Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Orkupakki 3 í lausu lofti ?

Eins og Ólafur Ísleifsson, hagfræðingur og fv. Alþingismaður, vakti athygli á í Morgunblaðsgrein 05.11.2022, féll Orkupakki 3 (OP3) úr gildi innan Evrópusambandsins (ESB) fyrir nokkrum árum, þegar OP4 tók þar gildi.  Ef OP3 hefur ekkert lagalegt gildi lengur í ESB, hvernig er þá háttað lagalegu gildi hans í EFTA-löndum EES-samstarfsins ? Þessu velta menn líka vöngum yfir í Noregi, og Morten Harper, lögfræðingur Nei til EU í Noregi, birti 5. nóvember 2022 grein í Klassekampen um stöðu OP3 og OP4 í Noregi um þessar mundir.  Þessi vefpistill er með hans leyfi reistur á téðri grein:

Lögmannsréttur Borgarþings var 31. október 2022 settur með 5 dómurum til að fjalla um kæru Nei til EU (NtEU) á hendur ríkinu fyrir það, að Stórþingið beitti ekki grein 115 í Stjórnarskrá um aukinn meirihluta við atkvæðagreiðsluna um OP3 í marz 2018. NtEU staðhæfir, að innleiðing OP3 ein og sér eða í samhengi við aðra lagasetningu frá ESB um orkumál feli í sér fullveldisafsal, sem Stórþinginu sé óheimilt með einföldum meirihluta.  Af því að fullveldisafsalið er meira en "lítið inngrípandi", hefði Stórþingið átt að fylgja Stjórnarskrárgrein 115, sem krefst 3/4 meirihluta og að 2/3 hlutar þingheims mæti til fundar. 

Framkvæmdastjórn ESB hefur gefið út allmargar reglugerðir til skýringa og áherzluauka við OP3.  Árið 2021 samþykkti Stórþingið 4 þeirra.  Samþykktir ACER á grundvelli þessara reglugerða eiga einnig að fara um Eftirlitsstofnun EFTA-ESA til framkvæmdar hjá Orkumálastjóra, sem gegnir stöðu fulltrúa ACER-Orkustofu ESB á Íslandi (Landsorkureglari).  Framkvæmdir þar á bæ hafa ekki verið áberandi. 

Landsorkureglarinn er óháður innlendum yfirvöldum í gjörðum sínum og ber að fylgja eftir framkvæmd reglna EES-samningsins á orkusviðinu á Íslandi. 

Ennfremur hefur ESB samþykkt OP4  (einnig kallaður "hreinorku" pakkinn), og aðildarlöndin hafa innleitt OP4 í lagasöfn sín.  Hann veitir ACER meiri völd en OP3.  Efni OP4 var þekkt, þegar Stórþingið samþykkti OP3.  Reglugerðirnar 4 í OP4 hafði ESB þegar samþykkt, og Framkvæmdastjórnin hafði  gert tillögu um OP4 til þings og ráðs.  

Hæstiréttur Noregs sagði í greinargerð sinni um 4. járnbrautarlagapakkann frá ESB í marz 2021, að Stórþinginu beri að meta uppsafnað fullveldisframsal, þannig að ekki verði unnt að sniðganga grein 115 með því að búta innleiðingu laga niður.  Þetta sjónarmið hlýtur einnig að ráða hjá ríkisstjórn Íslands og Alþingi.  Munurinn er sá, að aukinn meirihluti er ekki heimilaður í Stjórnarskrá Íslands til að samþykkja meira en "lítið inngrípandi" fullveldisframsal.  Alþingi er einfaldlega slíkt framsal með öllu óheimilt.  Hér er komið að því, sem lagafræðimennirnir Friðrik Árni Friðriksson Hirst og Stefán Már Stefánsson vöruðu þáverandi utanríkisráðherra og Alþingi við í skýrslu sinni í aðdraganda innleiðingar Alþingis á OP3, 02.09.2019.  Grasrót Sjálfstæðisflokksins varaði sumarið 2019 eindregið við þessari innleiðingu, og áhyggjur Landsfundar Sjálfstæðisflokksins komu ljóslega fram í ályktun hans veturinn áður.  Þáverandi utanríkisráðherra hundsaði þá gjörsamlega þessa grasrót, sem hann svo smjaðraði ótæpilega fyrir í aðdraganda og á Landsfundi í nóvemberbyrjun 2022 í ótímabærri tilraun sinni til að velta sitjandi formanni Sjálfstæðisflokksins úr sessi, sem þó ber höfuð og herðar yfir hann, hvernig sem á þá er litið. 

Í Noregi verður sem sagt að líta til alls orkuregluverks ESB á orkusviði, þegar lagt er mat á, hversu inngrípandi fullveldisframsalið er.  Virkni orkuregluverksins og réttarfarið á Innri markaðinum veldur því, að ekki aðeins þarf að taka tillit til lagasetningar fram að samþykktardegi, heldur einnig þekktra og væntra reglugerða og 4. orkupakka. Þetta hefur mikla þýðingu í Noregi vegna umrædds dómsmáls, en einnig þýðingu á Íslandi, ef/þegar ný orkulagasetning frá ESB verður þar til umræðu.   

Hér með lýkur fyrri hluta þessarar umfjöllunar, en síðari hlutinn verður birtur í næsta vefpistli á þessu vefsetri.  


Vindmyllur leysa engan vanda

Danmörk er langmesta vindmylluland Norðurlandanna, og þar er raforkuverðið langhæst.  Danir hafa fjárfest gríðarlega í vindmyllum og auðvitað framleitt þær og selt út um allar jarðir. Hár fjárfestingarkostnaður, stuttur endingartími, tiltölulega hár rekstrarkostnaður og slitróttur rekstur veldur því, að vinnslukostnaður rafmagns er hár með vindmyllum, og á sama má segja, að aflið frá þeim sé annars flokks vegna óvissunnar, sem gætir um afhendingu þess.  Viðskiptavinur getur ekki reitt sig á þetta afl, og þess vegna hefur vindmylluaflið afar lítið gildi hjá viðskiptavini, sem verður fyrir tilfinnanlegu tjóni, ef hann fær ekki umsamið afl. 

 

 

Erlendis er þetta leyst með því, að seljandi vindmylluorku semur við seljanda orku frá annars konar orkuveri, yfirleitt gaskyntu orkuveri, um að hlaupa fyrir sig í skarðið.  Hérlendis vill varla nokkur borga forgangsorkuverð fyrir vindmylluorku, nema seljandi vindorkunnar geti tryggt umsamda afhendingu.  Þannig nemur verðmæti einangraðrar vindmylluorku hérlendis aðeins verðmæti ótryggðrar raforku, sem er e.t.v. þriðjungur af verðmæti forgangsorkunnar. Þannig er vandkvæðum háð að gera samning við seljanda vindmylluorku til lengri tíma en nemur sæmilega öruggri veðurspá. 

Hins vegar gætu vindmyllur orðið verðráðandi hér á væntanlegum uppboðsmarkaði til eins sólarhrings, því að þar mun gilda, að fyrir öll viðskiptin ráði hæsta verðtilboð, sem tekið er.  Þetta fyrirkomulag Evrópusambandsins og annarra hefur nú komið Evrópumönnum hrottalega í koll á orkuskortstímum, og hefur forseti framkvæmdastjórnar ESB sagt fyrirkomulagið ekki vera á vetur setjandi. 

Nú væri hægt að láta alla þessa ókosti vindmylluraforkunnar liggja á milli hluta í nafni endurnýjanlegrar orkulindar og athafnafrelsis í landinu innan marka laganna, ef ekki fylgdi sá böggull skammrifi, að vindmyllur eru landfrekar, uppsetning þeirra kallar á tiltölulega umfangsmikil landspjöll og af þeim stafar ýmiss konar mengun. 

Haukur Ágústsson hefur skrifað greinar í Morgunblaðið, sem veigur er í.  Ein birtist 26. október 2022 undir fyrirsögninni:

   "Viðbrögð við vindmyllum":

"Samkvæm vorut samtökunum "StopTheseThings" (Stöðvið þetta) voru yfir 30 k vindmyllur í Þýzkalandi árið 2019.  [M.v. höfðatölu svarar þetta þó aðeins til 140 stk á Íslandi, en hérlendis hafa verið birt áform um mörg hundruð vindmyllur-innsk. BJo.] Margar þeirra eru svo bærri byggðu bóli, að mikið ónæði hlýzt af.  Því hafa fasteignir í nágrenni þeirra lækkað í verði og jafnvel orðið óseljanlegar, auk þess sem almenn andúð á þeim hefur vaxið.  Nú er svo komið, að sem næst engar nýjar vindmyllur eru reistar í Þýzkalandi, heldur horfa þýzkir fjárfestar til annarra landa og þá einkum Noregs."

Þýzkaland er 62 sinnum þéttbýlla en Ísland og þess vegna engin furða, þótt fórnarkostnaður af uppsetningu og rekstri vindmylla sé hár.  Þjóðverjar hafa á seinni árum verið afar seinheppnir með orkustefnu sína, sem nú á ófriðartímum hefur leitt þá í algerar ógöngur, eins og kunnugt er.  Höfuðsök þar ber fyrrverandi formaður CDU og kanzlari Þýzkalands, Angela Merkel, sem árið 2011 beitti sér fyrir lokun kjarnorkuvera og um 2015 fyrir banni við vökvaknúinni gasvinnslu úr jarðlögum (e. fracking) ásamt niðurgreiðslum á raforkukostnaði frá vindmyllum.  Afleiðingin er sú, að Þjóðverjar eru ósjálfbjarga, þegar kemur að öflun orku, og færðu Rússum lykilstöðu um orkuútvegun.  Þetta var svo mikill barnaskapur, ef ekki eitthvað verra, að engu tali tekur.

  "Samkvæmt vefsíðunni "The Local (Nágrennið) berjast menn víða gegn þessum framkvæmdum, t.d. í Norður-Noregi og Svíþjóð, þar sem Samar búa með hreindýra hjarðir sínar og segja dýrin fælast myllurnar, ef þær hafa verið byggðar [reistar] á haglendi þeirra.

Að sögn Energifakta Norge (Orkutölur Noregs) voru 53 vindmyllugarðar í Noregi í upphafi ársins 2021.  Árið 2019 voru stofnuð þar í landi samtök, sem fengu heitið "MotVind (Gegn vindorku).  Hliðstæð samtök eru til víðar, s.s. í Svíþjóð og öðrum Evrópulöndum.  Öll berjast þau gegn útbreiðslu vindmylla og telja þær skaðlegar náttúrulegu umhverfi og dýra- og mannlífi, auk þess sem þær dugi alls ekki til þess að koma í veg fyrir þær loftslagsbreytingar, sem ætlað er, að maðurinn valdi.  Barátta þessara samtaka hefur víða borið verulegan árangur og hefur í ýmsum tilvikum komið í veg fyrir uppsetningu vindmyllugarða."

Þess er skemmst að minnast, að fumbyggjar í Norður-Noregi unnu dómsmál í réttarkerfi Noregs gegn vindmyllueigendum og yfirvöldum, sem veitt höfðu framkvæmdaleyfi á hefðbundnum beitarsvæðum hreindýra. Þessi dómur gefur til kynna, að yfirvöldum sé að norskum rétti óheimilt að leyfa framkvæmdar, sem rýra umtalsvert hefðbundin lífsskilyrði íbúanna á svæðin.  Dómurinn kann að verða leiðbeinandi um meðferð dómsmála, ef sveitarstjórnir, t.d. á Vesturlandi, leyfa, að reistar verði vindmyllur í grennd (í áberandi sjónlínu) við íbúa eða jafnvel frístundabyggð, sem fallnar séu til að rýra lífsgæði íbúanna með einhverjum þeim hætti, sem hægt sé að færa sönnur á fyrir rétti.

Það er illskiljanlegt, að yfirvöld hérlendis skuli ljá vindmyllufyrirtækjum eyra í ljósi þess, að hérlendis verður alls engin þörf fyrir þessa dýru raforku, ef yfirvöld á borð við Orkustofnun og útgefendur framkvæmdaleyfa í héraði slá nú í nára truntunnar og keyra hana úr sporunum til að flýta virkjanaleyfum fyrir hefðbundnar íslenzkar virkjanir, sem almennt eru taldar sjálfbærar, og er þar auðvitað átt við vatnsaflsvirkjanir og jarðgufuvirkjanir.

Að lokum skrifaði Haukur Ágústsson:

"Þegar Kárahnjúkavirkjun var í byggingu, voru umhverfissinnar ötulir við að mótmæla virkjuninni.  Menn komu meira að segja erlendis frá til þátttöku í aðgerðunum, sem fólust m.a. í því að stöðva verk með því að setjast niður fyrir framan vinnuvélar.  Nú er rætt um yfir 30 vindmyllugarða á Íslandi.  Afar lítið, ef nokkuð, ber á mótmælum vegna þessara áætlana.  Þó eru umhverfisáhrifin sízt minni en af vatnsvirkjunum og miklu meira áberandi vegna afar hárra, gnæfandi turna og víðfeðmra spaða.  Ekki er heldur minnzt á áhrifin í högum sauðfjár og hreindýra [sbr téð norsk dómsniðurstaða - innsk. BJo] eða á þann skaða, sem áreiðanlega verður á fuglum og smærri flugdýrum [skordýrum - innsk. BJo] - hvað þá áhrifin á ferðamannageirann.  

Við Íslendingar búum enn við sæmilega óspillta náttúru.  Er mikið vit í því að skaða hana í þágu gróðafíknar fáeinna manna, sem hyggjast græða á því að fordjarfa hana - og virðast ýmsir auk þess vera á mála erlendra aðila, eins og í Noregi."

Þetta er vel skrifuð grein hjá kennaranum fyrrverandi með þörfum ábendingum og viðvörunum.  Án þess að gera vindmylluforkólfum upp hvatir (þeir ofmeta einfaldlega ávinninginn m.v. fórnarkostnaðinn) þá ber að beita sér einarðlega gegn leyfisveitingum fyrir vindmyllum á Íslandi um leið og yfirvöld eru hvött til að beita sér gegn þeirri vá, sem yfirvofandi raforkuskortur í landinu er fyrir hag landsmanna, með því að ýta undir nýjar hefðbundnar íslenzkar virkjanir.  Þær eru bæði nauðsynlegar og þjóðhagslega hagkvæmar, en vindmylluþyrpingar eru hvorugt.  

Ímynd vatnsorkuvera erlendis er dálítið lituð af því, að víða hefur þurft að beita fólk nauðungarflutningum af athafnasvæðum slíkra virkjana.  Það hefur ekki þurft í seinni tíð á Íslandi.  Þá er beizlun vindorkunnar erlendis einn af fáum endurnýjanlegum virkjanakostum víða.  Þetta hefur kallað fram ofstæki gegn vatnsaflsvirkjunum og doða gagnvart vindorkuverum, sem kann að hafa smitazt hingað. Þannig gera hvorki vindmylluforkólfar né virkjanaandstæðingar á Íslandi sér grein fyrir raunverulegum aðstæðum í landinu.  

 

    

 


Gjaldþrota kratísk hugmyndafræði á fjármálamarkaði

Um 20. október 2022 beindust sjónir manna að herfilegum kratískum fjármálagjörningum Jóhönnu Sigurðardóttur, félagsmálaráðherra 1998, og síðan töfrabrögðum Framsóknarmanna á borð við Guðmund Bjarnason, sem annar Framsóknarmaður seldi fjölmiðlum undir heitinu "allir græða".  Hér er auðvitað átt við Íbúðalánasjóð, sem um tíma var umsvifamikið ríkisapparat á fjármálamarkaði. 

Raunar eru persónur og leikendur aukaatriði í þessu máli.  Aðalatriðið er að draga þann lærdóm af því, að ríkisvaldið er ófært um að reka fjármálastarfsemi á heilbrigðan hátt á samkeppnismarkaði og ætti að draga sig að mestu út af þeim markaði, þótt fallast megi á til málamiðlunar að halda 35 % - 55 % eignarhlut ríkisins í Landsbankanum, ef ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, samþykkir slíka þátttöku ríkisins á samkeppnismarkaði.  M.ö.o. á að selja Íslandsbanka allan, þegar aðstæður þykja heppilegar, enda hefur ríkissjóður hagnazt á þeim sölum, sem þegar hafa farið fram á hlutum í bankanum, og ríkissjóð bráðvantar fé til að fjárfesta í innviðum landsins, sem gefa meiri arðsemi en ríkisbankar að jafnaði. 

Íbúðalánasjóður kom í heiminn sem kosningaloforð, yfirboð, og er það afleit byrjun fyrir fjármálastofnun.  Stjórnendur og ráðgjafar þar á bæ litu stórt á sig, en voru raunverulega algerlega utan gátta um hlutverk og stöðu þessarar fjármálastofnunar ríkisins, eins og eftirfarandi bútur úr bréfi (alger steypa) Íbúðalánasjóðs til Ríkisendurskoðunar sýnir:

"Útgáfa fjármögnunarbréfa sjóðsins hefur um árabil verið ráðandi um langtímavaxtastig í landinu, og ríkið stendur ábyrgt fyrir öllum skuldbindingum hans.  Við slíkar aðstæður var algerlega fráleitt fyrir Íbúðalánasjóð að hætta útgáfu íbúðabréfa.  Slíkt hefði leitt til hruns vaxtamyndunar á markaði og gert sjóðinn ósamkeppnishæfan um ný útlán.  Lánshæfismat sjóðsins hefði hrunið í kjölfarið og hagsmunum ríkissjóðs verið teflt í voða.  Þetta hefði verið skýrt brot á lagaskyldum stjórnar og framkvæmdastjóra og óhugsandi út frá því hlutverki, sem sjóðnum er að lögum falið."

Stjórnendur sjóðsins reiddu ekki fjármálavitið í þverpokum, og þarna er óhönduglega farið með lögin.  Á markaði ber engum aðila skylda til þess að lögum að stjórna "langtímavaxtastigi" í landinu. Þarna á sér stað "skapandi lagatúlkun" á ábyrgð forstjóra Íbúðalánasjóðs í samkeppni við bankana.  Bæði fjármálaþekkingu og lagaþekkingu var ábótavant hjá þessari ríkisstofnun, og það er dæmigert, þegar um gæluverkefni stjórnmálamanna er að ræða. Þeir eiga ekki að koma nálægt samkeppnisrekstri á neinu sviði í samfélaginu.   


Skattheimtugleði stjórnmálamanna

Sjókvíaeldi er vaxtarsproti á Vestfjörðum og Austfjörðum og hefur reynzt falla vel að atvinnulífinu, sem þar var fyrir.  Á Vestfjörðum munar enn meir um þessa nýju grein en fyrir austan, því að álverið á Reyðarfirði hefur skapað Austfirðingum sterka kjölfestu í atvinnumálum. Vestfirðingar nutu engrar sambærilegrar kjölfestu og hafa í þokkabót mátt búa við orkuskort í landshlutanum, sem hefur berlega komið fram, þegar Vesturlína hefur rofnað frá stofnkerfi landsins, sem er of oft m.v. nútímakröfur.

Þannig hefur sjókvíaeldið snúið neikvæðri atvinnuþróun Vestfjarða við, en ferðamennskan hefur vissulega hjálpað til í þeim efnum líka, þótt Kófið færði mönnum heim sanninn um fallvaltleika hennar.

Sjókvíaeldið er í örum vexti, sem þýðir, að mikið fjárfestingaskeið og kynning á erlendum mörkuðum á sér stað hjá fyrirtækjunum í greininni. Við slíkar aðstæður er ómetanlegt að njóta öflugs bakhjarls, þar sem eru sjóuð norsk laxeldisfyrirtæki. Þrátt fyrir yfirstandandi uppbyggingarfasa gat ríkisstjórnin ekki setið á sér að stækka peningasuguna, sem beint er að sjóeldisfyrirtækjunum, um 43 % (úr 3,5 % í 5,0 % af veltu).  Gjaldið rennur til fiskeldissjóðs, sem er líka óeðlilegt, því að viðkomandi sveitarfélög þurfa að fjárfesta í sínum innviðum og þjónustustarfsemi vegna aukinna umsvifa fiskeldisins og ættu þess vegna fremur að njóta tekjuaukans beint án milligöngu ríkisins. Ríkisvaldið breiðir úr sér, en gefur lítið sem ekkert af sér í atvinnumálum.  Ráðherra matvæla hefur orðið á og tengt þessa peningasugu við rangan vasa. 

 Í Morgunblaðinu, 15. september 2022, birtist frásögn af þessu ásamt viðtali við framkvæmdastjóra SFS undir fyrirsögninni:

"Fiskeldisgjald hækki um 800 milljónir":

"Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri fyrirtækja í sjávarútvegi, segir hækkun gjaldsins nú koma á óvart.  Hún rifjar upp, að lægri gjaldheimta hér en í Færeyjum hafi verið rökstudd með því, að tekjuskattur væri lægri þar í landi og fyrirtæki hér greiddu þegar gjald í umhverfissjóð sjókvíaeldis og aflagjöld til hafna. Þá bendir hún á, að fiskeldi sé mun lengra á veg komið í Færeyjum en hér við land.  Það skjóti því skökku við, að nú eigi að hækka gjaldið til jafns við það færeyska.  Heiðrún bendir á, að á vegum matvælaráðuneytisins sé verið að marka stefnu fyrir fiskeldi til framtíðar. Sú niðurstaða, að atvinnugrein í uppbyggingu þoli frekari gjaldtöku, komi því á óvart." 

Ráðherrann, sem í hlut á, er ekki þekkt af umhyggju fyrir vexti og viðgangi atvinnuveganna, heldur fremur, að hún vilji, að krumlur ríkisvaldsins læsi sig um þjóðarlíkamann allan, þ.m.t. atvinnuvegina, og hvers vegna þá ekki að nýta valdastöðu sína til að hækka skattheimtu af atvinnugrein í þróun um svona 43 % með einhverri rökleysu eins og þeirri, að þar með sé sama skattheimtustigi náð og einhvers staðar annars staðar. Svona vinnubrögð á efsta stigi stjórnsýslunnar eru svo óvönduð, að þau verður að flokka undir fúsk. Þessi sami ráðherra hefur á öllum sínum ráðherraferli sýnt, að hún er óhæf til sjálfstæðrar greiningarvinnu og rökréttrar ákvarðanatöku á grundvelli verkefnisins, sem fást þarf við hverju sinni.  Þeim mun tamari eru henni klisjurnar og pólitískar upphrópanir af ýmsu tagi, enda af sauðahúsi svartnættis rauðu trúarbragðanna, sem hvergi nokkurs staðar hafa gefizt vel, eins og Venezúela er nú talandi dæmi um. 

Í lok tilvitnaðrar fréttar stóð þetta: 

"Þriðjungur af gjaldinu rennur áfram til sveitarfélaga, ekki beint, heldur með styrkjum til verkefna. Fiskeldisfélögin á Vestfjörðum og Austfjörðum hafa gagnrýnt þetta fyrirkomulag og lagt til, að gjaldið renni beint til sveitarfélaganna til að standa straum af uppbyggingu innviða vegna þessarar nýju atvinnugreinar.  Fasteignaskattar af mannvirkjum landeldis ganga beint til viðkomandi sveitarfélaga, en ekkert er greitt af sjókvíum undan landi.  Sigríður Ó. Kristjánsdóttir framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu tekur fram, að sveitarfélögin hafi ekki beðið um hækkun á fiskeldisgjaldinu.  Hins vegar telur hún eðlilegt, að allt gjaldið renni til sveitarfélaganna a.m.k. tímabundið, á meðan þau eru að byggja sig upp eftir 30 ára niðursveiflu."  

Gagnrýni sveitarfélaganna á ráðstöfun fiskeldisgjalds er fyllilega réttmæt.  Fyrirætlun ráðherra og embættismanna um, að gjaldið renni til ríkisins er gott dæmi um drottnunargirni þessara aðila yfir gjaldendum og byggðunum.  Það er í viðkomandi sveitarfélögum, sem lunginn af kostnaðinum fellur til, og ríkið hefur engan siðferðislegan rétt til þessarar skattheimtu.  Þar á bæ hafa menn enga hugmynd um, hvernig bezt er að verja fénu til að styrkja atvinnugreinina með innviðauppbyggingu.  Það er furðulegt, að landsbyggðarþingmenn o.fl. skuli ekki grípa í taumana og leiðrétta þessa vitleysu matvælaráðherrans, sem aldrei kann fótum sínum forráð, heldur er blinduð af miðstýringaráráttu.     

 

 


Vaxtarskeiði fiskeldis er hvergi lokið hérlendis

Nú er saman komin sú þekking og fjármagn í fiskeldi hérlendis, sem saman mynda grundvöll heilbrigðs vaxtar í atvinnugreininni.  Við blasir atvinnugrein, sem með þessu móti býr sig í stakkinn til að verða ein af undirstöðum íslenzkrar útflutningsstarfsemi. 

Eins og við hlið hinna undirstaðanna, sjávarútvegs, orkusækins iðnaðar, flutnings erlendra ferðamanna til og frá landinu og sölu gistingar til þeirra, þróast alls konar starfsemi við hlið fiskeldisins, t.d.  hönnun og framleiðsla á sjálfvirkum búnaði og fóðurframleiðsla. Sú síðast nefnda á mikla framtíð fyrir sér vegna möguleika á hráefni, sem að öllu leyti getur orðið innlent, og vegna hagstæðrar raforku úr endurnýjanlegum orkulindum.  Það, sem þarf til að skjóta stoðum undir innlenda fóðurframleiðslu, er að stórefla kornrækt í landinu. Einkaframtakið er fullfært um það, ef hið opinbera aðeins hefur manndóm í sér til að bjóða kornbændum áfallatryggingu gegn uppskerubresti.  Með þessu fæst heilnæmara fæði og fóður með minna kolefnisspori en samsvarandi innflutningur og gjaldeyrissparnaður, sem styrkir ISK að öðru óbreyttu og eykur verðmætaskapandi vinnu í landinu, sem er ígildi útflutningsiðnaðar. 

Íslenzkt fjármagn og þekking koma nú af vaxandi krafti inn á öllum sviðis fiskeldis við og á Íslandi ásamt hliðargreinum.  Það er eðlileg þróun, en hvaðan kemur þetta fjármagn og þekking ?  Hvort tveggja kemur aðallega frá íslenzkum sjávarútvegi, sem er afar ánægjuleg þróun. Ef hins vegar niðurrifspúkar í íslenzkri stjórnmálastétt, gjörsneyddir þekkingu á þörfum atvinnulífsins, hefðu ráðið för á Alþingi, væri nú íslenzkur sjávarútvegaður sá eini í heiminum, sem væri ofurskattlagður, væri þannig í hrörnun og ekki í neinum færum til að hleypa lífi í sprotagreinar. Fyrirtækið, sem hér á eftir kemur við sögu, Laxá fiskafóður á Akureyri, er dótturfélag almenningshlutafélagsins Síldarvinnslunnar á Neskaupstað, svo að saga auðhyggju og atvinnusköpunar verður ekki betri.  Afætur og skattheimtuskúmar á Alþingi og víðar geta étið það, sem úti frýs, á meðan þekking og fjármagn einkaframtaksins leggur grunn að auðsköpun þjóðar í vexti. 

Þann 18. október 2022 birti Gunnlaugur Snær Ólafsson viðtal í Morgunblaðinu við hinn stórhuga Gunnar Örn Kristjánsson (GÖK), framkvæmdastjóra Laxár fiskafóðurs á Akureyri, undir fyrirsögninni:

"Innlend verksmiðja anni eftirspurn":

"Hann segir áherzlu fyrirtækisins vera að framleiða fóður fyrir fiskeldi innanlands."Laxá er með 80 % hlutdeild í sölu fiskafóðurs á landeldismarkaðinum, þannig að við erum með seiðastöðvarnar almennt, landeldisstöðvar fyrir lax og bleikju og svo sjóeldi á regnbogasilungi fyrir vestan. Hvað sjóeldi á laxi varðar, erum við í dag ekki ekki tæknilega útbúnir til að framleiða þetta fituríka fóður, sem notað er, og voru því flutt inn 60 kt á síðasta ári [2021] af fiskafóðri frá Noregi og Skotlandi."" 

Það liggja greinilega ónýtt, fýsileg þróunartækifæri til atvinnusköpunar og aukinnar verðmætasköpunar úr afurðum sjávarútvegs og landbúnaðar til að framleiða meira en 100 kt/ár af fóðri í vaxandi sjókvíalaxeldi og spara þannig um 25 mrdISK/ár af gjaldeyri, er fram líða stundir. Að gera íslenzka fæðuframleiðslu sem sjálfbærasta og sem óháðasta erlendum aðföngum er verðugt verkefni, og með orkuskiptunum og fjölbreyttri ræktun innanlands við batnandi náttúruleg skilyrði hillir undir aukið sjálfstæði innlendrar matvælaframleiðslu.  Annað mál er, að ætíð verður við venjulegar aðstæður þörf á innflutningi matvæla, sem ekki eru framleidd hérlendis í neinum mæli.

"Eftirspurn eftir fóðri, sem er umhverfisvænna og með minna kolefnisspori, hefur aukizt í takti við kröfur neytenda til eldisafurða.  "Við erum að flytja maís frá Kína og soja frá Suður-Ameríku.  Soja skilur eftir sig mikið kolefnisspor vegna skógareyðingar og flutninga.  Þannig að við erum að vinna að því að finna eitthvað, sem getur komið í staðinn fyrir þetta jurtamjöl, sem við getum fengið hér innanlands eða innan Evrópu.""

Þetta er heilbrigð og ánægjuleg viðskiptahugmynd, sem verður æ raunhæfari með tímanum vegna vaxandi eftirspurnar og bættra ræktunarskilyrða og þekkingar á Íslandi á því, sem komið getur í staðinn. Það er til mikils að vinna að færa aðfangakeðjur matvælaiðnaðarins í mun meira mæli inn í landið en verið hefur. Það helzt í hendur við aukna meðvitund um nauðsyn bætts matvælaöryggis og auðvitað hollustu um leið. 

"Hann bendir einnig á, að unnið sé að sambærilegu verkefni [nýting úrgangs frá skógariðnaði] hér á landi, þar sem fyrirtæki í samstarfi við Landsvirkjun á Þeistareykjum er að skoða notkun koltvísýrings til próteinframleiðslu úr einfrumungum og einnig smærri MATÍS-verkefni, þar sem nýttar eru aukaafurðir úr kornrækt til að búa til prótein með einfrumungum.  "Þetta er mjög spennandi verkefni líka.  Það væri mikill munur að geta fengið fleiri umhverfisvæn hráefni innanlands."" 

Þetta sýnir þróunarkraftinn í fyrirtækjum í fóður- og matvælaiðnaði hérlendis, og það er ekki sízt að þakka afli sjávarútvegsins og fiskeldisins.  Hreint koltvíildi, CO2, verður verðmætt hráefni í fóðurgerð og eldsneytisframleiðslu, enda er dýrt að vinna það úr afsogi.  Það er þess vegna sóun fólgin í að dæla koltvíildinu niður í jörðina með ærnum tilkostnaði, eins og gert er á Hellisheiði og áform eru um að gera í Straumsvík, en verður sennilega aldrei barn í brók, af því að miklu hagkvæmara er að selja CO2 sem hráefni í framleiðsluferla framtíðarinnar.

"Hann [Gunnar Örn] kveðst eiga sér draum um, að kornrækt hér á landi verði einnig mun meiri í framtíðinni, þar sem núverandi framleiðsla sé langt frá því að svara hráefnisþörf fóðurfyrirtækja.  "Það þyrfti ekki endilega að styrkja bændur til að hefja kornrækt.  Það þarf bara einhvers konar bjargráðasjóð þannig, að [verði] uppskerubrestur, færu þeir ekki í gjaldþrot.  Síðan þyrfti að vera eitthvert söfnunarkerfi í anda kaupfélaganna, svo [að] hægt yrði að kaupa í miklu magni."" 

Þarna er að myndast innanlandsmarkaður fyrir kornbændur.  Annaðhvort mundu þeir mynda með sér félag um söfnunarstöðvar eða fjárfestar koma þeim á laggirnar.  Aðalatriðið er, að eftirspurnin er komin fyrir kornbændur.  Það er varla goðgá að tryggja þá gegn áföllum, eins og gert er sums staðar erlendis. Þetta er hagsmunamál fyrir landið allt. 

Að lokum kom fram hvatning Gunnars Arnar Kristinssonar:

 "Íslendingar ættu að vera fullfærir um að framleiða allt sitt fiskafóður sjálfir og með umhverfisvænni hætti en innflutt, að mati hans.  Það skilar mun lægra kolefnisspori og ekki sízt betri sögu um sérstöðu íslenzkra fiskeldisafurða, sem hefði jákvæð áhrif á viðhorf neytenda á erlendum mörkuðum."

Hér er stórhuga sýn um þróun fiskafóðurframleiðslu í landinu sett fram af kunnáttumanni í þeirri grein.  Hér er ekkert fleipur á ferð , og GÖK færir fyrir því sannfærandi rök, hvers vegna fiskeldisfyrirtækin hérlendis ættu að taka innlenda framleiðslu fiskafóðurs fram yfir erlenda.  

 

 

  


Kaflaskipti í virkjanasögunni

Ef yfirvöld hér ætla að hleypa vindmyllutindátum á íslenzka náttúru, þá hefja þau þar með svartan kafla í virkjanasögu landsins.  Ástæðan er sú, að jarðrask á ósnortnum víðernum eða annars staðar og herfileg ásýndarbreyting landsins til hins verra mun ekki vera í neinu ásættanlegu samræmi við ávinningin, sem af bröltinu hlýzt fyrir almenning.  Þegar bornir eru saman debet- og kredit-dálkar bókhalds vindmylluþyrpingar í íslenzkri náttúru, stendur eftir einn stór mínus. 

Þessu er allt öðru vísi varið með hefðbundnar íslenzkar virkjanir.  Þær eru allar í stórum plús, þegar bornir eru saman debet- og kredit-dálkar þeirra að teknu tilliti til landverndar.  Nú verða þau, sem lagzt hafa gegn nánast öllum hefðbundnum virkjunum hérlendis, að draga nýja varnarlínu vegna harðvítugrar ásóknar fyrirbrigða, sem engum þjóðhagslegum hagnaði geta skilað að sinni. 

Virkjanaandstæðingar verða nú að fara að líta jákvæðum augum á nýtingu innlendra orkulinda fallvatna og jarðgufu og á flutningslínurnar, enda fer nú stöðugt fækkandi km loftlína flutnings og dreifingar í heild sinni, en aftur á móti ættu þessir aðilar nú að beita öllu afli sínu til að koma í veg fyrir stórfellda afurför, hvað varðar jarðrask og ásýnd lands vegna virkjana í samanburði við ávinninginn af þeim.

  Fjárhagslegur ávinningur fyrir almenning er enginn af vindmylluþyrpingum, af því að þær munu ekki geta keppt við hagkvæmni hefðbundinna íslenzkra virkjana.  Landþörf vindmylluþyrpinga er margföld á við hefðbundnar íslenzkar virkjanir á hverja framleidda raforkueiningu, og ásýndin er fullkomlega herfileg, sama hvar á er litið, enda falla vindmyllurnar eins illa að landinu og hægt er að hugsa sér, öfugt við hefðbundin íslenzk orkumannvirki. 

Þau, sem leggjast gegn lögmætum áformum um jarðgufuvirkjun eða vatnsfallsvirkjun, eru að kalla yfir okkur óhamingjuna, sem af vindmylluþyrpingum leiðir.  Þar er ekki einvörðungu um að ræða mikið jarðrask, hávaða á lágum tíðnum, sem langt berst, örplastmengun jarðvegs frá vindmylluspöðunum og jafnvel fugladauða, ef höfð er hliðsjón af reynslu t.d. Norðmanna, heldur óhjákvæmilega hækkun rafmagnsreikningsins, og mun keyra þar um þverbak eftir innleiðingu uppboðsmarkaðar dótturfélags Landsnets, sem mun aðeins gera illt verra á Íslandi og verða eins konar verkfæri andskotans í þeirri skortstöðu orku, sem iðulega kemur upp á Íslandi. 

Jóhannes Stefánsson, lögfræðingur Viðskiptaráðs, ritar iðulega einn eða með öðrum áhugaverðar og bitastæðar greinar í blöðin.  Þann 24. ágúst 2022 birtist í Fréttablaðinu ein þessara greina undir fyrirsögninni:

"Virkjum fallega".

Hann víkur þar að þjóðgarðinum Khao Sok í Tælandi:

"Stöðuvatnið, lífríkið og landslagið hefur gríðarlegt aðdráttarafl, og fyrir vikið er Khao Sok vinsæll ferðamannastaður.  En það er nýlega til komið. 

Það er ótrúlegt til þess að hugsa, að stöðuvatnið, sem má segja, að sé þungamiðja þjóðgarðsins, er manngert.  Það heitir Cheow Larn og þekur um fjórðung garðsins.  Vatnið er uppistöðulón Ratchaprapha stíflunnar, sem var tekin í gagnið 1987.  Framleiðslugetan er 240 MW af hreinni, endurnýjanlegri orku, sem slagar [upp] í uppsett afl Búrfellsvirkjunar, 270 MW.  Þrátt fyrir óspillta náttúru hafði Khao Sok ekki það aðdráttarafl, sem [hann] nú hefur, eftir að stíflan var reist."

Svipaða sögu má segja um margar vatnsaflsvirkjanir heimsins, einnig á Íslandi. Það er alls ekki slæmt í sjálfu sér, að landnotkun breytist, og miðlunarlón eru víða til bóta, hækka grunnvatnsstöðu í grennd, og þar þróast lífríki, enda draga þau til sín ferðamenn. 

Góð hönnun gerir gæfumuninn.  Einhverjar fórnir eru þó óhjákvæmilegar, þegar vatnsfall eða jarðgufa eru virkjuð, en það má nú á dögum gera þannig, að það, sem í staðinn kemur, vegi upp tapið og jafnvel vel það.  Þá hefur verið gætt hófs hérlendis og mannvirki felld vel að landinu.  Það virðist og hafa verið gert í þeirri vatnsaflsvirkjun í Tælandi, sem Jóhannes Stefánsson gerir þarna að umfjöllunarefni, og þess var líka gætt við Búrfellsvirkjun og allar aðrar virkjanir á Þjórsár/Tungnaársvæðinu. 

"Mannleg tilvera útheimtir orku, hvort sem hún fer fram í hellum eða háhýsum.  Orkan er notuð til þess að búa til heimili, vegi, skóla, lyf og lækningatæki.  Lífskjör og velferð okkar allra eru enn sem komið er í órjúfanlegu samhengi við orkuna, sem við beizlum.  Lífið er orka, og orka er lífið."

 Þau, sem leggjast gegn hefðbundnum íslenzkum virkjunum, þótt þær hafi verið settar í nýtingarflokk Rammaáætlunar, hafa annaðhvort ekki áttað sig á þessum almennu sannindum eða þau reyna meðvitað að stuðla að minnkun neyzlu, sem er annað orðalag fyrir lífskjararýrnun. Fulltrúar fyrirtækja hafa tjáð skilning sinn á þessu rökræna samhengi, en fulltrúar launafólks hafa verið furðulega hlédrægir og orðfáir um málefnið m.v. það, sem í húfi er fyrir umbjóðendur þeirra. 

Nú er það svo, að Íslendingar eiga úr tiltölulega fleiri virkjanakostum endurnýjanlegrar orku að velja en líklega nokkur önnur þjóð.  Þegar af þeirri ástæðu er enn úr mörgum kostum að moða, sem ekki geta talizt ganga á einstök náttúruverðmæti eða verið til verulegra lýta í landinu, eins og samþykktur 3. áfangi Rammaáætlunar um vatnsfalls- og jarðgufuvirkjanir er til vitnis um.

Þess vegna sætir furðu, að yfirvöld séu að íhuga að kasta stríðshanzkanum að meirihluta þjóðarinnar með því að leyfa uppsetningu dýrra, afkastalítilla og forljótra mannvirkja með afar ágengum og áberandi hætti í íslenzkri náttúru. Hér er auðvitað átt við risastórar vindmyllur til að knýja rafala, í mörgum tilvikum á heiðum uppi til að ná í hraðfara vind. Það yrði stílbrot í sögu rafvæðingar á Íslandi að leyfa þau ósköp, sem ekki munu auðga almenning, eins og þó hefur gilt um allar virkjanir á Íslandi fram að þessu, því að þessi fyrirbrigði munu leiða til gjörsamlega óþarfra verðhækkana á rafmagni hérlendis. 

"Baráttan við óreiðuna fer fram með inngripum í náttúruna.  Það fylgir því samt alltaf fórnarkostnaður að raska óspilltri náttúru.  Það veit sennilega enginn nákvæmlega, hver sá fórnarkostnaður var í Khao Sok, og þrátt fyrir mótvægis- og björgunaraðgerðir er ljóst, að fjöldi dýra af ólíkum tegundum lifði framkvæmdina ekki af, enda breytti hún vistkerfi stórs hluta þjóðgarðsins verulega. 

Í þessu [tilviki] var ávinningurinn talinn meiri en fórnarkostnaðurinn.  Þrátt fyrir allt þrífst fjölbreytt lífríki áfram í Khao Sok.  Svæðið tók stakkaskiptum og er í dag gríðarfallegt og laðar að sér fjölda gesta árlega.  Tælendingar búa nú einnig yfir hreinni, endurnýjanlegri orku.  Þessi orka er svo undirstaða verðmætasköpunar, sem aftur er órjúfanleg forsenda velferðar. 

Það skal ósagt látið, hvort virkjunin í Khao Sok hefði getað orðið að veruleika í íslenzku laga- og stofnanaumhverfi.  Sennilega ekki.  Hvað, sem því líður, má samt færa sannfærandi rök fyrir því, að ákvörðun um að reisa Ratchaprapha stífluna hafi verið skynsamleg, þótt hún hafi ekki verið sársaukalaus."

Það er hægt að reikna út þjóðhagslegt gildi virkjunar, hagvaxtaráhrif hennar og áætluð framleiðsluverðmæti rafmagns frá henni. Ef hún er hagkvæmasti virkjunarkostur landsins, er þjóðhagslegt gildi hennar ótvírætt, en ef rafmagnsvinnslukostnaður hennar er 40-50 % hærri en annarra aðgengilegra kosta, þá er þjóðhagsgildi hennar ekkert, og ætti að hafna henni jafnvel áður en lagt er í vinnu við að meta fórnarkostnaðinn.  

Það eru til aðferðir við að meta fórnarkostnað við virkjun, en engin þeirra er einhlít.  Landþörf virkjunar í km2/GWh/ár er þó óneitanlega mikilvægur mælikvarði og annar vissulega sá, hversu langt að heyrist í og sést til virkjunar.  Allir þessir mælikvarðir gefa til kynna mikla landkræfni vindmylla, og kann hún að vera meðvirkandi þáttur í ásókn erlendra fyrirtækja í framkvæmdaleyfi fyrir vindmylluþyrpingar erlendis, en andstaða almennings við uppsetningu þeirra á landi fer nú vaxandi þar.

"Dæmið um Khao Sok þjóðgarðinn á brýnt erindi við þau okkar, sem hafa bæði áhuga á velferð og náttúruvernd.  Það eru líklega flestir Íslendingar, sem falla þar undir.  Saga okkar, afkoma og lífsgæði, eru svo nátengd íslenzkri náttúru, að það eru harla fáir, sem skilja ekki mikilvægi hennar.  Að sama skapi er sá vandfundinn, sem segist ekki vera umhugað um velferð.  En það er ekki síður mikilvægt að skilja, hvað velferð er, og hvernig hún verður til.

Velferð okkar sem þjóðar byggir ekki sízt á gæfu okkar til þess að virkja náttúruöflin til orkuframleiðslu.  Það er jafnvægislist að gæta að náttúrunni, en beizla krafta hennar á sama tíma, eins og dæmið um Khao Sok sýnir okkur.  Þetta er vel hægt með skynsemi að leiðarljósi, og við eigum aldrei að raska óspilltri náttúru meira en þörf krefur. 

Við eigum alltaf að velja þá kosti, sem veita mestan ávinning með minnstum fórnarkostnaði.  Það er líka mikilvægt að nýta orkuna skynsamlega, og að sama skapi eru einhverjir hlutar náttúrunnar, sem við viljum af góðum og gildum ástæðum ekki undir neinum kringumstæðum hrófla við."

  Þarna hefur lögfræðingurinn mikið til síns máls.  Við verðum að ganga út frá því sem gefnu, að nútíma- og framtíðarþjóðfélagið útheimta a.m.k. tvöföldun á virkjuðu afli, ef hér á að vera hægt að halda í horfinu með tekjur á mann, sem nú eru á meðal hinna hæstu í Evrópu, svo að ekki sé nú minnzt á blessuð orkuskiptin og kolefnishlutleysið 2040.

Innan íslenzku verkfræðingastéttarinnar er fólk, sem hefur sérhæft sig í virkjunum við íslenzkar aðstæður, og þetta sama fólk leggur auðvitað metnað sinn í að leggja fram góðar lausnir, sem hafa verið beztaðar (optimised) til að gefa kost á hámarksorkuvinnslu á viðkomandi stað innan ramma hófsamlegrar breytingar á náttúrupplifun á athafnasvæðinu.  Sé litið til baka, sést, að íslenzkir arkitektar og verkfræðingar hafa staðið undir kröfum, sem gerðar eru til þeirra um ásýnd mannvirkjanna. 

Við val á næsta virkjunarkosti er það gullvæg regla, sem lögfræðingurinn nefnir, að hlutfall ávinnings og fórnarkostnaðar á að vera hæst fyrir valinn kost úr hópi virkjunarkosta, sem virkjunarfyrirtækin leggja fram. Sé þessi gullvæga regla höfð að leiðarljósi, geta yfirvöld hætt að klóra sér í skallanum út af regluverki, sem þau eru að bögglast við að koma á koppinn um vindmylluþyrpingar, því að röðin mun þá ekki koma að þeim fyrr en að a.m.k. tveimur áratugum liðnum.

Undir lokin skrifaði lögfræðingurinn:

"En það er aldrei hægt að fallast á, að það megi ekki undir nokkrum kringumstæðum hrófla við neinum hluta náttúrunnar.  Ef náttúran á alltaf að njóta vafans, þá er engin mannleg velferð í boði og rangt að halda öðru fram.  Svo öfgakennd afstaða getur ekkert annað leitt af sér en versnandi lífskjör okkar allra til langrar framtíðar.  Þá neitum við okkur og afkomendum okkar um lífskjörin, sem við þekkjum í dag.  Þeim mun hratt [hraka], nema ófyrirséðar tækniframfarir séu handan við hornið.  

Vonandi bíður okkar bylting í orkuframleiðslu, t.d. með kjarnasamruna.  Það gæti breytt dæminu verulega.  Við getum hins vegar ekki stefnt inn í framtíðina upp á von og óvon um, að það gerist einhvern tímann á næstunni."

Það er nú sennilega styttra í nýja og öruggari kynslóð kjarnakljúfandi orkuvera en samrunavera.  Þótt ábyrgðarlaust og glórulaust sé að leggjast gegn nánast öllum virkjanahugmyndum á Íslandi, sé höfð hliðsjón af tilvitnunum í téðan lögfræðing, þá er samt talsverður fjöldi landsmanna í þessum hópum ofstækisfullra náttúruverndarsinna.  Mörgum þeirra gengur hrein afturhaldssemi til.  Þeir vilja ekki sjá nein mannleg inngrip í náttúruna, sem heitið geti, og þeir eru "mínímalistar" um lifnaðarhætti.  Fjölskyldubíllinn er þar á bannlista, og kannski vilja þau innleiða þvottabrettið í stað þvottavélarinnar.  Þau hafa talið sér trú um, að stórfelld neyzluminnkun verði að eiga sér stað til að bjarga jörðunni, andrúmsloftinu og lífríkinu. Þessar öfgaskoðanir eru keyrðar áfram sem trúarbrögð, svo að mótrök komast ekki að.

Þjóðfélagið á ekki að færa slíku jaðarfólki og sérvitringum alls konar vopn í hendur til tafaleikja og hindrana á framfarabrautinni.  Ein afleiðingin af því er, að ekkert virkjanaleyfi hefur enn fengizt fyrir virkjun, sem leyst getur íslenzkt efnahagslíf úr viðjum orku- og aflskorts.  Íslendingar missa þar með af mikilvægri atvinnuþróun í a.m.k. einn áratug og eiga á hættu orkuskömmtun að vetrarlagi, eins og fiskbræðslur, hitaveitur með lítinn eða engan jarðvarma og orkusækinn útflutningsiðnaður fengu að kenna á veturinn 2021-2022. Enginn er bættari með afl- og orkuskorti.    

     

 

 


Gönuhlaup í loftslagsmálum

Engu máli skiptir fyrir þróun hitastigs á jörðunni, hversu fljótir Íslendingar verða að ná kolefnishlutleysi.  Engu að síður hafa leiðandi stjórnmálamenn á Íslandi á borð við forsætisráðherra fyrrverandi og núverandi ríkisstjórnar, Katrínu Jakobsdóttur, beitt sér fyrir því, að Íslendingar verði á undan öðrum þjóðum í heiminum að ná þessu marki. Þetta er sem sagt "futile" eða marklaust markmið.  Innihaldsleysið og tvískinningurinn við þessa markmiðssetningu er síðan, að græningjarnir grafa undan þessu markmiði með því að leggjast gegn því, sem er forsenda markmiðsins, að til sé næg áreiðanleg virkjuð orka til að framleiða raforku til að koma í stað jarðefnaeldsneytisins, sem óhjákvæmilegt er að stórminnka notkun á til að ná kolefnishlutleysi.  Markmiðið er þannig ómarktækt. Síðan er vaðinn elgurinn í kringum þessi orkuskipti, sem þar að auki eru óraunhæf innan settra tímamarka, af því að nauðsynlegar þróaðar tæknilausnir vantar. Blindur leiðir haltan.   

Þann 3. október 2022 birti Morgunblaðið viðtal við forstöðumann Grænvangs, þar sem kenndi ýmissa grasa:

""Loftslagsmál þurfa hvarvetna að vera efst á blaði", segir Nótt Thorberg, forstöðumaður Grænvangs, sem er samstarfsvettvangur atvinnulífs og stjórnvalda um loftslagsmál og grænar lausnir.  "Græn orkuskipti byggjast á samvinnu fjöldans, þannig að um verkefni ríki samfélagsleg sátt. Umskipti, sem nú eiga sér stað í heiminum, fela í sér mörg sóknartækifæri fyrir Ísland.  Munu geta aukið samkeppnishæfni okkar í alþjóðlegu samhengi, en jafnhliða þurfa umskiptin að vera sjálfbær og réttlát.  Því eru fram undan spennandi tímar í umbreytingum, þar sem Íslendingar ætla að ná forystu á heimsvísu.""

Hér orkar æði margt tvímælis og annað svo loftkennt, að erfitt er að festa fingur á því.  Hvers vegna þurfa loftslagsmál hvarvetna að vera efst á blaði á Íslandi, þótt ljóst sé, að losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi manna hérlendis hafi engin mælanleg áhrif á meinta hlýnun jarðar af mannavöldum og sé ekki umfangsmikil í samanburði við losun náttúrunnar sjálfrar án tilstillis "homo sapiens", m.a. frá eldstöðvum landsins ?  Þá hafa landsmenn þegar staðið sig betur en flestar þjóðir aðrar við að sneiða hjá jarðefnaeldsneyti við rafmagnsframleiðslu og upphitun húsnæðis.  Hvers vegna liggur svona mikið á, þegar hlutfall jarðefnaeldsneytis í heildarorkunotkun landsmanna er nú þegar lægra (15 %) en víðast hvar annars staðar ?

Hefði forstöðumanni Grænvangs ekki verið nær að hefja mál sitt á nauðsyn þess að leggja traustan og sjálfbæran grunn að orkuskiptum á Íslandi ?  Sá grunnur felst í að afla raforku úr vatnsföllum landsins og iðrum jarðar.  Á meðan það er ekki gert, er allt tal um hröð orkuskipti hérlendis fleipur eitt. Hér stendur upp á stjórnvöld, því að stofnanir ríkisins hafa ekki verið hjálplegar í þessu tilliti, og nægir að nefna Orkustofnun, sem legið hefur nú á umsókn Landsvirkjunar um virkjanleyfi í Neðri-Þjórsá í hálft annað ár. Þetta heitir að draga lappirnar og stuðla að langvarandi raforkuskorti í landinu, sem hamlar hagvexti stórlega og þar með kjörum almennings   og afkomu hins opinbera. 

""Orkunýting með virkjunum bætti þjóðarhag.  Hún styrkti sjálfstæði þjóðarinnar, skapaði meiri stöðugleika og jók samkeppnishæfni okkar í alþjóðlegu samhengi.  Það sama er að gerast núna.  Verkefnið í dag er stærra og snýr að öllum heiminum, sbr fyrirheit þjóða um að draga úr mengun og halda hlýnun andrúmsloftsins undir 1,5°C, sbr Parísarsamkomulagið.  Stærðargráða viðfangsefna er því allt önnur en áður, auk þess sem lönd og jafnvel atvinnugreinar eru tengdari nú en áður.  Orkuöflun og -skipti eru alþjóðleg verkefni.""  

Það er jákvætt, að þarna er viðurkennt, að virkjanir landsins eru hornsteinn velmegunarinnar í nútímasamfélaginu á Íslandi, en annað þarfnast skýringa af hendi höfundarins.  Hvernig getur orkuskiptaverkefnið verið stærra núna en áður, þegar aðeins 15 % heildarorkunotkunarinnar er úr jarðefnaeldsneyti ?  Hvernig leggjum við mest af mörkum á heimsvísu til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda ?  Það er með því að virkja sem mest af stöðugum orkulindum landsins til að verða við óskum stóriðjufyrirtækja um ný orkukaup á Íslandi, hvort sem það eru núverandi stóriðjufyrirtæki á landinu eða önnur.  Það er hins vegar ekki á döfinni samkvæmt forstjóra Landsvirkjunar á Haustfundi fyrirtækisins í október 2022.  Það fer víða ekki saman hljóð og mynd, þegar umræðan snýst um orkumálin á Íslandi, þ.e.a.s. hún er handan raunveruleikans, enda ríkir stöðnun á því sviði, sem mestu máli skiptir; á sviði stórfelldrar nýrrar hagnýtingar náttúrulegra, hefðbundinna orkulinda landsins.   

    


Iðnaðarframleiðsla í kreppu

Nú hefur hryggjarstykkið í illa ígrundaðri orkustefnu Þýzkalands og þar með Evrópusambandsins (ESB) verið sprengt í sundur í bókstaflegri merkingu og verður líklega aldrei sett saman aftur, því að sjór mun flæða inn í lagnirnar og tæra þær.  Þar með er í vissum skilningi líftaugin á milli Rússlands og Þýzkalands brostin, en margir Þjóðverjar sáu hana bæði sem leið til að láta sár gróa eftir hildarleik og blóðugustu bardaga Síðari heimsstyrjaldarinnar á Austurvígstöðvum Þriðja ríkisins og illvirki á báða bóga, þar sem tilraun var gerð til að brjóta rússneska heimsveldið á bak aftur, og til eflingar viðskipta, sem væru báðum í hag. Rússneski björninn trúr útþensluhefð sinni undi hins vegar ekki því, að frelsisandi þjóðanna, sem brutust undan veldi hans við fall kommúnismans 1989-1991, fengi að blómstra. Nú er aftur barizt á banaspjótum í Úkraínu og hermdarverk framið úr kafbáti á botni Eystrasalts í lögsögu Danmerkur og Svíþjóðar.  Það mun draga dilk á eftir sér.  Sá, sem það framdi, lagði grunninn að átökum Austurs og Vesturs, sem lykta mun með falli annars eða beggja. Ragnarök eru í vændum. 

Nú reynir mjög á þolrif Evrópuþjóðanna vegna dýrtíðar, samdráttar hagkerfa og líklegu vaxandi atvinnuleysi, sem við þessar aðstæður getur leitt til gjaldþrots margra fyrirtækja og fjölskyldna. Ofan í þessa stöðu var afar athyglivert að heyra haft eftir kanzlara Þýzkalands, kratanum Olaf Scholz, að nú þætti þýzku ríkisstjórninni brýnt til varnar frelsi Evrópuríkjanna, að þýzki herinn yrði sá stærsti og bezt vopnum búni í Evrópu. Það hefur gerzt áður, en undir öðrum formerkjum, en alltaf er ógnin úr austri undirtónninn.  

Skyldi Litla-Napóleóni í Elysée-höllinni ekki hafa svelgzt á, þegar hann frétti þetta ?  Það er gefið í skyn, að Evrópumenn verði að taka á sig auknar hernaðarlegar byrðar, því að Bandaríkjamenn muni í náinni framtíð þurfa að einbeita sér að Kyrrahafinu og að aðstoða Taiwan-búa við varnir eyjarinnar.  Eftir þessa tímamótayfirlýsingu kanzlarans ætti hann að veita Græningjanum á stóli utanríkisráðherra og landvarnaráðherranum nauðsynlegan stuðning, svo að hinn vaxandi þýzki her veiti nú úkraínska hernum allan þann hernaðarstuðning, sem hann má og rúmast innan samþykkta NATO.  Sá stuðningur felur í sér öflugustu þungavopn Bundeswehr á borð við Leophard 2 bryndrekann og loftvarnakerfi. Vesturveldin hljóta líka að drífa í afhendingu Patriot-loftvarnakerfisins til Úkraínu. 

Þótt sverfi að Evrópuþjóðunum er það hátíð ein hjá því helvíti, sem Rússlandsstjórn og rússneski herinn hafa leitt yfir úkraínsku þjóðina. Þess vegna má ekki láta deigan síga í allra handa stuðningi við úkraínsku þjóðina, sem úthellir blóði sínu fyrir frelsi sitt og frelsi allrar Evrópu.

Iðnaðarframleiðsla dregst nú saman í Evrópu, og er þar bílaiðnaðurinn ekki undanskilinn.  Spurn eftir rafmagnsbílum í Evrópu hefur hríðfallið, af því að nú er rafmagnið á bílana dýrara en jarðefnaeldsneyti m.v. sömu akstursvegalengd.  Byggingariðnaðurinn er líka í lamasessi, og af þessum ástæðum hefur spurn eftir áli minnkað tímabundið og þar með álverð á LME-markaðinum í Lundúnum.  Það berast hins vegar engar fregnir af fyrirætlunum álveranna þriggja hérlendis um að draga saman seglin, enda er LME-verðið nú um 2100 USD/t Al og spáð hækkandi á næsta ári.  Fyrirtæki á borð við ISAL í Straumsvík, sem einvörðungu framleiðir sérpantaða vöru (ekkert selt til endurbræðslu), fær hærra verð en skráð LME-verð. 

Þann 21. september 2022 skrifaði Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, atvinnulífsgrein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni:

 "Af orkuskorti, álframleiðslu og kolefnisspori".

Hún endaði þannig:

"Evrópsk álframleiðsla nær ekki að standa undir helmingi af eftirspurn eftir áli í Evrópu.  Ísland og Noregur eru stærstu álframleiðendur innan Evrópska efnahagssvæðisins, en alls er framleitt ál í 15 Evrópulöndum, þ.á.m. Þýzkalandi og Frakklandi.  Hér á landi búa álver við langtímasamninga, sem dregur úr sveiflum og áhættu bæði fyrir álver og innlend orkufyrirtæki. Hagstætt álverð hefur skilað viðsnúningi í rekstri íslenzkra álvera , og hafa orkufyrirtækin einnig notið góðs af því, en þau hafa skilað metafkomu síðustu misserin. 

Á síðasta ári [2021] voru útflutningstekjur íslenzks áliðnaðar um mrdISK 300 eða fjórðungur af gjaldeyristekjum þjóðarinnar.  Þar af nam innlendur kostnaður álvera mrdISK 123, en áætla má, að um helmingur af því hafi farið í orkukaup.  Keyptar voru vörur og þjónusta fyrir mrdISK 35 af hundruðum innlendra fyrirtækja, laun og launatengd gjöld námu yfir mrdISK 20 til 1´500 starfsmanna, en alls eru bein og óbein störf um 5´000.  Þá námu opinber gjöld mrdISK 3,4 og styrkir til samfélagsmála yfir MISK 100.  E.t.v. er mest um vert, að losun á hvert framleitt tonn hér á landi er margfalt minni en í Kína, sem framleiðir yfir helming af öllu áli í heiminum.  Það munar um íslenzkan áliðnað."

Eftir því sem álframleiðsla á meginlandi Evrópu og í Bretlandi dregst saman vegna ósamkeppnishæfrar orkuvinnslu, eykst mikilvægi íslenzkrar álframleiðslu fyrir evrópskan markað.  Staða orkumála í Noregi er um þessar mundir óbjörguleg vegna þess, að raforkuframleiðendur hillast til að flytja raforkuna út um öfluga sæstrengi vegna svimandi hárrar verðlagningar á meginlandinu og Bretlandi.  Þar með fá verksmiðjur Noregs enga raforku utan langtímasamninga, og hefur það leitt til framleiðslusamdráttar, t.d. hjá Norsk Hydro.  Þessi staða mun halda áfram, þar til jafnvægi næst aftur á milli framboðs og eftirspurnar raforku, eða þar til Norðmenn taka orkumálin í eigin hendur og láta innlenda raforkukaupendur njóta forgangs umfram erlenda, en það er bannað í Orkupakka 3, og ESA-Eftirlitsstofnun EFTA, minnti Norðmenn á það, þegar umræða fór fram um það í Stórþinginu. 

Núverandi staða raforkumálanna í Noregi gengur þvert á hefðbundna afstöðu norsku þjóðarinnar til orkulindanna, sem er sú, að þær séu í þjóðareign, og norska ríkið eigi að geta beitt fullveldisrétti sínum til að stjórna nýtingu þeirra.  Stjórnvöld Noregs hafa villzt af þeirri leið, sem mótuð var í upphafi, að miða raforkuverð frá virkjun við verðmæti vatnsins í miðlunarlónunum, sem er útreiknað eftir vatnsmagni og árstíma, þ.e. líkum á og kostnaði af völdum tæmingar að vori, ásamt hæfilegum hagnaði til að standa undir fjárfestingum.  Árið 1993 var vikið frá þessari þjóðlegu stefnu og stofnað dótturfélag Statnetts, þeirra Landsnets, sem átti að stjórna raforkukauphöll, þar sem heildsöluverðið réðist af framboði og eftirspurn.

Nú er Landsnet statt í þessum sporum, en Norðmenn gengu enn lengra og seldu téð dótturfyrirtæki Statnetts til fjölþjóðlegrar orkukauphallar, Nord Pool.  Síðan var rekinn endahnúturinn á valdaafsal norska ríkisins yfir orkulindunum með samþykki Stórþingsins 22. marz 2018 um innleiðingu ESB-orkulöggjafarinnar, sem gengur undir nafninu Orkupakki 3, og felur ACER-Orkustofu ESB, stjórnun millilandaviðskipta á raforku.  Þessi óheillaþróun hefur leitt til mikillar dýrtíðar í Noregi og kippt fótunum undan samkeppnisstöðu hluta norsks atvinnulífs.  

Hvers vegna í ósköpunum er Landsnet nú að feta þessa óheillabraut ?  Rafmagn er undirstaða afkomu almennings í landinu, og landsmenn þurfa nú sízt á að halda afætuvæðingu í þessum geira, sem gera mun rafmagn að viðfangsefni kaupahéðna, sem fá aðstöðu til að maka krókinn án nokkurra verðleika til verðmætasköpunar.  Steininn tekur úr, þegar allt þetta umstang er sett á laggirnar undir merkjum hagsmuna almennings.  Þetta kerfi er svikamylla, sem malar ekki gull, heldur hrifsar það úr sjóðum fyrirtækja og heimila.  Vítin eru til þess að varast þau.

 


Orkustjórnkerfi í lamasessi

Orkustjórnkerfi Breta (frá dögum Margrétar Thatcher sem forsætisráðherra) og Evrópusambandsins (frá dögum Orkupakka 1 laust fyrir aldamót) er ónothæft við núverandi aðstæður að dómi Úrsúlu von der Layen, forseta framkvæmdastjórnar ESB.  Kerfi þetta lætur aðdrætti frumorkunnar afskiptalausa og gerir bara ráð fyrir því, að eldsneytissalar sjái um að birgja forðabúrin af orku. Þegar stjórnendur Sambandsins og aðildarlandanna í einfeldni sinni og barnaskap veita uppivöðslusömu einræðisríki stöðu forgangsbirgis fyrir frumorkuna, er ekki von á góðu, eins og nú hefur komið í ljós. Nú hafa bæði Nord Stream 1 og Nord Stream 2 verið sprengdar í sundur í lögsögu Danmerkur og Svíþjóðar á botni Eystrasalts.  

Á Íslandi er raforkukerfið ekki háð slíkum aðdráttum, heldur er það náttúran sjálf, sem stjórnar aðdráttum frumorkunnar, þ.e. vatnsrennsli í miðlunarlón og jarðgufustreymi inn í forðabúr gufuvirkjananna.  Þess vegna er markaðskerfi hagfræðinganna ónothæft fyrir íslenzka raforkukerfið, nema Íslendingar vilji verða fórnarlömb spákaupmennsku með raforku úr orkulindum, sem þjóðin á að mestu leyti sjálf. 

Núverandi orkustjórnkerfi hérlendis er líka ónothæft, því að það hefur ekki reynzt þess megnugt að tryggja stækkun kerfisins í tæka tíð og skeikar miklu.  Nú þegar er kerfið þanið til hins ýtrasta, en það eru a.m.k. 5 ár, þangað til næsta miðlungsstóra virkjun kemst í gagnið, og Orkustofnun virðist ekkert liggja á við að afgreiða umsókn Landsvirkjunar um virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun.  Embættisfærslan þar á bæ er orðin hneykslanleg.  

Á forsíðu Morgunblaðsins 21. september 2022 birtist frétt Baldurs Arnarsonar með eftirfarandi fyrirsögn: 

"Skortur á raforku gæti ógnað hagvexti á Íslandi".

Fréttin hófst þannig:

"Vilhjálmur Egilsson, hagfræðingur, segir það geta skapað áhættu fyrir íslenzkt hagkerfi, ef áform um orkuskipti ganga ekki eftir.  Sé krafan um græna orku ekki uppfyllt, geti það bitnað á útflutningi íslenzkra sjávarafurða og á flugsamgöngum. 

Auka þurfi framleiðslu á raforku um 24 TWh/ár, ef markmið um orkuskipti fyrir 2040 eigi að nást.  Í mesta lagi 1/10 hluti þess muni að óbreyttu nást fyrir 2030.  Því geti sú staða komið upp, að orka verði skömmtuð á Íslandi. 

Þá telur Vilhjálmur vandséð, að orkuskiptin geti gengið eftir án þess að nýta vindorkuna.  Ef 20 % orkuþarfarinnar verði aflað með vatnsorku, sem sé raunhæft, en hins hlutans með vindorku, muni það samsvara 800 vindmyllum."  

Á meðan hlutdeild endurnýjanlegrar orku af heildarorkunotkun landsmanna er yfir 85 % og langflestar þjóðir eru með miklu minni hlutdeild, eins og fyrirsjáanlegt er a.m.k. næstu 10 árin, er ímyndarvandi útflutningsgreina Íslands, þótt óraunhæf markmið stjórnmálamanna um orkuskipti náist ekki, ímyndun ein.  Áhættan er fjárhagslegs eðlis.  Þá koma til sektargreiðslur til Evrópusambandsins, sem stjórnmálamenn af ábyrgðarleysi sínu í gáska andartaksins hafa undirgengizt í nafni þjóðarinnar og geta skipt milljörðum ISK.  Þá verða atvinnuvegir og heimili líka áfram undir hæl olíuframleiðenda á sveiflukenndum markaði á leið til sólseturs, sem þýðir tilhneigingu til verðhækkana.  Aftur á móti er líka áhætta fólgin í því, að allur vélbúnaður á Íslandi sé háður raforkuvinnslu í eldfjalla- og jarðskjálftalandi á borð við Ísland. Það er þó með skynsamlegri uppbyggingu og dreifingu mannvirkja minni áhætta en væri fólgin í því fyrir landsmenn að fá hingað aflsæstreng, sem setja mundi orkumarkaðinn hér upp í loft.

Þessi viðbótar raforka, 24 TWh/ár á 2 áratugum, er áætluð heildar viðbótarþörf til vaxtar og viðgangs hagkerfinu ásamt heildar orkuskiptum.  Svartsýni Vilhjálms um orkuskömmtunarástand getur hæglega rætzt á næstu 5 árum, þ.e. fram að fyrstu virkjun í Neðri-Þjórsá, sem virðist verða næsta meðalstóra virkjun (um 100 MW) inn á stofnkerfið.  Þessi staða jafngildir falleinkunn núverandi stjórnkerfis raforkumála.  Það verður þess vegna að hanna nýtt stjórnkerfi orkumálanna hérlendis, ekki síður en í ESB, en þessi 2 stjórnkerfi verða nauðsynlega ólík, því að aðstæður eru gjörólíkar.  

Markaðskerfi raforku fyrir Ísland, sniðið að fyrirmynd ESB, er í hönnun, þótt Úrsúla von der Leyen hafi lýst þetta kerfi úrelt og ónothæft við breyttar aðstæður.  Ástæða þess, að það er ekki þegar tekið úr sambandi, er, að uppsprengt jarðgasverð veldur uppsprengdu rafmagnsverði vegna þeirrar reglu þessa kerfis, að verð til neytenda ákvarðast af jaðarverðinu, þ.e. verði næstu kWh, sem beðið er um, og þar með spara allir notendur við sig gas og rafmagn eftir megni.  

Það er eitthvað brogað við þennan vindmylluáhuga Vilhjálms.  Tölurnar, sem eftir honum eru hafðar þarna, fela í sér stórar vindmyllur, a.m.k. 7,0 MW, sem er aflmeiri vindmylla en nokkur framleiðandi hefur hingað til treyst sér að framleiða fyrir íslenzka markaðinn vegna veðurfarsaðstæðna hér.  Ef draumfarir Vilhjálms Egilssonar um 19 TWh/ár raforku frá vindmyllum rætast (Guð forði viðkvæmri íslenzkri náttúru frá öllu því jarðraski, sem þessi frumstæða og óskilvirka aðferð við raforkuvinnslu útheimtir), þá er sýnt, hvað gerist á íslenzka raforkumarkaðinum, sem dótturfélag Landsnets er að bauka við. Vindmyllueigendur munu stjórna raforkuverðinu, því að vindmyllurnar munu mynda jaðarkostnaðinn á markaðinum.  Þetta eitt út af fyrir sig mun þá valda um 50 % hækkun heildsöluverðs á raforku til almennings.  Hins vegar mun skortstaðan á íslenzka raforkumarkaðinum leiða til miklu meiri hækkana á verðinu til almennings en þetta. Þannig stefnir í algert óefni fyrir íslenzk heimili og fyrirtæki án langtímasamninga um raforkukaup vegna markaðsvæðingar raforkunnar, sem sterklega er mælt með í Orkupakka 3, en verður ekki skylda fyrr en með Orkupakka 4, og sá hlýtur nú að koma til róttækrar endurskoðunar af hálfu framkvæmdastjórnar ESB í ljósi nýlegra orða forseta hennar. 

Hvers vegna í ósköpunum leggur dr Vilhjálmur Egilsson upp með 20 % frá vatnsorkuverum og 80 % frá vindorkuverum af 24 TWh/ár fram til 2040, en 0 frá jarðgufuvirkjunum ?  Raforkan frá jarðgufuvirkjunum er yfirleitt dýrari en frá vatnsaflsvirkjunum, en ódýrari en frá vindorkuverum, og ólíku er saman að jafna um áreiðanleikann, svo að ekki sé nú minnzt á landverndina, kolefnisfótsporið á GWh að byggingarskeiði meðtöldu, notkun fágætra málma og mengun á rekstrartíma. Með því að nýta alla orkustrauma jarðgufuvirkjunar býður hún upp á alls konar starfsemi, bæði tengda afþreyingu, iðnaði og upphitun húsnæðis.  Þær eru yfirburðakostur í samanburði við viðurstyggilegar vindmyllur, sem eru algert neyðarbrauð og óþarfar á orkuríku Íslandi.  

 

 


Endurskoðun orkumarkaðar

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB), hefur lýst því yfir, að raforkumarkaður ESB sé ónothæfur við núverandi aðstæður.  Bragð er að, þá barnið finnur.  Forsenda markaðarins var alla tíð sú, að nóg bærist til hans af frumorku, þ.e. aðallega jarðefnaeldsneyti í tilviki ESB. 

Aðildarlöndin og bandalagið sjálft hafa hins vegar sýnt skilningsleysi á virkni markaðarins og/eða ábyrgðarleysi með því að veikja framboðshliðina smám saman, þangað til hún hrundi við eina aðgerð einræðisherra austur í Moskvu, sem lokaði smám saman fyrir gasstreymi eftir Nord Stream 1 frá Síberíu til Þýzkalands. Nú eru reyndar eldsneytisgasgeymar í Evrópu um 80 % fullir, og ESB hefur sett Gazprom stólinn fyrir dyrnar með ákvörðun hámarksverðs á gasi, sem mun jafngilda 50 EUR/MWh á raforkuvinnslu úr þessu gasi. Sýnir þessi "gagnsókn" ESB, að "orkuvopnið" hefur snúizt í höndum einræðisherrans og ólígarka hans. 

Með samningum Þjóðverja við Rússa um gaskaup eftir Nord Stream 1 & 2 á tiltölulaga hagstæðu verði myndaðist enginn hvati til að setja upp aðstöðu í höfnum Þýzkalands fyrir jarðgas á vökvaformi, LNG, sem er auðvitað mun dýrara.  Þar að auki var bannað í Þýzkalandi á dögum Merkel sem kanzlara, líklega 2015, að vinna gas úr jörðu með vökvaþrýsingi (fracking), þótt góð reynsla væri af því í Þýzkalandi áður.  Árið 2011 lét þessi sami óheilla kanzlari frá Austur-Þýzkalandi (DDR) draga úr framboði raforku í Þýzkalandi með því að loka kjarnorkuverum og banna alla slíka starfsemi frá árslokum 2022.  Á sama tíma var girt fyrir byggingu nýrra kolaorkuvera með loftslagssköttum (gjaldi á CO2) og niðurgreiðslu úr ríkissjóði á orku frá vindorkuverum og sólarhlöðum.  Af þessum sökum öllum var orkumarkaður Evrópu orðinn óstöðugur 2022, þegar Rússar hófu ólögmæta og grimmilega útrýmingarherferð sína gegn Úkraínumönnum 24.02.2022, og það gerði út um orkumarkað ESB.  Hvað tekur við af honum, veit enginn. 

Í þessu ljósi er afar lærdómsríkt að velta fyrir sér, hvernig þróunin gæti orðið í vatnsorkulöndum Evrópu.  Það eru víða vatnsorkuver í Evrópu, t.d. í Sviss, Frakklandi og í Austur-Evrópu, en stærsta hlutdeild vatnsorku er þó í Noregi, 89,1 %, og Íslandi, 68,8 %. Þrátt fyrir það, að Norðmenn séu sjálfum sér nægir með raforku með sína 155 TWh/ár framleiðslugetu, hafa þeir orðið fyrir barðinu á orkukreppu Evrópu, þar sem orkuverð hefur víða tífaldazt og samkvæmt framvirkum samningum stefnir heildsöluverð í 1200 EUR/MWh í október 2022 í Þýzkalandi og 2500 EUR/MWh í Frakklandi, en þar fer saman lélegt vatnsár fyrir vatnsorkuverin og mikil og brýn viðhaldsþörf í kjarnorkuverunum.  Lág vatnsstaða í miðlunarlónum í Suður- og Austur-Noregi vegna mikillar sölu raforku til Hollands, Þýzkalands og Bretlands, ásamt smitáhrifum um öflugar millilandatengingar við þessi lönd veldur tíföldun raforkuverðs sunnan Þrændalaga m.v. Norður-Noreg.  Þetta hefur valdið ólgu í Noregi og niðurgreiðslu ríkisins á heildsöluverði umfram 0,7 NOK/kWh (=9,6 ISK/kWh).  Hvaða lausnir sjá frændur okkar í Noregi á þessu viðfangsefni ?

Þann 19. september 2022 hélt Samstarfshópur um breytta orkustefnu mótmælafund framan við Stórþingshúsið í Ósló og samþykkti ályktun til þingsins, sem sjá má í viðhengi með þessum pistli. Þessi samtök leggja m.a. fram eftirfarandi rök fyrir því, að Norðmönnum henti ekki gildandi markaðskerfi raforkunnar:

 "Norska vatnsorkukerfið er einstakt með sín miðlunarlón, sem jafna út mismunandi úrkomu eftir árstíðum og jafnvel árum.  Það er svo ólíkt öðrum orkulindum á evrópska orkumarkaðinum, að það eitt og sér er næg ástæða til að krefjast aftengingar [við uppboðsmarkað raforku].  Norsk miðlunarlón er ekki hægt að fylla með tankbílum [eins og eldsneytisgeyma Evrópu - innsk. BJo]." 

Þetta er rétt og á líka við um Ísland.  Þar er enn ekki kominn uppboðsmarkaður raforku, en illu heilli vinnur Landsnet undir stjórn æðsta umboðsmanns ACER (Orkustofu ESB) á Íslandi, sem einnig gegnir starfi forstjóra Orkustofnunar !, að hönnun þessa markaðsfyrirkomulags hefur nú stofnað dótturfélag um tiltækið.  Allt er það tímaskekkja. Ótrúlegt er, að ACER þrýsti á þetta núna eftir yfirlýsingu Úrsúlu von der Leyen um ónothæfni fyrirkomulagsins.  Hér er íslenzkt ríkisfyrirtæki að færa út kvíarnar almenningi til bölvunar.  

Hvað vill téður Samstarfshópur í Noregi fá í staðinn ?:

"Þessar aðgerðir munu gera kleift að koma aftur á verðlagningu raforku, sem notuð er í Noregi, sem reist verði á raunkostnaði við að framleiða og flytja rafmagn með nauðsynlegri viðbót vegna fjárfestinga, endurfjárfestinga [stækkanir - innsk. BJo] og endurbóta ásamt hugsanlegum viðbótum til að hvetja til orkusparnaðar." 

Undir þetta skal taka, og þetta á líka við um Ísland undir samræmdri stjórn.  Raforka er ekki vara, sem hægt er að geyma í umtalsverðum mæli, heldur verður framleiðslan að haldast algerlega í hendur við notkunina. Þess vegna fer illa, ef reynt er að láta lögmál um vörur gilda um rafmagnið. Um vatnsorkuvirkjanir gildir, að vatn í miðlunarlóni kostar og er verðmæti þess fall af vatnsmagni í lóni og árstíma.  Verðmæti þess er ekkert í þessu samhengi, þegar flæðir út úr lóni á yfirfalli, en hátt, þegar það nær ekki að fyllast að hausti.  Þannig er verðmætið háð líkindum á tæmingu lónsins, og ætlunin með þessari verðlagningu að koma í veg fyrir tæmingu án þess að grípa þurfi til skömmtunar.

Í stað þessa fyrirkomulags hefur verið gripið til þess ráðs í langtíma orkusölusamningum við stóriðjuna að skipta orkusölunni í tvennt - forgangsorku og ótryggða orku.  Forgangsorku má ekki skerða, nema í óviðráðanlegu neyðarástandi, en ótryggðu orkuna má skerða um allt að 50 % á ári samkvæmt ýmsum samningum.   Útreikningana á verðgildi vatns í miðlunarlónum er þá hægt að láta stjórna þessum skerðingum, og er slíkt mun gegnsærra fyrir viðskiptavini Landsvirkjunar en nú tíðkast.  Vatnsverðmætin mynda "eldsneytisverð" fyrir vatnsaflsvirkjunina, sem verður hluti vinnslukostnaðar raforkunnar.  

Svipað fyrirkomulag má viðhafa um jarðgufuna.  Þegar tekur að draga niður í gufuforðabúri jarðgufuvirkjana, öðlast gufan verðmæti, og þar með hækkar rekstrarkostnaður viðkomandi virkjunar, sem getur leitt til minni spurnar eftir orku frá henni.  

Til að annast útreikninga á orkukostnaði virkjana þarf embætti með aðgang að fjárhag fyrirtækjanna, vatnsbúskap og gufubúskap þeirra.  Þessu embætti þarf að fela ábyrgð á því að hindra orku- og aflskort til skamms og langs tíma, en nú eru þau mál í lausu lofti og mikil hætta á, að alvarleg skortstaða komi upp áður en næsta miðlungsstóra virkjun kemst í gagnið.  28.07.2019 lýsti höfundur þessa pistils valkosti við markaðskerfi ESB í skjalinu "Orkupakki #4 og afleiðingar hans" á vegum samtakanna "Orkunnar okkar":

"Samkvæmt orkustefnu ESB [meingölluð fyrir vatnsorkulönd og nú í uppnámi alls staðar-innsk. BJo] á raforkumarkaðurinn að sjá um nægt aflframboð á hverjum stað og tíma, og eldsneytismarkaðir eiga á sama tíma að tryggja nægt orkuframboð. Íslenzkur raforkumarkaður getur hins vegar ekki sinnt hvoru tveggja [duttlungar náttúrunnar ráða orkuframboðinu - innsk. BJo]. Hér þarf (nýtt) fyrirkomulag, sem hentar orkulindum Íslands.  Þar er kjarni máls, að ríkið beiti fullveldisrétti sínum til að stofna embætti orkulindastjóra, sem hafi með höndum samstýringu allra virkjana landsins, sem máli verða taldar skipta fyrir orkubúskap landsins, með svipuðum hætti og Landsvirkjun stundar nú innan sinna vébanda. Með vandaðri lagasetningu um embætti orkulindastjóra fái hann í hendur "tól og tæki", sem tryggi, að virkjanafyrirtækin hefji virkjanarannsóknir og virkjanaundirbúning í tæka tíð, svo að nægt framboð raforku verði jafnan mögulegt, vald til að takmarka stærð (uppsett afl) jarðgufuvirkjana á hverju svæði, svo að rýrnun gufuafls verði ekki óhóflega hröð, heldur innan "eðlilegra marka", og jafnframt fái orkulindastjórinn vald til að stýra hæð miðlunarlóna í nafni orkuöryggis. 

Lagasetningin um embættið þarf jafnframt að tryggja því aðgang að nægum upplýsingum um allar virkjanir í þessari samræmdu auðlindastýringu á hverjum sólarhring, til að embættið geti gegnt öryggishlutverki sínu.  Orkulindastjórinn skal tryggja beztu sjálfbæru nýtingu allra virkjana landsins, sem áhrif hafa á orkubúskap þess, með því að hámarka orkuvinnslu hverrar virkjunar til langs tíma.  Lögbundnar ákvarðanir orkulindastjóra skapa orkumarkaðinum ramma, sem hann verður að starfa í frjálsri samkeppni innan.  Eðlilegast er að neita að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara af OP#3, unz færi gefst á að semja um þessa íslenzku útfærslu á réttum vettvangi EES."

Sem kunnugt er var hinum stjórnskipulega fyrirvara létt af samþykki Sameiginlegu EES-nefndarinnar á OP3 haustið 2019 á Alþingi. 21.09.2022 var tilkynnt um ráðningu framkvæmdastjóra nýs dótturfélags Landsnets, sem á að setja á fót og reka heildsölumarkað raforku á Íslandi í anda ESB.  Sagt er í leiðinni, að þetta fyrirkomulag eigi að tryggja þjóðinni hagstæðasta verð á hverjum tíma og orkuöryggi. Það þarf kaldrifjaða ósvífni til að halda þessu fram, á sama tíma og Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, tilkynnir, að smíða verði nýtt og raunhæfara kerfi, því að núverandi kerfi, það sem Katrín Olga Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri raforkukauphallarinnar, ætlar að sjá um hönnun á hérlendis, stenzt ekki kröfurnar, sem gera verður til þess við núverandi aðstæður.  Kerfinu hefur mistekizt að girða fyrir orkuskort og hefur sent raforkuverð til skýjanna í samræmi við jaðarkostnaðinn, sem er kostnaður eldsneytisgasorkuveranna.  

Þá kann einhver að benda á, að íslenzka raforkukerfið sé ósambærilegt við hið evrópska.  Það er einmitt mergurinn málsins.  Framboði raforku á Íslandi stjórna náttúruöflin, og þar er engum stöðugleika fyrir að fara.  Með framboðshliðina í stöðugri óvissu og fákeppnismarkað raforkubirgjanna verður veruleg verðhækkun á raforku hið eina, sem hefst upp úr stofnun heildsölumarkaðar á Íslandi að forskrift ESB í Orkupakka 3. Það er feigðarflan að setja hér upp kerfi, sem valdið hefur stórvandræðum annars staðar.   

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband