegna mikilla fjárfestinga, sem ráðizt hefur verið í til að flytja og taka við ferðamönnum. Núverandi stöðu Icelandair í kauphöllinni má að töluverðu leyti skrifa á reikning Boeing, og enginn veit, hvort MAX-vélunum verður leyft að flytja farþega aftur. Hönnunarsaga þessara véla, sem einn reyndasti þjálfunarflugmaður Íslands telur reyndar, að verði með öruggustu flugvélum eftir breytingar, sem flogið hafa, er sorglegt dæmi um dómgreindarleysi "baunateljara", sem láta ráðleggingar verkfræðinga sem vind um eyru þjóta.
Það ríkir óvissa með lífríki sjávar vegna hlýnandi sjávar. Loðnan er horfin af Íslandsmiðum og humarinn sömuleiðis, hvað sem verður. Tegundir, sem áður fundust einvörðungu úti fyrir Suðurlandi, hafa nú breiðzt út norður fyrir land. Útflutningur unninna fiskafurða dregst saman á kostnað útflutnings óunninnar vöru vegna samkeppnisstöðunnar, sem hefur versnað, enda er launakostnaður hérlendis sem hlutfall af verðmætasköpun fyrirtækja orðinn sá hæsti í heimi.
Ferðamannagreinarnar eiga allar erfitt uppdráttar. Samkeppnisstaða Íslands um ferðamenn með áhuga á norðurhjara hefur versnað verulega, t.d. gagnvart Noregi, þar sem stöðug aukning er á ferðamannastrauminum, síðan NOK gaf verulega eftir m.v. EUR í kjölfar lækkunar á olíuverði 2013-2015. Vekur lág staða NOK undrun m.v. risavaxinn gjaldeyrissjóð landsins, sem ríkissjóður er farinn að hirða sneið af (hluta af vaxtatekjum) til rekstrar. NOK hefur aldrei verið jafnlág m.v. EUR og nú, og skýringin kann að vera þessi: í fyrsta sinn um áraraðir er nú viðskiptajöfnuður Noregs við útlönd neikvæður. Gas- og olíuvinnsla Noregs fer minnkandi og verð á þessum vörum er fremur lágt. Atvinnulíf Noregs er gírað inn á þessar greinar og mun eiga erfitt með að skipta um vettvang. Þetta mun hafa áhrif á norskt þjóðlíf í átt til aukinna átaka.
Orkusækin málmframleiðsla hefur átt undir högg að sækja í heiminum undanfarin ár vegna offramboðs á vestrænum mörkuðum, þar sem Kínverjar hafa dembt miklu magni, t.d. af áli, inn á markaðina frá ríkisreknum eða ríkisstyrktum verksmiðjum sínum, sem kaupa rafmagn frá kolakyntum raforkuverum með lágmarks tilkostnaði og ófullnægjandi mengunarvörnum. Á sama tíma hefur tilkostnaður íslenzkra álvera í sumum tilvikum aukizt gríðarlega vegna launahækkana og raforkuverðshækkana við endurnýjun samninga. Þar sem mestar kostnaðarhækkanir hafa orðið, er nú bullandi taprekstur, sem auðvitað getur ekki gengið lengi.
LME-verð á áli er nú um 1700 USD/t. Hámarksraforkukostnaður hérlendis jafngildir um 600 USD/t Al, súrálskostnaður um 600 USD/t Al, skautakostnaður um 400 USD/t Al. Þá eru eftir 100 USD/t Al fyrir viðhaldsefni, launakostnaði, þjónustukostnaði, fjárfestingum auk eðlilegrar arðgjafar af eigin fé. Það, sem hefur bjargað afkomu álveranna hérlendis, og þó ekki dugað í öllum tilvikum, er allt að 500 USD/ Al verðviðbót (premium) vegna gæða og sérhæfni.
Því miður er útlitið á álmörkuðum ekki bjart á næsta áratug, og þess vegna hangir þessi starfsemi á bláþræði hjá þeim fyrirtækjum, þar sem raforkubirgirinn hefur knúið fram afnám tengingar álverðs og orkuverðs auk verulegrar hækkunar. Kann svo að fara, að mjólkurkýrnar hætti að selja. Orkubirgjarnir vita sem er, að á næsta leiti er Innri markaður Evrópusambandsins, sem getur tekið við allri tiltækri raforku héðan. Því hefur hins vegar ekki verið svarað, hvort slík umskipti eru þjóðhagslega hagkvæm eður ei. Er e.t.v. þjóðhagslega hagkvæmast að búa svo um hnútana, eins og gert var fyrir 2010, að hámarka megi verðmætasköpun í landinu sjálfu með orku landsins í stað þess að senda hana til útlanda til verðmætasköpunar þar. Þurfum við ekki á að halda vaxandi fjölda fjölbreytilegra atvinnutækifæra hérlendis til að ungt kunnáttufólk kjósi sér búsetu hér til langframa fremur en annars staðar. Rafmagnssala til útlanda skapar atvinnu í útlöndum, ekki á Íslandi, nema í litlum mæli. Að reiða sig að mestu á ferðamannastraum til landsins er fallvalt.
Núna eru orkumál landsins í deiglunni, og skiptir gríðarlega miklu fyrir hag landsins, hvernig til tekst um þá stefnumótun. Með samþykki Orkupakka 3 (OP#3) gerðist Ísland aðili að ACER (Orkustofnun ESB) og batt þannig sitt trúss við Orkusamband Evrópu. Það krefst alveg sérstakrar aðgæzlu og þekkingar að fást við þá aðild á farsælan hátt, og þess vegna var grein Elíasar Elíassonar, verkfræðings, og Svans Guðmundssonar, fiskeldisfræðings, í Morgunblaðinu 30. september 2019, sérstakt fagnaðarefni. Heiti greinarinnar var:
"Ísland í Orkusambandi ESB",
og verður nú vitnað í hana:
"Íslenzk stjórnvöld þurfa að finna leiðir til að mæta kröfum almennings við að efla atvinnu og orkuvinnslu hér á landi óháð þeim vanda, sem orkuvinnsla Evrópu stendur frammi fyrir. Þetta, ásamt ráðandi stöðu ESB innan EES-samstarfsins, er og hefur verið grundvöllur þeirrar kröfu almennings, að Ísland hafi sjálft full yfirráð yfir orkuauðlindum sínum og þeirri orku, sem frá þeim fæst."
Hér drepa þeir félagar á það, sem líklega má telja meginviðfangsefni íslenzkra stjórnvalda við framkvæmd EES-samningsins, en þau virðast því miður illa í stakkinn búin til þess og ekki átta sig fyllilega á um hvað orkustefna ESB snýst. Bernska, blindni og lögfræðileg einhæfni hefur hingað til sett sitt mark á afstöðu íslenzkra stjórnvalda til orkustefnu ESB. Gallar stjórnsýslunnar urðu svo aftur lýðum ljósir, þegar Ísland 17.10.2019 var sett á "gráan" lista alþjóðlegra samtaka gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka eftir langan aðdraganda og viðvaranir. Eftir fúskið voru svo viðbrögðin þau að mótmæla því, að ástandið hér réttlætti að fara á þennan lista. Hegðunin minnir á latan og/eða lítt gefinn nemanda, sem fellur á prófi og mótmælir því að vera felldur. Allt er þetta ömurlegur vitnisburður um núverandi ríkisstjórn.
Til marks um firringuna, sem ríkir um EES-samninginn, er, að 01.10.2019 kom út 301 bls. skýrsla á vegum utanríkisráðuneytisins að beiðni Alþingis, og þar verður ekki séð í fljótu bragði, að minnzt sé einu orði á þessa hlið frjálsra fjármagnsflutninga eða málefnið, sem fjallað er um í tilvitnuninni hér að ofan. Þessi ósköp uppskera stjórnvöld með því að setja einvörðungu til verka fólk með lögfræðileg einglirni, svo að ekki sé nú minnzt á vanhæfni vegna tjáðra einstrengingslegra skoðana um Orkupakka 3 (OP#3) og EES-samninginn á opinberum vettvangi. Niðurstaðan er næsta gagnslítill doðrantur, sem segir meira um annmarka höfundanna en um mikilvægt viðfangsefnið. Margfalt gagnlegri er skýrsla, sem út kom í Noregi í ágúst 2019, þótt hún sé mun styttri,og fjallaði m.a. um valkostina, sem Noregur hefur í viðskiptalegu tilliti við EES-samninginn. Landsþing stærstu verkalýðssamtaka Noregs, Fellesforbundets, skaut föstu skoti framan við stefni EES með samþykkt 16.10.2019 á að greina hagstæðustu leiðina fyrir norsk tengsli við ESB og að segja sig úr ACER-Orkustofnun ESB, sem varð að veruleika 02.09.2019, þegar Alþingi samþykkti OP#3.
Elías og Svanur tengja síðan saman loftslagsmál og orkumál Evrópusambandsins og þar með EES:
"ESB hefur nú sameinað loftslagsmál og orkumál undir hatti Orkusambands Evrópu og ætlast til þess, að við göngum þar inn á þeirra forsendum og leggjum okkar hreinu auðlindir undir þeirra stjórn. En loftslagsmál eru ekki einkamál Evrópu, heldur alls heimsins."
Vegna samþykktar OP#3 og þar með aðildar Íslands að ACER, er Ísland nú í Orkusambandi Evrópu, þótt þangað eigum við ekkert erindi. Íslenzk stjórnvöld hafa metnaðarfulla stefnu í loftslagsmálum, og það verður hægt að beita orkustefnu landsins fyrir vagn loftslagsstefnunnar með orkuskiptum, þ.e. að virkja og reisa flutningsmannvirki fyrir orku til að knýja verksmiðjur fyrir umhverfisvænt eldsneyti, t.d. vetni, etanól og repjuolíu, eða leggja dreifikerfi að hleðslustöðvum rafmagnsbíla. Ætti nýsköpunarráðherra að beita sér fyrir rannsóknum á sviði innlendrar framleiðslu vistvæns eldsneytis, svo að hætta megi innflutningi á eldsneyti með íblandaðri pálmaolíu með stóru kolefnisspori.
Hættan er hins vegar sú, að ESB heimti, að við göngum enn lengra og virkjum fyrir raforkusölu um aflsæstreng, sem tengi Ísland við Innri markað ESB. OP#3 leggur drögin að aflsæstreng, sem fjárfestar kunna að gera tillögu um, og ágreiningur íslenzku ríkisstjórnarinnar og ACER um lagningu og tengingu slíks strengs gæti lent hjá EFTA-dómstólinum. Verði síðan af slíkum streng og Ísland innleiðir OP#4 í fyllingu tímans, þá mun áreiðanlega verða vísað til bindandi ákvæða í OP#4 um að veita leyfi til að rannsaka og virkja endurnýjanlegar orkulindir og tengja þær við flutningskerfið gegn gjaldi, sem er óháð vegalengd á milli tengistaðar og virkjunar.
Félagarnir, Elías og Svanur, eru ekki sannfærðir um, að hagkvæmasta leiðin fyrir Íslendinga sé að ganga Orkusambandi Evrópu á hönd:
"Án þess að útiloka samstarf höfum við því, þegar grannt er skoðað, trúlega betri tækifæri til að gera loftslagsmálum heimsins gagn utan Orkusambands Evrópu."
Þetta er jafngilt því að segja sem svo, að við getum þjónað sameiginlegum hagsmunum jarðarbúa betur með því að móta orkustefnu landsins sjálf, eins og við höfum gert hingað til. Dæmi um þetta má taka af áliðnaðinum. Hann keypti árið 2018 12,9 TWh (terwattstundir) af raforku og framleiddi þá tæplega 0,9 Mt af Al. Ef þetta ál hefði ekki verið framleitt á Íslandi, hefði það áreiðanlega verið framleitt annars staðar og líklegast með raforku frá eldsneytisraforkuverum. Algengasta tegundin þar eru kol, og af þeim þarf um 4,0 Mt til að framleiða 12,9 TWh. Bruni þeirra myndar vart undir 14 Mt af CO2-gasi og kynstur af öðrum óheilnæmum gösum og sóti. Þetta þýðir, að íslenzku álverin spara losun a.m.k. 12 Mt CO2/ár.
Sé notað jarðgas við raforkuvinnsluna, verður losunin minni, en hún getur líka orðið meiri, ef notuð eru kol með lágu orkugildi (brúnkol) eða raforkuverið er með mjög lága nýtni. Sparnaðurinn, 12 Mt CO2/ár, er 2,4 föld losunin hérlendis (án millilandaflugs og millilandaskipa). Í raun leggur þannig íslenzk stóriðja mest að mörkum hérlendis á alþjóðavísu í baráttunni við hlýnun jarðar.
Síðan útskýra þeir félagar í hverju áhyggjur þeirra eru fólgnar varðandi Orkusamband Evrópu:
"Innan EES-samstarfsins skrifar ESB allar nýjar viðbætur, sem EFTA-ríkin eiga síðan að samþykkja. Það er auðvelt að gera mistök, þegar þannig er samið, og það virðist einmitt hafa verið gert í EES-samningnum, hvað varðar orkulindir Íslands.
Skýrasta dæmið um þetta er e.t.v. úrskurður Eftirlitsnefndar EES [ESA] og bréf til íslenzkra stjórnvalda frá 20. apríl 2016 þess efnis, að allur réttur til að nýta náttúrulegar auðlindir í eigu almennings og ríkis fari fram á markaðsforsendum [þ.e. úthlutun alls nýtingarréttar hins opinbera fari fram á markaðsforsendum, og á þetta féllst íslenzka ríkisstjórnin skömmu síðar, svo að málið fór ekki fyrir EFTA-dómstólinn - innsk. BJo]. Þetta felur í sér, að markaðurinn á að ráða nýtingu og stjórnun auðlinda okkar, en eignarréttur okkar og fullveldi skulu sniðgengin.
Afleiðing þessa úrskurðar ESA verður til þess að hækka orkuverð og minnka samkeppnisforskot íslenzkra iðnfyrirtækja gagnvart erlendum. Þetta hvetur fyrirtæki til að flytja starfsemi eins og fiskvinnslu nær mörkuðunum inn í iðnaðarkjarna ESB, en erfitt verður fyrir íslenzkan iðnað að keppa á alþjóðlegum mörkuðum með evrópskt orkuverð. Það sjá allir í hvaða hættu íslenzkum efnahag er stefnt, ef þessum úrskurði ESA er að fullu fylgt." [Undirstr. BJo.]
Utanríkisráðherrann á þessum tíma, Lilja Alfreðsdóttir, virðist þó ekki hafa áttað sig á téðri hættu fyrir íslenzkan fullveldisrétt til að stjórna orkulindunum, né forsætisráðherrann, Sigurður Ingi Jóhannsson, eða iðnaðarráðherrann, Ragnheiður Elín Árnadóttir. Var utanríkismálanefnd höfð með í ráðum, þegar þessi endemisákvörðun var tekin, eða atvinnuveganefnd Alþingis ?
Þessi afglöp vitna um brotalöm, þverbresti, í íslenzkri stjórnsýslu. Það er með öllu óskiljanlegt, að þessi afdrifaríka uppgjöf gagnvart ESA skyldi eiga sér stað, og það þegjandi og hljóðalaust, enda tók norska stjórnsýslan allt annan pól í hæðina, þegar hún fékk svipaða fyrirspurn frá ESA 30.04.2019 (úrskurður ESA kemur ekki strax). Norska olíu- og orkuráðuneytið tók þegar til varna og færði rök fyrir því, að tilskipanirnar, sem ESA beitti fyrir sig, og eru aðrar en gagnvart Íslendingum, ættu alls ekki við um raforkuvinnslu.
Líklega mun iðnaðarráðherra núverandi ríkisstjórnar, Þórdís Reykfjörð, leggja á þessu þingi fram frumvarp um útfærslu umræddrar markaðsvæðingar. Ef frumvarpið felur í sér, að téður nýtingarréttur verður boðinn upp eða boðinn út á Evrópska efnahagssvæðinu, þá gæti það orðið pólitískur banabiti þessa ráðherra og jafnvel ríkisstjórnarinnar allrar. Ef ráðherrann gerir ekki neitt í þessu máli, þá er hætt við, að ESA ókyrrist og hóti málssókn á hendur ríkinu fyrir EFTA-dómstólinum vegna vanefnda.
Hér kann að verða um stórpólitískt mál að ræða bæði í Noregi og á Íslandi. "Fellesforbundet" lýsti því yfir á Landsþingi sínu 16.10.2019, að ef þessari kröfu ESA yrði haldið til streitu, neyddist Noregur til að segja upp EES-samninginum. Ef ESA/ESB ætla að framfylgja orkustefnu sinni í þessum löndum, Íslandi og Noregi, þá ryðja þau einkaframtakinu braut inn í orkuvinnsluna, t.d. með þeim hætti, sem að ofan er lýst. Ætla má, að í báðum löndunum sé mikill meirihluti kjósenda á öndverðum meiði við ESA/ESB í þessu máli. Ef þetta hrikalega mál fer á versta veg, kann að þurfa að velja á milli fullveldisréttar yfir náttúruauðlindunum og aðildar að EES.
12.10.2019 | 14:19
Af fylgisflótta og dusilmennum
Síðla septembermánaðar 2019 birtist skoðanakönnun MMR, sem ekki getur hafa verið uppörvandi fyrir stjórnarflokkana né fyrir ríkisstjórnina, sízt af öllu stærsta stjórnarflokkinn, sem mældist í sínu sögulega lágmarki slíkra fylgismælinga. Á því eru auðvitað skýringar, og minntist höfundur Reykjavíkurbréfs á þær 20.09.2019:
"Og svo er hitt augljóst, að eftir því sem flokkur verður ótrúverðugri sjálfum sér og tryggustu kjósendum sínum, gengur sífellt verr að ganga að þeim vísum. Það lögmál er einnig þekkt úr öðrum samböndum."
Þegar kjósendum stjórnmálaflokks finnst í hrönnum, að hann hafi svikið grunngildi sín og hundsað mikilvæg atriði í síðustu Landsfundarsamþykkt sinni, þá er voðinn vís fyrir framtíð flokksins, og hann getur þá breytzt úr breiðum og víðsýnum fjöldaflokki í sértrúarsöfnuð sérhagsmuna. Hver vill það ? Hvers vegna gerist það ? Mun annar stjórnmálaflokkur geta tekið við sem kjölfesta borgaralegra afla í landinu ?
Síðan skrifaði bréfritariinn:
"Villtir leiðsögumenn eru vandræðagemlingar",
í samhengi við dóm Mannréttindadómstóls Evrópu um skipun fyrstu dómaranna í Landsdóm. Furðu sætti vandræðagangur bráðabirgða dómsmálaráðherrans í því máli, hvort vísa ætti úrskurði Neðri deildar til Efri deildar dómsins, þótt Ísland sé ekki bundið að þjóðarétti að hlíta dómnum, heldur dómi Hæstaréttar Íslands, sem dæmt hafði þá þegar skipun að hálfu dómsmálaráðherrans þar á undan (S. Andersen) í dómaraembætti Landsréttar lögmæta með "áferðargöllum" þó.
Bráðabirgðadómsmálaráðherrann gerði þess vegna allt of mikið með dóm Mannréttindadómstólsins, sem auk þess orkar mjög tvímælis sjálfur. Það má heimfæra eftirfarandi orð ritara Reykjavíkurbréfs upp á málatilbúnað sama ráðherra í OP#3 ferlinu líka:
"Til eru þeir lögfræðingar, og það jafnvel í hópi þeirra, sem trúað er fyrir að kenna nýliðum fræðin, sem telja sig mega horfa framhjá grundvallaratriðum eins og því, hvort samningar, sem gerðir hafa verið fyrir landsins hönd, séu bindandi fyrir það eða ekki. Þegar samþykkt er, að landið skuli eiga þátttöku í samstarfi með hópi annarra ríkja, með því fortakslausa skilyrði, að niðurstöður hins yfirþjóðlega valds séu ekki bindandi fyrir það, er það grundvallaratriði, en ekki hortittur. Viðkomandi stofnun, t.d. Mannréttindadómstóllinn, samþykkti þá þátttöku Íslands, og þar með samþykkti hann skilyrðið."
Þegar Alþingi samþykkti EES-samninginn í janúar 1993 var það vitandi um ákvæði samningsins um, að það gæti og mætti synja samþykktum Sameiginlegu EES-nefndarinnar samþykkis og þyrfti ekki að tilfæra neina sérstaka skýringu á því. Nú segja ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hins vegar við þing og þjóð, að þetta ákvæði sé ónothæft, því að það setji EES-samstarfið á hliðina. Þessi túlkun hefur enn ekki verið útskýrð með viðunandi hætti fyrir þjóðinni, og á meðan verður að líta svo á, að lögmæti EES-samningsins á Íslandi, og reyndar einnig í Noregi, hangi í lausu lofti. Strangt tekið þýðir þetta, að löggjafarvaldi íslenzka ríkisins hafi verið úthýst úr Alþingishúsinu við Austurvöll og til þess húsnæðis í Brüssel, þar sem Sameiginlega EES-nefndin er til húsa. Þessi staða er óviðunandi, og staða stjórnarflokkanna getur þar með varla styrkzt að óbreyttu.
"Óframbærileg og niðurlægjandi afstaða íslenzku ríkisstjórnarinnar í svokölluðu orkupakkamáli er sama eðlis. Augljóst er, að látið hefur verið undan hótunum, sem hvergi hefur þó verið upplýst um, hvaðan komu. Ríkisstjórnin sjálf viðurkenndi í raun, að hún lyppaðist niður fyrir hótunum um, að gerði hún það ekki, væri EES-samningurinn úr sögunni. Ekkert í samningnum sjálfum ýtti þó undir þá niðurstöðu !
En vandinn er sá, að þar sem þessi dusilmennska náði fram að ganga, er stjórnskipulegur tilveruréttur EES-samningsins að engu gerður. Þeir, sem fyrstir allra misstu fótanna í þessu máli, eru augljóslega algerlega vanhæfir til að leggja trúverðugt mat á stöðu EES-samningsins. Og breytir engu, þótt þeir hafi nú verið í heilt ár hjá Guðlaugi Þór við að bera í bætifláka fyrir málatilbúnað hans."
Sjaldan hefur ein ríkisstjórn og eitt handbendi hennar fengið svo hraklega útreið í ritstjórnargrein Morgunblaðsins eins og getur að líta hér að ofan. Dusilmenni verður þar með grafskrift ríkisstjórnarinnar að óbreyttu, og stöðuskýrsla Björns Bjarnasonar og tveggja annarra lögfræðinga um EES-samninginn er algerlega ómarktækt plagg, af því að téður Björn hefur gert sig gjörsamlega vanhæfan til verksins með því að missa fótanna fljótlega í umræðunni um Orkupakka 3, og stunda þar að auki ómerkilegan og rætinn málflutning í anda fyrrum andstæðings síns í prófkjöri, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, utanríkisráðherra. Fyrir vikið er umrædd stöðuskýrsla dæmd til að lenda á öskuhaugum sögunnar, og umræddur Björn hefur í þessum atgangi misst allan trúverðugleika.
Þess má geta, að í ágúst 2019 kom út í Noregi skýrsla Menon Economics: "Norge, EÖS og alternative tilknytningsformer". Menon Economics er rannsóknar-, greiningar- og ráðgjafarfyrirtæki í skurðpunkti rekstrarhagfræði, þjóðhagfræði og atvinnustefnumótunar, virt fyrirtæki, sem t.d. var valið ráðgjafarfyrirtæki ársins í Noregi 2015. Skýrslan er hnitmiðað 45 blaðsíðna rit, margfalt verðmætara og gagnlegra fyrir Íslendinga en skýrsla íslenzku lögfræðinganna þriggja á 301 bls., enda er í norsku skýrslunni fjallað hlutlægt um valkostina við EES-samninginn, sem vissulega eru fyrir hendi og eiga við um öll EFTA-ríkin.
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að áhöld eru um það, hvort OP#3 standist Stjórnarskrá. Í fjarveru stjórnlagadómstóls á Íslandi verður hægt að láta reyna á gjörðir Landsreglarans fyrir dómstólum og ekki ólíklegt, að það verði gert, þegar íþyngjandi ákvarðanir hans birtast almenningi.
Það er þó mjög íhugandi í ljósi kæruleysislegrar umgengni margra Alþingismanna við Stjórnarskrána (að láta hana ekki njóta vafans) að fela Hæstarétti jafnframt núverandi skyldum sínum hlutverk stjórnlagadómstóls. Þá gætu þingmenn skotið málum þangað á undan afgreiðslu máls, forseti lýðveldisins fyrir lagastaðfestingu sína og borgararnir eftir staðfestingu laga. Höfundur sama Reykjavíkurbréfs velti þessu fyrir sér:
"Nú hefur dómstólaskipunin breytzt, og álagið á Hæstarétt er orðið skaplegt, og gæti hann því auðveldlega tekið að sér hlutverk stjórnlagadómstóls, sem væri að marki víðtækara en það, sem rétturinn hefur sinnt fram til þessa. Því væri hægt að gera aðgengi að því að fá slíkum spurningum svarað opnara en það er nú, þótt ekki sé verið að mæla með glannalegheitum í þeim efnum."
Það er þörf á formlegra hlutverki Hæstaréttar, þegar kemur að því að úrskurða um stjórnlagalega stöðu lagafrumvarpa og laga. Slíkt yrði til þess fallið að skera úr stjórnlagalegri óvissu. Skemmst er að minnast bosmamikillar umræðu mestallt þetta ár um OP#3, sem að talsverðu leyti snerist um það, hvort innleiðing OP#3, eins og ríkisstjórnin kaus að standa að henni, væri brot á Stjórnarskrá eður ei. Sama umræða mun örugglega koma upp, þegar OP#4 verður til umræðu, og jafnvel einstaka gerðir ESB, sem koma frá Sameiginlegu EES-nefndinni þangað til, og þá yrði mikill léttir að því að geta skotið álitamálinu til Hæstaréttar, jafnvel áður en það fer fyrir Sameiginlegu EES-nefndina.
8.10.2019 | 11:53
Hvað er Orkusamband Evrópu ?
Einn stjórnarþingmaður hélt því fram í þingumræðu um OP#3 í lok ágúst 2019, að Orkusamband Evrópu væri ekki til. Það er sjálfsblekking á háu stigi, því að Orkusamband Evrópu er að verða meginstjórntæki Evrópusambandsins (ESB) til að fást við loftslagsvandann að sinni hálfu og til að gera ESB-löndin óháð eldsneytisaðdráttum í framtíðinni.
Rússar hafa skapað sér svo sterka stöðu sem orkubirgjar fyrir ESB, að Sambandið á bágt með að beita sér á hinum pólitíska vettvangi gegn Rússlandi, þótt það telji mikla þörf á því, svo að ekki sé talað um það, ef slær í brýnu á milli NATO og Rússlands. Þá verður Evrópa strax lömuð af orkuskorti m.v. núverandi hlut jarðefnaeldsneytis frá Rússlandi og löndum hliðhollum þeim.
Þess vegna er forgangsmál hjá ESB að uppfylla Parísarsamkomulagið. Það er áfangi á vegferðinni til sjálfbærrar orkunýtingar í ESB og á Íslandi. Lokatakmarkið er báðum í hag, Íslandi og ESB, en áfangarnir á leiðinni ekki endilega. Þess vegna er hið gríðarlega ójafnræði aðilanna í EES-samstarfinu áhyggjuefni. ESB skrifar allar reglurnar og samkvæmt utanríkisráðherra og taglhnýtingum hans er úti um EES-samninginn, ef eitthvert EFTA-land hafnar þessari löggjöf. Sú staða er óviðunandi, enda skrumskæling á raunveruleikanum. Málið er, að ráðuneytin þurfa að vinna heimavinnuna og gera athugasemdir við málefni, sem Framkvæmdastjórnin hefur merkt EES, áður en þau eru lögð fyrir Sameiginlegu EES-nefndina. Ráðuneytin sofa hins vegar á verðinum, eins og dæmin sanna.
Íslendingar eru nánast með lausnirnar í hendi sér til að fullnusta orkuskiptin, a.m.k. í miklu betri stöðu en ESB, ef þeir spila rétt úr gjöfinni, sem þeir hafa fengið. Það er alls ekki vitað með hvaða hætti orkuskipti Evrópusambandsins munu fara fram, og þar á bæ mun ekki takast að ná losunarmarkmiði og markmiði um hlutdeild endurnýjanlegrar orku ársins 2020. Það er reyndar undir hælinn lagt með þessi markmið hérlendis líka, en Þjóðverjar eru í mun betri aðstöðu en Íslendingar að þessu leyti, því að viðmiðurárið, 1990, endursameiningarár Þýzkalands, er þeim "hagfellt" vegna mikillar losunar í DDR-Deutsche Demokratische Republik, sem fljótlega í kjölfar endursameiningar var bundinn endi á, en Íslendingar voru nýbúnir að leysa olíukyndingu húsnæðis af hólmi að miklu leyti með hitaveituvæðingu, fjarvarmaveitum og rafhitun.
Með innleiðingu OP#3 varð Ísland aðili að Orkusambandi Evrópu. Þannig er búið að rígnegla Ísland á stjaka Evrópusambandsins. Við erum skuldbundin til að styðja stefnu Orkusambands Evrópu, þótt ósannað sé, að hún verði okkur hagfelld, t.d. beinn útflutningur rafmagns.
Hlutdeild Íslands í Orkusambandinu stafar af aðild (án atkvæðisréttar) Landsreglarans (forstjóra Orkustofnunar) að tæknilegri stjórn ACER-Orkustofnunar ESB, sem gegnir eftirlitshlutverki með öllu orkutengdu regluverki ESB og hefur talsverð og vaxandi völd til gagnaðgerða, þótt oft sé aðeins send skrifleg tilkynning um frávik til Framkvæmdastjórnarinnar, sem er hinn raunverulegi valdhafi Orkusambandsins. Það getur orðið erfitt að búa á hjáleigu stórbýlisins, ef höfðinginn telur sig eiga hönk upp í bakið á kotbóndanum.
Hlutverk Orkusambandsins er fimmþætt:
- Að tryggja orkuöryggi, samstöðu aðildarríkjanna (EES) um orkumálin, og traust á milli þeirra. - Orkuöryggi á Íslandi verður bezt tryggt með varaforða í miðlunarlónum síðvetrar, nægu uppsettu afli til að mæta toppálagi, þótt stærsta eining kerfisins bili, og öflugu flutnings- og dreifikerfi. Með tengingu landsins við Innri markað EES, fær ESB töglin og hagldirnar varðandi orkuöryggið, og það er ekki góðs viti.
- Að tryggja að fullu samvirkni á Innri orkumarkaði EES með frjálsu og tæknilega óhindruðu orkuflæði, hvaðan sem er og til allra staða innan EES. - Þetta kallar á 2 aflsæstrengi til Íslands, svo að tenging við Innri markað meginlandsins sé jafnan virk. Flutningsgeta hvors um sig verður sennilega aðeins um 600 MW af tæknilegum ástæðum. Að rjúfa þannig rafmagnslega einangrun Íslands mun fyrirsjáanlega hafa slæm áhrif á hagkerfið vegna óhjákvæmilgra raforkuverðhækkana, sem draga úr samkeppnismætti atvinnulífsins og rýra lífskjörin. Engin almennileg greining hefur farið fram hérlendis á efnahagslegum og umhverfislegum afleiðingum sæstrengstenginga við útlönd, en sterkar vísbendingar eru um, að hvorar um sig verði mjög alvarlegar.
- Að draga úr orkuþörf á hvern íbúa með bættri orkunýtni og minni orkutöpum. - Hér bjátar mest á í flutningskerfinu, þar sem 132 kV Byggðalína er allt of veik fyrir það álag, sem nú er á kerfinu og bíður eftir að koma. 220 kV sunnan frá Brennimel í Borgarfirði og austur að Hryggstekk í Skriðdal er bráð nauðsyn í þessu sambandi. Einnig má nefna brýna spennuhækkun á Vestfjörðum og víðar til að auka flutningsgetu og draga úr töpum.
- Að EES verði kolefnishlutlaust árið 2050 og skuli með öllum tiltækum ráðum standa við losunarskuldbindingar sínar árið 2030 (40 % minnkun m.v. 1990). - Í ljósi þess, að enn fer losunin vaxandi í Orkusambandinu, einnig á Íslandi, verður þetta erfitt markmið, en þó sennilega framkvæmanlegt á Íslandi, ef taka má bindingu kolefnis með í reikninginn, eins og nú stefnir í. Þá þarf hið opinbera að styrkja nýsköpun á sviði eldsneytisframleiðslu, t.d. repjuolíu.
- Að efla rannsóknir, nýsköpun og samkeppnishæfni innan EES til að styrkja stoðir kolefnislausrar og hreinnar orkutækni til að hraða orkuskiptum eftir föngum. - Þróun og olíuvinnsla úr repju er mjög áhugaverður kostur fyrir Íslendinga, því að það verður hægt að gjörnýta repjuna innanlands með fóðurframleiðslu. Annað áhugavert svið er metan- og metanólvinnsla.
4.10.2019 | 13:17
Orkusambandið og loftslagsstefnan
Þegar hlýtt er á fyrirlestur sérfræðings í hinum flóknu loftslagsvísindum, prófessors Richards Lindzen, við hinn sögufræga tækniháskóla í Bandaríkjunum, MIT:
, þá er ekki hægt að verjast þeirri hugsun, að viðbrögð samtímans við "loftslagsvánni" einkennist af "hjarðhegðun".
Þegar litið er til þeirra gríðarmörgu, öflugu þátta, sem áhrif hafa á tilviljanakennda hegðun loftslags jarðar, væri með ólíkindum, ef hækkun á einni breytu, koltvíildisstyrk andrúmslofts, úr 0,03 % í 0,04 % (núverandi) eða jafnvel 0,05 % síðar á þessari öld, gæti framkallað "hamfarahlýnun". Í þessu sambandi ber að hafa í huga, að lofthjúpur jarðar hefur hitnað um 1°C frá "Litlu ísöld", og þótt hitastigsaukningin yrði 2°C, er það alls ekki fordæmalaust og þarf ekki að leita lengra aftur en til landnáms Íslands til að finna viðlíka hitastig.
Líkan IPCC hefur haft tilhneigingu til að spá hærra hitastigi á jörðu en raungerzt hefur. Hins vegar verður að hafa í huga, að hafið hefur tekið upp hluta losaðs koltvíildis út í andrúmsloftið af mannavöldum og varmaaukninguna líka. Hvernig þróunin verður í þessum efnum, veit hins vegar enginn.
Að þessu skrifuðu er rétt að taka fram, að blekbónda er ljóst, að núverandi orkunotkun heimsins er ósjálfbær. Bæði eru olíubirgðir heimsins takmarkaðar, þær eru að talsverðu leyti staðsettar á pólitískum óróasvæðum, þar sem m.a. trúarbrögð tröllríða pólitíkinni, og bruni jarðefnaeldsneytis orsakar mengun, sem veldur skaðlegu andrúmslofti fyrir fólk, dýr og jurtir, einkum í þéttbýli. Þess vegna er blekbóndi sammála þeirri stefnu að gera gangskör að orkuskiptum.
Ef Parísarsáttmálinn frá 2015 gengur eftir, munu loftgæði fljótlega skána, en það eru litlar líkur á því, sumir segja engar líkur á því; meira að segja ESB virðist munu mistakast það, þrátt fyrir öflugt stjórnkerfi sitt, Orkusamband Evrópu, sem á að sjá um að ná markmiðunum fyrir EES.
Íslendingar eru mun betur í stakkinn búnir til orkuskiptanna með ónýttar endurnýjanlegar orkulindir sínar, jarðhita, vatnsföll og vindasamt veðurfar. Sjávarföll og hafstraumar koma síðar til greina. Ef að auki á að flytja út raforku um sæstreng, mun mörgum kotbóndanum þykja fara að þrengjast fyrir dyrum sínum, og þá má búast við hörðum deilum í landinu. OP#3 er sáðkorn harðra deilna, og OP#4 er verri, horft frá sjónarhóli íslenzkra heildarhagsmuna (staðbundin umhverfisvernd og orkuvinnsla).
Orkuskiptin munu styrkja viðskiptajöfnuðinn, sem aftur styður við sterkan gjaldmiðil, eins og nú er reyndin. Sterk ISK er undirstaða góðra lífskjara í landinu í samanburði við aðrar þjóðir.
Flestar aðrar þjóðir eiga mun erfiðara uppdráttar við framkvæmd orkuskiptanna, en sumar þeirra hafa þó metnaðarfull áform á prjónunum. Taka má dæmi af Evrópusambandinu (ESB), af því að EFTA-þjóðir EES-samningsins (ekki Svisslendingar) eru í samkrulli við ESB um úthlutun losunarheimilda koltvíildis til alþjóðlegra greina á borð við flug, millilandaskip og orkukræfa stóriðju.
Þar (í ESB) hefur verið sett háleitt markmið fyrir orkugeirann um, að árið 2030 verði losun CO2 40 % minni en árið 1990 og að orkunotkun úr endurnýjanlegum orkulindum nemi þá 27 % af heildarorkunotkun. Til samanburðar nam þetta hlutfall af heildarorkunotkun í ESB um 12 % árið 2005 og markmiðið er að meðaltali um 21 % árið 2020, er lægst 10 % á Möltu og hæst 49 % í Svíþjóð. Á Íslandi nemur sambærileg tala um 70 %.
Til að knýja á um að ná markmiðum í loftslagsmálum hefur ESB gefið út Orkupakka 4 (OP#4), sem færir leyfisveitingum varðandi nýtingu endurnýjanlegra orkulinda mikinn forgang í öllu stjórnkerfinu, og hefur jafnframt stofnað til Orkusambands Evrópu (European Energy Union). Orkusambandið er samfélag þeirra aðila í Evrópu, sem semja reglugerðir og tilskipanir um orkumál og hafa síðan eftirlit með framkvæmdinni. Hlutverk Orkusambandsins er að uppfylla Parísarsamkomulagið frá desember 2015, eins og það snýr að orkugeiranum. Framkvæmdastjórn ESB stjórnar Orkusambandinu með tilskipunum og reglugerðum, og nýtur við það liðsinnis tveggja vinnuhópa, sem skilgreindir eru í reglugerð 182/2011, Loftslagsbreytinganefndar og Orkusambandsnefndar.
Reglugerð ESB nr 2018/1999 frá 24.12.2018 fjallar um starfsemi Orkusambandsins. Hún er hluti OP#4-"Hreinorkupakkanum". Þar er grunnur lagður að því, hvernig aðildarlöndin og ESB eiga að ná loftslagsmarkmiðum ESB 2030. Íslenzki Landsreglarinn er aðili að ACER og þar með fulltrúi Íslands í Orkusambandi Evrópu. Í 2018/1999 er m.a. kveðið á um, að orkuflutningar á milli landa innan Orkusambandsins skuli vaxa um 50 % frá 2020-2030.
Fer einhver lengur í grafgötur um, að Ísland verður ekki "stikk-frí" á næsta áratugi, hvað þetta varðar ? Sú tenging verður ekki eina fjárfestingin, heldur mun verða fjárfest mikið í endurnýjanlegum orkulindum Íslands, ef ESB meinar eitthvað með að veita slíkum virkjunum forgang fram yfir annars konar hagsmuni í OP#4, og auðvitað er ESB full alvara. Það sést í 2018/1999.
30.9.2019 | 11:28
Fjaðrafok út af ECT
Það varð töluverður ys og þys út af engu í viku 38/2019, þegar vefmiðill nokkur tók af óþekktum ástæðum að bera saman alþjóðlegan sáttmála, "Energy Charter Treaty" og Orkupakka 3 (OP#3). Eins og sjá má í viðhengi með þessari vefgrein, er þarna ólíku saman að jafna.
Engu var líkara en með þessu upphlaupi hafi átt að koma höggi á Miðflokkinn vegna þess, að formaður og varaformaður hans gegndu stöðum forsætisráðherra og utanríkisráðherra, þegar Ísland gerðist aðili að þessum alþjóðlega sáttmála, þar sem jafnvel Sviss á aðild. Potturinn og pannan í þessu máli hefur hins vegar væntanlega verið fagráðherrann, ráðherra orkumála, iðnaðarráðherrann Ragnheiður Elín Árnadóttir, ráðherra Sjálfstæðisflokksins.
Utanríkisráðherra kemur hins vegar að öllum slíkum samningum við erlend ríki, og hann undirritaði fyrir Íslands hönd, og dr Ólafur Ragnar Grímsson, fullgilti þennan samning. Það er athyglisvert í þessu sambandi, að Norðmenn, sem búa yfir gríðarlegum orkulindum, eru aðilar að samninginum, en hafa enn ekki fullgilt hann.
Það er jafnframt athyglisvert, hversu litla þinglega meðferð samningar af þessu tagi fá. Látið er duga að kynna mál, sem ekki þarfnast lagabreytingar og ekki fela í sér fjárhagsskuldbindingar, í utanríkismálanefnd, ef þá svo mikið er viðhaft. Leikmanni virðist eðlilegra, að samnin sé þingsályktunartillaga og fjallað um hana í þinginu, en Skrifstofa Alþingis hefur staðfest, að við afgreiðslu ECT var alls ekki brugðið út af vananum, eins og þó hefur verið látið liggja að.
Hvers vegna var talið rétt, að Ísland gerðist aðili að ECT ? Líklegast er, að þrýstingur hafi verið á það að hálfu íslenzkra fyrirtækja, sem stunda fjárfestingar, rannsóknir, ráðgjöf og verktöku, utan EES, t.d. í Þriðja heiminum, svo kallaða, þar sem eignarréttur og lagarammi um framkvæmdir er með öðrum hætti en hérlendis. Íslenzk fyrirtæki hafa t.d. stundað starfsemi í Afríku og Asíu á sviði jarðhitanýtingar, og þeim gæti gagnazt ECT, ef í harðbakka slær.
ECT var vissulega hugsaður til að hvetja til orkuflutninga yfir landamæri, eins og OP#3, en lengra nær samanburðurinn ekki. Það er fátt annað sameiginlegt með þessum tveimur gjörningum, og þess vegna fánýtt að taka að sér að bera saman þessa tvo gjörninga. Annar er sáttmáli jafnrétthárra þjóða um fjárfestingar í orkugeiranum og meðferð ágreiningsmála, sem þær kunna að leiða af sér, en hinn er samningur með yfirþjóðlegu sniði, þar sem víðtæk völd eru veitt embætti (Landsreglara), sem fært er undir ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) og ACER - Orkustofnun ESB, sem er undir stjórn Framkvæmdastjórnar ESB, sjá nánar viðauka með þessum pistli.
26.9.2019 | 13:24
Af sæstrengjum Noregs og Íslands
Þann 31. ágúst 2019 skrifaði Hjörtur J. Guðmundsson stutta frétt í prentútgáfu Morgunblaðsins undir fyrirsögninni:
"Vonast eftir stuðningi við sæstreng".
Þar gaf m.a. á að líta eftirfarandi:
"Formlegar samningaviðræður um formlegan stuðning ríkisstjórna bæði Íslands og Bretlands eru að sögn talsmannsins [fyrir Atlantic SuperConnection] á meðal þess, sem vantar til þess að þróa verkefnið áfram. Spurður, hvar verkefnið væri statt, sagði talsmaðurinn, að Atlantic SuperConnection væri enn áhugasamt um verkefnið. Færi svo, að Bretland myndi yfirgefa Evrópusambandið og orkumálaumgerð þess [ACER og Orkusamband Evrópu] í lok október, eins og gert væri ráð fyrir, væri vonazt til þess , að virkt samtal gæti hafizt skömmu eftir það varðandi það að fá formlegan stuðning."
Til er annar fjölþjóðlegur orkusamningur en Orkupakki #3 (OP#3) Evrópusambandsins (ESB), sem nú hefur hlotið fullgildingu í EFTA-löndum EES líka. Sá heitir "Energy Charter Treaty" - ECT, og var hann samþykktur að Íslands hálfu 1994 og fullgiltur á Íslandi árið 2015, þegar Sjálfstæðisflokkurinn fór með orkumálin, eins og núna. (Noregur hefur ekki fullgilt samninginn af einhverjum ástæðum.) Umræddur ráðherra iðnaðar og nýsköpunar 2015 heitir Ragnheiður Elín Árnadóttir (23.05.2013-11.01.2017).
Sagt er, að á grundvelli ECT hafi fjárfestar höfðað skaðabótamál á hendur ríkisstjórnum og haft nokkuð upp úr krafsinu. Það er þá á grundvelli þjóðaréttar, en ekki landsréttar, því að að ECT felur hvorki í sér lagalegar né fjárhagslegar skuldbindingar, eins og OP#3 gerir, og ekkert framsal ríkisvalds. Ef ECT er varasamur, þá er OP#3 stórhættulegur. ECT getur auðvitað orðið samningsumgjörð um sæstreng til Bretlands eftir BREXIT, og hann getur verið íslenzkum fjárfestum, verktökum og ráðgjöfum hjálplegur við starfsemi þeirra utan EES, t.d. við jarðhitaverkefni í Afríku og Asíu. Fjórfrelsisreglur EES og OP#3 ættu að gera notkun ECT innan EES óþarfa.
Sá er einmitt reginmunurinn á ECT og OP#3, að ECT er uppsegjanlegur, en OP#3 ekki (nema segja upp EES-samninginum). Það er hins vegar ólíklegt, að ACER leyfi orkutengingu við Bretland, ef Bretland gengur úr ACER. ACER vill fá íslenzka raforku inn á Innri markað ESB, og gæti þá beitt sér til að beina "Icelink" verkefninu til Írlands og tengt síðan Írland með öflugum hætti við meginlandið, svo að dæmi sé tekið.
Einhver erlendur stjórnmálamaður nefndi, að Íslendingar ættu að sjá Dönum fyrir kolefnisfríu rafmagni. Það væri þó að bera í bakkafullan lækinn, því að nú þegar selja Norðmenn Dönum rafmagn á daginn um 4 sæstrengi og kaupa til baka á nóttunni á tiltölulega hagstæðu verði.
Samt hefur Statnett (norska Landsnet) talið rétt að tengja Noreg við enn stærri markaði,framhjá Danmörku,því að fyrirtækið lagði sæstreng til Hollands fyrir nokkrum árum og er að leggja einn til Þýzkalands og annan til Englands. Einkafyrirtækið NorthConnect hefur sótt um leyfi til að leggja samnefndan sæstreng á milli Skotlands og Noregs með um 1400 MW flutningsgetu og áætlaðan orkuflutning um 10 TWh/ár. Landsreglari Bretlands hefur nú samþykkt umsókn NorthConnect um þennan streng, og Orkustofnun Noregs, NVE, mun fljótlega afgreiða umsóknina frá sér. Búizt er við, að hún muni samþykkja umsóknina, í blóra við vilja fjölmargra umsagnaraðila í Noregi, þ.á.m. Statnett, sem óttast gríðarlegar raforkuverðhækkanir í Noregi með NorthConnect, því að hann muni þurrka upp allan varaorkuforða í miðlunarlónum Noregs.
Ef landsreglarar Bretlands og Noregs verða ósammála um NorthConnect, sker ACER úr. Kannski mun BREXIT skera Norðmenn úr snöru OP#3 í þetta sinn. NorthConnect verður áreiðanlega mikið hitamál í Noregi og mun skerpa línurnar í komandi baráttu fyrir Stórþingskosningarnar eftir 2 ár. Verður lærdómsríkt fyrir Íslendinga að fylgjast með þessum átökum í Noregi um NorthConnect og að fylgjast með efnahagslegum áhrifum af tengingu þeirra tveggja stóru millilandasæstrengja, sem Statnett er nú með á framkvæmdastigi.
Atlantic SuperConnection þykist hafa varið stórfé til undirbúnings sæstrengs frá Englandi til Íslands. Þar gætu búið að baki áform um að kæra stjórnvöld hérlendis fyrir óeðlilegar tafir á afgreiðslu sæstrengsmálsins á grundvelli OP#3 fyrir BREXIT eða ECT eftir BREXIT. Þar kemur þó ekki einvörðungu til álita útlagður kostnaður, heldur ekki síður tapaðar tekjur í framtíðinni, svo að hér getur orðið um háar fjárhæðir að tefla við Edmund Truell, sem ekki kallar allt ömmu sína. Þessa áhættu þarf að vega og meta á móti hugsanlegum ávinningi Íslendinga af ECT, sem hér hefur verið drepið á.
"Hann sagði, að í heildina hefði rúmlega MGBP 10 verið varið í fýsileikaathugun sæstrengsins og raflínuverksmiðju [sæstrengsverksmiðju].
Talsmaðurinn sagði aðspurður, að þeir, sem færu fyrir verkefninu, hefðu verið í sambandi við íslenzka ráðherra og stjórnmálamenn snemma á síðasta ári."
Það er athyglisvert, hversu mikla áherzlu Atlantic SuperConnection (ASC) leggur á samskipti við stjórnmálamenn í báðum löndum. Fyrirtækið virðist ætla að sækja í sjóði þeirra, t.d. byggðasjóð á Englandi, þar sem ládeyða hefur um langa hríð hrjáð Norð-Austur England, þar sem ASC fyrirhugar að reisa sæstrengsverksmiðju og síðan að hefja lagningu sæstrengs þaðan og til Íslands. ASC virðist líka sækjast eftir því, að brezka ríkisstjórnin greiði niður kostnað raforku frá Íslandi, sem flutt er frá Íslandi, á þeirri forsendu, að hún sé kolefnisfrí. Þessar væntingar standa á brauðfótum.
Markaðskerfi ESB (Innri markaður raforku) felur í sér, að öll raforka fari á markaðstorgið, einnig sú, sem send er á milli landa. Hjá ESB sjá menn hlutverk Íslands og Noregs í raforkuviðskiptum á þessum vettvangi fólgið í því að fylla upp í framboðslægðirnar, sem myndast þá daga, þegar margar vindmyllna Evrópu í senn hægja á sér. Þá geta vatnsorkuver landanna hlaupið fyrirvaralítið undir bagga. Skilyrði er auðvitað, að nóg vatn sé í miðlunarlónunum og ríkulegt afl til reiðu. Á Íslandi skortir mikið á, að fyrir hendi sé mikið afgangsafl eða -orka, af því að álagið er fremur jafnt allan sólarhringinn, allan ársins hring. Þess vegna þarf fyrst að fjárfesta mjög mikið í nýjum eða stækkuðum stöðvarhúsum með viðbótar vél- og rafbúnaði.
Miðlunargetuna þyrfti ekki að auka mikið, því að hugmyndin er sú að snúa orkustefnunni við, þegar nægur fjöldi vindmyllna er tekinn að snúast eðlilega aftur. Þá kaupir Ísland raforku að utan og safnar þannig vatni á ný í lónin. Verðmismunurinn er mikill, en flutningskostnaðurinn tiltölulega hár. Aukið uppsett afl kallar á miklar fjárfestingar, sem enduspeglast munu í rafmagnsverðinu, einnig innanlands. Það mun þess vegna hækka við þessar aðfarir, og rennsli viðkomandi áa verða óstöðugt.
Þessi mikla fjárþörf í vatnsvirkjanageiranum getur skýrt áherzlu Framkvæmdastjórnarinnar á það, að orkunýtingarleyfin skipti um hendur og í stað ríkisfyrirtækja komi fjársterk einkafyrirtæki með fjárfestingarvilja og getu.
22.9.2019 | 11:31
Um fullveldisrétt og nýtingu orkulinda
Líklega þykir mörgum hérlandsmönnum, að það sé fullveldisréttur ríkisins að ráða því, hvernig stjórnvöld, þ.e. ríkisstjórn á grundvelli laga frá Alþingi, haga úthlutun leyfa til nýtingar á orkulindum til raforkuvinnslu hérlendis. Þetta er þó ekki lengur alfarið svo, því að ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) krafðist þess með úrskurði nr 075/16/COL, dags. 20.04.2016, að ákvæðum EES-samningsins, sem banna ríkisstuðning til fyrirtækja á samkeppnismarkaði, yrði fullnægt. M.ö.o. takmarkar EES-samningurinn fullveldisréttinn til nýtingar orkulinda á Íslandi. Fullyrðingar flautaþyrla um, að EES-samningurinn snerti ekki orkulindirnar, eru út í loftið.
Fyrsta bréfið þessu lútandi fór frá ESA 14.10.2008, þegar Íslendingar voru í sárum eftir hrun bankakerfisins, enda fór fyrsta svarbréfið af mörgum við fyrirspurnum ESA ekki fyrr en meira en ári síðar, 04.12.2009. Með bréfi, dags. 05.10.2015, tilkynnti ESA síðan ríkisstjórninni, eftir athugun sína, að stofnunin teldi íslenzka fyrirkomulagið um téðar leyfisveitingar jafngilda ríkisaðstoð, sem stangaðist á við EES-samninginum. Viðræður fóru fram á milli aðila, en niðurstaðan varð engu að síður Íslandi mjög í óhag, því að ESA kvað upp eftirfarandi úrskurð:
"Með úrskurði nr 75/16/COL þann 20. apríl 2016 komst Stofnunin [ESA] að þeirri niðurstöðu, að framkvæmd íslenzkra yfirvalda við úthlutun til raforkuvinnslufyrirtækja á leyfum til afnota á þjóðlendum, á ríkislandi og náttúruauðlindum þar, án þess að fyrir hendi sé greinileg lagaleg krafa um að greiða markaðstengt afnotagjald og án nokkurra ítarlegra ákvæða um ákvörðun markaðsverðsins á grundvelli gegnsærrar aðferðarfræði, feli í sér gildandi fyrirkomulag ríkisaðstoðar, sem er ósamrýmanleg virkni EES-samningsins."
Í flestum ríkjum er það viðkvæmt mál, hvernig ríkisvaldið hagar afnotum náttúruauðlinda í sinni eigu. Það er víðast hvar talið til fullveldisréttar hvers ríkis að ákveða skipan þessara mála, en framkvæmdastjórn ESB hefur lengi verið á öðru máli, eins og sameiginleg fiskveiðistefna Sambandsins er skýrt dæmi um. Trú köllun sinni hefur Framkvæmdastjórnin allt aftur til 1990 rekið þá stefnu gagnvart vatnsorkulöndum í Sambandinu, t.d. Frakklandi, að úthlutunartímann ætti að miða við þarfir einkafyrirtækja til afskrifta á slíkum fjárfestingum (um 30 ár) og að þau yrðu að sitja við sama borð og ríkisorkufyrirtækin við þessa úthlutun. Árið 2008 hóf spegilmynd Framkvæmdastjórnarinnar EFTA-megin, ESA, ferlið, sem leiddi til sams konar úrskurðar árið 2016 og Framkvæmdastjórnin hafði áður fellt.
Í úrskurði sínum, 075/16/COL (sjá viðhengi), ráðlagði ESA ríkisstjórninni að taka eftirfarandi 4 skref til að tryggja, að úthlutun orkunýtingarréttinda á orkulindum ríkisins fæli ekki í sér ríkisstuðning:
- "Íslenzk yfirvöld skulu tryggja, að fyrir hendi verði lagaleg skuldbinding allra greina hins opinbera á Íslandi (þ.e. sérstaklega á ríkisstjórninni, sveitarfélögum og fyrirtækjum í opinberri eigu), að hvers konar réttindaframsal til að nýta þjóðlendu, ríkisland og náttúruauðlindir þar (náttúruauðlindir í opinberri eigu) til raforkuvinnslu, fari fram á markaðsforsendum, og að þar af leiðandi sé slíkt framsal skilyrt við, að hæfileg greiðsla verði innt af hendi.
- Íslenzk yfirvöld skulu tryggja, að allir rekstraraðilar, hvort sem þeir eru í ríkiseign eða ekki, fái sams konar meðhöndlun hvað varðar hæfilega greiðslu fyrir réttindin til að nýta opinberar náttúruauðlindir til raforkuvinnslu.
- Íslenzk stjórnvöld skulu tryggja, að skýr og auðsæ aðferðarfræði sé lögð til grundvallar verðlagningunni á réttinum til að nýta opinberar náttúruauðlindir til raforkuvinnslu.
- Íslenzk stjórnvöld skulu endurskoða alla núverandi samninga til að tryggja, að raforkuvinnslufyrirtæki greiði hæfilegt gjald fyrir það, sem eftir lifir samningstímabilsins."
Þá var tekið fram í úrskurði 75/16/COL, gr. 2,
að "Stofnunin mælti með því, að íslenzk yfirvöld gerðu nauðsynlegar löggjafar-, stjórnkerfis- og aðrar ráðstafanir í því augnamiði að uppræta f.o.m. 1. janúar 2017 alla ósamrýmanlega aðstoð af ástæðum, sem úrskurðurinn spannar."
Síðan gerist það ótrúlega 19. maí 2016, að íslenzka ríkisstjórnin sendir bréf til ESA, þar sem hún samþykkir allar kröfurnar, sem settar voru fram í úrskurði 075/16/COL. Með bréfi 15. desember 2016 til ESA tilkynnti íslenzka ríkisstjórnin ennfremur, að hún myndi verða búin að koma þessu í kring 30. júní 2017 og að breytingar á gildandi leyfisveitingum myndu taka gildi 1. janúar 2017 á þeim degi, sem ESA hafði krafizt í úrskurðinum, að allt yrði frágengið. Íslenzk stjórnvöld höfðu Alþingiskosningar 2016 sem skálkaskjól fyrir hálfsárs drætti, en er þetta komið til framkvæmda enn ? Á þessum grundvelli kvað ESA upp annan úrskurð, þ.e. nr 010/17/COL (sjá viðhengi), dags. 25. janúar 2017, um lúkningu þessa máls að sinni hálfu.
Allt fór þetta afar hljótt á Íslandi, þótt um stórmál væri að ræða, og enn eru engar spurnir af efndum. Eru virkjanafyrirtækin farin að greiða markaðsverð fyrir nýtingarrétt af orkulindum í eigu hins opinbera ? Sitja allir við sama borð nú við úthlutun slíkra leyfa, og gildir það jafnræði innan EES ? Hefur lögum og reglum verið breytt til að grundvalla þessar aðgerðir á. Nei, það hefur enn ekkert gerzt í þessu máli, svo að það sætir furðu, að ESA skuli ekki reka upp hvein. Nú hefur iðnaðarráðherra reyndar boðað þingmál á 150. þinginu um þetta mál. Ef þar á að fullnægja kröfum ESA, mun verða hart tekizt á um það.
Það er ekki hægt að reka stjórnsýslu til frambúðar á Íslandi þannig, að farið sé með samskiptin á milli ríkisstjórnarinnar og ESA sem mannsmorð. Öðru vísi er þessu háttað t.d. í Noregi. Þar er allt þessu viðvíkjandi uppi á borðum, og norska ríkisstjórnin hefur harðlega mótmælt því, að ESA eigi nokkurn íhlutunarrétt um úthlutun leyfa til nýtingar orkulinda Noregs:
Þeir ráðherrar, sem væntanlega hafa tekið ákvörðun um þessa uppgjöf fyrir ESA, voru:
- Forsætisráðherra 07.04.2016-11.01.2017: Sigurður Ingi Jóhannsson
- Utanríkisráðherra 08.04.2016-11.01.2017: Lilja Alfreðsdóttir
- Orku-og iðnaðarráðherra: 23.05.2013-11.01.2017: Ragnheiður Elín Árnadóttir
Þarna kemur Framsóknarflokkurinn greinilega mjög við sögu, og skýtur það óneitanlega skökku við stefnu flokksins og orðskrúðið um að standa vörð um hagsmuni Íslands gagnvart Evrópusambandinu, t.d. í "kjötmálinu" s.k. (innflutningur á ófrosnu kjöti og ógerilsneyddri mjólk og eggjum í blóra við vilja Alþingis, en samkvæmt dómi EFTA-dómstólsins). Þegar til stykkisins kemur, er lyppast niður án þess að bregða skildi á loft, nákvæmlega eins og í "orkupakkamálinu" (OP#3).
Evrópumál | Breytt 23.9.2019 kl. 20:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.9.2019 | 14:12
Orkumál í höftum
Það kom fram í frétt Morgunblaðsins 6. september 2019, "Minni raforkunotkun", að raforkunotkun 2018 hefði orðið 1,4 % minni en spáð var. Stafar það aðallega af minni raforkunotkun stóriðjunnar en búizt var við, þegar gildandi Orkuspá var samin, 2015. Ástæðurnar eru bæði tæknilegir rekstrarörðugleikar og lélegur markaður.
Þetta er umhugsunarefni í ljósi þess, að Landsnet hefur tilkynnt, að þar á bæ sé búizt við aflskorti þegar veturinn 2020, þótt ekki sé það öruggt, og Orkustofnun sér fram á orkuskort á næstu árum (sem kemur fyrst fram sem aflskortur). Ef hagur strympu braggast í iðnaðinum, má búast við mjög kostnaðarsömum afl- og orkuskerðingum á næstu árum, því að fátt er um feita drætti á virkjanasviðinu núna. Slíkt ástand hefur neikvæð áhrif á allt hagkerfið og dregur úr hagvexti.
Þetta ástand léttir ekki undir með landsmönnum í orkuskiptunum, því að hækkað orkuverð er undanfari og fylgifiskur orkuskorts í markaðskerfi og aukin óvissa um afhendingu raforku gerir orkuskiptin ófýsilegri. Deyfð orkuráðherra og skeytingarleysi um hagsmuni neytenda í þessum efnum vekur undrun. Hvers vegna er ekki hvatt til frekari virkjana, úr því að markaðurinn veitir fyrirtækjunum ekki nægan hvata ?
Sannleikurinn er sá, að orkulöggjöf Evrópusambandsins (ESB) hefur virkað illa hér á landi og þarf engan að undra. Hún hefur hækkað verðið til fjölskyldna að raungildi um 7 % - 8 %, á sama tíma og þjóðin hefði sennilega farið að njóta ávaxtanna af eignum sínum í raforkugeiranum vegna skuldalækkunar hans með lækkun raunraforkuverðs, ef ekki hefði verið tekin sú misráðna ákvörðun 1999 og jafnvel fyrr að planta "aðskotadýri" inn í íslenzka orkulöggjöf, sem getur reyndar virkað vel við réttar aðstæður, en þetta "aðskotadýr" er ekki sniðið fyrir íslenzkar aðstæður. Þess vegna ganga orkumálin á afturfótunum hér, þótt orkuráðherra virðist af greinaskrifum sínum að dæma halda annað.
Birgir Þórarinsson, sem var ræðukóngur 149. löggjafarþingsins, skrifaði grein í Bændablaðið 29. ágúst 2019 undir heitinu:
"Orkupakkar hækka raforkuverð".
Þessi fyrirsögn felur í sér staðreynd, sem leidd var í ljós með skýrslu Orkunnar okkar, 16.08.2019. Ályktunin, sem draga ber af þessari staðreynd er sú, að orkulöggjöf ESB, innleidd í íslenzkt umhverfi, hlýtur falleinkunn. Samkeppnin er ekki næg hérlendis til að vega upp á móti þeim kostnaðarauka, sem uppskipting raforkugeirans leiddi af sér. Yfirbyggingin mun bara vaxa með fleiri orkupökkum og óhagræðið sömuleiðis. Verðhækkanir rafmagns umfram verðlag munu vaxa með OP#3 og OP#4 (Hreinorkupakkanum) og um þverbak mun keyra, verði landið tengt Innri markaðinum um sæstreng.
Af þessum sökum ættu stjórnvöld að fitja upp á því, að Ísland fái algera undanþágu frá öllum orkupökkunum frá ESB. Þetta væri ágætisumræðuefni í næstu kosningabaráttu. Einnig mætti spyrja þjóðina að þessu beint í atkvæðagreiðslu samhliða næstu þingkosningum.
Hluta rakanna fyrir þessari stefnubreytingu er að finna í ofannefndri grein Birgis Þórarinssonar, sem hér verður vitnað í:
"Þeir, sem hafa fundið einna mest fyrir hækkun á raforkuverði vegna innleiðingar orkupakka ESB, er það fólk, sem býr á köldum svæðum á Íslandi.
Tveimur árum eftir, að fyrsti orkupakkinn var innleiddur, hafði raforkuverð til húshitunar á veitusvæði Hitaveitu Suðurnesja (nú HS Orku) hækkað á bilinu 74 % - 96 %. Þetta þekki ég af eigin raun, búandi á köldu svæði á Suðurnesjum.
Ástæðan var sú, að Hitaveitan niðurgreiddi sérstaklega raforku til húshitunar. Orkupakkinn stóð í vegi fyrir þessari niðurgreiðslu, og var hún því felld niður.
Maður spyr sig; hvað kom embættismönnum í Brussel það við, að raforka hafi verið sérstaklega niðurgreidd til húshitunar hér á landi ? Ég benti á þessa staðreynd í umræðu á Alþingi og var þá sakaður um að fara með rangt mál af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins.
Ég brá þá á það ráð að sýna umræddum þingmönnum gamla raforkureikninga, fyrir og eftir innleiðingu orkupakka eitt, máli mínu til stuðnings. Sló þá þögn á þingmennina, en þeir báðust ekki afsökunar á orðum sínum.
Þetta eitt og sér sýnir, að þeir þingmenn, sem styðja innleiðingu orkupakka ESB, svífast einskis í málflutningi sínum. Óskiljanlegt er, hverra erinda þeir ganga á Alþingi, og hvaða hagsmunir kunna að búa að baki.
Búast má við enn meiri hækkun á orkuverði, fari svo, að þriðji orkupakkinn verði samþykktur og áform fjárfesta um sæstreng verði að veruleika."
Hvar var hin margrómaða neytendavernd orkupakkanna, þegar um 85 % hækkun á rafmagni til húshitunar dundi á Suðurnesjamönnum ? Þetta gerist væntanlega við bókhaldslegan aðskilnað hitaveitunnar og rafveitunnar. Svipað gerðist við sundurlimun Landsvirkjunar. Hagnaði af virkjunum var fyrir sundurlimun varið til uppbyggingar flutningskerfisins. Nú þarf Landsnet að fjármagna þær fjárfestingar með lánum og gjaldskrá, allt saman neytendum í óhag. Án Evrópuréttar á þessu sviði myndi Samkeppnisstofnun gera athugasemdir við markaðsráðandi stöðu og óeðlilega samþættingu samkeppnisrekstrar (raforkuvinnslu) og einokunarstarfsemi (hitaveitu).
Reynslan sýnir, að íslenzki markaðurinn er of lítill til að uppskipting fyrirtækja í anda ESB sé hagkvæm fyrir neytendur. Í íslenzka orkukerfinu er orkuforðinn m.a. háður duttlungum náttúruaflanna, en hjá ESB sjá eldsneytismarkaðir að miklu leyti um þennan þátt. Þess vegna þarf að flétta orkulindastýringu inn í markaðsstýringu ESB hérlendis, svo að ekki fari illa. Ef stjórnvöld (Alþingi) kjósa aðgerðir í átt til jöfnunar aðstöðu fólks á svæðum án jarðhita og með jarðhita, þá er það fullveldismál að ráða því, en svo er ekki lengur, eins og fram kemur í tilvitnaðri grein.
Grein sinni lauk Birgir þannig:
"Íslendingar eru sjálfstæð þjóð í harðbýlu landi og eiga ekki að láta embættismenn í ESB ráða því, hvernig við nýtum okkar mikilvægu raforkuauðlind eða verðleggjum hana. Atkvæðagreiðslan á Alþingi um þriðja orkupakkann fer fram 2. september n.k. [2019]. Þá kemur í ljós, hvaða þingmenn standa með þjóðinni."
Hvort sem landsmenn kjósa að eiga viðskipti við útlönd um sæstreng eða ekki, er óhagstætt fyrir þá að þurfa að beygja sig undir Evrópuréttinn á sviði orkumála. Aðstæður eru hér of ólíkar þeim, sem á meginlandinu eða Bretlandi eru við lýði, til að hagfellt sé að lúta "erkibiskups boðskap" á þessu sviði. Nær væri að fylgja fordæmi höfðingja Oddaverja og fóstra Snorra Sturlusonar á 12. öld, Jóns Loftssonar:
"Heyra má ég erkibiskups boðskap, en ráðinn er ég í að hafa hann að engu."
13.9.2019 | 13:50
Skrýtin afstaða þingmanna til orkumálanna
Í Morgunblaðinu 2. september 2019 gat að líta skoðun nokkurra þingmanna á umræðunum um Orkupakka #3 (OP#3) undanfarið. Sínum augum lítur hver á silfrið, og ástæða er til að staldra við eitt dæmi:
"Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks, segir ekkert hafa komið fram undanfarið, sem gefi tilefni til annars en málið verði samþykkt, eins og stefnt hafi verið að. Birgir telur, að umræða um stefnumótun í orkumálum haldi áfram í framhaldinu. "Mörg af þeim atriðum, sem andstæðingar orkupakkans hafa haldið á lofti, tengjast annarri stefnumótun en þeirri, sem felst í þriðja orkupakkanum sjálfum", segir hann og nefnir, að þar sé t.d. ekki fjallað um eignarhald á orkuauðlindum og -fyrirtækjum og ekki um lagningu sæstrengs."
Með samþykkt Alþingis á OP#3 er Ísland gengið í Orkusamband Evrópu (Energy Union of Europe), sem stjórnað er af framkvæmdastjórn ESB. Þar með hefur Alþingi gert orkustefnu ESB að orkustefnu Íslands varðandi rafmagn (ekki jarðgas). Þeir þingmenn (stjórnarliðsins) eru að vísu til, sem halda því fram, að Orkusamband Evrópu sé ekki til, en þeir ættu að kynna sér málin betur áður en þeir túðra út í loftið:
Í orkustefnu ESB er kveðið á um, að öll aðildarlöndin skuli tengjast Innri orkumarkaðinum. Á honum fara viðskipti fram í orkukauphöllum, og þess vegna þarf Ísland að taka upp markaðsstýringu raforkuvinnslunnar með kostum hennar og göllum. Það verður að aðlaga íslenzka raforkumarkaðinn að t.d. Nord Pool, áður en hann tengist Innri markaði ESB fyrir raforku. Þannig er ekkert val um það, hvort markaðurinn eða t.d. hagsmunir notenda m.t.t. orkuöryggis eiga að ráða ferðinni. Það er þó fullveldisréttur Íslands að ráða þessu, en hann er brotinn með OP#3. Ekkert hefur sézt frá lagaspekingum um þessa hlið fullveldisframsals til ESB með innleiðingu OP#3. Þetta skapar lagalega óvissu (hættu á málshöfðunum) við þá framkvæmd.
Til þess að tryggja "frelsin fjögur" í framkvæmd á þessum markaði vill ESB ganga úr skugga um, að ríkisvaldið hygli ekki fyrirtækjum sínum á þessum markaði. Í því skyni er í raun reynt að ýta ríkisfyrirtækjum út af þessum markaði og reynt að fá einkafyrirtæki inn á hann í staðinn. Þar með eru líkur á, að fjárfestingarvilji í þessum geira aukist, sem er talið einkar mikilvægt varðandi vatnsorkulindina, því að vatnsorkuver geta "spilað" mjög vel með vindorkuverum, sem eru uppistaðan í orkuverum Evrópu án koltvíildislosunar. Til þess þarf hins vegar að auka mjög uppsett afl vél- og rafbúnaðar í vatnsorkuverunum, sem útheimtir mikið fé.
Við þessar aðfarir beita Framkvæmdastjórnin og ESA þremur gögnum fyrir sig gagnvart Noregi, þ.e. þjónustutilskipun 2006/123/EB, tilskipun um opinber innkaup nr 2014/23/EB og ákvæðum um athafnafrelsi í sáttmálanum um virkni ESB, TFEU, gr. 49 og 56. Þessum gögnum er hægt að beita gegn EFTA-löndunum á grundvelli EES-samningsins, en OP#3 kemur þar ekki sérstaklega við sögu. Gagnvart Íslandi var hins vegar beitt EES-samninginum, gr. 61(1) um bann við ríkisaðstoð við fyrirtæki á samkeppnismarkaði og tilskipun 2000/60/EB, sem er hluti af EES-samninginum og var innleidd hér með vatnsnýtingarlögum nr 36/2011. Verður nánari grein gerð fyrir úrskurði ESA nr 075/16/COL um brot á ákvæðinu um bann við ríkisaðstoð við úthlutun orkunýtingarréttinda í vefpistli síðar. Þar kemur fram grundvallarmunur á afstöðu íslenzkra og norskra stjórnvalda til þessara mála.
Því er haldið fram, að þessi barátta Framkvæmdastjórnarinnar og ESA jafngildi ekki kröfu um einkavæðingu vatnsorkuvirkjana. Það er hálmstrá þeirra, sem ríghalda vilja í EES-samninginn, hvað sem tautar og raular. Í reynd fara þessar stofnanir þó fram á útboð á orkunýtingarleyfum vatnsréttinda ríkisins til um 30 ára í senn innan ESA, svo að allir sitji við sama borð og markaðsverð fyrir réttindin séu tryggð.
Allir sjá, að íslenzk fyrirtæki standa höllum fæti á þeim markaði, einnig hin öfluga Landsvirkjun, gagnvart erlendum risum í orkuvinnslugeiranum. Afleiðingin verður, að nýtingarrétturinn til 30 ára og þar með viðkomandi virkjun lendir hjá fjársterkum erlendum einkafyrirtækjum. Slíkt er óviðunandi fyrir Íslendinga, og þessar aðfarir stríða sennilega gegn Stjórnarskrá, því að þær eru þvingaðar fram af erlendu valdi. Þessi erlendu fyrirtæki gætu sótzt eftir að margfalda uppsett afl viðkomandi virkjana, þegar búið væri að tryggja tengingu Íslands við Innri markaðinn. Auðvitað þyrftu þau leyfi Orkustofnunar og fleiri stofnana til þess, en eftir samþykkt OP#3, svo að ekki sé minnzt á "Hreinorkupakkann"-HP (OP#4), munu íslenzk yfirvöld lenda í miklu stímabraki við ESA og jafnvel fjárfestana, sem kann að enda fyrir EFTA-dómstólinum, ef þau ætla að standa í vegi fyrir leyfisveitingum til fjárfestinga í endurnýjanlegum orkulindum.
Það er einkennilegt af Birgi Ármannssyni að segja, að OP#3 fjalli ekki um sæstreng, þótt "submarine cable" komi kannski ekki upp í leitarvélinni hans. OP#3 fjallar að mestu leyti um regluverk fyrir uppbyggingu og rekstur innviða til samtengingar landa við Innri markaðinn. Það eru svo miklar yfirþjóðlegar heimildir í OP#3 til að greiða götu fjárfesta í millilandatengingum, að ólíklegt má telja, að íslenzka ríkið geti staðið í vegi slíks, ef verulegur áhugi er fyrir slíku innan ESB, eins og greinilega kom fram hjá fjölda íslenzkra lögfræðinga í umræðunni í aðdraganda innleiðingar á OP#3.
Hér mun ákæra Framkvæmdastjórnarinnar á hendur belgísku ríkisstjórninni 25.07.2019 fyrir að taka til sín endanlegt ákvörðunarvald um m.a. tengingu belgíska flutningskerfisins við útlönd verða prófmál fyrir Ísland.
Ráðuneytin UTR og ANR halda því samt fram, að engin líkindi séu með belgísku og íslenzku innleiðingunni. Að forminu til er það rétt, en að inntakinu til eiga þessar innleiðingar aðalatriðið sameiginlegt, þ.e. að draga úr völdum Landsreglara í blóra við það, sem fyrirskrifað er í OP#3. ESB-dómstóllinn setur EFTA-dómstólinum fordæmi. Þess vegna veltur á mjög miklu fyrir Ísland, hvernig dómur ESB-dómstólsins fellur. Lítilla tíðinda er að vænta af þessum vettvangi fyrr en eftir þann dóm, e.t.v. 2020.
Því miður virðast þingmenn reiða sig á matreiðslu ráðuneytanna á öllum hliðum þessa orkupakkamáls. Glöggskyggni ráðuneytisfólks hefur þó reynzt alvarlega ábótavant varðandi Evrópuréttinn, eins og "kjötmálið" sýnir, þar sem Alþingi samþykkti regluverk ESB á landbúnaðarsviði með fyrirvara, sem reyndist "húmbúkk", einskis virði, og varð landsmönnum rándýr.
10.9.2019 | 17:30
Orkumálin reka á reiðanum
Iðnaðarráðherrann, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fékk á sig réttmæta gagnrýni úr eigin kjördæmi, þ.e. frá bæjarstjórn Akraness og sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar, fyrir stefnuleysi í málefnum orkukræfs iðnaðar, í lok ágúst 2019, en þessi starfsemi á nú undir högg að sækja á Íslandi, m.a. út af háu raforkuverði.
Sannleikurinn er sá, að flestar framleiðslugreinar og þjónustugreinar í landinu berjast í bökkum, á meðan raforkuvinnslufyrirtækin, jafnvel flutningsfyrirtækið, Landsnet, græða á tá og fingri. Þetta er óeðlilegt, og sérstaklega er undarlegt, að verðlagsstefna Landsvirkjunar virtist breytast árið 2010, og síðan þá er hún ónæm gagnvart afkomu viðskiptavina sinna.
Þetta hafa allir skynjað, sem nálægt Landsvirkjun hafa komið, og vissulega hafa óánægjuraddir heyrzt, en nú eru þær komnar á nýtt stig, svo að iðnaðarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra geta ekki lengur skotið sér á bak við orkustefnunefnd og stjórn Landsvirkjunar, heldur verða að setja Landsvirkjun eigandastefnu hið fyrsta, þar sem upphafleg stefnumörkun um uppbyggingu og viðhald samkeppnishæfs atvinnulífs í landinu fær sess í þeim mæli, sem samrýmist OP#3.
Því miður er hætt við, að Landsreglarinn fetti fingur út í slíka eigandastefnu á grundvelli banns við ríkisstuðningi til atvinnurekstrar. Er þetta smjörþefurinn af erfiðleikunum, sem OP#3 á eftir að valda íslenzku atvinnulífi ?
Þann 2. september 2019 birtist frétt Jóns Birgis Eiríkssonar í Morgunblaðinu um nýjar vendingar í þessu máli undir fyrirsögninni:
"Ríkisstjórnin endurskoði stefnu sína".
Hún hófst þannig:
"Bæjarstjórn Akraness og sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar skora á ríkisstjórnina að endurskoða stefnu sína í málefnum orkukræfs iðnaðar og setja Landsvirkjun eigendastefnu án tafar.
Áskorunin var samþykkt á sameiginlegum fundi sveitarstjórnanna í síðustu viku, en þar kemur fram, að fundurinn hafi verið haldinn vegna "þeirrar alvarlegu stöðu, sem upp er komin í atvinnumálum á Grundartanga og leitt getur til verulegs samdráttar í starfsemi orkukræfs iðnaðar og fækkunar starfa".
Fram kemur í áskoruninni, að rekstrarumhverfi þessa iðnaðar á Íslandi hafi versnað til muna, og það samkeppnisforskot, sem hér hafi verið í orkuverði, sé nú algerlega horfið. Kjörnir fulltrúar á svæðinu kalli eftir svörum um, hver hafi tekið ákvörðun um þessa stefnubreytingu og á hvaða vettvangi hún hafi verið tekin."
Hér fer ekkert á milli mála. Landsvirkjun hefur gengið fram af offorsi, ekkert tillit tekið til þess, að umsamið raforkuverð skyldi styrkja samkeppnisstöðu fyrirtækjanna á alþjóðlegum markaði, eins og hún jafnan gerði fyrrum tíð. Ráðherra iðnaðar hefur ekki farið ofan í saumana á nýjustu orkusamningunum með þetta í huga og á sennilega óhægt um vik vegna ESA-Eftirlitsstofnunar EFTA, sem hefur tekið sér það hlutverk frá 2003. Eðlilega er samt spurt um eigandastefnu Landsvirkjunar, og hvernig stefnubreyting Landsvirkjunar sé komin undir. Hver veit, nema hana megi rekja allt aftur til OP#1 (2003) ?
Hér sjáum við svart á hvítu, að Landsvirkjun er á rangri braut með verðlagsstefnu sína og er komin yfir þolmörk íslenzks atvinnulífs. Rétt viðbrögð eru þá að taka skref til baka og endursemja til að tryggja framtíð fyrirtækjanna og afkomuöryggi þeirra, sem þar vinna, beint og óbeint. Einnig ætti hún að eiga frumkvæði að lækkun heildsöluverðs á almennum markaði. Sé einhver samkeppni virk, koma hin fyrirtækin á eftir.
Nú er hins vegar komið babb í bátinn. Alþingi hefur innleitt OP#3, og eftir það er Landsreglarinn (undir ESA/ACER) innsti koppur í búri orkumálanna og ráðherrarnir í aukahlutverkum. Það ber vissulega keim af fullveldisframsali, ef ráðherra getur ekki haft áhrif á verðlagsstefnu ríkisfyrirtækja með útgáfu eigandastefnu, sem ríkisstjórnin samþykkir.
Þetta er smjörþefurinn af því, sem koma skal, þ.e. verðhækkanir á rafmagni, sem ógna tilveru fyrirtækja og afkomu heimila. Stjórnvöld klumsa í eigin landi. Innleiddu orkupakka með neytendavernd á vörunum. Hvílíkir stjórnarhættir. O, sancta simplicitas.