Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Samflot Íslands með ESB í loftslagsmálum

Yfirvöld á Íslandi hafa ekki útskýrt með viðhlítandi hætti fyrir almenningi, hvaða kostir felast í því fyrir Ísland að hafa samflot með Evrópusambandinu, ESB, í loftslagsmálum.  ESB naut góðs af viðmiðunar árinu 1990, en þá voru margar eiturspúandi verksmiðjur án mengunarvarna og brúnkolaorkuver vítt og breitt um Austur-Evrópu, sem lokað var fljótlega eftir fall Járntjaldsins. 

ESB-löndin eru hins vegar í vondum málum núna, því að hvorki hefur gengið né rekið við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda undanfarinn áratug, og orkuskipti Þjóðverja, "die Energiewende", eru hreinn harmleikur. Hér er enn eitt málefnasviðið, þar sem EFTA-löndin taka auðmjúk við stefnunni frá ESB, þegar hún loks hefur verið mótuð, án þess að hafa af henni nokkurt gagn, en aftur á móti ýmislegt ógagn og óhagræði vegna ólíkra aðstæðna.

Íslendingar eiga fjölmargra kosta völ til að fást við að minnka losun gróðurhúsalofttegunda upp á eigin spýtur, sem fólgnir eru í miklu og gróðurvana landrými. Í þessu sambandi er skemmst að minnast merks framtaks Landgræðslunnar við að græða upp Hólasand o.fl. eyðimerkur með seyru.  Það hefur og verið bent á mikil flæmi uppþurrkaðs lands, sem ekki eru í ræktun, og að með þeirri einföldu aðgerð að moka ofan í skurði í óræktuðu landi megi draga úr losuninni um:

DL=19,5 t/haár x 357 kha = 7,0 Mt/ár af CO2ígildi

Þetta jafngildir 56 % af allri losun af Íslendinga, 12,4 Mt/ár (án framræsts lands).

Hér er þó nauðsynlegt að gæta varúðar og huga vel að vísindalegri þekkingu, sem aflað hefur verið á þessu sviði.  Dr Guðni Þorvaldsson og dr Þorsteinn Guðmundsson, sérfræðingar í jarðrækt og jarðvegsfræði, rituðu grein um þetta efni í Bændablaðið, 22. febrúar 2018,

"Meira um losun gróðurhúsalofttegunda úr votlendi".

Þeir rökstyðja í greininni, "að þekkingu skorti til að hægt [sé] að fara út í jafnvíðtækar aðgerðir og stefnt er að án þess að meta betur, hverju þær [geta] skilað í raun og veru.", og eiga þar við endurbleytingu í landi.

Vísindamennirnir halda því fram, að til að stöðva losun koltvíildis þurfi að sökkva hinu þurrkaða landi algerlega, og þá getur hafizt losun metans, CH4, sem er yfir 20 sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en CO2.  Þannig er endurbleytingunni sjaldnast varið, og þá er ver farið en heima setið.  Þá halda þeir því fram, að í mólendi stöðvist losun CO2 tiltölulega fljótt eftir framræslu. Þessar niðurstöður eru nógu skýrar til að rökstyðja að leggja á hilluna alla stórfellda endurheimt votlendis til að draga úr losun.  Skal nú vitna í vísindamennina:

"Ef lokað er fyrir aðgang súrefnis að jarðveginum, verður mjög lítil losun á koltvísýringi vegna rotnunar á uppsöfnuðu lífrænu efni, en til að stöðva losunina þarf að hækka grunnvatnsstöðuna upp undir yfirborð.  Ýmsar rannsóknir hafa sýnt, að við grunnvatnsstöðu á 40-50 cm dýpi er full losun á koltvísýringi og hún eykst ekki endilega, þó að grunnvatnsstaða sé lækkuð og getur jafnvel minnkað.

Þetta þýðir, að ef grunnvatnsstaðan er ofan 40 cm, en nær ekki yfirborði jarðvegsins, getur orðið töluverð losun á koltvísýringi.  Hið sama á við um hláturgas, ef grunnvatnsstaða er há, en ekki við yfirborð.  Þá geta skapazt skilyrði fyrir myndun þess, en hláturgas [NO2] er mjög áhrifamikil gróðurhúsalofttegund.

Til að tryggja, að endurheimt votlendis dragi verulega úr losun á koltvísýsingi og hláturgasi, þarf því sem næst að sökkva landinu.  Losun á metani eykst hins vegar, þegar landi er sökkt.  Það er ekki alls staðar auðvelt að breyta þurrkuðu landi til fyrra horfs.

Víða hefur framræsla, byggingar, vegir og önnur mannvirki breytt vatnasviði landsvæða og skorið á vatnsrennsli úr hlíðum, sem áður rann óhindrað á land, sem lægra liggur. Við þessar aðstæður er ekki gefið, að lokun skurða leiði til þess, að grunnvatn hækki nægilega til að endurheimt hallamýra eða flóa takist.  Þá kemur að hinum þættinum í röksendafærslu tvímenninganna, sem er lítil sem engin losun frá vel þurrkuðu mólendi:

"Móajarðvegur inniheldur oft 10-15 % kolefni í efstu lögunum.  Það má því vel ímynda sér, að framræst votlendi nái smám saman jafnvægi í efstu lögum jarðvegsins, þegar kolefni er komið niður í það, sem gerist í móajarðvegi.  Í neðri jarðlögum getur þó enn verið mór, og það er spurning, hvort hægt sé að koma í veg fyrir, að hann rotni."

Ályktunin er sú, að í stað endurheimta votlendis eigi að beina kröftunum að landgræðslu, einkum með belgjurtum, og að skógrækt.  Varðandi hið síðar nefnda runnu þó tvær grímur á blekbónda við lestur greinar Önnu Guðrúnar Þórhallsdóttur, prófessors við Landbúnaðarháskóla Íslands, í Bændablaðinu, 22. febrúar 2018.  Greinin bar yfirskriftina:

"Skógrækt - er hún rétta framlag Íslands til loftslagsmála ?"

Þar bendir hún t.d. á þátt endurkasts sólarljóssins, sem lítið hefur verið í umræðunni:

"Eðlisfræðilegu þættirnir eru aðallega endurkast sólarljóssins (kallast á fræðimáli albedo) og uppgufun/útgufun plantna og þar með vatnsbúskapur.  Hversu mikið hlutur endurkastar eða tekur upp af sólarljósi hefur gríðarleg áhrif á hitastig hans - svartur kassi hitnar mikið í sól, en hvítur helzt nokkuð kaldur.  Sama gildir um dökka skógarþekju barrskóga - skógur tekur mjög mikið upp af sólarorkunni, og hitinn helzt að landinu, en endurkastast ekki.  Snjór, aftur á móti, getur endurkastað nær öllu sólarljósinu - við finnum greinilega fyrir margföldum sólargeislunum á skíðum."

"Fjölmargar vísindagreinar hafa birzt á undanförnum árum, þar sem verið er að greina áhrif skóga á loftslag.  Þeim ber öllum saman um, að nauðsynlegt sé að vernda, viðhalda og auka umfang hitabeltisskóga og skóga á suðlægum breiddargráðum.  Á norðurslóðum eigi hins vegar alls ekki að planta skógi, því að hann hækki hitastig jarðar.  

Fjölmargar rannsóknir sýna nú, að það eru mörk, hvar skógrækt leiði til kólnunar - norðan við þau mörk leiði skógrækt til hlýnunar.  Mörkin hafa verið sett við 40°N breiddar - eða við Suður-Evrópu og jafnvel enn sunnar í Bandaríkjunum."

Halda mætti, að þessi grein Önnu Guðrúnar yrði rothögg á skógrækt hérlendis sem mótvægisaðgerð við losun gróðurhúsalofttegunda.  Öðru nær.  Kenningin var hrakin í næsta tölublaði Bændablaðsins m.v. ríkjandi aðstæður á Íslandi.  Það var gert með greininni:

"Skógrækt er mikilvægur hluti af framlagi Íslands til loftslagsmála", sem Pétur Halldórsson, kynningarstjóri Skógræktarinnar, dr Brynhildur Bjarnadóttir, lektor við Háskólann á Akureyri og dr Aðalsteinn Sigurgeirsson, fagmálastjóri Skógræktarinnar, rituðu.  Þau benda á, að niðurstöður Önnu Guðrúnar séu úr hermilíkönum, en ekki raunverulegum mælingum, og forsendur hermilíkananna eigi ekki við á Íslandi.

"Hafrænt loftslag, stopul snjóþekja á láglendi og hlutfallslega lítil og dreifð snjóþekja benda ekki til þess, að hægt sé að yfirfæra forsendur umræddra hermilíkana beint á íslenzkar aðstæður."

"Þegar kolefnisbinding þessara svæða [ólíkra vistkerfa] er tekin með í dæmið, er greinilegt, að svartar sandauðnir á Íslandi bæði gleypa í sig mikinn hita yfir sumarið og þar verður engin kolefnisbinding.  Þær hafa því í raun tvöföld neikvæð áhrif á hlýnun jarðar, og það að láta þær standa óhreyfðar hefur sennilega "verstu" áhrifin á hlýnun jarðar.  Á öllum hinum svæðunum fer fram kolefnisbinding um vaxtartímann með jákvæðum loftslagsáhrifum."

Að græða sandana upp, fyrst með harðgerðum jarðvegsmyndandi jurtum og síðan með skógrækt, er stærsta tækifæri Íslendinga til mótvægisaðgerða við losun gróðurhúsalofttegunda.  Jafngildisbinding, að teknu tilliti til aukins endurkasts sólarljóss og CO2 bindingar í jarðvegi og viði, gæti numið 12 t/ha á ári.  Í niðurlagi greinar skrifa þremenningarnir:

"Í ljósi frumniðurstaðna endurskinsmælinga hérlendis er óhætt að fullyrða, að skógrækt á Íslandi sé góð og skilvirk leið til að vinna gegn loftslagsbreytingum.  Í raun ætti keppikefli okkar að vera, að breyta sem mestu af svörtu sandauðnunum okkar í skóg, bæði til að auka endurskin og kolefnisbindingu.  Um leið og við bindum kolefni, aukum endurskin og drögum úr sandfoki, byggjum við upp auðlind, sem getur með tímanum minnkað innflutning á timbri, olíu og ýmsum öðrum mengunarvöldum og bætt með því hagvarnir þjóðarinnar.  Svarið er því: já, skógrækt er rétt framlag Íslands til loftslagsmála."

Ekki verður séð, að slagtogið með ESB í loftslagsmálum sé til nokkurs annars en að auka skriffinnskuna óþarflega, gera aðgerðaáætlun Íslendinga ósveigjanlegri og auka kostnaðinn við mótvægisaðgerðirnar.  Að íslenzk fyrirtæki séu að kaupa koltvíildiskvóta af ESB, eins og hefur átt sér stað og mun fyrirsjáanlega verða í milljarða króna vís á næsta áratugi í stað þess að kaupa bindingu koltvíildis af íslenzkum skógarbændum, er slæm ráðstöfun fjár í nafni EES-samstarfsins og ekki sú eina.  

 

 

 

 

 

  

 

 


Stjórnarskráin og ACER

Á þessu vefsetri hefur verið bent á nokkur atriði varðandi Þriðja orkumarkaðslagabálkinn frá ESB, sem er á verkefnaskrá Alþingis að fjalla um vorið 2018, og orkar mjög tvímælis m.t.t. Stjórnarskráarinnar.  Sætir furðu, að íslenzkir stjórnlagafræðingar virðast ekki hafa gert tilraun til fræðilegrar greiningar á þessu  stórmáli enn þá, þótt að því hljóti að koma, enda hafa norskir starfsbræður þeirra ekki legið á liði sínu í þessum efnum.

Flestir fræðimenn á sviði lögfræði í Noregi, sem opinberlega hafa tjáð sig um Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB, telja, að innleiðing hans í norsk lög feli í sér Stjórnarskrárbrot og að lögleiðing bálksins sé þegar af þeirri ástæðu ótæk.  Ekkert bendir til annars en sömu röksemdir eigi við á Íslandi.

Helzti ásteytingarsteinninn er, að víðtæk völd yfir orkumálum á Íslandi, sem samþykkt Alþingis um að fella téðan orkumálabálk ESB inn í EES-samninginn, mundu falla í skaut ESB, yfirþjóðlegra samtaka, þar sem Ísland er ekki aðili.  Þetta brýtur í bága við helztu réttlætingu upphaflega EES-samningsins, sem var þannig, að samþykkt í ESB, lög eða reglugerð, átti ekki að fá réttarfarslegt gildi á Íslandi án sérstaks samþykkis Alþingis.  Nú er stefnt á, að stórar og smáar ákvarðanir orkustofnunar ESB (ACER) á sviði raforkuflutningsmála komi til framkvæmdar hérlendis án atbeina eða rýni nokkurra hefðbundinna íslenzkra stjórnvalda. Það er einfaldlega verið að innlima Ísland og Noreg í ESB á hverju málefnasviðinu á fætur öðru, sneið eftir sneið.  Lætur meirihluti þingheims bjóða sér annað eins ? 

Í frumvarpi ríkisstjórnar Noregs, og sjálfsagt Íslands líka, er téð grundvallar fullveldisregla brotin.  Samþykkt í orkustofnun ESB, ACER (Agency for the Cooperation of Energy Regulators), þar sem Ísland mun ekki fá atkvæðisrétt, mun hljóta stöðu stjórnvaldsákvörðunar á Íslandi við að fara um hendur starfsmanna ESA-Eftirlitsstofnunar EFTA, sem sendir ákvörðun ACER til orkustofnunar, OS, sem á að verða óháð yfirvöldum og hagsmunaaðilum á Íslandi.  OS staðfestir skipunina frá ESA, og þar með getur enginn stöðvað framkvæmd ákvörðunar ACER án þess að brjóta lögin hér (lög um EES-samninginn). Grundvallarregla EES-samningsins um "neyðarhemil", þar sem Alþingi getur hafnað samþykkt frá ESB, er tekin úr sambandi með valdatöku ESB-stofnunar á Íslandi.  Þetta mun gerast á sviði, sem gengur næst sjávarútveginum að þjóðhagslegu mikilvægi.

 Norskur prófessor í réttarfarsfræðum, Henrik Björnebye, skrifar m.a. þetta í grein 15. janúar 2018 í Klassekampen,

"All energi under en kam":

"Vinna ESB á síðustu árum við að koma orkusambandi á laggirnar er til vitnis um metnaðarfull markmið í orkumálum.  Þær 454 blaðsíður af markaðsreglum fyrir rafmagn, sem danska "EU-Tidende" hefur birt, fjalla svo nákvæmlega um tæknileg atriði, að maður verður helzt að vera verkfræðingur, hagfræðingur og lögfræðingur til að skilja umfangið.  Um er að ræða reglugerðir, og þar með verður að taka þær orðréttar upp í norskan rétt án aðlögunar, ef gjörningurinn verður felldur inn í EES-samninginn."

Augljóslega kallar þessi ESB-gjörningur á gríðarlega vinnu í íslenzka stjórnkerfinu, svo að ekki sé nú minnzt á þýðingarátakið.  Ekki verður annað séð en Íslandi væri vel borgið án allrar þessarar vinnu á kostnað skattborgaranna, enda eru þessir ESB-gjörningar samdir fyrir allt aðrar aðstæður en ríkja hér á eylandinu.  Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB verður einvörðungu til trafala og kostnaðarauka á Íslandi, þótt hingað verði engir aflsæstrengir lagðir, en þá fyrst mun nú steininn taka úr, og það mun þá ekki verða á færi íslenzkra stjórnvalda að hafa nokkur áhrif á ákvörun um aflsæstreng né framkvæmd verkefnisins.  Alþingismönnum er þess vegna ráðlagt að hafna þessu lagafrumvarpi, ef það verður lagt fram.

Orkusamband ESB, svo og ACER, eru í stöðugri þróun.  Þar með er dúkað fyrir "salami" aðferðina, þ.e. að Alþingi samþykki hverja breytingu fyrir sig sem "minni háttar" inngrip í stjórnsýsluna, en saman jafngildi breytingarnar meiri háttar fullveldisframsali. Valdaumfang ACER mun aðeins vaxa með tímanum og hugsanlega spanna allan orugeirann á endanum.  Það er mjög ósanngjarnt af ESB að biðja norska og íslenzka þingmenn um að samþykkja nokkuð, sem er vitað, að verður háð stöðugum breytingum í átt til meira fullveldisframsals, þar sem Norðmenn og Íslendingar verða aðeins með áheyrnarfulltrúa í ACER án atkvæðisréttar.    

Þegar fullveldisframsal til ACER er metið, kemur til skoðunar, hvort hvort ACER hafi einvörðungu boðvald yfir ríkisstofnun.  Hér er um að ræða, hvort væntanleg orkustjórnvaldsstofnun (OSS) á Íslandi, Orkustofnun eða sérstofnun, er ríkisstofnun eða ekki.  Í Þriðja orkumarkaðslagabálkinum er skýrt ákvæði um, að OSS skuli vera öllum óháð, nema ESA, sem flytja á henni fyrirskipanir frá ACER, og OSS hefur engin tök á að andmæla ACER.  Fullnægir OSS þá skilgreiningu á ríkisstofnun ?  Auðvitað ekki, og þar með blasir klárlega við Stjórnarskrárbrot. Það er með eindæmum, að lagt skuli upp með lagatæknilegt örverpi á borð við þetta.  Það getur ekki staðizt vandaða lögfræðilega rýni.   

 

 

 

 


Loftslagsmál og ríkisstjórnin

Loftslagsmálin fá tiltölulega veglegan sess í samstarfssáttmála ríkisstjórnarinnar, og ráðherrum verður tíðrætt um loftslagsmál á hátíðarstundum.  Athyglivert er, að megináherzla ríkisstjórnarinnar í þessum efnum er á hafið.

Þetta er nýstárlegt, en skiljanlegt í ljósi hagsmuna Íslands.  Landið á mjög mikið undir því, að lífríki hafsins umhverfis það taki ekki kollsteypur, heldur fái að þróast á sjálfbæran hátt, eins og verið hefur alla þessa öld.  Þannig segir í sáttmálanum:

"Meginforsenda loftslagsstefnu ríkisstjórnarinnar er að koma í veg fyrir neikvæð áhrif loftslagsbreytinga á lífríki hafsins.  Hvergi í heiminum hefur hitastigshækkun orðið jafnmikil og á norðurslóðum.  Þannig á Ísland að efla rannsóknir á súrnun sjávar í samráði við vísindasamfélagið og sjávarútveginn.  Ísland á enn fremur að ná 40 % samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda m.v. árið 1990 fyrir árið 2030."

 

 

Þetta er nokkuð einkennilega orðuð grein.  Það er algerlega útilokað fyrir ríkisstjórnina að hafa nokkur mælanleg áhrif á áhrif loftslagsbreytinga á lífríki hafsins.  Að stilla þessum "ómöguleika" upp sem meginforsendu loftslagsstefnu ríkisstjórnarinnar gefur til kynna einhvers konar blindingsleik. Loftslagsstefna á ekki að vera barátta við vindmyllur, heldur verður fólk flest að sjá í hendi sér betra líf að afloknum orkuskiptum. Almenningur verður að geta tengt loftslagsstefnu ríkisins við eigin hagsmuni. 

Þar sem skrifað er um rannsóknir á súrnun hafsins er auðvitað átt við rannsóknir, sem auðvelda landsmönnum að aðlagast afleiðingum loftslagsbreytinga.  Betra hefði verið að gera skýran greinarmun á því, sem ríkisstjórnin hyggst gera annars vegar til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og hins vegar til að fást við afleiðingar þessarar losunar.  Hér er þessu slengt saman í eina bendu, endastöðin kölluð meginforsenda o.s.frv.  Viðvaningur í textasmíði virðist hafa farið hamförum við lyklaborðið og ekkert kunna um markmiðasetningu.

Íslendingar geta engin áhrif haft á súrnun hafsins, en þeir geta hins vegar töluverð áhrif haft á hreinleika þess í kringum landið, og það er brýnt að bæta stöðu skolphreinsunarmála verulega, ná megninu af örplastinu í síur og hreinsa sorann frá útrásarvökvanum í stað þess að láta nægja að dæla öllu saman út fyrir stórstraumsfjöru. Slíkt er ekki umhverfisvernd, heldur bráðabirgða þrifaaðgerð í heilsuverndarskyni.  Þetta er viðurkennt annars staðar í stjórnarsáttmálanum.  

Það þykir léleg markmiðasetning að setja sér markmið um einhverja breytu, sem viðkomandi hefur alls engin áhrif á.  Varðandi útblásturinn eru þrenns konar hvatar til að draga úr losun, sem höfðað geta til almennings:

Í fyrsta lagi batnar nærloft bæjarbúa við það að minnka jarðefnaeldsneytið, sem brennt er.  Árlega deyr a.m.k. einn tugur manna hérlendis ótímabærum dauðdaga vegna lélegra loftgæða af völdum útblásturs eldsneytisknúinna véla og um fimm tugir af völdum ófullnægjandi loftgæða, sem stafa af ýmsum orsökum.  

Í öðru lagi má spara jafngildi u.þ.b. 50 miaISK/ár í gjaldeyri með því að leysa af hólmi vélar í ökutækjum og fiskiskipum, sem knúnar eru jarðefnaeldsneyti.  Eigendur ökutækjanna geta sparað sér um 70 % af orkukostnaði benzínbíla með því að fá sér rafbíl í stað benzínbíls.

Í þriðja lagi eru millilandaflug, millilandasiglingar og orkusækinn iðnaður ekki háð markmiðasetningu íslenzku ríkisstjórnarinnar, heldur koltvíildisskattheimtu ESB, sem getur skipt nokkrum milljörðum ISK á ári, er fram í sækir.  Þessir losunarvaldar standa undir um 80 % heildarlosunar landsmanna, ef losun frá uppþurrkuðu landi er sleppt.  Að draga úr losun sparar fé og verður að vera hagkvæmt til skemmri og lengri tíma, ef markmiðin eiga að nást.    

Það er eftir miklu að slægjast að draga hratt úr losun gróðurhúsalofttegunda, en þótt losun Íslendinga á hvern íbúa landsins sé á meðal hins mesta, sem gerist í heiminum, einnig án losunar frá þurrkuðu landi, eða um 34 t CO2eq/íb, að teknu tilliti til margfeldisáhrifa losunar í háloftunum, þá er þessi losun sem dropi í hafi heimslosunarinnar eða 300 ppm (hlutar úr milljón) af henni.  Í þessu ljósi verður að vara við að leggja í miklar ótímabærar fjárfestingar í tækni, sem er nú í hraðri þróun, til þess eins að fullnægja hégómlegum metnaði stjórnmálamanna á kostnað almennings. 

Markmiði ríkisstjórnarinnar um 40 % minni losun koltvíildisjafngilda fyrir árið 2030 en árið 1990 verður erfitt að ná, og markmiðið um kolefnishlutlaust Ísland fyrir árið 2040 er óraunhæft, ef átt er við alla losun, en næst með miklum fjárfestingum, ef eingöngu er átt við innlenda notkun, þ.e. 20 % af heildarlosuninni. Eru Íslendingar tilbúnir til að herða tímabundið sultarólina og fresta brýnni innviðauppbyggingu til að ná markmiði, sem engu máli skiptir í hinu stóra samhengi, hvort næst 5-10 árum seinna ?  Það þarf bráðum að svara því.    

Virðingarvert er, að í lok loftslagskaflans er minnnzt á að ganga til samstarfs við sauðfjárbændur um kolefnisjöfnun greinarinnar.  Til að markmið ríkisstjórnarinnar um loftslagsmál náist, verður hún að virkja bændur til skógræktar og kosta verulegu til við plönturæktun og útplöntun og leggja í því sambandi ríkisjarðir, a.m.k. eyðibýli, undir skógrækt.  

Spurning er, hvort bleyting í þurrkuðu landi fæst viðurkennd sem samdráttur í losun.  Önnur spurning er, hvort bændur eru ginnkeyptir fyrir slíku með land, sem þeir nota nú sem beitarland. Gagnsemin er umdeilanleg. Það er þess vegna óvarlegt að reikna með miklu frá íbleytingunni, en sums staðar gæti átt vel við að moka ofan í skurði og planta nokkru áður í sama land.  Þar mun þá ekki myndast mýri, heldur skógur á þurrlendi.   Losun CO2 á Íslandi 2010  

    

 


Lýðræði, gegnsæi og Stjórnarskráin

Í stjórnarsáttmálanum er kafli, sem ber heitið "Lýðræði og gagnsæi".  Önnur grein hans byrjar þannig:

"Ríkisstjórnin vill halda áfram heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar í þverpólitísku samstarfi með aðkomu þjóðarinnar, og nýta m.a. til þess aðferðir almenningssamráðs."

Þessi aðferðarfræði hefur verið þrautreynd og er enn sem áður ólíkleg til árangurs.  Mun vænlegra er, að Alþingi feli valinkunnum stjórnlagafræðingum að endurskoða tiltekna kafla eða tilteknar greinar Stjórnarskrárinnar.  Afrakstur þessarar vinnu færi í umsagnarferli, þar sem þjóðinni allri gæfist kostur á að koma að athugasemdum á vefnum, og síðan mundi Alþingi vinna úr gögnunum og gera tilraun til að smíða nothæfan stjórnlagatexta, sem fer þá í ferli samkvæmt núgildandi Stjórnarskrá.    

Það er vissulega þörf á að bæta íslenzku Stjórnarskrána á nokkrum sviðum, og skyldi engan undra.  Blekbónda þykir einna mest þörf á að reisa skorður við framsali ríkisvalds til yfirþjóðlegra stofnana.  Það hefur síðan árið 1994 tíðkazt í mjög miklum mæli, að Alþingi sé breytt í stimpilstofnun fyrir lagabálka frá ESB með vísun til EES-samningsins, sem samþykktur var á Alþingi 13. janúar 1993.  Frá gildistöku hans til ársloka 2017, eða á 24 árum, hafa um 11´000 tilskipanabálkar og reglugerðir hlotið afgreiðslu íslenzku ráðuneytanna og stór hluti "þeirrar hrúgu" komizt inn í íslenzka lagasafnið, þótt íslenzk sjónarmið eða íslenzkir hagsmunir hafi ekki komizt að við útgáfuna, svo að heitið geti.  Ójafnræði á milli laga-og reglugerðaveitanda og -þiggjanda er himinhrópandi, svo að þetta fyrirkomulag nær í rauninni engri átt. Bretar eru í allt annarri stöðu, verandi "stórt" ríki innan ESB með talsvert vægi við mótun og ákvarðanatöku, en þeir eru samt búnir að fá sig fullsadda af tilskipana- og reglugerðaflóðinu frá Berlaymont og hafa nú ákveðið að losa sig undan því fargi öllu, þótt ekki gangi það þrautalaust.    

Ef samstarfsnefnd ESB og EFTA-ríkjanna þriggja í EES kemst að þeirri niðurstöðu, að taka eigi nýjan lagabálk frá ESB upp í EES-samninginn, og ESB hefur alltaf haft vilja sinn fram í slíkum efnum, að því bezt er vitað, þá fær ríkisstjórn EFTA-lands bálkinn sendan með tímafresti, sem ESA- Eftirlitsnefnd EFTA með framfylgd EES-samningsins, fylgist með, að sé haldinn, og kærir síðan ríkið vegna of langs dráttar fyrir EFTA-dómstólinum.  Sá fylgir alltaf dómafordæmi ESB-dómstólsins (kallaður Evrópudómstóll). Sjálfsákvörðunarréttur landsins er í orði, en ekki á borði.  Langlundargeð Norðmanna með þetta ólýðræðislega fyrirkomulag er mjög þanið um þessar mundir, en hérlendis virðast flestir kæra sig kollótta enn sem komið er.  Þeir kunna þó margir að vakna upp með andfælum, því að "sambandsríkistilhneiging" ESB vex stöðugt.  Er ekki raunhæfur kostur að draga dám af Bretum og hreinlega að segja upp þeirri óværu, sem EES-samningurinn er ?   

Að halda því fram, eins og sumir gera, að núverandi EES-samningur sé ekki fullveldisframsal, heldur sé það "viðtekin skoðun í þjóðarétti að líta svo á, að rétturinn til að taka á sig alþjóðlegar skuldbindingar sé einn af eiginleikum fullveldis, og að undirgangast slíkar skuldbindingar sé ekki afsal á fullveldi" , er lagaleg rangtúlkun eða hártogun á eðli þjóðréttarsamninga, eins og fram kemur við lestur neðangreindra greina úr norsku Stjórnarskránni. Þjóðréttarsamningur er samningur fullvalda ríkja um að fylgja tilteknum, skráðum reglum í samskiptum sínum á jafnræðisgrundvelli. Þetta á ekki við um síbreytilegan EES-samninginn, sem á hverju ári veldur meira framsali ríkisvalds til yfirþjóðlegra stofnana.    

Tilvitnunin er úr grein Bjarna Más Magnússonar, dósents í lögfræði við lagadeild HR, í Morgunblaðinu, 13. janúar 2018, "Enn meira um fullveldi".

Af greininni má ráða, að stjórnsýslulega leggi höfundurinn að jöfnu aðild Íslands að Sameinuðu þjóðunum-SÞ, Atlantshafsbandalaginu-NATO og Evrópska efnahagssvæðinu-EES.  Hvern er höfundurinn að reyna að blekkja með þvílíkum skrifum ?  Aðild Íslands að SÞ og NATO er dæmigerð um þjóðréttarlegar skuldbindingar ríkisins í alþjóðlegu samstarfi, þar sem Ísland er aðili á jafnræðisgrundvelli í því augnamiði að friðvænlegra verði í heiminum og til að tryggja eigið öryggi.  Annað mál er, hvernig til hefur tekizt, en þessar tvær stofnanir hafa enga heimild til né hafa þær reynt að yfirtaka hlutverk ríkisins, nema NATO hefur yfirtekið hervarnarhlutverk ríkisins, sem íslenzka ríkið ekki er fært um með fullnægjandi hætti.   

Allt öðru máli gegnir um aðildina að EES.  Hún er alls ekki á jafnræðisgrundvelli, því að Ísland hefur engan atkvæðisrétt á borð við aðildarríki ESB, og í reynd hefur ESB ráðið því, hvaða gerðir þess eru teknar upp í EES-samninginn.  Þar með eru hér lögleiddar gjörðir án efnislegrar aðkomu Alþingismanna að viðlögðum sektum eða brottvikningu úr EES.  Sama má segja um reglugerðir og íslenzka embættismenn.  Hlutverk þeirra er að þýða og innleiða þær.  Lagasetningin og reglugerðirnar hafa bein áhrif á hagsmuni og jafnvel frelsi lögaðila og einstaklinga hérlendis, þannig að augljóst framsal til útlanda hefur átt sér stað á valdi, sem ríkið eitt á að hafa yfir þegnum sínum, íbúum lands í fullvalda ríki.  

Nú skal vitna í téða Morgunblaðsgrein til að sýna á hvers konar refilstigu umræðan um fullveldi landsins hefur ratað í heimi lögfræðinnar:

"Hugtakið fullveldisframsal er oft á tíðum notað í umræðunni um alþjóðamál hérlendis um það, þegar ríki tekur á sig þjóðréttarlegar samningsskuldbindingar um ákveðnar athafnir eða athafnaleysi, sem í felst binding.  Þetta er einkum áberandi, þegar rætt er um EES-samninginn og hugsanlega aðild Íslands að ESB"

Það er forkastanlegt að reyna að telja fólki trú um, að EES-samningurinn eða hugsanleg aðild að Evrópusambandinu-ESB hafi ósköp sakleysislegt þjóðréttarlegt gildi.  Hér er um miklu djúptækari félagsskap að ræða, eins og ráða má af því, að ESB er á siglingu í átt frá ríkjasambandi að sambandsríki, þar sem æ fleiri stjórnunarsvið aðildarríkjanna eru felld undir einn og sameiginlegan hatt ESB.  

"Heppilegra er að ræða um framsal ríkisvalds en fullveldisframsal.  Það er hreinlega hluti af ytra fullveldi ríkja að geta framselt ríkisvald til alþjóðastofnunar.  Það er svo alltaf spurning, hvort slík notkun á fullveldinu sé í samræmi við stjórnlög ríkis eða teljist þjóna hagsmunum þess."  

Þessi málflutningur sýnir berlega, að nauðsynlegt er að setja í Stjórnarskrá Íslands varnagla við framsali ríkisvalds, þótt ekki verði það bannað.  Norðmenn hafa í sinni stjórnarskrá ákvæði um, að minnst helming allra Stórþingsmanna þurfi til að ljá fullveldisframsali með víðtækum afleiðingum fyrir ríkið og íbúana lögmæti, þ.e. 75 % af viðstöddum Stórþingsmönnum, sem séu þó að lágmarki 2/3 af heild.

Í lauslegri þýðingu segir um þetta í norsku Stjórnarskránni:

Gr. 26.2: "Fullveldi á s.k. afmörkuðu sviði má láta af hendi, ef a.m.k. 50 % af þingmönnum í Stórþingssalnum samþykkja það, með vísun til venja varðandi mál, er varða Stjórnarskrá."

Það eru vissulega fordæmi í Noregi og á Íslandi fyrir framsali ríkisvalds, og í Noregi er það meirihluti í Stórþingssalnum, sem ákveður, hvort krefjast ber aukins meirihluta.  Þetta má telja veikleika.  Grein Stjórnarskrárinnar um aukinn meirihluta er þannig í lauslegri þýðingu:

Gr. 115: "Í þágu alþjóðlegs friðar og öryggis eða til að bæta alþjóðlegt réttarfyrirkomulag og samvinnu getur Stórþingið samþykkt með 75 % atkvæða viðstaddra Stórþingsmanna, sem að lágmarki séu 2/3 Stórþingsmanna, að alþjóðleg samtök, þar sem Noregur á aðild að eða Noregur styður, skuli hafa rétt til aðgerða á málefnalega afmörkuðu sviði, sem samkvæmt þessari Stjórnarskrá annars er í verkahring yfirvalda ríkisins.  Þó fylgja þessu ákvæði ekki heimildir til að breyta þessari Stjórnarskrá.

Ákvæði þessarar greinar eiga ekki við þátttöku í alþjóðasamtökum, ef ákvarðanirnar hafa einvörðungu þjóðréttarleg áhrif fyrir Noreg."

Það virðist t.d. einsýnt af þessum texta, að Stórþinginu ber að beita gr. 115 við atkvæðagreiðslu um upptöku Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn.

Alþingi samþykkti þáverandi EES-samning naumlega í janúar 1993, en engin þjóðaratkvæðagreiðsla var þá haldin um þetta stórmál, þótt miklum vafa þætti undirorpið, að fullveldisframsalið stæðist ákvæði íslenzku Stjórnarskrárinnar um óskoraðan rétt Alþingis til löggjafarvalds á Íslandi, svo að eitthvað sé nefnt.

Setja þarf inn í íslenzku Stjórnarskrána ákvæði á þessa lund: 

Þegar fyrir hendi er frumvarp á Alþingi um aðild Íslands að samtökum, sem eiga að einhverju leyti að taka við hlutverki Alþingis, dómstóla eða framkvæmdavalds, þá skal halda um málið bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu.  Meirihluta atkvæðisbærra manna skal þurfa til að samþykkja slíka tillögu.  Að öðrum kosti er hún felld, og Alþingi verður þá að fella frumvarpið, annars að samþykkja það.  Fimmtungur þingmanna getur vísað því til Hæstaréttar, hvort um fullveldisframsal sé að ræða, sem útheimti slíka  þjóðaratkvæðagreiðslu.  Meirihluti 5 dómara ræður niðurstöðu.  

Þegar mál koma til kasta Alþingis, sem 20 % þingmanna telja varða óheimilt framsal ríkisvalds, eins og t.d. Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB ótvírætt er, þá skal krefjast aukins meirihluta til samþykktar, eins og á norska Stórþinginu.    

 

 

 

 

 

 

 


Risi í hagkerfinu

Það getur verið óheppilegt, að mikill stærðarmunur sé á útflutningsgreinum.  Það er út af því, að risinn getur þá hæglega gert öðrum erfitt fyrir og jafnvel rutt þeim úr vegi.  Þetta eru svo kölluð ruðningsáhrif, og þeirra hefur vissulega gætt hérlendis frá ferðaþjónustunni, en gjaldeyristekjur hennar eru nú meiri en frá sjávarútvegi og iðnaði til samans. Umfang ferðaþjónustunnar hefur reyndar Síðan 2016 leitt til minni framlegðar í öllum útflutningsgreinum, einnig hjá ferðaþjónustunni sjálfri, og sterk staða ISK í skjóli ríflegs viðskiptaafgangs hefur reyndar dempað vöxt ferðaþjónustunnar, sem brýna nauðsyn bar til.

Vöxtur ferðaþjónustunnar í kjölfar Eyjafjallajökulsgossins hefur verið meiri en innviðir landsins hafa ráðið við, og náttúra landsins hefur sums staðar beðið hnekki sökum ágangs ferðamanna.  Þá er alræmd saurmengun á víðavangi sökum skorts á salernisaðstöðu heilsuverndarlegt hneyksli, sem of hraður vöxtur hefur leitt af sér.

Þversögnin í umræðunni um umhverfisleg áhrif ólíkra atvinnugreina er sú, að "eitthvað annað", sem s.k. "umhverfisverndarsinnar" jöpluðu löngum á, þegar þeir voru spurðir um valkost við virkjanir endurnýjanlegra orkulinda og málmiðnað, reyndist vera ferðaþjónusta, en það er þekkt um allan heim, að sú atvinnugrein er stækasti umhverfisskaðvaldur okkar tíma.

Á gististöðum fellur til gríðarlegt magn úrgangs, lífræns og ólífræns, sem er byrði fyrir staðarumhverfið, og ofboðsleg eldsneytisnotkun þessarar orkufreku greinar er stórfelld ógn við lífríki jarðar í sinni núverandi mynd vegna gróðurhúsaáhrifa eldsneytisbrunans.  Þau eru þreföld á hvert tonn eldsneytis, sem brennt er í þotuhreyflum í háloftunum m.v. bruna á jörðu niðri, hvort sem bókhald ESB um losun gróðurhúsalofttegunda sýnir það eða ekki.

Flugfélögin í EES-löndunum eru háð úthlutunum á koltvíildiskvóta frá framkvæmdastjórn ESB.  Þessi losunarkvóti mun fara síminnkandi og mismuni raunlosunar og leyfislosunar verða flugfélögin að standa skil á með kvótakaupum.  Fyrir íslenzku millilandaflugfélögin er langeðlilegast og vafalítið hagkvæmast til langs tíma að semja við íslenzka bændur, skógarbændur og aðra, sem stundað geta skilvirka landgræðslu, að ógleymdri minnkun losunar CO2 með endurbleytingu lands með skurðfyllingum. 

Ríkið getur hjálpað til við að koma þessu af stað, t.d. með því að leggja ríkisjarðir, sem nú eru vannýttar, undir þessa starfsemi.

Hjörtur H. Jónsson skrifaði um

"Ruðningsáhrif ferðaþjónustu" 

í Morgunblaðið 14. september 2017:

"Niðurstaðan af þessu er, að þótt almennt séu jákvæð tengsl á milli vaxtar ferðaþjónustu og hagvaxtar í þróuðum ríkjum, þá eru tengslin oft á tíðum veik og hverfa, þegar spenna á vinnumarkaði er orðin það mikil, að jafnverðmætar greinar geta ekki lengur keppt við ferðaþjónustuna um vinnuafl og fjármagn.

Fyrst eftir hrunið 2008 bar íslenzkt efnahagslíf mörg einkenni þróunarríkja.  Atvinnuleysi var mikið, framleiðni lítil og efnahagslífið tiltölulega einhæft, en raungengið var líka lágt, og vinnuafl gat leitað til útlanda, sem hvort tveggja hjálpaði til.  Aðstæður voru því hagstæðar fyrir hraðan vöxt ferðaþjónustunnar, sem fyrst um sinn var nokkurn veginn hrein viðbót við hagkerfið.  En þrátt fyrir að til Íslands sé nú komið umtalsvert erlent vinnuafl til starfa í láglaunageirum, þá eru í dag ýmis merki um, að við séum komin á þann stað, að frekari vöxtur ferðaþjónustunnar kosti okkur álíka mikið í öðrum atvinnugreinum og að þar með muni hægja hratt á hagvexti, sem rekja má til ferðaþjónustunnar.  Það eru vísbendingar um, að ruðningsáhrif ferðaþjónustunnar vegi í dag mikið til upp á móti ávinninginum af frekari vexti hennar.  

Við slíkar aðstæður er rétt að stíga varlega til jarðar, því að ekki er víst, að atvinnugreinar, sem ekki lifa af samkeppnina, geti risið upp á ný, ef bakslag verður í ferðaþjónustu, og þá stöndum við eftir með einhæfara hagkerfi, sem ræður ekki eins vel við breyttar aðstæður."

Það er hægt að taka undir þetta og um leið draga þá ályktun, að fjölgun gistinátta erlendra ferðamanna umfram 5 %/ár á næstu misserum sér efnahagslega beinlínis óæskileg.  Hún er líka óæskileg af umhverfisverndarlegum ástæðum.  Það er hægt að hafa mikil áhrif á vöxtinn með verðlagningu þjónustunnar. Greinin mun enn um sinn verða í lægra virðisaukaskattsþrepinu, sem er e.t.v. eðlilegt, þar sem í raun er um útflutningsgrein að ræða. 

Ferðaþjónustan ætti nú að treysta stöðu sína fremur en að vaxa hratt, t.d. með því að dreifa ferðamönnum miklu betur um landið, aðallega til Austurlands og Vestfjarða.  Suðurland er mettað af erlendum ferðamönnum.  Innanlandsflugið gæti hér leikið stórt hlutverk, en einnig beint flug til Akureyrar og Egilsstaða að utan og framhaldsflug til Ísafjarðar og annarra innanlandsflugvalla utan Reykjavíkur frá Keflavíkurflugvelli.

Millilandaflugflugfélögin leika aðalhlutverkið í þróun ferðaþjónustu á Íslandi.  Þau eru eins og ryksugur með mörg úttök, sem sjúga til sín ferðamenn og dreifa þeim þangað, sem þeim hentar og spurn er eftir.  Það er spurn eftir norðrinu núna, af því að það er friðsamt og þar koma gróðurhúsaáhrifin greinilega fram og vekja forvitni fólks.  Ef þessum u.þ.b. 30 millilandaflugfélögum, sem hingað hafa vanið komur sínar, þóknast að vekja athygli ferðamanna á dýrð Austurlands og Vestfjarða, þá er björninn unninn.

Nú stendur fyrir dyrum endurnýjun á flugflota Icelandair, en félagið hefur enn stærsta markaðshlutdeild hér.  Í ársbyrjun 2013 var gerður samningur á milli Icelandair Group og Boeing-verksmiðjanna um framleiðslu á 16 flugvélum af gerðinni Boeing 737 - MAX fyrir Icelandair og kauprétt á 8 slíkum til viðbótar, alls 24 flugvélum. Þessar 16 umsömdu vélar á að afhenda 2017-2021.  Hér eru risaviðskipti á ferð, sem fyrir 16 flugvélar af þessari gerð gætu numið miaISK 150.  

Þessar flugvélar bætast í 30 flugvéla hóp, 25 stk Boeing 757-200, 1 stk Boeing 757-300 og 4 stk Boeing 767-300, og er ætlað að leysa af hólmi 26 stk af gerð 757 í fyllingu tímans.  Nýju flugvélarnar eru af gerð 737-MAX 8 og 9 og taka þær 160 og 178 farþega, en þær gömlu taka 183 farþega.  

Þannig rýrnar flutningsgetan við að setja gerð 737 í rekstur alfarið í stað gerðar 757.  Líklegt er þess vegna, að breiðþotum verði bætt í hópinn, því að nýting flugflota Flugleiða er mjög góð.

Nýju flugvélarnar eru sagðar verða 20 % sparneytnari á eldsneyti en samkeppnisvélar.  Árið 2016 er talið, að millilandaflugið hafi losað 7,1 Mt af koltvíildisjafngildi, sem þá var langstærsti losunarvaldurinn á eftir framræstu landi, sem gæti hafa losað 8,2 Mt eða 40 % heildar.  7,1 Mt nam þá 59 % losunar Íslendinga án framræsts lands og 35 % að því meðreiknuðu. 

Losun millilandaflugsins hefði orðið 1,4 Mt minni árið 2016, ef flugvélarnar hefðu verið 20 % sparneytnari.  Íslenzk yfirvöld eru ábyrg fyrir aðeins 2,7 Mt/ár gagnvart Parísarsamkomulaginu til að setja losun millilandaflugsins í samhengi.  Flugfélögin og stóriðjufyrirtækin eru ábyrg fyrir öðru, þ.e. 9,7 Mt/ár gagnvart framkvæmdastjórn ESB.  

Þrátt fyrir minni losun millilandaflugvéla á hvern farþegakm, mun heildarlosun þeirra vegna flugs til og frá Íslandi líklega aukast á næstu árum vegna meiri flutninga.  Ef gert er ráð fyrir 40 % aukningu, þurfa flugfélögin að kaupa um 8 Mt/ár koltvíildiskvóta.  Hvað þyrfti að endurvæta mikið land og rækta skóg á stórum fleti til að jafna þetta út, sem dæmi ? 

Óræktað, þurrkað land er nú um 3570 km2.  Ef helmingur þess, 1800 km2, verður til ráðstöfunar í endurheimt votlendis, má þar útjafna 3,5 Mt/ár eða 44 % af þörf millilandaflugsins.  Ef plantað er í þetta endurheimta votlendi, myndast þar reyndar ekki mýri, en 1,1 Mt/ár CO2 bindast í tré og jarðveg.  Þá þarf að planta hríslum í 5500 km2 lands til viðbótar.  

Þetta jafngildir gríðarlegu skógræktarátaki, aukinni plöntuframleiðslu og auknum mannafla við ræktunarstörf og viðhald skóga.  Land fyrir þetta er sennilega fáanlegt, og ríkið getur lagt fram eyðijarðir í sinni eigu í þetta verkefni.  Ekki er ráð, nema í tíma sé tekið, svo að þegar í stað þarf að hefjast handa.  Samkvæmt öllum sólarmerkjum að dæma, verður um viðskiptalega hagkvæmt verkefni að ræða.  

 Bombardier C

 

 

 

 

 

 

 


Menntunarkröfur

Það hafa sézt stórkarlalegar yfirlýsingar um hina svo kölluðu "Fjórðu iðnbyltingu", sem gjörbreyta muni vinnumarkaðinum.  Ein slík er, að eftir 20 ár verði 65 % núverandi starfa ekki til.  

Þetta er loðin yfirlýsing. Er meiningin sú, að 65 % færra fólk starfi að núverandi störfum, eða er virkilega átt við, að 65 % núverandi verkefna verði annaðhvort horfin eða unnin af þjörkum ?

Fyrri merkingin er að mati blekbónda harla ólíkleg, en sú seinni nánast útilokuð.  Það er, að mati blekbónda", ekki mögulegt að framleiða róbóta með gervigreind, sem verði samkeppnishæf við "homo sapiens" við að leysa 65 % starfategundir af hólmi.

Hins vegar gefur þessi framtíðarsýn réttilega vísbendingu um gríðarlegar þjóðfélagsbreytingar á næstu áratugum, sem tækniþróunin mun leysa úr læðingi.  Aðalbreytingin verður ekki fólgin í því, að margar tegundir starfa hverfi, eins og ýjað er að, heldur í því, að verkefni, ný af nálinni, verða til.  

Þessu þarf menntakerfið að bregðast við á hverjum tíma, því að það á ekki einvörðungu að búa fólk undir að takast á við viðfangsefni líðandi dags, heldur viðfangsefni morgundagsins.  Þetta er hægara sagt en gert, en það er hægt að nálgast viðfangsefnið með því að leggja breiðan grunn, þaðan sem vegir liggja til allra átta, og það verður að leggja meiri áherzlu á verknám og möguleikann á tækninámi í framhaldi þaðan. Þá er höfuðnauðsyn á góðri verklegri kennslu í tæknináminu, iðnfræði-, tæknifræði- og verkfræðinámi, og þar með að ýta undir eigin sköpunarkraft og sjálfstæði nemandans, þegar út í atvinnulífið kemur.  Þótt þetta sé dýrt, mun það borga sig, enda fengist viðunandi nýting á búnaðinn með samnýtingu iðnskóla (fjölbrauta), tækniskóla (HR) og verkfræðideilda.

Það er áreiðanlegt, að orkuskiptin munu hafa í för með sér róttækar breytingar á samfélaginu.  Sprengihreyfillinn mun að mestu heyra sögunni til um miðja 21. öldina.  Þetta hefur auðvitað áhrif á námsefni skólakerfisins og ákveðin störf, t.d. bifvélavirkja, en bíllinn, eða landfartækið í víðum skilningi, verður áfram við lýði og viðfangsefni bifvélavirkjans sem rafknúið farartæki. Námsefni bifvélavirkjans færist meira yfir í rafmagnsfræði, skynjaratækni, örtölvur og hugbúnað. 

Rafmagnið verður aðalorkuberinn á öllum sviðum þjóðlífsins, þegar orkuskiptin komast á skrið eftir áratug eða svo.  Það er tímabært að taka þessu sem staðreynd og haga námskrám, námsefni, ekki sízt hjá kennurum, samkvæmt því nú þegar.  Sama gildir um forritun.  Það er nauðsynlegt að hefja kynningu á þessum tveimur fræðigreinum, rafmagnsfræði og forritunarfræði, í grundvallaratriðum, við 10 ára aldur.  

Jafnframt er nauðsynlegt að auka tungumálalega víðsýni barna með því að kynna þeim fleiri tungumál en móðurmálið og ensku við 11 ára aldur.  Ekki ætti að binda sig við dönsku, heldur gefa kost á norsku, sænsku, færeysku, þýzku, frönsku, spænsku og jafnvel rússnesku, eftir getu hvers skóla til að veita tungumálatilsögn.  

Það er skylda grunnskólans að veita nemendum trausta grunnþekkingu á uppbyggingu móðurmálsins, sem óhjákvæmilega þýðir málfræðistagl, því að málfræði hvers tungumáls er beinagrind þess, og hvað getur líkami án beinagrindar ?  Hann getur skriðið, en alls ekki gengið, hvað þá með reisn.  Góður kennari getur gert málfræði aðgengilega og vel þolanlega fyrir meðalnemanda.  Til að að ráða við stafsetningu íslenzkunnar er grundvallaratriði að leita uppruna orðanna.  Þetta innrætir góður kennari nemendum, og þannig getur stafsetning jafnvel orðið spennandi fag.  Það er t.d. alger misskilningur, að reglur um z í málinu séu snúnar.  Þær eru einfaldar, þegar leitað er upprunans, og það voru mikil mistök að leggja þennan bókstaf niður á sínum tíma.  Afleiðingin er sú, að ritháttur sumra orða verður afkáralegur í sumum myndum.  

Niðurstöður PISA-kannananna gefa til kynna, að gæði íslenzka grunnskólakerfisins séu að versna í samanburði við gæði grunnskólakerfa annarra landa, þar sem 15 ára nemendur á Íslandi ná sífellt lakari árangri, t.d. í raungreinum.  Þessu verður að snúa við hið snarasta, því að annars fellur íslenzka grunnskólakerfið á því prófi, að búa ungu kynslóðina undir hina títt nefndu "Fjórðu iðnbyltingu", sem reyndar er þegar hafin.  Þessi ófullnægjandi frammistaða 15 ára nemenda er með ólíkindum, og hér er ekki um að kenna of litlu fjármagni til málaflokksins, því að fjárhæð per nemanda í grunnskóla hérlendis er á meðal þeirra hæstu, sem þekkjast.  Það er vitlaust gefið. Þetta er kerfislægur vandi, sem m.a. liggur í of mikilli einhæfni, skólinn er um of niður njörvaður og einstaklingurinn í hópi kennara og nemenda fær of lítið að njóta sín.  Það er sjálfsagt að ýta undir einkaskóla, og það er sjálfsagt að leyfa duglegum nemendum að njóta sín og læra meira.  Skólinn þarf að greina styrkleika hvers nemanda ekki síður en veikleika og virkja styrkleikana.  Allir eiga rétt á að fá tækifæri til að veita kröftum sínum viðnám innan veggja skólans, ekki bara í leikfimisalnum, þótt nauðsynlegur sé.  

Skólakerfið er allt of bóknámsmiðað.  Það þarf að margfalda núverandi fjölda, sem fer í iðnnám, og vekja sérstakan áhuga nemenda á framtíðargreinum tengdum rafmagni og sjálfvirkni.

Sigurbjörg Jónsdóttir, kennari, hefur skrifað lokaritgerð í meistaranámi í verkefnastjórnun við Háskólann í Reykjavík.  Þann 7. nóvember 2017 sagði Höskuldur Daði Magnússon stuttlega frá henni í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:

"Mælivilla í niðurstöðum PISA":

""Þegar PISA er kynnt fyrir nemendum, er þeim sagt, að þeir séu að fara að taka próf, sem þeir fái ekki einkunn fyrir og skili þeim í raun engu.  Þetta eru 15-16 ára krakkar, og maður spyr sig, hversu mikið þeir leggja sig fram.  Ég veit, að sums staðar hefur þeim verið lofað pítsu að launum.  Ég hugsa, að anzi margir setji bara X einhvers staðar", segir Sigurbjörg Jónsdóttir, kennari, um lokaritgerð sína í meistaranámi í verkefnastjórnun við Háskólann í Reykjavík."

Eigi er kyn, þótt keraldið leki, þegar nemendum er gert að gangast undir próf án nánast nokkurs hvata til að standa sig vel.  Ætli þetta sé ekki öðru vísi í flestum samanburðarlöndunum ?  Það virðist ekki ósanngjarnt, að viðkomandi skóli mundi bjóða nemendum það að taka niðurstöðuna með í lokamatið á þeim, ef hún er til hækkunar á því, en sleppa því ella.  

"Þegar ég fór svo að kafa betur ofan í PISA-verkefnið, kemur í ljós, að það er mikil mælivilla í niðurstöðunum hér á landi.  Við erum einfaldlega svo fá hér.  Í öðrum löndum OECD eru tekin úrtök nemenda, 4-6 þúsund, en hér á landi taka allir prófið.  Þar að auki svara krakkarnir hér aðeins 60 spurningum af 120, og í fámennum skólum eru ekki allar spurningar lagðar fyrir.  Svo hefur þýðingunni verið ábótavant, eins og fram hefur komið."

Þetta er réttmæt gagnrýni á framkvæmd PISA-prófanna hérlendis, og andsvör Arnórs Guðmundssonar, forstjóra Menntamálastofnunar baksviðs í Morgunblaðinu, 9. nóvember 2017 í viðtali við Höskuld Daða Magnússon undir fyrirsögninni,:

"Meintar mælivillur byggðar á misskilningi", eru ósannfærandi.  

Að aðrir hafi um úrtak að velja, skekkir samanburðinn líklega íslenzkum nemendum í óhag, en það er lítið við því að gera, því að það er ekki til bóta, að hér taki færri þetta samanburðarpróf en annars staðar.  

 Það hefur engin viðunandi skýring fengizt á því, hvers vegna allar spurningar prófsins eru ekki lagðar fyrir alla íslenzku nemendurna, og þetta getur skekkt niðurstöðuna mikið.  Hvers vegna eru lagðar færri spurningar fyrir nemendur í minni skólum en stærri ?  Það er afar skrýtið, svo að ekki sé sterkar að orði kveðið.  

Ef þýðing prófs á móðurmál viðkomandi nemanda er gölluð, veikir það augljóslega stöðu nemenda í viðkomandi landi.  Það er slæm röksemd  Menntamálastofnunar, að endurtekinn galli ár eftir ár eigi ekki að hafa áhrif á samanburð prófa í tíma.  Þýðingin á einfaldalega að vera gallalaus og orðalagið fullkomlega skýrt fyrir nemanda með góða málvitund.  Þýðingargallar ár eftir ár bera vitni um óviðunandi sleifarlag Menntamálastofnunar og virka til að draga Ísland stöðugt niður í samanburði á milli landa.  Nóg er nú samt.  Noregsferð apríl 2011 006

 

 

 


Kolefnissektir, kolefnisbinding og rafbílavæðing

Það er mikið fjasað um loftslagsmál, og Katrín Jakobsdóttir talaði um þau sem eitt aðalmála væntanlegrar ríkisstjórnar hennar, Framsóknar, Samfylkingar og pírata, sem aldrei kom þó undir í byrjun nóvember 2017, þótt eggjahljóð heyrðist vissulega úr ýmsum hornum. Það er þó alls ekki sama, hvernig á þessum loftslagsmálum er haldið fyrir hönd Íslendinga, og landsmönnum hefur nú þegar verið komið í alveg afleita stöðu í þessum efnum með óraunsærri áætlanagerð um losun CO2 og lítilli eftirfylgni með sparnaðar- og mótvægisaðgerðum. Vonandi breytir komandi ríkisstjórn um takt í þessum efnum, þannig að fé verði beint til mótvægisaðgerða innanlands í stað sektargreiðslna til útlanda.  

Afleiðing óstjórnarinnar á þessum vettvanfi er sú, að búið er að skuldbinda landsmenn til stórfelldra sektargreiðslna til útlanda vegna framúrkeyrslu á koltvíildiskvótanum, sem yfirvöldin hafa undirgengizt.  Þessi kvóti spannar 8 ár, 2013-2020. 

Íslenzk yfirvöld hafa samþykkt, að Íslendingar mundu losa að hámarki 15,327 Mt (M=milljón) af koltvíildi, CO2, á þessu tímabili með þeim hætti, sem skilgreind er í Kyoto-bókuninni.  Þetta var frá upphafi gjörsamlega óraunhæft, enda nam losunin á 3 fyrstu árunum, 2013-2015, 8,093 Mt, þ.e. 53 % kvótans á 38 % tímabilsins.

  Vegna mikils hagvaxtar á tímabilinu 2016-2020 og hægrar framvindu mótvægisaðgerða má búast við árlegri aukningu á þessu tímabili þrátt fyrir 3,5 %/ár sparneytnari bílvélar og jafnvel 5 %/ár nýtniaukningu eldsneytis á fiskiskipaflotanum, svo að losunin verði þá 14,2 Mt árin 2016-2020.  Heildarlosunin 2013-2020 gæti þá numið 22,3 Mt, en yfirvöldin eru við sama heygarðshornið og áætla aðeins 21,6 Mt.  Hvar eru samsvarandi mótvægisaðgerðir stjórnvalda ?  Skrifborðsæfingar búrókrata af þessu tagi eru landsmönnum of dýrkeyptar.

Það er jafnframt útlit fyrir, að skipuleg binding koltvíildis með skógrækt og landgræðslu á þessu seinna Kyoto-tímabili verði minni en stjórnvöld settu fram í aðgerðaáætlun árið 2010. Það er einkennilegur doði, sem gefur til kynna, að of mikið er af fögrum fyrirheitum og blaðri í kringum þessa loftslagsvá og of lítið af beinum aðgerðum, t.d. til að stemma stigu við afleiðingum óhjákvæmilegrar hlýnunar, s.s. hækkandi sjávarborðs. Það er ekki ráð, nema í tíma sé tekið, þegar kemur að varúðarráðstöfunum.  Það þarf strax að ráðstafa fé í sjóð til þessara verkefna.

Ein talsvert mikið rædd aðgerð til að draga úr losun CO2 er að moka ofan í skurði til að stöðva rotnunarferli í þornandi mýrum, sem losar í meiri mæli um gróðurhúsalofttegundir en mýrarnar.  Áður var talið, að þurrkun ylli losun, sem næmi 27,6 t/ha á ári, og þar sem framræst land næmi 0,42 Mha (=4200 km2), væri árleg losun framræsts lands 11,6 Mt/ár CO2.

Nú hafa nýjar mælingar starfsmanna Landbúnaðarháskóla Íslands sýnt, að þessi einingarlosun er tæplega 30 % minni um þessar mundir en áður var áætlað eða 19,5 t/ha koltvíildisjafngilda, eins og fram kemur í Bændablaðinu, bls. 2, 2. nóvember 2017. 

Losun Íslendinga á koltvíldi vegna orkunotkunar, úrgangs, mýrarþurrkunar og annars árið 2016, var þá þannig:

Losun Íslendinga á koltvíildi, CO2, árið 2017:

  • Millilandaflug:        7,1 Mt   35 %
  • Iðnaður:               2,3 Mt   11 %
  • Samgöngur innanlands:  0,9 Mt    4 %
  • Landbúnaður:           0,7 Mt    3 %
  • Millilandaskip:        0,6 Mt    3 %
  • Fiskiskip:             0,4 Mt    2 %
  • Úrgangur:              0,3 Mt    1 %
  • Orkuvinnsla:           0,2 Mt    1 %
  • Ýmislegt:              0,1 Mt    0 %
  • Framræst land:         8,2 Mt   40 %
  • Heildarlosun:         20,8 Mt  100 %

 

 Til að nýta fjármuni sem bezt við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna starfsemi Íslendinga er skilvirkast að beina fé í stærstu losunarþættina. 

Framræst land vegur þyngst, 40 %.  Moka þarf ofan í skurði óræktaðs lands, sem ekki er ætlunin að rækta í fyrirsjáanlegri framtíð, og samtímis að planta þar skógarhríslum til mótvægis við losun, sem ekki er tæknilega unnt að minnka að svo stöddu.  Þar vegur millilandaflugið og iðnaðurinn þyngst.  Þessir aðilar eru örugglega fúsir til að fjárfesta í slíkri bindingu á Íslandi fremur en að greiða stórfé fyrir losun umfram kvóta til útlanda, enda er slík ráðstöfun fjár hagstæð fyrir þá, eins og sýnt verður fram á hér að neðan.  

Mismunur á áætlaðri heildarlosun Íslendinga tímabilið 2013-2020 og úthlutuðum losunarheimildum til þeirra er:

ML= 22,3 Mt-15,3 Mt = 7,0 Mt

Meðaleiningarverð yfir þetta "seinna Kyoto-tímabil" verður e.t.v. 5 EUR/t CO2, en það ríkir þó enn mikil óvissa um þetta verð.  Hitt eru menn sammála um, að það verður hærra á tímabilinu 2021-2030, e.t.v. 30 EUR/t. 

Líkleg kaupskylda á kvóta árið 2021 fyrir tímabilið 2013-2020 er þannig:

K=7 Mt x 5 EUR/t = MEUR 35  = miaISK 4,4.

Nú er áhugavert að finna út, hversu miklu framræstu landi er hægt að bleyta í (með því að moka ofan í skurði) og síðan að planta hríslum í sama landið fyrir þessa upphæð (og verður þá engin mýri til aftur), og síðan hver einingarkostnaðurinn er á koltvíildinu í þessum tvenns konar mótvægisaðgerðum, þ.e. samdrætti losunar og með bindingu. Svarið verður ákvarðandi um hagkvæmni þess fyrir ríkissjóð og einkafyrirtæki að fjárfesta fremur innanlands en erlendis í koltvíildiskvótum.

Samkvæmt Umhverfisráðgjög Íslands, 2.11.2017, eru afköst og einingarkostnaður við þrenns konar ræktunarlegar mótvægisaðgerðir eftirfarandi:

  • Landgræðsla:  2,1 t/ha/ár og 167 kkr/ha
  • Skógrækt:     6,2 t/ha/ár og 355 kkr/ha
  • Bleyting:    19,5 t/ha/ár og  25 kkr/ha

Þá er hægt að reikna út, hversu mörgum hekturum þurrkaðs lands, A, er hægt að bleyta í og planta í  hríslum fyrir miaISK 4,4:

A x (355+25) = 4,4;  A = 11,6 kha = 116 km2

Skógræktin bindur CO2: mBI=6,2 x 11,6k=72  kt/ár.

Bleyting minnkar losun:mBL=19,5x 11,6k=226 kt/ár.

Alls nema þessar mótvægisaðgerðir: 298 kt/ár.

Eftir 25 ár hefur þessi bleyting minnkað losun um 5650 kt CO2 og skógrækt bundið (í 20 ár) um 1440 kt CO2.

Alls hefur þá miaISK 4,4 fjárfesting skapað 7090 kt kvóta á einingarkostnaði 621 ISK/t = 5,0 EUR/t.  

Sé reiknað með, að skógurinn standi sjálfur undir rekstrarkostnaði með grisjunarviði, þá virðast mótvægisaðgerðir innanlands nú þegar vera samkeppnishæfar á viðskiptalegum forsendum, svo að ekki sé nú minnzt á þjóðhagslegu hagkvæmnina, þar sem um verðmætasköpun innanlands, ný störf og aukningu landsframleiðslu er að ræða.  Það er engum vafa undirorpið, að stjórnvöld og fyrirtæki á borð við millilandaflugfélögin, skipafélögin og stóriðjufyrirtækin eiga að semja við bændur og Skógrækt ríkisins um þessa leið.  

Er nóg landrými ?  

Framræst land er um 4200 km2 að flatarmáli og óræktað land er 85 % af því, þ.e. 3570 km2.  Sé helmingur af því tiltækur til þessara nota, þarf téð miaISK 4,4 fjárfesting þá aðeins 6,5 % af tiltæku, óræktuðu og framræstu landi, og það verður vafalaust til reiðu, ef samningar takast.  

 

 

 


Aukið andrými

Þeir eru nokkrir, einnig hérlendis, sem goldið hafa varhug við kenningum um hlýnun jarðar af völdum s.k. gróðurhúsalofttegunda, einkum lífsandans, CO2, sem kallaður hefur verið koltvíildi á íslenzku (ildi=súrefni).  Efasemdarmenn töldu sig fá byr í seglin í sumar, er upplýst var um, að andrúmsloft jarðar hefði í raun hlýnað 0,3°C minna árið 2015 frá árinu 1870 en spáð hafði verið með því að bæta 2,0 trilljónum (trn) tonna (1 trilljón=1000 milljarðar) af koltvíildi inn í lofthjúp jarðar í líkönum IPCC (International Panel on Climate Change), eins og talið er, að bætzt hafi við í raun frá 1870-2015. Lofthjúpurinn hefur hingað til sýnt meiri tregðu til hlýnunar en reiknilíkön höfðu verið forrituð fyrir.

Þetta þýðir, að jarðarbúar fá aukið andrúm til að kljást við hlýnun jarðar, því að samkvæmt þessu eykst magn koltvíildisins, sem óhætt er að losa út í andrúmsloftið án hlýnunar um meir en 1,5°C, úr 2,25  trn t í 2,75 trn t CO2.  Þetta þýðir, að "kvóti" andrúmsloftsins fyrir CO2 fylist ekki á 7 árum frá 2015, heldur á 21 ári, þ.e. árið 2036, m.v. losun ársins 2015. Þetta gefur von um, að unnt verði að halda afleiðingum hlýnunar í skefjum, en þá verður að bregðast við strax og draga úr losun um 1,2 mia t/ár til að ná núll nettó losun árið 2055. Þess má geta hér, að heildarlosun Íslands án tillits til þurrkaðs lands, en að stærsta losunarvaldinum, millilandafluginu, meðtöldum, nemur um þessar mundir tæplega 12 Mt/ár eða rúmlega 300 ppm (hlutar úr milljón) af heildarlosun í heiminum (án áhrifa breyttrar nýtingar lands).   

Nú þegar virðist hámarkslosun hafa verið náð, um 38 mia t/ár, og þróun sjálfbærra orkulinda gengur vel.  Ekki heyrist þó mikið af þróun kjarnorku eða samrunaorku, en þróun vindmyllna og sólarhlaðna gengur vel.  Á orkuuppboði á Bretlandi í september 2017 tókust samningar um raforku frá vindmyllum úti fyrir ströndu á 57,50 GBP/MWh eða 76 USD/MWh (að vísu enn niðurgreidd af brezka ríkinu), og raforka frá sólarhlöðum á sólríkum stöðum er nú þegar samkeppnishæf við orku frá jarðefnaeldsneytisverum, þ.e. vinnslukostnaður er kominn undir 40 USD/MWh.  Rannsóknarstofnun í Potsdam um áhrif loftslagsbreytinga áætlar, að raforka frá sólarhlöðum muni nema 30 %-50 % af raforkunotkun heimsins árið 2050, en hún nemur 2 % núna.  Þetta kallar á framleiðslu gríðarlegs magns af sólarkísli, og þótt núverandi framleiðslutækni útheimti tiltölulega mikið magn af kolum í rafskaut ljósbogaofnanna, spara sólarhlöðurnar andrúmsloftinu miklu meira af CO2 á endingartíma sínum en losað er við framleiðsluna.  Sama má segja um álið.  Fullyrðingar um, að þessi efni, kísill og ál, hafi slæm áhrif á andrúmsloftið, eru úr lausu lofti gripnar, þegar minnkun losunar við notkun þessara efna er tekin með í reikninginn.  Eina viðurkennda aðferðafræðin í þessum efnum er að horfa á allt ferli þessara efna frá öflun hráefna til endanlegrar förgunar.   

Þann 12. október 2017 birtist í Morgunblaðinu fréttin: "Draga koltvíoxíð úr andrúmslofti":

Þar er sagt frá samstarfi ON-Orku náttúrunnar við svissneska fyrirtækið Climeworks um prófun koltvíildisgleypis við Hellisheiðarvirkjun.  Christoph Gebald, annar stofnenda þessa frumkvöðlafyrirtækis, segir:

"Allar rannsóknir  benda til þess, að við náum ekki markmiðum Parísarsamkomulagsins, þ.e. að stöðva aukningu á útblæstri gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu og ná að halda hnattrænni hlýnun innan við 2°C, með því einu að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.  Við verðum líka að vinna að því að hreinsa andrúmsloftið."

Þessar fullyrðingar Svisslendingsins orka mjög tvímælis.  Í fyrsta lagi hefur nú þegar tekizt að stöðva árlega aukningu losunar gróðurhúsalofttegunda, og í öðru lagi eru nú 66 % líkur á því að mati IPCC, að takast megi að halda hlýnun innan við 1,5 °C.

Það mun flýta fyrir því að ná núll nettó losun að draga koltvíildi úr andrúmsloftinu.  Það eru hins vegar nú þegar til aðrar mun umhverfisvænni og ódýrari aðferðir til þess.  Þar á blekbóndi við bindingu með landgræðslu og skógrækt.  Slíkt útheimtir að vísu mikið landrými, en það er einmitt fyrir hendi á Íslandi, og þess vegna á þessi gleypir og niðurdæling uppleysts CO2 ekki erindi við íslenzkar aðstæður og er einvörðungu akademískt áhugaverð tilraun.  

Gasgleypir Svisslendinganna vegur um 50 t, og þess vegna er ljóst, að framleiðsla hans skilur eftir sig talsvert kolefnisspor.  Ferlið er orkukræft og þarfnast mikils heits vatns.  Það er þess vegna rándýrt og kostar um 65 kISK/t CO2.  Til samanburðar má ætla, að binding með skógrækt á Íslandi kosti innan við 4 kISK/t CO2. Gleypisaðgerðin er meira en 16 sinnum dýrari en hin íslenzka skógrækt, sem viðurkennd hefur verið af IPCC sem fullgild aðferð við bindingu. Afköst téðs gasgleypis og niðurdælingar eru sáralítil eða 50 t/ár CO2.  Til samanburðar nást sömu afköst á 6,5 ha lands hérlendis að meðaltali með skógrækt.  

Það væri miklu ódýrara og þjóðhagslega hagkvæmara fyrir ON og önnur CO2 myndandi fyrirtæki að semja við íslenzka skógarbændur um bindingu koltvíildis en að standa í þessum akademísku æfingum á Hellisheiði, sem eru e.t.v. PR-vænar, en hvorki sérlega umhverfisvænar né geta þær nokkru sinni orðið samkeppnishæfar.   

 Kjarnorka í samkeppni við kol


Of háreistar hugmyndir

Velgengni fiskeldis hér við land og á landi er fagnaðarefni.  Á tækni- og rekstrarsviði starfseminnar má þakka velgengnina beinni norskri fjárfestingu í 4 fyrirtækjanna, sem hefur gert þeim kleift að fjárfesta fyrir um 10 miaISK/ár að undanförnu, og á næstu árum er búizt við fjárfestingu í fiskeldi um 5 miaISK/ár  Nánast allt er þetta bein norsk fjárfesting, sem eflir íslenzka hagkerfið. 

Nemur hinn norski eignarhlutur á bilinu 34 %-60 % í þessum fyrirtækjum. Framlegð fyrirtækjanna hefur jafnframt verið góð eða yfir 20 % af söluandvirði afurðanna.  Há framlegð helgast af skorti á heimsmarkaði fyrir lax vegna framboðsbrests um 7 % af völdum fiskisjúkdóma, m.a. í Noregi.  Markaðsáhrifin hafa orðið 50 % hækkun á laxi upp í um 1000 ISK/kg, sem tæpast verður þó varanleg.

Það er engum blöðum að fletta um byggðalegt mikilvægi fiskeldisins, þar sem það er stundað, enda hefur það sums staðar snúið fólksfækkun upp í fólksfjölgun, og sömuleiðis um þjóðhagslegt mikilvægi þess.  Um þessar mundir er hallinn mjög mikill á vöruviðskiptum við útlönd eða um 150 miaISK/ár.  Hluti af þessu er vegna fjárfestinga, en megnið eru neyzlu- og rekstrarvörur.  Þetta gengur ekki til frambúðar og brýn þörf á að auka tekjur af vöruútflutningi, því að endi þetta með halla á viðskiptajöfnuði (þjónustujöfnuður (ferðamennskan) meðtalin), eins og stefnir í nú, þá hefst skuldasöfnun við útlönd og ISK hrynur.

Ef laxeldið fær að tífaldast m.v. núverandi framleiðslu og vaxa upp í 100 kt/ár, munu gjaldeyristekjur aukast um 90 miaISK/ár m.v. núverandi verðlag á laxi, en á móti kemur innflutningskostnaður aðfanga.  Þar vegur fóðrið mest, og það er óskandi, að innlend hlutdeild í fóðrinu margfaldist, t.d. með framleiðslu repjumjöls og sérverkaðs fiskimjöls fyrir laxinn.  

Það þarf greinilega mun meiri viðbót við vöruútflutninginn en laxeldið, og þar mun væntanlegur kísilútflutningur vega þungt, en starfsemi eins kísilframleiðandans af 4, sem orðaðir hafa verið við þessa starfsemi hérlendis, PCC á Bakka við Húsavík, mun hefjast í desember 2017, ef áætlanir ganga eftir.

Þótt mikil þörf sé á auknum gjaldeyri inn í landið á næstu árum, þá ber að gjalda varhug við stórkarlalegum hugmyndum um vaxtarhraða og lokaumfang laxeldis í sjókvíum við Ísland.  Þessir villtu draumar komu fram í viðtali við Knut Erik Lövstad hjá Beringer Finance í sjávarútvegsblaði Morgunblaðsins 6. júlí 2017:

""Eldisfyrirtækin hafa fengið leyfi fyrir framleiðslu á 40 kt/ár af laxi, og þau hafa lagt inn umsóknir fyrir 130 kt/ár [til viðbótar].  Ef umsóknirnar verða samþykktar, gæti framleiðslan orðið 170 kt/ár", segir hann."

Það er ljóst, að Lövstad býst við mjög örum vexti, því að hann nefnir tvöföldun árið 2018 upp í 21 kt, og að árið 2020 muni hún verða 66 kt, þ.e. meira en sexföldun á þremur árum.  Þetta jafngildir árlegum meðalvexti um 87 %.  Ef sá vöxtur héldi áfram upp í 170 kt/ár, næðist sú framleiðsla árið 2022.  Hér er allt of geist farið og öllu nær að reikna með, að árið 2022 hafi framleiðslan náð 60 kt/ár, verði um miðbik næsta áratugar 75 kt/ár og nálgist e.t.v. 100 kt/ár undir 2030 í sjókvíum, en þá því aðeins, að reynslan gefi tilefni til 30 kt/ár aukningar á starfsleyfum m.v. frumráðleggingu Hafrannsóknarstofnunar.  

Rökin fyrir þessum varúðarsjónarmiðum eru í fyrsta lagi umhverfisverndarlegs eðlis, og í öðru lagi þurfa innviðir þessarar atvinnugreinar tíma til að þroskast og laga sig að þörfum greinarinnar.  

Það er enn ekki komin nein teljandi reynsla af hinni nýju tækni fiskeldisfyrirtækjanna, þ.á.m. nýrri hönnun eldiskvíanna.  Við þurfum haldfastar tölur um stroktíðnina úr hinum nýju eldiskerum til að unnt sé að leggja mat á, hversu marga fiska má leyfa í hverjum firði Vestfjarða og Austfjarða auk Eyjafjarðar.  Slík reynsla fæst tæpast fyrr en árið 2022, og þangað til er ekki ráðlegt að leyfa yfir 50 kt/ár á Vestfjörðum og 20 kt/ár á Austfjörðum, alls 70 kt/ár samkvæmt frumáhættumati Hafró.  Þetta frummat vísindamanna stofnunarinnar kemur blekbónda ekki mikið á óvart, þótt talan fyrir Austfirði virki nokkuð lág. 

Ef fyrirtækin vilja meira, eiga þau kost á að fara út í laxeldi í landkerum og losna þannig við áhættu stroks og lúsar, en á móti kemur aukinn orkukostnaður vegna nýtingar hitaveitu til upphitunar á sjó, sem  getur gefið meiri vaxtarhraða en í sjó.  Þá þarf öflugt hreinsikerfi. Rafmagnskostnaður er einnig meiri vegna dælingar, en þetta virðist samt álitlegur kostur, þegar skortur er á laxi á markaðina.

Það er mikil verðmætasköpun per tonn í laxeldi um þessar mundir, jafnvel meiri en í íslenzka sjávarútveginum, sem á þó heimsmet í verðmætasköpun sjávarútvegs.  Þannig segir Daði Már Kristófersson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, að samkvæmt mati Norðmanna skapi hvert ársverk í laxeldi MNOK 2,7 eða um MISK 33.  Þá hafi fjöldi ársverka í greininni í Noregi árið 2014 við eldi, slátrun, vinnslu og markaðssetningu verið 9´500, og afleidd störf hafi þá reynzt vera 19´000, eða tvö fyrir hvert beint starf, svo að heildarfjöldi ársverka var 28´500.

Þar sem Norðmenn framleiddu um 1,3 Mt árið 2014 af laxi í sjóeldiskvíum við Noreg, þýðir þetta, að framleiðsla á 1,0 kt útheimtir 22 ársverk (mannár).  Þetta þýðir, að til að framleiða 40 kt/ár, sem ætla má, að verði raunin hér árið 2020, þarf tæplega 900 ársverk, þar af tæplega 300 bein störf.  Allir sjá, hvílíkur búhnykkur hér er á ferðinni.

Hins vegar sér prófessor Daði Már ástæðu, eins og blekbóndi, til að slá varnagla við vaxtarhugmyndum, sem uppi eru:

""Þetta er lyftistöng fyrir þessi samfélög [fiskeldis].  Og það er í sjálfu sér ástæða til að vera jákvæður gagnvart fiskeldi sem grundvallar atvinnugrein á Íslandi, eins og annars staðar."

Hins vegar þurfi fiskeldismenn og stjórnvöld að stíga varlega til jarðar.  Ýmis þjóðhagslegur kostnaður fylgi atvinnugreininni.

"Umhverfisáhrifin af fiskeldi eru umtalsverð.  Þau eru mjög vandlega staðfest í nágrannalöndunum, og það er einnig vandlega staðfest, að þeir, sem hafa slakað verulega á kröfum í umhverfismálum, hafa iðulega séð eftir því til lengri tíma litið.  Við ættum að láta það verða lexíu fyrir okkur.""

Það er ekki sanngjarnt að velta laxeldisfyrirtækjum á Íslandi upp úr mengunarsögu laxeldisfyrirtækja í öðrum löndum.  Það er vegna þess, að íslenzku fyrirtækin hafa lært af áföllum annars staðar og innleitt nýjustu tækni og aðferðir við eldið.  Þar má nefna traustari sjóeldiskvíar, myndavélavætt eftirlit í kringum þær og með fóðruninni, svo að hún er stöðvuð, þegar græðgin minnkar í fiskinum.  Þá ætla fiskeldisfyrirtækin hér að hvíla eldissvæðin í eitt ár af þremur til að leyfa svæðinu að hreinsast.  Allt er þetta til fyrirmyndar. Stroktíðnin er lykilstærð fyrir ákvörðun um hámark starfsleyfa.  Enn tröllríður húsum sú úrelta stroktíðni, að einn lax sleppi upp í árnar úr hverju tonni í sjóeldiskvíum.  Hafi einhvern tímann verið eitthvað hæft í því hlutfalli, er alveg víst, að það á ekki við laxeldi við strendur Íslands nú, enda mundi það jafngilda stroklíkindum 0,5 %/ár=5000 ppm, en fyrir nokkrum árum voru stroklíkindi í sjókvíaeldi við Noreg 20 ppm.  Nýjar rauntölur vantar, en ef vel á að vera, þurfa þessi líkindi við Íslandsstrendur að minnka um eina stærðargráðu og verða 2 ppm.  Það mundi þýða, að með 70 kt í sjóeldiskvíum, mundu 70 laxar sleppa á ári upp í árnar.  Það gæti numið 1 % af íslenzku hrygningarstofnunum í ánum, sem falla í firði, þar sem sjókvíaeldi er leyft.  Erfðafræðingar þurfa að meta hættuna á úrkynjun íslenzku laxastofnana við þessar aðstæður, en ágizkun leikmanns er, að hún sé hverfandi.  

Niðurstaðan er þessi: Fiskeldið, einkum laxeldið, er hvalreki fyrir byggðir Vestfjarða og Austfjarða, sem staðið hafa höllum fæti.  Mikil verðmætasköpun á sér stað, og 2 óbein störf fylgja hverju starfi beint við eldið. 

Stefnumörkun skortir að hálfu stjórnvalda um útreikning og töku sanngjarns auðlindagjalds af greininni og um vaxtarhraða hennar.  Stjórnvöld verða að leyfa henni að ná lágmarks hagkvæmni stærðarinnar sem fyrst, t.d. árið 2022, s.s. 60 kt/ár til slátrunar, en eftir það ber að hægja á framleiðsluaukningu á meðan frekari reynslu af starfseminni er safnað.  Ólíklegt er, að verjandi þyki nokkurn tíma að taka áhættu af meira en 100 kt/ár sjókvíaeldi, en fyrirtækin gætu aftur á móti fljótlega fært út kvíarnar með verulegu eldi í landkerum.  

 

 

 

 

 


Forstjóri gripinn glóðvolgur

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að ötulasti boðberi fagnaðarerindisins um gull og græna skóga Íslendingum til handa, ef þeir bara ganga draumsýninni á hönd um að selja hluta af orku landsins beint um sæstreng til Bretlands, hefur jafnan haldið þeirri firru blákalt að landsmönnum, að ekki þyrfti að virkja mikið af nýjum vatnsvirkjunum til að fullnægja hugsanlegum orkusölusamningi við Breta.  Slíkur samningur fyrir 1000 MW sæstreng gæti þó numið 8,0 TWh/ár, sem er um 40 % aukning á núverandi raforkuvinnslugetu landsins.  

Téður boðberi, Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, hefur haldið því blákalt fram, að sæstrengsviðskiptin mundu gera kleift að auka nýtingu íslenzka vatnsorkukerfisins umtalsvert.  Hvernig honum gat dottið það í hug án þess að auka miðlunargetuna, þ.e. að stækka núverandi miðlunarlón og/eða taka ný í notkun, hefur alltaf verið þeim blekbónda, er þetta ritar, hulin ráðgáta, og það hefur margoft komið fram á þessu vefsetri.  Nú hefur galdrakarlinn verið afhjúpaður opinberlega.  Það gerði rækilega Skúli Jóhannsson, verkfræðingur, í ágætri grein í Morgunblaðinu 20. júní 2017,

"Aflaukning í vatnsaflsvirkjunum". 

Lítum fyrst á firrur forstjórans.  Þær komu t.d. fram í viðtali við hann í Fréttablaðinu, 14. júlí 2016, 

"Þarf ekki stórvirkjun fyrir sæstrenginn":

"Orkuþörf sæstrengs frá Íslandi til Bretlands verður að miklu leyti uppfyllt með bættri nýtingu á núverandi kerfum.  [Þessi fullyrðing forstjórans er ótrúlega bíræfin, og hann hefur aldrei borið það við að rökstyðja hana, enda er hún bull, eins og Skúli Jóhannsson, verkfræðingur, sýndi fram á í tilvitnaðri grein sinni - innsk. BJo.]  

Gert er ráð fyrir, að einungis komi 250 MW úr hefðbundnum virkjanakostum [væntanlega vatnsafls- og jarðgufuvirkjanir - innsk. BJo], ígildi innan við helmings Kárahnjúkavirkjunar."

Aflinu, 250 MW, má umbreyta í líklega orkuvinnslugetu á ári með því að reikna með nýtingartíma toppsins 90 % [=hlutfall meðalafls og toppafls].  Þá fæst, að 250 MW hefðbundnar virkjanir geta framleitt 2,0 TWh/ár eða fjórðung þess, sem sæstrengsorkusamningur væntanlega krefst af forgangsorku.  

"Hörður segir, að orkuþörfin fyrir sæstreng komi að mjög miklu leyti út úr nýjum smærri kostum, eins og litlum vatnsaflsvirkjunum, vindorku og lághita jarðhita, sem ekki er verið að nýta í dag.  "Þetta er ekki fyrst og fremst stór virkjanaframkvæmd.""

Þetta er alveg stórfurðulegur málflutningur, enda órökstuddur og þess vegna óboðlegur.  Niðurstaða Skúla, sem rakin verður hér á eftir, er, að svo kölluð bætt nýting á núverandi vatnsorkuverum muni þýða innan við 0,1 TWh/ár (< 100 GWh/ár) í viðbótar orkuvinnslugetu landskerfisins, og í núverandi jarðgufuver er ekkert að sækja; þvert á móti þyrfti að létta á þeim sumum, t.d. hinni stærstu, Hellisheiðarvirkjun, til að stöðva hraðan niðurdrátt í jarðgufugeyminum og ná nokkurn veginn sjálfbærum rekstri.  

Samtíningur smávirkjana, þ.m.t. vindrafstöðva, þarf þá að gefa orkuna E=8,0-2,0-0,1=5,9 TWh/ár.  Er manninum ekki sjálfrátt ?

Til að vinna þessa orku úr vindi í slitróttum rekstri á Íslandi þarf eigi færri en 350 stk 5,0 MW vindmyllur, og slíkur vindmyllureitur mundi þekja um 10 km2.  Hvar á að finna þeim vindmyllum stað ?  Fyrirhugaður vindmyllulundur á Hafinu ofan Búrfells var Skipulagsstofnun ekki þóknanlegur, þegar hann og umhverfisáhrif hans voru kynnt, og var hann þó aðeins fjórðungur af þessum ósköpum.  Setjum svo, að ákveðið verði að þriðjungur af 5,9 TWh/ár verði látinn koma frá vindmyllum, eða 2,0 TWh/ár.  Þar sem vindmyllur geta ekki látið í té forgangsorku af veðurfarslegum ástæðum, verður að setja upp varaafl fyrir þær, 250 MW.  Virkjanir af hefðbundna taginu verða þá að vera að uppsettu afli 750 MW.  

Forstjórinn ætlar reyndar ekki að láta vindmyllur fylla alfarið upp í skarðið, heldur verða þær þá eitthvað færri, en í staðinn koma smávirkjanir. Þær þurfa þá ekki aðeins að framleiða upp í samning, þegar vindar blása og gefa fullt afl, heldur einnig, þegar lygnt er, og fylla þá í skarð vindmyllnanna. Varla hefur téðum forstjóra þó komið til hugar að leita eftir virkjunarleyfi í bæjarlæknum hjá bændum landsins, en hann hefur e.t.v. í huga virkjanir 50-100 MW að stærð.  Sá er hængurinn á, að þar er um rennslisvirkjanir að ræða, nema hann ætli í meiri háttar rask með gerð fjölda miðlunarlóna, eitt fyrir hverja litla virkjun. 

Það er meiriháttar annmarki á bæði rennslisvirkjunum og vindmyllum.  Á hvorugri virkjanagerðinni er unnt að grundvalla samning um sölu á forgangsorku vegna slitrótts rekstrar, og það hefur komið fram, að öðru hafa Englendingar ekki hug á frá Íslandsstreng, enda dettur engum vitibornum manni í hug að leggja 1300 km sæstreng án þess að ætla að nýta hann til fullnustu.  Bilanir setja svo strik í reikninginn, eins og dæmin sanna.

Það rekur sig hvað á annars horn í málflutningi forstjóra Landsvirkjunar um sæstreng til Skotlands, og orkuöflunarhugmyndir hans fyrir strenginn ganga engan veginn upp.  Það er ekki nóg fyrir hann að segja, að talsmenn stóriðju hafi rétt á að setja fram gagnrýni sína.  Það er tímabært, að hann setji fram haldbæra röksemdafærslu, tæknilega, umhverfislega og viðskiptalega. Að íslenzk raforkufyrirtæki leggi í risafjárfestingar fyrir sölu um sæstreng, sem getur ekki borið sig án mikilla niðurgreiðslna úr brezka ríkissjóðnum, er algerlega fjarstæðukennd hugdetta.

Þá að grein Skúla Jóhannssonar, verkfræðings.  Hann hefur greinina þannig:

"Komið hafa fram upplýsingar um, að með aflaukningu í núverandi vatnsaflsvirkjunum væri hægt að auka orkugetu landskerfisins um samtals 840-960 GWh/ár.  Óhætt er að fullyrða, að stækkun Búrfellsvirkjunar er ekki hluti af þessu mati."

Hér á hann sennilega við ósundurliðaðar upplýsingar frá Landsvirkjun um 900 GWh/ár +/- 60 GWh/ár = 0,9 TWh/ár.  Þetta á sennilega að vera eitt af því, sem fyllir upp í 6,0 TWh/ár skarð í orkusölusamningi inn á sæstreng, en er það raunhæft ?: 

"230 MW uppsett afl í Kárahnjúkavirkjun II [til að  hindra yfirfall á Kárahnjúkastíflu í fossinn Hverfanda ofan í árfarveg Jöklu, Kárahnjúkavirkjun I er 690 MW - innsk. BJo] mundi auka orkugetu kerfisins um 50 GWh/ár.  Aukning á afli Kárahnjúkavirkjunar um 33 % eykur því orkugetu virkjunarinnar aðeins um 1 %. Nýtingartími uppsetts afls í stækkuninni verður aðeins 220 klst/ár og nýting á aflinu því aðeins um 2,5 %.  Hin lága nýting mundi örugglega leiða til þess, að stækkunin væri langt frá því að vera hagkvæm.  Ekki eru tök á að fara nánar út í þá sálma hér, enda þyrfti að hanna útfærslu á hinni nýju virkjun og reikna stofnkostnað."

Að óreyndu gætu menn haldið, að mestu mundi muna um aflaukningu Kárahnjúkavirkjunar, og það er sennilega rétt, en bæði er, að um hana munar sáralítið, og hún er svo dýr, að kostnaður við hverja unna orkueiningu verður svo hár, að valkosturinn er ósamkeppnishæfur.  Ekki verður því að óreyndu trúað, að sérfræðingar Landsvirkjunar og ráðgjafar hennar hafi ekki fyrir löngu gert sér grein fyrir þessu.  Samt hamrar forstjóri fyrirtækisins á því sem viðskiptaávinningi sæstrengsins, að hann geri kleift að bæta nýtingu þeirra orkulinda, sem þegar eru virkjaðar í landinu.  Þessa meinloku virðist hann hafa borið með sér inn í Landsvirkjun, nýgræðingur á orkusviði, og sennilega reynt að selja stjórn fyrirtækisins sæstrengshugmyndina út á þessa vitleysu.  Það er löngu kominn tími til, að stjórn fyrirtækisins ásamt ráðherrum ríkisstjórnarinnar, iðnaðar-, ferðamála- og nýsköpunar og fjármála- og efnahagsráðherra, sem fer með hlut ríkisins í fyrirtækinu, kveði skýrt upp úr um afstöðu sína til þessa máls.  Málið hefur allt of lengi valdið óþarfa misklíð í þjóðfélaginu og óvissu um, hvert yfirvöld stefna með íslenzkar orkulindir.

"Hugmyndir um Kárahnjúkavirkjun II geta enn þá varla talizt meira en létt hjal.  Niðurstöðurnar hér að framan benda eindregið til þess, að borin von sé að koma þarna upp hagkvæmum virkjunarkosti.

Aukning á uppsettu afli í öðrum vatnsaflsvirkjunum skilar sáralítilli aukningu í orkugetu fyrir hina hefðbundnu markaði, sem eru í gangi allt árið. Hér er átt við Sogsvirkjanir, Sultartangavirkjun, Búðarhálsvirkjun, Hrauneyjafossvirkjun, Sigölduvirkjun, Vatnsfellsvirkjun og Blönduvirkjun.

Sæmileg stækkun á afli hverrar virkjunar fyrir sig mun leiða til aukningar í orkugetu kerfisins á bilinu 0-10 GWh/ár, í flestum tilvikum nær núllinu.  Það vantar vatn til að knýja viðbótaraflið, þegar þess er þörf.  

Eins og vikið hefur verið að í greininni, er fjarstæða að halda því fram, að hægt sé að fá aukningu í orkugetu upp á 840-960 GWh/ár með aflaukningu í núverandi vatnsaflsvirkjunum.

Engu að síður hefur þessi orka verið í boði bæði fyrir orkuskipti á bílaflota og í fiskimjölsverksmiðjum og fyrir sæstreng til Bretlands.

Er ekki þarna verið tvíbjóða einhverja orku, sem því miður er bara ekki til ?"

Það er með ólíkindum, að þessi umræða skuli vera uppi.  Það er vel rökstutt, að talsmaður Landsvirkjunar fer með fleipur eitt og hefur með óvönduðum málatilbúnaði tekizt að rugla umræðuna um hinn mikilvæga málaflokk, orkumál.  Það er brýnt, að stjórnvöld rétti kúrsinn af, komist út úr þoku sæstrengsumræðunnar og móti landinu orkustefnu til langs tíma, sem setji orkuskipti á oddinn og innlenda notendur, fjölskyldur og fyrirtæki hérlendis, í forgang.  Það hefur verið sýnt fram á, t.d. á þessu vefsetri, að vegna verndunarsjónarmiða og umhverfisverndar verða orkulindirnar ekki til skiptanna á milli innanlandsnotkunar og orkuútflutnings um sæstreng, nema til Færeyja, ef Færeyingar telja sér hag í að kaupa raforku á því verði héðan, sem spannar kostnað allra mannvirkjanna að sæstreng meðtöldum.  Það er hins vegar líklegt, að hagkvæmara verði fyrir þá að setja upp lítil þóríum-kjarnorkuver á eyjunum á næsta áratugi.  

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband