Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
18.9.2022 | 17:52
Misheppnaðir gjörningar í orkumálum
Stjórnmálamönnum er fullljóst, hvers konar lykilhlutverki frumorka hvers konar og raforkuvinnsla úr henni gegna í þjóðfélögum nútímans, en þeim eru þó mörgum hverjum mjög mislagðar hendur, þegar kemur að hlutverki þeirra sjálfra við mótun og framkvæmd orkustefnu fyrir sín samfélög. Að fjalla af viti um orkumál krefst þekkingar, sem er eðlilega ekki á allra færi, enda skripla þar margir á skötunni. Það er aðeins tvennt, sem hægt er með sanngirni að gera kröfu til stjórnmálamanna á Vesturlöndum, að þeir geri fyrir orkumál landa sinna:
(1) að tryggja heimilum og atvinnulífinu viðunandi orkuöryggi, þ.e. nægt orkuframboð til að fullnægja eftirspurn m.v. verð á hverjum tíma og (2) framboð frumorku sé nægt til að halda einingarverði orkunnar tiltölulegu stöðugu, t.d. sveiflur minni en +/- 30 % frá ársmeðaltali.
Það er öllum ljóst, að yfirvöldum í Evrópu hefur tekizt þetta hrapallega. Þeir settu á laggirnar markaðskerfi raforku, sem var ekki hannað fyrir frumorkuskort. Þvert á móti verður alltaf að vera nægt framboð frumorku, til að uppboðskerfi raforku, reist á jaðarkostnaðarreglu, virki. Nú er raforkuverð í Evrópu hátt yfir meðalkostnaði raforkuvinnslunnar, og þess vegna er mikill gróði hjá raforkuframleiðendum öðrum en gasorkuverum. Á meðal raforkusölufyrirtækja er hins vegar tap og getur blasað við gjaldþrot, þar sem selt hefur verið fram í tímann á gamla verðinu.
Samið var við einræðisríki, með ofbeldisfulla og árásargjarna sögu, um kaup á frumorku í miklum mæli án tiltækra varaleiða. Nú hefur þetta einræðisríki sýnt sitt rétta andlit og notfært sér stöðu sína á orkumarkaðinum í tilraun til að knýja fram vilja sinn á öðrum sviðum, þ.e. til að dregið verði úr refsiaðgerðum á þetta hryðjuverkaríki vegna villimannlegrar og óréttlætanlegrar innrásar í lýðræðislegt og friðsamlegt nágrannaríki. Einræðisríkið hefur reynt að búa til orkuskort í Evrópu. Þær tilraunir hafa enn ekki leitt til beins skorts, en verðið hefur margfaldazt á eldsneytisgasi, en er nú tekið að falla aftur á jarðolíu og jafnvel á jarðgasinu líka vegna aukins framboðs annarra og minni eftirspurnar frá Kína. Notendur hafa líka dregið úr notkun jarðgass, svo að betur gengur að safna vetrarbirgðum en óttazt var snemmsumars.
Þetta sýnir, hversu mikilvægt er, að yfirvöld og birgjar hafi vakandi auga fyrir áhættuþáttum á framboðshliðinni. Það er ekki nóg að stýra flutningskerfunum í smáatriðum og veita nákvæma forskrift um markaðssetningu orkunnar, í þessu tilviki um uppboðsmarkað í orkukauphöll, eins og Evrópusambandið (ESB) gerir með gölluðum hætti, ef framboðshliðin er vanrækt.
Þessi veikleiki á líka við um Ísland, þótt öðruvísi sé. Hér hafa stjórnmálamenn og embættismenn búið til stjórnkerfi, sem er með slíkum böggum hildar, að það hefur bæði búið til staðbundinn raforkuskort vegna úrelts flutningskerfis og tímabundinn heildar afl- og orkuskort vegna tregðu við að veita framkvæmdaleyfi. Að þetta skuli gerast í orkuríkasta landi Evrópu frá náttúrunnar hendi m.v. fjölda íbúa, þar sem ætti að vera auðveldara að skapa gegnsætt og skilvirkt stjórnkerfi en annars staðar vegna fámennis, er sorgarsaga. Það er mjög fátt, ef nokkuð, sem virðist ganga hnökralaust, þar sem stjórnmálamenn og embættismenn eru í aðalhlutverkum.
Það er þess vegna mikilvægt stefnumál að einfalda og straumlínulaga stjórnsýsluna og draga úr áhrifum embættismanna á þjóðfélagsstarfsemina á öllum sviðum, þar sem flöskuhálsar koma í ljós. Þetta er hægara sagt en gert, því að varðhundar kerfisins eru fjölmennir í pólitíkinni.
Þann 9. september 2022 gerðu Staksteinar Morgunblaðsins pistil Jóns Magnússonar, lögmanns, um orkumálin skil undir fyrirsögninni:
"Kuldaleg örbirgð".
"Stjórnmálastétt Evrópu hefur um árabil hamazt við að loka orkuverum og stuðla að svo nefndum orkuskiptum til þess að koma í veg fyrir hlýnun af mannavöldum. Afleiðingin er hærra orkuverð til neytenda og heljartak Rússa á orkusölu."
Téð stjórnmálastétt hefur gert allt með öfugum klónum. Hún hefur tekið gríðarlega og óverjandi áhættu á framboðshliðinni, og í Evrópusambandinu hefur hún ekki gert neinar vitrænar og róttækar ráðstafanir, sem duga til að draga úr losun koltvíildis við orkuvinnslu og orkunotkun. Ráðstafanirnar, sem mundu duga Evrópumönnum í þessum efnum, er að reisa kjarnorkuver og loka kolaorkuverum, þegar framboð raforku er orðið nægt. Þess í stað hafa þeir fordæmt kjarnorkuna og lokað kjarnorkuverum. Allar stærstu gjörðir þeirra í orkumálum hafa gert illt verra, svo að engu er líkara en þessir stjórnmálamenn hafi einfaldlega verið strengjabrúður Pútíns, og að Angela Merkel hafi þar leikið aðalhlutverkið. Arfleifð hennar er afleit. Hún beitti sér t.d. fyrir banni Sambandsþingsins í Reichstag á gasvinnslu með vökvaþrýstingi neðanjarðar, sem Pútín laug að henni, að væri stórhættuleg, en engin dæmi voru þó um umhverfisslys af þessum völdum áður í Þýzkalandi. Græningjar sem ríkisstjórnarflokkur í Berlín eru nú að vinda ofan af hverri vitleysunni á fætur annarri í sinni stefnu, hvort sem um er að ræða skinhelgi í hermálum eða dellu í umhverfismálum. Þýzkalandi verður þó vart mörkuð leiðandi og lífvænleg framtíðarstefna fyrr en Friedrich Merz, formaður CDU, sem Merkel bolaði burt, tekur við keflinu í "Kanzleramt" í Berlín.
"Afleiðing af glórulausu ofstæki í orkumálum og hjátrú loftslagsbreytinga verður til þess, að í vetur verður helkuldi víða á heimilum í Evrópu, af því að fólk hefur ekki efni á að hita upp. Framleiðsla dregst saman og örbirgð eykst vegna minni þjóðarframleiðslu."
Ekki er líklegt, að þessi helkuldaspádómur á mörgum heimilum rætist vegna þess, að markaðskraftarnir eru fljótir að taka við sér. Bæði olíu- og gasverð fer nú lækkandi. Bretar o.fl. munu sennilega geta aukið gasvinnslu sína í haust og vetur að tilhlutan Liz Truss, enda til mikils að vinna. Þýzkum fyrirtækjum hefur á undraskömmum tíma tekizt að draga stórlega úr gasþörf sinni án þess, að komi niður að ráði á framleiðslunni. Afkomendum þeirra, sem héldu uppi fullri hergagnaframleiðslu fyrir Wehrmacht með allt í rúst ofanjarðar, er ekki fisjað saman. Tapararnir eru Moskvumenn, sem enn á ný sýna af sér arfaslaka herstjórn, misreiknuðu sig á öllum vígstöðvum og tókst ekki að knýja skjálfandi Evrópumenn á hnén núna með því að skrúfa fyrir eldsneytisgasið til þeirra. Með villimannlegum tilburðum sínum á öllum vígstöðvum hafa þeir bitið af sér beztu kúnnana um alla framtíð. Fyrir vikið bíður þeirra að lepja dauðann úr skel.
"Kaldhæðni örlaganna verður þá, að fjöldi þeirra, sem deyja úr kulda í Evrópu margfaldast vegna tilrauna stjórnmálastéttarinnar til að koma í veg fyrir, að fólk deyi úr hita. Því miður virðist íslenzka stjórnmálastéttin jafnlangt gengin í ruglandanum og sú evrópska og hefur skuldbundið þjóðina til að greiða milljarðatugi á næstu árum á grundvelli Parísarsamkomulagsins svo nefnda, sennilega af því að fólki finnst vera allt of hlýtt á Íslandi."
Kjarni þessa boðskapar er, að það er kolröng forgangsröðun á ferðinni í Evrópu allri í orkumálunum. Framboðshliðin hefur verið hundsuð. Það er skylda stjórnmálamanna í nútíma þjóðfélögum að sjá til þess, að jafnan sé til næg raforka og orka til upphitunar á viðráðanlegu verði fyrir alla borgarana og atvinnureksturinn. Inngrip stjórnmálamanna hafa verið þveröfug. Þeir hafa lagt frumorkuafhendinguna í hendur ofbeldisfulls einræðisherra, sem um langa hríð er búinn að láta í ljós opinberlega vitstola hugmyndir um nýlendustríð til að endurreisa kúgunarstöðu Rússa yfir öðrum Slövum og Eystrasaltsþjóðunum, jafnvel Finnum. Þeir hafa niðurgreitt raforku frá vindmyllum og sólarhlöðum, sem valda miklu álagi á náttúruna við öflun efna og þurfa stóran flöt á afleiningu og eru algerlega óáreiðanlegur aflgjafi. Þeir hafa útilokað þá gerð orkuvera, sem ein getur víðast hvar leyst orkuver knúin jarðefnaeldsneyti af hólmi, þ.e. kjarnorkuverin. Á Íslandi virðast þeir vera á góðri leið með að útiloka hagkvæmustu og umhverfisvænstu tæknina, þ.e. þá, sem felst í að beizla fallorku vatns. Allt, sem stjórnmálamenn hafa aðhafzt í orkumálum, er markað sérvizku og dómgreindarleysi.
Afleiðingin er sú, að hjakkað er í sama farinu varðandi losun gróðurhúsalofttegunda, orkuverðið í Evrópu er orðið svimandi hátt, og fleira fólk mun deyja úr kulda í vetur í Evrópu en dó af völdum hás hitastigs í sumar. Að Íslendingar skuli hafa verið skuldbundnir með jafnóábyrgum hætti og raun ber vitni um varðandi samdrátt losunar koltvíildis að viðlögðum þungum fésektum er til vitnis um, að ráðamenn eru á valdi sefasýkilegs áróðurs um heimsendi handan við hornið. Sá heimsendir kæmi ekki 5 mínútum fyrr, þótt Íslendingar ykju bara losun sína í samræmi við hagvöxt, því að það munar nánast ekkert um losunina innan lögsögu Íslands, enda er um 85 % orkunotkunarinnar úr umhverfisvænum orkulindum. Það leika ekki margar þjóðir eftir.
Þetta hrikalega sjálfskaparvíti meginlandsmanna og Breta í orkumálum er vatn á myllu þeirra Evrópumanna, sem framleiða allt sitt rafmagn án aðkomu jarðefnaeldsneytis, en það eru líklega bara frændþjóðirnar, Norðmenn og Íslendingar. Norðmenn sitja hins vegar með skeggið í póstkassanum, eins og þeir taka til orða sjálfir um þá, sem verður á í messunni, því að menn með þá pólitísku trú, að vist í fangi Evrópusambandsins sé frelsandi fyrir Norðmenn, börðu Stórþingið til hlýðni (þetta á aðallega við um Verkamannaflokkinn), svo að það samþykkti innleiðingu Orkupakka 3 í norka lagasafnið. Með því lét Stórþingið völdin yfir millilandaflutningum raforku til og frá Noregi í hendur ACER-Orkustofu ESB vitandi vits, því að margsinnis var varað við þessu í ræðu og riti innan þings og utan. Nú sitja íbúar Noregs, nema norðurhlutans, uppi með Svarta-Péturinn og u.þ.b. tífalt hærra raforkuverð en eðlilegt getur talizt m.v. aðstæður í Noregi, og ríkisstjórnin getur ekki ákveðið að hætta útflutninginum til að safna vetrarforða í miðlunarlónin vegna OP3. Ola Nordmann og Kari eru ekki ánægð með þetta.
Í þessu orkuríka landi, Noregi, frá náttúrunnar hendi kemur þetta ástand líka niður á orkukræfum iðnaði, því að hann er ekki með langtímasamninga, sem spanna alla orkuþörf hans. Þannig er Norsk Hydro að draga saman seglin í áliðnaðinum í Noregi, og hefði það einhvern tímann þótt vera saga til næsta bæjar m.v. markaðstæður núna og markaðshorfur, þegar álver annars staðar án aðgangs að raforku frá vatnsorkuverum eru að leggja upp laupana eða a.m.k. að minnka umsvifin vegna þrúgandi hás orkuverðs. Stór hluti Mittelstand í Þýzkalandi, sem er samheiti eigenda smárra og meðalstórra iðnaðarfyrirtækja, oft fjölskyldufyrirtækja í nokkra ættliði á sérhæfðu sviði, segjast ekki lengur vera samkeppnishæfir á mörkuðum, því að þeir þurfi að borga tífalt hærra orkuverð en samkeppnisaðilar, t.d. í Bandaríkjunum. Grundvöllur atvinnulífs í ESB er að bresta með kreppu sem afleiðingu vegna algerlega misheppnaðrar orkustefnu Þýzkalands og ESB.
Þann 9. september 2022 birtist frétt með viðtali við Þórð Gunnarsson, hagfræðing, undir fyrirsögninni:
"Orkukreppan gæti kallað á lokun fleiri álvera í Evrópu".
Um þessa fyrirsögn má segja, að eins dauði er annars brauð (Eines Tot einem anderen Brot), því að bann við Rússaáli, tollur á Kínaál og stöðvun kerskála í Evrópu vegna hás orkuverðs ætti að skapa grundvöll fyrir meiri eftirspurn en framboð af áli og þar með hátt verð á því. Það skapar grundvöll til aukinna fjárfestinga hérlendis, góðs hagnaðar íslenzkra orkufyrirtækja og þar með ávöxtun eigendanna á eigin fé í orkuverunum.
Í fréttinni sagði m.a.:
"Haft var eftir Clive Moffatt, sérfræðingi í orkumálum, í viðtalsþætti Nigel Farage á GB News, að verkfræðingar hefðu verið boðaðir til fundar vegna áætlana um að hefja á ný raforkuframleiðslu úr kolum í Drax-raforkuverinu á Bretlandi.
Þórður [Gunnarsson, hagfræðingur] segir aðspurður, að heyrzt hafi óstaðfestar fréttir um slík áform, en taka muni nokkurn tíma að endurræsa kolaorkuverin. Þá sé til skoðunar að aflétta banni við vinnslu jarðgass með bergbroti í Bretlandi, en henni sé hægt að koma í gagnið á nokkrum mánuðum.
Að sama skapi sé til umræðu í Hollandi að hefja á ný vinnslu jarðgass úr Groningen-gaslindinni, en henni hafi verið hætt vegna loftslagsmála."
Það er grundvallar skilyrði, að forgangsraðað sé í þágu fólksins, en í orkumálunum fer því fjarri, að það hafi verið gert í Evrópu. Í fyrsta forgangi er að útvega næga raforku á viðráðanlegu verði fyrir almenning. Þess vegna verður núna að kveikja upp í öllum fáanlegum kötlum, sem knúið geta rafala, og jafnvel hitað vatn til upphitunar húsnæðis ásamt því að afla allrar fáanlegrar frumorku innanlands og þess, sem á vantar erlendis frá utan Rússlands, sem skrúfað getur hvenær sem er fyrir allar lagnir, sem það ræður yfir, til Vesturlanda, auk Nord Stream 1 og 2, sem eru lokaðar.
Fysta krafan er að hindra straumleysi, að gera fólki kleift að hita híbýli sín. Losun Evrópu á koltvíildi í fáein ár mun hvort sem er engum sköpum skipta um hlýnun jarðar. Stjórnmálamenn eru búnir að valda miklu tjóni með rangri forgangsröðun. Það er hægt að bæta birgðastöðu eldsneytisgass með því að leyfa aftur vinnslu þess á landi úr setlögum með því að beita vökvaþrýstingi neðanjarðar, en það var ein af vitleysum stjórnmálamanna á fyrstu tveimur áratugum þessarar aldar, t.d. Angelu Merkel, að banna þessa vinnslu vegna ímyndaðrar umhverfisvár, en aldrei hafði orðið nokkurt umhverfisslys af þessum völdum í Þýzkalandi. Það er eins og Merkel hafi gert sér leik að því að gera Þjóðverja berskjaldaða gagnvart Rússum, þegar þeim dytti í hug að loka fyrir gasið.
""Nýlega var samþykkt á Evrópuþinginu, að fjárfestingar í raforkuframleiðslu úr gasi flokkist sem grænar. Markmið í loftslagsmálum eru ekki efst á baugi núna, heldur snýst málið um, hvort fólk krókni úr kulda í vetur", segir Þórður."
Þarna lýsir Þórður Gunnarsson, hvert vitlaus forgangsröðun stjórnmálamanna í orkumálum hefur leitt Evrópubúa. Engir hafa eytt meira af skattpeningum íbúanna í niðurgreiðslur á raforku úr vindmyllum og sólarhlöðum. Nú, þegar hæst á að hóa, er ekkert hægt að reiða sig á þessar kjánalegu fjárfestingar. Áður en orkuver knúin jarðefnaeldsneyti eru lögð niður, verður að vera búið að reisa orkuver án koltvíildislosunar, sem geta tekið við, t.d. kjarnorkuver.
Að reiða sig á mikilvæga aðdrætti frá einræðisríki, sem hefðbundið hefur stundað nýlendukúgun í Evrópu, og var jafnvel með grimmilega árásarsögu á 21. öldinni fyrir 24. febrúar 2022, er svo mikil blindni og grafalvarlegur barnaskapur, að það er ekki einleikið, og hafa grunsemdir um fláræði vaknað af minna tilefni.
Hér á Íslandi hafa draumlyndir stjórnmálamenn skuldbundið þjóðina um minnkun losunar koltvíildis 2030, sem er óraunhæf með öllu án verulegrar kjaraskerðingar, en láta þó Orkustofnun komast upp með að láta útgáfu virkjanaleyfa, t.d. fyrir Hvammsvirkjun, dankast. Þegar kemur að orkumálum, nær framlag stjórnmálamanna ekki máli og veldur miklu samfélagslegu tjóni. Tvískinnungur og hræsni eru aldrei vænleg fyrir árangur í þágu fólksins í stjórnmálunum.
Að lokum stóð í þessari frétt:
"Spurður um stöðuna í Frakklandi segir Þórður, að vegna lítillar úrkomu hafi kjarnorkuver þar í landi verið keyrð með 30 %-40 % afköstum í sumar, enda hafi skort kælivatn fyrir kjarnakljúfana. Það hafi birzt í orkuverðinu í sumar, sem hafi oft og tíðum verið hærra en í Þýzkalandi.
"Ríki, eins og Frakkland og Þýzkaland, munu komast í gegnum þetta, en þurfa að borga mikið fyrir orkuna. Ef Rússar halda áfram að skrúfa fyrir gasið, er fátt, sem bendir til, að orkuverð muni lækka mikið [í Evrópu á næstunni], nema það verði meiri háttar kreppa og stórnotendur raforku stöðvi framleiðslu", segir Þórður."
Í Frakklandi er nú lögmál Murphys að verki, þ.e. það slæma, sem getur gerzt, gerist á versta tíma. Umfangsmikið fyrirbyggjandi viðhald eftir ástandsgreiningu margra kjarnorkuvera var ekki talið mega bíða. Á sama tíma hefur vatnsorkuverin skort vatn. Afleiðingin er sú ótrúlega staða, að raforkuverð í Frakklandi hefur um hríð verið hærra en í Þýzkalandi. Gallarnir sitja ekki uppi með græningja í ríkisstjórn, eins og nágrannarnir austan Rínar, og hafa þess vegna tekið þá rökréttu ákvörðun að setja kraft í að reisa um 6 ný kjarnorkuver, en slík vitræn ákvörðun vefst fyrir Germönum, sem hafa ekki einu sinni ákveðið að fresta lokun 3 síðustu kjarnorkuvera sinna. Öðru vísi mér áður brá. Neyðin mun þó kenna nakinni konu að spinna sem forðum.
15.9.2022 | 16:15
Orkupakki 4 í dvala
Það er að vonum á örlagatímum, þegar orkan í öllum sínum myndum er í brennidepli, að umræðan um Orkupakka 4 (OP4), nýjustu endurskoðun Evrópusambandsins (ESB) á orkulöggjöf sinni, hafi um sinn hafizt aftur í Noregi. Annar stjórnarflokkurinn, Senterpartiet (Sp-Miðflokkurinn) hefur nú samþykkt í flokksstofnunum sínum að leggjast gegn innleiðingu þessarar ESB-orkulöggjafar í norskan rétt. Þar með er loku fyrir það skotið, að núverandi ríkisstjórn Noregs muni samþykkja, að OP4 verði vakinn úr dvala á vettvangi EFTA, og þar með verður hann ekki tekinn á dagskrá Sameiginlegu EES-nefndarinnar, sem fjallar um alla löggjöf ESB, sem Sambandið vill, að EFTA-lönd EES-samningsins innleiði hjá sér.
Nú hefur hinn stjórnarflokkurinn, Verkamannaflokkurinn (Ap-Arbeiderpartiet), og aðrir flokkar á Stórþinginu, sem á sínum tíma greiddu götu OP3 inn í norskan rétt, áttað sig á því, að ekki eru öll 8 skilyrði þeirra fyrir að fallast á norska innleiðingu OP3 uppfyllt, eins og andstæðingar OP3 sögðu raunar fyrir um. Ap hélt því fram, að opinbert eignarhald á mörgum vænum virkjunum og Statnett, sem á allar millilandatengingarnar við Noreg, mundi duga til að varðveita stjórnunarrétt ríkisins á nýtingu orkulinda Noregs. Annað er nú komið á daginn.
Vatnsstaða miðlunarlóna austanverðs og sunnanverðs Noregs er svo lág núna m.v. árstíma, að samhljómur er á meðal stjórnmálamanna um, að nú sé brýnt fyrir Noreg að hætta að flytja raforku til útlanda, á meðan safnað sé vetrarforða í miðlunarlónin. Hvað gerist þá ? ACER-Orkustofa ESB neitar að láta stjórnun millilandaflutninganna af hendi, og ESA-Eftirlitsstofnun EFTA, sem á að fylgjast með framfylgd EES-samningsins í EFTA-löndunum, rýkur út með opinbera tilkynningu um, að yfirtaka norskra stjórnvalda á stjórnun orkuflutninga millilandatenginga muni verða túlkuð af ESA sem brot á EES-samninginum og muni framkalla alvarleg mótmæli frá ESA og, ef nauðsyn krefur, að norska ríkið verði dregið fyrir EFTA-dómstólinn til að svara fyrir gjörninginn.
Þessi hjálparvana staða norska ríkisins í orkumálum kemur á versta tíma fyrir stjórnmálaflokkana, sem studdu OP3 árið 2018, því að raforkuverðið hefur hækkað upp úr öllu valdi í framangreindum landshlutum, þar sem vatnsstaða miðlunarlónanna er bágborin og áhrifa millilandastrengjanna gætir á raforkumarkaðinn. Athuguð var staða miðlunarlóna í % af hámarksfyllingu 09.09.2022 og raforkuverð í ISK/kWh 10.09.2022:
- Austurlandið------67,1 %------57,6 ISK/kWh
- Suðurlandið-------50,3 %------57,6 ISK/kWh
- Vesturlandið------69,8 %------57,6 ISK/kWh
- Mið-Noregur-------83,1 %------15,5 ISK/kWh
- Norður-Nor--------92,0 %-------5,7 ISK/kWh
Lónfylling í Noregi í heild er aðeins 68,5 % og lækkandi, sem er ófullnægjandi forðastaða fyrir veturinn. Hún er lökust, þar sem áhrif hinna öflugu sæstrengja til útlanda eru mest, en verðáhrifa millilandatenginganna gætir alls staðar, nema í Norður-Noregi. Þar er lónsstaðan og heildsöluverð raforku á svipuðu róli og á Íslandi um þessar mundir.
Með hliðsjón af þessari reynslu Norðmanna er með eindæmum að hlýða á einn af framkvæmdastjórum Landsvirkjunar í kvöldfréttum RÚV 08.09.2022 halda því fram, að óljóst sé, hver verðáhrif millilandatengingar með aflsæstreng frá Bretlandi eða meginlandinu til Íslands yrðu hérlendis. Þau yrðu háð flutningsgetu millilandatengingarinnar og vatnsstöðunni hér, en t.d. 1000 MW sæstrengur mundi hafa róttæk áhrif á vatnsstöðu íslenzkra miðlunarlóna til hins verra í núverandi markaðsstöðu, því að nánast alltaf væri arðsamara út frá þröngum sjónarmiðum virkjanaeigenda að selja raforkuna utan en innanlands. Sá gjörningur yrði hins vegar ekki þjóðhagslega hagkvæmur, því að raforkuverðið hér mundi togast upp í áttina að verðinu erlendis, eins og reyndin er í Noregi, þar sem allt að tíföldun raforkuverðs er afleiðing millilandatenginganna um þessar mundir. Tíföldun raforkuútgjalda heimila og almennra fyrirtækja hefði skelfileg efnahagsáhrif hér og mundi stórskaða samkeppnisstöðu, sem þegar á í vök að verjast. Hlutverki Landsvirkjunar samkvæmt lögum um hana yrði þá bókstaflega snúið á haus. Það verður tafarlaust að gera þá lágmarkskröfu til stjórnenda Landsvirkjunar, að þeir mæti ekki ólesnir í tíma, heldur geri sér grein fyrir þessum sannindum, sem nú eru fyrir framan nefið á þeim í Noregi.
Á Íslandi er nú miklu meiri spurn eftir raforku en framboð, og þannig mun staðan fyrirsjáanlega verða allan þennan áratug. Þegar af þeirri ástæðu er tómt mál að tala um að tengja raforkukerfi landsins við útlönd. Hér þarf nú að bretta upp ermar og hefja virkjunarframkvæmdir, sem eitthvað munar um. Það er nóg af kaupendum, sem vilja greiða nógu hátt verð fyrir rafmagn til nýtingar á Íslandi, til að nánast allir virkjunarkostir hérlendis gætu verið afar afar arðsamir.
Viðskipti og fjármál | Breytt 16.9.2022 kl. 11:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.9.2022 | 13:38
Frelsisstríð og auðlindastríð
Það er þyngra en tárum taki, að þjóð í Evrópu skuli þurfa að heyja stríð til varnar frelsi sínu og fullveldi og þar með til að koma í veg fyrir að verða enn á ný hneppt í ánauð grimmra, villimannlegra og frumstæðra árásarseggja í austri. Úkraínumenn eru á hærra menntunar- og menningarstigi en Rússar almennt. Frelsisandinn hefur jafnan verið ríkur í brjóstum þeirra og dugar að nefna forfeður þeirra, kósakkana. Þeir vilja þess vegna mun fremur halla sér að Vesturlöndum en að Rússlandi um menningartengsl, viðskipti og stjórnarfar, og þetta þolir ofríkisgaurinn í Kreml ekki. Úkraínumenn þekkja til rússneskrar kúgunar af biturri reynslu. Hvorki forseti Rússlands né aðrir Rússar eiga að ráða neinu um stjórnskipun og stjórnarfar í nágrannaríkjum Rússlands, ekki frekar en Spánverjar eiga að ráða um málefni Portúgala.
Sagt er, að án Úkraínu hefðu Ráðstjórnarríkin vart verið annað en svipur hjá sjón. Það veitir þó að sjálfsögðu hinum fjölmennari og landmeiri Rússum engan rétt til að heyja landvinningastríð gegn Úkraínumönnum sem hvert annað illvígt nýlendustríð. Vesturlöndum hefur orðið á í messunni, að Rússar skyldu nú dirfast að rjúfa friðinn í Evrópu með stórfelldu árásarstríði. Evrópskir stjórnmálamenn gerðu grafalvarleg mistök með þeirri óverjanlegu áhættutöku að veita Úkraínumönnum enga öryggistryggingu og með því að setja eigin þjóðir í orkusnöru Kremlverja. Nú líður Evrópa öll fyrir þessi pólitísku mistök í öryggismálum.
Sárabót er, að Svíþjóð og Finnland leita nú inngöngu í NATO, og NATO verður að tryggja upphafleg (1991) landamæri sjálfstæðrar Úkraínu, svo að Úkraínumenn geti um frjálst höfuð strokið í framtíðinni.
Úkraína að austurhéruðunum og Krímskaga og lögsögu hans út í Svartahafið meðtöldum er gríðarlega auðugt landsvæði og sjávarbotn frá náttúrunnar hendi. Í Úkraínu, ekki sízt í austur- og suðurhlutanum, er t.d. hægt að vinna gríðarlega mikið af eldsneytisgasi með því að beita vökvaþrýstingi neðanjarðar (e. fracking). Hins vegar hefur komið í ljós, að enn betri horfur eru á vænum gasforðabúrum undir botni Svartahafs. Þar eru svo miklar birgðir af eldsneyti, að séð gætu allri Evrópu vestan Rússlands fyrir allri sinni gasþörf um áratugaskeið eða svo lengi, sem þörf krefur, þar til orkuskipti hafa farið fram. Rússland hefur nú lokað fyrir Nord Stream 1 og þar með jarðsett allan snefil af trausti Evrópuríkjanna til Rússlands sem eldsneytisbirgis. Ef Úkraínu tekst að endurheimta sín réttmætu landsvæði m.v. landamærin 1991-2014, þá bíður hennar vonandi björt framtíð sem lýðræðislegt velferðarríki, eins og hugur almennings þar stendur til, á traustum efnahagslegum grunni. Um þetta er barizt.
Það er með endemum, að einræðisseggur í Moskvu með innistæðulausa stórveldisdrauma skuli dirfast að ráðast inn í nágrannaland til að troða upp á það frumstæðum og spilltum stjórnarháttum sínum og framhald á langvinnri kúgun. Honum og meðreiðarsveinum hans verður að kenna sína lexíu. Niðurlæging Rússlands er mikil orðin, þegar stjórnvöld þar leita til útlagaríkisins Norður-Kóreu um kaup á vopnabúnaði, eins og nú berast tíðindi af. Settu Kínverjar afarkosti ?
Forystugrein Morgunblaðsins 25. ágúst 2022 fjallaði um það helvíti á jörðu, sem villimennirnir austan við Úkraínumenn bjóða þeim upp á núna:
"Hálft ár af hörmungum".
Þar stóð m.a.:
"Með það í huga [viðhorf Rússa til Úkraínumanna - innsk. BJo] verður sú spurning áleitin, hvernig friður geti á endanum náðst, ef endanlegt markmið Rússa er að ná yfirráðum í Úkraínu. Slík niðurstaða yrði einfaldlega óviðunandi fyrir hinn vestræna heim, enda yrði þá staðfest, að alþjóðalög væru til einskis og að nú gilti hnefarétturinn einn. Hver yrðu þá örlög annarra svæða, sem búa við hlið ágengra nágranna, sem ásælast þau ?
Volodimir Zelenski, forseti Úkraínu, orðaði það nýlega svo, að Úkraínumenn yrðu að berjast á hverjum einasta degi, til þess að hvert einasta mannsbarn gæti skilið, að Úkraína væri ekki hjálenda, skattland eða eign nokkurs heimsveldis, heldur "frjálst, fullvalda, ósundranlegt og sjálfstætt ríki". Í þessum orðum felst, að Úkraínumenn telja sér heldur ekki fært neitt annað en að berjast til annaðhvort sigurs eða hinztu stundar."
Þarna er vel komizt að orði um langstærsta viðfangsefni samtímans. Vesturlönd standa frammi fyrir því vali að láta engan bilbug á sér finna í vetur, þótt orkuskortur og dýrtíð kunni að sverfa að fólki, á meðan beztu synir og dætur Úkraínu falla á vígvellinum í vörn fyrir sjálfsagðan rétt þjóðar þeirra, og senda til Úkraínu allan þann bezta búnað og mesta, sem í valdi Vesturveldanna stendur, til að halda uppi merkjum frelsis og lýðræðis, eða lyppast niður með skömm gagnart glæpsamlegum ofbeldisöflum í Moskvu, sem einskis svífast í vitfirrtu stríði sínu gegn vestrænni Úkraínu.
Það er á flestra vitorði, að komist frumstætt ríki, sem stjórnað er af mafíósum, upp með gjörning sinn í einu ríki, þá verður enginn óhultur í kjölfarið. Þetta er ögurstund fyrir Vesturlönd. Þau verða að standa saman sem klettur með Úkraínu og beita öllum sínum mikla efnahagsmætti, sem er margfaldur á við Rússland í VLF mælt, til að hjálpa hinni einörðu og hugrökku þjóð, Úkraínumönnum, úr klóm bjarnarins. Ef það verður ekki gert núna, eru öll góð gildi Vestursins í húfi, gildi, sem áður hefur verið úthellt blóði fyrir. Þessi gildi eiga á hættu að rotna, ef gerðir fylgja ekki orðum núna.
Þessari forystugrein Morgunblaðsins lauk þannig:
"Það er enda sá hængur á [hernaðarárangri Úkraínumanna], að Úkraínumenn hafa þurft að treysta á stuðning bandamanna sinna í vestri til þessa, og sá stuðningur hefur, með nokkrum mikilvægum undantekningum, verið veittur með miklum semingi. Þó að fátt bendi til, að Bandaríkjamenn, Bretar, Pólverjar o.fl. muni hætta stuðningi sínum í bráð, má enn greina raddir í Þýzkalandi og annars staðar í Evrópu, þar sem menn virðast furða sig á því, að Úkraínumenn haldi áfram að berjast fyrir lífi sínu.
Það veltur því mikið á, að samstaða Vesturveldanna með Úkraínu haldi, þrátt fyrir að fram undan séu mögulega enn dimmari tímar fyrir Úkraínumenn. Sagan sýnir, að alræðisríki, en Rússland ber nú ógnvekjandi mörg merki slíkra ríkja, láta sjaldan gott heita í landvinningum sínum. Falli Úkraína, verður spurningin einfaldlega sú, hverjir verða næstir."
Þessi semingur við vopnaafhendinguna virðist að sumu leyti hafa átt við Bandaríkin líka fram að þessu, en þá ber að hafa í huga, að nauðsynlegur þjálfunartími á stórbrotinn og afkastamikinn vopnabúnað tekur sinn tíma. Það á t.d. við um HIMARS, sem ásamt öðrum vopnabúnaði, sem nýlega hefur verið tekinn í brúkið af Úkraínumönnum, er að breyta gangi stríðsins þeim í vil. Búnaður á borð við skriðdrekann Leopard 2 frá Þýzkalandi og orrustuþotuna F15 frá Bandaríkjunum, sem Úkraínumenn hafa óskað eftir, hefur þó ekki borizt enn, svo að vitað sé. Með því að flýta afhendingu mikilvirkra vopna til Úkraínumanna þyrma Vesturveldin mörgum úkraínskum mannslífum og jafnvel verður þá hægt að tryggja öryggi stærsta kjarnorkuvers Evrópu gegn hernaðarvá, en tíðindi þaðan eru váleg um þessar mundir.
Kostnaðurinn við afhent hergögn til Úkraínumanna er lítill í samanburði við kostnað Vesturveldanna af orkuverðshækkunum og jafnvel líka í samanburði við boðaðan kostnað ríkissjóðanna við "frystingu" orkuverðs og alls konar bætur til þeirra, sem minna mega sín, til að hjálpa þeim að ná endum saman í heimilisbókhaldinu. Ríkin standa þar misjafnlega að vígi, af því að þau eru misskuldsett. Nú nýtir þýzka ríkið styrk sinn, losar um skuldsetningarhöft ríkissjóðs, og hann nýtur mun hagstæðari lánskjara en t.d. ítalski ríkissjóðurinn.
Olaf Scholz, kanzlari, hefur boðað mrdEUR 65 úr ríkissjóði til stuðnings almenningi í dýrtíðinni. Til samanburður nemur kostnaður BNA við hernaðarstuðning við Úkraínumenn fram að þessu aðeins mrdUSD 16 (gengi þessara gjaldmiðla er á sama róli núna). Aftur á móti boðaði fyrrverandi forsætisráðherra Breta, Boris Johnson, í síðustu heimsókn sinni til Kænugarðs sem leiðtogi Bretlands, 24. ágúst 2022, á þjóðhátíðardegi Úkraínu, að Bretar ætluðu að senda hergögn að andvirði mrdGBP 54, og er það rausnarlegt og Bretum til sæmdar. Liz Truss, arftaki Borisar, var fyrsti ráðherra Vesturlanda, sem höfundur þessa pistils heyrði nefna, að aðeins brottrekstur rússneska hersins frá Úkraínu m.v. landamæri 1991-2014 væri niðurstaða þessa stríðs, sem ásættanleg væri.
Þann 25. ágúst 2022 birti Stefán Gunnar Sveinsson skilmerkilega frétt í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:
"Við munum berjast til þrautar".
Þar stóð m.a.:
"Zelenski sagði í þjóðhátíðarávarpi sínu, að það kæmi ekki til greina, að Úkraínumenn semdu við "hryðjuverkamenn", en úkraínsk stjórnvöld hafa þrýst á um, að Rússland verði nefnt hryðjuverkaríki. Þá sagði hann einnig, að Úkraína samanstæði af öllu landsvæðinu, sem tilheyrði landinu, þ.m.t. þeim héruðum, sem Rússar hafa nú lagt undir sig eða innlimað.
Vísaði Zelenski þar ekki sízt til Krímskaga, sem Rússland innlimaði árið 2014, en Úkraínumenn hafa á síðustu vikum náð að gera árásir á skaganum, sem hingað til hafði verið talinn langt utan þess svæðis, sem þeir gætu náð til. Hafa Úkraínumenn sagt á síðustu vikum, að endanlegt markmið þeirra sé að frelsa Krímskaga undan yfirráðum Rússa.
Þá hafa Úkraínumenn einnig gert ítrekaðar árásir á birgðageymslur rússneska hersins í rússnesku borginni Belgorod, sem er um 40 km frá landamærum Rússlands að Úkraínu."
Úkraínski herinn virðist beita fjölbreytilegri og óvæntri hernaðartækni, hafa gott vald á nýjum tæknivæddum herbúnaði og sýna stundum af sér sjaldgæfa herkænsku, enda hefur herinn náð undraverðum árangri í viðureigninni við fjölmennari, rotinn, siðlausan og niðurlægðan rússneskan her, sem hafði ógrynni hertóla úr að moða í upphafi innrásar, en virðist nú hafa farið erindisleysu inn í Úkraínu.
17.8.2022 | 12:57
Að finna fjölina sína
Þremur dögum eftir upphaf innrásar Rússlands í Úkraínu hélt kanzlari Þýzkalands, kratinn Olaf Scholz , ræðu í þýzka Sambandsþinginu í Berlín, Bundestag, sem kennd er við "Zeitenwende" eða tímamót. Þýzka þjóðin hafði líklega orðið fyrir meira áfalli við þennan glæpsamlega gjörning Kremlarstjórnarinnar en aðrar vestrænar þjóðir fyrir utan auðvitað saklaus fórnarlömbin, Úkraínumenn sjálfa. Ástæðan var sú, að Þjóðverjar höfðu a.m.k. frá kanzlaratíð kratans Willys Brandts lagt sig fram um að efla vinsamleg samskipti við Rússa og treystu því, að gagnkvæmir viðskiptahagsmunir myndu halda rússneska birninum í skefjum.
Þjóðverjar höfðu í þessu skyni tekið mikla áhættu í orkumálum og reitt sig á ábyrga afstöðu Rússa og áreiðanlega afhendingu kola, olíu og jarðgass, þannig að árið 2021 nam t.d. hlutdeild rússnesks gass af þýzka gasmarkaðinum um 55 % og hafði þá hækkað úr 30 % um aldamótin 2000. Nú um miðjan ágúst 2022 nemur þessi hlutdeild um 25 %, en samt hækkar í birgðatönkum Þjóðverja fyrir jarðgas. Þeir hafa aðlagað sig stríðsástandinu furðufljótt.
Þjóðverjar hafa löngum verið veikir fyrir ævintýrum. Á Íslandi og miklu víðar eru Grímsævintýri alþekkt eða hluti þeirra. Þetta er safn ævintýra hinna ýmsu germönsku ættbálka, sem tala þýzka mállýzku, og safnararnir hafa samræmt mismunandi útgáfur og jafnvel sniðið að eigin höfði.
Eitt ævintýranna fjallar um Karl Katz, geitahirði í Harz-fjöllum í Mið-Þýzkalandi. Dag einn leiðir villuráfandi geit téðan Karl inn í langan helli, þar sem hann hittir skrýtna karla, sem freista hans með drykk, og hann lætur ánetjast og fellur í djúpan svefn. Þegar hann vaknar, skynjar hann fljótt, að svefntími hans verður ekki talinn í klukkustundum, heldur í árum. Heimurinn er breyttur.
Margir Þjóðverjar finna sig nú í sömu stöðu og Karl. Þjóðin hafi verið eins og svefngenglar. Eftir Endursameiningu Þýzkalands voru þeir ánægðir með árangur sinn á sviði efnahagsmála og utanríkismála og trúðu því til hægðarauka, að kerfi þeirra virkaði nánast fullkomlega. Stjórnmálamenn þeirra töldu þeim trú um ævarandi velgengni með lágmarks núningi við umheiminn og auðvitað núll-losun gróðurhúsalofttegunda í nánustu framtíð.
Að vakna síðan upp með andfælum við hávaðann frá rússneskum skriðdrekum, sem héldu með offorsi innreið sína í Evrópuríkið Úkraínu, var hræðileg reynsla. Þjóðverjar upplifa sig ekki, eins og Karl, stadda í framtíðinni, heldur áratugum aftur í fortíðinni. Í stað þess að þeysa á hraðbraut (Autobahn) inn í víðsýnt lýðræðiskerfi, hefur stór hluti heimsins hallazt í átt til ómerkilegs lýðskrums, sem Þjóðverjar þekkja allt of vel úr eigin fortíð.
Í stað þess að njóta tímabils friðsamlegrar samvinnu, sem Þjóðverjar töldu, að þeir hefðu lagt grunninn að, reka Þjóðverjar sig nú á, að krafizt er vopna og hermanna af þeim. Auðlegð Þýzkalands reynist nú ekki stafa einvörðungu af dugnaði íbúanna, eins og ævintýraútgáfan af þýzku þjóðfélagi skáldaði, heldur á ódýrri orku og ódýru vinnuafli, og auðvitað hefur nú komið á daginn, að þessi Vladimir Putin, sem skenkti Þjóðverjum 2 gaslagnir undir Eystrasalti frá Rússlandi, hefur nú reynzt vera úlfur í sauðargæru, einn af grimmustu og miskunnarlausustu úlfum Evrópusögunnar, sem ekki vílar fyrir sér að hóta að sprengja stærsta kjarnorkuver Evrópu í loft upp og staðfestir þannig glæpsamlegt eðli sitt.
Allt, sem forveri Olaf Scholz á kanzlarastóli, Angela Merkel, beitti sér fyrir í orkumálum Þjóðverja, var eins og eftir pöntun frá téðum Putin. Hún "flippaði út-flippte aus" eftir stórflóðið í Fukushima 2011 og lét loka helmingi kjarnorkuvera Þjóðverja strax og setti lokadag á 3 síðustu 31.12.2022, og hún fékk Bundestag til að banna jarðgasvinnslu með vökvaþrýstiaðferð (fracking).
Þjóðverjar hafa ekki farið sömu leið og nágrannarnir í Hollandi, sem nýta enn Groningen gaslindirnar, sem hafa gefið af sér mrdUSD 500 síðan 1959. (Í The Economist var af þessu tilefni 1977 skrifað um hollenzku veikina. Hér er stuðzt við The Economist-23.07.2022-Let the sleeper awaken.) Samt eru gasbirgðir Þjóðverja alls ekki litlar. Um aldamótin 2000 dældu Þjóðverjar upp 20 mrdm3/ár af jarðgasi, sem nam um fjórðungi af gasnotkun Þjóðverja. Þótt jarðfræðingar meti nýtanlegan jarðgasforða Þjóðverja um mrdm3 800, hefur vinnslan hrapað niður í 5-6 mrdm3/ár, sem nemur um 10 % af innflutningi jarðgass frá Rússlandi til Þýzkalands fyrir Úkraínustríð.
Það er sorgleg skýring á þessu. Af jarðfræðilegum ástæðum er nauðsynlegt að beita vökvaþrýstingi á jarðlögin til að ná upp nánast öllu þýzku jarðgasi, en þýzkur almenningur er haldinn óraunhæfum ótta við þessa aðferð, og á þessum tilfinningalega grundvelli tókst Merkel árið 2017 að fá Bundestag til að banna í raun vinnslu jarðgass með vökvaþrýstiaðferð í ábataskyni, þótt þýzk fyrirtæki hafi frá 6. áratugi 20. aldar notað þessa tækni við jarðgasvinnslu án nokkurs skráðs tilviks um umhverfistjón.
Það er ekki erfitt að rekja ástæður téðs ótta almennings. Árið 2008 sótti stórt bandarískt olíufélag, Exxon, um stækkun athafnasvæðis fyrir gasvinnslu fyrirtækisins í Norður-Þýzkalandi með þessari vökvaþrýstiaðferð. Þegar s.k. umhverfisverndarsinnar hópuðust saman til mótmæla, hoppaði Græningjaflokkurinn, sem nú er í ríkisstjórn og þá var í sókn, um borð í mótmælafleyið. Hið sama gerði "Russia Today", málpípa Kremlar, og spann upp aðvaranir um, að þessi tegund gasvinnslu leiddi til geislavirkni, fæðingargalla, hormónaójafnvægis, losunar gríðarlegs magns metans, eitraðs úrgangs og eitrunar fiskistofna. Ekki minni sérfræðingur en náungi að nafni Vladimir Putin lýsti því yfir í ræðustóli á alþjóðlegri ráðstefnu, að téð vökvaþrýstiaðferð gasvinnslu mundi valda því, að sótsvart sull spýttist út um eldhúskrana almennings. Þjóðverjar virðast ginnkeyptir fyrir ævintýrum, en það eru margir aðrir.
Hræðsluáróður af þessu tagi á greiða leið að eyrum almennings. Augljóst er nú til hvers refirnir voru skornir hjá Putin. Hann vildi drepa gasvinnslu Þjóðverja í dróma til að gera þá háða Rússlandi um þennan mikilvæga orkugjafa, og kanzlarinn sjálfur, prestsdóttirin frá Austur-Þýzkalandi, beit á agnið. Það er alls ekki einleikið.
"Að þessu búnu gáfumst við hreinlega upp við að útskýra, að vökvaþrýstivinnsla jarðgass er algerlega örugg", andvarpar Hans-Joachim Kümpel, fyrrverandi formaður meginráðgjafarráðs ríkisstjórnarinnar um jarðfræði. "Ég get í raun ekki áfellzt fólk, sem hefur enga þekkingu á jarðfræði, ef allt, sem það heyrir um viðfangsefnið, eru hryllingssögur."
Þýzkir gasframleiðendur segja, að í ljósi þróaðri, hreinni og öruggari vinnsluaðferða nútímans, gætu þeir tvöfaldað vinnsluafköstin á 18-24 mánuðum, ef þeir fengju tækifærið. Með slíkum afköstum gætu Þjóðverjar dælt upp gasi fram á næstu öld. Slíkt mundi draga úr innflutningsþörf að jafngildi u.þ.b. 15 mrdUSD/ár. Það er ekkert ævintýri. Núverandi ríkisstjórn Þýzkalands er ekki líkleg til að slaka á hömlunum í þessum efnum, þótt hart sverfi að Þjóðverjum, en væri Friedrich Mertz kanzlari væri meiri von til, að heilbrigð skynsemi og öryggishagsmunir væru í fyrirrúmi, en ekki tvístígandi og hálfgerður rolugangur.
Friedrich Mertz er formaður stjórnarandstöðuflokksins CDU, sem er miðhægriflokkur Konrads Adenauers og dr Ludwigs Erhards, og hann er tilbúinn til að leiða Þýzkaland til forystu í Evrópu gegn árásargirni Rússlands undir forystu hins siðblinda Putins, sem nú bítur höfuðið af skömminni með því að setja stærsta kjarnorkuver Evrópu í uppnám, láta rússneska herinn hafast þar við og skjóta þaðan eldflaugum og úr sprengivörpum. Öfugmælin og ósvífnin nálgast hámark, þegar sami Putin sakar Bandaríkjamenn um að lengja í Úkraínustríðinu og efna til ófriðar um allan heim. Margur heldur mig sig. Hann þarf ekki annað en að gefa rússneska hernum fyrirmæli um að hætta blóðugu og illa ígrunduðu árásarstríði sínu í Úkraínu og hverfa inn fyrir rússnesku landamærin til að binda endi á þessi fáránlegu átök, sem hafa gjörsamlega eyðilagt orðstír Rússa. Þrátt fyrir "vatnaskil" hjá kratanum Olaf Scholz, er hann enginn bógur til að finna fjölina sína sem leiðtogi frjálsrar Evrópu við gjörbreyttar aðstæður.
8.8.2022 | 16:12
Átök lýðræðis og einræðis og hlutur orkunnar
Með þungvopnaðri innrás víðfeðms vanþróaðs einræðisríkis í lýðræðisríkið Úkraínu, sem var á framfarabraut og kaus að tileinka sér stjórnarhætti og lifnaðarhætti Vesturlanda, enda menningarþjóð að fornu og nýju, hefur loks runnið upp fyrir íbúum Evrópu, hvað til þeirra friðar heyrir í samskiptunum við Rússland. Hinir ósvífnu og miskunnarlausu stjórnendur Rússlands hafa nú fellt grímuna og sýnt umheiminum, að í hópi siðaðra samfélaga eru Kremlverjar óalandi og óferjandi. Það þýðir, að engin leið er að eiga viðskipti við Rússlandi, allra sízt með orku. Kremlverjar eru nú teknir að beita orkuvopninu skefjalaust. Í stuttu máli er gasstreymið frá Síberíu nú bundið við eina lögn, Nordstream 1 undir Eystrasalt og beint til Þýzkalands, og um nokkurra vikna skeið hefur streymið um hana aðeins numið um fimmtungi afkastagetu hennar.
Þetta er ekki nægilegt til að safna nægum birgðum fyrir veturinn, svo að þá er neyðarástand fyrirsjáanlegt. Evrópusambandið hefur samþykkt 15 % minnkun notkunar fyrirtækja og heimila m.v. árstíma. Það mun draga úr framleiðslugetu landanna og magna "stagflation" eða stöðnunarverðbólgu, sem líka getur verið samdráttur hagkerfisins ásamt mikilli verðbólgu og verður nú hlutskipti ESB-ríkjanna um sinn. Heimilin munu lækka óskhitastig vistarveranna, en ekki hefur heyrzt um, að hraðatakmörkun verði sett á "Autobahnen", enda er draumur í dós að þeysa á drekum þýzkra bílasmiðja á tæplega 200 km/klst. Orkukreppan mun þó kalla á breyttan lífsstíl.
Rússar hafa borið við bilun í hverfli í Nordstream 1 lögninni. Siemens sendi hann í viðgerð í Kanada, en Kanadastjórn neitaði um hríð um leyfi til að senda hann þaðan og til Rússlands vegna viðskiptabanns, sem Kanada og Þýzkaland eru aðilar að. Eftir um vikustapp fengur Þjóðverjar þó Kanadamenn til að sniðganga bannið og senda sér hverfilinn vegna orkuneyðar sinnar. Þetta er orðið pólitískt deilumál í Kanada.
Nú ber Putin við ýmsum pappírslegum formsatriðum og neitar að taka við hverflinum vegna viðskiptabannsins. Það er engu orði treystandi frá þessum Putin og útilokað að gera við hann samning, sem heldur. Hann er tækifærissinni, ómerkingur og lygalaupur. Hann notar gasið í kúgunarskyni gagnvart Þjóðverjum o.fl. og reynir að hrekja þá til að opna Nordstream 2. Þá geti þeir fengið eins mikið og þeir vilji, því að sú lögn er spáný og tilbúin í rekstur. Að vanda er seigla í Þjóðverjum, og fremur munu þeir skjálfa úr kulda í húsum sínum í vetur en láta undan þessum fyrirlitlegu kúgurum sínum í Moskvu.
Vandi Þjóðverja o.fl. er þó í sögulegu ljósi eitt allsherjar sjálfskaparvíti. Enginn bað þá um að styrkja rússneska björninn með orkukaupum af honum, og Þjóðverjar voru meira að segja ítrekað varaðir við af Bandaríkjamönnum og ESB-þjóðum, sem áður voru austan járntjalds, að kaupa svo mikla orku af Rússum, t.d. 55 % af gasþörf sinni, að þeir yrðu illilega háðir þessum viðskiptum. Þeir, sem mesta reynslu hafa af Rússum, óttast þá og vantreysta þeim mest. Þjóðverjar, sem eru allra manna athugulastir og vilja hafa vaðið fyrir neðan sig, létu meira að segja hjá líða að eiga undankomuleið vísa með því að byggja móttökustöðvar fyrir LNG - fljótandi, kælt jarðgas, í höfnum sínum. Þetta er ekki einleikið. Stjórnmálaforysta þeirra brást þeim gersamlega, vann ekki heimavinnuna sína, nýtti sér ekki leyniþjónustuupplýsingar, Engilsaxar bjuggu yfir. Það er grunnt á rígnum.
Þá hafa Þjóðverjar fest gríðarlegt fé í raforkuvinnslu, sem er afkastalítil og óviss í stað þess að efla það eina, sem verulega munar um og er kolefnisfrítt, þ.e.a.s. kjarnorkuna. Útilokunarstefnu var beitt gagnvart kjarnorkunni á þeim grundvelli, að hún væri of hættuleg. Það er falsáróður, eins og sést með því að virða fyrir sér yfirlit um fjölda dauðsfalla per TWh af framleiddri raforku 1990-2014:
Orkugjafi Dauðsföll per TWh
Kol-----------------------25
Olía----------------------18
Lífmassi-------------------4
Jarðgas--------------------3
Vatnsföll------------------2*
Vindorka-------------------0,04**
Kjarnorka------------------0,03***
Sólargeislar---------------0,02****
*Meðtalin er Banqiao stíflubilun 1975
**Raforka úr vindorku nemur aðeins 7 % af heild
***Meðtalið er Chernobyl-slysið 1986
****Raforka úr sólarhlöðum nemur aðeins 4 % af heild
Þetta yfirlit sýnir, að kjarnorkuver hafa verið álíka hættuleg og vindmyllur og sólarhlöður í dauðsföllum talið, og þau verða sífellt öruggari í rekstri. Hins vegar er Akkilesarhæll kjarnorkuveranna geislavirki úrgangurinn, sem ekki hefur tekizt að útrýma enn, þótt með endurnýtingu hafi hann minnkað stórlega á hverja TWh talið. Ógnin er óviss, því að reynt er að búa traustlega um úrganginn til geymslu.
Að sumu leyti svipar þessari framtíðarógn til ógnarinnar, sem lífríki jarðarinnar stafar af meintri hlýnun andrúmslofts. Umfang þessarar hlýnunar er umdeilt, hvað sem loftslagstrúboðinu líður, en óumdeilt er, að af mannavöldum sé koltvíildi, CO2, aðaláhrifavaldurinn, og út frá þeim áhrifum er koltvíildisjafngildið reiknað út. Í neyð sinni eru Þjóðverjar nú að gangsetja kolaorkuver, sem búið var að loka, en áhrifin af hverri framleiddri orkueiningu í kolaveri eru 200 sinnum meiri á andrúmsloftið en í kjarnorkuveri, sem þó ekki er hægt að grípa til núna vegna fáheyrðs einstrengingsháttar Angelu Merkel í kjölfar Fukushima-slyssins í Japan 2011.
Í neðangreindu yfirliti getur að líta mynduð gróðurhúsagös í tonnum af koltvíildisjafngildum á hverja GWh framleiddrar raforku:
Orkugjafi t CO2/GWh
Kol---------------------------810
Olía--------------------------720
Jarðgas-----------------------490
Lífmassi-------------------80-210*
Vatsföll-----------------------40
Sólargeislar--------------------5
Kjarnorka-----------------------4
Vindmyllur----------------------4
*Háð nýtni katlanna í verinu
Í þessu yfirliti koma fram sterk meðmæli með kjarnorkuverum m.v. þá miklu áherzlu sem vestræn ríki leggja á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda án þess að draga úr raforkunotkun. Hún mun óhjákvæmilega aukast mikið í orkuskiptunum, hvað sem heimóttarlegum áróðri Landverndar á Íslandi líður, sem nálgast heimsmet í sérvizku. Vindrellur og sólarhlöður munu aldrei geta gegnt veigamiklu hlutverki í orkuskiptum Evrópu. Þar verður að virkja kjarnorkuna.
Nýjasta kjarnorkuverið á Vesturlöndum er nú loksins að taka á sig mynd. Þegar það verður tilbúið, mun það geta sent 3,2 GW inn á raforkukerfi Bretlands og annað um 7 % af orkuþörf landsins (þetta jafngildir 640 vindmyllum, en orkugetan væri aðeins 1/3 af orkugetu kjarnorkuversins). Á þeim 4 árum, sem kjarnorkuverið Hinkley Point C (HPC) við Bristolflóa á vesturströnd Englands hefur verið í smíðum, hefur það stöðugt verið notað sem dæmi um vandann, sem að kjarnorkuiðnaðinum stafar, en þá gleymist neikvæður þáttur eftirlitsiðnaðarins, sem stöðugt hleður utan á kröfugerð sína um varabúnað, öryggiseftirlit og neyðarkerfi. Þetta olli því, að raforka frá nýjum kjarnorkuverum átti erfitt með keppa við kola- og gasorkuver, nema á þau væru lögð há koltvíildisgjöld. Nú eiga þau erfitt með samkeppnina við vindorku og sólarorku, enda engin auðlindagjöld innheimt af þeim.
Þegar brezka ríkisstjórnin undirskrifaði samninginn um HPC við franska eigandann EDF árið 2013, þá átti orkuverðið frá verinu að verða 92 GBP/MWh, þá 145 USD/MWh. Þá kostaði orkan frá vindorkuveri undan ströndu 125 GBP/MWh (36 % meira en frá HPC). 9 árum seinna er HPC 2 árum á eftir áætlun og mrdGBP 10 yfir fjárfestingaráætlun, sem mun hækka orkuverðið frá HPC, en vindmylluverið á hafi úti framleiðir fyrir aðeins 50 GBP/MWh, nú 60 USD/MWh (60 % lækkun). (Þetta skýrir áhuga fjárfesta á vindorkuverum úti fyrir SA-landi, en þá þarf aflsæstreng til Bretlands, sem hækkar raforkukostnaðinn. Orkuverð frá sólarhlöðum hefur fallið jafnvel enn meira).
Andstæðingum kjarnorkuvera vegna meintrar hættu, sem af þeim stafar, getur nú bætzt liðsauki þeirra, sem telja þau of dýr. EDF á nú í fjárhagserfiðleikum, eins og mörg önnur orkufyrirtæki Evrópu með langtímasamninga við viðskiptavini. Önnur fyrirtæki með kjarnorkuver sömu gerðar í smíðum og HPC, þ.e. s.k. EPR-kjarnorkuver, eru líka á eftir áætlun með sín verkefni.
EDF á í rekstrarerfiðleikum með sín kjarnorkuver frá 2021 vegna tæringar og hefur orðið að loka þeim vegna viðhalds og viðgerða og kaupa á meðan rándýra raforku frá gasorkuverum. Í marz 2022 lækkaði ágóði EDF um mrdEUR 11 af þessum sökum. Annað högg upp á 8,4 mrdEUR/mán kom frá frönsku ríkisstjórninni, þegar hún fyrirskipaði ríkisorkufyrirtækinu EDF að selja endurseljendum raforkuna á verði undir gildandi heildsöluverði til að verja neytendur í núverandi orkukreppu.
Þrátt fyrir allt kemur HPC vel út í samanburðinum við önnur vestræn kjarnorkuver í byggingu. Hafizt var handa við EPR-verin í Olkiluotu í Finnlandi og Flamanville C í Frakklandi árin 2005 og 2007 (í sömu röð). Bæði eru enn án tekna af sölu raforku inn á stofnkerfið. Hið sama er uppi á teninginum með Vogtle-kjarnorkuverið í Bandaríkjunum, sem er hannað með tveimur Westinghouse AP1000 kjarnakljúfum, sem hafizt var handa við 2009. Árið 2017 hafði verkefnið leitt til gjaldþrots Westingouse. Öll 3 verin eru með uppfærðar kostnaðaráætlanir, sem eru 2-3 faldar upphaflegu áætlanirnar og um áratug á eftir tímaáætlun.
Það er mjög alvarlegt mál fyrir Vesturlönd, sem krefst tafarlausrar úrlausnar með tækniþróun, að fara verður til Rússlands og Kína til að finna nýleg kjarnorkuversverkefni, sem leidd hafa verið til lykta nokkurn veginn í samræmi við áætlanir, en þá fylgja ekki sögunni ráðstafanir, sem gerðar hafa verið í öryggisskyni að kröfu eftirlitsaðila, en þær eru höfuðástæða þess, hversu mjög kjarnorkuversverkefni þessarar aldar á Vesturlöndum hafa gengið á afturfótunum. Á árunum 2008-2021 hóf og lauk ríkisfyrirtækið Rosatom framkvæmdum við 5 kjarnorkuver með 10 kjarnakljúfum í Rússlandi. Kínverjar hafa reist kjarnorkuver með ýmissi tækni, þ.á.m. AP1000 og EPR. Kínverska "General Nuclear Power Group" hóf framkvæmdir við sína 2 EPR kjarnakljúfa í Taishan í Suður-Kína eftir að framkvæmdir voru hafnar í Olkiluotu og Flamanville, en lauk sínu verkefni árið 2019. Þetta hefur leitt til þess, að vestræn lönd, sem vilja fá ný kjarnorkuver hjá sér til að anna raforkuþörfinni, hafa leitað til fyrirtækja utan Vesturlanda. Í ársbyrjun 2022 voru þannig uppi áform um, að Rosatom reisti 4 kjarnakljúfa innan Evrópusambandsins, sem yrðu 7 % af þeim 70 GW, sem fyrirtækið hugðist setja upp utan landamæra Rússlands. Í febrúar 2022 samþykkti brezki kjarnorkueftirlitsaðilinn Hualong 1, kínverska kjarnorkutækni, til uppsetningar í Bradwell í Essex.
Þá skall Ukraínustríðið á. 15. febrúar 2022, þegar mikill liðssafnaður rússneskra hersveita átti sér stað við landamæri Rússlands og Hvíta-Rússlands að Úkraínu, neitaði Búlgaría Rússum alfarið um alla þátttöku í kjarnorkuveri, sem á að fara að reisa við borgina Belene í norðurhluta landsins. Efnahagsráðherra Finnlands, Mika Lintila, hefur ítrekað yfirlýsingu sína um, að það verði "algerlega ómögulegt" að veita ráðgerðu rússnesku kjarnorkuversverkefni í Hanhikivi leyfi til að halda áfram. Í marz 2022 útilokaði Tékkland rússneska kjarnakljúfa úr útboði, þar sem Rússarnir höfðu áður verið taldir líklegastir til að verða hlutskarpastir.
Það er líklegt, að rússneskum kjarnorkuiðnaði muni hnigna vegna viðskiptabanns Vesturveldanna á Rússland, en Rússar hafa keypt ýmiss konar tæknibúnað og jafnvel tækni af Vesturlöndum fyrir sinn iðnað. Vitað er, að þetta er að eiga sér stað núna við orkulindir Síberíu, þar sem olía og gas er unnið við erfiðar aðstæður. Án vestrænnar tækni virðast Rússar ekki ráða við að halda vinnslunni þar í horfinu, en eins og kunnugt er, hefur fjöldi vestrænna fyrirtækja með starfsemi í Rússlandi horfið á braut, þar sem allt traust í garð Rússa á sviði viðskipta hefur horfið í einni svipan vegna villimannlegs hernaðar þeirra gegn fullvalda nágrannaþjóð í vestri.
Ekki verður undan því vikizt hér í lokin að minnast á ótrúlegt framferði rússneska hersins gagnvart kjarnorkuverum í Úkraínu, en þeir hafa lagt á það áherzlu að hertaka þau. Hafa þeir ekki skirrzt við að beina skothríð að þessum verum og möstrum háspennulína frá þeim. Á fyrstu dögum stríðsins tóku þeir kjarnorkuver í norðurhluta landsins og ollu tjóni á athafnasvæði versins. Sem betur fór mun hernaðarbrölt Rússa ekki hafa raskað rekstraröryggi versins alvarlega í það sinn. Úkraínskir starfsmenn versins héldu því gangandi, og Alþjóða kjarnorkumálastofnunin gerði úttekt á verinu.
Öðru máli gegnir um stærsta kjarnorkuver Evrópu, sem er í suðurhluta Úkraínu. Það hafa Rússar hertekið og valdið tjóni á því og flutningslínu frá því með eldflaugaárásum, svo að taka hefur orðið einn kjarnaljúfinn úr rekstri. Auðvitað reyna Rússar að ljúga þessum skemmdum upp á Úkraínumenn, en af hverju flýðu þá rússneskir starfsmenn úr verinu skömmu áður en árásin var gerð ?
Rússneski herinn hefur gert athafnasvæði þessa kjarnorkuvers að eldflaugaskotstöð sinni og hergagnabirgðageymslu. Lengra verður varla komizt í undirmálshegðun og hreinni mannfyrirlitningu á stríðstímum. Það er alveg ljóst, að Rússlandi er stjórnað af siðblindingjum, af bandittum, sem einskis svífast. Það er alveg makalaust, hversu djúpt Rússland er sokkið í fen mannvonnsku og illmennsku. Heyrzt hefur, að jafnvel rétttrúnaðarkirkjunni rússnesku, sem kallar ekki allt ömmu sína og lýsti í upphafi stríð Putins sem heilögu stríði til að sameina rússnesku og úkraínsku kirkjuna undir patríarkanum af Moskvu, sé nú nóg boðið.
5.8.2022 | 16:44
Úr sér gengið efnahagslíkan
Frá því að Járntjaldið féll með hruni kommúnismans í Austur-Evrópu 1989 og Endursameiningu Þýzkalands (die Wiedervereinigung Deutschlands) í kjölfarið, hefur efnahagskerfi Þýzkalands og þar með lifibrauð Þjóðverja verið reist á fölskum forsendum í veigamiklum atriðum. Undirstöður nokkurra þessara forsendna hafa nú brostið, og aðrar forsendur efnahagslegrar velgengni Þjóðverja og velmegunar eru í uppnámi. Þýzka valdastéttin hefur brugðizt þjóðinni, hervæðing er hafin á ný og tími þjóðfélagsóróa, vonandi ekki óreiðu, gæti verið framundan af þessum sökum. Það sést móta fyrir skepnunni nú þegar, því að verkfallshótanir hljóma nú um landið í þeim mæli, sem íbúar Sambandslýðveldsins hafa aldrei heyrt áður. Það er til vitnis um gjá þjóðfélagslegs vantrausts, sem ekki hefur sézt síðan á dögum Weimar-lýðveldisins á þýzkri foldu. Samhljómur hefur verið boðorð dagsins frá stofnun Sambandslýðveldisins, þá Vestur-Þýzkalands, 1949.
Þjóðverjum var sagt, að þeir gætu treyst á ótakmarkað, ódýrt jarðefnaeldsneyti frá Rússlandi og í Rússlandi og í Kína væri óþrjótandi markaður fyrir þýzka iðnaðarframleiðslu. Pólitískt og viðskiptalegt stríð Þýzkalands og allra Vesturlanda við Rússland skall á með blóðugri styrjöld Rússa við Úkraínumenn 24. febrúar 2022. Rússar hafa beitt orkuflæðinu til Evrópu frá Síberíu sem vopni gegn Evrópumönnum í þessari baráttu á milli einræðis- og lýðræðisafla og hafa t.d. skert gasflæðið um Nordstream 1 um 80 %. Afleiðingin hefur orðið u.þ.b. tíföldun orkuverðs í Evrópu og fyrirsjáanlegur orkuskortur í vetur, þegar vetrarhörkur taka að herja á Evrópu. Þá getur komið til orkuskömmtunar, sem ekki hefur gerzt í hálfa öld þar eða síðan í fyrstu orkukreppunni á 8. áratugi 20. aldarinnar, þegar Arabar drógu verulega úr olíuframboði til Vesturlanda.
Þjóðverjar standa nú frammi fyrir endalokum tímabils, þegar þeir gátu knúið hagkerfi sitt áfram með ódýru jarðefnaeldsneyti, og þeir eru tómhentir í þessari viðureign, því að þeir hafa lokað kjarnorkuverum sínum, öllum nema þremur, og engin ný eru í byggingu. Ódýrt jarðefnaeldsneyti er ekki og verður ekki á boðstólum, og meginmarkaðir þeirra fyrir iðnaðarvörur eru nú meira eða minna lokaðir. Kalt stríð er skollið á við Kína. Mynt Evrópusambandsins, evran, stendur illa, svo að ekki sé meira sagt, og verðbólgan í Þýzkalandi slær öll met frá upphafi Deutsche Mark. Annaðhvort gliðnar þetta myntbandalag eða stofnað verður Sambandsríki Evrópu með einum ríkisfjármálum fyrir öll aðildarríkin, sbr BNA. Miklir atburðir eru í vændum.
Það eru fleiri í vandræðum, en þeir eru þó ekki bundnir á klafa evrunnar. Mjög hefur dregið úr gasstreymi úr virkjuðum lindum Norðursjávar til Bretlands, og hátt orkuverð herjar á Breta og raforkuskortur liggur í loftinu, sumpart vegna orkuskiptanna, sem eru í fullum gangi þar. Vikuna 18.-24. júlí 2022 komst London naumlega hjá straumleysi með því að borga Belgíu 9.724,54 GBP/MWh, sem mun vera 5000 % yfir venjulegu verði. Þessi litla saga gefur til kynna í hvers konar ógöngur stórar Evrópuþjóðir hafa ratað með orkumál sín. Nú verður að stokka upp efnahagslíkan og orkukerfi margra Evrópuþjóða. Þær munu örugglega draga mjög úr hlutdeild jarðefnaeldsneytis í raforkuvinnslu sinni, og þá verður að koma til skjalanna stöðugur orkugjafi. Lausn í sjónmáli eru stöðluð og fjöldaframleidd kjarnorkuver í verksmiðju, u.þ.b. 300 MW, sem flutt eru tilbúin til tengingar á byggingarstað. Heildarvinnustundum per MW má fækka til muna með þessu móti, niður í u.þ.b. 6 % við ýmsa verkþætti, og þannig má gera kjarnorkuna mun ódýrari en áður, en hár byggingarkostnaður hefur verið akkilesarhæll kjarnorkuvera um hríð.
Morgunblaðið gerði alvarlega stöðu Evrópu, m.a. orkumálanna þar, að umfjöllunarefni í forystugrein 21. júlí 2022 undir fyrirsögninni:
"Ótrúleg afturför".
Þar sagði m.a.:
"Á örfáum árum hefur staða Evrópu gjörbreytzt. Fæstir gerðu sér grein fyrir því, að öflugasta ríki álfunnar hefði misst öll tök á orkumálum eigin þjóðar og sé nú háð duttlungum þeirra, sem sízt skyldi. Framleiðslugeta þjóðarinnar hafði einnig misst að hluta styrk og yfirburði og er skyndilega háð risaveldinu Kína, sem fer sínu fram, hvað sem lýðræðislegum kröfum líður. Núverandi kanzlari Þýzkalands beitti sér af öllu afli til að gera Hamborg að þjónustuhöfn Kína á meginlandinu og tryggja, að stórveldið hefði þar ríkulegt eignarhald. Fyrirrennari hans í embætti sat á hljóðskrafi við sænska fermingarstúlku um, að þjóðirnar yrðu að kúvenda í meginmálum vegna heimshlýnunar, sem barnið var ein helzta heimild vestrænna leiðtoga um ! Þjóðverjar yrðu að láta sér kínverskar sólarsellur duga og vindmyllur, niðurgreiddar af skattborgurum, með sínum skaða á náttúrulegri umhverfismynd landsins. Og, á meðan að það gæti loks látið slíka orku duga, sem aldrei er raunhæft, þá yrðu gerðir risasamningar við Rússa, sem gerðu Þýzkaland að peði í risalúku þessa ríkis."
Þarna er reifaður sá stjórnmálalegi barnaskapur, sem varð þess valdandi, að efnahagslíf Þýzkalands, eimreiðar Innri markaðar Evrópusambandsins, stendur nú á brauðfótum. Stjórnmálaleg blinda á raunveruleika stjórnmálanna í alræðisríkjum á borð við Rússland og Kína, á ekkert skylt við "Realpolitik", sem Willy Brandt kallaði "Ostpolitik" sína og hefur sennilega ekki gert annað en að styrkja alræðisöflin í sessi og sennilega að sannfæra einræðisherrana um, að Vesturlönd væru að verða svo "dekadent" - úrkynjuð, að þau hefðu ekki burði til að verja sig. Sennilega hefur einörð stefna leikarans Ronalds Reagans, 40. forseta Bandaríkjanna 1981-1989, verið drýgsta framlag Vesturlanda til að fella "ríki hins illa", sem hann réttilega nefndi Ráðstjórnarríkin. Ekki er "ríki hins illa" síður réttnefni á ríkið, þar sem Vladimir Putin er æðsti koppur í búri sambandsríkis, sem er rotið ofan í rót, og hefur nú sigað agalausum her villimanna á saklausa þjóð, sem nú berst fyrir lífi sínu. Úrkynjun Vesturlanda nú kemur helzt fram í því, að beina ekki öllum öflugustu hefðbundnu hergögnum sínum í hendur úkraínska hersins, sem einn heldur nú uppi merki Vesturlanda í harðvítugri baráttu við villimenn af sléttum Rússlands. Það er eftirtektarvert, að sá stjórnmálamaður, sem nú heldur merki frelsishugsjóna Vesturlanda hæst á lofti og er í raun annar Winston Churchill (1874-1965) í sögunni, er líka leikari að atvinnu, Volodimir Zelenski, forseti Úkraínu.
30.7.2022 | 11:31
Eimreiðar atvinnulífsins
Nýlega hækkaði seðlabanki evrunnar, ECB, stýrivexti sína úr -0,5 % í 0,0, og var aðgerðin sögð til að hamla verðbólgu, sem nú nemur 8,6 % á evrusvæðinu að meðaltali, en er þar á bilinu 6,5 % - 22,0 %. Verðbólgan í Þýzkalandi er 8,2 %, en á þann samræmda mælikvarða, sem þarna liggur til grundvallar, er hún 5,4 % á Íslandi og þar með næstlægst í Evrópu. Ekki kemur á óvart, að verðbólgan skuli vera lægst í Sviss, 3,2 %, enda er CHF, svissneski frankinn, fyrir nokkrum vikum orðinn verðmætari en EUR, evran. Svissneski seðlabankinn barðist lengi vel við að halda verðgildi frankans undir verðgildi evrunnar, en nú horfir satt að segja mjög óbjörgulega með evrusvæðið, enda lofaði evrubankinn að koma skuldugum ríkjum evrusvæðisins til hjálpar með skuldabréfakaupum, um leið og hann hækkaði vextina. Ríkisstjórn Marios Draghi á Ítalíu er fallin, af því að ítalska þingið neitaði að samþykkja aðhaldsaðgerðir stjórnar hans á ríkisfjármálunum.
Deutsche Bank spáir þverrandi krafti þýzka hagkerfisins á næstu misserum. Reyndar fjarar svo hratt undan Þjóðverjum núna, að bankinn spáir jafnmiklum samdrætti þýzka hagkerfisins 2023 og íslenzka hagkerfisins 2009 eða 6 %, og er hið síðara kennt við Hrun, enda fór þá fjármálakerfi landsins á hliðina, en útflutningsatvinnuvegirnir, sjávarútvegur og orkukræfur iðnaður, björguðu því, sem bjargað varð. Hjá Þjóðverjum verður það væntanlega öfugt. Útflutningsatvinnuvegirnir, tækjaframleiðsla ýmiss konar, mun dragast saman, því að orkukræfir birgjar þeirra munu ekki fá þá orku, sem þeir þurfa, og það, sem þeir fá af jarðefnaeldsneyti og rafmagni, verður mjög dýrt (tíföldun frá í fyrra).
Þjóðverjar eru fastir í gildru, sem prestsdóttirin frá DDR-Deutsche Demokratische Republik, Angela Merkel, væntanlega óafvitandi, en undir áhrifum illmennisins, sem nú er blóðugur upp fyrir axlir í Úkraínu sem einvaldur í Kreml, leiddi þá í. Hún lét undir höfuð leggjast að útvega aðrar aðdráttarleiðir fyrir gas en frá Síberíu, t.d. móttökustöðvar í þýzkum höfnum fyrir LNG - jarðgas á vökvaformi, sem hægt hefði verið að flytja til Þýzkalands á skipum, en verður vart hægt fyrr en 2024. Hún lét Bundestag samþykkja lög, sem bönnuðu vinnslu jarðgass með leirsteinsbroti - "fracking", þótt mikið sé af slíku gasi í þýzkri jörðu. Putin laug því, að slíkt væri hættulegt og að þýzk heimili gætu átt á hættu að fá svartagall, jafnvel logandi, út um vatnskrana sína. Hún samþykkti Nordstream 2, sem hefði gert Þjóðverja algerlega háða jarðgasi frá Rússlandi, en þegar hún fór frá, nam hlutdeild Rússagass í heildareldsneytisgasnotkun Þýzkalands 55 %, en hefur nú í júlí 2022 minnkað niður í 30 %, enda hafa Rússar nú sýnt Þjóðverjum vígtennurnar og minnkað flæði um Nordstream 1 niður í 20 % af flutningsgetu lagnarinnar. Rússar eru nú með réttu skilgreindir sem hættulegir óvinir vestrænna bandamanna vegna villimannlegrar innrásar sinnar og löðurmannlegs hernaðar síns gegn óbeyttum borgurum þar í landi, sem flokkast undir þjóðarmorð.
Þá fékk Angela Merkel Bundestag til að samþykkja þá glórulausu ráðstöfun 2011 að loka nokkrum kjarnorkuverum, banna ný og loka síðustu kjarnorkuverunum fyrir árslok 2022. Allar þessar aðgerðir Angelu Merkel voru eins og að forskrift forseta Rússlands til að færa honum sem allra beittast orkuvopn í hendur. "Der Bundesnachrichtendienst" hefur að öllum líkindum vitað, eins og sumar aðrar vestrænar leyniþjónustur, hvað í bígerð var í Kreml (endurheimt tapaðra nýlendna með hervaldi), en Angela Merkel skellti skollaeyrum við öllum viðvörunum. Það er alls ekki einleikið og grafalvarleg pólitísk blinda, en nú hervæðast Þjóðverjar að nýju og undirbúa að senda Leopard 2 skriðdreka til Úkraínu, en Þjóðverjar og Frakkar hafa hingað til þótt draga lappirnar í hernaðarstuðningi sínum við aðþrengda Úkraínumenn, og er það mikið óánægjuefni í Bandaríkjunum og í Austur-Evrópu og Eystrasaltslöndunum.
Hagkerfi allra Vesturlanda eða mikilvægir þættir þeirra eru orkuknúin. Á Íslandi er mikilvægasta útflutningsatvinnugreinin knúin innfluttri olíu, sem frá ársbyrjun 2022 hefur hækkað í innkaupum um 60 % á tonnið, þótt frá norska ríkisolíufélaginu Equinor sé. Útgerðarkostnaður hefur þannig hækkað gríðarlega og sömuleiðis flutningskostnaður á markað, en vegna tiltölulegs stöðugleika í verði innlendrar orku hefur framleiðslukostnaður neytendavöru af íslenzkum fiskimiðum þó hækkað minna.
Vegna hækkunar tilkostnaðar hefur sjávarútvegur í ESB þegið neyðaraðstoð hins opinbera í tvígang síðan 2020, og það er engin furða, þótt íslenzkar útgerðir leiti leiða til hagræðingar. Slíkt sáum við, þegar almenningshlutafélagið SVN festi kaup á fjölskyldufyrirtækinu Vísi í Grindavík. Um þau viðskipti og fáránlegt moldviðri sumra stjórnmálamanna og blaðamanna út af þeim skrifaði Gunnar Þórðarson, viðskiptafræðingur, í Morgunblaðið 21. júlí 2022, undir fyrirsögninni:
"Veiðigjöld og samruni sjávarútvegsfyrirtækja".
Hún hófst þannig:
"Viðbrögð vinstri manna við kaupum Síldarvinnslunnar á Vísi hf. koma ekki á óvart og eru í takti við fyrri ummæli þeirra um íslenzkan sjávarútveg. Oft veit maður ekki, hvort þetta fólk talar þvert um hug sér, eða hvort það skortir innsýn í atvinnugreinina. Hærri veiðigjöld valda samþjöppun í sjávarútvegi ! Það er eins augljóst og verið getur; en það er ekki neikvætt fyrir íslenzkt samfélag !"
Gunnar Þórðarson hefur góða innsýn í rekstrargrundvöll íslenzks sjávarútvegs. Honum er vel ljóst, hvað léttir undir með atvinnugreininni, og hvað er íþyngjandi fyrir samkeppni hans hér innanlands um fólk og fjármagn og á fiskmörkuðum erlendis, þangað sem yfir 95 % framleiðslunnar fer. Þegar ytri aðstæður versna, hvort sem er fyrir tilstuðlan þingmanna og ráðherra, aðfanganna, flutninganna eða vegna harðari samkeppni á vörumörkuðum, verður aukin tilhneiging til að draga sig út úr starfseminni. Þetta gerðist nú síðast í Grindavík, og það er fagnaðarefni, þegar traust innlent almenningshlutafélag í sjávarútvegi ákveður að hlaupa í skarðið og efla starfsemina í nýkeyptri eign. Það ætti öllum að vera ljóst, að nýja staðsetningin er verðmæt fyrir kaupandann, en engu að síður hafa slettirekur í hópi þingmanna og blaðamanna kosið að vera með svartagallsraus um allt annað en þó blasir við og kaupandinn hefur lýst yfir.
"Ef ekkert hefði breytzt undanfarna áratugi í sjávarútvegi og fyrirtæki ekki verið sameinuð eða yfirtekin, væri engin umræða um veiðigjöld; enda væru engin veiðigjöld, og afkoman væri slök. Svona svipað og ástandið var á 10. áratugi síðustu aldar, og lítil sem engin fjárfesting átti sér stað. Þá væri sennilega allt í góðu lagi, og vinstrimenn ánægðir með ástandið !"
Hér væri allt með öðrum brag, ef afturhaldssinnar hefðu komið í veg fyrir þróun íslenzks sjávarútvegs í krafti markaðsaflanna og stjórnmálamenn sætu uppi með rekstur atvinnugreinar, sem þeir hafa ekkert vit á og engan áhuga á, nema þeir geti beitt honum fyrir sig á atkvæðaveiðunum. Lífskjör í landinu væru í samræmi við óstjórnina, og þær hræður, sem hér hefðust við, væru sennilega augnkarlar í verstöð Evrópusambandsins hér úti í Dumbshafi.
Í lokin reit Gunnar Þórðarson:
"Tækifæri Síldarvinnslunnar við kaupin á Arctic Fish og Vísi blasa því við hverjum þeim, sem vill horfa hlutlægt á þessi mál: Aukin verðmæti fyrir íslenzkan sjávarútveg og íslenzka þjóð. Með því að taka til sín stærri hluta virðiskeðjunnar, verða bæði til verðmæti og eins spennandi störf fyrir Íslendinga í framtíðinni. Síldarvinnslan er fyrirtæki á markaði með þúsundir eigenda. Það er eðlileg krafa til stjórnmálamanna að ræða svona mál af alvöru, en ekki bara til að tala inn í tiltekna hópa. Bolfiskvinnsla Vísis er ein sú fullkomnasta í heimi og er ekki á leið frá Grindavík í framtíðinni. Þar er mannauðurinn, nálægð við fiskimið og markaðinn."
Sú neikvæða umræða, sem fór af stað um þessi viðskipti, eftir að þau voru tilkynnt, sýndi ljóslega fram á, að þau, sem að henni stóðu, höfðu lítið vit á málefninu og voru ekki í stakkinn búin til að bera neitt gagnlegt á borð. Slíkt fólk er bara að fiska í gruggugu vatni undir kjörorðinu, að betra sé að veifa röngu tré en öngu. Leiðinlegast er, hvað þessir gjammarar eru orðnir fyrirsjáanlegir.
24.7.2022 | 17:26
Ánægjuleg þróun matvælaframleiðslu
Kjötframleiðsla á Íslandi á undir högg að sækja. Kjötneyzla á mann er mjög mikil eða um 50 kg/ár, en hún fer minnkandi á sama tíma og grænmetisneyzla góðu heilli vex. Innlenda kjötið keppir bæði við innflutt kjöt og vaxandi framboð af fiski; bæði er fjölbreytt úrval villtra fisktegunda og af eldisfiski. Þessi misserin á sér stað gríðarleg aukning í eldisfiski, bæði á sjó og landi. Vegna mikillar nýtniaukningar og vöruþróunar innan hefðbundins sjávarútvegs er samt ekki líklegt, að útflutningsverðmæti eldisfisks verði meiri en villts fisks á þessum eða næsta áratugi. Mikil aukning framleiðslu á próteinríkri fæðu með tiltölulega lítið kolefnisspor er fagnaðarefni.
Björn Bjarnason, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, gerði þróun í fiskeldi að umræðuefni í Morgunblaðinu, 16. júlí 2022, undir fyrirsögn, sem vísar til merkra tíðinda á þeim vígstöðvum:
"Strategískar ákvarðanir um fisk".
Greinin hófst þannig:
"Frá því var skýrt undir lok júní [2022], að færeyska fiskeldisfyrirtækið Bakkafrost hefði keypt Boeing-757 þotu til að ná forskoti í keppninni um að koma ferskum laxi á borð veitingastaða á Manhattan á innan við 24 tímum frá slátrun.
Í frétt brezka blaðsins The Guardian um þotukaupin segir, að stjórnendur Bakkafrosts, sem einnig eigi Scottish Salmon Company (nú Bakkfrost Scotland), svari gagnrýni á kolefnisspor þotuflugsins yfir Atlantshaf á þann veg, að sporið minnki með því að fara ekki um Heathrow-flugvöll með laxinn; jafnframt minnki matarsóun, þegar tíminn styttist [á] milli slátrunar og matargerðar bandarísku viðskiptavinanna.
Í Færeyjum tala þeir um eldislaxinn sinn sem "kampavínslaxinn". Hann sé sem sagt allra laxa beztur. Seiðin í þennan hágæðalax koma héðan, þar sem eldisfyrirtæki verða sífellt öflugri. Í nýjasta tölublaði Bændablaðsins (7. júlí [2022]) um öran vöxt landeldis, einkum á laxi og bleikju, en 5 fyrirtæki, sem stundi "þauleldi fisks á landi", hafi nýlega stofnað samtökin Eldís, Landeldissamtök Íslands."
Það er saga til næsta bæjar, þegar fyrirtæki kaupir stóra vöruflutningaflugvél til að spara flutningatíma og skjóta keppinautunum ref fyrir rass, með því að bjóða ferskari vöru en jafnvel framleiðendur í heimalandinu eða í nágrannaríkjum, t.d. Kanada í þessu tilviki, geta gert. Þetta er áreiðanlega framkvæmt að vel athuguðu máli og sýnir, hversu mikils kröfuharðir viðskiptavinir meta ferska matvöru, enda eru þeir fúsir að greiða meira fyrir hana en hina.
Við Ísland eru ekki síðri aðstæður til fiskeldis en við Færeyjar. Þótt sjórinn sé hlýrri við Færeyjar og vöxturinn þar með hraðari, fylgir sá böggull skammrifi, að lúsin er þar vágestur allt árið. Hér lifir laxalúsin ekki vetrarkuldann í sjónum. Eitrun er því beitt í meira mæli þar en hér.
Íslendingar eru þar að auki með ás uppi í erminni í samkeppninni við fiskeldisfyrirtæki annars staðar við Norður-Atlantshaf, þar sem er landrými, nægt ferskvatn, raforka á hagstæðu verði og síðast en ekki sízt víða jarðvarmi, sem gefur af sér hitaveituvatn til að stýra vaxtarhraðanum. Þá losna landeldisfélögin við alla áhættu af blöndun eldisfisks við villtan lax, og lækkar þá eftirlitskostnaður og viðhaldskostnaður kera. Það hefur reyndar verið gert allt of mikið úr áhættu erfðablöndunar hérlendis, þar sem sjókvíaeldi er bannað á Vesturlandi og Norðurlandi (nema í Eyjafirði), og er ekki stundanlegt úti fyrir Suðurlandi, nema í úthafskvíum framtíðarinnar. Þá er langur vegur á milli þess, að eldislax sleppi og að hann æxlist með villtum laxi og að erfðaeinkenni eldislaxins komi fram í lífvænlegum afkvæmum.
Þessari fróðlegu grein lauk Björn Bjarnason þannig:
"Fjórum vikum fyrir Vísis-kaupin birtust fréttir um, að Síldarvinnslan hefði keypt 34,2 % hlut í norska laxeldisfélaginu Arctic Fish Holding AS fyrir um mrdISK 14,8. Arctic Fish Holding á 100 % hlutafjár í Arctic Fish ehf., einu af stærstu laxeldisfyrirtækjunum hér; rekur það eldisstöðvar á Vestfjörðum með rúmlega 27 kt/ár leyfi fyrir eldi í sjó.
Án þess á nokkurn hátt sé gert lítið úr eignarhaldi á þorskígildistonnum og gildi veiða og vinnslu þeirra, blasir við, að hér verði sama þróun og í Noregi: eldi í sjó og á landi og útflutningur á slátruðum eldisfiski vegi meira við sköpun verðmæta en gamalgrónu veiðarnar.
Alls eru 98 % íslenzks sjávarfangs flutt á erlenda markaði. Þar er samkeppni hörð og kröfur miklar. Flugvélarkaup Bakkafrosts sýna, að keppinautar um beztu markaðina vilja skapa sér forskot með ofurgæðum. Sjávarútvegsfyrirtæki hér keppa við þá beztu.
Í þessu ljósi ber að skoða strategískar ákvarðanir öflugustu sjávarútvegsfyrirtækjanna. Þær eru teknar til að styrkja samkeppnisstöðu þjóðarinnar allrar sem framleiðanda matvæla í hæsta gæðaflokki. Er fagnaðarefni, að fyrirtækin hafi fjárhagslegan styrk til stórsóknar án þess að vera háð opinberri fyrirgreiðslu."
Undir þetta allt, ályktanir og fullyrðingar Björns, skal heils hugar taka. Íslendingar hafa borið gæfu til að skjóta stoðum undir öflugan sjávarútveg. Hann færir nú út kvíarnar og fjárfestir í fiskeldi, bæði í sjó og á landi. Þröngsýnis- og smammsýnismenn hérlendir hafa gagnrýnt erlent eignarhald á fiskeldinu. Það er óviturleg gagnrýni, enda hefur erlendu fjármagni fylgt þekking, tækni og markaðssambönd. Nú þegar fiskeldinu vex fiskur um hrygg, eru Íslendingar að flytja fjármagn í þessa grein, m.a. úr hefðbundnum sjávarútvegi. Hælbítar sjávarútvegsins hafa af þekkingarleysi og almennri bölsýni sinni gagnrýnt hann fyrir að fjárfesta í öðrum greinum, þótt þeim komi það lítið við. Er það óeðlilegt m.v. þær þröngu skorður, sem íslenzkum sjávarútvegsfyrirtækjum eru settar um aflahlutdeildir ? Skyldu sömu aðilar þá vilja leggjast þversum gegn fjárfestingum sjávarútvegsins í fiskeldinu ? Þessir gagnrýnendur sjávarútvegs og fiskeldis virðast vera gjörsamlega úti á þekju. Þetta er yfirleitt sama fólkið og gagnrýnir fiskveiðistjórnunarkerfið af talsverðri heift. Það skilur ekki enn löngu viðtekin sannindi um, að framseljanlegar nýtingarheimildir aflahlutdeilda eru grundvöllur allrar vel heppnaðrar auðlindanýtingar. Það klifar á þeirri illa ígrunduðu fullyrðingu í anda marxista, að þetta fyrirkomulag feli í sér arðrán, en það er öðru nær, því að þetta er einfaldlega þjóðhagslega hagkvæmasta fyrirkomulagið. Evrópusambandið býr við annað fiskveiðistjórnunarkerfi, og þar er nú verið að ausa út í annað skiptið á stuttu tímabili fé úr opinberum sjóðum í "björgunarpakka" handa sjávarútvegi ESB.
Stærsti vaxtarbroddur innlendrar matvælaframleiðslu í fjárfestingum talið og tonnum próteins er laxeldi á landi. Á þessum áratugi gæti landeldið numið yfir 130 kt/ár til slátrunar, sem gætu gefið um 150 mrdISK/ár í útflutningstekjur. Ef slátrun upp úr sjókvíum undir lok þessa áratugar verður rúmlega tvöföld að magni m.v. 2021, þá gæti andvirði hennar numið um 100 mrdISK/ár, svo að eldið gefi þá alls um 250 mrdISK/ár. Árið 2021 nam heildarútflutningsverðmæti hefðbundins sjávarútvegs mrdISK 296, og binda má vonir við hækkun þessarar upphæðar að raunvirði vegna vaxandi gæða, meiri úrvinnslu, hækkandi nýtingar og vaxandi afla, þar sem ástand lífríkis í hafinu umhverfis Ísland lofar góðu um framhaldið. Þess vegna hillir ekki undir meiri tekjur af fiskeldi en hefðbundnum sjávarútvegi, hvað sem síðar verður. Alkunna er, að í Noregi hefur fiskeldið farið tekjulega fram úr hefðbundnum sjávarútvegi, en þar eru ekki viðlíka takmarkanir á laxeldi í sjó, eins og hér við land.
Bændablaðið fjallaði um þann efnilega vaxtarbrodd, landeldi, 7. júlí 2022. Undir fyrirsögninni:
"Landeldi í örum vexti",
stóð þetta m.a.:
"Rúnar [Þór Þórarinsson] segir umfang landeldis hér á landi vera í örum vexti.
"Samherji rekur eldisstöð í Öxarfirði, þar sem áherzlan er á áframeldi á laxi og bleikju, en þar að auki rekur Samherji bleikjueldi á landi í Grindavík og við Vatnsleysuströnd. Fyrirtækið áformar enn fremur að stórauka framleiðsluna á laxi með uppbyggingu sinni á Reykjanesi, [í] svo nefndum Auðlindagarði. Áformar Samherji að auka þannig framleiðslu sína á landöldum laxi upp í 45 kt/ár.""
Líklega er Samherji með þessum fjárfestingum að skipa sér sess sem brautryðjanda í heiminum á sviði landeldis laxfiska. Það hefur glímt við hælbíta í fjölmiðlaheiminum, og jafnvel Seðlabankanum undir fyrrverandi Seðlabankastjóra, sem aldrei hafa skapað nein verðmæti og líklega aldrei neitt annað en niðurrif og skítkast, eins konar eiturnöðrur.
Með aðgerðum sínum nú á sviði fjárfestinga í laxeldi sýnir fyrirtækið í hnotskurn, hversu framsækið og verðmætt það er, þar sem það haslar sér völl á sviði ferskvatnsnýtingar og hitaveitunýtingar til matvælaframleiðslu, sennilega að langmestu leyti í framtíðinni úr íslenzku fóðri. Þróun fiskeldis hérlendis í samstarfi Norðmanna og Íslendinga og í auknum mæli í krafti fjárfestinga íslenzkra sjávarútvegsfyrirtækja er ævintýri líkust.
"Saman tekið eru því 131,5 kt af landöldum laxi á ársgrundvelli við sjóndeildarhringinn hjá þessum 5 landeldisfélögum. Langmest eru uppbyggingaráformin, hvað landeldi varðar, á Suðurlandi og [á] Reykjanesi, segir Rúnar og bætir við, að til samanburðar hafi heildarmagn þess lax, sem slátrað var úr sjókvíum við Ísland árið 2021 verið alls 44,5 kt. Nam útflutningsverðmæti þess rúmum mrdISK 20 á síðasta ári."
Ef engir óvæntir erfiðleikar koma upp í landeldinu, stefnir það hraðbyri í að verða með talsvert meiri framleiðslu en sjókvíaeldið, þar til tæknin leyfir úthafseldi. Verður spennandi að sjá, hvort einhver verðmunur verður á afurðum þessara tveggja greina, en kostnaðarmunurinn er verulegur. Það vekur athygli, að samkvæmt ofangreindum upplýsingum hefur verð fyrir sjókvíaafurðirnar aðeins numið um 450 ISK/kg, sem er svipað og fyrir t.d. þorskinn, en yfirleitt hefur verð laxins verið a.m.k. tvöfalt þorskverðið.
""Lífrænn úrgangur og hliðarafurðir eru orðnar enn mikilvægari auðlindir en áður til áburðarnotkunar í ljósi mikilla hækkana á innfluttum, tilbúnum áburði. Hlutverk BÍ og Eldís næstu mánuði verður að vinna að sameiginlegri umsókn í samkeppnissjóði á sviði loftslags- og umhverfismála á grundvelli þeirrar hugmyndafræði, að með innlendri endurnýtingu á lífrænum efnum, sem falla til við landbúnað og landeldi, sé hægt að framleiða áburð, sem mætir þörfum innanlandsmarkaðar, og þannig stuðla að aukinni sjálfbærni í íslenzkum landbúnaði", segir í sameiginlegri tilkynningu félaganna. Með samstarfsverkefninu sé hafin ein af þeim framtíðaraðgerðum, sem lögð var til í spretthópi matvælaráðherra."
Þetta hljómar mjög vel, og ekki er að efa, að efnainnihaldið og áburðargildið er ríkt, en það verður að leggja rannsóknir til grundvallar á því, hversu mikið þarf að bera á til að fá æskilega uppskeru á hverju ræktarlandi fyrir sig. Skemmst er að minnast hraklegrar ofstjórnar ríkisstjórnar Sri Lanka á bændum þar, en hún bannaði þeim að nota tilbúinn áburð, og allir bændur skyldu umsvifalaust leggja fyrir sig lífræna ræktun. Afleiðingin varð hrun landbúnaðarframleiðslunnar á Sri Lanka, gjaldeyrisvarasjóðurinn varð uppiskroppa með fé, og hungursneyð hélt innreið sína í landið. Ekki má gleyma því, að vegurinn til heljar er varðaður góðum áformum.
Orkuverð í Evrópu mun ekki lækka niður í jafngildi 70 USD/tunnu hráolíu, sem það var í um áramótin 2021/2022. Það gæti rólað um 100 USD/tunnu næstu árin, og gasverðið verður áfram hátt, því að gasflæðið frá Rússlandi til Evrópu er nú aðeins um 40 % af því, sem var, og stefnt er að því, að það verði ekkert á næstu árum. Í staðinn mun koma jarðgas víða að, t.d. frá gaslindum úti fyrir ströndum Ísraels um lögn til Krítar, Kýpur og meginlands Grikklands. Jarðgas á gasformi frá Ísrael og á vökvaformi (LNG) annars staðar frá, verður dýrara en Rússagasið, og þessi viðskipti munu auðga Ísrael mjög (tugmilljarða USD tekjur á mánuði). Þannig er líklegt, að rekstrargrundvöllur verði fyrir vetnis- og ammoníakframleiðslu með raforku hérlendis og arðsamt rafeldsneyti og áburð úr þessu "hráefni".
21.7.2022 | 17:30
Lítt af setningi slegið
Þegar tilkynnt var um ofureðlileg kaup almenningshlutafélagsins Síldarvinnslunnar á Neskaupstað á útgerðarfélaginu Vísi í Grindavík, gaus upp moldviðri loddara og lýðskrumara, sem létu aðalatriði málsins lönd og leið, en einbeittu sér að hugðarefnum sínum, sem eiga það sameiginlegt að vera sjávarútveginum skaðleg. Sjávarútvegur er höfuðatvinnuvegur þjóðarinnar, og hann verður að reka á viðskiptagrundvelli. Með rekstur hans er ekki hægt að hlaupa eftir illa ígrundaðri hugmyndafræði um "réttlæti" í ráðstöfun hagnaðar af fjárfestingum í greininni.
Aðalatriði málsins er, að hlutverk íslenzks sjávarútvegs er að skapa hámarksverðmæti úr auðlind íslenzkra fiskimiða fyrir íslenzkt þjóðarbú, enda er auðlindin í þjóðareign, þótt enginn eigi óveiddan fisk í sjó, og þar með hefur ráðherra það mikla vald til inngripa í þessa atvinnugrein að setja aflamark í hverri tegund á hverju fiskveiðiári, og Hafrannsóknarstofnun getur lokað svæðum fyrir fiskiskipum í verndarskyni.
Hverjir fá að stunda sjóinn og eiga aflahlutdeild í hverju settu aflamarki réðist í upphafi af aflareynslu og síðan 1989 af markaðinum upp að hámarksaflahlutdeild í hverri tegund. Algengast er 20 % kvótaþak, en þó aðeins 12 % í þorski per fyrirtæki. Þetta fiskveiðistjórnunar fyrirkomulag hefur tryggt Íslendingum skilvirkasta sjávarútveg í Evrópu og þótt víðar væri leitað. Greinin varð arðbær í flestum árum, eftir að nægilegri lágmarks samþjöppun var náð, og hún greiðir meira til samfélagsins en aðrar atvinnugreinar. Er það réttlátt, t.d. gagnvart almenningshlutafélögum í greininni, sem berjast við fyrirtæki í öðrum greinum um fjármagn ?
Íslenzku sjávarútvegsfyrirtækin flytja yfir 96 % afurða sinna á erlendan markað og eiga þar í flestum tilvikum í höggi við stærri fyrirtæki en þau eru sjálf, fyrirtæki, sem njóta þar að auki fjárhagsstuðnings hins opinbera í sínu landi og greiða sáralítið þangað í samanburði við íslenzku sjávarútvegsfyrirtækin. Alþingismenn hafa ekki látið sinn hlut eftir liggja við að skekkja samkeppnisstöðu þessarar greinar á erlendum fiskimörkuðum og innlendum fjármagns- og vinnumarkaði. Verða þeir að gæta að sér að mismuna ekki þessari grein úr hófi fram.
Hælbítar íslenzks sjávarútvegs spanna litrófið frá vinstri-sósíalistum með böggum aflóga hugmyndafræði austur-þýzka alþýðulýðveldis Walters Ulbricht og Erichs Honecker til áhangenda kenningarinnar um, að Íslandi sé bezt borgið alfarið innan vébanda Evrópusambandsins - ESB, þ.e. "við borðið", en ekki bara á Innri markaði ESB, eins og 2 önnur EFTA-ríki með EES-samninginum, sem gildi tók 1. janúar 1994.
Sameiginlegt málflutningi allra þessara aðila er að mæla fyrir ráðstöfunum, sem veikja mundu samkeppnisstöðu íslenzka sjávarútvegsins stórlega, og þar með óhjákvæmilega draga úr getu hans til verðmætasköpunar fyrir íslenzka þjóðarbúið úr auðlind þjóðarinnar í lögsögunni og utan hennar samkvæmt samningum ríkisstjórnarinnar. Þessi málflutningur hælbítanna er þess vegna klæddur í búninga, sem eiga að hætti lýðskrumara að höfða til mismunandi fólks. Annars vegar er lofað gríðarlega auknum skatttekjum ríkissjóðs af sjávarútveginum, og hins vegar er lofað uppboðsmarkaði veiðiheimilda og um leið árlegum afskriftum veiðiheimilda þeirra, sem fengu þær úthlutaðar á grundvelli veiðireynslu og/eða hafa keypt þær hingað til. Í raun er þetta sami grautur í sömu skál, sem endar í þjóðnýtingu útgerðanna, þegar öllu er á botninn hvolft. Hvorug aðferðanna er til þess fallin að hámarka verðmæti auðlindar þjóðarinnar í hafinu, heldur munu þær rýra hinn þjóðhagslega hagnað frá því, sem hann getur orðið, ef atvinnugreinin fær að þróast í friði fyrir loddurum, sem lítið skynbragð bera á það, hvaða skilyrði þurfa að vera fyrir hendi, til að atvinnugreinar fái að njóta sín. Engin góð reynsla frá öðrum þjóðum mælir þessum dillum málsbót.
Sjónarhólsgrein um alþjóðaviðskipti birtist í Morgunblaðinu 13. júlí 2022 eftir Stefán E. Stefánsson, blaðamann, undir fyrirsögninni:
"Skref í rétta átt".
Þar stóð m.a.:
"Kaupin á Vísi eru því áhættudreifing í sinni tærustu mynd. Það má ekki sízt sjá, þegar borið er saman úthlutað aflamark [aflahlutdeild] Síldarvinnslunnar annars vegar og Vísis hins vegar í mikilvægum botnfisk- og uppsjávartegundum. Fyrir kaupin var Síldarvinnslan aðeins með 2,7 % hlutdeild í þorski, en Vísir 5,4 %. Í ýsu var hlutdeild Síldarvinnslunnar 3,8 %, en Vísis 6,1 %, og í síld og loðnu er hlutdeild Síldarvinnslunnar í úthlutuðu aflamarki annars vegar 16 % og hins vegar 18 %, [á] meðan hlutdeild Vísis er 0 %. Styrkurinn, sem felst í kaupunum á Vísi er því að efla Síldarvinnsluna í botnfiski."
Þetta er vafalaust hárrétt athugað hjá Stefáni E., og slíkar aðgerðir fyrirtækja eru öllum í hag og koma hvorki Samkeppnisstofnun né stjórnmálamönnum við. Með öflugri stoðir mun Síldarvinnslan standa betur að vígi í samkeppninni á erlendum mörkuðum, þar sem hún samt verður tiltölulega lítil. Sterkari staða á markaði þýðir, að hún getur fengið betri viðskiptakjör á fiskmörkuðum. Þetta er aðalatriði máls, og að hóta fyrirtækjunum enn hærri skattheimtu, af því að þau eru öflug og vel rekin og hafa í sér stækkunarkraft, eins og jafnvel innviðaráðherra gerði sig sekan um, er fyrir neðan allar hellur.
Hér er um að ræða almenningshlutafélag, skráð í Kauphöll Íslands, sem sækir sér fé á hlutabréfamarkað, t.d. til lífeyrissjóða, og stjórnmálamenn verða að gæta að sér og kunna sér hóf í málflutningi, svo að ekki sé hægt að saka þá um atvinnuróg og brot á stjórnarskrárreglu um jafnræði til atvinnufrelsis.
"Við kaupin á Vísi upphófst gamalkunnur söngur þeirra, sem alla tíð hafa öfundazt út í sjávarútveginn hér á landi og þann glæsta árangur, sem náðst hefur í uppbyggingu margra fyrirtækja á þessu sviði. Þeir hinir sömu skella skollaeyrum við öllum þeim rökum, sem borin eru á borð varðandi styrkleika íslenzka kvótakerfisins og þá þrotlausu vinnu, sem lögð hefur verið í uppbyggingu þessara sömu fyrirtækja. Engu er líkara en þessir sömu aðilar telji kerfisbreytingar æskilegar, sem mundu draga enn frekar úr fyrirsjáanleika og ganga af þeirri áhættudreifingu, sem þó er fyrir hendi innan greinarinnar, gjörsamlega dauðri."
Sjávarútvegur er sjálfstæð atvinnugrein, en ekki tilraunaleikhús stjórnmálamanna og annarra viðvaninga á sviði fyrirtækjarekstrar. Fiskveiðiauðlindin er eign þjóðarinnar, en stjórnmálamenn seilast um hurð til lokunnar, þegar þeir halda, að þetta gefi þeim heimild til að ráðskast með sjávarútveginn á leiksviði fáránleikans. Þjóðin er ekki lögaðili, en ákvæðið gefur ríkisvaldinu í nafni þjóðarinnar heimild til að stjórna nýtingu auðlindarinnar og gengur auðvitað ekki út yfir eignarrétt útgerðanna og stjórnarskrárvarin atvinnuréttindi.
"Söngurinn er allur sniðinn í kringum þá rómantísku hugmynd, að allir eigi að geta róið til fiskjar og að það sé óheppilegt, að fyrirtækin stækki og eflist. Þar er horft fram hjá þeirri staðreynd, að fyrirtækin keppa á alþjóðavettvangi við fyrirtæki, sem í sumum tilvikum eru stærri en allur íslenzki sjávarútvegurinn til samans. Nær allur afli, sem dreginn er á land við Ísland fer á markaði erlendis, og því eiga samkeppnissjónarmið, sem alla jafna mundu gilda um fyrirtæki á innlendum markaði, ekki við. Hvert er annars markmiðið með íslenzkum sjávarútvegi ? Er það ekki að hámarka verðmætin, sem sótt eru í greipar Ægis ?"
Þetta er mergurinn málsins. Alls konar sótraftar eru á sjó dregnir með skoðanir á þessari atvinnugrein, og sameiginlegt málflutningi þeirra er tvennt: atvinnugreinin sé óalandi og óferjandi eins og hún er rekin núna, og stjórnmálamenn (Alþingi og ríkisstjórn) verði að gjörbreyta leikreglunum. Hugmyndafræði þessa svartagallsrauss rekstrarviðvaninga og loddara er öll því markinu brennd, að rekstrarlegur og þjóðhagslegur arður sjávarútvegsins mun minnka, verði reynt að framfylgja hugmyndafræði þeirra.
Það er rangt, sem haldið er fram, að mikil samþjöppun sé í íslenzkum sjávarútvegi, hvort sem litið er til samanburðar við aðrar íslenzkar atvinnugreinar eða til erlendra samkeppnisaðila, eins og Svanur Guðmundsson, framkvæmdastjóri Bláa hagkerfisins ehf og sjávarútvegsfræðingur, sýndi fram á í grein í Morgunblaðinu 14.07.2022. Samkeppnisstofnun, sem er á góðri leið með að eyðileggja tæplega mrdISK 80 viðskipti Símans með Mílu, fer í geitarhús að leita ullar vegna kaupsamnings Síldarvinnslunnar við Vísi í Grindavík. Eftirlitsiðnaðurinn hérlendis gín yfir þáttum, sem honum kemur ekki við og sem hann ræður illa við í þokkabót.
"Myndi þetta sama fólk, sem sífellt talar öflugan sjávarútveg niður, tala fyrir því, að Marel yrði klofið upp í margar smáar einingar, sem gætu svo keppt sín á milli, en þó í baráttu við alþjóðlega risa, sem ættu auðvelt með að ryðja þeim öllum út af markaðinum ?"
Munurinn er sá, að það eru engir beturvitar áberandi um þessa grein iðnaðar, en það er hins vegar enginn hörgull á skrýtnum og fjandsamlegum hugdettum beturvita um íslenzka sjávarútveginn. Þeir eru með sérvizkuhugmyndir, sem ekki væru taldar gjaldgengar í neinu öðru landi.
Hvernig á að ákvarða hámark aflahlutdeildar, s.k. kvótaþak ? Eðlilegast er að hafa hliðsjón af þróun þeirra mála í samkeppnislöndum sjávarútvegsins. Sé það skoðað, kemur í ljós, að kvótaþakið hér hefur setið eftir, sérstaklega í þorskinum, þar sem það er aðeins 12 % hér, en t.d. um 25 % í Noregi. Hið tiltölulega lága kvótaþak hérlendis er farið að standa íslenzkum útgerðarfélögum fyrir þrifum og hefur e.t.v. ýtt undir krosseignatengsl þeirra á milli.
Í lok greinar sinnar skrifaði Stefán E. Stefánsson:
"Nákvæmlega sömu sjónarmið eiga við um íslenzku sjávarútvegsfyrirtækin. Eftir því sem þeim fækkar og þau eflast að innri styrk, því betur mun íslenzkt þjóðarbú standa. Úrtölufólkinu finnst ekki gaman að heyra þetta. Raunar þolir það alls ekki að horfast í augu við þessa staðreynd. En svona er það nú samt."
Þetta er hárrétt hjá höfundinum, en hvers vegna ? Það vefst fyrir "úrtölufólkinu", en er samt sára einfalt, og í stuttu máli er aðallega um að ræða hagkvæmni stærðarinnar. Kostnaður útgerðanna á hvert veitt tonn fer lækkandi með aukinni stærð þeirra og þar með verður framlegð þeirra meiri, og þau geta þá aukið framleiðni sína með fjárfestingum í nýrri tækni án eða með lítilli skuldsetningu. Afleiðingin verður betri aðbúnaður sjómanna um borð og hærri tekjur þeirra með auknum afla á skip. Jafnframt eykst hagnaður fyrirtækjanna og þar með skattstofninn og arðgreiðslur, sem er allra hagur, ekki sízt eigendum hlutafjárins, sem fjármagna fyrirtækin, t.d. lífeyrissjóða í tilviki almenningshlutafélaga á borð við Síldarvinnsluna á Neskaupstað.
15.7.2022 | 10:13
Dregur til tíðinda í orkumálum Evrópu ?
Klukkan 0400 að morgni 11. júlí 2022 var lokað fyrir Nordstream 1 jarðefnaeldsneytis gaslögnina frá Rússlandi (Síberíu) til Evrópu vegna viðhalds. Þar með minnkaði gasflæðið umtalsvert til Vesturveldanna, t.d. um þriðjung til Ítalíu. Þar með verða þau að ganga á forða, sem þau voru að safna til vetrarins. Þau óttast, að Rússar muni ekki opna aftur fyrir flæðið 21. júlí 2022, eins og þó er ráðgert. Næsti vetur verður þungbær íbúum í Evrópu vestan Rússlands, ef vetrarhörkur verða.
Þegar miskunnarlaust árásareðli rússneska bjarnarins varð lýðum ljós 24.02.2022, rann um leið upp fyrir Þjóðverjum og öðrum, hvílíkt ábyrgðarleysi og pólitísk blinda einkenndi kanzlaratíð Angelu Merkel, sem bar höfuðábyrgð á því, að Þjóðverjar o.fl. Evrópuþjóðir urðu svo háðir Rússum um afhendingu á eldsneytisgasi sem raun ber vitni (allt að 50 % gasþarfarinnar kom frá Rússum). Þjóðverjar máttu vita, hvaða hætta þeim var búin, með því að atvinnulíf þeirra og heimili yrðu upp á náð og miskunn kaldrifjaðs KGB-foringja komin, sem þegar í ræðu árið 2000 gerði grein fyrir fyrirætlunum sínum um stórsókn Rússlands til vesturs í anda keisara á borð við Pétur, mikla, og keisaraynjuna Katrínu, miklu.
Otto von Habsburg, 1912-2011, gerði grein fyrir þessu í ræðu árið 2003, sem nálgast má í athugasemd 3 við pistilinn "Þrengist í búi", 09.07.2022.
Björn Bjarnason, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, ritaði markverða grein á umræðuvettvangi Morgunblaðsins laugardaginn 9. júlí 2022, enda má segja, að orkumálin hafi nú bein áhrif á framvindu sögunnar. Greinin bar fyrirsögnina:
"Kjarnorka, gas og jarðvarmi".
Hún hófst þannig:
"Á þingi Evrópusambandsins voru miðvikudaginn 6. júlí [2022] greidd atkvæði um mikið hitamál. Meirihluti þingmanna (328:278 - 33 sátu hjá) samþykkti umdeilda tillögu um að skilgreina fjárfestingar í kjarnorkuverum og nýtingu á gasi sem "sjálfbærar"."
Þetta eru stórtíðindi og vitna um öngþveitið, sem nú ríkir í orkumálum ESB. Samkvæmt skilgreiningu á sjálfbærri orkuvinnslu má hún ekki fela sér, að líf næstu kynslóða verði hættulegra eða erfiðara á nokkurn hátt. Þessu er ekki hægt að halda fram um raforkuvinnslu í kjarnorkuverum, sem nýta geislavirka klofnun úrans. Þótt geislavirka úrganginn megi nota aftur til raforkuvinnslu í sama kjarnorkuveri, verður samt að lokum til geislavirkur úrgangur í aldaraðir, sem engin góð geymsla er til fyrir.
Bruni jarðgass við raforkuvinnslu eða upphitun felur í sér myndun CO2-koltvíildis, sem er s.k. gróðurhúsalofttegund, sem margir telja valda hlýnun andrúmslofts jarðar.
Þetta er augsýnilega neyðarúrræði ó orkuskorti, samþykkt til höfuðs kolum og olíu, sem menga meira og valda meiri losun CO2 á varmaeiningu.
Úr því að fjárfesting í kjarnorku er orðin græn í ESB, hlýtur núverandi kjarnorkuverum í ESB að verða leyft að ganga út sinn tæknilega endingartíma, og þar með verða dregið úr tjóni flaustursins í Merkel. Þetta varpar ljósi á glapræði þeirrar fljótfærnislegu ákvörðunar Angelu Merkel 2011 að loka þýzkum kjarnorkuverum fyrir tímann og í síðasta lagi 2022. Um það skrifaði Björn:
"Þegar kjarnorkuslysið varð í Fukushima í Japan fyrir 11 árum, ákvað Angela Merkel, þáv. Þýzkalandskanzlari, á "einni nóttu" að loka þýzkum kjarnorkuverum. Við það urðu Þjóðverjar verulega háðir orkugjöfum frá Rússlandi. Reynist það nú hættulegt öryggi þeirra og Evrópuþjóða almennt. Í aðdraganda stríðsins hækkaði orkuverð í Evrópu [og] nær nú hæstu hæðum."
Með þessari fljótræðisákvörðun, sem kanzlarinn keyrði í tilfinningalegu uppnámi í gegnum Bundestag, sem fundar í þinghúsinu Reichstag í Berlín, spilaði hún kjörstöðu upp í hendur miskunnarlauss Kremlarforseta, sem þá þegar var með stríðsaðgerðir í Evrópu á prjónunum, eins og Otto von Habsburg sýndi fram á, og hugði gott til glóðarinnar að kúga (blackmail") Evrópuríkin til undirgefni með orkuþurrð, þegar hann léti til skarar skríða með sína landvinninga.
Þetta er eins konar Finnlandisering þess hluta Evrópu, sem háðastur er jarðefnaeldsneyti frá Rússlandi. Afleiðingar af óeðlilegu pólitísku daðri austur-þýzku prestsdótturinnar við hinn grimma KGB-foringja í Dresden, sem ábyrgur er fyrir böðulshætti Rússahers í Úkraínu, eru m.a. þær í Þýzkalandi núna, að Þjóðverjar hvetja Kanadamenn til að senda Siemens-gashverfil úr Nordstream 1 úr viðgerð og til sín, og þýzkum almenningi er nú sagt, að fjarvarmaveitur geti ekki hitað ofnana á heimilum hans upp í hærra hitastig en 17°C í vetur.
Orkufyrirtæki með samninga um fast verð við sína viðskiptavini riða nú til falls, og ESB hefur veitt undanþágu frá reglum um fjárhagslegt inngrip ríkisins á orkumarkaði til stuðnings heimilum og fyrirtækjum.
Í Japan eru nú aðeins um 10 % orkunotkunarinnar úr innlendum orkugjöfum að meðtöldum kjarnorkuverum í rekstri, og þrátt fyrir að Japanseyjar séu fjöllóttar með vatnsföll og jarðhita. Hvað skrifaði Björn um Japan ?:
"Í Japan var ákveðið eftir atburðina í Fukushima [2011] að minnka stig af stigi hlut kjarnorku sem raforkugjafa. Nú standa Japanir hins vegar í þeim sporum, að óvissa ríkir um aðgang að jarðefnaeldsneyti, og orkuverð sligar efnahaginn. Vegna kosninga til efri deildar japanska þingsins hefur verið tekizt á um, hvort virkja eigi að nýju kjarnorkuver, sem staðið hafa verkefnalaus [síðan 2011]. Í kosningunum á morgun, 10. júlí [2022], er lagt í hendur kjósenda að breyta japanskri orkustefnu. Við kjósendum blasir sú staðreynd, að orkuframleiðsla Japana sjálfra stendur aðeins undir 10 % af orkuneyzlu þeirra. Stórátak er nauðsynlegt til að auka orkuöryggið."
Sjálfsagt er löngu runnið upp fyrir japönskum almenningi, að viðbrögðin við umræddu Fukushima slysi voru yfirdrifin og aðeins örfá dauðsfallanna vegna geislunar, en hin vegna flóða og óðagots, sem greip um sig. Þess vegna er litlum vafa undirorpið, að íbúarnir munu verða alls hugar fegnir að fá raforku frá nú ónotuðum kjarnorkuverum á lægra verði en nú býðst.
Flutningaskipum með LNG (jarðgas á vökvaformi) hefur undanfarna mánuði verið beint frá Asíu til Evrópu, af því að í Evrópu er hæsta orkuverð í heimi um þessar mundir. Lánið leikur ekki við Þjóðverja að þessu leyti heldur, því að þeir eiga enga móttökustöð í sínum höfnum fyrir LNG og munu ekki eignast slíkar fyrr en 2024, þótt þeir hafi nú stytt leyfisveitingaferlið til muna. Mættu íslenzk yfirvöld líta til afnáms Þjóðverja á "rauða dreglinum" í þessu sambandi.
Þessu tengt skrifaði Björn:
"Þegar litið er til þessarar þróunar [orkumála á Íslandi] allrar, sést, hve mikilvægt er í stóru samhengi hlutanna að festast ekki hér á landi í deilum, sem verða vegna sérsjónarmiða Landverndar og annarra, sem leggjast gegn því, að gerðar séu áætlanir um virkjun sjálfbærra, endurnýjanlegra orkugjafa, sem enginn getur efast um, að séu grænir."
Höfundur þessa pistils hér er sama sinnis og Björn um fánýti þess að ræða íslenzk orkumál á forsendum Landverndar. Svo fráleit afturhaldsviðhorf, sem þar eru ríkjandi, eru að engu hafandi, enda mundi það leiða þjóðina til mikils ófarnaðar að fylgja þeim eftir í reynd. Tólfunum kastaði, þegar Landvernd lagði það til í alvöru að draga úr rafmagnssölu til iðnaðarfyrirtækja með langtímasamninga um allt að 50 % til að skapa svigrúm fyrir orkuskiptin hérlendis. Sönn umhverfisverndarsamtök leggja ekki fram slíka tillögu. Hins vegar gera þeir það, sem færa vilja neyzlustig hér, og þar með lífskjör, aftur um áratugi og koma síðan á stöðnun. Þetta eru s.k. núllvaxtarsinnar, sem spruttu fram í kjölfar bókarinnar "Endimörk vaxtar" á 7. áratugi 20. aldar.
Grein sinni lauk Björn Bjarnason þannig:
"Hér er almennt of lítil áherzla lögð á að efla samstarf opinberra aðila og einkafyrirtækja til að efla grunnstoðir samfélagsins. Við setningu opinberra reglna, eins og nú innan ESB vegna grænna fjárfestinga í kjarnorku og við nýtingu á gasi, eru aldrei allir á einu máli. Skrefin verður þó að stíga og fylgja þeim fastar eftir við aðstæður, eins og myndazt hafa vegna stríðs Pútíns í Úkraínu.
Augljóst er, að ekki er eftir neinu að bíða við töku ákvarðana, sem búa í haginn fyrir stóraukna nýtingu íslenzks jarðvarma. Jafnframt er óhjákvæmilegt að virkja vatnsafl af miklum þunga."
Þarna er á ferðinni snjall samanburður á aðstæðum við ákvarðanatöku um orkumál á tímamótum í ESB og á Íslandi. Þeir, sem um orkumál véla í ESB eru ekki svo skyni skroppnir að skilja ekki, að hvorki jarðgas né geislavirka úraníum samsætan í hefðbundnum kjarnorkuverum eru sjálfbærar og algrænar orkulindir. Þetta eru ósjálfbærar orkulindir, þar sem kjarnorkan að vísu veldur engri losun gróðurhúsalofttegunda, og jarðgasið aðeins minni losun og minni loftmengun en olía og kol.
Í sama anda verða þeir Íslendingar, sem um orkumálin véla, að vinna á þessum alvarlegu tímum. Allar virkjanir náttúrulegra orkulinda hafa einhverjar breytingar í för með sér á virkjunarstað, og það þarf að leiða raforkuna af virkjunarstað og til notenda, en sé þess gætt að nota beztu fáanlegu tækni (BAT=Best Available Technology) við hönnun og framkvæmd verksins og ef framkvæmdin er að auki afturkræf, þá verður umhverfislegi, fjárhagslegi, samfélagslegi og þjóðhagslegi ávinningurinn nánast örugglegi mun meiri en meint tjón af framkvæmdunum. Það er nauðsynlegt, að almenningur, þingheimur, stjórnkerfið og orkugeirinn geri sér grein fyrir þessari raunverulegu stöðu orkumálanna hið fyrsta.