Færsluflokkur: Dægurmál
17.5.2018 | 10:59
Yfirþjóðleg stofnun leidd til öndvegis
Evrópusambandið (ESB) hefur grafið undan EES-samstarfinu (Evrópska efnahagssvæðið) með því að heimta af EFTA-löndunum í EES, að þau taki við fyrirmælum frá stofnunum ESB, eins og EFTA-löndin væru nú þegar gengin í ESB. Það breytir aðeins forminu, en ekki hinu stjórnlagalega inntaki þessa fyrirkomulags, að ESA - Eftirlitsstofnun EFTA - er látin taka við fyrirmælunum og gera um þau samhljóða samþykktir áður en þau eru send útibúi ESB-stofnunarinnar í EFTA-landinu til framkvæmdar. Útibúið, sem kallað hefur verið landsreglarinn, verður óháð stjórnvöldum landsins og mun móta hér stefnuna í raforkuflutningsmálum þjóðarinnar, verði Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB innleiddur í EES-samninginn.
ESA hefur ekki þegið neinar heimildir til að fjalla efnislega um og breyta fyrirmælum ESB-stofnunarinnar, ACER, og þess vegna er þessi uppsetning lögformlegt fúsk, ætluð til að friða þá, sem enn telja, að EES eigi að starfa samkvæmt upprunalegu tveggja stoða kerfi jafnrétthárra aðila. Tveggja stoða kerfið er sýndarmennska ein og skær. Blekkingariðjan heldur ekki lengur vatni og stenzt ekki Stjórnarskrá. EES-samstarfið er nú byggt á sandi.
ACER (Orkustofnun ESB) hefur nú þegar tekið bindandi ákvarðanir um kostnaðarskiptingu á milli ESB-landa, sem varða upphæðir, er nema hundruðum milljarða ISK. Árið 2014 ákvarðaði ACER kostnaðarskiptingu fyrir gaslögn á milli Póllands og Eystrasaltslandanna, þar sem Lettlandi, Litháen og Eistlandi var gert að greiða sem nemur tugum milljarða ISK til Póllands.
ACER hefur líka vald til að ákvarða nýtingu á flutningsgetu flutningskerfis yfir landamæri. Hún snýst ekki um samningaviðræður, eins og sumir hérlendis hafa látið í veðri vaka, heldur ræður hið yfirþjóðlega vald, ACER, hvernig flutningsgetan er nýtt. Bent hefur verið á þá miklu áhættu, sem slíkt felur í sér fyrir nýtingu og rekstur íslenzka vatnsorkukerfisins, sem hefur tiltölulega litla miðlunargetu og má lítt við miklum sveiflum í vatnsrennsli.
Ef Ísland og ESB-land lenda í orkudeilum, getur ACER úrskurðað í deilumálinu. ACER gjörðin í Þriðja orkubálkii veitir ákvarðanavald eftir nokkrum leiðum:
- Kafli 7 veitir ACER vald til ákvarðanatöku um s.k. tæknileg viðfangsefni. Þannig mun stofnunin ákveða reglurnar um aflflutning um sæstrengina. Þetta felur í sér mikla áhættu fyrir íslenzka raforkukerfið, sem þarf stjórnunar við til að lágmarka hér hættu á raforkuskorti, og til að girða fyrir of snöggar breytingar á lónsstöðu eða vatnsrennsli.
- Kafli 8 veitir ACER völd til að úrskurða í deilumálum stofnana eða fyrirtækja í þjóðríkjunum, eða, ef stofnunin telur vera of litla flutningsgetu í sæstrengjum, loftlínum eða gasrörum á milli landa, að fyrirskipa þá nauðsynlegar umbætur, sem oftast felast í nýjum mannvirkjum. ACER getur ákveðið, hver skal greiða hvað í samstarfsverkefni tveggja eða fleiri landa.
Ísland mundi ekki eiga aðild að ACER með atkvæðisrétti. Við aðild að Orkusambandinu yrði Ísland hins vegar bundið af samþykktum ACER. Í tilviki EFTA-landanna yrði sett á laggirnar kerfi, þar sem Eftirlitsstofnun EFTA-ESA- að forminu til á að gera samþykktir á vegum ACER, en samþykktin verður skrifuð hjá ACER og ljósrituð hjá ESA. Þannig er komið fyrir "tveggja stoða kerfinu". Þetta er dæmigerð sniðganga á upprunalegu tveggja stoða kerfi EFTA og ESB og dæmir EES-samninginn raunverulega úr leik.
Samþykkt ESA fer síðan til nýrrar valdsstofnunar á sviði orkumála, sem Norðmenn kalla RME hjá sér, "Reguleringsmyndighet for energi", sem samkvæmt regluverki ESB verður að vera óháð innlendu stjórnvaldi. Nýja orkuvaldsstofnunin, sem kalla má útibú ACER á Íslandi, á að taka við fyrirmælunum frá ESA og framkvæma þau upp á punkt og prik; hvorki ríkisstjórnin né Alþingi getur sent henni nein tilmæli, hvað þá fyrirmæli. Með þessu móti komast fyrirmæli ACER um milliliði óbreytt til íslenzkra aðila. Yfirþjóðleg stofnun, þar sem Ísland ekki er aðili, yrði einráð á mikilvægu málefnasviði á Íslandi. Á slíkt að verða gjöf Alþingis til þjóðarinnar á 100 ára afmælisári fullveldis hennar ? Er það draumsýn iðnaðarráðherra og utanríkisráðherra ? Það eru endemi að þurfa að varpa slíku fram, en málflutningur að hálfu ráðuneyta þeirra gefur því miður tilefni til þess.
Aðrir þættir í Þriðja orkumarkaðslagabálkinum, þ.e. gjörð 714/2009 um raforkuflutning á milli landa, felur í sér valdflutning frá íslenzkum stjórnvöldum til ESA gagnvart einkaaðilum um það að sækja upplýsingar og sekta, ef upplýsingaskyldan er sniðgengin. Þetta veitir ESA stöðu stjórnvalds á Íslandi, sem er klárt Stjórnarskrárbrot.
Það er alveg makalaust, að fulltrúi Íslands í sameiginlegu EES-nefndinni skyldi hafa verið látinn samþykkja þessi ósköp 5. maí 2017 í Brüssel. Það á eftir að kasta ljósi á það, hvernig það fór fram, og hverjir komu þar við sögu. Augljóslega verður Alþingi að synja slíkum mistökum samþykkis. Hér verður einfaldlega að fórna minni hagsmunum fyrir meiri.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.5.2018 | 21:34
Skýr vísbending um þjóðarvilja
Maskína gerði 24. apríl - 7. maí 2018 könnun á viðhorfi landsmanna til tiltekins atriðis við stjórnun orkumála Íslendinga. Spurningin var eftirfarandi:
"Ertu fylgjandi eða andvíg(ur) því, að aukið vald yfir orkumálum á Íslandi verði fært til evrópskra stofnana ?"
Gild svör voru 685 (81 %) af 848 í s.k. Þjóðgátt Maskínu.
Niðurstaðan varð eftirfarandi:
- Mjög andvíg 57,4 %
- Fremur andvíg 23,0 %
- Í meðallagi 11,3 %
- Fremur fylgjandi 4,5 %
- Mjög fylgjandi 3,8 %
- Veit ekki 16,4 %
Margt vekur athygli við þessa niðurstöðu:
a) Andvígir nema 80,4 %
b) Fylgjandi nema aðeins 8,3 %, sem er miklu lægra hlutfall en í svipaðri könnun í Noregi í vetur, sbr að neðan.
c) Þeir, sem myndað hafa sér skoðun á málinu, eru merkilega margir og hlutfallslega umtalsvert fleiri hérlendis en í Noregi í nóvember 2017 og apríl 2018.
d) Andstaðan er mjög mikil um allt land við að færa aukið vald yfir orkumálum landsmanna til útlanda. Enginn reyndist fylgjandi því á Vesturlandi og Vestfjörðum, sem ásamt Norðurlandi vestra eru í kjördæmi iðnaðarráðherra. Hróðug birti iðnaðarráðherra minnisblað fyrrverandi framkvæmdastjóra hjá ESA, sem átti að sýna fram á, að nánast engu mundi breyta fyrir íslenzka stjórnsýslu, þótt Ísland gengi í Orkusamband ESB. Þetta hefur verið hrakið rækilega, og líklegt er, að ráðherrann njóti nánast einskis fylgis í kjördæmi sínu við þetta sjónarmið, sem hún gerði að sínu. Afstaða hennar og annarra þingmanna sama sinnis var pólitískt glapræði. Það er þó hægt að rétta kúrsinn af enn þá, því að enn hefur Alþingi ekki afgreitt Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB.
Ýmsum getur þótt athyglisvert að sjá skiptingu fólks, sem lýsti sig fylgjandi færslu aukins valds yfir orkumálefnum landsins til útlanda, eftir stjórnmálaflokkum. Það mætti verða þingmönnum leiðarvísir, þegar þeir munu taka endanlega afstöðu til málsins. Hér að neðan kemur fram hlutfallslegt fylgi við 8 stjórnmálaflokka, sem svarendur í þessari könnun nefndu, og hlutfall þeirra, sem fylgjandi voru umspurðri valdatilfærslu orkumálanna til "evrópskra stofnana":
- Stjórnmálaflokkur Fylgi Fylgjandi
- Sjálfstæðisflokkur 29,5 % 2,8 %
- Samfylking 17,2 % 18,6 %
- Vinstri hr.gr.fr. 12,1 % 0,0 %
- Píratahreyfing 11,7 % 18,7 %
- Viðreisn 9,7 % 18,4 %
- Miðflokkur 8,7 % 1,4 %
- Framsóknarflokkur 8,1 % 0,0 %
- Flokkur fólksins 3,0 % 6,3 %
Niðurstaðan varð óræk. Í stjórnarflokkunum er lítið sem ekkert fylgi við að færa stjórnun raforkumála að einhverju leyti til útlanda. Fylgi við það er nánast einvörðungu bundið við Píratahreyfinguna, Samfylkinguna og Viðreisn, en þar er samt undir fimmtungi fylgisins fylgjandi slíku.
Í heildina eru 8,3 % fremur eða mjög fylgjandi slíkum valdatilflutningi, 11,3 % eru beggja blands og 80,4 % eru fremur eða mjög andvíg slíkum valdatilflutningi, en 16,4 % vita ekki.
Í nóvember 2017 var gerð svipuð skoðanakönnun í Noregi, en þar var spurningin þessi:
"Eftirlitsstofnun ESA í Brussel á að taka bindandi ákvarðanir á vegum Orkustofnunar ESB um norskt rafmagn og orku. Styður þú aðild Noregs að þessu orkusambandi ?"
Niðurstaðan varð, að 18 % styddu, 38 % væru óákveðnir og 44 % styddu ekki slíkan gerning. Samanburður sýnir, að Íslendingar eru miklu afdráttarlausari í afstöðu sinni gegn slíkum gerningi, og þeir virðast líka í mun meiri mæli en Norðmenn hafa nú þegar tekið afstöðu til málsins, þótt umræður á Alþingi hafi ekki hafizt. Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur þó a.m.k. tvisvar tjáð sig í ræðustóli Alþingis afdráttarlaust gegn flutingi valds yfir innlendum málefnum til yfirþjóðlegra stofnana, þar sem Ísland ekki á fulla aðild. Lítils háttar umræða hefur orðið um Orkustofnun ESB á flestum fjölmiðlunum og á fáeinum vefsetrum. Íslenzkur almenningur er greinilega vel með á nótunum.
Það kann jafnframt að vera að renna upp fyrir æ fleirum hérlendis um þessar mundir, að þróun EES-samstarfsins hefur nú tekið allt aðra og óheillavænlegri stefnu en nokkur átti von á í upphafi. Segja má, að svartsýnustu menn hafi ekki órað fyrir því í janúar 1993, þegar Alþingi samþykkti þennan samning í miklum ágreiningi, að EFTA-ríkin yrðu aldarfjórðungi seinna meðhöndluð sem ESB-ríki af Framkvæmdastjórn ESB. Þegar núverandi eðli þessa samstarfs, og margvíslegur kostnaður því samfara, hefur verið leitt betur í ljós og þetta allt saman borið saman við viðskiptakjör, sem bjóðast með fríverzlunarsamningum við ESB og Bretland o.fl., þá verður tímabært að halda hér alvöru skoðanakönnun á formi þjóðaratkvæðagreiðslu um afstöðuna til áframhaldandi aðildar landsins að EES-samninginum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
9.5.2018 | 10:30
Prófsteinninn á stórborgarstjórn er skipulag samgangna
Það er hægt að leggja ýmsar mælistikur á árangur stjórnkerfis stórborgar, en einn þeirra er vafalaust, hvernig tekst að sinna ferða- og flutningaþörf íbúa borgarinnar og þeirra, sem þangað eiga erindi. Skipulag samgönguinnviða er þar lykilatriði. Þegar litið er á þróunina síðustu 4 árin, á kjörtímabilinu, sem nú er að renna sitt skeið, er vart annað hægt en að gefa núverandi valdhöfum borgarinnar falleinkunn fyrir hálfkák, lélega þjónustu og kolranga forgangsröðun fjármuna og verkefna.
Meðalferðatíminn í Reykjavík hefur á tímabilinu 2014-2018 lengzt um 26 % eða um 6 % á ári að jafnaði. Í lok næsta kjörtímabils, 2022, mun hann með sama áframhaldi hafa lengzt um 60 %, og árið 2026 mun hann hafa tvöfaldazt. Þetta er auðvitað óviðunandi öfugþróun fyrir alla vegfarendur á höfuðborgarsvæðinu, en m.v. málflutning og stefnumið Dags B. Eggertssonar og Hjálmars Sveinssonar, sem eru hinir pólitísku ábyrgðarmenn þessarar stefnu borgarinnar og báðir í framboði fyrir Samfylkinguna í borginni í kosningunum 26. maí 2018, mun þessi óheillaþróun halda áfram með sívaxandi hraða og tvöföldun ferðatíma sennilega verða náð fyrir 2026, t.d. vegna fáránlegra fyrirætlana um þrengingu mikilvægra umferðaræða vegna Borgarlínu.
Þeir félagar hafa engin önnur áform uppi til úrbóta á umferðaröngþveitinu en ófjármagnaða draumsýn um mia ISK 100 Borgarlínu, sem ekkert bætir úr skák og er að verða úrelt hugmynd vegna tækniþróunar 21. aldarinnar, og að setja Miklubraut í stokk, sem kosta mundi um miaISK 20. Hér er um að ræða stofnbraut á vegum ríkisins, og framkvæmdin er ekki á 12 ára Vegaáætlun þingsins. Þess vegna mun ekkert verða úr þessu hjá Degi & Co.
Reykjavíkurborg mun að óbreyttu lenda í fjárhagslegri gjörgæzlu tilsjónarmanns ríkisins 2022 og ekki hafa neitt fjárhagslegt olnbogarými til fjárfestinga á borð við neðanjarðar stokka fyrir bílaumferð.
Þessir pólitísku stjórnendur skipulagsmála Reykjavíkur hafa sett á svið það fáránleikaleikhús að hafna öllum meiriháttar fjárfestingum ríkisins í samgöngubótum höfuðborgarinnar. Þetta var gert með því að fjarlægja allar brýr fyrir mislæg gatnamót af Aðalskipulagi borgarinnar. Þannig var t.d. girt fyrir umbætur, sem Vegagerðin var tilbúin að fara út í á mótum Bústaðavegar og Reykjanesbrautar. Þetta er alveg dæmalaust framferði, og aðeins forpokaðir rauðliðar geta gert sig seka um annað eins.
Þegar íbúar kvarta undan þéttingu byggðar og skorti á bílastæðum, t.d. í grennd við Útvarpshúsið, og óska eftir viðtali við Borgarstjóra, er þeim svarað með skætingi um, að þeir geti komizt leiðar sinnar á reiðhjólum eftir nýlögðum hjólreiðastígum, t.d. þar sem áður var tvíbreiður Grensásvegur. Hér er um óboðlega embættisfærslu að ræða. Svona yfirvöld, gjörsamlega úr tengslum við raunveruleikann og þarfir íbúanna, eru náttúrulega ekki á vetur setjandi. Því miður hafa þau nú þegar með fíflagangi valdið óafturkræfu tjóni, og það verður að slá forkólfana af í næstu sveitarstjórnarkosningum og síðan að grisja stjórnkerfið, sem þanizt hefur út samkvæmt lögmáli Parkinsons, þ.e. þjónustan við borgarana versnar um leið og kostnaður "miðlægrar stjórnsýslu", sem enginn hefur yfirsýn yfir, vex úr hófi.
Hvað gæti tekið við ? Eyþór Arnalds gerði stuttlega grein fyrir því í Morgunblaðsgrein 24. apríl 2018, "Okkar lausnir í Reykjavík":
"Við leggjum til fjölþættar aðgerðir til að leysa þennan vanda [umferðarinnar]: fækka ljósastýrðum gatnamótum [væntanlega með hringtorgum og mislægum gatnamótum-innsk. BJo], bæta [umferðar]ljósastýringu, [Komið hefur fram, að Reykjavík á tölvubúnað til miðlægrar stýringar umferðarljósa, en hefur trassað að setja hann upp og tengja-innsk. BJo.], efla almenningssamgöngur. [Án stalínistískra randýrra framkvæmda á borð við Borgarlínu, sem er tímaskekkja og verður fjárhagsleg hengingaról fyrir þann, sem fjármagnar fyrirbærið-innsk. BJo.] Bæta borgarskipulagið þannig, að fleiri stofnanir og fyrirtæki fái lóðir austar í borginni. [Þetta er liður í því að draga úr tveimur álagstoppum í umferðinni, sem vara alls í allt að 4 klst á virkum dögum-innsk. BJo.] Allt þetta mun hafa stórbætandi áhrif á umferðina og þar með stytta vinnuvikuna, enda fer allt of mikill tími í tafir."
Bara það, að borgarstjóraefni D-listans skuli sýna vandamálinu skilning og leggja fram raunhæfar hugmyndir að úrbótum, getur gefið kjósendum von um, að raunhæfur möguleiki sé á að snúa hnignun borgarinnar upp í blómaskeið, ef "rauðu khmerunum" verður veitt lausn frá störfum, sem þeir ráða alls ekki við.
Ef innanlandsflugið verður eflt með því að búa því sómasamlegan og tryggan sess á Vatnsmýrarvellinum í Reykjavík og lækka á því opinber gjöld, þá getur það dregið úr landumferð og eflt bæði landsbyggð og höfuðborg. Þessu sýnir Samfylkingin engan skilning, heldur hefur um langt árabil sýnt innanlandsfluginu banvænan fjandskap. Það mun aðeins starfa í mýflugumynd, ef stefna hennar um lokun Reykjavíkurflugvallar eigi síðar en 2024 nær fram að ganga. Fái D-listinn í Reykjavík nægilegt traust í komandi borgarstjórnarkosningum, mun hann snúa bökum saman við ríkisvaldið um framtíð Vatnsmýrar.
Guðni Ágústsson, fyrrverandi Alþingismaður og ráðherra, reit 26. apríl 2018 grein í Morgunblaðið, sem hann nefndi:
"Verður Reykjavíkurvöllur hrakinn burt og allt flug laskast ?":
"Það hefur verið ömurlegt að fylgjast með valdhroka meirihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur undir forystu Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra, gagnvart flugvelli allra landsmanna í Vatnsmýrinni. Og í rauninni fáheyrt, hvernig ríkisstjórn og Alþingi hafa án aðgerða horft á, hvernig verið er að þrengja að fluginu með því að ætla að byggja rándýr íbúðarhverfi allt í kringum völlinn. Einn daginn verður svo hrópað: "Það er lífshætta að lenda flugvélum í Reykjavík, flugið verður að fara strax !"
Skipulagsvaldið er í höndum sveitarfélaganna, en um það eru mörg fordæmi, að þegar um almannahagsmuni er að ræða, eins og í þessu tilviki, þá leyfir Stjórnarskráin Alþingi að grípa til sinna ráða, ef gjörðir sveitarfélagsins stangast á við almannahagsmuni. Þess vegna væri réttmætt, að Alþingi myndi setja lög um Reykjavíkurflugvöll til að festa þar 3 flugbrautir í sessi til framtíðar, enda hafa mælingar sýnt, að skýr meirihluti er í öllum kjördæmum landsins fyrir áframhaldandi starfsemi hans.
""Völlurinn gegnir mikilvægu öryggishlutverki fyrir flugsamgöngur landsins sem bezti varaflugvöllur millilandaflugsins." [Þetta hefur Guðni eftir Ingvari Mar Jónssyni, flugmanni, og efsta manni á lista Framsóknarflokksins í Reykjavík.] Hann segist oft sem flugmaður hafa stefnt þotunni frá ófærum Keflavíkurflugvelli í skjólið í Vatnsmýrinni og skilað farþegunum heilu og höldnu heim."
Ekki má gleyma ómetanlegri nytsemi flugvallarins fyrir sjúkraflugið í landinu. Flugvöllurinn er steinsnar frá miðstöð bráðalækninga í landinu, Landsspítalanum, ásamt beztu Fæðingardeild landsins og annarri öflugri heilbrigðisþjónustu. Það er ekki hægt að umbera slíkt ábyrgðarleysi, sem felst í að gera hlut þess fólks enn verri með stjórnvaldsákvörðun, sem lífsnauðsynlega þarf að komast fljótt undir læknishendur við beztu skilyrði, sem landið býður. Ábyrgðarleysið felst í að loka Reykjavíkurflugvelli, sem er einhver versta stefnumörkun sveitarfélags gegn almannagagsmunum í manna minnum.
Í lok greinarinnar birtist ákall Guðna til landsmanna um þetta efni:
"Ég bið alla landsmenn að hugleiða, hvers virði flugvöllurinn er öllu flugi og mannslífum í háska stöddum. Flugvöllurinn er enn stærra kosningamál en nokkru sinni; nú snýst það um, hvort hann verður hrakinn eða ekki hrakinn á braut. Brotavilji og ásetningur Dags B. Egertssonar og hans manna er einbeittur gegn flugvellinum, og þar með er allt flug í landinu sett í uppnám."
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.5.2018 | 11:03
Nýstárleg kenning um nytsemi ACER
"ACER og þriðji orkumálapakki Evrópusambandsins" er yfirskrift Morgunblaðsgreinar eftir Skúla Jóhannsson, verkfræðing, þann 24. apríl 2018. Það er ætíð fengur að greinum Skúla. Hann hefur t.d. ritað í Morgunblaðið um aflsæstreng til Skotlands og sýnt fram á, að undir því verkefni hefur ekki verið viðskiptagrundvöllur hingað til. Nú er vitað, að úr sjóðum ESB hafa komið styrkir til samtengiverkefna á orkusviðinu, sem eru í Kerfisþróunaráætlun ESB. Það er einnig vitað, að á forgangslista ESB um samtengiverkefni er "Ice Link", sem er samtenging íslenzka og skozka raforkukerfisins, eins og "NorthConnect", sem á að tengja saman norska og skozka kerfið. Sá strengur er mörgum Norðmönnum þyrnir í augum, því að þeir óttast, að með honum verði vatnsorkuforða Noregs eytt og þar með hækki raforkan í Noregi mikið í verði.
Skúli Jóhannsson hefur líka í Morgunblaðsgrein sýnt fram á, að tal Landsvirkjunar um vatnsmiðlunarorku, sem ekki náist að nýta með núverandi virkjunum, er mjög orðum aukið, og erum við á sama máli um þessi efni.
Nú bregður hins vegar svo við, að við Skúli erum á öndverðum meiði varðandi það, hvort Alþingi eigi að hafna eða samþykkja innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn. Ég hef á þessu vefsetri margoft, svo og tvisvar í Morgunblaðinu, rakið, hvers vegna Alþingi á að hafna þessum gjörningi, svo að nú er bezt að velta fyrir sér þeim rökum, sem Skúli færir fyrir hinu gagnstæða.
Hann leitar reyndar til Noregs og til þeirra, sem studdu inngöngu Noregs í Orkusamband ESB. Þeir urðu ofan á í Stórþinginu 22. marz 2018, en sú skoðun virðist samt aðeins njóta stuðnings um 10 % þjóðarinnar samkvæmt skoðanakönnunum. Þar er gjá á milli þings og þjóðar, sem aldrei er gott fyrir lýðræðið í stórmálum, sem m.a. snerta Stjórnarskrána.
Skúli tiltekur 6 atriði úr norsku umræðunni og heimfærir hingað. Fyrst telur hann þó, að "töluvert flókin staða gæti komið upp, ef Ísland hafnaði ACER eftir samþykkt Norðmanna." Í EES-samninginum er þó gert ráð fyrir, að til höfnunar löggjafans í einu aðildarlandi geti komið, og þar er útlistað, til hvaða gagnaðgerða ESB má grípa í slíkum tilvikum. Þær eru þess eðlis, að hagkerfum og viðskiptum EFTA-landanna stafar engin ógn af. ESB gæti reyndar sagt EES-samninginum upp í refsingarskyni, en til þess þarf samþykki allra ríkjanna 28, sem er mjög hæpið að náist.
- "ACER fjallar ekki um, hvort eigi að leggja sæstreng frá Íslandi til Bretlands. Ákvörðun um það er alfarið á hendi íslenzkra stofnana, sem til þess eru bærar." ACER og ENTSOE, samtök raforkuflutningsfyrirtækja í Evrópu, hafa þegar fjallað um og lagt til, að "Ice Link", sæstrengur á milli Íslands og Skotlands, verði lagður og gangsettur árið 2027. Verði Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn leiddur í lög hér, mun það fela í sér skuldbindingu íslenzkra yfirvalda til að framfylgja Kerfisþróunaráætlun ESB, þar sem "Ice Link" er eitt verkefnanna. Völd íslenzkra yfirvalda á raforkuflutningssviði verða eftir inngöngu Íslands í Orkusamband ESB aðeins form án innihalds.
- "ACER fjallar ekki um rekstur raforkusæstrengja milli landa, þ.e. hvaða straumur er sendur hverju sinni og í hvaða átt. Það ákvarðast eingöngu af framboði og eftirspurn í einstökum aðildarríkjum, sem þau hafa full tök á sjálf." Eigendur sæstrengsins, sem að hluta gætu verið Landsnet og National Grid á Bretlandi eða dótturfélög þeirra (Landsvirkjun eða aðrir beinir aðilar á orkumarkaði mega þó ekki koma að eignarhaldi orkuflutningsmannvirkja) munu reyna að koma sér saman um rekstur mannvirkjanna, t.d. hversu stór hluti flutningsgetunnar verður nýttur undir hin ýmsu samningsform, t.d. árssamninga, vikusamninga, sólarhringssamninga og augnabliksafl. Ef samkomulag tekst ekki, fer deilan til úrskurðar hjá ACER. Öryggismörk um varaforða orku í miðlunum á Íslandi koma einnig til úrskurðar ACER, ef ekki næst samkomulag. Elías B. Elíasson, verkfræðingur, benti í Morgunblaðsgrein sinni 28.04.2018, "Á að stofna nýja Orkustofnun til að gera ekkert ?", á þá hættu, sem blasir við íslenzkum orkubúskapi, ef sæstrengur verður lagður eftir inngöngu Íslands í Orkusamband ESB. "Samningar um sæstreng eru hreint út sagt óðs manns æði hafandi lögfestingu þriðja áfangans á bakinu.", skrifaði hann.
- "ACER fjallar ekki um að hækka orkuverð til almennings á Íslandi, við ákveðum það sjálf. Við munum áfram sem hingað til taka þátt í þróun raforkumarkaða með ACER, þar sem verðlagning á losun gróðurhúsalofttegunda skiptir mestu máli." Með Ísland á raforkumarkaði ESB mun verðið ráðast í samningum aðila á markaði, orkuseljenda á Íslandi og kaupenda annars staðar í EES, þegar flutt er út, og öfugt, þegar flutt er inn. Þar sem Skúli vitnar til Noregs, má geta þess, að bæði fylgjendur og andstæðingar inngöngu Noregs í Orkusamband ESB voru þeirrar hyggju, að sú innganga mundi hafa í för með sér raforkuverðshækkun. NVE (norska OS) áætlaði þriðjungshækkun á verði frá virkjun, og Statnett þarf að fjárfesta mikið, e.t.v. um miaNOK 22 í flutningsmannvirkjum, aðallega loftlínum, að nýjum sæstrengjum, t.d. NorthConnect. Slíkt hækkar flutningsgjaldið hjá Norðmönnum sjálfum. Raforkuverðhækkun á Íslandi verður sennilega mun meiri, allt að tvöföldun heildarrafmagnsverðs, þar sem Ísland var ótengt áður og hér er miðlunargeta lóna hverfandi í samanburði við Noreg. Um hækkanir í Noregi sagði Sigbjörn Gjelsvik, Stórþingsmaður í viðtali á RÚV 17.04.2018: "Stefnt er að því að útrýma svo kölluðum flöskuhálsum í orkuflæðinu, sem mun þrýsta á Noreg að leggja fleiri sæstrengi, og það mun valda hækkun á orkuverði. Það hefur svo áhrif á samkeppnisstöðu iðnfyrirtækja í Noregi." Elías B. Elíasson var sama sinnis fyrir Ísland í tilvitnaðri grein sinni.
- "ACER fjallar ekki um framsal á forræði í eftirliti með raforkumálum á Íslandi til EBE, það verður áfram sem hingað til hjá Eftirlitsstofnun EFTA, sem nefnd er ESA ("EFTA Surveillance Authority")." Á opnum fundi í Valhöll í vor á vegum Atvinnuveganefndar Sjálfstæðisflokksins lýsti lagaprófessor Stefán Már Stefánsson efasemdum sínum um, að þetta fyrirkomulag með ESA sem millilið fyrir stofnanir ESB héldi gagnvart Stjórnarskrá Íslands. ESA er þarna leppur án nokkurra heimilda til að breyta fyrirmælum frá ACER. ESA í þessu hlutverki er blekkingarfyrirbæri til að draga dul á Stjórnarskrárbrot. Stimplarnir frá ESA mundu sennilega ekki halda gagnvart dómstólum. Í þessu sambandi er rétt að minna á ummæli Sigbjörn Gjelsvik í fyrrnefndum útvarpsþætti, Speglinum: "Það, sem er nýtt í sambandi við orkustofnunina ACER, er, að hún getur tekið ákvarðanir í ágreiningsmálum, sem ganga þvert á hagsmuni Noregs."
- "ACER fjallar ekki um framsal á forræði yfir íslenzkum virkjunum til EBE, hvorki hvað varðar byggingu nýrra virkjana né rekstur þeirra." Þetta er aukaatriði í sambandi við Orkusamband ESB, því að forræðisréttur raforkunnar mun flytjast frá lýðræðislega kjörnum íslenzkum fulltrúum til raforkumarkaðar ESB undir eftirliti ACER. Þar að auki er ómögulegt að segja, hvernig völd ACER munu þróast. Þau munu líklegast aukast með Fjórða orkumarkaðslagabálki ESB, 4000 blaðsíðna doðranti, sem nú er í smíðum.
- "ACER fjallar ekki um aukið álag á vatnsaflsvirkjanir, sem gæti haft spillandi umhverfisáhrif, t.d. með því að breyta vatnsstöðu í miðlunum tíðar og meira." ACER vill fá endurnýjanlega og umhverfisvæna raforku frá Íslandi inn á stofnkerfi meginlandsins (frá Bretum) til að fylla upp í eyður framboðsins, sem verða, þegar lygnir og dregur fyrir sólu þar. Þá hækkar verðið þar og tilhneigingin verður að keyra hámarksafl frá Íslandi og Noregi inn á stofnkerfi meginlandsins. Þetta hlýtur að leiða til hraðari lækkunar í miðlunarlónum en þekkzt hefur hér og síðan hækkunar nóttina eftir, þegar orka verður flutt inn um strenginn.
Nýstárlegastan við tilvitnaða grein Skúla Jóhannssonar verður að telja eftirfarandi texta:
"Hér á landi er hvorki geta né skilningur á því að halda uppi fullnægjandi gæðastjórnun í raforkukerfinu, og samstarf við stærra og viðurkennt batterí, eins og ACER, væri bara af hinu góða. Við ráðum varla við að þróa allt frá botni og viðhalda í síbreytilegum heimi."
Það er ekki ljóst, hvað Skúli er að fara með þessari hörðu gagnrýni á starfsmenn raforkugeirans, sem væntanlega beinist aðallega að Landsneti og Orkustofnun. Það vantar frekari skýringar, til að hægt sé að nýta þessa gagnrýni á uppbyggilegan hátt.
Gæði rafmagns spanna venjulega afhendingaröryggi og spennugæði. Þessir þættir eru í viðunandi ástandi hérlendis m.v. lítið kerfi með lágt skammhlaupsafl, nema á Vestfjörðum, og með Hvalárvirkjun og hringtengingu Vestfjarða eygja menn viðunandi úrbætur þar. Eitt er víst, að aflsæstrengur mun hvorki auka afhendingaröryggi né spennugæði á Vestfjörðum.
Hins vegar munu spennugæðin um land allt líklega versna, því að afriðlastöð og áriðlastöð, sem verða á milli sæstrengs og flutningskerfisins, eru gríðarlegir truflanavaldar (yfirsveiflur - "harmonics") í litlu raforkukerfi, eins og því íslenzka, þar sem skammhlaupsaflið við tengistaðinn verður e.t.v. aðeins tvöfalt hærra en hámarksafl sæstrengsins. Allir rafmagnsnotendur á landinu munu verða varir við það, þegar mikið sæstrengsálag hrekkur út.
Í íslenzka raforkugeiranum starfar hæft fólk með margháttaða menntun og reynslu, sumir gagnmenntaðir á sviði rafmagnsverkfræði og eru í samstarfi við kollega sína erlendis, t.d. á Norðurlöndunum innan Nordel og Nordpool. Höfundur þessa pistils hefur þess vegna ekki hugmynd um, hvað Skúli Jóhannsson á við með orðunum: "Hér á landi er hvorki geta né skilningur á því að halda uppi fullnægjandi gæðastjórnun í raforkukerfinu ... ", og lausnin, sem hann bendir á, er fráleit að dómi þessa blekbónda.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.4.2018 | 18:19
Fundur í Valhöll um ACER-málið 10.04.2018
Sjálfstæðisflokkurinn lætur ekki embættismannakerfið mata sig á upplýsingum um flókin mál, til þess síðan að gleypa þær hráar, þótt þær séu ættaðar innan úr EES-samstarfinu. Af málflutningi utanríkisráðuneytisins er þó ljóst, að ráðuneytið ætlaðist til, að þingsályktunartillaga þess rynni gagnrýnislítið gegnum Alþingi. Embættismönnum verður þó ekki kápan úr því klæðinu, og þeir komast ekki upp með að dreifa hálfsannleika um "óbreytt ástand", sem við nánari skoðun er í raun formið eitt, því að inntak valdaframsals ESB/EES landanna til Framkvæmdastjórnarinnar og stofnana hennar er einmitt að miðstýra ákvarðanatöku um hvern málaflokkinn á fætur öðrum. Dæmi um stórgallaða upplýsingagjöf embættismannakerfisins er minnisblað fyrrverandi framkvæmdastjóra Eftirlitsstofnunar EFTA-ESA til iðnaðarráðherra, dags. 12. apríl 2018, en útdráttur ráðherra úr því hefur verið veginn og léttvægur fundinn á þessu vefsetri.
Ef embættismenn í þessum tveimur íslenzku ráðuneytum hefðu haft örlítið víðara sjónarhorn, hefðu þeir lagt saman 2+2 og áttað sig á, út frá látunum, sem urðu út af þessu máli í Noregi, og afstöðu meirihluta Alþingismanna til ESB, að ekki mundi duga að beita hér blekkingum og hálfsannleika. Þeir bitu höfuðið af skömminni með hræðsluáróðri um tjón Norðmanna, ef þeir kæmust ekki í Orkusamband ESB. Embættismennirnir virðast vera ólesnir um það, sem nákvæmlega er fyrirskrifað í EES-samninginum, að við taki eftir synjun þjóðþings. Þar eru viðskiptalegar refsiaðgerðir sannarlega ekki á dagskrá.
Landsmálafélagið Vörður og Atvinnuveganefnd Sjálfstæðisflokksins héldu fróðlegan fund um Orkusamband og Orkustofnun ESB, ACER, 10. apríl 2018. Fundarstjóri var formaður þingflokks sjálfstæðismanna, Birgir Ármannsson, og frummælendur voru Óli Björn Kárason (ÓBK), Alþingismaður, Stefán Már Stefánsson, lagaprófessor við HÍ, og Elías B. Elíasson, fyrrverandi sérfræðingur hjá Landsvirkjun.
Það er næsta víst, að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins leggur sig í framkróka við að komast til botns í því, hvort hagsmunum Íslands muni verða betur borgið innan eða utan Orkusambands ESB. Var ekki annað á ÓBK að heyra en hann hefði gert upp hug sinn um það, að Íslendingar ættu ekkert erindi inn í þetta Orkusamband, enda snertir það ekki "frelsin fjögur" á Innri markaði EES, sem EES-samningurinn upphaflega var gerður til að þjóna. Verður að vona, að sú verði niðurstaða þingflokksins af frekari umræðum um málefnið þar. Er einkar hrósvert, hvernig þingmenn sjálfstæðismanna hafa fengizt við þetta viðfangsefni.
