Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Svipull er sjávarafli

Ráðlegging Hafrannsóknarstofnunar um afla í íslenzku fiskveiðilögsögunni fiskveiðiárið 2021/2022 kom sem skrattinn úr sauðarleggnum til almennings í landinu. Því hefur verið haldið að almenningi, að með rannsóknum og tölfræðilegum greiningum á mæliniðurstöðum og 20 % aflareglu úr viðmiðunarstofni væri verið að byggja upp vaxandi hrygningarstofn, svo að veiðarnar mundu aukast, þar til stofninn hefði náð þolmörkum umhverfisins, fæðuframboðs o.þ.h. Menn töldu þeim mörkum enn ekki vera náð, en er það svo ?  

Nú hefur annað komið á daginn.  Vísindamenn telja sig nú hafa ofmetið þorskstofninn um 267 kt eða 28 %.  Er það svo, eða er þorskurinn farinn annað, varanlega ?  Vísindamenn hafa ekki svör við því, og úr því verður að bæta fljótlega.  Þótt Hafrannsóknarstofnun starfi undir rýni alþjóðlegs vísindasamfélags, hefur henni orðið alvarlega á í messunni.  Hún verður í sumar að gera raunhæfa áætlun um úrbætur með viðeigandi kostnaðaráætlun, sem ráðuneytin og fjárlaganefnd Alþingis geta þá tekið afstöðu til í haust.  Ekki er ólíklegt, að setja þurfi samþykkta kostnaðaráætlun á fjármálaáætlun ríkisins, því að við svo búið má ekki standa.

Sama hvernig á þessa sviðsmynd er litið, er málið grafalvarlegt, því að afar gloppótt þekking fiskifræðinganna á ástandi fiskimiðanna við landið blasir nú við. Hins vegar varaði enginn spekingur utan stofnunarinnar við þessu, og enginn ráðlagði minni veiðar, nema síður sé.  Sé gert ráð fyrir, að endurskoðun viðmiðunarstærðar þorskstofnsins frá maí 2021 sé "rétt", blasir við ofmat stofns um 28 %.  Samkvæmt aflareglunni minnkar þessi áætlun leyfilegar þorskveiðar á fiskveiðiárinu 2021/2022 niður í um 188 kt eða um 70 kt, sem gæti jafngilt tekjutapi um mrdISK 40.  Þetta er höggið, sem sjávarútvegurinn og þjóðarbúið standa frammi fyrir á fiskveiðiárunum 2021/2022-2022/2023 vegna óvænts mats á verðmætasta stofninum, en vegna dempunarreglu helmingast höggið á hvort fiskveiðiárið, og nokkrir aðrir stofnar virðast vera að hjarna við. 

Í gamla daga hefðu þessi tíðindi haft í för með sér gengisfellingu ISK, en enn stendur hún alveg pallstöðug, þótt hún hafi hækkað talsvert, eftir að hagur strympu glæddist á málmmörkuðum og í ferðageiranum og þótt Seðlabankinn hafi látið af sölu gjaldeyris. Bæði er, að sjávarútvegurinn er nú stöndugur og sveigjanlegur með mikinn aðlögunarþrótt og þjóðarbúinu hefur nú vaxið fiskur um hrygg með fleiri öflugum gjaldeyrislindum.

Það sýnir sig nú svart á hvítu, að engin glóra er í, að stjórnvöld fari að ráðum sérvitringa og óvita um sjávarútveg og taki að spila einhvers konar rússneska rúllettu með stórhækkun veiðigjalda eða uppboði á þjóðnýttum aflaheimildum.  Slíkt er hreinræktuð dilla þröngsýnna pólitískra hugmyndafræðinga og skemmdarverkastarfsemi á undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar. 

Ferðageirinn mun taka vel við sér, þegar sóttkví óbólusettra linnir með viðunandi hjarðónæmi hér, vonandi 01.07.2021, og þá hlýtur að verða nóg að skima aðeins þá, sem ekki eru með ónæmis- eða bólusetningarvottorð. Árið 2021 verður líklega, þrátt fyrir höggið, ár sæmilegs hagvaxtar, eins og annars staðar á Vesturlöndum, enda varð rýrnun þjóðartekna meiri hér árið 2020 en víðast hvar annars staðar eða 6 %-7 %. Samt hækkaði kaupmáttur launa.  Það er líklega einsdæmi, en jók örugglega atvinnuleysið.  Verkalýðshreyfingin stakk hausnum í sandinn og fórnaði langtímahagsmunum launþeganna fyrir skammtímaávinning þeirra, sem eru í öruggri vinnu.  Það er ótraustvekjandi afstaða, enda bera sumar yfirlýsingar forseta ASÍ o.fl. vott um stéttastríðshugarfar, sem reynslan og samanburður við hin Norðurlöndin hefur sýnt, að getur ekki gagnazt launþegum til lengdar.  Það, sem gagnast launþegum bezt, er að vinna að hámörkun verðmætasköpunar í friði við vinnuveitendur. 

Önnur grein, sem nú getur komið til hjálpar, er fiskeldið, bæði í sjókvíum innan marka áhættugreininga og burðarþolsmats Hafrannsóknarstofnunar, og í landeldiskerum. Eftirlitsstofnanir mega hvorki draga lappirnar né flaustra, heldur skulu þær halda sig innan lögboðinna tímamarka. 

Viðbrögð forystu SÍF, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, við leiðréttingu á mistökum Hafró, voru rétt.  Það er skárst í stöðunni að fylgja ráðum beztu fáanlegu þekkingar á sviði haf- og fiskifræði, þótt henni sé ábótavant, enda gæti hundsun slíkra ráðlegginga haft slæmar afleiðingar fyrir markaðsstöðu íslenzkrar framleiðslu sjávarútvegsins erlendis, þar sem samkeppnin er hörð.  Vonandi dregur nú úr útflutningi óunnins fiskjar, svo að framleiðendur geti haldið markaðsstöðu sinni fyrir unna vöru. Nú er ástæða fyrir utanríkisráðuneytið til að juða í Bretum um lækkun tolla á slíkum vörum.

Gunnlaugur Snær Ólafsson birti frétt í Morgunblaðinu 16. júní 2021 um þessi slæmu tíðindi:

"Gera ráð fyrir samdrætti í útvegi".

Þar stóð m.a.:

""Ég verð bara að segja það, að þetta eru mikil vonbrigði og þungbær tíðindi.  Þetta er svo mikill niðurskurður og mjög óvænt.  Þetta mun valda tekjusamdrætti hjá sjávarútvegsfyrirtækjum og ljóst, að menn verða að grípa til aðgerða í sínum rekstri til að mæta þessu. 

Ég sé samt ekkert annað í stöðunni en við fylgjum ráðgjöf Hafró.  Við verðum að taka á þessu af ábyrgð og fylgja þessari vísindalegu ráðgjöf með langtímahagsmuni í huga", segir Ólafur H. Marteinsson, forstjóri Ramma hf og formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi."

Af sömu ástæðum og Ólafur tilgreinir, mun sjávarútvegsráðherra að öllum líkindum fylgja þessari ráðgjöf Hafró í meginatriðum.  Skaðinn er orðinn, og hann verður ekki bættur með hókus-pókus aðferðum. 

Um þetta er þó ekki eining, og annan pól í hæðina tók Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, en félagsmenn hans eru mjög háðir þorskveiðum:

"Hann kveðst binda vonir við, að ráðherra sjávarútvegsmála fari út fyrir ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar til að lina höggið, sem fylgir skerðingunni.  "Ég held það sé alveg hægt.  13 % niðurskurður í okkar helztu tegund er bara allt of mikið.  Smábátarnir eru alveg háðir þorskinum.""

Það er innbyggð dempun á breytingum í ráðgjöf Hafró, því að skerðingin væri 27 %, ef hún kæmi að fullu fram á einu fiskveiðiári.  Það er ekki nóg, að hagsmunaaðilar haldi, að óhætt sé að veiða meira, ef viðtekin aflaregla segir allt annað. 

Það er eðlilegt og skiljanlegt, að sjávarútvegsfyrirtæki leiti leiða til að vaxa yfir í skylda starfsemi, sem veitir meiri stöðugleika.  Það hafa þau gert með því að gjörnýta fiskinn og framleiða úr honum eftirsóttar vörur á grundvelli rannsókna og þróunar.  Stórtækastar eru þó fjárfestingarnar á sviði fiskeldis.  Samherji kannaði fýsileika þess að kaupa Norðurálshúsin í Helguvík undir landeldi, en hvarf frá því vegna skorts á ferskvatni.  Nú hefur fyrirtækið kynnt áform í samstarfi við HS Orku við Reykjanesvirkjun. Morgunblaðið greindi frá þessu 17. júní 2021 í frétt undir fyrirsögninni: 

"Ylsjórinn dró Samherja á Reykjanes".

Hún hófst þannig:

"Aðstæður til landeldis á laxi eru góðar í Auðlindagarðinum á Reykjanesi, en þar áformar Samherji fiskeldi ehf að reisa risastóra eldisstöð.  Jón Kjartan Jónsson, framkvæmdastjóri Samherja fiskeldis, segir, að ylsjórinn geri þessa staðsetningu sérstaka. Ylsjórinn er affall frá kælingu Reykjanesvirkjunar.  Jón Kjartan segir, að aðgangur að miklum ylsjó sé forsenda þess, að hægt sé að koma upp hagkvæmu landeldi á stórum skala."

Hér er ætlunin að mynda nýtt lokastig nýtingar varmans úr jarðgufunni og þar með að gjörnýta orkuna úr jarðgufunni til að flýta vexti eldisfiskjarins.  Þessi flýting ásamt hagkvæmni stærðarinnar mun sennilega gera þetta fyrirhugaða landeldi samkeppnishæft við sjókvíaeldi, en hár fjármagnskostnaður og rekstrarkostnaður hefur verið Akkilesarhæll landeldisins.  

"Áformað er að byggja allt að 40 kt/ár laxeldi á landi í þremur áföngum á næstu 11 árum.  Byggð verður seiðastöð og ker fyrir áframeldi.  Jón Kjartan segir gert ráð fyrir, að komið verði upp aðstöðu til slátrunar á laxi, en frekari vinnsla og pökkun verði annars staðar á Suðurnesjum. Af því tilefni segir hann, að Samherji vinni afurðir sínar yfirleitt meira en minna. Því verði hluti laxaframleiðslunnar flakaður fyrir útflutning, en hann segir ekki ljóst nú, hversu stór hluti það verði. 

Í 1. áfanga stöðvarinnar er gert ráð fyrir 10 kt/ár framleiðslu.  Frumvinnsla á laxi og pökkun er mannaflsfrek starfsemi.  Þannig er gert ráð fyrir, að bein störf við eldi og frumvinnslu í 1. áfanga verði um 100 og annað eins í afleiddum störfum.  Þá muni fjölmörg störf verða við uppbygginguna." 

Þetta verkefni Samherja er ekkert minna en hvalreki fyrir Suðurnesjamenn og landið allt.  Þarna verða allt að 800 störf til 2032, bein og óbein, heildarfjárfesting verður líklega mrdISK 45 - mrdISK 50, og á verkstað gæti þurft um 1400 mannár á 11 ára skeiði.  Þetta er þess vegna stórverkefni, sem er einmitt það, sem íslenzka hagkerfið þarf endilega á að halda núna, því að í landinu ríkir ládeyða í atvinnulífinu.  Á sama tíma og umsvif sjávarútvegs minnka vegna niðursveiflu í lífríki hafsins, þá leggur Samherji grunn að hagrænum stöðugleika og vaxandi tekjustreymi til framtíðar, sem verður öllum landsmönnum til góðs.  Þetta eru gleðitíðindi.  

Fiskeldið er sannarlegur vaxtarbroddur hagkerfisins um þessar mundir.  Árið 2020 var slátrað 40,6 kt af eldisfiski í landinu, og útflutningsverðmæti þess nam mrdISK 29,3.  Verðmæti útfluttra sjávarafurða nam þá mrdISK 270, svo að hlutfallið var þá orðið 11 % og 5 % af heildarvöruútflutningi.  Árið 2032 gæti fiskeldið numið 200 kt alls og hlutfall þess af heildarvöruútflutningi landsins numið 22 %.  Það mun þess vegna mynda eina af meginstoðum íslenzka hagkerfisins. 

Þann 14. apríl 2021 ritaði væntanlegur 1. þingmaður NA-kjördæmis, Njáll Trausti Friðbertsson, mjög fróðlega grein í Markað Fréttablaðsins:

"Drifkraftur og byggðafesta fiskeldisins".

Þar kom m.a. eftirfarandi fram:

"Nýsamþykkt tillaga Hafrannsóknarstofnunar um áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar laxeldis, gerir ráð fyrir, að heimilt sé eldi 106 kt/ár í sjó.  Vaxi það [sjóeldið - innsk. BJo] nærri gildandi áhættumati fiskeldisins, gæti útflutningsverðmæti sjóeldisins orðið nærri 80 mrdISK/ár.  M.v. 800 ISK/kg greiðslu fyrir útflutninginn.  Auk þess verðmætis í sjóeldi er á næstu árum stefnt á landeldi á laxi, bleikju og öðru fiskeldi fyrir um 15 mrdISK/ár. [Þarna voru tíðindin af verkefni Samherja á Reykjanesi ekki komin fram - innsk. BJo.]  Það lætur því nærri, að útflutningsverðmæti fiskeldis geti orðið tæplega 100 mrdISK/ár á næstu árum.  Gangi þetta eftir, verður fiskeldið stór hluti útflutningsverðmæta íslenzkra sjávarafurða." 

Njáll Trausti Friðbertsson hefur öðlazt ríkan skilning á atvinnulífinu og heilbrigðu samspili innlendra og erlendra fjárfestinga þar og í seinni tíð innkomu Kauphallar Íslands við miðlun fjárfestingarfjár frá sparendum til fiskeldisfyrirtækja og sjávarútvegsfyrirtækja.  Kveður þar við annan og heilbrigðari tón en heyra má úr ranni sumra annarra á stjórnmálavettvangi, hverra ær og kýr eru niðurrif á trausti almennings til fyrirtækja og að kynda undir stéttastríði launþega og launagreiðenda.  Slíkur forheimskandi áróður getur engum orðið til hagsbóta.  Ágætri grein sinni í Markaðinum lauk NTF þannig:

"Þrátt fyrir að stór hluti Íslands hafi verið lokaður fyrir fiskeldi [í sjó] frá 2004 og stjórnvöld setji eldinu æ strangari kröfur, óttast menn umhverfisáhrif og vöxt fiskeldisins. 

Við skulum gera ríkar kröfur um uppbyggingu eldis í sátt við umhverfið.  Innan eldisfyrirtækja er sterk umhverfisvitund, enda sjálfra þeirra hagsmunir að ganga vel um náttúruna.  Kröfur alþjóðlegra umhverfisvottana aga einnig starfsemina. 

Ótti um aðkomu erlendra fyrirtækja í fiskeldi er ástæðulaus.  Þau miðla íslenzku eldi mikilli reynslu og þekkingu og dreifa fjárhagslegri áhættu af innlendri uppbyggingu.  Áhugavert er, að flest laxeldisfyrirtæki eru nú skráð á hlutabréfamörkuðum, og íslenzkir fjárfestar, þ.m.t. lífeyrissjóðir, hafa fjárfest í þessari vaxandi atvinnugrein.  Óháð eignaraðild er fiskeldið að skilja mikið eftir sig í hinum dreifðu byggðum. 

Efnahagsleg hagsæld mun áfram byggja á vexti útflutningsgreina.  Þar verður fiskeldið æ mikilvægari drifkraftur atvinnusköpunar og byggðafestu, ekki sízt á Austfjörðum."   

20100925_usp001

 

 

 

 

 

 

     

 


Forgangur ESB-löggjafar í EFTA-löndunum er viðkvæmt mál

Alþýðusamband Noregs, LO (=Landsorganisasjonen), krefst þess, að norsk löggjöf um vinnumarkaðsmál sé æðri ESB-löggjöf um atvinnulífið, sem leidd er í norsk lög samkvæmt EES-samninginum. LO telur hallað á norskt verkafólk með innleiðingu ESB-löggjafarinnar og sættir sig ekki við lögþvingaða rýrnun réttinda sinna félagsmanna. Vaxandi óánægja innan LO með EES-samstarfið getur leitt til, að LO álykti um nauðsyn endurskoðunar á EES-samninginum.  Þá kann að verða stutt í sams konar sinnaskipti stærsta stjórnmálaflokks Noregs, Verkamannaflokksins, sem líklega mun leiða nýja ríkisstjórn að afloknum Stórþingskosningum í september 2021.

Spyrja má, hvers vegna Alþýðusamband Íslands (ASÍ) hafi ekki viðrað áhyggjur sínar með svipuðum og áberandi hætti af ráðandi stöðu ESB-réttar í íslenzkri löggjöf samkvæmt EES-samninginum.  Svarið kann að nokkru leyti að vera að finna í þeim mun, sem er á viðkomandi lagasetningu þessara tveggja bræðralanda, sem bæði þurfa þó að hlíta bókun 35 við EES-samninginn, sem fjallar um skyldu EFTA-landanna að lögleiða forgang ESB-löggjafar umfram landslög.

Íslenzka innleiðingin á forgangi ESB-löggjafar var skilyrt og veitti dómstólum þannig ráðrúm til að meta hvert mál fyrir sig.  Líklega teygir íslenzka löggjöfin um forganginn sig eins langt í átt að EES-samninginum og íslenzka stjórnarskráin leyfir.  Það er hins vegar ekki nóg fyrir ESA (Eftirlitsstofnun EFTA), sem hefur kvartað undan dómsuppkvaðningum hérlendis, þar sem innlend löggjöf var látin ráða, sjá viðhengi með þessum pistli. ESA sakaði Ísland árið 2017 um samningsbrot vegna rangrar lögfestingar um forgang ESB-réttar samkvæmt bókun 35. Íslenzka ríkisstjórnin svaraði ESA 10. september 2020 með vísun til Weiss-málsins, þar sem þýzki stjórnlagadómstóllinn í Karlsruhe taldi rökstuðning Evrubankans í Frankfurt am Main fyrir kaupum bankans á ríkisskuldabréfum evrulandanna ófullnægjandi.  Evrópusambandið væri ekki sambandsríki, heldur ríkjasamband, og þess vegna væri stjórnarskrá Sambandslýðveldisins Þýzkalands æðri Evrópurétti.  

  ESA hefur nú sent Íslandi lokaviðvörun vegna téðs samningsbrotamáls, og gangi ESA alla leið og kæri íslenzka ríkið fyrir samningsbrot, má búast við, að áhugaverðar umræður spinnist um EES-samninginn hérlendis, sérstaklega ef kæra ESA birtist fyrir haustkosningarnar 2021. 

Framkvæmdastjórnin er ekki af baki dottin, heldur hyggst brjóta rauðhempurnar í Karlsruhe á bak aftur.  Hún hóf þann 9. júní 2021 samningsbrotsmál gegn Þýzkalandi fyrir að fótumtroða grundvallarreglur ESB-réttarins, með því að rauðhempurnar efuðust um heimildir Evrubankans til að kaupa ríkisskuldabréf, þrátt fyrir að ESB-dómstóllinn hefði þá þegar úrskurðað, að slík kaup væru í samræmi við ESB-réttinn.  Þýzka þingið í Reichstag-byggingunni hefur fyrir sitt leyti samþykkt þessar stuðningsaðgerðir Evrubankans, en Framkvæmdastjórnin velur samt þá herskáu leið að höfða mál gegn Þýzkalandi til að geirnegla, að ESB-dómstóllinn sé æðstur allra dómstóla innan ESB og þá raunar einnig EES, því að EFTA-dómstólinum ber að hlíta dómafordæmum hans.  Þetta er þess vegna stórmál fyrir EFTA-löndin líka, utan Svisslands, sem skákar í skjóli tvíhliða viðskipta- og menningarsamninga við ESB.   

Það var í maí 2020, sem Stjórnlagadómstóllinn í Karlsruhe kvað upp úr með, að sá úrskurður ESB-dómstólsins, að Evrubankinn hefði téðar heimildir samkvæmt ESB-rétti, væri "ultra vires", þ.e.a.s. utan heimildasviðs hans.  Framkvæmdastjórnin skrifar í fréttatilkynningu af þessu tilefni, að þýzki stjórnlagadómstóllinn hafi ómerkt réttaráhrif ESB-dómstólsins í Þýzkalandi og véki til hliðar grunnreglunni um forgang ESB-réttar.  Framkvæmdastjórnin telur þetta munu hafa alvarleg fordæmisáhrif, bæði fyrir úrskurði og dóma þýzka stjórnlagadómstólsins og fyrir æðstu dómstóla og stjórnlagadómstóla annarra aðildarlanda. 

Prófessor Halvard Haukeland Fredriksen við Háskólann í Bergen sagði í sambandi við dóm þýzka stjórnlagadómstólsins:

"Vandamálið við dóminn er eiginlega ekki, að stjórnlagadómstóllinn telur á valdsviði sínu að sannreyna, hvort ESB-dómstóllinn hafi haldið sig innan marka fullveldisframsals Þýzkalands til ESB, heldur að þröskuldurinn fyrir þessi inngrip hans virðist allt of lágur.  Í fyrri málum hefur stjórnlagadómstóllinn alltaf látið ESB-dómstólinn njóta vafans og í því samhengi einnig lýst því yfir, að m.t.t. einingar um ESB-réttinn skuli veita ESB-dómstólinum visst "villuumburðarlyndi" ("Fehlertoleranz")."

ESA sendi Íslandi lokaaðvörun vegna samningsbrota út af löggjöf landsins um forgang ESB-réttar á Íslandi 30. september 2020.  Svar íslenzku ríkisstjórnarinnar, sem barst ESA fyrir skömmu, er trúnaðarmál.  Hvers vegna í ósköpunum þolir þetta svar ekki dagsljósið ?  Hagsmunir hverra mundu skaðast við það að upplýsa um efnislegt inntak afstöðu íslenzka ríkisins til máls, sem á sér víðtæka skírskotun innan EES ?  Það verður að leysa úr þessu deilumáli EFTA-ríkjanna við ESB með samningaviðræðum á milli EFTA og ESB. Að því kemur vonandi eftir þingkosningarnar í Noregi og á Íslandi í september 2021. 

 

 

    


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Gösslast í endurheimt votlendis

Innlendir loftslagstrúboðar staglast á frelsun landsmanna frá samvizkubiti koltvíildislosunar (kolvizkubit ?) með því að moka ofan í skurði, gamla og nýja, sem grafnir voru til að auka hér landnytjar á sinni tíð. Í elztu móunum, svo að ekki sé minnzt á túnin, sem ræktuð hafa verið á uppþurrkuðu mýrlendi, er sérstöku niðurbroti  lífmassa af völdum súrefnis lokið, og þar með komið á jafnvægi koltvíildislosunar eftir þurrkunina.  Þar með verður ávinningur endurbleytingar enginn og jafnvel neikvæður af völdum hinnar sterku gróðurhúsalofttegundar metans, CH4, ef ekki er gætt ýtrustu vandvirkni við endurbleytinguna. 

Annars staðar orkar þessi endurbleyting tvímælis, og  ætti þegar í stað að stöðva fjárútlát úr ríkissjóði til þessa vafagemlings, eins og lesa má út úr greininni:

"Endurheimt votlendis verður að byggja á traustum grunni",

sem birtist í Bændablaðinu 29.04.2021 og er eftir Guðna Þorgrím Þorvaldsson, prófessor við LbhÍ.  Hún hófst þannig:

"Árið 2018 skrifuðum við Þorsteinn Guðmundsson tvær greinar í Bændablaðið (2. og 4. tbl.) um losun og bindingu kolefnis í votlendi.  Við bentum á ýmsa þætti, sem valda óvissu í útreikningum á losun kolefnis úr jarðvegi hér á landi.  Þeir helztu eru óvissa um stærð þurrkaðs votlendis, breytileiki í magni lífræns efnis í jarðvegi, sem taka þarf tillit til, og takmarkaðar mælingar á losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi.  Við töldum, að á meðan verið væri að afla meiri gagna um votlendið, ætti fremur að leggja áherzlu á uppgræðslu lands til kolefnisbindingar." (Undirstr. BJo)

Það er ámælisvert, að fé sé veitt úr ríkissjóði í "loftslagsaðgerðir", þar sem ávinningurinn er ímyndaður, en raunveruleikinn er í þoku.  Það er lágmarkskrafa að fjármagna aðeins aðgerðir, sem eru vísindalega staðfestar "gagnlegar".  

 

"Af þessum þáttum er það hitinn, sem gefur tilefni til að ætla, að hér á landi sé niðurbrot hægara en í nágrannalöndunum.  Hér er sumarhiti mun lægri en víða í Norður-Evrópu, líka á svæðum, sem eru á sömu breiddargráðum og við.  [Þrændalög í Noregi eru gott dæmi um þetta - innsk. BJo.] Hér er hins vegar mikið framboð næringarefna, einkum á svæðum, sem reglulega verða fyrir öskufalli.  Það getur ýtt undir niðurbrot m.v. svæði, þar sem meiri skortur er á næringarefnum."

 Af þessu sést, að það er ótækt með öllu að réttlæta mokstur ofan í skurði á kostnað hins opinbera með losunartölum uppþurrkaðra mýra og endursköpuðum mýrum frá útlöndum, eins og Votlendissjóður gerir sig sekan um.  Það er ekki einu sinni haldbært að nota meðaltöl fyrir Ísland, heldur verður að mæla losun fyrir og eftir bleytingu á hverjum stað.  Vegna þess að metanmyndun kemur við sögu í endurbleyttum mýrum, verður að hafa nákvæmt eftirlit með myndun mýra á nýjan leik, en metan, CH4, er meira en 20-sinnum öflugri gróðurhúsagastegund en CO2, á meðan það varir í andrúmsloftinu. 

"Í tengslum við endurheimt votlendis hefur Landgræðslan notað tæki, sem mælir heildaröndun og mælir því allt, sem fer út; ekki bara það, sem er vegna niðurbrots á jarðvegi.  Það mælir heldur ekki bindinguna, sem kemur á móti.  Þetta þarf að hafa í huga, þegar niðurstöður þessa tækis eru skoðaðar.  Ef allt kolefni, sem fer inn og út úr kerfinu, er mælt, er ekki nauðsynlegt að sundurgreina þessa 3 þætti, heldur má líta á jarðveg, plöntuleifar og gróður sem einn pott.  Binding telst þá, þegar meira fer inn í pottinn en kemur út, og losun, þegar meira fer út en kemur inn."

Af þessu má ráða, að þeir, sem fást við árangur bindingar með ræktun eða myndun mýrlendis, verða að þekkja vel til mælitækja í notkun og beita rétta verklaginu við að komast að réttri niðurstöðu.  Ef það er gert, er líklegt, að áróðurinn fyrir endurbleytingu mýra á forsendum gróðurhúsalofttegunda muni missa fótanna.  

Síðan kemur lýsing á annarri, álitlegri aðferð:

"Í öðrum rannsóknum var borið saman magn kolefnis ofan ákveðins öskulags í jarðvegi, sem hafði verið framræstur, og jarðvegi á sama svæði, sem ekki hafði verið ræstur. Mælt var, hversu mikið lífrænt efni hefði minnkað frá því framræsla var gerð í samanburði við óframræst land og þannig fengin meðallosun yfir tímabilið.  Kosturinn við þessa aðferð er sá, að hún mælir beint breytingar á kolefnisstöðu í jarðveginum og endurspeglar margra ára atburðarás. 

Samkvæmt þessum rannsóknum var árleg losun á C á bilinu 0,7-3,1 tonn/ha.  Þar sem mælingin fór fram ofan við tiltekið öskulag (30 cm dýpt), er ekki útilokað, að einhver losun hafi orðið á meiri dýpt, en mest gerist þó ofan þessarar dýptar." 

Að meðaltali jafngildir þetta losun 7,0 t CO2/ha, sem er aðeins þriðjungur þess, sem Votlendissjóður lepur upp eftir IPCC, sem birt hefur töluna 20 t CO2/ha sem meðaltal fyrir heiminn.  Þetta sýnir hættuna, sem stjórnvöldum og almenningi er búin af fúskurum, sem grípa eitthvað á lofti erlendis frá án þess að kunna hina réttu túlkun gagnanna.  

"Í vetur bættist við ný ritrýnd grein, þar sem fylgzt var með losun og bindingu á Sandlæk í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.  Þar er um 20 ára gamall asparskógur á framræstu landi.  Í þetta sinn var mælt með útbúnaði, sem mælir inn- og útstreymi kolefnis allan sólarhringinn allt árið um kring.  

 

 

Niðurstöðurnar voru þær, að skógurinn batt mikið kolefni og jarðvegurinn batt 0,5 t C/ha á ári [=1,9 t CO2/ha á ári], þannig að þarna var engin losun á C úr jarðvegi í þessi 2 ár, sem mælingar stóðu yfir.  [Að auki kemur svo bindingin í viðnum, sem er há hjá ösp eða um 20 t CO2/ha - innsk. BJo]. 

Skurðir eru ekki þéttir í landinu, en skógurinn þurrkar mikið að sumrinu.  Vatnsstaða yfir veturinn er yfirleitt há í mýrartúnum á Íslandi og því lítil losun.  Kostur þessarar aðferðar er m.a., að hún mælir allt, sem fer út og inn allt árið, á meðan punktmæling tekur bara yfir lítið brot af árinu." 

 

 Af þessu má ráða, að sú aðferð að planta öspum í uppþurrkaðar mýrar hefur mun meiri burði til að draga úr myndun gróðurhúsalofttegunda en mokstur ofan í skurðina.  Netto-binding með asparaðferðinni er um 22 t CO2/ha á ári, en með bleytingunni er nettó minnkun losunar 7 t CO2/ha á ári.  Mismunurinn er 15 t CO2/ha á ári, sem er tiltölulega mikið, og að auki kemur síðan viðarnýting við grisjun og fellingu trjáa sem hráefni til trjáiðnaðar.  Að moka ofan í skurði virkar sem frumstætt atferli í samanburðinum.

"Ef tekið er vegið meðaltal þessara 15 staða, koma út 2,7 t C/ha á ári [=10 t CO2/ha á ári - innsk. BJo], sem er um helmingi minna en losunarstuðlar IPCC (Milliríkjanefndar Sþ um loftslagsmál). Þessar tölur [af Suðurlandi og Vesturlandi] gefa til kynna töluverðan breytileika í losun og bindingu, sem stafar bæði af árferðismun, mun á milli staða og e.t.v. milli aðferða. 

Ef menn vilja fara í endurheimt, þarf því að skoða vel aðstæður á hverjum stað.  Þetta undirstrikar líka, að við þurfum að gera mun fleiri mælingar um allt land og birta niðurstöðurnar með þeim hætti, að þær fái alþjóðlega viðurkenningu. [Þetta er mergurinn málsins og staðfestir, að allsendis ótímabært er fyrir hið opinbera að styrkja endurheimt votlendis, heldur á að beina kröftum hins opinbera að rannsóknum og mælingum á þessu sviði - innsk. BJo.]

Það er forsenda þess, að við getum notað stuðla, sem byggjast á athugunum, sem gerðar eru hér á landi, og þurfum ekki að nota stuðla frá IPCC, eins og gert er nú."

Af hérlendum rannsóknum á þessu sviði, sem vísað hefur verið í hér, má draga þá ályktun, að hreint fúsk felist í að moka ofan í skurði til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda frá landi hérlendis.  Ávinningurinn er 1/3 - 1/2 þess, sem IPCC gefur út sem meðaltal fyrir heiminn, en langöflugasta mótvægisaðgerðin er að planta trjáplöntum í móana, sem vinna mikið CO2 úr lofti og binda í rótum og viði, t.d. ösp.

"Það hefur verið rekinn mikill áróður fyrir endurheimt votlendis undanfarið.  Þá vakna spurningar um það, hver ávinningurinn sé af því að moka í skurðina.  Í umræðunni er því gjarnan haldið fram, að losun kolefnis nánast stöðvist við þessa aðgerð.  Hér á landi hefur verið gerð ein tilraun, þar sem borin er saman losun og binding á kolefni og metani, annars vegar í endurheimtu landi og hins vegar landi, sem ekki var endurheimt, en á sama stað.  Landið var mælt í nokkra mánuði fyrir endurheimt og svo báðir meðferðarliðir eftir endurheimt í 4 mánuði. 

Niðurstaðan var sú, að losun kolefnis minnkaði aðeins um 20 % við endurheimtina, en metanlosun jókst töluvert, en var samt lítil.  Mælingar voru svo gerðar árið eftir, en niðurstöðurnar hafa ekki birzt.  Ekki voru gerðar mælingar á tilraunasvæðinu árin þar á eftir."

Þessi niðurstaða felur í sér falleinkunn á endurheimt votlendis í þágu loftslags.  CO2-losunin minnkar um 20 %, en á móti eykst metanlosunin, og verður að meta hana á móti, því að hún er yfir 20-falt sterkari gróðarhúsalofttegund en CO2.  Ekki kæmi höfundi þessa pistils á óvart, að þessi mokstur ofan á skurði sé í mörgum tilvikum algerlega unninn fyrir gýg (kostnaður út um gluggann og rýrir beitiland og hugsanlegt ræktarland framtíðar fyrir korn, repju, iðnaðarhamp o.fl.).

 

  

 

 

 

 


Loftslagsmálin fá vaxandi vægi

Það varð vendipunktur í viðleitni vestrænna ríkja til að draga úr bruna jarðefnaeldsneytis, þegar Joe Biden, forseti Bandaríkjanna (BNA), tilkynnti, að Bandaríkin vildu á ný takast á hendur skuldbindingar Parísarsáttmálans frá desember 2015.  Forsetinn snýr nú ofan af hverjum gerningi fyrirrennara síns á fætur öðrum, en sá rak argvítuga einangrunarstefnu undir kjörorðinu "America first".  Lýðræðisríki heims mega einfaldlega ekki við því, að forysturíki þeirra dragi sig inn í skel sína í heimsmálunum, enda sá kínverski drekinn sér þá hvarvetna leik á borði að fylla tómarúmið.  Hann vex stöðugt meir en allir hinir risarnir á heimssviðinu bæði að vergri landsframleiðslu og hernaðarmætti. 

Er alveg ljóst, að heimsmálin munu næstu áratugi einkennast af baráttu Vesturveldanna við að hemja drekann í austri.  Þar takast á ólíkir menningarheimar og ólík pólitísk hugmyndafræði. Drekanum hefur tekizt að virkja auðvaldskerfið til að endurreisa Kína sem stórveldi á mettíma undir stjórn kommúnistaflokksins.  Þessi samþætting er vandasöm, og tjáningarfrelsið, sem yfirleitt helzt í hendur við athafnafrelsið, stendur sem fleinn í holdi einræðisstjórnarinnar í Beijing.

  Áróðursstríð verður háð ásamt baráttu um auðlindir og pólitísk yfirráð.  Búast má við hernaðarátökum í Asíu. Nóg er að virða fyrir sér hernaðaruppbygginguna á Suður-Kínahafi og flotauppbyggingu Kínverja.  Taiwanstjórnin óttast kínverska innrás innan áratugar, enda viðurkennir Beijing-stjórnin ekki fullveldi Taiwan.

Joe Biden og loftslagserindreki hans , John Kerry, fyrrverandi utanríkisráðherra BNA, hafa tilkynnt um stórhuga áform BNA um orkuskipti.  Það á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 50 % fyrir árið 2030 m.v. árið 2020. Um þetta mun muna á heimsvísu. Gangi þetta eftir munu Bandaríkin verða í forystu, hvað orkuskiptin áhrærir, árið 2030. Þetta er aðeins mögulegt með tæknibyltingu, en BNA hafa áður sýnt, að þau geta unnið upp tæknilegt forskot annarra á innan við áratugi.  Þessi stefnubreyting er mikið fagnaðarefni, því að tæknibylting er forsenda raunverulegs árangurs í baráttu við hlýnun lofts og lagar. Heimurinn allur mun njóta góðs af, og BNA verða í fararbroddi vestrænna ríkja við að hægja á og síðan stöðva hlýnun jarðar.

Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur og fyrrverandi iðnaðarráðherra, er manna fróðastur um loftslagsmálin.  Hann reit fróðlega grein í Morgunblaðið 4. desember 2019, sem hann nefndi:

"Hvers vegna er loftslagsváin nú hvarvetna mál mála ?"

"Hann [Parísarsáttmálinn] tekur í raun f.o.m. árinu 2021 við af Kyoto-bókuninni.  Samkvæmt samningnum taka þróuð ríki sjálfviljug á sig skuldbindandi markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofts næsta áratuginn, þ.e. fram til ársins 2030.  Miðað er við, að þær skuldbindingar liggi fyrir í síðasta lagi á næsta ársfundi (COP-26), sem halda á í Glasgow haustið 2020.  Talið er, að fundurinn í Madrid gefi tóninn um, hvert stefni.  Ísland hefur sett stefnuna á a.m.k. 29 % samdrátt í losun 2030 m.v. stöðuna árið 2005 og stefnir á 40 % samkvæmt aðgerðaáætlun." 

Umhverfisstofnun (UST) telur, að losun Íslands á GHL, sem fellur undir beina ábyrgð stjórnvalda, árið 2030 muni nema 2513 kt CO2íg, en hún var 2965 kt árið 2020.  Þetta er minnkun um 452 kt eða 15,2 % og  nemur 19 % m.v. viðmiðunarárið 2005.  Þetta er miklu minni samdráttur koltvíildislosunar en ofangreint markmið Íslands (29 %), svo að ekki sé nú minnzt á 40 % í aðgerðaráætlun, sem ekki er enn tilbúin.  Eru það stórundarleg vinnubrögð Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, og Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, að birta lokatölu aðgerðaráætlunar áður en einstakir þættir hennar hafa verið mótaðir og kóróna svo ábyrgðarleysið með því að hækka markmiðið upp í 55 % árið 2030, en Katrín Jakobsdóttir tilkynnti þessi ósköp nú 2021 drýgindalega í hópi fleiri evrópskra þjóðarleiðtoga, þótt markmiðið sé sett algerlega út í loftið. 

Hvernig er hægt að ná 55 %, þegar Umhverfisstofnun telur aðeins raunhæft að ná 19 % samdrætti m.v. 2005, þ.e. að komast í 2513 kt árið 2030 ?  Það er ekki hægt án rándýrra þvingunarráðstafana af hálfu ríkisvaldsins, sem óhjákvæmilega munu rýra lífskjörin á Íslandi algerlega að þarflausu, því að öll núverandi losun á Íslandi frá starfsemi manna hefur engin mælanleg áhrif á hlýnun jarðar.  Þetta óðagot forsætisráðherra er unnið fyrir gýg og nær þess vegna engri átt, enda getur það kostað Íslendinga yfir mrdISK 10 á þessum áratugi í greiðslur losunargjalds.  Er það ekki Stjórnarskrárbrot að skuldbinda landsmenn þannig á alþjóðavettvangi fyrir greiðslu upphæðar, sem óvissa ríkir um ?

UST telur, að vegaumferð muni losa 603 kt CO2 árið 2030 og að hún hafi losað 992 kt árið 2020.  Þetta er 389 kt samdráttur eða 39,2 % og 86 % af áætluðum heildarsamdrætti á ábyrgð stjórnvalda. 

Þetta jafngildir um 100 k færri jarðefnaeldsneytisbílum árið 2030, og þá má reikna með um 130 k fleiri hreinorkubílum.  Þetta er ekki útilokað, en þá þurfa nánast allir nýir bílar að verða hreinorkubílar héðan í frá, og til þess þarf að halda vel á spöðunum, því að þeir nema nú undir 70 % allra nýrra fólksbíla og jeppa.  Verð rafmagnsbíla færist nær verði sambærilegra benzín og dísilbíla með tímanum, og úrvalið vex nú með hverju árinu. Það má heita útilokað, að nýjasta, rándýra hugdetta forsætisráðherra um 55 % samdrátt náist 2030.  Ótrúlegt ábyrgðarleysi að binda þjóðinni slíka bagga að henni forspurðri.   

Þessi orkuskipti verða hins vegar ekki án fjárfestinga í innviðum og endabúnaði til að hlaða rafgeymana.  Reikna má með orkuþörfinni 640 GWh/ár (án vetnisverksmiðju) og samsvarandi aflþörf 200 MW fyrir orkuskiptin árið 2030.  Þetta ásamt öðrum innviðum til orkuskipta gæti kostað um mrdISK 300.  Árið 2030 gæti eldsneytissparnaður orkuskiptanna verið 120 kt/ár og gjaldeyrissparnaðurinn numið MUSD 120 eða mrdISK 15.  Þetta er alveg viðunandi "endurgreiðslutími" m.v., að um áratuga endingu fjárfestinganna er að langmestu leyti að ræða.  Þjóðhagslega lítur þessi hluti orkuskiptanna ekki illa út. 

Höldum áfram með tilvitnaða grein Hjörleifs:

"Það er því með ólíkindum, þegar einstaklingar og stjórnmálasamtök telja sig þess umkomin að gera niðurstöðurnar um þátt mannsins í aukinni CO2-losun tortryggilegar og segja þær ómarktækar."  

Þetta skrifar Hjörleifur eftir ýmsar tilvitnanir, t.d. í IPCC, Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna.  Það hefur með haldgóðum rökum verið sýnt fram á þátt mannkynsins í auknum styrk koltvíildis í lofthjúpinum, en hann hefur aukizt um 48 % frá 1850 til 18.03.2021, þ.e. úr 280 ppm í 416 ppm.  Það hefur hins vegar verið bent á, að fleiri þættir geta haft áhrif á hitastig lofthjúpsins, t.d. breytileg geislun orkugjafans sjálfs, sólarinnar.

Það er þó hægt að beita sambandi breytts koltvíildisstyrks og hitastigsbreytingar til að nálgast vænt gildi hlýnunar.  Lögmálið er kennt við Ångström og af því leiðir, að tvöföldun koltvíildisstyrks hækkar hitastig um 1,0 %.  Ef gert er ráð fyrir línulegri breytingu, fæst: DT=0,48*2,88°K=1,4°C.

Þetta er í hærri kantinum m.v. nýlegar mælingar, sem birtar hafa verið, og munar þar e.t.v. 0,2°C, sem unnt er að skýra með varmaupptöku hafsins og kælingaráhrifum eldgosa, sem spúa m.a. brennisteini.  Þannig er engum blöðum að fletta um sjálf gróðurhúsaáhrifin með vísun til eðlisfræðinnar. 

"Þeir [7 loftslagssérfræðingar, sem eru höfundar "Climate tipping points-too risky to bet against] benda á, að jafnvel þótt staðið verði við fyrirliggjandi loforð um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum muni meðalhitinn samt hækka í um 3°C, þ.e. langt yfir markmið Parísarsamningsins, þar sem miðað er við að hámarki 2°C hlýnun.  [Samkvæmt Ångströmslögmálinu gerist þetta um árið 2077.]  Þeir telja því úreltar kenningar sumra hagfræðinga um, að fyrst við 3°C hækkunarmörkin sé þörf á gagnaðgerðum.  Í stað þess verði að draga mörkin við 1,5°C hlýnun.  Þessi staða kalli því á neyðarviðbrögð nú þegar.  M.a. leggja þeir ríka áherzlu á að bregðast þurfi við hættunni af yfirvofandi hækkun sjávarborðs.  Hún geti numið 3 m vegna bráðnunar tiltekinna jökla á Suðurskautslandinu, að ekki sé talað um hraðari bráðnun Grænlandsjökuls.  Til samans geti þessir þættir leitt af sér 10 m hækkun sjávarborðs, sem varað geti í margar aldir." 

Í stað þess að flýta orkuskiptunum hérlendis óhóflega með miklum kostnaði fyrir þjóðarbúið, sem hefur þó engin áhrif á hlýnunina, væri ríkisstjórninni nær að gera áætlun um fyrstu ráðstafanir til að bregðast við hærra sjávarborði. Margir staðir hérlendis eru viðkvæmir fyrir hækkun sjávarborðs, en við erum svo heppin, að nokkurt landris verður við minnkun fargs, t.d. bráðnun jökla. 

Vegna þess, að enn hefur ekki náðst að draga varanlega úr heimslosun koltvíildis, þótt umhverfisráðherra telji, að hámarkslosun hafi náðst á Íslandi 2018, er farið að huga að því að vinna CO2 úr andrúmslofti.  Þetta er þó mjög dýrt og afköstin sáralítil.  Hérlendis er aðferðin fjarri því að vera samkeppnishæf við bindingu CO2 með ræktun hvers konar. 

Álverið í Straumsvík og líklega einnig Norðurál eru að búa sig undir tilraun með að vinna koltvíildi úr kerreyk.  Það er ódýrara en úr andrúmslofti, því að styrkur CO2 er miklu meiri í kerreyk en í andrúmslofti.  Það kostar um 5 USD/t CO2 að dæla vatninu með uppleystu koltvíildi niður í  gljúpt blágrýtið Straumsvík, og það má ekki kosta meira en 10-15 USD/t CO2 að fanga koltvíildið úr kerreyk, til að þessi aðferð verði samkeppnishæf.  Hin endanlega lausn fyrir álverin er auðvitað að breyta kerunum og leysa kolaskautin af hólmi með s.k. eðalskautum til að losna við myndun CO2.  Á vegum móðurfyrirtækis ISAL, Rio Tinto, standa nú yfir tilraunir í Frakklandi og Kanada með þá tækni í kerum af fullri stærð. 

"Þannig áætlar Umhverfisstofnun SÞ, að til að stöðva sig af við 1,5°C hlýnun þurfi árlega að draga sem svarar 7,6 % úr losun gróðurhúsalofts.  Hlutur Íslands er hingað til öfugsnúinn.  Árið 2017 jókst losun hér um 2,5 % m.v. árin á undan og um 32 % frá árinu 1990; staðan hefur ekki skánað síðan.  Þetta þýðir, að til að ná fyrirhuguðum bindandi niðurskurði CO2 næsta áratuginn þarf annað og meira að koma til.  

Athygli vekur, að Evrópusambandið stendur að baki Bandaríkjunum og Kína, þegar kemur að fjárfestingum í loftslagsaðgerðum.  Þær námu í ESB aðeins 1,2 % [af hverju, líklega af VLF ?], í USA 1,3 % og 3,3 % í Kína."

Með "öðru og meira" á Hjörleifur Guttormsson sennilega við þvingunarúrræði ríkisins, sem geta orðið mjög íþyngjandi fyrir almenning.  Það er algerlega óverjandi að leggja þungbærar álögur á atvinnulíf og almenning til að ná árangri, sem munar ekkert um í heildarsamhenginu og verða þess vegna fórnir til einskis.  Svona hafa engir tekið til máls síðan trúarhöfðingjar voru og hétu og hvöttu til krossfara af gríðarlegum trúarhita.  

Nú eru að verða vatnaskil í orkuskiptunum í Bandaríkjunum með síðustu valdaskiptum í Hvíta húsinu og á Capitol Hill.  Bandaríkin munu vafalaust taka forystu í tæknilegum efnum, en hraðfara tækniþróun er eina vonin til að nálgast megi ofangreinda lækkunarþörf losunar koltvíildis um 7,6 % á ári á heimsvísu.  Þá er aðallega horft til nýs orkugjafa, sem komið geti í stað kolaorkuvera. Jafnvel Bandaríkin treysta sér ekki í 7,6 % samrátt á ári, sbr 50 % á 10 árum.  Þess vegna er hlýnun umfram 1,5°C næsta vís.  

 

 

 

 

 

 


Loftslagsmálin og Kófið

Eldgosið við Fagradalsfjall á Reykjanesi, sem jarðfræðingar telja kunni að vera upphafið að langvinnri goshrinu á fleiri sprungusvæðum Reykjaness allt að Hengilssvæðinu,  hefur leitt hugann að smæð mannsins og tækni hans í samanburði við náttúruöflin. Jarðfræðingarnir hafa reyndar lýst yfir töluverðri undrun sinni atburðarásinni þarna.  Spádómsgáfa þeirra virðist fremur rýr í roðinu til skamms tíma, þótt hún sé viðunandi á löngu tímaskeiði. Slíkt gagnast lítið í núinu, en er fræðilega (akademískt) áhugavert.

Á meðal gosefnanna eru varasamar gastegundir fyrir lífríkið og gastegundir, sem virka á lofthjúp jarðar bæði til kælingar og hlýnunar. Um 150 virk eldfjöll munu nú vera á jörðinni, en áhrif þeirra á lofthjúpinn til hlýnunar eru sögð vera undir 1 % af núverandi áhrifum mannlegra athafna á lofthjúpinn til hlýnunar.  Áhrif Íslendinga, þótt allt sé tíundað (einnig frá jarðvegi) eru aðeins um 0,03 % af árlegri losun mannkyns af s.k. gróðurhúsalofttegundum, svo að áhrif Íslendinga á hlýnun lofthjúps má telja engin, því að þau eru innan óvissumarka þess, sem mannkynið er talið láta frá sér af gróðurhúsalofttegundum árlega. Allt flas til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda hérlendis er tilgangslaust, nema til að slá pólitískar keilur í málefnaþröng.  

Samt er því haldið fram, að Íslendingar losi mikið af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið m.v. aðrar þjóðir, en þá er deilt í losunina með höfðatölu, og fást þá um 16 t CO2eq/mann, sem þykir hátt.  Þetta eru hins vegar reikniæfingar, sem breyta engu um þá staðreynd, að þjóðin hefur líklega engin áhrif á hlýnun jarðar vegna fámennis.  Sú staðreynd blasir enn skýrar við, þegar þess er gætt, að næstmesti losunarvaldurinn hérlendis á eftir brennurum jarðefnaeldsneytis, orkukræfur iðnaður, framleiðir efni, sem valda minni brennslu eldsneytis við notkun þess, ekki sízt álið, sem notað er aftur og aftur í hvers konar fartæki til að létta þau.  Endurvinnslan þarfnast tiltölulega lítillar orku á við frumvinnsluna (<5 %).  Eins og margoft hefur verið tönnlazt á, væri þetta ál framleitt annars staðar, ef ekki nyti við álveranna á Íslandi, með margfaldri, líklega áttfaldri, losun gróðurhúsalofttegunda á hvert tonn.  Þeir, sem eru með mikla losun Íslendinga á heilanum, eru samt á móti þessari starfsemi hérlendis og mega ekki heyra minnzt á virkjanir í þágu málmframleiðsluiðnaðarins.  Það er ekki öll vitleysan eins.   

Það, sem skilur Íslendinga algerlega frá flestum öðrum þjóðum í þessu samhengi, er uppruni losunarinnar.  Hjá flestum öðrum þjóðum á hún rætur að rekja til raforkuvinnslu, en raforkuvinnsla Íslendinga veldur sáralítilli losun gróðurhúsalofttegunda.  Dálítið myndast af metani í nýjum miðlunarlónum og frá jarðgufuverum.  Frumorkunotkun Íslendinga er hins vegar yfir 80 % (83,3 %) úr "endurnýjanlegum" orkulindum, vatnsafli og jarðvarma, en tæplega 17 % (16,7 %) úr jarðefnaeldsneyti að fluginu meðtöldu m.v. árið 2018. Flestar aðrar þjóðir glíma nú við að koma hlutfalli endurnýjanlegrar orkunotkunar upp í 20 %.  Þannig má ljóst vera, að staða Íslendinga í loftslagsmálum er allt önnur og betri en flestra annarra þjóða. 

Kosturinn við orkuskiptin á Íslandi eru bætt loftgæði og gjaldeyrissparnaður, en ekki minni hlýnun jarðar.  Þá er leið Íslendinga að orkuskiptum mun greiðfærari en flestra annarra, af því að í landinu er nóg af endurnýjanlegum orkulindum til að standa undir orkuskiptum á hagkvæman hátt. Er þá alls ekki átt við vindorkuna, sem tröllslegar vindmyllur nýta, eru til stórfelldra lýta, gefa frá sér óþægileg lágtíðnihljóð og dreifa hormónaruglandi örplasti og stærri plastögnum úr feiknarlöngum spöðum (130 m, 300 km/klst á enda).

Í þessu ljósi blasir við, hversu öfugsnúinn og andfélagslegur málflutningur fólks er, sem leggst gegn nánast öllum nýjum, hefðbundnum virkjunum á Íslandi, oft með vanstilltum fullyrðingaflaumi og gefur jafnvel vindorkunni undir fótinn. Að breyta miðhálendi Íslands í þjóðgarð ("National Park") er tilræði við hvers kyns nýtingu náttúruauðlinda í auðgunarskyni fyrir almenning, eins og sést af þessari alþjóðlegu skilgreiningu þjóðgarða:

"National Parks provide a safe home for native plants and animals." Beit, veiðar og jafnvel uppgræðsla samrýmast þessu ekki.  "... commercial exploitation of natural resources in a national park is illegal."

  Hvað sem líður tali umhverfisráðherra um, að flest geti verið eins og áður eftir ríkisvæðingu miðhálendisins, er ljóst, að hann getur stöðvað áform um virkjanir á miðhálendinu, þótt þær séu nú í nýtingarflokki samkvæmt Rammaáætlun, og jafnvel veiðiskap, eftir stofnun miðhálendisþjóðgarðs.

Sigríður Á. Andersen, Alþingismaður, ritaði stutta grein í Morgunblaðið 17. apríl 2021 um loftslagsmál frá óhefðbundnu sjónarhorni, sem ekki er vanþörf á, því að þessi málaflokkur, sem hérlendis er rekinn undir formerkjum Evrópusambandsins, sem er óviðeigandi og allt of dýrkeypt fyrir neytendur og skattborgara þessa lands (að mestu sami hópurinn), enda nefndi hún greinarstúfinn:

"Eytt út í loftið".

 Vinstri flokkarnir, sem misst hafa fótanna vegna sambandsleysis úr fílabeinsturnum sínum við alþýðu landsins, hafa í staðinn gert umhverfismál að sínum, og þau hafa sízt af öllu batnað við það, og er fótalaus loftslagsumræðan til marks um það.  Loftslagið er orðið andlag skattheimtu á Íslandi fyrir þrýsting þessa jarðtengingarlausa liðs, og áróður um skaðvænleg áhrif hlýnunar jarðar gellur í eyrum daglega, þótt Íslendingar geti ekkert hægt á henni, sama hvað Katrín Jakobsdóttir og umhverfisráðherra vinstri grænna gelta um nauðsynlegar skattahækkanir og útlát úr ríkissjóði til lækkunar hitastigs andrúmsloftsins, útlát, sem nú eru reyndar  fjármögnuð með lántökum, og einnig sama, hvað téð Katrín setur Íslendingum háleit markmið um losun gróðurhúsalofttegunda með tilheyrandi fjárhagslegum skuldbindingum. Leyfir Stjórnarskráin slíkt framferði ? Sigríður reit:

"Þvert á það, sem vinstriflokkarnir boða, eigum við [að] stefna að árangri á þessu sviði sem öðrum með sem lægstum sköttum og minnstum kostnaði. Vinstrimenn eru hins vegar staðráðnir í því að efna til loftslagsmála við almenning með sköttum, eyðslu, boðum og bönnum."

Vinstri flokkarnir hafa tekið ástfóstri við loftslagsmálin.  Í þeim eygja þeir stökkbretti til skattahækkana og útþenslu ríkisbáknsins, og varla nokkur maður mun spyrja þá um árangur af þeirri byrðaaukningu á almenning eða af þeim fjáraustri, sem til loftslagsmálanna fer, enda verða áhrifin á hlýnun lofthjúpsins engin.

Það er siðlaust að leggja sífellt þyngri byrðar á almenning á fölskum forsendum, eins og baráttu við hlýnun jarðar.  Það er lítið betra framferði að reyna að þvinga fólk úr eldsneytisknúnum bíl og yfir í bíl, sem knúinn er innlendum orkugjöfum með ofurgjöldum á eldsneytið.  Það er þó virðingarvert að nota jákvæða hvata til að fá fólk til orkuskipta á borð við það að sleppa virðisaukaskatti o.fl. við kaup á bifreiðum knúnum endurnýjanlegri orku, sérstaklega á meðan rafmagnsbílar eru dýrari, þótt einfaldari séu, á meðan framleiðslufjöldinn á ári er lítill. 

Vitlausast af öllu, sem stjórnvöldum hefur dottið í hug að styrkja í nafni samdráttar á losun gróðurhúsagasa, er þó mokstur ofan í skurði löngu uppþurrkaðra mýra, þar sem jafnvægi er komið á á milli losunar og bindingar koltvíildis.  Að endurskapa mýri úr móa án þess að auka losun gróðurhúsagasa er vandasamt, því að hætt er við rotnun gróðurs í vatni og myndun metans, sem er meira en 20 sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en koltvíildi.  Stjórnvöld ættu að hætta að verja skattfé í þessa endileysu, enda er engin umhverfisvá, sem knýr á um þetta, því að áhrifin á hlýnun jarðar eru sama og engin.  

Ávinningur Íslendinga af baráttunni við hlýnun jarðar verður aðallega mældur í auknum loftgæðum og gjaldeyrissparnaði.  Það er vissulega líka ávinningur í skógrækt fyrir landgæði, skjól, sölu koltvíildisbindingar og viðarnýtingu.  Að hefta uppblástur lands og hefja landvinninga á sviði landgræðslu er gríðarlegt hagsmunamál fyrir núlifandi og komandi kynslóðir í landinu.  Um leið er bundið koltvíildi í jarðvegi.  

"Við notum um 80 % endurnýjanlega orku, á meðan restin af veröldinni notar yfir 80 % jarðefnaeldsneyti.  Evrópusambandið er að basla við að koma sínu hlutfalli endurnýjanlegrar orku upp í 20 % og notar til þess alls kyns vafasamar aðferðir, eins og brennslu lífeldsneytis og lífmassa.  ESB stefnir að því að koma hlutfallinu upp í 32 % árið 2030.

Ef ekki koma fram hagkvæmar tækninýjungar í orkuframleiðslu, mun heimurinn áfram ganga að mestu leyti fyrir olíu, kolum og gasi.  Loftslagssamningar munu litlu breyta þar um."

Orkuskiptin eru knúin fram af loftslagsumræðunni vegna þess, að megnið af losun gróðurhúsagasa kemur frá orkuverum heimsins, sem knúin eru af jarðefnaeldsneyti.  Vinstri menn á Íslandi afneita þeirri staðreynd, að mikil raforkuvinnsla á Íslandi fyrir málmiðnaðinn veldur því, að heimslosun gróðurhúsagasa er a.m.k. 10 Mt/ár minni en ella, sem jafngildir um tvöfaldri losun af mannavöldum á Íslandi um þessar mundir.  Ef heil brú væri í krossferðinni gegn losun gróðurhúsalofttegunda, væri keppikeflið að auka þessa framleiðslu enn frekar, og það verður geðslegt fyrir þröngsýna og bölsýna vinstri menn að verja einstrengingslega afstöðu sína gegn nýjum virkjunum á Íslandi fyrir afkomendum sínum, ef/þegar hlýnun andrúmslofts hefur náð 3°C.  

Hér er iðnaðarstefna í skötulíki m.v. í Noregi.  Þar niðurgreiðir ríkið raforkuverðið um 20 % til orkukræfs iðnaðar og notar til þess koltvíildisgjaldið frá þessum sömu fyrirtækjum.  ESA viðurkennir þessa aðferð sem löglega að Evrópurétti, enda er þetta tíðkað innan ESB.  Engin slík hringrásun fjár til að styrkja samkeppnisstöðuna á sér stað hérlendis, enda ríkir illvíg stöðnun á þessu sviði hér, sem verður baráttunni við hlýnun jarðar ekki til framdráttar.  

"Sérstöðu Íslands ætti hins vegar að viðurkenna í alþjóðlegu samstarfi um þessi mál, eins og gert var fyrstu tvo áratugina [eftir Kyoto-samkomulagið-innsk. BJo]. Vegna sérstöðu okkar er ekki sjálfgefið, að við sætum sömu skilyrðum og þjóðir, sem búa við allt aðrar aðstæður.  Íslenzku ákvæðin svonefndu í loftslagssamningunum voru felld á brott í tíð vinstri stjórnarinnar 2009-2013."

Með íslenzku ákvæðunum var einmitt tillit tekið til sérstöðu íslenzka orkukerfisins og viðurkennt, að aukning stóriðju á Íslandi væri til þess fallin að draga úr aukningu á losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu.  Ekkert slíkt er uppi á teninginum hjá núverandi ríkisstjórn undir forystu vinstri græningjans Katrínar Jakobsdóttur.  Nýlega fór hún þveröfuga leið og gaf í með því að auka enn skuldbindingar Íslands árið 2030, sem mun þýða enn meiri greiðslur íslenzkra fyrirtækja fyrir CO2-losunarheimildir.  Stefna íslenzkra vinstri manna er skammsýnt lýðskrum, sem þrýsta mun lífskjörum landsmanna niður vegna kostnaðar út í loftið. 

"Samkvæmt fjármálaáætlun, sem samþykkt var á Alþingi á dögunum, verður samtals mrdISK 60 varið til loftslagsmála á árunum 2020-2024.  Þessar miklu fjárhæðir verðskulda sérstaka athugun.  Ekki sízt nú, þegar ríkissjóður er rekinn með miklum halla.  Í hvað eru þessir fjármunir að fara, og skila þeir ásættanlegum árangri ?"

Að verja mrdISK 12 að meðaltali á ári til loftslagsmála, sem fjármagnaðir er með skuldsetningu ríkissjóðs, þarfnast athugunar við og gæti verið mjög ámælisvert. Við eigum ekki að rembast, eins og rjúpan við staurinn, heldur að gefa tækniþróuninni tíma til að koma á markaðinn með lausnir, sem okkur henta til orkuskipta.  Það mun gerast, og þetta flas verður engum til fagnaðar, heldur okkur til óþarfa kostnaðarauka.

Eitthvað af þessum kolefnisgjöldum  fer væntanlega í hít kolefnisgjalda Evrópusambandsins, sem stjórnmálamenn og embættismenn hafa flækt okkur í án þess að vita kostnaðinn, og það er Stjórnarskrárbrot.  Vonandi fer eitthvað af þessu fé í fjárfestingar í  arðbærum og gjaldeyrissparandi verkefnum, sem skapa vinnu í landinu, t.d. til repjuolíuframleiðslu.  Stilkar repjunnar og aðrir afgangar geta nýtzt til fóðurframleiðslu fyrir vaxandi fiskeldi við og á landinu.  

Aðeins 16,7 % frumorkunotkunar Íslendinga komu úr jarðefnaeldsneyti árið 2018.  Megnið af því voru olíuvörur eða 1,028 Mt.  5 stærstu notendaflokkarnir voru eftirfarandi:

  1. Flugsamgöngur innanlands og utan: 40,6 %.  Þessi notkun minnkaði gríðarlega árið 2020, en mun sennilega vaxa aftur í ár og á næstu árum, þangað til innanlandsflugið verður rafvætt seint á þessum áratugi, og á næsta áratugi mun endurnýjun millilandaflugflotans hefjast með hreyflum án koltvíildislosunar, e.t.v. vetnisknúnum.  Þangað til munu flugfélögin þurfa að kaupa losunarheimildir af ESB, sem farþegarnir borga í hærra miðaverði. Flugfélög, sem fjárfesta í sparneytnum vélum þangað til, munu standa sterkari að vígi í samkeppninni.
  2. Bifreiðar hvers konar og vinnuvélar: 29,8 %.  Þessi notkun mun nú fara minnkandi ár frá ári, af því að endurnýjun fólksbíla og jeppa er nú að u.þ.b. helmingshluta með rafbílum, alrafvæddum eða hlutarafvæddum.  Lengst munu vinnuvélarnar þurfa jarðefnaeldsneyti, en notkun þess má minnka með repjuolíu og öðru lífeldsneyti.
  3. Fiskiskip, stór og smá: 16,7 %.  Þessi notendahópur hefur staðið sig bezt í að minnka olíunotkun, og stefnir hún hraðbyri að því að verða innan markanna 2030. Þegar þannig er í pottinn búið, má heita ósanngjarnt, að útgerðirnar skuli þurfa að greiða olíuskatt, sem lagður var á til að draga úr notkun. Það er eðlilegt að umbuna þeim, sem leggja sig fram og ná árangri. Meginskýringin á þessum góða árangri er fækkun togara og endurnýjun með mjög skilvirkum vélbúnaði. Segja má, að fiskveiðistjórnunarkerfið hafi ekki einvörðungu lagzt á sveif með hagkerfinu, heldur einnig með loftslagsstefnunni.
  4. Sjósamgöngur: 8,7 %. Mikil þróunarvinna fer nú fram fyrir orkuskipti í skipum.  Sem millileik má vel nota repjuolíu til íblöndunar.
  5. Byggingariðnaður er skráður með ársnotkun 31,4 kt/ár af jarðefnaeldsneyti eða 3,1 %.  Væntanlega er auðveldara að losna við koltvíildislosun hans en t.d. sementsframleiðslunnar, sem er gríðarleg á heimsvísu.  

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


"Vísindin efla alla dáð"

Bóluefnin, sem í fyrra voru þróuð gegn kórónuveirunni, SARS-CoV-2, sem síðan í nóvember 2019 hefur herjað á mannkynið með viðbrögðum þess, sem eiga sér engan líka, eru ný af nálinni gegn umgangspestum.  Tækninni hefur þó verið beitt í viðureigninni við krabbamein í um áratug. Þessi pistill er reistur á greininni, "An injection of urgency", sem birtist í The Economist, 5. desember 2020, aðallega til að svara hinni brennandi spurningu, hvort nýju bóluefnin væru örugg. 

Um miðjan janúar 2020 fékk Moderna-lyfjafyrirtækið bandaríska senda genasamsetningu kórónuveirunnar SARS-CoV-2 frá Kína, og í byrjun marz 2020 eða um 7 vikum seinna höfðu vísindamenn fyrirtækisins einangrað broddprótein veirunnar í bóluefni, sem þá strax hófust klínískar rannsóknir með. Þetta jafngilti byltingu í gerð bóluefna, bæði hvað þróunarhraða og gerð bóluefnis gegn faraldri áhrærir og markar þáttaskil í viðureign mannkyns við skæðar veirur.  

2. desember 2020 varð brezka lyfjastofnunin "Medicines and Healthcare-products Regulatory Agency (MHRA)  fyrst sinna líka til að leyfa almenna bólusetningu á sínu markaðssvæði á fullprófuðu bóluefni af þessari nýju gerð. 

Bóluefnið, sem leyft var, ber merkið BNT162b2 og var þróað af Pfizer, bandarískum lyfjarisa, og BioNTech, minna þýzku fyrirtæki. Tæknin, þótt ný sé af nálinni, er þannig vel þekkt innan lyfjaiðnaðarins.  Lyfjaiðnaður heimsins hefur ekki verið par vinsæll, en er nú skyndilega "hetja dagsins".

Þetta Pfizer-BioNTech-bóluefni hefur verndarvirkni í 95 % tilvika eftir tvær sprautur gegn téðri veiru, en þess ber að geta, að börn voru ekki prófuð og fólk eldra en 70 ára í mjög litlum mæli.  Það er mjög lítið vitað um virkni bóluefnisins á eldri borgara og á fólk með langvarandi sjúkdóma úr prófunum fyrirtækjanna.  M.a. þess vegna er mjög óvarlegt af Landlækni og öðrum að fullyrða, að a.m.k. 5 dauðsföll fáeinum dögum eftir fyrri bólusetningu sé ekki (eða varla) hægt að rekja til bólusetningarinnar.  Tilvikin eru of mörg og þekking á virkninni úr prófununum of lítil, til að slík niðurstaða sé trúverðug.  Prófunarskýrslur lyfjafyrirtækjanna gefa ekki tilefni fyrir heilbrigðisyfirvöld til að leyfa bólusetningu hrumra einstaklinga.  Ef ónæmiskerfið er veiklað, þarf að ganga mjög varlega fram. Það er öruggara fyrir þessa einstaklinga að skáka í skjóli hjarðónæmis, þegar því hefur verið náð með bólusetningum og sýkingum. 

Aðrar þjóðir litu til Breta í byrjun desember 2020 sem fyrirmyndar við flýtta samþykkt Pfizer-BioNTech-bóluefnisins, og Alþjóða heilbrigðismálastofnunin, sem tekur að sér að samþykkja lyf og bóluefni fyrir þjóðir án lyfjastofnana eða með lyfjastofnanir án bolmagns til vísindalegrar rýni, áttu í samstarfi við MHRA um viðurkenningu bóluefnisins.  Þarna tóku Bretar mikilsvert frumkvæði og skrýtið, að íslenzka lyfjastofnunin skyldi ekki fremur leita í smiðju þangað en til lyfjastofnunar ESB, þar sem Ísland á enga aðild, nema að Innri markaðinum. Svifaseinir íslenzkir búrókratar voru ekki með á nótunum.  Það er eðlilegt, að Lyfjastofnun Íslands geri samstarfssamning við MHRA í stað þess að leita á náðir ríkjasambands, sem Ísland stendur utan við af góðum og gildum ástæðum. 

Hraði bóluefnissamþykktanna var reistur á stöðugu upplýsingaflæði frá viðkomandi lyfjafyrirtækjum til eftirlitsstofnananna í öllum áföngum þróunarferlisins, og tæknin var þekkt þar, þótt hún hafi aldrei verið nýtt gegn veirufaraldri.  

Bandaríska lyfjafyrirtækið Moderna brást hraðast við í upphafi, og prófunarskýrslur fyrirtækisins úr 3. prófunaráfanganum sýna vísindalegustu og trúverðugustu vinnubrögðin, en fyrirtækið varð viku á eftir Pfizer-BioNTech með að tilkynna lok prófunarferlisins.  Bóluefni fyrirtækisins gegn SARS-CoV-2 nefnist mRNA-1273.

Bæði BNT162b2 og mRNA-1273 eru í hópi s.k. mRNA-bóluefna. Þótt þetta sé í fyrsta skipti, sem leyfi er veitt til að sprauta þessari tegund í almenning, eru sérfræðingar samt bjartsýnir um almennt skaðleysi hennar fyrir líkama og sál, því að hún hefur verið reynd gegn ýmsum krabbameinum í yfir áratug.  Varðandi BNT162b2 og mRNA-1273 sérstaklega, voru þau prófuð á 73.000 sjálfboðaliðum alls, þar sem helmingurinn fékk bóluefnið og hinn helmingurinn lyfleysu (Moderna) eða annað bóluefni (Pfizer-BioNTech). Þetta safn gat gefið tölfræðilega marktækar niðurstöður, en gallinn var sá, að þeir, sem nú er lögð mest áherzla á að verja, voru ekki hafðir með í úrtakinu.  Þess vegna stendur stórfelld tilraunastarfsemi enn yfir án þess, að skjólstæðingarnir séu endilega upplýstir um, hvernig í pottinn er búið. 

Hugsunin á auðvitað að vera sú að forðast að gera viðkvæma að tilraunadýrum, nema þeir séu fullkomlega meðvitaðir um það, en leyfa þeim hins vegar að njóta hjarðónæmisins, sem mun myndast í þjóðfélaginu, ef hinir stæltu eru bólusettir.  Ungviði undir tvítugu ætti alls ekki að bólusetja við C-19, enda allsendis ófullnægjandi vitneskja fyrir hendi um virkni þessara bóluefna á það, og því verður yfirleitt lítið um þennan sjúkdóm.  Í heilbrigðisráðuneytinu mun hafa komið fram vilji til skyldubólusetninga við samningu frumvarps til nýrra sóttvarnarlaga.  Hvers vegna ætti ríkisvaldið að ganga freklega á einstaklingsfrelsið og setja fjölda manns í stórhættu ?  Valdbeitingarárátta sumra stjórnmálamanna og búrókrata er stórhættuleg, og henni verður að setja skorður með lögum, sem reist eru á Stjórnarskrá landsins.

Á Vesturlöndum er haldið uppi eftirfylgni með bólusettum, þannig að heilsufarstengd atriði eru skráð og hugsanlegar sýkingar af C-19 bornar saman við sýkingar óbólusettra.  Einn áhættuþáttur við öll bóluefni er, að þau geta aukið smitnæmi sumra hópa.  Önnur áhætta er, að í sjaldgæfum tilvikum koma bóluefni af stað sjálfsofnæmi - nokkuð, sem vírussýkingar geta líka gert.  Miklar rannsóknir á þessu þarf að gera áður en milljarðar manna verða bólusettir. 

Vegna virkni sinnar er reyndar ástæða til að halda, nema eitthvað óvænt gerist, að mRNA-bóluefnin gætu verið öruggari en hefðbundin bóluefni.  Lifandi bóluefni, t.d. gegn lömunarveiki, innihalda veiklaðar veirur.  Hættan við þau er, að veiran breytist í skaðvænlegra afbrigði.  Með mRNA-bóluefni, sem eru nokkrir bútar af genahráefninu mRNA umluktu fituhjúp, getur slíkt ekki gerzt.  Þetta mRNA efni fyrirskrifar ekki, hvernig á að búa til veiru, heldur aðeins, hvernig á að búa til eitt af próteinum hennar, sem kallað er broddur.  Með þessa forskrift úr bóluefninu, framleiða frumur líkamans nú broddinn í miklu magni. Hann veldur viðbragði ónæmiskerfisins til að þróa eyðingu þessu aðskotapróteins.  Ónæmiskerfið mun þá geta brugðizt hratt við næst, þegar vart verður við þessa próteingerð - í þetta sinn sem hluta af broddveiru (kórónuveiru) í innrás. 

Einnig má geta þess, að mRNA er náttúrulegur hluti af lifandi frumum, sem framleiða það og eyða því stöðugt.  Endingartíminn er mældur í dögum.  Þegar mRNA bóluefnisins hefur gegnt sínu hlutverki, er það brotið hratt niður.  Samt ríkir nokkur upplýsingaóreiða um þetta efni.  Sérstaklega skaðleg ósannindi eru, að mRNA í bóluefninu muni breyta DNA samsetningu í frumum bóluefnisþegans.  Þetta er álíka líklegt og eppli Newtons losni úr trénu og fari upp í loftið.  Bullustampar netsins munu ótrauðir halda því fram, að þetta geti gerzt, þótt Isaac Newton hafi sannað hið gagnstæða á 17. öld, en hjátrúarfullir netverjar munu þá óðfluga stimpla hann sem samsærismann.  Það eru engin takmörk fyrir þvættinginum, sem sullast inn á alnetið, en þar er auðvitað einnig ómetanlegur fróðleikur. 

RNA og DNA eru ólíkir hyrningarsteinar gena, og frumur spendýra hafa ekkert efnafræðilegt gangverk til að afrita annan yfir í hinn.

Að mynda og viðhalda trausti almennings til sérhvers vísindalega viðurkennds bóluefnis er mikilvægt.  Slíkt traust er sennilega almennara á Bretlandi en víða annars staðar.  Skoðanakannanir sýna, að 79 % af íbúum landsins hyggjast fá sprautu við C-19, sem er hærra en almennt gerist.  Í Bandaríkjunum t.d. er þetta hlutfall aðeins 64 %.

Þegar allt kemur til alls, eru allar ákvarðanir um, hvort leyfa eigi almenna notkun lyfja teknar á grundvelli mats á áhættu og ávinningi. Við leyfisveitingar á bóluefnum verður hins vegar líklegur ávinningur að vega miklu þyngra en áhættan. Þetta er út af því, að ólíkt lyfjum, sem vanalega eru gefin sjúklingum, eru bóluefnin gefin heilbrigðu fólki. 

T.d. MHRA fær ráðleggingar frá óháðri vísindanefnd fyrir ákvörðun sína.  Þótt nefndarmenn muni hafa vegið og metið marga þætti, þegar ákveðið var að mæla með neyðarsamþykki á BNT162b2, hefur ákveðinn svæsinn útreikningur verið þeim ofarlega í huga, þ.e. hver biðdagur kostar marga lífið.  Á Bretlandi létust 603 úr C-19, daginn sem ríkisstjórnin veitti leyfi til almennrar notkunar á BNT162b2.

Er þessi dánartala há eða lág ?  Á Íslandi deyja að jafnaði 6 manns á dag, sem jafngildir 16,4 ppm þjóðarinnar.  Það hlutfall gefur 1068 látna á dag á Bretlandi í venjulegu árferði.  Viðbótin af völdum C-19 er 56 %, sem er hátt hlutfall, enda hefur verið upplýst, að látnir á Bretlandi vegna C-19 séu nú um 96 k eða 0,15 % þjóðarinnar, sem er hæsta hlutfall, sem sézt hefur í þessum faraldri.  Á Íslandi hafa til samanburðar 79 ppm þjóðarinnar látizt úr C-19.

Þetta gerist á Bretlandi þrátt fyrir mjög strangar sóttvarnarráðstafanir yfirvalda og þar með útgöngubanni og starfrækslubanni af ýmsu tagi og fjöldatakmörkunum af strangasta tagi.  Nú hafa birzt rannsóknir á Bretlandi, sem benda til, að þessar ráðstafanir hafi verið gagnslausar, þ.e. 3 vikum eftir, að þær voru settar á, fækkaði dauðsföllum ekki neitt.  Hafa einhvers staðar birzt marktækar rannsóknir, sem sýna hið gagnstæða ?  Þessar ráðstafanir hafa sjálfar valdið heilsutjóni, eins og rannsóknir sýna líka, og gríðarlegu fjárhagstjóni launþega, fyrirtækja og hins opinbera.  

Hættan við þessa veiru, SARS-CoV-2, er sú, að hún stökkbreytist og verði enn skæðari en þau afbrigði, sem borizt hafa inn í íslenzka samfélagið, bæði meira smitandi og með alvarlegri veikindum og fleiri dauðsföllum á hvern sýktan.  Þekkt er brezka afbrigðið, sem grunur er um, að sé meira smitandi, og nú er komið fram Suður-Afríkanskt afbrigði, sem grunur er um, að valdi meiri veikindum hjá fleiri sýktum.

  Áhyggjur manna hafa t.d. snúizt um það, hvort hin nýsamþykktu bóluefni muni virka í nægilega miklum mæli gegn hinum stökkbreyttu afbrigðum.  Athuganir lyfjafyrirtækjanna (framleiðenda nýju bóluefnanna)  benda til, að bóluefnin virki svipað vel gegn hinum stökkbreyttu afbrigðum.  Það þýðir, að broddpróteinið er enn nægilega lítið breytt eða jafnvel ekkert breytt, til að ónæmiskerfið þekki stökkbreyttan skaðvaldinn, þegar hann gerir innrás í líkamann. 

 

 

                                  

 

 


Kófsviðbrögðin

Viðbrögð heimsins við bráðsmitandi sjúkdómsfaraldri af völdum veiru úr kórónufjölskyldunni, sem er ábyrg fyrir öllum inflúensupestum, sem herjað hafa á mannkynið frá upphafi vega, er rannsóknarefni, því að þau eiga sér enga hliðstæðu.  Ef hættan af völdum þessa sjúkdóms er vegin og metin, virðist hún litlu meiri en af völdum skæðrar hefðbundinnar inflúensu, en smitnæmið er aftir á móti meira.

Þegar afleiðingar sóttvarnaraðgerðanna á líf og heilsu fjölda manns, sem misst hafa atvinnu sína og lent í fátækt af völdum sóttvarnaraðgerðanna, eru virtar, ásamt gríðarlegri skuldasöfnun hins opinbera, fyrirtækja og heimila, þá sækir óhjákvæmilega að sú hugsun, að viðbrögðin séu vanhugsuð, yfirdrifin og að mörgu leyti misheppnuð.

 Er COVID-19 (C-19) eins viðsjárverður sjúkdómur og yfirvöld og meginmiðlar vilja vera láta ?  Sebastian Rushworth, M.D., (SR) hefur á vefsetri sínu sýnt fram á, að dánarhlutfall sýktra í heild er lægra en 0,2 %, sem þýðir, að færri en 1 af hverjum 500 sýktra deyja.  Hér á Íslandi hafa tæplega 6000 manns greinzt með C-19 og 29 látizt úr sjúkdóminum, þegar þetta er ritað, svo að hlutfall látinna af greindum er tæplega 0,5 %, en samkvæmt rannsóknum hérlendis gætu tvöfalt fleiri hafa smitazt en opinberlega hafa greinzt, svo að þokkalegt samræmi er á milli þessara talna hérlendis og talna SR.

Samkvæmt SR er dánarhlutfallið um 0,03 % eða minna en 1 af hverjum 3000 undir sjötugsaldri. Hérlendis eru 4 dauðsföll undir sötugu af völdum C-19 eða 0,07 % af greindum, allt í góðu samræmi við SR að því gefnu, að hlutfall smitaðra og greindra sé a.m.k. 2. 

 

Reynslan af C-19 er sú, öfugt við Spænsku veikina 1918, sem einnig var af völdum veiru af kórónustofni, að faraldurinn leggst þyngzt á aldurhnigna, og athugun SR bendir til, að þeir hefðu hvort eð er átt stutt eftir.  Þannig er yfirleitt ekki um mjög ótímabæran dauðdaga að ræða af völdum C-19, ólíkt því, sem á við um flesta aðra faraldra og átti t.d. við um Spænsku veikina 1918. Þannig leiddi rannsókn SR á tíðni dauðsfalla í ýmsum þjóðfélögum árið 2020 ekki í ljós frávik frá meðaltali.  Á Íslandi voru dauðsföll 2020 marktækt færri en að meðaltali árin 3 þar á undan.  Þetta má vissulega skýra með sóttvarnarráðstöfunum og breyttu hegðunarmynztri fólks.

Fullyrðingar um, að félagslegar ráðstafanir hins opinbera á formi alls kyns hafta á starfsemi og samkomutakmarkana, séu bezta vörnin og jafnvel nauðsynlegar ráðstafanir til að fækka dauðsföllum af völdum faraldurs á borð við C-19, styðjast ekki við vísindalegar rannsóknarniðurstöður.  Kínverska áróðursmaskínan kom þó þeirri flugu inn í höfuð heimsbyggðarinnar í febrúar-marz 2020 með þekktum afleiðingum hvarvetna.

Íslenzka heilbrigðiskerfinu hefur hins vegar í heildina tekizt mjög vel upp við að fást við þennan faraldur, þrátt fyrir augljóst fyrirhyggjuleysi í upphafi og þrátt fyrir ófullnægjandi aðstæður í húsnæði Landsspítalans, sem sumt er um nírætt.  Þær hafa m.a. komið niður á þjónustu við aðra sjúklinga, og eiga landsmenn eftir að bíta úr nálinni með það.

  Bólustning framlínufólks og framlágra ætti strax að létta undir starfsemi sjúkrahúsanna, og þar með þarf mikill fjöldi smita ekki að varpast yfir í ófremdarástand á sjúkrahúsum landsins. Í þessu sambandi eru rannsóknir bóluefnaframleiðenda í 3. fasa þó áhyggjuefni, því að í sumum tilvikum undanskildu þeir viðkvæma hópa frá rannsóknum sínum.  Þetta eru einmitt hóparnir, sem mikilvægast er að veita vernd eða ónæmi gegn því að smitast af SARS-CoV-2-veirunni. Þess vegna er í sumum tilvikum rennt blint í sjóinn með áhrif bólusetningarinnar, og verður gerð grein fyrir rannsóknum SR á þessu síðar.

Það verður að gera þá kröfu til nýja Landsspítalans, að húsnæði hans verði hannað m.a. með hliðsjón af að fást við skæða heimsfaraldra. C-19 sjúkdómurinn er í raun og veru bara létt æfing borinn saman við hrylling á borð við ebólu, sem upp kom í Vestur-Afríku fyrr á þessari öld.

Orðrómur er uppi um "langvinnt kóf".  SR hefur sýnt fram á, að 98 % C-19 sjúklinga hafa náð sér að fullu innan þriggja mánaða, og að engin marktæk gögn styðji, að C-19 leiði til langtíma veikinda (það eru slæm gögn, reist á lággæða rannsóknum, sem hafa verið notuð um allan heim til að skjóta fólki skelk í bringu). 

SR hefur líka bent á, að baráttuaðferðirnar gegn C-19, s.s. meiri háttar hræðsluáróður, frestaðar áformaðar barnabólusetningar og skólalokanir munu leiða til mun fleiri tapaðra lífára en þeirra, sem tapast beint af völdum veirunnar.  Gögnin, sem SR hefur notað til að sýna fram á þetta, eru almenningi aðgengileg og birt í nokkrum rómuðustu og virtustu vísindaritum heimsins. 

Að þessu öllu virtu, hvað í ósköpunum gengur þá á í heiminum ?  Lokanir hafa í mörgum tilvikum verið umfangsmeiri í annarri bylgjunni erlendis en í þeirri fyrstu.  Að sumu leyti á það við um Ísland líka í s.k. þriðju bylgju, þótt við vitum núna mun meira um veiruna.  Það var hyggilegt að fara afar varlega í marz 2020, þegar lítið var vitað um C-19. Það á alls ekki við lengur. 

SR hefur sett fram tilgátu, sem er hans tilraun til að útskýra ótrúlega stöðu Kófsins. Hann hefur unnið með Ulf Martin að smíði þessarar tilgátu, en sá hefur ritað mikið um þessi mál á vefsetri sínu.  Eins og allir vita, hófst C-19 í Kína, og Kína er alræðisríki kínverska kommúnistaflokksins, sem á sér langa sögu strangs eftirlits með fjölmiðlum í Kína og vel smurðrar áróðursvélar. 

 

SR telur, að kínverska forystan hafi fljótt gert sér grein fyrir, að C-19 var ekki alvarleg ógnun, engu verri en slæm inflúensa.  Það var e.t.v. skýringin á upphaflegum viðbrögðum þeirra að þagga umræðu um sjúkdóminn niður og láta hann líða hjá.  Brátt kom þó í ljós, að það var ekki hægt vegna frásagna á félagsmiðlunum, sem dreifðust hratt um þrátt fyrir tilraunir til ritskoðunar.

Þá breyttu yfirvöldin um  baráttuaðferð.  Þau ákváðu að setja á svið sýningu, sem gæti verið beint úr Hollywood-kvikmynd.  Þannig var veröldin mötuð vandlega í janúar og febrúar 2020 á tilbúnum sviðsmyndum frá lokunum og útgöngubanni í Wuhan.  Við sáum hlið að blokkarhverfi rafsoðin föst í lokaðri stöðu, menn í þéttum varnargalla sótthreinsa húsnæði, lík liggjandi á götum úti og flota af tækjum úða yfir allt í kring.

Kannski var þessari sviðsetningu aðallega ætlað að sýna styrkleika.  Kannski var ætlunin að leiða önnur ríki út í þær einstöku sjálfsskaðandi aðgerðir, sem fylgdu í kjölfarið, eða kannski var það bara heppileg aukaafurð af sviðsetningu Kínverjanna. Hvað, sem því líður, þá fullyrtu kínversk stjórnvöld, að þau hefðu ráðið niðurlögum kórónuveirunnar SARS-CoV-2 á rúmlega mánuði.  Þann 11. febrúar 2020 tilkynnti Kína um 6900 ný smit á sólarhring.  Einum mánuði seinna voru ný smit komin niður í 15 á sólarhring í öllu Kína, í landi, þar sem býr 1,4 milljarður manna. 

 

Um þessar mundir, þegar annars staðar er glímt við aðra bylgju faraldursins, tilkynnir Kína um 20 smit á sólarhring.  Yfirvöldin fullyrða, að færri en 5000 manns hafi, enn sem komið er, látizt úr C-19 í Kína.  Það eru færri látnir en í Svíþjóð, landi með íbúafjölda um 0,7 % af Kína. 

 

Af einhverjum ástæðum er lagður trúnaður á tölurnar frá Kína og aðrar upplýsingar þaðan um Kófið þrátt fyrir vitneskju um Kína sem alræðisríki með vel smurða áróðursvél.  Því er treyst, að tímabundin lokun og útgöngubann í Wuhan hafi verið svo árangursrík, að ráðið hafi verið niðurlögum sjúkdómsins í landinu og að faraldurinn hafi ekki tekið sig upp að nýju.

Af reynslunni annars staðar að dæma fær þetta ekki staðizt.  SR hefur sýnt fram á í skrifum sínum með vísun í gögn, að aflokanir stjórnvalda eru almennt óskilvirkar. Á þeim tíma, þegar Wuhan var lokað í febrúar 2020, hafði veiran þegar grasserað í Kína í nokkra mánuði og hlýtur að hafa náð að dreifast vítt og breitt um Kína.  Að loka einni borg, þegar veiran hafði þegar dreift sér um landið, var augljóslega gagnslaus aðgerð og einvörðungu framkvæmd í áróðursskyni. 

Hver varð niðurstaðan af þessu ?  Fjölmiðlar um allan heim fóru í yfirgír og dreifðu myndunum frá Kína um allt.  Þegar smit bárust til annarra landa, voru allir orðnir innstilltir á, að þar væri drepsótt á ferð.  Kröfur komu fram í ritstýrðum fjölmiðlum og á félagsmiðlunum um sams konar aðgerðir yfirvalda og í Kína, úr því að aðgerðir Kínverja hefðu "augsýnilega" borið svo góðan árangur.  Lýðræðislega kjörin stjórnvöld, hrædd um að missa atkvæði, fóru að þessum kröfum. Kjósendur, horfandi upp á stigmögnun stóraðgerða stjórnvalda, ályktuðu þá, að ótti þeirra væri á rökum reistur, og urðu jafnvel enn óttaslegnari og kröfuharðari um sóttvarnaraðgerðir.  Þetta var stýrislaufa með innbyrðis mögnun á aðgerðir.  Afleiðingar þessara óskapa eru þekktar. 

Að öld liðinni munu sagnfræðingar ekki fjalla um C-19 sem drepsótt, sem gengið hafi um heim allan, eins og Spænska veikin, heldur munu þeir taka C-19 sem dæmi um, hversu auðvelt hafi verið á þessum tíma að skapa hugarástand fjöldamóðursýki. Ef við gefum okkur, að þannig sé ástandið, hversu lengi mun þá núverandi móðursýki vara ?

SR telur, að flestar ríkisstjórnir hafi grafið sig ofan í holu varðandi C-19.  Þær hafi dregið upp mynd af hættulegri, jafnvel lífshættulegri sjúkdómi en þau afbrigði af C-19 eru, sem þegar hafa komið fram.  Þær vita þetta, en að játa villu síns vegar núna er ómögulegt.  Sumpart er það vegna þess, að stjórnvaldsaflokanir hafa valdið svo miklum þjáningum, að það mundi stappa nærri sjálfsmorði að segja, að þær hafi verið óþarfar. Sumpart er það vegna þess, að fjölmiðlar og almenningur eru svo sannfærðir um alvarleika sjúkdómsins, að sérhver ríkisstjórn, sem héldi einhverju öðru fram,  fengi á sig merkimiða ábyrgðarleysis og afvegaleiðingar. 

Þess vegna er eina ráðið upp úr holunni að beita töfrabragði.  Töfrabragðið er bólusetning.  Það skiptir engu máli, hvort bóluefnin hafa nokkur einustu áhrif á heildarfjölda dauðsfalla, eða hvort þau vernda gamla og lasburða, sem eru alltaf í mestri hættu vegna alvarlegra sjúkdóma, eða hvort þau hindra útbreiðslu farsóttarinnar.  Hið eina, sem máli skiptir núna er að komast upp úr holunni eins hratt og hægt er án þess að játa að hafa nokkurn tíma leikið afleik í þessari skák við SARS-CoV-2.  Þegar nógu margir hafa verið bólusettir, geta ríkisstjórnir lýst yfir, að hættuástand sé afstaðið.  Þjóðhöfðingja verður hægt að hylla sem hetjur.  Við getum öll tekið upp fyrri siði.    

Þessi pistill er reistur á pistli Sebastian Rushworth, M.D. frá 03.01.2021, "Why did the world react so hysterically to covid ?"

   


Rafbílavæðing og virkjanaþörf

Nokkuð mikið ber á milli mats manna á orkuþörf, aflþörf og virkjanaþörf í landinu vegna rafbílavæðingar.  Hefur því verið slegið fram, að því er virðist í nafni Orkuveitu Reykjavíkur-OR, að ekkert þurfi að virkja fyrir raforkuþörf samgöngugeirans 2030. Slíkar hugmyndir virðast vera reistar á, að skarð verði höggvið í hóp núverandi orkukræfra fyrirtækja á Íslandi, og engir aðrir orkukræfir notendur, t.d. vetnisframleiðendur, fylli í skarðið.  Slíkt svartnættishjal er að engu hafandi.

Þann 9. september 2020 birtist í Markaði Fréttablaðsins fréttatengd grein eftir Þórð Gunnarsson um mat Samorku á orku- og aflþörf frá nýjum virkjunum til að uppfylla skuldbindingu Íslands gagnvart Parísarsamkomulaginu frá desember 2015 um minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda um 21 % m.v. losunina árið 2005.  Samorka áætlar að því er virðist m.v. engan samdrátt í losun annarra farartækja á landi en einkabíla, að rafmagnsbílar þurfi að verða hér 145 k (=þús.) talsins árið 2030.  Í ljósi þess, að þeir eru aðeins 5 k núna, er óraunhæft að ætla, að þeir geti verið 140 k fleiri eftir 10 ár, en á hinn bóginn má ætla, að vetnið hafi þá hafið innreið sína í almenningsvögnum, sendibílum og vinnuvélum.  Miðum þess vegna við 145 k rafmagnsbíla 2030 og athugum, hversu mikilli orku- og aflgetu þarf að bæta við núverandi raforkukerfi til að standast kröfur Parísarsamkomulagsins á þessu eina sviði. 

Meðalakstur fólksbifreiða er 13-14 kkm/ár.  Hún gæti aukizt eitthvað með lægri rekstrarkostnaði.  Notum 14 kkm/ár.

Séð frá virkjun má búast við orkuþörf 0,3 kWh/km.  Þá fæst orkuvinnsluþörf til að mæta skuldbindingum Parísarsamkomulagsins gagnvart samgöngum á landi:

E=14 kkm/ár * 0,3 kWh/km * 145 k = 600 GWh/ár

Ef gert er ráð fyrir, að meðalhleðsluafl (vegið meðaltal hraðhleðslustöðva og heimahleðslustöðva) sé 12 kW og mesti samtímafjöldi bíla í hleðslu sé 10 k eða 7 %, þá er aflþörfin 120 MW.  

Lítum á upphaf greinar Þórðar:

"Umdeilda virkjanakosti þarf að nýta til að draga úr útblæstri".

Flestir virkjanakostir eru nú umdeildir, en það, sem á að ráða, er, hvort Alþingi hafi samþykkt þá í nýtingarflokk eður ei.  Þau, sem vilja standa við Parísarsamkomulagið, geta ekki með heiðarlegu móti sett sig upp á móti löglegum virkjunarkosti, sem orkufyrirtæki vill fara í framkvæmd á til að uppfylla orkuþörf orkuskiptanna. 

"Til að Ísland nái markmiðum Parísarsamkomulagsins um samdrátt útblásturs gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum fram til ársins 2030, þarf að bæta við uppsettu afli sem nemur 300 MW á næstu 10 árum.  Það þýðir, að auka þarf uppsett afl á Íslandi um 10 % næsta áratuginn."

Eins og sést með samanburði við útreikningana hér að ofan, er of í lagt með áætlaða þörf á uppsettu afli af hálfu Samorku, svo að skakkað gæti 180 MW, og munar um minna.  Stýra má þörf á uppsettu afli með breytilegri gjaldskrá og snjallmælum hjá notendum, sem beina notkun þeirra á lágálagstíma.  Nótt og frídagar eru dæmi um lágálagstíma.  Með því móti verður toppálagið vegna endurhleðslu rafmagnsbíla jafnvel aðeins 90-100 MW.

Síðan tók blaðamaðurinn til við að ræða virkjanakosti til fullnægja þörfum rafbílaeigenda fram til 2030:

"Í fyrsta lagi er um að ræða Hvammsvirkjun.  Samkvæmt áætlunum Landsvirkjunar yrði sú virkjun ámóta Búðarhálsvirkjun m.t.t. uppsetts afls eða 93 MW.  Orkuvinnsla Hvammsvirkjunar yrði þó um fjórðungi meiri eða um 720 MWh/ár. Hvammsvirkjun var færð í nýtingarflokk árið 2015.  Hins vegar skilaði Skipulagsstofnun af sér áliti árið 2018, þar sem fram kom, að umhverfisáhrif virkjunarinnar yrðu verulega neikvæð.  Virkjunin myndi nýta frárennsli Búrfellsvirkjunar [Búrfellsvirkjana 1 & 2 ásamt framhjárennsli-innsk. BJo], sem er staðsett ofar í Þjórsá, og því er hægt að stýra rennsli og þar með lónsstöðu Hvammsvirkjunar með nokkurri nákvæmni."

Téð umsögn Skipulagsstofnunar um veruleg umhverfisáhrif af völdum Hvammsvirkjunar á ekki við tök að styðjast.  Rennsli hinnar margvirkjuðu Þjórsár þarna í byggð er tiltölulega stöðugt, og Hvammsvirkjun verður þess vegna rennslisvirkjun með litlu inntakslóni. Ekki er hægt að halda því fram, að náttúruverðmæti fari þar í súginn.  Stöðvarhúsið verður að miklu leyti neðanjarðar og fellur að öðru leyti vel að umhverfinu.  Ef rétt er munað, verður stíflan akfær, og hún bætir þar af leiðandi samgöngur á milli Gnúpverjahrepps og Landssveitar. Engum blöðum er um það að fletta, að fyrir vikið verður Hvammsvirkjun aðdráttarafl fyrir ferðamenn, enda mun Landsvirkjun gera hana vel úr garði og fegra umhverfið, eins og hennar er háttur. 

Eins og lesendur hafa þegar áttað sig á, hentar þessi virkjun rafbílavæðingunni vel.  Hún dugar henni fram yfir 2030 orkulega séð, en við sérstakar aðstæður gæti við lok tímabílsins þurft að bæta við afli.  Viðbótar aflið gæti komið frá fjölmörgum smávatnsaflsvirkjunum, sem nú eru á döfinni, svo og frá uppfærslu á eldri virkjunum, bæði vatnsafls- og jarðgufuvirkjunum.  Slík uppfærsla fæst ýmist með viðbótar vélbúnaði eða nýjum vél- og rafbúnaði með hærri nýtni í stað hins gamla. 

Blaðamaðurinn nefnir hins vegar stórkarlalegri viðbót, sem engin þörf er á fyrir þennan markað fyrir 2030, hvað sem síðar verður, en það er Búrfellslundur, sem nú virðist eiga að verða 30*4 MW = 120 MW vindorkugarður.  Orkuvinnslugeta hans yrði allt að 420 GWh/ár.  Þessi vindorkugarður kæmi vafalaust í góðar þarfir til að spara vatn í Þórisvatni, en slíkur sparnaður kemur tímabundið niður á afli og orkuvinnslugetu Hvammsvirkjunar.   

Franskt fyrirtæki, Qair Iceland ehf., virðist telja vera mjög vaxandi raforkumarkað á Íslandi, sem er vonandi rétt.  Nægir að nefna vetnisframleiðslu.  Qair er með 3 verkefni á takteinum: 

  1. Á Grímsstöðum í Meðallandi á milli Kúðafljóts og Eldvatns, 24*5,6 MW = 134 MW og um 470 GWh/ár.
  2. Á Sólheimum á Laxárdalsheiði.
  3. Á Hnotasteini á Melrakkasléttu.  

Þarna gæti í heildina verið um að ræða a.m.k. 1,0 TWh/ár, sem gæti hentað einni vetnisverksmiðju.  Gjaldeyristekjur af raforkusölu og raforkuflutningum frá þessum vindorkuverum til vetnisverksmiðju gætu í upphafi numið yfir 30 MUSD/ár eða yfir 5 mrdISK/ár, og þar við bætast launagreiðslur, flutningsgjöld, skattar o.fl. frá vetnisverksmiðjunum. 

Íslendingar taka auðvitað þátt í heimsátaki um að stemma stigu við hlýnun jarðar.  Með núverandi fjárfestingarstigi í heiminum í endurnýjanlegum orkulindum, 250 mrdUSD/ár, til 2050 áætlar "The International Renewable Energy Agency", að við aldarlok muni hafa hlýnað um 3°C að meðaltali í heiminum, svo að nauðsynlegt er að gera ráð fyrir aðlögunarráðstöfunum að meiri hlýindum.  Til að hlýindin haldist innan 2°C marka Parísarsamkomulagsins þurfa árlegar fjárfestingar í endurnýjanlegum orkulindum að meira en þrefaldast og fara upp í 800 mrdUSD/ár til 2050.  Íslendingar geta ekki leyft sér að sitja hjá í þessu átaki, þótt alla raforkuvinnslu hérlendis megi telja endurnýjanlega og nánast kolefnisfría. Landsmenn leggja mest að mörkum í þessum efnum með því að nýta endurnýjanlegar orkulindir sínar sem fyrst í þeim mæli, sem reglur og samþykktir Alþingis kveða á um. 

Nýkjörinn forseti Bandaríkjanna mun hleypa nýju lífi í Parísarsamkomulagið, sem BNA munu á ný gerast aðilar að með þeim alþjóðlegu skuldbindingum, sem þar er að finna.  Vísinda- og þróunarmætti BNA verður í kjölfarið í auknum mæli beint að orkuskiptaverkefnum, og fjárfestingar í þessum geira munu aukast.  Hins vegar munar mest um losun annars ríkis út í andrúmsloftið, Alþýðulýðveldisins Kína.  Ætlar miðstjórn kínverska kommúnistaflokksins að láta Bandaríkjunum frumkvæðið eftir í þessum efnum eða hefst samkeppni þessara stórvelda einnig á sviði orkuskipta.  Kína framleiðir nú þegar flesta rafmagnsbíla í heiminum, og þar aka langflestir rafmagnsbílar um götur.  Kínverjar hafa enn fremur tryggt sér mikilvægar aðfangakeðjur fyrir rafgeyma.  Þess vegna leita öflugir austur-asískir framleiðendur nú á önnur mið, t.d. á sviði vetnistækni. Á flugsviðinu er einnig mikils að vænta á næstu 10 árum. Þar er um að ræða rafknúnar flugvélar, sem henta mundu innanlandsflugi hérlendis.  

Miklabraut   Sólknúin flugvél

 

 

 

 


Í verkfærakistu orkuskiptanna

Beðið er tíðinda af sviði þróunar kjarnorku.  Brýn þörf er á nýrri kynslóð kjarnorkuvera, sem tekið geti við af hefðbundinni tækni núverandi kjarnorkuvera, sem kljúfa ákveðna samsætu (ísótóp) frumefnisins úran.  Slík kjarnorkuver hafa í sér innri óstöðugleika við alvarlega bilun í verinu, eins og mörgum er í fersku minni frá "Three Mile Island" í Bandaríkjunum, Chernobyl í Úkraínu og Foukushima í Japan.  Slík þróun nýrrar gerðar kjarnorkuvera er að líkindum langt komin, jafnvel á verum, sem nýtt geta plútónium, sem er mjög geislavirkt úrgangsefni frá hefðbundnum kjarnorkuverum, og fáein önnur frumefni, t.d. þóríum. Þróun vind- og sólarorkuvera hefur gengið mjög vel, þannig að kostnaður við raforkuvinnslu þeirra hefur náð niður að kostnaði raforkuvinnslu í jarðgasorkuverum eða í um 40 USD/MWh, þegar bezt lætur. 

Þessir tveir "hreinu" orkugjafar eru samt með miklum böggum hildar, því að þeir eru óáreiðanlegir.  Þegar sólin skín og vindur blæs, getur orðið offramboð raforku, og þá dettur raforkuverð jafnvel niður fyrir 0, þ.e. raforkunotendum er borgað fyrir að kaupa rafmagn.  Þegar þannig stendur á, er kjörið að ræsa vetnisverksmiðjur á fullum afköstum og rafgreina vatn. Við það myndast vetni, H2, og súrefni, O2.  Vetnið mun sennilega leika stórt hlutverk í orkuskiptunum og eftir þau, því að markaður verður fyrir vetni til að knýja þung ökutæki, vinnuvélar, skip og flugvélar. 

Vetnið getur líka leyst jarðgas af hólmi, þar sem það er notað til upphitunar húsnæðis.  Fyrir slíka vetnisnotkun er að myndast stór markaður núna á Norður-Englandi.  Bretar hafa sett sér markmið um að verða kolefnisfríir árið 2050.  Fyrir Íslendinga geta innan tíðar skapazt viðskiptatækifæri sem framleiðendur vetnis með umhverfisvænum og endurnýjanlegum orkulindum, sem Bretar sækjast eftir.  Í stað þess að leita hófanna hjá brezkum yfirvöldum um viðskipti á milli landanna með rafmagn með talsverðum orkutöpum á langri leið, ættu utanríkisráðherra og iðnaðarráðherra að taka upp þráðinn við brezk stjórnvöld um vetnisviðskipti.  Íslenzk orkufyrirtæki ættu að geta fengið allt að 30 USD/MWh, að viðbættu flutningsgjaldi til vetnisverksmiðju, fyrir raforkuna m.v. núverandi orkunýtni rafgreiningarbúnaðar og markaðsverð á vetni.  Það er vel viðunandi verð, því að meðalkostnaður íslenzkrar raforkuvinnslu er undir 20 USD/MWh.  

Ýmis bílafyrirtæki, t.d. Hyundai í Suður-Kóreu, eru að undirbúa markaðssetningu á fólksbílum með vetnisrafala um borð í stað rafgeyma.  Orkuþéttleikinn á massaeiningu er um 33 kWh/kg, en í rafgeymunum um 50 Wh/kg, þ.e. 0,2 %, og orkuþéttleiki jarðefnaeldsneytis (benzín, dísel) er um 13 kWh/kg, þ.e. 39 % af orkuþéttleika vetnis.   

Unnið er að því að leysa kol og kox af hólmi með vetni við stálframleiðslu. Ef allar hugmyndir um vetnisnotkun heppnast, má tala um vetnishagkerfi í stað hagkerfa, sem nú eru knúin áfram með jarðefnaeldsneyti.  Nú er aflþörf rafgreiningar vatns í heiminum um 8 GW og annar aðeins 4 % markaðarins.  Megnið af vetni heimsins er framleitt úr kolum, olíu og jarðgasi, sem er ósjálfbær aðferð.  Allur núverandi heimsmarkaður mundi þurfa 200 GW og þennan markað má sennilega tvöfalda á 20 árum.  Hann þarf þá 400 GW, sem er 80-föld afkastageta íslenzkra orkulinda, sem líklegt er, að virkjaðar verði. 

Það hefur þótt ljóður á ráði vetnisnotkunar, hversu lág orkunýtnin er við framleiðslu og notkun þess, en hún er um þessar mundir 70 %-80% við framleiðsluna og lægri í vetnisrafölum.  Nú á sér stað mikil þróunarvinna til að auka nýtnina, og er búizt við, að hún verði 82 %-86 % við framleiðsluna árið 2030.  Þar að auki fer kostnaður rafgreiningarbúnaðarins í USD/MW lækkandi. Þegar við þetta bætist viðurkennd þörf á að draga úr bruna jarðefnaeldsneytis í heiminum, þá er kominn verulegur hvati til vetnisnotkunar.  

Það er ljóst, að víðast hvar krefjast orkuskiptin styrkingar raforkukerfanna; ekki aðeins nýrra virkjana endurnýjanlegra orkulinda eða kjarnorkuvera, heldur einnig nýrra og öflugri flutningsmannvirkja (loftlína, jarðstrengja, aðveitustöðva).  Ef hitun húsnæðis á að fara fram með rafmagni, krefst hún enn meiri eflingar flutningskerfisins, sums staðar tvöföldunar flutningsgetunnar.  Það gæti þess vegna víða verið þjóðhagslega hagkvæmast að nota vetni til þess, þar sem nú er notað jarðefnaeldsneyti.  

Fram að árinu 2019 unnu stjórnvöld Bretlands að því markmiði að hafa dregið úr losun jarðefnaeldsneytis um 80 % árið 2050 m.v. árið 1990.  Árið 2019 setti ríkisstjórnin markið enn hærra og vildi, að brezka hagkerfið yrði fyrsta stóra hagkerfi heimsins til að verða 100 % kolefnisfrítt árið 2050.  Nú er þetta aðeins talið mögulegt með verulegri vetnisnotkun. 

Á Íslandi er markaður fyrir vetni m.a. í flutningageiranum í vinnuvélum, vörubílum, langferðabílum (rútum), skipum og flugvélum. Rafvæðing fólksbílaflotans sækir hratt í sig veðrið og fylgir þar fordæmi frá Noregi, sem einnig býr við lágt raforkuverð úr vatnsfallsvirkjunum þar í landi.  Nú, (ágúst 2020) eru rúmlega 5000 fólksbílar alrafknúnir hérlendis.  Það er lágt hlutfall eða um 2 %, en fjölgunin er hröð, því að á 5 árum hefur fjöldinn 21 -faldazt, en með bjartsýni um þróun efnahagsmála og viðvarandi hvata til kaupa á rafmagnsbílum má gizka á, að fjöldi alrafknúinna bíla muni tífaldast á næstu 5 árum. Þeir munu þurfa um 222 GWh/ár frá virkjunum, sem er rúmlega 1 % aukning frá núverandi vinnslu. 

Vetnismarkaðurinn í landinu árið 2025 gæti numið 2,8 kt, ef 10 % langferðabíla og vörubíla og 15 % sendibíla verða þá vetnisknúnir að óbreyttri nýtni vetnisrafala.  Til þess að framleiða það með rafgreiningu og núverandi nýtni rafgreiningarbúnaðar þarf 183 GWh.  Heildarraforkuþörf fartækjageirans mæld við virkjanir verður þá um 405 GWh/ár, sem er aðeins um 2 % aukning núverandi raforkuvinnslu.  Samt útheimtir þessi aukning nýjar virkjanir, ef umtalsverðir notendur falla ekki úr skaptinu.  Til samanburðar er þetta aðeins um 13 % raforkunotkunar ISAL í Straumsvík í góðu árferði.  

Núverandi meginframleiðsluaðferðum vetnis verður að breyta, ef vetnisnotkun á að gagnast loftslaginu.  Samkvæmt skýrslu "International Energy Agency", "The Future of Hydrogen", sem út kom 2019, nam CO2 losun vetnisvinnslu út í andrúmsloftið svipuðu magni og öll samanlögð losun Bretlands og Indónesíu á koltvíildi.  

Vetnisverksmiðjur henta vel til að taka við umframafli frá orkuverum endurnýjanlegrar orku.  Kjörstærð þeirra fyrrnefndu er talin vera 25 %-30 % af uppsettu afli hinna síðarnefndu. 

Það, sem að auki ræður staðsetningu vetnisverksmiðja, er nánd við markað og opinbert regluverk í viðkomandi landi.  Talað er um Chile, Bandaríkin og Spán sem líkleg hýsingarlönd.  Ef þetta hlutfall er heimfært á Ísland, fæst uppsett aflþörf vetnisverksmiðja hér um 350 MW (jarðgufuvirkjunum sleppt).  Með því að nýta umframorku í vatnsorku- og væntanlegu vindorkukerfi mætti flytja út 85 % framleiðslunnar í slíkum vetnisverksmiðjum og nýta 15 % innanlands. 

Ísland býr við orkulöggjöf Evrópusambandsins (ESB), og það er æskilegt og fróðlegt að fylgjast með fyrirætlunum Framkvæmdastjórnar Úrsúlu von der Leyen á orkusviðinu.  Í ljós kemur, að hún ætlar vetninu stórt hlutverk í framtíðinni.  Þannig hefur hún nýlega gefið út skýrsluna "Powering a climate-neutral economy: an EU Strategy for Energy System Integration" og einnig skýrsluna "A hydrogen strategy for climate-neutral Europe". 

Höfundarnir sjá fyrir sér hæga uppbyggingu á framleiðslugetu vetnisverksmiðja í Evrópu, sem nýta umhverfisvæna orku.  Á árabilinu 2020-2024 verði reistar slíkar verksmiðjur í Evrópu að aflþörf a.m.k. 6 GW og framleiðslu a.m.k. 1 Mt/ár.  Í öðrum áfanga (2025-2030) er ætlunin að setja upp rafgreiningarverksmiðjur með aflþörf 40 GW og framleiðslu allt að 10 Mt/ár.  Á lokatímabilinu (2030-2050) verði svo tekin enn stærri skref með framleiðslu gríðarlegs magns vetnis með rafmagni frá kolefnisfríum orkuverum.  

Hlutdeild Íslendinga í þessum markaði verður lítil, en traustur vetnismarkaður mun verða til.  Það virðist þannig verða tiltölulega áhættulítið að fjárfesta í ísenzkum orkulindum og breyta orkunni frá þeim í vetni og beinharðan gjaldeyri með útflutningi á því frá Íslandi til Bretlands og/eða meginlands Evrópu.  

Vetnisvæðinguna á að styrka með stofnun "European Clean Hydrogen Energy Alliance".  Þessi samtök munu hafa innan sinna vébanda iðnaðinn, opinberar stofnanir og frjáls félagasamtök til að styðja við bakið á Stefnumörkuninni ("The Strategy") og til að mynda farvegi fyrir fjárfestingar.  Það er einboðið fyrir íslenzka aðila á orkusviði og jafnvel áhugasama fjárfesta að ganga í þessi samtök til að vinna að framgangi vetnisvæðingar á Íslandi.  

 

 

 

  

 


Er allt með felldu ?

Slegið hefur verið upp sem tímamótauppgötvun, að hérlendis hafi ál verið framleitt með rafgreiningu 500 A straums á súráli án kolefnisskauta og þar af leiðandi án myndunar gróðurhúsalofttegunda. Ekki er ljóst að hvaða leyti tímamót eru fólgin í því, að árið 2020 hafi ál verið rafgreint á Íslandi án koltvíildismyndunar, því að frá árinu 2009 hefur slík framleiðsla farið fram í Tæknimiðstöð Alcoa, utan við Pittsburg í Bandaríkjunum, og slíkt var gert í ýmsum rannsóknarstofnunum í heiminum þar á undan.  Höfundur þessa vefpistils getur ekki séð, að nein tímamót séu fólgin í því að gera á Íslandi, það sem fyrir löngu er búið að gera erlendis.  Jafnvel forseti lýðveldisins hefur verið dreginn inn í tilstandið, og Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samtaka álframleiðenda, hefur tekið undir halelújakórinn hérlendis, þótt honum hefði átt að vera fullkunnugt um staðreyndir málsins. Spurningin er, hvort eigendum álverksmiðjanna á Íslandi sé greiði gerður með þessu sjónarspili, því að t.d. tveir þeirra eru komnir á fremsta hlunn með að rafgreina súrál án kolefnisskauta í verksmiðjurekstri, eins og minnzt verður á síðar í þessum pistli.

Þann 25. júní 2020 birtist grein eftir téðan Pétur í Viðskiptablaðinu, þar sem hann hann mærir þá, sem að framangreindri kolefnisfríu rafgreiningu stóðu á Íslandi, undir fyrirsögn, sem tekur af allan vafa um fyrirætlun höfundarins:

"Tímamót í álframleiðslu".

Hún hófst þannig:

"Það markaði tímamót í álframleiðslu á Íslandi, þegar forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, tók á móti fyrstu álstönginni, sem framleidd er með óvirkum rafskautum í Nýsköpunarmiðstöð Íslands."

Keisarinn er ekki í neinu.  Ef forseti lýðveldisins hefði sagt Justin Trudau, forsætisráðherra Kanada, frá því, hvað honum var afhent þarna, þá hefði sá hinn sami farið að skellihlæja, því að í maí 2018 lagði hann fyrir hönd kanadíska alríkisins stórfé til þróunar tilraunastofukers upp í ker fullrar framleiðslustærðar á vegum fyrirtækisins Elysis, sem er samstarfsfyrirtæki risafyrirtækjanna Rio Tinto og Alcoa.  Til verkefnisins lögðu líka fram fé fylkið Quebec, þar sem fram fer gríðarlega mikil álframleiðsla og þróun á því sviði, og Apple, sem notar dálítið ál og telur þetta samstarf vera hollt fyrir ímyndina.  Alls voru lagðir fram fjármunir að upphæð MUSD 558 eða tæplega mrdISK 80 til þess að þróa tilraunastofuútgáfuna upp í hagkvæma iðnaðarstærð. Við verkefnið starfa 100 manns í Quebec, og ætlunin er, að 1000 manns starfi fyrir Elysis árið 2030.  Þessi þróun mun tryggja störf 10´500 manns í Kanadískum áliðnaði, sem verður sjálfbær eftir innleiðingu þessarar nýju tækni.   

Það er víðar unnið að þessari þróun Elysis en í Quebec.  Í Voreppe í Frakklandi er nú verið að setja upp verksmiðju með nýjum kerum og kerbúnaði.  Verkinu á að ljúka fyrir árslok 2021, þannig að kolefnisfrí framleiðsla áls hefjist þar í iðnaðarmælikvarða á árinu 2022.  Hvað meina menn á Íslandi með sínu tilraunaföndri ?  Er líklegt, að einhver í iðnaðinum sé líklegur til að fjármagna starfsemi, sem augljóslega er töluvert á eftir sinni samtíð ?

Síðan hélt Pétur áfram og fór þar á hundavaði yfir það um hvað tilraunin merkilega snerist um:

"Notuð eru rafskaut úr málmblöndum og keramiki í stað kolefnisskauta, og yrði það bylting, ef tækist að innleiða slíka tækni á stærri skala, því að þá losnar súrefni, en ekki koltvísýringur við álframleiðsluna.  Að verkefninu standa Arctus Metals, sem Jón Hjaltalín Magnússon er í forsvari fyrir, og Nýsköpunarmiðstöð Íslands, en það hefur notið rannsóknarstyrkja frá Tækniþróunarsjóði frá 2016."

Af þessari lýsingu að dæma er téð tilraunarframleiðsla Arctus Metals og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands í engu frábrugðin þeirri, sem fyrir löngu átti sér stað á rannsóknarstofnunum erlendis, bæði í háskólum og hjá alþjóðlegum álfyrirtækjum.  Gamalt vín á nýjum belgjum, sagði einhver. Hvað í ósköpunum ætlast menn fyrir með því að setja fé íslenzkra skattborgara í slíkan leikaraskap hérlendis ?  Stjórnendum Tækniþróunarsjóðs og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands hlýtur að vera ljóst, hversu gríðarlega fjármuni þarf til að þróa lítla tilraunastarfsemi upp í iðnaðarstærð, og að slík þróun er nú tilbúin hjá Elysis og verið að smíða búnað í tilraunaverksmiðju í Voreppe, sem hefja á rekstur um áramótin 2021/2022.  Öllum má ljóst vera, að tilraunir á þessu sviði enda í blindgötu hérlendis vegna þekkingarskorts og fjármagnsskorts.  

"Vakti hann [Jón Hjaltalín Magnússon] athygli á því í sínu erindi, að ef óvirk skaut væru tekin í notkun í álverinu í Straumsvík, þá myndi það framleiða súrefni til jafns við 500 ferkílómetra skóg."

Þetta er hvorki áhugavert né örugglega rétt.  Það er enginn hörgull á súrefni og virðist gert ráð fyrir, að allt súrefnið í koltvíildinu, sem skógurinn tekur upp, losni aftur út í andrúmsloftið sem súrefni.  Það er mjög hæpið, enda verður til vökvi og fast efni við ljóstillífunina, þar sem súrefni er bundið og fer hluti til rótanna.

Það, sem áhugavert er í þessu sambandi, er hins vegar, að álframleiðendur losna við hvimleiðan brennistein og kolaryk úr framleiðsluferlinu og síðast en ekki sízt við koltvíildi, CO2, úr afsoginu. Þetta er þó ekki eina gróðurhúsalofttegundin frá rafgreiningarferlinu, heldur myndast líka öflugar gróðurhúsalofttegundir á borð við C2H4 og C4H6.  Þær munu menn líka losna við úr rafgreiningarferlinu.  Á móti kemur aukin raforkuþörf, því að við bruna kolaskautanna myndaðist varmi í raflausninni. ISAL hefur náð frábærum árangri við að lágmarka myndun þessara gasa, svo að jafngildi gróðurhúsalofttegunda m.v. 215 kt/ár álframleiðslu nemur aðeins 344 kt/ár CO2.  Það er tæplega 7 % af losun frá starfsemi á Íslandi. 

 "Þá ítrekaði hann, það sem áður hefur komið fram, að álframleiðsla losar hvergi minna en á Íslandi.  Munar þar mestu um, að álver á Íslandi eru knúin með sjálfbærum og endurnýjanlegum orkugjöfum, en á heimsvísu er það orka úr jarðefnaeldsneyti á borð við kol og gas, sem losar mest við álframleiðslu.  Þess vegna er kolefnisfótspor álframleiðslu margfalt hærra í löndum á borð við Kína, þar sem 90 % af orkunni er sótt til kolaorkuvera."

Það er hæpið að fullyrða, að "álframleiðsla los[i] hvergi minna en á Íslandi".  Hvað með norskan áliðnað ?  Hann er sá mesti í Evrópu með um 1,2 Mt/ár, sem er um þriðjungi meira en á Íslandi.  Hann fær alla sína orku frá vatnsaflsvirkjunum Noregs, sem yfirleitt er nettóútflytjandi raforku, svo að það er ekki hægt að halda því fram, að jarðefnaeldsneyti knýji norskan áliðnað.  Hvað með vatnsorkulandið Argentínu ?  Þar er áliðnaður, sem reistur var á grundvelli aðgengis að hagkvæmri orku frá vatnsorkuverum, og þannig mætti áfram telja.  Enn fráleitara er að beita prósentureikningi þeim málflutningi til stuðnings, að kolefnisfrí framleiðsla á Íslandi sé umhverfisvænni en t.d. í Kína.  Þessu er í raun öfugt farið, því að Íslendingar hafa náð manna beztum árangri við rekstur álvera, t.d. m.t.t. losunar gróðurhúsalofttegunda.  Fimbulfamb framkvæmdastjóra Samáls ríður ekki við einteyming og er álverum hér ekki til framdráttar:

"Það er reyndar áhugaverð staðreynd, að ef óvirk skaut [þau eru ekki með öllu óvirk, þótt þau hafi margfaldan endingartíma á borð við kolaskautin - innsk. BJo] verða innleidd í íslenzkum álverum, þá verður losun hér á landi hverfandi af álframleiðslu.  En slík tæknibylting dregur einungis úr losun um 15 % í álverum, sem knúin eru með kolum."

Steininn tekur úr í næstu tilvitnun í grein Péturs:

"Enn eru ljón í veginum í frekari tækniþróun, einkum við að skala upp framleiðsluna.  Nú þegar hefur verið lagður grunnur að samstarfi Arctus og NMÍ við álfyrirtækið Trimet um að keyra tilraunaker í fullri stærð í einu af álverum þess í Þýzkalandi.  Fáist íslenzkt fjármagn að verkefninu, verður hönnun og framleiðsla á kerum og stjórnbúnaði unnin á Íslandi."

Það er eins og jólasveinn sé þarna kominn til byggða um hásumarið.  Það er nánast öll þróunarvinnan og allur kostnaðurinn eftir, þótt búið sé að rafgreina "í bala" með 500 A.  Þótt leitað sé með logandi ljósi á heimasíðu hins virðingarverða álfélags Trimet, þá finnst ekki stafkrókur um téð samstarf Arctus, NMÍ og Trimet. Þegar orðin "Arctus Metals" eru slegin inn í leitarvél síðunnar, birtist nákvæmlega ekkert.

  Lokamálsgreinin er annaðhvort óráðshjal eða mjög varhugaverð óskhyggja aðila, sem horfa algerlega framhjá því, hvernig kaupin gerast í álheimum og einnig framhjá hinu augljósa markaðsforskoti, sem Elysis hefur öðlazt. 

Að lokum verður vitnað í aðra kostnaðarsugu, sem Pétur nefnir í grein sinni "Gas í grjót":

"Þá fjallaði BBC nýverið um samstarf íslenzkra stjórnvalda og stóriðju á Íslandi um þróun nýrrar tækni til að dæla niður kolefni, sem myndast við málmframleiðslu.  Ætli bezta lýsingin á því ferli sé ekki "gas í grjót".  Undirstrikað er í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum, að til standi að gera það verkefni að veruleika." 

PR í þágu hverra er þetta ?  Þetta er allt of dýr og óskilvirk aðferð fyrir það gríðarlega gasmagn, sem á ferðinni er frá einu álveri.  Mun ódýrara og þjóðhagslega hagkvæmara er, að íslenzki áliðnaðurinn kaupi bindingu koltvíildis af íslenzkum skógarbændum, þangað til umbylting verður gerð á framleiðsluferlinu, svo að gróðurhúsalofttegundir verði þar úr sögunni. 

 Framkvæmdastjóri Samáls má ekki láta frá sér ónákvæmni á borð við þessa, að kolefni myndist við málmframleiðslu.  Það eru að sjálfsögðu ýmiss konar efnasambönd kolefnis við önnur frumefni, sem myndast.  

isal_winter

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband