Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Hvað má loftslaginu til bjargar verða ?

Nýlega var haldin ráðstefna í Póllandi í héraði, þar sem mikil loftmengun er frá kolakyntum raforkuverum. Þetta var framhald Parísarráðstefnunnar í desember 2015; fjölmennar voru báðar og mengandi, en árangur óáþreifanlegur, enda umræðuefnið ekki það, sem máli skiptir.  Höfuðatriðið hér er, hvernig á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, og þar leika raunvísindamenn aðalhlutverkið, en embættismenn og stjórnmálamenn manna ræðupúltin og hinar fjölmennu, rándýru og ósjálfbæru ráðstefnur til að ræða stefnur og markmið. 

IEA (The International Energy Agency-Alþjóðlega orkumálastofnunin) áætlar, að heimslosun CO2 í ár, 2018, nái nýjum hæðum, sem sýnir haldleysi fagurgala á fjölmennum ráðstefnum.  Megnið af losuninni stafar af orkuvinnslu- eða orkunýtingarferlum. 

Árið 2014 nam þessi losun 36,2 mrðt (milljörðum tonna), og var rafmagnsvinnsla 37,6 % þar af, en hitt, 62,4 %, skiptist á milli samgangna, 26,1 %, iðnaðar 22,7 %, húsnæðishitunar 9,2 % og annars 4,4 %. Þessar hlutfallstölur eru nytsamlegar til að gera sér grein fyrir viðfangsefninu, sem felst í að stöðva hitastigshækkun lofthjúps jarðar af mannavöldum með engri nettólosun gróðurhúsalofttegunda eigi síðar en 2050.

Það er óhjákvæmilegt fyrir heimsbyggðina að grípa til róttækra ráðstafana til að gera rafmagnsvinnsluna kolefnisfría.  Það hefst aldrei með fjölgun vind- og sólarorkuvera einvörðungu.  Kjarnorkan verður að koma til skjalanna.  Verið er að þróa kjarnorkuver með mun minna geislavirkum úrgangi og styttri helmingunartíma geislavirkni hans, sem að auki eru öruggari í rekstri en úraníum-kjarnorkuverin.

Í samgöngunum munu rafknúnir bílar taka við, og vetnið mun knýja stærri samgöngutæki eða tilbúið eldsneyti  úr vetni og koltvíildi/koleinildi, CO2 t.d. frá jarðgufuverum.  Rafgeymarnir mynda flöskuháls í framleiðsluferli rafmagnsbíla, og þess vegna verður fyrirsjáanlega að grípa til vetnisrafala í bílum í einhverjum mæli. Stórir bílaframleiðendur í Asíu þróa nú slíka tækni. 

Í iðnaðinum stendur yfir mikil þróun til að losna við kolefni úr framleiðsluferlinu. Þar gegnir vetni lykilhlutverki. Alcoa og Rio Tinto hafa stofnað þróunarfélag, Elyses, til að þróa álvinnslu án kolefnisskauta og reyndar án vetnis líka.  Með eðalskautum, sem hafa a.m.k. 15 sinnum lengri endingu en kolefnisskautin, mun myndast súrefni við rafgreiningu súráls í stað koltvíildis frá kolaskautunum.  Annars myndast tiltölulega lítið af gróðurhúsalofttegundum við vinnslu áls í heiminum; aðeins um 300 MtCO2eq/ár eða 0,8 % allrar orkutengdrar losunar koltvíildis.  Ef álnotkun í landfarartækjum heimsins hefur leitt til 5 % eldsneytissparnaðar þessara farartækja, þá jafngildir sú minnkun gróðurhúsalofttegunda helmingi losunar frá öllum framleiðslustigum álsins.  

Í mörgum löndum fer megnið af orkunotkun heimilanna til upphitunar eða kælingar. Hitunarferlið er í mörgum tilvikum knúið jarðgasi.  Á Norð-Austur Englandi er þróunarferli hafið, sem snýst um að leysa jarðgasið af hólmi með vetni.  Leeds-borg hefur forystu um þetta.  Þarna er markaðstækifæri fyrir Íslendinga, því að talið er, að árið 2020 muni verð vetnis hafa hækkað úr núverandi 1,35 USD/kg í 2,30 USD/kg vegna aukinnar eftirspurnar og hærri framleiðslukostnaðar úr jarðgasi vegna kolefnisgjalds.  Við þetta verð fást 46 USD/MWh af rafmagni, en til samanburðar er listaverð Landsvirkjunar núna á forgangsorku 43 USD/MWh.

Talið er, að núverandi vetnisframleiðsla þurfi að tífaldast hið minnsta vegna orkuskiptanna.  Hún fer hins vegar nú aðallega fram með vinnslu úr jarðgasi (95 %), en þarf að verða með rafgreiningu fyrir tilstilli sjálfbærs rafmagns.  Heimsframleiðsla á vetni þarf þannig að nema 600 Mt/ár um 2050 með rafgreiningu.  Ef Íslendingar ákveða að leggja baráttunni við gróðurhúsaáhrifin á erlendri grundu lið með því að virkja t.d. 10 TWh/ár (helmingurinn af núverandi raforkuvinnslu, þriðjungurinn af orkugetu nýtingarflokks Rammaáætlunar) til að knýja vetnisframleiðslu hérlendis og flytja megnið utan samanþjappað, þá þarf til þess 65 kWh/kg, og hægt verður að framleiða 150 kt/ár af H2 (vetni) á flutningstæku formi.  Þetta er aðeins 0,03 % af áætlaðri markaðsþörf, en myndi hjálpa Englendingum talsvert við að vetnisvæða upphitun húsnæðis á NA-Englandi.  Þetta gæfi að lágmarki útflutningstekjur að upphæð 345 MUSD/ár eða 43 mrðISK/ár. 

Með þessu móti mundu Íslendingar teygja sig mjög langt við að aðstoða ríki við orkuskiptin, sem vantar endurnýjanlega orku.  Þetta mundi að óbreyttu þýða, að við þyrftum að ganga á biðflokk virkjana fyrir eigin orkuskipti og 4 TWh/ár fyrir vetnisframleiðslu til eigin nota fyrir t.d. stærri samgöngutæki á landi ásamt vinnuvélum, skipum og flugvélum auk vaxandi orkuþarfar vegna aukinna umsvifa á landinu.

burfellmgr-7340Sólknúin flugvél 

 

 


Norðmenn súpa seyðið - málsmeðferð Stórþingsins kærð

Norðmenn búa við frjálsa samkeppni í orkukauphöll, þar sem spákaupmennska er stunduð með raforku að hætti Evrópusambandsins-ESB.  Raforkuverðið í Noregi sveiflast eftir framboði og eftirspurn þar og eftir verði í ESB vegna millilandatenginganna.  Nú, þegar koltvíildisskattur og verð á losunarkvótum koltvíildis fer hækkandi í ESB, hækkar raforkuverðið í Noregi, þótt Norðmenn framleiði nánast enga raforku með jarðefnaeldsneyti. Þetta er einn af göllunum fyrir land endurnýjanlegrar raforku við að vera á raforkumarkaði ESB.

Í september  2018 rigndi meira en dæmi eru um í Noregi, eftir mikla þurrka í sumar, og þess vegna er ekki útlit fyrir bráðan vatnsskort í miðlunarlónum í vetur, en samt er raforkuverð þar með hæsta móti vegna millilandatenginganna og og vöntunar á framlagi orku frá norskum vindmyllum vegna lítt vindasamrar veðráttu í umhverfi flestra vindmyllna Noregs.  

Vindorkuver eru farin að hafa áhrif á framboð raforku í Noregi, en útihitastigið ræður mestu um eftirspurnina.  T.d. í viku 50/2018 blés lítið og hitastig var í meðallegi.  Þá nam orkuverðið til almennings um 59 Naur/kWh eða 8,5 ISK/kWh (60 EUR/MWh).  Þetta er allt að 40 % hærra en hérlendis.  Ef nú kólnar um 3-4 °C, getur verðið hækkað um þriðjung og jafngildir þá 11,3 ISK/kWh, einvörðungu fyrir orkuhlutann (allt að 90 % hærra en hérlendis).  Þetta má tvöfalda vegna flutnings, dreifingar og skatta, svo að almenningur í Noregi má þá út með um 22 ISK/kWh, sem er talsvert hærra en hérlendis.  

Enn verra er þetta á meginlandinu.  Í Belgíu var verðið nýlega 350 EUR/MWh = 49 ISK/kWh fyrir rafmagnið án flutnings og skatta.  Þetta sýnir hrikalegar öfgar markaðskerfisins.  Kerfi af þessu tagi á ekkert erindi hingað til lands, enda myndi það fljótt kippa stoðunum undan velferðarsamfélaginu hér og samkeppnishæfni atvinnulífsins.  Fulltrúar atvinnulífsins ættu að kynna sér þessi mál og taka opinbera afstöðu í þessu brýna hagsmunamáli atvinnulífsins.   

Norðmenn eru eðlilega óánægðir með það, að afurð vatnsafls þeirra og vindafls, rafmagnið, skuli vera undirorpin gríðarlegum verðsveiflum á markaði og háð rafmagnsverði annars staðar í Evrópu.  Ef vindar blása veikt í Danmörku, Hollandi og Þýzkalandi, þá hækkar rafmagnsverð í Noregi.  Ef ESB ákveður að hækka koltvíildisskatt, þá hækkar rafmagnsverð í Noregi, og geta má nærri, að slíkt setji alvarlegt strik í heimilisbókhaldið hjá Ola Nordmann og Kari, sem eru Jón og Gunna Noregs, þegar þetta gerist á kuldaskeiði að vetrarlagi, en meðalheimili í Noregi notar um tífalt meira rafmagn að meðaltali yfir árið en meðalstórt íslenzkt heimili vegna þess, að í Noregi er rafmagn notað til húshitunar. Þar af leiðandi er raforkukerfi Noregs aflhannað, en hérlendis er það hins vegar orkuhannað, sem gefur mun betri nýtingu orkumannvirkjanna að meðaltali yfir árið.  Norðmenn hafa reynt að bæta sér þetta upp með aflsölu til útlanda.  Raforkukerfi okkar býður einfaldlega ekki upp á slíkt.  Þegar raforkuverðið hækkar og þröngt verður í búi hjá frændum vorum, er gengið á eldiviðarhlaðann og kynt upp með kamínunni, svo að á lygnum vetrardögum leggst reykjarmökkur yfir byggðina. Það léttir undir með buddunni, en ekki er það heilsusamlegt. 

Staða Noregs í þessum efnum á að verða Íslendingum víti til varnaðar.  Við eigum ekki að láta gróðapunga klófesta hér orkumarkaðinn og sameina hann Evrópumarkaðinum með sæstreng til að hefja spákaupmennsku með raforkuna á stórum markaði, sem óhjákvæmilega mun rýra kjör alþýðu hérlendis og veikja íslenzk fyrirtæki.  Munum hið fornkveðna: ef þú réttir skrattanum litla fingurinn, þá tekur hann alla hendina.  

Norðmenn eru að vakna upp við vondan draum.  Þeir eru ekki búnir að gefast upp, þótt Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn hafi verið samþykktur á Stórþinginu í vetur, reyndar með 8 skilyrðum.  Þegar ESB tekur að brjóta þessi skilyrði, þá munu Norðmenn verða æfir, einkum Verkamannaflokksmenn, sem sömdu þessi skilyrði.  ESB skrifaði aldrei undir þessi skilyrði, svo að þeir svíkja ekkert, þótt þeir hundsi þau. 

"Nei til EU"-samtökin hafa haldið uppi öflugu andófi gegn ESB í Noregi, og hafa nú kært ríkið fyrir það, að ekki var krafizt aukins meirihluta á Stórþinginu við afgreiðslu Orkupakka #3, eins og stjórnarskrá Noregs áskilur, þegar um skýrt fullveldisframsal er að ræða.  Hér fyrir neðan er þýðing pistilhöfundar á blaðagrein frá "Nei til EU" um þetta efni, en hún er birt á frummálinu í viðhengi með þessum pistli:

"ACER málsóknin snýst um heiðarleika":

"Ríkisstjórn og Stórþing hafa ekki frítt spil við að hola norskt fullveldi að innan; þess vegna ætlar "Nei til EU" að nýta réttarkerfið til að verja leikreglur Stjórnarskrárinnar.

"Nei til EU" hefur stefnt Ríkinu, sem Erna Solberg, forsætisráðherra, stendur sem fulltrúi fyrir, með kröfu um, að ríkisstjórnin setji Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB ekki í framkvæmd, en sá fellir Noreg undir valdsvið Orkustofnunar ESB-ACER.  Röksemdin er sú, að ACER-samþykkið sé ógilt, af því að Stórþingið fylgdi ekki Stjórnarskrárgrein nr 115 um fullveldisafsal, sem m.a. áskilur aukinn 3/4 meirihluta.

     Þetta er í fyrsta skipti, sem "Nei til EU" fer í málsókn.  Við erum félag, sem er grundvallað á lýðræði, og erum gagnrýnin á að beina stjórnmálum á brautir réttarfars, eins og er háttur ESB.  Í EES-samninginum blasir þetta við með stöðugum inngripum eftirlitsstofnunarinnar ESA, sem yfirstýrir stjórnmálalegum áherzlumálum [t.d. banni Alþingis við innflutningi ófrosins kets o.fl.-innsk. BJo].  Við erum þeirrar skoðunar, að lýðræði og fullveldi séu nátengd, og Stjórnarskráin sé réttarfarsramminn, sem afmarkar leikreglurnar fyrir norskt lýðræði.  Þess vegna er úrslitaatriði, að hin sértæku skilyrði, sem Stjórnarskráin setur fyrir fullveldisafsali, séu virt í hvívetna.

Að sniðganga Stjórnarskrána:

Samkvæmt Stjórnarskrá eiga dómstólarnir að hafa alveg óháða stöðu.  Það felur í sér að gæta þess, að einnig þeir, sem setja lögin og framkvæma þau, fylgi lagabókstafnum.  Sjálfstæðið hverfur, ef réttarkerfið samþykkir tafarlaust Stjórnarskrártúlkanir, sem Stórþing og ríkisstjórn miða við.

     Í svo miklu deilumáli sem ACER-málinu hefði Stórþingið sjálft átt að óska eftir mati Hæstaréttar, eins og það á möguleika á með Stjórnarskrárgrein nr 83.  Það vildi hins vegar-eða þorði-Stórþingsmeirihlutinn ekki gera.  Kristilegi þjóðarflokkurinn, KrF, lagði fram tillögu um slíkt mat, en meirihlutinn hafnaði því.  Þegar Stórþingið gerir lítið úr lýðræðinu, er sú leið opin í stjórnskipun okkar, að réttarkerfið geti leikið stærra stjórnmálalegt hlutverk en ella til varnar Stjórnarskránni.  

     ACER-málið leysti úr læðingi gríðarlega krafta, og mjög mörgum finnst, að við Stórþingssamþykktina hafi Stjórnarskráin verið sniðgengin.  Við höfum safnað yfir MNOK 1,0 til málssóknarinnar, og enn bætist við söfnunarféð.  Ef nauðsyn krefur munum við reka málið fyrir Hæstarétti til að fá dómsúrskurð, sem eiginlega allir ættu að hafa hag af, að komi.

Meira en "lítil áhrif":

Aðalspurningin í væntanlegu dómsmáli er, hvort valdframsalið "hafi lítil áhrif", eins og ríkisstjórnin fullyrðir, og hvort þetta sé nógu góð röksemd til að hafna grein 115 og í staðinn að velja einfaldari samþykktarforskrift (gr. 26).  Talsverður fjöldi þekktra lögfræðinga var opinberlega mjög gagnrýninn á aðferð málsmeðferðarinnar í ACER-málinu.

     Fyrirkomulag ákvarðana orkustofnunarinnar ACER í EES er mjög sérstök.  Eftirlitsstofnunin ESA á formlega að taka ákvarðanirnar, en ákvarðanirnar eru skrifaðar hjá ACER.  Ákvarðanir ESA fara síðan til Landsreglarans, sem samkvæmt regluverki ESB verður að vera óháður yfirvöldum hvers lands.  Landsreglarinn á að afrita og framkvæma ákvarðanir ESA, og tekur hvorki við fyrirmælum frá ríkisstjórn né Stórþingi.  Með öðrum orðum er búin til röð afritunarákvarðana frá ESB-stofnuninni, sem verða bindandi fyrir viðkomandi aðila í Noregi.

Í álitsgerð um Stjórnarskrárgrein nr 115 og ACER-málið bendir Hans Petter Graver á marga veikleika við mat ríkisstjórnarinnar, m.a., að lagt hafi verið til grundvallar, að völdin, sem ESA fái, séu einvörðungu þjóðréttarlegs eðlis.  Graver skrifar: "Þar eð völdum ESA verður beitt í norsku réttarumhverfi, munu ákvarðanir ESA verða á lagalegum innanríkisgrundvelli, og þær verða bindandi og njóta forgangs samkvæmt EES-samninginum gagnvart þeim, sem þær beinast að.  Landsreglarinn verður að landslögum skyldugur til að framfylgja ákvörðunum ESA.  Þetta atriði hefði átt að hafa í huga við mat á "áhrifalitlu" valdi, og gæti þá hafa leitt til annarrar niðurstöðu."

Orka er viðkvæmt mál:

Hjá orkustofnuninni ACER hafa verið teknar ákvarðanir um rör og rafstrengi yfir landamæri að andvirði mörg hundruð milljónir norskra króna (MNOK).  ACER getur einnig ákvarðað úthlutun á flutningsgetu í evrópska orkukerfinu.  Þar að auki hefur hún heimildir til að afla upplýsinga hjá einkaaðilum í orkugeiranum og til að leggja á sektir, ef ekki er orðið við þessari upplýsingaskyldu.  

     Við þetta má bæta, að orka er miðlægt og viðkvæmt svið fyrir Noreg sem ríki, einkafyrirtæki og borgarana.  Er þá hægt, heiðarlega og hreinskilið, að halda nokkru öðru fram en því, að valdframsalið hafi mikil áhrif ? 

 Á Íslandi hefur ráðuneytisfólk og fólk á mála hjá  ráðuneytunum sett sig á háan hest og gert lítið úr röksemdum fyrir því, að innleiðing og framkvæmd Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB hérlendis sé utan leyfilegra marka íslenzku Stjórnarskrárinnar.  Hún er strangari, ef eitthvað er, en norska Stjórnarskráin að þessu leyti, en samt geisa um þetta harðar deilur í Noregi.  Íslenzkir embættismenn ættu að forðast að láta í ljós hroka sinn gagnvart þeim, sem brauðfæða þá.  Þeir eru enn ekki nema "smalar í hlutastarfi fyrir ESB".

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Akkilesarhæll rafbílavæðingarinnar

Orkuberinn (orkugeymslan-rafgeymar) er Akkilesarhæll rafbílavæðingarinnar. Það stafar af litlum orkuþéttleika (kWh/kg) rafgeymanna og þar af leiðandi tiltölulega lítilli drægni. Vetni vetnisrafalanna hefur mun meiri orkuþéttleika, en orkunýtnin frá framleiðslu vetnis til nýtingar þess er hins vegar slök.

Sumir evrópskir bílaframleiðendur, sem enn hafa ekki sett alrafbíl á markaðinn, boða, að fyrsta kynslóð slíkra muni hafa drægnina 500 km á fullri hleðslu rafgeyma.  Fyrir íslenzkar aðstæður gæti það þýtt um 260 km að jafnaði yfir árið, en drægnin er mjög háð útihitastigi.  Samkvæmt reynslunni af tengiltvinnbíl höfundar gæti meðalnýtni orðið 0,35 kWh/km hérlendis, sem m.v. 90 kWh rafgeymi gefur tæplega 260 km drægni, sem er óþægilega stutt. Þróunin er hins vegar hröð, einnig í rafgeymum, svo að meðalnýtni kann að hafa batnað um 14 % á þremur árum, og þá verður meðaldrægnin 300 km á einni hleðslu árið 2019. 

Valkosturinn við rafgeyma sem orkubera er vetni, H2.  Það gefur kost á lengri drægni á einum vetnisgeymi en 300-500 km, og eru 1000 km fyrir fólksbíl sennilega ekki vandamál, þótt 500 km sé algengari drægni vetnisknúinna bifreiða nú.  Þar af leiðandi þarf færri áfyllistöðvar, og hver 100 % áfylling tekur mun skemmri tíma en hraðhleðsla frá 0 upp í 80 % af orkurýmd rafgeyma.

Orkulega séð hefur orkuberinn vetni þann alvarlega ókost, að orkunýtni hans er aðeins hálfdrættingur á við orkunýtni rafgeymisins, ef orkutöp við vinnslu vetnis eru meðtalin, og svipar þar með til beztu orkunýtni í sprengihreyflinum.  Leggja má eftirfarandi mat á orkunýtnina:

Vetni:   Aðalaðferðin við framleiðslu vetnis, H2, og sú ódýrasta er að skilja vetnissameind frá sameind eldsneytisgass, en það er hins vegar umhverfislega ósjálfbær aðferð.  Þess vegna hefur verið gripið til þess ráðs að sundra (tveimur) vatnssameindum, H2O, með rafstraumi í (tvær) vetnissameindir og eina súrefnissameind (O2).  Ferlið nefnist rafgreining, og þarf 9 kg af vatni til að framleiða 1 kg af vetni og 8 kg af súrefni.  Þetta er umhverfislega sjálfbært ferli, en kostnaðarlega varla vegna dýrs búnaðar og hárra orkutapa, sem eru um 20 %.

Efnarafalar (fuel cells) snúa þessu ferli við og nota vetni til að framleiða rafstraum og gufu.  Þeir eru enn í þróun, eru dýrir í innkaupum (lítið upplag) og dýrir í rekstri, því að orkunýtni þeirra er lág, aðeins um 50 %.  Heildarnýtni vetnisvinnslu og efnarafala:

HNvetni = 0,8 x 0,5 = 40 % (um 30 % að hjólum)

Með sams konar hugleiðingu má leggja mat á nýtni rafbíls með rafgeyma.  Töp við hleðslu rafgeymanna eru um 10 % (gleymist oft, þegar raforkukostnaður rafbíls er reiknaður).  Töp við afhleðslu rafgeymanna eru um 10 %.  Heildarnýtni rafgeyma inn og út:

HNrafg = 0,9 x 0,9 = 81 % (um 65 % að hjólum)

Rafgeymarnir nýta orkuna rúmlega tvöfalt betur en vetnisrafalinn.  Þetta er mikill kostur, en dugar rafgeymunum samt ekki til ótvíræðra yfirburða sökum þess, að þeir hafa enn stórgalla.  Orkuþéttleiki og þar með drægni á hleðslu er miklu minni en vetnisrafalans, og það eru fyrir hendi alvarlegir flöskuhálsar við útvegun torgæfra málma í algengustu rafgeymana, s.k. liþíumrafgeyma.  Verður nú gerð grein fyrir þeim með vísun til The Economist, 24. marz 2018, bls. 65-66:

Kobalt-málmurinn dregur nafn sitt af Kobold, stríðnum þýzkum búálfi, sem hélt sig mikið neðanjarðar samkvæmt þjóðtrúnni.  Kobalt villti um fyrir námuverkamönnum um aldir með því að líta út fyrir að vera verðmætur málmur, en var svo verðlaus og jafnvel skaðlegur, þegar til kastanna kom.  Enn er hætt við, að kobalt valdi vandræðum, nú á stækkandi markaði rafgeyma fyrir rafbíla, sem hver um sig þarf 10 kg af kobalti.  Uppruni vandræðanna er ekki í Þýzkalandi í þetta skiptið, heldur í Kína.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að meira en helmingur þekkts kobalts í jörðu og meira en helmingur vinnslu þess úr jörðu á sér stað í hinu óstöðuga "Lýðræðislega lýðveldi Kongó".  Það er síður þekkt, að 80 % af úrvinnslu kobaltsúlfíða og kobaltoxíða, sem notuð eru í bakskaut liþíum-rafgeymanna, fer fram í Kína.

Mikið af eftirstandandi 20 % úrvinnslunnar á kobaltinu fer fram í Finnlandi, en hráefnið í hana kemur líka frá námu í Kongó, sem að meirihluta til er í eigu kínversks fyrirtækis, "China Molybdenum".

Þann 14. marz 2018 þyngdust áhyggjur bílaframleiðenda og annarra vegna kverkataks Kínverja á kobalt-vinnslu heimsins, þegar GEM, kínverskur rafgeymaframleiðandi, tilkynnti, að hann myndi kaupa þriðjung af kobalti Glencore, stærsta kobaltnámufyrirtækis heims, á árabilinu 2018-2020, jafngildi helmings af heimsframleiðslunni, 110 kt, árið 2017.  

Það er líklegt, að þetta leiði til áframhaldandi verðhækkana á kobalti, en það hefur hækkað úr 26,5 kUSD/t árið 2016, rétt áður en miklar verðhækkanir hófust, og upp fyrir 90 kUSD/t á fyrsta fjórðungi 2018. Núverandi einingarverð á kobalti er meira en 40 sinnum hærra en núverandi verð á óunnu áli á markaði.  Það er til mikils að vinna að þróa nýja gerð rafgeyma, sem t.d. nýta ál (álrafgeymar).

Þessa gríðarlegu áherzlu Kínverja á að tryggja sér hörgulefnið kobalt má rekja til örvæntingarfullra aðgerða þeirra til að tryggja framgang metnaðarfullra ríkisáætlana Kína um að stórauka framleiðslu rafmagnsbíla fyrir innanlandsmarkað til að draga úr hættulegri loftmengun í stórborgum Kína.  Hún veldur tugþúsunda dauðsfalla á ári og er orðin mikið óánægjuefni á meðal borgarbúa í Kína í garð yfirvalda. 

George Heppel hjá ráðgjafarfyrirtækinu CRU segir, að auk kaupa GEM á þriðjungi kobalts frá Glencore, muni kínverska Molybdenum hugsanlega flytja kobaltið sitt frá Kongó til Kína fremur en til Finnlands, og þar með mundu Kínverjar ráða yfir 95 % af kobaltvinnslu heimsins.  Stórir notendur kobalts eru tæknifyrirtæki í Japan og í Suður-Kóreu, og þar hafa menn miklar áhyggjur af ríkjandi stöðu Kínverja sem kobaltbirgjar og ekki að ástæðulausu, ef litið er til reynslunnar af kínverskum yfirvöldum. 

Fáir markaðsgreinendur eiga von á bættu jafnvægi á kobaltmarkaðinum á næstunni.  Námugröfturinn mun líklega vaxa í Kongó, en vaxtarhamlandi verður vafalaust nýleg fimmföldun námuleyfisgjalds fyrir kobalt þar í landi.  Fjárfestingar í kobaltnámum annars staðar auka framboðið varla, því að þar er kobalt aukaafurð við gröft eftir kopar og nikkel.  Jafnvel á núverandi verði er magnþörfin of lítil til að réttlæta framleiðsluaukningu á kobalti þar einvörðungu. Þessi staða kallar á nýjar lausnir með nýjum efnum. 

Eftirspurnaraukning kobalts getur orðið gífurleg, ef spurn eftir rafbílum vex, eins og vonir standa til alls staðar í heiminum.  Mest af kobaltinu fer nú í rafhlöður snjallsíma og ofurmelmi inni í hverflum þotuhreyflanna, en til að anna spurn eftir rafbílum gæti þörf fyrir kobalt í rafgeyma rafbíla aukizt úr 9 kt árið 2017 í 107 kt árið 2026, sem svarar til 10,7 M rafgeyma 2026 í nýja rafbíla, sem verða tæplega 10 % nýrra bíla.  Að auki verða sennilega nokkrar milljónir nýrra bifreiða árið 2026 með vetnisrafala, þannig að allt að 15 % nýs bílaflota gæti þá orðið rafknúinn.  

Hækkandi verð á kobalti mun kannski leiða til nýrrar námuvinnslu, en rafgeymaframleiðendur utan Kína eru samt nú þegar farnir að huga að öðrum valkostum til að verjast kobaltskorti.  Þeir horfa þá til málmsins nikkels.  

Algengustu málmarnir í málmblöndu bakskauta rafgeyma rafbílanna eru nikkel, mangan og kobalt, nefnd NMC, og nikkel, kobalt og ál, nefnd NCA.  Vegna verðhækkana og skorts á kobalti hafa sumir framleiðendur framleitt kobaltrýr bakskaut með því að auka nikkelinnihaldið í að verða áttfalt kobaltmagnið.  Þetta eykur orkurýmd rafgeymanna, en flækir framleiðsluferli bakskautsins, og hættara verður við íkviknun í rekstri rafgeymanna.  Kúnstin er að finna rétta hlutfallið á milli málmanna.

Aukin spurn eftir nikkeli hefur enn ekki leitt til verðhækkana á því vegna offramleiðslugetu frá 2011, þegar verðið lækkaði úr 29 kUSD/t undir 10 kUSD/t árið 2017.  Árið 2017 var framleiðsla nikkels fyrir rafgeyma rafbíla aðeins 35 kt af heildarframleiðslu nikkels, 2,1 Mt.  McKinsey-ráðgjafinn býst við 16-faldri eftirspurnaraukningu árið 2025 upp í 550 kt frá rafgeymaverksmiðjum fyrir rafbíla.  

Þær takmarkanir á frjálsum markaði fyrir bakskautaefni í rafgeyma, sem hér hafa verið reifaðar, eru líklega meginástæða þess, að japanskir og suður-koreanskir bílaframleiðendur verja nú háum upphæðum til þróunar á vetnisrafalanum og á vetnisgeyminum fyrir rafbíla.  Það er mun einfaldara að auka drægni á hverri hleðslu þessara bíla en rafbíla, sem knúnir eru liþíumrafgeymum.  Það mun verða spennandi barátta um rafbílamarkaðinn á milli þessara tvenns konar tæknilausna, sem hér hafa verið nefndar.

Þriðja lausnin getur hæglega rutt hinum tveimur úr vegi, a.m.k. í stórum farartækjum og vinnuvélum.  Það er þóríum-kjarnorkuverið, sem hægt á að verða að sníða að þörfum notandans á mjög stóru stærðarbili, alveg niður í 10 kW.  Helmingunartími úrgangsins er stuttur og geislavirknin nægilega lítil fyrir almenna notkun.  Ending slíks orkugjafa í bíl yrði ekki skemmri en ending bílsins. Á næsta áratugi mun skýrast, hvað ofan á verður í orkuskiptum samgöngugeirans á láði, legi og í lofti.   

 

 

 

 


Ofríki gagnvart undirstöðugrein

Stjórnmálamenn og allir aðrir hérlendir menn verða að gera sér grein fyrir þjóðhagslegu mikilvægi samkeppnishæfni atvinnuveganna, sérstaklega fyrirtækja í útflutningi.  Alþingismenn hafa mikil áhrif til góðs eða ills á samkeppnishæfni atvinnuveganna, því að með lagasetningu eru þau starfsskilyrði, sem ekki ráðast beinlínis á markaði, ákveðin.  Þetta á t.d. við um skattlagningu og gjaldtöku. 

Að undirlagi stjórnarandstöðuþingmanna tók þingheimur mjög illa ígrundaða og skaðlega ákvörðun undir lok vorþings 2018 um að láta meingallaða og mjög íþyngjandi gjaldtöku af sjávarútveginum viðgangast áfram til ársloka 2018. Þetta ábyrgðarleysi gagnvart hagsmunum grundvallar atvinnuvegar á Íslandi er þungur áfellisdómur yfir stjórnarandstöðunni á Alþingi.

Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður Viðskiptaráðs Íslands, skrifaði þarfa hugvekju um samkeppnishæfni í Morgunblaðið, 4. júní 2018:

"Samkeppnishæf lífskjör":

"Mikil samkeppnishæfni er nauðsynlegt hráefni í þjóðarkökuna, enda hafa nær engin ríki háa landsframleiðslu [á mann], en laka samkeppnishæfni.  Það, sem meira er, þá helzt mikil samkeppnishæfni einnig í hendur við það, sem ekki verður metið til fjár.

Gott dæmi um það er vísitala félagslegra framfara (SPI).  Sú vísitala var sköpuð vegna þess, að efnahagslegir mælikvarðar segja ekki alla söguna um raunveruleg lífskjör og lífsgæði.  SPI tekur því ekki til neinna fjárhagslegra mælikvarða.  Þess í stað notar vísitalan mælikvarða á borð við aðgengi að hreinu vatni, barnadauða, aðgengi að húsnæði á viðráðanlegu verði, glæpatíðni, lífslíkur, sjálfsmorðstíðni, jafnrétti, fordóma í garð hinsegin fólks og innflytjenda og svo mætti lengi telja.

Staðreyndin er sú, að það er samband á milli samkeppnishæfni og mikilla félagslegra framfara.  Nær ekkert ríki í heiminum hefur litla samkeppnishæfni og miklar félagslegar framfarir.  Af efstu 20 ríkjunum í samkeppnishæfni IMD eru 17 einnig á topp 20 lista yfir félagslegar framfarir.  Sömu sögu má rekja, þegar kemur að hamingjuvísitölunni samkvæmt "World Happiness Report".  Þó að orsakasamhengið geti verið í báðar áttir, sýnir reynslan, að án samkeppnishæfs atvinnulífs er ómögulegt að byggja upp viðunandi lífskjör."

Nú um stundir dynja á okkur fréttir úr atvinnulífinu, sem gefa vísbendingar um versnandi samkeppnisstöðu landsins, og það þarf enginn að velkjast í vafa um versnandi stöðu, því að IMD-háskólinn hefur nýlega birt mæliniðurstöður sínar fyrir 2018.  Í hópi 63 ríkja fellur Ísland niður um 4 sæti síðan 2017.  Ísland er nú í 24. sæti og lækkar í fyrsta sinn síðan 2013. 

Allar hinar Norðurlandaþjóðirnar eru ofar á listanum yfir samkeppnisstöðu þjóða. Samtímis er Ísland nálægt toppi OECD þjóða um skattheimtu á mann.  Þarna er samhengi, og þetta verður að laga.

 Slæm samkeppnisstaða boðar ekkert gott fyrir þróun samfélagslegra innviða samkvæmt ofansögðu. Versni samkeppnisstaðan, minnkar atvinnan og skattstofnar rýrna. Við þessar aðstæður verður að telja það fullkomna glópsku af þingmönnum stjórnarandstöðunnar að grafa undan "félagslegum framförum" með því að verða þess valdandi, að grafið er undan samkeppnishæfni undirstöðuatvinnugreinar landsins með því að gera Atvinnuveganefnd Alþingis afturreka með lágmarkslagfæringu til bráðabirgða á veiðigjöldum útgerðanna í landinu.

Það er ekki einvörðungu, að ríkisvaldið sé að innheimta auðlindagjald af atvinnugrein, þar sem engin auðlindarenta er núna, heldur er sjávarútveginum mismunað herfilega innanlands og utan, þar sem engin önnur atvinnugrein, sem náttúruauðlindir nýtir hérlendis, greiðir enn auðlindagjald til ríkisins, og erlendur sjávarútvegur, sem Íslendingar keppa við erlendis, greiðir yfirleitt engin veiðigjöld, heldur fær hann styrki úr sjóðum ESB og/eða úr ríkissjóðum viðkomandi landa, jafnvel sá norski. 

Með þessu móti er íslenzki sjávarútvegurinn ekki aðeins settur í erfiða stöðu erlendis, heldur veikir ríkisvaldið með þessu framtaksleysi sínu viljandi samkeppnisstöðu hans innanlands um fé og fólk. Ríkisvaldið verður að hrista af sér slenið og setja á laggirnar samræmt kerfi, sem skerðir ekki jafnræði atvinnugreina og skerðir ekki samkeppnisstöðuna erlendis.  Með núverandi fyrirkomulagi eru þingmenn að saga burt greinina, sem við öll sitjum á.  Að þeir geri það með almannaheill á vörunum og stéttastríðstali um "eign þjóðarinnar", toppar tvískinnung og/eða flónsku stjórnmálanna.  

Katrín Olga orðaði þetta vel í lok téðrar greinar sinnar:

"Oft er látið sem svo, að fyrirtækin og fólkið í landinu eigi í baráttu, að velgengni annars sé á kostnað hins.  Fyrir mér er ekkert fjær sanni, því að eins og rannsóknir og mælingar gefa svo sterklega til kynna, haldast lífsgæði og rekstrarumhverfi fyrirtækja hönd í hönd.  Stöndum vörð um hag okkar allra og vinnum að aukinni samkeppnishæfni."

Almennt og sanngjarnt veiðigjald þarf að vera tvíþætt.  Annars vegar aðgangsgjald að auðlindinni og hins vegar aðlindagjald, þegar auðlindarenta er fyrir hendi í greininni.  Nota má framlegð, EBITDA, fyrirtækjanna sem mælikvarða á það, hvort þau hafi notið auðlindarentu, en hún er hagnaður náttúruauðlindahagnýtenda umfram hagnað annarra, sem rekja má til hinnar sérstöku aðstöðu.  Sjávarútvegsfyrirtækin eru í fjármagnsfrekri starfsemi, og þess vegna má ekki setja viðmið EBITDA síðasta árs fyrir auðlindagjald í ár lægra en 18 % af tekjum þeirra. Almennt gæti þá einföld formúla tvískipts veiðigjalds litið þannig út:

  1. Fyrri hlutann verða allir að greiða sem gjald fyrir aðgang að auðlindinni, en aðgangsgjaldið er samt tekjuháð:             AÐG=0,5 % x MVxm, þar sem MV er meðalverð, ISK/kg, á óslægðum afla og m er veiðimassinn (aflaþungi upp úr skipi).
  2. Seinni hlutann verða þeir að greiða, sem voru með meðalframlegð (EBITDA) á sama árshelmingi í fyrra yfir 18 % af tekjum, enda er auðlindarenta annars ekki talin vera fyrir hendi í fyrirtækinu:  AUG=5,0 % x MVxm x MV/500
  3. Heildarafnotagjaldið, HAG=AÐG + AUG

Þessa einföldu reglu má nota til að leggja á hvers konar afnotagjöld af náttúrunni.  Fyrir jafnræðissakir er brýnt að koma á samræmdu álagningarkerfi. 

Skaðar þetta samkeppnisstöðuna við útlönd ? Árin 2016-2017 var meðalverð af óslægðum þorski 248 ISK/kg. M.v. þetta verð hefðu veiðigjöldin orðið:

AÐG=1,2 ISK/kg, sem mundi svara til um 3 % af framlegð, ef hún er 15 %.  Þetta er ekki sligandi, þótt rekstur kunni að vera erfiður að öðru leyti:

AUG=6,2 ISK/kWh og HAG=7,4 ISK/kg, sem mundi svara til um 15 % af framlegð, ef hún er 20 %.  Þetta er umtalsvert, en ekki sligandi fyrir þokkalegan rekstur.

Með þessu móti greiða allir fyrir aðgang að fiskveiðiauðlindinni, og þjóðin fær auðlindarentuna í sinn hlut eða a.m.k. drjúgan hluta hennar.  Það, sem meginmáli skiptir er, að það er ekki verið að blóðmjólka mjólkurkúna, heldur getur hún fitað sig í haganum og haft þannig borð fyrir báru, ef harðnar á dalnum.  Sjávarútvegurinn er fjármagnsfrek starfsemi, sem verður að geta fjárfest mikið án þess að hleypa sér í skuldir, svo að hann viðhaldi og helzt styrki samkeppnisstöðu sína á alþjóðlegum mörkuðum.  

 

 

 


Heimildasöfnun er eitt, rökrétt ályktun annað

kvöldi 13. maí 2018 sýndi RÚV-Sjónvarp heimildarmynd um laxeldi.  Í myndinni voru fallegar landslagsmyndir, aðallega frá Noregsströnd, Vestur-Skotlandi og Svíþjóð, og einnig frá strönd Washington fylgis á NV-strönd Bandaríkjanna.  Með viðtölum við þarlenda o.fl. var gerð grein fyrir mengun, lúsasmiti og erfðablöndun af völdum laxeldis í sjókvíum á þessum svæðum.

Þetta var allt gott og blessað, en svo snaraðist heldur betur á merinni, þegar tekið var til við að heimfæra ófarir og mistök við laxeldi þarlendra á Ísland.  Við það breyttist fræðslumynd í óheflaða áróðursmynd gegn laxeldi í sjókvíum við Ísland.  Nú skal leitast við að finna þessum orðum stað, m.a. með vísun til fræðimanna.

1) Tökum fyrst mengunina.  Þar er aðallega átt við fóðurleifar og úrgang.  Þetta er í raun áburður og næring fyrir fjarðalífið í grennd við kvíarnar, en menn eru sammála um, að heppilegt sé vegna staðbundinnar níturmyndunar og súrefnisþurrðar, sem af uppsöfnun leiðir, að hvíla eldissvæðin, eins og þurfa þykir, í sumum tilvikum 1 ár af hverjum 3.  Eftirlit er að hálfu starfsleyfishafa haft með umhverfinu, opinberir eftirlitsaðilar gera stakar athuganir, og eru þetta væntanlega nauðsynlegar og nægilegar mótvægisaðgerðir gegn þessari mengun.

2)Gert var mikið úr lúsasmiti villtra stofna af eldislaxinum.  Það blasir við, að sú hætta er hverfandi á Íslandi m.v. nefnda staði erlendis. 

Í fyrsta lagi er sjávarhiti svo lágur við Ísland, að sníkjudýrið laxalús þrífst ekki, nema í undantekningartilvikum.  Þetta getur þó breytzt, ef sjórinn heldur áfram að hlýna við Ísland. Lúsin er mikill vágestur í laxeldi við Noreg og Skotland, en hérlendis er notkun lúsareyðis eða sýklalyfja í lágmarki og ætti að verða tilkynningarskyld til rekstrarleyfisveitanda.

Í öðru lagi er sjókvíaeldi aðeins leyft við Ísland á stöðum í grennd við heimkynni um 1 % íslenzku laxastofnanna.  Það er þess vegna út í hött að bera aðstæður á Íslandi saman við t.d. Noreg eða Skotland, þar sem sjókvíaeldi hefur áratugum saman verið staðsett við mynni helztu laxveiðiáa þessara landa.

3)Það var í téðri "heimildarmynd" mikið fimbulfambað um hættuna á erfðablöndun, ef eldislax nær upp í ár hérlendis til að hrygna.  Áhrif einstaka eldislaxa, sem ná að mynda klak með villtum fiski, eru engin merkjanleg á villta stofninn.  Rannsóknir norska fræðimannsins Kevens Glover o.fl. benda til, að þótt hlutfall sleppifiska í á sé 5 %-10 % af villta stofninum í hálfa öld, verði áhrif erfðablöndunar mjög lítil og hamli í engu vexti og viðgangi stofnsins.  Fyrst við hlutfallið 30 %-50% í hálfa öld verða breytingar á villta stofninum augljósar og til hins verra.  Leikmönnum, sem fullyrða allt annað, duga ekki upphrópanir, því að gríðarlegir almannahagsmunir eiga hér í hlut, þar sem 21 starf/kt verða til við laxeldisstarfsemina (7 bein+14 óbein í Noregi), og jafnvel meira á Íslandi, þar sem framleiðslueiningarnar eru minni.

Við áhættumat sitt beitir Hafrannsóknarstofnun varúðarreglu og miðar við 4 % leyfilegt hámark eldislaxa af villtum löxum í á.  Hún metur burðarþol Ísafjarðardjúps 30 kt/ár í sjókvíum.  Það gætu verið 12 M (M=milljón) fiskar.  Villtir laxar í ám, sem renna út í Ísafjarðardjúp, eru fáir, e.t.v. 600 talsins á ári.  Leyfilegt hámarkshlutfall hrygnandi eldislaxa í ám Ísafjarðardjúps er þá 2 ppm (ppm=hlutar úr milljón) af fiskafjölda í sjókvíum. 

Traustari sjókvíar, bætt vinnubrögð og strangur gæðastjórnunarstaðall hafa dregið úr líkum á, að laxar sleppi úr sjókvíum hér við land, um 98 %.  Þessa verða gagnrýnendur sjókvíaeldis á laxi að taka tillit til í málflutningi sínum, ef eitthvert vit á að vera í honum.  Þegar þar að auki er tekið tillit til, að aðeins hluti sleppifisksins ratar upp í árnar og hrygnir þar með eldislaxi, má gera ráð fyrir, að aðeins 1 ppm eldislax í sjókvíum geri þetta hér við land.  Hann getur samt hvergi gert óskunda með því.  Jafnvel í Ísafjarðardjúpi með 30 kt/ár af eldislaxi í sjókvíum, yrði blöndunin innan öryggismarka Hafrannsóknarstofnunar.  Þess vegna ætti henni ekkert að vera að vanbúnaði með að hækka áhættumörkin upp í burðarþolsmörkin þar, og leyfisveitendum með að veita virðurkenndum aðilum starfsleyfi og rekstrarleyfi, sem gjarna gæti farið stighækkandi á 5 árum upp í 30 kt/ár, í enn frekara varúðarskyni, og stöðvun aukningar, ef tilefni gefst til. 

Þann 8. maí 2018 birtist fróðleg grein í Fréttablaðinu eftir Gunnar Stein Gunnarsson, líffræðing, undir fyrirsögninni:

"Stofnanda áhugamannafélagsins IWF svarað".

Þar skrifaði hann m.a. um rannsóknir Kevens Glover, en af niðurstöðum þeirra má ráða, að áhyggjur m.a. hagsmunaaðila hérlendis, s.s. veiðiréttarhafa í ám, sé ástæðulaus út frá líffræðilegum og erfðafræðilegum forsendum:

"Reyndar mætti Ingólfur lesa fræðigreinar af meiri athygli áður en hann ríður fram á ritvöllinn, en í grein Glovers kemur einmitt fram, að því óskildari sem aðkomulaxinn er villta laxinum, þeim mun ósennilegra er, að hann skilji eftir sig spor.

Í grein Glovers kemur fram, að samsetning ákveðinna þátta, eins og lítill árangur eldislaxins við hrygningu, náttúrulegt val, sem hyglir aðlöguðum fenótýpum/genótýpum frá hinum villtu stofnum, sem og fenótýpiskur sveigjanleiki, dregur úr hraða og stærðargráðu breytinga í fenótýpum/genótýpum og líffræðilegum einkennum villta laxastofnsins, sem hefur upplifað innstreymi frá eldislaxi.

Þetta er í samræmi við niðurstöður annarra aðila í fræðaheiminum, svo sem Hindar, Norsku hafrannsóknarstofnunarinnar og fleiri.  Það þarf mikla, stöðuga og viðvarandi innblöndun af eldislaxi í áratugi til að hætta á erfðablöndun sé raunveruleg (Hindar;2006, 2017).  Um þetta eru fræðimenn nokkuð sammála í Noregi og víðar."

Með öðrum orðum er æxlunargeta eldislaxins dauf og náttúran hyglir hinum aðlagaða, villta stofni umfram stofn, sem í margar kynslóðir hefur verið ræktaður af mönnum til að vaxa hratt og verjast lús fremur en að geta af sér öfluga einstaklinga.  Þar af leiðandi er það fyrst við yfir 30 % "innstreymi" samfleytt áratugum saman, sem erfðafræðilegra breytinga tekur að gæta í villtum laxastofnum.  Slíkt er algerlega útilokað við núverandi aðstæður á Íslandi.  

Þá er rétt í þessu samhengi að vekja athygli á grein tveggja norskra prófessora við Landbúnaðarháskólann að Ási og við Háskólann í Björgvin, Erik Slinde og Harald Kyvi, en þeir hafa áhyggjur af úrkynjun villtra laxastofna, sérstaklega við skyldleikaræktun í ám með fáum löxum.  Grein þeirra:

"Viltu bjarga laxinum ? - leggðu þá flugustönginni", 

birtist í Morgunblaðinu, 12. maí 2018:

"Flestir [göngulaxanna] finna sína á, en um 5 % fara í aðra. Þetta skiptir máli; það hindrar skyldleikaræktun, sem hætta er á, séu fáir fiskar í ánni.  Skyldleikaræktun er ógn við laxastofna.  Sloppnir eldislaxar í Noregi synda sumir einnig upp í ár til hrygningar með sínum villtu ættingjum.  Mjög neikvætt, segja yfirvöld.  En eru til sérstök eldislaxagen, sem eru óheppileg, eða eru genin bara venjuleg, gagnleg laxagen ?

Bara brot þeirra laxa, sem synda til hafs úr hverri á, kemur aftur, og í sumum ám er fjöldinn ótrúlega lítill.  Stærsta ógn laxastofna er því veiðin í ánni.  Með vissu má því segja, að vilji maður bjarga villta laxinum, þá eigi maður að leggja veiðistönginni.  Sumir segja hægt að veiða laxinn og sleppa honum aftur.  Það er dýraníð, en úr því að laxinn gefur ekki frá sér hljóð, þá er það kannski í lagi ?"

Þarna kveður við nýjan tón m.v. mest áberandi umræðu á þessu sviði á Íslandi.  Tveir háskólaprófessorar gera því skóna, að takmörkuð blöndun við aðra stofna, eldislax innifalinn, leiði til æskilegrar erfðafræðilegrar fjölbreytni, sem er nauðsynleg til að hindra skaðlega skyldleikaræktun.

Þá er óhjákvæmilegt að gefa gaum að orðum þeirra um dýraníð, og dýraverndarsamtök, veiðiréttareigendur, dýralæknar og lögfræðingar þurfa að komast að niðurstöðu um það, hvort "veiða-sleppa" aðferðarfræðin samræmist núgildandi íslenzkum lögum um dýravernd og velferð dýra.

Norsku prófessorarnir hnykkja á vangaveltum sínum um veiðina á villtum laxi í lok greinar sinnar:

"Veiðin á villtum laxi í ám er umhugsunarverð og má líta á sem umhverfisfjandsamlega.  Það er tímabært, að yfirvöld skoði stjórnun á erfðaefni laxa og laxveiðiáa.  Yfirvöld ættu að spyrja stofnanir sínar um, hvaða markmið þær hafa sett um stjórnun erfðafjölbreytileika, og það ætti að gilda um öll dýr, ekki bara um lax."

Norður-Atlantshafslaxastofnarnir eiga allir undir högg að sækja.  Hér benda tveir fræðimenn á 2 hugsanlegar skýringar, ofveiði og úrkynjun stofnanna vegna skyldleikaræktar innan smárra stofna.  Það er nær að beina sjónum að raunverulegu vandamáli en að upphefja galdraofsóknir á grundvelli þröngsýni og fáfræði, eins og vanalega, gegn mikilvægri atvinnugrein á Íslandi, sem beitir beztu fáanlegu tækni og staðlaðri gæðastjórnun við sjókvíaeldi á eldislaxi.  Tal um geldingar og landeldi er óraunhæft í núverandi viðskiptaumhverfi.  Geldingar þessar geta flokkazt undir dýraníð og landeldið útheimtir mikla orku, ferskvatn og jarðhita.   

 

 

 

 

 


Ádrepa frá EES í garð Hæstaréttar

Skörin er farin að færast upp í bekkinn, þegar Eftirlitsstofnun EFTA, sem í raun er handlangari Evrópusambandsins, ESB, er farin að senda áminningarbréf til utanríkisráðuneytis Íslands út af því, að Hæstiréttur Íslands láti ekki EES-löggjöf njóta forgangs gagnvart íslenzkri löggjöf, eins og kveðið sé á um í EES-samninginum.  Víst er, að slíkar ádrepur munu verða tíðari, ef Alþingi samþykkir stóra lagabálka á borð við Persónuverndarlagabálkinn og Þriðja orkumarkaðslagabálkinn, sem hvor um sig færir innlent vald til yfirþjóðlegrar stofnunar. Sennilega telur Hæstiréttur þessar kröfur ESA stríða gegn Stjórnarskrá. EES-aðildin leiðir til lögfræðilegs kviksyndis. Það er mikill ábyrgðarhluti að hálfu þingheims að leiða landsmenn lengra út í það fúafen.

13. desember 2017 sendi ESA formlegt upphafsbréf til íslenzka utanríkisráðuneytisins um mál, sem snýst um, að Ísland hafi ekki uppfyllt réttarfarslegar skyldur sínar samkvæmt Bókun 35 við EES-samninginn og að þar með hafi Ísland brotið gegn EES-samninginum, grein nr 3. Bréfið sjálft er í viðhengi þessa pistils. 

ESA vísar til nokkurra dóma Hæstaréttar, þar sem hann virðist ekki hafa farið eftir Bókun 35 um, að landsreglan skuli víkja.

Bókun 35: "Í tilviki mögulegra árekstra á milli framkvæmdar á EES-reglum við aðrar lagareglur, skuldbinda EFTA-ríkin sig til, ef nauðsyn reynist, að setja í lög, að EES-reglurnar skuli hafa forgang í slíkum tilvikum." 

Stenzt þetta íslenzku Stjórnarskrána ?

Grein 3 í EES-samninginum hljóðar svo: "Samningsaðilar skulu gera almennar eða sértækar ráðstafanir til að uppfylla skyldur, sem leiða af þessum samningi.  Þeir skulu forðast allt, sem getur ógnað markmiðum þessa samnings.  Þeir skulu ennfremur létta samstarfið innan ramma þessa samnings."

Bókun 35 fyrirskrifar sem sagt, að EES-reglur skuli í framkvæmd njóta forgangs fram yfir aðrar lagareglur.  Þetta felur í sér, að EES-rétturinn almennt nýtur ekki forgangs fram yfir þjóðarrétt, en þegar kemur að framkvæmdinni og velja þarf á milli, er EES-rétturinn þó rétthærri.  Ennfremur merkir þetta, að EES-rétturinn nýtur ekki forgangs gagnvart Stjórnarskrá.  Hlutverk bókunarinnar er, að EES-rétturinn hafi svipað afl í  EFTA-löndunum eins og EES-rétturinn og viðeigandi ESB-reglur í aðildarlöndum ESB, en án þess að valdsvið löggjafans í EFTA-löndunum sé almennt rýrt.

EFTA-dómstóllinn, sem ætíð nýtir dómafordæmi frá ESB-dómstólinum, ef þau finnst, hefur í dómaframkvæmd lýst notkunarsviði þessarar grunnreglu um að veita EES-réttinum forgang þannig, að það gildi um EES-reglur í verki, sem séu nægilega skýlausar og nákvæmar til að veita einkaaðilum réttindi.  

Skýringin á því, að ESA hefur nú undirbúið málssókn gegn Íslandi, er, að Ísland hefur ekki framkvæmt Bókun 35 við grein 3 í EES-löggjöf sinni, sem fyrirskrifar, að "statutes and regulations shall be interpreted, in so far as appropriate, in conformity with the EEA Agreement and the rules laid down therein". 

Að mati ESA gefur íslenzka ákvæðið einvörðungu til kynna, að landsreglur skuli túlka í samræmi við ætlaða meginlagareglu EES.  Ætlaða meginreglan felur í sér, að gert er ráð fyrir, að landsreglur séu í samræmi við kvaðir EES-réttarfars.  Þessi túlkunarmeginregla leysir hins vegar ekki úr tilvikum, þegar staðfest er ósamræmi á milli landsreglunnar og þjóðréttarlegra kvaða.  

Það er athyglisvert, að ESA heldur því fram, að Hæstiréttur Íslands brjóti í bága við Bókun 35, þótt athyglinni sé beint að innleiðingu löggjafans á Bókun 35.  Þetta getur vakið umræðu um, hvort ESA telji Bókun 35 hafa bein áhrif á þjóðréttinn.  

Ísland fékk frest til 13. ágúst 2018 til að svara upphafsbréfi ESA, og verður athyglisvert að sjá viðbrögð Stjórnarráðsins.

Ýmsir hafa fallið í þá gryfju að halda því blákalt fram, eins og Viðskiptablaðið (VB) 14. maí 2018 og nokkrum sinnum áður með vísun til túlkunar "Stjórnarráðsins", að áhrif meiri háttar gjörninga ESB muni "lítil" áhrif hafa á Íslandi, þótt Íslendingar gangist undir lögsögu þessara gjörninga.  Hér er mikil og alvarleg meinloka á ferðinni.  Spyrja má, hvernig slíkar mannvitsbrekkur komust á legg á Íslandi, sem í einu vetfangi sáu slíka meinbugi á lagasmíð ESB, að hún verði bara óvirk við innleiðingu hér norður í Atlantshafi.  Þetta er auðvitað algerlega óboðlegur málflutningur, sem gripið er til af rökþrota mönnum, sem ekki geta tínt til eina góða röksemd fyrir því að taka þá áhættu að stinga hendinni upp í gin ljónsins með skýlausu fullveldisframsali.  

Tilvitnun í VB 14.05.2018:

"Sérfræðingar stjórnarráðsins segja hins vegar, að fyrst að Ísland tengist ekki raforkukerfi Evrópu, hafi orkumálapakkinn ekki mikil áhrif hér á landi."

Það er einfeldningsháttur að halda, að í svo miklu hagsmunamáli fyrir almenning á Íslandi sem það er að hindra, að Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB öðlist lagagildi hérlendis, sé hægt að skáka í skjóli "sérfræðinga stjórnarráðsins".  Eru þeir sérfræðingar á sviði rafmagnsmála, lögfræði eða annars ?  Kannski þeir séu lögfræðingar, sem sérhæft hafa sig á orkumálasviði, eins og Henrik Björnebye, "norsk ekspert i energirett, EU-rett og EÖS-rett".  VB hefur vitnað í hann, en hann á viðskiptahagsmuna að gæta í norskri orkustarfsemi, sem sér fram á hærra raforkuverð með innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins. Hann gerir lítið úr áhrifum innleiðingar Þriðja orkubálksins í Noregi og sér ekkert fullveldisframsal felast í gjörðinni. Það er nauðsynlegt að gæta að viðskiptatengslum, þegar ráðizt er í tilvitnanir út fyrir landsteinana í aðila, sem óþekktir eru hérlendis.    

Það eru margir norskir lagaprófessorar, sem nær væri fyrir VB og aðra hérlendis að vitna til. Þeir gæta fyllstu hlutlægni sem fræðimenn.  Þar má nefna Peter Örebech, lagaprófessor við Háskólann í Tromsö með ESB-rétt sem eina af aðalkennslugreinunum.  Hann er mjög gagnrýninn á fullveldisframsalið, sem Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn og ACER munu hafa í för með sér, verði bálkurinn innleiddur í norska lagasafnið.

Þá væri VB og öðrum, sem fjalla um þetta mál, nær að fjalla um "Ice Link" og skuldbindingarnar, sem af téðri innleiðingu munu leiða, gagnvart Kerfisþróunaráætlun ESB/ACER í stað innihaldslausts fimbulfambs um "lítil áhrif" Þriðja orkubálksins hérlendis, á meðan Ísland er enn ótengt við raforkukerfi Bretlands og þar með meginlandsins.   

 

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Skuldbindingar Orkusambands ESB

Það hefur lítt stoðað fyrir áhangendur ESB og stuðningsmenn inngöngu Íslands í Orkusamband ESB að hamra á því, að slík innganga hefði nánast engar skuldbindingar í för með sér fyrir landsmenn og mundi litlu sem engu breyta fyrir íslenzka stjórnsýslu á orkumálasviði.

  Í Noregi hefur engum viti bornum manni dottið í hug að halda slíku fram um inngöngu Noregs í Orkusambandið, og á Íslandi hefur þessi innantómi áróður algerlega misst marks. Það er ekki nóg að setja sig á háan hest og þykjast allt vita, en vera í raun bara yfirborðssvamlari í málaflokki orkumála og án innsæis á þýðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB fyrir land og þjóð.

Það má marka af skoðanakönnun Maskínu í um 2 vikur í kringum mánaðamótin apríl-maí 2018, þar sem næstum tífalt fleiri lýstu sig andvíga en fylgjandi því að færa meira vald yfir íslenzkum orkumálum til evrópskra stofnana og tiltölulega fáir voru óákveðnir, að þjóðin er vel með á nótunum í þessu máli og lætur ekki viðmælendur búrókrata í ESB og kratíska áhangendur skrifræðisveldisins þar segja sér fyrir verkum.   

Norsku lagaprófessorarnir Holmöyvik og Haukeland Fredriksen lýsa áhrifunum þannig í hnotskurn fyrir Noreg, og þau má heimfæra á Ísland:

"Bindingaráhrif ákvarðana ESA munu þar að auki koma fram sem regluverk EES, sem mun verða hluti af innanlandsrétti í Noregi.  Norsk pólitísk stjórnvöld munu ekki geta gripið inn í framkvæmd innanlands af spegilákvörðun frá ESA [ESA speglar ACER í EFTA-löndunum - innsk. BJo] án þess að brjóta norsk lög.  Ef landsreglarinn (RME) [útibú ACER] verður með múður, geta væntanlega einkaaðilar framkallað framkvæmd [ákvörðunar ACER] með því að halda því fram gagnvart norskum dómstólum, að norsk lög skyldi landsreglarann til að framkvæma samþykkt ESA."

Síðan slá lögspekingarnir norsku eftirfarandi föstu: "Samkvæmt orðanna hljóðan í Stjórnarskránni, grein nr 115, og hefðum í Stórþinginu, útheimtir samþykkt á aðild Noregs að ACER [Orkustofnun ESB] 3/4 meirihluta í Stórþinginu." 

Peter Örebech - prófessor í réttarfari við Háskólann í Tromsö, bendir einnig á, að landsreglarinn á hvorki að meðtaka dómsuppkvaðningar né pólitísk merki frá Noregi.  Hann er þeirrar skoðunar, að RME-landsreglarinn, sé ekki norsk ríkisstofnun:

"Aðildin að Orkusambandi ESB (og ACER) er reist á því kerfi, að norsk stjórnmálaleg yfirvöld geti ekki gripið inn í gegn óæskilegum afritunarákvörðunum RME/ESA, af því að norsk löggjöf leggur nýja landsreglaranum, RME, það á herðar að framkvæma ákvarðanir ESB.  RME er fjármagnað af Stórþinginu og með yfirstjórn, sem skipuð er af Olíu- og orkuráðuneytinu án þess að vera stofnun á vegum norska ríkisins, heldur á vegum ESB."

Það orkar mjög tvímælis, að þetta fyrirkomulag standist stjórnarskrár Noregs og Íslands, þar sem vald á sviði orkumála, sem áður var hjá innlendu ríkisvaldi, er í raun flutt til yfirþjóðlegrar stofnunar, þar sem EFTA-ríkin ekki munu fá fullgildan fulltrúa (með atkvæðisrétti, aðeins áheyrn).  Það getur engum blandazt hugur um það lengur, að aðild Íslands að Orkusambandi ESB mundi fela í sér stórfellda breytingu á íslenzkum rétti og stjórnvaldi, þ.e. um er að ræða aðgerð, sem felur ótvírætt í sér fullveldisframsal á sviði orkumála, sem þjóðin að öllum líkindum er algerlega andsnúin, sbr skoðanakönnun Maskínu, sem birt var 13. maí 2018.

Ríkisstjórnin verður, væntanlega í sumar, að finna lausn á því, hvernig hún kemur þessu máli fyrir kattarnef.  Að biðja Alþingi um að framselja ríkisvald yfir mikilvægum málaflokki til yfirþjóðlegrar stofnunar á fullveldisári verður ríkisstjórninni þyngra í skauti en hún ræður við, enda flögrar það varla að oddvitum ríkisstjórnarinnar.    

 


Stjórnarskráin og EES

Stjórnarskráin er verðmætt leiðbeiningaskjal fyrir Alþingismenn og aðra um það, sem er í lagi og það, sem ber að forðast við lagasetningu.  Fullveldisákvæðin eru þar ekki upp á punt, heldur sett í varúðarskyni til að missa ekki tökin á stjórn landsins til útlanda.

Dæmigert fyrir EES-samstarfið er, að fullveldið glatast smátt og smátt með valdflutningi yfir einu málefnasviðinu á fætur öðru til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, ESB, og stofnana hennar.  Alþingismenn eru hér á mjög hálum ísi.  Þeir hafa aldrei leitað samþykkis þjóðarinnar á þessu fyrirkomulagi, sem aðild landsins að EES hefur í för með sér. 

ESB hefur gjörbreytzt síðan 1993, þegar Alþingi samþykkti EES-samninginn, og kemur ekki lengur fram við EFTA-ríkin á jafnræðisgrundvelli, heldur heimtar, að þau lúti stjórn stofnana sinna á hverju sviðinu á fætur öðru.

Mikil umræða hefur farið fram í Noregi um þetta málefni.  Norska Stórþingið stendur þó stjórnlagalega aðeins betur að málum en Alþingi, því að við samþykkt EES-samningsins árið 1992 var farið að kröfu norsku stjórnarskrárinnar um meðferð valdframsalsmála ríkisvaldsins til útlanda og farið eftir grein 115 í Stjórnarskránni, sem áskilur a.m.k. 2/3 mætingu þingmanna við atkvæðagreiðslu, og að 3/4 þeirra samþykki hið minnsta. Hið sama var gert 2016 við innleiðingu fjármálaeftirlits ESB í EES-samninginn.  

Lagasérfræðingar við háskólana í Ósló, Björgvin og Tromsö bentu sumir á áður en Stórþingið afgreiddi ACER-málið 22. marz 2018, að innganga Noregs í Orkusamband ESB væri andstæð stjórnarskrá Noregs, en aðrir töldu, að hana yrði Stórþingið að afgreiða samkvæmt grein 115.  Yfirfært á íslenzku stjórnarskrána þýðir þetta, að innganga Íslands í Orkusamband ESB er andstæð henni.  Stórþingið lét einfaldan meirihluta duga í ACER-málinu, en það mun fá eftirmála, því að ætlun samtakanna "Nei til EU" er að láta reyna á réttmæti þeirrar ákvörðunar þingsins fyrir Hæstarétti.

Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB samanstendur af nokkrum regluverkum, og það er einkum gjörðin um orkustofnunina (ACER-gjörð 713/2009) og rafmarkaðstilskipunin (tilskipun 2009/72), sem vekja spurningar um fullveldisframsal.  

ACER gegnir ekki einvörðungu ráðgefandi hlutverki.  Orkustofnunin hefur einnig framkvæmdavald og eigið ákvörðunarvald.  Ákvarðanir hjá ACER eru teknar með auknum meirihluta samkvæmt Þriðja orkubálkinum, en það mun sennilega breytast með væntanlegum Fjórða orkubálki í einfaldan meirihluta.  

Gagnvart Íslandi er látið líta svo út, að ESA-Eftirlitsstofnun EFTA taki hina formlegu ákvörðun, sem þó kemur frá ACER, þar sem Ísland verður ekki fullgildur aðili.  Það var hins vegar tekið fram við þetta samkomulag EFTA og ESB, að ESA-ákvörðunin verði í samræmi við drögin frá ACER; sem sagt "monkey business" eða afritsákvörðun.

Erik Holmöyvik og Halvard Haukeland Fredriksen, báðir prófessorar við lagadeild Háskólans í Björgvin, lýsa stöðunni, sem upp kemur við ágreining á milli yfirvalda ólíkra landa þannig:

"Hér blasir sú lausn við, að ACER taki bindandi ákvörðun fyrir orkustjórnvöld í ESB-löndum og ESA taki síðan nauðsynlega samhljóða ákvörðun, sem bindi norsk stjórnvöld.  Að ACER taki raunverulega ákvarðanirnar, endurspeglast af alls konar EES-aðlögunum að málsmeðferðarreglum [ESB], sem raunverulega minnka ESA niður í millilið, sem miðlar sambandi á milli norskra orkuyfirvalda og ACER."

Eivind Smith, prófessor við Svið opinbers réttar, Háskólanum í Ósló, heldur því fram, að ESA-ákvörðun hafi bein áhrif á norskan rétt.  Í viðtali við Klassekampen tjáir hann það þannig:

"Hér er einmitt um að ræða ákvörðun, sem virkar beint inn í þjóðarrétt í Noregi og sem grípur inn í valdréttindi yfir framkvæmdavaldinu, sem Stjórnarskráin færir löggjafanum."

Smith skrifar ennfremur: "Hin nýja valdstjórn yfir orkumálum (RME-landsreglari) á að verða óháð pólitískri stjórnun með hætti, sem ekki á við um neina stofnun í stjórnkerfinu."

Stjórnlagalega er hér fitjað upp á nýjung, sem hefði átt að fá rækilega lögfræðilega og stjórnmálalega umfjöllun áður en til mála kæmi að innleiða hana á Íslandi.  Framkvæmdavald, sem lætur sér detta í hug að umgangast Stjórnarskrá lýðveldisins með þessum hætti, er á hálum ísi. Að ráðherra og ráðuneytisstarfsmenn skuli enn tala með þeim hætti, að þetta fyrirkomulag breyti nánast engu í raun á Íslandi, af því að við höfum enn enga afltengingu til útlanda, er fáheyrt og hrein ósvífni.  Þetta fyrirkomulag færir einmitt ákvörðunarvald um m.a. sæstrenginn "Ice Link" úr höndum íslenzka löggjafans, ríkisstjórnarinnar og íslenzkra dómstóla í hendur ACER/ESB og EFTA-dómstólsins.  

ESA-"ákvörðunum" verður í Noregi beint til óháðrar einingar í NVE, sem er orkustofnun Noregs.  Þessi óháða eining er Landsreglari fyrir orku, "Reguleringsmyndighet for energi"-RME.  Sjálfstæði RME er skilgreint í Orkulögum Noregs, greinum 2-3, þar sem skýrt kemur fram, að stjórnvöld landsins munu ekki geta gefið RME nein fyrirmæli.  RME mun fá eigin fjárveitingu á fjárlögum.  Holmöyvik og Haukeland Fredriksen telja, að ESA yfirtaki þar með stjórnun þeirra þátta orkumálanna, sem falla undir RME.  Hvaða augum skyldu íslenzkir stjórnlagafræðingar líta á þessi mál með hliðsjón af íslenzku Stjórnarskránni ?  Í huga leikmanns samræmist þetta fullveldisframsal henni engan veginn.  Hvað ætla þingmenn hérlendis að arka langt út í stjórnlagalega ófæru í þessum efnum ? Þótt ráðherra utanríkismála telji sig bundinn af samþykki Sameiginlegu EES-nefndarinnar um framlagningu þingsályktunartillögu um Þriðja orkumarkaðslagabálkinn, þá verða Alþingismenn að ganga óbundnir til atkvæðagreiðslu um hana, og niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar á ekki að verða hægt að túlka sem vantraustsyfirlýsingu á utanríkisráðherra eða ríkisstjórnina.  Það má tryggja með samþykkt sérstakrar traustsyfirlýsingar í kjölfarið.  Alþingi verður einfaldlega að fá tækifæri til að nýta sér samningsbundinn synjunarrétt sinn samkvæmt EES-samninginum.   

 

 

 


Fundur í Valhöll um ACER-málið 10.04.2018

Sjálfstæðisflokkurinn lætur ekki embættismannakerfið mata sig á upplýsingum um flókin mál, til þess síðan að gleypa þær hráar, þótt þær séu ættaðar innan úr EES-samstarfinu. Af málflutningi utanríkisráðuneytisins er þó ljóst, að ráðuneytið ætlaðist til, að þingsályktunartillaga þess rynni gagnrýnislítið gegnum Alþingi.  Embættismönnum verður þó ekki kápan úr því klæðinu, og þeir komast ekki upp með að dreifa hálfsannleika um "óbreytt ástand", sem við nánari skoðun er í raun formið eitt, því að inntak valdaframsals ESB/EES landanna til Framkvæmdastjórnarinnar og stofnana hennar er einmitt að miðstýra ákvarðanatöku um hvern málaflokkinn á fætur öðrum. Dæmi um stórgallaða upplýsingagjöf embættismannakerfisins er minnisblað fyrrverandi framkvæmdastjóra Eftirlitsstofnunar EFTA-ESA til iðnaðarráðherra, dags. 12. apríl 2018, en útdráttur ráðherra úr því hefur verið veginn og léttvægur fundinn á þessu vefsetri.   

Ef embættismenn í þessum tveimur íslenzku ráðuneytum hefðu haft örlítið víðara sjónarhorn, hefðu þeir lagt saman 2+2 og áttað sig á, út frá látunum, sem urðu út af þessu máli í Noregi, og afstöðu meirihluta Alþingismanna til ESB, að ekki mundi duga að beita hér blekkingum og hálfsannleika.  Þeir bitu höfuðið af skömminni með hræðsluáróðri um tjón Norðmanna, ef þeir kæmust ekki í Orkusamband ESB.  Embættismennirnir virðast vera ólesnir um það, sem nákvæmlega er fyrirskrifað í EES-samninginum, að við taki eftir synjun þjóðþings.  Þar eru viðskiptalegar refsiaðgerðir sannarlega ekki á dagskrá.  

Landsmálafélagið Vörður og Atvinnuveganefnd Sjálfstæðisflokksins héldu fróðlegan fund um Orkusamband og Orkustofnun ESB, ACER, 10. apríl 2018.  Fundarstjóri var formaður þingflokks sjálfstæðismanna, Birgir Ármannsson, og frummælendur voru Óli Björn Kárason (ÓBK), Alþingismaður, Stefán Már Stefánsson, lagaprófessor við HÍ, og Elías B. Elíasson, fyrrverandi sérfræðingur hjá Landsvirkjun. 

Það er næsta víst, að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins leggur sig í framkróka við að komast til botns í því, hvort hagsmunum Íslands muni verða betur borgið innan eða utan Orkusambands ESB. Var ekki annað á ÓBK að heyra en hann hefði gert upp hug sinn um það, að Íslendingar ættu ekkert erindi inn í þetta Orkusamband, enda snertir það ekki "frelsin fjögur" á Innri markaði EES, sem EES-samningurinn upphaflega var gerður til að þjóna.  Verður að vona, að sú verði niðurstaða þingflokksins af frekari umræðum um málefnið þar. Er einkar hrósvert, hvernig þingmenn sjálfstæðismanna hafa fengizt við þetta viðfangsefni.

  ÓBK taldi ennfremur, að orkumálin hefðu ekkert erindi átt inn í EES-samninginn, enda voru þau utan hans í fyrstu.  Hann er meira en nógu viðamikill og þunglamalegur að fylgja honum, þótt þar séu aðeins málefni, er varða frelsin fjögur.  Blekbónda dettur í hug, að hin EFTA-ríkin í EES-samstarfinu hafi verið þess fýsandi að taka orkumálin með, þegar ESB þrýsti á um það, og íslenzk yfirvöld á sínum tíma látið það eftir þeim, enda hafa Noregur og Liechtenstein nú samþykkt innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins í EES-samninginn, en ýmislegt bendir til, að Alþingi muni snúa þeirri ákvörðun við, þótt blikur séu á lofti. 

Stefán Már Stefánsson var annar frummælenda.  Hann benti á fjölmörg atriði varðandi EES-samninginn frá upphafi og þó einkum við þróun hans, sem orka tvímælis m.t.t. Stjórnarskrár lýðveldisins.  Hann benti á, að enginn hefði getað séð þróun EES-samningsins fyrir og að enn sé þróun hans algerlega ófyrirsjáanleg. Það vantar s.k. gagnsæi, sem þýðir, að menn vita ekkert, hvað þeir eru að samþykkja.  Þetta á t.d. við um Orkusamband ESB, en málsvarar þess, t.d. í Noregi, vilja auka völd Orkustofnunar ESB, ACER, enn, og nú er í bígerð hjá ESB Fjórði orkumarkaðslagabálkurinn upp á 4000 blaðsíður, þannig að þetta er sagan endalausa.  Fyrir þjóð, sem stendur utan ESB, er þessi ófyrirsjáanleiki um þróun EES-samningsins  óásættanlegur. Hann gengur fyrir þjóðir, sem gengið hafa í ESB, þannig samþykkt framsal fullveldis og taka þátt í þróun "gerðanna" og undirbúningi tilskipana og lagasetningar, þótt ekki sé hægt að tala um jafnræðisgrundvöll þar heldur.  

Tveggja stoða fyrirkomulagið er stjórnlagalega mikilvægt, sagði Stefán Már, "en bjargar ekki öllu". Þegar það er hins vegar þverbrotið, eins og ESB ætlast til, að EFTA-löndin láti yfir sig ganga ganga í ACER-málinu og öðrum stórmálum, þar sem alls engin EFTA-stofnun svarar til stofnana ESB á borð við Orkustofnunina, ACER, þá er skörin tekin að færast upp í bekkinn, svo að staða EFTA-ríkjanna, a.m.k. Íslands, verður óviðunandi. Í Noregi er staðan dálítið önnur, því að Stórþingið samþykkti EES-samninginn með auknum meirihluta 1992, yfir 75 % viðstaddra þingmanna. ESB-sinnar á norska Stórþinginu segja síðan, að allar breytingar á EES-samninginum séu svo lítilfjörlegar, að einfaldur meirihluti Stórþingsins nægi til að leiða þær í lög.  Þessi afstaða meirihluta Stórþingsins veldur hatrömmum deilum um allt norska þjóðfélagið.  Fjölmargir norskir lagaprófessorar töldu nauðsynlegt að afgreiða ACER-frumvarpið með auknum meirihluta.

Hér á Íslandi var sett á laggirnar nefnd þriggja stjórnlagafræðinga 1992 til að leggja mat á það, hvort upphaflegi EES-samningurinn stæðist kröfur Stjórnarskrár um varðveizlu fullveldis.  Nefndin komst að þeirri niðurstöðu, að það væri á mörkunum, en slyppi.  Síðan þá hefur mjög sigið á ógæfuhlið í þessum efnum, svo að telja má fullvíst, að hunzun ESB á jafnréttiskröfunni (tvær jafnréttháar stoðir) geri EES-samstarfið kolólöglegt hérlendis.  Þetta er háalvarlegt, og Alþingismenn verða á þessum grundvelli að setja ESB-gerningum skorður.  

Stefán Már sagði, að ósambærilegt væri talið, hvort stjórnvald ESB-stofnunarinnar næði aðeins til viðkomandi ríkisvalds eða til lögaðila og lögpersóna, þ.e. fyrirtækja og einstaklinga.  Í tilviki ACER nær hið erlenda vald til útibús stofnunarinnar í viðkomandi landi, sem er algerlega óháð ríkisvaldinu og öðrum hagsmunaaðilum.  

Hin stjórnlagalega staða ACER-málsins er svo slæm, að hún ein og sér dugir fyrir Alþingi til að synja málinu brautargengis að mati blekbónda.  Þá breytir engu, þótt reynt sé að fegra fullveldisframsalið með því að láta samskipti ACER og útibús þess í viðkomandi EFTA-landi fara um hendur ESA-Eftirlitsstofnunar EFTA.  Hún getur ekkert annað gert en að framsenda fyrirmælin óbreytt til útibúsins, því að ESA hefur ekki þegið neitt vald til að breyta eða hafna ákvörðunum ACER, og það er ekkert svigrúm veitt fyrir sáttafundi á milli EFTA og ESB.  

Þriðji og síðasti framsögumaðurinn, Elías B. Elíasson, taldi íslenzka raforkumarkaðinn og raforkumarkað ESB vera ósamrýmanlega, því að eðli þeirra væri ólíkt.  Á Íslandi er meginhluti raforkuvinnslukostnaðar fólginn í uppsettu afli, en orkan, stöðuorka vatns í miðlunarlónum, jarðgufa og vindur, eru mun minni kostnaðarþættir.  Þessu er öfugt farið í ESB, þar sem enn er mest notazt við jarðefnaeldsneyti.  Elías varaði sterklega við skaðlegum áhrifum aflsæstrengs á raforkumarkaðinn á Íslandi.  

Ekki var að heyra annað á öllum fyrirspyrjendum á fundinum en þeir hefðu áhyggjur af skaðlegum áhrifum þess á íslenzka hagkerfið og íslenzka stjórnsýslu að samþykkja Þriðja orkumarkaðslagabálkinn.  Ekki varð blekbóndi þess var, að nokkur fundarmanna væri hlynntur inngöngu Íslands í Orkusamband ESB eða aflsæstrengstengingu við útlönd.  

Það er áreiðanlegt, að sá póll, sem Sjálfstæðisflokkurinn virðist vera að taka í ACER-málinu á meirihlutafylgi að fagna á Íslandi, enda virðast allir ríkisstjórnarflokkarnir vera sama sinnis í málinu. 

 


Samflot Íslands með ESB í loftslagsmálum

Yfirvöld á Íslandi hafa ekki útskýrt með viðhlítandi hætti fyrir almenningi, hvaða kostir felast í því fyrir Ísland að hafa samflot með Evrópusambandinu, ESB, í loftslagsmálum.  ESB naut góðs af viðmiðunar árinu 1990, en þá voru margar eiturspúandi verksmiðjur án mengunarvarna og brúnkolaorkuver vítt og breitt um Austur-Evrópu, sem lokað var fljótlega eftir fall Járntjaldsins. 

ESB-löndin eru hins vegar í vondum málum núna, því að hvorki hefur gengið né rekið við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda undanfarinn áratug, og orkuskipti Þjóðverja, "die Energiewende", eru hreinn harmleikur. Hér er enn eitt málefnasviðið, þar sem EFTA-löndin taka auðmjúk við stefnunni frá ESB, þegar hún loks hefur verið mótuð, án þess að hafa af henni nokkurt gagn, en aftur á móti ýmislegt ógagn og óhagræði vegna ólíkra aðstæðna.

Íslendingar eiga fjölmargra kosta völ til að fást við að minnka losun gróðurhúsalofttegunda upp á eigin spýtur, sem fólgnir eru í miklu og gróðurvana landrými. Í þessu sambandi er skemmst að minnast merks framtaks Landgræðslunnar við að græða upp Hólasand o.fl. eyðimerkur með seyru.  Það hefur og verið bent á mikil flæmi uppþurrkaðs lands, sem ekki eru í ræktun, og að með þeirri einföldu aðgerð að moka ofan í skurði í óræktuðu landi megi draga úr losuninni um:

DL=19,5 t/haár x 357 kha = 7,0 Mt/ár af CO2ígildi

Þetta jafngildir 56 % af allri losun af Íslendinga, 12,4 Mt/ár (án framræsts lands).

Hér er þó nauðsynlegt að gæta varúðar og huga vel að vísindalegri þekkingu, sem aflað hefur verið á þessu sviði.  Dr Guðni Þorvaldsson og dr Þorsteinn Guðmundsson, sérfræðingar í jarðrækt og jarðvegsfræði, rituðu grein um þetta efni í Bændablaðið, 22. febrúar 2018,

"Meira um losun gróðurhúsalofttegunda úr votlendi".

Þeir rökstyðja í greininni, "að þekkingu skorti til að hægt [sé] að fara út í jafnvíðtækar aðgerðir og stefnt er að án þess að meta betur, hverju þær [geta] skilað í raun og veru.", og eiga þar við endurbleytingu í landi.

Vísindamennirnir halda því fram, að til að stöðva losun koltvíildis þurfi að sökkva hinu þurrkaða landi algerlega, og þá getur hafizt losun metans, CH4, sem er yfir 20 sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en CO2.  Þannig er endurbleytingunni sjaldnast varið, og þá er ver farið en heima setið.  Þá halda þeir því fram, að í mólendi stöðvist losun CO2 tiltölulega fljótt eftir framræslu. Þessar niðurstöður eru nógu skýrar til að rökstyðja að leggja á hilluna alla stórfellda endurheimt votlendis til að draga úr losun.  Skal nú vitna í vísindamennina:

"Ef lokað er fyrir aðgang súrefnis að jarðveginum, verður mjög lítil losun á koltvísýringi vegna rotnunar á uppsöfnuðu lífrænu efni, en til að stöðva losunina þarf að hækka grunnvatnsstöðuna upp undir yfirborð.  Ýmsar rannsóknir hafa sýnt, að við grunnvatnsstöðu á 40-50 cm dýpi er full losun á koltvísýringi og hún eykst ekki endilega, þó að grunnvatnsstaða sé lækkuð og getur jafnvel minnkað.

Þetta þýðir, að ef grunnvatnsstaðan er ofan 40 cm, en nær ekki yfirborði jarðvegsins, getur orðið töluverð losun á koltvísýringi.  Hið sama á við um hláturgas, ef grunnvatnsstaða er há, en ekki við yfirborð.  Þá geta skapazt skilyrði fyrir myndun þess, en hláturgas [NO2] er mjög áhrifamikil gróðurhúsalofttegund.

Til að tryggja, að endurheimt votlendis dragi verulega úr losun á koltvísýsingi og hláturgasi, þarf því sem næst að sökkva landinu.  Losun á metani eykst hins vegar, þegar landi er sökkt.  Það er ekki alls staðar auðvelt að breyta þurrkuðu landi til fyrra horfs.

Víða hefur framræsla, byggingar, vegir og önnur mannvirki breytt vatnasviði landsvæða og skorið á vatnsrennsli úr hlíðum, sem áður rann óhindrað á land, sem lægra liggur. Við þessar aðstæður er ekki gefið, að lokun skurða leiði til þess, að grunnvatn hækki nægilega til að endurheimt hallamýra eða flóa takist.  Þá kemur að hinum þættinum í röksendafærslu tvímenninganna, sem er lítil sem engin losun frá vel þurrkuðu mólendi:

"Móajarðvegur inniheldur oft 10-15 % kolefni í efstu lögunum.  Það má því vel ímynda sér, að framræst votlendi nái smám saman jafnvægi í efstu lögum jarðvegsins, þegar kolefni er komið niður í það, sem gerist í móajarðvegi.  Í neðri jarðlögum getur þó enn verið mór, og það er spurning, hvort hægt sé að koma í veg fyrir, að hann rotni."

Ályktunin er sú, að í stað endurheimta votlendis eigi að beina kröftunum að landgræðslu, einkum með belgjurtum, og að skógrækt.  Varðandi hið síðar nefnda runnu þó tvær grímur á blekbónda við lestur greinar Önnu Guðrúnar Þórhallsdóttur, prófessors við Landbúnaðarháskóla Íslands, í Bændablaðinu, 22. febrúar 2018.  Greinin bar yfirskriftina:

"Skógrækt - er hún rétta framlag Íslands til loftslagsmála ?"

Þar bendir hún t.d. á þátt endurkasts sólarljóssins, sem lítið hefur verið í umræðunni:

"Eðlisfræðilegu þættirnir eru aðallega endurkast sólarljóssins (kallast á fræðimáli albedo) og uppgufun/útgufun plantna og þar með vatnsbúskapur.  Hversu mikið hlutur endurkastar eða tekur upp af sólarljósi hefur gríðarleg áhrif á hitastig hans - svartur kassi hitnar mikið í sól, en hvítur helzt nokkuð kaldur.  Sama gildir um dökka skógarþekju barrskóga - skógur tekur mjög mikið upp af sólarorkunni, og hitinn helzt að landinu, en endurkastast ekki.  Snjór, aftur á móti, getur endurkastað nær öllu sólarljósinu - við finnum greinilega fyrir margföldum sólargeislunum á skíðum."

"Fjölmargar vísindagreinar hafa birzt á undanförnum árum, þar sem verið er að greina áhrif skóga á loftslag.  Þeim ber öllum saman um, að nauðsynlegt sé að vernda, viðhalda og auka umfang hitabeltisskóga og skóga á suðlægum breiddargráðum.  Á norðurslóðum eigi hins vegar alls ekki að planta skógi, því að hann hækki hitastig jarðar.  

Fjölmargar rannsóknir sýna nú, að það eru mörk, hvar skógrækt leiði til kólnunar - norðan við þau mörk leiði skógrækt til hlýnunar.  Mörkin hafa verið sett við 40°N breiddar - eða við Suður-Evrópu og jafnvel enn sunnar í Bandaríkjunum."

Halda mætti, að þessi grein Önnu Guðrúnar yrði rothögg á skógrækt hérlendis sem mótvægisaðgerð við losun gróðurhúsalofttegunda.  Öðru nær.  Kenningin var hrakin í næsta tölublaði Bændablaðsins m.v. ríkjandi aðstæður á Íslandi.  Það var gert með greininni:

"Skógrækt er mikilvægur hluti af framlagi Íslands til loftslagsmála", sem Pétur Halldórsson, kynningarstjóri Skógræktarinnar, dr Brynhildur Bjarnadóttir, lektor við Háskólann á Akureyri og dr Aðalsteinn Sigurgeirsson, fagmálastjóri Skógræktarinnar, rituðu.  Þau benda á, að niðurstöður Önnu Guðrúnar séu úr hermilíkönum, en ekki raunverulegum mælingum, og forsendur hermilíkananna eigi ekki við á Íslandi.

"Hafrænt loftslag, stopul snjóþekja á láglendi og hlutfallslega lítil og dreifð snjóþekja benda ekki til þess, að hægt sé að yfirfæra forsendur umræddra hermilíkana beint á íslenzkar aðstæður."

"Þegar kolefnisbinding þessara svæða [ólíkra vistkerfa] er tekin með í dæmið, er greinilegt, að svartar sandauðnir á Íslandi bæði gleypa í sig mikinn hita yfir sumarið og þar verður engin kolefnisbinding.  Þær hafa því í raun tvöföld neikvæð áhrif á hlýnun jarðar, og það að láta þær standa óhreyfðar hefur sennilega "verstu" áhrifin á hlýnun jarðar.  Á öllum hinum svæðunum fer fram kolefnisbinding um vaxtartímann með jákvæðum loftslagsáhrifum."

Að græða sandana upp, fyrst með harðgerðum jarðvegsmyndandi jurtum og síðan með skógrækt, er stærsta tækifæri Íslendinga til mótvægisaðgerða við losun gróðurhúsalofttegunda.  Jafngildisbinding, að teknu tilliti til aukins endurkasts sólarljóss og CO2 bindingar í jarðvegi og viði, gæti numið 12 t/ha á ári.  Í niðurlagi greinar skrifa þremenningarnir:

"Í ljósi frumniðurstaðna endurskinsmælinga hérlendis er óhætt að fullyrða, að skógrækt á Íslandi sé góð og skilvirk leið til að vinna gegn loftslagsbreytingum.  Í raun ætti keppikefli okkar að vera, að breyta sem mestu af svörtu sandauðnunum okkar í skóg, bæði til að auka endurskin og kolefnisbindingu.  Um leið og við bindum kolefni, aukum endurskin og drögum úr sandfoki, byggjum við upp auðlind, sem getur með tímanum minnkað innflutning á timbri, olíu og ýmsum öðrum mengunarvöldum og bætt með því hagvarnir þjóðarinnar.  Svarið er því: já, skógrækt er rétt framlag Íslands til loftslagsmála."

Ekki verður séð, að slagtogið með ESB í loftslagsmálum sé til nokkurs annars en að auka skriffinnskuna óþarflega, gera aðgerðaáætlun Íslendinga ósveigjanlegri og auka kostnaðinn við mótvægisaðgerðirnar.  Að íslenzk fyrirtæki séu að kaupa koltvíildiskvóta af ESB, eins og hefur átt sér stað og mun fyrirsjáanlega verða í milljarða króna vís á næsta áratugi í stað þess að kaupa bindingu koltvíildis af íslenzkum skógarbændum, er slæm ráðstöfun fjár í nafni EES-samstarfsins og ekki sú eina.  

 

 

 

 

 

  

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband