Færsluflokkur: Dægurmál

Lágt raforkuverð er undirstaða samkeppnishæfni atvinnulífsins

Valhallarfundurinn 30. ágúst 2018 kastaði ljósi á það, hversu varasamt er fyrir fullveldi landsins, Stjórnarskrána og raforkumarkaðinn á Íslandi, að Alþingi samþykki innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn og þar með inn í lagasafn Íslands.  Jafnframt er ljóst, að afleiðingar höfnunar eru mjög léttvægar í samanburði við áhættuna fyrir stjórnskipun landsins og samkeppnishæfni þess um fólk og fyrirtæki. Tal um, að EES-samningurinn og markaðsaðgengi Íslendinga að Innri markaðinum verði í uppnámi eftir höfnun, eru hugarórar einir og/eða hræðsluáróður.

Það má hiklaust líkja téðum orkulagabálki við Trójuhest ESB inn fyrir múra íslenzka stjórnkerfisins, því að embættið, sem komið verður á fót í kjölfarið, Landsreglarinn, verður einstætt í sögunni, hæstráðandi yfir mikilvægum þáttum þjóðlífsins, raforkuflutningi og raforkumarkaði, en algerlega óháð rétt kjörnum og rétt skipuðum yfirvöldum landsins samkvæmt Stjórnarskrá.  Með leikmannsaugum verður alls ekki séð, að embætti Landsreglara samræmist Stjórnarskrá Íslands.

Landsreglarinn fær ekki heimildir til að koma hér á uppboðsmarkaði raforku fyrr en samningar hafa verið gerðir við aflsæstrengsfjárfesta um lagningu slíks strengs frá Íslandi til Bretlands eða annars lands í Orkusambandi ESB. Hann mun þó áreiðanlega hvetja til þess frá fyrsta degi.  Landsreglarinn hefur sæstrengsumsókn í hendi sér, því að hann semur skilmálana fyrir strengnum, þótt Orkustofnun veiti leyfið.  ESA og EFTA-dómstóllinn eru svo úrskurðaraðilar um deilumál á milli leyfisumsækjanda og leyfisveitanda.  Einhverjir gæla við hugmyndina um, að Alþingi banni lagningu aflsæstrengs.  Þeir hinir sömu þurfa að sýna fram á, að eitthvert hald verði í slíkri lagasetningu.  Það er skoðun þessa pistilhöfundar eftir lauslega athugun, að svo verði  ekki, ef bannið stangast á við samþykkta Kerfisþróunaráætlun ESB/ACER og hlutverk Landsreglarans að vinna að framkvæmd hennar.

Deilur um þetta munu hafna hjá ESA/EFTA-dómstólinum til úrskurðar, sem leggja mun Evrópurétt til grundvallar úrskurðum sínum.  Enn fjarstæðukenndari eru hugmyndir um fyrirvara við samþykkt téðs orkulagabálks í þá veru, að endanlegt dómsvald um ágreining vegna þessa orkulagabálks verði í höndum íslenzkra dómstóla.   

 Að kröfu norska Verkamannaflokksins var það á meðal 8 krafna norska Stórþingsins til framkvæmdastjórnar ESB við samþykkt Stórþingsins á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum, að allir aflsæstrengir frá Noregi yrðu í eigu Statnett, norska Landsnets, sem er í eigu norska ríkisins,en  aflsæstrengir til Íslands verða vafalítið alfarið í einkaeigu, hugsanlega styrktir af ESB. Þessi 8 norsku skilyrði voru ekki lögfest, og þau hafa ekkert gildi að Evrópurétti.  Framkvæmdastjórn ESB hefur það í hendi sér að sniðganga þessar kröfur Stórþingsins og mun að öllum líkindum gera það.  Annaðhvort beygja Norðmenn sig þá í duftið, eða þeir grípa til róttækra aðgerða varðandi EES-samninginn í heild, því að orkumarkaðslagabálkinum geta EFTA-ríkin ekki sagt upp einum og sér.  

Uppboðskerfi á raforku á mjög illa við íslenzkar orkulindir vegna þess, að við nýtingu þeirra þarf að beita auðlindastýringu, ef kostnaðurinn við nýtinguna á ekki að rjúka upp og þær að þverra, svo að þær gefi aðeins af sér skertar afurðir um tíma (tímabundin lág vatnsstaða í miðlunarlónum).  Á skammtímamarkaði geta jarðgufuvirkjanir ekki keppt við vatnsaflsvirkjanir.  Það er ekki hægt að sveifla raforkuvinnslu jarðgufuvirkjana mikið frá einni klst til annarrar, en það er hægt með vatnsaflsvirkjanir, og jarðgufuvirkjanir geta ekki keppt um orkuverð, þegar nóg vatn er í miðlunarlónum.  Til að koma í veg fyrir sóun orkulindanna og orkuskort er auðlindastýring nauðsynleg, þ.e.a.s. samstýra þarf hæð í miðlunarlónum, draga úr jarðgufuvinnslunni, þegar hratt hækkar í miðlunarlónum og auka jarðgufuvinnsluna, þegar hratt lækkar í miðlunarlónum.  Þetta er stýrð auðlindanýting í íslenzka raforkukerfinu í hnotskurn. Hún rúmast ekki innan markaðskerfis ESB og verður óleyfileg undir Landsreglara, þegar hann verður búinn að koma hér á frjálsri samkeppni um raforku að fyrirmynd Evrópusambandsins.

Uppboðsmarkaðurinn mun af þessum sökum leiða til hraðrar tæmingar lóna, og þau eru þá við lágmark e.t.v. í 3 mánuði ársins.  Orkustofnun ESB-ACER og fulltrúi hennar ("kongens befalingsmand") á Íslandi, Landsreglarinn, munu sjá aflsæstreng sem lausn á þessu vandamáli.  Þá geta Íslendingar flutt inn á veturna raforku, sem skortir upp á getu vatnsaflsvirkjananna.  Þetta mundi hækka raforkukostnað heimilanna um a.m.k. 50 % á ári, og "græna vottorðið" færi fyrir lítið.  

Hvað gerist í þessari stöðu, ef sæstrengurinn bilar ?  Viðgerðartími hans getur hæglega orðið 9 mánuðir.  Þann vetur verður neyðarástand á Íslandi vegna raforkuleysis sem leiða mun til skömmtunar og taps útflutningsverðmæta, sem gæti numið fjórðungi útflutningstekna í venjulegu árferði.  Að stefna landinu inn í þessa ófæru er fullkomið glapræði, þótt annað og sterkara orð ætti betur við þessa stöðu mála.   

 

 

  

 


Sumir pakkar eru forsendingar

Það er ljóst, að fundur nokkurra hverfafélaga í Reykjavík markar tímamót í baráttu sjálfstæðismanna gegn innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks Evrópusambandsins, ESB, í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, EES.  Engum vafa er undirorpið, að fleiri félög á landinu munu fylgja í kjölfarið og leita eftir afstöðu þingmanna flokksins í sínum kjördæmum.  

Höfundur Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins, dags. 31.08.2018, gerði þennan vatnaskilafund að umræðuefni með mjög jákvæðum og áhugaverðum hætti, enda gat hann trútt um talað, mættur sjálfur á svæðið.  Höfundur Reykjavíkurbréfsins er alfarið mótfallinn innleiðingu þessa "orkupakka" í íslenzka löggjöf vegna Stjórnarskrárbrota, sem í henni felast, og vegna þess, að "efnislega væri þessi innleiðing þess utan frámunalega óhagstæð hinni íslenzku þjóð, og dæmin, sem nefnd voru, tóku af öll tvímæli í þeim efnum".

Þá verður ekki betur séð en höfundurinn lýsi yfir vantrausti á nýlegri nefndarskipan utanríkisráðherra um reynsluna af EES, er hann skrifar:

"Varla dettur nokkrum manni í hug, að þeir, sem hafa staðið með svo óboðlegum hætti að málum, séu færir um að leggja mat á framvinduna fram að þessu."

Undir þetta skal taka og bæta við með hliðsjón af þessu Reykjavíkurbréfi, að meiri þörf er á skipan hæfileikafólks um valkostina, sem Íslendingar eiga við EES, því að öllum öðrum en nauðhyggjumönnum má ljóst vera, að rannsaka þarf þessa kosti og leggja mat á þá raunhæfustu og hagkvæmustu.  Þetta hafa Norðmenn þegar gert og gefið út 188 bls. skýrslu í A4-broti.  Þessa skýrslu geta Íslendingar reyndar tekið sér til fyrirmyndar og hagnýtt sér að breyttu breytanda.  

Verður nú aftur vikið að hinu ágæta Reykjavíkurbréfi. Um hegðun stjórnmálamanna og embættismanna þeirra í trássi við vilja yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar samkvæmt skoðanakönnun Maskínu í vor skrifaði höfundurinn:

"Embættiskerfið ber enga ábyrgð, en stjórnmálamenn gera það, og sjálf stjórnarskráin mælir fyrir um, að þannig skuli það vera.

En fundarsóknin í kjölfar einnar blaðaauglýsingar samdægurs svarar því til, að þessu máli verður ekki svo auðveldlega svindlað í gegn, þótt brotaviljinn virðist óþægilega einbeittur."

Höfundur lýsti síðan, hvernig þessi ókræsilegi pakki var opnaður af framsögumönnum fundarins:

"Fjórir prýðilegir framsögumenn voru á fundinum um orkumálapakkann.  Þeir voru hver með sinn þátt undir, og var það gagnlegt.  Um sumt virtist málið flókið, en á daginn kom, að það, sem skiptir máli, var einfalt.  Erindin voru ítarleg og vönduð og fundarmenn virkir, og því teygðist verulega á fundinum án þess að þynntist á bekkjunum."

Höfundur Reykjavíkurbréfsins tengdi "orkupakkamálið" mjög sterklega við Stjórnarskrána og minnti á stefnumörkun Landsfundar Sjálfstæðisflokksins í marz 2018 um, að ekki skyldi verða um að ræða frekara valdframsal til erlendra stofnana yfir orkumarkaðsmálum Íslands:

"Fréttir af "formannafundi í Þingvallabæ" báru allar með sér, að tilgangurinn var ekki annar en sá að læðast aftan að íslenzku fullveldi.  Og nú virðist þessi orkupakki orðinn að bögglingi Sjálfstæðisflokksins !  

Landsfundur hefur þegar afgreitt málið með þunga.  Það var m.a. gert á sama fundi og núverandi iðnaðarráðherra var kjörinn varaformaður.  

Þess vegna er erfitt að horfa upp á þann ráðherra láta rugla sig í ríminu.  Rökin, sem helzt eru nefnd, eru ekki beysin.   "Það myndi eitthvað mjög alvarlegt koma fyrir, ef við hlýðum ekki skrifstofumönnum í Brüssel, eins og við gerum alltaf."