ÓBK taldi ennfremur, að orkumálin hefðu ekkert erindi átt inn í EES-samninginn, enda voru þau utan hans í fyrstu. Hann er meira en nógu viðamikill og þunglamalegur að fylgja honum, þótt þar séu aðeins málefni, er varða frelsin fjögur. Blekbónda dettur í hug, að hin EFTA-ríkin í EES-samstarfinu hafi verið þess fýsandi að taka orkumálin með, þegar ESB þrýsti á um það, og íslenzk yfirvöld á sínum tíma látið það eftir þeim, enda hafa Noregur og Liechtenstein nú samþykkt innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins í EES-samninginn, en ýmislegt bendir til, að Alþingi muni snúa þeirri ákvörðun við, þótt blikur séu á lofti.
Stefán Már Stefánsson var annar frummælenda. Hann benti á fjölmörg atriði varðandi EES-samninginn frá upphafi og þó einkum við þróun hans, sem orka tvímælis m.t.t. Stjórnarskrár lýðveldisins. Hann benti á, að enginn hefði getað séð þróun EES-samningsins fyrir og að enn sé þróun hans algerlega ófyrirsjáanleg. Það vantar s.k. gagnsæi, sem þýðir, að menn vita ekkert, hvað þeir eru að samþykkja. Þetta á t.d. við um Orkusamband ESB, en málsvarar þess, t.d. í Noregi, vilja auka völd Orkustofnunar ESB, ACER, enn, og nú er í bígerð hjá ESB Fjórði orkumarkaðslagabálkurinn upp á 4000 blaðsíður, þannig að þetta er sagan endalausa. Fyrir þjóð, sem stendur utan ESB, er þessi ófyrirsjáanleiki um þróun EES-samningsins óásættanlegur. Hann gengur fyrir þjóðir, sem gengið hafa í ESB, þannig samþykkt framsal fullveldis og taka þátt í þróun "gerðanna" og undirbúningi tilskipana og lagasetningar, þótt ekki sé hægt að tala um jafnræðisgrundvöll þar heldur.
Tveggja stoða fyrirkomulagið er stjórnlagalega mikilvægt, sagði Stefán Már, "en bjargar ekki öllu". Þegar það er hins vegar þverbrotið, eins og ESB ætlast til, að EFTA-löndin láti yfir sig ganga ganga í ACER-málinu og öðrum stórmálum, þar sem alls engin EFTA-stofnun svarar til stofnana ESB á borð við Orkustofnunina, ACER, þá er skörin tekin að færast upp í bekkinn, svo að staða EFTA-ríkjanna, a.m.k. Íslands, verður óviðunandi. Í Noregi er staðan dálítið önnur, því að Stórþingið samþykkti EES-samninginn með auknum meirihluta 1992, yfir 75 % viðstaddra þingmanna. ESB-sinnar á norska Stórþinginu segja síðan, að allar breytingar á EES-samninginum séu svo lítilfjörlegar, að einfaldur meirihluti Stórþingsins nægi til að leiða þær í lög. Þessi afstaða meirihluta Stórþingsins veldur hatrömmum deilum um allt norska þjóðfélagið. Fjölmargir norskir lagaprófessorar töldu nauðsynlegt að afgreiða ACER-frumvarpið með auknum meirihluta.
Hér á Íslandi var sett á laggirnar nefnd þriggja stjórnlagafræðinga 1992 til að leggja mat á það, hvort upphaflegi EES-samningurinn stæðist kröfur Stjórnarskrár um varðveizlu fullveldis. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu, að það væri á mörkunum, en slyppi. Síðan þá hefur mjög sigið á ógæfuhlið í þessum efnum, svo að telja má fullvíst, að hunzun ESB á jafnréttiskröfunni (tvær jafnréttháar stoðir) geri EES-samstarfið kolólöglegt hérlendis. Þetta er háalvarlegt, og Alþingismenn verða á þessum grundvelli að setja ESB-gerningum skorður.
Stefán Már sagði, að ósambærilegt væri talið, hvort stjórnvald ESB-stofnunarinnar næði aðeins til viðkomandi ríkisvalds eða til lögaðila og lögpersóna, þ.e. fyrirtækja og einstaklinga. Í tilviki ACER nær hið erlenda vald til útibús stofnunarinnar í viðkomandi landi, sem er algerlega óháð ríkisvaldinu og öðrum hagsmunaaðilum.
Hin stjórnlagalega staða ACER-málsins er svo slæm, að hún ein og sér dugir fyrir Alþingi til að synja málinu brautargengis að mati blekbónda. Þá breytir engu, þótt reynt sé að fegra fullveldisframsalið með því að láta samskipti ACER og útibús þess í viðkomandi EFTA-landi fara um hendur ESA-Eftirlitsstofnunar EFTA. Hún getur ekkert annað gert en að framsenda fyrirmælin óbreytt til útibúsins, því að ESA hefur ekki þegið neitt vald til að breyta eða hafna ákvörðunum ACER, og það er ekkert svigrúm veitt fyrir sáttafundi á milli EFTA og ESB.
Þriðji og síðasti framsögumaðurinn, Elías B. Elíasson, taldi íslenzka raforkumarkaðinn og raforkumarkað ESB vera ósamrýmanlega, því að eðli þeirra væri ólíkt. Á Íslandi er meginhluti raforkuvinnslukostnaðar fólginn í uppsettu afli, en orkan, stöðuorka vatns í miðlunarlónum, jarðgufa og vindur, eru mun minni kostnaðarþættir. Þessu er öfugt farið í ESB, þar sem enn er mest notazt við jarðefnaeldsneyti. Elías varaði sterklega við skaðlegum áhrifum aflsæstrengs á raforkumarkaðinn á Íslandi.
Ekki var að heyra annað á öllum fyrirspyrjendum á fundinum en þeir hefðu áhyggjur af skaðlegum áhrifum þess á íslenzka hagkerfið og íslenzka stjórnsýslu að samþykkja Þriðja orkumarkaðslagabálkinn. Ekki varð blekbóndi þess var, að nokkur fundarmanna væri hlynntur inngöngu Íslands í Orkusamband ESB eða aflsæstrengstengingu við útlönd.
Það er áreiðanlegt, að sá póll, sem Sjálfstæðisflokkurinn virðist vera að taka í ACER-málinu á meirihlutafylgi að fagna á Íslandi, enda virðast allir ríkisstjórnarflokkarnir vera sama sinnis í málinu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.4.2018 | 11:31
Línur að skýrast á Alþingi til ACER-málsins
Í Noregi er gjá á milli þings og þjóðar í afstöðunni til ESB og til færslu norskra valdheimilda undir lýðræðislegri stjórn til yfirþjóðlegra stofnana. Stórþingsmenn á bandi ESB afneita Stjórnarskránni í þessu sambandi, sem kveður á um, að fullveldisframsal til erlends ríkis eða erlendra stofnana, þar sem Noregur ekki er fullgildur aðili, geti aðeins farið fram, ef að lágmarki 75 % mættra Stórþingsmanna samþykkja það, og að lágmarki 50 % heildarfjölda Stórþingsmanna, sem þýðir, að 2/3 verða að mæta.
Vegna hunzunar ríkisstjórnar og meirihluta Stórþingsmanna á ákvæðum Stjórnarskráar Noregs við afgreiðslu lagafrumvarps orkuráðherrans um innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn, er nú að grafa um sig ólga á meðal norsks almennings, sem gæti á endanum orðið minnihlutastjórn Noregs að falli. Ef Alþingi hafnar sama gjörningi, verður lögð fram tillaga á norska Stórþinginu um endurupptöku málsins, og þá mun heldur betur hitna í kolunum á lóð æsanna, Ósló.
Innganga Noregs í Orkusamband ESB og áheyrnaraðild Noregs í ACER-Orkustofnun ESB er dæmi um gjá á milli þings og þjóðar, sem vonandi mun ekki birtast á Íslandi. Ólga var í Noregi í aðdraganda samþykktar Stórþingsins á innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn, og hún er engan veginn horfin. Verkamannaflokkurinn er klofinn í herðar niður í málinu, þótt farið hafi verið að tilmælum Landsstjórnar flokksins til þingflokksins um einhuga stuðning við frumvarp ríkisstjórnarinnar, enda voru tilmæli LO, norska Alþýðusambandsins, þau að fella frumvarpið. Um 100 oddvitar Verkamannaflokksins í sveitarstjórnum Noregs og meirihluti fylkisþinga Noregs hvöttu Stórþingsmenn til að fella frumvarpið. Rætt er um að kæra forystu Stórþingsins til Hæstaréttar fyrir Stjórnarskrárbrot, og fer nú fram söfnun í Noregi til þeirra málaferla. Mikill meirihluti norsku þjóðarinnar, sem afstöðu hafa tekið til ACER-málsins, 80 %-90 %, er andsnúinn því, að ACER fái síðasta orðið um skipan orkuflutningsmála Noregs, enda flyzt ráðstöfunarréttur raforkunnar þá í hendur markaðsaðila á sameiginlegum raforkumarkaði ESB, sem ACER hefur eftirlit með. Á Íslandi fer nú fram tímabær skoðanakönnun um sama mál.
Á Íslandi eru línur teknar að skýrast varðandi afstöðuna til inngöngu Íslands í Orkusamband ESB. Tveir stjórnmálaflokkar, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, hafa nánast einróma lýst yfir andstöðu sinni við að fela ACER ráðstöfunarrétt yfir raforku úr íslenzkum orkulindum. Talsmaður Vinstri hreyfingarinnar-græns framboðs í þessu máli, Kolbeinn Proppé, Alþingismaður, hefur í viðtali við Spegil RÚV lýst andstöðu sinni við gildistöku Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB á Íslandi og þar að auki efasemdum sínum og síns flokks um Annan orkumarkaðslagabálk ESB, sem hér var lögfestur 2003 og núverandi raforkulög eru reist á.
Nú hefur iðnaðarráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir komið með opinbert útspil, sem virðist snúast um að sýna fram á, með rökstuðningi fyrrverandi framkvæmdastjóra hjá Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, að ályktanir stjórnarflokkanna eigi bara alls ekki við um samþykki Alþingis á innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB. Þetta hefur verið hrakið hér á vefsetrinu, búast má við mótmælum frá Heimssýn, og þessi höfundur hefur sent grein til prentútgáfu Morgunblaðsins, þar sem komizt er að algerlega öndverðri niðurstöðu við lögmanninn, sem ráðherrann fékk minnisblað frá. Nú er verið að gera mælingu á afstöðu almennings til þessa máls. Ef niðurstaðan verður í líkingu við norskar skoðanakannanir um sama mál fyrir Noreg í stað Íslands, þá mun sannast, hvílíkt pólitískt glapræði vegferð varaformanns Sjálfstæðisflokksins er í þessu máli. Hverra hagsmunum er hún eiginlega að þjóna ? Það hefur ekki verið bent á einn einasta ávinning fyrir Ísland af téðri innleiðingu ESB-gerðar í lög hér, en henni fylgir stórkostleg áhætta fyrir landið. Hér er um fádæma lélega frammistöðu hérlendra embættismanna og ráðherra að ræða, að þeir skyldu að lokum samþykkja þessi ósköp í Sameiginlegu EES-nefndinni. Heldur ráðherrann, að framganga hennar í þessu máli fari framhjá kjósendum í NV-kjördæmi ? Alþingismenn verða að þrífa í neyðarhemilinn til að forða meiriháttar stjórnlagalegu slysi.
Ef Alþingi hafnar Þriðja bálkinum og Sameiginlega EES-nefndin samþykkir ógildingu Annars bálksins í kjölfarið að tillögu ESB, þá mun Alþingi bjóðast tækifæri til að lappa upp á helztu veikleikana í þeirri lagasetningu m.v. íslenzkar aðstæður, án þess að ESA geti fýlt grön.
Þar má nefna hættuna á raforkuskorti í landinu sökum þess, að enginn aðili utan Orkustofnunar (OS) er ábyrgur fyrir því að koma í veg fyrir tímabundinn eða varanlegan raforkuskort í landinu, og OS hefur ekki vald til að skipa neinum að virkja. Það má hugsa sér að fara ýmsar leiðir til að bæta úr þessu. Ein leið er sú að skylda fyrirtækið með stærstu markaðshlutdeildina til að tryggja nægan varaforða í orkukerfinu á hverjum tíma, t.d. að lágmarki 15 % af árlegri raforkunotkun í landinu, sem mundi nú samsvara tæplega 3 TWh/ár og gæti tekið um áratug að mynda. Þetta kostar auðvitað sitt, en bagginn mundi virka til að jafna samkeppnisstöðu raforkuvinnslufyrirtækjanna í landinu.
Það virðist óhætt að búast við því, að flestir ráðherrarnir muni á Alþingi snúast öndverðir gegn innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins í EES-samninginn ásamt yfirgnæfandi meirihluta í þingflokkum stjórnarflokkanna. Þá hefur formaður Miðflokksins tjáð andstöðu sína í "Reykjavík síðdegis" á Bylgjunni og líklegt, að allir þingmenn flokksins séu sama sinnis og formaðurinn. Blekbónda er ókunnugt um afstöðu þingmanna Flokks fólksins, en búast má við, að ESB-flokkarnir, Samfylking og Viðreisn, muni styðja þessa víkkun EES-samstarfsins út fyrir frelsin 4 á Innri markaðinum sem lið í aðlögun Íslands að æ nánara samstarfi og meiri miðstýringu ESB. Píratar eru líklegir til að sitja hjá, enda málið stórt og þykir sumum torskiljanlegt.
Ef fer sem horfir, stefnir í, að Alþingi hafni því, að Ísland gangi í Orkusamband ESB, enda fæli sú innganga í sér skýlaust Stjórnarskrárbrot (2. gr).
Í Viðskiptablaðinu 28. marz 2018 gaf að líta texta, sem gefur innsýn í blekkingarheim eða sýndarveruleika utanríkisráðuneytisins. Er utanríkisráðherra þessarar skoðunar ?:
"Þar sem engum grunnvirkjunum (svo ?!), sem ná yfir landamæri, er til að dreifa hér á landi, fellur íslenzki orkumarkaðurinn ekki undir valdheimildir ACER. Í svari ráðuneytisins er bent á, að í stað ACER sé Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) falið úrskurðarhlutverk gagnvart EFTA-ríkjunum, ef á myndi reyna. Þannig sé ACER-gerðin aðlöguð að tveggja stoða kerfi EES-samningsins."
Það er einfeldningslegt af utanríkisráðuneytinu að halda þessu blekkingarhjali á lofti. Það náði engum undanþágubeiðnum fram í "samningaviðræðunum" við ESB í sameiginlegu EES-nefndinni, og þar af leiðandi munu ákvæði Þriðja orkumarkaðslagabálksins gilda á Íslandi, eins og Ísland væri ESB-aðildarland, nema Alþingi hafni Þriðja orkubálkinum í heild sinni.
Það er grundvallar misskilningur, að valdheimildir ACER í löndum Orkusambands ESB nái aðeins til orkuflutningsmannvirkja á milli landa. Þær ná til allra mannvirkja, sem skilgreind eru sem orkuflutningsmannvirki og til allra fyrirtækja, sem starfa í orkuflutningsgeiranum. Hvernig hefur þessi fluga komizt inn í höfuð embættismanna utanríkisráðuneytisins íslenzka ? Hvernig ætti ACER annars að takast ætlunarverk sitt um að tengja saman öll lönd Orkusambandsins með svo rækilegum hætti, að verðmunur á raforku verði í mesta lagi 2,0 EUR/MWh (<0,25 ISK/kWh) á milli landa. Í ráðuneytinu ríkir illvíg meinloka, og allir vita, hvað hún heitir.
Hvernig á ESA að gegna "úrskurðarhlutverk[i] gagnvart EFTA-ríkjunum" án þess að hafa hlotið nokkrar sjálfstæðar valdheimildir til að úrskurða gegn ACER ? ESA er einvörðungu upp á punt í hlutverki ljósritandi milliliðar fyrir fyrirmæli frá ACER og til OS. Það er til vanza, hvernig utanríkisráðuneytið reynir að slá ryki í augun á fólki og telja því trú um, að stjórnskipulega feli aðild Íslands að Orkusambandinu ekki í sér neinar breytingar á EES-samstarfinu. Þær eru einfaldlega svo miklar, að ekki er lengur hægt að tala um samstarf, heldur samband húsbónda og þræls.
Þann 4. apríl 2018 skrifaði Óli Björn Kárason, Alþingismaður, merka grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni:
"Merkingarlaus stjórnskipulegur fyrirvari".
Þar skrifaði hann m.a. um mikilvægi raforkumálanna fyrir íslenzkan þjóðarhag:
"Skipulag orkumála skiptir okkur Íslendinga miklu, hefur veruleg áhrif á samkeppnishæfni atvinnulífsins og bein áhrif á lífskjör almennings. Verði af lagningu sæstrengs - líkt og margir vonast til - mun íslenzki orkumarkaðurinn falla undir valdsvið ACER (Agency for the Cooperation of Energy Regulators), eftirlitsstofnunar Evrópusambandsins. [Hér er þess að geta, að ACER mun fá vald til að ákveða tímasetningu og tilhögun téðs Ice Link, ef Alþingi ákveður, að Ísland skuli ganga í Orkusamband ESB með innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn - innsk. BJo.] ACER fær meðal annars vald til að úrskurða í ágreiningsmálum. [Þeim úrskurði verður ekki hægt að áfrýja til íslenzkra dómstóla, heldur aðeins til ESA og EFTA-dómstólsins, sem reisir úrskurði sína á dómafordæmum frá ESB-dómstólinum, ef til eru - innsk. BJo.] (Sæstrengur á milli Íslands og Bretlands er á lista Evrópusambandsins yfir mikilvæg innviðaverkefni í orkumálum.) [Þingmenn þyrftu að komast að því, hvernig í ósköpunum hann komst þangað - innsk. BJo.]
Hrein orka er ein dýrmætasta auðlind okkar Íslendinga. Raforkuvinnsla á íbúa [54 MWh/íb] er hvergi meiri en hér á landi og yfir helmingi meiri en í Noregi [25 MWh/íb]. Í skýrslu ferða-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um raforkumál, sem lögð var fram í marz, koma þessar upplýsingar fram. Kanada og Finnland eru í þriðja og fjórða sæti, langt á eftir okkur Íslendingum. Að fullyrða, að skipulag orkumála, hvernig og hvort við aðlögum íslenzkt regluverk að orkutilskipunum Evrópusambandsins, hafi ekki mikil áhrif hér á landi, er í bezta falli sérkennilegt og í versta falli hættulegt."
Í ljósi þess, að staðhæfingin í lokin í hinum tilvitnuðu orðum þingmannsins, er ættuð frá utanríkisráðuneyti Íslands, verður ekki kveðið vægar að orði um hana en hún sé í senn hneykslanleg og þjóðhættuleg. Hvernig er hagsmunagæzlu þessa ráðuneytis fyrir Íslands hönd eiginlega háttað ? Er metnaður starfsmanna ráðuneytisins bundinn við að vera stimpilpúði fyrir skoðanir ráðamanna ESB og túlkanir skósveina þeirra ? Það er ástæða til að krefjast stjórnsýsluúttektar á starfsemi þessa ráðuneytis og kostnaði þess vegna EES-aðildar Íslands (ferðalög, fundarsetur, launakostnaður vegna þýðinga, reglugerðasetninga og innleiðinga gjörða ESB í EES-samninginn).
Ísland á ekkert erindi í Orkusamband ESB, af því að hagsmunir landsins í raforkumálum stangast algerlega á við hagsmuni ESB á því sviði. Þegar allir keppast við að auka hlutdeild endurnýjanlegra og kolefnisfrírra orkugjafa í orkunotkun sinni, þá skyti skökku við, ef Íslendingar tækju upp á að flytja inn rafmagn frá kola- og gaskyntum orkuverum meginlandsins, því að slíkt yrði óhjákvæmilegt til að vega upp á móti útflutningi raforku. Það verður ókræsilegt að baksa hér við orkuskipti upp á þau býti og rafmagnsverð í hæstu hæðum. Það er óhjákvæmilegt, að slíkt ráðslag mundi tefja orkuskiptin og draga verulega úr hinum fjárhagslega ávinningi af þeim. Þessar ábendingar hljóta að vega þungt gegn sæstreng.
Annað, sem mælir gegn því að tengjast raforkumarkaði ESB, er, að slíkt skapar mikla óvissu um framlengingu langtímasamninga um raforku. Samkvæmt reglum raforkumarkaðar ESB verður að selja tiltæka raforku hæstbjóðanda. Verði gerðir langtímasamningar eftir valdatöku ACER hér, skal bera þá undir ESA, (hefur reyndar gilt frá upptöku Annars orkumarkaðslagabálksins), sem úrskurðar, hvort um undirboð m.v. sameiginlegan markað ESB/EES er að ræða.
Í Noregi eru gríðarlegar áhyggjur út af þessu og út af hækkun markaðsverðsins, en norska stóriðjan kaupir hluta af raforku sinni á skammtímamarkaði (þó ekki augnabliksmarkaði). Þetta er aðalástæða þess, að nánast gjörvöll norska verkalýðshreyfingin lagðist eindregið gegn samþykkt Stórþingsins á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum.
Norðmenn og Íslendingar vilja nýta raforku sína í þjóðhagslegu augnamiði, þ.e. til verðmætasköpunar og atvinnusköpunar um allt land, en ekki sem viðfang spákaupmanna. Þess vegna eru hagsmunir Íslendinga og Norðmanna ósamrýmanlegir hagsmunum ESB-ríkjanna í orkumálum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
19.4.2018 | 11:47
Ráðuneyti tekur afstöðu
Svo er að sjá sem ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, sem jafnframt er varaformaður Sjálfstæðisflokksins, hafi tekið sér það fyrir hendur að sýna þingheimi og öðrum fram á, að eftirfarandi ályktun, sem einróma var samþykkt á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins í 18. marz 2018, eigi alls ekki við innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks Evrópusambandsins, ESB, í EES-samninginn:
"Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenzkum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins."
Til þess pantaði ráðherrann minnisblað frá fyrrverandi framkvæmdastjóra "innra markaðssviðs ESA" (Eftirlitsstofnunar EFTA með framkvæmd EES-samningsins), Ólafi Jóhannesi Einarssyni, lögmanni. Ráðuneytið dró niðurstöður lögmannsins saman í 7 liði, sem verða tíundaðir hér á eftir, og athugað, hvernig til hefur tekizt:
- "Þriðji orkupakkinn haggar í engu heimildum íslenzkra stjórnvalda til að banna framsal á eignarrétti að orkuauðlindum, sem eru í opinberri eigu, eins og nú þegar er gert í íslenzkum lögum." Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn spannar aðeins flutningskerfi fyrir jarðgas og raforku. Orkulindirnar eru þar ekki undir, hvað sem verða kann um framhaldið, t.d. 1000 blaðsíðna 4. orkumarkaðslagabálk, sem nú er í vinnslu hjá ESB.
- "Þriðji orkupakkinn haggar í engu rétti Íslands til að ákveða með hvaða skilyrðum orkuauðlindir landsins eru nýttar, og hvaða orkugjafar eru nýttir hér á landi." Þetta er rétt svo langt sem það nær. Ef hins vegar Ísland gengur í Orkusamband ESB (án þess að eiga atkvæðisrétt í ACER, Orkustofnun ESB), þá mun ACER (ESB) að öllum líkindum þrýsta á um tengingu landsins við sameiginlegan raforkumarkað ESB um sæstrenginn Ice Link, sem stofnunin hefur þegar sett á forgangsverkefnalista sinn. Eftir slíka tengingu hverfur ráðstöfunarréttur allrar tiltækrar orku á íslenzka raforkumarkaðinum óhjákvæmilega til ESB-raforkumarkaðarins, því að öllum raforkukaupendum þar verður heimilt að bjóða í íslenzka raforku. Kemur þá innlend stjórnun auðlindanýtingar og virkjana fyrir lítið.
- "Samstarfsstofnun evrópskra [svo ?!] orkueftirlitsaðila, ACER, myndi, þrátt fyrir aðild Íslands að stofnuninni, ekki hafa neitt að segja um atriði á borð við fyrirkomulag leyfisveitinga og stjórnsýslu hér á landi, og upptaka þriðja orkupakkans hefði í för með sér óverulegar breytingar í því sambandi." Þetta er alrangt, og villan liggur í því, að ekki er minnzt á útibú ACER á Íslandi, sem ætlað er mikilvægt stjórnsýslulegt hlutverk á sviði raforkuflutninga. Útibúið (Norðmenn kalla það RME hjá sér-Reguleringsmyndighet for energi) verður sjálfstæð stofnun gagnvart hagsmunaaðilum á Íslandi og algerlega óháð vilja íslenzkra yfirvalda. Útibúið verður undir stjórn ACER með ESA sem millilið á milli ACER og útibúsins á skipuritinu, en ESA hefur alls engar heimildir hlotið til að breyta út af ákvörðunum ACER. Útibúið tekur aðeins við fyrirmælum frá ACER, og er ætlað að hálfu ESB að ryðja brott öllum staðbundnum hindrunum á vegi ætlunarverks ACER að bæta raforkutengingar á milli landa, þar til verðmunur þeirra á milli verður undir 2,0 EUR/MWh. Þetta er gert með því að fela útibúinu allt reglugerðar- og eftirlitsvald á sviði raforkuflutninga. Leyfisveitingavaldið verður áfram hjá Orkustofnun,OS, en ef OS hafnar leyfisumsókn, sem uppfyllir öll skilyrði útibúsins, verður höfnun vísast kærð til ESA/EFTA-dómstólsins. Ráðuneytinu skjátlast þess vegna algerlega um valdaleysi ACER á Íslandi. Til að bæta gráu ofan á svart, verður Ísland valdalaust innan ACER án atkvæðisréttar.
- "ACER hefur engar valdheimildir gagnvart einkaaðilum, heldur eingöngu opinberum eftirlitsaðilum." Þessi túlkun ráðuneytisins stenzt ekki. Útibú ACER er ekki opinber eftirlitsaðili, því að útibúið verður algerlega óháð opinberu valdi á Íslandi, ráðuneyti, OS og innlendum dómstólum. Landsnet mun verða að "sitja og standa", eins og útibúið fyrirskrifar. Landsnet hefur mikil áhrif á almannahagsmuni á Íslandi, viðskiptavini og birgja, og þannig myndi stofnun ESB, ACER, fá óbeinar valdheimildir gagnvart einkaaðilum á Íslandi án þess, að ríkisvaldið fái rönd við reist. Slíkt er gróft Stjórnarskrárbrot.
- "Við upptöku þriðja orkupakkans í EES-samninginn var um það samið, að valdheimildir gagnvart eftirlitsstjórnvöldum í EFTA-ríkjunum yrðu ekki hjá ACER, heldur hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA)." Með því að troða ESA inn í stjórnunarferli ACER í EFTA-löndunum þremur er gerð ósvífnisleg blekkingartilraun. Reynt er að láta líta svo út, að ESA gegni hliðstæðu hlutverki og ACER EFTA-megin og fullnægi þannig kröfum EES-samningsins um tveggja stoða lausnir allra sameiginlegra viðfangsefna ESB og EFTA. ESA getur ekki gegnt þessu hlutverki vegna skorts á sérfræðingum á orkusviði, og ESA hefur heldur engar heimildir til að ráðskast neitt með ákvarðanir ACER. ESA verður þess vegna ekkert annað en miðlari boða og banna frá ACER til útibúa ACER í EFTA-löndunum. Norðmenn kalla ESA í þessu sambandi "dýrustu ljósritunarvél í heimi". Stjórnlagafræðingar þar í landi telja þetta aumkvunarverða fyrirkomulag engu breyta um það, að yfirþjóðleg stofnun, ACER, þar sem EFTA-ríkin eru ekki fullgildir aðilar, fær völd yfir mikilvægum málaflokki í EFTA-löndunum, þar sem hún hefur tækifæri til áhrifa á lífshagsmuni almennings. Þetta er í Noregi óleyfilegt að heimila, nema með a.m.k. 75 % greiddra atkvæða í Stórþinginu, og á Íslandi leyfir Stjórnarskráin þetta alls ekki. Því til staðfestu eru álitsgerðir prófessora í stjórnlögum við Háskóla Íslands. Að ráðuneytið skuli bera þessa blekkingu á borð fyrir almenning, sýnir, hversu slæman málstað það nú hefur opinberlega gert að sínum.
- "Heimildir ACER til að taka bindandi ákvarðanir eru að meginstefnu bundnar við ákvæði, sem gilda um orkumannvirki, sem ná yfir landamæri (t.d. sæstrengi); eðli málsins samkvæmt eiga slíkar valdheimildir ekki við á Íslandi svo lengi sem hér eru engin slík orkumannvirki." Þetta er alrangt. ACER fær hér valdheimildir strax og innleiðing Þriðja orkumarkaðslagabálksins í EES-samninginn hlýtur lagagildi á Íslandi, enda næði ESB aldrei fram vilja sínum um greið orkusamskipti á milli svæða og landa, þar sem tengingar vantar við gildistöku Þriðja orkumarkaðslagabálksins, ef túlkun ráðuneytisins væri rétt. ACER var stofnað til að ryðja burt staðbundnum hindrunum, eins og andstöðu ríkisstjórna og/eða þjóðþinga við tengingar af þessu tagi. Þegar þrýstingur frá ACER hefur leitt til ákvörðunar um lögn Ice Link, mun Landsnet bera skylda til að styrkja flutningskerfið innanlands í þeim mæli, að það geti flutt fullt afl, t.d. 1300 MW að meðtöldum töpum, frá virkjunum að afriðlastöð sæstrengsins. Hér er um gríðarleg mannvirki að ræða, eins og menn geta séð af því, að flutningsgeta 132 kV byggðalínu er aðeins 1/10 af þessari þörf og flutningsgeta 220 kV línu er minni en 1/3 af þessari þörf. Valdsvið ACER á Íslandi getur þannig leitt til gjörbreytinga á raforkuflutningskerfi landsins. Það er þannig helber uppspuni, að bindandi ákvarðanir ACER á Íslandi nái aðeins til sæstrengja frá Íslandi til útlanda.
- "Þriðji orkupakkinn haggar því ekki, að það er á forræði Íslands að ákveða, hvaða stjórnvald myndi veita leyfi fyrir lagningu sæstrengs og eins, hvort íslenzka ríkið ætti að vera eigandi að honum." Kjarni málsins liggur óbættur hjá garði hér að ofan. Látið er í það skína, að íslenzk yfirvöld muni ráða því, hvort sæstrengur verði lagður frá Íslandi til útlanda, eftir að ACER hefur verið leidd hér til valda. Þetta er þó hrein blekking, þótt að forminu til virðist rétt. Ástæðan er sú, að forsendur leyfisveitinga á þessu sviði verða ekki lengur í höndum íslenzka ríkisins, heldur verða þær samdar af útibúi ACER á Íslandi. Ef sæstrengsfélagið, sem um leyfisveitinguna sótti til handhafa íslenzka ríkisvaldsins, t.d. OS, sættir sig ekki við úrskurðinn, verður deilan ekki útkljáð fyrir íslenzkum dómstóli, heldur ESA og EFTA-dómstólinum, sem auðvitað munu líta til þess, hvort umsóknin uppfyllti kröfur útibús ACER. Í Noregi er Statnett aleigandi að sæstrengjum til útlanda. Í umræðunum í aðdraganda afgreiðslu Stórþingsins á Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB kom fram, að hann gerir ráð fyrir, að eignarhaldið á nýjum sæstrengjum ráðist á markaði, en flutningsfyrirtækjunum verði ekki tryggð einokunaraðstaða. Verkamannaflokkurinn gerði það að skilyrði fyrir sínum stuðningi, að allir sæstrengir frá Noregi yrðu áfram að fullu í eigu Statnett, sem er alfarið í beinni eigu norska ríkisins. Engin trygging hefur samt fengizt fyrir slíku frá ACER(ESB). Fullyrðing um, að íslenzka ríkið geti tryggt sér tilgreint eignarhald á aflsæstreng til útlanda, er fleipur eitt.
Tilraun iðnaðarráðuneytisins til að sýna fram á, að samþykkt Alþingis á innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn breyti litlu sem engu um íslenzk orkumál, hefur algerlega fallið um sjálfa sig, enda stríðir hún gegn heilbrigðri skynsemi. Sá, sem ekkert veit um ACER, hlýtur að spyrja sig, til hvers stofnað er til Orkustofnunar ESB, ef hún á lítil sem engin áhrif að hafa í landi, sem rafmagnslega er ótengt við umheiminn ? Sá, sem eitthvað veit um ACER, veit, að hún er stofnuð gagngert til að auka orkuflutninga á milli landa og þá auðvitað að koma þeim á, þar sem þeir eru ekki fyrir hendi. Ætlunin er göfug: að auka hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa og að jafna orkuverðið innan ESB. Fyrir Ísland og Noreg verður þetta allt með öfugum formerkjum. Hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í raforkuvinnslunni hérlendis mun rýrna úr 99 % í e.t.v. 85 %, og raforkuverðið mun stórhækka. Það eru engir kostir fyrir Ísland fólgnir í framsali mikilvægs fullveldis yfir ráðstöfun raforkunnar til markaðsafla ESB-landanna; aðeins gallar. Að ráðuneyti orkumála skuli reyna að draga fjöður yfir það, jaðrar við kjánaskap og er líklega pólitískt glapræði.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.4.2018 | 11:59
Köttur í kringum heitan graut
Grautargerð utanríkisráðuneytisins í ACER-málinu svo nefnda tekur á sig ýmsar myndir. Ein þeirra birtist í Viðskiptablaðinu 28. marz 2018 og var andmælt á sama vettvangi af þessum höfundi 12. apríl 2018.
Þann sama dag birtist í Morgunblaðinu sviðsljósgrein Ómars Friðrikssonar:
"Efasemdir þrátt fyrir verulegar undanþágur".
Þessi fyrirsögn er mjög villandi um eðli og stöðu málsins, sem fjallar um inngöngu Íslands í Orkusamband ESB og þar með valdframsal frá íslenzka ríkinu til Orkustofnunar ESB, ACER, sem er undir stjórn framkvæmdastjórnar ESB. Í fyrsta lagi eru ekki efasemdir um þessa ráðstöfun, heldur rökstudd vissa um, að þessi ráðstöfun væri þjóðhagslegt og stjórnlagalegt glapræði.
Að EFTA-ríkin eða Ísland sérstaklega hafi fengið "verulegar undanþágur" frá Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB er einhver mesta oftúlkun og upphafning, sem lengi hefur sézt á prenti og minnir á "sáuð þið, hvernig ég tók hann" grobb. Sannleikurinn er sá, að engin undanþága fékkst fyrir Ísland, sem nokkru máli skiptir, enda er það í anda núverandi starfshátta ESB, að útþynna ekki gerðir, sem aðildarlöndin hafa öll komið sér saman um eftir erfiða samningafundi.
EFTA-löndin verða einfaldlega að taka við því, sem að þeim er rétt, einnig þótt slíkt feli í sér brot á grundvallarreglu EES-samningsins um tveggja stoða samkomulag jafnrétthárra aðila. Innan EFTA er einfaldlega engin stofnun mótsvarandi ACER, og þess vegna er komið alvarlegt stjórnlagalegt ójafnvægi í framkvæmd samningsins. Allt ber að sama brunni: EFTA-ríkin hafa ekki stjórnskipulega getu vegna smæðar sinnar til að standa að EES-samstarfinu án þess að ganga í berhögg við stjórnarskrár sínar. Þetta á a.m.k. við Ísland og Noreg.
Það er stöðugt tönglast á því, að einhverju breyti varðandi yfirráð ACER, að engin tenging er á milli íslenzka raforkukerfisins og erlendra. Þarna er horft algerlega framhjá þeirri skipulagsbreytingu, sem mun eiga sér stað í íslenzka orkugeiranum, ef/þegar lögfesting Þriðja orkumarkaðslagabálksins tekur gildi.
Hún er í stuttu máli sú, að stofnað verður útibú ACER á Íslandi, sem verður algerlega óháð íslenzkum stjórnvöldum og hagsmunaaðilum. (Norðmenn kalla þetta RME hjá sér, "Reguleringsmyndighet for energi".) Útibúið fær öll reglusetningar- og eftirlitsvöld yfir raforkuflutningsgeiranum (Landsneti), sem nú er að finna hjá Orkustofnun (OS) og ráðuneyti. ACER skipar forstjóra þessarar stofnunar, en hún mun samt fara á íslenzku fjárlögin. Þótt ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) sé á skipuritinu sett á milli útibúsins og ACER, breytir það stjórnlagalega engu í raun um það, að hér er stefnt á, að yfirþjóðleg stofnun (ACER) fari að stjórna á mikilvægu málefnasviði á Íslandi, framjá ríkisvaldinu. Þetta er grafalvarlegt stjórnlagabrot.
Til að sýna fram á haldleysi kenningarinnar um sakleysi aðildar Íslands að Orkusambandi ESB nægir að rekja, hvernig ACER með þessum völdum sínum getur fengið sínu framgengt um Ice Link, þótt leyfisvaldið sé áfram í höndum OS (undir stjórn ráðuneytis). Það er vegna þess, að í höndum útibús ACER verður að semja tæknilega og viðskiptalega tengiskilmála fyrir sæstrenginn. Uppfylli væntanlegt sæstrengsfélag þessa skilmála í umsókn sinni til OS, getur OS ekki synjað honum um leyfið, nema vera gerð afturreka með synjunina með úrskurði ESA og dómi EFTA-dómstólsins. Þannig er ekkert haldreipi í því, að Ísland er einangrað raforkukerfi núna. Sú skoðun gengur fótalaus og styðst ekki við staðreyndir máls. Hún er ímyndun eða óskhyggja reist á vanþekkingu um valdsvið ACER og útibú þess í hverju landi.
Í téðri sviðsljósgrein stendur þetta m.a. og hlýtur að vera haft eftir Katli, skræk, af innantómum gorgeirnum að dæma:
""Að mati utanríkisráðuneytisins skiluðu tilraunir íslenzkra stjórnvalda til að ná fram viðunandi aðlögun góðum árangri, og voru Íslandi veittar mikilvægar undanþágur. [Það er ótrúlegt að lesa þetta sjálfshól, því að mála sannast er, að engar undanþágur, sem máli skipta, fengust frá Þriðja orkumarkaðslagabálkinum, enda er barnaskapur að búast við slíku - innsk. BJo.]
Ísland fékk, í fyrsta lagi, undanþágu frá kröfum tilskipunar 2009/72/EB um sameiginlegar reglur um innri markað raforku varðandi eigendaaðskilnað vinnslu- og söluaðila annars vegar og flutningskerfa hins vegar. Þetta telst umtalsverður ávinningur fyrir Ísland í ljósi eignarhalds Landsnets og vandkvæða á að breyta því fyrirkomulagi.""
Í raun var reglan um eigendaaðskilnað innleidd með Öðrum orkumarkaðslagabálki og raforkulögum árið 2003. Þar er lögbundin einokunarstaða Landsnets á flutningskerfinu, og hvaða annað eignarhald en ríkiseign tryggir þá jafna samkeppnisstöðu allra þeirra, sem vilja setja orku inn á flutningskerfið eða taka út af því orku ? Núverandi eignarhald Landsnets með fulltrúa Landsvirkjunar, OR, RARIK og OV í stjórn fyrirtækisins er einfaldlega óviðunandi, ef tryggja á jafnstöðu allra markaðsaðila eftir föngum. Þetta hefur Ríkisendurskoðun margbent á, nú síðast með skýrslu frá febrúar 2018.
Það er þess vegna stórt skref aftur á bak og vekur furðu að ætla að festa núverandi óeðlilega ástand í sessi. Vandræðagangurinn er með ólíkindum, að ríkið eigi erfitt með að breyta núverandi eigendafyrirkomulagi, þegar ríkið er að 93 % óbeinn eignaraðili að Landsneti og er þar þess vegna mestan part að semja við sjálft sig um skuldabréf til núverandi eigenda, svo að ríkið eignist fyrirtækið að fullu beint.
Það er furðulegt að sækja um undanþágu fyrir þetta óeðlilega fyrirkomulag til ESA. Í lagafrumvarpi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, sem nú liggur fyrir Alþingi, er breyting á raforkulögum þess efnis, að ekki er lengur stefnt að ríkiseign á Landsneti, heldur geti jafnvel nýir aðilar komið þar inn. Þetta fellur afar illa að einokunarhlutverki Landsnets, og verður Alþingi fyrr en seinna að vinda ofan af þessari undarlegu hugmyndafræði, sem virðist vera ættuð utan úr geimnum, en finnst hvergi í samþykktum ríkisstjórnarflokkanna.
"Framkvæmdastjórn ESB hafnaði beiðni Íslands um að verða skilgreint lítið, einangrað raforkukerfi, þar sem raforkunotkun landsins er langt umfram viðmiðunarmörk tilskipunarinnar."
Af þessu má ráða, að tilraun íslenzkra embættismanna til að fá raunverulega undanþágu frá að lenda í klóm ACER hefur gjörsamlega mistekizt, og hún sýnir algeran skilningsskort á því, sem Orkusamband ESB snýst um. Það snýst einmitt um öfluga samtengingu allra landa ESB/EES, nýjar samtengingar og eflingu þeirra, sem fyrir eru, til að bæta afhendingaröryggi raforku í ESB og flýta fyrir orkuskiptunum. Hér á við "to be or not to be", þ.e. annaðhvort eru menn með eða á móti.
Á Íslandi hefði samtenging hins vegar þveröfug áhrif, því að samrekstur landskerfisins við 1200 MW sæstreng (50 % af uppsettu afli í virkjunum) yrði tæknilega erfiður, t.d. í bilanatilvikum), og útflutningur á "kolefnisfrírri" raforku og innflutningur á raforku úr jarðefnaeldsneytisorkuverum mundi tefja fyrir orkuskiptum hérlendis.
"Íslandi verður þó heimilt að sækja um undanþágu frá ákvæðum um aðskilnað dreififyrirtækja (svo ?!), aðgengi þriðja aðila og markaðsopnun o.fl., ef sýnt er fram á erfiðleika í rekstri raforkukerfisins."
Þessi texti kemur ærið spánskt fyrir sjónir. Hvaða aðskilnað dreififyrirtækja skyldi vera átt við ? Er átt við bókhaldslegan aðskilnað dreifingar á vatni (heitu og köldu) og rafmagni ? Sá aðskilnaður er ekki fyrir hendi hérlendis, en dreififyrirtækin starfa samkvæmt sérleyfi, sem Orkustofnun gefur út, og að flækja þessu inn í viðræður við ESB er alveg út í hött.
Þarna er líka vísað til heimildar um að stöðva orkuviðskipti um samtengingar við útlönd, ef neyðarástand myndast í raforkukerfinu innanlands. Þetta ákvæði fékk EFTA-fram sem heild í viðræðum við ESB, og það gildir ekki frekar fyrir Ísland en önnur lönd. Að draga þetta fram hér, sýnir, að menn (væntanlega beggja vegna samningaborðsins) hugsa sér Ísland samtengt sameiginlegum raforkumarkaði ESB/EES í framtíðinni.
Það virðist því miður ríkja þekkingarleysi eða a.m.k. gróft vanmat hérlendis á eðli ACER og til hvers innganga Íslands í Orkusamband ESB mundi leiða hér. Fullyrðingar frá embættismönnum ráðuneyta o.fl. um lítil áhrif á rafmagnslegt eyland benda til alvarlegrar meinloku í þessum efnum, og að fólk hafi einfaldlega ekki ráðið við heimaverkefnin.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.4.2018 | 13:07
Nú eru nýir tímar
Gríðarleg umræða varð í Noregi um aðild landsins að Orkusambandi ESB í febrúar og fram til 22. marz 2018, er atkvæðagreiðsla fór fram í Stórþinginu um málefnið. Úrslit hennar urðu 72 atkvæði með (43 %) og 23 atkvæði á móti (14 %), en 74 þingmenn tóku ekki afstöðu (43 %).
Ef gert er ráð fyrir, að Liechtenstein samþykki, þá velta örlög þessa stórmáls á Alþingi Íslendinga. Á Stórþinginu virtist afstaða þingmanna að mestu ráðast af því, hvort þeir eru fylgjendur aðildar Noregs að ESB eða andstæðingar slíkrar aðildar. Norska þjóðin er allt annars sinnis en þessi úrslit gefa til kynna, og ekki er ólíklegt, að þessi afstöðumunur kjósenda og fulltrúa þeirra á Stórþinginu muni hafa pólitískar afleiðingar. Með þessari vefgrein er tengill yfir í yfirlýsingu, sem Trúnaðarráð "Nei til EU" sendi frá sér 8. apríl 2018.
Ef afstaða Alþingismanna til þess, hvort leiða á Orkustofnun ESB til valda yfir raforkuflutningsmálum á Íslandi, ræðst af afstöðu þeirra til aðildar Íslands að ESB, þá munu þeir fella frumvarpið um innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn.
Fyrrverandi ráðherra og Alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, Björn Bjarnason, valdi föstudagsgrein sinni í Morgunblaðinu, 23. marz 2018, eftirfarandi fyrirsögn:
"Sjálfstæðisflokkurinn krefst fullveldis í orkumálum".
Þar vísar hann til Landsfundarályktana 18.03.2018, en krafan í fyrirsögninni gæti jafnframt verið höfundarins af efni greinarinnar að dæma. Er slíkt mikið ánægjuefni þeim, sem tjáð hafa sig með eindregnum hætti gegn því að brjóta Stjórnarskrána og hleypa yfirþjóðlegri stofnun inn á gafl hér. Verður nú vitnað til merkrar greinar Björns:
"Aðild að ESB-stofnuninni ACER (Agency for the Cooperation of energy regulators-Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði) var tekin upp í EES-samninginn 5. maí 2017. Alþingi hefur ekki enn fjallað um aðild Íslands að ACER, en hart hefur verið barizt um málið í Noregi. Innan ESB kalla menn stefnu sambandsins og framkvæmd hennar í orkumálum "orkusamband Evrópu", og innan þess ramma gegnir ACER vaxandi hlutverki. [Þetta vaxandi hlutverk mun halda "endalaust" áfram. Nú er í smíðum 1000 blaðsíðna viðbót við Þriðja orkumarkaðslagabálkinn, sem er um 600 síður. Búizt er við útvíkkun á verkefnasviði ACER með viðbótinni, en það er nú bundið við markaðsfyrirkomulag og flutninga á raforku og eldsneytisgasi. Með þessu hefur ACER þegar verið tryggður ráðstöfunarréttur yfir allri tiltækri raforku og gasi - innsk. BJo.] Að stefnan sé kennd við "orkusamband", sýnir, hvert er stefnt: ESB vill ná tökum á orkuauðlindinni. [Rétt ályktun, enda var orkusviðið skilgreint öryggislega mikilvægt árið 2009 fyrir ESB, eftir að orkuskortur hrjáði sum bandalagsríkin 2008 - innsk. BJo.]
Það var misráðið undir lok 20. aldarinnar að láta undir höfuð leggjast af Íslands hálfu að gera fyrirvara um aðild að því, sem nú er kallað "orkusamband Evrópu", fyrirvara, sem tæki mið af þeirri staðreynd, að Ísland á vegna legu sinnar ekki aðild að sameiginlegu orkudreifingarkerfi ESB-landanna og Noregs. Hagsmunir Norðmanna eru allt aðrir en Íslendinga í þessu efni vegna margra tenginga norsks raforkumarkaðar við ESB-svæðið. [Það er of djúpt í árinni tekið, að hagsmunir Íslendinga og Norðmanna séu ólíkir varðandi raforkuna. Bæði löndin njóta sérstöðu í Evrópu fyrir hátt hlutfall, næstum 100 %, raforku úr endurnýjanlegum orkulindum, og í báðum löndum er umtalsverður hluti raforkunnar bundinn langtímasamningum við iðjuver, t.d. álver. Ef öll EFTA-löndin í EES samþykkja að ganga í Orkusambandið, þá munu lýðræðislega kjörin stjórnvöld í löndunum missa forræðið yfir orkustofnunum sínum og þar með raforkuflutningsfyrirtækjunum til ACER. Hlutverki sínu um aukna millilandaflutninga trú mun þá ACER hefjast handa við að fjölga millilandatengingum með fyrsta sæstrengnum frá Íslandi, Ice Link, og fjölgun sæstrengja frá Noregi, t.d. NorthConnect til Skotlands. Þannig er enginn grundvallarmunur á aðstöðu Íslands og Noregs í þessum efnum, en áhrifin munu þó fyrr koma fram í Noregi, af því að eftirspurnarhlið raforkumarkaðarins mun aukast gríðarlega, séð frá Noregi. Þetta mun tvímælalaust valda raforkuverðshækkun í Noregi, sem ríða mun samkeppnishæfni sumra fyrirtækja að fullu, t.d. stóriðjufyrirtækja, sem að hluta eru á skammtímamarkaði fyrir raforku - innsk. BJo.]
Verði Ísland aðili að ACER, tekur þessi ESB-stofnun að líkindum við eftirlitshlutverki Orkustofnunar, t.d. með Landsneti, og fær þar með lokaorð um ákvörðun flutningsgjalds raforku til almennings og stóriðju á Íslandi. [Ráðuneytið býr nú í haginn fyrir þessa valdatöku ESB með lagafrumvarpi um að færa hluta eftirlitsins, sem er nú hjá því, til Orkustofnunar - innsk. BJo.]
Að andstæðingar yfirþjóðlegs valds í orkumálum skuli hafa flutt mál sitt með þeim árangri, sem við blasir á landsfundi sjálfstæðismanna, verður vonandi til þess, að þingmenn flokksins stigi ekkert skref í þessu máli, sem sviptir Íslendinga fullveldisréttinum yfir orkuauðlindunum."
Sú staðreynd, að Landsfundur Sjálfstæðisflokksins, 16.-18. marz 2018, mótaði flokkinum einarða stefnu gegn téðu valdaframsali til yfirþjóðlegrar stofnunar, sýnir, að sú andstaða hlaut hljómgrunn á meðal sjálfstæðismanna, og hér skal fullyrða, að yfirlýsingar Landsfundar Sjálfstæðisflokksins og Flokksþings Framsóknarflokksins 11.03.2108 njóta víðtæks stuðnings á meðal íslenzku þjóðarinnar. Í raun verður það táknmynd um sigur lýðræðisins yfir embættismannakerfi ESB/EES og tilætlunarsemi þess um gagnrýnislausa færibandaafgreiðslu örlagamála umræðulítið, ef Alþingi hafnar frumvarpi ráðuneytisins um umrædda viðbót við EES-samninginn.
Í umræðum um sama mál í Noregi, komu engin rök fram um gagnsemi þess fyrir Noreg að samþykkja sams konar ríkisstjórnarfrumvarp þar. Þar var haldið uppi hræðsluáróðri um refsiaðgerðir ESB gegn Noregi, ef ESB fengi ekki vilja sínum framgengt. Sá áróður er gjörsamlega tilhæfulaus, því að samkvæmt EES-samninginum hefur ESB ekki heimild til annars en að fella úr gildi ákvæði í núverandi orkukafla samningsins, og þar sem ESB hagnast ekkert á því, nema síður sé, er afar ólíklegt, að til þess verði gripið. Það, sem réð afstöðu meirihluta Stórþingsmanna við afgreiðslu ACER-málsins 22. marz 2018 var löngun þeirra til að hnýta Noreg enn nánari böndum við stjórnkerfi ESB. Málið snerist í þeirra huga ekki um neitt annað en aðlögun Noregs að stjórnkerfi ESB á ímyndaðri leið Noregs inn í ESB. Ef þjóðarviljinn fær að ráða í Noregi, og hann hefur þegar ráðið tvisvar í þeim efnum, er landið alls ekki á leið inn í ESB.
Munurinn á stjórnmálastöðunni á Íslandi og í Noregi er aðallega sá, að á Íslandi er meiri samhljómur með afstöðu þingmanna og þjóðarinnar en í Noregi. Þar af leiðandi má segja, að lýðræðið sé virkara á Íslandi.
2.4.2018 | 14:55
Úrelt og óhagkvæm lausn
Síðasta áratuginn hefur ferðatíminn lengzt mikið á höfuðborgarsvæðinu, aðallega á virkum dögum kl. 0730-0930 og 1530-1730, alls á 4 klst tímabilum á sólarhring. Gæti hann á þessum tímabilum hafa lengzt um á að gizka 50 % frá aldamótunum seinustu, og er tekið að gæta umtalsverðrar óánægju bílstjóra og farþega þeirra með þetta ástand, enda er það óþarft og til komið vegna vitlausrar forgangsröðunar og sinnuleysis borgaryfirvalda.
Svo ótrúlegt sem það hljómar, eru tafirnar í boði meirihluta borgarstjórnar, sem hefur ekkert gert til að ráða bót á vandanum, nema síður sé. Borgaryfirvöld hafa staðið gegn úrbótum að hálfu Vegagerðarinnar á stofnbrautum borgarinnar og í staðinn sett stórfé, um 0,9 miaISK/ár í 8 ár, í bættar almenningssamgöngur. Þrátt fyrir það hefur engin hlutfallsleg fjölgun orðið á meðal farþega strætó, og bílaumferðin hefur vaxið í takti við hagvöxtinn. Hér er um óþolandi sóun almannafjár að ræða, sem lýsir sér í tíðum ferðum lítt setinna og á sumum leiðum næstum tómra stórra strætisvagna megnið af rekstrartímanum.
Þrátt fyrir slæma reynslu alla þessa öld af auknum austri opinbers fjár í fjárfestingar og rekstur almenningssamgangna eru þeir enn til, og hafa t.d. verið í stjórn borgarinnar í 8 ár, sem vilja halda enn lengra út í ófæru almenningssamgangna og nú með gríðarlegum fjáraustri úr opinberum sjóðum til fjárfestinga í sérreinum fyrir strætó, sem að hálfu illa stæðs borgarsjóðs yrðu fjármagnaðar með því að reyta enn meira fé af húsbyggjendum og íbúðakaupendum í grennd við meginumferðaræðar strætó, sem nú er búið að "dubba upp" og kalla Borgarlínuna. Þessi skattheimta stenzt sennilega ekki lagalega rýni.
Kostnaðaráætlunin er miaISK 70 á 20 árum. Veruleg óvissa er tengd kostnaðaráætlunum slíkra verkefna, eins og sést á því, að kostnaðaráætlun borgarlínu í Stafangri í Noregi mun hafa hljóðað upp á miaNOK 4,0, en rauntalan varð 2,5xmiaNOK 4,0=miaNOK 10,0 eða um miaISK 130. Verði þessi raunin á Íslandi, mun kostnaður Borgarlínu nema miaISK 175, þegar upp verður staðið frá þessu feigðarflani. Vagnakosturinn er ekki inni í miaISK 70, svo að vægt reiknað má búast við miaISK 180 reikningi fyrir fjárfestingar í Borgarlínu. Rekstrarkostnaður Strætó mun stórhækka, nema villtustu draumar draumóramanna um 12 % hlutdeild Strætó í fólksflutningum á höfuðborgarsvæðinu rætist. Til samanburðar upplýsti samgönguráðherra í Morgunblaðsgrein 10. marz 2018, að tvöföldun brauta frá höfuðborgarsvæðinu (2 akreinar í báðar áttir), Reykjanesbraut, Suðurlandsvegur um Hellisheiði til Selfoss og Vesturlandsvegur um Kjalarnes að Hvalfjarðargöngum, mundi kosta miaISK 45. Nú er spurningin: er réttlætanlegt að setja Borgarlínuverkefnið á Vegaáætlun Alþingis, þegar brýn verkefni í gangagerð, brúargerð og vegagerð bíða um allt land, sem útheimta svipaða upphæð og Borgarlínuverkefnið gæti kostað ?
Þeir, sem reyna að færa rök fyrir Borgarlínu, nefna oft, að til 2040 sé áætluð íbúafjölgun á höfuðborgarsvæðinu 70´000 manns. Þeir sjá þá fyrir sér fjölgun bíla úr um 180 k (k=þúsund) í 240 k eða fjölgun um 60 k (33 %), sem hefði geigvænleg áhrif á ferðatíma og umferðaröryggi að öllu óbreyttu. Bæði er, að þessi mannfjöldaáætlun er þegar úrelt, allt of há, og það eru aðrir samverkandi þættir, sem leiða munu til minni fjölgunar bíla en mistakasmiðir borgarstjórnar hafa smíðað sér.
Jóhannes Loftsson, verkfræðingur og frumkvöðull, skrifaði grein í Morgunblaðið 1. marz 2018, sem hann nefndi:
"Skipulögð kransæðastífla í Reykjavík". Heitið skírskotar til læknisins á stóli borgarstjórans, sem ábyrgur er fyrir umferðaröngþveiti á höfuðborgarsvæðinu og neitar að horfast í augu við staðreyndir, draumóramaður, sem stingur hausnum í sandinn, þegar vandamál hrannast upp. Í greininni kemur fram, að samkvæmt áætlun mun íbúum á höfuðborgarsvæðinu fjölga um 3300 á ári tímabilið 2017-2030, þar af í Reykjavík 78 %, en raunfjölgun varð 2600 tímabilið 2000-2017, þar af 30 % í Reykjavík. Raunfjölgun á höfuðborgarsvæðinu nam aðeins 79 % af áætlun, sem gefur tilefni til að lækka áætlun bílafjölgunar niður í 47 k, og munar um minna en 13 k bíla árið 2040.
Það eru hins vegar aðrir kraftar á ferðinni, sem verða jafnvel enn áhrifaríkarari en mannfjölgunin, er frá líður, og þar er tækniþróunin öflugasti þátturinn. Á þessu ári, 2018, mun Waymo, deild í Google samsteypunni, sem þróar sjálfakandi bifreiðar, hleypa af stokkunum tilraunaverkefni í úthverfum Phoenix, Arizona, með þjarkataxa ("robotaxi") um leigubílaakstur. General Motors, stærsti bílaframleiðandi Bandaríkjanna, BNA, ætlar að hefja slíka þjarkaþjónustu 2019. Þann 26. febrúar 2018 afnam Kaliforníuríki skilyrði um, að "öryggisökumaður" yrði alltaf að vera í sjálfakandi ökutækjum tilbúinn að taka stjórnina.
Í Economist 3. marz 2018 birtist greinin
"Who is behind the wheel ?" ,
sem nú verður vitnað til:
"Kostnaður sjálfakandi bíla (SAB) þýðir, að notagildi þeirra verður fyrst um sinn sem þjarktaxar, pantaðir með því að nota leiðarlýsandi smáforrit, app. Þannig fæst meiri nýting sem mótvægi við kostnaðinn, og þeir munu veita þjónustu, sem er ódýrari per km en notkun eigin bíls, sem letja mun fólk til bíleignar, a.m.k. bíla einvörðungu til nota innanbæjar. UBS, svissneskur banki, hefur gefið út spá um, að slíkum bílum muni hafi fækkað um 70 % árið 2050. Bifreiðar nútímans standa ónotaðar 95 % af tímanum, svo að víðtæk notkun þjarkataxa getur leitt til breyttrar landnotkunar, þar sem nú eru bílastæði í borgum.
Sjálfakandi bílar munu draga verulega úr tíðni dauðaslysa í umferðinni, og þar sem þeir verða rafknúnir, munu þeir bæta loftgæðin, þar sem raforkuvinnslan er "græn". Val á "beztu" leið, minna bil á milli ökutækja og gjaldtaka á leiðum, þar sem bílafjöldinn veldur miklum töfum, munu draga úr umferðarstíflum. Eins og sjálfrennireiðar á undan þeim, munu SABar breyta borgarmenningunni (löng ferð er auðveldari, ef þú vinnur eða sefur á leiðinni), og verzlun breytist (verzlanir koma til þín). Bílaframleiðendur sjá fram á gríðarlegar breytingar; í stað þess að selja einstaklingum munu þeir selja þjarktaxafyrirtækjum eða þróa sjálfa sig í að verða "ferðaþjónustur".
Hagfræðingar og borgarskipuleggjendur ættu að kætast, af því að SABar þýða, að hægt verður að taka upp atriði, sem ekki hafa mælzt vel fyrir hjá bílstjórum, t.d. breytileg veggjaldheimta og umferðarhnútarukkanir með breytilegu gjaldi eftir tíma sólarhringsins, umferðarþunganum, ferðalengd o.s.frv., munu gera kleift að fínstilla allt flutningskerfi borganna. Með mismunandi gjaldtöku eftir svæðum, er hægt að greiða niður ferðakostnað í efnaminni hverfum eða að hvetja fólk til að nota almenningssamgöngur til lengri ferða."
Af þessu má ráða, að tækniþróunin mun létta umferðarhnútana í framtíðinni, og að því mun svo rammt kveða, að Borgarlína verður í raun algerlega óþörf. Ef við gerum ráð fyrir, að 70 % fækkun "borgarbíla" árið 2050 í spá UBS eigi við fjölskyldubíl nr 2 og að þessi fækkun muni nema 50 % árið 2040, þá má reikna með, að fjölgun bifreiða árið 2040 muni "aðeins" nema 20 k eða 11 % á höfuðborgarsvæðinu öllu. Þetta er aðeins þriðjungur þeirrar fjölgunar, sem skipulagsyfirvöld höfuðborgarsvæðisins leggja til grundvallar sínum áætlunum um umferðina, almenningssamgöngur og mannvirkjagerð á höfuðborgarsvæðinu. Að ana út í risafjárfestingu, sem er bæði þarflaus og gagnslaus, stappar nærri leikhúsi fáránleikans.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)