Færsluflokkur: Vísindi og fræði
15.1.2022 | 11:39
Svíþjóð er enn fyrirmynd á vissum sviðum
Hrollvekjandi eru ógnartíðindi af glæpagengjum í sumum sænskum borgum, sem sýna, að sænska samfélagið er ekki lengur samstöðusamfélag, eins og það var, þegar Svíar voru einsleit þjóð með eina þjóðmenningu eða kannski tvær (Samar í Lapplandi). Fjölmenningarsamfélagið hefur fyrir löngu leitt til innri baráttu og togstreitu ólíkra menningarhópa. Trúarhópar leitast við að viðhalda forneskjulegum venjum og siðum úr átthögum sínum, sem fáa grunaði, að yrðu lífseig í Svíþjóð, þegar þessum innflytjendum og flóttamönnum var hleypt inn í landið, en annað kom á daginn, og þess vegna er fjandinn laus. Það gildir enn hið fornkveðna, er Þingeyingurinn Þorgeir Ljósvetningagoði kvað upp úr með á Alþingi á Þingvöllum 999-1000, að ef vér slítum í sundur lögin, þá munum vér og slíta friðinn.
Í sóttvörnum gegn C-19 fárinu, sem með ómíkron hefur breytzt úr lungnabólgu í hálsbólgu, hafa Svíar að mörgu leyti fetað sínar eigin brautir með vægari samkomutakmörkunum og rekstrarhömlum en aðrir, svo að frelsisskerðingar fólks hafa verið þar minni en víðast annars staðar, sem og kostnaður atvinnulífs og hins opinbera. Dauðsföll voru samt færri í Svíþjóð en í mörgum löndum, sem beittu íþyngjandi hömlum, enda náðist lýðónæmi strax vorið 2021. Strangar opinberar sóttvarnarhömlur á Íslandi og annars staðar missa marks gegn háum smitstuðli ómíkron og minnka þar af leiðandi álagið á heilbrigðiskerfið sáralítið, ef nokkuð. Það er ekki hægt að hemja vatnsflóð með stíflubúti.
Dánarhlutfall Svía af völdum C-19 er lægra en í meira en 50 löndum, þar sem beitt var meiri opinberum sóttvarnaraðgerðum en í Svíþjóð. Segir það ekki töluverða sögu um vanhugsaðan grundvöll opinberra sóttvarnaraðgerða gegn pest á borð við C-19.
Heimurinn brást illa við sóttvarnarhugmyndafræði Svía og fordæmdi landið og sóttvarnarlækni þess, Anders Tegnell. Aflokunarfólk spáði Svíum hörmungum, en dánarhlutfallið sýnir Svía komast betur af en þá, sem beittir voru langvarandi aflokunum og öðrum frelsissviptandi úræðum forsjárhyggjunnar.
Anders Tegnell fékk aftökuhótanir frá almenningi og var hæddur af stéttarsystkinum. Hann var fordæmdur af fjölmiðlum á borð við Time Magazine, New York Times, The Guardian, Focus, La Republica, CNN, BBC o.fl. Á hvaða vegferð eru flestir fjölmiðlamenn eiginlega í þessum faraldri ? Þeir vöruðu við hörmungum af stefnu Tegnells. Það gerðu líka norsku Aftenposten og Dagens Næringsliv, hvattir áfram af ritstjórnum og sjálfskipuðum sérfræðingum í NRK (norska RÚV) og TV2. Eru afleiðingar þess að kynda undir fjöldamóðursýki í þjóðfélögunum aðeins fáum fjölmiðlamönnum ljósar ?
Væri Svíþjóð eitt af ríkjum Bandaríkjanna, mundu Svíar veru með 3. lægsta dánarhlutfallið í BNA. Svíar fylgdu aðeins hefðbundnum vestrænum ráðum gagnvart smitsjúkdómum.
Svíþjóð fylgdi ekki Kína. Svíar fóru hefðbundnar leiðir, sem heilbrigðisstarfsfólk hefur farið til að fást við smit. Svíar lögðust ekki í þjóðfélagslega tilraunastarfsemi. Það gerðu hins vegar flestir hinna með því að setja í gang óreyndar, frelsisskerðandi aðgerðir í sögulegri þjóðfélagstilraun, sem spannaði allan heiminn. Þetta var gert án vísindalegrar kostnaðar- og ábatagreiningar og kom eins og skrattinn úr sauðaleggnum frá Kína.
Svíþjóð hefur náð betri árangri en ýmis lönd, sem beitt hafa aflokunum að hætti Kínverja.
Með bráðum 2ára reynslu og gögn um 21 mánaðar skeið frá 50 löndum, er myndin að skýrast. S.k. samfélagsnýsköpun með óreyndum aðgerðum er dýrkeypt. Dánarhlutfall sýnir, að Svíar hafa komið betur út úr Kófinu en þjóðir, sem beitt hafa langvinnum aflokunum og öðrum íþyngjandi aðgerðum.
Samkvæmt opinberu talnayfirliti Eurostat eru Bretland, BNA, Pólland, Tékkland, Slóvakía, Ungverjaland, Spánn, Argentína og Belgía með hærra dánarhlutfall af C-19 en Svíþjóð. Í nóvember 2021 voru 50 lönd með hærra dánarhlutfall en Svíþjóð vegna C-19. Tölur fyrsta árs Kófsins, 2020, sem þótti ganga brösuglega í Svíþjóð, setja þó Svía í 21. sæti af 31 landi, sem Eurostat sýnir um dánarhlutfall af völdum C-19. Borin saman við 50 ríki BNA, er Svíþjóð með þriðja lægsta dánarhlutfallið.
Samkvæmt Worldometer var dánarhlutfall í % af íbúafjölda í 9 löndum febrúar 2020-nóvember 2021 (Ísland til 12.01.2022) eftirfarandi:
- Tanzanía 0,001
- Rúanda 0,010
- Ísland 0,011
- Indland 0,033
- Ísrael 0,087
- Svíþjóð 0,148
- Úkraína 0,182
- Bretland 0,209
- Ítalía 0,220
- Bandaríkin 0,238
Athygli vekur, að lítt bólusettar Afríkuþjóðir eru með lægsta dánarhlutfallið. Talið er, að á Indlandi og í Svíþjóð hafi myndazt hjarðónæmi veturinn 2021, svo að þessi lönd sluppu að mestu við smit haustið 2021, og það er ekki fyrr en nú með ómíkrón-afbrigðinu, að smitum tekur að fjölga, en þau eru þó enn tiltölulega færri í Svíþjóð en á Íslandi. Athygli vekur einnig, að Ísraelar, sem fyrstir urðu til að bólusetja sína þjóð, eru samt með hærra dánarhlutfall en Ísland og Indland.
Ísland kemur alveg sérstaklega vel út í þessum samanburði, sem gæti stafað af tiltölulega litlum tóbaksreykingum landsmanna, hreinu lofti og tiltölulega dreifðri byggðl ásamt tiltölulega lágum meðalaldri þjóðarinnar. Ef litið er til Svíþjóðar, er ekki líklegt, að samkomutakmarkanir og rekstrarhömlur í sóttvarnarskyni hafi bjargað mörgum mannslífum á Íslandi, og sízt af öllu getur slíkt átt við veirusjúkdóm með dreifingarstuðul ómíkrón, sem augljóslega er alls staðar í þjóðfélaginu. Það yrði að stöðva samfélagið til að hemja faraldurinn, en til þess er alls engin ástæða, þegar hálsbólga á í hlut.
Áfengisbannið í BNA var líka tilraun.
Söguleg tilraun: 17. janúar 1920 gekk í gildi algert bann við sölu áfengis í BNA. Það var stærsta þjóðfélagslega tilraunin fram að því, ef bylting bolsévika og alræði öreiganna í Rússlandi er undanskilin. Árið eftir mótmæltu 20 þús. manns banninu á götum Nýju Jórvíkur. Mótmælendurnir litu á bannið sem gerræðislega skerðingu persónulegs frelsis. Bannið leiddi til útbreiddra átaka og glæpa, en var þó ekki afnumið fyrr en 1933. Þótt flestir séu sammála um, að tilraunin hafi mistekizt gjörsamlega, stendur hún þó í huga forræðishyggjufólks sem "eðaltilraun í góðum tilgangi".
Nú horfa landsmenn upp á sóttvarnarlækni í hlutverki don Kíkóta berjast við vindmyllur. Þar er átt við máttvana, en rándýrar opinberar sóttvarnarráðstafanir að undirlagi hans á formi endalausra skimana, rakninga, sóttkvía og einangrunar að ógleymdum 4 farsóttarsjúkrahúsum; allt í því skyni að hemja hálsbólgu með óvenju háan smitstuðul. Dánarhlutfallið á Íslandi af völdum kórónuveirunnar er svo lágt, að látnir af hennar völdum eru aðeins um 1 % af fjölda látinna af öðrum völdum, og eru dauðsföll þó skráð á C-19, þótt aðrir sjúkdómar hafi komið við sögu. Þegar um jafnbráðsmitandi veiru er að ræða og ómíkron, geta einstaka lokanir og samkomutakmarkanir ekki hamlað framrás veirunnar sem neinu nemur.
Hið athyglisverða er, að opinberar sóttvarnarráðstafanir eru framkvæmdar með sams konar röksemdafærslu og aðferðum í lýðræðisríkjum og einræðisríkjum. Þetta er alvarlegt umhugsunarefni fyrir Vesturlönd.
Nú er heimurinn allur í þjóðfélagstilraun með sams konar höft á frelsi fólks og mannréttindi og í sama göfuga augnamiðinu að bjarga mannslífum. Löggjafinn verður að fjalla af alvöru og vandvirkni um það til hvaða ráðstafana framkvæmdavaldinu er heimilt að grípa við mismunandi aðstæður án þess að fá til þess sérstaka heimild frá löggjafanum. Það hefur komið í ljós, að embættismönnum og ráðherrum hættir mjög til að fara offari í ráðstöfunum sínum. Það gengur ekki að setja heilt þjóðfélag í spennitreyju í nafni heilbrigðiskerfisins, þegar búið er að bólusetja yfir 90 % þjóðarinnar gegn sjúkdóminum og hann er jafnvægur og raunin er með ríkjandi afbrigði þessarar kórónuveiru.
Fjöldi óháðra sérfræðinga og heilbrigðisstarfsmanna lýsa að vísu bólusetningunum sem viðamestu læknisfræðilegu tilraun sögunnar. Hún er framkvæmd með bráðabirgða genatækni, sem á skömmum tíma hefur kostað tugþúsundir manna lífið. Heilsufarslegar langtíma afleiðingar bólusetninganna, t.d. á ónæmiskerfi líkamans, eru óþekktar. Astrid Stuckelberger, læknir, rannsakandi og uppeldisfræðingur, sem í mörg ár hefur unnið við að hemja sjúkdómsfaraldra, sagði við norska miðilinn hemali: - Opinberar tölur frá BNA sýna, að aukaverkanir kórónu-bóluefnanna fram að þessu eru þrisvar sinnum fleiri en summan af aukaverkunum bólusetninga síðastliðin 35 ár. - Þetta er grátlegt í ljósi haldleysis þessara sömu bóluefna. Hafa lyfjafyrirtækin gefið mannkyninu langt nef og samtímis haft það að féþúfu ?
Svíar gerðu ekki þjóðfélagstilraun, en það gerðu hinir. Fyrir vikið hefur verið reynt að setja Svíþjóð og sóttvarnarlækninn Tegnell í slæmt ljós.
Smitsérfræðingar, örverufræðingar og faraldursfræðingar, í Svíþjóð og annars staðar, töldu, að frelsið, sem Svíar urðu aðnjótandi í Kófinu, yrði þeim dýrkeypt. Fræðimenn við Uppsalaháskóla, Karólínska sjúkrahúsið og Konunglega tækniháskólann í Stokkhólmi notuðu tölvutæk líkön til að reikna út, að 96 þúsund Svíar myndu deyja sumarið 2020 (stærðargráðuvilla). Á alþjóða vettvangi spáðu fræðimenn við Imperial College, John Hopkins og fleiri háskóla, að milljónir íbúa Bretlands og BNA mundu deyja af völdum hinnar "nýju og óþekktu" veiru á árinu 2020.
Þrátt fyrir þessar dómsdagsspár má marka af þremur greinum eftir faraldursfræðinginn og tölfræðinginn John Ioannidis við Stamford University, að á heimsvísu varð dánarhlutfallið ekki hærra árið 2020 en árin á undan. Það hefur verið útskýrt þannig, að faraldurinn hafi lagzt þyngst á þá, sem áttu stutt eftir, og flensur hafi ekki náð sér á strik, en árlega deyr viðkvæmt fólk úr lungnabólgu. Til hvers var verið að skjóta lýðnum skelk í bringu ? Það er ekki fallega gert.
Útreikningar spálíkana um smit mynda ekki góðan grundvöll fyrir ákvarðanatöku um sóttvarnaraðgerðir.
Lærdómar ? Fólk er flóknara fyrirbæri en þjóðfélagsleg nýsköpun ræður við.
Veirulíkön, reist á kenningum um smitdreifingu, eru mjög óáreiðanleg og ónothæf sem grundvöllur fyrir íþyngjandi inngrip í líf fólks. Nokkrir óháðir fræðimenn, eins og dr Stephan Lanke, fullyrða, að líkönin séu reist á úreltri og rangri smitkenningu, sem rakin er aftur til Luis Pasteur á 9. áratug 19. aldar (um 130 ára).
Annar lærdómur er , að frelsið kostar. Frjálst samfélag veltur á einstaklingum, eins og Tegnell, sem hafa þrek til að ganga undir það jarðarmen að standa gegn valdsæknum valdhöfum ríkisvaldsins og fordæmingu margra, jafnvel almennings, ef búið er að kynda undir ótta í samfélaginu við hinn ósýnilega og jafnvel lítt þekkta óvin.
Vísindi og fræði | Breytt 16.1.2022 kl. 10:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.1.2022 | 11:28
Plága ofríkis og ofverndar
Hérlendis hafa dauðsföll af völdum kórónuveirunnar illræmdu, SARS-CoV-2, verið afar fátíð í samanburði við flest önnur lönd eða um 1 % af heildarfjölda dauðsfalla á ári. Til samanburðar deyja um 13-falt fleiri (meðaltal undanfarinna ára er 263) af völdum reykinga hérlendis. Samt eru reykingar hér fátíðar í samanburði við önnur lönd. Sú staðreynd ásamt tiltölulega hreinu lofti, litlu þéttbýli og lágum meðalaldri þjóðarinnar á ásamt dugnaði og þrautseigju heilbrigðisstarfsfólks í ófullnægjandi aðstöðu þátt í, að dauðsföll af völdum veikinda af C-19 sjúkdóminum (SARS-CoV-2) eru einna fæst í heiminum á Íslandi í hlutfalli við mannfjölda. T.d. er fjöldi látinna í Bandaríkjunum af völdum C-19 tæplega 22 sinnum hærri í Bandaríkjunum í hlutfalli við mannfjölda.
Um áramótin 2021/2022 höfðu rúmlega 27 k manns greinzt sjúkir af C-19, og voru þá 6,4 k sjúkir, á sjúkrahúsi voru 21 og í gjörgæzlu 6. Summa nýgengis innanlands og á landamærum var 1847 og hafði aldrei verið svo há hérlendis. Af þessu má áætla, að allt að 120 k manns hafi smitazt og að náttúrulegt ónæmi náist síðla í febrúar 2022, ef sóttvarnaryfirvöld leyfa pestinni, ómíkron afbrigðinu, sem lýsir sér í megindráttum sem hálsbólga, en er í mörgum tilvikum einkennalaus, að geisa í þjóðfélaginu nokkurn veginn óáreittri.
Við þessar aðstæður eiga hvorki smitrakning né einkennalaus sóttkví við. Ekki hefst undan í smitrakningunni og sóttkvíin veldur mjög miklum truflunum í atvinnulífinu og á stofnunum, ekki sízt á Landsspítalanum, þar sem mannekla var fyrir. Þess má geta, að náttúrulegt ónæmi Svía, sem þeir voru búnir að ávinna sér á undan stökkbreytingunni yfir í ómíkron, virðist að mestu halda gagnvart þessu gjörbreytta afbrigði. Smitum hefur fjölgað í Svíþjóð með ómíkron, en þar er samt engin bylgja.
Nú stendur fyrir dyrum hjá sóttvarnaryfirvöldum að bjóða upp á almenna bólusetningu barna, 5-11 ára gamalla, í skólum landsins. Þetta er óskiljanleg ráðstöfun í ljósi nánast einskis gagns og mikillar heilsufarsáhættu og kostnaðar. Börnum verður yfirleitt lítið meint af pestinni, sem í hlut á, svo að hér er gengið óhóflega langt í ráðsmennskunni með heilbrigði barnanna, sérstaklega í ljósi grafalvarlegra aðvarana dr Róberts Mallone, sem mun vera aðalhöfundur mRNA-tækninnar (að eigin sögn).
Hann segir í myndbandsávarpi, að mikilvæg líffæri barnanna á borð við heila, hjarta, æðakerfi og æxlunarfæri geti orðið fyrir óafturkræfum skaða af völdum bóluefnanna og ónæmiskerfi líkamans geti beðið hnekki. Það er ekki hægt að skella skollaeyrum við þessu og setja bara upp sauðarsvip.
Þann 30. desember 2021 birtist alvarleg varúðargrein gegn þessum bólusetningum í Morgunblaðinu eftir sérfræðing í heimilislækningum, Guðmund Karl Snæbjörnsson, undir fyrirsögninni:
"Hvernig getum við gert það bezta fyrir börnin".
Þar sagði m.a.:
"Vernd bóluefnanna hefur verið klén, ef nokkur, eins og öllum ætti að vera orðið ljóst.
Rannsóknir á milljónum barna í Evrópu hafa verið gerðar, á um 2 milljónum í Svíþjóð og enn fleirum í Þýzkalandi. Í þeim öllum kemur skýrt fram, að mjög fá börn urðu alvarlega veik af Covid og engin dauðsföll [urðu]. Fjöldi rannsókna sýnir ótvírætt fram á, að afar sjaldgæft er, að börn veikist alvarlega af Covid og segja má, að andlát meðal þeirra séu engin (faraldsfræðilega séð). Sænsk rannsókn Ludvigssons á 1´951´905 börnum í Svíþjóð á aldrinum 1-16 ára, sem sóttu skóla að mestu án nándartakmarkana eða notkunar andlitsgríma, sýndi engin dauðsföll hjá börnunum. Þrátt fyrir að Svíþjóð hafi haldið leikskólum og grunnskólum sínum opnum, kom í ljós mjög lág tíðni alvarlegra Covid-19-einkenna hjá þessum börnum.
Nýleg þýzk rannsókn, SARS CoV-2-KIDS, varðandi börn og unglinga, sem lagzt hafa inn á sjúkrahús í Þýzkalandi með annaðhvort SARS-CoV-2 eða PIMS-TS (Pediatric Inflammatory Multisystem Syndrome), sýndi, að ekkert barn á aldrinum 5-18 ára lézt."
Niðurstöður umfangsmikilla rannsókna sýna sem sagt, að veiruafbrigðin delta og fyrirrennarar ollu litlum veikindum barna og urðu engum að fjörtjóni í þessum 2 löndum. Þótt fleiri börn kunni að veikjast af ómíkron en áður á jafnlöngu skeiði, verða veikindin ekki alvarleg. Börnin verða þannig síður en svo betur sett eftir bólusetningu en áður, en hættan á aukaverkunum er umtalsverð. Í þessu ljósi er heldur ekki verjandi að nota börnin sem skjöld fyrir fullorðna, enda segir dr R. Mallone, að fullorðnum starfi engin hætta af smiti frá börnum.
"Verndin [frá bóluefnunum] er engin, en óvissa aukaverkana er nokkur. Hver er ávinningurinn, ef aukaverkanirnar eru bara eftir."
"Hjarðónæmið bíður enn síns tíma, þótt 90 % þjóðarinnar séu að fullu tví- eða þrísprautuð, en vitað er núna, að bóluefnið virkar ekki gegn Ómíkron. Ekki frekar en það gagnast Dönum, frændum okkar, þar sem flest Ómíkronsmitin virðast borin uppi af tví- og þrísprautuðum einstaklingum undir fertugu. Nú er ekki verið að ræða skaðsemi bólulyfjanna til lengri eða skemmri tíma, sem eðlilega hefur ekkert verið rannsakað; það bíður enn þá niðurstaðna rannsókna."
Læknirinn hefur á réttu að standa. Vernd bóluefnanna er engin gegn ómíkron-afbrigðinu, sem er orðið æði ólíkt upphaflegu kórónuveirunni erfðalega séð, þ.m.t. hið alræmda broddprótein. Sóttvarnaryfirvöld rembast eins og rjúpan við staurinn með velþóknun lyfjaframleiðendanna að reyna að telja landsmönnum trú um hið þveröfuga.
"Svo miklar hafa stökkbreytingarnar orðið, að nýju bóluefnin virka ekki lengur, né virðast þau vernda þá, sem hafa fengið Covid áður eða verið meðhöndlaðir með einstofna mótefnum (monoclonal antibodies)."
Ekki er víst, að náttúrulegt ónæmi sé jafnhaldlítið og bóluefnin, því að ný bylgja hefur ekki risið, þar sem náttúrulegu ónæmi hafði verið náð, t.d. í Svíþjóð. Þá getur vel verið um falska jákvæða greiningu á smiti að ræða, því að greiningartæknin er ekki nákvæm, og sýktir af ómíkron hafi þannig aldrei áður veikzt af SARS-CoV-2, þótt PCR-próf hafi reynzt jákvætt.
Síðan kom ákall til foreldra um að hugsa sitt ráð tvisvar áður en þau samþykkja bólusetningu barna sinna:
"Ef barnið mitt hefur litla sem enga áhættu af Covid; enga áhættu alvarlegra afleiðinga sjúkdóms eða dauða; engan ávinning af bólusetningu, en mögulegan skaða til skamms tíma, til lengri tíma hugsanlegan skaða vegna óþekktra skaðlegra afleiðinga af bólusetningunni: Hvers vegna ætti ég þá að vera að útsetja barnið mitt fyrir óþarfa áhættu með þessari bólusetningu ?
Morgunblaðið er skeleggur málsvari sjálfstæðrar og gagnrýninnar hugsunar, sem reist er á þekkingu á viðkomandi málefni. Sóttvarnarmálefni voru eðlilega fyrirferðarmikil í ritstjórnardálkum blaðsins á gamla árinu, 2021. Þann 27.12.2021 birtist þar ritstjórnargrein undir fyrirsögninni:
"Réttarríkið og plágan".
Þar sagði m.a.:
"Hann [Arnar Þór Jónsson í jómfrúarræðu á þingi] velti upp þeirri spurningu, hvort "hættan, sem við stöndum frammi fyrir [sé] slík, að það sé réttlætanlegt að stýra nú landinu með reglum, sem eru settar án þinglegrar umræðu, án lýðræðislegrar temprunar". Og hann hélt áfram og spurði, hvort það gæti verið, að hér væri að birtast einhvers konar nýtt stjórnarfar og að almenningur áttaði sig ekki á því og mögulega þingheimur ekki heldur.
Þá ræddi Arnar Þór stöðu þingsins og sagði það alls ekki mega láta sniðganga sig. Hér væri þingbundin stjórn, og framkvæmdavaldið ætti að lúta eftirliti og temprun Alþingis og dómstóla.
Í framhaldi af því vék hann að sjónarmiðum um neyðarástand, sem aðgerðir vegna kórónuveirunnar hafa gjarnan byggzt á, og sagði, að stjórnarskráin fæli ekki í sér neina almenna heimild til að lýsa yfir neyðarástandi. Hann nefndi, að ástandið, sem hér hefur ríkt í næstum 2 ár væri "til þess fallið að deyfa mörkin í hugum almennings og mögulega í hugum þingmanna milli þess, sem við getum kallað lögmætt lýðræðislegt stjórnarfar annars vegar og þess, sem ég kalla ofríkisstjórnarfar hins vegar". Og hann sagðist óttast, að smám saman væri verið að grafa undan réttarríkinu.
Neyðaraðgerðir hefðu verið skiljanlegar í upphafi faraldursins, en hann efaðist um, að þær væru skiljanlegar eða réttlætanlegar nú."
Þetta voru orð í tíma töluð á Alþingi. Engum blöðum er um það að fletta, að í skjóli ímyndaðs og sviðsetts neyðarástands hafa sóttvarnaryfirvöld tekið völdin í sínar hendur með minnisblaðafarsa frá sóttvarnarlækni og sniðgengið Sóttvarnarráð og Alþingi. Þetta er hættulegt fordæmi, enda ólöglegt að beita slíku ofríkisstjórnarfari í skálkaskjóli neyðarástands. Innihald minnisblaðanna er mjög umdeilanlegt, og reglugerðirnar á grundvelli þeirra hafa valdið gríðarlegu tjóni, og árangurinn er lítill sem enginn, enda stóð aldrei nein vá fyrir dyrum. Meiri vá stafar af reykingum landsmanna og óheilbrigðum lifnaðarháttum af ýmsu tagi. Verið er með barnalegum og ólögmætum hætti að ryðja brautina fyrir einhvers konar barnfóstrusamfélagi, sem endar með ósköpum. Brýn þörf er á nýrri og vandaðri löggjöf um sóttvarnir, sem gætir jafnvægis og temprar völd og áhrif embættismanna.
Téðri forystugrein lauk þannig:
"Varnaðarorð Arnars Þórs Jónssonar eiga ríkt erindi við Alþingi, ríkisstjórn og allan almenning, nú þegar faraldurinn hefur geisað í tæp 2 ár. Nauðsynlegt er, að borgaraleg réttindi og réttarríkið standi pláguna af sér og að almenningur fái sem allra fyrst um frjálst höfuð strokið."
22.12.2021 | 11:03
Úrtölumenn og dómsdagsspár
Úrtölumenn um nýtingu sjálfbærra orkulinda landsins hafa glatað trúverðugleika í augum margra með framferði sínu, sem einkennist af fjandskap gegn meiri orkunotkun og draumórum um afturhvarf til fortíðar með minni neyzlu og að sjálfsögðu minni velferðarþjónustu, enda er aukin raforkunotkun forsenda meiri velferðar hjá vaxandi þjóð, þar sem meðalaldur fer hækkandi.
Biblía þessara úrtölumanna er um sextugt kver, "Limits to Growth-Endimörk vaxtar", sem boðaði einmitt nauðsyn þess fyrir jörðina, að fólk á Vesturlöndum drægi verulega úr neyzlu sinni hið snarasta, því að annars væri voðinn vís og margar auðlindir jarðar yrðu upp urnar fyrir lok 20. aldarinnar. Ekkert gekk þar eftir.
Það gleymdist við samningu þessa kvers, að tæknin er í stöðugri þróun vegna samkeppni markaðsbúskaparins, og tæknin hefur bætt nýtnina við nýtinguna, fundið staðgönguefni og aukið skilvirkni við leit. Heimurinn er þó ekki fullkominn, og fyrir tilverknað fáfróðra stjórnmálamanna hefur ríkisvaldið víða beint þróuninni inn á rangar brautir. Sennilega var þessi fráleita kenning sett á koppinn til að veikja auðhyggjuna (kapítalismann) í kalda stríðinu við kommúnismann, sem alls staðar hefur mjög litla framleiðslugetu m.v. auðhyggjukerfið, nema í Kína, þar sem kommúnistaflokkurinn hefur virkjað kapítalismann á framleiðslusviðinu og viðskiptasviðinu, en stundar áfram valdaeinokun og skoðanakúgun á stjórnmálasviðinu auk þess að vera öryggisógn í Suð-Austur-Asíu, sem kremur nú lýðréttindi undir hælnum í Hong Kong og ógnar fullveldi Taiwan, sem á fullan rétt á sjálfstæðri tilveru, enda eru langflestir íbúanna þess sinnis.
Dæmi um ranga stefnumörkun yfirvalda víða um heim er, hvernig raforkuvinnslan fer fram. Hér á landi þó, hvernig hún fer ekki fram þrátt fyrir ríkulegar endurnýjanlegar orkulindir. Stjórnvöld í ýmsum löndum hafa bannfært kjarnorkuver, stundum í kjölfar óhappa, og eftirlitsaðilar hafa stöðugt fært sig upp á skaptið, þannig að öryggiskröfur eru í sumum tilvikum komnar út í öfgar og hafa valdið svo óheyrilegum viðbótar kostnaði og töfum að óþörfu, að raforka kjarnorkuveranna verður mjög dýr á meðan verið er að greiða upp fjárfestingarnar. Fyrir vikið hefur kjarnorkuverum á Vesturlöndum farið fækkandi á þessari öld, þótt viðsnúningur sé í vændum með tækniþróun og viðhorfsbreytingum, og hlutdeild þeirra í raforkuvinnslu er nú aðeins um 10 % á heimsvísu, en þó t.d. um 20 % í Bandaríkjunum og 50 % í Frakklandi.
Kjarnorkan er eini raunhæfi valkosturinn til að leysa kolaorkuver af hólmi og þannig að draga úr loftmengun og koltvíildislosun frá raforkuverum.
Aftur á móti hafa stjórnvöld, oft þau sömu og lagzt hafa gegn kjarnorku, hvatt til og niðurgreitt orku frá vindorkuverum. Það er goðsögn, að vindmyllur séu umhverfisvænar. Þær leggja hald á mikið land og raforkuvinnsla þeirra er óskilvirk. Nýtingartíminn á Íslandi virðist vera um 40 %, sem árlega svarar til 4,8 mánaða á fullum afköstum og 7,2 mánaða á engum afköstum, en yfirleitt er hann undir 30 % annars staðar á landi (meiri nýting úti fyrir ströndu).
Mikið af málmum, sumum sjaldgæfum, fer í vindmyllur. T.d. þarf 6 MW vindmylla (algeng stærð úti fyrir ströndu) 65 t af Cu, og til að vinna þann kopar úr jörðu þarf að grafa upp um 50 kt úr námunni. Þetta er dæmi um óskynsamlegan ágang manna á náttúruna, sem ekki er hægt að mæla bót, því að þennan kopar mætti nota með skilvirkari og hagkvæmari hætti, en ríkisvaldið í mörgum löndum hefur þarna skekkt markaðinn og hvatt til námugraftar með niðurgreiðslu orkuverðs frá vindmyllum, sem sums staðar hefur valdið óafturkræfum landspjöllum og mengun jarðvatns, t.d. í Chile.
Þann 23. nóvember 2021 birtist í Morgunblaðinu grein eftir Hauk Ágústsson, kennara. Þar voru raktir nokkrir heimsendaspádómar, sem auðvitað hafa allir orðið sér til skammar. Greinin hét:
"Brostnir spádómar",
og hún endaði þannig:
"Enn dynur á almenningi hræðsluáróður; þessa dagana sprottinn af COP26-ráðstefnunni í Glasgow í Skotlandi. Í ljósi liðins tíma og brostinna spádóma - er ekki rétt að gjalda varhug við þeim upphrópunum, yfirlýsingum og áróðri, sem þaðan berst ?"
Svarið er jú og dugir að líta á heildarmynd málatilbúnaðarins til að fyllast grunsemdum um, að fiskur liggi þar undir steini. Þar er aldrei minnzt á neina raunhæfa lausn á vandanum, en bara hamrað á, að þjóðir heims verði að draga úr losun koltvíildis, annars líði heimurinn, eins og við þekkjum hann, undir lok. Þetta hefur þó ekki reynzt árangursríkara en svo, að losun flestra ríkja heims 2021 mun verða meiri en á ári Parísarsamkomulagsins, 2015. Hvers vegna er ekki eytt neinu púðri í að setja á kolefnisgjald um allan heim, þar sem greitt yrði fyrir hvert t losunar CO2 ? Þá kæmi fjárhagslegur hvati til breytinga til skjalanna.
Hvers vegna hljómar IPCC eins og trúarsöfnuður, þar sem aðeins ein túlkun er leyfð ? Trúverðugum vísindamönnum á borð við prófessor John Christy, loftslagsfræðing við UAH-University of Alabama-Huntsville - og skoðanasystkini hans er úthýst úr skýrslum IPCC. Hann og félagar hans búa þó yfir yfirgripsmikilli þekkingu á þróun hitafars í lofthjúpi jarðar og nákvæmustu mæligögnum, sem völ er á um hitastigið í lofthjúpinum í um 4 undanfarna áratugi. Niðurstöður hans eru á allt öðru róli en niðurstöður IPCC, sem veifar í sífellu ógn um allt að 2,5°C hlýnun 1950-2080, en gervihnattamælingar, sem unnið hefur verið úr á UAH, benda til hitastiguls 0,14°C/10 ár, sem með einfaldasta framreikningi gefur 1,4°C hlýnun 1980-2080.
Þar að auki bendir ýmislegt til, að þetta sé bara eðlileg sveifla, sem muni ganga til baka á næstu öld, enda er meiri hætta á yfirvofandi kuldaskeiði en hlýskeiði á jörðunni í sögulegu ljósi. Tölfræðingar, sem rannsakað hafa hitastigsþróunina í 2000 undanfarin ár með árhringjarannsóknum í trjám, sjá enga óeðlilega þróun undanfarna áratugi. Hitastigið hafi allt þetta 2000 ára tímabil sveiflazt hægt um fast meðaltal. Gagnrýna tölfræðingarnir óburðuga meðhöndlun IPCC á tímaröðum. Þetta kom fram í Morgunblaðsgrein Helga Tómassonar, prófessors í hagrannsóknum og tölfræði við HÍ, 14.10.2021, og lesa má um hér:https://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2270868 .
Einn af þeim, sem dyggilegast hafa alla tíð stutt boðskap IPCC-Loftslagsráðs Sameinuðu þjóðanna hérlendis - er Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur og fyrrverandi ráðherra Alþýðubandalagsins. Hann skrifar tíðum í Morgunblaðið áhugaverðar greinar, og ein af greinum hans birtist þar 23. nóvember 2021 undir spennuþrunginni fyrirsögn:
"Nú reynir á gjörvalla heimsbyggðina".
Þar gat m.a. að líta eftirfarandi:
"Í Glasgow var samþykkt sú stefna að takmarka meðaltalshlýnun lofthjúpsins við 1,5°C í stað 2°C. Mikilvægar yfirlýsingar voru gefnar um að stöðva eyðingu skóga og vinna sérstaklega gegn losun metans. Jarðefnaeldsneyti var nú brennimerkt sem helzti skaðvaldurinn með kol í fararbroddi. Indland, sem keppir við Kína í kolanotkun, varð sér til minnkunar með því að krefjast á 11. stundu breytinga á þeirri áherzlu. Fjöldi ríkja, stórra og smárra, hafði í aðdraganda þessa fundar gefið út fyrirheit um að draga stórlega úr losun CO2 fram til ársins 2030 og ná kolefnishlutleysi fyrir eða um miðja öldina. Þar hefur Ísland sett markið við árið 2040."
Í sannleika sagt er þetta eintómt froðusnakk snjórnmálamanna og búrókrata þeirra, sem virðist skorta allt jarðsamband. Dettur einhverjum í hug, að árangursríkt geti reynzt að hóa saman þúsundum stjórnmálamanna, búrókrata og öðrum, til að gefa út yfirlýsingar um, að þeir hyggist fækka tilteknum glæpum um einhverja hlutfallstölu (%) í sínu landi og að heildarfjölda slíkra glæpa í heiminum fækki þá úr áður aðstefndu marki í lægra mark, þótt þeim fjölgi enn þá ?
Hafa borizt einhverjar fréttir frá Gljáskógum um, að á COP-26 hafi tekizt að ná alþjóðlegu samkomulagi um, hvernig meta á koltvíildisbindingu trjáa og eigendur trjánna geti síðan selt þessa bindingu á alþjóðlegum koltvíildismarkaði ? Nei, ekkert vitrænt í þá veru hefur birzt. Slíkt gæti samt snúið við eyðingu regnskóga og annarra skóga og lagt grunninn að mikilli aukningu bindingar á koltvíildi, því að skógurinn yrði verðmætari standandi en felldur. Nei, þess í stað eru gefnar út einhverjar innihaldslausar yfirlýsingar um "að stöðva eyðingu skóga". Þessu fólki er ekki sjálfrátt, enda er árangurinn eftir því.
Í stað þess að setja á kolefnisgjald á heimsvísu, er jarðefnaeldsneytið brennimerkt. Hvers konar fíflagangur er þetta eiginlega ? Íbúar Norður-Indlands standa frammi fyrir grafalvarlegri lífsógn. 16 % allra dauðsfalla þar eru vegna loftmengunar, en aðeins 10 % þessarar mengunar stafar frá kolakyntum raforkuverum. Kol eru notuð innanhúss, annar eldsneytisbruni er mikill, og líkbrennslur menga gífurlega. Jarðefnaeldsneytið er mikill heilsuskaðvaldur.
Nýja íslenzka ríkisstjórnin, Hringekjan, eða hvað menn kalla þetta 2. ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur, hefur hent í Mörlandann nýju markmiði, sem er 55 % samdráttur koltvíildislosunar 2030 m.v. 1990. Fyrra markmiði fylgdi aðgerðaáætlun, þar sem botninn var suður í Borgarfirði. Auðvitað er engin komin enn frá Hringekjunni, en til að ná þessu markmiði þarf kraftaverk, nokkrar nýjar vatnsafls- og jarðgufuvirkjanir og stóreflt flutnings- og dreifikerfi raforku. Fyrra ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur skildi eftir sig þá stöðu, að skerða þarf raforku til fiskimjölsverksmiðja, kyndistöðva og annarra, sem samið hafa um annað en forgangsorku. Á meðan svona er í pottinn búið, hjökkum við áfram í sama farinu, umhverfislega og efnahagslega. Taka verður til hendinni. Finnur Borgnesingurinn á stóli orkuráðherra rétta botninn í málið ?
Áfram með boðskap Hjörleifs. Nú kemur krafan um lífstílsbreytingu:
"Flest ríki hafa aukið mengun lofthjúpsins í kjölfar Parísarsamþykktarinnar, þannig að stefnir í hlýnun upp á 2,4°C og þaðan af meira. Umskiptin, sem þurfa að verða á þessum áratug, jafngilda byltingu í framleiðsluháttum, neyzlu og samskiptum við móður jörð. "Pláneta okkar hangir á bláþræði" var meðal aðvörunarorða framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, Antonios Guterres, við opnun ráðstefnunnar í Glasgow. Lausnin felst ekki aðeins í að hverfa frá notkun jarðefnaeldsneytis í tíð einnar kynslóðar, heldur verður að draga úr rányrkju á öllum sviðum. Temprun neyzlu og lífshátta, að fólksfjölgun meðtalinni, er óhjákvæmileg, eigi mannkynið að komast yfir þær hindranir, sem við blasa."
"Now you are talking, man", var sagt. Þarna opinberar Hjörleifur, það sem að baki áróðrinum um hlýnun andrúmsloftsins og um virkjanaandstöðuna hérlendis býr.
Að sjálfsögðu hefur losun CO2 aukizt víðast hvar frá Parísarráðstefnunni í desember 2015. Hvernig í ósköpunum á annað að vera með þeim málatilbúnaði, sem þar var viðhafður með froðusnakki um háleitar hugsjónir stjórnmálamanna um framtíð jarðarinnar ? Ekkert, sem hönd var á festandi, um tæki og tól til þess á borð við sameiginlegan koltvíildisskatt eða sambærilegt.
Þessi framreikningur á hlýnun andrúmsloftsins, sem Hjörleifur vitnar þarna til, er algerlega úr lausu lofti gripinn og verður að flokka sem áróðursbrellu, því að reiknilíkönin, sem að baki búa, eru meingölluð, eins og prófessor John Christy, loftslagsfræðingur við UAH, hefur sýnt fram á.
Síðan afhjúpar Hjörleifur hugmyndafræðina, sem að baki öllum þessum látum býr. Það þarf að gjörbreyta lifnaðarháttum almennings og stórdraga úr neyzlunni. Þetta þýðir auðvitað, að framkvæma verður stórfellda lífskjaraskerðingu, því að í hvað eiga peningarnir annars að fara ? Hvað segja verkalýðsfélögin um þennan boðskap vinstri mannsins Hjörleifs Guttormssonar. Eru þau tilbúin að beita sér fyrir neyzlustýringu, sem miðar að stórfelldri minnkun neyzlu ? Nei, það hafa engin teikn á lofti sézt um það. Þessi viðhorf eiga sér enga raunveruleikatengingu, enda reist á illa ígrunduðum dómsdagsspám, sem óþarfi er að taka alvarlega. Viðhorfin eiga aðeins upp á pallborð sérvitringa á borð við Landvernd, sem berst gegn þjóðarhagsmunum með því að þvælast fyrir flestum orkuframkvæmdum í landinu, og á borð við meirihluta borgarstjórnarinnar, sem leggur fæð á samgöngumannvirki eins og greiðfærar akbrautir og afkastamikil og hættulítil mislæg gatnamót ásamt flugvelli á einu bezta flugvallarstæði landsins. Þetta afturhald er ekki á vetur setjandi og verður að brjóta á bak aftur hið fyrsta. Til þess þarf að hafa bein í nefinu. Hefur téður Borgnesingur það, þegar til kastanna kemur ?
8.12.2021 | 13:25
Orkustefna í skötulíki
Orkustefna lands er lítils virði, ef hún varðar ekki leiðina að orkuöryggi, þ.e. búi svo vel í haginn fyrir nægt framboð afls og orku, að skortur forgangsorku myndist ekki, nema ófyrirsjáanlegir atburðir á borð við náttúruhamfarir eða ófrið ríði yfir. Nú horfir illa með vatnsbúskap Landsvirkjunar í vetur, sem þegar er komið í ljós, að koma mun harkalega niður á atvinnustarfsemi í landinu, sem samið hefur um kaup á ótryggðri raforku, bæði skammtíma og síðar langtíma.
Ef illa fer, mun þurfa að skerða forgangsorku líka, sem er neyðarúrræði. Að svo sé komið í rekstri raforkukerfisins, þar sem ríkisfyrirtæki gegna langstærstu hlutverki, og á sama tíma sé engin vinna í gangi við framkvæmdir í nýjum meðalstórum eða stórum virkjunum á vegum ríkisfyrirtækja, er þungur áfellisdómur yfir stjórnun ríkisins á þessum málaflokki, sem varðar hagkerfið gríðarmiklu, svo að ekki sé talað um það umhverfisslys að þurfa að brenna olíu, þar sem olíubrennarar eru til vara fyrir rafmagnið.
Afturhaldsöfl hafa drepið málaflokkinn í dróma. Eins og vanalega koma umhverfisráðstafanir gæningja eins og bjúgverpill í fangið á stjórnvöldum sem aukinn bruni jarðefnaeldsneytis. Það gerist nú á meginlandi Evrópu, og það gerist nú á Íslandi. Ef hér hefði tekið til starfa ný um 100 MW virkjun á svæði, sem 220 kV flutningskerfi Landsnets spannar, væri hvorki orku- né aflskortur í vetur. Það er einsdæmi frá stofnun Landsvirkjunar, að á tíma orkuskorts skuli ekki hilla undir umtalsverða virkjun á vegum fyrirtækisins. Stendur á framkvæmdaleyfi fyrir Hvammsvirkjun. Hvað í ósköpunum veldur þessum sofandahætti, doða og/eða amlóðahætti ?
Til sannindamerkis um þjóðhagslegan kostnað, sem nú blasir við af völdum orkuskerðinga Landsvirkjunar til fiskiðnaðarins, er forsíðufrétt Morgunblaðsins 3. desember 2021 um, að loðnubræðslur fengju einvörðungu 25 MW af umsömdum 100 MW af ótryggðu afli í vetur. Til að vega þetta upp þurfa verksmiðjur, sem einnig eru með olíukatla, að brenna olíu. Orðagjálfur stjórnmálamanna um 55 % samdrátt koltvíildislosunar 2030 m.v. 1990 er afhjúpað sem innihaldslaust blaður, þegar svona er í pottinn búið. Þetta heimatilbúna vandamál er orðið að ófyrirgefanlegu heimilisböli landsstjórnarinnar.
Hér verður að gera bragarbót á hið snarasta, enda eru virkjanakostir til nánast verkhannaðir og tilbúnir til útboðs. Nýi ríkisstjórnarsáttmálinn gefur undir fótinn með, að nú verði slegið í klárinn. Nú kemur til kasta innviðaráðherrans og orkuráðherrans.
Íslendingar eru í óviðjafnanlegri stöðu á meðal Evrópuþjóða, hvað orkuöflun varðar. Flestar aðrar þjóðir hafa farið á braut óskilvirkrar kolefnisfrírrar orkuöflunar á borð við vindmyllur og sólarhlöður, sem taka háan toll af efnaauðlindum jarðar m.v. orkuvinnslugetu á endingartíma, eða þær halda áfram að reisa kolefnisspúandi orkuver á borð við gas- og kolaorkuver. Á árinu 2021 hefur vindafar verið óhagstætt í Evrópu fyrir vindmyllur, og þær þess vegna framleitt óvenjulítið. Á sama tíma hefur raforkueftirspurn vaxið umfram framboðsaukningu, sem leitt hefur til óvenjulágrar birgðastöðu alls jarðefnaeldsneytis og þess vegna hárrar verðlagningar allrar orku samkvæmt lögmáli framboðs og eftirspurnar.
Sumir hérlendis tala fjálglega um nauðsyn orkuskipta til að koma í veg fyrir hlýnun andrúmslofts um 2°C eða meira fyrir árið 2080 síðan 1850, þótt röð gervihnattamælinga á hitastiginu bendi aðeins til meðalhitastiguls 0,14°C/10 ár á síðustu 30-40 árum, og þessi hækkun gæti hæglega gengið til baka, en þeir mega samt ekki heyra minnzt á nýjar virkjanir. Þetta eru hreinræktaðir loddarar með sína snákaolíu til sölu. Að láta loddara móta orkustefnuna, leiðir auðvitað aðeins í ógöngur, eins og nú er komið á daginn.
Orkustefna Þýzkalands og margra annarra landa Evrópusambandsins (ESB) er sú að loka öllum kjarnorkuverum fyrir árslok 2022, en reiða sig á vindorkuver og sólarhlöður. Þetta er óumhverfisvænt og óskilvirkt. Hver vindmylla er tiltölulega efnisfrek, nýtingartími á ári er stuttur og endingin er skammvinn. Um 65 t af Cu (kopar) fara í um 6 MW vindmyllu, og slík koparvinnsla útheimtir 50 kt námugröft.
Árið 2021 einkenndist af stillum, og vegna uppsveiflu hagkerfisins í ár og lágrar stöðu jarðgasforðans í Evrópu (vestan Rússlands) er kolabrennsla Þjóðverja nú með mesta móti og öll orkuverð í Evrópu í hæstu hæðum og knýja áfram verðbólgu, sem margir núlifandi Evrópumenn hafa aldrei séð áður. Ofan á angist vegna hárra orkureikninga í Evrópu bætast áhyggjur út af liðsafnaði Rússa við austurlandamæri Úkraínu og þeirri staðreynd, að 41 % af jarðgasinnflutningi Evrópu kemur frá Rússlandi.
Í Frakklandi er afstaðan til kjarnorkuvera allt önnur, og þar kemur um helmingur raforkunnar frá kjarnorkuverum og t.d. á Bretlandi 16,5 % og vaxandi. Þar er ætlunin að loka öllum, nema einu kjarnorkuveri, fyrir 2030 vegna aldurs og reisa ný með nýrri tækni. Bretar eru þó að reisa nýtt, stórt kjarnorkuver, Hinkley Point C, 3,2 GW, fyrir mrdGBP 23, sem jafngildir fjárfestingu 9,5 MUSD/MW. Þetta er 3-4 faldur virkjunarkostnaður á Íslandi.
Til að auka samkeppnishæfni kjarnorkunnar er Rolls Royce nú með minni og forsmíðaðar einingar kjarnakljúfa og gufuhverfla í hönnun, s.k. SMR (Small Modular Reactors), 0,47 GW, sem lækka virkjunarkostnaðinn um 35 % niður í 6,2 MUSD/MW, og fjöldaframleiðsla og samkeppni frá öðrum framleiðendum, t.d. frönskum, mun lækka verðmiða kjarnorkunnar enn meira. Þessi orkuver geta staðið undir stöðugu álagi og orkuverðið verður lítið háð verðsveiflum á úrani.
Bretum hefur orðið vel ágengt með minnkun losunar koltvíildis frá raforkuverum. Á 10 ára tímabili 2012-2021 drógu þeir úr þessari losun um 51 %, og á árabilinu 2021-2030 ætla þeir að draga úr losun vegna raforkuvinnslu um 57 % og fara niður í 100 Gt CO2. Þetta verður gert með lokun kolakyntra vera og gangsetningu SMR-kjarnorkuvera. Þessi stefnumörkun mun veita Bretum forskot á Evrópusambandið, sem hjakkar í sama farinu vegna rangrar stefnumörkunar. Bretar munu styrkja samkeppnisstöðu sína gagnvart ESB vegna lægra orkuverðs.
Flest ríki heims hafa lýst yfir, að þau stefni á kolefnishlutleysi árið 2050 eða eftir tæplega 30 ár. Það er risaverkefni á heimsvísu í ljósi þess, að jarðefnaeldsneyti stendur að 83 % af frumorkunotkun jarðarbúa. Ótti við þvingunarráðstafanir stjórnvalda til að draga úr eftirspurn hafa leitt til 40 % lækkunar fjárfestinga í leit og vinnslu jarðefnaeldsneytis síðan 2015, og þetta hefur þegar haft áhrif á framboðið, einnig á gasinu, á sama tíma og þjóðir vilja taka það í notkun í stað kola og olíu. Þess vegna hefur verð á því rokið upp úr öllu valdi. Skortur á LNG, sem Bandaríkjamenn hafa boðið ESB í stað gass um Nord-Stream 2 frá Rússum, nemur nú 2 % af eftirspurn á heimsvísu, en er spáð, að verði 14 % árið 2030. Ef ESB ekki semur við Rússa um kaup á gasi um Nord-Stream 2 lögnina, verður áfram mjög hátt orkuverð í Evrópu. Slík staða eykur spurn eftir íslenzkri raforku, en Landsvirkjun situr samt með hendur í skauti. Þessi doði í boði ríkisins er dýrkeyptur.
Árið 1990 hófu ríki heims að samkeppnisvæða orkumarkaðinn. Orkuyrirtæki keppa þá um hylli neytenda með því að bjóða sem hagstæðasta afhendingarskilmála, og þau keppa um orkuna sín á milli á uppboðsmörkuðum. Þegar hillir undir aflskort, hækkar verðið, og fyrirtækin fara í fjárfestingar. Í skortskerfi, eins og núna, þar sem framboð orku getur ekki annað eftirspurn, koma regingallar þessa kerfis fram, því að fyrirtækjum og heimilum blæðir.
Það getur ekki gengið til lengdar, að Norðmenn þurfi að greiða sem svarar 90 ISK/kWh í landi, þar sem raforkuverðið með flutningi, dreifingu og sköttum hefur í venjulegu árferði verið jafnvel lægra en á Íslandi eða 15-20 ISK/kWh. Þetta samkeppniskerfi orku, sem ESB hefur tekið upp á arma sína með orkupökkunum, virkar sem hengingaról fyrir neytendur við núverandi aðstæður.
Talið er (The Economist 16.10.2021-The energy shock), að fjárfestingar á heimsvísu í orkumálum þurfi meira en að tvöfaldast og fara í 4-5 trnUSD/ár til 2050 eða alls um trnUSD 135 fram til 2050. Í þessum samanburði sleppa Íslendingar tiltölulega vel, en það verður að vera hér einhver vilji til verka (virkjana og línulagna) til að nýta náttúrulegt forskot Íslands. Hvenær skyldu orkuyfirvöld í Stjórnarráðinu rumska ? Þau hafa sofið Þyrnirósarsvefna með þeim afleiðingum, sem nú eru öllum berar.
24.11.2021 | 14:03
Covid: hin óvænta 4. bylgja
Aftur hefur sænski læknirinn, Sebastian Rushworth, skrifað merka grein á vefsetur sitt um þróun C-19 faraldursins. Allt ber þar að sama brunni. Bóluefnin eru gagnslaus eftir um hálft ár frá bólusetningu, og hið eina, sem getur skapað lýðónæmi (hjarðónæmi) gegn pestinni, er náttúrulegt ónæmi, sem líkaminn sjálfur þróar með sér eftir smit. Þannig hefur það gengið til hingað til með alla sjúkdómsfaraldra, sem lagzt hafa á öndunarfærin, og þau, sem nú reka áróður fyrir endurteknum bólusetningum gegn C-19 ættu að vita betur af reynslunni og þeim vísindaniðurstöðum, sem fyrir hendi eru. Þá er fyrir neðan allar hellur sá áróður, sem nú er rekinn víða um Evrópu, einnig á Íslandi, gegn óbólusettum, því að bólusettir smita aðra áfram og bóluefnin verða gagnslaus innan skamms tíma frá bólusetningu, eins og 4. bylgjan í fullbólusettum löndum sýnir. Í Svíþjóð virðist hins vegar náttúrulegt ónæmi í 70 % íbúanna duga til að hindra bylgju með delta-afbrigðinu í vetur.
Hér fer á eftir þýðing höfundar þessa vefseturs á grein sænska læknisins Sebastians Rushworth, sem birtist á vefsetri hans 20.11.2021:
"Ég var undrandi í fyrstu, þegar margar fullbólusettar þjóðir urðu fyrir barðinu á nýrri bylgju C-19 í haustbyrjun [2021]. Ég var hissa, þ.e.a.s. þar til ég fór að sjá skýrslur um, að vörn bóluefnanna er mun minni en búizt var við og hrapar niður í lággildi að fáeinum mánuðum liðnum frá bólusetningu.
Í þessu ljósi hef ég verið að bera saman tíðni covid dauðsfalla í mismunandi löndum til að reyna að skilja, hvað er eiginlega um að vera. Tíðni dauðsfalla er ákjósanlegri en tíðni greindra tilvika, því að hún breytist minna með tímanum. Tíðni greindra tilvika hefur sveiflazt gríðarlega síðan faraldurinn hófst, þar sem fjöldi sýnataka hefur verið breytilegur með breyttri skilgreiningu á sýkingartilviki og með breytingum á sýnatökuaðferðum. Greind tilvik eru þess vegna ómögulegt tæki til að skilja, hvernig faraldurinn hefur breytzt með tímanum. Þó að lönd hafi mismunandi skilgreiningar á covid dauðsföllum, þá virðast þau vera sjálfum sér samkvæm um það í tímans rás. Tíðni dauðsfalla er þess vegna miklu áreiðanlegri en tíðni greindra tilvika og þess vegna mun gagnlegri til að átta sig á þróun faraldursins.
Við sjáum á yfirliti um Svíþjóð, að upphafsbylgjan reið yfir um vorið 2020 með upphaflegu Wuhan-veirunni, þá kom fall niður í næstum 0 vegna sumarsins. Nú orðið ætti öllum að vera ljóst, að covid-19 er mjög árstíðabundin veira, sem eins og aðrar vetrarveirur hverfur að mestu frá því síðla vors fram í haustbyrjun.
Það, sem næst gerðist samkvæmt sænsku gögnunum er enduruppsveifla Wuhan-veirunnar um haustið 2020, sem byrjar að hjaðna eftir nokkra mánuði, þegar nægilegt lýð- eða hjarðónæmi hefur verið náð. Þessi hjöðnun stöðvast þó, og við tekur enn örari aukning dauðsfalla fyrir tilstilli brezka alfa-afbrigðisins í Svíþjóð.
Hvernig gat alfa-afbrigðið orsakað aðra bylgju, ef hjarðónæmi hafði þegar verið náð, mætti spyrja ? Það er vegna þess, að þröskuldur lýðónæmis er háður smitnæmi og dreifimöguleikum veirunnar. Því meiri dreifimöguleikar, þeim mun hærri verður þröskuldur lýðónæmis. Þannig var þröskuldi lýðónæmis gagnvart Wuhan-veirunni náð í desember 2020, en þegar alfaafbrigðið mætti á svæðið, hækkaði þröskuldurinn og nýr faraldur reið yfir.
Stöldrum nú við; alfa afbrigðið herjar hratt á íbúana, og nægilegt lýðónæmi var náð gagnvart þessu nýja afbrigði um miðjan janúar 2021. Aftur verður erfitt fyrir veiruna að finna ný fórnarlömb, og þá tekur daglegum smitum að fækka niður í umgangspestargildi árstíðarinnar og eru þar þangað til í sumarbyrjun.
Þeim, sem vilja tengja fækkun covid-dauðdaga í febrúar [2021] við bólusetningar, bendi ég á, að aðeins fá % íbúa Svíþjóðar höfðu þá verið bólusett, svo að bólusetningar geta ekki hafa leitt til neinnar fækkunar dauðsfalla.
Að sumrinu [2021] liðnu hækka gildin að nýju upp í eðlilegri árstíðabundin gildi, en eru áfram lág, eins og búast má við af veiru, sem veldur nú orðið umgangspest, en ekki faraldri. Jafnvel þótt hið afar smitandi delta-afbrigði hafi borizt til Svíþjóðar síðla vors [2021] og hafi um haustið verið ríkjandi, gat það ekki skapað nýja bylgju vegna þess víðtæka [náttúrulega] ónæmis, sem áður var komið á.
Við sjáum svipað mynztur annars staðar, þar sem harkaleg bylgja skall á vorið 2020, eins og í Svíþjóð. Þar má nefna Nýju Jórvík og Langbarðaland á Norður-Ítalíu. Þar myndaði Wuhan-afbrigðið fyrstu 2 bylgjurnar, og alfa-afbrigðið myndaði 3. bylgjuna, og síðan ekki söguna meir, þrátt fyrir tilkomu delta-afbrigðisins. Getuleysi delta-afbrigðisins við að mynda nýja bylgju er hægt að útskýra á 2 vegu - annaðhvort er dreifingargeta þess ekki nægilega mikið meiri en alfa-afbrigðisins til að mynda nýja bylgju á svæðum, þar sem lýðónæmi var þegar komið á gagnvart alfa-afbrigðinu, eða bólusetningarnar gera sitt gagn enn þá.
Förum nú til Indlands út af ályktunum, sem draga má um delta-afbrigðið þaðan:
Snemma árs 2021 verður delta-afbrigðisins fyrst vart á Indlandi og geisar á meðal íbúanna. Mótefnisprófanir á íbúunum leiddu í ljós, að 50 % íbúanna sýktust á aðeins fárra mánaða skeiði, svo að hlutfall íbúanna með mótefni hækkaði úr 20 % í 70 %, sem er nægilega hátt hlutfall til að mynda lýðónæmi, svo að veirudreifingin hrapar niður á lágt umgangspestarstig. Athugið, að bóluefnin léku greinilega ekkert hlutverk hér, því að aðeins fá % íbúanna á Indlandi höfðu verið bólusett á þeim tíma, þegar dánartíðnin hrapaði niður í lág gildi, eins og átti sér stað í Svíþjóð.
Nú skulum við snúa okkur að löndum, sem hafa orðið fyrir barðinu á 4. bylgju faraldursins í haust [2021], og reyna að finna skýringu. Tökum Ísrael sem dæmi:
Ísrael tókst að forðast víðtæka dreifingu covid vorið 2020. Um haustið skall Wuhan-afbrigðið á Ísraelum, og einmitt í þann mund, að lýðónæmið náði gildi, sem fær dreifinguna til að hægja á sér, varð landið fyrir árás alfa-afbrigðisins, sem leiddi til hámarks í tíðni dauðsfalla af völdum covid seint í janúar 2021. Á þeim tíma var þegar búið að bólusetja 20 % íbúanna að fullu, svo að hér gætu bólusetningarnar hafa átt þátt í að fækka dauðsföllum. Þær gætu verið skýringin á því, að dauðsföllum fækkar síðan mjög mikið í stað þess að hjakka í umgangspestargildum alveg fram í maí [2021], eins og í Svíþjóð (þar sem bólusetning gekk mun hægar).
Tíðni covid-dauðsfalla var áfram lág allt sumarið, eins og búast mátti við. Þá komum við að haustinu 2021 og hinni óvæntu 4. bylgju, eða ekki svo óvæntu, ef litið er á gögnin, sem sýna, að skilvirkni bóluefnanna dvínar hratt, einnig sá eiginleiki, sem átti að koma í veg fyrir alvarleg veikindi (sem á sérstaklega við um viðkvæma eldri borgara, sem raunar eru eini hópur samfélagsins, sem er í mikilli hættu út af covid-19). [Gerð er grein fyrir þessum gögnum í
https://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2271869
og
https://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2271929 ]
Jæja, Ísrael mátti þola 4. bylgjuna, eins og mörg önnur lönd. Hvers vegna eru svæðin, sem gerð var grein fyrir í upphafi pistilsins, Svíþjóð, Langbarðaland og Nýja Jórvík, ekki þolendur 4. bylgju núna ?
Frá mínum bæjardyrum séð eru 2 möguleikar fyrir hendi. Sá fyrri er, að íbúar þessara svæða hafi myndað svo víðtækt náttúrulegt ónæmi, þegar þeir urðu fyrir mikilli dreifingu covid-19 nokkuð lengi fram á vorið 2020, að þeir hafi nú afgreitt þennan faraldur fyrir sitt leyti og fleiri faraldra [SARS-CoV-2] sé ekki að vænta. Í Ísrael er bólusetning útbreidd, en hafði í haustbyrjun 2021 orðið fyrir covid-dreifingu í færri mánuði [en téð 3 svæði], og þar af leiðandi hafði lægra hlutfall íbúanna en á viðmiðunarsvæðunum 3 þróað með sér náttúrulegt ónæmi frá fyrri sýkingum. Það hefur nú verið leitt rækilega í ljós, að ónæmi, sem rætur á að rekja til sýkingar, er miklu varanlegra en ónæmið, sem framkallað er með bólusetningu. Þetta er eðlileg kenning núna, þegar við vitum, hversu mjög á reiki ónæmið er, sem bólusetningar framkalla.
Það getur verið upplýsandi núna að líta til Austur-Evrópu. Austur-evrópsku ríkin hafa orðið sérstaklega illa úti í haust [2021]. Þar má nefna Búlgaríu og Slóvakíu.
Mér finnst tvennt vera athyglisvert þarna. Í fyrsta lagi sluppu bæði löndin nánast alveg vorið 2020. Í öðru lagi var hröð dreifing veirunnar í gangi, þegar sumarkoman olli mikilli fækkun smita. Þessar þjóðir náðu þess vegna aldrei lýðónæmi gagnvart meira smitandi afbrigðum, og þess vegna hlaut veiran að taka sig upp aftur haustið 2021.
Jæja, fyrri mögulega skýringin mín á því, að sum landsvæði verða ekki tiltakanlega fyrir barðinu á 4. bylgjunni, er sú, að þar sé þegar fyrir hendi nægilegt náttúrulegt lýðónæmi, sem verndi íbúana. Sú síðari er, að íbúar þessara svæða njóti nú tímabundinnar verndar á þeim grunni, að íbúarnir voru bólusettir seinna en t.d. íbúar Ísrael. Sé sú skýring rétt, mun 4. bylgjan skella á þeim eftir einn mánuð eða tvo.
Gögn frá Þýzkalandi benda til, að fyrri skýringin sé líklegri, því að nú eru Þjóðverjar á leið inn í 4. bylgjuna. Hafið í huga, að Þjóðverjar, eins og Ísraelar, urðu lítið varir við covid-19 um vorið 2020. Hins vegar reið stór bylgja yfir þar veturinn 2020/2021 með Wuhan-afbrigðinu. Síðan kom smátoppur með alfa-afbrigðinu, sem myndaði meginálagið á Þýzkaland í apríl [2021]. Hins vegar komu hlýindi sumarkomunnar í veg fyrir myndun stórrar bylgju með alfa-afbrrigðinu. Á þessu skeiði voru Þjóðverjar bólusettir upp til hópa, og áttu flestar bólusetningarnar sér stað á tímabilinu marz-júní. Þetta er ákaflega svipað bólusetningarferli og í Svíþjóð, þar sem flestir voru bólusettir í marz-júní [2021].
Hvers vegna verður Þýzkaland þá fyrir nýrri bylgju núna [haustið 2021], en Svíþjóð ekki ?
Ljóslega er skýringarinnar ekki að leita í, að Þýzkaland hafi orðið fyrri til við bólusetningar og íbúarnir hafi þess vegna misst sitt ónæmi fyrr, því að báðar þjóðirnar voru bólusettar á sama tíma. Þess vegna hallast ég að réttmæti fyrri kenningarinnar, að Svíar hafi myndað náttúrulegt lýðónæmi með því, að covid hóf að breiðast mjög út í Svíþjóð vorið 2020, en útbreiðslan í Þýzkalandi hófst ekki að ráði fyrr en haustið 2020. Þrátt fyrir að áhrif bóluefnanna hafi þegar rýrnað í báðum löndum, þá er Svíþjóð varin með sínu víðtæka náttúrulega ónæmi, en Þýzkaland ekki. Ef þetta er rétt, mun Svíþjóð ekki verða fyrir barðinu á fleiri stórum bylgjum. Eftir mánuð eða tvo [um áramótin 2021-2022] munum við vita sannleika þessa máls.
18.11.2021 | 17:59
Verður eflingarsprauta á 4 mánaða fresti ? - 2 af 2
Hér fer á eftir þýðing skrifara á síðari hluta vefgreinar Sebastians Rushworths 5. nóvember 2021 um hneykslanlega lélega endingu C-19 bóluefnanna. Í stað þess að viðurkenna haldleysi bóluefnanna, er frá líður, er bætt við sprautum með ærnum samfélagslegum kostnaði og heilsutjóni, sem engin yfirsýn er á núna. Það er eins og Bakkabræður hafi ákveðið að skella á stórtækri tilraunastarfsemi á kostnað skattborgaranna. Engin heildstæð stefnumörkun er fyrir hendi hjá heilbrigðisyfirvöldum landsins um að komast út úr þessum faraldri, nema stöðugar bólusetningar, og sú leið er ófær að mati Sebastians Rushworth, sem greint hefur skilvirkni bóluefnanna sem óviðunandi. Þar er um misheppnaða vöru að ræða, sem fyrir löngu ætti að vera búið að gangast við af hálfu framleiðendanna. Það er auðveldara að ná fram hjarðhegðun en hjarðónæmi. Hið síðar nefnda næst úr þessu aðeins á náttúrulegan hátt. Að telja fólki trú um, að "örvunarsprautan" skili okkur til hjarðónæmis, er líklega hreinræktuð óskhyggja, sem ekki styðst við neinar marktækar rannsóknir.
"Ef ríkisstjórnum hefði ekki legið svona mikið á að koma bóluefnum í borgarana, en hefðu þess í stað krafizt 6 mánaða reynslutíma af tvöföldu blindprófi með bóluefnin, í stað 2 mánaða, hefði aðeins Moderna-bóluefnið verið viðurkennt í upphafi.
Þegar við athugum lengra tímabil en 6 mánuði frá bólusetningu, verður ástæða til að verða enn niðurdregnari. Við 9 mánaða markið veitir Pfizer-bóluefnið ekki lengur nokkra vörn við einkennum covid-19. Því miður voru ekki til haldbær gögn um Moderna-bóluefnið eftir 9 mánuði vegna aðeins fárra, sem hlutu bólusetningu með því fyrir 9 mánuðum, en að 6 mánuðum liðnum hafði eiginleiki Moderna til að hindra smit C-19 með einkennum fallið niður í aðeins 59 %. Þannig virðist vera samfellt fall í skilvirkni Moderna-bóluefnisins við sérhverja áfangaathugun, og ekkert bendir til stöðvunar fallsins.
Hvað kemur í ljós, ef við lítum á lýðfræðilega undirhópa, t.d. eldri borgara, sem eru í langmestri áhættu vegna covid-19, og eiga þess vegna mest undir gagnsemi bólusetninganna ?
Fólk yfir 80 sýndi í upphafi sterk viðbrögð við bóluefninu, þ.e. 73 % lækkun hlutfallslegrar áhættu einkennasmits eftir 1-2 mánuði frá bólusetningu. Hins vegar lækkar þetta niður í aðeins 50 % eftir 2-4 mánuði og eftir 6 mánuði er gagnsemin alls engin. Jafnvel fyrir miðaldra (50-64 ára), sem hafa virkara ónæmiskerfi og ættu þess vegna að bregðast öflugar við bóluefnunum, eru þau gjörsamlega gagnslaus við að hindra sýkingu með einkennum eftir 4-6 mánuði. Eini hópurinn, þar sem skilvirkni bóluefnanna er meiri en 50 % eftir 4 mánuði, er undir 50 ára aldri (skilvirkni 51 % eftir 4-6 mánuði).
Hversu góð bóluefnin eru við að koma í veg fyrir smit með einkennum, er auðvitað ekki aðalatriðið, ef við venjulega eigum við með einkennasmiti eitthvað í líkingu við algengt kvef fremur en Spænsku flensuna. Það, sem höfuðmáli skiptir, er, hversu vel bóluefnunum tekst að koma í veg fyrir alvarleg veikindi. Nú skulum við skoða það.
Á tímabilinu 1-2 mánuðum frá bólusetningu leiddu bóluefnin til 91 % áhættulækkunar að lenda á spítala eða deyja. Á tímabilinu 4-6 mánuðum féll þetta í 74 %, og frá 6 mánuðum lækkaði áhættuminnkunin í 42 %, þótt mismunur á áhættu bólusettra og óbólusettra að þessu leyti væri ekki lengur tölfræðilega marktækur. M.ö.o. var ekki lengur tölfræðilega marktækur munur á áhættu bólusettra og óbólusettra sjúklinga að lenda í alvarlegum veikindum með spítalavist eða að deyja.
[Undirstrikun skrifara.]
Ég tel 2 mögulegar skýringar á hröðu falli á virkni bóluefnanna. Sú fyrri er, að það sé vegna takmarkaðs ónæmis af völdum bóluefnanna, og hin seinni er stöðug þróun veirunnar og einkum ris Delta-afbrigðisins. Ef seinni skýringin er rétt, er alls engin ástæða til að gefa fólki viðbótar sprautur (örvunar), því að þær mundu ekki gera nokkurn skapaðan hlut til að bæta ónæmið.
Ef fyrri skýringin er rétt, er viss ástæða til viðbótar sprautu, þótt það virðist fráleitt að sprauta alla með viðbót á 4 mánaða fresti gegn veiru, sem fyrir flesta hefur ekki meiri áhrif en kvef, og 99,8 % af smituðum lifa C-19 af, og þótt verulegt náttúrulegt ónæmi sé nú þegar fyrir hendi í öllum samfélögum vegna allra þeirra, sem nú þegar hafa smitazt af covid. Ólíkt skammtíma vörn bóluefnanna, hefur vörnin, sem verður til við smit, reynzt vera bæði endingargóð og breiðvirkandi, þrátt fyrir ruslvísindi, sem halda fram hinu gagnstæða og CDC [Centers for Disease Control and Prevention í BNA] stendur að. Hins vegar er rík ástæða til reglulegra bólusetninga fjölveikra eldri borgara á 4 mánaða fresti, helzt með Moderna-bóluefninu.
Jæja, hvaða ályktanir getum við núna dregið ?
Bóluefnin eru miklu óskilvirkari en búizt var við upphaflega, og skilvirknin fellur hratt. Með þessa vitneskju í farteskinu er hugmyndin um, að hægt sé að bólusetja þjóðir til að losna við faraldurinn, hrein vitleysa. [Sóttvarnarlæknir og heilbrigðisráðherra Íslands (Svandís S.) halda þessari bölvaðri vitleysu (bolaskít) enn að þjóðinni.] Eina leiðin til að losna við faraldurinn er, að nægilega margir smitist og þrói með sér náttúrulegt ónæmi, en þannig hafa allir undangengnir veirufaraldrar í öndunarfærum horfið.
10.11.2021 | 11:15
"Græn" vetnisvinnsla verður hluti af lausninni
Með "grænni" vetnisvinnslu er átt við rafgreiningu vatns, H2O, með raforku frá orkuverum án koltvíildislosunar. Einnig er talað um "blátt" vetni, sem unnið er úr jarðgasi með föngun og förgun kolefnis, og "grátt" vetni úr kolum með föngun og förgun kolefnis.
Notkun vetnis hefur verið umdeild frá Hindenburg-slysinu 1937, þegar loftfar fyllt vetni varð eldi að bráð með hrapallegum afleiðingum. Síðan hefur vinnslu-, geymslu og nýtingartæknin þróazt, s.s. í Heimsstyrjöldinni síðari, í olíukreppum 1970-1979, og nú á 21. öldinni vegna hugmyndarinnar um nauðsyn þess að leysa jarðefnaeldsneyti sem fyrst af hólmi. Um 2050 er búizt við, að vetnisnotkun muni hafa dregið úr losun CO2 sem nemur 10 % af núverandi losun af mannavöldum eða um 4 mrdt CO2/ár eða 1/3 af núverandi losun Kínverja.
Notkunargildi vetnis verður mest, þar sem bein notkun rafmagns er ekki tæknilega fýsileg. Það er í ýmsum framleiðsluferlum, þar sem nú eru notuð kol, kox eða jarðgas, t.d. við stálframleiðslu (8 % núverandi losunar), sementsframleiðslu og glergerð. Þá mun "grænt" vetni koma í stað vetnis úr jarðgasi við áburðarframleiðslu. Þar sem tiltölulega lítill orkuþéttleiki rafgeyma í kWh/kg gerir þá ófýsilega, t.d. í stórum flutningafarartækjum, geta vetnisrafalar komið til greina, en hængurinn þar er lág nýtni. Rúmlega 80 % raforku til hleðslutækis bílrafgeyma nýtist sem hreyfiorka fyrir bílinn, en aðeins um helmingur þeirrar nýtni næst með vetni, þegar reiknað er frá spennainntökum afriðlastöðva rafgreiningarinnar á vatni.
Þá er unnt að geyma vetni og grípa þar til orkuforða, þegar framboð raforku annar ekki eftirspurn. Ástralía, Síle og Marokkó áforma að flytja vetni út með skipum. Vetnisklasar eru í myndun á Humberside á Bretlandi og Rotterdam í Hollandi.
Meira en 350 stórverkefni á vetnissviði eru nú í gangi í heiminum og gæti uppsöfnuð fjárfesting 2021-2030 numið mrdUSD 500. Morgan Stanley-bankinn áætlar, að árið 2050 muni sala vetnis nema 600 mrdUSD/ár. Það er 4 földun núverandi söluveltu, 150 mrdUSD/ár á 90 Mt af vetni, sem jafngildir núverandi einingarverði 1,7 USD/kg. Skammt er í, að Íslendingar gætu framleitt vetni á þessu verði, en þá er flutningurinn eftir. Grænt vetni verður verðlagt hærra en vetni úr jarðgasi án föngunar og förgunar CO2.
Yfir tylft landa hafa gert landsáætlun um öflun og nýtingu vetnis, þ.á.m. Bretland, Frakkland, Þýzkaland, Japan og Suður-Kórea, en Ísland er ekki þar á meðal, sem skýtur skökku við gríðarlegar áhyggjur ráðamanna hérlendis af koltvíildi í andrúmsloftinu og örvæntingarfullan áróður Landverndar fyrir yfirlýsingu stjórnvalda um neyðarástand í loftslagsmálum, sem væri algerlega út í hött hérlendis með einna stærstan hluta (85 %) orkunotkunar landsmanna úr sjálfbærum orkulindum af öllum löndum heims. Neyðarástand mundi einungis hvetja til ofstækisfullra og vanhugsaðra aðgerða stjórnvalda á kostnað almennings.
Talsvert hefur verið skrafað og skrifað um mögulega framleiðslu rafeldsneytis á Íslandi. Sameiginlegt öllu rafeldsneyti er "grænt" vetni, sem bindst ýmsum öðrum efnum. Rafeldsneyti verður í samkeppni við lífeldsneyti á borð við repju- og nepjuolíu. Repju og nepju er hægt að rækta á Íslandi með góðum árangri og gjörnýta fyrir dísilvélar og sem fiskafóður.
Þann 26. október 2021 birtist í Morgunblaðinu greinin:
"Rafeldsneyti - orkuskipti í samgöngum",
eftir Guðmund Pétursson, rafmagnsverkfræðing. Þar stóð m.a. þetta:
"Sumir telja einnig, að orkuskipti í samgöngum muni krefjast svo mikillar raforku og svo stórtækra virkjanaframkvæmda með neikvæðum umhverfisáhrifum, að það sé ekki verjandi. Nefnd hefur verið talan 18 TWh/ár af raforku, sem svarar til um 2000 MW í vatsafli [eða jafnvel 2500 MW, hvort sem um vatnsafl eða jarðgufuafl er að ræða - innsk. BJo] eða jafnvel 5000 MW í vindafli [vegna lægri nýtingartíma uppsetts afls - innsk. BJo]. Það slagar hátt í allt, sem virkjað hefur verið á Íslandi hingað til [21 TWh/ár - innsk. BJo].
Ekki er ljóst, hvaða forsendur er hér verið að miða við. Er átt við allar vegasamgöngur, skipin og flugvélarnar ? Hvaða ártal ? Svo stórar tölur hrella og geta valdið andófi gegn virkjanaframkvæmdum, einkum vegna sjónarmiða náttúruverndar. Einnig er nefnt, að það muni sáralítið um slíkt framlag okkar á heimsvísu; hlutur Íslands sé svo örsmár. Mikilvægt er þó, að við verðum hrein og sýnum heiminum gott fordæmi."
Hverjir eru þessir "sumir", sem kastað hafa fram virkjanaþörfinni 18 TWh/ár til orkuskiptanna án útskýringa ? Höfundur þessa vefpistils hefur ekki hugmynd um það, en finnst líklegt, að þeir miði við 2050, árið, sem ætlunin er, að til Íslands þurfi ekki lengur að berast jarðefnaeldsneyti, og að "sumir" áætli talsvert mikla orkuþörf til vetnisframleiðslu til útflutnings á einu eða öðru formi.
Sé hins vegar öll olíunotkun landsmanna (að millilandaskipum og millilandaflugvélum meðtöldum) og kolanotkun 2019 umreiknuð til raforkuþarfar, lætur nærri, að virkjanaþörfin nemi 9 TWh/ár og að 20 árum liðnum (2040 - ár kolefnisjafnaðar) er óvarlegt að gera ráð fyrir minna en 3 TWh/ár til viðbótar fyrir fólksfjölgun og framleiðsluaukningu, þ.e. alls 12 TWh/ár árið 2040. Sú orka fæst auðveldlega úr núverandi nýtingarflokki og hluta biðflokks Rammaáætlunar (óafgreidds 3. áfanga). Á hitt ber að líta, að lífeldsneyti mun draga úr þörf á rafeldsneyti og þar með raforkuþörf, þótt raforku þurfi til framleiðslu lífeldsneytis einnig.
"Vafalaust þarf að virkja talsvert meira [en hvað ?] hér til að gera heildarorkuskipti möguleg - og jafnvel útflutning rafeldsneytis - a.m.k. ef stóriðjan heldur velli hér áfram. Við eigum enn góða möguleika á því og ráðum vel við að virkja á viðunandi hátt af fulltri tillitssemi við náttúruna og framtíðina. Land undir virkjanir og orkumannvirki er og verður aldrei nema örsmátt brot af landflæmi Íslands og hinum ósnortnu víðernum. Engum dettur lengur í hug að virkja náttúruperlur !"
Það er einkennilega til orða tekið að skrifa "ef stóriðjan heldur velli áfram", þegar ljóst er, að hún er hluti af lausninni og starfsemi hennar á Íslandi er raunverulega stærsta framlag Íslendinga til þess, að koltvíildisstyrkur andrúmslofts skuli ekki vera enn hærri en ella. Breytingaskeiðið úr jarðefnaeldsneyti yfir í sjálfbærar orkulindir mun einkennast af fremur háu orkuverði, og á meðan svo er, er það gagnkvæmur hagur Íslendinga og eigenda orkukræfra iðjuvera að treysta og efla starfsemi þeirra hérlendis.
Eitt af því, sem mælir gegn vindorkuverum hvarvetna, er mikil landrýmisþörf fyrir raforkuvinnslu í ha á MWh/ár. Hún er miklu meiri en fyrir hinar hefðbundnu íslenzku vatnsafls- og jarðgufuvirkjanir. Þegar Skipulagsstofnun, Náttúrufræðistofnun eða Umhverfisstofnun mæla gegn hefðbundnum íslenzkum virkjunum vegna hagsmunaárekstra við ferðamennsku, þá stangast slíkt á við reynsluna, því að þessar virkjanir eru vinsælir áfangastaðir ferðamanna. Á stofnununum liggur á fleti fyrir fólk gildishlaðins (óhlutlægs) mats, sem beitir fyrirslætti án þess að virða fyrir sér heildarmyndina. Flestir ferðamenn forðast hins vegar vindorkuver vegna lýta og óþægilegrar hávaðamengunar.
Þá víkur Guðmundur Pétursson að metani, sem er vannýtt hérlendis, en gæti átt sér talsverðan markað hér í vinnuvélum og stórum farartækjum, þar sem það hefur háan orkuþéttleika, 13,9 kWh/kg (benzín 11,3 kWh/kg) og hægt að vinna úr ruslahaugum og í jarðgerðarstöðvum og nýta sem eldsneyti eða í rafeldsneyti:
"Þetta vandamál [viðbótar orkuþörf til hitunar í rafmagnsfartækjum knúnum frá rafgeymum - innsk. BJo] er hins vegar ekki fyrir hendi í metanfarartækjum. Þar verður til nægur varmi til hitunar, eins og í venjulegum bensín- eða díselbíl. Vandséð er líka, hvers vegna Strætó ætti ekki að nýta metan frá eigin framleiðslu sveitarfélaganna í Sorpu/GAJA til að knýja vagna sína og fleiri farartæki. Það gera þeir hjá SVA á Akureyri frá sinni litlu "sorpu" þar. Norðurorka knýr einnig alla sína bíla með metani.
Notkun fljótandi metans á þungaflutningabíla fer nú vaxandi víða í Evrópu, þar sem þeir komast mjög langt (1500 km) á einni fyllingu. Á því sviði þurfum við að taka okkur á og gera það einnig mögulegt hér. Byggja þarf upp viðeigandi dreifikerfi.
Íslenzk skip má einnig hæglega knýja með innlendu rafeldsneyti í framtíðinni, og er nú þegar byrjað á því annars staðar (Stena Line t.d.). Ísland gæti orðið fyrirmynd annarra á þessum vettvangi. Fullþróuð tækni til notkunar á metani í bílum og skipum er nú þegar fyrir hendi, bæði fyrir fljótandi metan og gas."
Það er hægt að taka undir það, að metan ætti að nýta nú þegar á sviðum, þar sem það er samkeppnishæft, og með núverandi verði á dísilolíu er það sennilega samkeppnishæft, t.d. á vinnuvélum og vörubílum, en fyrst þarf að tryggja nægt framboð og verðstöðugleika.
Aftur að vetninu, framleiðslu og nýtingu þess. Megnið af núverandi 90 t/ár er framleitt við bruna jarðefnaeldsneytis, lofts og gufu saman, ferli, sem nú notar 6 % af árlegri jarðgasþörf og 2 % af kolaþörfinni. Við vinnsluna verða til meira en 800 Mt/ár af CO2, sem er svipað og losun Þýzkalands núna. Þetta vetni er notað í olíuhreinsistöðvum, til framleiðslu metanóls fyrir plastframleiðslu og til ammóníakframleiðslu. Iðnaðarammóníakið er notað í framleiðslu á tilbúnum áburði o.fl.
Til að leysa þessa framleiðsluaðferð af hólmi og þróa nýja notkun á vetni eru um 350 verkefni í gangi um þessar mundir, sem útheimta munu fjárfestingar frá hinu opinbera og einkageiranum að upphæð um mrdUSD 500 tímabilið 2021-2030, eins og áður er getið. Mikil þróun og veltuaukning á sér nú stað á framleiðslubúnaði græns vetnis, svo að BloombergNEF áætlar, að framleiðslukostnaður árið 2030 verði um 2 USD/kg (um 1/5 af núverandi kostnaði víða með rafgreiningu). Morgan Stanley er bjartsýnni og telur, að á stöðum með hagkvæmar endurnýjanlegar orkulindir, t.d. í Norður- og Suður-Ameríku (og á Íslandi), verði kostnaðurinn kominn niður í 1 USD/kg 2023-2024.
Hlutverk vetnis í flugi og siglingum er í deiglunni. Fyrir stuttar ferðir gætu rafgeymar verið brúklegir, en vetnisrafalar geta veitt rafgeymunum samkeppni. ZeroAvia, sprotafyrirtæki á vegum British Airways og Jeff Bezos, stofnanda Amazon, útfærði fyrsta vetnisrafalaknúna flugið með farþegaflugvél haustið 2020 á Bretlandi. Ferjufyrirtæki í Noregi og á vesturströnd Bandaríkjanna gera nú tilraunir með vetnisrafala í ferjum á stuttum leiðum.
Airbus leitar nú lausna til að knýja flugvélar sínar með vetni. Boeing lítur meir til ammóníaks úr "grænu" vetni (orkuþéttleiki 5,2 kWh/kg), sem gæti líka hentað stórum skipum, þótt rafeldsneyti með kolefnisinnihaldi þyki nú líklegra.
Bretar ætla að breyta kötlum í húsum sínum, sem nú brenna jarðgasi, í vetniskatla. Þar og víðar gæti orðið markaður fyrir grænt vetni frá Íslandi.
22.10.2021 | 10:47
Óttastjórnun í heimi fáránleikans
Falsspámenn hafa uppi verið á öllum öldum. Vinsælt hefur verið að dunda sér við hættuna á tortímingu mannkyns, og margir kryddað spána með því, að "skaparinn" væri reiður vegna syndsamlegs lífernis hrjáðra afkomenda Evu og Adams úr aldingarðinum Eden forðum.
Nú á dögum tíðkast að klæða loddaraskapinn í búning raunvísinda, sem er lúalegt og lymskulegt bragð. Viðbrögð ýmissa vísindamanna og sérfræðinga á sviði læknisfræði við heimsfaraldrinum COVID-19 (C-19), sem stafar af kórónuveirunni SARS-CoV-2 í ýmsum afbrigðum (kórónuveirur valda t.d. inflúensu), hefur sýnt almenningi, hversu meingölluð ráðgjöf vísindamanna, til stjórnmálamanna, á sviði lýðheilsu og faraldursfræði getur verið. Sænski læknirinn Sebastian Rushworth heldur því blákalt fram, að samanburðarrannsóknir á milli margra landa með mismunandi opinberar sóttvarnarráðstafanir sýni algert haldleysi lokana og hafta til að draga úr útbreiðslu C-19, því að sízt hafi þeim farnazt betur í baráttunni við þessa veirupest, sem beittu ströngum hömlum á athafnir almennings en hinum, sem héldu frelsisskerðingum í lágmarki.
Loftslagsmál eru mjög fyrirferðarmikil í stjórnmálum á Vesturlöndum um þessar mundir. Röng stefnumörkun í orkumálum og röng viðbrögð við C-19 eiga sök á þeirri orkukreppu, sem nú hefur riðið yfir Evrópu (vestan Rússlands) og Asíu. Hið alvarlega er, að stjórnmálamenn Vesturlanda hafa látið ginnast af falsspámönnum, sem starfa undir yfirskini vísinda á vegum Sameinuðu þjóðanna, SÞ, í s.k. Intergovernmental Panel on Climate Change, IPCC, og gefa út viðamiklar skýrslur, þar sem gagnrýnendum á vinnubrögðin er ekki hleypt að. Múgsefjun hefur náð yfirhöndinni í sóttvarnarmálum og í loftslagsmálum, og ekki vantar "manipúlatorana", strengjastjórnendur í brúðuleikhúsið.
Heiðarlegir raunvísindamenn hafa þó fundið sér annan farveg til að koma vísindalegum niðurstöðum á framfæri. Á meðal þessara alvöru vísindamanna er John Christy, loftslagsfræðingur og prófessor við Alabamaháskóla (UAH) https://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2268208 . Úrvinnsla hans á gervihnattamælingum hitastigs um mestalla jörð og í mismunandi hæðum sýna allt annan og miklu lægri hitastigul í gufuhvolfinu s.l. 40 ár en IPCC heldur fram í sínum skýrslum eða um 0,1°C/10 ár, sem við núverandi skilyrði í andrúmsloftinu mundi gefa 1°C hærra hitastig að meðaltali eftir eina öld. Er það nokkuð annað en fárið, sem nú er búið að skapa um óafturkræfa og reyndar sívaxandi hækkun yfir 3,0°C frá upphafi iðnbyltingar, eftir 70 ár. Virtir tölfræðingar hafa birt niðurstöður sínar yfir miklu lengra tímabil, 2000 ár, og niðurstaðan var hitastigull=0, þ.e. tregar sveiflur um fast meðaltal. Í hverju máli ber að hafa það, er sannara reynist, og ekki að hleypa þeim til áhrifa, sem hæst láta, en beita ámælisverðum vinnubrögðum.
Reiknilíkön IPCC eru einfaldlega röng. Meginskyssan er sú að vanmeta stórlega sjálfreglandi (leiðréttandi) eiginleika gufuhvolfsins. Þegar hitastig þess hækkar, eykst um leið útgeislunin frá jörðu og út í geiminn, og þegar það lækkar, t.d. vegna eldgosa, minnkar þessi innrauða geislun út í geim. Enginn afneitar fræðum 19. aldar (Fourier, Arrhenius) um gróðurhúsaáhrif koltvíildis og fleiri gasa, en þessum fræðum verður að beita varlega á stórt og flókið kerfi, og gróðurhúsaáhrifin eru stórlega ofmetin í andrúmslofti jarðar.
Nú hefur Helgi Tómasson, prófessor í hagrannsóknum og tölfræði við H.Í., leitt athygli lesenda Morgunblaðsins að hinni tölfræðilegu hlið óvandaðra (óvísindalegra) vinnubragða IPCC við meðhöndlun mæligagna, og má þá segja, að ekki standi þar steinn yfir steini lengur, heldur sé málflutningurinn hreinn skáldskapur, eins og bókin "Endimörk vaxtar" var á sínum tíma. Þann 14. október 2021 birtist eftir hann í Mbl. greinin:
"Tölfræðilegt sjónarhorn á skýrslur IPCC"
"Vísindamenn eiga það til að freistast til að vera með glannalegar ályktanir út frá mælingum. Þetta hefur t.d. þekkzt í læknavísindum, en aukin meðvitund og útbreiddari tölfræðiþekking hefur hægt á flæði falsályktana. Það má meðal annarra þakka mönnum eins og John P.A. Ioannidis, sem birti grein 2005 um, hvers vegna flestar birtar niðurstöður í læknisfræði eru rangar."
Prófunarniðurstöður lyfjafyrirtækjanna eru óáreiðanlegar. Það átti í sérstaklega miklu mæli við um prófunarniðurstöður bóluefna við C-19 vegna þess skamma tíma, sem var til stefnu á þróunarskeiðinu. Lyfjafyrirtækin hillast til að fegra niðurstöður prófana sinna með því að draga úr neikvæðum áhrifum og ýkja jákvæðu áhrifin. Þetta hefur sænski læknirinn Sebastian Rushworth sýnt fram á ásamt fleirum.
Loftslagsvísindin eru flókin, og ef kuklarar fara höndum um þau, er voðinn vís. Það hefur einmitt gerzt með þeim afleiðingum, að heimurinn stendur á öndinni, svo að minnir á stemninguna eftir útgáfu bókarinnar "Limits to Growth" - Endimörk vaxtar - með spádómum, sem ekki stóðust, heldur reyndust þvættingur, settur fram til að hræða fólk upp úr skónum, svo að það breytti neyzlumynztri sínu og hagkerfin stöðnuðu - það yrði núll vöxtur. Sama vakir fyrir kuklurum IPCC, sem nú starfa undir fölsku flaggi og bregða yfir sig vísindaskykkjunni.
"IPCC er skammstöfun á skýrslum Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál, og nýlega er komin skýrsla, sem kölluð er númer 6. Um eldri skýrslu segir tölfræðidoktorinn og fyrrverandi hagstofustjóri Ástralíu, Dennis Trewin, árið 2008 í OECD-skýrslu í kafla 32: Því miður vantar tölfræðinga í sérfræðingateymi IPCC. Útkoman inniheldur því alvarlega galla. Þessir gallar eru til þess fallnir að ýkja loftslagsbreytingar framtíðarinnar."
Hvernig stendur á því, að þessi alvarlega gagnrýni frá tölfræðidoktor, sem notið hefur trúnaðar yfirvalda í Ástralíu og hjá OECD, hefur ekki enn slegið mikið á áróður IPCC ? IPCC reynir þöggun og í stað málefnalegrar varnar eru hrópin hækkuð og spáin gerð enn skelfilegri með lýsandi nafnorðum á borð við "hamfarahlýnun" og "loftslagsvá". Þessi hegðun er mikill ljóður á ráði þeirra, sem framsetningunni ráða hjá IPCC og þeirra, sem ekki mega heyra orði hallað í garð IPCC.
Fólk, sem ekki hefur ráðrúm til að kynna sér fleiri hliðar viðfangsefnisins en þá, sem IPCC birtir með boðaföllum, fyllist sumt angist. Þ.á.m. er ungt fólk, sem hefur í mörgu að snúast, og ber orðið svo mikinn kvíðboga fyrir framtíðinni, að það ákveður að fjölga sér ekki. Þetta er ein af ástæðum þess, að fjöldi barna á hverja konu er kominn niður í 1,7, sem þýðir fækkun í stofninum, hinum ágæta germansk-keltneska stofni, sem hér varð til fyrir um 1100 árum, og sums staðar er þessi tala orðin enn lægri. (2,1 þarf til viðhalds.)
Hér er um mikinn ábyrgðarhluta að ræða og verðugt íhugunarefni, hvers vegna málefnaleg gagnrýni á líkön IPCC, birt mæligögn, úrvinnslu þeirra og framsetningu alla, hefur ekki náð meiri hljómgrunni en reyndin er. Sé tekið mark á gagnrýninni, sem full ástæða er til, virðast skýrslur IPCC þjóna annarlegum tilgangi, s.s. að hægja á hagvexti hagkerfa heimsins, sem áhangendur "Endimarka vaxtar" telja ósjálfbæran, og þannig draga úr allri neyzlu. Hér skal ekki amazt við því sjónarmiði, að neyzlumynztur, mikið kjötát o.fl., sé á röngu róli út frá lýðheilsuviðmiðum og sjálfbærni landbúnaðar, en gallinn er sá, að hjá IPCC helgar tilgangurinn meðalið. Afleiðingin er sú, að barninu er kastað út með baðvatninu.
"Greinin [norsks vísindamanns, Jons Dagsvik í Journal of Royal Statistical Society, 2020] sýnir stærðfræðilegar útfærslur og síðan dæmi um notkun á gögnum, hitamælingum 96 veðurstöðva í u.þ.b. 200 ár ásamt áætluðum hitatölum, byggðum á árhringjum úr trjám í u.þ.b. 2000 ár. Niðurstaðan er, að þróun hitastigs er vel lýst sem tregbreytanlegu (long-memory) ferli með fast meðaltal, þ.e. engin þróun í tíma. Sér í lagi engin þróun á seinni hluta 20. aldar. Gögnum og forritum, sem tengjast greininni, mátti hlaða niður af heimasíðu tímaritsins (greinarhöfundur er með þessi gögn)."
Hér eru mikil tíðindi á ferð. Undanfarin 2 árþúsund er hvorki um að ræða marktæka kólnun né hlýnun, heldur bara eðlilegar sveiflur í kringum fast meðaltal. Að engin hlýnun skuli vera merkjanleg af þessum gögnum á 20. öldinni, stingur algerlega í stúf við málflutning IPCC um hlýnun með ört hækkandi styrk koltvíildis í andrúmsloftinu. Hér eru mikil firn á ferð. Allur hræðsluáróðurinn um hlýnun jarðar stendur á brauðfótum, þegar undirstaða hans er skoðuð ofan í kjölinn. Er ekki ástæða til fyrir upplýst fólk, sem hefur hingað til viljað láta IPCC njóta vafans, að staldra við ? Renna ekki á menn 2 grímur ?
Og áfram með smjörið:
"J. Scott Armstrong er stofnandi tveggja fræðirita um spálíkanagerð, Journal of Forecasting og International Journal of Forecasting. Hann hefur tekið saman vinnureglur um, hvernig skuli vinna með spár og telur, að IPCC brjóti margar."
Kjarninn í boðskap IPCC eru einmitt spár, og þar er ekki skafið utan af því, því að þetta eru heimsendaspár. Það þarf ekki að orðlengja það, hversu vandmeðfarnar spár eru, og mikil fræði hafa verið þróuð til að forða mönnum frá að falla í vilpur á þeirri vegferð. Það er þess vegna ekki bara rassskelling fyrir IPCC, heldur falleinkunn, þegar slíkur fræðimaður, sem hér er tilgreindur, fullyrðir, að IPCC brjóti margar reglur, sem hafa verði í heiðri við spár og gerð spálíkana.
"Danski jarðfræðingurinn Jens Morten Hansen, sem m.a. hefur rannsakað Grænlandsjökul og gegnt mikilvægum embættum í dönsku rannsóknarumhverfi, varar við oftúlkunum á skýrslum IPCC. Hansen hefur efasemdir um aðferðafræði IPCC, og reynsla hans af rannsóknum á Grænlandsjökli ásamt tilfinningu fyrir stærðargráðum segir, að jafnvel bókstafleg túlkun á sviðsmyndum IPCC sýni, að hvorki muni Grænlandsjökull hverfa né muni Danmörk sökkva. Hann vitnar þar til síðustu ísalda og hlýindaskeiða milli þeirra. Hansen gagnrýnir einnig danska ríkisútvarpið, DR (Danmarks Radio), fyrir einhliða málflutning og ýkjur um það, hversu sammála vísindamenn séu."
Alvöru vísindamenn, sem fara ofan í saumana á IPCC, fella sig ekki við vinnubrögðin þar á bæ, svo að fullyrða má, að alvarlegur ágreiningur ríki í vísindaheiminum um ályktanir og spádóma IPCC. RÚV á Íslandi hefur að sjálfsögðu ósjálfrátt skellt sér á hestvagninn, þar sem látið er í veðri vaka, að niðurstöður IPCC séu vísindalegur sannleikur, sem ekki sé unnt að draga í efa. "Oh, sancta Simplicitas."
Síðan kemur hnífskörp ályktun Helga Tómassonar:
"Tónn sumra boðbera loftslagsvár minnir á rétttrúnaðarklerka, sem telja sig umboðsmenn guðs og messa í reiðitóni yfir söfnuðum sínum. Boðskapurinn er: Nú hafið þið syndgað, guð er reiður, og því miður er nauðsynlegt að sveifla refsivendinum, úthluta sektum og kvöðum, til að söfnuðurinn öðlist möguleika á inngöngu í himnaríki."
Þetta er hárrétt athugað hjá Helga Tómassyni. Ekki er nú orðinn mikill vísindasnykur á IPCC, þegar virtur fræðimæður líkir þeim við rétttrúnaðarklerka. Þannig láta einmitt núllvaxtarsinnar, hverra biblía er enn hin löngu úrelta bók "Endimörk vaxtar". Lýðurinn skal fá að gjalda fyrir líferni sitt og verður þröngvað með óttastjórnun til að laga neyzlu sína að vilja þessara núllvaxtarklerka, og skatta skal leggja á óæskilegan varning eins og jarðefnaeldsneyti. Það er varla heimska og vankunnátta, sem alfarið ræður ríkjum hjá IPCC, heldur ormar í möðkuðu mjöli SÞ, sem svífast einskis til að troða núllvaxtarhugmyndafræði sinni bakdyramegin inn á heimilin.
Síðan kemur ráðlegging til Íslendinga í þessari vandræðalegu stöðu:
"Tilgangurinn má ekki helga meðalið. Þótt mengunin sé slæm, má ekki nota hvaða aðferðir sem er til að draga úr henni. Það getur verið skynsamlegt fyrir Íslendinga að draga úr losun koltvísýrings, því [að] losunin er afleiðing af brennslu olíu. Olían er dýr (og í heiminum endanleg auðlind) og því mikilvægt að fara sparlega með hana. Olíusparnaðurinn má hins vegar ekki kosta hvað sem er. Hvaða málstaður er það, sem kallar á það að fara með ungling á seglskipi yfir Atlantshafið til að láta hann ávarpa þing Sameinuðu þjóðanna ?"
Það er hægt að taka undir þessi viðhorf. Þó hafa ýmsir bent á, að CO2 sé varla mengun, heldur lífsandinn sjálfur fyrir allt plöntulíf á jörðunni. Hins vegar er þessi lífsandi sjaldnast einn á ferð, þegar tæknivædd losun manna er annars vegar, heldur fylgja með skaðleg efni á borð við sót, brennisteinssambönd o.fl. Það má líka spyrja, hvaða málstaður það sé, sem kalli á sérskattlagningu jarðefnaeldsneytis ofan á heimsmarkaðsverð í hæstu hæðum, sem nú tekur verulega í buddu þeirra, sem ekki eru á "nýorkufarartækjum". Stóra spurningin er sú, hvort málstaður, sem sannanlega stendur á brauðfótum, geti réttlætt byltingu á lífsháttum og hagstjórn í átt að "núllvaxtarhagkerfi" með þeirri ömurlegu afturför, sem slíkt feigðarflan hefur á lífsafkomu almennings og velferðarkerfi ríkis og sveitarfélaga ?
"IPCC-skýrsla AR6, sem liggur fyrir, er um 4000 bls. Leit að tímaraðahugtökum, eins og sjálffylgni (autocorrelation) gefur ekki vísbendingar um þróaða tímaraðalíkanagerð hjá IPCC. Hugsanlega finnst ritstjórum IPCC niðurstaða tímaraðalíkana ekki nógu krassandi.
Fyrir umhverfisvandamál Íslands eru enn í gildi gömlu leiðinlegu vandamálin, uppblástur, ofbeit, lausaganga búfjár og frágangur á skolpi auk útblásturs á brennisteinsgufum og hliðstæðum eiturgösum. Ef hlýnun er raunveruleg, ættu Íslendingar að taka því fagnandi, auka uppgræðslu og skapa ný tækifæri í landbúnaði.
Ályktanir tímaraðamanna, eins og Dagsvik og Mills, um, að þróun yfirborðshita jarðar sé tregbreytileg með fast meðaltal, eru afgerandi. A.m.k. eru breytingar mjög hægar (m.v. okkar líftíma) og verðskulda alls ekki gildishlaðnar upphrópanir eins og hamfarahlýnun eða loftslagsvá."
Ef að líkum lætur verða engar varnir hafðar uppi af hálfu loftslagshræsnara eða upphrópanalýðs, sem halda, að þeir geti vaðið um á skítugum skónum með fúsk og ályktanir út í loftið. Loftslagsfræði eru flókin, og það er ekki hægt að draga neinar vitrænar ályktanir um það, sem í vændum er, án þess að beita heiðarlegum, vísindalegum aðferðum. Að hundsa fræði tímaraða við meðferð á mæligögnum fortíðar til að draga ályktanir um framtíðina er dauðadómur yfir öllum boðskap, sem frá slíku liði kemur.
Uppblástur og ófullburða meðferð skolps eru 2 mikilvæg viðfangsefni umhverfisverndar, sem skynsamlegra væri fyrir Íslendinga að fást við af meiri eindrægni en margt annað á umhverfissviði, og mundu umbætur á báðum sviðum einnig draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Þessari hörðu ádrepu prófessors Helga Tómassonar á IPCC og hræðsluáróðurinn, sem frá þeim stafar, lauk þannig:
"Vissulega er mengun vandamál. Hættulegum efnum er sleppt út í umhverfið. Koltvísýringur er náttúrulegt efni og lífsnauðsynleg næring fyrir plöntur. Fyrir liggur, að eðlisfræði frá t.d. Joseph Fourier á fyrri hluta 19. aldar og Svante Arrhenius í lok 19. aldar segir, að gös í lofti (andrúmslofti) geti haft áhrif á yfirborðshita. Gróf skoðun gagna sýnir, að þetta yfirfærist ekki auðveldlega á þróun hita á yfirborði jarðar síðustu 100-200 ár. Þetta er miklu flóknari kapall. Augljóst er, að 15-20 ára ályktun Trewin um, að skýrslur IPCC séu tölfræðilega vanþróaðar, stendur enn.
Nóbelsverðlaunahafinn Richard Feynman sagði, að það væri mikilvægara að viðurkenna, að við hefðum ekki svör við ákveðnum spurningum heldur en að fá skammtað svar, sem ekki má efast um (þýðing greinarhöfundar, kannski ekki hárnákvæm)."
Nú eru haldnar ráðstefnur á ráðsnefnur ofan, þaðan sem einvörðungu endurómur berst frá haldlausum skýrslum IPCC. Væri nú ekki einnar messu virði að hóa saman ábyrgðarmönnum AR6 hjá IPCC og þeim, sem metið hafa hitastigul andrúmslofts út frá gervihnattamælingum (John Christy), Dennis Trewin og tímaraðamönnunum (hæfum tölfræðingum) til að leiða saman hesta sína fyrir opnum tjöldum undir góðri fundarstjórn til að kryfja þessi mál til lykta í stað þess, að heimurinn gleypi við trúboði loftslagsklerkanna ? Viðbrögð IPCC við málefnalegri gagnrýni hafa hingað til ekki falið í sér málefnalegar varnir, heldur að herða enn á óttaáróðrinum.
Til eru þeir stjórnmálaflokkar, einnig á Íslandi, sem láta sína pólitík hverfast um slagorðin "loftslagsvá" og "hamfarahlýnun". Einn stjórnarflokkanna gengur þar sýnu lengst. Er nú ekki ráð að fara aðeins að slá af ofstækinu og hleypa beztu þekkingu og heilbrigðri skynsemi að borðinu ?
18.8.2021 | 18:43
Afleiðingar hækkandi koltvíildisstyrks í lofthjúpinum
Árið 1994 birtu samstarfsmennirnir dr John Christy (JC), loftslagsfræðingur og prófessor við UAH (University of Alabama-Huntsville), og Dick McNider (DMN) fræðigrein í Nature um hitastigsþróunina í lofthjúpi jarðarinnar á tímabilinu 1979-1993 (15 ár), en þeir höfðu þá nýlokið við að safna hitastigsmæligögnum frá gervitunglum á braut um jörðu. Sennilega var hér um brautryðjendaverkefni að ræða af þeirra hálfu, og enginn hefur véfengt há gæði þessara mæligagna til að leggja mat á varmaorku lofthjúpsins og breytingar á henni á þessu skeiði.
Að sjálfsögðu var IPCC (loftslagsvettvangur SÞ) í lófa lagið að nýta sér þessi verðmætu gögn til að sannreyna spálíkan sitt, sem reiknaði út hitastigshækkun lofthjúpsins sem fall af aukningu koltvíildisígilda í lofthjúpnum. Þróun hitastigsins helzt í hendur við aukinn koltvíildisstyrk andrúmsloftsins, en IPCC ýkir hins vegar áhrifin af CO2 á hitastigið stórlega.
Líkan James Hansens o.fl. gaf þá stigulinn 0,35°C/áratug, en mæligögn JC og DMN sýndu allt annan raunveruleika eða 0,09°C/áratug, sem var fjórðungur af hitastigsstigli IPCC í þá daga. Ef IPCC hefði haldið sígildum heiðarlegum vísindavenjum í heiðri, þá hefði þessu líkani verið kastað fyrir róða og ný spá verið birt síðar með endurbættu líkani, sem a.m.k. tækist að fylgja raunveruleikanum í fortíðinni. Það var ekki gert, heldur mæligögnum JC og DMN stungið undir stól og reynt að þegja niðurstöður þeirra í hel, en það er mjög ótraustvekjandi hegðun, sem bendir til, að fiskur liggi undir steini hjá þeim. Í raun glataði IPCC öllum vísindalegum trúverðugleika, svo að ekkert vit er í að reisa löggjöf og íþyngjandi regluverk á upphrópunum og allt of háum hitastigsspám þaðan.
Árið 2017 endurtóku félagarnir JC og DMN úrvinnslu sína á gríðarlegu gagnasafni hitastigsmælinga úr gervitunglum, sem nú náði yfir 37,5 ár, 1979-2017. Endurtekin athugun þeirra nú leiddi til nánast sömu niðurstöðu. Að vísu hafði stigullinn hækkað um tæplega 6 %, enda gríðarlegt magn gróðurhúsalofttegunda bætzt við í lofthjúpnum á síðari hluta tímabilsins, 1994-2017. Stigullinn fyrir allt tímabilið var nú orðinn 0,095°C/áratug, en var enn aðeins 27 % af viðteknum stigli IPCC.
Þessi mismunur á útreiknuðum (IPCC) og mældum (úr gervihnöttum) hitastigli hefur auðvitað gríðarlega þýðingu fyrir mat á þróun hitastigs á jörðunni. Ef losun koltvíildisígilda eykst um 1,0 % á ári, þá mun koltvíildisstyrkurinn hafa tvöfaldazt að 70 árum liðnum. CMIP 5 meðaltalslíkan IPCC reiknar út hækkun hitastigs á slíku 70 ára tímabili um 2,31°C +/- 0,20 °C, en Christy og Nider hins vegar 1,10°C +/- 0,26°C. Við þetta þarf að bæta núverandi hitastigi til að fá áætlað hitastig að 70 árum liðnum.
Á þessu tvennu er reginmunur, sem hefur þær afleiðingar, að stefnumörkun flestra eða allra ríkja, t.d. í orkumálum, væri að öllum líkindum með allt öðrum hætti en raunin er, ef ríkin hefðu réttar upplýsingar. Tækniþróuninni væri gefið meira ráðrúm til að leysa jarðefnaeldsneytið af hólmi með ódýrari hætti en flestum býðst nú (Íslendingar eru í sérstaklega góðri stöðu), og fyrir vikið hefði raforkuverðið til neytenda ekki hækkað jafnmikið og raunin er (sums staðar þrefaldazt síðan 2010).
Evrópusambandið (ESB) hefur sýnt talsverðan metnað til að vera leiðandi á heimsvísu við orkuskiptin. Engum vafa er undirorpið, að dómsdagsspár IPCC hafa átt mestan þátt í að flýta miklum og kostnaðarsómum lagabálkum ESB. Þannig sá losunarkvótakerfi ("cap-and-trade scheme") dagsins ljós árið 2005, en þar fylgdi sá böggull skammrifi, að skyldukaup fyrirtækja á losunarheimildum skákaði þeim í lakari samkeppnisstöðu en áður á heimsmarkaðinum. Loftslagsstefna og orkustefna ESB eru fléttaðar saman í Orkupakka 4. Vegna ólíkra aðstæðna hér og þar á þessi löggjöf Evrópusambandsins lítið sem ekkert erindi hingað norður eftir.
Fyrirtæki í ESB færðu þess vegna starfsemi sína þangað, sem losunarkostnaður var lítill að enginn, og þessi "kolefnisleki" leiddi í raun til heildaraukningar á losun koltvíildis út í andrúmsloftið. Þetta frumhlaup búrókrata ESB má væntanlega skrifa á hræðsluáróður IPCC.
ESB reyndi að stoppa upp í lekann með niðurgreiðslum á og fjölgun losunarheimilda, en verð á CO2 hefur aftur hækkað og er nú komið upp í 50-60 EUR/t (fimmföldun). Íslenzk fyrirtæki hafa orðið sérstaklega illa fyrir barðinu á ETS-kerfi ESB (kolefniskvótakerfi), því að hér hafa engar opinberar niðurgreiðslur tíðkazt á þessu sviði.
Í stað niðurgreiðslanna á að koma kolefnistollur á innflutning til að jafna samkeppnisstöðuna. Þann 14. júlí 2021 (á Bastilludaginn) var kynnt áætlun um kolefnistoll á innflutning ("carbon border-adjustment mechanism"-CBAM). Á árabilinu 2025-2035 munu framleiðendur áls, sements, áburðar og stáls smám saman missa niðurgreiðslurnar, en innflytjendum þessara vara verður gert að kaupa nýja útgáfu af losunarheimildum. Hversu margar losunarheimildir þeir verða að kaupa fer eftir því, hvað ESB áætlar, að mikil óskattlögð kolefnislosun hafi átt sér stað við framleiðsluna í útflutningslandinu.
Búizt er við, að þetta geti leitt til þess, að í framleiðslulöndunum verði lagt kolefnisgjald á þessar útflutningsvörur til að fá gjaldheimtuna heim, en við framleiðslu þessara útflutningsvara myndast minna en 10 % losunar þessara útflutningsríkja. Þetta skriffinnskukerfi ESB breytir þess vegna litlu fyrir lofthjúpinn. Óánægja er með þetta kerfi á meðal sumra viðskiptalanda, t.d. Ástralíu og Indlands og Bandaríkin hafa mótmælt þessu sem rétt einum tæknilegu viðskiptahindrununum af hálfu ESB. Miklar flækjur geta myndazt, þegar farið verður að leggja tollinn á, enda í mörgum tilvikum óvissa töluverð um raunverulega losun. Þannig ratar heimurinn í alls konar vandræði og kostnað vegna tilfinningarinnar um, að mjög skammur tími sé til stefnu, svo að ekki sé nú minnzt á angistina, sem dómsdagsspádómarnir valda mörgu fólki, ekki sízt ungu fólki. Engin teikn eru á lofti um, að IPCC muni á næstunni sjá að sér, játa villu síns vegar og lofa bót og betrun. Á meðan verður hamrað á þeim með hitastigsmælingum Johns Christy og Dicks McNider.
Athygli hefur vakið, að einum stjórnmálaflokki á Íslandi virðist ætla að takast að móta sér ígrundaða loftslagsstefnu án teljandi áhrifa þess heilaþvottar, sem rekinn er af talsmönnum IPCC-skýrslanna. Þetta er Miðflokkurinn, en formaður hans skrifaði 12. ágúst 2021 grein í Morgunblaðið, sem ætla mætti, að væri reist á upplýsingum um raunhitamælingar dr Johns Christy o.fl., þótt þeirra sé hvergi getið í greininni:
"Öfgar og heimsendaspár leysa ekki loftslagsmálin".
"Í ljósi reynslunnar [af Kófinu-innsk. BJo] blasir við, að stjórnvöld muni nú vilja nýta aukin völd sín í nýjum tilgangi. Það munu þau gera með vísan í loftslagsmál. Það er því tímabært að ræða, hvort og þá hvernig þeim verði heimilað að beita auknum hömlum. Ef íslenzk stjórnvöld gera það á grundvelli loftslagsstefnu undanfarinna ára, mun það fela í sér mestu frelsisskerðingu um áratuga skeið, minnkandi framleiðslu [og] lífskjaraskerðingu og skila nákvæmlega engum árangri í loftslagsmálum."
Hömlur í nafni loftslagsváar, sem IPCC boðar stöðugt, hafa þegar verið innleiddar eða boðaðar á öllu EES-svæðinu. Þar má nefna kolefnisgjald á jarðefnaeldsneyti, kolefnisgjald af losun atvinnurekstrar og bann við innflutningi bifreiða, sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti auk krafna um íblöndun lífeldsneytis í innflutt benzín og dísilolíu. Bann við kaupum á slíkum nýjum gripum á víða að taka gildi árið 2040, en íslenzka ríkisstjórnin valdi árið 2030 til þessa banns, og hinn öfgafulli umhverfis- og auðlindaráðherra mælti fyrir árinu 2025 í ríkisstjórninni, en varð undir, sem betur fór.
Þessi maður er líka þekktur sem fyrrverandi framkvæmdastjóri Landverndar. Í því starfi stóð hann fyrir endalausum tafaleikjum og kærum vegna innviðaframkvæmda, sem tvímælalaust voru í þágu almannahags. Viðhorf hans til náttúruverndar eru bæði einstrengingsleg og langt handan þess meðalhófs, sem gæta ber, svo að bezta þekking fái notið sín við nýtingu orkulindanna. Þeir, sem standa gegn framfaramálum í þágu aukinnar verðmæta- og atvinnusköpunar, svo að ekki sé talað um orkuskiptin, eru afturhaldsmenn.
Þannig átti alræmt hálendisfrumvarp ráðherrans að vera gambítur afturhaldsins gegn nýframkvæmdum á hálendinu á sviði vegalagninga, virkjana og orkuflutnings. Yfir þessu landflæmi, Miðhálendinu, átti að gína stjórn og embættismannaklíka í stað virkrar verndunar og uppgræðslu íbúa aðliggjandi sveitarfélaga undir eftirliti forsætisráðuneytis, sem fer með þjóðlendumál í landinu. Vissulega mundi felast frelsisskerðing í slíku, þó varla í nafni loftslagsváarinnar, heldur náttúruverndar á villigötum.
"Ólesin hefur skýrslan [6. skýrsla IPCC-innsk. BJo] verið gripin fegins hendi og notuð sem rökstuðningur fyrir þeim heimsendaspám, sem haldið var mjög á lofti, þar til þær féllu í skugga veirunnar um sinn. Í hvert skipti, sem verða hamfarir tengdar veðurfari, eru þær tengdar við loftslagsbreytingar (sem nýaldarpólitíkusar vilja nú gefa nýtt nafn að hætti Orwells og kalla "hamfarahlýnun"). Þótt popúlistar stökkvi á alla slíka atburði og telji þá tilefni til að veita stjórnvöldum aukin völd til að hefta framþróun og skerða frelsi almennings, gleymist alltaf eitt mikilvægt atriði. Það kallast samhengi."
Hér markar formaður Miðflokksins flokknum sess, sem á sér engan líka á meðal núverandi flokka á Alþingi. Kenningin um "hamfarahlýnun" stendur á brauðfótum, af því að reiknilíkanið, sem hún er reist á, er ónýtt. Það er órafjarri raunveruleikanum og þess vegna hrein gervivísindi til að halda uppi falsáróðri, sem miðar að því að stöðva framfarasókn þjóða og hagvöxt hagkerfa þeirra. Þetta er sami boðskapurinn og í "Endimörk vaxtar" ("Limits to Growth"), þar sem líka voru settir fram alls kyns spádómar um 1960, sem áttu að verða að raunveruleika á síðustu öld, en það hefur ekki gerzt, af því að hugsunin að baki var meingölluð.
Síðan vitnar Sigmundur Davíð í Björn Lomborg hjá "Copenhagen Consensus", en niðurstöður hans eru í samræmi við tölfræðilega samantekt dr Johns Christy á stórum veðurfarsatburðum yfir langan tíma, þar sem hann sýnir fram á, að engin tilhneiging er til fjölgunar eða stækkunar ýmissa atburða í tímans rás, nema síður sé:
"Með vísan í opinber gögn hefur Björn sýnt fram á, að tíðni náttúruhamfara, sem tengja má veðurfari, hafi síður en svo aukizt (þótt veðurfarsbreytingar geti haft áhrif). Einnig það, að þrátt fyrir gríðarlega fjölgun mannfólks og mjög aukna byggð á þeim svæðum, sem líklegust eru til að verða fyrir áhrifum veðurfarstengdra hamfara, sé fjöldi þeirra, sem látast af slíkum völdum, aðeins brot af því, sem áður var. Fjöldinn hefur fallið um meira en 99 % á einni öld.
Framfaraþrá og vísindaleg nálgun hafa skilað mannkyninu gríðarlegum árangri. Það er því mikið áhyggjuefni, ef því verður nú fórnað á altari öfgahyggju, sem lítur á manninn sem vandamál fremur en uppsprettu lausna og framfara."[Undirstr. BJo]
Í undirstrikaða hlutanum hittir Sigmundur Davíð naglann á höfuðið. Vanhugsuð öfgahyggja um endimörk vaxtar klæðir sig óverðskuldað í búning vísinda og hefur tekizt að ná fyrirsögnum í fréttunum með kukli og þöggun vísindamanna, sem standa undir nafni.
Tilvitnaðar athuganir Björns Lomborgs afsanna ekki hlýnun lofthjúps jarðar, enda hefur hún átt sér stað, en aðeins í miklu minni mæli en IPCC hefur reiknað út. Mæliniðurstöður afsanna hins vegar útreikninga IPCC. Málflutningur Björns Lomborgs getur komið heim og saman við mæliniðurstöðurnar, því að aukning varmaorku lofthjúpsins er lítil frá 1850 vegna sjálfreglandi eiginleika lofthjúpsins (hækkað hitastig veldur aukinni hitageislun út í geiminn).
"Stjórnvöld víða á Vesturlöndum hafa ofurselt sig ímyndarnálguninni í loftslagsmálum, sama hvað það kostar. Þegar brezk stjórnvöld samþykktu markmið um kolefnishlutleysi fyrir árið 2040, upplýsti þáverandi fjármálaráðherra, að það myndi kosta talsvert yfir mrdGBP 1000 að ná markmiðinu (yfir ISK 175.000.000.000.000). Síðar var sú tala álitin vanáætluð. Fyrir slíka peninga væri hægt að ná miklum framförum og bæta líf margs fólks."
Á íslenzkan mannfjöldamælikvarða nemur þessi upphæð tæplega mrdISK 950 eða um 30 % af vergri landsframleiðslu á ári. Þótt upphæðin kunni að verða lægri á Íslandi, af því að þegar hefur orðið græn umbylting á sviði raforkuvinnslu og húsakyndingar, verður um risavaxinn kostnað að ræða í virkjunum, orkuflutnings- og dreifimannvirkjum, hleðslustöðvum fyrir bíla, skip og flugvélar o.s.frv. vegna orkuskiptanna. Það er mikið til í því, að vinstri sinnaðir stjórnmálamenn, sem helzt vilja eigna sér loftslagsmálin, þótt þeir beri lítið skynbragð á þau, hafi gerzt sekir um ótilhlýðilega tækifærismennsku. Þar hefur forsætisráðherra verið sýnu verst, t.d. þegar hún kynnti til sögunnar nýja og enn strangari skuldbindingu Íslands á alþjóðavettvangi um að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 55 % árið 2030 m.v. 1990 án þess, að nokkur tilraun til kostnaðargreiningar væri þá fyrir hendi, hvað þá fjármögnun. Þannig gerði hún sig bera að hreinræktuðu lýðskrumi. Þannig á ekki að stjórna ríki.
Hvað hefur Sigmundur að segja um það, hvernig skuldbindingar forsætisráðherra verða uppfylltar ?:
"Það er í öllu falli ljóst [ísl.: a.m.k.], að ekki er hægt að ná markmiðinu, nema með því að draga úr framleiðslu innanlands, hækka skatta og gjöld á almenning og leggja á nýja til að stýra neyzluhegðun og hefta ferðafrelsi. Minnka landbúnað, draga úr fjölda ferðamanna og fækka ferðum Íslendinga til útlanda. Minni framleiðslu og neyzlu má svo auðveldlega endurorða sem lakari lífskjör.
Störf og framleiðsla munu í auknum mæli færast frá Vesturlöndum til Kína og annarra vaxandi efnahagssvæða. Allt þetta leiðir til aukinnar misskiptingar, þar sem færri hafa efni á að reka og eiga bíl, ferðast eða kaupa ýmsar vörur. Það verður ekki leyst með grænum styrkjum (sem að mestu hafa farið í að niðurgreiða dýra bíla) eða nýjum "grænum" hátæknistörfum."
Þetta er ein af ýmsum mögulegum sviðsmyndum, sem gætu rætzt á næsta áratug, ef glundroðaflokkarnir á vinstri vængnum verða hér með tögl og hagldir á Alþingi og í borgarstjórn eftir næstu kosningar. Af þessu sést líka, að stefna forsætisráðherra og umhverfisráðherra í loftslagsmálum er komin í blindgötu, þangað sem útilokað er, að meirihluti þjóðarinnar kjósi að fylgja þeim.
Þarna opinberast til hvers refirnir eru skornir með loftslagsáróðri IPCC. Það á með skefjalausum hræðsluáróðri að telja fólki trú um, að "der Kreislauf des Teufels" eða djöfulleg hringrás síhækkandi hitastigs á jörðunni sé handan við hornið, nema þjóðir heims hverfi af braut hagvaxtar og samþykki að taka á sig allar þær hörmungar, sem af langvarandi samdrætti og stöðnun hagkerfanna leiðir. Sem betur fer vitum við núna, að þetta er falskur tónn, reistur á gervivísindum, sem reikna út miklu meiri hitastigshækkun af völdum viðbótar koltvíildis í lofthjúpnum en hitamælingar með beztu þekktu aðferðum sýna. Það er kominn tími til að endurskoða þá vitleysu, sem er hér í gangi. Forystu um það eru stjórnmálamenn með samúð með kenningum "Endimarka vaxtar" ófærir um að veita.
Eftir þessa frásögn rakti Sigmundur Davíð í lokin viðhorf sín til þess, hvernig stjórnmálamönnum ber að fást við loftslagsmálin, og undir þessi viðhorf skal hér taka heilshugar:
"Raunin er sú, að það er bezt fyrir loftslagsmál heimsins, að við framleiðum sem mest á Íslandi. Eftirspurn eftir vörum og lífsgæðum mun bara aukast í heiminum. Milljarðar manna vilja að sjálfsögðu vinna sig upp úr fátækt, og skert lífskjör á Íslandi eða annars staðar á Vesturlöndum munu ekki koma í veg fyrir það.
Það er ekki hægt að hverfa af braut framfara. Þvert á móti; við þurfum að leysa loftslagsmálin, eins og önnur stór viðfangsefni, með vísindum og annarri mannlegri hugkvæmni. Á því sviði eigum við Íslendingar mikil tækifæri, ef við látum ekki heimsendaspámenn og önnur afturhaldsöfl stöðva okkur.
Heimurinn þarf miklu meiri endurnýjanlega orku. Þar getur Ísland gert ótrúlega hluti og þarf að nýta tækifærin betur. Það mun þýða, að losun landsins aukist í stað þess að minnka, en á heimsvísu mun það draga úr losun [og] reynast það bezta, sem við getum gert í loftslagsmálum og bæta lífskjör Íslendinga."
Hér eru rökréttar ályktanir dregnar út frá raunverulegri stöðu loftslagsmálanna og hagsmunum landsmanna og raunar allrar jarðarinnar um framfarastefnu í orkumálum. Við erum hins vegar ekki sjálfstæð þjóð í loftslagsmálum, heldur bundin á klafa loftslagsstefnu ESB, þótt Evrópusambandið búi við allt aðrar aðstæður en við. T.d. er um 20 % heildarorkunotkunar ESB úr endurnýjanlegum orkulindum, en hérlendis um 80 %.
Nú er eitt glatað kjörtímabil í orkumálum að renna sitt skeið, þar sem ekki hefur verið hafizt handa við neina virkjun > 100 MW og ekki hefur verið samið við neinn nýjan stórnotanda raforku. Afleiðingin af því er lægra atvinnustig en ella, óþarflega litlar erlendar fjárfestingar og hagvöxtur, sem að mestu er borinn uppi af erlendum ferðamönnum, sem eru ófyrirsjáanlegir. Nú stefnir í raforkuskort á komandi vetri.
Það verður að losa um hreðjatak afturhaldsins í landinu á nýjum virkjanaáformum, því að tækniþróunin mun senn gera kleift að framleiða ýmsar vörur hagkvæmt með engri eða sáralítilli losun koltvíildis, t.d. ál, og "grænt" vetni, þ.e. rafgreint vetni úr vatni með raforku úr endurnýjanlegum orkulindum er þegar tekið að hækka í verði vegna aukinnar eftirspurnar. Norðmenn eru nú þegar að fjárfesta í vetnisverksmiðjum hjá sér. Við megum ekki láta afturhaldsöfl, sem berjast í raun gegn hagvexti, verða þess valdandi, að hvert viðskiptatækifærið á fætur öðru renni okkur úr greipum.
Vísindi og fræði | Breytt 19.8.2021 kl. 21:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.8.2021 | 21:19
Falsfréttir IPCC
Vísindi eru aðferð til að leita sannra upplýsinga. Aðferðin er sú að smíða kenningu og síðan að sannreyna hana með óháðum gögnum. IPCC (=Intergovernmental Panel on Climatic Change, loftslagsvettvangur Sameinuðu þjóðanna, SÞ) hefur búið til tölvulíkan af lofthjúpnum á grundvelli líkana yfir 100 þjóða og kallað það samræmt líkan ("Consensus Model"). Nú vill svo til, að fyrir hendi er viðamikið gagnasafn hitamælinga úr lofthjúpnum hringinn í kringum jörðina í mörgum sniðum og í mörgum hæðum frá jörðu yfir nokkra áratugi. Hitamælingarnar fóru fram með því að mæla örbylgjur, um 55 GHz, frá súrefnisatómum í lofthjúpinum með nákvæmum og áreiðanlegum mælitækjum í gervitunglum á braut umhverfis jörðu. Þetta eru nákvæmari hitamælingar en flestar, sem gerðar voru við yfirborðið á sama tímabili. Hér er þess vegna um verðmætt og traust gagnasafn að ræða.
Niðurstöður þessara mælinga passa hins vegar alls ekki við niðurstöður hitastigslíkana 102 þjóða fyrir umrætt tímabil, nema helzt Rússa, og alls ekki við samræmt líkan IPCC, s.k. CMIP 5. Ef IPCC hefði fylgt vísindalegri aðferðarfræði, hefði nefndin kastað líkaninu sem ónothæfu og byrjað að þróa nýtt líkan, þegar í ljós kom, að útreikningar þess á hlýnun voru allt of háar. Það hefur IPCC hins vegar ekki gert heldur æpt enn hærra, að líkan þeirra sé rétt og þjóðir heims verði að haga lífi sínu samkvæmt því, búa fyrir vikið margar hverjar við stórhækkað orkuverð, sem bitnar verst á fátæku fólki. Vegna þessa er trúverðugleiki IPCC enginn.
IPCC hefur reynt að þagga niður raddir þeirra, sem bent hafa á alvarlega galla hins samræmda líkans, sem reiknar út allt of mikla hlýnun lofthjúpsins við vaxandi styrk koltvíildis og annarra gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpnum. Vísindamenn, sem benda á gríðarleg frávik útreikninga IPCC-líkansins frá raunveruleikanum, fá ekki að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í síðustu 4000 síðna skýrslunni frá IPCC. Það verður að segja hverja sögu, eins og hún er: vinnubrögð IPCC eru óvísindaleg og standast ekki rýni hæfra vísindamanna, sem hafa sýnt fram á, að líkön IPCC eru ónothæf. Það er gersamlega ótækt, að ríki heims fari að leggja út í feikilega dýrar og sársaukafullar aðgerðir á grundvelli gervivísinda, sem skapa falskar forsendur fyrir gríðarlegum kostnaði, sem verið er að leggja út í.
Sá, sem á mestan heiðurinn af að hafa flett ofan af dómsdagsspámönnum IPCC, er dr John Christy, loftslagsfræðingur og prófessor við Alabamaháskóla í Huntsville (UAH). Hann hefur ferðazt um heiminn og haldið fyrirlestra í háskólasamfélaginu, t.d. í Frakklandi og á Bretlandi, og það, sem hér er skrifað um þessi mál, er ættað úr þessum fyrirlestrum. Hann svaraði spurningum fræðimanna á þessum fyrirlestrum á mjög trúverðugan og sannfærandi hátt.
Hvernig lítur þá téður samanburður líkana IPCC við raunveruleikann út ? Séu gerðir hitastigsútreikningar fyrir hvert ár á tímabilinu 1979-2017 (tæplega 40 ára röð) með 102 IPCC lofthjúpslíkani CMIP 5 fyrir lofthjúpinn á þrýstisviði 300-200 hPa, gefur líkanið meðaltalsstigulinn +0,44 °C/áratug, en raunveruleikinn, þ.e. gervitunglamæligögnin, gefa meðaltalsstigulinn +0,15°C/áratug, þ.e. líkön IPCC margfalda raunverulegan hitastigul með 3. Líkönin reiknuðu út hitastigshækkun á grundvelli aukins styrks koltvíildis í andrúmsloftinu 1,7°C, á meðan hún nam aðeins tæplega 0,6°C. IPCC fiktar eitthvað í líkönunum til að skekkjur þeirra séu minna áberandi, 6. kynslóð þeirra, þ.e. núverandi, hefur þó jafnlítið forspárgildi og hinar fyrri.
IPCC keyrði líkön sín líka án viðbótar koltvíildis af mannavöldum, og þá nálguðust þau raunveruleikann. Þannig hefur IPCC forritað allt of mikil upphitunaráhrif af viðbótar koltvíildi í lofthjúpinum og veit, að líkönin eru meingölluð, en kýs samt að þegja um það til að geta haldið hræðsluáróðrinum áfram. Í hverra þágu er þessi hræðsluáróður SÞ ? Það er ljóst, að fjölmargir lifa á gríðarlegum fjárveitingum, sem réttlættar eru með aðsteðjandi ógn.
IPCC vanreiknar sjálfreglandi tilhneigingu lofthjúpsins til að viðhalda stöðugleika í varmaorku lofthjúpsins. Ef við hugsum okkur loftsúlu, 1 m2 að grunnfleti, sem nær frá jörðu að endimörkum lofthjúpsins, sem hitnar af einhverjum orsökum um 1°C að meðaltali, þá verður raunveruleg varmageislun út í geiminn frá þessari loftsúlu 2,6 W, en IPCC notar aðeins 1,4 W, sem er 54 % af raunveruleikanum. Það er ei kyn, þótt keraldið leki og líkan IPCC reikni út allt of mikla hlýnun, enda er botninn suður í Borgarfirði.
"Loftslagskirkjan" hefur reynt að beita náttúruhamförum fyrir vagn sinn. Þar hefur hún ekki gætt að því, að það er hægt að hrekja rækilega málflutning hennar með því að taka saman tölfræði um þessa atburði. Það hefur hinn atorkusami dr John Christy, prófessor í loftslagsfræðum við UAH, einmitt gert, og það, sem hann hefur birt um þessa samantekt sína, kippir stoðunum undan þeim áróðri "loftslagskirkjunnar", að hlýnunin á jörðunni hafi magnað og fjölgað náttúruhamförum í tímans rás.
Nokkur dæmi:
- Sterkum og ofsafengnum hvirfilbyljum (F3+) hefur fækkað á tímabilinu 1954-2018 í Bandaríkjunum (BNA). Á fyrri hluta skeiðsins (1954-1985) voru þeir að meðaltali 55,9 á ári, og á seinni hlutanum (1986-2018) voru þeir að meðaltali 33,8 á ári, þ.e. fækkun um 22,1 eða 40 %, sem er marktæk fækkun sterkra og ofsafenginna hvirfilbylja.
- Dr John Christy athugaði fjölda skráðra óveðursdaga í BNA, þ.e. stormdaga (>18 m/s), fellibyljadaga (>33 m/s), aftaka fellibyljadaga (>49 m/s). Skráning slíkra óveðursdaga í BNA tímabilið 1970-2020 sýnir enga tilhneigingu til aukningar.
- Þurrkar og flóð: athugað var hlutfall af flatarmáli BNA, sem mánaðarlega varð fyrir slíku tímabilið janúar 1895-marz 2019 (NOAA/NCDC). Engin tilhneiging fannst til aukningar.
- Hámarkshitastig: 569 mælistöðvar í BNA voru kannaðar á tímabilinu 1895-2017. Engin tilhneiging greindist vera til fjölgunar hitameta. 15 af 16 hæstu hitametunum komu fyrir 1955.
- Gróðureldum (wildfires) hefur fækkað frá 1880 í BNA.
- Snjóþekja á norðurhveli í Mkm2. Skrár 1965-2020 sýna, að hún var mest veturinn 2012-2013.
- Ísbreiður hafa aukizt á hlýskeiði síðustu 10 k ára.
- Loftslagstengdum dauðsföllum í heiminum fækkaði á 20. öldinni.
- Veðurhamfaratjón sem hlutfall af VLF minnkaði 1990-2017 úr 0,30 % í 0,16 %.
- Uppskera per ha ræktarlands hefur vaxið frá 1961.
Að líkindum getur "loftslagskirkjan" tilfært einhver dæmi máli sínu til stuðnings, en eftir stendur, að hún notar öfgar í veðurfari til að styrkja málstað sinn, en þessar öfgar eru hins vegar fjarri því að vera nýjar af nálinni.
Morgunblaðið vill jafnan hafa það fremur, er sannara reynist, og er fjólmiðla lagnast við að rata á réttar leiðir í þeim efnum, vafalaust helzt vegna víðsýnna og vel lesinna starfsmanna í sínum röðum. Dæmi um þetta mátti sjá í forystugrein blaðsins 9. ágúst 2021, en hún var á svipuðum nótum og pistillinn hér að ofan, nema Morgunblaðið vitnaði þar til sjálfstæðs og gagnrýnins umhverfisverndarsinna, sem er allt of sjaldgæf dýrategund, þ.e. til Danans Björns Lomborg. Sá hefur gefið út bækur og ritaði grein í Wall Street Journal í v.31/2021 undir yfirskriftinni: "Náttúruhamfarir eru ekki alltaf af völdum loftslagsbreytinga".
Verður nú vitnað í téða forystugrein Moggans, sem hét:
"Flókið samhengi".
"Slíkar staðhæfingar eru fátíðar í heimi, þar sem iðulega er fullyrt, að umræðunni um loftslagsbreytingar sé lokið, allir hljóti að vera sammála um þetta fyrirbæri, umfang þess og afleiðingar, auk þeirra aðgerða, sem grípa verði til.
Það er alltaf varhugavert, svo [að] ekki sé meira sagt, þegar því er haldið fram, að einungis ein skoðun eigi rétt á sér, og önnur sjónarmið eru nánast gerð útlæg. Við þannig aðstæður er hætt við, að þekking vaxi ekki, heldur takmarkist, og að víðsýni láti undan síga gagnvart fordómum. Illa væri komið fyrir vísindunum, ef öll sjónarmið fengju ekki að njóta sín."
Menn geta haft ýmsar skoðanir á vinnubrögðum og málflutningi IPCC, sem segir einhug, "consensus", um niðurstöðu sína í 6. skýrslunni, en gagnrýnendum þessarar samhljóða niðurstöðu er einfaldlega ekki léð rými fyrir sínar skoðanir. Þannig var gagnrýni dr Johns Christy og félaga hafnað. Þeir, sem kynna sér vinnubrögð IPCC og þöggunaráráttu, gera sér grein fyrir, að niðurstaða IPCC styðst ekki við raunvísindaleg vinnubrögð. Skýrsla IPCC er áróðursskýrsla, sem stenzt ekki vísindalega gagnrýni. Eins og dr John Christy sagði í fyrirlestri: ef ábyrgðarmenn skýrslunnar þyrftu að standa fyrir máli sínu í dómssal, þar sem raunvísindamenn á borð við John Christy fengju tækifæri til að taka þátt í yfirheyrslum og spyrja ábyrgðarmennina spjörunum úr, þá er öruggt, að ekki stæði steinn yfir steini varðandi dómsdagsboðskapinn og dómur félli samkvæmt því.
Síðan vitnar leiðarahöfundurinn í það, sem Björn Lomborg hefur að segja um tíðni og umfang náttúruhamfara, sem kemur heim og saman við gagnaöflun dr Johns Christy um þetta efni, sem "loftslagskirkjan" japlar endalaust á af litlu öðru en trúgirni:
"Að sögn Lomborgs sýnir ný rannsókn á flóðum í 10.000 ám víða um heim, að í flestum ám gæti minni flóða nú en áður. Þar, sem áður hafi flætt á 50 ára fresti, gerist það nú á 152 ára fresti. Og hann segir, að meiri flóð hafi orðið í ánni Ahr árin 1804 og 1910 en í nýliðnum júlí. Fleiri dauðsföll nú stafi hins vegar af því, að fólk sé farið að byggja á flóðasvæðum og að í stað sólarsella eða vindmylla til að berjast við loftslagsbreytingar þurfi þeir, sem búi við árnar, betri vatnsstýringu."
Yfirvöldin í Rheinland-Westphalen sváfu á verðinum og vöknuðu upp við vondan draum, þegar allt var á floti. Þeim barst forviðvörun 9 sólarhringum áður en ósköpin dundu yfir, en almannavarnir virðast ekki virka þarna undir forsæti núverandi formanns CDU, og gæti frammistaða hans og framkoma í kjölfarið kostað hann kanzlaraembættið í haust. Í BNA hefur líka verið leyfð byggð, þar sem engum datt í hug að byggja áður vegna hættu á skógareldum.
Að lokum sagði í téðum leiðara:
"Eins og nefnt var hér að framan, vilja margir halda því fram, að umræðunni um þessi mál sé lokið. Svo er þó ekki; rannsóknir þurfa að halda áfram og umræðan sömuleiðis, en afar mikilvægt er, að hún byggist á staðreyndum, en ekki upphrópunum. Og hún má alls ekki ráðast af hagsmunum einstakra stjórnmálamanna eða -flokka til að slá pólitískar keilur eða jafnvel að fela eigin mistök. Til þess er um allt of stóra hagsmuni að tefla."
Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því, að IPCC starfar á þeim grunni, sem lagður var um 1960 með útgáfu bókarinnar Endimörk vaxtar (Limits to Growth).
Allir spádómar, sem þar voru settir fram, reyndust rangir. Höfundarnir misreiknuðu sig herfilega, því að þeir áttuðu sig ekki á mætti tækniþróunarinnar og markaðsaflanna. Hvort tveggja í sameiningu hefur leitt til þess, að sá skortur og örbirgð, sem lýst er í bókinni, að ríða myndi yfir mannkynið á síðustu öld, ef það héldi áfram á þeirri braut hagvaxtar, sem mörkuð hafði verið eftir Heimsstyrjöldina síðari, hefur engan veginn raungerzt, nema síður sé.
Ný grýla var búin til, og nú átti að þvinga þjóðirnar af braut hagvaxtar með því, að draga yrði stórlega úr bruna jarðefnaeldsneytis til að bjarga jörðinni frá stiknun. Ýkjurnar um áhrif viðbótar koltvíildis eru gífurlegar, eins og hér hefur verið gerð grein fyrir. Enginn afneitar gróðurhúsaáhrifunum af CO2 og fleiri gösum, en útreikningar hlýnunar eru kolrangir hjá IPCC.
Jarðefnaeldsneytið hefur beint og óbeint fært hundruði milljóna fólks úr fátæktarfjötrum og hungri til betra og lengra lífs. Á meðan ekki eru ódýrari leiðir til að framleiða raforku í þróunarríkjunum eða til að knýja farartæki, verður erfitt að stöðva notkun jarðefnaeldsneytis þar.
S.k. kolefnisleki frá þróuðum ríkjum til þróunarríkja er staðreynd. Framleiðslufyrirtæki, sem losa kolefni, flytjast frá iðnríkjunum og þangað, sem minni kröfur eru gerðar af yfirvöldum, og framleiðslukostnaður þess vegna lægri. Á Íslandi verður mjög lítil losun kolefnis við raforkuvinnslu og í iðnaðinum sjálfum líka, t.d. í álverunum, í samanburði við heimsmeðaltalið. Iðnaðurinn hér þarf að greiða kolefnisgjald, sem ekki tíðkast í þróunarríkjunum, en hann hefur samt ekki fengið opinberar stuðningsgreiðslur til mótvægis, eins og tíðkast annars staðar í EES. Af þessum ástæðum er fyllilega réttmætt að halda því fram, að íslenzk málmframleiðsla, þungaiðnaður, dragi úr heimslosuninni, því að eftirspurnin mundi kalla á framboð annars staðar frá, ef þessar verksmiðjur væru ekki á Íslandi. Það er ekki hægt að drepa þessu á dreif með veruleikafirrtum hugleiðingum.
Hér er ekki verið að skrifa gegn hringrásarhagkerfi eða virðingu fyrir náttúrunni og góðri umgengni við hana í hvívetna. Hér er einvörðungu verið að leggja áherzlu á að beita verður vísindunum af heiðarleika, en nú eru notuð gervivísindi til að styðja við hræðsluáróður afturhaldsafla, sem beita óprúttnum aðferðum til að stöðva hagvöxt, sem er alls ekki eins ósjálfbær og afturhaldsöflin vilja vera láta. Fórnarlömb afturhaldsafla eru fyrst þeir, sem minnst mega sín, og síðan fylgja hinir á eftir.