Þetta var reyndar inntakið í gerningaveðri áróðursins vegna Icesave.  

Og því er gjarnan bætt við, að Brüsselvaldið gæti tekið upp á að refsa okkur, ef við hlýddum ekki fyrirmælum þess."

Á téðum Valhallarfundi mátti ráða það af erindi Stefáns Más Stefánssonar, sérfræðings í Evrópurétti, að fulltrúar Íslands í sameiginlegu EES-nefndinni og/eða yfirmenn þeirra í utanríkisráðuneytinu hafi hlaupið á sig með því að gera ekki fyrirvara við atriði Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB, sem greinilega brjóta í bága við íslenzku Stjórnarskrána.  Stefán Már ráðlagði að hafna þessum lagabálki ESB að svo komnu máli.  Vönduð greiningarvinna yrði að fara fram, enda væri þanþol Stjórnarskrárinnar raunverulega brostið, þegar á upphaflega EES-samninginn og allar viðbæturnar við hann væri litið.

"Á þetta [synjun Evrópugerða] hefur aldrei reynt, því að Ísland kyngir jafnan öllu.  En Brusselliðið, sem litla fólkið í ráðuneytunum umgengst, eins og börn umgangast leikskólakennara, hefði enga stöðu til að yggla sig í þessum efnum.  Það á ekki við, eins og hefur legið fyrir frá fyrsta degi og mátti lesa úr þessum fína fundi í Valhöll.

ESB er sem stofnun fullkomlega ljóst, eða ætti að vera það, að Ísland mætti aldrei og myndi aldrei lögtaka reglugerðir eða tilskipanir, sem því væri óheimilt í stjórnarskrá.  

Frá fyrsta degi samningaviðræðna um EES var viðsemjandanum gerð grein fyrir þessari staðreynd.  Ríkisstjórnin fékk vandaðan hóp fræðimanna til að fara yfir það, hvort EES-samningurinn stæðist Stjórnarskrá, enda hafði í átökum um hann verið fullyrt, að svo væri ekki.  Andstæðingarnir nutu lögfræðiaðstoðar að sínu leyti og fengu þá niðurstöðu, að EES-samningurinn færi út fyrir mörkin, sem stjórnarskráin leyfði.  Ríkisstjórnin og aukinn meirihluti Alþingis féllst hins vegar á það mat, sem hin opinbera laganefnd hafði í sinni niðurstöðu.  En það fór aldrei á milli mála og var viðurkennt og ítrekað á fundinum á fimmtudag, að þar var farið að yztu mörkum."

Alvarlegast og hættulegast við innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB á Íslandi er, að samkvæmt honum verður stofnað til embættis í landinu, sem verður algerlega utan lýðræðislegs, innlends aðhalds, þannig að hvorki löggjafarvald, framkvæmdavald né dómsvald geta haft áhrif á gjörðir þessa embættis.  Embættinu er ætlað eftirlits- og stjórnunarhlutverk með flutningskerfi raforku í landinu og tekur þannig við núverandi hlutverkum Orkustofnunar og iðnaðarráðuneytis á þessu sviði, rýnir og samþykkir netmála (tæknilega tengiskilmála) Landsnets og dreifiveitna og gjaldskrár þessara fyrirtækja.  Embættinu er jafnframt ætlað æðsta eftirlitshlutverk með raforkumarkaðsmálum landsins.  Þótt það hafi ekki vald til að skipa fyrir um fyrirkomulag markaðarins fyrr en tenging við rafkerfi í Orkusambandi ESB er komin á framkvæmdastig, þá má fastlega gera ráð fyrir, að embætti þetta, Landsreglarinn, muni hvetja til upptöku uppboðskerfis raforku að hætti ESB frá fyrsta degi.  

Í tveggja stoða kerfi EES á ESA-Eftirlitsstofnun EFTA að gegna hlutverki framkvæmdastjórnar ESB gagnvart EFTA-löndunum.  Í samningum innan EES, væntanlega í Sameiginlegu EES-nefndinni, var hins vegar ESA-svipt sjálfstæði sínu gagnvart ACER og verður að taka við úrskurðum, tilmælum og fyrirmælum frá framkvæmdastjórn ESB og Orkustofnun ESB-ACER og framsenda slíkt til Landsreglarans.  Þarna eru hagsmunir Íslands algerlega bornir fyrir borð, landið er nánast innlimað í ESB á raforkusviðinu. Þetta er á meðal grófustu Stjórnarskrárbrota, sem sézt hafa. 

Lýsingu á samningum EFTA og ESB um þetta er að finna í frumvarpi norsku ríkisstjórnarinnar nr 4 S (2017-2018): 

"Samþykki á ákvörðun EES-nefndarinnar nr 93/2017 frá 5. maí 2017 um innleiðingu réttarfarsáhrifanna í Þriðja orkumarkaðslagabálkinum í EES-samninginn",

og er á þessa leið í þýðingu pistilhöfundar:

"Eftirlitsstofnun EFTA skal, þegar hún gerir slíkar samþykktir [er fara til Landsreglarans - innsk. BJo], reisa samþykktina á drögum frá ACER.  Slík drög eru ekki lagalega bindandi fyrir Eftirlitsstofnun EFTA.  Það er grundvallar forsenda fyrir fyrirkomulaginu, sem samið hefur verið um, að Eftirlitsstofnun EFTA muni, skömmu eftir móttöku slíkra draga frá ACER, gera samhljóða eða næstum samhljóða samþykkt."

Þar með er íslenzki raforkumarkaðurinn og flutnings- og dreifikerfin komin undir stjórn framkvæmdastjórnar ESB um nokkra milliliði.  Það er m.a. þetta, sem átt er við,þegar rætt er um hættuna, sem fullveldi landsins og sjálfstæði stafar af þessum lagabálki. Eftir samkeppnismarkaðsvæðingu íslenzka raforkumarkaðarins getur orðið stutt í kvörtun ESA til íslenzku ríkisstjórnarinnar út af því, að ríkisfyrirtækið Landsvirkjun skekki mjög samkeppnisstöðuna á markaðinum, sjá Valhallarræðu, 30.08.2018 í viðhengi.  Þar með er ESB komið með klærnar í alla 4 geira raforkukerfisins.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Lokar á lækna og sóar opinberu fé

Heilbrigðisráðherra hefur gjörsamlega gengið fram af læknastéttinni.  Þetta framgengur af blaðagreinum, sem læknar hafa fengið birtar í sumar.  Hér verður ein slík gerð að umfjöllunarefni. Þar er talað tæpitungulaust. Greinin birtist í Fréttablaðinu 26. júní 2018 undir heitinu:

"Ráðherra læsir úti læknana og kastar krónunni",

og eru höfundarnir Þórarinn Guðnason, hjartalæknir og formaður Læknafélags Reykjavíkur og Ragnar Freyr Ingvarsson, gigtarlæknir.  

Þeir sýna þar með skýrum hætti fram á, að útreikningar Ríkisendurskoðunar um 60 % kostnaðaraukningu ríkisins við þjónustu einkalæknastofa á 5 ára bili 2012-2017 sé villandi og nær sé 10 % kostnaðaraukning eða 2 % raunaukning á ári, sem þeir skýra á eftirfarandi hátt:  

"Fólksfjölgun var um 1,5 % á ári, og þegar öldrun þjóðarinnar er bætt við, má reikna með 2 % aukinni þjónustuþörf á ári.  Þá stendur eftir rúmlega 2 % hækkun á ári eða samtals 10 % á fyrrnefndu fimm ára tímabili.  Sú hækkun varð einfaldlega til vegna flutnings verka frá spítölunum í þetta ódýrara úrræði, og auðvelt er að ímynda sér, að með því sparist talsverðir fjármunir samhliða því, að þjónusta við sjúklinga batnar.  Verk hafa færzt út frá Landsspítala, en mikið af því, sem gert var á St. Jósefsspítala fluttist líka inn á samninginn á þessu tímabili.  Vonandi er, að nákvæmni Ríkisendurskoðanda í álitsgjöf sinni og útreikningum sé að öllu jöfnu meiri en í þessu tilviki."

Röksemdir ráðherrans fyrir aðför hans að einkareknum læknastofum standast ekki rýni, hvað sem kostnaðaraukningu líður.  Um það vitnar samanburður á einingarkostnaði skýru máli, eins og fram kemur í neðangreindri tilvitnun:

"Sumt liggur þó ljóst fyrir og talar skýru máli um mismunandi kostnað eftir því, hver veitir þjónustuna.

Dæmi: læknisheimsókn ósjúkratryggðra einstaklinga (t.d. ferðamanna), sem borga fullt verð fyrir þjónustuna, er mun hagkvæmari á stofu sérfræðings en bæði á heilsugæzlu og á göngudeild Landsspítalans.  Heimsókn til sérfræðings á stofu kostar í heildina 8.700 kr, á heilsugæzlu 9.600 kr, og dýrust er hún, eða 13.200 kr, á göngudeild spítala.  Heimsóknin á stofu kostar þannig 4.500 kr minna en á göngudeild Landsspítalans, sem þýðir, [að göngudeildin er tæplega 52 % dýrari en stofan - innsk. BJo]."

Glópska ráðherrans í sinni ýtrustu mynd að færa 500.000 heimsóknir frá læknastofum á göngudeildir spítala mundi auka samfélagslegan kostnað um 2,3 milljarða króna á ári.  Það verður að brjóta þennan hættulega ráðherra á bak aftur.

Lokakaflinn í ágætri grein læknanna styður þetta ákall:

"Sitjandi heilbrigðisráðherra og tveir síðustu forverar hans hafa samt ítrekað brotið þennan góða samning, m.a. með einhliða lokun á nýliðun lækna, sem þar með eru læstir úti úr landinu.  Samningurinn rennur út um næstu áramót, og ráðherra hefur margoft lýst því yfir, að nýr samningur verði aldrei gerður, nema á gjörbreyttum grunni.  Ódýrasta og bezta heilbrigðiskerfi í heimi verður að víkja til að flytja þjónustuna inn í ríkisrekstur, hvað sem það kostar.  Og það verður dýrt, því að hvort sem aukning umsvifa sérfræðilækna á stofu mælist 12 % á ári eða 2 %, leiðir sú aukning til mikils heildarsparnaðar í kerfinu.  Sé farið í hina áttina, og kerfið ríkisvætt, eykst kostnaður verulega á sama hátt.

Augljóst er, að heilbrigðisyfirvöld eru á villigötum.  Á meðan alþjóðleg þróun er í þá átt, að þjónusta hefðbundinna spítala minnkar samhliða aukinni þekkingu og tækni, sem einfaldar læknisverkin, rær íslenzki heilbrigðisráðherrann á móti straumnum.  Hann setur úrelt sjónarmið í öndvegi og setur stefnuna á að spara aurinn og kasta krónunni.  Fjárhagslega er ekkert vit í því, en alvarlegast er, að með áformum sínum læsir hann líka unga lækna og nýja þekkingu úti úr landinu.  Þennan glórulausa kúrs þarf að leiðrétta strax, opna samninginn, endurnýja hann og tryggja, að þjónusta sérfræðilækna verði áfram innan opinbera kerfisins.  Líðan og heilsa íslenzkra sjúklinga og grunnstoðir heilbrigðiskerfisins eru í húfi."

Þingmenn hljóta að láta til sín taka á komandi þingi vegna hneykslanlegrar framgöngu heilbrigðisráðherra í nafni fáránlegrar hugmyndafræði, sem veldur stórfelldri sóun almannafjár og skerðingu á atvinnufrelsi nýrra sérfræðilækna, sem hefja vilja bráðnauðsynlega starfsemi hér á landi.  Þessi ráðherra er í einu orði sagt tímaskekkja. 

 

 

 

 

 


Grasrótin er á tánum

Þeim, sem sóttu fund nokkurra hverfafélaga Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í Valhöll síðdegis 30. ágúst 2018, blandast ekki hugur um, að grasrót Sjálfstæðisflokksins hefur þungar áhyggjur út af því, að þingmenn flokksins tala í véfréttastíl um afstöðu sína til Þriðja orkumarkaðslagabálks Evrópusambandsins, ESB.  Kjósendur flokksins eiga heimtingu á því, að þingmenn hans geri hreint fyrir sínum dyrum og segi hug sinn í þessum efnum.  Þá kemur næst að kjósendunum að gera upp hug sinn til viðkomandi þingmanna.  Margir munu ekki láta bjóða sér upp á þá afskræmingu lýðræðis, að þingmenn haldi í gagnstæða átt við vilja kjósenda í þessu stórmáli.  Þá er komin upp gjá á milli þings og þjóðar, eins og gerðist í Noregi út af Þriðja orkumarkaðslagabálkinum.  

Sumir þingmenn segjast ekki eiga val við innleiðingu stórra Evrópugerða.  Það er algerlega óboðlegur málflutningur í þessu "orkupakkamáli".  Þingmenn eiga frjálst val.  Það mun ekkert markvert gerast að hálfu ESB eða EFTA, þótt Alþingismenn hafni Þriðja orkumarkaðslagabálkinum.  Norðmenn og Liechtensteinar munu einfaldlega gera sérsamning við ESB/ACER-Orkustofnun ESB um sín orkumarkaðsmál, enda báðar þjóðirnar vel tengdar við orkukerfi Evrópusambandsins. 

ESB fær við synjun Alþingis heimild til að fella úr gildi fyrsta og annan orkumarkaðslagabálk sinn gagnvart EFTA.  Það breytir engu fyrir Íslendinga og aðra, og þess vegna verður það líklega látið ógert.  ESB hefur nóg á sinni könnu núna með viðskiptastríð við BNA og BREXIT í uppnámi. 

Þingmenn mega fyrir alla muni ekki láta einfeldningslegan hræðsluáróður embættismanna heima og heiman, svo og erlendra ráðherra, hræða sig til að fremja óhæfuverk á Stjórnarskrá og innlendum raforkumarkaði.  Kjósendur munu trauðla fyrirgefa það.  Utanríkisráðherra ætti að spara sér köpuryrði á borð við, "að umræðan sé á villigötum" án þess að láta nokkrar útskýringar fylgja.  Slík lágkúra er ekki ráðherra sæmandi.  

Það er líka óboðlegt af ráðherra Sjálfstæðisflokksins að gera hugmyndafræði ESB um viðskipti með raforku að sinni.  ESB skilgreinir rafmagn sem vöru, og slíkt getur alveg gengið upp hjá þeim, en þegar "heilaþvegnir" Íslendingar, jafnvel ráðherrar, tönnlast umhugsunarlaust á þessu, og japla á, að þeir vilji gera greinarmun á auðlind og afurð, þá er of langt seilzt með rafmagnið.  

Þeir segja jafnframt, að Sjálfstæðisflokkurinn sé flokkur frjálsra viðskipta með vörur.  Það er hverju orði sannara, en þar sem rafmagn er ekki vara hérlendis, heldur þessi röksemd ekki vatni.  

Hvað er þá rafmagn ? Hefðbundin viðhorf til rafmagns á Íslandi og í Noregi er, að rafmagn sé afurð náttúruauðlinda, sem nýta ber allri þjóðinni til hagsbóta og öllum atvinnugreinum til verðmætasköpunar í öllum byggðum landsins.  Með öðrum orðum ber að nýta hina endurnýjanlegu orku þessara landa til að efla samkeppnishæfni atvinnurekstrar í þessum löndum og til eflingar samkeppnishæfni þessara landa um fólk og fyrirtæki.  Í stuttu máli á samkvæmt þessu hefðbundna viðhorfi á Íslandi og í Noregi að nota orkulindirnar til að bæta lífsgæðin í öllum byggðum þessara landa.

Þetta sjónarmið er algerlega ósamrýmanlegt viðhorfi ESB-forystunnar til rafmagns.  Samkvæmt því viðhorfi á rafmagnið einfaldlega að fara til hæstbjóðanda.  Ef þetta fyrirkomulag verður innleitt hér og hingað verður lagður aflsæstrengur, svo að við þurfum að keppa við útlendinga um "okkar eigin" orku, þá hrynur undirstaðan undan samkeppnisstöðu íslenzks atvinnurekstrar með tilheyrandi hruni lífskjara um allt land.  

Þeir, sem af undarlegum undirlægjuhætti vilja þóknast vilja erlendra ráðamanna um, að Ísland gangi Orkusambandi ESB á hönd, halda því fram, að íslenzk stjórnvöld muni hafa síðasta orðið um það, hvort aflsæstrengur frá útlöndum verði tengdur íslenzku raforkukerfi.  Þeir hinir sömu hafa illa kynnt sér málavexti eða tala sér þvert um geð.  Það verður fulltrúi ACER á Íslandi, Landsreglarinn, sem setur alla skilmála fyrir slíkri tengingu.  Ef umsækjandi um leyfi til slíkrar tengingar uppfyllir skilmálana, skortir Orkustofnun allar forsendur til höfnunar.  

Hafni Orkustofnun samt, ber Landsreglara að tilkynna yfirboðurum sínum hjá ACER-Orkustofnun ESB þá höfnun sem brot gegn Kerfisþróunaráætlun ESB/ACER, sem Ísland verður skuldbundið til að fylgja með samþykki Alþingis á Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB og innleiðingu hans í EES-samninginn, sbr Evrópugjörð nr 714/2009. Ennfremur er næstum öruggt, að umsækjandinn mun kæra þennan úrskurð beint til ESA, sem mun úrskurða honum í vil á grundvelli téðs orkulagabálks.  Þverskallist íslenzk yfirvöld, kærir ESA íslenzka ríkið fyrir EFTA-dómstólinum, sem mun dæma á sama veg og ESA.  Annaðhvort verður Orkustofnun þá að gefa sig eða ríkisstjórnin að segja EES-samninginum upp. Þá mun stefna í "harða útgöngu", sbr "hard BREXIT",  sem varla er ákjósanleg staða. Þess vegna má halda því fram, að þeir, sem samþykkja Þriðja orkumarkaðslagabálkinn séu þar með að leggja drögin fyrir markaðssetningu íslenzkrar raforku í erlendri raforkukauphöll, t.d. Nord Pool. 


Hvað verður um Landsvirkjun undir Landsreglara ?

Aðdáendur Evrópusambandsins (ESB) og talsmenn þess, að Alþingi samþykki innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB hafa svamlað við yfirborðið í málflutningi sínum og klifað á þeirri skoðun sinni, að innleiðing þessa lagabálks breyti mjög litlu fyrir Íslendinga.  Annaðhvort sigla slíkir undir fölsku flaggi, eða þeir hafa ekki skilið, hvað þessi mikli lagabálkur ESB snýst um.

Embætti Landsreglara (n. "Reguleringsmyndighet for energi") er brimbrjótur ESB inn á gafl orkumálanna hjá aðildarþjóðum Orkusambands ESB.  Þar eð Landsreglarinn er óháður í störfum sínum stjórnvöldum og dómsvaldi aðildarlandanna, þá getur hann nýtt heimildir sínar samkvæmt Þriðja orkumarkaðslagabálkinum til hins ýtrasta án truflunar frá stjórnvöldum, enda verður Landsreglarinn einvörðungu háður boðvaldi ESB/ACER (Orkustofnun ESB).  Í þessu sambandi er ESA hreint aukaatriði, enda einvörðungu óvirkur milliliður ESB/ACER og Landsreglarans, án nokkurra heimilda til að hnika til stafkróki.  

Meginhlutverk Landsreglarans hérlendis samkvæmt Þriðja bálkinum verður að koma á laggirnar frjálsri samkeppni með raforku að hætti ESB, þannig að raforkumarkaður á Íslandi verði einsleitur raforkumarkaði ESB-landanna og þannig með vissum hætti aðlagaður, ef/þegar einhverjum hugnast að sækja um að leggja og reka aflsæstreng á milli Íslands og útlanda samkvæmt tæknilegum og viðskiptalegum skilmálum, sem Landsreglarinn setur.  Vald leyfisveitandans, Orkustofnunar, til að hafna þeim streng verður ekkert, ef strengumsóknin fullnægir kröfum Landsreglarans.  

Hvað gerist hérlendis, þegar saman koma í einn pott téður Þriðji orkubálkur, samkeppnisreglur ESB og bann við ríkisstuðningi ?  Þá blasir við, að Landsvirkjun verður í skotlínu, því að innleiðing samkeppnismarkaðar er ekki möguleg, þar sem eitt fyrirtækjanna er með yfir 80 % markaðshlutdeild.  Til hvers grípur Landsreglarinn þá ?  Hann hefur víðtækar heimildir samkvæmt Þriðja orkulagabálkinum til að ryðja úr vegi hindrunum, sem í einstökum löndum koma í veg fyrir virkni samkeppnismarkaðar, og hann verður að skipta Landsvirkjun upp og einkavæða a.m.k. hluta hennar, ef honum á að takast ætlunarverk sitt.  

Þar sem allt þetta umstang er til að undirbúa Ísland fyrir sameiginlegan og samtengdan raforkumarkað ESB, þá er líklegt, að önnur orkuvinnslufyrirtæki á Evrópska efnahagssvæðinu, t.d. á hinum Norðurlöndunum, Bretlandi og Þýzkalandi, hafi áhuga á að eignast hluta núverandi Landsvirkjunar.  Þar með er komið erlent tangarhald á hluta af orkuauðlindum Íslands.  Þá er ekki útilokað, að í nafni frjálsrar samkeppni verði virkjunarréttur á nýjum virkjunum boðinn út.  Með því að ganga í Orkusamband ESB bjóða menn heim óvissu um það, hvort saman geti farið heimildir Landsreglarans samkvæmt Þriðja orkumarkaðslagabálkinum til að tryggja hámarks skilvirkni og réttmætar aðgerðir samkvæmt Evrópurétti til að hindra fákeppni á markaði, sem saman valdi því, að Íslendingar glati úr höndum sér yfirráðum á íslenzkum raforkumarkaði í hendur evrópskra markaðsafla.  

Þann 2. ágúst 2018 birtist í Morgunblaðinu góð grein eftir tvo kennara við Lagadeild Háskólans á Akureyri, Ágúst Þór Árnason og Ragnheiði Elfu Þorsteinsdóttur, undir heitinu:

"Fullveldi og auðlindir":

Greinin er rituð í tilefni af kaupum manna, sem búsettir eru erlendis, á íslenzkum landareignum.  Slíkum eignum fylgja oft hlunnindi, þ.m.t. vatnsréttindi, en hættan á að missa auðlindir landsins úr höndum landsmanna sjálfra getur verið víðar og miklu stórtækari og alvarlegri en sú, sem lögfræðingarnir gerðu að umtalsefni í grein sinni:

"Umræða þessi er mikilvæg og tímabær ekki sízt í ljósi þess áhuga, sem Íslendingar hafa sýnt því að binda í stjórnarskrá ákvæði um náttúruauðlindir.  Eign á landi fylgja ýmis réttindi, eins og til auðlindanýtingar, en flestar auðlindir Íslands eru bundnar landi.  Fullveldisréttur Íslands felur það í sér, að Ísland hefur eitt heimild til þess að setja lög og reglur og að framfylgja þeim á yfirráðasvæði sínu."

Þetta er athyglisverður texti.  Af honum má ráða, að höfundarnir telji Alþingi og stjórnvöld geti sett þær hömlur á kaup EES-borgara á bújörðum og eyðijörðum hérlendis, sem þeim sýnist í krafti fullveldisréttar. Er vonandi, að sem fyrst verði gerðar ráðstafanir til að félög geti ekki staðið hér að kaupum á jörðum, nema meirihlutaeigendur félags hafi fasta búsetu á a.m.k. einni jörð eða nýti a.m.k. eina jörð til atvinnurekstrar, og að jarðeignir félaga og einstaklinga verði takmarkaðar í fjölda og flatarmáli.

Miklu stórtækari breytingar kunna þó að vera í vændum á afnotarétti orkuauðlinda í landinu, ef svo fer, að Alþingi samþykkir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB og svo fer, að Landsreglarinn telji stöðu og stærð ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar ekki samrýmast reglum þessa lagabálks um frjálsa samkeppni á raforkumarkaði.  Væri fróðlegt að fá fram lögfræðilega skoðun frá höfundum tilvitnaðrar greinar um það, hvort Landsreglarinn geti beitt fyrir sig Evrópugerðum um samkeppnishömlur og ríkisstuðning til að krefjast sölu ríkisins á hluta hennar á frjálsum markaði og jafnvel uppskiptingar. 

Að lokum skal hér vitna til umhugsunarverðs niðurlags á umræddri grein í ljósi þeirrar markaðsvæðingar raforku, sem óhjákvæmilega mun leiða af lögleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB á Íslandi með hugsanlegum aflsæstreng til útlanda í kjölfarið:

"Ákvæði í stjórnarskrá um auðlindir í náttúru Íslands er því ákaflega vandmeðfarið.  Það þarf að gagnast, þegar upp koma óþekkt og ný vandamál, og því er mikilvægt, að það feli í sér stefnu og hugmyndir okkar um það, hvernig við viljum, að náttúruauðlindir séu nýttar, til hagsbóta hverjum og hverjum þær tilheyra.  Yfirlýsing um, að auðlindir í náttúru Íslands tilheyri íslenzku þjóðinni, felur í sér áréttingu á fullveldi Íslands yfir landi og auðlindum.  Það fer því vel á því að ræða þennan þátt fullveldisins á aldarafmæli þess." 

 


Er Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB meinlaus fyrir Ísland ?

Þeir, sem fullyrða, að "þriðji orkupakki ESB" sé meinlaus, eru á hálum ísi.  Leitt er að sjá Björn Bjarnason, fyrrverandi Alþingismann og ráðherra Sjálfstæðisflokksins, falla í þessa gryfju á vefsetri sínu og á FB 15.08.2018.  Hann vitnar máli sínu til stuðnings í grein í Úlfljóti 14.07.2018 eftir Rögnu Árnadóttur, aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar. Að mati höfundar þessa pistils er ekkert vit í að reisa afstöðu sína til aðildar Íslands að Orkusambandi ESB á téðri grein Rögnu, enda felur téð Úlfljótsgrein ekki í sér neina vitræna greiningu á því, hvað tæknilega og lagalega felst í aðild að téðu Orkusambandi (Energy Union).  

Skal nú rýna tilvitnun Björns í Rögnu:

"Í tilviki Íslands myndu heimildir ACER [eftirlitsstofnunar ESB með orkumarkaði (sic)] verða í höndum ESA [Eftirlitsstofnunar EFTA].  Þá er um afmarkaðar heimildir að ræða, sem takmarkast við ágreining eftirlitsyfirvalda, er varðar flutningslínu eða sæstreng milli landa.  Íslenzkt raforkukerfi er sem kunnugt er ekki tengt öðru ríki innan EES með sæstreng.  Því er óþarft að hafa miklar áhyggjur af þessum þætti málsins."

Þetta er eins yfirborðsleg umfjöllun um lagaheimildir og hlutverk ESA og ACER og hugsazt getur og leiðir auðvitað til kolrangrar ályktunar lesanda, sem ekki hefur séð í gegnum áróður ESB og íslenzkra ráðuneyta (utanríkis- og iðnaðar) fyrir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB á Íslandi.  

Þar er fyrst til að taka, að ESA hefur engar heimildir til sjálfstæðrar meðferðar erinda frá ESB/ACER til Landsreglarans í hverju EFTA-landi, heldur er ESA sett upp sem óvirkur milliliður til þess eins að fullnægja að forminu til tveggja stoða fyrirkomulagi EES-samningsins.  Þar sem ESA hefur ekkert annað hlutverk en að ljósrita reglugerðir, tilmæli og úrskurði frá ESB/ACER og senda til Landsreglarans svo og að ljósrita skýrslur m.a. um virkni raforkumarkaðar í landinu og fylgni við Kerfisþróunaráætlun ESB/ACER frá Landsreglaranum og senda þær til ESB/ACER, þá verður að segja hverja sögu, eins og hún er: ESA breytir ekki nokkrum sköpuðum hlut í þessu ferli.  Það er þess vegna blekking fólgin í því að skrifa í Úlfljót, að heimildir verði í höndum ESA, sem hefur engar heimildir samkvæmt þeim lagabálki, sem hér er til umfjöllunar.  

Þetta þýðir tvennt.  Í fyrsta lagi brot á EES-samninginum, sem kveður á um tveggja stoða lausn. Það er ESB, sem er brotlegt, því að Framkvæmdastjórnin féllst ekki á neins konar heimildir til ESA, nema ljósritunarheimildir á ESA-bréfsefni.

Í öðru lagi þýðir þetta Stjórnarskrárbrot, því að valdamikið embætti er stofnað í landinu og verður á íslenzkum fjárlögum, en lýtur hvorki íslenzku framkvæmdavaldi né dómsvaldi, heldur er stjórnað af stofnun ESB, þar sem Ísland á engan fullgildan fulltrúa.  Þetta fyrirkomulag er lögfræðilegt örverpi og ómerkileg og óviðunandi meðferð á Stjórnarskrá.  Það er reyndar óskiljanlegt, að nokkur hérlendis skuli mæla þessu sviksamlega fyrirkomulagi bót.

Þegar Ragna fimbulfambar um afmarkaðar heimildir vegna ágreiningsmála út af sæstreng, þá virðist hún vera algerlega úti á þekju. Hún sleppir aðalatriði málsins, sem er Landsreglarinn.  Hans staða og hlutverk er algerlega einstætt og fráleitt í íslenzku samfélagi.  Hann mun starfa utan seilingar íslenzks framkvæmdavalds og dómsvalds og mun starfa samkvæmt Evrópugerðinni Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB.  Hlutverkið verður að koma hér á fót uppboðsmarkaði fyrir raforku að hætti ESB/ACER.  Þetta er allsendis óháð lagningu sæstrengs frá Íslandi til útlanda og furðulegt að geipa um téðan sæstreng án þess að minnast á Kerfisþróunaráætlun ESB/ACER, sem Alþingi mun skuldbinda Íslendinga til að framfylgja að sínu leyti, ef þingmenn samþykkja innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins.  

Gefin hefur verið út skrá um forgangsverkefni ESB/ACER til að ná markmiðum Kerfisþróunaráætlunar.  Hún inniheldur m.a. aflsæstreng á milli Íslands og Bretlands, sem taka á í gagnið árið 2027.  Ef áhugasamur sæstrengsfjárfestir gefur sig fram og sækir um leyfi fyrir sæstreng, sem fullnægir skilyrðum Kerfisþróunaráætlunar, þá verður ómögulegt fyrir íslenzk stjórnvöld að hindra lagningu hans, tengingu og rekstur, því að ágreiningsmál við Orkustofnun, sem verður formlegur leyfisveitandi, mun á endanum lenda fyrir EFTA-dómstólinum.  Ágreiningur á milli Landsreglara á Íslandi og á Bretlandi um rekstur strengsins verður leystur á vettvangi ACER eða fyrir gerðardómi, ef Bretar verða þá farnir úr Orkusambandi ESB.  

"Áhrifa þriðja pakkans myndi gæta hvað mest í starfsemi Orkustofnunar, einkum hvað varðar sjálfstæði sofnunarinnar við framkvæmd raforkueftirlits."

Þessi texti Rögnu orkar tvímælis, því að Orkustofnun hefur ekki raforkueftirlit með höndum, heldur er það Mannvirkjastofnun, sem sinnir því hlutverki.  Orkustofnun og iðnaðarráðuneytið deila hins vegar með sér eftirliti með raforkumarkaðinum og með Landsneti.  Sú starfsemi mun flytjast til Landsreglarans, sem gefa mun út reglugerðir fyrir Landsnet og yfirfara netmála (tæknilega tengiskilmála) fyrir flutningskerfi raforku og yfirfara gjaldskrár flutningsfyrirtækisins fyrir þjónustu við almenna raforkumarkaðinn og fyrir stóriðjumarkaðinn.  

Það stendur ekki steinn yfir steini í málflutningi Rögnu Árnadóttur í téðri Úlfljótsgrein.  Hún hefur kosið að fjalla með ótrúlega yfirborðslegum hætti um stórmál á sviði íslenzks fullveldis og á sviði orkumála með þeim afleiðingum, að hún hefur villt um fyrir fólki, sem ekki hefur lagt sig eftir kjarna þessa máls eftir öðrum leiðum.  Þetta er í anda málflutnings iðnaðarráðuneytisins um þetta efni og lögfræðilega álitsgerð fyrir ráðuneytið, sem fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá ESA var fenginn til að semja.  

 

   


Henta ESB-reglur íslenzka raforkumarkaðinum ?

Á opinberum vettvangi, í aðsendum greinum til Morgunblaðsins og víðar, hefur skilmerkilega verið gerð grein fyrir því, að íslenzkum almenningi og fyrirtækjum í landinu, sem sagt raforkunotendum hérlendis, hentar illa fyrirkomulag Evrópusambandsins, ESB, á raforkumarkaði, en þar er um að ræða eins konar uppboðsmarkað, þar sem verðið ræðst af framboði og eftirspurn.

Meginástæða þess, að markaðskerfi ESB hentar ekki hér, er, að rekstrarkostnaður virkjana hér er óháður kostnaði frumorkunnar, vatns og jarðgufu, en kostnaður við þessa þætti getur hins vegar komið fram í stofnkostnaði, t.d. við öflun vatns- eða gufuréttinda.  Í ESB endurspeglast eldsneytiskostnaður hins vegar í raforkuverði hvers tíma, og samkeppni á milli orkuvinnslufyrirtækja er aðallega fólgin í að ná lágum fastakostnaði, sem fæst t.d. með því að reisa ný og hagkvæmari raforkuver en þau, sem fyrir eru í rekstri.  

Á Íslandi og í Noregi er þessu öfugt farið.  Nýjar virkjanir eru dýrari í stofnkostnaði per MW talið en hinar eldri.  Hver er þá hvatinn til að reisa ný raforkuver við slíkar aðstæður ?  Hugsanlega að auka markaðshlutdeild sína, en það er erfitt, ef selja þarf orku undir kostnaðarverði.  Lausn á þessu gæti verið sú að leggja auðlindargjald á orku frá eldri virkjunum, t.d. 20 ára og eldri.

Nú vill svo til, að við höfum lifandi dæmi um vandamál vatnsorkukerfis, sem starfar á raforkumarkaði eftir forskrift ESB, fyrir augunum.  Það er í Noregi.  Nú er þurrkaár þar, og miðlunarlón voru aðeins um 60 % full þann 12. ágúst 2018, en eru þá að jafnaði 75 % full.  Norðmenn verðleggja vatn miðlunarlónanna eftir magni og árstíma. Þegar allur miðlunartíminn er framundan, en lónin aðeins 60 % full, verður vatnið og þar með rafmagnið dýrt. Þess vegna hafa virkjunarfyrirtækin hækkað raforkuverðið, og verð til almennings hefur hækkað úr um 11,3 cEUR/kWh (evrusent á kWh) í yfir 20 cEUR/kWh eða meira en 77 % og fer enn hækkandi.  Þetta getur orðið almenningi mjög þungbært í vetur, því að hann kyndir hús sín með rafmagni, en svona virkar frjáls raforkumarkaður í hnotskurn.  

Virkjanafyrirtækin halda þó áfram að flytja raforku út, því að raforkuverð í Evrópu hefur fylgt olíuverði að miklu leyti og er hátt núna. Í ár hafa virkjanafyrirtækin norsku flutt út nettó 3,7 TWh (terawattstundir), tæplega 3 % af raforkuvinnslugetu Noregs, um sæstrengi til útlanda, og sá gjörningur veldur enn lægri stöðu miðlunarlóna og þar með hærra verði til almennings en ella.  

Ástæðan fyrir því, að raforkuútflutningur hefur ekki hækkað raforkuverðið í Noregi á undanförnum misserum er, að þess hefur verið gætt að halda hárri miðlunarstöðu, sem svarar til 10 TWh/ár af raforku.  Hérlendis er miðlunargetan miklu minni en í Noregi, og þess vegna mun fyrsti sæstrengurinn þegar hafa neikvæð áhrif á stöðu miðlunarlóna og hækka verðið til landsmanna, ef þá verður búið að taka upp markaðskerfi ESB.

Það er sjálfsagt hérlendis að verðleggja miðlunarforðann til að stjórna hæð allra lónanna og til að ákvarða verð á ótryggðri raforku, en það á ekki að láta lága miðlunarstöðu varpast yfir í verð á forgangsorku.  Almenningur á ekki að bera allar byrðarnar, eins og markaðskerfi ESB hefur í för með sér.  

Viljum við markaðskerfi raforku á Íslandi ?  Ef Alþingi hleypir Trójuhesti ESB/ACER, Landsreglaranum, inn fyrir "borgarmúrana" til að stjórna hér orkumarkaðsmálum, þá verðum við ekki spurð, ekki virt viðlits, því að Alþingi hefur þá leitt Evrópurétt inn á gafl á orkumálasviði, og það verður meginhlutverk Landsreglarans að innleiða hér markaðskerfi að forskrift ESB, og það mun hann geta gert án þess að spyrja kóng eða prest hér innanlands. Þeir eru þess vegna undarlega borubrattir, sem fullyrða út í loftið, að Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn sé meinlaus og skerði ekki sjálfstæði landsmanna í orkumálum. 

Munu Landsreglarinn og ACER telja það samrýmast Evrópugjörðum um frjálsa samkeppni á raforkumarkaði, að einn aðilinn þar, Landsvirkjun, sé með yfir 80 % markaðshlutdeild ?  Það verður að telja harla ólíklegt, að 100 % ríkisfyrirtæki með algerlega ríkjandi stöðu á markaði fái að starfa þar í skjóli ESB-samkeppnislaga, sem þýðir, að Landsreglaranum ber að krefjast breytinga á eignarhaldi Landsvirkjunar og jafnvel uppskiptingar.  Um þetta munu rísa deilur í landinu, sem ekki munu enda fyrir íslenzkum dómstólum, heldur hjá EFTA-dómstólinum, og hann dæmir samkvæmt s.k. Evrópurétti, sem Ísland hefur þá undirgengizt með innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins.  Forhertustu fylgjendur EES geta ekki haldið því fram, að forræði Íslendinga yfir samkeppnismálum á raforkumarkaði standi óskert eftir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins. 

Landsreglarinn mun hafa sitt fram í krafti innleiðingar Alþingis, og við höfum ekki hugmynd um í hverra höndum gullmyllan Landsvirkjun lendir.  Þetta mun valda gríðarlegri óánægju hérlendis og ekki síður verðsveiflurnar á rafmagni, sem af markaðsvæðingunni leiðir.  Hér skal vitna í Elías Bjarna Elíasson, verkfræðing, á Fésbók 15.08.2018 um þessi mál:

"Lögin segja, að hér skuli koma á fót frjálsum markaði, og fagleg athugun leiðir í ljós, að sá markaður ræður ekki við að útvega landsmönnum orku, sem er bæði örugg og ódýr."

Hér er komið svar við spurningunni í fyrirsögninni.  ESB-reglur henta íslenzka raforkumarkaðinum engan veginn. Það er svo bara túður út í loftið, að þær muni engin áhrif hafa hér fyrr en sæstrengstenging er komin á, og að þá tengingu höfum við í okkar höndum.  Það er ótrúlegt fleipur, sem veltur út úr blindum EES- og ESB-sinnum.

Ekki bætir úr skák, að aðild Íslands að Orkusambandi ESB fylgir enginn kostur, nema í augum þeirra, sem telja aflsæstrengslögn til útlanda til ávinnings.  Þeir, sem kanna það mál, sjá þó fljótlega, að með Ísland inni á sameiginlegum raforkumarkaði ESB mundi almenningur og allur atvinnurekstur í landinu verða fyrir áfalli, því að eitt helzta samkeppnisforskot Íslands væri horfið.  Góðum lífskjörum á Íslandi hefði verið fórnað á altari ESB.

Stuðningsmenn innleiðingar téðs orkubálks halda því blákalt fram, að Íslendingar muni hafa í hendi sér leyfisveitingarvaldið vegna "Icelinks".  Þeir hinir sömu hafa ekki unnið heimavinnuna sína og hafa sennilega aldrei gert.  Það verður Landsreglarinn, sem semur öll viðskiptaleg og tæknileg skilyrði, sem umsækjandi um lagnarleyfi og rekstrarleyfi verður að uppfylla, og hann hefur auðvitað Kerfisþróunaráætlun ESB/ACER og Kerfisáætlun Landsnets, sem hann stjórnar í raun og veru, til hliðsjónar.  Ef umsækjandinn uppfyllir öll umsóknarskilyrðin, á hvaða forsendum ætlar Orkustofnun sem leyfisveitandi þá að hafna umsókninni ?

Setjum svo, að OS hafni af einhverjum ástæðum.  Þá mun umsækjandinn örugglega kæra höfnunina, og ágreiningurinn endar hjá EFTA-dómstólinum.  Hann dæmir málið einfaldlega eftir Evrópurétti, svo að ekki þarf að spyrja að leikslokum.  Það verður óbjörgulegt upplitið á þeim, sem lapið hafa vitleysuna upp hver eftir öðrum, að Íslendingar muni hafa leyfisveitingarvaldið í höndum sér.  Síðan eru dæmi um, að menn kóróni vitleysuna og haldi því fram opinberlega, að Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn sé "meinlaus" !

 

 

 


ACER, halelúja

Á vegum Lagadeildar Háskólans í Reykjavík, HR, var að morgni 13. ágúst 2018 haldin þriggja klst ráðstefna með yfirskriftinni, 

"Orkumál og EES-samningurinn-Hver eru áhrif þriðja orkupakkans ?"

 

Nærtækast er að skilja fyrirsögnina þannig, að ráðstefnan hafi átt að svara því, hver yrðu áhrif "þriðja orkupakkans" á orkumál Íslands og EES-samninginn.  Þrátt fyrir fjölbreytt úrval fyrirlesara, sem voru 5 talsins, erlendir og innlendir, yfirgáfu áhugasamir gestir Lagadeildar fyrirlestrasalinn upp úr hádeginu án þess að fá skýr svör við þessu. Málið var ekki krufið til mergjar. Það er synd, því að salurinn var fullsetinn af ungum og gömlum og með örlítið gagnrýnni fyrirlesurum bæði á EES-samninginn og á Orkusamband ESB, sem Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB snýst um, hefði verið varpað skýrara ljósi á áhrif innleiðingar þessa lagabálks í íslenzka lagasafnið á fullveldi Íslendinga yfir orkumálunum og EES-samninginn m.t.t. grunnreglunnar um tveggja stoða nálgun EFTA- og ESB-ríkjanna á ný viðfangsefni, sem nánast undantekningarlaust eiga uppruna sinn innan vébanda ESB. 

Ef einhver gestanna hefur velt spurningunni í heiti ráðstefnunnar fyrir sér, þegar hann gekk út úr salnum í lokin, er ekki ólíklegt, að niðurstaða hans/hennar hafi orðið sú, að áhrifin verði engin, sem máli skipti.  Þarna var hellt yfir gestina miklu magni upplýsinga, en þess var rækilega gætt að segja ekki alla söguna, og þess vegna varð niðurstaðan hættulega villandi.

  Tökum aðeins tvö, dæmi: tveggja stoða kerfi EES og fullveldi lýðveldisins.

Stofnað verður embætti Landsreglara, sem yfirtekur raforkumarkaðseftirlitshlutverk Orkustofnunar, OS, og ráðuneytis, gefur út reglugerðir um Landsnet og yfirfer og samþykkir netmála og gjaldskrá Landsnets, ef Alþingi samþykkir þennan viðamikla lagabálk, sem vissulega er ekki saminn til einskis. Þetta embætti verður algerlega óháð íslenzkum yfirvöldum, þ.e. ráðuneytum, Alþingi og dómstólum.  Ágreiningsefnum varðandi störf Landsreglara verður skotið til EFTA-dómstólsins.  

Hver hefur eftirlit með og stjórnar Landsreglaranum ?  Í ESB-löndunum er það Orkustofnun ESB, ACER, sem er samráðsvettvangur allra Landsreglaranna og jafnframt stofnun með forstjóra, sem er framlengdur armur "orkukommissara" framkvæmdastjórnar ESB.  Hlutverk ACER er að sjá til þess, að "Evrópugjörðum" um orkumál sé framfylgt í öllum ESB-löndunum og að Kerfisþróunaráætlun ESB sé framfylgt, en á meðal verkefna þar er "Icelink", aflsæstrengur á milli Íslands og Bretlands, sem taka á í gagnið árið 2027.  Ef ACER verður vör við misfellur í framkvæmd stefnunnar, eru þær tilkynntar til Framkvæmdastjórnarinnar, sem þá hamrar á aðildarríkinu, og hægt er að leggja ESB-sektir á einstök fyrirtæki fyrir brot á reglum.  ACER getur þar af leiðandi orðið býsna íþyngjandi fyrir íbúana.

Það væri skýlaust brot á tveggja stoða reglunni og fullveldi EFTA-ríkjanna, a.m.k. Íslands og Noregs, að láta sama fyrirkomulag gilda um þau.  Þá var gripið til þess málamyndagjörnings að fela ESA-Eftirlitsstofnun EFTA hlutverk ACER EFTA-megin, þ.e. að vera Orkustofnun EFTA.  Þetta er blekkingarleikur, umbúðir án innihalds, því að Landsreglarar EFTA-ríkjanna eiga ekki að setjast niður til skrafs og ráðagerða um tillögur og úrskurði ACER, og innan ESA verður engin orkuskrifstofa, sem fær það hlutverk að laga Evrópugjörðir frá ESB/ACER að hagsmunum EFTA-ríkjanna.  ESB hefur enda alfarið hafnað slíkum valdheimildum til handa ESA, sem þýðir, að Evrópugjörðir á sviði orkumála og úrskurðir ACER, þar sem EFTA-ríkin munu hafa áheyrnarrétt án atkvæðisréttar, ef úr verður, munu verða endurskrifaðar orðrétt eða hreinlega ljósritaðar á bréfhaus ESA.  

ESA sem milliliður á milli ACER og Landsreglarans hefur þar af leiðandi ekkert stjórnskipulegt gildi, og stjórnlagalega stendur eftir, að Orkustofnun ESB fær íhlutunarrétt um mikilvæga almannahagsmuni á Íslandi um embætti Landsreglarans.  Þetta er skýlaust stjórnlagabrot og brot á upphaflegum EES-samningi.  Alþingi verður að beita synjunarvaldi sínu í þessu máli, þegar það fær málið til afgreiðslu, enda er það örugglega í samræmi við þjóðarviljann samkvæmt skoðanakönnun, sem framkvæmd var sumarið 2018.  Þá komast tveir stjórnarflokkanna ekki upp með að hundsa nýlegar, skýrar Landsfundar- og Flokksþingsályktanir í þessu mikilvæga máli án flokkslegs uppnáms og hrakfara í næstu kosningum, enda býður Miðflokkurinn nýja stuðningsmenn velkomna á forsendum varðveizlu fullveldis í orkumálum og á öðrum sviðum.

Auk þeirra málefna, sem hér hefur verið fjallað um, skipta fjárhagslegu hagsmunirnir í þessu máli mestu.  Þeim voru ekki gerð verðug skil á umræddri ráðstefnu.  Fyrst er að geta hræðsluáróðurs ACER-fylgjenda á Íslandi gegn því að fella þingsályktunartillögu um innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins á Íslandi.  Jafnvel ráðherra mun hafa gert svo lítið úr sér í kaffihléi á téðri ráðstefnu að fullyrða, að Norðmenn yrðu fyrir stórtjóni, ef þeir kæmust ekki inn í Orkusamband ESB (vegna höfnunar Íslands).  Tveir þingmenn á norska Stórþinginu komu hingað í vor gagngert til að segja við íslenzka þingmenn, að þeir skyldu ekki hugsa um norska hagsmuni, heldur ákveða sig á grundvelli íslenzkrar Stjórnarskrár og íslenzkra hagsmuna.

Norðmenn munu auðvitað áfram eiga viðskipti við ESB með gas, olíu og rafmagn, eins og hingað til, enda má benda á, að stærsti orkubirgir ESB, Rússar, eru ekki á leiðinni inn í ESB, og Bretar eru á leiðinni þaðan út. Það yrði norsku þjóðinni vafalaust þóknanlegt, að Íslendingar höfnuðu ESB/ACER yfirráðum hér, enda var mikill meirihluti norsku þjóðarinnar á öndverðum meiði við meirihluta Stórþingsins í vetur um afstöðuna til ACER.  Það er algerlega óboðlegt, að ráðherra endurómi hræðsluáróður ráðuneytisfólks, sem andlega er gengið í björg og ESB á hönd hér, eins og í Noregi.  

Verður íslenzka raforkukerfinu betur stjórnað undir reglusetningu og eftirliti Landsreglarans en undir núverandi stjórnskipan ?  Á ráðstefnunni voru engin rök færð fyrir því, hvers vegna svo ætti að vera.  Þó hafa heyrzt hjáróma raddir í þá veru hérlendis, en það er eiginlega af og frá.  Landsreglarinn mun koma hér á fót markaðskerfi um raforkuviðskipti í anda Evrópugjörða, því að það er hlutverk hans.  Sýnt hefur verið fram á, að slíkt kerfi leysir engin vandamál hér, en getur valdið stórvandræðum og jafnvel raforkuskorti.  Lausn á öllum þeim vanda verður síðan boðuð á formi aflsæstrengs til útlanda, sem fella myndi hið nýja markaðskerfi á Íslandi inn í orkumarkað ESB (EES).  Það þýðir, að iðnrekandi í Mið-Evrópu getur boðið í raforku á íslenzka markaðnum.  Mun þá ýmsum kotbóndanum hérlendis þykja tekið að þrengjast um fyrir dyrum sínum.  Hver einasti raforkunotandi á Íslandi mun til lengdar ganga með skertan hlut frá borði á þessum markaði.  Það þýðir óhjákvæmilega lakari lífskjör á Íslandi en ella og minni samkeppnishæfni landsins um fólk og fyrirtæki.    

 Tifandi tímasprengja

 

 


Viðskiptastríð

Það er með ólíkindum, að heimsbyggðin skuli á árinu 2018 upplifa viðskiptastríð stórvelda, þ.á.m. Bandaríkjanna við bandamenn sína, þótt Bandaríkjamenn  berðust ötullegast fyrir viðskiptafrelsi á síðustu öld og lengst af þessari. Þeir voru aðalhöfundar WTO-Alþjóða viðskiptastofnunarinnar, en nú hunza þeir gjörsamlega regluverk hennar.  Þetta er forkastanleg hegðun, enda hafa Bandaríkjamenn grafið undan trausti bandamanna sinna til sín.  Ef fram heldur sem horfir, mun "America first" stefna Bandaríkjastjórnar leiða til einangrunarhyggju þessa mesta stórveldis fyrr og síðar.  Það mun gjörbreyta valdahlutföllum í heiminum.  

Allt er í heiminum hverfult, og nú er skollið á viðskiptastríð á milli rótgróinna bandamanna, þ.e. stríð BNA við ESB, Kanada, Japan o.fl. Forseti BNA hefur jafnvel varpað fram efasemdum um grundvallarreglu NATO, 5. greinina, um að árás á einn jafngildi árás á alla og verði svarað sem stríðsyfirlýsingu á NATO.  Allt þetta hlýtur að draga sögulegan dilk á eftir sér. Eru Bandaríkjamenn enn staðráðnir í að standa við skuldbindingar sínar í varnarsamningi sínum við Ísland ?  Slík spurning hefði verið fráleit fyrir 2 árum, en er hún það nú ?  

Augljóslega er nú kostur fyrir Íslendinga að standa utan ESB og losna þar með við viðsjárvert og kostnaðarsamt viðskiptastríð, en óbeinum afleiðingum viðskiptastríðs losnar þó enginn undan.  Þær eru samdráttur alþjóðlegra viðskipta og fjárfestinga, sem strax leiðir til minni hagvaxtar alls staðar, mun breyta innbyrðis hlutföllum á gengi gjaldmiðla og  getur endað með heimskreppu, eins og gerðist fyrir 90 árum.    

Það vinnur enginn viðskiptastríð. Donald Trump gumar af því, að Bandaríkjamenn vinni þetta viðskiptastríð auðveldlega.  Hann á eftir að komast að öðru. Það ættu Bandaríkjamenn að vita, eins og aðrir, og þeir hafa ekki leyfi til að ganga fram með þessum hætti, gjörsamlega í trássi við "barn sitt", Alþjóða viðskiptastofnunina-WTO. "America first" gengur ekki upp.

Leikritið, sem við horfum á núna, er raunveruleikaþátturinn "Skipbrot bandaríska auðvaldskerfisins", hvorki meira né minna.  Bandaríkin, forysturíki auðvaldsins, kveina nú og kvarta undan frjálsri samkeppni, aðallega við þróunarlandið Kína og "elliheimilið" ESB, og setja í kjölfarið tolla á varning frá þeim án nokkurra viðræðna innan WTO !  Svona gera menn ekki, nema þeir séu ákveðnir í að grafa undan sjálfum sér, því að sér grefur gröf, þótt grafi. 

Það er einfeldningslegt, ef einhver heldur, að tollar á innflutning komi ekki niður á lífskjörum íbúanna, sem látið er í veðri vaka, að verið sé að vernda.  Íslendingar afnámu fyrir 3 árum tolla og vörugjöld á öllum vörum, nema eldsneytisbílum og eldsneyti.  Það bætti kjör landsmanna sannanlega.  Bandaríkjamenn munu fljótlega átta sig á raunveruleikanum og væntanlega taka afstöðu samkvæmt því í þingkosningunum í nóvember 2018.  Gæti þá þessum farsa lokið áður en gengið verður af frjálsum viðskiptum dauðum um langa framtíð.

Lítum á upphafið að þessum ósköpum.  15. júní 2018 gaf Trumpstjórnin út tvo lista með kínverskum vörum, sem hún hugðist skella 25 % tollum á, vöruandvirði miaUSD 50 árið 2017.  Sá fyrri tók gildi 6. júlí 2018.  Kínverjar endurguldu með eigin lista sömu upphæðar. Þá gaf Donald Trump skipun til Roberts Lighthizer, viðskiptafulltrúa BNA (USTR), að útbúa nýjan lista  að virði miaUSD 200, sem á skyldi leggja 10 % toll, og hótaði enn öðrum, að vöruandvirði miaUSD 200.  Heildin, miaUSD 450, er um 80 % af heildarútflutningi Kína til BNA.  Kínverjar flytja hins vegar aðeins inn frá BNA fjórðung af útflutningsverðmætunum þangað.  Það er ein af meinsemdunum, en segir ekki alla söguna.

Kína lítur á upphafsleik BNA sem einhliða brot á alþjóðlegum reglum um viðskipti (WTO).  Lögð hefur verið fram kæra hjá WTO. Teymi Trumps heldur því fram, að Kínverjar hafi hafið þessi átök með því að stela þekkingu frá Bandaríkjamönnum og reka óheiðarlega viðskiptastefnu (undirboð).  Þegar búið er að leggja tolla á, gleymist rétt og rangt og jafnvel hlutverk WTO í málinu.  Dæmigert stríðsástand.

Skrifstofa USTR hefur tekið sér tíma til að velja vörur til tolllagningar.  Hún vill valda bandarískum neytendum lágmarkskostnaði og kínverskum útflytjendum hámarkstjóni. Af vörunum á listum frá 15. júní 2018 voru 95 % af verðgildinu fjárfestingarvörur eða íhlutir.  Það átti að draga úr skammtímaáhrifum á verðlag í BNA, þar sem framleiðslukostnaður hækkar sáralítið við álagninguna.  USTR hefur líka reynt að tryggja, að bandarískir innflytjendur gætu fundið aðra birgja.  Samkvæmt ITC (International Trade Centre) þá nemur hlutdeild Kínverja aðeins 8 % af heildarinnflutningi þessara vara.  

Það fer þó ekki hjá því, að tollarnir skaði bandarísk fyrirtæki, því að þau verða fyrir kostnaði, en ekki alþjóðlegir keppinautar þeirra.  Jafnvel þótt í hlut eigi vörur með lítilli kínverskri hlutdeild, getur verið hægara sagt en gert að skipta um birgi.  Í yfirheyrslum þingnefndar skýrðu fulltrúar risans GE frá því, að sérhæfðir íhlutir þess fari í alls konar gæðaprófanir og opinbert samþykktarferli, en af 34 íhlutum, sem fyrirtækið vildi fjarlægja af tollalistum USTR, var enginn fjarlægður.  

Að valda Kína tjóni gæti líka verið hægara sagt en gert.  Trumpstjórnin vill hemja metnað Kínverja á þýðingarmiklum sviðum, sem þeir kalla "Made in China 2025". Þetta hittir Kanann þó sjálfan fyrir, því að samkvæmt Yang Liang í Syracuse háskólanum og Mary Lovely í Peterson Institute for International Economics, sem er hugveita í Washington DC, komu 55 % af hátækni útflutningsvörum Kínverja 2013 til BNA frá fyrirtækjum að fullu í erlendri eigu í Kína.  miaUSD 3,6 virði hálfleiðara innflutnings frá Kína í eldlínunni eru aðallega frá bandarískum dótturfyrirtækjum, innihalda díóður, transistora og týristora, sem framleiddir eru í BNA og fluttir til Kína vegna tímafrekrar samsetningar og prófana.

Byrjunarandsvar Kínverja snertir landbúnaðarafurðir, sem aðallega koma frá ríkjum, sem studdu Trump 2016, svo að greinilega er stílað inn á kosningarnar í nóvember 2018 í þessu stríði.  Eftir því sem stríðið magnast, dreifist tjónið um samfélagið.  Árið 2017 fluttu Bandaríkjamenn inn vörur frá Kína fyrir miaUSD 505.  Ef tollar verða lagðir á vörur fyrir miaUSD 250, svo að ekki sé minnzt á miaUSD 450, verður ómögulegt að forðast neytendavörur á borð við föt og rafeindatæki.  Vörur með fáa staðgöngubirgja verða fyrir barðinu.  Bandarískum innflytjendum mun reynast erfiðara en áður að forðast verðhækkanir til neytenda.  

Dmitry Grozubinski hjá hugveitunni "International Centre for Trade and Sustainable Development" er með sláandi samlíkingu í greininni "Battle-lines drawn" í "The Economist" 23. júní 2018: "Viðskiptastríði má jafna við það að sprengja upp eigin borgir og blása rykinu og reyknum yfir landamærin í von um, að íbúunum þar (andstæðingunum) súrni í augum."

Árið 2017 fluttu Kinverjar aðeins inn fyrir miaUSD 130 frá Bandaríkjamönnum, svo að þeir hafa minna svigrúm í viðskiptastríði, en geta hins vegar gripið til annarra refsinga.  Þeir gætu stöðvað námsmannaferðir og ferðalög Kínverja til Bandaríkjanna.  Þeir gætu með beitingu reglugerða gert bandarískum fyrirtækjum erfitt fyrir í Kína.  Samkvæmt upplýsingum frá Bandarísk-kínverska viðskiptaráðinu hefur kínverska ríkisstjórnin rætt við kínversk fyrirtæki um að finna staðgönguvörur fyrir bandarískar vörur, sem þau nota.  Þetta mun leiða til minni bandarískra fjárfestinga í Kína, en bandarísk yfirvöld gráta krókódílstárum yfir því. Allt er þetta makalaust.  Adam Smith, höfundur auðgunarstefnunnar, verður væntanlega ekki vært í gröfinni við þessi öfugmæli.   

Þessi yfirferð ætti að sannfæra flesta um, að andstæðan við þá andstyggilegu og viðsjárverðu stöðu, sem upp er komin á milli stórvelda, þ.e. fríverzlun þeirra og annarra á milli, er hagstæðasta fyrirkomulagið.  Leita þarf annarra leiða til að auka samkeppnihæfni landa og minnka viðskiptahalla en að leggja á innflutningsgjöld. 

E.t.v. hefur bandaríkjadalur verið of hátt skráður undanfarið.  Seðlabanki Bandaríkjanna hefur verið að þoka stýrivöxtum sínum upp, sem hefur leitt til fjárstreymis til BNA. Donald Trump hefur fyrstur Bandaríkjaforseta í háa herrans tíð gagnrýnt "Federal Reserve" fyrir vaxtastefnu seðlabankans, og hann hefur sakað ESB um að halda gengi evrunnar niðri til að styrkja viðskiptastöðu evrulandanna.  Samtímis lætur hann skammirnar dynja á Þjóðverjum, enda eru þeir með yfir 5 % viðskiptaafgang af sinni VLF. 

Þetta er mjög ósanngjörn gagnrýni, því að Þjóðverjar hafa verið manna gagnrýnastir á Ítalann Mario Draghi og bankastjórn ECB-evrubankans fyrir peningamálastjórnun bankans, sem Þjóðverjar telja auka of mikið peningamagn í umferð og verða verðbólguhvetjandi, er frá líður, og ræni þýzka sparifjáreigendur sanngjarnri ávöxtun af heiðarlegum sparnaði sínum, t.d. til elliáranna, en hvetji þess í stað til neyzlu.  Þessi gagnrýni hefur t.d. komið frá yfirstjórn Bundesbank, banka ofurmarksins, DEM. 

Þessir atburðir, sem að ofan er lýst, hafa eyðilagt gamalgróið traust, sem ríkt hefur á milli vestrænna ríkja yfir Atlantshafið.  Það verður ekki endurreist í sjónhendingu.  Þetta á líka við öryggis- og varnarmál.  Afleiðingarnar verða stórvægilegar og alvarlegar. 

Íslendingar hafa varnarsamning við Bandaríkin.  Hvers virði er hann ?  Við þessar aðstæður er Íslendingum hollast að reyna að stunda fríverzlun við sem flesta og ekki að loka sig af innan einhverra tollmúra, heldur ekki "Festung Europa", sem aðallega hefur verið fólgin í tæknilegum viðskiptahindrunum út á við á borð við framleiðslu- og gæðastaðla. 

Árið 1918 endaði fyrri heimsstyrjöldin fyrir tilverknað Bandaríkjamanna með uppgjöf Miðveldanna. Woodrow Wilson, þáverandi Bandaríkjaforseti, boðaði árið 1918 sjálfstæði þjóðríkja.  Sá boðskapur varð vatn á myllu íslenzku þingnefndarinnar, sem samdi um fullveldi við danska þingnefnd í Reykjavík 18. júlí 1918. Bandaríkin urðu fyrst til að viðurkenna lýðveldið Ísland 1944 og tryggðu öryggi þess.  Árið 2018 brauzt út viðskiptastríð Bandaríkjanna við umheiminn.  Hvernig fer með fullveldi landsins árið 2018 í hverfulum heimi ?  Það er engum að treysta.  Þjóðir eiga enga vini.  Stundum fara hagsmunir sumra saman, og stundum fara hagsmunir annarra saman.  Ræður íslenzka utanríkisráðuneytið fram úr þessari flóknu stöðu, þannig að hagsmunum Íslands verði borgið í bráð ?  Það má efast.

 

 

 

 


Viðskipti með jarðir á Íslandi

Landbúnaður á Íslandi á undir högg að sækja, sumpart vegna þess að hann er nú kominn í beina samkeppni við annars konar landbúnað en hér er stundaður, þ.e. niðurgreiddan verksmiðjulandbúnað ESB, sem notar alls konar hjálparmeðul, sem hér eru bönnuð af heilsufarsástæðum eða ekki þörf fyrir. Heilnæmið er þess vegna ósambærilegt, nema bornar séu saman vörur með vottun um lífræna ræktun.  

Íslenzkir bændur hafa aukið framleiðni fyrirtækja sinna, búanna, gríðarlega undanfarin 30 ár, en búin eru samt enn rekin sem fjölskyldufyrirtæki.  Frá sjónarhorni byggðastefnu með eðlilegu og fjölbreyttu mannlífi í hinum dreifðu byggðum landsins er það æskilegasta rekstrarformið.  Vegna stærðarmunar er framleiðni íslenzkra búa yfirleitt minni en framleiðslufyrirtækja landbúnaðarafurða í ESB, en gæðamunur framleiðslunnar er yfirleitt mikill, íslenzkum landbúnaði í vil.  Það er verkefni næstu ára að fá þetta formlega vottað, svo að þessi kostur, sem verður sífellt mikilvægari í augum almennings um allan heim, endurvarpist í verð á útflutningsvöru.

  Loftslagsþróunin gæti og lagzt á sveif með íslenzkum bændum, eins og komið hefur á daginn í sumar með brýnni þörf norrænna bænda fyrir hey, og á Íslandi eru umframhey af góðum gæðum.

Bændum hérlendis hefur fækkað stöðugt á sama tíma og framleiðsluaukning hefur orðið í landbúnaðinum í heild.  Þetta er auðvitað lykillinn að nauðsynlegri framleiðniaukningu.  Bændur hafa við þessar aðstæður fengið fremur lágt verð fyrir jarðir sínar í samanburði við íbúðaverð í þéttbýli, og jarðir hafa jafnvel lagzt í eyði, þegar gamlir bændur bregða búi. Bændur hafa þess vegna gripið fegins hendi tilboð frá fjársterkum aðilum, innlendum og frá jafnsettum erlendum ríkisborgurum samkvæmt EES-samninginum. Stjórnarskráin tryggir bændum (jarðeigendum) rétt til að selja eign sína löglegum bjóðendum.  

Hin hliðin á þessum peningi er, að margar jarðir eru að safnast á fáar hendur, sem ekki vinna þar handtak, hvorki beint né óbeint. Nýju eigendurnir eru þó a.m.k. sumir fúsir til að leigja jarðirnar undir búskap og hafa víst boðið sanngjörn kjör leigutökum.  Við þær aðstæður eru uppfyllt skilyrði um áframhaldandi eðlilegt og fjölbreytt líf í sveit, og eignarhaldið skiptir þá ekki höfuðmáli.  Ef nýir eigendur ekki ætla að stunda atvinnustarfsemi á jörðinni, mætti gera það að skilyrði fyrir kaupum, að þeir leigðu hana til búskapar eða landbóta af einhverju tagi.  

Það virðist sammerkt flestum jörðunum, sem keyptar hafa verið án fyrirætlunar um búskap þar, að það eru hlunnindajarðir, oftast með laxveiðiréttindi.  Veiðiréttarhafar telja veiðihlunnindi til mikilvægra hagsmuna sinna, og þess vegna missir bændastéttin spón úr aski sínum, þegar aðrir kaupa jarðir með veiðihlunnindum.  Það mætti reisa skorður við þessu með því að setja nokkur skilyrði um rekstur eignanna, sem þó mismuna ekki eftir þjóðerni:  

  1. Félag má þá aðeins eiga jörð, eina eða fleiri, ef handhafar meirihlutaeignar í félaginu hafa fasta búsetu á jörð, og/eða þeir reka atvinnustarfsemi á a.m.k. einni jörð árið um kring. Eigendaskrá félagsins skal vera opinber og spanna skýlaust alla eigendur.  Félagið skal hafa heimilisfesti á Íslandi og vera þar skattskylt. Undanþágu frá þessu ákvæði um fasta búsetu og/eða atvinnustarfsemi eiganda á jörð er unnt að veita, ef félagið leigir jarðirnar til ábúðar og hefðbundinna nytja, landgræðslu eða annarrar sprotastarfsemi, innan tveggja ára frá kaupum eða brottflutningi síðasta ábúanda, ella skal viðkomandi sveitarfélag öðlast kauprétt samkvæmt verðmætamati í fasteignaskrá.  
  2. Einstaklingi skal vera heimilt að eiga ótakmarkaðan fjölda jarða, ef hann hefur fasta búsetu á einni þeirri og/eða nytjar jarðirnar til hefðbundins búskapar, landgræðslu, þ.m.t. skógræktar, hrossaræktar e.þ.l.  
 
Aðalinntakið í ofangreindum kvöðum er gegnsæi eignarhalds, skattlagning hérlendis og nýting lands með hefðbundnum hætti eða til landgræðslu.  Þótt megináhugi fjárfesta kunni að beinast að lax- og silungsveiðihlunnindum, verða þeir annaðhvort að stunda atvinnustarfsemi á jörðunum eða að veita öðrum umboð til þess.  Það má sem sagt ekki kaupa jörð til að leggja hana í eyði.
Þann 17. júlí 2018 skrifaði Agnes Bragadóttir Baksviðsgrein í Morgunblaðið, sem hún nefndi:
"Geta falið eignarhaldið ef þeir vilja":
 
"Erlendir auðkýfingar hafa síðustu ár keypt fjölda jarða.  Erfitt er að henda reiður á því, hversu stór hluti íslenzkra jarða er kominn í eigu útlendinga, því að eignarhald erlendra aðila er í ákveðnum tilvikum í gegnum íslenzk fyrirtæki.  Það á t.d. við um eignarhaldið á Hótel Kötlu.  Útlendingar, sem kaupa jarðir í gegnum íslenzk fyrirtæki, geta því falið eignarhald sitt, ef þeim sýnist svo."
Það ætti að vera krafa löggjafans, að eignarhald jarðnæðis á Íslandi sé gegnsætt, þannig að rekja megi eignarhaldið á einfaldan hátt til einstaklinga og að það sé til á reglulega uppfærðri skrá.  
Síðan vitnaði Agnes í viðtal sitt við Stefán Má Stefánsson, lagaprófessor:
""Það er bara spurning um það, hversu langt menn vilja ganga, en fyrst af öllu verða menn að vita, hvar leyfileg mörk liggja.  Það eru möguleikar fyrir okkur að koma upp eins konar varnarmúrum.
Girðingarnar gagnvart þriðju ríkjum eru nokkuð klárar, því að það eru engar skuldbindingar gagnvart þeim.  T.d. gætu Þjóðverjar ekki keypt upp jarðir hér, bara í krafti fjármagns.  [Englendingurinn Ratcliff hefur keypt jarðir í Vopnafirði, bara í krafti fjármagns.  Hvers vegna geta Þjóðverjar það ekki ? - innsk. BJo.]Það væri hægt að setja girðingar gagnvart því.  Öðru máli gegnir, ef fyrirtæki kemur hingað í þeim tilgangi að stofna til atvinnustarfsemi.  Þá væru jarðakaup félaga frá þriðju ríkjum heimil, og sama ætti við um útlendinga, sem kæmu hingað til þess að verða launþegar", sagði Stefán Már.
Ég tel tvímælalaust, að hægt sé að setja búsetuskilyrði í lög í tengslum við sölu á jörðum."
 
Það á ekki að vera keppikefli löggjafans að setja upp girðingar hér gegn erlendum fjárfestingum á þessu sviði né öðrum.  Hins vegar á að hindra jarðakaup, sem einvörðungu snúast um að nýta hlunnindi jarðarinnar.  Með í kaupunum verður að vera alhliða nýting jarðarinnar, svo að samræmi sé við almenna byggðastefnu landsmanna, landbúnaðarstefnu og stefnu um að hefta losun koltvíildis við uppblástur lands og bindingu kolefnis með skógrækt og annarri ræktun. 
 
Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur og fyrrverandi Alþingismaður og ráðherra, tengdi ógöngur landsölumála við EES-samninginn í Morgunblaðsgrein sinni 21. júlí 2018:
"Jarðakaup útlendinga eftir aldarfjórðung í EES".
 
Þar lýsir hann skelfilegum lausatökum stjórnmálamanna og embættismanna hérlendra við gerð þessa dæmalausa samnings.  Felst í efnistökum Hjörleifs staðfesting á því, sem haldið hefur verið fram á þessu vefsetri, að Íslendingar hafa einfaldlega færzt of mikið í fang með því að ætla að hafa í fullu tré við risaríkjasamband, sem hér seilist til áhrifa á öllum þremur sviðum ríkisvaldsins:
 
"Það ferli, sem hér er komið á fullt skrið víða um land, á rætur í EES-samningnum og háskalegum vettlingatökum íslenzkra stjórnvalda við gerð hans.  Í opnu bréfi til Steingríms Hermannssonar, forsætisráðherra, sem birtist í Tímanum 1. febrúar 1991, vakti ég athygli á, hvert stefndi, þvert á yfirlýsingar hans við upphaf málsins 1989.  
Í svargrein hans í sama blaði viku síðar vísaði Steingrímur í forkaupsrétt sveitarfélaga og bætti við:
"Allt slíkt er gert ráð fyrir að herða.  Eignarhald erlendra aðila á landi, sem ekki er nauðsynlegt vegna atvinnureksturs, verður ekki leyft."
 
Eftir stjórnarskiptin 1991 var fallið frá flestum fyrirvörum við samninginn af Íslands hálfu og vísað til væntanlegra ákvæða í fjárfestinga-, fasteigna-, jarða- og ábúðarlögum, sem sett voru síðar á árabilinu 1996-2004.  Þegar til kastanna kom, reyndust þau haldlítil eða haldlaus, enda þar að margra mati gengið lengra í að opna fyrir fjárfestingar útlendinga en EES-rétturinn krafðist."
 
 Það er ljóst af lýsingu Hjörleifs, að upphafleg fyrirætlun Steingríms Hermannssonar um að koma í veg fyrir uppkaup á jörðum einvörðungu vegna veiðihlunninda, sem síðan leiðir gjarna til, að jörðin fer í eyði, hefur farið gjörsamlega í handaskolum.  Það er ekki líklegt, þótt Hjörleifur virðist síðar í greininni binda nokkrar vonir við það, að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur takist betur upp við það að búa til kerfi, sem laðar að fjárfesta, sem hefja hér raunverulega atvinnustarfsemi eða leigja bændum jarðir sínar á sanngjörnu verði til hefðbundinnar starfsemi eða nýsköpunar, en láta ekki þar við sitja að kaupa jarðir af bændum eða öðrum til þess einvörðungu að nýta veiðihlunnindi.
 
Til að embættismenn hætti að fara eins og kettir í kringum heitan graut af ótta við athugasemdir ESA og kærur til EFTA-dómstólsins fyrir brot á jafnstöðu þjóðerna innan EES, er eina ráðið að segja EES-samninginum upp.  Það er löngu tímabært og mundi létta alls konar áþján af stjórnsýslu, ráðherrum, Alþingismönnum, dómurum og ekki sízt af atvinnulífinu.  Það er ljóst, að ella verða hér sífelldar uppákomur vegna augljósra stjórnlagabrota, sem þó er reynt að breiða yfir við innleiðingu nýrra Evrópugjörða.   
 

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband