Færsluflokkur: Dægurmál

Landsnet og "Ice Link"

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að Landsnet og Landsvirkjun ásamt "National Grid Interconnector Holdings Ltd" eru skráð á lista orkustofnunar ESB, ACER, um forgangsverkefni ESB til hnökralausra og greiðra orkuflutninga landa á milli innan EES. Verkefnið heitir þar "Ice Link" og er aflsæstrengur á milli Íslands og Bretlands. Téð fyrirtæki eru skráð sem aðstandendur verkefnisins.  

Þetta er dæmalaust og spyrja verður, hver hafi veitt þessum tveimur íslenzku fyrirtækjum heimild til að samþykkja slíkt án nokkurrar lýðræðislegrar umræðu í landinu um jafnviðurhlutamikið mál og hér um ræðir ? Umfjöllun Landsnets hefur nánast engin verið um téðan sæstreng, enda hefur ekki verið í umræðunni, að flutningsfyrirtækið ætti hlut að þessum sæstreng.  Annað virðist á döfinni, enda er það venjan innan ESB, og einnig í Noregi, að raforkuflutningsfyrirtækin eiga hlut í millilandatengingum. Í Noregi er Statnett, systurfyrirtæki Landsnets, eini eigandinn, og Verkamannaflokkurinn gerði það að skilyrði fyrir stuðningi sínum við ACER-frumvarp ríkisstjórnarinnar, að svo yrði áfram.

Umfjöllun Landsvirkjunarmanna hefur verið yfirborðsleg og bernsk, og aldrei hefur verið minnzt á, að verkefnið yrði undir stjórn orkustofnunar ESB, ACER, þótt Landsvirkjun hafi rekið áróður fyrir þessum sæstreng síðan 2010, en stofnað var til ACER 2009.  Það er reginhneyksli, hvernig staðið hefur verið að kynningu á "Ice Link" hérlendis, líklegu eignarhaldi opinberra fyrirtækja á honum, t.d. einokunarfyrirtækisins Landsnets, ásamt líklegum fjárhagsskuldbindingum fyrirtækisins vegna styrkingar raforkuflutningskerfisins innanlands vegna tengingar íslenzka stofnkerfisins við risasæstreng á íslenzkan mælikvarða (1200 MW). 

Af þessu má ráða, að ACER sér tækifæri með flutningi raforku ofan af Íslandi til að auka hlutdeild stöðugrar og "grænnar" orku í raforkunotkun ESB, þ.e. endurnýjanlegrar raforku, sem nota má til að fylla upp í eyður sólar- og vindorku, sem koma oftast í hverri viku á álagstíma á meginlandinu.  Hefur iðulega legið þar við aflskorti á háálagstíma, sem sýnir í hnotskurn ógöngurnar, sem raforkumál ESB-ríkjanna hafa ratað í. Tvö af hlutverkum ACER er einmitt að auka hlutdeild endurnýjanlegrar orku í raforkukerfi ESB og að auka afhendingaröryggi orku, bæði raforku og eldsneytisgass. Aðferðin í báðum tilvikum er að fjölga flutningslínum í lofti og í jörðu.

Það má ganga út frá því sem vísu, að ACER muni hefjast handa um sæstreng á milli Íslands og Bretlands, hugsanlega með flutningi um brezka kerfið til meginlandsins, fljótlega eftir samþykki Alþingis á lögleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins, sem ESB ætlast til, að Alþingi afgreiði á færibandi í vor, enda hefur ACER þar með öðlazt vald yfir Orkustofnun Íslands, OS, og íslenzk yfirvöld misst sín ítök þar.  Ennfremur verður þá búið að flytja allt reglusetningarvald og eftirlitshlutverk til OS.  Vonandi ofbýður nógu mörgum Alþingismönnum ofríki ESB gagnvart EFTA-löndunum í EES til að stöðva þetta hrapallega mál, enda er fimmta frelsið (frjálsir orkuflutningar) ekki hluti af EES-samninginum um fjórfrelsi Innri markaðarins. Samþykktin í Sameiginlegu EES-nefndinni 5. maí 2017 voru þess vegna mistök.    

Landsneti mun samkvæmt reglum ACER og téðri verkefnaskrá stofnunarinnar ætlað að leika stórt hlutverk í þessu sæstrengsverkefni.  Sú kúvending hefur þó ekki hlotið neina lýðræðislega umfjöllun hérlendis.  Eftirlit með fyrirtækinu verður þá alfarið komið í hendur Orkustofnunar, OS, samkvæmt frumvarpi, sem nú liggur fyrir Alþingi. Þar með setur sami aðili leikreglurnar á raforkumarkaðinum og hefur eftirlit með, að þeim sé fylgt. Látum það vera.  Verra er, að Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB, sem bíður umfjöllunar Alþingis, felur í sér, að OS verður gerð óháð íslenzkum stjórnvöldum og hagsmunaaðilum og tekur aðeins við fyrirmælum frá ACER gegnum ESA (Eftirlitsstofnun EFTA). Þannig getur ACER hleypt Ice Link af stokkunum í samvinnu Landsnets og National Grid Interconnector Holdings Ltd. óháð því, hvaða skoðun rétt kjörin stjórnvöld landsins hafa á málinu.  Að kippa lýðræðislegu ákvarðanavaldi út af vellinum og setja undirstofnun sína þar í staðinn er aðferð ESB við við að fjarlægja allar þjóðlegar hindranir úr vegi stefnu sinnar og markmiða.  "Tilgangurinn helgar meðalið - Der Erfolg berechtigt den Mittel)".   

Komi upp ágreiningur flutningsfyrirtækjanna á milli um kostnaðarskiptingu vegna millilandatengingar, úrskurðar ACER um hana.  Sjá nú allir í hendi sér, hversu gríðarlegar fjárhagsbyrðar yfirþjóðleg stofnun án aðildar Íslands með atkvæðisrétti getur lagt á einokunarfyrirtækið Landsnet. Í hnotskurn blasir þar við gildi fullveldisins.  Ætla menn í einfeldni sinni að fórna því ?  Það er glópska, því að ávinningurinn er enginn fyrir Ísland.

Í Noregi sáu ESB-sinnaðir stjórnarflokkar á Stórþinginu til, að ACER-frumvarp ríkisstjórnarinnar var samþykkt 22. marz 2018.  Engin raunveruleg rök voru lögð á borðið fyrir inngöngu Noregs í Orkusamband ESB.  Samþykkt þingsins átti að verða eins og hver önnur færibandaafgreiðsla á gjörðum ESB inn í EES-samninginn og þar með lagasafn Noregs.  Reyndin varð önnur.  Há mótmælaalda reis um allan Noreg og náði til verkalýðsfélaga, sveitarstjórna og fylkisstjórna.  Jafnvel Alþýðusamband Noregs, LO, sem venjulega leggur miðstjórn (landsstyre) Verkamannaflokksins línurnar, ályktaði og hvatti þingflokkinn til að hafna frumvarpinu.  Skoðanakönnun í marz 2018 benti til, að yfirgnæfandi meirihluti Norðmanna væri andvígur því, að land þeirra gengi Orkusambandi ESB á hönd, því að 52 % voru á móti, 9 % meðmælt og 39 % óákveðin.  Hlutverk Alþingis er auðvitað að gæta hagsmuna Íslands og virða íslenzku Stjórnarskrána, en með höfnun Alþingis á sams konar frumvarpi má ganga út frá því sem vísu, að drjúgur meirihluti Norðmanna muni kætast.

  

Hver á Landsnet ?  Ríkið stofnsetti Landsnet með lögum 2003, og upphaflega var ætlunin, að fyrirtækið væri í eigu ríkissjóðs.  Samkvæmt Öðrum orkumarkaðslagabálki ESB, sem lögleiddur var 2003 hérlendis, á raforkuflutningsfyrirtækið, hér Landsnet, að vera óháð öllum aðilum á raforkumarkaði og öðrum hagsmunaaðilum, nema ríkisvaldinu. Sú krafa var gerð til að ýta undir frjálsa samkeppni um raforkuvinnslu og raforkusölu, og hún tryggir hæfi fyrirtækisins til hlutlægni í viðskiptum eftir föngum.  

Það var þó fjarri því, að málin þróuðust með þeim hætti hérlendis, því að þáverandi eigendur flutningskerfisins lögðu eignir sínar inn í fyrirtækið og yfirtóku eignarhlut ríkisins. Landsnet er þannig bullandi vanhæft til að fara með raforkuflutningshlutverkið af hlutlægni, enda hefur fyrirtækið legið undir ámæli.  Nú eru eigendur Landsnets 4 talsins:

  1. Landsvirkjun:      64,7 %
  2. RARIK:             22,5 %
  3. OR:                 6,8 %
  4. OV:(Orkubú Vfj):    6,0 %

Þetta er ótækt, og Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB, 2009/72/EB, ítrekar, að fullur aðskilnaður verði að eiga sér stað á milli flutningsfyrirtækis og hagsmunaaðila á raforkumarkaði.  Af einhverjum ástæðum sóttu íslenzk stjórnvöld um undanþágu frá þessu til ESA og fengu hana.  Það er hins vegar útilokað m.v. samþykktir ESB, að ESA samþykki eignarhald Landsvirkjunar á "Ice Link" að hluta, og þess vegna er óskiljanlegt, að Landsvirkjun skuli vera á téðum lista um aðstandendur verkefnisins.  

Í frumvarpi til laga um Landsnet, sem nú liggur fyrir Alþingi, hefur verið tekið út ákvæði um ríkiseign á Landsneti.  Þá vaknar spurningin um það, hvers konar eignarhald ríkisstjórnin sér fyrir sér í framtíðinni.  Um er að ræða einokunarfyrirtæki samkvæmt lögum, og einkavæðing þess er mjög miklum annmörkum háð vegna stöðu þess á markaði. Því er heldur ekki ætlað að græða peninga, heldur setur Orkustofnun fyrirtækinu þröng tekjumörk og sjálfsagt er, að það lækki gjaldskrá sína, ef rekstrarafgangur verður eftir eðlilegar afskriftir. Hvers vegna er ekki frekar undinn bráður bugur að því að færa Landsnet úr eignarhaldi orkufyrirtækjanna og til ríkissjóðs ?   

Til að tryggja óháða stöðu Landsnets á raforkumarkaði verður ekki annað séð en ríkiseign að fullu sé eina raunhæfa úrræðið, enda er sú raunin víðast annars staðar, t.d. í Noregi (Statnett). Að taka ákvæðið um ríkiseign á Landsneti úr lögum um fyrirtækið er vanreifað í frumvarpinu.   

Einfaldast er, að fjármálaráðuneytið og atvinnuvegaráðuneytið semji við núverandi eigendur um kaupin á Landsneti og gefi út skuldabréf til um 20 ára til staðfestingar.  Þetta er eðlilegasta fyrirkomulagið, óháð afgreiðslu Alþingis á bálki 2009/72/EB, ef menn á annað borð vilja halda í heiðri þeirri fjórskiptingu raforkumarkaðarins, sem komin er frá ESB, þ.e.:

  1. Virkjanafyrirtæki (raforkuheildsalar á samkeppnismarkaði)
  2. Flutningsfyrirtæki (Landsnet í einokunaraðstöðu)
  3. Dreifingarfyrirtæki (veitur með sérleyfi á tilgreindum svæðum, einokun á sama svæði) 
  4. Sölufyrirtæki (smásalar í samkeppni)

Landsnet hefur átt undir högg að sækja frá stofnun.  Það er skylda Alþingis að gera sitt til að skapa fyrirtækinu þá umgjörð, sem líklegust sé til sátta í landinu.  Það verður hvorki gert með því að viðhalda núverandi eignarfyrirkomulagi né með því að færa raunverulega stjórnun þess undir Orkustofnun ESB.  

 

   


Leikur vafi á um túlkun samþykkta tveggja stjórnarflokka ?

Sézt hafa fullyrðingar hérlendis um það, að Íslendingar verði vegna aðildar sinnar að Evrópska efnahagssvæðinu, EES, að ganga í Orkusamband ESB, þrátt fyrir samþykkt flokksþings Framsóknarflokksins 11.03.2018 og samþykktir Landsfundar Sjálfstæðisflokksins 18.03.2018 um hið gagnstæða.  Spyrja má, hver munurinn er þá á fullri aðild að ESB og þeirri aukaaðild, sem aðild að EES jafngildir, ef þjóðþing EFTA-landanna hafa ekki í krafti fullveldis síns heimild til að hafna nýjum tilskipunum ESB. Auðvitað er sá grundvallarmunur á, að aðildarlönd ESB taka þátt í mótun allra reglugerða, tilskipana og laga ESB og hafa sinn atkvæðisrétt, en EFTA-löndin þrjú eru í þeirri þrælslegu stöðu að þurfa að taka við því, sem að þeim er rétt; þó með neitunarvaldi í örlagamálum á Alþingi.

  Þetta á líka við um bann Alþingis við innflutningi á hráu kjöti.  Það er fáheyrður málflutningur að halda því fram, að lög um þetta efni frá 2009 séu að alþjóðarétti dæmd ómerk af EFTA-dómstólinum.  Hann hefur í þessu máli ekki dómsvald á Íslandi, enda aðeins ráðgefandi, og gjörðir hans eru ekki aðfararhæfar hérlendis í þessu máli.  Af hverju stafar þessi dæmalausa þörf ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur til að kyssa á vönd Evrópusambandsins ?

Nú verður fjallað um bréf norska olíu- og orkumálaráðherrans, Terje Söviknes, til Orku- og umhverfisnefndar Stórþingsins, þar sem því er haldið fram, með vísun til upplýsinga úr íslenzka utanríkisráðuneytinu, að eftirfarandi samþykkt atvinnuveganefndar Landsfundar Sjálfstæðisflokksins eigi ekki við um innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn:

" Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenzkum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins."

Þýðing á seinni hluta svarbréfs norska ráðherrans við spurningu þingnefndar um það, hvort niðurstaða Landsfundar Sjálfstæðisflokksins muni hafa áhrif á fyrirætlun ríkisstjórnarinnar um að taka frumvarp sitt um innleiðinguna til afgreiðslu í Stórþinginu 22. marz 2018, fer hér á eftir, og bréfið í heild er í viðhengi á þessari síðu:

"Að öðru leyti geri ég ráð fyrir, að ástæða spurningarinnar séu frásagnir í norskum fjölmiðlum um, að einn af stjórnarflokkunum á Íslandi, Sjálfstæðisflokkurinn, muni hafa gert samþykkt á Landsfundi sínum um helgina  gegn ACER. Sendiráð okkar í Reykjavík hafði þess vegna samband við utanríkisráðuneyti Íslands til að átta sig á, til hvers fjölmiðlar væru að vísa.  Utanríkisráðherrann er sjálfstæðismaður.  Íslenzka ráðuneytið veitti sendiráðinu þær upplýsingar, að Sjálfstæðisflokkurinn hafi samþykkt yfirlýsingu um, að fram fari mat á því, hvernig EES-samningurinn hafi virkað á Íslandi.  Þar er líka sagt, að flokkurinn sé mjög gagnrýninn á upptöku nýrrar löggjafar í EES-samninginn, sem falli utan við tveggja stoða fyrirkomulagið.  

Undirnefnd um atvinnuvegamál lýsti því yfir á Landsfundinum, að Sjálfstæðisflokkinum beri að snúast öndverður gegn framsali valds yfir íslenzkum orkumarkaði til ESB-stofnana. Þessi yfirlýsing þýðir ekki, að Sjálfstæðisflokkurinn snúist öndverður gegn innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins."  

 

Lokamálsgreinin, sem er undirstrikuð af höfundi þessarar vefgreinar, BJo, þarfnast skýringa að hálfu utanríkisráðuneytis Íslands.  Er þessi ónákvæma frásögn af ályktunum á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins 16.-18. marz 2018 frá ráðuneytinu komin, og hefur það klykkt út með vægast sagt villandi túlkun, raunar algerlega öfugsnúinni túlkun, á merkingu ályktunar atvinnuveganefndar og á vilja Landsfundar Sjálfstæðisflokksins.  Það er grafalvarlegt mál, og ekki er síður alvarlegt að gera tilraun til að blekkja norska sendiherran, norsku ríkisstjórnina, Stórþingið og norsku þjóðina, ef þessi túlkun er frá utanríkisráðuneyti Íslands komin.

Þetta mál er þegar á því stigi í Noregi, að stjórnarandstaðan ávítar norska ráðherrann í dag, 20.03.2018, fyrir villandi upplýsingagjöf til þingsins á grundvelli réttrar þýðingar á ályktun atvinnuveganefndar Landsfundar Sjálfstæðisflokksins og vegna þess, að ráðherrann sleppti að geta um stórmerka yfirlýsingu af flokksþingi Framsóknarflokksins 11. marz 2018, sem er svona:

"Framsókn stendur vörð um fullveldi Íslands í orkumálum og hafnar því, að orkulöggjöf Evrópusambandsins verði tekin inn í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið." 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Raforkumál í deiglunni

Staða íslenzkra og norskra raforkumála er einstæð í Evrópu vestan Rússlands vegna þess, að á Íslandi og í Noregi eru nægar endurnýjanlegar orkulindir til að anna raforkuþörf landanna um fyrirsjáanlega framtíð, þótt tekið sé tillit til orkuskiptanna.  ESB-löndin hungrar hins vegar eftir raforku úr sjálfbærum orkulindum, og það er nettó innflutningur á raforku inn á ESB-landsvæðið.

 Framkvæmdastjórn ESB ætlar að nýta markaðshagkerfið til að bæta skilvirkni raforkukerfisins, enda samræmist það stefnunni um að draga úr rekstri kolakyntra raforkuvera. Hún hefur jafnframt lýst því yfir, að hún vilji tengja Noreg traustum böndum við Orkusambandið, og ACER hefur í raun lýst hinu sama yfir gagnvart Íslandi með því að setja Ice Link (aflsæstreng á milli Íslands og Bretlands) inn á forgangsverkefnaskrá sína.  Það er þess vegna alveg ljóst, til hvers refirnir eru skornir.  ESB er á höttunum eftir "hinni grænu rafhlöðu" Norðurlandanna tveggja.

Tæki ESB í þessu sambandi er sameiginlegur raforkumarkaður ESB, þar sem allir heildsölukaupendur raforku í ESB-löndunum geta boðið í tiltæka raforku, hvar sem er á markaðssvæðinu.

Til að gera þetta kleift í raun var nauðsynlegt fyrir ESB að stofna orkuskrifstofu eða orkustofnun með valdheimildir frá ráðherraráði og ESB-þingi til að yfirtaka stjórn orkuflutningsmála í hverju landi.  Þetta er hlutverk orkustofnunarinnar, ACER (Agency for the Cooperation of Energy Regulators).  Allt reglusetningarvald og eftirlit með starfsemi orkuflutningsfyrirtækja, sem á Íslandi er núna sumpart hjá atvinnuvegaráðuneytinu og sumpart hjá Orkustofnun, OS, er sameinað í orkustofnun hvers lands, og hún er gerð algerlega óháð innlendu stjórnvaldi og innlendum hagsmunaaðilum, en sett undir beina stjórn ACER.  Þar með lúta orkuflutningsfyrirtæki fyrir rafmagn og eldsneytisgas, á Íslandi Landsnet (á Íslandi er ekkert víðtækt gasrörakerfi) beinni stjórn ACER.

Þessu fyrirkomulagi gátu EFTA-löndin Ísland og Noregur ekki kyngt, enda felur það í sér klárt stjórnarskrárbrot, að yfirþjóðleg stofnun stjórni innlendri stofnun, sem ríkisvaldið á engin ítök í.  Í stað þess að hafna þessu alfarið sem grímulausri innlimun Íslands, Noregs og Liechtenstein í ESB með sneiðaðferðinni ("salamiaðferðin"), eins og vert hefði verið, þá fengu EFTA-löndin ESB til að samþykkja dulbúning á gjörð, sem stjórnlagafræðingarnir Björg Thorarensen og Stefán Már Stefánsson tjá sig um þannig, "að framsalið rúmist ekki innan venjuhelgaðrar reglu um, að almenna löggjafanum sé heimilt að framselja ríkisvald í takmörkuðum mæli til alþjóðastofnana".

Íslenzk stjórnvöld og þar með Alþingi hafa einfaldlega teygt sig allt of langt í þjónkun sinni við ESB-valdið. Nú verður að spyrna við fótum áður en ráðstöfunarréttur íslenzkrar raforku verður afhentur ESB á silfurdiski.  

Þann 17. marz 2018 skrifaði Sigurbjörn Svavarsson prýðilega grein í Morgunblaðið:

"Valdastofnanir ESB og EES-samningurinn":

"A fundi fjármála- og efnahagsráðherra ríkja Evrópusambandsins og EFTA-ríkjanna innan EES 14. október 2014 náðist loks samkomulag um meginatriði við aðlögun umræddra reglugerða að EES-samninginum.  Þar var lögð áherzla á, að aðlögun regluverksins yrði reist á tveggja stoða kerfi EES-samningsins [með sjónhverfingum - innsk. BJo].  Bindandi ákvarðanir gagnvart stjórnvöldum EFTA-ríkjanna innan EES og fyrirtækjum, sem þar starfa, skyldi taka af Eftirlitsstofnun EFTA (ESA), en ekki beint af eftirlitsstofnunum ESB, þó samkvæmt fyrirmælum valdastofnana ESB og með óbreyttu innihaldi gerðanna [ESA mun ekkert annað gera en ljósrita ákvarðanir ACER á pappír með ESA haus og vatnsmerki.  ESA er Trójuhestur ESB/ACER inn fyrir fullveldismúra EFTA-ríkjanna.] Þetta var réttlæting fyrir aðgengi og gagnkvæmni að gerðunum.  

Samkvæmt þessu eru allar formlegar valdheimildir á hendi Eftirlitsstofnunar EFTA, sem fær mun víðtækara starfssvið en hún hefur núna, þar með talið aðfararhæfi að íslenzkum aðilum.  Dómsvald um þessar gerðir verður hjá EFTA-dómstólinum, en ekki hjá íslenzkum dómstólum. [Þetta framsal dómsvalds stríðir gegn Stjórnarskrá og er dæmalaust - innsk. BJo.]  

Á síðasta Alþingi voru samþykktar 9 ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn (um fjármálaþjónustu), og 178 gerðir eru framundan á þessu þingi. [Mun Alþingi spyrna við fótum - innsk. BJo.] 

Upptaka gerða um ACER, Eftirlitsstofnun á orkumarkaði, var samþykkt í sameiginlegu EES-nefndinni 5. maí 2017, þ.e. um breytingu á IV. viðauka við EES-samninginn (um orkumál), og framkvæmd þeirra verður með sama hætti og fjármálagerðanna [þ.e. með ESA sem óvirkan (ljósritandi) millilið á milli ACER og OS]. Stofnunin [ACER] mun beita valdheimildum sínum sínum gegnum ESA, og dómsvaldið verður hjá EFTA-dómstólinum.[Það er á leiðinni frá ESB 1000 bls viðbót við Þriðja orkumarkaðslagabálkinn (600 síður), sem enn mun auka við völd ACER-innsk. BJo.]"

Þetta fyrirkomulag er gjörsamlega óviðunandi fyrir fullvalda þjóð á borð við Íslendinga og Norðmenn, og það er sennilega þetta, sem formaður Sjálfstæðisflokksins átti við í ræðupúlti Alþingis 6. febrúar 2018, þegar hann kvartaði undan þróun EES-samstarfsins úr tveggja stoða í einnar stoðar einleik ESB og of mikinn eftirgefanleika að hálfu Noregs og Liechtenstein gagnvart vaxandi valdsækni ESB-stofnana í EFTA-löndunum.  

Nú verður að spyrna við fótum á Íslandi.  Við erum á góðri leið með að verða étin í sneiðum af ESB.  Nú er komið að raforkugeiranum.  Samþykkt Alþingis á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum hefur verið líkt við það að opna landhelgina fyrir Bretum.  Málið er enn alvarlegra, því að með eftirlit og dómsvald í raun í höndum ESB, er verið að opna landhelgina og afhenda ESB Landhelgisgæzluna í þokkabót.

Augu Alþingismanna eru að opnast fyrir því, að hér er mikið alvörumál á ferðinni og að við svo búið má ekki standa.  Flokksþing framsóknarmanna samþykkti 11. marz 2018 svofellda ályktun:

"Framsókn stendur vörð um fullveldi Íslands í orkumálum og hafnar því, að orkulöggjöf Evrópusambandsins verði tekin inn í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið."

Þessi ályktun olli straumhvörfum á hinu pólitíska sviði orkumálanna, og eiga framsóknarmenn miklar þakkir skildar fyrir.  Greinargerð með ályktuninni var svohljóðandi:

"Evrópusambandið hefur ákveðið að taka upp aukna miðstýringu í orkumálum undir yfirstjórn orkustofnunar (ACER) og leggur áherzlu á, að sama regluverk og þar með vald ACER nái til Íslands.   Framsóknarflokkurinn hafnar því, enda er algerlega óásættanlegt, að erlendu stjórnvaldi verði falin bein eða óbein völd yfir orkumálum þjóðarinnar."

Allt felur þetta í sér svo afdráttarlausa afstöðu Framsóknarflokksins, að það er óhugsandi, að boðað frumvarp um innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn verði lagt fram í nafni ríkisstjórnarinnar.  

Á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins 16.-18. marz 2018 var þetta mikla sjálfstæðismál landsins mikið rætt, eins og vonlegt er.  Hjá atvinnuveganefnd var kveðið afdráttarlaust að orði með augljósri skírskotun til væntanlegs frumvarps frá atvinnuvegaráðuneytinu um inngöngu Íslands í Orkusamband ESB:

"Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenzkum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins."

Þetta hefur réttilega verið túlkað í Noregi sem yfirlýsing um, að flokkurinn vilji, að þingmenn beiti neitunarvaldi sínu samkvæmt EES-samninginum við afgreiðslu frumvarps um innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn.  Það er mat manna, t.d. innan andófshreyfingarinnar "Nei til EU", að væntanleg afstaða ríkisstjórnar og Alþingis muni fjölga þeim Stórþingsmönnum, sem greiða munu atkvæði gegn innlimun Noregs í Orkusamband ESB. Nú ræða Stórþingsmenn um að fresta afgreiðslu Stórþingsins, sem vera átti 22. marz 2018.  Tíminn mun vinna með andófsmönnum.

Utanríkismálanefnd Landsfundar horfði lengra fram á veginn:

"Nú, þegar aldarfjórðungur er liðinn frá undirritun EES-samningsins, er tímabært að gera úttekt á reynslu Íslands af honum.  Áríðandi er, að haldið verði áfram að efla hagsmunagæzlu innan ramma EES og tryggja, að möguleikar Íslands á fyrri stigum EES-mála verði nýttir til fulls.  

Sjálfstæðisflokkurinn gerir verulegar athugasemdir við, að tekin sé upp löggjöf í EES-samninginn, sem felur í sér valdheimildir, sem falla utan ramma tveggja stoða kerfis samningsins."

Dæmigert fyrir aðstöðu EFTA-ríkjanna til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri á undirbúningsstigum í ESB er orkustofnunin ACER, en þar hefur hvert ríki fulltrúa með atkvæðisrétt og ákvarðanir eru teknar með atkvæðagreiðslu, þar sem hreinn meirihluti ræður, en EFTA-ríkin munu einungis fá áheyrnarfulltrúa þarna. Þetta ójafnræði á milli EFTA og ESB gerir vistina í EES óbærilega.

 

 

 

    


Viðhorf hagsmunasamtaka til ACER

Í Noregi hafa sveitarfélög og fylkisstjórnir auk fjölda landshlutafélaga stjórnmálaflokkanna og verkalýðsfélaga um Noreg endilangan ályktað gegn því að afhenda orkustofnun ESB ráðstöfunarrétt yfir raforkunni. Nú síðast samþykkti "Landsorganisasjonen"-LO, þ.e. norska Alþýðusambandið eindregna hvatningu til þingmanna Stórþingsins, ekki sízt Verkamannaflokksins, um að greiða atkvæði gegn stjórnarfrumvarpi 22. marz 2018 um að innleiða Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB í EES-samninginn.

Norðmenn fara í blysfarir og halda fundi um allt land gegn því að afhenda ACER-orkustofnun ESB ráðstöfunarréttinn yfir raforkunni, en um það snýst nýjasta dæmið um miðstýringaráráttu ESB. Þetta ómak gera fjölmargir Norðmenn sér, af því að þeir telja, réttilega, stórfellda þjóðarhagsmuni vera í húfi. Hérlendis ríkti doði og ládeyða gagnvart aðsteðjandi hættu frá valdatöku ESB á þjóðhagslega mikilvægu sviði, raforkuflutningum innanlands og til útlanda, þar til flokksþing framsóknarmanna samþykkti einróma 11.03.2018, að standa beri vörð um fullveldi Íslands í orkumálum og hafnaði upptöku lagaverks um aukna miðstýringu orkumála í EES-samninginn.

  Hin sameiginlega EES-nefnd hefur þegar samþykkt valdaframsal til orkustofnunar ESB, og nú er beðið eftir að sjá, hvaða Stórþingsmenn og Alþingismenn hafa geð í sér til að kyssa á vöndinn. Vonandi aðeins minnihluti þeirra.  Landsfundur sjálfstæðismanna um næstu helgi hefur í hendi sér að stöðva þetta óþurftarmál, sem borizt hefur atvinnuvegaráðuneytinu frá hinni sameiginlegu EES-nefnd EFTA og ESB. Fari málið fyrir Alþingi, eiga þingmenn hiklaust að beita neitunarvaldinu, sem fólgið er í EES-samninginum. Eftirlitsstofnun EFTA-ESA mun mótmæla, og hugsanlega mun falla EFTA-dómur um brot á EES-samningi, en hann verður aðeins ráðgefandi og ekki aðfararhæfur hér.  

Fjöldi Norðmanna er réttilega þeirrar skoðunar, að sú stjórnkerfisbreyting, að meginstarfsemi orkustofnunar Noregs, NVE, færist undan stjórn ráðuneytis, sem er undir eftirliti og yfirstjórn Stórþingsins, og undir stjórn orkustofnunar ESB, skammstöfuð ACER, sem stendur fyrir Agency for the Cooperation of Energy Regulators, ógni starfsöryggi í orkusæknum iðnaði í dreifbýli landsins.  Þá blasir líka við, að raforkuverð til almennings mun hækka umtalsvert. Allar áhyggjur Norðmanna út af þessu máli eiga í raun við hérlendis líka.  Aðstæður eru mjög keimlíkar, og að halda því fram, að okkur sé vörn í núverandi rafmagnslegri einangrun landsins (enginn millilandastrengur enn), er haldlaus, því að ACER fær einmitt völd til að ákveða slíka millilandatengingu, og Ice Link er nú þegar kominn á forgangslista ACER

Hér að neðan er þýðing á frásögn af úrdrætti ályktunar verkalýðssambands starfsmanna í iðnaði og orkufyrirtækjum, "Industri Energi", IE, Íslendingum til glöggvunar á umræðunni í Noregi, en hana má líka sjá undir tengli norsku andófssamtakanna, "Nei til EU", hér á vefsetrinu:  

"Niðurstaða greiningar IE er, að væntanlegir aflsæstrengir til Þýzkalands og Bretlands geti hækkað Smásöluverð rafmagns í Noregi um 0,1-0,4 NOK/kWh (1,3-5,2 ISK/kWh).  Þetta er reist á því, að rafmagnsverðið (smásöluverð til almennings) er um þessar mundir u.þ.b. tvöfalt hærra á Bretlandi en í Noregi, u.þ.b. 0,6 NOK/kWh m.v. á Bretlandi 0,3 NOK/kWh í Noregi. (Bretland: 8,0 ISK/kWh, Ísland: 5,9 ISK/kWh, Noregur: 4,0 ISK/kWh, íslenzk stóriðja: 2,5-3,5 ISK/kWh (heildsöluverð).  Varðandi raforkuverð til norsks almennings ber að hafa í huga, að hann kyndir að mestu húsnæði sitt með rafmagni, oftast þilofnum, og meðalheimili þar kaupir þar af leiðandi um 20 MWh/ár, sem er ferfalt á við meðalheimili hérlendis, og sólarhringsálagið er jafnara.  Þar af leiðandi er vinnslukostnaður fyrir norskan almenning tiltölulega lægri en fyrir íslenzkan almenning. Bæði norskur og íslenzkur almenningur nýtur góðs af mikilli raforkusölu til orkusækins iðnaðar.  Ofan á þessi raforkuverð bætast flutningsgjald, dreifingargjald, jöfnunargjald og virðisaukaskattur.

