Færsluflokkur: Evrópumál
30.9.2019 | 11:28
Fjaðrafok út af ECT
Það varð töluverður ys og þys út af engu í viku 38/2019, þegar vefmiðill nokkur tók af óþekktum ástæðum að bera saman alþjóðlegan sáttmála, "Energy Charter Treaty" og Orkupakka 3 (OP#3). Eins og sjá má í viðhengi með þessari vefgrein, er þarna ólíku saman að jafna.
Engu var líkara en með þessu upphlaupi hafi átt að koma höggi á Miðflokkinn vegna þess, að formaður og varaformaður hans gegndu stöðum forsætisráðherra og utanríkisráðherra, þegar Ísland gerðist aðili að þessum alþjóðlega sáttmála, þar sem jafnvel Sviss á aðild. Potturinn og pannan í þessu máli hefur hins vegar væntanlega verið fagráðherrann, ráðherra orkumála, iðnaðarráðherrann Ragnheiður Elín Árnadóttir, ráðherra Sjálfstæðisflokksins.
Utanríkisráðherra kemur hins vegar að öllum slíkum samningum við erlend ríki, og hann undirritaði fyrir Íslands hönd, og dr Ólafur Ragnar Grímsson, fullgilti þennan samning. Það er athyglisvert í þessu sambandi, að Norðmenn, sem búa yfir gríðarlegum orkulindum, eru aðilar að samninginum, en hafa enn ekki fullgilt hann.
Það er jafnframt athyglisvert, hversu litla þinglega meðferð samningar af þessu tagi fá. Látið er duga að kynna mál, sem ekki þarfnast lagabreytingar og ekki fela í sér fjárhagsskuldbindingar, í utanríkismálanefnd, ef þá svo mikið er viðhaft. Leikmanni virðist eðlilegra, að samnin sé þingsályktunartillaga og fjallað um hana í þinginu, en Skrifstofa Alþingis hefur staðfest, að við afgreiðslu ECT var alls ekki brugðið út af vananum, eins og þó hefur verið látið liggja að.
Hvers vegna var talið rétt, að Ísland gerðist aðili að ECT ? Líklegast er, að þrýstingur hafi verið á það að hálfu íslenzkra fyrirtækja, sem stunda fjárfestingar, rannsóknir, ráðgjöf og verktöku, utan EES, t.d. í Þriðja heiminum, svo kallaða, þar sem eignarréttur og lagarammi um framkvæmdir er með öðrum hætti en hérlendis. Íslenzk fyrirtæki hafa t.d. stundað starfsemi í Afríku og Asíu á sviði jarðhitanýtingar, og þeim gæti gagnazt ECT, ef í harðbakka slær.
ECT var vissulega hugsaður til að hvetja til orkuflutninga yfir landamæri, eins og OP#3, en lengra nær samanburðurinn ekki. Það er fátt annað sameiginlegt með þessum tveimur gjörningum, og þess vegna fánýtt að taka að sér að bera saman þessa tvo gjörninga. Annar er sáttmáli jafnrétthárra þjóða um fjárfestingar í orkugeiranum og meðferð ágreiningsmála, sem þær kunna að leiða af sér, en hinn er samningur með yfirþjóðlegu sniði, þar sem víðtæk völd eru veitt embætti (Landsreglara), sem fært er undir ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) og ACER - Orkustofnun ESB, sem er undir stjórn Framkvæmdastjórnar ESB, sjá nánar viðauka með þessum pistli.
26.9.2019 | 13:24
Af sæstrengjum Noregs og Íslands
Þann 31. ágúst 2019 skrifaði Hjörtur J. Guðmundsson stutta frétt í prentútgáfu Morgunblaðsins undir fyrirsögninni:
"Vonast eftir stuðningi við sæstreng".
Þar gaf m.a. á að líta eftirfarandi:
"Formlegar samningaviðræður um formlegan stuðning ríkisstjórna bæði Íslands og Bretlands eru að sögn talsmannsins [fyrir Atlantic SuperConnection] á meðal þess, sem vantar til þess að þróa verkefnið áfram. Spurður, hvar verkefnið væri statt, sagði talsmaðurinn, að Atlantic SuperConnection væri enn áhugasamt um verkefnið. Færi svo, að Bretland myndi yfirgefa Evrópusambandið og orkumálaumgerð þess [ACER og Orkusamband Evrópu] í lok október, eins og gert væri ráð fyrir, væri vonazt til þess , að virkt samtal gæti hafizt skömmu eftir það varðandi það að fá formlegan stuðning."
Til er annar fjölþjóðlegur orkusamningur en Orkupakki #3 (OP#3) Evrópusambandsins (ESB), sem nú hefur hlotið fullgildingu í EFTA-löndum EES líka. Sá heitir "Energy Charter Treaty" - ECT, og var hann samþykktur að Íslands hálfu 1994 og fullgiltur á Íslandi árið 2015, þegar Sjálfstæðisflokkurinn fór með orkumálin, eins og núna. (Noregur hefur ekki fullgilt samninginn af einhverjum ástæðum.) Umræddur ráðherra iðnaðar og nýsköpunar 2015 heitir Ragnheiður Elín Árnadóttir (23.05.2013-11.01.2017).
Sagt er, að á grundvelli ECT hafi fjárfestar höfðað skaðabótamál á hendur ríkisstjórnum og haft nokkuð upp úr krafsinu. Það er þá á grundvelli þjóðaréttar, en ekki landsréttar, því að að ECT felur hvorki í sér lagalegar né fjárhagslegar skuldbindingar, eins og OP#3 gerir, og ekkert framsal ríkisvalds. Ef ECT er varasamur, þá er OP#3 stórhættulegur. ECT getur auðvitað orðið samningsumgjörð um sæstreng til Bretlands eftir BREXIT, og hann getur verið íslenzkum fjárfestum, verktökum og ráðgjöfum hjálplegur við starfsemi þeirra utan EES, t.d. við jarðhitaverkefni í Afríku og Asíu. Fjórfrelsisreglur EES og OP#3 ættu að gera notkun ECT innan EES óþarfa.
Sá er einmitt reginmunurinn á ECT og OP#3, að ECT er uppsegjanlegur, en OP#3 ekki (nema segja upp EES-samninginum). Það er hins vegar ólíklegt, að ACER leyfi orkutengingu við Bretland, ef Bretland gengur úr ACER. ACER vill fá íslenzka raforku inn á Innri markað ESB, og gæti þá beitt sér til að beina "Icelink" verkefninu til Írlands og tengt síðan Írland með öflugum hætti við meginlandið, svo að dæmi sé tekið.
Einhver erlendur stjórnmálamaður nefndi, að Íslendingar ættu að sjá Dönum fyrir kolefnisfríu rafmagni. Það væri þó að bera í bakkafullan lækinn, því að nú þegar selja Norðmenn Dönum rafmagn á daginn um 4 sæstrengi og kaupa til baka á nóttunni á tiltölulega hagstæðu verði.
Samt hefur Statnett (norska Landsnet) talið rétt að tengja Noreg við enn stærri markaði,framhjá Danmörku,því að fyrirtækið lagði sæstreng til Hollands fyrir nokkrum árum og er að leggja einn til Þýzkalands og annan til Englands. Einkafyrirtækið NorthConnect hefur sótt um leyfi til að leggja samnefndan sæstreng á milli Skotlands og Noregs með um 1400 MW flutningsgetu og áætlaðan orkuflutning um 10 TWh/ár. Landsreglari Bretlands hefur nú samþykkt umsókn NorthConnect um þennan streng, og Orkustofnun Noregs, NVE, mun fljótlega afgreiða umsóknina frá sér. Búizt er við, að hún muni samþykkja umsóknina, í blóra við vilja fjölmargra umsagnaraðila í Noregi, þ.á.m. Statnett, sem óttast gríðarlegar raforkuverðhækkanir í Noregi með NorthConnect, því að hann muni þurrka upp allan varaorkuforða í miðlunarlónum Noregs.
Ef landsreglarar Bretlands og Noregs verða ósammála um NorthConnect, sker ACER úr. Kannski mun BREXIT skera Norðmenn úr snöru OP#3 í þetta sinn. NorthConnect verður áreiðanlega mikið hitamál í Noregi og mun skerpa línurnar í komandi baráttu fyrir Stórþingskosningarnar eftir 2 ár. Verður lærdómsríkt fyrir Íslendinga að fylgjast með þessum átökum í Noregi um NorthConnect og að fylgjast með efnahagslegum áhrifum af tengingu þeirra tveggja stóru millilandasæstrengja, sem Statnett er nú með á framkvæmdastigi.
Atlantic SuperConnection þykist hafa varið stórfé til undirbúnings sæstrengs frá Englandi til Íslands. Þar gætu búið að baki áform um að kæra stjórnvöld hérlendis fyrir óeðlilegar tafir á afgreiðslu sæstrengsmálsins á grundvelli OP#3 fyrir BREXIT eða ECT eftir BREXIT. Þar kemur þó ekki einvörðungu til álita útlagður kostnaður, heldur ekki síður tapaðar tekjur í framtíðinni, svo að hér getur orðið um háar fjárhæðir að tefla við Edmund Truell, sem ekki kallar allt ömmu sína. Þessa áhættu þarf að vega og meta á móti hugsanlegum ávinningi Íslendinga af ECT, sem hér hefur verið drepið á.
"Hann sagði, að í heildina hefði rúmlega MGBP 10 verið varið í fýsileikaathugun sæstrengsins og raflínuverksmiðju [sæstrengsverksmiðju].
Talsmaðurinn sagði aðspurður, að þeir, sem færu fyrir verkefninu, hefðu verið í sambandi við íslenzka ráðherra og stjórnmálamenn snemma á síðasta ári."
Það er athyglisvert, hversu mikla áherzlu Atlantic SuperConnection (ASC) leggur á samskipti við stjórnmálamenn í báðum löndum. Fyrirtækið virðist ætla að sækja í sjóði þeirra, t.d. byggðasjóð á Englandi, þar sem ládeyða hefur um langa hríð hrjáð Norð-Austur England, þar sem ASC fyrirhugar að reisa sæstrengsverksmiðju og síðan að hefja lagningu sæstrengs þaðan og til Íslands. ASC virðist líka sækjast eftir því, að brezka ríkisstjórnin greiði niður kostnað raforku frá Íslandi, sem flutt er frá Íslandi, á þeirri forsendu, að hún sé kolefnisfrí. Þessar væntingar standa á brauðfótum.
Markaðskerfi ESB (Innri markaður raforku) felur í sér, að öll raforka fari á markaðstorgið, einnig sú, sem send er á milli landa. Hjá ESB sjá menn hlutverk Íslands og Noregs í raforkuviðskiptum á þessum vettvangi fólgið í því að fylla upp í framboðslægðirnar, sem myndast þá daga, þegar margar vindmyllna Evrópu í senn hægja á sér. Þá geta vatnsorkuver landanna hlaupið fyrirvaralítið undir bagga. Skilyrði er auðvitað, að nóg vatn sé í miðlunarlónunum og ríkulegt afl til reiðu. Á Íslandi skortir mikið á, að fyrir hendi sé mikið afgangsafl eða -orka, af því að álagið er fremur jafnt allan sólarhringinn, allan ársins hring. Þess vegna þarf fyrst að fjárfesta mjög mikið í nýjum eða stækkuðum stöðvarhúsum með viðbótar vél- og rafbúnaði.
Miðlunargetuna þyrfti ekki að auka mikið, því að hugmyndin er sú að snúa orkustefnunni við, þegar nægur fjöldi vindmyllna er tekinn að snúast eðlilega aftur. Þá kaupir Ísland raforku að utan og safnar þannig vatni á ný í lónin. Verðmismunurinn er mikill, en flutningskostnaðurinn tiltölulega hár. Aukið uppsett afl kallar á miklar fjárfestingar, sem enduspeglast munu í rafmagnsverðinu, einnig innanlands. Það mun þess vegna hækka við þessar aðfarir, og rennsli viðkomandi áa verða óstöðugt.
Þessi mikla fjárþörf í vatnsvirkjanageiranum getur skýrt áherzlu Framkvæmdastjórnarinnar á það, að orkunýtingarleyfin skipti um hendur og í stað ríkisfyrirtækja komi fjársterk einkafyrirtæki með fjárfestingarvilja og getu.
22.9.2019 | 11:31
Um fullveldisrétt og nýtingu orkulinda
Líklega þykir mörgum hérlandsmönnum, að það sé fullveldisréttur ríkisins að ráða því, hvernig stjórnvöld, þ.e. ríkisstjórn á grundvelli laga frá Alþingi, haga úthlutun leyfa til nýtingar á orkulindum til raforkuvinnslu hérlendis. Þetta er þó ekki lengur alfarið svo, því að ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) krafðist þess með úrskurði nr 075/16/COL, dags. 20.04.2016, að ákvæðum EES-samningsins, sem banna ríkisstuðning til fyrirtækja á samkeppnismarkaði, yrði fullnægt. M.ö.o. takmarkar EES-samningurinn fullveldisréttinn til nýtingar orkulinda á Íslandi. Fullyrðingar flautaþyrla um, að EES-samningurinn snerti ekki orkulindirnar, eru út í loftið.
Fyrsta bréfið þessu lútandi fór frá ESA 14.10.2008, þegar Íslendingar voru í sárum eftir hrun bankakerfisins, enda fór fyrsta svarbréfið af mörgum við fyrirspurnum ESA ekki fyrr en meira en ári síðar, 04.12.2009. Með bréfi, dags. 05.10.2015, tilkynnti ESA síðan ríkisstjórninni, eftir athugun sína, að stofnunin teldi íslenzka fyrirkomulagið um téðar leyfisveitingar jafngilda ríkisaðstoð, sem stangaðist á við EES-samninginum. Viðræður fóru fram á milli aðila, en niðurstaðan varð engu að síður Íslandi mjög í óhag, því að ESA kvað upp eftirfarandi úrskurð:
"Með úrskurði nr 75/16/COL þann 20. apríl 2016 komst Stofnunin [ESA] að þeirri niðurstöðu, að framkvæmd íslenzkra yfirvalda við úthlutun til raforkuvinnslufyrirtækja á leyfum til afnota á þjóðlendum, á ríkislandi og náttúruauðlindum þar, án þess að fyrir hendi sé greinileg lagaleg krafa um að greiða markaðstengt afnotagjald og án nokkurra ítarlegra ákvæða um ákvörðun markaðsverðsins á grundvelli gegnsærrar aðferðarfræði, feli í sér gildandi fyrirkomulag ríkisaðstoðar, sem er ósamrýmanleg virkni EES-samningsins."
Í flestum ríkjum er það viðkvæmt mál, hvernig ríkisvaldið hagar afnotum náttúruauðlinda í sinni eigu. Það er víðast hvar talið til fullveldisréttar hvers ríkis að ákveða skipan þessara mála, en framkvæmdastjórn ESB hefur lengi verið á öðru máli, eins og sameiginleg fiskveiðistefna Sambandsins er skýrt dæmi um. Trú köllun sinni hefur Framkvæmdastjórnin allt aftur til 1990 rekið þá stefnu gagnvart vatnsorkulöndum í Sambandinu, t.d. Frakklandi, að úthlutunartímann ætti að miða við þarfir einkafyrirtækja til afskrifta á slíkum fjárfestingum (um 30 ár) og að þau yrðu að sitja við sama borð og ríkisorkufyrirtækin við þessa úthlutun. Árið 2008 hóf spegilmynd Framkvæmdastjórnarinnar EFTA-megin, ESA, ferlið, sem leiddi til sams konar úrskurðar árið 2016 og Framkvæmdastjórnin hafði áður fellt.
Í úrskurði sínum, 075/16/COL (sjá viðhengi), ráðlagði ESA ríkisstjórninni að taka eftirfarandi 4 skref til að tryggja, að úthlutun orkunýtingarréttinda á orkulindum ríkisins fæli ekki í sér ríkisstuðning:
- "Íslenzk yfirvöld skulu tryggja, að fyrir hendi verði lagaleg skuldbinding allra greina hins opinbera á Íslandi (þ.e. sérstaklega á ríkisstjórninni, sveitarfélögum og fyrirtækjum í opinberri eigu), að hvers konar réttindaframsal til að nýta þjóðlendu, ríkisland og náttúruauðlindir þar (náttúruauðlindir í opinberri eigu) til raforkuvinnslu, fari fram á markaðsforsendum, og að þar af leiðandi sé slíkt framsal skilyrt við, að hæfileg greiðsla verði innt af hendi.
- Íslenzk yfirvöld skulu tryggja, að allir rekstraraðilar, hvort sem þeir eru í ríkiseign eða ekki, fái sams konar meðhöndlun hvað varðar hæfilega greiðslu fyrir réttindin til að nýta opinberar náttúruauðlindir til raforkuvinnslu.
- Íslenzk stjórnvöld skulu tryggja, að skýr og auðsæ aðferðarfræði sé lögð til grundvallar verðlagningunni á réttinum til að nýta opinberar náttúruauðlindir til raforkuvinnslu.
- Íslenzk stjórnvöld skulu endurskoða alla núverandi samninga til að tryggja, að raforkuvinnslufyrirtæki greiði hæfilegt gjald fyrir það, sem eftir lifir samningstímabilsins."
Þá var tekið fram í úrskurði 75/16/COL, gr. 2,
að "Stofnunin mælti með því, að íslenzk yfirvöld gerðu nauðsynlegar löggjafar-, stjórnkerfis- og aðrar ráðstafanir í því augnamiði að uppræta f.o.m. 1. janúar 2017 alla ósamrýmanlega aðstoð af ástæðum, sem úrskurðurinn spannar."
Síðan gerist það ótrúlega 19. maí 2016, að íslenzka ríkisstjórnin sendir bréf til ESA, þar sem hún samþykkir allar kröfurnar, sem settar voru fram í úrskurði 075/16/COL. Með bréfi 15. desember 2016 til ESA tilkynnti íslenzka ríkisstjórnin ennfremur, að hún myndi verða búin að koma þessu í kring 30. júní 2017 og að breytingar á gildandi leyfisveitingum myndu taka gildi 1. janúar 2017 á þeim degi, sem ESA hafði krafizt í úrskurðinum, að allt yrði frágengið. Íslenzk stjórnvöld höfðu Alþingiskosningar 2016 sem skálkaskjól fyrir hálfsárs drætti, en er þetta komið til framkvæmda enn ? Á þessum grundvelli kvað ESA upp annan úrskurð, þ.e. nr 010/17/COL (sjá viðhengi), dags. 25. janúar 2017, um lúkningu þessa máls að sinni hálfu.
Allt fór þetta afar hljótt á Íslandi, þótt um stórmál væri að ræða, og enn eru engar spurnir af efndum. Eru virkjanafyrirtækin farin að greiða markaðsverð fyrir nýtingarrétt af orkulindum í eigu hins opinbera ? Sitja allir við sama borð nú við úthlutun slíkra leyfa, og gildir það jafnræði innan EES ? Hefur lögum og reglum verið breytt til að grundvalla þessar aðgerðir á. Nei, það hefur enn ekkert gerzt í þessu máli, svo að það sætir furðu, að ESA skuli ekki reka upp hvein. Nú hefur iðnaðarráðherra reyndar boðað þingmál á 150. þinginu um þetta mál. Ef þar á að fullnægja kröfum ESA, mun verða hart tekizt á um það.
Það er ekki hægt að reka stjórnsýslu til frambúðar á Íslandi þannig, að farið sé með samskiptin á milli ríkisstjórnarinnar og ESA sem mannsmorð. Öðru vísi er þessu háttað t.d. í Noregi. Þar er allt þessu viðvíkjandi uppi á borðum, og norska ríkisstjórnin hefur harðlega mótmælt því, að ESA eigi nokkurn íhlutunarrétt um úthlutun leyfa til nýtingar orkulinda Noregs:
Þeir ráðherrar, sem væntanlega hafa tekið ákvörðun um þessa uppgjöf fyrir ESA, voru:
- Forsætisráðherra 07.04.2016-11.01.2017: Sigurður Ingi Jóhannsson
- Utanríkisráðherra 08.04.2016-11.01.2017: Lilja Alfreðsdóttir
- Orku-og iðnaðarráðherra: 23.05.2013-11.01.2017: Ragnheiður Elín Árnadóttir
Þarna kemur Framsóknarflokkurinn greinilega mjög við sögu, og skýtur það óneitanlega skökku við stefnu flokksins og orðskrúðið um að standa vörð um hagsmuni Íslands gagnvart Evrópusambandinu, t.d. í "kjötmálinu" s.k. (innflutningur á ófrosnu kjöti og ógerilsneyddri mjólk og eggjum í blóra við vilja Alþingis, en samkvæmt dómi EFTA-dómstólsins). Þegar til stykkisins kemur, er lyppast niður án þess að bregða skildi á loft, nákvæmlega eins og í "orkupakkamálinu" (OP#3).
Evrópumál | Breytt 23.9.2019 kl. 20:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.9.2019 | 14:12
Orkumál í höftum
Það kom fram í frétt Morgunblaðsins 6. september 2019, "Minni raforkunotkun", að raforkunotkun 2018 hefði orðið 1,4 % minni en spáð var. Stafar það aðallega af minni raforkunotkun stóriðjunnar en búizt var við, þegar gildandi Orkuspá var samin, 2015. Ástæðurnar eru bæði tæknilegir rekstrarörðugleikar og lélegur markaður.
Þetta er umhugsunarefni í ljósi þess, að Landsnet hefur tilkynnt, að þar á bæ sé búizt við aflskorti þegar veturinn 2020, þótt ekki sé það öruggt, og Orkustofnun sér fram á orkuskort á næstu árum (sem kemur fyrst fram sem aflskortur). Ef hagur strympu braggast í iðnaðinum, má búast við mjög kostnaðarsömum afl- og orkuskerðingum á næstu árum, því að fátt er um feita drætti á virkjanasviðinu núna. Slíkt ástand hefur neikvæð áhrif á allt hagkerfið og dregur úr hagvexti.
Þetta ástand léttir ekki undir með landsmönnum í orkuskiptunum, því að hækkað orkuverð er undanfari og fylgifiskur orkuskorts í markaðskerfi og aukin óvissa um afhendingu raforku gerir orkuskiptin ófýsilegri. Deyfð orkuráðherra og skeytingarleysi um hagsmuni neytenda í þessum efnum vekur undrun. Hvers vegna er ekki hvatt til frekari virkjana, úr því að markaðurinn veitir fyrirtækjunum ekki nægan hvata ?
Sannleikurinn er sá, að orkulöggjöf Evrópusambandsins (ESB) hefur virkað illa hér á landi og þarf engan að undra. Hún hefur hækkað verðið til fjölskyldna að raungildi um 7 % - 8 %, á sama tíma og þjóðin hefði sennilega farið að njóta ávaxtanna af eignum sínum í raforkugeiranum vegna skuldalækkunar hans með lækkun raunraforkuverðs, ef ekki hefði verið tekin sú misráðna ákvörðun 1999 og jafnvel fyrr að planta "aðskotadýri" inn í íslenzka orkulöggjöf, sem getur reyndar virkað vel við réttar aðstæður, en þetta "aðskotadýr" er ekki sniðið fyrir íslenzkar aðstæður. Þess vegna ganga orkumálin á afturfótunum hér, þótt orkuráðherra virðist af greinaskrifum sínum að dæma halda annað.
Birgir Þórarinsson, sem var ræðukóngur 149. löggjafarþingsins, skrifaði grein í Bændablaðið 29. ágúst 2019 undir heitinu:
"Orkupakkar hækka raforkuverð".
Þessi fyrirsögn felur í sér staðreynd, sem leidd var í ljós með skýrslu Orkunnar okkar, 16.08.2019. Ályktunin, sem draga ber af þessari staðreynd er sú, að orkulöggjöf ESB, innleidd í íslenzkt umhverfi, hlýtur falleinkunn. Samkeppnin er ekki næg hérlendis til að vega upp á móti þeim kostnaðarauka, sem uppskipting raforkugeirans leiddi af sér. Yfirbyggingin mun bara vaxa með fleiri orkupökkum og óhagræðið sömuleiðis. Verðhækkanir rafmagns umfram verðlag munu vaxa með OP#3 og OP#4 (Hreinorkupakkanum) og um þverbak mun keyra, verði landið tengt Innri markaðinum um sæstreng.
Af þessum sökum ættu stjórnvöld að fitja upp á því, að Ísland fái algera undanþágu frá öllum orkupökkunum frá ESB. Þetta væri ágætisumræðuefni í næstu kosningabaráttu. Einnig mætti spyrja þjóðina að þessu beint í atkvæðagreiðslu samhliða næstu þingkosningum.
Hluta rakanna fyrir þessari stefnubreytingu er að finna í ofannefndri grein Birgis Þórarinssonar, sem hér verður vitnað í:
"Þeir, sem hafa fundið einna mest fyrir hækkun á raforkuverði vegna innleiðingar orkupakka ESB, er það fólk, sem býr á köldum svæðum á Íslandi.
Tveimur árum eftir, að fyrsti orkupakkinn var innleiddur, hafði raforkuverð til húshitunar á veitusvæði Hitaveitu Suðurnesja (nú HS Orku) hækkað á bilinu 74 % - 96 %. Þetta þekki ég af eigin raun, búandi á köldu svæði á Suðurnesjum.
Ástæðan var sú, að Hitaveitan niðurgreiddi sérstaklega raforku til húshitunar. Orkupakkinn stóð í vegi fyrir þessari niðurgreiðslu, og var hún því felld niður.
Maður spyr sig; hvað kom embættismönnum í Brussel það við, að raforka hafi verið sérstaklega niðurgreidd til húshitunar hér á landi ? Ég benti á þessa staðreynd í umræðu á Alþingi og var þá sakaður um að fara með rangt mál af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins.
Ég brá þá á það ráð að sýna umræddum þingmönnum gamla raforkureikninga, fyrir og eftir innleiðingu orkupakka eitt, máli mínu til stuðnings. Sló þá þögn á þingmennina, en þeir báðust ekki afsökunar á orðum sínum.
Þetta eitt og sér sýnir, að þeir þingmenn, sem styðja innleiðingu orkupakka ESB, svífast einskis í málflutningi sínum. Óskiljanlegt er, hverra erinda þeir ganga á Alþingi, og hvaða hagsmunir kunna að búa að baki.
Búast má við enn meiri hækkun á orkuverði, fari svo, að þriðji orkupakkinn verði samþykktur og áform fjárfesta um sæstreng verði að veruleika."
Hvar var hin margrómaða neytendavernd orkupakkanna, þegar um 85 % hækkun á rafmagni til húshitunar dundi á Suðurnesjamönnum ? Þetta gerist væntanlega við bókhaldslegan aðskilnað hitaveitunnar og rafveitunnar. Svipað gerðist við sundurlimun Landsvirkjunar. Hagnaði af virkjunum var fyrir sundurlimun varið til uppbyggingar flutningskerfisins. Nú þarf Landsnet að fjármagna þær fjárfestingar með lánum og gjaldskrá, allt saman neytendum í óhag. Án Evrópuréttar á þessu sviði myndi Samkeppnisstofnun gera athugasemdir við markaðsráðandi stöðu og óeðlilega samþættingu samkeppnisrekstrar (raforkuvinnslu) og einokunarstarfsemi (hitaveitu).
Reynslan sýnir, að íslenzki markaðurinn er of lítill til að uppskipting fyrirtækja í anda ESB sé hagkvæm fyrir neytendur. Í íslenzka orkukerfinu er orkuforðinn m.a. háður duttlungum náttúruaflanna, en hjá ESB sjá eldsneytismarkaðir að miklu leyti um þennan þátt. Þess vegna þarf að flétta orkulindastýringu inn í markaðsstýringu ESB hérlendis, svo að ekki fari illa. Ef stjórnvöld (Alþingi) kjósa aðgerðir í átt til jöfnunar aðstöðu fólks á svæðum án jarðhita og með jarðhita, þá er það fullveldismál að ráða því, en svo er ekki lengur, eins og fram kemur í tilvitnaðri grein.
Grein sinni lauk Birgir þannig:
"Íslendingar eru sjálfstæð þjóð í harðbýlu landi og eiga ekki að láta embættismenn í ESB ráða því, hvernig við nýtum okkar mikilvægu raforkuauðlind eða verðleggjum hana. Atkvæðagreiðslan á Alþingi um þriðja orkupakkann fer fram 2. september n.k. [2019]. Þá kemur í ljós, hvaða þingmenn standa með þjóðinni."
Hvort sem landsmenn kjósa að eiga viðskipti við útlönd um sæstreng eða ekki, er óhagstætt fyrir þá að þurfa að beygja sig undir Evrópuréttinn á sviði orkumála. Aðstæður eru hér of ólíkar þeim, sem á meginlandinu eða Bretlandi eru við lýði, til að hagfellt sé að lúta "erkibiskups boðskap" á þessu sviði. Nær væri að fylgja fordæmi höfðingja Oddaverja og fóstra Snorra Sturlusonar á 12. öld, Jóns Loftssonar:
"Heyra má ég erkibiskups boðskap, en ráðinn er ég í að hafa hann að engu."
13.9.2019 | 13:50
Skrýtin afstaða þingmanna til orkumálanna
Í Morgunblaðinu 2. september 2019 gat að líta skoðun nokkurra þingmanna á umræðunum um Orkupakka #3 (OP#3) undanfarið. Sínum augum lítur hver á silfrið, og ástæða er til að staldra við eitt dæmi:
"Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks, segir ekkert hafa komið fram undanfarið, sem gefi tilefni til annars en málið verði samþykkt, eins og stefnt hafi verið að. Birgir telur, að umræða um stefnumótun í orkumálum haldi áfram í framhaldinu. "Mörg af þeim atriðum, sem andstæðingar orkupakkans hafa haldið á lofti, tengjast annarri stefnumótun en þeirri, sem felst í þriðja orkupakkanum sjálfum", segir hann og nefnir, að þar sé t.d. ekki fjallað um eignarhald á orkuauðlindum og -fyrirtækjum og ekki um lagningu sæstrengs."
Með samþykkt Alþingis á OP#3 er Ísland gengið í Orkusamband Evrópu (Energy Union of Europe), sem stjórnað er af framkvæmdastjórn ESB. Þar með hefur Alþingi gert orkustefnu ESB að orkustefnu Íslands varðandi rafmagn (ekki jarðgas). Þeir þingmenn (stjórnarliðsins) eru að vísu til, sem halda því fram, að Orkusamband Evrópu sé ekki til, en þeir ættu að kynna sér málin betur áður en þeir túðra út í loftið:
Í orkustefnu ESB er kveðið á um, að öll aðildarlöndin skuli tengjast Innri orkumarkaðinum. Á honum fara viðskipti fram í orkukauphöllum, og þess vegna þarf Ísland að taka upp markaðsstýringu raforkuvinnslunnar með kostum hennar og göllum. Það verður að aðlaga íslenzka raforkumarkaðinn að t.d. Nord Pool, áður en hann tengist Innri markaði ESB fyrir raforku. Þannig er ekkert val um það, hvort markaðurinn eða t.d. hagsmunir notenda m.t.t. orkuöryggis eiga að ráða ferðinni. Það er þó fullveldisréttur Íslands að ráða þessu, en hann er brotinn með OP#3. Ekkert hefur sézt frá lagaspekingum um þessa hlið fullveldisframsals til ESB með innleiðingu OP#3. Þetta skapar lagalega óvissu (hættu á málshöfðunum) við þá framkvæmd.
Til þess að tryggja "frelsin fjögur" í framkvæmd á þessum markaði vill ESB ganga úr skugga um, að ríkisvaldið hygli ekki fyrirtækjum sínum á þessum markaði. Í því skyni er í raun reynt að ýta ríkisfyrirtækjum út af þessum markaði og reynt að fá einkafyrirtæki inn á hann í staðinn. Þar með eru líkur á, að fjárfestingarvilji í þessum geira aukist, sem er talið einkar mikilvægt varðandi vatnsorkulindina, því að vatnsorkuver geta "spilað" mjög vel með vindorkuverum, sem eru uppistaðan í orkuverum Evrópu án koltvíildislosunar. Til þess þarf hins vegar að auka mjög uppsett afl vél- og rafbúnaðar í vatnsorkuverunum, sem útheimtir mikið fé.
Við þessar aðfarir beita Framkvæmdastjórnin og ESA þremur gögnum fyrir sig gagnvart Noregi, þ.e. þjónustutilskipun 2006/123/EB, tilskipun um opinber innkaup nr 2014/23/EB og ákvæðum um athafnafrelsi í sáttmálanum um virkni ESB, TFEU, gr. 49 og 56. Þessum gögnum er hægt að beita gegn EFTA-löndunum á grundvelli EES-samningsins, en OP#3 kemur þar ekki sérstaklega við sögu. Gagnvart Íslandi var hins vegar beitt EES-samninginum, gr. 61(1) um bann við ríkisaðstoð við fyrirtæki á samkeppnismarkaði og tilskipun 2000/60/EB, sem er hluti af EES-samninginum og var innleidd hér með vatnsnýtingarlögum nr 36/2011. Verður nánari grein gerð fyrir úrskurði ESA nr 075/16/COL um brot á ákvæðinu um bann við ríkisaðstoð við úthlutun orkunýtingarréttinda í vefpistli síðar. Þar kemur fram grundvallarmunur á afstöðu íslenzkra og norskra stjórnvalda til þessara mála.
Því er haldið fram, að þessi barátta Framkvæmdastjórnarinnar og ESA jafngildi ekki kröfu um einkavæðingu vatnsorkuvirkjana. Það er hálmstrá þeirra, sem ríghalda vilja í EES-samninginn, hvað sem tautar og raular. Í reynd fara þessar stofnanir þó fram á útboð á orkunýtingarleyfum vatnsréttinda ríkisins til um 30 ára í senn innan ESA, svo að allir sitji við sama borð og markaðsverð fyrir réttindin séu tryggð.
Allir sjá, að íslenzk fyrirtæki standa höllum fæti á þeim markaði, einnig hin öfluga Landsvirkjun, gagnvart erlendum risum í orkuvinnslugeiranum. Afleiðingin verður, að nýtingarrétturinn til 30 ára og þar með viðkomandi virkjun lendir hjá fjársterkum erlendum einkafyrirtækjum. Slíkt er óviðunandi fyrir Íslendinga, og þessar aðfarir stríða sennilega gegn Stjórnarskrá, því að þær eru þvingaðar fram af erlendu valdi. Þessi erlendu fyrirtæki gætu sótzt eftir að margfalda uppsett afl viðkomandi virkjana, þegar búið væri að tryggja tengingu Íslands við Innri markaðinn. Auðvitað þyrftu þau leyfi Orkustofnunar og fleiri stofnana til þess, en eftir samþykkt OP#3, svo að ekki sé minnzt á "Hreinorkupakkann"-HP (OP#4), munu íslenzk yfirvöld lenda í miklu stímabraki við ESA og jafnvel fjárfestana, sem kann að enda fyrir EFTA-dómstólinum, ef þau ætla að standa í vegi fyrir leyfisveitingum til fjárfestinga í endurnýjanlegum orkulindum.
Það er einkennilegt af Birgi Ármannssyni að segja, að OP#3 fjalli ekki um sæstreng, þótt "submarine cable" komi kannski ekki upp í leitarvélinni hans. OP#3 fjallar að mestu leyti um regluverk fyrir uppbyggingu og rekstur innviða til samtengingar landa við Innri markaðinn. Það eru svo miklar yfirþjóðlegar heimildir í OP#3 til að greiða götu fjárfesta í millilandatengingum, að ólíklegt má telja, að íslenzka ríkið geti staðið í vegi slíks, ef verulegur áhugi er fyrir slíku innan ESB, eins og greinilega kom fram hjá fjölda íslenzkra lögfræðinga í umræðunni í aðdraganda innleiðingar á OP#3.
Hér mun ákæra Framkvæmdastjórnarinnar á hendur belgísku ríkisstjórninni 25.07.2019 fyrir að taka til sín endanlegt ákvörðunarvald um m.a. tengingu belgíska flutningskerfisins við útlönd verða prófmál fyrir Ísland.
Ráðuneytin UTR og ANR halda því samt fram, að engin líkindi séu með belgísku og íslenzku innleiðingunni. Að forminu til er það rétt, en að inntakinu til eiga þessar innleiðingar aðalatriðið sameiginlegt, þ.e. að draga úr völdum Landsreglara í blóra við það, sem fyrirskrifað er í OP#3. ESB-dómstóllinn setur EFTA-dómstólinum fordæmi. Þess vegna veltur á mjög miklu fyrir Ísland, hvernig dómur ESB-dómstólsins fellur. Lítilla tíðinda er að vænta af þessum vettvangi fyrr en eftir þann dóm, e.t.v. 2020.
Því miður virðast þingmenn reiða sig á matreiðslu ráðuneytanna á öllum hliðum þessa orkupakkamáls. Glöggskyggni ráðuneytisfólks hefur þó reynzt alvarlega ábótavant varðandi Evrópuréttinn, eins og "kjötmálið" sýnir, þar sem Alþingi samþykkti regluverk ESB á landbúnaðarsviði með fyrirvara, sem reyndist "húmbúkk", einskis virði, og varð landsmönnum rándýr.
10.9.2019 | 17:30
Orkumálin reka á reiðanum
Iðnaðarráðherrann, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fékk á sig réttmæta gagnrýni úr eigin kjördæmi, þ.e. frá bæjarstjórn Akraness og sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar, fyrir stefnuleysi í málefnum orkukræfs iðnaðar, í lok ágúst 2019, en þessi starfsemi á nú undir högg að sækja á Íslandi, m.a. út af háu raforkuverði.
Sannleikurinn er sá, að flestar framleiðslugreinar og þjónustugreinar í landinu berjast í bökkum, á meðan raforkuvinnslufyrirtækin, jafnvel flutningsfyrirtækið, Landsnet, græða á tá og fingri. Þetta er óeðlilegt, og sérstaklega er undarlegt, að verðlagsstefna Landsvirkjunar virtist breytast árið 2010, og síðan þá er hún ónæm gagnvart afkomu viðskiptavina sinna.
Þetta hafa allir skynjað, sem nálægt Landsvirkjun hafa komið, og vissulega hafa óánægjuraddir heyrzt, en nú eru þær komnar á nýtt stig, svo að iðnaðarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra geta ekki lengur skotið sér á bak við orkustefnunefnd og stjórn Landsvirkjunar, heldur verða að setja Landsvirkjun eigandastefnu hið fyrsta, þar sem upphafleg stefnumörkun um uppbyggingu og viðhald samkeppnishæfs atvinnulífs í landinu fær sess í þeim mæli, sem samrýmist OP#3.
Því miður er hætt við, að Landsreglarinn fetti fingur út í slíka eigandastefnu á grundvelli banns við ríkisstuðningi til atvinnurekstrar. Er þetta smjörþefurinn af erfiðleikunum, sem OP#3 á eftir að valda íslenzku atvinnulífi ?
Þann 2. september 2019 birtist frétt Jóns Birgis Eiríkssonar í Morgunblaðinu um nýjar vendingar í þessu máli undir fyrirsögninni:
"Ríkisstjórnin endurskoði stefnu sína".
Hún hófst þannig:
"Bæjarstjórn Akraness og sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar skora á ríkisstjórnina að endurskoða stefnu sína í málefnum orkukræfs iðnaðar og setja Landsvirkjun eigendastefnu án tafar.
Áskorunin var samþykkt á sameiginlegum fundi sveitarstjórnanna í síðustu viku, en þar kemur fram, að fundurinn hafi verið haldinn vegna "þeirrar alvarlegu stöðu, sem upp er komin í atvinnumálum á Grundartanga og leitt getur til verulegs samdráttar í starfsemi orkukræfs iðnaðar og fækkunar starfa".
Fram kemur í áskoruninni, að rekstrarumhverfi þessa iðnaðar á Íslandi hafi versnað til muna, og það samkeppnisforskot, sem hér hafi verið í orkuverði, sé nú algerlega horfið. Kjörnir fulltrúar á svæðinu kalli eftir svörum um, hver hafi tekið ákvörðun um þessa stefnubreytingu og á hvaða vettvangi hún hafi verið tekin."
Hér fer ekkert á milli mála. Landsvirkjun hefur gengið fram af offorsi, ekkert tillit tekið til þess, að umsamið raforkuverð skyldi styrkja samkeppnisstöðu fyrirtækjanna á alþjóðlegum markaði, eins og hún jafnan gerði fyrrum tíð. Ráðherra iðnaðar hefur ekki farið ofan í saumana á nýjustu orkusamningunum með þetta í huga og á sennilega óhægt um vik vegna ESA-Eftirlitsstofnunar EFTA, sem hefur tekið sér það hlutverk frá 2003. Eðlilega er samt spurt um eigandastefnu Landsvirkjunar, og hvernig stefnubreyting Landsvirkjunar sé komin undir. Hver veit, nema hana megi rekja allt aftur til OP#1 (2003) ?
Hér sjáum við svart á hvítu, að Landsvirkjun er á rangri braut með verðlagsstefnu sína og er komin yfir þolmörk íslenzks atvinnulífs. Rétt viðbrögð eru þá að taka skref til baka og endursemja til að tryggja framtíð fyrirtækjanna og afkomuöryggi þeirra, sem þar vinna, beint og óbeint. Einnig ætti hún að eiga frumkvæði að lækkun heildsöluverðs á almennum markaði. Sé einhver samkeppni virk, koma hin fyrirtækin á eftir.
Nú er hins vegar komið babb í bátinn. Alþingi hefur innleitt OP#3, og eftir það er Landsreglarinn (undir ESA/ACER) innsti koppur í búri orkumálanna og ráðherrarnir í aukahlutverkum. Það ber vissulega keim af fullveldisframsali, ef ráðherra getur ekki haft áhrif á verðlagsstefnu ríkisfyrirtækja með útgáfu eigandastefnu, sem ríkisstjórnin samþykkir.
Þetta er smjörþefurinn af því, sem koma skal, þ.e. verðhækkanir á rafmagni, sem ógna tilveru fyrirtækja og afkomu heimila. Stjórnvöld klumsa í eigin landi. Innleiddu orkupakka með neytendavernd á vörunum. Hvílíkir stjórnarhættir. O, sancta simplicitas.
7.9.2019 | 15:03
Lísa í undralandi orkunnar
Þær eru margar Lísurnar, sem hreiðrað hafa um sig í undralandi orkumálanna og tjá sig nákvæmlega samkvæmt því að vera staddar í gerviveröld embættis- og stjórnmálamanna, sem átta sig ekki á orkustefnu Evrópusambandsins (ESB) og orkulöggjöfinni, sem þeim er gert að innbyrða í sneiðum, s.k. orkupökkum.
Eina birtingarmynd þessa hugarheims gat að líta í Fréttablaðsgrein Bryndísar Haraldsdóttur, Alþingismanns sjálfstæðismanna í "Kraganum", 30. ágúst 2019,
"Betri raforkumarkaður":
Greinin hófst þannig:
"Frá gildistöku EES-samningsins árið 1994 hafa átt sér stað gríðarlegar breytingar og framfarir í orkumálum hér á landi."
Þessi hástemmda lýsing er rétt, en þessi þróun varð án atbeina EES-samningsins. Árið 1996 var hafizt handa við að reisa kerskála 3 og að stækka raforkukerfi ISAL fyrir hann og fleiri ofna í steypuskála. Samtímis hófst Landsvirkjun handa við Sultartangastöð, og í kjölfarið kom Norðurál og Vatnsfellsstöð. Árið 2007 var Fljótsdalsstöð, stærsta virkjun landsins, 690 MW, 5000 GWh/ár, tekin í notkun ásamt álveri Alcoa, Fjarðaáli, á Reyðarfirði.
Hafizt var handa við allar þessar virkjanir og viðreigandi flutningsmannvirki á grundvelli orkusölusamninga við engilsaxnesk fyrirtæki með heimilisfesti utan EES. Tollfrjáls aðgangur fyrir ál til ESB var þegar tryggður með viðskiptasamningi Íslands og ESB frá 1973, svo að EES-samningurinn kom ekkert við sögu þessa mikla framfaraskeiðs í iðnvæðingu Íslands. Það er alveg út í hött að tengja uppbyggingu íslenzka raforkukerfisins, sem nú er hið langstærsta m.v. íbúafjölda, við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Tiltölulega litlar fjárfestingar hafa komið þaðan hingað til, hvað sem síðar verður.
"Um leið og ný lög tóku gildi [2003], tók uppbygging raforkumarkaðar á Íslandi mið af reglum EES-svæðisins og um leið innri markaðar Evrópusambandsins og hefur gert allar götur síðan. Ákvörðun var tekin um, að vinnsla og sala raforku yrði í markaðskerfi, á samkeppnisgrundvelli - sem er í anda sjálfstæðisstefnunnar. Reglur voru settar um starfsemi orkufyrirtækja samhliða í því skyni að stuðla að aukinni samkeppni og koma neytendum til bóta [sic !?]."
Hér er frjálslega farið með sannleikann, svo að úr verður villandi texti fyrir þá, sem ekki vita betur. Reglur um markaðsfyrirkomulag, sem mælt er með í OP#2 og gilda á innri raforkumarkaði ESB, hafa enn ekki verið innleiddar á Íslandi. Landsreglarinn mun fá það sem eitt af sínum aðalverkefnum eftir innleiðingu OP#3, auk ákvörðunar gjaldskráa Landsnets og dreifiveitna, að innleiða hér markaðsstýringu raforkuvinnslunnar.
Með þessu fyrirkomulagi innri markaðarins bjóða framleiðendur tiltekið afl, MW, fyrir hverja klukkustund sólarhringsins, og notendur/smásalar bjóðast til að kaupa tiltekin MW á hverri klukkustund fyrir tiltekin verð. Þar sem framboðs- og eftirspurnarferlar skerast, ákveður markaðsstjórinn verðið. Seljendur, sem buðu hærra verð og kaupendur, sem buðu lægra verð, missa af viðskiptum í það skiptið.
Þetta fyrirkomulag verður skylt að innleiða samkvæmt OP#3, þótt það henti ekki alls kostar hérlendis. Með þessu fyrirkomulagi einskorðast starfsemi orkuvinnslufyrirtækjanna við að hámarka tekjur sínar, en enginn þarf að huga að afhendingaröryggi orkunnar, hvað þá, að nokkur sé ábyrgur fyrir því. Þannig er hætt við, að fyrirtækin tæmi lón sín, því að skammtímaviðhorf þeirra er að nýta allt sitt miðlunarvatn, á meðan verðið er hátt. Þetta getur komið harkalega niður á neytendum, því að tjón þeirra er margfalt meira en seljendanna vegna orkuskorts.
Hér þarf að sníða agnúana af óheftri markaðsstýringu orkukauphallarinnar til að verja neytendur tjóni vegna mistaka við innleiðingu, sem stafa af því, að horft er framhjá gjörólíku eðli íslenzka orkukerfisins m.v. orkukerfi meginlandsins. Þingmaðurinn hefur ekki orð á neinu af þessu í sinni grein, sem þó var bent á í aðdraganda samþykktar Alþingis á OP#3 og er fjallað um í skýrslu Orkunnar okkar frá 16.08.2019.
Hér skal fullyrða, að orkupakkarnir eru ekki "í anda sjálfstæðisstefnunnar" með vísun til Landsfundarsamþykkta, þótt þingmaðurinn fullyrði það út í loftið. Sem lægst og stöðugast raforkuverð ásamt áherzlu á afhendingaröryggi raforku, þ.e.a.s. orkulindastýring, er hins vegar í anda sjálfstæðisstefnunnar. Það staðfesti Jón Gunnarsson, Alþingismaður sjálfstæðismanna í Kraganum, í tímamótagrein sinni í Mogganum, 6. september 2019. Henni verða gerð betri skil á þessu vefsetri seinna.
Bryndís Haraldsdóttir vill líta á rafmagn sem vöru. Fyrir okkar aðstæður hérlendis er þá þjóðhagslega hagkvæmast að líta á rafmagnið sem hráefni, sem er nauðsynlegt til að framleiða flestar vörur og til að veita margháttaða þjónustu. Fyrir samkeppnishæfni á innanlands- og utanlandsmörkuðum er þá augljóslega lykilatriði, að meðalverðið sé sem lægst og verðsveiflur sem minnstar. Það er fullveldisréttur okkar að haga nýtingu og markaðssetningu náttúruauðlindanna eftir eigin höfði, en þurfa ekki að taka við fyrirmælum um það frá yfirþjóðlegu valdi. Yfirþjóðlegt vald á Íslandi hefur yfirleitt gefizt illa og er alger tímaskekkja nú á tímum. Skaðlegt inngrip erlends valds í orkuvinnslustýringu landsins er einmitt það, sem gerist við innleiðingu Landsnets og Landsreglara á markaðsstýringu raforkuvinnslunnar, eins og Evrópusambandið vill hafa hana, svo að Ísland verði aðlagað Innri markaðinum, ef/þegar sæstrengurinn kemur. Margir munu verða hundóánægðir með virkni þessa kerfis og telja sig bíða tjón af. Af þeim sökum má búast við málaferlum, e.t.v. hópmálssókn á hendur Landsreglaranum, sem á þessum ósköpum ber ábyrgð.
"Nú er komið að þeim þriðja [orkupakka], sem enn byggir á hugmyndinni um raforkumarkað, þar sem neytendur hafa valfrelsi. Að baki þriðja orkupakkanum búa sjónarmið um hvata til hagræðingar innan raforkugeirans, að raforkukaupendum sé tryggt samkeppnishæft raforkuverð, betri þjónusta og stöðugri og öruggari afhending rafmagns. Þá er í þriðja orkupakkanum einnig að finna ákvæði um neytendavernd með það að markmiði að bæta og samþætta samkeppnishæfa raforkumarkaði innan EES."
Af þessum texta er ljóst, að þingmaðurinn, höfundur greinarinnar, er að lýsa áhrifum innleiðingar OP#3 á meginlandinu, en hún hefur ekki hugmynd um, að áhrifin verða allt önnur og miklu verri af innleiðingu hans í umhverfi, sem hann er ekki sniðinn fyrir. Hún og hinir 45 þingmennirnir, sem samþykktu þessa innleiðingu, eru með samþykktinni að leggja miklar byrðar á landsmenn. Þeir voru varaðir við því í aðdragandanum og eiga sér þess vegna engar málsbætur.
Í skýrslu Orkunnar okkar, 16.08.2019, er sýnt fram á, að raunhækkun raforkukostnaðar fjölskyldna á tímabilinu 2003-2018 nemur 7 %-8 % á hverja kWh. Á sama tímabili lækkuðu skuldir orkugeirans sem heildar, og þess vegna hefði átt að verða raunlækkun raforkukostnaðar, en ekki hækkun, ef allt væri með felldu. Byrðar fjölskyldna og atvinnulífs af OP#1-2 nema líklega 10 %- 20 % af rafmagnskostnaði, og byrðarnar munu margfaldast með OP#3 vegna gjaldskrárhækkana af völdum Landsreglarans, eins og orðið hafa t.d. í Svíþjóð, og af orkuverðshækkunum, sem tíundaðar eru hér að ofan.
Þessar verða afleiðingarnar fyrir almenning, þegar ríkisstjórn og Alþingi vita ekki, hvað felst í viðamikilli erlendri löggjöf, sem verið er að lögleiða hér.
Til að sýna lesendum, hversu gjörsamlega þingmenn geta verið úti á þekju, er hér birt niðurlag greinarinnar, sem hér hefur verið til umfjöllunar:
"Öflugur raforkumarkaður er mikilvægur íslenzkum heimilum, og er þriðja orkupakkanum ætlað að styðja enn frekar við þá góðu vegferð, sem við erum á. Andstæðingar þriðja orkupakkans hafa ekki rökstutt heimsendaspár sínar um glötuð yfirráð yfir íslenzkum auðlindum, enda eiga spádómarnir ekki við rök að styðjast."
Þessi málflutningur er óboðlegur frá þingmanni í utanríkismálanefnd, þar sem umfjöllun orkupakka hefur verið einna mest, en hann er ekki einsdæmi úr þeim ranni. Orkupakkarnir hafa ekki gagnazt heimilunum, heldur hafa þeir orðið þeim fjárhagsleg byrði, og keyrt getur um þverbak með OP#3. Dæmi um skert fullveldi yfir orkulindunum er einmitt, það sem minnzt er á hér að ofan, að sennilega mun Landsreglarinn, sem mun starfa hér sem ríki í ríkinu, ekki leyfa að aðlaga markaðsstýringu raforkuvinnslunnar að íslenzkum aðstæðum með því að heimila beitingu orkulindastýringar, þegar nauðsyn krefur, því að slíkt trufli frjálsa samkeppni á milli orkuvinnslufyrirtækjanna.
Það er fremur óvarlegt af þingmanninum að fullyrða, að reynslan muni afsanna varnaðarorð efasemdarmanna um OP#3. Þvert á móti bendir reynslan frá öðrum löndum, sem innleitt hafa OP#3, ekki sízt vatnsorkulöndum, til þess, að miklar væringar séu framundan, þar sem hlaupa mun á snæri efasemdarmanna. Nægir að nefna deilur Framkvæmdastjórnarinnar út af úthlutun ríkisins á orkunýtingarleyfum vatnsréttinda til ríkisfyrirtækja, bréf ESA sama efnis til ríkisstjórna Íslands og Noregs, og stefnu Framkvæmdastjórnarinnar gagnvart ríkisstjórn Belgíu fyrir ESB-dómstólnum. Þar er um óleyfilega takmörkun á valdsviði Landsreglara að ræða, þótt annað form sé á valdtakmörkuninni en hérlendis. Einnig er líklegt, að tiltektir Landsreglarans muni mælast illa fyrir, eins og reynslan frá Svíþjóð sýnir. Stjórnarliðar, nema Ásmundur Friðriksson, og aðrir samþykkjendur OP#3 eiga því ekki náðuga daga framundan fram að næstu Alþingiskosningum, ef að líkum lætur.
4.9.2019 | 11:16
Raforkulöggjöf sniðin við ólíkar aðstæður
Það er grundvallarmisskilningur, að raforkulöggjöf, sem sniðin er að stefnumörkun Evrópusambandsins (ESB) í orkumálum, hljóti að geta gagnazt Íslendingum, jafnvel betur en orkulöggjöf, sem sniðin yrði að orkustefnu fyrir Ísland, sem enn hefur ekki verið mótuð, en hlyti sjálfstæða umfjöllun á Alþingi án nokkurs þrýstings frá EES. Hvers vegna ?
Fyrir því eru 2 meginástæður, að orkulöggjöf Íslands þarf að sníða við íslenzkar aðstæður. Sú fyrri er, að orkukerfi landsins er gjörólíkt orkukerfi ESB, og sú síðari er, að orkumarkaðurinn er líka gjörólíkur. Báðar valda þessar aðstæður því, að óheft markaðsstýrikerfi ESB á raforkuvinnslunni verður hér til óþurftar, hækkar raforkuverð (án sæstrengs) og gerir afhendingaröryggi raforku mun ótryggara en nú er, eins og tíundað hefur verið á þessu vefsetri.
Sumir boða þó allt annað. Þá þarf að kryfja það. Þann 14. ágúst 2019 birtist í Fréttablaðinu grein eftir Hörð Arnarson, forstjóra Landsvirkjunar:
"Raforkulöggjöf sem hefur reynst vel".
Þetta er illa rökstudd lofgjörð um orkupakka Evrópusambandsins, sem minnir á grátstafi sama forstjóra á sinni tíð af áhyggjum út af hag Landsvirkjunar, ef íslenzka ríkið myndi ekki ganga í ábyrgð fyrir "Icesave". Greinin hófst þannig:
"Breytingar á orkulöggjöf Evrópusambandsins og innleiðing þeirra á Íslandi hefur skipt miklu fyrir framþróun raforkumarkaðarins og m.a. skapað orkufyrirtækjunum sterkari stöðu í samningum við erlenda stórnotendur."
Forstjórinn hefði þurft að útskýra þetta betur, svo að það yrði trúverðugt. Það er hins vegar háttur hans að vaða á súðum í orkumálaumræðunni. Það liggur ekki í augum uppi, hvers vegna uppskipting raforkufyrirtækjanna í vinnslufyrirtæki, flutningsfyrirtæki, dreifingarfyrirtæki og sölufyrirtæki, hefur styrkt íslenzk orkufyrirtæki í samningum við erlend stórfyrirtæki um raforkuviðskipti. Þvert á móti veikti þessi uppskipting íslenzku raforkufyrirtækin, og orkukaupendur þurftu að semja um orkukaup við eitt eða fleiri fyrirtæki og um orkuflutningana við annað.
Þetta er aðeins meira fráhrindandi fyrir hina erlendu aðila, jafnvel ruglingslegt, svo að þessi staðhæfing forstjórans stenzt ekki. Það er enda þannig, að markaðskerfi ESB gerir ekki ráð fyrir langtímasamningum, eins og hér hafa tíðkazt, heldur er það stefna ESB, að öll orka fari á heildsölumarkað í orkukauphöll. Þar með sæju málmverksmiðjurnar sína sæng út breidda. Hangir slíkt á spýtunni hjá einhverjum ? Það yrðu krókódílstár, sem grátið yrði í ýmsum ranni, en efnahagslegar afleiðingar yrðu alvarlegar, eins og fram kemur í skýrslunni í viðhengi þessa pistils.
Landsreglarinn mun vafalaust reyna að beina öllum orkuviðskiptum í orkukauphöll, þegar hann fer að stýra hér og stella. Ef/þegar honum tekst að fá þeirri stefnu ESB framfylgt, að landið verði tengt innri raforkumarkaði ESB með sæstreng, þá verður það svanasöngur stóriðju á Íslandi vegna þess, að hún getur ekki keppt á sama markaði og iðjuver í hjarta Evrópu sökum óhagræðis fjarlægða. Til að glöggva sig á þessu ætti fólk að lesa 8. kafla Ragnars Árnasonar, hagfræðiprófessors, í meðfylgjandi skýrslu Orkunnar okkar (í viðhengi).
Forstjóri þessi reri að því öllum árum að fá OP#3 innleiddan hér og er áfram um að fá ESB-styrktan sæstreng til landsins. Á sama tíma þykist ríkisstjórnin ekki hafa það á sinni dagskrá að fá hingað sæstreng frá útlöndum. Það er holur hljómur í þeim málflutningi á sama tíma og téður forstjóri ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar leikur lausum hala og boðar allt annað. Hvers konar ringulreið er þetta eiginlega hjá ríkisstjórninni ? Er hún með allt á hælunum í orkumálum landsins (eigendastefna í skötulíki) ?
"Með breytingunni [OP1-2] voru raforkusamningar við stórnotendur færðir í viðskiptalegt umhverfi án afskipta stjórnmálamanna. Með því var sköpuð skynsamleg umgjörð um þessa flóknu viðskiptasamninga, sem gerðir eru við stór alþjóðleg fyrirtæki, þar sem hver hugsar vel um eigin hag. Reynslan hefur sýnt, að í öllum nýjum samningum og endursamningum við stórnotendur hefur raforkuverð hækkað án þess, að dregið hafi úr eftirspurn eða framleiðslu. Raforkuverð stórnotenda hefur nálgazt það verð, sem er í boði í öðrum löndum, enda er engin ástæða fyrir Íslendinga til að undirverðleggja íslenzkar orkuauðlindir - ekki frekar en íslenzkan sjávarútveg."
Forstjórinn hefur lamað eftirspurnina, eins og tóftir álvers Norðuráls í Helguvík eru til marks um og ýmislegt fleira mætti tína til í þeim efnum. Það er út í hött að líkja rafmagni við fiskafurðir á erlendum mörkuðum. Nær er að líkja rafmagni við hráefni fyrir verðmætaskapandi starfsemi.
Það er erfitt að sjá, að OP1-2 hafi gert nokkuð annað en að flækja viðskiptaumhverfið fyrir erlenda fjárfesta. Áfram er Landsvirkjun ríkisfyrirtæki (100 %) og með algerlega markaðsráðandi yfirburðastöðu á markaði langtímasamninga. Hið eina, sem hefur breytzt, er, að ESA rýnir nú orkusamningana m.t.t. þess, hvort í þeim kunni að felast ríkisstuðningur.
Það varð alls engin jákvæð breyting með nýju raforkulögunum 2003, sem gerir Ísland áhugaverðari valkost fyrir fjárfesta. Breytingin varð 2010, þegar téður Hörður var ráðinn forstjóri Landsvirkjunar. Þá var tekin upp óbilgjörn afstaða til viðskiptavina fyrirtækisins, sem þurftu að endurnýja orkusamninga sína við fyrirtækið. Var þá ekki lengur horft til upphaflegs hlutverks Landsvirkjunar um að stuðla að þróun iðnaðar og annarrar orkutengdrar starfsemi í landinu til að auka gjaldeyristekjur landsins, verðmætasköpun og atvinnufjölbreytni. Afleiðingin frá endurskoðun orkusamninganna 2010-2018 er dúndurtap ISAL í Straumsvík og neyðarkall frá bæjarstjórn Akraness vegna ástandsins á Grundartanga.
Það var ógæfulegt að hverfa frá því ágæta fyrirkomulagi að tengja raforkuverðið við verð afurðanna, sem rafmagnið er notað til að framleiða. Þar með var að vissu marki létt undir með kaupandanum á erfiðleikatímum, og orkuseljandinn naut ávaxtanna, þegar vel gekk. Þannig er þetta enn hjá Fjarðaáli og mjög víða erlendis. Nú blasir óvissa við hjá viðskiptavinum Landsvirkjunar, og ástandið fer væntanlega ekki framhjá sæstrengsfjárfestum, sem eru með almannatengla hér í vinnu.
Þeir, sem sjá ekkert athugunarvert við þessa þróun mála, ættu að kynna sér þá ókræsilegu framtíðarsýn, sem hér blasir við, ef farið verður að selja rafmagn utan um sæstreng í stað þess að framleiða hér vörur til útflutnings. Sérstaklega má í því sambandi benda á skýrslu OO, 16.08.2019, t.d kafla 8, eftir Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði.
Áfram skal vitna í forstjóra LV:
"Í öllum meginatriðum hafa þær grundvallarbreytingar, sem gerðar voru með setningu raforkulaganna [2003] reynzt vel. Í stuttu máli má segja, að horfið hafi verið frá áætlunarbúskap til markaðsbúskapar með tilheyrandi ávinningi fyrir þátttakendur á raforkumarkaði og þjóðarbúið í heild."
Þetta eru rakalausar fullyrðingar og rangar. Mælikvarði á árangur breytinganna 2003 með innleiðingu OP#1 og innleiðingu OP#2 2008 er þróun rafmagnsverðs til heimila tímabilið 2003-2018. Það sést á grafi á bls. 45 í meðfylgjandi skýrslu. Hækkunin hefur orðið 7 % - 8 % að raunvirði, en ef allt hefði verið með felldu, hefði raunverðið átt að lækka, af því að skuldir orkugeirans lækkuðu mikið á tímabilinu og megnið af kostnaði orkugeirans er fjármagnskostnaður. Ætla má, að OP#1-2 hafi að lágmarki snuðað almenning um 10 % að raunvirði (og gæti slagað í 20 %). Ástæðan er t.d. sú, að með gamla fyrirkomulaginu rann fé frá orkuvinnslunni til línubygginga, en Landsnet fjármagnar framkvæmdir sínar að nokkru leyti með lánum, sem gjaldskrá fyrirtækisins stendur undir.
Með OP#3 mun keyra um þverbak, því að Landsreglarinn mun ákvarða gjaldskrána, og orkufyrirtækin þurfa að standa undir kostnaði við embætti Landsreglara ásamt ríkissjóði.
Affarasælast verður að taka stefnuna út úr Orkusambandi Evrópu, fá undanþágur frá öllum orkupökkunum, enda verður engin sátt í landinu um yfirþjóðlegt vald yfir öllum þáttum orkugeirans, eins og OP#3 kveður á um og OP#4 enn ákveðnar.
"Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því, að baráttan um raunveruleg yfirráð og eignarhald á orkulindum landsins, a.m.k. þeim, sem Landsvirkjun hefur verið treyst fyrir, mun um ókomna framtíð snúast m.a. um, hvernig okkur gengur að semja við alþjóðlega stórnotendur um raforkuverð, enda nota þeir um 80 % af raforku Íslands. Til að tryggja þjóðinni sanngjarnan arð af auðlindinni verður hún að fá sambærilegt verð og greitt er annars staðar í hinum vestræna heimi."
Þetta er alrangur málflutningur, sem bendir til, að forstjóra Landsvirkjunar skorti allan skilning á orkumálum Íslands. Eignarhald orkulindanna tengist endanlegum notanda, stóriðju eða öðrum, ekki neitt. Afnotarétturinn ("raunveruleg yfirráð") á orkulindinni ekki heldur, þ.e. orkunýtingarrétturinn. Hann er núna mestmegnis í höndum opinberra fyrirtækja, en hann er í uppnámi, því að ESA og Framkvæmdastjórnin vilja gefa einkafyrirtækjum kost á að bjóða í hann og virðast vilja ýta opinberum fyrirtækjum út úr orkuvinnslunni. Þar á samkvæmt orkustefnu ESB "frjórfrelsið" að ríkja án ríkisafskipta.
ESB vill hleypa fjársterkum einkafyrirtækjum að til að stórefla fjárfestingar í endurnýjanlegum orkulindum. Þetta þýðir, að Íslendingar munu glata erfðasilfri sínu til útlendra stórfyrirtækja. Það er stórfurðulegt, að forstjóri Landsvirkjunar skuli ekki tjá sig um þessa yfirvofandi ógn, heldur tengja yfirráð orkulindanna við það, hvernig gengur að semja við stórnotendur. Það er alveg út í hött. Ef Landsvirkjun í sinni núverandi mynd verður lögð niður, eins og ESA virðist stefna að, falla langtímasamningar hennar um koll, svo einfalt er það. Orkan fer þá öll á Innri raforkumarkaðinn. Þessa þróun verður að hindra með öllum tiltækum ráðum, jafnvel uppsögn EES-samningsins, ef það reynist nauðsynlegt til að halda yfirráðum orkulindanna í höndum landsmanna sjálfra (almannavaldsins).
Það er meinloka hjá forstjóra Landsvirkjunar, að hér geti verið sambærilegt verð til stóriðju og á meginlandi Evrópu. Það er líka viðurkennt í Noregi, að þar verður að stuðla að samkeppnishæfni orkukræfs iðnaðar með því að veita afslátt af miðevrópsku raforkuverði, sem svarar til meiri fjarlægðar verksmiðjanna í Noregi frá hráefnaupptökunum og frá afurðamörkuðunum.
Vandamálið, sem við er að kljást, eftir að orkupakkar Evrópusambandsins voru innleiddir, er, að ESA rýnir orkusamninga við ríkisorkufyrirtæki m.t.t. þess, hvort þeir feli í sér ríkisstyrki, og ESA viðurkennir ekki þessa fjarlægðarreglu, sem þó alltaf hefur verið við lýði á þeim mörkuðum, þar sem Landsvirkjun hefur keppt um að fá fjárfesta til Íslands. Þar að auki er það stefna ESB, að öll raforkuviðskipti fari fram í orkukauphöll, sem þýðir, að langtímasamningar munu líða undir lok. Það verður íslenzka þjóðarbúinu afar óhagfellt, því að mikil verðmætasköpun á sér stað í landinu með nýtingu raforkunnar í miklum mæli, og margir hafa af því atvinnu. Raforkan stendur undir umtalsverðum hluta landsframleiðslunnar. Samþykkt OP#3 magnar ófrið í landinu um orkumálin.
1.9.2019 | 09:14
Spurningar um Orkupakka #3
Málefnalega er ríkisstjórnin sem örfoka eyðimörk, þegar kemur að efnislegri vörn hennar fyrir innleiðingu Þriðja orkupakkans (OP#3) hérlendis. Hún getur ekki einu sinni útskýrt, hvers vegna það er ekki ástæða núna til að grípa í "neyðarhemilinn". Svar iðnaðarráðherra jafngildir "af því bara". Frammistaða hennar í umræðunum um OP#3 á Alþingi var afspyrnuléleg. Hún skilur ekki um hvað Orkusamband Evrópu snýst. Hún heldur, að neytendavernd á meginlandi Evrópu sé neytendavernd á Íslandi. Hún hafði ekki roð við Ólafi Ísleifssyni í umræðunum á Alþingi á "síðsumarstúfinum". Reyndar var orðræða hennar eitthvað á þá leið, að þau (ríkisstjórnin) tækju ekki í neyðarhemilinn, bara af því að við megum það. Svona léttúðugur ráðherra um lífshagsmunamál þjóðarinnar á einfaldlega skilið að fá sparkið frá kjósendum við fyrsta tækifæri. Því fyrr, þeim mun betra, mundi einhver segja (einnig í NV-kjördæmi).
Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins er forstokkaður, eins og reyndar hinir tveir þingflokkar ríkisstjórnarinnar. Við slíka er erfitt að tala og jafnvel tímasóun. Engu að síður verða þessir og aðrir þingflokkar að velta fyrir sér nokkrum aðkallandi spurningum jafnt fyrir og eftir atkvæðagreiðslu um OP#3 á Alþingi:
1) Hvernig getur utanríkisráðherra og Alþingi brugðizt við, telji Evrópusambandið (ESB) innleiðingu tilskipunar ESB nr 72/2009, rafmagnstilskipunar, ófullnægjandi og ekki veita Landsreglara það svigrúm til óháðra ákvarðana, sem tilskipunin mælir fyrir um ?
OP#3 verður innleiddur í heilu lagi, en síðan settur fyrirvari ("back-stop"), sem kemur afar spánskt fyrir sjónir og er fordæmalaus í sögu EES, enda brot á 7. gr. samningsins.
Í þingskjali 1252-791. máli, er svohljóðandi breytingartillaga við þingsályktun:
"Ekki verður ráðizt í tengingu raforkukerfis landsins við raforkukerfi annars lands í gegnum sæstreng, nema að undangengnu samþykki Alþingis. Skal það samþykki liggja fyrir áður en framkvæmdir, sem varða slíka tengingu, geta farið á framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar. Til grundvallar slíkri ákvörðun Alþingis skal leggja heildstætt mat á umhverfis-, samfélags- og efnahagslegum áhrifum slíkrar tengingar og framkvæmda vegna hennar."
Það er undarlegt að hafa þennan fyrirvara í þingsályktun, en ekki í lögum. Það leiðir af sér tvennt. Auðveldara er að breyta fyrirvaranum, og hann stendur vissulega skör lægra en OP#3, sem fær lagagildi hér eftir innleiðingu hans. Samkvæmt OP#3 eiga Landsreglarar við sitt hvorn enda sæstrengsins að fjalla um tæknilega og fjárhagslega skilmála sæstrengsins. Ef þeir komast ekki að niðurstöðu sín á milli, verða þeir að leggja málið fyrir ACER, sem úrskurðar. Það er hvergi í reglum OP#3 gert ráð fyrir neins konar aðkomu löggjafans að einstökum verkefnum, enda er það undarleg stjórnsýsla að láta löggjafann sýsla með framkvæmdaatriði. Hann á að leggja meginlínur og lýsir yfir vilja sínum til að tengja landið Innri raforkumarkaðinum með samþykkt OP#3.
Hér er þess vegna komin upp sú staða, að við innleiðingu OP#3 eru hendur Landsreglarans á Íslandi bundnar með þingsályktunartillögu og reyndar með lögum, sbr þingskjal 1253-792, sem er frumvarp um breytingu á raforkulögum nr 65/2003, sem vísa í þessa þingsályktunartillögu, og hljóðar svo:
"Um tengingu raforkukerfis landsins við raforkukerfi annars lands í gegnum sæstreng fer samkvæmt stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku."
Ríkisstjórn, sem leggur slíkt fram, virðist ekki skilja, hvað felst í OP#3. Markaðinum er falið að fjármagna og standa að millilandatengingum, og ESB beitir bæði fjárhagslegum og reglusetningarlegum örvunaraðgerðum í því skyni. Annað helzta hlutverk Landsreglarans eftir samþykkt OP#3 samkvæmt tilskipun 72/2009 verður að útrýma öllum hindrunum í vegi millilandatenginga við Ísland. Samkvæmt OP#4 mega stjórnvöld ekki standa að þingsályktun, eins og þeirri, sem að ofan greinir. Það eru þess vegna yfirgnæfandi líkur á, að ESA muni fá EFTA-dómstólinum þetta deilumál til úrlausnar, þegar fordæmi kemur frá ESB-dómstólinum í deilumáli Framkvæmdastjórnarinnar við ríkisstjórn Belgíu. Má þá einu gilda, hversu margir sótraftar eru á sjó dregnir hér við land til að vitna um, að dómur ESB-dómstólsins í Belga-málinu veiti EFTA-dómstólinum ekki fordæmi. Útskýringar á því eru hlálegar og gætu hafa komið frá karlinum í Tunglinu. Allt mun þetta fólk verða sér rækilega til skammar, þegar afleiðingar þessarar innleiðingar koma í ljós. Þær verða almenningi ekki ódýrar.
2) Hefur farið fram sértæk hagræn athugun á áhrifum stefnu ESB, eins og hún kemur fram í OP#3 og nánar í OP#4 á þjóðarbúskap Íslendinga og samfélagslegum áhrifum til lengri tíma, og hyggst ráðherra leggja niðurstöður slíkrar athugunar fyrir Alþingi áður en OP#3 verður samþykktur [sem er borin von], eins og nauðsynlegt er ?
Sá undarlegi málflutningur hefur verið hafður í frammi af boðberum OP#3 hérlendis, að hann muni lítil sem engin áhrif hafa á efnahaginn, nema þá helzt til batnaðar með bættri neytendavernd. Þessi málflutningur vitnar um fullkomið skilningsleysi á því, sem þessi Evrópulöggjöf felur í sér, og fullkomið skeytingarleysi um almannahag. Strax með innleiðingu markaðsstýringar raforkuvinnslunnar, sem verður eitt af fyrstu verkum Landsreglarans á eftir ákvörðun gjaldskráa Landsnets og dreifiveitnanna, verður raforkuverð sveiflukennt, og þar sem hillir undir orkuskort, mun meðalverðið hækka. Neytendavernd er ekki til í þessu kerfi hérlendis. Það er fásinna.
Neytendavernd getur falizt í harðri samkeppni, en henni verður aldrei til að dreifa á íslenzkum raforkumarkaði. Það sannar reynslan af OP#1 og OP#2. Iðnaðarráðherra heldur því fram, að niðurhlutun fyrirtækja í smærri einingar hafi orðið neytendum til hagsbóta. Það stríðir gegn heilbrigðri skynsemi í fjármagnsfrekri starfsemi, enda er reyndin sú,að raunhækkun raforkuverðs til heimila tímabilið 2003-2018 hefur orðið 7 % - 8 % samkvæmt gögnum Hagstofunnar og útreikningum prófessors Ragnars Árnasonar í skýrslu Orkunnar okkar, 16. ágúst 2019.
Ragnar skrifaði fróðlega grein í skýrslu Orkunnar okkar um hagræn áhrif innleiðingar OP#3, en slíkar upplýsingar hefur sárlega vantað í umræðuna, og ríkisstjórnin hefur engan gaum gefið að þessum þætti. Ragnar ver mestu rými greinarinnar í að greina afleiðingarnar af samtengingu Íslands við Innri raforkumarkað EES, enda er líklegast, að ESB fái vilja sínum fyrr en síðar framgengt um að tengja jaðarsvæði EES við Innri markaðinn, eftir að þau eru gengin í Orkusamband Evrópu:
"Samkvæmt viðtekinni hagfræði má fullvíst telja, að hindrunarlaus orkumarkaður muni verða efnahagsleg lyftistöng fyrir ESB í heild og ýta undir hagvöxt. Það er hins vegar ekki þar með sagt, að slíkur orkumarkaður styrki efnahagslífið á öllum svæðum sambandsins. Hindrunarlaus orkuviðskipti munu einkum nýtast efnahagslegri þungamiðju sambandsins, þar sem orkuþörfin er mest. Á hinn bóginn munu þau svæði, sem orka verður flutt frá, að öðru jöfnu verða fyrir búsifjum við þessa breytingu. Það er vegna þess, að þau missa af hluta af sinni orku og þar með möguleikum til nýtingar hennar."
Með því að samþykkja OP#3 göngum við í Orkusamband ESB og játumst undir regluverk ESB um orkuviðskipti á milli landa. Inntak þess er, að ríkisstjórnir og þjóðþing komi ekki nálægt þessum málum, hvorki til hindrunar né örvunar, heldur véli landsreglarar, ACER og fyrirtæki á orkumarkaði alfarið um þau. Ríkisstjórnarflokkarnir o.fl. á Alþingi eru hins vegar haldnir þeirri meinloku, að fullveldi Íslands til að ráða þessum málum verði óskert með OP#3. Það verður afdrifaríkur misskilningur í ljósi þess, að ágreiningur verður útkljáður fyrir EFTA-dómstólinum.
"Úrvinnsla raforku hér á landi leggur nú þegar talsvert af mörkum til landsframleiðslunnar og skapar verulega atvinnu. Tækifæri til frekari og verðmætari úrvinnslu eru mikil, enda aðgangur að ódýrri og tryggri raforku ein helzta forsenda nútímaframleiðslu af fjölmörgu tagi."
Það er fullveldisréttur þjóða að ráða nýtingu náttúruauðlinda sinna. Sá réttur verður tekinn af íslenzku þjóðinni varðandi nýtingu orkulindanna, því að fulltrúar hennar verða ekki hafðir með í ráðum, þegar Landsreglarinn mun sjá til þess, að Landsnet innleiði hér markaðsstýringu raforkuvinnslunnar. Vegna sérstöðu orkukerfisins getur hún ekki orðið hér í þágu almannahags. Hún mun auka tekjur orkufyrirtækjanna á kostnað almennings og orkuöryggis. Orkulindastýring, sem er vel þekkt hérlendis, mundi sníða af þessu kerfi agnúana í þágu almannahags, en Landsreglarinn mun sennilega banna hana á þeim forsendum, að hún feli í sér óleyfileg ríkisafskipti af frjálsum markaði.
Í Orkusambandi Evrópu eiga viðskipti með alla raforku að fara fram í orkukauphöll. Það merkir, að ESB vill langtímasamninga feiga. Þar með sér stóriðjan í landinu sína sæng út breidda. Þetta mun minnka atvinnu, verðmætasköpun og hagvöxt í landinu, sbr texta Ragnars Árnasonar, hagfræðings.
"Á hindrunarlausum raforkumarkaði muni raforkan fara til þeirra nota, sem hæst verð bjóða. Því muni raforka verða flutt frá því landi, þar sem raforkuverð er lægra, og sá útflutningur muni halda áfram, þar til skilaverðið til framleiðenda á raforku til innanlandsnota og útflutnings er orðið jafnhátt. Raforkuverðið í útflutningslandi raforku muni því hækka til samræmis við raforkuverðið erlendis. Jafnframt muni raforkuframleiðsla í útflutningslandinu vaxa, séu slík tækifæri á annað borð fyrir hendi, þar til framleiðslukostnaður í nýjum orkumannvirkjum þar er orðinn jafnhár hinu hærra raforkuverði."
Sæstrengur til Íslands nýtur svo mikillar velvildar framkvæmdastjórnar ESB, að hún hefur valið hann af Kerfisþróunaráætlun ESB og inn á "The Union list of projects of common interest" - Sambandslista verkefna í þágu almannahags, en þau verkefni verða sjálfkrafa samþykkt af landsreglurum landanna, sem í hlut eiga, þegar fjárfestar gefa sig fram. Jafnframt eru slík verkefni styrkhæf úr mrdEUR 30 innviðasjóði ESB. Þótt slíkt verkefni geti ekki staðið á eigin fótum m.v. raforkuverð núna, gæti svo farið, að flutningskostnaður um slíkan streng í byrjun verði aðeins um 20 USD/MWh og færi lækkandi. Þá gæti skilaverð til raforkuseljenda hérlendis orðið 80-20=60 USD/MWh, og raforkuverðið hérlendis hækkað um 50 % og meira, er frá líður. Flutningsgjaldskrá Landsnets mun vart hækka minna vegna kostnaðar við uppbyggingu flutningskerfis innan lands vegna sæstrengs. Þar með sér öll framleiðsla innan lands, sem er háð því, að raforkuverð hækki ekki frá því, sem nú er, sína sæng út breidda.
Ragnar dró mál sitt saman í 4 atriði:
- "Í fyrsta lagi myndi raforkuverð á Íslandi hækka bæði til fyrirtækja og heimila. Framleiðendur myndu ekki vilja ótilneyddir selja raforku á lægra verði til sumra notenda en annarra. Þar að auki myndi slíkt flokkast undir markaðsbrenglandi niðurgreiðslur og/eða verðmismunun, sem er óheimil samkvæmt EES-ESB reglum. Verðið myndi ugglaust fyrst hækka, þar sem orkukaupendur eru ekki varðir af langtímasamningum, en smám saman myndi allt raforkuverð hækka. Innlendir raforkunotendur myndu með öðrum orðum tapa á samtengingunni við orkumarkað ESB."
- "Í öðru lagi myndi raforkunotkun á Íslandi minnka. Hún minnkar, þar sem orkuverðið hækkar og minnkar mest, þar sem tiltöllulega lágt orkuverð er forsenda viðkomandi starfsemi. Ætla má, að það sé einkum í tiltölulega orkufrekum iðnaði miðað við framleiðsluverðmæti, eins og t.d. í ylrækt, fiskimjölsverksmiðjum, rekstri gagnavera og auðvitað svokallaðri stóriðju. Atvinnutækifærum, sem byggjast á raforku, mun þá fækka að sama skapi."
- "Í þriðja lagi myndi samtenging íslenzks raforkumarkaðs við evrópskan sennilega leiða til aukinnar raforkuframleiðslu á Íslandi. Þar sem framleiðendur geta nú selt miklu meira magn en áður og á væntanlega hærra verði, munu þeir hafa áhuga á að auka framleiðslu sína. Þetta mun skapa þrýsting á, að virkjað verði (vatn, jarðhiti og vindorka) til að mæta eftirspurninni í Evrópu. Samkvæmt bæði grunnreglum og sértækum reglum ESB skulu markaðsöfl ráða. Því er að öðru jöfnu óheimilt að hindra virkjanir og banna lagningu sæstrengja, ef einkaaðilar vilja leggja í slíkar framkvæmdir. Slíkt myndi að öðru jöfnu flokkast undir skaðlegar markaðshindranir."
- "Í fjórða lagi myndu orkuframleiðendur hagnast. Eftir samtenginguna geta þeir selt meira orkumagn á hærra verði. Þar sem notendur raforku innanlands tapa vegna hærra orkuverðs, hefur samtengingin því í för með sér breytta tekjudreifingu milli framleiðenda og notenda raforku."
Nú þegar glittir í klærnar á þessu kerfi. Landsvirkjun hefur við framlengingu gamalla stóriðjusamninga við 3 orkukræfa málmframleiðendur neytt yfirburða stöðu sinnar á markaði og þröngvað þessum fyrirtækjum til að ganga að raforkusamningum, sem eru þungbær byrði í núverandi árferði. Skynsamleg og sanngjörn tenging raforkuverðs við framleiðsluverð hefur verið rofin að kröfu forstjóra Landsvirkjunar og boginn spenntur langt umfram getu fyrirtækjanna við núverandi markaðsaðstæður, svo að framtíð fyrirtækjanna er í uppnámi og stórtap á rekstrinum. Í fréttum hefur t.d. verið greint frá mrdISK 5,0 tapi í fyrra á ISAL í Straumsvík, og í júlí 2019 varð fyrirtækið fyrir rekstrarlegu áfalli, þegar um 40 % framleiðsluminnkun varð. Framleiðslutækin urðu fyrir skemmdum og endurræsingin verður rándýr.
Bæjarstjórn Akraness hefur lýst yfir miklum áhyggjum af stöðunni á Grundartanga og kennir miklum nýlegum raforkuverðshækkunum um bágborna stöðu fyrirtækjanna. Það er stórfurðulegt, að ríkisfyrirtækið Landsvirkjun skuli hafa sveigt mjög af leið í verðlagsstefnu sinni án nokkurrar umfjöllunar, að því er virðist, í ríkisstjórn, á Alþingi og í þjóðfélaginu. Er ástæða til að ætla, að ekki sé lengur hugað að upprunalegu hlutverki Landsvirkjunar að skapa fyrir sitt leyti samkeppnishæfar aðstæður fyrir orkukræfan iðnað í landinu, sem þá myndi auðga umhverfið með margvíslegum hætti og skapa örugga og trausta vinnu innan girðingar og utan. Nú getur Landsvirkjun skákað í því skjólinu, að fari allt á versta veg hjá viðskiptavinum hennar, geti hún flutt orkuna utan um sæstreng til Evrópusambandsins, sem það hefur mikinn hug á, að komið verði á laggirnar vegna orkuskorts þar á bæ.
Hér er Landsvirkjun að feta inn á stórhættulega braut, sem ríkisstjórnin þarf að stöðva. Það getur varla verið, að stjórn fyrirtækisins hafi umboð frá ríkisstjórninni til að ganga á milli bols og höfuðs á stóriðjunni vegna þess, að hingað megi alltaf fá sæstrengstengingu frá útlöndum til að koma orku í lóg, sem stóriðjan hefur gefizt upp á að kaupa.
29.8.2019 | 11:35
Málarekstur Evrópusambandsins
Þeim, sem efast um, að Evrópusambandinu (ESB) sé full alvara með Orkusambandi sínu ("The Energy Union of Europe") og halda jafnvel, að innlend yfirvöld, ríkisstjórn, sveitarstjórnir, skipulagsyfirvöld, Umhverfisstofnun o.s.frv., geti þvælzt endalaust fyrir áformum ESB um nýtingu meira eða minna endurnýjanlegra orkulinda Íslands í almannaþágu Evrópu, eins og slíkar virkjanir og flutningsmannvirki eru nú kölluð á þeim bænum, vaða í villu og svíma.
Til vitnis um þetta eru fréttir og fréttatilkynningar framkvæmdastjórnar ESB af víðtækum málarekstri hennar gegn ríkisstjórnum 8 ESB-landa vegna lokaðrar "vildarvina" úthlutunar orkunýtingarleyfis vatnsréttinda í eigu ríkisins til langs eða ótilgreinds tíma. Líta verður á bréf ESA, dags. 20.04.2016, til íslenzku ríkisstjórnarinnar og bréf ESA, dags. 30.04.2019, til norsku ríkisstjórnarinnar, sem undanfara sams konar stefnu spegilmyndar Framkvæmdastjórnarinnar EFTA-megin í EES, ESA. Noregur og/eða Ísland verða dregin fyrir fyrir EFTA-dómstólinn, og löndin munu verða dæmd til útboðs á orkunýtingarrétti opinberra fyrirtækja innan EES. Í fyrstu umferð mun dómurinn spanna vatnsorkuverin, af því að innan ESB er raforka vatnsorkuvera metin verðmætust vegna auðstýranleika þessarar gerðar raforkuvera, en er frá líður munu jarðgufuverin falla sömuleiðis í útboðsflokkinn. Íslendingar hafa ekki fjárhagslegt bolmagn til að halda í nýtingarrétt sinn á þessum markaði. Þannig munu þeir glata nýtingarrétti á orkulindum sínum, og hitaveiturnar kunna að fylgja með í 5. orkupakkanum. Það er verið að kippa stoðunum undan velferðarþjóðfélagi á Íslandi, þótt þetta gagnist heildarhagsmunum EES. Að stjórnmálamenn skuli dirfast að taka þessa risavöxnu áhættu með hagsmuni þjóðarinnar með því að ganga Orkusambandi Evrópu á hönd, er óskiljanlegt.
Í öllum þessum tilvikum Framkvæmdastjórnarinnar og ESA gegn ríkisstjórnum er um að ræða vatnsorkuver vegna sérstakrar stöðu þeirra í orkuskiptum ESB. Þar virðast vindmyllur gegna veigamiklu hlutverki, og á hlutdeild þeirra í raforkuvinnslunni að rúmlega tvöfaldast á næstu 10 árum. Nú þegar er þó tekið að hægja á fjölgun vindmyllna vegna vaxandi andstöðu almennings, sem setur fyrir sig kostnað, slitróttan rekstur og umhverfisbyrði.
Embættismenn ESB sjá fyrir sér, að nýir eigendur gamalla vatnsaflsstöðva muni ráða yfir nægri fjárfestingargetu og áhuga á að allt að því þrefalda uppsett vélaafl í vatnsaflsvirkjununum án þess að auka árlega orkuvinnslugetu. Á Íslandi mundi þetta auka uppsett afl um 4,0 GW, sem munar um við að fylla í framboðsskarðið, sem myndast á daginn, þegar lygnir í Evrópu. Hagsmunir ESB gagnvart Noregi og Íslandi eru skýrir í þessu sambandi.
Þá hefur ESB gefið út fréttatilkynningu um málssókn vegna ófullkominnar innleiðingar ríkisstjórnar Belgíu á OP#3 í landsrétt. Kjarni hennar er, að við innleiðingu OP#3 í belgískan rétt eru völd Landsreglarans varðandi flutningskerfi orku innanlands og samtengingar við útlönd takmörkuð við tillögurétt til ráðherra. Ríkisstjórn Íslands leggur til við Alþingi að innleiða OP#3 í íslenzkan rétt, eins og orkupakkinn kemur af skepnunni, en þingið setji síðan fyrirvara með þingsályktun, lagabreytingu og heimild til ráðherra um reglugerðarútgáfu, sem allt á það sammerkt að takmarka valdsvið Landsreglarans á Íslandi langt umfram það, sem ákveðið er með OP#3.
Það er þannig bein hliðstæða á milli Belgíu og Íslands varðandi ranga innleiðingu á OP#3. Þannig er yfirvofandi hátta á samningsbrotamáli ESA gegn Íslandi fyrir EFTA-dómstólinum, þegar dómsfordæmi kemur frá ESB-dómstólinum. Þar með munu allir fyrirvarar Íslands falla niður dauðir og ómerkir, og leiðin fyrir sæstrengsfjárfestana verður greið inn í landið. Leggi stóriðjufyrirtæki upp laupana vegna okurstefnu Landsvirkjunar í garð fyrirtækjanna í krafti einokunaraðstöðu sinnar við framlengingu samninga, mun Landsvirkjun heimta sæstrengstengingu við útlönd. Þessi þróun er með hreinum ólíkindum. Almenningur á Landsvirkjun, en ríkisstjórnin lætur, eins og málið komi sér ekki við. Þingmenn, sem rænulitlir horfa á þessa skaðvænlegu þróun, ættu að lesa 8. kaflann eftir hagfræðiprófessorinn Ragnar Árnason í nýlegri skýrslu Orkunnar okkar til að glöggva sig á til hvers þessi þróun leiðir. Ef þingmenn ekki vakna af dvalanum, bíður þeirra hörð svipa kjósenda í næstu kosningum.