Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
12.7.2022 | 10:30
Orðagjálfur um samkeppnishæfni dugar skammt
Það er rétt, að íslenzkar orkulindir eru samkeppnishæfar sem stendur í alþjóðlegu samhengi, en enginn veit, hversu lengi það varir, og það er auðvitað ekki hægt að tala um, að vara eða þjónusta, hér rafmagn, sem verður fyrst til reiðu eftir 5 ár, sé samkeppnishæf. Sinnuleysi orkufyrirtækja og seinagangur yfirvalda og Alþingis í þessum efnum veldur því, að Ísland getur ekki nú þegar tekið þátt í lífsnauðsynlegum umskiptum úr jarðefnaeldsneyti í rafeldsneyti. Eftir 5 ár, þegar Íslendingar fyrst losna út úr klaufalegri skortstöðu á raforku, gæti nýr og vinsæll orkugjafi verið orðinn tiltækur í fjöldaframleiðslu og þar með samkeppnishæfur við íslenzkar orkulindir. Það er vel þekkt, að í ófremdarástandi verður tækniþróun hröð. Má nefna þóríum kjarnorkuver, stór og lítil, sem skilja eftir sig mun minna geislavirkan úrgang með helmingnartíma, sem telst í áratugum, en ekki árhundruðum eða árþúsundum.
Staksteinar Morgunblaðsins 9. júlí 2022 hittu naglann á höfuðið, eins og fyrri daginn, nú undir fyrirsögninni:
"Ónýtt tækifæri".
Þeir hófust þannig:
"Ísland fylgir sem betur fer ekki jafnvitlausri orkustefnu og löndin á meginlandi Evrópu, sem eru búin að koma sér í mikil vandræði með því að elta öfgafull sjónarmið af ýmsu tagi. Þessar þjóðir eru farnar að gjalda orkustefnuna dýru verði, en þó að Ísland standi betur, hefur það ekki alveg sloppið."
Einkenni á orkustefnu landanna, sem þarna er átt við, er, að þau hafa framselt hluta af sjálfsákvörðunarrétti sínum á sviði orkumála til Evrópusambandsins, ESB. Megininntak orkustefnu ESB er að samtengja orkuflutningskerfi aðildarlandanna með öflugum hætti og að samræma orkustefnur landanna til að búa til samræmdan orkumarkað með jarðgas og rafmagn, sem stjórnað er af ACER-Orkuskrifstofu ESB. Ekki verður séð, að markvert gagn hafi hlotizt af þessu brambolti fyrir aðildarríkin, nú þegar harðnar á dalnum. Orkuskortur hefur leitt til svimandi orkuverðshækkana til heimila og fyrirtækja, þótt ríkisstjórnir hafi varið tugmilljörðum EUR til niðurgreiðslna.
Uppboðsmarkaður orku, sem ESB fyrirskrifar í orkulöggjöf sinni, verður að skrípaleik við þessar aðstæður. Nú vill svo illa til, að EFTA-ríkin í EES glöptust á að innleiða hjá sér þessa orkulöggjöf við gjörólíkar aðstæður þeim, sem ríkja á meginlandinu. Undir umsjón Orkustofnunar hefur Landsnet nú tilkynnt, að fyrirtækið vinni að og sé langt komið með undirbúning innleiðingar á orkukauphöll fyir heildsölumarkað raforku á Íslandi. Við þær skortaðstæður, sem búið er að koma upp á íslenzka raforkumarkaðinum, liggur í augum uppi til hvers þetta feigðarflan mun leiða fyrir neytendur hérlendis.
"Hér hefur of lítið verið virkjað á síðustu árum vegna þess, að of auðvelt er að þvælast fyrir virkjanaáformum eða öðrum framkvæmdum alveg óháð því, hvort þær framkvæmdir hafa verulega skaðleg áhrif á náttúruna eða ekki."
Þetta er hárrétt, og nú hefur Orkustofnun bætzt við dragbítaflokkinn af öllum stofnunum, því að afgreiðsla hennar á umsóknum virkjanafyrirtækja um virkjunarleyfi hefur dregizt úr hömlu, eftir að nýr Orkumálastjóri fór að setja mark sitt á verkefnastjórnina þar. Orkumálastofnun hefur misst sjónar á hlutverki sínu, sem er að leggja faglegt mat á tillögu virkjunarfyrirtækis um virkjunartilhögun. Þetta snýst m.a. um það að meta, hvort bezta tækni sé nýtt við að virkja aflið á virkjunarstað með hliðsjón af lágmarks raski á þeirri náttúru, sem er undir. Stofnunin á að gera þetta sjálf, en ekki að hlaupa út um allar koppagrundir til að leita umsagna. Það er hlutverk annarra.
Athygli vekur, að núverandi Orkumálastjóri virðist vera upptekin af því í hvað orkan fer. Það kemur henni ekki við. Samkvæmt orkulöggjöfinni, sem hún á að standa vörð um, ræður markaðurinn því. Það er ennfremur rangt hjá henni að halda því fram, að "endalaus" spurn sé eftir íslenzkri grænni orku. Svo er alls ekki, enda væri raforkuverð á Íslandi þá í hæstu hæðum. Alvörueftirspurn er takmörkuð með verðlagningunni. Þegar Orkumálastjóri virðist vilja beina nýrri orku einvörðungu í orkuskiptin, er um forræðishyggju að ræða hjá Orkustofnun, sem á ekki heima þar undir núverandi löggjöf, enda virðist hún alveg gleyma því, að atvinnulífið allt þarf meiri orku til að halda uppi atvinnustigi, bættum lífskjörum og sífellt dýrara heilbrigðis- og velferðarkerfi hins opinbera.
"Þetta hefur orðið til þess, að orkuskortur hefur gert vart við sig, sem er með ólíkindum í landi fullu af orku, og nú er svo komið, að við getum ekki nýtt þau tækifæri, sem standa til boða við að skapa meiri tekjur fyrir þjóðarbúið."
Þetta er hverju orði sannara hjá þeim, sem handfjallaði staka steina í þetta skiptið, en svo er helzt að skilja á Orkumálastjóra, að hún sé ekki sama sinnis, af því að ekki hafi enn komið til rafmagnsskömmtunar á heimilum. Forstjóri Landsvirkjunar hefur þó viðurkennt, að raforkukerfið sé þanið til hins ýtrasta, og það er auðvitað alger falleinkunn á framkvæmd orkustefnunnar, sem síðasta ríkisstjórn fékk samþykkta, því að á sama tíma eru 5 ár í, að næsta virkjun fyrirtækisins komist í gagnið.
Framkvæmd kerfisáætlana á að vera þannig, þar sem vel er haldið á málum, að fullnýting aflgetu kerfis og gangsetning nýrrar virkjunar, 35 MW eða stærri, beri upp á sama tíma. Hvernig í ósköpunum má það vera, að Orkumálastjóri komist upp með það við þessar aðstæður að stinga hausnum í sandinn og láta sem ekkert sé ?
Í baksviðsfrétt Morgunblaðsins 9. júlí 2022 undir fyrirsögninni:
"Ísland í kjörstöðu á orkumarkaði",
er viðtal við Pál Erland og hófst þannig:
"Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku, segir sterka samkeppnisstöðu íslenzkra orkufyrirtækja um þessar mundir skapa tækifæri til að laða hingað viðskiptavini, sem nýta græna orku til verðmætasköpunar.
"Við Íslendingar þurfum áfram að nýta ýmis tækifæri, sem okkur bjóðast til gjaldeyrissköpunar til að halda uppi lífskjörum á Íslandi. Jafnframt þurfum við að eiga orku í orkuskiptin til að ná þeim metnaðarfullu markmiðum í loftslagsmálum, sem að er stefnt", segir Páll. Skýrt samhengi er [á] milli orkuframboðs og hagvaxtar á Íslandi."
Það er til lítils að fjölyrða um sterka samkeppnisstöðu íslenzkra orkufyrirtækja, þegar þau eiga enga nýja orku til að selja. Hvað verður, ef/þegar þau eignast raforku til að selja nýjum viðskiptavinum, veit enginn, því að bæði er óvíst um kostnað þeirrar raforku og verðið, sem þá mun bjóðast í öðrum löndum. Með töfum hér innanlands hafa dragbítar framfara valdið töfum á orkuskiptum og valdið efnahagslegu tjóni, sem kemur niður á lífskjörum landsmanna. Orkugeirinn er varla nógu beittur til að fást við ormana, sem búnir eru að grafa um sig.
"Haft var eftir Herði Arnarsyni, forstjóra Landsvirkjunar, í Morgunblaðinu í gær [08.07.2022], að fyrirtækið geti ekki annað eftirspurn eftir orku. Varðandi hækkandi raforkuverð beggja vegna Atlantshafsins benti Hörður á, að hagkerfin hefðu farið skarpt af stað, eftir að faraldrinum lauk, og að það ætti, ásamt örvandi efnahagsaðgerðum og innrás Rússa í Úkraínu, þátt í hækkunum á orkumarkaði."
Sú staðreynd, að ríkisfyrirtækið Landsvirkjun situr uppi með 2 hendur tómar (og báðar í skauti) og mun halda því áfram næstu árin, þegar kemur að nýjum viðskiptasamningum við raforkukaupendur, sem eru fúsir til að greiða uppsett verð fyrir raforkuna, og eru t.d. í matvælaframleiðslu eða í starfsemi, sem tengist orkuskiptum, er reginhneyksli á tímum, þegar heimurinn glímir við mjög alvarlegan orkuskort. Þessi staða sýnir grafalvarlega brotalöm í orkulöggjöfinni og stofnanir ríkisins, sem við sögu koma til að hindra ófremdarástand af þessu tagi, í fyrstu atrennu Orkustofnun, gera aðeins illt verra. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur verk að vinna.
9.7.2022 | 14:11
Þrengist í búi
Það hefur vakið athygli í fyrirlitlegum og glæpsamlegum landvinningahernaði Rússa í Úkraínu, hversu frumstæð, illa skipulögð og mistakagjörn hervél Rússa er í baráttunni við mun fámennari her hraustra og hugrakkra Úkraínumanna, sem fram að þessu hefur skort þungavopn. Hið síðast nefnda stendur nú til bóta vegna síðbúinna vopnasendinga Vesturveldanna. Úkraínumönnum berast nú vopn, sem hermenn þeirra hafa hlotið þjálfun á, og vonir standa til, að í krafti þeirra muni Úkraínumönnum verða vel ágengt í gagnsóknum með haustinu (2022).
Stórbokkaháttur og ósvífni forystu Rússlands er með eindæmum í þessu stríði, en nýjasta stóra asnasparkið í þessum efnum kom frá Medvedev, þekktum kjölturakka Putins, í þá veru, að það stappaði nærri geggjun að ætla að saksækja forystu Rússlands, mesta kjarnorkuveldis heims, fyrir stríðsglæpi. Á öllum sviðum hernaðar hefur geta Rússlands hingað til verið stórlega ofmetin. Það hefur opinberazt í stríði þess við Úkraínu. Það er litlum vafa undirorpið, að þetta frumstæða og árásargjarna ríki færi sjálft langverst út úr því að hefja kjarnorkustríð. Það er kominn tími til að jarðsetja það yfirvarp Rússlandsforystunnar og dindla hennar, að Rússum hafi staðið slík ógn af NATO og mögulegri aðild Úkraínu að þessu varnarbandalagi, að þeir hafi séð sig til neydda að hefja innrás í Úkraínu og ekki skirrast við stríðsglæpum og þjóðarmorði þar. Þetta er falsáróður og helbert skálkaskjól heimsvaldasinnaðs og árásargjarns ríkis.
Á einu sviði hefur Rússland kverkatak á Vesturlöndum þrátt fyrir almennan vanmátt, en það er á orkusviðinu, en sú tíð verður vonandi liðin eftir 2 ár. Vesturlönd hafa stöðvað kolakaup af Rússlandi og eru þegar farin að draga úr kaupum á olíuvörum og jarðgasi þaðan og reyna að beina kaupum sínum annað og til lengri tíma að framkvæma orkuskipti, en það er víðast risaátak. Þetta hefur valdið miklum verðhækkunum á jarðefnaeldsneyti á heimsmarkaði, sem, ásamt annarri óáran í heiminum, gæti valdið eftirspurnarsamdrætti og efnahagskreppu af gerðinni "stagflation" eða verðbólgu með samdrætti og stöðnun.
Þetta virðist nú veita þjóðarbúskap Íslendinga högg, sem óhjákvæmilega mun bitna á lífskjörum þjóðarinnar. Ef aðilar vinnumarkaðarins semja ekki um kaup og kjör í haust með hliðsjón af versnandi stöðu þjóðarbúsins, gæti brotizt hér út verðbólgubál, stórhættulegt fyrir atvinnulífið og hag heimilanna.
Tíðindi af þessum umsnúningi til hins verra bárust með Morgunblaðsfrétt 07.07.2022 undir fyrirsögninni:
"Olíuverðið farið að bíta".
Hún hófst þannig:
"Vísbendingar eru um, að viðskiptakjör þjóðarinnar hafi gefið eftir á 2. [árs]fjórðungi [2022] samhliða hækkandi olíuverði. Höfðu þau þó ekki verið jafnhagfelld síðan haustið 2007."
Þótt hlutfall jarðefnaeldsneytis í heildarorkunotkun þjóðarinnar sé aðeins um 15 %, vegur kostnaður þess þó þungt við gjaldeyrisöflun þjóðarinnar og á viðskiptajöfnuðinn, einkum þegar þegar svo mikil hækkun verður á eldsneytinu, að það dregur úr kaupmætti almennings og framleiðslugetu fyrirtækja á meðal þjóða, þar sem hlutdeild jarðefnaeldsneytis í heildarorkunotkun er yfir 2/3, eins og víðast er, eða jafnvel 85 %, og slíkt á við um ýmsar viðskiptaþjóðir okkar. Frá ársbyrjun 2022 til 06.07.2022 hefur verð Norðursjávarolíu hækkað úr 75 USD/tunna í 114 USD/tunna eða um 52 %. Íslendingar eru þó í þeirri kjörstöðu að geta dregið úr þessum sveiflum viðskiptakjara, en þó með töfum vegna fyrirhyggjuleysis við orkuöflun, eins og minnzt verður á hér á eftir.
""Fiskverð sem hlutfall af hráolíuverði hefur lækkað verulega á einu ári eða um rúm 30 %. Svipaða sögu er að segja af álverði, en lækkunin er ekki jafnmikil vegna hás álverðs. Bæði álverðið og olíuverðið eru kauphallarverð, en fiskverðið kemur í grunninn frá Hagstofunni, en mælikvarðinn þar er s.k. verðvísitala sjávarafurða", segir Yngvi [Harðarson hjá Analytica]."
Í þessu tilviki kann að vera um árstíðabundinn öldudal að ræða ásamt leiðréttingu á skammtímatoppi eftir Kófið, en einnig kann að vera um verðlækkun sjávarafurða og áls að ræða vegna minni kaupmáttar neytenda á mörkuðum okkar sakir mikils kostnaðarauka heimila og fyrirtækja af völdum verðhækkana jarðefnaeldsneytis, en verð afurða okkar voru reyndar í hæstu hæðum í vetur eftir lægð Kófsins.
Megnið af eldsneytisnotkun íslenzka sjávarútvegsins er á fiskiskipunum, og hann hefur tæknilega og fjárhagslega burði til að laga vélar sínar að "rafeldsneyti" eða blöndu þess og hefðbundins eldsneytis. Þessa aðlögun geta líka flutningafyrirtækin á landi og sjó framkvæmt, sem flytja afurðirnar á markað, en lengra er í það með loftförin.
Innlent eldsneyti mun draga úr afkomusveiflum sjávarútvegs og þjóðarbús og hjálpa til við að ná loftslagsmarkmiðunum, sem stjórnvöld hafa skuldbundið þjóðina til á alþjóða vettvangi án þess að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að liðka fyrir orkuöflun virkjanafyrirtækja. Þarna er allt innan seilingar, svo að ekki er eftir neinu að bíða öðru en raforku frá nýjum virkjunum, en hún virðist raunar lítil verða fyrr en e.t.v. 2027. Það er til vanza fyrir landsmenn í landi mikilla óbeizlaðra, hagkvæmra og sjálfbærra orkulinda.
Aðra sögu er að segja af áliðnaðinum. Þar er enn ekkert fast í hendi með að verða óháður kolum, en þau eru notuð í forskaut og bakskaut rafgreiningarkeranna, um 0,5 t/tAl. Morgunblaðið birti 07.07.2022 útreikninga á rekstrarkostnaði álvers Century Aluminium í Hawesville, Kentucky, þar sem raforkuverðið hefur síðan í ársbyrjun 2021 stigið nánast stöðugt úr 25 USD/MWh í 100 USD/MWh í júlíbyrjun 2022. Þetta hefur skiljanlega snúið hagnaði af verksmiðjunni í rekstrartap, svo að þar verður dregið úr framleiðslu og jafnvel lokað. Þannig hefur orkukreppan náð til Bandaríkjanna, a.m.k. sumra ríkja BNA, og er þar með orðin að heimskreppu minnkandi framboðs og eftirspurnar, þar sem svimandi hátt orkuverð kæfir báðar þessar meginhliðar markaðarins.
Þetta sést bezt með því að athuga meginkostnaðarliðina í USD/t Al og bera saman við álver á Íslandi:
- Kentucky Ísland
- Rafmagnskostnaður 1500 600
- Súrálskostnaður 760 800
- Rafskautakostnaður 500 600
- Launakostnaður 200 200
- Flutningur afurða 50 150
- Alls 3010 2350
Markaðsverð LME fyrir hráál er um þessar mundir um 2400 USD/t Al, svo að rekstur íslenzka álversins með hæsta raforkuverðið slyppi fyrir horn, þótt ekkert sérvöruálag (premía) fengist fyrir vöruna, en hún er um þessar mundir um 500 USD/t Al, svo að framlegð er um 550 USD/t Al m.v. núverandi markaðsaðstæður eða tæplega fimmtungur af tekjum fyrir skattgreiðslur. Þarna skilur á milli feigs og ófeigs. Það borgar sig ekki að halda Kentucky-verksmiðjunni í rekstri, nema þar sé kaupskylda á verulegum hluta raforkusamnings, en þar sem raforkuverðið sveiflast eftir stöðu á orkumarkaði, er álverið líklega ekki bundið af kaupskyldu. Þetta sýnir kosti þess fyrir kaupendur og seljendur raforkunnar að hafa langtímasamninga sín á milli, og það kemur líka mun betur út fyrir launþegana og þjóðarhag.
Það er yfirleitt ládeyða á álmörkuðum yfir hásumarið. Nú hafa Kínverjar heldur sótt í sig veðrið aftur við álframleiðslu, en Rússar eru lokaðir frá Evrópumarkaðinum, og álverksmiðjur víða um heim munu draga saman seglin eða þeim verður lokað vegna kæfandi orkuverðs. Þess vegna má búast við hóflegri hækkun álverða á LME, þegar líða tekur á sumarið, upp í 2700-3000 USD/t Al. Það dugar þó ekki téðu Kentucky-álveri til lífs, nema kostnaður þess lækki.
Iðnaðurinn á Íslandi er í tæknilega erfiðari stöðu en sjávarútvegurinn við að losna við losun gróðurhúsalofttegunda. Tilraunir eru í gangi hérlendis með föngun koltvíildis úr kerreyknum, og það eru tilraunir í gangi erlendis með iðnaðarútfærslu með byltingarkennt rafgreiningarferli án kolefnis. Rio Tinto og Alcoa standa saman að tilraunum með nýja hönnun í Kanada, og Rio Tinto á tilraunaverksmiðju í Frakklandi. Þar er að öllum líkindum sams konar tækni á ferðinni og frumkvöðlar á Íslandi hafa verið með á tilraunastofustigi.
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins (SI), reit stuttan og hnitmiðaðan pistil í Fréttablaðið, 06.07.2022, undir fyrirsögn, sem vitnar um bjartsýni um, að jarðarbúum muni með kostum sínum og göllum takast að komast á stig sjálfbærni áður en yfir lýkur:
"Bætt heilsa jarðar".
Pistlinum lauk undir millifyrirsögninni:
"Aukin orkuöflun í þágu samfélags".
"Eigi þessi framtíðarsýn [Ísland óháð jarðefnaeldsneyti 2040-innsk. BJo] að verða að veruleika, þarf að afla meiri orku á Íslandi og nýta hana betur. Til þess eru mörg tækifæri án þess að ganga um of á náttúruna. Þannig er hægt að nýta gjafir jarðar og njóta þeirra á sama tíma [jafnvel betur en ella vegna bætts aðgengis og fræðslu í stöðvarhúsum nýrra virkjana-innsk. BJo].
Vonandi verður tilefni til að fagna árangri í loftslagsmálum árið 2040. Íslenzkur iðnaður mun ekki láta sitt eftir liggja til að ná settum markmiðum í loftslagsmálum og að skapa aukin verðmæti."
Það er stórkostlegt, að Íslendingar skuli vera í raunhæfri stöðu til að verða nettó-núll-losarar gróðurhúsalofttegunda eftir aðeins 18 ár og auka jafnframt verðmætasköpunina. Eins og orkumál heimsins standa núna (raunverulega enginn sjálfbær, stórtækur frumorkugjafi), eru Íslendingar orkulega í hópi örfárra þjóða í heiminum, en hafa skal í huga, að sitt er hvað gæfa og gjörvileiki. Íslendingar mega ekki láta villa sér sín, þegar kemur að því að velja orkulindir til nýtingar. Það má ekki skjóta sig í fótinn með því að ofmeta fórnarkostnað við vatnsaflsvirkjanir og jarðgufuvirkjanir og vanmeta samfélagslegan ábata þeirra og hrökklast síðan í neyð sinni í vindorkuveravæðingu, jafnvel úti fyrir ströndu, eins og þjóðir, sem skortir téðar orkulindir náttúrunnar. Tíminn líður, og embættismenn Orkustofnunar draga enn lappirnar við úthlutun sjálfsagðra virkjanaheimilda, og geta vissulega gert landsmönnum ókleift að standa við markmiðið um Ísland óháð jarðefnaeldsneyti árið 2040.
3.7.2022 | 13:46
Blekkingaleikur Landverndar
Margir hafa veitt mótsagnakenndum málflutningi Landverndar athygli, en talsmaður hennar og framkvæmdastjóri, Auður Önnu Magnúsdóttir, hefur reynt að skáka lygalaupinum Munchhausen í fjarstæðukenndum frásögnum af því, hvernig lifa mætti betra lífi í landinu með því að kippa um 150 mrdISK/ár út úr hagkerfinu með því að draga saman seglin í orkukræfum iðnaði og setja stoppara á ný virkjanaverkefni.
Það bezta, sem um svona Munchhausen málflutning má segja er, að einfeldningar hafi ofmetnazt og farið inn á svið, sem þeir ráða ekki við. Líklegra er þó, að um vísvitandi blekkingar sé þarna að ræða, þar sem gerð er ósvífin tilraun til að kasta ryki í augu almennings varðandi þjóðhagslega þýðingu iðnaðarins og þörfina á nýjum virkjunum í landinu til að spara jarðefnaeldsneyti og efla hagvöxt sem undirstöðu lífskjarabata almennings og bætts velferðarkerfis.
Það er eins og ábyrgðarlausir viðvaningar véli um mál hjá Landvernd. Hvaða áhrif halda menn, að yfirlýsing af hálfu ríkisstjórnarinnar um, að hún óskaði eftir því í nafni orkuskipta, að orkufyrirtæki með samninga við orkukræfan iðnað tilkynntu þessum viðskiptavinum sínum, að þau stefndu á helmingun orkusölunnar til þeirra við fyrsta tækifæri. Traust fjárfesta, erlendra sem innlenda, í garð íslenzkra stjórnvalda og Íslands sem fjárfestingarlands mundi gufa upp í einni svipan.
Þetta mundi leiða til fjármagnsflótta frá landinu og lækkunar á gengi ISK að sama skapi. Þetta yrði bara upphaf stórfelldrar kjaraskerðingar almennings, og samneyzlan yrði að sjálfsögðu að laga sig að tekjulækkun ríkissjóðs og sveitarsjóða. Þetta er svo foráttuvitlaus boðskapur Landverndar, að vart er á hann orðum eyðandi, en samt hefur framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, SI, dr Sigurður Hannesson, séð sig knúinn til að leggja hér orð í belg. Landvernd hefur á undanförnum árum farið mikinn, tafið mörg framfaramál, ekki sízt með rekistefnu fyrir dómstólum, en nú hefur hún skotið sig í fótinn með yfirgengilegum fíflagangi.
Í Morgunblaðinu 30. júní 2022 tjáðu Sigurður Hannesson og Jóhannes Stefánsson, lögfræðingur Viðskiptaráðs, sig við blaðamenn Morgunblaðsins undir fyrirsögninni:
"Afleiðingin yrði lakari lífskjör".
Upphaf fréttarinnar var þannig:
"Talsmenn Samtaka iðnaðarins (SI) og Viðskiptaráðs eru ósammála þeirri afstöðu framkvæmdastjóra Landverndar til orkumála, sem kom fram í Morgunblaðinu á þriðjudag [28.06.2022].Ekki nægi að forgangsraða þeirri orku, sem þegar er framleidd, til að mæta aukinni orkuþörf í stað þess að fjölga virkjunum, eins og framkvæmdastjóri Landverndar hefur lagt til, að mati Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra SI."Íslenzkt samfélag hefur hagnazt ríkulega á orkusæknum iðnaði. Innlendur kostnaður álveranna á síðasta ári var mrdISK 123. Það er það, sem varð eftir hér", segir Sigurður. "Nærri 2 þús. manns eru á launaskrá hjá þessum fyrirtækjum ásamt verktökum auk afleiddra starfa." Það er ekkert til, sem heitir "forgangsröðun orku", sem þegar hefur verið samið um, nema í skömmtunarástandi. Landvernd endurvarpar kreppu- og ofríkishugarfari, sem getur ekki leitt til annars en tjóns og líklega lögsókna fyrir dómstólum, jafnvel athugasemda frá ESA og lögsókna gegn orkufyrirtækjunum og/eða eigendum þeirra fyrir ómálefnalega mismunum, þegar aðrar og mun nærtækari lausnir eru í boði. Landvernd er gegnsýrð af forræðishyggju og boðar, að orkufyrirtækin skuli sitja og standa, eins og ríkið (í höndum trúfélaga Landverndar) skipar fyrir. Það er einfaldlega óleyfilegt samkvæmt reglum Innri markaðar EES, og innan ESA (Eftirlitsstofnunar EFTA) er áreiðanlega engin samúð með þeim sérlundaða boðskap Landsverndar, að á Íslandi megi ekki virkja meiri endurnýjanlegar orkulindir, á sama tíma og orkuskorturinn er svo grafalvarlegur í Evrópu, að verið er að ræsa gömul kolaorkuver og hætt er við að loka um 7 kjarnorkuverum um sinn. Der Zeitgeist (andi tímans) er á móti Landvernd, þótt hún þykist boða nútímalega stefnu. Stefna Landverndar er fátæktarstefna, og hún hefur þegar valdið miklu samfélagslegu tjóni með því að tefja orkuframkvæmdir úr hófi fram. Þegar tekið er tillit til fjölda á launaskrá orkukræfs iðnaðar, verktakanna, sem fyrir þennan iðnað vinna, bæði innan verksmiðjugirðinga og utan, til starfsmanna orkufyrirtækjanna og flutningafyrirtækjanna, sem vinna í aðfanga- og frálagskeðju orkukræfs iðnaðar, er varfærið að áætla, að um 12 þúsund ársverk sé þar að ræða, og fleiri bætast þar við á tímum verulegra nýframkvæmda. ""Við yrðum verr sett sem samfélag, ef við ætluðum að fórna verðmætasköpun orkusækins iðnaðar til að framleiða rafeldsneyti í þágu orkuskipta", segir Sigurður. Þá megi ekki gleyma því, að orkusækinn iðnaður, og hugverkaiðnaður að einhverju leyti, séu einu útflutningsgreinarnar, sem nýta eingöngu hreina orku. Aðrar útflutningsgreinar, eins og ferðaþjónusta og sjávarútvegur, noti fyrst og fremst [aðallega] olíu til að knýja verðmætasköpun, sem byggir mikið á flutningum í lofti, á landi og á sjó. Orkuskipti muni þá ganga út á að nota hreina raforku til að framleiða hreina orkugjafa fyrir þessar greinar. Sigurður segir, að þróun í þá átt sé komin á fleygiferð og rifjar upp, að Samskip hafi nýlega fengið myndarlegan styrk úr norskum sjóði til að gera tilraunir með hreina orkugjafa á skip." Umrædd stefnumörkun Landverndar er aðeins enn eitt dæmið um þá þröngsýni, sem ríkir á þeim bæ. Hvergi á Vesturlöndum mundi það verða talið ábyrg ráðstöfun íslenzkra orkufyrirtækja að undirlagi ríkisvaldsins að hætta að selja allt að helming þeirrar sjálfbæru raforku, sem nú fer til orkukræfs iðnaðar á Íslandi, því að sú framleiðsla og jafnvel meira mundi þá færast til landa, sem bjóða raforku að mestu leyti framleidda með jarðefnaeldsneyti. Þannig er boðskapur Landverndar eins umhverfisfjandsamlegur og hugsazt getur á tímum stórfelldrar vöntunar á endurnýjanlegum og kolefnisfríum orkugjöfum. Við ættum yfir höfði okkar útskúfun á alþjóðavettvangi sem umhverfissóðar og blindingjar, sem ekki skilja þá alvarlegu stöðu, sem orkumál heimsins eru í og verða, þar til orkuskipti úr jarðefnaeldsneyti hafa farið fram. Landvernd getur ekki notið snefils af trausti eða tillitssemi eftir þetta síðasta útspil, sem setur hana í hóp umhverfissóða á alþjóðavísu. "Hann [dr Sigurður] bendir á, að við séum engu bættari með að taka orku af iðnaði og nýta til annarra greina. Það auki ekki verðmætasköpun, heldur leiði til stöðnunar og verulegrar afturfarar varðandi lífskjör landsmanna. "Við breytum hvorki lögmálum hagfræðinnar né eðlisfræðinnar. Raunveruleikinn er eins og hann er, og við þurfum að laga okkur að því. Markmið stjórnvalda eru metnaðarfull, og hér er verið að taka ábyrga afstöðu í umhverfismálum í þágu okkar og heimsins alls. Við hljótum að vilja róa að því öllum árum að ná þeim metnaðarfullu markmiðum", segir Sigurður." Þarna flettir framkvæmdastjóri SI á sinn hátt ofan af sértrúarsöfnuðinum, sem kallar sig "Landvernd", en ástundar ekki "ábyrga afstöðu" til umhverfismála og er þess vegna ekkert annað en forstokkaður hópur um stöðnun samfélagsins á öllum sviðum, "núllvöxt", sem auðvitað leiðir óhjákvæmilega til hrörnunar samfélagsins, aukinnar eymdar og fátæktar. Eina leiðin fram á við er að auka skilvirkni á öllum sviðum til að gera landið samkeppnishæfara við útlönd, varfærin og sjálfbær aukin nýting auðlinda með beztu þekkingu og tækni að vopni til að leysa jarðefnaeldsneytið af hólmi og auka framleiðslu landsmanna til að standa undir hagvexti og bættum lífskjörum. Téðri frétt Morgunblaðsins lauk þannig: "Jóhannes [Stefánsson, lögfræðingur Viðskiptaráðs] ítrekar, að fjórðungur srarfa á Íslandi sé í iðnaði og þaðan komi fimmtungur landsframleiðslu. Hann segir [því] enn þá ósvarað, hvað eigi að koma í staðinn fyrir stóriðjuna, og hver annar eigi að greiða fyrir uppbyggingu á dreifikerfinu [flutningskerfi raforku-innsk. BJo].Bætir hann við, að Auður nefni ferðaþjónustuna sem betri kost en stóriðju, en að hans mati er ferðaþjónusta ágæt, þangað til hún er það ekki. Vísar hann þá til kórónuveirufaraldursins, og hversu sveiflukenndur ferðamannageirinn er. Að auki tekur hann fram, að ferðaþjónusta sé ekki með háa framleiðni, heldur þvert á móti og krefjist mikils vinnuafls. "Auðvitað þarf alltaf að huga að forgangsröðun orku, en ef við ætlum að viðhalda efnahagslegri velferð þjóðarinnar, verður það ekki gert með því að draga úr orkunotkun þjóðarinnar. Það eru draumórar", tekur Jóhannes fram í lokin." Orkukræfur iðnaður og ferðaþjónusta eru ósambærilegar atvinnugreinar, andstæður að flestu leyti hérlendis. Þar sem hagsmunir þeirra rekast þó engan veginn á hérlendis, fara þessar tvær atvinnugreinar ágætlega saman og höfða til ólíkra aðila í þjóðfélaginu. Saman gera þær hagkerfi og samfélag sterkara. Það er rangt, að virkjanir fæli ferðamenn frá og loftlínum fækkar í landinu. Hérlendar virkjanir eru aðdráttarafl fyrir ferðamenn, en öðru máli gegnir um vindorkuverin. Það er þó önnur saga.
30.6.2022 | 20:59
Fjarstæðukenndur afturhaldsáróður
Í landinu hefur alltaf verið andstaða við orkunýtingu til atvinnusköpunar og gjaldeyrisöflunar, eins og sagan greinir frá allt til Títanfélags Einars Benediktssonar, skálds. Átökin um fyrstu stórvirkjun landsins við Búrfell (Sámstaðamúla) í Þjórsárdal á árunum 1963-1969 eru höfundi þessa vefpistils enn í minni, en þá börðust andstæðingar Viðreisnarstjórnarinnar, Alþýðubandalagið og Framsóknarflokkur, hart gegn Búrfellsvirkjun og stofnun álverksmiðjunnar í Straumsvík við Hafnarfjörð, sem fá átti raforku frá Búrfellsvirkjun.
Virkjuninni var talið margt til foráttu, einkum að rennslistruflanir í jökulvatninu yrðu svo miklar, að stöðva yrði starfsemi virkjunarinnar. ISAL-verksmiðjan var uppnefnd "hausaskeljastaður" og sagt, að fjöldi verkamanna mundi tína þar lífinu strax á byggingarskeiðinu. Fullyrðingaflaumur beturvitanna lætur aldrei að sér hæða.
Þessi fordæðumálflutningur varð sér allur til skammar, enda reistur á fordómum og vanþekkingu. Annað bjó undir. Það mátti ekki tengja Ísland við alþjóðlega peningakerfið (Alþjóðabankinn lánaði Landsvirkjun fé fyrir Búrfellsvirkjun) til hagsbóta fyrir verkalýðinn og þjóðina alla. Það var ennfremur alið á fordómum gegn erlendri fjárfestingu öflugra iðnrekenda, í þessu tilviki svissneska álfélagsins Alusuisse, og 100 % eignarhaldi þess og þar með áhættutöku á ISAL. Þessi brautryðjendastarfsemi í atvinnusögu landsins var sögð þjóðhættuleg af andstæðingum Viðreisnarstjórnarinnar, en hún (Sjálfstæðisflokkurinn og Alþýðuflokkurinn), leidd af mikilhæfum leiðtogum, sem hikuðu ekki við að berjast fyrir sannfæringu sinni um gagnsemi þessara breytinga fyrir landið, hélt sínu striki.
Það er næsta víst, að hefði þjóðin ekki notið leiðsagnar Sjálfstæðisflokksins í þessu máli og atvinnustefnu hans, hefðu landsmenn ekki farið inn á braut orkukræfrar iðnaðarframleiðslu á tímum Viðreisnarstjórnarinnar og jafnvel aldrei í þeim mæli, sem nú er (yfir 300 mrdISK/ár útflutningstekjur). Þjóðfélagið stæði þá fjarri því jafntraustum fótum fjárhagslega, verkmenning og öryggi á vinnustað væru fátæklegri og þjóðin væri vafalaust fámennari en nú, því að atvinnuleysi og þekkingarflótti hefðu orðið plága. Þessar voguðu breytingar í atvinnuháttum urðu landsmönnum mikið gæfuspor, en afturhaldið í landinu varð bert að innihaldslausum hræðsluáróðri alveg eins og nú að breyttu breytanda.
Sams konar innihaldslausum hræðsluáróðri er enn beint að landsmönnum, og lengst gengur félagið Landvernd. Framkvæmdastjóri Landverndar, Auður Önnu Magnúsdóttir, stundar ábyrgðarlausan málflutning um orkumál landsins, sem einkennist af innantómum fullyrðingum og klisjum, sem hún af fullkominni ósvífni ber á borð fyrir almenning sem nútímalega stefnumörkun, en er hvorki fugl né fiskur og ekkert annað en draumórakenndur fáránleiki.
Hún gerir sig seka um tilraun til að leiða almenning á þær villigötur, að í stað nýrra virkjana fyrir orkuskipti og atvinnusköpun fyrir vaxandi þjóð bjóðist landsmönnum sá töfrasproti að beina allt að 50 % raforku, sem nú fer til iðnaðarins, frá iðnaðinum án þess, að nokkur verði þess var á tekjuhlið sinni, þegar þessi orka hafi fundið sér nýja notendur. Þetta er vitlausasti málflutningur, sem sézt hefur um raforkumál landsmanna frá því að rafvæðing hófst hérlendis, og er þá langt til jafnað.
Efnismikil og vel rökstudd grein birtist í Morgunblaðinu 27. júní 2022 eftir Jóhannes Stefánsson, lögfræðing Viðskiptaráðs, þar sem hann útskýrir glögglega fyrir lesendum með gröfum, súluriti og hringsneiðmynd, að tillögur Landsverndar mundu í framkvæmd leiða til hruns í lífskjörum landsmanna, eins og nærri má geta. Auður Önnu hjá Landvernd er hins vegar við sama heygarðshornið, þegar Tómas Arnar Þorláksson átti við hana viðtal, sem hann birti í Morgunblaðinu 28. júní 2022 undir einum af fjarstæðukenndum frösum Landverndar í fyrirsögn:
"Forgangsraða orku í stað virkjana".
Viðtalið hófst með ógeðfelldu yfirlæti þekkingarsnauðrar Auðar Önnu á atvinnusköpun og -rekstri:
""Við erum ekki bara einhverjir aumingjar, sem bíða hérna eftir því, að stórfyrirtæki komi og skapi handa okkur vinnu", segir Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, um grein Jóhannesar Stefánssonar, lögfræðings Viðskiptaráðs, sem birtist í Morgunblaðinu í gær. Þar tók Jóhannes fram, að tillaga Landverndar um full orkuskipti án aukningar í orkuframleiðslu og neikvæðra áhrifa á efnahagslega velsæld stæðist ekki skoðun."
Það er erfitt að gera sér í hugarlund, hvert Auður Önnu er að fara með svona fráleitri yfirlýsingu. Ef hún hafði í huga sokkabandsár orkukræfs iðnaðar og aðdraganda hans 1964-1969, þá er hún á algerum villigötum, eins og fyrri daginn. Það er yfirlætisfull heimska fólgin í því að kalla menn aumingja, þótt þá skorti þekkingu á framleiðsluferli málma á borð við ál og ráði hvorki yfir nauðsynlegum viðskiptasamböndum né fjármagni til að reisa og reka slíkar verksmiðjur. Allt þetta fengu landsmenn með samningum Viðreisnarstjórnarinnar við Alusuisse, og sá samningur veitti aðgang að láni hjá Alþjóðabankanum á mun hagstæðari viðskiptakjörum en ella. Íslendingar voru hins vegar snarir í snúningum við að tileinka sér framleiðslutæknina og vinnubrögðin við stórverkefni á borð við álver og stóra vatnsaflsvirkjun, og nú standa þeim engir á sporði við tæknilegan rekstur álvera.
Hér er um mikilsverða verkþekkingu að ræða, sem dreifzt hefur um allt samfélagið almenningi til hagsbóta. Þegar framkvæmdastjóri Landverndar leggur til, að íslenzka ríkið, eigandi Landsvirkjunar, stöðvi afhendingu um helmings núverandi raforkuafhendingar til orkukræfs iðnaðar við fyrsta tækifæri, er um að ræða þvílíkan óvitaskap, ábyrgðarleysi og fjarstæðukennt bull, að engu tali tekur. Samtök, sem ráðið hafa talsmann þessarar gerðar til starfa, eru hreinræktað niðurrifsafl í þjóðfélaginu, sem hafa fyrir vikið ekki snefil af trúverðugleika lengur.
"Að mati Auðar er þetta ekki rétt hjá Jóhannesi, og segir hún Landvernd taka þetta allt fyrir í sviðsmyndagreiningu samtakanna, sem sé mjög ítarleg. "Forsendurnar fyrir þessu eru, að við forgangsröðum orkunni, sem við framleiðum nú þegar, en 80 % af þeirri orku fara í stóriðju, sem hagnast á erlendum stórfyrirtækjum", segir Auður, og að hennar mati nýtur íslenzkt samfélag ekki góðs af þessu. Segir hún, að samkvæmt útreikningum þeirra þurfi stóriðjan að draga úr orkunotkun sinni um allt að 50 %."
Þetta er eiginlega óskiljanlegt rugl í Auði Önnu. Hver hagnast á erlendum stórfyrirtækjum ? Eru það ekki raforkufyrirtækin Landsvirkjun, OR, HS Orka og Landsnet ? Hagnaður Landsvirkjunar 2021 varð um mrdISK 30, megnið af honum frá stórnotendum og helmingurinn fór í arðgreiðslur til ríkissjóðs. Það bætist við skattgreiðslur fyrirtækjanna og starfsmanna þeirra, en bullukollan kveður íslenzkt samfélag "ekki njóta góðs af þessu". Þetta er undirmálsmálflutningur.
"Hvað varðar ályktun Jóhannesar, að orkuskipti án frekari virkjana séu ómöguleg, segir Auður það ekki rétt, nema ef notazt er við lausnir gærdagsins. Segir hún svarið ekki vera að sækja enn frekar í auðlindir. Undirstrikar hún, að það þurfi að koma á hringrásarhagkerfi og virða náttúruauðlindirnar."
Þetta er ekki í fyrsta skipti, sem Auður Önnu reynir að klæða trúarbrögð sértrúarsafnaðarins í Landvernd í búning nútímalegra viðhorfa, en það er ekkert nútímalegt við farsakenndar firrur í opinberri umræðu annað en falsfréttabragurinn, sem nú tröllríður fréttamiðlunum. Það er engin glóra í því að setja fram atvinnustefnu og efnahagsstefnu á þeim grundvelli, að ekki megi virkja meira af endurnýjanlegum og nánast kolefnisfríum orkulindum í náttúru Íslands án þess að sýna fram á það með haldbærum rökum án trúarlegra stefja á borð við, að náttúran skuli njóta vafans, að unnið hafi verið óafturkræft tjón á náttúrunni hingað til með virkjunum.
Hér verður að greina á milli breytinga og tjóns, en margar breytinganna hafa orðið til góðs fyrir náttúruna, s.s. til að verjast giljagreftri og landbroti og að framkalla nýjar laxveiðiár. Á Íslandi er vert að hafa í huga, að náttúran sjálf er miklu stórtækari breytinga- og tjónvaldur á náttúrunni en íbúar landsins. Stefna Landverndar er í stuttu máli svo laus við að vera nútímaleg, að nútímalegu og fjölbreytilegu velferðarþjóðfélagi verður ekki viðhaldið í landinu, ef sveigja á inn á glórulausa afturhaldsbraut Landverndar. Boðskapur af því tagi, að ekki skuli nýta meiri jarðvarma og vatnsföll eru einsdæmi í landi, þar sem hlutfallslega er jafnlítið nýtt (virkjað) og hérlendis. Það er einhver ofdekursbragur allsnægta yfir boðskap Landverndar.
"Þá bendir Auður á, að bæði Landvernd og tímaritið The Economist hafi sýnt, að verðmætasköpun á hverja orkueiningu á Íslandi sé með því lægsta, sem gerist á heimsvísu. Enn frekar bendir hún á, að mjög fá störf skapist á hverja orkueiningu. Ítrekar hún þá, að ef við breytum því, hvernig við nýtum orkuna, sem er nú þegar framleidd, getum við skapað meiri verðmæti. Tekur hún fram, að fyrir kórónuveirufaraldurinn árið 2019 hafi ferðaþjónustan verið langstærsti útflytjandi vöru og þjónustu."
Þarna reynir Auður Önnu að spyrða Landvernd við hið virta tímarit The Economist, en hér skal fullyrða, að ritstjórn The Economist yrði gáttuð á því rugli, sem Landvernd setur á oddinn í orkumálum Íslands. Það er spurning, hvort téðir útreikningar á verðmætasköpun á orkueiningu hafa verið gerðir, þegar Kínverjar og Rússar dembdu miklu magni málma inn á Evrópumarkaðinn, svo að verðið hríðféll, en nú hefur verð á t.d. áli tvöfaldazt frá fyrri hluta Kófstímans.
Það er þó annar samanburður áhugaverðari, en hann er verg landsframleiðsla á mann, en þar eru Íslendingar á meðal hinna allra hæstu í heiminum og líka í launakostnaði á mann. Það er gríðarleg erlend fjárfesting á hvert MW eða starf í orkukræfum iðnaði. Á slíkum vinnustöðum eru nánast alltaf hærri laun en á hinum, og þetta eru einmitt þau störf, sem sótzt var eftir að fá til Íslands, af því að starfsemin er stöðug, og eigandinn leggur ógjarnan niður starfsemi mikilla fjárfestinga og hárrar skilvirkni, en sú er reynslan af íslenzku starfsfólki verksmiðjanna upp til hópa.
Þegar um sjálfbæra orkunotkun er að ræða, er viðhorfið til verðmætasköpunar á MW auðvitað allt annað en til brennslu jarðefnaeldsneytis, svo að hin seinheppna Auður Önnu hefur hér slysazt til að bera saman epli og appelsínur. Hún virðist telja æskilegt, að ferðaþjónustan á Íslandi, sem ekki flytur út vörur, eins og hún heldur fram, taki við starfsfólkinu, sem missir sín störf, verði farið að tillögum Landverndar. Gerir Auður Önnu sér grein fyrir álagsaukningunni á umhverfið, gangi það eftir, launalækkun fólksins og þeirri miklu ósjálfbæru orkunotkun, sem fylgir hverju starfi í þessari grein ?
"Segir hún að auki útreikninga Jóhannesar ekki rétta, að án frekari orkuframleiðslu muni lífskjör hér á landi versna fyrir árið 2050 og verða svipuð og þau voru rétt eftir árið 2000. "Við erum að leggja til, að lífskjör verði eins og í dag að teknu tilliti til fólksfjölgunar. Til þess þurfum við að forgangsraða orkunni öðruvísi og betur", segir Auður."
Það er kjaftur á keilunni, þegar hún fullyrðir skilmerkilega greinargerð Jóhannesar Stefánssonar ranga og færir fyrir því aðeins það útþvælda slagorð, að "forgangsraða [þurfi] orkunni öðruvísi og betur. Er ekki augljóst, að verði 150 mrdISK/ár teknir út úr hagkerfinu, og það vel launaða fólk, sem þá missir vinnuna, fer að vinna við ferðaþjónustu, eins og virðist vaka fyrir forræðishyggjupostulanum Auði Önnu,eða fari að starfa við að framleiða rafeldsneyti, eða flýi land, þá verði samfélagið að sama skapi fátækara og lífskjör alls almennings lakari ?
Delluhugmyndafræði forræðishyggjupostula, sem engum einkaframtaksmanni mundi hugnast, hefur aldrei vel gefizt í sögunni og alltaf gert almenning fátækari, hafi einhverjar slíkar hókus-pókus- lausnir orðið ofan á. Auður Önnu dregur enga hvíta kanínu upp úr hatti sínum, þótt hún klæðist búningi töframanns. Til þess er hugmyndafræði hennar of illa ígrunduð, full af þverstæðum og raunar algerlega óþörf fórn í anda "Endimarka jarðar". Á Íslandi þarf að afnema afl- og orkuskort tafarlaust og virkja fyrir þörfum orkuskipta og vaxandi útflutningsframleiðslu til lífskjarabata fyrir vaxandi þjóð.
12.6.2022 | 18:00
Samþjöppun ?
Þegar talað er um samþjöppun í atvinnugrein, er vanalega átt við fækkun sjálfstæðra fyrirtækja/eigenda, sem leitt geti af sér skort á frjálsri samkeppni, staða, sem stundum er nefnd fákeppni. Nýlega dæmdi EFTA-dómstóllinn þá niðurstöðu ESA-Eftirlitsstofnunar EFTA, að hlutafjáraukning ríkisins í Farice, sem einokar þráðbundið fjarskiptasamband Íslands við umheiminn, stríddi ekki gegn reglum Innri markaðar EES (Evrópska efnahagssvæðisins) um ríkisafskipti og fákeppni, úr gildi. Það hefur engin ábending komið frá ESA, hvað þá dómsúrskurður frá EFTA-dómstólinum, um viðsjárverða þróun innan íslenzka sjávarútvegsins í átt til fákeppni. Engu að síður staglast fyrrverandi misheppnaður sjávarútvegsráðherra og núverandi vonlaus formaður s.k. Viðreisnar, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, á því í tíma og ótíma, að binda verði endi á "samþjöppun" í sjávarútvegi.
Hugtakið samþjöppun í atvinnugrein kallar á viðmiðun, og viðmiðunin er yfirleitt fortíðin, en fortíð sjávarútvegsins er ekki fögur, svo að afturhvarf til fortíðar er ókræsileg tilhugsun og kemur einfaldlega ekki til greina, ef sjávarútvegurinn á áfram að verða hryggjarstykkið í hagkerfinu, eins og hann hefur verið, frá því að fyrirtækjum og skipum tók að fækka umtalsvert, svo að þau, sem störfuðu eftir "samþjöppun" tóku að skila hagnaði og þeim, sem hættu fé sínu í þessa starfsemi, arði, eins og er talið eðlilegt á meðal fyrirtækja hvarvetna á Evrópska efnahagssvæðinu, EES. Rekstur með hagnaði er þó ekki raunin innan sjávarútvegs EES, nema á Íslandi, og má útskýra þá sérstöku stöðu alfarið með aflahlutdeildarkerfinu og frjálsu framsali aflahlutdeilda hérlendis.
Það er líka hægt að útskýra, hvers vegna ESA hefur ekki sent íslenzkum yfirvöldum kvörtun yfir "samþjöppun" í íslenzkum sjávarútvegi. Skýringin er sú, að hún er minnst á Íslandi innan EES, og t.d. er kvótaþakið u.þ.b. tvöfalt hærra í Noregi, sem einnig býr við gjöful fiskimið á landgrunni sínu. Hér hafa heimóttarlegir íslenzkir stjórnmálamenn sem sagt búið til vandamál úr engu. Það er vel af sér vikið og þeim líkt. Það slagar upp í þónokkurt afrek óhæfninnar. Líklega hefur varaformaður Viðreisnar enn ekki meðtekið "uppgötvun" formannsins, því að hún vantreysti honum, prófessor í auðlindanýtingu, til að taka sæti á vegum flokksins í umfangsmiklu nefndafargani, sem matvælaráðherra í vingulshætti sínum hefur slysazt til að setja á laggirnar til að skilgreina fyrir sig vandamálið ósýnilega, "samþjöppun í sjávarútvegi". Fíflagangurinn og sóun ríkisins ríða ekki við einteyming.
Morgunblaðið gerði þessu máli góð skil í forystugrein 1. júní 2022 undir fyrirsögninni:
"Meinsemd sjávarútvegsins".
Hún hófst þannig:
"Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, hefur sjávarútvegsmál á sinni könnu, og í fyrradag [30.05.2022] lét hún þá skoðun í ljós í svari við fyrirspurn á Alþingi, að samþjöppun í sjávarútvegi væri "meinsemd" eða öllu heldur sú staðreynd, að hún vissi ekki, hve mikil samþjöppunin væri. Þetta er sérkennileg yfirlýsing; ekki þó sízt, að ráðherrann gerði hana að ástæðu þess, að hún hygðist skipa fjölmenna samráðsnefnd og 4 sérfræðihópa til þess að grafast fyrir um þetta og önnur málefni sjávarútvegsins. Binda verður vonir við, að þeim fjölda takist að uppræta meinsemdina í huga ráðherrans, en nefndirnar voru kynntar í gær."
Það er "futile" verkefni og verður unnið fyrir gýg að reyna að fækka meinlokunum í huga þessa ráðherra, sem er sameignarsinni og vill þess vegna færa öflugustu atvinnutæki landsins í hendur ríkisins í anda kenningasmiða misheppnuðustu hugmyndafræði seinni tíma í mannkynssögunni, sameignarstefnunnar, sem sósíalismi og jafnaðarstefna (kratismi) eru sprottin af.
Reynslan sýnir, að ríkisvaldið ræður ekki við að reka nokkra atvinnustarfsemi skammlaust. Ráðherrann fylgir hugmyndafræði, hverrar æðsta mark er gríðarleg samþjöppun atvinnulífs undir einum eiganda, ríkinu. Þess vegna grætur ráðherrann krókódílstárum yfir samþjöppun yfirleitt í atvinnulífinu. Það sætir furðu, að þessi endemis yfirmaður matvælamála landsins skuli ekki hafa neitt þarfara að gera, þegar ofboðslegar erlendar verðhækkanir á aðföngum íslenzks landbúnaðar eru u.þ.b. að ríða honum á skjön. Hefur sjávarútvegurinn þurft að leita á náðir ríkisvaldsins við þessar aðstæður ? Nei, en þá grípur afskiptasamur og illviljaður ráðherra gagnvart einkaframtaki til þess óyndisúrræðis að búa til vandamál. Svona eiga ráðherrar ekki að beita sér.
"Nú er það raunar svo, að samþjöppun í sjávarútvegi á Íslandi er alls ekki mikil. Jú, það er auðvelt að benda á örfá stórfyrirtæki í þeim geira, en þau segja fremur sögu um það, hvernig kvótakerfið hefur komið á hagkvæmni í greininni, gert sjávarútveginn arðsaman og líkan öðrum greinum, þar sem rúm er fyrir stór og vel rekin fyrirtæki. Stórfyrirtækin eru hins vegar undantekning, því [að] það er einmitt einkenni á sjávarútvegi, hvað þar þrífast mörg fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum umhverfis landið. Það er erfitt að benda á aðrar atvinnugreinar, þar sem samþjöppun er minni, hvort sem litið er til smásölu, fjármálageira, iðnaðar eða einhvers annars."
Samþjöppunartal hælbíta sjávarútvegsins er fremur reist á draumórakenndri fortíðarþrá en umhyggju fyrir viðskiptavinum sjávarútvegsins. Að 95 % í tonnum talið er markaðssetningin á erlendri grundu, og flestir þar kjósa að eiga viðskipti við trausta fiskbirgja með sveigjanlegt afhendingarmagn á viku eftir þörfum markaðarins. Það er alveg öruggt, að fyrir íslenzka þjóðarbúið er æskilegt, að íslenzkir birgjar á erlendum fiskmörkuðum séu stórir og öflugir á íslenzkan mælikvarða, því að þannig verða þeir aldrei á erlenda mælikvarða.
Hagkvæmni stærðarinnar gerir sjávarútvegsfyrirtækjum kleift að fjárfesta í afkastamiklum veiðitækjum og fiskvinnslum með mikilli sjálfvirkni og þar með samkeppnishæfri framleiðni. Ef enn þrengri stærðarmörk yrðu sett af stjórnvöldum á íslenzk sjávarútvegsfyrirtæki, mun verðmætasköpun þeirra einfaldlega dvína. Þannig væri hælbítum sjávarútvegsins á Alþingi hollt að fara í áhættugreiningu á því, hverjar afleiðingar eru af stöðugu nöldri þeirra og nagi í garð sjávarútvegsins, og hverjar þær yrðu af því að þrengja að hag fyrirtækjanna með strangari stærðarmörkum og/eða hærri skattheimtu.
"En það er þessi kvörtun um, að sjávarútvegurinn fjárfesti í öðrum greinum, sem kemur upp um Þorgerði Katrínu og Viðreisn. Það er einmitt lóðið í kapítalismanum [við auðhyggjuna - innsk. BJo], að þar er skapaður arður og auður, sem nota má í fleira en uppsprettu hans. Að þar verði til afgangur, sem megi nota í eitthvað nýtt og betra, að menn geti stuðlað að nýsköpun í atvinnulífi án þess að skipta um starfsvettvang. Að auðsköpun í einni grein nýtist í öðrum, landi og þjóð til heilla. Flokkur, sem skilur það ekki, skilur ekki neitt og er ekki hægri flokkur í neinum skilningi.
Þess vegna er Viðreisn sjálfsagt hollast að fara að uppástungu í forystugrein flokksmálgagnsins í liðinni viku og sameinast systurflokknum Samfylkingu."
Þetta er vel að orði komizt. Hvers konar ráðsmennska er það eiginlega vítt og breitt í samfélaginu, að útgerðarmenn eða fiskvinnslumenn megi ekki græða eða þurfi að ganga fyrir Pontíus og Pílatus til að fá leyfi til að fjárfesta annars staðar en í sjávarútvegi ? Þeir, sem hagnast, hafa fullt frelsi til að ráðstafa þeim hagnaði, sem í þeirra hlut fellur. Ef hömlur yrðu settar á þetta, er eins víst, að þessi hagnaður mundi gufa upp. Það er hið bezta mál, að arður sjávarútvegsins dreifist sem víðast í samfélaginu.
Nú berast fregnir af því, að sjávarútvegsfyrirtæki fjárfesti í fiskeldi, mest í landeldi. Það er ofur eðlilegt. Fiskveiðum við Ísland eru skorður settar á grundvelli fiskveiðiráðgjafar Hafrannsóknarstofnunar, en í fiskeldinu eru engar slíkar skorður, ef úthafseldi er tekið með í reikninginn, en Norðmenn reka nú tröllvaxnar tilraunakvíar úti fyrir fjörðum Noregs. Markaðurinn er mjög próteinþurfi, svo að eftirspurninni eru engin merkjanleg takmörk sett.
Með framgöngu Viðreisnar í Reykjavík eftir sveitarstjórnarkosningarnar í maí 2022 má öllum vera ljóst, hvar hjarta hennar slær. Það slær í brjóstholi kratakvikindisins í pólitíkinni. Eftir þetta ráðslag í Reykjavíkeru dagar Viðreisnar taldir. Atkvæði hennar komu frá hægri, en munurinn á stefnu flokksforystunnar og kratakraðaksins er bitamunur, en ekki fjár. Ef kjósendur greina vart á milli flokka, er hætt við, að annar lognist út af, verði afvelta.
8.6.2022 | 10:37
Vatnsdalsvirkjun - góð hugmynd
Ekki er í fyrirsögn vísað til hinnar fögru sveitar Vatnsdals í Austur-Húnavatnssýslu, þar sem höfundur þessa pistils ól manninn í 7 sumur við störf og leik og kynntist þar hefðbundnum landbúnaði landsmanna, sem þá var í óða önn að vélvæðast, heldur er átt við hérað Hrafna-Flóka á sunnanverðum Vestfjörðum.
Orkubú Vestfjarða hefur kynnt til sögunnar miðlungs stóra virkjun, þar sem virkjunartilhögunin fellur með eindæmum ljúflega að umhverfinu. Kerfislega er staðsetningin alveg kjörin, og virkjunin (20 MW) er hagkvæm, því að þar má framleiða raforku inn á svelt Vestfjarðakerfið fyrir um 4,9 ISK/kWh m.v. upplýsingar í frétt Helga Bjarnasonar í Morgunblaðinu 3. júní 2022 undir fyrirsögninni:
"Knúið á um Vatnsdalsvirkjun".
Hún hófst þannig:
"Hugsanleg Vatnsdalsvirkjun í Vatnsfirði mun hafa mjög jákvæð áhrif á raforkuöryggi á Vestfjörðum. Hún hefði tiltölulega lítil umhverfisáhrif að mati orkubússtjóra Orkubús Vestfjarða [OV]. Umsókn fyrirtækisins um rannsóknarleyfi er í vinnslu hjá Orkustofnun [OS]. Forsenda þess, að orkukosturinn verði tekinn til umfjöllunar hjá verkefnisstjórn rammaáætlunar er þó, að friðlýsingarskilmálum Vatnsfjarðarfriðlands verði breytt."
Orkustofnun mun nú hafa haft téða umsókn OV til meðhöndlunar í tæpt ár. Þessi langi meðgöngutími OS er óhæfilega og reyndar óbærilega langur í ljósi mikilvægis þess að skýra línur í orkuöflunarmálum Vestfirðinga. Ekki verður séð, að skilvirkni stofnunarinnar hafi aukizt nokkurn skapaðan hlut, síðan stjórnmálafræðingurinn tók við starfi Orkumálastjóra, enda ekki við því að búast. Menntun núverandi orkumálastjóra hjálpar henni ekkert við afgreiðslu þessa máls. Hvað sem því líður er seinagangur OS við afgreiðslu tiltölulega einfaldra mála (s.s. þetta og virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun) óþolandi og ljóst er, að tilfinning stjórnenda þar á bæ fyrir brýnni úrlausn (e. sense of urgency) er ekki fyrir hendi.
"Elías Jónatansson, orkubússtjóri, segir, að tenging Vatnsdalsvirkjunar í Vatnsfirði við flutningskerfið sé aðeins um 20 km. Með 20 MW grunnvirkjun þar og með því að framkvæma áform Landsnets um hringtengingar þaðan og um sunnan- og norðanverða Vestfirði væri hægt að draga úr straumleysistilvikum á þéttbýlisstöðum um 90 %. Slík grunnvirkjun gæti kostað um mrdISK 10 og komizt í gagnið í lok árs 2028. Elías bætir því við, að með því að auka afl virkjunarinnar í 30 MW án mikillar viðbótar framleiðslu [í GWh/ár - innsk. BJo] væri hægt að stýra kerfinu þannig, að ekki þyrfti að grípa til keyrslu olíuknúins varaafls, þótt tengingin við landskerfið rofnaði í einhverjar vikur. Virkjun með auknu afli væri því hjálpleg í loftslagsbókhaldi landsins."
Hér eru álitlegar og efnilegar hugmyndir Vestfirðinga og Landsnets á ferðinni, og eins og áður sagði eru þær arðsamar, jafnvel með 10 MW viðbótar vél, þótt hún mundi nýtast aðallega í neyðarrekstri, þegar Vesturlína er straumlaus, og á meðan hin vél Vatnsdalsvirkjunar er frátengd kerfi vegna viðgerða eða viðhalds. Keyrsla varavéla á olíu rímar ekki við stefnu yfirvalda í loftslagsmálum. Vatnsdalsvirkjun getur orðið mikilvægur tengipunktur flutningskerfis raforku á Vestfjörðum, sem mæta mun sjálfsögðum kröfum íbúa og fyrirtækja þar um aukið afhendingaröryggi. Þess vegna er brýnt að veita þessum góðu hugmyndum brautargengi. Eins og fyrri daginn reynir nú á yfirvöld orkumála, sem verða að fara að hrista af sér slenið.
"Orkubú Vestfjarða sótti um rannsóknarleyfi vegna Vatnsdalsvirkjunar um mitt síðasta ár. Elías segir, að Orkustofnun sé að leita umsagna. Bendir hann á, að Orkustofnun hafi áður veitt fyrirtækinu leyfi til rannsókna í friðlandinu. Það var vegna Helluvirkjunar, en hún er miklu minni og reyndist ekki [vera] hagkvæm."
Það er kyndugt að leita umsagna í heilt ár vegna umsóknar um rannsóknarleyfi. Hjá OS eiga að vera sérfræðingar, sem leitt geta slíka umsókn til lykta á 1-2 mánuðum. Áhuginn hjá stofnuninni á að veita viðskiptavinum sínum góða þjónustu er greinilega ekki lengur fyrir hendi.
"Spurður um áhrif á friðlandið segir Elías, að umhverfisáhrif yrðu lítil á láglendi. Hins vegar yrði rask á landi ofan við 250 m yfir sjávarmáli við byggingu stíflu og stækkun lóna og styrkingu og lengingu vegslóða, en það sjái enginn neðan úr dalnum. Hann bætir því við, að svæðið sé þegar raskað vegna raflína, sem þar liggi yfir. Elías bendir á, að lagning nýs vegar um Dynjandisheiði hafi þegar valdið mun meira raski en búast megi við í Vatnsdal. "Við teljum, að út frá náttúruverndarsjónarmiðum yrði þetta rask talsvert minna en við sambærilegar framkvæmdir víða annars staðar."
Tvö lítil stöðuvötn, Flókavatn og Hólmavatn, munu fara undir miðlunarlónið, svo að breytingin á ásýnd landsins yrði lítil. Stöðvarhúsinu má koma snoturlega fyrir innst í dalnum og verður þá áreiðanlega aðdráttarafl fyrir ferðamanna. Það er staðreynd, að virkjanir á Íslandi eru vinsælir áningarstaðir ferðamanna. Vatnsdalsvirkjun mundi bæta aðgengi ferðamanna að náttúru landsins. Slíka þætti ber að meta meira en forstokkuð fordæmingarviðhorf þeirra, sem dæma áður en virkjunartilhögun er fyrir hendi.
Að lokum stóð í þessari athyglisverðu frétt:
"Elías segir heimilt samkvæmt lögum að aflétta kvöðum í friðlýsingarskilmálum, ef ríkir almannahagsmunir krefjist. Telur hann, að svo hátti til með Vatnsdalsvirkjun, þegar litið sé til orkuöryggis Vestfjarða og möguleika á orkuskiptum á næstu árum og áratugum. Þótt friðlýsingarskilmálum yrði breytt, er það engin trygging fyrir því, að verkefnisstjórn rammaáætlunar gefi grænt ljós á virkjun í Vatnsdal. Einnig á eftir að vinna umhverfismat og fá önnur nauðsynleg leyfi."
Eins og fram kemur í þessari frétt, hefur orkubússtjórinn mikið til síns máls. Hagsmunir Vestfirðinga eru svo ríkir í orkumálum að duga til að rökstyðja endurskoðun friðlýsingarskilmála á þessu virkjunarsvæði.
1.6.2022 | 20:33
Orkuaðsetur á Bakka við Skjálfanda
Þann 26. apríl 2022 barst loks frétt af raunhæfri viðskiptahugmynd um framleiðslu á rafeldsneyti til innanlandsnota og til útflutnings. Í iðngörðum á Bakka við Húsavík er ætlunin að nýta raforku frá stækkun Þeistareykjavirkjunar og stækkun Kröfluvirkjunar eftir atvikum til að framleiða vetni og ammóníak. Með verð á olítunnunni í USD 120 og stígandi, er þetta sennilega orðin raunhæf viðskiptahugmynd nú þegar, þótt forstjóri Landsvirkjunar hafi í útvarpsviðtali að morgni 1. júní 2022 talið, að svo yrði ekki fyrr en að 5 árum liðnum. Téð frétt Morgunblaðsins um þetta efni var undir fyrirsögninni:
"Framleiða rafeldsneyti á Bakka".
Hún hófst þannig:
"Í ljósi markmiða ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutlaust Ísland [og] óháð jarðefnaeldsneyti árið 2040 verður að hraða undirbúningi að framleiðslu rafeldsneytis, eins og vetnis og ammoníaks, að mati Sigurðar Ólasonar, framkvæmdastjóra Green Fuel. Slíkt eldsneyti sé lykilatriði í orkuskiptunum. Fyrirtækið stefnir að byggingu fyrstu stórskala rafeldsneytisverksmiðju landsins á Bakka við Húsavík."
Það er rétt, að orkuskiptin á Íslandi verða aldrei barn í brók án öflugrar rafeldsneytisverksmiðju í landinu, og þess vegna er frétt um þetta frumkvæði einkaframtaksins fagnaðarefni. Að hefjast handa er ekki einvörðungu nauðsyn vegna loftslagsmarkmiðanna, heldur ekki síður til að spara gjaldeyri, þegar líklegt er, að verð á hráolíu verði yfir 100 USD/tunna á næstu árum m.a. vegna viðskiptabanns Vesturlanda á útlagaríkið Rússland, sem unnið hefur til þess að verða einangrað vegna grimmdarlegs og blóðugs yfirgangs við lýðræðislegan og fullvalda nágranna sinn.
Notendur afurðanna verða m.a. fiskiskip, flutningaskip, flutningabílar vöru og fólks og flugvélar. Stór markaður bíður þessarar verksmiðju, en hann mun opnast smátt og smátt vegna vélanna, sem í mörgum tilvikum þarfnast breytinga, enda ekki hannaðar fyrir þessar afurðir sem kjöreldsneyti fyrir hámarksnýtni og endingu.
"Sigurður segist í samtali við Morgunblaðið finna fyrir miklum áhuga og meðbyr. "Green Fuel mun framleiða vetni og ammoníak, sem bæði eru algerlega kolefnislaus í framleiðslu og notkun. Þessar 2 tegundir rafeldsneytis eru því lausn á loftslagsvanda heimsins og munu stuðla að því, að Ísland uppfylli ákvæði Parísarsamkomulagsins varðandi minnkun kolefnisútblásturs. T.d. væri það mikill kostur, ef kaupskipa- og fiskiskipaflotinn næði að skipta út dísilolíu [og flotaolíu - innsk. BJo] yfir í rafeldsneyti", segir Sigurður.
Ammóníakið, sem Green Fuel hyggst framleiða, myndi duga til að knýja þriðjung íslenzka fiskiskipaflotans að sögn Sigurðar. Auk þess mun Green Fuel framleiða vetni í fljótandi formi, sem er álitlegur orkugjafi [orkuberi - innsk. BJo] fyrir þungaflutninga og innanlandsflug á Íslandi."
Það er ekki bara kostur, heldur nauðsyn, að flotinn losi sig úr viðjum eldsneytisinnflutnings og verði um leið kolefnishlutlaus. Vetnið er grunnvaran fyrir allt rafeldsneyti. Til að færa það á vökvaform er vetnið sett undir háan þrýsting og jafnvel kælt líka. Þetta er orkukræft ferli, og minni hagsmunum verður einfaldlega að fórna fyrir meiri til að útvega "græna" raforku í verkið. Þokulúðrar á þingi á borð við Þórunni Sveinbjarnardóttur, þingkonu Samfylkingar, sem í pistli á leiðarasíðu Morgunblaðsins, sem gera þarf nánari skil á þessu vefsetri, bar brigður á það, að virkja þyrfti meira til að vinna bug á raforkuskorti í landinu, reyna sitt til að leggja steina í götu eðlilegrar iðnþróunar í landinu. Forstjóri Landsvirkjunar játar, að raforkueftirspurn í landinu sé nú meiri en raforkuframboðið, í greinarstúfi í Fréttablaðinu 1. júní 2022, en samt situr Orkustofnun á leyfisumsókn fyrirtækis hans um Hvammsvirkjun síðan fyrir um ári, og hann kvartar ekki mikið undan silakeppshættinum opinberlega. Það hvílir ótrúlegur doði yfir stjórnsýslunni í landinu á ögurstund.
"Stefnt er að því að hefja framleiðsluna á Bakka árið 2025, ef samningar ganga eftir. Um er að ræða um 30 MW raforkuþörf [aflþörf - innsk. BJo] í fyrsta áfanga , en 70 MW til viðbótar í seinni áfanga."
Þetta eru alls 100 MW, sem ætti að vera unnt að útvega úr jarðgufugeymum Þingeyinga, en er Landsvirkjun tilbúin í stækkun Þeistareykja og Kröflu ? Lok fréttarinnar hljóðuðu þannig:
"Spurður um helztu magntölur segir Sigurður, að þegar báðir áfangar verði komnir í gagnið [orkunotkun um 800 GWh/ár - innsk. BJo], verði framleiðslan um 105 kt/ár eða 300 t/d af ammóníaki.
Störfin segir Sigurður, að muni skipta tugum, þó [að] of snemmt sé að fullyrða um endanlega tölu. "Verksmiðjan kemur með atvinnu inn á svæðið, bæði í verksmiðjunni sjálfri og hjá þjónustufyrirtæjum í nærumhverfinu", segir Sigurður að lokum."
Hér er örugglega um þjóðhagslega arðsamt fyrirtæki að ræða og mjög líklega um rekstrarlega arðsamt fyrirtæki að ræða, þegar hráolíutunnan er komin vel yfir USD 100, eins og nú. Þess vegna þarf að fara að hefjast handa, en orkuskortur hamlar. Það er næg orka í gufuforðageymum Þeistareykja og Kröflu, og skýtur skökku við, að Landsvirkjun skuli ekki hafa brugðizt betur við og boðað stækkun þessara virkjana. Ekki er ráð, nema í tíma sé tekið, þegar málsmeðferðartími opinberra leyfisveitenda er annars vegar. Það liggja víða dragbítar framfara á fleti fyrir.
27.5.2022 | 21:12
Orkan er undirstaða hagkerfanna
Vegna stríðs í Evrópu herjar orkuskortur víðast hvar í álfunni vestan Rússlands með Ísland og Noreg sem undantekningu. Á fyrsta degi svívirðilegrar innrásar Rússa í Úkraínu voru allar raforkutengingar Úkraínu við Rússland rofnar og landið fasað saman við stofnkerfi Evrópu. Í framtíðinni er líklegt, að Úkraína muni selja "kolefnisfría" raforku til Evrópusambandsins. Rússar hafa rofið raforkuflutninga sína til Finnlands í refsingarskyni fyrir, að Finnar hafa gefið hlutleysisstefnu sína upp á bátinn og óskað eftir inngöngu í varnarbandalagið NATO. Svíar hafa hlaupið í skarðið með að sögn 10 % af finnsku raforkuþörfinni, en eru varla aflögufærir að vetrarlagi vegna lokunar nokkurra kjarnorkuvera sinna. Evrópusambandslöndin hafa lokað á innflutning kola frá Rússlandi og ræða að binda endi á olíuinnflutning þaðan. Að draga úr eldsneytisgasinnflutningi frá Rússlandi er kappsmál margra, en Rússar hafa nú þegar lokað á gasflutning til Póllands og Búlgaríu, af því að ríkisstjórnir þessara landa bönnuðu greiðslur með rúblum. Evrópusambandslöndin stefna á að stöðva öll orkukaup frá Rússum. Í Úkraínu er eldsneytisgas í jörðu, og líklega verður borað þar og öflugar lagnir lagðar til vesturs og tengdar inn á gasstofnlagnir í ESB.
Vegna orkuskorts og mjög mikillar hækkunar orkuverðs í Evrópusambandinu, ESB, siglir sambandið inn í efnahagskreppu vegna minnkandi framleiðslu, enda falla hlutabréf nú ískyggilega. Ef lokað verður senn fyrir rússneska olíu til ESB, spáir "die Bundesbank"-þýzki seðlabankinn yfir 5 % samdrætti hagkerfis Þýzkalands 2022, og hann gæti tvöfaldazt við lokun fyrir rússneskt gas. Bundesbank spáir mrdEUR 180 nettó tapi fyrir þýzka hagkerfið 2022, ef bráðlega verður hætt að kaupa gas af Rússum, sem hefur numið um 45 % af gasþörf Þýzkalands. Eystrasaltslöndin hafa hætt öllum orkukaupum af Rússum, og nú standa spjótin á Þjóðverjum fyrir slælegan hernaðarstuðning við Úkraínumenn og fyrir það að fjármagna tortímingarstríð Putins, alvald Rússlands, með gaskaupum á gríðarháu verði.
Stuðningur Vesturveldanna við Úkraínu frá 24.02.2022 nemur í fjármunum aðeins broti af þessari þýzku tapsfjárhæð. Hún sýnir í hvílíkt óefni Þjóðverjar hafa stefnt efnahag sínum með því að flytja allt að 45 % af gasþörf sinni frá Rússlandi eða tæplega 43 mrdm3/ár. Þeir hafa vanrækt aðrar leiðir, af því að þær eru dýrari, en verða nú að bregðast við skelfilegri stöðu með því að setja upp móttökustöðvar fyrir LNG (jarðgas á vökvaformi) í höfnum sínum og flytja það inn frá Persaflóaríkjunum og Bandaríkjunum (BNA) með tankskipum. Nú stóreykst gasvinnsla með leirsteinsbroti í BNA, og Norðmenn framleiða sem mest þeir mega úr sínum neðansjávarlindum úti fyrir norðanverðum Noregi, en Norðursjávarlindir þeirra, Dana, Hollendinga og Breta, gefa nú orðið lítið.
Þessi efnahagskreppa í ESB og á Bretlandi af völdum orkuskorts er þegar farin að valda verri lífskjörum í Evrópu (Noregur meðtalinn vegna innflutnings á evrópsku raforkuverði til Noregs sunnan Dovre). Á Íslandi hefur eldsneytisverð hækkað gríðarlega og matvælaverð og áburðarverð líka, svo að ekki sé talað um hörmungarástandið á fasteignamarkaðinum af innlendum ástæðum (kreddum). Nautakjötsframleiðendur á Íslandi sjá sína sæng út breidda við þessar aðstæður. Í nafni matvælaöryggis verður ríkisvaldið að grípa inn með neyðarráðstöfunum á innflutningshlið (minnkun innflutnings, tollar), svo að bændur geti forðazt taprekstur og flosni þá ekki upp af búum sínum.
Verðbólgan rýrir lífskjör almennings, en að auka launakostnað fyrirtækja á hverja unna klukkustund umfram framleiðniaukningu til að vega upp á móti rýrnandi kaupmætti virkar einfaldlega sem olía á eld verðbólgunnar.
Á Íslandi er þó allt annað uppi á teninginum í orkulegum og efnahagslegum efnum en erlendis. Það er að vísu raforkuskortur í boði afturhalds, sem ber fyrir sig umhverfisvernd, sem er reist á geðþótta hins sama afturhalds, en ekki á staðlaðri kostnaðar- og ábatagreiningu virkjunarkosta. Það verður bæði að virkja og vernda, svo að þetta er val og lempni er þörf. Í ljósi aðstæðna í heiminum er það siðferðislega og fjárhagslega óverjandi að standa gegn nánast öllum framfaramálum á orkusviðinu hérlendis, sem auðvitað kyrkir möguleika landsmanna til orkuskipta á þeim hraða, sem stjórnvöld dreymir um.
Þann 27. apríl 2022 birtist í Morgunblaðinu baksviðsfrétt, sem varpar ljósi á eina hlið þessa stórmáls. Fyrirsögnin var dæmigerð um ástandið:
"Ekki næg raforka til að knýja orkuskiptin".
Hún hófst þannig:
"Um ein milljón lítra af olíu er flutt til landsins á hverju ári [þetta er 3 stærðargráðum minna en í raun - innsk. BJo]. Það er ígildi allrar orkuvinnslu Landsvirkjunar í dag. [Orkuinnihald þessarar olíu er um 11,1 TWh/ár, en nýtanlegt orkuinnihald er aðeins um 4 TWh/ár. Raforkuvinnsla Landsvirkjunar (nýtanleg) er um 14 TWh/ár, svo að í raun nemur olíuinnflutningurinn aðeins tæplega 30 % af orkuvinnslu Landsvirkjunar - innsk. BJo.] Í umsögn um drög að stefnu stjórnvalda um orkuskipti í flugi bendir fyrirtækið [Landsvirkjun] á, að ekki sé næg raforka til í landinu til að knýja orkuskipti í samgöngum, og það krefjist margra ára undirbúnings og framkvæmdatíma.
Innviðaráðuneytið kynnti á dögunum í samráðsgátt stjórnvalda drög að stefnu og aðgerðaáætlun um orkuskipti í flugi á Íslandi. Grundvallast hún á tillögum nefndar, sem falið var þetta verkefni. Á [m]eðal þess, sem lagt er til, er, að kannaður verði möguleiki á samstarfi við framleiðendur nýrra flugvéla með það að markmiði, að Ísland verði vettvangur prófana á nýrri tækni í flugi. Lagt er til, að unnið verði að því, að allt innanlandsflug verði knúið með endurnýjanlegu eldsneyti fyrir árið 2040. Einnig, að stuðlað verði að uppbyggingu innviða fyrir slíkt eldsneyti á flugvöllum, svo [að] nokkuð sé nefnt."
Miklu skiptir að velja fjárhagslega öflugan samstarfsaðila á sviði tækniþróunar, til að þetta gangi eftir. Það liggur ennfremur beint við, að græna flugvélaeldsneytið, hvert sem það verður, verði framleitt á Íslandi. Það er líklegt, að hið nýja eldsneyti muni innihalda vetni, og þess vegna þarf að koma hérlendis á laggirnar vetnisverksmiðju. Samkeppnishæfnin er háð stærð verksmiðjunnar, og þess vegna er ekki úr vegi að fá vetni í flugvélaeldsneyti og flutningabíla- og vinnuvélaeldsneyti frá verksmiðjunni, sem framleiða á vetni fyrir nýja hérlenda áburðarverksmiðju, en Úkraínustríðið hefur valdið miklum verðhækkunum á áburði, sem enginn veit, hvort eða hvenær gangi til baka vegna viðskiptabanns á útlagaríkið Rússland.
"Í þessu samhengi má minna á, að í uppfærðri orkuspá frá síðasta ári [2021] er sem fyrr ekki gert ráð fyrir raforkuþörf vegna framleiðslu á rafeldsneyti fyrir orkuskipti í flugi. Það er rökstutt með óvissu um það, hvaða tegund rafeldsneytis verði ríkjandi, hvort það verði innflutt eða framleitt innanlands, og hver raforkuþörfin til framleiðslu rafeldsneytis verður, verði það framleitt innanlands. Starfshópur um stöðu og áskoranir í orkumálum benti á það í skýrslu, sem út kom í síðasta mánuði [marz 2022], að til þess að ná fullum orkuskiptum m.a. í flugi og áframhaldandi hagvexti, þyrfti að tvöfalda núverandi orkuframleiðslu í landinu og rúmlega það."
Það er villandi á þessu umbreytingaskeiði á orkusviði, að Orkuspárnefnd sé með vífilengjur, dragi lappirnar og láti líta út fyrir, að orkuvinnsluþörfin sé minni en hún er m.v. áform stjórnvalda í orkuskiptum. Nú verður hún einfaldlega að styðjast við útreikninga starfshóps um stöðu og áskoranir í orkumálum um raforkuþörf innanlandsflugsins og láta hana hefjast árið 2025 og stíga síðan línulega í 15 ár, þar til fullri þörf er náð. Þessi orkuskipti munu tryggja stöðu innanlandsflugsins til langrar framtíðar, og miðstöð þess í Vatnsmýrinni í Reykjavík á ríkisvaldið að tryggja. Útúrboruleg sérvizka einstakra pólitíkusa í Reykjavík verður að víkja fyrir meiri hagsmunum í þessum efnum.
"Þess vegna sé mikilvægt að horfa til annarra áætlana stjórnvalda, sem hafa áhrif á orkuöflun, s.s. heildarendurskoðunar á rammaáætlun og leyfisferlis virkjana og stækkunarverkefna þeirra. Sérstaklega verði horft til leyfisferla vindorkukosta.
Einnig sé mikilvægt að huga að því, að aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum nái í dag ekki yfir það, sem gera þarf til að ná fram þjóðfélagi án jarðefnaeldsneytis árið 2040 - og þar með orkusjálfstæði landsins."
Á þetta hefur verið bent á þessu vefsetri. Téð aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar stendur ekki undir nafni. Nú hefur loftslags-, orku- og umhverfisráðherra lagt fyrir þingið frumvarp um að létta virkjanafyrirtækjum róðurinn við stækkun virkjana í rekstri. Komið hafa fram mótbárur við þetta frumvarp, sem reistar eru á ágizkunum og vænisýki, algerlega í anda tilfinningaþrungins afturhalds í landinu, sem gerir allt til að kynda undir ranghugmyndum um óafturkræft náttúrutjón af mannavöldum og leggja stein í götu orkuframkvæmda í landinu. Fái þau ráðið, verða orkuskiptin hérlendis í skötulíki og hagvöxtur ófullnægjandi fyrir vaxandi þjóð. Það yrði hörmuleg niðurstaða m.v. möguleikana, sem landið býður íbúum sínum upp á, ef skynsemi og bezta tækni fá að ráða för.
Morgunblaðið gerði í baksviðsfrétt 17. maí 2022 grein fyrir þessu undir fyrirsögninni:
"Telja, að horft sé til Kjalölduveitu".
Fréttin hófst þannig:
"Náttúruverndarsamtökin Náttúrugrið telja ekki unnt að rökstyðja aflaukningu þriggja virkjana Landsvirkjunar á Þjórsár-Tungnaár svæðinu, sem gert er ráð fyrir í stjórnarfrumvarpi, að verði heimiluð án þess að fara í gegn um rammaáætlun. Telja félagasamtökin, að sú viðbót við orkuframleiðslu, sem fengist, sé allt of lítil til að standa undir fjárfestingunni. Þess vegna telja þau, að það hangi á spýtunni hjá Landsvirkjun, að samhliða yrði farið í Kjalölduveitu úr Þjórsá."
Þessi málflutningur er reistur á sandi. Þessi áform Landsvirkjunar má skýra í ljósi skortstöðu afls og orku, sem blasir við á næstu 5 árum, þar til meðalstór virkjun (Hvammsvirkjun) tekur til starfa 2027, og er afleiðing athafnaleysis virkjanafyrirtækja og sofandaháttar yfirvalda. Viðbót afl- og orkugetu af þessu tagi við þessar aðstæður er miklu verðmætari en nemur verðinu, sem Landsvirkjun fær núna fyrir afl og orku, því að hún getur komið í veg fyrir afl- og orkuskerðingu, sem kostar viðskiptavinina 10-1000 sinnum meira en núverandi verð á þessari þjónustu. Þar að auki má benda á, að Landsvirkjun væntir aukins vatnsrennslis næstu áratugina vegna hlýinda og meiri úrkomu. Aukið vatnsrennsli hefur þó ekki verið áberandi enn þá.
Landsvirkjun óskar eftir að fá að stækka 3 virkjanir án umhverfismats, Hrauneyjar, Sigöldu og Vatnsfell, um 210 MW (47 % aukning) og býst við að fá út úr því aðeins um 34 GWh/ár (1,3 % aukning). Þessi litla aukning orkuvinnslugetu sýnir, hversu fáránleg þau rök fyrir raforkuútflutningi um sæstreng héðan voru, að þessi útflutningur gerði kleift að nýta allt vatn, sem að virkjununum (Þórisvatni) bærist. Á það var bent á þessu vefsetri, að þessi aukning væri allt of lítil til að geta staðið undir viðskiptum um sæstreng. Þá var reyndar hugmynd Landsvirkjunar að nota aflaukninguna til að selja afl til útlanda á háálagstímanum og flytja inn orku á lágálagstíma. Þetta afl er svo lítið á erlendan mælikvarða, að hæpið er, að nokkur áhugi sé á slíkum viðskiptum og áfram hæpið, að langur og dýr sæstrengur geti reynzt arðbær með svo lítilli notkun.
22.5.2022 | 12:09
Sleggjudómar stjórnarandstöðu hafa orðið henni til skammar
Lögmannsstofa hefur hrakið tilhæfulausar aðdróttanir nokkurra stjórnarandstöðuþingmanna og fjölmiðlunga um brot Bankasýslu ríkisins á jafnræðisreglu laga um sölu ríkiseigna. Þar með er botninn hruninn úr innantómu glamrinu, sem tröllreið Alþingi og fjölmiðlum, ekki sízt RÚV "okkar allra", þar sem reglur um óhlutdræga umfjöllun fréttaefnis voru þverbrotnar og glott við tönn um leið. Ósvífnin og faglegt metnaðarleysi fréttamanna reið ekki við einteyming. Skyldu þeir hafa gengið þannig fram, ef hvarflað hefði að þeim, að þessi ósvífni áróður þeirra mundi helzt verða vatn á myllu Framsóknarflokksins ? Enn einn afleikur vinstri slagsíðunnar ?
Þann 18. maí 2022 birtist í ViðskiptaMogganum frétt um skýrslu lögmannsþjónustu um málsmeðferð Bankasýslunnar undir fyrirsögninni:
"Salan í samræmi við jafnræðisreglu".
Fréttin hófst þannig:
"Ákvörðun Bankasýslu ríkisins um að takmarka þátttöku í útboði á 22,5 % hlut ríkisins í Íslandsbanka við hæfa fjárfesta án viðbótar skilyrðis um lágmarkstilboð fól ekki í sér brot gegn jafnræðisreglu [í skilningi laga um sölu ríkiseigna - innsk. BJo]. Auk þess voru fullnægjandi ráðstafanir gerðar af hálfu Bankasýslunnar til að tryggja jafnt aðgengi hæfra fjárfesta að útboðinu.
Þetta er niðurstaða í lögfræðiáliti, sem Logos lögmannsþjónusta vann fyrir Bankasýsluna. ViðskiptaMoggi hefur álitið undir höndum."
Það er mikilsvert að fá þetta lögfræðiálit nú, því að það staðfestir, að lætin og moldviðrið fyrir kosningarnar út af þessari sölu voru farsi af ómerkilegustu gerð, þar sem þátttakendurnir hafa nú orðið að gjalti. Það verður fróðlegt að bera þetta lögfræðiálit saman við skýrslu Ríkisendurskoðunar. Niðurstaða Seðlabanka á líka eftir að birtast. Stjórnarandstaðan mun ekki ríða feitu hrossi frá þessari viðureign.
"Því hefur verið haldið fram í þjóðfélagsumræðu, m.a. af þingmönnum, að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu í útboðinu. Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði m.a. í grein í Morgunblaðinu í byrjun maí [2022], að framkvæmd sölunnar hafi verið brot á jafnræðisreglu laga um sölumeðferð ríkis í fjármálafyrirtækjum. Aðrir þingmenn hafa talað á sambærilegum nótum, og vart þarf að rifja upp þá gagnrýni, sem varpað hefur verið fram í kjölfar sölunnar, en hún beinist annars vegar að Bankasýslunni og starfsaðferðum hennar við útboðið, en ekki síður að stjórnmálamönnum og þá sérstaklega Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsmálaráðherra."
Téður þingmaður, Helga Vala, mun vera lögfræðingur að mennt og svo er um fleiri, sem tjáð hafa sig digurbarkalega um þetta mál og fellt sleggjudóma. Þau hafa nú sýnt, að það er ekkert meira að marka þau um lögfræðileg álitaefna í pólitíkinni en hvern annan skussa á þingi eða á fjölmiðlunum. Fjöldi manns hefur gjaldfellt sig með sleggjudómum, en ráðherrann stendur keikur eftir með hreinan skjöld. Hann mismunaði engum, sem þýðir, að hann dró heldur ekki taum neins, eins og lágkúrulegir gagnrýnendur fullyrtu þó.
"Í beiðni Bankasýslunnar var Logos falið að svara þremur spurningum:
1) Hvort skilyrði um að takmarka þátttöku í útboðinu við hæfa fjárfesta án skilyrðis um lágmarkstilboð hafi falið í sér brot gegn jafnræðisreglu;
2) Hvort fullnægjandi ráðstafanir hafi verið gerðar af hálfu Bankasýslu ríkisins til að tryggja aðgengi hæfra fjárfesta að útboðinu og
3) Hvort ákvörðun um að skerða að fullu tilboð tveggja fjárfesta hafi verið andstæð jafnræðisreglu.
Sem fyrr segir kemst Logos að þeirri niðurstöðu, að ákvörðun um að takmarka þátttöku í útboðinu við hæfa fjárfesta án viðbótar skilyrðis um lágmarkstilboð hafi ekki falið í sér brot gegn jafnræðisreglu. Þá telur Logos, að fullnægjandi ráðstafanir hafi verið gerðar af hálfu Bankasýslunnar til að tryggja jafnt aðgengi hæfra fjárfesta að útboðinu í lagalegu tilliti og að ákvörðun Bankasýslunnar um að skerða að fullu tilboð tveggja fjárfesta hafi stuðzt við málefnaleg sjónarmið og verið í samræmi við jafnræðisreglu."
Upphrópanir og dylgjur ýmissa þingmanna og fjölmiðlunga af ódýrari endanum falla þar með dauð og ómerk, því að líklegt má telja, að Ríkisendurskoðun verði sama sinnis. Eins og sést af niðurlagi fréttarinnar, sem birt er hér að neðan, falla svigurmæli sömu aðila í garð fjármála- og efnahagsráðherra sömuleiðis niður dauð og ómerk, og kemur það höfundi þessa vefpistils ekki á óvart, enda hefur verið borðleggjandi frá upphafi, að hér væri á ferðinni stormur í vatnsglasi að undirlagi manna lítilla sæva og lítilla sanda, sem ættu að skammast sín, ef þeir kynnu það:
"Þá er einnig farið yfir aðkomu fjármálaráðherra að málinu og ákvörðun um söluna að loknu útboði, og er það niðurstaða Logos, að það [hún] hafi verið í samræmi við stjórnsýslulög og góðar venjur."
Don Kíkóti Alþingis er ekki ánægður með þessa niðurstöðu, heldur sezt niður í fýlukasti og skrifar samhengislausan pistil í Moggann 19.05.2022 með fyrirsögn, sem sýnir, að hann heyrir bara í sjálfum sér:
"Að gelta og gjamma".
Björn Leví Gunnarsson skrifar m.a.:
"Já, það er áhugavert að vera kallaður hælbítur fyrir að finnast það ámælisvert, að enginn axli ábyrgð á þessum málum [sölu á 22,5 % hlut í Íslandsbanka - innsk. BJo]. Að vera sakaður um að dreifa áróðri fyrir að benda á spillinguna."
Þarna krystallast hundalógikk Píratans. Hann gefur sér fyrirfram, að um saknæmt athæfi sé að ræða, og rótar síðan og bölsótast eins og naut í flagi og heimtar, að þeir sem hann af fullkomnu dómgreindarleysi sínu er búinn að klína sök á, axli ábyrgð. Svona málflutningur eru ær og kýr þessa Pírata og fleiri á Alþingi og á fjölmiðlum, sem virðast aldrei hafa þroskazt upp fyrir sandkassastigið, með fullri virðingu fyrir því þroskaskeiði, sem er bæði skemmtilegt og gefandi, en verður ámáttlegt fyrir þá einstaklinga, sem festast í því.
11.5.2022 | 10:30
Stríð valda verðbólgu
Framleiðsla Úkraínu hefur lamazt vegna nýlendustríðs Rússa, sem telja sig eiga tilkall til þessa auðuga lands af náttúrunnar hálfu, þvert á alþjóðalög, en Úkraína er fullvalda ríki, og íbúarnir hafa einfaldlega fengið sig fullsadda af nýlendukúgurunum í austri og vilja ekkert frekar en reka þá af höndum sér út fyrir landamærin. Nýlendukúgarinn hefur augastað á fleiri fyrrverandi nýlendum sínum í Evrópu. Þetta er fornfálegt og óverjandi viðhorf á 21. öldinni, en minnir á stríð Breta við Bandaríkjamenn 1812, þegar Bretakóngur reyndi að endurheimta nýlendurnar með vopnavaldi.
Kínaforseti beitir tröllheimskulegum aðferðum við að fást við kórónaveiruna SARS-CoV-2, þ.e. lokunum heilla borgarhluta. Þetta tefur aðeins fyrir veirunni, en hún verður að hafa sinn gang, og staðan lagast ekkert fyrr en hjarðónæmi hefur verið náð, því að kínversku bóluefnin gefast ekkert betur en þau vestrænu frá Pfizer/BioNTech, Moderna og Astra Zeneca. Allt er það húmbúkk til að græða á óttanum og örvæntingunni, sem í flestum tilvikum var jafnástæðulaus og ótti við inflúensu. Hún getur drepið, en dánarhlutfallið er lágt. Bezta mótvægisaðgerðin er að hlaða vítamínum inn í líkamann.
Efnahagslegar afleiðingar sóttvarnaaðgerða Kínaforseta, sem leitar endurkjörs á flokkþingi Kommúnistaflokksins í haust, eru svo slæmar, að hagvöxtur í Kína gæti hrapað niður í 0 árið 2022. Fyrir vikið er minni orkunotkun í Kína nú en undanfarin ár, sem dregur úr verðhækkunum jarðefnaeldsneytis.
Eldsneytisverðhækkanir knýja verðbólguna upp í methæðir, en þær eiga eftir að verða meiri. Nú hefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) lagt til við ráðherraráð sambandsins að draga strax úr olíuinnflutningi frá Rússlandi og binda endi á hann fyrir árslok 2022 með fáeinum undantekningum (Ungverjaland o.fl.), en áður hefur kolainnflutningur verið bannaður þaðan. Þetta mun valda nýjum hækkunum á olíuvörum, ef samþykkt verður. Þýzkaland greiðir Rússlandi núna 116 MEUR/dag (tæplega 16 mrdISK/dag) fyrir vörur, sem er hærri upphæð en fyrir svívirðilega innrás Rússahers í Úkraínu. Þetta gerist þrátt fyrir víðtækt viðskiptabann. Eldsneytisverðhækkanir vegna stríðsins meira en vega upp á móti skerðingu eða afnámi annars innflutnings. Sú staða, sem Þýzkaland hefur komið sér í með sífelldu smjaðri og friðþægingu gagnvart útþenslusömum nýlendukúgara, er algerlega óviðunandi fyrir landið og bandamenn þess. Þýzkaland verður enn á ný að færa fórnir í stríði við Rússland. Nýbirtar upplýsingar þýzka stjórnarráðsins um afstöðu Kohls, kanzlara, og Genschers, utanríkisráðherra, bera vitni um skaðlegan undirlægjuhátt þýzkra stjórnvalda gagnvart rússneskum stjórnvöldum, þar sem þeir m.a. lögðust gegn því að samþykkja inntökubeiðni Eystrasaltsríkjanna í NATO. Þjóðverjarnir misreiknuðu Rússa herfilega. Friðsamlega sambúð við hina síðar nefndu er ekki unnt að reisa á viðskiptum, heldur einvörðungu fælingarmætti, sem felst í varnargetu. Það er rétt, sem Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, segir: ef Úkraínu hefði að eigin ósk verið hleypt inn í NATO 2008, þá væru ekki stórfelld hernaðarátök í Evrópu núna, og siðblindur, veruleikafirrtur einvaldur í Kreml hótandi kjarnorkuárásum, þar sem hvorki gengur né rekur hjá rotnum rússneskum her í Úkraínu.
Það er eðlilega víða meiri verðbólga en á Íslandi, því að hérlendis er aðeins um 15 % heildarorkunotkunar úr jarðefnaeldsneyti, en þetta hlutfall er víðast yfir 70 %. T.d. spáir Englandsbanki nú 10 % verðbólgu á Bretlandi í árslok 2022, en hún muni síðan fljótlega hjaðna. Bankinn hækkaði stýrivexti sína um þriðjung, úr 0,75 % í 1,00 %, um sama leyti og Seðlabanki Íslands hækkaði sína stýrivexti um rúmlega þriðjung, úr 2,75 % í 3,75 %. Til þess erum við með sjálfstæða mynt, að vaxtastigið dragi dám af efnahags- og atvinnuástandinu á Íslandi, en ekki t.d. af vegnu meðaltali á evrusvæðinu. Þar er verðbólga og atvinnuástand nú með mjög mismunandi hætti, og vaxtastig evrubankans í Frankfurt hlýtur að koma mörgum ESB-ríkjum illa. Verðbólgan er t.d. yfir 10 % í Hollandi, af því að vaxtastigið er allt of lágt m.v. efnahagsstöðuna þar, og Þjóðverjum, með sinn mikla sparnað, er ekki skemmt með háa neikvæða raunvexti í Þýzkalandi, af því að þýzk viðhorf til peningamálastjórnunar hljóta ekki brautargengi um þessar mundir í bankaráði evrubankans í Frankfurt, enda Frakki bankastjóri.
Morgunblaðið fjallaði um verðbólguna innanlands og utan í leiðara 5. maí 2022, sem hét:
"Verðbólga á uppleið".
Hann hófst þannig:
"Verðbólga er komin á kreik hér á landi og er einnig farin að láta á sér kræla í löndunum í kringum okkur, sums staðar, svo [að] um munar. Á Spáni [evruland] jaðrar verðbólgan við 10 %, og Pólverjar eru þar skammt frá. Verðbólga mældist í marz [2022] 8,5 % í Bandaríkjunum og á evrusvæðinu 7,4 %. Ísland var þar rétt fyrir neðan með 6,7 %, en ekki má miklu muna. Reyndar mældist verðbólgan hér á landi 7,2 % í apríl [2022]."
Sá er munurinn á Íslandi og þessum upp töldu löndum og landsvæðum, að hagvöxturinn er hér þokkalegur og vaxandi, en kreppuhorfur víða annars staðar. Útflutningstekjurnar eru tiltölulega háar og líklega bæði hærri og meira vaxandi en innflutningskostnaður vegna metverðs á vörum málmiðnaðarins (stóriðju), hás fiskverðs (minna framboð vegna viðskiptabanns á Rússa) og útlits fyrir álíka marga erlenda ferðamenn og 2016, en þó betur borgandi (Asíubúa vantar að mestu). Viðskiptajöfnuður mun sennilega styrkjast á árinu, þrátt fyrir dýrari innflutning en áður og mikla ferðagleði Íslendinga erlendis (svipuð og rétt fyrir Kóf). Þess vegna mun gengið fremur styrkjast en hitt, sem hægir á verðbólgunni.
Það er hins vegar alveg bráðnauðsynlegt til að viðhalda samkeppnisstöðu Íslands, að verðbólgan hér sé ekki hærri en yfirleitt erlendis. Til þess verða allir að leggjast á eitt, og er þar verkalýðshreyfingin engin undantekning. Hún getur ekki spilað sóló. Orð formanns VR eftir stýrivaxtahækkun Seðlabankans í byrjun maí 2022 um, að hún væri stríðsyfirlýsing gegn verkalýðshreyfingunni, eru alveg eins og út úr kú, gjörsamlega óábyrg og órökstudd. Gera verður kröfu um, að verkalýðsleiðtogar setji sig vel inn í málin, kynni sér í þaula orsakir og afleiðingar verðbólgu og vaxta áður en þeir móta stefnuna í kjarasamningum og séu ekki bara eins og hverjir aðrir flautaþyrlar í pissukeppni um breiðastar yfirlýsingar og hæstu kröfugerðina. Slíkt er háskalegt, óábyrgt og heimskulegt framferði.
Áfram með leiðarann:
"En innri þrýstingur hefur einnig skapazt vegna ófremdarástands á húsnæðismarkaði. Húsnæði hefur hækkað jafnt og þétt í verði með tilheyrandi þrýstingi á vísitölu. Ein meginástæðan fyrir þessu ástandi er, hvernig húsnæðismál hafa verið látin reka á reiðanum í höfuðborginni. Þar annar framboðið engan veginn eftirspurninni, og þetta dáðleysi er beinlínis farið að hafa áhrif á þjóðarhag.
Tekizt hefur að halda verðbólgu í skefjum þrátt fyrir ástandið á húsnæðismarkaði, en nú, þegar ytri aðstæður hafa snúizt við, gætu þær reynzt æði dýrkeyptar."
Undirliggjandi skýring á dáðleysi meirihluta borgarstjórnar við að bregðast með raunhæfum hætti við fjölgun þjóðarinnar og brjóta nýtt land undir lóðir og gatnagerð er þráhyggjan við að þétta byggð meðfram fyrirhugaðri legu "þungu" borgarlínunnar. Þar er allt of fátt fólk búsett til að nokkur minnsti rekstrargrundvöllur geti orðið fyrir stórfjárfestingu af tagi "þungu" borgarlínunnar. Vonleysið verður algert, þegar í ljós kemur, að þéttingin dugar borgarlínunni ekki, þótt "þéttingin" verði svipt bílastæðum. Nú er áætlað minna en eitt bílastæði á íbúð þéttingarsvæða. Allt er þetta ráðabrugg kenjótts þráhyggjufólks fullkomlega óeðlilegt og stríðir gegn hagsmunum Reykvíkinga og landsmanna allra. Ríkið hefur yfrið nóg af öðrum hagkvæmari og nauðsynlegri samgönguverkefnum til að fjárfesta í en þetta og ætti alls ekki að taka þátt í fjármögnun þessa fráleita verkefnis.
"Hinar dökku verðbólguhorfur gefa einnig tilefni til þess að fara með gát, þegar kemur að næstu kjarasamningum. Þótt í síðustu tveimur samningum hafi tekizt að ná fram miklum kjarabótum og þær hafi haldið að mestu, er ekki þar með sagt, að komið sé fram nýtt lögmál um, að það sé ávallt hægt að hækka laun rækilega án þess að hækkunin hverfi í verðbólgu."
Þvergirðingar í forystu verkalýðshreyfingar láta eins og þeir geti stundað "business as usual" og þurfi ekki að draga saman seglin, þótt stríð geisi í Evrópu. Á þessum örlagatíma gengur ekki að láta kjánalega í kjarasamningum og gera landið ósamkeppnisfært í ferðageiranum og á erlendum vörumörkuðum. Þá mun atvinnuleysi bætast ofan á verðbólguvandræðin. Fíflagangur íslenzkra verkalýðsleiðtoga er einstæður á Norðurlöndunum og þótt víðar væri leitað. Þegar raunstýrivextir voru orðnir -4,5 %, æpti formaður VR að þjóðinni, að 1,0 % hækkun stýrivaxta væri stríðsyfirlýsing gegn verkalýðshreyfingunni og að aðrir seðlabankar væru ekki að hækka stýrivexti. Hvort tveggja var kolrangt, eins og æði margt hjá þessum manni, sem virðist hafa asklok fyrir himin.
Téðri forystugrein lauk þannig:
"Það er góðs viti, að verðbólga hér á landi sé enn undir meðaltali evrusvæðisins (og sýnir kannski enn akkinn af því að standa utan þess, þótt það sé önnur saga). Það er fyrir öllu, að svo verði áfram, og því þurfa allir að leggjast á árar til að freista þess að halda aftur af verðbólgunni eins og framast er unnt. Ógerningur er að hafa áhrif á þann þrýsting, sem kemur utan að, en það er mikið í húfi að sjá til þess, að þrýstingurinn inni í íslenzka hagkerfinu verði ekki til þess að bæta gráu ofan á svart."
Nú er stríð í Evrópu, og framvinda atburða getur orðið allt frá allsherjar tortímingu til friðsamlegra samskipta og enduruppbyggingar Úkraínu innan landamæra hennar, sem Rússar, Bandaríkjamenn og Bretar ábyrgðust með Búda-Pest-samkomulaginu 1994. Við þessar aðstæður láta verkalýðsleiðtogar í Evrópu hvergi eins og óð hænsni, nema á Íslandi, þótt verðbólgan sé þar hærri, orkuverðið óbærilega hátt og seðlabankar teknir að hækka stýrivextina. Hvers vegna ? Evrópskir verkalýðsleiðtogar stunda raunverulega hagsmunagæzlu fyrir sína skjólstæðinga og vita, hvað kemur þeim bezt, enda hafa þeir víða náð góðum árangri. Þar er ekki skylduaðild að verkalýðsfélögum, eins og í raun er hér. Ef launþegarnir fá ávæning af einhverjum pólitískum bægslagangi félagsleiðtoganna, þá segja þeir einfaldlega skilið við þessi félög. Íslenzkir verkalýðsleiðtogar hafa ekkert slíkt aðhald, og virðast sumir hverjir ekki hafa til að bera nægan þroska og ábyrgðartilfinningu til að fara með vald sitt, heldur eru komnir á bólakaf í pólitískan boðskap. Þetta er hrapallegt, því að þeir styðjast við mjög lítið fylgi í kosningum í sínar ábyrgðarstöður.