Færsluflokkur: Vísindi og fræði
21.12.2016 | 13:17
Lækkun raforkuverðs
Á það hefur verið bent á þessum vettvangi og víðar, að raunlækkun raforkuverðs sé orðin tímabær og sé í raun réttlætismál almenningi til handa. Ástæðurnar eru viðsnúningur til hins betra í afkomu helztu raforkuvinnslufyrirtækjanna í landinu og hlutfall orkuverðs til almennings og stóriðjufyrirtækjanna í hlutfalli við vinnslukostnað raforku til þessara aðila. Þetta er einnig kærkomið mótvægi við hækkunartilhneigingu flutningskostnaðar raforku, sem gæti orðið framhald á, ef hlutdeild jarðstrengja í nýframkvæmdum flutningskerfisins eykst.
Nú hafa þau gleðilegu tíðindi orðið, að Landsvirkjun hefur tilkynnt raunlækkun á 10 % af orkusölu sinni, sem er um helmingur af orkusölu hennar til almennra sölufyrirtækja raforku. Þetta segja talsmenn Landsvirkjunar, að jafngildi 2,6 % raunverðlækkun á verði hennar til sölufyrirtækjanna. Þar sem orkuverðið er aðeins um 30 % af heildarverði per kWh, því að flutningur og dreifing nema um 50 % og opinber gjöld um 20 %, þá munu almennir notendur sjá lækkun innan við 1,0 %. Boðuð hefur verið hækkun flutningsgjalda (Landsnets) og lækkun dreifingarkostnaðar t.d. hjá OR-Veitum. Neytendur munu þá e.t.v. sjá 1 %-2 % lækkun einingarverðs, sem er lítil, en góð byrjun. Afkomuþróunin í raforkugeiranum gefur fulla ástæðu til að hefja nú verðlækkun á raforku til almennings.
Landsvirkjun útskýrir þessa lækkun með bættri nýtingu uppsetts afls í virkjunum vegna sveigjanlegri orkusölusamninga. Þetta þýðir, að Landsvirkjun getur frestað næstu virkjun að öðru óbreyttu og mun þá reka núverandi virkjanir á afli, sem er nær málraun (ástimplaðri aflgetu) virkjananna, og mun þess vegna nýta fjárfestingar sínar í virkjunum betur en áður, sem styttir endurgreiðslutíma virkjananna, þar sem árleg sala vex. Þetta er ágætt, ef það eykur ekki líkur á orkuskorti í þurrkaárum. Hér ber að hafa í huga, að engu er líkara en löggjafinn hafi reiknað með tiltæku neyðarafli af einhverju tagi, ef orkuskortur verður í kerfinu. Ekkert er fjær sanni, og enginn virkjunaraðili er skuldbundinn að viðlagðri refsingu til að sjá til þess, að hér komi ekki upp forgangsorkuskortur. Þetta er óviðunandi og er efni í sérpistil.
Þróun rafbúnaðar er m.a. í þá átt, að við notkun hans verða minni afltöp en í eldri búnaði til sömu nota. Þetta á t.d. við um ljósabúnað og eldunarbúnað. Þessi búnaður kemur inn af fullum þunga á háálagstímum, og bætt nýtni hans leiðir þá til lægri toppaflsþarfar. Lækkun toppálags af þessum völdum gæti numið yfir 100 MW, þegar t.d. LED-perur hafa leyst af hólmi glóperur og gasfylltar perur í inni- og útilýsingu á heimilum, í fyrirtækjum, opinberum stofnunum og dreifiveitum (götulýsing). Kostnaðarlega munar talsvert um þessa tæplega 5 % lækkun toppsins.
Á móti þessu mun koma nýtt álag hleðslutækja rafbílanna, þar sem samtímaálag þeirra um miðja 21. öldina getur numið 400 MW. Það er brýnt að forða því, að þetta nýja álag ásamt álagi frá hleðslutækjum skipanna bætist ofan á núverandi toppálag. Ef tekst að færa þetta væntanlega viðbótar álag yfir á tíma núverandi lágmarksálags, þ.e. næturnar, þá batnar nýting alls raforkukerfisins enn frá því, sem nú er, þ.e. fjárfestingar til að framleiða, flytja og dreifa 1 kWh af öryggi allan sólarhringinn allan ársins hring, minnka, öllum til hagsbóta, og næturtaxti ætti þá að endurspegla mun minni fjárfestingar en ella, en hins vegar þarf að virkja fyrir aukna orkusölu. Sú orka verður þó innan við helmingur af orkuinnihaldi þess eldsneytis, sem raforkan leysir af hólmi, vegna mun hærri orkunýtni rafmagnsbíla en bíla, sem knúnir eru jarðefnaeldsneyti.
Í Morgunblaðinu þann 30. nóvember 2016 birtist Baksviðsgrein Helga Bjarnasonar um nýja kerfisáætlun Landsnets, sem hann nefndi:
"Raforkukerfið ræður ekki við orkuskipti framtíðar:
"Ekki er hægt að ráðast í atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni eða í orkuskipti til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, nema [að] byggja upp flutningskerfi raforku í landinu. Landsnet áætlar, að þörf sé á flutningi 660-880 MW til viðbótar, ef farið yrði í öll þau orkuskipti, sem rætt er um, en það myndi minnka losun um 1,5 Mt/ár, sem er um þriðjungur af árlegri losun landsmanna."
Hér er því lýst yfir, að landsbyggðinni sé haldið í raforkusvelti. Hér er aðallega átt við Vestfirði, Norðurland og Austurland. Landsnet hefur ekki verið í stakk búið til að uppfylla skyldur sínar við landsmenn, og það er grafalvarlegt og að sumu leyti áfellisdómur yfir fyrirtækinu, sem hefur ekki ráðið við ytri aðstæður og þannig brugðizt hlutverki sínu. Tafir eru á Suð-Vesturlínu, línum frá Kröflu-Þeistareykjum til kísilvers PCC við Húsavík og styrkingu Byggðalínu, svo að ekki sé nú minnzt á nýja og nauðsynlega samtengingu Norður- og Suðurlands. Meginástæðan fyrir töfunum er, að Landsnet hefur ekki náð góðu samkomulagi við alla landeigendur og náttúruverndarsamtök. Samskiptum virðist hafa verið áfátt, en sjaldan á einn sök, þá tveir deila.
Fjölda fyrirtækja er haldið í gíslingu raforkuleysis af nokkrum sérhagsmunaaðilum, sem Landsnet virðist ekki hafa lag á eða lagaleg úrræði til að tjónka við. Landsnet verður nú að söðla um, því að höggva verður á hnútinn áður en hundruða milljarða ISK þjóðhagslegt tjón hlýzt af.
Nokkurrar þvermóðsku hefur þótt gæta að hálfu Landsnets með að koma til móts við landeigendur, Landvernd o.fl. með jarðstrengjum í stað loftlína, en fyrirtækinu var vorkunn, því að lög skylduðu það til að velja jafnan fjárhagslega hagkvæmasta kostinn, en nú hefur löggjafinn veitt slaka í þeim efnum. Fyrirtækið þarf því að bregðast hratt við núna með lausnarmiðuðum tillögum um lagnaleiðir og jarðstrengi, þar sem slíkt getur leitt til sáttar í héraði og til að losa íbúa og fyrirtæki á norðanverðu landinu úr raforkusvelti, sem hefur í för með sér glötuð tækifæri til atvinnuuppbyggingar, eldsneytissparnaðar og minni mengunar.
Samkvæmt lögunum eiga nýir notendur að standa undir viðbótar kostnaði við flutningskerfið, en það getur ekki átt við hér, þar sem þeir báðu bara um rafmagn, en tóku ekki afstöðu til, hvernig flutningunum yrði háttað. Þess vegna verður Landsnet að fjármagna umframkostnaðinn með langtíma lánum og láta alla notendur standa undir viðkomandi afborgunum og vöxtum.
Um er að ræða þjóðhagslega hagkvæm verkefni, eins og fram kemur í eftirfarandi úrdrætti téðs "Baksviðs" úr umhverfismatsskýrslu Kerfisáætlunar 2016-2025:
"Í umhverfismatsskýrslunni eru hugleiðingar um hugsanleg frekari orkuskipti en fram koma í sviðsmyndum kerfisáætlunarinnar. Er þá miðað við þá framtíðarsýn, að einkabifreiðar, atvinnubifreiðar og bílaleigubifreiðar verði knúnar rafmagni í stað jarðefnaeldsneytis. Rafvæðingu fiskimjölsverksmiðja verði lokið, og rafmagn komi í stað jarðefnaeldsneytis í iðnaði. Miðað er við, að skip verði tengd við raforkukerfi í höfnum og að Ísland verði sjálfbært [sjálfu sér nógt-skilningur BJo] með ræktun helztu grænmetistegunda. Þetta kallar á betri nýtingu virkjana og frekari uppbyggingu á endurnýjanlegum orkukostum, enda myndi notkun raforku aukast um 660-880 MW. Aflið ræðst af því, hversu vel tekst til við stýringu hleðslustöðva fyrir rafknúin farartæki [hversu vel tekst til við að beina nýju álagi á lágálagstíma, t.d. nóttina - innsk. BJo].
Blekbóndi telur þessa framtíðarsýn höfunda skýrslu Landsnets raunhæfa fyrir næsta áratug, og það er þessi jákvæða þróun, sem er í uppnámi vegna núverandi fulllestunar hluta stofnlínukerfisins, þ.e. Byggðalínu. Varðandi skipin verður ekki einvörðungu að reikna með hafnartengingu, á meðan þau liggja við festar, heldur munu rafknúin veiðiskip að líkindum sjá dagsins ljós undir lok næsta áratugar.
Það verður með stuðningi ríkisvaldsins, væntanlegs orkumálaráðherra, að höggva á núverandi rembihnúta, sem nú standa a.m.k. helmingi landsins fyrir þrifum, með því að ákveða lögn á jarðstrengjum, eins og tæknilega er unnt, þar sem slíkt getur leitt til sátta við hagsmunaaðila, þó að stofnkostnaður þeirra sé hærri en loftlínanna. Á móti hækkun flutningsgjalds vegur lækkun á verði orkuvinnslunnar sjálfrar, eftir því sem afskriftabyrði orkuvinnslufyrirtækjanna lækkar og nýting fjárfestinganna batnar, en hún er reyndar nú betri á Íslandi en annars staðar vegna tiltölulega mikils og jafns stóriðjuálags.
Landsnet hefur sjálft í nýrri kerfisáætlun kynnt til sögunnar nýja lausn á flutningi afls á milli Suðurlands og Norðurlands, sem gæti leyst úr langvinnum og harðvítugum deilum um kerfislega bráðnauðsynlega styrkingu stofnkerfisins.
"Baksviðs" er þannig greint frá henni:
"Kostirnir, sem velja þarf á milli, eru í aðalatriðum tveir: Tenging landshluta með styrkingu byggðalínuhringsins eða með háspennulínu yfir hálendið. Fjórar útfærslur eru af hvorum kosti. Eru þetta í aðalatriðum sömu kostir og í fyrri kerfisáætlun. Þó er tekinn inn möguleikinn á jarðstreng á allri hálendisleiðinni. Það yrði þá jafnstraumsstrengur (DC) með tilheyrandi umbreytistöðvum á endum. Áætlað er, að lagning slíks strengs mundi kosta um miaISK 40 samanborið við miaISK 13 í loftlínu."
Það er virðingarvert af Landsneti að geta um þessa tæknilega færu leið við nauðsynlega samtengingu landshluta. Hún hefur þann ókost að vera þrefalt dýrari en grunnkosturinn, loftlína yfir Sprengisand, en þá síðar nefndu skortir aftur á móti þann stjórnmálalega stuðning, sem nauðsynlegur er, svo að hún verði raunhæf. Millilausn er lögn riðstraumsjarðstrengs allt að 50 km á sjónrænt viðkvæmasta hluta leiðarinnar. Þrátt fyrir miklu flóknari búnað má ætla, að rekstraröryggi jafnstraumsstrengs og innanhúss AC/DC-DC/AC búnaðar verði meira en rekstraröryggi loftlínu á Sprengisandi vegna veðurfars, sandbylja og mögulegs öskufalls og eldinga í nágrenni virkra eldstöðva. Við kostnaðarútreikninga þarf að leggja s.k. ævikostnað til grundvallar samanburðar á valkostum. Þar ætti að reyna að leggja mat á "umhverfiskostnaðinn" og að sjálfsögðu að taka allan rekstrarkostnað með í reikninginn.
Ákvörðun um slíkan jarðstreng yrði í samræmi við tækniþróun á þessu sviði og viðhorfstilhneigingu í þjóðfélaginu. Kostnaðarmunurinn, miaISK 27, nemur u.þ.b. innheimtum virðisaukaskatti af rafmagni á tveimur árum. Það væri því engin goðgá að fjármagna helming mismunarins með hækkun á gjaldskrá Landsnets og helminginn beint úr ríkissjóði með framlögum til Landsnets á einum áratugi í nafni umhverfisverndar og rekstraröryggis.
22.10.2016 | 13:30
Styr um fiskeldi
Efnilegasti sprotinn á meðal útflutningsatvinnugreina landsmanna nú um stundir er fiskeldið. Framleiðslugetan vex með veldishraða. Þannig var slátrað um 8,3 kt 2015 og áformað að slátra 15,2 kt 2016. Starfsemin hefur orðið fyrir aðkasti, sem þessum blekbónda hér sýnist vera illa rökstudd og eiginlega reist á hleypidómum og þekkingarleysi. Hér þarf þó e.t.v. viðbótar rannsóknir til að bæta úr þekkingarleysi.
Nú verður vitnað í dæmigerða gagnrýni á sjókvíaeldi, sem birtist á mbl.is þann 15.10.2016, þar sem var stóryrt viðtal við Hilmar Hansson, stangveiðimann m.m.:
""Norðmenn eru umhverfissóðar - þú mátt hafa það eftir mér", segir Hilmar. Hann segir fjöldamargar ár í Noregi hafa einfaldlega drepizt vegna kynblöndunar eldislaxins við villta laxastofna í ánum þar. [Þetta er svo viðurhlutamikil fullyrðing, að henni er óviðeigandi að slengja fram án rökstuðnings eða að lágmarki að nefna einhverjar ár og tímasetningar í þessu sambandi. - Innsk. BJo.] "Það er nefnilega þannig, að í hverri á er einstakur laxastofn. Þetta er ekki einn villtur laxastofn, sem finnst í ánum og heldur svo á haf út, heldur er þetta einn stofn fyrir hverja á. Áin er heimasvæði fisksins, og ef hann kynblandast, missir laxinn eiginleika sína og hættir að koma í ána sína til að hrygna.""
Annaðhvort er hér um að ræða ósvífinn hræðsluáróður gegn sjókvíaeldi á laxi eða hér eru settar fram sannaðar fullyrðingar, sem ástæða er þá til að staldra við. Hið fyrr nefnda er satt, ef upplýsingar í grein sérfræðings, sem vitnað verður til hér að neðan, standast ekki beztu þekkingu á þessu sviði. Ef hið síðar nefnda er rétt, hefur sérfræðingurinn rangt fyrir sér.
Framtíð sjókvíaeldis er mjög til umræðu núna, einkum á Vestfjörðum, af því að þar hillir nú undir byltingu til hins betra í atvinnumálum í krafti fiskeldis, sem kemur á sama tíma og efling ferðaþjónustunnar. Þetta tvennt ásamt hefðbundnum sjávarútvegi, landbúnaði og iðnaði getur skotið traustum stoðum undir afkomu og viðkomu Vestfirðinga til framtíðar. Austfirðingar, sem einnig eiga rétt á að stunda sjókvíaeldi í sínum fjörðum, hafa nú þegar traustar stoðir að standa á í atvinnulegu tilliti í krafti orkunýtingar og sjávarútvegs auk vaxandi landbúnaðar og ferðaþjónustu.
Helzta gagnrýnisefni veiðiréttareigenda, laxveiðimanna og annarra, á sjókvíaeldi á laxi tengist erfðafræðilegum atriðum og genatækni, sem fæstir leikmenn hafa á valdi sínu, en er þó algert lykilatriði að skilja, þegar meta skal, hvort erfðaeiginleikum villtra laxfiska í ám Íslands stafar hætta af genablöndun við norska eldisstofna. Hvað hafa kunnáttumenn á þessu sviði látið frá sér fara í aðgengilegum ritum ?
Jón Örn Pálsson, sjávarútvegsfræðingur, ritað afar athygliverða og fróðlega grein í Viðskiptablaðið 6. október 2016:
"Erfðablöndun - er raunveruleg hætta af laxeldi ?":
"Þeim, sem annt er um staðreyndir og vilja hafa sannleikann að leiðarljósi, er ljóst, að engar rannsóknir eða heimildir hafa sýnt, að villtir laxastofnar hafi misst hæfni til að fjölga sér eða lifa af í villtri náttúru vegna erfðablöndunar. Í Noregi, Skotlandi, Írlandi og öðrum löndum, sem hafa langa sögu í slysasleppingum, hefur enginn laxastofn horfið eða minnkað vegna erfðablöndunar, eins og áróðursmeistarar veiðiréttarhafa hér á landi halda iðulega fram á opinberum vettvangi."
Þessi orð sérfræðingsins Jóns Arnar stinga algerlega í stúf við stóryrði Hilmars Hanssonar o.fl. Þeir verða að beita röksemdafærslu í stað stóryrðaflaums og órökstuddra fullyrðinga, ef taka á mark á þeim og takmarka stórlega sjókvíaeldi, sem innan örfárra ára getur numið miöISK 50 á Vestfjörðum og miöISK 80, ef/þegar farið verður að framleiða með fyrirsjáanlegum afköstum í Ísafjarðardjúpi. Til samanburðar er velta veiðiréttarhafa sögð vera miaISK 20, en greinin er virðisaukafrí og skilar fremur litlu í opinbera sjóði.
Rök Jóns Arnar eru m.a. eftirfarandi:
"Það hefur vissulega verið staðfest, að genaflæði getur átt sér stað frá eldislaxi yfir til villtra laxastofna, en það segir sig sjálft, að gen, sem draga úr lífsþrótti eða minnka frjósemi, berast ekki á milli kynslóða. Eldislax inniheldur öll þau gen, sem villtir stofnar hafa. Gen hverfa ekki við kynbætur. Kynbætur hafa aðeins áhrif á breytileika innan einstakra gena. Þegar erfðablöndun greinist, eykst erfðabreytileiki; það staðfesta allar rannsóknir. Ratvísi er gott dæmi um erfðafestu í genamengi laxins. Enginn munur er á endurheimtum laxaseiða, sem eru afkvæmi eldislaxa í 10 kynslóðir og villtra foreldra. Eldislax er hins vegar frábrugðinn villtum stofnum að því leyti, að hann hefur meiri vaxtargetu, hærri kynþroskaaldur og litla óðalahegðun. Þessir þættir draga úr hæfni eldislaxa til að lifa af í villtri náttúru, en styrkjast í eldi, þegar nóg er af fæðu og afrán er ekki fyrir hendi. Búast má við því, að af hverjum 4000 hrognum muni aðeins 1 lax skila sér til baka til hrygningar. Það staðfestir, hvað náttúrulegt úrval er sterkur þáttur í afkomu og erfðum laxastofna. Gríðarlegur úrvalsstyrkur (yfir 99,9 %) er náttúrulegt ferli, sem hefur viðhaldið sérkennum einstakra laxastofna í þúsundir ára, þótt 3 % - 5 % villtra laxa hrygni ekki í sinni heimaá.
Áhrif frá erfðablöndun vegna einstakra tilviljanakenndra slysasleppinga fjara því hratt út, nema framandi erfðaáhrif auki lífsþrótt. Engin staðfest dæmi eru um það."
Þarna eru komin erfðafræðileg rök fyrir því, að óhætt sé að leyfa sjókvíaeldi á takmörkuðum svæðum við Ísland að viðhöfðum "ströngustu kröfum Lloyds". Erfðafræðilega rímar þessi röksemdafærsla við þá erfðafræði, sem blekbóndi lærði fyrir löngu í MR, og það hlýtur að vera unnt að beita beztu nútíma þekkingu og reynslu á þessu sviði til að taka af skarið um það, hvort íslenzkum laxastofnum er einhver hætta búin af sjókvíaeldi í fjörðum Austfjarða og Vestfjarða eða ekki. Það ber að halda í allan þann líffræðilega fjölbreytileika, sem fyrirfinnst á og við Ísland, og ógnir við hann af mannavöldum eru óviðunandi. Í þessu tilviki skal náttúran njóta vafans, en þeim vafa má hins vegar strax eyða með vísindalegum hætti. Þar leika mótvægisaðgerðir og öryggisráðstafanir rekstrarleyfishafa lykilhlutverk, og um þær segir í téðri grein:
"Árið 2014 hafði Landssamband fiskeldisstöðva frumkvæði að því, að vinna hófst við endurskoðun á lögum og reglum um fiskeldi með það að markmiði að herða kröfurnar. Nú þurfa fyrirtæki að uppfylla norska staðalinn NS9415, sem hefur skilað miklum árangri við að fyrirbyggja sleppingar í Noregi. Árin 2014-2015 er áætlað, að 6000 eldislaxar hafi leitað í norskar ár á veiðitímabilinu, http://www.nina.no. Það eru um 0,002 % [20 ppm - innsk. BJo] af fjölda laxa, sem haldið er í norskum eldiskvíum. Sé hlutfallið yfirfært til Íslands, má búast við, að um 400 eldislaxar leiti í íslenzkar ár, séu um 100 kt/ár framleidd hér á landi, og ef okkur tækist ekki betur en Norðmönnum að fyrirbyggja strok. Fjöldi eldislaxa, sem reynir hrygningu, gæti því verið um 1 % af hrygningarstofni [villta] íslenzka laxins. Þessar tölur miðast við, að ekkert veiðiátak færi fram, ef grunur um sleppingu vaknaði.
Af því, sem hér hefur verið dregið fram, má ljóst vera, að ekki þarf að fórna einum einasta villtum laxastofni til að byggja upp mikilvæg störf við fiskeldi á landsbyggðinni."
Hér er sannfærandi faglegum rökum sjávarútvegsfræðings teflt fram til stuðnings sjálfbæru sjókvíaeldi norsks eldislax við Ísland. Nú þarf úrskurð líffræðings eða sambærilegs starfsmanns Matvælastofnunar, MAST, um það, að 1 % blöndun norskra eldislaxa við íslenzka laxastofna geti ekki haft nein varanleg áhrif á erfðaeiginleika og hegðun þeirra íslenzku.
Það þarf líka að fá líklegt sleppihlutfall á hreint. Téður Hilmar Hansson kveður 1 lax sleppa úr hverju tonni í sjókvíaeldi. Þetta gefur líkurnar 1/200, sem jafngildir 5000 ppm, samanborið við 20 ppm hjá Jóni Erni Pálssyni. Hilmar telur líkur á sleppingu vera 250 sinnum meiri en Jón Örn. Þarna á milli er himinn og haf, sem kann að skilja á milli feigs og ófeigs í þessu máli, og það er hlutverk íslenzkra yfirvalda að fá þetta á hreint áður en ný rekstrarleyfi verða gefin út.
Annað mál er, að fyrirkomulag á útgáfu starfsleyfa fyrir sjókvíaeldi við Ísland þarfnast gagngerrar endurskoðunar. Um stefnumótun stjórnvalda í þessum málaflokki skrifar Höskuldur Steinarsson, framkvæmdastjóri Landssambands fiskeldisstöðva, í Fiskifréttir 13. október 2016,
"Langþráð stefnumótun í fiskeldi undirbúin":
"Eitt af því, sem við höfum lengi kallað eftir, er heildræn stefnumótun í fiskeldi á Íslandi. Atvinnuvegaráðherra hefur nú loks tekið undir þessar óskir okkar og boðað, að sú vinna skuli hafin í vetur [2016/2017-bíður nýs ráðherra]. Þennan árangur viljum við m.a. þakka áberandi umræðu um atvinnugreinina. Það er ljóst, að heildræn stefnumótun í fiskeldi mun, ef vel tekst til, leiða til samhæfðra markmiða fyrir greinina, sem m.a. munu nýtast vel þeim opinberu stofnunum, sem fást við fiskeldisgreinina. Fyrir atvinnugreinina sjálfa er stefnumótunin afar mikilvæg, því að vaxtarmöguleikar hennar í framtíðinni hafa mikið að segja nú þegar, og þarf því að huga sem fyrst að margvíslegum innviðum, eigi hún að geta vaxið og dafnað áfram. Í fiskeldinu er nú þegar uppsöfnuð fjárfestingarþörf í undirbúningi verkefna, og mun sú fjárfesting ekki skila sér til baka fyrr en eftir mörg ár. Fiskeldi er því atvinnugrein, sem þarf mjög á þolinmóðu fjármagni að halda, og svo virðist sem erlendir fjárfestar séu þeir einu, sem tilbúnir eru til að styðja við hana hér á landi."
Það er ljóst, að mikill vaxtarkraftur er í fiskeldi við og á Íslandi, enda er talið, að greinin muni þegar á árinu 2018 framleiða meira af matvælum í tonnum talið en hefðbundinn landbúnaður hérlendis. Raunhæft er að gera ráð fyrir að hámarki sjöföldun núverandi afkastagetu, en enn meiri aukning hefur verið nefnd. Væntanleg stefnumörkun yfirvalda mun leggja línurnar í þessum efnum, en afkastagetan verður að ráðast af óskum fjárfestanna, burðarþoli fjarðanna að mati íslenzkra yfirvalda og kröfunni um sjálfbærni starfseminnar.
Þessi rannsóknarvinna og stefnumótun gæti tekið 2 ár, en það er hins vegar brýnt að taka leyfisveitingarnar strax til endurskoðunar. Þarna er um nýja starfsemi að ræða, svo að úthlutun leyfa á grundvelli starfsreynslu á viðkomandi stað á ekki við. Það er jafnframt ljóst, að í þessari grein er auðlindarentu að finna, því að um takmarkaða auðlind er að ræða, sem færri fá úthlutað af yfirvöldum en vilja.
Viðkomandi sveitarfélög ættu að fá í sinn hlut meirihlutann af andvirði starfsleyfanna, og þar sem ekki er verið að taka nein leyfi af neinum, ætti að úthluta starfsleyfunum til hæstbjóðanda í tilgreindan tíma, sem talinn er duga til að afskrifa fjárfestingarnar á, e.t.v. 25 ár. Við þessar aðstæður er eðlilegast, að íslenzk yfirvöld framkvæmi lögformlegt umhverfismat og veiti forsögn um áskildar mengunarvarnir og mótvægisaðgerðir. Rekstrarleyfi ætti svo að gefa út til skemmri tíma, e.t.v. 5 ára, og það ætti að vera afturkallanlegt, ef rekstraraðili verður uppvís að broti á rekstrarskilmálum.
20.9.2016 | 13:21
Tilraunahagfræðingur tjáir sig
Það er nauðsynlegt að ígrunda vel hvert skref, sem stjórnvöld hyggjast taka og kalla má inngrip í atvinnulífið. Þau geta hæglega komið niður á afkomu almennings í landinu. Ef slík skref eru í andstöðu við atvinnugreinina, jafnvel bæði vinnuveitendur og launþega í greininni, þá þurfa slíkum inngripum að fylgja pottþétt lagaleg rök og sannfærandi rökstuðningur um, að slík inngrip bæti almannahag frá því, sem núverandi fyrirkomulag er megnugt að veita.
Málflutningur þeirra, sem kollvarpa vilja íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfinu, en þeirra á meðal eru a.m.k. 3 stjórnmálaflokkar, Samfylking, Viðreisn og Píratahreyfingin, nær ekki máli sem rökstuðningur fyrir kúvendingu, því að eina ástæðan, sem tilfærð hefur verið, er, að samfélaginu öllu, þ.e. ríkissjóði, beri stærri hluti af þeim verðmætum, sem útgerðirnar afla. Þar er ekkert hugað að jafnræði atvinnurekstrar í landinu gagnvart ríkisvaldinu.
Viðfangsefnið hér er m.a. að ákvarða, hvort tekjur ríkisins verði meiri með "uppboðsleið" en með núverandi aflahlutdeildarkerfi. Þá dugar ekki að skoða ríkistekjur af útgerðunum einvörðungu, heldur verður að skoða skattspor alls sjávarútvegsklasans, enda er hann reistur á útgerðunum. Versnandi hagur útgerða hefur strax neikvæð áhrif á heildarskattsporið, því að fjárfestingar munu minnka. Þetta er verðugt hagfræðilegt verkefni, t.d. fyrir Hagfræðistofnun, HHÍ, eða eitthvert endurskoðunarfyrirtækið, en tilgáta blekbónda er, að skattsporið með hóflegu veiðigjaldi á bilinu 2 % - 5 % af verðmæti afla upp úr sjó sé stærra en búast má við, að skattsporið mundi verða með uppboði aflaheimilda.
Fyrir þessu eru þau almennu rök, að vaxtarskilyrði skattstofnsins eru því betri, þeim mun minna sem rennur af ráðstöfunarfé fyrirtækja beint til ríkisins. Þetta verður auðskilið, ef gert er ráð fyrir, að unnt sé að velja á milli þess, að drjúgur hluti hagnaðar renni til fjárfestinga eða skattgreiðslna.
Það er þannig næsta víst, að ríkisvaldið væri að skjóta sig í tekjufótinn með því að fara inn á braut uppboða í stað núverandi aflahlutdeildarkerfis með hóflegum veiðigjöldum.
Nú vill svo til, að sérfræðingur um mál af þessu tagi, Charles Plott, CP,tilraunahagfræðingur, tjáði sig um uppboð við Stefán Gunnar Sveinsson í Morgunblaðinu 15. september 2016. Allt, sem CP segir þar, er sem snýtt út úr nös blekbónda, og verður nú vitnað í viðtalið:
"Charles Plott, prófessor í tilraunahagfræði við Tækniháskólann í Kaliforníu, segir, að uppboð, eins og í sjávarútvegi, geti verið til margra hluta nytsamleg, ef þeim er beitt rétt. Glapræði sé hins vegar að ætla að nýta þau til þess að endurúthluta gæðum eða breyta kerfi, sem virki vel, og nánast sé öruggt, að eitthvað af verðmætum muni fara forgörðum, verði sú leið farin."
Þessi yfirlýsing hins virta fræðimanns við Caltech sýnir, að hérlendis hafa menn af vanþekkingu hent á lofti fiskveiðistjórnunaraðferð, sem engan veginn á við íslenzkar aðstæður. Fræðimaður, sem gleggst má vita um virkun og afleiðingar "uppboðsleiðar", CP, telur hana mundu verða til meira tjóns en gagns í íslenzka hagkerfinu. Þessi varnaðarorð ættu að vega þungt ekki sízt, þar sem eintómir fræðilegir liðléttingar, ef nokkrir fræðimenn, hafa mælt með "uppboðsleiðinni" fyrir veiðiheimildir í íslenzku lögsögunni.
Málflutningur CP felur í sér, að hagvöxtur mundi minnka og þar með drægjust skattstofnar saman, sem hefði í för með sér minni skatttekjur ríkisins en nú. Þar með væri ver farið en heima setið. Óráðshjalið um, að "ósanngirni" núverandi fiskveiðistjórnunarkerfis þurfi að leiðrétta með "fyrningu" og uppboði á andlagi "fyrningarinnar", er helber þvættingur, enda mundi þessi leið skaða ríkissjóð ekki síður en hag almennings í landinu. Hér er fullkomið fúsk á ferð.
"Í krafti reynslu sinnar hefur Plott komið að gerð og hönnun ýmissa uppboða á auðlindum, þar á meðal í sjávarútvegi.
"Ég nefni sem dæmi fiskeldi, þar sem stjórnvöld hafa opnað ný svæði til að koma fyrir fiskeldiskerum, og spurningin verður, hver eigi að fá réttinn. Þetta eru ný gæði, og uppboð verður þá betri leið til að útdeila þessum nýju gæðum en einhver skriffinnskufegurðarsamkeppni, þar sem embættismenn fá að ákveða, hvern þeim lízt bezt á, sem er mjög ósanngjörn leið. Þú hefur enga leið til að fá að vita, hver rökin á bak við þá ákvörðun verða.""
Á þessu vefsetri hafa verið færð rök fyrir því, að nauðsynlegt sé að markaðsvæða úthlutun hinnar takmörkuðu nýju auðlindar, sem er hafsvæði í fjörðum Íslands fyrir eldiskvíar, svo að enn er blekbóndi hér algerlega sama sinnis og tilraunahagfræðingurinn Charles Plott. Sama máli gegnir um orkugeirann, þó að CP nefni hann ekki í þessu viðtali.
"Hann segir, að svo virðist sem ákvörðunin [Færeyinga um tilraunauppboð] sé byggð á þeirri tilfinningu, að útgerðarmennirnir hafi ekki unnið sér það inn að fá arð af auðlindinni. "Þetta er tilfinning, sem er reist á skyssu: að auðlindin hafi eitthvert verðgildi utan þess, sem byggt hefur verið upp af eigendum eða rétthöfum. Þeir byggðu hana upp, hafa sérfræðiþekkinguna, og það að taka hana í burtu og bjóða upp til einhvers annars mun líklega eyðileggja sumt af grunninum að verðmætasköpuninni, sem hefur gert miðin sjálfbær.""
Það á enginn óveiddan fisk í sjónum, enda miðin almenningur frá fornu fari, þó að ítala hafi verið sett þar árið 1984 af illri nauðsyn. Þessi auðlind hefur ekkert sjálfstætt gildi, frekar en flestar aðrar, heldur markast verðmæti hennar af tæknibúnaði, tækniþekkingu og viðskiptaviti til að sækja aflann, breyta honum í markaðsvöru og afla viðskiptavina.
Það er þess vegna botnlaus forræðishyggja og virðingarleysi gagnvart útgerðarmönnum, sjómönnum, vinnslunni um borð og í landi og viðskiptavinunum, fólgin í því að rífa grundvöll lifibrauðs fjölda fólks af því og færa hann einhverjum öðrum einvörðungu á tilfinningalegum og hugmyndafræðilegum grunni, en alls engum hagfræðilegum grunni. Þar er svo sannarlega engri sanngirni fyrir að fara, heldur er þetta ómengaður "sósíalismi andskotans". Ástæða er til að halda, að sú hugmyndafræði njóti sáralítils stuðnings almennings (utan R-101), þó að þrír ólíkir stjórnmálaflokkar virðist hafa látið ginnast og gert hana að sinni.
"Hann segir, að uppboð á vel starfhæfu kvótakerfi væri óskiljanlegt.
"Ég skil ekki hvatann á bak við að trufla iðnað, sem gengur upp. Uppboð mundi vera mjög truflandi fyrir sjávarútveginn. Það skemmir fyrir hvötum fólks til að sækja sjóinn, það skemmir fyrir stofnunum í útvegi. Ef það er hægt að kaupa og selja kvóta á opnum markaði [eins og á Íslandi], verður á þeim markaði eðlileg þróun, þar sem kvótinn færist frá þeim óskilvirku til þeirra skilvirku. Ef frjáls markaður er fyrir hendi, munu lögmál hagfræðinnar sjá um það.""
Umbylting á atvinnugrein með valdboði að ofan hefur alls staðar reynzt vera stórskaðleg, enda á slík hugmyndafræði rætur að rekja til Karls Marx og Friedrichs Engels, svo að það er skiljanlegt, að " botninn sé suður í Borgarfirði" og Bandaríkjamaðurinn Charles Plott skilji ekki, hvað að baki býr slíku fáránleikaleikhúsi á Íslandi 2016.
"Plott segir það því vera nánast einfeldningslegt að trúa því, að hægt sé að taka eignina og gera betur án þess, að eitthvað láti undan. "Og það mun eitthvað láta undan í aðförunum.""
Plott gengur hér svo langt að gera lítið úr vitsmunum þeirra, sem fara vilja "uppboðsleið" á veiðiheimildum í íslenzkri lögsögu. Hér skal ekki reyna að leggja mat á greindarvísitölu þeirra, enda með öllu óáhugavert viðfangsefni. Hitt er annað, að málsvarar og fylgjendur "uppboðsleiðar" eru af manngerð, sem telur tilganginn helga meðalið, "Der Erfolg berechtigt den Mittel".
Að varpa fyrir róða núverandi árangursríku fiskveiðistjórnunarkerfi með þjóðnýtingu veiðiheimildanna réttlætir í huga gösslara, lýðskrumara og öfundarmanna hins markaðsstýrða íslenzka sjávarútvegs að taka gríðarlega áhættu með hag fólks, sem beina afkomu hefur af sjónum, hag viðkomandi sveitarfélaga, ríkissjóðs og alls hagkerfisins. Þetta er hið sanna byltingarhugarfar, sem nú gengur ljósum logum á Íslandi í heilu stjórnmálaflokkunum og er afturganga Karls Marx.
11.8.2016 | 17:31
Rafmagnið og þjóðarbúskapurinn
Rafmagnið hefur lengi verið mannskepnunni hugleikið, eins og rekja má allt aftur til gríska heimspekingsins Þales frá Míletus um 600 fyrir Krist. Það var þó ekki fyrr en á 19. öld, sem hagnýting þess hófst, og var hún á grundvelli þróunar enska vísindamannsins Michaels Faraday á rafsegulfræðinni árið 1831, að menn fóru að smíða litla rafala og rafhreyfla. Árið 1860 bjó brezki eðlisfræðingurinn Joseph Swan til fyrstu ljósaperuna, glóperu, og þar með voru helztu nytjahlutir rafmagns auk hitalda komnir fram. Með notkun rafmagns var bylting í lífsháttum og lífskjörum hvarvetna.
Frændur okkar og nágrannar, Norðmenn, hófu að virkja sín miklu vatnsföll fyrir aldamótin 1900, og að nýta rafmagnið í stórum stíl í iðnaði á fyrstu tveimur áratugum 20. aldarinnar með hjálp erlendra fjármagnseigenda.
Einari Benediktssyni, sýslumanni og skáldi, var kunnugt um þessa þróun mála í Noregi og gerði sér grein fyrir mætti rafmagnsins til að umbylta lífskjörum almennings til hins betra. Vildi hann feta í fótspor Norðmanna, en íslenzka þjóðin var hins vegar ekki samstiga skáldi sínu í þessum efnum, og tafðist þess vegna upphaf iðnþróunar í krafti rafmagns á Íslandi um hálfa öld. Varð lífsbarátta hinnar nýfullvalda þjóðar og síðar sjálfstæða unga lýðveldis erfiðari fyrir vikið, en fyrir vikið var tæknin orðin þróaðri, þegar þessi iðnvæðing hófst, til blessunar fyrir land og lýð.
Á 6. áratugi 20. aldar hófust að nýju umræður um að nýta orkulindir landsins í stórum stíl til gjaldeyrisöflunar. Komu þá þegar fram hugmyndir um sæstrengslögn til Skotlands og álver. Hafa slíkar hugmyndir síðan togazt nokkuð á, en með nýrri skýrslu "Verkefnisstjórnar sæstrengs", sem birtist 12. júlí 2016, lítur út fyrir endalok fótalausra gróðahugmynda um sölu rafmagns frá Íslandi til útlanda um sæstreng, enda ekki lengur horfur á, að hinar hefðbundnu orkulindir Íslands geti staðið bæði undir nauðsynlegri álagsaukningu hér innanlands og flutningi á 1000 MW að jafnaði utan.
Árið 1960 kom svissneska álfyrirtækið Alusuisse hugmynd um álver á Íslandi á framfæri við Bjarna Benediktsson, þáverandi iðnaðarráðherra, sem bjó yfir nægri framsýni til að hefja í kjölfarið undirbúningsrannsóknir fyrir slíkt iðjuver ásamt orkuöflun fyrir það. Var skipuð "stóriðjunefnd" til að annast þessa vinnu og stjórna nauðsynlegri sérfræðivinnu þessu viðfangsefni lútandi.
Þar var í forystu dr Jóhannes Nordal, sem m.a. kannaði um víðan heim, hvort fleiri kostir orkunýtingar væru í boði en samstarf við þetta álfélag. Nefndin fjallaði líka um staðarval fyrir álver. Hún skilaði ítarlegri lokaskýrslu í nóvember 1964, og á grundvelli hennar lagði Jóhann Hafstein, þáverandi iðnaðarráðherra, frumvarp til laga fyrir Alþingi vorið 1966.
Málið varð að miklu hitamáli á Alþingi, og upptendraðist blekbóndi, þá 16 ára menntskælingur, af stóryrtum umræðum og skrifaði um málið í "Nýjan storm", t.d. greinina "Alumínmálið", 14. janúar 1966, þar sem stráksi augljóslega galt varhug við slíkum fjárfestingum. Sú lína er sögð hafa verið gefin frá Moskvu af sjálfum Leonid Breschnew, sem þá hafði nýlega velt úr sæti aðalritara sovézka kommúnistaflokksins, hinum óútreiknanlega Nikita Krustsjeff, að mikilvægara væri hagsmunum kommúnista að berjast gegn því á Íslandi, að alþjóðlegt auðvald fengi þar fótfestu en að berjast gegn veru bandaríska hersins þar í landi, og hafði sú barátta þó harðvítug verið allt frá inngöng landsins í NATO, þegar Hvítliðar og lögregla börðust við íslenzka kommúnista á Austurvelli.
Endalok "alumínmálsins" vorið 1966 ultu að lokum á einu atkvæði húnvetnsks sjálfstæðismanns, sem sagt er, að gert hafi hrossakaup við ríkisstjórnina um barnaskóla í sitt hérað í staðinn. Hvað sem hæft er í þessu, stóð mjög glöggt á þessum tíma, hvort Alþingi væri tilbúið að hefja vegferð iðnvæðingar á grundvelli mikillar raforkunotkunar, og ekki er ofmælt, að það hafi dregið lappirnar, eins og hálfri öld áður, þó að meirihlutinn hafi í þetta sinn fallið "réttu" megin hryggjar.
Á grundvelli nýrra laga um "Íslenzka Álfélagið" var ISAL stofnað 28. júní 1966, og varð þess vegna fimmtugt í sumar. Var þá ritað undir rafmagnssamning við Landsvirkjun og hafnar- og lóðarsamning við Hafnarfjarðarbæ. Við gerð þessara samninga lagði Hjörtur Torfason, lögfræðingur, gjörva hönd á plóg, og hann hefur komið að gerð allra viðauka og breytinga á rafmagnssamninginum.
Rafmagnssamningurinn var til 40 ára (25 + 15 ára). Orkuverðið var lágt eða 3-4 USD/MWh, eins og þá tíðkaðist, og endurspeglaði þá staðreynd, að á Íslandi var engin hefð fyrir slíkri stóriðju, og þar af leiðandi mikil áhætta fyrir Alusuisse að fjárfesta hér. Þeir höfðu skömmu áður fjárfest í álverinu SÖRAL á Húsnesi í Vestur-Noregi og töldu greinilega áhættunnar virði að reyna fyrir sér í Norður-Evrópu með álframleiðslu í krafti fallorku vatns.
Reksturinn í Straumsvík hékk stundum á bláþræði fyrstu árin, af því að raforkukerfið var allt of veikt fyrir mikla raforkuvinnslu og raforkuflutninga, sem aldrei máttu bresta án stöðvunar álframleiðslunnar með gríðarlegum tilkostnaði. Í fyrstu var eina orkuvinnslan fyrir álverið í Búrfelli; þar urðu tíðar innrennslistruflanir fyrstu árin af völdum grunnstinguls við inntaksristar, og eina flutningslínan til álversins slitnaði einu sinni vegna ísingar á hafinu yfir Hvítá. Þá kom útsjónarsemi, dugnaður og þrautseigja Íslendinga á raunastund í góðar þarfir við að lágmarka tjónið með keyrslu neyðarrafstöðvar í Straumsvík, svæfingu kera og bráðabirgða viðgerð línunnar. Á þessa eiginleika átti oft eftir að reyna.
Meginraforkukerfi landsins, 220 kV stofnkerfinu, óx smám saman fiskur um hrygg, og þar með batnaði afhendingaröryggi rafmagnsins, sem telja má fyrst nú á 21. öldinni orðið viðunandi fyrir álver, þó að það sé ekki sambærilegt að gæðum við "sterk kerfi" meginlandsins eða Bretlands, sem lýsir sér í of tíðum og miklum tíðni- og spennusveiflum við aðgerðir eða truflanir hjá stórnotendum, Landsneti, Landsvirkjun eða öðrum tengdum stofnkerfinu, og 132 kV hringtenging landsins verður gjarna fyrir sjálfmagnandi aflsveiflum, svo að rjúfa verður Byggðalínuna, sem veldur truflunum, jafnvel straumleysi hjá notendum. Allt of hægt gengur að þrífasa sveitirnar samfara jarðstrengjalögnum og afnámi loftlína í dreifikerfinu.
Raforkuverð, sem árið 1966 var umsamið 3,5 USD/MWh til ISAL, hefur 11-faldazt á 50 árum. Verð á raforku erlendis hefur jafnan fylgt olíuverðinu. Verð raforku á Íslandi hefur hækkað með vaxandi vinnslu- og flutningskostnaði raforku og hefur einnig hækkað til iðnaðarins með auknum gæðum raforkunnar (afhendingaröryggi, stöðugleiki spennu og tíðni), og þar sem eigendur iðjuveranna telja nú mun minni óvissu fylgja rekstrinum hérlendis en í upphafi, þá hefur verið unnt að semja við þá um hækkun raforkuverðs. Íslendingar hafa og sýnt og sannað, að þeir eru í stakk búnir til að ná fullum tökum á framleiðslutækninni, sem fyrirmyndar rekstur útheimtir, og þeir hafa náð árangri á heimsmælikvarða við lágmörkun losunar gróðurhúsalofttegunda úr framleiðsluferlinu.
Um þessa þróun ritar Hjörtur Torfason í Morgunblaðið 26. marz 2016 undir fyrirsögninni, "Áfram Ísal":
"Ennfremur hefur forsendum orkusölu til fyrirtækisins verið breytt að nokkru með hliðsjón af því, að samkeppnisstaða Íslands gagnvart nágrannaríkjum austan og vestan hafsins er nú önnur og styrkari en áður var, eins og vonir stóðu til, þegar af stað var farið."
Í árdaga íslenzku nýiðnvæðingarinnar á Viðreisnarárunum var aðalgagnrýnin á hana, að erlent auðvald gæti náð tangarhaldi á íslenzku athafnalífi, efnahagskerfi og þar með á stjórnmálalífinu. Þarna gerðu kommúnistar í raun út á minnimáttarkennd þjóðar, sem nýlega hafði hlotið fullt sjálfstæði, og ekkert af þessu hefur gengið eftir, og skrattinn reyndist þarna málaður á vegginn af afturhaldsöflum, sem vildu halda efnahagslífinu og þar með þjóðlífinu í greipum embættismanna og stjórnmálamanna. Íslendingar reyndust nægir bógar, hver á sínu sviði, til að taka málin í sínar hendur. Vilji er allt, sem þarf.
Á 8. áratug 20. aldarinnar hörfaði afturhaldið í landinu frá hræðsluáróðri í garð alþjóðlegs auðvalds yfir í heilsufarslegan áróður í garð stóriðjunnar, sem þá voru 2 fyrirtæki, Íslenzka Álfélagið í Straumsvík og Íslenska járnblendifélagið á Grundartanga í Hvalfirði, fyrir mengun innanhúss og utan. Slíkur áróður á jafnan greiðan aðgang að fólki, enda hver sjálfum sér næstur í heilsufarslegum efnum. Þegar tæknin leyfði á 9. áratuginum, gjörbreyttu bæði fyrirtækin mengunarvörnum sínum til hins betra, svo að nú þykir t.d. frammistaða ISAL til mikillar fyrirmyndar í þessum efnum, og er hvorki hægt með marktækum hætti að sýna fram á hækkun flúoríðs í gróðri utan þynningarsvæðis við Straumsvík né hægt að sýna fram á meiri mengun af mannavöldum úti fyrir strönd þar en annars staðar við landið.
Þar sem glæpurinn hvarf, voru góð ráð dýr fyrir afturhaldsöflin, og þau fundu upp á því um aldamótin 2000 að hafa allt á hornum sér varðandi virkjanir og línulagnir, og þar stendur hnífurinn einmitt í kúnni núna, eins og 3. áfangi Rammaáætlunar er gott dæmi um, þar sem ósk Orkustofnunar um frummat Verkefnisstjórnar Rammaáætlunar á fjölda virkjanakosta var hunzaður og við frummat annarra virkjanakosta var hvorki tekið tillit til samfélagslegra kosta/galla né þjóðhagslegs ávinnings/taps. Landsnet er í stórvandræðum með að tengja Suðurnesin við landskerfið með 220 kV línu, og tenging Suðurlands og Norðurlands er í uppnámi vegna andstöðu við hagkvæmasta, umhverfisvænsta og tæknilega bezta kostinn, Sprengisandslínu. Er andstaðan með þeim hætti, að ekki verður annað séð en grafa þurfi jarðstreng þar um 200 km leið með viðeigandi spanspóluvirkjum með um 25 km millibili til að hamla gegn miklu rýmdarálagi jarðstrengsins. Þetta mun væntanlega hækka flutningskostnað raforku í landinu um sinn, en kannski má selja forvitnum ferðamönnum aðgang að jarðhýsum, sem hýsa þessi tækniundur.
Allan tímann síðan "stóriðjustefnan" var kynnt til sögunnar af Viðreisnarstjórninni 1959-1971, hefur raforkuverðið til hinna erlendu fyrirtækja verið bitbein. Eru margir raftar á sjó dregnir í þeirri orrahríð, sem lítið hafa til málanna að leggja annað en að sá tortryggni og óvild í garð erlendu fjárfestanna, sem hætta vilja fé sínu með því að leggja sitt að mörkum til atvinnuuppbyggingar á Íslandi, sem myndar þriðju meginstoðina undir gjaldeyrisöflun landsins. Að hreykja sér sem hanar á haug um málefni, sem þeir hafa ekki kynnt sér til hlítar, er óviturlegt, en er það ekki einmitt einkenni s.k. beturvita ("Besserwisser") ?
Algeng bábilja er að bera saman raforkuverð samkvæmt almennum smásölutaxta til fyrirtækja eða heimila annars vegar og hins vegar umsamin heildsöluverð í langtímasamningum, þar sem margvíslegar gagnkvæmar skuldbindingar samningsaðila eru niðurnjörvaðar. Smásölutaxtinn án virðisaukaskatts er allt að ferfaldur stóriðjutaxtinn, og þetta telja gagnrýnendur þessara samninga vera afar ósanngjarnt.
Þeir, sem halda á lofti svona grunnhyggilegum málflutningi hafa í raun ekkert vitrænt fram að færa til þeirrar umræðu, hvort þessi viðskipti séu þjóðhagslega hagkvæm eður ei. Þeir fullyrða út í loftið, að "almenningur sé að greiða niður orkuverð til stóriðju. Þetta er gamla sagan um fílinn, sem einfeldningurinn reynir að lýsa í heild sinni með lýsingu á afmörkuðum líkamshlutum.
Villan við téðan samanburð er, að stóriðjan sér um og kostar sína raforkudreifingu sjálf, en dreifingin nemur 57 % af heildarupphæð heimilistaxtans. Vinnslu-og flutningsþáttur verðs til almennings er í raun VFVA=1,68 x MVálv, þar sem MVálv er meðalverð til álveranna þriggja á Íslandi árið 2015 að meðtöldum flutningskostnaði. Nú þarf að taka tillit til þess, að tilkostnaður við raforkuvinnslu og flutning fyrir álver er af ýmsum ástæðum (virkjun strax fullnýtt, jafnt álag, hár aflstuðull, langtímasamningur, kauptrygging o.fl.) lægri á hverja orkueiningu en fyrir almenningsveitur, þ.e. heimili og lítil og meðalstór fyrirtæki, og getur munað rúmlega helmingi, þ.e. VFKA=2,1 x MVálv.
Á meðan VFVA<VFKA getur almenningur unað við kostnaðarskiptinguna í raforkukerfinu á milli sín og álveranna, en ef VFVA>VFKA, þá mætti halda því fram með rökum, að almenningur greiddi niður raforkuverð til stóriðju.
Hagsmunir almennings gagnvart stórnotendum raforku hafa í raun verið tryggðir með því, að ný stóriðjufyrirtæki eða viðbætur við eldri stóriðju greiði í hverju tilviki jaðarkostnaðarverð fyrir viðbótar orkuna, þ.e. reiknað verð m.v. ákveðna fjármagnsávöxtun, t.d. 8 %/ár. Í sumum tilvikum hefur jafnvel verið gengið svo langt að láta nýja verðið ná yfir öll raforkukaupin. Með því að þvinga fram slíka samninga, er orkusalinn að setja samkeppnishæfni gamallar verksmiðju í uppnám. Þetta á t.d. við um nýjan raforkusamning Landsvirkjunar við Rio Tinto Alcan árið 2010 um sölu til ISAL í Straumsvík. Rekstrarerfiðleikar fyrirtækisins hafa ratað í fréttirnar, og fyrirtækið berst í bökkum, á meðan markaðsverð á áli er undir 1800 USD/t Al og verðuppbót (premía) er lág vegna lítillar eftirspurnar m.v. framboð.
Meðalorkuvinnslukostnaður kerfisins lækkar með minnkandi skuldabyrði og fjármagnskostnaði virkjunarfyrirtækjanna og flutningsfyrirtækisins, því að stærsti kostnaðarliðurinn í íslenzka raforkukerfinu er fjármagnskostnaður, og þetta kemur fram í getu markaðarins til að lækka raunverð til almennings, eins og lengi vel var áskilið í lögum frá tíð Hjörleifs Guttormssonar, iðnaðarráðherra, en var afnumið með nýjum raforkulögum 2004, og samkvæmt þeim er orkuvinnslufyrirtækjunum heimilt að hækka hagnað sinn í staðinn. Forstjóri Landsvirkjunar hefur einmitt boðað stóraukinn hagnað og arðgreiðslur, en eru fulltrúar eigendanna, Alþingismenn, sammála þessari stefnubreytingu stjórnar fyrirtækisins. Blekbóndi og ýmsir fleiri eru þeirrar skoðunar, að þessi nýja stefna sé óskynsamleg ráðstöfun m.t.t. hámörkunar þjóðhagslegrar hagkvæmni, þ.e. að þjóðarkakan stækki hraðar, ef almenningur í landinu fær að njóta ávaxta lækkaðs meðaltilkostnaðar í raforkukerfinu.
Það má fullyrða, að stóriðjufyrirtækin hafa staðið undir sínum hluta kostnaðarins við uppbyggingu raforkukerfisins á Íslandi og vel það. Samt hefur ráðandi fyrirtæki á markaðinum, ríkisfyrirtækið Landsvirkjun, lagt í töluverðan kostnað og fyrirhöfn að við að reyna að selja rafmagn úr landi um sæstreng. Hefur bægslagangur í þessa veru keyrt um þverbak síðan 2009 eða um þær mundir, er Hörður Arnarson tók við forstjórastöðu fyrirtækisins og vinstri meirihluti á Alþingi skipaði fyrirtækinu nýja stjórn. Hefur Hörður haft uppi stór orð um miklu meiri arðsemi slíkrar beinnar orkusölu til Bretlands en með orkusölu til orkusækinna útflutningsfyrirtækja á Íslandi. Blekbóndi hefur jafnan talið þetta hina mestu firru vegna gríðarlegs kostnaðar við slíkan streng, sem gera mundi virðisauka slíkrar orkusölu að engu.
Þann 12. júlí 2016 kynnti iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir, skýrslu, sem henni hafði borizt fyrir Brexit, 23. júní 2016, frá "Verkefnisstjórn sæstrengs". Bretar komu að gerð þessarar skýrslu, enda er viðskiptahugmyndin sú, að Englendingar nýti 1000 MW afl í sínu rafkerfi frá þessum streng. Ályktunin, sem draga má af niðurstöðu þessarar skýrslu er sú, að Bretar hafna kurteislega frekari þátttöku í undirbúningi sæstrengs á milli Íslands og Skotlands, af því að hann falli ekki að brezkum reglugerðum um fjárhagsstuðning við kaup á endurnýjanlegri orku, sem framleidd er án losunar teljandi magns af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið. Þá yrði afkoma slíks strengs og virkjana fyrir hann algerlega háð niðurgreiðslum úr brezka ríkissjóðinum, sem séu ekki lengur nauðsynlegar á Bretlandi, nema til vindmyllna úti fyrir ströndinni og til kjarnorkuvera (Hinkley Point C, kostnaður 150 USD/MWh).
Kostnaðaráætlun þessarar skýrslu fyrir téðan sæstreng og virkjanir nemur miaISK 800 jafngildi miaUSD 6,5 (m.v. gengið 1 USD = 123 ISK). Markaðsverð raforku á Englandi er nú svo lágt, undir 50 USD/MWh í heildsölu eftir fall sterlingspunds 2016, og spáð svo lágu næsta áratuginn, þó að einhver hækkun verði, að kostnaður raforku frá Íslandi um þennan dýra streng, sem blekbóndi reiknar á bilinu 80 USD/MWh - 130 USD/MWh, að viðskiptin yrðu algerlega háð niðurgreiðslum úr brezka ríkissjóðinum, sem ekki eru í boði samkvæmt skýrslunni. Lægri talan á ofangreindu bili fæst út frá kostnaðaráætlun téðrar skýrslu. Sé hins vegar kostnaður sambærilegs sæstrengs á milli Ísraels og Grikklands, sem nú er að komast á framkvæmdastig, lagður til grundvallar, virðist um verulega vanáætlun strengkostnaðar að ræða, og að miaUSD 9,9 væri nær lagi, og með hana að vopni fást ofangreind efri mörk kostnaðarbilsins.
Landsvirkjun hefur síðan 2010 haldið uppi áróðri um mikla arðsemi sæstrengsins. Honum kann að hafa verið ætlað að styrkja samningsstöðu Landsvirkjunar gagnvart eigendum iðnfyrirtækjanna, sem stóðu frammi fyrir endurskoðun raforkusamninga. Sé sú raunin, er það afar barnaleg afstaða, því að lækkandi markaðsverð á Englandi og tæknilega og fjárhagslega áhættusamt sæstrengsverkefni var auðvitað alla tíð á vitorði viðkomandi fjárfesta. Það hefur alla tíð blasað við þessum blekbónda hér, að téður áróður væri tómt bull og vitleysa, og má sjá þess stað víða á þessu vefsetri.
Nú hafa hins vegar bætzt við nýjar upplýsingar, sem endanlega gera út af við þessa sæstrengsdrauma, hvað sem arðseminni líður. Það er hreinlega ekki næg hagkvæm orka í landinu, sem sæmileg sátt getur náðst um að virkja, til að anna orkuþörfinni innanlands ásamt fram á miðja þessa öld og orkuþörf sæstrengsins líka. Það er bæði vegna tilhneigingar til að setja vaxandi hluta orkulindanna í verndarflokk með aukinni velmegun í landinu og vegna fyrirsjáanlegs stórs hlutverks rafmagnsins við að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi. Ekki þarf að taka fram, að olíuvinnsla á íslenzku umráðasvæði norður í höfum verður vart að raunveruleika úr þessu, enda mjög kostnaðarsöm og hefur í för með sér alvarlegar umhverfisógnanir.
Vart er nú unnt að reikna með meiri raforkuvinnslu í landinu en 35 TWh/ár, og orkuvinnslan árið 2016 nær um 19 TWh, þ.e. 54 % af raunhæft virkjanlegri orku hafa þegar verið nýtt.
- Álverin nota nú um 12,5 TWh/ár og gætu þurft 15 TWh/ár alls til að fullnýta framleiðslugetu sína ("full potential") með bættri framleiðslutækni.
- Önnur stóriðja notar nú um 2 TWh/ár og gæti þurft 5 TWh/ár alls.
- Kísiliðnaður, sem í fyrsta áfanga á að vera 240 MW að afli, er hannaður fyrir 500 MW í framtíðinni, og þarf þá 4 TWh/ár.
- Almenn raforkunotkun heimila og fyrirtækja er nú innan við 4 TWh/ár, en gæti að 35 árum liðnum numið 6 TWh/ár vegna fólksfjölgunar, afnáms olíukyndingar og aukinnar framleiðslu.
- Ef allur fartækjaflotinn á landi hefur verið rafvæddur árið 2050 með einum eða öðrum hætti, eins og vonir standa til, þá mun hann þurfa 1,5 TWh/ár.
- Rafvæddur fiskiskipafloti landsins mun þurfa 1,2 TWh/ár.
- Millilandaskip og flugvélar landsmanna verða rafvædd eða eldsneyti á þessa farkosti framleitt með rafmagni, sem gæti numið 1,5 TWh/ár.
- Framleiðsla landbúnaðarins mun vaxa verulega, enda er samkeppnisstaða hans sterk í krafti einstakra gæða og ferðamannasægs. Ekki sízt eru framtíðarmöguleikar á sviði grænmetisræktar, og mun landbúnaðurinn þurfa a.m.k. 0,1 TWh/ár raforku í stað eldsneytis.
Eldsneytisnotkun Íslendinga árið 2015 nam 732 kt og kostaði þessi innflutningur alls miaISK 83 eða um 914 USD/t. Til samanburðar var vöruskiptajöfnuðurinn árið 2015 neikvæður um miaISK 30. Þessi samanburður sýnir, hversu þjóðhagslega mikilvægt er að leysa þessa óhollustusamlegu erlendu orku af hólmi með innlendri, sjálfbærri orku. Hún nemur samkvæmt þessum áætlunum blekbónda rúmlega 4 TWh/ár. Þegar öll ofangreind raforkuþörf landsmanna árið 2035 er lögð saman, fást 34,3 TWh/ár.
Miðað við núverandi tilhneigingu að klípa stöðugt utan af þeim virkjanakostum, sem í nýtingarflokk fara, er óraunhæft núna að reikna með meiru en 35 TWh/ár af tiltækri raforku. Margnefndur sæstrengur þarf tæplega 9 TWh/ár samkvæmt nýjustu skýrslu um hann frá júlí 2016, og nánast ekkert af þeirri orku virðist munu verða til reiðu í framtíðinni. Það er þess vegna algerlega tómt mál að tala um risafjárfestingu í aflsæstreng Ísland-Skotland.
1.7.2016 | 16:41
Gæðastjórnun íslenzks fiskeldis
Eins og Smári Geirsson skilmerkilega rekur í nýlega útgefinni bók sinni um þróun hvalveiða við Ísland, var hvalverkunin í raun fyrsti vélvæddi reksturinn á Íslandi og kom á undan vélbátaútgerð landsmanna. Að hvalveiðunum stóðu aðallega Norðmenn, en einnig Bandaríkjamenn. Blómaskeið hvalveiðanna við Ísland var á síðari hluta 19. aldarinnar á Vestfjörðum og Austfjörðum, og segja má, að Íslendingar hafi fyrst komizt í tæri við iðnvæðinguna og þénað umtalsverða peninga á hvalvertíðum. Bók Smára varpar ljósi á þennan upphafsþátt iðnsögu Íslendinga, ef Innréttingar Skúla, fógeta, Magnússonar, í Reykjavík um miðja 18. öldina eru undan skildar.
Á 21. öldinni endurtekur sagan sig að breyttu breytanda. Bandaríkjamenn eiga nú tvö af þremur stærstu stóriðjuverunum, Norðurál á Grundartanga og Fjarðaál á Reyðarfirði, og nú vex fiskeldi mjög fiskur um hrygg undir handarjaðri Norðmanna, aðallega á Vestfjörðum, en þó einnig á Austfjörðum.
Norðmenn framleiða og markaðssetja sennilega mest allra þjóða af eldislaxi, og nemur árleg framleiðsla þeirra um 1,3 Mt (milljón tonnum). Árið 2016 er á Íslandi áformað að slátra rúmlega 15 kt (k=þúsund) af eldisfiski, þar af 8,0 kt af laxi og um 7,0 kt af bleikju. Árið 2025 gæti heildarframleiðsla fisks í sjókvíaeldi hafa þrefaldazt hérlendis, og eldi í kerum á landi hafa hafizt fyrir alvöru, svo að heildarframleiðsla eldisfisks verði þá yfir 50 kt/ár. Andvirði þessarar framleiðslu gæti þá numið yfir 60 miaISK/ár, sem er tæplega fjórðungur af núverandi afurðaandvirði sjávarútvegsins. Engu að síður mun framleiðsla eldisfisks þá hérlendis nema innan við 4 % af framleiðslunni í norskum fjörðum 2025, ef að líkum lætur. Þessi nýja framleiðslugrein á Íslandi mun skipta verulegu máli fyrir byggðaþróun, gjaldeyrisöflun og þjóðarbúskap hérlendis, en verða alla tíð smár í sniðum á alþjóðlegan mælikvarða.
Sjókvíaeldi við Ísland eru mjög þröngar skorður settar vegna þess, að notazt er við erlenda fiskstofna, sem menn vilja ekki, að gangi upp í íslenzkar ár og blandist þar íslenzka stofninum. Nýlegar fréttir af regnbogasilungi í Berufirði minntu á þetta, og kvittur um, að eldisfiskur hafi líka sloppið nýlega úr eldiskví fyrir vestan vekur athygli á, að hættan á blöndun við íslenzka laxastofna er fyrir hendi, þó að áhættugreining leiði í ljós, að hún sé svo lítil, að hægt sé að búa við hana.
Í því augnamiði að lágmarka áhættuna á blöndun stofna með raunhæfum hætti var sett reglugerð árið 2004, þar sem sjóeldi laxfiska á nánast öllum svæðum, sem liggja að vatnasviði villtra laxfiska, var bannað. Þannig er einvörðungu heimilt að stunda sjókvíaeldi laxfiska á Vestfjörðum á milli Látrabjargs og Geirólfsgnúps og við Norð-Austurland á milli Hraunhafnartanga og Glettinganess auk Eyjafjarðar og Axarfjarðar. Við Suðurland eru aðstæður til sjókvíaeldis ekki fyrir hendi, en eldi í landkerum er þar og víðar mögulegt með því að hita sjó með hitaveituvatni. Er landkeraeldið nýjasta dæmið um samkeppnisforskotið gagnvart útlöndum, sem jarðhiti og nægt vatn veita Íslendingum.
Sjókvíaeldi hefur átt undir högg að sækja hérlendis m.a. vegna meintra hagsmunaárekstra við veiðiréttareigendur í ám í grennd. Með áður nefndum svæðistakmörkunum og ströngum gæðakröfum yfirvalda til búnaðar og stjórnkerfa starfs- og rekstrarleyfishafa er þó vel fyrir aðskilnaði laxastofnanna séð. Hefur því m.a. verið haldið fram, að laxeldið útheimti ótæpilega lyfjagjöf og að því fylgi mengun fjarðanna, eins og þekkt er frá slíku eldi í hlýrri sjó. Hér við land eru þó hvorki við lýði sýklalyf né lúsaeyðir í laxeldinu, og regluverk og eftirlit með starfseminni er tiltölulega strangt. Til að draga úr staðbundinni mengun er áformað að hvíla eldissvæði í eitt ár í senn hérlendis. Virðist fagmennsku nú gætt í hvívetna í fiskeldinu hérlendis.
Í Fiskifréttum, 19. maí 2016, er viðtal við Höskuld Steinarsson, framkvæmdastjóra Landssambands fiskeldisstöðva:
"Íslendingar hafa auk þess innleitt stranga, norska staðla um búnað við sjókvíaeldi. Það var gert á síðasta ári (2015-innsk. BJo). Norðmenn innleiddu þessa staðla hjá sér árið 2006, og þeir komu til fullra framkvæmda 2008. Síðan þá hafa tölur um sleppingar á löxum úr sjókvíum í Noregi hríðlækkað. (Fróðlegt væri að fá upplýst, hver þessi tala er núna í Noregi sem hlutfall af árlegum fjölda nýrra seiða í sjókvíum, því að búast má við svipuðu hlutfalli hérlendis - innsk. BJo.)
Ég tel það vera góðs vita, að Íslendingar skuli hafa innleitt þessar ströngu reglur hjá sér svona snemma í laxeldisbylgjunni. Við getum því bæði státað af ströngu eftirliti og góðum búnaði, sem minnkar hættu á, að laxar sleppi úr kvíum. Ef slysin gerast, þá eru engar sjókvíar nálægt helztu svæðum villtra laxa. Við höfum því tvöfalt öryggi."
Það er ánægjulegt, að nánu samstarfi skuli hafa verið komið á á milli Íslendinga og Norðmanna um mikla uppbyggingu útflutningsatvinnuvegar á Vestfjörðum, þar sem ládeyða var fyrir í atvinnulífinu. Þar liggja, eins og á 19. öldinni og kom fram hér að ofan, gagnkvæmir hagsmunir til grundvallar.
Norðmenn hafa nú nýtt megnið af sínum eyrnamerktu svæðum til kvíaeldis við strendur landsins og framleiða þar 1,3 Mt/ár af laxi, en á Íslandi slítur þessi grein nú barnsskónum, ef frá er talin tilraunastarfsemi af vanefnum á síðari hluta 20. aldar. Þrengsli fyrir kvíaeldi við Noregsstrendur hefur leitt til meiri sjúkdóma í stofninum en vænta má hér, þar sem þéttleikinn verður minni og hvíla á hvert svæði í 1 ár af 3. Fyrirsjáanleg framleiðslugeta við Ísland verður m.a. þess vegna innan við 100 kt/ár eða um 7 % af norskri framleiðslugetu, en Íslendingar geta aukið framleiðsluna mikið með keraeldi á landi með notkun jarðhita til upphitunar á söltu vatni, sem er óhagkvæm í Noregi. Með þessu móti má ætla, að útflutningsverðmæti kvía- og keraeldis hérlendis muni geta slagað upp í núverandi útflutningsverðmæti íslenzks sjávarútvegs, svo að það er ekkert smáræði, sem hangir á spýtunni.
Þessi þrengsli í norskum fjörðum hafa leitt til þess, að leyfisgjald yfirvalda nemur nú allt að 0,19 MISK/t, og verð á framsalsmarkaði þessara starfs- og rekstrarleyfa er tífalt hærra.
Á Íslandi nemur leyfisgjald til fiskeldisstöðva að meðtöldu iðgjaldi ábyrgðartryggingar innan við 2 % af norska gjaldinu, og hér er líka frjálst framsal starfs- og rekstrarleyfa, og markaðsverðið aðeins brot af því norska. Hér er óeðlilega mikið misræmi á ferð á milli nágrannalanda.
Það blasir við, að rentusækni ríkir í sjókvíaeldi bæði í Noregi og á Íslandi. Hún stafar af því, að yfirvöld úthluta hæfum umsækjendum starfs- og rekstrarleyfum fyrir starfsemi á takmörkuðu svæði, sem annar ekki eftirspurn í Noregi, og mun bráðlega heldur ekki anna eftirspurn á Íslandi. Á þessum leyfisveitingamarkaði ríkir ekki frjáls samkeppni, og verðlagið á Íslandi er miklu lægra en í Noregi og nánast örugglega langt undir markaðsverði. Vegna miklu lægri gjaldtöku yfirvalda á Íslandi en í Noregi verður mun meiri rentusækni á sviði sjókvíaeldis á Íslandi.
Það má ekki láta við svo búið standa, heldur verður að eyða þessari rentusækni með því að skapa markaðsverð á leyfisveitingunum. Það er t.d. hægt með því að skipta óúthlutuðum svæðum upp í mismunandi hólf með afkastagetu 100-1000 t/ár, semja útboðslýsingu, þar sem m.a. verði kveðið á um hvíld svæða, gæði búnaðar, gæðastaðla, sem fylgja á í rekstrinum, lágmarkstryggingar, eignarréttindi og framsalsskilyrði.
Það er eðlilegt, að afrakstur þessarar gjaldtöku skiptist á milli viðkomandi sveitarfélaga og ríkisstofnana, sem hlut eiga að máli. Þessi kerfisbreyting þarfnast lagasetningar, og ættu þingmenn Norðurkjördæmanna tveggja að hafa frumkvæði að þessu, enda er hér um stórfellt hagsmunamál viðkomandi byggðarlaga og landsins alls að ræða, og ekki er eftir neinu að bíða. Stöðva þarf allar frekari starfs- og rekstrarleyfisveitingar, þar til ný lagasetning í þessa veru hefur tekið gildi , því að þungi rentusækninnar er mikill.
Markaðsverð fyrir leyfi til sjókvíaeldis í íslenzkum fjörðum gæti slagað upp í það, sem er við Norður-Noreg eða 160 kISK/t. Markaðsverðmæti óúthlutaðra leyfa gæti þá numið 12 miaISK (mia=milljarður), og gæti fjármagnað nauðsynlegar fjárfestingar sveitarfélaganna vegna fiskeldisins og rekstrarkostnað ríkisstofnana vegna m.a. eftirlits með því í 10 ár.
Fyrirtæki, sem fyrir eru í sjókvíaeldi á Íslandi, hafa sín ótímabundnu starfs- og rekstrarleyfi og verða að njóta þess að hafa lagt grunn að að atvinnustarfsemi, sem reist er á faglegum vinnubrögðum og mikilli þekkingu á starfseminni. Hennar hefur aðallega verið aflað í Noregi, og Norðmenn hafa í vaxandi mæli fjármagnað hana. Það ríður mikið á fyrir orðstýr þessarar starfsemi og lífríkið í íslenzkum ám að halda fjölda laxfiska, sem sleppa úr eldiskvíum, í algjöru lágmarki. Ef árlegur slátrunarmassi kemst í 100 kt, þá jafngildir það árlega 25 milljónum nýrra seiða út í kvíarnar. Árlega ganga um 70 þúsund villtir laxar upp í íslenzkar ár eða 0,3 % af þessum seiðafjölda. Það er líffræðilegt viðfangsefni að finna og fastsetja efri mörk seiðafjöldans, sem sleppur, án þess að valda merkjanlegum erfðabreytingum á Íslenzka stofninum. Ef þessi mörk eru t.d. 0,1 % af fjölda göngulaxa, þá má meðalfjöldi seiða, sem sleppa á ári, ekki fara yfir 3 ppm. Í útboðslýsingu leyfanna skal kveða á um sektir í ríkissjóð, ef fleiri seyði sleppa en talið er nánast skaðlaust fyrir íslenzka stofna.
Til að lágmarka líkur á, að seiði sleppi, og til að tryggja, að gæði framleiðslunnar verði, eins og viðskiptavinum er lofað, hafa fiskeldisfyrirtæki komið sér upp alþjóðlega vottuðum gæðastjórnunarkerfum. Í fyrrnefndum Fiskifréttum er eftirfarandi frétt:
"Fiskeldisfyrirtækið Arctic Fish hefur hlotið eftirsótta alþjóðlega umhverfisvottun, Aquaculture Stewardship Council (ASC), fyrst íslenzkra fyrirtækja að því, er fram kemur í frétt frá Arctic Fish."
"Sigurður Pétursson, framkvæmdastjóri Arctic Fish, segir umhverfisaðstæður á Vestfjörðum með hreinan sjó, lágt hitastig og lítinn þéttleika í kvíum hindra viðgang sjúkdóma, og því sé engin lyfjanotkun í eldi félagsins ólíkt því, sem gerist í hlýrri sjó."
"Vottun ASC er staðfesting á þeim árangri, sem við höfum náð, og vottunin mun án efa hjálpa okkur í frekari sókn á erlendum mörkuðum, þar sem kröfuharðir neytendur með mikla umhverfisvitund líta til afurða á borð við þær, sem við framleiðum. Sá markhópur fer sífellt stækkandi, og hann er tilbúinn til að greiða hærra verð fyrir vottaðar afurðir", segir Sigurður.
10.6.2016 | 14:41
Auðlindaafnot
Nú hefur Eftirlitsstofnun EFTA - ESA birt úrskurð um, að virkjanafyrirtæki á Íslandi skuli greiða fyrir nýtingu orkulinda í almannaeigu, og skuli það vera markaðsverð. Þessi merkilegi úrskurður hefur litlar umræður vakið hérlendis, e.t.v. vegna þess, að Hæstiréttur Íslands kvað í vetur upp úrskurð, sem gefur tóninn í þessum efnum.
Þessi úrskurður ESA er eðlilegur og góð viðmiðun við lagasetningu um þessi efni, en í raun er þó ekki um neina grundvallarbreytingu hérlendis að ræða, því að Hæstiréttur Íslands hefur þegar dæmt, að vatnsréttindi Landsvirkjunar í Jökulsá á Brú og í Jökulsá í Fljótsdal og þar af leiðandi í Lagarfljóti skuli mynda stofn til fasteignagjalds til sveitarfélaganna, sem áin rennur um. Eina óleysta ágreiningsefnið er, hvaða fasteignaflokk vatnsréttindin fylla.
Vatnsréttindin hafa verið metin til fjár og orkuvinnslugetan í GWh/ár er þekkt. Þar með er komið fordæmi til auðlindargjaldtöku af öllum virkjuðum vatnsföllum í landinu, sem ekki eru í einkaeigu, t.d. bæjarlækir. Þessi gjaldtaka í opinbera þágu hlýtur að fullnægja úrskurði ESA um auðlindargjald af virkjunum í vatnsföllum, sem renna um margar landaeignir.
Um jarðgufuvirkjanir hlýtur með sama hætti að gilda, að auðlindagjaldið fellur landeigandanum í skaut, þar sem borholurnar eru staðsettar. Séu þær í þjóðlendu, lendir gjaldið hjá ríkissjóði, og séu þær á landeign sveitarfélags, fær það auðlindargjaldið. Það er hægt að reikna auðlindargjald af jarðgufu með ýmsum hætti, en eðlilegast er að reikna orkuinnihald gufunnar á einu ári og bera saman við orkuna í Fljótsdalsvirkjun og miða við sama gjald per GWh/a í gufuorku. Nýtnin er gjörólík í vatnsaflsvirkjun og jarðgufuvirkjun, en með þessu móti væri myndaður hvati til bættrar nýtingar á jarðgufu, sem hefur verið ábótavant hérlendis hingað til. Að nýta jarðgufu einvörðungu til raforkuvinnslu hefur sætt gagnrýni, af því að áhöld eru um sjálfbærni nýtingarinnar, þegar niðurdráttur í holu er 3 % ári, eins og dæmi er um, a.m.k. tímabundið.
Fram að téðum dómi Hæstaréttar hefur hérlendis ríkt ójafnræði með atvinnugreinum, þegar kemur að álagningu auðlindargjalds. Sjávarútvegurinn hefur einn borið þessar byrðar hingað til og reyndar mjög miklar, og hvorki ferðaþjónustan né landbúnaðurinn hafa borið þær. Sá síðar nefndi nýtir afréttir í þjóðlendum, og ferðaþjónustan geysist með fjölmenni upp um fjöll og firnindi. Allt eru þetta takmarkaðar auðlindir, en eru alþjóðlega viðurkennd skilyrði til myndunar auðlindarentu í þeim öllum ? Myndun auðlindarentu í atvinnugrein er forsenda opinberrar gjaldtöku fyrir afnotarétt af takmarkaðri auðlind. Um þetta verður fjallað í næstu vefgrein.
Hin augljósa leið landeigenda til varnar náttúrunni og til að koma á sjálfbærri nýtingu hennar af ferðamönnum er gjaldtaka af ferðamönnum á staðnum. Fyrir andvirðið má viðhalda og auka við þjónustu við ferðamenn á viðkomandi stað, en ferðamenn verða að fá þjónustu fyrir gjaldtöku frá fyrsta degi. Þar með mundu tekjur landsins af hverjum ferðamanni hækka, sem er nauðsynlegt til að vega upp á móti lítilli framleiðni í ferðaþjónustu og stóru kolefnisspori ferðaþjónustunnar m.v. tekjur af henni.
Íslenzkt lambakjöt er lúxusvara, bæði innanlands og utan, sem yrði að bera auðlindargjaldið af þjóðlenduafnotum bænda, og sama máli gegnir um hrossabændur, ef í ljós kemur, að auðlindarrenta finnst í þessari starfsemi. Það er tiltölulega einfalt að sannreyna það.
Það er grundvallaratriði, að allir, sem nýta náttúruauðlindir í almannaeigu, sitji við sama borð, eins og framast er kostur. Þá þarf fyrst að líta til þess, hvort skilyrði fyrir auðlindarrentu í viðkomandi starfsgrein eru uppfyllt og síðan að leggja á samræmt og sanngjarnt auðlindargjald, sem má ekki verða íþyngjandi m.v. alþjóðlega samkeppni og meðalhófs skal gæta við álagninguna, þ.e. sá, sem leggur gjaldið á, verður fyrst að sýna fram á, að það sé ekki hærra en auðlindarentan. Þá duga engar hundakúnstir, því að eignarrétturinn er varinn af Stjórnarskrá, og hægt er að höfða mál vegna þess, sem virðist ósvífin og illa ígrunduð gjaldtaka. Það er heldur ekki víst, að í öllum tilvikum reynist unnt að sýna fram á rentusækni atvinnugreinar, þó að hún eigi afnotarétt af auðlind "í þjóðareign". Um þetta mun blekbóndi fjalla frekar.
7.6.2016 | 20:42
Eignarhaldið á Landsneti
Núverandi eignarhald Landsnets var við stofnun þess hugsað til bráðabirgða, og nú er tímabært að koma því í betra horf. Við stofnun Landsnets árið 2005 samkvæmt raforkulögum nr 65/2003 var drjúgur hluti núverandi stofnkerfis raforkuflutninga fyrir hendi, og stofnkerfinu var stýrt úr Stjórnstöð Landsvirkjunar í kjarnorkuheldu neðanjarðarbirgi við Bústaðaveg í Reykjavík, sem nú er í eigu Veðurstofu Íslands, enda skammt frá höfuðstöðvum hennar.
Þetta fyrirkomulag var og er í ósamræmi við téð raforkulög, sem Alþingi samþykkti á grundvelli tilskipunar ESB - Evrópusambandsins, sem kvað á um, að innan EES - Evrópska efnahagssvæðisins skyldi koma á frjálsri samkeppni, þar sem hægt yrði að koma henni við. Samkvæmt tilskipuninni, sem sumir töldu reyndar óþarfa að innleiða á Íslandi, fámennri eyju, skyldi raforkukerfið vera fjórskipt:
- Raforkuvinnsla - undirbúningur, uppsetning og rekstur virkjana. Fyrirtæki í þessum geira skyldu vera í frjálsri samkeppni um orkusölu í heildsölu frá virkjunum sínum, og þau skyldu lúta annarri stjórn en fyrirtæki í hinum geirunum þremur og hafa aðskilið bókhald frá þeim. Til að tryggja frjálsa samkeppni á orkumarkaði frá virkjunum, skyldi forðast sama eignarhald og í hinum geirunum þremur.
- Raforkuflutningur - undirbúningur, uppsetning og rekstur aðveitustöðva og stofnlína til raforkuflutnings á 66 kV og hærri spennu. Þetta skyldi vera einokunarfyrirtæki með sama hætti og Vegagerð ríkisins til að tryggja einfalt og algerlega samhæft meginflutningskerfi raforku í landinu, sem ekki mundi draga taum neinna annarra aðila á raforkumarkaðinum, heldur gæta jafnræðis allra, sem vildu selja inn á flutningskerfið eða kaupa út af því. Þáverandi flutningsmannvirki landsins skyldu ganga til Landsnets sem eignarhlutur í Landsneti, og eignaðist Landsvirkjun þannig 65 %, RARIK 22 %, OR 7 % og OV 6 %. Þetta eignarhald á Landsneti stríðir gegn anda laganna um óháð einokunarfyrirtæki, og ber að losa um þetta óeðlilega eignarhald hið snarasta,enda hafa nýir aðilar á markaði kvartað undan því.
- Raforkudreifing - undirbúningur, uppsetning og rekstur dreifistöðva, dreifilína og jarðstrengja á 33 kV og lægri spennu ásamt rekstri þessa búnaðar til að dreifa raforkunni frá aðveitustöðvum Landsnets og til orkunotenda. Þetta er sérleyfisskyld starfsemi, þar sem samkeppni er ekki leyfð.
- Raforkusala í smásölu. Á þessu sviði skal ríkja frjáls samkeppni, og einokunarfyrirtækunum, Landsneti og dreifiveitunum, skal vera skylt að flytja orku, sem sölufyrirtækin semja um, til orkukaupendanna. Fyrir mig sem íbúa á "dreifiveitusvæði" Veitna, sem er dótturfyrirtæki OR, er frjálst að semja um raforku frá OV-Orkuveitu Vestfjarða, svo að eitt dæmi sé nefnt.
Frétt Björns Jóhanns Björnssonar í Morgunblaðinu 7. apríl 2016, bls. 14, hefst þannig:
""Ég tel, að við eigum að ræða með opinskáum og yfirveguðum hætti, hvernig við teljum eignarhaldi Landsnets bezt fyrir komið til lengri tíma", sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, á vorfundi Landsnets í vikunni. Vitnaði hún þar til skýrslu, sem Ríkisendurskoðun sendi frá sér s.l. haust um hlutverk, eignarhald og áætlanir Landsnets."
Það er ankannalegt, að ráðherra raforkumála undanfarin 3 ár skuli ekki vera lengra komin en þetta með að koma eignarhaldi Landsnets í viðunandi horf. Eðli fyrirtækisins er að sumu leyti sambærilegt við eðli starfsemi Vegagerðar ríkisins, og bæði fyrirtækin hafa að hálfu löggjafans hlotið vissan forgangsrétt í skipulagslegu tilliti í þágu almannahagsmuna vegna staðsetningar mannvirkja. Almennt er skipulagsvaldið í höndum sveitarfélaga, en mannvirki Vegagerðarinnar og Landsnets þvera mörg sveitarfélög, og þá þykir ekki verjandi m.t.t. heildarhagsmuna, að eitt sveitarfélag geti lagt stein í götu mikils framfaramáls fyrir miklu fleira fólk annars staðar.
Í júníbyrjun 2016 var kynnt skýrsla Lars Christensens, LC, dansks alþjóðahagfræðings, um íslenzka raforkumarkaðinn. Hann bendir þar réttilega á óeðlilegt eignarhald orkuvinnslufyrirtækjanna á Landsneti út frá samkeppnisjónarmiðum og telur brýnt að aðskilja algerlega fjárhagslega hagsmuni Landsvirkjunar og Landsnets, en Landsvirkjun á nú meirihlutann í Landsneti, eins og fram kemur hér að ofan. Forstjóri Landsvirkjunar, Hörður Arnarson, HA, tekur þessari tillögu ólundarlega og fer undan í flæmingi. Það er undarleg hegðun. Ef stjórn Landsvirkjunar þverskallast líka gegn þessu, verður eigandi fyrirtækisins að leiðrétta áttavitann.
HA segir um þetta í baksviðsfrétt Stefáns E. Stefánssonar í Morgunblaðinu 3. júní 2016:
"Hörður segist ekki skilja, hvert verið sé að fara með fyrrnefndri tillögu. "Þetta er ákveðinn misskilningur. Landsvirkjun hefur ekki komið að fjármögnun fyrirtækisins frá 2005. Landsnet hefur verið að greiða inn á lánið, og fyrirtækið hefur verið að fjármagna sig án nokkurrar aðkomu Landsvirkjunar, og fyrirtækið hefur ekki stýrt þeirri fjármögnun með neinum hætti. Nú er Landsnet farið að gera upp í dollurum, og það gefur mögulega til kynna, að fyrirtækið ætli að sækja sér alþjóðlegt fjármagn. Það hefur fyrirtækið reyndar nú þegar gert, m.a. í gegnum Norræna fjárfestingabankann."".
Af þessum þvergirðingslega málflutningi að dæma virðist forstjóri Landsvirkjunar vera því andvígur að rjúfa nú fjárhagstengsl Landsvirkjunar og Landsnets. Hann hlýtur þó að viðurkenna, að staða Landsnets sem óháðs og óvilhalls flutningsfyrirtækis raforku er ótrúverðug með núverandi eignarhaldi og að raforkulögin eru þannig enn ekki uppfyllt. Ráðherra og Alþingi verða líklega að taka af skarið í þessum efnum, en það er betra að gera það um leið og ný eigendastefna verður samin fyrir Landsvirkjun.
LC taldi í téðri skýrslu sinni, að fýsileika einkavæðingar Landsnets ætti að kanna. Það er almennt óráðlegt, að fyrirtæki í lögbundinni einokunaraðstöðu séu í einkaeign. Óháð eignarhaldi verður Orkustofnun, OS, að hafa fjárhagslegt taumhald á Landsneti og rýna útreikninga að baki gjaldskráar fyrirtækisins m.t.t. laga og samþykkta um kostnaðarþróun fyrirtækisins og arðsemi.
Það virðist þó einboðið sem stendur, að eignarhald Landsnets verði með sama hætti og Vegagerðarinnar, þó að fjármögnun þeirra sé ólík. Heildareignir Landsnets í árslok 2015 námu miakr 103, og þar af nam eigið fé mia kr 42. Ríkissjóður á mikið af eignum í samkeppnisrekstri, sem hann getur selt til að fjármagna þessi viðskipti. Það er t.d. freistandi vegna samkeppnistöðu Landsvirkjunar að breyta henni í almenningshlutafélag með 80 % eignarhaldi ríkisins fyrst um sinn og veita lífeyrissjóðunum forkaupsrétt á 10 % og skattborgurunum rétt á að skipta jafnt á milli sín 10 % eignarhluta.
Gömlu eigendur Landsnets hafa næg, arðbær fjárfestingarverkefni fyrir andvirði þeirra í Landsneti. T.d. væri skynsamlegt að flýta jarðstrengjavæðingu RARIK og þrífösun sveitanna með þeim peningum, sem þarna fengjust, en núverandi áætlun um þetta verk er of hægfara fyrir þarfir margra sveitabýla, sem ella verða að koma sér upp eigin virkjun á vindi, fallvatni eða jarðgufu.
Tekjur Landsnets árið 2015 námu miakr 16 af flutngsgjaldi raforku, sem nú er nálægt 13 % af heildarraforkukostnaði almennings og er við efri mörk, sem eðlilegt getur talizt, enda var hagnaður fyrirtækisins á sama tíma miakr 4,0 eða fjórðungur af tekjum, sem er meira en eðlilegt getur talizt til lengdar, enda er búið að reikna með afskriftum, þegar þessi tala er fengin. Það orkar líka tvímælis, að einokunarfyrirtæki af þessu tagi greiði eigendum sínum arð, sem nemur 10 % af hagnaðinum. Orkustofnun á lögum samkvæmt að hafa eftirlit með og samþykkja/hafna gjaldskrá Landsnets og virðist hafa veitt fyrirtækinu helzt til lausan tauminn, enda varð veltuaukning 2015 heil 13 %, þó að orkuflutningurinn hafi aðeins aukizt um 3,6 %. Hér er maðkur í mysunni. Við þessar aðstæður virðist vera grundvöllur til lækkunar almenns flutningsgjalds um 10 %.
Alnafni minn og sveitarstjórnarfulltrúi VG og óháðra í Skagafirði ritaði þann 22. apríl 2016 áhugaverða grein í Morgunblaðið, sem ég er að mörgu leyti sammála. Greinin nefnist:
"Landsnet verði í samfélagseigu".
Hann óttast, að núverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra hafi í hyggju að einkavæða Landsnet, en það væri bæði órökrétt og andstætt "Markaðshyggju með félagslegu ívafi", sem ráðherranum á að vera kunnug. Samkvæmt þeirri stefnu á að ýta undir frjálsa samkeppni einkaaðila, en forðast einkarekna einokunarstarfsemi. Að einkavæða Landsnet mundi stríða gegn anda gildandi raforkulaga vegna hættu á hagsmunaárekstrum eigenda Landsnets og aðila, sem vilja selja orku inn á stofnkerfið, og fyrir svo óhönduglegum gjörningi er tæpast þingmeirihluti fyrir hendi. Áhyggjur nafna eru því óþarfar, en hann skrifar m.a.:
"Iðnaðarráðherrann boðar hins vegar lagasetningu, sem geri það mögulegt að einkavæða raforkudreifingu (sic !) á Íslandi: "Ef einhver þeirra (eigenda Landsnets - innsk. blekbónda) vill selja hlut sinn til einkaaðila eða opinberra aðila, þarf því að breyta lögum", sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir. Ráðherrann viðurkenndi þó, að tíminn væri að renna út fyrir þessa ríkisstjórn til að breyta lögum og heimila einkavæðinguna. En ljóst var, hvert hugur hennar stefndi."
Það er rétt hjá Ragnheiði, að breyta þarf lögum, ef nýir eignaraðilar eiga að koma að Landsneti, því að samkvæmt núgildandi lögum mega eignaraðilarnir aðeins selja hver öðrum sína eignahluti. Ný lög þurfa að kveða á um, að þeir megi aðeins selja ríkissjóði sína hluti, og jafnframt ættu lögin að kveða á um, að hagnaður fyrirtækisins skuli allur fara til aukningar á eigin fé þess. Þá munu núverandi eigendur sjá sér hag í að selja. Sá möguleiki er fyrir hendi, að nafni sé hér að mála skrattann á vegginn með því að túlka orð ráðherrans þannig, að hún vilji einkavæða fyrirtækið.
7.5.2016 | 18:32
Stjórnsýslubotnlangi
Blekbóndi þessa vefseturs telur miklum vafa undirorpið, að flokkun og röðun nýtingarkosta íslenzkrar náttúru sé bezt háttað með núverandi fyrirkomulagi Verkefnisstjórnar um Rammaáætlun, VuR. Hefur blekbóndi gengið svo langt að halda því fram á þessu vefsetri og í grein í tímaritinu Þjóðmálum, að vegna óheppilegrar skörunar fræða- og athafnasviða Orkustofnunar, OS, og VuR, mundi það verða fallið til að straumlínulaga stjórnsýsluna á sviði frumrannsókna á náttúrunni og mats á þeim rannsóknum m.t.t. orkunýtingar eða friðunar, sem undanfarið hefur verið seinvirk, að fela OS núverandi hlutverk VuR og leggja VuR niður sem slíka. VuR hefur með starfsemi sinni gengisfellt sjálfa sig sem farveg sáttar á milli ólíkra sjónarmiða um sjálfbæra og afturkræfa nýtingu náttúruauðlinda. Þar með er hún komin á leiðarenda. Aldrei verður á allt kosið, og allar niðurstöður munu vekja úlfúð um skeið. Þess vegna er nauðsynlegt, að skýr málefnaleg rök, reist á haldgóðri þekkingu á öllum hliðum málsins, liggi til grundvallar flokkun á nýtingarkostum náttúrunnar.
Nú gerðist það 27. febrúar 2016, að í Fréttablaðinu birtist hógvær og vönduð grein eftir Orkumálastjóra, Guðna A. Jóhannesson, um málefni VuR og OS:
"Allir sáttir - en um hvað ?"
Að mati blekbónda er svo komið eftir upplýsingar Orkumálastjóra, m.a. í þessari grein, að þing og ríkisstjórn eru nauðbeygð til að grípa til þeirra ráðstafana, sem duga til að setja "Rammaáætlun" í ásættanlegt stjórnsýslulegt ferli, en af grein Orkumálastjóra er ljóst, að VuR er haldin óviðunandi meinlokum og óhlutlægni, jafnvel slagsíðu:
"Stjórnsýsla, sem bregst við erfiðum málum með því að kippa þeim út úr hinu eðlilega stjórnsýslulega ferli og stinga þeim niður í skúffu, er ekki vanda sínum vaxin. Hlutverk verkefnisstjórnar rammaáætlunar er að stjórna ferli, þar sem allir virkjanakostir eru greindir af faghópum og flokkaðir í tillögu, sem síðan er kynnt í umsagnarferli, þar sem allir hafa aðkomu. Ráðherra leggur síðan þingsályktunartillögu fyrir alþingi til umfjöllunar og ákvörðunar.
Með því að hafna því að taka virkjanakost til meðferðar er verkefnisstjórnin að koma í veg fyrir faglega umfjöllun faghópa, aðkomu fólks og fyrirtækja að umsagnarferlinu og síðast en ekki sízt alþingis Íslendinga. Slíkt valdarán fámennrar klíku þekkist sem betur fer ekki í okkar heimshluta og engar líkur á, að löggjafinn hafi haft slíkt í huga, þegar lög um rammaáætlun voru sett."
Langt er síðan önnur eins ádrepa hátt setts embættismanns um jafnalvarlegar brotalamir í stjórnsýslu landsins hefur sézt opinberlega á prenti. Orkumálastjóri hefur lög að mæla, þegar hann nefnir Verkefnisstjórn um Rammaáætlun fámenna klíku, sem framið hafi valdarán með því að stinga undir stól ósk Orkustofnunar um endurskoðun á flokkun/röðun á grundvelli tillögu að breyttri virkjunartilhögun. Þetta brot í starfi er næg ástæða, og alls engin tylliástæða, til að lýsa vantrausti á Verkefnisstjórnina og leysa hana frá störfum. Í kjölfarið ætti að færa hlutverk hennar undir Orkustofnun. Það er æskilegt að afmarka nánar störf faghópanna, svo að þeir risti ekki jafndjúpt og hingað til, því að rannsóknir á nýtingarkostum eru síðari tíma mál umhverfismats, forhönnunar og verkhönnunar. Með því að raða verkþáttum í rétta röð má draga úr tvíverknaði og spara tíma og nýta viðeigandi innviði, sem þegar eru fyrir hendi í Orkustofnun. Niðurstaða á hæpnum forsendum áður en forhönnun fer fram, er svo mikilli óvissu undirorpin, að hún getur hæglega leitt til rangrar ákvörðunar um niðurröðun.
Orkumálastjóri heldur áfram:
"Það var frá upphafi veikleiki í starfi verkefnisstjórnarinnar, að staða hennar og ábyrgð innan stjórnsýslunnar var ekki vel skilgreind. Orkustofnun hefur frá upphafi gert athugasemdir við vinnulag verkefnisstjórnar.
Fyrstu tillögur að starfsreglum verkefnisstjórnarinnar voru mjög í rétta átt, en voru ekki nægilega skýrar til þess að taka af öll tvímæli í þeim atriðum, sem ágreiningur var um. Þær bárust ekki Orkustofnun til umsagnar, og því hafði stofnunin ekki möguleika á að koma með sínar athugasemdir áður en þær voru gefnar út."
Orkumálastjóri bendir hér á meingallaða stjórnsýslu, þar sem Orkustofnun var sniðgengin. Þeir, sem stóðu að því, hafa verið meðvitaðir um skörunina á verkefnasviðum OS og Verkefnisstjórnarinnar, VuR, og hvílíkt örverpi sú síðar nefnda er í stjórnsýslunni. Þegar þannig háttar til, veltur vönduð stjórnsýsla á persónunum, sem í hlut eiga, og meirihlutinn í núverandi Verkefnisstjórn, sem mun vera frá fyrri hluta árs 2013, veldur engan veginn hlutverki sínu. Til að rökstyðja það nægir að vísa í tilvitnaða grein Orkumálastjóra hér að ofan.
Á meðal áforma núverandi ríkisstjórnar við myndun hennar var að straumlínulaga stjórnsýslu ríkisins. Téð Verkefnisstjórn, VuR, er utan við meginfarveg stjórnsýslunnar og er eins og sepi utan á Orkustofnun án þess að OS geti hlutazt til um starfsemi hennar, sumpart eins og botnlangi á meltingarveginum. Sem kunnugt er hleypur oft bólga í botnlanga meltingarvegarins, og líkaminn verður í raun betur settur án botnlangans en með hann innanborðs. Botnlangabólga getur leitt til dauða líkamans, og með núverandi Verkefnisstjórn er svo mikil slagsíða á málsmeðferð, að raunhæfir orkurannsóknarkostir verða færri en efni standa til. Slíkt leiðir til glataðra tækifæra til atvinnusköpunar og verðmætasköpunar. Mál er, að linni.
9.3.2016 | 11:05
Ris og fall bandarísks vaxtar
Út er komin hjá bandaríska forlaginu, Princeton University Press, bókin: "Ris og fall bandarísks vaxtar - bandarískir lífshættir síðan í Borgarastríðinu".
Lýsingin á að mörgu leyti einnig við Evrópu og þá Ísland með hálfrar aldar seinkun og er fróðleg. Verður stuðzt hér við þessa bók í endursögn "The Economist", 9. janúar 2016:
Þann 20. janúar 2016 komu þeir saman í fjallabænum Davos í Sviss, sem líta á sig sem alþjóðlegt úrval, og ræddu "fjórðu iðnbyltinguna".
Sú fyrsta varð um 1750 með hagnýtingu eðlisfræðilögmála Sir Isacs Newtons frá öldinni áður og lögmála varmafræðinnar með frumsmíði gufuvélar Skotans James Watts, og skömmu seinna var farið að dæla olíu úr jörðu í Pennsylvaníu og hagnýta hana sem eldsneyti í Bandaríkjunum - BNA. Tímabil jarðefnaeldsneytis gekk í garð og varaði í þrjár aldir, en um miðja 21. öldina verður notkun þess að renna sitt skeið á enda, ef ekki á illa að fara.
Önnur iðnbyltingin varð með útleiðslu eðlisfræðilögmála Maxwells og Faradays um rafsegulfræði og rafstraum og síðan beizlun rafmagns á þeim grunni um 1880.
Sú þriðja fylgdi í kjölfar Afstæðiskenningar Alberts Einsteins fyrir öld og síðan beizlun kjarnorkunnar 1945, og sú fjórða stendur í raun enn yfir, en það er tölvubyltingin, sem hófst um 1985. Sér ekki fyrir endann á henni.
Það er þó ofmat hjá Klaus Schwab, hringhöfðingja sirkusins, sem á ensku nefnist "The World Economic Forum" eða "Vettvangur heimshagkerfisins", að 4. byltingin sé sú áhrifamesta. T.d. er sjálfkeyrandi bíll minni breyting en vélknúin bifreið, sem smíði hófst á í lok 19. aldar, og fjöldaframleiðslutækni Fords í byrjun 20. aldar gerði síðan að almannaeign.
Önnur tæknibyltingin, sem átti sér stað 1870-1900, gjörbylti lífi fólks. Áður var hraði tengdur hrossum, og sólarhringstaktinn ákvarðaði snúningur jarðar um möndul sinn. Grunnþörfum var fullnægt með líkamlegu erfiði, t.d. að sækja eldunarvatn, baðvatn og þvottavatn, og bera í hús. Þetta erfiði lenti oftast á konum og börnum, og hiklaust má halda því fram, að 2. tæknibyltingin hafi frelsað konuna undan þrældómi heimilisverkanna, og var þá kominn tími til. Rafknúin heimilistæki og raflýsing gjörbyltu heimilishaldinu til hins betra ásamt loftgæðum innanhúss, og mynduðu grundvöllinn að þátttöku kvenna í atvinnulífinu og kvenfrelsisbaráttunni, svo að ekki sé nú minnzt á framleiðniaukninguna og framleiðsluaukninguna, sem varð samfara innreið rafmagnsins. Að baki meiriháttar þjóðfélagsbreytingum og hernaðarsigrum er oftast tækniþróun. Barátta verkalýðshreyfingarinnar fyrir bættum hag verkalýðs hefði orðið ósköp léttvæg án risaskrefa í framleiðniaukningu 1880-1980 á Vesturlöndum, í Japan og víðar, og hefði orðið létt í vasa án mikillar framleiðsluaukningar og hagvaxtar, sem hagnýting tækniþróunar gerði mögulega.
Rafmagnið færði birtu og yl inn í húsakynnin og smám saman komu á markaðinn rafknúnar eldavélar, þvottavélar, ísskápar og fleiri heimilistæki. Við þetta snarbatnaði loftið í hýbýlunum, afköst við heimilisverkin jukust, og þau urðu léttari. Fæðuúrvalið jókst til muna með bættri geymslutækni. Nútímalega lifnaðarhætti og velferðarmöguleika eigum við raunvísindunum og hagnýtingu þeirra á margvíslegum tækni- og framkvæmdasviðum að þakka.
Uppgötvun, smíði og dreifing símans stytti fjarlægðina á milli fólks til mikilla muna. Afturhaldsöfl voru auðvitað á móti þessum breytingum víða, og á Íslandi er andstaðan og óttinn við símann alræmd. Síðan hafa flest framfaramál á Íslandi, sem fólu í sér verklegar framkvæmdir og/eða breytingar á umhverfi eða lífi fólks, sætt ámæli afturhaldsafla. Í hverju þjóðfélagi má búast við, að afturhaldsöfl geti náð til 20 % þjóðarinnar, og þetta hlutfall virðist stækka með aukinni velmegun, en það er ekki um neitt annað að gera fyrir hina en að halda sínu striki og leiða þróunina áfram til betra mannlífs með beztu fáanlegu tækni á hverjum tíma. Það er skylda okkar að búa þannig eftir megni í haginn fyrir komandi kynslóðir. Aðgerðarleysi og dauðyflisháttur er dauðasök.
Verð á bílum hríðféll, eða um 63 %, á árabilinu 1912-1930 eða um 3,5 % á ári að jafnaði að raunvirði. Nú á tímum á sér stað enn meiri verðlækkun á rafmagnsbílum, sem taka munu við af bílum knúnum sprengihreyflum 19. aldar, þegar tökin á geymslu rafmagns verða orðin viðunandi.
Á þessum árum varð bifreiðin almenningseign í BNA, því að þá jókst fjöldi heimila með aðgang að bifreið frá 2 % og upp í 90 % eða um tæplega 5 % á ári að jafnaði. Gerðist þetta mun fyrr í BNA en í Evrópu eða annars staðar í heiminum, en var í raun stefna Þriðja ríkisins á 4. áratuginum, og var Volkswagen-bjallan hönnuð sem bifreið hins vinnandi manns og fyrir hana og stærri bifreiðir af gerð Merchedes-Benz, Porsche o.fl., lagðar fyrstu hraðbrautirnar, "Autobahnen", sem nú eru sveitavegir í Sambandslýðveldinu Þýzkalandi.
Á fyrstu 30 árum 20. aldarinnar varð tækniþróunin svo ör í borgaralegu samfélagi BNA markaðshagkerfis frjálsrar samkeppni, að segja má, að þau hafi skilið Evrópu eftir, enda álpuðust stórveldi Evrópu út í stórstyrjöld, sem stóð 1914-1918, og var reist á misskilningi, rangtúlkunum og risaegói aðalsins, sem enn hafði þar tögl og hagldir þó án beysinna hæfileika í mörgum tilvikum. Þjóðfélagsumrót í kjölfar gífurlegs mannfalls og hörmunga þessarar styrjaldar velti aðlinum góðu heilli úr sessi, en í henni voru færðar hræðilegar og ófyrirgefanlegar fórnir, og hún varð Evrópu hrikalega dýrkeypt á marga vegu.
Reyndar höfðu BNA strax um aldamótin 1900 náð mikilli forystu í tæknivæðingu almennings. Árið 1900 voru ferfalt fleiri símtæki á íbúa í BNA en á Bretlandi, sexfalt fleiri á íbúa en í Þýzkalandi og 20-falt fleiri á íbúa en í Frakklandi. Þremur áratugum seinna áttu Bandaríkjamenn meira en 78 % af öllum bifreiðum í heiminum. Loks árið 1948 höfðu Frakkar náð sambærilegu aðgengi að bifreiðum og rafmagni og Bandaríkjamenn höfðu náð árið 1912.
Evrópa hafði verið lögð í rúst í hefndarstríði þjóðernisjafnaðarmanna 1939-1945 eftir ófarir þýzkumælandi landa keisaranna í Berlín og Vín í ófriðnum mikla 1914-1918, og Bandaríkin reyndar leitt báðar styrjaldirnar til lykta, svo að forskot Bandaríkjanna í tæknivæðingu samfélagsins hélzt lungann úr 20. öldinni.
Þegar þýzka herráðið vann að styrjaldaráætlunum Þriðja ríkisins 1938-1940, var ekki gert ráð fyrir ógn af hernaðarmætti BNA í Evrópu. Stafaði það af þrennu:
Ífyrsta lagi var rík einangrunartilhneiging í BNA eftir Kreppuna miklu og þingið ófúst að taka afstöðu með öðrum hvorum deiluaðilanum í Evrópu, þ.e. Möndulveldunum eða Vesturveldunum, enda afkomendur þýzkumælandi innflytjenda í BNA um þriðjungur Bandaríkjamanna á þessum tíma og öflugir í samfélaginu. Þá þótti ógæfulegt að stugga við hinni rísandi sól, Japan, sem var eitt Möndulveldanna.
Í öðru lagi stóð Wehrmacht ekki ógn af bandaríska hernum á þessum tíma, því að hann þótti þá sambærilegur rúmenska hernum að stærð og atgervi, sem er með ólíkindum.
Í þriðja lagi var talið, að Bandaríkjamenn mundu eiga fullt í fangi með að fást við Japani, en vegna öxulsins Berlín-Tokyo-Róm var Berlín kunnugt um fyrirætlun keisaradæmis hinnar rísandi sólar um framrás á Kyrrahafinu og til Suð-Austur Asíu, en Japanir höfðu þá tögl og hagldir í auðugum héruðum Kína, þar sem þeir öfluðu hráefna fyrir ört vaxandi iðnað sinn. Forkólfar möndulveldanna réttlættu stríðsæsing sinn með nauðsynlegri öflun matvæla og iðnaðarhráefna fyrir ört vaxandi þjóðir sínar, sbr slagorðið, "Drang nach Osten", sem átti að beina sjónum Þjóðverja í austurátt að "kornforðabúri Evrópu", Úkraínu, en átti eftir að leiða þá í tortímingarleiðangur til Leningrad, Stalingrad, Moskvu og Kákasus.
Þýzka herráðið vanmat gjörsamlega mikilvægi tæknilegs forskots Bandaríkjanna og hinn gríðarlega framleiðslumátt þessa rísandi stórveldis, og herráðinu varð þetta ekki ljóst fyrr en árið 1942, og þessi mistök ásamt WC-þættinum, þ.e. stríðsleiðtogahæfileikum Sir Winstons Churchills, áttu eftir að verða afdrifarík og leiða til endaloka "Þúsund ára ríkisins" eftir rúm 12 ár frá stofnun. Þetta kemur vel fram í endurminningabók þýzka vígbúnaðarráðherrans, Alberts Speers, arkitekts.
Eftir sigur Bandamanna undir forystu Bandaríkjamanna 1945 festu þeir áhrifamátt sinn í sessi með með nýrri heimsskipan á grundvelli Marshall-aðstoðarinnar og Bretton Woods fjármálakerfisins, og með því að láta mikið fé renna til æðri menntunar í BNA, sem leiddi til atgervisflótta þangað og lagði grunn að miklu framfaraskeiði í hagkerfi, þar sem framleiðslunni var beint frá hergögnum og öðrum þörfum hersins til friðsamlegra þarfa og neyzluvarnings. 1950-1970 var tímabil velmegunar og eflingar miðstéttarinnar bandarísku, og jafnvel fólk með einvörðungu grunnskólamenntun gat vænzt atvinnuöryggis, húss í úthverfi og nægra eftirlauna, sem var afrakstur byltingar borgarastéttarinnar.
Árið 1970 tók að falla á þessa fögru mynd, enda fóru bandarísk fyrirtæki nú að finna fyrir samkeppni, einkum frá þeim, sem bandaríski herinn hafði átt drjúgan þátt í að knésetja 1945, Japan og Þýzkalandi. Víetnam-stríðið dró BNA siðferðislega niður í svaðið og varð upphafið að hnignun ríkisins. OPEC margfaldaði olíuverðið 1973, og það varð öllum iðnríkjum þungbært, ekki sízt BNA, sem knúin voru áfram með olíusóun. Tekju-og eignamunur þegnanna tók nú að aukast, þar sem auðurinn safnaðist á færri hendur, og kjarabætur miðstéttanna stöðvuðust. Þær fengu ekki lengur réttlátan hlut í framleiðniaukningunni. Þessi þróun mála getur endað með ósköpum í BNA. Þar ríkir greinilega reiði á meðal almennings út í stjórnkerfið, sem mörgum þykir hafa brugðizt sér, en hyglað "Wall Street" (Borgartúninu), þ.e. spákaupmönnum og auðjöfrum, á kostnað hins stritandi manns. Þetta er ástæðan fyrir fylgi við lýðskrumarann Donald Trump og jafnaðarmanninn Bernie Sanders. Þarna er mikil gerjun, sem vonandi mun á endanum verða almenningi til eflingar á kostnað auðjöfranna.
Á bak við kjarabætur almennings hafði á tímabilinu 1920-1970 staðið mikill framleiðnivöxtur eða 2,82 % á ári að jafnaði. Á tímabilinu 1970-2014 hefur honum hrakað mjög eða niður í 1,62 % á ári að jafnaði.
Nú mega Bandaríkjamenn muna fífil sinn fegri. Þjóðin eldist, lækniskostnaður vex, ójöfnuður er hrikalegur á íslenzkan mælikvarða og samfélagsleg innanmein grafa um sig. Bandaríkjamenn hafa misst fótfestu í alþjóðamálum, og þau gætu hreinlega dregið sig inn í skel sína, senn hvað líður. Það er auðvitað miður og mun auka enn á óreiðuna í heiminum. Þó virðast þeir nýlega vera farnir að bera víurnar í sína gömlu aðstöðu á Íslandi, en óvissan er mikil um, hvað við tekur eftir kosningarnar í nóvember 2016.
Tæknilegt forskot Bandaríkjamanna virðist nú vera bundið við hergagnaiðnaðinn, þar sem þeir njóta yfirburða, en í flestum nytjavöruflokkum almennings virðast þeir jafnvel hafa dregizt aftur úr, s.s. í farsímum, bílum og heimilistækjum. Í fararbroddi á þessum sviðum eru nú Evrópumenn og Austur-Asíumenn. Við þessum heimshlutum blasir hins vegar ekki síður við mikill vandi af lýðfræðilegum og stjórnmálalegum toga, þ.e. hrörnun. Nestor jafnaðarmanna á Íslandi, Jón Baldvin Hannibalsson, hefur lýst Evrópusambandinu sem brennandi húsi. Olíuverðlækkunin, sem hófst í júní 2014 og mun standa a.m.k. út 2016, nema fjandinn losni úr grindum, hefur komið af stað miklu umróti í heiminum, sem ekki sér fyrir endann á. Íslendingar standa við þessar aðstæður að mörgu leyti með pálmann í höndunum, en verða, eins og fyrri daginn, að sýna skipstjórnarhæfileika til að sigla fleyinu ólöskuðu gegnum öldurótið.
14.2.2016 | 11:49
Orkumál vestan hafs og austan
Það eru miklar mótsagnir fólgnar í aðgerðum ýmissa stórþjóða o.fl. í baráttunni við loftslagsbreytingar af völdum uppsöfnunar koltvíildis af manna völdum í andrúmsloftinu. Ein afdrifaríkasta mótsögnin er sú að loka kjarnorkuverum án fullnægjandi öryggislegra raka í mörgum tilvikum á sama tíma og varið hefur verið háum fjárhæðum úr vasa skattborgaranna til að niðurgreiða orku frá getulitlum orkuverum á borð við vindrafstöðvar og sólarhlöður. Hefur þetta leitt til aukins rekstrar á kolakyntum orkuverum, eins og nú skal rekja á grundvelli greinar í The Economist, "Half-death", þann 31. október 2015.
Pennsylvanía-ríkið í Bandaríkjum Norður-Ameríku, BNA, er nú aftur miðdepill orkuvinnslu í BNA, og kjarnorkuverið "Three Mile Island" í fylkinu er á ný í sviðsljósinu, en þar varð kjarnorkuslys fyrir mörgum árum, og var þá öðrum kjarnakljúfi virkunarinnar lokað.
Gríðarlegt gasflæði úr setlögum Marcellus-svæðisins í ríkinu á síðustu árum hefur valdið svo miklu verðfalli á raforku sums staðar í BNA, að kjarnorkuver standa í ströngu í verðsamkeppninni. Kjarnakljúfurinn, sem enn er í rekstri á "Three Mile Island" er í miklum vandræðum, ekki af öryggisástæðum, heldur af fjárhagsástæðum vegna lækkunar verðs á orkumörkuðum Bandaríkjanna, BNA.
Í BNA og í Evrópu hafa almennar vöruverðslækkanir aukið vandræði kjarnorkuvera, sem voru ærin fyrir eftir kjarnorkuslysið í Fukushima í Japan árið 2011. Tækniþróun í BNA við gasvinnslu úr setlögum, aukið framboð í Evrópu á niðurgreiddri raforku frá endurnýjanlegum orkulindum og fremur lítil spurn eftir raforku í báðum þessum álfum, hefur valdið mikilli lækkun á heildsöluverði raforku. Þetta hefur m.a. leitt til þess, að draumfarir sæstrengsunnenda á Íslandi hafa breytzt í martröð, og áætlanir Landsvirkjunar um miklar raunhækkanir raforkuverðs á áratuginum 2010 - 2020 hafa fallið um sjálfar sig án þess, að Landsvirkjun hafi þó aðlagað verðlagsstefnu sína að breyttum aðstæðum. Afleiðingin er sú, að Landsvirkjun er að verðleggja Ísland út af alþjóðlegum raforkumarkaði. Þetta blasir við, en stjórnendur Landsvirkjunar berja hausnum við steininn. Þetta er til vitnis um ótrúlega klúðurslega stjórnun og setur samkeppnishæfni Íslands við útlönd í uppnám. Má hún alls ekki við bergþursahætti af þessu tagi eftir launahækkanir án tengsla við framleiðniaukningu atvinnuveganna.
Raforkuverðlækkanir á alþjóðamörkuðum hafa m.a. orðið til þess, að eigendur kjarnorkuveranna eiga erfitt með að greiða fyrir breytilegan kostnað þeirra, og hafa þeir þá neyðzt til að loka þeim. Hið öfugsnúna er, að þessi þróun hefur magnað gróðurhúsavandann, því að skarð kjarnorkuveranna hefur verið fyllt með orkuverum knúnum jarðefnaeldsneyti. Að bæta við algengustu endurnýjanlegu orkulindunum hefur ekki leyst vandann: þegar vindur blæs ekki og sólin skín ekki, þá eru kjarnorkuverin enn þá bezt fallin til að standa undir grunnálagi stórra rafkerfa án myndunar koltvíildis. Í stað þeirra hafa menn reist gas- og kolaknúin orkuver. Hvað rekur sig á annars horn í baráttunni við hlýnun jarðar, og allt virðist ekki vera með felldu.
Kínverjar hafa með fyrirhyggjulausri iðnvæðingu sinni bakað sér alvarleg heilsufarsvandamál með mengun lofts, láðs og lagar. Ofan á þetta bætast öfgar í veðurfari með vatnsleysi á stórum svæðum. Þeir sjá nú þann grænstan að reisa kjarnorkuver og ætla að þrefalda uppsett afl þeirra á tímabilinu 2016-2020, og önnur nýmarkaðsríki feta í fótspor þeirra. Vonandi verður Indland þeirra á meðal, en engin teikn eru þó enn á lofti um það.
Í Japan var lokað 41 af 43 kjarnorkuverum eftir Fukushima-slysið. Í Þýzkalandi var lokað nokkrum kjarnorkuverum að skipun ríkisstjórnarinnar í Berlín eftir sama slys og ákveðið að stöðva rekstur hinna eigi síðar en 2022. Í Frakklandi hefur verið ákveðið að lækka 75 % hlutdeild kjarnorku niður í 50 %, sem er ákvörðun, sem virðist vera tímaskekkja. Allt er þetta ávísun á hömlulitla aukningu á styrk gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu og sýnir forgangsröðun stjórnmálamanna, þegar þeir ganga út úr ráðstefnusölum orðagjálfursins um gróðurhúsaáhrifin. Með því að berjast þannig á tvennum vígstöðvum í einu er kröftunum dreift í óskynsamlegum mæli, svo að útilokað verður að hindra hlýnun andrúmslofts jarðar yfir 1,5°C-2,0°C, sem orðagjálfur ráðstefnusalanna þó snýst um.
Í heiminum eru nú starfrækt 394 kjarnorkuver samkvæmt "World Nuclear Industry Status Report" og hefur fækkað um 37 eða tæplega 9 % frá 2010. Í OECD-ríkjunum koma nú 18 % raforkunnar frá kjarnorkuverum, en voru 24 %, þegar mest var árið 1997, en utan OECD er þessi hlutdeild miklu lægri eða 8 %.
Fleiri lokana má vænta á næstunni, einkum á eldri kjarnorkuverum með aðeins einum kjarnaofni, sem eru vinnukrefjandi, jafnvel þó að þau framleiði ekki mikið. Í BNA standa verin verst að vígi, þar sem frjáls markaður er við lýði, t.d. í Norð-Austri og Mið-Vestri, þar sem kjarnorkuverin verða að keppa við orkuver, sem nota aðra orkugjafa, um að selja ódýrustu orkuna. Í Suðurríkjunum, t.d. í Georgíu, þar sem markaðnum er stjórnað af yfirvöldum, gengur kjarnorkuverunum betur, því að þar er þeim tryggt visst lágmarksverð á orkunni. Í krafti slíkrar afkomutryggingar var kjarnorkuverið í Watts Bar í Tennessee fyrsta nýja kjarnorkuverið til að hefja vinnslu 22. október 2015 í 20 ár. Sama fyrirkomulag er við lýði á Bretlandi, þar sem kjarnorkuverinu Hinkley Point C hefur verið tryggt verð að jafngildi 150 USD/MWh af ríkisstjórninni.
Sem dæmi um fall raforkuverðs í BNA undanfarin misseri má taka orkufyrirtækið Entergy, sem er með höfuðstöðvar í New Orleans. Það tilkynnti 13. október 2015, að það hygðist loka kjarnorkuverinu Pilgrim í Massachusetts sumpart vegna þess, að vinnslukostnaður þar, 50 USD/MWh, væri orðinn hærri en orkuverð markaðarins, sem hefði fallið í 45 USD/MWh.
"The Nuclear Energy Institute" í BNA gaf nýlega upp, að árið 2014 hefði meðalvinnslukostnaður rafmagns í kjarnorkuverum BNA numið 24 USD/MWh. Meðalvinnslukostnaður þá með kolum nam 30 USD/MWh, með gasi 45 USD/MWh og með olíu 240 USD/MWh. Á grundvelli þessara upplýsinga um markaðsverð og vinnslukostnað í BNA er alveg kostulegt, að Landsvirkjun á Íslandi skuli enn ríghalda í þá fordild, að viðmiðunarverð hennar í nýjum langtímasamningum við stóriðju,43 USD/MWh, sé samkeppnishæft. Því fer víðs fjarri, því að það er löngu viðurkennd staðreynd, að vegna flutningskostnaðar á hráefnum til Íslands og fjarlægðar frá mörkuðunum býr Ísland við óhagræði, sem verður að vega upp með öðru móti, t.d. lægra orkuverði, e.t.v. 10 USD/MWh lægra en á meginlandi Evrópu og í BNA. Á þessum grundvelli má hiklaust draga þá ályktun, að gagnrýnisraddir á Landsvirkjun um, að stjórnendur hennar séu með óraunsærri verðlagsstefnu sinni að verðleggja íslenzka fallvatnsorku út af markaðinum, hafi rétt fyrir sér. Það einkennilega í þessu máli er, að vinnslukostnaðarins vegna í íslenzkum vatnsaflsvirkjunum er engin þörf á að spenna verðið í nýjum samningum svona hátt, þar sem jaðarkostnaður þeirra er nálægt 30 USD/MWh. Hvers konar "græðgisvæðing" er þá hér á ferðinni hjá ríkisfyrirtækinu ?
Evrópski raforkumarkaðurinn er að mestu leyti frjáls, og þar sem kol og gas hafa lækkað í verði, hefur raforkan lækkað líka. Á íslenzka fákeppnismarkaðinum hækkar hins vegar raforkuverðið og upp úr öllu valdi til nýrrar stóriðju, enda er búið að framkalla afl- og orkuskort í landinu með illa dulbúnu framtaksleysi, á meðan vaðið er á súðum um vindmyllur og sæstreng til Bretlands. Þetta er gjörsamlega ólíðandi hegðun, og Landsvirkjun, sem risinn á markaðinum, gefur tóninn. Með óþarfa hækkun raforkuverðs rífur Landsvirkjun niður samkeppnishæfni íslenzks iðnaðar, dregur úr aukningu verðmætasköpunar og rýrir lífskjörin í landinu, kaupmátt og atvinnutækifæri, sem ekki er hægt að láta átölulaust. Langlundargeð fulltrúa eigenda Landsvirkjunar er með eindæmum og fer að verða þeim fjötur um fót.
Árið 2014 nam vinnsla kjarnorkuvera í ESB 883 TWh og hafði frá 1997 dregizt saman um 50 TWh eða rúm 5 %. Þá nam vinnsla vindorkuvera 250 TWh, og hefur nánast öll aukningin orðið frá 1997 eða 15 TWh/ár, og frá sólarhlöðum komu þá 98 TWh, og hefur nánast öll aukningin orðið síðan 2007 eða 14 TWh/ár. Hin nöturlega staðreynd er sú, að í Þýzkalandi og sumum Norðurlandanna hefur aukning endurnýjanlegrar raforkuvinnslu þrýst niður heildsöluverði raforku með alvarlegum afleiðingum fyrir andrúmsloftið. Studdir af hinu opinbera með niðurgreiðslum, fá vindrafstöðva- og sólarhlöðueigendur meiri tekjur en eigendur kjarnorkuvera, þegar orkuverðið er lágt. Þetta hefur leitt til þess, að í kjarnorkuverum hefur vinnslan verið minnkuð eða þau hreinlega stöðvuð, en í staðinn hafa komið kolakynt og gaskynt orkuver, þegar vinds eða sólar nýtur ekki við, og megnið af tímanum eru þau rekin á dræmum afköstum og oft engum afköstum.
Í Svíþjóð hefur orkuverð á markaði stundum undanfarið lækkað undir vinnslukostnað kjarnorkuvera. Þau standa samt enn undir helmingi grunnorkuþarfar Svíþjóðar. Það hefur gert þeim enn erfiðara fyrir, að ríkisstjórn jafnaðarmanna og græningja hefur lagt viðbótar skatt á kjarnorkuverin, sem annars konar orkuver sleppa við. Þessi stjórnargjörningur stríðir auðvitað gegn baráttunni við losun gróðurhúsalofttegunda og margir segja gegn heilbrigðri skynsemi. Ríkisstjórn jafnaðarmanna og græningja gasprar um, að í stað kjarnorkuvera landsins komi vindrafstöðvar og sólarhlöður, en það er innantómt fjas og í raun óleyfilegur barnaskapur af stjórnvöldum að halda slíku fram.
Án þess að auka hlut kjarnorkuvera með svipuðum hætti og Kínverjar hafa tekið ákvörðun um, munu Vesturveldin ekki geta staðið við markmið sín um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Lokanir kjarnorkuvera beggja vegna Atlantshafs sýna tvískinnunginn, sem uppi er að hálfu stjórnvalda í loftslagsmálum. Þau hafa valið að ráðstafa skattfé með óskilvirkum hætti með því að niðurgreiða raforku frá nýjum endurnýjanlegum lindum í stað þess að skattleggja orkuver, sem brenna jarðefnaeldsneyti.
Úr því að stjórnvöld víðast hvar á Vesturlöndum virðast ekki sjá sér fært að ýta undir smíði nýrra kjarnorkuvera, er eina vonin um að takast muni að halda hlýnun andrúmslofts jarðar í skefjum, sú, að þróun nýrra orkulinda til raforkuvinnslu muni heppnast í tæka tíð. Það bendir reyndar sitthvað til, að þóríum-kjarnorkuver muni reynast bjargvætturinn, en geislunarhættan frá þeim er mun minni en frá hefðbundnum kjarnorkuverum, og úrgangurinn hættir að vera hættulega geislavirkur á um hálfri öld í stað nokkurra þúsunda ára. Þessi orkuver geta verið að stærð frá 100 kW og upp í a.m.k. 1000 MW og munu þess vegna henta til margvíslegra nota, allt frá samgöngutækjum til orkuvera.