Vegna sæstrengjanna þarf að fjárfesta í flutningskerfi að landtökustað þeirra.  Statnett hefur áætlað að þurfa þannig að fjárfesta fyrir miaNOK 2 vegna hvors  sæstrengjanna tveggja til Þýzkalands og Bretlands (jafngildi miaISK 26) og þessi kostnaður mun knýja á um hækkun flutningsgjaldsins innanlands í Noregi, sem raforkunotendur innanlands verða að bera samkvæmt reglum ACER.  Hvernig kostnaður millilandatenginga mun verða skipt á milli flutningsfyrirtækja viðkomandi landa, er samkomulagsatriði þeirra á milli, og ef þau ná ekki samkomulagi, sker ACER úr.  Fjárhagur Landsnets og íslenzkra raforkunotenda verður í uppnámi af þessum sökum.  Við blasir stjórnarskrárbrot, þar sem yfirþjóðleg stofnun, þar sem hvorki Ísland né Noregur eru fullgildir aðilar, er farin að leggja fjárhagslegar álögur á alla landsmenn.    

Þar eð norska raforkukerfið er lítið í samanburði við brezka kerfið, mun viðskiptakerfi með frjálsu flæði leiða til, að raforkuverðlagið í Noregi nálgast hið brezka og ekki öfugt.  Yfirleitt er raforkuverðlagið á meginlandi Evrópu enn hærra en á Bretlandi, sem leiða mun til enn meiri raforkuverðhækkana í Noregi en að ofan getur vegna Þýzkalandsstrengsins.  Norðmenn munu flytja út rafmagn, sem gæti annars haldið rafmagnsverðinu niðri og atvinnustarfsemi uppi í Noregi, en flytja síðan hærra rafmagnsverð til baka. Þetta er slæm þjóðhagfræði, en orkuvinnslufyrirtækin hagnast til skamms tíma.    

Hjá stéttarfélaginu IE í Noregi eru menn þeirrar skoðunar, að fylgjendur aukinna raforkuviðskipta yfir landamæri vanmeti neikvæðar afleiðingar af hærra rafmagnsverði í Noregi.  Það getur tortímt orkusæknum iðnaði, og það mun hækka kostnað norskra neytenda og fyrirtækja í bæði einka- og opinbera geiranum.  Gert er ráð fyrir, að hækkun um 0,1 NOK/kWh (1,3 ISK/kWh) hækki rafmagnsreikning sveitarfélaganna um u.þ.b. 4,0 miaNOK/ár, sem umreiknað eftir íbúafjölda landanna gerir 3,6 miaISK/ár.  

Á hinn bóginn telja menn í IE, að fylgjendurnir ofmeti jákvæðu loftslagsáhrifin.  Heildarraforkuvinnslan í Noregi, u.þ.b. 133 TWh/ár, jafngildir 3 %-4 % af heildarraforkunotkun í EES.  Útflutningsgetan er mun minni (0,5 %) og verður varla merkjanleg í samanburði við þörf ESB-landanna fyrir endurnýjanlega orku eða í samanburði við þörf þeirra fyrir jöfnunarorku með þeirra eigin raforkuvinnslu úr endurnýjanlegum lindum (sól og vindi). Þá má ekki gleyma miklum orkutöpum í sæstrengjum, sem jafngilda orkusóun. 

Aftur á móti eru skaðleg áhrif á náttúru og umhverfi vanmetin.  Möguleikinn á að græða meira fé á opnum evrópskum markaði, með hærri og breytilegum verðum, mun virka hvetjandi á raforkuvinnslufyrirtækin til að auka álag virkjananna.  Vinnslan er aukin (aflaukning), þegar eftirspurnin er mikil og verðið hátt, og dregið er úr vinnslunni, þegar verðið er lágt.  Þetta þýðir, að lækkað er og hækkað (með útflutningi og innflutningi rafmagns) í miðlunarlónunum með stuttum millibilum.  Rannsóknir sýna, að slíkur rekstur virkjananna hefur afar neikvæð áhrif á fisk og aðrar lífverur í ám og lónum og veldur tjóni á náttúrunni í grennd.  Í umræðum um þetta og um heildaráhrif fleiri sæstrengja hefur IE einkum gagnrýnt, að ekki eru gerðar vandaðar áhættugreiningar áður en leyfi eru veitt til slíkra rekstrarhátta í samræmi við norskar og alþjóðlegar forskriftir.  

Andstaða IE við tengingu við ACER er þess vegna að miklu leyti vegna ótta um, að Noregur missi stjórn á stefnumörkun fyrir rafmagnsviðskipti yfir landamæri sín.  Menn eru þeirrar skoðunar, að verði stjórnun  innlendra yfirvalda leyst af hólmi með erlendri (ACER),muni slíkt leiða til fleiri sæstrengja, hærra rafmagnsverðs, hærri kostnaðar atvinnulífsins og glataðra starfa í Noregi.  

 Norsku verkalýðssamtökin, LO (Landsorganisasjonen), þ.e. norska ASÍ, og landshlutadeildir þar innanborðs, hafa tekið drjúgan þátt í umræðunni í Noregi og vara Stórþingið við alvarlegum þjóðhagslegum afleiðingum þess að samþykkja valdatöku ACER yfir raforkuflutningsmálum Noregs.  Samtökin eru tortryggin út í að hleypa öðrum en Statnett (í eigu ríkisins) að eignarhaldi á utanlandssæstrengjunum. Í umsögn um frumvarpsdrög í marz 2017 stóð þetta m.a. frá LO:
"LO er mjög ósammála samþykktinni um að veita öðrum en Statnett kost á að leggja, eiga og reka utanlandsstrengi frá Noregi."  Aldrei hefur nein viðlíka ályktun verið gerð á Íslandi, enda hefur alls ekki verið í umræðunni, að Landsnet ætti eða ræki millilandaaflstreng.  

"LO á Þelamörk fer þess á leit við ríkisstjórn og Stórþing að forða Noregi frá fullveldisafsali til orkustofnunar ESB, ACER.  ACER hefur að stefnumiði að skapa evrópskt stofnkerfi fyrir bæði gas og rafmagn án tillits til hagsmuna einstakra þjóða.  Núverandi samstarf er ráðgefandi, en ACER á hins vegar að taka bindandi meirihlutaákvarðanir.  Í raun er lagt til, að ACER skuli semja reglurnar um það, hvernig straumstefnu skal hátta hverju sinni um útflutningsstrengina. [Það er mun meira en reglur um straumstefnuna, sem felast mun í forskriftum ACER. Það er t.d. nýting strengjanna, hlutfall jöfnunarorku með sólarhringsfyrirvara pöntunar og augnabliksorkuafhendingar - innsk. BJo.]  Í Noregi er orkusækinn efnaferlaiðnaður [t.d. álver og kísilver-innsk. BJo] lykilstarfsemi í mörgum byggðum.  Það er rík ástæða til að óttast, að Noregur missi sitt mikilvægasta samkeppnisforskot, ef mikill hluti norsks rafmagns verður flutt beint út."

Allt, sem hér stendur um Noreg, getur átt við um Ísland að breyttu breytanda.

 

 

 


Jöfnun dreifingarkostnaðar raforku

Lesendur þessa vefrits eru nú orðnir allfróðir um fyrirætlanir Evrópusambandsins (ESB) í orkuflutningsmálum.  Þeir vita, að framkvæmdastjórn ESB og orkustofnun ESB, ACER, leggja mikla áherzlu á að auka hjá sér hlutdeild endurnýjanlegrar orku og bæta flutningsmannvirkin, svo að engir flöskuhálsar hindri frjálst flæði orku frá öllum virkjunum, ekki sízt rafstöðvum endurnýjanlegra orkulinda, hvert sem er innan ESB.  Með þessu á að auka hlutdeild endurnýjanlegrar orku, auka nýtingu fjárfestinga og tryggja með aðferðum frjáls markaðar, að orkan fari þangað, sem hagkvæmast er að nýta hana, þ.e. til hæstbjóðanda hverju sinni.

Ein af afleiðingum þessa kerfis verður útjöfnun orkuverðs.  Við raforkuverð til notenda bætist að sjálfsögðu flutningsgjald einokunarfyrirtækja á borð við Landsnet á Íslandi, Statnett í Noregi og National Grid á Bretlandi, sem hanna, byggja, reka, viðhalda og eiga flutningsmannvirkin og eru reyndar ábyrg fyrir kerfisrekstrinum.  Næst almennum notendum eru hins vegar dreifingarfyrirtækin.  Þau eru sérleyfisskyld, þ.e. standa ein að dreifingu raforku á sínum svæðum og bera auðvitað ríkar skyldur gagnvart "skjólstæðingum" sínum í krafti sérleyfisins. 

Hérlendis er þó pottur brotinn varðandi kostnaðardreifingu dreifingarfyrirtækjanna á viðskiptavini sína eftir búsetu.  Það er ekki eðlilegt, að einokunarfyrirtæki megi mismuna viðskiptavinum á dreifingarsvæði sínu eða dreifingarsvæðum, ef þau eru fleiri en eitt, enda kunna að vera hæpnir kostnaðarútreikningar gerðir í tilraun til að styðja  slíka mismunun viðskiptavina eftir búsetu. Það er hins vegar ekki hægt að fetta fingur út í mishátt dreifingargjald hjá ólíkum veitufyrirtækjum.  

Í ljósi þeirrar viðleitni ESB til jöfnunar raforkuverðs (frá virkjun), sem nú blasir við, er haldlaust að vísa í einhverjar gamlar regur ESB um, að kostnaður notenda eigi að endurspegla raunkostnað við að koma orkunni til þeirra, enda er heilmikill sameiginlegur kostnaður.  Vanalega er um það að ræða hérlendis, að dreifbýlisnotandi borgar hærra verð fyrir dreifingu til sín en þéttbýlisnotandi hjá sömu dreifiveitu.  Kveður svo rammt að þessu hjá einni veitunni, OR, að munurinn virðist geta orðið þar 38 %. Hann er 29 % hjá RARIK og hjá Orkubúi Vestfjarða, OV, 11 %. 

