Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Vatnaskil í hernaðarsögunni

Rússar og Kínverjar hafa lagt áherzlu á smíði ofurhljóðfrárra (v>5 Mach) eldflauga í þeirri von að ná frumkvæði á Vesturlönd á einu sviði hergagna.  Vesturlönd hafa ekki komið sér upp þessum vígtólum, enda kostar stykkið MUSD 10.  Vesturlönd hafa hins vegar þróað varnarbúnað, t.d. bandaríska Patriot-kerfið, sem þó hafði ekki fengizt reynsla af gagnvart ofurhljóðfráum eldflaugum fyrr en við varnir Kænugarðs 16.05.2023.

Hvernig fjallar sérfróður blaðamaður Morgunblaðsins, Stefán Gunnar Sveinsson, um þetta ?  Það kom fram í Morgunblaðinu 22. maí 2023 undir fyrirsögninni:

"Loftvarnirnar valda kaflaskiptum".

Fréttin hófst þannig:

"Segja má, að kaflaskipti hafi orðið í hernaðarsögunni í síðustu viku, þegar Úkraínumenn náðu að standa af sér 2 af stærstu eldflaugaárásum sögunnar aðfararnótt þriðjudags og miðvikudags [16.-17. maí 2023].

Rússar skutu þá [urmli] eldflauga að Kænugarði, og voru allar skotnar niður eða gerðar óvirkar af loftvarnarkerfum borgarinnar fyrra kvöldið.  Var þar um að ræða 18 eld- og stýriflaugar, sem skotið var með stuttu millibili [á um 1/2 klst-innsk. BJo] úr nokkrum mismunandi áttum [úr norðri, austri og suðri - innsk. BJo] á borgina í því skyni, að eldflaugarnar myndu yfirgnæfa [yfirlesta] loftvarnir hennar.  Þess í stað var þeim öllum grandað, auk þess sem 9 drónar voru einnig skotnir niður.

Næsta kvöld sendu Rússar 30 stýriflaugar af ýmsum gerðum og 4 dróna á höfuðborgina, og voru 29 af 30 eldflaugum skotnar niður og allir drónarnir 4."

Þarna opinberaðist tæknilegur og hernaðarlegur vanmáttur Rússlands, en stjórnendurnir eru smáir í sniðum og hafa ekki þrek til að viðurkenna ófarir sínar.  Það hefur orðið Rússum sérstakt áfall, að ofurhljóðfráar (hypersonic) (v>5 Mach = 6000 km/klst) eldflaugar komust ekki gegnum loftvarnir Úkraínumanna.  Shoigu, landvarnarráðherra, hefur séð sína sæng út breidda, því að hann neitaði að viðurkenna hina nýju staðreynd, og Putin lét í bræði sinni handtaka 3 af hönnuðum Dragger (Kinzhal) eldflauganna og ákæra þá fyrir landráð. 

Ekki verður það örvandi fyrir rússneska vísindasamfélagið og mun sennilega tryggja áframhaldandi hrörnun þess. Nú er svo komið, að NATO getur skotið niður allt, sem Rússar senda á loft, og þar með má ætla, að skálkaskjól rússnesku mafíunnar í Kreml, MAD, "Mutuallly Assured Destruction", sé ekki lengur fyrir hendi.  Vitað er, að rússneski herinn var með í áætlunum sínum að nota vígvallar kjarnorkuvopn, ef NATO tækist að snúa vörn í sókn, í skjóli MAD.  Nú eru þessar fyrirætlanir hrundar, og rússneski herinn er ekki til neins.  

Hvers vegna héldu Rússar, að vestræn loftvarnakerfi réðu ekki við ofurhljóðfráar eldflaugar ?  Það er vegna þess, að við Mach 5 hefur loftið við trjónu eldflaugarinnar orðið plasmakennt, og plasmað dregur í sig allar útvarpsbylgjur, þ.á.m. frá radarbúnaði loftvarnarkerfanna, sem þá greina óvininn of seint, því að t.d. Patriot Pac-3 flaugin fer aðeins á hraðanum Mach-4. 

Hvers vegna greindi þá 40 ára gamalt Patriot kerfið við Kænugarð Dragger-flaugarnar rússnesku ?  Það er vegna þess, að kerfið var látið breyta tíðni radarsins í átt að innrauða sviðinu þar til það fann Dragger-flaugarnar, sem gefa frá sér gríðarlegan hita.  Þessi þróun kom flatt upp á staðnaða Rússa, en það er miklu meira á döfinni en þetta. 

Til að girða fyrir, að heimsvaldasinnaðir einræðisherrar geti beitt langdrægum ofurhljóðfráum eldflaugum, sem fljúga mest megnis leiðarinnar á milli heimsálfa á 20 Mach, er Geimþróunarstofnun Bandaríkjanna (US Space Development Agency) að þróa net gervitungla, sem spanna á allan heiminn og búin eru innrauðum hitanemum, sem greina staðsetningarhnit heitra hluta á ferð í þrívíðu rúmi og senda upplýsingarnar til stjórnstöðva loftvarnarkerfa á jörðu niðri.  Kerfið heitir "Tranche 1 Tracking Layer" (T1TRK) og á að taka í brúk 2025. 

Í lokin skrifaði Stefán Gunnar:

"Þá eru áhrifin [af Kænugarðsafrekinu 16.05.2023] ekki einungis einskorðuð við mögulega heimstyrjöld.  Í greiningu Daily Telegraph á þýðingu árásarinnar segir, að eitt af því, sem gæti mögulega fært Rússum aftur frumkvæðið í Úkraínu væri, ef þeir gætu tekið út loftvarnakerfi landsins, svo að flugher Rússa gæti tekið yfirráðin í lofti.  Það markmið hefur gjörsamlega mistekizt til þessa allt frá fyrstu dögum innrásarinnar, og nú virðist ljóst, að jafnvel háþróuðustu vopn Rússa munu lítt duga til. 

Þá beinir Telegraph sjónum sínum sérstaklega að Xi Jinping og Kínverjum, sem hafa varið miklu til þróunar ofurhljóðfrárra eldflauga á síðustu árum.  Er þeim ætlað að takast á við flugmóðurskip Bandaríkjanna, ef til styrjaldar kemur við þau, en einnig gætu [þær] nýtzt til árása á Taívan-eyjuna.  Er bent á, að Taívan ráði einnig yfir Patriot-kerfinu, og því muni Xi og hershöfðingjar hans þurfa að íhuga, hvaða áhrif vopn þeirra muni hafa."

Atburðirnir 16. maí 2023, þegar allar 6 ofurhljóðfráu rússnesku eldflaugarnar, sem beint var að skotmörkum í Kænugarði, voru skotnar niður á um hálftíma, gjörbreytir hernaðarstöðunni Vesturveldunum í vil.  Þeir gera um leið mun friðvænlegra í heiminum en áður, því að atburðirnir umturna hernaðaráætlunum hinna samspyrtu einræðisríkja í austri, Rússlands og Kína.  Þau sjá nú sæng sína út breidda í átökum við Vesturveldin og munu þess vegna ekki dirfast að hefja kjarnorkuárás né annars konar árás.  Þau eru nú meðvituð um, að MAD er ekki lengur fyrir hendi, því að Vesturveldin geta skotið allt niður, sem einræðisríkin kunna að senda á loft. Þess vegna er nú orðið friðvænlegra í heiminum, og síðasta hálmstrá Putins, sem hann af hreinni geðveiki hefur hótað að beita í Úkraínu og nota til þess ofurhljóðfráar eldflaugar, eru ekki lengur neinn valkostur fyrir hann í bunkernum, og fælingarmáttur kjarnorkuvopna Rússa og Kínverja er ekki lengur fyrir hendi.  Vesturveldin eiga nú alls kostar við einræðisríkin. Svo er árvekni og færni Úkraínumanna við uppsetningu og beitingu hátæknilegs vopnabúnaðar fyrir að þakka.  Rússneska ríkjasambandið er með allt niður um sig. Það kom vel á vondan.  

 

 

 


Hafró flengir veiðiréttarhafa og fylgifiska

Atvinnurógur samtaka veiðiréttarhafa í ám og vötnum landsins ásamt málpípum, sem þykjast bera málstað náttúrunnar fyrir brjósti, en eru sekir um að leggja algerlega huglægt mat á alla nýtingu, gagnvart laxeldi í sjókvíum á Vestfjörðum og Austfjörðum, gengur svo langt, að þessir aðilar heimta, að téð starfsemi verði lögð niður, aðallega vegna hættu á erfðablöndun eldisfisksins við náttúrulega íslenzka laxastofna.  Í þessari rógsherferð hafa þessir aðilar ekki skirrzt við að saka Hafrannsóknastofnun Íslands um alls konar ávirðingar, sbr einhver Valdimar Ingi Gunnarsson í Bændablaðinu 17. febrúar 2023, sem hafði þar uppi ósæmilegar dylgjur, eins og Ragnar Jóhannesson, rannsóknastjóri fiskeldis hjá Hafrannsóknastofnun, rakti og hrakti í grein sinni í Bændablaðinu 9. marz 2023:

"Áhættumat erfðablöndunar útskýrt".

Eftir lestur fróðlegrar greinar Ragnars stendur ekki steinn yfir steini í hræðsluáróðri og fúkyrðaflaumi téðra veiðiréttarhafa og sjálfskipaðra náttúruverndara varðandi meinta hættu erfðablöndunar, sem villtir laxar í nytjaám Íslands séu í. Þessi hætta er einfaldlega ímyndun og tilbúningur illvígra gagnrýnenda sjókvíaeldisins, eins og Ragnar sýndi fram á. Nú verður vitnað í téða grein Ragnars: 

"Hlutverk Hafrannsóknastofnunar er að styðja við verðmætasköpun í íslenzkum sjávarútvegi, en gæta jafnframt að náttúruvernd og sjálfbærni nytjastofna.  

Áhættumat erfðablöndunar var þróað til þess eins að spá fyrir um áhættuna á erfðablöndun norskættaðs eldislax við villta íslenzka laxastofna í ám landsins.  Matið tekur ekki tillit til annarra mögulegra umhverfisáhrifa sjókvíaeldis, s.s. laxalúsar eða mengunar.  Matið gerir engan greinarmun á laxeldi eftir því, hvort um innlend eða erlend fyrirtæki er að ræða [var ein af dylgjum téðs Valdimars - innsk. BJo].  Við þróun spálíkans var leitað fyrirmynda hjá nágrannaþjóðum, og matið var unnið í samvinnu við fremstu vísindamenn heims á þessu sviði.

Við gerð áhættumatsins voru varfærnissjónarmið höfð að leiðarljósi, þar sem náttúran var látin njóta vafans.  Ráðist var í umfangsmikla vöktun og mótvægisaðgerðir gegn erfðablöndun.  Ákveðið var að endurmeta [áhættuna] á 3 ára fresti og byggja þá á rauntölum úr vöktun.

Íslenzka áhættumatið hefur verið notað sem fyrirmynd að áhættumati fyrir laxeldi í Kanada.  Ávirðingum Valdimars um náttúruníð, fúsk og spillingu er því algjörlega vísað til föðurhúsanna."

Þarna bregst Ragnar Jóhannesson með málefnalegum hætti við svívirðilegum árásum téðs Valdimars á Hafró og rakalausum tilraunum hugstola veiðiréttarhafa og náttúrugjammara til að grafa undan trúverðugleika Hafró sem hlutlægrar og óvilhallrar vísindastofnunar.  Þeir, sem hafa ekki annað fram að færa en hástemmdan og tilfinningahlaðinn atvinnuróg og níð gagnvart virðingarverðri vísindastofnun, sem aflað hefur sér trausts innanlands og utan, hafa augljóslega ekki fundið fjölina sína og munu aldrei finna hana, nema þeir bæti ráð sitt. 

"Áhættumatið [líkanið] reiknar út áætlaðan fjölda göngufiska úr sjókvíaeldi upp í veiðiár samkvæmt gefnum forsendum.  Matið reiknar út ágengni (e. intrusion) í einstökum ám út frá þekktum upplýsingum um stofnstærð í hverri á.  Rauntölur frá Noregi hafa sýnt, að eldisfiskur hefur margfalt minni æxlunarhæfni en villtur fiskur, og því má reikna með því, að erfðablöndunin verði einnig margfalt minni en ágengnin. Að mati færustu vísindamanna á þessu sviði þarf ágengni að vera a.m.k. 4 % á hverju ári áratugum saman, til þess að erfðablöndun nái að skerða hæfni stofns árinnar. 

Í áhættumati frá 2020 var áætluð ágengni um og innan við 1 % í 89 af þeim 92 veiðiám, sem eru í matinu, og þar af var engin ágengni áætluð í 43 ám."

Í raun og veru er allt moðverk og hræðsluáróður gegn sjókvíaeldinu vegna meintrar hættu á erfðablöndun í hvert skipti, sem eldislaxar sleppa út úr kvíunum, hrakin á grundvelli útreikninga, sem reistir eru á rannsóknarniðurstöðum. Fullyrðingaflaumur veiðiréttarhafa og sjálfskipaðra náttúruverndara er reistur á ímyndaðri hættu, sem á sér enga stoð í raunveruleikanum.

Hvað segir reynslan ?  Á 6 ára skeiði reyndust 10 strokulaxar fara upp í 92 veiðiár, þar af 2 úr eldi erlendis, og gefur það meðalágengni 0,09 %.  Hæsta ágengnin var 1,19 % í Staðará í Steingrímsfirði.  Þetta sýnir, að tilfinningaþrungið moldviðri veiðiréttarhafa og sjálfskipaðra náttúruverndara er innantómur lygaáróður til að grafa undan afkomu fjölda manns í landinu, sem vinnur að nauðsynlegri gjaldeyrisöflun fyrir þjóðarbúið.  Eru það ólíkt meiri tekjur en hafast upp úr krafsinu við sölu réttar til að veiða og sleppa meira eða minna særðum villtum laxi eftir öngul í gininu. 

Höfundurinn, Ragnar Jóhannesson hjá Hafró, gerði ítarlega grein fyrir útreikningunum, sem jók gildi greinarinnar töluvert:

"Matið byggir á tiltölulega einföldum þáttum. Fyrst ber að nefna umfang eldisins p, sem er umfang þessarar framleiðslu í hverjum firði fyrir sig.  Því næst er meðalhlutfall strokufiska á hvert framleitt tonn [t], sem við auðkennum sem S [=n/t, strokufjöldi/t].  Raunverulegar stroktölur eru að sjálfsögðu breytilegar á milli ára [og fjarða-innsk. BJo], en meðaltal síðustu 10 ára í Noregi gefur gefur töluna S=0,8 stk/t. Meðaltal síðustu 6 ára hérlendis gefur töluna S=0,5 stk/t [með tímanum hefur þetta hlutfall lækkað í báðum löndum].  

Einungis [lítill] hluti þeirra fiska, sem strjúka, mun ganga upp í ár og það hlutfall, auðkennt sem L, er nefnt endurkomuhlutfall.  Áætlaður heildarfjöldi eldislaxa, sem gengur í veiðiár [eins fjarðar], e, er því: e=p*s*L stk.

Nú er áætlað endurkomuhlutfall (L) mismunandi [annað] fyrir sjógönduseiði (snemmstrok [L1]) og fisk, sem er orðinn nær fullvaxta (síðstrok [L2]), og að auki er hegðun þeirra önnur. Strok 11 k laxa úr 2 kvíum Arnarlax í febrúar 2018 (síðbúið strok, stórir fiskar) var í raun ágætt álagspróf á fyrstu útgáfu áhættumatsins.  Raunin varð sú, að mun færri fiskar skiluðu sér í veiðiár en búizt var við, og endurkomuhlutfallið [L2] var því lækkað úr 3,3 % í 1,1 % við endurmat árið 2020."

 Komið hefur í ljós, að endurkomuhlutfall strokufiska á ári lækkar hratt með auknum massa fiska á bilinu 0-600 g og hægar eftir það [þ.e. L1>L2]. Fyrir þessu gerði Ragnar góða grein: 

"Eins og nú er vel kunnugt, varð strok úr sjókví við Haganes í Arnarfirði 2021, og gat Arnarlax ekki gert grein fyrir afdrifum 81.564 laxa.  Útreikningar okkar gáfu svipaða niðurstöðu varðandi strokfjölda.  Hér var um sjógönguseiði að ræða (snemmstrok).  Þau synda á haf út í fæðuleit og snúa svo til baka á upprunastað eftir a.m.k. eins vetrar dvöl í sjó [1-3 vetur]. Því var þetta strok álagspróf á stuðla, sem notaðir voru fyrir snemmstrok, enda fyrsta strokið af því tagi hérlendis, sem vitað var um.  

Við endurmat á stuðlum fyrir snemmstrok var notast við greiningu á umfangsmiklum sleppitilraunum, sem norska Hafrannsóknastofnunin stóð fyrir á árunum 2005-2008.  Sú greining leiddi í ljós, að endurkoma fellur með strokstærð, eins og sýnt er á Mynd 1 [í greininni, ekki hér, en sviðið fyrir L1 er 0,52 %-0,08 % fyrir 0-1400 g].  Samkvæmt gögnum frá Arnarlaxi var meðalþyngd þeirra [strokfiskanna] um 900 g við strok.  Í fyrra veiddust 25 fiskar úr þessu stroki í ám í Arnarfirði, meginþorrinn í frárennsli Mjólkárvirkjunar.  Það stemmir nokkuð vel við þá 40 fiska, sem vænta mátti eftir 1 vetur í sjó [samkvæmt líkani - innsk. BJo].  Einnig var dreifing þeirra lítil á frekar takmörkuðu svæði, eins og matið gerði ráð fyrir."

Það getur verið fróðlegt að slá á efri mörk strokufiskafjölda upp í ár landsins við 100 kt/ár laxaframleiðslu í sjókvíum við landið (Vestfirði og Austfirði).  Þetta eru E=100 kt*0,5 stk/t*0,0011=55 stk/ár.  Ef hrygningarstofninn á þessum svæðum er 16 kt, þá er ágengnin Á= 55/16 k = 0,3 %, sem er heilli stærðargráðu undir hættumörkunum 4 %.  Það virðist þess vegna vera borð fyrir báru, hvað erfðaáhættuna varðar, þótt sjókvíaeldið yrði rúmlega tvöfaldað, frá því sem það er núna.  Innantómar upphrópanir ofstækismanna eiga ekki að fá að móta atvinnuþróun og nýtingu auðlinda í íslenzkri lögsögu. Þar verður vísindaleg greining og bezta tækni áfram að fá að ráða för.  

 

 

 


Þöggun IPCC

Vefsetrið https://climate4you.com birtir yfirgripsmiklar niðurstöður rannsókna á lofthjúpi jarðar og útreikninga á hitastigi á 415 k (k=þúsund) árabili frá nútímanum á grundvelli borkjarnaathugana úr Grænlandsjökli.  Þær sýna, að 4 sinnum á þessu tímabili hefur hitastig andrúmslofts jarðar verið hærra en nú (1°C-3°C), en aldrei fór styrkur koltvíildis (CO2) á þessum hlýindaskeiðum yfir 290 ppm, en hann er frá 2018 yfir 400 ppm. Þetta sýnir, að á fyrri hlýskeiðum olli CO2 ekki hlýindunum, heldur voru þar önnur lögmál að verki.

Hvers vegna gerir IPCC (Loftslagsráð Sameinuðu þjóðanna) enga grein fyrir þessum rannsóknum í skýrslum sínum ?  Er það vegna þess, að opinberun þessara upplýsinga er til þess fallin að draga úr áhrifamætti hræðsluáróðursins um óafturkræfa hlýnun jarðar af völdum CO2 (s.k. hamfarahlýnun).  CO2, "lífgasið", er gert að blóraböggli.  Það er ofeinföldun á flóknu samhengi.  Ofeinfaldanir eru handhægar í áróðursskyni, og þessi ofeinföldun hefur þegar heltekið hugi manna.  Það verður þó að þróa sjálfbæra og hagkvæma orkukosti í stað jarðefnaeldsneytis af þeirri einföldu ástæðu, að það verður á þrotum eftir nokkra áratugi og það veldur skaðlegri mengun andrúmslofts (lífgasið er ekki mengun), en flas gerir engan flýti. 

Morgunblaðið gleypir ekki áróður IPCC og postula þess á Íslandi eða annars staðar, heldur fjallaði á gagnrýninn hátt um þennan áhrifaríka og afdrifaríka hræðsluáróður í báðum forystugreinum sínum 20. janúar 2023.  Fyrirsögn þeirrar fyrri var:

 "Loftslagsógnin orðin vandræðaleg".

Hún hófst þannig:

"Það er loks farið að bera á því, að áköfustu hræðsluherferðir í loftslagsmálum fái ekki undirtektir.  Þess vegna verkar illa, þegar helztu ríkisbubbar heims þyrpast til Davos á einkaþotum sínum og vara okkur fátæklingana við umgengni okkar við andrúmsloftið og spýta út meira en 350 k bifreiðir gerðu á sömu vegalengd !" 

Hvers vegna hafa þessir "ríkisbubbar" gert áróðurinn um "hamfarahlýnun" að sínum ?  Þeir taka ljóslega ekkert mark á þessum hræðsluáróðri gagnvart lýðnum, því að annars mundu þeir breyta lífsstíl sínum, en óhóf þeirra í neyzlu er alræmt, eins og þessi einkaþotuferðalög eru til vitnis um.  Einhvern veginn ætla þeir að græða á óttanum, sem búið er að sá í hug barnanna.  Það er t.d. hægt að græða á viðurstyggilegum, dýrum og óskilvirkum vindmyllum, sem almenningur kann að samþykkja í umhverfi sitt "til að bjarga lofthjúpnum".  Það er líklegt, að þeir fjárfesti í verkefnum, sem ríkisstjórnir fjármagna sem einhvers konar grænvöskun á ímynd sinni.  Hvernig má það vera, að IPCC hefur valið forstjóra ríkisolíufélags Sameinuðu arabísku furstadæmanna til að stjórna næstu loftslagsráðstefnu SÞ ? 

Svikamylla hlýtur að koma upp í hugann, þegar aðfarir IPCC eru gaumgæfðar og móðursýkislegur áróðurinn um yfirvofandi endalok mannkynsins vegna losunar þess á koltvíildi. Nú er vitað, að CO2 olli ekki síðustu 4 hlýskeiðunum á undan þessu, og þá varð meðalhiti andrúmsloftsins hærri en nú.  Sú staðreynd bendir ekki til, að hækkun koltvíildisstyrks sé meginorsök hitastigshækkunar andrúmslofts.

Það eru ósannindi, að "consensus" (eining) ríki í vísindaheiminum um niðurstöður og boðskap í skýrslum IPCC. Einn skeleggasti gagnrýnandinn á skýrslur IPCC er loftslagsvísindamaðurinn dr. John Christy, prófessor við University of Alabama, Huntsville, og Morgunblaðið vitnar einmitt til hans í téðri forystugrein: 

"Einn þekktasti loftslagsvísindamaðurinn, dr John Christy, hefur gert grein fyrir sínum athugunum á fullyrðingunum, sem sífellt eru endurteknar [og í hvert skipti, sem fólk verður fyrir barðinu á veðrinu, eins og það sé nýtt af nálinni - innsk. BJo]. 

"Mínar athuganir sýna, að aðgerðir, sem sagðar eru til þess fallnar að "stöðva hamfarahlýnunina", hafi ekki merkjanleg áhrif á það, hvernig andrúmsloftið þróast, en munu á sama tíma hækka orkukostnað gríðarlega fyrir almenning og grafa undan efnahagslegri getu hans.  Okkar gervihnatta- og loftbelgjamælingar sýna, að loftslagslíkön og mælingar "vísindamanna" á jörðu niðri ýkja hitabreytingar stórlega, á meðan hinar raunverulegu breytingar hringja engum viðvörunarbjöllum."" 

Þetta er eins og sprengja inn í hænsnabúið, þar sem hver hænan gaggar eins upp í aðra.  Nákvæmustu hitamælingar fást með nákvæmustu mælitækjunum, þar sem truflanir frá umhverfinu á niðurstöðu mælinganna eru minnstar.  Einsýnt er, að skekkjuvaldar hitamælinga eru meiri á jörðu niðri en í loftbelgjum eða á mælistöðum gervihnattanna í andrúmsloftinu.  Eins og drepið var á í inngangi, eru það greinilega aðrir þættir en styrkur koltvíildis í andrúmslofti, sem hafa stjórnað þróun hitastigs á jörðunni síðastliðin 415 þúsund ár (5 hlýskeið).  Á þessum forsendum er sá málflutningur dr John Christy afar trúverðugur, að vonlaust sé fyrir mannkynið að rembast við að hægja á hlýnunni með því að draga úr losun CO2 út í andrúmsloftið.  Mælingar hans benda til hitastiguls 0,17°C/10 ár í andrúmsloftinu, sem benda til 2°C hækkunar um næstu aldamót.  Þetta er mun minni hitastigshækkun en IPCC boðar með sínum takmörkuðu loftslagslíkönum. 

"Christy og starfsbróðir hans, Richard McNider, hafa einnig bent á, hvernig fyrri fullyrðingar vísindamanna, sem "algjör samstaða" var sögð um [í trúflokki um hamfarahlýnun - innsk. BJo], hefðu reynzt staðlausir stafir. 

Spám um heimsendi vegna árása mannkyns á ósónlagið með svitabrúsum hefði verið ýtt til hliðar, þegar þær voru orðnar of vandræðalegar.  Nú er aldrei á það minnzt, en haldin er í gustukaskyni ein fámenn ráðstefna  á ári í Kanada fyrir helztu sérvitringana á meðan umræðan gufar endanlega upp."

Oss var talin trú um það, að s.k. CFC-efni (klór-flúor-kolefni), sem þá voru notuð í úðabrúsa, á kælikerfi og í slökkviefni (halon), réðust á fremur óstöðuga sameind O3 (óson) og sundruðu henni, en ósonið ver jörðina fyrir hættulegum geimgeislum. Iðnaðurinn venti snarlega sínu kvæði í kross  og leysti CFC af hólmi með öðrum efnum, svo að losun þessara efna út í andrúmsloftið snarminnkaði, og oss var síðan tjáð, að gatið í ósonlaginu yfir norðurhveli jarðar hefði snarminnkað eða jafnvel horfið á þeim árstímum, þegar það var stærst.  

Allt öðru máli gegnir um jarðefnaeldsneytisknúið orkukerfi heimsins.  Tæknigeta iðnaðarins er enn ekki komin á þann stað, að hægt sé að hefjast handa við að leysa jarðefnaeldsneytið af hólmi með orkugjöfum, sem eitthvað getur munað um með nægilega umhverfisvænum og hagkvæmum hætti.  Þess vegna jafngildir illa ígrundaður áróður um hamfarahlýnun í raun kröfu um afturhvarf til fortíðar, en það eru draumórar, að hægt sé að leggja upp með svo gríðarlegar fórnir, þegar ljóst er, að vísindamenn eru alls ekki sammála um hlýnunina, hvorki hversu mikil hún er né af hvaða orsökum.  

 


Japlað á gömlum óttaáróðri

Nýlega er lokið 40 k (k=þúsund) manna ráðstefnu í Sharm El Sheikh í Egyptalandi um meinta yfirvofandi hlýnun jarðar.  0,11 % þátttakenda voru frá Íslandi, en á huldu er til hvers stofnað var til þess fjárausturs og losunar gróðurhúsaloftegunda. Ef einhver þeirra hefur haft eitthvað bitastætt fram að færa fyrir heimsbyggðina, hefur það ekki greinzt fyrir suðinu frá ráðstefnunni, venjulegu heimsendatuði og vafasömum gjörningum í nafni skattgreiðenda á Vesturlöndum. 

Þessar COP-ráðstefnur eru vonlausar trúðasamkomur, því að engin leið er að komast að nokkurri skuldbindandi niðurstöðu eða samvinnu um að draga úr losun koltvíildis.  Ef þátttakendur tryðu í raun og veru heimsendaboðskapnum, sem á almenningi er látinn dynja í síbylju, þá hlyti fyrir löngu að hafa náðst einhhver áþreifanlegur árangur við að draga úr losun CO2-koltvíildis, eins og raunin varð á um freon-efnin (kolflúoríð) til að vernda ósonlag jarðar.  Losun koltvíildis eykst stöðugt á heimsvísu og í flestum löndum, og nú er viðurkennt, að borin von sé til að halda hlýnun jarðar innan 1,5°C m.v. hitastigið um aldamótin 1800, enda var sú tala gripin úr lausu lofti á COP-ráðstefnunni í París í nóvember-desember 2015.   

Loftslagsáróðurinn stendur á slíkum brauðfótum og ofstækið er svo yfirþyrmandi, að erfitt er að taka hann alvarlega, enda virðast draumóramenn setja hann fram til höfuðs neyzluhyggju og auðhyggju.  Yfirlýsingar um yfirvofandi dómsdag út af hlýnun, jafnvel innan áratugar, hafa tröllriðið málflutningi þessara postula frá frumráðstefnunni um málefnið í Rio de Janeiro 1992. 

Ekki eru mælingar um styrk koltvíildis í andrúmsloftinu og stigul hans dregnar í efa, en hins vegar hefur hitastigshækkun andrúmsloftsins um 1,2°C frá um 1800 verið véfengd á vísindalegum grunni.  Dr John Christy, prófessor og framkvæmdastjóri "Earth System Science Center-ESSC", við háskólann í Alabama/Huntsville, sagði í yfirheyrslu hjá bandarískri þingnefnd árið 2012, að undanfarið 18 ára tímabil hefði enginn stígandi verið í hitastigi andrúmsloftsins samkvæmt óvéfengjanlegum  gervihnattamælingum. Sú niðurstaða sýnir einfaldlega, að líkan IPCC, sem notað er til að spá fyrir um hitastigsþróun andrúmsloftsins, er kolrangt og birt gögn um hitastigshækkunina eru röng. Um er að ræða flókið kerfi, og höfundar líkana IPCC virðast vera gloppóttir að þessu leyti.  Þegar svona er í pottinn búið, er ástæðulaust að gera sér rellu út af sífrinu frá minni spámönnum, sem SÞ hafa gleypt við, en þar fljúga ýmsir fuglar ófjaðraðir. 

Einn þeirra mörgu, sem gleypir við gögnum frá IPCC, er fyrrverandi Alþingismaður Alþýðubandalagsins og iðnaðarráðherra, Hjörleifur Guttormsson.  Í þeim anda skrifar hann heilmikið í Morgunblaðið, og 22.11.2022 birtist þar greinin:

"Mannkynið fjarri lausn við loftslagsvandanum".

Hún hófst þannig:

"Nú er mannsaldur liðinn frá því mælingar sýndu í hvað stefndi með koltvíoxíðinnihald (CO2) í andrúmslofti jarðar í kjölfar efnahagsumsvifa, sem byggðust á jarðefnaeldsneyti, kolum og olíu.  Sameinuðu þjóðirnar kvöddu til sérfræðinga, sem lögðu grunninn að loftslagssamningi um 1990, sem samþykktur var á ráðstefnunni í Ríó de Janeiro og síðan staðfestur af flestum ríkjum heims.  Fyrsti ársfundur aðildarríkja þessa samnings (COP-1) var haldinn í Bonn árið 1995 og síðan ár hvert, síðast í Egyptalandi, þar sem COP-27 var að ljúka um síðustu helgi.  Sá, sem þetta skrifar, gerði sér ferð á Ríó-ráðstefnuna og COP-4 í Buenos Aires árið 1998 og hefur fylgzt með þróun mála samfellt síðan.  Afleiðingarnar af aukningu CO2 á loftslag jarðar hafa orðið augljósari frá ári til árs, sem leiddi til Parísarsamkomulagsins sögulega á COP-20 árið 2015. Grunnur þess er, að stöðva beri meðaltalshlýnun andrúmsloftsins af mannavöldum innan við 1,5°C-2,0°C.  Reynslan síðan af áhrifum hlýnunar hefur fest neðri viðmiðunarmörkin í sessi sem eðlilega kröfu, en forsendurnar, til að hún verði að veruleika eru óskhyggja að óbreyttu efnahagsumhverfi."  

Það er ofeinföldun á flóknu kerfi andrúmsloftsins að tengja breytingar á hitastigi þess einvörðungu við hækkun koltvíildisstyrks og segja má, að gervihnattamæligögn dr John Christy afsanni þessi sterku tengsl, því að auðvitað jókst koltvíildisstyrkurinn mjög á tímabilinu 1994-2012, þegar hitastigið jókst ekkert. Sem dæmi má nefna, að vatnsgufa-H2O er öflug gróðurhúsalofttegund og við upphitun eykst geislun út í geiminn með hitastiginu í 4. veldi, svo að kerfið leitar jafnvægis í stað þess að stefna í stjórnlausa upphitun, eins og IPCC og aðrir dómsdagsspámenn halda fram. Allar dómsdagsspár á þessu sviði sem öðrum hafa orðið sér til skammar, en samt valdið ótta, einkum ungviðisins. 

Þorsteinn Sæmundsson, stjörnufræðingur, virðist yfirleitt hafa mikið til síns máls, þegar hann stingur niður penna.  Í örgrein í Morgunblaðinu gagnrýnir hann það réttilega, að nú virðast stjórnvöld ætla að skuldbinda Íslendinga til að greiða í loftslagsbótasjóð, fyrir að hafa stuðlað að hækkun koltvíildisstyrks í andrúmslofti, upphæð, sem gæti numið árlega mrdISK 3-4.  Í ljósi sögunnar er þetta fáheyrt.  Það sýnir, hversu leiðitamur loftslagsráðherrann er og laus við að hafa nokkurt leiðtogabein í nefinu, að honum þótti í kjölfar samþykktar um þetta í Sharm El Sheikh sjálfsagt að skuldbinda landsmenn í þessa veru. 

Þorsteinn Sæmundsson er annarrar skoðunar.  Téð grein hans, 28.11.2022:

"Fjármunum kastað á glæ",

hófst þannig:

"Skiptar skoðanir eru um það, hve mikinn þátt mannkynið eigi í hækkuðu hitastigi hér á jörðu.  Sjálfur hallast ég að því, að þessi þáttur vegi býsna þungt, en vil þó engan veginn fullyrða það.  Hitt þori ég að fullyrða, að mannlegar aðgerðir til að hamla gegn hitahækkuninni eru dæmdar til að mistakast.  Í fyrsta lagi eru þær þjóðir, sem mestri loftmengun valda, ekki virkir þátttakendur í aðgerðunum.  Í öðru lagi er engin von til þess, að aðrar þjóðir fylli upp í skarðið, því að það myndi ógna hagvexti þeirra. 

Að við Íslendingar tökum þátt í þessum aðgerðum, er hreinasta hneyksli, eins og ég hef áður fjallað um í blaðagrein: "Barnaskapur og sjálfsblekking", Mbl. 2.4.2022.  Um 90 % af orkunotkun okkar er laus við alla mengun.  Við stöndum bezt allra þjóða í því efni."

Þorsteinn telur tilraunir til að draga úr heimslosun CO2 dæmdar til að mistakast, og við það má bæta skrýtinni viðskiptahugmynd um að flytja CO2 inn til Íslands, blanda það við mikið vatnsmagn og dæla blöndunni niður í jörðina í von um, að blandan umhverfist þar í grjót.  Þessi aðferð er einfaldlega allt of dýr og krefst of mikillar orku og vatns. Sá, sem hefur fyrir því með erfiðismunum að draga CO2 út úr afsogi, mun fremur kjósa að selja það til framleiðslu á rafeldsneyti í grennd við sig en að senda það til Íslands. Varðandi "syndaaflausn" koltvíildislosara spyr Þorsteinn, hvar þessi vitleysa endi eiginlega ?  Fégreiðslur af þessu tagi eru dæmdar til að verða spillingu að bráð.  Við getum notað þetta fé betur hérlendis í sjóvarnargarða vegna hækkandi sjávarstöðu.    

 Einn þeirra, sem sótti messu loftslagskirkjunnar í Egyptalandi nú í vetur, COP-27, var Bergþór Ólason, Alþingismaður.  Hann er þó ekki í þessum sértrúarsöfnuði. Pistill eftir hann birtist á ritstjórnarsíðu Morgunblaðsins 28. nóvember 2022 undir fyrirsögninni:

"Loftslagskirkjan messar í Egyptalandi",

og hófst þannig:

"Fyrir réttri viku bárust fréttir af því, að "örþreyttir" samningamenn hefðu náð niðurstöðu um s.k. loftslagsbótasjóð á COP27, loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna [SÞ] í Sharm El-Sheikh í Egyptalandi. 

En niðurstöðu um hvað ?  Uppleggið er, að í sjóðinn renni 100 mrdUSD/ár frá þróuðum þjóðum til hinna vanþróuðu, sem verða fyrir tjóni af völdum veðurtengdra atburða.  Það samsvarar 11-földum fjárlögum Íslands [2022], árlega !

Ef mrd 1,5 jarðarbúa af mrd 8,0 stendur undir þessum greiðslum, má reikna með, að hlutur Íslendinga verði á 4. mrd árlega hið minnsta [hlutfall gefur 3,6 mrdISK/ár].  Höfðu embættismennirnir, sem þarna sátu dagana langa, umboð til að skuldbinda ríkissjóð með þessum hætti ?"

Það er tvöföld ástæða fyrir því, að glórulaust er að snara þessum fjármunum úr skuldugum ríkissjóði, sem þessi misserin er rekinn með miklum halla. 

Íslendingar voru fátækastir Evrópuþjóða um aldamótin 1900, enda höfðu þeir mannsaldurinn á undan orðið fyrir um fjórðungsblóðtöku, er atorkufólk hrökklaðist til Vesturheims undan kulda (hafísár), skorti á jarðnæði og atvinnuleysi.  Iðnvæðing hófst hér ekki að kalla fyrr en eftir Síðari heimsstyrjöldina, og var hún knúin áfram með endurnýjanlegum orkulindum.  Nokkru fyrir styrjöldina var farið að draga úr notkun kola og olíu með upphitun húsnæðis með heitu vatni úr iðrum jarðar.  Þannig var þróunin hérlendis með ósambærilegum hætti við önnur Vesturlönd og fáránlegt að láta Íslendinga borga einhvers konar "syndaaflausn", á meðan stórmengarar á borð við Kína, Indland, Indónesíu og Brasilíu er taldir til þróunarlanda og eru undanþegnir greiðslum í þennan sjóð. 

Sjóður á borð við þennan býður heim mikilli spillingarhættu, og það er hætt við stórfelldri misnotkun fjár og litlum framkvæmdum af viti til að aðlaga íbúana og lönd þeirra að breyttum aðstæðum. 

 

 

 


Tækni virkjana er grundvallaratriði fyrir þær

Aðferðirnar við að framleiða rafmagn úr orkulindum náttúrunnar eru eðlisólíkar, eru þess vegna mishagkvæmar og fyrirferð þeirra í náttúrunni er ólík. Að framleiða rafmagn með afli fallvatns gefur langhæstu nýtnina við raforkuvinnslu af þekktum aðferðum.  Sú aðferð er líka óumdeilanlega endurnýjanleg, og vatnsrennslið á Íslandi gæti farið vaxandi með hlýnandi veðurfari vegna meiri úrkomu og aukinnar bráðnunar jökla. Um hitafarið er þó ómögulegt að spá með góðri vissu, því að öflugri áhrifavaldar en koltvíildisstyrkur í andrúmsloftinu leika lausum hala.

Orkan, sem virkjuð er í þessu tilviki, er mismunur á stöðuorku vatns á 2 stöðum með mismunandi hæð yfir sjó og má lýsa sem E=mgh, þar sem m=massi vatnsins á orkuvinnslutímabilinu, g=9,8 m/s2 hröðun vegna aðdráttarkraftar jarðar og h=hæðarmunurinn, sem virkjaður er.  Nýtnin er allt að 90 %. 

Það þykir áhrifamikið að virða fyrir sér og hlusta á vatn falla fram af stöllum, og það er einmitt sú upplifun, sem fer forgörðum í mismiklum mæli við virkjun fallvatna.  Yfirleitt eru íslenzkar vatnsaflsvirkjanir þó afturvirkar að þessu leyti. Ef 20 %-30 % meðalrennslis er hleypt í gamla farveginn, verða fæstir varir við nokkra breytingu.  Bergbrúnin slitnar við núning vatnsins, og þess vegna seinka vatnsaflsvirkjanir eyðingu fossa. Landþörfin er tiltölulega lítil eða innan við 0,01 km2/GWh/ár. 

Nýtni jarðgufuvirkjana er aðeins um 16 %, ef jarðgufan er aðeins notuð til að framleiða rafmagn, en með því að nýta alla varmaorku gufunnar í þrepum og til upphitunar húsnæðis má hækka nýtnina upp í 40 % og jafnvel hærra, ef virkjun sendir frá sér baðvatn, eins og Svartsengisvirkjun. 

Hver borhola gefur yfirleitt um 5,0 MWe í byrjun, en reynslan er sú, að afköst borholanna dvína með tímanum, e.t.v. um 4 %/ár, og þá þarf að útvíkka borsvæðið og fjölga holum, þegar afkastarýrnunin er orðin óviðunandi.  Hver borholureitur er yfirleitt um 1,0 km2, svo að landþörfin er a.m.k. 0,03 km2/GWh/ár.

Sólarhlöður munu aldrei framleiða umtalsvert mikið rafmagn á Íslandi vegna hnattlegu og veðurfars.  Nýtni þeirra er um þessar mundir um 40%.

Eldsneytisknúnum vararafstöðvum er aftur tekið að fjölga hérlendis, því að afhendingaröryggi rafmagns frá stofnkerfi landsins helzt ekki í hendur við þarfir atvinnulífsins og hitaveitna með engan eða takmarkaðan jarðhita.  Þetta kom síðast berlega í ljós veturinn 2021-2022, þegar orkuskortur varð, því að miðlunarlónið Þórisvatn fylltist ekki haustið 2021 vegna mikils álags á raforkukerfið og innrennslis undir meðallagi. Sama sagan gerist nú, þótt forðinn sé meiri nú í upphafi vatnsárs (október) en á sama tíma í fyrra.  Eftirfarandi óbjörgulegu lýsingu er nú í október 2022 að finna á heimasíðu Landsvirkjunar og er í raun falleinkunn fyrir stjórnun orkumála í landinu, því að staðan minnir á ástandið fyrir hálfri öld:

"Aflstaða vinnslukerfis Landsvirkjunar er tvísýn, og er útlit fyrir, að vinnslukerfið verði aðþrengt í afli á háannatímanum í vetur.  Því gæti þurft að takmarka framboð á ótryggðri orku, ef álag verður meira en tiltækt afl vinnslukerfisins nær að anna."

Stjórnvöld hafa tögl og hagldir í orkukerfinu með ráðuneytum, Orkustofnun og ríkisfyrirtækinu Landsvirkjun. Þetta er afleiðingin.  Orkukerfi hangandi á horriminni tæknilega séð þrátt fyrir mjög góða fjárhagslega afkomu, svo að nóg fé er að finna í virkjanafyrirtækjunum til að fjárfesta í nýjum virkjunum.  Stjórnmálamenn og embættismenn lifa í sýndarveruleika og skortir lagni og dug til að bjarga þjóðinni úr þeirri sjálfheldu, sem hún er í með orkumál sín. 

Þeir blaðra um orkuskipti, sem allir vita að jafngilda auknu álagi á raforkukerfið, en raforkukerfið er svo mikið lestað um þessar mundir, að það getur brostið, þegar hæst á að hóa, sem verður væntanlega í desember-febrúar, og staðan verður enn verri á næstu árum, því að álag vex með hagvexti, en aflgetan til mótvægis vex hægar en þörf er á. 

Öfugt við blaðrið í stjórnmálamönnum og embættismönnum um orkuskipti þýðir þetta einfaldlega, að olíunotkun landsmanna mun aukast á næstu 5 árum, og þar með er loftkennd markmiðssetning um 0,4 Mt/ár minni olíunotkun 2030 en núna farin í vaskinn.  Það er jafnframt afar hæpið, að hægt verði að sjá innanlandsfluginu fyrir öruggu rafmagni og/eða  rafeldsneyti, eins og forráðamenn innanlandsflugsins þó óska eftir, á þessum áratugi. Fiskeldið þarf um 1/10 af raforkuþörf innanlandsflugsins undir lok þessa áratugar til rafvæðingar báta, skipa og pramma starfseminnar.  Það er ekki einu sinni víst, að íslenzka raforkukerfið, orkuvinnslan, flutningskerfið og dreifikerfið, muni hafa getuna til að anna þessari þörf, um 25 GWh/ár, áður en þessi áratugur er á enda.

 Hvernig væri nú, að viðkomandi opinberir starfsmenn girði sig í brók og hætti að lóna og góna á umsókn Landsvirkjunar um virkjunarleyfi í Neðri-Þjórsá á þeim stað, sem sérfræðingar hafa með hönnun sinni staðsett einhvern álitlegasta virkjunarkost, sem nú stendur landsmönnum til boða, Hvammsvirkjun, 95 MW, eftir hálfs annars árs afgreiðslutíma ?

Að síðustu skal hér minnzt á vindmyllur, en ofangreind kreppa íslenzkra orkumála er nú notuð til að auka þrýsting á leyfisveitendur fyrir vindmylluþyrpingar.  Það sýnir öfugsnúning landverndarmála á Íslandi, að með því að þvælast endalaust fyrir flutningslínum, jarðgufuvirkjunum og vatnsorkuverum hafa andstæðingar allra handa orkuframkvæmda hérlendis nú fært forgöngumönnum vindmylluþyrpinga sterk spil á hendi til að afvegaleiða leyfisveitendur, svo að þeir fórni meiri hagsmunum fyrir minni. 

Nýtni vindmylluþyrpingar á landi hefur yfirleitt verið um 25 % af tiltækri frumorku vindsins.  Þessa nýtni má hækka með því að lengja bilið á milli þeirra til að draga úr hvirfiláhrifum, og er nú talið, að tífalt þvermál hringsins, sem spaðaendarnir mynda á snúningi sínum, dugi til hámörkunar nýtninnar m.v. annað óbreytt, en spaðahönnunin og stýring blaðskurðarins hefur líka áhrif á nýtnina. 

Nokkuð mikillar bjartsýni virðist gæta hjá sumum forkólfa vindmylluþyrpinganna hérlendis um nýtingu fjárfestingarinnar eða m.ö.o. nýtingu uppsetts afls og hafa sézt tölur upp í 48 %.  Þá virðast viðkomandi ekki taka tillit til þess, að stöðva verður hverja vindmyllu a.m.k. árlega fyrir ástandsskoðun og samkvæmt https://www.exponent.com má búast við árlegum stöðvunartíma vegna ástandsskoðunar og viðgerða vindmylla um 400 klst, sem þá nálgast 5 % af árinu, en mest munar um í rekstri vindmylla, að vindstyrkurinn er ekki alltaf á því bili, sem full afköst gefur.  Sumir áhugasamir vindmylluforkólfar hérlendis virðast ætla að velja tiltölulega stórar vindmyllur, og þá má búast við hærri bilanatíðni samkvæmt ofangreindum hlekk. Landþörf vindmylluþyrpingar er langmest allra tæknilegra virkjanakosta á Íslandi eða um 0,1 km2/GWh/ár m.v. lítil gagnkvæm hvirfiláhrif.

Það er ekki víst, að Ísland sé jafn vel fallið til vindmyllurekstrar og sumir virðast gera sér í hugarlund, og má þá nefna sviptivinda, sandfok, slyddu og ísingu, og allt þetta getur hleypt bæði stofnkostnaði og rekstrarkostnaði upp. Fyrir nokkru áætlaði höfundur þessa pistils kostnað rafmagns frá þyrpingu með 4,0 MW vindmyllum 50 USD/MWh.  Þetta heildsöluverð raforku er afar svipað og smásöluverð raforku til höfundar um þessar mundir, svo að ekki verður séð, að vindmyllur geti keppt við íslenzkar jarðgufu- og vatnsaflsvirkjanir á markaði, þar sem jafnvægi ríkir á milli framboðs og eftirspurnar, en því er reyndar alls ekki að heilsa á Íslandi núna, eins og fram kom framar í þessum pistli.  Væntanlegir vindmyllufjárfestar hér skáka í því skjólinu.   

 

  

 

 


Hvöss gagnrýni á stjórnvöld

Varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins ritaði yfirvegaða og afar hvassa gagnrýni á íslenzk stjórnvöld fyrir framgöngu þeirra í Kófinu í Morgunblaðið 16. september 2022.  Þann 12. september 2022 birtist í Norgunblaðinu beitt gagnrýni Guðmundar Karls Snæbjörnssonar, sérfræðings í heimilislækningum, á sóttvarnaryfirvöld fyrir illa rökstudda ástríðu þeirra fyrir bólusetningum barna gegn C-19, þótt börnum, án tillits til heilsufars þeirra, sé nánast engin hætta búin af SARS-CoV-2 veirunni, sem veldur C-19, en geti hins vegar hæglega beðið alvarlegt heilsutjón af mRNA-bóluefnunum, sem enn eru á tilraunastigi og hafa reynzt gagnslaus öllum aldurshópum innan hálfs árs frá bólusetningu. Þessi bóluefni verður að telja misheppnuð, og það er eitthvað bogið við það, að lyfjaiðnaðurinn skuli komast upp með að markaðssetja svo svikna vöru. 

Fyrirsögn svipugangagreinar Arnars Þórs Jónssonar, lögmanns og varaþingmanns sjálfstæðismanna í SV-kjördæmi, var tæpitungulaus:

"Réttarríkið riðar á fótunum".

Í lok inngangs stóð þetta:

"Samkvæmt útgefinni dagskrá [um Lagadaginn 23.09.2022] stendur ekki til að ræða þar um mál málanna, þ.e. augljósa hnignun réttarríkisins í kórónuveirufárinu. Með þögninni kallar "lögfræðingasamfélagið" yfir sig áfellisdóm og tortryggni líkt og sá, sem ber í bresti niðurníddrar byggingar með því að sparsla í sprungurnar."

Það er umhugsunarefni, að samtök lögfræðinga eða stærri hópur lögfræðinga skuli ekki hafa séð ástæðu til að leiða samborgurum sínum og þar með stjórnmálamönnum fyrir sjónir, að heilbrigðisyfirvöld landsins fóru offari í Kófinu, sviptu borgarana dýrmætu einstaklingsfrelsi, atvinnufrelsi og mannréttindum, og beittu við þetta "heilaþvotti" í nafni vísinda, sem voru ekki fyrir hendi. Hvaða hagsmunir lágu þar að baki ?

Þetta reyndist valda einstaklingum og fyrirtækjum gríðarlegu fjárhagstjóni og skapaði heilsufarsleg og félagsleg vandamál. Í heilbrigðiskerfinu var forgangsraðað með ærnum tilkostnaði til þess að fást við tiltölulega hættulítinn sjúkdóm, en þá sátu aðrar greiningar og meðferðir, jafnvel við hættulegri sjúkdómum, á hakanum.  Afleiðingin varð sú, að dauðsföll hafa víða aldrei verið fleiri eftir rénun C-19. 

Bent var á hættuna á þessu á þessu vefsetri og vísað í rannsóknir, og Þorsteinn Siglaugsson o.fl. voru líka ötulir að vara við þessu.  Aðgerðir heilbrigðisyfirvalda snerust þannig algerlega í höndunum á þeim. Í næsta fári verður framkvæmdavaldið að halda haus og gæta sín að hlaupa ekki út um víðan völl í heimildarleysi. Veikum stjórnmálamönnum og embættismannastéttinni hættir við því. 

"Þessi ummæli [forstjóra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um, að "hræðsluáróðri" hafi verið beitt] staðfesta, að yfirvöld hér á landi hafa beitt stjórnarfarslega ólögmætum aðferðum til að stýra hegðun borgaranna; með öðrum orðum inngripum og athöfnum, sem hvorki eiga sér viðhlítandi lagastoð né byggjast á hlutlægum og málefnalegum sjónarmiðum auk þess að falla á margþættum prófum meðalhófsreglu, sem einnig hefur talizt til mikilvægustu forsendna mannréttindaverndar.  Grundvallarreglur stjórnskipunarinnar og undirstöður lýðræðis og mannréttinda, eins og lögmætisregla, hlutlægnis- og réttmætisregla, sem og meðalhófsreglur, virðast hafa verið mölbrotnar á altari faraldursfræði og rörsýni, sem hvorki á skylt við lýðræði né lögmætisforsendur. Hvert, sem litið er, má sjá, hvernig stjórnvöld með dyggri aðstoð meginstraumsfjölmiðla, hafa beitt áróðri og ritskoðun. Skipulega hefur verið alið á ótta, vísindaleg rökræða bæld niður, pólitísk rökræða vængstýfð og heilbrigðar efasemdir úthrópaðar." 

   Það eru engar smáræðis ásakanir á hendur stjórnvöldum, sem þarna eru settar fram.  Mistök stjórnvalda í Kófinu eru í raun meiri en í aðraganda Hrunsins 2008, því að þar var alvarlegasta ákæran sú, að ekki hefði verið boðað til ríkisstjórnarfundar um tiltekið málefni.  Hér virðast lög um ráðherraábyrgð vissulega aftur koma til álita, og í þetta sinn verða það stöllurnar í VG, sú sem sat í stóli forsætisráðherra og gerir enn, og sú sem sat þá í stóli heilbrigðisráðherra, sem verða að svara til saka.

Það er sláandi, að Umboðsmaður Alþingis skyldi ekki ranka við sér þegar árið 2020.  Það var bara einn þingmaður, Sigríður Andersen, sem hafði sig verulega í frammi til að gagnrýna aðgerðir sóttvarnaryfirvalda og spyrja gildra spurninga, bæði efnislega og lagalega.  Þessi doði þjóðfélagsins er váboði, sem taka ber mark á. Arnar Þór kallar fyrirbærið "lýðræðishrun" og telur það einkenna Vesturlönd í heild.  Hér skal benda á, að ekki má kemba öllum með einum kambi.  Hjarðhegðun og móðursýki áttu einna sízt uppdráttar í Svíþjóð.  Þar var gripið til einna minnstra skerðinga á persónulegu frelsi fólks og starfsemi fyrirtækja.  Niðurstaðan, mæld í þróun heildar dauðsfalla, er sízt Svíþjóð í óhag.  Flumbrugangur og ofstæki íslenzkra og fleiri  sóttvarnaryfirvalda var lýðheilsulegt vindhögg. Hver græddi á þessum ósköpum ?  

"Stjórnar- og eftirlitsstofnanir ríkisins, sem ætlað er að verja almannahagsmuni, hafa snúizt gegn almenningi og þeim gildum, sem stjórnskipunin er grundvölluð á.  Fjölmiðlar hafa í auknum mæli orðið háðir ríkisvaldinu um afkomu sína og gerzt gagnrýnislausar málpípur stjórnvalda.  Lyfjaiðnaðurinn hefur fengið að láta greipar sópa um almannafé í boði yfirvalda.  Læknar og heilbrigðisyfirvöld hafa brugðizt hlutverki sínu með því að einblína á sprautur, grímur og innilokun heilbrigðis [einkennalausir sendir í sóttkví á grundvelli ónákvæmra greininga (PCR) - innsk. BJo] einkennalauss fólks í stað þess að mæla með sólarljósi, D-vítamíni, hollu mataræði og fyrirbyggjandi snemmmeðferðum. Allt hefur þetta gerzt án þess, að nokkur gagnrýni hafi heyrzt frá háskólamönnum og án nokkurrar sjáanlegrar viðleitni stjórnvalda til að framkvæma viðunandi kostnaðar -og ábatagreiningu."    

Þetta er flengjandi gagnrýni á heilbrigðisgeirann hérlendis og stjórn hans m.a. fyrir gálausa meðferð fjár.  Gríðarlegum fjármunum var varið til kaupa á meingölluðum bóluefnum, sem skilað hafa litlum og umdeilanlegum árangri og valdið mörgum heilsutjóni, ef ekki fjörtjóni, enda um tilraunaefni á neyðarleyfi að ræða.  Þannig má segja, að gríðarleg og fordæmalaust umfangsmikil tilraun á mannfólki hafi átt sér stað, sem verður að telja siðlaust athæfi.  "Cuo bono" spurðu Rómverjar, þegar þeir voru hissa á einhverju ?

  Lyfjaiðnaðurinn spilaði undir þessum söng heilbrigðisyfirvalda og græddi óhemju fé á svikinni vöru sinni.  Þetta fé sáldrast víða, og þar eru ekki öll kurl komin til grafar í Evrópu og víðar.  Segja má, að þessi mál séu á óviðunandi spori.  Er kvíðvænlegt að hugsa til næsta faraldurs, sem gæti orðið virkilega skæður, ef stjórn varnanna á að verða með sama markinu brennd. Hverjir hafa heiðarleika, getu og þekkingu til að fara ofan í saumana á þessari ömurlegu reynslu af sóttvörnum hérlendis með það í huga að smíða betri, traustari og löglegar varnir ? 

"Á bak við embættisvaldið og sérfræðingana standa skuggastjórnendur, sem í krafti auðvalds og valdaásælni krefjast undirgefni og samræmdra aðgerða á alþjóðlegan og fordæmalausan mælikvarða.  Bæði austan hafs og vestan eru sjáanleg dauðamörk á lýðræðinu.  Óheillavænleg skautun (pólarísering) hefur orðið á stjórnmálasviðinu, þar sem vinstri- og hægrimenn skiptast á að væna hver annan um öfgar (fasisma/kommúnisma)." 

Þarna er hreint út sagt lýst rotnu samfélagi.  Það verður að stinga á kýlinu og leyfa greftrinum að vella út.  Að réttu ættu Alþingismenn að hafa forgöngu um það.  Hafa þeir vilja, þekkingu og þor ?  Margir þeirra eru lítilla sanda og sæva og velta sér upp úr lýðskrumi, en eftir þá liggur ekkert uppbyggilegt.  Vinstri menn eru ólíklegri til afreka í þessa veru, enda margir hverjir hallir undir embættismannavaldið innlenda og erlenda (ESB).  Eini mannsbragurinn í Kófinu var að hægri mönnum, og þar skaraði Sigríður Andersen fram úr. Það þarf slíkan bóg til að hrista upp í því samansúrraða rotna kerfi, sem Arnar Þór lýsir áferðinni á að ofan. Í lok þessarar sprengjugreinar reit hann:

"Samruni ríkisvalds og stórfyrirtækja, sem nú þegar hefur sogað milljarða [ISK] úr ríkissjóði, hefur vakið upp gráðugan óvætt og kallað stórkostlegan háska yfir lög okkar og rétt.  Ritskoðun, áróður og valdstýring hefur náð því stigi, að lýðræðislegt stjórnarfar og borgaralegt frelsi er í stórhættu.  Til kollega minna í "lögfræðingasamfélaginu" vil ég segja þetta: það er betra að sjá sannleikann, þótt hann sé svartur, en að lifa í blekkingu og þegja."

Þetta er beittasta gagnrýni, sem birzt hefur um langa hríð á lögfræðingastéttina, embættismenn og valdsmenn ríkisins. Embætti sóttvarnarlæknis, vafalaust með samþykki landlæknis, hefur ákveðið að beita sér fyrir bólusetningu barna gegn C-19. Eins og Guðmundur Karl Snæbjörnsson, sérfræðingur í heimilislækningum, hefur sýnt fram á, finnast engin læknisfræðileg rök fyrir þeirri ákvörðun. Við leit á skýringum beinast þá böndin að ályktun Arnars Þórs hér að ofan um "samruna ríkisvalds og stórfyrirtækja". Þessi rotna staða er óviðunandi fyrir skattborgarana og neytendur hinnar opinberu heilbrigðisþjónustu.  Það eru svo gríðarlegir hagsmunaárekstrar í hinum opinbera heilbrigðisgeira að koma í ljós, t.d. við lyfja- og bóluefnaviðskipti, að traust til hans og heilbrigðisstefnu ríkisins hefur beðið hnekki.  Mikil miðstýring á miklu opinberu fé býður upp á mikla spillingu.  Það er lágmark, að embættismenn, eins og landlæknir og sóttvarnarlæknir, geri hreint fyrir sínum dyrum, þegar fyrirspurnum er beint til þeirra, eins og heimilislæknirinn Guðmundur Karl gerði í Morgunblaðsgrein sinni 12.09.2022. 


Ferli ákvarðanatöku í lýðræðisríki

Arnar Þór Jónsson, lögmaður og varaþingmaður sjálfstæðismanna í SV-kjördæmi (Kraganum), hefur reynzt eljusamur talsmaður einstaklingsfrelsis og lýðræðis í hefðbundnum vestrænum skilningi. Hann hefur iðulega í ræðu og riti, á "öldum ljósvakans" og á síðum Morgunblaðsins vakið athygli á veikleikum í stjórnarfari landsins, sem þó eru ekki bundnir við Ísland, sem kalla mætti útþynningu lýðræðisins og felast í úthýsingu raunverulegrar stefnumörkunar ríkisins frá Alþingi eða ráðherrum, sem standa þurfa Alþingi reikningsskap gerða sinna samkvæmt Stjórnarskrá lýðveldisins, til embættismanna innanlands og utan. Með erlendum embættismönnum er hér átt við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) og stofnanir og embættismenn á hennar vegum, sem með ákvörðunum sínum, reglugerðum og tilskipunum, eru orðnir áhrifaríkir um lagasetningu á Íslandi vegna innleiðingar Alþingis á reglum Innri markaðar EES (Evrópska efnahagssvæðisins), sem Ísland er aðili að síðan 1994. Hér verða aðeins tekin 3 dæmi um innlenda embættisfærslu, sem  vitna um gagnrýniverða embættisfærslu í ljósi krafna um lýðræðislegar heimildir.  

Samkvæmt innleiðingu Alþingis á Orkupakka 3 (OP3) haustið 2019 (Orkulöggjöf ESB á þeim tíma.  Núgildandi orkulöggjöf ESB er OP4, sem hefur enn ekki verið innleidd í EFTA-ríkjum EES vegna skorts á pólitískum stuðningi við það á Stórþinginu og innan norsku ríkisstjórnarinnar.) skal Orkumálastjóri vera fulltrúi ACER-Orkustofnunar ESB á Íslandi og sjá til þess, að ákvæðum gildandi orkupakka sé framfylgt á landinu.  Þar er eindregið mælt með orkukauphöll fyrir raforku, þ.e. að markaðurinn ákvarði orkuverðið á hverri klukkustund sólarhringsins.  Við afbrigðilegar aðstæður, eins og nú ríkja í Evrópu, hefur þetta fyrirkomulag reynzt neytendum herfilega illa og rafmagnið, eins og jarðefnaeldsneytið, orðið þungur fjárhagsbaggi á mörgum heimilum.

Nú eftir þinglok í vor bregður svo við, að Landsnet (undir eftirliti Orkumálastjóra) kynnir til sögunnar nýja undirstofnun sína, sem ætlað er að innleiða þetta markaðsfyrirkomulag á Íslandi. Í ljósi þess, að við núverandi aðstæður orkumála á Íslandi (orkuskort) eru mestar líkur á, að verðmyndun rafmagns eftir skammtíma framboði og eftirspurn muni leiða til umtalsverðra hækkana á meðalverði rafmagns á Íslandi, er vert að spyrja, hvort eðlilegt sé, að embættismenn vaði áfram með þetta mál án þess, að Alþingi hafi fjallað um það sérstaklega ?  Málið er a.m.k. einnar vandaðrar áhættugreiningar virði. 

Þann 23. júní 2022 ritaði Arnar Þór Jónsson grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni:

"Engin stemning ?".

Hún hófst þannig:

"Í viðtali við RÚV 16. júní sl. lét Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, þau ummæli falla, að ekki yrði gripið til takmarkana "strax" vegna fjölgunar Covid-smita. Slíkt réðist af "því, hvernig faraldurinn þróast".  Í beinu framhaldi sagði Þórólfur "alveg ljóst, að það er engin stemning fyrir neinum takmörkunum í þjóðfélaginu, eða hvar sem er".  Ástæða er til að vekja athygli almennings á þessum síðastnefnda "mælikvarða" sóttvarnalæknis, sem hann hefur raunar ítrekað vísað til í öðrum viðtölum."

Það er líka ástæða til að fetta fingur út í þá áráttu fráfarandi sóttvarnarlæknis að tala um nauðsyn þjóðfélagslegra takmarkana yfirvalda vegna pestar, sem mjög líkist inflúensu, en getur, eins og flensan, leitt af sér ýmis stig lungnabólgu, ef ónæmiskerfi líkamans er veikt fyrir og líkamann vantar D-vítamín.

  Samanburðarrannsóknir á viðbrögðum yfirvalda víða um heim gefa til kynna, að heildardauðsföllum fækki ekki við þjóðfélagstakmarkanir til að stemma stigu við C-19.  Þar sem yfirvöld reka harðýðgislega einangrunarstefnu vegna C-19, eins og í Kína, grasserar pestin enn.  Þarna hefur ofurtrú á stjórnsemi yfirvalda leitt embættismenn víða á villigötur, en aðeins hjarðónæmi getur kveðið þessa pest niður (hjarðónæmi af völdum almennra smita, því að bóluefnin, sem kynnt hafa verið til sögunnar, hindra ekki smit og veikindi).  

Bóluefnafarsinn gegn C-19 er kapítuli út af fyrir sig og ber keim af einhvers konar peningamaskínu lyfjaiðnaðarins, sem yfirvöld hafa látið ginnast til að ánetjast (vanheilagt bandalag stórfyrirtækja, stjórnmálamanna og embættismanna til að græða á ótta almennings).  Bóluefnin veittu ekkert hjarðónæmi, sem þó var lofað, m.a. af íslenzka sóttvarnarlækninum, og ending þeirra í líkamanum reyndist skammarlega skammvinn, enda var hún horfin, eins og dögg fyrir sólu innan 3 mánaða samkvæmt rannsóknum, sem sænski læknirinn Sebastian Rushworth hefur kynnt á vefsetri sínu. 

Slæmar aukaverkanir bóluefnanna, í sumum tilvikum lífshættulegar, eru miklu algengari en af hefðbundnum bóluefnum.  Leyfisveiting fyrir almennri notkun þessara mRNA-bóluefna voru mistök, reist á allt of stuttum athugunartíma á virkninni.  Var þar samsæri á ferðinni ?  Nauðsynlegt er rannsaka það niður í kjölinn.  Enn ráðleggur íslenzki sóttvarnarlæknirinn örvunarkammt, nú þann 4. í röðinni með þeim orðum, að slíkt dragi úr einkennum C-19.  Eru vísindalegar rannsóknir, sem hægt er að treysta, að baki þeirri fullyrðingu, eða eru þessar upplýsingar komnar frá hagsmunaaðilum ?  Nú er allt annað afbrigði á ferðinni en Wuhan-útgáfan, sem þróun bóluefnanna var sniðin við.  Þekkt er, að flensusprautur eru gagnslausar, nema við afbrigðinu, sem flensubóluefnin eru þróuð við.

"Ummælin um "stemningu" sem forsendu valdbeitingar opinbera þann stjórnarfarslega háska, sem íslenzk stjórnmál hafa ratað í.  Þau eru til merkis um öfugþróun, sem beina verður kastljósinu að: Lýðræðið deyr og réttarríkið sundrast, þegar vald og ótti sameinast; þegar stjórnvöld og stórfyrirtæki ganga í eina sæng [það virtist gerast í Kófinu-innsk. BJo]; þegar fjölmiðlar ganga gagnrýnislaust í þjónustu valdhafa [gerðist með RÚV í Kófinu og vinstri slagsíðan þar keyrir úr hófi fram, enda lögbrot-innsk. BJo]; þegar fræðimenn kjósa starfsöryggi fremur en sannleiksleit; þegar embættismenn setja eigin frama ofar stjórnarskrá; þegar óttasleginn almenningur afsalar sér frelsi og réttindum í hendur manna, sem boða "lausnir".  Allt eru þetta þekkt stef í alræðisríkjum, þar sem stjórnvöld ala á ógn í þeim tilgangi að treysta völd sín."

 

Hafrannsóknarstofnun gegnir geisilega mikilvægu hlutverki, enda starfa þar margir hæfir sérfræðingar.  Vísindalegar niðurstöður þeirra og ráðgjöf er þó ekki óumdeild, og það er miður, þegar starfsmenn í sjávarútvegi sjá knúna til að bera brigður á réttmæti ráðlagðra aflamarka mismunandi tegunda. Hafró verður að leggja sig fram um að útskýra ráðgjöf sína fyrir hagsmunaaðilum í sjávarútvegi og fyrir eiganda auðlindarinnar, þjóðinni.  Ráðherrann hefur síðasta orðið, eins og á sviði sóttvarna, en verður að hafa þungvæg og hlutlæg mótrök til að ganga í berhögg við stofnanir ríkisins.  

Þann 23. júní 2022 birtist harðorð grein í garð Hafró eftir Björn Jónasson, skipstjóra á Málmey SK1, og Ágúst Ómarsson, skipstjóra á Drangey SK2, undir fyrirsögninni:

"Rugluð ráðgjöf".

Hún hófst þannig:

"Allan hringinn í kringum landið erum við sjómenn að upplifa mokfiskerí bæði grunnt og djúpt og nánast á hvaða veiðarfæri sem er.  Sjórinn er sem sagt kjaftfullur af fiski.  Á sama tíma ákveður Hafrannsóknastofnun að skera veiðiheimildir í þorski niður um 6 % til viðbótar við 13,5 % niðurskurð í fyrra.  Í karfa er niðurskurðurinn á milli ára hvorki meiri né minni 20 %, enda þótt hann mokveiðist, hvar sem menn bleyta í veiðarfærum."

Það er ótvíræð jákvæð afleiðing lækkunar veiðihlutdeildarstuðuls niður í 20 % af viðmiðunarstofni (viðmiðunarstofn þarf að skilgreina á heimasíðu Hafró), að fiskurinn skuli nú vera mun veiðanlegri en áður var.  Sérfræðingar Hafró hafa sagt, að endurskoðun á gömlum stórfiski upp á við í áætlaðri stofnstærð hafi leitt til endurskoðunar niður á við í viðmiðunarstofnstærð (ekki sama og heildarstofnstærð).  Þetta er nokkuð torskiljanleg útskýring og kemur á sama tíma og "hafið (landhelgin) er fullt af fiski".  Það er þess vegna engin furða, að brigður séu bornar á réttmæti þess að draga úr fiskveiðiheimildum á þessu og næsta fiskveiðiári.  Hér stendur upp á Hafrannsóknarstofnun að útskýra niðurstöður sínar betur.  Það hefur verið viðurkennt af hálfu stofnunarinnar, og um það birtist frétt í Morgunblaðinu 24. júní 2022 undir fyrirsögninni:

"Vill ræða við sjómenn".

Fréttin hófst þannig:

"Forstjóri Hafrannsóknastofnunar vill efna til samtals við sjómenn um ráðgjöf stofnunarinnar um hámarksafla einstakra nytjategunda fiska.  Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri, segir, að slíkt samráð hafi verið viðhaft áður og það þurfi að endurvekja.  Hann segir þó spurningu, hvort það eigi að vera í því formi, sem var, eða með öðru fyrirkomulagi."

Á heimasíðunni https://www.hafogvatn.is mætti vera kjarnyrt og skýr útlistun á, hvers vegna Hafrannsóknarstofnun telur nú nauðsynlegt að draga úr veiðum á nokkrum tegundum til að tryggja sjálfbæra nýtingu þessara stofna, og hvers vegna ekki hefur enn dregið neitt úr veiðanleika þeirra í lögsögunni. 

Sjávarútvegurinn er svo þjóðhagslega mikilvægur og svo margir hafa lífsviðurværi sitt af nytjastofnum við Ísland, að nauðsynlegt er, að almenningur skilji, hvað sérfræðingar Hafró eru að fara með ráðgjöf sinni.

Höfundur þessa pistils er ekki í nokkrum færum að draga réttmæti hennar í efa, enda hefur hún verið rýnd og samþykkt af sérfræðingum ICES-Alþjóða hafrannsóknarráðsins.  Það mætti gjarna árétta stefnumörkunina um þróun nytjastofnanna við Ísland, sem ráðgjöfin tekur mið af. Er sú stefnumörkun ættuð frá Alþingi, ráðuneyti eða Hafrannsóknarstofnun ?

20100925_usp001  

    


Votlendisvitleysan

Loftslagsstefna stjórnvalda er botnlaust fúafen, á meðan stjórnvöld hafa jafnóskýra stefnu í virkjunarmálum og reyndin er. Orkufyrirtækin treysta sér ekki til að semja við nýja viðskiptavini eða gamla um viðbótar forgangsorku, sem nokkru nemi. Sú staða bendir til, að aflgeta kerfisins sé fullnýtt, þegar tekið er tillit til nauðsynlegs reiðuafls og varaafls, sem jafnan verður að vera fyrir hendi í kerfinu til að hindra of mikið spennu- og tíðnifall eða beinlínis skort, ef óvænt atvik verða.

Samt er engin ný virkjun á döfinni yfir 10 MW.  HS Orka vinnur að bættri nýtingu, sem gæti aukið afl til ráðstöfunar á næstunni um u.þ.b. 35 MW.  Hér verður engin græn orkubylting, eins og stjórnvöld dreymir um, án verulegra nýrra virkjana.  Með aðgerðaleysi stjórnvalda í virkjunarmálum og "rammaáætlanir" stjórnar og þings í tómarúmi mun raforkuskortur í landinu hamla hagvexti og orkuskiptum. 

Einn þátturinn í "loftslagsstefnu" stjórnvalda er reistur á mjög ótraustum þekkingarlegum grunni, eins og rannsóknir íslenzkra vísindamanna eru nú að leiða í ljós.  Þessi þáttur er "endurheimt votlendis" með því að moka ofan í skurði.  Þessi aðgerð er aðallega kostuð af ríkissjóði á vegum s.k. Votlendissjóðs.  Rökin eru gripin úr lausu lofti, þ.e. frá búrókrötum IPCC (International Panel on Climate Change-undirstofnun Sameinuðu þjóðanna). 

Notaðir eru stuðlar frá IPCC til að reikna út minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda við "endurheimt votlendis" án þess að sannreyna þá við íslenzkar aðstæður.  Þegar vísindamenn taka nú til við mælingar sínar á bindingu og losun CO2-jafngilda hérlendis, komast þeir að allt annarri niðurstöðu, sem gerir að verkum, að þegar í stað ætti að stöðva fjárútlát úr opinberum sjóðum til þessa flausturslega verkefnis.

Í nýlegri skýrslu Landbúnaðarháskóla Íslands, "Langtímatap kolefnis í framræstu landi" er gerð grein fyrir áfanga í rannsóknum hérlendis á losun úr þurrkuðum mýrum, en miklu fleiri mælingar þarf til að fá heildarmynd af þessari losun fyrir landið allt að teknu tilliti til aldurs skurðanna og frágangs ofanímokstursins. Bændablaðið gerði rækilega grein fyrir þessum tíðindum 7. apríl 2022, og er hér stuðzt við þá umfjöllun:

"Í rannsóknum, sem gerðar voru bæði á framræstu og óröskuðu landi, má greina, að áhrif gosösku í jarðvegi eru umtalsverð á kolefnisbindingu, rotnun og gaslosun.  Lofthiti er einnig veigamikill þáttur.  Þar kemur líka fram, að "engar losunarrannsóknir hafa verið gerðar á framræstu akurlendi (þ.m.t. framræstum túnum) hér á landi".  Samt hafa stjórnvöld og aðrir sett ítrekað fram hástemmdar fullyrðingar um losun á framræstu landi á Íslandi, og byggja þær tölur alfarið á erlendum stuðlum IPCC."  

Samkvæmt IPCC losar framræst land mólendis 20,9 t/ha CO2 og 29,0 t/ha túns og akurlendis.  Samkvæmt Umhverfisstofnun nam heildarlosun á ábyrgð ríkisstjórnar Íslands og samkvæmt viðskiptakerfi ESB árið 2019 4,7 Mt CO2eq og frá landi 9,1 Mt CO2eq, þar af 8,4 Mt CO2eq frá framræstum mýrum.  Þessi háa tala er aðalástæða þess, að stjórnvöld hafa fallizt á að veita fé til að moka ofan í skurði.  Fullyrða má, að hún er allt of há, þótt ekki sé unnt enn þá að setja fram áreiðanlega meðaltölu fyrir landið allt.

Núverandi niðurstöður íslenzkra vísindamanna sýna, að losun úr framræstu ræktarlandi sé 3 t/ha CO2 í samanburði við 29,0 t/ha CO2 hjá IPCC.  IPCC-stuðullinn er 7 sinnum hærri en sá íslenzki fyrir mólendi, þannig að leiðrétta þarf tölur Umhverfisstofnunar með margföldunarstuðlinum 0,14, þ.e. losun frá þurrkuðu landi gæti verið nálægt 1,2 Mt CO2/ár í stað 8,4 Mt CO2/ár.  Mismunurinn er 7,2 Mt CO2/ár, sem er yfir 50 % meira en öll losun Íslands, sem telja á fram samkvæmt Parísarsamkomulaginu 2015. 

Með flaustri hafa landbætur á vegum landbúnaðarins verið settar í slæmt ljós í umhverfislegu tilliti, nánast settar í skammarkrókinn.  Það er líklegt, að umhverfislegur ávinningur af endurheimt votlendis sé hverfandi og jafnvel neikvæður, því að eftir er að draga frá losun endurmyndaðs votlendis.  Þar er um að ræða meira CH4 (metan) á flatareiningu en frá þurrlendinu, en CH4 er um 25 sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en CO2 fyrstu 3 áratugina í andrúmsloftinu (tekur efnabreytingum með tímanum). Svona fer fyrir loftslagsstefnunni, þegar blindur leiðir haltan og sýndarmennskan ræður för. 

Sýndarmennska fallins borgarstjórnarmeirihluta reið húsum í kosningabaráttunni.  Það var m.a.  talið "borgarlínu" til gildis, að hún mundi draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þessu er þó alveg öfugt farið.  Hvað halda menn, að upprif gatna og endurmalbikun muni valda mikilli losun CO2 eða að tafir bílaumferðar muni valda mikilli losun.  Bílaflotinn er á leið til rafvæðingar, svo að það er ekki hægt að telja ímyndaða minnkun aksturs fjölskyldnubíls borgarlínunni til tekna í loftslagsbókhaldinu.  

Afturhaldið í borginni hefur misbeitt skipulagsvaldi sínu til að tefja mjög fyrir Sundabraut og gösslaðist áfram með Vogahverfið í veg fyrir Sundabraut, en gleymdi að byggja skóla í hverfinu í flaustrinu.  Afturhaldið ímyndar sér, að Sundabraut auki losun gróðurhúsalofttegunda, af því að hún "fjölgi" bílum. Sannleikurinn er sá, að orkunotkun umferðarinnar mun minnka umtalsvert vegna styttingar akstursvegalengda og greiðara umferðarflæðis.  Stjórnendur Reykjavíkur hafa vaðið áfram í villu og svíma ímyndana, sem falla að hugmyndafræði kratanna og vinglanna, sem með þeim hafa hangið við völd.   

 

 

  


Lexíur frá Fukushima

Í marz 2021 voru 10 ár liðin frá því, að flóðöldur (tsunami) lögðu norðanverða Kyrrahafsströnd fjölmennustu eyjar Japans í auðn. Flóðöldurnar og neðansjávar jarðskjálftinn, sem orsakaði þær, sá stærsti, sem þar hefur mælzt, tóku líf 20 þús. manns, eyðilögðu yfir 100 þús. heimili og breytti lífi tugmilljóna manna í öngþveiti.  Beint fjárhagstjón er talið hafa orðið yfir mrdUSD 200. 

Eftir mánaðarstríð í Úkraínu höfðu Rússar með ótrúlega viðurstyggilegu framferði hers þeirra í Úkraínu, þar sem ráðizt er á óbreytta borgara, sem er stríðsglæpur, valdið meiru efnistjóni en þessu nemur. Samt er þetta náttúruhamfaratjón í Japan meira en sagan kann frá að greina annars staðar. Þótt undarlegt megi virðast, eru þessar hamfarir í Japan í minningu margra aðallega af allt öðru, þ.e. vandræðunum í Fukushima Dai-ichi kjarnorkuverinu í kjölfarið. Óttinn við kjarnorkugeislun stendur djúpt. 

Jarðskjálftinn einangraði kjarnorkuverið frá raforkukerfi Japans.  Flóðbylgjurnar, allt að 40 m háar, fóru yfir varnarveggi versins og fylltu kjallara þess, þar sem neyðarrafstöðin var hýst.  Regluvörðum japanska kjarnorkuiðnaðarins hafði yfirsézt þessi áhætta og ekki gætt þess að krefjast fleiri staðsetninga fyrir neyðarrafstöðvar.  Þess vegna var engin leið að kæla kjarnakljúfinn, og kjarnaeldsneytið fór að bráðna í gegnum steypuna undir.  Eldur gaus upp og sprengingar kváðu við og geislunin hækkaði yfir aðvörunarmörk. 

Heimsbyggðin fylgdist með í angist.  Í Shanghai og San Francisco runnu joðtöflur og joðsalt út, eins og heitar lummur, þótt fólk hefði þar enga þörf fyrir slík mótefni.  Kanzlari Þýzkalands, Angela Merkel, sem áður hafði stutt kjarnorkuiðnaðinn gegn græningjunum, fyrirskipaði nú lokun allra kjarnorkuvera Þýzkalands fyrir árslok 2022. Þetta var frumhlaup, sem ýtti undir aukna þörf Þjóðverja fyrir jarðgas, og þá var samið um Nord Stream 2 við Rússa gegn ráðleggingum Bandaríkjamanna o.fl.  Angela Merkel setti þannig snöruna um háls Þjóðverja og gerði þá algerlega háða gasinnflutningi frá Rússum, sem frá aldamótunum voru undir stjórn kaldrifjaðs útþenslueinvalds, sem tókst að kasta ryki í augu þessa fyrrverandi kanzlara með alvarlegum afleiðingum.  Lýðræðisríki mega aldrei verða háð einræðisríkjum með nauðþurftir.  Angela Merkel áttaði sig ekki á, að um valdataumana í Kreml hélt nýr Stalín. Hún áttaði sig ekki á því, þegar hann bjó til átyllu til að ráðast á Tétseníu með því að láta FSB (leyniþjónustu Rússlands) sprengja upp íbúðarblokk í Moskvu.  Hún hélt áfram að friðmælast við Putin, eftir að hann lagði hluta Georgíu (fæðingarland Jósefs Stalíns) undir Rússland með hervaldi, og hún neitaði að hætta við Nord Stream 2 og draga úr gasviðskiptunum við Rússa, þegar þeir réðust á Austur-Úkraínu undir fölsku yfirskyni 2014, en voru stöðvaðir af úkraínska hernum, sem kom í veg fyrir, að rússneski herinn legði allt Donbass og Luhansk undir sig, en veitti hins vegar ekki mótspyrnu á Krím.  Síðan þá hefur úkraínski herinn eflzt til muna fyrir tilstilli Vesturveldanna.

Kínverjar settu mestu uppbyggingaráætlun heims á kjarnorkuverum í bið í kjölfar Fukushima-slyssins.  Tal um endurnýjun lífdaga kjarnorkunnar til að berjast við hlýnun jarðar féll nú í grýttan jarðveg.  Öll þessi viðbrögð voru yfirdrifin og röng. 

Kjarnorkan hefur marga galla.  Einingarnar eru stórar og dýrar í byggingu, og há fjárfestingarupphæð varpast yfir í háan vinnslukostnað raforku (um 150 USD/MWh).   Í Íslandi er framleiðslukostnaður nýrra virkjana rúmlega fimmtungur af þessum kjarnorkukostnaði. Mjög lítil en raunveruleg hætta á kjarnorkuslysi hefur kallað á viðamikið regluverk fyrir hönnun, byggingu og rekstur kjarnorkuvera, sem hefur líka varpazt yfir í vinnslukostnaðinn.  Helmingunartími geislavirks úrgangs nýttrar úraníum samsætu er langur (aldir), og freisting er fyrir sumar óábyrgar ríkisstjórnir að nota hann í kjarnorkusprengjur.  Efasemdarraddir um réttmæti kjarnorkuvera sem lausn á orkuviðfangsefnum eru þannig skiljanlegar. 

Andspænis þessu þarf að íhuga fleira.  Eitt er, að sé öllum hönnunarreglum, byggingarreglum og rekstrarreglum fylgt út í æsar, er kjarnorkuver öruggt.  Með sovézka kjarnorkuverinu í Chernobyl sem undantekningu hafa kjarnorkuslys ekki kostað mörg mannslíf.  Það voru flóðbylgjurnar í Fukushima, ekki geislavirkni, sem orsökuðu langflesta dauðdagana þar.

Annað er meint loftslagsvá, og kjarnorkuver geta framleitt kolefnisfrítt megnið af þeirri raforku, sem nú er unnin úr jarðefnaeldsneyti.  Raforka frá sólarhlöðum og vindorkuverum er nú mun ódýrari en frá kjarnorkuverum, en fyrr nefndu orkugjafarnir hafa takmarkað notagildi, af því að vinnsla þeirra er slitrótt. Landrými skortir víða fyrir sólarhlöður og vindrafstöðvar, þar sem mikil raforkuþörf er. 

Þrátt fyrir bægslagang stjórnmálamanna út af hlýnun jarðar er samt nú verið að loka framleiðsluhæfum og öruggum kjarnorkuverum í þróuðum ríkjum.  Þessar lokanir og lokanir vegna aldurs kjarnorkuvera gætu valdið því, að 2/3 af uppsettu afli kjarnorkuvera þróaðra ríkja m.v. það, sem mest var samkvæmt IEA (International Energy Authority), gæti árið 2040 verið horfið af sjónarsviðinu.  Ef orkuver knúin jarðefnaeldsneyti munu koma í staðinn, munu þau verða nokkra áratugi í rekstri.  Ef sólarhlöður og vindmyllur koma í stað kjarnorkuveranna, mun losunaraukning CO2 nema nokkrum gígatonnum á ári, af því að jarðefnaeldsneyti verður að hlaupa í skarðið.  Það er nánast alltaf betra, að þessir slitróttu orkugjafar leysi jarðefnaeldsneyti af hólmi en þeir leysi kjarnorkuver af hólmi út frá loftslagssjónarmiðum. 

Stundum er lokun kjarnorkuvera þó aðallega af fjárhagsástæðum.  Á stöðum, þar sem ekkert gjald er lagt á losun gróðurhúsalofttegunda, eru kostir kolefnisfrírrar raforkuvinnslu duldir.  Þetta skekkir samkeppnisstöðu kjarnorkuveranna.  Þegar lokunin er af pólitískum rótum runnin, stendur upp á græningjana að forgangsraða í þágu loftslagsins.

Mesti veikleiki kjarnorkuvera er, að í lýðræðislöndum er raforkan frá þeim dýr vegna umfangsmikils regluverks og andúðar almennings, sem veldur sölutregðu á kjarnorkuverum.  Þessi tækni er þar af leiðandi núna aðallega nýtt í einræðisríkjum, en einmitt þar er hættara við slöku regluverki og slælegu eftirliti. 

Eftir hlé í Kína eftir Fukushima er nú mikill kraftur kominn í uppbyggingu kjarnorkuvera þar til að leysa kolaknúin orkuver af hólmi.  Í Kína var árið 2019 framleitt ferfalt meira rafmagn í kjarnorkuverum en árið 2011.  Nú eru 16 kjarnakljúfar þar í uppsetningu og 39 eru í hönnun.  Þeir, sem reisa vilja kjarnorkuver, leita nú fyrir sér um kaup í Kína og í Rússlandi.  Eftir villimannlega innrás Rússa í Úkraínu 24.02.2022 hafa þó langflestir skorið á viðskiptatengsl þangað. 

Það er brýnt fyrir lýðræðisþjóðirnar að leitast við að leysa gömul kjarnorkuver sín af hólmi með orkuverum, sem gengið geta stöðugt á allt að fullum afköstum.  Ef kjarnorkuver Kínverja eru hönnuð m.v. að geta farið í gegnum nálarauga óháðra eftirlitsstofnana, þá verður heimurinn vissulega öruggari.  Á sama tíma ættu vestrænar þjóðir ekki að hika við að leyfa kjarnorkunni að vera með í þróunarverkefnum, sem miða við að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi.  Kjarnorkuiðnaðurinn er nú þegar með álitlegar lausnir, þar sem eru stöðluð kjarnorkuver í u.þ.b. 500 MW  einingum með lægri einingarkostnað en þau gömlu (aflgetan er nokkru minni en í tveimur Búrfellvirkjunum I).  Lærdómurinn af Fukushima er ekki að forðast kjarnorkuna, heldur að nýta hana með beztu þekkingu að vopni.      

    

 


Er Novavax C-19 bóluefnið öruggt og skilvirkt í senn ?

Höfundi þessa vefseturs þykir jafnan fengur að skrifum sænska læknisins Sebastians Rushworth, ekki sízt um Kófsmálefni.  Höfundur vefsetursins hefur þýtt og birt hér greinar SR um niðurstöður athugana á skilvirkni AstraZeneca, Biontech-Pfizer og Moderna bóluefnanna gegn C-19 og hættuna á hjartavöðvabólgu af völdum tveggja síðar nefndu efnanna, sem eru úr hópi mRNA-bóluefna.  

Nú er komið nýtt efni á markaðinn í Evrópu, og gerir SR hér grein fyrir prófunum á því:

"Ég hef fengið margar beiðnir um 6 mánaða skeið nú að skrifa um Novavax-C-19 bóluefnið.  Ég hef ekki viljað það hingað til, aðallega af því að óljóst hefur verið, hvort vestræn ríki mundu samþykkja efnið á markað.  Nú þar sem það hefur verið samþykkt til notkunar í ESB, hafa forsendur breytzt, og mér finnst ég ekki geta frestað þessu lengur. 

Ég býst við, að ástæða þess, að svo margir eru spenntir fyrir Novavax-bóluefninu, sé, að það er reist á hefðbundinni tækni, sem oft hefur verið notuð áður, en ekki nýtilkominni tækni, sem notuð er við gerð mRNA- og ferju-bóluefna, en fáanleg bóluefni hingað til í BNA og ESB hafa verið einskorðuð við þá flokka. Mörgum finnst meira öryggi að hefðbundinni tækni á þessu sviði.

Novavax-bóluefnið samanstendur af tvennu: Sars-CoV-2 broddpróteininu og hjálparefni (efni, sem setur ónæmiskerfi líkamans í viðbragðsstöðu gagnvart hættulegu aðkomuefni og setur þannig ónæmiskerfið í gang til að fást við broddpróteinið).  Í stað þess að sprauta genatæknilegri forskrift í æð til að fá frumur til að framleiða broddprótein veirunnar sjálfar (eins og á við um fyrri 4 samþykkt bóluefni) er broddpróteininu sprautað inn beint.  

Fyrsta landið til að viðurkenna Novavax-bóluefnið var Indónesía, sem samþykkti það til notkunar í nóvember [2021].  Það þýðir, að engin langtíma eftirfylgd almennrar notkunar hefur átt sér stað enn þá.  Allt, sem við höfum í hendi, eru bráðabirgða niðurstöður slembivalsrannsókna.  Það þýðir, að við höfum enn enga hugmynd um sjaldgæf aukaáhrif og munum ekki hafa enn mánuðum saman.  Nokkrar milljónir manna höfðu þegar fengið AstraZeneca-bóluefnið [ferjubóluefni] áður en yfirvöldum varð ljóst, að það gat valdið alvarlegum blóðtöppum, og milljónir manna höfðu einnig fengið Moderna- og Pfizer-bóluefnin [mRNA-bóluefni] áður en ljóst varð, að þau geta valdið hjartavöðvabólgu.  Að þessum varnagla slegnum skulum við nú athuga, hvað bráðabirgða niðurstöður slembivalsrannsókna færa okkur.

Fyrstu rannsóknarniðurstöður um Novavax-bóluefnið birtust í "The New England Journal of Medicine" í maí [2021]. Með slembivali var 4387 manneskjum í Suður-Afríku gefið annaðhvort bóluefnið eða saltvatnslyfleysa. Tilraunin var gerð á lokamánuðum ársins 2020, þegar beta-afbrigðið var ríkjandi í Suður-Afríku.  Eins og í fyrri covid-bóluefnarannsóknum, var ætlunin með rannsókninni að komast að getu bóluefnisins til að koma í veg fyrir smit með einkennum, sem voru skilgreind sem covid-19 lík sjúkdómseinkenni að viðbættu jákvæðu covid-prófi.

Meðalaldur þátttakenda var 32 ár og viðvarandi sjúkdómseinkenni voru sjaldgæf, svo að þetta var hópur í lítilli hættu á alvarlegum sjúkdómi.  Þegar þessi staðreynd er tengd tiltölulega fámennum hópi þátttakenda (fyrir bóluefnisrannsókn), var enginn möguleiki á, að rannsóknin gæti gefið nokkuð nytsemlegt til kynna um getu bóluefnisins til að koma í veg fyrir alvarlegan sjúkdóm.  Þannig var þetta í raun tilraun til að komast að raun um getu Novavax-bóluefnisins við að hindra venjulegt kvef í heilbrigðu ungu fólki.

Kíkjum nú á niðurstöðurnar:

Eins og í fyrri birtum bóluefnarannsóknum, voru gögn um skilvirknina birt aðeins 2 mánuðum eftir sprautun.  Við tveggja mánaða mörkin höfðu 15 bóluefnisþegar sýnt einkenni covid-19 í samanburði við 29 lyfleysuþega.  Þetta gefur hlutfallslega áhættuminnkun 49 % gagnvart beta-afbrigðinu 2 mánuðum eftir bólusetningu, sem veldur vonbrigðum.  Þetta er undir 50 % áhættuminnkuninni, sem eftirlitsaðilar setja sem lágmark til samþykktar bóluefnis.

Þetta veldur enn meiri vonbrigðum, þegar haft er í huga, að skilvirkni varnarinnar gegn smitum með einkennum nær líklega hámarki 2 mánuðum frá bólusetningu og fellur síðan hratt - þetta er mynztur, sem sést á öllum öðrum samþykktum covid-bóluefnum, og það er mjög líklegt, að hið sama eigi við um þetta bóluefni. 

Ennfremur, beta-afbrigðið er löngu horfið.  Hin samþykktu bóluefnin virðast hafa litla eða enga getu til að hindra smit af núverandi ríkjandi afbrigði, ómíkron (þótt þau virðist enn hafa verulega getu til að milda einkennin). Hér í Svíþjóð er fólk jafnlíklegt til að smitast af C-19, hvort sem það hefur verið bólusett eða ekki,  en það eru enn mun minni líkindi á að lenda í gjörgæzlu vegna alvarlegs C-19, ef fólk hefur verið bólusett.  Það er engin ástæða til að halda, að eitthvað sé öðruvísi með þetta bóluefni. 

Höldum áfram og lítum á öryggishliðina.  Öryggisgögn voru einvörðungu birt fyrir undirhóp sjúklinga og þá aðeins fyrir fyrstu 35 dagana eftir bólusetningu með fyrsta skammti.  Það litla, sem þarna var þó, virkaði ekki uppörvandi.  Það voru tvöfalt fleiri alvarleg sjúkdómstilvik, sem þörfnuðust læknismeðhöndlunar, í hópi bólusettra en óbólusettra (13 á móti 6), og tvöfalt fleiri bólusettir með mjög alvarleg einkenni í hópi bólusettra en óbólusettra (2 á móti 1).  Til að gæta þó sanngirni verður að geta þess, að sjúklingafjöldinn er allt of lítill til að gera það kleift að draga nokkrar ályktanir  um öryggið á grundvelli þessara takmörkuðu gagna, svo að við bíðum með að kveða upp dóm. 

Snúum okkur að annarri rannsókninni í röðinni, sem birt var í "The New England Journal of Medicine" í september [2021].  Þetta var mun stærri rannsókn en sú fyrsta með 15´187 manns á Bretlandi, sem með slembivali fengu annaðhvort Novavax eða saltvatnslyfleysu.Eins og við fyrri rannsókn var verið að athuga getu bóluefnisins til að koma í veg veg fyrir smit með einkennum.  Rannsóknin stóða yfir frá síðla 2020 þar til snemma árs 2021 á tíma, þegar alfa-afbrigðið var ríkjandi, svo að niðurstöður hennar eiga aðallega við um það afbrigði.  Af þátttakendum voru 45 % haldnir sjúkleika, sem mundi geta leitt yfir þá alvarlegan sjúkdóm, og meðalaldur þátttakenda var 56 ár. 

Hver varð svo niðurstaðan ?

Á meðal þátttakenda, sem fengur 2 skammta af bóluefninu, voru 96 C-19 smit í lyfleysuhópnum, en aðeins 10 í bóluefnishópnum á 3 mánaða tímabili eftir seinni sprautuna.  Þetta gefur skilvirkni á fyrstu mánuðunum upp á 90 %, sem er svipað og í Moderna- og Pfizer-bóluefnarannsóknunum.  Einn endaði á spítala vegna C-19 í lyfleysuhópnum, en enginn í bóluefnahópnum - svo að því miður aftur voru ekki nægilega margar sjúkrahússinnlagnir, til að hægt væri að segja nokkuð um getu bóluefnisins til að hindra alvarleg veikindi (þó er nokkuð ljóst af þessari rannsókn, að jafnvel í tilviki fólks í hópi með tiltölulega mikla áhættu er heildaráhætta sjúkrahússinnlagnar vegna C-19 lítil - af 96 manns í lyfleysuhópinum, sem fengu C-19, þarfnaðist aðeins einn innlagnar á sjúkrahús. 

Snúum okkur nú að örygginu.  Öryggisgögn eru aðeins fáanleg fyrir tímabilið frá 1. sprautu þar til 28 dögum eftir seinni sprautu, svo að við vitum ekkert um langtíma áhrifin, en á þessum tíma voru engin merki um alvarlegt heilsutjón af völdum bólusetninganna.  Það voru þó 44 alvarleg slæm tilvik í bólusetningarhópnum, og 44 alvarleg slæm tilvik í lyfleysuhópnum. Einn í bólusetningarhópnum veiktist af hjartavöðvabólgu þremur dögum eftir seinni skammtinn, sem veitir vísbendingu um, að Novavax geti valdið hjartavöðvabólgu, alveg eins og Pfizer- og Moderna-bóluefnin gera. 

Snúum okkur þá að lokarannsókninni, sem birtist í "The New England Journal of Medicine" í desember [2021]. Hún var gerð í BNA og Mexíkó fyrri hluta árs 2021.  Eins og í áður greindri rannsókn, eiga niðurstöðurnar aðallega við alfa-afbrigðið.  29´949 þátttakendur voru slembivaldir fyrir annaðhvort Novavax-bóluefnið eða saltlausnarlyfleysu.  Eins og í fyrri rannsóknunum tveimur var ætlunin að komast að, hvort bóluefnið kæmi í veg fyrir smit með einkennum og þau aftur skilgreind sem kunnugleg einkenni um C-19 auk jákvæðrar PCR-greiningar.  Miðtölualdur þátttakenda var 47 ár, og 52 % þeirra voru haldnir sjúkleika, sem gæti valdið þeim alvarlegri sjúkdómi en ella, ef þeir veiktust af C-19.

Hverjar voru þá niðurstöðurnar ?

Að 70 dögum liðnum frá seinni sprautu höfðu 0,8 % lyfleysuhópsins greinzt með C-19, en aðeins 0,1 % bóluefnahópsins.  Þetta gefur hlutfallslega áhættuminnkun 90 %, sem er sambærilegt fyrri athugun.  Því miður voru engar upplýsingar veittar um sjúkrahússinnlagnir, sem ég býst við að þýði, að af þessum 29´949 þátttakendum hafi enginn þarfnazt sjúkrahússþjónustu vegna C-19, þannig að eins og í fyrri tilvikum er ómögulegt að segja til um, hvort bólusetningin dregur markvert úr sjúkrahússinnlögnum.

Að 28 dögum liðnum frá annarri sprautu höfðu 0,9 % þátttakenda í bóluefnishópnum orðið fyrir alvarlegum sjúkleika í samanburði við 1,0 % þátttakenda í lyfleysuhópnum.  Það er uppörvandi. 

Jæja, tökum þetta saman.  Hvaða ályktanir getum við dregið af niðurstöðum þessara athugana ?

Í fyrsta lagi verndaði bóluefnið fólk með skilvirkum hætti gegn sýkingu af alfa-afbrigði C-19 með einkennum 2-3 mánuðum eftir bólusetningu (sem auðvitað segir okkur ekkert um verndarskilvirkni bólusetningarinnar 6 mánuðum eða ári eftir sprautun).  Þessar upplýsingar eru nú að mestu einvörðungu af sögulegu tagi, þar sem alfa er löngu horfið, og við lifum á skeiði ómíkron.  Ef Novavax-bóluefnið er svipað að verndaráhrifum og bóluefnin 4, sem áður hafa verið samþykkt, þá er það líklega gagnslaust við að hindra smit af ómíkron. 

Í öðru lagi er ómögulegt út frá þessum bóluefnisprófunum að ákvarða, hvort Novavax-bóluefnið dregur eitthvað úr hættu á þörf á sjúkrahússinnlögnum vegna C-19, af þeirri einföldu ástæðu, að ekki varð nægilega mikið um sjúkrahússinnlagnir þátttakendanna.  Að því sögðu gizka ég á, að bóluefnið verndi e.t.v. í einhverjum mæli gegn þörf á sjúkrahússinnlögnum og vist á gjörgæzlu, eins og hin samþykktu bóluefnin gera. Í raun gerir þetta bóluefni hið sama og hin - veldur ónæmisviðbragði við broddpróteininu, sem fannst í upphaflega Wuhan-afbrigðinu, og heildarniðurstöðum prófananna svipar mjög til prófunarniðurstaðna fyrir Moderna- og Pfizer-bóluefnin. 

Í heildina benda gögnin til góðs öryggis bóluefnisins, með jafnvægi á milli bóluefnishóps og lyfleysuhóps varðandi alvarleg slæm tilvik af öðrum toga en C-19. Sjaldgæfar aukaverkanir koma þó ekki í ljós í slembiúrvalsathugunum með aðeins nokkur þúsund þátttakendum. Til að komast að þeim er langtíma eftirfylgd miklu stærra þýðis nauðsynlegt.  Það er núna ómögulegt að vita, hvort Novavax-bóluefnið getur valdið hjartavöðvabólgu, eins og mRNA-bóluefnin, eða blóðtappa, eins og ferjubóluefnin, eða einhverjum allt öðrum slæmum aukaverkunum.  Núna er þess vegna ógerlegt að kveða upp úr með það, hvort þetta bóluefni er öruggara, síður öruggt eða öryggislega jafngilt þegar samþykktum bóluefnum."   

 Þótt bóluefnið, sem hér var til umfjöllunar, sé annarrar gerðar en bóluefnin, sem notuð hafa verið á Íslandi gegn C-19, á það sammerkt með þeim að vera úrelt, þ.e. það gagnast ekki gegn ómíkron-afbrigðinu og endingin gagnvart vernd gegn alvarlegum veikindum er mjög léleg, og alvarleg sjúkdómseinkenni eru mjög sjaldgæf af völdum ómíkron.  Ofuráherzla íslenzkra yfirvalda á bólusetningar gegn ómíkron, einnig bólusetningar barna, er óskiljanleg og felur í sér sóun opinbers fjár og tíma fólks, svo að ekki sé minnzt á óþarfa töku áhættu með heilsufar, einkum ungs fólks (undir fertugu).   

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband