Færsluflokkur: Vísindi og fræði
11.2.2016 | 11:01
Akkilesarhæll rafbíla
Mikið er skeggrætt um orkubyltingu á sviði samgangna og af mismiklu viti. Ekki er þó örgrannt um á alþjóðavettvangi, að hagsmunaaðilar á sviði jarðefnaeldsneytis drepi málinu á dreif. Flestir telja samt, að rafmagn muni knýja öll samgöngutæki áður en lýkur, en þar er enn sá hængurinn á, að orkuþéttleiki rafgeymanna, kWh/kg, er ófullnægjandi til að vera fullkomlega boðlegur valkostur við jarðefnaeldsneytið. Hafa menn þá nefnt eldsneytishlöður (e. fuel cells), sem nota vetni sem orkulind, og kjarnorkuofn, sem notar t.d. frumefnið þóríum sem orkulind, sem valkosti við rafgeymana. Nú er hins vegar í sjónmáli önnur vænleg lausn, sem greint verður frá hér. Frásögnin er reist á grein í "The Economist", 23. maí 2015, "Sheet lightning":
Það er ekki tekið út með sældinni einni saman að þróa rafbíl, sem sé jafningi bíla af svipaðri stærð, en knúnir bensíni eða dísilolíu. Liþíum-jóna rafgeymarnir, sem notaðir eru til að geyma orkuna, sem síðan knýr rafbílana, eru næstum nógu ódýrir og endast næstum nógu langa vegalengd til að vera fullgildir í þessari samkeppni, en eru ekki alveg nógu góðir enn. Ef rafgeymarnir fá ekki hleðslu frá rafala bíls, sem knúinn er bensínvél, þá komast rafbílar yfirleitt aðeins 50-250 km án endurhleðslu.
Rafbíll án bensínvélar til stuðnings er varla boðlegur fyrr en drægnin nær 500 km. Með beztu tækni tekur hleðsla rafgeyma upp í 80 % af fullri hleðslu ekki skemmri tíma en 20 mín. Það þarf betri rafgeyma en þetta, en þeir hafa látið standa á sér. Það hefur af einhverjum ástæðum ekki verið sett nægilegt fé í rannsóknir og þróun á sviði nýrrar orkutækni hingað til, svo að róttæk breyting yrði frá eldsneytistækninni.
Margir hafa reynt og mistekizt, en vonin er samt ódrepandi. Nýjasta tilraunin er með kolefnissambandið grafen, undraefni okkar tíma. Frumkvöðullinn, Lu Wu í Vísinda- og tæknistofnuninni í Gwangju í Suður-Kóreu, telur, að verði hægt að færa grafen-verkefnið af tilraunastigi og yfir á framleiðslustig, þá hafi vandamál rafbílanna verið leyst, og björninn gæti unnizt árið 2016.
Reyndar er það, sem dr Lu og kollegar eru að vinna að, ekki rafgeymir, heldur ofurþéttir; tæki, sem sameinar eiginleika raflausnar í rafgeymi og eðliseiginleika þéttis, sem er að varðveita rafhleðslu þar til þörf er á rafstraumi. Rafhleðslur eru geymdar á efnisyfirborði þéttis sem stöðurafmagn, en stöðurafmagn ofurþéttisins er hins vegar háð raflausninni á milli þéttisflatanna. Þéttisvirknin við upphleðslu þéttis veldur því, að orkuupphleðslan tekur mun skemmri tíma en efnaferlið, sem fer af stað í rafgeymum við endurhleðslu þeirra.
Þéttar eru síður en svo nýir af nálinni, en grafenið auðveldar til muna gerð ofurþéttis. Grafenið er með stórt yfirborð eða 2,675 m2/g. Þar liggur hundurinn grafinn, því að á öllu þessu yfirborði er hægt að geyma mikinn fjölda rafhleðslna, sem jafngildir þá háum orkuþéttleika. Þannig getur einn ofurþéttir skákað liþíum-rafgeymum í orkuþéttleika, kWh/kg, sem gerir gæfumuninn. Um kostnað við gerð ofurþéttis er ekki vitað, en sé dregið dám af kostnaðarþróun á öðrum sviðum tækniþróunar, fellur sá kostnaður í kr/kWh um 75 % fyrstu 4 árin, eftir að fjöldaframleiðsla hefst.
Það er ljóslega ýmislegt í gangi í vísindaheiminum, og hækkun olíuverðs og gasverðs, sem búizt er við árið 2017, mun einungis flýta fyrir þróun tækni, sem snurðulaust getur leyst jarðefnaeldsneyti af hólmi á öllum sviðum orkuvinnslu, og er kominn tími til eftir 250 ára "yfirburðastöðu" þessa eldsneytis sem grundvöllur efnalegrar velferðar, sem nútímamenn vita, að er ekki sjálfbær. Með því að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi í samgöngutækjum með sjálfbærri tækni batna loftgæði í þéttbýli stórlega, og útblástur gróðurhúsalofttegunda minnkar til muna.
4.2.2016 | 10:57
Loftmengun er líka umhverfisvá
Mikil athygli hefur undanfarna mánuði beinzt að vánni, sem bíður mannkyns af völdum uppsöfnunar koltvíildis í andrúmsloftinu, en loftmengun hefur þá fallið í skuggann. Þetta eru þó skyld mál, og uppruninn að miklu leyti sá sami: kolakynt raforkuver, en frá þeim koma 2/3 allrar raforku í Kína, þar sem loftmengun er mikið böl.
Þegar 40´000 - 50´000 manns söfnuðust saman í París til að spjalla saman um (daginn og veginn og) loftslagsvandann og til að rífast um, hverjir ættu að bera þyngstu byrðarnar í viðureigninni við téðan vanda, svo gáfulegt sem það nú er, þá lá sótmökkur yfir Peking, og skyggnið var innan við 200 m. Valdhöfunum er orðið órótt, því að ný miðstétt krefst meiri lífsgæða.
Sums staðar í höfuðborg alþýðulýðveldisins var styrkur örryks við þrítugföld heilsuverndarmörk. Afleiðingar gegndarlausrar rafvæðingar og iðnvæðingar án umhverfislegrar fyrirhyggju og umhyggju fyrir náttúru landsins, sem maðurinn á að vera hluti af, hefur nú komið hrottalega niður á lífsgæðum í landinu og er þungur baggi á heilsufari og lífsgæðum í Kína.
Almenningur í Kína hefur í áratug haft þungar áhyggjur af vatnsmengun og loftmengun í landinu, og það er að renna upp fyrir leiðtogum Kommúnistaflokks Kína, að mengun er orðið stórpólitískt mál, sem ógnað getur stöðugleika í landinu og völdum Kommúnistaflokksins. Forystumenn flokksins hafa þess vegna söðlað um og sett umhverfisvernd í öndvegi, en það tekur langan tíma að snúa stóru skipi, og þess vegna tóku Kínverjar ekki á sig neinar skuldbindingar í París í desemberbyrjun 2015, heldur létu duga yfirlýsingu um, að árið 2030 mundi losun Kínverja á gróðurhúsalofttegundum ná hámarki. Margt bendir þó til, að vegna knýjandi þarfar og brýnnar nauðsynjar á að bæta loftgæðin í stórborgum Kína, verði gripið miklu fyrr í taumana og hámarkinu hafi jafnvel þegar verið náð. Kínverska ríkisstjórnin ætlar þó ekki að fórna hagvextinum á altari "græna goðsins", heldur hefur stefnan verið sett á nýja tækni, þóríum-kjarnorkuver, sem sameina eiga hagvöxt og umhverfisvernd. Allt að 1000 vísindamenn vinna nú að þróun þessarar nýju og umhverfisvænu kjarnorkutækni í Kína og munu væntanlega eigi síðar en 2020 koma fram með frumsmíði fyrir venjulegan rekstur. Þá verður dagrenning nýrra og heilnæmari tíma.
Um 2/3 hlutar aukningar á losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum síðan árið 2000 stafar af kínverska hagkerfinu. Síðasta 5-ára plan kínverska kommúnistaflokksins gerir ráð fyrir að draga úr kolefnislosun sem hlutfall af verðmæti þjóðarframleiðslu um fimmtung árið 2020. Það verður gert með því að auka að sama skapi hlutdeild kolefnisfrírrar raforkuvinnslu. Kínverjar eru að þessu leyti á réttri braut, og það skiptir allan heiminn miklu.
Það á að koma á laggirnar viðskiptakerfi með kolefnislosunarheimildir í Kína árið 2017, og það eru umræður í flokkinum um að leggja á kolefnisskatt, og þar með tæki Kína vissa forystu á meðal hinna stærri ríkja heims í þessari viðureign. Hvers vegna var ekki rætt af neinni alvöru um kolefnisskatt í París 30. nóvember til 12. desember 2015 ?
Kína hefur, eins og önnur ríki, haft þá stefnu "að vaxa fyrst og hreinsa upp seinna". Nú hafa stjórnvöld landsins rekið sig á annmarka og hættur samfara þessari stefnu og hefa dengt miklu fjármagni í hreina orkugjafa og þróun nýrrar tækni á sviði mengunarlausra orkugjafa, sem er rétta aðferðin við að fást við þennan brýnan vanda að mati blekbónda.
Stefnubreyting kínverska ríkisins er líkleg til að verða öðrum þróunarríkjum til eftirbreytni, t.d. Indlandi, og þá er ekki loku fyrir það skotið, að hindra megi aukningu koltvíildis í andrúmslofti um 1200 Gt frá 2015, en samkvæmt kenningunni um hlýnun af völdum gróðurhúsalofttegunda mun slík aukning hafa í för með sér 1,1°C hlýnun, sem ofan á hlýnun frá 1850 gerir 2,0°C meðalhitastigshækkun á jörðunni.
Samkvæmt rannsóknum á borkjörnum úr Grænlandsjökli er mesta hitastigshækkun á jörðunni síðast liðin 100´000 ár 2,0°C. Þar með er vitað, að slík hækkun er afturkræf. Það veit hins vegar enginn, hvort meiri hækkun, t.d. 3°C, verður afturkræf. Ef ekki koma fram róttækar tæknibreytingar á sviði sjálfbærrar raforkuvinnslu fyrir upphaf næsta áratugar, eru því miður afar litlar líkur á, að viðbótar losun haldist undir 1200 Gt CO2.
Loftgæði í Evrópu eru mun meiri en áður og mun meiri en í Kína. Þó berast fregnir, t.d. nýlega frá Mílanó, um hættulega mikinn styrk örryks í andrúmslofti. Með minni iðnaði og löggjöf um hreinsun útblásturs síðan á 6. áratug 20. aldar hefur tekizt að draga úr styrk mengunarefna á borð við SO2, örryks og níturoxíða. Samt deyja 400´000 Evrópumenn árlega fyrir aldur fram vegna slæmra loftgæða samkvæmt upplýsingum Umhverfisstofnunar Evrópu. Árið 2010 mat þessi stofnun árlegan heilsufarskostnað vegna mengunar í Evrópu á bilinu miaEUR330 - miaEUR940, sem er 3 % - 7 % af þjóðarframleiðslu ríkjanna, sem í hlut eiga. Þetta er gríðarlegur baggi, og þess vegna er til mikils að vinna. Á Íslandi verða nokkur dauðsföll árlega af völdum ófullnægjandi loftgæða, aðallega vegna umferðar á götum þéttbýlis, en einnig eiga jarðvarmavirkjanir í minna en 40 km fjarlægð frá þéttbýli hlut að máli. Allt stendur þetta þó til bóta.
Á íslenzkan mælikvarða nemur þetta árlegum kostnaði miaISK 60 - miaISK 140, sem sýnir í hnotskurn, hversu gríðarlega alvarlegt vandamál mengun er. Á Íslandi er þó loftmengun minni en víðast hvar í Evrópu, svo að kostnaður af hennar völdum er aðeins brot af umreiknuðum evrópskum kostnaði.
90 % evrópskra borgarbúa verða fyrir mengun yfir hættumörkum, eins og þau eru skilgreind af WHO-Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni. Hæstu níturoxíðgildin eru í London, í Tyrklandi er örrykið PM10 (styrkur örryks, þar sem þvermál rykagna er undir 10 míkrometrum) vandamál í mörgum borgum, en versta mengunin er þó í Austur-Evrópu vegna mikils fjölda úreltra kolakyntra orkuvera þar.
Á Íslandi eru mengunarvarnir í góðu lagi. Styrkleiki örryks frá umferð og H2S frá jarðfufuvirkjunum fer þó stundum yfir ráðlögð heilsufarsmörk. Þegar rafbílum fjölgar á kostnað eldsneytisbíla, einkum dísilbíla, og nagladekkjum fækkar vegna framfara í gerð vetrardekkja, mun draga úr mengun frá bíla- og strætisvagnaumferð. Virkjunarfyrirtækin vinna nú að þróun aðferða til að draga úr losun hættulegra gastegunda út í andrúmsloftið. Heimur batnandi fer.
1.2.2016 | 10:21
Þrjár aðferðir til að létta samgöngutæki
Líklega eiga hraðstígustu framfarirnar á sviði efnistækni í samgöngutækjageiranum nú um stundir sér stað við þróun framleiðslutækni fyrir koltrefjar. Mest ber á þessu við hönnun og smíði flugvéla, en nú einnig í vaxandi mæli í bílaiðnaðinum.
Um árabil hafa koltrefjar verið notaðar í litlu magni í geimför og hernaðartæki, þar sem kostnaður hefur ekki skipt höfuðmáli. Flugvélaiðnaðurinn hefur um skeið notað efnið, en framleiðsluferlið hefur verið hægfara, og hefur það staðið notkun koltrefja fyrir þrifum.
Nú hafa verkfræðingar í bílaiðnaðinum komið auga á kosti koltrefja til að létta bílana, og hjá BMW (Bayerische Motoren Werke) hefur mönnum tekizt að þróa framleiðsluaðferð, sem er nú á þröskuldi fjöldaframleiðslu. Þarf 50 % minni orku við framleiðslu hvers bíls af i3 gerð og 70 % minna vatn, en hörgull er á vatni víða ekki síður en sjálfbærri orku. Þarna minnkar BMW umhverfisspor sitt umtalsvert.
Í spánýrri verksmiðju BMW í Leipzig í Þýzkalandi er hvorki rafsoðið né logsoðið, engin hnoð eru notuð, engar skrúfur og engir boltar. Einingar eru límdar saman.
Þetta er haft eftir þýzka verkfræðinginum Ulrich Kranz í The Economist 5. desember 2015, en Kranz stjórnar deild BMW í Leipzig, sem framleiðir i3 og i8 rafmagns- og tvinnbíla. Þeir hafa ekki verið kynntir tilhlýðilega til sögunnar á Íslandi. Kynningu á rafmagnsbílum og tengiltvinnbílum er almennt ábótavant hjá bílaumboðunum á Íslandi.
Koltrefjarnar mynda burðarvirkið í bílunum, en útlits vegna er ytra byrði haft úr hefðbundnu plasti. Ekki er þörf á neinni tæringarvörn og sprautun verður einfaldari og ódýrari en þar sem málmar eiga í hlut.
Með því að nota koltrefjarnar hefur Kranz og félögum tekizt að vega svo upp á móti miklum þunga rafgeymanna, að bílþunginn er jafnvel minni en jafnstórra bíla með sprengihreyfil. Burðarvirki bílanna er sterkara en stál, en samt a.m.k. 50 % léttara en sambærilegt stálvirki og u.þ.b. 30 % léttara en ál. Lítill vafi er á, að hér er tónninn sleginn fyrir alla bílaframleiðendur, sem berjast við að draga úr útblæstri eldsneytisknúinna bifreiða og lengja drægni rafbílanna.
Gríðarleg þróun hefur átt sér stað í framleiðsluhraða koltrefja, og að sama skapi hefur spurn eftir efninu vaxið að hálfu bílaiðnaðarins. Árið 1980 tók 3000 klst að framleiða koltrefjar fyrir meðalbíl, en árið 2010 var þessi tími kominn niður í um 10 klst. Á sama 30 ára skeiði hefur eftirspurn bílaiðnaðarins vaxið úr fáeinum kg í 5000 t, og síðan 2010 hefur eftirspurnin hafizt á flug, og notkun bílaiðnaðarins á koltrefjum árið 2025 er spáð að ná allt að 50´000 t, þ.e. að tífaldast á 15 árum. Koltrefjarnar hafa hafið innreið sína í fjöldaframleiðsluferli bíla.
Þetta er þó aðeins brot af notkun bílaiðnaðarins á stáli og áli í um 100 milljónir farartækja fyrir vegi á ári. Framleiðendur þessara málma fyrir bílaiðnaðinn girða sig nú í brók (og það er engin heybrók) til að mæta samkeppni frá koltrefjunum. Stálframleiðendur hafa þróað hástyrks stálplötur, sem eru þynnri, sterkari og léttari en hefðbundnar stálplötur í bíla. Álframleiðendur þróa ný melmi, sem eru sterkari, auðformanlegri og léttari en fyrri melmi. Þá hefur verið þróuð aðferð til að sjóða saman ál og stál.
Koltrefjarnar hafa náð mestri útbreiðslu í flugvélaiðnaðinum. U.þ.b. helmingur af heildarþunga tómrar Boeing 787 Dreamliner, Airbus A380 og A350, stafar af koltrefjum. Léttari flugvél brennir minna eldsneyti og losar þá frá sér minna af koltvíildi. Þær geta flutt fleiri farþega eða meiri fragt og flogið lengra en áður á sama eldsneytismagni. Þetta þýðir fleiri farþegakílómetra per líter eldsneytis, sem er mælikvarði á eldsneytisnýtni farþegaflugvéla. Ekki er að efa, að hinar nýju Boeing farþegaþotur Flugleiða, sem áformaðar eru í rekstur árið 2018, munu verða smíðaðar að talsverðu leyti úr koltrefjum, enda eiga þær að spara a.m.k. 20 % eldsneytis á farþegakm m.v. núverandi flota félagsins.
Það er hægt að koma við hagræðingu við framleiðsluna, því að plöturnar geta verið stærri en álplöturnar, og þess vegna er þörf á færri samsetningum. Flugvélaframleiðendur hafa stytt framleiðsluferli koltrefjanna, en það er samt enn óþarflega seinvirkt og dýrt fyrir fjöldaframleidda bíla.
Þessi þróun lofar ekki einvörðungu góðu fyrir eldsneytisnýtni fartækjanna, heldur lofar hún góðu fyrir væntanlega fartækjakaupendur, þ.m.t. væntanlega bílakaupendur, sem munu njóta ávaxtanna af harðari samkeppni birgja bílaframleiðendanna.
20.12.2015 | 10:57
Vindmyllur í íslenzkum belgingi
Föstudaginn 20. nóvember 2015 var greint frá því í Morgunblaðinu, að vindrafstöðin að Belgsholti í Melasveit væri nú "komin upp í fjórða sinn". Í fréttinni segir:
"Haraldur Magnússon, bóndi í Belgsholti, reisti vindmyllu í júlí 2012, og var það fyrsta vindmyllan hér á landi, sem tengd var við landsnetið. Síðar hafa mun stærri vindmyllur verið tengdar við kerfið, í Búrfelli og Þykkvabæ. Vindmyllan hefur skemmst þrisvar, meðal annars vegna galla í hönnun og smíði, og hefur Haraldur eytt miklum tíma og fjármunum í að útbúa hana sem best."
Vindmyllan í Belgsholti virðist af mæligildum á vefsetrinu, http://www.belgsholt.is, vera 20 kW að málraun, en myllurnar á Hafinu norðan Búrfells eru 900 kW. Blekbóndi reiknaði á sínum tíma út orkuvinnslukostnað þeirra m.v. upplýsingar Landsvirkjunar og fékk út tæplega 90 USD/MWh eða 11,7 kr/kWh (130 ISK/USD). Á Englandi svarar raforkukostnaður frá vindmyllum á landi nú til 125 USD/MWh, og er þessi kostnaðarmunur í samræmi við ólíkan árlegan nýtingartíma á uppsettu afli vindmyllanna í löndunum tveimur, en vindmyllurnar á Hafinu ná fullum afköstum við vindstyrkinn 10 m/s, og oftast blæs meira í þessari hæð yfir sjávarmáli en í hæð Belgsholts.
Blekbónda er ókunnugt um heildarkostnaðinn við vindmylluna hjá Haraldi, bónda, á Belgsholti, en vegna smæðar sinnar gæti vinnslukostnaður hennar verið ívið hærri en vinnslukostnaður tilraunamylla Landsvirkjunar. Vindmylla Haraldar stendur nærri hafi, svo að nýtingartími hennar er líklega svipaður og hinna hátt standandi vindmylla á Hafinu, en raunasaga vindmyllunnar í Belgsholti bendir til sterkra sviptivinda.
Ef gert er ráð fyrir, að vinnslukostnaður vindmyllanna á Belgsholti sé samt um 10 % hærri en vindmyllanna á Hafinu, þá nemur hann um 13 kr/kWh. Ef reiknað er með, að raforkuverð til Belgsholtsbónda sé svipað og til þessa blekbónda, þá er sparnaðar hins fyrr nefnda um 3,5 kr/kWh.
Belgsholtsbóndinn sparar sér nefnilega bæði flutningskostnað og dreifingarkostnað raforku, sem í tilviki blekbónda nema 59 % af heildarkostnaði raforku. Orkuvinnsluverðið til blekbónda nemur án orkuskattsins, sem fellur brott um áramót 2015/2016, og án hins álagða 24,0 virðisaukaskatts aðeins 5,4 kr/kWh. Þetta þarf að bera saman við líklegan vinnslukostnað vindmylla Landsvirkjunar, sem á Hafinu er 11,7 kr/kWh, en getur orðið lægri í fyrirhuguðum vindmyllulundum hennar vegna þess, að þar verða vindmyllurnar um ferfalt stærri að afli hver mylla, ef af verður.
Gerum ráð fyrir, að tækniþróunin og hagkvæmni stærðarinnar lækki kostnaðinn á orkueiningu um 20 %, niður í 9,4 kr/kWh. Kostnaður raforkuvinnslu með vindmyllum verður samt 4 kr/kWh hærri en orkuverð án flutnings- og dreifingarkostnaðar til almennings um þessar mundir. Mismunurinn nemur 74 % og sýnir í hnotskurn, hversu glórulaus sú viðskiptahugmynd Landsvirkjunar er að setja upp vindmyllulundi á Íslandi til orkuvinnslu inn á landskerfið, þegar fjöldinn allur af hagkvæmari virkjunarkostum vatnsfalla og jafnvel jarðgufu er fyrir hendi. Erlendis er að renna upp fyrir mönnum, að vindmyllur og sólarhlöður eru sennilega úrelt þing, enda hillir undir nýja orkugjafa og miklu stærri og stöðugri orkuver.
Einu staðirnir á Íslandi, þar sem vindmyllur geta hugsanlega orðið hagkvæmar á næstunni, eru eyjar í byggð við landið, og kemur Heimaey þá fyrst upp í hugann. Þann 1. ágúst 2015 birtist í vikuritinu The Economist frásögn af vindmylluverkefni á eyjunni Block Island, sem er 20 km undan strönd Rhode Island í BNA. Þar eru um 1000 heilsársíbúar og 15000 sumargestir, sem nú reiða sig á dísilknúna rafala, sem brenna milljónum lítra af olíu ár hvert. Undan strönd eyjarinnar á senn að setja upp fyrstu vindmyllur BNA á hafi úti (offshore).
"Fimm vindrafstöðvar, hver að uppsettu afli 6,0 MW, munu fara í rekstur haustið 2016. Deepwater Wind, fyrirtækið, sem stendur að verkefninu (sem kosta á MUSD 250 - mia ISK 33 - BJo), gerir ráð fyrir því að lækka orkureikning eyjarskeggja um 40 %. Vindmylluverið mun framleiða meiri orku en þörf er á á eyjunni, nóg fyrir 17´000 heimili, svo að umframorka verður send til meginlandsins."
Vestmannaeyjar koma helzt til greina fyrir sambærilegan vindmyllugarð, þó að hann megi hæglega staðsetja á landi, í Heimaey, og verður hann þá mun ódýrari. Blekbóndi hefur reiknað út, hver vinnslukostnaður vindmyllanna úti fyrir Block Island er m.v. ávöxtunarkröfu 8,0 %/ár, afskriftatíma 15 ár, rekstrarkostnað 5,0 MUSD/ár og 130 kr/USD. Vinnslukostnaðurinn verður þá 48 kr/kWh.
Sé tekið mið af hlutfalli ensks vinnslukostnaðar vindmylla á landi og á sjó, sem er 69 %, þá gæti vinnslukostnaður sambærilegs vindmyllulundar í Vestmannaeyjum numið 33 kr/kWh. Vestmannaeyingar hafa núna sæstreng úr landi og geta fengið nauðsynlega viðbótarorku um hann, ef orkuvinnslan er ónóg í vindmyllulundi Heimaeyjar af einhverjum orsökum, og þeir geta sent umframorkuna til lands. Þess vegna er hugsanlega hagkvæmt fyrir Vestmannaeyinga eða eitthvert orkufyrirtækið að setja upp vindmyllulund í Vestmannaeyjum, en uppi á fastalandinu er arðsemi slíks mesti vonarpeningur.
9.12.2015 | 15:20
Skattkerfi og samkeppnihæfni hagkerfa
Það, sem einna mest skilur að hægri menn og vinstri menn, er hugmyndafræði þessara fylkinga um skattheimtu. Hægri menn vilja haga skattheimtunni þannig, að hún skekki hagkerfið sem minnst, t.d. mismuni ekki atvinnugreinum, fyrirtækjum eða einstaklingum. Hægri menn vilja forðast álögur, sem letja menn til framtaks, vinnuframlags og nýsköpunar, og haga skattheimtunni þannig, að hún hafi sem minnst neikvæð áhrif á samkeppnihæfni atvinnugreina, fyrirtækja og einstaklinga. Stækkun skattstofna er keppikeflið að mati hægri manna.
Þessu er öllu öfugt farið með vinstri menn, og þeir láta gjarna, eins og þeir skilji ekki, hversu vandmeðfarið skattkerfið er, og haga sér eins og fíll í postulínsbúð, þegar þeir komast til valda, eins og ráðsmennskan í Fjármálaráðuneytinu á dögum Jóhönnustjórnarinnar sýndi. Þá var skattheimtan aukin mjög mikið og einstrengingslega, þannig að skatttekjurnar hurfu í skuggann af skattheimtunni, af því að þynging hennar hafði kunn og alvarleg áhrif á skattstofnana með þeim afleiðingum, að hagvöxtur koðnaði niður og tekjur ríkisins jukust miklu minna en efni stóðu til. Það hefur afhjúpazt við fjárlagagerð haustið 2015, að vinstri menn hafa engu gleymt og ekkert lært, síðan þeir báru ábyrgð á ríkissjóði, með hraksmánarlegum afleiðingum. Þeir reikna með að éta kökuna áður en hún er bökuð. Búskussar hafa slíkir jafnan kallaðir verið á landi hér.
Samkvæmt nýrri kýrslu Tax Foundation (TF) batnaði alþjóðleg samkeppnihæfni íslenzka skattkerfisins árið 2014 m.v. 2013, því að landið fór úr 24. sæti í 20. sæti af 34 löndum OECD, sem í samanburðinum eru, og var með einkunn 6,7 árið 2014. Þetta er góður bati, en mun meira þarf, ef duga skal.
Í skýrslu TF kemur fram, að helzta ástæða batans var afnám auðlegðarskattsins, sem var eignaskattur, sem fól í sér tvísköttun og gerði t.d. eldri borgurum með lágar tekjur og miklar eignir erfitt um vik, og þeir urðu í sumum tilvikum að losa sig við eignirnar til að geta staðið í skilum. Þetta var mjög óréttlátt, en þannig er einmitt réttlæti vinstri manna, sem fóðra allar sínar skattahækkanir með réttlætis- og jafnréttisblaðri.
Miklar umbætur voru gerðar á skattkerfinu haustið 2014, sem tóku gildi 1. janúar 2015. Má þar nefna afnám vörugjalda af öllu, nema bílum og eldsneyti, og styttingu bilsins á milli virðisaukaskattþrepanna tveggja og fækkun undanþága frá virðisaukaskatti. Verður gaman að sjá skýrslu TF árið 2016, en 2014 var Ísland eftirbátur allra Norðurlandanna, nema Danmerkur, að þessu leyti.
Efst trónuðu Eistland með 10,0, Nýja Sjáland með 9,2, Sviss með 8,5 og Svíþjóð með 8,3. Ef Íslandi tekst að komast yfir 7,5, þá má búast við, að landflóttinn snúist við og fleiri erlend fyrirtæki fái raunverulegan hug á fjárfestingum hérlendis. Það er áreiðanlegt, að skattkerfið á hlut að atgervisflóttanum frá Íslandi, þó að fleiri atriði komi þar við sögu.
Fernt skýrir velgengni Eistlands:
- 20 % tekjuskattur á fyrirtæki og engin auðlindagjöld. Skatturinn er tiltölulega lágur og mismunar ekki fyrirtækjum eftir greinum.
- 20 % flatur tekjuskattur á einstaklinga. Þetta er eftirsóknarvert kerfi, því að það hvetur til tekjuaukningar og umbunar þeim, sem lagt hafa út í langt nám, fá í kjölfarið háar tekjur, en að sama skapi skemmri starfsævi en hinir. Á Íslandi verður tekið hænuskref í þessa átt með afnámi miðþrepsins, en þá lækkar viðmiðun efra þrepsins.
- Eignarskattsstofn í Eistlandi er einvörðungu landeign, en hvorki fasteignir né fjármagn mynda eignarskattsstofn. Það virkar nokkuð kyndugt að skattleggja land, og verður þá ekki séð, hvers bændur eiga að gjalda. Þeir, sem kaupa sér land eða lóð, hafa þegar greitt skatt af aflafé sínu, og þess vegna er um tvísköttun að ræða, nema um arf eða gjöf sé að ræða.
- Erlendar tekjur fyrirtækja, sem skrásett eru í Eistlandi, eru undanskildar skattheimtu ríkisins. Þetta virkar auðvitað sem hvati á fyrirtæki til að skrá höfuðstöðvar sínar í Eistlandi, enda hljótast af slíku fjárfestingar og óbeinar tekjur til hins opinbera. Þetta er snjallt hjá Eistum.
Niðurstöður rannsókna skýrsluhöfundanna sýna ótvírætt, að til að skattkerfi efli samkeppnihæfni lands, verður skattheimtunni að vera stillt í hóf. Vinstri stjórnin rýrði samkeppnihæfni Íslands með hóflausum og illa ígrunduðum skattahækkunum. Þetta kemur þannig niður á launþegunum, að kjör þeirra dragast aftur úr kjörum starfsbræðra og -systra erlendis. Að kjósa vinstri flokkana er þess vegna að kjósa lakari kjör sér til handa en ella væru í boði.
Alþjóðleg fyrirtæki líta mjög til skattkerfisins, þegar þau íhuga að hasla sér völl í nýju landi. Það er keppikefli flestra landa, þróaðra og annarra, að draga til sín starfsemi alþjóðlegra fyrirtækja.
Fyrir heilbrigt hagkerfi skiptir ekki einvörðungu hófleg skattheimta máli, heldur má skattlagningin ekki mismuna starfsgreinum, þ.e.a.s. skattkerfið þarf að sníða í því augnamiði að afla sem mestra tekna án þess að valda markaðsbresti. "Það þýðir skattkerfi, sem ýtir ekki undir neyzlu á kostnað sparnaðar, eins og raunin er með fjármagnstekjuskatt og eignaskatt. Þetta merkir einnig kerfi, sem veitir ekki einum geira atvinnulífsins skattaívilnanir miðað við aðra geira þess.", svo að vitnað sé beint í umrædda skýrslu.
Heimfært á Ísland væri nær að skrifa, að samkeppnihæft skattkerfi íþyngi ekki einum geira atvinnulífsins umfram aðra geira, því að um það er engum blöðum að fletta, að auðlindagjaldið, sem innheimt er af sjávarútveginum einum, er í senn ósanngjarnt og sérlega íþyngjandi. Til að sníða af því agnúana þarf að búa svo um hnútana, að andvirði s.k. veiðigjalds renni til starfsemi, sem þjónustar sjávarútveginn umfram aðra aðila, t.d. Hafrannsóknarstofnunar, Landhelgisgæzlunnar, Hafnarsjóðs o.fl.. Gjaldið þarf að vera verðtengt og magntengt, t.d. 4%-5% af verði óslægðs fiskjar upp úr sjó. Að öðrum kosti skekkir þessi skattheimta samkeppnihæfni sjávarútvegs um fólk og fé og má líta á sem landsbyggðarskatt. Ekki þarf að fara mörgum orðum um, að þetta veiðigjald, eins og það er lagt á hérlendis, á sér enga hliðstæðu erlendis, heldur er reist á annarlegum sjónarmiðum hér innanlands. Samt er stjórnarandstaðan hérlendis enn eins og gömul plata, þegar hún ræðir fjárlagafrumvarpið og þarf að fjármagna lýðskrum sitt, og heggur í knérunn sjávarútvegsins, þar sem hún ævinlega telur feitan gölt að flá. Samt eru með slíku brotin lögmál heilbrigðrar og sjálfbærrar skattheimtu, svo að ekki sé nú minnzt á sanngirnina. Hún liggur ævinlega óbætt hjá skattbæli villta vinstrisins.
29.11.2015 | 10:32
Rafmagnsbílar í sviðsljósinu
Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, ritar athygliverða grein í Morgunblaðið 10. október 2015 undir fyrirsögninni:
"Umræða um loftslagsmál villandi".
Hann vitnar í upphafi til greinar hins mæta þingmanns, Sigríðar Á. Andersen, í sama blaði, tveimur dögum fyrr, sem blekbóndi leyfir sér að vitna til hér:
"Aðeins 4´101 þúsund tonn [4,10 Mt - BJo] af 15´730 þúsund tonna [15,73 Mt - BJo] heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi árið 2012, mælt í svokölluðum koltvísýringsígildum, telst inn í bókhald Kyoto-bókunarinnar. Stærsti hluti losunar, eða 11´629 þúsund tonn [11,63 Mt - BJo], teljast ekki með, en sú losun stafar af framræstu landi."
"Umferð fólksbíla vegur 13 % af því, sem telst til Kyoto bókunarinnar, en aðeins tæplega 4 %, séu heildartölurnar notaðar."
Síðan skrifar Özur:
"Í allri umræðu, sem verið hefur um málið hér á landi, hefur nánast án undantekningar verið einblínt á fólksbílinn og hann gerður að blóraböggli."
Um þetta síðast nefnda er það að segja, að hafi fólksbíllinn verið gerður að blóraböggli, er það afar ósanngjarnt, hvað bensínbílinn varðar, því að á síðustu 10 árum hafa bílaframleiðendur helmingað bensínnotkunina á hvern ekinn km, þ.e. tvöfaldað vegalengdina, sem hægt er að komast að jafnaði við sömu aðstæður á sama eldsneytismagni.
Þetta hafa þeir gert með því að létta bílana, aðallega með því að láta ál leysa stál af hólmi í bílunum og einnig með styrkingu stálmelma og minna efnismagni, með því að bezta lögunina m.t.t. loftmótstöðu og síðast, en ekki sízt, með því að bæta eldsneytisnýtni vélanna, t.d. með rafstýrðri innspýtingu lofts og eldsneytis í sprengihólfið.
Þess má geta, að langt er síðan Audi tók forystu um innleiðingu áls í bílana, og framleiðandinn ræður nú frá nokkurri ryðvörn. Slíkt léttir og dregur úr rekstrarkostnaði. Sömu áhrif hefur, að fyrirtækið er hætt með varadekk, en við loftleka er úðað frauði í belginn.
Þetta er gríðargóður árangur í eldsneytissparnaði, sem sýnir góðan vilja og mikla tæknigetu bílaiðnaðarins.
Hins vegar er ekki hægt að draga dul á það, að það er lík í lestinni, þar sem dísilvél í fólksbílum er. Hún gefur frá sér heilsuspillandi efni á borð við sót og níturoxíð, og það fer ekki saman að hreinsa þessi efni úr útblæstrinum, eins og krafizt er, t.d. í Bandaríkjunum, BNA, og að bæta eldsneytisnýtni dísilvélarinnar verulega. VW-málið í BNA og víðar er til marks um þetta. Þess vegna veldur markaðssetning umboðsaðila bílaframleiðendanna hérlendis nokkrum vonbrigðum, en asískir og evrópskir framleiðendur leggja mesta áherzlu á að markaðssetja dísilbíla, þó að hún sé sízti kosturinn frá umhverfisverndarsjónarmiði og hljóti að láta undan síga fyrir umhverfisvænni kostum, þegar ríkisvaldið loks vindur ofan af ívilnandi gjaldtöku sinni af þessum bílum og dísilolíunni.
Blekbóndi telur það hafa verið rakalausan og rangan gjörning hjá yfirvöldum í Evrópu, þ.á.m. á Íslandi, að hvetja bílakaupendur til kaupa á dísilbílum, af því að þeir losuðu minna af gróðurhúsagösum út í andrúmsloftið á hvern ekinn km, með því að slá af gjaldtöku ríkisins og skattlagningu af þessum bílum og dísilolíunni. Ber núverandi yfirvöldum á Íslandi strax að snúa ofan af þessari tilhæfulausu markaðsbrenglun, afnema þennan öfuga hvata og jafna að sínu leyti samkeppnisstöðu bensín- og dísilbílsins. Núverandi markaðsinngrip í þágu dísilbíla eru reist á misskilningi og/eða skorti á upplýsingum eða jafnvel röngum upplýsingum á síðasta kjörtímabili.
Yfirvöld eru hins vegar á réttri braut með öflugri hvatningu til bílkaupenda, sem standa frammi fyrir vali, um að velja sér rafmagnsbíl. Þar er þó sá hængur á, að drægni þeirra á hverri rafmagnshleðslu hefur verið takmörkuð, oftast undir 200 km, nema gegn háu verði, og það vantar hleðslustöðvar meðfram þjóðleiðum. Það vantar líka sárlega hleðsluaðstöðu við heimahús, og er ástæða til að setja ákvæði í byggingarreglugerð, að í stofntöflu húss skuli gera ráð fyrir grein, eða eftir atvikum greinum, ásamt rafstrengjum, sem íbúðareigendur geti auðveldlega tengt rafgeymahleðslutæki við. Erfiðast er núna um vik við fjölbýlishús, og þyrftu dreifiveiturnar og/eða sveitarfélögin að hlaupa þar undir bagga. Auðveldara er um vik við raðhús og einbýlishús.
Hér er um að ræða um 50 % aukningu rafmagnsnotkunar heimilis, sé einvörðungu endurhlaðið heima, og þess vegna þarf að sérmæla þessa rafmagnsnotkun, notanda og raforkufyrirtækjunum til hagsbóta.
Það er brýnt fyrir dreifiveiturnar að finna hentugan orkumæli, sem skráir tímasetningu raforkunotkunar, svo að innleiða megi næturtaxta fyrir bílarafmagnið. Að öðrum kosti munu dreifiveiturnar yfirlestast innan nokkurra ára og neyðast til að fara út í dýrar framkvæmdir og hækka taxta sína. Núna er hlutur dreifingarkostnaðar um 38 % af heild, ef rafskatti og fastagjaldi er sleppt, hlutur orkuvinnslu 49 % og flutnings 13 %. Það er þjóðhagslega hagkvæmt að hlaða bílarafgeymana að næturþeli.
VW-samsteypan hefur nú þróað nýjan fólksbíl, sem leysir vandamál skammdrægni og fárra rafgeymahleðslustöðva í bæjum og dreifbýli á hagkvæman og tæknilega snjallan hátt. Hér er um að ræða tvinnbíl af gerðinni Audi A3 Sportback e-tron, sem getur samkeyrt rafhreyfil og bensínhreyfil og náð þannig bensínnotkuninni niður í 4,5 l/100 km á langkeyrslu. Þetta er einstakur bensínsparnaður, sem stafar af því, að sé samkeyrsluhamur valinn, þá nýtist hemlunarorkan til hleðslu inn á geymana.
Eldsneytiskostnaðurinn verður þá 8,9 kr/km, en rafmagnskostnaðurinn í rafmagnshami er aðeins 3,1 kr/km. Heildarorkukostnaðurinn verður aðeins 4,3 kr/km, sem er tæplega fjórðungur af því, sem algengt er um 5-10 ára bensínbíla af svipaðri þyngd.
Hér er komin fram á sjónarsviðið lausn frá Audi, sem hentar þjóðfélögum með sjálfbæra raforkuvinnslu einkar vel.
Í Þýzkalandi var innan við 30 % raforkuvinnslunnar sjálfbær árið 2013, en Þjóðverjar eru samt með mikil áform um rafvæðingu síns bílaflota. Frá árinu 2009 stefna þeir á eina milljón rafbíla, alrafmagns- og tvinnbíla, árið 2020, á götum Þýzkalands, og tóku þeir þar með forystuna í rafbílavæðingu heimsins. Fjölgun rafbíla hefur þó gengið hægar þar en vonir stóðu til, þar sem aðeins 2 % af markmiðinu hefur verið náð árið 2015. Markmið Þjóðverja svarar til 2900 slíkra bíla á Íslandi m.v. höfðatölu eða 500 nýrra rafmagnsbíla á ári 2016-2020, sem er 3 % af nývæðingunni og er alls ekki óraunhæft, ef yfirvöld viðhalda sínum jákvæða hvata, átak verður gert í uppsetningu hleðslustöðva og bifreiðainnflytjendur láta af dísildálæti sínu og taka þess í stað að leita eftir framtíðargerðum hjá umbjóðendum sínum, sem svara kalli tímans og henta aðstæðum á Íslandi. Ágætismillilausn í þeim efnum er tvinnbíll rafmagn-bensín, sem Hekla býður.
Ríkisstjórnin í Berlín hefur á undanförnum 6 árum varið um miaEUR 1,56 í rannsóknir og þróun á framleiðslu rafmagnsbíla eða miaISK 37 á ári, og VW-samsteypan hefur áreiðanlega varið hærri fjárhæðum til verkefnisins, því að ekkert fyrirtæki í heiminum ver hærri fjárhæðum til rannsókna og þróunar en VW-samsteypan, sem framleiðir Volkswagen, Audi, Porsche og Skoda, eins og kunnugt er, og býður hérlendis rafmagnsútgáfur frá tveimur fyrst nefndu framleiðendunum.
Helmingur nýrra bíla í Þýzkalandi er með dísilvél, eins og á Íslandi. Hremmingar VW með nokkrar gerðir af dísilbílum sínum er líkleg til að draga úr áhuga yfirvalda, framleiðenda og kaupenda, á dísilbílum og auka að sama skapi áhugann á rafmagnsbílum, jafnvel í Þýzkalandi, þar sem rafmagnsverðið með sköttum, flutnings- og dreifingarkostnaði, er þó líklega þrefalt dýrara en hér.
Mögulegt er, að á næstu 10 árum taki rafmagnsbílar og raf-bensín tvinnbílar sæti dísil fólksbílsins með samstilltu átaki yfirvalda, bílaframleiðenda og íhlutaframleiðenda, enda nauðsynlegt til að standa við göfugt markmið í umhverfisverndarmálum um 40 % minni losun gróðurhúsalofttegunda að 15 árum liðnum en árið 1990.
Í upphafi var minnzt á þurrkun votlendis. Metan, CH4, myndast við rotnun gróðurleyfa, og það er rúmlega 20 sinnum sterkari gróðurhúsalofttegund en koltvíildi, CO2. Hið sama gerist við uppblástur lands, sem hérlendis má að miklu leyti rekja til aðgerða mannsins, einkum forfeðra okkar vegna eldsneytisþarfar þeirra, og við rotnun allra gróðurleifa, t.d. á skógarbotni. Ekki eru margar þjóðir í þeirri aðstöðu að geta farið út í stórfelldar endurheimtur votlendis, og Íslendingar geta það ekki heldur, ef landbúnaðarframleiðsla, kornrækt og annað, verður stórlega aukin, samfara hlýnandi loftslagi. Það er vanhugsað fljótræði að rjúka nú til og moka ofan í skurði eða að stífla þá, því að slíkt gæti magnað metanmyndun um skeið. Miklu vænlegra er að rækta skóg á slíku landi, sem ekki er ætlunin að nýta til grasræktar, kornræktar eða beitar, og snúa þannig þróuninni við á þessum svæðum, draga úr metanmyndun, binda koltvíildi og sleppa þess í stað súrefni út í andrúmsloftið.
Þess vegna tjáir ekki að dvelja of lengi við votlendisheimtur, heldur vinda sér í að taka þátt í því, sem samþykkt hefur verið á fjölþjóðlegum grundvelli og eigi verður undan skorazt. Ísland er í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, og núverandi kvóti Íslands á sviðum, sem undir hann heyra, mun verða skertur. Þá mun verð losunarkvótanna hækka úr 10 EUR/t CO2 í e.t.v. 30 EUR/t CO2, og við þær aðstæður verður íslenzk skógrækt mjög vel samkeppnishæf og getur boðið íslenzkri stóriðju og millilandaflugfélögum koltvíildisjöfnun á hagstæðu verði.
Hér hefur verið sýnt fram á hagkvæmni þess fyrir væntanlega bílakaupendur að velja sér rafmagnsbíl og fyrir þá, sem ekki treysta á að komast leiðar sinnar á rafmagninu einu saman, að velja sér þá tvinnbíl rafmagn-bensín, enda stendur orkubylting fyrir dyrum á sviði samgöngutækja á landi á endingartíma sjálfrennireiða, sem áform eru uppi um að festa kaup á á næstunni.
27.10.2015 | 21:18
Auður úr greipum hafsins
Svo lengi lærir sem lifir, og nú hefur Smári Geirsson, þjóðfélagsfræðingur, ritað bók, sagnfræðilegs eðlis, sem varpar nýju ljósi á vanrækt svið, tækniþróun Íslands.
Bókin, "Stórhvalaveiðar við Ísland til 1915", rekur sögu hvalveiða við Ísland allt aftur til landnáms, en þeir huguðu menn og konur, sem lögðu á úthafið á milli Noregs og Íslands í því augnamiði að nema land á fjarlægri eyju norður við Dumbshaf, báru auðvitað með sér menningu sína, verkkunnáttu og lifnaðarhætti, og þar á meðal voru hvalveiðar og nýting á hvalaafurðum.
Í bókinni eru rakin ítök útlendinga hér og viðamikil starfsemi við hvalveiðar og vinnslu hvalafurðanna. Baskar frá norðurströnd Spánar komu hingað á 17. öld, og Spánverjavígin 1615, undir stjórn sýslumannsins, Ara í Ögri, eru til marks um harkalega hagsmunaárekstra Íslendinga og útlendinga, sem hér vildu stunda auðlindanýtingu án þess að hafa fyrst aflað sér konungsleyfis. Einokunartilhneigingin hefur alltaf átt rík ítök hér á landi og líklega ætíð leitt til mikils ófarnaðar almennings í landinu, sem mátti búa við sult og seyru, þegar aðrar þjóðir höfðu fyrir löngu þróað tækni til að nýta með talsvert stórtækum hætti auðlindirnar, t.d. auð hafsins.
Hér stunduðu Bandaríkjamenn, Hollendingar og Danir tilraunaveiðar á hvölum, en langstórtækastir voru þó Norðmenn, sem hér við land veiddu meira en 1300 hvali á ári, þegar mest lét. Íslendingar komust fyrst í tæri við "stóriðju", þ.e. vélvædda framleiðslu á miklu magni, með því að ráða sig í vinnu í hvalstöðvum þessara þjóða hér á landi, og þetta varð upphaf vélamenningar og vélakunnáttu á Íslandi og varð forveri vélbátaútgerðar, sem Íslendingum hefur þó löngum verið kennt, að orðið hafi upphaf vélvæðingar atvinnustarfsemi Íslendinga. Téð bókarútgáfa er hvalreki, því að hún fyllir í sögulega eyðu.
Hvalstöðvar Norðmanna urðu 8 talsins á Vestfjörðum og 5 á Austfjörðum. Þær möluðu gull, og þarna komust landsmenn í álnir með því að selja vinnu sína unnvörpum í fyrsta sinn á Íslandi. Varð þetta landinu ómetanlegt framfaraskref á tíma, þegar fólkinu hafði fjölgað, illa áraði til lands og fjárskortur var til að hefja uppbyggingarstarfsemi. Verður nú gripið niður í viðtal Höllu Harðardóttur í Fréttatímanum 16.-18. október 2015 við höfundinn, Smára Geirsson:
"Árið 1863 hefst svo nýtt tímabil, þegar Bandaríkjamenn koma til landsins. Bandaríkjamenn reistu fyrstu vélvæddu hvalstöð í heimi á Seyðisfirði eystra og stunduðu hér tilraunaveiðar á reyðarhval, sem er mun öflugri, sterkari og erfiðari viðureignar en sléttbakur og búrhvalur. En ekki nóg með það, heldur eru þeir þannig gerðir, að þegar þeir drepast, þá fljóta þeir ekki, heldur sökkva. Þannig að í þessar tilraunaveiðar Bandaríkjamanna, og síðar Dana og Hollendinga, þurfti miklu flóknari og betri búnað en áður var notaður."
Þetta er merkilegt og sýnir, að tvisvar komu Bandaríkjamenn til Íslands og ollu tæknibyltingu. Hið fyrra sinnið 1863, þegar þeir reistu fyrstu vélvæddu hvalstöð í heimi á Seyðisfirði, og í hið seinna sinnið árið 1941, þegar þeir byggðu m.a. Keflavíkurflugvöll, og Bandaríkjaher flutti hingað með sér alls kyns stórvirk jarðvinnutæki og nýja byggingartækni og farartæki, sem Íslendingar höfðu aldrei kynnzt áður. Með hvalstöðvunum óx atvinnulífinu fiskur um hrygg hérlendis á seinni hluta 19. aldar, sem vafalaust hefur átt sinn þátt í því að veita landsmönnum það sjálfstraust og þrek, sem dugði til að leiða sjálfstæðisbaráttuna við Dani til lykta.
Frá því að atvinnustarfsemin í landinu tók að mynda nokkurn auð, hefur skipting hans á milli landsins barna verið mörgum hugstæð. Meginmunurinn á milli vinstri og hægri í stjórnmálum er, að vinstrið leggur meiri áherzlu á skiptingu verðmætanna en sköpun þeirra, en hægrið leggur megináherzlu á verðmætasköpunina. Almennt má þó segja, að "nóg á sá sér nægja lætur", hvort sem er til hægri eða vinstri.
Það hefur t.d. verið haldið uppi linnulausum og illvígum áróðri gegn útgerðarmönnum síðan rekstur þeirra tók að skila viðunandi framlegð um 1990, eða EBITDA > 20 %, í kjölfar þess, að frjálst framsal aflahlutdeilda var leyft. Þeim ósannindum hefur purkunarlaust verið haldið að þjóðinni, þvert ofan í sögulegar staðreyndir, að velgengni útgerðarmanna, sem ósvífnir bullustampar uppnefna "kvótagreifa" eða "sægreifa", eigi sér rætur í geðþóttaúthlutun stjórnmálamanna á veiðiheimildum til útgerðarmanna, þegar ákveðið var að taka upp fiskveiðistjórnunarkerfi á grundvelli aflamarks og aflahlutdeildar á veiðiskip til að bregðast við ofveiði á stofnum, sem áttu í vök að verjast. Þessi ákvörðun um aflahlutdeild ásamt ákvörðuninni um frjálst framsal aflahlutdeilda reyndist virkja markaðsöflin með heilbrigðum hætti til að knýja fram meiri hagræðingu og framleiðniaukningu í einni atvinnugrein á Íslandi en önnur dæmi eru um í lýðveldissögunni og kom í veg fyrir hrun lífskjara á Íslandi við hrun þorskstofnsins, en frá 1980 helmingaðist þorskveiði íslenzkra veiðiskipa í heild á 15 árum.
Óðinn gerir í Viðskiptablaðinu 15. október 2015 áhrif misskiptingar tekna og auðs á hagvöxt í þjóðfélagi að umræðuefni og tilfærir þekkta hagfræðinga fyrir því, að tekjuskipting hafi ekki merkjanleg áhrif á hagvöxt, og heldur ekki misjafn auður, nema auðurinn sé fenginn með óeðlilegum hætti fyrir tilstuðlan ráðandi afla í þjóðfélaginu, sem sagt með ívilnun í skjóli myrkurs og spilltra stjórnarhátta, enda sé auðurinn þá með öllu óverðskuldaður. Síðan rennir Óðinn augunum (auganu, Óðinn var lengst af eineygður) til Íslands og ritar:
"Þegar kvótanum var upphaflega úthlutað, var það gert með almennum og hlutlægum hætti. Miðað var við veiðireynslu, og kvótanum var dreift á ótalmörg skip og útgerðir. Enginn fékk meira í sinn hlut en honum bar, vegna pólitískra tengsla. Sú samþjöppun, sem orðið hefur í greininni, hefur orðið til með eðlilegum hætti og var í raun eitt af markmiðunum með þeim breytingum, sem gerðar voru. Of mörg skip voru að elta þann fisk, sem í sjónum var, og arðsemi af greininni var sáralítil. Samþjöppunin hefur fært kvótann í hendur þeirra, sem sýnt hafa mesta hæfni til að nýta hann. Arðsemi af sjávarútvegi nú er öðrum þjóðum öfundsverð, og þeir, sem telja, að þjóðin njóti ekki ágóðans, hafa væntanlega gleymt því, að fyrirtæki greiða launatengd gjöld, tekjuskatt, fasteignaskatt og fjármagnstekjuskatt, að ógleymdu veiðigjaldinu, sem enn er verið að innheimta. Þá er ekki hægt að saka íslenska útgerðarmenn um að slaka á vaktinni, þegar kemur að eignarréttinum, enda byggir öll þeirra staða á því, að þeirra réttindi séu varin af lögum og dómstólum."
Sjávarútvegurinn býr við meiri rekstrarlega óvissu en önnur útflutningsstarfsemi að því leyti, að hann er háður duttlungum náttúrunnar ofan á duttlunga markaðanna. Eftir 25 ára minnkun og ládeyðu þorskgengdar fer hún nú vaxandi, og þorskmarkaðir eru góðir, af því að framboðið fór lengi minnkandi. Saga makrílsins hér við land er þekkt. Þó að aldrei hafi jafnmikið af honum gengið áður inn í íslenzka lögsögu, 37 % af heildarstofnstærð 2015, fer stofn hans nú minnkandi, enda hefur heildarveiðin farið langt fram úr ráðleggingum ICES, Alþjóða hafrannsóknarráðsins. Horfir mjög illa um skynsamlega skiptingu deilistofnanna. Óáran af mannavöldum hefur hins vegar stórskaðað makrílmarkaðinn, svo að tekjur Íslands af makríl verða miaISK 10-15 minni 2015 en árið áður.
Þau alvarlegu tíðindi berast nú af loðnustofninum, að aflamark Íslendinga verði aðeins 44´000 t 2015-2016 og að það fari allt í skiptum við aðra fyrir aðrar tegundir. Ef ekki finnst meira af kynþroska loðnu er jafnframt útlit fyrir veiðibann á loðnu 2016-2017, svo að loðnustofninn virðist vera að hrynja, nema loðnan sé flúin annað. Hugsanlega hefur makríllinn étið loðnuna út á gaddinn, en hann étur a.m.k. 3 Mt af átu á ári í íslenzkri lögsögu. Munar um minna.
Hér er um að ræða tvöfalt högg fyrir sjávarútveginn og íslenzka þjóðarbúið á við makríláfallið. Íslenzk skip veiddu á fiskveiðiárinu 2014-2015 353 kt af loðnu, og útflutningsverðmætin námu um miaISK 30. Þetta högg mun jafngilda tæplega 1,0 % minni landsframleiðslu en ella og hafa slæm áhrif á útgerðir og útgerðarbæi, sem gert hafa út á uppsjávarfisk.
Athyglivert er að fylgjast með því, að ICES virðist nú leiða þróunina í aflaráðgjöf loðnu og fleiri fisktegunda í átt til meiri nákvæmni og minni óvissu, sem á að draga úr hættu á ofveiði af völdum óvarkárni. Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunar, sagði í viðtali við Svavar Hávarðsson á Fréttablaðinu 16. október 2015 undir fyrirsögninni:
"Hafró lætur loðnuna njóta vafans":
"Gamla aflareglan stóðst ekki þær kröfur, sem við gerum til sjálfbærrar aflareglu í dag. Það var verið að taka á því, en þetta táknar, að í stað punktmælingar, þar sem skilja á eftir 400´000 t til hrygningar, þá verði 150´000 t skilin eftir með 95 % vissu. Gamla reglan gat ekki tryggt neitt slíkt. En það er fjarri því öll nótt úti. Þegar líður á vertíðina í janúar og febrúar er mjög algengt, að það finnist meira af loðnu."
Það er ljóst, að þróun þekkingar og nýtingar á lífríki hafsins krefst aukinna rannsókna og mun meira úthalds rannsóknarskipa en fjárveitingar til Hafrannsóknarstofnunar undanfarin ár hafa leyft. Þess vegna hefur blekbóndi lagt til á þessum vettvangi, að veiðigjöld af útgerðinni verði lögð í sjóð, sem nýta má til fjárfestinga og nýsköpunar í þágu sjávarútvegsins, þ.e. féð mundi mega renna til t.d. Hafrannsóknarstofnunar, Landhelgisgæzlunnar og til hafnarmála. Þetta mundi auðvitað að sama skapi létta undir með ríkissjóði.
Hitt er svo annað mál, að núverandi veiðigjöld eru í eðli sínu ósanngjörn og allt of íþyngjandi fyrir útgerðirnar. Það má sníða af þeim agnúana með því að eyrnamerkja tekjur af þeim opinberri þjónustu við útveginn, þannig að þau gangi til baka til hans á formi bættrar opinberrar þjónustu við úvegsmenn og sjómenn og létti auðvitað um leið undir með ríkissjóði. Að öðrum kosti er hér ekki um annað að ræða en sérskattlagningu á sjávarútveginn, sem stríðir gegn jafnræðisreglu og atvinnufrelsi, sem eru stjórnarskrárvarin réttindi.
Innheimt veiðigjöld námu á árinu 2014 um miaISK 8,1 eða 35 % af beinum gjöldum útgerðar til ríkisins. Þessi gjöld þurfa að lækka um helming til að þau hafi ekki skaðleg áhrif á starfsemina og valdi ótímabærri fækkun útvegsmanna, einkum í hópi hinna umsvifaminni, bæði handhafa krókaflamarks og aflamarks. Þá þarf að tengja veiðigjöld við verðlagninguna, og væri t.d. hægt að miða við 4 % - 5 % af verði óslægðs afla úr sjó. Það mundi um þessar mundir gefa miaISK 4-5 á ári í umræddan sjávarútvegssjóð.
Píratar hafa slegið um sig með því að vera í orði kveðnu talsmenn einstaklingsfrelsis og hafa barið sér á brjóst sem baráttumenn einstaklingsins gagnvart kerfisbákninu. Þegar þeir í haust mótuðu sjávarútvegsstefnu sína, fór einstaklingsfrelsið þó fyrir lítið, og í staðinn kom grímulaus valdníðsla á einkaframtakinu á formi eignaupptöku á nýtingarrétti útgerðarmanna og síðan uppboð ríkisins á honum. Þetta er úreltur hugsunarháttur hrokagikkja forræðishyggjunnar, sameignarstefnunnar, sem fótumtreður einstaklingsfrelsið í nafni félagshyggju, sem beitt er af gerræðisfullum stjórnmálamönnum "í almannaþágu", en endar alltaf með ósköpum.
Það er sorglegt, hversu margir láta blekkjast af innantómum fagurgala loddara, sem eru í pólitík til að brjóta niður þjóðskipulagið í anda stjórnleysingja fyrri tíma. Þeir, sem halda, að slík aðferðarfræði verði almenningi til framdráttar, þekkja illa söguna og mannlegt eðli enn verr.
5.10.2015 | 18:31
Sæstrengsævintýrið er sorgarsaga
Þorvarður Goði Valdimarsson, viðskiptafræðingur, ritar grein í Markaðinn, fylgirit Fréttablaðsins, 23. september 2015, undir heitinu: "Sæstrengur - eru allir í jarðsambandi ?".
Spurningunni er fljótsvarað neitandi; því fer víðs fjarri, að skrif ýmissa manna um hagkvæmni raforkusölu frá Íslandi til Bretlands vitni um, að höfundarnir séu í jarðsambandi. Í þessari vefgrein verða leidd rök að téðri ályktun. Jarðsamband í þessu viðfangi merkir í raun viðskiptagildi hugmyndarinnar, en tækniþróunin og orkumarkaðsþróunin rýrir gildi sæstrengsins sem viðskiptahugmyndar með hverju árinu, sem líður. Samt berja nokkrir, sem hitt höfðu bitið í sig, enn hausnum við steininn.
Látum vera með strengtæknina og gerum ráð fyrir, að sjóaðir sæstrengsframleiðendur treysti sér til að framleiða sæstreng með nægilegt spennuþol fyrir flutning 1100 km leið með orkutöpum, sem eru innan við 6 %, því að annars verða orkutöpin yfir 10 % í heild frá virkjun um stofnkerfi Íslands, um spenna, afriðla, streng og áriðla. Tapskostnaður fer þá að skipta verulegu máli fyrir árlegan kostnað við rekstur þessara flutningsmannvirkja, sem bætist við viðhalds- og viðgerðarkostnað auk árlegra greiðslna vegna fjármögnunarinnar, sem vega þyngst fyrir risafjárfestingu á íslenzkan mælikvarða.
Auk tæknihliðar verkefnisins þarf að skoða kostnaðarhlið þess, og hana virðast margir vanmeta illilega. Sætir það nokkurri furðu og lyktar af léttúð, því að nothæfar viðmiðunartölur eru til, t.d. frá verkefninu "EuroAsia Interconnector", sem flytja á raforku frá Ísrael, sem unnin er úr gaslindum undir hafsbotni úti fyrir ströndinni, um Kýpur, Krít og meginland Grikklands, til stofnkerfis Evrópu. Evrópusambandið veitti fé í þennan streng árið 2013, og hann á að verða tilbúinn í rekstur 2017 og er ætlað að stuðla að því, að Evrópa verði síður háð orku (jarðgasi) frá Rússlandi. Lengd þessa sæstrengs verður alls 1518 km, og mesta dýpi niður að honum mun verða 2,2 km, sem er ótrúlegt dýpi fyrir sæstreng. Flutningsgeta á að verða 2000 MW. Flutningskostnaður um þennan sæstreng er samt næstum helmingi lægri en um Íslandsstrenginn, aðallega vegna meiri flutningsgetu hans. Það er ein af skýringunum á því, að ESB hefur ekki sýnt Íslandsstrengnum nokkurn áhuga, en önnur er, að það er miklu hagkvæmara að nýta orkuna á Íslandi fyrir orkukræfan iðnað, sem sér Evrópu fyrir áli, kísiljárni og kísli, því að orkunotkun flutningaskipanna á þessari leið er aðeins brot af orkutöpunum í 1100 km sæstreng.
Hér er samt um samanburðarhæft verkefni við Íslandsstrenginn að ræða að sumu leyti. Kostnaðaráætlun EuroAsia Interconnector árið 2013 nam sem svarar 3,1 MUSD/km, og kostnaður Íslandsstrengsins verður 2,9 USD/km samkvæmt tilvitnun í grein Þorvarðar hér að neðan. Að einhverju leyti má skýra tiltölulega dýrari streng í Miðjarðarhafinu með meiri flutningsgetu og meira hámarksdýpi. Þarna hefur hagkvæmni stærðarinnar mjög mikil áhrif á arðsemina, en 2000 MW jafngildir meðalálagi alls íslenzka raforkukerfisins nú um stundir, og að tvöfalda raforkukerfi Íslands á einu bretti fyrir "hund suður" kemur ekki til greina af tæknilegum, umhverfislegum og efnahagslegum ástæðum.
Kostnaður við íslenzk-enska sæstrengsverkefnið og útreikningar á flutningskostnaðinum virðast fara út um víðan völl og bögglast fyrir brjóstinu á mönnum hérlendis, svo að ekki sé nú minnzt á orkuverðið, sem sumir hérlendir menn telja, að í boði muni verða á Englandi (Skotar þurfa ekki innflutta raforku) fyrir raforku frá Íslandi. Er eins og harmleikur vanreiknaðra kostnaðaráætlana tröllríði húsum og glópagull í enskum ranni villi byrgi mönnum sýn á staðreyndir málsins.
Um flutningskostnaðinn verður fjallað hér að neðan, og um enska markaðinn eru til haldgóðar upplýsingar. Ef orkan frá Íslandi kemur öll frá nýjum virkjunum endurnýjanlegrar orku, þá mundi brezka ríkisstjórnin greiða markaðsverð slíkrar orku á Englandi, sem um þessar mundir er jafngildi um 120 USD/MWh frá vindorkuverum á landi og um 100 USD/MWh frá sólarorkuverum, sem vitnar um gríðarlega hraða tækniþróun á þessum sviðum.
Þó er talið líklegt, að brezka ríkið yrði tilleiðanlegt tímabundið að greiða sama verð og það hefur boðið í orku frá nýjasta enska kjarnorkuverinu, Hinkley Point C í Somerset, 92,5 GBP/MWh=140 USD/MWh.
Arðsemi sæstrengsverkefnisins hvílir algerlega á vilja og úthaldi brezkra yfirvalda til að greiða niður kostnað vegna endurnýjanlegrar orku, því að á heildsölumarkaði á Englandi fást um þessar mundir að hámarki 60 USD/MWh. Þessi vilji er að dvína vegna bágrar stöðu brezka ríkiskassans, og hann mun fjara út, ef Þóríum-kjarnorkuverin koma til skjalanna, en nú er spáð, að kostnaður raforku frá þeim árið 2030 verði lægri en frá nýjum íslenzkum vatnsorkuverum.
Til að finna út, hvað líklega fæst að hámarki fyrir raforku frá virkjun á Íslandi, sem yrði send til Bretlands um sæstreng, verður flutningskostnaðurinn reiknaður út og borinn saman við ríkisverðið 140 USD/MWh. Mismunurinn er þá líklegt hámarksverð frá virkjun á Íslandi að viðbættu flutningsgjaldi frá virkjun að inntaksmannvirkjum sæstrengsins.
Umrædd grein Þorvarðar hefst þannig:
"Umfangsmikil rannsókn á sjávarbotninum milli Íslands og Bretlands hefur staðið yfir í sumar vegna fyrirhugaðrar lagningar á raforkusæstreng milli landanna. Atlantic Superconnection (ASC) stendur að baki sæstrengsverkefninu og fjármagnar rannsóknina. Orkustofnun gaf ut leyfi fyrir rannsókninni, en áætlaður kostnaður fæst ekki upp gefinn. Samkvæmt ASC er áætlaður fjárfestingarkostnaður yfir fjórum milljörðum breskra punda, eða nálægt 830 milljörðum íslenskra króna."
Til samanburðar er þessi kostnaður tæplega 20 % meiri en nemur íslenzku fjárlögunum 2016 og 2,8 sinnum meiri en nam kostnaði við Kárahnjúkavirkjun á núverandi verðlagi (2,3 milljarðar USD), og kostnaður við 1200 MW virkjanir fyrir sæstrenginn næmu þá um ISK 520 milljörðum, sem er jafngildi allra árlegra fjárfestinga á landinu um þessar mundir. Hagkerfið íslenzka mundi þurfa a.m.k. 5 ár í þetta til að ofhitna ekki, og hvar á að virkja 1200 MW á svo skömmum tíma og að auki að leggja stofnlínur frá virkjunum og niður að landtökustað ? Kostnaður við þær er ekki innifalinn hér að ofan.
Þá er að gera grein fyrir forsendum útreiknings á flutningskostnaðinum:
- Englendingar gera ráð fyrir tveimur 600 MW sæstrengjum, og er það skynsamlegt. Þeir ætla þeim að sjá um tveimur milljónum heimila fyrir raforku, sem eru um 7000 GWh/a m.v. meðalálag 400 W/heimili.
- Ekki er mögulegt að reka báða strengina stöðugt á fullu álagi. Gera má ráð fyrir a.m.k. einni bilun á ári, og búnaðurinn þarf sitt varnarviðhald og eftirlit, sem útheimtir rof annars strengsins í einu. Þá er ekki reiknað með, að öll orkan verði tiltæk í þurrkaárum. Að teknu tilliti til alls þessa er óvarlegt að reikna með árlegum flutningi á meira en 75 % hámarksorku (um 1,0 TWh/a). Meðalorka frá orkuverum inn á sæstrenginn verður þá 7920 GWh/a.
- Orkutöp verða mikil frá virkjunum á Íslandi inn á stofnkerfi í Skotlandi. Þaðan á orkan reyndar langa leið fyrir höndum til notenda á Englandi, en sá tapskostnaður er ekki tekinn með í reikninginn hér, þar sem aðeins er reiknað með 10 % töpum, 120 MW við fullt álag, sem skiptist þannig:
- 2 % frá virkjunum og gegnum spenna og afriðla við sæstrengsenda.
- 6 % töp í strengnum
- 2 % í áriðlum og spennum við Skotlandsendann
- Reiknað er með einingarkostnaði tapaðrar orku 40 USD/MWh, sem er undir listaverði Landsvirkjunar. Þá verður árlegur tapskostnaður, sem verður hluti af árlegum kostnaði strengsins, MUSD 32.
- Viðgerðir á strengbilunum eru dýrar og geta staðið yfir svo að mánuðum skiptir. Endabúnaðurinn þarf öflugt viðhald og eftirlit, sem kostar sérfræðilega vinnu og nokkurt tap á tekjum. Hér er reiknað með 2 % á ári af stofnkostnaði í rekstrarkostnað, sem þá verður MUSD 128.
- Fjárfestingin, miaUSD 6,4, er talin áhættusöm, og þess vegna verður ávöxtunarkrafa verkefnisins fremur há, eða 10 %. Þá er reiknað með afskriftatímanum 25 ár, og verður þá árleg greiðslubyrði fjármagns MUSD 700.
- Heildarkostnaður sæstrengs og endabúnaðar á ári er summan af ofangreindu, þ.e. MUSD 860, og þannig fæst einingarkostnaður orku, án kostnaðar í virkjunum, við afhendingarstað út af endabúnaði á Skotlandi rúmlega 120 USD/MWh.
Framhjá þessum gríðarlega flutningskostnaði verður ekki komizt, nema með niðurgreiðslum hins opinbera, og þá lendir gríðarleg áhætta verkefnisins á skattgreiðendum, sem er fullkomlega þarflaust og raunar óboðlegt, enda mundi hún vitna um samkrull stjórnmálamanna og spákaupmanna, sem meira en nóg er komið af og kallast spilling.
Hámarksverð, sem virkjunaraðili og flutningsfyrirtæki á Íslandi, sem ekki hefur lagaheimild til að taka þátt í fjármögnun þessa sæstrengs og endamannvirkja hans, gætu vænzt í sameiningu, er mismunur líklegs hámarksverðs á Englandi og flutningskostnaðar sæstrengsmannvirkjanna, þ.e.a.s. P=140-120=20 USD/MWh. Þetta er fjórðungi lægra verð en nemur jaðarkostnaði íslenzka vatnsorkukerfisins, þ.e. vinnslukostnaði í næstu vatnsaflsvirkjun, og slík viðskipti mundu að sama skapi skila virkjunarfyrirtækinu tapi, en ekki gróða, eins og boðberar sæstrengsfagnaðarerindisins þreytast ekki á að predika yfir landslýð.
Þetta raforkuverð inn á sæstrenginn er vert að bera saman við meðalverð Landsvirkjunar til stóriðju samkvæmt Ársskýrslu fyrirtækisins 2014, en með flutningsgjaldi var það tæplega 26 USD/MWh, og samkvæmt sömu gögnum var þá meðalheildsöluverð fyrirtækisins án flutnings rúmlega 33 USD/MWh. Fyrir viðskiptum íslenzkra virkjanafyrirtækja við hugsanlegan sæstrengseiganda er fyrirsjáanlega enginn viðskiptalegur grundvöllur, og miðað við horfur í orkumálum Englands mun bara fjara undan þessum viðskiptahugmyndum í framtíðinni.
Enn berja sumir samt hausnum við steininn, en málflutningurinn er froðukennt fimbulfamb, eins og neðangreind frásögn Ketils Sigurjónssonar í bloggi 25.09.2015 af fundi, sem hann sótti um sæstrengshugmyndina, er til vitnis um:
"Fyrirlesararnir fjölluðu lítið um tölur, en þeim mun meira um verkefnið almennt. Af svörum við spurningum í lok fundarins og ýmsum gögnum má ráða, að raforkuverðið, sem vænta megi vegna raforkusölu til Bretlands, yrði sennilega á bilinu 80-140 USD/MWst. Þá er vel að merkja búið að draga flutningskostnað um sæstrenginn frá, þ.e. umrædd upphæð er verðið, sem íslenska orkufyrirtækið gæti fengið í tekjur af hverri seldri MWst."
Á rakalausum fullyrðingum af þessu tagi er málflutningur um risafjárfestingu reistur. Slíkt óráðshjal draumóramanna er fullkomlega óboðlegt í opinberri umræðu, en svona þokukenndur er nú málflutningur málpípa sæstrengsins. Í þokunni má grilla í áætlaðan flutningskostnað, en hann er samkvæmt ofangreindu á bilinu 0-60 USD/MWh. Þessi málflutningur nær ekki máli og má flokka undir ómerkilegan áróður, enda er honum ekki ætlað að varpa ljósi á staðreyndir málsins, heldur er hann fallinn til að villa um fyrir almenningi, sem veit ekki, hvaðan á sig stendur veðrið.
Til hvers eyðir Landsvirkjun og ráðgjafar hennar svona miklu púðri í eintóma vitleysu ? Hvar liggur fiskur undir steini ?
Síðar í blogginu skrifar téður Ketill:
"Landsvirkjun reiknar með 80 USD/MWh fyrir orku frá virkjun, sem fer inn á sæstreng, sem lágmark"
Af þessu má ráða, að Landsvirkjun reiknar með flutningskostnaði til Bretlands að hámarki 60 USD/MWh. Hér skal varpa fram þeirri kenningu, að Landsvirkjun hafi árið 2010 gert kolranga orkuverðsspá fyrir England og hafi á grundvelli hennar eygt gull og græna skóga og hangi nú á sæstrengsdraumnum eins og hundur á roði. Um slíkt framferði er það eitt að segja, að margur verður af aurum api.
Þann 3. október 2015 birtist gagnmerk grein eftir Gunnar Þórarinsson, viðskiptafræðing, undir fyrirsögninni: "Að festast í frábærri sviðsmynd", þar sem sams konar skýringar eru settar fram á "furðulegri hegðun hunds um nótt". Þar stendur m.a.:
"Hin sviðsmyndin er þrálátur draumur talsmanna Landsvirkjunar um nýja útrás Íslendinga, að þessu sinni í gegnum raforkusæstreng til Bretlands.
Verkefnið virtist spennandi fyrir nokkrum árum, en nú hefur verið sýnt fram á, að það er algerlega óraunhæft, bæði varðandi þróun orkuverðs á mörkuðum, framvindu nýrra orkukosta og tæknilegra annmarka, auk þess sem það kallar á gríðarlegar virkjunarframkvæmdir í trássi við þjóðarvilja. Fróðlegt væri að vita, hvað vinna Landsvirkjunar og Landsnets á grunni þessarar sviðsmyndar hefur kostað."
29.9.2015 | 21:43
Nýting jarðvarma á Norð-Austurlandi
Ánægjuleg tíðindi berast af Bakka við Húsavík, þar sem framkvæmdir við kísilver þýzka fyrirtækisins PCC hafa öðlazt skriðþunga við fögnuð flestra Þingeyinga og fleiri.
Samhliða virkjar Landsvirkjun jarðgufu á Þeistareykjum. Þar munu koma í fyrsta áfanga tveir gufuhverflar, sem knýja 2 x 45 MW rafala. Kostnaðaráætlun nemur um ISK 24 miö eða um 270 MISK/MW (2,0 MUSD/MW). Út frá þessu má reikna orkuvinnslukostnaðinn um 36 USD/MWh, og er vart að efa, að PCC þarf að greiða a.m.k. þetta útreiknaða kostnaðarverð, m.v. 8,0 % arðsemi fjárfestingar, til Landsvirkjunar fyrir raforkuna frá Þeistareykjum, a.m.k. er frá líður.
Þessi orkuvinnslukostnaður Þeistareykja er a.m.k. 30 % hærri en orkuvinnslukostnaður vatnsaflsvirkjana fyrir svipað álag og kísilver PCC. Þess vegna er það skrýtin viðskiptahugmynd að virkja jarðgufu fyrir orkukræfan iðnað í stað vatnsafls. Í þessu tilviki er það neyðarbrauð vegna veiks flutningskerfis raforku og skorts á tilbúnum virkjunarkostum vatnsafls á Norð-Austurlandi. Kemur þá Jökulsá á Fjöllum jafnan upp í hugann, en frekari vatnaflutningar á Norð-Austurlandi en þegar hafa verið framkvæmdir, með því að steypa Jökulsá á Brú ofan í Fljótsdal, koma ekki til greina af umhverfisverndarástæðum, svo að þróa yrði virkjunarkost í gamla farveginum án þess að breyta ásýnd Dettifoss.
Það eru þó aðrir vatnaflskostir mögulegir, og það er ekki síður með hliðsjón af sjálfbærni orkuöflunarinnar en kostnaði, sem valin leið Landsvirkjunar, jarðgufunýtingin, orkar tvímælis. Um það hefur sérfræðingur í jarðhitanýtingu, Gunnlaugur H. Jónsson, eðlisfræðingur og fyrrverandi starfsmaður Orkustofnunar, ritað nokkrar athygliverðar greinar í Fréttablaðið, t.d. 17. september 2015 undir heitinu:
"Orkan er ótakmörkuð, en aflið verðmætt",
sem vitnað verður til hér. Hann hafði í fyrri greinum sett fram og varið kenningu um, að tvær jarðgufuvirkjanir mættu ekki vera staðsettar með styttra millibili en 20 km. Þessi kenning var sett fram með vísun til Reykjanesskagans og virkjana HS Orku og ON, en hið sama hlýtur að gilda annars staðar á landinu, og nú vill svo til, að á milli Kröfluvirkjunar og Þeistareykjavirkjunar eru u.þ.b. 20 km. Í ljósi mikillar fyrirhugaðrar nýtingar Landsvirkjunar á báðum stöðunum, hlýtur hún að vera stödd á hálum ísi með stórar virkjanir og miklar fjárfestingar á Norð-Austurlandi.
Þeistareykjavirkjun er áformuð 200 MW, Krafla I er 60 MW og Krafla II er áformuð 150 MW. Alls er þannig lagt upp með aflgetu 310 MW á líkast til sama jarðgufusvæðinu. Þetta er svipað virkjunarafl og á Hellisheiðinni, sem gefizt hefur miður vel með miklum niðurdrætti í holum á köflum eða um 10 %. Hvers vegna leita menn stöðugt í sama ógæfufarið ?
Hér skal setja fram þá kenningu, að væru téð virkjanafyrirtæki í einkaeigu, þá tækju þau ekki svipaða áhættu með fjárfestingar- og rekstrarfé sitt, heldur reyndu að hafa vaðið fyrir neðan sig til að forðast óvæntan aukakostnað.
Í téðri grein skrifaði Gunnlaugur:
"Ekki er vit í að bæta nýrri virkjun í Eldvörp, þar sem þrýstingur er að falla vegna tengsla við nálægar virkjanir. Virkjun Eldvarpa myndi enn auka á ofnýtingu svæðisins í heild og stuðla að fallandi afli í þeim holum, sem fyrir eru."
Þó að Landsvirkjun hafi látið Þeistareyki blása í innan við ár á 40 MW án afláts, þá er ekki þar með sagt, að Þeistareykir geti staðið undir fyrri áfanga sínum, 90 MW eða Krafla undir 210 MW, þegar allt kemur til alls. Hins vegar er Landsvirkjun búin að koma sér í tímaþröng við orkuöflun fyrir PCC og aðra stóriðju, svo að hún hefur ekki ráðrúm til að áfangaskipta virkjununum og þolprófa gufuforðabúrið, eins og vert væri.
Þetta tímahrak getur komið henni og viðskiptavinum hennar í koll síðar.
Gunnlaugur heldur áfram:
"Fyrir liggja þó vandaðar skýrslur ÍSÓR um þrýsting í borholum við Hverahlíð, sem sýna, að jarðvatnsborð lækkar um 1-8 m árlega og þyngdarmælingar sýna, að jarðhitavatn streymir af svæðinu, m.a. fyrir áhrif Hellisheiðarvirkjunar áður en Hverhlíð er virkjuð."
Þetta eru alvarleg tíðindi fyrir eigendur og viðskiptavini ON og afleiðing af því að hunza vísindalegar rannsóknir og gefa virkjununum ekki tíma á milli að hámarki 50 MW áfanga. Fyrir norðan þyrftu slíkar rannsóknir að fara fram eftir fyrri og seinni áfanga Þeistareykjavirkjunar, 2 x 45 MW, í a.m.k. 2 ár, jafnfram sem fylgzt væri með Kröflu áður en þar verður ráðizt í stækkun, væntanlega 3 x 50 MW, sem og eftir hvern áfanga þar, með þrýstingsmælingum og óbeinum gufustreymismælingum.
Þessa hugsun orðar Gunnlaugur Jónsson með eftirfarandi hætti í téðri grein:
"Stór virkjun eykur framboð á raforkumarkaði. Samkvæmt lögmálum hagfræðinnar lækkar raforkuverð, og þar sem Ísland er lokaður markaður, kallar það á stóran raforkusölusamning við stóriðju. Sá samningur felur i sér sölu á mikilli orku á "samkeppnisfæru verði" til langs tíma. Semja þarf áður en tryggt er, að orkan sé til staðar til lengri tíma."
Af þessu leiðir, að það felur í sér innri mótsögn að stunda sjálfbæra nýtingu á jarðgufuauðlindinni og að breyta gufuorkunni í raforku, sem fyrirfram er ráðstafað í stórum stíl. Af þessu leiðir jafnframt, að ekki ætti að virkja jarðgufu til raforkuvinnslu fyrir notanda, sem þarf meira í einu en hæfilegt er fyrir hvern áfanga jarðgufuvirkjunar, til að tryggja sjálfbæra orkunýtingu, t.d. 50 MW. Því má bæta við, að raforkuvinnsla úr jarðgufu án annarrar nýtingar á sömu gufu felur í sér orkusóun, sem ber að forðast, jafnvel þó að gufuforðinn endist í 100 ár. Sóunin er þarflaus, því að aðrir virkjunarkostir eru nærtækari.
Í lok greinar sinnar skrifar Gunnlaugur eftirfarandi, og má heimfæra varnaðarorð hans upp á Norð-Austurland:
"Temjum okkur langtímahugsun og takmörkum uppsett afl til raforkuframleiðslu á Reykjanesskaga. Aðgengilegt hagkvæmt afl í jarðhita er takmarkað . Nýtum það vel."
13.8.2015 | 17:08
Brauðmolaþvættingurinn
Það er alveg makalaust, að enn skuli á árinu 2015 eima af kenningum um óhjákvæmileg stéttaátök og sögulega þróun í átt til Þúsund ára ríkis sameignarstefnunnar.
Nýjasta dæmið um hrakfallasögu sameignarstefnunnar er Venezúela. Þar notaði vinstri sósíalistinn Hugo Chavez tekjurnar af þjóðnýttum olíuiðnaði til að greiða niður verð á nauðþurftum almennings. Þetta inngrip í markaðshagkerfið endaði með ósköpum, svo að nú er sami almenningur á vonarvöl.
Ekki einasta er nú þessi þjóðnýtti olíuiðnaður fallinn að fótum fram, heldur gjörvallt hagkerfi Venezúela. Chavez hafði tekið markaðsöflin úr sambandi með þeim afleiðingum, að skortur myndaðist á flestum vörum og þjónustu, og svarti markaðurinn einn blómstrar með gengi á bólívar í mesta lagi 1 % af skráðu opinberu gengi bandaríkjadals. Greiðsluþrot ríkisins blasir við eigi síðar en árið 2016 og félagsleg og fjárhagsleg upplausn við endastöð jafnaðarstefnunnar í þessu landi, sem svo ríkt er af náttúrulegum auðlindum. Tær jafnaðarstefna hefur hvarvetna leitt til eymdar og volæðis, þar sem hún hefur verið iðkuð, og hægagangs útblásins opinbers rekstrar með ofsköttun og skuldasöfnun, þar sem gruggugri útgáfur hennar hafa verið reyndar.
Að fela stjórnmálamönnum öll ráð yfir samfélagi þýðir í raun að taka markaðsöflin úr sambandi. Hinar öfgarnar; að leyfa markaðsöflunum að leika lausum hala kann heldur ekki góðri lukku að stýra, því að slíkt getur auðveldlega leitt til fákeppni og jafnvel einokunar í litlum samfélögum. Bezt er að virkja atorku markaðsaflanna til að skapa "hagsæld handa öllum" í anda "Markaðshagkerfis með félagslegu ívafi", þar sem eindrægni ríkir á vinnumarkaðinum í andstöðu við stéttastríðshugmyndafræði jafnaðarmanna af ýmsum toga.
Í nýlegri skýrsla AGS-Alþjóða gjaldeyrissjóðsins um orsakir og afleiðingar fjárhagslegs ójafnaðar er komizt að þeirri niðurstöðu, að mikill tekjumunur í samfélagi hafi neikvæð áhrif á hagvöxt og að árangursríkara sé, til að efla hagvöxt, að auka ráðstöfunartekjur hinna tekjulægstu og millitekjuhópa en hinna tekjuhæstu.
Þessi niðurstaða hefur fólki á vinstri væng stjórnmálanna þótt afsanna svo kallaða "brauðmolakenningu" eða "trickle-down economics", sem það heldur fram, að snúist um að mylja undir hina tekjuhæstu og auðugustu, því að það hafi jákvæð áhrif á samfélagið allt. Af málflutningi þeirra að dæma mætti ætla, að hópur hægri sinnaðra hagfræðinga gerði fátt annað en að hvetja stjórnmálamenn til að hlaða undir auðmenn á grundvelli "brauðmolakenningarinnar".
Hinn virti hagfræðingur, Thomas Sowell, sem kenndi áður við Cornell og UCLA-háskólana, en starfar nú einkum fyrir Hoover-stofnunina við Stanford, hefur skrifað um þessa meintu kenningu og komizt að þeirri niðurstöðu, að hún sé hugarburður vinstri sinnaðra andstæðinga einstaklingshyggju og aukins frelsis efnahagslífsins.
Thomas Sowell hefur ekki fundið neinn hagfræðing, sem á eitthvað undir sér og mælir fyrir "brauðmolakenningunni". Hana er ekki að finna í neinum af mest lesnu almennu kennslubókunum í hagfræði, og fyrir nokkrum árum bað hann fólk um að benda sér á slíkan "brauðmolahagfræðing". Engin ábending kom. Þetta er dæmigert fyrir sýndarveruleikann, sem vinstri sinnað fólk lifir í. Það spinnur upp kenningar og málar svo skrattann á vegginn. Veruleikafirring kallast það, og fólk með þetta heilkenni sat að völdum í Stjórnarráðinu 2009-2013 og stýrði þjóðarskútunni eftir áttavita með vinstri skekkju, sem leiddi að sjálfsögðu til ófara. Afstaða pírata til "brauðmolakenningarinnar", er ekki þekkt, þó að í sýndarveruleika sé, enda er afstaða þeirra meira að segja á reiki til "deilihagkerfisins".
Ein af vinstri skekkjunum er sú, að skattakerfið eigi miskunnarlaust að nota til að auka jöfnuð í þjóðfélaginu og það verði gert með skattahækkunum. Þetta er bæði hagfræðilega og siðferðilega röng aðferðafræði við að auka jöfnuð. Ef gengið er of langt í að mismuna fólki eftir efnahag með skattheimtu, þá hverfur hvatinn til að leggja hart að sér, standa sig vel og auka tekjur sínar. Þjóðarkakan vex þá hægar eða minnkar, og allir tapa á slíku. Bezta ráðið til að auka jöfnuðinn er að hámarka verðmætasköpunina og tryggja með kjarasamningum sanngjarna skiptingu auðsins á milli fjármagnseigenda og launamanna.
Sjómenn fá um 35 % aflahlut, og aðrir launamenn um 65 % af verðmætasköpun fyrirtækjanna á Íslandi. Það er á meðal hin hæsta, sem þekkist. Arður af eigin fé fyrirtækjanna á bilinu 5 % - 15 % þykir eðlilegur m.v. aðra ávöxtun og áhættu, sem féð er lagt í.
Þegar borgaraleg öfl viðra og framkvæma skattalækkanir, sama hvaða nafni nefnast, hefst jafnan spangól vinstrisins með tilvísunum í "brauðmolakenninguna" um , að nú eigi að framkvæma "skattalækkanir fyrir hina ríku". Þetta er rökleysa, því að í mörgum tilvikum lækka skattar hlutfallslega meira á þá tekjulægstu en þá tekjuhæstu.
Fyrrnefndur Sowell segir, að vissulega hvetji margir hagfræðingar með rökstuddum hætti til lækkunar skatta á fyrirtæki og fólk. Þeir sýna fræðilega fram á, og reynslan staðfestir fræðin, að lækkun skattheimtu hækkar skatttekjur hins opinbera, því að lækkun örvar skattþolann til að stækka skattstofninn. Stefna núverandi stjórnvalda um afnám vörugjalda af flestum vörum og lækkun virðisaukaskatts hefur leitt til vaxandi viðskipta og aukinna skatttekna hérlendis.
Vinstra megin við miðju (miðjan er fljótandi) hafa menn á borð við John Maynard Keynes, Woodrow Wilson og John F. Kennedy viðurkennt þessa staðreynd. Til tekjuöflunar fyrir hið opinbera eru skattalækkanir öflugt tæki, en þá kemur sem sagt "brauðmolakenning" vinstri manna til skjalanna. Þeir gleyma því þá, að hið opinbera verður í betri færum til að fjármagna sjálft (án lántöku) útgjöld sín til stuðnings hinum lakar settu til kjarajöfnunar.
Það, sem gerist alls staðar, þar sem þungar skattbyrðar, eins og á Íslandi, eru gerðar léttbærari, er, að framleiðsla vex, atvinnuleysi minnkar, ráðstöfunartekjur launafólks hækka (launagreiðslugeta fyrirtækja vex og útgjöld almennings lækka). Hinir tekjuhæstu greiða ekki aðeins hærri skatta í krónum talið, heldur eykst jafnframt hlutur þeirra af heildarskattgreiðslum. Lýðskrum vinstra liðsins um "skattalækkanir fyrir hina ríku" er innistæðulaust fjas fólks, sem smitað er af hinni óhugnanlegu kenningu um, að tekjur og eignir einstaklinga séu í raun eign ríkisins og að lækkun skattheimtu sé þess vegna "eftirgjöf á réttmætum ríkistekjum".
Enn reyna vinstri menn að viðhalda áróðri sínum um ójöfnuð á Íslandi. Um þann skollaleik skrifar Óðinn í Viðskiptablaðið 25. júní 2015:
"Kaldhæðnin verður því vart meiri, þegar stjórnarandstæðingar kvarta nú sem aldrei fyrr undan efnahagslegum ójöfnuði, þegar jöfnuðurinn hefur aldrei verið meiri. Kannski er ójöfnuðurinn að fara að taka við af brauðmolakenningunni sem uppáhaldsstrámaður vinstrimanna ?
Sérkennilegast er að heyra þessa kenningasmíð frá manni [Gunnari Smára Egilssyni - innsk. BJo], sem auðgaðist einna mest, hlutfallslega, á þeirri efnahagsbólu (svo að notað sé orð hans og hans líkra), sem myndaðist á árunum fyrir fall bankanna. Og hvaðan kom auðurinn. Jú, hann var tekinn að láni í viðskiptabönkunum, sem féllu."
Önnur illvíg árátta vinstra liðsins er að hallmæla atvinnuvegunum og atvinnuveitendum, einkum útgerðinni. Orkukræfum iðnaði er hallmælt með rakalausum fullyrðingum um óarðbæra raforkusölu til hans. Hver étur þessa fullyrðingu upp eftir öðrum, en enginn hefur tekið sér fyrir hendur að sýna fram á þetta, enda er það ekki hægt. Almenningur nýtur góðs af hagkvæmni orkusölusamninga við málmiðnaðinn með nánast lægsta raforkuverði á byggðu bóli. Sjá menn ekki þversögnina í aróðrinum um óhagkvæma orkusölu til stóriðju og samtímis hagkvæmni raforkuviðskipta almennings ? Ef flugufótur væri fyrir þessum áróðri, sem reyndar kemur úr ýmsum áttum, væri Landsvirkjun væntanlega á vonarveli. Svo er hins vegar alls ekki, og gæti markaðsvirði hennar numið um ISK 500 milljörðum um þessar mundir.
Það hefur verið leiðarstef Samfylkingarinnar að hnýta í landbúnaðinn. Það er afar ósanngjarnt að gagnrýna bændur, því að bændastéttin hefur náð gríðarlegum árangri í sínum rekstri, aukið framleiðnina meira en flestir aðrir, aukið fjölbreytni framleiðslunnar og síðast en ekki sízt aukið gæðin mikið.
Þeir vinna við erfið skilyrði norðlægrar legu og eyjaloftslags, en hreinleikinn og heilnæmnin er þess vegna meiri en þessi blekbóndi þekkir annars staðar. Draga þarf úr ríkisstyrkjum við bændur, og að sama skapi eiga þeir að hækka afurðaverð sitt með það að markmiði að verða markaðsdrifinn atvinnurekstur með aðgang að útflutningsmörkuðum á grundvelli gagnkvæmra tollaívilnana og mikilla vörugæða.
Kaupmenn verða að kappkosta að upplýsa neytendur um uppruna landbúnaðarvaranna, einkum kjötsins í afgreiðsluborðunum. Það á ekki að vera leyfilegt að flytja inn matvæli í samkeppni við íslenzk matvæli, nema þau standist gæðasamanburð við þau íslenzku. Þar eru ýmsar viðmiðanir hafðar til hliðsjónar, s.s. sýklalyf, steragjöf, hormónagjöf, skordýraeitur og áburður.
"Það er útbreiddur misskilningur, að hægt sé að umgangast sjávarútveg á annan hátt en en aðrar atvinnugreinar."
Þetta sagði í forystugrein Morgunblaðsins þann 20. júní 2015 og er hverju orði sannara. Öfugmæli um útveginn hafa valdið miklum úlfaþyt í samfélaginu, sem mál er að linni. Það er vinstri vella og rætinn áróður fólks með meint óréttlæti gildandi fiskveiðistjórnunarkerfis, kvótakerfisins, á heilanum, og mætti kannski nefna "sóknarheilkennið", að íslenzki sjávarútvegurinn hlunnfari íslenzka alþýðu með því að greiða minna en sanngjarnt er fyrir leyfi til veiðanna.
Hér er um tilfinningahlaðinn þvætting að ræða. Sanngirnisviðmið í þessum efnum er, að útgerðirnar greiði í sameiginlegan, sjálfstæðan sjóð, sem standi straum af fjárfestingum og rekstri, eftir atvikum, stofnana á vegum ríkisins, sem annast þjónustu við sjávarútveginn, t.d. Hafrannsóknarstofnunar, Landhelgisgæzlunnar og Hafnarsjóðs. Árlegt framlag gæti verið 4,5 % verðs upp úr sjó, sem er um helmingur núverandi gjaldtöku.
Gjaldtakan 2015 er á bilinu 4,5 % - 23,0 % af verði upp úr sjó með miðgildið 9 % (jafnmargar tegundir neðan við og ofan við). Ljóst er, að þessi gjaldtaka er hóflaus í sumum tilvikum. Keyrði um þverbak í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur 2009-2013 með þeim afleiðingum, að útgerðum fækkaði óvenju hratt. Arðsemi hinna jókst við fækkunina. Var það ætlun vinstri stjórnarinnar ? Hvað sagði í téðri forystugrein Morgunblaðsins um þennan óeðlilega og ósanngjarna málatilbúnað á hendur sjávarútveginum ?:
"Útreikningar endurskoðunarfyrirtækisins KPMG á skattaspori HB Granda sýna til að mynda, að tekjur ríkis og sveitarfélaga vegna verðmætasköpunar fyrirtækisins námu 6,6 milljörðum króna árið 2013. Þriðjungur þessarar miklu skattbyrði er vegna veiðigjaldanna, og skattsporið er hærri upphæð en kom í hlut eigenda fyrirtækisins."
Það nær náttúrulega engri átt, að veiðigjöldin hækki skattgreiðslurnar um helming, 50 %, eins og í þessu tilviki, og að tekjur hins opinbera nemi hærri upphæð en tekjur eigendanna af þessari fjárfestingu sinni.
Þessari tímabæru forystugrein Morgunblaðsins lauk þannig:
"En til að útgerðir geti þrifizt og endurnýjað tækjabúnað á eðlilegan hátt, ekki sízt minni útgerðir, sem hafa farið verst út úr ofursköttunum, sem ættaðir eru frá fyrri ríkisstjórn, er nauðsynlegt, að þingmenn fari að sýna því aukinn skilning, að stöðugt rekstrarumhverfi og hófleg skattheimta eru forsenda velgengni til framtíðar. Meðferð makrílfrumvarpsins og umræður um það að undanförnu sýna því miður, að langt er í land í þessum efnum."
Við þetta er engu að bæta varðandi sjávarútveginn, en í lokin er rétt að benda á, að enn andar köldu til verksmiðjueigenda, sem hug hafa á að reisa verksmiðjur á Íslandi. Í þeim efnum er nýjasta dæmið ISK 120 milljarða fjárfesting Hudson Clean Energy Partners, bandarísks fjárfestingarsjóðs, sem starfar undir Verðbréfaeftirliti Bandaríkjanna (SEC). Sjóðurinn leggur áherzlu á "grænar" fjárfestingar, og norrænir lífeyrissjóðir eiga um þriðjung þessa sjóðs. Engu að síður hafa skotið upp kollinum úrtölumenn úr ýmsum áttum, og yrði það miður, ef slíkir næðu að setja skít í tannhjólin.
Hér er um að ræða hreinkísilverksmiðju Silicor á Grundartanga. Nú er hins vegar að koma fram á sjónarsviðið nýtt efni, methylammonium blýjoðíð, og kalla menn þetta efni og skyld efni perovskía. Þeir munu veita kíslinum samkeppni sem grunnefni í sólarhlöðurnar. Nýtni perovskía er um þessar mundir 20 %, og vísindamenn telja unnt innan tíðar að ná 25 % nýtni (fjórðungur sólarorkunnar, sem fellur á efnið, verður breytanlegur í raforku) og vinnslukostnaður verður að öllum líkindum lægri. Þetta gæti sett þróun kísiliðnaðar í heiminum, og þar með á Íslandi, í uppnám, svo að tryggilega þarf að búa um hnúta orkusamninganna, að orkuseljandi eigi forgangsrétt í þrotabú við hugsanlegt gjaldþrot viðkomandi fyrirtækis vegna orkukaupaskuldbindinga fram í tímann, sem jafnan eru ákvæði um í slíkum samningum.