Færsluflokkur: Dægurmál
1.9.2018 | 17:00
Grasrótin er á tánum
Þeim, sem sóttu fund nokkurra hverfafélaga Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í Valhöll síðdegis 30. ágúst 2018, blandast ekki hugur um, að grasrót Sjálfstæðisflokksins hefur þungar áhyggjur út af því, að þingmenn flokksins tala í véfréttastíl um afstöðu sína til Þriðja orkumarkaðslagabálks Evrópusambandsins, ESB. Kjósendur flokksins eiga heimtingu á því, að þingmenn hans geri hreint fyrir sínum dyrum og segi hug sinn í þessum efnum. Þá kemur næst að kjósendunum að gera upp hug sinn til viðkomandi þingmanna. Margir munu ekki láta bjóða sér upp á þá afskræmingu lýðræðis, að þingmenn haldi í gagnstæða átt við vilja kjósenda í þessu stórmáli. Þá er komin upp gjá á milli þings og þjóðar, eins og gerðist í Noregi út af Þriðja orkumarkaðslagabálkinum.
Sumir þingmenn segjast ekki eiga val við innleiðingu stórra Evrópugerða. Það er algerlega óboðlegur málflutningur í þessu "orkupakkamáli". Þingmenn eiga frjálst val. Það mun ekkert markvert gerast að hálfu ESB eða EFTA, þótt Alþingismenn hafni Þriðja orkumarkaðslagabálkinum. Norðmenn og Liechtensteinar munu einfaldlega gera sérsamning við ESB/ACER-Orkustofnun ESB um sín orkumarkaðsmál, enda báðar þjóðirnar vel tengdar við orkukerfi Evrópusambandsins.
ESB fær við synjun Alþingis heimild til að fella úr gildi fyrsta og annan orkumarkaðslagabálk sinn gagnvart EFTA. Það breytir engu fyrir Íslendinga og aðra, og þess vegna verður það líklega látið ógert. ESB hefur nóg á sinni könnu núna með viðskiptastríð við BNA og BREXIT í uppnámi.
Þingmenn mega fyrir alla muni ekki láta einfeldningslegan hræðsluáróður embættismanna heima og heiman, svo og erlendra ráðherra, hræða sig til að fremja óhæfuverk á Stjórnarskrá og innlendum raforkumarkaði. Kjósendur munu trauðla fyrirgefa það. Utanríkisráðherra ætti að spara sér köpuryrði á borð við, "að umræðan sé á villigötum" án þess að láta nokkrar útskýringar fylgja. Slík lágkúra er ekki ráðherra sæmandi.
Það er líka óboðlegt af ráðherra Sjálfstæðisflokksins að gera hugmyndafræði ESB um viðskipti með raforku að sinni. ESB skilgreinir rafmagn sem vöru, og slíkt getur alveg gengið upp hjá þeim, en þegar "heilaþvegnir" Íslendingar, jafnvel ráðherrar, tönnlast umhugsunarlaust á þessu, og japla á, að þeir vilji gera greinarmun á auðlind og afurð, þá er of langt seilzt með rafmagnið.
Þeir segja jafnframt, að Sjálfstæðisflokkurinn sé flokkur frjálsra viðskipta með vörur. Það er hverju orði sannara, en þar sem rafmagn er ekki vara hérlendis, heldur þessi röksemd ekki vatni.
Hvað er þá rafmagn ? Hefðbundin viðhorf til rafmagns á Íslandi og í Noregi er, að rafmagn sé afurð náttúruauðlinda, sem nýta ber allri þjóðinni til hagsbóta og öllum atvinnugreinum til verðmætasköpunar í öllum byggðum landsins. Með öðrum orðum ber að nýta hina endurnýjanlegu orku þessara landa til að efla samkeppnishæfni atvinnurekstrar í þessum löndum og til eflingar samkeppnishæfni þessara landa um fólk og fyrirtæki. Í stuttu máli á samkvæmt þessu hefðbundna viðhorfi á Íslandi og í Noregi að nota orkulindirnar til að bæta lífsgæðin í öllum byggðum þessara landa.
Þetta sjónarmið er algerlega ósamrýmanlegt viðhorfi ESB-forystunnar til rafmagns. Samkvæmt því viðhorfi á rafmagnið einfaldlega að fara til hæstbjóðanda. Ef þetta fyrirkomulag verður innleitt hér og hingað verður lagður aflsæstrengur, svo að við þurfum að keppa við útlendinga um "okkar eigin" orku, þá hrynur undirstaðan undan samkeppnisstöðu íslenzks atvinnurekstrar með tilheyrandi hruni lífskjara um allt land.
Þeir, sem af undarlegum undirlægjuhætti vilja þóknast vilja erlendra ráðamanna um, að Ísland gangi Orkusambandi ESB á hönd, halda því fram, að íslenzk stjórnvöld muni hafa síðasta orðið um það, hvort aflsæstrengur frá útlöndum verði tengdur íslenzku raforkukerfi. Þeir hinir sömu hafa illa kynnt sér málavexti eða tala sér þvert um geð. Það verður fulltrúi ACER á Íslandi, Landsreglarinn, sem setur alla skilmála fyrir slíkri tengingu. Ef umsækjandi um leyfi til slíkrar tengingar uppfyllir skilmálana, skortir Orkustofnun allar forsendur til höfnunar.
Hafni Orkustofnun samt, ber Landsreglara að tilkynna yfirboðurum sínum hjá ACER-Orkustofnun ESB þá höfnun sem brot gegn Kerfisþróunaráætlun ESB/ACER, sem Ísland verður skuldbundið til að fylgja með samþykki Alþingis á Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB og innleiðingu hans í EES-samninginn, sbr Evrópugjörð nr 714/2009. Ennfremur er næstum öruggt, að umsækjandinn mun kæra þennan úrskurð beint til ESA, sem mun úrskurða honum í vil á grundvelli téðs orkulagabálks. Þverskallist íslenzk yfirvöld, kærir ESA íslenzka ríkið fyrir EFTA-dómstólinum, sem mun dæma á sama veg og ESA. Annaðhvort verður Orkustofnun þá að gefa sig eða ríkisstjórnin að segja EES-samninginum upp. Þá mun stefna í "harða útgöngu", sbr "hard BREXIT", sem varla er ákjósanleg staða. Þess vegna má halda því fram, að þeir, sem samþykkja Þriðja orkumarkaðslagabálkinn séu þar með að leggja drögin fyrir markaðssetningu íslenzkrar raforku í erlendri raforkukauphöll, t.d. Nord Pool.
23.8.2018 | 20:15
Hvað verður um Landsvirkjun undir Landsreglara ?
Aðdáendur Evrópusambandsins (ESB) og talsmenn þess, að Alþingi samþykki innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB hafa svamlað við yfirborðið í málflutningi sínum og klifað á þeirri skoðun sinni, að innleiðing þessa lagabálks breyti mjög litlu fyrir Íslendinga. Annaðhvort sigla slíkir undir fölsku flaggi, eða þeir hafa ekki skilið, hvað þessi mikli lagabálkur ESB snýst um.
Embætti Landsreglara (n. "Reguleringsmyndighet for energi") er brimbrjótur ESB inn á gafl orkumálanna hjá aðildarþjóðum Orkusambands ESB. Þar eð Landsreglarinn er óháður í störfum sínum stjórnvöldum og dómsvaldi aðildarlandanna, þá getur hann nýtt heimildir sínar samkvæmt Þriðja orkumarkaðslagabálkinum til hins ýtrasta án truflunar frá stjórnvöldum, enda verður Landsreglarinn einvörðungu háður boðvaldi ESB/ACER (Orkustofnun ESB). Í þessu sambandi er ESA hreint aukaatriði, enda einvörðungu óvirkur milliliður ESB/ACER og Landsreglarans, án nokkurra heimilda til að hnika til stafkróki.
Meginhlutverk Landsreglarans hérlendis samkvæmt Þriðja bálkinum verður að koma á laggirnar frjálsri samkeppni með raforku að hætti ESB, þannig að raforkumarkaður á Íslandi verði einsleitur raforkumarkaði ESB-landanna og þannig með vissum hætti aðlagaður, ef/þegar einhverjum hugnast að sækja um að leggja og reka aflsæstreng á milli Íslands og útlanda samkvæmt tæknilegum og viðskiptalegum skilmálum, sem Landsreglarinn setur. Vald leyfisveitandans, Orkustofnunar, til að hafna þeim streng verður ekkert, ef strengumsóknin fullnægir kröfum Landsreglarans.
Hvað gerist hérlendis, þegar saman koma í einn pott téður Þriðji orkubálkur, samkeppnisreglur ESB og bann við ríkisstuðningi ? Þá blasir við, að Landsvirkjun verður í skotlínu, því að innleiðing samkeppnismarkaðar er ekki möguleg, þar sem eitt fyrirtækjanna er með yfir 80 % markaðshlutdeild. Til hvers grípur Landsreglarinn þá ? Hann hefur víðtækar heimildir samkvæmt Þriðja orkulagabálkinum til að ryðja úr vegi hindrunum, sem í einstökum löndum koma í veg fyrir virkni samkeppnismarkaðar, og hann verður að skipta Landsvirkjun upp og einkavæða a.m.k. hluta hennar, ef honum á að takast ætlunarverk sitt.
Þar sem allt þetta umstang er til að undirbúa Ísland fyrir sameiginlegan og samtengdan raforkumarkað ESB, þá er líklegt, að önnur orkuvinnslufyrirtæki á Evrópska efnahagssvæðinu, t.d. á hinum Norðurlöndunum, Bretlandi og Þýzkalandi, hafi áhuga á að eignast hluta núverandi Landsvirkjunar. Þar með er komið erlent tangarhald á hluta af orkuauðlindum Íslands. Þá er ekki útilokað, að í nafni frjálsrar samkeppni verði virkjunarréttur á nýjum virkjunum boðinn út. Með því að ganga í Orkusamband ESB bjóða menn heim óvissu um það, hvort saman geti farið heimildir Landsreglarans samkvæmt Þriðja orkumarkaðslagabálkinum til að tryggja hámarks skilvirkni og réttmætar aðgerðir samkvæmt Evrópurétti til að hindra fákeppni á markaði, sem saman valdi því, að Íslendingar glati úr höndum sér yfirráðum á íslenzkum raforkumarkaði í hendur evrópskra markaðsafla.
Þann 2. ágúst 2018 birtist í Morgunblaðinu góð grein eftir tvo kennara við Lagadeild Háskólans á Akureyri, Ágúst Þór Árnason og Ragnheiði Elfu Þorsteinsdóttur, undir heitinu:
"Fullveldi og auðlindir":
Greinin er rituð í tilefni af kaupum manna, sem búsettir eru erlendis, á íslenzkum landareignum. Slíkum eignum fylgja oft hlunnindi, þ.m.t. vatnsréttindi, en hættan á að missa auðlindir landsins úr höndum landsmanna sjálfra getur verið víðar og miklu stórtækari og alvarlegri en sú, sem lögfræðingarnir gerðu að umtalsefni í grein sinni:
"Umræða þessi er mikilvæg og tímabær ekki sízt í ljósi þess áhuga, sem Íslendingar hafa sýnt því að binda í stjórnarskrá ákvæði um náttúruauðlindir. Eign á landi fylgja ýmis réttindi, eins og til auðlindanýtingar, en flestar auðlindir Íslands eru bundnar landi. Fullveldisréttur Íslands felur það í sér, að Ísland hefur eitt heimild til þess að setja lög og reglur og að framfylgja þeim á yfirráðasvæði sínu."
Þetta er athyglisverður texti. Af honum má ráða, að höfundarnir telji Alþingi og stjórnvöld geti sett þær hömlur á kaup EES-borgara á bújörðum og eyðijörðum hérlendis, sem þeim sýnist í krafti fullveldisréttar. Er vonandi, að sem fyrst verði gerðar ráðstafanir til að félög geti ekki staðið hér að kaupum á jörðum, nema meirihlutaeigendur félags hafi fasta búsetu á a.m.k. einni jörð eða nýti a.m.k. eina jörð til atvinnurekstrar, og að jarðeignir félaga og einstaklinga verði takmarkaðar í fjölda og flatarmáli.
Miklu stórtækari breytingar kunna þó að vera í vændum á afnotarétti orkuauðlinda í landinu, ef svo fer, að Alþingi samþykkir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB og svo fer, að Landsreglarinn telji stöðu og stærð ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar ekki samrýmast reglum þessa lagabálks um frjálsa samkeppni á raforkumarkaði. Væri fróðlegt að fá fram lögfræðilega skoðun frá höfundum tilvitnaðrar greinar um það, hvort Landsreglarinn geti beitt fyrir sig Evrópugerðum um samkeppnishömlur og ríkisstuðning til að krefjast sölu ríkisins á hluta hennar á frjálsum markaði og jafnvel uppskiptingar.
Að lokum skal hér vitna til umhugsunarverðs niðurlags á umræddri grein í ljósi þeirrar markaðsvæðingar raforku, sem óhjákvæmilega mun leiða af lögleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB á Íslandi með hugsanlegum aflsæstreng til útlanda í kjölfarið:
"Ákvæði í stjórnarskrá um auðlindir í náttúru Íslands er því ákaflega vandmeðfarið. Það þarf að gagnast, þegar upp koma óþekkt og ný vandamál, og því er mikilvægt, að það feli í sér stefnu og hugmyndir okkar um það, hvernig við viljum, að náttúruauðlindir séu nýttar, til hagsbóta hverjum og hverjum þær tilheyra. Yfirlýsing um, að auðlindir í náttúru Íslands tilheyri íslenzku þjóðinni, felur í sér áréttingu á fullveldi Íslands yfir landi og auðlindum. Það fer því vel á því að ræða þennan þátt fullveldisins á aldarafmæli þess."
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
19.8.2018 | 16:26
Er Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB meinlaus fyrir Ísland ?
Þeir, sem fullyrða, að "þriðji orkupakki ESB" sé meinlaus, eru á hálum ísi. Leitt er að sjá Björn Bjarnason, fyrrverandi Alþingismann og ráðherra Sjálfstæðisflokksins, falla í þessa gryfju á vefsetri sínu og á FB 15.08.2018. Hann vitnar máli sínu til stuðnings í grein í Úlfljóti 14.07.2018 eftir Rögnu Árnadóttur, aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar. Að mati höfundar þessa pistils er ekkert vit í að reisa afstöðu sína til aðildar Íslands að Orkusambandi ESB á téðri grein Rögnu, enda felur téð Úlfljótsgrein ekki í sér neina vitræna greiningu á því, hvað tæknilega og lagalega felst í aðild að téðu Orkusambandi (Energy Union).
Skal nú rýna tilvitnun Björns í Rögnu:
"Í tilviki Íslands myndu heimildir ACER [eftirlitsstofnunar ESB með orkumarkaði (sic)] verða í höndum ESA [Eftirlitsstofnunar EFTA]. Þá er um afmarkaðar heimildir að ræða, sem takmarkast við ágreining eftirlitsyfirvalda, er varðar flutningslínu eða sæstreng milli landa. Íslenzkt raforkukerfi er sem kunnugt er ekki tengt öðru ríki innan EES með sæstreng. Því er óþarft að hafa miklar áhyggjur af þessum þætti málsins."
Þetta er eins yfirborðsleg umfjöllun um lagaheimildir og hlutverk ESA og ACER og hugsazt getur og leiðir auðvitað til kolrangrar ályktunar lesanda, sem ekki hefur séð í gegnum áróður ESB og íslenzkra ráðuneyta (utanríkis- og iðnaðar) fyrir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB á Íslandi.
Þar er fyrst til að taka, að ESA hefur engar heimildir til sjálfstæðrar meðferðar erinda frá ESB/ACER til Landsreglarans í hverju EFTA-landi, heldur er ESA sett upp sem óvirkur milliliður til þess eins að fullnægja að forminu til tveggja stoða fyrirkomulagi EES-samningsins. Þar sem ESA hefur ekkert annað hlutverk en að ljósrita reglugerðir, tilmæli og úrskurði frá ESB/ACER og senda til Landsreglarans svo og að ljósrita skýrslur m.a. um virkni raforkumarkaðar í landinu og fylgni við Kerfisþróunaráætlun ESB/ACER frá Landsreglaranum og senda þær til ESB/ACER, þá verður að segja hverja sögu, eins og hún er: ESA breytir ekki nokkrum sköpuðum hlut í þessu ferli. Það er þess vegna blekking fólgin í því að skrifa í Úlfljót, að heimildir verði í höndum ESA, sem hefur engar heimildir samkvæmt þeim lagabálki, sem hér er til umfjöllunar.
Þetta þýðir tvennt. Í fyrsta lagi brot á EES-samninginum, sem kveður á um tveggja stoða lausn. Það er ESB, sem er brotlegt, því að Framkvæmdastjórnin féllst ekki á neins konar heimildir til ESA, nema ljósritunarheimildir á ESA-bréfsefni.
Í öðru lagi þýðir þetta Stjórnarskrárbrot, því að valdamikið embætti er stofnað í landinu og verður á íslenzkum fjárlögum, en lýtur hvorki íslenzku framkvæmdavaldi né dómsvaldi, heldur er stjórnað af stofnun ESB, þar sem Ísland á engan fullgildan fulltrúa. Þetta fyrirkomulag er lögfræðilegt örverpi og ómerkileg og óviðunandi meðferð á Stjórnarskrá. Það er reyndar óskiljanlegt, að nokkur hérlendis skuli mæla þessu sviksamlega fyrirkomulagi bót.
Þegar Ragna fimbulfambar um afmarkaðar heimildir vegna ágreiningsmála út af sæstreng, þá virðist hún vera algerlega úti á þekju. Hún sleppir aðalatriði málsins, sem er Landsreglarinn. Hans staða og hlutverk er algerlega einstætt og fráleitt í íslenzku samfélagi. Hann mun starfa utan seilingar íslenzks framkvæmdavalds og dómsvalds og mun starfa samkvæmt Evrópugerðinni Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB. Hlutverkið verður að koma hér á fót uppboðsmarkaði fyrir raforku að hætti ESB/ACER. Þetta er allsendis óháð lagningu sæstrengs frá Íslandi til útlanda og furðulegt að geipa um téðan sæstreng án þess að minnast á Kerfisþróunaráætlun ESB/ACER, sem Alþingi mun skuldbinda Íslendinga til að framfylgja að sínu leyti, ef þingmenn samþykkja innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins.
Gefin hefur verið út skrá um forgangsverkefni ESB/ACER til að ná markmiðum Kerfisþróunaráætlunar. Hún inniheldur m.a. aflsæstreng á milli Íslands og Bretlands, sem taka á í gagnið árið 2027. Ef áhugasamur sæstrengsfjárfestir gefur sig fram og sækir um leyfi fyrir sæstreng, sem fullnægir skilyrðum Kerfisþróunaráætlunar, þá verður ómögulegt fyrir íslenzk stjórnvöld að hindra lagningu hans, tengingu og rekstur, því að ágreiningsmál við Orkustofnun, sem verður formlegur leyfisveitandi, mun á endanum lenda fyrir EFTA-dómstólinum. Ágreiningur á milli Landsreglara á Íslandi og á Bretlandi um rekstur strengsins verður leystur á vettvangi ACER eða fyrir gerðardómi, ef Bretar verða þá farnir úr Orkusambandi ESB.
"Áhrifa þriðja pakkans myndi gæta hvað mest í starfsemi Orkustofnunar, einkum hvað varðar sjálfstæði sofnunarinnar við framkvæmd raforkueftirlits."
Þessi texti Rögnu orkar tvímælis, því að Orkustofnun hefur ekki raforkueftirlit með höndum, heldur er það Mannvirkjastofnun, sem sinnir því hlutverki. Orkustofnun og iðnaðarráðuneytið deila hins vegar með sér eftirliti með raforkumarkaðinum og með Landsneti. Sú starfsemi mun flytjast til Landsreglarans, sem gefa mun út reglugerðir fyrir Landsnet og yfirfara netmála (tæknilega tengiskilmála) fyrir flutningskerfi raforku og yfirfara gjaldskrár flutningsfyrirtækisins fyrir þjónustu við almenna raforkumarkaðinn og fyrir stóriðjumarkaðinn.
Það stendur ekki steinn yfir steini í málflutningi Rögnu Árnadóttur í téðri Úlfljótsgrein. Hún hefur kosið að fjalla með ótrúlega yfirborðslegum hætti um stórmál á sviði íslenzks fullveldis og á sviði orkumála með þeim afleiðingum, að hún hefur villt um fyrir fólki, sem ekki hefur lagt sig eftir kjarna þessa máls eftir öðrum leiðum. Þetta er í anda málflutnings iðnaðarráðuneytisins um þetta efni og lögfræðilega álitsgerð fyrir ráðuneytið, sem fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá ESA var fenginn til að semja.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.8.2018 | 17:05
Henta ESB-reglur íslenzka raforkumarkaðinum ?
Á opinberum vettvangi, í aðsendum greinum til Morgunblaðsins og víðar, hefur skilmerkilega verið gerð grein fyrir því, að íslenzkum almenningi og fyrirtækjum í landinu, sem sagt raforkunotendum hérlendis, hentar illa fyrirkomulag Evrópusambandsins, ESB, á raforkumarkaði, en þar er um að ræða eins konar uppboðsmarkað, þar sem verðið ræðst af framboði og eftirspurn.
Meginástæða þess, að markaðskerfi ESB hentar ekki hér, er, að rekstrarkostnaður virkjana hér er óháður kostnaði frumorkunnar, vatns og jarðgufu, en kostnaður við þessa þætti getur hins vegar komið fram í stofnkostnaði, t.d. við öflun vatns- eða gufuréttinda. Í ESB endurspeglast eldsneytiskostnaður hins vegar í raforkuverði hvers tíma, og samkeppni á milli orkuvinnslufyrirtækja er aðallega fólgin í að ná lágum fastakostnaði, sem fæst t.d. með því að reisa ný og hagkvæmari raforkuver en þau, sem fyrir eru í rekstri.
Á Íslandi og í Noregi er þessu öfugt farið. Nýjar virkjanir eru dýrari í stofnkostnaði per MW talið en hinar eldri. Hver er þá hvatinn til að reisa ný raforkuver við slíkar aðstæður ? Hugsanlega að auka markaðshlutdeild sína, en það er erfitt, ef selja þarf orku undir kostnaðarverði. Lausn á þessu gæti verið sú að leggja auðlindargjald á orku frá eldri virkjunum, t.d. 20 ára og eldri.
Nú vill svo til, að við höfum lifandi dæmi um vandamál vatnsorkukerfis, sem starfar á raforkumarkaði eftir forskrift ESB, fyrir augunum. Það er í Noregi. Nú er þurrkaár þar, og miðlunarlón voru aðeins um 60 % full þann 12. ágúst 2018, en eru þá að jafnaði 75 % full. Norðmenn verðleggja vatn miðlunarlónanna eftir magni og árstíma. Þegar allur miðlunartíminn er framundan, en lónin aðeins 60 % full, verður vatnið og þar með rafmagnið dýrt. Þess vegna hafa virkjunarfyrirtækin hækkað raforkuverðið, og verð til almennings hefur hækkað úr um 11,3 cEUR/kWh (evrusent á kWh) í yfir 20 cEUR/kWh eða meira en 77 % og fer enn hækkandi. Þetta getur orðið almenningi mjög þungbært í vetur, því að hann kyndir hús sín með rafmagni, en svona virkar frjáls raforkumarkaður í hnotskurn.
Virkjanafyrirtækin halda þó áfram að flytja raforku út, því að raforkuverð í Evrópu hefur fylgt olíuverði að miklu leyti og er hátt núna. Í ár hafa virkjanafyrirtækin norsku flutt út nettó 3,7 TWh (terawattstundir), tæplega 3 % af raforkuvinnslugetu Noregs, um sæstrengi til útlanda, og sá gjörningur veldur enn lægri stöðu miðlunarlóna og þar með hærra verði til almennings en ella.
Ástæðan fyrir því, að raforkuútflutningur hefur ekki hækkað raforkuverðið í Noregi á undanförnum misserum er, að þess hefur verið gætt að halda hárri miðlunarstöðu, sem svarar til 10 TWh/ár af raforku. Hérlendis er miðlunargetan miklu minni en í Noregi, og þess vegna mun fyrsti sæstrengurinn þegar hafa neikvæð áhrif á stöðu miðlunarlóna og hækka verðið til landsmanna, ef þá verður búið að taka upp markaðskerfi ESB.
Það er sjálfsagt hérlendis að verðleggja miðlunarforðann til að stjórna hæð allra lónanna og til að ákvarða verð á ótryggðri raforku, en það á ekki að láta lága miðlunarstöðu varpast yfir í verð á forgangsorku. Almenningur á ekki að bera allar byrðarnar, eins og markaðskerfi ESB hefur í för með sér.
Viljum við markaðskerfi raforku á Íslandi ? Ef Alþingi hleypir Trójuhesti ESB/ACER, Landsreglaranum, inn fyrir "borgarmúrana" til að stjórna hér orkumarkaðsmálum, þá verðum við ekki spurð, ekki virt viðlits, því að Alþingi hefur þá leitt Evrópurétt inn á gafl á orkumálasviði, og það verður meginhlutverk Landsreglarans að innleiða hér markaðskerfi að forskrift ESB, og það mun hann geta gert án þess að spyrja kóng eða prest hér innanlands. Þeir eru þess vegna undarlega borubrattir, sem fullyrða út í loftið, að Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn sé meinlaus og skerði ekki sjálfstæði landsmanna í orkumálum.
Munu Landsreglarinn og ACER telja það samrýmast Evrópugjörðum um frjálsa samkeppni á raforkumarkaði, að einn aðilinn þar, Landsvirkjun, sé með yfir 80 % markaðshlutdeild ? Það verður að telja harla ólíklegt, að 100 % ríkisfyrirtæki með algerlega ríkjandi stöðu á markaði fái að starfa þar í skjóli ESB-samkeppnislaga, sem þýðir, að Landsreglaranum ber að krefjast breytinga á eignarhaldi Landsvirkjunar og jafnvel uppskiptingar. Um þetta munu rísa deilur í landinu, sem ekki munu enda fyrir íslenzkum dómstólum, heldur hjá EFTA-dómstólinum, og hann dæmir samkvæmt s.k. Evrópurétti, sem Ísland hefur þá undirgengizt með innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins. Forhertustu fylgjendur EES geta ekki haldið því fram, að forræði Íslendinga yfir samkeppnismálum á raforkumarkaði standi óskert eftir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins.
Landsreglarinn mun hafa sitt fram í krafti innleiðingar Alþingis, og við höfum ekki hugmynd um í hverra höndum gullmyllan Landsvirkjun lendir. Þetta mun valda gríðarlegri óánægju hérlendis og ekki síður verðsveiflurnar á rafmagni, sem af markaðsvæðingunni leiðir. Hér skal vitna í Elías Bjarna Elíasson, verkfræðing, á Fésbók 15.08.2018 um þessi mál:
"Lögin segja, að hér skuli koma á fót frjálsum markaði, og fagleg athugun leiðir í ljós, að sá markaður ræður ekki við að útvega landsmönnum orku, sem er bæði örugg og ódýr."
Hér er komið svar við spurningunni í fyrirsögninni. ESB-reglur henta íslenzka raforkumarkaðinum engan veginn. Það er svo bara túður út í loftið, að þær muni engin áhrif hafa hér fyrr en sæstrengstenging er komin á, og að þá tengingu höfum við í okkar höndum. Það er ótrúlegt fleipur, sem veltur út úr blindum EES- og ESB-sinnum.
Ekki bætir úr skák, að aðild Íslands að Orkusambandi ESB fylgir enginn kostur, nema í augum þeirra, sem telja aflsæstrengslögn til útlanda til ávinnings. Þeir, sem kanna það mál, sjá þó fljótlega, að með Ísland inni á sameiginlegum raforkumarkaði ESB mundi almenningur og allur atvinnurekstur í landinu verða fyrir áfalli, því að eitt helzta samkeppnisforskot Íslands væri horfið. Góðum lífskjörum á Íslandi hefði verið fórnað á altari ESB.
Stuðningsmenn innleiðingar téðs orkubálks halda því blákalt fram, að Íslendingar muni hafa í hendi sér leyfisveitingarvaldið vegna "Icelinks". Þeir hinir sömu hafa ekki unnið heimavinnuna sína og hafa sennilega aldrei gert. Það verður Landsreglarinn, sem semur öll viðskiptaleg og tæknileg skilyrði, sem umsækjandi um lagnarleyfi og rekstrarleyfi verður að uppfylla, og hann hefur auðvitað Kerfisþróunaráætlun ESB/ACER og Kerfisáætlun Landsnets, sem hann stjórnar í raun og veru, til hliðsjónar. Ef umsækjandinn uppfyllir öll umsóknarskilyrðin, á hvaða forsendum ætlar Orkustofnun sem leyfisveitandi þá að hafna umsókninni ?
Setjum svo, að OS hafni af einhverjum ástæðum. Þá mun umsækjandinn örugglega kæra höfnunina, og ágreiningurinn endar hjá EFTA-dómstólinum. Hann dæmir málið einfaldlega eftir Evrópurétti, svo að ekki þarf að spyrja að leikslokum. Það verður óbjörgulegt upplitið á þeim, sem lapið hafa vitleysuna upp hver eftir öðrum, að Íslendingar muni hafa leyfisveitingarvaldið í höndum sér. Síðan eru dæmi um, að menn kóróni vitleysuna og haldi því fram opinberlega, að Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn sé "meinlaus" !
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
14.8.2018 | 13:44
ACER, halelúja
Á vegum Lagadeildar Háskólans í Reykjavík, HR, var að morgni 13. ágúst 2018 haldin þriggja klst ráðstefna með yfirskriftinni,
"Orkumál og EES-samningurinn-Hver eru áhrif þriðja orkupakkans ?"
Nærtækast er að skilja fyrirsögnina þannig, að ráðstefnan hafi átt að svara því, hver yrðu áhrif "þriðja orkupakkans" á orkumál Íslands og EES-samninginn. Þrátt fyrir fjölbreytt úrval fyrirlesara, sem voru 5 talsins, erlendir og innlendir, yfirgáfu áhugasamir gestir Lagadeildar fyrirlestrasalinn upp úr hádeginu án þess að fá skýr svör við þessu. Málið var ekki krufið til mergjar. Það er synd, því að salurinn var fullsetinn af ungum og gömlum og með örlítið gagnrýnni fyrirlesurum bæði á EES-samninginn og á Orkusamband ESB, sem Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB snýst um, hefði verið varpað skýrara ljósi á áhrif innleiðingar þessa lagabálks í íslenzka lagasafnið á fullveldi Íslendinga yfir orkumálunum og EES-samninginn m.t.t. grunnreglunnar um tveggja stoða nálgun EFTA- og ESB-ríkjanna á ný viðfangsefni, sem nánast undantekningarlaust eiga uppruna sinn innan vébanda ESB.
Ef einhver gestanna hefur velt spurningunni í heiti ráðstefnunnar fyrir sér, þegar hann gekk út úr salnum í lokin, er ekki ólíklegt, að niðurstaða hans/hennar hafi orðið sú, að áhrifin verði engin, sem máli skipti. Þarna var hellt yfir gestina miklu magni upplýsinga, en þess var rækilega gætt að segja ekki alla söguna, og þess vegna varð niðurstaðan hættulega villandi.
Tökum aðeins tvö, dæmi: tveggja stoða kerfi EES og fullveldi lýðveldisins.
Stofnað verður embætti Landsreglara, sem yfirtekur raforkumarkaðseftirlitshlutverk Orkustofnunar, OS, og ráðuneytis, gefur út reglugerðir um Landsnet og yfirfer og samþykkir netmála og gjaldskrá Landsnets, ef Alþingi samþykkir þennan viðamikla lagabálk, sem vissulega er ekki saminn til einskis. Þetta embætti verður algerlega óháð íslenzkum yfirvöldum, þ.e. ráðuneytum, Alþingi og dómstólum. Ágreiningsefnum varðandi störf Landsreglara verður skotið til EFTA-dómstólsins.
Hver hefur eftirlit með og stjórnar Landsreglaranum ? Í ESB-löndunum er það Orkustofnun ESB, ACER, sem er samráðsvettvangur allra Landsreglaranna og jafnframt stofnun með forstjóra, sem er framlengdur armur "orkukommissara" framkvæmdastjórnar ESB. Hlutverk ACER er að sjá til þess, að "Evrópugjörðum" um orkumál sé framfylgt í öllum ESB-löndunum og að Kerfisþróunaráætlun ESB sé framfylgt, en á meðal verkefna þar er "Icelink", aflsæstrengur á milli Íslands og Bretlands, sem taka á í gagnið árið 2027. Ef ACER verður vör við misfellur í framkvæmd stefnunnar, eru þær tilkynntar til Framkvæmdastjórnarinnar, sem þá hamrar á aðildarríkinu, og hægt er að leggja ESB-sektir á einstök fyrirtæki fyrir brot á reglum. ACER getur þar af leiðandi orðið býsna íþyngjandi fyrir íbúana.
Það væri skýlaust brot á tveggja stoða reglunni og fullveldi EFTA-ríkjanna, a.m.k. Íslands og Noregs, að láta sama fyrirkomulag gilda um þau. Þá var gripið til þess málamyndagjörnings að fela ESA-Eftirlitsstofnun EFTA hlutverk ACER EFTA-megin, þ.e. að vera Orkustofnun EFTA. Þetta er blekkingarleikur, umbúðir án innihalds, því að Landsreglarar EFTA-ríkjanna eiga ekki að setjast niður til skrafs og ráðagerða um tillögur og úrskurði ACER, og innan ESA verður engin orkuskrifstofa, sem fær það hlutverk að laga Evrópugjörðir frá ESB/ACER að hagsmunum EFTA-ríkjanna. ESB hefur enda alfarið hafnað slíkum valdheimildum til handa ESA, sem þýðir, að Evrópugjörðir á sviði orkumála og úrskurðir ACER, þar sem EFTA-ríkin munu hafa áheyrnarrétt án atkvæðisréttar, ef úr verður, munu verða endurskrifaðar orðrétt eða hreinlega ljósritaðar á bréfhaus ESA.
ESA sem milliliður á milli ACER og Landsreglarans hefur þar af leiðandi ekkert stjórnskipulegt gildi, og stjórnlagalega stendur eftir, að Orkustofnun ESB fær íhlutunarrétt um mikilvæga almannahagsmuni á Íslandi um embætti Landsreglarans. Þetta er skýlaust stjórnlagabrot og brot á upphaflegum EES-samningi. Alþingi verður að beita synjunarvaldi sínu í þessu máli, þegar það fær málið til afgreiðslu, enda er það örugglega í samræmi við þjóðarviljann samkvæmt skoðanakönnun, sem framkvæmd var sumarið 2018. Þá komast tveir stjórnarflokkanna ekki upp með að hundsa nýlegar, skýrar Landsfundar- og Flokksþingsályktanir í þessu mikilvæga máli án flokkslegs uppnáms og hrakfara í næstu kosningum, enda býður Miðflokkurinn nýja stuðningsmenn velkomna á forsendum varðveizlu fullveldis í orkumálum og á öðrum sviðum.
Auk þeirra málefna, sem hér hefur verið fjallað um, skipta fjárhagslegu hagsmunirnir í þessu máli mestu. Þeim voru ekki gerð verðug skil á umræddri ráðstefnu. Fyrst er að geta hræðsluáróðurs ACER-fylgjenda á Íslandi gegn því að fella þingsályktunartillögu um innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins á Íslandi. Jafnvel ráðherra mun hafa gert svo lítið úr sér í kaffihléi á téðri ráðstefnu að fullyrða, að Norðmenn yrðu fyrir stórtjóni, ef þeir kæmust ekki inn í Orkusamband ESB (vegna höfnunar Íslands). Tveir þingmenn á norska Stórþinginu komu hingað í vor gagngert til að segja við íslenzka þingmenn, að þeir skyldu ekki hugsa um norska hagsmuni, heldur ákveða sig á grundvelli íslenzkrar Stjórnarskrár og íslenzkra hagsmuna.
Norðmenn munu auðvitað áfram eiga viðskipti við ESB með gas, olíu og rafmagn, eins og hingað til, enda má benda á, að stærsti orkubirgir ESB, Rússar, eru ekki á leiðinni inn í ESB, og Bretar eru á leiðinni þaðan út. Það yrði norsku þjóðinni vafalaust þóknanlegt, að Íslendingar höfnuðu ESB/ACER yfirráðum hér, enda var mikill meirihluti norsku þjóðarinnar á öndverðum meiði við meirihluta Stórþingsins í vetur um afstöðuna til ACER. Það er algerlega óboðlegt, að ráðherra endurómi hræðsluáróður ráðuneytisfólks, sem andlega er gengið í björg og ESB á hönd hér, eins og í Noregi.
Verður íslenzka raforkukerfinu betur stjórnað undir reglusetningu og eftirliti Landsreglarans en undir núverandi stjórnskipan ? Á ráðstefnunni voru engin rök færð fyrir því, hvers vegna svo ætti að vera. Þó hafa heyrzt hjáróma raddir í þá veru hérlendis, en það er eiginlega af og frá. Landsreglarinn mun koma hér á fót markaðskerfi um raforkuviðskipti í anda Evrópugjörða, því að það er hlutverk hans. Sýnt hefur verið fram á, að slíkt kerfi leysir engin vandamál hér, en getur valdið stórvandræðum og jafnvel raforkuskorti. Lausn á öllum þeim vanda verður síðan boðuð á formi aflsæstrengs til útlanda, sem fella myndi hið nýja markaðskerfi á Íslandi inn í orkumarkað ESB (EES). Það þýðir, að iðnrekandi í Mið-Evrópu getur boðið í raforku á íslenzka markaðnum. Mun þá ýmsum kotbóndanum hérlendis þykja tekið að þrengjast um fyrir dyrum sínum. Hver einasti raforkunotandi á Íslandi mun til lengdar ganga með skertan hlut frá borði á þessum markaði. Það þýðir óhjákvæmilega lakari lífskjör á Íslandi en ella og minni samkeppnishæfni landsins um fólk og fyrirtæki.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
31.7.2018 | 09:33
Viðskiptastríð
Það er með ólíkindum, að heimsbyggðin skuli á árinu 2018 upplifa viðskiptastríð stórvelda, þ.á.m. Bandaríkjanna við bandamenn sína, þótt Bandaríkjamenn berðust ötullegast fyrir viðskiptafrelsi á síðustu öld og lengst af þessari. Þeir voru aðalhöfundar WTO-Alþjóða viðskiptastofnunarinnar, en nú hunza þeir gjörsamlega regluverk hennar. Þetta er forkastanleg hegðun, enda hafa Bandaríkjamenn grafið undan trausti bandamanna sinna til sín. Ef fram heldur sem horfir, mun "America first" stefna Bandaríkjastjórnar leiða til einangrunarhyggju þessa mesta stórveldis fyrr og síðar. Það mun gjörbreyta valdahlutföllum í heiminum.
Allt er í heiminum hverfult, og nú er skollið á viðskiptastríð á milli rótgróinna bandamanna, þ.e. stríð BNA við ESB, Kanada, Japan o.fl. Forseti BNA hefur jafnvel varpað fram efasemdum um grundvallarreglu NATO, 5. greinina, um að árás á einn jafngildi árás á alla og verði svarað sem stríðsyfirlýsingu á NATO. Allt þetta hlýtur að draga sögulegan dilk á eftir sér. Eru Bandaríkjamenn enn staðráðnir í að standa við skuldbindingar sínar í varnarsamningi sínum við Ísland ? Slík spurning hefði verið fráleit fyrir 2 árum, en er hún það nú ?
Augljóslega er nú kostur fyrir Íslendinga að standa utan ESB og losna þar með við viðsjárvert og kostnaðarsamt viðskiptastríð, en óbeinum afleiðingum viðskiptastríðs losnar þó enginn undan. Þær eru samdráttur alþjóðlegra viðskipta og fjárfestinga, sem strax leiðir til minni hagvaxtar alls staðar, mun breyta innbyrðis hlutföllum á gengi gjaldmiðla og getur endað með heimskreppu, eins og gerðist fyrir 90 árum.
Það vinnur enginn viðskiptastríð. Donald Trump gumar af því, að Bandaríkjamenn vinni þetta viðskiptastríð auðveldlega. Hann á eftir að komast að öðru. Það ættu Bandaríkjamenn að vita, eins og aðrir, og þeir hafa ekki leyfi til að ganga fram með þessum hætti, gjörsamlega í trássi við "barn sitt", Alþjóða viðskiptastofnunina-WTO. "America first" gengur ekki upp.
Leikritið, sem við horfum á núna, er raunveruleikaþátturinn "Skipbrot bandaríska auðvaldskerfisins", hvorki meira né minna. Bandaríkin, forysturíki auðvaldsins, kveina nú og kvarta undan frjálsri samkeppni, aðallega við þróunarlandið Kína og "elliheimilið" ESB, og setja í kjölfarið tolla á varning frá þeim án nokkurra viðræðna innan WTO ! Svona gera menn ekki, nema þeir séu ákveðnir í að grafa undan sjálfum sér, því að sér grefur gröf, þótt grafi.
Það er einfeldningslegt, ef einhver heldur, að tollar á innflutning komi ekki niður á lífskjörum íbúanna, sem látið er í veðri vaka, að verið sé að vernda. Íslendingar afnámu fyrir 3 árum tolla og vörugjöld á öllum vörum, nema eldsneytisbílum og eldsneyti. Það bætti kjör landsmanna sannanlega. Bandaríkjamenn munu fljótlega átta sig á raunveruleikanum og væntanlega taka afstöðu samkvæmt því í þingkosningunum í nóvember 2018. Gæti þá þessum farsa lokið áður en gengið verður af frjálsum viðskiptum dauðum um langa framtíð.
Lítum á upphafið að þessum ósköpum. 15. júní 2018 gaf Trumpstjórnin út tvo lista með kínverskum vörum, sem hún hugðist skella 25 % tollum á, vöruandvirði miaUSD 50 árið 2017. Sá fyrri tók gildi 6. júlí 2018. Kínverjar endurguldu með eigin lista sömu upphæðar. Þá gaf Donald Trump skipun til Roberts Lighthizer, viðskiptafulltrúa BNA (USTR), að útbúa nýjan lista að virði miaUSD 200, sem á skyldi leggja 10 % toll, og hótaði enn öðrum, að vöruandvirði miaUSD 200. Heildin, miaUSD 450, er um 80 % af heildarútflutningi Kína til BNA. Kínverjar flytja hins vegar aðeins inn frá BNA fjórðung af útflutningsverðmætunum þangað. Það er ein af meinsemdunum, en segir ekki alla söguna.
Kína lítur á upphafsleik BNA sem einhliða brot á alþjóðlegum reglum um viðskipti (WTO). Lögð hefur verið fram kæra hjá WTO. Teymi Trumps heldur því fram, að Kínverjar hafi hafið þessi átök með því að stela þekkingu frá Bandaríkjamönnum og reka óheiðarlega viðskiptastefnu (undirboð). Þegar búið er að leggja tolla á, gleymist rétt og rangt og jafnvel hlutverk WTO í málinu. Dæmigert stríðsástand.
Skrifstofa USTR hefur tekið sér tíma til að velja vörur til tolllagningar. Hún vill valda bandarískum neytendum lágmarkskostnaði og kínverskum útflytjendum hámarkstjóni. Af vörunum á listum frá 15. júní 2018 voru 95 % af verðgildinu fjárfestingarvörur eða íhlutir. Það átti að draga úr skammtímaáhrifum á verðlag í BNA, þar sem framleiðslukostnaður hækkar sáralítið við álagninguna. USTR hefur líka reynt að tryggja, að bandarískir innflytjendur gætu fundið aðra birgja. Samkvæmt ITC (International Trade Centre) þá nemur hlutdeild Kínverja aðeins 8 % af heildarinnflutningi þessara vara.
Það fer þó ekki hjá því, að tollarnir skaði bandarísk fyrirtæki, því að þau verða fyrir kostnaði, en ekki alþjóðlegir keppinautar þeirra. Jafnvel þótt í hlut eigi vörur með lítilli kínverskri hlutdeild, getur verið hægara sagt en gert að skipta um birgi. Í yfirheyrslum þingnefndar skýrðu fulltrúar risans GE frá því, að sérhæfðir íhlutir þess fari í alls konar gæðaprófanir og opinbert samþykktarferli, en af 34 íhlutum, sem fyrirtækið vildi fjarlægja af tollalistum USTR, var enginn fjarlægður.
Að valda Kína tjóni gæti líka verið hægara sagt en gert. Trumpstjórnin vill hemja metnað Kínverja á þýðingarmiklum sviðum, sem þeir kalla "Made in China 2025". Þetta hittir Kanann þó sjálfan fyrir, því að samkvæmt Yang Liang í Syracuse háskólanum og Mary Lovely í Peterson Institute for International Economics, sem er hugveita í Washington DC, komu 55 % af hátækni útflutningsvörum Kínverja 2013 til BNA frá fyrirtækjum að fullu í erlendri eigu í Kína. miaUSD 3,6 virði hálfleiðara innflutnings frá Kína í eldlínunni eru aðallega frá bandarískum dótturfyrirtækjum, innihalda díóður, transistora og týristora, sem framleiddir eru í BNA og fluttir til Kína vegna tímafrekrar samsetningar og prófana.
Byrjunarandsvar Kínverja snertir landbúnaðarafurðir, sem aðallega koma frá ríkjum, sem studdu Trump 2016, svo að greinilega er stílað inn á kosningarnar í nóvember 2018 í þessu stríði. Eftir því sem stríðið magnast, dreifist tjónið um samfélagið. Árið 2017 fluttu Bandaríkjamenn inn vörur frá Kína fyrir miaUSD 505. Ef tollar verða lagðir á vörur fyrir miaUSD 250, svo að ekki sé minnzt á miaUSD 450, verður ómögulegt að forðast neytendavörur á borð við föt og rafeindatæki. Vörur með fáa staðgöngubirgja verða fyrir barðinu. Bandarískum innflytjendum mun reynast erfiðara en áður að forðast verðhækkanir til neytenda.
Dmitry Grozubinski hjá hugveitunni "International Centre for Trade and Sustainable Development" er með sláandi samlíkingu í greininni "Battle-lines drawn" í "The Economist" 23. júní 2018: "Viðskiptastríði má jafna við það að sprengja upp eigin borgir og blása rykinu og reyknum yfir landamærin í von um, að íbúunum þar (andstæðingunum) súrni í augum."
Árið 2017 fluttu Kinverjar aðeins inn fyrir miaUSD 130 frá Bandaríkjamönnum, svo að þeir hafa minna svigrúm í viðskiptastríði, en geta hins vegar gripið til annarra refsinga. Þeir gætu stöðvað námsmannaferðir og ferðalög Kínverja til Bandaríkjanna. Þeir gætu með beitingu reglugerða gert bandarískum fyrirtækjum erfitt fyrir í Kína. Samkvæmt upplýsingum frá Bandarísk-kínverska viðskiptaráðinu hefur kínverska ríkisstjórnin rætt við kínversk fyrirtæki um að finna staðgönguvörur fyrir bandarískar vörur, sem þau nota. Þetta mun leiða til minni bandarískra fjárfestinga í Kína, en bandarísk yfirvöld gráta krókódílstárum yfir því. Allt er þetta makalaust. Adam Smith, höfundur auðgunarstefnunnar, verður væntanlega ekki vært í gröfinni við þessi öfugmæli.
Þessi yfirferð ætti að sannfæra flesta um, að andstæðan við þá andstyggilegu og viðsjárverðu stöðu, sem upp er komin á milli stórvelda, þ.e. fríverzlun þeirra og annarra á milli, er hagstæðasta fyrirkomulagið. Leita þarf annarra leiða til að auka samkeppnihæfni landa og minnka viðskiptahalla en að leggja á innflutningsgjöld.
E.t.v. hefur bandaríkjadalur verið of hátt skráður undanfarið. Seðlabanki Bandaríkjanna hefur verið að þoka stýrivöxtum sínum upp, sem hefur leitt til fjárstreymis til BNA. Donald Trump hefur fyrstur Bandaríkjaforseta í háa herrans tíð gagnrýnt "Federal Reserve" fyrir vaxtastefnu seðlabankans, og hann hefur sakað ESB um að halda gengi evrunnar niðri til að styrkja viðskiptastöðu evrulandanna. Samtímis lætur hann skammirnar dynja á Þjóðverjum, enda eru þeir með yfir 5 % viðskiptaafgang af sinni VLF.
Þetta er mjög ósanngjörn gagnrýni, því að Þjóðverjar hafa verið manna gagnrýnastir á Ítalann Mario Draghi og bankastjórn ECB-evrubankans fyrir peningamálastjórnun bankans, sem Þjóðverjar telja auka of mikið peningamagn í umferð og verða verðbólguhvetjandi, er frá líður, og ræni þýzka sparifjáreigendur sanngjarnri ávöxtun af heiðarlegum sparnaði sínum, t.d. til elliáranna, en hvetji þess í stað til neyzlu. Þessi gagnrýni hefur t.d. komið frá yfirstjórn Bundesbank, banka ofurmarksins, DEM.
Þessir atburðir, sem að ofan er lýst, hafa eyðilagt gamalgróið traust, sem ríkt hefur á milli vestrænna ríkja yfir Atlantshafið. Það verður ekki endurreist í sjónhendingu. Þetta á líka við öryggis- og varnarmál. Afleiðingarnar verða stórvægilegar og alvarlegar.
Íslendingar hafa varnarsamning við Bandaríkin. Hvers virði er hann ? Við þessar aðstæður er Íslendingum hollast að reyna að stunda fríverzlun við sem flesta og ekki að loka sig af innan einhverra tollmúra, heldur ekki "Festung Europa", sem aðallega hefur verið fólgin í tæknilegum viðskiptahindrunum út á við á borð við framleiðslu- og gæðastaðla.
Árið 1918 endaði fyrri heimsstyrjöldin fyrir tilverknað Bandaríkjamanna með uppgjöf Miðveldanna. Woodrow Wilson, þáverandi Bandaríkjaforseti, boðaði árið 1918 sjálfstæði þjóðríkja. Sá boðskapur varð vatn á myllu íslenzku þingnefndarinnar, sem samdi um fullveldi við danska þingnefnd í Reykjavík 18. júlí 1918. Bandaríkin urðu fyrst til að viðurkenna lýðveldið Ísland 1944 og tryggðu öryggi þess. Árið 2018 brauzt út viðskiptastríð Bandaríkjanna við umheiminn. Hvernig fer með fullveldi landsins árið 2018 í hverfulum heimi ? Það er engum að treysta. Þjóðir eiga enga vini. Stundum fara hagsmunir sumra saman, og stundum fara hagsmunir annarra saman. Ræður íslenzka utanríkisráðuneytið fram úr þessari flóknu stöðu, þannig að hagsmunum Íslands verði borgið í bráð ? Það má efast.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.7.2018 | 15:33
Viðskipti með jarðir á Íslandi
Landbúnaður á Íslandi á undir högg að sækja, sumpart vegna þess að hann er nú kominn í beina samkeppni við annars konar landbúnað en hér er stundaður, þ.e. niðurgreiddan verksmiðjulandbúnað ESB, sem notar alls konar hjálparmeðul, sem hér eru bönnuð af heilsufarsástæðum eða ekki þörf fyrir. Heilnæmið er þess vegna ósambærilegt, nema bornar séu saman vörur með vottun um lífræna ræktun.
Íslenzkir bændur hafa aukið framleiðni fyrirtækja sinna, búanna, gríðarlega undanfarin 30 ár, en búin eru samt enn rekin sem fjölskyldufyrirtæki. Frá sjónarhorni byggðastefnu með eðlilegu og fjölbreyttu mannlífi í hinum dreifðu byggðum landsins er það æskilegasta rekstrarformið. Vegna stærðarmunar er framleiðni íslenzkra búa yfirleitt minni en framleiðslufyrirtækja landbúnaðarafurða í ESB, en gæðamunur framleiðslunnar er yfirleitt mikill, íslenzkum landbúnaði í vil. Það er verkefni næstu ára að fá þetta formlega vottað, svo að þessi kostur, sem verður sífellt mikilvægari í augum almennings um allan heim, endurvarpist í verð á útflutningsvöru.
Loftslagsþróunin gæti og lagzt á sveif með íslenzkum bændum, eins og komið hefur á daginn í sumar með brýnni þörf norrænna bænda fyrir hey, og á Íslandi eru umframhey af góðum gæðum.
Bændum hérlendis hefur fækkað stöðugt á sama tíma og framleiðsluaukning hefur orðið í landbúnaðinum í heild. Þetta er auðvitað lykillinn að nauðsynlegri framleiðniaukningu. Bændur hafa við þessar aðstæður fengið fremur lágt verð fyrir jarðir sínar í samanburði við íbúðaverð í þéttbýli, og jarðir hafa jafnvel lagzt í eyði, þegar gamlir bændur bregða búi. Bændur hafa þess vegna gripið fegins hendi tilboð frá fjársterkum aðilum, innlendum og frá jafnsettum erlendum ríkisborgurum samkvæmt EES-samninginum. Stjórnarskráin tryggir bændum (jarðeigendum) rétt til að selja eign sína löglegum bjóðendum.
Hin hliðin á þessum peningi er, að margar jarðir eru að safnast á fáar hendur, sem ekki vinna þar handtak, hvorki beint né óbeint. Nýju eigendurnir eru þó a.m.k. sumir fúsir til að leigja jarðirnar undir búskap og hafa víst boðið sanngjörn kjör leigutökum. Við þær aðstæður eru uppfyllt skilyrði um áframhaldandi eðlilegt og fjölbreytt líf í sveit, og eignarhaldið skiptir þá ekki höfuðmáli. Ef nýir eigendur ekki ætla að stunda atvinnustarfsemi á jörðinni, mætti gera það að skilyrði fyrir kaupum, að þeir leigðu hana til búskapar eða landbóta af einhverju tagi.
Það virðist sammerkt flestum jörðunum, sem keyptar hafa verið án fyrirætlunar um búskap þar, að það eru hlunnindajarðir, oftast með laxveiðiréttindi. Veiðiréttarhafar telja veiðihlunnindi til mikilvægra hagsmuna sinna, og þess vegna missir bændastéttin spón úr aski sínum, þegar aðrir kaupa jarðir með veiðihlunnindum. Það mætti reisa skorður við þessu með því að setja nokkur skilyrði um rekstur eignanna, sem þó mismuna ekki eftir þjóðerni:
- Félag má þá aðeins eiga jörð, eina eða fleiri, ef handhafar meirihlutaeignar í félaginu hafa fasta búsetu á jörð, og/eða þeir reka atvinnustarfsemi á a.m.k. einni jörð árið um kring. Eigendaskrá félagsins skal vera opinber og spanna skýlaust alla eigendur. Félagið skal hafa heimilisfesti á Íslandi og vera þar skattskylt. Undanþágu frá þessu ákvæði um fasta búsetu og/eða atvinnustarfsemi eiganda á jörð er unnt að veita, ef félagið leigir jarðirnar til ábúðar og hefðbundinna nytja, landgræðslu eða annarrar sprotastarfsemi, innan tveggja ára frá kaupum eða brottflutningi síðasta ábúanda, ella skal viðkomandi sveitarfélag öðlast kauprétt samkvæmt verðmætamati í fasteignaskrá.
- Einstaklingi skal vera heimilt að eiga ótakmarkaðan fjölda jarða, ef hann hefur fasta búsetu á einni þeirri og/eða nytjar jarðirnar til hefðbundins búskapar, landgræðslu, þ.m.t. skógræktar, hrossaræktar e.þ.l.
Dægurmál | Breytt 2.8.2018 kl. 13:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.7.2018 | 13:38
Friðunarárátta úr böndunum
Ef beita á náttúrufriðunarvaldinu til að stöðva virkjunaráform, sem hlotið hafa blessun Verkefnisstjórnar um Rammaáætlun um vernd og nýtingu orkulinda, hafa fengið samþykki Alþingis og Skipulagsstofnunar, sem skrifað hefur upp á með skilyrðum, þá jafngildir það því að slíta í sundur það friðarferli, sem stjórnvöld landsins hafa reynt að mynda um auðlindanýtingu á landi.
Það er alveg dæmalaust, að umhverfis- og auðlindaráðherra skuli ljá máls á tillögu Náttúrustofnunar Íslands frá 25. júní 2018 um friðlýsingu á væntanlegu athafna- og nýtingarsvæði Hvalárvirkjunar í Ófeigsfirði. Um er að ræða stækkun friðlandsins á Hornströndum til suðurs, um 1281 km2 svæði suður um Ófeigsfjarðarheiði.
Það er ósvífni að hálfu ríkisstofnunar og ólýðræðislegt í hæsta máta af Náttúrustofnun að leggja það til, að ríkið grípi fram fyrir hendur heimamanna, Vestfirðinga og íbúa í Árneshreppi sérstaklega, sem unnið hafa í mörg ár samkvæmt lögskipuðum ferlum að undirbúningi 55 MW, 400 GWh/ár, vatnsaflsvirkjunar á Ströndum, með því að biðja ráðherra um að leggja nýja náttúruminjaskrá um téð svæði fyrir Alþingi í haust. Þessa aðför að sjálfbæru mannlífi og atvinnulífi á Vestfjörðum á að kæfa í fæðingunni, og það mun Alþingi vonandi gera, því að til þess hefur ráðherra þessi ekki bein í nefinu.
Hann skrifaði 13. júní 2018 í Fréttablaðið grein um áhugamál sitt:
"Stórfelld tækifæri við friðlýsingar"
"Síðastliðinn föstudag [08.06.2018] kynnti ég í ríkisstjórn áform um átak í friðlýsingum, en í stjórnarsáttmálanum er kveðið á um það. Átakið felur í sér að friðlýsa svæði, sem njóta eiga verndar gegn orkunýtingu (verndarflokkur rammaáætlunar) sem og svæði á eldri náttúruverndaráætlunum, sem ályktað hefur verið um að friðlýsa, en hefur ekki verið lokið."
Friðlýsing svæða í nýtingarhluta Rammaáætlunar er þarna ekki á dagskrá ráðherrans, enda eru slík endemi ekki í sáttmála núverandi ríkisstjórnar, þótt þar kenni ýmissa grasa. Ráðherrann er á pólitísku jarðsprengjusvæði með því að gefa undir fótinn með friðlýsingu á téðu landsvæði. Hann ætti að forðast að fara fram með offorsi í hinar friðlýsingarnar án samstarfs við og samþykkis viðkomandi sveitarstjórna, bænda og annarra landeigenda. Friðlýsingu má ekki troða upp á heimamenn af ríkisvaldinu.
Það mun fara eins lítið fyrir Hvaleyrarvirkjun í náttúrunni og hugsazt getur. Hún verður neðanjarðar að öðru leyti en stíflunum. Aflið frá henni verður flutt um jarðstreng. Flúðarennsli verður áfram, þótt það minnki á meðan vatnssöfnun í miðlunarlón á sér stað. Hönnun er sniðin við lágmarks breytingar á umhverfinu, þannig að útivistargildi svæðisins verður nánast í fullu gildi áfram, þótt verðmætasköpun aukist þar skyndilega úr engu og í meira en 2,4 miaISK/ár, sem gæti orðið andvirði raforkusölunnar frá virkjun m.v. núverandi markaðsverð. Þessi starfsemi getur orðið fjárhagsleg kjölfesta sveitarfélagsins, sem hýsir mannvirkin, á formi fasteignagjalda og auðlindargjalds o.fl.
Þann 26. júní 2018 staðfesti Skipulagsstofnun loksins breytingu á Aðalskipulagi Árneshrepps vegna framkvæmdanna. Skipulagsstofnun setti sem skilyrði, að vegagerð yrði í algjöru ágmarki og henni sleppt, þar sem hægt væri. Þetta er þó ekki til þess fallið að bæta mikið aðgengi ferðamanna að svæðinu, svo að áfram munu þá þeir einir komast þar víða um, sem fráir eru á fæti.
Þann 7. júní 2018 birtist ágæt grein í Morgunblaðinu eftir Kristin H. Gunnarsson, fyrrverandi Alþingismann, undir fyrirsögninni:
"Hvalá: stórstígar framfarir fyrir Vestfirðinga".
Hún hófst þannig:
"Hvalárvirkjun í Árneshreppi mun verða mikið framfaraskref fyrir Vestfirðinga. Afhendingaröryggi raforku mun batna mikið, framboð af raforku mun opna möguleika á nýrri atvinnustarfsemi, og útblástursmengun mun minnka verulega. Þessu verður hægt að ná fram með litlum tilkostnaði hins opinbera, þar sem einkaaðilar munu standa straum af framkvæmdum. Hvalárvirkjun er 55 MW virkjun og hefur tvisvar verið samþykkt í nýtingarflokk og staðfest af Alþingi."
Þetta eru sterk rök fyrir nytsemi þessarar virkjunar. Virkjunin er ekki "nice to have" fyrir Vestfirðinga, heldur bráðnauðsynleg til þess, að raforkukerfi Vestfjarða standi undir nafni, en sé ekki hortittur út úr hringtengingu landsins frá Hrútatungu í Hrútafirði. Til að halda uppi rafspennu í víðfeðmu raforkukerfi, eins og á Vestfjöðum, þarf öflugar virkjanir, og núverandi virkjanir þar hrökkva engan veginn til. Mikið spennufall jafngildir tiltölulega háum töpum og óstöðugri spennu. Aðeins hækkun skammhlaupsafls í raforkukerfi Vestfjarða getur dregið þar úr orkutöpum og gefið stífari spennu. Þetta er síðan skilyrði þess, að tæknilega verði unnt að færa þar loftlínur í jörðu; aðgerð, sem draga mun úr bilanatíðni kerfisins og bæta ásýndina. Þessar umbætur eru útilokaðar án framkvæmda á borð við Hvalárvirkjun. Jarðstrengir framleiða síðan rýmdarafl, sem virkar enn til spennuhækkunar og aukinna spennugæða á Vestfjörðum, en aukning skammhlaupsafls með nýjum virkjunum á svæðinu verður að koma fyrst.
Kristinn nefnir framtíðar möguleika til enn meiri styrkingar kerfisins, sem aukin raforkunotkun á Vestfjörðum mun kalla á. Þar er t.d. Austurgilsvirkjun í Skjaldfannardal, sem er í nýtingarflokki Rammaáætlunar 3. Þannig eru 85 MW í nýtingarflokki og um 50 MW enn ekki þar. Alls eru þetta 135 MW með áætlaða vinnslugetu 850 GWh/ár.
Kristinn benti ennfremur á mikilvægi öflugs vestfirsks raforkukerfis fyrir raforkuöryggi landsmanna. Þar hefur hann mikið til síns máls, því að á Vestfjörðum þarf hvorki að búast við tjóni af völdum jarðskjálfta né eldgosa. Ofangreint rafafl mundi duga fyrir algera lágmarksnotkun landsmanna í mikilli neyð, þar sem skömmtun yrði að viðhafa. Vinnslugeta margra virkjana landsmanna getur skyndilega rýrnað verulega, t.d. í jarðskjálftum, þar sem gufuholur verða óvirkar, og/eða í eldgosum, þar sem aska og vikur leggst á miðlunarlón, stíflar vatnsinntakið eða skemmir hverflana. Vesturlína getur flutt um 100 MW hvora leið.
Af öðru sauðahúsi er annar höfundur um sama efnivið, Tómas, nokkur, Guðbjartsson, "læknir og náttúruverndarsinni". Hann hefur um hríð fundið hjá sér hvöt til að finna virkjunaráformum í Hvalá allt til foráttu og verið stóryrtur í garð virkjunaraðilans og eigenda hans. Umfjöllun Tómasar hefur verið mjög einhliða og gildishlaðin, þótt siðferðislega virðist hann ekki hafa úr háum söðli að detta, ef marka má fréttaskýringu Guðrúnar Erlingsdóttur í Morgunblaðinu 29. júní 2018,
"Háskólinn hefur beðist velvirðingar".
Þar gaf m.a. þetta á að líta:
"Í nóvember 2017 komst sænska siðanefndin að þeirri niðurstöðu, að Macchiarini og meðhöfundar hans [Tómas Guðbjartsson var þeirra á meðal-innsk. BJo] að vísindagreininni í The Lancet hefðu gerzt sekir um vísindalegt misferli."
Það er mikill áfellisdómur yfir manni, óháð stétt, þegar slíkur aðili sem téð siðanefnd lýsir tilteknum starfsháttum hans sem "vísindalegu misferli". Væntanlega má almenningur draga af því þá ályktun, að brestur sé í siðferðiskennd þeirra, sem slíkt drýgja.
Síðan segir í tilvitnaðri frétt Guðrúnar Erlingsdóttur:
"Í júní 2018 úrskurðar rektor Karólínsku stofnunarinnar með 38 blaðsíðna rökstuðningi, að Tómas Guðbjartsson ásamt 6 öðrum læknum sé ábyrgur fyrir vísindalegu misferli vegna greinaskrifa í The Lancet árið 2012, en áður en greinin birtist hafði New England Journal of Medicine hafnað greininni."
Þann 19. júní 2018 birtist ein af fjölmörgum greinum téðs Tómasar um fyrirhugaðar framkvæmdir Vesturverks á Ströndum. Hún hófst þannig:
"Fyrirhuguð Hvalárvirkjun hefur mikið verið til umræðu undanfarið, enda vægast sagt umdeild framkvæmd. Ástæðan er sú, að með virkjun er verið að fórna stórkostlegri íslenzkri náttúru í hendur HS Orku-jarðhitafyrirtækis í meirihlutaeign umdeildra kanadískra fjárfesta. Auk þess er ávinningur virkjunar vægast sagt óljós fyrir Vestfirðinga og þá ekki sízt íbúa Árneshrepps."
Það er með endemum, að maður, með slíka umsögn á bakinu og fram kemur í tilvitnunum frá Svíþjóð hér að ofan, skuli fara á flot í blaðagrein hérlendis með svo gildishlaðna frásögn og hér getur á að líta. Þótt ekki séu allir sammála um, að rétt sé að fara í þessar framkvæmdir, er gert of mikið úr ágreininginum, þegar gætt er að afgreiðslum Alþingis á málinu og afstöðu sveitarstjórnarinnar fyrir og eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar. Þá eru líklega langflestir Vestfirðingar fylgjandi því, að framkvæmda- og virkjanaleyfi verði veitt. Það er hins vegar engu líkara en allir tilburðir Tómasar í þessu máli séu til þess ætlaðir að magna upp ágreining um mál, sem víðtæk sátt hefur þó náðst um.
Að halda því fram, að fyrir þeim fjölda fólks, sem fylgjandi eru þessum framkvæmdum, sem og yfirvöldum landsins, sé ávinningurinn óljós, er mjög afbrigðilegt, enda hefur ávinningurinn oft komið fram opinberlega, og er að nokkru saman tekinn í þessum pistli. Í ljósi þess, að virkjun þessi verður algerlega afturkræf, er fjarstæðukennt að skrifa, að um fórn til kanadískra fjárfesta sé að ræða á íslenzkri náttúru. Slík skrif Tómasar eru marklaus.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.7.2018 | 10:57
Norskir rafbílaeigendur fá að kenna á því
Norska ríkið hefur með alls konar gylliboðum lokkað bifreiðakaupendur til að velja sér rafknúna bifreið. Þetta ásamt tiltölulega lágu rafmagnsverði í Noregi og þar af leiðandi lægri rekstrarkostnaði rafmagnsbíla en jarðefnaeldsneytisknúinna bíla, ásamt ýmsum fríðindum, hefur leitt til mikillar forystu Norðmanna við innleiðingu orkuskiptanna. Hlutfallslega eru hreinrafbílar og tengiltvinnbílar samtals um 7 sinnum fleiri í Noregi en á Íslandi.
Í Noregi er "augnabliksmarkaður" á raforku. Framboð, eftirspurn og kerfisálag ræður verðinu. Í júní 2018 rauk verðið skyndilega upp að deginum, og er það óvenjulegt um hásumarið í Noregi, en stafar vafalaust af miklum útflutningi raforku um sæstrengi til útlanda og hugsanlega þurrkatíð. Norskum rafbílaeigendum brá í brún, þegar verð frá hleðslustöð nam sem svarar til 16,2 ISK/km (1,2 NOK/km), á meðan verð frá eldsneytisdælu nam 12,2 ISK/km (0,9 NOK/km). Þarna er raforkukostnaðurinn skyndilega orðinn 33 % hærri en eldsneytiskostnaðurinn og meira en þrefalt hærri en á Íslandi.
Á Íslandi er þokkalegur stöðuleiki í raforkuverði, en eldsneytisverðið sveiflast með markaðsverði hráolíu. Um þessar mundir nemur orkukostnaður rafbíls um 5 ISK/km og eldsneytisbíls um 20 ISK/km. Orkukostnaður rafbíls er 25 % af orkukostnaði jarðefnaeldsneytisbíls. Þetta myndar sterkan hvata til orkuskipta í umferðinni hérlendis, þótt innkaupsverð rafbíla sé enn þá hærra en hinna vegna lítils fjölda. Rafbílar eru einfaldari að gerð, og viðhaldskostnaður þeirra þar af leiðandi lægri. Rafgeymakostnaðurinn vegur þarna á móti, en hann hefur hins vegar lækkað um 80 % á kWh á einum áratugi.
Það var aflgjaldið í raforkuverðinu við rafgeymahleðslustöð, sem sums staðar í Noregi hafði hækkað um 60 % og hleypt raforkukostnaðinum 33 % upp fyrir eldsneytiskostnaðinn, þ.e. úr 2,5 NOK/mín upp í 4,0 NOK/min.
Hér sjáum við angann af því, hvað verðsveiflur á orku geta haft mikil áhrif á orkuskiptin. Grundvöllur skjótra orkuskipta er lækkun orkukostnaðar notenda, auk þjóðhagslegs gildis gjaldeyrissparnaðarins, sem af þeim hlýzt. Fyrirsjáanleiki um þróun innlends orkuverðs er lykilatriði í þessu sambandi, svo að litlir og stórir fjárfestar meti fjárhagsáhættuna litla af því að stíga þau skref til orkuskipta, sem eru nauðsynleg til að ná mjög metnaðarfullum markmiðum stjórnvalda. Ef stjórnvöld stíga vanhugsuð skref í orkumálum, sem leiða til jafnvægisleysis þar og jafnvel meðalverðshækkana, þá tefja þau þar með orkuskiptin.
Nú vinnur Landsnet að undirbúningi einhvers konar uppboðsmarkaðar fyrir raforku á Íslandi. Hvaða vandamál á hann að leysa ? Ef hann bætir ekki kjör almennings á Íslandi, er verr farið en heima setið. Það er öruggt, að verðsveiflur á raforku munu aukast við innleiðingu uppboðsmarkaðar, en óvíst er um ársmeðalverðið. Þessa tilraun ætti um sinn að takmarka við markað ótryggðrar raforku, því að ella getur tilraunin orðið of dýru verði keypt, jafnvel þótt markaður utan langtímasamninga hérlendis nemi aðeins um 20 % af heild.
Varnaðarorð Elíasar Elíassonar, sérfræðings í orkumálum, eiga vel við hér, en grein eftir hann birtist í Morgunblaðinu 26. júní 2018 undir fyrirsögninni:
"Lög og raforkumarkaður" .
Hún hófst þannig:
"Fyrir frjálsan raforkumarkað er afar mikilvægt, að lagaramminn sé rétt hannaður eftir aðstæðum, einkum þar sem vatnsorka er ráðandi. Nokkur dæmi eru um, að óheppilegur lagarammi valdi slæmum verðsveiflum á slíkum mörkuðum og jafnvel hruni. Þetta er alþekkt."
Síðan snýr hann sér að líklegum afleiðingum þess að innleiða hérlendis Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB, þótt rafkerfið sé ótengt útlöndum:
"Skoðun mín er hins vegar sú, að hönnun þriðja orkupakka ESB, sem er rammi um markað fyrir raforku úr gasi og kolum, sé óheppileg fyrir okkar vatnsorkukerfi og veiti hvorki raforkumarkaði hér rétt aðhald né tryggi nauðsynlega hvata. Þetta getur bæði valdið hærra orkuverði hér en ella og kallað á óhagkvæmar fjárfestingar og annan kostnað hjá notendum. Ekki er tímabært að skoða málin eftir komu sæstrengs."
Það er áríðandi á þessum tímapunkti, að stjórnvöld og landsmenn allir átti sig á því, að Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB, sem Sameiginlega EES-nefnd EFTA og ESB hefur samþykkt til innleiðingar í löggjöf EFTA-landanna, illu heilli, nema Sviss, er miðaður við raforkukerfi, sem í grundvallaratriðum er ólíkt íslenzka raforkukerfinu. Framhjá þessari staðreynd hafa bæði iðnaðarráðuneytið og utanríkisráðuneytið horft, þegar þau í blekkingarskyni og/eða af vanþekkingu á því um hvað málið snýst, hafa haldið því fram, að áhrif innleiðingarinnar muni verða lítil fyrir Íslendinga, á meðan enginn er aflsæstrengurinn. Þetta er afneitun á því, að búrókrötunum í Brüssel hefur eðlilega ekki dottið það í hug að líta til hagsmuna Íslands, þegar þeir smíðuðu téðan orkumarkaðslagabálk, og íslenzkum kunnáttumönnum á sviði "vatnafærni" var ekki veitt neitt tækifæri til að koma þar sjónarmiðum sínum að. (Vatnafærni er ekki kunnáttan um það, hvernig bezt er að fara yfir ár, heldur samsafn fræða, er lúta að rekstri vatnsorkuvera.)
Eitt hefur áhrif á annað. Stórir lagabálkar frá ESB, sem innleiddir eru sem lög hér, hafa áhrif á öllum sviðum þjóðlífsins og á hag allra. Þess vegna verður að vanda til verka. Þar sem enginn kostur er á að sníða agnúana af og laga bálkana að íslenzkum aðstæðum, á Alþingi ekki að hika við að nota stjórnskipulegan rétt sinn og hafna gjörðum ESB, sem bersýnilega valda landsmönnum meira tjóni en gagni.
8.7.2018 | 15:24
"Alþingi gekk of langt"
Persónuverndarlöggjöf ESB, "General Data Protection Regulation-GDPR", er sniðin við miklu stærri samfélög en hið íslenzka, og verður þess vegna ofboðslega dýr í innleiðingu hér sem hlutfall af tekjum fyrirtækja og stofnana. Sá kostnaður er svo hár, að koma mun niður á almennum lífskjörum almennings á Íslandi. Yfirvöld hérlendis hafa kastað höndunum til kostnaðaráætlana fyrir þessa innleiðingu og rekstur kerfisins, eins og berlega kom fram í Morgunblaðsgrein Gunnhildar Erlu Kristjánsdóttur, 12. júní 2018, lögfræðingi og sérfræðingi í persónurétti hjá Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu, SFV,
"Áhrif nýrra persónuverndarlaga á ríkissjóð".
Að margir Alþingismenn líti á það sem skyldu sína að samþykkja hvaðeina inn í íslenzka lagasafnið, sem Evrópusambandinu (ESB) þóknast að merkja sem viðeigandi fyrir EFTA-löndin, er þyngra en tárum taki, því að þeim er tryggður synjunarréttur í EES-samninginum, og hann felst líka í fullveldi landsins, sem þingmenn saxa ískyggilega á með þessu háttarlagi. Þá er samfélagslegur kostnaður af innleiðingu og rekstri viðamikilla orkubálka og aragrúa tilskipana og reglugerða svo mikill, að hann nær þjóðhagslegum stærðum, sem hamla hér lífskjarabata. Það er litlum vafa undirorpið, að EES-aðildin er byrði á hagkerfi landsins en ekki léttir, eins og mönnum var talin trú um í upphafi. Hvergi á byggðu bóli, nema á Íslandi, í Noregi og Liechtenstein, tíðkast að verða að taka upp löggjöf nágrannans í eigin löggjöf til að mega eiga við hann viðskipti, enda eru annars konar tengsl við hann á formi fríverzlunarsamnings, e.t.v. á milli EFTA og ESB, fyllilega raunhæf.
Viðskiptaráð Íslands hefur áætlað, að beinn og óbeinn árlegur kostnaður landsins af opinberu regluverki nemi miaISK 175, uppfærður til verðlags 2018. Mikið af þessu stafar af gagnrýnislítilli innleiðingu gjörða ESB, en hluti af þessu opinbera regluverki er auðvitað nauðsynlegur. Ef áætlað er, að 60 % falli illa að þörfum íslenzks samfélags og mætti losna við að ósekju, nemur óþörf kostnaðarbyrði fyrirtækja og hins opinbera af regluverki um 105 miaISK/ár. Regluverkið má vafalaust grisja verulega og aðlaga smæð þjóðfélagsins. Það er sjálfsagt að ráðast í það, eftir "Iceexit", ári eftir uppsögn EES-samningsins.
Með nýju persónuverndarlögunum er verið að auka mikið við þetta bákn með stofnkostnaði, sem gæti numið um miaISK 20 m.v. kostnaðaráætlun ESB (miaISK 17,6) og danska áætlun um kostnað fyrirtækja, en enn hærri upphæð m.v. sænska áætlun. Að viðbættum kostnaði sveitarfélaga og stjórnarráðs fást alls um miaISK 20. Sveitarfélögin áætla stofnkostnaðinn 0,2 % af tekjum og árlegan rekstrarkostnað 56 % af stofnkostnaði, sem þá þýðir 11 miaISK/ár, ef þessi áætlun er yfirfærð á landið allt. Við þennan kostnað þarf að bæta óbeinum kostnaði, sem aðallega stafar af þunglamalegri stjórnsýslu, minni afköstum og minni framleiðniaukningu. Þessi rekstrarkostnaður mun þess vegna árlega vaxa mun meir en almennum verðlagshækkunum nemur.
Þessi kostnaðarauki er grafalvarlegt mál í ljósi þess, að hann leiðir aðeins til minni verðmætasköpunar á tímaeiningu og aukið öryggi gagna er vafasamt, að náist í raun með gríðarlegu auknu skrifræði. Samþykkt Alþingis á innleiðingu GDPR var misráðin, enda mun hún óhjákvæmilega rýra lífskjörin á Íslandi og líklegast lífsgæðin líka. Þetta hefst upp úr því að afrita löggjöf hálfs milljarðs manna ríkjasambands gagnrýnislaust fyrir 0,35 milljóna manna smáríki. Það er ekki öll vitleysan eins í henni versu.
Upplýsingar um þetta má lesa í úttekt Viðskiptablaðsins, 21. júní 2018,
"GDPR gæti kostað milljarða".
Í úttektinni segir á einum stað:
"Alþingi leiddi efni reglugerðarinnar í íslenzk lög fyrir rúmlega viku, en þar sem vernd persónuupplýsinga er talin [vera] hluti af EES-samninginum, bar Alþingi skylda til að taka GDPR upp í íslenzkan rétt, nánast eins og hún kemur fyrir af skepnunni."
Þetta er útbreiddur misskilningur. Sameiginlega EES-nefnd EFTA og ESB ræðir upptöku mála í réttarkerfi EFTA-ríkjanna þriggja, sem ESB ætlast til, að spanni allt EES-svæðið. Þessi nefnd úti í Brüssel getur þó ekki skuldbundið þjóðþingin til eins né neins, en í reynd hefur verið mjög lítið um, að þau synji gjörðum ESB samþykkis. Af þeim sökum er eina ráðið til að losna undan lagasetningarvaldi ESB að segja upp EES-samninginum, og það er orðið brýnt af fullveldisástæðum og af kostnaðarástæðum. Í staðinn koma fríverzlunarsamningar EFTA við ESB og Bretland, eða tvíhliða samningar. Styrkur yrði að Bretlandi innan EFTA, en Neðri-málstofa brezka þingsins aftók, að Bretland gengi í EES, enda færu Bretar þá úr öskunni í eldinn.
Það virðist hafa verið fljótaskrift á afgreiðslu Alþingis, sem er ámælisvert. Undir millifyrirsögninni,
"Alþingi gekk of langt",
stóð þetta í téðri úttekt:
"GDPR hefur að geyma ýmis ákvæði, sem heimila þjóðþingum aðildarríkja ESB og EES að setja sérreglur ásamt því að takmarka eða útfæra nánar tiltekin ákvæði reglugerðarinnar. Íslenzka ríkið hafði þannig svigrúm til að ákveða með hversu íþyngjandi hætti GDPR var innleitt. Davíð [Þorláksson, forstöðumaður hjá Samtökum atvinnulífsins] segir Alþingi þó hafa gengið lengra í innleiðingu reglugerðarinnar en nauðsyn bar til.
"Íslenzka ríkið ákvað að innleiða reglugerðina með mjög íþyngjandi hætti fyrir atvinnulífið með setningu sérreglna og takmarkaðri nýtingu á undanþáguheimildum", segir Davíð. Dæmi um slíkar sérreglur eru vinnsla persónuupplýsinga látinna einstaklinga, leyfisskylda til vinnslu, dagsektir, og að fyrirtæki í landinu standi undir kostnaði við Eftirlit Persónuverndar.
" Þannig er reglugerðin dýrari fyrir íslenzk fyrirtæki en í flestum öðrum ríkjum. Þar með hefur Alþingi ákveðið að grafa undan samkeppnishæfni íslenzkra fyrirtækja á alþjóðavettvangi, sem hefur farið versnandi.""
Hér eru firn mikil á ferð. Embættismannakerfið íslenzka með ráðherra í forystu leggur svimandi byrðar á atvinnulíf og stofnanir án þess að huga nokkurn skapaðan hlut að því að reyna að búa svo um hnútana, að byrðar þessar verði sem léttbærastar. Ósóminn rennur síðan á leifturhraða gegnum Alþingi. Hér bregðast þeir, er sízt skyldi. Þetta eru forkastanleg vinnubrögð, sem sýna svart á hvítu, að íslenzka stjórnkerfið ræður ekki við EES-aðildina. Eina lausnin á þessu stjórnkerfisvandamáli er að losa Ísland úr hrammi ESB með uppsögn EES-samningsins áður en stjórnkerfið íslenzka í glópsku sinni og vanmætti glutrar niður leifunum af fullveldinu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)