Færsluflokkur: Evrópumál
26.8.2019 | 10:29
Stórhættuleg braut mörkuð af ríkisstjórn
Margt bendir til, að Evrópusambandið (ESB) hafi í örvæntingu sinni yfir árangursleysinu við að ná loftslagsmarkmiðum sínum ákveðið að "sprengja" sér leið að endurnýjanlegum orkulindum Íslands og Noregs, og þá munu jarðhitaauðlindir Íslands fylgja í kjölfarið. Hér verður vikið að þeirri sviðsmynd, að undirlægjuháttur ríkisstjórnar Íslands gagnvart EES muni leiða til þess, að nýtingarréttur þessara íslenzku auðlinda hverfi úr landi.
Við stjórnvölinn sitja nú blindingjar á orkumálin, en þingmenn Miðflokksins virðast hafa áttað sig á þýðingu þessa máls fyrir þjóðarhag, og er málflutningur formannsins í Bítinu á Bylgjunni að morgni 21. ágúst 2019 til marks um það. Sama má segja um ræðu hans á fundi á Selfossi að kvöldi 22. ágúst 2019, þar sem um 170 manns hlýddu á 5 ágæta ræðumenn úr öllu hinu flokkspólitíska litrófi. Blekbóndi var staddur austanfjalls og brá sér á fundinn.
Þriðji orkupakkinn er ákveðið skref inn í orkusamstarf, sem mun hafa þær hörmulegu afleiðingar í för með sér, að íslenzka þjóðin mun að fullu missa stjórn á orkulindum sínum til markaðsafla og búrókrata ESB þrátt fyrir eignarhald ríkisins á þeim í mörgum tilvikum. EES-samningurinn spannar ekki eignarhald á náttúruauðlindum. Ríkið má eiga auðlindirnar, en "fjórfrelsið" skal ríkja um ráðstöfunarréttinn, og hið vanheilaga bandalag búrókrata og fjármagnseigenda, sem stjórnar Evrópusambandinu undir forystu Tevtónans Martin Selmayr, hægri handar forseta Framkvæmdastjórnarinnar, ræður fyrirkomulaginu með útgáfu reglugerða og tilskipana.
Téður Martin fær bráðlega löndu sína, Ursulu von der Layen, sem yfirmann, en hún var landvarnarráðherra Þýzkalands og skildi Bundeswehr eftir í rjúkandi rúst. Hefur þýzki herinn aldrei verið í jafnslæmu ásigkomulagi og nú. Dæmi: hjá Luftwaffe eru aðeins 4 bardagahæfar orrustuvélar og hjá Kriegsmarine álíka fjöldi bardagahæfra kafbáta. Hjá Bundeswehr var fagnað ótæpilega fréttinni um flutninginn til Brüssel, og haldin "tappalosunarhersýning" í kveðjuskyni.
Leyfisveitingar til nýtingar og stjórnunar á orkulindunum munu að óbreyttu falla undir reglur ESB, og réttur Íslendinga til að nýta orkulindirnar og stjórna þeim í þágu þjóðarinnar verður lítils virði. Þarna er fullveldisréttur Íslands lítilsvirtur. Lagaákvæði, sem gefa íslenzkum notendum rafmagns eitthvert forskot á erlenda innan EES, getur EFTA-dómstóllinn dæmt ólögmæt í kjölfar kvörtunar frá ESB til ESA. Erlendir auðmenn munu fá jafngóð eða betri tækifæri í krafti auðs síns en íslenzkir aðilar, þannig að arður af auðlindunum mun flytjast úr landi. Hvernig í ósköpunum getur þetta gerzt fyrir framan nefið á okkur ? Er um að ræða fávizku og skilningsleysi íslenzkra embættismanna, sem um þetta véla, eða fjarstýra harðsvíruð hagsmunaöfl stjórnmálamönnunum ? Spyr sá, sem ekki veit.
Í þessu sambandi má benda á þá kröfu Framkvæmdastjórnarinnar gagnvart 8 aðildarríkjum ESB, þar sem vatnsréttindi eru á hendi ríkisins, t.d. Frakklandi, Þýzkalandi, Austurríki, Póllandi, Portúgal og Svíþjóð, að ríkisvaldið verði að bjóða út orkuvinnsluleyfi þessara vatnsréttinda á opnum markaði EES. Útboðið skal aðlaga að þörfum einkafjárfesta, t.d. skal gildistími vinnsluleyfis vera aðeins 30 ár, en einkafjárfestar vilja endurheimta fjárfestingu sína ásamt öllum kostnaði innan þessara tímamarka. Þetta eitt út af fyrir sig þýðir óhjákvæmilega hækkun raforkuverðs til almennings og getur grafið alvarlega undan gildandi langtímasamningum um raforkusölu án tillits til sæstrengs.
Þegar ESA mun krefjast þessa sama hérlendis, mun krafan einnig spanna útboð vinnsluleyfa jarðgufusvæða til raforkuvinnslu, og er frá líður (OP#4-5) einnig lághitasvæði fyrir húshitun. Ætlunin er að ræna landsmenn um hábjartan dag. Viðskipti með orkuauðlindir í eigu hins opinbera (ríkis & sveitarfélaga) munu þá fara fram sem viðskipti með nýtingarleyfi. Yfirvöld landsins stefna nú málefnum landsmanna í algert óefni. Orsakir þess eru ekki aðalatriðið, afleiðingarnar eru aðalatriðið, og þær verða stórskert lífskjör landsmanna. Þetta verður gott fóður í næstu kosningabaráttu, ef stjórnarflokkarnir vaða út í foraðið.
ESA hóf þetta ferli gagnvart Íslandi með bréfi til ríkisstjórnarinnar 20. apríl 2016. Þann dag kvað þessi Eftirlitsstofnun EFTA, sem speglar Framkvæmdastjórnina EFTA-megin í EES-samstarfinu, upp eftirfarandi úrskurð:
"Ísland þarf að breyta lögum til að tryggja, að orkufyrirtæki, sem nýta auðlindir í almannaeigu til raforkuframleiðslu, greiði ávallt markaðsverð fyrir slíka nýtingu."
Hið skrýtna er, að ríkisstjórnin þumbast við að svara þessu grafalvarlega bréfi, líklega af ótta um afdrif OP#3 á þingi, en norski orku- og olíuráðherrann svaraði snöfurmannlega slíku bréfi á 5 vikum og stóð uppi í hárinu á ESA. Ekkert slíkt hvarlar að heimóttarlegum íslenzkum ráðamönnum, sem hræðast átök við pappírstígrisdýrið, sem ruggað getur hinum heilaga Graal, EES-samninginum.
Eftir innleiðingu Þriðja orkupakkans í íslenzka löggjöf mun slíkt markaðsverð ráðast af aðstæðum á Innri markaði ESB, en ekki á þeim alþjóðlegu orkumörkuðum, þar sem íslenzk orkufyrirtæki hafa í meira en hálfa öld verið í samkeppni um orkusækna raforkukaupendur. Á þeim mörkuðum er mikið tillit tekið til fjarlægða orkubirgis frá hráefna- og afurðamörkuðum. Langtímasamningar hérlendis um raforkusölu verða augljóslega í uppnámi með þessu fyrirkomulagi, því að virkjanir, sem þeir eru reistir á, munu skipta um eigendur, og nýir eigendur munu heimta endurskoðun raforkusamninga til að gera viðskipti sín með nýtingarleyfi arðsöm.
Ekki er vafi á, að nýir virkjanaeigendur munu leita liðsinnis ESA, enda mun allur Evrópumarkaðurinn standa þeim opinn, þegar búið verður að dæma fyrirvara ríkisstjórnarinnar um hömlur á völd Landsregara óleyfilega með vísun til dóms ESB-dómstólsins vegna rangrar innleiðingar OP#3 í landsrétt Belgíu. Með þessu móti munu Íslendingar ekki aðeins missa forræði yfir orkulindum sínum, heldur mun vinnan og verðmætasköpunin, sem raforkunýtingin skapaði ásamt hagnaði raforkuvinnslunnar, hverfa úr landi. Þá er ljóst, að uppsögn EES-samningsins verður eina úrræðið til að forða efnahagslífinu frá stórfelldu tjóni. Norðmenn munu vafalítið komast að sömu niðurstöðu af norska svarbréfinu frá 5. júní 2019 að dæma.
Augljóslega er hér flotið sofandi að feigðarósi í íslenzka stjórnarráðinu og við blasir, að affarasælast er til að forða stórfelldum vandræðum, að Alþingi neiti að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara og leitað verði eftir undanþágum í Sameiginlegu EES-nefndinni. Ekki veldur sá, er varir. Hitt vekur furðu, hvers vegna flestir flokkanna, þ.á.m. píratarnir, hafa lagzt gegn þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál, en hún myndi án nokkurs vafa skera á hnútinn. Málið hefur leitt í ljós, að píratar eru ekki (lengur) uppreisnarflokkur gegn ríkjandi kerfi, heldur eru orðnir samdauna því og hafa lagzt upp að hlið Samfylkingarinnar. Það gæti orðið banvænt faðmlag fyrir þá.
22.8.2019 | 11:10
Hégilja
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir heitir Alþingismaður og ritari Sjálfstæðisflokksins. Hún hefur ekki vandað þeim kveðjurnar, sem varað hafa við innleiðingu Orkupakka #3 (OP#3) hérlendis. Framkomu hennar þarf að hafa í huga í næsta prófkjöri og næstu kosningum, sem hún tekur þátt í. Þar virðist ekki vera frumlegt leiðtogaefni á ferð.
Henni er lítt gefin andleg spektin til að kafa af sjálfsdáðum ofan í OP#3, en meir étur hún upp eftir öðrum og veður ótæpilega á súðum. Áslaug ritaði pistil á leiðarasíðu Morgunblaðsins 12. ágúst 2019, sem hún af smekkvísi sinni, þröngsýni og dómhörku nefndi:
"Bábiljur um orkupakka".
Verður nú drepið á reiðilestur þennan yfir flokksmönnum hennar og öðru efasemdarfólki um það, að nauðsynlegt og æskilegt sé, að Ísland gangi í Orkusamband ESB, en um það snýst OP#3. Lönd, sem verða í þessu Orkusambandi, eiga að stunda frjáls viðskipti með raforku og jarðgas undir regluverki og stjórn ACER, en alfarið án afskipta ríkisvaldsins í viðkomandi löndum.
Það er einmitt meginbreytingin með OP#3, að orkusamvinna aðildarlandanna breytist í Orkusamband þessara landa um að starfa á Innri markaði ESB og gera hann svo vel virkan og samhæfðan, að orkuverðið verði svipað, hvar sem er á þessum markaði (orkumverðsmunur mest 2,0 EUR/MWh eða innan við 0,3 ISK/kWh).
Lítum á skrif ritarans:
"Oft hefur verið haldið fram röngum og villandi fullyrðingum um málið, m.a. í bláa bæklingnum, sem fylgdi Morgunblaðinu í síðustu viku. Þar var gefið í skyn, að markmið þriðja orkupakkans fæli í sér, að Íslendingum væri skylt að leggja sæstreng til Evrópu. Markmið orkupakkans er vissulega að efla innri markaðinn, sem við höfum verið partur af síðan 1993, en breytir engu um, að endanlegt vald um millilandatengingar er hjá hverju landi fyrir sig. Það er margstaðfest af helztu sérfræðingum um EES- samninginn og einnig framkvæmdastjóra orkumála hjá ESB."
Það er auðvitað kolröng framsetning hjá Áslaugu Örnu, að einhver hafi haldið því fram, að íslenzka ríkinu eða Landsneti verði gert skylt að leggja sæstreng til útlanda. Það er langur vegur frá því og til þess, að ríkisvaldinu innan Orkusambandsins sé óheimilt að leggja stein í götu millilandatenginga. Þetta leiðir líka af fjórfrelsinu, sem annað virðist þurfa að víkja fyrir í Evrópuréttinum. Allt er þetta svo áréttað í rafmagnstilskipun 2019/944 í OP#4. Þar segir í gr. 3, að aðildarlöndin eigi að tryggja, að innlend löggjöf hindri ekki með óeðlilegum hætti raforkuviðskipti yfir landamæri og nýjar millilandatengingar fyrir raforku. Þetta er áréttað í gr. 51.1.
Héraðsdómarinn Arnar Þór Jónsson hefur í blaðagreinum varað við því, að sæstrengsfjárfestir geti á grundvelli réttinda, sem honum eru tryggðir til að fjárfesta í millilandatengingum, höfðað skaðabótamál gegn íslenzka ríkinu; samningsbrotamál ESA gegn ríkinu fyrir EFTA-dómstólinum er heldur ekki útilokað, ef Alþingi setur fyrirvara í íslenzkan rétt við reglugerðir eða tilskipanir í OP#3.
Áslaug Arna skrifar, að allir helztu sérfræðingar um EES-samninginn séu sömu skoðunar og hún um rétt íslenzkra yfirvalda til að banna sæstrenginn. Því er nú varlegt að treysta. Friðrik Árni Friðriksson Hirst og Stefán Már Stefánsson skrifuðu ítarlega skýrslu um OP#3, og meginráðlegging þeirra var sú, að neita að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara af þessum orkulagabálki ESB. Eyjólfur Ármannsson, sérfræðingur í Evrópurétti, skrifaði umsagnir til Alþingis um þingsályktanir og frumvarp tengd þessari innleiðingu og varaði eindregið við samþykkt orkupakkans m.a. á þessum forsendum um valdframsal vegna sæstrengs.
"Þá er fullyrt, að með innleiðingunni komi samræmd evrópsk löggjöf í stað íslenzkrar. Það er alrangt, því að við ákváðum árið 1999 að taka upp evrópska löggjöf í orkumálum og innleiddum hana fjórum árum síðar [stjórnskipulegum fyrirvara var aflétt af OP#1 árið 2000]. Þriðji orkupakkinn er því ekki frávik, heldur framhald á áratugalangri stefnu Íslands. Það er alfarið á hendi Íslands að taka ákvörðun um lagningu sæstrengs, eins og fram kom í samdóma áliti fræðimanna, sem komu fyrir utanríkismálanefnd. En til þess að taka af öll tvímæli hefur verið lagt fram lagafrumvarp, þar sem kveðið er á um, að ekki verði ráðizt í tengingu með sæstreng, nema að undangengnu samþykki Alþingis."
Þarna vísar Áslaug Arna til samþykktar á OP#1 í Sameiginlegu EES-nefndinni árið 1999. Hann fjallaði hins vegar ekkert um millilandatengingar. Það, sem gerist með OP#3 er, að með honum verður innleiddur Evrópuréttur á sviði millilandatenginga með bakhjarl í sameiginlegri orkustofnun ACER. Áslaug hefur líka hengt sig í það, að í OP#2 er skrifað í aðfararorðum, að þetta sé ætlunin. Af því dregur hún þær kolröngu ályktun, að lítil sem engin breyting verði með OP#3. Hefur manneskjan aldrei heyrt minnzt á Orkustefnu ESB og Lissabonsáttmálann, sem festi þessa stefnu í sessi ? OP#3 er aðferð ESB til að færa orkustefnu sína í lög aðildarlandanna, en EFTA-ríkin hafa aldrei samþykkt gildissvið Lissabonsáttmálans hjá sér. Lögfræðilegur barnaskapur virkar ekki traustvekjandi til leiðsagnar í evrópsku umhverfi.
OP#3 hefur þær afleiðingar, að markaðurinn (fjórfrelsið) ræður á sviði millilandatenginga, og ríkisinngrip verða þar með óheimil. Það er sama, hversu mörg lögfræðiálit ríkisstjórnin kaupir eða skjöl um gagnkvæman skilning orkukommissars ESB og utanríkisráðherra verða undirrituð, það verður á endanum EFTA-dómstólsins að dæma í deilumálum, sem upp munu rísa, og hann er bundinn við dómafordæmi ESB-dómstólsins. Það er allt á sömu bókina lært í EES.
Í því efni er nýleg málshöfðun Framkvæmdastjórnarinnar á hendur belgísku ríkisstjórninni fyrir gallaða innleiðingu á OP#3 víti til varnaðar. Belgíska þingið batt hendur belgíska Landsreglarans þannig, að lokaorðið um nýjar millilandatengingar yrði á hendi ríkisstjórnarinnar, en ekki Landsreglarans. Þetta er keimlíkt því, sem ætlunin er að gera hér. Það er ljóst, að ríkisstjórnin ráðleggur Alþingi að taka gríðarlega áhættu með því að samþykkja OP#3.
"Í orkupakkanum felst ekki afsal á forræði yfir auðlindinni. Takmarkað og afmarkað valdaframsal á einungis við um tiltekin afmörkuð málefni, ef Ísland ákveður að tengjast sæstreng til Evrópu."
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir gerir sér alls enga grein fyrir, hvað felst í OP#3. Fyrir utan það, að hlutverk hans er að ryðja brott öllum hindrunum, sem verða í vegi millilandatenginga, þá er hlutverk hans að koma á laggirnar markaðsstýringu raforkuvinnslunnar að fyrirmynd orkukauphalla í löndum ESB. Þetta kerfi getur hins vegar ekki virkað hérlendis, eins og á meginlandi Evrópu, því að þar sjá eldsneytismarkaðir fyrir nægri orku, en markaðsstýring raforkuvinnslu getur aðeins séð fyrir nægu afli. Kerfið mun bjóða hér upp á viðvarandi seljendamarkað, orkuskort og sveiflukennt orkuverð.
Vilji landsmenn fremur orkulindastýringu, eins og Landsvirkjun hefur tíðkað undanfarna áratugi fyrir sín miðlunarlón og jarðgufuver, þá mun Landsreglari segja nei. Hún jafngildir nefnilega ríkisafskiptum á markaði í viðleitni til að koma í veg fyrir orkuskort. Þarna mun strax koma fram, að Íslendingar tapa forræði á auðlindinni með OP#3, af því að hann skyldar þá til að leyfa markaðinum að ráða, óheftum.
Þetta er aðeins angi af orkustefnu ESB, þar sem grunnstef er, að raforkuvinnslan skal vera markaðsknúin og án afskipta ríkisvaldsins. Þess vegna ýtir Framkvæmdastjórnin eignarhaldi ríkisins á vatnsorkuvirkjunum út úr þessum geira.
Seint í pistli sínum kórónar Áslaug Arna vitleysuna:
"En ef Alþingi tæki þá ákvörðun að tengjast landi innan ESB, sem Bretland verður t.d. ólíklega innan skamms, myndi virkjast tveggja stoða fyrirkomulagið, þannig að Eftirlitsstofnun EFTA [ESA] tæki ákvörðun, en ekki ACER. Því er í engu tilviki um að ræða framsal til stofnana Evrópusambandsins, hvort sem við tengjumst eða ekki."
Sú lausn að nota ESA sem millilið á milli Landsreglarans og ACER er blekking til að láta líta svo út, að íslenzk orkumál verði ekki undir yfirþjóðlegri stjórn eftir samþykkt OP#3. ESA afritar allt, sem frá ACER kemur, og hefur ekki vald til að víkja frá textanum, því að þá kemur upp misræmi, sem getur endað með deilum fyrir dómstólum. Áslaug lætur eins og þessi samskipti Landsreglara og ACER hefjist fyrst með sæstreng. Það er misskilningur. Þau hefjast strax og Landsreglari tekur til starfa á Íslandi, enda verður Landsreglari öllum óháður, nema ACER.
19.8.2019 | 22:06
"Ótrúverðugur málflutningur" - hverra ?
Á opnum fundi með þingmönnum sjálfstæðismanna í Valhöll laugardaginn 10. ágúst 2019 varð formanni Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssyni, tíðrætt um það, sem hann nefndi "ótrúlega ótrúverðugan málflutning" miðflokksmanna á Alþingi. Þessi tegund orðræðu er flótti frá málefninu sjálfu, sem er Orkupakki#3 (OP#3). Okkur varðar lítið um, hvað fyrrverandi framsóknarmenn og aðrir sögðu og gerðu á tímabilinu 2014-2016 og jafnvel fyrr, auðvitað á grundvelli upplýsinga og athugana, sem þá voru fyrir hendi um mál, sem opinberlega lá í þagnargildi. Það er afstaða manna hér og nú og stefnumörkun til framtíðar, sem máli skiptir. Þetta er samt snöggtum skárri málflutningur en sá, sem utanríkisráðherra temur sér, enda verður vart neðar komizt.
Varaformaður Sjálfstæðisflokksins, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ÞKRG, notar pistilpláss sitt á Vettvangssíðu Morgunblaðsins 11. ágúst 2019 til endurtekinnar lofgjarðar um OP#3 og heldur í raun uppteknum hætti að berja hausnum við steininn. Ekkert nýtt kemur fram hjá ráðherranum, og hún kemur ekki með nein frambærileg rök fyrir því, að Alþingi aflétti stjórnskipulegum fyrirvara af OP#3. Þessi einstrengingsháttur er þyngri en tárum taki fyrir Sjálfstæðisflokkinn, af því að óbreytt stefna forystunnar mun leiða til kollsteypu Sjálfstæðisflokksins, en að sjálfsögðu ekki sjálfstæðisstefnunnar, sem mun rísa upp sem fuglinn Fönix, þegar búið verður að leiðrétta kúrsinn í einstaka málum.
Pistil sinn hóf ÞKRG þannig:
"Þú, lesandi góður, getur valið af hverjum þú kaupir rafmagn. Þú getur farið á netið, hvenær sem er, gert verðsamanburð með einföldum hætti og skipt um orkusala á augabragði."
Ráðherrann þakkar OP#1 og OP#2 þetta, en með þeim var komið á samkeppni á sviði heildsölu og smásölu raforku, en rafmagnsflutningar urðu einokunarstarfsemi um allt land og dreifing til neytenda varð samkvæmt úthlutun sérleyfis á tilgreindum landsvæðum. Kerfi þessu var komið á með fjölgun og sérhæfingu fyrirtækja, þannig að þau minnkuðu og yfirbyggingin í heild jókst. Raforkugeirinn sjálfur var andvígur þessu á sinni tíð og varaði við kostnaðarhækkunum fyrir neytendur. Það hefur gengið eftir.
Á tímabilinu 2003-2018 hefur raunhækkun gjaldskráa orðið 7 %- 8 % samkvæmt ritgerð Ragnars Árnasonar, prófessors í hagfræði við HÍ, í skýrslu Orkunnar okkar frá ágúst 2019. Það er kaldhæðnislegt, að ÞKRG skuli tíunda þessa orkupakka sem sérstaka neytendavernd, af því að neytendur geti valið sölufyrirtæki. Þau eru fá og neytendum þess vegna aðeins boðið upp á fákeppni. Við íslenzkar aðstæður snýst neytendavernd upp í andhverfu sína með orkupökkunum, og um þverbak mun keyra með OP#3, og með OP#4 mun náttúruverndin heldur betur fá að finna fyrir Evrópuréttinum, sem setur nýtingu endurnýjanlegra orkulinda í forgang.
"Árið eftir [2000] aflétti Alþingi stjórnskipulegum fyrirvara við þessa ákvörðun [OP#1]. Það var heillaskref fyrir neytendur, sem hafa í dag valfrelsi, sem þeir höfðu ekki þá. Og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands komst að þeirri niðurstöðu, að aðskilnaður sérleyfis- og samkeppnisrekstrar hefði leitt af sér þjóðhagslega hagkvæmara raforkukerfi."
Eins og að ofan greinir, er þetta mjög málum blandið hjá ráðherranum, og málflutningur hennar veður á súðum innantómra fullyrðinga. Valfrelsið hefur ekki leitt til annars en óþarfa raunhækkana vegna þess, að dregið hefur úr hagkvæmni stærðarinnar og heildaryfirbygging vaxið. Hvernig í ósköpunum HHÍ kemst að því við þessar aðstæður, að aðskilnaðurinn hafi orðið þjóðhagslega hagkvæmur, er ráðgáta.
"Ótrúlegum ósannindum hefur verið haldið að fólki um, að þriðji orkupakkinn feli í sér grundvallarbreytingar á skipan orkumála hér á landi. Það er einfaldlega ekki satt. Þriðji orkupakkinn breytir engu um eðli þeirrar frelsis- og markaðsvæðingar á framleiðslu og sölu rafmagns, sem ákveðin var með fyrsta orkupakkanum fyrir tuttugu árum - og sem var í fullu samræmi við stefnumörkun og aðgerðir Sjálfstæðisflokksins á þeim tíma, sem allar miðuðu að bættum hag neytenda."
Þarna fýkur moldin í logninu og ljóst, að höfundurinn er haldinn djúpstæðri vanþekkingu á viðfangsefni sínu, OP#3. Það er róttæk breyting, sem blasir við með OP#3. Orkusamvinna EES-ríkjanna breytist þá í Orkusamband með yfirþjóðlegu valdi yfir orkumálunum. Ekkert tiltökumál fyrir ESB-löndin, en óviðunandi breyting fyrir Ísland og Noreg vegna valdframsals til ESA/ACER. Orkusambandið er myndað með heimildum í Lissabonsáttmálanum, sem Ísland hefur aldrei undirgengizt. Æðsta eftirlits- og reglusetningarvald í raforkugeira Íslands verður í höndum ESB með ESA sem afritandi millilið fyrirmæla og upplýsinga. Þessi valdsmaður hefur hér verið nefndur Landsreglari (National Regulator). Þá var með OP#3 lagður grunnur að sameiginlegum orkumarkaði ESB, þótt tæpt hafi verið á millilandatengingum í formálsorðum OP#2. OP#3 snýst allur um millilandatengingar og innri markað orku.
"Voru þeir, sem þá stýrðu landinu, að afsala forræði á auðlindinni til Evrópusambandsins ? Nei, sannarlega ekki."
Orkupakkarnir fela í sér lögfestingu orkustefnu ESB í áföngum. Þegar EES-samningurinn var gerður 1991-1992, var rætt um orkusamvinnu á milli ríkjanna og hún sett í 4. viðauka samningsins. Með Lissabonsamninginum 2007 var stefnan mörkuð í átt að orkusambandi, og það var stofnað með OP#3. Orkusambandinu er stjórnað af ACER, sem er undir yfirstjórn Framkvæmdastjórnarinnar. Það er pólitískt nauðsynlegt að innleiða orkustefnu ESB í áföngum, af því að engin þjóð er tilbúin að afsala völdum yfir orkumálum sínum til Framkvæmdastjórnarinnar í einum rykk.
Með OP#3 myndast t.d skylda í stað valfrelsis til að innleiða markaðsstýringu raforkuvinnslunnar. Landsvirkjun neyðist þá til að gefa orkulindastýringu sína upp á bátinn. Hana er hins vegar nauðsynlegt að innleiða á landsvísu við íslenzkar aðstæður til að forðast orkuskort og viðvarandi seljendamarkað. Það mun Landsreglarinn ekki leyfa, því að orkulindastýring jafngildir opinberu inngripi, sem reglur "fjórfrelsisins" banna. Orkuvinnslufyrirtækin munu starfa með það eitt fyrir augum að hámarka tekjur sínar, en að treina vatn í miðlunarlónum eða að girða fyrir ofálag á virkjaðan jarðgufuforða verður aukaatriði í þessu fyrirkomulagi. Þetta verður afleiðingin af því að fórna forræði yfir orkulindunum til markaðarins undir reglusetningarvaldi ESB.
Svo kemur rúsínan í pylsuenda ráðherrans:
"Í þriðja orkupakkanum felst ekkert afsal á forræði yfir auðlindinni. Ekkert raunverulegt valdaframsal á sér stað, vegna þess að Ísland er ótengt. Engar erlendar stofnanir öðlast valdheimildir hér á landi við innleiðinguna. Allir fræðimenn, sem fjallað hafa um málið, eru sammála um, að innleiðingin standist stjórnarskrá."
Þetta er allt saman rangt hjá iðnaðarráðherra, enda rökstuðningur vesældarlegur, þ.e.a.s. "vegna þess að Ísland er ótengt". Það má kalla þetta "hundalógikk".
Eftirlits- og reglusetningararmur ACER á Íslandi, sem virðist eiga að hýsa innan vébanda Orkustofnunar og skapa þar með stórfellda hagsmunaárekstra þar innanbúðar, hér eftir nefndur Landsreglari, fær það sem sitt fyrsta hlutverk að koma hér á markaðsstýringu raforkuvinnslunnar að fyrirmynd ESB, þótt þetta fyrirkomulag sé ófært um að tryggja hagsmuni neytenda við íslenzkar aðstæður, þar sem hér verður markaðsstýringunni bæði ætlað að sjá markaðinum fyrir nægu afli og nægri orku, en eldsneytismarkaðirnir sjá um hið síðar nefnda á meginlandinu.
Setjum sem svo, að Íslendingar mundu fremur kjósa þrautreynt kerfi við íslenzkar aðstæður, orkulindastýringu, sem hefur verið við lýði innan Landsvirkjunar áratugum saman, en þarf að útvíkka til alls landsins (orkuvinnslufyrirtækja) með lagaheimildum, enda óvíst, hversu lengi Landsvirkjun heldur núverandi markaðsstöðu sinni. Orkulindareglari þarf að fá lagaheimild til að treina vatnið í miðlunum vatnsorkuvera og til að takmarka álag á virkjaðan jarðgufuforða til að hámarka orkuvinnsluna til lengdar og forða landsmönnum frá orkuskorti.
Landsreglari mun að öllum líkindum ekki heimila þetta, því að það jafngildir opinberu inngripi í rekstur fyrirtækja á samkeppnismarkaði, sem er heilög kýr í heimi "fjórfrelsis" EES. Hvað þýðir þetta ? Það þýðir, að Íslendingar hafa misst forræði eigin orkulinda í hendur yfirþjóðlegs valds, ACER, sem stjórnar Landsreglara gegnum "leppinn" ESA (Eftirlitsstofnun EFTA).
Það er mjög frjálslega farið með staðreyndir að slengja því fram í pistli, að engir fræðimenn, sem fjallað hafa um málið, hafi efasemdir um, að það standist stjórnarskrá. Nægir að nefna skýrslu Friðriks Árna og Stefáns Más frá í vor, sem er ein samfelld aðvörun til Alþingis og ráðlegging um að senda OP#3 aftur til Sameiginlegu EES-nefndarinnar. Fréttir af fundi utanríkismálanefndar Alþingis með þessum lagasérfræðingum bendir til, að þeir gefi aðferð iðnaðarráðherra falleinkunn, þ.e. að leiða OP#3 í lög með reglugerð og taka þar fram, að ákvæði millilandatenginga komi ekki til framkvæmda fyrr en sæstrengur hefur verið lagður. Þetta er aðferð, sem býður upp á samningsbrotamál að dómi þeirra tvímenninganna.
Í lok pistils síns ritar ráðherrann, eins og hún sé úti á þekju:
"Fremur en að hverfa aftur til hafta og einokunar ættum við að mínu viti að horfa til framtíðar og freista þess að nýta kosti samkeppninnar enn betur en hingað til, í þágu neytenda, ásamt því að tryggja betur afhendingaröryggi og auka jafnræði varðandi dreifingarkostnað raforkunnar, eins og við höfum fullar heimildir til að gera."
Aðgerðir samkvæmt OP#1-2 til að efla samkeppni hafa því miður hingað til engan árangur borið fyrir neytendur. Þvert á móti hefur rafmagnsreikningur margra, einkum í dreifbýli, hækkað mjög mikið umfram verðbólgu síðan 2003 og um 7 % - 8 % að raunvirði að jafnaði yfir landið allt. Með OP#3 mun keyra um þverbak, því að þá verður tekin upp markaðsstýring raforkuvinnslunnar, sem hafa mun skelfilegar afleiðingar fyrir hag allra raforkunotenda á Íslandi. Mikil er ábyrgð þeirra, sem ætla að böðlast áfram með þetta mál þrátt fyrir alvarlegar aðvaranir.
Dreifingarkostnaður landsbyggðarinnar er hneyksli, en á eftir að hækka umtalsvert, þegar Landsreglarinn fer að gefa út reglur sínar um útreikninga gjaldskráa. Ef ráðherrann heldur, að hún geti loks eftir dúk og disk farið að hafa áhrif á þessa verðlagningu, eftir að hún hefur afhent Landsreglaranum völdin með innleiðingu OP#3, þá ætti hún að líta til Svíþjóðar og skoða tugprósenta hækkun hjá dreifiveitum, eftir að Landsreglari Svíþjóðar tók til starfa. Þar ætlaði ráðherra að grípa inn og láta lækka gjaldskrána. Hann var gerður afturreka með bréfi frá Framkvæmdastjórninni og hótun um málssókn fyrir ESB-dómstólinum. Þannig fór um sjóferð þá. Það eiga ýmsir eftir að iðrast innleiðingar á OP#3.
15.8.2019 | 10:54
Framsal fullveldis yfir auðlindum landsins
Stefna Evrópusambandsins í orkumálum er að búa til einn samhæfðan orkumarkað fyrir rafmagn, þar sem öll landssvæði og lönd EES eru rækilega samtengd. Meginorkuflutningarnir og dreifing til neytenda eru einokunarstarfsemi, en innan orkuvinnslunnar skal fjórfrelsið ríkja óheft og óbjagað af ríkisvaldinu.
Framkvæmdastjórnin vill einkavæða vatnsorkuver í ríkjum, þar sem þau eru í talsverðum eða miklum mæli í höndum ríkisfyrirtækja. Ástæðan er sú, að hún vill fá aukna fjárfestingargetu og fjárfestingaráhuga inn í þennan geira til að búa í haginn fyrir mikla aukningu uppsetts vélaafls í vatnsorkuverum, jafnvel tvö- til þreföldun, til að bæta orkuframboðsmissi frá vindmyllunum upp, þegar lygnir á álagstíma.
Til þess að gera þetta þykir einfaldast að beita Þjónustutilskipun #123/2019 á ríkisvaldið, og er það þá sakað um úthlutun takmarkaðra gæða á ógegnsæjan og ívilnandi hátt til ríkisfyrirtækja. Þarna séu samkeppnisreglur brotnar, og þessum gæðum verði að ráðstafa til hæstbjóðanda í útboði á um 30 ára fresti. Fyrirtæki, sem öðlast afnotarétt á orkulindinni, hér vatnsréttindunum, geta sett virkjunareigandanum stólinn fyrir dyrnar og samið um "sanngjarnt" verð á virkjun. Það er jafnframt ljóst, að 0,36 M manns á Íslandi geta ekki staðið gegn 460 M manns (eftir BREXIT) á opnum markaði.
Þetta mál, sem þegar hefur rekið á fjörur íslenzku ríkisstjórnarinnar, sem ólíkt norsku ríkisstjórninni hefur enn ekki svarað því, að því bezt er vitað, varðar fullveldisrétt þjóðarinnar, þótt lögfræðileg umræða hafi ekki verið áberandi um það. (Norska ríkisstjórnin var 5 vikur að semja svar til ESA við fyrirspurn um úthlutunarfyrirkomulagið norska.) Það er fullveldisréttur þjóðarinnar, og ríkisvaldið fer með það vald, að ráðstafa afnotarétti yfir auðlindum sínum án afskipta erlends valds, hvað þá yfirþjóðlegs valds. Þessu þarf að gera ESA bréflega grein fyrir, en síðasta ríkisstjórn og sú núverandi hafa heykzt á því að halda fram fullveldisrétti þjóðarinnar í þessu máli. Það lofar ekki góðu um framhald innleiðingar á Orkustefnu ESB hérlendis með orkupökkunum.
Af þessum sökum stangast orkustefna ESB á við fullveldi landsins, og allir orkupakkarnir eru reistir á henni, og þess vegna er nauðsynlegt að synja OP#3 samþykkis. Í raun þarf að fá undanþágu frá orkustefnu ESB og þar með öllum orkupökkunum.
Í grein sinni í sumarhefti Þjóðmála 2019,
"Umrót vegna orkupakka",
hafði Björn Bjarnason, formaður nefndar um mat á reynslunni af EES, eftirfarandi eftir Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, í umræðum á Alþingi 22. marz 2018 um OP#3:
"Hér er um að ræða í efnisatriðum mjög stórt mál, sem á yfirborðinu, hugsanlega, varðar ekki með beinum hætti raforkumarkaðinn vegna þess, að boðvald viðkomandi sameiginlegrar stofnunar [ACER] virkjast ekki fyrr en íslenzki markaðurinn tengist þeim evrópska."
Þessi málflutningur stenzt ekki skoðun, eins og sýnt var fram á í pistlinum:
https://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2238491
Þar kemur fram, að íslenzk yfirvöld munu þurfa að sæta því, að Landsreglarinn innleiði hérlendis markaðsstýringu raforkukerfisins að hætti ESB, þótt yfirvöld kynnu að kjósa fremur orkulindastýringu, sem stunduð hefur verið innan Landsvirkjunar um árabil, en þarf að verða opinber stefnumörkun í lögum og spanna allt landið, þ.e. öll virkjanafyrirtæki yfir tiltekinni stærð. Þetta verður fyrsta aðalverkefni Landsreglarans, því að honum ber að aðlaga íslenzka raforkumarkaðinn að þeim evrópska áður en hingað verður lagður sæstrengur. Að boðvald ACER "virkist" fyrst með sæstreng er rangt. Það virkjast strax við innleiðingu OP#3.
Björn Bjarnason bætir síðan við:
"Þarna sló Bjarni strax varnagla vegna sæstrengsins. Athuganir lögfræðinga og álit hafa síðan áréttað þennan grundvallarþátt. Það verði ekkert framsal án sæstrengs, og þrátt fyrir strenginn telja sumir ekki um neitt framsal að ræða."
Varðandi álit lögfræðinga er það eitt að segja, að á meðal þeirra eru deildar meiningar um OP#3. Verður að segja alveg eins og er, að ólíkt hafa nú komið traustari röksemdafærslur frá þeim, sem varað hafa við innleiðingu OP#3 en hinum. Nægir að nefna þá hæpnu kenningu, sem ekki styðst við neitt dómafordæmi frá ESB-dómstólinum, að Evrópuréttur víki fyrir Hafréttarsáttmálanu. Það er þvert á móti. Hitt er undarlegra, að þeir skuli ekki hafa athugað þá afleiðingu innleiðingar Orkustefnu ESB hér, sem reist er á Lissabonsáttmálanum frá 2009, sem hefur ekkert gildi hér, að orkulindarnar munu margar hverjar lenda í höndum sterkra erlendra orkufyrirtækja, sem eru líkleg til að bjóða hæst í afnotaréttinn. Það verður að spyrna við fótum og beita fullveldisréttinum yfir auðlindum landsins til að koma í veg fyrir þá einkavæðingu, sem ESA og Framkvæmdastjórnin stefna að.
Síðan kom tilvitnun í Bjarna Benediktsson úr sömu umræðu á Alþingi við Þorstein Víglundsson:
"Það, sem ég á svo erfitt með að skilja, er áhugi háttvirts þingmanns og sumra hér á þinginu á að komast undir boðvald samevrópskra stofnana. Hvað í ósköpunum liggur mönnum á að komast undir sameiginlega raforkustofnun Evrópu á okkar einangraða landi með okkar eigið raforkukerfi ? Hvers vegna í ósköpunum hafa menn áhuga á að komast undir boðvald þessara stofnana ?"
Því miður virðist hér um að ræða einskæra "retorikk", málskrúð, hjá formanninum, nokkuð sem nú tíðkast að kalla "poppúlisma", sem er auðvitað lýðskrum, þ.e. að slá um sig með einhverju, sem aldrei er ætlunin að standa við. Það hefur nú komið á daginn hjá þessum formanni Sjálfstæðisflokksins, að honum liggur svo mikið á að koma þjóðinni undir boðvald ACER og inn í Orkusamband ESB, að hann ljær ekki máls á að neita að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara til að skapa frekara svigrúm til samninga, þótt til þess hafi löggjafinn fulla heimild.
Ekki tekur betra við, þegar íhuguð eru ummæli varaformanns Sjálfstæðisflokksins, Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, um OP#3, í viðtali í Fréttablaðinu 13.07.2019:
"Málið snýst um réttindi neytenda og upplýsingaskyldu orkufyrirtækja, sem eru að mestu opinber. Umræðan hefur að miklu leyti snúizt um sæstreng. Alveg óháð þriðja orkupakkanum væri hægt að leggja sæstreng. Það er jafnerfitt að gera það núna og áður. En vegna umræðunnar höfum við girt fyrir það, að hægt sé að leggja sæstreng með ákvörðun eins ráðherra einhvern tíma í framtíðinni. Nú er það Alþingi, sem þarf að samþykkja slíka framkvæmd, og opnað hefur verið á þjóðaratkvæðagreiðslu um framkvæmdina, ef einhvern tímann kæmi til þess, að slík framkvæmd kæmist á dagskrá. Því hún er ekki á dagskrá þessarar ríkisstjórnar."
Þessi lesning er algerlega með ólíkindum frá ráðherra og er, frómt frá sagt, alveg út úr kú:
1) Réttindi neytenda verða fyrir borð borin á altari markaðsstýringar raforkuvinnslunnar. Í því kerfi er ein stefnumörkun öðrum framar: að hámarka tekjur orkubirgjanna.
2) Ef snuðri Landsreglarans verður ekki sinnt, getur hann lagt fésektir á viðkomandi fyrirtæki allt að 10 % af árlegri veltu.
3) Fyrir Íslendinga þýðir OP#3 sæstreng, svo að það er ekki undarlegt, að umræðan snúist um hann. Allur OP#3 snýst um millilandatengingar í Orkusambandi ESB.
4) Ef Alþingi samþykkir OP#3, tekst ríkisvaldið á hendur alvarlegar skyldur. Þær eru að sjálfsögðu ekki fólgnar í að leggja sæstreng, heldur að byggja upp alla innviði í landinu, sem nauðsynlegir eru fyrir sæstreng samkvæmt "Union List of Projects of Common Interest". Einnig verður um að ræða s.k. neikvæðar skyldur, sem verða fólgnar í að leggja engan stein í götu sæstrengslagnar. Að áskilja samþykki Alþingis fyrir tengingu sæstrengs við kerfi Landsnets er klárt brot á þessari skyldu samkvæmt OP#3 og verður brotið á bak aftur með vísun ESA til dóms ESB-dómstólsins í máli Framkvæmdastjórnarinnar gegn Belgíu 2019 eða með skaðabótamáli frá sæstrengsfjárfesti.
11.8.2019 | 15:06
Umrót í Þjóðmálum
Tímaritið Þjóðmál er bæði virðingarvert og fróðlegt ársfjórðungsrit. Þar á Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, fastan samastað, "Af vettvangi stjórnmálanna". Þarna hefur hann í undanförnum heftum hrist úr klaufum og slett úr hala um Þriðja orkupakkann, eins og honum einum er lagið. Er þar þó lítt af setningi slegið og skjóta þessi skrif skökku við málefnalegar greinar tímaritsins. Það er til að æra óstöðugan að elta ólar við téðan Björn, en í sumarheftinu 2019 keyrir þó svo um þverbak, að ekki verður með góðu móti hjá komizt að leiðrétta þennan fasta penna Þjóðmála, lesendanna vegna:
"Í ályktun landsfundarins segir: "Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenskum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins." Þessi ályktun snýr ekki að þriðja orkupakkanum þótt andstæðingar hans láti þannig. Í honum felst ekkert valdaframsal."
Báðar fullyrðingarnar á eftir tilvitnuninni í ályktun Landsfundar eru alrangar, eins og nú skal sýna fram á.
Téður Björn hefur lesið rafmagnstilskipun Þriðja orkupakkans, eins og skrattinn Biblíuna, þannig að hann hefur öðlazt á orkupakkanum í heild öfugsnúinn skilning. Hann gerir lítið úr áhrifum hans, og þau helztu séu aukið sjálfstæði Orkustofnunar til bættrar neytendaverndar. Þetta éta þau hvert upp eftir öðru, sem helzt vilja sjá Alþingi aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara af OP#3.
Eftirlits- og reglusetningarstofnun ESB á orkusviði, ACER (Orkustofnun ESB), er með skrifstofustjóra á sínum vegum í hverju aðildarríki, og svo verður einnig í EFTA-löndunum þremur, sem aðild eiga að EES, eftir samþykkt OP#3, nema þar verður ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) milliliður fyrir samskipti við skrifstofustjórann, sem hefur verið nefndur Landsreglari á íslenzku (National Energy Authority). Þessi æðsti valdsmaður raforkumála á Íslandi eftir innleiðingu OP#3, sem verður algerlega óháður íslenzkum stjórnvöldum, en skyldugur til að framfylgja stefnu ESB í orkumálum, mun samkvæmt þessum orkulagabálki ESB (tilskipanir og reglugerðir OP#3) fá 2 meginverkefni:
a) að stuðla að myndun vel virks raforkumarkaðar, sem sé samhæfanlegur við raforkumarkaði ESB.
b) að ryðja öllum hindrunum úr vegi tengingar Íslands við hinn sameiginlega innri raforkumarkað ESB um aflsæstreng.
Verkefni a felur í sér að koma hér á fót markaðsstýringu raforkuvinnslunnar. Hún felur það í sér, að vinnslu virkjananna verður alfarið stýrt eftir því verði, sem markaðsstjóri orkukauphallar úrskurðar, að feli í sér jafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar. Framleiðendum í þessu markaðskerfi ber engin skylda til að koma í veg fyrir orkuskort, og horfur á orkuskorti munu þrýsta orkuverðinu upp. Aðalviðmið framleiðendanna verður að hámarka tekjur sínar. Eftir samtengingu íslenzka raforkukerfisins við innri markaðinn (með aflsæstreng), mun verðið til raforkunotenda á Íslandi ekki lengur ráðast af aðstæðum hérlendis, heldur munu íslenzkir raforkukaupendur þurfa að bjóða hærra verð en keppinautarnir erlendis til að fá orku, úr íslenzkum orkulindum eða með innflutningi um sæstreng.
Er ekki deginum ljósara, að ályktun Landsfundarins hittir beint í mark að þessu leyti ? Hann hafnaði frekara framsali á yfirráðum yfir íslenzkum orkumarkaði til stofnana ESB, en eftir innleiðingu OP#3 verða yfirráðin yfir íslenzka raforkumarkaðinum í höndum Landsreglara, sem er fulltrúi ACER, Orkustofnunar ESB. Þeir, sem þræta fyrir þetta, hafa annaðhvort fallið í freistni orðhengilsháttar eða ekki áttað sig á merkingu OP#3.
Felur þessi innleiðing á markaðsstýringu orkuvinnslunnar að hætti ESB í sér valdframsal ? Já, það er enginn vafi á því. Þetta verður þvingað ferli, sem hugsanlega verður innleitt í óþökk yfirvalda, sem kunna að kjósa fremur þá orkulindastýringu, sem þróuð hefur verið um árabil innan vébanda Landsvirkjunar, en þarf að innleiða á landsvísu, ef fullur árangur á að nást (með lagabreytingu). Þetta felur í sér að stofna til orkulindaskrifstofu, t.d. innan þess hluta Orkustofnunar, sem ekki mun heyra undir Landsreglara. Þessi skrifstofa þarf að fá gögn frá öllum helztu virkjunum landsins, og hún þarf að hafa vald til að takmarka minnkun vatnsforðans í miðlunarlónum til að draga úr hættu á orkuskorti og sömuleiðis til að halda álaginu á gufuforðabúr virkjaðra jarðgufusvæða innan vissra marka til að endingartími forðabúrsins verði sem lengstur. "Orkulindastjóri" þarf líka að geta beitt hvötum til að hefja nýja virkjun í tæka tíð til að forða aflskorti.
Það er mjög líklegt, að Landsreglari/ESA/ACER muni telja þetta óleyfilegt inngrip ríkisvaldsins í frjálsan markað, þar sem óheft fjórfrelsið á að ríkja, svo að ríkisstjórn og Alþingi muni ekki komast upp með nýja lagasetningu, sem nauðsynleg er, til að orkulindastýring Landsvirkjunar verði útvíkkuð á landsvísu.
Þessi rökleiðsla varpar ljósi á, að innleiðing OP#3 felur í sér valdframsal, sem bannað er í tilvitnaðri Landsfundarályktun sjálfstæðismanna frá marz 2018. Hér er reyndar um að ræða valdframsal til erlendrar stofnunar, sem bindur hendur stjórnvalda og löggjafa og kallast þess vegna fullveldisframsal.
8.8.2019 | 15:06
Þingmenn skoði hug sinn til Orkupakka #3
Iðnaðarráðherra, sem er ábyrg fyrir orkumálum landsins, hefur látið í ljós, að samþykkt OP#3 sé eðlilegt framhald á lögleiðingu OP#1 og OP#2 hérlendis og að aðaláhrif hans verði að auka sjálfstæði Orkustofnunar (OS) til að framfylgja bættri neytendavernd fyrir raforkukaupendur.
Þetta er allt saman kolrangt hjá ráðherranum, og þegar af þeirri ástæðu verða þingmenn að staldra hér við og hugsa sinn gang. Bæði utanríkisráðuneytið og iðnaðarráðuneytið hafa tekið skakkan pól í hæðina í þessu máli og eru í þann veginn að leiða þjóðina í hinar verstu ógöngur með glámskyggni sinni. Styrkur lýðræðisþjóðfélagsins er, að slík grundvallarmistök ráðherra, þingmanna og stjórnmálaflokka þeirra, draga pólitískan dilk á eftir sér. Þess sjást nú þegar merki, sem þó eru smáræði hjá því, sem búast má við, ef allt fer á versta veg.
Grunnstefið í orkustefnu Evrópusambandsins (ESB) er að búa í haginn fyrir og þróa innri raforkumarkað með samtengdum og snurðulaust samrekanlegum raforkukerfum aðildarlanda. OP#1, sem var innleiddur hér með raforkulögum 2003, átti að leggja grundvöll að frjálsri samkeppni á sviði raforkuvinnslu og -sölu; með OP#2, innleiddum hér 2008, átti (valfrjálst þó) að koma á laggirnar markaðsstýringu raforkuvinnslunnar, en Landsnet, sem er með verkinn, hefur enn ekki látið af því verða, heldur er hér orkulindastýring Landsvirkjunar við lýði að mestu leyti, þar eð Landsvirkjun er ríkjandi á markaðinum.
Með OP#3 verður sú meginbreyting, að á grundvelli Lissabon-sáttmálans, sem er stjórnarskrárígildi ESB, breytist orkusamvinna aðildarlandanna í Orkusamband ESB með stofnsetningu yfirþjóðlegrar Orkustofnunar ESB-ACER. Stofnað var til valdamikils embættis á orkusviði í hverju landi, Landsreglara, sem tekur við eftirlits- og reglusetningarskyldum og -völdum orkuráðuneyta og orkustofnana í hverju landi og verður undir beinni stjórn ACER með ESA sem millilið fyrir EFTA-löndin.
Á Íslandi er ætlunin að hafa þetta nýja embætti, sem á að verða óháð íslenzkum stjórnvöldum, innan vébanda OS, og jafnvel gegni Orkumálastjóri þessu starfi. Hann þarf þá að þjóna tveimur herrum, sem býður upp á óhjákvæmilega hagsmunaárekstra. Í Noregi verður þetta sjálfstætt embætti, enda óvíst, að ESB sætti sig við samkrull trúnaðar við landsyfirvöld og við ACER í sömu persónu. Það er ekki hægt að þjóna tveimur herrum. Stjórnlagalega orkar Landsreglari tvímælis hérlendis, og það birtist enn skýrar með OP#4, en látum það liggja á milli hluta hér.
Til að gera langa sögu stutta má segja, að Landsreglari hafi tvö meginhlutverk samkvæmt OP#3:
Í fyrsta lagi ber honum að aðlaga íslenzka raforkumarkaðinn fullkomlega að innri raforkumarkaði ESB með því að koma hér á laggirnar markaðsstýringu raforkuvinnslunnar.
Þetta óhefta markaðskerfi mun hafa slæmar hliðarverkanir vegna sérstöðu íslenzka orkukerfisins. Þetta ESB-kerfi er hannað til að sjá neytendum fyrir nægu afli á hverjum tíma, og á meginlandi Evrópu (og á Bretlandi) er það hlutverk eldsneytismarkaða að sjá orkuverunum fyrir nægri frumorku.
Hér á landi verður aftur á móti ætlazt til þess af þessu kerfi, að það sjái bæði fyrir nægri frumorku (vatn í miðlunarlónum og gufa í virkjuðum jarðhitageymum) og nægu rafafli. Markaðsstýring raforkuvinnslu er ófær um það. Eftir innleiðingu hennar hér eykst þess vegna hættan á orkuskorti verulega, og hér verður viðvarandi seljendamarkaður, af því að orkuvinnslufyrirtækin munu ekki sjá sér hag í að auka framboð orku mikið í einu.
Þetta ástand er augljóslega andstæða neytendaverndar, því að hætta á orkuskorti þýðir hækkun raforkuverðs í þessu kerfi og tíðar skerðingar eða afnám á framboði ótryggðrar orku, sem er ódýrari en forgangsorka. Hér þarf í staðinn sérsniðna orkulindastýringu fyrir allt landið (öll helztu orkuvinnslufyrirtækin), en Landsreglarinn mun vafalaust banna hana, þar sem hún felur í sér óleyfilegt inngrip hins opinbera í frjálsan samkeppnismarkað. Þar á hvert fyrirtæki að leitast við að hámarka tekjur sínar, og enginn ber ábyrgð á því, hvort næg orka verður fyrir hendi í kerfinu í næstu viku.
Með orkulindastýringu raforkuvinnslunnar er ekki verið að finna upp hjólið, því að Landsvirkjun hefur lengi þróað slíkt kerfi innan sinna vébanda. Það má byggja á þeim grunni og útvíkka kerfið fyrir allt landið. Hætt er við, að Landsvirkjun muni afleggja sína orkulindastýringu, ef/þegar Landsreglari kemur hér á markaðsstýringu raforkuvinnslunnar, og undir Landsreglara, fjórfrelsinu og beitingu ESA á Þjónustutilskipun 123/2013 er líklegt, að fljótlega kvarnist út úr Landsvirkjun, sem verður raforkukaupendum sízt til hagsbóta.
Hitt meginhlutverk Landsreglara samkvæmt OP#3, eftir að hafa aðlagað hér raforkumarkaðinn að innri markaði ESB, verður að ryðja brott öllum hindrunum úr vegi raunverulegrar tengingar landsins við innri markað ESB.
Þar með vinnur hann að aðalstefnumiði ESB á orkusviði, þ.e. að samtengja öll lönd Orkusambandsins með öflugum hætti á einum markaði, þar sem fjórfrelsið ríkir. Lönd, sem kunna að vera aflögufær um raforku úr endurnýjanlegum orkulindum, vekja alveg sérstakan áhuga Framkvæmdastjórnarinnar, eins og berlega kemur fram í OP#4. Þessu til sannindamerkis varðandi Ísland er, að ESB hefur valið "Ice-Link"-verkefnið, sem er um 1000 MW sæstrengur á milli Íslands og Skotlands, inn á "Union List of Projects of Common Interest" eða Sambandslista verkefna sameiginlegra hagsmuna. Inn á þessa skrá Evrópusambandsins fara aðeins verkefni af Kerfisþróunaráætlun ESB, sem hæstu einkunn hljóta í ströngu matsferli ENTSO-e, Samtaka evrópskra kerfisstjóra, þar sem fulltrúi Landsnets á sæti.
Það má þannig slá því föstu, að á meðal stefnumarkenda ESB sé ótvíræður áhugi á "Ice-Link". Það er vafalaust áhugi hjá brezka Landsreglaranum á þessu verkefni, því að hann hefur hvatt mjög til lagningar "NorthConnect", 1400 MW sæstrengs á milli Hörðalands í Vestur-Noregi og Petershead á Skotlandi. Vegna hitans í norsku sæstrengsumræðunni bað ríkisstjórnin norsku Orkustofnunina, NVE, um að fresta afgreiðslu umsóknar um "NorthConnect" fram yfir sveitarstjórnarkosningar í september 2019 í Noregi.
Komi upp ágreiningur á milli íslenzka og brezka Landsreglarans um "Ice-Link" eða þess íslenzka og írska, ef Bretar ganga úr ACER, sem er spurning, þótt ekki sé lengur spurning um BREXIT 31.10.2019, þá mun ACER úrskurða um þann ágreining. Eftir að Alþingi hefur innleitt OP#3 í íslenzk lög, og úrskurði ACER, að sæstrenginn skuli leggja, verður engin leið fyrir íslenzk yfirvöld til að hindra lagningu slíks strengs og tengingu við íslenzka meginflutningskerfi raforku án þess að baka ríkissjóði stórfellda skaðabótaskyldu, eins og m.a. Arnar Þór Jónsson, dómari hefur bent á. Hún getur numið tugum milljarða ISK, sem verður útreiknað tjón sæstrengsfjárfesta, sem orðið hafa hlutskarpastir í útboði ACER, yfir eitthvert árabil. Við þetta bætist hið pólitíska tjón, því að slík málaferli munu líklega hafa slæm áhrif á EES-samstarfið og forkólfum ESB mun þykja sem Íslendingar hafi ekki staðið við skuldbindingar sínar, sem þeir tókust á hendur við innleiðingu OP#3.
Í þessu sambandi er vert að hafa í huga nýlega málshöfðun Framkvæmdastjórnarinnar gegn ríkisstjórn Belgíu fyrir ESB-dómstólinum fyrir ranga innleiðingu OP#3. Þar ætlaði ríkisstjórn Belgíu sér m.a. að eiga síðasta orðið um millilandatengingar.
Þess má að lokum geta, að samkvæmt tilskipun 2019/944, gr. 3, sem er í OP#4, eiga aðildarlöndin að tryggja, að innlend löggjöf hindri ekki með "með óeðlilegum hætti" nýjar millilandatengingar fyrir raforku. Allt ber hér að sama brunni. Málatilbúnaður ríkisstjórnar Íslands í orkupakkamálinu stendur á brauðfótum .
5.8.2019 | 10:42
"Vér mótmælum allir"
Arnar Þór Jónsson,(AÞJ), héraðsdómari, greindi afleiðingar EES-samningsins með hliðsjón af Orkupakka #3 (OP#3) meistaralega í sögulegu, réttarfarslegu og lýðræðislegu ljósi í grein sinni,
"Fullveldið skiptir máli",
í Morgunblaðinu 27. júlí 2019. Verður að mælast til þess, að allir þingmenn kynni sér grein þessa rækilega áður en þeir gera upp hug sinn til OP#3 og greiða um hann atkvæði á Alþingi. Sú atkvæðagreiðsla mun fara á spjöld sögunnar og ráða miklu um hina pólitísku framvindu á landi hér næstu árin. Verður nú vitnað ótæpilega í þessa lærdómsríku ritsmíð:
"Í ljósi frétta og vaxandi þunga í almennri umræðu um málið, tel ég ekki ofmælt, að ágreiningur um innleiðingu O3 sé að umbreytast í djúpstæða pólitíska krísu, sem skekur ekki aðeins ríkisstjórnarflokkana á grunninum, heldur einnig flokka í stjórnarandstöðu."
Sé þetta rétt athugað hjá AÞJ, sem djúpstæður ágreiningur í stjórnarflokkunum ber vott um, þá má vissulega vænta umbrota í þeim og jafnvel stefnubreytingar með tíð og tíma. Þessi grein AÞJ er þungt lóð á þá vogarskál og mun e.t.v. marka þáttaskil.
"Ég tel m.ö.o., að rætur ágreiningsins um innleiðingu O3 liggi djúpt í réttarvitund almennings og stöðu Íslands gagnvart ESB á grunni EES-samstarfsins."
AÞJ telur m.ö.o., að EES-samstarfið samræmist ekki lengur réttarvitund almennings, hafi það nokkurn tíma gert það. Við þær aðstæður er ljóst, að einhverjir stjórnmálaflokkanna munu fljótlega endurskoða afstöðu sína til EES-samstarfsins, og það er nákvæmlega það, sem búizt er við í Noregi líka. Þar er reiknað með, að EES-samstarfið verði kosningamál í kosningabaráttunni 2021 fyrir Stórþingskosningarnar. Sama ár verður Alþýðusambandsþing í Noregi, og þar er reiknað með, að meirihluti þingfulltrúa hafi fengið sig fullsadda af einkavæðingarfyrirskipunum ESA á raforkuvinnslu og járnbrautarekstri og réttindaskerðingum verkafólks. Ályktun LO-þingsins gegn EES mun, ef að líkum lætur, hafa áhrif á afstöðu Verkamannaflokksins til EES og við ríkisstjórnarmyndun eftir þingkosningarnar haustið 2021.
Þetta ólýðræðislega EES-fyrirkomulag, sem getur framkallað djúpstæðar samfélagsbreytingar, sem aldrei hafa þó verið ræddar í kosningabaráttu eða innan stjórnmálaflokkanna til neinnar hlítar, er að nálgast leiðarenda og hefur farið fé betra.
"Það er ekkert feimnismál að segja eins og er, að í EES-samstarfinu hafa Íslendingar verið móttakendur reglna, en ekki tekið þátt í mótun þeirra. Það er heldur ekkert ljótt að segja það hreint út, að slík staða er engu lýðræðisríki sæmandi til lengdar. Slík staða er heldur ekki í neinu samræmi við þann lagalega grunn, sem lagður var að stofnun Alþingis árið 930 og mótað hefur lagahefð Íslendinga alla tíð, þrátt fyrir löng tímabil niðurlægingar, undirokunar og kúgunar."
Þegar dómari kemst að þeirri niðurstöðu, að EES-samningurinn samræmist ekki grundvellinum að stofnun Alþingis við Öxará 930, þá er ljóst, að EES-aðildin er að verða fleinn í holdi þjóðarinnar, sem verður að fjarlægja hið allra fyrsta, ef ekki á verra að hljótast af.
Brezka þjóðin, eða öllu heldur Englendingar, þoldi ekki lengur við í ESB, og sat hún þó við borðið, þar sem reglur eru samdar og ákvarðanir teknar. Hún gekk hins vegar sjaldnast í takti við öxulríkin Frakkland og Þýzkaland, sem dunda við stefnumótun tvær einar að hætti stórvelda. Er nú ljóst með yfirburðasigri Borisar Johnson í formannskjöri brezka Íhaldsflokksins, að draga mun til tíðinda í útgöngumálum Breta í 31.10.2019.
Æskilegast er, að EFTA, með Svissland innanborðs, geri í kjölfarið víðtækan fríverzlunarsamning við Bretland, og Boris og Donald munu mynda einhvers konar öxul yfir Atlantshafið og fríverzlunarsamningur á milli landa þeirra mun fljótlega sjá dagsins ljós. Mun þá styttast í fríverzlunarsamning Bretlands og ESB, og tiltölulega einfalt ætti síðan að verða að leysa EES-samninginn af hólmi með víðtækum fríverzlunarsamningi EFTA og ESB, er einnig spanni menningar- og vísindasamstarf.
"Í þessu samhengi blasir líka við, að það er alger öfugsnúningur á hlutverki löggjafa og dómstóla, ef hinum síðar nefndu er ætlað að taka á sig nýtt hlutverk og fara að marka samfélagslega stefnu. Dómurum er ætlað það stjórnskipulega hlutverk að finna og beita lögum þess samfélags, sem þeir þjóna til að verja rétt þeirra, sem brotið hefur verið gegn. Þetta er mikilvægasta skylda dómara, en ekki að vera viljalaust handbendi ríkjandi valdhafa eða þeirra, sem telja sig vera fulltrúa siðferðilegs meirihluta á hverjum tíma."
Sumir dómar ESB-dómstólsins og EFTA-dómstólsins, sem notar dómafordæmi hins fyrr nefnda, en ekki öfugt, hafa komið verulega á óvart og þótt vera á skjön við Evrópuréttinn. Eitt dæmi um slíkt er dómur EFTA-dómstólsins í máli ESA gegn norska ríkinu í s.k. "Hjemmfallssak", sem fjallaði um þjóðnýtingu vatnsorkuvirkjana í Noregi að ákveðnum tíma frá gangsetningu virkjunar liðnum (a.m.k. 70 ár). Áður hafði verið talið, að EES-samningurinn spannaði ekki eignarréttinn né afnotarétt auðlindanna, en annað er nú komið á daginn. EFTA-dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu, að lögin mismunuðu eigendum, bæði eftir þjóðernum og eignarformi, þ.e. í sumum tilvikum erlend einkaeign viki í tilviki norsku laganna fyrir ríkiseign. Hvort tveggja er óleyfilegt samkvæmt "fjórfrelsinu", og "fjórfrelsið" trompar allt innan EES. Í kjölfarið á þessum dómi voru sett lög í Noregi, eftir stímabrak við ESA, um að öll vatnsorkuver í Noregi yfir 5,0 MW skyldu a.m.k. að 2/3 hlutum vera í opinberri eigu. Hið einkennilega er, að þetta þótti ESA á sínum tíma vera fullnægjandi fyrir lögmæti yfirfærslu einkaeignar á virkjunum til norska ríkisins að afskriftatímanum löngu liðnum, en annað er nú komið á daginn um vatnsréttindin eða virkjunarréttindin sjálf. Ljóst er t.d., að ef Landsvirkjun missir vatnsréttindi sín í Þjórsá/Tungnaá í hendur E'ON, sem er þýzkur orkuvinnslurisi, þá mun Landsvirkjun neyðast til að selja E'ON virkjanirnar í Þjórsá/Tungnaá. Þetta er í samræmi við orkustefnu ESB, þar sem "fjórfrelsið" á að ríkja á sviði raforkuvinnslu, og ríkisafskipti eiga þar engin að vera, því að þau geta skekkt samkeppni um "vöruna" rafmagn. Fæstir Íslendingar vilja líta á rafmagn sem "vöru", eins og ESB gerir, enda geta þeir ekki skilað keyptri "vöru" þessarar gerðar. Rafmagn á að vera samfélagsgæði, sem unnin eru úr náttúrunni hérlendis. Sátt í anda hugmyndafræði þeirra, sem lögðu grunn að Alþingi 930, verður tæpast um annað.
Nú hefur aftur brotizt út stríð á milli ESA og norska ríkisins út af eignarhaldi vatnsorkuvera, því að 30. apríl 2019 barst norsku ríkisstjórninni bréf frá ESA með spurningum og áréttingum varðandi úthlutun vatnsréttinda í Noregi til virkjunaraðila með vísun til Þjónustutilskipunar ESB #123/2013. Hér er greinilega sams konar mál á ferðinni og rekið hefur verið gegn Frakklandi í 30 ár og gegn Íslandi síðan 2016, sem legið hefur í þagnargildi.
Norðmenn hins vegar svöruðu kokhraustir, að þeir hefðu við innleiðingu þessarar tilskipunar lýst því yfir, að þeir teldu hana ekki eiga við raforkuvinnslu. ESA/ESB hlustar ekkert á svoleiðis píp. Undanþágur verður að geirnegla með skriflegum samningum, sem öðlast lagagildi við staðfestingu Framkvæmdastjórnar, Ráðherraráðs og ESB-þings.
"Skilaboð alríkisins eru þau, að menn eigi fremur að hlýða en að andæfa, því að í alríkinu kemur valdið ofan frá og niður, en ekki öfugt. Þegar svo er komið, hefur gjörbylting átt sér stað, frá því sem áður var lýst. Í stað þess að reglur séu settar af fjölskyldum, í nábýli manna og mótist innan eins og sama samfélagsins, koma lögin frá yfirvaldi, sem vill þröngva sér inn í hversdagslíf okkar, jafnvel hugsanir okkar. Nútímatækni gefur slíku miðstýrðu valdi nánast takmarkalausa möguleika á slíkri áleitni. Jafnvel einveldiskonungar fyrri alda blikna í samanburði. Í stað umhyggju í nærsamfélagi býr alríkið til stofnanir, sem sýna okkur gerviumhyggju, en krefja okkur um algjöra hollustu."
Þarna leiðir AÞJ okkur fyrir sjónir, hvert yfirþjóplegt vald ESB/EES hefur leitt okkur. Okkar gamli löggjafi, sem mismikil reisn hefur verið yfir frá 930 til þessa dags, er nú á niðurlægingarskeiði vegna hins yfirþyrmandi yfirþjóðlega valds, sem hér er orðið allt umlykjandi í krafti EES-samningsins. Þar segir, að Evrópurétturinn sé ríkjandi gagnvart landsrétti, og þar með verður Stjórnarskráin að víkja líka. Þegar nú á að nota þennan rétt til að hrifsa orkulindir landsins undir "alríkið", er flestum orðið ljóst, að við svo búið má ekki standa.
"Þegar ríkisvald sýnir tilburði í þá átt að umbreytast í alríki, eru margar ástæður fyrir því, að viðvörunarbjöllur hringi. Yfirþjóðlegt lagasetningar-, framkvæmda- og dómsvald rýfur það samhengi, sem hér hefur verið lýst milli laga og samfélags, rýrir lagalega arfleifð, lítur framhjá hagsmunum þeirra, sem standa næst vettvangi, og vanvirðir í stuttu máli samhengi lýðræðishugsjónarinnar við réttarríkið. Slíkt er augljóslega á skjön við stjórnskipun Íslands."
Við þetta er ekki öðru að bæta en því, að stjórnkerfi, sem vanvirðir samhengi lýðræðishugsjónarinnar við réttarríkið er forkastanlegt og ekkert annað að gera en að kasta því á glæ með vel undirbúinni uppsögn EES-samningsins, helzt í samráði við Norðmenn, sem senn kunna að komast á sömu skoðun, og EFTA geri síðan víðtækan fríverzlunarsamning við ESB.
Hjáróma raddir (Viðreisnar o.fl.) hafa auðvitað heyrzt í kjölfar birtingar greinar AÞJ, að nú sé ekkert annað að gera en að dusta rykið af ESB-umsókn Íslands frá júlí 2009, sem enn hvílir í skúffu í Brüssel, en ekkert er fjær sanni eða væri heimskulegra í utanríkismálum nú á BREXIT-tíma.
"Afleiðingarnar blasa við í málum eins og O3. Þingmenn hyggjast taka að sér að innleiða í íslenzkan rétt reglur, sem erlendir skriffinnar hafa samið út frá erlendum aðstæðum og erlendum hagsmunum; lögfræðingar taka að sér hlutverk einhvers konar spámanna og freista þess með kristalskúlum að segja fyrir um, hvernig íslenzkum hagsmunum muni reiða af við framkvæmd hinna erlendu reglna; löggjafarþing tekur hinar erlendu reglur ekki til efnislegrar umræðu og endurskoðunar, en lætur sér nægja að leika hlutverk löggjafans."
Hér er á ferðinni flengjandi gagnrýni þegns í þjóðfélaginu, sem séð hefur í gegnum blekkingarvefinn. Þingmenn eru bara leikendur á sviði í leikriti, sem samið er í Brüssel, og íslenzkir búrókratar hafa síðan tekið að sér uppfærslu og leikstjórn. "Hvar er þín fornaldar frægð, frelsið og manndáðin bezt ?" Þingmenn verða að hrista af sér slenið (hlekkina) nú í þessu alræmda orkupakkamáli.
"Á móti spyr stór hluti íslenzkrar þjóðar, hvað sé lýðræðislegt við það ferli, sem hér um ræðir. Fyrir mitt leyti sé ég ekkert lýðræðislegt við það, að maður í teinóttum jakkafötum rétti upp hönd til samþykktar á lokuðum fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar og málið eigi þar með að heita "lýðræðislega útkljáð". Þetta er í mínum huga afskræming á lýðræðislegum rétti fullvalda þjóðar, og mætti með réttu kallast lýðræðisblekking."
Hérlendir búrókratar og handbendi þeirra hafa einmitt haldið þessu fram, að of seint sé í rassinn gripið fyrir Íslendinga að grípa í taumana, þegar OP#3 kemur til þingsins. Það er "lýðræðisblekking", og með því eru hinir sömu að gefa lýðræðinu og okkar fornfræga Alþingi langt nef. Það gengur ekki.
"Íslendingar eru ekki í neinu raforkusamfélagi með þjóðum, sem búa handan við hafið. Við höfum því ekki haft nein áhrif á eða aðkomu að reglum, sem þar hafa verið samdar um raforku og flutninga raforku milli ríkja. Í ljósi alls framanritaðs er vandséð, svo [að] ekki sé meira sagt, hvers vegna við eigum að innleiða þessar reglur í íslenzkan rétt og veikja auk þess um leið stöðu okkar í hugsanlegum samningsbrotamálum, sem höfðuð verða í kjölfarið."
Hér bendir AÞJ á tvö mikilsverð atriði. Í fyrsta lagi er það órökrétt með öllu, að við innleiðum hér lög, sem eru sniðin við samtengdan raforkumarkað Evrópu, þrátt fyrir að yfirgnæfandi meirihluti landsmanna óttist versnandi landshagi, efnahagslega, umhverfislega og stjórnarfarslega, við slíka tengingu.
Í öðru lagi bendir hann á, og hefur gert í fleiri greinum, stórhættu á því, að t.d. umsækjendur um aflsæstreng, sem ekki fá að tengja hann við stofnrafkerfi Íslands, muni krefjast stórfelldra skaðabóta í málaferlum fyrir EFTA-dómstólinum. Málatilbúnaður ríkisstjórnarinnar er afspyrnu veikur, ber vott um skammsýni og ótrúlegan heimóttarskap í utanríks- og iðnaðarráðuneytum. Þar virðast ólæsir Bakkabræður ráða ríkjum:
Að lokum ritaði AÞJ:
"Ég rita þessar línur til að andmæla því, að Íslandi sé bezt borgið sem einhvers konar léni ESB eða MDE, sem lénsherrar, ólýðræðislega valdir, siði til og skipi fyrir eftir hentugleikum, án þess að Íslendingar sjálfir fái þar rönd við reist. Slíkt verður ekki réttlætt með vísun til þess, að Íslendingar hafi kosið að "deila fullveldi sínu" með öðrum þjóðum."
Hér er við hæfi að skrifa í nafni þjóðararfs og lýðræðis:
VÉR MÓTMÆLUM ÖLL
1.8.2019 | 11:01
ESB leggur áherzlu á einkavæðingu vatnsorkuvera
Sérstakt og samstillt átak er nú í gangi hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) og spegilmynd hennar EFTA-megin, ESA, til að sá hluti virkjanageirans í EES, þar sem ríkiseign virkjana er mest áberandi, vatnsorkuverin, hverfi sem mest úr ríkiseign og einkaframtakið fái tækifæri á jafnréttisgrundvelli að bjóða í þessi vatnsréttindi, þegar þau renna út, og hefur þá verið miðað við stuttan tíma samanborið við endingartímann eða 30 ár. Eigendaskipti af þessu tagi og stytting bókhaldslegs afskriftatíma ein og sér eru til þess fallin að hækka raforkuverð frá þessum virkjunum, en ESB fórnar þarna neytendaverndinni á altari vaxandi fjárfestingarþarfar vegna endurnýjanlegra orkulinda. Stækkun vatnsorkuveranna hangir á spýtunni.
Tvennt vakir fyrir ESB-mönnum í þessu sambandi. Í fyrsta lagi að framfylgja orkustefnu ESB, sem m.a. kveður á um frjálsa samkeppni í raforkuvinnslunni án nokkurra ríkisafskipta. Í öðru lagi að fá aukið fjármagn inn í eignarhaldsfélög vatnsorkuveranna til að fjárfesta í stækkun orkuveranna, sérstaklega að stórauka þar uppsetta aflgetu, sem sé þess þá umkomin að fylla upp í framleiðslulægðir endurnýjanlegrar orku, sem valda aflskorti á virkum dögum á meginlandi Evrópu, sem nú þarf að bæta upp með rafafli frá orkuverum knúnum jarðefnaeldsneyti.
Í júlí 2018 birtist fróðleg grein í "Le Monde diplomatique" um baráttu Frakka við framkvæmdastjórn ESB út af útboði á vatnsréttindum. Hún hét:
"Baráttan um vatnið" og í undirfyrirsögn stóð:
"ESB krefst þess, að Frakkland skapi samkeppni um vatnsaflið. Opinber rekstur á vatnsorkulindum Frakklands hefur lengi verið kostur fyrir hagkerfi landsins og náttúruna. Nú hefur ESB ákveðið, að vatnsorkulindirnar verði einkavæddar."
Þessi barátta Frakka við framkvæmdastjórn ESB hefur tekið á sig mynd verkfallshótana og verkfalla starfsmanna vatnsorkuvera til að knýja stjórnvöld til að standa í lappirnar gagnvart Framkvæmdastjórninni. Líklegt má telja, að hún vísi nú þessum ágreiningi til ESB-dómstólsins. Dómur hans mun vísa EFTA-dómstólinum veginn, ef/þegar hann fær sams konar deilumál norsku ríkisstjórnarinnar og ESA til úrskurðar. Ekki er vitað til, að íslenzka ríkisstjórnin hafi gert nokkurn ágreining við ESA út af bréfi þessarar Eftirlitsstofnunar EFTA, dags. 20. apríl 2016 til Íslands. Er slíkt ráðleysi og sofandaháttur með miklum eindæmum.
Électricité de France (EdF) var stofnað við þjóðnýtingu raforku- og gasvinnslunnar í Frakklandi 1946. Frá 10. áratuginum hefur verið dregið úr veldi fyrirtækisins með lögum frá Brüssel, sem innleidd eru í París. Árið 1993 samþykkti ríkisstjórn jafnaðarmannsins Pierre Bérégovoy s.k. Sapin-lög að kröfu Brüssel, sem takmörkuðu gildistíma virkjunarleyfa, og innfærði jafnframt kröfuna um útboð og samkeppnisvæðingu geirans.
Árið 2004 varð EdF hlutafélag, og það gat þá í raun ekki lengur forðazt samkeppni, þegar virkjanaleyfi rann út, en allt þar til nú hefur samt verið komið í veg fyrir einkavæðingu vatnsorkuvera í Frakklandi með mismunandi hætti.
Þann 22. apríl 2010 tilkynnti þáverandi umhverfis- og orkuráðherra, Jean-Louis Borko, að 51 útrunnið virkjanaleyfi, sem jafngiltu 20 % af frönskum vatnsorkuverum, skyldi endurnýja með útboði. Ríkisstjórn Francois Fillons tvísté á milli skipana frá Brüssel og harðrar andstöðu verkalýðsfélaga starfsmanna EdF, og bauð virkjanaleyfin aldrei út. "Nicolas Sarkozy og Francois Fillon efndu ekki loforð sitt við framkvæmdastjórn ESB um að opna lúgurnar fyrir frjálsri samkeppni í staðinn fyrir að fá að stýra raforkuverðinu áfram", sagði Marc Boudier, formaður Félags óháðra franskra raforku- og gasvinnslufyrirtækja, Afieg; stærsti þrýstihópur orkugeirans með mörg dótturfyrirtæki stórra evrópskra orkusamstæðna innan sinna vébanda. Það er algerlega í blóra við orkustefnu ESB og lög um frjálsa samkeppni fyrir vörur (og þjónustu), að ríkið stýri raforkuverðinu, og sýnir, að París er á allt annarri bylgjulengd en Brüssel í þessum efnum.
Umhverfisráðherrann 2012-2013, Delphine Batho, lagðist gegn markaðsvæðingunni og bætti við, að hún vildi halda í opinbert vatnsorkufyrirtæki (EdF). Markaðsvæðingarmenn gerðu þegar gagnárás á hana. Batho var tekin fyrir af Pierre Moscovski - sem nú er fjármálaframkvæmdastjóri ESB - og hætti við áhættusamt verkefni sitt um vissa þjóðnýtingu raforkuvinnslunnar. Hún er nú þingmaður flokksins Génération Écologie, sem er umhverfisverndarflokkur. Hún er þar formaður núna og gerir eftirfarandi athugasemd við aðgerðir frönsku ríkisstjórnarinnar í þessu máli undanfarin 20 ár.
"Frakkland hefur ekki hafið báráttu, nema þá með hangandi hendi, fyrir því að varðveita opinbera stjórnun á vatnsorkunni. Franska ríkið felur sig á bak við framkvæmdastjórn ESB, en það er það sjálft, sem er ábyrgt fyrir löggjöfinni, allt frá Sapin-lögunum."
Framkvæmdastjórnin krefst þess, að útrunnin virkjanaleyfi með "fljótandi gildistíma" (leyfin framlengjast sjálfvirkt) fyrir um 30 vatnsorkuver verði strax endurnýjuð á grundvelli útboðs. Þann 7. maí 2018 lét hún 8 ríkisstjórnir ESB-landa vita formlega, að "bæði löggjöfin og framkvæmd hennar hjá frönskum og portúgölskum yfirvöldum brjóti í bága við ESB-réttinn".
Þann 22. október 2015 sendi Framkvæmdastjórnin frönsku ríkisstjórninni bréf, þar sem fram kom, að Framkvæmdastjórnin teldi, að viðhald óbreytts ástands skapaði ójafnræði á milli markaðsaðila varðandi aðgang að vatnsauðlindinni fyrir raforkuvinnslu, sem gefi EdF kost á að varðveita eða styrkja "... ríkjandi stöðu sína á raforkumarkaði Frakklands."
Fram að árinu 2023 mun 1/3 af frönskum leyfum fyrir vatnsorkuvirkjanir renna út, þ.e.a.s. fyrir 150 miðlunarlón. Ráðherra grænna orkuskipta, Francois de Rugy, hefur gefið í skyn, að "í haust", þ.e. haustið 2018, muni markaðsvæðingin hefjast, en ríkisstjórnin gæti mætt miklum andbyr á þinginu, og það reyndust orð að sönnu. Hubert Wulfranc frá franska kommúnistaflokkinum lagði 5. apríl 2018 fram þingsályktunartillögu, þar sem þess er krafizt, að ríkisstjórnin biðji framkvæmdastjórn ESB um að undanskilja vatnsaflið frá markaðsvæðingu, eins og Þýzkaland gerði eftir mikil mótmæli alþýðu þar í landi. 113 þingmenn af 577 frá öllum þingflokkunum skrifuðu undir þingsályktunina.
"Hugmyndina um, að markaðsvæðing sé alltaf hagstæð, ber að endurskoða. Það er mikilvægt, að þingið taki fast á vatnsaflsmálinu og hefji baráttu við Brüssel. Landið verður að vakna", sagði Julien Aubert, varaformaður hins íhaldssama flokks "Lýðveldissinnanna", sem venjulega styður frjálsa samkeppni á markaði á flestum sviðum, á sameiginlegum blaðamannafundi ábekinga þingsályktunartillögunnar.
Þessi frásögn í "Le Monde diplomatique" er mjög athyglisverð og sýnir, að afstaða fólks til vatnsréttindanna er svipuð í Þýzkalandi, Frakklandi, Noregi og á Íslandi og áreiðanlega víðar. Andstæðingar markaðsvæðingar afnotaréttar vatnsorkuauðlindarinnar koma bæði úr röðum frjálslyndra markaðssinna á flestum sviðum og kommúnista.
Á Íslandi sannast þetta með markaðssinnana á sjálfstæðismönnum, en þeir eru flestir andvígir því að leiða orkustefnu ESB til öndvegis á Íslandi með innleiðingu hvers orkupakkans á fætur öðrum í landsrétt. Vilja þeir nú spyrna við fótum. Enn halda vinstri grænir sig við hrossakaupin, sem þeir gerðu við hina ríkisstjórnarflokkana, þar sem þeir skuldbundu sig til að styðja OP#3 gegn stuðningi við fóstureyðingafrumvarp Svandísar. Til að bjarga sér fyrir horn verða þeir nú að gera hinum stjórnarflokkunum grein fyrir því, að þeir verði að hverfa frá stuðningi sínum við OP#3 í ljósi upplýsinga um orkustefnu ESB, sem leiðir til skefjalausrar einkavæðingar raforkuvinnslunnar. Með svipuðum hætti ætti Framsóknarflokkinum að vera farið, ef allt er með felldu þar á bæ.
29.7.2019 | 11:10
Glámskyggni orkupakkasinna á Íslandi
Því er haldið fram í fúlustu alvöru í opinberri umræðu á Íslandi, að innleiðing Orkupakka #3 (OP#3) muni engu breyta fyrir Íslendinga, og síðan er hausinn bitinn af skömminni með því að bæta við, að OP#3 muni hins vegar miklu máli skipta fyrir Norðmenn. Jafnvel iðnaðarráðherra, sem ætti að vita betur, heldur því blákalt fram, að OP#3 sé "bara" framhald af OP#2 í viðleitni ESB til að auka við neytendavernd. Með þessum málflutningi hefur iðnaðarráðherra sett á svið leikverk fáránleikans og dæmt sig úr leik sem ábyrgur stjórnmálamaður, sem hægt er að treysta og taka mark á. Væri henni og öðrum fylgispökum áhangendum OP#3 innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins nú hollast í sálarháska sínum að lesa vel og vandlega Morgunblaðsgrein Arnars Þórs Jónssonar, dómara, þann 27. júlí 2019, sem nefnist "Fullveldið skiptir máli", en þar er um að ræða sígild andmæli vel upplýsts og hugsandi manns við því ólýðræðislega ferli, sem EES-samningurinn býður upp á, og nú krystallast í stórmáli, OP#3. Meðferð stjórnvalda á þessu máli er í hrópandi mótsögn við réttlætistilfinningu þorra fólks og rótgrónar hugmyndir um lagasetningu í réttarríki, sem Arnar Þór rekur allt aftur til ársins 930.
Sú grundvallarbreyting frá OP#2 felst í OP#3 að stofnsetja Orkustofnun ESB, ACER, sem á að einbeita sér að eflingu millilandatenginga og fær til þess töluverðar valdheimildir, eins og lesa má um í skýrslu Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst og Stefáns Más Stefánssonar, og þær munu síðan aukast verulega með OP#4, eins og sést af minnisblöðum höfundar þessa pistils um OP#4 í viðhengi með honum.
ACER fær líka völd innanlands, einkum yfir Landsneti, og yfir raforkumarkaðinum, sem á að laga að Innri markaði ESB. Þá leiðir samþykkt OP#3 til stofnunar embættis Landsreglara ("National Energy Authority") undir stjórn ACER/ESA, sem verður algerlega óháður íslenzkum yfirvöldum og hagsmunaaðilum, en verður samt æðsta yfirvald raforkumála í landinu og tekur við mörgum skyldum Orkustofnunar og Iðnaðarráðuneytis á orkumálasviði.
Meginskyldur Landsreglara verða 2 samkvæmt OP#3:
1. Að stuðla að myndun vel virks markaðar
2. Að ryðja öllum hindrunum úr vegi tengingar Íslands við Innri raforkumarkað ESB um sæstreng
1. skylda Landsreglara felur í sér, að markaðurinn mun stjórna allri raforkuvinnslu á Íslandi á grundvelli raforkuverðs, og vinnslufyrirtækin munu þá leitast við að hámarka tekjur sínar án tillits til þjóðarhagsmuna hvað þá neytendaverndar, sem felast í orkuöryggi, t.d. að koma í veg fyrir tæmingu miðlunarlóna að vetri áður en leysingar hefjast að vori, með samræmdri orkulindastýringu fyrir allt landið. Þetta kerfi verður síður en svo neytendavænt, því að hér mun strax myndast seljendamarkaður, eins og við sjáum þegar glitta í, þar sem orkuvinnslufyrirtækin munu stýra framboðinu m.v. að hámarka tekjur sínar. Það er mikil glópska og/eða yfirdrepsskapur að halda því fram, að Landsreglarinn muni auka hér neytendavernd. Slíkt munu reynast hér alger öfugmæli. (Kjósendur iðnaðarráðherra þurfa endilega að fá skýringu á þessari gerð neytendaverndar beint frá henni sjálfri.)
2. skylda Landsreglarans mun án vafa leiða til lagningar aflsæstrengs til útlanda innan áætlaðs tíma fyrir Ice-Link á forgangsverkefnaskrá ESB um millilandatengingar, sem er 2027.
Viðskiptahugmyndir, sem hingað til hafa verið viðraðar um aflsæstreng, þ.e. annaðhvort að virkja framleiðslugetu 5-10 TWh/ár fyrir stöðugan útflutning um einn eða tvo sæstrengi eða að virkja lítið og flytja út afgangsorku á dýrum tímum í Evrópu, eru orðnar úreltar með orkustefnu ESB og innleiðingu OP#3-4 á Íslandi. Hvernig víkur því við ?
Raforkuvinnsla með vindmyllum í Evrópusambandinu nemur nú um 13 % af heildar raforkuvinnslu þar, og markmið ESB er 28 % árið 2030 og enn meir árið 2050, þegar ESB ætlar að verða kolefnishlutlaust. Af því að vindmyllur (og sólarhlöður) framleiða raforku slitrótt af náttúrulegum ástæðum, sárvantar ESB afl úr umhverfisvænum orkulindum til að fylla í skarðið að deginum, þegar lygnt er. Hugmyndin er sú, að Noregur og Ísland, "die umweltfreundliche, europäische Batterien", hjálpi til við að fylla upp í þetta skarð, þótt meira þurfi þar til að koma, og þar munu vatnsorkuver meginlands Evrópu þjóna veigamiklu hlutverki eftir gríðarlega aukningu vélaafls þeirra.
Til þess að Ísland geti tekið þátt í þessum leik, þarf að auka aflgetu íslenzkra virkjana feiknarlega, a.m.k. að tvöfalda uppsett afl í núverandi virkjunum og virkja fleiri vatnsföll með aflgetu í yfirstærð, svo að virkjanirnar geti sent frá sér miklu meira afl í nokkrar klukkustundir í senn en svarar til mögulegs meðalafls í virkjun vegna takmarkaðs miðlunarforða vatns. Jarðgufuverin henta rekstrarlega illa í þetta, því að þau eru tregstýranleg og þurfa að mestu fast álag til að virka vel. Þessi rekstrarháttur vatnsorkuvera er umhverfislega mjög gagnrýniverður hérlendis.
Til þess að þessar hugmyndir hugmyndafræðinga ESB á orkusviði raungerist, þarf að auka mjög fjárhagslegan styrk og fjárfestingarlöngun vatnsorkufyrirtækja í eigu ríkisins. Þar er kominn grundvöllurinn að ásókn Evrópusambandsins í einkavæðingu vatnsorkuveranna. Til að efla þennan fjárfestingarþrótt enn meir á Íslandi, mun ACER/Landsreglari sennilega beita sér fyrir uppskiptingu Landsvirkjunar, svo að erlendir fjárfestar fái hér enn meira svigrúm til að fjárfesta í vatnsorkuverum. Til þess þarf ekki annað en kæru til ESA um brot á samkeppnisviðmiðunum ESB (allt of stór markaðshlutdeild). Með uppskiptingu Landsvirkjunar rýkur öll viðleitni til orkulindastýringar í þágu orkuöryggis og sanngjarns raforkuverðs fyrir neytendur út í veður og vind.
Vatnsréttindin og vatnsorkuvirkjanir verða boðin út á EES-markaðinum til að brjóta einkavæðingunni leið. Þjóð, sem telur tæplega 0,4 M manns, mun ekki hafa roð við tæplega 500 M manns á þessum frjálsa markaði. Vatnsorkuvirkjanirnar munu hver á fætur annarri lenda í eigu erlendra stórfyrirtækja á sviði raforkuvinnslu. Þau munu halda sínum réttindum í 30 ár, og ávöxtunarkrafa þeirra verður miklu hærri en nú tíðkast í raforkuvinnslu á Íslandi.
Fjárfestingarþörfin verður gríðarleg, og Landsnet verður jafnframt skyldað til að leggja öflugar loftlínur frá virkjununum og niður að lendingarstað sæstrengjanna. Þetta stendur svart á hvítu í OP#4, en OP#3 er eins konar bráðabirgða útgáfa af honum. Raforkuverð á Íslandi hækkar óhjákvæmilega upp í evrópskt verð (verð umhverfisvænnar orku í Evrópu að frádregnum flutningskostnaði). Hið sárgrætilega er, að þetta verður allt hægt að gera í óþökk þjóðarinnar á grundvelli lögleiðingar orkupakkanna frá ESB. Þar á bæ sitja menn ekki auðum höndum undir forystu Martins Selmayr, aðstoðarmanns forseta Framkvæmdastjórnarinnar, sem stjórnar Evrópusambandinu með harðri hendi frá degi til dags. Það er þjóðhættuleg glámskyggni fólgin í því að yppa öxlum, brosa í sjónvarpsmyndavélina og segja við fréttamenn, að OP#2 sé bara "eðlilegt" framhald á OP#3, sem við verðum að innleiða út af EES-samningnum. Þetta er líklegast ljótasta nauðhyggja valdamanna, sem sézt hefur á Íslandi frá landnámi.
Lítum á eina hlið umhverfisþáttar þessa máls. Slík slitrótt sala raforku til Evrópu þýðir mjög ójafna miðlun úr lónum hér, sem geta þá farið frá hraðri lækkun vatnsyfirborðs og upp í hækkun að nóttu, þegar borgar sig að kaupa rafmagn til landsins við þessar ömurlegu aðstæður. Slíkt er vafalaust ekki hollt fyrir lífríkið þar og bakka lónanna, en verst verður það fyrir lífríki ánna og getur reynzt fólki, sem nytjar árnar neðan miðlananna, skeinuhætt.
Snögg minnkun vatnsrennslis þurrkar upp bakka og eyrar og veldur hæglega fiski- og seiðadauða. Klakar geta að vetri botnfrosið, stækkað síðan ört, beint vatnsrennslinu að mótlægum bakka og sorfið hann þá illilega, svo að til landskaða horfi. Sömuleiðis getur klaki brotnað, farið af stað og myndað klakastíflur. Afleiðingin getur orðið rennslistruflanir inn í virkjanir og stórflóð að vetri yfir tún og annað gróðurlendi. Þessi ójafni rekstrarháttur íslenzkra virkjana hentar þess vegna afkaplega illa og ber að forðast hérlendis, en það er engin von til þess, að stjórnendur orkumála ESB, ACER og Landsreglarinn á Íslandi taki nokkurt tillit til þess, þegar baráttan við loftslagsvána og orkuöryggi Evrópu eru annars vegar. Landsmenn geta maldað í móinn, en meira geta þeir varla gert, og geta þeir þakkað glámskyggnum þingmönnum sínum það að verðleikum, sem lögðu blessun sína yfir Orkupakka #3.
Eina ráðið til að koma í veg fyrir þessa martröð er að fella OP#3 á Alþingi og vísa málinu þar með í samningaferli í Sameiginlegu EES-nefndinni.
25.7.2019 | 11:36
Glittir í ljóta afleiðingu af OP#1 og OP#2
Það hefur verið margsýnt fram á, hversu illa orkubálkalöggjöf Evrópusambandsins á við íslenzkar aðstæður. Sú stefnumörkun að taka upp löggjöf Evrópusambandsins (ESB) á sviði raforkumála um EES-samninginn fyrir Ísland var röng og hefur dregið langan dilk á eftir sér. ESB stefnir á einkavæðingu raforkuvinnslunnar, og ríkisafskipti af þeirri starfsemi eru bönnuð. Þar af leiðandi var sú kvöð tekin af Landsvirkjun með raforkulögum 2003, sem reist voru á OP#1, að sjá landsmönnum jafnan fyrir nægu framboði af forgangsorku, bæði heimilum og fyrirtækjum. Markaðurinn átti að sjá um þetta, en markaðsaðstæður á Íslandi eru þannig, að markaðurinn bregzt þessu hlutverki. Að innleiða hér markaðsstýrt viðskiptakerfi raforku mun óhjákvæmilega framkalla hér viðvarandi seljendamarkað og þar með talsverða raforkuverðhækkun, þótt engin verði aflsæstrengur til útlanda.
Nú er komið í ljós, að hætta er á aflskorti í landinu frá 2022 og þar til virkjun, sem verulega munar um, kemst í gagnið, en engin slík er á döfinni. Hér getur þannig orðið stórfellt samfélagslegt tjón í boði Alþingis og innleiðingar þess á löggjöf ESB á orkusviði. Hætt er við, að enn meira tjón verði hér eftir innleiðingu OP#3 og markaðsstýringar á raforkukerfinu í kjölfarið. Þetta stafar af því, að markaðsstýringin er ekki þess umkomin að tryggja bæði nægt afl og orku, enda útvega eldsneytismarkaðirnir orkuna í ESB. Það vantar hér fjárhagslega hvata til að bæta við nýjum orkuverum, og það vantar samræmda orkulindastýringu fyrir allt landið, sem tekur mið af að viðhalda afhendingaröryggi raforku til allra neytenda í stað þess að hámarka tekjur hvers orkuvinnslufyrirtækis, eins og markaðsstýringin er hönnuð fyrir. Á meginlandi Evrópu lækkar orkuvinnslukostnaður fyrirtækis, sem bætir við nýju orkuveri. Það er vegna bættrar nýtni og meiri sjálfvirkni í nýjum orkuverum en gömlum. Á Íslandi hækkar hins vegar orkuvinnslukostnaðurinn með nýrri virkjun vegna þess, að hagkvæmustu kostirnir hafa þegar verið virkjaðir.
Ef/þegar embætti Landsreglara kemst á koppinn, sem fylgir samþykkt OP#3, þá mun hann koma hér á laggirnar orkukauphöll. Orkuvinnslufyrirtækin munu verðleggja raforkuna m.v. að hámarka tekjur sínar, alveg óháð því, hvort of lítil orka verður tiltæk (úr miðlunarlónunum) næstu vikurnar. Á Íslandi veldur markaðsstýring orkuvinnslunnar viðvarandi seljendamarkaði, sem alls staðar jafngildir háu verði. Orkustefna ESB, en orkupakkar ESB eru aðferð ESB við að innleiða orkustefnu sína í aðildarlöndunum, felur þess vegna í sér lífskjararýrnun fyrir íslenzka neytendur og verulega lakari samkeppnishæfni fyrirtækjanna, sem mun koma niður á þjóðartekjum og atvinnustigi í landinu, sjá minnisblað um OP#3 í viðhengi með þessum pistli.
Landsreglarinn, væntanlegur hæstráðandi á landinu í raforkugeiranum, mun ekki taka í mál að gera eitthvert eða einhver fyrirtæki ábyrg fyrir nægu raforkuframboði. Slíkt yrði brot á ætlunarverki yfirboðara hans hjá ESB um einkavæðingu og frjálsan samkeppnismarkað á raforkuvinnslusviði. Reyni íslenzk yfirvöld slíkt, mun Landsreglarinn óðara setja reglugerð til ógildingar slíkrar tilraunar rétt kjörinna yfirvalda landsins. Þetta er eitt dæmi af mörgum um yfirþjóðlegt vald, sem hér verður leitt til öndvegis, ef Alþingi afléttir hinum stjórnskipulega fyrirvara af OP#3.
Frétt Ásgeirs Ingvarssonar í Morgunblaðinu 8. júlí 2019,
"Aukin hætta á aflskorti" , hófst þannig:
"Samkvæmt nýrri skýrslu Landsnets er hætta á því, að á einhverjum tímapunkti árið 2022 verði framboð á raforku á Íslandi ekki nægilegt til að svara eftirspurn. ... Núna sýnir spáin, að árið 2022 fara líkur á aflskorti yfir viðmiðunarmörk og gæti leitt til þess, að á álagstímum þurfi að draga úr framboði á raforku á vissum svæðum eða til tiltekinna kaupenda."
Þann 12. júlí 2019 lét forstjóri RARIK opinberlega í ljós áhyggjur sínar af því, að ástandið væri í raun mun alvarlegra en Sverrir Jan Norðfjörð lætur þarna í ljós. Miðað við tíðarfarið undanfarið og drjúga aukningu orkunotkunar þarf ekki að koma á óvart, að um er að ræða yfirvofandi hættu á orkuskorti strax næsta vetur samkvæmt Tryggva Þór Haraldssyni. Aflskorturinn verður algerlega af mannavöldum, og það er hægt að skrifa hann með húð og hári á kostnað gildandi orkulöggjafar frá Evrópusambandinu (ESB) í landinu, þ.e. OP#2.
Í því lagaumhverfi, sem orkumarkaðinum er búið á Íslandi, ræður hann ekki við viðfangsefnið, sem þessi löggjöf ætlast til af honum. Hann ræður ekki einu sinni við að koma í veg fyrir aflskort, sem er þó hlutverk markaðsstýringar raforkukerfisins í EAB, en þar sjá hins vegar eldsneytismarkaðirnir um að sjá fyrir nægri orku. Innleiðing OP#3 getur hæglega leitt til öngþveitis á íslenzka orkumarkaðinum. Það verður farið úr öskunni í eldinn.
Í stað þess að fela í sér neytendavernd, eins og stuðningsmenn þessarar Evrópulöggjafar hampa í tíma og ótíma án þess að vita, hvað þeir eru að tala um, þá verður þessi ESB-löggjöf að martröð íslenzka raforkunotandans, sem verður sviptur aðgengi að "vörunni", sem er afkomu hans lífsnauðsynleg, rafmagninu. Þetta sýnir, að á eyju, eins og Íslandi, sem er rafmagnslega ótengd við umheiminn, gengur það ekki upp að skilgreina rafmagn sem vöru, enda er ekki hægt að skila keyptu rafmagni, eins og hægt er með vörur.
Rafmagn á að vera þáttur í grunnþjónustu samfélagsins við íbúana og þar með fyrirtækin, sem þeir lifa á. Þar af leiðandi þarf að koma hér á samræmdri orkulindastýringu, sbr viðhengið. Á Íslandi eru yfir 90 % innviðanna, sem þarf til að framleiða, flytja og dreifa þessari grunnþjónustu, í eigu hins opinbera. Valið stendur nú um að einkavæða raforkuvinnsluna með því að samþykkja OP#3 og OP#4 og búa til seljendamarkað fyrir raforku eða að hafna OP#3 og leita samninga við ESB á vettvangi Sameiginlegu EES-nefndarinnar um nauðsynlegar undanþágur frá OP#3, sem m.a. feli í sér leyfi til samræmdrar orkulindastýringar og raunverulegt vald Orkustofnunar til að hafna umsókn um sæstreng og vald Alþingis til að banna undirbúning sæstrengs hérlendis (hjá Landsneti). Þetta er val á milli missis forræðis orkulindanna með óheftri markaðshyggju innan EES og dálítillar forræðishyggju á þessu lífsnauðsynlega sviði landsmanna. Það þýðir ekki lengur að berja hausnum við steininn. Orkupakki#2 veldur stórtjóni á Íslandi, og OP#3 mun valda enn meira tjóni, sem við sjáum ekki fyrir endann á. Iðnaðarráðherra verður að hætta stuðningi sínum við OP#3. Að öðrum kosti axlar hún sem ráðherra orkumála fulla pólitíska ábyrgð af tugmilljarða ISK tjóni af völdum yfirvofandi afl- og orkuskorts.
Það er ekki nóg með, að orkustefna stjórnvalda, sem er orkustefna ESB, hafi beðið skipbrot, heldur hefur "loftslagsstefnan" strandað líka og markmið um orkuskipti rokið út í veður og vind, því að þau voru alfarið reist á hugmyndinni um nægt afl og orku, þ.m.t. næga ótryggða orku í flestum árum. Þetta kemur fram í tilvitnuðu viðtali við Sverri Jan Norðfjörð, framkvæmdastjóra þróunar- og tæknisviðs Landsnets:
"Skýrslan skoðar raforkujöfnuð landsins í heild sinni, og segir Sverrir erfitt að segja til um, hvar í dreifikerfinu séu mestar líkur á, að vandinn komi fram, en væntanlega yrði brugðizt við með því að draga úr framboði á rafmagni til notenda, sem þegar eru skilgreindir sem skerðanlegir. Væru það t.d. fiskvinnslur, sem nota rafmagn til fiskbræðslu, og hitaveitur. "Þessir kaupendur geta í sumum tilvikum brugðizt við með því t.d. að nota olíu á meðan vöntun er á raforku.""