Málarekstur Evrópusambandsins

Þeim, sem efast um, að Evrópusambandinu (ESB) sé full alvara með Orkusambandi sínu ("The Energy Union of Europe") og halda jafnvel, að innlend yfirvöld, ríkisstjórn, sveitarstjórnir, skipulagsyfirvöld, Umhverfisstofnun o.s.frv., geti þvælzt endalaust fyrir áformum ESB um nýtingu meira eða minna endurnýjanlegra orkulinda Íslands í almannaþágu Evrópu, eins og slíkar virkjanir og flutningsmannvirki eru nú kölluð á þeim bænum, vaða í villu og svíma. 

Til vitnis um þetta eru fréttir og fréttatilkynningar framkvæmdastjórnar ESB af víðtækum málarekstri hennar gegn ríkisstjórnum 8 ESB-landa vegna lokaðrar "vildarvina" úthlutunar orkunýtingarleyfis vatnsréttinda í eigu ríkisins til langs eða ótilgreinds tíma.  Líta verður á bréf ESA, dags. 20.04.2016, til íslenzku ríkisstjórnarinnar og bréf ESA, dags. 30.04.2019, til norsku ríkisstjórnarinnar,  sem undanfara sams konar stefnu spegilmyndar Framkvæmdastjórnarinnar EFTA-megin í EES, ESA. Noregur og/eða Ísland verða dregin fyrir fyrir EFTA-dómstólinn, og löndin munu verða dæmd til útboðs á orkunýtingarrétti opinberra fyrirtækja innan EES.  Í fyrstu umferð mun dómurinn spanna vatnsorkuverin, af því að innan ESB er raforka vatnsorkuvera metin verðmætust vegna auðstýranleika þessarar gerðar raforkuvera, en er frá líður munu jarðgufuverin falla sömuleiðis í útboðsflokkinn.  Íslendingar hafa ekki fjárhagslegt bolmagn til að halda í nýtingarrétt sinn á þessum markaði.  Þannig munu þeir glata nýtingarrétti á orkulindum sínum, og hitaveiturnar kunna að fylgja með í 5. orkupakkanum.  Það er verið að kippa stoðunum undan velferðarþjóðfélagi á Íslandi, þótt þetta gagnist heildarhagsmunum EES.  Að stjórnmálamenn skuli dirfast að taka þessa risavöxnu áhættu með hagsmuni þjóðarinnar með því að ganga Orkusambandi Evrópu á hönd, er óskiljanlegt. 

Í öllum þessum tilvikum Framkvæmdastjórnarinnar og ESA gegn ríkisstjórnum er um að ræða vatnsorkuver vegna sérstakrar stöðu þeirra í orkuskiptum ESB.  Þar virðast  vindmyllur gegna veigamiklu hlutverki, og á hlutdeild þeirra í raforkuvinnslunni að rúmlega tvöfaldast á næstu 10 árum.  Nú þegar er þó tekið að hægja á fjölgun vindmyllna vegna vaxandi andstöðu almennings, sem setur fyrir sig kostnað, slitróttan rekstur og umhverfisbyrði.  

Embættismenn ESB sjá fyrir sér, að nýir eigendur gamalla vatnsaflsstöðva muni ráða yfir nægri fjárfestingargetu og áhuga á að allt að því þrefalda uppsett vélaafl í vatnsaflsvirkjununum án þess að auka árlega orkuvinnslugetu. Á Íslandi mundi þetta auka uppsett afl um 4,0 GW, sem munar um við að fylla í framboðsskarðið, sem myndast á daginn, þegar lygnir í Evrópu. Hagsmunir ESB gagnvart Noregi og Íslandi eru skýrir í þessu sambandi. 

Þá hefur ESB gefið út fréttatilkynningu um málssókn vegna ófullkominnar innleiðingar ríkisstjórnar Belgíu á OP#3 í landsrétt.  Kjarni hennar er, að við innleiðingu OP#3 í belgískan rétt eru völd Landsreglarans varðandi flutningskerfi orku innanlands og samtengingar við útlönd takmörkuð við tillögurétt til ráðherra.  Ríkisstjórn Íslands leggur til við Alþingi að innleiða OP#3 í íslenzkan rétt, eins og orkupakkinn kemur af skepnunni, en þingið setji síðan fyrirvara með þingsályktun, lagabreytingu og heimild til ráðherra um reglugerðarútgáfu, sem allt á það sammerkt að takmarka valdsvið Landsreglarans á Íslandi langt umfram það, sem ákveðið er með OP#3.  

Það er þannig bein hliðstæða á milli Belgíu og Íslands varðandi ranga innleiðingu á OP#3.  Þannig er yfirvofandi hátta á samningsbrotamáli ESA gegn Íslandi fyrir EFTA-dómstólinum, þegar dómsfordæmi kemur frá ESB-dómstólinum.  Þar með munu allir fyrirvarar Íslands falla niður dauðir og ómerkir, og leiðin fyrir sæstrengsfjárfestana verður greið inn í landið.  Leggi stóriðjufyrirtæki upp laupana vegna okurstefnu Landsvirkjunar í garð fyrirtækjanna í krafti einokunaraðstöðu sinnar við framlengingu samninga, mun Landsvirkjun heimta sæstrengstengingu við útlönd.  Þessi þróun er með hreinum ólíkindum.  Almenningur á Landsvirkjun, en ríkisstjórnin lætur, eins og málið komi sér ekki við.  Þingmenn, sem rænulitlir horfa á þessa skaðvænlegu þróun, ættu að lesa 8. kaflann eftir hagfræðiprófessorinn Ragnar Árnason í nýlegri skýrslu Orkunnar okkar til að glöggva sig á til hvers þessi þróun leiðir.  Ef þingmenn ekki vakna af dvalanum, bíður þeirra hörð svipa kjósenda í næstu kosningum.  

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband