Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Af áliðnaðinum

Framleiðsla undirstöðuefna fyrir iðnað heimsins hefur átt mjög á brattann að sækja á þessu ári, og um þverbak keyrði, þegar bráðsmitandi veirusjúkdómur í öndunarfærum manna barst um allan heim frá Kína, og sér enn ekki fyrir endann á ósköpunum. Nú hafa læknar á Langbarðalandi upplýst um þá niðurstöðu reynslu sinnar og rannsókna, að umrædd kórónaveira geti í raun lagzt á hvaða líffæri líkamans sem er.  Það er nýtt af nálinni og bendir til, að eigi sé allt með felldu um tilurð þessarar veiru.

Þar sem sóttvarnaraðgerðir flestra yfirvalda koma í veg fyrir myndun hjarðónæmis, verður SARS-CoV-2 líklega ógnvaldur, þar til bóluefni hefur verið þróað, e.t.v. árið 2021.  Veiran hefur leikið hagkerfi heimsins grátt, lamað atvinnulífið og spurn eftir undirstöðuefnum á borð við ál, járnblendi og kísil, hefur fallið.  Nýlega komu fréttir af tímabundinni lokun kísilverksmiðju PCC á Bakka, vitað er um viðsjárverða framtíð álvers ISAL í Straumsvík, og samningaviðræður Norðuráls og Verkalýðsfélags Akraness voru mjög þungar, þegar síðast fréttist.  

Eftir þóf og þjark hófust alvöru samningaviðræður um raforkusamninginn á milli ISAL/Rio Tinto og Landsvirkjunar seint í maí 2020.  Ef slitnar upp úr þeim samningaviðræðum, mun ISAL að líkindum stöðva starfsemi sína og kaup á öllum aðföngum, þ.m.t. rafmagni, síðsumars. Ætlunin er að leiða í ljós nú í júlí 2020, hvort samningar um endurskoðun raforkuverðs Landsvirkjunar til ISAL geti náðst.

Ekki þarf að orðlengja, að það yrði enn eitt áfallið fyrir efnahag landsins, og tap gjaldeyristekna, sem raska mun viðskiptajöfnuðinum til hins verra með mögulega slæmum afleiðingum fyrir gengi ISK og verðlagið á Íslandi, ef af stöðvun þessarar starfsemi verður.  Þótt fjárhagstap eigandans af þessari starfsemi hafi síðast liðin 2 ár numið tæplega mrdISK 20, þá hefur íslenzka þjóðarbúið verið með allt sitt á hreinu og notið tugmilljarða gjaldeyristekna á hverju ári vegna greiðslna fyrirtækisins fyrir raforku, vinnu starfsmanna þess og verktaka og fyrir ýmsa aðra þjónustu.  

Lítið spyrst út um gang viðræðnanna, en ýmislegt annað gerist, sem er ekki til þess fallið að bæta andann manna á milli í þessum viðræðum.  Í miðju Kófinu tilkynnti Landsvirkjun um tímabundna lækkun raforkuverðs til viðskiptavina sinna með langtímasamninga til að létta undir með þeim.  Fyrirtækið tilkynnti ISAL um 10 % tímabundna lækkun, sem er aðeins 40 % af hámarkslækkuninni, sem tilkynnt var.  Síðan hvarf fyrirtækið frá þessari lækkun án þess að tilkynna um þá stefnubreytingu opinberlega. Hvers konar stjórnarhættir eru þetta eiginlega ?  Ekki er síður furðulegt að innheimta fyrir maí 2020 fyrir meiri raforku en þá var notuð.  Það hefur verið sameiginlegur skilningur beggja fyrirtækjanna á orkusamninginum hingað til, að ákvæðinu um 86 % kaupskyldu af forgangsorku eigi aðeins að beita við ársuppgjör viðskiptanna.  Nú gæti myndazt inneign ISAL hjá Landsvirkjun, því að það er ætlun fyrirtækisins að auka aftur framleiðsluna kröftuglega, ef samningar takast.  Með framferði Landsvirkjunar, t.d. skammarbréfum til Rio Tinto, syrtir stögut í álinn.  

Innan Landsvirkjunar er orðrómur uppi um, að forstjórinn óttist viðbrögð skuldabréfaeigenda, ef kaupskyldan er ekki innheimt jafnóðum.  Hann virðist þannig hafa lofað upp í ermina á sér í blóra við orkusamningana.  Ef slitnar upp úr samningaviðræðum á milli ISAL/RT og LV og ISAL verður lokað, þá mun Rio Tinto vafalítið láta reyna á það frammi fyrir dómurum að fá verulegan afslátt á kaupskyldunni m.a. vegna þess, að LV hafi ekki gengið til samninga í góðri trú.  Forstjóra ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar virðist verða á hver fingurbrjóturinn öðrum verri.  Hann starfar á ábyrgð stjórnar fyrirtækisins.  Hversu lengi er hún reiðubúin að taka þátt í og ábyrgjast þessa gandreið forstjórans ?

Í Morgunblaðinu 24. júní 2020 birtist frétt Höskuldar Daða Magnússonar um "íslenzka uppgötvun" á sviði álframleiðslu.  Nú veit höfundur þessa vefpistils ekki gjörla um smáatriði þessarar uppgötvunar.  Þó kom það fram, að ál hefði verið framleitt við 500 A straum með þessari nýju tækni og að skautin séu úr keramik og málmum.  Þetta rímar við frumbýlingstilraunir álfyrirtækja um aldamótin síðustu við að framleiða ál án kolefna. Hætt er við, að mikilvægi þessarar "uppgötvunar" sé mjög orðum aukið og í raun séu stór álfyrirtæki miklu lengra komin á þessu sviði en fyrirtækið Arctus Metals og Nýsköpunarmiðstöðin. Hvers vegna er látið eins og það sé í fyrsta sinni undir sólunni, að ál er framleitt kolefnisfrítt ?

Sannleikurinn er sá, að Alcan, sem Rio Tinto keypti fyrir allmörgum árum, og Alcoa hafa stundað rannsóknir í mörg ár með það stefnumið að gera álframleiðsluna kolefnisfría.  Sá áfangi að gera þetta í litlu tilraunakeri við 500 A náðist fyrir fjöldamörgum árum. Með því er björninn ekki unninn. Tæknilegi vandinn er að gera þetta með hagkvæmum og öruggum hætti við fullan iðnaðarstraum.  Þá er átt við 1000 sinnum hærri straum en frumkvöðlar á Íslandi voru að föndra við og básúnuðu síðan sem meiriháttar uppgötvun (technical breakthrough ?). 

Fyrir nokkrum árum stofnuðu fyrirtækin Rio Tinto og Alcoa með sér þróunarfélagið Elysis og lögðu fyrirtækinu til mikið fé.  Þetta þróunarfélag hefur náð svo miklum árangri, án þess að berja sér tiltakanlega á brjóst fyrir það, eins og Ketill, skrækur, gerði á sinni tíð, að nú er verið að framleiða kerbúnað fyrir tilraunaverksmiðju Rio Tinto í Voreppe í Frakklandi (þróunaraðstaða franska ríkisálfélagsins Pechiney, sem Alcan keypti á sinni tíð), sem á að verða tilbúin til rekstrar með  fullum iðnaðarstraumi fyrir árslok 2021. Gangsetning þessarar tilraunaverksmiðju markar raunveruleg tímamót í álheiminum, en ef gjörningur Arctus Metals og Nýsköpunarstöðvarinnar mun hafa einhverja þýðingu, á eftir að útskýra í hverju sérstaðan felst m.v. rannsóknir t.d. rússneska álrisans Rusal.

Frétt Höskuldar bar hið vafasama heiti:

"Íslensk tækni í kapphlaupi við risa á álmarkaði".

Efasemdir hljóta að vakna, þegar þess er gætt, að fyrir 20 árum voru ýmsar rannsóknarstofnanir, t.d. í hinu rótgróna áltæknisamfélagi Tækniháskólans í Þrándheimi, NTNU, að feta sig áfram með kolefnisfría álframleiðslu með lágum straumi. Var þetta iðulega kynnt á námstefnum Tækniháskólans í Þrándheimi, sem haldnar voru annað hvert ár. Hérlendis virðist vera um að ræða gamalt vín á nýjum belgjum, og "íslenzka tæknin", sem áhöld geta verið um, hvort er íslenzk, vera a.m.k. tveimur áratugum á eftir tímanum. Ef um einhverja sérstöðu er að ræða, sem hafi marktæka kosti framyfir t.d. Elysis-tæknina, hefur algerlega mistekizt að koma henni á framfæri.  

Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, kom í þessari frétt með fráleita speki.  Hann gerði því skóna, að nýja tæknin myndi hafa minna umhverfislegt gildi, væri hún nýtt Kína, með öll sín kolakyntu orkuver, en á Íslandi.  Lofthjúpur jarðar gerir auðvitað engan greinarmun á því, hvort t.d. 1 Mt/ár eru framleidd með þessari nýju tækni í Kína eða á Íslandi.  Svona málflutningur frá félagi álframleiðenda á Íslandi gerir ekkert gagn.  

Þá var í lok fréttarinnar viðtal við Guðbjörgu Óskarsdóttur, forstöðumann hjá Nýsköpunarmiðsöð Íslands og framkvæmdastjóra Álklasans:

""Við viljum sjá svona lausnir koma sem fyrst hingað til lands, svo [að] það er ánægjulegt, að íslenzkt fyrirtæki sé að vinna að þessari byltingu.  Öll stærstu álfyrirtækin í heiminum eru að horfa til þessarar tækni í framtíðinni", segir Guðbjörg Óskarsdóttir, forstöðumaður hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands og framkvæmdastjóri álklasans.  

Guðbjörg segir, að líklega verði þess ekki langt að bíða, að umrædd tækni verði tekin í gagnið.  Á stórum álmarkaði sé pláss fyrir fleiri en eina lausn. 

"Jón Hjaltalín hefur sagt sjálfur, að álver, sem ekki eru tengd þessum stóru, sýni tækni hans áhuga, enda vilja allir vera með svona lausn, þegar hún kemur og er tilbúin.  Það, að íslenzkur frumkvöðull sé kominn þetta langt núna, styrkir samkeppnisforskot hans."" 

Um þetta er vægast að hafa þá umsögn, að orð Guðbjargar lýsi meðvirkni. Það er fráleitt að tala um nýja tækni, þegar í hlut á tilraunastarfsemi í mælikvarðanum 1:1000, því að megnið af þróunarvinnunni er eftir, og hún er að baki í þróunarverkefninu Elysis. Ef um nýja aðferð er að ræða, í hverju lýsir hún sér, og hverjir eru kostir hennar m.v. við löngu þekktar aðferðir háskólasamfélaga og álrisa ? 

Fyrir utan rafkerfið í álverksmiðju, þá er rafgreiningin hjartað í henni.  Í hvoru tveggja liggja gríðarlegar fjárfestingar.  Engum, sem snefil af þekkingu og reynslu hefur af starfsemi þessa geira, dettur í hug, að nokkurt álfyrirtæki kjósi fremur samstarf við smáfyrirtæki og nýgræðing á þessu sviði, sem virðist vera langt á eftir tímanum, en þróaða og reynda tækni, sem tækni Elysis verður eftir áratug. 

Hugtakaruglingur tröllríður umfjöllun sumra fjölmiðla um álframleiðslu.  Hann var áberandi í frétt Markaðar Fréttablaðsins 25. júní 2020 og kom fram í fyrirsögninni:

"Juku framleiðslu hreins áls eftir lokanir á meginlandinu".

Í þessu felst fullkomin mótsögn, því að hreinálsframleiðsla er sérgrein, sem ekki þrífst, ef markaðir "lokast".  Hreinál er yfir 99,9 % ál, sem yfirleitt næst aðeins með flóknu hreinsiferli í steypuskála, en það sem í fyrirsögninni er átt við, er hráál, ómeðhöndlað ál, beint upp úr venjulegum rafgreiningarkerum, sem ekki er notað beint í neina framleiðslu, heldur fer allt í endurbræðslu. Hráál keranna inniheldur vanalega minna en 97,5 % ál.  Þetta hlutfall mun hækka með innleiðingu kolefnisfrírrar framleiðslutækni. Á hrááli og hreináli er grundvallarmunur, og ruglingurinn kann að stafa af ónákvæmri orðanotkun talsmanna sumra álveranna, þó ekki ISAL, því að blaðafulltrúi fyrirtækisins notaði orðið "hráálskubbar", sem getur verið rétt, en einnig eru sums staðar við lýði hleifasteypuvélar, og þar eru steyptir hráálshleifar við þessar og aðrar aðstæður, þar sem ríður á að halda uppi eða auka til muna afkastagetu steypuskálanna án þess að steypa samkvæmt pöntunum.  

Upphaf þessarar fréttar Markaðarins var þannig:

"Þegar kórónuveirufaraldurinn hafði skollið á Evrópu af fullum krafti, brugðust íslenzku álverin við með því að framleiða hreinál í stað sérhæfðara málmblendis að sögn talsmanna álveranna.  Minni orkukaup og afslættir á raforkuverði til stórnotenda munu draga úr tekjum Landsvirkjunar á árinu [2020]."

Þessi frásögn bendir til, að vitleysan eigi rætur að rekja til talsmanna Norðuráls og Fjarðaáls, en þeir mega ekki mæta svona illa lesnir til leiks.

Svo undarlega sem það hljómar, þá hefur stóriðjufyrirtækið, sem hæst verð greiðir fyrir raforku Landsvirkjunar, enn engan Kófsafslátt fengið, þótt fyrirtækið hafi í apríl 2020 tilkynnt ISAL um 10 % lækkun.  Ekki nóg með það, heldur rukkaði fyrirtækið fyrir meiri orku en notuð var í maí.  Þetta heitir ruddaframkoma, þegar ekki er skafið utan af óþverranum. 

Landsvirkjun reyndi í Kófinu að koma sér í mjúkinn hjá eigendum sínum (hún gefur skít í viðskiptavinina), og til marks um slepjuháttinn er eftirfarandi úr sömu frétt:

"Afslættir til stórnotenda einir og sér námu allt að 25 % og munu kosta fyrirtækið a.m.k. mrdISK 1,5 á þessu ári.  Orkukaup álveranna hafa að sama skapi verið minni á þessu ári en hinu síðasta, en ekki liggur fyrir, hversu mikið þessi minni eftirspurn raforku mun kosta Landsvirkjun að sögn talsmanns Landsvirkjunar."

Upphæðin mrdISK 1,5, sem talsmaður Landsvirkjunar segir hana fórna með sjálfskipaðri verðlækkun, er dropi í hafið og t.d. aðeins um 11 % af tapi ISAL 2019.  Það er víða pottur brotinn.

S1-ipu_dec_7-2011

 

 

 

  


Bakkabræður moka ofan í skurð

Það er upp lesið og við tekið, að uppþurrkaðar mýrar valdi meiri losun gróðurhúsalofttegunda en venjulegir móar eða mýrarnar sjálfar. Þó er vitað, að frá mýrum með tiltölulega lágt vatnsyfirborð getur streymt mikið magn metans, CH4, sem er meira en 20 sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en koltvíildi, CO2, sem frá nýþurrkuðum mýrum streymir.

Með flausturslegum hætti hefur ríkisvaldið látið undan einhvers konar múgsefjun á grundvelli rangra losunartalna og greitt styrki til að moka ofan í skurði án þess t.d. að mæla losun viðkomandi móa fyrir og mýrar eftir ofanímokstur.  Það er svo mikill breytileiki frá einum stað til annars, að þessi vinnubrögð er í raun ekki hægt að kalla annað en fúsk, og eru þau umhverfisráðuneytinu til vanza.

  Það er líka ráðuneytinu til vanza að hafa ekki nú þegar leiðrétt gróft ofmat á losun uppþurrkaðra mýra á grundvelli nýrra upplýsinga, sem stöðugt koma fram.  Fyrir þessu gerði Hörður Kristjánsson nákvæma grein í Bændablaðinu miðvikudaginn 20. maí 2020.

Í fyrsta lagi er viðmiðunarlengd framræsluskurðanna ekki mæld stærð,  heldur áætluð 34 kkm, sem er að öllum líkindum of langt, t.d. af því að hluti skurða er aðeins ætlaður til að veita yfirborðsvatni frá og á ekki að vigta í þessu sambandi.

Í öðru lagi er áhrifasvæði hvers skurðar reiknað 2,6 falt það, sem nú er talið raunhæft.  Þetta ásamt nokkurri styttingu veldur því, að þurrkaðar mýrar spanna sennilega aðeins 38 % þess flatarmáls, sem áður var áætlað. 

Í þriðja lagi styðst Umhverfisráðuneytið við gögn að utan um losun á flatareiningu þurrkaðs lands, en vísindamenn hafa bent á, að hérlendis er samsetning jarðvegar allt önnur, og meira steinefnainnihald hér  dregur úr losun.  Umhverfisráðuneytið notar stuðulinn 2,0 kt/km2=20 t/ha, en höfundur þessa pistils telur líklegra gildi vera 40 % lægra og nema 1,2 kt/km2. Er það rökstutt með tilvitnunum í vísindamenn í þessum pistli.

Í fjórða lagi hefur verið sýnt fram á, að jafnvægi niðurbrots hefur náðst 50 árum eftir uppþurrkun.  Þar verður þá engin nettó losun.  Höfundur þessa pistils áætlar, að nettó losunarflötur minnki þá um 38 % niður í 1,0 kkm2, og er það sennilega varfærin minnkun, sbr hér að neðan.

Þegar nýjustu upplýsingar vísindamanna eru teknar með í reikninginn, má nálgast nýtt gildi um núverandi losun gróðurhúsalofttegunda frá uppþurrkuðum mýrum þannig (áætluð heildarlosun):

  • ÁHL2=1,0 kkm2 x 1,2 kt/km2=1,2 Mt CO2eq

Gamla áætlunin er þannig (og var enn hærri áður):

  • ÁHL1=4,2 kkm2 x 2,0 kt/km2=8,4 Mt CO2eq

Nýja gildið er þannig aðeins 14 % af því gamla, og er sennilega enn of hátt, sem gefur fulla ástæðu til að staldra við og velja svæði til endurvætingar af meiri kostgæfni en gert hefur verið og minnka umfangið verulega.  Þessi losun er ekki stórmál, eins og haldið hefur verið fram af móðursýkislegum ákafa.

Grundvöll þessa endurmats má tína til úr Bændablaðsumsumfjölluninni, t.d.:

"Þá hafa bæði dr Þorsteinn Guðmundsson, þá prófessor í jarðvegsfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands, og dr Guðni Þorvaldsson, prófessor í jarðrækt við LbhÍ, bent á í Bændablaðinu mikla óvissu varðandi fullyrðingar um stærð mýra og losun."

Þeir hafa m.a. bent á, að ekki sé nægt tillit tekið til "breytileika mýra og efnainnihalds".  Af þessum sökum er nauðsynlegt að mæla losun í hverju tilviki fyrir sig til að rasa ekki um ráð fram.  Í grein í Bbl. í febrúar 2018 skrifuðu þeir ma.:

"Íslenzkar mýrar eru yfirleitt steinefnaríkari en mýrar í nágrannalöndunum, m.a. vegna áfoks, öskufalls, mýrarrauða og vatnsrennslis í hlíðum, og lífrænt efni er að sama skapi minna."

"Þá benda þeir á, að samkvæmt jarðvegskortum LbhÍ og RALA sé lítill hluti af íslenzku votlendi með meira en 20 % kolefni, en nær allar rannsóknir á losun, sem stuðzt hafi verið við, séu af mýrlendi með yfir 20 % kolefni."

""Það þarf að taka tillit til þessa mikla breytileika í magni lífræns efnis, þegar losun er áætluð úr þurrkuðu votlendi", segir m.a. í greininni." 

"Þorsteinn og Guðni telja líka, að mat á stærð lands, sem skurðir þurrka, standist ekki.  Í stað 4200 km2 lands sé nær að áætla, að þeir þurrki 1600 km2.  Þá sé nokkuð um, að skurðir hafi verið grafnir á þurrlendi til að losna við yfirborðsvatn, þannig að ekki sé allt grafið land votlendi.  Mat sitt á umfangi votlendis byggja þeir m.a. á því, að algengt bil á milli samsíða framræsluskurða á Íslandi sé 50 m, en ekki 130 m, eins og miðað er við í útreikningum, sem umhverfisráðuneytið hefur greinilega byggt á.  Áhrifasvæði skurðanna geti því vart verið meira en 25 m, en ekki 65 m út frá skurðbökkum."

Áhrifasvæði skurðanna er lykilatriði fyrir mat á losun frá uppþurrkuðum mýrum. Umhverfisráðuneytið og Umhverfisstofnun virðast hafa kastað höndunum til þessa grundvallaratriðis áður en stórkarlaleg losun gróðurhúsalofttegunda var kynt með lúðraþyt og söng.  Miðað við auðskiljanlegan rökstuðning ofangreindra tveggja vísindamanna er líklegt flatarmál uppþurrkaðra mýra hérlendis aðeins 38 % af handahófskenndu opinberu gildi.  Þetta er óviðunandi frammistaða opinberra aðila.  Betra er að þegja en að fara með fleipur.

Hugsandi fólk hefur áttað sig á því, að niðurbrot lífrænna efna í uppþurrkuðum mýrum hlýtur að taka enda, og þar af leiðandi er stór hluti þeirra orðinn áhrifalaus á hlýnun jarðar.  Þetta er staðfest í neðangreindu:

"Í meistararitgerð Gunnhildar Evu Gunnarsdóttur við Háskóla Íslands frá 2017 var reynt að meta losun kolefnis í þurrkuðum mýrum.  Niðurstöður hennar benda til, að losun sé mest fyrstu árin, en sé síðan hlutlaus að 50 árum liðnum. Það er ekki í samræmi við þær viðmiðunartölur, sem yfirvöld á Íslandi styðjast við í sínum aðgerðaráætlunum.  Það þýðir væntanlega, að losunartölur geti verið stórlega ýktar og mokstur í stærstan hluta skurða á Íslandi kunni því að þjóna litlum sem engum tilgangi.  Jarðraskið, sem af því hlýzt, gæti hins vegar allt eins leitt til aukinnar losunar."

Hér er kveðið sterkt að orði, en allt er það réttmætt, enda reist á rannsóknum kunnáttufólks á sviði jarðvegsfræði.  Höfundur þessa pistils dró aðeins úr virkum losunarfleti um 38 % (minnkaði 1600 km2 í 1000 km2), sem er mjög varfærið, sé ályktað út frá tilvitnuðum texta hér að ofan.  Umhverfisráðuneytið virðist þess vegna vera á algerum villigötum, þegar það básúnar heildarlosun frá þurrkuðum mýrum, sem er a.m.k. 7 falt gildið, sem nokkur leið er að rökstyðja út frá nýjustu niðurstöðum í þessum fræðaheimi.  Taka skal fram, að mun meiri rannsóknir og mælingar eru nauðsynlegar á þessu sviði áður en nokkurt vit er í að halda áfram ofanímokstri skurða til að draga úr hlýnun jarðar.    

 

 


Yfirdrifin svartsýni gerir illt verra

Þann 29. október 2019 birtist grein í Morgunblaðinu eftir Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðing hjá Veðurvaktinni ehf., undir fyrirsögninni:

"Úlfakreppa Parísarsamningsins".

Þar koma nytsamlegar upplýsingar fram og látnar eru í ljós efasemdir um losunarmarkmið gróðurhúsalofttegunda í kjölfar Parísarsamkomulagsins frá desember 2015, sem Ísland hefur staðfest aðild sína að.  Þar snýst allt um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum, en ætlunin er að leyfa útreikning og mælingar á bindingu CO2 til mótvægis við losunina.  Það getur riðið baggamuninn fyrir íslenzka ríkið á stund uppgjörsins í lok áfangans 2030, þegar reikningsskilin fara fram, því að sektir fyrir umframkeyrslu mun þurfa að reiða fram, reyndar fyrir hvert áranna 2020-2030.  Sú staða ein og sér segir okkur, að þessi losunarmál þarf að taka alvarlega, og þau koma við pyngjuna, bæði í bráð og lengd.

Heimslosun af mannavöldum mun um þessar mundir nema um 40 mrdt/ár CO2; þar af nemur sú íslenzka um 5,0 Mt/ár CO2 eða rúmlega 0,01 %. Af þessu má draga þá ályktun, að öll losun hérlendis (án millilandaflugs og -skipa) er svo hlutfallslega lítil, að hún er langt innan óvissumarka í losunarbókhaldi heimsins og hefur sama og engin áhrif á hlýnun andrúmsloftsins. 

Engu að síður er sjálfsagt að sýna samstöðu í átakinu um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, og íslenzk stjórnvöld hafa skuldbundið landið til þess, bæði á vettvangi Sameinuðu þjóðanna (Parísarsáttmálinn) og á vettvangi EES (Evrópska efnahagssvæðið), þar sem markmiðið er að draga úr losun um 40 % árið 2030 m.v. 1990. Ólíklegt er, að það takist, en Einar Sveinbjörnsson kynnti í grein sinni til sögunnar nýtilkomna lágmarksminnkun, sem er 29 % m.v. 2005, og má kalla hana raunhæfa að því tilskildu, að stjórnvöld dragi í engu úr fjárhagslegum hvötum sínum allan næsta áratug og beini innheimtufé kolefnisgjalda til uppbyggingar innviða fyrir orkuskiptin og til kolefnisbindingar. 

Í fljótu bragði kann að líta svo út fyrir, að Íslendingar hafi staðið sig illa á þessu sviði.  Svo er þó ekki, ef horft er lengra aftur, t.d. til 1950, því að þáttur jarðefnaeldsneytis í hagkerfinu hefur minnkað hratt með því að nýting jarðhita og vatnsfalla hefur leyst jarðefnaeldsneyti af hólmi við hitun húsnæðis, mest alla aðra heimilisnotkun orku (nema til að komast leiðar sinnar) og við að knýja iðnaðarferla. 

Um þessar mundir nemur hlutdeild þessara innlendu orkulinda tæplega 70 % af heildarorkunotkun landsmanna (að orkunotkun millilandaflugvéla og -skipa slepptri), en á heimsvísu var þetta hlutfall 19,3 % árið 2015.  Jarðefnaeldsneytið stóð þá undir 78,4 % orkunotkunar heimsins og kjarnorkan 2,3 %.  Þetta ásamt mikilli fjölgun tegundarinnar "homo sapiens" á jörðunni er kjarni vandamáls jarðarbúa varðandi losun koltvíildis, og þessu tengt er, að af tæknilegum, félagslegum og efnahagslegum orsökum gengur hvorki né rekur að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis á heimsvísu, þrátt fyrir fögur fyrirheit aðildarlanda Parísarsáttmálans. Samkvæmt UNEP (Umhverfisverndarstofnun Sameinuðu þjóðanna) verður losun manna á gróðurhúsalofttegundum að minnka að meðaltali um 7,6 %/ár 2020-2029 til að koma í veg fyrir hlýnun jarðar um meira en 1,5°C m.v. hitastig fyrir iðnbyltingu, 1750 (hitastigsskýrslur frá þeim tíma eru ekki til).  Það má slá því föstu, að þetta er ógjörningur, og það væri ábyrgðarleysi að leggja þetta til, því að tæknin er ekki tilbúin til að fást við þetta.  Það þýðir í raun hrun siðmenningar, ef þetta yrði reynt.  Þessi árlegi samdráttur myndi ekki aðeins þýða viðsnúning á núverandi árlegu aukningu losunar um 1,5 %/ár, heldur minnkun losunar um 2-3 mrd t CO2eq/ár, sem er óraunhæft.  Árleg minnkun losunar vegna stöðvunar á öllu flugi yrði ekki hálfdrættingur upp í þessa þörf.  

Þó ber að geta þess, að á Vesturlöndum er losunin tekin að þokast í rétta átt.  T.d. minnkaði GHG (gróðurhúsagas)-losun ESB-landanna um 2,0 % árið 2018 m.v. 2017 og var þá 23 % minni en 1990 (njóta góðs af mikilli losun A-Evrópu fyrir fall kommúnismans), en markmið ESB er 40 % minnkun árið 2030 m.v. 1990. Þá virðist orkunýtni taka góðum framförum í ESB, því að 2018 nam losunin sem hlutfall af VLF (verg landsframleiðsla) 303 g CO2eq/EUR með flugi innan EES, en á Íslandi 246 g CO2eq/EUR án flugs innan EES. Sé losun íslenzkra flugvéla innan EES tekin með, fer þessi sértæka losun liklega yfir ESB-gildið, enda leikur flugið stærra hlutverk í hagkerfi eyþjóðar en meginlandsþjóða.  

Tilraunir vestrænna þjóða til að minnka hlutdeild jarðefnaeldsneytis í heildarorkunotkun þeirra, t.d. við raforkuvinnslu, hafa því miður mest beinzt að orkugjöfum, sem geta ekki orðið nein burðarstoð í orkuvinnslunni vegna lítilla og plássfrekra eininga, sem eru bundnar við slitrótt aðgengi að sinni orkulind, þ.e. vindi og sólskini, sem aðeins sjá heiminum fyrir 5,5 % raforkunnar þrátt fyrir gríðarlegar fjárfestingar.   

EROI (Energy Return On Investment) fyrir sólarhlöður og vindmyllur, þ.e. hlutfall á milli raforkunnar, sem þær framleiða á afskriftatíma sínum og fjárfestingarupphæðarinnar, er mun lægra en fyrir orkuver knúin jarðefnaeldsneyti samkvæmt Michael Kelly í Cambridge University, og þetta mun draga úr hagvexti og tefja orkuskiptin. Það dugir ekki til mótvægis, þótt sólarhlöður og vindmyllur geti núna við sín hagstæðustu skilyrði framleitt rafmagn með lægri tilkostnaði á orkueiningu en kola-og jarðgasorkuver. Þessi þróun leiddi samt til þess, að 2016 var fyrsta árið, sem ný orka úr endurnýjanlegum orkulindum slagaði í fyrsta skipti í sögunni upp í nýja orku úr jarðefnaeldsneyti. 

Kalifornía mun ná markmiði sínu um að framleiða þriðjung raforku sinnar úr endurnýjanlegum orkulindum 2020, og þar ætla stjórnvöld að setja fylkinu markmið um hækkun upp í 60 % árið 2030.  Stærð hagkerfis Kaliforníu er sambærileg við stærð stærstu hagkerfa Evrópu, en virðist munu verða á undan þeim að þessu leyti.

Þýzkaland ætlar samt að framleiða 80 % raforku sinnar úr endurnýjanlegum lindum árið 2050, en þar í landi gætir eðlilega efasemda um, að hægt sé að framleiða svo mikið í jafnþéttbýlu landi einvörðungu með vindi, sól, lífmassa og fallorku vatns.  Þar kann innflutningur rafmagns frá Norðurlöndunum að verða mjög eftirsóknarverður til að fylla í skörðin, þegar vind og sólskin vantar.  Ástæða er til að ætla, að hugmyndafræði Orkusambands Evrópu, sem Framkvæmdastjórn ESB hefur umsjón með, snúist sumpart um þetta og komi fram í mikilli áherzlu á samtengingu orkukerfa.  Nýir orkugjafar, t.d. þóríum kjarnorka, kunna að verða mjög gagnlegir við afnám kolaorkuvera og annarra orkuvera jarðefnaeldsneytis.  

Heildarhlutdeildin, 19,3 %, skiptist þannig 2015:

  1. Lífmassi til rafmagns og hitunar: 9,1 %
  2. Jarðhiti og sólskin til hitunar:  4,2 %
  3. Vatnsorkuver fyrir afl og orku:   3,6 %
  4. Vindur og sól til raforkuvinnslu: 1,6 %
  5. Lífeldsneyti á fartæki:           0,8 %
Aftur að grein hins góðkunna veðurfræðings, sem vikið var að í byrjun:
 
"Fyrr í þessum mánuði [október 2019] náðist samkomulag Íslands og Noregs við ESB á sviði loftslagsmála.  Landsmarkmið Íslands kveður á um 40 % samdrátt [2030 m.v. 1990-innsk. BJo].  Samkvæmt samkomulaginu er lágmarksframlag Íslands 29 % samdráttur í losunargeiranum utan ETS-viðskiptakerfisins, og er það miðað við árið 2005.
Þetta er ekki alveg auðvelt að skilja, en rétt er að hafa í huga, að þriðjungur þess stabba, sem þarf að ráðast á, kemur frá vegasamgöngum.  Í ljósi þess er skynsamlegt, að önnur meginstoð aðgerðaáætlunar ríkisstjórnarinnar séu orkuskipti í samgöngum með áherzlu á rafbílavæðingu.  Hitt verkefnið snýr að bindingu kolefnis með skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis." (Undirstr. BJo.)
 
Hér eru töluverð tíðindi á ferð, sem ekki hafa farið hátt.  Þó er verið að slaka á klónni varðandi losunarkröfuna 2030 fyrir landið.  Hún var sú fyrir losun frá landfarartækjum og vinnuvélum, að hún yrði undir m1=0,6x621 kt = 373 kt árið 2030, sem er aðeins um 37 % af núverandi (losun af völdum landfartækja er um fimmtungur af heild), en samkvæmt upplýsingum Einars Sveinbjörnssonar verður krafan m2=0,71x730 kt = 518 kt eða um 52 % af núverandi gildi. Munurinn er 145 kt CO2/ár eða um 15 % af núverandi losun frá landumferð.
Þetta nýja markmið er mun skynsamlegra en hið eldra og gæti jafnvel verið raunhæft, ef hvatar fara vaxandi til að kaupa farartæki án benzín- eða dísilhreyfils. Þá er átt við, að umhverfisvæn farartæki munu verða ódýrari m.v. hin með vaxandi fjöldaframleiðslu og tækniþróun nýorkufarartækja.  Ef stjórnvöld vilja endilega leggja á kolefnisgjöld, er algert skilyrði að lækka aðra skatta á móti, til að draga ekki úr þrótti hagkerfisins, og kolefnisgjöldin á þá að fella niður, þegar áfangamarkmiðum er náð, eins og fiskiskipaútgerðirnar hafa nú náð fyrir 2030 samkvæmt strangara markmiðinu. Áframhaldandi öflugar fjárfestingar í togskipum, 2-3 á ári, ásamt a.m.k. 20 nýjum vélbátum árlega, tryggir góðan árangur við að auka eldsneytisnýtnina og að fá vélar, sem nýtt geta lífolíu, t.d. íslenzka repjuolíu. Óþverraloft á þéttbýlisstöðum í þurrum froststillum vetrarins undirstrika þörfina hérlendis á orkuskiptum vegfartækjaflotans, og þau eru þjóðhagslega hagkvæm.
 
"Tölur úr losunarbókhaldi ná aðeins til ársins 2017.  Skoðum þess í stað innflutning á eldsneyti.  Í nýrri samantekt Orkustofnunar sést, að innflutningur á benzíni og dísilolíu jókst um 15-16 % frá 2015-2018.  Það er alls ekki hægt að segja, að aðlögunin byrji vel og fátt, sem bendir til þess, að snúningur niður á við sé hafinn."
 
Þetta er mikilvæg ábending hjá Einari.  Hagkerfi landsins er orkuknúið, og núverandi vaxtarbroddar eru eldsneytisknúnir að miklu leyti, t.d. ferðamennskan og og fiskeldið, sem jukust mikið á þessu tímabili.  Bætt nýtni véla í nýjum fartækjum vóg á móti og mun hafa mikil áhrif á næsta áratugi einnig.  Meðalaukning eldsneytisnotkunar frá gerð Parísarsáttmálans er um 5,0 %/ár, sem er svipað og hagvöxtur sama tímabils. Þetta er þrefalt hlutfall aukningar á heimsvísu. Hagvöxturinn er eldsneytisknúinn. Aðeins tækniþróunin breytir því, og hún er ekki tilbúin fyrir orkuskipti.  Þess vegna er flas ekki til fagnaðar.
 
Síðan 2008 hefur olíunotkun heimsins aukizt um 1,4 % árlega og nemur nú 95 M tunnum á sólarhring.  Ef ekki verður hafin stórfelld uppbygging kjarnorkuvera á næstunni, verður ekki hægt að skera niður olíunotkun án þess að valda heimskreppu um leið. Kínverjar eru þó með slík áform, bæði með notkun þóríum- og úraníumkjarnakljúfa. Með öðrum orðum mun taka lengri tíma en 20-30 ár að framkvæma orkuskiptin, ef ekki á að kalla efnahagskreppu yfir heimsbyggðina með örvæntingu og aukinni ófriðarhættu.  Við verðum að búa okkur undir 2°C hækkun meðallofthitastigs á jörðunni frá núverandi gildi. Það er ekki fordæmalaust, en mun breyta lífsskilyrðum á jörðunni til hins betra og verra.
  Framvindan á Íslandi markast sem betur fer ekki af þróun kjarnorkunnar, heldur af þróun farartækja á landi, í lofti og á sjó, sem knúin verða öðrum orkugjöfum en jarðefnaeldsneyti, og af framvindu uppgræðslu og skógræktar til kolefnisbindingar. Nú berast t.d. fregnir af því, að fyrirtæki í Suður-Kóreu hafi þróað næstu kynslóð Liþíum-rafgeyma, sem tekur innan við 10 mínútur að endurhlaða að fullu og eru með mun meiri orkuþéttleika í kWh/kg en forverar þeirra. Slík framþróun mun hraða rafbílavæðingu mjög. Það er þó lítið vit í henni, nema raforkuvinnslan sé kolefnafrí.
 
"Stór áform stjórnvalda eru um rafbílavæðingu.  Sumir eru hástemmdir og tala um byltingu í samgöngum landsmanna.  En frá 2015 hefur fólksbílum, sem ganga fyrir benzíni eða [dísil] olíu fjölgað úr 223 k í 252 k árið 2018.  [Þetta eru 13 %, sem passar við fyrrnefnda þróun olíuinnflutnings-innsk. BJo.] Tvíorku- eða hreinir rafbílar hafa hafa farið frá því að vera 3200 2015 í 14´400 á síðasta ári. Hlutfallslega voru þeir tæplega 6 % fólksbílaflotans [fólksbílar/jeppar 2018 voru um 266,4 k-innsk. BJo]."
 
Enn fjölgar hefðbundnum jarðefnaeldsneytisbílum um 2,6 fyrir hvern 1 "nýorkubíl".  Það er eðlilegt í ljósi verðmunar, takmarkaðrar drægni, vandkvæða við endurhleðslu í fjölbýlishúsum og allt of fárra hleðslustöðva í bæjum og í dreifbýli, bæði fyrir hraðhleðslu og hefðbundna hleðslu.  Þá kunna og sumir að bíða eftir vetnisbílum (með eigin rafala knúnum vetni).  Japanir hafa mikinn áhuga á þessari tækni til að forðast ofurvald Kínverja yfir torgæfum málmum fyrir Liþíurafgeyma. 
Viðhald rafbílanna er ódýrara en dísil-benzínbílanna, þar til kemur að endurnýjun rafgeymanna, og þeir hafa verið dýrir, en verð þeirra fer lækkandi, þótt hráefnaskortur geti sett strik í reikninginn. Nýja kynslóð Liþíumrafgeymanna, sem minnzt var á, mun duga út meðalendingartíma bíla. Hver er líkleg þróun ?  Fyrst til veðurfræðingsins:
 
"Einfalt raunsætt mat segir, að markmiðið um 30 % samdrátt í losun til ársins 2030 náist alls ekki með þessu áframhaldi.  Raunin er sú, að losun Íslands á gróðurhúsalofttegundum hefur haldið áfram að aukast, frá því að Parísarsamkomulagið var undirritað.  Fallegt tal og það, sem kallast samþætting loftslagsmála í alla stefnumörkun, virðist ekki duga til.  Hér þarf að grípa til miklu róttækari aðgerða.  Rafbílavæðingin næst ekki, nema með mun beittari efnahagslegum hvötum, tvöföldun eldsneytisverðs eða hreinlega banni við innflutningi á nýjum bílum, sem knúnir eru af jarðefnaeldsneyti.  Eða þá að leggja á ofurtolla.  Þá fyrst fer neytandinn að leita lausna, sem gagnast loftslaginu.  Slíkar leiðir þykja því varla raunhæfar, því [að] þær koma við kaunin á margvíslegum hagsmunum fólks og fyrirtækja, ekki sízt ferðaþjónustunnar, sem er mjög olíudrifinn atvinnuvegur."
 
Það er vert að gefa gaum að því, að hér er ekki um að ræða tillögur veðurfræðingsins, heldur vangaveltur, eins konar hugmyndafræði hans í þessum efnum.  Blekbóndi er þessum hugmyndum algerlega ósammála.  Ástæða þess, að svo hægt miðar, t.d. með þarfasta þjóninn, fjölskyldubílinn, er framar öðru, að ný tækni er ekki tilbúin fyrir orkuskiptin.  Þau hefur borið of brátt að fyrir kúvendingu.  Nægir að benda á muninn á fjölbreytni þess, sem nú er úr að velja á markaði benzín/dísilbíla annars vegar og hins vegar nýorkubíla.  Þá eru enn verulegir annmarkar á hagkvæmni (dýrir) og notagildi nýorkubíla (drægnin).
  Að setja á mjög íþyngjandi stjórnvaldsþvinganir við þessar aðstæður er bæði óréttlátt og efnahagslegt óráð, því að þær munu stöðva hér efnahagslega framþróun og sennilega framkalla kreppu, sem þýðir mikið vandræðaástand og óhamingju hjá meginþorra alþýðu. Enginn árangur verður af slíku fyrir loftslag jarðar. Er það gamla sagan með forræðishyggjuna, að hún sést ekki fyrir, heldur kastar gjarna barninu út með baðvatninu.  
Við þetta bætist, að með þeirri þróun, sem nú þegar er hafin, og með mjög auknum fjölda valkosta á meðal nýorkubíla við hæfi alþýðu á næstu árum, er alls ekki loku fyrir það skotið, að takast megi að ná 30 % samdrætti nettó koltvíildislosunar frá vegumferð 2030, ef ríkissjóður notar kolefnisgjöld frá umferðinni til skógræktar og landgræðslu, þ.e. til tímabundins mótvægis, á meðan enn eru benzín-eða dísilknúin (fornorka) farartæki og vinnuvélar í umferð.  Það er fullkomlega eðlilegt að marka þennan tekjustofn mótvægisaðgerðum á sama sviði. Þegar losunarmarkmiðin fyrir umferðina hafa náðst, má nota fjárfestinguna í kolefnisbindingunni til að hlaupa undir bagga með öðrum, sem óhægara eiga um vik, t.d. selja stóriðjunni kolefniskvóta á samkeppnishæfu verði við meginland Evrópu.
Með óbreyttri ívilnun og kolefnisgjöldum ásamt tækniframförum og aukinni fjöldaframleiðslu nýorkubíla má ætla, að þegar á þessu ári (2019) hægi á fjölgun fornorkufólksbíla/jeppa og að á árinu 2023 muni þeim hætta að fjölga í bílaflotanum.  Á árinu 2030 má þá ætla, að þeim hafi fækkað örlítið m.v. núverandi fjölda og verði um 260 k talsins.  Þá verður í þessari athugun: 
  • Reiknað er með meðalakstri fólksbíla/jeppa 12 kkm/ár, og heildarakstri þeirra 3120 Mkm/ár. CAFE reglur ESB kveða á um, að hámarkslosun nýrra bíla innan EES f.o.m. 2020 megi vera 95 g/km.  Ef reiknað er með, að meðallosun 260 k fólksbíla/jeppa árið 2030 verði 110 g/km, þá munu þeir losa um 343 kt CO2.   
  • Reiknað er með 45 % minnkun aksturs strætisvagna, langferðabíla, sendibíla og vörubíla, sem knúnir eru benzíni/dísilolíu, árið 2030 m.v. 2016, vegna hugsanlegra tiltölulega hraðra orkuskipta á þessu sviði. Þá verður akstur þeirra 470 Mkm.  Með eldsneytisnotkun 0,15 l/km að jafnaði verður heildareldsneytisnotkun þeirra 62 kt/ár og koltvíildislosun 192 kt árið 2030.
  • Þannig verður heildarlosun vegumferðar árið 2030: mCO2=343+192=535 kt.  Þetta er aðeins 17 kt meira koltvíildi en leyfilegt hámark eða 3,3 % yfir leyfilegu hámarki.  Það er innan skekkjumarka þessara áætlana.
  • Kolefnisgjald af vegaumferð ætti alfarið að renna til annars vegar innviðauppbyggingar fyrir orkuskipti fjölskyldubílsins, flutningatækja og vinnuvéla, og hins vegar til landgræðslu, skógræktar og þróunar á framleiðslu repjuolíu til olíuíblöndunar.  Með því móti má komast hjá því að greiða háar upphæðir, líklega til ESB, fyrir losunarheimildir koltvíildis, ef ekki næst að ná tilskilinni lágmarksminnkun losunar 2030.
 Undir lok greinar sinnar skrifaði Einar Sveinbjörnsson:
"Úlfakreppa segi ég, því [að] ef markmiðið um samdrátt í losun næst ekki fyrir 2030, er til hjáleið, þar sem við getum keypt okkur frá vandanum með uppkaupum á losunarheimildum.  Flestir spá því, að verð þeirra muni hækka stórlega, þegar nær dregur uppgjöri eftir rúm 10 ár.  Þau útgjöld ríkis, þ.e. skattgreiðenda, gætu í versta falli numið hundruð[um] milljarða [ISK]."
Nú nemur koltvíildisgjald þeirra, sem árlega greiða til viðskiptakerfis ESB fyrir koltvíildi, 26 EUR/t CO2.  Það mun hækka á næsta áratugi, en það er ekki líklegt, að það hækki yfir 35 EUR/t CO2, því að ella verður samkeppnishæfni EES-landanna í uppnámi, nema heimurinn allur taki sig á, sem ekkert bendir til nú. Hættan á "kolefnisleka" mun afstýra hættu á hækkunum, sem "græningjar" af ýmsu tagi hafa lagt til, þ.e. í 50-100 EUR/t CO2.  
Ef nú er reiknað með meðalverði 30 EUR/t CO2 á næsta áratugi og losun 500 kt yfir leyfilegt hámark frá umferð á næsta áratugi, þá nemur sá kostnaður MEUR 15 = mrdISK 2,1 (EUR/ISK=140).  Hæfilegt væri, að a.m.k. tvöföld þessi upphæð af kolefnisgjöldunum rynni til kolefnisbindingar á næsta ári. 
Íslenzki áliðnaðurinn hefur nú innleitt samstarf við OR um bindingu koltvíildis í jarðlögum.  Erfiðasti og dýrasti hjallinn er að ná koltvíildinu úr kerreyknum, sem er þar í mjög litlum styrkleika.  Það er alls óvíst, að þessi koltvíildisbinding í jarðlögum verði samkeppnisfær við kolefnisbindingu í gróðri hérlendis. Þess vegna er óhikað hægt að stefna á ofangreindar fjárfestingar í uppgræðslu og skógrækt og reikna með áratugasölu á koltvíildiskvóta og nytjum af landinu.
 
 
 

 

 
 

 

 


Ólíkar kenningar um þróun loftslagsins

Örvænting út af "hamfarahlýnun" hefur ekki farið framhjá neinum, sem nasasjón hefur haft af fréttum undanfarin misseri.  Kenningin er reist á losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið af mannavöldum frá iðnvæðingu á Vesturlöndum, sem hófst um 1750, og hækkun meðalhitastigs andrúmslofts um u.þ.b. 1,0°C síðan þá. Ekki er laust við, að loddarar hafi reynt að nýta sér örvæntingu fólks í þágu vafasams málstaðar, sem í stuttu máli jafngildir afturhvarfi til fortíðar.  Saga loftslagsbreytinga er hins vegar þekkt mestalla jarðsöguna, og þar eru miklu sterkari kraftar að verki en stafa af koltvíildisstyrkaukningu í andrúmslofti og munu virka til kælingar frá nútíma.

Kynt er undir ótta fólks til að fá almenning til að breyta lífsstíl sínum og afstöðu til neyzlusamfélagsins og hagvaxtar.  Sjálfsagt er að reka áróður fyrir bættri nýtingu og nýtni á öllum sviðum og sjálfbærum lifnaðarháttum, en vert er að hafa í huga, að tækniþróuninni og hagvextinum er að þakka sú velferðarbylting, sem átt hefur sér stað í vestrænum þjóðfélögum frá iðnbyltingu, og engin orkuskipti munu eiga sér stað án mikilla fjárfestinga í innviðum, nýrri tækni og nýjum raforkuverum, sem nýta sjálfbærar orkulindir.  Nútímaþjóðfélög eru öll knúin jarðefnaeldsneyti að miklu leyti og að vinda ofan af því krefst byltingarkenndra breytinga á orkusviðinu.

Önnur greinin, sem hér verður vitnað til, birtist í Morgunblaðinu 20. september 2019 undir fyrirsögninni:

 "Baráttan gegn hamfarahlýnun er kapphlaup og langhlaup".

Greinin er eftir Tryggva Felixson, formann Landverndar, og Þórhildi Fjólu Kristjánsdóttur, varaformann Landverndar.  Hún hófst svona:

"Fyrir um 30 árum vöknuðu þjóðir heims upp við vondan draum; hættulegar loftslagsbreytingar voru um það bil að eyðileggja lífsskilyrðin á heimili okkar, jörðinni.  Í skyndi voru gerðir alþjóðlegir samningar um, hvað bæri að gera.  En svo gerðist lítið meira og alls ekki nóg.  Líka á Íslandi, þar sem losun gróðurhúsalofttegunda hefur vaxið um liðlega 30 % frá árinu 1990."

Það er helzt, að Bandaríkin geti vísað til árangurs að þessu leyti, því að "leirbrotsaðferð" (e. fracking) þeirra hefur leitt til aukinnar jarðgasvinnslu í Norður-Ameríku, og hafa gaskynt orkuver komið í stað kolakyntra orkuvera í meiri mæli en annars staðar.  Það hefur þó líka gerzt á Bretlandi, og ætla Bretar að loka síðasta kolaorkuveri sínu árið 2025, en Þjóðverjar í fyrsta lagi 10 árum síðar.  Lokun kjarnorkuvera í Þýzkalandi hefur leitt til fjölgunar kolakyntra raforkuvera þar, og síðasta þýzka kjarnorkuverinu á að loka 2022.  Þess vegna gengur hvorki né rekur á meginlandinu við að hemja losun gróðurhúsalofttegunda.

Landsframleiðsla Íslendinga hefur aukizt hlutfallslega margfalt meira en losun gróðurhúsalofttegunda síðan viðmiðunarárið 1990.  Það sýnir, að hagkerfið er að laga sig að sjónarmiðum um kolefnisfría starfsemi.  Hér verður þó að hafa í huga, að inni í téðri 30 % aukningu losunar er ekki losun íslenzkra millilandaflugvéla.  Hún færist í bókhald Evrópusambandsins, ESB, en hefur aftur á móti skapað hér gríðarlegan hagvöxt, þótt mikill samdráttur hafi orðið í ferðageiranum á þessu ári af ólíkum ástæðum, hvað sem verður.

Í næstu tilvitnun slær algerlega út  í fyrir skötuhjúum Landverndar, höfundum greinarinnar:

"Aðgerðaleysi heimsins, ófullnægjandi aðgerðir og sýndarmennska er glæpur gegn mannkyninu; komandi kynslóðum, börnum og barnabörnum.  Það er því ekki valkostur.  Afstaða forystu hins öfluga ríkis, Bandaríkjanna, til aðgerða gegn hamfarahlýnun er óviðunandi, stórhættuleg og má líkja við alvarlega stríðsglæpi.  Ráðamenn þjóðarinnar þurfa að segja það hátt og skýrt, þegar tækifæri gefst."

Hér eru höfð uppi stóryrði, sem benda til, að til séu að verða trúarbrögð, svo að rökræður séu harla marklitlar um loftslagsmál.  Ennfremur er búið að búa til þann "illa sjálfan", eins og trúarbragða er háttur, en það eru stjórnvöld í Bandaríkjunum.  Skiptir þá engu máli, þótt Bandaríkjamenn hafi náð meiri árangri en Evrópumenn við að draga úr losun mengandi efna, hvers konar.  Ofstæki af þessu tagi, sem formaður og varaformaður Landverndar gera sig sek um, verður ekki málstað Íslands sem boðbera sjálfbærrar nýtingar náttúruauðlinda til framdráttar.  Landvernd hefur hér opinberað sig sem sértrúarhóp.   

Að lokum skal tína til annað, að sumu leyti skárra:

"Kolefnishlutleysi er raunhæft markmið, þar sem þjóðin býr yfir tækni, þekkingu og auðlegð, til að ná því marki.  Raunverulegur vilji og víðtæk samstaða er það, sem skortir."

Þetta eru innantómir frasar.  Að ræða um markmið án tímasetningar er markleysa.  Það er ekki hægt að ætlast til þess, að "vilji og víðtæk samstaða" verði fyrir hendi, nema raunhæf aðgerðaráætlun verði samin. Það er t.d. ljóst, að til þess að leysa fljótandi og gaskennt jarðefnaeldsneyti af hólmi á Íslandi, þarf heilmikið af nýjum virkjunum, og auðvitað þarf bæði loftlínur og jarðstrengi til að flytja orkuna til notenda.  Á móti öllu þessu hefur Landvernd barizt hatrammlega.  Þess vegna eru fleðulæti Landverndar gagnvart loftslagsvánni ótrúverðug.  

Þann 28. september 2019 birtist í Morgunblaðinu greinin "Hamfarakólnun" eftir Richard Þorlák Úlfarsson, verkfræðing.  Þar var ekki um sefasýkislega spádóma að ræða um "stjórnlausa hlýnun" jarðar á grundvelli hækkunar koltvíildisstyrks í andrúmslofti úr 0,03% í 0,04 % nú og hugsanlega 0,05 % síðar á öldinni.  Enginn neitar þó tilvist áhrifa CO2 sem gróðurhúsalofttegundar, en áhrifin eru reyndar aðallega þau að auka styrk vatnsgufu í andrúmsloftinu, sem er sterk gróðurhúsalofttegund.  

Richard Þorlákur bendir á, að hitafar jarðar mestalla jarðsöguna er þekkt.  Þar hafa skipzt á löng kuldaskeið og stutt hlýindaskeið með hitasveiflu frá lágmarki til hámarks a.m.k. 12°C.  Í því ljósi er 1°C hækkun frá "Litlu ísöld" fyrir iðnvæðingu lítil, og á jörðunni hefur á s.l. 10 þúsund árum verið mun hlýrra.  Nú erum við stödd nálægt lokum hlýindaskeiðs, svo að dálítil gróðurhúsaáhrif geta ekki skipt sköpum fyrir jörðina, þótt hlýnun af þeirra völdum geti haft mikil áhrif á mannkynið, sem hefur fjölgað sér margfaldlega frá iðnvæðingu.  Fyrri hlýindaskeið hafa orðið enn hlýrri en núverandi meðalhitastig andrúmslofts við jörðu.  Gefum Richard Þorláki orðið:

"Mannskepnan stjórnar hvorki veðurfari né Móður Jörð. Jörðin er um 4500 milljón ára gömul, og það eru til gögn um veðurfar á jörðinni allan þennan tíma.  Þess vegna er auðvelt að sjá einkenni veðurfars á jörðinni.  Ískjarnamælingar sýna, að hitastig á jörðinni toppar á um 100 þúsund ára fresti.  ....

Það, sem er einkennandi við þessi kulda- og hlýindaskeið, er, að eftir um það bil 100 þúsund ára kuldaskeið kemur hlýindaskeið í aðeins 10-20 þúsund ár. ... 

Myndin sýnir glögglega, að vandamál framtíðarinnar er ekki of mikill hiti, heldur of mikill kuldi.  Eftir nokkur þúsund ár verður hitastig jarðar um 6 gráðum lægra að meðaltali en það er í dag og jörðin að miklu leyti þakin ís.  Verði ekkert að gert, má gera ráð fyrir því, að stór hluti alls lífs á jörðinni þurrkist út.  Það er því þörf á snilli mannskepnunnar til þess að hindra þessar hörmungar." 

Richard Þorlákur leggur þarna staðreyndir fortíðar á borðið um gríðarlegar, +/- 6°C, lotukenndar hitastigssveiflur á jörðinni, sem útilokað er, að örlítill styrkur koltvíildis hafi marktæk áhrif á, jafnvel þótt um mikla hlutfallslega aukningu á þessari gastegund sé að ræða.  Það er ekkert, sem bendir til annars en þessi lotukennda sveifla haldi áfram, og að jarðarinnar bíði fremur langvarandi fimbulkuldaskeið en langvarandi áframhaldandi hlýindaskeið, og enn er loftslagið raunverulega aðeins á leiðinni upp úr ástandi "Litlu ísaldar".  

Stóra viðfangsefnið verður að fást við fimbulkulda, sem eirir engum nútíma innviðum.  Engu að síður er til skamms og lengri tíma brýnt vegna mikillar mengunar andrúmsloftsins að losna við bruna jarðefnaeldsneytis, og orkuskiptin munu hafa góð áhrif á hagkerfi Íslands, t.d. styrkja viðskiptajöfnuðinn.  Orkuskiptin eru jákvæð, en þau krefjast auðvitað aukinnar nýtingar náttúruauðlinda landsmanna.  Staðan er nánast einstök að því leyti, að með núverandi tækni er hægt að útvega næga orku, raforku og jurtaolíu, t.d. úr repju, auk eldsneytis úr sorpi, skólpi og frá landbúnaði, til að knýja allan íslenzkan búnað á láði, á legi og í lofti.

 

 


Aukin ásókn í leyfi fyrir vindorkuverum

Samhliða fjölgun millilandatenginga við raforkukerfi Noregs hefur orðið gríðarleg fjölgun vindmyllna í landinu.  Við árslok 2018 voru vindmyllur með  framleiðslugetu um 4 TWh/ár í rekstri (svipað og öll almenn notkun á Íslandi), en vindmyllur að framleiðslugetu 22 TWh/ár eru annaðhvort í byggingu eða hafa fengið virkjanaleyfi frá NVE (Orkustofnun Noregs). Þessi viðbót er meiri en öll núverandi raforkuvinnsla á Íslandi.  

NVE hefur ennfremur kunngert hugsanlegan ramma fyrir frekari virkjun vindorku í Noregi upp á 30 TWh/ár.  Í lok næsta áratugar gæti þannig orkuvinnslugeta vindmyllna í Noregi numið um 50 TWh/ár, sem er svipuð  heildarvinnslugetu vatnsorkuvera og jarðgufuvera Íslands, eins og hún er talin geta orðið mest í reynd.  Vindorkuver munu þá nema yfir fjórðungi af raforkuvinnslu í Noregi.  Þetta svarar til þess, að hérlendis mundu rísa vindorkugarðar með 7 TWh/ár framleiðslugetu um 2030.  

Hver er skýringin á þessum skyndilega áhuga á vindorkuverum í Noregi, sem hingað til hafa ekki verið arðsöm þar ?  NVE og Anders Skonhoft, hagfræðiprófessor, eru sammála um, að skýringarinnar sé að leita í væntingum um hærra raforkuverð í Noregi. Þetta hefur reyndar leitt til kaupa fjárfesta frá ESB-löndum á smávatnsvirkjunum, vindmyllum og til umsókna þeirra um leyfi til að reisa slíkar virkjanir. 

Í Noregi hafa vindmylluleyfi verið gefin út fríhendis, þ.e. án þess að um þau gildi nokkur heildar rammaáætlun fyrir landið allt. Það þýðir að mati prófessors Anders Skonhoft, að slík virkjunarleyfi hafa verið gefin út, án þess að leggja sérstakt mat á "gildi náttúru og umhverfis".

Svipaðrar tilhneigingar gætir hérlendis frá fjárfestum.  Þeir hafa sýnt áhuga á að reisa vindorkuver, sem í fljótu bragði virðist ekki vera fjárhagsgrundvöllur fyrir.  Þannig reiknaði höfundur þessa pistils út vinnslukostnað 130 MW vindorkuvers í landi Hróðnýjarstaða, í grennd við Búðardal við Hvammsfjörð, 53 USD/MWh eða 6,4 ISK/kWh, fyrir um ári.  Þetta er um 30 % yfir núverandi heildsöluverði hérlendis.  Ef til Íslands verður lagður aflsæstrengur erlendis frá með flutningsgetu um 1200 MW og raforkukerfi landsins tengt við raforkukerfi, þar sem raforkuverðið er, segjum, tvöfalt hærra en hér, þá mun heildsöluverðið allt að því tvöfaldast hérlendis og vindmyllur augljóslega verða mjög arðsamar.

Það er engum blöðum um það að fletta, að íslenzkar virkjanir og virkjanaleyfi munu verða enn verðmætari en nú í augum fjárfesta með tilkomu millilandatengingar og jafnvel þegar við innleiðingu uppboðsmarkaðar raforku í Orkukauphöll, sem Landsreglari mun fylgja stranglega eftir, að stofnsett verði hér eftir innleiðingu Orkupakka #3.  Hvað þýðir það, að hér verði vindmyllugarðar upp á 7 TWh/ár ?

 M.v. reynslutölur frá Noregi þá jafngildir þetta 600 vindmyllum á Íslandi, sem leggja munu undir sig 300 km2; 0,3 % af heildarflatarmáli landsins, en áhrifasvæði þeirra er langtum víðáttumeira, því að hæð þeirra verður allt að 250 m, og hávaðinn getur orðið gríðarlegur.  Athafnasvæðið sjálft flokkast sem iðnaðarsvæði með vegi þvers og kruss, sem mælast munu í hundruðum km.

Orkan frá þessum vindmyllum, 7 TWh/ár, nemur nokkurn veginn því, sem reiknað er með að flytja utan um téðan sæstreng, því að með þessari miklu hækkun raforkuverðs innanlands verður afgangsorkuflutningsgeta sæstrengsins nýtt til að flytja inn rafmagn að næturþeli á lægra verði en hér verður þá, eins og gerzt hefur í Noregi, e.t.v. 2 TWh/ár.  

 Þessi þróun mála er landsmönnum óhagfelld, því að frá sjónarmiði innlendra orkukaupenda er afleiðingin sú að heildarrafmagnsreikningurinn gæti hækkað um 60 %.  Hagnaður orkuvinnslufyrirtækjanna vex einvörðungu vegna sölu innanlands á hærra verði, en samkvæmt prófessor Anders Skonhoft verður enginn hagnaðarauki hjá þeim af útflutningi raforkunnar um sæstreng, heldur  hirðir strengeigandinn allan hagnaðinn af útflutninginum, enda verða innlend orkuvinnslufyrirtæki fyrir kostnaðarauka af viðbótar orkuöflun (til útflutnings).  Frá hagsmunamati innlendra raforkukaupenda er hér um svikamyllu að ræða.  Prófessor Anders Skonhoft orðar þetta þannig í þýðingu pistilhöfundar:

"Veitið því annars athygli, að hagnaður orkuvinnslufyrirtækjanna er einvörðungu tengdur verðhækkun innanlands vegna útflutningsins.  Án hækkaðs verðs innanlands hafa orkuvinnslufyrirtækin þar með enga fjárhagslega ástæðu til að fagna orkuviðskiptum við útlönd."

Þetta ætti að færa eigendum íslenzku orkuvinnslufyrirtækjanna (þau eru flest í opinberri eigu) endanlega heim sanninn um, að það er þjóðhagslega óhagkvæmt að hefja slík viðskipti. Aukinn hagnaður þeirra verður allur á kostnað innlendra raforkunotenda, þvert á það, sem ýmsir stjórnmálamenn og talsmenn orkufyrirtækja o.fl. hafa haldið fram.  Ástæðan er aukinn kostnaður þeirra við öflun útflutningsorkunnar, og að sæstrengseigandinn hirðir allan ávinninginn av millilandaviðskiptunum.  Þá er ótalið fjárhagstjónið, sem leiðir af verri samkeppnisstöðu allra atvinnufyrirtækja í landinu.  Afleiðingin á frjálsum markaði verður óhjákvæmilega, að fyrirtæki munu gefast upp á rekstrinum og geta hinna til að greiða laun verður minni en áður.  

Ætlun Evrópusambandsins með Orkupakka #3 var að færa völd á sviði orkumarkaðar og milliríkjaviðskipta með raforku (og gas) frá aðildarlöndunum og til Framkvæmdastjórnarinnar til að ná markmiðum ESB um aukinn millilandaflutning orku, og Orkupakki #4 leggur áherzlu á, að þetta verði í vaxandi mæli orka úr endurnýjanlegum orkulindum.  Eftir samþykkt Orkupakka #3 verður möguleiki á því, að samskipti ESB og Íslands á orkusviðinu verði leikur kattarins að músinni, þar sem lokahnykkur þess að ganga orkustefnu ESB á hönd verður þar með tekinn.  Hana móta æðstu stofnanir ESB út frá hagsmunum þungamiðju evrópsks iðnaðar.  

Olíuleitar pallur

 

 


Olíufélög auka vinnsluna

Það er ekki enn komið að toppi olíueftirspurnar í heiminum, heldur ekki á Íslandi, þegar öll jarðefnaeldsneytiseftirspurn (án kola) er meðtalin.  Hér verður vitnað í Hjörleif Guttormsson, náttúrufræðing og fyrrverandi iðnaðarráðherra, en eftir hann birtist grein í Morgunblaðinu, 18. febrúar 2019:

"Ferðaiðnaðurinn með ómældri losun gróðurhúsalofts frá flugvélum og skemmtiferðum og vöruflutningum loftleiðis heimshorna á milli er oft nefndur sem dæmi um sólund, sem heyra verði sem fyrst sögunni til, eins og einnig skefjalaus notkun einkabílsins.  Hergagnaiðnaður og stríðsátök kóróna síðan feigðarflanið."

Í ljósi þess sess, sem ferðamennskan skipar í lífi Íslendinga og vegna þeirrar stöðu, að ferðaþjónusta er nú aðalatvinnugrein landsmanna, veitir flestum beina vinnu og er aðalgjaldeyrislindin, er þessi hugleiðing Hjörleifs umhugsunarverð.  Það er ekki alls kostar rétt, að eldsneytislosun þessa geira samfélagsins sé ómæld.  Árið 2016 nam t.d. eldsneytisnotkun íslenzkra millilandaflugvéla um 0,79 Mt (milljón tonnum), sem var 84 % meira en notkun farartækja á landi og  fiskiskipa til samans.  Gróðurhúsaáhrif frá íslenzkum millilandaflugvélum voru árið 2016 45 % meiri en gróðurhúsaáhrif allrar annarrar starfsemi á landinu að millilandaskipum meðtöldum, en fyrir utan landnotkun (framræslu lands).

Þannig má halda því fram, að aðalstarfsemi landsmanna sé umhverfislega ósjálfbær. Flugið heyrir undir sameiginlega kvótasetningu EES-ríkjanna, og það er líklegt, að flugfélögin muni þurfa að kaupa sér umtalsverða koltvíildiskvóta á næsta áratug.  Þessi kostnaður Icelandair og VOW  til samans árið 2019 mun losa mrdISK 1,0, og þessi kostnaður fer hækkandi.  Hver ráðstafar öllu þessu fé, sem fer í koltvíildiskaup ? Féð ætti að fara í mótvægisaðgerðir á Íslandi, t.d. skógrækt.  Koltvíildisgjaldið veldur hækkun farmiðaverðs fyrr en síðar, sem mun leiða til fækkunar ferðamanna frá Evrópu.  ESB hefur hins vegar ekki lögsögu yfir flugfélögum með aðsetur utan Evrópu, og koltvíildiskvóti hefur enn ekki verið lagður á flugfélög, sem fljúga til Íslands frá öðrum heimsálfum.

Þessi þróun mun ýta undir nýtingu vetnis til að knýja flugvélar, en vetnið hefur mun meiri orkuþéttleika (kWh/kg) en jarðefnaeldsneyti.  Þarna verður þá framtíðarmarkaður fyrir vetnisverksmiðju á Íslandi.  Það verður engum vandkvæðum háð að finna markað, innanlands og utan, fyrir allt það vetni, sem hægt er að framleiða með raforku, sem nú er rætt um að flytja frá Íslandi um  sæstreng. 1200 km lögn til Bretlands gæti kostað mrdUSD 4-5, sem varla er samkeppnishæf við flutninga með skipi.  

Olíufurstar reikna þó ekki með alvarlegri samkeppni frá vetni, enda er skortur á umhverfisvænni orku til að framleiða það.  Vetni, framleitt með rafgreiningu á Íslandi gefur engu að síður samkeppnishæfan orkukostnað á farartæki m.v. rafmagn af rafgeymum, svo að ekki sé nú minnzt á samanburðinn við núverandi verð jarðefnaeldsneytis, sem er a.m.k. 5-falt dýrara á hvern km.

Exxon Mobil hefur gert áætlun um eldsneytiseftirspurnina á næstu árum og fjárfestingar til að fullnægja henni.  Gangi þessar áætlanir eftir, næst toppur eldsneytisnotkunar jarðarbúa á tímabilinu 2040-2050, sem er tveimur áratugum of seint, til að hemja megi meðalhitastigshækkun á jörðunni innan við 2°C, sem samkvæmt sérfræðingahópi Sameinuðuðu þjóðanna, IPCC, er nauðsynlegt til að hindra stjórnlausa hækkun hitastigs jarðar. 

Samkvæmt áætlun Exxon Mobil mun olíuþörfin aukast um 42 % á tímabilinu 2000-2040 og verða enn hægt stígandi í lok tímabilsins, og gasþörfin mun aukast um 75 % og enn vera hratt stígandi 2040.  Þetta er óbjörgulegt og sýnir, að allt stefnir í óefni, þrátt fyrir yfirlýsingar og heitstrengingar stjórnmálamanna og embættismanna á ráðstefnum.  Markaðurinn verður að taka til sinna ráða, eins og hann hefur gert í Bandaríkjunum með góðum árangri.  Tilburðir stjórnmálamanna til að stjórna þróuninni hafa reynzt vera misheppnaðir.

Exxon Mobil eykur nú vinnslu sína með borunum neðansjávar. Háþróaðri tækni er beitt, t.d. úti fyrir ströndum Guyana í Suður-Ameríku.  Þar borar Exxon Mobil á 2000 m dýpi frá skipi, sem haldið er innan 3 m radíus frá lóðlínu niður að borholu, þaðan sem dælt er upp olíu úr lind, sem metin er nema 5 mrd tunna. Á næstu árum verður Guyana líklega annað mesta olíuríki Suður-Ameríku, næst á eftir Brasilíu, því að sameignarstefnan (kommúnisminn) hefur eyðilagt efnahag Venezúela, en þar eru gríðarlegar olíulindir.

  Exxon Mobil hyggur á vöxt, þrátt fyrir aðvaranir vísindamanna IPCC til heimsbyggðarinnar.  Þannig er stefnt að 25 % meira framboði á gasi og olíu árið 2025 en árið 2017.  Þetta sýnir, að róttækrar tæknibyltingar er þörf til að vinda ofan af því, hversu háð mannkynið er orðið notkun jarðefnaeldsneytis.

Til þess þarf mikið fé, og sennilega er minna fé til ráðstöfunar í þessa nauðsynlegu tækniþróun en til fjárfestinga í gas- og olíuiðnaðinum.  Darren Woods, sem tók við forstjórastarfi í Exxon Mobil af Rex Tillerson 2017, sem um stutta hríð var utanríkisráðherra hjá Donald Trump, hefur tilkynnt um fjárfestingaráform fyrirtækisins upp á mrdUSD 200 á 7 ára tímabili 2019-2025 (triISK 24 - tíföld íslenzk landsframleiðsla á ári).

Eftir forstjóranum Woods var haft nýlega:

"Við metum horfur olíuiðnaðarins til langs tíma. Við sinnum þörfum hagkerfanna fyrir orku miðað við lífskjör fólksins."

Með þessu á forstjórinn væntanlega við, að lífskjör fólks um langa framtíð verði háð nægu framboði á jarðefnaeldsneyti. Það kann þvert á móti að koma senn til gríðarlegs kostnaðarauka af völdum notkunar jarðefnaeldsneytis, sem þá mun rýra lífskjör almennings, því meir sem lengur dregst að leysa þessa orkugjafa af hólmi.  Það er mótsögn í ofangreindum orðum forstjórans og því, að hann segist sammála stefnunni, sem mörkuð var á Parísarráðstefnunni 2015 um að halda hlýnun vel innan við 2,0°C.  Til þess þarf nefnilega olíunotkun að fara að minnka um 2020. Það gerist ekki á meðan olíufyrirtækin halda framboðinu uppi.  Lausnin verður þó auðvitað að koma á neytendahliðinni, svo að eftirspurnin minnki.  Þá mun verðið lækka og ekki mun lengur borga sig að leita nýrra linda.

Jarðgas hefur víða fengið samkeppni frá vind- og sólarorkuverum, og í Bandaríkjunum og víðar hefur það leyst kolaorkuver af hólmi og dregið þannig úr loftmengun og losun gróðurhúsalofttegunda.  Olían hefur áfram sterk tök í flutningageiranum og vinnuvélunum.  Á þessu virðist ekki munu verða mikil breyting á næsta áratugi, því að aðeins 15 % bíla verða rafdrifnir með rafgeymum eða vetni árið 2030 samkvæmt spám, sem taldar hafa verið bjartsýnislegar um þessa rafvæðingu. 

Vörubílar, vinnuvélar, skip og flugvélar munu væntanlega fylgja í kjölfar bílanna.  Þó er vert að gefa gaum að þróun rafkerfa fyrir skip, sem lofar góða um breytingar á næsta áratugi.  Nýja ferjan á milli lands og Eyja mun verða knúin frá 3000 kWh rafgeymum, en endurhleðslutíminn verður aðeins 0,5 klst.  Þetta er ótrúlegt, en er samkvæmt upplýsingum framleiðandans. Þá þarf vissulega háspennta raflögn niður að endurhleðslustað á hafnarbakka.  

Annar möguleiki og áhugaverðari fyrir flutningaskip og togaraflotann er vetnisrafali til að knýja rafkerfi þeirra, þ.m.t. rafhreyflana, sem knýja skipin. Slíkur hefur verið þróaður fyrir minni skip fyrir nokkrum árum með góðum árangri.  Orkuþéttleiki (kWh/kg) vetnis er a.m.k. þrefaldur á við orkuþéttleika flotaolíu, og með framleiðslu vetnis á Íslandi með rafgreiningu úr vatni verður það samkeppnishæft við rafgeyma og með miklu lengri drægni.  

 

  

 

 

 


Af fjölónæmum sýklum

Sérfræðingar á sviði sýkla og veira hafa varað stjórnvöld og landsmenn alla við ógn, sem steðjar að heimsbyggðinni og þá ekki sízt afskekktri eyju, sem laus hefur verið að mestu við alvarlegar pestir, sem herjað hafa á dýrastofna og mannfólk og illa ræðst við með nútíma læknisfræði. Ofnotkun lyfja kemur nú niður á mannkyni. Í heilsufarslegum efnum eru engar haldbærar skyndilausnir til.

Hér er m.a. um að ræða sýkla, sem myndað hafa ónæmi gegn sýklalyfjum og verða þar með óviðráðanlegir, ef ónæmiskerfið er veikt fyrir.  Ótímabærum dauðsföllum fjölgar mjög af þessum sökum, og telja sérfræðingar, að lýðheilsunni stafi einna mest ógn af þessari vá í náinni framtíð. Það ætti að vekja almenning til umhugsunar um lífshætti sína, og hvað má bæta til að styrkja ónæmiskerfið.

Af þessum sökum þurfa yfirvöld nú þegar að leggja sitt að mörkum með því að hefja sinn viðbúnað og beita beztu þekktu aðferðarfræði á þessu sviði.  Hún er m.a. fólgin í auknum kröfum á hendur birgjum um upprunavottorð og gæðatryggingar varðandi matvæli, sem flutt eru til landsins, og með mótvægisaðgerðum á sjúkrahúsum.

Yfirvöldum ber siðferðisleg skylda til að hlusta meira á sérfræðinga á heilbrigðissviði en á heildsala og að hlýða vandlega á aðvörunarorð og ráðleggingar manna á borð við prófessor Karl G. Kristinsson, sýkla- og ónæmisfræðing.  Það verður einfaldlega að grípa til þeirra aðgerða, sem duga að mati sérfræðinga um sýkla og veirur, þótt þær kunni að brjóta í bága við reglur EES-samningsins um óheft viðskiptafrelsi.  Þær reglur voru ekki samdar með sérstöðu Íslands í huga. Að samþykkja, að erlendar reglusetningar, sem að beztu manna yfirsýn eru ógn við lýðheilsu og geta valdið stórfelldu tjóni hér á bústofnum, gildi hér framar ströngustu varúðarráðstöfunum, hlýtur að vera í blóra við stjórnarskrá lýðveldisins, sem kveður á um fullveldi rétt kjörinna fulltrúa þjóðarinnar til að taka nauðsynlegar ákvarðanir í þágu hennar hagsmuna.

Nýja sjúkrahúsið við Hringbraut þarf að verða miðstöð varna gegn þessum vágesti.  Verður að vona, að hönnuðir "meðferðarkjarnans" hafi fengið fyrirmæli um að hanna beztu fáanlegu aðstöðu til að einangra sjúklinga í sóttkví og að sótthreinsa allt með fljótlegum hætti, sem út af slíkum sóttkvíum fer.

  Líklegast til árangurs er að sækja fyrirmyndir um tæknilegar útfærslur og lausnir til Hollands, en Hollendingar hafa náð næstbeztum árangri í viðureigninni við "ofursýkla" á borð við MRSA ("methycillin-resistant staphylococcus aureus") og CRE ("carbapenem-resistant Enterobacteriaceae") og eiga sérhannaða aðstöðu á sjúkrahúsum sínum fyrir þessar varnir.

Árið 2015 var fjöldi dauðsfalla á 100´000 íbúa í nokkrum Evrópulöndum af völdum ofusýkla eftirfarandi, og þeim fer ört fjölgandi:

  • Ítalía       18
  • Grikkland    15
  • Portúgal     11
  • Frakkland     8
  • Rúmenía       7
  • Bretland      4
  • Þýzkaland     3
  • Noregur       1
  • Holland       1
  • Eistland      1

 

Ofursýklar þessir geta verið á húðinni, í nefinu eða í þörmunum, þar sem þeir eru þó venjulega óskaðlegir.  Ef þeir hins vegar sleppa í sár eða komast inn í blóðrásina, verða þeir hættulegir.  Í Evrópu má rekja 73 % dauðsfalla af völdum ofursýkla til sýkinga á sjúkrahúsum. Almennt hreinlæti á sjúkrahúsum er ódýr og árangursrík aðferð í þessari baráttu. 

Í nóvember 2018 gaf OECD út samanburð á aðferðum til að fást við ofursýkla.  Stofnunin setti bættan handþvott á sjúkrastofnunum efst á blað til að fækka dauðsföllum og stytta sjúkrahússvist.  Að framkvæma ráðleggingar OECD til fullnustu á 70 % sjúkrastofnana er áætlað, að kosti USD 0,9-2,5 á hvern íbúa á ári, sem við núverandi aðstæður á Íslandi gæti kostað um 360 kUSD/ár eða rúmlega 40 MISK/ár, sem eru smápeningar í heilbrigðisgeiranum.  Ef hins vegar ekki er verið á verði í þessum efnum, mun árlegur kostnaður hlaupa á tugum milljarða í framtíðinni.  

 


Væntingar um vetni

Samkvæmt sumum áætlunum þarf að ferfalda rafmagnsvinnslu í heiminum á næstu 30 árum til að sinna eftirspurnaraukningunni, m.a. vegna orkuskiptanna. Á Íslandi mun rafmagnsvinnslan líklega aukast um 50 %-100 % á sama tímabili, þ.e. hún mun vart ná að tvöfaldast.  Ef tilraunir með djúpboranir niður á 5 km  dýpi heppnast, mun afl hverrar gufuholu geta tífaldazt.  Þá aukast möguleikar á alls kyns umhverfisvænni orkunýtingu hérlendis, t.d. vetnisframleiðslu til innanlandsbrúks og útflutnings.  Aflsæstrengur til útlanda getur varla keppt við slíkt með öllum sínum stofnkostnaði, orkutöpum og rekstaróvissu, m.a. vegna bilanahættu og langs stöðvunartíma í bilunartilvikum. 

Orkuskiptin verða almennt tæknilega erfiðari í ýmsum orkunýtingargeirum en í raforkuvinnslunni.  Þar má nefna svið, þar sem liþíum-rafgeymum eða rafmagni verður illa við komið, s.s. í þungaflutningum á landi, í skipum, flugvélum, upphitun húsnæðis og í iðnaði.

  Árið 2014 (nýjustu áreiðanlegu upplýsingar) myndaði þessi starfsemi (þar sem bein rafvæðing er torsótt) 15 mrðt (milljarða tonna) af CO2 eða 41 % af losun orkutengdrar starfsemi, en raforkuvinnslan myndaði minna eða tæplega 38 % orkutengdrar losunar. Mesta losun CO2 frá iðnaðarstarfsemi er frá járn- og stálverksmiðjum, 6,4 %, sementsverksmiðjum, 6,1 % og frá efnaverksmiðjum, 3,0 %.  Álverksmiðjur losa aðeins 0,8 % af heild orkutengdrar starfsemi.

Framundan er sögulegt átak til að forða jörðunni frá ofhlýnun fyrir núverandi líf af völdum gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpi jarðar. Á 200 ára skeiði frá upphafi kolanotkunar til 1970 myndaði bruni jarðefnaeldsneytis og iðnaðarframleiðsla 420 mrðt af gróðurhúsalofttegundum, aðallega CO2. Á 40 ára tímabilinu 1970-2011 þrefaldaðist þetta koltvíildismagn og varð þá 1,3 Trnt, aðallega við iðnvæðingu fjölmennra Asíuþjóða. Landbúnaður og landnotkun  (án eldsneytisbruna) valda um fjórðungi heildarlosunar, og orkutengd losun 3/4 heildarlosunar.

Varðandi landnotkunina ættu menn hérlendis ekki að hrapa að aðgerðum á borð við uppfyllingu í skurði, því að nýjar mæliniðurstöður hérlendis benda til, að upphaflegt talnaefni, sem að miklu leyti var fengið erlendis frá, þar sem lofthiti og jarðvegur er annar en hér, gefi til kynna allt of mikla minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda við endurheimt votlendis.  Hins vegar er bráðnauðsynlegt að beina auknu fé, sem fæst t.d. af kolefnisgjaldtökunni, yfir í skógrækt og landgræðslu og halda sem nákvæmast bókhald um þá mótvægisaðgerð með mælingum á koltvíildisnámi nýræktar.  Þessar mælingar þurfa að njóta alþjóðlegrar viðurkenningar.  

Steven Davis við Irvine Kaliforníuháskólann hefur stjórnað rannsókn á því, sem þarf til að orkunotkunin verði kolefnisfrí í heiminum m.v. þekkta tækni.  Auk rafmagns og rafgeyma segir hann þurfa vetni og ammoníum, lífeldsneyti, gervieldsneyti, að fjarlægja kolefni úr útblæstri og geyma það í jörðu og að taka koltvíildi úr andrúmsloftinu og setja í trygga geymslu, væntanlega neðanjarðar.  

Vetni gæti gegnt hlutverki við að knýja áfram létt og þung farartæki, við hitun og stálvinnslu.  Vetni, H2, og koleinildi, CO,  eru aðalefniviður gervieldsneytis fyrir þotuhreyfla.  Að fjarlægja C úr afgösum kemur til greina við hitun og sementgerð.

Þeir, sem vinna að því að fjarlægja kolefni úr orkukerfum heimsins, búast við gegnumbroti í þeim efnum 2025-2035.  Þá muni koma fram á sjónarsviðið flutningatæki með langa drægni, knúin rafgeymum og vetni, og að þá muni vetni leysa jarðgas af hólmi sem hitagjafi við húsnæðisupphitun. 2030-2040 verði framleitt gervieldsneyti fyrir skip og flugvélar.  2040-2050 verði kolefnisbrottnámi og geymslu þess beitt í stórum stíl; svo og verði vetni beitt í stórum stíl í iðnaði í stað jarðefnaeldsneytis.  2050-2060 verði nettólosun gróðurhúsalofttegunda engin með hjálp stórfelldrar endurræktunar skóga og með því að vinna CO2 úr loftinu og geyma það á föstu formi, t.d. neðanjarðar.

Orkuskiptin verða kostnaðarsöm, en Íslendingar verða í kjörstöðu með sínar endurvinnanlegu orkulindir; það væri glapræði að spreða þeim inn á sæstreng með öllum sínum orkutöpum áður en til nýtingar kemur.  Við getum rafgreint vatn með sjálfbærri raforku og þannig orðið sjálfum okkur nóg um vetni til eldsneytisframleiðslu fyrir innanlandsmarkaðinn og jafnframt flutt út umtalsvert magn vetnis, t.d. til Bretlands, en Bretar hafa mikil áform um vetnisvæðingu sem lið í orkuskiptum hjá sér.  

Adair Turner, formaður "Energy Transitions Commission", ETC, sem eru alþjóðleg samtök um orkuskipti, segir, að árlegur kostnaðarauki við rekstur kerfa, þar sem orkuskiptin eru tæknilegum vandkvæðum háð, án nettó losunar, muni nema TrnUSD 1,2 árið 2050.  Þetta er há upphæð, en þó líklega svipuð og nemur árlegum útgjöldum til hernaðar og vígbúnaðar í heiminum, svo að ekki ætti sá þröskuldur að vera óyfirstíganlegur. 

Eftir stöðuga lækkun framleiðslukostnaðar helzta neyzluvarnings áratugum saman vegna tækniþróunar, framleiðniaukningar og flutnings á vöruframleiðslu frá hákostnaðarlöndum til lágkostnaðarlanda, sem drifið hefur áfram sífellt vaxandi neyzlu í heiminum og fækkað örfátækum, stendur heimurinn nú líklega frammi fyrir hækkandi framleiðslukostnaði um sinn í fyrsta skipti í langan tíma.  Það veldur pólitískri tregðu við að taka á málum af einurð.

Í skýrslu frá ETC segir, að til að ná nettó núll kolefnislosun frá orkutengdri starfsemi manna þurfi að auka vetnisvinnsluna úr um 60 Mt/ár í 500-700 Mt/ár um miðja þessa öld.  Þó er ekki gert ráð fyrir mörgum bílum knúnum vetnisrafölum.

Núverandi vetnisvinnslu úr vatnsgufu með jarðgasi, sem stendur undir 95 % vinnslunnar, verður að umbylta yfir í rafgreiningu vatns með rafstraumi frá sjálfbærum orkulindum, svo að gagn verði af henni.  Þar liggja mikil tækifæri fyrir þjóðir með miklar ónotaðar, sjálfbærar orkulindir.  Íslendingar eru þar á meðal, og innlend vetnisframleiðsla getur orðið í senn gjaldeyrissparandi, gjaldeyrisaflandi og atvinnuskapandi.  Hún verður mjög vænlegur valkostur við útflutning á raforku strax í byrjun næsta áratugar vegna skorts á vetni í heiminum, sem framleitt er án koltvíildislosunar að nokkru marki. 

 

 

 

 

 


Vaxandi áhugi á vetni

Rafmagnsbílum fjölgar ört í heiminum, og munar þar mest um kínverska framleiðslu og kaupendur.  Þar er stefna stjórnvalda að draga úr loftmengun, einkum í stórborgunum, þar sem hún er löngu komin á stórskaðlegt stig og leiðir til ótímabærs dauðdaga yfir 100 þúsund manns á ári hverju. Þetta skelfilega ástand hefur valdið þjóðfélagslegri spennu. Liður í úrbótum stjórnvalda er rafvæðing bílaflotans, þótt slíkt sé skammgóður vermir, þar sem megnið af raforkuvinnslunni er kolaknúin.  Kínverjar hafa hins vegar uppi mikil áform um að kjarnorkuvæða raforkuvinnsluna, og hafa sett háar upphæðir í þróun kjarnorkutækni, einnig með klofnun annarra frumefna en úraníum, t.d. þóríum.

Kínverjar ganga róttækt til verks á sviði loftslagsmála.  Þeir hafa tryggt sér meirihlutann af vinnslugetu málma, sem þarf til að framleiða liþíum-rafgeyma.  Af þessum sökum hefur verð á þeim hækkað mikið og hörgull er á þeim inn á heimsmarkaðinn.  Þetta torveldar framboð nýrra rafmagnsbíla, en samt hefur framleiðsla þeirra aukizt hratt á síðustu árum.  Frá miðju ári 2014 tvöfaldaðist fjöldi þeirra í heiminum úr 1 M í 2 M á 17 mánuðum,og síðan tók aðeins 6 mánuði að tvöfalda fjöldann úr 2 M í 4 M.  Í árslok 2018 gætu þeir verið um 10 M í heiminum öllum, sem þó er aðeins rúmlega 1 % af heildarfjöldanum.  Á Íslandi er fjöldi alrafbíla um 2500, sem er um 1 % af fólksbílafjöldanum.  Framboðið er hreinlega ekki nægt til að hægt sé að ná markmiði stjórnvalda.  Að hækka kolefnisgjaldið til að hraða fjölguninni er út í hött við þessar aðstæður.

Orkutengd losun mannkyns 2014 nam alls 36,2 mrðt af CO2 og var bróðurparturinn af losun mannkyns.  Það mun enginn umtalsverður árangur nást í baráttunni við gróðurhúsaáhrif koltvíildis í andrúmsloftinu fyrr en stórtæk tækni við kolefnisausa vinnslu raforku lítur dagsins ljós, því að raforkuvinnslan veldur 37,6 % orkutengdrar losunar.  Þegar árangur næst á þessu sviði, t.d. með þóríum-kjarnorkuverum, þá verður hægt að vinna vetni í stórum stíl með rafgreiningu úr vatni án kolefnislosunar. Gallinn við þetta ferli eru mikil orkutöp eða um 25 % við rafgreininguna sjálfa. Hún krefst þess vegna um 50 kWh/kg H2.  Eðlisorkan er um 33 kWh/kg, sem er einhver hæsta eðlisorka eldsneytis, sem þekkist.

Af þessum orsökum hentar vetni vel sem eldsneyti á farartæki.  Samgöngur valda 26,1 % orkutengdrar losunar CO2.  Nokkrir stórir japanskir og Suður-kóreanskir bílaframleiðendur hafa tekið stefnuna á vetnisrafalaknúna rafmagnsbíla.  Það eru góð rök fyrir því að því gefnu, að nægt "grænt" vetni verði á boðstólum.  Til að ná 650 km drægni fólksbíls þarf hann vetnisknúinn aðeins að vera 1400 kg, en 3000 kg knúinn liþíumrafgeymum. Vetnið kostar núna um 1,35 USD/kg, en spáð er hækkun upp í 2,3 USD/kg árið 2020.  Reikna má með a.m.k. 100 km/kg vetnis, sem þýðir, að þetta síðar nefnda verð má tvöfaldast án þess, að orkukostnaður vetnisbíls verði hærri en rafmagnsbíls með liþíum rafgeyma.  

Vetnið má einnig nota til framleiðslu á gervieldsneyti, og það er mjög vænleg framleiðsla á næstu áratugum fyrir vinnuvélar, skip og flugvélar.  Koltvíildi andrúmsloftsins er hinn grunnþáttur þessarar gervieldsneytisframleiðslu.  Hérlendis mætti framleiða um 150 kt/ár (k=þúsund) af umhverfisvænu vetni, sem sumpart færi beint á farartæki, sumpart færi það í eldsneytisframleiðslu og afgangurinn væri fluttur utan, t.d. til Norð-Austur Englands, þar sem það verður notað til að leysa jarðgas af hólmi við upphitun húsnæðis.  

Það er sjálfsagt að nýta sjálfbærar orkulindir til framleiðslustarfsemi hér innanlands, sem verða má að liði í baráttunni við ofhlýnun jarðar, sem leiðir m.a. til ofsúrnunar hafsins og getur haft alvarleg áhrif á lífríkið innan efnahagslögsögu Íslands.  Að gera landið sjálfu sér nægt um eldsneyti hefur gríðarlega efnahagslega þýðingu, svo og öryggislega þýðingu.  Að framleiða vetni verður arðsöm starfsemi, og með slíkri framleiðslu verður ekkert svigrúm eftir til rafmagssölu inn á sæstreng, jafnvel þótt stóriðjuver loki.  Þetta veldur því, að Ísland verður áfram einangraður raforkumarkaður, og raforkuverðshækkanir geta þá orðið hóflegar og fylgt kostnaðarhækkunum virkjanafyrirtækja, flutnings- og dreifingarfyrirtækja.

 

  


Hvað má loftslaginu til bjargar verða ?

Nýlega var haldin ráðstefna í Póllandi í héraði, þar sem mikil loftmengun er frá kolakyntum raforkuverum. Þetta var framhald Parísarráðstefnunnar í desember 2015; fjölmennar voru báðar og mengandi, en árangur óáþreifanlegur, enda umræðuefnið ekki það, sem máli skiptir.  Höfuðatriðið hér er, hvernig á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, og þar leika raunvísindamenn aðalhlutverkið, en embættismenn og stjórnmálamenn manna ræðupúltin og hinar fjölmennu, rándýru og ósjálfbæru ráðstefnur til að ræða stefnur og markmið. 

IEA (The International Energy Agency-Alþjóðlega orkumálastofnunin) áætlar, að heimslosun CO2 í ár, 2018, nái nýjum hæðum, sem sýnir haldleysi fagurgala á fjölmennum ráðstefnum.  Megnið af losuninni stafar af orkuvinnslu- eða orkunýtingarferlum. 

Árið 2014 nam þessi losun 36,2 mrðt (milljörðum tonna), og var rafmagnsvinnsla 37,6 % þar af, en hitt, 62,4 %, skiptist á milli samgangna, 26,1 %, iðnaðar 22,7 %, húsnæðishitunar 9,2 % og annars 4,4 %. Þessar hlutfallstölur eru nytsamlegar til að gera sér grein fyrir viðfangsefninu, sem felst í að stöðva hitastigshækkun lofthjúps jarðar af mannavöldum með engri nettólosun gróðurhúsalofttegunda eigi síðar en 2050.

Það er óhjákvæmilegt fyrir heimsbyggðina að grípa til róttækra ráðstafana til að gera rafmagnsvinnsluna kolefnisfría.  Það hefst aldrei með fjölgun vind- og sólarorkuvera einvörðungu.  Kjarnorkan verður að koma til skjalanna.  Verið er að þróa kjarnorkuver með mun minna geislavirkum úrgangi og styttri helmingunartíma geislavirkni hans, sem að auki eru öruggari í rekstri en úraníum-kjarnorkuverin.

Í samgöngunum munu rafknúnir bílar taka við, og vetnið mun knýja stærri samgöngutæki eða tilbúið eldsneyti  úr vetni og koltvíildi/koleinildi, CO2 t.d. frá jarðgufuverum.  Rafgeymarnir mynda flöskuháls í framleiðsluferli rafmagnsbíla, og þess vegna verður fyrirsjáanlega að grípa til vetnisrafala í bílum í einhverjum mæli. Stórir bílaframleiðendur í Asíu þróa nú slíka tækni. 

Í iðnaðinum stendur yfir mikil þróun til að losna við kolefni úr framleiðsluferlinu. Þar gegnir vetni lykilhlutverki. Alcoa og Rio Tinto hafa stofnað þróunarfélag, Elyses, til að þróa álvinnslu án kolefnisskauta og reyndar án vetnis líka.  Með eðalskautum, sem hafa a.m.k. 15 sinnum lengri endingu en kolefnisskautin, mun myndast súrefni við rafgreiningu súráls í stað koltvíildis frá kolaskautunum.  Annars myndast tiltölulega lítið af gróðurhúsalofttegundum við vinnslu áls í heiminum; aðeins um 300 MtCO2eq/ár eða 0,8 % allrar orkutengdrar losunar koltvíildis.  Ef álnotkun í landfarartækjum heimsins hefur leitt til 5 % eldsneytissparnaðar þessara farartækja, þá jafngildir sú minnkun gróðurhúsalofttegunda helmingi losunar frá öllum framleiðslustigum álsins.  

Í mörgum löndum fer megnið af orkunotkun heimilanna til upphitunar eða kælingar. Hitunarferlið er í mörgum tilvikum knúið jarðgasi.  Á Norð-Austur Englandi er þróunarferli hafið, sem snýst um að leysa jarðgasið af hólmi með vetni.  Leeds-borg hefur forystu um þetta.  Þarna er markaðstækifæri fyrir Íslendinga, því að talið er, að árið 2020 muni verð vetnis hafa hækkað úr núverandi 1,35 USD/kg í 2,30 USD/kg vegna aukinnar eftirspurnar og hærri framleiðslukostnaðar úr jarðgasi vegna kolefnisgjalds.  Við þetta verð fást 46 USD/MWh af rafmagni, en til samanburðar er listaverð Landsvirkjunar núna á forgangsorku 43 USD/MWh.

Talið er, að núverandi vetnisframleiðsla þurfi að tífaldast hið minnsta vegna orkuskiptanna.  Hún fer hins vegar nú aðallega fram með vinnslu úr jarðgasi (95 %), en þarf að verða með rafgreiningu fyrir tilstilli sjálfbærs rafmagns.  Heimsframleiðsla á vetni þarf þannig að nema 600 Mt/ár um 2050 með rafgreiningu.  Ef Íslendingar ákveða að leggja baráttunni við gróðurhúsaáhrifin á erlendri grundu lið með því að virkja t.d. 10 TWh/ár (helmingurinn af núverandi raforkuvinnslu, þriðjungurinn af orkugetu nýtingarflokks Rammaáætlunar) til að knýja vetnisframleiðslu hérlendis og flytja megnið utan samanþjappað, þá þarf til þess 65 kWh/kg, og hægt verður að framleiða 150 kt/ár af H2 (vetni) á flutningstæku formi.  Þetta er aðeins 0,03 % af áætlaðri markaðsþörf, en myndi hjálpa Englendingum talsvert við að vetnisvæða upphitun húsnæðis á NA-Englandi.  Þetta gæfi að lágmarki útflutningstekjur að upphæð 345 MUSD/ár eða 43 mrðISK/ár. 

Með þessu móti mundu Íslendingar teygja sig mjög langt við að aðstoða ríki við orkuskiptin, sem vantar endurnýjanlega orku.  Þetta mundi að óbreyttu þýða, að við þyrftum að ganga á biðflokk virkjana fyrir eigin orkuskipti og 4 TWh/ár fyrir vetnisframleiðslu til eigin nota fyrir t.d. stærri samgöngutæki á landi ásamt vinnuvélum, skipum og flugvélum auk vaxandi orkuþarfar vegna aukinna umsvifa á landinu.

burfellmgr-7340Sólknúin flugvél 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband