Færsluflokkur: Vísindi og fræði
25.9.2013 | 21:07
"Hvenær drepur maður mann ?"
Fyrirsögnin er að forminu til lokuð spurning samkvæmt hugarheimi stjórnunarfræðinga, en í eðli sínu er hún galopin og hefur enn ekki verið svarað til hlítar, þó að dómstólar hafi að sínu leyti orðið að taka afstöðu til spurningarinnar í afmörkuðum tilvikum, ein og t.d. í máli Jóns Hreggviðssonar þrátt fyrir óljós málsatvik a.m.k. í þeim búningi, sem Halldór Laxness kaus að búa þeim. Skáldið tók ekki skýra afstöðu til málsins, en það varð hins vegar yrkisefni þess.
Þegar að íslenzka sjúkrakerfinu kemur, þarf nú að fara að svara knýjandi spurningum um, hvort hefja eigi dýrar meðferðir á sjúklingum eða halda slíkum meðferðum áfram, þegar litlar sem engar batalíkur eru fyrir hendi, eða lífsviljinn er horfinn. Líknardauða þarf að móta skýrar reglur um og draga þar dám af því, sem mönnum lízt skárst á í nágrannalöndunum.
Mikið gjörningaveður hefur staðið um sjúkrakerfið á Íslandi undanfarin misseri, en að hafa orðið heilbrigðiskerfi um það eru öfugmæli, því að fátt virðist heilbrigt við það þessa dagana. Upplýsingar um, að einn af hverjum 11, sem lagðir eru inn á Landspítala, veikist enn verr þar eða deyi af völdum undirmálsmeðferðar á sjúkrahúsinu, eru ekki uppörvandi. Þetta er þó svipað hlutfall og víða erlendis, en virðist samt óeðlilega hátt í okkar umhverfi. Upplýsingar um, að fæstir læknanema vilji leita eftir starfi á Landspítala, eru ógnvekjandi. Erum við að mennta lækna fyrir útlönd að mestum hluta ? Miðstýrt einokunarkerfi er komið á leiðarenda.
Læknar Landspítalans hafa gengið fram fyrir skjöldu og lýst slæmum aðbúnaði, vinnuaðstöðu, húsnæði og tækjabúnaði ásamt ömurlegum vinnuanda. Þetta hafi nú þegar leitt til dauðsfalla. Hér er um gríðarlega öflugan þrýstihóp að ræða, sem verður að gæta að sér og sóma sinnar stéttar, þó að hann hafi auðvitað fulla heimild til að gagnrýna vinnustað sinn og lýsa áhættunni, sem bíður fólks, sem neyðist til að nýta sér þjónustu þeirra.
Stéttir sjúkrageirans láta jafnan sem dauðinn sé hið versta, sem fyrir fólk geti komið, og ausa beri úr ríkissjóði í hina botnlausu hít hins miðstýrða sjúkrakerfis til að forðast dauðann í lengstu lög. Þetta er ekki lengur réttmætt sjónarmið, þó að það sé í anda Hippokratesar. Kominn er tími til að endurskoða Hippokrates, þó að hann eigi ekki að afskrifa. Nú er tæknistig sjúkrageirans komið á slíkt stig, að umræða á grundvelli Hippokratesar á kostnað skattborgaranna á ekki við lengur, heldur verður jafnan að bera saman kostnað meðferðarúrræða og líklegan árangur fyrir sjúklinginn á formi lífsgæða og ætlaðrar ævilengingar. Þetta er kaldranalegt, en gamla aðferðin hefur leitt kerfið í kostnaðarlegar ógöngur, og það er vafasamt frá siðferðilegu sjónarmiði, hvort beiting hátækni og rándýrra lyfja er verjanleg, nema líkur á "verulega bættu ástandi í a.m.k. eitt ár séu meiri en 40 %". Þetta er erfið umræða, og það, sem er í gæsalöppunum, orkar tvímælis og þarfnast nákvæmra skilgreininga og mats.
Gamla umræðan á grunni Hippokratesareiðsins getur hins vegar ekki leitt til úrlausna á vanda skattborgara, sem verða að standa undir hrikalegu bákni, sem gríðarleg ásókn er í vegna þess, að fólk hefur ekki tekið ábyrgð á heilsufari sínu, ýmsar peningamaskínur hafa komið ár sinni rækilega fyrir borð í kerfi, þar sem fé án hirðis stendur straum af öllu saman, og sjúklingarnir, viðskiptavinirnir, fá ekki einu sinni að vita um allan kostnaðinn.
Úrlausn á djúpstæðum vanda veitenda, þiggjenda og greiðenda þjónustunnar er, að í stað eins miðstýrðs kerfis verði tvö kerfi hér, þar sem annað er einkarekið og hitt fjármagnað af hinu opinbera, svo að samkeppni um þjónustu og um starfsfólk geti hafizt. Þetta mundi létta á hinu opinbera, og þessir tveir geirar gætu átt samstarf um verkaskiptingu á formi verktöku á sérhæfðum sviðum. Það er ekkert á móti því, að þeir, sem keypt hafa sér einhvers konar "heilsutryggingar" eða vilja og geta fjármagnað meðferðir úr eigin vasa, fái til þess tækifæri. Það mundi aðeins lyfta launum og gæðum starfseminnar á opinberum stofnunum. Slíkt þykir sjálfsagt víðast hvar í Evrópu, svo að ekki sé nú minnzt á fjarlægari sveitir, en hér umturnast ýmsir, þegar á slíkt er minnzt, þó að ríkiseinokunin leiði augljóslega til upplausnar sjúkrakerfisins.
Vinstri mönnum hefur með málflutningi sínum um nauðsyn þess að forðast mismunun tekizt í valdatíð síðustu ríkisstjórnar og furðuverka hennar á sviði miðstýringar og "niðurskurðar" tekizt að draga sjúkrakerfið niður í svaðið, eins og allrar einokaðrar og miðstýrðrar starfsemi bíður reyndar.
Það verður að fara fram vitræn umræða um það, að gefnu þessu tilefni læknanna, hvort nokkur glóra sé í að framlengja tilveru, sem er þjáningarfull og án nokkurrar lífshamingju. Þó verður að taka fram, að dauðsföll vegna læknamistaka er erfitt að sætta sig við, en komið hefur fram, að 1/11 þeirra, sem fara á sjúkrahús, fara þaðan í verra ástandi vegna læknamistaka og jafnvel með tærnar upp í loft, eins og einn læknirinn orðaði það svo smekklega. Þetta verður að bæta, ef satt er um íslenzka sjúkrakerfið.
Megnið af kostnaði kerfisins fer í að framlengja útbrunna tilveru með vísindalegum aðferðum og tæknibrellum, sem minna á aðferðir við að halda útslitinni vél gangandi. Hverjum öðrum en birgjunum er greiði gerður með þessu ?
Bent hefur verið á, að hrein sjúkdómavæðing er í gangi, þar sem engu er líkara en kerfið sé að leita sér að verkefnum. Upplýst hefur verið, að oft er þá hinn sjúkdómsvæddi meðhöndlaður allsendis að óþörfu og hlýtur fyrir vikið lakari heilsu og aukna vanlíðan vegna meðferðarinnar og aukaverkana hennar. Ekki má sleppa tímasóuninni, sem sjúkdómavæðingin hefur í för með sér með alls konar rannsóknir við leit að sjúkdómi, þar sem engin einkenni eru fyrir hendi. Hver græðir á þessu umstangi öllu ?
Þar má nú ekki gleyma lyfjaiðnaðinum, aðalbirgi þessa kerfis, sem vaxið hefur ískyggilega. Íslendingar eru mestu lyfjaætur í heimi, og verður að skrifa þá óráðsíu að töluverðu leyti á læknastéttina, sem ekki hefur haft bein í nefinu, auðvitað með heiðarlegum undantekningum, til að standa í ístaðinu gegn ásókn í lyfin. Meintir sjúklingar kæra jafnvel heiðarlega og góða lækna fyrir að verða ekki við frekjulegum kröfum um lyf. Þá reynir á Landlækni.
Landlæknisembættið er ein þessara eftirlitsstofnana, sem virðist dansa með og vera til lítils gagns oft á tíðum. Sum mál og afskipti þess koma kynlega fyrir sjónir, t.d. brjóstapúðamálið, sem var með ólíkindum.
Aukaverkanir fyrsta lyfs eru stundum verri en fyrstu sjúkdómseinkennin. Þá er leitað á náðir annars lyfs og svo koll af kolli. Lyfjaskammtur margra eldri borgara er hrollvekjandi. Það er eins og litið sé á líkamann og jafnvel sálina (geðlyf) sem einhvers konar vél, sem hægt sé að dytta að með fúski af því tagi að henda í hann (eða hana) verksmiðjuframleiddum óþverra af ólíklegasta tagi. Líkaminn er ekki gerður fyrir slíka meðferð og lamast eða gefst upp. Ekki er hægt að lá þeim, sem dettur svikamylla í hug í þessu sambandi.
Lausnin er fólgin í því, að fólk taki að hugsa meir um það, sem er því sjálfu fyrir beztu, heilsufarslega, en ofgeri ekki líkama og sál herfilega með heimskulegu líferni og kasti svo ábyrgðinni á lækninn sinn, sem á að skrifa upp á "reseptið" fyrir það til að draga úr sjúkdómseinkennunum.
E.t.v. má þakka þessu ömurlega ástandi sjúkrageirans, að vakning virðist vera á meðal almennings um mikilvægi heilsueflingar með bættu líferni, matarræði og hreyfingu. "Heilsubók Jóhönnu" - matur, lífsstíll, sjúkdómar", sem Veröld hefur nýgefið út, er dæmi um þetta. Umfjöllunarefnið þar er: "hvernig getur þú aukið heilbrigði þitt, fyrirbyggt sjúkdóma, öðlast meiri orku og jafnvel dregið úr hraða öldrunar ?" Þetta er sannkölluð sjálfshjálparbók, og er tímanum ólíkt betur varið við lestur hennar en að hanga á biðstofum lækna, sem stundum með fljótaskrift setja kíkinn fyrir blinda augað og skrifa út lyfseðil. Jóhanna Vilhjálmsdóttir á mikinn heiður skilinn fyrir framtak sitt og svo er um marga aðra, sem eru lifandi fyrirmyndir almennings um heilbrigt líferni og gott heilsufar, sem slíkur ábyrgur lífsstíll hefur í för með sér. Slíkt fólk þarf ekkert á læknum að halda, nema það verði fyrir ytri áföllum, slysum o.þ.h. og deyr drottni sínum, þegar þess tími kemur. Það er ekki hið versta, sem fyrir aldraðan mann eða konu getur komið, og engin ástæða til að forðast slíkt í lengstu lög með því að treina lífið með hátækni, eins og sjúkrakerfið virðist snúast um á köflum.
Mikil umræða hefur spunnizt um nýbyggingar Landspítalans. Hún er því miður á algerum villigötum, því að aðferðarfræðin, sem beitt er við þetta verkefni, er kolröng. Arkitektar og skipulagsfræðingar virðast hafa tekið frumkvæðið, eins og aðalatriðið séu byggingarnar sjálfar. Hér þarf hins vegar allt að koma í réttri röð, ef vel á til að takast. Að mati höfundar þessa pistils á skipulagninguna að miða við það, að Landspítalinn verði fyrsta flokks háskólasjúkrahús. Þar munu þá erfiðustu greiningarnar og flóknustu aðgerðirnar fara fram auk sérhæfðustu meðferðanna. Hönnun þarf að miða við að skapa góða aðstöðu til verklegrar þjálfunar lækningastéttanna. Þetta þýðir, að allar hefðbundnar greiningar, meðferðir og aðgerðir eiga að fara annars staðar fram.
Á þessum grundvelli þarf að ákvarða verkferla og tengingu þeirra með flæðiriti. Erlendir sérfræðingar með reynslu í hönnun háskólasjúkrahúsa ættu að gera drög og starfsfólk Landspítalans að rýna flæðiritið og eiga lokaorðið um það. Að þessu loknu þarf að ákvarða afkastaþörf hvers undirferlis árið 2040. Þá tæki við verkfræðilegt mat á því, hvort hagkvæmara er að halda við og/eða breyta núverandi húsnæði fyrir hvert verkferli eða reisa nýja, léttbyggða einingu, sem auðvelt er að breyta og aðlaga nýrri tækni. Að þessu loknu er verkþáttum forgangsraðað og gerð áætlun um verkframvindu og fjármögnun. Fyrst á þessu stigi er tímabært að ráða arkitekt að verkinu, því að hér er aðallega um að ræða samstarfsverkefni lækningastétta og tæknistétta, ef vel á að vera.
Læknakórinn í fjölmiðlum hefur verið fremur eintóna, þangað til í Fréttablaðinu 14. september 2013, að kveður við nýjan tón. Þar skrifar Benedikt Ó. Sveinsson, læknir og sjálfstætt starfandi sérfræðingur í kvenlækningum, greinina: "Er fákeppni að sliga Landspítalann ?" Hann skrifar m.a. um þann tíma fyrir 40 árum, þegar hann var að læra læknisfræði:
"Þá ríkti gullöld í íslenzku heilbrigðiskerfi. Borgarspítalinn, nýbyggður, vel búinn tækjum og baráttufólki með eldmóð í æðum að koma á fót nýjum spítala, sem yrði betri en hinir spítalarnir. Landakot og St. Jósefsspítalinn í Hafnarfirði reknir af hugsjón nunnanna með afkastahvetjandi launakerfi fyrir læknana. Landspítalinn, hinn eiginlegi háskólaspítali, með flesta háskólakennarana í læknisfræði, þar sem auk lækninga voru stundaðar rannsóknir og kennsla í miklum mæli, og Vífilsstaðaspítali, þar sem starfsfólk bjó yfir áratuga reynslu af meðferð lungnasjúkdóma. Að ógleymdu Fæðingarheimili Reykjavíkur, þar sem heilbrigðar, ófrískar konur, gátu fætt börn sín á sem eðlilegastan hátt, en þó undir öruggu eftirliti reynds starfsfólks."
Læknirinn lýsir hér að ofan gjörólíku vinnuumhverfi sjúkrageirans á höfuðborgarsvæðinu því, sem nú er við lýði. Miðstýringarárátta ráðuneytisbúrókrata, þingmanna og ráðherra, hefur leitt til mikils ófarnaðar og farvegs fyrir stöðnun vinnuveitandans og djúprar óánægju starfsfólks, sem á vart í önnur hús að venda en erlenda grund. Hér er á ferðinni geipileg sóun mannauðs á kostnað íslenzkra skattborgara, sem standa undir Háskóla Íslands og þar með læknadeildinni, en 2/3 afsprengjanna flýja til útlanda eða koma ekki heim eftir sérnámið. Halda menn, að þetta breytist með nýju, miðstýrðu gímaldi ? Nei, það verður að leita nýrra leiða, eins og hér hefur verið bent á.
Húsbyggingarmál Landspítalans eru í öngstræti. Það liggur í augum uppi, að glórulaust er að hefja byggingarframkvæmdir við núverandi aðstæður. Landið hefur ekki efni á því. Það verður að heyja varnarbaráttu, sem fólgin er í viðhaldi núverandi húsnæðis, eins og hagkvæmt má telja samkvæmt verkfræðilegu mati, tækjavæðingu og afkastahvetjandi launakerfi, sem bætt getur hag launþega og vinnuveitenda. Óþarfi er að finna upp hjólið varðandi nýbyggingu, eins og sumir stjórnmálamenn virðast telja þörf á.
Það er t.d. hægt að flytja inn léttar byggingareiningar húsnæðis, sem hannað er fyrir núverandi tæknistig sjúkrahúsa og sem auðvelt er að breyta og aðlaga tækniþróuninni í sjúkrageiranum. Það er óþarfi að hafa hjörð arkitakta á jötu við hönnun á húsnæði, sem krefst mikillar sérþekkingar á starfseminni, sem fara á fram þar. Sú sérþekking er eðlilega ekki fyrir hendi hérlendis.
Í lok merkrar greinar sinnar skrifar hinn reyndi læknir:
"Það er kominn tími til, að við horfumst í augu við það, að sameiningar í heilbrigðiskerfinu hafa ekki sparað okkur peninga, heldur skapað það ófremdarástand atgervisflótta og vantrausts, sem við búum við í dag."
Hér kveður við nýjan tón úr ranni læknastéttarinnar á opinberum vettvangi, en pistilhöfundur þykist þess fullviss, að greinarhöfundurinn er síður en svo einn á báti um þessa skoðun sína. Við leikmanni blasir, að ályktun læknisins, sem vitnað er til hér að ofan, er laukrétt.
Téður læknir er hins vegar í hlutverki barnsins í ævintýrinu um keisarann, sem hafði unun af að sýna sig sífellt í nýjum klæðnaði og heimtaði að lokum svo fínofinn búning, að klæðskerinn sá sitt óvænna og blekkti hinn hégómlega keisara með því, að "enginn þráður" væri í raun fínast ofna hýjalínið í ríkinu. "Keisarinn er ekki í neinu", hrópaði barnið, og þar með var flett ofan af heimsku keisarans.
Miðstýrt sjúkrakerfi ber dauðann í sér. Það er kerfisvandinn, sem við er að glíma. Einokunarsinnarnir hafa næstum gengið af kerfinu dauðu, og nú höktir það áfram. Áhöfnin flýr hið sökkvandi skip. Stýri sjúkrakerfisins er laskað, eins og á gamla Bismarck, og þar með eru örlög risaskipsins ráðin. Skipstjórinn, hinn nýi heilbrigðisráðherra, hefur ýjað að því, að hann skilji, hvað þarf að gera til að fá stýrið í lag. Hann hefur ekki útskýrt aðferðina, þó að hann hafi viðrað aðferðarfræðina. Hvort hann hefur krafta til framkvæmda á eftir að koma í ljós. Ef hann ekki reynir til hins ýtrasta, verður skipinu sökkt. Með góðri tilraun má vonandi sigla skipinu í var.
Það verður að hverfa af braut miðstýringar og einokunar. Hann (téður skipstjóri, sem er reyndar stýrimaður að mennt) getur leyft einkaaðilum að taka í gagnið skurðstofur, sem nú standa ónotaðar, t.d. í hinni yfirgefnu herstöð á Miðnesheiði, þar sem áhugi var á slíku. Hann getur líka boðið út ákveðna starfsemi í húsnæði ríkisins, sem nú er ríkisrekin, þar sem ríkið mundi greiða umsamið einingarverð á aðgerð. Það eru fjölmargar leiðir færar til að brjóta upp miðstýringuna og hleypa fersku blóði inn í starfsemi, sem er að lognast út af vegna atgervisflótta. Markmiðið á að setja hátt og til þess að ná slíkum markmiðum þarf að laða hæfileikafólkið heim.
12.9.2013 | 18:52
Áhrifamáttur tækniþróunar
Sagnfræðinga greinir á um helztu áhrifavalda s.k. sögulegrar þróunar. Margir þeirra einblína á hlut stjórnmálamanna og herforingja, en þegar betur er að gáð, ræður tækniþróun mannkyns mestu um framvindu sögunnar. Hraðari tækniþróun einnar þjóðar en annarra hefur gefið henni ákveðið forskot í sögunni og stjórnmálamönnum og herforingjum hennar kost á að notfæra sér forskotið. Stjórnmálamenn og herforingjar hafa vissulega hafa misgott auga fyrir hagnýtingu tækniþróunarinnar, eins og dæmin sanna, og afburðamenn í þessum hópum hafa í kjölfarið komizt á spjöld sögunnar.
Hægt er að tína til mýmörg dæmi þessu til stuðnings, en frægir eru atburðir úr seinni heimsstyrjöldinni, þar sem mismunandi viðhorf til máttar tækninnar og tækninýjunga á sviði vígtóla leiddu til þess, að Frakkland féll í hendur Þjóðverjum á innan við tveimur vikum frá innrás Wehrmacht, og brezki landherinn var lagður að velli með leiftursókn véladeilda þýzka hersins. Það var að vísu slakað á klónni gagnvart brezka hernum, svo að honum tókst að forða sér frá Dunkerque yfir Ermasund án vopnabúnaðar. Öðru máli gegndi hins vegar með brezka flugherinn og loftvarnir Bretlands, eins og kom í ljós síðsumars 1940, en þar bjargaði ný uppfinning, radarinn, og bardagahæfni orrustuvéla Bretlandi og breyttu gangi styrjaldarinnar. Bretar stóðu síðar í styrjöldinni berskjaldaðir gagnvart eldflaugum og þrýstiloftsflugvélum Þjóðverja, þó að yfirburðir bandamanna í lofti gerði Bretum að vísu kleift að eyðileggja marga skotpalla og lama rannsóknarstöðina í Penemünde.
Skemmtilegt dæmi um frábæra hugmynd, sem gjörbreytti flutningum á láði, legi og í lofti, á 20. öldinni, er flutningagámurinn. Nýjar rannsóknir sýna, að gámavæðing flutninganna hefur aukið meir heimsviðskiptin en allir viðskiptasamningar undanfarin 50 ár. Það var vegna gríðarlegrar framleiðniaukningar flutningafyrirtækjanna. Skilaði sú kostnaðarlækkun sér í vasa almennings á Íslandi, eða er borð fyrir báru til lækkunar á einingarkostnaði flutninga ? Marga grunar, að svo sé, og nú virðist Samkeppnisstofnun hafa fengið pata af því, að maðkur sé í mysunni.
Á 6. áratug 20. aldar fóru flutningar fram í grundvallar atriðum, eins og þeir höfðu gert um aldaraðir. Sægur verkamanna sá um fermingu og affermingu, og skipin voru lengur bundin við bryggju en á siglingu. Hafnarverkamenn voru sagðir fá 20 USD eða 2400 kr á dag, og eins mikið viskí og þeir gátu borið heim, þannig að talsverð vörurýrnun átti sér stað.
Gámavæðingin umbylti flutningum hvarvetna, stórjók framleiðnina við flutninga og lækkaði þar með kostnaðinn á hvern tonnkm. Það var Bandaríkjamaðurinn Malcom McLean, flutningabílaeigandi, sem átti hugmyndina og hrinti henni í framkvæmd, þegar hann áttaði sig á hagræðinu af því að pakka vörum inn í staðlaða gáma.
Tilraun hans árið 1956 með fyrstu gámana um borð í venjulegum skipum sýndi kostnað 0,16 USD/t í samanburði við 5,83 USD/t í hefðbundnum flutningi, þ.e.a.s. kostnaður við nýja flutningsmátann nam aðeins 2,7 % af kostnaði við hefðbundna flutninga. Gámaflutningar ruddu sér þess vegna hratt til rúms, og höfnum var að sama skapi breytt í gámahafnir. Á tímabilinu 1966-1983 jókst fjöldi gámahafna úr 1 % af heildarfjölda hafna í 90 %.
Árið 1965 námu heimsviðskiptin um 2 trilljónum USD (trilljón = þúsund milljarðar). Um þessar mundir, árið 2013, nema heimsviðskiptin um 20 trilljónum USD, þ.e. þau hafa tífaldazt á um hálfri öld. Á tímabilinu hafa verið gerðir fjölmargir viðskiptasamningar, sem stutt hafa við þessa þróun, en rannsóknir sýna, að gámavæðingin var undirstaða þessarar miklu aukningar milliríkjaviðskipta.
Það er óhætt að alhæfa og fullyrða, að tæknilegar uppgötvanir og hagnýting nýrra hugmynda og tækniþróunar stjórni vegferð mannkynsins til bættra lífskjara miklu fremur en ákvarðanir stjórnmálamanna eða gjörðir herforingja, hvað þá starfsemi verkalýðsfélaga. Í lýðræðisþjóðfélögum verða tækniframfarir óhjákvæmilega alltaf almenningi til hagsbóta fyrr eða síðar án atbeina verkalýðsfélaga, sem hins vegar allt of oft knýja fram launahækkanir umfram framleiðniaukningu fyrirtækjanna. Slíkt athæfi kemur launþegum undantekningarlaust í koll.
Sigursæll herforingi hefur t.d. oftast stuðzt við einhverja tækninýjung, sem hefur komið andstæðinginum á óvart, en auðvitað einnig beitt nýju herskipulagi til að nýta nýja tækni. Góðir stjórnmálamenn búa í haginn fyrir og skapa hvata til tækniframfara. Þeir eða eftirmenn þeirra uppskera hagvöxt og öflugri skattstofn fyrir vikið.
Til að sýna byltingarkennd áhrif þessarar einföldu hugmyndar um gámaflutninga er birt eftirfarandi tafla:
Atriði: 1956 1970
- Hafnaframleiðni, t/klst: 1,7 30
- Meðalskipastærð tonn: 8,4 20
- Fjöldi uppskipunarhafna í Evrópu:11 3
- Tryggingakostnaður GBP/t 0,24 0,04
- Verðmæti vara í flutn., GBP/t 2 1
Það er stórkostlegt, hversu gríðarleg hagræðingaráhrif nýjar og auðframkvæmanlegar hugmyndir geta haft. Íslendingar eru mjög háðir flutningum, og flutningsgjald er umtalsverður hluti vöruverðs á Íslandi, e.t.v. hærra hlutfall en víðast hvar. Það á sínar skýringar í langri vegalengd og litlu magni, en ætli áhrif gámavæðingarinnar á flutningskostnað til Íslands og á Íslandi hafi verið metin ? Þrátt fyrir eldsneytishækkanir og launahækkanir mætti ætla, að flutningskostnaður per tonn eftir gámavæðingu sé innan við fjórðungur af flutningskostnaði per tonn fyrir gámavæðingu að raunvirði. Er slíkt raunin ?
Ef raunvirðislækkun verður á eldsneyti hérlendis, eins og þegar hefur orðið í Bandaríkjunum vegna gasvæðingarinnar, mun flutningskostnaður enn lækka. Það er mikilvægt fyrir samkeppnihæfni landsins og hag landsmanna að auka enn framleiðni flutningastarfseminnar og að lækka kostnaðinn á hvert flutt tonn að og frá landinu.
21.8.2013 | 12:07
Hnignandi olíuveldi
Orkumál heimsins eru nú í deiglunni, og þróun orkumála mun senn breyta valdahlutföllum í heiminum. Vesturlönd eru að losna úr klóm OPEC-ríkjanna við Persaflóann og víðar. Olíuútflutningslönd sjá sína sæng út breidda, nema þau söðli strax um og efli samkeppnihæfni sína á öðrum sviðum án tilstyrks olíufjár.
Veruleg raunverðlækkun eldsneytis er í vændum, og sú staða hefur að sjálfsögðu áhrif á þjóðarbúskap Íslendinga. Verðlækkun á mörkuðum gæti numið 40 % innan 5 ára m.v. meðalverð árið 2012, sem svarar til gjaldeyrissparnaðar upp á MUSD 738 x 0,4 = MUSD 295 eða miaISK 35 (35 milljarðar kr) m.v. árið 2012. Hér ræðir um orkubyltingu.
Íslenzkar orkulindir munu halda raunverulegu verðgildi sínu, af því að þær eru taldar vera endurnýjanlegar, virkjanir afturkræfar og án mengunar, þ.e. sjálfbærar, þó að það orki tvímælis. Það verður áfram hægt að gera langtímasamninga með verulegri kaupskyldu, háum nýtingartíma og aflstuðli, við stórnotendur raforku á Íslandi á verði, sem dugar til að greiða niður öll virkjana-, aðveitustöðva- og línumannvirki á 20-25 árum, en tæknilegur endingartími þessara mannvirkja er 40-100 ár eftir því, hvað um ræðir.
Það er líklegt, að orkusæknir notendur vilji á næstu 10 árum skuldbinda sig til kaupa á slíkri sjálfbærri raforku á verði á bilinu 30 USD/MWh - 40 USD/MWh, og það nægir eigendum vatnsaflsvirkjana til arðsamra viðskipta, en meiri áhöld eru um jarðvarmavirkjanir. Slíkar virkjanir henta ekki stóriðjuálagi vegna smæðar og nauðsynlegrar áfangskiptingar, og raforkuvinnsla ein og sér í jarðvarmavirkjunum er í raun óverjandi vegna lágrar orkunýtni (undir 15 %). Þar verður jafnframt að fara fram vinnsla á heitu vatni, og þá þarf að skilja skilmerkilega að kostnað þessara vinnsluþátta vegna samkeppnisjónarmiða. Orkunýtnin fer þá yfir 50 %, en í vatnsaflsvirkjunum er hún yfir 90 %. Þá ber að hafa í huga, að ýmis tækniatriði jarðvarmaorkuvera hefur verið hlaupið yfir á hundavaði, og alvarleg mengunarvandamál eru enn óleyst.
Vinnsla á olíu sem eldsneyti hófst árið 1859 í Bandaríkjunum (BNA). Fyrstu tunnurnar kostuðu þá USD 18, þ.e. USD 450 að núvirði. Skömmu síðar var frumgerð sprengihreyfilsins hönnuð, og þá komst skriður á olíuvinnsluna vegna aukinnar eftirspurnar, en eldneytisverðið lækkaði hins vegar hratt með aukinni umsetningu og tækniframförum við leit og vinnslu.
60 % unninnar eldsneytisolíu endar í tönkum ökutækja nú um stundir. Vegna væntanlegrar gríðarlegrar fjölgunar ökutækja í heiminum, t.d. í Kína og á Indlandi, reiknar brezka BP með aukinni eftirspurn alls á markaðinum úr 89 Mtu/d árið 2013 í 104 Mtu/d árið 2030 (Mtu/d:milljónir tunna á sólarhring). Af ýmsum ástæðum væri óæskilegt, að þessi spá gengi eftir, og svo mun vart verða af ástæðum, sem nú verða tíundaðar:
Tvennar tækniframfarir munu að líkindum gera þessa spá að engu, og líklegra, að eftirspurnin hafi þegar náð hámarki. Fyrri framfarirnar eru fólgnar í uppgötvun Texasbúans George Mitchell á setsundrun (fracking) til að vinna jarðgas úr djúpseti, en aðstæður eru til slíks víða á jörðunni. Sundrun setlaga, sem sumir nefna bergbrot eða leirsteinsbrot, og fjölbreytilegar endurbætur við hefðbundna vinnslu gass, hafa lengt endingartíma þekkts gasforða á jörðunni úr hálfri öld í tvær aldir, þ.e. nýja tæknin hefur haft í för með sér fjórföldun þekkts forða. Gas á vökvaformi (kælt og undir þrýstingi) knýr nú þegar vörubíla, strætisvagna og rútur og sendibíla sums staðar. Gas getur líka leyst olíu af hólmi í skipum, virkjunum og við staðbundna húsahitun og hitaveitur. Þar með mun olíuþörfin til fartækja hvers konar verða um 4 Mtu/d minni en ella árið 2020, þ.e. um 8 % olíusparnaður m.v. núverandi notkun fartækja.
Áhugavert er fyrir íslenzkar útgerðir að kynna sér hagkvæmustu leiðina að þessu marki og að gera hagkvæmniathugun, þó að gasvinnsla á Íslandi eða á íslenzku landgrunni verði tæpast nokkurn tíma arðbær. Varðandi nýlegar vélar er rétt að hafa í huga, að olíuverðið mun lækka, en við vélaendurnýjun og í nýjum skipum kann að vera hagkvæmara að miða þegar við gaseldsneyti. Auðvitað verður jafnframt að huga að örygginu, þegar rannsókn er gerð á arðsemi gassins, eins og hrikalegar gassprengingar nýlega eru áminning um.
Hinar tækniframfarirnar, sem ráða framvindu minni olíueftirspurnar, eru á sviði bílaframleiðslu, en eins og áður kom fram fara 60 % allrar olíu til að knýja bifreiðar. Hröð þróun vélahönnunar og bílskrokkshönnunar draga spón úr aski olíurisanna. Mest munar um bætta nýtni sprengihreyfilsins, bæði bensín- og dísilhreyfils, aðallega með bættri stýritækni. Til eldsneytissparnaðar horfir líka vaxandi notkun raf-, gas- eða vetnisknúinna bíla. Bílar hafa einnig orðið eðlisléttari með hverju árinu vegna aukinnar ál- og plastnotkunar á kostnað stáls, en einnig vegna nýrra stálmelma og þynnra stáls en áður.
Allt hefur þetta leitt til 2,5 % minni eldsneytisnotkunar per km á hverju ári undanfarin 10 ár, sem er gríðarlegt, og framhaldi á þeirri þróun næstu 20 árin er spáð, sem sparar eldsneytisnotkun um 4 Mtu/d árið 2020 og gerir þannig meir en að vega upp á móti bílafjölguninni.
Þetta er stórkostlegur árangur tækninnar til að draga úr umhverfisvá og til að leggja sitt lóð á vogarskálarnar við að draga úr rekstrarkostnaði og þar með að bæta lífskjörin.
Framleiðni bílaiðnaðarins vex líka stöðugt, og eldneytissparnaður vegna tækniþróunar á öðrum sviðum er talinn munu nema 3 Mtu/d árið 2020.
Alls er þetta olíusparnaður upp á 11 Mtu/d árið 2020 eða um 12 % m.v. núverandi heildarolíunotkun, þrátt fyrir mikla lífskjarabót almennings í Kína, Indlandi, Brazilíu og víðar, sem búizt er við. Þetta mun vega upp á móti aukningunni, sem spáð var, svo að fyrst um sinn mun eftirspurnin sennilega standa í stað við um 90 Mtu/d (milljón tunnur á sólarhring).
Ef notkun Íslendinga á olíuvörum minnkar hlutfallslega jafnmikið og hér hefur verið rakið, verður hún ekki 984 kt árið 2020, eins og að óbreyttu mætti búast við, heldur 884 kt. Í staðinn mun koma nokkur aukinn gasinnflutningur árið 2020, en gjaldeyrissparnað vegna eldsneytisinnflutnings má áætla um 50 % m.v. núverandi verðlag eða a.m.k. MUSD 400, sem jafngildir u.þ.b. ISK 50 mia, aðallega vegna lækkunar eldsneytisverðs á markaði. Þetta eru svo háar tölur, að ljóst er, að þessi þróun hefur veruleg þjóðhagsáhrif til hins betra, sem vonandi mun auka stöðugleika íslenzka hagkerfisins, enda aukast þá líkur á jákvæðum viðskiptajöfnuði við útlönd, sem er eitt af skilyrðum nauðsynlegs efnahagsstöðugleika.
Af öllu þessu má einnig ráða, að vinnsla olíu eða gass norður af Íslandi er fjárhagslega vonlaus, af því að hún kostar a.m.k. 100 USD/tu með núverandi tækni. Jafnframt steindrepur þessi jákvæða þróun alla draumóra um hagkvæmni aflsæstrengs frá Íslandi, því að raforkuverð mun lækka um þriðjung í Evrópu frá núverandi verði, þegar frá líður, ef svipuð þróun verður þar og í BNA. Sæstrengsáform ganga ekki upp með olíuverði undir 140 USD/tu. Orku verður hins vegar áfram hagkvæmt að selja frá Íslandi á formi orkusækinna framleiðsluvara, t.d. áls. Vöxtur slíks útflutnings er nauðsynlegur fyrir vöxt hagkerfisins, sem er skilyrði fyrir jafnvægi í þjóðarbúskapinum, því að niðurskurði í opinberum rekstri, einkarekstri og einkaneyzlu, eru takmörk sett. Með því að ná jafnaðarhagvexti yfir 3,0 % á ári, og með hagsýni og stjórnvizku, mun stöðugleika hagkerfisins verða náð.
Þeim breytingum, sem hér hefur verið lýst, má jafna til nýrrar orkubyltingar. Hér er um heimsbyltingu að ræða. Bandaríkjamenn stóðu að olíubyltingunni árið 1859 og hafa verið leiðandi í heiminum í notkun hennar síðan. Mikil orkunotkun hefur verið undirstaða góðra lífskjara í BNA, og hagkerfi þeirra hefur verið eldsneytisknúið í meira mæli en flestra eða allra annarra.
Hálfri annarri öld síðar standa Bandaríkjamenn fyrir annarri orkubyltingu, gasbyltingunni, og eru komnir lengst allra í notkun eldsneytisgassins. Kanadamenn fylgja þó fast á hæla þeirra með setsundrunaraðferðinni í Alberta, olíuvinnslu úr tjörusandi þar og lagningu gríðarlegra gasleiðsla og olíuleiðsla suður fyrir landamærin og austur og vestur um Kanada. Einkaframtakið leiðir þessa þróun með hvötum frá hinu opinbera vestanhafs, og hefur þessi þróun örvað hagkerfi beggja ríkjanna og styrkt gjaldmiðla þeirra ásamt því að leiða til minnkandi losunar koltvíildis út í andrúmsloftið í Bandaríkjunum.
Í Evrópusambandinu er þessum málum skipað með allt öðrum hætti. Hvert ríki stundar miðstýringu orkumálanna, og setsundrunaraðferðin er þar ekkert komin áleiðis, e.t.v. vegna þess, að einkaeignarrétturinn nái ekki nógu langt undir yfirborðið. Þýzka orkustefnan getur endað með ósköpum fyrir þýzka hagkerfið, þó að Þjóðverjar nái fyrir vikið forskoti á vissum sviðum orkuvinnslu og orkunýtingar, og hefur enn sem komið er aðeins leitt til aukningar á losun koltvíildis út í andrúmsloftið frá Þýzkalandi og methækkunar á raforkuverði, sem hvergi í Evrópu er hærra en þar.
Gasbyltingin mun hafa áhrif á hagkerfi flestra landa, jafnvel allra. Áhrifin verða jákvæð á olíuinnflutningslönd, en neikvæð á olíuútflutningslönd. Neikvæðu áhrifin verða í sumum tilvikum mjög alvarleg. Prinsarnir í Sádi-Arabíu munu ekki lengur hafa ráð á friðkaupum við ungu kynslóðina, svo að "arabíska vorið" mun blossa upp í Sádi-Arabíu og verða illvígara en nokkurs staðar annars staðar, því að þarna eru þjóðfélagsandstæður og öfgar mestar.
Ef við lítum til austurs héðan, verða fyrir okkur tvær þjóðir, Norðmenn og Rússar, sem báðar munu verða hart leiknar af gasbyltingunni. Jafnvel kunna Putin og hans menn að missa völdin fyrir vikið, en auður af uppsprengdu verði á útfluttri olíu og gasi hefur verið hryggjarstykkið í völdum þeirra, og virðist óánægja og reiði grafa um sig á meðal Rússa vegna spillingar og skorts á lýðræði.
Norska ríkið hefur tekið gríðarlega áhættu með olíu- og gasvinnslu sinni á hafi úti, sem teygir sig æ lengra til norðurs í óþökk norskra sjómanna og útgerðarmanna. Norska ríkisfyrirtækið Statoil er umsvifamesti leikarinn á norska eldsneytissviðinu. Þá munu reglur vera þannig, að norski olíusjóðurinn fær hluta af ávinningi allra olíufélaganna á sviðinu og bætir þeim upp tap, ef það verður. Á móti leggur norska ríkið hátt vinnslugjald á olíufélögin, svo að vinnslukostnaður hráolíu með opinberum gjöldum getur orðið allt að 115 USD/tu, hærri en nokkurs staðar annars staðar. Nú horfa málin þannig, að markaðsverðið mun lækka langt niður fyrir kostnaðarverð olíuvinnslu á norsku hafsvæði. Með öðrum orðum mun verða tap á norskri olíu-og gasvinnslu innan skamms, sem mun skerða skatttekjur norska ríkissjóðsins og ganga á norska olíusjóðinn, sem tapaði stórfé í Hruninu 2008. Framtíðarhagsmunir norsku þjóðarinnar eru í uppnámi vegna afskipta og þátttöku norska ríkisins í norska eldsneytisævintýrinu.
Gengi norsku krónunnar er þegar tekið að gefa eftir, t.d. gagnvart sænsku krónunni, og það mun hrynja, norski ríkissjóðurinn verður rekinn með miklum halla og fjöldagjaldþrot verða í Noregi. Atvinnuþátttakan er nú lítil og fjórðungur fólks á vinnumarkaðsaldri er á bótum frá hinu opinbera. Framleiðslukostnaðarstigið er almennt hærra í Noregi en víðast hvar og framleiðnin er ekki sérlega há, þ.e.a.s. samkeppnihæfni fyrirtækja án ríkisstuðnings er frekar léleg. Olíuiðnaðurinn hefur spennt upp verðlagið, og skattar hafa verið háir, en á móti hafa komið alls kyns styrkir og uppbætur. Haft er á orði, að helmingur þjóðarinnar þiggi bætur frá hinu opinbera, en slíkt mun vera draumaveröld jafnaðarmannsins. Þó að þetta sé vafalaust orðum aukið, gefur það til kynna, að langvarandi óstjórn jafnaðarmanna hefur grafið undan undirstöðum norsks samfélags. Hagkerfið er á sterum, sem kostaðir eru af olíu- og gasvinnslunni. Hvað gerist, þegar sterarnir verða skyndilega ófáanlegir ? Þá hrynur líkaminn.
Norska þjóðfélagið lítur vel út á yfirborðinu, en þar er þjóðfélagsspenna, sem gæti brotizt út á ofbeldisfullan hátt. Í sumum hverfum í Ósló og bæjum Noregs eru Norðmenn komnir í minnihluta, og norska heyrist vart töluð í sumum skólum. Innflytjendur frá framandi menningarsvæðum eru mjög margir, og á meðal þeirra er útbreitt atvinnuleysi, enda skortir þá vestræna menntun og lifa mikið í eigin heimi, sem býður hættunni heim. Menningarleg aðlögun þeirra að norska samfélaginu hefur alls ekki tekizt, og það játa Norðmenn sjálfir, og eru sjálfsagt fleiri en ein ástæða fyrir því.
Það er hætt við, að gasbyltingin komi alveg sérlega hart niður á norsku þjóðinni, af því að eldsneytisiðnaðurinn er svo snar þáttur í norskum þjóðarbúskapi, og af því að kostnaður þar við vinnslu hverrar tunnu er líklega sá hæsti, sem um getur. Norðmenn tóku mikla áhættu, en geta úr þessu ekkert annað gert en að stöðva olíu- og gasleit og þróun nýrra vinnslusvæða. Ekkert slíkt virðist samt á döfinni, þrátt fyrir hörð mótmæli norskra sjómanna og útgerðarmanna við nýjum borunum í norðri. Sígandi lukka er bezt.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.7.2013 | 21:24
Sæstrengur í sjónpípu
Menn verða að gera upp hug sinn til eins grundvallaratriðis um aflsæstreng á milli Íslands og Skotlands áður en lengra verður haldið rannsóknum á fýsileika þessa fyrirbrigðis:
Viljum við nýta raforku frá íslenzkum virkjunum alfarið innanlands, eða viljum við reisa á Íslandi mannvirki til að vinna raforku og flytja hana til útlanda að uppfylltum ákveðnum skilyrðum ?
Höfundur þessa vefseturs er þeirrar skoðunar, að þau inngrip í náttúruna og breytingar á upphaflegu umhverfi, sem í sumum tilvikum vissulega má kalla fórnir, séu þá aðeins verjanleg, að ávinningurinn komi fram í styrkingu innviðanna á Íslandi, t.d. iðnvæðingu, með allri þjónustunni, sem hún þarfnast, og vel launuðum störfum vegna samkeppnihæfs verðs raforkunnar og mikillar framleiðni, sem stórnotkun raforku venjulega leiðir til.
Höfundur er reyndar þeirrar skoðunar, að þá fyrst muni fjandinn losna úr grindum, þegar menn sjá stórkarlalegar línulagnir, sem safna saman gríðarlegu afli, rúmlega á við eina Kárahnjúkavirkjun, nefnd eru 700 MW, og flytja þetta afl niður að landtökustað sæstrengs einhvers staðar á Suðaustanverðu landinu.
Það er hreinn barnaskapur að ímynda sér, að um annað eins og þetta geti orðið bærileg sátt í landinu. Nefna má, að sá hópur manna, sem telur iðnvæðingu landsins ákjósanlega leið til gjaldeyrisöflunar og sköpunar fjölbreytilegra og vel launaðra starfa, mun snúast öndverður gegn þessum framkvæmdum af ástæðum, sem taldar verða upp í þessari grein. Þeir munu snúa bökum saman með öðrum náttúruverndarsinnum, þó ekki þeim, sem nota náttúruvernd sem yfirvarp fyrir andstöðu sína við iðnvæðingu og alþjóðlega fjárfestingu í landinu, því að þessir aðilar láta sér sæstrengsundirbúning vel lynda. Skáka þá baráttumenn sæstrengs í því skjólinu, að enginn veggur sé svo hár, að asni klyfjaður gulli komist ekki yfir hann ?
Eins og bent er á í forystugrein Morgunblaðsins þriðjudaginn 2. júlí 2013, þá varð það niðurstaða Ráðgjafarhóps um sæstrengsundirbúning og aðkeyptra ráðgjafa hans að taka nú upp viðræður við brezk stjórnvöld um mögulega orkusölu þangað. Yfirvöldum er eindregið ráðlagt hér að verða sér ekki til minnkunar með slíku óðagoti, því að þessi sæstrengur verður aldrei barn í brók. Ef stjórnvöld ana út í slíkt, verður það feigðarför, sem endar úti í fúamýri, eins og umsóknin um aðild að Evrópusambandinu, ESB. Það er dálítið kindugt, að sömu "fígúrur" skjóta upp kollinum í þessu sæstrengsmáli og steyttu á skeri í ESB-fleytu Samfylkingarinnar. Að vanda er ritstjórn Morgunblaðsins með á nótunum og er með heilbrigðari dómgreind en téður ráðgjafarhópur. Ritstjórnin hefur haft veður af því, að fótunum hafi þegar verið kippt undan öllum hugsanlegum hagnaði í þessum viðskiptum næstu hálfu öldina hið minnsta með nýrri tækni við vinnslu eldsneytisgass.
Þarna liggur hundurinn grafinn. Það er ekki feitan gölt að flá með þessu sæstrengsævintýri. Það þarf aðeins litla reikningsæfingu til að sannfærast um, að flutningskostnaður raforku um téðan sæstreng er svo hár, að það verður aldrei hægt að fjárfesta í virkjunum á Íslandi með arðsömum hætti með það að augnamiði að selja orkuna frá þeim inn á sæstreng. Ótryggð orka í kerfinu er svo lítil, að sala á henni til útlanda mun aldrei geta fjármagnað sæstreng frá Íslandi til Skotlands. Þar að auki er allt of áhættusamt að eiga enga afgangsorku í íslenzka kerfinu, en vera algerlega háður varaafli um 1100 km leið eftir einni jafnstraumstaug !
Í viku 26/2013 birti ráðgjafarhópur á vegum Iðnaðarráðuneytisins áfangaskýrslu sína um forathugun á fýsileika téðs sæstrengs. Ekki verður séð, að tilburðir séu uppi þar um að reikna út líklegasta flutningskostnað raforku um slíkan sæstreng, en slíkt ætti þó að vera forsenda framhaldsrannsókna. Ef slíkir útreikningar gefa til kynna, að ólíklegt sé að orkuflutningur alla þessa leið geti nokkurn tímann orðið arðbær, þá er einboðið að ríkisfyrirtæki á borð við Landsvirkjun og stofnun á borð við Orkustofnun hætti öllu vafstri í kringum andvana fædda hugmynd. Höfundur hefur reiknað þennan flutningskostnað á grundvelli eftirfarandi forsendna:
- Kostnaður við sæstreng ásamt tengimannvirki hans í landi, afriðlum, áriðlum og loftlínum, er 500 milljarðar ISK eða 4 milljarðar USD (bandaríkjadalir). Höfundur telur þetta líklegasta kostnaðinn, og hann er á bilinu, sem téður ráðgjafarhópur gefur upp sem mögulegan kostnað.
- Aflflutningsgeta mannvirkjanna er 700 MW (nefnd af Ráðgjafarhópinum).
- Árlegur orkuflutningur er að jafnaði 4200 GWh/a (svipað og hjá Ráðgjafarhópinum).
- Árlegur rekstrarkostnaður strengs og tengdra mannvirkja nemur 3,0 % af stofnkostnaði eða 120 MUSD/a.
- Orkutöp í streng, afriðlum, áriðlum og tengilínum eru 10 % af orkunni, sem framleidd er til flutnings. Áætlaður tapskostnaður nemur þá 42 MUSD/a.
- Ávöxtunarkrafan er 10 %, því að hér er um tæknilega og fjárhagslega áhættusama fjárfestingu að ræða.
- Afskriftatíminn er 25 ár, sem er ríflega áætlað, því að þetta gæti verið tæknilegur afskriftartími (ending).
- Með hefðbundnum núvirðisreikningum fæst nú árlegur kostnaður mannvirkjanna K=600 MUSD/a
Flutningskostnaður raforku um mannvirkin fæst þá:
F=143 USD/MWh
Um þessar mundir er fáanlegt verð fyrir orku af þessu tagi líklega 70-100 USD/MWh og sveiflast með framboði og eftirspurn. Meðalverðið er fremur á niðurleið vegna minnkandi eftirspurnar og aukins framboðs á ódýrum kolum og eldsneytisgasi. Ráðgjafarhópurinn spáir því, að árið 2030 muni fást verð á bilinu 94-130 EUR/MWh eða 120-160 USD/MWh. Að slíkt raunverð fáist í langtímasamningum að um 15 árum liðnum skal draga í efa á grundvelli stórlækkunar orkuverðs í Bandaríkjunum, BNA, og víðar í heiminum undanfarin 2 ár vegna aukin framboðs á jarðgasi, sem unnið er með nýrri tækni, "fracking" eða sundrun. Framboð á þessu gasi mun vara í eina öld eða svo, svo að þessi orkuverðslækkun mun óhjákvæmilega ná til Evrópu.
Af þessu má draga þá ályktun, að líklegast þurfi að borga með þeirri orku, sem send yrði frá Íslandi um sæstreng til Bretlands, og þess vegna er enginn viðskiptalegur grundvöllur fyrir virkjunum á Íslandi, sem framleiða eiga fyrir erlendan markað.
Ráðgjafarhópurinn nefnir þá þann möguleika að senda umframorku í kerfinu til útlanda. Nokkrir alvarlegir meinbugir eru á þessari hugmynd. Ráðgjafarhópurinn nefnir, að í samtengdu raforkukerfi Íslands muni umframorkan nema 1300 GWh/a eða um 7 % af núverandi orkuvinnslu. Þetta samsvarar 150 MW allan ársins hring. Það stenzt alls ekki, að 150 MW sé unnt að ráðstafa inn á sæstrenginn, því að þá verður ekkert reiðuafl eftir í kerfinu til að taka við álagssveiflum og vera til taks í bilunartilvikum. Téð umframorka, 1300 GWh/a, verður alls ekki til reiðu, nema vatnsbúskapur sé góður bæði sunnan og norðan heiða, en slíkt er sjaldgæft á sama árinu. Hér eru þess vegna tveir fuglar í skógi, en enginn í hendi, og sæstrengsdraumórarnir líkjast skógarferð í leit að þessum fuglum.
Hugmyndafræðin á bak við það að senda alla umframorku úr landi er mjög áhættusækin. Hún getur hreinlega leitt til þess, að öll miðlunarlónin verði tæmd í janúar-febrúar, og menn verði þá að reiða sig á "hund að sunnan" fram í maí. Ef hundurinn bilar, fer allt íslenzka þjóðfélagið á hliðina. Það er miklu skynsamlegra og eðlilegra að setja umframorku á markaðinn innanlands í góðum vatnsárum sem afgangsorku á um þriðjungsverði m.v. forgangsorku en gæla við skýjaborgir, eins og hér hafa verið raktar.
Þann 29. júní 2013 birtist í Fréttablaðinu í tilefni téðrar áfangaskýrslu Ráðgjafarhópsins greinin "Mikilvægum áfanga náð", eftir Hörð Arnarson, forstjóra Landsvirkjunar. Grein þessi er gagnrýni verð að mati höfundar þessa pistils, og fer gagnrýnin hér á eftir. Tilvitnanir í téða grein eru rauðletraðar:
"Það er sérstaklega ánægjulegt fyrir Landsvirkjun, sem hefur alla tíð lagt áherslu á nauðsyn breiðrar sáttar um svo stórt verkefni, hversu góð samstaða varð í ráðgjafahópnum ... ."
Það er algerlega borin von hjá forstjóra Landsvirkunar, að "breið sátt" geti orðið um það að selja orku til útlanda um sæstreng. Það eru ríkir hagsmunir í landinu fyrir því, að sá raforkuútflutningur, sem fram fari frá Íslandi, sé og verði á formi framleiðsluvara, einkum hinnar orkukræfustu mælt í kWh/kg, þ.e.a.s. áls. Hvernig getur forstjórinn haldið því fram, að eining sé í ráðgjafarhópinum, þegar svo virðist sem Orkustofnun vilji miða við útflutning afgangsorku en Landsvirkjun við útflutning forgangsorku að stofni til ?
"Í skýrslunni kemur fram, að vísbendingar eru um, að lagning sæstrengs milli Íslands og Bretlands geti reynst þjóðhagslega arðsöm að nokkrum skilyrðum uppfylltum, m.a. ef tækist að semja við gagnaðila um hagstæð kjör á seldri orku með tiltölulega miklu öryggi og til nokkuð langs tíma."
Þessi texti Harðar segir nákvæmlega ekki nokkurn skapaðan hlut. Ef þetta er niðurstaða ráðgjafarhópsins í júní 2013, þá er vinna hans fram að þeim tíma einskis virði. Þetta kalla Norðmenn "tullprat" og má þýða sem þvætting. Hér eru sem sagt skýjaborgir á ferð.
"Tenging við evrópska raforkumarkaði, eins og breskan markað, getur verið einstakt tækifæri fyrir Íslendinga til að hámarka afraksturinn af orkuauðlindunum."
Eins og útreikningar höfundar þessa pistils bera með sér, er þessi texti forstjórans hrein fásinna, enda ekkert "í kortunum", sem bendir til arðsamrar orkusölu um búnað, sem hefur enn ekki tekizt að hanna.
"Við getum selt þá umframorku, sem er alla jafna í kerfinu, en iðnaður getur ekki nýtt."
Þetta er meinloka hjá forstjóranum. Ein af forsendum fyrir því, að svona gríðarleg fjárfesting fái staðið undir sér, er, að nýtingartími sé hár, þ.e. að árlegt orkuflæði um strenginn jafngildi fullu álagi í a.m.k. 6000 klst á ári. Umframorka í kerfinu er mjög breytileg frá ári til árs, og þess vegna er ekki glóra í að ætla að reisa rekstur mannvirkjanna á umframorku. Hitt er, að fari umframorkan til útlanda, þá verður orkuöryggi og jafnvel aflaðgengi innanlands háð sæstrengnum og mannvirkjum hans. Slíkt óöryggi getur íslenzkur almenningur og íslenzkt athafnalíf engan veginn sætt sig við. Það er miklu nær fyrir Landsvirkjun að leggja rækt og alúð við markað innanlands fyrir ótryggða orku. Ef Landsvirkjun þykir þetta of lítill markaður fyrir sig, er alveg fundið fé að framleiða ál og geyma það til útflutnings, þegar álverðið er hátt. Það er áhættulítil geymsla á fjármunum.
"Fjölmörg ný og spennandi störf og tækifæri geta skapast. Verðmætasköpunin getur orðið umtalsverð."
Hörður Arnarson bítur höfuðið af skömminni með þessari fullyrðingu, sem hann útskýrir ekkert nánar. Það, sem hann berst fyrir með þessum sæstrengsbægslagangi, er útflutningur starfa frá Íslandi. Rafmagnið skapar störf með smíði, uppsetningu og rekstri framleiðslutækjanna, sem nýta það. Það verða auðvitað til störf í landi í 3-4 ár á meðan verið er að reisa mannvirkin, en sárafá störf verða til við rekstur mannvirkjanna. Hitt er annað, að verkefnið er afar áhugavert verkfræðilegt viðfangsefni, og það þarf þróaða verkfræði til að aðlaga íslenzka raforkukerfið téðri tengingu við útlönd, svo að snurðulaus verði.
"Fyrir utan breiða sátt um verkefnið hefur Landsvirkjun lagt áherslu á, að tvennt komi til lagningar sæstrengs. Annars vegar, að iðnfyrirtækjum verði áfram tryggð samkeppnishæf kjör á raforku, þannig að þau geti áfram vaxið á Íslandi."
Það er tómt mál að tala þannig, að tenging við Stóra-Bretland með flutningsgetu, er nemur þriðjungi af uppsettu afli á Íslandi, muni ekki leiða til þess, að verðlagning raforku til iðnaðar í landinu muni leita í átt til verðsins á hinum enda strengsins.
Þrátt fyrir það, að tengingar Noregs um sæstrengi við meginland Evrópu nemi aðeins um einum tíunda hluta hins íslenzka hlutfalls af uppsettu afli, þá hafa norsku sæstrengirnir valdið gríðarlegum verðhækkunum og verðsveiflum á raforku í Noregi. Afleiðingarnar hafa orðið alvarlegar fyrir stóriðjufyrirtæki, sem hafa verið með orkusamninga, sem runnið hafa út undanfarin ár, t.d. SÖRAL á Húsnesi í Vestur-Noregi. Álver þetta hefur ekki náð samningum um orkuverð, sem það getur lifað við með samkeppnihæfum hætti. Þetta er nýtt af nálinni og gjörbreyttum raforkumarkaði í Noregi með tilkomu sæstrengjanna er kennt um. Þetta stangast algerlega á við það, sem Hörður Arnarson heldur fram annars staðar í grein sinni, en ekki verður hirt um að vitna til beint hér.
"Hins vegar, að raforkuverð til almennings hækki ekki óhóflega. Engar líkur eru til þess, að raforkuverð til almennings margfaldist, eins og stundum er haldið fram, enda er munur milli landa ekki margfaldur í dag."
Hvað gengur forstjóra Landsvirkjunar, Herði Arnarsyni, til að halda þessum ósannindum að fólki ? Annaðhvort er um fáfræði að ræða eða vísvitandi blekkingartilburði. Það var ekki merkileg gagnaöflun höfundar, sem leiddi til eftirfarandi niðurstöðu í UScents/kWh til almennings í níu löndum:
- Ísland 9-10: hlutfall 1,0
- Bandaríkin 8-17: hlutfall 1,3
- Frakkland 19: hlutfall 2,0
- Bretland 20: hlutfall 2,1
- Finnland 21: hlutfall 2,2
- Svíþjóð 27: hlutfall 2,8
- Belgía 29: hlutfall 3,1
- Þýzkaland 31: hlutfall 3,3
- Danmörk 40: hlutfall 4,2
Ofangreind upptalning ber með sér, að raforkuverð til almennings erlendis er í mörgum tilvikum á bilinu tvisvar til rúmlega fjórum sinnum hærra en á Íslandi. Það er orðhengilsháttur að halda því fram, að "munur milli landa (sé) ekki margfaldur í dag".
"Iðnaðar-og viðskiptaráðherra mun nú fara yfir tillögur hópsins og ákveða næstu skref, en íslensk stjórnvöld þurfa að móta sér afstöðu til verkefnisins. Landsvirkjun hefur miðað við, að niðurstöður frummats liggi fyrir í lok þessa árs, og að þá getum við verið tilbúin að leggja til næsta skref af okkar hálfu, hvort ráðist verði í dýrar og umfangsmeiri rannsóknir á verkefninu."
Það er skemmst frá að segja, að á grundvelli þessarar áfangaskýrslu og upplýsinga í þessari vefgrein og annars staðar, ætti ráðherra ekki að verða skotaskuld úr að móta sér og ráðuneytinu afstöðu til téðs aflsæstrengs. Hann er efnahagslegt og stjórnmálalegt glapræði fyrir stjórnmálamenn, enda geta þeir ekki með nokkru móti látið bendla sig við eða tekið ábyrgð á því, að opinberu fé sé að svo komnu sólundað í jafnfánýta hugmynd og þessa. Eru ekki vítin til að varast þau ?
20.6.2013 | 21:11
Ógöngur opinberra orkufyrirtækja
Það kom mörgum leikmanni í opna skjöldu, að stöðugt þurfi að bora viðhaldsholur á háhitasvæðum, þar sem mikil aflvinnsla er stunduð, því að lykilorð tengt þessari umræðu er sjálfbærni. Þetta ástand vitnar um ójafnvægi í viðkomandi gufuforðageymi, þar sem allt of hröð nýting hefur leitt til ofálags á gufuforðageyminn. Þegar virkjunaráfangi er tífaldur ráðlagður áfangi að hálfu jarðvísindamanna að stærð, er ekki nema von, að keraldið leki. Stjórnmálamenn Reykjavíkurborgar hafa leikið fjárhag Orkuveitu Reykjavíkur (OR) svo grátt, að hún hefur varla efni á þeim mótvægisaðgerðum, sem nauðsynlegar eru. Hver hola kostar um 0,5 milljarða kr og tenging við Hverahlíð 2-3 milljarða kr. Eigendurnir, skattborgararnir, sitja uppi "með skeggið í póstkassanum" eftir að hafa valið fólk á borð við Dag og Svandísi í sveitarstjórnarkosningum.
Það er augljóst mál, að nýting t.d. jarðgufunnar á Hellisheiði er ósjálfbær, ef dregur niður í nýttum gufugeymi neðanjarðar um 2,3 % á ári. Þetta er meira en tvöfaldur venjulegur niðurdráttur og þýðir kostnaðarauka um a.m.k. 0,5 milljarða kr á ári, sem Guðmundur Þórodsson, fyrrverandi forstjóri OR segir, að hafi verið vitað frá upphafi, og hann hlýtur þá einnig að hafa reiknað inn í kostnaðarverð raforkunnar og samið um orkusölu út frá því.
Í þessu ljósi skýtur skökku við, að engar viðhaldsholur skuli hafa verið boraðar hingað til, heldur hafi OR látið skeika að sköpuðu og sé nú komið í þá stöðu, að þurfa að kaupa raforku frá Landsvirkjun til að uppfylla raforkusamninga sína. Hætt er við, að þetta sé OR mun óhagkvæmari kostur en að bæta 0,5 milljörðum kr við árlegan rekstrarkostnað sinn. Er þetta ekki dæmigerð strútshegðun hins opinbera fyrirtækis, sem stjórnað er aðallega af sveitarstjórnarmönnum í Reykjavík ? Bágur hagur Orkuveitunnar skýtur ekki stoðum undir málflutning Guðmundar Þóroddssonar, þó að þess beri að geta, að fjármálastjórnun fyrirtækisins var í ólestri og olli því miklu tjóni. Á öllum sviðum var tekin áhætta, sem kom því í koll. Einkafyrirtæki hefði ekki getað hagað sér með þessum hætti, enda væri það þá vísast gjaldþrota nú.
Hið alvarlega í þessu máli er ráðstöfun háhita jarðvarmaauðlindarinnar, sem er í næsta nágrenni Reykjavíkur. Hér er átt við það, að nýtingarmáti OR með um 300 MW vinnslu raforku felur í sér orkusóun, sem nemur um 1700 MW. Ef þetta er ósjálfbær vinnsla, er þessi sóun algerlega óásættanleg, af því að þá eyðileggur OR vinnslumöguleika framtíðarinnar á hagkvæmu heitu vatni til upphitunar húsnæðis á höfuðborgarsvæðinu, og hvaðan á þá að leiða hitaveituvatn til höfuðborgarsvæðisins ? Hið merkilega er, að höfundur þessa pistils er hér sammála Sóleyju Tómasdóttur um, að OR verður að snúa af þessari braut með framtíðar hagsmuni íbúanna í huga. Téð orkusóun er óviðunandi.
Það verður hið snarasta að finna út, hvort Hellisheiðarsvæðið annar 300 MW raforkuvinnslu með fleiri vinnsluholum, þannig að hvíla megi svæði og leyfa gufuþrýstingi að byggjast þar upp að nýju. Ef þetta tekst, verður unnt að huga að aflaukningu í 30-50 MW skrefum, en þó er lítil skynsemi í því, nema sem aukaafurð framleiðslu á heitu vatni, því að þá eykst nýtnin úr undir 15 % í yfir 50 %.
Guðmundur Þóroddsson talar um, að framleiðslugeta alls jarðgufuforða Hengilskerfisins sé 1000 MW af raforku. Í ljósi reynslunnar er af og frá, að slík afltaka sé sjálfbær, enda telur Ari Trausti Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur, að þetta hámark liggi nær 350 MW samkvæmt viðtali í Fréttablaðinu 15. júni 2013. Ályktunin er sú, að í mesta lagi geti orðið raunhæft eftir 5-10 ár að bæta við 40 MWe gufuhverfli og 40 MW rafala. I upphafi hafa verið gerð mikil mistök við áætlunargerð um aflgetu svæðisins og gráu bætt ofan á svart með allt of hraðri virkjanauppbyggingu. Í þessu sambandi er hundalógík að bera því við, að markaðurinn hafi heimtað meiri orku.
Af tölum, sem gefnar eru upp um Sleggjuna, sem er 90 MW virkjun á 24 milljarða kr, er unnt að fullyrða eftir einfalda útreikninga, að ekki er nokkur viðskiptalegur grundvöllur fyrir orkusölu til stóriðju frá þessari virkjun. Arðsemisjónarmið hafa einfaldlega ekki verið höfð að leiðarljósi, þegar stjórnmálamenn í borgarstjórn Reykjavíkur veittu blessun sína yfir þessa samninga. Stjórnmálamenn eru búnir að koma eigendum OR, skattborgurum sveitarfélaganna, sem hlut eiga að máli, í stórvanda. Það ætti að leitast við að draga úr fjárhagslegri ábyrgð skattborgaranna á þessu gönuhlaupi eftir fremsta megni og nauðsynlegt er að skilja að vinnsluhluta heits og kalds vatns og rafmagns, fjárhagslega, eins og unnt er, því að ella er hætt við, að kaupendur heits vatns og jafnvel kalds líka séu að greiða raforkuverðið niður, en raforkan á að vera á samkeppnimarkaði.
Það er ábyrgðarleysi af eigendum og rekstraraðilum jarðvarmavera í grennd við þéttbýli að virkja 300 MW að mestu á 5-10 árum á jarðhitasvæði, sem stendur ofan á stórum hvikupotti, sem gefur frá sér eiturgös, án þess að vita, hvernig á að gera eiturgas á borð við H2S skaðlaust og hindra þá um leið umtalsvert tjón á viðkvæmum og dýrum búnaði í sama þéttbýli af völdum tæringar. Brennisteinsvetni í andrúmsloftinu hvarfast og myndar lituð, lítt vatnsleysanleg sambönd með málmum á borð við silfur, kopar, tin, blý í súru umhverfi, en með nikkel, járni, sinki og mangan í lútuðu umhverfi.
Heilsufarsáhrifin eru háð styrk gassins, sem er sterkt taugaeitur, bindst hemóglóbíni blóðsins og ryður þar burt súrefni og myndar veika sýru í rökum lungunum. Hið oxaða gas brennisteinsvetnis er enn viðsjárverðara og myndar astma í viðkvæmum einstaklingum. Það blasir við út frá mælingum á þessum gösum á höfuðborgarsvæðinu, að heilbrigðisyfirvöld hafa sofið á verðinum og umhverfisyfirvöld hafa sett kíkinn fyrir blinda augað. Heilsufar höfuðborgarbúa líður fyrir sofandahátt yfirvaldanna. Skylt þessu sleifarlagi er eftirlitsleysið með áburði bænda. Með tveggja ára millibili er greindur ofstyrkur Kadmiums í áburði. Kadmium er þungmálmur, sem safnast fyrir í vefjum líkamans. Hvers vegna eru viðbrögð yfirvalda svo ræfilsleg, sem raun ber vitni um ? Engar sektir og engin svipting við endurtekið brot eftir tvö ár ! Eftirlitsiðnaðurinn hefur vaxið mjög að umfangi á undanförnum árum, en hann virðist engan veginn vera nógu skilvirkur. Er úthýsing e.t.v. lausnin, eins og á sviði rafmagnsöryggismála ?
Öfugsnúin viðhorf Svandísar Svavarsdóttur til umhverfismála, sem hún stillir alltaf upp gegn framförum í atvinnumálum, endurspeglast í þessum sofandahætti og að setja hvern steininn á fætur öðrum í götu vatnsaflsvirkjana. Hvers vegna leyfði Svandís Svavarsdóttir þessari gríðarlegu og hættulegu mengun á Hellisheiði að viðgangst, en lagðist öndverð gegn virkjunum í Neðri-Þjórsá, þar sem engin mengun verður samfara virkjunum ? Það er einhver stjórnmálafnykur af þessum málatilbúnaði hennar, en hvorki umhyggja fyrir fólki né náttúru í sinni víðustu mynd.
Laugarvatnsstjórnin á og ætlar að snúa þessari óheillaþróun í virkjunarmálum við. Allar vatnsaflsvirkjanir á undan Kárahnjúkavirkjun voru sjálfbærar og afturkræfar, en Kárahnjúkavirkjun var óvenjuleg að því leyti, að hún fólst í einstæðum vatnaflutningum. Lagarfljótið ber ekki sitt barr með foraðið Jökulsá á Brú innanborðs. Í þessu sambandi ber að hafa í huga, að þessir vatnaflutningar urðu að raunveruleika, eftir að alræmdir "umhverfisverndarsinnar" lögðust af mikilli hörku gegn lóni á Eyjabökkum vegna meintrar truflunar á hamskiptum gæsa. Það er ekki öll vitleysan eins, að Kárahnjúkavirkjun skuli þannig með vissum hætti mega rekja til "umhverfisverndarsinna". Það skal taka fram, að Kárahnjúkavirkjun var verkfræðilegt afrek.
Landsvirkjun var stofnuð árið 1965 af ríkinu og Reykjavíkurborg til að koma íslenzka raforkukerfinu og þar með atvinnulífinu á Íslandi inn í 20. öldina. Íslenzka Álfélagið var stofnað með lögum frá Alþingi árið 1966 og skyldi kaupa orku af Landsvirkjun samkvæmt framlengjanlegum orkusamningi til 35 ára til starfrækslu álvers í Straumsvík. Ötulustu brautryðjendur þessarar gifturíku stefnumörkunar í atvinnusögu landsins voru sjálfstæðismennirnir Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, og Jóhann Hafstein, iðnaðarráðherra. Kratar Viðreisnarstjórnarinnar studdu gjörninginn, enda hefur iðnvæðing landsins bætt hag hins vinnandi manns ótæpilega. Arftaki Alþýðuflokksins, Samfylkingin, er hins vegar viðrini, sem á engar rætur í verkalýðshreyfingunni, heldur er hún tannlaust tól háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna og fáeinna (annarra) sérvitringa. Þetta viðrini hefur nú orðið bert að blekkingum um ríkisfjármálin fyrir kosningar í tilraun til að svíkja sig enn einu sinni inn á kjósendur. Það mistókst. Ástæða er til að taka saman hvítbók um samskipti Íslands og Evrópusambandsins, ESB, 2008-2013, með samtölum og minnisblöðum ráðherra, samninganefndarinnar og embættismanna utanríkisráðuneytisins, sem varpa mun ljósi á vinnubrögð stjórnsýslu og stjórnmálaflokkanna, sem við sögu koma.
Á 7. áratug 20. aldar, eins og nú, voru forstokkuð vinstri öfl mjög æst yfir virkjanaáformum, en ekki af umhverfisástæðum, eins og látið er í veðri vaka nú, heldur vegna orkusölusamnings við erlent fyrirtæki, Alusuisse, og vegna ágreinings um tilhögun viðkomandi virkjunar, Búrfells, sem úrtölumenn töldu ekki geta virkað almennilega á vetrum vegna stingulíss. Þeim er ekki lengur stætt á að leggjast gegn erlendum fjárfestingum og alþjóðlegri samvinnu, svo að þau hörfuðu í mengunarvígið, sem er unnt að gera að tilfinningahlöðnu umræðuefni, þar sem rök eiga stundum erfiða aðkomu. Þegar hins vegar kom í ljós, að sjórinn úti fyrir Straumsvík er hreinn og lífríkið heilbrigt, gróðurinn í grennd eðlilegur og losun út í andrúmsloft langt innan marka yfirvalda, þá var gerð atlaga að virkjununum sjálfum.
Það skal viðurkenna, að þar eru enn "svín á skóginum", eins og rakið var hér að ofan, og hér skal jafnframt halda því fram, að væru téð orkufyrirtæki í einkaeign og ekki stjórnað af stjórnmálamönnum, þá hefðu þau ekki "traðkað í salatinu" með jafnalvarlegum afleiðingum og raun ber vitni um.
Einkafyrirtæki hefði ekki lagt í jafnstórtækar fjárfestingar á Hellisheiðinni gegn beztu þekkingu á því, hvernig nýta á háhitasvæði með hámarksárangri og viðunandi áhættu. Áhættuna tóku stjórnmálamenn á borð við Don Alfredo og lék Dagur, læknir, þar einnig allstórt hlutverk ásamt Svandísi Svavarsdóttur, sérkennara. Áhættutakan var hroðalega illa eða ekkert ígrunduð, heldur vaðið áfram, og hin fjárhagslega áhætta svo geigvænleg, að fyrirtækið, Orkuveita Reykjavíkur, er nú lömuð í skuldafjötrum og verður svo um mörg ókomin ár. Ef orkusölusamningarnir hafa verið á svipuðum nótum og arðsamt var fyrir Landsvirkjun með sínar hagkvæmu og endingargóðu vatnsaflsvirkjanir að gera á sínum tíma, þá er OR og aðallega Reykvíkingar í vondum málum núna og til frambúðar. Arðsemiútreikningar orkusölunnar frá Hellisheiðarvirkjunum hafa, að því er bezt er vitað, ekki verið birtir. Þola þeir ekki dagsljósið ? Neytendur og Samkeppnistofnun eiga heimtingu á að vita, hvort vatnssalan er að greiða raforkuna niður hjá OR. Nýjustu upplýsingar frá HS Orku og Norðuráli eru um, að ekki gangi saman með fyrirtækjunum um orkusölu til Helguvíkur. Þær fréttir benda til, að jarðvarmaorkuver séu í raun ekki samkeppnihæf um orkusölu til álvera.
Landsvirkjun var hrakin úr Eyjabökkum af fólki, sem kallar sig umhverfisverndarsinna, en hefur misjafnlega mikið vit á íslenzkri náttúru. Sumir þeirra fara varla út fyrir 101 Reykjavík og kunna ekki einu sinni að tjalda, þó að með áróðri sínum séu þeir reyndar vanir að tjalda til einnar nætur. Eftir Eyjabakka ákváðu stjórnmálamenn, að Landsvirkjun skyldi fara í stórtæka vatnaflutninga. Virkjunin var verkfræðilegt afrek, en í valnum lá Lagarfljótið. Það var mikil fórn, sem stjórnmálamenn eiga sök á, en geta samtímis þakkað sér stóreflda innviði Austurlands, og vex landsfjórðunginum nú fiskur um hrygg með hverju árinu, enda er hann orðinn útflutningsvél íslenzka hagkerfisins með gríðarlegri framleiðni í öflugum sjávarútvegi og iðnaði. Allt orkar tvímælis, þá gert er.
1.2.2013 | 19:28
Markaðshyggja andspænis forsjárhyggju
Inngrip stjórnvalda í athafnalífið eru oft stórskaðleg. Nýlegt dæmi á Íslandi er banvæn skattheimta á sjávarútveginn, sem dregur úr honum allan mátt og hefur þannig neikvæð áhrif á landsframleiðsluna og þar með hagvöxtinn og hag almennings.
Annað sláandi dæmi er munurinn á árangri Bandaríkjamanna og Evrópumanna í loftslagsmálum. Eins og kunnugt er, tóku Bandaríkjamenn ekki þátt í Kyoto-bókuninni á sínum tíma, en Evrópumenn börðu sér á brjóst og settu sér markmið um 20 % minni losun gróðurhúsalofttegunda 2020 en 1990.
Reyndin er athygliverð. Í Bandaríkjunum (BNA) er brennt minna af kolum ár frá ári, en í Evrópusambandinu (ESB) meira og meira. Skýringin er sú, að bandarísk stjórnvöld hafa greitt götu þróunar á vinnslu setlagagass, stundum nefnt leirsteinsgas, en stjórnendur ESB hafa lagt stein í götu slíkrar þróunar og staðið að langtíma samningum við Gazprom, rússneska gasrisann, um afhendingu á miklu magni af gasi til Evrópu. Afleiðingin er sú, að gasverð í Evrópu er þrisvar sinnum hærra en í BNA. Þarna kostar forræðishyggjan og stjórnlyndið fyrirtæki og almenning stórfé og veldur aukinni mengun, eins og fram kemur síðar í greininni. Markaðshyggjan er jafnan almenningi hagfelldari, því að hún framkallar lægra vöruverð vegna meiri framleiðni og vegna meiri hagvaxtar en forræðishyggjan getur framkallað. Það er tækniþróunin, sem hefur gert kleift að bæta kjör almennings. Verðmæti hafa aldrei orðið til við samningaborð verkalýðsforkólfa og vinnuveitenda.
Það er ekki nóg með þetta, heldur hafa þýzk stjórnvöld þröngvað "Energiwende" upp á Þjóðverja, en orðið má þýða sem orkuviðsnúningur. Þjóðverjar nota oft "die Wende" um endursameiningu Þýzkalands 1989. Með orkuviðsnúningi er endurnýjanlegum orkugjöfum, t.d. sólarrafhlöðum, vindmyllum og lífmassa, gert hátt undir höfði og veittur forgangur að þýzka stofnkerfinu á kostnað eldsneytisorkugjafa og kjarnorkuvera. Segja má, að hagkvæmninni sé snúið á haus, enda kemur þetta heldur betur við buddu notenda.
Eigendur þessara orkugjafa senda þá orku inn á stofnkerfið á daginn, þegar eftirspurn er mest og orkuverðið hæst. Þetta grefur undan fjárhag orkufyrirtækjanna, því að í raun og veru ýta endurnýjanlegir orkugjafar með þessum hætti gasinu út af markaðinum, svo að Moody´s telur blikur á lofti á fjárhagshimni orkufyrirtækjanna. Viðsnúningur þessi virkar því nokkuð viðundurslega á hagkerfið, eins og vanreifuð inngrip stjórnvalda í markaðinn ætíð gera.
Til að bjarga sér frá taprekstri reyna orkufyrirtækin nú að framleiða eins mikið og þau geta með kolum og draga úr framleiðslu með gasi, af því að þau tapa 11,70 evrum/MWh á raforkuvinnslu með gasi, en hagnast um 14,22 evrur/MWh með raforkuvinnslu úr kolum. Kolaverð á heimsmarkaði hefur lækkað vegna minni eftirspurnar frá Kína að undanförnu og vegna um 10 % minni kolanotkunar í BNA árið 2012 en árið 2011, þar sem Bandaríkjamenn eru að skipta yfir í gasið. Frá ágúst 2011 til ágúst 2012 féll heimsmarkaðsverð kola um þriðjung, þ.e. niður fyrir 100 USD/t. Þetta verð er fýsilegt fyrir evrópsk kolakynt orkuver, en sumarið 2012 var gasverð í Evrópu hins vegar þrefalt á við í BNA, og þó að Gazprom hafi dregizt á 10 % verðlækkun 2013, mun hún litlu sem engu breyta um þessa evrópsku óheillaþróun í orku- og loftslagsmálum.
Kolakynt raforkuver menga mest og mynda mest af gróðurhúsalofttegundum per MWh (megawattstund raforku), en þau sjá samt íbúum jarðar fyrir 40 % af allri framleiddri raforku, og kolakynt orkuver standa að baki 70 % þeirrar tvöföldunar, sem átt hefur sér stað á heimsvísu á áratuginum 2001-2010. Árið 2018 verður hlutur kola í heildarorkunotkun heimsins jafnmikill og olíu með sama áframhaldi, eða um 4,6 milljarðar tonna olíujafngilda, en árið 2001 voru kolin aðeins hálfdrættingur á við olíuna.
Meginskýringin er aukning á orkuvinnslu Kínverja, en árið 2011 fóru Kínverjar fram úr Bandaríkjamönnum sem mesta raforkuvinnsluríki heims. Samkvæmt International Energy Agency nam notkun Kínverja á kolum árið 2001 um 600 milljón tonnum af olíujafngildum (25 exajoule). Árið 2011 hafði kolanotkun Kínverja þrefaldazt. Svipaða sögu er að segja af Indverjum. Árið 2010 framleiddu þeir 650 TWh (terawattstundir) af raforku, Íslendingar um 17 TWh. Til þess notuðu Indverjar 311 milljón tonn af olíujafngildum af kolum, og kolanotkun vex þar um 6 % á ári. Í Kína og á Indlandi hafa yfirvöld ekki enn innleitt neina hvata til að draga úr kolanotkun, og lífinu á jörðunni er tekin að stafa ógn af þessu, því að hlýnun jarðar er afleiðingin. Þarna er umtalsverð umhverfisvá á ferðinni.
Gas er mun umhverfisvænni orkulind til raforkuvinnslu en kol, bæði hvað varðar mengandi rykagnir og gróðurhúsalofttegundir. Í BNA hafa verið settir inn alls kyns hvatar til að draga úr mengun, og þess vegna hefur framboð á eldsneytisgasi stóraukizt. Árið 2015 taka t.d. gildi strangar kröfur um lágmörkun á losun kvikasilfurs, brennisteinstvíildis og níturoxíða. Þá hefur Environmental Protection Agency í BNA í raun bannað ný kolakynt orkuver eftir 2013, nema koltvíildinu sé safnað saman og dælt niður í jörðina. Kostnaður við slík orkuver er tvöfaldur per MW á við kostnað gaskyntra orkuvera. Allt þýðir þetta, að á tímabilinu 2012-2017 gæti kolakyntum orkuverum að aflgetu 50 GW (gígawött, tífalt virkjanlegt afl á Íslandi) eða 1/6 allra kolakyntra vera í BNA hafa verið lokað.
Aukið framboð hefur valdið verðlækkun á gasi. Í apríl 2012 féll verðið undir 7 USD/MWh varmaorku. Nú í ársbyrjun 2013 var það um 12 USD/MWh, sem þýðir raforkukostnaðarverð um 30 USD/MWh, sem er lægra verð en til íslenzkrar stóriðju. Þess vegna hafa orkufyrirtækin tekið upp gasbrennslu í stað kolabrennslu í orkuverum, og þess vegna er verðlagsstefna Landsvirkjunar á raforku úrelt, enda hefur engum samningi í anda hennar verið landað.
Þegar mest var, 1988, sáu kol BNA fyrir 60 % af raforku þeirra. Árið 2010 nam þessi hlutdeild kola 42 %, en um mitt ár 2012 hafði hlutdeild kola lækkað niður í þriðjung og var þá svipuð og hlutdeild gass. Þróunin er önnur og verri í Evrópu. Um þessar mundir eykst orka, sem framleidd er með kolum í sumum Evrópulöndum, um 50 % á ári.
Á Íslandi ber einn raforkuframleiðandi, Landsvirkjun, höfuð og herðar yfir aðra slíka. Fyrirtækið er 100 % í eigu ríkissjóðs. Þar sem fyrirtækið framleiðir sjálfbæra raforku og getur fengið aðgang að miklum umhverfisvænum orkulindum, er framtíð Landsvirkjunar björt, enda gæti fyrirtækið orðið um ISK 500 milljarða virði innan 5 ára. Í ljósi þess, sem að framan er skrifað um loftslagsvanda og orkuiðnað heimsins, er ljóst, að fyrirtækið á og rekur gullmyllur, þar sem eru vatnsorkuver þess.
Fyrirtækið er mjög skuldugt, og nema skuldir þess um þessar mundir um 350 milljörðum kr, en framlegðin er slík, að það getur greitt upp allar núverandi skuldir sínar á innan við 10 árum. Allt tal um lága arðsemi fyrirtækisins er reist á skilningsleysi á löngum afskriftatíma tekjuskapandi eigna Landsvirkjunar. Þetta mun koma í ljós, ef farið verður inn á braut markaðsvæðingar Landsvirkjunar, en það er orðið nauðsynlegt, m.a. af þjóðhagslegum og samkeppnilegum ástæðum, eins og rakið verður seinna í grein á þessu vefsetri.
Ýmislegt bendir til, að um þessar mundir sé stjórnun og stefnumörkun fyrirtækisins ábótavant. Nefna má verðlagningarstefnu raforku, sem er eins og út úr kú, sbr hér að ofan, enda hafa engir umtalsverðir samningar verið gerðir frá 2010 og hugsanlegir viðskiptavinir hrakizt á brott til BNA. Það þarf að verða stefnubreyting á mörgum sviðum hjá Landsvirkjun, og róttæk breyting á stefnu og starfsháttum verður varla án einkavæðingar fyrirtækisins. Það verður þó að stíga varlega til jarðar til að hagur almennings, núverandi eigenda, verði sem bezt tryggður og andvirði sölunnar nýtist sem bezt. Hluti þess þarf að verða í gjaldeyri, og afsláttarleið Seðlabankans kemur ekki til greina.
Tvö andvana fædd gæluverkefni hafa orðið fyrirferðarmikil í stefnumörkun Landsvirkjunar, þ.e. vindmyllutilraunir með 2x900 kW myllur við Búrfell og sæstrengsraunir, þ.e. hagkvæmniathugun á hönnun, gerð og lagningu allt að 1000 MW DC sæstrengs á milli Íslands og Skotlands, sem líklega kostar um ISK 500 milljarða eða jafngildi markaðsvirðis Landsvirkjunar í náinni framtíð.
Þessi undarlegu mál gefa furðulega forgangsröðun til kynna og þar með er líklegt, að hagsmuna eigendanna, almennings í landinu, sé ekki gætt sem skyldi. Af þessum ástæðum má búast við, að ríkissjóður geti grætt á því í bráð og lengd að einkavæða Landsvirkjun. Ef ríkið selur í vel ígrunduðum áföngum á nokkurra ára bili t.d. 65 % af Landsvirkjun, mundu koma inn um ISK 325 milljarðar kr, sem gætu farið til að grynnka á skuldum ríkissjóðs og minnka ISK 90 milljarða árlega vaxtabyrði um ISK 30 milljarða.
Ef ríkið selur íslenzkum lífeyrissjóðum 35 % af Landsvirkjun fyrir um ISK 175 milljarða kr og setur 30 % á almennan markað, má búast við, að rekstur Landsvirkjunar batni og árlegar tekjur ríkissjóðs á formi arðgreiðslna og tekjuskatts hækki verulega umfram núverandi tekjur ríkissjóðs af fyrirtækinu. Landsmenn munu þá ekki þurfa að deila um fjárfestingar og stefnumörkun Landsvirkjunar né heldur raforkuverðið, sem hún semur um, enda verður þá tryggt, að starfsemi fyrirtækisins verður alfarið á viðskiptalegum grunni. Þessi einkavæðing hefði þannig aukna arðsemi fyrirtækisins og auknar tekjur ríkisins af því að leiðarljósi, en það verður samtímis að setja því almennar skorður um verðlagningu á orku til almenningsveitna.
Slík markaðsvæðing hefði góð áhrif á hagkerfið og þar með hag almennings. Vextir gætu lækkað, því að fjárþörf ríkissjóðs mundi minnka og áreiðanleikamat á ríkissjóði mundi hækka. Minni hlutdeild ríkissjóðs í hagkerfinu mun ýta undir hagvöxt og framleiðniaukningu, en hvort tveggja er lykilatriði við úrlausn á vanda mjög skuldugra heimila (nota meira en 40 % ráðstöfunartekna til íbúðarhúsnæðis), sem eru um 11 % heimila í landinu, og við úrlausn á vanda ríkissjóðs.
Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur varla haft uppi nokkra tilburði til að leysa vanda ríkissjóðs. Hún hefur stungið hausnum í sandinn. Skuldir ríkisins nema nú 1509 milljörðum kr eða 86 % af vergri landsframleiðslu, VLF. Með mjög bjartsýnni spá um hagvöxt, 4,0 % á ári, tæki 10 ár að koma skuldum ríkissjóðs undir 60 % viðmið Maastrichtsamningsins. Fyrr mun ESB ekki leyfa okkur að taka upp evru, eða halda menn, að Berlaymont sé áframt ginnkeypt fyrir grísku bókhaldi. Er ekki heill stjórnmálaflokkur að berjast fyrir inngöngu í ESB strax til að unnt verði að taka upp evru sem fyrst ? Allt er það tóm endaleysa.
Það er ekki hægt að ljúka pistli að þessu sinni án þess að minnast á aðdáunarverðan, orkukræfan gjörning, sem var för ungrar, íslenzkrar konu, Vilborgar Örnu Gissurardóttur, á Suðurpólinn, sem lauk í janúar 2013. Þetta er ekki hægt án þess að búa yfir og rækta með sér ýmsa eftirsóknarverða eiginleika, sem æska Íslands getur og ætti að hafa að leiðarljósi. Sem dæmi má taka skipulagshæfni, áræðni og þrautseigju. Hún sýndi það líka í Kastljósi í gærkvöld, að hún hefur góða frásagnargáfu og er vel máli farin.
25.1.2013 | 23:04
Að breyta vatni í vín
Fyrirsögnin á uppruna að rekja til Biblíunnar. Hér eru þó trúmál ekki viðfangsefnið, heldur auðlindamál. Athygli landsmanna hefur enn verið vakin á gríðarlegum auðlindum landsins. Þær eru ekki gríðarlegar á heimsvísu, heldur á hvern íbúa landsins.
Auðvitað er aðalatriðið við nýtinguna, að innviðir landsins styrkist við auðlindanýtinguna. Að fyrirtæki hagnist, er þó ekki tabú í þessu sambandi. Þrennt er óhjákvæmilegt, ef nýting auðlinda Íslands og lögsögu þess á að heppnast íbúum landsins alls til velfarnaðar:
- Tækniþekking: Hún sprettur ekki af sjálfri sér, heldur er áunnin yfir dágóðan tíma með erfiði. Það er stórhættulegt og hefur gefizt illa að þykjast þekkja til tæknilegra ferla og látast geta þess vegna unnið við þá eða við að setja þá upp, bæta þá eða bæta við þá. Það hefur hörmulegar afleiðingar, þegar í ljós kemur, að um einskæra yfirborðsmennsku, mannalæti og gaspur var að ræða. Í mörgum tilvikum, þegar um auðlindanýtingu er að ræða, þarf að flytja þekkinguna inn, en svo er þó ekki alltaf. Dæmi má taka af áliðnaðinum. Árið 1967 var nánast engin þekking fyrir hendi á framleiðsluferlum áls hérlendis. Alusuisse, svissneskur álframleiðandi, reisti þá fyrstu álverksmiðjuna hérlendis. Í stað þess að flytja inn starfsfólk fyrir verksmiðjuna, ISAL, voru Íslendingar sendir utan til þjálfunar í verksmiðjum Alusuisse. Þetta urðu brautryðjendur álframleiðslu á Íslandi. Arftakar þeirra tóku við góðu kefli og hafa, í samstarfi við erlenda starfsbræður og -systur, þróað verksmiðjuna til að verða í fremstu röð á mörgum sviðum. Sprotafyrirtæki hafa þróazt í samstarfi við áliðnaðinn oftast með því að frumkvöðlar þeirra hafa aflað sér dýrmætrar reynslu innan vébanda áliðnaðarins, t.d. í Straumsvík. Ef hins vegar tæknifólk hefur ætlað sér um of, þótzt í stakk búið að veita ráðgjöf, án þess að afla sér nauðsynlegrar þekkingar og reynslu af viðkomandi ferlum fyrst, hefur það endað með ósköpum.
- Fjármagn: Á Íslandi námu fjárfestingar 14,9 % af vergri landsframleiðslu árið 2012. Þetta er mjög lágt, og umsóknin um aðildina að Evrópusambandinu, ESB, hefur þar engu breytt. Það var rétt eitt innantóma glamrið úr aðildarsinnum. Þetta er hættulega lágt fyrir íslenzkan þjóðarbúskap, enda svipað og í Grikklandi, þar sem hagkerfið er við dauðans dyr. Skýringanna er ekki einvörðungu að leita í gjaldeyrishöftunum, heldur ekki síður í öfugsnúnum stjórnvöldum, sem með fjárfestingafjandsamlegri stefnu sinni, miklum skattahækkunum og viðundurslegum aðferðum, hafa fælt frjárfesta frá, svo að ekki sé nú minnzt á gáleysislegt tal á borð við "you ain´t seen nothing yet" fjármálaráðherrans, þáverandi. Bein afleiðing lítillar fjármunamyndunar í landinu er lágur hagvöxtur, en hann hefur aðeins verið um 2,5 % árin 2011-2012. Þessi litli hagvöxtur er einn versti áfellisdómurinn yfir vinstri stjórninni. Þetta er ótrúlega lélegur árangur í hagstjórn eftir stórfellt samdráttarskeið. Með vinstri flokkana við völd er engin von um meiri fjárfestingar og hærri hagvöxt, hversu lengi sem þeir þæfa Berlaymont karla og kerlingar. Stöðnun hagkerfisins er bein afleiðing stjórnarstefnunnar. Þar má nefna skattpíningu á formi nýrra skatta og skattahækkana, sem nemur 90 milljörðum kr, bæði á einstaklinga og fyrirtæki. Þar má líka nefna sífellt meiri skriffinnsku ("red tape"), eyðublaðaútfyllingar og gagnslítið eftirlitskerfi opinberra aðila, sem ESB (Evrópusambandið) heimtar í mörgum tilvikum og stjórnarflokkunum þykir sjálfsagt að skella á fyrirtækin, þó að þetta dragi augljóslega úr atvinnusköpun. Tryggvi Þór Herbertsson ritaði um þetta góða grein í Morgunblaðið 12. janúar 2013, "Rekstrarumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja". Hann bendir þar á, að lítil og meðalstór fyrirtæki, líklega frá 1-100 manns, veita 90 % mannaflans vinnu á Íslandi. Þessi fyrirtæki eiga erfitt uppdráttar í reglugerða frumskóginum, sem forræðishyggjan er búin að koma á. Þetta er farið að virka hamlandi á fjárfestingar þessara fyrirtækja og þar með atvinnusköpun. Þess vegna verður einn þáttur í að auka fjárfestingar á Íslandi upp í 20 % - 30 % af VLF, eins og brýna nauðsyn ber til, svo að þjóðarkakan nái að stækka ört, að grisja þetta illgresi, sem engu skilar öðru en skjalaflutningi á milli búrókrata. Tryggvi skrifar: "Ísland hefur undirgengizt miklar kvaðir með samningum um hið Evrópska efnahagssvæði. Eftirlitsþátturinn er umfangsmikill og margbrotinn. Reglugerðir eru flóknar og dýrar í framkvæmd. Tafsamt og dýrt er að afla opinberra leyfa og uppfylla skilyrði þeirra. Svona mætti lengi telja. Þá hafa Íslendingar sjálfir leitt í lög og sett í reglugerðir kröfur, sem enn þyngja rekstrarumhverfið. Hvaða vit er t.d. í því, að það þurfi 13 leyfi og mikinn eftirlitskostnað, ef einyrki vill fara út í skelrækt, eða af hverju þarf fullkomna slátrunaraðstöðu og ómælt eftirlit, ef bóndi vill slátra búpeningi sínum heima á býli ? Það hlýtur að vera hægt að fara einhvern milliveg frá því, sem nú er", skrifar TÞH. Það er auðvitað hægt að skera forræðishyggjuna niður við trog, og það verður að gera það til að fá hjól atvinnulífsins til að snúast eðlilega. Það verður líka að stórlækka tryggingargjald, sem er launatengt gjald, sem hamlar fjárfestingum og nýjum störfum. Lækkun úr um 8 % niður í 5 % mundi skila sér í minni þörf á atvinnuleysisbótum og aukinni veltu í þjóðfélaginu. Skattaívilnanir vegna hlutafjárkaupa koma til greina, skrifar Tryggvi, og skal taka undir það. Gjörbreyting verður að eiga sér stað á framkomu stjórnvalda í garð atvinnulífsins til að örva fjárfestingar, og gjörbreytingu verður að gera á auðlindastefnunni. Núverandi stjórnvöld virðast líta á það sem sitt helgasta hlutverk að gera auðlindanýtingu tortryggilega og eins óaðlaðandi og óhagvæma fyrir þann, sem vill hætta fé sínu í slíka starfsemi, og mest má vera. Þessi gróðaótti er sjúklegur. Ávinningsvonin knýr atvinnuþróunina, og gróðinn safnast sjaldan undir kodda. Ofan af þessari afturhaldshugmyndafræði verður að vinda. Stjórnvöld hérlendis hafa gjörsamlega farið offari gagnvart auðlindanýtendum. Svo hart er gengið að sjávarútveginum, að fyrirtæki þar eru tekin að leggja upp laupana og önnur fækka fólki, skreppa saman, geta lítið fjárfest og missa slagkraft á erlendum mörkuðum. Orkuverð til orkukræfs iðnaðar er við hámark þess, sem gerist á meðal slíkra fyrirtækja, sem standa þurfa óstudd á markaðinum, þó að hann taki dýfu, og samt bæta stjórnvöld á Íslandi gráu ofan á svart með því að skella óvænt á tímabundnum rafskatti og bíta svo hausinn af skömminni með því að framlengja hann viðræðulaust. Þessar aðfarir hafa rýrt mjög traust erlendra fjárfesta til íslenzkra stjórnvalda, og glatað traust tekur alltaf langan tíma að endurheimta, ef það er þá hægt. Íslendingar eru að tapa að minnsta kosti 100 milljörðum af árlegri landsframleiðslu vegna fjandsamlegra og afturhaldssinnaðra stjórnvalda. Um þetta segir Orri Hauksson, framkvæmdastjóri Samtaka Iðnaðarins, í viðtali í Morgunblaðinu 12. janúar 2013 við Hörð Ægisson: "Það er mjög grátlegt, og í raun algjör óþarfi, að við skulum ekki hafa nýtt allan þennan tíma til að leggja grunn að því að efla útflutningsgetu þjóðarbúsins." Síðasta dæmið um afturhaldssinnuð sjónarmið stjórnvalda er afstaðan til olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Þar hefur íslenzkum stjórnvöldum tekizt að unga út flóknara og illvígara skattkerfi en Norðmönnum, og er þá langt til jafnað, svo að afleiðingin verður sú, að borað verður Noregsmegin og dælt upp úr brunnum Íslendinga. Ekkert öflugt olíufélag léði máls á þátttöku vegna ofurskattlagningar íslenzku ríkisstjórnarinnar á olíuvinnsluna og hálfvelgju ríkisstjórnarinnar. Hvers konar endemis barnaskapur er það að hálfu þessarar kjánalegu ríkisstjórnar að leggja öll íslenzku olíuleitareggin í körfu Norðmanna, sem eru nágrannar á Drekasvæðinu og ætla augljóslega að ráða þar framvindunni beggja vegna markalínunnar ? Við svo búið má ekki standa, ef mönnum er alvara í, að þjóðin auðgist á þessari auðlind. Með þessu áframhaldi verða allir fundir Noregsmegin. Vinstri kálfarnir halda, að til þess að ná hámarksarði auðlindarinnar, þurfi að keyra skattheimtuna í botn. Það er fjarri lagi, eins og kennt er á undirstöðunámskeiðum auðlindanýtingar. Hér ráða blindingjar, sem virðast hafa dottið ofan úr tunglinu, eru ofan dottnir, og aldrei lært neitt af viti. Skattheimtan verður að vera lægri en sú norska til að fá alvöru samstarfsaðila, sem skákað geta "Ola Nordmann og Kari". Á rannsóknarstiginu geta Norðlendingar vafalaust aflað verðmætra þjónustuverkefna. Það er svo eftir öðru, að Vinstri hreyfingin grænt framboð virðist vera á móti rannsóknum þar norður frá, þó að formaður þeirra hafi látið undan öðrum þrýstingi um úthlutun sérleyfa. Hláleg eru rökin um, að Íslendingar eigi að láta lindir sínar liggja ónýttar. Það mun engu breyta fyrir lofthjúp jarðar. Ofstækismenn, sem blásið hafa á rök stóriðjusinna um minni mengun á Íslandi við álframleiðslu en annars staðar, ættu að hafa hægt um sig í þessum efnum.
- Stjórnmálalegur vilji: Hér mun allt hjakka í sama vonleysisfarinu og verið hefur, nema skipt verði um stjórnvöld og stjórnarstefnu. Ríkisstjórnin þarf að fara út á fjármálamarkaðinn og kynna rækilega breytingu á stjórnarstefnu og stjórnarháttum. Orðum verða að fylgja athafnir á formi skattalækkana, sem gera landið aðlaðandi fyrir fjárfesta. Þannig munu skatttekjur ríkisins vaxa vegna öflugri skattstofns. Þetta skilja vinstri menn ekki. Annars væru þeir ekki vinstri menn. Við þurfum að verða á pari við Írska lýðveldið, sem er furðu borubratt þrátt fyrir ægilegar klyfjar, sem Evrópusambandið neyddi ríkissjóð þeirra til að taka á sig til að bjarga einkabönkum á Írlandi frá gjaldþroti. Ástæða þess, að Írar eru furðu rófusperrtir, er, að erlendir aðilar hafa fjárfest í samkeppniiðnaði á Írlandi, sem boðið hefur upp á hagkvæmt skattaumhverfi. Vitneskjan ein um gas- og olíulindir í lögsögu þjóða hefur jákvæð áhrif á lánadrottna. Dæmi um þetta eru Kýpverjar, en þeir eru í raun gjaldþrota núna með sína evru og aðild að ESB. Kýpur fór nýlega fram á lánveitingu að upphæð 17,5 milljarðar EUR, sem jafngildir hvorki meiru né minnu en einni landsframleiðslu Kýpverja. Hér yrði þess vegna um risalánveitingu að ræða í krafti þess, að talið er, að árið 2019 muni Kýpverjar geta séð ESB fyrir um 10 % af gasþörf þess. Á íslenzka hluta Drekasvæðisins eru talin vera vinnanleg olía og gas að jafngildi 10 milljörðum tunna. Andvirði þessarar auðlindar má meta á 1000 milljarða evra, en hafa ber í huga, að stinninginn kostar að ná þessari auðlind upp og koma henni í hendur viðskiptavinarins.
8.8.2012 | 10:35
Orkuverð hér og þar
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að stjórn og forstjóri Landsvirkjunar hafa mótað aðra stefnu um verðlagningu raforku en fyrrverandi stjórn og forstjóri, Friðrik Sophusson. Skammt er frá því að segja, að nýja stefnan hefur reynzt hið mesta óráð, enda er hún reist á röngum forsendum.
Hin fyrri ranga forsenda er, að íslenzk orka sé að keppa við evrópska orku um viðskiptavini, og þess vegna beri verðlagningunni að draga dám af verðlagningu raforku í Evrópu. Þetta er kolröng forsenda, eins og bezt sést á því, að undanfarin tvö ár hefur áliðnaður á meginlandi Evrópu dregið saman seglin um fjórðung. Ástæðan er orkuskortur í Evrópu, m.a. vegna lokunar kjarnorkuvera, og ótti fjárfesta við kolefnisskatt. Nú hefur framkvæmdastjórn ESB hins vegar lýst því yfir, að til að varna "kolefnisleka" til annarra landa, sem ekki ætla að leggja kolefnisskatt á, muni hún veita tímabundna undanþágu frá kolefnisskatti til samkeppniiðnaðar. Þetta mun þó hvorki nægja til að draga að nýja starfsemi á sviði orkukræfs iðnaðar né auka við þá, sem fyrir er, því að raforkuseljendur í Evrópu eru ófúsir að gera langtímasamninga um orkusölu vegna óvissunnar í Evrópu.
Vestur-evrópsk orkufyrirtæki gerðu þau mistök fyrir nokkrum árum að gera samning til 20 ára um kaup á gasi frá Gazprom í Rússlandi á verði, sem er fimmfalt núverandi gasverð í Bandaríkjunum, BNA. Reyna kaupendurnir nú að fá þessum samningum hnekkt. Rússneski björninn vill hins vegar tengja gasverð við heimsmarkaðsverð á olíu. Nú eru hins vegar að þróast sjálfstæðir gasmarkaðir, sem munu knýja orkuverð niður á við. Af þessu sést, að orkumarkaðurinn á Íslandi á fátt sameiginlegt með evrópska markaðinum og augljóst, að þessir tveir markaðir þróast eftir ólíkum leiðum, enda birgjar og viðskiptavinir gjörólíkir.
Hin ranga forsendan er, að raforkuverð í heiminum sé á uppleið, og þess vegna sé réttlætanlegt að hækka á einu bretti heildsöluverð um þriðjung. Þessi skoðun Landsvirkjunarforystunnar er annaðhvort reist á mikilli vanþekkingu eða kolröngum ályktunum af tiltækum staðreyndum, því að þessu er þveröfugt farið, eins og rakið var í greininni, "Don Kíkóti tengir vindmyllur með sæstreng", hér á vefsetrinu og tíundað verður enn frekar í þessum pistli. Verðlagningarstefnu Landsvirkjunar verður að gjörbreyta hið fyrsta. Annars missa Íslendingar af mikilvægum erlendum fjárfestingum og iðnaðartækifærum. Sæstrengsóra má skrínleggja strax, því að raforkuverð í Evrópu hefur þegar náð hæstu hæðum og mun fara lækkandi að raunvirði.
Ástæðan fyrir verðlækkun raforku í heiminum, sem hafa mun sín áhrif í Evrópu, er gríðarleg aukning framboðs á eldsneytisgasi, bæði venjulegu jarðgasi og s.k. setlagagasi (shale gas). Áætlað er, að gasbirgðir heimsins muni endast í 200 ár þrátt fyrir, að það muni líklega standa undir 35 %-50 % af frumorkunotkun heimsins um 2050, sem jafngildir um tvöföldun hlutdeildar m.v. nútímann. Þar er orkubylting á ferðinni.
Verðið á gasi hefur vegna mikils framboðs fallið á frjálsum mörkuðum, en þar sem gasverð er enn tengt olíuverði, eins og í Evrópu, þar sem Gazprom neitar að lækka verðið, hefur verðið lækkað mun minna. Gasverðið og þar með raforkuverðið í Evrópu mun þó án vafa lækka enn meira á næstu árum að raunvirði. Landsvirkjun er þar af leiðandi á kolröngu róli með sína gríðarlegu orkuverðshækkun nýrra langtímaorkusamninga. Af þessum ástæðum hefur Landsvirkjun orðið af hagstæðum langtímasamningum. Þetta þýðir, að Landsvirkjun verður að taka upp hefðbundna verðlagningarstefnu, sem reist er á jaðarkostnaði í kerfinu í stað einhvers konar spákaupmennsku. Þá er virkjunum stillt upp í hagkvæmniröð og t.d. meðaltal kostnaðar 5 næstu virkjana lagt til grundvallar verðlagningu. Komandi Alþingiskosningar munu vonandi valda straumhvörfum á þessu sviði sem mörgum öðrum.
Hlutdeild gass á kostnað kola við raforkuvinnslu hefur stóraukizt í Bandaríkjunum og er nú komin í 25 % og gæti verið komin yfir 50 % árið 2030 vegna verðþróunar og helmingi minni koltvíildislosunar per kWh en í kolakyntum orkuverum. Bandaríkjamönnum hefur þannig tekizt að minnka koltvíildislosun sína um 800 milljónir tonna af CO2 án skuldbindinga á meðan þessi losun hefur vaxið í ESB þrátt fyrir orðagjálfur stjórnmálamanna og tuð búrókrata, skuldbindingar Kyoto og 20/20 markmiðin og tilskipanir kommissara í Brüssel um hið mótsetta.
Evrópa er furðusein á sér að taka við sér í nýtingu setlagagass. Draugasögur eru þar á kreiki um eld, sem standi út úr krönum fólks í heimahúsum vegna blöndunar gass við drykkjarvatnsforða. Tækniþróun við vinnslu setlagagassins er ör, og umhverfisáhætta við vinnsluna er lítil, en ávinningur andrúmslofts og buddu almennings ótvíræður. Þjóðverjar hafa mótað aðra stefnu í orkumálum. Þeir ætla að auka gríðarlega hlutdeild sjálfbærra orkugjafa í orkuvinnslu sinni, þ.e. vinds, sólar og lífmassa, og verða 50 % af frumorkunotkun þeirra árið 2040. Gasbyltingin fellur ekki að þessum áætlunum, en iðnaði Þýzkalands lízt ekki á blikuna vegna mun hærra orkuverðs og minni áreiðanleika í orkuafhendingu.
Sýnir þetta dæmi með skýrum hætti muninn á því, hvernig frjáls markaður og haftamarkaður vinnur, t.d. á sviði mengunarvarna. Stjórnmálamönnum verður ekkert ágengt, ef þeir eru úr tengslum við athafnalífið. Það, sem bandarískir stjórnmálamenn gerðu, var að veita vinnsluleyfi fyrir setlagagasið, sem sumir evrópskir stjórnmálamenn hafa bannað. Þar með tryggðu Bandaríkjamenn mikið framboð af gasi, einnig í þjóðaröryggislegu augnamiði, og markaðurinn hefur síðan unnið sitt starf neytendum í hag og umhverfinu til góðs.
Undanfarinn áratug hefur orðið bylting í olíu-og gasvinnslu heimsins. Þessi tæknibylting er að breyta eldsneytismarkaðinum úr seljendamarkaði í kaupendamarkað. Tvennt kemur hér til:
- Bortækni hefur fleygt fram. Nú er hægt að bora á ská og lárétt. Samhliða hefur mælitækni tekið framförum. Geislavirknimælingar gefa til kynna, hvar er berg og hvar er sandur eða setlög. Leiðnimælingar gefa til kynna, hvort í sandinum eða setlögunum er að finna eldsneyti. Lág leiðni gefur til kynna olíu eða gas. Þannig er unnt frá einum borpalli að beina borkrónunni á líklegar lindir. Iðulega er borað 2-3 km lóðrétt og síðan allt að 12 km á ská eða lárétt. Gefur auga leið, hversu mjög boranir verða árangursríkari og ódýrari fyrir vikið, enda hafa fjölmörg fyrirtæki sérhæft sig í þessari nýju bortækni. Fyrirtæki með miaUSD40 í veltu á þessu sviði geta búizt við miaUSD5 í hreinan ágóða.
- Hin byltingin er jarðgasvinnsla úr setlögum. Þá er ofangreindri bortækni beitt og síðan er dælt vatni niður undir miklum þrýstingi. Vatnið sprengir upp setlögin og losar um gas þaðan, sem síðan streymir upp. Þessi aðferð nefnist "fracking" á ensku, sem nefna mætti sundrun á íslenzku. Nokkuð mikið vatn er notað við þetta, en þó minna en á golfvöllum BNA.
Nú eru þekktar gasbirgðir í heiminum 755 Trn m3 samkvæmt "International Energy Agency" og skiptast þannig eftir landsvæðum (Trn m3=trilljón rúmmetrar; 1 Trn=1 þúsund milljarðar):
- Austur Evrópa að Rússlandi meðtöldu: 174 Trn m3 eða 23 %
- Mið-Austurlönd: 137 Trn m3 eða 18 %
- Asía (Kyrrahafsmegin): 132 Trn m3 eða 18 %
- OECD-Norður-Ameríka: 122 Trn m3 eða 16 %
- Afríka: 74 Trn m3 eða 10 %
- Mið-og Suður-Ameríka: 71 Trn m3 eða 9 %
- OECD-Evrópa: 45 Trn m3 eða 6 %
Þessi dreifing gasauðævanna er allt önnur en dreifing olíuauðævanna. Fyrir vikið sér OPEC sína sæng út breidda. Bandaríkin (BNA) eru frumkvöðlar setlagagasvinnslunnar og stefna að því að verða sjálfum sér nóg um eldsneytisþörf innan fárra ára, en Bandaríkjamenn flytja nú inn 17 milljónir tunna af olíu á sólarhring. Þetta mun gjörbreyta valdajafnvæginu í heiminum, og mikilvægi Hormuz-sunds mun stórminnka. Fyrir vikið gæti orðið friðvænlegra í heiminum.
Núna skiptist frumorkuvinnsla heimsins nokkurn veginn þannig: olía, kol og gas hvert með um 26 %, alls 78 %, og fallvötn, kjarnorka, vindur ofl. endurnýjanlegt: um 7 % hvert, alls 22 %. Gasnotkun mun aukast á kostnað olíu og kola, og heildareldsneytisnotkunin mun aukast, þannig að summa eldsneytisorkugjafanna mun fara yfir 80 % árið 2035, en það ár búast Bandaríkjamenn við, að árleg notkun þeirra á gasi nemi 820 miö m3 og sjái BNA fyrir helmingi frumorku sinnar. Þeir eru frumkvöðlar á þessu sviði, svo að um 2050 má vænta helmingshlutdeildar gass í frumorkunotkun heimsins.
Nú er koltvíildislosun út í andrúmsloftið um 30,7 Gt/a, en spáð er, að hún muni vaxa um 20 % til 2035 og nema þá 36,8 Gt/a, þrátt fyrir helmingi minni losun á hverja kWh frá gasbruna en kolabruna. Skýringarinnar er þar að leita, að orkuverðið mun lækka og þar með mun orkunotkun vaxa per mann (og þar að auki verður fólksfjölgun). Afleiðingin verður sú, að aukið gasframboð mun ekki leiða til minni losunar gróðurhúsalofttegunda.
Árið 2035 er hins vegar mjög líklegt, að samrunaorkan verði komin til skjalanna. Einkafyrirtæki í Bandaríkjunum eru komin að þröskuldi í þróun samrunaorku, og það eru yfirgnæfandi líkur á, að innan tveggja áratuga muni takast að ná endanlegri lausn á orku-og gróðurhúsaloftsvanda heimsins. Þá kunna endurnýjanlegar orkulindir og tiltölulega mengunarlausar að lækka í verði. Grípa verður gæsina á meðan hún gefst.
8.7.2010 | 22:28
Sæstrengur
Um allmörg ár hefur lífi verið haldið í umræðu hérlendis um sæstreng frá Íslandi. Því miður hefur ríkisfyrirtækið Landsvirkjun átt þar nokkurn hlut að máli. Hafa þá ýmis viðtökulönd verið nefnd til sögunnar, s.s. Noregur, Þýzkaland, Holland og Stóra-Bretland. Allt eru þetta þó fótalausir draumórar og léleg viðskiptahugmynd.
Til að eitthvað að ráði komi út um móttökuenda sæstrengs, sem er yfir 300 km að lengd, þarf að breyta strauminum úr riðstraumi í jafnstraum áður en hann fer inn í sæstrenginn. Eftir því sem strenglengdin er meiri þarf straumflutningsspennan jafnframt að hækka til þess að flutningstöpin keyri ekki úr hófi fram. Þarna stendur hnífurinn í kúnni. Núverandi jafnstraumsstrengir mestu vegalengda, e.t.v. 600 km, eru olíufylltir og pappírseinangraðir. Slíkir þola ekki að vera lagðir á hið mikla dýpi, sem aðskilur Ísland og t.d. Skotland, en þar fer dýpið í a.m.k. 1000 m. Vegalengdin að landtökustað á Skotlandi er um 1100 km.
Kostnaður við slíkan streng verður gífurlegur, þegar tæknin loks leyfir framleiðslu hans, og töpin verða feiknarleg. Orkusala um slíkan streng mun seint eða aldrei geta keppt við orkusölu til stóriðju, t.d. álvera. Varpað er ljósi á þetta í grein höfundar þessa vefseturs í sumarhefti tímaritsins Þjóðmála, og er tengill að þeirri grein með þessum pistli. Þar er varpað ljósi á þessi sæstrengsmál með dæmi um sæstreng til Færeyja, sem væri tæknilega unnt að leggja nú og sennilega stjórnmálalegur vilji fyrir í báðum löndunum. Um þetta gildir hins vegar hið fornkveðna: "Kóngur vill sigla, en byr hlýtur að ráða".
Jafnvel þessi strengur er óarðsamur m.v. núverandi heimsmarkaðsverð á orku, sem markast mest af olíuverði. Afar ósennilegt er, að Færeyingar séu ginnkeyptir fyrir orkukaupum um þennan sæstreng við því verði, sem nauðsynlegt er til að lágmarksarðsemi verði af honum, nema olíuverð hækki verulega, eins og rakið er í greininni, "Gull og grænir skógar".
Það, sem kynt hefur undir þessari glórulitlu sæstrengsumræðu hingað til er andstaðan við orkusölu til stóriðju. Það er hins vegar auðvelt að sýna fram á, að hún er þjóðhagslega mun hagkvæmari en orkusala til útlanda um sæstreng. Þetta helgast auðvitað af þeirri atvinnusköpun, sem á sér stað í landinu við nýtingu orkunnar.
Á tímum, þegar deilur virðast undantekningalítið verða allharðar um hvern einasta virkjunarkost, gefur auga leið, að skapa verður hámarksverðmæti úr virkjuðu afli og framleiddri orku. Þá mun þykja óviðunandi að virkja til útflutnings "hrárrar orku", nema til vina okkar og frænda í Færeyjum, sem þurfa tiltölulega lítla raforku héðan til að losa sig við raforkuvinnslu með olíu.
Hér að ofan var minnzt á tímaritið Þjóðmál. Tímarit þetta hefur á fáeinum árum haslað sér völl sem vettvangur frumlegra og fróðlegra ritsmíða, sem erindi eiga við nútímann, sem oft á tíðum er bundinn í viðjar viðtekinnar og gagnrýnilítillar hugsunar tiltölulega einsleits hóps þokulegra manna og kvenna. Hægt er að kaupa ritið í lausasölu hjá bóksölum, en þægilegast er að gerast áskrifandi hjá Andríki, sem tengill er að hér á síðunni, og fá ritið í póstkassann. Þarf þá enginn "að sitja með skeggið í póstkassanum", en það er orðtak Norðmanna um þá, sem berir verða að vanþekkingu á því, sem þeir ættu að vita betur um.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.11.2009 | 23:15
Álspjall
Hin sanna íslenzka útrás í upphafi 21. aldarinnar á sér nú stað með íslenzkri verktöku erlendis. Í Abu Dhabi, sem er hluti af Sameinuðu arabísku furstadæmunum við Persaflóann, starfar um þessar mundir einn tugur verk-og tæknifræðinga frá einni verkfræðistofu í Reykjavík. Nýlega barst höfundi mynd af þeim ásamt forseta lýðveldisins frá kollega þar, sem tekin var 23.11.2009.
Tæknimennirnir íslenzku höfðu unnið við hönnun og vinna nú að gangsetningu á fyrsta áfanga 1,4 Mt/a (milljón tonna afkastageta á ári) álvers í Abu Dhabi, EMAL, og á þessi fyrsti áfangi að framleiða 0,7 milljónir tonna áls, sem er litlu minna magn en nemur ársframleiðslugetu álvera á Íslandi um þessar mundir. Sýnir þetta vel, hversu lítil íslenzku álverin eru. Þegar búið verður að ryðja sótsvörtu afturhaldinu úr vegi, verður hægurinn á að tvöfalda framleiðslugetuna hérlendis.
Upplýsingar úr Seðlabanka Íslands benda til, að okkur sé ekki til setunnar boðið, þó að ríkisstjórnar viðundrið sitji sem fastast með hendur í skauti. Til að standa undir vöxtum og afborgunum erlendra lána þarf að tvöfalda gjaldeyrisafganginn. Þetta þýðir þó auðvitað ekki, að tvöfalda þurfi útflutningstekjurnar, en þær þurfa að vaxa hér um bil um fjórðung. Með öðrum orðum þarf viðskiptajöfnuðurinn við útlönd að tvöfaldast og verða um ISK 160 milljarðar. Til þess þurfa allar þrjár undirstöðurnar að vaxa, þ.e. tekjur af ferðamönnum, fiskútflutningi og iðnaði. Landbúnaðurinn þarf að eflast líka til að spara gjaldeyri. Hlýnandi loftslag bætir samkeppnistöðu hans. Jákvæð teikn eru á lofti um sjávargæftir, og er réttlætanlegt að taka áhættu með auknum kvóta í núverandi stöðu efnahagslífsins og markaðsverð sjávarafurða. Þá mun tækniþróunin senn leiða til hagstæðra rafmagnsfartækja, sem létta munu byrðarnar af eldsneytiskostnaði, nema ríkisstjórnin geri verð innlendrar orku óbærilegt. Stjórnvöld vita ekki, hvað þau gera, enda verða borgaraleg öfl að láta verða eitt af sínum fyrstu verkum eftir valdatökuna að vinda ofan af skattaáþján vinstri flokkanna. Aldrei aftur vinstri stjórn !
Til að koma fjölbreytilegum hópi fólks til vinnu og auka gjaldeyrisstreymi til landsins er áhrifaríkast nú að hefja virkjunarframkvæmdir, línulagnir og byggingu álvera. Álmörkuðum er spáð bjartri framtíð með meðalverði 2500 USD/t, svo að það er ekki eftir neinu að bíða, nema nýjum valdhöfum, sem kunna til verka, skilja lögmál efnahagslífsins, hafa frambærilega framtíðarsýn og geta veitt þessu landi forystu.
Ál leikur stórt hlutverk við að draga úr losun CO2 frá samgöngutækjum. Kostir áls koma ekki einvörðungu fram á notkunartímabili fartækisins, heldur ekki síður, þegar að förgun þess kemur. Óendanleg endurvinnsluhæfni áls ásamt förgunarverðmæti þess og lítilli orkuþörf við endurvinnsluna gerir álið afar aðlaðandi og samkeppnihæft fyrir léttvigtarlausnir í samgöngugeiranum.
Hönnuðir bílaiðnaðarins nota sífellt meira af áli í bíla sína. Hingað til hefur ál aðallega verið notað af bílaiðnaðinum í steypta hluti eins og vélarhús og gírkassa. Á síðustu árum eru verkfræðingar teknir að nýta ál á mun fleiri sviðum bílaframleiðslunnar.
Létt samgöngutæki leggja sitt að mörkum í baráttunni við hlýnun jarðar. Þetta á t.d. við um fólksbíla, pallbíla og strætisvagna. Að meðaltali sparar eitt kg af áli eftirfarandi massa af CO2 yfir endingartíma farartækisins:
- 20 kg í fólksbílum
- 28 kg í stærri einkabílum (pallbílum, jeppum)
- 45 kg í strætisvögnum
Þegar þess er gætt, að beztu álver, t.d. hérlendis, losa einvörðungu 1,7 kg gróðurhúsalofttegunda við framleiðslu hvers kg áls, fer ekki á milli mála, hversu gríðarlega umhverfisvæn framleiðsla á hér í hlut.
Samkvæmt nýlegri skýrslu Ducker í Þýzkalandi er meðaltals massi áls í evrópskum bíl 124 kg árið 2009. Aukningin hefur numið um 10 % árlega undanfarinn áratug. Ál er klárlega hluti af lausn samgöngugeirans í viðleitni hans við að nálgast sjálfbærni. Hér er ekki um neitt smáræðis magn að ræða. Bílaiðnaður heimsins mun senn þurfa um 10 Mt/a Al, sem er fjórðungur heimsframleiðslunnar. Heimseftirspurnin eykst um 1,6 Mt/a Al, og þar af eykst eftirspurn samgöngugeirans um 1,0 Mt/a Al. Þessi þróun mun knýja fram hátt jafnvægisverð áls eða um 2500 USD/t. Íslendingar geta með núverandi áformum sínum aukið framleiðslu sína um 700 kt/a Al eða um 80 %. Söluverðmæti þeirrar aukningar nemur um MUSD 1750 eða ISK 220 milljörðum. Af því munu sitja um ISK 88 milljarðar eftir í landinu.
Fjölgun erlendra ferðamanna um 100 þúsund á ári og aukning aflaverðmæta sjávarútvegs sem nemur 50 kt/a þorskígilda, gæfi þjóðarbúinu nettó um 15 milljarða.
Af þessu sést, að sú viðbótar gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins, sem Seðlabankinn telur nauðsynlega til að standa í skilum við útlönd, þ.e. um ISK 100 milljarðar, er gerleg. Hún er hins vegar algerlega ógerleg, ef stjórnvöld fylgja eftirfarandi stefnu:
- forðast ber erlendar fjárfestingar á Íslandi, eins og heitan eldinn
- þvælast skal fyrir öllum framkvæmdum í landinu, sem öfgahópar í skúmaskotum þjóðfélagsins leggjast gegn
- gera skal marxískar tilraunir með eignaupptöku á útgerðum landsins
- slá skal fyrri met vinstri stjórna á Íslandi í skattheimtu, beinni og óbeinni, af heimilum, fyrirtækjum og erlendum ferðamönnum landsins
Einmitt þetta er stefna þess fyrirbrigðis, sem nú vermir stóla Stjórnarráðsins. Á meðan sú staða er uppi, eru okkur allar bjargir bannaðar. Lágkúrulegustu og ámáttlegustu ríkisstjórn í sögu þjóðarinnar verður sem fyrst að urða í minningunni einni saman með öllu sínu hafurtaski. Þjóðin hefur nú verið bólusett gegn vinstri veikinni í einn mannsaldur.
Vísindi og fræði | Breytt 28.11.2009 kl. 13:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)