Þingmenn eða ríkisstjórn ættu nú þegar að leggja fram frumvarp til laga um, að sama veitufyrirtæki megi aðeins beita einum dreifingartaxta fyrir raforku.  Eftir sem áður geta verið ólíkir taxtar hjá mismunandi dreifiveitum, og fer verðið einfaldlega eftir meðalkostnaði á dreifiveitusvæðinu.  Þá verður áfram frjáls verðlagning á orku frá virkjun í heildsölu og smásölu.  Flutningsgjaldið er svo annar handleggur, og gæti tekið stakkaskiptum til hins verra, ef til landsins verður lagður aflsæstrengur, því að hann mun útheimta styrkingu stofnkerfisins, hvers kostnaður leggst á rafmagnsnotendur innanlands samkvæmt reglum ACER-orkustofnunar ESB. 

Ef raforkumarkaðurinn á Íslandi fær að þróast eðlilega án afskipta ACER, þ.e. án aflsæstrengstengingar við útlönd, þá mun lítil raunverðhækkun verða á orku frá virkjun. Sigurður Jóhannsson hjá Hagfræðideild Háskóla Íslands skrifaði minnisblað 3. október 2017 um "Líklegar tekjur af vatnsréttindum vegna Hvalárvirkjunar".  Þar skrifar hann m.a.:

"Hér er gert ráð fyrir, að rafmagnsverð frá Hvalárvirkjun hækki um 2 %/ár umfram annað verðlag á 15 árum, en breytist ekki eftir það.  Þetta er í samræmi við algenga spá um rafmagnsverð í Bretlandi.  Sennilega er sú spá varleg fyrir Ísland - ekki er ólíklegt, að munur á verði rafmagns hér á landi og í grannlöndunum fari minnkandi."

Með því að draga líklega þróun rafmagnsverðs á Bretlandi inn í verðspá fyrir raforku á Íslandi, er greinilega verið að gæla við verðlagsáhrif aflsæstrengs á milli Íslands og Bretlands.  Hér skal efast um, að þessi spá rætist, en fremur spá allt að 1 %/ár raunverðhækkun raforku á meðan orkuskiptin standa yfir, enda verður að virkja nýjar orkulindir til að anna viðbótar orkuþörf.  

 

 Vinnslukostnaður nýrra virkjana mun hækka, en á móti kemur, að eldri virkjanir verða skuldlausar og meginkostnaður virkjana, einkum vatnsaflsvirkjana, er fjármagnskostnaður. Engin raunveruleg þörf er þess vegna á 2 %/ár raunhækkun raforkuverðs á smásölumarkaði, hvað þá á því, að verðið á Íslandi nálgist verðið á Bretlandi.  Það er út í hött, nema af sæstreng verði.  

Orkunotkun dreifbýlisnotanda á ári er vanalega mun meiri en t.d. húseiganda í þéttbýli. Meiri orka er  almennt ódýrari á hverja orkueiningu en minni, sem vegur upp á móti gisnari byggð. Þetta stafar af því, að dreifbýlisnotandinn stundar í mörgum tilvikum atvinnustarfsemi.  Magnmunurinn verður mun meiri, ef dreifbýlisnotandinn hitar húsnæði sitt upp með rafmagni, en þéttbýlisnotandinn er með tengingu við hitaveitu.  Ofan á allt ójafnræðið leggst síðan, að dreifbýlisnotandinn hefur í mörgum tilvikum aðeins aðgang að einfasa rafmagni frá veitu, en þéttbýlisnotandinn getur fengið aðgang að þriggja fasa rafmagni frá veitu, ef hann þarf á því að halda.

Nú er fyrirhugað að stofna "stöðugleikasjóð" með tekjum ríkissjóðs af auðlindarentu af náttúruauðlindum og arðgreiðslum fyrirtækja ríkisins af þeim, í fyrsta umgangi vegna nýtingar orkulinda.  Taka má mið af norska Olíusjóðinum, en 18 % útgjalda norska ríkissjóðsins eru um þessar mundir fjármögnuð með Olíusjóðinum. Skal hér gera tillögu um, að íslenzka ríkið vindi bráðan bug að stofnun þessa sjóðs og noti á næstu árum 3 % af höfuðstóli hans til að styðja fjárhagslega við verkefni, sem flýtt geta orkuskiptum og sem stuðla að orkusparnaði eða orkukostnaðarsparnaði og bættri orkunýtni.  Hér má nefna:

a) Leit að volgu eða heitu vatni á "köldum" svæðum.  Getur lækkað hitunarkostnað húsnæðis.

b) Nýtingu varmadælna til upphitunar húsnæðis, t.d. í tengslum við (a).  Getur sparað umtalsverða raforku við upphitun.

c) Flýtingu á lagningu þrífasa jarðstrengja.  Dregur úr orkutöpum og eykur gæði rafmagns á afhendingarstað.  Í kjölfarið eru teknar niður loftlínur, sem léttir á neikvæðum umhverfisáhrifum rafvæðingarinnar og lækkar viðhalds/rekstrarkostnað.

Allt leiðir þetta til jöfnunar lífskjara í landinu, óháð búsetu, en þannig vilja bæði Íslendingar og Norðmenn, að orkuauðlindunum sé varið, en ekki, að raforkan sé send með miklum orkutöpum til útlanda til verðmætasköpunar þar og í staðinn sé flutt inn dýr raforka, sem kyrkir atvinnustarfsemi hér.  

 

 


Hvað er Orkusamband ESB ?

Myndun Innri markaðar ESB snýst að miklu leyti um að semja sameiginlegar, yfirþjóðlegar reglur fyrir mismunandi svið á markaðinum.  Nýjasta sviðið þar er orka, fyrst um sinn raforka og eldsneytisgas. Ætlun ESB er að skapa fimmta frelsið, frjálst flæði orku þvert á landamæri.  Grunnforsenda framkvæmdastjórnarinnar er, að sameiginlegar reglur séu í allra hag, en það er ofeinföldun á veruleikanum. EFTA-ríkin tvö, Noregur og Ísland, geta farið flatt á því að ganga í Orkusamband ESB vegna gjörólíkra aðstæðna og hagsmuna á þessum Norðurlöndum m.v. ESB-löndin.

Forgangsmál stjórnvalda í einstökum ríkjum um ráðstöfun orkunnar og stjórnvaldsákvarðanir í einstökum löndum um orkumál lítur framkvæmdastjórn ESB á sem hindranir fyrir frjálst flæði, sem séu samkeppnishamlandi og beri þess vegna að afnema. Með Orkustofnun ESB, ACER (Agency for the Coordination og Energy Regulators), eru "búrókrötum" fengin tól í hendurnar til að koma böndum á sjálfstæða stefnumörkun hvers aðildarlands í orkumálum.  Að sjálfsögðu þýðir það jafnframt valdaafsal stjórnvalda hvers lands á sviði orkumála, í fyrstu umferð varðandi ráðstöfun raforku og eldsneytisgass.

Þetta fyrirkomulag stingur illilega í stúf við hefðbundin sjónarmið á Íslandi og í Noregi, þar sem jafnan hefur verið litið á afurðir vatnsfallanna og jarðgufunnar sem tæki til að bæta og jafna lífsskilyrði landsmanna í dreifðum byggðum landanna. Þetta sjónarmið verður algerlega undir, ef Alþingismenn samþykkja í vor innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB á Íslandi.   

Höfundar Orkustefnu ESB horfa reyndar framhjá því, að á orkumörkuðum EES ríkja miklir hagsmunaárekstrar.  Stór og lítil lönd hafa ólíkra hagsmuna að gæta og sömuleiðis litlir og stórir þátttakendur á markaðinum; það eru andstæður á milli innflutnings- og útflutningslanda á orku, og hagur einstakra þátttakenda (fyrirtækja) er ekki endilega í samræmi við hag samfélagsins o.s.frv. 

Í ESB-kerfinu er reynt að breiða yfir og jafna þessar andstæður með tilskipunum og lögum, sem öll aðildarlöndin eru skuldbundin að fylgja.  Hér á landi, í Noregi og Liechtenstein, ríkja varnaglar frá upphaflegri gerð EES-samningsins, því að annars væru þessi ríki væntanlega gengin í ESB. Það er hlutverk Alþingis og stjórnmálaflokkanna að meta, hvort gjörningar ESB, sem sameiginlega EES-nefndin hefur úrskurðað, að spanna skuli EFTA-löndin í EES, þjóni hagsmunum íslenzku þjóðarinnar.  Ef gjörningarnir þjóna ekki hagsmunum Íslendinga að mati þingmanna, hefur Alþingi rétt á að hafna gjörningunum samkvæmt upphaflega EES-samninginum.  Hér má geta þess, að þrefað hefur verið um Orkustefnu ESB í sameiginlegu EES-nefndinni a.m.k. síðan 2011, en nú hefur ESB aftekið með öllu að veita EFTA-ríkjunum undanþágu eða sérmeðferð og einnig hafnað aðild þeirra með atkvæðisrétti að ACER-Orkustofnun ESB.  Er þetta til vitnis um einstrengingslegra viðhorf til EFTA-ríkjanna, eftir að Bretar urðu valdalitlir í ESB, og eftir því sem samrunaferli ESB vindur fram á grundvelli "stjórnarskráarinnar", Lissabon-sáttmálans.     

Framkvæmdastjórn ESB er mjög umhugað, að reglurnar fyrir sameiginlegan orkumarkað séu kallaðar Orkusamband ESB.  Ætlunin er, að orkusambandið sjái "borgurum og fyrirtækjum Evrópu fyrir öruggri, samkeppnishæfri og sjálfbærri orku".  Í Berlaymont (höfuðstöðvum ESB) er líka rætt um Orkusambandið sem brautryðjanda að markmiðum um hreina orku, um aukna hlutdeild endurnýjanlegrar orku, minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda og um bætta orkunýtni.  Undir þessum merkjum er farið fram með Þriðja orkumarkaðslagabálkinn, og sem slíkan sakleysingja hafa íslenzkir og norskir embættismenn og stjórnmálamenn í Noregi reynt að kynna hann.  Þar er þó flagð undir fögru skinni, sem ásælist "græna orku" Norðurlandanna tveggja, án þess að notkun norræns rafmagns á meginlandi Evrópu breyti nokkru um heildarlosun gróðurhúsalofttegunda. Miklu frekar felst orkusóun í að senda rafmagn langar leiðir með miklum orkutöpum í stað þess að nýta það sem næst orkulindinni.     

Markmið ESB á orkusviðinu eru, að fyrir 2020 á endurnýjanleg orka að nema 20 % af heildarorkunotkun ESB, losun gróðurhúsalofttegunda á að minnka um 20 % m.v. 1990, og orkunýtnina á að bæta um 20 % m.v. 1990.  Árið 2030 er markmiðið, að losunin verði 40 % minni en á viðmiðunarárinu, og hlutdeild endurnýjanlegrar orku verði 27 % og nýtnin hafa batnað um 27 %. Árið 2050 á losun gróðurhúsalofttegunda að verða 80 % - 95 % minni en 1990. Forkólfar ESB eru að fyllast örvæntingu yfir, hversu erfiðlega ætlar að ganga að ná þessum markmiðum og munu ekkert gefa eftir í samningum við EFTA um haldreipi sitt, ACER.  Íslendingar og Norðmenn verða þess vegna einfaldlega að láta steyta á þessu máli í samskiptum EFTA og ESB.  

Á þessari stundu er erfitt að gera sér grein fyrir, hvað verður úr Orkusambandinu, og þess vegna ber að gjalda enn meiri varhug við því.  Það er sem sagt ekki fyrir hendi neitt afmarkað og skilgreint Orkusamband, sem hægt er að taka afstöðu til.  Um jafnræðisaðild fyrir EFTA-land er ekki að ræða, heldur er ætlazt til að hálfu ESB, að EFTA-ríkin í EES færi ESB á silfurdiski völd yfir flutningskerfum sínum fyrir jarðgas og rafmagn og ráðstöfunarrétt á orkunni inn á sameiginlegan EES-markað.  Þetta er sambærileg kröfuharka og í aðildarviðræðum Íslands við ESB, þar sem krafizt var opnunar landhelginnar, og þó verri, því að hér vill ESB eftirlitið líka, þ.e. Landhelgisgæzluna. Þegar svona er komið, er vart annað fyrir lítið land að gera en að slíta sambandinu.  "Far vel, Franz." 

Tilskipanir og lög um Orkusambandið munu streyma frá ESB, eftir að þjóðþing EFTA-ríkjanna hafa samþykkt innleiðinguna, eða hafnað henni, og þetta fyrirkomulag er auðvitað óboðlegt fullvalda þjóð.  Ef þingmenn á Alþingi og á norska Stórþinginu ætla að halda stjórnarskrár landa sinna í heiðri, og þeim ber skylda til þess, þá hafna þeir lögleiðingu á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum.  Til þess hafa þeir líka rétt samkvæmt ákvæðum um neitunarvald í upphaflega EES-samninginum.

Téður orkubálkur var samþykktur af ráðherraráði og þingi ESB árið 2009, og hann hefur gilt í öllum ESB-ríkjunum frá 2011, þegar Orkustofnun ESB, ACER, tók til starfa.  Hún vinnur að styrkingu flutningskerfa landanna fyrir raforku og jarðgas.  Aðallega er þar um að ræða að hvetja til, að reistar verði loftlínur, lagðir jarðstrengir, sæstrengir eða gasrör með fylgibúnaði til að efla orkuflutninga á milli landa og útrýma flöskuhálsum í þeim efnum. Ætlunin er, að EES-ríkin verði nægilega vel samtengd til að orkuverðið geti orðið mjög svipað í öllum löndunum. Þetta stefnumið er mjög óhagfellt Íslendingum og Norðmönnum.  

ACER heldur skrá um fjöldamörg verkefni, sem eru í gangi, í undirbúningi eða í athugun (under consideration).  Í síðasta hópinum er sæstrengur, sem hefur hlotið verkheitið Ice Link og á að liggja á milli Íslands og Bretlands.  Samkvæmt skránni er kostnaðar- og arðsemisathugun lokið, gangsetning fyrirhuguð 2027, og aðstandendur verkefnisins eru þar nefndir Landsnet, Landsvirkjun og National Grid Interconnector Holdings Ltd.  Af þessum gögnum ACER má ráða, að stofnunin muni ekki hika við að beita sér fyrir því, að þessu verkefni verði hrint af stokkunum, komist hún í aðstöðu til þess. Hér skal fullyrða, að það er enginn meirihluti fyrir því í landinu, að ACER komist í þessa aðstöðu.  Það er hollt fyrir Alþingismenn að hugleiða þessa stöðu.  

 Þá munu þeir gera sér grein fyrir því, að með því að leiða ACER til valda yfir orkumálum á Íslandi, eru þeir um leið að greiða leið fyrir tengingu raforkukerfis Íslands við raforkukerfi ESB um Bretland.  

 

 


Borgarlína er fráleit lausn á umferðarvandanum

Blekbóndi missti neðri kjálkann niður á bringu um daginn, er hann sá eftir borgarstjóranum haft, að losun einnar umferðarteppu með hjálp mislægra  gatnamóta flytji aðeins umferðarvandann að næstu gatnamótum.  Það þætti ekki gott, að læknir segði þetta um kransæðastíflu sjúklings síns, heldur mundi almennilegur læknir snúa sér að því að fjarlægja allar kransæðastíflurnar eða tengja framhjá þeim. Hugmyndafræði borgarstjóra er ógeðfelld blanda af neikvæðni í garð fjölskyldubílsins, hunzun almannahagsmuna (umferðaröryggis og ferðatíma) og ábyrgðarleysis gagnvart ráðstöfun opinbers fjár.

Borgarstjóri Reykjavíkur situr sem steinrunninn með hendur í skauti og þykist hafa fundið snjallari lausn á reglubundnu umferðaröngþveiti á höfuðborgarsvæðinu með Borgarlínu en að greiða leið fjölskyldubílsins.  Þar tekur hann algerlega rangan pól í hæðina og staðfestir þar með, að hann er draumóramaður, en enginn raunsæismaður.  Draumóramaðurinn leitar þó  fulltingis reykvískra kjósenda í vor til að fá að halda áfram með steingeld gæluverkefni sín, en stjórnarhættir draumóramannsins hafa hingað til haft hræðileg áhrif á fjárhagsstöðu borgarinnar, og áframhaldandi hnignun hennar mun leiða til niðurlægingar höfuðborgarinnar á næsta kjörtímabili. Það mun tröllríða fjárhagnum á slig, ef fíflagangur á borð við Borgarlínu verður að raunveruleika á höfuðborgarsvæðinu.  Það verður að gjörbreyta um stefnu í skipulagsmálum borgarinnar og breyta stjórnskipulagi hennar, og þá fyrst mun hagur hennar vænkast.

Skipulagsyfirvöld höfuðborgarsvæðisins eru í klónum á danskri ráðgjafarstofu, Cowi, hverrar umferðarspár og ráðgjöf eru mjög ótrúverðugar.  Væri nær að leita til innlendra umferðarsérfræðinga, sem menntaðir eru erlendis og kunna þess vegna skil á umferðarmænum á borð við Borgarlínu.  Cowi-menn hafa látið frá sér fara endemi á borð við að þvinga fólk úr bílum og í strætó á sérakreinum með vegtollum, hækkun bílastæðagjalda og fækkun bílastæða og mögnun almenns umferðaröngþveitis.  Með slíku og umferðarspám, sem eru algerlega á skjön við staðreyndir frá löndum, þar sem borgarlína hefur verið innleidd, dæmir þessi ráðgjafarstofa sig úr leik, nema í sandkassa draumóranna.

Þórarinn Hjaltason, umferðarverkfræðingur, MBA, sýndi með dæmum erlendis frá, að Borgarlína mun næstum ekkert draga úr bílaumferð á höfuðborgarsvæðinu hérlendis.  Allt fé, sem fjárfest verður í Borgarlínu, verður þess vegna á glæ kastað og mun valda stórtjóni í þokkabót, því að það fé hefði annars verið nýtt í brýnar samgöngubætur á höfuðborgarsvæðinu og vítt og breitt um landið.  Allir raunsæir menn sjá í hendi sér, sbr hér að neðan, að hugmyndir um Borgarlínu eru skýjaborgir draumóramanna, sem rándýrir ráðgjafar styðja við og viðhalda, á meðan þeir geta makað krókinn með fé úr opinberum sjóðum, þar sem í vissum tilvikum er fé án hirðis.

Grein Þórarins Hjaltasonar,

"Áhrif borgarlínu á umferð einkabíla ofmetin",

í Morgunblaðinu 1. febrúar 2018, hófst þannig:

"Samkvæmt skýrslu verkfræðistofunnar Cowi um borgarlínuna (janúar 2017) er skipting á ferðamáta í dag þannig, að hlutur ferða með strætó er 4 %, gangandi og hjólandi 20 % og ferðir með einkabíl 76 %.  Í sömu skýrslu er áætlað, að árið 2040 verði hlutur ferða með strætó 12 %, gangandi og hjólandi 30 % og ferðir með einkabíl 58 %.  Ferðir með einkabíl eiga samkvæmt þessu að minnka um 18 % eða nákvæmlega jafnmikið og áætluð aukning á ferðum gangandi, hjólandi og með strætó."

Þessi áætlanagerð um minnkandi bílaumferð og vaxandi hjólreiðar og gönguferðir samfara vaxandi strætóferðum er alveg út í hött, enda órökstudd og stangast á við reynslu annarra.  Það er stórfurðulegt, að nokkur skuli taka mark á þvílíkri framsetningu.  Aðeins draumóramenn geta talið það koma til greina að hætta einni krónu af opinberu fé í fjárfestingu, sem reist er á kviksyndi á borð við þessa skýrslu.  Áfram með Þórarin:

"Það stenzt engan veginn, að fjölgun ferða með strætó um 8 % leiði til þess, að ferðum með einkabíl fækki um 8 %.  Reynslan sýnir, að þegar farþegum fjölgar með strætó vegna bættrar þjónustu, þá hefur hluti nýrra farþega hjólað eða gengið áður eða þá, að nýir farþegar hefðu hreinlega ekki ferðazt neitt, ef ekki hefði komið til bætt þjónusta strætó.  Með öðrum orðum: nýir farþegar eru ekki eingöngu fyrrverandi bílstjórar eða farþegar í einkabíl."

Cowi-ráðgjafarþjónustunni virðist sem sagt ekki vera treystandi.  Þórarinn Hjaltason bendir síðan á, að þótt farþegi í einkabíl fari að nota strætó, minnkar bílaumferðin ekkert fyrr en bílstjórinn leggur bílnum.  Hann vitnar til reynslu borganna Adelaide, Sydney og Brisbane í Ástralíu af innleiðingu borgarlínu:

"Farþegum með strætó fjölgaði að meðaltali um u.þ.b. 45 % með tilkomu "borgarlínanna".  Fyrrverandi bílstjórar í einkabíl reyndust vera að meðaltali aðeins 25 % af nýjum farþegum með strætó."

Sé áætlun um fjölgun í strætó við tilkomu Borgarlínu samhliða minnkun bílaumferðar, reist á þessum reynslutölum frá Ástralíu, í stað ágizkana frá Cowi til að þóknast draumóramönnum, sem stjórna skipulagsmálum höfuðborgarsvæðisins á Íslandi, þá mun ferðum með strætó fjölga úr 4,0 % í 5,8 %, og bílum í umferðinni mun fækka um tæplega 0,5 %, úr 76,0 % í 75,5 %, en ekki niður í 58 %, eins og ráðgjafar Cowi slá fram út í loftið. Gangandi og hjólandi fækkar úr 20,0 % í 18,7 %.   

Þessi minnkun bílaumferðar verður ekki merkjanleg á götunum, sem sannar fullyrðinguna hér að framan, að Borgarlínan mun nánast ekkert draga úr bílaumferð á höfuðborgarsvæðinu, og ferðahlutdeild strætó mun ekki þrefaldast með tilkomu hennar, heldur vaxa um 45 %, og hún verður rekin með dúndrandi tapi, margföldu núverandi tapi, því að nýting vagnanna mun enn versna.  Borgarlína eru drómórar einir og mun reynast verða fjárhagslegt kviksyndi.  Það var frumhlaup hjá núverandi ríkisstjórnarflokkum að lýsa yfir stuðningi við þetta verkefni.  Alþingi ber að styðja betur fjárhagslega við bakið á Vegagerðinni og láta óvandaðan undirbúning skipulagsyfirvalda höfuðborgarsvæðisins lönd og leið.    

 

 

   


Borgarlína stendst ekki samkeppni

Það er og verður á næstu 20 árum gríðarleg samkeppni um féð, sem Alþingi samþykkir að ráðstafa í samgöngumálin. Þá kemur ekki til mála að leggja úrelta hugmyndafræði í höfði fáeinna skipulagsmanna, stjórnmálamanna og áhugamanna um skipulagsmál (amatöra) til grundvallar, heldur verður að íhuga slysafækkun, tímasparnað og orkusparnað vegfarenda ásamt viðhaldssparnaði vega og tækja að ógleymdum sanngirnissjónarmiðum, þegar ákvörðun um fjárveitingu til samgönguverkefna er tekin. Annars er hætt við, að miklum verðmætum verði á glæ kastað.  

Viðfangsefnið á höfuðborgarsvæðinu er að endurbæta nokkur frumstæð gatnamót, sem setið hafa á hakanum, sumpart sakir áhugaleysis borgaryfirvalda og sumpart vegna verkefna, sem þingmenn hafa sett framar í forgangsröð Vegaáætlunar.  Þessi gatnamót eru allt of hættuleg og afkastalítil fyrir núverandi umferðarálag, hvað þá framtíðarálag, sem vex svipað og landsframleiðslan.  Fyrir vikið eru þau hættuleg, og  ótrúlegt slugs við úrbætur er dýrkeypt á formi harmleikja, árekstra án manntjóns og tíma- og eldsneytissóunar í umferðarbiðröðum, sem þar myndast. Skilvirkasta lausnin er sums staðar að grafa fyrir umferðarstokkum og annars staðar að reisa brýr og leggja vegslaufur og koma þannig upp mislægum gatnamótum af mismunandi gerðum eftir aðstæðum.  Mislæg gatnamót munu kosta miaISK 1,0-2,0 per stk.

Til eru þeir, sem líta hvorki á umferðina né þörf fólks fyrir húsnæði sem viðfangsefni tæknilegs og fjárhagslegs eðlis, heldur sem tækifæri til að breyta smekk og lífsvenjum fólks eftir eigin höfði.  Þeir líta talsvert til útlanda eftir lausnum, en átta sig ekki á því, að til að erlendar fyrirmyndir verði raungerðar með árangursríkum hætti hérlendis, verða forsendur að vera sambærilegar hér og þar.

Forræðishyggjusinnar, sem vilja móta lífshætti almennings að eigin smekk og skoðunum, sem mörgum þykja æði forneskjuleg og sérvizkuleg, vilja beina auknum ferðafjölda í strætisvagna með sérakreinum eða jafnvel í járnbrautarlestir. Þessi hugmyndafræði gengur ekki upp, og að reyna það verður dýrt spaug.  Veðurfar á Íslandi gerir þetta óaðlaðandi ferðamáta, og hann er óþægilegri, tímafrekari og jafnvel dýrari en að fara ferða sinna á fjölskyldubílnum.  Sé hann  rafknúinn, þá er hann ódýrari og mengunarminni (per mann) en strætisvagninn. 

Hann er ódýrari að því gefnu, að fjölskyldan telji sig hvort sem er þurfa á einkabíl að halda.  Fjölskyldubíllinn er oft samnýttur kvölds og morgna. Þá er íbúafjöldinn á svæði Borgarlínu alls ekki nægur fyrir arðsaman rekstur hennar, þótt annað væri sambærilegt við útlönd, og má þó einu gilda, hversu mjög borgar- og bæjaryfirvöld rembast sem rjúpan við staurinn við að þétta byggð meðfram henni, með ósanngjarnri og jafnvel óleyfilegri gjaldtöku af húsbyggjendum til að fjármagna gjörsamlega ótímabært verkefni. Sú gjaldtaka er fyrir neðan allar hellur og brottrekstrarsök fyrir þá borgar- og bæjarfulltrúa, sem hana hafa stutt.   

Af þessum sökum hefur hvorki gengið né rekið með að auka hlutdeild strætisvagna í ferðafjölda á höfuðborgarsvæðinu.  Hún er enn 4,0 % af heildar ferðafjölda þrátt fyrir fjáraustur í hítina.  Forsjárhyggjumenn byggja mikla loftkastala nú á undirbúningsstigum s.k. Borgarlínu og gefa sér, að hún dugi til þreföldunar hlutdeildar strætisvagnanna í ferðafjölda.  Þetta er algerlega borin von; það er ekkert, sem styður þessa draumsýn.  Þvert á móti er sama, hversu miklu fé er ausið í þennan félagslega ferðamáta, síðustu árin úr ríkissjóði tæplega 1,0 miaISK/ár, þá metur fólk þægindin og tíma sinn nægilega mikils virði, til að strætisvagnar gegna enn og munu gegna jaðarhlutverki í ferðum á landinu bláa (blauta, kalda og vindasama).

Það er alveg sama, hversu miklu fé verður ausið í Borgarlínu á næstu árum, umferðaröngþveitið á svæði hennar mun ekkert skána, ef engar framfarir verða á núverandi vegakerfi.  Af þessum sökum er verið að dúka hér fyrir peningalega hít og fjárfestingarhneyksli, fullkomna sóun almannafjár.  Þetta er þyngra en tárum taki, því að vegfarendur um allt land hrópa á umbætur á vegakerfinu, og peningarnir koma úr ríkissjóði, nema þar sem einkaframkvæmd verður samþykkt.  Það kemur af þessum sökum ekki til mála, að þingmenn setji Borgarlínu á 12 ára Vegaáætlun.

Í Bandaríkjunum hefur verið áætlað (The Economist 20.01.2018-Jam tomorrow), að umferðaröngþveiti kosti um 500 miaUSD/ár.  Fært yfir á íslenzkar aðstæður eru þetta um 50 miaISK/ár.  Það er hægt að leysa þetta vandamál til 20 ára með fjárfestingu upp á miaISK 20 í mislægum gatnamótum, vegstokkum og fjölgun akreina.  Þetta er svipuð upphæð og skipulagsyfirvöld á höfuðborgarsvæðinu hyggjast setja í fyrsta hluta Borgarlínunnar, og það verður þá að koma frá ríkissjóði, því að borgarsjóður hefur ekkert bolmagn, enda er hann á leiðinni í gjörgæzlu að öllu óbreyttu.

Fé er ekki til fyrir úrelt gæluverkefni á borð við Borgarlínu.  Næsta átak á höfuðborgarsvæðinu á eftir ofangreindri mannvirkjagerð verður að undirbúa göturnar með skynjara- og sendibúnaði til samskipta við sjálfakandi farartæki.  Með vel heppnaðri innleiðingu slíks búnaðar, sem þolir íslenzkar aðstæður, ætti slysatíðni að minnka, nýting gatna að batna og kostnaður vegna tafa að minnka, því að farþegar geta þá nýtt ferðatímann til einhvers nýtilegs.

Fyrrverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Jón Gunnarsson, Alþingismaður, skrifaði grein í Morgunblaðið, 25. janúar 2018, þar sem hann útlistaði fjármagnsþörf vegakerfisins á Vestfjörðum og á Vesturlandi.  Komst hann að þeirri niðurstöðu, að brýn fjárfestingarþörf á Vestfjörðum næmi miaISK 30 og á Vesturlandi miaISK 20, eða alls miaISK 50. Er þá Sundabraut ekki meðtalin.  Heildarfjárfestingarþörf vegakerfis landsins, að höfuðborgarsvæðinu meðtöldu (án Borgarlínu, en með Sundabraut), er þá ekki undir miaISK 250.  Þessar tölur sýna svart á hvítu, að það eru engir peningar til fyrir Borgarlínu.

Grein Jóns,

"Ákall um aðgerðir - Vesturland og Vestfirðir", 

hófst þannig:

"Það er þyngra en tárum taki að horfa upp á ástand þjóðvegakerfisins á Vesturlandi og á Vestfjörðum.  Á þessu svæði er ástandið sennilega hvað verst á landsvísu og brýnust þörf fyrir úrbætur til að fylgja eftir kröfum almennings og atvinnulífs."

Greininni lauk þannig:

"Það er engin þolinmæði hjá almenningi, hvorki á þessu svæði [Vestfjörðum og Vesturlandi] né annars staðar, til að bíða í áratugi eftir þessum framkvæmdum.  Lélegar samgöngur hafa enda mjög hamlandi áhrif á alla uppbyggingu atvinnulífs á svæðinu." 

 Ráðhús Reykjavíkur


Efling Alþingis

Fyrsti kafli Stjórnarsáttmálans á eftir Inngangi heitir "Efling Alþingis".  Þar er þó ekki snert við málaflokki, hvar niðurlæging Alþingis er mest, heldur látið svo heita, að eflingu Alþingis megi helzt verða það til framdráttar, að fá að skipa í margvíslegar þverpólitískar nefndir.  Er óhætt að fullyrða, að þarna er heldur betur sleginn falskur tónn í upphafi téðs sáttmála:

"Á fyrri hluta kjörtímabilsins verða settir á fót þverpólitískir hópar í samráði við viðkomandi fagráðherra, m.a. um stofnun miðhálendisþjóðgarðs, nýsköpunarstefnu, þróun mælikvarða um hagsæld og lífsgæði, orkustefnu, stjórnarskrá, framkvæmd og endurskoðun útlendingalaga og framtíðarnefnd um áskoranir og tækifæri vegna tæknibreytinga."

Það er skrýtið að setja þetta í stjórnarsáttmála, því að í þessari romsu um fyrirhugaðar nefndarskipanir ráðherranna felst engin stefnumörkun.  Það getur varla orðið til eflingar Alþingis, að þingmenn fái að sitja í nefndum eða að koma að skipan slíkra. 

Það gæti t.d. orðið til eflingar Alþingis að fara að ráði Vigdísar Hauksdóttur, fyrrverandi Alþingismanns, að efla lagaskrifstofu Alþingis, sem rýna mundi lagafrumvörp m.t.t. þess, hvort þau kunni að stangast á við stjórnlög eða önnur lög og hvort afnema megi að skaðlausu eldri lög samhliða gildistöku nýrra.

Þá hefur það vafalaust á sínum tíma verið hugsað til eflingar Alþingis, að þingmenn skyldu rýna val dómsmálaráðherra á dómurum, t.d. við Landsrétt, sem mest er í umræðunni nú, og samþykkja val ráðherrans eða að breyta því.  Með því liggur í augum uppi, að þingið, yfirboðari ráðherrans, tekur af honum ábyrgðina, sem hann annars ber samkvæmt Stjórnarskrá.  Í þessu sambandi er þá ekki lengur aðalatriði, hvernig ráðherra komst að niðurstöðu sinni.  Að matsnefndin skyldi ekki veita ráðherranum neitt svigrúm um val, er áfellisdómur yfir ábyrgðarlausri matsnefnd, en ráðherrann sinnti rýniskyldu sinni innan þess þrönga tímafrests, sem henni var settur í lögum.  

Á meðal Alþingismanna má virkja betur sérfræðiþekkingu á ýmsum sviðum með því að efla aðstoð við þá á Alþingi í stað þess að kaupa að rándýra sérfræðiþjónustu. Þetta væri til þess fallið að spara fé og að efla sjálfstæði þingsins.  

Þó yrði eflingu og virðingu Alþingis það mest til framdráttar, ef ákveðið yrði, að nóg væri komið af því að gegna "stimpilhlutverki" á Íslandi fyrir tilskipanir frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, ESB, og fyrir lög frá þingi ESB, s.k. Evrópuþingi, sem er rangnefni.  Á 24 ára skeiði aðildar Íslands að EES-Evrópska efnahagssvæðinu, hefa að jafnaði á hverju ári verið tekin 460 lög í íslenzka lagasafnið og reglugerðir í opinbera reglugerðasafnið hérlendis.  Þetta eru að öllum líkindum meiri afköst en afköst þings og embættismanna í málum af innlendum uppruna.  Þetta flóð frá búrókrötum í Brüssel hefur tekið út yfir allan þjófabálk og gert íslenzka embættismenn að þjónum ESB og svipt íslenzka þingmenn raunverulegu löggjafarvaldi í miklum mæli. 

Hafa ber í huga, að flestar gerðir ESB, sem teknar eru inn í EES-samninginn, hafa kostnað í för með sér fyrir hið opinbera, fyrir atvinnulífið og þar með að lokum fyrir þjóðina alla.  Hversu mikill þessi "skriffinnsku- og eftirlitskostnaður" í raun er, er afar mikilvægt að leggja mat á.  Við þetta þarf að bæta beinum útlögðum kostnaði vegna aðildarinnar að EES-samninginum, og taka þar með ferðir og uppihald vegna s.k. samráðsfunda EFTA og ESB, sem ekki verður séð, að neinu handföstu hafi skilað, ásamt þýðingarkostnaði á 11´000 "gjörðum" á 24 árum.

Þennan kostnað þarf að bera saman við ávinninginn, sem er t.d. fólginn í meintum mismuni á viðskiptakjörum Íslands, Noregs og Liechtenstein við ESB annars vegar og hins vegar kjörum í viðskiptasamningi Svisslands og ESB eða bera saman við nýgerðan viðskiptasamning Kanada við ESB. 

Blekbóndi ætlar hér að gerast svo djarfur að varpa fram þeirri tilgátu, að EES-samningurinn sé fjárhagslega óhagstæðari, svo að hafið sé yfir allan vafa. Með uppsögn EES-samningsins og gerð tvíhliða viðskiptasamnings, sem samningur Kanada og ESB gæti verið fyrirmyndin að, losna þjóðþing Noregs og Íslands við gagnrýni um, að þau brjóti stjórnarskrár landanna með því að taka viðurhlutamiklar gerðir ESB upp í lagasöfn sín.  

Þar er nú að komast í eldlínuna "Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB".  Óhætt er að segja, að hann feli í sér stórfellt fullveldisframsal fyrir bæði Ísland og Noreg, því að með samþykkt hans færa þjóðþingin miðlægri orkustjórnsýslustofnun ESB, sem nefnist því sakleysislega nafni "Agency for the Cooperation of Energy Regulators-ACER" völd yfir raforkuflutningsmálum ríkjanna, þ.e. yfir meginhluta Orkustofnunar og alfarið yfir Landsneti hérlendis.  Út frá hagsmunamati fyrir Ísland og Noreg er þetta allt of langt gengið.  "Þriðji orkumarkaðslagabálkur" ESB er í viðamiklum og áferðarfallegum umbúðum og þjónar sjálfsagt hagsmunum meginlandsríkja Evrópu, en aðstæður í orkumálum Noregs og Íslands eru gjörólíkar aðstæðum á meginlandinu, og hagsmunir þessara tveggja Norðurlands samræmast ekki orkuhagsmunum meginlandsins.  Vonandi átta nægilega margir Alþingismenn sig á því í tæka tíð.    

 

 


EES-samningurinn verður sífellt stórtækari

Þann 23. janúar 2018 voru mótmæli fyrir framan Stórþingsbygginguna í Ósló vegna fyrirætlunar norsku ríkisstjórnarinnar um að fá Stórþingið til að samþykkja Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB inn í EES-samninginn með einföldum meirihluta atkvæða.  Þessi mótmæli sýna, að það getur hitnað í kolunum í Noregi, og þá einnig á Íslandi, ef mörgum finnst, að verið sé að afhenda ESB "erfðasilfrið".  

Norska stjórnarskráin áskilur, að 75 % atkvæða í Stórþinginu þurfi til að samþykkja fullveldisframsal norska ríkisins til yfirþjóðlegrar stofnunar, sé ekki um hefðbundinn þjóðréttarlegan samning að ræða. Ríkisstjórnin skákar í því skjólinu, að fyrirmælin um að framkvæma ákvarðanir ACER (Agency for the Cooperation of Energy Regulators-orkustjórnvaldsstofnun ESB) komi frá ESA-Eftirlitsstofnun EFTA, en ESA verður aðeins ljósritandi milliliður í blekkingarskyni fyrir EFTA-ríkin, sem þannig þurfa ekki að taka við fyrirmælum beint frá ESB, er varða bæði hagsmuni ríkisins, lögaðila og einstaklinga í Noregi, á Íslandi og í Liechtenstein, sem væri skýlaust stjórnarskrárbrot.  

Það er norska verkalýðshreyfingin, sem hélt þennan útifund við þinghúsið, og það var ekki að ófyrirsynju.  Raforka var gerð að markaðsvöru í Noregi með orkulögum árið 1991.  Þeim svipar til íslenzku orkulaganna frá 2003, sem sett voru eftir upptöku Annars orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn að hálfu Alþingis.  Með þessum lögum er raforkan gerð að markaðsvöru í stað þess að vera "þjóðareign", eins og náttúruauðlindirnar, sem nýtt sé landsmönnum um allt land til hagsbóta, ekki sízt til að tryggja byggð um landið allt.  

Þegar Noregur varð hluti af "Nord Pool"-norræna orkumarkaðinum 1993, sem nú spannar einnig Eystrasaltslöndin, myndaðist uppboðsmarkaður fyrir raforku í Noregi. Hann hefur þó ekki haft mjög mikil áhrif, af því að verið hefur offramboð raforku á "Nord Pool" svæðinu.  Seinna var lagður öflugur sæstrengur til Hollands, og í kjölfarið hafa stór iðnfyrirtæki með langtíma samninga um raforku séð sér hag í að draga úr starfsemi sinni og selja orkukaupaheimildir sínar á markaði með umtalsverðum hagnaði.   

Þetta leiddi til uppsagnar starfsfólks og sums staðar til lokunar verksmiðjanna.  Ef ACER nær tangarhaldi á raforkuflutningsmálum Noregs, mun útibú hennar í Noregi, "Reguleringsmyndighet for energi", skammstafað RME, taka við stjórn hluta Orkustofnunar Noregs, NVE, Statnetts, norska Landsnets og raforkumarkaðarins, og fella "Nord Pool" inn í raforkumarkað ESB, enda eru öll aðildarlönd "Nord Pool" innan EES. Þá mun stálbræðsla við Stuttgart geta keypt "græna" orku frá Noregi á meginlandsverði.  Er ekki að efa, að þá mun verða þröngt fyrir dyrum hjá mörgum kotbóndanum í Noregi, er raforkureikningur hans tvö-þrefaldast.

Samkeppnisskilyrði norskra fyrirtækja munu hríðversna, sem auðvitað kemur illa niður á atvinnuástandinu í Noregi, ekki sízt, þar sem undan fæti hallar hjá olíuiðnaðinum.  Það er þess vegna ekki að ófyrirsynju, að norsk verkalýðsfélög skyldu boða til mótmælafundar framan við Stórþingsbygginguna í Ósló 23.01.2018.  

 Í meginatriðum mun hið sama eiga við á Íslandi og í Noregi, ef ACER ákveður, að aflsæstreng skuli leggja á milli Íslands og meginlandsins, hugsanlega með viðkomu á Bretlandi.  Lýðræðislega kjörin stjórnvöld á Íslandi verða ekki virt viðlits varðandi slíkt sæstrengsverkefni, ef í ACER verður tekin sú ákvörðun að auka hlutdeild "grænnar" raforku í ESB með útflutningi raforku frá Íslandi til ESB. Það er einmitt hlutverk ACER að auka raforkuflutninga á milli landa vafningalaust og án tafa að hálfu yfirvalda í hverju landi, sem kynnu að hafa aðra skoðun en meirihlutinn í ACER. 

Völd ACER og útibús hennar á Íslandi verða næg til að skipa Landsneti fyrir verkum um að tengja sæstrenginn og að gera kleift að flytja næga raforku að honum, e.t.v. að afli um 1200 MW, sem er tæplega helmingur aflgetu núverandi virkjana á Íslandi.  

Geta má nærri, að þrýstingur virkjanafyrirtækja um rannsóknar-, byggingar- og starfsleyfi fyrir nýjar virkjanir mun vaxa mjög eftir innleiðingu þessa fyrirkomulags í von um skjótfenginn gróða, sem þó er ekki víst, að vari lengi.  Orkulindirnar hafa að vísu ekki verið teknar eignarnámi eða keyptar með þessu fyrirkomulagi ESB, en ráðstöfunarréttur þeirra hefur verið fluttur úr landi til ACER í Ljubljana, ef Alþingi samþykkir Þriðja orkumarkaðslagabálkinn inn í EES-samninginn.  Hugnast meirihluta Alþingismanna þessi framtíðarsýn ?  Er ekki ráð að staldra við og sjá, hvernig málin þróast í Noregi ?

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband